Ágrip örfyrirlestra

Ágrip örfyrirlestra

1     Rannsókn á viðhorfi legusjúklinga á skurðdeild til sjúkrahúsmatar

Áróra Rós Ingadóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir

Rannsóknarstofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala, Eldhús-Matsalir Landspítali, Næringarstofu Landspítala, Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands

aroraros@landspitali.is

Inngangur: Rannsóknir sýna að orku- og próteinþörf er oft ekki mætt í sjúkrahúslegu. Viðhorf til sjúkrahúsmatarins getur haft áhrif á hversu vel sjúklingar nærast. Markmiðið var að kanna viðhorf legusjúklinga á skurðlækningadeild til sjúkrahúsmatar í kjölfar innleiðingar nýrra matseðla og breytinga á pöntunarkerfi eldhúss Landspítala sem gerir sjúklingum kleift að velja á milli máltíða á matseðli.

 Efniviður og aðferðir: Viðhorf sjúklinga (n=93) sem lögðust inn á hjarta- og lungnaskurðdeild (12E) á Landspítala tímabilið ágúst til desember 2013 til sjúkrahúsmatarins var kannað með völdum spurningum úr „The English National Inpatient survey“. Orku- og próteinneysla var metin með gildismetinni aðferð.

Niðurstöður: Meðal orkuneysla þátttakenda nam 1452 ± 389 hitaeiningum á dag og próteinneysla 60 ± 17 grömmum á dag sem var töluvert lægra en áætluð dagleg orku- (1953 ± 265 hitaeiningar) og próteinþörf (82 ± 9 grömm). Þrátt fyrir þetta taldi fjórðungur sig hafa fengið of mikinn mat. Flestum fannst maturinn mjög góður eða frekar góður (87%). Tæplega 11% þátttakenda höfðu fengið að velja á milli rétta á matseðli.

Ályktun: Niðurstöðurnar benda til þess að  ólíklegt sé að lítil orku- og próteinneysla sjúklinga tengist óánægju með matinn sem borinn er fram. Nauðsynlegt er að innleiða einstaklingsmiðaða þjónustu máltíða og millibita eftir atvikum, í samræmi við klínískar leiðbeiningar um næringu sjúklinga, til að fyrirbyggja vannæringu í sjúkrahúslegunni.

 

 

2     Fistill milli garnar og þvagblöðru á Landspítala á árunum 1999-2014

Ásdís Egilsdóttir1, Hildur Ólafsdóttir2, Jórunn Atladóttir1, Páll Helgi Möller1,2

1Skurðlækningadeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

asdisegils@gmail.com

Inngangur: Fistill milli garnar og þvagblöðru er oftast vegna bólgusjúkdóma og æxlisvaxtar. Greining getur verið erfið og oft er hún byggð á einkennum sjúklings. Meðferð er annaðhvort skurðaðgerð eða stuðningsmeðferð. Lítið er vitað um gang sjúkdómsins á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar var að fá yfirlit yfir einkenni, orsök, greiningaraðferðir og meðferð sjúklinga með fistil milli garnar og þvagblöðru.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra þeirra sem greindust með fistil milli garnar og þvagblöðru á Landspítala 1999-2014. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskýrslum.

Niðurstöður: Fjöldi sjúklinga var 51, 30 karlar og 21 kona. Meðalaldur var 66 ár. Algengustu einkennin voru loftmiga (68,6%), þvagfærasýking (51,0%) og saur í þvagi (21,6%). Helstu orsakir voru sarpabólga (64,7%), skurðaðgerð (11,8%) og krabbamein (9,8%). Algengustu greiningaraðferðir voru tölvusneiðmynd (56,9%), blöðruspeglun (52,9%) og ristilspeglun (33,3%). Flestir (n=40) sjúklingar voru meðhöndlaðir með skurðaðgerð og 11 með stuðningsmeðferð. Flestir sjúklingar fóru í brottnám þess garnahluta sem myndaði fistilinn og var brottnám bugðuristils þar langalgengast. Í 29 tilfellum var gerð samgötun á ristli í frumaðgerð en 4 fengu stóma. Sex sjúklingar fengu stóma án brottnáms. Fylgikvillar aðgerðar voru skurðsárssýking (n=2), leki á garnasamtengingu (n=2) og blæðing í kviðarhol (n=1).

Ályktun:  Fistill milli garnar og þvagblöðru er ekki algengt ástand. Flestir sjúklinganna eru með loftmigu, þvagfærasýkingu og saur í þvagi sem eru meinkennandi einkenni. Tölvusneiðmynd er ráðandi við greiningu. Meirihluti sjúklinganna fer í skurðaðgerð þar sem brottnám á bugðuristli með endurtengingu í frumaðgerð er algengast. Niðurstöðum rannsóknarinnar ber saman við niðurstöður frá öðrum löndum.

 

 

3     Bráður nýrnaskaði eftir kransæðaþræðingar á Íslandi

Daði Helgason1,2, Þórir E. Long1,2, Runólfur Pálsson2,3, Tómas Guðbjartsson4, Gísli H. Sigurðsson5, Ólafur S. Indriðason2,3 Ingibjörg  J. Guðmundsdóttir6, Martin I. Sigurðsson7.

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2lyflækningasviði, 3nýrnalækningaeiningu, 4skurðlækningasviði, 5svæfinga-og gjörgæsludeild, 6hjartalækningaeiningu Landspítala, 7Department of Anesthesia, Perioperative and Pain Medicine, Brigham and Women's Hospital/Harvard Medical School, Boston

dadihelga@gmail.com

Inngangur: Bráður nýrnaskaði er einn af alvarlegri fylgikvillum krans-æðaþræðinga. Í þessari rannsókn könnuðum við tíðni og áhættuþætti bráðs nýrnaskaða (BNS) eftir kransæðaþræðingar og afdrif sjúklinga.
Efniviður og aðferðir:Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum sem gengust undir kransæðaþræðingu á Íslandi 2005-2013. BNS var skilgreindur skv. kreatínínmælingum í sermi  (SKr) og notast við KDIGO skilmerki. Endurheimt á nýrnastarfsemi var skilgreind sem lækkun á SKr <150% af grunngildi. Lifun sjúklinga var metin með Kaplan-Meier aðferð og áhættuþættir BNS fundnir með fjölþátta aðhvarfsgreiningu.
Niðurstöður: Framkvæmdar voru 14573 kransæðaþræðingar hjá 10713 sjúklingum á tímabilinu. Miðgildi (bil) aldurs var 65 (19-96) ár og 71% sjúklinga voru karlkyns. BNS greindist í 263 tilfellum (1,8%), þar af voru 190 (1,3%), 34 (0,2%) og 39 (0,3%) af KDIGO stigum 1,2 og 3. Ekki var breyting á tíðni BNS á tímabilinu en hún var 2,0%, 1,7% og 1,8% á fyrsta, öðrum og seinasta hluta tímabilsins (p=0,49). Sjálfstæðir áhættuþættir BNS voru aldur >70 ár (ÁH 1,02, 95%-ÖB:1,01-1,03), brátt hjartadrep við innlögn (ÁH 1,05, 95%-ÖB:1,03-1,06), langvinn lungnateppa (ÁH 1,04, 95%-ÖB:1,01-1,07), lifrarsjúkdómur (ÁH 1,07, 95%-ÖB:1,01-1,14), GSH <60 ml/mín/1,73 m2 (ÁH 1,07, 95%-ÖB:1,06-1,09) og fyrri saga um BNS (ÁH 1,11, 95%-ÖB:1,08-1,15). Eins árs lifun BNS sjúklinga var 66,5% samanborið við. 95,6% hjá þeim sem ekki fengu BNS. Tíu dögum eftir þræðingu höfðu 76% BNS sjúklinga endurheimt fyrri nýrnastarfsemi og 91% eftir 90 daga.
Ályktun: Tíðni BNS eftir kransæðaþræðingar var 1,8% og hélst svipuð á tímabilinu. Eldri sjúklingar með aukna sjúdómsbyrði og skerta nýrnastarfsemi voru í aukinni hættu á að fá BNS. Lifun BNS sjúklinga var síðri en viðmiðunarhóps en rúmlega 90% sjúklinga höfðu endurheimt fyrri nýrnastarfsemi 90 dögum eftir þræðingu.

 

4     Þorskroðsígræði til viðgerða á heilabasti í kindum - blinduð samanburðarrannsókn

Einar Teitur Björnsson1, Ingvar Hákon Ólafsson1,7, Hilmar Kjartansson2,6,7, Sigurbergur Kárason3,7, Eggert Gunnarsson5, Einar Jörundsson5, Helgi Jóhann Ísaksson4, Guðmundur Fertram Sigurjónsson6

1Heila- og taugaskurðlækningadeild, 2bráðadeild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild, 4meinafræðideild Landspítala, 5Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, 6Kerecis limited, 7læknadeild Háskóla Íslands

einartb@landspitali.is

Inngangur: Ýmis efni hafa verið rannsökuð til viðgerða á heilabasti. Efnin hafa reynst misvel og enn er umdeilt hvert þeirra sé best. Rannsóknir á dýravef sem viðgerðarefni hafa undanfarin ár aukist. Við kynnum niðurstöður samanburðartilraunar nýs þorskroðsígræðis, Kerecis Omega3 Dura™ (KO3D), og Duragen Plus® (DP) sem er unnið úr sinum nauta. Þorskroðsígræðið hefur reynst mjög vel sem húðígræði í mönnum.

Efniviður og aðferðir: Í svæfingu var 1x2cm opnun framkvæmd í heilabast beggja vegna á höfði 24 kinda í 4 hópum. Öðru megin var gatinu lokað með KO3D og hinu megin með DP og nothæfni efnanna skráð. Blinduð krufning og vefjafræðiskoðun fóru fram eftir 2, 6, 12 og 20 vikur.

Niðurstöður: Engin brottfallseinkenni eða aukaverkanir sáust hjá dýrunum. Nothæfni efnanna var álitin sambærileg. KO3D reyndist stífara sem aftur á móti gefur möguleika á saumahaldi. Við krufningu sáust engin merki leka heila- og mænuvökva né sýkingar. Magn innankúpusamvaxta, bólgu, samþætting ígræða og heilabasts, myndun heilabasts, gróandi beinflipa og skoðun heilahvela var svipuð. Vefjafræðiskoðun sýndi að bólgufrumuíferð var örlítið meiri þorskroðsmegin við 2 vikur en minnkaði svo til muna og hraðari endurnýjun vefs sást við 6 vikur miðað við DP. Tilhneiging til bólgu vegna framandi efnis var einnig örlítið meiri þorskroðsmegin við 2 vikur en hvarf svo. Við 12 og 20 vikur höfðu bæði ígræðin breyst í heilabast með eðlilegu útliti. Engin bólga eða drep sáust í heilaberki.

Ályktun: KO3D virðist öruggt til heilabastsviðgerða og jafn árangursríkt og eitt fullkomnasta kollagenígræði sem til er. Skoðun klínískrar rannsóknar á mönnum stendur til í framhaldi af þessari rannsókn.

 

 

5     Fylgikvillar í sambandi við kviðarholsaðgerðir. Framskyggn klínísk rannsókn

Elva Dögg Brynjarsdóttir1,2,5, Erna Sigmundsdóttir3, Páll Helgi Möller4, 5, Gísli Heimir Sigurðsson3, 5

1Lyflækningasviði Landspítala, 2lyflækningasviði SAk, 3svæfinga- og gjörgæsludeild, 4skurðlækningadeild Landspítala, 5læknadeild Háskóla Íslands

elvadoggb@gmail.com

Inngangur: Fylgikvillar eru algengir hjá sjúklingum sem undirgangast stærri skurðaðgerðir á sjúkrahúsum og 30 daga dánartíðni er allt að 4%. Takmarkaðar upplýsingar eru til um langtímahorfur sjúklinga sem undirgangast kviðarholsaðgerðir. Tilgangur rannsóknarinnar var að lýsa meðferð, fylgikvillum og dánartíðni hjá inniliggjandi sjúklingum sem undirgangast kviðarholsaðgerðir. 

Efniviður og aðferðir: Í þessari framskyggnu rannsókn voru þátttakendur allir fullorðnir inniliggjandi sjúklingar sem undirgengust kviðarholsaðgerðir á Landspítala á tímabilinu 01.01.2014 – 31.01.2015. Eftirfylgd var 12 mánuðir. Upplýsingum var safnað um áhættuþætti, skurðaðgerðir, legutíma, fylgikvilla, gjörgæsluinnlagnir og dánartíðni.

Niðurstöður: Af 1121 þátttakendum fengust fullnægjandi gögn um 1115 (99,5%), 493 karla og 622 konur. Meðalaldur var 54 ár (18-95). Algengustu undirliggjandi sjúkdómar voru háþrýstingur (34%), krabbamein (18%), hjartasjúkdómar (21%), lungnasjúkdómar (11%) og sykursýki (8%). Meðal legutími á sjúkrahúsi var 6 dagar (1-150), endurinnlagnir 86 (7,7%) og bráðaaðgerðir 537 (48%). Algengastar voru aðgerðir á ristli og endaþarmi (24%), gallblöðru (22%), botnlanga (18%), kviðsliti (9%) og smáþörmum (6%). Helstu fylgikvillar voru þvagfærasýking (4,7%), sýking í skurðsári (3,5%), lungnabólga (2,7%), sýklasótt (2,4%), hjartsláttaróregla (2,3%) og bráður nýrnaskaði (2,3%).  Samtals voru 148 (13%) lagðir inn á gjörgæsludeild, helmingur bráðainnlagnir. Algengustu ástæður bráðainnlagna á gjörgæsludeild voru bráðir kviðverkir (30%) og sýklasóttarlost (14%). Dánartíðni eftir 30 daga var 1,7% og 5,7% eftir eitt ár.

Ályktun: Helmingur kviðarholsskurðaðgerða á Landspítala er bráðaaðgerðir og eru fylgikvillar algengir. Dánartíðni eftir 30 daga og eitt ár er þó tiltölulega lág miðað við erlendar rannsóknir.

 

 

6     Sjúklingar með höfuðáverka á gjörgæslu Landspítala. Lýðgrunduð rannsókn á nýgengi, orsökum og langtímahorfum

Guðrún María Jónsdóttir1, Bryndís Snorradóttir1, Sigurbergur Kárason1,2, Ingvar Hákon Ólafsson2,3, Kristbjörn Reynisson4, Sigrún Helga Lund5, Brynjólfur Mogensen2,6, Kristinn Sigvaldason1

1Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 2Llæknadeild Háskóla Íslands, 3heila- og taugaskurðdeild, 4myndgreiningadeild Landspítala, 5Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Háskóla Íslands, 6rannsóknastofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum

krisig@landspitali.is

Inngangur: Höfuðáverkar eru alvarlegt lýðheilsuvandamál. Alvarleiki höfuðáverka er metinn eftir meðvitundarástandi einstaklinga við komu á sjúkrahús og stýrir sú stigun greiningaraðferðum og meðferð. Þekkt tengsl eru milli meðvitundarástands í upphafi áverka og langtímahorfa.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum sem lögðust inn á gjörgæsludeild Landspítala vegna höfuðáverka 1998 til 2013. Gögnum var safnað um orsakir, ástand við komu, aldur, kyn, legutíma og daga í öndunarvél, meðferðir og APACHE II stig. Niðurstöður tölvusneiðmynda samkvæmt Marshall-stigun, áverkaskor og afdrif voru könnuð fyrir alla sjúklinga.

Niðurstöður: Alls lögðust 583 inn á gjörgæslu vegna höfuðáverka, 39 einstaklingar/ári að meðaltali (spönn 27-52). Nýgengi höfuðáverka sem kröfðust gjörgæsluinnlagnar lækkaði á rannsóknartímabilinu úr 14/100.000 íbúa/ári í 12/100.000 íbúa/ári. Meirihlutinn voru karlar (72%) og meðalaldurinn 41 (±24) ár. Á seinni hluta tímabilsins sást aukning í innlögnum eldra fólks, einnig fjölgun innlagðra undir áhrifum áfengis frá 22,2% í 39,7% (p<0,01). Flestir einstaklinganna (41,5%) voru með alvarlegan höfuðáverka (GCS 3-8) og algengasta orsök áverkanna var fall (48,9%) en tíðni höfuðáverka eftir fall jókst frá 43% á fyrri hluta rannsóknartímabilsins í 53% á síðari hluta tímabilsins. Næst algengasta ástæða höfuðáverka voru umferðarslys en þeim fækkaði á tímabilinu úr 35% í 31%. Heildardánartíðnin var 18,2% en lifunin var betri meðal yngri einstaklinga. Frekari niðurstöður eru í vinnslu.

Ályktun: Í samanburði við rannsóknir fyrri ára má sjá fækkun í nýgengi höfuðáverka vegna umferðarslysa, hugsanlega vegna betri vega, öruggari bíla og markvissari forvarna. Hins vegar er aukning í tíðni höfuðáverka hjá eldra fólki eftir fall á jafnsléttu og er það áhyggjuefni.

 

 

7     Frostþurrkaðar rofalausnir úr blóðflögueiningum til sérhæfingar miðlagsstofnfrumna úr beinmerg

Helena Montazeri1,2, Kristján Torfi Örnólfsson1,2, Hildur Sigurgrímsdóttir1,2, Sandra Mjöll Jónsdóttir1,2, Ólafur E. Sigurjónsson1,3

1Blóðbanka Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Heilbrigðis- og taugaverkfræðistofnun Háskólans í Reykjavík

oes@landspitali.is

Inngangur: Blóðbankinn hefur þróað aðferðir sem nýta útrunnar örveruóvirkjaðar blóðflögueiningar til ræktunar á miðlagsstofnfrumum úr beinmerg (MSC). Hagnýting á útrunnum blóðflögueiningum með þessum hætti er gífurleg þar sem vandamál tengd dýraafurðum við ræktun á MSC frumum er leyst  á sama tíma og dýrmætur efniviður er endurunninn. Sýnt hefur verið fram á að hægt er að nota lýsöt úr útrunnum blóðflögueiningum og örveruóvirkjuðum útrunnum blóðflögueiningum við ræktun á MSC frumum án þess að hafa áhrif á grunneiginleika og líffræði þeirra.

Markmið: Í þessu verkefni eru könnuð áhrif frostþurrkaðra á lýsata unnin úr útrunnum örveruóvirkjuðum blóðflögueiningum til sérhæfingar á miðlagsstofnfrumum.

Aðferðir: MSC-frumur úr beinmerg voru ræktaðar í æti bættu með lýsati úr útrunnum örveruóvirkjuðum blóðflögueiningum (PIPL) og frostþurrkaðri útgáfu slíkra lýsata (L-PIPL). Áhrif ætis á vöxt og útlit frumnanna voru metin með alizarin red litun mælingum á alkalískum fosfatasa og genatjáningu.

Niðurstöður: Virkni alkalísks fosfatasa og genatjáningar var sambærileg á öllum tímapunktum sem skoðaðir voru í L-PIPL og PIPL frumuræktunum og bendir það til þess að umfang beinsérhæfingarinnar hafi verið svipað. Magnmæling á alizarin red leiddi í ljós að minni steinefnaútfelling átti sér stað í frumuræktunum þar sem notast var við L-PIPL samanborið við PIPL. L-PIPL dró úr myndun á utanfrumuefni.

Ályktanir: Þörf er á frekari rannsóknum til að kanna hvort notkun L-PIPL í stað PIPL sem frumuætisviðbót við beinsérhæfingu og brjósksérhæfingu á MSC hafi í raun og veru í för með sér minnkun á steinefnaútfellingu og utanfrumuefna myndun en það kann að vera að frostþurrkun valdi skemmdum á einhverjum próteinum/vaxtarþáttum sem finnast í blóðflögulýsötum og hvata steinefnaútfellingu.

 

 

8    Áhrif Bláa lóns-meðferðarinnar á T-frumufjölda og tjáningu varnarpeptíðsins LL37 í húð sórasjúklinga

Helga Kristín Einarsdóttir1, Eva Ösp Björnsdóttir1,2, Guðmundur Bergsson1, Jenna Huld Eysteinsdóttir 1,3, Bjarni Agnarsson2, 4, Jón Hjaltalín Ólafsson 2,3,5, Bárður Sigurgeirsson3, Ása Brynjólfsdóttir,6, Steingrímur Davíðsson,3,6  Björn Rúnar Lúðvíksson1

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands , 3Húðlækningastöðin, 4meinafræðideild, 5húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala 6Lækningalind Bláa lónsins

helgake@landspitali.is

Inngangur: Meingerð sóra felur í sér íferð T-frumna í húð samhliða aukinni RNA-tjáningu á varnarpeptíðum húðarinnar, þar á meðal LL-37. LL-37 tekur þátt í að viðhalda bólgusvari í sóra, m.a. sem mótefnavaki. Fyrri niðurstöður okkar gefa til kynna að baðmeðferð í Bláa lóninu bæli T frumusvar í húð sórasjúklinga betur en ljósameðferð eingöngu. Markmið okkar var að rannsaka áhrif blandaðrar Bláa lóns- og ljósameðferðar (NB-UVB) á próteintjáningu LL-37 í sóraskellum.

Efniviður og aðferðir: Allir þrír meðferðarhópar fengu ljósameðferð. Einn hópur fékk að auki innlagnarmeðferð og annar hópur göngudeildarmeðferð í Bláa lóninu. Húðsýnum var safnað úr skellum sjúklinga fyrir og eftir 6 vikna meðferð. Psoriasis Area Severity Index (PASI) gildi var metið fyrir og eftir meðferð fyrir hvern sjúkling og Trozak gildi var metið fyrir hvert húðsýni. Sýnin voru síðan fryst í OCT, skorin í sneiðar og merkt með flúrljómandi mótefnum gegn LL-37 og IL10.

Niðurstöður: Ekki sást nein magnbreyting á tjáningu LL-37 eftir meðferð, en tjáningarmynstur peptíðsins gerbreyttist frá því að vera samfellt yfir húðlögin yfir í það að vera eingöngu í neðsta lagi húðarinnar, þ.e. stratum basale og líktist þá tjáningu hjá heilbrigðum einstaklingi. Staðsetning LL-37 litunar í húð sýnir marktæka fylgni við Trozak gildi (p<0,0001) en ekki við PASI gildi. IL10 tjáning var einungis í basal lagi húðar og breyttist ekki við meðferð, hvorki í staðsetningu né styrk, og var sambærileg í heilbrigðu sýni og sjúklingum. Ekki var marktækur munur á milli hópa hvað varðar LL-37 og IL10 tjáningu eftir meðferð.

Ályktanir: Í heilbrigðri húð virðist tjáning LL-37 vera bundin við basal lagið, þar sem frumuskipting fer fram í húðinni. Það að IL10 jókst ekki eftir meðferð gæti endurspeglað það að húðin hafi lagað sig að endurteknum ljósmeðferðum.

 

 

9     Áhrif Bláa lóns-sórameðferðar á fjölda CD8, Il-17 og IL-22 jákvæðra frumna í húð

Hildur Sigurgrímsdóttir1,3, Jenna Huld Eysteinsdóttir1,2, Jóna Freysdóttir1,3, Helga Kristín Einarsdóttir1, Bjarni A. Agnarsson4, Jón Hjaltalín Ólafsson2,3, Bárður Sigurgeirsson2,3, Björn Rúnar Lúðvíksson1,3

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2Lækningalind Bláa lónsins, 3læknadeild Háskóla Íslands, 4meinafræðideild Landspítala

hildursigur@hotmail.com

Inngangur: Sóri er langvarandi sjálfsofnæmissjúkdómur í húð sem einkennist af íferð T-frumna í húð og offjölgun hyrnisfrumna í yfirhúð. Sóri var talinn vera Th-frumu miðlaður sjúkdómur en undanfarin ár hefur athyglin beinst frá Th1 að Th17-frumum sem aðal verkfrumunum í meingerð sóra. Th17-frumur eru CD4+ frumur sem seyta IL-17 og IL-22 en CD8+ frumur sem seyta sömu bólguboðefnum, Tc17-frumur, hafa líka verið tengdar meingerð sóra.

Efni og aðferðir: Húðsýni voru tekin úr sjúklingum sem tóku þátt í rannsókn á áhrifum Bláa lóns meðferðar á sóra. Sýnin voru tekin áður en meðferðin byrjaði (0 vikur) og við lok hennar (6 vikur). Húðsýnin voru frystiskorin og tvílituð með flúorljómandi mótefnum gegn CD8 og annað hvort IL-17 eða IL-22. Flúorljómandi frumur voru taldar og þeim gefin einkunn.

Niðurstöður: IL-17-litunin var útbreidd í sórahúð, sterk litun sást í hyrnisfrumum neðst í yfirhúð og í efri lögum leðurhúðar. Mun minna bar á IL-22-litun í sórahúð. Mjög fáar CD8+ frumur voru jákvæðar fyrir IL-17. Eftir 6 vikna meðferð var marktækt minni fjöldi CD8+ frumna í yfirhúð en enginn munur var á IL-17-lituðum frumum, hvorki fjölda né gefinni einkunn í yfirhúð og leðurhúð.

Ályktun:Fjöldi CD8+ frumna breytist í samræmi við alvarleika sórans en á óvart kemur að IL-17-litunin breytist ekki við meðferð.10   Fæðuval og næring kvenna á meðgöngu með tilliti til líkamsþyngdar

Ingibjörg Gunnarsdóttir1, 2, Ellen Alma Tryggvadóttir1, 2, Bryndís Eva Birgisdóttir1, 2, Þórhallur Ingi Halldórsson1, 2, Helga Medek3, Reynir Tómas Geirsson3, 4

1Rannsóknastofu í næringarfræði við Landspítala og Háskóla Íslands, 2matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, 3kvennadeild Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands

ingigun@landspitali.is

Inngangur: Áhættumat vegna van- eða ofneyslu næringarefna sem gætu haft áhrif á fósturþroska hefur aldrei verið gert meðal barnshafandi kvenna á Íslandi.  Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka næringargildi fæðu hjá barnshafandi konum á höfuðborgarsvæðinu og að kanna hvort mataræði kvenna í kjörþyngd fyrir þungun væri frábrugðið því sem er hjá konum sem voru yfir kjörþyngd.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru konur á aldrinum 18-40 ára (n=183), sem höfðu búsetu á höfuðborgarsvæðinu. Mataræði var kannað með fjögurra daga vigtaðri skráningu í 19.-24. viku meðgöngu (n=98 með líkamsþyngdarstuðull (LÞS) <25 kg/m2); n=46 með LÞS 25-29,9 kg/m2 og n=39 með LÞS ≥30 kg/m2).

Niðurstöður:  Gæðum fitu og kolvetna í fæði var verulega ábótavant hjá fjórðungi þátttakenda. Einungis 35% þeirra neyttu ≥200 mg/dag af fitusýrunni DHA (docosahexaenoic sýru, C22:6, n-3) með tilvísan í norrænar ráðleggingar fyrir barnshafandi konur. Um fjórðungur gæti átt á hættu að fullnægja ekki þörf fyrir joð og D-vítamín (neysla lægri en áætluð meðalþörf). Ofneysla vítamína og steinefna (úr fæði og bætiefnum) sást ekki. Miðgildi neyslu af mjólk og mjólkurvörum (346 g/dag miðað við 258 g/dag, p<0,05), gos- og svaladrykkjum (200 g/dag miðað við 122 g/dag, p<0,05) og kartöfluflögum og poppi (13 g/dag miðað við 0 g/dag, p<0,05) var hærra meðal kvenna með LÞS ≥30 kg/m2 fyrir þungun heldur en kvenna sem voru í kjörþyngd fyrir þungun.

Ályktun: Hluti barnshafandi kvenna fullnægir að öllum líkindum ekki þörf fyrir næringarefni á borð við DHA, joð og D-vítamín, sem öll gegna lykilhlutverki við fósturþroska. Huga þarf betur að fæðuvali kvenna fyrir og á meðgöngu.

 

 

11   Áhrif minnkaðra fjárframlaga til spítala á greiningu, meðferð og útkomu blóðsýkinga, 2007-2012

Jón M. Jóhannesson1,2, Ásgeir Haraldsson1,3, Helga H. Bjarnadóttir4, María Heimisdóttir4, Magnús Gottfreðsson1,5,6, Karl G. Kristinsson1,2

Læknadeild Háskóla Íslands1, sýklafræðideild2, Barnaspítala Hringsins3, fjármálasviði4, smitsjúkdómadeild5, vísindanefnd Landspítala6

Inngangur: Blóðræktanir eru mikilvægar í greiningu blóðsýkinga en þar þarf sýklalyfjameðferð að hefjast sem fyrst. Fjárhagskreppa skall á með miklum þunga á Íslandi árið 2008 og minnkuð fjárframlög til Landspítala leiddu til 27% fækkunar blóðræktana á spítalanum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að athuga áhrif þessarar fækkunar á greiningu, meðferð og útkomu blóðsýkinga.

Efni og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum blóðræktunum sem voru framkvæmdar á sýklafræðideild Landspítala á tímabilinu 01.01.2007 – 31.12.2012. Rafræn sjúklingagögn voru skoðuð með tilliti til legutíma, ICD-greininga, notkun sýklalyfja og afdrifa.

Niðurstöður: Á tímabilinu voru 53.229 blóðræktanarkolbur notaðar, þar sem ræktað var blóð frá 16.371 sjúklingi. Marktæk fækkun varð á milli tímabilanna 2007-2009 og 2010-2012 í bæði neikvæðum (26.236 niður í 20.225, p<0,001) og jákvæðum blóðræktunum (2569 niður í 2060, p<0,001). Marktæk fækkun varð á milli sömu tímabila í jákvæðum blóðræktunum á stærstu sviðum spítalans (bráðasviði, lyflækningasviði, skurðlækningasviði og á Barnaspítala Hringsins (p<0,01). Samhliða þessu var fækkun í greindum blóðsýkingum á sömu sviðum. S. pneumoniae blóðsýkingum sem greindust á Barnaspítala Hringsins fækkaði úr 13 í 0 milli 2008 og 2012 (p<0,001). Marktæk fækkun á fjölda blóðsýkinga vegna Gram-neikvæðra stafa (nema E. coli, K. pneumoniae og P. aeruginosa) milli tímabilanna 2007-2009 og 2010-2012 (218 niður í 151, p<0,001). Dánartíðni af öllum orsökum sem hlutfall af legudögum jókst milli sömu tímabila (3,81 niður í 4,12 andlát/1000 spítaladagar, p<0,05). Notkun breiðvirkra sýklalyfja jókst á rannsóknartímabilinu.

Ályktun: Minni notkun á blóðræktunum tengist samsvarandi fækkun í fjölda greindra blóðsýkinga. Á sama tíma var aukning í notkun breiðvirkra sýklalyfja. ICD-10 greiningar og heildardánartíðni eru ekki nægjanlega næmar breytur til að unnt sé að meta hvaða áhrif þessi fækkun hafði á útkomu.

 

 

12   Addenbrooke-prófið fyrir iPad (ACE-III mobile): Íslensk þýðing, staðfæring, normasöfnun og réttmætisathugun

María K. Jónsdóttir1,2, Brynhildur Jónsdóttir2, Una Sólveig Jóakimsdóttir1

1Sálfræðisviði Háskólans í Reykjavík, 2Landspítala – Minnismóttöku Landakoti (sálfræðiþjónusta)

marijon@landspitali.is

Inngangur: Addenbrooke Cognitive Examination (ACE) er hugrænt skimunarpróf sem hefur verið mikið rannsakað og þýtt á mörg tungumál. Það nær yfir fimm hugræn svið: athygli/áttun, minni, mál, sjónúrvinnslu og stýringu og hefur fylgni þeirra við taugasálfræðileg próf verið staðfest. Nýjasta útgáfa ACE er fyrir spjaldtölvu og hefur fengist leyfi til að þýða hana á íslensku (t-ACE, þ.e. tölvu-ACE). Áður en hægt er að taka prófið í tilraunanotkun hérlendis verður að safna viðmiðum og gera réttmætisathugun. Fyrstu niðurstöður normasöfnunar verða kynntar hér.

Efniviður og aðferðir: Þýðingu og staðfæringu á t-ACE er lokið. Normasöfnun er komin vel á veg og hafa verið prófaðir 72 heilbrigðir einstaklingar, 65 ára og eldri. Lokahluti verkefnisins felst í réttmætisathugun með samanburði við taugasálfræðileg próf og samanburði á greiningarhæfni t-ACE og MMSE. Í þeim hluta verða þátttakendur fengnir af minnismóttökunni á Landakoti.

Niðurstöður: Meðalaldur þátttakenda var 73,5 ár (spönn 65 – 86, sf = 5,3). Menntunarstig var fremur hátt miðað við almennt þýði (47,1 % með háskólapróf; 28,6 % með stúdentspróf eða iðnmenntun og 24,3% með minni menntun). Meðalskor úr t-ACE var 93,0 (sf = 5,3). Ekki var marktækt samband milli aldurs og frammistöðu en sterk fylgni á milli menntunar og heildarstiga á t-ACE (r = 0,55). Háskólamenntaðir fengu að meðaltali 95,9 stig (sf = 3,5) en þeir minnst menntuðu 90,3 (sf = 4,9).

Ályktun: Sú normasöfnun sem lokið er hérlendis sýnir sambærilegar niðurstöður í heilbrigðu úrtaki og rannsóknir á ACE í Norður- og Vestur-Evrópu. Normasöfnun mun halda áfram og réttmætisathugun hefst í sumar. Þess er vænst að t-ACE nýtist í heilsugæslunni og vítt og breitt í öldrunarþjónustu.

 

 

13   GATA2 stökkbreyting á Íslandi

Monika Freysteinsdóttir1, Sigrún Reykdal1, Ólafur Baldursson1, Brynjar Viðarsson1,  Björn Rúnar Lúðvíksson1, Þórunn Rafnar2, Magnús Gottfreðsson3

1Landspítala, 2Íslenskri erfðagreiningu, 3læknadeild Háskóla Íslands

monikafr@landspitali.is

Inngangur: GATA2 er umritunarþáttur, tjáður af stofnfrumum í beinmerg. Nýlega hafa stökkbreytingar í GATA2 geni við verið tengdar við heilkenni sem einkennist af skorti á frumum ónæmiskerfisins, tækifærissýkingum, pulmonary alveolar proteinosis (PAP) lungnasjúkdóm, mergmisþroska (MDS) og bráðahvítblæði (AML). Sýnt hefur verið fram á ríkjandi erfðir. Á Íslandi hafa fimm alsystkini greinst arfblendin fyrir GATA2 stökkbreytingunni c.1061 C>T. Há tíðni er um beinmergssjúkdóma í móðurætt þeirra. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort fleiri í stórfjölskyldu systkinanna bæru GATA2 stökkbreytinguna sem og látnir forfeður.

Efniviður og aðferðir: Systkinin og ættingjar þeirra ásamt einum óskyldum sjúklingi voru boðuð í heilsufarssviðtal, spurt var um einkenni og munnholsstrokum safnað til arfgerðargreiningar. Lífssýna var leitað frá látnum ættingjum til arfgerðargreiningar og sjúkraskrá þeirra skoðuð. Fyrirhugað er að skoða einstaklinga sem hafa stökkbreytingu í GATA2 með tilliti til starfsemi lungna, beinmergs og meta svörun við bólusetningum.

Niðurstöður: Enginn núlifandi fjölskyldumeðlima, fyrir utan systkinin, reyndust bera stökkbreytingu í GATA2 en staðfest var að fjórir af 9 látnum forfeðrum með blóðsjúkdóm báru stökkbreytinguna. Elsta systirin er greind með MDS. Ungir tvíburar hafa tíðar öndunarfærasýkingar og eru með blóðfrumnafæð. Einn einstaklingur, óskyldur systkinunum, hefur greinst með aðra GATA2 stökkbreytingu og er mikil fjölskyldusaga um MDS/AML hjá honum. Hann er greindur með MDS og PAP.

Ályktanir: Stökkbreytingar GATA2 geni eru sjaldgæfar á heimsvísu og hafa nú greinst í tveimur óskyldum íslenskum fjölskyldum. Mikilvægt er að varpa frekara ljósi á sjúkdóminn svo hægt sé að meðhöndla og hjálpa þessum einstaklingum sem best.

 

 

14  Kortlagning á breytingum á  micro RNA við geymslu á blóðflögum með og án Intercept smithreinsun

Níels Árni Árnason1, Ragna Landrö1, Óttar Rolfsson2,  Björn Harðarson1, Sveinn Guðmundsson1, Ólafur E. Sigurjónsson1,3

1Blóðbankanum Landspítala, 2Kerfislíffræðisetri HÍ, 3Heilbrigðis- og taugaverkfræðistofnun Háskólans í Reykjavík

oes@landspitali.is

Inngangur: Blóðflögur gegna mikilvægu hlutverki í segamyndun, blæðingastöðvun, bólgusvörum og sáraviðgerðum. Blóðflögur hafa takmarkaðan geymslutíma utan líkama og við geymslu þeirra myndast ástand sem kallað er “platelet storage lesion” (PLS) sem leitt getur  til þess að virkni þeirra við inngjöf verður ekki ákjósanleg. Til að lengja geymslu tíma þeirra í 7 daga er beitt smithreinsun til að draga úr líkum á sýklasmiti

Markmið: Markmið þessarar rannsóknar var að fá heildarmynd á micro RNA (miRNA) breytingum sem verða við geymslu blóðflaga til að skilja betur myndun á PLS og til að þróa aðferðir sem bæta gæði blóðflaga við geymslu.

Aðferðir: Fylgst var með gæðum og starfsemi flaganna með gæðaprófum og greiningu á miRNA með örflögutækni. Greind voru rúmlega 2000 mismunandi miRNA í fjórum blóðflögueiningum á fjórum tímapunktum við geymslu dagur 1, 2, 4 og 7 auk þess sem 20 mismunandi gæðaþættir voru skoðaðir til að meta PSL.

Niðurstöður: Greining á gæðaþáttum sýndu að intercept blóðflögur sýna fleiri merki um PLS samanborið við blóðflögur sem ekki hafa verið smithreinsaðar (viðmið), sérstaklega á degi 4. og 7. Enginn marktækur munur sást á miRNA tjáningu milli intercept blóðflaga og viðmiðs hóps á tímapunktunum fjórum. Fleiri miRNA sýndu marktæka breytingu í Intercept hóp en viðmiðshóp á degi 4 og 7 borið saman við dag 1. Q-PCR á  völdum miRNA staðfestu að hluta niðurstöðu miRNA array aðferðarinnar

Ályktun: Intercept smithreinsun hefur mögulega áhrif á PSL og veldur breytingum í miRNA samsetningu í blóðflögum við geymslu. Þessar niðurstöður gefa nýja innsýn inn í þá ferla sem mögulega eru valdur af PSL og opnar dyrnar á því að nota slíkar aðferðir ásamt kerfislíffræðilegum nálgunum og módelsmíði til að bæta gæði blóðhluta. Næsta skref er að bera saman intercept flögur við geislaðar flögur og flögur geymdar í plasma.

 

 

15   Þættir sem hafa áhrif á klíníska rökhugsun og ákvarðanatöku sjúkraþjálfara við snemmbæra hreyfingu á alvarlega veikum sjúklingum. Eigindleg rannsókn

Ólöf Ragna Ámundadóttir1,3, Helga Jónsdóttir2, Elizabeth Dean1,5, Gísli H. Sigurðsson1,4

1Læknadeild, 2hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 3sjúkraþjálfun, 4svæfinga og gjörgæsludeild Landspítala, 5Háskóla British Columbia, Vancouver, Kanada

Inngangur: Sjúkraþjálfarar gegna mikilvægu hlutverki í meðferð alvarlega veikra sjúklinga á gjörgæsludeildum og jákvæð áhrif þess að auka hreyfingu og upprétta stöðu þessa sjúklingahóps eru vel þekkt. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa ferli klínískrar rökhugsunar sjúkraþjálfara og ákvarðanatöku við hreyfingu  á alvarlega veikum sjúklingum á gjörgæsludeild.

Efniviður og aðferðir:Tólf sjúkraþjálfarar, starfandi á Landspítala tóku þátt í rannsókninni. Gagnasöfnun fólst í áhorfsathugun og hálfstöðluðu djúpviðtali. Gögnin voru greind með eigindlegri efnisgreiningu.

Niðurstöður: Niðurstöður leiddu í ljós tvö grunnþemu sem lýsa þáttum í klínískri rökhugsun þegar sjúkraþjálfararnir í rannsókninni voru að taka ákvörðun um hreyfingu alvarlega veikra sjúklinga á gjörgæsludeild. Fyrra þemað kallast: Þættir sem styðja klíníska rökhugsun sjúkraþjálfara þegar þeir meta hvort alvarlega veikur sjúklingur á gjörgæsludeild er hæfur til að hreyfa sig og koma í upprétta stöðu. Seinna þemað kallast: Þættir sem styðja við klíníska rökhugsun sjúkraþjálfara meðan á hreyfingunni stendur.

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á klíníska rökhugsun sjúkraþjálfara við hreyfingu á alvarlega veikum sjúklingum. Þættir sem hafa áhrif á klíníska rökhugsun sjúkraþjálfaranna eru margþættir og aðstæðubundnir. Þeir snúa að, sjúklingnum, sjúkraþjálfaranum og gjörgæsludeildinni. Þekking á þessum þáttum varpar ekki einungis ljósi á hugsanaferli sjúkraþjálfaranna sjálfra við þetta verkefni, þeir geta einnig nýst til að kenna starfsfólki, nýliðum og nemum.

 

 

16   Almenn líkamleg geta við athafnir daglegs lífs eftir útskrift af gjörgæsludeild

Rannveig J. Jónasdóttir, Helga Jónsdóttir, Gísli H. Sigurðsson

rannveij@landspitali.is

Inngangur: Bráð og alvarleg veikindi draga úr líkamlegum styrk og hafa áhrif á almenna getu við framkvæmd athafna daglega lífs.

Efniviður og aðferðir: Framsýn samanburðarrannsókn á almennri líkamlegri getu við framkvæmdir athafna daglegs lífs frá útskrift af gjörgæsludeild að sex mánuðum og borið saman við; (i) getu við athafnir daglegs lífs um fjórum vikum fyrir innlögn á gjörgæsludeild, (ii) milli sjúklinga  ≥18 ára sem höfðu dvalið  ≥72 klukkustundir á gjörgæsludeild og fengu annars vegar hjúkrunarstýrt eftirlit gjörgæsluhjúkrunarfræðinga (N=69) og hins vegar hefðbundna þjónustu (N=75). Útkomumælingar voru tíu atriði líkamlegrar getu við framkvæmdir athafna daglegs lífs mældar með Modified Barthel Index (snyrting, böðun, að matast, salernisferðir, stigaganga, klæðast, stjórnun hægða og þvags, göngugeta, flutningur í/úr rúmi/stól) fjórum vikum fyrir innlögn á gjörgæsludeild, við útskrift af gjörgæsludeild og almennri deild, og þremur og 6 mánuðum eftir útskrift af gjörgæsludeild.

Niðurstöður: Almenn geta við framkvæmd athafna daglega lífs jókst á tímabilinu frá útskrift af gjörgæsludeild þar til sex mánuðum síðar en marktækt hlutfall sjúklinga hafði ekki náð fyrri getu sem var til staðar fyrir innlögn á gjörgæsludeild. Enginn munur var milli hópanna á þessu tímabili.

Ályktun: Sjúklingar sem liggja lengur en þrjá daga á gjörgæsludeild finna fyrir skertri getu við framkvæmd athafna daglegs lífs allt að 6 mánuðum eftir útskrift þaðan. Hjúkrunarstýrt eftirlit gjörgæsluhjúkrunarfræðinga mætti styðja þennan þátt enn frekar í bataferli sjúklinga eftir útskrift af gjörgæsludeild.

 

 

17   Notkun blóðflögu rofalausna til fjölgunar og sérhæfingar miðlagsstofnfrumna sérhæfðum frá stofnfrumum úr fósturvísum

Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch1,2, Kristbjörg Gunnarsdóttir1,2 Linda Jasonardóttir1,2, Ólafur E. Sigurjónsson1,2,3

1Blóðbanka Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Heilbrigðis- og taugaverkfræðistofnun Háskólans í Reykjavík

oes@landspitali.is

Inngangur: Blóðbankinn hefur þróað aðferðir sem nýta útrunnar örveruóvirkjaðar blóðflögueiningar til ræktunar á miðlagsstofnfrumum úr beinmerg (MSC). Hagnýting á útrunnum blóðflögueiningum með þessum hætti er gífurleg þar sem vandamál tengd dýraafurðum við ræktun á MSC-frumum er leyst á sama tíma og dýrmætur efniviður er endurunninn. Sýnt hefur verið fram á að hægt er að nota lýsöt úr útrunnum blóðflögueiningum og örveruóvirkjuðum útrunnum blóðflögueiningum við ræktun á MSC-frumum án þess að hafa áhrif á grunneiginleika og líffræði þeirra. Hérna sýnum við fram á að einnig er hægt að nota slíkar rofalaunsir til fjölgunar og sérhæfingar á miðlagsstofnfrumum fengnum frá stofnfrumum úr fósturvísum.

Markmið: Í þessu verkefni var kannað hvort hægt væri að nota blóðflögu rofalausnir fengnar úr útrunnum örveruóvirkjuðum blóðflögueiningum til fjölgunar, brjósk- og beinsérhæfingar miðlagsstofnfruma sérhæfðum úr stofnrumum úr fósturvísum.

Aðferðir: Miðlagsstofnfrumur voru sérhæfðar frá stofnfrumum úr fósturvísum og fjölgað með annars vegar blóðflögulýsötum eða kálfasermi. Könnuð voru áhrif slíkrar fjölgunar á beinfrumusérhæfingar og brjóskfrumusérhæfingar. Beinfrumusérhæfing var metin með alizarin red litun, mælingum á alkalískum fosfatasa og genatjáningu. Brjóskfrumusérhæfing var metin með massom trichrome blute litun GAG-prófi og genatjáningu.

Niðurstöður: Niðurstöður sýna að hægt er að nota rofalausnir úr útrunnum blóðflögueiningum í staðinn fyrir kálfasermi til fjölgunar á miðlagsstofnfrumum fengnum úr stofnfrumum og á bein- og brjósksérhæfingar.

Ályktun: Hægt er að nota rofalausnir úr útrunnum blóðflögu einingum til fjölgunar á miðlagsstofnfrumum fengnum úr stofnfrumum úr fósturvísum án þess að hafa áhrif á sérhæfingarhæfni þeirra.18   Liðsýkingar á Íslandi - faraldsfræði liðsýkinga á árunum 2003-2014

Signý Lea Gunnlaugsdóttir1, Helga Erlendsdóttir1,3, Kristján Orri Helgason1,3, Sigurður Guðmundsson1,2, Magnús Gottfreðsson1,2

Læknadeild Háskóla Íslands1, smitsjúkdómadeild2, sýklafræðideild Landspítala3

Inngangur og markmið: Bráðar liðsýkingar af völdum baktería eru sjaldgæfar en alvarlegar sýkingar. Þrátt fyrir framfarir í greiningu og meðferð liðsýkinga virðist nýgengi þeirra vera að aukast. Líklegar ástæður fyrir þessu aukna nýgengi er hækkandi meðalaldur, mikil aukning í notkun nýrra ónæmisbælandi lyfja og aukning á ýmiss konar íhlutun í liði. Niðurstöður fyrri rannsóknar á liðsýkingum hérlendis 1990-2002 sýndu nýgengisaukningu fyrst og fremst vegna fjölgunar slíkra inngripa í greiningar- og meðferðarskyni. Markmið þessarar rannsóknar var því að varpa ljósi á faraldsfræði liðsýkinga á Íslandi á árunum 2003-2014 með tilliti til aldurs og kyns sjúklinga, klínískrar birtingarmyndar, áhættuþátta, sýklafræðilegra orsaka, meðferðar og afdrifa sjúklinga, auk þess að rannsaka nýgengi liðsýkinga og meta þann fjölda sýkinga sem verður í kjölfar hvers kyns íhlutunar í liði.
Efniviður og aðferðir: Framkvæmd var afturskyggn, lýsandi rannsókn á liðsýkingum á Íslandi 2003-2014. Listi yfir jákvæðar liðvökvaræktanir á tímabilinu fékkst út tölvukerfi sýklafræðideildar Landspítala. Sjúklingarnir sem þannig fundust þurftu einnig að hafa fengið fulla meðferð við liðsýkingu; annars var talið að um mengun eða annars konar sýkingu væri að ræða. Farið var yfir sjúkraskrár þátttakenda og klínískar upplýsingar skráðar í FileMaker gagnagrunn. Við tölfræðilega úrvinnslu var notast við tölfræðiforritið R.
Niðurstöður: Frá ársbyrjun 2003 til loka ársins 2014 greindust 289 tilfelli liðsýkinga sem staðfest voru með jákvæðri liðvökvaræktun. Sýkingar í eigin lið reyndust 209 talsins og sýkingar í gervilið voru 80 talsins. Nýgengi sýkinga í eigin lið jókst ekki á tímabilinu en meðalnýgengið var 5,6 tilfelli/100.000/ár. Aldursbundið nýgengi var marktækt hæst hjá einstaklingum eldri en 60 ára og á meðal barna yngri en tveggja ára, en lægst hjá aldurshópnum 6-9 ára. Marktækur munur var á kynjahlutföllunum á meðal fullorðinna (p<0,0001). Sýkingin var oftast bundin við einn lið og var hnéliðurinn oftast sýktur bæði í börnum og fullorðnum. S.aureus var algengasta bakterían í liðsýkingum barna og fullorðinna. Í fullorðnum voru streptó-kokkar svo næstalgengustu sýklarnir en í börnum reyndist K.kingae næstalgengust. Sýkingu mátti rekja til inngrips í lið í 6% tilfella barna (2/32) og 34,5% tilfella fullorðinna (61/177). Ekki var breyting á fjölda meðferðartengdra sýkinga á milli ára. Heildardánartíðnin á tímabilinu reyndist 5,3%. Þegar kom að sýkingum í gerviliðum reyndist meðalnýgengið vera 2,1 tilfelli/100.000/ár á tímabilinu og ræktuðust S.aureus og kóagulasa-neikvæðir staphylókokkar í meira en 60% tilfella. Sýkingu mátti rekja til liðskiptaaðgerðar í 41% tilfella.
Ályktanir: Þessar niðurstöður sýna að nýgengi liðsýkinga virðist ekki vera á uppleið, en það hefur haldist stöðugt á tímabilinu eftir hækkun áratugarins á undan. Hlutfall sýkinga í kjölfar inngripa er enn hátt en ekki var aukning á fjölda meðferðartengdra sýkinga á milli ára. Liðsýkingar eru enn, þrátt fyrir virk sýklalyf, orsök varanlegra liðskemmda og hreyfihamlana og því mikilvægt að læknar kunni vel til verka við hvers kyns íhlutun í liði og að brugðist sé hratt og rétt við þegar grunur leikur á að um liðsýkingu sé að ræða.19   Samanburður á þremur kvörðum til að meta styrk verkja. Hvenær telja sjúklingar sig þurfa meðferð og hver kvarðanna hugnast þeim best?

Sigríður Zoëga1,2, Auður S. Gylfadóttir1,2, Sigríður Gunnarsdóttir1,2, Gísli Vigfússon1, J. Sóley Halldórsdóttir2, Bryndís Oddsdóttir2, Guðrún D. Guðmannsdóttir1, Herdís Sveinsdóttir1,2

szoega@landspitali.is

Inngangur: Mat á verkjum er forsenda viðeigandi verkjameðferðar og mælt er með notkun kvarða við mat á styrk verkja. Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman þrjá verkjakvarða, láréttan og lóðréttan tölukvarða og orðakvarða hjá fjórum sjúklingahópum.

Efniviður og aðferðir: Þetta var lýsandi rannsókn. Úrtakið samanstóð af gigtarsjúklingum, sjúklingum 75 ára og eldri, sjúklingum á fyrsta degi eftir aðgerð og krabbameinssjúklingum (N=280). Þátttakendum var sýndur einn kvarði í einu í handahófskenndri röð. Þeir svöruðu svo spurningum um styrk verkja, hvar á kvörðunum þeir töldu sig þurfa á meðferð að halda og hvern kvarðanna þeir vildu nota. Tölukvarðarnir voru á bilinu 0-10 en orðakvarðinn var kóðaður sem engir (1), litlir (2), miðlungs (3), miklir (4) og gríðarlegir verkir (5). Lýsandi- og ályktunartölfræði var notuð við gagnaúrvinnslu. Marktæknimörk voru sett við 0,05.

Niðurstöður: Gögn voru greind frá 275 þátttakendum. Meðalaldur var 64,7 ár (sf=18, spönn 18-95), 49% voru karlar. Sterk fylgni var á milli kvarðanna þriggja í öllum hópnunum, p<0,001. Meðalstyrkur verkja þegar þátttakendur töldu ekki þörf á meðferð var 2,8 og 2,6 á tölukvörðunum og 2,0 (litlir verkir) á orðakvarðanum. Þátttakendur töldu þörf á meðferð þegar styrkur verkja var að meðaltali 4,3 á tölukvörðunum og 2,8 (miðlungs) á orðakvarðanum. Meðalstyrkur verkja þegar þátttakendur töldu þörf á tafarlausri meðferð var 7,9 á tölukvörðunum og 4,3 (miklir verkir) á orðakvarðanum. Yfir helmingi þátttakenda í öllum hópunum fjórum hugnaðist orðakvarðinn best.

Ályktun: Sterk fylgni reyndist milli kvarðanna þriggja hjá öllum hóp-unum sem bendir til þess að hægt sé að nota hvern þeirra við mat á styrk verkja. Mat á þörf fyrir meðferð var í samræmi við rannsóknir á því hvað teljast litlir, meðalsterkir eða miklir verkir. Sjúklingum hugnaðist orðakvarðinn best.

 

 

20   Ónæmisglæðirinn LT-K63 eykur virkjun og lifun B-frumna í músaungum með því að auka tjáningu BAFFR og BCMA

Stefanía P. Bjarnarson1,2, Auður Anna Aradóttir Pind1,2, Giuseppe Del Giudice3, Ingileif Jónsdóttir1,2,4.

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3GSK Vaccines, Siena, Ítalíu, 4Íslenskri erfðagreiningu

stefbja@landspitali.is

Inngangur: Ónæmiskerfi ungviðis er vanþroskað sem veldur auknu næmi fyrir sýkingum og lélegri svörun við bólusetningum. Mótefnasvör eru dauf og lækka hratt sem stafar af takmarkaðri virkjun og lifun B frumna. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif ónæmisglæðisins LT-K63 á lykilviðtaka fyrir virkjun og lifun B-frumna í nýburamúsum eftir bólusetningu með próteintengdu fjölsykrubóluefni gegn pneumókókkum (PPS1-TT).

Aðferðir: Nýburamýs voru bólusettar með PPS1-TT eingöngu eða ásamt LT-K63. Eftir 4, 8, 14 og 21 daga var tjáning BAFFR á B frumuhópum í milta metin í flæðifrumusjá; nýmynduðum (NF;B220+CD23-CD21-), marginal zone (MZ;B220+CD23lowCD21high) og follicular (FO;B220+CD23highCD21int) B-frumum, og tjáning BCMA á mótefnaseytandi blöstum (B220+CD138+) og plasmafrumum (B220negCD138+).

Niðurstöður: Tjáning á virkjunar-/lifunarviðtakanum BAFFR á NF, FO og MZ B frumum var aukin á 8. degi eftir bólusetningu nýburamúsa sem fengu LT-K63 með bóluefninu miðað við mýs sem fengu einungis PPS1-TT. Tíðni mótefnaseytandi blasta og frumna var aukin og fleiri tjáðu lifunarviðtakann BCMA 4, 8 og 14 dögum eftir bólusetningu með PPS1-TT+LT-K63 miðað við PPS1-TT eingöngu.

Ályktun: Rannsóknin sýnir að ónæmisglæðirinn LT-K63 stuðlar að aukinni virkjun, sérhæfingu og lifun B frumna með því að auka tjáningu á BAFFR á B-frumum og BCMA á mótefnaseytandi B frumum.

 

 

21   Áhrif ósérhæfða ónæmiskerfisins á sérhæfingu og virkni afleiddra CD8+ T-stýrifrumna

Una Bjarnadóttir1, Inga Skaftadóttir1, Björn Rúnar Lúðvíksson1, 2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

unab@lsh.is

Inngangur: Bælivirkni CD8+ T-stýrifrumna (Tst) spilar stórt hlutverk í að koma í veg fyrir ýmsa sjálfsofnæmissjúkdóma og má hugsanlega nýta sem meðferðarúrræði. Mjög takmarkaðar upplýsingar eru til um starfsemi þeirra og virkni og frekari rannsókna er þörf. Í rannsóknum okkar er aðaláherslan á hlutverk bólgumyndandi boðefna á virkni og sérhæfingu CD8+ Tst sem og boðefnamunstur þeirra í bæði sérhæfingarfasa sem og bælivirknifasa.

Efniviður og aðferðir: Óþroskaðar og óreyndar CD8+CD25-CD45RA+ T-frumur voru einangraðar úr heilbrigðum blóðgjöfum og ræktaðar í Tst hvetjandi aðstæðum með og án IL-1β, TNFα. Boðefnaseytun var skoðuð með luminex.

Niðurstöður: Virkar CD8+ aTst voru afleiddar með TGF-β1 og IL-2 sem höfðu samlegðaráhrif á sérhæfingu þeirra (P<0.0001). Niðurstöður okkar sýna að IL-1β og TNFα hafa ekki áhrif á sérhæfingu þeirra en boðefnin minnka marktækt bælivirkni CD8+ aTst (P<0.05). Þegar boðefnaseytunin var borin saman á milli CD8+ aTst í sérhæfingarfasa og virknifasa var marktækur munur á seytun IL-1β, IL-6, IL-9, IL-10 og IL-17. IL-17 örvandi boðefnin IL-6 og IL-1β var seytt í miðlungs og háum styrk og seytun IL-6 var IL-1β háð (P<0.05/0.01/0.001). Th17 tengd boðefni (IL-17, IL-23 og IL-27) var hins vegar seytt í mjög litlu magni (100> pg/mL). Einnig var IL-9 seytt í mjög miklu magni í báðum fösum og marktækt meira magni í virkifasanum í viðurvist TNFα og IL-1β.

Ályktun: Boðefnaseytun CD8+ aTst hefur ekki verið skoðuð af þessari nákvæmni fyrr og sýna niðurstöður okkar að IL-1β, IL-6 og IL-9 eru lykilþættir í sérhæfingu og virkni þeirra. CD8+ aTst virðast stjórna afar flóknu boðefnamynstri til að viðhalda jafnvægi og stöðugum ónæmisviðbrögðum. Aukinn skilningur á þessu flókna boðefnamunstri má hugsanlega nýta við þróun meðferðarúrræða gegn sjálfsofnæmissjúkdómum.

 

 

22   Æðaþelsstarfsemi metin með EndoPAT-tækni er ekki tengd niðurstöðu áhættureiknis Hjartaverndar

Ylfa Rún Sigurðardóttir 1, Bylgja Rún Stefánsdóttir2, Thor Aspelund1,2, Guðmundur Þorgeirsson1,2,3, Linda Björk Kristinsdóttir1, Vilmundur Guðnason1,2, Karl Andersen1,2,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Hjartavernd, 3hjartadeild Landspítala

yrs2@hi.is

Inngangur: Meirihluti hjartaáfalla tilheyrir hópi sem ekki reiknast í hááhættu samkvæmt áhættureikni Hjartaverndar og leita þarf leiða til að bæta áhættumat og áhættulíkan. EndoPAT er tækni til mælinga á starfsgetu æðaþels. Skoðuð voru tengsl milli æðaþelsstarfsemi, mælt með EndoPAT, og niðurstaðna áhættureiknis Hjartaverndar í heilbrigðu þýði.

Efniviður og aðferðir: EndoPAT-mælingar voru framkvæmdar á 102 einstaklingum án fyrri sögu um hjarta- og æðasjúkdóma. EndoPAT-tæknin notast við þrýstingsnema á fingrum sem meta getu æðaþels til að framkalla blóðflæðisaukingu í kjölfar blóðþurrðar. Áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma voru metnir og færðir inn í áhættureikni.

Niðurstöður: Slakari æðaþelsstarfsemi, á formi lægri blóðflæðisaukningarstuðuls (reactive hyperemia index, RHI), hafði ekki tölfræðilega marktæk tengsl við aukna áhættu. Sama mátti segja um hærri æðastífni-stuðul (augmentation index, AI). Hærri grunnsveifluvídd þrýstingsbylgju (baseline pulse amplitude) hafði hins vegar marktæk tengsl við hærri áhættu (p = 0,02). Meðal áhættuþátta var einungis hærri hjartsláttartíðni marktækt tengd lægra RHI gildi (r = - 0,24, R2 = 0,06, p = 0,01). AI og grunnsveifluvídd þrýstingsbylgju höfðu marktæk tengsl við ýmsa áhættuþætti.

Ályktanir: Skert æðaþelsstarfsemi og hærri reiknuð áhætta á greiningu kransæðasjúkdóms næstu 10 árin, sem hvoru tveggja hefur forspárgildi um hjarta- og æðaáföll, reyndust ekki hafa marktæk tengsl. Tengsl vanstarfsemi æðaþels við áhættuþætti voru einnig takmörkuð. Niðurstaðan gæti stafað af því að núgildandi reiknuð áhætta og skert æðaþelsstarfsemi byggi á ólíkum meinalífeðlisfræðilegum þáttum og EndoPAT-mælingar veiti því viðbótar upplýsingar. Frekari rannsókna er þörf svo komast megi að þýðingu og nothæfni EndoPAT-niðurstaðna.

 

 

23   Aukin æðakölkun í hálsslagæðum sjúklinga með bráð kransæðaheilkenni og truflun á sykurefnaskiptum

Þórarinn Árni Bjarnason1,2, Steinar Orri Hafþórsson2, Erna Sif Óskarsdóttir2, Linda Björk Kristinsdóttir2, Ísleifur Ólafsson1,2, Sigurður Sigurðsson3, Vilmundur Guðnason2,3, Karl Andersen1,2,3

1Landspítala, 2Háskóla Íslands, 3Hjartavernd

thorarinn21@gmail.com, andersen@landspitali.is

Inngangur: Sykursýki 2 (SS2) og forstig sykursýki (FSS) eru þekktir áhættuþættir fyrir æðakölkunarsjúkdóm. Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif SS2 og FSS á útbreiðslu æðakölkunar í hálsslagæðum hjá sjúklingum með bráð kransæðaheilkenni (BKH).

Efniviður og aðferðir: Sjúklingum sem lögðust inn á hjartadeild Landspítala með BKH og áður ógreinda sykursýki var boðið að taka þátt í rannsókninni. Mælingar á sykurefnaskiptum (fastandi glúkósi í plasma, HbA1c og sykurþolspróf) voru gerðar við innlögn og endurteknar þremur mánuðum seinna. Hæsta gildi úr þessum mælingum ákvað hvort sjúklingar voru flokkaðir með eðlileg sykurefnaskipti, FSS eða SS2 Æðakölkun var metin með stöðluðum hálsæðaómunum í Hjartavernd og flokkuð í enga, litla, í meðallagi og alvarlega æðakölkun.

Niðurstöður: Alls voru252 sjúklingar (78% karlar, meðalaldur 64 ár) með BKH og áður ógreinda SS2 sem tóku þátt í rannsókninni. Sjúklingar flokkaðir með eðlilegan sykurbúskap voru 28,6%, 54,8% með FSS og 16,6% með SS2.Æðakalkanir í hálsslagæðum voru til staðar í 97, 97 og 100% sjúklinga með eðlilegan sykurbúskap, FSS og SS2. Algengi í meðallagi og alvarlegra æðakalkana í hálsslagæðum var 49, 63 og 80% hjá sjúklingum með eðlilegan sykurbúskap, FSS og SS2. Í fjölþátta aðhvarfsgreiningu var gagnalíkindahlutfall 1,94 (95% Cl 1.02-3.73) fyrir  meðal- til alvarlega æðakölkun í hálsslagæðum hjá sjúklingum með FSS og  3,58 (95% Cl 1.40-9.94) hjá sjúklingum með SS2.

Ályktun: Æðakölkun í hálsæðum var til staðar í nær öllum sjúklingum með BKH. Nýgreint FSS og SS2 er sjálfstæður áhættuþáttur fyrir í meðallagi til alvarlega æðakölkun í hálsslagæðum hjá sjúklingum með BKH.

 


24   Greina má sykursýki 2 hjá sjúklingum með brátt kransæðaheilkenni áreiðanlega án sykurþolsprófs

Þórarinn Árni Bjarnason1,2, Linda Björk Kristinsdóttir1,2, Erna Sif Óskarsdóttir1,2, Steinar Orri Hafþórsson1,2, Sigrún Helga Lund,2, Ísleifur Ólafsson1,2,  Karl Andersen1,

1Landspítala, 2Háskóla Íslands

thorarinn21@gmail.com, andersen@landspitali.is

Inngangur: Sykursýki 2 (SS2) og forstig sykursýki eru áhættuþættir fyrir kransæðasjúkdómi. Í erlendum rannsóknum eru 29% sjúklinga með bráð kransæðaheilkenni (BKH) einnig með ógreinda SS2. Klínískar leiðbeiningar mæla með notkun sykurþolsprófs til að greina SS2 hjá sjúklingum með BKH. Markmið rannsóknarinnar var að finna áreiðanlegustu aðferðina til að greina SS2 og forstig sykursýki hjá sjúklingum með BKH.

Efniviður og aðferðar: Sjúklingar sem lagðir voru inn á hjartadeild Landspítala með BKH  og höfðu ekki áður verið greindir með SS2 var boðin þátttaka í rannsókninni. Sykurbúskapur var metinn með fastandi glúkósa í plasma (FGP), HbA1c og tveggja klukkustunda stöðluðu sykurþolsprófi (2hPG). Mælingar voru framkvæmdar í sjúkrahúslegu og endurteknar þremur mánuðum seinna. Til að greina SS2 þurftu að minnsta kosti tvær mælingar ofan við viðmiðunargildi fyrir SS2 samkvæmt leiðbeiningum ADA og WHO.

Niðurstöður: Alls tóku 250 sjúklingar með BKH án fyrri sögu um SS2 þátt í rannsókninni. SS2 var greind hjá 7,2% þátttakenda. Næmi til að greina SS2 var 33,3%, 61,1% og 77,8% hjá HbA1c, FPG og 2hPG í legu. Þremur mánuðum seinna voru samsvarandi gildi 27,8%, 61.1% og 72,2%. Jákvætt forspárgildi (PPV) til að greina SS2 var 100%, 91,7% og 51,9% hjá HbA1c, FPG og 2hPG í legu. Samsvarandi gildi þremur mánuðum seinna voru 71.4%, 91.7% og 65%. Sértæki og neikvætt forspárgildi voru há fyrir allar aðferðir. Þegar allar sex mælingar voru teknar saman var næmi 100% og PPV 44,2%. Ef HbA1c og FPG-mælingar í legu og þremur mánuðum seinna eru teknar saman var næmi 88,9% og PPV 80%.

Ályktun: Algengi ógreindrar SS2 hjá sjúklingum með BKH er lægri á Íslandi samanborið við erlendar rannsóknir. Með endurteknum mælingum á HbA1c og FPG er áreiðanlega hægt að greina SS2 hjá sjúklingum með BKH án sykurþolsprófs.

 

 

25   Bráður nýrnaskaði í kjölfar kviðarholsaðgerða: algengi, áhættuþættir og horfur

Þórir E. Long1,2, Daði Helgason1,2, Sólveig Helgadóttir3, Runólfur Pálsson1,2,4,Tómas Guðbjartsson1,5, Gísli H. Sigurðsson1,3, Ólafur S. Indriðason2,4, Martin I. Sigurðsson6

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2lyflækningasviði, 3svæfinga- og gjörgæsludeild, 4nýrnalækningaeiningu, 5skurðlækningasviði Landspítala, 6Department of Anesthesia, Perioperative and Pain Medicine, Brigham and Women's Hospital/Harvard Medical School, Boston

thorirein@gmail.com

Inngangur: Við könnuðum algengi, áhættuþætti og dánartíðni vegna bráðs nýrnaskaða (BNS) í kjölfar kviðarholsaðgerða á Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Allir einstaklingar sem gengust undir kviðarholsaðgerð, opna eða með aðstoð kviðsjár, (þvagfæra- og æðaaðgerðir undanskildar) á árunum 2007-2014 á Landspítala. Kreatínínmælingar sjúklinga fyrir og eftir aðgerð voru notaðar til að greina og stiga BNS samkvæmt KDIGO-skilmerkjunum. Áhættuþættir BNS voru metnir með fjölþátta aðhvarfsgreiningu og 30-daga dánartíðni borin saman við paraðan viðmiðunarhóp sem fundinn var með áhættuskori (propensity score).

Niðurstöður: Alls voru framkvæmdar 11.552 kviðarholsaðgerðir á 10.022 sjúklingum á rannsóknartímanum. Í 3902 tilfella (33,8%) voru kreatínínmælingar framkvæmdar bæði fyrir og eftir aðgerð og af þeim fengu 264 (6,8%) BNS; nánar tiltekið 172 (4,4%), 49 (1,3%) og 43 (1,1%) á KDIGO-stigum 1, 2 og 3. Algengi BNS meðal þeirra 3.902 einstaklinga þar sem kreatínínmælingar lágu fyrir var 67,7/1000 aðgerðir/ári (99%-öryggisbil (ÖB): 57,7-78,6). Líkur á BNS jukust með hærra hjartaáhættuskori (Revised Cardiac Risk Index) og ASA (American Society of Anesthesiology) áhættuflokkun. Í fjölþátta aðhvarfsgreiningu reyndust karlkyn (áhættuhlutfall (ÁH)=1,47, 99%-ÖB, 1,02-2,13), háþrýstingur (ÁH=1,75, 99%-ÖB: 1,10-2,74), undirliggjandi langvinnur nýrnasjúkdómur (ÁH=1,68, 99%-ÖB: 1,12-2,50), ASA flokkur IV (ÁH=9,48, 99%-ÖB: 3.66-29.2) eða V (ÁH=21,4, 99%-ÖB: 5,28-93,6) og enduraðgerð (ÁH=4,30, 99%-ÖB: 2,36-7,70). Sjúklingar með BNS höfðu hærri 30-daga dánartíðni (18,2%) samanborið við paraðan viðmiðunarhóp (5,3%, p<0,001).

Ályktanir: BNS er alvarlegur fylgikvilli kviðarholsaðgerða. Auk háþrýstings, enduraðgerðar og langvinns nýrnasjúkdóms virðist ASA flokkun vera sjálfstæður áhættuþáttur fyrir BNS eftir kviðarholsaðgerð. Sjúklingar með BNS hafa marktækt hærri 30-daga dánartíðni, jafnvel eftir að leiðrétt er fyrir öðrum sjúklinga- og aðgerðartengdum áhættuþáttum.

 

 

26   Langtímaárangur skurðaðgerða við sjálfsprottnu loftbrjósti á Íslandi 1991-2015

Tinna Harper Arnardóttir1, 2, Guðrún Fönn Tómasdóttir1, Arnar Geirsson1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

tinna.harper@gmail.com

Inngangur: Sjálfsprottið loftbrjóst getur greinst endurtekið og þarf þá oft að grípa til skurðaðgerðar.Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni og langtímaárangur þessara aðgerða hér á landi með áherslu á fylgikvilla og tíðni enduraðgerða vegna endurtekins loftbrjósts.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 362 sjúklingum (meðal-aldur 29,4 ár, 77,8% karlar) sem gengust undir 431 aðgerð við sjálfsprottnu loftbrjósti á Íslandi 1991-2015. Upplýsinga var aflað úr sjúkraskrám og m.a. skráð tegund aðgerðar, 30 daga dánartíðni og hvort greinst hefði endurtekið loftbrjóst sem krafðist enduraðgerðar. Meðaleftirlitstími var 153 mánuðir og miðast eftirlit við 1. mars 2016.

Niðurstöður: Að meðaltali voru framkvæmdar 17±6,3 aðgerðir á ári og sveiflaðist tíðnin frá 8 til 31 aðgerðar á ári. Meðalaðgerðartími var 60 mínútur og voru algengustu ábendingarnar annað (38,5%) og fyrsta loftbrjóst (30,3%). Í 99,1% tilfella var gerður fleygskurður, en í 56,9% tilfella var bætt við fleiðruertingu og hjá 13,1% hlutabrottnámi á brjóstholsfleiðru. Hlutfall aðgerða með brjóstholssjá (VATS) jókst úr 67% fyrstu 5 árin í 97% þau síðustu. Algengustu fylgikvillar eftir aðgerð voru viðvarandi loftleki (11,8%) og endurtekið loftbrjóst (9,0%). Enginn sjúklingur lést innan 30 daga frá aðgerð. Alls þurftu 27 einstaklingar enduraðgerð vegna loftbrjósts (6,3%), þar af einn með þekktan lungnasjúkdóm, og var tíðnin hærri eftir brjóstholsspeglun en eftir brjóstholsskurð (8,0% sbr. 3,4%, p<0,01). Tímalengd frá aðgerð að endurteknu loftbrjósti var að miðgildi 4 mánuðir (bil: 0-47).

Ályktanir: Árangur skurðaðgerða við sjálfsprottnu loftbrjósti er góður á Íslandi. Þó er endurtekið loftbrjóst vandamál, en líkt og erlendis er tíðni endurtekins loftbrjósts tvöfalt hærri eftir brjóstholsspeglun en opna skurðaðgerð.

 

 

27   Er kynjabundinn munur á afdrifum sjúklinga sem greinast með bráða ósæðarflysjun á Íslandi?

Inga Hlíf Melvinsdóttir1, Sigrún Helga Lund2, Bjarni A. Agnarsson3, Tómas Guðbjartsson4, Arnar Geirsson4

1Hjarta og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3rannsóknarstofu Háskóla Íslands í meinafræði, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

ingahlifm@gmail.com

Inngangur: Bráð ósæðarflysjun er lífshættulegur sjúkdómur þar sem skjót greining getur skipt sköpum varðandi lifun og tíðni alvarlegra fylgikvilla. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að tíðni fylgikvilla og 30 daga dánartíðni er hærri hjá konum en körlum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna kynjabundin afdrif þessara sjúklinga hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til allra sjúklinga sem greindir voru með bráða ósæðarflysjun á Íslandi 1992-2013. Upplýsingar um fyrra heilsufar, áhættuþætti og einkenni voru skráðar úr sjúkraskrám en einnig var farið yfir krufningaskýrslur sjúklinga sem ekki náðu lifandi á sjúkrahús. Aldursstaðlað nýgengi var reiknað út frá gögnum Hagstofu Íslands, lifun reiknuð með aðferð Kaplan-Meier og Cox-fjölbreytugreining notuð til að meta forspárþætti lifunar.

Niðurstöður: Af 153 sjúklingum voru konur 59 talsins (38,6%). Nýgengi ósæðarflysjunar hélst svipað fyrir bæði kyn á rannsóknartímabilinu (p=0,92). Konur voru 8 árum eldri en karlar (p<0,001) en ekki sást munur á kynjahlutfalli þeirra sem létust utan sjúkrahúss, náðu lifandi á sjúkrahús eða voru teknir til aðgerðar. Hins vegar voru martækt fleiri konur með meðvitundarskerðingu (p=0,03) við komu á sjúkrahús. Kvenkyn reyndist sjálfstæður forspárþáttur hærri dánartíðni innan 24 tíma og 30 daga. Konur höfðu einnig marktækt lakari 30 daga lifun en karlar (29 sbr. 28%, p=0,05) en dvöldu skemur á gjörgæslu (4,3 sbr. 7,6 dagar, p=0,05). Fimm ára lifun beggja kynja var hins vegar sambærileg, eða í kringum 39,6%.

Ályktanir: Konur hafa verri 30 daga lifun eftir bráða ósæðarflysjun en karlar, sem er í takt við erlendar rannsóknir. Langtímalifun beggja kynja er hins vegar sambærileg.

 

 

28   Mat á áhrifum mænuraförvunar á síspennu

Halla Kristín Guðfinnsdóttir3, José Lois Vargas Luna3, Vilborg Guðmundsdóttir2, Gígja Magnúsdóttir2, Guðbjörg Ludvigsdóttir2, Þórður Helgason1,3

1Vísindadeild Landspítala, 2Grensásdeild Landspítala, 3Háskólanum í Reykjavík

halla09@ru.is

Inngangur: Áverki á mænu hefur áhrif á og getur breytt taugarásum og tauganetum í mænunni. Síspenna eða ósjálfráður vöðvasamdráttur (spasmi), er algengur fylgikvilli mænuskaða sem getur dregið verulega úr lífsgæðum. Markmið rannsóknarinnar er að meta áhrif raförvunar með yfirborðsrafskautum á taugarætur í neðsta hluta mænunnar og meta hvort það geti dregið úr síspennu í fótleggjum eftir mænuskaða. Til að meta áhrifin voru mismunandi matstæki notuð sem meta ólík form síspennu.

Aðferðir: Þátttakendur rannsóknarinnar voru 8, 5 karlar og 3 konur á aldrinum 31-63 ára (M = 49,9; SD = 11,5). Mat á áhrifum mænuraförvunarinnar var gerð með raflífeðlisfræðilegum og klínískum athugunum ásamt athugun á hreyfigetu. Rannsókninni var skipt upp í fjóra áfanga, einn meðferðar- og þrjá prófunaráfanga. Fyrst var prófun, áfangi 1, fyrir viðmiðunar gögn, síðan var raförvunarmeðferð í 30 mínútur, þá prófunaráfangi 2 strax að lokinni meðferð og loks þriðji prófunaráfanginn tveimur tímum eftir meðferðina. Prófunaráfangarnir samanstanda af Ashworth-skölun (klínískt mat á síspennu), mat á skjálfta eða krampakippum í fótum (clonus), 10-metra göngupróf ef hægt, raflífeðlisfræðilegum athugunum með upptöku vöðvarafrits og Wartenberg-sveifluprófi. Áhrif meðferðarinnar á síspennu var svo metin með því að bera saman niðurstöður úr prófunum. Niðurstöður úr prófunum þremur ákvarða hvort áhrifin vari í tvo tíma að lokinni raförvun.

Niðurstöður: Niðurstöður úr sveifluprófinu sýndu minnkun á síspennu hjá fjórum einstaklingum eftir meðferðina. Hjá hinum einstaklingunum voru meðalgildin úr sveifluprófinu í fyrsta prófunar áfanganum ≥1 sem lýsir ástandi án síspennu. Engu að síður var marktækur munur á samræmdri vöðvavirkni allra vöðvahópa á milli prófana fyrir og eftir raförvun hjá öllum þátttakendum sem bendir til lækkunar síspennu. Niðurstöðurnar sýndu einnig bætta hreyfigetu og betri stjórn.

Ályktun: Af niðurstöðunum getum við dregið þá ályktun að notkun þessarar aðferðar, mænuraförvun með yfirborðsrafskautum með lágum styrk, 50 Hz, í 30 mínútur dregur úr síspennu bæði hjá einstaklingum með alskaða og hlutskaða á mænu. Hjá þátttakendum með hlutskaða sýndum við fram á færnibætandi áhrif með betri viljastýrðri stjórn á hreyfingum vegna minni síspennu.

 

 

29   Mæling úthljóðsrafhrifsmerkis: Tilraunauppsetning

Kristín Inga Gunnlaugsdóttir1,2,3, Þórður Helgason1,2

1Vísindadeild Landspítala, 2Háskólanum í Reykjavík,3 Háskólanum í Lübeck

kristin.gunnlaugsdottir@gmail.com

Inngangur: Með beinni raförvun vöðvaþráða aftaugaðra vöðva má stöðva, snúa við rýrnun þeirra og ná upp bæði fyrra rúmmáli og að miklu leyti styrk þeirra. Hins vegar er skortur á aðferðum til að fylgjast með þessari meðferð og tryggja að hún nái til alls vöðvans, þ.e. allra þráða hans. Sneiðmyndir (CT, MRI o.fl.) eru of dýrar og tímafrekar. Í fyrirliggjandi verkefni stingum við uppá nýrri aðferð við að vakta raförvunarmeðferð vöðva.  Byggir hún á hljóðrafhrifum. Kenning okkar er að fylgjast megi með raförvun aftaugaðra vöðva án íhlutunar í rauntíma. Úthljóðsbylgja er send inn í vöðvann, og breytir hún leiðni hans staðbundið. Ef rafstraumur er fyrir mælist breyting á spennu sem samsvarar hljóðrafhrifunum. Hrifin ættu að vera auðþekkjanleg, þar sem tíðni þeirra mótast af úthljóðinu og er ólík tíðni annarra rafmerkja líkamans. Úthljóðsbylgjur má beina í brennipunkt, með brennipunkti bylgjunnar má fara yfir vöðva og þar með kortleggja rafstraumdreifingu í honum. Þetta kallast úthljóðsstraumlindarmyndgerð. Meginmarkmið verkefnisins er að sýna fram á að við getum mælt veikt merki úthljóðsrafhrifa með búnaði sem við höfum hannað.

Efniviður og aðferðir: Mæliaðstaða fyrir mælingar á hljóðrafhrifum var þróuð. Úthljóðsgjafi sendir bylgju í saltlausn, sem er ætlað að líkja eftir innra umhverfi líkamans. Þar til gerður nemi var smíðaður sem myndar einsleitt rafsvið og nemur spennuna sem myndast. Gert var Faraday búr til að útiloka rafsegultruflanir. Auk þess var suðlítill magnari með bandhleypi síu frá 25o KHz til 2 MHz og litlu suði útbúinn, því merkið er afar veikt. Ennfremur var færslubúnaður keyptur og sérstakt gataspjald smíðað til að gerta staðsett og hreyft straum- og mæliskaut með mikilli nákvæmni. Mælibúnaður var prófaður og úthljóðs- og straumsvið mæld kerfisbundið þvert á svið úthljóðsgafans. Þá voru bæði svokölluð Debye áhrif mæld, spenna sem myndast í jónalausn þótt enginn straumur fari um hana, og sjálft úthljóðsrafhrifsmerkið þegar jafnstraumur er settur á straumflæðirafskautin. Mælingarnar voru síðan bornar saman við gildi reiknuð út frá straumþéttni og viðnámsgildum lausnarinnar. Debye áhrifin voru einnig mæld fyrir mismunandi horn milli stefnu úthljóðsbylgju og línu milli upptökuskauta.

Niðurstöður: Niðurstaða er að Debye hrifin mælast með útslag uppá 44.36 µV. Úthljóðsrafhrifsmerkið mældist með útslag uppá 42.3 µV við 9 mA straum á straumflæðiskautum og 32,4 með sama straumstyrk en stefnu í hina áttina. Niðurstöðurnar samsvara reiknuðum gildum. 

Ályktun: Niðurstöður mælinganna sýna að þessi mæliaðstaða uppfyllir kröfur til að mæla Debye hrif og úthljóðsrafhrif með nægjanlegri nákvæmni til að gera tilraunir með úthljóðsrafhrif í ísótónískri saltlausn og þar með er von til að sömu stærðir megi mæla í stórum vöðvum líkamans, sérstaklega lærvöðvum. 

 

 

30   Stigun lungnakrabbameins með miðmætisspeglun á Íslandi 2003-2012

Jónína Ingólfsdóttir1, Þóra Sif Ólafsdóttir1, Hrönn Harðardóttir2,3, Steinn Jónsson2,3, Tómas Guðbjartsson1,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2lungnadeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

jonina.ingolfsdottir@gmail.com

Inngangur: Miðmætisspeglun er talin kjörrannsókn til að meta útbreiðslu lungnakrabbameins í eitla efra og fremra miðmætis, enda þótt rannóknaraðferðir eins og jáeindaskönnun og berkju-/vélindaómspeglun hafi fækkað þessum aðgerðum undanfarin ár. Markmið rannsóknarinnar var að kanna árangur miðmætisspeglunar á Íslandi og meta neikvætt forspárgildi við greiningu miðmætiseitilmeinvarpa lungnakrabbameins.

Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar (n=125, meðalaldur 66 ár, 49% karlar) með lungnakrabbamein sem ekki var af smáfrumugerð sem gengust undir miðmætisspeglun á Landspítala 2003-2012. Farið var yfir sjúkraskrár, reiknað út 30 daga dánarhlutfall og farið yfir vefjasvör. Neikvætt forspárgildi miðmætisspeglunar var reiknað hjá 66 sjúklingum sem í kjölfarið gengust undir brjóstholsskurðaðgerð með lækningu að markmiði.

Niðurstöður: Miðmætisspeglunum fjölgaði úr tveimur árið 2003 í 24 árið 2012 (p<0,001). Meðal aðgerðartími var 31 mínúta og 64% sjúklinga útskrifuðust innan sólarhrings frá aðgerð. Að meðaltali voru tekin sýni úr 2,9 miðmætiseitlum (bil: 1-5). Hjá 42 sjúklingum (34%) fundust meinvörp í að minnsta kosti einum eitli, en hjá hinum eitilvefur eða ósérhæfðar vefjabreytingar. Í þremur tilfellum (2%) fékkst ekki vefjasýni úr eitlum. Alls fengu 5% sjúklinga einhvern fylgikvilla í eða eftir aðgerð og voru þeir helstu hæsi (2,4%), skurðsýking (0,8%) og lungnabólga (0,8%). Neikvætt forspárgildi miðmætisspeglana reyndist 91,9%, en 5/66 sjúklingar reyndust hafa meinvörp í miðmætiseitlum (N2-eitlastöð) við aðgerð sem ekki höfðu greinst við miðmætisspeglun. Enginn sjúklingur lést innan 30 daga frá aðgerð.

Ályktanir: Árangur miðmætisspeglana er mjög góður hérlendis sem endurspeglast í lágri tíðni fylgikvilla og 0% 30 daga dánartíðni. Neikvætt forspárgildi er í samræmi við erlendar rannsóknir.31   Horfur sjúklinga sem gangast undir skurðaðgerð vegna lungnakrabbameins hafa batnað á Íslandi

Hannes Halldórsson1, Ástríður Pétursdóttir1, Björn Már Friðriksson1, Guðrún Nína Óskarsdóttir2, Steinn Jónsson1,3, Magnús Karl Magnússon1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3lungnadeild Landspítala

hannes29@gmail.com

Inngangur: Markmið þessarar rannsóknar var að skoða árangur skurðaðgerða við lungnakrabbameini hjá heilli þjóð á 24 ára tímabili með sérstaka áherslu á lifun.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem gengust undir aðgerð á lungnakrabbameini á Íslandi 1991-2014. Lífshorfur voru reiknaðar með aðferð Kaplan-Meier og fjölbreytugreining Cox var notuð til að ákvarða forspárþætti lifunar og hvort lifun hefði breyst á fjögurra ára tímabilum. Útreikningar á lifun miðuðust við 31. desember 2014 og var meðaleftirfylgni 31 mánuður.

Niðurstöður: Alls voru gerðar 693 aðgerðir á 655 einstaklingum; 523 blaðnám (76%), 84 lungnabrottnám (12%) og 86 fleyg- eða geiraskurðir (12%). Kirtilfrumukrabbamein (59%) og flöguþekjukrabbamein (28%) voru algengustu vefjagerðirnar. Hlutfall sjúklinga á stigi I og II jókst úr 74% í 87% frá fyrsta til síðasta tímabils (p=0,01) en hlutfall tilviljanagreininga (33%) hélst óbreytt (p=0,80). Eins árs lifun jókst úr 69% 1991-1994 í 92% 2011-2014 og þriggja ára lifun úr 44% 1991-1994 í 73% 2011-2014 (p<0.001). Sjálfstæðir forspárþættir verri lifunar voru hærra stig (ÁH=1,39), aldur (ÁH=1,03) og saga um kransæðasjúkdóm (ÁH=1,25). Aðgerð á síðari hluta tímabilsins (2003-2014) hafði betri horfur og var ávinningurinn mestur á tímabilinu 2011-2014 (ÁH=0,48, 95%-ÕB: 0,30-0,76; p=0,0016), jafnvel þótt leiðrétt væri fyrir þáttum eins og stigun og hækkandi aldri.

Ályktanir: Horfur sjúklinga sem gangast undir skurðaðgerð vegna lungnakrabbameins hér á landi hafa batnað á síðustu árum. Þessi þróun er ekki vegna hærra hlutfalls sjúklinga með staðbundinn sjúkdóm, heldur er líklegra að bætt stigun fyrir aðgerð (miðmætisspeglun, berkjuómspeglun, jáeindaskanni) og viðbótarmeðferð með krabbameinslyfjum skýri bættar horfur.

 

 

32   Nýgengi krabbalíkisæxla í lungum hefur aukist þrefalt á síðustu áratugum

Ástríður Pétursdóttir1, Björn Már Friðriksson1, Jóhanna M. Sigurðardóttir2, Helgi J. Ísaksson3, Steinn Jónsson4, Tómas Guðbjartsson5

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2skurðdeild Västerås-sjúkrahússins, Västerås, Svíþjóð, 3rannsóknarstofu Landspítala í meinafræði, 4lungnadeild,5hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

astridurp@gmail.com

Inngangur: Krabbalíkisæxli (carcinoids) í lungum eru sjaldgæf tegund æxla sem oftast eru bundin við lungu en geta meinvarpast. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna nýgengi og árangur meðferðar þessara æxla í vel skilgreindu þýði á 60 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum krabbalíkisæxlum í lungum á Íslandi 1955-2015. Vefjasýni voru endurskoðuð og æxlin stiguð skv. 7. útgáfu TNM-stigakerfisins. Lífshorfur voru reiknaðar með aðferð Kaplan-Meier og var meðaleftirfylgd 15,3 ár.

Niðurstöður: 96 sjúklingar (meðalaldur 54 ár, bil:16-86) greindust á tímabilinu, þar af 65 konur. Árlegt aldursstaðlað nýgengi jókst úr 0,18/100.000 tímabilið 1955-1964 í 0,75 2005-2015. Þriðjungur sjúklinga greindist án einkenna síðari þrjá áratugina en 17% þá fyrri (p<0,01). Hinir höfðu flestir hósta eða brjóstverki og þrír krabbalíkisheilkenni. Meðalstærð æxlanna var 2,6 cm (bil:0,4-7,0) og 74 (84%) sjúklingar höfðu dæmigerða (typical) vefjagerð en 14 (16%) ódæmigerða. Átta sjúklingar fóru ekki í aðgerð og voru fjórir með útbreiddan sjúkdóm (stig IV), þar af tveir með dæmigerða vefjagerð. Hinir 80 sjúklingarnir gengust undir skurðaðgerð, oftast blaðnám(81%), lést enginn þeirra innan 30 daga frá aðgerð. Af skurðsjúklingum greindust 52 (65%) á stigi IA, 15 (19%) á stigi IB, 9 (11%) á stigi IIA. Þrír (4%) höfðu meinvörp í miðmætiseitlum (stig IIIA), allir með dæmigerða vefjagerð. Við eftirlit höfðu 5 sjúklingar (6%) látist úr sjúkdómnum. Fimm ára lífshorfur alls hópsins voru 87% og 92% fyrir sjúklinga með dæmigerða vefjagerð.

Ályktanir: Nýgengi krabbalíkisæxla í lungum hefur aukist rúmlega þrefalt á Íslandi síðustu 6 áratugina, aðallega vegna aukningar í tilviljanagreiningum. Sjúklingar með dæmigerða vefjagerð geta greinst með útbreiddan sjúkdóm en langflestir hafa sjúkdóm bundinn við lungað og lífshorfur þeirra eru mjög góðar.

 

 

33   Dánartíðni eftir alvarlega æðaáverka á Íslandi 2000-2011 - fyrstu niðurstöður

Bergrós K. Jóhannesdóttir1, Tómas Guðbjartsson1,2, Brynjólfur Mogensen1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3bráðasviði Landspítala

bergroskj@gmail.com

Inngangur: Áverkar eftir slys og ofbeldi eru algeng dánarorsök, ekki síst eftir áverka á stóræðar. Markmið rannsóknarinnar var að skoða í fyrsta skipti hjá heilli þjóð einstaklinga sem komust lifandi á sjúkrahús og þá sem létust vegna æðaáverka fyrir komu.

Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar með alvarlega stóræðaáverka á Íslandi 2000-2011. Leitað var í rafrænum gagnagrunnum stærri sjúkrahúsa og farið yfir krufningaskýrslur. Skráð var tegund áverka, meðferð, legutími, magn blóðhlutagjafa, afdrif og reiknað ISS-áverkaskor. Bornir voru saman einstaklingar sem náðu lifandi á sjúkrahús og þeir sem létust áður.

Niðurstöður: Alls hlutu 100 einstaklingar 154 æðaáverka; í 79 tilfellum eftir slys, 14 voru sjálfskaðar og 7 morðtilraunir/morð. Alls létust 64 fyrir innlögn en 36 náðu lifandi á sjúkrahús. Ekki var munur á meðalaldri (43 ár) eða hlutfalli karla (82%) í hópunum tveimur. Sljóir áverkar voru algengari hjá þeim sem létust fyrir innlögn (89% sbr. 72%, p=0,032). Æðaáverkar í brjóstholi voru 2/3 af áverkum þeirra sem létust en tæplega 1/3 áverka þeirra sem náðu lifandi á sjúkrahús. Meðallegutími var 28 dagar, en 37 sbr. 5 dagar hjá sjúklingum með sljóa og ífarandi áverka (p=0,004). ISS-áverkaskor síðarnefndu sjúklinganna var einnig hærra (34 sbr. 15, p=0,007). Opin aðgerð var gerð á 28 sjúklingum en 5 fengu stoðnet í æðaþræðingu.

Ályktanir: Alvarlegustu stóræðaáverkar eru á brjóstholshluta ósæðar og langoftast vegna sljórra áverka. Tveir af hverjum þremur sjúklingum ná ekki lifandi á sjúkrahús. Rúmlega fimmtungur lifir ekki af meðferð á sjúkrahúsi, sem oftast felst í opinni skurðaðgerð eða ísetningu stoðnets í æðaþræðingu.34   Endurinnlagnir eftir skurðaðgerðir vegna lungnakrabbameins - frumniðurstöður

Björn Friðriksson1, Guðrún N. Óskarsdóttir2, Hannes Halldórsson1, Hrönn Harðardóttir1,3, Arnar Geirsson2, Steinn Jónsson1,3, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3lungnadeild Landspítala

bmf3@hi.is

Inngangur: Bráðar endurinnlagnir eftir skurðaðgerðir vegna lungnakrabbameins hafa ekki verið rannsakaðar áður hér á landi. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða endurinnlagnir, forspárþætti þeirra og dánartíðni þessa sjúklingahóps.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem gengust undir aðgerð vegna lungnakrabbameins á Íslandi á árunum 1991-2014. Endurinnlögn var skilgreind sem bráðainnlögn á sjúkrahús innan 90 daga frá útskriftardegi. Lógistísk aðhvarfsgreining var notuð til að meta forspárþætti innlagnar innan 30 og 90 daga en einnig dánartíðni innan 90 daga og 6 mánaða.

Niðurstöður: Á ofangreindu tímabili fór 641 einstaklingur í 670 aðgerðir og útskrifaðist af spítalanum í kjölfarið; 570 fóru í blaðnám, 81 í lungnabrottnám og 82 í fleyg/geiraskurð. Tíðni endurinnlagna eftir 30 og 90 daga var 9,7% og 16,4%. Flestar endurinnlagnir (59%) voru innan 30 daga frá útskrift, og voru oftast vegna fylgikvilla tengdum aðgerðinni (63%). Áhættuþættir endurinnlagnar innan 30 daga voru saga um lungnateppu (HL 1,98, 95%-ÕB: 1,09-3,55) og minniháttar fylgikvilli í legu (HL 3,3, 95%-ÕB:1,9-6,1). Stig lungnakrabbameins (HL 1,43, 95%-ÕB: 1,22-1,70), meiriháttar fylgikvilli í legu (HL 5,40, 95%-ÕB:2,11-13,26), endurinnlögn innan 30 daga (HL 3,66, 95%-ÕB: 1,71-7,53) og ASA-skor (HL 1,66, 95%-ÕB: 1,03 - 2,70) voru sjálfstæðir forspárþættir dauða innan 6 mánaða.

Ályktanir: Endurinnlagnir eru algengar eftir skurðaðgerðir vegna lungnakrabbameins, eða 10% á fyrsta mánuði eftir aðgerð. Flestar endurinnlagnir má rekja til fylgikvilla eftir aðgerð sem oft tengjast undirliggjandi lungna- eða hjartasjúkdómum. Aukið eftirlit að útskrift lokinni gæti fækkað endurinnlögnum hjá þessum sjúklingahópi.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica