Ávarp

Ávarp

VELKOMIN Á LYFLÆKNAÞING!

Kæru lyflæknar og aðrir þinggestir.

Það er mér ánægja að bjóða ykkur hjartanlega velkomin á XXII. þing Félags íslenskra lyflækna sem haldið verður í ráðstefnu- og tónlistarhúsinu Hörpu í Reykjavík 2.-3. desember nk.

Það má með sanni segja að lyflækningar séu einhver umfangsmesta sérgrein læknisfræðinnar. Sérgreinin spannar ansi vítt svið og kannski hefur höfuðáhersla undanfarinna tveggja áratuga eða svo þess vegna verið að efla undirsérgreinar lyflækninga, ef til vill á kostnað heildarsvips lyflækninga. Víða hefur þetta leitt til vaxandi sjálfstæðis undirsérgreina og hafa sameiginlegir hagsmunir lyflækninga stundum vikið fyrir sérhagsmunum undirsérgreinanna. Nú eru hins vegar blikur á lofti hvað varðar aukið mikilvægi breiðrar nálgunar lyflækninga. Vaxandi fjöldi sjúklinga, oft aldraðra, með fjölþætt vandamál frá mismunandi líffærakerfum kallar á mun yfirgripsmeiri nálgun en veitt er af undirsérgreinunum.  Almennar lyflækningar, í fjölbreyttum birtingarmyndum,  hafa verið að öðlast meiri og meiri sess í starfsemi sjúkrahúsa og höfum við ekki farið varhluta af þessari þróun hérlendis.

Samfara þessu öðlast fagfélög, eins og Félag íslenskra lyflækna, vonandi aukið mikilvægi, en félagið fagnar 70 ára afmæli sínu í ár. Í tilefni af afmælinu mun Þórður Harðarson, prófessor emeritus, flytja erindi á opnunarhátíð þingsins sem kallast Brot úr sögu lyflækninga. Þing Félags íslenskra lyflækna hafa um árabil verið mikilvægur vettvangur fyrir kynningu á niðurstöðum vísindarannsókna sem og umfjöllun um nýjungar og áleitin viðfangsefni innan lyflækninga hérlendis. Margir af okkar fremstu vísindamönnum í læknisfræði hafa þreytt frumraun sína á þingum félagsins og finnst okkur því mikilvægt að hlúa sérstaklega að þessum þætti. Sem fyrr verða veitt verðlaun fyrir bestu útdrætti unglæknis og læknanema.

Dagskrá þingsins er fjölbreytt og ætti að höfða til flestra lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna sem fást við hin ýmsu verkefni lyflækninga í starfi sínu. Þema þingsins er lyflækningar framtíðarinnar. Meðal þess sem hæst ber er málþing þar sem fjallað verður um þær miklu áskoranir sem sjúkrahús á Vesturlöndum standa frammi fyrir nú þegar öldruðum fjölgar og einstaklingar með langvinna sjúkdóma lifa lengur og þurfa samhæfðari þjónustu. Á sama tíma er yfirvofandi mönnunarvandi fagstétta í heilbrigðisþjónustu og vaxandi kröfur um skynsamlega nýtingu fjármuna, ekki síst þegar nýir og dýrir meðferðarkostir eiga í hlut. Mark Temple frá bresku læknasamtökunum mun fjalla um hvernig brugðist hefur verið við þessum vanda í Bretlandi og kynna verkefni þeirra Hospital of the future. Einnig verður fjallað um göngudeildarþjónustu framtíðarinnar, en ákveðin gagnrýni kom fram á þennan þátt þjónustunnar í nýlegri skýrslu um starfsemi Landspítala frá ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey. Að auki verður sérstaklega fjallað um hvernig stór gagnasöfn geti nýst sem best í klínísku starfi, en Kyu Rhee frá upplýsingatæknifyrirtækinu IBM mun fjalla um afar spennandi nýtt forrit sem kallast Dr. Watson. Þá verður fjallað um raunverulegan ávinning nýrra krabbameinslyfja, ekki síst í ljósi aukinnar kröfu um skilvirkni í rekstri þeirra aðila sem hafa greitt fyrir ný og dýr lyf. Ungir sérfræðilæknar fá tækifæri til að láta ljós sitt skína í fyrirlestrarröð á föstudagsmorgninum sem kallast Hvernig gera nýir sérfræðilæknar? Einnig er vert að geta málþings um notkun og misnotkun ópíóíða í læknisfræði, en þau mikilvægu mál hafa verið talsvert í kastljósi fjölmiðla á undanförnum mánuðum.

Líkt og á síðastu þingum Félags íslenskra lyflækna verða sérstök málþing um viðfangsefni hjúkrunar á sviði lyflækninga. Er þetta liður í að gera þingið áhugaverðara fyrir hjúkrunarfræðinga og aðrar fagstéttir. Á þessu þingi er hins vegar gengið skrefinu lengra og nokkur málþing skipulögð þannig að þau höfði til bæði lækna og hjúkrunarfræðinga þar sem fyrirlesarar frá báðum stéttum taka þátt. Segja má að þetta sé löngu tímabært skref því aukin samvinna þessara stétta er lykilatriði í frekari framþróun heilbrigðisþjónustunnar, ekki síst hvað varðar teymisvinnu á legudeildum og göngudeildum.

Þing Félags íslenskra lyflækna er ekki síður mikilvægt í félagslegri eflingu þeirra sem starfa innan lyflækninga. Gleðskapur að hætti lyflækna  verður á laugardagskvöldinu í Petersensvítunni í húsi Gamla bíós. Við vonumst til að sjá sem flesta þar í góðum gír.

Eins og ávallt hafa margir lagt hönd á plóg við undirbúning þessa þings og færum við þeim öllum bestu þakkir fyrir. Að síðustu viljum við þakka mörgum stuðningsaðilum þingsins fyrir þeirra mjög svo mikilvæga framlag.

Fyrir hönd stjórnar Félags íslenskra lyflækna,

Davíð O. Arnar, formaður





Þetta vefsvæði byggir á Eplica