Ágrip veggspjalda

Ágrip veggspjalda

V-1          PROMPT: Practical Obstetric Multi-Professional Training

Halla Ósk Halldórsdóttir1

1Fæðingarvakt Landspítala

hallaosk@landspitali.is

Bakgrunnur: PROMPT-námskeið eru afrakstur áralangrar þróunarvinnu og rannsókna í Bretlandi við þjálfun starfsfólks í bráðatilvikum sem upp geta komið í meðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Vorið 2013 voru tvær ljósmæður og tveir sérfræðilæknar sendir á PROMPT-leiðbeinendanámskeið í Bretlandi og í kjölfarið voru settir upp PROMPT-bráðadagar á kvennadeild Landspítalans. Ætlast er til að allir sem koma að meðgöngu, fæðingu og/eða sængurlegu á Landspítala taki þátt í einum PROMPT-bráðadegi á ári. Til undirbúnings fyrir daginn fá þátttakendur að láni bók til lestrar og upplýsingahefti með staðbundnum upplýsingum til eignar.

Markmið: Markmið bráðadaganna er að æfa rétt viðbrögð við bráðatilfellum sem upp geta komið ásamt því að æfa teymisvinnu þeirra sem koma að tilfellunum.

Aðferð: PROMPT-bráðadegi er skipt í tvennt, fyrir hádegi eru fyrirlestrar og eftir hádegi verklegar bráðaæfingar. Þátttakendum er skipt í þverfagleg teymi sem vinna saman allan daginn. Rannsóknir hafa sýnt að þjálfun á þeim stað sem tilfellin geta komið upp skilar mun betri árangri og því eru æfingarnar haldnar á kvennadeildinni. Notaðir eru raunverulegir leikmunir og leikarar í hlutverki skjólstæðinga þar sem það á við.

Niðurstöður: Breskar rannsóknir hafa sýnt fram á að þekking og verkleg geta starfsfólks batnar til muna með PROMPT-þjálfun sem og samskipti þeirra. Til þess að bráðadagarnir skili sem bestum árangri er 100% mæting starfsfólks mikilvæg.

Ályktanir: Núna erum við að hefja fjórða PROMPT-árið, búið er að skipuleggja 5 bráðadaga á þessu ári. Góð mæting hefur verið á þessa daga undanfarin ár. Í tengslum við bráðadagana höfum við bætt verkferla og verklagsreglur eftir ábendingum þátttakenda. Í lok hvers bráðadags fylla þátttakendur út matsblað og geta þar komið fram með nafnlausa gagnrýni, nær undantekningalaust virðast þátttakendur ánægðir með daginn.

 

V-2          Innleiðing nýs skráningarkerfis við móttöku
slasaðra á bráðamóttöku Landspítala

Auður Elva Vignisdóttir1,2,3, Davíð Björn Þórisson3,4, Jón Magnús Kristjánsson3

1Rannsóknastofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, 2læknadeild HÍ, 3bráðamóttöku, flæðisviði, 4heilbrigðis- og upplýsingatæknideild Landspítala

audurev@landspitali.is

Bakgrunnur: Landspítali er stærsta sjúkrahús Íslands og tekur á móti flestum þeim sjúklingum af landinu öllu sem slasast alvarlega. Móttaka þessa sjúklinga fer fram samkvæmt fyrirfram skipulögðu verklagi af teymi lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og annarra starfsmanna Landspítalans.

Markmið: Tilgangur verkefnisins er að innleiða nýtt skráningarkerfi við móttöku slasaðra einstaklinga. Stefnt er að rafrænni skráningu í rauntíma sem gerð er samhliða skoðun og meðferð sjúklings. Skráningu verður varpað á sérstakan skjá á bráðaherbergi Landspítala. Vonast er til þess að bætt skráning við móttöku slasaðra muni straumlínulaga meðferðarferlið, flýta uppvinnslu sjúklinga og meðferð og auka þannig öryggi mikið slasaðra sjúklinga sem koma á spítalann og tryggja að verklagi við móttöku þeirra sé fylgt.

Aðferðir: Sníða þarf forrit/skjal í Heilsugátt þar sem hægt er að skrá lífsmörk sjúklings, skrá hvaða hluta skoðunar sé búið að framkvæma og niðurstöður þeirra. Þeir hlutar skoðunar sem eru ókláraðir munu birtast neðst á skjánum (mynd 1). Eins munu í kerfinu vera skráðar þær lyfjagjafir sem sjúklingur hefur fengið, vökvar, blóðgjafir, íhlutir og aðrir þættir meðferðar. Til þessa verkefnis þarf aðstoð einstaklings með forritunarþekkingu. Forritið/skjalið þarf að vera aðgengilegt á öllum tölvum Landspítala í gegnum Heilsugátt. Auk þess þarf nýjan skjá á vegg bráðaherbergisins þar sem má lesa upplýsingar úr skjalinu. Reynt verður að hanna skjalið svo viðhalda megi rauntímaskráningu í spjaldtölvu á meðan sjúklingur flyst í frekari rannsóknir.

Niðurstöður: Myndrænt útlit á fyrirhuguðum breytingum í skráningu sjást á meðfylgjandi mynd. Þar munu efst koma fram almennar upplýsingar um sjúkling, aldur og kyn, ásamt lýsingu á slysinu og hvar grunur sé um að sjúklingurinn hafi hlotið áverka. Neðar munu standa niðurstöður skoðunar og á hægri hluta skjásins koma fram upplýsingar um inngrip og lyf. Neðst sjást reitir sem á eftir að skrá upplýsingar um og tilgangur þeirra er að minna á þá hluta skoðunar og skráningar. Áætlað er að innleiðing hefjist í kringum september 2016.

Ályktanir: Gert er ráð fyrir að þetta verði hluti af uppbyggingu á fjöláverkaskrá (Trauma Registry), skráningarkerfi fyrir slasaða einstaklinga sem koma á Landspítala. Síðar er gert ráð fyrir það kerfi sameini skráningar frá öðrum deildum og kerfum, utan spítala og á legudeildum, gjörgæsludeildum og endurhæfingardeildum spítalans. Slíkt skráningarkerfi leggur grunn að viðamiklu safni gagna sem má nota til frekari rannsókna og umbóta við meðferð slasaðra sem koma á Landspítala.



V-3          Móttaka einstaklinga með sjálfsvígshugsanir á bráðamóttöku Landspítala

Hrönn Stefánsdóttir1, Hulda Hrönn Björgúlfsdóttir1, Anna María Þórðardóttir2, Kristín Rósa Ármannsdóttir1

1Bráðamóttöku, 2gæðadeild Landspítala

hronnste@lsh.is

Bakgrunnur: Vorið 2014 voru innleiddar nýjar verklagsreglur varðandi móttöku einstaklinga með sjálfsvígshugsarnir og/eða eftir sjálfsvígstilraunir á bráðamóttöku Landspítala. Á árunum 2005 til 2009 var heildarfjöldi sjálfsvíga á Íslandi á bilinu 31 til 37 á ári. Flest sjálfsvíg verða meðal einstaklinga á aldrinum 30-59 ára samkvæmt Embætti landlæknis.

Markmið: Að bæta móttöku og öryggi sjúklinga með andlega vanlíðan. Bráðamóttaka geðsviðs Landspítala er opinn frá 12-19 á virkum dögum og 13-17 um helgar. Komur einstaklinga með sjálfsvígshugsanir og/eða eftir sjálfsvígstilraun koma í flestum tilfellum á bráðamóttöku Landspítala utan þess tíma.

Aðferðir: Við gerð verklagsreglna var stuðst við klínískar leiðbeiningar um viðbrögð á Landspítala með yfirskriftinni: „Sjúklingar hættulegir sjálfum sér eða öðrum“, auk gagnreyndrar þekkingar erlendis frá. Yfirsetu- og eftirlitsblað var hannað með upplýsingum um verklag sem og gátlisti sem starfsmenn bráðamóttöku gætu notað við yfirsetu. Einnig voru skýr fyrirmæli útbúin fyrir nauðungarvistun og fjötrun. Enn fremur voru útbúnar leiðbeiningar fyrir mat hjúkrunarfræðinga á sjálfsvígshættu í forgangsröðun sjúklinga sem og við fyrsta mat hjúkrunarfræðinga á meðferðarsvæði.

Niðurstöður: Verklagsreglurnar voru innleiddar í maí 2014 og almenn ánægja hefur verið með tilkomu verklagsins frá öllum starfsstéttum. Þykir verklagið þægilegt í notkun og góður leiðarvísir við móttöku einstaklinga með sjálfsvígshugsarnir og/eða eftir sjálfsvígstilraunir.

Ályktanir: Með vel skilgreindum verklagsreglum má bæta gæði þjónustu til einstaklinga sem leita til bráðadeildar með sjálfsvígshugsanir og/eða eftir sjálfvígstilraunir. Einnig eru verklagsreglur góður leiðarvísir fyrir starfsfólk bráðamóttöku til að sinna slíkum einstaklingum. Þetta getur leitt til bætts öryggis í þjónustu sem og aukinnar starfsánægju starfsmanna á bráðamóttöku Landspítala.

 

V-4          Þjálfun starfsfólks í móttöku barna með bráð lífshættuleg veikindi

Karítas Gunnarsdóttir1

1Bráðamóttöku barna Landspítala

karitasg@landspitali.is

Bakgrunnur: Rannsóknir benda til að þekking og færni heilbrigðisstarfsfólks í sérhæfðri endurlífgun sé ekki fullnægjandi. Í nýjustu leiðbeiningum Evrópska endurlífgunarráðsins er aukin áherslu á vægi þjálfunar svo bæta megi lifun bráðveikra sjúklinga. Rannsóknir benda til að herminám í starfsumhverfi sé gagnleg kennsluaðferð til að viðhalda þekkingu og færni heilbrigðisstarfsfólks í sérhæfðri endurlífgun, dragi úr atvikum sem ógna öryggi sjúklinga og bæti horfur barna eftir hjartastopp.

Markmið: Að þjálfa starfsfólk í móttöku barna með bráð lífshættuleg veikindi.

Aðferð: Þjálfun var í formi hermináms og fór fram á bráðamóttöku barna þar sem móttaka bráðveikra barna fer að öllu jöfnu fram. Þátttakendur í hverjum hóp voru 4-7. Tekin voru fyrir þrjú ólík tilfelli. Leiðbeinandi leiddi umræður eftir hvert tilfelli, þar sem þátttakendur fóru í gegnum tilfellið skref fyrir skref í þeim tilgangi að koma auga á það sem vel var gert og það sem betur mætti fara. Námsefnið var unnið út frá leiðbeiningum Evrópska endurlífgunarráðsins og heimfært að aðstæðum sem unnið er við á bráðamóttöku barna. Námsmarkmið voru að bæta þekkingu starfsfólks á; a) verkferlum endurlífgunar, b) endurlífgun ungbarna/barna/unglinga, c) bráðabúnaði deildarinnar, d) bráðalyfjum og e) hlutverkaskiptingu, samskiptum og teymisvinnu í endurlífgun. Athuguð var þekking hjúkrunarfræðinga fyrir og eftir þjálfun með prófi. Matslistar á því hversu öruggir hjúkrunarfræðingar væru með framkvæmd tiltekinna verkþátta voru lagðir fyrir og eftir þjálfun. Starfsfólk lagði mat á gagnsemi þjálfuninnar.

Niðurstöður: Alls tóku 17 hjúkrunarfræðingar og 5 sjúkraliðar þátt í hermináminu. Þekking hjúkrunarfræðinga á bráðum veikindum barna var marktækt betri eftir þjálfun, en meðaleinkunn á prófi jókst úr 6,9 í 7,9. Mat hjúkrunarfræðinga á eigin öryggi við framkvæmd 14 verkþátta af 16 jókst marktækt eftir þjálfunina. Allir þátttakendur töldu að herminámið myndi gagnast í starfi og höfðu áhuga á áframhaldandi þjálfun.

Ályktanir: Herminámið var gagnlegt í að efla þekkingu hjúkrunarfræðinga á réttum viðbrögðum í móttöku bráðveikra barna og efldi trú þeirra á eigin getu til að takast á við bráðatilfelli. Hvort sú þekking skili sér í raunverulegum aðstæðum er hins vegar ósvarað.



V-5          Hæfniviðmið hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku Landspítalans - innleiðingarrannsókn

Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,2, Bryndís Guðjónsdóttir1, Dóra Björnsdóttir1, Guðbjörg Pálsdóttir1, Helga Rósa Másdóttir1, Ingibjörg Sigurþórsdóttir1, Kristín Halla Marínósdóttir1, Lovísa Agnes Jónsdóttir1, Ragna Gústafsdóttir1, Sigurlaug A. Þorsteinsdóttir1, Sólrún Rúnarsdóttir1

1Fagráði bráðahjúkrunar á Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

thordith@landspitali.is

Bakgrunnur: Viðeigandi hæfni hjúkrunarfræðinga (competence) er nauðsynleg til að veita megi bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu. Á alþjóðavísu eru vel skilgreind hæfniviðmið og hæfnismat í hjúkrun, talin auka öryggi sjúklinga og gæði hjúkrunar.

Markmið: Að skilgreina hæfniviðmið fyrir hjúkrunarfræðinga sem starfa á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi. Slík greiningarvinna í sérgreinum hjúkrunar á Íslandi er nýmæli. Langtímamarkmiðið er að hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku búi yfir viðeigandi hæfni og þjálfun sem svari þörfum skjólstæðinga og íslensks samfélags.

Aðferð: Byggt var á hugmyndafræði Patricia Benner um starfsþróun hjúkrunarfræðinga. Hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku voru flokkaðir í fjögur þrep auk þriggja sérhæfðra hlutverka. Sjö rýnihópar hjúkrunarfræðinga hittust tvisvar sinnum og greindu hvaða hæfni væri æskileg innan viðkomandi þreps og hlutverks. Meðlimir fagráðs greindu niðurstöður hópanna nánar, þróuðu skilgreiningar og framsetningu. Innleiðing á skilgreindum hæfniviðmiðum og mat hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku Landspítala var forprófuð í byrjun árs 2016.

Niðurstöður: Skilgreind voru 10 hæfniviðmið innan hvers flokks hjúkrunarfræðinga, sérhæfð fyrir bráðahjúkrun á Landspítala hvað varðar hæfni, námskeið og þróun. Hæfniviðmiðin voru sett fram út frá sjónarhorni hjúkrunarfræðingsins, óháð launatengdri starfslýsingu en þannig að þau gætu nýst við framgangsmat. Mikilvægt var talið að hæfniviðmið hefðu ekkert lagalegt gildi, heldur væru viðmið.

Ályktanir: Hæfniviðmiðum hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku er ætlað að samræma og bæta gæði þjónustu við skjólstæðinga með mismunandi þarfir, hvað varðar heilsufarsvandamál og félagslega stöðu þeirra. Sérstök áhersla er lögð á að störf hjúkrunarfræðinga verði byggð á gagnreyndri þekkingu sem endurspeglist í gæðum þjónustunnar. Verkefnið er mikilvægt til að meta sérhæfni hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku og gefur tækifæri á sýnilegri viðurkenningu á störfum hjúkrunarfræðinga, innan deildar sem utan.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica