Leiðari

Vísindi á Landspítala - hvert stefnir?

Magnús Gottfreðsson

Á árinu 2016 var Landspítali enn sem fyrr mikið í fréttum. Fréttirnar voru því miður oft neikvæðar; m.a. um mikið álag og húsnæðisvanda. Það er því gleðilegt að einnig hafi verið töluvert af jákvæðum fréttum og ber þar hvað hæst fréttir af rannsóknum og vísindastarfi. Sem dæmi um metnaðarfull verkefni sem hófust á árinu eru tvær umfangsmiklar rannsóknir þar sem spítalinn kemur mjög við sögu, annars vegar meðferðarátak gegn lifrarbólgu C á landsvísu og hins vegar rannsókn á illkynja blóðsjúkdómi sem fékk heitið Blóðskimun til bjargar.

Segja má að spítalinn sé eitt stærsta þekkingarfyrirtæki landsins. Nýjar yfirlitstölur fyrir árið 2016 benda til að fjöldi birtra vísindagreina eftir starfsmenn hér hafi aukist frá árinu 2015 og er það vel en margir hafa haft áhyggjur af dvínandi vísindaáhuga í kjölfar efnahagshruns og skertra fjárveitinga um árabil. Vert er að hafa í huga að fjöldi birtinga er þó ekki einhlítur mælikvarði á gæði vísindastarfs. Nánari greining á þessum tölulegu upplýsingum bendir til að hlutverk spítalans sem góðs samstarfsaðila fari vaxandi en að frumkvæðisverkefni innanhúss standi í stað eða séu jafnvel á undanhaldi. Lengri tíma þarf til að átta sig betur á þróuninni en hafa skal í huga að verkefni þar sem starfsmenn spítalans eru í leiðandi hlutverki eru líklegri til að skilja eftir sig varanlegan ávinning í formi þekkingar og bættra vinnubragða.

Annar mælikvarði sem vert er að fylgja eftir er fjöldi umsókna um vísindarannsóknir til siðanefnda, en nefndirnar eru þrjár. Fjöldi umsókna til vísindasiðanefndar hefur dregist nokkuð saman miðað við árin á undan en nokkur fjölgun átti sér stað á umsóknum til siðanefndar heilbrigðisrannsókna og siðanefndar stjórnsýslu.

Yfirlitstölur um styrkupphæðir sýna jafnframt að starfsmenn spítalans hafa staðið sig vel í að afla bæði innlendra og erlendra styrkja. Eitt af meginmarkmiðum bæði heilbrigðisyfirvalda og spítalans ætti að vera að tryggja fjármögnun öflugs og þróttmikils vísindastarfs, sjúklingum og starfsmönnum til heilla.

Það er ekki einfalt að átta sig á núverandi stöðu mála hvað varðar vísindahlutverk spítalans. Hvert stefnir málaflokkurinn? Allir stjórnmálaflokkar virðast vera sammála um að efla heilbrigiskerfið en fjármögnum kerfisins í heild er hins vegar ófullnægandi, þar með talið hér á Landspítala og þá ekki aðeins fjármögnun hins hefðbundna þjónustuhlutverks heldur einnig þess hluta sem snýr að rannsókna- og menntahlutverki stofnunarinnar.

Erlendis er vísinda- og menntahlutverk háskólaspítala skilgreint sérstaklega enda er um viðbót að ræða við þær hefðbundnu skyldur sem sjúkrahúsum er ætlað að standa undir. Hér er því ekki til að dreifa heldur er spítalanum ætlað að sinna öllum sínum margbreytilegu hlutverkum innan fyrirfram ákveðins fjárhagsramma sem sagan sýnir að er ekki alltaf í fullum tengslum við raunveruleikann. Undir slíkum kringumstæðum er hætt við að vísindi og menntun sé látin sitja á hakanum. Mikilvægt er að breyta þessu og gera ráð fyrir sérstakri fjárhagsáætlun á þessu hlutverki í framtíðinni enda er afar óheppilegt að innan sömu stofnunar sé togast á um fé til klínískrar þjónustu annars vegar og vísinda og mennta hins vegar.

Þegar fram í sækir mun uppbygging vísinda- og menntastarfs gera spítalanum auðveldara um vik að laða að hæfara starfsfólk. Vert er að hafa í huga að vísindastarf framtíðarinnar verður borið uppi af þeim sem nú eru enn í námi og því mikilvægt að þessi vinnustaður hafi góða og jákvæða ímynd í huga þeirra enda viljum við fá hæft fólk til starfa að grunn- og framhaldsnámi loknu. Stuðningur við vísindastarf er þannig eitt mikilvægasta mannauðsmál stofnunarinnar þegar litið er fram á veginn. Þá er sú vísa aldrei of oft kveðin að sjúkrahús sem einnig sinna vísindum og menntun af alúð og metnaði ná jafnframt betri árangri í klínískri þjónustu.

Mynd I

Mynd II

Mynd III
Þetta vefsvæði byggir á Eplica