Ágrip

Ágrip

E-01

Tengsl 5 mínútna Apgars og fæðingarþyngdar við námsárangur í íslensku og stærðfræði í 4. og 7. bekk grunnskóla

Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir1, Þórður Þórkelsson2, Ingibjörg E. Þórisdóttir3, Inga D. Sigfúsdóttir3, Þóra Steingrímsdóttir1,2, Ásgeir Haraldsson2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Kvenna- og barnasvið Landspítala, 3Háskólinn í Reykjavík

gudruni112@gmail.com

Inngangur: Apgar er stigunarkerfi sem metur ástand nýbura 1 og 5 mínútum eftir fæðingu. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tengsl Apgars og fæðingarþyngdar við námsárangur í íslensku og stærðfræði í 4. og 7. bekk grunnskóla. Rannsóknin er forrannsókn fyrir hluta af rannsókninni „Lifecourse“ sem fer fram við Háskólann í Reykjavík.

Efniviður og aðferðir: Fengnar voru upplýsingar úr gagnagrunni rannsóknarinnar „Lifecourse“ um öll fullburða börn fædd og búsett í Reykjavík árið 2000, sem tóku samræmd próf í 4. eða 7. bekk. Parað t-próf, óparað t-próf og fjölbreytu-línuleg aðhvarfsgreining voru notuð við tölfræðiútreikninga.

Niðurstöður: Apgar hafði marktæk línuleg tengsl við stærðfræðieinkunnir (ht. 2,8; p=0,004), reikning og aðgerðir (ht. 2,2; p=0,02), tölur og talnaskilning (ht. 1,9; p=0,04), og rúmfræði í 4. bekk (ht. 3,1; p=0,001); og stærðfræði (ht. 1,9; p=0,04), reikning og aðgerðir (ht. 2,0: p=0,03), íslensku (ht.2,1; p=0,04) og lestur í 7. bekk (ht. 2,3; p=0,01). Ekki var marktækur munur á einkunnum milli Apgarflokkanna tveggja. Fæðingarþyngd hafði marktæk línuleg tengsl við stærðfræði (ht. 0,006; p=0,03), reikning og aðgerðir (ht. 0,005; p=0,04), tölur og talnaskilning (ht. 0,005: p=0,04), stafsetningu (ht. 0,007: p=0,01), og ritun í 4. bekk (ht. 0,005; p=0,03); og íslensku (ht. 0,006; p=0,003), stafsetningu (ht. 0,005; p=0,05) og málnotkun í 7. bekk (ht. 0,005; p=0,05).

Ályktun: Rannsóknin sýndi tengsl milli 5 mínútna Apgars og einkunna, einkum í stærðfræði. Einnig sáust tengsl milli fæðingarþyngdar >2500g og námsárangurs. Lægri fæðingarþyngd reyndist hafa verri áhrif á einkunnir hjá stúlkum en drengjum sem er óvenjulegt og þarf að rannsaka nánar á stærra þýði.

 

E-02

Tíðni kviðslita í öri eftir aðgerð vegna krabbameins í lifur

Bryndís Ester Ólafsdóttir1, Sigurður Blöndal1,2, Örvar Gunnarsson2, Kristín Huld Haraldsdóttir1

1Skurðlækningadeild og 2Krabbameinslækningadeild Landspítala, 3Læknadeild Háskóla Íslands

bryndeo@landspitali.is

Inngangur: Kviðslit er algengur fylgikvilli opinna skurðaðgerða. Tilgangur rannsóknarinnar var tvíþættur; að afla upplýsinga um tíðni kviðslita eftir opna lifraraðgerð ásamt því að meta hvort krabbameinslyfjameðferð auki líkur á kviðsliti.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og tók til allra sjúkling sem gengust undir hlutabrottnám á lifur á Landspítala 1. janúar 2006 til 31. desember 2015. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám Landspítala og tölvusneiðmyndir endurskoðaðar. Notast var við lýsandi tölfræði.

Niðurstöður: Af 109 sjúklingum sem undirgengust hlutabrottnám á lifur á rannsóknartímanum voru 94 sem mættu viðmiðum rannsóknarinnar, 59 karlar (63%) og 35 konur (37%). Meðalaldur var 62 ár (bil: 20-88). Meðaltal þyngdarstuðuls (BMI) var 27,7 (bil: 18,8-43,3). Algengasta ástæða aðgerðar voru lifrarmeinvörp vegna ristilkrabbameins (61%), en þar á eftir kom lifrarfrumukrabbamein (19%). 16 einstaklingar (17%) voru með kviðslit í skurðöri í kjölfar hlutabrottnáms á lifur. Þrettán einstaklingar (14%) voru með kviðslit utan við aðgerðarsvæðið fyrir aðgerðina. Þrír einstaklingar sem voru með kviðslit utan við aðgerðarsvæði fyrir aðgerð voru með kviðslit í skurðöri eftir aðgerð (3%). Átta einstaklingar gengust undir fleira en eitt hlutabrottnám á lifur á rannsóknartímabilinu og voru 3 þeirra voru með kviðslit eftir seinni aðgerðir. Ekki sást marktæk aukning á tíðni kviðslita hjá þeim sem fengu krabbameinslyfjameðferð (p=0,59). Marktæk fylgni sást á milli sárasýkinga og tíðni kviðslita (p=0,02) en ekki milli tíðni kviðslita hjá sjúklingum með BMI undir 25 og yfir 30 (p=0,65).

Ályktun: Tíðni kviðslita við hlutabrottnám á lifur er lægri hér á landi en lýst hefur verið í öðrum rannsóknum. Krabbameinslyfjameðferð olli ekki aukinni tíðni kviðslita í öri eftir aðgerð.

 

E-03

Áhrif stigunarmats á brottnámi lífhimnumeinvarpa á lifun sjúklinga með lífhimnumeinvörp af völdum ristils- og endaþarmskrabbameins borið saman við sjúklinga með skinuslímhlaup

Helgi Birgisson1, Malin Enblad2, Lana Ghanipour2, Wilhelm Graf2

1Krabbameinsskrá Íslands, 2Skurðdeild Akademiska sjúkrahússins í Uppsölum

helgi.birgisson@krabb.is

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að athuga áhrif stigunarmats á brottnámi lífhimnumeinvarpa (completeness of cytoreduction score (CCS)) á lifun sjúklinga með lífhimnumeinvörp af völdum ristil- og endaþarmskrabbameins (CRC) og skinuslímhlaups (pseudomyxoma peritonei (PMP)).

Efniviður og aðferðir: Í rannsóknarhópnum voru allir sjúklingar með CRC (n=167) og PMP (n=208) sem voru teknir til meðhöndlunar með brottnámi lífhimnumeinvarpa (cytoreductive surgery (CRS)) og heitri lífhimnubundinni krabbameinslyfjameðferð (hyperthermic intraperitoneal chemotherapy (HIPEC)) við háskólasjúkrahúsið í Uppsölum, Svíþjóð árin 2004-2015.

Niðurstöður: Af 375 sjúklingum, voru 207 (55%) konur og miðgildi aldurs var 57 ár (bil 13-78). Fyrir CRC, náðist CCS=0 hjá 121 (72%) sjúklingi; CCC=1 hjá 15 (9%); CCC=2-3 hjá 7 (4%) og óskurðtækir (open-close) voru 24 sjúklingar (14%). Fyrir PMP voru tölurnar 120 (58%); 56 (27%); 22 (11%) og 10 (5%). Miðgildi heildarlifunar fyrir CRC var 2,1 ár hjá CCS=0, 1,3 ár hjá CCS=1; 1,1 ár hjá CCS=2-3 og 0,7 ár hjá óskurðtækum sjúklingum. Fyrir PMP var lifunin fyrir sömu hópa 3,0 ár; 5,0 ár; 3,1 ár og 0,5 ár.

Ályktanir: Sjúklingar með CRC og CCS=1 eða CCS=2-3, hafa takmörkuð not af meðferðinni borið saman við sjúklinga með óskurðtæk mein. Vegna þess hve CRS og HIPEC er umfangsmikil og áhættusöm aðgerð, sem lækkar lífsgæðin í talsverðan tíma eftir aðgerð, þá er mikilvægt að meta líkurnar á því fyrir og í aðgerð hversu líklegt sé að CCS=0 náist áður en ákvörðun um CRS og HIPEC er tekin hjá sjúklingum með CRC.

 

E-04

Samanburður á klínískum breytum fyrir ristil- og endaþarmskrabbamein frá Krabbameinsskrá Íslands og gæðaskrá Uppsala - Örebro svæðisins í Svíþjóð

Helgi Birgisson1, Laufey Tryggvadóttir1, Kristín Alexíusdóttir1, Fredrik Sandin2, Jón Gunnlaugur Jónasson1,Mats Lambe2

1Krabbameinsskrá Íslands, 2Regional Cancer Center Uppsala-Örebro

helgi.birgisson@krabb.is

Inngangur: Gæðaskráning hefur stuðlað að bættri greiningu og meðferð á krabbameinssjúkum í Svíþjóð. Á Íslandi er kominn vísir að klínískri gæðaskráningu krabbameina og er stuðst við sænsku gæðaskráninguna. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman breytur fyrir ristil- og endaþarmskrabbamein sem þegar hafa verið skráðar í Krabbameinsskrá Íslands, við Uppsala-Örebro svæðið í Svíþjóð (UÖS).

Efniviður og aðferðir: Hingað til hafa fyrst og fremst meinafræðibreytur verið skráðar fyrir ristil- og endaþarmskrabbamein í Krabbameinsskrá Íslands. Þessar breytur voru bornar saman við sambærilegar breytur gæðaskrár UÖS fyrir árið 2014.

Niðurstöður: Fjöldi tilfella með ristilkrabbamein (n=115) og endaþarmskrabbamein (n=51) fyrir árið 2014 var svipaður og á stærri sjúkrahúsum á UÖS. Miðgildi aldurs sjúklinga með ristilkrabbamein voru 73 ár (bil: 63-82) á Íslandi og 74 ár (bil: 67-81) á UÖS, fyrir endaþarmskrabbamein var aldurinn 66 ár(bil: 56-77) og 72 ár (bil: 63-80). Lægra hlutfall sjúklinga fór í brottnámsaðgerð á Íslandi (ristill 61%, endaþarmur 49%) en á UÖS (ristill 80%, endaþarmur 64%). Hlutfall sjúklinga með 12 eða fleiri eitla var lægra á Íslandi (ristill 71%, endaþarmur 42%) borið saman við UÖS (ristill 94%, endaþarmur 80%).

Ályktanir: Fjöldi meðhöndlaðra tilfella á Íslandi er svipaður og fjöldi tilfella sem eru meðhöndluð á stærri sjúkrahúsum UÖS. Æskilegt væri að reyna að komast að því hvað skýrir muninn á hlutfalli brottnámsaðgerða og á fjölda eitla sem finnast i sýnum á milli Íslands og UÖS. Fyrir Ísland sem er að hefja klíníska gæðaskráningu þá er mikilvægt að geta borið sig saman við lönd eins og Svíþjóð þar sem þegar er til staðar mikil reynsla og þekking á klínískri gæðaskráningu krabbameina.

 

E-05

Ástunga á gallblöðru vegna gallblöðrubólgu á Landspítala 2014-2016

Katrín Hjaltadóttir1, Kristín Huld Haraldsdóttir1, Pétur Hannesson2,3, Páll Helgi Möller1,3

1Skurðsviði og 2myndgreiningardeild Landspítala, 3Læknadeild Háskóla Íslands

katrinhjalta@gmail.com

Inngangur: Bráð gallblöðrubólga er ein algengasta innlagnarástæða á kviðarholsskurðdeildir. Meðferðin er oftast gallblöðrutaka en þegar skurðaðgerð er ekki talin fýsilegur kostur er reynd meðferð með sýklalyfjum. Svari sjúklingur ekki slíkri meðferð er oft valið að leggja kera í gallblöðru gegnum húð. Markmið rannsóknarinnar var að skoða árangur af ísetningu gallblöðrukera og fylgikvilla á Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggð. Farið var í gegnum sjúkraskrár allra með sjúkdómsgreiningar K80-85 á tímabilinu 1. janúar 2014 til 12. nóvember 2016 og breytur skráðar í Excel sem einnig var notað við úrvinnslu. Notast var við lýsandi tölfræði.

Niðurstöður: Alls fengu 2402 einstaklingar galltengdar sjúkdómsgreiningar á tímabilinu. Þar af voru 587 (24,7%) með bráða gallblöðrubólgu, þar af 339 konur. Meðalaldur sjúklinga var 57,9 ár. Alls fengu 49 (8,3%) gallblöðrukera og var meðalaldur þeirra 70,7 ár. Hjá 34 (69,4%) sjúklingum var kerinn lagður í gegnum lifur. Meðaltímalengd kera var 15,4 dagar (bil: 0-87). Gerð var gallvegamyndataka um kerann hjá 43 einstaklingum. Fjórtán sjúklingar voru útskrifaðir með kerann. Tuttugu og tveir (45%) gengust undir gallblöðrutöku með kviðsjá, að meðaltali 99 dögum frá keraísetningu (bil: 0-258). Breytt var í opna aðgerð hjá einum sjúklingi. Meðalaðgerðartíminn var 112 mínútur. Sautján einstaklingar (34,6%) fengu fylgikvilla og voru flestir þeirra minniháttar. Hjá 10 sjúklingum dróst kerinn út, tveir fengu gallleka og tveir fengu endurtekna gallblöðrubólgu. Þrír sjúklingar (6,1%) létust innan þrjátíu daga frá keraísetningu, einn vegna sýklasóttar en aðrir af ástæðum ótengdum meðferðinni.

Ályktun: Ísetning gallblöðrukera er árangursrík meðferð við bráðri gallblöðrubólgu. Meðferðin er örugg og gagnast vel eldri sjúlingum sem geta síðar geta gengist undir valaðgerð.

 

E-06

Þættir sem tengjast tímalengd að fullri útvíkkun hjá fjölbyrjum í sjálfkrafa sótt

Björn Gunnarsson1, Eirik Skogvoll2, Ingibjörg Hanna Jónsdóttir1, Jo Røislien3, Alexander Kr. Smárason1

1Sjúkrahúsinu Akureyri, 2Norwegian University of Science and Technology, 3Stiftelsen Norsk Luftambulanse

bjorn.gunnarsson@norskluftambulanse.no

Inngangur: Líkan til að spá fyrir um lengd fæðinga gæti mögulega dregið úr óvæntum fæðingum utan spítala, en þar er oftast um að ræða fjölbyrjur. Tilgangur rannsóknarinnar var að búa til slíkt líkan.

Efniviður og aðferðir: Fæðingarrit allra fjölbyrja í sjálfkrafa sótt, á tíma með eitt barn í höfuðstöðu og án örs í legi, sem fæddu á Sjúkrahúsinu á Akureyri frá 2003 til 2013 voru skoðuð. Allar leghálsmælingar þar sem útvíkkun var ≥4 cm voru notaðar og aðhvarfsgreining (generalized additive mixed model) gerð til að byggja líkan fyrir tengsl milli frumbreyta og fylgibreytu. Tekið var tillit til þess að hraði útvikkunar eykst þegar á líður. Eftirtaldar frumbreytur voru skoðaðar: útvíkkun (cm), fjöldi fyrri fæðinga (1, 2, eða ≥3), oxytócín dreypi (já/nei), utanbastsdeyfing (já/nei), aldur konu (ár), hæð (cm), líkamsþyngdarstuðull (LÞS, kg/m2), fæðingarþyngd (kg) eða meðgöngulengd (dagar) og legvatn farið sjálfkrafa (já/nei). Fylgibreytan var tími að fullri útvíkkun.

Niðurstöður: 1,753 fæðingarrit voru greind. Fæðingarþyngd, meðgöngulengd, utanbastdeyfing, oxytócín notkun og útvíkkun legháls voru þættir sem höfðu mest áhrif á fylgibreytuna. Hvert viðbótarkíló í fæðingarþyngd jók tímalengd að fullri útvíkkun um nærri 40% og hver dagur meðgöngu um 1%. Tími var að meðaltali 31% styttri hjá konum þar sem legvatn hafði farið sjálfkrafa fyrir fyrstu mælingu. Aldur konu hafði ekki áhrif, en hærri LÞS og fleiri fyrri fæðingar styttu tímalengd lítilsháttar.

Ályktun: Lægri fæðingarþyngd, styttri meðgöngulengd og sjálfkrafa farið legvatn tengist hraðari útvíkkun hjá þessum hópi kvenna. Niðurstöður benda til að líkan geti verið gagnlegt til að spá fyrir um hraða fæðinga.

 

E-07

Árangur af magaermi við offitu

Auðun Sigurðsson, Gréta Jakobsdóttir, Sigríður Einarsdóttir, Gísli Jónsson, Samuel Adjepong, Nigel Tuft, Jay Pattar

Domus Medica

audun@magaband.is

Inngangur: Magaermisaðgerðin (sleeve gastrectomy)   er  algengasta aðgerð sem notuð er í efnskipta- og offituskurðlækningum í dag.  Hér er metinn árangur af magaermi vegna offitu hjá Íslendingum.

Efniviður og aðferðir: 150 sjúklingar (111 konur) undirgengust magaermi á Bretlandi eða  Íslandi frá árinu 2012 til 2017 á vegum teymisins. Upplýsingar   voru skráðar í rafrænan gagnagrunn með framvirkum hætti. Árangur af aðgerðunum er mældur sem það hlutfall af yfirþyngd sjúklings sem tapast á 1 til 5 árum eftir aðgerð. Einnig er athuguð tíðni  sykursýki 2, háþrýstings og kæfisvefns fyrir og eftir aðgerð.

Niðurstöður: Meðalaldur sjúklinga var 44 ár (19 – 71, SD 5). Meðalþyngd við aðgerð var 140,7 kg (88 – 230, SD 28,4) og meðalþyngdarstuðull (BMI) var 46,9 (34,6 – 68,6; SD 7,3).  33/150 (22%) voru með  sykursýki 2  og af þeim hættu 23/33 (69.7%) á allri meðferð eftir aðgerð. 51/150(34%) voru með háþrýsting og 29/51(56.8%) höfðu hætt eða minnkað lyfjameðferð eftir aðgerð. 17/150(11.3%) notuðu CPAP vegan kæfisvefns og 9/17 (52.9%) hafa hætt notkun CPAP eftir aðgerð. Ekkert dauðsfall hefur orðið eftir aðgerð. Fjórir sjúklingar (2,6%) fengu blóðgjöf eftir aðgerð og þar af var framkvæmd ein kviðarholsaðgerð vegna blæðingar og var sjúklingur fluttur til eftirmeðferðar á LSH. Annar sjúklingur lagðist inn á LSH vegna gáttaflökts. Enginn leki eða þrengsli frá eða í maga hafa komið fram. Hlutfallslegur þyngdarmissir var 58,4%; 66%; 54,2%; 73.7% og 62% : 1, 2, 3, 4 og 5 ári eftir aðgerð.

Ályktun: Öryggi aðgerðarinnar virðist gott hjá teyminu  og hlutfallslegur þyngdarmissir er svipaður og í sambærilegum rannsóknum erlendis.

 

E-08

Áhættuþættir og algengi örkviðslits í kjölfar ristilbrottnáms vegna ristilkrabbameins

Haukur Kristjánsson1, Sigrún Lína Pétursdóttir1, Elsa Björk Valsdóttir2, Jórunn Atladóttir2, Helgi Kjartan Sigurðsson2, Pétur Hannesson2, Páll Helgi Möller2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Skurðlækningadeild Landspítala

hak9@hi.is

Inngangur Kviðslit í skurðsári eða örkviðslit (incisional hernia) er algengur fylgikvilli skurðaðgerða á kviðarholi. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna algengi og áhættuþætti örkviðslita í kjölfar ristilbrottnáms vegna ristilkrabbameins.

Efniviður og aðferðir Rannsóknin var afturskyggn. Rannsóknarhópinn mynduðu allir sjúklingar sem gengust undir ristilbrottnám vegna ristilkrabbameins á Landspítala á árunum 2011 og 2012. Upplýsingar um sjúklinga fengust úr sjúkraskrárkerfum Landspítala og voru tegund aðgerðar, fylgisjúkdómar, fylgikvillar og tíðni örkviðslits á meðal þeirra breyta sem skráðar voru.

Niðurstöður Fjöldi sjúklinga var 189, þar af 95 karlar. Meðalaldur var 69 ár (bil: 26-94). Valaðgerðir voru 171 og bráðaaðgerðir 18 (9%). Opnar aðgerðir voru 145 og kviðsjáraðgerðir 44. Fimmtungur (20%) sjúklinganna fengu fylgikvilla. Sárasýking var algengasti fylgikvillinn (n=13) en aðrir fylgikvillar voru djúp sýking (n=10) og lungnabólga (n=5). Eins árs dánartíðni var 8% og þriggja ára dánartíðni 23%. Alls greindust 66 sjúklingar (35%) með örkviðslit, flestir á tölvusneiðmyndum. Algengasta staðsetning örkviðslita var í miðlínuöri (83%). Fylgikvillatíðni var 24% samanborið við 18% hjá samanburðarhóp (ekki örkviðslit). Þar af var tíðni sárasýkinga 9% samanborið við 5,7%. Fimmtungur (20%) sjúklinga í örkviðslitshópi fengu geislameðferð fyrir ristilbrottnám miðað við 10% hjá samanburðarhóp. Rúmlega helmingur (57%) örkviðslitshóps hafði sögu um aðgerð á kviðarholi fyrir ristilbrottnám miðað við 41% hjá samanburðarhóp. Tæplega fjórðungur sjúklinga sem fengu örkviðslit fóru síðar í aðgerð vegna þess.

Ályktanir Algengi örkviðslita var ívið hærra samborið við erlendar rannsóknir. Niðurstöðurnar benda til að áhættuþættir örkviðslita eftir ristilbrottnám séu meðal annars sárasýkingar, saga um geislameðferð og aðgerðir á kviðarholi fyrir ristilbrottnám.

 

E-09

Meðferð og endurkomutíðni sjúklinga sem greinast með yfirborðslægt krabbamein í þvagblöðru á Íslandi

Oddur Björnsson1, Guðmundur Geirsson2, Ársæll Kristjánsson2, Árni Stefán Leifsson2, Valur Þór Marteinsson3, Eiríkur Jónsson2, Sigurður Guðjónsson2

1Háskóla Íslands, 2Landspítala, 3Sjúkrahúsinu Akureyri

odb5@hi.is

Inngangur: Yfirborðslægt krabbamein í þvagblöðru er algengur sjúkdómur eldri einstaklinga. Þrátt fyrir góðar langtímahorfur orsakar há endurkomutíðni tíðar enduraðgerðir, gerir strangt eftirlit með blöðruspeglunum nauðsynlegt, veldur álagi á sjúklinga og er samfélaginu kostnaðarsamt. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig meðferð nýgreindra er háttað á Íslandi og endurkomutíðni í kjölfar skurðaðgerðar. Einnig að kanna hversu vel viðbótarmeðferð hérlendis samræmist erlendum leiðbeiningum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin tók til allra sjúklinga á Íslandi sem greindust með yfirborðslægt krabbamein í þvagblöðru árin 2013-2014 og gengust undir TURBT (transurethral resection of bladder tumour) aðgerð. Upplýsingum um viðbótarmeðferð, þekkta áhættuþætti endurkomu og staðfestar endurkomur var safnað afturskyggnt úr sjúkraskrám sjúklinga. Sjúklingum var skipt niður í þrjá áhættuflokka eftir T-stigi, gráðu, stærð og fjölda æxla.

Niðurstöður: Heildarfjöldi sjúklinga var 111 (karlkyn: 84%) og meðalaldur var 70,4 ár. Algengasta greiningareinkennið var bersæ blóðmiga (86% tilfella). Í lágáhættuhópnum voru 43 sjúklingar (39%), í miðáhættuhópnum 40 (36%) og í hááhættuhópnum 28 (25%). Enginn sjúklinga í lág- eða miðáhættuflokk fékk viðbótarinnhellimeðferð en í hááhættuflokknum fengu 12 sjúklingar (43%) BCG (Bacillus Calmette-Guérin) innhellimeðferð. Í heildina greindust 50 sjúklingar (48%) með endurkomu krabbameins á eftirfylgdartímanum (miðgildi 2,5 ár). Snemmendurkomutíðni, þ.e. endurkoma krabbameins við fyrstu blöðruspeglun eftir TURBT var 16% og eins árs endurkomutíðni reyndist 26%.

Ályktanir: Endurkomutíðni eftir TURBT hjá nýgreindum sjúklingum með yfirborðslægt þvagblöðrukrabbamein á Íslandi er há. Viðbótarinnhellimeðferð eftir TURBT er sjaldnar beitt heldur en erlendar leiðbeiningar mæla fyrir um. Næstu skref eru að staðla meðferð þessara sjúklinga með það að markmiði að lækka endurkomutíðni.

 

E-10

Brottnám á blöðruhálskirtli með aðstoð aðgerðarþjarka á Íslandi: Áhrif legu og bólstrunar sjúklinga í aðgerð

Ragnheiður Jónsdóttir1,2, Eiríkur Orri Guðmundsson3, Herdís Alfreðsdóttir1, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir2,4

1Landspítali, skurðstofur Hringbraut, 2Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 3Þvagfæraskurðdeild Landspítala, 4Rannsóknarstofa Landspítala í bráðafræðum

ragnhej@landspitali.is

Inngangur: Blöðruhálskirtilsbrottnám með aðstoð aðgerðarþjarka (RALP) á Íslandi hófust í janúar 2015. Í RALP-aðgerðum liggja sjúklingar steyptir, handleggir meðfram síðum og fótleggir oft í stoðum. Gagnreynda þekkingu um áhrif legu/bólstrunar í RALP-aðgerðum á möguleg tauga-, húð- og augnvandamál skortir.

Efniviður: Öllum sjúklingum sem gengust undir brottnám á blöðruhálskirtli með aðstoð aðgerðarþjarka á Íslandi á tímabilinu janúar 2015 – janúar 2016 var boðin þátttaka í rannsókninni.

Aðferðir: Þátttakendur svöruðu fjórum spurningalistum: fyrir aðgerð, á fyrsta degi, sjöunda degi og þremur mánuðum eftir aðgerð. Skurð- og svæfingahjúkrunarfræðingar skráðu upplýsingar um legu sjúklinga. Gögnum var safnað í RedCap og greind með lýsandi- og ályktunartölfræði um sambönd milli breyta.

Niðurstöður: Framkvæmdar voru 65 aðgerðir á tímabilinu og samþykktu 62 einstaklingar þátttöku (95% svarstíðni). Meðalaldur var 64 ár (bil 48-73 ár), meðal BMI var 27 kg/m2 (bil 21-39), meðaltími í steyptri legu 100 mín (bil 64-162 mín), meðalgráður steypu 26˚ (bil 23˚-30). Á fyrsta degi höfðu 85% verki í kvið  og 36% í öxlum, þremur mánuðum eftir aðgerð var tíðnin 14% og 14%. Tvíhliða aðhvarfsgreining sýndi að sjúklingar í kjörþyngd voru líklegri til að finna fyrir verkjum í öxlum á fyrsta degi miðað við þyngri sjúklinga (líkindahlutfall (OR) 3,40; 95% öryggisbil (ÖB) 1,02-11, p=0,045). Tímalengd steypu jók verki í hálsi (OR 1,03; 95% ÖB 1,00-1,60, p=0,042) og máttminnkun í fótum (OR 1.06: 95% ÖB 1,00-1,06, p=0,041). Lægri gráður steypu í aðgerð tengdust minni verkjum í hálsi  (OR 0,37; 95% ÖB 0,14-0,98, p=0,016), verkjum í handleggjum (OR 0,22; 95% ÖB 0,06-0,75, p=0,016) og doða í fótleggjum (OR 0,32; 95% ÖB 0,10-0,99, p=0,048) þremur mánuðum eftir aðgerð.

Ályktanir: Rannsóknin sýndi að líkamsþyngdarstuðull, halli og tími steyptrar legu í RALP voru tengd taugaeinkennum sjúklinga eftir aðgerð. Gagnreynd þekking um áhrif legu/bólstrunar á fylgikvilla eftir aðgerð er mikilvæg skurðteyminu til að stuðla að sem mestu öryggi sjúklinga.

 

E-11

Áhrif meðgöngulengdar á námsárangur

Elín Þóra Elíasdóttir1, Inga Dóra Sigfúsdóttir2, Ingibjörg Eva Þórisdóttir2, Ragnhildur Hauksdóttir3, Þórður Þórkelsson4, Þóra Steingrímsdóttir1, 3

1Háskóla Íslands, 2Háskólanum í Reykjavík, 3Kvennadeild Landspítala, 4Barnaspítala Hringsins

ethe10@hi.is

Inngangur: Fyrirburar eru í aukinni áhættu á að greinast með ýmsa langvinna sjúkdóma. Einnig hefur verið sýnt fram á að fyrirburar fá lægri einkunnir en fullburða samnemendur. Hugmyndir eru uppi um að meðgöngulengd hafi einnig áhrif á einkunnir fullburða barna. Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á að fyrirburar fái lægri einkunnir en fullburða börn en fáar rannsóknir taka til línulegra áhrifa meðgöngulengdar.

Efniviður og aðferðir: Unnið var með gagnasafn frá LIFECOURSE rannsókninni sem aflað var frá Fæðingaskrá Landlæknis, Námsmatsstofnun og Hagstofunni. Skoðaðar voru einkunnir 1146 barna í samræmdum prófum.

Niðurstöður: Með vaxandi meðgöngulengd hækkaði einkunn í stærðfræði en ekki íslensku. Þegar gögnunum var lagskipt eftir kyni kom í ljós að áhrifin voru einungis til staðar hjá strákum þar sem marktæk hækkun var á einkunn í íslensku og stærðfræði með lengri meðgöngu bæði í 4. og 7. bekk. Hjá stelpum voru áhrif meðgöngulengdar á heildareinkunn aldrei marktæk. Áhrifa meðgöngulengdar gætti einnig hjá fullburða börnum (fæddum eftir 37 – 42 vikna meðgöngu) en þar kom fram marktæk hækkun á einkunn í íslensku og stærðfræði með aukinni meðgöngulengd bæði í 4. og 7. bekk. Þegar betur var að gáð voru áhrif meðgöngulengdar á einkunnir fullburða barna einungis til staðar hjá strákum.

Ályktanir: Þessi rannsókn styrkir niðurstöður nýlegra rannsókna sem benda til þess að meðgöngulengd fullburða barna hafi áhrif á námsárangur. Skýr kynjamunur kom fram í áhrifum meðgöngulengdar þar sem áhrifanna gætti einungis hjá strákum og er áhugavert að skoða það nánar.

 

E-12

Krabbamein í legbol á Landspítala 2007 - 2016

Freyja Sif Þórsdóttir1, Ásgeir Thoroddsen2, Þóra Steingrímsdóttir1, 2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Kvenna- og barnasvið Landspítala

freyjasif91@gmail.com

Inngangur: Á Íslandi greinast árlega um 30 konur með legbolskrabbamein. Orsakir sjúkdómsins eru ekki að fullu þekktar þótt ýmsir áhættuþættir séu þekktir, svo sem aldur, offita og hormónameðferð. Kjörmeðferð er skurðaðgerð þar sem legið er fjarlægt ásamt eggjastokkum og eggjaleiðurum. Litlar upplýsingar liggja fyrir um legbolskrabbamein á Íslandi. Tilgangur rannsóknarinnar var að fá yfirsýn yfir sjúkdóminn hérlendis, svo sem aldursdreifingu, áhættuþætti, einkenni, greiningaraðferðir, meingerð, meðferð og horfur.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til kvenna sem greindust með legbolskrabbamein á árunum 2010-2014 og gengust undir meðferð á Landspítalanum. Klínískar upplýsingar fengust úr sjúkraskrám, aðgerðarlýsingum, meinafræðisvörum, myndgreiningarsvörum og svæfingarskýrslum.

Niðurstöður: Alls greindust 108 konur á rannsóknartímabilinu eða að meðaltali 21,6 á ári. Meðalaldur var 62,9±11 ár en 83,3% voru komnar yfir tíðahvörf. Meðallíkamsþyngdarstuðull (BMI) kvennanna var 32,2±8,1 kg/m2 en 59% voru í offituflokki og voru 20% í ofþyngd. Um 93% kvennanna leituðu til læknis vegna óeðlilegra blæðinga. Rúmlega helmingur kvennanna greindist innan þriggja mánaða frá fyrstu einkennum. Algengasta meingerðin (90,7%) var legslímulíkt kirtilfrumukrabbamein (e. endometrioid adenocarcinoma). Nær allar konurnar (97,2%) fóru í aðgerð en af þeim fengu 34,3% eftirmeðferð í formi geisla og/eða krabbameinslyfja. Á rannsóknartímabilinu fengu 11,1% sjúklinganna endurkomu krabbameinsins. Fimm ára lifun reiknaðist 80,9%. Marktækur munur var á lifun kvenna eftir stigun sjúkdómsins og gráðun.

Ályktun: Sjúklingahópnum hér á landi svipar til erlendra hópa hvað varðar þekkta áhættuþætti, einkenni, meingerð og meðferð legbolskrabbameins. Horfur kvenna með sjúkdóminn eru beintengdar gráðun og stigun sjúkdómsins við greiningu.

 

E-13

Krabbamein í eggjastokkum, eggjaleiðurum og lífhimnu á Íslandi 2005-2014

Arna Rut Emilsdóttir1, Elísabet Arna Helgadóttir2, Anna Margrét Jónsdóttir3, Pétur Vignir Reynisson2, Þóra Steingrímsdóttir1, 3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Kvennadeild og 3Meinafræðideild Landspítala

arnarut11@gmail.com

Inngangur: Eggjastokkakrabbamein er það krabbamein í innri kynfærum kvenna sem dregur flestar konur til dauða. Það hefur lítið verið rannsakað á Íslandi og var markmið þessarar rannsóknar að fá betri yfirsýn yfir sjúkdóminn hérlendis sem og að kanna hvaða þættir hefðu áhrif á lifun sjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra sjúklinga sem greindust með krabbamein í eggjastokkum, eggjaleiðurum eða lífhimnu á Íslandi árin 2005-2014. Gögn yfir þá sjúklinga voru fengin frá Krabbameinsskrá og Landspítala. Klínískra upplýsinga var aflað úr sjúkraskrám.

Niðurstöður: Alls greindust 302 konur með krabbamein í eggjastokkum, eggjaleiðurum eða lífhimnu á árunum 2005-2014. Miðgildi aldurs við greiningu var 63 ár. Stærstur hluti sjúklinga var með illkynja þekjufrumukrabbamein eða 222 sjúklingar (74%), 71 sjúklingur (23%) greindist með “borderline” þekjufrumuæxli og 9 (3%) með krabbamein af annarri vefjagerð. Flestir sjúklingar greindust á stigi III (47%) og næstflestir á stigi I (41%). Alls voru 46% sjúklinga með meltingarfæraeinkenni við greiningu, 35% með þaninn kvið og 65% með verk eða óþægindi í kvið. Alls gengust 92% kvennanna undir skurðaðgerð og 64% fengu lyfjameðferð. Af þeim 250 konum sem komust í sjúkdómsdvala fengu 117 endurkomu á rannsóknartímabilinu. Miðgildi endurkomu var 11 mánuðir. Fimm ára lifun alls sjúklingahópsins var 52% (95% ÖB: 46-59). Stig og vefjagerð sjúkdóms, aldur sjúklings og magn æxlisvaxtar í lok aðgerðar höfðu sjálfstæð marktæk áhrif á lifun.

Ályktun: Birtingarmynd sjúkdómsins á Íslandi er sambærileg því sem gerist erlendis. Mikilvægi þess að fjarlægja allan æxlisvöxt í aðgerð var undirstrikað.

 

E-14

Eykur gallblöðrutaka hættuna á þróun ristil- og endaþarmskrabbameina með misræmisviðgerðaróvirkni?

Matthías Örn Halldórsson1, Pétur Snæbjörnsson2, Kristín Huld Haraldsdóttir1, Guðný Eiríksdóttir3, Thor Aspelund3,5, Elías Freyr Guðmundsson3, Vilmundur Guðnason3,5, Jón Gunnlaugur Jónasson1,5, Sigurdís Haraldsdóttir4, Michael Hauptman2

1Skurðlækningadeild Landspítala, 2Netherlands Cancer Institute, 3Hjartavernd, 4Stanford University, 5Læknadeild HÍ

moh9@hi.is

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort gallblöðrutaka auki líkurnar á að þróa með sér ristil-og endaþarmskrabbamein með misræmisviðgerðar(MMR-)óvirkni. Áður hafa tengsl milli gallblöðrutöku og ristil-og endaþarmskrabbameina verið skoðuð en ekki hefur verið litið á þau áður með tilliti til MMR-óvirkni.

Efniviður og aðferðir: Þetta er tilfella-viðmiðarannsókn sem inniheldur alla sjúklinga greinda með ristilkrabbamein á árunum 2000-2009 (n=1171). Sjúklingahópurinn hafði verið skimaður fyrir MMR-óvirkni með ónæmislitun (n=129 með MMR-óvirkni, n=27 vegna Lynch heilkennis). Fundinn var aldurs- og kynstaðlaður viðmiðunarhópur (n=17.273), sem ekki var útsettur. Gagnagrunnur frá öllum þremur meinafræðirannsóknarstofum á Íslandi var skoðaður og skráð hverjir höfðu farið í gallblöðrutöku. Tíðni gallblöðrutöku í ristil- og endaþarmskrabbameinssjúklingum með MMR-óvirk æxli annars vegar og æxli án MMR-óvirkni hinsvegar var borin saman við viðmiðunarhóp.

Niðurstöður: Þrjátiu (23%) sjúklingar með MMR-óvirk æxli og 164 (16%) sjúklingar með MMR-virk æxli höfðu farið í gallblöðrutöku samanborið við 2.214 (13%) viðmið. Þegar notuð var óskilyrt lógistísk aðhvarfsgreining og leiðrétt fyrir kyni og aldri þá var áhættuhlutfall 1,06 (p=0,48), á því að fá ristil- og endaþarmskrabbamein ≥2 árum eftir gallblöðrutöku miðað við einstaklinga án gallblöðrutöku eða 1,16 (p=0,61) fyrir áhættu á ristil- og endaþarmskrabbameini með MMR-óvirkni og 1,04 (p=0,74) fyrir áhættu á ristil- og endaþarmskrabbameini með MMR-virkni. Áhættuhlutfall á ristil- og endaþarmskrabbameini með MMR-óvirkni var 0,51 (p=0,27) <10 árum eftir gallblöðrutöku, 2,04 (p=0,08) 10-20 árum eftir gallblöðrutöku og 1,08 (p=0,88) >20 árum eftir gallblöðrutöku.

Ályktun: Rannsóknin sýnir viss tengsl á milli gallblöðrutöku og áhættunnar á því að þróa með sér MMR-óvirk ristil-og endaþarmskrabbamein, en tengslin reyndust ekki tölfræðilega marktæk.

 

E-15

Breyttar aðferðir við legnám í tengslum við notkun hakkavéla

Helga Óttarsdóttir1, Sarah Cohen2, Mary Cox2, Allison Vitonis2, Jón Ívar Einarsson2

1Landspítala, 2Brigham and Women's Hospital

helgathorunn@gmail.com

 Inngangur: Árið 2014 gaf Food and Drug Administration í Bandaríkjunum út ábendingar sem vöruðu við notkun hakkavéla við legnám kvenna með góðkynja vöðvahnúta, og þá vegna áhættu á dreifingu leynds illkynja sléttvöðvaæxlis um kviðarhol. Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif þessara ábendinga á legnámstækni.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn ferilrannsókn sem náði til allra sjúklinga sem fóru í legnám vegna góðkynja ábendinga á Brigham and Women's Hospital frá 2013 til 2015. Fjöldi kviðarholsaðgerða, aðgerða í gegnum leggöng, kviðsjáraðgerða og aðgerða gerða með aðstoð aðgerðaþjarka var skoðaður, auk fjölda fylgikvilla eftir aðgerðir, endurinnlagnir innan 60 daga, enduraðgerðir og tími innlagnar eftir aðgerð. Alvarleiki fylgikvilla var flokkaður með Clavien-Dindo skala.

Niðurstöður: Frá 2013 til 2015, fóru 1530 sjúklingar í legnám vegna góðkynja ábendinga og 639 sjúklingar fóru í aðgerðina vegna vöðvahnúta. Þegar sjúklingar með vöðvahnúta voru sérstaklega skoðaðir, sáust 40-60% minni líkur á aðgerð með minniháttar inngripi á árunum 2014 og 2015, borið saman við 2013 (p=0.004). Einnig var 24.0% marktæk fækkun á legnámi ofan legháls. Sterkasti forspárþáttur fyrir legnámi með minniháttar inngripi var að aðgerðin væri gerð af skurðlækni með undirsérhæfingu (OR 7.23, 95%-ÖB: 3.94, 13.29, p<0.0001). Ekki var marktækur munur á fjölda fylgikvilla í aðgerð og enduraðgerða á milli ára.

Ályktun: Þrátt fyrir að legnámum með minniháttar inngripi hafi fækkað á Brigham and Women's Hospital í kjölfar öryggisábendinga Food and Drug Administration, hefur tíðni fylgikvilla haldist óbreytt. Með breyttum aðferðum og varkárni í kringum hakkavélar síðustu tvö ár, er enn hægt að bjóða sjúklingum aðferðir með minna inngripi með öllum þeim kostum sem þeim fylgja.

 

E-16

Stoðnet vegna þrengsla í ristli og endaþarmi af völdum krabbameins

Margrét Guðrún Ásbjarnardóttir, Elsa Björk Valsdóttir1,2, Helgi Kjartan Sigurðsson2, Jórunn Atladóttir2 og Páll Helgi Möller1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Skurðlækingadeild Landspítala

margretga@gmail.com

Inngangur: Sjálfþenjandi stoðnet eru notuð hjá hluta sjúklinga með teppueinkenni vegna æxlisvaxtar í ristli/endaþarmi. Hlutverk þeirra er líknandi meðferð eða undirbúningur fyrir kviðarholsaðgerð. Markmið rannsóknarinnar var að kanna notkun slíkra stoðneta á LSH 2007–2016.

Efniviður og aðferðir: Gerð var afturskyggn, lýsandi rannsókn á sjúklingum með krabbamein í ristli/endaþarmi sem fengu stoðnet vegna garnateppu. Gögn voru fengin úr sjúkraskrárkerfi.

Niðurstöður: Alls fengu 34 sjúklingar 43 stoðnet. Fimm fengu fleiri en eitt stoðnet sem lögð voru á mismunandi tímum. Meðalaldur var 71 ár (bil: 19-91), konur 56%. Algengasti staðurinn var bugðuristil (18/34), næstur fallristill (8/34). Fjögur stoðnet voru lögð í endaþarm. Miðgildi legudaga var 2 dagar (bil: 0–35 dagar). Tæknilegur árangur (viðunandi lega stoðnets) var 85% og klínískur (bæting einkenna) 90%. Fylgikvillar fyrstu 30 dagana voru hjá 11/34 (32%). Í 4/43 tilvikum olli stoðnetið rofi á görn (brátt=2, síðtilkomið=2). Þrettán sjúklingar fengu stoðnet sem brú yfir í aðgerð, 12/13 fóru í læknandi aðgerð, fjórir fengu stóma. Meðalfjöldi daga að aðgerð voru 11,5. Þrjátíu daga lifun var 100%, eins árs lifun 83%. Flestir sjúklinganna fengu stoðnet sem líknandi meðferð eða 21, 8 þeirra þurftu aðgerð, fimm fengu stóma. Þrjátíu daga lifun var 95%, eins árs lifun 62%.

Ályktun: Stoðnet sem brú yfir í aðgerð leiddi til endurtengingar á görn hjá sambærilegu hlutfalli sjúklinga og lýst hefur verið erlendis. Hlutfall þeirra sem fengu brátt rof var fremur hátt. Sem líknandi meðferð voru 24% líkur á að sjúklingar fengju varanlegt stóma. Niðurstöðurnar benda til þess að vel þurfi að íhuga slíkar stoðnetslagningar.

 

E-17

Skammtíma- og langtímaárangur skurðaðgerða við lungnakrabbameini af ekki-smáfrumugerð á Íslandi

Guðrún Nína Óskarsdóttir1, Hannes Halldórsson1, Martin Ingi Sigurðsson1, Björn Már Friðriksson1, Kristján Baldvinsson1, Andri Wilberg Orrason1, Steinn Jónsson1, Maria Plack2, Tómas Guðbjartsson 1

1Landspítala, 2Skånes Universitetssjukhus Lund

gudrunn87@gmail.com

Inngangur: Skurðaðgerð er helsta læknandi meðferðin við lungnakrabbameini af ekki-smáfrumugerð og blaðnám langalgengasta aðgerðartegundin. Markmið þessarar rannsóknar var að meta skammtíma- og langtímahorfur sjúklinga sem gengust undir blaðnám við lungnakrabbameini á Íslandi á 24 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til þeirra 489 sjúklinga sem gengust undir blaðnám við lungnakrabbameini á Íslandi á árunum 1991-2014. Sjúkraskrár og aðgerðarlýsingar voru skoðaðar, og lífshorfur metnar með aðferð Kaplan-Meier. Forspárþættir lífshorfa voru metnir með ein- og fjölþáttagreiningu Cox.

Niðurstöður: Meðalaldur sjúklinga var 67 ár og 53,8% sjúklinga konur. 273 sjúklingar (55,6%) voru á TNM stigi I, 146 (29.6%) á stigi II og 74 (15%) á stigi IIIA. Tíðni alvarlegra fylgikvilla reyndist 4,7% og 30 daga dánartíðni 0,6% (3 sjúklingar). Eins árs lifun var 85.0% og 5 ára lifun 49.2%. Þriggja ára lifun jókst úr 48,3% á árunum 1991-1994 í 72,3% árin 2011-2014 (p=0.0004). Hærri TNM-stigun og aldur reyndust sjálfstæðir neikvæðir forspárþættir lífshorfa en aðgerð framkvæmd á síðari hluta tímabilsins og skurðbrúnir án æxlisvaxtar spáðu fyrir betri lífshorfum.

Ályktun: Skammtíma horfur sjúklinga sem gangast undir blaðnám vegna lungnakrabbameins af ekki-smáfrumugerð á Íslandi eru góðar, sem endurspeglast í lágri 30 daga dánartíðni og tíðni alvarlegra fylgikvilla. Langtíma lífshorfur sjúklinga voru sambærilegar og lýst hefur verið í erlendum rannsóknum og hafa vænkast á síðasta áratug.

 

E-18

Árangur ósæðarlokuskipta hjá konum á Íslandi

Anna Guðlaug Gunnarsdóttir1, Sindri Aron Viktorsson2, Kristján Orri Víðisson1, Arnar Geirsson2, Tómas Guðbjartsson2, Daði Helgason2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

annagudlaug92@gmail.com

Inngangur: Ósæðarlokuskipti er önnur algengasta opna hjartaaðgerðin á Íslandi á eftir kransæðahjáveitu. Árangur ósæðarlokuskipta hjá konum hefur ekki verið rannsakaður sérstaklega á Íslandi og var markmið rannsóknarinnar að bæta úr því.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til allra sjúklinga (n=430) sem gengust undir ósæðarlokuskipti á Íslandi vegna ósæðarlokuþrengsla 2002-2013. Skráð voru einkenni, áhættuþættir hjartasjúkdóma, niðurstöður hjartaómana yfirfarnar og fylgikvillar skráðir. Heildarlifun (Kaplan-Meier) var áætluð og forspárþættir dauða innan 30 daga ákvarðaðir með lógistískri aðhvarfsgreiningu. Meðal eftirlitstími var 6,8 ár.

Niðurstöður: Konur voru 151, eða 35,1% hópsins og var meðalaldur þeirra 2,3 árum hærri en karla (72,6 sbr. 70,3 ár, p=0,02). Lokuflatarmál var minna hjá konum (0,62 sbr. 0,74 cm2 fyrir karla, p<0,001) og meðal hámarksþrýstingsfallandi var sömuleiðis hærri (74,4 sbr. 68,1 mmHg fyrir karla, p=0,015). Tíðni fylgikvilla, bæði snemmkominna (76,0% sbr. 75,2% fyrir karla) og langtíma (34,7% sbr. 35,3% fyrir karla), var sambærileg milli kynja (p=0,94 og p=0,99). 30-daga dánartíðni var 8,6% fyrir konur en 3,9% fyrir karla (p=0,07) og var 5-ára lifun í hópnum sambærileg, eða 79,7% kvenna og 82,9% karla (p=0,387). Kvenkyn reyndist ekki sjálfstæður forspárþáttur dauða innan 30 daga eftir að leiðrétt hafði verið fyrir öðrum forspárþáttum (OR: 2,28, 95%-ÖB: 0,93-5,77).

Ályktanir: Konur eru þriðjungur þeirra sem gangast undir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla, sem er svipað hlutfall og erlendis. Þær eru rúmlega tveimur árum eldri en karlar þegar kemur að aðgerð og virðast hafa lengra genginn sjúkdóm. Konur hafa tilhneigingu til hærri 30-daga dánartíðni, en tíðni fylgikvilla, bæði snemmkominna og langtíma, reyndist sambærileg milli kynja.

 

E-19

Há dánartíðni eftir alvarlega æðaáverka í kjölfar umferðarslysa á Íslandi

Bergrós Jóhannesdóttir1, Una Jóhannesdóttir1, Karl Logason3, 5, Þorbjörn Jónsson4, Sigrún Lund5, Brynjólfur Mogensen2, 6, Tómas Guðbjartsson1, 5

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2Bráðasvið, 3Æðaskurðdeild Landspítala, 4Blóðbankinn, 5Læknadeild Háskóla Íslands

bergroskj@gmail.com

Inngangur: Umferðarslys eru algengasta orsök alvarlegra áverka á æðar. Markmið rannsóknarinnar var að skoða áhættuþætti alvarlegra æðaskaða eftir umferðarslys hjá heilli þjóð og dánartíðni vegna þeirra.

Efniviður og aðferðir: Gögn allra sjúklinga með alvarlega æðaáverka á Íslandi 2000-2011 voru skoðuð, bæði sjúkraskýrslur og krufningaskýrslur. Áverkarnir voru flokkaðir og skráð hvaða meðferð var beitt, legutími og magn blóðhlutagjafa. Lifun, ISS og NISS-áverkaskor voru reiknuð. Bornir voru saman einstaklingar sem náðu lifandi á sjúkrahús og þeir sem létust fyrir komu.

Niðurstöður: Alls fundust 62 sjúklingar (meðalaldur 44 ár, 79% karlmenn); sem gefur aldurstaðlað nýgengi 1.7/100,000 (95% CI: 1.3-2.2), og náði 21 þeirra lifandi á sjúkrahús, en 41 létust á vettvangi eða í flutningi. Tveir þriðju áverkanna hlutust utan höfuðborgarsvæðisins og voru 84% í kjölfar bílslyss, þar af 2/3 vegna framanákeyrslu. Af þeim sem létust fyrir innlögn voru 78% með skaða á brjóstholshluta ósæðar. Meðaltal ISS og NISS fyrir þá einstaklinga (n=21), sem lögðust inn var 36 og 44. Opin æðaaðgerð var framkvæmd á 16 sjúklingum og bráð innæðaaðgerð á 3 þar sem komið var fyrir stoðneti í ósæð. Alls létust 45 sjúklingar (73%) innan 30 daga. 15 sjúklingar (24%) lifðu áverkann og útskrifuðust en 5 ára lifun þeirra var 86% (95% CI: 0.72-1).

Ályktun: Alvarlegir æðaáverkar eftir umferðarslys eru sjaldgæfir á Íslandi. Tveir af hverjum þremur látast á vettvangi eða í flutningi en flestir þessara áverka verða utan höfuðborgarsvæðisins. Alvarlegustu áverkarnir voru á brjósthluta ósæðar, oftast eftir framanákeyrslu. Fyrir þá sjúklinga sem lifa af áverkann eru langtíma lífshorfur þó góðar.

 

E-20

Árangur ósæðarlokuskipta vegna ósæðarlokuþrengsla fer batnandi á Íslandi

Kristján Víðisson1, Sindri Aron Viktorsson2, Anna Guðlaug Gunnarsdóttir1, Daði Helgason2, Arnar Geirsson3, Tómas Guðbjartsson1, 2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala,  3Hjarta- og æðskurðdeild Yale-háskólasjúkrahússins, New Haven, CT

kristjan.vidisson@gmail.com

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort árangur ósæðarlokuskipta vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi hafi breyst á 12 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem tók til 430 sjúklinga sem gengust undir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi 2002-2013. Borin var saman dánartíðni, tíðni snemmkominna og langtíma fylgikvilla og lifun (Kaplan-Meier) á þremur 4 ára tímabilum. Meðaleftirlitstími var 6,8 ár og miðast við 31. desember 2016.

Niðurstöður: Meðalaldur, kynjahlutfall, líkamsþyngdarstuðull og EuroSCORE-II hélst svipað á milli tímabila. Meðaltal hámarksþrýstingsfallanda yfir ósæðarlokuna fyrir aðgerð lækkaði úr 75±26 mmHg á fyrsta tímabilinu í 67±24 mmHg (p=0,01) og 70±27 mmHg (p=0,01) á því öðru og þriðja. Einnig jókst flatarmál lokuops fyrir aðgerð úr 0,63±0,22 cm2 í 0,71±0,25 cm2 (p=0,02) og 0,75±0,24 cm2 (p=0,007). Á sömu tímabilum styttist tangartími úr 127 mín í 110 og 107 mín (p<0,0001) en lækkun á 30-daga dánartíðni var ekki marktæk (8,3% í 4,2% (p=0,6) og 4,9% (p=0,6)). Á fyrsta tímabilinu fengu 83,3% sjúklinga snemmkominn minniháttar fylgikvilla samanborið við 61,9% og 61,4% á því öðru og þriðja (p=0,0003). Tíðni alvarlegra fylgikvilla breyttist hins vegar ekki marktækt (35,8%, 28,0% (p=0,3) og 23,2% (p=0,1)). Eins árs lifun á tímabilunum þremur var 87,5%, 94,0% og 94,4% (p=0,07) og 3ja-ára lifun 83,3%, 88,6% og 90,8% (p=0,2).

Ályktun:Tíðni snemmkominna fylgikvilla hefur lækkað eftir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi og tilhneiging sést til betri lifunar, enda þótt munurinn sé ekki marktækur. Ástæðurnar eru ekki þekktar en hluti af skýringunni gæti verið sú að sjúklingar eru teknir fyrr til aðgerðar auk þess sem tangartími hefur styst.


E-21

Endurheimt nýrnastarfsemi eftir bráðan nýrnaskaða í kjölfar skurðaðgerða; skilgreining, áhættuþættir og lifun

Þórir Long1,3, Sólveig Helgadóttir1,4, Daði Helgason1,3, Gísli H. Sigurðsson1,4, Tómas Guðbjartsson1,5, Runólfur Pálsson1,3,6, Ólafur Skúli Indriðason3,6, Martin Ingi Sigurðsson2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Duke University Hospital, Dept. of Anesthesiology,  3Lyflækningasvið, 4Svæfinga- og gjörgæsludeild, 5Hjarta- og lungnaskurðdeild, 6Nýrnalæknaeining Landspítala

thorirein@gmail.com

Bakgrunnur: Skilgreining á endurheimt nýrnastarfsemi eftir bráðan nýrnaskaða (BNS) er á reiki. Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman helstu skilgreiningar á endurheimt nýrnastarfsemi í kjölfar BNS, kanna áhættuþætti og tengsl við lifun.

Aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum fullorðnum einstaklingum sem gengust undir kviðarhols-,brjósthols, bæklunar- eða æðaskurðaðgerð á Landspítala á árunum 2007-2015. Nýrnastarfsemi var metin með kreatíninmælingum fyrir og eftir aðgerð og BNS skilgreindur samkvæmt KDIGO (Kidney Disease: Improving Global Outcomes) -skilmerkjum. Ein- og fjölþátta aðhvarfsgreining auk ROC-kúrfa (receiver operating characteristic) voru notaðar til að bera saman mismunandi skilgreiningar á endurheimt nýrnastarfsemi og eins-árs lifun BNS-sjúklinga með og án endurheimtar borin saman með áhættuskora-pörun (propensity score).

Niðurstöður: Alls greindust 2.531(5,2%) með BNS; 1.901(3,9%), 351(0,7%) og 279(0,6%) á KDIGO stigum 1, 2 og 3, en 81%, 77% og 68% þeirra höfðu endurheimt nýrnastarfsemi(<1,5x grunngildi) 30 dögum eftir aðgerð. Allar skilgreiningar endurheimtar (ná undir 1,5, 1,25 eða 1,10x grunngildi innan 10, 20 eða 30 daga) sýndu jákvæð tengsl við lifun en engin hafði gott forspárgildi fyrir eins-árs lifun. Við einþátta aðhvarfsgreiningu sáust sterkustu tengslin við lægri dánartíðni ef kreatínín var <1,5x grunngildi einstaklings innan 30 daga frá aðgerð(OR 0,37;95% 95%-ÖB: 0,29-0,49;p<0,001). Við fjölþátta aðhvarfsgreiningu voru hærri aldur, saga um krabbamein, hjartabilun, langvinnan nýrnasjúkdóm, aðgerðartegund og skert endurheimt nýrnastarfsemi sjálfstæðir forspárþættir fyrir aukinni dánartíðni. Eins-árs lifun einstaklinga með endurheimt nýrnastarfsemi var marktækt betri en paraðs viðmiðunarhóps án endurheimtar(80% sbr. 68%, p<0,001).

Ályktanir: Fjórir sjúklingar af fimm náðu nýrnabata eftir BNS í kjölfar skurðaðgerðar. Ef sjúklingur nær endurheimt nýrnastarfsemi sem nemur<1,5x grunngildi innan 30 daga frá BNS tengist það marktækt betri eins árs lifun.

 

E-22

Bráður nýrnaskaði eftir kransæðaþræðingar á Íslandi

Daði Helgason1,3, Þórir E. Long1,3, Sólveig Helgadóttir1,4, Runólfur Pálsson1,3,6, Tómas Guðbjartsson1,5, Gísli H. Sigurðsson1,4, Ólafur S. Indriðason3,6, Ingibjörg J. Guðmundsdóttir1, Martin I. Sigurðsson2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Duke University Hospital, Dept. of Anesthesiology,  3Lyflækningasvið, 4Svæfinga- og gjörgæsludeild, 5Hjarta- og lungnaskurðdeild, 6Nýrnalæknaeining Landspítala

dadihelga@gmail.com

Inngangur: Bráður nýrnaskaði er einn af alvarlegri fylgikvillum kransæðaþræðinga og hefur verið tengdur við skuggaefnisgjöf. Í þessari rannsókn könnuðum við tíðni og áhættuþætti bráðs nýrnaskaða (BNS) eftir kransæðaþræðingar.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum sem gengust undir kransæðaþræðingu á Íslandi 2008-2015. BNS var skilgreindur samkvæmt kreatínínmælingum í sermi (SKr) og notast við KDIGO (Kidney Disease: Improving Global Outcomes) -skilmerki. Gögnum var safnað úr Swedeheart/SCAAR gagnagrunni og tölvukerfum Landspítala.

Niðurstöður: Framkvæmdar voru 13973 kransæðaþræðingar hjá 10882 sjúklingum á tímabilinu en SKr grunngildi var til staðar hjá 13606 tilfellum sem voru notuð til frekari úrvinnslu. BNS greindist í 281 tilfelli (2,1%), þar af voru 218 (1,6%), 33 (0,2%) og 30 (0,2%) af KDIGO stigum 1,2 og 3 en ekki var marktæk breyting á tíðni BNS á tímabilinu (p=0.31). Helstu áhættuþættir BNS í fjölbreytugreiningu voru aldur (per 10 ár, ÁH 1,17, 95% ÖB:1,02-1,34), Elixhauser Comorbidity Index >0 (ÁH 1,57, 95% ÖB:1,15-2.13), gaukulsíunarhraði <30 ml/mín/1,73 m2 (ÁH 5.85, 95% ÖB:3,49-9,59), blóðleysi (ÁH 1,78, 95%-ÖB:1,34-2,37), hvít blóðkorn >10.0x109/L (ÁH 2,33, 95% ÖB:1,72-3,15), blóðsykur >7.7 mmol/L (ÁH 2,26, 95% ÖB:1,64-3,15), blóðnatríum <135 mmol/L (ÁH 1,84, 95%-ÖB:1,18-2,78), TnT hækkun fyrir þræðingu (ÁH 4,39, 95% ÖB:2,97-6,65), brátt hjartadrep (ÁH 2,00, 95% ÖB:1,40-2,85), notkun ósæðardælu (ÁH 4,52, 95% ÖB:2,65-7,6), skuggaefnismagn (per 100 ml, ÁH 1,19, 95% ÖB:1,02-1,39) og opin hjartaaðgerð <7 dögum frá þræðingu (ÁH 2,22, 95% ÖB:1,44-3,22).

Ályktun: Tíðni BNS eftir kransæðaþræðingar var 2,1% og hélst svipuð á tímabilinu. Skuggaefnismagn var sjálfstæður áhættuþáttur BNS eftir kransæðaþræðingu og fyrra heilsufar, niðurstöður blóðrannsókna og ástand sjúklinga fyrir þræðingu voru einnig mikilvægir forspárþættir BNS.

 

E-23

Enduraðgerðir vegna endurkomu loftbrjósts eftir aðgerð vegna frumkomins sjálfsprottins loftbrjósts - tíðni og áhættuþættir

Tinna Arnardóttir1, Guðrún Fönn Tómasdóttir1, Arnar Geirsson2, Tómas Guðbjartsson1

1Landspítala, 2Hjarta- og æðadeild Yale-New Haven spítala, Conneticut, USA

tinna.harper@gmail.com

Inngangur: Skurðaðgerðir vegna frumkomins sjálfsprottins loftbrjósts (FSL) hafa færst frá opnum aðgerðum yfir í brjóstholssjáraðgerðir (video-assisted thoracic surgery, VATS) þrátt fyrir hærri tíðni enduraðgerða vegna endurtekins loftbrjóst eftir síðarnefndu aðgerðirnar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni og áhættuþætti enduraðgerða eftir skurðaðgerð við FSL.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 333 sjúklingum (meðalaldur 27,5 ár, 78% karlar) sem gengust undir 400 skurðaðgerðir vegna FSL á Íslandi 1991-2015. Rannsóknartímabilinu var skipt upp í fimm 5-ára tímabil og þau borin saman. Upplýsinga var aflað úr sjúkraskrám og m.a. skráð aðgerðartegund og fylgikvillar, með áherslu á tíðni enduraðgerða vegna loftbrjósts. Meðaleftirlitstími var 153 mánuðir og miðast eftirlit við 1.mars 2016.

Niðurstöður: Enduraðgerða vegna loftbrjósts var þörf í 5,3% tilfella (n=21) og voru algengari eftir VATS en opna aðgerð (6,1% sbr. 3,3%). Hlutfall VATS-aðgerða jókst úr 63% fyrstu 5 árin í 92% þau síðustu, en á sama tíma lækkaði tíðni enduraðgerða vegna loftbrjósts úr 9% í 3% (mynd 1). Fyrir VATS-aðgerðir var hlutfallið 10% og 2%. Á sömu tímabilum jókst samvaxtaörvandi meðferð í VATS-aðgerðum úr 41% í 82%. Tímalengd frá aðgerð að endurteknu loftbrjósti var að miðgildi 4 mánuðir (bil 0-47) en allar enduraðgerðir voru framkvæmdar innan 5 ára (mynd 2). Áhættuþættir fyrir enduraðgerð voru: VATS-aðgerðarform (HR 2,94, p<0,05), aldur (HR 1,033 fyrir hvert ár) og viðvarandi loftleki >4 daga eftir aðgerð (p<0,001, CI 5,5-25,3).

Ályktun: Tíðni enduraðgerða vegna endurtekins loftbrjósts er hærri eftir VATS-aðgerðir en opnar aðgerðir en hefur engu að síður lækkað þrátt fyrir vaxandi notkun VATS-aðgerða; sennilega vegna aukinnar notkunar samvaxtaörvandi fleiðruertingar.

                                               
    Hlutfall VATS aðgerða jókst en tíðni enduraðgerð                                    Allar enduraðgerðir voru framkvæmdar
    vegna endurtekins loftbrjósts minnkaði                                                      innan 5 ára frá fyrstu aðgerð


E-24

Sálrænn bati sjúklinga eftir útskrift af gjörgæsludeild: Langtíma áhrif hjúkrunarstýrðrar eftirgæslu

Rannveig J. Jónasdóttir1, Helga Jónsdóttir2, Berglind Guðmundsdóttir2, 3, Gísli H. Sigurðsson2, 4

1Gjörgæsludeild Landspítala, 2Háskóli Íslands, 3Geðsvið Landspítala, 4Svæfinga-og gjörgæsludeild Landspítala.

rannveij@landspitali.is

Inngangur: Bráð og alvarleg veikindi og lega á gjörgæsludeild geta haft áhrif á sálrænan bata sjúklinga og framkallað einkenni kvíða, þunglyndis og áfallastreituröskunar. Áhrif hjúkrunarstýrðrar eftirgæslu gjörgæslusjúklinga á sálrænan bata eru lítt þekkt og samanburðarrannsóknir fáar.

Efniviður og aðferðir:Framsýn samanburðarrannsókn á sjúklingum sem voru ≥72 klukkustundir á gjörgæsludeild. Rannsóknarhópur (n=68) fékk skipulagða, hjúkrunarstýrða eftirgæslu sem fólst í eftirliti með klínísku ástandi á legudeild, símtali fyrstu viku eftir útskrift heim af legudeild og viðtali þremur mánuðum eftir útskrift af gjörgæsludeild. Samanburðarhópur (n=75) fékk hefðbundna þjónustu. Kvíði og þunglyndi voru mæld á fjórum tímapunktum og áfallastreituröskun á þremur tímapunktum að 12 mánuðum eftir útskrift af gjörgæsludeild auk truflandi minninga frá gjörgæslulegu og sálrænum viðbrögðum við þeim (taldi mig vera í lífshættu, líkama mínum misboðið/vanvirtur, hjálparvana, hryllingur, skelfingu lostinn). Munur á hópunum yfir tíma var mældur með aðhvarfsgreiningu og línuleg aðhvarfsgreining spáði fyrir um áfallastreituröskun við þrjá mánuði.

Niðurstöður: Rannsóknarhópurinn hafði marktækt meiri einkenni áfallastreituröskunar og kvíða yfir tíma. Alvarleg einkenni áfallastreituröskunar höfðu 27% sjúklinga. Sjúklingar með áfallastreituröskun við þrjá mánuði höfðu truflandi minningar frá gjörgæslulegu og fundu fyrir sálrænum viðbrögðum.

Ályktun: Skipulögð, hjúkrunarstýrð eftirgæsla gjörgæslusjúklinga virðist ekki koma í veg fyrir kvíða og einkenni áfallasteituröskunar. Hátt hlutfall sjúklinga með alvarleg einkenni áfallstreituröskunar er áhyggjuefni. Við þróun hjúkrunarstýrðar eftirgæslu gjörgæslusjúklinga verður að gera ráð fyrir truflandi minningum frá gjörgæslulegu og sálrænum viðbrögðum við þeim.

 

E-25

Að meta verki hjá skurðsjúklingum. Hvaða kvarða vilja sjúklingar nota og hvar á kvörðunum telja þeir sig þurfa á meðferð að halda?

Sigríður Zoëga1,2, Auður S. Gylfadóttir1,2, Gísli Vigfússon1, Guðrún D. Guðmannsdóttir1, Sigríður Gunnarsdóttir1,2, Herdís Sveinsdóttir1,2

1Landspítala, 2Háskóla Íslands

szoega@landspitali.is

Inngangur: Mat á verkjum er fyrsta skrefið í verkjameðferð. Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman orðakvarða, láréttan og lóðréttan tölukvarða og athuga hvenær sjúklingar töldu sig þurfa á meðferð að halda.

Efniviður og aðferðir: Um er að ræða lýsandi rannsókn. Í úrtakinu voru sjúklingar á fyrsta eða öðrum degi eftir skurðaðgerð, gigtarsjúklingar, krabbameinssjúklingar og sjúklingar ≥75 ára í endurhæfingu. Kvarðarnir voru lagðir fyrir í handahófskenndri röð. Þátttakendur svöruðu svo spurningum um styrk verkja, hvar á kvörðunum þeir vildu meðferð og hvern kvarðanna þeir kusu helst að nota. Orðakvarðinn fékk gildin engir (1), litlir (2), miðlungs (3), miklir (4) og gríðarlegir (5) verkir; tölukvarðarnir voru á bilinu 0-10 (enginn verkur til versti hugsanlegi verkur). Lýsandi- og ályktunartölfræði var notuð við gagnaúrvinnslu.

Niðurstöður: Gögn voru greind frá 68 skurðsjúklingum. Meðalaldur var 62,3 ár (sf=18,6; bil 18-91), 35% voru konur. Um helmingur skurðsjúklinga kaus orðakvarðann umfram aðra kvarða. Marktæk fylgni var á milli kvarðanna þriggja, p<0,001. Skurðsjúklingar töldu sig ekki þurfa á meðferð að halda þegar styrkur verkja á láréttum tölukvarða var 2,7 (sf=1,4) að meðaltali, en vildu þiggja meðferð þegar styrkur verkja náði 4,3 (sf=1,4). Sjúklingar töldu sig þurfa tafarlaust á meðferð að halda þegar styrkur verkja var kominn í 7,8 (sf=1,5). Ekki reyndist munur á þörf fyrir meðferð hjá skurðsjúklingum og hinum hópunum þremur.

Ályktun: Kvarðarnir þrír virðast allir heppilegir til að meta styrk verkja hjá skurðsjúklingum en orðakvarði var sá kvarði sem flestir vildu nota. Mat á þörf fyrir meðferð var í samræmi við flokkun í væga, miðlungs og mikla verki.

 

E-26

Slembiröðuð samanburðarrannsókn á gjöf þynntrar og sterkrar blöndu af vasopressíni við leghnútabrottnám með kviðsjártækni

Guðrún María Jónsdóttir1, SL Cohen2, S Senapati3, AR Gargiulo2, SS Srjouji2, F Tu3, J Solnik4, H-C Hur5, A Vitonis2, KC Wang2, JI Einarsson2

1 Kvennadeild Landspítala, 2Brigham and Women´s Hospital, Boston, 3NorthShore University HealthSystem, Chicago, 4Cedars Sinai Medical Center, Los Angeles, 5Beth Israel Deaconess Medical Center, Boston

gudmarjo@gmail.com

Inngangur: Leghnútar eru algengustu góðkynja æxlin í konum á barneignaaldri. Leghnútabrottnám er legsparandi aðgerð en helsti ókosturinn er ríkuleg aðgerðarblæðing. Staðbundin gjöf vasopressíns minnkar blæðingar við brottnám leghnúta en kjörskammtur lyfsins er óþekktur. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta hvort meira magn þynntrar blöndu vasopressíns dragi meira úr blóðtapi en gjöf minna magns sterkari blöndu við brottnám leghnúta með kviðsjártækni með/án aðstoðar aðgerðarþjarka.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var framskyggn slembiröðuð samaburðarrannsókn sem fram fór á fimm kennslusjúkrahúsum í Bandaríkjunum. Öllum konum sem bókaðar voru í leghnútabrottnám frá ágúst 2011 til apríl 2015 var boðin þátttaka og þeim slembiraðað í tvo hópa. Annar hópurinn fékk 200 ml af þynntu vasopressíni (20 IU vasopressíns blandað í 400 ml saltvatns) og hinn hópurinn 30 ml af sterkari vasopressínblöndu (20 IU vasopressíns blandað í 60 ml saltvatns). Meginendapunktur rannsóknarinnar var blóðtap í aðgerð og var það metið með þremur aðferðum; mati skurðlæknis, magn blóðs í sogi og breytingu á blóðkornaskil.

Niðurstöður: Alls var 152 konum slembiraðað, 76 í hvorn hóp og voru hóparnir áþekkir lýðfræðilega og með tilliti til þyngdar skurðsýna. Ekki mældist marktækur munur á blóðtapi milli hópanna samkvæmt mati skurðlæknis (178 ± 265 ml með þynntri blöndu og 198 ± 232 ml með sterkari blöndu, p=0,65) né heldur magns blóðs í sogi eða breytingu á blóðkornaskil. Engir fylgikvillar vasopressíngjafar komu fram við rannsóknina.

Ályktun: Staðbundin gjöf vasopressíns við leghnútabrottnám með kviðsjártækni er örugg meðferð og þolist vel. Stærra rúmmál þynntrar blöndu dregur ekki meira úr blóðtapi en minna magn sterkari blöndu.

 

E-27

Fylgikvillar og dánartíðni eftir kviðarholsaðgerðir á Landspítala - framsýn klínísk rannsókn

Elva Dögg Brynjarsdóttir1, Erna Sigmundsdóttir1, Martin Ingi Sigurðsson2, Páll Helgi Möller1, Gísli Heimir Sigurðsson1

1Landspítali, 2Duke University Hospital, Department of Anesthesiology, Durham, NC, USA

elvadoggb@gmail.com

Inngangur: Fylgikvillar eru algengir hjá sjúklingum sem undirgangast stærri skurðaðgerðir á sjúkrahúsum og 30 daga dánartíðni er allt að 4%. Takmarkaðar upplýsingar eru til um langtímahorfur sjúklinga sem undirgangast kviðarholsaðgerðir. Tilgangur rannsóknarinnar var að lýsa meðferð, fylgikvillum og dánartíðni hjá inniliggjandi sjúklingum sem undirgangast kviðarholsaðgerðir.

Efniviður og aðferðir: Í þessari framsýnu rannsókn voru þátttakendur allir fullorðnir inniliggjandi sjúklingar sem undirgengust kviðarholsskurðaðgerðir á LSH á tímabilinu 01.01.2014 – 31.01.2015. Eftirfylgd var 24 mánuðir. Upplýsingum var safnað um áhættuþætti, skurðaðgerðir, legutíma, fylgikvilla, gjörgæsluinnlagnir og dánartíðni.

Niðurstöður: Af 1.119 þátttakendum fengust fullnægjandi gögn um 1.113 (99,5%), 492 karla og 621 konur. Meðalaldur var 54 ár (18-95). Algengustu undirliggjandi sjúkdómar voru háþrýstingur (34%), krabbamein (18%), hjartasjúkdómar (21%), langvinnir lungnasjúkdómar (11%) og sykursýki (8%). Meðallegutími á sjúkrahúsi var 6 dagar (1-150), endurinnlagnir 86 (8%) og bráðaaðgerðir 537 (48%). Algengastar voru aðgerðir á ristli og endaþarmi (24%), gallblöðru (22%) og botnlanga (18%). Alls fengu 290 (26 %) einhverja fylgikvilla eftir aðgerð, þar af 105 (9%) alvarlega fylgikvilla. Innlagnir á gjörgæsludeild voru 148 (13%), helmingur bráðainnlagnir. Dánartíðni eftir 30 daga var 1,8% og eftir 12 mánuði 5,6%. Heildardánartíðni eftir 24 mánuði var 8,3% en 26% meðal þeirra sem lögðust inn á gjörgæslu. Fjölbreytugreining leiddi í ljós að fjöldi langvinnra sjúkdóma, bráðleiki- og alvarleiki aðgerðar voru sjálfstæðir áhættuþættir fyrir bæði 30 daga og 12 mánaða dánartíðni.

Ályktun: Þrátt fyrir að helmingur kviðarholsskurðaðgerða á Landspítala séu bráðaaðgerðir og að fylgikvillar séu algengir er bæði skammtíma- og langtíma dánartíðni með því lægsta sem hefur verið birt.

 

E-28

Líffæragjafir á Íslandi 2003-2016

Þórður Páll Pálsson1, Kristinn Sigvaldason2, Þóra E. Kristjánsdóttir3, Þórður Þórkelsson4, Ásbjörn Þ. Blöndal5, Sigurbergur Kárason2, Runólfur Pálsson3

1Landspítala, 2Svæfinga- og gjörgæsludeild og 3Lyflækningasvið Landspítala, 4Vökudeild Barnaspítala Hringsins, 5Svæfinga- og gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri

doddipalli@gmail.com

Inngangur Vegna skorts á líffærum til ígræðslu er mikilvægt að sem flest tækifæri til líffæragjafar séu nýtt þegar aðstæður til þess skapast við andlát. Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta stöðu og þróun líffæragjafa á Íslandi undanfarin 14 ár.

Efniviður og aðferðir Farið var yfir sjúkraskrár einstaklinga sem létust á gjörgæsludeildum Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri tímabilið 2003-2016 og safnað upplýsingum um aldur, kyn, dánarorsök, úrskurð um heiladauða, fjölda líffæragjafa og hversu oft leitað var eftir líffæragjöf. Reynt var meta hvort möguleiki á líffæragjöf hefði yfirsést í einhverjum tilvikum.

Niðurstöður Alls létust 1537 einstaklingar á tímabilinu,122 voru úrskurðaðir látnir samkvæmt heildadauðaskilmerkjum (64% karlar, miðgildi aldurs 43 ár (5 dagar, 84 ár)). Leitað var samþykkis aðstandenda fyrir líffæragjöf í 85 (68%) tilvikum og fékkst það í 63 (74%) en var hafnað í 22 (26%) tilvikum. Líffæragjafar urðu alls 56 eða 3 (0,12) árlega og fengust frá þeim 212 líffæri eða 14,5 (0, 40) á ári. Að meðaltali var tíðni líffæragjafa 13 á milljón íbúa á ári, 9 á milljón íbúa fyrri hluta tímabilsins en 16 á milljón íbúa seinni hlutann. Tíðnin jókst í 32 á milljón íbúa/ár síðustu tvö ár tímabilsins. Hlutfall neitunar var að meðaltali 37,5% fyrri hlutann en 20,9% seinni hlutann (p=0,14). Í 21 tilviki hefði mátt kanna betur hvort líffæragjöf kæmi til greina.

Ályktun Líffæragjöfum á Íslandi hefur fjölgað mikið síðustu ár þannig að Íslendingar eru nú meðal þjóða með hæstu tíðni líffæragjafa. Hugsanleg skýring er mikil fjölmiðlaumræða sem leitt hefur til minni synjunar aðstandenda á líffæragjöf.

 

E-29

Frumkomin fleiðruæxli á Íslandi 1985-2016

Klara Guðmundsdóttir1, Eyrún Valsdóttir2, Gunnar Bjarni Ragnarsson3, Helgi J. Ísaksson4, Hrönn Harðardóttir5, Sigurður Ragnarsson2, Tryggvi Þorgeirsson1, Steinn Jónsson1,5, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Hjarta- og lungnaskurðdeild, 3Krabbameinslækningadeild, 4Meinafræðideild og  5Lungnadeild Landspítala

klaragud@gmail.com

Inngangur: Æxli upprunnin í fleiðru eru einkum tvenns konar, miðþekjuæxli (mesothelioma) sem er afar illkynja krabbamein, og SFTP(solitary fibrous tumour of the pleura) sem oftast hegða sér góðkynja. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni frumkominna fleiðruæxla hjá heilli þjóð með sérstakri áherslu á einkenni, stigun og lifun eftir greiningu miðþekjuæxla, en rannsóknir á þeim hefur skort á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til allra sjúklinga með frumkomið fleiðruæxli á Íslandi á árunum 1985-2016. Vefjasýni voru endurskoðuð og upplýsingar fengnar úr sjúkraskrám og krufningarskýrslum. Miðþekjuæxli voru stiguð samkvæmt 7. útgáfu TNM stigunarkerfisins og lifun reiknuð með aðferð Kaplan-Meier. Eftirlit miðast við 1. mars 2017.

Niðurstöður: Alls greindust 56 sjúklingar með miðþekjuæxli (6 konur; meðalaldur 70,6 ár) og 15 sjúklingar með SFTP (11 konur; meðalaldur 60,7 ár). Flestir SFTP-sjúklingarnir greindust fyrir tilviljun og gengust undir skurðaðgerð þar sem æxlið var fjarlægt. Í engu tilviki SFTP var þekkt endurkoma né að æxlið  yrði dánarmein sjúklings (meðaleftirfylgd 86 mánuðir). Miðþekjuæxlissjúklingarnir kvörtuðu oftast um mæði (80%) og brjóstverk (55%) en 88% höfðu reykingasögu og 61% verið útsett fyrir asbesti. Við greiningu voru 21% sjúklinga á stigi I, 9% á stigi II og 70% á stigum III eða IV; tæpur helmingur með fjarmeinvörp. Aðeins einn sjúklingur gekkst undir fleiðru- og lungnabrottnám með lækningu að markmiði og lifði í 36 mánuði. Eins og fimm ára lifun var 33% og 3,6%.

Ályktanir: Miðþekjuæxli eru sjaldgæf á Íslandi en fjórfalt algengari en SFTP. Langflest miðþekjuæxli eru útbreidd við greiningu og aðeins einn sjúklingur gekkst undir læknandi skurðaðgerð. Horfur SFTP-sjúklinga reyndust hins vegar mjög góðar.

 

E-30

Brottnám á blöðruhálskirtli fyrir og eftir tilkomu aðgerðarþjarka á Landspítala

Hilda Hrönn Guðmundsdóttir1, Rafn Hilmarsson2, Eiríkur Orri Guðmundsson2, Eiríkur Jónsson2

1Læknadeild Háskóla Íslands 2Þvagfæraskurðdeild Landspítala

hilda@taktur.is

Inngangur: Skurðaðgerðir vegna krabbameins í blöðruhálskirtli hafa lengi verið framkvæmdar á Íslandi. Fram til ársins 2015 var um opnar aðgerðir (open radical prostatectomy, ORP) að ræða en nú hafa aðgerðir með aðgerðarþjarka (robotically assisted laparoscopic prostatectomy, RALP) alfarið tekið við. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman þessar tvær aðferðir með tilliti til árangurs og öryggis.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin tók til allra sjúklinga (n=80) sem gengust undir ORP á árunum 2013-2014 (meðalaldur 62 ár) og allra sjúklinga (n=80) sem gengust undir RALP árið 2015 og ársbyrjun 2016 (meðalaldur 63 ár). Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám sjúklinga og eftirlitstími var eitt ár. Fylgikvillar voru flokkaðir eftir Clavien-Dindo flokkunarkerfinu.

Niðurstöður: Miðgildi aðgerðartíma var 129 mínútur í ORP og 123 mínútur í RALP (p=0,13). Miðgildi blóðtaps í aðgerð var 600 mL í ORP og 100 mL í RALP (p<0,0001). Miðgildi legutíma var tveir dagar eftir ORP og einn dagur eftir RALP (p<0,0001). Miðgildi þvagleggstíma var 13 dagar eftir ORP og 7 dagar eftir RALP (p<0,0001). Heildartíðni fylgikvilla <30 daga var 30% eftir ORP og 11% eftir RALP (p=0,003). Heildartíðni síðkominna fylgikvilla >30 daga en innan árs var 15% eftir ORP og 9% eftir RALP (p=0,24). Tíðni jákvæðra skurðbrúna var sambærileg milli hópa. Marktækt fleiri í RALP-hópnum voru með lítinn sem engan þvagleka 2-5 mánuðum eftir aðgerð (p?).

Ályktanir: Innleiðing aðgerðarþjarka á Landspítala við brottnám á blöðruhálskirtli hefur tekist vel. Aðferðin er örugg og inngripsminni en áður þekktist og er það í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica