Erindi - Ágrip

Erindi - Ágrip

E01 - Krabbamein í leghálsi á Íslandi 1987-2016

Dóra Sigurbjörg Guðmundsdóttir1, Þóra Steingrímsdóttir1,2, Ásgeir Thoroddsen2

1Læknadeild Háskóla Íslands og 2Kvennadeild Landspítala

Inngangur: Á Íslandi greinast árlega um 16 konur með leghálskrabbamein en frá því leghálsskimun hófst hefur nýgengi og dánartíðni sjúkdómsins lækkað verulega. Klínískir þættir leghálskrabbameina hafa lítið verið skoðaðir hér á landi. Markmið rannsóknarinnar var að fá yfirsýn yfir sjúkdóminn hér á landi með áherslu á klíníska þætti hans en einnig að skoða leitarsögu frumustroka þeirra kvenna sem greindust.

Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra kvenna sem greindust með leghálskrabbamein á Íslandi á árunum 1987-2016.

Niðurstöður: Alls greindust 441 kona með leghálskrabbamein á rannsóknartímabilinu, að meðaltali 14,7 konur á ári. Meðalaldur við greiningu var 45,6 ár og greindust flestar úr aldurshópnum 34-39 ára. Á rannsóknartímabilinu lækkaði meðalaldur við greiningu um 4 ár. Flest krabbameinin voru af flöguþekjuuppruna (71,0%) en kirtilþekjukrabbamein voru næst algengust (20,9%). Sjúkdómurinn var staðbundinn við greiningu í 76,6% tilfella en vaxinn út fyrir leghálsinn hjá 23,4%. Marktækt fleiri greindust með æxli vaxið út fyrir legháls á seinni hluta rannsóknartímabilsins. Þær sem höfðu tekið þátt í leghálsskimun voru mun oftar með staðbundinn sjúkdóm (90%) en hinar sem fóru sjaldnar eða ekki í leghálskimun.  Fimm ára lifun fyrir allar greindar konur á tímabilinu var 77,7% og marktækur munur var á lifun sjúklinga á fjórum mismunandi stigum leghálskrabbameins.

Ályktun: Nýgengi, aldursdreifing og heildarhorfur sjúklinga eru sambærilegar við nágrannalönd. Meðalaldur kvenna við greiningu lækkaði á rannsóknartímabilinu og konur greindust með lengra genginn sjúkdóm í lok tímabilsins. Horfur eru beint tengdar stigun en þátttaka í leghálsskimun hefur áhrif á stigun við greiningu.

 

E02  - Mat á snemmbúnum forspárþáttum um árangur endurlífgunar eftir hjartastopp utan spítala

Ásgeir Pétur Þorvaldsson1, Jóhann Páll Hreinsson2, Sigurbergur Kárason1,3

1Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 2Lyflækningasvið Landspítala, 3Læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Árangur endurlífgunar sjúklinga sem fara í hjartastopp utan spítala er lélegur á heimsvísu, með lifun undir 10%. Þrátt fyrir slæmar horfur hafa ekki verið settar fram skýrar leiðbeiningar um hvenær hætta beri meðferð. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort skilmerki sem gefa til kynna að líkur á andláti séu afgerandi, og voru sett fram í nýlegri rannsókn, eigi einnig við um sjúklingaþýðið á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Þýðið samanstóð af sjúklingum ≥18 ára sem lögðust inn á gjörgæsludeild Landspítala við Hringbraut árið 2017 eftir hjartastopp utan spítala og árangursríka endurlífgun. Gögnum var safnað úr sjúkraskrám LSH. Skilmerkin sem stuðst var við til að spá fyrir um andlát voru: 1) Hjartastoppið varð ekki í návist fagaðila, 2) Fyrsti taktur við endurlífgunina var óstuðanlegur, 3) Ekki varð sjálfbær blóðrás eftir þriðju gjöf adrenalíns 1 mg.

Niðurstöður: Um var að ræða 41 sjúkling (meðalaldur 58 ára, karlar 78%) og létust 23 (56%) á gjörgæslu þar sem meðalallegutíminn var 4 dagar fyrir þá sem lifðu en 3,5 fyrir þá sem létust. Átta (20%) uppfylltu ofannefnd skilyrði og létust allir sem gefur skilyrðunum 100% sértækni og 100% jákvætt forspárgildi en 35% næmni, þar sem fleiri létust en þeir sem uppfylltu þau.

Ályktanir: Niðurstöðurnar eru í samræmi við fyrri rannsóknir. Með einföldum skilmerkjum var hægt að greina þá sjúklinga sem höfðu afgerandi líkur á andláti eftir hjartastopp utan spítala en voru engu að síður meðhöndlaðir á gjörgæslu. Slíkar leiðbeiningar geta auðveldað ákvarðanir um meðferðartakmarkanir og bætt nýtingu aðfanga innan heilbrigðiskerfisins.

 

E03 - Afdrif íslenskra sjúklinga sem gengist hafa undir HIPEC aðgerð erlendis

Ástríður Pétursdóttir1, Örvar Gunnarsson2, Elsa B. Valsdóttir1,3

1Kviðarholsskurðdeild Landspítala, 2Lyflækningar krabbameina Landspítala, 3Læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Krabbameinager í kviðarholi (peritoneal carcinomatosis) er oft merki um framgang krabbameins í ristli eða endaþarmi og hefur lengi verið illlæknanlegt ástand. Lifun þessara sjúklinga hefur verið um 4-7 mánuðir eftir líknandi skurðaðgerð og kerfislæga lyfjameðferð. Nýjasti meðferðarmöguleikinn samanstendur af æxlisminnkandi skurðmeðferð (cytoreductive surgery) og lyfjameðferð innan kviðarhols (hyperthermic intraperitoneal chemotherapy eða HIPEC) og hefur verið sýnt fram á að þessi meðferð eykur lífslíkur sjúklinga umtalsvert. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna afdrif sjúklinga sem farið hafa frá Íslandi í þessa meðferð erlendis.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum íslenskum sjúklingum sem hafa gengist undir HIPEC aðgerð erlendis. Upplýsingum var safnað frá Siglinganefnd Sjúkratrygginga Íslands og úr sjúkraskýrslum Landspítala.

Niðurstöður: Alls hafa 11 einstaklingar gengist undir HIPEC aðgerð eftir upphaflega meðferð á Landspítala. Allar aðgerðirnar voru framkvæmdar í Bandaríkjunum af sama skurðlækni á árunum 2008-2017. Hópurinn telur 10 konur og einn karl og var meðalaldur 53 ár. Orsök krabbameinagers var illkynja mein í ristli hjá níu sjúklingum (81%), þar af voru sex (55%) með illkynja mein í botnlanga. Tveir sjúklingar voru með illkynja mein í lífhimnu, mesothelioma og pseudomyxoma. Átta sjúklingar höfðu enga fylgikvilla 30 dögum eftir aðgerð. Tveir sjúklingar fengu sýkingu og einn garnatengingarleka. Annar sjúklingur fékk síðkominn fylgikvilla í formi þrengingar í görn. Fjórir sjúklingar hafa lokið fimm ára eftirfylgd en meðaltími eftirfylgdar eru 37 mánuðir. Af 11 sjúklingum eru 10 enn á lífi. Þrír hafa greinst með endurkomu krabbameins.

Ályktanir: Íslenskum sjúklingum sem gengist hafa undir HIPEC aðgerð hefur í flestum tilvikum vegnað vel og lifun er sambærileg við erlendar rannsóknarniðurstöður. Því er full ástæða til að halda áfram að senda íslenska sjúklinga utan í þessa meðferð.

 

E04 - Sýklasótt eftir valaðgerðir á Landspítala

Edda Vésteinsdóttir1, Sigurbergur Kárason1,2, Perla Steinsdóttir2, Hrafnkell Óskarsson2, Martin Ingi Sigurðsson3, Gísli H. Sigurðsson1,2

1Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 2Læknadeild Háskóla Íslands, 3 Svæfinga- og gjörgæsludeild Duke University Hospital N-Carolina


Inngangur: Sýklasótt er fremur sjaldgæfur en alvarlegur fylgikvilli skurðaðgerða. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni, tegundir sýkinga og afdrif sjúklinga sem leggjast inn á gjörgæsludeild vegna sýklasóttar í kjölfar valaðgerðar.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er hluti af stærra verkefni sem snýr að sýklasótt á íslenskum gjörgæsludeildum. Skoðaðir voru sjúklingar sem lögðust inn á gjörgæsludeildir Landspítala vegna sýklasóttar sem kom upp í kjölfar valaðgerðar, í sömu sjúkrahúslegu. Fimm ár voru skoðuð, 2006, 2008, 2010, 2012 og 2014. Til samanburðar voru sjúklingar sem lögðust inn með sýklasótt af öðrum orsökum á sama tímabili.

Niðurstöður: Á tímabilinu lögðust 707 einstaklingar inn á gjörgæsludeildir Landspítala vegna sýklasóttar, þar af 66 í kjölfar valaðgerðar. Meðalaldur var 67,1 ár (30-87 ár), 66% karlar. Sjúklingar voru að miðgildi á 7. degi eftir aðgerð við innlögn. Flestir höfðu gengist undir kviðarholsaðgerð (n=40), þvagfæraaðgerð (n=6), brjóstholsaðgerð (n=6) eða æðaaðgerð (n=4). Algengstu sýkingarstaðir voru kviðarhol (n=36), lungu (n=14) og þvagfæri (n=4) . Legudagar á gjörgæsludeild voru að miðgildi 5 og á legudeild eftir gjörgæsluleguna 17 talsins. Einungis 32% sjúklinga útskrifuðust beint heim. Dánarhlutfallið á sjúkrahúsinu var 27% og einu ári frá innlögn 48%. Empirísk sýklalyfjameðferð var oftar ófullnægjandi hjá þessum sjúklingahópi borið saman við aðra sjúklinga með sýklasótt og fjölónæmir sýklar algengari (26% af jákvæðum ræktunum borið saman við 5%).

Ályktun: Sýklasótt í kjölfar valaðgerða á sér oftast stað eftir kviðarholsaðgerðir. Afleiðingar slíkrar sýkingar eru alvarlegar með löngum legutíma og háu dánarhlutfalli. Vanda þarf val á sýklalyfjameðferð hjá þessum sjúklingahópi þar sem hefðbundin empirísk meðferð á síður við.


E05 - Fæðing eftir fyrri keisaraskurð. Hvaða þættir auka líkurnar á endurteknum keisaraskurði?

Andrea Björg Jónsdóttir1, Kristjana Einarsdóttir2, Þóra Steingrímsdóttir1,3, Ragnheiður Ingibjörg Bjarnadóttir3,4

1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2Miðstöð í lýðheilsuvísindum Háskóla Íslands, 3Kvennadeild Landspítala, 4Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins


Inngangur: Aukin tíðni keisaraskurða er áhyggjuefni vegna þeirrar hættu sem fylgir aðgerðinni. Ein helsta orsök vaxandi tíðni eru endurteknir keisaraskurðir þótt rannsóknir hafi sýnt að meirihluta tekst að fæða um leggöng ef reynt er á annað borð. Því er mikilvægt að ráðleggja þessum hópi kvenna leggangafæðingu ef engar frábendingar eru til staðar. Þá þarf einnig að hafa í huga að meiri líkur eru á fylgikvillum í tengslum við bráðaaðgerð en valkeisaraskurð. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða hvernig tegund og ábending fyrri keisaraskurðar hefur áhrif á líkur þess að fæðing um leggöng takist hjá íslensku þýði.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á konum sem fæddu sína fyrstu tvo lifandi fullburða einbura á Íslandi 1997-2015, þann fyrri með keisaraskurði. Upplýsingar um rannsóknarþýði fengust úr Fæðingaskrá.

Niðurstöður: Rannsóknin náði til 2190 kvenna. Alls reyndu 1474 konur (67%) leggangafæðingu eftir fyrri keisaraskurð sem tókst hjá 62%, en 38% fæddu með bráðakeisaraskurði. Konur sem  fæddu með bráðakeisaraskurði í fyrri fæðingu voru marktækt líklegri til fæða með endurteknum keisaraskurði en konur sem fæddu áður með valkeisaraskurði (OR 2,89; 95% ÖB 2,08-4,09). Minni líkur voru á endurteknum keisaraskurði ef fyrri bráðakeisaraskurður var framkvæmdur vegna fósturstreitu (OR 0,27; 95% ÖB 0,12-0,63) eða annarra ábendinga en fósturstreitu og teppts framgangs (OR 0,22; 95% ÖB 0,09-0,53). Hæst var hlutfall leggangafæðinga ef fyrri valkeisaraskurður var framkvæmdur vegna sitjandastöðu (81,1%).

Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar gefa betri innsýn í líkur á að leggangafæðing takist eftir fyrri keisaraskurð og geta því gagnast við ráðgjöf til kvenna á Íslandi varðandi val á fæðingarmáta eftir einn keisaraskurð.


E06 - Mat á leiðbeiningum um val á sjúklingum til meðferðar í hjarta- og lungnavél (ECMO) eftir hjartastopp af völdum kransæðasjúkdóms

Jóhann P. Hreinsson1, Ásgeir P. Þorvaldsson2, Gunnar Mýrdal3,, Sigurbergur Kárason2, 4

1Lyflækningasvið Landspítala, 2Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 3Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 4Læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Meðferð sjúklinga í hjarta- og lungnavél (e. Extracorporeal Membrane Oxygenation, ECMO) sem björgunarmeðferð eftir hjartastopp hefur aukist á alþjóðavísu. Aðeins einar leiðbeiningar hafa verið gefnar opinberlega út um val sjúklinga í slíka meðferð og einstaka stofnanir hafa sett fram eigin skilyrði. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna árangur ECMO-meðferðar  eftir hjartastopp vegna kransæðasjúkdóms og hversu vel sjúklingarnir uppfylltu inntökuskilyrði leiðbeininga.

Efniviður og aðferðir: Þýðið samanstóð af sjúklingum ≥18 ára sem lögðust inn á gjörgæsludeild LSH við Hringbraut og fengu ECMO-meðferð  eftir hjartastopp vegna kransæðasjúkdóms árið 2017. Inntökuskilyrði leiðbeininga sem notaðar voru til viðmiðunar voru frá meginlandi Evrópu og Norðurlöndum. Í inntökuskilyrðum eru m.a. ástæða hjartastopps, tímalengd frá stoppi þar til endurlífgun hefst, fyrsta takttegund, tímalengd endurlífgunar og mat á hversu góð blóðrásin er á meðan henni stendur.

Niðurstöður:  Sex einstaklingar fengu ECMO-meðferð  eftir hjartastopp vegna kransæðasjúkdóms árið 2017, tveir fóru í stopp utan spítala, tveir á hjartadeild og tveir á hjartaþræðingu. Þetta voru fjórir karlar og tvær konur með meðalaldur 57 ára (39 – 70) og meðallegutíma 9 daga (2 – 23). Aðeins einn sjúklingur lifði meðferðina af. Þegar farið var yfir inntökuskilyrði þriggja erlendra leiðbeininga þá uppfyllti sá sem lifði öll skilmerki um meðferð, en þeir sem létust uppfylltu ekki eitt eða fleiri þeirra.

Ályktanir: Við endurlífgun eru aðstæður bráðar og tími naumur. Því er mikilvægt að hafa skýrar leiðbeiningar um val sjúklinga til svo umfangsmikillar meðferðar eins og ECMO-meðferð er. Leiðbeiningar sem stuðst var við í þessari rannsókn geta gefið góða stoð við slíka ákvarðanatöku.

Picture 1: https://www.eventure-online.com/parthen-uploads/154/18VIS/add_1_434235_930c0f47-2a9b-4eae-8f0f-e8833e4e4ac0.png 


E07 - Endurkomutíðni á blöðruhálskirtilskrabbameini innan árs frá aðgerð: Samanburður á opinni aðgerð og aðgerð með aðgerðarþjarka

Hilda Hrönn Guðmundsdóttir1, Árni Johnsen1, Rafn Hilmarsson2, Sigurður Guðjónsson1,2  Eiríkur Orri Guðmundsson2, Jón Örn Friðriksson2, Eiríkur Jónsson

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Þvagfæraskurðdeild Landspítala

Inngangur: Staðbundið blöðruhálskirtilskrabbamein má meðhöndla með brottnámi á kirtlinum. Einnig getur verið þörf á viðbótarmeðferð (adjuvant therapy) eftir aðgerð. Hækkað PSA-gildi eftir aðgerð getur bent til endurkomu krabbameins og þá er hægt að beita björgunarmeðferð (salvage therapy) í formi lyfja- og/eða geislameðferðar. Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman endurkomutíðni krabbameins innan árs hjá sjúklingum eftir blöðruhálskirtilsbrottnám í opinni aðgerð (open radical prostatectomy, ORP) annars vegar og með aðgerðarþjarka (robotically assisted radical prostatectomy RARP) hins vegar.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 156 sjúklingum sem fóru í brottnámsaðgerð á blöðruhálskirtli á tímabilinu 2013-2016 (76 í ORP og 80 í RARP). Sjúklingur var skilgreindur með endurkomu krabbameins ef eitt af eftirtöldu átti við: PSA-gildi ≥ 0,2 innan árs, meinvörp innan árs, viðbótar- eða björgunarmeðferð eftir aðgerð. Endurkomutíðni krabbameins var metin með aðferð Kaplan-Meier. Áhættulíkan Cox var notað til að kanna forspárþætti fyrir endurkomu krabbameins.

Niðurstöður: ORP- og RARP-hóparnir voru sambærilegir með tilliti til aldurs, Gleason-gráðu, klínískrar stigunar, tíðni jákvæðra skurðbrúna, tíðni jákvæðra eitla og meinafræðilegrar stigunar. Fjöldi sjúklinga sem fékk endurkomu krabbameins innan árs var 19 (25,0%) í ORP-hópnum og 18 (22,5%) í RARP-hópnum (p = 0,86). Forspárþættir fyrir endurkomu krabbameins reyndust vera Gleason-gráða ≥ 8 eftir aðgerð (p = 0,012), jákvæðar skurðbrúnir (p = 0,019) og jákvæðir eitlar (p = 0,002).

Ályktanir: Tæplega fjórðungur sjúklinga sem gekkst undir blöðruhálskirtilsbrottnám á rannsóknartímabilinu fékk endurkomu krabbameins innan árs frá aðgerð. Líkur á endurkomu voru sambærilegar óháð því hvort um opna aðgerð eða aðgerð með aðgerðarþjarka væri að ræða.

 

E08 - Totumyndandi nýrnafrumukrabbamein á Íslandi 1971-2016

Andreas Bergmann1, Gígja Erlingsdóttir2, Sverrir Harðarson2 , Vigdís Pétursdóttir2, Eiríkur Orri Guðmundsson3, Tómas Guðbjartsson4,5

1Skurðlækningasvið Landspítala, 2Meinafræðideild Landspítala, 3Þvagfæraskurðdeild Landspítala, 4Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 5Læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Totumyndandi nýrnafrumukrabbamein (papillary renal cell carcinoma) eru næstalgengasta vefjagerð nýrnafrumukrabbameins en erlendis eru þau um 10-15% nýrnafrumukrabbameina og tærfrumukrabbamein 80-90%. Eldri rannsóknir hérlendis hafa sýnt að ekki sé teljandi munur á lifun sjúklinga eftir því hvaða vefjagerð nýrnafrumukrabbameins þeir hafa. Nýrri rannsóknir hafa þó bent til þess að undirflokkur totumyndandi nýrnafrumukrabbameina, tegund 2, hafi síðri horfur en tegund 1. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna faraldsfræði totumyndandi nýrnafrumukrabbameins á Íslandi og bera saman undirtegundirnar tvær.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum (n=1369) sem greindust með nýrnafrumukrabbamein á Íslandi 1971-2016. Öll vefjasýni greind sem totumyndandi voru vefjaflokkuð í tegund 1 og 2, og hóparnir bornir saman.

Niðurstöður: Alls greindust 121 totumyndandi nýrnafrumukrabbamein sem voru 8,8% af af öllum nýrnafrumukrabbameinum á tímabilinu. Karlar voru 95 (78,5%) og meðalaldur 64,5 ár (bil=27-93). Alls greindist 51 sjúklingur (42,2%) fyrir tilviljun, í 55% tilfella á tölvusneiðmynd. Meðalstærð æxlanna var 7,1 cm (bil 0,3-19,0). Á stigi I og II greindust 46,3% og 21,5% sjúklinga, 14,0 % á stigi III og 22 (18,2%) höfðu dreifðan sjúkdóm (stigi IV) við greiningu, oftast lungna- eða beinmeinvörp.

Ályktun: Totumyndandi nýrnafrumukrabbamein virðist vera sjaldgæfari hér á landi en í flestum erlendum rannsóknum. Þau eru þrefalt algengari í karlmönnum sem er helmingi hærra hlutfall en fyrir önnur nýrnafrumukrabbamein. Meðalaldur við greiningu, hlutfall tilviljunargreiningar og stigun við greiningu svipar þó til annarra undirtegunda nýrnafrumukrabbameins.

 

E09 - Innleiðing á nýjum verkferli  með því markmiði að  auka hlutfall dagaðgerða hjá konum með prolapse á grindarbotnssvæði. Þverfaglegt gæðaverkefni frá Gynekologi og AnOpIva, Sahlgrenska háskólasjúkrahúsi

Dögg Hauksdóttir1, Ove Karlsson2

1Kvennadeild Landspítala, 2Norra Älvsborgs länssjukhus


Inngangur: Aðgerðir vegna sigs á grindarholslíffærum hafa hingað til verið framkvæmdar í mænudeyfingu eða svæfingu og sjúklingur verið á sjúkrahúsi yfir nótt. Vinnutilgátan var sú að meðferðarferilinn mætti einfalda til að auka hagkvæmni án þess að minnka gæði eða ánægju sjúklinga. Þverfaglegur hópur vann að því markmiði að auka hlutfall dagaðgerða hjá hraustum prolapssjúklingum (ASA 1 og 2).

Efniviður og aðferðir: Unnið var kerfisbundið við að greina þörf á og hrinda í framkvæmd breytingartillögum og meta árangur. Skýr og samhljóða sjúklingafræðsla var veitt. Staðlað verklag var notað við umönnun á deild, skurðstofu og á vöknun. Allur ferillinn var aðlagaður dagaðgerð. Aðgerðirnar eru nú framkvæmdar í staðdeyfingu „dagaðgerða“spinal eða í svæfingu. Gynop gæðaskráningarkerfið var notað til gagnaöflunar.

 Niðurstöður:  Fyrstu sex mánuðir 2015 eru bornir saman við 2012 og allar aðgerðir í Svíþjóð á tímabilinu. Dagaðgerðir hafa aukist úr 45 % 2012 í 88 % 2015 (Svíþjóð 77%). Upplifun sjúklinga af því að feriltíminn væri hæfilega langur er óbreytt; 94 % 2012 og 93 % 2015 (Svíþjóð 92 %). Sýkingum eftir aðgerð hefur fækkað úr 12% 2012 í 2% 2015 (Svíþjóð 8%). Upplifun sjúklinga af „globus“ tilfinningu  (einkenni prolaps) hefur minnkað úr 33 % 2012 í 27 % 2014 (Svíþjóð 25%). Ánægja sjúklinga með aðgerðina einu ári eftir aðgerð hefur aukist úr 70% 2012 í 80% 2014 (Svíþjóð 80%).

Ályktun: Með því að staðla ferlið hefur tekist að stytta feriltímann og auka afköst. Sýnt er fram á betri árangur aðgerða, færri fylgikvilla og sjúklingarnir eru ánægðir.

 

E10 -Heilablóðfall eftir kransæðahjáveituaðgerðir

Linda Ó. Árnadóttir1, Rut Skúladóttir1, Tómas A Axelsson1, Hera Jóhannesdóttir1, Sólveig Helgadóttir2, Haukur Hjaltason3,5, Arnar Geirsson4, Tómas Guðbjartsson1,5

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2Svæfinga- og gjörgæsludeild Akademíska sjúkrahússins Uppsala, 3Taugadeild Landspítala, 4Hjartaskurðdeild Yale háskólasjúkrahússins New Haven, Læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Heilablóðfall er alvarlegur fylgikvilli kransæðahjáveituaðgerða og tengist hærri dánartíðni innan 30 daga. Oftast verður heilablóðfall á fyrstu dögunum eftir aðgerðina en minna er vitað um hættuna þegar lengra er liðið frá aðgerðinni og hverjar langtímahorfur þessara sjúklinga eru. Markmið rannsóknarinnar var að bæta úr því.

Efniviður og aðferð: Afturskyggn rannsókn á 1755 sjúklingum sem fóru í kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala 2001-2013. Sjúklingar með heilablóðfall voru bornir saman við þá sem ekki fengu slíkan fylgikvilla. Heilablóðfall var skilgreint sem skammtíma fylgikvilli <30 daga frá aðgerð en annars sem langtíma fylgikvilli. Leitað var að upplýsingum úr sjúkraskrám á helstu heilbrigðistofnunum landsins og dánarorsök skráð úr Dánarmeinaskrá Embættis landlæknis. Meðaleftirfylgdartími var 6,3 ár og miðast við 1. júlí 2014.

Niðurstöður: Alls greindust 23 (1,3%) sjúklingar með heilablóðfall innan 30 daga eftir kransæðahjáveituaðgerð og 75 sjúklingar (4,2%) með heilablóðfall seinna á rannsóknartímabilinu, þar af 2 einstaklingar sem höfðu líka greinst fyrst eftir aðgerðina. Meðaltími heilablóðfalls frá aðgerð var 3,4 ár en 35% greindust innan árs frá aðgerð. Sjúklingar með heilablóðfall voru 3,4 árum eldri og höfðu oftar sögu um hjartaáfall fyrir og eftir aðgerð, auk þess sem lifun þeirra var síðri en 33,3% sjúklinganna höfðu látist rúmum 6 árum frá aðgerð miðað við 16,9% í viðmiðunarhóp.

Ályktun: Heilablóðfall er tiltölulega sjaldgæfur en alvarlegur fylgikvilli fyrst eftir kransæðahjáveituaðgerð, sem eykur 30 daga dánartíðni. Á næstu fimm árum frá greiningu greinast þrisvar sinnum fleiri með heilaáfall, oftast eldri sjúklingar með sögu um hjartaáfall.


E11 - Mismunandi skilmerki fyrir endurheimt nýrnastarfsemi eftir bráðan nýrnaskaða í kjölfar skurðaðgerða: áhrif á lifun og langvinnan nýrnasjúkdóm

Þórir E. Long1,2, Sólveig Helgadóttir3, Daði Helgason1,2, Gísli H, Sigurðsson1,4, Tómas Guðbjartsson1,5, Runólfur Pálsson1,2,6, Ólafur S, Indriðason2,6, Martin I. Sigurðsson4,7

1Læknadeild Háskóla Íslands; 2Lyflækningasvið Landspítala, 3Uppsalaháskóli, 4Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 5Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala og 6Nýrnalækningadeild Landspítala;  7 Svæfinga- og gjörgæsludeild Duke University Hospital N-Carolina

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman mismunandi skilgreiningar á endurheimt nýrnastarfsemi í kjölfar bráðs nýrnaskaða(BNS) og kanna áhrif endurheimtar á þróun langvinns nýrnasjúkdóms(LNS) og lifun.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum fullorðnum einstaklingum sem gengust undir kviðarhols-, brjósthols-, bæklunar- eða æðaskurðaðgerð á Landspítala 1998-2015. BNS var skilgreindur samkvæmt KDIGO-skilmerkjum. Fjölþáttagreining var notuð til að kanna lifun og framgang LNS með hliðsjón af fjórum mismunandi skilgreiningum á endurheimt nýrnastarfsemi: (i) s-kreatínín >1,5x grunngildi; (ii) 1,25-1,5x grunngildi; (iii) 1,1-1,25x grunngildi; og (iv) <1,1x grunngildi. Eins árs lifun og LNS meðal sjúklinga með og án endurheimtar nýrnastarfsemi voru borin saman með áhættuskorspörun (propensity score matching).

Niðurstöður: Af 2.520 sjúklingum með BNS reyndust 1.910, 370, og 240 hafa KDIGO-stig 1, 2 og 3. Marktækt aukin áhætta var á að þróa LNS innan 5 ára ef ekki náðist endurheimt <1,5x grunngildi s-kreatínín (HR 1,50; 95%-ÖB 1,29-1,75) og ef endurheimt var 1,25-1,5x grunngildi (HR 1,32; 95%-ÖB 1,12-1,57) innan 30 daga. Eins árs dánartíðni var aukin ef einstaklingur náði ekki endurheimt nýrnastarfsemi undir 1,5x grunngildi innan 30 daga frá aðgerð (OR 2,40; 95%-ÖB 1,85-3,12). Eins árs lifun einstaklinga með endurheimt nýrnastarfsemi <1,5x grunngildi innan 30 daga var marktækt betri en paraðs viðmiðunarhóps án endurheimtar (85% sbr. 71%, p<0,001).

Ályktanir: Endurheimt nýrnastarfsemi með <1,5x grunngildi s-kreatínín innan 30 daga frá BNS tengist marktækt betri eins árs lifun, en betri nýrnastarfsemi tengist skilgreiningu þar sem miðað er við 1,25x grunngildi <30 daga og ætti að taka tillit til þessa við skilgreiningu á endurheimt nýrnastarfsemi eftir BNS.


E12 - Ísetning kera við gallblöðrubólgu á Landspítala 2010-2016

Katrín Hjaltadóttir1, Kristín Huld Haraldsdóttir2,3, Pétur Hannesson2,3, Páll Helgi Möller1,3

1Kviðarholsskurðdeild Landspítala, 2Röntgendeild Landspítala, 3Læknadeild HÍ

Inngangur: Bráð gallblöðrubólga er ein algengasta innlagnarástæðan á skurðlækningadeildir. Meðferðin er gallblöðrutaka en þegar hún er ekki talin fýsileg er meðferðin sýklalyf. Svari sjúklingur ekki þeirri meðferð er mögulegt að leggja kera í gallblöðru gegnum húð og lifur. Markmið rannsóknarinnar var að skoða ísetningu gallblöðrukera og fylgikvilla hennar á Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn. Farið var í gegnum sjúkraskrár allra með sjúkdómsgreiningar K80-85 á tímabilinu 1. janúar 2010 til 31. desember 2016 og breytur skráðar í Excel sem einnig var notað við úrvinnslu. Notast var við lýsandi tölfræði.

Niðurstöður: Alls fengu 4428 sjúklingar galltengdar sjúkdómsgreiningar á tímabilinu. Þar af voru 1259 (28,4%) með bráða gallblöðrubólgu og meðalaldur þeirra 58 ár (bil 18-99). Alls fengu 88 (7,0%) gallblöðrukera og var meðalaldur þeirra 71 ár (bil 28-92). Hjá 61 (69,3%) var kerinn lagður í gegnum lifur. Meðaltímalengd kera var 12 dagar (bil: 0-87). Gerð var gallvegamyndataka í gegnum kerann hjá 71 sjúklingi. Sautján sjúklingar voru útskrifaðir heim með kera. Helmingur (51,1%) sjúklinga fór í gallblöðrutöku í kviðsjá að meðaltali 96 dögum frá keraísetningu (bil: 0-258). Breytt var í opna aðgerð hjá fimm sjúklingum. Meðalaðgerðartími var 99 mínútur. Tuttugu og átta sjúklingar (31,8%) fengu fylgikvilla og voru flestir minniháttar, eða að keri dróst út (n=20), gallleki (n=3) og endurtekin gallblöðrubólga (n=6). Fimm sjúklingar (5,7%) létust innan þrjátíu daga frá keraísetningu, þrír vegna sýklasóttarlosts en tveir af ástæðum ótengdum meðferðinni.

Ályktun: Ísetning gallblöðrukera er árangursrík meðferð við bráðri gallblöðrubólgu. Meðferðin er örugg og gagnast vel eldri sjúklingum.

 

E13 - Gangráðsígræðslur eftir ósæðarlokuskipti á Íslandi

Sindri Aron Viktorsson1, Andri Wilberg Orrason1, Anna Guðlaug Gunnarsdóttir1,3, Kristján Orri Víðisson1, Davíð O. Arnar2,3, Tómas Guðbjartsson1,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2Hjartadeild Landspítala, 3Læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Ósæðarlokuskipti er önnur algengasta hjartaaðgerðin á Íslandi. Meðal fylgikvilla eru leiðslutruflanir sem oftast ganga yfir. Við alvarlegan hægtakt eða hjartsláttarhlé getur þurft að koma fyrir varanlegum gangráði. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hversu margir sjúklingar þurfa á varanlegum gangráði að halda eftir ósæðarlokuskipti á Íslandi, bæði fyrst eftir aðgerðina en líka löngu síðar og kanna hverjar ábendingar voru.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til 589 sjúklinga (meðalaldur 71,2 ár, 64,9% karlar) sem gengust undir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Landspítala 2002-2016. Útilokaðir voru sjúklingar sem höfðu gangráð fyrir aðgerð eða ef ákvörðun um ísetningu var gerð fyrir aðgerðina (n=30). Sjúklingar sem fengu ígræddan gangráð innan 30 daga frá aðgerð voru skoðaðir sérstaklega m.t.t. áhættuþátta og fylgikvilla eftir aðgerð. Miðgildi eftirfylgdar var 5,5 ár og var sjúklingunum fylgt eftir til 31. desember 2017.

Niðurstöður: Af 559 sjúklingum voru 23 (4,1%) sem þurftu á ísetningu varanlegs gangráðs að halda á fyrstu 30 dögunum eftir aðgerð. Algengustu ábendingar ígræðslunnar voru sjúkur sínus hnútur (SSS) (n = 12) og gáttasleglarof (n = 9). Miðgildi frá aðgerð að ígræðslu var 8 dagar (bil 0 – 22 dagar). Þá fengu 37 (6,9%) sjúklingar gangráð þegar lengra var liðið frá aðgerð, eða að miðgildi 3,7 árum eftir aðgerð, en flestir þeirra fengu gangráð vegna SSS (n=15).

Ályktanir: Á rannsóknartímabilinu þörfnuðust 60 sjúklingar (10,7%) gangráðsígræðslu. Tíðni þeirra innan 30 daga eftir aðgerð er lág hérlendis og sambærileg við erlendar rannsóknir. Þá er hún lægri samanborið við tíðni gangráðsígræðslna eftir ósæðarlokuskipti framkvæmd með æðaþræðingu (TAVI).

 

E14 - Batnandi árangur ósæðarlokuskipta á Íslandi

 Sindri Aron Viktorsson1, Kristján Orri Víðisson1, Anna Guðlaug Gunnarsdóttir1,2, Daði Helgason1, Árni Johnsen1,2, Martin Ingi Sigurðsson3, Arnar Geirsson4, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2 Læknadeild Háskóla Íslands, 3 Svæfinga- og gjörgæsludeild Duke University Hospital N-Carolina, 4Hjarta- og æðaskurðdeild Yale háskólasjúkrahússins New Haven

 

Inngangur: Tíðni einstakra snemmkominna fylgikvilla eftir ósæðarlokuskipti hefur mælst hærri hérlendis samanborið við erlendar rannsóknir. Á það sér í lagi við um gáttatif og enduraðgerð vegna blæðingar. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort tíðnin hefði breyst á síðastliðnum árum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturvirk og náði til allra sem undirgengust ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Landspítala á árunum 2002 – 2016 (n=589). Sjúklingunum var skipt upp í þrjá hópa eftir tímabilum, 2002 – 2006 (n=152), 2007 – 2011 (n=207) og 2012-2016 (n=230). Hóparnir voru bornir saman með tilliti til ástands sjúklinga fyrir aðgerð, aðgerðartíma, tíðni fylgikvilla, skurðdauða auk annarra þátta.

Niðurstöður: Meðalaldur og EuroSCORE II (áhættureiknir fyrir opnar hjartaaðgerðir) reyndist sambærilegt. Hámarksþrýstingsfallandi yfir lokuna lækkaði úr 74 mmHg að meðaltali í 67 á öðru tímabilinu og 72 á því þriðja (p=0,49). Tangartími var 125 mínútur að meðaltali á fyrsta tímabilinu í 110 og 95 mínútur á öðru og þriðja (p<0,001  Tíðni gáttatifs lækkaði úr 79,6% á fyrsta tímabilinu í 59,1% og 53,1% á öðru og þriðja (p<0,001). Á fyrsta og öðru tímabilinu gengust 15,7% og 15,4% sjúklinga undir enduraðgerð vegna blæðingar, en á því þriðja hafði tíðnin lækkað í 7,9% (p=0,01). Skurðdauði lækkaði úr 6,6% í 5,8% á öðru tímabilinu og 3,9% á því þriðja (p=0,24).

Ályktun: Tíðni gáttatifs og enduraðgerða vegna blæðingar eftir ósæðarlokuskipti hefur lækkað marktækt á síðastliðnum árum og er nær því sem þekkist úr erlendum rannsóknum. Mögulegar skýringar eru að sjúklingar eru teknir fyrr til aðgerðar og að tangartími hefur styst.

 

E15 - Langtímaárangur eftir kransæðahjáveituaðgerð hjá sjúklingum í ofþyngd.

Þórdís Þorkelsdóttir1, 2, Hera Jóhannesdóttir1, Tómas Andri Axelsson1, Daði Helgason1, Sólveig Helgadóttir3, Marteinn Ingi Sigurðsson4, Tómas Guðbjartsson1,5

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspiítala, Svæfinga- og gjörgæsludeildir 3Akademíska háskólasjúkrahússins í Uppsala og 4Duke Háskólasjúkrahússins, N-Carolina, 5Læknadeild Háskóla íslands  


Inngangur:Offita er talin auka tíðni fylgikvilla eftir skurðaðgerðir þó til séu rannsóknir á sjúklingum í ofþyngd eftir opnar hjartaðgerðir sem sýna jafnvel lægri tíðni fylgikvilla. Tengsl offitu við langtímafylgikvilla kransæðahjáveituaðgerða eru lítið kortlagðar og markmið þessarar afturskyggnu rannsóknar að bæta úr því.

Efniviður og aðferðir: 1755 sjúklingar sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala 2001-2013. Langtímafylgikvillar voru skráðir (major adverse cardiac and cerebrovascular event, MACCE); hjartaáfall, heilablóðfall, endurhjáveituaðgerð, kransæðavíkkun með/án kransæðastoðnets, dauði. Sjúklingunum var skipt í fjóra hópa eftir líkamsþyngdarstuðli(LÞS); i) kjörþyngd=18,5-24,9 kg/m2(n=393), ii) yfirþyngd=25-29,9 kg/m2(n=811), iii) ofþyngd=30-34,9 kg/m2(n=388), iv) mikil ofþyngd=>35 kg/m2(n=113) og hóparnir bornir saman m.t.t. tíðni langtímafylgikvilla og lifunar.

Niðurstöður: Sjúklingar í mikilli ofþyngd voru 5 árum eldri en sjúklingar í kjörþyngd, hlutfall karla var hærra og þeir höfðu oftar háþrýsting, sykursýki, blóðfituröskun og reykingasögu. Einkenni og útbreiðsla kransæðasjúkdóms voru sambærileg milli hópa. Sjúklingar í mikilli ofþyngd höfðu lægra EuroSCORE-II en sjúklingar í kjörþyngd (1,6 sbr.2,7 p=0,002). Tíðni snemmkominna fylgikvilla var sambærileg milli hópa, nema vægar skurðsýkingar og aftöppun á fleiðruvökva voru marktækt fátíðari hjá sjúklingum í mikilli ofþyngd. Dánartíðni innan 30 daga var sambærileg, í kringum 2%. Langtímalifun hópanna fjögurra var sambærileg, eða í kringum 90%(95%-ÖB:0,88–0,91) og 70%(95%-ÖB:0,70–0,76) heildarlifun. Fimm og 10-ára MACCE-sjúkdómslaus lifun reyndist einnig sambærileg milli hópa, í kringum 81% og 56% (p=0,7). Við aðhvarfsgreiningu reyndist LÞS hvorki sjálfstæður áhættuþáttur fyrir langtímalifun né MACCE-lausa lifun.

Ályktun: Sjúklingar í ofþyngd sem gangast undir kransæðahjáveitu eru yngri og með fleiri áhættuþætti kransæðasjúkdóms. Ekki var marktækur munur á lifun og langtímafylgikvillum í hópnunum og í fjölbreytugreiningu reyndist líkamsþyngdarstuðull hvorki spá sjálfstætt fyrir um tíðni langtímafylgikvilla né lifunar.

 

E16 - Alvarlegir gallgangaskaðar á Íslandi 2000-2016

Kristín Huld Haraldsdóttir Kviðarholsskurðdeild Landspítala , Læknadeild HÍ

Inngangur: Gallgangaskaði er vel þekktur en sjaldgæfur fylgikvilli gallblöðruaðgerða. Ráðlögð meðferð er tenging milli gallgangs og smágirnis (hepaticojejunostomy, HJ) en ekki hefur enn verið svarað með óyggjandi hætti hvernig sjúklingum reiðir af m.t.t. tímasetningar þeirrar aðgerðar. Áhættuþættir fyrir gallgangaskaða eru meðal annars breytileiki í líffærafræði, mismunandi meingerð gallblöðrusjúkdóms og reynsla og hæfni skurðlæknis. Ekki hefur verið sýnt fram á að notkun röntgenmyndgreiningar af gallvegum í aðgerð minnki líkur á gallgangaskaða.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og var farið yfir alla sjúklinga sem fengu HJ á tímabilinu 2000-2016. Þeir sjúklingar sem fengu HJ af öðrum ástæðum en gallgangaskaða voru ekki með í rannsókninni. Farið var yfir gögn í Sögukerfi Landspítala og breytur skráðar.

Niðurstöður: Á tímabilinu fengu 19 sjúklingar gallgangaskaða og þurftu HJ, 7 konur og 12 karlar. Meðalaldur var 59 ár en fjórir sjúklingar (21%) voru yngri en 30 ára. Sex sjúklingar fóru í bráðaaðgerð (32%). Níu  sjúklingar (47%) höfðu verið með stein í gallrás fyrir aðgerð. Hjá 12 sjúklingum (63%) var skaði greindur í aðgerð og hjá þeim var gerð HJ í sömu aðgerð. Hjá þeim sjúklingum sem gengust undir HJ í sömu aðgerð fengu níu fylgikvilla (75%) (Clavien flokkur 1=2, 2=2, 3=4, 5=1) en fjórir þeirra (57%) sem gengust undir aðgerð síðar,(Clavien flokkur 1=2, 2=1, 3=1). Þrír sjúklingar þurftu inngrip síðar, einn sem hafði fengið HJ í sömu aðgerð en tveir  síðar.

Ályktanir: Alvarlegir gallgangaskaðar eru sjaldgæfir en fylgikvillatíðni eftir aðgerðir er há, hærri hjá þeim sem gangast undir HJ í sömu aðgerð.

 

E17 - Nýæðamyndun er undanfari skriðs hjartavöðvafruma við endurnýjun hjartans

Arnar B. Ingason1,2, Andrew B. Goldstone2, Michael J. Paulsen2, Akshara D. Thakore2, Vi N. Truong2, Bryan B. Edwards2, Anahita Eskandari2, Tanner Bollig2, Amanda N. Steele2, Y. Joseph Woo2

1Læknadeild, Háskóla Íslands, 2Hjarta- og brjóstholsskurðdeild Stanford University School of Medicine

Inngangur: Nýlegar rannsóknir benda til þess að á fyrstu dögum lífsins hafi hjörtu spendýra mikla endurnýjunargetu. Við settum fram þá tilgátu að þessi endurnýjun væri háð hraðri nýæðamyndun sem styddi við endurvöxt hjartans og gæti jafnvel stýrt skriði hjartavöðvafruma í endurnýjunarferlinu.

Efniviður og aðferðir: Hjartabroddsbrottnám voru framkvæmd á eins dags gömlum músum (n=51) þar sem brjóstholið var opnað, hjartabroddurinn fjarlægður með skærum og brjóstholinu lokað aftur. Til samanburðar voru gerðar gerviskurðaðgerðir (sham surgeries) þar sem brjóstholið var opnað og lokað án frekari aðgerðar (n=33). Hjörtun voru fjarlægð á mismunandi tímapunktum eftir aðgerð, vefjalitun gerð og fylgst með nýæðamyndun og hjartavöðvafrumuskriði til blóðtappasvæðisins. Flúrljómandi lektíni var sprautað í kviðarhol músanna 12 klst fyrir fjarlægingu hjartans til að merkja æðar með virkt gegnumflæði.

Niðurstöður: Fljótlega eftir hjartabroddsbrottnám myndaðist blóðtappi undir afklippta hjartabroddinum. Tveimur dögum eftir aðgerð hófst nýæðamyndun til blóðtappasvæðisins. Á degi 5 þroskuðust nýmyndaðar æðar í stærri kransæðar (mynd A). Kransæðarnar hlóðu flúrljómandi lektíni. Loks skriðu hjartavöðvafrumur inn í blóðtappasvæðið og á degi 30 höfðu hjörtun endurnýjast með takmarkaðri örvefsmyndun (mynd B). Frumufjölgun jókst marktækt á degi 3 til 11 samanborið við viðmiðunarhóp. Æðaþéttleiki og æðaþvermál jókst marktækt á tímabilinu (mynd C). Nýæðavöxtur var alltaf undanfari hjartavöðvafrumuskriðs og flestar hjartavöðvafrumur röðuðu sér eftir nýmynduðum æðum í blóðtappasvæðinu.

Ályktun: Nýæðavöxtur verður snemma í ferli hjartaendurnýjunar. Nýjar æðar þroskast snemma í starfhæfar kransæðar og þessi æðavöxtur er undanfari hjartavöðvafrumuskriðs. Nálægð nýmyndaðra æða og skríðandi hjartavöðvafruma gæti bent til þess að æðar stýri skriði hjartavöðvafruma til svæðisins. Þetta meðfædda svar nýbura við hjartaskemmdum endurspeglar mikilvægi nýæðamyndunar við endurnýjun hjartavöðvans.


E18 - Fæðingasaga kvenna með alvarlega liðbólgusjúkdóma á Íslandi

Signý Rut Kristjánsdóttir1, Þóra Steingrímsdóttir1,2, Kristjana Einarsdóttir3, Gerður Gröndal4, Ragnheiður Ingibjörg Bjarnadóttir2,5, Björn Guðbjörnsson1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Kvennadeild Landspítala, 3Miðstöð í lýðheilsuvísindum Háskóla Íslands, 4Lyflækningasvið Landspítala, 5Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins


Inngangur: Liðbólgusjúkdómar eru bólgumiðlaðir sjálfsónæmissjúkdómar sem leggjast á konur á barneignaraldri. TNF-α spilar stórt hlutverk í sjúkdómsferlinu og líftæknilyf sem hamla virkni þess hafa verið þróuð (TNFi). TNF- α er einnig mikilvægt í ónæmisbælingu á meðgöngu. Óljóst er hvaða áhrif liðbólgusjúkdómar og TNFi lyfjameðferð hafa á meðgöngu og fæðingarútkomur. ICEBIO er gagnagrunnur sem inniheldur upplýsingar um alla sem fá TNFi lyfjameðferð við liðbólgusjúkdómum á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Kennitölur úr ICEBIO voru samkeyrðar við Fæðingaskrá Íslands. Reiknuð voru gagnlíkindahlutföll fyrir áhættu fyrirburafæðingar, keisaraskurðar og lágrar Apgar einkunnar við fimm mínútur, hjá mæðrum með liðbólgusjúkdóma miðað við staðlaðan viðmiðunarhóp. Fæðingar eftir upphaf TNFi meðferðar voru bornar saman við fæðingar fyrir TNFi meðferð og viðmiðunarhóp, m.t.t. sömu þátta.

Niðurstöður: Í lok árs 2016 höfðu 409 konur úr ICEBIO eignast barn. Fæðingar þeirra voru 794 og 43 af þeim urðu eftir upphaf TNFi meðferðar. Keisaraskurður var framkvæmdur í 21% fæðinganna. Áhætta á keisaraskurði meðal kvenna með alvarlega liðbólgusjúkdóma var 1,57 miðað við viðmið (95% ÖB: 1,28-1,94, p<0,01) og mesta áhættan var hjá konum með sóragigt (OR 2,11, 95% ÖB: 1,46-3,06, p<0,01). Engin marktæk áhætta reyndist á fyrirburafæðingu eða lágri Apgar einkunn meðal nýburanna í samanburði við viðmið. Engar marktækar niðurstöður fengust um fæðingarnar sem urðu eftir upphaf TNFi meðferðar, hvorki í samanburði við viðmið né fæðingar fyrir meðferð.

Ályktun: Konur með alvarlega liðbólgusjúkdóma eru líklegri til að fæða með keisaraskurði en aðrar konur. Áhættan breytist ekki marktækt þó TNFi meðferð sé hafin fyrir meðgöngu. Nýburum kvenna með alvarlega liðbólgusjúkdóma vegnar jafnvel og öðrum.

 

E19 - Samanburður á klíniskri og meinafræðilegri stigun blöðruhálskirtilskrabbameins fyrir og eftir blöðruhálskirtilsbrottnám.

Tómas Andri Axelsson1, Hilda Hrönn Guðmundsdóttir2, Rafn Hilmarsson1, Sigurður Guðjónsson1,2  Eiríkur Orri Guðmundsson1, Jón Örn Friðriksson1, Eiríkur Jónsson1

1Þvagfæraskurðdeild Landspítala, 2Læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Klínískt stig sjúklinga með blöðruhálskirtilsskrabbamein er metið við greiningu með þreifingu, ómskoðun, PSA-mælingu, vefjasýnatöku frá blöðruhálskirtli og myndrannsóknum. Val meðferðar veltur að miklu leyti á stigi sjúkdómsins við greiningu. Ósamræmi getur verið milli klínískrar stigunar fyrir skurðaðgerð og meinafræðilegrar stigunar sjúkdómsins eftir aðgerð. Ekki eru til upplýsingar um slíkt ósamræmi hérlendis.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 160 sjúklingum sem gengust undir brottnám á blöðruhálskirtli vegna staðbundins blöðruhálskirtilskrabbameins á árunum 2013-2016. Sjúklingum var skipt í lág-áhættu, miðlungs-áhættu og há-áhættu hópa. Cohen kappa stuðull var reiknaður fyrir samræmi milli T-stigs, Gleason-gráðu og áhættuhóps sjúkdómsins fyrir og eftir aðgerð.

Niðurstöður: Meðalaldur sjúklinga var 62 ár. Fyrir aðgerð voru 16% flokkaðir í lág-áhættu, 48% í miðlungs-áhættu og 37% í há-áhættu. Eftir aðgerð voru 45% sjúklinga metnir í sama áhættuflokk og fyrir aðgerð, 29% metnir í hærri og 26% í lægri, Cohen-kappa stuðull var 0,18. T stig var metið rétt í 65% tilfella en metið of lágt í 34% tilfella. Gleason-gráða var metin sú sama fyrir og eftir aðgerð í 64% tilfella, vanmetin í 28% tilfella og ofmetin í 8% tilvika.

Ályktanir: Tæplega helmingur sjúklinga var metinn í sama áhættuhópi fyrir og eftir aðgerð. T-stig sjúklinga var metið of lágt í 34% tilfella. Algengara var að Gleason-gráða fyrir aðgerð væri vanmetin en ofmetin. Þessar niðurstöður sýna fram á talsvert ósamræmi í stigun en niðurstöður eru svipaðar og í erlendum rannsóknum. Þetta bendir til þess að þörf er á betri stigunarrannsóknum fyrir krabbamein í blöðruhálskirtli.


E20 - Bráður nýrnaskaði eftir skurðaðgerð við ósæðarflysjun af gerð A: Tíðni, áhættuþættir og lifun

Daði Helgason1, Sólveig Helgadóttir2, Martin I. Sigurðsson3, Stefán Orri Ragnarsson4, Arnar Geirsson5, Tómas Guðbjartsson1,6

1Lyflækningasvið Landspítala, 2Svæfinga- og gjörgæsludeild Akademíska sjúkrahússins Uppsala, 3Svæfinga- og gjörgæsludeild Duke University Hospital N-Carolina, 4Læknadeild Háskóla Íslands, 5Hjartaskurðdeild Yale háskólasjúkrahússins New Haven, 6Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna tíðni bráðs nýrnaskaða eftir aðgerðir við ósæðarflysjun af gerð A, meta áhættuþætti og áhrif hans á langtímalifun.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var hluti af samnorrænu rannsóknarverkefni, The Nordic Consortium for Acute type A Aortic Dissection (NORCAAD), sem nær til 1159 sjúklinga sem gengust undir aðgerð við ósæðarflysjun af gerð A á átta háskólasjúkrahúsum í Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð og Íslandi á árunum 2005-2014. Sjúklingar sem ekki áttu mælingu á S-kreatíníni fyrir eða eftir aðgerð, létust í aðgerð og þeir sem þurftu blóðskilun fyrir aðgerð voru útilokaðir. Bráður nýrnaskaði var skilgreindur samkvæmt RIFLE skilmerkjum og fjölbreytugreining notuð til að meta áhættuþætti BNS. Heildarlifun var metin með aðferð Kaplan-Meier

Niðurstöður: Bráður nýrnaskaði greindist hjá 367 af 941 sjúklingum (39,0%). Saga um háþrýsting (ÁH 1,4, 95%-ÖB:1,0-1,8), Penn flokkur B eða C (ÁH 2,0, 95%-ÖB:1,5-2,7) og tími á hjarta- og lungnavél (per 10 mínútur, ÁH 1,1, 95%-ÖB:1,0-1,1) voru helstu áhættuþættir bráðs nýrnaskaða í fjölbreytugreiningu. Í sjúkrahúslegunni þurftu 24,6% nýrnaskaðasjúklinga blóðskilun samanborið við 3,9% sjúklinga án bráðs nýrnaskaða, þeir voru líklegri til að fá aðra alvarlega fylgikvilla (53,0% sbr. 33,4%, p<0,0001) og 30 daga dánarhlutfall þeirra var tvöfalt hærra (16,1% sbr. 7,5%, p<0,0001). Eins árs lifun sjúklinga með bráðan nýrnaskaða var síðri, eða 77,2% samanborið við 90,6% þeirra sem ekki fengu slíkan skaða (p<0,0001).

Ályktanir: Bráður nýrnaskaði er mjög algengur fylgikvilli eftir aðgerð við ósæðarflysjun af gerð A og tengist aukinni tíðni alvarlegra fylgikvilla og verri lifun. Saga um háþrýsting, lengdur tími á hjarta- og lungnavél og Penn flokkur B og C reyndust helstu forspárþættir bráðs nýrnaskaða.

 

E21 - Íhlutanir í fæðingu hjá eldri frumbyrjum 1997-2015

Hjördís Ýr Bogadóttir1, Ragnheiður Ingibjörg Bjarnadóttir2,4, Kristjana Einarsdóttir3, Þóra Steingrímsdóttir1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Kvennadeild Landspítala, 3Miðstöð í lýðheilsuvísindum Háskóla Íslands, 4Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

Inngangur: Meðalaldur kvenna við barnsburð í vestrænum ríkjum fer stöðugt hækkandi. Með hærri aldri kvenna aukast líkur á meðgöngusjúkdómum og undirliggjandi sjúkdómum sem geta haft áhrif á meðgöngu og fæðingu. Erlendar rannsóknir sýna að tíðni íhlutana eykst með hærri aldri mæðra umfram það sem skýrist af sjúkdómum móður. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða hvernig tíðni íhlutana dreifist eftir aldri mæðra hér á landi og hvort tíðnin hjá eldri mæðrum sé umfram það sem skýrist af sjúkdómsgreiningum móður.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn með gögnum úr Fæðingaskrá Landlæknisembættisins sem náðu yfir allar fæðingar á Íslandi 1997-2015. Þýðið var takmarkað við frumbyrjur, einburafæðingar, 37-42 vikna meðgöngulengd og lifandi fædd börn. Þýðinu var skipt í konur án greininga, konur með háþrýsting og konur með sykursýki. Íhlutanirnar keisaraskurður, áhaldafæðing og framköllun fæðingar voru skoðaðar. Við útreikninga á áhættu var aldursbilið 20-29 ára notað sem viðmið.

Niðurstöður: Þýðið náði yfir 23573 fæðingar. Hjá hópnum án greininga kom fram hækkun á tíðni íhlutana og marktæk aukning á áhættu með hærri aldri mæðra fyrir allar íhlutanir nema áhaldafæðingar hjá konum 40 ára og eldri. Svipuð dreifing var á tíðninni eftir aldri hjá mæðrum með háþrýsting og sykursýki en þetta voru lítil þýði og niðurstöðurnar fyrir þessa hópa að stórum hluta ekki marktækar.

Ályktun: Tíðni íhlutana jókst með hærri aldri mæðra umfram það sem skýrist af sjúkdómsgreiningum móður. Aldur móður er því sjálfstæður áhættuþáttur fyrir íhlutunum en einnig gætu líffræðilegir þættir haft áhrif. Þessi aukna áhætta er í samræmi við það sem sést hefur erlendis.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica