Öll ágrip 2018

Öll ágrip 2018

Klukkan 10:15  - Salur A

Næringarástand aldraðra eftir útskrift af öldrunardeild - Félagshagfræðileg staða, fæðuöryggi og fæðuframboð.

Berglind Soffía Blöndal1,2, Ólöf Guðný Geirsdóttir1,2, Jón Eyjólfur Jónsson3, Alfons Ramel1,2

1Háskóla Íslands, Rannsóknastofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum, 3Öldrunarlækningadeild Landspítala

bsb6@hi.is

Bakgrunnur: Næringarástand og fæðuöryggi aldraðra einstaklinga sem útskrifast heim af spítala, hefur ekki verið rannsakað hér á landi. Vitað er að næringarástand aldraðra sem liggja inni á spítala er oft slæmt og getur farið versnandi í legunni og þegar heim er komið. Margar mismunandi ástæður eru fyrir því, t.d. vegna ákveðinna sjúkdóma, lystarleysis, slappleika og aukaverkanna lyfja.

Markmið: Meta næringarástand og fæðuöryggi og þætti sem hafa áhrif á það heima hjá öldruðum eftir útskrift af spítala. Einnig að kanna ástand eldhúss og matar sem þátttakendur hafa aðgang að og meta mikilvægi næringaríhlutunar fyrir þennan hóp sjúklinga.

Aðferð: Þátttakendur voru sjúklingar af bráðaöldrunarlækningadeild, Landspítala sem útskrifuðust heim og uppfylltu þátttökuskilyrði. Aldur þeirra var 77-93ja ára. Farið var heim til þátttakenda, (N=13) tvisvar eftir útskrift með viku millibili. Þar voru lagðir fyrir spurningalistar sem snéru að t.d. bakgrunni, félagslegri stöðu, líkamlegri færni, mataræði, aðstoð veitt og fleiri þáttum, ásamt því að líkamsmælingar voru framkvæmdar.

Niðurstöður: Við útskrift var líkamsþyngdarstuðull þátttakenda 24,7 (±5,1), meðalaldur var 87,7 (±5,6) ár, orkuþörf þátttakenda var 2061.6 - 2404,5 kkal/d, og próteinþörfin 82,4 - 103,1 g/d, 53,9% þátttakenda voru karlar. Í fyrri heimsókn til þátttakenda var líkamsþyngdarstuðull 24,1 (±4,8) og í seinni heimsókn til þátttakenda var líkamsþyngdarstuðull 23,8 (±4,7). Fæði og næringarefni voru metin með sólarhringsupprifjun í báðum heimsóknum, var meðal orkuinntaka þátttakenda 759,0 (±183,4) kkal/d. Meðal próteininntaka var 35,1 (±7,5) g/d. Orku- og próteininntaka var of lág fyrir alla þátttakendur miðað við næringar- og prótein þörf þeirra. Fæðuöryggi var oft lélegt ásamt slæmu aðgengi í eldhúsi miðað við skerðingu á athöfnum daglegs lífs þátttakenda.

Ályktanir: Einmanaleiki, depurð, litlar tekjur og lítil matarinntekt einkennir þennan hóp. Næringarástand hópsins er slæmt og fæðuöryggi ekki tryggt. Mikilvægt er að finna leiðir til þess að tryggja fæðuöryggi fyrir þennan hóp fólks sem býr heima en er með skerta hreyfigetu og getur því ekki bjargað sér með fullnægjandi hætti. Mikil þörf er á einstaklingsmiðaðri næringarmeðferð frá næringarfræðingi eftir útskrift, fræðslu og stuðningi til þess tryggja þessum hópi fullnægjandi næringu. Slík þjónusta gæti dregið úr neikvæðum afleiðingum vannæringar meðal aldraðra, aukið lífsgæði en einnig fækkað endurinnlögnum.


 

Komur kvenna á Landspítala vegna heimilisofbeldis

Drífa Jónasdóttir1,2, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir2,3, Sigrún Helga Lund1,4, Eiríkur Ö. Arnarsson1, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir5, Brynjólfur Mogensen1,2,6.

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Rannsóknastofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, 3Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 4Miðstöð í lýðheilsuvísindum Háskóla Íslands, 5Hagfræðideild Háskóla Íslands, 6Bráðamóttöku Landspítala.

drj8@hi.is

Bakgrunnur: Það er talið að um þriðjungur kvenna í heiminum hafi búið við ofbeldi í nánum samböndum. Niðurstöður íslenskrar rannsóknar frá 2010 benda til að 22% kvenna hafi einhvern tímann verið beittar ofbeldi í nánu sambandi frá 16 ára aldri og að 2,1% höfðu leitað á Bbráðamóttöku Landspítala vegna ofbeldisins. Önnur íslensk rannsókn frá 2007 leiddi í ljós að 33% kvenna sem leituðu á Bbráðamóttökuna höfðu einhvern tímann verið beittar ofbeldi í nánu sambandi. Líkamlegir áverkar voru oftast minniháttar, staðsettir á höfði og á efri hluta líkamans.

Markmið: Að rannsaka umfang og eðli koma kvenna á Landspítala eftir ofbeldi í nánum samböndum.

Aðferð: Miðað var við að konan hafi verið 18 ára eða eldri þegar ofbeldið átti sér stað og gerandi hafi þá eða áður verið sambýlismaður/unnusti/eiginmaður eða barnsfaðir þolanda. Gögn um komur vegna ofbeldis á spítalann á tímabilinu 2005-2014 voru sótt í sjúkraskrárkerfi Landspítala. Teknar voru saman upplýsingar um fjölda koma, greiningar, slysstað og aldur og tengsl gerenda og þolenda

Niðurstöður: Alls voru 1,609 komur kvenna á Landspítala á tímabilinu þar sem ástæða komu var heimilisofbeldi. Alls komu 87% kvenna á bráðamóttöku, 8% á aðrar deildir og 5% á neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis. Meðalaldur kvenna var 34 ár (á bilinu 18-74 ára). Stærstur hluti gerenda var á aldrinum 25-64 ára (83%) og 69% ofbeldisins átti sér stað á heimili þolanda og/eða geranda. Af konum sem komu vegna heimilisofbeldis höfðu 15% komið að minnsta kosti einu sinni áður á tímabilinu á spítalann vegna heimilisofbeldis. Áverkar: Mar, skrámur, skurðir og brot voru oftast staðsettir á höfði, andliti, hálsi, brjóstkassa og handleggjum. Hlutfall innlagna var 2,8%.

Ályktanir: Stærstur hluti kvenna sem komu á Landspítala vegna heimilisofbeldis, kom gegnum bBráðamóttöku og 15% voru ítrekaðar komur vegna heimilisofbeldis, sem er í samræmi við erlendar rannsóknir. Áverkarnir voru oftast á höfði og efri hluta líkamans. Konurnar reyndust oftast lítið líkamlega slasaðar, engu að síður var innlagnahlutfall um 3%. 

 

Skráning meðferðastigs hjá þeim sem létust á Landspítala árin 2013-2015

Guðríður K Þórðardóttir1, Freyja Dís Karlsdóttir, Heiða Rós Árnadóttir1 og Elfa Þöll Grétarsdóttir1,2

1Landspítala, 2Háskóla Íslands

elfag@landspitali.is

Bakgrunnur: Sjúklingar með skráða áætlun um meðferðarmarkmið upplifa betri lífsgæði við lífslok og sjálfræði þeirra er frekar virt. Allir sjúklingar eiga rétt á samtali um horfur og fræðslu um meðferðarmöguleika til taka upplýsta ákvörðun um hvort þiggja skuli meðferð.  Skráning meðferðarstiga er ein af afurðum samtals um meðferðarmarkmið. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða skráningu meðferðarstigs hjá sjúklingum sem að látast á  Landspítala (LSH) með tilliti til þess hvort skráning styðji við sjálfræði sjúklinga við andlát.

Aðferðir: Upplýsinga var aflað úr rafrænni sjúkraskrá allra sjúklinga sem að létust á Landspítala á árinum 2013-2015. Reiknað var hlutfall sjúklinga sem  höfðu skráð meðferðarstig við andlát og hve löngu fyrir andlát skráning var gerð. Einnig var aflað upplýsinga um hvort skráning meðferðarstigs var byggð á samtali við sjúkling sjálfan eða aðra. Lýsandi tölfræðileg greining var unnin með tölvuforitinu Excel.

Niðurstöður: Á tímabilinu 2013-2015 létust 2048 sjúklingar á Landspítala. Um 80% voru með skráð meðferðarstig við andlát, þar af 44% á fullri meðferð að endurlífgun (FME) og 56% á lífslokameðferð (LLM). Við andlát hafði meðferðastig verið rætt við sjúkling sjálfan í 21% tilfella en við aðstandendur í 53% tilfella. Í um fjórðungi tilfella (26%) var ekki skráð við hvern var rætt. Meðaltími frá skráningu fram að andláti var 63,9 dagar. (Spönn dagafjölda frá fyrstu skráningu að andláti var frá 934 dögum fyrir andlát til þriggja daga eftir andlát). Algengast var að skráning væri gerð degi fyrir andlát.

Ályktun: Hátt hlutfall þeirra sem deyja á Landspítala voru með skráð meðferðarstig við andlát en oftast var skráning gerð mjög skömmu fyrir andlát og sjaldan í samráði við sjúklinga sjálfa. Slíkt vinnulag er ólíklegt til að styðja við sjálfræði sjúklinga við lífslok. Verklagsreglur á Landspítala um hvernig eigi að veita samtal um meðferðarmarkmið, skráningu þeirra og óskir sjúklinga á auðsjáanlegan hátt, væru líklegar til að auka sjálfræði sjúklinga og stuðla að betri lífsgæðum við lífslok.

 

Komur krabbameinssjúklinga 67 ára og eldri á bráðamóttökur Landspítala vegna verkja.

Afturskyggn rannsókn á sjúkraskrárgögnum frá 2012-2015

Þórhalla Sigurðardóttir1,3, Sigríður Zoëga 1,2, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2Landspítala, 3Bráðamóttaka Sjúkrahússins á Akureyri

thorhallas@gmail.com

Bakgrunnur: Gögn sýna að helmingur þeirra sem greinast með krabbamein eru 65 ára og eldri. Talið er að meira en 70% þeirra séu með verki. Aldraðir hafa reynst verr verkjastilltir og fá síður verkjalyf, en þeir sem yngri eru, þegar þeir leita á bráðamóttökur vegna verkja.

Markmið: Að skoða 67 ára og eldri einstaklinga með krabbamein á bráðamóttökum Landspítala vegna verkja og skráningu hjúkrunarfræðinga á verkjamati í rafræna sjúkraskrá.

Aðferð: Rannsóknin var í tveimur þrepum. Fyrst var framkvæmd afturskyggn rannsókn á rafrænum sjúkraskrárgögnum úr Vöruhúsi gagna Landspítala árin 2012-2015. Síðan var gerð úttekt á skráningu hjúkrunarfræðinga á verkjum, verkjamati og gjöf verkjalyfja í handfærðri sjúkraskrá hjá handahófsvöldum 23 einstaklingum úr heildarúrtakinu. Gögnin voru greind með lýsandi tölfræði.

Niðurstöður: Alls komu 209 einstaklingar 67 ára og eldri með krabbameinsgreiningu á bráðamóttökur Landspítala vegna verkja, í 230rkomum. Á bráðamóttöku í Fossvogikomu 195 (85%), af þeim voru karlar 55% og elsti einstaklingurinn var 94 ára. Innlagnir einstaklinga í úrtakinu á deildir Landspítala voru 154 (67%). Algengust var forgangsröðun í bráðleikaflokk 2 og 3, innlagnir voru oftast á krabbameinsdeild 11-E og blóðmeinadeild 11-G á Landspítala. Verkir voru skráðir í rafræna sjúkraskrá fimm einstaklinga (2%) af 209 og endurmetnir hjá tveimur þeirra. Mat á verkjum var skráð í frjálsum texta í rafræna sjúkraskrá 22 einstaklinga af þeim 23 sem skoðaðir voru sérstaklega, 13 einstaklingar af þeim fengu verkjalyf. 

Ályktun: Niðurstöður gefa vísbendingar um að mikilvægt sé að bæta skráningu verkja til að endurspegla gæði þjónustu við einstaklinga með krabbamein sem leita á bráðamóttökur Landspítala vegna verkja. Meirihluta úrtaksins var forgangsraðað með háan bráðleika, stór hluti lagðist inn. Þetta kallar á frekari rannsóknir á því hvernig skráningu verkja er háttað hjá hjúkrunarfræðingum á bráðamótttökum sem sinna þessum einstaklingum og gæðum verkjameðferðar.

 

Klukkan 10:15  - Salur B

Reynsla af rafrænni innleiðingu hæfniviðmiða hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku Landspítalans

Dóra Björnsdóttir1, Gyða Halldórsdóttir2, Bryndís Guðjónsdóttir1, Helga Pálmadóttir1, Ingibjörg Sigurþórsdóttir1, Kristín Halla Marínósdóttir1, Ragna Gústafsdóttir1, Sigurlaug A. Þorsteinsdóttir1, Sólveig Wium1, Sólrún Rúnarsdóttir1, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,3

1Fagráði bráðahjúkrunar á Landspítala, 2Flæðisviði Landspítala,  3Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 4Rannsóknastofu LSH og HÍ í bráðafræðum

thordith@landspitali.is

Bakgrunnur: Besta mögulega heilbrigðisþjónusta er byggð á viðeigandi hæfni fagaðila á öllum þjónustustigum. Rannsóknir hafa sýnt að stór hluti hjúkrunarfræðinga á bráðamóttökum voru með minna en 5 ára starfsaldur og að mat reyndari hjúkrunarfræðinga á eigin hæfni staðni eða dali með tímanum. Talið er að innleiðing vel skilgreindra hæfniviðmiða og hæfnismats geti aukið öryggi sjúklinga, skýrt markmiðasetningu og dregið úr brottfalli hjúkrunarfræðinga úr starfi.

Markmið: Að skilgreina og innleiða hæfniviðmið fyrir hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku Landspítala í rafrænu hæfnistjórnunarkerfi og meta reynslu nýliða af innleiðingunni.

Aðferð: Fagráð í bráðahjúkrun skilgreindi fjögur þrep í starfsþróun hjúkrunarfræðinga og þrjú sérhæfð hlutverk. Æskileg hæfni innan þrepa og hlutverka var greind í rýnihópum hjúkrunarfræðinga. Fagráð greindi þær niðurstöður nánar, setti fram skilgreiningar og þróaði framsetningu hæfniviðmiða. Forprófanir hófust í byrjun árs 2016. Rafræn innleiðing og prófun í Focal hæfnistjórnunarkerfi hófst síðan sumarið 2017 með þátttöku 12 nýliða og tveggja mentora. Viðtöl voru tekin við þátttakendur í innleiðingu.

Niðurstöður: Hjúkrunarfræðingar lýstu því að hæfnistjórnunarkerfið veitti þeim hvatningu til að efla hæfni, halda áfram í starfsþróun og til meira náms. Einnig væri það gott utanumhald sem fælist í bættu aðgengi að gæðaskjölum og lýsingum á góðum vinnubrögðum. Örðugleikar við innleiðingu hafa einna helst falist í tæknilegum vandkvæðum og skorti á tíma mentora og hjúkrunarfræðinga til formlegs mats.

Ályktanir: Greining og innleiðing hæfniviðmiða í sérhæfðri hjúkrun er nýmæli á Íslandi. Skilgreind hæfniviðmið, sérhæfð fyrir bráðahjúkrun á Landspítala hvað varðar hæfni, námskeið og þróun, virðast auðvelda markmiðasetningu hjúkrunarfræðinga, hvetja til þjálfunar og skýra framtíðarsýn í bráðahjúkrun. Vonast er til að hæfniviðmiðin muni efla hæfni og starfsþróun allra hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku Landspítala, auk þess að leiða til samræmdari og betri þjónustu við fjölbreytta hópa skjólstæðinga.

 

Stytting meðferðartíma fyrir sjúklinga með minna aðkallandi vandamál á bráðamóttöku með tilraunainnleiðingu hraðteymis

Jón Magnús Kristjánsson, Gunnhildur Peiser, Sólrún Rúnarsdóttir, Bryndís Guðjónsdóttir, Guðmundur Fr. Jóhannsson, Sólveig Wium, Ármann Jónsson, Sigurbjörg Gunnarsdóttir, Þuríður A. Guðnadóttir, Katrín Jónsdóttir

Bráðamóttöku Landspítala

peiser@landspitali.is

Bakgrunnur: Yfirflæði (crowding) er vandamál á bráðamóttökum um allan heim, þar er Ísland engin undantekning. Við komu á bráðamóttöku er sjúklingum forgangsraðað samkvæmt Emergency Severity Index (ESI) í viðeigandi flokk frá 1 – 5, allt eftir ástandi þeirra og líðan. Úttektir sýna að sjö af hverjum 10 raðast í minnstan forgang, 4 og 5, og koma að jafnaði 5 sjúklingar á klukkustund sem raðast í þessa tvo flokka. Hluti þeirra er með lítið aðkallandi og auðleysanleg vandamál. Komur sjúklinga í forgangsflokki 4 og 5 hafa reynst flestar frá klukkan 8 til 20 og ná hámarki klukkan 1317. Langur bið- og meðferðartími sjúklings á bráðamóttöku hefur neikvæð áhrif á gæði þjónustu og útkomu þeirra. Margar bráðamóttökur í samanburðarlöndum hafa ná góðum árangri við að stytta meðferðartíma sjúklinga með því að innleiða þverfaglegt hraðteymi í framlínu þjónustuferlisins.

Markmið: Að stytta meðferðartíma sjúklinga á bráðamóttöku Fossvogi á álagstíma með auðleysanlegan vanda, auka virði í þjónustuferli þeirra og eyða virðissnauðumskrefum úr ferlinu.

Aðferð: Aðferðafræði lean umbótastjórnunar var notuð til að greina virði í þjónustuferli sjúklinga sem leita á bráðamóttöku á álagstímum og samkvæmt innvalsskilmerkjum teljast með auðleyst vandamál eða einkenni. Nýtt þjónustuferli sem hámarkar virði fyrir sjúklinginn var innleitt til reynslu, árangur af því metinn og endurskoðaður þar til að minnst 80% ferlisins teljist virðisaukandi og án sóunar.

Niðurstöður: Í vettvangsmælingum á bráða- og göngudeild Fossvogií janúar 2018 mældist meðferðartími sjúklinga í forgangsflokkum 4 og 5 frá 26 mínútum til 2:14 mínútur. Virkur meðferðartími frá 9%-82%. Óvirkur tími reyndist vera frá 18%-91% af heildarmeðferðartíma. Markmið verkefnisins  var að meðalmeðferðartími teymisins í tilraunavikunni yrði styttri en hefðbundið verklag15 mín og að virðisaukandi skref séu yfir 80%.

Ályktanir: Í samræmi við fyrri tilraunir á bráðamóttöku og reynslu erlendis frá teljum við að meðalmeðferðartími hraðteymis geti verið 15 mín og að virðisaukandi skref í þjónustunni séu yfir 80% af heildarmeðferðartíma. Vonir standa til að tilraunainnleiðing staðfesti þessi meðferðarmarkmið og skýri æskileg innvalsskilmerki svo að hraðteymi geti uppfyllt væntingar sem til þess eru gerðar. Náist sá árangur skapast aukið svigrúm og næði til að sinna veikari sjúklingum bráðamóttökunnar sem raðast í forgangsflokk 1-3 og draga úr heildarálagi í starfsumhverfi hennar.


Hugsanaferli sjúkraþjálfara á meðan þeir taka ákvörðun um flókið klínískt verkefni

Ólöf R. Ámundadóttir1,3, Helga Jónsdóttir4, Gísli H. Sigurðsson2,3, Elizabeth Dean3,5.

1Sjúkraþjálfun Landspítala, 2Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 3Læknadeild Háskóla Íslands, 4Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 5University of British Columbia

olofra@landspitali.is

Bakgrunnur: Klínísk rökhugsun er hugsana- og ákvörðunarferlið sem heilbrigðisstarfsmenn nota í starfi sínu. Fagleg þekking, reynsla, rökhugsun og sjálfsþekking eru nokkur af þeim atriðum sem leiðbeina við klíníska rökhugsun. Slíkt hugsanaferli tekur einnig mið af aðstæðum og samhenginu sem ákvörðunin á sér stað í.

Markmið þessarar eigindlegu rannsóknar var að kanna þætti sem leiðbeina sjúkraþjálfara við klíníska rökhugsun og ákvarðanatöku. Viðfangsefnið er mobilisering á alvarlega veikum sjúklingi í öndunarvél úr liggjandi stöðu í upprétta stöðu og sitjandi á rúmstokk.

Aðferð: Þægindaúrtak 12 sjúkraþjálfara sem störfuðu á skurð-, lyfja- og gjörgæsludeildum Landspítala og tóku þátt í gæsluvöktum sjúkraþjálfara. Gagnasöfnun fólst í áhorfsathugun og hálfstöðluðu djúpviðtali. Gögnin voru greind með eigindlegri efnisgreiningu.

Niðurstöður: Niðurstöður leiddu í ljós atriði sem leiðbeindu og höfðu áhrif á klíníska rökhugsun og ákvarðanatöku þátttakenda. Niðurstöðunum var skipt upp í 6 flokka og fjóra umlykjandi þætti. Flokkarnir eru: Sjúklingur, Gjörgæsla, Sjúkraþjálfari, Flutningur, Þjálfun (aðferð, ákefð, tími og tíðni) og Áætluð niðurstaða. Umlykjandi þættirnir fjórir eru: Öryggi og vellíðan, Skoðun og meðferð samtvinnuð, Einstaklingsbundin meðferð byggð á viðbrögðum sjúklings og Hindranir og lausnir. Nálgun sjúkraþjálfaranna var markviss, lausnamiðuð, byggðist á einstaklingsbundnum þörfum sjúklingsins og mati á viðbrögðum hans á hverjum tíma, með vellíðan hans og öryggi í fyrirrúmi.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýndu að atriðin sem tengdust sjúklingnum, sjúkraþjálfaranum, öðru heilbrigðisstarfsfólki og aðstæðunum sem ákvörðunin átti sér stað í, verkefninu sjálfu, auk áætlaðrar niðurstöðu höfðu áhrif á og leiðbeindu sjúkraþjálfurunum við klíníska rökhugsun og ákvarðanatöku. Þekking á ferli klínískrar rökhugsunar sjúkraþjálfara við þetta ákveðna verkefni gæti einnig nýst við önnur flókin verkefni sjúkraþjálfara og annarra heilbrigðisstétta í bráðaþjónustu og í víðara samhengi, sem og við kennslu nýliða og nema.

 

 

Áhrif umhverfishávaða á viðbragðstíma og gæði í endurlífgun: Frammistaða hjúkrunarfræðinema í hermi

Auður Ólafsdóttir1, Svala Rakel Hjaltadóttir1, Þorsteinn Jónsson2,3,4

1Bráðadeild Landspítala, 2Menntadeild Landspítala, 3Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 4Gjörgæsludeild Landspítala

auduro@landspitali.is

Bakgrunnur: Umhverfishávaði er áreiti sem getur haft streituvekjandi áhrif á viðbragðsaðila í bráðaaðstæðum. Hjúkrunarfræðingar eru oft ogá tíðum fyrstu viðbragðsaðilar þegar hjartastopp verður hjá sjúklingi sem liggur inni á sjúkrastofnun. Fyrstu viðbrögð í endurlífgun eru mikilvæg fyrir afdrif sjúklingsins og hefja þarf endurlífgun tafarlaust.

Markmið: Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða áhrif umhverfishávaða á viðbrögð og gæði í endurlífgun.

Aðferð: Tilraunarannsókn var framkvæmd þar sem notast var við hálftilraunasnið. Þátttakendur voru 23 hjúkrunarfræðinemar á 3. og 4. ári sem lokið höfðu námskeiði í endurlífgun. Þeim var skipt tilviljanakennt í fjóra tilraunahópa og fjóra samanburðarhópa. Rannsóknin fór fram í hermisetrinu í Eirbergi þar sem notast var við hátæknisýndarsjúkling. Eftir 30 sekúndur fór sýndarsjúklingurinn í hjartastopp og þátttakendur þurftu að beita endurlífgun. Inngrip hjá tilraunahópum var hljóðáreiti við 70-78 dB hljóðstyrk. Framkvæmd voru tvíhliða t-próf tveggja óháðra hópa fyrir allar breytur rannsóknarinnar og stuðst við 95% öryggisbil.

Niðurstöður: Þegar frammistaða þátttakenda var skoðuð kom í ljós að umhverfishávaði við 70-78 dB hljóðstyrk lengdi viðbragðstíma þátttakenda í endurlífgun. Það tók samanburðarhópana að meðaltali 28 sekúndur að sækja neyðarvagninn, á meðan það tók tilraunahópana 42 sekúndur. Þá tók það samanburðarhópana að meðaltali 49 sekúndur að hefja hjartahnoð, á meðan það tók tilraunahópana að meðaltali 65 sekúndur. Samanburðarhóparnir gáfu rafstuð að meðaltali 157 sekúndum eftir að sýndarsjúklingur fór í hjartastopp en tilraunahóparnir gáfu hjartarafstuð að meðaltali 179 sekúndum eftir hjartastopp. Niðurstöðurnar sýndu hins vegar að umhverfishávaði hafði ekki neikvæð áhrif á gæði endurlífgunar. Tilraunahóparnir hnoðuðu dýpra og nær viðmiðum endurlífgunarsamtaka en meðaldýpt hjartahnoða hjá tilraunahópunum var 46 mm en 41 mm hjá samanburðarhópunum. Auk þess leyfðu tilraunahóparnir brjóstkassa að þenjast út að fullu á milli hjartahnoða í að meðaltali 96% tilfella á móti 81% tilfella samanburðarhópanna.

Ályktanir: Erfitt er að álykta um niðurstöðurnar þar sem þátttakendur rannsóknar voru fáir og niðurstöður því ekki tölfræðilega marktækar. Þó má ætla að umhverfishávaði hafi truflandi áhrif á þátttakendur í endurlífgun og geri það að verkum að þeir séu lengur að bregðast við. Umhverfishávaði dró hins vegar ekki úr gæðum hjartahnoðs.

 

Klukkan 12:55 - Salur  A

Notkun og afgreiðsla á „neyðarblóði“ eftir alvarlegt rútuslys

Anna Margrét Halldórsdóttir1,2, Björn Harðarson1, Guðrún Svansdóttir1, Ína Björg Hjálmarsdóttir1, Þorbjörn Jónsson1,2, Sveinn Guðmundsson1

1Blóðbankanum, Landspítala, 2Læknadeild, Háskóla Íslands

annamha@landspitali.is

Bakgrunnur: Al­var­legt rútu­slys varð vest­an Kirkju­bæj­arklaust­urs fyrir hádegi 27. desember 2017. Kl.11 voru átta neyðarblóðseiningar (O neg) sendar með þyrlu á slysstað. Samkvæmt fyrstu upplýsingum voru 20 einstaklingar í forgangi 1-2 (rauðir/gulir) og var spítalinn settur á gult viðbúnaðarstig kl. 12:10. „Neyðarblóð“ er að jafnaði í blóðflokki O neg og „neyðarplasma“ AB, en til að verja birgðir var ákveðið að afgreiða O pos rauðkornaþykkni sem neyðarblóð og A plasma sem neyðarplasma. Einnig var ákveðið vegna nýlegs atviks að afgreiða allt blóð sem „neyðarblóð“ en ekki afgreiða á gervikennitölur sjúklinga.

Markmið: Að taka saman gögn um fjölda sýna/beiðna sem bárust Blóðbankanum vegna slyssins og notkun blóðhluta. Að skoða hvernig verkferlar fyrir auðkenningu erlendra sjúklinga (gervikennitölur) reyndust. Að skoða áhrif ákvarðana Blóðbankans á birgðir blóðhluta.

Aðferð: Tekin voru út gögn um blóðhlutabirgðir, pantanir og notkun blóðhluta fyrir slasaða úr ProSang tölvukerfi Blóðbankans. Unnið var úr niðurstöðum í Excel töflureikni.

Niðurstöður: Að morgni 27. desember voru rauðkornabirgðir Blóðbankans 606 einingar (þar af 77 O neg), blóðflögubirgðir 24 einingar og plasmabirgðir 1000 einingar (þar af 90 AB). Frá kl. 12:10 til 14:30 voru 34 rauðkornaeiningar (O pos) sendar í blóðskápa spítalans til undirbúnings móttöku slasaðra. Kl. 14:55 bárust Blóðbankanum 5 blóðsýni úr slösuðum til blóðflokkunar, öll á gervikennitölu. Tveir sjúklingar höfðu þegar fengið neyðarblóð og var því blóðflokkun ekki möguleg (blönduð mynd). Kl. 16:25 hafði alls 61 rauðkornaeining (13 O neg) verið send spítalanum vegna slyssins og voru O neg birgðir 64 einingar. Án ákvörðunar um notkun O pos sem neyðarblóðs hefðu O neg birgðir lækkað í 16 einingar. Tilvik kom upp þar sem líkar gervikennitölur ollu óvissu um hvort réttur sjúklingur fengi blóðhluta. Á næstu þremur vikum voru pantaðar alls 130 rauðkorna-, 29 blóðflögu- og 100 plasmaeiningar fyrir slasaða, þar af 109 rauðkorna-, 27 blóðflögu- og 90 plasmaeiningar fyrir einn sjúkling. 

Ályktanir: Vegna ákvörðunar Blóðbankans um að nota O pos sem neyðarblóð á slysdegi tókst að verja O neg rauðkornabirgðir Blóðbankans, sem annars hefðu lækkað mikið. Við hópslys þegar margir erlendir ferðamenn fá gervikennitölur samdægurs, geta líkindi með gervikennitölum einstaklinga valdið erfiðleikum við auðkenningu.


 

Viðbrögð blóðsöfnunardeildar Blóðbankans við alvarlegu rútuslysi í lok desember 2017

Jórunn Ósk Frímannsdóttir1, Vigdís Jóhannsdóttir1, Sveinn Guðmundsson1, Anna Margrét Halldórsdóttir1,2

1Blóðbankanum, Landspítala, 2Læknadeild, Háskóla Íslands

annamha@landspitali.is

Bakgrunnur: Al­var­legt rútu­slys varð vest­an Kirkju­bæj­arklaust­urs fyr­ir há­degi 27. desember 2017 en á fjórða tug erlendra ferðamanna voru í rút­unni.  Fjöldi alvarlegra slasaðra var óljós í upphafi en Landspítalinn var settur á gult viðbúnaðarstig kl. 12:10. Vegna óvissu um þörf fyrir blóðhluta var biðlað til blóðgjafa í fjölmiðlum kl. 13:30 að koma í Blóðbankann og gefa blóð. Opnunartími blóðsöfnunar var lengdur um 4 klst. og tekið fram að sérstaklega væri óskað eftir virkum gjöfum í O blóðflokki. 

Markmið: Að meta viðbrögð blóðsöfnunar Blóðbankans við hópslysinu og rýna gögn um áhrif slyssins á starfsemi blóðsöfnunar, innkomu blóðgjafa og blóðbirgðir. Að draga lærdóm af niðurstöðum til þess að bæta verkferla í tengslum við hópslys.

Aðferð: Tekin voru út gögn um birgðir blóðhluta, ásamt innkomu, blóðflokki og biðtíma blóðgjafa úr ProSang tölvukerfi Blóðbankans fyrir dagana 27. og 28 desember 2017. Söfnunartölur voru bornar saman við meðaltöl fyrir árið 2017 til 22. desember. Unnið var úr niðurstöðum í Excel töflureikni.

Niðurstöður: Að morgni 27. desember voru 606 rauðkornaeiningar (77 O neg) í birgðum Blóðbankans, en æskilegar heildarbirgðir eru um 540 einingar. Alls söfnuðust 174 heilblóðseiningar þennan dag, þar af 127 í blóðflokki O pos (73%) og 30 í blóðflokki O neg (17%). Til samanburðar var meðalsöfnun á dag viðmiðunartímabilið 2017 um 36 einingar (spönn 5-102). Innkoma blóðgjafa jókst verulega strax eftir hádegi slysdaginn en flestar gjafir voru skráðar eftir hefðbundinn lokunartíma kl. 15 (n=116, 67%). Mikið álag var á afgreiðslu blóðgjafa og jókst hámarksbiðtími blóðgjafa í Blóðbankanum úr um 15 mínútum í um tvær klst. á háannatímanum (meðalbið var 71 mínúta). Þó starfsemin gengi að mestu vel komu fram hnökrar í móttöku símtala og stýringu á aðkomu og bið blóðgjafa. Að morgni næsta dags voru birgðir Blóðbankans 711 rauðkornaþykkniseiningar; 105 heilblóðseiningar söfnuðust 28. desember, 66 O pos (63%) og 14 O neg (13%).

Ályktanir:Viðbrögð blóðgjafa við kalli Blóðbankans voru frábær og söfnuðust alls 279 einingar á tveimur dögum. Um 90% heilblóðseininga sem söfnuðust á slysdegi voru í blóðflokki O sem nýtist sem „neyðarblóð“. Biðtími blóðgjafa lengdist verulega sem og álag á starfsfólk blóðsöfnunar. Kynntar verða niðurstöður áhættugreiningar og tillögur um bætt verklag við hópslys.

 

Bráðaviðbrögð Landspítala við hópslysum – Ástand og afdrif slasaðra úr tveimur rútuslysum

Jón Magnús Kristjánsson1, Guðrún Lísbet Níelsdóttir2, Brynjólfur Mogensen3, Sólrún Rúnarsdóttir2, Hjalti Már Björnsson1,4, Ragna Gústafsdóttir1, Bryndís Guðjónsdóttir1, Bára Benediktsdóttir2, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir3,5

1Bráðamóttöku Landspítala, 2skrifstofu flæðisviðs, 3Rannsóknastofu LSH og HÍ í bráðafræðum, 4læknadeild HÍ, 5hjúkrunarfræðideild HÍ

thordith@landspitali.is

Bakgrunnur: Fjöldi ferðamanna á heimsvísu er sífellt að aukast sem leiðir til aukinnar hættu á hópslysum. Starfsemi sjúkrahúsa er meira og minna við fulla getu en við hamfarir og hópslys bætast margþætt verkefni við. Sérhæfing starfsfólksins í meðferð bráðra veikinda og áverka veldur því að sjúkrahús gegna veigamiklu hlutverki við slíka atburði. Viðbragðsæfingar hafa reynst auka líkur á markvissari viðbrögðum og þjónustu í raunverulegum hópslysum en mikilvægt er að gagnreynd þekking liggi að baki viðbragðsáætlunum.

Markmið: Að lýsa og greina hóp slasaðra sem fluttir voru á Landspítala eftir tvö rútuslys, komuástand, flutning, meðferð og afdrif þeirra.

Aðferðir: Gögnum var aflað úr sjúkraskrám Landspítala um þá sjúklinga sem komu á spítalann eftir rútuslys á Mosfellsheiði 25. október 2016 og í Eldhrauni 27. desember 2017. Sjúklingar úr hvoru slysi voru skoðaðir út frá kyni, aldri, þjóðerni, vitneskju um bílbeltanotkun, tegund flutnings og flutningstíma, komuástandi og afdrif eftir komu á bráðamóttöku.

Niðurstöður: Af 42 farþegum rútu sem valt á Mosfellsheiði 2016 voru 15 fluttir strax á Landspítala til aðhlynningar með sjúkrabíl, 27 fengu aðhlynningu í fjöldahjálparstöð Rauða krossins og þar af komu 2 á Landspítala seinna um daginn. Enginn lést en tveir voru lagðir á gjörgæslu. Eftir slysið í Eldhrauni (n=45) voru 33 farþegar fluttir á bráðamóttöku HSU en 12 fluttir með þyrlu á Landspítala (8 rauðir (brátt) og fjórir gulir (liggur á)), af þeim fóru tveir í skurðaðgerð og fjórir á gjörgæslu, tveir útskrifuðust af spítalanum samdægurs. Einn farþegi lést strax og einn 18 dögum síðar.

Ályktanir: Vonast er til að rannsóknin auki gagnreynda þekkingu á sjúklingatengdum þáttum í hópslysum, forgangsflokkun, flutningi og afdrifum sem nýst geta við skipulag viðbragða á vettvangi og á Landspítala.


 

Neyð í óbyggðum á Íslandi: Flutningur veikra og slasaðra með þyrlu Landhelgisgæslunnar úr óbyggðum Íslands árin 2013-2015

Sigrún Guðný Pétursdóttir¹, Brynjólfur Mogensen², Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir²,3

¹Heilsugæslu Heilbrigðisstofnunnar Vesturlands, ²Rannsóknarstofu Landsspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, 3Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

sigrunp@simnet.is

Bakgrunnur: Fjöldi fólks sem staðsett er í óbyggðum Íslands hverju sinni hefur verið að aukast en tíðni þeirra sem veikjast eða slasast í þeim aðstæðum er lítt þekkt.

Markmið: Að kanna flutninga þyrlu Landhelgisgæslunnar á veikum og slösuðum úr óbyggðum í því skyni að greina þörf fyrir heilbrigðisþjónustu og sérhæfð viðbrögð í óbyggðum.

Aðferð: Um er að ræða afturskyggna rannsókn þar sem skoðuð voru öll tilvik í óbyggðum Íslands, á árunum 2013-2015, sem þurftu aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar. Upplýsingar voru sóttar í sjúkraskrár til frekari greiningar og leitað eftir upplýsingum um kyn, aldur, þjóðerni, ástæðu flutnings (slys/veikindi), hvaða ástundun viðkomandi var að stunda, staðsetningu, staðarhætti og áverkastigun. Þá var leitað eftir tímasetningu slyss, útkallstíma þyrlu, tíma þyrlu á vettvangi og tíma við komu á sjúkrahús.

Niðurstöður: Alls voru 78 einstaklingar fluttir úr óbyggðum með þyrlunni í 70 flutningum á þessum þremur árum. Karlar voru 53 (68%) og konur 25 (32%). Meðalaldur einstaklinga var 44,7 ár (spönn 11-75 ár). Hlutfall erlendra ferðamanna var 37%. Flestir voru fluttir í júlí en enginn í október. Helmingur útkalla var af Suðurlandi og miðhálendinu. Af heildinni voru 70% útkalla vegna slysa, í tilvikum erlendra ferðamanna var ástæða útkalls slys í 50% tilvika. Vélsleðaslys töldu 27% tilvika en þar var fall fram af hengju algengast. Fjallganga og ferðamennska með allt á bakinu taldi samtals 42% tilvika, algengasta orsökin var að einstaklingur hafi runnið af stað. Áverkaflokkun sýndi að 29,5% einstaklinga voru alvarlega slasaðir/veikir eða látnir.

Ályktanir: Slys reyndust algengari flutningsástæða þyrlu Landhelgisgæslunnar úr óbyggðum en veikindi. Slys við vélsleðaiðkun leiddu til flestra flutninga. Höfða þarf á ólíkan hátt til Íslendinga og erlendra ferðamanna við skipulag á forvörnum.

 

 

Heilbrigðisþjónusta á heimsmóti eldri skáta á Íslandi 2017

Guðrún Lísbet Níelsdóttir

Flæðisviði Landspítala

gudrunln@landspitali.is

Bakgrunnur Sumarið 2017 fór heimsmót eldri skáta(World Scout Moot), 18-25 ára, fram á Íslandi. Viðburðurinn stóð yfir í 9 daga, á 11 stöðum víðsvegar um landið.  Hann sóttu 5200 einstaklingar frá 90 löndum. Heilbrigðisþjónusta á vegum mótsins var starfrækt á öllum stöðum, rekin og mönnuð af sjálfboðaliðum. Umfangsmesta starfsemin var viðá Úlfljótsvatni. Markmið heilbrigðisþjónustunnar á mótinu voru að sinna minniháttar slysum og veikindum og veita þeim sem þurftu sérhæfðari aðstoð ráðgjöf og leiðsögn um úrræði heilbrigðiskerfisins. Að undanskilinni skýrslu frá landsmóti skáta á Akureyri 2012 var engin innlend gögn að finna sem nýttust við þarfagreiningu í aðdraganda mótsins. Undirbúningur var því byggður á reynslu skipuleggjenda, erlendu efni sem fannst með leitarorðunum „mass gathering medicine“ og heilsufarsskráningu þáttakenda og annarra sjálfboðaliða sem sóttu mótið. Áhersla var lögð á forgangsröðun og í þeim tilgangi var þróað fjögurra flokka kerfi, afbrigði af bráðaflokkun sem notað er við hópslys á Íslandi, aðlagað að þörfum sjúkragæslu á fjöldasamkomum.

Markmið: Að skoða og greina komur í heilbrigðisþjónustu á heimsmót eldri skáta á Íslandi 2017. Jafnframt að kanna hvað er til af reglugerðum og leiðbeiningum um æskilega heilbrigðismönnun og búnað.

Aðferðir: Gögn voru unnin upp úr skráningu heilbrigðisþjónustunnar á mótinu og greind með lýsandi tölfræði.

Niðurstöður: Alls voru skráðar komur 1254. Flest tilfelli, 1177, voru minniháttar og þörfnuðust ekki inngripa eða sérhæfðari þjónustu. Fjórtán voru í flokkaðir í mesta forgang og voru sendir án tafar á sjúkrahús með sjúkrabíl eða björgunarsveitarbíl. Í heildina voru 20 skráð tilfelli send á sjúkrastofnun. Algengasta komuástæða var útlimaáverki (252). Komur vegna hálsbólgu voru 164.

Ályktanir: Mikilvægt er að huga að innviðum við undirbúning fjöldasamkomna og vel skipulögð heilbrigðisþjónusta á viðburðum dregur úr álagi á heilbrigðisstofnanir. Ekki eru til reglugerðir eða leiðbeiningar um æskilegan viðbúnað á fjöldasamkomum og lítið hefur verið skrifað um málefnið á Íslandi. Forgangskerfið var almennt vel nýtt og gafst vel, sérstaklega við úrvinnslu gagna í kjölfar móts.

 

Klukkan 12:55 - Salur B

Þörf á sértækum stuðningi fyrir sjúklinga með ótilgreinda brjóstverki sem leita á hjartagátt Landspítala

Erla Svansdóttir1, Ylfa Rún Sigurðardóttir2, Elísabet Benedikz1, Björg Sigurðardóttir3, Helga Margrét Skúladóttir3, Jón Friðrik Sigurðsson4, Hróbjartur Darri Karlsson5, Karl Andersen2,3

1Gæða- og sýkingavarnadeild, Landspítali, 2Læknadeild, Háskóla Íslands, 3Hjartagátt, Landspítala, 4Háskólanum í Reykjavík, 5Læknadeild, Dunedin Hospital, Nýja Sjálandi

erlasvan@landspitali.is

Bakgrunnur: Fjöldi fólks leitar árlega á hjartagátt vegna ótilgreindra brjóstverkja sem ekki stafa af hjartasjúkdómum heldur orsakast af vefrænum og sálrænum þáttum. Almennt stendur einstaklingum með ótilgreinda brjóstverki ekki til boða frekari inngrip eða meðferð á hjartabráðadeildum. Vísbendingar eru hins vegar um að þessir sjúklingar sitji uppi með líkamleg einkenni og vanlíðan sem þeim gengur illa að vinna úr og að þeir leiti endurtekið í bráðaþjónustu. Niðurstöður rannsóknar á hjartagátt meðal brjóstverkjasjúklinga hefur gefið til kynna að tilfelli ótilgreindra brjóstverkja á deildinni séu fjölmörg, eða nærri 70%. Í þeirri rannsókn reyndust sjúklingar með ótilgreinda brjóstverki vera marktækt yngri en hjartasjúklingar en bera sambærilega líkamlega og andlega vanlíðan. Alls 60% sjúklinga með ótilgreinda brjóstverki fundu fyrir áframhaldandi verkjum eftir útskrift og þriðjungur þeirra hafa áhyggjur af þeim. Nærri þriðjungur hafði jafnframt ekki hafa fengið upplýsingar um aðrar mögulegar orsakir brjóstverkja.

Markmið: Að prófa meðferðarinngrip sem mun veita sjúklingum með ótilgreinda brjóstverki þverfaglega fræðslu og meðferð.

Aðferð: Alls 50 sjúklingum á aldrinum 18-50 ára sem hafa fengið greiningu á ótilgreindum brjóstverk (R07.4) verður boðin þátttaka í þriggja skipta hópmeðferð á hjartagátt vorið 2018. Lagt verður mat á andlega líðan, lífsgæði, hreyfingu og verkjaupplifun þátttakenda fyrir og eftir meðferð, og 6 mánuðum eftir meðferð.

Niðurstöður: Í hverjum hóptíma mun hjartalæknir eða sálfræðingur veita ítarlega fræðslu um: a) brjóstverki og ólíka orsakaþætti sem geta valdið brjóstverkjum; b) hvernig streita og kvíði geta vakið upp og viðhaldið verkjaupplifun; c) slökun, öndunartækni og bjargráð við streitu; d) áhrif hreyfingar á líkamlega og andlega líðan; og e) ákveðin atriði hugrænnar atferlismeðferðar. Sérstaklega verður tekist á við hræðslu tengda hreyfingu.

Ályktanir: Sjúklingar með ótilgreinda brjóstverki bera sambærilega líkamlega og andlega vanlíðan og hjartasjúklingar en fá lítinn stuðning eða meðferð. Mögulega mætti bæta líðan þessa hóps með þverfaglegum stuðningi og fræðslu um samspil líkamlegra einkenna, andlega líðan og streitu

 

Úlnliðsbrot og áhrif skynþjálfunar - Slembuð samanburðarrannsókn

Bergþóra Baldursdóttir1,2,3, Susan L. Whitney4, Alfons Ramel1, Hannes Petersen2, Pálmi V. Jónsson1,2,3, Brynjólfur Mogensen2,3, Ella Kolbrún Kristinsdóttir2

1Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Flæðisviði Landspítala, 4University of Pittsburgh BNA

bergbald@landspitali.is

Bakgrunnur: Rannsóknir hafa sýnt að einstaklingar sem hlotið hafa úlnliðsbrot við byltu eru líklegri til að hafa ósamhverfa starfsemi í jafnvægiskerfi innra eyra, skerðingu á þrýstingsskyni undir iljum, skerta jafnvægisstjórnun og starfræna færni en þeir sem ekki hafa dottið og úlnliðsbrotnað.

Markmið: Að kanna hvort skynörvandi jafnvægisþjálfun bæti jafnvægisstjórnun, starfsemi jafnvægiskerfis í innra eyra, skyn í fótum og starfræna færni, samanborið við stöðugleikaþjálfun fyrir úlnlið

Aðferðir: Níutíu og átta einstaklingar (meðalaldur: 61,9 ár±7,1ár; spönn 50-75) sem hlotið höfðu úlnliðsbrot við byltu, tóku þátt í rannsókninni, 2-5 mánuðum eftir brotið. Þeim var slembiraðað í annaðhvort skynörvandi jafnvægisþjálfun eða stöðugleikaþjálfun fyrir úlnlið, til viðbótar við hefðbundna brotameðferð. Mælingar voru gerðar fyrir og eftir þjálfun. Starfsemi jafnvægiskerfis innra eyra var metin með Head-shake prófi (HSP). Þrýstingsskyn undir iljum var metið með Semmes-Weinstein monofilaments (SWF) og titringsskyn í fótum var metið með Biothesiometer. Jafnvægisstjórnun var metin með skynúrvinnsluprófi (SOT). Gönguhraði var metin með 10 metra gönguprófi (10MG) og starfrænn styrkur í neðri útlimum með 5x standa-sitja prófi (5xST). Þátttakendur í báðum hópum, mættu í 6 þjálfunartíma undir handleiðslu sjúkraþjálfara yfir þriggja mánaða tímabil og fengu skriflegar heimaæfingar sem þeim var ætlað að stunda daglega. Einnig fylltu þeir út æfingadagbækur.

Niðurstöður: Í skynþjálfunarhópnum minnkaði ósamhverf starfsemi í jafnvægiskerfi innra eyra (HST) um 16% (p=0,058) en engin breyting kom fram í úlnliðsþjálfunarhópnum. Eftir að leiðrétt hafði verið fyrir upphafsmælingar, aldur og kyn með línulegri aðhvarfgreiningu, kom í ljós að skynþjálfunarhópurinn var marktækt betri á SOT (p=0,01), ekki sást munur á öðrum breytum. Undirgreining gagna meðal þátttakenda sem skoruðu undir aldurstengdum viðmiðunarmörkum á SOT við upphaf þjálfunar, gaf til kynna að skynþjálfunin bætti meira 10MG, (p=0,04), 5xST (p=0,04), SWF (p=0,04) og SOT (p=0,04) heldur en úlnliðsþjálfunin.

Ályktanir: Skynörvandi jafnvægisþjálfun bætir jafnvægisstjórnun hjá einstaklingum sem hlotið hafa úlnliðsbrot við byltu. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að skynþjálfunin beri meiri árangur hjá einstaklingum sem eru undir aldurstengdum viðmiðunarmörkun á SOT við upphaf þjálfunar. Þessar niðurstöður þarf að staðfesta með frekari rannsóknum.

 

Reynsla heilbrigðisstarfsfólks sem sinna inniliggjandi einstaklingum með starfræn einkenni frá taugakerfi. Þverfagleg rýnihópaviðtöl

Guðbjörg Þóra Andrésdóttir1,3, Aldís Hauksdóttir2, Þórdís Edda Hjartardóttir2, Helga Jónsdóttir2, Marianne E. Klinke2,3

1Sjúkraþjálfun Landspítala í Fossvogi, 2Hjúkrunarfræðideild, Háskóli Íslands, 3Taugalækningadeild Landspítala

gthora@landspitali.is

Bakgrunnur: Á taugalækningadeildum er áætlað að starfræn einkenni séu til staðar hjá einum af hverjum 10-15 sjúklingum á hverjum tíma. Algeng birtingarmynd þeirra er máttleysi í útlimum, göngulagstruflanir, skyntruflanir og starfrænir krampar. Afleiðingar starfrænna einkenna eru jafn alvarlegar og hjá einstaklingum með aðra taugasjúkdóma. Mat og meðferð þverfaglegs teymis er talin lykilþáttur í meðferð legusjúklinga með starfræn taugaeinkenni. Rannsóknir benda til að þekkingu starfsfólks um einkennin sé ábótavant og að tilhneiging sé til að það finni fyrir óöryggi í umönnun sjúklinganna. Það getur haft áhrif á hvernig þeir mæta sjúklingum með starfræn taugaeinkenni í klínísku starfi. Þrátt fyrir þetta hafa þær áskoranir sem heilbrigðisstarfsfólk upplifir í umönnun þessara einstaklinga ekki verið rannsakaðar.

Markmið: Að skoða hvernig þverfaglegt teymi heilbrigðisstarfsmanna upplifir hindrandi og hvetjandi þætti í meðferð og endurhæfingu fullorðinna sjúklinga með starfræn taugaeinkenni. 

Aðferð: Framkvæmd voru þrjú rýnihópaviðtöl með samtals 18 heilbrigðisstarfsmönnum sem allir voru með klíníska reynslu af umönnun og meðferð sjúklinga með starfræn taugaeinkenni. Þeir voru fulltrúar eftirfarandi fagstétta; hjúkrunarfræði, iðjuþjálfunar, sérfræðinga í taugalækningum, sjúkraþjálfunar og taugasálfræði. Notuð var eigindleg efnisgreining til þess að kóða og flokka viðtölin.

Niðurstöður: Heilbrigðisstarfsfólk upplifði margar áskoranir við meðferð sjúklinga með starfræn taugaeinkenni. Skortur á þekkingu og fordómar voru mikilvægir þættir að takast á við. Þátttakendur komu auga á raunhæfar lausnir sem hægt væri að innleiða til að vega á móti áskorunum í meðferð. Þrír tímapunktar þóttu einkar mikilvægir (a) þegar greining var gefin, (b) skipulag meðferðar og (c) útskrift og eftirfylgd. Samstilling meðferðaraðila var álitin rauði þráðurinn  í að gera  tengingu þessara þriggja mikilvægu tímapunkta mögulega í meðferðarferlinu.

Ályktanir: Niðurstöður varpa ljósi á þær áskoranir sem heilbrigðisstarfsfólk stendur frammi fyrir við umönnun einstaklinga með starfræn einkenni  og hvernig hægt er að takast á við þær. Ný þekking gefur möguleika á að þróa skilvirkara ferli fyrir einstaklinga með starfræn einkenni. Þekkinguna má einnig nota til að veita heilbrigðisstarfsfólki betri stuðning við skipulagningu meðferðar þessara einstaklinga.


Áhrif fjölþættrar íhlutunar á efnaskiptavillu hjá eldri aldurshópum í íslensku sveitarfélagi

Janus Guðlaugsson1, Ingvi Guðmundsson1, Þórey HeiðarsdóttirThor Aspelund2

1Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum, 2Miðstöð í lýðheilsuvísindum Háskóla Íslands

janusgudlaugsson@gmail.com

Bakgrunnur: Efnaskiptavilla (Metabolic Syndrome) er hugtak sem notað er til að lýsa ákveðnu líkamsástandi, en því fylgir aukin hátta á hjarta- og æðasjúkdómum auk sykursýki af tegund 2. Það er talið að um 25% Bandaríkjamanna hafi efnaskiptavillu en ástandið er tengt kviðfitu og vaxandi mittismáli, háum þríglýseríðum í blóði, lágu HDL-kólesteróli, háum blóðþrýstingi og hækkuðu blóðsykurmagni. Ástand af þessum toga eykur hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum.

Markmið: Helsta markmið rannsóknar var að kanna áhrif sex mánaða fjölþættrar þjálfunar, með áherslu á þol- og styrktarþjálfun auk fræðsluerinda um næringu og heilsutengda þætti, á efnaskiptavillu. Auk þess var markmiðið að kanna áhrif þjálfunar á ýmsar afkastagetubreytur og hreyfigetu.

Aðferð: Snið rannsóknar var hentugleikaúrtak. Af öllum þátttakendum (n=109) 65 ára og eldri íbúar úr sveitarfélagi á Íslandi voru 34  greindir með efnaskiptavillu áður en íhlutun fór fram. Þátttakendur fylgdu 6 mánaða þjálfunaráætlun sem byggðist á daglegri þolþjálfun, styrktarþjálfun tvisvar sinnum í viku auk fræðsluerinda um næringu og heilsutengda þætti. 

Niðurstöður: Af 34 þátttakendum sem voru skilgreindir með efnaskiptakvilla voru 24 konur og 10 karlar. Að lokinni 6 mánaða þjálfun höfðu 10 konur af 24 (42%) og 4 karlar af 10 (40%) sem höfðu efnaskiptavillu losnað undan skilgreiningu á áhættu. Hreyfi- og afkastageta færðist til betri vegar á sex mánaða íhlutunartíma.

Ályktanir: Bæði kynin í þessari rannsókn bruust á sambærilegan hátt við fjölþættri þjálfun og gátu, þrátt fyrir háan aldur, haft veruleg áhrif á áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma með markvissri heilsueflingu tengda daglegri hreyfingu. Niðurstöður gefa til kynna jákvæð áhrif þjálfunar og fræðsluerinda um næringu og heilsu á efnaskiptavillu.

 

Veggspjaldasýning – örkynning höfunda í hádegishléi

 

Reynsla og ávinningur hjúkrunarfræðinema af herminámi

Birna Rún Birgisdóttir1, Rakel Sif Jónsdóttir2, Þorsteinn Jónsson3

1Bráðamóttaka Landspítala, 2Hjarta- lungna og augnskurðdeild Landspítala, 3Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

birnarb@landspitali.is

Bakgrunnur: Hátækni herminám er nýleg kennsluaðferð í heilbrigðisvísindum og hafa vinsældir þess farið hratt vaxandi. Í nóvember 2016 var nýtt færnisetur opnað við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands en þetta kennsluform hefur verið notað við skólann frá 2008. Hjúkrunarfræðinám stendur frammi fyrir mörgum áskorunum og störf hjúkrunarfræðinga verða sífellt flóknari og meiri krafa gerð um aukna færni. Fyrri rannsóknir á þessu sviði hafa sýnt fram á jákvæðar niðurstöður í garð hermináms.

Markmið: Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða reynslu og ávinning hjúkrunarfræðinema af þátttöku í herminámi.

Aðferð: Stuðst var við framsýnt rannsóknarsnið með fyrir og  eftir mælingu. Þátttakendur voru fjórða árs hjúkrunarfræðinemar við HÍ í námskeiðinu Bráða- og gjörgæsluhjúkrun, alls 77 nemendur. Frumsaminn spurningalisti var lagður fyrir nemendur fyrir og eftir þátttöku í herminámi.

Niðurstöður: Alls töldu 97% þátttakenda (n=74) reynslu af herminámi góða og 99% voru sammála að herminam væri gagnlegur undirbuningur fyrir raunverulegar aðstæður. Allir þatttakendur voru sammala að hafa lært mikið í hermináminu sem þeir gætu nýtt í klínísku starfi. Allir þátttakendur voru sammála því að herminámið hefði aukið færni þeirra ´í bráðaviðbrögðum. Fyrir herminámið voru 51% (n=39) mjög sammála/sammála því að þekking á bráðahjúkrun væri góð en eftir herminámið voru 60% (n=46) mjög sammála/sammála því að þekking á bráðahjúkrun væri góð. Fyrir herminám voru tæplega 56% (n=43) sammála því að færni í mati óstöðugra sjúklinga væri góð. Eftir þátttöku voru 67% (n=51) sammála að færni  í að meta óstöðuga sjúklinga væri góð. Fyrir herminám voru 83% (n=64) mjög sammála/sammála því að færni  í  að gefa upplýsingar um bráðveikan sjúkling væri góð. Eftir herminám voru 80% (n=61) þátttakenda mjög sammála eða sammála því að færni  í að gefa upplýsingar um bráðveikan sjúklinga væri góð.

Ályktanir: Herminám er gagnleg kennsluaðferð sem nemendur kunna vel að meta. Herminám undirbýr þátttakendur vel fyrir raunverulegar aðstæður. Þörf er áframhaldandi rannsóknum um ávinning hermináms í heimbrigðisvísindum.

 


Áhrifaþættir á tímalengd sjúkrahúsinnlagna aldraðra á bráðalegudeildum: Kerfisbundin samantekt

Elfa Þöll Grétarsdóttir1,2, Arndís Bjarnadóttir, Bríet Magnúsdóttir2, Guðríður K. Þórðardóttir1

1Landspítala, 2 Háskóla Íslands

elfag@landspitali.is

Bakgrunnur: Aldraðir eru í meirihluta sjúklinga á bráðalegudeildum, meðal annars vegna tíðari endurinnlagna og þess að þeir liggja að jafnaði lengur í hvert sinn en þeir sem yngri eru. Auknum legutíma fylgir kostnaður og minni líkur á sjúklingur útskrifist í óbreytta búsetu. Aukin þekking á þáttum er spá fyrir um legulengd aldraðra gæti skapað tækifæri til íhlutunar sem að stytta sjúkrahúslegur þessa mikilvæga sjúklingahóps.

Markmið: Tilgangur þessa fræðilega yfirlits var að greina þá þætti sem hafa áhrif á legulengd aldraðra á bráðalegudeildum sjúkrahúsa.

Aðferðir: Gerð var rafræn leit í PUBMED gagnagrunninum sem tók til áranna 2004 til 2014. Leit var takmörkuð við rannsóknir, enska tungu og „65 ára og eldri“. Titlar og/eða útdrættir voru lesnir og greinar sem að voru taldar svara rannsóknarspurningunni voru valdar til ítarlegrar yfirferðar. 

Niðurstöður: Rafræn leit skilaði 678 greinum og 54 greinar voru valdar til ítarlegrar yfirferðar og gáfu upplýsingar sem var litið til við þessa samantekt. Helstu þættir sem höfðu áhrif á legulengd aldraðra á bráðadeildum voru: færniskerðing, óráð, byltur, aukinn hrumleiki og slæmt næringarástand. Sjúklingar sem fengu íhlutun öldrunarteymis í sjúkrahúslegunni lágu að jafnaði skemur en sjúklingar í samanburðarhópum sem ekki fengu slíka íhlutun.

Ályktanir: Fjöldi þátta, sem að sumir gætu verið fyrirbyggjandi að nokkru marki, hafa áhrif á dvalarlengd aldraðra á bráðadeildum sjúkrahúsa. Íhlutandi aðgerðir sem að beinast gegn þessum þáttum fyrir atbeina öldrunarteymis gætu stytt legutíma og dregið úr kostnaði. Þessi þekking er gagnleg þegar bráðaþjónusta við aldraða er skipulögð bæði til að bæta þjónustu og stytta sjúkrahúslegu en um leið nýta úrræði betur.


Aukin árvekni hjúkrunarfræðinga fyrir óráði á meðal aldraðra sjúklinga á Landspítala 

Elfa Þöll Grétarsdóttir1,2, Steinunn Arna Þorsteinsdóttir1,2, Halldóra Anna Þorvaldsdóttir2, María Björk Ríkarðsdóttir2

1Landspítala, 2Háskóla Íslands

elfag@landspitali.is

Bakgrunnur: Óráð er sjúkdómsástand sem hendir allt að 50% aldraðra sem eru innlagðir á sjúkrahúsum. Óráð er vangreint og áverkni heilbrigðisstarfsmanna er nauðsynlegt til að draga úr uppkomu og alvarlegum afleiðingum óráðs. Aldraðir einstaklingar og þeir sem hlotið hafa mjaðmabrot eru meðal þeirra sem eru í mestri hættu á óráði. Með fullnægjandi skráningu og viðeigandi skimunar- og greiningartækjum er hægt að draga úr uppkomu og alvarleika óráðs. Í lok árs 2013 og voru hjúkrunarferlar endurskoðaðir á Landspítala (LSH) og vorið 2015 var ráðist í innleiðingu á klínískum leiðbeiningum um skimum og skráningu sem beindust gegn uppkomu óráðs. 

Markmið: kanna hvort ofantaldar breytingar á vinnulagi hefðu haft áhrif á árverkni hjúkrunarfræðinga við greiningu á óráði. 

Aðferð: Fengin voru gögn úr rafrænni sjúkraskrá hjá öllum sjúklingum, 67 og eldri, sem lögðust inn á Landspítala. Til að leggja mat á árverkni hjúkrunfræðinga fyrir óráði var hlutfall sjúklinga með hjúkrunargreiningarnar „Bráðarugl“og „Hætta á bráðarugli“ borið saman milli áranna 2012 til 2016. Tölfræðileg marktækni var reiknuð með kí-kvaðrat prófi og p-gildi <0,05 talið samrýmast tölfræðilega marktækri breytingu milli ára.

Niðurstöður: Frá 2012 til 2016 lögðust inn á Landspítala. 1.116 sjúklingar 67 ára og eldri vegna mjaðmabrots. Notkun hjúkrunargreininga tengdum óráði jókst á rannsóknartímabilinu úr 10% í 30%, mest var aukningin í notkun greiningarinnar hætta á bráðarugli sem notuð var einu sinni (0,5%) árið 2012 en hjá 40 sjúklingum (17,7%) árið 2016 (p=0,001). Hjúkrunargreiningin bráðarugl kom fyrir hjá 20 (9,.6%) sjúklinga 2012 og 28 (12,.4%) 2016 (p=0,826). 

Ályktanir: Innleiðing klínískra leiðbeininga um greiningu hefur skilað aukinni áverkni á meðal hjúkrunarfræðinga Landspítala fyrir óráði.  Þessar niðurstöður hafa gildi fyrir þá er vinna að fræðslu og innleiðingu verkferla og klíníiskra leiðbeininga á LSH.  Árvekni og þekkingu er hægt að bæta með aukinni fræðslu.



Líðan sjúklinga með brjóstverki við komu á Hjartagátt: Samanburður milli sjúklinga með hjartasjúkdóm og ótilgreinda verki

Erla Svansdóttir1, Sesselja Hreggviðsdóttir2, Elísabet Benedikz1, Björg Sigurðardóttir3, Karl Andersen3,4, Hróbjartur Darri Karlsson5

1Gæða- og sýkingavarnadeild, Landspítali, 2Sálfræðideild, Háskóli Íslands, 3Hjartagátt, Landspítali, 4Læknadeild, Háskóli Íslands, 5Læknadeild, Dunedin Hospital, Nýja Sjálandi

erlasvan@landspitali.is

Bakgrunnur: Fjöldi fólks leitar árlega á hjartagátt Landspítala vegna brjóstverkja. Við komu er lögð áhersla á að útiloka að um alvarlega hjartaatvik sé að ræða, en veita viðeigandi bráðameðferð ef svo er. Í mörgum tilvikum finnast engin merki um hjartasjúkdóm né önnur bráð veikindi sem orsaka brjóstverkinn. Slík tilvik geta verið vegna ótilgreindra brjóstverkja sem orsakast af vægum vefrænum orsökum eða andlegum þáttum, á borð við bakflæði eða kvíða. Ótilgreindir brjóstverkir geta skapa talsvert álag á hjartabráðamóttökum og erfitt er að aðgreina þá frá bráðum hjartaveikindum nema með sértækum greiningarúrræðum.

Markmið: Að meta hvort sálrænir þættir geti spáð fyrir um tilvik ótilgreindra brjóstverkja meðal brjóstverkjasjúklinga.

Aðferð: Alls 507 sjúklingar (18-65 ára) sem leituðu á hjartagátt með brjóstverki frá október 2015-nóvember 2016 svöruðu spurningalistum um líkamleg einkenni, kvíða, þunglyndi, streitu, síþreytu, heilsukvíða og persónuleika D (sem lýsir tilhneigingu til neikvæðra tilfinninga og óöryggi í félagslegum samskiptum). Samband sálrænna þátta við tilvik um ótilgreindan brjóstverk var metið með línulegri aðfallsgreiningu, þar sem stjórnað var fyrir áhrifum aldurs, kyns, og menntunarstöðu.

Niðurstöður: Alls 72% þátttakenda höfðu ótilgreinda brjóstverki og 24% hjartasjúkdóm, en 4% hlutu aðrar greiningar. Nær þriðjungur sjúklinga með ótilgreinda brjóstverki höfðu leitað áður á bráðamóttökur (34%) eða til annarra heilbrigðisaðila (32%) vegna brjóstverkja. Andleg líðan þátttakenda var sambærileg á kvíða, þunglyndi og streitu, en sjúklingar með ótilgreinda verki skoruðu hærra en hjartasjúklingar á heilsukvíða og líkamlegum einkennum. Fjórðungur sjúklinga með ótilgreinda brjóstverki náði skilmerkjum fyrir síþreytu og persónuleika D. Í línulegri aðfallsgreiningu spáðu persónuleiki D (OR=3.12; 95% CI:1.26-8.48), kyn (konur; OR=3.49; 95% CI:1.86-6.85) og aldur (OR=0.91; 95% CI:0.87-0.94) fyrir um hvort sjúklingar hefðu ótilgreinda brjóstverki.

Ályktanir: Ótilgreindir brjóstverkir voru algengir meðal sjúklinga sem leituðu með brjóstverki á hjartagátt. Þessi sjúklingahópur bar svipaða andlega vanlíðan og hjartasjúklingar. Yngri einstaklingar, konur og sjúklingar með persónuleika D reyndust líklegri til að hafa ótilgreinda brjóstverki.   



Mat á umfangi og eðli fyrirspurna í eitrunarmiðstöð Landspítala og verklagi við svörun

Guðrún Svanhvít S. Michelsen1, Freyja Jónsdóttir1,2, Curtis Snook3, Helena Líndal4, Guðborg Auður Guðjónsdóttir1

1Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 2Sjúkrahúsapóteki Landspítala, 3Bráðadeild Landspítala, 4Eitrunarmiðstöð Landspítala

gss19@hi.is

Bakgrunnur: Eitrunarmiðstöð var fyrst sett á laggirnar á Íslandi þann 1. desember 1994 á Borgarspítalanum. Sérþjálfaðir hjúkrunarfræðingar sáu um símsvörun fram til ársins 2001. Deildarlæknar og kandídatar á bráðamóttöku tóku svo við árið 2002 og sáu um símsvörunina þar til 1. mars 2017, en þá varð sú breyting á að klínískir lyfjafræðingar tóku við símsvörun á dagvinnutíma (08-16) en deildarlæknar og kandídatar á bráðamóttöku sinna enn símsvörun á kvöldin og á nóttunni (16-08). Bakvakt sérfræðinga í eitrunum var starfrækt nánast frá upphafi þar til hún var lögð niður í mars 2012. Tvær framskyggnar rannsóknir hafa verið gerðar á bráðum eitrunum frá aldarmótum, 2001-2002 og 2012. Ekki hefur áður verið gerð íslensk rannsókn á fyrirspurnum sem berast í síma eitrunarmiðstöðvarinnar.

Markmið: Að skoða umfang og eðli fyrirspurna sem berast eitrunarmiðstöð Landspítala og meta gæði skráningar og ráðlegginga. Að fá upplýsingar um verklag, starfsaðstæður, þjálfun og viðhorf þeirra sem svara fyrirspurnum í eitrunarmiðstöðinni. Að greina forvarnartækifæri. 

Aðferð: Framkvæmd rannsóknarinnar er skipt í þrjá verkþætti. 1) Skráningar fyrirspurna í Access gagnagrunn verða skoðaðar fyrir tímabilið 1. janúar 2010 – 31. desember 2017 m.t.t. ýmissa breyta, t.d. aldurs, kyns, ástæðu tilfellis, íkomuleiðar o.s.frv. 2) Gæði skráningar á tímabilinu 1. mars 2017 – 28. febrúar 2018 verður metin með yfirferð allra skráningarblaða tímabilsins og upplýsingasöfnun í gagnasöfnunartæki (e. data collection tool). Samhliða verður leitast við að kanna hvernig ráðleggingin samræmist leiðbeiningum, með áherslu á leiðbeiningar úr breska eitrunargagnagrunninum Toxbase. Í flóknari tilfellum eða vafaatriðum verða tilfellin yfirfarin af sérfræðingum eitrunarmiðstöðvar. 3)  Spurningalisti verður sendur þeim deildarlæknum, kandídötum og lyfjafræðingum sem hafa svarað í síma eitrunarmiðstöðvarinnar á tímabilinu 1. mars 2017 – 28. febrúar 2018.

Niðurstöður og ályktanir: Niðurstöður munu ekki liggja fyrir á Bráðadaginn þann 2. mars nk. Rannsóknin er meistaraverkefni í lyfjafræði og verða niðurstöður kynntar á meistaraprófsdögum lyfjafræðideildar 8.-9. maí nk. Auk þess verða niðurstöðurnar kynntar á Bráðadeginum 2019. Einnig er stefnt að skrifum vísindagreinar um niðurstöðurnar.



Mat hjúkrunarfræðinga á eigin hæfni í hópslysaviðbrögðum

Guðrún Ösp Theodórsdóttir1,2, Guðrún Lísbet Níelsdóttir3, Helga Bragadóttir2,4

1Bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, 2Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 3Bráðamóttöku Landspítala, 4Vísinda- og þróunarsviði Landspítala

dunna@hss.is

Bakgrunnur: Hópslys hafa áhrif á fjölda fólks víðsvegar um heiminn. Margar milljónir manna láta lífið eða örkumlast í slíkum slysum og hamförum ár hvert. Hjúkrunarfræðingar skipa fjölmennasta hóp viðbragðsaðila heilbrigðiskerfisins og sinna ýmsum hlutverkum þegar hópslys eiga sér stað, svo sem að tilheyra greiningarsveit þar sem þeir forgangsflokka og meðhöndla sjúklinga. Samkvæmt erlendum heimildum meta hjúkrunarfræðingar sig ekki nægilega hæfa til að takast á við þau verkefni sem hópslysaviðbrögð krefjast. Þeir virðast ekki fá nægan undirbúning til að bregðast við slíkum atburðum á viðunandi hátt. Heimildir um hópslys sýna einnig að þjálfun viðbragðsaðila skiptir sköpum varðandi lifun og afdrif fórnarlamba hópslysa. Í ýmsum viðbragðsáætlunum á Íslandi er gert ráð fyrir slíkri þjálfun viðbragðsaðila og nefnd á vegum ríkisins hefur ályktað um þörfina fyrir þjálfun heilbrigðisstarfsfólks í viðbrögðum við hópslysum. Ekki hefur verið kannað hvort þeim áætlunum sé framfylgt og hvort hjúkrunarfræðingar á Íslandi fái þjálfun fyrir slíkar aðstæður, hvernig sú þjálfun fer fram, hversu oft eða í hverju hún felst. Þá hafa íslenskar rannsóknir á þessu málefni ekki snúið sérstaklega að hjúkrunarfræðingum, þekkingu þeirra eða hæfni. Í þessu erindi er fyrirhuguð rannsókn á hæfni hjúkrunarfræðinga í hópslysaviðbrögðum kynnt.

Markmið: Að leggja grunn að lýsandi þversniðsrannsókn á mati hjúkrunarfræðinga á eigin hæfni í hópslysaviðbrögðum, þekkingu þeirra, þjálfun og færni.

Aðferð: Fyrirhugað er að bjóða öllum hjúkrunarfræðingum sem tilheyra greiningarsveitum á Íslandi þátttöku í rannsókninni. Áætlað er að fjöldi þeirra sé á milli 180-200. Lagður verður fyrir skriflegur fjölvalsspurningalisti á íslensku sem byggir á matstækinu Emergency Preparedness Information Questionnaire (EPIQ).

Niðurstöður: Gögn verða greind með lýsandi tölfræði og rannsóknarspurningum svarað með tíðnidreifingu, meðaltölum og kí-kvaðrat fylgniprófum. Dregin verður upp mynd af því hvernig hjúkrunarfræðingar greiningarsveita meta hæfni sína, tíðni þjálfunar þeirra í hópslysaviðbrögðum, og hvort samband sé á milli bakgrunnsþátta, svo sem menntunar, reynslu og starfsstöðva, og hæfni. Þá verður varpað ljósi á hvers konar þjálfun og menntun hjúkrunarfræðingar kjósa helst í hópslysaviðbrögðum.

Ályktanir: Með þesssari rannsókn fæst aukin þekking á hæfni hjúkrunarfræðinga á Íslandi í hópslysaviðbrögðum og hvar úrbóta er þörf.


Eitrunarmiðstöð Landspítala – hlutverk og yfirlit símtala í eitrunarsímann 2017

Helena Líndal

Eitrunarmiðstöð Landspítala, fFlæðisviði

hlindal@landspitali.is

Bakgrunnur: Eitrunarmiðstöð Landspítala starfar samkvæmt íslenskum lögum og er starfrækt á Landspítala. Eitt af helstu hlutverkum hennar er að veita upplýsingar um eiturefni, ráðgjöf um viðbrögð og meðferð þegar eitranir verða og halda utan um tíðni og tegundir fyrirspurna. Símaþjónustan er opin öllum og ráðgjöf veitt af fagfólki  allan sólarhringinn. Einnig ber Eitrunarmiðstöð að taka við upplýsingum frá innflytjanda, framleiðanda eða öðrum sem ber ábyrgð á markaðssetningu eiturefnis eða varnarefnis á Íslandi. Slíkar upplýsingar varðandi efnasamsetningu og eiturhrif efna skulu vera aðgengilegar sérfræðingum miðstöðvarinnar.

Markmið: Að kynna hlutverk og leitarreglur Eitrunarmiðstöðvarinnar. Kynna tölfræði þeirra eitrunarsímtala sem berast í síma 543 2222.

Aðferð: Hlutverk Eitrunarmiðstöðvar skilgreint. Öll símtöl sem bárust í eitrunarsímann skráð á þar til greind eyðublöð og í gagnagrunn og tölur og tölfræðin skoðuð fyrir árið 2017.

Niðurstöður: Frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2017 bárust 1398 símtöl í eitrunarsíma LSH. 50% fyrirspurnana voru vegna hugsanlegra eiturefna, 45% vegna lyfjaeitrana og 5% almennar fyrirspurnir um lyf og eiturefni. 23% símtalanna voru vegna barna undir tveggja ára og 30% vegna barna 2-6 ára.

Flestar fyrirspurnir vegna lyfjaeitrana voru vegna lyfja í flokki geð- og flogaveikislyfja, parasetamóls,veikra verkjalyfja (NSAID) og vítamíns og járns. Algengasta íkomuleiðin var inntaka (73%), augu (6%), húð (5%) og innöndun (5%) en í 9% tilvika var íkomuleið ekki skráð. 68% voru óhöpp en í 11,5% tilvika var ekki vitað hvort um óhapp var að ræða eða ekki en 7,5% símtala voru vegna rangra lyfjagjafa og 7,5% vegna sjálfskaða.

Ályktanir: Símtöl sem berast í eitrunarsímann hafa í gegnum tíðina verið vanskráð samkvæmt tölum frá sSímaveri LSH og hægt er að gera betur sérstaklega er varðar eftirfylgni símtala og samstarf við þá aðila sem sinna meðferð vegna eitrana, til dæmis bBráðamóttöku barna. Hægt er að bæta skráningu símtalana verulega og sinna forvörnum betur.

 

COIL eykur færni í fjölbreytileika – reynslan af námi milli landa með hjálp tækninnar

Helga Bragadóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild, Heilbrigðisvísindasviði, Háskóla Íslands, 2Landspítala

helgabra@hi.is

Bakgrunnur: Mikilvægi færni í fjölbreytileika eða menningarhæfni er ekki dregið í efa nú þegar hnattvæðing er staðreynd á öllum sviðum, einnig í heilbrigðisþjónustu. Fjölbreytileiki er þó ekki eingöngu bundinn mismun fólks frá ólíkum löndum eða heimsálfum, heldur á hann rót sína í smæstu þáttum jafnt sem stærstu þáttum mannlífsins. Mikilvægt er að auka þekkingu og færni framtíðar heilbrigðisstarfsmanna í menningarhæfni þar sem gera má ráð fyrir að fjölbreytileiki mannlífs og þar með starfsfólks og sjúklinga heilbrigðisþjónustunnar, eigi eingöngu eftir að aukast. Ein leið til að styrkja mennningarhæfni í heilbrigðisþjónustu er að sækja heim skóla og heilbrigðisstofnanir í öðrum löndum. Það eiga hins vegar ekki allir heimangengt. Með notkun tækninnar er mögulegt að gera nám fjölbreyttara og alþjóðlegt án þess að fara á milli staða.

Markmið: Í þessu verkefni er sagt frá reynslu af námi í hjúkrunarstjórnun og forystu með hjálp tækninnar þar sem hliðarmarkmið námsins er að auka menningarhæfni og hnattræna hugsun nemenda.

Aðferð: Með svokallaðri COIL (collaborative online international learning) aðferð, sem talin er upprunninn í Fylkisháskóla New York (State University of New York (SUNY)), fá nemendur og kennarar reynslu í alþjóðasamskiptum og samstarfi og þjálfast í menningarhæfni og hnattrænni hugsun. Lykilþættir COIL eru að tveir eða fleiri skólar frá a.m.k. tveimur löndum vinna saman að kennslu námskeiða og nota til þess veraldarvefinn. Um samstarf er að ræða þar sem báðir leggja til kennslunnar, markmið eru sameiginleg og nemendur vinna verkefni saman. Í þessu tilviki var um að ræða tvö námskeið á meistarastigi í hjúkrunarstjórnun við Háskóla Íslands og eitt námskeið í doktorsnámi í forystu í hjúkrun við University of Minnesota í Bandaríkjunum.

Niðurstöður: Nokkur ögrun felst í þessu alþjóðlega samstarfi hvað samhæfingu, tækni og tungumál varðar. Nemendur og kennarar meta COIL námskeiðin hins vegar gagnleg og að þátttaka í þeim auki á víðsýni þeirra, menningarhæfni og hnattræna hugsun.

Ályktanir: COIL er árangursrík leið í kennslu til að auka menningarhæfni og hnattræna nálgun. Hún er leið til að bjóða upp á alþjóðlegt nám án ferðalaga. Vel mætti nýta COIL aðferðafræðina til auka færni í fjölbreytileika á fleiri fræðasviðum heilbrigðisvísindanna svo sem í bráðafræðum og milli annarra menningarheima en eingöngu landa.

 


Byltuhætta - tilvísun í úrræði eftir komu á bráðamóttöku, dag- eða göngudeild

Konstantín Shcherbak, Anna Björg Jónsdóttir

Byltu- og beinverndarmóttaka Landspítala

konstant@landspitali.is

Bakgrunnur: Einn af hverjum fjórum öldruðum dettur að minnsta kosti einu sinni á ári. Fleiri þúsundir Íslendinga leita sér þjónustu árlega vegna afleiðinga byltu á hHeilsugæslustöðvar eða á bráðamóttökur. Flesta einstaklinga þarf að skoða með tilliti til ástæðna fyrir byltum.

Markmið: Búa til einfaltd áhættumat fyrir einstaklinga í byltuhættu sem stýrir flæði sjúklinga í rétt úrræði.

Aðferð: Erlendar leiðbeiningar um uppvinnslu bylta voru skoðaðar og ráðleggingum breytt í samræmi við íslenskar aðstæður.

Niðurstöður: Leiðbeiningar frá Center for Disease Control í Bandaríkjunum urðu fyrir valinu. Þar er mælt  með að skima fyrir byltuhættu með 4 spurningum: Hversu oft hefur viðkomandi dottið síðastliðna 12 mánuði? Voru áverkar eftir byltuna? Er vandamál með vöðvastyrk, jafnvægi eða göngulag? Er hræðsla við byltur til staðar? Svör við þessum spurningum flokka einstaklinga í litla, meðal eða mikla byltuhættu. Einstaklingar teljast vera í lítilli byltuhættu ef  til staðar er 0-1 bylta á einu ári eða  hræðsla við að detta, enginn áverki eftir byltur og engin röskun á vöðvastyrk, jafnvægi eða göngulagi. Í mikilli byltuhættu eru einstaklingar sem hlotið hafa tvær eða fleiri byltur á einu ári, eða eina byltu með áverka og til staðar er röskun á vöðvastyrk, jafnvægi eða göngulagi. Aðrir einstaklingar eru í meðal áhættu. Fyrir einstaklinga í lítilli byltuhættu telst uppvinnsla hjá heimilislækni nægileg. Einstaklingar í meðalhættu þurfa fjölfaglegt mat (hjá heimilislæknir og sjúkraþjálfari  á heilsugæslu eða  á sérhæfðri göngudeild sjúkrahúsa). Flestir einstaklingar í mikilli byltuhættu þurfa þverfaglegt mat sérfræðinga á göngudeild sjúkrahúsa.

Ályktanir: Byltu- og beinverndarmóttaka Landspítala mælir með skimun og flokkun einstaklinga með byltuhættu í þrjá flokka  metið með fjórum spurningum. Innleiðing ofangreinda leiðbeininga á Landspítala er áætluð vorið 2018

 

Andlit hjúkrunar - fjölbreytileiki

Lilja H. Hannesdóttir1, Svafa K. Pétursdóttir1

1Menntadeild Landspítala

liljahh@landspitali.is

Bakgrunnur: Á Landspítalanum hafa margir erlendir hjúkrunarfræðingar komið til starfa á undanförnum árum. Erlendir hjúkrunarfræðingar hafa verið duglegir að mæta og skrá sig á hin ýmsu námskeið á vegum menntadeildar en virðast ekki alltaf ná að fylgja námsefninu og taka stundum lítinn þátt í umræðum um námsefnið.

Markmið: Að greina þarfir erlendra hjúkrunarfræðinga fyrir fræðslutækifæri sem nýtast þeim og þróa slík námskeið.

Aðferð: Leitað var heimilda um námsþarfir nýráðinna erlendra hjúkrunarfræðinga. Þróun námsskeiða var byggð á gagnreyndri þekkingu.

Niðurstöður: Þau vandamál sem mæta erlendum hjúkrunarfræðingum er hægt að flokka í s 7 yfirflokka: 1. erfiðleika vegna mismunandi lagaumhverfis, 2. tungumála- og samskiptavanda, 3. kynþáttahyggju og mismunun, 4. skerðingu á færni (deskilling), 5. menningarleg aðlögun, 6. mismun á hjúkrunaraðferðum, og 7. vandamál tengd fjölskyldu. Haustið 2017 skipulagði menntadeild starfsþróunar námskeið fyrir erlenda hjúkunarfræðinga sem eru starfandi á Landspítala. Ákveðið var að byrja á hjúkrunarfræðingum sem höfðu starfað í þrjú ár eða skemur vegna þess að hópurinn væri einsleitari en reyndari hjúkrunarfræðingar.

Innihald fyrra námskeiðs:

·                    að læra af atvikum, að ræða við ættingja

·                    SBAR

·                    hermiþjálfun

·                    hópefli

·                    fagmennska í hjúkrun

·                    staðfest samskipti

·                    GÁT teymi

Eftir fyrra námskeiðið kom í ljós að þátttakendur upplifðu streitu við að svara í síma, og voru því staðfest samskipti, hvernig maður kallar á GÁT teymi, símsvörun og samtöl við ættingja tekin fyrir á næsta námskeiði. Auk þess fengum við starfsfólk á mannauðssviði til að vera með kynningu á starfsumhverfinu, menningu, líðan starfsmanns á vinnustað og hvaða leiðir standi starfsmanni til boða varðandi einelti, stuðning og við lausnir á ýmsum öðrum málefnum. Einnig var kynning og kennsla á skráningu hjúkrunar. Verklegar æfingar voru gerðar á báðum námskeiðunum. Í lok síðara námskeiðsins komu fram óskir um frekari námskeið, og var til dæmis beðið um kennslu á að lesa úr rannsóknarniðurstöðum. Þátttakendur voru 25.

Ályktanir: Námskeiðin reyndust árangursrík. Í lok beggja námskeiðanna var lögð fyrir örstutt könnun. Einkunn fyrir fyrra námskeiðið var 9,83 af 10, en fyrir það síðara 9,2. Í heildina fannst nemendum námskeiðin skila þeim betri þekkingu og hæfni til starfa. Frekari þróun á námsefni fyrir erlenda hjúkrunarfræðinga verður í höndum menntadeildar.


Parasetamól-eitranir á Landspítala. Verklag við meðhöndlun parasetamóleitrana og umfang og eðli þeirra

Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir1, Freyja Jónsdóttir1,2, Curtis P. Snook2,3, Einar S. Björnsson1,4, Helena Líndal5

Lyfjafræðideild Háskóla Íslands1,  Sjúkrahúsapótek Landspítala2 , Bráðadeild Landspítala3, Meltingar- og nýrnadeild Landspítala4, Eitrunarmiðstöð Landspítala5

thf19@hi.is

Bakgrunnur: Parasetamól er eitt mest notaða verkja- og hitastillandi lyfið á Íslandi í dag og er það selt sem lausasölulyf í apótekum þar sem almenningur hefur greiðan aðgang að því. Samkvæmt framskyggnri rannsókn á eitrunum á bráðamóttöku Landspítalans  2012 voru verkja- og hitastillandi lyf næst algengasti lyfjaflokkurinn til að valda eitrunum. Parasetamól  olli 84% af þeim eitrunum. Í sömu rannsókn kom fram að 97 komur á bráðamóttöku Landspítalans voru vegna parasetamól-eitrana en helstu ástæður þeirra eitrana voru sjálfsvígstilraunir (66%) og misnotkun lyfsins (17%). Í lýðgrundaðri rannsókn um parasetamól-eitranir á Íslandi frá 2004-2009 kom fram að nýgengi parasetamól-eitrana á Íslandi þyki heldur hátt borið saman við erlendar rannsóknir en ástæða þess er enn óútskýrð. Þrátt fyrir takmarkaðara aðgengi að parasetamóli á Íslandi er tíðni eitrana að völdum parasetamóls hærri samanborið við önnur Norðurlönd. Verklag milli landa er svipað en einstaka lönd hafa mismunandi áherslur en þær liggja helst í notkun á Rumack-Matthews línuritinu (nomogram) sem hjálpar til við að meta áhættuna á lifrarskaða og hvort meðhöndla þurfi sjúkling með N-acetylcystein. Ísland fylgir svipuðu verklagi og Ástralía og Bandaríkin en Bretar eru sér á báti hvað verklag varðar.

Markmið: Að skoða umfang og eðli parasetamól-eitrana. Umfang verður metið út frá nýgengi á árunum 2010-2017. Einnig verður skoðað og lagt mat á núverandi verklag við parasetamól-eitrunum á Landspítalanum og hvernig því er fylgt eftir.

Aðferð: Rannsóknin er afturskyggn gagnarannsókn og verða gögn fengin úr sjúkraskrám Landspítala. Úrtak verður tekið úr Sögu frá 1. janúar 2010-31. desember 2017 yfir alla þá sem fengið hafa parasetamól-mælingu á þessu tímabili. Til að meta hvort um parasetamól-eitrun sé að ræða hjá sjúklingum verður litið til þriggja þátta; S-parasetamól-mælingar (yfir/undir 66 mmól/L), sögu um inntöku parasetamóls og hækkun á lifrarensímum (ASAT og ALAT). Safnað verður frekari upplýsinga um þá sjúklinga sem uppfylla þessa þrjá þætti. Eftirfarandi breytum verðum safnað; aldur, kyn, þyngd, sjúkdómsgreiningar, skammtur innbyrður, þekktur tími inntöku, önnur lyfjainntaka, einkenni, ástæða og tegund eitrunar, meðhöndlun og afdrif sjúklings ásamt einstaka áhættuþættum, svo sem óeðlileg lifrarstarfsemi, áfengissýki, vannæring, misnotkun lyfja og geðræn vandamál.

Niðurstöður: Niðurstöður munu ekki liggja fyrir á Bráðadaginn. Rannsóknin er meistaraverkefni í lyfjafræði og verða niðurstöður kynntar á meistaraprófsdögum lyfjafræðideildar 8.-9. maí 2018. Auk þess verðar niðurstöðurnar kynntar á Bráðadeginum 2019. Einnig er stefnt að skrifum vísindagreina um niðurstöðum.

 






Þetta vefsvæði byggir á Eplica