Ávarp 2018

Ávarp formanns undirbúningsnefndar

Þróun Bráðadagsins sem ráðstefnu má segja að hafi fylgt þróun bráðaþjónustu á Landspítalanum. Fyrstu árin voru kynnt ýmis verkefni og mikilvægt efni nátengd starfi bráðamóttöku Landspítalans sem þá heyrði undir bráðasvið. Síðar sameinaðist almenn bráðamóttaka Landspítala, öldrunar- og endurhæfingarþjónustu Landspítala auk fleiri starfstöðva undir hatti flæðisviðs. Síðan 2013 hefur ráðstefnunefndin formlega óskað eftir, innan sem utan Landspítala, ágripum um rannsóknir og verkefni tengd bráðafræðum enda tengjast þau fleiri sviðum og stofnunum. Með hverju árinu verða gæðin, fjöldinn og fjölbreytnin meiri í þeim kynningum sem ráðstefnunefndin hefur úr að velja. Með tímanum hefur þessi árlega uppskeruhátíð rannsókna og þróunarverkefna á flæðisviði og Rannsóknastofu LSH og HÍ í bráðafræðum, því ekki lengur einungis tekið mið af eiginlegri bráðaþjónustu heldur mun víðtækari þjónustu við skjólstæðinga okkar. Þetta teljum við endurspeglast í yfirskrift ráðstefnunnar í ár, Fjölbreytileiki í bráðaþjónustu.

Í takt við breytingar í samfélaginu, ekki einungis hér á landi, heldur víðast hvar um heiminn, hefur bráðaþjónusta breyst. Framfarir í læknavísindum gera að verkum að fleiri lifa lengur með fjölþætt vandamál, aldraðir eru hlutfallslega orðnir stærri þjóðfélagshópur, fólksflutningar um heiminn hafa aukist. Hér á Íslandi búa fleiri borgarar með erlendan bakgrunn auk þess sem ferðamannastraumur hefur aldrei verið meiri, umskipti hafa orðið í viðhorfi til einstaklinga sem áður upplifðu sig utangátta og einangraða en samfélagið nú viðurkennir. Öllu þessu þarf bráðaþjónusta að taka mið af. Til að veita hina bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu þarf þörfum mismunandi einstaklinga að vera sinnt. Fjölbreytileikanum fylgja áskoranir. Áskoranir vegna samskipta og tungumáls, vegna umönnunarþarfa, vegna menningar, vegna áfalla, vegna jaðarsetningar og sannarlega vegna þess að öll erum við einstaklingar með mismunandi þarfir, þrár, líkama og sál.

Á Landspítalanum og í bráðaþjónustu um allt land ríkir lausnamiðað hugarfar sem oftar en ekki byggir  á gagnreyndri þekkingu sem verður til við góðar rannsóknir í bráðafræðum. Rannsóknir sem leiða til nýjunga í meðferð og gæðaverkefni þar sem árangur þjónustu er metinn eru besta leiðin að hágæða bráðaþjónustu. Slíkar framfarir og þá sérstaklega framfarir í takt við stöðugar breytingar samfélagsins eru ávalt háðar þeim ramma sem sniðinn er af stjórnvöldum. Í nánustu framtíð þarf að huga að víðfeðmu samstarfi allra aðila sem koma að bráðaþjónustu á Íslandi, frá öllum endum og öllum haghöfum, í því markmiði að ná eyrum stjórnvalda, því verkefnin eru ærin.

Á ráðstefnunni í ár verður fjallað um bráðaþjónustu innan sem utan sjúkrahúsa, hæfni og færni starfsfólks, mismunandi hópa skjólstæðinga og hvað tekur við eftir mesta bráðafasann í veikindum þeirra. Vonin er að umfjöllunarefnin veki áhuga og hugmyndir til að byggja upp enn betri bráðaþjónustu, bráðaþjónustu sem tekur mið af fjölbreytileikanum sem við okkur blasir.

Höfundum ágripa, gestafyrirlesurum, undirbúningsnefnd, framkvæmdastjóra flæðisviðs, styrktaraðilum, fundarstjórum og starfsfólki flæðisviðs eru færðar bestu þakkir fyrir mikilsvert framlag til ráðstefnunnar í ár.

 

Dr. Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, forstöðumaður fræðasviðs í bráðahjúkrun á Landspítala og við Háskóla Íslands

Formaður undirbúningsnefndar

Þetta vefsvæði byggir á Eplica