Ávarp
Fólksfjölgun, hærri meðalaldur og aukning í ferðamannafjölda eru allt þættir sem geta haft áhrif á álag í heilbrigðisþjónustu og þar með bráðaþjónustu. Fleiri komur fjölveikra á bráðamóttökur og flóknari vandamál kalla á þverfaglegar og sérhæfðar úrlausnir sem þó þurfa að vera hagkvæmar og öruggar fyrir sjúklinga og samfélagið. Heilbrigðisþjónusta er þess eðlis að hún er í stöðugri mótun og framþróun í takt við nýja tækni og meðferðir en einnig þarf að taka mið af samfélagsbreytingum. Oft verða breytingar bráðar og kalla á skjót viðbrögð en hins vegar má sjá aðrar breytingar fyrir og sýna fyrirhyggju. Til að þróa og áætla bráðaheilbrigðisþjónustu í framtíðinni má byggja á fortíðinni við að greina þarfir og gera áætlanir.
Þema Bráðadagsins 2016 var valið sérstaklega með slíka framtíðarsýn í huga. Hvernig má sem best hanna og þróa þjónustu við bráðveika í framtíðinni? Þar sem framtíðin kemur strax á morgun þarf að hafa í huga þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu en einnig hvernig aðstæður verða á hinu nýja sjúkrahúsi sem heilbrigðisstarfsfólk og sjúklingar horfa til með eftirvæntingu. Með nýjustu rannsóknum og gagnreyndum þjónustumöguleikum sem kynnt verða á Bráðadeginum 2016 má leggja grunn að þróun viðeigandi bráðaþjónustu á Íslandi til framtíðar.
Bráðadagurinn hefur öðlast sess sem þverfagleg ráðstefna í bráðafræðum, eins og fjölmörg áhugaverð innsend ágrip bera vott um. Ráðstefnurit Bráðadagsins er orðið ómissandi og mikilvæg heimild í bráðafræðum. Í ár voru þverfaglegar nálganir að viðfangsefnum bráðaþjónustu sérstaklega áberandi og rannsóknir og verkefni kynnt bæði með erindum og veggspjöldum. Í þessu riti eru birt 21 ritrýnt ágrip sem endurspeglar nýjustu þekkingu og þróun í bráðaþjónustu á Íslandi á 21. öldinni.
Von okkar er að efni þessa blaðs efli áhuga og hvetji til enn frekari rannsókna í bráðafræðum á Íslandi.
Við færum höfundum ágripa, gestafyrirlesurum, styrktaraðilum, fundarstjórum og starfsfólki flæðisviðs bestu þakkir fyrir þeirra framlag til Bráðadagsins 2016.
Fyrir hönd undirbúningsnefndar,