Ávarp

Ávarp


Magnús Gottfreðsson
læknir, sérfræðingur í lyflækningum og smitsjúkdómum, yfirlæknir á Landspítala
prófessor við læknadeild HÍ

 

Vísindi og saltfiskur

Í bók Halldórs Laxness, Sölku Völku, leggur aðalsöguhetjan út af hinni velþekktu íslensku staðhæfingu um að lífið sé saltfiskur með eftirfarandi spurningu:

„... þegar öllu er á botninn hvolft þá er lífið þó umfram alt saltfiskur en ekki draumaríngl?”

Stefna og starfsáætlun Landspítala hefur nú nýlega verið endurskoðuð. Þar er hnykkt á þríþættu hlutverki spítalans, að sinna þjónustuhlutverki við sjúklinga og aðstandendur þeirra, menntun og vísindum. Þegar best lætur eru þessir þættir algerlega samofnir starfsemi spítalans. En ef til vill eru menntun og vísindi dæmi um það sem Salka Valka hefði flokkað sem draumaríngl, ekki síst þegar harðnar á dalnum. Það er vissulega hollt að borða íslenskan saltfisk en einnig er mikilvægt að láta sig dreyma af og til. Jafnvel fyrir þá sem eru hápraktískir og lítt gefnir fyrir draumaríngl er það staðreynd að menntun og öflugt vísindastarf eru mikilvægar undirstöður gæða og grósku á háskólasjúkrahúsi. Þetta gildir jafnt um öryggi sjúklinga, innleiðingu nýjunga og nýliðun starfsfólks. Á þetta er lögð áhersla í vísindastefnu Landspítala, en þar eru sett fram hófstillt töluleg markmið um skiptingu fjár til vísindastarfsemi sem hlutfall af rekstrarfé. Þar er einnig gert ráð fyrir að hvatar séu til staðar fyrir rannsakendur og stjórnendur til að sinna rannsóknum og ná árangri á sviði vísinda. Segja má að með markmiðunum um að efla menntun og vísindi sé lögð áhersla á mikilvægi þess að láta sig dreyma og vísa þannig veginn til framtíðar. Enn vantar því miður mikið upp á að spítalinn sé nálægt settu marki í þessu efni. Skyldi engan undra eftir stöðuga  vanfjármögnun Landspítala undanfarin ár, þar sem bráðnauðsynlegt viðhald á húsakosti og brýnustu tækjakaup hafa setið á hakanum. Við þurfum að halda staðreyndum til haga hvað varðar þennan þátt starfseminnar, sérstaklega þegar okkur er tilkynnt að ,,blússandi góðæri” sé hafið. Nýleg athugun á fjölda fræðilegra greina sem merktar eru Landspítala og skráðar í Scopus-gagnagrunninum bendir til að birtingum fari áfram fækkandi. Þegar gögnin eru rýnd kemur í ljós að spítalinn er góður samstarfsaðili í margvíslegum rannsóknum og er það vel. Til lengri tíma litið er þó mikilvægt að vísindamenn sem hér starfa séu oftar í leiðandi hlutverki, ekki síst á sviði klínískra rannsókna. Ávinningurinn er aukin þekking og reynsla sem eflir starfsemina til framtíðar.

Gott dæmi um verkefni þar sem vísindi, kennsla og klínísk þjónusta er samþætt er nýlegur samningur heilbrigðisvísindabókasafns um bættan aðgang að gagnasafni UpToDate sem nú er aðgengilegt öllum starfsmönnum hvar sem er og hvenær sem er gegnum snjallsíma eða spjaldtölvur. Með þessu er stuðlað að bættri ákvarðanatöku í klínískum störfum, en einnig er gagnasafnið í raun ígildi fjölmargra kennslubóka í sífelldri endurskoðun og nýtist því afar vel við kennslu.

Undanfarinn áratug eða svo hafa gríðarlegar framfarir átt sér stað í lyfjaþróun gegn mörgum langvinnum sjúkdómum, meðal annars krabbameinum, sjálfsofnæmissjúkdómum og lifrarbólgu C. Hin nýju lyf hafa nánast undantekningarlaust verið afar dýr, - svo mjög að dráttur hefur stundum orðið á notkun þeirra hérlendis. Það voru því ánægjuleg tíðindi þegar meðferðarátaki gegn lifrarbólgu C var hleypt af stokkunum nú í ársbyrjun, en stefnt er að því að lækna sem allra flesta Íslendinga sem sýktir eru af lifrarbólgu C veirunni á næstu þremur árum og nota til þess nýstárlega nálgun á viðfangsefninu. Markmiðið er að beita víðtækri lyfjameðferð á landsvísu og vonast til að hún skili sér í lækkun á tíðni sjúkdómsins líkt og gerist við bólusetningar. Hér er því um lýðheilsuátak að ræða en jafnhliða verður árangurinn rannsakaður. Átakið er samvinnuverkefni Landspítala, Sjúkrahússins Vogs og Embættis landlæknis. Það sætir tíðindum að hin nýju lyf fást án endurgjalds frá framleiðanda. Skipulag átaksins hefur kallað á mikla samvinnu og teymisvinnu fagfólks og hefur hún undantekningarlaust gengið afar vel. Sú staðreynd að þetta verkefni er nú að verða að veruleika eftir skamman undirbúningstíma minnir okkur á hversu miklum mannauði heilbrigðisþjónustan hér á landi og þá ekki síst háskólasjúkrahúsið okkar, Landspítalinn, býr yfir. Miklar væntingar eru um góðan árangur og grannt er fylgst með meðferðarátakinu erlendis. Þetta sýnir okkur að jafnvel fámenn en stöndug þjóð eins og Íslendingar getur lagt mikið af mörkum við sköpun nýrrar þekkingar í heilbrigðisvísindum. Slík iðja getur skapað margs konar verðmæti, ekki síður en saltfiskverkun fyrri tíma. Nú er lag að hinni mörkuðu stefnu spítalans og vísindaráðs verði fylgt eftir og verkin látin tala.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica