Ávarp
Á Rannsóknastofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum hefur verið lífleg og fjölbreytt starfsemi undanfarin ár. Fastir starfsmenn Rannsóknastofunnar ná ekki tveimur stöðugildum en í lengri eða skemmri tíma starfa þar nemendur í læknisfræði, hjúkrunarfræði, lýðheilsuvísindum og öðrum háskólagreinum. Auk þess finna þar starfsmenn af flæðisviði griðastað til að sinna rannsóknavinnu og nýsköpun. Á síðasta ári urðu ýmsar breytingar á starfsemi rannsóknastofunnar. Undirrituð var skipuð forstöðumaður fræðasviðs í bráðahjúkrun við Landspítala og hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og doktor Brynjólfur Mogensen varð fyrsti prófessorinn í bráðalækningum við læknadeild Háskóla Íslands. Því má segja að Rannsóknastofa í bráðafræðum hafi eflst að virðingu og erum við sem þar störfum þakklát og stolt af velgengninni. Þau rannsóknaverkefni og mannauður sem tengist rannsóknastofu í bráðafræðum er þó enn markverðari ef horft er til ytri umgjarðar starfseminnar. Húsnæði rannsóknastofunnar var, þar til í júní 2016, til húsa í Greniborg, gömlu timburhúsi ofan við sjúkrabílainngang bráðamóttökunnar í Fossvogi sem áður hýsti ýmist dagheimili eða skrifstofur. Eftir góða og gjöfula tíma á Greniborg var þar að lokum orðið ólíft vegna rakaskemmda og lélegra loftgæða sem bitnaði á heilsu starfsmanna. Varð því að finna Rannsóknastofunni annað húsnæði sem nú er í nýrri gámastæðu í Fossvogi.
Framgangur rannsókna og vísinda verður sem mestur og árangursríkastur í samskiptum við aðra. Þar sem vísindamenn og fagaðilar hittast verða til hugmyndir og leiðir til lausna. Ég óska þess að Rannsóknastofa í bráðafræðum fái að halda áfram að vaxa og dafna í umhverfi sem er aðgengilegt fagfólki af flæðisviði Landspítala, áhugasömum nemendum úr Háskóla Íslands auk annarra sem hafa hug til rannsókna í bráðafræðum.
Þema Bráðadagsins 2017, Nýsköpun í bráðaþjónustu, lýsir því lausnamiðaða hugarfari sem einkennir starfsfólk flæðisviðs og annarra sem koma að bráðaþjónustu í stóru sem smáu. Við þröngan fjárveitingakost, langvarandi skort á leguplássum, síauknum fjölda sjúklinga og flóknari þörfum þeirra, þarf og hefur verið gripið til nýsköpunar í þjónustu. Nýsköpun byggð á gagnreyndri þekkingu sem verður til við góðar rannsóknir í bráðafræðum er vissulega ein leið að því markmiði að skapa hágæða bráðaþjónustu í því umhverfi sem henni er ætlað hverju sinni. Þar eru rannsóknir og aðstaða til rannsókna lykilatriði.
Bráðadagurinn hefur nú fastan sess sem þverfagleg ráðstefna í bráðafræðum og ráðstefnuritið, sem hér kemur út í fimmta sinn, mikilvæg heimild í bráðafræðum. Í ár voru þverfaglegar nálganir að viðfangsefnum bráðaþjónustu sérstaklega áberandi. Ritrýnd ágrip erinda og veggspjalda sem hér eru birt endurspegla frjóar rannsóknir og öfluga nýsköpun í bráðaþjónustu.
Höfundum og kynnum ágripa, gestafyrirlesurum, styrktaraðilum, fundarstjórum og starfsfólki flæðisviðs eru færðar bestu þakkir fyrir mikilsvert framlag til Bráðadagsins 2017.
Fyrir hönd undirbúningsnefndar,
Dr. Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir
Forstöðumaður fræðasviðs í bráðahjúkrun
Lektor og verkefnastjóri
Rannsóknarstofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum
Undirbúningsnefnd Bráðadagsins 2017
· Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, lektor og verkefnastjóri rannsóknarstofu LSH og HÍ í bráðafræðum, formaður undirbúningsnefndar,
· Dagný Halla Tómasdóttir, skrifstofustjóri flæðisviðs, verkefnastjóri undirbúningsnefndar.
· Anna I. Gunnarsdóttir, klínískur lyfjafræðingur, Sjúkrahúsapótek Fv/Hb
· Anna Björg Jónsdóttir, öldrunarlæknir, öldrunarlækningadeild
· Brynjólfur Mogensen, professor og forstöðumaður rannsóknarstofu LSH og HÍ í bráðafræðum
· Guðmundur Freyr Jóhannsson, bráðalæknir, bráðamóttaka Fv
· Lovísa Agnes Jónsdóttir, deildarstjóri, flæðisdeild
· Sólrún Rúnarsdóttir, gæðastjóri flæðisviðs