Ávarp

Átjánda ráðstefnan um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands

Verið innilega velkomin á 18. ráðstefnu Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum. Ráðstefnan er haldin á Háskólatorgi 3.-4. janúar 2017.

Markmið ráðstefnunnar er að kynna og hvetja til samtals um vísindi, auka skilning milli fræðigreina og möguleika á þverfræðilegu samstarfi sem getur orðið kveikja að nýjum rannsóknum. Á dagskrá ráðstefnunnar er kynning á tæplega 300 verkefnum í formi fyrirlestra og veggspjalda, þar af eru tveir fyrirlestrar sérstaklega ætlaðir almenningi. Boðið verður upp á málstofur sem fara að öllu leyti fram á ensku en það er gert til þess að koma til móts við vaxandi fjölda enskumælandi starfsfólks og nemenda. Þá verða einnig tvær spennandi gestamálstofur á dagskrá. Umsjón með rýni ágripa og dagskrá ráðstefnunnar var í höndum undirbúningsnefndar sem naut aðstoðar rannsóknastjóra og kynningarstjóra á sviðsskrifstofunni. Störf þeirra og fundarstjóra á málstofum og veggspjaldasýningum eru einnig mikilvæg svo markmið ráðstefnunnar megi nást.

Lykilhlutverk Heilbrigðisvísindasviðs er að mennta hæft fólk til starfa í heilbrigðisþjónustu og taka þátt í uppbyggingu og rekstri heilbrigðiskerfis sem þjóðin treystir á. Markmiðið er að sinna þessu hlutverki í hæsta gæðaflokki. Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands býður upp á 18 námslínur í 6 deildum, auk meistara- og doktorsnáms í helstu grunngreinum sviðsins og sérhæft framhaldsnám. Rúmlega 2000 manns leggja stund á nám við sviðið, þar af tæplega 70% í BS-námi, um 15% í kandídats- eða diplómanámi og 15% í rannsóknatengdu meistara- eða doktorsnámi.

Stefna Háskóla Íslands 2012-2016 um að efla rannsóknir hefur skilað sér í miklum árangri starfsmanna og auknu fé til rannsókna, fleiri hágæða vísindagreinum og fleiri doktorsvörnum. Röskur fjórðungur starfsmanna sviðsins er nú ráðinn fyrir sjálfsaflafé. Stefnan 2016-2021 er að halda áfram öflugu rannsóknastarfi og að stórauka gæði náms og kennslu. Þó rannsóknavirkni hafi aukist eru heilbrigðisvísindagreinar sem telja sig hafa mjög litla möguleika á styrkjum hefðarinnar vegna. Það er því mikilvægt að koma á fót heilbrigðisvísindasjóði sem hefði að markmiði að breikka og fjölga rannsókna- og nýsköpunarverkefnum í heilbrigðisvísindum.

Stuðningur við rannsóknarinnviði Heilbrigðisvísindasviðs hefur verið aukinn og auk rannsóknastjóra er nú boðið upp á tölfræðiráðgjöf. Sviðið tekur einnig drjúgan þátt í rekstri heilbrigðisvísindabókasafns og klínísks rannsóknaseturs sem eru starfrækt innan Landspítala. Auk þessa hefur Lífvísindasetur verið eflt og Heilsubrunnur er í uppbyggingu í samstarfi við stofnanir í heilbrigðisþjónustu. Í apríl 2016 hlaut Heilbrigðisvísindasvið alþjóðlega Orpheus-gæðavottun á doktorsnámið. Háskóli Íslands varð þar með 7. háskólinn í Evrópu til að hljóta vottunina. Orpheus eru alþjóðleg samtök sem meta gæði doktorsnáms í líf- og heilbrigðisvísindum við evrópska háskóla.

Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Ísland stendur þannig á tímamótum þar sem öflugt vísindastarf og áframhaldandi uppbygging innviða stuðlar að því að sviðið skipi sér í fremstu röð í alþjóðlegum samanburði. 

Velkomin á 18. ráðstefnuna um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands.

Inga Þórsdóttir
prófessor og forseti Heilbrigðisvísindasviðs

Karl Andersen
prófessor við Læknadeild og formaður undirbúningsnefndar

 

 





Þetta vefsvæði byggir á Eplica