Ágrip

Ágrip

01. Utanfrumufjölsykrur blágrænþörunga úr Bláa Lóninu draga úr tjáningu angafrumna á SYK og CLEC7a

Ása Bryndís Guðmundsdóttir1,2,3, Ása Brynjólfsdóttir4, Elín Soffía Ólafsdóttir5, Ingibjörg Harðardóttir1,3, Jóna Freysdóttir1,2,3

1Læknadeild, Lífvísindasetri Hás´kóla Íslands, 2rannsóknastofu í gigtsjúkdómum, 3ónæmisfræðideild Landspítala, 4Bláa Lóninu, 5lyfjafræðideild Háskóla Íslands

abg3@hi.is

Inngangur: Blágrænþörungurinn Cyanobacterium aponinum er ríkjandi lífvera í jarðsjó Bláa Lónsins. Sórasjúklingar uppgötvuðu lækningamátt Bláa Lónsins skömmu eftir myndun þess og hefur það verið staðfest í klínískum rannsóknum. Sóri er algengur krónískur bólgusjúkdómur í húð sem tengist virkjun ónæmisfrumna, einkum Th1 og Th17 frumna. Þrátt fyrir vinsældir lónsins er lítið vitað um hvernig það hefur áhrif á sóra. Fyrri rannsóknir okkar sýndu að þegar angafrumur voru þroskaðar í návist utanfrumufjölsykru sem C. aponinum seytir (EPS-Ca) jók það seytun þeirra á ónæmisbælandi boðefninu IL-10. Angafrumur þroskaðar í návist EPS-Ca ræstu einnig og sérhæfðu ósamgena CD4+ T frumur í samrækt í T bælifrumur (Treg) á kostnað sjúkdómshvetjandi Th17 frumna.

Markmið: Að ákvarða verkunarmáta EPS-Ca í angafrumum ásamt því að kanna áhrif þess á örvaðar T frumur og hyrnisfrumur.

Aðferðir: Angafrumur voru meðhöndlaðar með eða án EPS-Ca í 24 klst. T frumur úr mönnum voru örvarðar með mótefnum gegn CD3ε og CD28 í 72 klst með eða án EPS-Ca síðasta sólarhringinn. Hyrnisfrumur voru örvaðar í 24 klst með Th1 boðefnum (IFNγ og TNFα) eða Th17 boðefnum (IL-17A og TNFα) og síðan meðhöndlaðar með eða án EPS-Ca í 24 tíma. Áhrif EPS-Ca voru metin með því að mæla boðefnaseytun með ELISA aðferð, tjáningu yfirborðssameinda í frumuflæðisjá og mRNA tjáningu með rauntíma PCR.

Niðurstöður: Angafrumur sem voru meðhöndlaðar með EPS-Ca tjáðu meira af yfirborðssameindinni CD141 en angafrumur þroskaðar án EPS-Ca. CD141 er yfirborðssameind sem hefur verið tengd bæli-angafrumum og niðurstöðurnar sýndu að CD141 jákvæðar angafrumur seyttu meira af IL-10 en angafrumur sem tjáðu ekki CD141. Hinsvegar dró EPS-Ca meðhöndlun úr tjáningu angafrumna á Dectin-1 viðtakanum, bæði á mRNA (CLEC7a) og próteinformi. EPS-Ca dró einnig úr umritun á SYK sem er lykilpróteinið í boðleiðinni sem liggur frá Dectin-1 viðtakanum. CD4+ T frumur sem voru örvarðar í návist EPS-Ca seyttu minna af IL-17, IL-13 og IL-10 samanborið við CD4+ T frumur sem voru örvarðar án EPS-Ca. EPS-Ca minnkaði einnig hlutfall CD4+ og CD8+ T frumna sem tjáðu CD69 á yfirborði sínu. EPS-Ca dró einnig úr fosfæringu á ZAP-70 sem er lykilpróteinið í miðlun ræsingar inn í T frumur. Hyrnisfrumur meðhöndlaðar með EPS-Ca seyttu minna af flakkboðunum CXCL10 og CCL20 en hyrnisfrumur örvaðar án EPS-Ca. Ennfremur dró EPS-Ca meðhöndlun úr umritun SYK, CLEC7a og CAMP en CAMP er genið sem tjáir fyrir bakteríudrepandi peptíðinu LL37 sem er tjáð í yfirmagni í húð sórasjúklinga og talið eiga þátt í meingerð sjúkdómsins.

Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að EPS-Ca breytir svipgerð angafrumna í bæli-angafrumur sem stuðla að sérhæfingu óreyndra T frumna yfir í T bælifrumur og dregur einnig úr boðefnaseytun og ræsingu örvaðra T frumna. EPS-Ca minnkaði einnig seytingu hyrnisfrumna á flakkboðum sem kalla T frumur til húðarinnar og minnkaði umritun gena sem tjá fyrir próteinum sem talin eru tengjast meingerð sóra. EPS-Ca virðist því hafa áhrif á allar lykilfrumurnar sem taka þátt í meingerð sóra og stuðla að bælingu og draga úr virkni og fjölda T frumna í húð.

 

02. SERS investigation of bone marrow mesenchymal stem cells grown on gold nanoisland substrates

Adrianna Milewska1,2, Jakub Wawrzyniak1, Ólafur Eysteinn Sigurjónsson2,3,4, Milos Miljkovic5, Igor Sokolov5, Kristján Leósson1,3

1Innovation Center Iceland, Árleynir 2-8, 112 Reykjavík, 2The Blood Bank, Landspitali University Hospital, Snorrabraut 60, 105 Reykjavík, 3University of Iceland, Sæmundargötu 2, 101 Reykjavík, 4Reykjavik University, Menntavegur 1, 101 Reykjavík, 5Tufts University, 200 Boston Ave., Medford MA 02155, USA

oes@landspitali.is

INTRODUCTION: Bone marrow mesenchymal stromal cells (MSCs) are multipotent, self-renewed stem cells with a high proliferation capacity and the ability to differentiate into cells of the connective tissue lineage, such as adipocytes, osteoblasts and chondrocytes. They play an important role in bone repair, angiogenesis, immune diseases and cancer invasion. Therefore, understanding the structural organization of those cells is essential for learning their functions. Tools that are most commonly used for identification of the mesenchymal stem cells have several drawbacks, such as complicated sample preparation, false positive or negative results, time-consuming and invasive detection, in particular, damaging the construct in order to perform the assay. In this study, we report on investigation of MSCs grown on novel surface-enhanced Raman scattering (SERS) substrates prepared by using repeated metal deposition and thermal annealing method [1].

METHODS: SERS surfaces are manufactured by repeated magnetron sputtering deposition and post-deposition annealing processes, preceded by spin coating with fluoropolymer layer. Mesenchymal stem cells (MSCs) are then cultured on these surfaces for 7 days (proliferation and cytotoxicity assays are being performed), then fixed, washed and dried for the SERS measurements. Simultaneously, they are marked with TRITC-conjugated Phalloidin, DAPI and Anti-Vinculin. Confocal microscopy is then used to reveal the cellular components. The Raman imaging is performed to obtain SERS spectra of mesenchymal stem cells fingerprints.

RESULTS: The finite element method simulation of scattered electric field with a vertical incident plane wave (ë = 785 nm) carried out on two equally sized smooth spheres was used. It demonstrated that the smaller distance between two latters induced a more intense scattered electric field close to the sphere surface. Triple deposition and post-deposition annealing processes produced a gold surface with the mean distance between adjacent nanoparticles of < 10 nm. Presto Blue viability assay exposed increasing cell proliferation with time on all surfaces. LDH assay demonstrated that the level of cytotoxicity was low, which means the substrates were non-toxic for the cells. Focal adhesion staining revealed the cells attachment to the substrates via numerous filopodia. The SERS measurements demonstrated the Raman peaks that can be associated with actin filament-building proteins.

DISCUSSION & CONCLUSIONS: Preliminary results suggest that the SERS technique based on triple processed gold nanoisland arrays can provide a sensitive, uniform and non-destructive method for studying mesenchymal stromal cells.

ACKNOWLEDGEMENTS: This research was supported by the RANNIS Icelandic Research Fund (Grant 163417-051) and USA NSF Major Research Instrumentation grant (CBET-1428919).

 

03. Forprófun á aðferð til að meta álag á foreldrum barna á nýburagjörgæslu (PSS:PICU)

Aðalbjörg Ellertsdóttir1,2, Þorbjörg Anna Steinarsdóttir1,2, Sigríður Árna Gísladóttir1,2, Guðrún Kristjánsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2Landspítala

Inngangur: Mælitækið Parental stressor scale: Pediatric intensive care unit (PSS:PICU) (Miles og Carter, 1982) mælir álag sem foreldrar eru líklegir til þess að verða fyrir þegar barn þeirra er inniliggjandi á gjörgæsludeild. Ekki er vitað um rannsókn sem skoðar álag þessara foreldra á Íslandi.

Tilgangur rannsóknarinnar var að þýða PSS:PICU álgagskvarðann yfir á íslensku og forprófa á foreldrum sem átt hafa börn á gjörgæsludeildum. Leitast var við að meta áreiðanleika og réttmæti íslenskrar þýðingar PSS:PICU ásamt því að greina þá álagsþætti sem foreldrar meta að valdi mestu álagi í tengslum við innlögn barns.

Efniviður og aðferðir: PSS-PICU álagskvarðinn var þýddur yfir á íslensku með ISPOR/TCA aðferðinni og forprófaður á gjörgæsludeildum. Afturskyggnu megindlegu rannsóknarsniði var beitt á hentugleikaúrtak 25 foreldra, 14 mæðra og 11 feðra barna á aldrinum þriggja mánaða til 18 ára sem legið höfðu á gjörgæsludeildum Landspítalans í að minnsta kosti 48 klukkustundir á árunum 2015-2017. Þátttakendur fengu rannsóknargögn send rúmri viku síðar. Notast var við lýsandi tölfræði, Pearsons‘ r og Chronbach‘s alpha við úrvinnslu gagna.

Niðurstöður: Áreiðanleiki mælitækisins var alpha 0,89. Allir foreldrarnir skildu öll eða flest atriði spurningalistans og 75% foreldra fannst mælitækið ná mjög vel eða nokkuð vel utan um reynslu sína af gjörgæsludeild. Flokkurinn hlutverk foreldra var sá flokkur sem olli mestu álagi meðal þátttakenda.

Ályktun: Við forprófun tókst að sýna fram á áreiðanleika og réttmæti íslenskrar þýðingar PSS:PICU. Takmörk rannsóknar var lítið úrtak en til þess að fá betra vald á áreiðanleika og réttmæti þarf að gera frekari rannsóknir á PSS:PICU í íslenskri þýðingu með stærra úrtaki.

 

04. Háskammta krabbameinslyfjameðferð með eigin stofnfrumuígræðslu á LSH 2004-2017

Alexander Sigurðsson1, Anna Margrét Halldórsdóttir1,2, Brynja Haukssóttir3, Sveinlaug Atladóttir3, Vigdís Jóhannsdóttir2, Jónína Arndís Steingrímsdóttir2, Steinunn J. Matthíasdóttir2, Níels Árni Árnason2, Signý Vala Sveinsdóttir3, Sveinn Guðmundsson2, Ólafur Eysteinn Sigurjónsson2,4, Sigrún Reykdal3

1Læknadeild HÍ, 2Blóðbankanum, 3blóðlækningadeild Landspítala, 4Háskólanum í Reykjavík

als43@hi.is

Inngangur: Ígræðsla eigin stofnfruma í kjölfar háskammta krabbameinslyfjameðferðar hjá sjúklingum með illkynja sjúkdóma hefur verið framkvæmd á Landspítalanum (LSH) frá ársbyrjun 2004 með samstarfi Blóðbankans og blóðlækningadeildar LSH. Fyrst og fremst er um að ræða sjúklinga með eitilfrumukrabbamein og mergfrumuæxli.

Markmið: Meta árangur og forspársþætti fyrir alla hluta meðferðarinnar, þ.e. söfnun stofnfruma, frystingu og varðveislu, inngjöf stofnfruma, rótun og afdrif sjúklinga.

Aðferðir: Rannsóknin náði til 227 sjúklinga sem gengust undir stofnfrumuígræðslu á LSH frá árunum 2004-2017, þar af var 21 sjúklingur sem fékk tvær ígræðslur. Gögnum var safnað úr gagnagrunni stofnfrumumeðferða og sjúkraskrám LSH. Tölfræðiúrvinnsla var framkvæmd með R forritinu. Kaplan-Meier aðferð með log-log öryggisbilum var notuð fyrir lifunargreiningar, Cox áhættulíkan var notað fyrir rótunarþætti og aðhvarfsgreining var notuð fyrir söfnunarþætti. Öll p-gildi miða við 95% öryggismörk.

Niðurstöður: Í rannsóknarhópnum voru 140 (61,7%) karlar og 87 (38,3%) konur. 109 sjúklingar (48,0%) höfðu mergfrumuæxli eða skylda sjúkdóma (plasma cell disorders; PCD), 101 (44,5%) eitilfrumukrabbamein (non-Hodgkins eða Hodgkins) og 17 (7,5%) aðra sjúkdóma. Forspárþættir fyrir söfnunarhraða voru CD34+ blóðstyrkur, sjúkdómsgreining og fjöldi fyrri krabbameinslyfjameðferða (p<0,001). Meðalstærð græðlings fyrir inngjöf var 6,39 ± 2,99 x 106 CD34+ frumur/kg. Alls hafa 17 sjúklingar (10%) fengið Plerixafor sem viðbót við hefðbundna tilfærslumeðferð fyrir söfnun síðan notkun lyfsins hófst árið 2009. Meðalaldur við fyrstu inngjöf var 60,6 ár (spönn 18-75 ár). Miðgildi rótunartíma eftir ígræðslu stofnfruma var eftirfarandi: Neutrofílar >0,5 x 109/L = 13 dagar, blóðflögur >20 x 10 ⁹/L  = 13 dagar og blóðflögur> 50 x 10⁹/L  = 18 dagar. Forspárþættir fyrir rótunartíma voru sjúkdómsgreining og stærð græðlings (p<0,05). Fimm ára lifun allra sjúklinga var 69,1% (95% CI: 61,8-75,4) og 10 ára lifun var 47,8% (95% CI: 38,4-56,7). 10 ára lifun án framgangs sjúkdóms (progression free survival) var 49,6% (95% CI: 47,5-68,3) hjá sjúklingum með eitilfrumukrabbamein en 8,74% (95% CI: 3,78-17,9) hjá PCD sjúklingunum.

Ályktun: Árangur af eigin stofnfrumumeðferð sjúklinga með illkynja sjúkdóma er sambærilegur við nágrannalönd okkar, bæði hvað varðar rótun blóðfruma eftir ígræðslu og lifun. Skilgreindir voru þættir sem spá fyrir um söfnunarhraða stofnfrumugræðlings og rótun.

 

05. Svefnlengd íslenskra foreldra og tengdir þættir: Niðurstöður landskönnunar

Andrea Hlín Harðardóttir1,2, Sigurdís Egilsdóttir2, Rúnar Vilhjálmsson1, Guðrún Kristjánsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2Landspítala

gkrist@hi.is

Inngangur: Fáar rannsóknir lýsa svefni foreldra og hve langur hann er eftir mismunandi hópum foreldra á alþjóðlegri vísu þó svo að mikilvægi svefns til að sporna við ýmis konar álagi sé vel staðfest í vísindalegum rannsóknum.

Markmið rannsóknarinnar var að greina áhættuþætti tengda svefni og varpa ljósi á hvernig svefn íslenskra foreldra er.

Efniviður og aðferðir: Notast var við gögn úr megindlegri íslenskri rannsókn sem gerð var árið 2015 og kallast „Heilsa og lífshættir Íslendinga: Um heilsufar, viðhorf og aðstæður fullorðinna einstaklinga“. Gögnin tóku aðeins til foreldra sem áttu börn á aldrinum 0-18 ára og innihéldu 591 einstaklinga. Upplýsingar um svefn úr rannsókninni voru nýttar ásamt ýmsum breytum sem gætu haft áhrif á svefn íslensku foreldranna.

Niðurstöður: Foreldar barna yngri en 5 ára sofa að meðaltali 6 klst. og 54 mínútur, en ákveðinn stígandi er í lengd svefns foreldra eftir hækkandi aldri barna. Marktækur munur var á svefni foreldra og barnlausra einstaklinga. Þeir foreldrar sem náðu marktækt styttri svefni en aðrir, voru feður, þeir sem unnu meira en 50 klst., þeir sem unnu einungis vaktavinnu, höfðu gagnfræða- eða landspróf og höfðu tvö eða fleiri börn á heimili. Þeir foreldrar sem helst náðu æskilegri svefnlengd voru foreldrar sem ekki unnu vaktavinnu eingöngu og þeir sem ekki voru 75% öryrkjar.

Ályktun: Niðurstöðurnar gefa einhverja mynd af því við hverju megi búast varðandi svefn hjá mismunandi hópum foreldra. En styrkur tölfræðiprófanna er sums staðar takmarkaður vegna úrtaksstærðar. Þörf er á frekari rannsóknum á þessu efni.

 

06. Totumyndandi nýrnafrumukrabbamein á Íslandi 1971-2016

Andreas Bergmann1, Gígja Erlingsdóttir2, Sverrir Harðarson2, Vigdís Pétursdóttir2, Eiríkur Orri Guðmundsson3, Tómas Guðbjartsson4,5

1Skurðlækningasviði, 2meinafræðideild, 3þvagfæraskurðdeild, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 5læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Totumyndandi nýrnafrumukrabbamein (papillary renal cell carcinoma) eru næstalgengasta vefjagerð nýrnafrumukrabbameins en erlendis eru þau um 10-15% nýrnafrumukrabbameina og tærfrumukrabbamein 80-90%. Eldri rannsóknir hérlendis hafa sýnt að ekki sé teljandi munur á lifun sjúklinga eftir því hvaða vefjagerð nýrnafrumukrabbameins þeir hafa. Nýrri rannsóknir hafa þó bent til þess að undirflokkur totumyndandi nýrnafrumukrabbameina, tegund 2, hafi síðri horfur en tegund 1. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna faraldsfræði totumyndandi nýrnafrumukrabbameins á Íslandi og bera saman undirtegundirnar tvær.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum (n=1369) sem greindust með nýrnafrumukrabbamein á Íslandi 1971-2016. Öll vefjasýni greind sem totumyndandi voru vefjaflokkuð í tegund 1 og 2, og hóparnir bornir saman.

Niðurstöður: Alls greindust 121 totumyndandi nýrnafrumukrabbamein sem voru 8,8% af af öllum nýrnafrumukrabbameinum á tímabilinu. Karlar voru 95 (78,5%) og meðalaldur 64,5 ár (bil=27-93). Alls greindist 51 sjúklingur (42,2%) fyrir tilviljun, í 55% tilfella á tölvusneiðmynd. Meðalstærð æxlanna var 7,1 cm (bil 0,3-19,0). Á stigi I og II greindust 46,3% og 21,5% sjúklinga, 14,0 % á stigi III og 22 (18,2%) höfðu dreifðan sjúkdóm (stigi IV) við greiningu, oftast lungna- eða beinmeinvörp.

Ályktun: Totumyndandi nýrnafrumukrabbamein virðist vera sjaldgæfari hér á landi en í flestum erlendum rannsóknum. Þau eru þrefalt algengari í karlmönnum sem er helmingi hærra hlutfall en fyrir önnur nýrnafrumukrabbamein. Meðalaldur við greiningu, hlutfall tilviljunargreiningar og stigun við greiningu svipar þó til annarra undirtegunda nýrnafrumukrabbameins.

 

07. Er lóperamíð misnotað á Íslandi?

Anna Kristín Gunnarsdóttir1,2, Magnús Jóhannsson3,4, Guðrún Dóra Bjarnadóttir1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2geðsviði Landspítala, 3rannsóknarstofu í lyfja– og eiturefnafræði við Háskóla Íslands, 4Embætti landlæknis

annakg@landspitali.is

Inngangur: Lóperamíð er lyf sem hefur hægðastemmandi áhrif og er selt í lausasölu. Lyfið er örvi (agonist) á μ-ópíóíðaviðtaka og hafa nýlegar tilfellalýsingar greint frá ópíóíðalíkum áhrifum á miðtaugakerfið sé það tekið yfir meðferðarskömmtum. Einnig geta ýmis algeng lyf auðveldað flæði lóperamíðs yfir blóð-heila-þröskuldinn og/eða aukið blóðstyrk þess. Helsta birtingarmynd eitrunaráhrifa eru alvarlegar hjartsláttartruflanir sem svara illa hefðbundinni meðferð og geta valdið dauðsföllum.

Markmið: Kanna hvort lóperamíð sé misnotað á Íslandi.

Aðferðir: Rannsóknin er lýsandi og afturskyggn lyfjanotkunarrannsókn. Notast var við lyfjagagnagrunn landlæknis til að skoða notkun lóperamíðs yfir tímabilið 2006-2017. Úrtakið miðaðist við einstaklinga >18 ára sem fengu >400 DDD/ári af lóperamíði en það samræmist því að einstaklingur hafi tekið meira en skilgreindan dagskammt (DDD) daglega yfir árið.

Skoðað var ávísað DDD/ári til einstaklinga, fylgni milli notkunar ópíóíða samhliða lóperamíði, DDD/ári sem læknar ávísa og það magn sem lyfjabúðir kaupa.

Niðurstöður: Árin 2006-2017 voru 94 einstaklingar sem fengu >400 DDD/ári, 43 karlar og 51 kona. Meðalaldurinn var 60,3 ár en var 7 árum lægri hjá þeim sem notuðu ≥800 DDD/ári. Hæstu skammtar þeirra sem notuðu ≥1200 DDD/ári samræmast því magni sem gæti gefið vímuáhrif. Ekki var fylgni milli notkunar ópíóíða samhliða lóperamíði og læknar >60 ára virðast ávísa mest af lyfinu (DDD/lækni).

Ályktun: Upplýsingar frá lyfjagagnagrunni gefa til kynna að óhófleg notkun lóperamíðs tíðkist á Íslandi en til viðbótar þarf að hafa í huga lausasölu lyfsins og möguleg kaup erlendis. Það er vert að íhuga lóperamíðmisnotkun ef um ræðir sjúklinga með óútskýrð yfirlið, hjartsláttartruflanir, ópíóíðafráhvarfseinkenni og neikvæða lyfjaleit í þvagi. Mikilvægt er að hafa í huga milliverkanir algengra lyfja og veita upplýsingar um meðferðarúrræði til að afstýra eitrunaráhrifum og ótímabærum dauðsföllum.

 

08. Samanburður á tjáningu miR-21-5p og miR-21-3p í brjóstaæxlum og fylgni við framvindu æxlanna

Arsalan Amirfallah1,5, Aðalgeir Arason2,5, Bjarni A. Agnarsson3,5, Óskar Þór Jóhannsson4, Rósa Björk Barkardóttir2,5, Inga Reynisdóttir1,5

1Frumulíffræðieiningu, 2sameindameinafræðieiningu, 3meinafræðideildar, 4lyflækningum krabbameina Landspítala, 5Lífvísindasetri, læknadeild Háskóla Íslands

ingar@landspitali.is

Inngangur: miR-21 er talið vera æxlisgen og er það tjáð í mörgum gerðum æxla. Sumar rannsóknir hafa sýnt hærri tjáningu miR-21 í brjóstaæxlum en heilbrigðum brjóstavef ásamt því að tengjast skemmri lifun. miR-21 tjáir tvær smásameindir, 5p og 3p, og hafa flestar rannsóknir beint sjónum að miR-21-5p. Niðurstöður úr rannsóknum eru misvísandi en margar þeirra benda þó til fylgni á milli hárrar tjáningar miR-21-5p í brjóstaæxlum við tjáningu á ER, PR og HER2, gráðun, stærð æxlis og dreifingu til eitla í holhönd. 

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að bera saman tjáningu á miR-21-5p og miR-21-3p í brjóstaæxlum, og einnig að kanna hvort tjáning miR-21-3p væri hugsanlega betri en miR-21-5p þegar kemur að greiningu og forspá um horfur brjóstakrabbameinssjúklinga.

Aðferðir: Sýni voru úr brjóstaæxlum (n = 144) og heilbrigðum vef (n = 6) frá sjúklingum með brjóstakrabbamein sem greindust 1987 – 2003; upplýsingar um meinafræði þeirra og klínískar upplýsingar sjúklinganna voru fengnar úr sjúkraskrám. Tjáning miR-21-5p og miR-21-3p var mæld í þríriti með rauntíma PCR mælingu með prímerum frá Exiqon og miR-16-5p haft sem viðmið.      

Niðurstöður: Marktækt hærri tjáning var á miR-21-5p en miR-21-3p í heilbrigðum (p<0,005) vef og brjóstaæxlum (p=0,005). Marktækur munur var ekki á tjáningu miR-21-5p þegar magn þess var borið saman í æxlum og heilbrigðum brjóstavef.  miR-21-3p var tjáð í marktækt meira mæli í brjóstaæxlum en heilbrigðum vef (p=0,003), og einnig var hærri tjáning í æxlum sjúklinga með meinvörp en þeirra sem engin höfðu (p=0,02). Að auki var fylgni milli hærri tjáningar miR-21-3p og skemmri lifunar án endurkomu meinvarpa (p=0,03; HR = 1,72, CI = 1,03 – 2,90). 

Ályktanir: Þó miR-21-5p hafi verið mikið rannsakað í tengslum við brjóstakrabbamein hafa fáar rannsóknir borið saman miR-21-5p og miR-21-3p. Niðurstöður úr þessari rannsókn gefa til kynna að þrátt fyrir lægri tjáningu miR-21-3p en miR-21-5p í brjóstaæxlum gæti fyrrnefnda sameindin gefið betri vísbendingu um horfur sjúklinga með brjóstakrabbamein en sú síðari. Frekari rannsókna er samt þörf í fleiri og stærri þýðum til að sannreyna þessar niðurstöður.    

 

09. Næringardrykkir eða orku- og próteinríkir millibitar í næringarmeðferð vannærðra sjúklinga með langvinna lungnateppu: slembidreifð íhlutunarrannsókn

Áróra Rós Ingadóttir,1,2 Anne Marie Beck,3,4 Christine Baldwin,5 C. Elizabeth Weekes,5 Ólöf Gudný Geirsdóttir,1,6 Alfons Ramel,1 Þórarinn Gíslason,7,8 Ingibjörg Gunnarsdóttir1,2

1Rannsóknarstofu í næringarfræði við Landspítala og Háskóla Íslands, 2næringarstofa Landspítala, 3Faculty of Health and Copenhagen University College, Copenhagen N, Denmark, 4Research Unit for Nutrition, Herlev and Gentofte Hospital DK-2820 Gentofte, 5Department of Nutritional Sciences, King's College London, London, UK, 6rannsóknarstofa í öldrunarfræðum við Landspítala, 7læknadeild Háskóla Íslands, 8svefndeild Landspítala

aroraros@landspitali.is

Inngangur: Næringardrykkir eru samkvæmt klínískum leiðbeiningum almennt notaðir í næringarmeðferð vannærðra sjúklinga með langvinna lungnateppu (LLT). Mjög fáar rannsóknir hafa verið gerðar þar sem næringarmeðferð felur í sér orku- og próteinbætingu með venjulegum mat og er árangur af slíkri meðferð því óljós.

Markmið: Að kanna fýsileika þess að nota orku- og próteinríka millibita samanborið við næringardrykki sem næringarmeðferð fyrir vannærðra sjúklinga með LLT og að kanna áhrif  beggja meðferða á þyngd og heilsutengd lífsgæði.  

Aðferðir: Vannærðum sjúklingum með LLT (n=34) var skipt í tvo hópa, næringardrykkjahóp (n=19) og millibitahóp (n=15). Báðir hópar fengu 600 kkal á dag aukalega við hefðbundið fæði í 12 mánuði. Þátttökuhlutfall, fjöldi sem kláraði rannsókn, þyngdarbreytingar og heilsutengd lífgæði voru meðal útkomubreyta. Þátttaka í rannsókninni fól einnig í sér mælingar sem reyndu á þol og styrk.

Niðurstöður: Þátttökuhlutfall var 45% og hlutfall þeirra sem lauk 12 mánaða eftirfylgni var sambærilegt milli hópa (67%). Þyngdaraukning frá upphafi rannsóknar til 12 mánaða eftirfylgni var 2,3 ± 4,6 kg í næringardrykkjahóp (p=0,060) og 4,4 ± 6,4 kg í millibitahóp (p=0,030). Bætt heilsutengd lífgæði frá upphafi rannsóknar til 12 mánaða eftirfylgni sáust í millibitahópnum (8,9±1,1 stig, p=0,041) á meðan bæting heilsutengdra lífgæða var ekki tölfræðilega marktæk í næringardrykkjahópnum (3,9 ± 11,0 stig, p=0,176).

Ályktun: Notkun orku- og próteinríkra millibita sem næringarmeðferð fyrir vannærðra sjúklinga með LLT virðist að minnsta kosti jafn árangursrík og að nota næringardrykki. Þörf er á íhlutandi rannsóknum með nægt tölfræðilegt afl til þess að staðfesta þessi áhrif. Eins er mikilvægt að læra af hindrunum sem komu upp við öflun þátttakenda.

 

10. Mat á snemmbúnum forspárþáttum um árangur endurlífgunar eftir hjartastopp utan spítala

Ásgeir Pétur Þorvaldsson1, Jóhann Páll Hreinsson2, Sigurbergur Kárason1,3

1Svæfinga- og gjörgæsludeild, 2lyflækningasviði Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

asgeirp@landspitali.is

Inngangur: Árangur endurlífgunar sjúklinga sem fara í hjartastopp utan spítala er lélegur á heimsvísu, með lifun undir 10%. Þrátt fyrir slæmar horfur hafa ekki verið settar fram skýrar leiðbeiningar um hvenær hætta beri meðferð.

Markmið: Kanna hvort einföld skilmerki sem sem gefa til kynna að líkur á andláti séu afgerandi, og voru sett fram í nýlegri erlendri rannsókn, eigi einnig við um sjúklingaþýðið á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Þýðið samanstóð af sjúklingum ≥18 ára sem lögðust inn á gjörgæsludeild Landspítala við Hringbraut árið 2017 eftir hjartastopp utan spítala og árangursríka endurlífgun. Gögnum var safnað úr sjúkraskrám LSH. Skilmerkin sem stuðst var við til að spá fyrir um andlát voru: 1) Hjartastopp varð ekki í návist fagaðila, 2) Fyrsti taktur við endurlífgunina var óstuðanlegur, 3) Ekki varð sjálfbær blóðrás fyrr en eftir þriðju gjöf adrenalíns 1 mg.

Niðurstöður: Um var að ræða 41 sjúkling (meðalaldur 58 ára, karlar 78%) og létust 23 (56%) á gjörgæslu þar sem meðalallegutíminn var 4 dagar fyrir þá sem lifðu en 3,5 fyrir þá sem létust. Átta (20%) uppfylltu ofannefnd skilyrði og létust allir sem gefur skilyrðunum 100% sértæki en 35% næmi, þar sem fleiri létust en þeir sem uppfylltu þau.

Ályktanir: Niðurstöðurnar eru í samræmi við fyrri rannsóknir. Með einföldum skilmerkjum var hægt að greina þá sjúklinga sem höfðu afgerandi líkur á andláti eftir hjartastopp utan spítala en voru engu að síður meðhöndlaðir á gjörgæslu. Slíkar leiðbeiningar geta auðveldað ákvarðanir um meðferðartakmarkanir og bætt nýtingu aðfanga innan heilbrigðiskerfisins.

 

11. Blóðsegamyndun í portabláæð og miltisbláæð hjá sjúklingum með bráða brisbólgu

Berglind Anna Magnúsdóttir1, María Björk Baldursdóttir1, Evangelos Kalaitzakis3 Einar Stefán Björnsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2meltingarlækningadeild Landspítala, 3Gastro Unit Herlev Hospital, Kaupmannahöfn

berglindannam@gmail.com

Inngangur: Blóðsegamyndun í portabláæð og miltisbláæð (PMB) er þekktur fylgikvilli hjá sjúklingum með bráða brisbólgu en skortur er á rannsóknum sem varpa ljósi á áhættuþætti og afleiðingar þessa sjaldgæfa fylgikvilla.

Markmið: Að skoða algengi, áhættuþætti og afdrif sjúklinga með blóðsegamyndun í PMB tengt bráðri brisbólgu.

Aðferðir: Rannsóknin náði til allra sjúklinga sem greindust með fyrstu bráðu brisbólgu á 10 ára tímabili á Íslandi og í Lundi, Svíþjóð. Upplýsingar voru fengnar um orsök brisbólgu, fylgikvilla og afdrif sjúklinga. Sjúklingar sem höfðu farið í tölvusneiðmynd af kvið voru sérstaklega skoðaðir m.t.t. staðbundinna fylgikvilla og þróun á blóðsegamyndun í PMB. Sjúklingum var fylgt eftir fram að andláti eða a.m.k. eitt ár eftir greiningu.

Niðurstöður: Samtals greindust 2559 sjúklingar með fyrstu bráðu brisbólgu á rannsóknartímabilinu (57% Svíþjóð, meðalaldur 59 ± 19 ár, 47% konur, 45% gallsteinatengd brisbólga, 19% áfengistengd brisbólga, 8% kerfislægir fylgikvillar og 21% staðbundnir fylgikvillar). Blóðsegi í PMB greindist í 30/2559 (1,2%). Sjálfstæðir áhættuþættir voru fylgikvillar brisbólgu, bæði kerfislægir (gagnalíkindahlutfall (OR) 5,27, 95% öryggisbil (CI) 1,04-26,68) og staðbundnir (OR 6,74, 95%CI 1,48-30,71). Þegar eingöngu voru skoðaðir sjúklingar sem fóru í tölvusneiðmynd (n=1348) voru staðbundnir fylgikvillar eini sjálfstæði áhættuþátturinn (OR 7,51, 95%CI 1,54-36,74), þá sérstaklega ef sýking var í kringum bris. Dánarhlutfall við fyrstu brisbólgu var 2,5%, ekki var munur á milli sjúklinga með (1,2%) og án (0%) blóðsega í PMB (p=1,00).

Ályktanir: Blóðsegamyndun í portabláæð og miltisbláæð kom fyrir í um það bil 1% sjúklinga með fyrstu bráðu brisbólgu. Slíkt var algengara á meðal sjúklinga með fylgikvilla tengda brisbólgu, sérstaklega ef sýking var í kringum bris. Segamyndun hafði ekki áhrif á afdrif sjúklinga.

 

12. Næringarástand aldraðra eftir útskrift af öldrunardeild - Félagshagfræðileg staða, fæðuöryggi og fæðuframboð

Berglind Soffía Blöndal1,2, Ólöf Guðný Geirsdóttir1,2, Jón Eyjólfur Jónsson3, Alfons Ramel1,2

1Háskóla Íslands, 2rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum, 3öldrunarlækningadeild Landspítala

bsb6@hi.is

Inngangur: Næringarástand og fæðuöryggi aldraðra einstaklinga sem útskrifast heim af spítala, hefur ekki verið rannsakað hér á landi. Vitað er að næringarástand aldraðra sem liggja inni á spítala er oft slæmt og getur farið versnandi í legunni og þegar heim er komið. Margar mismunandi ástæður eru fyrir því, til dæmis vegna ákveðinna sjúkdóma, lystarleysis, slappleika og aukaverkanna lyfja.

Markmið: Meta næringarástand og fæðuöryggi og þætti sem hafa áhrif á það heima hjá öldruðum eftir útskrift af spítala. Einnig að kanna ástand eldhúss og matar sem þátttakendur hafa aðgang að og meta mikilvægi næringaríhlutunar fyrir þennan hóp sjúklinga.

Aðferðir: Þátttakendur voru sjúklingar af bráðaöldrunarlækningadeild, Landspítala Háskólasjúkrahúss, sem útskrifuðust heim og uppfylltu þátttökuskilyrði. Aldur þeirra var 77-93ja ára. Farið var heim til þátttakenda, (N=13) tvisvar eftir útskrift með viku millibili. Þar voru lagðir fyrir spurningalistar sem snéru að t.d. bakgrunni, félagslegri stöðu, líkamlegri færni, mataræði, aðstoð veitt og fleiri þáttum, ásamt því að líkamsmælingar voru framkvæmdar.

Niðurstöður: Við útskrift var líkamsþyngdarstuðull þátttakenda 24,7 (± 5,1), meðalaldur var 87,7 (± 5,6) ár, orkuþörf þátttakenda var 2061,6 - 2404,5 kkal/d, og próteinþörfin 82,4 - 103,1 g/d, 53,9% þátttakenda voru karlar. Í fyrri heimsókn til þátttakenda var líkamsþyngdarstuðull 24,1 (± 4,8) og í seinni heimsókn til þátttakenda var líkams-þyngdarstuðull 23,8 (± 4,7). Fæði og næringarefni voru metin með sólarhringsupprifjun í báðum heimsóknum, var meðal orkuinntaka þátttakenda 759,0 (± 183,4) kkal/d. Meðal próteininntaka var 35,1 (± 7,5) g/d. Orku- og próteininntaka var of lág fyrir alla þátttakendur miðað við næringar- og prótein þörf þeirra. Fæðuöryggi var oft lélegt ásamt slæmu aðgengi í eldhúsi miðað við skerðingu á athöfnum daglegs lífs þátttakenda.

Ályktanir: Einmanaleiki, depurð, lág innkoma og lítil matarinntekt einkennir þennan hóp. Næringarástand hópsins er slæmt og fæðuöryggi ekki tryggt. Mikilvægt er að finna leiðir til þess að tryggja fæðuöryggi fyrir þennan hóp fólks sem býr heima en er með skerta hreyfigetu og getur því ekki bjargað sér með fullnægjandi hætti. Mikil þörf er á einstaklingsmiðaðri næringarmeðferð frá næringarfræðing eftir útskrift, fræðslu og stuðning til þess tryggja þessum hóp fullnægjandi næringu sem getur dregið úr neikvæðum afleiðingum vannæringar meðal aldraðra, eins og að fækka endurinnlögnum, og auka lífsgæði.

 

13.  Úlnliðsbrot og áhrif skynþjálfunar - Slembuð samanburðarrannsókn

Bergþóra Baldursdóttir1,2,3, Susan L. Whitney4, Alfons Ramel1, Hannes Petersen2, Pálmi V. Jónsson1,2,3, Brynjólfur Mogensen2,3, Ella Kolbrún Kristinsdóttir2

1Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3flæðisviði Landspítala, 4University of Pittsburgh, Bandaríkjunum

bergbald@landspitali.is

Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt að einstaklingar sem hlotið hafa úlnliðsbrot við byltu eru líklegri til að hafa ósamhverfa starfsemi í jafnvægiskerfi innra eyra, skerðingu á þrýstingsskyni undir iljum, skerta jafnvægisstjórnun og starfræna færni en þeir sem ekki hafa dottið og úlnliðsbrotnað.

Markmið: Að kanna hvort skynörvandi jafnvægisþjálfun bæti jafnvægisstjórnun, starfsemi jafnvægiskerfis í innra eyra, skyn í fótum og starfræna færni, samanborið við stöðugleikaþjálfun fyrir úlnlið.

Aðferðir: Níutíu og átta einstaklingar (meðalaldur: 61,9 ár±7,1ár; spönn 50-75) sem hlotið höfðu úlnliðsbrot við byltu, tóku þátt í rannsókninni, 2-5 mánuðum eftir brotið. Þeim var slembiraðað í annað hvort skynörvandi jafnvægisþjálfun eða stöðugleikaþjálfun fyrir úlnlið, til viðbótar við hefðbundna brotameðferð. Mælingar voru gerðar fyrir og eftir þjálfun. Starfsemi jafnvægiskerfis innra eyra var metin með Head-shake prófi (HSP). Þrýstingsskyn undir iljum var metið með Semmes-Weinstein monofilaments (SWF) og titringsskyn í fótum var metið með Biothesiometer. Jafnvægisstjórnun var metin með skynúrvinnsluprófi (SOT). Gönguhraði var metin með 10 metra gönguprófi (10MG) og starfrænn styrkur í neðri útlimum með 5x standa-sitja prófi (5xST). Þátttakendur í báðum hópum, mættu í sex þjálfunartíma undir handleiðslu sjúkraþjálfara yfir þriggja mánaða tímabil og fengu skriflegar heimaæfingar sem þeim var ætlað að stunda daglega. Einnig fylltu þeir út æfingadagbækur.

Niðurstöður: Í skynþjálfunarhópnum minnkaði ósamhverf starfsemi í jafnvægiskerfi innra eyra (HST) um 16% (p=0,058) en engin breyting kom fram í úlnliðsþjálfunarhópnum. Eftir að leiðrétt hafði verið fyrir upphafsmælingar, aldur og kyn með línulegri aðhvarfgreiningu, kom í ljós að skynþjálfunarhópurinn var marktækt betri á SOT (p=0,01), ekki sást munur á öðrum breytum. Undirgreining gagna meðal þátttakenda sem skoruðu undir aldurstengdum viðmiðunarmörkum á SOT við upphaf þjálfunar, gaf til kynna að skynþjálfunin bætti meira 10MG, (p=0,04), 5xST (p=0,04), SWF (p=0,04) og SOT (p=0,04) heldur en úlnliðsþjálfunin.

Ályktun: Skynörvandi jafnvægisþjálfun bætir jafnvægisstjórnun hjá einstaklingum sem hlotið hafa úlnliðsbrot við byltu. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að skynþjálfunin beri meiri árangur hjá einstaklingum sem eru undir aldurstengdum viðmiðunarmörkun á SOT við upphaf þjálfunar.


14. Forprófun íslenskrar þýðingar á mælingu á álagi á foreldrum barna á nýburagjörgæslu – PSS-NICU

Birta Rún Sævarsdóttir1,2, Sunna María Helgadóttir1,2, Rakel Björg Jónsdóttir1,2, Guðrún Kristjánsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2Landspítala

gkrist@hi.is

Inngangur: Foreldrar upplifa álag) sem getur tengst ýmsum þáttum og aðstæðum í legu barns á nýburagjörgæslu.

Tilgangur verkefnisins var að þýða, forprófa og meta innra samræmi PSS-NICU mælitækisins (Parental Stressor Scale: Neonatal Intensive Care Unit) sem metur álag á foreldrum barna á nýburagjörgæslu.

Aðferðir: PSS-NICU álagskvarðinn var þýddur yfir á íslensku með ISPOR/TCA aðferðinni og forprófaður á Vökudeild Landspítala. Lítilsháttar breytingar voru gerðar á uppsetningu álagskvarðans og kynningartextinn styttur. Mælitækið metur 46 atriði í fjórum flokkum: (A) hljóð og áreiti, (B) útlit og hegðun barns og fengnar meðferðir, (C) foreldrahlutverkið og sambandið við barnið og (D) framkoma starfsfólks og samskipti. Um 18 manna hentugleikaúrtak íslenskumælandi foreldra eldri en 17 ára sem áttu barn innlagt >47 klst á Vökudeild Landspítala á tveggja mánaða tímabili var boðið að taka þátt. PSS-NICU álagskvarðinn var lagður fyrir hvern þátttakanda ásamt 20 viðbótarspurningum um nýburann og almennar spurningar um álag auk tveggja opinna spurninga um álagsvalda og upplifun foreldra af verunni á Vökudeild.

Niðurstöður sýndu að flokkur C, „foreldrahlutverkið og sambandið við barnið“ olli mestu álagi, sem er í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna. Ekki kom almennt fram marktækur munur eftir kyni foreldris. Þó upplifðu feður marktækt (p<0,01) meira álag en mæður vegna ófullnægjandi upplýsingagjöf starfsfólks. Áreiðanleikastuðull PSS-NICU í heild sýndi að innra samræmið er gott og mælitækið áreiðanlegt (Cronbach's α=0,932). Þátttakendur sem áttu dreng upplifðu marktækt meira álag en þeir sem áttu stúlku (R=-0,608, p<0,01).

Ályktun: Með tilkomu mælitækisins í íslenskri þýðingu má rannsaka nánar álag á foreldrum barna á Vökudeild.

 

15. The effect of amotosalen treatment on human platelet lysate bioactivity

Christian Christensen1,2,3, Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch1,2,3, Ólafur Eysteinn Sigurjónsson1,2,3,4

1Platome Líftækni, Álfaskeið 27, 220 Hafnarfjörður, 2Faculty of Medicine, University of Iceland, Vatnsmýrarvegur 16, 101 Reykjavík, 3The Blood Bank, Landspitali University Hospital, Snorrabraut 60, 105 Reykjavik, 4School of Science and Engineering, Reykjavik University, Menntavegur 1, 101 Reykjavik

oes@landspitali.is

INTRODUCTION: In vitro expansion of human cells to obtain clinically relevant numbers are often a vital step in cell-based medicine. Stimulation of cell growth requires the presence of growth factors and other mediators. Fetal bovine serum (FBS) as a source of mitogens has been considered the gold standard but it exposes the cells to xenogeneic proteins and demonstrates batch-to-batch variability. Recently, platelet derivatives have been considered as possible alternatives to FBS. Human platelet lysates (hPL) are solutions rich in growth factors that support cell proliferation and are easily prepared. hPL prepared from expired platelet concentrates have been demonstrated to support growth of mesenchymal stromal cells (MSCs) more efficiently than FBS. However, standardization of commercial GMP grade hPL to ensure the safety and quality is imperative3. One concern regarding the use of hPL is the risk of transmitting human pathogens. The introduction of pathogen inactivation systems, such as the INTERCEPT™ Blood System which relies on amotosalen as the inactivating agent, has reduced this risk significantly. This does not always apply as most platelet concentrates are produced in absence of pathogen inactivation. Thus, the aim of this study was to evaluate the effect of applying pathogen inactivation post-expiry (PI-LA) compared to regular pathogen inactivated platelet units (PI-PL) on cell proliferation and differentiation of MSCs in vitro.

METHODS: To evaluate the effect of post-expiry pathogen inactivation on hPL bioactivity, MSCs from two donors were expanded and differentiated in cell culture medium supplemented with either PI-LA or PI-PL. hPL were prepared by applying the pathogen inactivation process less than 24h after donation (PI-PL) or (ii) after 7 days of storage (PI-LA). MSC cell proliferation was evaluated at low and high passages. Differentiation potential into osteogenic and adipogenic lineages were evaluated after 7, 14, 21 and 28 days in culture by alkaline phosphatase expression and Alizarin Red S staining and after 7 and 14 days in culture by Oil Red O staining, respectively.

RESULTS: Data demonstrates that hPL prepared from PI-LA after expiry: (i) support long-term proliferation of MSCs in vitro without altering the morphology and (ii) support osteogenic and adipogenic differentiation of MSCs as indicated by an upregulated secretion of alkaline phosphatase and mineralization as well as formation of lipid vacuoles.

DISCUSSION & CONCLUSIONS: This study indicates that MSCs can be expanded and differentiated into osteogenic and adipogenic lineages in hPL prepared from platelet concentrates that are treated with amotosalen-based pathogen inactivation after expiry. These results suggest that pathogen inactivation can safely be applied to platelet concentrates derived from blood processing institutions that use conventional bacterial screening methods in lieu. Both hPL preparations yielded comparable results in vitro. Thus, PI-LA demonstrates a novel method that provides consistency in reducing the risk of human pathogens in hPL products without impairing the final product.

 

16. Bráður nýrnaskaði eftir skurðaðgerð við ósæðarflysjun af gerð A: Tíðni, áhættuþættir og lifun

Daði Helgason1, Sólveig Helgadóttir3, Martin I. Sigurðsson4, Stefán Orri Ragnarsson5, Arnar Geirsson6, Tómas Guðbjartsson2

1Lyflækningasviði, 2hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 3Department of Anesthesia and Intensive Care, Akademiska University Hospital, Uppsölum, 4Department of Anesthesiology, Duke University Hospital, NC, USA, 5læknadeild Háskóla Íslands, 6Department of Cardiac Surgery, Yale University Hospital, New Haven, CT, USA

dadihelg@landspitali.is

Inngangur: Ósæðarflysjun af gerð A er lífhættulegur sjúdómur sem krefst bráðrar skurðaðgerðar en bráður nýrnaskaði í kjölfar þessara aðgerða hefur lítið verið rannsakaður.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni bráðs nýrnaskaða eftir aðgerðir við ósæðarflysjun af gerð A, meta áhættuþætti og áhrif hans á langtímalifun.

Aðferðir: Rannsóknin var hluti af samnorrænu rannsóknarverkefni, The Nordic Consortium for Acute type A Aortic Dissection (NORCAAD), sem nær til 1159 sjúklinga sem gengust undir aðgerð við ósæðarflysjun af gerð A á átta háskólasjúkrahúsum í Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð og Íslandi á árunum 2005-2014. Sjúklingar sem ekki áttu mælingu á S-kreatíníni fyrir eða eftir aðgerð, létust í aðgerð og þeir sem þurftu blóðskilun fyrir aðgerð voru útilokaðir. Bráður nýrnaskaði var skilgreindur samkvæmt RIFLE skilmerkjum og fjölbreytugreining notuð til að meta áhættuþætti BNS. Heildarlifun var metin með aðferð Kaplan-Meier.

Niðurstöður: Bráður nýrnaskaði greindist hjá 367 af 941 sjúklingum (39,0%). Saga um háþrýsting (ÁH 1,4, 95%-ÖB:1,0-1,8), Penn flokkur B eða C (ÁH 2,0, 95%-ÖB:1,5-2,7) og tími á hjarta- og lungnavél (per 10 mínútur, ÁH 1,1, 95%-ÖB:1,0-1,1) voru helstu áhættuþættir bráðs nýrnaskaða í fjölbreytugreiningu. Í sjúkrahúslegunni þurftu 24,6% nýrnaskaðasjúklinga blóðskilun samanborið við 3,9% sjúklinga án bráðs nýrnaskaða, þeir voru líklegri til að fá aðra alvarlega fylgikvilla (53,0% sbr. 33,4%, p<0,0001) og 30 daga dánarhlutfall þeirra var tvöfalt hærra (16,1% sbr. 7,5%, p<0,0001). Eins árs lifun sjúklinga með bráðan nýrnaskaða var síðri, eða 77,2% samanborið við 90,6% þeirra sem ekki fengu slíkan skaða (p<0,0001).

Ályktun: Bráður nýrnaskaði er mjög algengur fylgikvilli eftir aðgerð við ósæðarflysjun af gerð A og tengist aukinni tíðni alvarlegra fylgikvilla og verri lifun. Saga um háþrýsting, lengdur tími á hjarta- og lungnavél og Penn flokkur B og C reyndust helstu forspárþættir bráðs nýrnaskaða.

 

17. Notkun erfðaupplýsinga til að draga úr hættu á skyndidauða. Stökkbreytingar sem valda heilkenni lengingar á QT bili á Íslandi

Bára Dís Benediktsdóttir1, Garðar Sveinbjörnsson2, Daníel F. Guðbjartsson2, Hilma Hólm2, Davíð O Arnar1,2, Kári Stefánsson2

1Landspítala, 2Íslenskri erfðagreiningu

barad@landspitali.is

Inngangur: Frumkomnar raflífeðlisfræðilegar raskanir (FRR) (heilkenni lengingar á QT bili, Brugada heilkenni, katekólamínergur fjölleitur sleglahraðtaktur og heilkenni stytts QT bils) eru vel þekktar ástæður fyrir skyndidauða frá hjarta, sérstaklega í yngri einstaklingum. Þær eru oft ættlægar og fjölmargar þekktar stökkbreytingar tengjast þeim. Flestar stökkbreytingar sem valda heilkenni lengingar á QT-bili finnast í genunum KCNQ1, SCN5A og KCNH2. Svipgerð er breytileg og oft eru einstaklingar einkennalausir þar til alvarlegar takttruflanir gera vart við sig. Samband svipgerðar og arfgerðar FRR hefur ekki verið vel skilgreint.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar er að leita að erfðabreytileikum sem valda FRR í arfgerðarsafni Íslenskrar erfðagreiningar og ákvarða hvort nota megi arfgerðarupplýsingar til að spá fyrir um hvaða einstaklingar eru í aukinni áhættu á skyndidauða og þarfnist inngripa vegna þessa.

Aðferðir: Arfgerðarupplýsingar voru byggðar á heilraðgreiningu erfðamengis um 30.000 einstaklinga og örflögugreiningu 150.000 einstaklinga. Áhrif stökkbreytinga á QTc bilið var metið út frá 434.000 hjartalínuritum frá 80.694 einstaklingum. Svipgerð var metin frekar með yfirferð á sjúkraskrám einstaklinga sem bera erfðabreytileika sem tengjast FRR.

Niðurstöður: Fimm sjaldgæfar mislestursstökkbreytingar í KCNQ1 sýna fylgni við fyrirliggjandi QTc mælingar. Af þessum 5 veldur stökkbreytingin p.Val215Met, sem finnst í 1 af 300 Íslendingum, að meðaltali minnstri lengingu á QTc bili (P=1,18x10-29, áhrif=30,1ms). Tvær enn sjaldgæfari stökkbreytingar, p.Leu273Phe, sem finnst í 1 af 1250 Íslendingum, og p.Tyr315Cys, sem finnst í 1 af 3500 Íslendingum, valda alvarlegri svipgerð með lengra QTc bili (P=3,5x10-34, áhrif=61,3ms, P=2,4x10-22, áhrif=80,7ms).  Þessar breytingar sýna jafnframt fylgni við að hafa QTc bil lengra en 500ms á einhverjum tímapunkti (P=1,8×10-10, OR=8,5, P=5,1×10-13, OR=25,5). Eftir því sem breytingarnar valda lengra QTc bili eykst áhættan á skyndidauða. Stökkbreytingin Val215Met virðist ekki auka áhættu á skyndidauða.

Ályktun: Þessar niðurstöður sýna að skoðun á erfðabreytileikum með tengsl við heilkenni lengingar á QTbili og áhrifum þeirra á svipgerðartjáningu, getur veitt nýja innsýn á hið lítt þekkta samband svipgerðar og arfgerðar.


18. Sýklasótt eftir valskurðaðgerðir á Íslandi

Edda Vésteinsdóttir1,2, Sigurbergur Kárason1,2, Perla Steinsdóttir2, Hrafnkell Óskarsson2, Martin Ingi Sigurðsson3, Ásbjörn Blöndal4, Gísli H. Sigurðsson1-2

1Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Duke University Hospital, Department of Anesthesiology, Durham, NC, USA, 4svæfinga- og gjörgæsludeild Sjúkrahúsins á Akureyri

eddave@landspitali.is

Inngangur: Sýklasótt sem krefst innlagnar á gjörgæsludeild er fremur sjaldgæfur en alvarlegur fylgikvilli skurðaðgerða.

Markmið: Að kanna tíðni, tegundir sýkinga og afdrif sjúklinga sem leggjast inn á gjörgæsludeild vegna sýklasóttar í kjölfar valaðgerðar.

Aðferðir: Rannsóknin er hluti af stærra verkefni sem snýr að sýklasótt á íslenskum gjörgæsludeildum. Skoðaðir voru sjúklingar sem lögðust inn á gjörgæsludeildir Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri vegna sýklasóttar sem kom upp í kjölfar valaðgerðar, í sömu sjúkrahúslegu. Sex ár voru skoðuð, 2006, 2008, 2010, 2012, 2014 og 2016. Til samanburðar var hópur 564 sjúklinga sem lögðust inn með sýklasótt án tengsla við skurðaðgerð.

Niðurstöður: Á tímabilinu lögðust 88 sjúklingar inn á gjörgæsludeildir Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri vegna sýklasóttar í kjölfar valaðgerðar. Meðalaldur var 66,1 ár (30-87 ár), 65% karlar. Sjúklingar voru að miðgildi á 6. degi eftir aðgerð við innlögn. Flestir höfðu gengist undir kviðarholsaðgerð (56), brjóstholsaðgerð (8) og þvagfæraaðgerð (7). Algengstu sýkingarstaðir voru kviðarhol (52), lungu (19) og þvagfæri (4). Legudagar á gjörgæsludeild voru að miðgildi 5,5 og á legudeild eftir gjörgæsluleguna 16. Einungis 36% sjúklinga útskrifuðust beint heim. Dánarhlutfallið á sjúkrahúsinu var 26% og einu ári frá innlögn 41%. Empirísk sýklalyfjameðferð var oftar ófullnægjandi hjá þessum sjúklingahópi borið saman við aðra sjúklinga með sýklasótt og fjölónæmir sýklar algengari (24% af jákvæðum ræktunum á móti 5%).

Ályktun: Sýklasótt í kjölfar valaðgerða á sér oftast stað eftir kviðarholsaðgerðir. Afleiðingar slíkrar sýkingar eru alvarlegar með löngum legutíma og háu dánarhlutfalli. Vanda þarf val á sýklalyfjameðferð hjá þessum sjúklingahópi þar sem hefðbundin empirísk meðferð á síður við.19. Mælingar á blóðsykri hjá nýburum á kvennadeild Landspítalans og Vökudeild Barnaspítala Hringsins

Eggert Ólafur Árnason1, Guðrún Kristjánsdóttir2, Elín Ögmundsdóttir3, Þórður Þórkelsson1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 3vökudeild Barnaspítala Hringsins

 thordth@landspitali.is

Inngangur: Árið 2011 var gerð rannsókn á því hvernig blóðsykurseftirliti væri háttað hjá nýburum á kvennadeild Landspítalans og Vökudeild Barnaspítala Hringsins. Þar kom í ljós að eftirlitinu var að mörgu leyti ábótavant, ekki síst hjá börnum sykursjúkra mæðra. Í kjölfarið voru gerðar verklagsreglur sem tóku í gildi 2011 um hvernig eftirliti með blóðsykri og inngripum fyrir börn mæðra með insúlínháða sykursýki og meðgöngusykursýki týpu 1 og 2, skuli háttað. Í reglunum segir m.a. að leggja skuli barnið á brjóst sem fyrst eftir fæðingu og að mæla eigi blóðsykur hjá því við tveggja klst. aldur.

Markmið þessarrar rannsóknar var að kanna hvort blóðsykurseftirlit fari eftir núgildandi verklagsreglum, hvort eftirlitið hafi batnað frá fyrri rannsókn og hvaða börn eru í mestri áhættu fyrir lágan blóðsykur.

Aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og upplýsingum aflað úr sjúkraskrám, mæðraskrám og eftirlitstblöðum barna. Safnað var almennum upplýsingum um móður og barn sem og um blóðsykurseftirlit og inngrip. Rannsóknarúrtakið var 359 mæður með sykursýki á meðgöngu og fæddu börn á árunum 2015-2016 og börn þeirra. 193 mæður og börn þeirra úr fyrri rannsókn voru notuð sem viðmiðunarúrtak.

Niðurstöður: Meðalaldur nýbura við fyrstu blóðsykursmælingu var tvær klukkustundir og hefur lengst um tæpar 40 mínútur frá fyrri rannsókn.. Marktæk lækkun var í skráningu fæðugjafa milli tímabilanna (p<0,001), en í 31,3% tilvika var ábótargjöf skráð og í 86,1% var brjóstagjöf skráð, en 54,4% og 95,9% í fyrri rannsókn. Lægstu blóðsykursgildi barna mæðra með insúlínháða sykursýki mældust marktækt lægri (p<0,001) en barna mæðra með meðgöngusykursýki af tegund 1 og 2. Ekki var marktækur munur á aldri hópanna við lægstu mælingu en börn mæðra með insúlínháða sykursýki mæld marktækt fyrr en börn mæðra með meðgöngusykursýki af tegund 1 (p = 0,0067). Ekki var marktækur munur á fjölda blóðsykursmælinga á fyrstu þremur sólarhringunum eftir fæðingu milli tímabilanna tveggja.

Ályktun: Blóðsykureftirlit á kvennadeild Landspítala og Vökudeild virðist fara fram eftir gildandi verklagsreglum og hefur batnað frá því þær voru settar. Börn mæðra með insúlínháða sykursýki eru í meiri hættu að mælast með lágan blóðsykur en börn mæðra með meðgöngusykursýki af tegund 1 eða 2,  sem hugsanlega má að einhverju leyti rekja til þess að þau eru mæld fyrr en þau síðarnefndu. Niðurstöður rannsóknarinnar styðja mikilvægi þess að vel sé fylgst með börnum mæðra með sykursýki á meðgöngu fyrstu klukkustundirnar eftir fæðingu.

 

20. Langtímahorfur eftir bráða kransæðastíflu

Einar Logi Snorrason1, Bergrós Kristín Jóhannesdóttir3, Thor Aspelund1,2, Vilmundur Guðnason1,2, Karl Andersen1,2,3

1Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, 2Hjartavernd, 3lyflækningadeild Landspítala

andersen@landspitali.is

Inngangur: Hratt lækkandi dánartíðni vegna kransæðasjúkdóma á Íslandi helst í hendur við samsvarandi lækkandi nýgengi kransæðastíflu á undanförnum þremur áratugum.  Horfur þeirra sem fá kransæðastíflu hefur sömuleiðis batnað og skýrist það að miklu leyti af lyfjameðferð þeirra.  Langtímalifun sjúklinga með kransæðastíflu (NSTEMI og STEMI) hefur ekki verið rannsökuð á Íslandi.  

Markmið: Að bera saman 5 ára lifun einstaklinga með NSTEMI og STEMI og kanna áhrif áhættuþátta á lifun.

Aðferðir: Rannsóknin náði til allra sjúklinga sem greindust með bráða kransæðastíflu á LSH árið 2006.  Upplýsingar um áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma og greiningar voru fengnar úr Sögukerfi LSH.  Sjúklingum var fylgt eftir fram til 1. janúar 2015.  Endapunktur rannsóknarinnar var andlát af hvaða orsök sem er. Samsettur endapunktur var dauðsfall eða endurinnlögn vegna kransæðastíflu.  Í fjölþáttagreiningu var leiðrétt fyrir aldri, kyni, reykingarsögu, sykursýki, háþrýstingi, fjölskyldusögu og blóðfituröskun.

Niðurstöður: Á árinu 2006 greindust 447 einstaklingar með bráða kransæðastíflu á Landspítalanum, þar af voru 280 með NSTEMI (I21.4) og 167 með STEMI (I21- I21.9 ). Nýgengi NSTEMI árið 2006 var 91,3 á hverja 100.000 íbúa.  Nýgengi STEMI árið 2006 var 55,9 á hverja 100.000 íbúa.  Meðalaldur kvenna með NSTEMI var 8,4 árum hærri en meðalaldur karla með NSTEMI.  Meðalaldur kvenna með STEMI var 7,3 árum hærri en meðalaldur karla með STEMI.  Fimm ára lifun NSTEMI sjúklinga var 51%, 42% meðal kvenna og 57% meðal karla.  Fimm ára lifun STEMI sjúklinga var 77%, 68% meðal kvenna og 80% meðal karla (logrank: p<0,01). Eftir aldursleiðréttingu var marktækt verri langtímalifun eftir NSTEMI en STEMI (p=0.02).

Ályktanir: Nýgengi NSTEMI var hærra en STEMI á Íslandi árið 2006. Konur höfðu verri langtímahorfur en karlar sem skýrist af hærri meðalaldri þeirra. Langtímalifun NSTEMI sjúklinga var verri en lifun STEMI sjúklinga þrátt fyrir aldursleiðréttingu.

 

21. Fósturköfnun á Íslandi – nýgengi, orsakir og afdrif barnanna
Elva Rut Sigurðardóttir1, Hildur Harðardóttir1,2, Þórður Þórkelsson1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2kvennadeild Landspítal, 3Barnaspítala Hringsins

ers35@hi.is

Inngangur: Fósturköfnun (perinatal asphyxia) er afleiðing þess að skerðing verður á flutningi súrefnis um fylgju frá móður til fósturs. Eftir fósturköfnun eru nýburar í hættu á að fá ýmis vandamál, bæði til lengri og skemmri tíma, en alvarleiki þeirra fer eftir umfangi skaðans og ástandi þeirra líffæra sem eiga í hlut. Alvarlegastur er skaðinn sem getur orðið á heila en hann getur leitt til heilakvilla af völdum súrefnisþurrðar (hypoxic ischemic encephalopathy, HIE) og heilalömunar (cerebral palsy).

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að kanna nýgengi, áhættuþætti, orsakir og afleiðingar fósturköfnunar og einnig að skoða hvernig staðið var að endurlífgun nýbura sem urðu fyrir fósturköfnun og hver afdrif þeirra voru í kjölfar hennar.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði yfir 15 ára tímabil, frá 2002 – 2016. Við athugun á nýgengi fósturköfnunar voru fengnar upplýsingar um öll þau börn sem urðu fyrir fósturköfnun hér á landi á tímabilinu, skilgreind sem 5 mínútna Apgar ≤ 6. Auk þess voru fundin í Vökuskrá Barnaspítala Hringsins þau 50 börn sem fengu lægstan Apgar við 5 mínútna aldur og upplýsingum safnað um meðferð og afdrif þeirra úr Vökuskrá og sjúkraskrám, og um meðgöngu og fæðingu úr mæðraskrám og sjúkraskrám mæðranna.

Niðurstöður: Alls fengu 634 börn greininguna fósturköfnun á rannsóknartímabilinu. Nýgengi fósturköfnunar reyndist vera 9,71/1000 fædd börn. Rannsóknartímabilinu var skipt niður í tvö tímabil, 2002 – 2009 og 2010 – 2016. Nýgengi fósturköfnunar á fyrra tímabilinu var 10,64/1000 fædd börn en á því seinna reyndist það 8,64/1000 fædd börn. Algengustu áhættuþættir innan rannsóknarhópsins voru notkun oxytósíns dreypis í fæðingu (62%), líkamsþyngdarstuðull (LÞS) móður ≥ 30 kg/m2 (43%) og framköllun fæðingar (42%). Algengast var að fósturhjartsláttarrit var metið óeðlilegt, í 52% tilvika af heilbrigðisstarfsfólki viðstatt fæðinguna og í 69,6% tilvika af rannsóknaraðilum. Algengar orsakir fósturköfnunar innan rannsóknarhópsins voru axlaklemma (26%) og fylgjuþurrð (20%) en algengast var að orsök fósturköfnunar hefði verið flokkuð sem „annað“ (42%). Allir nýburar í rannsóknarhópnum þurftu á endurlífgun að halda eftir fæðingu. Öndunaraðstoð var veitt í öllum tilvikum, hjartahnoð í 48% tilvika, adrenalín gefið í 26% tilvika og blóð gefið í 4% tilvika. Af 50 börnum sem urðu fyrir alvarlegri fósturköfnun voru 27 (54%) sem fengu HIE. Af þeim sem fengu HIE létust sex (22,22%) og útskrifuðust 21 (77,78%) á lífi, en fimm (23,81%) þeirra greindust seinna með heilalömun.

Ályktanir: Rannsóknin leiddi í ljós að nýgengi fósturköfnunar fer lækkandi. Áhættuþættir eru margvíslegir en algengastir voru notkun oxytósíns dreypis, LÞS móður ≥ 30 kg/m2 og framköllun fæðingar. Fósturköfnun getur orðið óvænt, en axlaklemma og fylgjuþurrð voru algengar orsakir hennar í rannsókninni. Endurlífgun var ávallt hafin strax af viðstöddum og allt bendir til þess að rétt hafi verið staðið að henni í öllum tilvikum sem undirstrikar mikilvægi þjálfunar ljósmæðra og lækna í endurlífgun nýbura. Rúmlega helmingur barnanna bar merki um HIE eftir fæðingu. Þrátt fyrir að börnin yrðu öll fyrir alvarlegri fósturköfnun greindist aðeins tiltölulega lítill hluti þeirra með heilalömun síðar á ævinni.

 

22. Ótilgreindir brjóstverkir eru algengasta ástæða fyrir komum á hjartagátt

Erla Svansdóttir1, Ylfa Rún Sigurðardóttir2, Elísabet Benedikz1, Björg Sigurðardóttir3, Helga Margrét Skúladóttir3, Hróbjartur Darri Karlsson4, Karl Andersen2,3

1Gæða- og sýkingavarnadeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Hjartagátt, Landspítala, 4læknadeild, Dunedin Hospital, Nýja Sjálandi

erlasvan@landspitali.is

Bakgrunnur: Fjöldi fólks leitar árlega á Hjartagátt vegna brjóstverkja. Við hverja komu er grundvallaráhersla lögð á að útiloka að um alvarlega hjartaatvik sé að ræða, en veita viðeigandi bráðameðferð ef svo er. Í mörgum tilvikum finnast hins vegar engin merki um hjartasjúkdóm né önnur bráð veikindi sem orsaka brjóstverkinn. Slík tilvik má kalla ótilgreindra brjóstverki, sem lýsa brjóstverkjum sem orsakast af vægum vefrænum orsökum (s.s. bakflæði og stoðkerfisverkjum) eða sálrænum þáttum (s.s. kvíða eða streitu), eða samspili slíkra þátta. Algengt er að sjúklingar með ótilgreinda brjóstverki upplifi viðvarandi verki og vanlíðan eftir útskrift. Eins leita þeir endurtekið eftir heilbrigðisþjónustu vegna einkenna sinna, sem einkum er talið stafa af skilningsleysi þeirra á hvað orsaki verkinn.

Markmið: Að kanna hlutfall brjóstverkjasjúklinga á hjartagátt sem fá ICD-10 greiningar sem gefa ekki tilvísun um orsök brjóstverks.

Aðferð: Upplýsingar um greiningar 1540 sjúklinga á aldrinum 18-65 ára sem komu á hjartagátt vegna brjóstverkja (frá okt 2015-nóv 2016) voru sóttar í sjúkraskrá. Af þeim hlutu 1163 eina greiningu, 269 tvær greiningar, og 83 sjúklingar þrjár eða fleiri greiningar, en engin greining var skráð hjá 25 sjúklingum. Gefnar greiningar við hverja komu voru flokkaðar eftir sjúkdómaflokk (sem skýrðu tilurð verks) eða einkennum (sem gáfu ekki til kynna orsök verks). Í tilvikum þegar fleiri en ein greining var gefin fengu greiningar sem gáfu til kynna sjúkdóm eða ástand sem orsök verks forgang við flokkun. Til að forðast skekkju í mati á tíðni greininga (t.d. meðal sjúklinga með tíðar endurkomur) var einungis fyrsta koma hvers sjúklings skráð.

Niðurstöður: Alls 1540 sjúklingar komu á hjartagátt vegna brjóstverkja á þessu 13 mánaða rannsóknartímabili. Af þeim hlaut meirihlutinn, eða 59% (907), greiningu á brjóstverkur, ótilgreindur (R07.4) eða annar brjóstverkur (R07.3). Nærri 10% fengu greiningar sem ekki vísuðu til orsakar verkjar (s.s. skoðun vegna gruns um kransæðasjúkdóm (6% (85), hjartsláttarónot (2% (28)) eða mæði og þreyta (2% (32)). Einungis 7% sjúklinga fengu greiningu á þekktum orsökum ótilgreindra brjóstverkja, eins og bakflæði (1% (20)), stoðkerfis- og vöðvaverkjum (5% (76)), eða kvíða eða sálrænni vanlíðan (0,5% (7)). Alls 18% sjúklinga fengu greiningar á hjartasjúkdómum (það er: bráður kransæðasjúkdómur (7% (110)), óstöðug angina (2% (36)), stöðugur kransæðasjúkdómur (2% (n=34)), hjartsláttaróregla (3% (40)), eða aðrir hjarta- og æðasjúkdómar (4% (56)). Alls 4% sjúklinga (55) hlutu greiningar á maga-, þarma-, eða lungnasjúkdómum og 2% á öðrum veikindum (26).

Ályktun: Meirihluti sjúklinga sem leitar á Hjartagátt Landspítala vegna brjóstverkja hlýtur þar greiningu sem ekki tilgreinir orsakir brjóstverkjarins. Mögulega situr sá sjúklingahópur uppi með skertar upplýsingar um hvað valdi þeim einkennum sem þeir finna fyrir, eða hvað þeir eigi að gera í framhaldinu til að vinna bug á einkennum sínum. Nákvæm upplýsingagjöf og stuðningur við útskrift þessara sjúklinga gæti gagnast til að bæta líðan þeirra og fækka endurkomum vegna viðvarandi einkenna.

 

23. Þörf á sértækum stuðningi fyrir sjúklinga með ótilgreinda brjóstverki á hjartagátt Landspítala

Erla Svansdóttir1, Ylfa Rún Sigurðardóttir2, Elísabet Benedikz1, Björg Sigurðardóttir3, Helga Margrét Skúladóttir3, Jón Friðrik Sigurðsson4, Hróbjartur Darri Karlsson5, Karl Andersen2,3

1Gæða- og sýkingavarnadeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Hjartagátt, Landspítala, 4Háskólanum í Reykjavík, 5læknadeild, Dunedin Hospital, Nýja Sjálandi

erlasvan@landspitali.is

Bakgrunnur: Fjöldi fólks leitar árlega á hjartagátt vegna ótilgreindra brjóstverkja sem ekki stafa af hjartasjúkdómum, heldur orsakast af vefrænum og sálrænum þáttum. Almennt stendur einstaklingum með ótilgreinda brjóstverki ekki til boða frekari inngrip eða meðferð á hjartabráðadeildum. Hins vegar eru vísbendingar um að þessir sjúklingar sitji uppi með líkamleg einkenni og vanlíðan sem þeim gengur illa að vinna úr og að þeir leiti endurtekið í bráðaþjónustu. Niðurstöður rannsóknar á hjartagátt hefur sýnt að tilfelli ótilgreindra brjóstverkja á deildinni séu fjölmörg, eða nærri 70% meðal brjóstverkjasjúklinga. Í þeirri rannsókn reyndust sjúklingar með ótilgreinda brjóstverki vera marktækt yngri en hjartasjúklingar en bera sambærilega líkamlega og andlega vanlíðan. Meirihluti sjúklinga með ótilgreinda brjóstverki (60%) fann fyrir áframhaldandi verkjum eftir útskrift og þriðjungur þeirra hafði verulegar áhyggjur af þeim. Nærri þriðjungur hafði jafnframt ekki hafa fengið upplýsingar um aðrar mögulegar orsakir brjóstverkja.

Markmið: Að prófa meðferðarinngrip sem mun veita sjúklingum með ótilgreinda brjóstverki þverfaglega fræðslu og meðferð.

Aðferð: Þátttakendur verða 100 sjúklingar á aldrinum 18-50 sem fengið hafa greiningu á ótilgreindum brjóstverk (R07.4) á hjartagátt. Þátttakendum verður skipt upp með tilviljunaraðferð í meðferðarinngrip eða samanburðarhóp. Meðferðarinngripið felur í sér þriggja skipta hópmeðferð sem fram fer á hjartagátt á árinu 2018.

Niðurstöður: Í hverjum hóptíma mun hjartalæknir eða sálfræðingur veita ítarlega fræðslu um: a) brjóstverki og ólíka orsakaþætti sem geta valdið brjóstverkjum; b) hvernig streita og kvíði geta vakið upp og viðhaldið verkjaupplifun; og c) áhrif hreyfingar á líkamlega og andlega líðan. Að fræðslu lokinni fer fram virkniþjálfun í slökun, öndunartækni og bjargráðum við streitu, og kennsla á  ákveðnum atriðum hugrænnar atferlismeðferðar. Sérstaklega verður tekist á við hræðslu tengda hreyfingu. Samanburðarhópur mun fá afhentan fræðslubækling um ólíkar orsakir brjóstverkja og bjargráð við þeim. Árangur meðferðarinnar verður metinn með fyrirlögn spurningalista um andlega líðan, lífsgæði og verkjaupplifun þátttakenda fyrir og eftir meðferð, og sex mánuðum eftir meðferð. Breytingar á hreyfingu verða mældar með hreyfimælum yfir vikutíma við upphaf og lok meðferðar.

Ályktun: Sjúklingar með ótilgreinda brjóstverki eru margir á hjartagátt og bera sambærilega líkamlega og andlega vanlíðan og hjartasjúklingar en fá lítinn stuðning eða meðferð. Rannsókn þessi mun leiða í ljós hvort bæta megi líðan þessa hóps með þverfaglegum stuðningi og fræðslu um samspil líkamlegra einkenna, andlega líðan og streitu. Vonast er til að fækka megi endurkomum þessa sjúklingahóps í bráða- og heilbrigðisþjónustu með bættri þjónustu við fyrstu komu.

 

24. Hönnun suðlítils magnara til að nema úthljóðsrafhrif fyrir úthljóðsstraumlindarmyndgerð

Friðrik Hover1,2 , Þórður Helgason1,2

1Vísindadeild Landspítala, 2tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík,

fridrikh13@ru.is

Inngangur: Úthljóðsstraumlindarmyndgerð er aðferð sem verið er að þróa og gerir manni m.a. kleift að fylgjast með raförvun í rauntíma. Einnig er hægt að mæla rafstraum sem hreyfieiningar vöðva mynda og þar með sjá hvaða hlutar vöðva eru virkir og hverjir ekki. Þetta er mikilvægt í eftirliti meðferðar aftaugaðra vöðva hjá einstaklingum með úttaugaskaða. Straumurinn er myndaður með því að móta viðnám vöðvavefjar með úthljóði. Til verður úthljóðsrafhrifsmerki, (acusto-electric-signal, AE signal)Til þess að hægt sé að myndgera rafboðin þarf magnara með að minnsta kosti mögnunarstig upp á 1.000. Tíðnibilið þarf að vera 250 kHz – 4.000 kHz. Magnarinn þarf að vera óvenju suðlítill, þ.e. merkið þarf að vera vel greinanlegt frá truflunum sem kunna að vera til staðar. Tilgangur rannsóknarinnar er að athuga hvernig suð myndast í rafrás og hvernig hægt sé að lágmarka það. Einnig gekk til að hanna rafrás, smíða hana og að lokum framkvæma mælingar.

Markmið: Hanna magnara með mögnunarstuðul, A>1.000, sem getur magnað merki upp á 10 µV,  þar sem hlutfall milli merkis og suðs (signal to noise ratio) er 10:1 eða betra.

Aðferðir: Stuðst var við hvers kyns fræðigreinar og -bækur sem koma inn á viðfangsefnið suð í rafrásum. Notast var við Altium Designer 17.2 til þess að teikna prentplötuna. Prentplatan var hönnuð að formi og færanleika, þannig að dýfa mætti henni á þægilegan máta ofan í kar með saltlausn svo magnarinn yrði sem næst uppruna merkis. Karið tilheyrir tilraunauppsetningu sem hafði verið útbúin í áðurgerðu verkefni. Prentplata með ljósnæmum kopar, framköllunarbúnaður og sýruþvottastöð var notað til þess að framleiða rafrásina. Yfirborðsásettir íhlutir (Surface Mount Technology) voru lóðaðir undir smásjá á prentplötuna. Suð var reiknað fyrir mismunandi íhlutastærðir og mælt.

Niðurstöður: Suð í rafrás á uppruna sinn bæði innan ráfrásarinnar frá íhlutum en einnig frá umhverfinu í formi rafsegulbylgja. Hægt er að lágmarka suð frá umhverfinu með skermun sem í kjarnann er Faraday búr. Skermunin þarf að vera jarðtengd til að ekki myndist rafrýmd milli skermunar og rafrásar. Nokkrar tegundir eru af suði frá íhlutum, en á umræddu tíðnibili, með réttu vali íhluta er hægt að einskorða sig við að taka tillit til varmasuðs, (white noise) sem er óháð tegundum viðnáma og sama afl yfir allt tíðnisviðið. Varmasuð er normal dreift og ef engin hliðrun er í merkinu um núllið þá eru tvö staðalfrávik (± σ) það sama og RMS. Það er því nokkuð fyrirsjáanlegt og hægt að reikna út fyrir viðnám og hvers kyns tegundir aðgerðarmagnara. Heppilegasta útfærsla aðgerðarmagnara til að magna upp lágt merki sem slíkt, innan um truflanir, er mismunarmagnari gæddur mjög háu inngangssýndarviðnámi (instrumentation amplifier). Mismunamagnari magnar aðeins muninn á ílagsmerkjunum sem berast báðum ílagsrásum hans. Merkið hefur hlutfallslega mjög háa jafnstraumshliðrun sem kemur til vegna pólunar milli rafskauta og saltlausnar. Það var ljóst að útbúa þyrfti rafrás sem eyðir þessari hliðrun því að öllu óbreyttu myndi magnarinn fara í mettun og bjaga merkið. Útbúin var riðstraums kúpling sem í kjarnann er háhleypisía með mjög lágri brottíðni og hleypir því bara riðstraumshlutanum í gegn. Útfærsla af þessu tagi þarf of há viðnám við inngang magnarans sem veldur of háu suði fyrir hið veika úthljóðsstraumlindarmerki. Niðurstaða rannsóknarinnar er að byggja þarf magnara með minni viðnámum en samt tryggja hátt inngangsviðnám á breiðu tíðnisviði.

Ályktun: Útbúa þarf aðra rafrás til að eyða jafnstraums hliðruninni. Líklegt telst að nota megi jafnstraums hreyfiþræl (DC servo loop) sem er aðgerðarmagnari útbúinn sem heildari. Þessi heildari verður settur við innganginn á magnaranum og mun hann taka upp merkið og senda tilbaka í lokaðri lykkju til þess að draga jafnstraumshlutann frá heildar merkinu. Þá þarf lágóma magnara, til að minna hitasuð, samt með háu inngangsviðnámi.  

 

25. Tap á Kmt2d í músamódeli af Kabuki heilkenni veldur óeðlilegri sérhæfingu plasmafrumna

Genay Pilarowski1,2, Li Zhang1, Hans Tómas Björnsson1,3-5

1Mannerfðafræðistofnun Johns Hopkins, 2Johns Hopkins háskóla, 3barnadeild Johns Hopkins spítala, 4erfða og sameindafræðideild Landspítala, 5Háskóla Íslands

hanstb@landspitali.is

Inngangur: Kabuki heilkenni (týpa 1) orsakast af nýjum ríkjandi stökkbreytingum í histónhala-umbreytiþættinum KMT2D. KMT2D bætir metýlhópum (me1, me3) á histónhala histón 3 á fjórðu lýsín (K) amínósýru (H3K4) og gegnir þannig hlutverki við opnun litnis í gegnum virkjun á efli- eða stýriröðum. Eitt af einkennum Kabuki heilkennis er truflun á virkni ónæmiskerfisins sem sést meðal annars með lækkun á magni mótefna (hypogammaglobulinemia), stækkun á milta og minnkaðri svörun við bólusetningum.

Markmið: Að skilja hvernig KMT2D stökkbreytingar í Kabuki heilkenni valda sjúkdómsmynd í ónæmiskerfinu og að finna frumugerðir sem hægt væri að einangra til frekari rannsókna á genatjáningu og utangenaerfðum.

Aðferðir: Við höfum útbúið músamódel (Kmt2d+/βgeo mýs) þar sem mýsnar hafa úrfellingu á síðasta hluta próteinsins. Þessar mýs hafa mörg einkenni sem við sjáum í einstaklingum með Kabuki heilkenni eins og vaxtarskerðingu, minnkaða getu í minnisprófum og galla í beinagrind. Hins vegar hefur ónæmiskerfið ekki verið rannsakað í músamódeli af Kabuki heilkenni áður.   

Niðurstöður: Sæmbærilegt við einstaklinga með Kabuki heilkenni hafa Kmt2d+/βgeo mýs miltisstækkun (p<0,03) og lækkun á IgA magni í sermi (p<0,0002) miðað við  Kmt2d+/+ mýs. IgA er mikilvægur hluti ónæmiskerfis slímhimna og mikið af því er framleitt í þörmum. Til að skilja betur af hverju IgA er lækkað í Kmt2d+/βgeo músum skoðuðum við bæði safneitlinga (Peyer´s patches) og garnaeitla (mesenteric lymph nodes). Safneitlingar reyndust færri í Kmt2d+/βgeo músum miðað við Kmt2d+/+ mýs (að meðaltali 2,4 miðað við 7,2, p<0,0001). Einnig fannst minna magn af post-IgA mótefnaflokkavíxluðum umritum (50%; p<0,02) í garnaeitlum (mesenteric lymph node) sem og færri fullþroska plasmafrumur í Kmt2d+/βgeo músum miðað við Kmt2d+/+ mýs. Hins vegar fundust fleiri lítt þroskaðar IgA jákvæðar frumur í Kmt2d+/βgeo músum, sem bendir til þess að sérhæfing plasmafrumna sé hindruð. Við fundum auk þess færri B1a frumur í kviðarholi (peritoneal cavity) en þessar frumur gegna einnig hlutverki í framleiðslu á IgA. 

Ályktun: Niðurstöður okkar benda til viðtækrar truflunar á starfsemi B frumna í Kmt2d+/βgeo músum. Þessar niðurstöður benda einnig til truflana á ákveðnum stigum í þroska B frumna sem nú er hægt að rannsaka nánar til að skilja betur nákvæmlega hvernig stökkbreytingar í KMT2D geni valda sjúkdómsmynd Kabuki heilkennis.

 

26. Tengsl millivefslungabreytinga og þátta sem tengjast líkamlegri færni og heilsu

Gísli Þór Axelsson1,2*, Rachel K. Putman3*, Ezra R. Miller3, Tetsuro Araki4,5, Sigurður Sigurðsson1, Elías F. Guðmundsson1, Guðný Eiríksdóttir1, Kristín Siggeirsdóttir1, Thor Aspelund1,2, Lenore J. Launer6, Tamara B. Harris6, Hiroto Hatabu4,5, Vilmundur Guðnason1,2, Gary M. Hunninghake3,5 Gunnar Guðmundsson2,7

1Hjartavernd, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Pulmonary and Critical Care Division, 4Department of Radiology, 5Center for Pulmonary Functional Imaging, Brigham and Women's Hospital, Harvard Medical School, Boston, USA 6Intramural Research Program, National Institute of Aging, NIH, Bethesda, USA, 7lungnalækningadeild Landspítala

gtha7@hi.is

Inngangur: Millivefslungnabreytingar (MLB) eru breytingar sem sjást á tölvusneiðmyndum og  benda til lungatrefjunar (pulmonary fibrosis) á byrjunarstigi. Í fyrri rannsóknum hefur verið sýnt fram á tengsl þessara MLB við hækkandi aldur, aukna dánartíðni, ýmis öndunarfæraeinkenni og erfðaþætti sem finnast í sjálfvakinni lungnatrefjun. Lítið er hins vegar vitað um möguleg tengsl MLB og þátta sem tengjast líkamlegri færni og heilsu.

Markmið: Markmið þessarrar rannsóknar var að kanna hvort tengsl væru milli MLB og þátta sem tengjast líkamlegri færni, það er gripstyrks, styrks við réttu um hné, gönguhraða á 6 m gönguprófi, tímasetts upp og gakk prófs og vöðvamassa læris, sem og þátta sem tengjast heilsu, þ.e. sjálfstæði við athafnir daglegs lífs (ADL), eigið mat á almennri heilsu og líkamlegrar virkni á síðustu 12 mánuðum.

Aðferðir: Notast var við gögn úr AGES-Reykjavik rannsókn Hjartaverndar, framskyggni faraldsfræðirannsókn á 5.764 Íslendingum Millivefslungnabreytingar höfðu áður verið greindar af tölvusneiðmyndum. Við mat á þáttum tengdri líkamlegri færni var notast við hlutlægar mælingar og myndgreiningu með tölvusneiðmyndum og við mat á þáttum tengdum heilsu var notast við spurningalista. Tengsl þessara breyta við MLB voru prófuð með tvíkosta aðhvarfsgreiningu þar sem leiðrétt var fyrir kyni, aldri, líkamsþyngdarstuðli, fjölda pakkaára og hvort þátttakendur væru virkir reykingamenn þegar rannsóknin var framkvæmd.

Niðurstöður: Tengsl fundust milli frammistöðu í fjórum þáttum sem tengjast líkamlegri færni og MLB. Þeir voru minni gripstyrkur (gagnlíkindahlutfall (Odds Ratio (OR)) 1,21 /100 N; 95% öryggisbil (ÖB) 1,02-1,42), minni styrkur við réttu um hné (OR 1,23 /100 N; ÖB 1,07-1,41), lengri tími við 6 m göngu (OR 1,06 /sek; ÖB 1,01-1,12) og minni vöðvamassi læris (OR 1,14 /10 cm2, ÖB 1,05-1,23). Tengsl fundust einnig milli MLB og þátta sem tengjast heilsu. Þáttakendur með MLB voru ólíklegri til að vera sjálfstæðir við athafnir daglegs lífs (OR 0,70; ÖB 0,55-0,90), ólíklegri til að skilgreina heilsu sína sem „góða“, „mjög góða“ eða „ágæta“ (OR 0,66; ÖB 0,52-0,82) og ólíklegri til að hreyfa sig vikulega eða oftar (OR 0,72; ÖB 0,56-0,91).

Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að tengsl séu á milli MLB og þátta sem tengjast bæði líkamlegri færni og almennri heilsu. Rannsóknir hafa ekki áður sýnt fram á tengsl milli MLB og svo víðtækra einkenna af þessum toga. Orsakir þessara tengsla eru óþekktar og verðugt verkefni frekari rannsókna.

 

27. Notkun GigtRáðs sem klínísks stuðningskerfis í greiningarferli sjálfsónæmis- og gigtarsjúkdóma

Guðrún Ása Björnsdóttir1,3, Björn Guðbjörnsson2,3, Guðrún Björk Reynisdóttir2, Emil L. Sigurðsson3,4, Dagrún Jónasdóttir1, Þorsteinn Hauksson5, Kristján Sturlaugsson6, Björn Rúnar Lúðvíksson3,7

1Lyflækningasviði, 2gigtlækningadeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands, 4Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 5Kvikna ehf, 6HUT Landspítala, 7ónæmisfræðideild Landspítala

gudrunasa @gmail.com

Inngangur: Fjölkerfa sjálfsónæmis- og gigtarsjúkdómar eru flóknir sjúkdómar sem getur verið erfitt og tímafrekt að greina. Hefur klíníska stuðningskerfið (Clinical Decision Support System) GigtRáður verið í þróun í nokkur ár til að bæta greiningarferlið. Er GigtRáður gervigreindarforrit sem búið er að forprófa og er nú komið að klínískum prófunum.

Markmið: Meginmarkmið rannsóknarinnar er að meta hvort klínískt stuðningskerfi geti bætt greiningarferli kerfislægra sjálfsónæmis- og gigtarsjúkdóma.

Aðferðir: Framskyggn cluster slembirannsókn. Sex stærstu heilsugæslustöðvar höfuðborgarsvæðisins taka þátt í eitt ár. Mun hluti þeirra nota GigtRáð en hinar ekki. Þátttakendur verða eldri en 18 ára og valdir af heimilislækni. Matskerfi GigtRáðs spyr um lýðfræðilegar upplýsingar, einkenni og sjúkdómsteikn. Einnig verða notaðir sérstakir spurningalistar til að meta notendavænleika kerfisins og áhrif GigtRáðs á samband sjúklings og læknis og sameiginlega ákvarðanatöku. Metin verður nákvæmni áhættumats GigtRáðs á kerfislægum sjálfsónæmis- og gigtarsjúkdómum ásamt skilvirkni GigtRáðs sem greiningartæki. Samanburður verður gerður á leitni sjúkdómsteikna og einkenna fyrir hvert áhættumat við þau flokkunarviðmið sem nú eru notuð í tengslum við sjálfsónæmis- og gigtarsjúkdóma.

Niðustöður: Samkvæmt forprófunum á GigtRáði getur stuðningskerfið sagt til um með 88% sértæki hvort einstaklingur muni reynast með jákvæð gigtarpróf. Þegar rannsóknarniðurstöður gigtarprófa eru bornar saman við sjúkdómsáhættumat GigtRáðs þá er næmi og sértæki yfir 95%.

Ályktun: Mikill ávinningur felst í því að bæta greiningarferli sjálfsónæmis- og gigtarsjúkdóma. GigtRáður hefur reynst efnilegt klínískt stuðningskerfi í forprófunum þar sem það framleiðir nákvæmt sjúkdómsáhættumat. Nú er komið að klínískum prófunum og mun þá nákvæmi og skilvirkni kerfisins verða kannað nánar ásamt áhrifum kerfisins á samskipti sjúklinga og lækna.

 

28. Rannsókn á þátttöku fjögurra ára barna í bólusetningum á höfuðborgarsvæðinu, skýringar foreldra barna sem ekki eru skráð bólusett og verkferlar heilsugæslu

Henný Björk Birgisdóttir1,3, Anna Kristín Leifsdóttir1,3, Þórólfur Guðnason2, Sesselja Guðmundsdóttir4, Guðrún Kristjánsdóttir1, 3

1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2Embætti sóttvarnarlæknis, 3Landspítala, 4Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

gkrist@hi.is

Inngangur: Árlegar skýrslur sóttvarnalæknis frá árinu 2012 um þátttöku barna í bólusetningum á Íslandi sýna að hún er viðunandi nema við 12 mánaða og 4 ára aldurinn en þar er þátttökutíðnin undir viðmiðunarmörkum.

Markmið verkefnisins var að komast að þátttöku 4ra ára barna í bólusetningum á þjónustusvæði Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) árið 2015 og ástæður fyrir lægri tíðni bólusettra við þann aldur. Einnig var verklag ung- og smábarnaverndar heilsugæslustöðvanna við 4ra ára skoðun og bólusetningar við þann aldur skoðað.

Efniviður og aðferðir: Úrtak foreldra allra 266 barna er fæddust árið 2010 sem ekki voru bólusett á tilsettum tíma samkvæmt gögnum sóttvarnalæknis. Eftir hreinsun gagna féllu 164 börn undir hóp óbólusettra barna skv. skrám HH. Svarhlutfall var 39,6% upphaflega úrtaksins. Spurningar voru lagðar fyrir um tengsl við barn, aldur, menntun, búsetu, hjúskaparstöðu, fjölda barna á heimili og fæðingarmánuð barns. Einnig var spurningalisti lagður fyrir 15 verkefnisstjóra ung- og smábarnaverndar HH um þjónustu og verklag við bólusetningu 4ra ára barna á svæðinu þeirra. Svarhlutfall var 93,3%.

Niðurstöður sýndu að 84,4% töldu barnið sitt að fullu bólusett. Hafi barn ekki verið bólusett var helsta skýringin gleymska foreldra (10,8%) eða að það hefði tafist í upphafi og fyrirfarist (9,2%). Nokkrir nefndu hræðsla við aukaverkanir (4,6%) sem ástæðu og vegna of mikils bóluefnis sem barnið fengi í heildina (3,1%) eða óþægindi og hræðsla barns við bólusetninguna (1,5%). Ekki var marktækur munur eftir áhrifaþáttum. Niðurstöður rannsókna á verklagi ung- og smábarnaverndar sýndi að samræmi sé í verklagi heilsugæslurnar.

Álykta má að þekktir áhættuþættir í fari foreldra eða uppeldi barns hafi ekki áhrif á þátttöku í bólusetningum. Niðurstöðurnar sýna að flestir láti bólusetja börnin sín og bendir því til vanskráningar stofnana eða vanrækslu foreldra við að mæta á tilteknum tíma til bólusetningar. Niðurstöður geta gagnast í stefnumótun og bættri þjónustu í ung- og smábarnavernd.

 

29.     Varnarpeptíðið LL-37 mótar svar hyrnisfrumna við örvunum tengdum bólgusvari sóra

Hildur Sigurgrímsdóttir1,2, Jóna Freysdóttir1,2,3, Björn Rúnar Lúðvíksson1,2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3rannsóknarstofu í gigtsjúkdómum, Landspítala

hildursigur@hotmail.com

Inngangur: Skellusóri er bólgusjúkdómur í húð þar sem frumur ónæmiskerfisins fara í húð og valda offjölgun hyrnisfrumna og óeðlilegu bólguástandi. Th1 og Th17 frumur eru taldar aðal verkfrumur  í meingerð sóra en þær seyta bólguboðefnum á borð við IFNγ, TNFα og IL-17 sem má finna í auknu magni í bæði blóði og húð sórasjúklinga. Einnig taka hyrnisfrumur í húð töluverðan þátt í meingerð sóra með því  seyta efnatogum, bólguboðefnum og varnarpeptíðum en íferð ónæmisfrumna í húð er stjórnað af efnatogum og viðtökum þeirra. Varnarpeptíðið LL-37 er partur af ósértæka ónæmiskerfinu. LL-37 er tjáð í meira magni í húð og blóði sórasjúklinga og er talið taka þátt í meingerð sóra, bæði í upphafi og viðhaldi sóra, auk þess að vera framleitt af hyrnisfrumum eftir áverka. Sýnt hefur verið fram á að LL-37 hefur áhrif á seytingu hyrnisfrumna eftir að þær hafa verið örvaðar með bólguboðefnum.

Markmið: Að skoða nánar hvaða áhrif LL-37 hefur á seytingu hyrnisfrumna í rækt eftir örvun með bólguboðefnum sem tengjast meingerð sóra.

Aðferðir: Hyrnisfrumulína (HaCaT frumur) og ferskar hyrnisfrumur voru ýmist örvaðar með IFNγ og TNFα til að líkja eftir Th1 bólgusvari, IL-17 og TNFα til að líkja eftir Th17 bólgusvari eða ekki örvaðar, allt með og án LL-37. Frumuflot var tekið af ræktunum og 27 bólguboðefni, efnatogar og vaxtarþættir voru mældir með Luminex aðferð.

Niðurstöður: Öll 27 efnin sem voru mæld í þessu verkefni var seytt af hyrnisfrumum í einni eða fleiri ræktunaraðstæðum. LL-37 hafði áhrif á seytingu margra efna, ýmist til aukningar eða minnkunar. Hyrnisfrumur reyndust seyta IL-17A í nokkru magni en LL-37 hafði ekki áhrif á magn þess. Seyting á CCL19 (sem dregur ónæmisfrumur til eitla) minnkaði í HaCaT frumum eftir Th1 örvun með LL-37. LL-37 minnkar líka seytingu CCL11 (sem er efnatogi fyrir rauðkyrninga (e. eosinophils)) hjá báðum frumugerðum eftir Th1 örvun og IL-17E hjá ferskum hyrnisfrumum eftir Th1 örvun. Bólguhamlandi boðefnið IL-10 var seytt í minna mæli eftir Th1 örvun í HaCaT frumum. Vaxtarþættinum VEGF og bólguboðefninu IL-1β og efnatoganum CXCL8 var seytt í auknu magni hjá óörvuðum ferskum hyrnisfrumum ræktuðum með LL-37.  

Ályktun: IL-17A er lykilboðefni í meingerð sóra og niðurstöður okkar sýna að hyrnisfrumur framleiða það en hingað til hefur verið talið að það sé eingöngu framleitt af frumum ónæmiskerfisins. Jafnframt sýna niðurstöður okkar að LL-37 hefur mikil áhrif á seytingu hyrnisfrumna á bólguboðefnum og efnatogum, sérstaklega þegar líkt er eftir bólguferlunum Th1 og Th17 sem mest hafa verið tengdir við meingerð sóra. Eins virðist LL-37 stuðla að því að T frumur og angafrumur haldist í húð með því að minnka magn CCL19 sem kallar frumurnar til eitla. Framleiðsla hyrnisfrumna á bólguboðefnum og efnatogum er því umfangsmikil. Í tengslum við meingerð sóra er líklegt að hyrnisfrumur hafi stærra hlutverki að gegna en áður hefur verið talið. Athygli vekur hversu miklu hlutverki varnarpeptíðið LL-37 hefur að gegna varðandi virkni hyrnisfrumna í bólguumhverfi sem líkist sóra. Hugsanlegt er að slík vitneskja geti gagnast við frekari þróanir lyfja sem beinast gegn sjúkdómnum.  

 

30. Salthleðslupróf til staðfestingar frumkomins aldósterónheilkennis á Íslandi í 10 ár

Hrafnhildur Gunnarsdóttir1, Guðbjörg Jónsdóttir1, Guðjón Birgisson2, Jón Guðmundsson3, Helga Ágústa Sigurjónsdottir1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2skurðlækningasviði, 3myndgreiningarsviði, 4lyflækningasviði Landspítala

hrafnhildurg3@gmail.com

Inngangur: Salthleðsluprófið (SHP) er talið áreiðanlegt til staðfestingar frumkomins aldósterónheilkennis (FA). Í nýjustu leiðbeiningum frá Bandaríska innkirtlafélaginu (e. Endocrine Society) er bent á áskoranir við greiningu FA og deilur um flest skref uppvinnsluferlisins. Árið 2007 var stöðluð FA uppvinnsla, sem felur í sér SHP, innleidd á Landspítala (LSH).

Markmið: Markmið þessarar rannsóknar var að taka saman niðurstöður SHP fyrir sjúklinga sem greindust með FA á LSH á tímabilinu 2007-2016.

Aðferðir: Sjúkraskrár allra ≥18 ára sjúklinga sem greindust með FA á tímabilinu 2007-2016 á LSH voru yfirfarnar. FA var staðfest með SHP eftir skimun með mælingu morgungilda aldósteróns og frís reníns í sermi auk 24 klst. þvag-aldósteróns. Gildi aldósteróns, frís reníns og kalíums voru mæld í sermi fyrir og eftir að sjúklingar lágu út af í 4 klst. og fengu 2L inndælingu 0,9% saltvatnslausnar um bláæð. SHP var álitið jákvætt ef aldósterón í sermi mældist >140 pmol/L eftir inndælinguna. Kalíumstyrk var haldið innan marka í prófinu með mælingu kvöldið fyrir prófið og gjöf viðeigandi kalíumuppbótar. Eftir SHP var tekin tölvusneiðmynd af nýrnahettum og gerð nýrnahettubláæðaþræðing (NHBÞ) til sundurgreiningar einhliða og tvíhliða sjúkdóms. Viðmiðunargildi aldósteróns í sermi á Landspítala voru 111-860 pmol/L út árið 2014. Frá og með janúar 2015 voru viðmiðunargildin 75-754 pmol/L (upprétt staða) og 36-402 pmol/L (liggjandi). Tölfræðileg úrvinnsla var unnin í Rstudio. Wilcoxon prófi var beitt til að bera saman undirhópa.

Niðurstöður: Alls gengust 59 sjúklingar undir SHP á LSH tímabilið 2007-2016; 27 hafa verið greindir með einhliða sjúkdóm með NHBÞ og 31 með tvíhliða sjúkdóm. Átta sjúklingar gengust undir ≥2 SHP vegna óræðra niðurstaðna. Miðgildi aldósteróns í sermi hjá öllum sjúklingum fyrir SHP var 624 pmol/L (spönn 155-7580, n=64) en 312 pmol/L eftir inndælingu (spönn 74-1768, n=66). Hjá einhliða hópnum var miðgildi aldósteróns í sermi 720 pmol/L fyrir SHP (spönn 340-7580, n=28) en 388 pmol/L eftir salthleðslu (spönn 160-1768, n=27). Hjá tvíhliða hópnum var miðgildi aldósteróns í sermi 527 pmol/L fyrir saltvatnsinndælingu (spönn 155- 1514, n=34) og 252 pmol/L eftir inndælingu (spönn 74-1042, n=37). Aldósteróngildi í sermi eftir SHP var marktækt hærra hjá einhliða hópnum samanborið við tvíhliða, p=0,009. Fyrir saltvatnsinndælinguna var ekki marktækur munur á aldósteróngildum á milli hópanna tveggja, p=0,079.

Ályktun: Í þessari lýðgrunduðu rannsókn, sem náði yfir alla sjúklinga greinda með FA á 10 ára tímabili á Íslandi, reyndist SHP vera hentugt og áreiðanlegt staðfestingarpróf. Niðurstöðurnar benda til þess að hátt gildi aldósteróns í sermi eftir salthleðslu geti gefið til kynna einhliða sjúkdóm. Þetta er í samræmi við niðurstöður annarra rannsókna og undirstrikar mikilvægi SHP sem hluta af FA uppvinnsluferlinu.

 

31. Áhrif rafrænnar, einstaklingsmiðaðrar næringarráðgjafar á fæðuval barnshafandi kvenna. Slembidreifð íhlutandi forrannsókn

Ingibjörg Gunnarsdóttir1, Laufey Hrólfsdóttir1,2, Bryndís Eva Birgisdóttir1, Alexander Smárason2,3, Þórhallur I. Halldórsson1,4

1Rannsóknastofu í næringarfræði við Landspítala og Háskóla Íslands, 2Sjúkrahúsinu á Akureyri, 3Háskólanum á Akureyri, 4Department of Epidemiology Research, Statens Serum Institut, Danmörku

ingigun@landspitali.is

Inngangur: Mataræði móður á meðgöngu getur haft áhrif á heilsu bæði móður og barns. Lítið er vitað um árangur af rafrænni endurgjöf um fæðuval á meðgöngu, en áhugi á slíkum tæknilausnum fer vaxandi.

Markmið: Að kanna áhrif af rafrænni, einstaklingsmiðaðri næringarráðgjöf gegnum heimasíðuna Næring móður og barns (www.nmb.is) á fæðuval barnshafandi kvenna, í samanburði við hefðbundið mæðraeftirlit. Á www.nmb.is geta barnshafandi konur, nú án endurgjalds, fengið gagnvirka endurgjöf eftir að hafa svarað stuttum spurningalista um fæðuval, annars vegar á heildargæði mataræðis og hins vegar hvort hætta sé á of lítilli neyslu valinna næringarefna.

Aðferðir: Skimað var fyrir hugsanlegum þátttakendum við Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Akureyri. Skilyrði fyrir þátttöku voru: Aldur ≥18 ár og <45 ár og líkamsþyngdarstuðull ≥25 kg/m2. Konur með undirliggjandi sjúkdóma (áhættumeðganga) voru útilokaðar frá þátttöku. Þátttakendum var slembidreift í íhlutunarhóp (n=50) sem fékk aðgang að rafrænni, einstaklingmiðaðri næringarráðgjöf gegnum vefsíðuna www.nmb.is og viðmiðunarhóp (n=50) sem fékk hefðbundið mæðraeftirlit. Tryggt var að allir í viðmiðunarhópi fengju viðeigandi bæklinga um fæðuval samkvæmt klínískum leiðbeiningum. Munur á fæðuvali milli íhlutunarhóps og viðmiðunarhóps var metið með tveimur sólarhrings upprifjunum á mataræði (í 24.-26. viku og 35.-38. viku). Næringarfræðingurinn sem tók viðtölin hafði ekki upplýsingar um það hvorum hópnum þátttakendur tilheyrðu. Þátttakendur svöruðu spurningum um fjölda fyrri barna, þyngd fyrir meðgöngu, aldur sinn, hjúskaparstöðu, menntun og reykingar.

Niðurstöður: Af þeim 100 konum sem samþykktu þátttöku luku 88 báðum sólarhringsupprifjunum (41 kona í viðmiðunarhópi og 47 konur í íhlutunarhópi). Enginn marktækur munur var milli hópa með tilliti til þeirra bakgrunnsþátta sem spurt var um. Meðalmeðgöngulengd við slembidreifingu var 15 vikur í báðum hópum. Gosdrykkjaneysla kvenna sem fékk aðgang að www.nmb.is var marktækt minni á síðari hluta meðgöngu heldur en kvenna í viðmiðunarhópi (122 g/dag miðað við 262 g/dag, p<0,05). Einnig var tilhneyging til minni neyslu á sætindum (kexi, kökum, sælgæti og ís) og meiri neyslu á fiski hjá íhlutunarhóp samanborið við viðmiðunarhóp, en sá munur reyndist ekki tölfræðilega marktækur.

Ályktun: Niðurstöðurnar benda til þess að einstaklingsmiðuð endugjöf um fæðuval sé áhrifaríkari leið til að minnka neyslu gosdrykkja á meðgöngu heldur en að gefa barnshafandi konum bækling um hollt mataræði. Niðurstöðurnar benda jafnframt til þess að forsenda sé til að þróa áfram rafræna einstaklinsmiðaða næringarráðgjöf á meðgöngu.

 

32. Mat á leiðbeiningum um val á sjúklingum til meðferðar í hjarta- og lungnavél (ECMO) eftir hjartastopp af völdum kransæðasjúkdóms

Jóhann P. Hreinsson1, Ásgeir P. Þorvaldsson2, Gunnar Mýrdal3,4, Sigurbergur Kárason2, 4

1Lyflækningasviði, 2svæfinga- og gjörgæsludeild, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 4læknadeild HÍ

Inngangur: Meðferð sjúklinga í hjarta- og lungnavél (e. Extracorporeal Membrane Oxygenation, ECMO) sem björgunarmeðferð eftir hjartastopp hefur aukist á alþjóðavísu. Aðeins einar leiðbeiningar hafa verið gefnar opinberlega út um val sjúklinga í slíka meðferð og einstaka stofnanir hafa sett fram eigin skilyrði.

Markmið: Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna árangur ECMO-meðferðar  eftir hjartastopp vegna kransæðasjúkdóms og hversu vel sjúklingarnir uppfylltu inntökuskilyrði leiðbeininga.

Aðferðir: Þýðið samanstóð af sjúklingum ≥18 ára sem lögðust inn á gjörgæsludeild LSH við Hringbraut og fengu ECMO-meðferð  eftir hjartastopp vegna kransæðasjúkdóms árið 2017. Inntökuskilyrði leiðbeininga sem notaðar voru til viðmiðunar voru frá meginlandi Evrópu og Norðurlöndum. Í inntökuskilyrðum eru m.a. ástæða hjartastopps, tímalengd frá stoppi þar til endurlífgun hefst, fyrsta takttegund, tímalengd endurlífgunar og mat á hversu góð blóðrásin er á meðan henni stendur.

Niðurstöður: Sex einstaklingar fengu ECMO-meðferð  eftir hjartastopp vegna kransæðasjúkdóms árið 2017, tveir fóru í stopp utan spítala, tveir á hjartadeild og tveir á hjartaþræðingu. Þetta voru fjórir karlar og tvær konur með meðalaldur 57 ára (39 – 70) og meðallegutíma 9 daga (2 – 23). Aðeins einn sjúklingur lifði meðferðina af. Þegar farið var yfir inntökuskilyrði þriggja erlendra leiðbeininga þá uppfyllti sá sem lifði öll skilmerki um meðferð, en þeir sem létust uppfylltu ekki eitt eða fleiri þeirra.

Ályktanir: Við endurlífgun eru aðstæður bráðar og tími naumur. Því er mikilvægt að hafa skýrar leiðbeiningar um val sjúklinga til svo umfangsmikillar meðferðar eins og ECMO-meðferð er. Leiðbeiningar sem stuðst var við í þessari rannsókn geta gefið góða stoð við slíka ákvarðanatöku.

 

33. SHA2PE spálíkanið: Nýtt líkan fyrir sjúklinga með blæðingu frá neðri hluta meltingarvegar sem spáir fyrir um hverjir þurfa ekki meðferð á spítala

Jóhann P. Hreinsson1,2, Ragna Sigurðardóttir2, Sigrún H. Lund3, Einar S. Björnsson1,2

1Lyflækningasviði Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Lýðheilsumiðstöð Háskóla Íslands

Inngangur: Hingað til hafa spálíkön er varða blæðingu frá neðri hluta meltingarvegar aðallega spáð fyrir um hvaða sjúklingar eru með alvarlega blæðingu en hafa ekki komist í klíníska notkun. Aftur á móti kann spálíkan sem spáir fyrir um hvaða sjúklingar munu ekki þurfa meðferð á spítala að vera hagkvæmara og gæti dregið úr óþarfa innlögnum.

Markmið: Tilgangur þessarar rannsóknar var að þróa slíkt spálíkan.

Aðferðir: Þetta var aftursýn, þýðisbundin rannsókn sem tók til allra þeirra sem komu á bráðamóttöku vegna blæðingar frá neðri hluta meltingarvegar frá 2010 til 2013. Meðferð á spítala var skilgreind sem blóðgjöf, meðferð með speglunartæki, stíflun á slagæð eða skurðaðgerð. Þýði rannsóknar var skipt upp í þjálfunargögn (70%) og prófgögn (30%). Þjálfunargögnin voru notuð til þess að hanna spálíkanið með lógistískri aðhvarfsgreiningu og líkanið var gildað með prófgögnum.

Niðurstöður: Í heildina voru 581 sjúklingur sem kom á bráðamóttöku í 625 skipti vegna blæðingar, meðalaldur 61 ár (± 22), karlar 49%. Af sjúklingum í þjálfunargögnum voru 72% sem þurftu ekki á meðferð á spítala að halda. Sjálfstæðir forspáþættir sjúklinga í lágri áhættu voru slagbilsþrýstingur ≥100mmHg (líkindahlutfall [LH] 4,9 - 95% öryggisbil [ÖB] 1,2-21), blóðrauði >120g/L (LH 103 – 95%ÖB 42-385), blóðrauði 105-120g/L (LH 19 – 95%ÖB 7,4-53), engin blóðflöguhamlandi lyf (LH 3,7 – 95%ÖB 2,0-7,1), engin blóðþynningarlyf (LH 2,2 – 95%ÖB 0,96-5,1), púls ≤100 (LH 2,9 95%ÖB 1,3-6,7), og engin blæðing á bráðamóttöku (LH 3,8 – 95%ÖB 2,0-7,3). Þegar spálíkanið var gildað á prófgögnum voru einungis 2% (4/187) sem var ranglega spáð að þyrftu ekki meðferð á spítala. Neikvætt forspárgildi var 96% (95%ÖB 91-99%) og flatarmál undir ferli var 0,83.

Ályktun: Við höfum hannað nýtt spálíkan fyrir sjúklinga með blæðingu frá neðri hluta meltingarvegar sem kann að auðvelda meðferðaraðilum að auðkenna hvaða sjúklinga á bráðamóttöku má útskrifa til áframhaldandi uppvinnslu án innlagnar á spítala.

 

34. Rannsókn á álagi á foreldrum langveikra og fatlaðra barna á Íslandi

Jóhanna Jóhannsdóttir1, 2, Tinna Sigurðardóttir2, Guðrún Kristjánsdóttir1, 2

1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2Landspítala

gkrist@hi.is

Inngangur: Niðurstöður margra rannsókna sýna að foreldrar langveikra og fatlaðra barna eru alla jafna undir meira álagi en aðrir foreldrar.

Tilgangur rannsóknarinnar var að afla upplýsinga með mælitækinu PSI-SF (Parenting stress index–short form) um það álag sem foreldrar langveikra og fatlaðra barna á Íslandi eru undir, umfang þess og eðli en einnig að veita innsýn í dreifingu álags eftir aðstæðum, líðan og bakgrunni.

Aðferð: Um var að ræða megindlega fylgnirannsókn. Í úrtakinu voru 102 foreldar langveikra og fatlaðra barna fæddra árið 2000 og síðar, sem dvöldu í sumarbúðunum Reykjadal sumarið 2016. Aðeins eitt foreldri hvers barns var tekið með í úrtakið. Sendur var spurningalisti í tölvupósti til foreldranna sem innihélt PSI-SF auk spurninga um bakgrunn, almennt álag og heilsu. Forritið SPSS var notað við tölfræðilega úrvinnslu gagna.

Niðurstöður: 76% foreldra langveikra og fatlaðra barna mældust yfir klínísku viðmiðunargildi fyrir álag samkvæmt PSI-SF. Menntun, tekjur, svefn foreldris og umönnun barns höfðu marktæka miðlungssterka fylgni við álag. 25,5% foreldranna töldu sig búa við líkamlega vanheilsu og 30,9% við andlega vanheilsu. Þeir sem töldu sig búa við vanheilsu mældust að jafnaði undir meira álagi.

Ályktun: Þrátt fyrir smæð úrtaks og takmarkanir bar niðurstöðum þessarar rannsóknar og niðurstöðum erlendra rannsókna saman. Foreldrar langveikra og fatlaðra barna eru líklegri en aðrir foreldrar til að vera undir meira álagi en gagnlegt væri að gera samanburðarrannsókn þar sem þessi foreldrahópur væri borinn saman við foreldra barna án fötlunar og sjúkdóma. Meta þarf fjölskylduna, aðstæður hennar og bakgrunnsþætti m.t.t. hugsanlegra álagsþátta og fyrirbyggja álag eins og kostur er.

 

35. Hátt hlutfall steina í gallrás sem greinast á MRCP ganga sjálfkrafa niður gallvegi án íhlutunar

Jón H. Hjartarson11, Pétur H. Hannesson2,3, María B. Baldursdóttir3, Berglind A. Magnúsdóttir3, Sigurður Blöndal4, Einar S. Björnsson1,3

1Meltingardeild lyflækningasviðs Landspítala, 2röntgendeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands, 4skurðlækningasviði Landspítala

jonhalldor91@gmail.com

Inngangur: Steinar í gallrás eru ein algengasta orsök bráðrar brisbólgu en náttúrulegur gangur gallsteinabrisbólgu er enn ekki vel þekktur. Það er þó ljóst að ákveðið hlutfall steina í gallrás gengur niður gallvegi sjálfkrafa án íhlutunar og hafa rannsóknir sýnt afar misjafnar tölur, allt frá 15% til 73%.

Markmið: Að ákvarða hlutfall steina í gallrás sem ganga niður gallvegi án íhlutunar og að greina mögulega þætti sem spáð geta fyrir um slíkan sjúkdómsgang.

Aðferðir: Um er að ræða afturskyggna rannsókn á sjúklingum sem grunaðir voru um steina í gallrás og undirgengust segulómun af bris- og gallvegum (MRCP) á Landspítala á árunum 2008-2013. Sjúklingar þurftu að auki að uppfylla skilmerki fyrir bráðri brisbólgu, þ.e. tvennt af eftirfarandi þrennu: 1) kviðverkur 2) þrefalt gildi á lípasa eða hærra 3) merki um bráða brisbólgu á myndgreiningu. Að auki var viðeigandi upplýsingum safnað úr sjúkraskrám m.a. um kyn, aldur, lífefnamælingar og niðurstöður ERCP í kjölfar MRCP. Gullstaðall (gold standard) í greiningu gallrásarsteina var álitinn vera ERCP.

Niðurstöður: Í heildina uppfylltu 219 sjúklingar skilmerki rannsóknarinnar, 56% konur, meðalaldur 59 ár (SF 20). 40 sjúklingar (18%) reyndust vera með stein í gallrás á MCRP. Tólf af þeim 40 sjúklingum (30%) sýndu klínísk merki þess að hafa skilað steinum sjálfkrafa niður gallvegi en 28 sjúklingar (70%) sem höfðu haft stein í gallrás á MRCP reyndust vera með stein á ERCP. Þeir sjúklingar sem reyndust vera með stein á ERCP í kjölfar steins á MRCP voru hlutfallslega oftar konur (63% vs. 25%, p=0,04). Sjúklingar sem skiluðu steinum sjálfkrafa niður gallvegi reyndust vera með hærra hágildi (maximal value) að meðaltali á ASAT, 430 (227) vs. 235 (180) U/L (p<0,001), og ALAT, 406 (282) vs. 283 (193) (p=0,051). Þeir sjúklingar sem reyndust vera með stein í gallrás á ERCP undirgengust allir ERCP innan 48 klukkustunda (100%) samanborið við 67% þeirra sem skiluðu steinum sjálfkrafa niður gallvegi, (p=0,03).

Ályktun: Tæplega 30% steina í gallrás sem greinast á MRCP ganga niður gallvegi af sjálfsdáðum án íhlutunar á borð við ERCP. Tímasetning ERCP rannsóknar eftir MRCP virðist skipta máli varðandi náttúrulegan sjúkdómsgang í gallsteinabrisbólgu. Sjúklingar með bráða brisbólgu sem sýna af sér klínískan bata og batnandi lífefnamælingar þrátt fyrir gallrásarstein á MRCP þurfa ekki undantekningalaust á íhlutun að halda.

 

36. Frumhönnun vefjaræktunarkerfis sem líkir eftir áhrifum öndunarvélar á lungnavef

Jón Pétur Jóelsson1,2, Ari Jón Arason1,2, Iwona Myszor3,5, Guðmundur Hrafn Guðmundsson3,5, Þórarinn Guðjónsson1,2, Sigurbergur Kárason1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2blóðmeinafræðideild Landspítala, 3rannsóknarstofu í náttúrulegu ónæmi, Háskóla Íslands, 4svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 5líf og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Öndunarvélarmeðferð hjá gjörgæslusjúklingum getur framkallað alvarlegar skemmdir á lungnavef (ventilator induced  lung injury, VILI) vegna yfirþrýstings (overdistension) og slitálags (atelectrauma) á öndunarþekju og valdið hækkun á dánartíðni. Í dag skortir vefjaræktunarkerfi sem líkir eftir slíkum áverkum á lungnavef.

Markmið: Að þróa vefjaræktunarkerfi þar sem hægt er að stýra þrýstings- og togálagi sem líkir eftir áhrifum öndunarvélar á lungu svo hægt sé að rannsaka sameindafræðilega boðferla á bakvið VILI í þeim tilgangi að hafa áhrif á viðbrögð vefjanna og draga úr skemmdum.

Aðferðir: Frumhönnun á vefjaræktunarmódeli sem leyfir tíðnistýrt (cyclical) togálag á frumurækt í vökva-loftskiptaumhverfi (Airliquid interphase, ALI) og myndar bifhærða sýndarlagskipta þekju. Beitt var þrýstingsálagi 22 cm H2O í 1,2 sek með tíðni 0,3 Hz. Mældar voru breytingar í tjáningu jónagangna Piezo1 og TRPA1 sem bregðast við þrýstingsálagi (mechanotransduction) og bólgumiðilsins IL-8 og borið saman við viðmiðunarræktun án álags

Niðurstöður: Tjáning Piezo-1 minnkaði um 70% og TRPA1 um  60% á meðan tjáning IL-8 jókst fimmfalt borið saman við viðmiðunarræktun

Ályktun: Um frumniðurstöður er að ræða en þær benda til að tekist hafi að hanna vefjaræktunarkerfi þar sem hægt er að líkja eftir neikvæðum áhrifum öndunarvélarmeðferðar á lungnavef í í ALI rækt. Er það í fyrsta sinn sem slíkt hefur tekist. Áframhaldandi prófanir fela í sér frekari stöðlun á kerfinu, athuganir á mismunandi álagi og tíðni ásamt leiðum til að sporna við vefjaskaða.

 

37. Aðlögun brjóstaþekjufruma með HER2 yfirtjáningu að endurtekinni lágskammta doxorubicin meðferð

Katrín Birna Pétursdóttir, Bylgja Hilmarsdóttir, Sævar Ingþórsson, Þórarinn Guðjónsson, Jón Þór Bergþórsson

Inngangur: Doxorubicin (adriamycin) er lyf sem er í talsverðum mæli beitt í meðferð hvers kyns krabbameina þar með talið hvítblæðis, brjósta- og eitlakrabbameins. Frumudrepandi virkni lyfsins er tengd sértækri hindrun á ensímsinu DNA tópóísómerari II, DNA skemmdum og uppsöfnun á hvarfgjörnum súrefnissameindum (ROS). Áhrifa lyfsins gætir einnig í heilbrigðum vef en sérstakt áhyggjuefni eru langtíma áhrif á frumur hjarta- og æðakerfisins sem eykur líkur á hjartasjúkdómum. Hröð frumufjölgun og tjáning tópóísómerasa II ísóforma eykur næmi krabbameinsfruma fyrir lyfinu en líklega hafa aðrir vefjasértækir þættir eins og efnaskipti, virkni hvatbera og innanfrumu boðleiða, áhrif á hvernig heilbrigðar frumur laga sig að álaginu sem fylgir lyfjagjöf. Fyrri rannsóknir hafa gefið til kynna að brjóstakrabbameinssjúklingar með æxli sem yfirtjá HER2 (ERBB2) æxlisgenið hagnist frekar af lyfjagjöf með doxorubicin en þeir sem ekki hafa yfirtjáningu.

Markmið: Að kortleggja áhrif HER2 yfirtjáningar í brjóstaþekjufrumum sem gangast undir lágskammta doxorubicin meðferð.

Aðferðir: Í rannsóknina voru notaðar tvær frumulínur af heilbrigðum brjóstaþekjuuppruna með (D492HER2) eða án (D492) lentiveiru miðlaðrar HER2 yfirtjáningar. Frumurnar gengust undir átta doxorubicin meðferðir á um þriggja mánaða tímabili og voru áhrif meðferðarinnar metin m.t.t. fjölmargra líffræðilegra þátta eins og frumufjölgunar (proliferation), frumudauða (apoptosis), frumufars (migration), stofnfrumueiginleika, hvatberavirkni og uppsöfnunar á ROS. Auk þess var framkvæmd rannsókn á heildar mRNA tjáningu erfðamengis frumanna og þekktar innanfrumu boðleiðir voru kortlagðar með RPPA (reverse phase protein array) aðferðinni.

Niðurstöður: Umtalsverðar breytingar á mRNA tjáningu beggja frumulína átti sér stað samhliða meðferð og sérstaklega voru sameindalíffræðilegir ferlar breyttir sem tengdust ríbosómal byggingareiningum, ATP-bindingu, RNA-bindingu og NADH dehydrogenasa virkni. Líffræðilegir ferlar tengdir prótein þýðingu og DNA viðgerðum sýndu jafnframt breytta tjáningu í báðum frumulínum. Lyfjagjöfin hafði frekar áhrif á D492HER2 frumur sem sýndu skerta frumufjölgun, meiri hvatbera virkni, aukinn stýrðan frumudauða og ROS myndun. Áhrif lyfjagjafar á innanfrumuboðferli voru lítil hjá D492 skv. RPPA greiningu en breytt tjáning var á nokkrum boðleiðum í D492HER2 þ.á.m skerðing á fosfórun Akt og mTOR sem tengjast stjórnun á frumuhringnum.

Ályktun: Niðurstöðurnar benda til þess að brjóstaþekjufrumur sem hafa virkjaða HER2 boðleið séu viðkvæmari fyrir doxorubicin meðferð en heilbrigðar þekjuvefsfrumur og ættu því síður að gangast undir æxlisumbreytingu í kjölfar lyfjameðferðar.

 

38. Vaxandi nýgengi Sjálfsofnæmislifrarbólgu á Íslandi tengizt aukinni notkun líftæknilyfja

Kjartan Bragi Valgeirsson1, Einar Stefán Björnsson1,2

1Lyflækningasviði Landspítala, 2Háskóla Íslands

Bakgrunnur: Lýðgrundaðar rannsóknir á faraldsfræði Sjálfofnæmislifrarbólgu (AIH) eru fágætar. Nýgengi var 0.83/100.00 á hérlendis á áttunda áratugnum (Bjarnason et.al.1982) og 1.9/100.000 í Noregi (Boberg er al.1998 – algengi 17/100.000). Lyfjaorsökuð-sjálfsofnæmislifrarbólga (DIAIH) er í vaxandi mæli greind í tengzlum við ónæmisstýrandi meðferð. Markmið rannsóknarinnar er að kanna nýgengi, algengi og sjúkdómsgang sjúkdómsins hérlendis.

Aðferðir: Gögnum var aflað um nýgreiningu AIH á Íslandi á tíu ára tímabili (2006 – 2015). Leitað var eftir greiningarkóðum og sjúkdómsheiti í rafrænum sjúkraskrám. Hugsanleg tilfelli voru tekin til frekari úrvinnslu uppfylltu þau ný og einfölduð greiningarskilmerki AIH og/eða hafin var ónæmisbælandi meðferð. DIAIH var skilgreind sem viðbrögð við lyfi, áður þekktu sem orsakavaldi, með jákvæðum kjarnamótefnum (ANA), og/eða sléttvöðvamótefnum (SMA), og/eða hækkuðum gamma-ónæmisglóbúlínum (IgG); eða þörf á barksterameðferð þrátt fyrir að notkun lyfsins hafi verið stöðvuð.

Niðurstöður: Af 403 mögulegum tilfellum uppfylltu 71 inntökuskilyrði. Nýgengi Sjálfsofnæmislifrarbólgu á Íslandi er 2.2/100.000. Algengi í árslok 2015 var 26/100.000. Meðalaldur við greiningu var 54 ár og 86% sjúklinga voru kvennkyns. 93% reyndust jákvæðir fyrir annað hvort ANA eða SMA en aðeins einn fyrir lifrar-nýra-hvatberamótefni, IgG voru hækkuð hjá 61%. 31% uppfylltu greiningarskilmerki fyrir öruggri AIH en 38% fyrir líklegri AIH. Skörunarheilkenni var grunað í tíund tilfella. DIAIH var grunuð í 13 tilfellum, hvar af átta voru rakin til infliximab, tvö til nitrofurantoin og eitt hvert til etanercept, imatinib og nadalizumab. Hafin var ónæmisbælandi meðferð með barksterum og/eða azathioprine hjá öllum nema tveimur. Sjúklingum var fylgt eftir í 6,1 ár að jafnaði, við lok þess hafði enginn farið í lifrarskipti, einn látist úr lifrarfrumukrabbameini en fjórir úr lifrarótengdum orsökum.

Ályktun: Hvorki hefur verið greint frá hærra algengi né nýgengi Sjálfsofnæmislifrarbólgu áður. Sjúklingar virðast svarast ónæmisbælandi meðferð vel og skammtímahorfur eru góðar. Vaxandi nýgengi sjúkdómsins má að hluta til rekja til aukinnar notkunar líftæknilyfja.

 

39. Skimun fyrir óheilsusamlegu fæðumynstri á fyrsta þriðjungi meðgöngu

Laufey Hrólfsdóttir1,2,  Þórhallur I. Halldórsson1,3, Bryndís Eva Birgisdóttir1, Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir4, Hildur Harðardóttir4,5, Ingibjörg Gunnarsdóttir1

1Rannsóknastofu í næringarfræði við Landspítala og Háskóla Íslands, 2Deild mennta, vísinda og gæða, Sjúkrahúsinu á Akureyri, 3Department of Epidemiology Research, Statens Serum Institut, Danmörku, 4kvennadeild Landspítala, 5læknadeild Háskóla Íslands

lah10@hi.is

Inngangur: Aðferðir sem notaðar eru til að kanna mataræði einstaklinga eru mjög tímafrekar. Þörf er á einföldum mælikvörðum á hollustu fæðu sem unnt er að beita í klínísku starfi.

Markmið: Að skilgreina fæðumynstur í upphafi meðgöngu, út frá svörun á stuttum skimunarlista um fæðuval, sem gæti tengst auknum líkum á meðgöngusykursýki.

Aðferðir: Barnshafandi konum sem mættu í ómskoðun á göngudeild fósturgreiningar á kvennadeild Landspítala við 11.-14. viku meðgöngu á eins árs tímabili (1.okt. 2015 til 30.september 2016) var boðin þátttaka. Þátttakendur (n=1651) svöruðu  stuttum spurningalista um fæðuval, líkamssamsetningu fyrir þungun og bakgrunn. Upplýsinga um greiningar á meðgöngu var aflað úr mæðraskrá. Stepwise backward elimination aðhvarfsgreiningu var beitt til að ákvarða fæðumynstur sem tengdist auknum líkum á meðgöngusykursýki.

Niðurstöður: Alls greindust 16% þátttakenda með meðgöngusykursýki.  Fæðumynstur sem einkenndist af einhæfu fæði, mikilli neyslu á gosdrykkjum, sætindum og unnum kjötvörum, ásamt  lítilli neyslu á mjólkurvörum, heilkornavörum og D-vítamíni, tengdist auknum líkum á meðgöngusykursýki (leiðrétt fyrir líkamsþyngdarstuðli fyrir meðgöngu, fjölda fyrri barna, reykingum, aldri og menntun móður). Út frá fæðumynstrinu gat hver þáttakandi fengið á bilinu 0 til 7 áhættustig og jukust líkur á meðgöngusykursýki um 18% fyrir hvert áhættustig (OR=1,18, 95%CI=1,04;1,33). Auknar líkur voru á meðgöngusykursýki  hjá konum með hátt (≥5, n=302) mv. lágt (≤2, n=407) áhættuskor (OR=1,73, 95%CI=1,09; 2,73). Auknar líkur á meðgöngusykursýki samhliða versnandi mataræði (hækkun áhættustiga) voru mjög sambærilegar meðal kvenna í kjörþyngd fyrir meðgöngu og kvenna yfir kjörþyngd.

Ályktun: Unnt er að nýta stuttan skimunarlista til að skilgreina fæðuval sem tengist auknum líkum á meðgöngusykursýki.

 

40. Samtjáning skilgreinir hóp af utangenaþáttum sem þola illa breytileika og tengjast taugasjúkdómum

Leandros Boukas1,2, Kasper Daniel Hansen2, Hans Tómas Björnsson1,3-5

1Mannerfðafræðistofnun Johns Hopkins, 2Johns Hopkins háskóla, 3barnadeild Johns Hopkins spítala, 4erfða- og sameindafræðideild Landspítala, 5Háskóla Íslands

hanstb@landspitali.is

Inngangur: Fundist hafa fjölmargir nýir sjúkdómar sem tengjast þáttum sem viðhalda utangenamerkjum. Einn slíkur er Pilarowski-Björnsson heilkenni, sem orsakast af stökkbreytingum í CHD1 geni sem veldur tjáningarstoli. Hins vegar eru fjölmörg önnur gen í utangenakerfinu sem ekki hafa þekkt sjúkdómsheilkenni. Gagnlegt væri að þróa lífupplýsingafræðilega aðferðafræði til að forgangsraða leit að sjúkdómsgenum innan þessa hóps.

Markmið: Að skilgreina helstu lífupplýsingafræðileg einkenni utangenaþátta sem valda sjúkdómum í mönnum.

Aðferðir: Við notuðum lífupplýsingafræðileg skilmerki til að skilgreina 295 mannagen sem gegna hlutverki sem utangenaþættir (writers, erasers, readers and remodelers) og skoðuðum stökkbreytingafjölda og tjáningu í alþjóðlegum gagnabönkum.

Niðurstöður: Í ljós kom ein ný regla. Mismunandi enzímvirkni (writers, erasers, remodelers) sjást aldrei í sama þætti. Hins vegar sjást lesþættir (readers) oft með einum af hinum þáttunum. Samkvæmt stökkbreytitíðni í EXAC gagnabankanum þola utangenaþættir stökkbreytingar verr en flest önnur gen, þar á meðal umritunarþættir sem eru þekktur hópur sem ekki þolir stökkbreytingar. Meðal þeirra voru 91 utangenaþættir sem ekki hafa neinn þekktan sjúkdóm. Þetta óþol er miðlað af þeim svæðum sem gegna hlutverki við umbreytingu utangenaerfða byggt á nákvæmri skoðun á staðsetningu stökkbreytinga innan þessara þátta.  Þriðjungur utangenaþátta sýnir samtjáningu (co-expression) í fjölmörgum vefjum og þessi breyta sýnir mikla fylgni við óþol við stökkbreytingum. Innan hóps sem sýndi slíka samtjáningu var augljós auðgun á sjúkdómsheilkennum sem valda taugasjúkdómum. 

Ályktun: Niðurstöður okkar benda til að samtjáning geti gegnt hlutverki í hvernig utangenaþættir valda taugasjúkdómum en einnig mætti nota þessa lífupplýsingafræðilegu breytu til þess að forgangsraða genum við sjúkdómsgenaleit meðal utangenaþátta í sjúklingum með taugasjúkdóma.

 

41. Klínísk mynd, sértækar ónæmisraskanir og erfðamynstur IgA skorts einstaklinga

Lemarquis AL1,2, Theodors FP1,2, Kristjánsdóttir RN1,2, Kärnsund I1,2, Lund SH1, Sigurgrimsdottir H1,2, Vidarsdottir AG1,2, Jonsdóttir I1,2,3, Einarsdóttir HK1,2, Lúðvíksson BR1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2rannsóknarstofu í ónæmisfræði, Landspítala, 3Íslenskri erfðagreiningu

andrileo@landspitali.is / andrileolemarquis@gmail.com

Inngangur: Sértækur IgA skortur (IgAD) er einn algengasti sértæki ónæmisskortur á vestulöndum. Einstaklingar með IgAD eru í margfaldri áhættu að þjást af smit-, sjálfsónæmis- og ofnæmissjúkdómum. Með tilkomu nýrra sérsniðinna líftæknilyfja er mikilvægt að skilja meinmyndun ónæmisgalla til að meðhöndlað ónæmisraskanir þeirra með sértækum hætti.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að greina klíníska mynd, ónæmisraskanir, styrk bólguboðefna, sjálfsónæmismyndun og erfðabreytileika í mRNA tjáningu hjá IgA skorts einstaklingum.

Aðferðir: Klínísk mynd 61 einstalings með IgAD var framkvæmd með stöðluðum heilsufarsspurningalista og borin saman við heilbrigt þýði. Magnmæling 65 bólguboðefna, vaxtarþátta og efnatoga 24 IgAD einstaklinga og samanburðarhóps heilbrigðra einstaklinga var borin saman við styrk mótefna og sjálfsónæmismótefnamyndun. Auk þess voru bæði virkni og fjöldi T og B frumna greind hjá IgA skorts einstaklingum með frumuflæðisjá og ELÍSA aðferð. Virkni og örvunarsvörun innanfrumuboðferla var ennfremur greind með phosphoflow aðferð. Niðurstöður frumugreiningar voru nýttar til ákvörðunar mRNA raðgreiningar B frumna IgAD einstaklinga fyrir og eftir örvun með TLR9 agonista.

Niðurstöður: Rannsóknir okkar sýna fram á tölfræðilega marktæka aukna hættu á sjálfsónæmi, ofnæmissjúkdómum og efri loftvegasýkingum hjá IgAD einstaklingum. Hærri tíðni sást í sjálfsónæmismótefnamyndun, sérstaklega ANA borið saman við heilbrigða. Mæling ónæmisþátta sýndi hærri framleiðslu sCD40L, IL-18, VEGF-alpha, TSLP og CCL3 og bennti klustergreining ónæmisþátta til tengsla milli styrks mældra þátta og sjálfsónæmismótefnamyndunar. B frumur IgA skorts einsktaklinga sýndu röskun ex vivo í transitional B frumum (CD19+CD24hiCD38hi) og class switched memory B frumum (CD20+CD27+IgD). CpG TLR9 agonista örvun efldi ennfremur séðan galla í transitional B frumum en mistókst að virkja IgA framleiðslu IgAD skorts einstkalingum ólíkt T frumuháðum borðefnum. Hlutfall T frumna ex vivo og eftir in vitro örvun var sambærileg í IgA skorts einstaklingum borið saman við heilbrigða. Phosphoflowgreining innanfrumuboðefna eftir örvun sýndi ekki fram á algjöran skort á boðmyndun en sýndi fram á skerta boðmyndun um pSTAT3. Örvun CpG TLR9 agonista  á B frumum var ennfremur greind með mRNA greingu sýndi fram á mistjáningu sem tengist lagnlífi og staðsetningu plasma frumna.

Ályktun: Klínísk mynd IgA skorts einstaklinga á Íslandi einkennist af sjúkdómum tengdum röskun í heilbrigðu ónæmissvari. Hærri tíðni sjálfsónæmismótefnamyndunar sást en mæling ónæmisþátta í sermi þeirra sýndi fram á breglanir  tengda henni. Frumugreining benti til röskunar í ónæmissvari B frumna en ekki T frumna sérstaklega tengdum samskiptum ósértæka og sértæka ónæmiskerfisins. Var þar sérstaklega um að ræða svari við TLR9 agonista en erfðagreining á mRNA eftir slíka örfun sýndi fram á mistjáningu sem áður er þekkt að hafi áhrif á röskun í B frumuþroska. Niðurstöður okkar benda því til sértækrar röskunar ferla sem tengja sértæka og ósértæka ónæmiskerfisið í IgAD. Teljum við niðurstöður okkar leggja grunn að bættum klínískum rannsóknum. Rannsóknum til ákvarðanatöku sértækra meðferðarskotmarka til meðhöndlunar ónæmisraskana í IgA skort og öðrum svipuðum ónæmisgöllum.

 

42. Heilablóðfall eftir kransæðahjáveituaðgerðir

Linda Ó. Árnadóttir1, Rut Skúladóttir1, Tómas A. Axelsson1, Hera Jóhannesdóttir1, Sólveig Helgadóttir2, Haukur Hjaltason3,5, Arnar Geirsson4, Tómas Guðbjartsson1,5

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2svæfinga- og gjörgæsludeild Akademíska sjúkrahússins í Uppsölum, 3taugadeild Landspítala, 4hjartaskurðdeild Yale háskólasjúkrahússins New Haven, 5læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Heilablóðfall er alvarlegur fylgikvilli kransæðahjáveituaðgerða og tengist hærri dánartíðni innan 30 daga. Oftast verður heilablóðfall á fyrstu dögunum eftir aðgerðina en minna er vitað um hættuna þegar lengra er liðið frá aðgerðinni og hverjar langtímahorfur þessara sjúklinga eru. Markmið rannsóknarinnar var að bæta úr því.

Efniviður og aðferð: Afturskyggn rannsókn á 1755 sjúklingum sem fóru í kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala 2001-2013. Sjúklingar með heilablóðfall voru bornir saman við þá sem ekki fengu slíkan fylgikvilla. Heilablóðfall var skilgreint sem skammtíma fylgikvilli <30 daga frá aðgerð en annars sem langtíma fylgikvilli. Leitað var að upplýsingum úr sjúkraskrám á helstu heilbrigðistofnunum landsins og dánarorsök skráð úr Dánarmeinaskrá Embættis landlæknis. Meðaleftirfylgdartími var 6,3 ár og miðast við 1. júlí 2014.

Niðurstöður: Alls greindust 23 (1,3%) sjúklingar með heilablóðfall innan 30 daga eftir kransæðahjáveituaðgerð og 75 sjúklingar (4,2%) með heilablóðfall seinna á rannsóknartímabilinu, þar af 2 einstaklingar sem höfðu líka greinst fyrst eftir aðgerðina. Meðaltími heilablóðfalls frá aðgerð var 3,4 ár en 35% greindust innan árs frá aðgerð. Sjúklingar með heilablóðfall voru 3,4 árum eldri og höfðu oftar sögu um hjartaáfall fyrir og eftir aðgerð, auk þess sem lifun þeirra var síðri en 33,3% sjúklinganna höfðu látist rúmum 6 árum frá aðgerð miðað við 16,9% í viðmiðunarhóp.

Ályktun: Heilablóðfall er tiltölulega sjaldgæfur en alvarlegur fylgikvilli fyrst eftir kransæðahjáveituaðgerð, sem eykur 30 daga dánartíðni. Á næstu fimm árum frá greiningu greinast þrisvar sinnum fleiri með heilaáfall, oftast eldri sjúklingar með sögu um hjartaáfall.

 

43. Snemmgreining á Alzheimerssjúkdómi hjá einstaklingum með væga vitræna skerðingu út frá Siglu ES sem tekur inn heilalínurit

Magnús Jóhannsson1, Bergrún Magnúsdóttir1, Brynhildur Jónsdóttir2, Þorkell Elí Guðmundsson2, Kristinn Johnsen1, Jón Snædal2,3

1Mentis Cura ehf, 2öldrunarlækningadeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

jsnaedal@landspitali.is

Inngangur: Væg vitræn skerðing (VVS) er þekktur áhættuþáttur fyrir Alzheimerssjúkdóm (AS). Rannsóknir hafa sýnt að 15-20% einstaklinga með VVS sem leita á minnismóttöku þrói með sér AS á komandi árum. Hjá öðrum virðist ástandið haldast stöðugt eða jafnvel ganga til baka. Mikilvægt er að geta greint sem fyrst í sjúkdómsferlinu þá einstaklinga sem koma til með að þróa með sér AS.

Markmið: Að meta klíníska gagnsemi Siglu ES sem er líkan byggt á heilalínuritum við snemmgreiningu á AS hjá einstaklingum með VVS.

Aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til 201 einstaklings (meðalaldur 74 ár, bil: 47-89, 112 konur). Allir þátttakendur uppfylltu greiningarskilmerki VVS við fyrstu komu á minnismóttöku ásamt því að heilarit var tekið. Þátttakendum var fylgt eftir með tilliti til breytingar á klíniskri greiningu yfir allt að 10 ára tímabil og skipt í tvo hópa. Hópur 1 sem uppfyllti greiningarskilmerki fyrir hugsanlegan eða líklegan AS við eftirfylgd og Hópur 2 sem uppfyllti ekki þau skilmerki. Tölfræðileg úrvinnsla fól í sér að meta gagnsemi Siglu ES við að spá fyrir um hverjir þróa með sér AS með því að bera saman niðurstöður þess við klínískar greiningar við eins og tveggja ára eftirfylgd.

Niðurstöður: Cox-líkan var notað til að meta áhættuhlutfall (hazard ratio) fyrir jákvætt og neikvætt svar Siglu ES fyrir AS. Miðað við eins árs eftirfyld var áhættuhlutfallið 29.2 (95% öryggisbil = 6,9, 123) og 10.2 (5,2, 19,8) fyrir tveggja ára eftirfylgd. Neikvætt forspárgildi var 98,5% (94,6- 99,8) og 91,5% (85,4-95,7), næmi 92,9% (76,5-99,1) og 78,8% (65,3-88,9) og sértæki 74,0% (66,8-80,4) og 79,9% (72,5-86,0) fyrir eitt og tvö ár.

Ályktun: Fyrstu niðurstöður gefa til kynna mikla gagnsemi Siglu ES við snemmgreiningu á AS við fyrstu komu á minnismóttöku. Jákvæðar niðurstöðu á Siglu ES gefa til kynna stóraukna áhættu að þróa með sér AS innan tveggja ára á meðan neikvæð niðurstaða gefur sterkar frábendingu. Mikilvægt er að staðfesta þessar niðurstöður í óháðri rannsókn.

 

44. Áhrif líftæknilyfjanna Anakirna og Tocilizumab á sérhæfingu og virkni CD8+ T stýrifrumna

Margrét Lena Kristensen1,2, Una Bjarnadóttir2, Björn Rúnar Lúðvíksson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2ónæmisfræðideild Landspítala

maggalk@gmail.com

Inngangur: Það er hlutverk ónæmiskerfisins að halda innra jafnvægi í líkamanum með því að hemja og útrýma óæskilegum sameindum. Bæling ónæmiskerfisins er því mikilvæg og gegna T stýrifrumur (Tst)  lykilhlutverki í að bæla bólguviðbrögð. Nýlega hefur nýr hópur Tst verið skilgreindur sem CD8+CD127-CD25+FoxP3+. Líftæknilyfin Anakinra (IL-1 viðtaka antagonisti) og Tocilizumab (mótefni sem bindst við IL-6 viðtaka) hafa verið notuð m.a. til meðhöndlunar við iktsýki sem er krónískur bólgusjúkdómur.

Markmið: Megin markmið rannsóknarinnar var að skoða hlutverk α-IL-6 og α-IL-1β á sérhæfingu og virkni CD8+ Tst.

Aðferðir: Óreyndar CD8+CD45RA+ T frumur voru einangraðar úr einkjarna blóðfrumum, virkjaðar með anti-CD3/CD28 (1µg/mL), ræktaðar með IL-2 (200 IU) og TGF-β (10 ng/mL) og með/án líftæknilyfjanna í þremur mismunandi styrkjum, αIL-6 (0,1/10/1000 µg/mL) og αIL-1β (0,05/5/500 µg/mL) í 5 daga. Svipgerð Tst var metin með flæðifrumusjá og skilgreind sem CD25+FoxP3med. Sérhæfing óreyndra T frumna í að verða Tst var metin við kjöraðstæður (IL-2 og TGF-β) og við mismunandi styrk αIL-6 og αIL-1β með Kaluza (Analysis 1.3). GraphPad Prism 7.03 var notað við/fyrir úrvinnslu tölfræðiprófa ANOVA og Tukey‘s.

Niðurstöður: Við kjöraðstæður Tst var tjáning CD8+CD127-CD25+FoxP3med 40.14%. Niðurstöður sýna að αIL-1β hefur ekki áhrif á sérhæfingu Tst (P=0,1259) en αIL-6 hefur skammtabundin áhrif á sérhæfingu Tst. 0.1 µg/mL hefur takmarkandi áhrif á sérhæfingu Tst (27.61%, P<0.05). Aftur á móti hindrar 1000 µg/mL styrkur sérhæfingu óreynda T frumna í að verða CD8+CD127-CD25+FoxP3med (10,13%, P<0,05).

Ályktanir: Tocilizumab, dregur úr sérhæfingu CD8+ T stýrifrumna. Sérstaklega í háum skömmtum. Frekari rannsóknir verða að leiða í ljós hvernig sú virkni útskýrir hinn bólguhemjandi áhrif lyfsins.  

 

45. Krabbamein í brisi og tengsl við bráða brisbólgu

María Björk Baldursdóttir1, Berglind Anna Magnúsdóttir1, Evangelos Kalaitzakis3, Einar Stefán Björnsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2meltingarlækningadeild Landspítala, 3Gastro unit Herlev Hospital,  Kaupmannahöfn

Inngangur: Langvinn brisbólga er þekktur áhættuþáttur fyrir krabbamein í brisi en tengslin á milli bráðrar brisbólgu og krabbameins í brisi eru minna þekkt. Brisbólga er sjaldgæf birtingarmynd krabbameins í brisi en tengsl sjúkdómanna tveggja eru lítið rannsökuð.

Markmið: Að meta klíníska birtingarmynd og útkomu sjúklinga með sína fyrstu bráðu brisbólgu og krabbamein í brisi.

Aðferðir: Þetta var afturskyggn þýðisrannsókn á 2559 sjúklingum með fyrstu bráðu brisbólgu á Íslandi og í Lundi, Svíþjóð á 10 ára tímabili. Upplýsingar um orsakir brisbólgunnar, rannsóknir, legu, endurteknar brisbólgur og þróun á langvinnri brisbólgu sem og krabbameini í brisi voru fengnar úr sjúkraskrám.

Niðurstöður: Af 2559 sjúklingum sem voru skoðaðir, greindust 49 sjúklingar (1.9%) með krabbamein í brisi, (51% kk, miðgildi 70 ár). Sjúklingum var fylgt eftir í 4,53 ár. Sex sjúklingar voru með þekkt krabbamein í brisi við greiningu brisbólgunnar. Í 13 sjúklingum leiddi brisbólgan til greiningu krabbameins á meðan 30 sjúklingar (61%) þróuðu með sér krabbamein eftir fyrstu bráðu brisbólguna, að meðaltali 11,7 mánuðum seinna (Fjórðungsmark: 2,6-43). Gallsteinar og áfengi, sem eru algengustu orsakir bráðrar birsbólgu, voru sjaldgæf orsök brisbólgu hjá þessum hóp. Endurteknar brisbólgur voru algengari í þeim sem voru með krabbamein samanborið við þá sem ekki fengu krabbamein.

Ályktun: Í sjúklingum með sína fyrstu bráðu brisbólgu greindist krabbamein í brisi í um 2%. Greiningu á krabbameini í brisi var að meðaltali seinkað um tæpa 12 mánuði. Gallsteinar og áfengi voru sjaldgæf orsök brisbólgu hjá þessum hóp en endurteknar brisbólgur voru algengari. Endurteknar brisbólgur, hækkandi aldur og brisbólga af öðrum orsökum en gallsteinum og áfengi reyndust sjálfstæðir áhættuþættir fyrir krabbamein í brisi.

 

46. Effect of pathogen inactivation on miRNA profile of platelet concentrates during storage

Níels Árni Árnason1, Ragna Landrö1, Óttar Rolfsson2,  Björn Harðarson1, Sveinn Guðmundsson1, Ólafur E. Sigurjónsson1, 3

1The blood bank, Landspitali-The National University Hosptital of iceland, 2Center for systems biology, University of Iceland, 3School of Science and Engineering; Reykjavik University

oes@landspitali.is

Backround: Platelets concentrates can be stored for a maximum of 5-7 days due to risk of pathogen contamination and platelet storage lesion (PSL). PSL is a collective term of variety of factors that contribute to the deterioration of platelet quality during storage. To reduce the risk of pathogen contamination, methods have been developed that render pathogens inactive (PI) in platelet concentrates prior to storage. Several reports support the notion of miRNA being important in platelet function. Changes in the regulation of specific miRNA's during storage have been reported as well as perturbation effects related to pathogen inactivation methods.

Aim: To investigate the effects of PI on selected miRNAs in buffy coat generated platelets stored for 7 days under standard blood banking conditions.

Study design and methods: Using a pool and split strategy 4 identical single dose units where generated that originated from 24 whole blood donors (n=8). Each sister unit received different treatment (Intercept-SSP+/Control-SSP+/Irradiated in plasma/Control-Plasma). Samples where collected on days 2,4 and 7 of storage. A 30 miRNA profile was selected and  analyzed using QPCR.

Results: Out of the 30 miRNA analyzed 6 displayed a significant change at one or more time points during storage. 5 miRNA in the PI-PC, 3 in Plasma-PC and 1 in the Irradiated-PC. 5 out of the 6 miRNA show only minor changes, 10-20 % up/down regulation. miR-96-5p is downregulated in all treatment groups compared to Control-PC. By applying methods for multiple testing correction and excluding possible false positives the only significant change remained on day 2 and 4 in the PI-PC.

Conclusion: The INTERCEPT treatment does not change the quality or significantly alters the miRNA profile of platelet concentrates generated and stored using standard blood banking condition.

47. Góð meðferðarsvörun við TNFα-hemlum í sóragigt þó inntökuskilyrði lyfjarannsókna séu ekki uppfyllt

Ólafur Pálsson1, Guðrún Arna Jóhannsdóttir1, Eydís Rúnarsdóttir2, Anna I. Gunnarsdóttir2,5, Pétur Sigurður Gunnarsson2,5, Þorvarður Jón Löve3,6, Björn Guðbjörnsson4,6

1Gigtarlækningar, 2sjúkrahúsapótek, 3mennta- og vísindadeild, 4rannsóknarstofu í gigtarsjúkdómum, Landspítala, 5lyfjafræðideild, 6læknadeild Háskóla Íslands

olafurp@landspitali.is

Inngangur: Nýleg rannsókn úr ICEBIO gagnagrunninum sýnir að meirihluti sjúklinga með sóragigt sem fá meðferð með líftæknigigtarlyfjum (TNF hemlum) á Íslandi hefðu ekki uppfyllt inntökuskilyrði í slembiraðaðar lyfjarannsóknir sem liggja til grundvallar markaðsleyfis viðkomandi lyfs (1).

Markmið: Að kanna hvort sjúklingar með sóragigt sem uppfylltu ekki inntökuskilyrði lyfjarannsókna (hópur A) hefðu svipaðan ávinning og næðu jafn löngum meðferðartíma (e. drug survival) á TNF hemlum og sjúklingar sem uppfylltu inntökuskilyrðin (hópur B).

Aðferðir: Sjúklingar með liðbólgusjúkdóm sem þiggja líftæknilyfjameðferð á Íslandi eru skráðir í ICEBIO, gagnagrunn að danskri fyrirmynd (2). ICEBIO inniheldur kerfisbundna skráningu um 98% sóragigtarsjúklinga hér á landi sem fá líftæknilyfjameðferð. Fyrsta febrúar 2016 innihélt gagnagrunnurinn upplýsingar um 1058 einstaklinga, þar af 329 með sóragigt. 274 þeirra fengu líftæknilyfjameðferð, þar af 231 sem fengu sína fyrstu meðferðarlotu með TNF hemli og var hægt að flokka þá með tilliti til inntökuskilyrða slembiraðaðra lyfjarannsókna viðkomandi TNF hemils (1). Gögnum var safnað um sjúkdómsvirkni við upphaf meðferðar ásamt meðferðartíma sjúklinganna. Árangur meðferðar var metinn eftir 6 mánuði (90-210 daga) og 18 mánuði (211-570 daga) með ACR20 og DAS28CRP.

Niðurstöður: Unnt var að meta svörun samkvæmt ACR20 hjá 92 sjúklingum og DAS28CRP hjá 91 sjúklingi. Upphaflega hafði hópur B fyrirsjáanlega fleiri bólgna liði (5,5 á móti 3,8) og því hærra DAS28CRP (4,6 á móti 4,2). Hópur B svaraði meðferð hlutfallslega betur varðandi fjölda bólgna liði og HAQ stig, en að öðru leyti var ekki marktækur munur milli hópa. Enginn munur var á meðferðartíma hópanna.

Ályktun: Sjúklingar með sóragigt sem uppfylla ekki inntökuskilyrði í slembiraðaðar lyfjarannsóknir líftæknigigtarlyfja svara meðferð skilvirkt og hafa svipaðan meðferðartíma og þeir sem uppfylla inntökuskilyrðin. Því má líklega yfirfæra niðurstöður meðferðarannsókna yfir á daglega klíníska vinnu óháð inntökuskilyrðunum en þetta krefst þó nánari athugunar.

Heimildir

1.        Runarsdottir EE, Gunnarsdottir AI, Love TJ, Gunnarsson PS, Gudbjornsson B. The majority of patients with psoriatic arthritis are not eligible for randomized clinical trials. Submitted 2018

2.        DANBIO, https://danbio-online.dk/om-danbio. 2017.

 

48. Áhrif and-VEGF lyfsins bevacizumab á súrefnisbúskap sjónhimnu í votri, aldursbundinni augnbotnahrörnun

Ólöf Birna Ólafsdóttir1,2, Valgerður Dóra Traustadóttir1, Sveinn Hákon Harðarson2, Einar Stefánsson1,2

1Augndeild Landspítala, 2Háskóla Íslands

olofbirnaolafs@gmail.com

Tilgangur: Vísbendingar eru um að súrefnisbúskapur augans í aldursbundinni augnbotnahrörnun sé frábrugðinn því sem er í heilbrigðum einstaklingum (Geirsdóttir 2014). Markmiðið með tilrauninni var að kanna áhrif glerhlaupsinndælingar á and-VEGF lyfinu bevacizumab á súrefnismettun sjónhimnuæða í sjúklingum með vota, aldursbundna augnbotnahrörnun.

Aðferðir: Súrefnismettun sjónhimnuæða var mæld með sérstökum súrefnismæli (Oxymap T1, Oxymap ehf., Ísland) í 19 sjúklingum með aldursbundna augnbotnahrörnun. Fyrri mælingin var fyrir inndælingu í glerhlaup á 0,05 mL bevacizumab og sú seinni viku eftir inndælingu.

Niðurstöður: Súrefnismettun bláæðlinga lækkaði úr 52,3 ± 8,1% fyrir inndælingu í 49,1 ± 8,7% viku eftir inndælingu (p=0,0043). Munur á súrefnismettun slag- og bláæðlinga jókst úr 40,2 ± 6,1% frá því fyrir inndælingu, upp í 42,3 ± 7,3% viku eftir inndælingu (p=0,021). Meðferðin hafði engin áhrif á æðavídd.

Úrvinnsla: Niðurstöður virðast benda til þess að and-VEGF lyfið bevacizumab hafi áhrif á súrefnisbúskap sjónhimnu þegar því er sprautað inn í glerhlaup augans. Ástæður þess eru ókunnar en gætu mögulega verið aukin upptaka súrefnis í sjónhimnuvefnum (vegna minnkunar á bólgu), vefurinn gæti verið að jafna sig af hugsanlegri súrefnisþurrð eða þá að um önnur ókunn áhrif lyfsins sé að ræða. Frekari rannsókna er þörf til að kanna langtímaáhrif lyfsins á súrefnisbúskap sjónhimnu og hvort möguleiki sé að nýta súrefnismælingar sem lífvísi fyrir árangur bevacizumab meðferðar í auga.

 

49. Vakandi og virkur í uppréttri stöðu í öndunarvél. Slembiröðuð íhlutunarrannsókn, með 12 mánaða eftirfylgni

Ólöf R. Ámundadóttir1,3, Þórarinn Sveinsson3,  Ester Gunnsteinsdóttir1, Brynja Haraldsdóttir1, Rannveig J. Jónasdóttir2,  Kristinn Sigvaldason2, Elizabeth Dean3,4, Gísli H. Sigurðsson2,3

1Sjúkraþjálfun Landspítala, 2svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands, 4Department of Physical Therapy, Faculty of Medicine, The University of British Columbia, Canada

Inngangur: Langvinn rúmlega er algeng meðal alvarlega veikra sjúklinga í öndunarvél á gjörgæsludeildum, þrátt fyrir að niðurstöður rannsókna hafi sýnt fram á fýsileika og öryggi þess að fara í upprétta stöðu og hreyfa sig.  

Markmið rannsóknarinnar var að bera saman skammtíma og langtíma árangur sjúkraþjálfunar sem fól í sér aukna aktífa hreyfingu í upprétta stöðu, við venjulega sjúkraþjálfun, fyrir alvarlega veika sjúklinga í öndunarvél.

Aðferðir: Framskyggn slembiröðuð íhlutunarannsókn var framkvæmd á fullorðnum sjúklingum (18-80 ára), sem voru lagðir inn á gjörgæsludeildir Landspítala frá október 2011 til október 2015, í ífarandi öndunarvélameðferð lengur en 48 tíma, Rannsóknahópurinn fékk sjúkraþjálfun sem hófst fyrr en áður, með aukinni áherslu á þjálfun í uppréttri stöðu. Viðmiðunarhópurinn fékk venjulega sjúkraþjálfun. Helstu niðurstöðumælikvarðar voru: Tími í öndunarvél, legudagar á gjörgæslu og sjúkrahúsi, heilsutengd lífsgæði, athafnir daglegs lífs, vöðvastyrkur og úthald.

Niðurstöður: Fimmtíu sjúklingum var slembiraðað í rannsóknahóp (29) og viðmiðunarhóp (21). Rannsóknarhópurinn hóf aktífa hreyfingu í upprétta stöðu á degi 7.5 eftir upphaf öndunarvélameðferðar, en  viðmiðunarhópurinn á degi 9 (ekki marktækt). Ekki fannst marktækur munur á milli rannsóknarhópanna í tíma í öndunarvél, legudögum, heilsutengdum lífsgæðum, athöfnum daglegs lífs, vöðvastyrk eða úthaldi. Hins vegar sýna niðurstöður bataferil þátttakenda frá því fyrir upphaf veikinda þar til 12 mánuðum eftir útskrift af gjörgæslu. Líkamlegi þáttur heilsutengdra lífsgæða og úthald þátttakenda var ennþá verulega skert einu ári eftir útskrift af gjörgæsludeild.

Ályktun: Sjúkraþjálfun sem hófst fyrr en áður með áherslu á upprétta stöðu kom ekki betur út en venjuleg sjúkraþjálfun. 91% þátttakenda sem voru á lífi einu ári eftir útskrift af gjörgæslu (45)  bjuggu heima, en upplifðu verulega skert líkamleg heilsutengd lífsgæði og úthald.

 

50. Ábendingar og aukaverkanir amiodarone á Íslandi
Páll Guðjónsson1, Karl K. Andersen1,2

1Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Amiodarone er algengt taktstillandi lyf sem er oftast notað til að fyrirbyggja eða fækka gáttatifsköstum hjá einstaklingum sem þjást af gáttatifi í köstum. Lyfið hefur margvíslegar hættulegar aukaverkanir í för með sér t.d. langvarandi millivefslungnabólgu, bæði  of- og vanvirkni á skjaldkirtli,  hægatakt, lengingu á QT bili og húðvandamál. Vegna aukaverkana er mikilvægt að lyfinu sé ávísað á réttum forsendum.

Markmið: Rannsókninni er ætlað að kanna ábendingar og eftirlit með ávísunum amiodarone á Íslandi ásamt því að meta tíðni aukaverkana þess.

Efniviður og aðferðir: Unnið er með lista úr lyfjagagnagrunni Landlæknis. Listinn inniheldur alla Íslendinga sem fengu lyfinu amiodarone ávísað árið 2014 sem telur rúmlega 1000 manns. Leitað er í sjúkraskrám og í rannsóknarkerfum LSH, Læknaseturs og Hjartamiðstöðvar að ábendingu amiodarone og upplýsingum um aukaverkanir þess. Blóðprufurniðurstöður verða yfirfarnar m.t.t. skjaldkirtils- og lifrarprufa og nýjasta hjartalínuriti flett upp til að meta taktinn. Lýsandi tölfræði verður notuð í framsetningu gagna.

Fyrstu niðurstöður: Búið er að safna gögnum hjá 100 einstaklingum í gegnum sögukerfi Landspítalans. Í þeim gögnum er algengasta ábending gáttatif (81%). Þar á eftir kemur VT/VF (12%) og annað (7%). Við athugun á aukaverkunum var tíðni á vanstarfsemi skjaldkirtils um 30% (þar af 10% með vanstarfsemi áður en meðferð var hafin), 10% hafa glímt við skjaldkirtilsofstarfsemi og um 15% fengu gangráð eftir að meðferð með amiodarone var hafin. Allt að 5 % glíma við langvarandi millivefslungnabólgu. 1% var með lifrarbólgu af völdum amiodarone sem leiddi til skorpulifrar.

Ályktun: Litlar ályktanir er hægt að draga af fyrstu niðurstöðum þar sem þær sýna aðeins hluta af nauðsynlegum upplýsingum fyrir hvern og einn einstakling. Miðað við þær tölur sem liggja fyrir eru vísbendingar um að gangráðsísetningar vegna hægatakts séu algengari hér en í nágrannalöndum og tíðni skjaldkirtilsvandamála einnig í hærra lagi.

 

51. Áhrif skipulagðrar, hjúkrunarstýrðrar eftirgæslu á heilsufar sjúklinga eftir útskrift af gjörgæsludeild

Rannveig J. Jónasdóttir1,2, Christina Jones3, Gísli H. Sigurðsson1,4, Helga Jónsdóttir1

1Háskóla Íslands, 2gjörgæsludeild Landspítala, 3Faculty of Health & Life Sciences, University of Liverpool, Bretlandi, 4gjörgæsludeild Landspítala Hringbraut

rannveij@landspitali.is

Inngangur: Bráð, alvarleg veikindi og lega sjúklinga á gjörgæsludeild hafa langvinn áhrif á heilsufar þeirra. Vegna hins hæga bataferils er mælt með eftirgæslu til sjúklinga eftir útskrift af gjörgæsludeild. Mögulegur ávinningur er af hjúkrunarstýrðri eftirgæslu en áhrif hennar eru lítt þekkt og samanburðarrannsóknir fáar. 

Markmið: Að mæla áhrif íhlutunarinnar skipulögð, hjúkrunarstýrð eftirgæsla á heilsufar sjúklinga eftir legu á gjörgæsludeild.

Aðferðir: Framskyggn samanburðarrannsókn á sjúklingum eftir útskrift af gjörgæsludeild þar sem tilraunahópur (N=73) fékk skipulagða, hjúkrunarstýrða eftirgæslu sem fólst í eftirliti með klínísku ástandi á legudeild, símtali fyrstu viku eftir útskrift heim af legudeild og viðtali þremur mánuðum eftir útskrift af gjörgæsludeild. Samanburðarhópur (N=75) fékk hefðbundna þjónustu. Heilsufar var mælt með mælitækinu SF-36v2 fyrir innlögn á gjörgæsludeild (mælt á legudeild), við útskrift af legudeild og þremur, sex og 12 mánuðum eftir útskrift af gjörgæsludeild. Munur á hópunum var mældur yfir tíma með slembiþáttalíkani.

Niðurstöður: Enginn munur var á heilsufari hópanna yfir tíma fyrir utan meiri verki hjá sjúklingum í tilraunahópi en samanburðarhópi. Heilsufar beggja, tilraunahóps og samanburðarhóps, versnaði frá því fyrir innlögn á gjörgæsludeild að 12 mánuðum eftir útskrift þaðan.

Ályktun: Skipulögð, hjúkrunarstýrð eftirgæsla til sjúklinga eftir útskrift af gjörgæsludeild bætti ekki heilsufar sjúklinga borið saman við hefðbundna þjónustu. Hinir ólíku hópar sjúklinga og almenn áhersla íhlutunarinnar í stað sértækrar á heilsufar gætu skýrt útkomuna. Niðurstöðurnar sýna að heilsufar ófárra sjúklinga sem lifa af gjörgæsludvölina er slæmt fyrsta árið eftir útskrift þaðan og að bæta þurfi líðan þeirra með markvissum aðgerðum.  

 

52. Rannsókn á hlutverk heilabarkar í stöðustjórnun

Rún Friðriksdóttir1, Paolo Gargiulo1,2,3, Hannes Petersen4,5

1Háskólanum í Reykjavík, 2Heilbrigðis- og taugaverkfræðistofnun Háskólans í Reykjavík, 3vísindadeild Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands, 5Sjúkrahúsi Akureyrar

run13@ru.is

Inngangur: Upprétt staða mannsins er náttúrulega óstöðug, en til að viðhalda henni og til að bregðast við ójafnvægi er þörf á kerfi stöðustjórnunar. Kerfi stöðustjórnunar er afturvirkt stýrikerfi sem vinnur stöðugt úr upplýsingum um uppréttu stöðuna en þær upplýsingar koma frá augum (sjón), jafnvægisviðtökum í innra eyra, stöðuskyni og þrýstiviðtökum í il. Úrvinnsla þessara upplýsinga á sér stað á öllum stigum miðtaugakerfisins frá mænu/heilastofni og upp í barkarsvæði hvelaheila. Barkarsvæðið er talið skipta mun meira máli en áður var talið og þá sérstaklega hlutverk þess í aðlögun eftir sjúkleg áföll eða við endurtekin jafnvægistruflandi áreiti. Með notkun EEG er hægt að rannsaka nánar hvernig heilinn tekur þátt í stöðustjórnun.

Markmið: Tilgangur þessa verkefnis var að rannsaka viðbragð heilabarkar meðan á truflun á líkamsstöðu stendur og hvernig aðlögunar ferlum er háttað gagnvart áreitinu. Þessi atriði voru rannsökuð með EEG heilrafrits búnað, en það hefur ekki verið gert áður.

Aðferðir: Einstaklingar voru beðnir um að standa upprétt á kraftplötu. Titrings áreiti var beitt á kálfavöðva beggja fóta sem veldur truflun á stöðuskyni, og því fylgt eftir með 30 sekúndna hvíld. Titringsáreitið stóð yfir 200 sekúndna tímabili og tekið var heilarafrit með 64ra rása heilarafritsbúnað á meðan á verkefninu stóð, annars vegar með opin augu og hins vegar með lokuð augu. Hver mæling var skipt upp í fjóra kvartíla Q1-Q2-Q3-Q4 þar sem kvartíll inniheldur 50 sekúndur og sama fjölda titrings áreita. Gögnum var safnaði við 1024 Hz tíðni og borin saman, og niðurstöður tölfræðilega greindar. Með því a reikna hámarks tíðni á hverju tíðnisviði með tilliti til staðsetningu rafskauta á höfðinu var hægt að rannsaka taugamynstur við nákvæma tímasetningu á atferlinu.

Niðurstöður: Alls voru 10 þátttakendur í rannsókninni. Aukin virkni í í delta, theta, alpha, beta og low gamma tíðni í heilaberki við titringsáreiti var í öllum kvartílum Q1-Q4 þegar borið var saman við 30 s hvíldina. Einnig mátti sjá verulega aukna orkudreifinu á tíðnisviði, sérstaklega á delta tíðni bandi í kvartíl Q4 borið saman við kvartíl Q1 við opin augu. Virkni í heilabarka var almennt minni við lokuð augu miðað við opin augu.

Ályktun: Niðurstöður sýndu svörun í heilaberki við truflun á stöðuskyni á fimm af sex tíðni böndum. Kemur á óvart að virkni í heilabarka sé minni við lokuð augu, en það sýnir fram á mikilvægi sjónar í kerfi stöðustjórnunar.

53. Raförvun mænu með yfirborðsrafskautum, færnibætandi áhrif á síspennu

Rún Friðriksdóttir1, Margrét Sól Ragnarsdóttir1, Vilborg Guðmundsdóttir2, Gígja Magnúsdóttir2, Guðbjörg Ludvigsdóttir2, Þórður Helgason1,2,3

1Háskólanum í Reykjavík, 2Grensásdeild Landspítala, 3Heilbrigðistæknisetri Háskólans í Reykjavík og Landspítala

run13@ru.is

Inngangur: Síspenna eða ósjálfráðir vöðvasamdrættir geta valdið miklum óþægindum og dregið úr færni einstaklingsins. Flestir sjúklingar með mænuskaða ofan við mænutagl glíma við síspennu. Meðferðarúrræði eru fá og árangurinn oft takmarkaður og skammvinnur.

Markmið: Markmiðið var að leitast eftir staðfestingar eða synjunar á þeirri kenningu að hafa megi sömu eða svipuð áhrif á síspennu í vöðva með raförvun mænu með yfirborðsrafskautum á húð, og næst með rafskautum inni í mænugöngum. Þ.e. að geta sýnt fram á að áhrif meðferðarinnar dugi til að draga úr síspennu á meðan meðferðinni stendur og í að minnsta kosti tvo tíma að meðferð lokinni.

Aðferðir: Þátttakendur voru 4 einstaklingar með heftarlömun sem hlotið hafa heilaáverka og glíma við síspennu í neðri útlimum. Meðferðin fól í sér hálftíma raförvun mænuróta við th11 og th12, með 50 Hz tíðni og yfirborðsrafskautum á baki og kvið. Mat á áhrifum mænuraförvunarinnar var gerð með raflífeðlisfræðilegum og klínískum athugunum ásamt athugun á hreyfigetu. Mælingar á síspennu í vöðvum í neðri útlimum fóru fram fyrir meðferð, strax í kjölfar meðferðar og 4-6 klst eftir meðferð. Allar þrjár mælingar voru eins að öllu leyti og saman stóðu af Ashworth skölun ganglima, tímataka á 10 metra gönguprófi, uppstaða með 3 m göngu of sest aftur, Wartenberg sveifluprófi með vöðvariti (EMG), akilesarsinarpróf með viðbúnum krampakippum í fótum (clonus) og raflífeðlisfræðilega athuganir.

Niðurstöður: Í flestum tilvikum minkar síspenna heftarlamaðra þátttakenda strax eftir meðferð, þó ekki eins mikið og í áðurgerðri rannsókn á einstaklingum með hlutskaða á mænu. Niðurstöður úr Wartenberg sveifluprófinu eftir meðferð sýndu minnkun á síspennu og betri samhæfingu antagónískra vöðva. Vöðvaritið sýnir skýrari skipti milli átaks beygju og réttuvöðva hnjáliðar í sveiflu. Viljastýrð hreyfing plantar- og dorsiflexor vöðva reyndist auðveldari og síspenna varð minni eftir meðferð hjá öllum fjórum þátttakendum. Auk þess greindu þrír af fjórum þátttakendum frá betri stjórn og bættri hreyfigetu nokkrar klukkustundir eftir meðferð. Tímataka á 10 metra gönguprófi sýndi ekki marktæka bætingu.

Ályktanir: Draga má þá ályktun að mænuraförvun með yfirborðsrafskautum með 50 Hz tíðni í 30 mínútur getur dregið úr síspennu hjá einstaklingum sem glíma við síspennu í neðri útlimum vegna heilaáverka. Hins vegar sýna niðurstöður ekki sömu áhrif á síspennu eins og meðferð fólks með mænuskaða.

 

54. Bioactivity of refined platelet lysate without heparin in Mesenchymal stem cell culture

Sara Þöll Halldórsdóttir1,3, Helena Montazeri1, Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch1,3, Ólafur Eysteinn Sigurjónsson1,2,3,4

1Platome Biotechnology 2The Blood bank Landspitali the University Hospital, 3University of Iceland, 4School of Science and engineering Reykjavik University

oes@landspitali.is

INTRODUCTION: Mesenchymal stem cells (MSC) have become a focus in the field of regenerative cell therapy, particularly for the repair of bone and cartilage because of their multipotential differentiation to osteo-, adipo- and chondrocytes. To be able to grow stem cells in vitro it is essential to supplement the media with growth factors. Until now researchers have used fetal bovine serum (FBS) as supplement. The use of FBS is however not ideal do to batch-to-batch variability, risk of animal pathogen transmissions and immune reactions for bovine antigens and proteins. Previous studies have shown that human platelet lysate (hPL) can be used as a supplement in cell culture, replacing FBS.

In MSC culture supplemented with hPL, heparin has to be added to prevent fibrin formation although it can drastically decrease survival and proliferation of the cells. Heparin is a highly sulfated glycosaminoglycan. It is a complex mixture of molecules that can't be properly characterized. Heparin is an animal derived product extracted from variation of animal tissues. Given that, the purpose of this study is to develop a refined platelet lysate and compare expansion and differentiation of MSCs in two different treatments, media supplemented with pathogen inactivated platelet lysate (PIPL) containing heparin versus refined-pathogen inactivated platelet lysate (R-PIPL) deprived of heparin.

METHODS: In this study, bone marrow-derived mesenchymal stem cells were cultured in two different platelet lysate supplements, PIPL or R-PIPL. Platelet lysates were made with a freeze-thaw method, filtered and added to DMEM F12+Glutamax media with (PIPL) or without heparin (R-PIPL). Growth rate analysis was done with population doubling assay (PDA) and morphology was evaluated with microscopy. Osteogenic, adipogenic and chondrogenic differentiation was performed to validate trilineage differentiation potential. Osteogenic differentiation was evaluated with gene expression, alkaline phosphatase activity assay and alizarin red staining for mineralization. Oil red O staining and gene expression was performed to evaluate adipogenic differentiation and hematoxylin-eosin as well as Masson's trichrome staining for chondrogenic differentiation.

RESULTS: Results showed comparable morphology between cells grown in both PIPL and R-PIPL and differentiation was carried out in both treatments. MSCs grown in PIPL showed a slightly faster growth and in osteogenic differentiation, more alkaline phosphatase activity was observed.

DISCUSSION & CONCLUSIONS: According to our findings, R-PIPL can be used to grow MSCs in vitro but some improvements and further experiments are needed to confirm the effect on differentiation.

 

55. Þýðing og menningarleg aðlögun á verkjamati fyrir fyrirbura PIPP-R

Sigríður María Atladóttir1,2, Guðrún Kristjánsdóttir1, 2

1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2 Landspítala

gkrist@hi.is

Inngangur: Fyrirburar og veikir nýburar þurfa oft að gangast undir sársaukafull inngrip vegna meðferðar eða veikinda. Mat á verkjum er nauðsynlegt ef veita á árangursríka verkjameðferð. Fjölmörg verkjamatstæki hafa verið þróuð með það að markmiði að bæta verkjameðferð þessa skjólstæðingahóps. Einn þeirra er PIPP-R sem hefur reynst vel við rannsóknir og í klínískum aðstæðum. Við val á verkjamatstæki er mikilvægt að taka tillit til réttmætis og áreiðanleika en einnig hagnýtingu og notagildis. Það felur meðal annars í sér að verkjamatstækið sé skiljanlegt þeim sem notar það. Þegar matstæki er þýtt er mikilvægt að eiginleikar þess haldi sér.

Markmið Þessarar rannsóknar er að þýða PIPP-R á íslensku og prófa þýðingu með menningalegri aðlögun.

Aðferðir: Um er að ræða lýsandi rannsóknarsnið með eigindlegri aðferð þar sem PIPP-R er þýtt á íslensku og farið eftir leiðbeinandi skrefum ISPOR um bestu aðferð við þýðingu matstækja. Með tilgangsúrtaki voru valdir tíu hjúkrunarfræðingar af íslenskri nýburagjörgæslu sem í gegnum djúpviðtöl lögðu mat á þýðingu. Í kjölfarið var þýðingin löguð að menningarumhverfi notendahóps.

Niðurstöður: Á fyrstu skrefum þýðingarferlis og í gegnum djúpviðtöl komu fram vandamál sem höfðu áhrif á endanlega íslenska útgáfu PIPP-R. Vandamálin voru flokkuð eftir því hvort þau tengdust verkjamatskvarðanum sjálfum eða notkun hans. Vandamál sem tengdust verkjamatskvarðanum voru flokkuð eftir því hvort þau snéru að þýðingu eða upprunalegri útgáfu. Vandamál sem tengdust notkun voru flokkuð eftir því hvort þau mætti leysa með þjálfun og fræðslu til notenda eða hvort þau snéru að notkun myndbands og skráðrar lýsingar í djúpviðtölum.

Ályktun: Afrakstur þessarar þýðingarrannsóknar er íslensk þýðing PIPP-R sem hefur verið löguð að menningarumhverfi á íslenskri nýburagjörgæslu. Í framhaldinu er þörf á að meta áreiðanleika matstækisins á íslensku við verkjamat fyrirbura og veikra nýbura til þess að unnt sé að nota PIPP-R á íslenskri nýburagjörgæslu.


56. Gangráðsígræðslur eftir ósæðarlokuskipti á Íslandi

Sindri Aron Viktorsson1, Andri Wilberg Orrason1, Anna Guðlaug Gunnarsdóttir1,3, Kristján Orri Víðisson1, Davíð O. Arnar2,3, Tómas Guðbjartsson1,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2hjartadeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Ósæðarlokuskipti er önnur algengasta hjartaaðgerðin á Íslandi. Meðal fylgikvilla eru leiðslutruflanir sem oftast ganga yfir. Við alvarlegan hægtakt eða hjartsláttarhlé getur þurft að koma fyrir varanlegum gangráði. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hversu margir sjúklingar þurfa á varanlegum gangráði að halda eftir ósæðarlokuskipti á Íslandi, bæði fyrst eftir aðgerðina en líka löngu síðar og kanna hverjar ábendingar voru.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til 589 sjúklinga (meðalaldur 71,2 ár, 64,9% karlar) sem gengust undir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Landspítala 2002-2016. Útilokaðir voru sjúklingar sem höfðu gangráð fyrir aðgerð eða ef ákvörðun um ísetningu var gerð fyrir aðgerðina (n=30). Sjúklingar sem fengu ígræddan gangráð innan 30 daga frá aðgerð voru skoðaðir sérstaklega m.t.t. áhættuþátta og fylgikvilla eftir aðgerð. Miðgildi eftirfylgdar var 5,5 ár og var sjúklingunum fylgt eftir til 31. desember 2017.

Niðurstöður: Af 559 sjúklingum voru 23 (4,1%) sem þurftu á ísetningu varanlegs gangráðs að halda á fyrstu 30 dögunum eftir aðgerð. Algengustu ábendingar ígræðslunnar voru sjúkur sínus hnútur (SSS) (n = 12) og gáttasleglarof (n = 9). Miðgildi frá aðgerð að ígræðslu var 8 dagar (bil 0 – 22 dagar). Þá fengu 37 (6,9%) sjúklingar gangráð þegar lengra var liðið frá aðgerð, eða að miðgildi 3,7 árum eftir aðgerð, en flestir þeirra fengu gangráð vegna SSS (n=15).

Ályktanir: Á rannsóknartímabilinu þörfnuðust 60 sjúklingar (10,7%) gangráðsígræðslu. Tíðni þeirra innan 30 daga eftir aðgerð er lág hérlendis og sambærileg við erlendar rannsóknir. Þá er hún lægri samanborið við tíðni gangráðsígræðslna eftir ósæðarlokuskipti framkvæmd með æðaþræðingu (TAVI).

 

57. Batnandi árangur ósæðarlokuskipta á Íslandi

Sindri Aron Viktorsson1, Kristján Orri Víðisson1, Anna Guðlaug Gunnarsdóttir1,2, Daði Helgason1, Árni Johnsen1,2, Martin Ingi Sigurðsson3, Arnar Geirsson4, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3svæfinga- og gjörgæsludeild Duke háskólasjúkrahússins, N-Karólínu, 4hjarta- og æðaskurðdeild Yale háskólasjúkrahússins, New Haven

Inngangur: Tíðni einstakra snemmkominna fylgikvilla eftir ósæðarlokuskipti hefur mælst hærri hérlendis samanborið við erlendar rannsóknir. Á það sér í lagi við um gáttatif og enduraðgerð vegna blæðingar. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort tíðnin hefði breyst á síðastliðnum árum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturvirk og náði til allra sem undirgengust ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Landspítala á árunum 2002 – 2016 (n=589). Sjúklingunum var skipt upp í þrjá hópa eftir tímabilum, 2002 – 2006 (n=152), 2007 – 2011 (n=207) og 2012-2016 (n=230). Hóparnir voru bornir saman með tilliti til ástands sjúklinga fyrir aðgerð, aðgerðartíma, tíðni fylgikvilla, skurðdauða auk annarra þátta.

Niðurstöður: Meðalaldur og EuroSCORE II (áhættureiknir fyrir opnar hjartaaðgerðir) reyndist sambærilegt. Hámarksþrýstingsfallandi yfir lokuna lækkaði úr 74 mmHg að meðaltali í 67 á öðru tímabilinu og 72 á því þriðja (p=0,49). Tangartími var 125 mínútur að meðaltali á fyrsta tímabilinu í 110 og 95 mínútur á öðru og þriðja (p<0,001  Tíðni gáttatifs lækkaði úr 79,6% á fyrsta tímabilinu í 59,1% og 53,1% á öðru og þriðja (p<0,001). Á fyrsta og öðru tímabilinu gengust 15,7% og 15,4% sjúklinga undir enduraðgerð vegna blæðingar, en á því þriðja hafði tíðnin lækkað í 7,9% (p=0,01). Skurðdauði lækkaði úr 6,6% í 5,8% á öðru tímabilinu og 3,9% á því þriðja (p=0,24).

Ályktun: Tíðni gáttatifs og enduraðgerða vegna blæðingar eftir ósæðarlokuskipti hefur lækkað marktækt á síðastliðnum árum og er nær því sem þekkist úr erlendum rannsóknum. Mögulegar skýringar eru að sjúklingar eru teknir fyrr til aðgerðar og að tangartími hefur styst.

 

58. Áhrif ónæmisglæða á virkjun kímstöðva, myndun og lifun mótefnaseytandi frumna í nýburamúsum

Auður Anna Aradóttir Pind1,2, Magdalena Dubik1 ,Sigrún Sif Þórsdóttir2,3, Ingileif Jónsdóttir1,2, Stefanía P. Bjarnarson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2ónæmisfræðideild Landspítala, 3Karolinska stofnunin, Stokkhólmi

audurap@landspitali.is

Inngangur: Vanþroski ónæmiskerfis nýbura er ástæða daufra ónæmissvara og aukins næmis þeirra fyrir sýkingum. Mótefnasvör við sýkingum eða bólusetningum eru lág og skammlíf m.a. vegna vanþroska kímstöðvafrumna (FDC) sem veldur takmarkaðri virkjun kímstöðva (GC) og myndun fárra og skammlífra mótefnaseytandi frumna (AbSC). Sýnt hefur verið fram á að ónæmisglæðir getur yfirunnið takmarkanir ónæmiskerfis nýbura, og aukið svörun við bólusetningum. Ekki er ljóst hvaða frumulíffræðilegu ferla þarf að virkja til að bæta ónæmissvör nýbura við bólusetningum. Þess vegna voru valdir fjórir nýstárlegir ónæmisglæðar, sem hafa áhrif á ólíka líffræðilega ferla og ólíka virkni í fullorðnum dýrum, auk þess að hafa hverfandi aukaverkanir. Allir eru þeir í klínískum eða forklínískum prófunum.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif bólusetninga og fjögurra nýstárlegra ónæmisglæða á þroskun FDC, virkjun GC og fjölda bóluefnissértækra AbSC í milta og lifun þeirra beinmerg og magn og viðhald mótefna í sermi.

Aðferðir: Vikugamlar mýs voru bólusettar með pneumókokkafjölsykru (PPS) tengdri stífkrampapróteini (Pnc-TT) með eða án fjögurra nýstárlegra ónæmisglæða eða alum, sem er hefðbundinn ónæmisglæðir, til samanburðar. Þroskun FDC og virkjun GC var metin með ónæmislitun á þunnsneiðum 14 dögum eftir bólusetningu. Fjöldi PPS- og TT-sértækra AbSCs var mældur með ELISPOT og magn PPS- og TT-sértækra mótefna með ELISA á mismunandi tímum eftir bólusetningu til að ákvarða langlífi og viðhald ónæmissvörunar. Fyrir tölfræðilega úrvinnslu voru hópar sem voru bólusettir með bóluefni og ónæmisglæði bornir saman við hóp sem fékk eingöngu bóluefni.

Niðurstöður: Allir nýstárlegu ónæmisglæðarnir flýttu þroskun FDC marktækt (P=0,004 - <0,0001) ef þeir voru gefnir með Pnc-TT bóluefninu. Þrír af fjórum nýstárlegu ónæmisglæðanna juku virkjun GC marktækt m.v. bólusetningu með Pnc-TT einu og sér og allir þeirra leiddu til marktækrar stækkunar á GC. Alum hafði hvorki áhrif á þroskun FDC né virkjun eða stærð GC. Mýs sem bólusettar voru með Pnc-TT ásamt öðrum tveggja nýstárlegu ónæmisglæðanna höfðu marktækt fleiri sértækar AbSC í milta (P=0,0110 - 0,0002) 14 dögum eftir bólusetningu. Allir ónæmisglæðarnir sem prófaðir voru juku TT-sértæk mótefni í sermi marktækt 14 dögum eftir bólusetningu og allir nema alum juku PPS-sértæk mótefni á sama tímapunkti (P=0,0182 - <0,0001). Fjöldi sértækra AbSC í beinmerg var marktækt aukinn 9 vikum eftir bólusetningu nýburamúsa með Pnc-TT og einhverjum nýstárlegu ónæmisglæðanna (P=0,0295 - 0,0006). Á sama tímapunkti höfðu mýsnar marktækt hærri PPS- og TT-sértæk mótefni í sermi (P=0,0152 - 0,0002). Alum hafði hvorki áhrif á fjölda AbSC né magn mótefna á þessum tímapunkti þegar langt var liðið frá bólusetningu og mýsnar orðnar fullorðnar.

Ályktun: Nýstárlegu ónæmisglæðarnir fjórir juku ónæmissvör nýburamúsa við bólusetningu með Pnc-TT og stuðluðu að lengri lifun mótefnisseytandi frumna í beinmerg og viðhaldi mótefna í sermi en ef einungis var gefið bóluefni eða bóluefni með alum. Þessir ónæmisglæðar yfirunnu því takmarkanir í ónæmiskerfi nýbura og eru vænlegir kostir fyrir frekari rannsóknir á ónæmissvörun nýbura og þeim líffræðilegu ferlum sem tengjast takmörkun ónæmissvara ungviðis.

 

59. Áhrif nýgreindrar sykursýki og skerts sykurþols á útbreiðslu kransæðasjúkdóms hjá sjúklingum með brátt kransæðaheilkenni

Steinar O. Hafþórsson1, Daniel Henriksson2, Sara Brisby Jeppsson2, Linda Björk Kristinsdóttir1, Erna Sif Óskarsdóttir1, Árni Johnsen3, Þórarinn Árni Bjarnason4, Karl Andersen1,3

1Lyflækningadeild Landspítala, 2Linköping háskóla, Svíþjóð, 3læknadeild Háskóla Íslands, 4University of Iowa Hospital and Clinics, Iowa City, USA

andersen@landspitali.is

Inngangur: Sykursýki og skert sykurþol eru þekktir áhættuþættir fyrir þróun kransæðasjúkdóms í almennu þýði. Minna er vitað um áhrif sykursýki og skerts sykurþols á útbreiðslu kransæðasjúkdóms hjá sjúklingum með brátt kransæðaheilkenni.

Markmið: Að bera saman útbreiðslu kransæðasjúkdóms hjá sjúklingum með brátt kransæðaheilkenni eftir því hvort þeir hafa eðlileg eða trufluð sykurefnaskipti.

Aðferðir: Sjúklingar með brátt kransæðaheilkenni voru teknir inn í rannsóknina á hjartadeild Landspítala á 18 mánaða tímabili 2013-2014. Sykurefnaskipti voru mæld með fastandi blóðsykri, langtímablóðsykri og 2 klst sykurþolsprófi á 3.-5. degi sjúkrahúslegu og þessi próf voru endurtekin á göngudeild 3-4 mánuðum síðar. Sjúklingum var skipt í eftirfarandi hópa: eðlileg sykurefnaskipti, nýgreint skert sykurefnaskipti, nýgreind sykursýki og áður þekkt sykursýki. Kransæðaþræðing var gerð hjá öllum sjúklingum. Útbreiðsla kransæðasjúkdóms var annars vegar metin með fjölda kransæða sem höfðu 50% þrengsli eða meir, hins vegar með Gens2.35 (95% CI; 1,32-4,20) ini skori sem tekur til fjölda þrenginga og staðsetningar þeirra í kransæðatré.  

Niðurstöður: Alls voru 351 sjúklingur rannsakaður. Hlutfall kvenna var 25%. Meðalaldur var 64,1 ár (SD 12). Hlutfall sjúklinga með eðlileg sykurefnaskipti var 21%, nýgreint skert sykurefnaskipti 47%, nýgreind sykursýki 6,3% og þekkt sykursýki hjá 26% sjúklinga. Þriggja æða kransæðasjúkdómur greindist hjá 24% þeirra sem höfðu eðlileg sykurefnaskipti, 31% þeirra sem höfðu nýgreint skert sykurefnaskipti, 41% nýgreindra með sykursýki og 49% þeirra sem höfðu áður  þekkta sykursýki (p<0,01).  Gensini skor var að meðaltali 40, 45, 61 og 54 í sömu hópum (p<0,05).  Í fjölþáttagreiningu tengdust nýgreind truflun á sykurefnaskiptum (OR 2,35; 95% CI 1,3-4,2), þekkt sykursýki (OR 2,8; 95% CI 1,4-5,7) aukinni áhættu á tveggja eða þriggja æða kransæðasjúkdómi.

Ályktun: Trufluð sykurefnaskipti tengist aukinni útbreiðslu kransæðasjúkdóms hjá sjúklingum með bráð kransæðaheilkenni.

 

60. Aukin árvekni hjúkrunarfræðinga fyrir óráði á meðal aldraðra sjúklinga á Landspítala

Steinunn Arna Þorsteinsdóttir1,2, Halldóra Anna Þorvaldsdóttir2, María Björk Ríkarðsdóttir2, Elfa Þöll Grétarsdóttir1,2

1Landspítala, 2Háskóla Íslands

steitors@landspitali.is

Inngangur: Óráð er sjúkdómsástand sem hendir allt að 50% aldraðra á sjúkrahúsum. Óráð er vangreint og ávekni heilbrigðisstarfsmanna er nauðsynleg til að fækka tilfellum og draga úr afleiðingum óráðs. Aldraðir og þeir sem hlotið hafa mjaðmabrot eru meðal þeirra sem eru í mestri hættu á óráði. Með fullnægjandi skráningu og viðeigandi skimunar- og greiningartækjum er hægt að draga úr tíðni og alvarleika óráðs. Árið 2013 og voru hjúkrunarferlar endurskoðaðir á Landspítala og 2015 hófst innleiðing á klíniskum leiðbeiningum um greiningu, forvarnir og meðferð við óráði.  

Markmið: Að kanna hvort ný hjúkrunarferli og klínískar leiðbeiningar hefðu haft áhrif á skráningu hjúkrunarfræðinga tengda óráði.

Aðferð: Í úrtaki voru allir 67 og eldri sem  lögðust inn á bæklunarskurðdeildir Landspítala vegna mjaðmabrots á árunum 2012-2016 (N=1116).  Fengin voru gögn úr rafrænni sjúkraskrá og leyfi aflað frá siðanefnd Landspítala. Til að leggja mat á árvekni hjúkrunarfræðinga fyrir óráði var hlutfall sjúklinga með hjúkrunargreiningarnar „Bráðarugl“og „Hætta á bráðarugli“ borið saman milli áranna 2012 til 2016. Tölfræðileg marktækni var reiknuð með kí-kvaðrat prófi og p-gildi <0.05 talið samrýmast tölfræðilega marktækri breytingu.

Niðurstöður: Notkun hjúkrunargreininga tengdum óráði jókst á rannsóknartímabilinu úr 10% í 30%, mest var aukningin í notkun greiningarinnar hætta á bráðarugli úr 0,5% 2012 í 17,7 árið 2016 (p=0,001). Notkun hjúkrunargreiningarinnar bráðarugl jókst úr 9,6% 2012 í 12,4% árið 2016 (p=0,826).  

Ályktun: Innleiðing klínískra leiðbeininga um óráð skilaði aukinni ávekni meðal hjúkrunarfræðinga Landspítala. Þessar niðurstöður hafa gildi fyrir þá er vinna að fræðslu og innleiðingu verkferla og klínískra leiðbeininga á Landspítala. Árvekni og þekkingu er hægt að bæta með aukinni fræðslu.

 

61. Lyfjaatvik á Barnaspítala Hringsins - orsakir og leiðir til úrbóta

Steinunn Selma Jónsdóttir1, Sveinbjörn Gizurarson1, Kristrún Þórkelsdóttir2, Þórður Þórkelsson3

1Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 2aðgerðasviði Landspítala, 3Barnaspítala Hringsins

thordth@landspitali.is

Inngangur: Minna er til af upplýsingum um lyfjaatvik hjá börnum en fullorðnum en lyfjagjöf og lyfjaávísanir eru vandasamari hjá þeim. Ekki hefur verið gerð rannsókn á algengi og eðli lyfjaatvika hjá börnum á sjúkrahúsum á Íslandi. Það er mikilvægt viðfangsefni því þessi sjúklingahópur er á margan hátt í meiri hættu á lyfjaatvikum en fullorðnir auk þess sem afleiðingar þeirra eru oft alvarlegri hjá börnum. Til þess að auka öryggi sjúklinga er mikilvægt að atvik séu skráð og brugðist við þeim eins og kostur er. Góð atvikaskráning og opin umræða um atvik eru ekki aðeins mikilvæg fyrir öryggi sjúklinga heldur skapar það einnig þægilegra vinnuumhverfi fyrir allt starfsfólk spítalans.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að kanna orsakir og eðli lyfjaatvika sem skráð voru á Barnaspítala Hringsins 2007-2016. Kannað var hvers eðlis algengustu atvikin voru og hvaða úrbætur eru mögulegar til þess að koma í veg fyrir endurtekin atvik af sama toga.

Aðferðir: Lyfjaatvik hjá börnum á árunum 2007-2016 voru fundin í atvikaskráningu spítalans. Kortlagt var hvers konar lyfjaatvik voru algengust og alvarlegust, hvaða afleiðingar þau höfðu fyrir börnin, hvort farið hafi verið eftir ríkjandi verklagi um lyfjaumsýslu og hvort gripið hafi verið til ráðstafana til að fyrirbyggja að hliðstæð misök endurtaki sig. Stuðst var við upplýsingar í atvikaskrám, Sögukerfi spítalans og upplýsingar um lyfjameðferð frá Theriak.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu voru 659 atvik alls skráð á Barnaspítalanum en þar af voru 239 eða 36% atvika skráð sem lyfjatengd atvik. Algengast var að lyfjagjöf væri röng eða ekki í samræmi við fyrirmæli, þar af var algengast að rangur skammtur væri gefinn. Næst algengast var að lyfjafyrirmæli væru ófullnægjandi eða röng.

Ályktanir: Mikilvægt er að virkja allt heilbrigðisstarfsfólk í atvikaskráningu þar sem sýnt hefur verið fram á að hún er gagnleg til þess að koma auga á nauðsynlegar úrbætur. Verklagsreglur sem tryggja nákæmni, næði og nægan tíma til lyfjatiltektar og lyfjagjafa eru grundvöllur að bættu lyfjaöryggi. Breyta þarf viðhorfi til mistaka og þess að tilkynna atvik. Líta ætti á þau sem tækifæri til þess að læra og gera betur í framtíðinni.

 

62. Fjölómettaðar ómega-3 fitusýrur ýta undir bólguhamlandi svipgerð NK frumna í rækt

Sunnefa Yeatman Ómarsdóttir1,2, Kirstine Nolling Jensen1,2, Jóna Freysdóttir1,2, Ingibjörg Harðardóttir1,2

1Ónæmisfræðideild og rannsóknastofu í gigtsjúkdómum, Landspítala, 2læknadeild, Lífvísindasetri, Háskóla Íslands

syo2@hi.is

Inngangur: Fiskiolíur og fískiolíu-bætiefni eru auðug af löngum ómega-3 fjölómettuðum fitusýrum (FÓFS), eins og eikósapentaensýru (EPA (20:5n-3)) og dókósahexaensýru (DHA (22:6n-3)). Ómega-3 FÓFS eru teknar upp í frumuhimnur ónæmisfrumna, eins og náttúrulegra drápsfrumna (NK frumna) og daufkyrninga, og leiða til myndunar á bólgueyðandi boðefnum og til bólguhjöðnunar. NK frumur eru öflugar drápsfrumur sem drepa veiru- og bakteríusýktar frumur og krabbameinsfrumur. Daufkyrningar eru skammlífar frumur sem taka þátt í fyrstu vörnum líkamans með því að framleiða ensím sem verja gegn utanfrumusýklum. Grundvallarskref í bólguhjöðnun felur í sér örvun sjálfstýrðs frumudauða (apoptosis) daufkyrninga en það skref er mikilvægt til að koma í veg fyrir vefjaskemmdir. NK frumur örva sjálfstýrðan frumudauða daufkyrninga og taka þannig þátt í bólguhjöðnun.

Markmið: Markmið þessarar rannsóknar var að ákvarða áhrif EPA og DHA á bólguboðefnamyndum NK frumna og á tjáningu þeirra á yfirborðssameindum.

Aðferðir: NK frumur voru einangraðar úr útvefjablóði manna (buffy coat) með þéttniskiljun og neikvæðri MACS skiljun. Þær voru ræktaðar í 18 klst með eða án 50 µM af EPA, DHA eða arakídónsýru (AA) sem er ómega-6 FÓFS og var notuð sem viðmið. Þá voru frumurnar örvaðar með boðefnunum IL-2, IL-12 og IL-15 í 24 klst. Boðefnamyndun NK frumna var mæld með ELISA aðferð og tjáning á yfirborðssameindum með frumuflæðisjá.

Niðurstöður: NK frumur ræktaður með DHA og örvaðar í návist DHA seyttu minna af boðefnunum TNF-α (14%), CCL3 (17%) og CCL20 (44,5%) samanborið við NK frumur sem voru ræktaður og örvaðar án fitusýra. NK frumur ræktaðar með DHA tjáðu auk þess minna af yfirborðssameindunum CX1CR3 (14%), NKG2A (6,3%) og CXCR3 (5%). NK frumur ræktaðar með EPA seyttu minna af TNF-α (13,5%), en meira af IFN-γ (12%) samanborið við NK frumur sem voru ræktaðar án fitusýra.

Ályktanir: Bæði EPA og DHA minnkuðu seytingu NK frumna á bólguörvandi boðefnum og NK frumur ræktaðar með DHA tjáðu einnig minna af bólguörvandi yfirborðsviðtökum. Þar sem boðefnin TNF-α, CCL3 og CCL20 draga daufkyrninga að bólgusvæðum, gæti minnkuð seyting á þessum boðefnum leitt minna togs daufkyrninga að bólgusvæðum og þar með dempaðs bólgusvars. Minni tjáning NK frumna ræktaðra með DHA á yfirborðssameindunum CX3CR1 og CXCR3 bendir einnig til bólguhamlandi áhrifa DHA þar sem þessir flakkboðaviðtakar stuðla að íferð ónæmisfrumna í sýkta eða bólgna vefi. Niðurstöður verkefnisins benda því til þess að DHA geti ýtt undir bólguhamlandi svipgerð NK frumna í rækt. Í framhaldi af þessum niðurstöðum verða rannsökuð áhrif DHA á getu NK frumna til að stuðla að sjálfstýrðum frumudauða daufkyrninga í rækt.

 

63. Brátt kransæðaheilkenni hjá sjúklingum með eðlilegar eða nær eðlilegar kransæðar

Sævar Þór Vignisson1, Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir2, Þórarinn Guðnason2, Ragnar Danielsen2, Maríanna Garðarsdóttir3, Karl Andersen1,2

1Læknadeild heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, 2hjartadeild, 3röntgendeild Landspítala

andersen@landspitali.is

Inngangur: Hin hefðbundna meingerð í bráðu kransæðaheilkenni hefur lengst af talin vera rof á æðakölkunarskellu sem leiðir til blóðsegamyndunar í kransæð og hjartavöðvadreps. Hjá hluta þessara sjúklinga er ekki um að ræða rof á æðakölkunarskellu heldur eru aðrar orsakir sem valda þessum klínísku einkennum og hefur á undanförnum árum verið vaxandi áhugi á að greina nánar undirliggjandi orsakir hjá þessum hópi sjúklinga. Nýverið hefur verið lýst sjúkdómsmyndinni MINOCA (Myocardial Infarction with Non-Obstructive Coronary Arteries) sem nær yfir þessa sjúkdómsmynd. 

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að finna nýgengi MINOCA á Íslandi og að leita að undirliggjandi orsökum í íslensku þýði.

Efni og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn gagnarannsókn úr gagnagrunni hjartaþræðingarstofu Landspítala (SCAAR). Rannsakaðir voru allir sjúklingar sem fengu vinnugreininguna STEMI / NSTEMI við komu á Landspítala á árunum 2012 til 2016 en reyndust hafa eðlilegar eða nær eðlilegar kransæðar við kransæðamyndatöku. Sjúkdómsgreiningar voru endurskoðaðar hjá öllum sjúklingum og flokkaðir samkvæmt greiningarkerfi sem sérstaklega var útbúið fyrir þessa rannsókn.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu fóru 1708 sjúklingar í kransæðamyndatöku eftir að hafa fengið vinnugreininguna STEMI / NSTEMI. Af þeim reyndust 225 (13,2%) hafa eðlilegar eða nær eðlilegar kransæðar. Sjúkdómsgreiningar þessara sjúklinga skiptust þannig : fleiðurmyndun 72 (32%), hjartavöðvabólga 33 (14,7%), harmslegill 28 (12,4%), afleitt hjartavöðvadrep 30 (13,3%), kransæðakrampi 31 (13,8%) og 31 (13,8%) fengu greininguna annað og óútskýrt.

Ályktun: Brátt kransæðaheilkenni án undirliggjandi rofs á æðakölkunarskellu er algengt. Nokkuð jöfn skipting reyndist á milli helstu mismunagreininga. Þörf er á frekari klínískum rannsóknum um greiningu, staðlaða uppvinnslu og meðferð þessa sjúklingahóps.

 

64. Árangur rafvendinga við gáttatifi og -flökt

Unnar Óli Ólafsson1, Davíð O. Arnar1,2, Karl Andersen1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjartadeild og Hjartagátt Landspítala

andersen@landspitali.is

Inngangur: Gáttatif og -flökt er algengasta viðvarandi hjartsláttartruflunin og er rafvending mikilvægur hluti í meðferð við þessum sjúkdómi. Nýlegt MB-LATER skor tekur tillit til þekktra áhættuþátta á endurkomu gáttatifs/-flökts eftir brennsluaðgerð en hugsanlegt er að hægt sé að yfirfæra það á sjúklinga sem gengist hafa undir rafvendingu.

Markmið: Annars vegar að skoða hversu lengi gáttatifssjúklingar héldust í sínus takti eftir rafvendingu. Hins vegar að meta hvaða þættir hafa áhrif á taktstillingu og hvort MB-LATER hafi forspárgildi um viðhald sínus takts eftir rafvendingu.

Aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra þeirra sem komu í sína fyrstu rafvendingu á Landspítala á árunum 2014 og 2015. Tímalengd þessara sjúklinga í sínus takti var reiknuð út frá dagsetningu rafvendingar og hvenær staðfest var hvort viðkomandi sjúklingur væri farinn aftur í gáttatif/-flökt eða hvort hann væri í enn sínus takti. MB-LATER skor var reiknað út frá upplýsingum úr sjúkraskrám.

Niðurstöður: Af 438 sjúklingum voru 293 (66,9%) karlar og 145 (33,1%) konur. Meðalaldur þeirra var 67,6 ± 12,4 ár. Eftir sex mánuði voru 47,3% í sínustakti en 34,8% eftir eitt ár. Hærra MB-LATER skor hafði neikvætt forspárgildi fyrir tímalengd sjúklinga sínus takti. Hlutfall sjúklinga í sínus takti eftir eitt ár var 51,1% af þeim með 0-1 stig, 19,7% af þeim með 2-3 stig og 0% þeirra með 4-5 stig  (p<0,0001). Eftir að hafa leiðrétt fyrir breytunni „Endurkoma gáttatifs/-flökts innan 90 daga“ voru 36,7% þeirra með 0-2 stig í sínus takti eftir eitt ár á móti 6,1% þeirra með 3-4 stig (p<0,0001). 

Ályktun: MB-LATER skor virðist gefa góða vísbendingu um hversu líklegir gáttatifssjúklingar eru til þess að haldast í sínus takti til lengri tíma.

 

65. Lyfjanotkun á meðgöngu

Unnur Sverrisdóttir1, Freyja Jónsdóttir1,2, Anna Ingibjörg Gunnarsdóttir1,2, Ragnheiður I. Bjarnadóttir3,4, Hildur Harðardóttir3

1Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 2klínískri  lyfjafræði, Landspítala, 3fæðinga og kvensjúkdómadeild, Landspítala, 4mæðravernd Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

uns18@hi.is

Inngangur: Talið er að allt að 90% þungaðra kvenna noti lyf einhvern tíma á meðgöngu. Gagnreyndar upplýsingar um lyfjanotkun á meðgöngu eru mikilvægar til þess að koma í veg fyrir skaðleg áhrif lyfja á fóstur. Þrátt fyrir mikilvægi gagnreyndra upplsýinga um lyfjanotkun á meðgöngu er almennt talið skortur á þeim.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að kanna lyfjanotkun þungaðra kvenna fyrstu 20 vikur meðgöngu. Einnig að kanna notkun vítamína, steinefna, fitusýra og náttúruvara. Viðhorf kvennanna, lækna og ljósmæðra í tengslum við lyfjanotkun á meðgöngu var einnig skoðað ásamt upplýsingagjöf og upplýsingaöflun.

Aðferðir: Rannsóknin var framkvæmd á Landspítalanum á tímabilinu janúar til apríl 2017. Spurningalisti var lagður fyrir þungaðar konur gengnar 20 vikur á leið í formi viðtals. Einnig var spurningalisti sendur rafrænt á lækna í Læknafélagi Íslands og ljósmæður í Ljósmæðrafélagi Íslands.

Niðurstöður: Af 213 þátttakendum notuðu 90% lyf einhvern tíma á fyrstu 20 vikum meðgöngu. Um 80% lyfjanna falla í öryggisflokka A og B. Algengustu ástæður lyfjanotkunar voru vægir verkir, nefstífla og bakflæði. Aðeins 14% kvennanna notaði ekki fólinsýru fyrstu 12 vikur og voru tengsl við ungan aldur (p=0,019) og búsetu á landsbyggð (p=0,03). Hlutfall kvenna sem notuðu náttúruvörur var 14% en upplýsinga skortir um notkun þeirra á meðgöngu. Mikill meirihluti kvennanna (81%) taldi sig hafa fengið fullnægjandi upplýsingar þegar lyfi var ávísað og 94% þeirra taldi sig hafa aðgengi að fullnægjandi upplýsingum um lyf á meðgöngu. Algengast var að leita á internetið (51%) eða til ljósmóður (44%). Um 40% lækna og ljósmæðra telja aðgengi að upplýsingum um lyf á meðgöngu ábótavant og 50% telja krefjandi að túlka þær upplýsingar sem til eru þannig að þær nýtist í klínísku starfi. Læknar og ljósmæður telja sig almennt hæf (61%) til að ávísa/ráðleggja lyfjum til þungaðra kvenna en ekki að veita ráðleggingar varðandi fósturskemmandi áhrif náttúruvara (24%). Meirihluti lækna og ljósmæðra (77%) vill fræðast meira um náttúruvörur.  

Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að lyfjanotkun og notkun bætiefna á meðgöngu sé algeng. Notkun flestra lyfjanna telst örugg á meðgöngu. Þungaðar konur hafa rökrétt og alla jafna jákvætt viðhorf til lyfjanotkunar á meðgöngu. Læknar og ljósmæður telja sig almennt hæf til að ávísa/ráðleggja lyfjameðferð á meðgöngu en tækifæri er til að bæta upplýsingaveitur fyrir fagaðila. Benda niðurstöðurnar til þess að bæta þurfi þekkingu lækna og ljósmæðra á náttúruvörum.

 

66. 6-Bromoindole derivatives from the marine sponge Geodia barretti: isolation and immunomodulatory activity

Xiaxia Di1,2, Caroline Rouger3, Tadeusz F. Molinski4, Deniz Tasdemir3, Sesselja Ómarsdóttir2, Ingibjörg Harðardóttir1,5, Jóna Freysdóttir1,5

1Department of Immunology and Centre for Rheumatology Research, Landspitali, 2Faculty of Pharmaceutical Sciences, University of Iceland, 3GEOMAR Helmholtz Centre for Ocean Research Kiel, Germany, 4Department of Chemistry and Biochemistry and Skaggs School of Pharmacy and Pharmaceutical Sciences, University of California, San Diego, 5Faculty of Medicine, Biomedical Center, University of Iceland

xid1@hi.is

Introduction: The development of new natural bioactive compounds or drugs with immunomodulatory effects has become one focus in research aiming for treatment of chronic inflammatory diseases. Since marine sponges are a notable source of natural products, there is an increased interest in isolation and investigation of new compounds found in marine sponges.

Aim: The present study was undertaken to isolate new compounds from the marine sponge Geodia baretti and to determine their potential immunomodulatory activity.

Material and methods: A crude extract of G. barretti was chemically profiled by UPLC-qTOF-MS to obtain accurate molecular formulas of detected peaks and to track the compounds following isolation. The results indicated four new 6-bromoindole derivatives and four known compounds. The isolated compounds were screened for immunomodulatory activity by determining their effects on activation and maturation of human monocyte-derived dendritic cells (DCs). The effects of the active compounds on the ability of DCs to activate T cell responses were then investigated.

Results: Eight 6-bromoindole derivatives were isolated from G. baretti, four new ones (1-4), named geobarettin A-D (1-4) and four known ones, i.e. barettin (5), 8,9-dihydrobarettion (6), 6-bromoconicamin (7), and L-6-bomohypaphorine (8). Of the new compounds, compounds 1 and 3 decreased DC secretion of the pro-inflammatory cytokine IL-12p40 without affecting production of the anti-inflammatory cytokine IL-10, whereas compound 4 decreased DC secretion of IL-12p40 and concomitantly increased IL-10 production. Maturing DCs in the presence of compounds 3 or 4 before co-culturing them with allogeneic CD4+ T cells led to a decrease in T cell secretion of IFN-γ, indicating a reduction in Th1 differentiation, which is linked to inflammatory disorders and many chronic inflammatory diseases.

The known compound barettin (5) decreased DC secretion of both IL-12p40 and IL-10 and showed the most potent activity of the compounds tested, with IC50 being 11.80 μM for IL-10 and 21.04 μM for IL-12p40. However, maturing DCs in the presence of barretin (5) did not affect their ability to induce T cell secretion of either IFN-γ or IL-17, thus affecting neither Th1 nor Th17 differentiation of the T cells.

Conclusion: Collectively, 6-bromoindole derivatives may have immunomodulatory activity that depends on the bromotryptophan nucleus (2, 3, 5 and 6) or the side chain at C-3 position of the 6-bromoindole (1, 4, 7 and 8), suggesting that there may be more than one potential target site or mode of action. The results indicate that among the four new 6-bromoindole derivatives may be useful immunomodulatory drug leads with potential therapeutic strategies for the treatment of inflammation, mainly of the Th1 type.

 

67. Glucose-lactate consumption rate during expansion and osteogenic differentiation of MSC

Þóra B. Sigmarsdóttir1,2, Sarah McGarrity2,3, Óttar Rolfsson3, Ólafur E. Sigurjónsson1-3

1Háskólanum í Reykjavík, 2Blóðbankanum, Landspítala, 3Háskóla Íslands

oes@landspitali.is

INTRODUCTION: Currently there is lack of knowledge on metabolomic changes that occur during expansion and osteogenic differentiation (OD) of MSCs. Some experiments have been performed where the focus has been on how the MSCs include oxidative phosphorylation (OxPhos) during OD and how it is possible to precondition the cells to survive better in hypoxic situation (like those in the body) but a thorough, extensive data that shows where the metabolomic changes are of significant importance is not to be found. [1][2] By analysing the glucose-lactate consumption rate of MSCs from several donors in both expansion and OD the hope of this project was to provide preliminary data to give a clear indication of where and when during the processes the metabolomic changes are of significant importance. This helps to design experiments where LS-MS analysis on both metabolites within the cell and in the spent media is used to define changes in metabolomics during expansion and OD.  

METHODS: For both expansion and OD, MSCs were seeded into 25cm2 flasks (125.000 cells per flask), with media changes every other day. Media samples (0.5ml) were collected at least every other day. Cells in OD were cultured using osteogenic medium for 28 days with media samples (0.5ml) collected every day. Samples were analyzed using ABL90 FLEX blood gas analyzer. For quality control and to quantify osteogenesis cells were additionally seeded into 12-well plates for alkaline phosphate assay (performed for days 0,7, 14 and 28), Alazirin Red S indicator (performed for days 0,14 and 28) and real time qPCR (performed for day 28). The data collected was then used in building the first preliminary computational based model.

RESULTS: First results show that when it comes to glucose reduction for OD the trend is not linear over time as might be expected. For expansion the trend of glucose-lactate consumption rate is near to what one might expect, although in several cases a significant drop in glucose levels were noticed without accompanying rise in lactate production at the end of a donor's expansion, when the cells were showing drastically decreased levels of expansion.

DISCUSSION & CONCLUSIONS: The main point taken from this research is unexpected trend in OD coupled with levels of lactate production that gives an indication of a limited time period over the 28 days that is deserving of a closer inspection with regards to the cell's OD when it comes to model building. This will help narrowing the scope of future experiments and further the evolvement of a computational model.

Funded by the IRF. Grant number 174398-051


68. Áhrif nýgreindrar sykursýki og skerts sykurþols á horfur sjúklinga með brátt kransæðaheilkenni

Þórarinn Árni Bjarnason1, Steinar O. Hafþórsson2, Linda Björk Kristinsdóttir2, Erna Sif Óskarsdóttir2, Daniel Henriksson3, Sara Jeppsson3, Árni Johnsen4, Karl Andersen2,4

1University of Iowa Hospital and Clinics, Iowa City, USA, 2lyflækningadeild Landspítala, 3Linköping háskóla, Svíþjóð, 4læknadeild Háskóla Íslands

andersen@landspitali.is

Inngangur: Sykursýki og skert sykurþol eru þekktir áhættuþættir fyrir þróun kransæðasjúkdóma. Truflun í sykurbúskap er einnig tengd við aukna dánartíðni í almennu þýði. Minna er vitað um áhrif sykursýki og skerts sykurþols á horfur sjúklinga með brátt kransæðaheilkenni.

Markmið: Að bera saman langtímahorfur sjúklinga með brátt kransæðaheilkenni sem höfðu trufluð samanborið við eðlileg sykurefnaskipti.  

Aðferðir: Sjúklingar með brátt kransæðaheilkenni voru teknir inn í rannsóknina á Hjartadeild LSH á 18 mánaða tímabili 2013-2014. Sykurefnaskipti voru mæld með fastandi blóðsykri, langtímablóðsykri og 2 klst sykurþolsprófi á 3.-5. degi sjúkrahúslegu og þessi próf voru endurtekin á göngudeild 3-4 mánuðum síðar. Sjúklingum var skipt í eftirfarandi hópa: eðlileg sykurefnaskipti, nýgreint skert sykurefnaskipti, nýgreind sykursýki og áður þekkt sykursýki. Sjúklingum var fylgt eftir í fjögur ár með tilliti til dauðsfalla og endurtekinna hjartaáfalla.

Niðurstöður: Alls voru 373 sjúklingar rannsakaðir. Hlutfall kvenna var 24%. Meðalaldur 65,1 ár (SD 11,8). Hlutfall sjúklinga með eðlileg sykurefnaskipti var 20,6%, nýgreint skert sykurþol 46,4%, nýgreind sykursýki 6,2% og þekkt sykursýki hjá 26,8% sjúklinga. Við eftirfylgni í fjögur ár höfðu 3% sjúklinga með eðlileg sykurefnaskipti látist eða fengið nýja kransæðastíflu, 11% þeirra sem höfðu nýgreint skert sykurþol, 9% þeirra sem höfðu nýgreinda sykursýki og 31% sjúklinga með þekkta sykursýki. Áhættuhlutfall (Hazard ratio) þeirra sem greindust með skert sykurefnaskipti var 4,4 (95% CI 1,0-18,9) og 14,7 (95% CI 3,5-61,6) hjá þeim sem voru með áður greinda sykursýki samanborið við þá sem höfðu eðlileg sykurefnsaskipti. Við fjölþáttagreiningu var áður þekkt sykursýki sjálfstæður áhættuþáttur fyrir dauðsfalli eða endurtekinni kransæðastíflu HR 7,23 (95% CI 1,7-31,5).

Ályktun: Sjúklingar með brátt kransæðaheilkenni og trufluð sykurefnaskipti hafa verri langtímahorfur en þeir sem hafa eðlileg sykurefnaskipti.

 

69. Langtímaárangur eftir kransæðahjáveituaðgerð hjá sjúklingum í ofþyngd

Þórdís Þorkelsdóttir1,2, Hera Jóhannesdóttir1, Tómas Andri Axelsson1, Daði Helgason1, Sólveig Helgadóttir3, Martin Ingi Sigurðsson4, Tómas Guðbjartsson1,5

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2svæfinga- og gjörgæsludeildir, 3Akademíska háskólasjúkrahússins í Uppsölum, 4Duke háskólasjúkrahússins, N-Karólínu, 5læknadeild Háskóla Íslands 

Inngangur: Offita er talin auka tíðni fylgikvilla eftir skurðaðgerðir þó til séu rannsóknir á sjúklingum í ofþyngd eftir opnar hjartaðgerðir sem sýna jafnvel lægri tíðni fylgikvilla. Tengsl offitu við langtímafylgikvilla kransæðahjáveituaðgerða eru lítið kortlagðar og markmið þessarar afturskyggnu rannsóknar að bæta úr því.

Efniviður og aðferðir: 1755 sjúklingar sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala 2001-2013. Langtímafylgikvillar voru skráðir (major adverse cardiac and cerebrovascular event, MACCE); hjartaáfall, heilablóðfall, endurhjáveituaðgerð, kransæðavíkkun með/án kransæðastoðnets, dauði. Sjúklingunum var skipt í fjóra hópa eftir líkamsþyngdarstuðli; i) kjörþyngd=18,5-24,9 kg/m2 (n=393), ii) yfirþyngd=25-29,9 kg/m2 (n=811), iii) ofþyngd=30-34,9 kg/m2 (n=388), iv) mikil ofþyngd=>35 kg/m2 (n=113) og hóparnir bornir saman með tilliti til tíðni langtímafylgikvilla og lifunar.

Niðurstöður:Sjúklingar í mikilli ofþyngd voru 5 árum eldri en sjúklingar í kjörþyngd, hlutfall karla var hærra og þeir höfðu oftar háþrýsting, sykursýki, blóðfituröskun og reykingasögu. Einkenni og útbreiðsla kransæðasjúkdóms voru sambærileg milli hópa. Sjúklingar í mikilli ofþyngd höfðu lægra EuroSCORE-II en sjúklingar í kjörþyngd (1,6 sbr. 2,7 p=0,002). Tíðni snemmkominna fylgikvilla var sambærileg milli hópa, nema vægar skurðsýkingar og aftöppun á fleiðruvökva voru marktækt fátíðari hjá sjúklingum í mikilli ofþyngd. Dánartíðni innan 30 daga var sambærileg, í kringum 2%. Langtímalifun hópanna fjögurra var sambærileg, eða í kringum 90% (95%-ÖB:0,88–0,91) og 70% (95%-ÖB:0,70–0,76) heildarlifun. Fimm og 10-ára MACCE-sjúkdómslaus lifun reyndist einnig sambærileg milli hópa, í kringum 81% og 56% (p=0,7). Við aðhvarfsgreiningu reyndist LÞS hvorki sjálfstæður áhættuþáttur fyrir langtímalifun né MACCE-lausa lifun.

Ályktun: Sjúklingar í ofþyngd sem gangast undir kransæðahjáveitu eru yngri og með fleiri áhættuþætti kransæðasjúkdóms. Ekki var marktækur munur á lifun og langtímafylgikvillum í hópnunum og í fjölbreytugreiningu reyndist líkamsþyngdarstuðull hvorki spá sjálfstætt fyrir um tíðni langtímafylgikvilla né lifunar.

 

70. Mismunandi skilmerki fyrir endurheimt nýrnastarfsemi eftir bráðan nýrnaskaða í kjölfar skurðaðgerða: áhrif á lifun og langvinnan nýrnasjúkdóm

Þórir E. Long1,2, Sólveig Helgadóttir3, Daði Helgason1,2, Gísli H, Sigurðsson1,4, Tómas Guðbjartsson1,5, Runólfur Pálsson1,2,6, Ólafur S, Indriðason2,6, Martin I. Sigurðsson4,7

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2lyflækningasviði Landspítala, 3Uppsalaháskóla, Svíþjóð, 4svæfinga- og gjörgæsludeild, 5hjarta- og lungnaskurðdeild, 6nýrnalækningadeild Landspítala, 7svæfinga- og gjörgæsludeild Duke háskólasjúkrahússins, N-Karólínu

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman mismunandi skilgreiningar á endurheimt nýrnastarfsemi í kjölfar bráðs nýrnaskaða (BNS) og kanna áhrif endurheimtar á þróun langvinns nýrnasjúkdóms (LNS) og lifun.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum fullorðnum einstaklingum sem gengust undir kviðarhols-, brjósthols-, bæklunar- eða æðaskurðaðgerð á Landspítala 1998-2015. BNS var skilgreindur samkvæmt KDIGO-skilmerkjum. Fjölþáttagreining var notuð til að kanna lifun og framgang LNS með hliðsjón af fjórum mismunandi skilgreiningum á endurheimt nýrnastarfsemi: (i) s-kreatínín >1,5x grunngildi; (ii) 1,25-1,5x grunngildi; (iii) 1,1-1,25x grunngildi; og (iv) <1,1x grunngildi. Eins árs lifun og LNS meðal sjúklinga með og án endurheimtar nýrnastarfsemi voru borin saman með áhættuskorspörun (propensity score matching).

Niðurstöður: Af 2520 sjúklingum með BNS reyndust 1910, 370, og 240 hafa KDIGO-stig 1, 2 og 3. Marktækt aukin áhætta var á að þróa LNS innan 5 ára ef ekki náðist endurheimt <1,5x grunngildi s-kreatínín (HR 1,50; 95%-ÖB 1,29-1,75) og ef endurheimt var 1,25-1,5x grunngildi (HR 1,32; 95%-ÖB 1,12-1,57) innan 30 daga. Eins árs dánartíðni var aukin ef einstaklingur náði ekki endurheimt nýrnastarfsemi undir 1,5x grunngildi innan 30 daga frá aðgerð (OR 2,40; 95%-ÖB 1,85-3,12). Eins árs lifun einstaklinga með endurheimt nýrnastarfsemi <1,5x grunngildi innan 30 daga var marktækt betri en paraðs viðmiðunarhóps án endurheimtar (85% sbr. 71%, p<0,001).

Ályktanir: Endurheimt nýrnastarfsemi með <1,5x grunngildi s-kreatínín innan 30 daga frá BNS tengist marktækt betri eins árs lifun, en betri nýrnastarfsemi tengist skilgreiningu þar sem miðað er við 1,25x grunngildi <30 daga og ætti að taka tillit til þessa við skilgreiningu á endurheimt nýrnastarfsemi eftir BNS.

 

71.  Endurheimt nýrnastarfsemi eftir bráðan nýrnaskaða: Áhrif á lifun og langvinnan nýrnasjúkdóm

Þórir E. Long1,2, Sólveig Helgadóttir3, Daði Helgason1,2, Gísli H, Sigurðsson1,4, Tómas Guðbjartsson1,5, Runólfur Pálsson1,2,6, Ólafur S, Indriðason2,6, Martin I. Sigurðsson4,7

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2lyflækningasviði, 3Uppsalaháskóla, Svíþjóð, 4svæfinga- og gjörgæsludeild, 5hjarta- og lungnaskurðdeild og 6nýrnalækningaeiningu, Landspítala,  7Department of Anesthesiology, Duke University Hospital, NC, Bandaríkjunum

thorirein@gmail.com

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman mismunandi skilgreiningar á endurheimt nýrnastarfsemi í kjölfar bráðs nýrnaskaða (BNS) og kanna áhrif endurheimtar á þróun langvinns nýrnasjúkdóms (LNS) og lifun.

Aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum fullorðnum einstaklingum sem gengust undir kviðarhols, brjósthols-, bæklunar- eða æðaskurðaðgerð á Landspítala 1998-2015. BNS var skilgreindur samkvæmt KDIGO-skilmerkjum. Fjölþáttagreining var notuð til að kanna lifun og framgang LNS með hliðsjón af fjórum mismunandi skilgreiningum á endurheimt nýrnastarfsemi: (i) s-kreatínín >1,5x grunngildi; (ii) 1,25-1,5x grunngildi; (iii) 1,1-1,25x grunngildi; og (iv) <1,1x grunngildi. Eins árs lifun og LNS meðal sjúklinga með og án endurheimtar nýrnastarfsemi voru borin saman með áhættuskorspörun (propensity score matching).

Niðurstöður: Af 2520 sjúklingum með BNS reyndust 1910, 370, og 240 hafa KDIGO-stig 1, 2 og 3. Marktækt aukin áhætta var á að þróa LNS innan 5 ára ef ekki náðist endurheimt <1,5x grunngildi s-kreatínín (HR 1,50; 95%-ÖB 1,29-1,75) og ef endurheimt var 1,25-1,5x grunngildi (HR 1,32; 95%-ÖB 1,12-1,57) innan 30 daga. Eins árs dánartíðni var aukin ef einstaklingur náði ekki endurheimt nýrnastarfsemi undir 1,5x grunngildi innan 30 daga frá aðgerð (OR 2,40; 95%-ÖB 1,85-3,12). Eins árs lifun einstaklinga með endurheimt nýrnastarfsemi <1,5x grunngildi innan 30 daga var marktækt betri en paraðs viðmiðunarhóps án endurheimtar (85% sbr. 71%, p<0,001).

Ályktun: Endurheimt nýrnastarfsemi með <1,5x grunngildi s-kreatínín innan 30 daga frá BNS tengist marktækt betri eins árs lifun, en betri nýrnastarfsemi tengist skilgreiningu þar sem miðað er við 1,25x grunngildi <30 daga og ætti að taka tillit til þessa við skilgreiningu á endurheimt nýrnastarfsemi eftir BNS.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica