Leiðari

Vísindarannsóknir, framtíðarsýn og fjármögnun

Magnús Gottfreðsson

yfirlæknir vísindadeildar Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands

 

Á þessu ári hefur nýleg kvikmynd um Winston Churchill notið mikilla vinsælda, en hann átti eins og kunnugt er litríkan og merkan feril sem stjórnmálamaður og rithöfundur. Eftir hann liggja margar góðar tilvitnanir, til dæmis ein sem er eitthvað á þá leið að þeir sem aldrei skipti um skoðun komi aldrei neinum breytingum til leiðar. Í kjarna vísindalegrar aðferðafræði felst viljinn til að skapa nýja þekkingu, endurskoða þá gömlu út frá sjónarhóli gagnrýninnar hugsunar og stuðla þannig að betri skilningi og breytingum. Vísindaleg aðferðafræði er því ekki lokaður kassi sem opna má við hátíðleg tækifæri, heldur þarf fagfólk í krefjandi og síbreytilegum heimi að vera reiðubúið til að beita henni hvort sem það stundar vísindarannsóknir eður ei. Þannig þarf gagnrýnin hugsun að vera samofin okkar daglega starfi, enda eru spurningar sem vakna við rúmstokk hins sjúka oft upphafið að merkum vísindarannsóknum. Ein forsenda er hæft starfsfólk, sem Landspítali býr vissulega að, en auk þess tími, aðstaða og fjármagn. Um árabil hefur háskólasjúkrahús Íslendinga tekist á við margar krefjandi áskoranir tengdar naumri mönnun og knöppum fjárveitingum. Ljóst má vera að við slíkar aðstæður er svigrúm til vísindarannsókna takmarkað og það eykur hættu á stöðnun. Nýlega var birt skýrsla á vegum Nordforsk, sem er stofnun á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, sem sýnir að dregið hafi verulega úr gæðum þess vísindastarfs sem unnið er hér þegar notaðir eru viðurkenndir hlutlægir mælikvarðar. Um síðustu aldamót var staða hans hins vegar sterk í alþjóðlegum samanburði. Þetta minnir okkur á að óbreytt ástand jafngildir afturför, sérstaklega þegar um er að ræða jafnbreytilegt umhverfi og heilbrigðisþjónusta og vísindarannsóknir eru. Fyrir liggur að það fjármagn sem varið er til málaflokksins er of lágt og hvorki í samræmi við samþykkta stefnu vísindaráðs spítalans né stefnu Vísinda- og tækniráðs sem starfar á vegum stjórnvalda sjálfra. Miklar vonir eru bundnar við að bætt verði úr þessu með nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar enda virðist loks vera komið að því að hefjast handa við nýbyggingar spítalans. Byggingar eru mikilvægar en ekki má gleymast að kjarni starfseminnar er fólginn í starfsfólkinu sjálfu. Landspítali er eitt stærsta og flóknasta þekkingarfyrirtæki landsins og líta má á það sem sóun þegar frumkvæði, þekking og áhugi er ekki nýttur sem skyldi vegna viðvarandi tímaskorts og manneklu.

Undanfarin 5 ár hafa erlendir styrkir sem starfsmenn afla dregist saman jafnt og þétt eins og sjá má á mynd 1 . Rauðu súlurnar sýna þá erlendu styrki sem lagðir hafa verið inn til umsjónar á spítalanum. Nokkur aukning var í íslenskum styrkjum á árinu 2016, en á síðasta ári dróst upphæðin saman að nýju (bláar súlur). Ánægjulegt er að í ár hafa framlög til vísindajóðs hins vegar hækkað frá fyrra ári (appelsínugular súlur) og jafnframt hefur bæst við myndarlegt framlag frá Minningargjafasjóði Landspítala sem vert er að þakka sérstaklega. Mynd 2 sýnir fjölda meistara- og doktorsnema sem tengjast spítalanum í námi sínu á beinan eða óbeinan hátt. Mikilvægt er að skapa nemum góða aðstöðu til að sinna þjálfun sinni sem best hér enda eru þeir framtíðarstarfskraftur okkar. Helsta afurð vísindarannsókna er ný þekking, sem oftast er miðlað á opinberum vettvangi í formi fræðigreinar í ritrýndu fræðitímariti. Fjöldi birtra greina er því oft notaður sem mælikvarði á rannsóknavirkni, en hefur ýmsar augljósar takmarkanir, meðal annars þegar um fjölhöfundagreinar er að ræða, þar sem framlag getur verið afar mismunandi. Samkvæmt framtali starfsmanna sjálfra hér á Landspítala hefur fjöldi birtra greina frá þeim staðið í stað frá fyrra ári – örlítil fjölgun átti sér stað á greinum er birtust í erlendum tímaritum, en samsvarandi fækkun átti sér stað á birtingum innanlands ( mynd 3 ). Þegar gögnin eru borin saman við leitarniðurstöður í Scopus gagnagrunninum, sem eru þær upplýsingar sem sem blasa við þeim ytri aðilum sem vilja skoða umfang vísindarannsókna hér kemur hins vegar í ljós að erlendum birtingum hefur fækkað lítillega. Þetta vekur spurningar um hvort höfundar gleymi of oft að merkja spítalanum þær greinar sem vera ber. Sérstök ástæða er til að hvetja alla sem sinna vísindastörfum að birta niðurstöður á opnum vettvangi og merkja greinarnar spítalanum, hafi tími eða aðstaða hér verið nýtt við vísindavinnuna. Vísbendingu um rannsóknavirkni má einnig fá með því að skoða fjölda umsókna um leyfi, en yfirlit um helstu leyfisveitingar er að finna á mynd 4 . Eftir fækkun á umsóknum til vísindasiðanefndar á árinu 2016 virðist fræðasamfélagið vera að taka við sér og umsóknum fjölgaði á síðasta ári (rauðar súlur). Verkefnum sem hlutu leyfi Siðanefndar heilbrigðisrannsókna, það er verkefni sem eru alfarið unnin innan spítalans,  fækkaði hins vegar lítillega á árinu (appelsínugular súlur).

Í samantekt virðist staða Landspítala sem vísindastofnunar hafa veikst í alþjóðlegum samanburði undanfarin ár og kemur það sennilega fáum sem þar starfa á óvart. Starfsfólk spítalans er engu að síður öflugt og áhugasamt og sýnir mikinn vilja til að sinna kennslu og rannsóknum. Vonandi verður gert sérstakt átak í að fylgja eftir markmiðum um sérstaka fjármögnun vísindastarfs og hvatar skapaðir til að sinna þessu langtímaverkefni sem best. Þannig getum við snúið vörn í sókn, sjúklingum til heilla.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica