C - flokkur - ágrip

C - ágrip: Lyfja- og læknisfræði

C1 - Lyf sem geta haft öndunarbælandi áhrif samhliða ópíóíðum

Bylgja D. Sigmarsdottir1, Þórunn K. Gudmundsdottir1, Sigríður Zoëga2, Pétur S. Gunnarsson1

1Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 2Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

bdsigmars@gmail.com

Inngangur: Öndunarbæling er lífshættulegt ástand og er vel þekkt sem aukaverkun ópíóíða. Lítið er vitað um notkun á ópíóíðum samhliða öðrum öndunarbælandi lyfjum í tengslum við notkun á Naloxon hér á landi.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að gera fræðilega samantekt og skoða notkun lyfja sem geta haft öndunarbælandi áhrif samhliða gjöf á ópíóíðum.

Aðferðir: Fræðileg samantekt var unnin út frá ritrýndum vísindagreinum, lyfjagagnagrunnum og klínískum leiðbeiningum. Um afturskyggna lýsandi rannsókn er að ræða þar sem fengin voru gögn um notkun á lyfinu naloxon úr Therapy lyfjakerfinu á fjórum sviðum Landspítala yfir tímabilið 2010-2014. Út frá þeim var kannað hvaða ópíóíða og önnur öndunarbælandi lyf einstaklingar fengu, í hvaða skömmtum og með hvaða íkomuleið sólahringinn fyrir gjöf á naloxon. Notkun lyfjanna var skoðuð út frá aldri, kyni og sviðum.

Niðurstöður: Þeir lyfjaflokkar sem geta haft öndunarbælandi áhrif samhliða ópíóíðum eru bensódíasepín-, svefn-, geð-, flogaveiki-, ofnæmis-, og staðdeyfilyf. Af þessum flokkum ber helst að nefna bensódíasepínlyfin. Ástæðan skýrist út frá verkunarmáta lyfjanna á GABA viðtaka og hversu mikið þau eru notuð. Þegar notkun á ópíóíðum var skoðuð (n=138) var morfín gefið í 49,2% tilfella. Í 63% tilfella var að minnsta kosti eitt öndunarbælandi lyf gefið samhliða ópíóíðum þar sem gjöf á bensódíasepín lyfjum var algengust eða í 33% tilfella.

Ályktanir: Notkun á bensódíasepín lyfjum samhliða gjöf á ópíóíðum virðist vera mjög algeng þrátt fyrir að margar rannsóknir sýni fram á áhættuna sem því getur fylgt. Lyf eru þó ekki eini þátturinn sem spáir fyrir um notkun á naloxon. Sjúkdómar, heilsufar og meðvitundarástand einstaklinga eru dæmi um þætti sem þarf að skoða í samhengi við lyfjanotkun.

 

C2 - Sjónsviðsskerðing við fyrstu hjáveituaðgerð (trabeculectomiu) í gláku

Elín Björk Tryggvadóttir2, Sveinn Hákon Harðarsson3, María Soffía Gottfreðsdóttir1,3

1Augndeild Landspítala, 2Augndeild Háskólasjúkrahússins á Skáni, Svíþjóð, 3Háskóli Íslands

Elin.Tryggvadottir@skane.se

Inngangur:  Gláka (primary open angle glaucoma) er sjúkdómur í sjóntaug sem einkennist af þrengingum og skemmdum í sjónsviði og getur leitt til blindu. Hjáveituaðgerðir eru framkvæmdar við illvígri gláku. Ekki hefur áður verið rannsakaður alvarleiki sjónsviðsskemda hjá sjúklingum sem undirgangast fyrstu hjáveituaðgerð á Íslandi.

Markmið: Meta sjónsviðsskerðingu hjá sjúklingum sem undirgangast fyrstu hjáveituaðgerð.

Aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 86 sjúklingum, 98 augum, sem undirgengust fyrstu hjáveituaðgerð vegna gláku á Landspítala frá júní 2013 til mars 2016. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og sjónsvið var metið (Octopus automated perimetry). Alvarleiki glákuskemmda var metinn með mean defect (MD) tölugildi. Sjúklingar voru flokkaðir í þrjá hópa eftir alvarleika glákuskaða.

Niðurstöður: Meðalaldur 75 ár, 59% konur. Sjúklingar notuðu að meðaltali þrjú glákulyf þegar þeim var vísað í aðgerð. Meðalgildi MD var 13,1 +/- 7,7dB.  22% sjúklinga voru með mildan glákuskaða (MD < 6dB), 25% miðlungs glákuskaða (MD á bilinu 6-12 dB) og 53% höfðu alvarlegar glákuskemmdir á sjónsviði (MD ≥112).

Ályktanir: Okkar gögn benda til þess að meirihluti sjúklinga sem vísað er í fyrstu hjáveituaðgerð sé með alvarlegan glákuskaða. Koma má í veg fyrir alvarlegar glákuskemmdir og blindu í flestum tilfellum ef meðferð er beitt snemma og inngripi með aðgerð er beitt tímanlega. Okkar niðurstöður benda til þess að augnlæknar ættu að íhuga að senda sjúklinga fyrr í sjúkdómsferlinu í hjáveituaðgerð við gláku.

 

C3 - Lyfjameðferð gláku og milliverkanir við lyf til inntöku

Valgerður Dóra Traustadóttir1, Elín Björk Tryggvadóttir2, Ólöf Birna Ólafsdóttir3, Aðalsteinn Guðmundsson4, María Soffía Gottfreðsdóttir1

1Augndeild Landspítala, 2Skånes Universitets Sjukhus, Lund, 3Háskóla Íslands, 4Lyflækningasviði Landspítala

valgerdt@landspitali.is

Inngangur: Gláka er alvarlegur augnsjúkdómur og var algengasti blinduvaldur á Íslandi fram á miðja síðustu öld. Tíðni gláku hækkar með aldri og því algengt að sjúklingar með gláku hafi aðra sjúkdóma og séu á fjöllyfjameðferð til viðbótar við glákulyfin. Möguleiki er á að augndropameðferð og lyf til inntöku geti haft milliverkanir og aukaverkanir sem gætu skipt sköpum fyrir öryggi og líðan sjúklinga.

Markmið: Að kanna lyfjameðferð þeirra sem undirgangast fyrstu hjáveituaðgerð (trabeculectomiu) við gláku.

Aðferðir: Afturskyggn rannsókn þar sem skoðuð voru gögn 100 einstaklinga sem undirgengust fyrstu hjáveituaðgerð við gláku á Landspítalanum árin 2013-2017. Skráð voru; kyn, aldur og helstu sjúkdómsgreiningar einstaklinga. Aflað var upplýsinga um lyfjanotkun á sex mánaða tímabili fyrir og eftir aðgerð ásamt glákumeðferð einstaklinga fyrir aðgerð.

Niðurstöður: Af 100 sjúklingum voru 87 á lyfjum, að meðaltali 6,07 lyf á mann. Algengasti lyfjaflokkurinn voru blóðþrýstingslyf sem 57 einstaklingar tóku að staðaldri, af þeim voru betablokkarar algengastir (n=30). Imovane var algengasta einstaka lyfið (n=24). Meðalfjöldi augnþrýstingslækkandi lyfja var 3,04 á mann, þar var algengasti lyfjaflokkurinn prostaglandin hliðstæður.

Ályktun: Ljóst er að einstaklingar með gláku taka ýmis lyf vegna annarra sjúkdóma sem geta haft áhrif á glákuna og valdið milliverkunum við glákulyf. Þegar ákveðin er lyfjameðferð fyrir einstakling með gláku þarf að hafa í huga annars vegar áhrif lyfja til inntöku á glákusjúkdóminn og hins vegar áhrif glákulyfja á ástand einstaklings m.t.t. annarra sjúkdóma.

 

C4 - Dexamethasone nanóagnir- augndropar í stað Mitomycin C í hjáveituaðgerðum í gláku

María Soffía Gottfreðsdóttir1, Gauti Jóhannesson2, Guðrún Marta  Ásgrímsdóttir3, Einar Stefánsson1,3

1Augndeild Landspítala,2Department of Clinical Sciences, Ophthalmology, Umeaa University, Sweden, 3Oculis ehf, Reykjavík, Iceland

mariago@landspitali.is

Tilgangur: Örvefsmyndun er vel þekkt vandamál eftir hjáveituaðgerðir við gláku og algengasta ástæða þess að aðgerðirnar virka ekki sem skyldi. Mitomycin C (MMC) hefur verið notað um árabil í hjáveituaðgerðum (trabeculectomy) til að minnka líkur á örvefsmyndun og auka þrýstingslækkandi áhrif aðgerða. MMC hefur hins vegar miklar aukaverkanir sem leitt geta til alvarlegra fylgikvilla.  Markmið rannsóknarinnar var að kanna kröftuga stera dropameðferð eftir aðgerð með 1,5% dexamethasone í cyclodextrin nanóögnum (DexNP) í stað þess að nota MMC í aðgerð.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var tvíblind klínisk rannsókn þar sem 25 sjúklingar með gláku (Primary open angle glaucoma) undirgengust hjáveituaðgerð. 15 sjúklingar fengu meðferð með DexNP  x4/dag eftir aðgerð (study group) en 10 sjúklingar fengu hefðbunda meðferð með MMC í aðgerð og dropameðferð með 0,1% dexamethasone (Maxidex®) x6 /dag eftir aðgerð (control group). Árangur meðferðar var metinn eftir þrýstingslækkandi áhrifum með augnþrýstingsmælingu eftir 3, 6 og 12 mánuði.

Niðurstöður:  Augnþrýstingur í DexNP hóp og viðmiðunarhópi var 25,3 mm Hg og 24,3 mm Hg fyrir aðgerð. Augnþrýstingur lækkaði í 15,4 mm Hg og 12,7 mm Hg eftir 3 mánuði og 14,0 og 13,1 eftir 12 mánuði. Eftir 12 mánuði var fyrirfram skilgreindum árangri  (success rate) náð  í 75% tilfella í báðum hópum. Ekki var marktækur munur á notkun glákulyfja (p=0.99) eftir aðgerð eða á fylgikvillum eftir aðgerð í hópunum tveimur.

Ályktun: DeXNP augndropar eru árangursrík meðferð eftir hjáveituaðgerð við gláku. DeXNP hafa kröftug bólgueyðandi (anti-inflammatory) og örvefshemjandi (anti-fiborblast) áhrif og geta mögulega komið í stað MMC við hjáveituaðgerðir í gláku.

 

C5 - Súrefnismettun sjónhimnuæða í vægri, vitrænni skerðingu

Ólöf Birna Ólafsdóttir1,2, Hrafnhildur Sif Sævarsdóttir2, Sveinn Hákon Harðarson2, Kristín Hanna Hannesdóttir3, Valgerður Dóra Traustadóttir1, Anna Bryndís Einarsdóttir4, Jón Snædal3, Einar Stefánsson1,2

1Augndeild Landspítala, 2Háskóla Íslands, 3Flæðisviði öldrunarlækninga Landspítala, 4Odense University Hospital, Óðinsvéum, Danmörk

olofbirnaolafs@gmail.com

Inngangur: Með hækkandi meðalaldri fólks ásamt framförum í heilbrigðisþjónustu hefur tíðni heilabilana aukist. Væg, vitræn skerðing (e. mild, cognitive impairment, MCI) er oft fyrsta klíníska einkenni heilabilunar, til að mynda Alzheimer sjúkdómsins. Sýnt hefur verið fram á að súrefnismettun sjónhimnuæða í meðalsvæsnum (e. moderate) Alzheimer er hækkuð samanborið við heilbrigða einstaklinga sem gefur vísbendingu um mögulegan lífvísi í formi súrefnismælinga á sjónhimnuæðum.

Markmið: Að mæla súrefnismettun sjónhimnuæða í einstaklingum með MCI og kanna hvort súrefnismæling gæti verið mögulegur lífvísir fyrir Alzheimer.

Aðferðir: Súrefnismettun sjónhimnuæða var mæld með súrefnismæli, Oxymap T1, í 42 einstaklingum með MCI ásamt 42 heilbrigðum einstaklingum. Hóparnir voru paraðir hvað varðar aldur og kyn.

Niðurstöður: Súrefnismettun í slagæðlingum og bláæðlingum mældist hærri í MCI samanborið við heilbrigða (slagæðlingar: 93,1 ± 3,7% vs. 91,1 ± 4%, p=0,003; bláæðlingar: 59,6 ± 6,1% vs, 54,9 ± 6,4%, p=0,0006). Munur í súrefnismettun milli slag- og bláæðlinga var lægri í MCI samanborið við heilbrigða (33,5 ± 4,5% vs. 36,2 ± 5,2%, p=0,02).

Ályktun: Súrefnisupptaka virðist minni í MCI samanborið við heilbrigða einstaklinga og súrefnisnotkun í sjónhimnu því væntanlega minnkuð hjá einstaklingum með MCI. Því er möguleiki að breytingar séu komnar fyrr fram í Alzheimer en áður hefur verið sýnt fram á. Súrefnismælingar gætu því hugsanlega nýst sem lífvísir fyrir Alzheimer. Frekari mælingar eru nauðsynlegar þessu til staðfestingar.

 

C6 - Sár vetrarins. Faraldsfræði áverka á norðurslóðum

Guðrún Björg Steingrímsdóttir1,2,5, Sigrún Helga Lund2,3, Unnur Valdimarsdóttir2,3, Guðrún Kr. Guðfinnsdóttir4, Brynjólfur Árni Mogensen1,2,5

1Bráðamóttaka Landspítala, 2Læknadeild HÍ, 3Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Háskóla Íslands, 4Embætti Landlæknis,5Rannsóknarstofa LSH og HÍ í bráðafræðum

gudrstei@landspitali.is

Inngangur: Áverkadauði vegna slysa, ofbeldis og sjálfsskaða er allstaðar mikið og alvarlegt vandamál. Íbúar í dreifbýli búa við minni lífslíkur ef þeir slasast alvarlega en þeir sem búa í þéttbýli. Á þessu hafa verið gerðar rannsóknir en fáar rannsóknir hafa verið gerðar á áverkadauða og á alvarlegum  áverkum á Norðurlöndum.

Markmið: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvað einkenndi þá sem létust áverkadauða á Íslandi og hvort munur væri á því hvort áverki varð í dreifbýli eða þéttbýli. Rannsóknin er hluti af samnorrænni rannsókn.

Aðferð:  Þýði rannsóknarinnar voru þeir er létust áverkadauða á Íslandi á árunum 2007 til 2011. Gögn voru fengin úr Dánarmeinaskrá Landlæknis, Sögu og krufningarskýrslum.

Niðurstöður: Þýði rannsóknarinnar voru 513 einstaklingar. Karlmenn voru marktækt fleiri (68%). Meðalaldur var 53,4 ár en meðalaldur karla var 49,5 ár og kvenna 61,5 ár. Af slysförum létust 45% einstaklinga (64% karlar), 33% af völdum sjálfsvíga (79% karlar), 1,3% af völdum manndrápa (86% karlar) en í 20% tilvika var óljóst hvernig andlát bar að (56% karlar). Algengustu orsakir áverkadauða af slysförum voru umferðarslys og föll. Í dreifbýli létust 1,89/1000 íbúa en í þéttbýli 1,49/1000 íbúa. Marktæk jákvæð fylgni var milli hærra áverkaskors (ISS) og lengri vegalengdar frá Landspítala við áverka (Fylgnistuðull 0,231).

Ályktanir: Niðurstöður sýna að karlmenn eru í meirihluta þeirra er látast vegna slysa, sjálfsvíga og manndrápa og meðalaldur þeirra er lægri við andlát. Fleiri látast á hverja þúsund íbúa í dreifbýli og það er fylgni milli hærra áverkaskors og lengri vegalengdar frá sjúkrahúsi. Tímabil rannsóknar verður aukið í 10 ár og bætt verður við einstaklingum er hlutu alvarlega áverka og lifðu af.

 

C7 - Raförvun aftari mænuróta  til að draga úr síspennu í neðri útlimum

Guðbjörg Ludvigsdóttir1, Gígja Magnúsdóttir1, Vilborg Guðmundsdóttir1, Guðmundur Bragi Árnason2, Þórður Helgason3

1Grensásdeild Landspítala, 2Karlsruhe Institute for Technology, 3Heilbrigðistæknisetur LSH og HR

gudbjl@landspitali.is

Inngangur: Síspenna er þekktur fylgikvilli eftir mænuskaða sem skerðir hreyfigetu og dregur úr lífsgæðum. Mögulegar meðferðir eru oft ófullnægjandi og hafa fylgikvilla.

Markmið: Að meta áhrif raförvunar á aftari mænurætur  með  yfirborðs-rafskautum á síspennu.

Aðferðir: Rannsóknin var tvíþætt. Í fyrsta lagi voru  áhrif 30 mínútna meðferðar metin (8 þáttakendur). Í öðru lagi voru áhrif daglegrar meðferðar í 30 mínútur/dag í 4 vikur hjá einum þátttakanda mæld.  Raförvað er með rafskauti sem fest er á bakið milli Th11-Th12 og tvö stærri samtengd skaut sett á neðanverðan kviðvegg. Rafstraumurinn er hafður veikari en svo að samdráttur fáist í vöðvum neðri útlima.  Mat á áhrifum mænuraförvunarinnar var gerð með raflífeðlisfræðilegum og klínískum athugunum ásamt spurningalistum og athugasemdir þátttakenda voru skráðar. Mælingarnar voru gerðar fyrir, strax á eftir og 2 klst eftir meðferðina. Síspennan var metin með Ashworth skala, +/- clonus, viðbrögð við áreiti (Babinski), hreyfigetu (lyfta hnjám upp á bringu), 10-metra göngupróf og Wartenberg sveiflupróf sem ákvarðar tölulega stærðargráðu síspennunnar.  Virkni vöðva var mælt með yfirborðsvöðvariti(EMG) og hreyfiferlar voru mældir með liðhornamælum.

Niðurstöður: Niðurstöður rannsóknarinnar styðja þá kenningu að raförvun getur dregið úr síspennu hjá einstaklingum með mænuskaða. Hjá þeim sem að svöruðu meðferðinni minnkaði síspennan til muna í meir en 2 klst. Dagleg  meðferð lengdi áhrifin  upp í 8 klst.

Ályktanir: Raförvun í gegnum mænurætur með yfirborðsskautum lofar góðu í meðferð á síspennu. Þetta er einföld meðferð sem að hægt er að beita í heimahúsum. Við vonumst til að meðferðin bæti hreyfifærni og lífsgæði sjúklinganna. Áhrifin þarf að rannsaka betur og finna þann hóp sem meðferðin gagnast best.

 

C8 - Ýfð svör í heilariti frá raförun aftari taugaróta mænu við hryggjarlið T11 – T12

Þórður Helgason3, Gígja Magnúsdóttir1, Vilborg Guðmundsdóttir1, Guðmundur Bragi Árnason2, Guðbjörg Ludvigsdóttir1

1Grensásdeild Landspítala, 2Karlsruhe Institute for Technology, 3Heilbrigðistæknisetur LSH og HR

thordur@landspitali.is

Inngangur: Það er þekkt að mænuskaði hefur áhrif á endurskipulagningu heilans.  Einnig er að raförvun aftari taugaróta, skyntauga, við T11 og T12 getur haft bæði jákvæð og neikvæð áhrif á síspennu í vöðvum fótleggja. Áhrifin fást með því að senda boð inn í tauganet mænunnar og þaðan eftir neðri hreyfitaug til vöðva.

Markmið: Að athuga hvort sjá megi ýfð svör frá raförvun aftari taugaróta við T11 og T12 hjá heilbrigðum einstaklingi og hjá einstaklingi með heilaskaða.

Aðferðir: Í þessari frumrannsókn tóku þátt einn heilbrigður sjálfboðaliði og annar með heilaskaða.  Heilarit var tekið meðan tibial taugin í neðri fótlegg og meðan aftari taugarætur við T11-T12 voru raförvaðar. Leitað var að ýfðum svörum (cortical somatosensory evoked potentials) í báðum tilfellum. Ýfð svör eru vel þekkt við raförvun tibial taugarinnar og var sú örvun notuð til að staðfesta virkni aðferðar.  Þá voru ýfð svör skráð við uppbeygju öklaliðar og greind í leit að atburða tengdum samfösuðum og ósamfösuðum svörum.

Niðurstöður: Ýfð svör koma glögglega fram í skyn/hreyfiberki heilans við mænuraförvunina.  Þó er form þeirra annað en við örvun tibial taugarinnar. Eins og við var búist voru samfösuð og ósamfösuð svör í Cz rafskauti á hvirfli höfuðs. Við hreyfingar voru samfösuð svör einstaklings með heilaskaða takmörkuð og þar með öðruvísi en hjá heilbrigða einstaklingnum.  Raförvunarmeðferð heilaskaðans breytti þessu ekki. 

Ályktanir: Að raförvun aftari taugaróta hefur áhrif á ýfð svör heilabarkar styður kenningu um að hún geti einnig haft áhrif á endurmótun heilans.  Mismunur í formi ýfðu svara raförvunar aftari taugaróta og raförvunar tibilal taugarinnar leggur nærri að mismunandi taugabrautir séu örvaðar. Samfösun og ósamfösun svara er önnur í heilasköðuðum einstaklingi en hjá heilbrigðum einstaklingi.

 

C9 - Meðferð sem forvörn gegn lifrarbólgu C á Íslandi (TRAP HEP C). Framvinda og árangur meðferðarátaks eftir 13 mánuði

Magnús Gottfreðsson1,2, Óttar Már Bergmann1, Þórarinn Tyrfingsson3, Valgerður Rúnarsdóttir3, Einar S. Björnsson1,2, Birgir Jóhannsson1, Bryndís Sigurðardóttir1, Ragnheiður Hulda Friðriksdóttir1, Þorvarður Jón Löve1,2, Arthur Löve,1,2, Guðrún Sigmundsdóttir4, María Heimisdóttir1,2 og Sigurður Ólafsson1,2 fyrir hönd TRAP HEP C meðferðarátaksins

1Landspítala, 2Læknadeild Háskóla Íslands, 3Sjúkrahúsinu Vogi, 4Sóttvarnalæknir, Embætti landlæknis

Inngangur: Lifrarbólguveira C (Hepatitis C Virus, HCV) er ein algengasta orsök langvinnrar lifrarbólgu, skorpulifrar og lifrarkrabbameins. Á Íslandi er áætlað að 800-1000 manns séu með virka HCV sýkingu. Ný og afar virk veirulyf með litlar aukaverkanir skapa möguleika á að meðhöndla mun fleiri en áður. Með meðferðarátaki gegn lifrarbólgu C er þess freistað að útrýma sjúkdómnum sem lýðheilsuvá hérlendis.

Aðferðir: Meðferðarátakið hófst í janúarlok 2016. Öllum sjúkratryggðum á Íslandi með HCV smit er boðin lyfjameðferð. Þeir sem neyta vímuefna í æð njóta forgangs, ásamt smituðum föngum og sjúklingum með verulegar lifrarskemmdir. Fyrst um sinn hefur verið stefnt að hefja meðferð hjá um 200 sjúklingum á 4. mánaða fresti; meðferðarátakinu verði lokið fyrir árslok 2018.

Niðurstöður: Þann 3. mars 2017 hafði verið rætt við 581 sjúkling og meðferð hafin hjá 525. Meðalaldur er 41 ár og karlar eru tvöfalt fleiri en konur. Algengustu arfgerðir veirunnar eru 1 (45%) og 3a (50%). Um 38% sjúklinga gáfu sögu um virka neyslu fíkniefna í æð (neysla innan 6 mánaða). Um 7.2% þátttakenda eru komnir með skorpulifur skv. bandvefsskönnun. Flestallir fangar með HCV, þeir sem eru með bæði HIV og HCV, og sjúklingar með skorpulifur eru á meðferð eða hafa nýlokið henni. Alls hafa 408 lokið lyfjameðferð.

Ályktanir: Meðferðarátak gegn lifrarbólgu C hefur fengið góðar viðtökur hérlendis. Gera má ráð fyrir að meðferð hafi verið undirbúin eða hafin í meira en helmingi þeirra sem eru með þekkt smit, en það er umfram áætlanir. Reynsla okkar bendir til að með góðu skipulagi megi ná til flestra lykilhópa en þó kann að reynast að ná til einstaklinga á jaðri samfélagsins.

 

C10 - Aukin æðakölkun í hálsslagæðum sjúklinga með bráð kransæðaheilkenni og truflun á sykurefnaskiptum

Þórarinn Árni Bjarnason1,2, Steinar Orri Hafþórsson1,2, Erna Sif Óskarsdóttir1,2 ,Linda Björk Kristinsdóttir1,2, Thor Aspelund2,3 Sigurður Sigurðsson3, Vilmundur Guðnason2,3, Karl Andersen1,2,3

1Landspítala, 2Háskóla Íslands, 3Hjartavernd

thorarinn21@gmail.com

Inngangur: Sykursýki 2 (SS2) og forstig sykursýki eru þekktir áhættuþættir fyrir æðakölkun.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif SS2 og forstig sykursýki á magn æðakölkunar í hálsslagæðum hjá sjúklingum með brátt kransæðaheilkenni (BKH).

Aðferðir:  Sjúklingar sem lögðust inn á hjartadeild LSH sem ekki höfðu verið greindir með SS2 var boðið að taka þátt í rannsókninni. Mælingar á sykurbúskap (fastandi glúkósi í plasma, HbA1c og sykurþolspróf) voru gerðar í innlögn og endurteknar þremur mánuðum seinna. Æðakölkun í hálsslagæðum var metin með stöðluðum hálsæðaómunum þar sem sjúklingar voru flokkaðir eftir því hvort æðakölkun var til staðar eða ekki og heildarflatarmál æðakölkunar (HFÆ) reiknað.

Niðurstöður: Tvöhundruð fjörtíu og fimm sjúklingar (78% karlar, meðalaldur 64 ár) tóku þátt í rannsókninni. Hjá sjúklingum með nýgreint forstig sykursýki og SS2 sást 25,5% og 35,9% aukning á HFÆ miðað við sjúklinga með eðlileg sykurefnaskipti (p=0.04). Í fjölþátta aðhvarfsgreiningu þar sem leiðrétt var fyrir hefðbundnum áhættuþáttum æðakölkunarsjúkdóms var gagnalíkindahlutfall (OR) hjá sjúklingum með nýgreint forstig sykursýki eða SS2 2,17 (95% Cl 1,15-4.15) að hafa æðakölkun í hálsslagæðum samanborið við sjúklinga með eðlileg sykurefnaskipti. Þegar einnig var leiðrétt fyrir blóðglúkósa-gildi tveim klst eftir inntöku glúkósa var OR 1,77 (95% CI 0,83-3,84),

Ályktun: Æðakölkun er stigvaxandi hjá sjúklingum með nýgreinda truflun á sykurefnaskiptum. Nýgreint forstig sykursýki og SS2 hjá sjúklingum með BKH eru sjáflstæðir áhættuþættir fyrir æðakölkun í hálsslagæðum. Hækkað blóðglúkósa-gildi tveim klst eftir inntöku glúkósa hefur sterk tengsl við æðakölkun í hálsslagæðum í sjúklingum með BKH.

 

C11 - Stöðupróf til undirtýpugreiningar frumkomins aldósterónheilkennis á Íslandi í 10 ár

Hrafnhildur Gunnarsdóttir1, Guðbjörg Jónsdóttir1,4, Jón Guðmundsson2, Guðjón Birgisson3, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Myndgreiningarsvið Landspítala, 3Skurðlækningasvið Landspítala, 4Lyflækningasvið Landspítala

hrafnhildurg3@gmail.com

Inngangur: Stöðuprófið (SP) var þróað til að aðgreina tvo helstu orsakavalda frumkomins aldósterónheilkennis (FA); ofvöxt (hyperplasia), oftar tvíhliða sjúkdómur, og aldósterón myndandi kirtilæxli (adenoma). Jákvætt SP bendir til ofvaxtar en áreiðanleiki prófsins er umdeildur. Árið 2007 var staðlað uppvinnsluferli FA, meðal annars með notkun SP, innleitt á Landspítala (LSH).

Markmið: Að skoða niðurstöður, næmi og sértæki SP á LSH árin 2007-2016.

Aðferðir: Sjúkraskrár allra sjúklinga ≥18 ára sem greindust með FA á LSH á tímabilinu voru yfirfarnar. Eftir skimun var FA staðfest með salthleðslu um bláæð. Í SP var s-aldósterón, s-renín og s-kalíum mælt eftir 10 klst. næturlegu og eftir 4 klst. upprétta stöðu í kjölfarið. Ykist s-aldósterón um >50% á milli mælinga var prófið álitið jákvætt. Tölvusneiðmynd var tekin af nýrnahettum og nýrnahettubláæðaþræðing (NHBÞ) gerð til að útkljá hvort sjúkdómur væri ein- eða tvíhliða. Nýrnahettubrottnám bauðst öllum með einhliða sjúkdóm.

Niðurstöður: Af 49 FA sjúklingum sem gengust undir SP á tímabilinu voru 22 með einhliða sjúkdóm og 27 tvíhliða. Í einhliða hópnum voru 15 sjúklingar með kitilæxli fjórir með ofvöxt, tveir bíða aðgerðar og ein vefjafræðiniðurstaða var óræð. Meðalaukning s-aldósteróns í SP í tvíhliða hópnum var 217±127%, marktækt meiri en 88±26% í einhliða hópnum (p=0,016). Hærra hlutfall tvíhliða hópsins hafði jákvætt SP, 81% (22/27) samanborið við 55% (12/22) í einhliða, p=0,04. Jákvætt forspárgildi SP með tilliti til tvíhliða sjúkdóms var 0,65 (22/34), næmi 0,81 (22/27)  og sértæki 0,45 (10/22).

Ályktun: Niðurstöðurnar sýna fremur hátt næmi en lágt sértæki SP til undirtýpugreiningar FA. Prófið getur gagnast sem viðbót við tölvusneiðmynd sé NHBÞ ekki möguleg.

 

C12 - Frumkomið aldósterónheilkenni á Íslandi 2012-2016

Hrafnhildur Gunnarsdóttir1, Jón Guðmundsson2, Guðjón Birgisson3, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Myndgreiningarsvið Landspítala, 3Skurðlækningasvið Landspítala, 4Lyflækningasvið Landspítala

hrafnhildurg3@gmail.com

Inngangur: Frumkomið aldósterónheilkenni (FA) er mögulega læknanleg orsök háþrýstings (HÞ) með hærri áhættu á hjarta- og æðaáföllum en frumkominn HÞ. Árið 2007 var stöðluð FA uppvinnsla innleidd á Landspítala (LSH).

Markmið: Að kanna nýgengi FA á Íslandi 2012-2016, niðurstöður helstu prófa og sjúkdómsorsök.

Aðferðir: Sjúkraskrár sjúklinga ≥18 ára sem greindust með FA á LSH á tímabilinu voru yfirfarnar. Skimun var álitin jákvæð ef s-aldósterón og/eða 24 klst. þvagútskilnaður aldósteróns var aukinn og s-renín lækkað. Greining var staðfest ef s-aldósterón var >140 pmól/L eftir 4 klst. innrennsli 2L af 0,9% saltlausn um bláæð. Stöðupróf var framkvæmt til ályktunar um orsök og útlit nýrnahetta skoðað með tölvusneiðmynd (TS). Til aðgreiningar ein- og tvíhliða sjúkdóms var gerð nýrnahettubláæðaþræðing (NHBÞ). Nýrnahettubrottnám bauðst öllum með einhliða sjúkdóm.

Niðurstöður: Á tímabilinu greindust 34 sjúklingar með FA. Allir höfðu s-aldósterón >300 pmól/L við morgunskimun og 12 höfðu hækkað aldósterón í þvagsöfnun (n=22). Miðgildi s-aldósteróns eftir salthleðslu var 302 pmól/L (spönn 202-1715). Í lok febrúar 2017 höfðu 20 sjúklingar greinst með tvíhliða sjúkdóm (67%) en 10 einhliða (23%), fjórir bíða NHBÞ. Í nýrnahettum allra 6 sjúklinganna sem hafa einhliða sjúkdóm og hafa gengist undir aðgerð sást kirtilæxli (adenoma). TS sýndi hnút í annarri nýrnahettu 15 sjúklinga og af þeim höfðu 8 einhliða sjúkdóm þeim megin (jákvætt forspárgildi 0,53).

Ályktun: Niðurstöðurnar benda til þess að FA sé mikilvæg orsök HÞ á Íslandi. Tvíhliða ofvöxtur (hyperplasia) reyndist algengari sjúkdómsorsök en kirtilæxli og samræmist það niðurstöðum rannsóknar þessa hóps frá 2007-2011. Athyglisvert er að enginn greindist með einhliða ofvöxt á rannsóknartímabilinu.

 

C13 - Bráður nýrnaskaði eftir kransæðaþræðingar á Íslandi

Daði Helgason1,2, Þórir E. Long1,2, Sólveig Helgadóttir3, Runólfur Pálsson2,4, Tómas Guðbjartsson5, Gísli H. Sigurðsson3, Ólafur S. Indriðason2,4 Ingibjörg  J. Guðmundsdóttir,2,6 og Martin I. Sigurðsson7

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Lyflækningasviði, 3Svæfinga-og gjörgæsludeild 4Nýrnalækningaeiningu, 5Skurðlækningasviði, 6Hjartalækningaeiningu Landspítala, 7Department of Anesthesiology, Duke University Hospital, NC, USA

dadihelga@gmail.com

Inngangur: Bráður nýrnaskaði er einn af alvarlegri fylgikvillum kransæðaþræðinga og hefur verið tengdur við skuggaefnisgjöf. Í þessari rannsókn könnuðum við tíðni og áhættuþætti bráðs nýrnaskaða (BNS) eftir kransæðaþræðingar.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum sem gengust undir kransæðaþræðingu á Íslandi 2008-2015. BNS var skilgreindur skv. kreatínínmælingum í sermi (SKr) og notast við KDIGO skilmerki. Gögnum var safnað úr Swedeheart/SCAAR gagnagrunni og tölvukerfum Landspítala.

Niðurstöður: Framkvæmdar voru 13973 kransæðaþræðingar hjá 10882 sjúklingum á tímabilinu en SKr grunngildi var til staðar hjá 13606 tilfellum og voru þau notuð til frekari úrvinnslu. BNS greindist í 281 tilfelli (2,1%), þar af voru 218 (1,6%), 33 (0,2%) og 30 (0,2%) af KDIGO stigum 1,2 og 3 en ekki var marktæk breyting á tíðni BNS á tímabilinu (p=0.31). Helstu áhættuþættir BNS í fjölbreytugreiningu voru aldur (per 10 ár, ÁH 1,17, 95% ÖB:1,02-1,34), Elixhauser Comorbidity Index >0 (ÁH 1,57, 95% ÖB:1,15-2.13), gaukulsíunarhraði <30 ml/mín/1,73 m2 (ÁH 5.85, 95% ÖB:3,49-9,59), blóðleysi (ÁH 1,78, 95%-ÖB:1,34-2,37), hvít blóðkorn >10.0x109/L (ÁH 2,33, 95% ÖB:1,72-3,15), blóðsykur >7.7 mmol/L (ÁH 2,26, 95% ÖB:1,64-3,15), blóðnatríum <135 mmol/L (ÁH 1,84, 95%-ÖB:1,18-2,78) Trópónín T hækkun fyrir þræðingu (ÁH 4,39, 95% ÖB:2,97-6,65), brátt hjartadrep (STEMI, ÁH 2,00, 95% ÖB:1,40-2,85), notkun ósæðardælu (ÁH 4,52, 95% ÖB:2,65-7,6), skuggaefnismagn (per 100 ml, ÁH 1,19, 95% ÖB:1,02-1,39) og opin hjartaaðgerð innan við 7 dögum frá þræðingu (ÁH 2,22, 95% ÖB:1,44-3,22).

Ályktun: Tíðni BNS eftir kransæðaþræðingar var 2,1% og hélst svipuð á tímabilinu. Skuggaefnismagn var sjálfstæður áhættuþáttur BNS eftir kransæðaþræðingu en fyrra heilsufar, niðurstöður blóðrannsókna og ástand sjúklinga fyrir þræðingu voru einnig mikilvægir forspárþættir BNS.

 

C14 - Endurheimt nýrnastarfsemi eftir bráðan nýrnaskaða í kjölfar skurðaðgerða; skilgreining, áhættuþættir og lifun

Þórir E. Long1,2*, Sólveig Helgadóttir1,3, Daði Helgason1.2, Gísli H. Sigurðsson1,3, Tómas Guðbjartsson1,4, Runólfur Pálsson1,2,5, Ólafur S. Indriðason2,5, Martin I. Sigurðsson6

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Lyflækningasviði, 3Svæfinga- og gjörgæsludeild, 4Hjarta- og lungnaskurðdeild, 5Nýrnalækningaeiningu, Landspítala, 6Department of Anesthesiology, Duke University Hospital, NC, USA

thorirein@gmail.com

Bakgrunnur: Skilgreining á endurheimt nýrnastarfsemi eftir bráðan nýrnaskaða (BNS) er á reiki. Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman helstu skilgreiningar á endurheimt nýrnastarfsemi í kjölfar BNS, kanna áhættuþætti og tengsl við lifun.

Aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum fullorðnum einstaklingum sem gengust undir kviðarhols-,brjósthols-,bæklunar-eða æðaskurðaðgerð á Landspítala á árunum 1998-2015. Nýrnastarfsemi var metin með kreatíninmælingum fyrir og eftir aðgerð og BNS skilgreindur samkvæmt KDIGO-skilmerkjum. Ein- og fjölþátta aðhvarfsgreining auk ROC-kúrfa (receiver operating characteristic) voru notaðar til að bera saman mismunandi skilgreiningar á endurheimt nýrnastarfsemi og eins-árs lifun BNS-sjúklinga með og án endurheimtar borin saman með áhættuskora-pörun (propensity score).

Niðurstöður: Alls greindust 2.419(5,3%) með BNS; 1.818(4.0%), 346(0,8%), og 255(0,5%) á KDIGO stigum 1, 2 og 3, en 81%, 77% og 68% þeirra höfðu endurheimt nýrnastarfsemi(<1,5x grunngildi) 30 dögum eftir aðgerð. Allar skilgreiningar endurheimtar (ná undir 1,5, 1,25 eða 1,10x grunngildi innan 10, 20 eða 30 daga) sýndu jákvæð tengsl við lifun en engin hafði gott forspárgildi fyrir eins-árs lifun. Við einþátta aðhvarfsgreiningu sáust sterkustu tengslin við lægri dánartíðni ef kreatínín var <1,5x grunngildi einstaklings innan 30 daga frá aðgerð(OR 0,38;95%-ÖB: 0,30-0,48;p<0,001). Við fjölþátta aðhvarfsgreiningu voru hærri aldur, saga um krabbamein, langvinnan nýrnasjúkdóm, aðgerðartegund og skert endurheimt nýrnastarfsemi sjálfstæðir forspárþættir fyrir aukinni dánartíðni. Eins-árs lifun einstaklinga með endurheimt nýrnastarfsemi var marktækt betri en paraðs viðmiðunarhóps án endurheimtar(84% sbr.  69%,p<0,001).

Ályktanir: Fjórir sjúklingar af fimm ná nýrnabata eftir BNS í kjölfar skurðaðgerðar. Ef sjúklingur nær endurheimt nýrnastarfsemi sem nemur <1,5x grunngildi innan 30 daga frá BNS tengist það marktækt betri eins árs lifun.

 

C15 - Framsýn rannsókn á fylgikvillum og dánartíðni eftir kviðarholsaðgerðir.

Elva Dögg Brynjarsdóttir1,2, Erna Sigmundsdóttir3, Martin Ingi Sigurðsson4, Páll Helgi Möller2,5, Gísli Heimir Sigurðsson2,3

1Lyflækningasvið LSH, 2Læknadeild Háskóla Íslands, 3Svæfinga- og gjörgæsludeild LSH, 4Duke University Hospital, Department of anesthesiology, Durham, NC, USA, 5Skurðlækningadeild LSH

elvadoggb@gmail.com

Inngangur: Fylgikvillar eru algengir hjá sjúklingum sem undirgangast stærri skurðaðgerðir á sjúkrahúsum og 30 daga dánartíðni er allt að 4%. Takmarkaðar upplýsingar eru til um langtímahorfur sjúklinga sem undirgangast kviðarholsaðgerðir.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að lýsa meðferð, fylgikvillum og dánartíðni hjá inniliggjandi sjúklingum sem undirgangast kviðarholsaðgerðir.

Aðferðir: Í þessari framsýnu rannsókn voru þátttakendur allir fullorðnir inniliggjandi sjúklingar sem undirgengust kviðarholsaðgerðir á LSH á tímabilinu 01.01.2014 – 31.01.2015. Eftirfylgd var 24 mánuðir. Upplýsingum var safnað um áhættuþætti, skurðaðgerðir, legutíma, fylgikvilla, gjörgæsluinnlagnir og dánartíðni.

Niðurstöður: Af 1.119 þátttakendum fengust fullnægjandi gögn um 1.113 (99,5%). Meðalaldur var 54 ár (18-95), konur voru 621 (56%). Algengustu undirliggjandi sjúkdómar voru háþrýstingur (34%), krabbamein (18%), hjartasjúkdómar (21%), langvinnir lungnasjúkdómar (11%) og sykursýki (8%). Meðal legutími á sjúkrahúsi var 6 dagar, endurinnlagnir voru 8%. Algengastar voru aðgerðir á ristli og endaþarmi (24%), gallblöðru (22%) og botnlanga (18%), bráðaaðgerðir voru 48%. Alls fengu 26 % fylgikvilla eftir aðgerð, þar af 9% alvarlega fylgikvilla. Innlagnir á gjörgæsludeild voru 13%, helmingur bráðainnlagnir. Dánartíðni eftir 30 daga var 1,8% og eftir 12 mánuði 5,6%. Heildardánartíðni eftir 24 mánuði var 8,3% en 26% meðal þeirra sem lágu á gjörgæslu. Fjölbreytugreining sýndi að fjöldi langvinnra sjúkdóma, bráðleiki- og alvarleiki aðgerðar voru sjálfstæðir áhættuþættir fyrir 30 daga- og 12 mánaða dánartíðni.

Ályktun: Þrátt fyrir að helmingur kviðarholsskurðaðgerða á Landspítala séu bráðaaðgerðir og fylgikvillar séu algengir er bæði skamm- og langtíma dánartíðni með því lægsta sem hefur verið birt.

 

C16 - Árangur ósæðarlokuskipta hjá konum á Íslandi

Anna Guðlaug Gunnarsdóttir1, Sindri Aron Viktorsson2, Kristján Orri Víðisson1, Daði Helgason2, Arnar Geirsson3, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Hjarta og lungnaskurðdeild Landspítala, 3Hjarta- og æðaskurðdeild Yale-háskólasjúkrahússins, New Haven, CT

tomasgud@landspitali.is

Inngangur: Ósæðarlokuskipti er önnur algengasta opna hjartaaðgerðin á Íslandi á eftir kransæðahjáveitu. Árangur ósæðarlokuskipta hjá konum hefur ekki verið rannsakaður sérstaklega á Íslandi og var markmið rannsóknarinnar að bæta úr því.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til allra sjúklinga (n=430) sem gengust undir ósæðarlokuskipti á Íslandi vegna ósæðarlokuþrengsla 2002-2013. Skráð voru einkenni, áhættuþættir hjartasjúkdóma, niðurstöður hjartaómana yfirfarnar og fylgikvillar skráðir. Heildarlifun (Kaplan-Meier) var áætluð og forspárþættir dauða innan 30 daga ákvarðaðir með lógistískri aðhvarfsgreiningu. Meðal eftirlitstími var 6,8 ár.

Niðurstöður: Konur voru 151, eða 35,1% hópsins og var meðalaldur þeirra 2,3 árum hærri en karla (72,6 sbr. 70,3 ár, p=0,02). Lokuflatarmál var minna hjá konum (0,62 sbr. 0,74 cm2 fyrir karla, p<0,001) og meðal hámarks þrýstingsfallandi var sömuleiðis hærri (74,4 sbr. 68,1 mmHg fyrir karla, p=0,015). Tíðni fylgikvilla, bæði snemmkominna (76,0% sbr. 75,2% fyrir karla) og langtíma (34,7% sbr. 35,3% fyrir karla), var sambærileg milli kynja (p=0,94 og p=0,99). 30-daga dánartíðni var 8,6% fyrir konur en 3,9% fyrir karla (p=0,07) og var 5-ára lifun í hópnum sambærileg, eða 79,7% kvenna og  82,9% karla (p=0,387). Kvenkyn reyndist ekki sjálfstæður forspárþáttur dauða innan 30 daga eftir að leiðrétt hafði verið fyrir öðrum forspárþáttum (OR: 2,28, 95%-ÖB: 0,93-5,77).

Ályktanir: Konur eru þriðjungur þeirra sem gangast undir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla, sem er svipað hlutfall og erlendis. Þær eru rúmlega tveimur árum eldri en karlar þegar kemur að aðgerð og virðast hafa lengra genginn sjúkdóm. Konur hafa tilhneigingu til hærri 30-daga dánartíðni, en tíðni fylgikvilla, bæði snemmkominna og langtíma, reyndist sambærileg milli kynja.

 

C17 - Árangur ósæðarlokuskipta vegna ósæðarlokuþrengsla fer batnandi á Íslandi

Kristján Orri Víðisson1,  Sindri Aron Viktorsson2, Anna Guðlaug Gunnarsdóttir1, Daði Helgason2, Arnar Geirsson3, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 3Hjarta- og æðskurðdeild Yale-háskólasjúkrahússins, New Haven, CT

tomasgud@landspitali.is

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort árangur ósæðarlokuskipta vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi hafi breyst á 12 ára tímabili. 

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem tók til 430 sjúklinga sem gengust undir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi 2002-2013. Borin var saman dánartíðni,  tíðni snemmkominna og langtíma fylgikvilla og lifun (Kaplan-Meier) á þremur 4 ára tímabilum. Meðaleftirlitstími var 6,8 ár og miðast við 31. desember 2016.

Niðurstöður: Meðalaldur, kynjahlutfall, líkamsþyngdarstuðull og EuroSCORE-II hélst svipað á milli tímabila. Meðal hámarks-þrýstingsfallandi yfir ósæðarlokuna fyrir aðgerð lækkaði úr 75±26 mmHg á fyrsta tímabilinu í 67±24 mmHg (p=0,01) og 70±27 mmHg (p=0,01) á því öðru og þriðja. Einnig jókst flatarmál lokuops fyrir aðgerð úr 0,63±0,22 cm2 í 0,71±0,25 cm2 (p=0,02) og 0,75±0,24 cm2 (p=0,007). Á sömu tímabilum styttist tangartími úr 127 mín í 110 og 107 mín (p<0,0001) en lækkun á 30-daga dánartíðni var ekki marktæk (8,3% í 4,2% (p=0,6) og 4,9% (p=0,6)). Á fyrsta tímabilinu fengu 83,3% sjúklinga snemmkominn minniháttar fylgikvilla samanborið við 61,9% og 61,4% á því öðru og þriðja  (p=0,0003). Tíðni alvarlegra fylgikvilla breyttist hins vegar ekki marktækt (35,8%, 28,0% (p=0,3) og 23,2% (p=0,1)). Eins árs lifun á tímabilunum þremur var 87,5%, 94,0% og 94,4% (p=0,07) og 3ja-ára lifun 83,3%, 88,6% og 90,8% (p=0,2).

Ályktun: Tíðni snemmkominna fylgikvilla hefur lækkað eftir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi og tilhneiging sést til betri lifunar, enda þótt munurinn sé ekki marktækur. Ástæðurnar eru ekki þekktar en hluti af skýringunni gæti verið sú að sjúklingar eru teknir fyrr til aðgerðar auk þess sem tangartími hefur styst.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica