Veggspjöld

Veggspjöld

V-01

Komur kvenna á bráðamóttöku Landspítala vegna heimilisofbeldis

Drífa Jónasdóttir1, 2, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir 2, 5, Sigrún Helga Lund1,4, Brynjólfur Mogensen1,2,3

1Læknadeild Háskóla íslands, 2Rannsóknarstofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, 3Bráðamóttöku Landspítala, 4Miðstöð í lýðheilsuvísindum Háskóla Íslands 5 Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

drifa.jonas@gmail.com

Inngangur: Talið er að 22% kvenna á Íslandi hafi búið við heimilisofbeldi. Niðurstöður eldri rannsókna sýndu að af konum sem búa við heimilisofbeldi, leituðu 17% á bráðamóttöku Landspítala. Önnur rannsókn sýndi að 33% kvenna sem leituðu á bráðamóttökuna höfðu verið beittar heimilisofbeldi. Líkamlegir áverkar voru oftast minniháttar, staðsettir á höfði og á efri hluta líkamans. Markmiðið hér er að rannsaka umfang og eðli heimilisofbeldis í garð kvenna sem komu á bráðamóttöku eftir ofbeldi karla.

Efniviður og aðferðir: Miðað var við að konan hafi verið 18 ára eða eldri þegar heimilisofbeldið átti sér stað og gerandi hafi þá eða áður verið sambýlismaður, unnusti, eiginmaður eða barnsfaðir þolanda. Gögn um komur vegna ofbeldis á bráðamóttökuna á tímabilinu 2005-2014 voru sótt í gegnum Nomesco skráningarkerfið um ytri orsakir áverka. Teknar voru saman upplýsingar um fjölda koma, greiningar, slysstað og aldur og tengsl gerenda og þolenda.

Niðurstöður: Alls voru 12.650 komur karla og kvenna 18 ára og eldri á bráðamóttöku vegna ofbeldis, þar af voru konur 3.655 (29%), komur kvenna vegna heimilisofbeldis voru 1.284.

Meðalaldur kvenna sem komu vegna heimilisofbeldis var 34 ár, hlutfall innlagna var 2,7%. Rúm 14% höfðu komið a.m.k. einu sinni áður. Í 75% tilvika átti heimilisofbeldið sér stað á heimili þolanda eða geranda. Áverkar voru oftast staðsettir á höfði, á efri útlimum, hálsi, andliti og á brjóstkassa.

Ályktun: Heimilisofbeldi var 35% af öllu ofbeldi sem konur urðu fyrir. Alls höfðu 14% kvenna leitað ítrekað á bráðamóttöku vegna heimilisofbeldis, sem er í samræmi við erlendar rannsóknir. Áverkarnir voru oftast minniháttar, staðsettir á höfði og efri hluta líkamans.

 

V-02

Slímmyndandi bólótt kirtilfrumukrabbamein í botnlanga

Hörður Már Kolbeinsson, Jórunn Atladóttir

Skurðlækningadeild Landspítala

hordurma@landspitali.is

Inngangur: Slímmyndandi bólótt kirtilfrumukrabbamein (mucinous cystadenocarcinoma) í botnlanga er sjaldgæf tegund hægvaxandi krabbameina sem finnast í botnlangaslímblöðrum (mucocele). Talið er að 0,3% allra botnlangasýna eftir brottnám innihaldi slímblöðru og um 10% þeirra innihaldi bólótt kirtilfrumukrabbamein. Meðferð þessara meina felst í fjarlægingu á hægri hluta ristils og botnlanga. Dreifing þeirra fer oftast fram innan kviðarholsins við rof á slímblöðrunni og myndun skinuslímhlaups (pseudomyxoma peritonei). Fimm ára lifun eftir greiningu er um 44%.

Tilfelli: Áttatíu ára hraust kona greindist með fyrirferð í kvið við skoðun hjá kvensjúkdómalækni. Tölvusneiðmyndataka sýndi 9 x 4 x 5,4 cm blöðrufyrirferð aðlægt botnristli og grunur vaknaði um slímblöðru í botnlanga. Í ristilspeglun sást stórt botnlangaop i en að öðru leyti var ristilspeglun eðlileg. Botnlangataka í kviðsjá var framkvæmd og sást þá að fyrirferðin tók yfir nánast allan botnlangann. Botnlangi og botnlangahengi (mesoappendix) voru fjarlægð í heilu lagi. Vefjagreining sýndi slímblöðru með meðalvel þroskuðu slímmyndandi bólóttu kirtilfrumukrabbameini. Sjúklingurinn var kallaður inn í hægra ristilbrottnám í kviðsjá sem gekk vel. Ekki sást krabbamein í skurðsýni eftir þá aðgerð og sjúklingi hefur farnast vel eftir aðgerð og er talinn læknaður.

Ályktun: Við segjum frá tilviki þar sem slímblaðra er innihélt slímmyndandi bólótt kirtilfrumukrabbamein fannst af tilviljun við ítarlega skoðun læknis og því hægt að meðhöndla áður en rof varð á blöðrunni. Mikilvægt er að rjúfa ekki blöðruna við botnlangatöku til að komast hjá dreifingu meinsins innan kviðarholsins. Nauðsynlegt er að fylgja sjúklingum eftir vegna aukinnar hættu á myndun annarra krabbameina í meltingarvegi og hættu á myndum skinuslímhlaups.

 

V-03

Sár vetrarins. Faraldsfræði áverka á norðurslóðum

Guðrún Björg Steingrímsdóttir1, Brynjólfur Árni Mogensen1, Sigrún Helga Lund2, Unnur Valdimarsdóttir2, Guðrún Kr. Guðfinnsdóttir3

1Landspítala, 2Háskóla Íslands, 3Embætti Landlæknis

gudrstei@landspitali.is

Inngangur: Áverkadauði vegna slysa, ofbeldis og sjálfsskaða er algengt og alvarlegt vandamál allstaðar í heiminum. Íbúar í dreifbýli búa við minni lífslíkur ef þeir slasast alvarlega en þeir sem búa í þéttbýli. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða hvað einkenndi þá sem létust hér á landi áverkadauða og hvort munur væri á faraldsfræði eftir því hvort áverki varð í dreifbýli eða þéttbýli. Rannsóknin er hluti af samnorrænni rannsókn.

Aðferð: Þýði rannsóknarinnar voru allir þeir er létust áverkadauða á Íslandi á árunum 2007 til 2011. Dánarmeinaskrá Landlæknis, Sögu-kerfið og krufningarskýrslur voru notuð við gagnasöfnun.

Niðurstöður: Þýði rannsóknarinnar voru 513 einstaklingar. Karlmenn voru marktækt fleiri (68%). Meðalaldur var 53,4 ár, en meðalaldur karla lægri heldur en kvenna (49,5 ár hjá körlum en 61,5 ár hjá konum). 45% einstaklinga létust af slysförum (64% karlar), 33% af völdum sjálfsvíga (79% karlar), 1,3% af völdum manndrápa (86% karlar) en í 20% tilvika var óljóst hvernig andlát bar að (56% karlar). Algengustu tegundir slysa voru umferðarslys og föll. Í dreifbýli létust 1,89/1000 íbúa en í þéttbýli aðeins 1,49/1000 íbúa. Marktæk jákvæð fylgni var milli hærra áverkaskors (ISS) og lengri vegalengdar frá Landspítalanum við áverka (Fylgnistuðull 0.231).

Ályktanir: Karlmenn eru í meirihluta þeirra er látast áverkadauða og meðalaldur þeirra er lægri við andlát. Fleiri látast á hverja þúsund íbúa í dreifbýli og það er fylgni milli hærra áverkaskors og lengri vegalengdar frá sjúkrahúsi. Til stendur að auka tímabil rannsóknarinnar úr 5 í 10 ár og bæta við þeim er hljóta alvarlega áverka og lifa af.

 

V-04

Frosin – Tilfelli

Tinna Arnardóttir, Halla Fróðadóttir

Landspítala

tinna.harper@gmail.com

Inngangur: Fitufrysting (e. cryolipolysis) er inngrip án skurðaðgerðar fyrir staðbundna fituminnkun. Aðferðinni var fyrst lýst árið 2007 og er að verða einn vinsælasti annar valkostur við fitusog. Meðferðinni hefur verið lýst sem árangursríkri til staðbundinnar fituminnkunar og ennfremur talin hafa mjög öruggan fylgikvillaprófíl. Aðeins minniháttar, tímabundnum aukaverkunum hefur verið lýst til þessa en alvarlegum fylgikvillum meðferðar ekki áður verið lýst. Núverandi tilfelli greinir frá fullþykktarhúðdrepi í kjölfar fitufrystingar.

Tilfelli: 30 ára almennt hraust kona gekkst undir fitufrystingu á maga og lendum á stofu í Reykjavík. Í kjölfarið hlaut hún fullþykktarhúðdrep sem krafðist sérhæfðrar meðferðar á sjúkrahúsi. Beita þurfti sárahreinsun, sárasogsmeðferð og að lokum framkvæmd aðgerð til húðágræðslu. Upplýsingar um tilfelli voru fengnar úr sjúkraskrá og leyfi sjúklings var fengið til birtingar á tilfellinu og myndefni því tengdu.

Ályktanir: Fullþykktarhúðdrep er sjaldgæfur en mögulegur fylgikvilli fitufrystingar og er hér lýst í fyrsta sinn. Hugsanlega átti atvikið sér stað vegna bilunar í tækjabúnaði eða mistaka í framkvæmd meðferðar. Mikilvægt er að vekja athygli á þessum fylgikvilla svo hægt sé að gera viðeigandi varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir endurtekningu. Tilfellið undirstrikar mikilvægi gæðaeftirlits með stofurekstri og tengdum tækjabúnaði. Ljóst þarf að vera hvert einstaklingar geti leitað ef upp koma fylgikvillar meðferðar og hver ábyrgð meðferðaraðila er gagnvart skjólstæðingum.

https://www.eventure-online.com/parthen-uploads/154/VIS17/img1_353920_df4UhFz5yo.png    https://www.eventure-online.com/parthen-uploads/154/VIS17/img2_353920_df4UhFz5yo.png´

Útlit og gangur húðdreps fyrir húðágræðslu            Eftir húðágræðslu

 

V-05

Peutz-Jegher heilkenni – Sjúkratilfelli

Gísli Jónsson, Jórunn Atladóttir

Landspítala

gislijonsson89@gmail.com

Inngangur:  Peutz-Jegher heilkenni er sjaldgæfur, ríkjandi, A-litninga erfðasjúkdómur sem lýsir sér í vaxtarvillusepamyndun (e. hamartomatous polyps) í eða utan meltingarvegar auk litabreytinga á húð og slímhúð. Sjúklingar eru í aukinni hættu á að fá krabbamein og þá helst í meltingarvegi. Um helmingur sjúklinga fá garnasmokkun (e. intussuception) á smágirni.

Tilfelli:  21 árs hraustur karlmaður með sögu um endurtekin kviðverkjaköst, leitaði á slysa- og bráðamóttöku vegna skyndilegra kviðverkja, ógleði og uppkasta. Við skoðun var kviður mjúkur og engin þreifieymsli. Hvít blóðkorn voru vægt hækkuð (13,5 þús) en C- reaktíft prótein var eðlilegt. Tölvusneiðmynd af kvið sýndi garnasmokkun á 25-30cm bili neðarlega í kvið. Sjúklingur fór í kjölfarið í bráða aðgerð þar sem sást garnasmokkun á u.þ.b. hálfum metra af smágirni. Eftir að leyst hafði verið úr garnasmokkuninni þreifaðist fyrirferð í smágirninu sem var vendipunktur garnasmokkuninnar. Gert var hlutabrottnám þar sem þessi fyrirferð var fjarlægð. Vefjasýni sýndi Peutz-Jegher sepa. Þegar sjúklingur var skoðaður með tilliti til heilkennisins sáust litabreytingar á vörum. Sjúklingur útskrifaðist heim og fyrirhuguð er nánari uppvinnsla með erfðaráðgjöf, ristil- og magaspeglun auk segulómmyndunar af kvið.

Ályktun:  Hér er lýst tilfelli sjúklings með staðfest Peutz-Jegher heilkenni vegna jákvæðrar vefjagreiningar samhliða litabreytingar á vörum. Þessi sjúklingur greindist ekki fyrr en hann hlaut garnasmokkun á mjógirni, en lítil teikn geta verið við skoðun þegar um garnasmokkun er að ræða. Þrátt fyrir að um sjaldgæft heilkenni sé að ræða er mikilvægt að hafa það í huga ef sjúklingur með tíð kviðverkjaköst og litabreytingar á vörum leitar læknisaðstoðar.

 

V-06

Garna-húð fistill á grunni æxlisvaxtar

Hafdís Sif Svavarsdóttir, Elsa B. Valsdóttir

Landspítala

hafdissh@landspitali.is

Inngangur: Garna-húð fistill er það ástand þegar göng myndast frá meltingarvegi út á húð. Fyrirbærið orsakast oftast af kviðarholsaðgerðum, Crohn´s sjúkdómi eða geislameðferð. Slíkur fistill getur þó einnig myndast vegna illkynja æxlisvaxtar í meltingarvegi en slíkt er sjaldgæft orsök fyrir fistilmyndun. Jafnfram er myndun garna-húð fistils sjaldgæf birtingarmynd æxlisvaxtar í meltingarvegi.

Tilfelli: Á SBD leitar 94 ára kona vegna slappleika og óljósra óþæginda frá kvið. Við kviðskoðun finnst þétt, hvellaum fyrirferð í vinstri kviðargróf á stærð við appelsínu. Hún er hitalaus með hækkuð bólgupróf í blóði. Á tölvusneiðmynd af kvið er lýst kviðsliti í vinstri kviðargróf með aðlægum bólgubreytingum. Hún er tekin til aðgerðar og fyrirferð reynist sýkingarkýli. Ekki finnst tenging í kviðarhol. Kýli er hreinsað. Tveimur vikum síðar greinist endurkoma á graftarkýli, myndataka sýnir gang frá húð í holrými innan kviðveggjar, ásamt gangi þaðan í bugðuristil. Sýkingarkýli er aftur tæmt á skurðstofu. Ristilspeglun er framkvæmd sem sýnir æxlisgrunsamlegt útlit í bugðuristli, en í vefjasýni frá svæðinu sjást eingöngu ósérhæfðar bólgubreytingar. Ákveðið að framkvæma hlutabrottnám á ristli fljótlega. Daginn eftir verður bráð versnun á ástandi sjúklings, vaxandi kviðverkir og brettharður kviður við skoðun. Á lungnamynd sést frítt loft undir þind. Því er hún tekin til bráðrar aðgerðar þar sem stórt æxli reynist í bugðuristli með rofi og fistilgangi frá æxli út í gegnum kviðvegg.

Ályktun: Fistilmyndun frá meltingarvegi út á húð er sjaldgæf birtingarmynd æxlisvaxtar í meltingarvegi en er mikilvægt að hafa í huga þegar um endurteknar sýkingar í kviðvegg er að ræða.

 

V-07

Flutningur sjúklinga með þyrlu Landhelgisgæslu Íslands 2001-2012

Auður Elva Vignisdóttir1, Sigrún Helga Lund2, Viðar Magnússon3, Auðunn Kristinsson4, Brynjólfur Mogensen5

1Landspítala, 2Læknadeild Háskóla Íslands, 3Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 4Landhelgisgæslan, 5Rannsóknastofa LSH og HÍ í bráðafræðum

audurev@landspitali.is

Inngangur: Þyrla Landhelgisgæslunnar er mikilvægur hlekkur í heilbrigðisþjónustu Íslands, en þyrlan sækir bráðveika og slasaða sjúklinga á sjó, í dreifbýli og um allt hálendi. Markmið rannóknarinnar er að rannsaka sjúklingahópinn sem fluttur var með þyrlu LHG árin 2001-2015.

Efniviður og aðferðir: Heildarþýði rannsóknarinnar voru allir sjúklingar fluttir með þyrlu LHG árin 2001-2015 en hér eru tekin fyrir árin 2001-2012. Alvarleiki slysa var metinn með Revised Trauma Score (RTS), Injury Severity Score (ISS), Trauma and Injury Severity Score (TRISS) og NACA stigun. Alvarleiki veikinda var skráður með Modified Early Warning Score (MEWS) og NACA stigun.

Niðurstöður: Alls voru 704 sjúklingar fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á árunum 2001-2012, þar af 466 slasaðir og 223 veikir. Meðalaldur sjúklinga var 40,2 ár. Karlar voru 502 (71%) en konur 202 (29%). Flestir sem slösuðust reyndust með mesta áverka á höfði (20%), mjaðmagrind og neðri útlim (20%). RTS slasaðra var 7,429 ± 1,321 og ISS 10,5 ± 13,8. Lífslíkur slasaðra (TRISS) voru 94,0% en 33 sjúklingar (8%) voru með lífslíkur undir 90%. Látnir á vettvangi voru 2%. NACA stigun slasaðra var 3,4 en veikra var 3,8. MEWS stig reyndust að meðaltali 1,5. Meirihluti sjúklinga hlaut inngrip í þyrlunni (77%). Endurlífgun var framkvæmd 17 sinnum og barkaþræðing 37 sinnum.

Ályktanir: Stór hluti þeirra sjúklinga sem þyrla Landhelgisgæslunnar flytur eru ungir, mikið slasaðir eða alvarlega veikir og flestir þurfa einhvers konar inngrip í flutningnum. Mikilvægt er að rannsaka betur horfur og afdrif sjúklinganna.

 

V-08

Drep í fingrum í kjölfar ísetningar slagæðaleggja – Sjúkratilfelli

Atli Steinn Valgarðsson1, Kristín Huld Haraldsdóttir2, Sigurður Blöndal2,3, Sveinn Geir Einarsson1, Sigurbergur Kárason1,3

1Svæfinga- og gjörgæsludeild og, 2Skurðsviði Landspítala, 3Læknadeild Háskóla Íslands

atlistei@landspitali.is

Inngangur: Slagæðaleggir eru algengir hjá gjörgæslusjúklingum og gefa mikilvægar rauntímaupplýsingar um blóðþrýsting bráðveikra sjúklinga og við mat á vökvaástandi ásamt því að nýtast til blóðsýnatöku. Fylgikvillar slagæðaleggja eru sjaldgæfir. Þekkt er að í hluta sjúklinga skerðist blóðflæði í viðkomandi slagæð tímabundið án þess að það valdi varanlegum skaða. Varanlegur blóðþurrðarskaði kemur fyrir hjá færri en 0,1% sjúklinga.

Tilfelli: Um er að ræða sjúkratilfelli sem þarfnast meðferðar á gjörgæsludeild vegna sýklasóttarlosts. Sjúklingurinn hafði gengist undir aðgerð vegna rofs á skeifugörn. Á annarri viku legunnar komu fram einkenni blóðþurrðar í öllum fingrum vinstri handar en sjúklingur hafði verið á æðavirkum lyfjum mestallan tímann og höfðu verið settir upp slagæðaleggir í nokkrum mismunandi slagæðum. Slagæðaleggir höfðu meðal annars verið settir í sveifarslagæð (a. radialis) og ölnarslagæð (a. ulnaris) vinstri handar með nokkurra daga millibili. Beitt var blóðþynnandi meðferð sem sjúklingur þoldi illa og því haldið áfram með íhaldssamri meðferð (e. conservative treatment). Átta vikum síðar hefur afmarkast drep í öllum fingrum vinstri handar en áberandi minnst á þumalfingri. Fyrirhuguð er aðgerð þar sem hluti af fingrum verða fjarlægðir. Orsök drepsins er talin vera vegna blóðtappa í kjölfar ísetningu slagæðaleggja.

Ályktun: Hér er lýst vel þekktum en mjög sjaldgæfum fylgikvilla slagæðaleggsísetningar.

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica