Ágrip örfyrirlestra

Ágrip örfyrirlestra

1          Myndgæði hafa áhrif á mælingar á súrefnismettun í sjónhimnu

Sveinn Hákon Harðarson1, Benedikt Atli Jónsson2 , Róbert Arnar Karlsson3 , Ásbjörg Geirsdóttir4 , Davíð Bragason1 , Þór Eysteinsson1,5 , Ólöf Birna Ólafsdóttir1 , Jóna Valgerður Kristjánsdóttir1, Einar Stefánsson1

1Augndeild Landspítala, læknadeild HÍ, 2rafmagns- og tölvuverkfræðideild HÍ, 3Oxymap ehf. 4St. Eriks Augnsjúkrahúsið í Stokkhólmi, 5lífeðlisfræðistofnun HÍ

sveinnha@hi.is

Inngangur: Mælingar á súrefnismettun í æðum sjónhimnunnar eru byggðar á augnbotnamyndum sem teknar eru með tveimur bylgjulengdum ljóss í einu. Tilgangur rannsóknarinnar var að prófa hvort og hvernig myndgæði hafa áhrif á mælingar á súrefnismettun í sjónhimnuæðum.

Efniviður og aðferðir: Súrefnismælirinn (Oxymap ehf.) tekur samtímis myndir með 570nm og 600nm ljósi. Hugbúnaður metur sjálfvirkt ljósgleypni sjónhimnuæða og reiknar súrefnismettun. Nýlega var þróað hugbúnaðartól sem metur gæði augnbotnamynda sjálfkrafa og gefur einkunn milli 0 og 1. Myndgæðaeinkunnin er samsett úr mati á fókus og skerpu (contrast). Metnar voru myndir úr súrefnismælinum annars vegar af 108 heilbrigðum og hins vegar af 17 einstaklingum á leið í aðgerð vegna skýs á augasteini.

Niðurstöður: Í heilbrigðum einstaklingum minnkaði mæld súrefnismettun í bláæðlingum sjónhimnu með versnandi myndgæðum (p<0,0001, R2=0,17) en ekki var samband milli mældrar mettunar í slagæðlingum og myndgæða (p=0,79). Línulegt módel gaf til kynna að sambandið milli mældrar mettunar og myndgæða hafi ekki verið vegna hækkandi aldurs: Mettun í bláæðlingum=26-0,043*Aldur (ár)+37*Myndgæðaeinkunn ; p=0,29 fyrir aldur en p=0,0008 fyrir myndgæði. Frekari greining leiddi í ljós að áhrif myndgæða voru vegna skerpu (e. contrast, p=0,0002) frekar en fókuss (p=0,36). Mæld súrefnismettun hjá sjúklingum á leið í augasteinsskipti sýndi jákvæða fylgni við myndgæði, bæði í slagæðlingum (p=0,0079, R2=0,38) og bláæðlingum (p=0,0034, R2=0,45).

Ályktun: Léleg myndgæði tengjast lægri mældri mettun í bláæðlingum og (í verri tilfellum) slagæðlingum. Myndgæði gætu verið skýrt samband sem áður hefur fundist milli aldurs og mældrar súrefnismettunar. Nýtt tól til að mæla myndgæði gerir gæðaeftirlit mögulegt og má mögulega nýta til leiðréttingar á mælingum.


2          Súrefnismettun sjónhimnuæða við innöndun á 100% O2
– samanburður á heilbrigðum og glákusjúklingum

Ólöf Birna Ólafsdóttir1,2, Þórunn S. Elíasdóttir1,2, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir 2, Sveinn Hákon Harðarson1,2, Einar Stefánsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2augndeild Landspítala

olofbirnaolafs@gmail.com

Inngangur: Orsakir gláku eru óþekktar en uppi eru kenningar um að blóðflæði í augum sé illa stjórnað sem leitt gæti til súrefnisskorts. Tilgangur verkefnisins var að kanna stjórnun á blóðflæði með því að meta svar glákusjúklinga og heilbrigðra einstaklinga við innöndun á 100% súrefni.

Efniviður og aðferðir: Súrefnismettun sjónhimnuæða í glákusjúklingum (n=10) og heilbrigðum einstaklingum (n=30) var mæld með súrefnismæli, Oxymap T1. Súrefnismettun var mæld við innöndun á andrúmslofti (baseline), eftir 10 mínútur af innöndun á 100% súrefni og aftur við andrúmsloft (recovery).

Niðurstöður: Súrefnismettun sjónhimnuæða var marktækt hærri í slagæðlingum eftir innöndun á 100% súrefni hjá heilbrigðum einstaklingum (p<0,0001) og glákusjúklingum (p=0,002). Bláæðlingar mældust einnig marktækt hærri í súrefnismettun eftir 100% súrefnisöndun heilbrigðra einstaklinga (p<0,0001) og glákusjúklinga (p<0,0001). Meðalæðavídd slagæðlinga minnkaði í heilbrigðum einstaklingum (p<0,0001) ásamt glákusjúklingum (p=0,003) við innöndun á 100% súrefni. Æðavídd bláæðlinga minnkaði einnig við innöndun á 100% súrefni hjá báðum hópunum (p<0,0001). Glákusjúklingar hækkuðu hlutfallslega meira í súrefnismettun bláæðlinga við innöndun á 100% súrefni (66,4%±28,1% vs. 50,2%± 18,1%, p=0,04). Að öðru leyti var enginn marktækur munur á milli hópanna og svörun þeirra við innöndun 100% súrefnis.

Ályktun: Innöndun á 100% súrefni jók súrefnismettun í sjónhimnuæðum ásamt því að minnka æðavídd samanborið við normal aðstæður í báðum hópunum. Glákusjúklingar hækkuðu hlutfallslega aðeins meira í súrefnismettun í bláæðlingum í svari þeirra við 100% súrefnisinnöndun samanborið við heilbrigða. Sú hækkun gæti stafað af vefjarýrnun  sem verður í gláku. Að öðru leyti var enginn munur á milli hópanna.  

 

3          Mæling á súrefnismettun í sjónhimnu fólks með hálsæðaþrengsli

Þórunn Scheving Elíasdóttir,1,2,3 Davíð Þór Bragason,2 Sveinn Hákon Harðarson,2,4  Jóna V. Kristjánsdóttir,  2 Enchtuja Suchengi, Anna Bryndís Einarsdóttir, 2,5 Guðrún Kristjánsdóttir,1,6  Einar Stefánsson2,4    

1Hjúkrunarfræðideild, Háskóli Íslands, 2augndeild,Landspítala, 3svæfingadeild Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands, 5taugalækningdeild Landspítala, 6Barnaspítala Hringsins Landspítala

tse@hi.is

Inngangur: Hálsæðaþrengsli (carotid stenosis) geta haft áhrif á blóðflæði til sjónhimnunnar. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta áhrif hálsæðaþrengsla og súrefnismeðferðar á súrefnismettun sjónhimnuæða.

Efniviður og aðferðir: Sjónhimnusúrefnismælirinn samanstendur af augnbotnamyndavél, stafrænum myndavélum og ljósdeili. Mælirinn tekur tvær myndir af sama svæðinu samtímis við 570nm og 600nm fyrir útreikninga á súrefnismettun blóðrauðans. Þátttakendur voru þægindaúrtak 6 einstaklinga með  ≥70% þrengingu í hálsslagæðum. Fjórir höfðu hálsæðaþrengsli öðrum megin og tveir báðum megin. Reiknað var meðaltal súrefnismettunar sjónhimnuæða í hvoru auga fyrir sig, með og án súrefnis. Niðurstöðurnar voru bornar saman og gerður samanburður við fingurmælingu (pulse oximeter) og heilbrigðan samanburðarhóp.

Niðurstöður: Við innöndun andrúmslofts mældist súrefnismettun í slagæðlingum sömu megin hálsæðaþrengsla 92±4% (meðaltal ± staðalfrávik) en 93±2% hjá heilbrigðum (p=0,78, n=6, óparað t-próf). Súrefnismettun bláæðlinga var 57±4% við hálsæðaþrengsli og 55±4% hjá heilbrigðum (p=0,34). Ekki var munur á súrefnismettun sjónhimnuæða sömu megin hálsæðþrengsla og gagnastæðra augna (n=4, parað t-próf). Mismunur súrefnismettunar í slag- og bláæðlingum (AV difference) í báðum augum var 35±2% (p=0,78) og hélst óbreyttur við súrefnisgjöf (p=0,51).Súrefnismeðferð hækkaði súrefnismettun í slagæðlingum í 95±5% (p=0,007, n=6,parað t-próf) og 58±4% í bláæðlingum (p=0,6).  Ekki var marktækur munur á sjónhimnu- og fingurmælingum. 

Ályktun: Hálsæðaþrengsli virðast ekki hafa áhrif  á súrefnismettun sjónhimnuæða í þessu úrtaki. Óbreyttur mismunur súrefnismettunar í slag- og bláæðlingum bendir til að súrefnisflutningur til augans mæti efnaskiptaþörf  innri sjónhimnunnar. Sjónhimnusúrefnismælirinn nemur súrefnismettun í miðlægum æðum ekki síður en fingurmæling.


4          Rasch greining á eðli atriðamismununar (DIF) ADL kvarða A-ONE

Guðrún Árnadóttir

Landspítali, iðjuþjálfun

a-one@islandia.is

Inngangur: Iðjumatstækið A-ONE (Árnadóttir OT-ADL Neurobehavioral Evaluation) er notað til að meta færni við athafnir daglegs lífs (ADL) og áhrif taugaeinkenna á færnina. Fyrri Rasch greining ADL kvarða A-ONE sýndi fram á að hægt er að umbreyta raðkvarða upplýsingum mats-tækisins í mælieiningar á próffræðilega réttmætan og áreiðanlegan hátt. Niðurstöður bentu einnig til að æskilegt væri að athuga nánar réttmæti tengt atriðamismunun [differential item functioning (DIF)]. Tilgangur rannsóknarinnar er því að athuga réttmæti ADL kvarða A-ONE nánar með því að kanna hvort DIF og matsmismunun [differential test functioning (DTF)] eigi sér stað tengt sjúkdómsgreiningum þátttakenda.

Efniviður og aðferðir: Notuð voru afturskyggn gögn einstaklinga (n = 415) með tvennskonar sjúkdómsgreiningar (heilablóðfall, heilabilun) til að athuga hvort mismunur kæmi fram í mælingum þátttakenda á atriðum kvarðans. Byggt var á niðurstöðum fyrri Rasch greiningar á kvarðanum (20 atriða, fjögurra þrepa kvarði). DIF var talin hófleg ef < 0,64 logit en veruleg ef ≥1,0 logit. DTF var síðan ákvörðuð með því að fá fram mæligildi allra einstaklinga beggja hópa á tveimur afbrigðum kvarðans, fengnum með Rasch greiningu, þar sem atriðin höfðu verið skorðuð (anchoring) út frá sjúkdómsgreiningu. Fylgni mælinga hvers þátttakanda á skorðuðu kvörðunum tveimur var könnuð. Viðmið til útilokunar á DTF voru há fylgni og samstæð mæligildi innan 95% öryggisbils.

Niðurstöður: DIF út frá sjúkdómsgreiningum þátttakenda var töluverð. Fylgni mælinga á mismunandi skorðuðum afbrigðum kvarðans var há (r=0,99) og allar samstæður mæligilda féllu innan öryggisbils. DTF var því ekki til staðar.

Ályktun: Þau atriði sem sýna atriðamismunun tengjast ákveðnum sjúkdómseinkennum. Þau hafa greiningargildi, en valda ekki matsmismunun. Því er umbreyting raðkvarða upplýsinga ADL kvarða A-ONE í mælieiningar réttmæt.


5              Aðferðir og magn methýlfenídats sem vímuefnaneytendur í æð ná úr fjórum gerðum methýlfenídat taflna

Guðrún Dóra Bjarnadóttir1,2, Andrés Magnússon1,2, Bjarni Össurarson Rafnar1,2, Engilbert Sigurðsson1,2, Steinn Steingrímsson2,3, Helena Bragadóttir1, Magnús Jóhannsson2, Valþór Ásgrímsson2, Ingibjörg Snorradóttir2, Magnús Haraldsson1,2.

1Geðsviði Landspítala, 2heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, 3Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg

gudrundb@lsh.is

Inngangur: Methýlfenídat (MPH) er örvandi lyf við ofvirkni og athyglisbresti og hefur notkunin aukist mikið undanfarin ár. Misnotkun MPH um munn eða nef er þekkt en misnotkun í æð er lítið rannsökuð. Fjórar gerðir MPH taflna eru til á Íslandi, eitt stuttverkandi (Rítalín®) og þrjú langverkandi (Rítalín Uno®, Concerta®, Methýlfenídat Sandoz®). Almennt er talið erfiðara að misnota langverkandi MPH en nýleg rannsókn sýndi samt að Rítalín Uno® er það MPH lyf sem íslenskir vímuefnaneytendur velja helst. Markmiðið erað rannsaka aðferðir sem vímuefnaneytendur í æð nota til að ná virku MPH úr töflum, mæla magn virka efnisins og bera saman við magn sem heilbrigðir einstaklingar ná úr sömu töflum.

Efniviður og aðferðir: Einstaklingum sem hafa notað MPH í æð var boðin þátttaka. Fjórir vímuefnaneytendur tóku þátt og einn hafnaði þátttöku. Einnig tóku fjórir heilbrigðir einstaklingar þátt. Rannsakendur útveguðu töflur og nauðsynlegan búnað. Magn MPH í sýnum var mælt með vökvagreiningu.

Niðurstöður: Meðalaldur vímuefnaneytenda var 39 ár og meðaltími í sprautuneyslu 15 ár. Vímuefnaneytendur og heilbrigðir náðu yfir 50% af MPH úr Rítalín® og Rítalín Uno en minna en 30% úr Concerta® og Methýlphenidate Sandoz®. Báðir hóparnir voru skemur að verka Rítalín® og Rítalín Uno® en hin lyfjaformin. Ekki fannst marktækur munur á magni MPH á milli hópanna.

Ályktanir: Rannsóknin er sú fyrsta í heiminum þar sem vímuefnaneytendur í æð leysa upp MPH og magnið sem þeir ná er mælt. Rannsóknin sýnir að hægt er meðhöndla bæði stutt- og langverkandi MPH töflur þannig að auðvelt er að misnota efnin í æð.


6          Áhrif hreyfingar á einkenni geðklofa hjá ungu fólki:
íhlutunarrannsókn 

Kristjana Sturludóttir1,2, Sunna Gestsdóttir2, Rafn Haraldur Rafnsson1, Erlingur Jóhannsson2

1Landspítala, 2íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfunardeild,
menntavísindasviði Háskóli Íslands

kristjst@landspitali.is

Inngangur: Geðklofi er alvarlegur sjúkdómur sem herjar á milljónir manna um allan heim, og er meðal algengustu orsaka langvinnra sjúkdóma. Einstaklingar með sjúkdóminn  eru líklegri til að tileinka sér óheilbrigðan lífsstíl og deyja fyrir aldur fram. Rannsóknir benda til þess að hreyfing hafi jákvæð áhrif á einstaklinga með geðklofa. Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að meta áhrif 20 vikna íhlutunar á jákvæð og neikvæð einkenni geðklofa hjá ungu fólki ásamt því að skoðuð voru áhrif íhlutunarinnar á þunglyndi, kvíða, hreyfingu, holdafar, blóðþrýsting og hvíldarpúls.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur (N=17) voru sjúklingar á geðdeild Landspítalans á aldrinum 18-31 árs greindir með geðklofa. Þeir tóku þátt í íhlutunarrannsókn undir handleiðslu íþróttafræðinga og hreyfðu sig að lágmarki tvisvar sinnum í viku ásamt  því að sitja fræðslu um heilbrigðan lífsstíl einu sinni í viku. Þátttakendur svöruðu spurningarlistum um geðræna líðan (PANSS, DASS, Rosenberg, CORE-OM, BHS, QQL, SWLS) fyrir og eftir íhlutun. Hæð, þyngd, blóðþrýstingur, mittisummál  og hvíldarpúls voru mæld og líkamsþyngdarstuðull reiknaður í upphafi og lok íhlutunar. Tekin voru einstaklingsviðtöl við nokkra þátttakendur og þeir spurðir um upplifun sína af rannsókninni.

Niðurstöður: Á íhlutunartímabilinu dró marktækt úr neikvæðum og almennum einkennum geðklofa, þunglyndi, kvíða og streitu, lífsgæði jukust og virkni varð meiri (p<0,05). Hvíldarpúls þátttakenda lækkaði en holdafarsmælingar og blóðþrýstingur héldust óbreytt í lok íhlutunartímabils.

Ályktun: Á íhlutunartímabilinu batnaði andleg líðan þátttakenda og hreyfing þeirra jókst og varð markvissari. Þá jókst líkamsþyngd þátttakenda ekki á tímabilinu. Höfundar telja að hægt sé að nota reglubundna hreyfingu og fræðslu um heilbrigðan lífsstíl sem áhrifaríkan þátt í  meðferð einstaklinga með alvarlega geðsjúkdóma.

 

7          Hugarheill

Eiríkur Örn Arnarson1,W. Ed. Craighead2

1Læknadeild Háskóla Íslands og geðsviði Landspítala, 2 Rex Fuqua Professor, Department of Psychiatry and Behavioral Sciences and Department of Psychology, Emory University, USA

eirikur@lsh.is

Inngangur: Meiriháttar þunglyndi (MHÞ) og óyndi er algengt og hamlandi og hefst oft seint á táningsaldri. Ungmenni, sem upplifa MHÞ, eiga á hættu að fá slík köst síðar. Hugarheill er forvarnarverkefni. Lögð er áhersla á að unglingar geti lært að hafa áhrif á hegðun, breytt líðan og hugsun. Kennt er að hugsa um og meta aðstæður á uppbyggilegan hátt og að takast á við félagslegar aðstæður. Námskeið er sett fram í handbókum leiðbeinenda og þátttakenda og byggir á hugmyndafræði hugrænnar atferlismeðferðar. Texti, dæmi og myndir falla að hugarheimi íslenskra unglinga.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru nemendur úr 9. bekk grunnskóla, sem ekki höfðu greinst, en vegna margra einkenna þunglyndis talin í áhættu að þróa þunglyndi eða óyndi. Geðgreiningarviðtöl og sjálfsmat fór fram fyrir og eftir námskeið og 6 og 12 mánuðum síðar. Þátttakendum var dreift af handahófi í námskeiðs- (NS) og viðmiðunarhópa (VH). Námskeið fóru fram í sex sveitarfélögum og byggðust á sálfélagslegu líkani til að auka viðnám þátta sem taldir eru tengjast þróun þunglyndis. Hittust hópar 14 sinnum og árangur metinn við hálfs- og eins árs eftirfylgd.

Niðurstöður: Niðurstöður leiddu í ljós að Hugarheill dragi úr einkennum þunglyndis og sporni við þróun þess. Lifunargreining (survival analysis) við 12 mánaða eftirfylgd benti til áframhaldandi marktæks munar á NS- og VH (c2 = 5,02, p = ,025; OR = ,182) og voru fimmfalt meiri líkur á því að VH hefði þróað með sér MHÞ eða óyndi en NS.

Ályktanir: Niðurstöður sýna að sporna megi við þróun þunglyndis ungmenna. Verkefnið hefur verið þýtt á ensku og portúgölsku og fer fram rannsókn í Portúgal til að kanna hvort álíka árangur náist í ólíku menningarsamfélagi.

 

8          Skert hugarstarf í MS sjúkdómnum og tengsl þess við líkamlega færni, þreytu og þunglyndi

Sólveig Jónsdóttir¹ ², Hilmar P. Sigurðsson¹, Haukur Hjaltason¹ ², Sóley Þráinsdóttir¹ ²

¹Taugalækningadeild Landspítala, ²læknadeild Háskóla Íslands

soljonsd@landspitali.is

Inngangur: Erlendar rannsóknir hafa sýnt, að um helmingur sjúklinga með MS er með skert hugarstarf. Markmið þessarar rannsóknar var að meta hugarstarf og tengsl þess við líkamlega færni, þreytu og þunglyndi hjá sjúklingum með kastaform MS (relapsing remitting multiple sclerosis, RRMS).

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur í rannsókninni voru 64 sjúklingar með virkan RRMS sjúkdóm, sem voru að hefja natalizumab meðferð á Landspítala og 24 heilbrigðir einstaklingar til samanburðar. Líkamleg færni sjúklinga var metin með EDSS kvarðanum (Expanded Disability Status Scale). Ítarlegt taugasálfræðilegt mat var lagt fyrir alla þátttakendur. Þreyta og þunglyndi var einnig metið.

Niðurstöður: Þáttagreining á niðurstöðum taugasálfræðilegra prófa hjá sjúklingum leiddi í ljós sex hugræn svið. Frammistaða sjúklinga var marktækt verri en heilbrigðra á fimm þessara sviða. Skerðing kom fram á Yrtu og óyrtu hugarflæði, Sjónhreyfihraða, Málhraða og athygli, Orðaminni og Sjónminni. Sjúklingar stóðu sig jafn vel og heilbrigðir á sviðinu Sjónræn rökhugsun. Þegar eingöngu var tekið tillit til taugasálfræðilegra prófa, sem ekki reyndu á fingrafimi, kom fram skert hugarstarf hjá 53% sjúklinga. Líkamleg færni var marktækt tengd öllum hugrænum sviðum nema Sjónminni og Sjónrænni rökhugsun. Alvarleg þreyta kom fram hjá 81,3% sjúklinga og 45,3% töldust þunglyndir. Þreyta og þunglyndi höfðu engin áhrif á hugarstarf.

Ályktun: Verkefni, sem reyna á mál og hreyfihraða munns og handa, eru erfiðust sjúklingum með RRMS. Þeir eru jafnvígir heilbrigðum á sjónrænum verkefnum, sem ekki reyna á fingrafimi. Niðurstöður þessar styðja rannsóknir, sem hafa fundið meiri þynningu á heilaberki  í vinstra heilahveli MS sjúklinga en því hægra. Skert líkamleg færni er tengd skertu hugarstarfi, en þreyta og þunglyndi er það ekki.

 

9              Þemagreining á skilningi sjúklinga á ósértækrar hugrænnar atferlismeðferðar og virkum þætti meðferðar?

Magnús Blöndahl Sighvatsson1,2; Jón Friðrik Sigurðsson1,2,3; Paul Salkovskis4; Engilbert Sigurðsson1,2; Heiðdís B. Valdimarsdóttir4,5; Fanney Þórsdóttir2

1Landspítala, 2Háskóla Íslands, 3Háskólanum í Reykjavík, 4Háskólanum í Bath,5Mount Sinai-læknaskólanum

magnblo@landspitali.is

Inngangur: Rannsókninni sem hér er lýst, er fyrstu rannsókn af fjórum sem miðar að því að athuga hvernig ósértæk hugræn atferlismeðferð (ÓHAM) fyrir kvíða og þunglyndi í heilsugæslu virkar. Rannsóknir á Íslandi benda til þess að ÓHAM sé árangursrík og því er næsta röklega skrefið að reyna einangra mögulega virka þætti meðferðarinnar (possible mechanisms of change) sem og að kanna skilning þeirra sem notið hafa meðferðarinnar á henni. Í þessari rannsókn var tilgáta Salkovskis (1996) um mögulegan virkan þátt könnuð sérstaklega. Hún gengur út á að kenna þurfi sjúklingi aðra raunhæfari og trúanlegri skýringu (kenning B) en það bjagaða mat á aðstæðum sem sjúklingur er með þegar hann kemur til meðferðar (kenning A). Salkovskis taldi jafnframt að þessi kennsla væri gagnleg óháð geðröskunum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er eigindleg rannsókn þar sem þemagreiningu (thematic analysis) var beitt til að kanna hver var skilningur sjúklinga sem höfðu klárað ÓHAM við þunglyndi og kvíða í heilsugæslu sem og hinn virka þátt. Þátttakendur voru 24 sjúklingar ýmist með kvíða eða þunglyndi sem allir höfðu lokið við meðferðina. Helmingur þátttakenda höfðu svarað meðferð en hinn ekki. Þeir voru spurðir fyrirfram ákveðinna spurninga um meðferðina, um skilning þeirra á henni og hinn virka þátt ásamt því að svara sjálfsmatskvörðum sem mátu geðrænt ástand þeirra. Svör þeirra voru tekin upp, skrifuð upp í handrit og þau innihaldsgreind þar sem leitað var eftir þemum í svörum þeirra þar sem athugað var sérstaklega var hvort skilningur þeirra á meðferðinni tengdist árangri hennar.

Niðurstöður og ályktanir: Niðurstöður og ályktanir: Þrjú þemu greindust hjá báðum hópunum: 1) Að hafa val um að hugsa vandamál mín útfrá öðrum sjónarhornum; 2) Meðvitund eða þekking á einkennum og 3) Jákvætt viðhorf. Lítill munur reyndist á hópunum að öðru leiti en því að hópurinn þar sem meðferð var ekki árangursrík virtist ekki átta sig á, á meðan meðferð stóð, að hann hefði val um að hugsa vandamál sín útfrá öðrum sjónarhornum. Sú vitneskja virðist hafa komið eftir að meðferð lauk og því ekki nýst í meðferð. Annar munur sem fannst var að hópurinn sem ekki naut árangurs í meðferð eignaði utanaðkomandi þáttum árangur meðferðinnar (t.d. að komast í nýja vinnu).

 

10         Sterameðferð á fyrirburum með erfiðan lungnasjúkdóm

Erna Hinriksdóttir1, Hrólfur Brynjarsson2, Þórður Þórkelsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Barnaspítala Hringsins

erna91@gmail.com

Inngangur: Fyrirburar með vanþroskuð lungu fá margir sterameðferð til þess að ná þeim af öndunarvél og/eða minnka súrefnisþörf þeirra. Ekki er ljóst hvort ávinningurinn af sterameðferð í æð sé nægur til að vega upp á móti hugsanlegum aukaverkunum meðferðar. Markmið rannsóknarinnar var að svara eftirfarandi rannsóknarspurningum: 1) Veldur sterameðferð því að súrefnisgjöf barnanna minnkar og þau komast fyrr af öndunarvél? 2) Hver eru áhrif steragjafar á vöxt barnanna, blóðsykur, tíðni sýkinga og líkur á heilalömun?

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn tilfella-viðmiðarannsókn á fyrirburum á Vökudeild Barnaspítalans sem á árunum 1989-2014 fengu sterameðferð í æð (n=46) eða á úðaformi (n=37) við erfiðum lungnasjúkdómi. Viðmið voru pöruð við tilfelli á meðgöngulengd og fæðingarári.

Niðurstöður: Marktæk lækkun varð á súrefnisþörf barna sem fengu stera í æð eða á úðaformi fyrstu dagana eftir að meðferð hófst, en ekki hjá viðmiðum. Marktækt fleiri tilfelli en viðmið þurftu öndunarvélameðferð við upphaf steragjafar í æð, en ekki 5 dögum síðar. Marktækt minni þyngdaraukning varð hjá tilfellum sem fengu stera í æð en viðmiðum á meðferðartímabilinu, en við 35 og 40 vikna meðgöngualdur var þó ekki marktækur þyngdarmunur milli hópa. Ekki reyndist marktækur munur á blóðsykurstyrk, né tíðni sýkinga eða heilalömunar milli hópanna.

Ályktanir: Sterameðferð í æð og á úðaformi minnkar súrefnisþörf fyrirbura með erfiðan lungnasjúkdóm og steragjöf í æð flýtir því að börnin náist af öndunarvél. Steragjöf í æð dregur tímabundið úr þyngdaraukningu barnanna, en ekki þegar til langs tíma er litið. Því virðist réttlætanlegt að nota stera við erfiðum lungnasjúkdómi hjá fyrirburum í völdum tilvikum.


11         Marktæk fækkun á ífarandi sýkingum hjá börnum á Íslandi eftir að PCV-10 bóluefnið var tekið upp í ungbarnabólusetningu

Helga Erlendsdóttir1,2, Ásgeir Haraldsson1,3,Birgir Hrafnkelsson4, Karl G. Kristinsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2sýklafræðideild Landspítala, 3Barnaspítala Hringsins, Landspítala, 4raunvísindadeild Háskóla Íslands

helgaerl@landspitali.is

Inngangur: Pneumókokkar eru einn algengasti sýkingavaldur í eyrnabólgu barna, en geta einnig valdið alvarlegum sýkingum eins og lungnabólgu, blóðsýkingu og heilahimnubólgu. Bólusetning með próteintengdu bóluefni gegn 10 hjúpgerðum pneumókokka (PCV-10, Synflorix®) var tekin upp í ungbarnabólusetningu árið 2011 og eiga öll börn sem fædd eru eftir 1. janúar 2011 kost á bólusetningunni, sem gefin er við 3, 5 og 12 mánaðar aldur. Markmið rannsóknarinnar var að kanna breytingar á fjölda ífarandi pneumókokkasýkinga meðal barna (<16 ára) og algengi hjúpgerða í kjölfar bólusetningarinnar.

Efniviður og aðferðir: Haldin er skrá á Sýklafræðideild Landspítala yfir allar ífarandi sýkingar af völdum pneumókokka á landinu öllu. Úr þeirri skrá fengust upplýsingar um aldur, sýkingu og afdrif sjúklinga og hjúpgerð pneumókokka 3 ár fyrir upphaf pneumókokkabólusetningar (2009-2011) og þremur ár eftir (2012-2014). Upplýsingar um íbúafjölda og dauðsföll fengust hjá Hagstofu Íslands.

Niðurstöður: Alls greindust 19 ífarandi pneumókokkasýkingar hjá börnum (<16 ára) árin 2009-2011 (árlegt nýgengi 8.9 á 100.000 börn), en aðeins 1 sýking árin 2012-2014 (árlegt nýgengi 0,47 á 100.000), p<0,0001. Á sömu árum lækkaði árlegt nýgengi meðal barna <2ára úr 48 niður í 3,7 sýkingar á 100.000, p=0,0012 og hjá börnum >2<16 ára úr 2,7 niður í 0 sýkingar á 100.000. Eitt barn lést fyrra tímabilið og hafði það hjúpgerð sem er að finna í PCV-10 bóluefninu. Ekkert barn lést síðara tímabilið. Hlutfall PCV-10 hjúpgerða í ífarandi sýkingum var 74% fyrra tímabilið, en hjúpgerð sýkingarinnar sem greindist síðara tímabilið er ekki að finna í PCV-10 bóluefninu.  

Ályktun: Tölfræðilega marktæk fækkun varð á ífarandi sýkingum meðal barna eftir að bólusetning með PCV-10 bóluefninu var tekin upp í ungbarnabólusetningu á Íslandi.

 

12         Eru tengsl á milli festiþráða pneumókokka og raðgerða þeirra?

Gunnsteinn Haraldsson1,2, Sigríður Júlía Quirk1,2, Helga Erlendsdóttir1,3, Martha Á Hjálmarsdóttir1,3, Ásgeir Haraldsson3,4, Andries J. van Tonder,5 Stephen D. Bentley6, Angela B. Brueggemann5, Karl G Kristinsson1,2.

1Sýklafræðideild Landspítala, 2Lífvísindasetri læknadeildar Háskóla Íslands, 3læknadeild Háskóla Íslands, 4Barnaspítala Hringsins, 5Nuffield Department of Medicine, University of Oxford, United Kingdom, 6Wellcome Trust Sanger Institute, University of Cambridge

gah@hi.is

Inngangur: Festiþræðir (pili) pneumókokka eru mögulegir sýkiþættir sem tengjast viðloðun. Ef tengsl eru á milli klóna og festiþráða gætu mismunandi festiþræðir hugsanlega útskýrt sveiflur í tíðni ólíkra klóna. Kóðað er fyrir festiþráðum á genaeyjunum PI-1 og PI-2. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tilvist þessara gena og tengsl þeirra við raðgerðir.

Efniviður og aðferðir: DNA úr pneumókokkum úr ífarandi sýkingum (n=134), neðri öndunarvegum (n=187), miðeyra (n=350) og nefkoki heilbrigðra barna (n=376) frá árunum 2009-2014, alls 1047 stofnum, var einangrað í Promega Maxwell 16s einangrunartæki og heilraðgreint í HiSeq2500 raðgreini. Niðurstöður voru settar saman með Velvet og þær geymdar í BIGS gagnagrunni, þaðan sem voru dregnar úr þeim upplýsingar um raðgerð og tilvist genaeyjanna PI-1 og PI-2 og flokk PI-1.

Niðurstöður: Í heildina fundust 104 raðgerðir á meðal 1014 stofna, en ekki var hægt að ákvarða raðgerð 33 stofna. Algengasta raðgerðin var ST3014, 151 stofn, en 39 raðgerðir innihéldu aðeins einn stofn hver. Genaeyjur festiþráða fundust í 474 stofnum af 30 raðgerðum, en ekki í 573 stofnum af 78 raðgerðum. Raðgerð ST62 innihélt 8 stofna með PI-2 en 27 stofna án, og ST199 innihélt 10 stofna með PI-1, flokki III en 42 stofna án festiþráða. Þrjár aðrar raðgerðir innihéldu stofna sem voru ýmist með eða án festiþráða eða með ólíka gerð og/eða flokk festiþráða. Að öðru leiti voru allir stofnar hverrar raðgerðar eins m.t.t. festiþráða, þ.m.t ST3014 sem innihélt báðar genaeyjurnar.

Ályktun: Gen fyrir festiþræði fundust í tæplega helmingi pneumókokkastofnanna og tilvist þeirra fór eftir raðgerðum þannig að stofnar af sömu raðgerð voru eins með tilliti til festiþráða.

 

13         Klónadreifing pneumókokka í sýkingum og heilbrigðum berum fyrir upphaf bólusetninga á Íslandi

Sigríður Júlía Quirk1,2, Gunnsteinn Haraldsson1,2, Ásgeir Haraldsson1,2, Helga Erlendsdóttir2, Martha Á. Hjálmarsdóttir1,2, Andries J. van Tonder3, Angela Brueggemann3, Stephen Bentley4, Karl G. Kristinsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2sýklafræðideild Landspítala, 3University of Oxford, 4Wellcome Trust Sanger Institute

sigjulia@landspitali.is

Inngangur: Pneumókokkar hafa mikla aðlögunarhæfileika og eiginleiki þeirra til að taka upp erfðaefni hefur leitt til erfðafræðilegar misleitni. Markmið rannsóknarinnar var að skoða faraldsfræði pneumókokka-klóna frá óbólusettu þýði á Íslandi.

Efni og aðferðir: Allir stofnar úr ífarandi sýkingum (IPD, n=95) og annar hver stofn frá miðeyra (ME, n=300), neðri öndunarvegum (LRT, n=149) og heilbrigðum leikskólabörnum (n=338) frá 2009-2011 voru heilgena-raðgreindir. Hjúpgreining var gerð með latex kekkjunarprófi, multiplex PCR og heilgenaraðgreiningu. Klónagerð (ST) var ákvörðuð út frá heilgenaraðgreiningunni.

Niðurstöður: Hjúpgerð 19F var algengust í ME og LRT, hjúpgerð 14 í IPD og hjúpgerð 6B meðal leikskólabarna. Stofnarnir tilheyrðu 95 ST (klónum) og 10 þeirra innihéldu stofna af fleiri en einni hjúpgerð (ein hjúpgerð oftast ráðandi). Alls greindust 40 ST í sýnum frá IPD (13 þeirra eingöngu í IPD). Hver ST samanstóð af 1-3 stofnum nema ST191 (10 stofna). Alls greindust 52 ST í sýnum frá ME (12 ST eingöngu í ME), 52 ST frá LRT (7 ST eingöngu í LRT) og 53 ST hjá leikskólastofnum (10 ST eingöngu í leikskólastofnum). Þrettán ST voru sameiginlegar öllum sýnaflokkum, ST9, ST100, ST124, ST162, ST176, ST199, ST311, ST440, ST425, ST460, ST2221, ST3014 og ST9458. ST3014 var algengust yfir rannsóknartímabilið en sá klónn er náskyldur PMEN Taiwan 19F ST236 klóninum og var að mestu af hjúpgerð 19F. ST3014 var marktækt algengari í LRT heldur en í IPD (p<0.0001).

Ályktun: Algengasti klóninn, ST3014, hafði sterka tilhneigingu til að sýkja ME og LRT. Reglubundin bólusetning með 10-gildu pneumókokkabóluefni (Synflorix®) var innleidd á Íslandi í apríl 2011. Frekari rannsóknir á klónadreifingu á Íslandi eftir bólusetningu stendur yfir.

 

14            Garnaflækja á bugaristli á Landspítala 2000-2013

Birta Dögg Ingudóttir Andrésdóttir1, Pétur Hörður Hannesson1,2, Páll Helgi Möller1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2myndgreiningarsviði Landspítala, 3skurðlækningadeild Landspítala

birtadogg@gmail.com

Inngangur: Garnaflækja á bugaristli (sigmoid volvulus) orsakar oft garna-stíflu. Kjörmeðferð er ristilspeglun og síðar aðgerð. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna meðferð og horfur garnaflækju á bugaristli á Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á einstaklingum með garnaflækju á bugaristli á tímabilinu 2000-2013.  Farið var yfir sjúkraskrár og skráð  kyn, aldur, legutími, meðferðarform, fylgikvilla meðferðar, vefjagreiningasvar og endurkomur.

Niðurstöður: Heildarfjöldi sjúklinga var 49, 29 karlar og 20 konur (1,5:1). Meðalaldur var 74 ár (bil: 25-93).  Í fyrstu legu fóru 12 sjúklingar í aðgerð ýmist beint (n=1), aðkallandi aðgerð eftir innhellingu (n=1) eða í kjölfar speglunar (n=10). Af þeim sem fóru í speglun fóru allir í bráða aðgerð af eftirtöldum ástæðum: drep í görn (n=3), misheppnuð speglun (n=6) og garnaflækja á botnristli (n=1). Eitt andlát varð eftir tvær misheppnaðar speglanir og bráða aðgerð í kjölfarið. Hjá hinum 37 (75,5%) sjúklingunum var meðferðin eftirfarandi: speglun (n=35), innhelling (n=1) og endaþarmsrör (n=1). Hér varð eitt (2%) andlát. Tveir (5,4%) sjúklingar fóru síðar í valaðgerð. Endurkoma varð hjá 24 (64,9%). Af þeim var einn settur upp fyrir valaðgerð en lagðist inn áður vegna garnaflækju. Dregin var upp Kaplan Maier kúrfa og voru samsöfnuð líkindi (accumulated probability) á að fá ekki endurkomu eftir 3, 6 og 24 mánuði; 66%, 55% og 22%.

Umræða: Meirihluti sjúklinga sem ekki fer í aðgerð í fyrstu legu kemur aftur með endurtekna garnaflækju á bugaristli og líkindi á endurkomu aukast eftir því sem frá líður. Mikilvægt er því að hafa valaðgerð í huga snemma eftir fyrsta kast.

 

15         Hryggjar- og mænuáverkar á Landspítala á árunum 2007-2011

Eyrún Arna Kristinsdóttir1,Páll E. Ingvarsson2, Kristinn Sigvaldason3, Sigrún Knútsdóttir2,  Halldór Jónsson Jr1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2endurhæfingardeild Landspítala, 3svæfinga-og gjörgæsludeild Landspítala, 4bæklunarskurðdeild Landspítala

krisig@landspitali.is

Inngangur: Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á faraldsfræði hryggbrota. Mænuáverkar í tengslum við þau eru meðal alvarlegustu afleiðinga slysa og forvarnarstarf því mikilvægt.

Markmið: Öflun faraldsfræðilegra upplýsinga um hryggjar- og mænu-áverka á Landspítala og leit að áhættuþáttum fyrir forvarnarstarf.

Aðferðir: Upplýsinga um orsakir, alvarleika, aldur, kyn o.fl. var aflað úr sjúkraskrám allra sem greindust með hryggbrot á Landspítala árin 2007-2011.

Niðurstöður: Með hryggbrot greindust 487 einstaklingar, 42 þeirra fengu mænuskaða (9%). Fimm fengu mænuskaða án hryggbrots. Meðalaldur var 56 ár og karlar voru 57%. Árlegt nýgengi hryggbrota var 31 tilfelli/100.000 íbúa en mænuskaða 2,7 tilfelli/100.000 íbúa. Fall var algengasta orsök hryggbrota (49%) og mænuskaða (43%) en umferðarslys næst algengust (31% og 26%). Í flokknum lág föll (<1 m) var meðalaldur hár (77 ár) og konur í meirihluta. Algengustu umferðarslysin voru bílslys (82%) en flest þeirra voru bílveltur. Bílvelta var orsök allra mænuskaða vegna bílslyss. Meirihluti hryggbrota vegna bílslysa varð í dreifbýli (79%), 19,5% slasaðra notuðu ekki bílbelti en upplýsingar vantaði fyrir 27%. Íþrótta- og tómstundaslys voru orsök hryggbrota í 12% tilfella og hestaslys voru algengust þeirra (36%). Algengust voru brot á lenda- og spjaldhrygg (41%) en sjaldgæfust á efri hálshrygg (9%). Af þeim sem hlutu mænuskaða voru 38% með alskaða við komu á sjúkrahús. Tæplega helmingur mænuskaðaðra var háður hjólastól við útskrift. 

Ályktanir: Um 9% þeirra sem hryggbrotnuðu fengu mænuskaða, flestir eftir fall eða bílveltur. Öryggiskröfur á vinnustöðum, við tómstundaiðkun og í umferðinni þarf sífellt að bæta og fylgja eftir en einnig þyrfti að kanna nánar ástæður falla meðal aldraðra.

 

16         Réttmæti breyttrar útgáfu af verkjameðferðarvísi

Sigríður Zoëga1, Sigríður Gunnarsdóttir1,2

Landspítala1, Háskóla Íslands2

szoega@landspitali.is

Inngangur: Verkjameðferð er víða ábótavant en verkjameðferðarvísir (VMV) (Pain Management Index) er notaður til að meta hvort sjúklingar eru að fá viðeigandi verkjameðferð. VMV er reiknaður út frá styrk verkja og tegund verkjalyfs samkvæmt verkjastiga WHO. Neikvætt skor bendir til vanmeðhöndlunar verkja. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna réttmæti breyttrar útgáfu VMV sem inniheldur staðdeyfi- og taugaverkjalyf til viðbótar við hefðbundin verkjalyf.

Efniviður og aðferðir:  Þetta var lýsandi rannsókn með stundaralgengissniði. Þátttakendur voru sjúklingar  ≥18 ára sem legið höfðu inni í ≥sólarhring og voru færir um þátttöku. Lyfjaupplýsingar voru fengnar úr Therapy kerfinu en sjúklingar svöruðu spurningalista bandaríska verkjafræðafélagsins. Fjórar útgáfur af VMV voru reiknaðar: VMV-F sem byggir á fyrirmælum læknis, VMV-G sem byggir á því hvaða lyf voru gefin og breytt útgáfa VMV-F og G: VMV-Fb og VMV-Gb.

Niðurstöður: Meðalaldur þátttakenda (N=282) var 68,9 ár (SF=17,0), 51% voru karlar. Hlutfall sjúklinga með viðeigandi VMV var 75% fyrir VMV-F, 78% fyrir VMV-Fb, 58% fyrir VMV-G og 62% fyrir VMV-Gb. Ekki var munur á verkjabreytum eftir því hvor útgáfan af VMV-F var notuð. Hins vegar fengu sjúklingar með viðeigandi VMV-G meiri verkjastillingu og voru skemur með mikla verki en þeir sem voru með neikvæðan vísi, ólíkt sjúklingum með viðeigandi VMV-GB,  p≤0.05. Sjúklingar með viðeigandi VMV-G og VMV-Gb voru frekar með aukaverkanir en sjúklingar með VMV-F og VMV-Fb, p≤0,05. Fleiri sjúklingar á skurðlækningasviði voru með jákvæðan vísi en á lyflækningasviði, p≤0.05.

Ályktun: Lítill munur var á upprunalega og breytta VMV. Báðar útgáfurnar greina á milli hópa og áhrifa verkja á einstaklinginn. Líkt og upprunalega útgáfan er breyttur VMV réttmætur mælikvarði á hversu viðeigandi verkjameðferðin er.


17         Árangur þvagblöðrubrottnáms vegna krabbameins í þvagblöðru á Íslandi árin 2003-2013

Oddur Björnsson1,Eiríkur Orri Guðmundsson2, Valur Þór Marteinsson3, Eiríkur Jónsson2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2þvagfæraskurðdeild Landspítala, 3handlækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri

odb5@hi.is

Inngangur: Þvagblöðrubrottnám er kjörmeðferð við vöðvaífarandi krabbameini í þvagblöðru. Aðgerðin er umfangsmikil og fylgikvillar því algengir. Markmið rannsóknarinnar var að kanna afdrif sjúklinga sem fóru í aðgerðina og fylgikvilla hennar.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og tók til allra sjúklinga sem gengust undir þvagblöðrubrottnám vegna krabbameins í þvagblöðru á Landspítala og á Sjúkrahúsinu á Akureyri á árunum 2003-2013. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og Dánarmeinaskrá Landlæknisembættis. Fylgikvillar voru flokkaðir samkvæmt Clavien-Dindo flokkunarkerfinu. Langtímalifun sjúklinga var einungis skoðuð hjá þeim sjúklingum sem voru með breytiþekjukrabbamein (transitional cell cancer).

Niðurstöður: Alls gengust 108 sjúklingar (meðalaldur 67 ár, 81,5% karlar) undir þvagblöðrubrottnám vegna krabbameins í þvagblöðru á rannsóknartímabilinu og af þeim höfðu 99 sjúklingar breytiþekjukrabbamein. Bricker-þvagveita var gerð í 86% tilfella og nýblaðra á þvagrás hjá 14% sjúklinga. Miðgildi aðgerðartíma var 266 mínútur og miðgildi blóðtaps í aðgerð 1000 ml. Miðgildi legutíma eftir aðgerð var 15 dagar. Enginn sjúklingur lést innan 30 daga frá aðgerð en 1 sjúklingur (0,9%) lést innan 90 daga úr fylgikvilla aðgerðar. Alls fengu 62 sjúklingar (57%) fylgikvilla í kjölfar aðgerðar. Minniháttar fylgikvilla (Clavien: 1-2) fengu 30 sjúklingar (28%), 17 (16%) alvarlega fylgikvilla (Clavien: 3-5) og 15 (14%) hvoru tveggja. Enduraðgerð var framkvæmd á 26 sjúklingum (24%). Heildarlifun eftir 5 ár var 54% og sjúkdómatengd lifun 59%.

Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að lifun sjúklinga eftir þvagblöðrubrottnám hér á landi er sambærileg því sem lýst hefur verið í erlendum rannsóknum. Sama má segja um háa tíðni fylgikvilla og enduraðgerða.

 

18         Árangur kransæðahjáveituaðgerða hjá konum á Íslandi

Helga Rún Garðarsdóttir1, Hera Jóhannesdóttir2, Jónas A. Aðalsteinsson1, Linda Ósk Árnadóttir1, Sólveig Helgadóttir2, Tómas A. Axelsson2, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir3, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3hjartadeild Landspítala

hrg53@hi.is

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að kanna árangur kransæðahjáveituaðgerða hjá konum með áherslu á fylgikvilla, dánarhlutfall innan 30 daga og langtíma lifun.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til allra sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Íslandi árin 2001-2012. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og Dánarmeinaskrá Landlæknisembættis. Fylgikvillar voru skráðir og heildarlifun reiknuð með aðferð Kaplan-Meier. Fjölþáttagreining var notuð til að meta forspárþætti dauða innan 30 daga og lifunar. Meðaleftirfylgd var 5,7 ár.

Niðurstöður: Af 1622 sjúklingum voru konur 291 (18%). Meðalaldur þeirra var hærri en karla (69 ár sbr. 65 ár, p<0,001), þær höfðu oftar sögu um háþrýsting (72% sbr. 62%, p <0,001) og EuroSCORE þeirra var hærra (6,1 sbr. 4,4, p <0,001). Hlutfall annarra áhættuþátta eins og sykursýki og umfang kransæðasjúkdóms var sæmbærileg. Alls létust 12 konur en 30 karlar (4% sbr. 2%, p=0,1) innan 30 daga en munurinn var ekki marktækur. Heildartíðni skammtíma (53% sbr. 43%, p=0,07) og langtíma fylgikvilla (27% sbr. 32%, p=0,1) var sambærileg milli kynja. Fimm árum frá aðgerð var lifun kvenna 87% borið saman við 90% hjá körlum (p=0,09). Sterkustu forspárþættir dauða innan 30 daga voru hár aldur, skert nýrnastarfsemi og bráðaaðgerð. Kvenkyn reyndist hins vegar hvorki vera sjálfstæður forspárþáttur dauða innan 30 daga (OR 0,99; 95%-ÖB: 0,97-1,01) né langtíma lifunar (OR 1,09; 95%-ÖB 0,79-1,51).

Ályktun: Konur gangast sjaldnar undir kransæðahjáveituaðgerðir en karlar en eru fjórum árum eldri þegar kemur að aðgerð. Árangur kransæðahjáveitu er ekki síðri meðal kvenna en karla og 5 árum frá aðgerð eru 87% þeirra á lífi.

 

19         Skurðaðgerðir við hjartaþelsbólgu á Íslandi 1997-2013

Ragnheiður Martha Jóhannesdóttir1, Tómas Guðbjartsson1,2, Arnar Geirsson1

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

ragnheidur.martha@gmail.com

Inngangur: Hjartaþelsbólga er sýking í hjartaþeli sem oftast leggst á hjartalokur. Meðferðin felst í sýklalyfjagjöf en stundum er skurðaðgerðar þörf til lækningar. Upplýsingar um árangur þessara aðgerða og hlutfall sjúklinga sem þurfa aðgerð vantar hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Afturvirk rannsókn á öllum sjúklingum sem greindust með hjartaþelsbólgu á Landspítala 1997-2013. Litið var sérstaklega á sjúklinga sem gengust undir hjartaðgerð vegna hjartaþelsbólgu á tímabilinu. Upplýsingar fengust úr miðlægum greiningar- og aðgerðarskrám.

Niðurstöður: Alls greindust 307 einstaklingar með hjartaþelsbólgu á rannsóknartímabilinu og þurftu 38 þeirra skurðaðgerð (12,3%). Oftast var um sýkta ósæðarloku að ræða, eða hjá 27 sjúklingum. Skipta þurfti um loku hjá öllum sjúklingum nema tveimur, ýmist með gerviloku (28%) eða lífrænni loku (57%). Í þremur tilvikum var um sýkta gerviloku að ræða sem skipt var út. Kransæðahjáveita var framkvæmd samhliða hjá 19% sjúklinga og hjá 16% þurfti að lagfæra aðra hjartaloku, oftast míturloku. Fimm sjúklingar höfðu fyrri sögu um hjartaaðgerð og aðrir 5 sjúklingar voru sprautufíklar. Alls voru 26 sjúklingar með jákvæðar blóðræktanir og voru algengustu sýklarnir gram-jákvæðir kokkar, oftast Staphylococcus aureus. Oftast var notast við 3ju kynslóðar cephalosporin og penicillín. Tímalengd frá greiningu að skurðaðgerð voru 12 dagar (miðgildi, bil: 0-330 dagar). Algengustu fylgikvillar eftir aðgerð voru hjartadrep (35%), öndunarbilun (44%) og enduraðgerð vegna blæðingar (26%). Alls létust 4 sjúklingar innan 30-daga (11%). Fimm og 10 ára lifun var 59,5% og 49,5%.

Ályktanir: Tæplega sjötti hver sjúklingur með hjartaþelsbólgu á Landspítala þurfti skurðgerð, oftast ósæðarlokuskipti. Fylgikvillar eru tíðir og dánarhlutfall umtalsvert hærra en við valaðgerð á hjartalokum.

 

20         Sjúklingar með stunguáverka lagðir inn á Landspítala 2005-2014  

Una Jóhannesdóttir1, Guðrún María Jónsdóttir2, Bergrós Kristín Jóhannesdóttir4, Hjalti Már Björnsson1,3, Tómas Guðbjartsson1,4, Brynjólfur Mogensen1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2svæfinga- og gjörgæsludeild, 3bráðadeild, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

una.johannesdottir@gmail.com

Inngangur: Slys og ofbeldi eru meðal algengustu dánarorsaka ungs fólks. Fáar rannsóknir eru til um faraldsfræði stunguáverka í Evrópu og engar á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar var að kanna faraldsfræði sjúklinga með stunguáverka á 10 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði tilallra einstaklinga sem lagðir voru inn á Landspítala 2005-2014 í kjölfar áverka með hníf eða sveðju. Upplýsingar fengust úr rafrænum sjúkraskrám Landspítala. Áverkar voru metnir með áverkaskori og áverkamati.

Niðurstöður: 49 sjúklingar voru lagðir inn (0,15 á hverja 1000 íbúa), meðalaldur var 33 ár og karlar 42 (86%). Meirihluti stunguáverka urðu í heimahúsi, 26 tilfelli (53%), 15 utanhúss (31%), 4 á skemmtistað (8%) og 2 á vinnustað (4%). Áverkar á brjósthol voru algengastir (n=23), síðan komu áverkar á efri útlimi (n=21), höfuð, háls og andlit (n=17), kvið (n=15) og hrygg, mjaðmagrind og neðri útlimi (n=13). Meðaltími frá áverka að komu á sjúkrahús var 41 mínúta (bil: 6-161). Meðal áverkaskor var 9,5 (bil: 1-34), 9 einstaklingar (18%) voru alvarlega slasaðir (áverkaskor >16). Meðal áverkamat var 7,0 og meðallegutími 5,5 dagar. Alls gengust 27 sjúklingar (55%) undir aðgerð og var meðal áverkaskor þeirra 10,6, en 19 þeirra þurftu gjörgæslumeðferð (39%). Tveir sjúklingar létust innan 30 daga (4%), báðir lífshættulega slasaðir. Af þeim 47 sjúklingum sem lifðu áverkann útskrifuðust 43 heim (92%).

Ályktun: Stunguáverkar sem leiða til innlagna eru tiltölulega sjaldgæfir hér á landi borið saman við nágrannalönd. Flestir eru mikið slasaðir en 18% einstaklinga reyndust með alvarlega eða lífshættulega áverka. Dánartíðni þeirra sem leggjast inn á Landspítala eftir stunguáverka er mjög lág (4%) og gæti stuttur viðbragðs- og flutningstími neyðarbíls skipt máli ásamt góðri meðferð eftir innlögn.

 

21         Kirtilfrumukrabbamein í lungum - vefjaflokkun og lífshorfur eftir skurðaðgerð

Guðrún Nína Óskarsdóttir1,5, Jóhannes Björnsson4, Steinn Jónsson3,4, Helgi J Ísaksson2, Tómas Guðbjartsson1,5

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2meinafræðideild, 3lungnadeild Landspítala, 4meinafræðideild Sjúkrahússins á Akureyri, 5læknadeild Háskóla Íslands

gudrunn87@gmail.com

Inngangur: Lungnakrabbamein eru í 85% tilvika af ekki-smáfrumugerð og eru algengustu vefjagerðirnar kirtilfrumu-, flöguþekju- og stórfrumukrabbamein. Nýlega var birt nýtt flokkunarkerfi fyrir kirtilfrumukrabbamein í lungum og markmiðið að spá betur fyrir um lifun sjúklinga. Markmið þessarar rannsóknar var að endurskoða vefjagerð allra kirtilfrumukrabbameina í lungum á Íslandi  eftir lugnaaðgerð á 20 ára tímabili og meta áhrif vefjagerðar á lifun.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til 310 sjúklinga með kirtilfrumukrabbamein í lungum (meðalaldur 65,5 ár, 56% konur) sem gengust undir aðgerð á árunum 1991-2010 á Íslandi. Æxlin voru endurflokkuð samkvæmt nýjustu flokkun IASLC/ATS/ERS á kirtilfrumukrabbameinum. Heildarlifun var metin með aðferð Kaplan-Meier og miðast eftirfylgd við 1. janúar 2015.

Niðurstöður: Acinar-ríkjandi kirtilfrumukrabbamein var algengasta vefjagerðin (45% tilfella) en næstu komu solid (24%), lepidic (19%) og papillary (8%) ríkjandi undirgerðir kirtilfrumukrabbameins. Eitt tilfelli greindist af kirtilfrumukrabbameini in situ, 3 tilfelli af lítið ífarandi (minimally invasive) kirtilfrumukrabbameini og 7 tilfelli voru ífarandi slímmyndandi. Heildarlifun fyrir allar vefjagerðir var 81,1% eftir 1 ár og 42,6% eftir 5 ár. Ekki sást marktækur munur á lifeun eftir undirgerðum kirtilfrumukrabbameins (log-rank próf, p=0,43) (mynd 1).

Ályktun: Acinar og solid ríkjandi kirtilfrumukrabbamein eru algengustu undirflokkar frumkomins kirtilfrumukrabbameins í lungum. Ekki sást munur á lifun eftir undirflokkum kirtilfrumukrabbameins, líkt og sést hefur erlendis.


22         Vitræn geta og heilarit eftir kransæðahjáveituaðgerð – framskyggn rannsókn

Magnús Jóhannsson1, Tómas Guðbjartsson2,4, Lilja Ásgeirsdóttir 2, Ásdís Emilsdóttir1, Tómas Andri Axelsson4, Kristinn Johnsen1, Jón Snædal3

1Mentis Cura ehf. 2Hjarta- og Lungnaskurðdeild og 3öldrunarlækningadeild Landspítala. 4 Læknadeild Háskóla Íslands.

Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt að vitræn skerðing, einkum minnistruflanir, geta fylgt opnum hjartaaðgerðum. Kólínvirkni heilans mæld með heilariti virðist hafa mikla samsvörun við vitræna skerðingu og er markmið þessarar rannsóknar að kanna þessi tengsl frekar og þá sérstaklega tengsl kólínvirknistuðuls (KS) við breytingar á vitrænni getu í kjölfar kransæðahjáveitu.

Efniviður og aðferðir: Framsýn rannsókn sem náði til 41 sjúklings (meðalaldur 64 ár, bil: 41-79, 34 karlar) sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð (CABG) á árunum 2010-2013. Gert var taugasálfræðilegt mat fyrir aðgerð og 4 og 12 mánuðum eftir aðgerð, til að meta vitræna getu ásamt mati á þunglyndi og kvíða. Heilarit var skráð samhliða. Úr heilaritunum var virkni kólínvirka kerfisins metin á tilbúnum kvarða frá 0-200 (miðgildi 100), þar sem hærra gildi bendir til aukinnar kólínvirkni. KS var reiknaður fyrir hverja heimsókn. Breytingar voru metnar með t-prófi, dreifigreiningu og fylgnireikningum. 

Niðurstöður: Flestir sjúklingar sem mældust með lágan KS fyrir aðgerð hækkuðu eftir aðgerð, en flestir með háan stuðul lækkuðu og reyndust breytingarnar marktækar [r= -0,56, p<0,01]. Fram komu marktækar breytingar í kjölfar aðgerðar á taugasálfræðiprófum þar sem frammistaðan batnaði á sviði minnis [eta2= 0,55; p<0,01] og hreyfihraða [eta2= 0,33; p<0,05]  ásamt lækkuðu heildarskori á þunglyndiskvarða [eta2= 0,36, p<0.05]. Miðlung til sterk fylgni (r= 0,33 - 0,58, p<0,05) var á milli KS og taugasálfræðiprófa á sviði minnis, hugræns hraða, mál/orðaflæði og kvíðakvarða.

Ályktun: Niðurstöður staðfesta fyrri niðurstöður okkar þar sem sáust tengsl kólínvirknistuðuls í heilariti við breytingar á vitrænni getu í kjölfar kransæðahjáveituaðgerða. Þessi aðferð gæti haft forspárgildi varðandi breytingar á vitrænni getu í kjölfar kransæðahjáveitu.

 

23         Árangur skurðmeðferðar við Pancoast-lungnakrabbameini á Íslandi

Björn Már Friðriksson1, Steinn Jónsson2, Guðrún Nína Óskarsdóttir1, Andri Wilberg Orrason1, Helgi J. Ísaksson3, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2lungnadeild, 3meinafræðideild, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

bmf3@hi.is

Inngangur: Pancoast-æxli eru lungnakrabbamein sem vaxa út frá lungnatoppum í þak fleiðruhols og valda oft einkennum vegna ífarandi vaxtar í aðlæg líffæri. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna árangur skurðmeðferðar við Pancoast-æxlum á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum sem gengust undir skurðaðgerð við Pancoast-krabbameini í læknandi tilgangi á Landspítala á árunum 1991-2010. Skráð voru einkenni sjúklinga, fylgikvillar meðferðar og endurkomutíðni. Æxlin voru stiguð samkvæmt 7. útgáfu TNM-stigunarkerfisins.

Niðurstöður: Tólf sjúklingar gengust undir aðgerð á þeim 20 árum sem rannsóknin náði til; þar af 7 á hægra lunga. Algengustu einkenni voru verkur í herðablaði eða öxl (n=5) og/eða brjóstverkur (n=3), hósti (n=6) og megrun (n=5). Flest æxlanna voru af kirtilfrumugerð (n=5) eða flöguþekjugerð (n=4). Meðalstærð æxlanna var 5,9 cm (bil: 2,8-15) og voru fimm á stigi IIB og sjö á stigi IIIA. Æxlin voru fjarlægð með hreinum skurðbrúnum í 10 tilfellum (83%). Allir lifðu aðgerðina af en einn sjúklingur varð fyrir alvarlegum fylgikvilla (8%) sem var asablæðing í aðgerð. Einn sjúklingur fékk geisla- og lyfjameðferð fyrir aðgerð en 8 fengu geislameðferð eftir aðgerð. Níu sjúklingar greindust síðar með endurkomu sjúkdóms; 5 með staðbundna endurkomu og 5 með útbreiddan sjúkdóm. Heildarlifun eftir 5 ár var 33% en miðgildi lifunar var 27,5 mánuðir (bil: 4-181).

Ályktanir: Skammtíma árangur skurðaðgerða við Pancoast-krabbameini er góður hér á landi. Langtíma horfur þessara sjúklinga voru hins vegar lakari en í nýlegum erlendum rannsóknum og tíðni staðbundinnar endurkomu há. Hugsanlega má bæta horfur sjúklinga með samtvinnaðri geisla- og lyfjameðferð fyrir aðgerð.

 

24         Árangur fyrstu meðferðar við frumkomnu sjálfsprottnu loftbrjósti á Landspítala 1992-2011

Stefán Ágúst Hafsteinsson1,2, Tómas Guðbjartsson2,3, Anna Gunnarsdóttir1

1Barnaskurðdeild Barnaspítala Hringsins, 2hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

stefanah@landspitali.is

Inngangur: Við frumkomið sjálfsprottið loftbrjóst fellur lungað saman vegna rofs á litlum blöðrum sem oftast eru á lungnatoppum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna árangur fyrstu meðferðar við frumkomnu sjálfsprottnu loftbrjósti og tíðni skurðaðgerða þar sem gert er blöðrubrottnám og fleiðruerting.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sem greindust með sitt fyrsta frumkomna sjálfsprottna loftbrjóst á Landspítala 1992-2011. Sjúklingar fundust með leit í greiningar- og aðgerðarskrám Landspítala. Úr sjúkraskrám fengust upplýsingar um aldur við greiningu, meðferð og tíðni endurtekins loftbrjósts. Miðgildi eftirfylgdar var 120 mánuðir (bil: 1-240).

Niðurstöður: Alls greindust 616 loftbrjóst hjá 426 einstaklingum (meðalaldur 28,6 ár, 79,6% karlar). 96 sjúklingar greindust tvívegis sömu megin og 22 þrívegis eða oftar. Hjá 38 (8,9%) sjúklingum greindist loftbrjóst beggja vegna en þó ekki í sömu legu. Algengasta fyrsta meðferð var ísetning brjóstholskera hjá 253 (59,4%) sjúklingum. Af þeim fékk 71 (28,1%) síðar loftbrjóst sömu megin, að meðaltali 14,5 mánuðum síðar, en 44 (60%) fóru beint í aðgerð eftir sitt annað loftbrjóst. 124 sjúklingar (29,1%) fóru beint í aðgerð við fyrsta loftbrjóst og fengu 6 þeirra endurtekið loftbrjóst sömu megin en 17 fengu síðar loftbrjóst hinum megin og fóru 12 þeirra í aðgerð. Alls fengu 45 sjúklingar enga meðferð við fyrsta loftbrjósti og fékk þriðjungur þeirra endurtekið loftbrjóst sömu megin, að meðaltali 15,6 mánuðum síðar.

Ályktanir: Tæplega þriðjungur sjúklinga fór beint í skurðaðgerð við fyrsta loftbrjóst og af þeim læknuðust 95%. Langalgengasta fyrsta meðferð (59,4%) var brjóstholskeri og þrír af hverjum fjórum þurftu ekki frekari meðferð. Tæplega helmingur (47%) sjúklinganna fór í skurðaðgerð á rannsóknartímanum.


25         Nýgengi krabbalíkisæxla í lungum hefur aukist þrefalt á síðustu áratugum

Ástríður Pétursdóttir1, Björn Már Friðriksson1, Jóhanna M. Sigurðardóttir2, Helgi J. Ísaksson3, Steinn Jónsson1,4, Tómas Guðbjartsson1,5

1Læknadeild Háskóla Íslands,  2skurðdeild Västerås sjúkrahússins í Svíþjóð, 3rannsóknarstofu Landspítala í meinafræði,4lungnadeild og 5hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

astridurp@gmail.com

Inngangur: Krabbalíkisæxli (carcinoids) í lungum eru sjaldgæf tegund lungnakrabbameina sem oftast eru bundin við lungu en geta meinverpst. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna nýgengi og árangur þessara æxla í vel skilgreindu þýði á 60 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem tók til allra krabbalíkisæxla í lungum sem greindust á Íslandi árin 1955-2014. Vefjasýni voru endurskoðuð og upplýsingar fengnar úr sjúkraskrám. Æxlin voru stiguð skv. 6. útgáfu TNM-stigakerfisins. Lífshorfur voru reiknaðar með aðferð Kaplan-Meier og miðast lifun við 1. janúar 2015. Meðaleftirfylgd voru 186 mánuðir.

Niðurstöður: Alls greindust 93 sjúklingar (62 konur, meðalaldur 52 ár) á tímabilinu. Nýgengi jókst úr 0,2/100.000/ári 1955-1964 í 0,7 2005-2014. Alls greindust 26 sjúklingar af 85 (31%) án einkenna og jókst hlutfall tilviljanagreindra úr 17% fyrri 30 árin í 33% þau síðari. Algeng einkenni voru hósti (56%), lungnabólga (28%) og takverkur (11%). Meðalstærð æxlanna var 2,7 cm (bil: 0,3-6,3 cm) en 71(84%) sjúklingur var með dæmigerða(typical) vefjagerð og 14 (16%) ódæmigerða (atypical). Alls gengust 77 sjúklingar undir skurðaðgerð, oftast blaðnám (84%). Einn sjúklingur lést innan 30 daga frá aðgerð (0,1%). Flestir, eða 67 sjúklingar greindust á stigi I (79%) og 4 á stigi II (5%). Fjórir aðrir sjúklingar greindust með meinvörp í miðmætiseitlum (stig III), allir með dæmigerða vefjagerð. Sex sjúklingar (7%) höfðu fjarmeinvörp við greiningu (stig IV); 2 með dæmigerða vefjagerð. Við eftirlit höfðu 5 sjúklingar (6%) látist úr sjúkdómnum en 5 ára lífshorfur alls hópsins voru 87% og 92% fyrir sjúklinga með dæmigerða vefjagerð.

Ályktanir: Nýgengi krabbalíkisæxla í lungum hefur aukist þrefalt síðustu 6 áratugina, aðallega vegna aukningar í tilviljanagreiningum. Langflestir (>84%) greinast með sjúkdóm bundinn við lungað en þá eru horfur mjög góðar.

 

26         Bráð ósæðarflysjun á Íslandi - nýgengi og dánartíðni

Inga Hlíf Melvinsdóttir1, Sigrún Helga Lund1, Bjarni A. Agnarsson1,2, Tómas Gudbjartsson1,3, Arnar Geirsson3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2meinafræðideild, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

ihm4@hi.is

Inngangur: Bráð ósæðarflysjun er lífshættulegur sjúkdómur þar sem skjót greining getur skipt sköpum varðandi lifun og tíðni alvarlegra fylgikvilla. Upplýsingar um nýgengi og árangur meðferðar við ósæðarflysjun vantar bæði hér á landi og erlendis.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til allra sjúklinga sem greindir voru með bráða ósæðarflysjun á Íslandi frá 1992–2013. Upplýsingar um fyrra heilsufar, áhættuþætti og klínísk einkenni voru skráðar úr sjúkraskrám og krufningarskýrslum. Aldursstaðlað nýgengi var reiknað út frá gögnum Hagstofu Íslands og lifun metin með Cox lifunargreiningu og logrank prófum.

Niðurstöður: Alls greindust 148 einstaklingar með ósæðarflysjun, 97 með gerð A og 47 með gerð B og var aldurstaðlað nýgengi  2,55/100.000/ári. Ekki sáust marktækar breytingar á nýgengi á rannsóknartímabilinu. Meðalaldur sjúklinga var 66±13 ár og 62% voru karlmenn. Alls létust 24 sjúklingar (16%) utan spítala en af þeim 124 sem náðu lifandi inn á sjúkrahús létust 29% <24 klst og 48% innan 30 daga. Fimm og tíu ára heildarlifun fyrir allan hópinn var 43,6% og 37,6%. Á rannsóknartímabilinu sást ekki marktæk lækkun á dánartíðni <24 klst en 30 daga dánartíðni lækkaði marktækt (0,96/ár, 95% CI: 0.923- 0.996, p= 0,03) og 10 ára lifun batnaði úr 25,4% á fyrri 12 árunum í 49,1% þau síðari (p=0,02).

Ályktanir: Nýgengi bráðrar ósæðarflysjunar reyndist 2,55/100.000 íbúa á ári sem er aðeins lægra en í flestum erlendum rannsóknum, en engin þeirra rannsókn nær þó til heillar þjóðar líkt og þessi rannsókn. Ekki hefur orðið aukning í nýgengi og dánartíðni sjúkdómsins er há. Árangur meðferðar hefur batnað þar sem 30 daga dánartíðni hefur lækkað og langtíma lifun aukist.

 

27         Enduraðgerðir vegna blæðinga eftir kransæðahjáveituaðgerðir á Íslandi 2001-2013: Tíðni, forspárþættir og afdrif sjúklinga

Steinþór Árni Marteinsson1, Helga Rún Garðarsdóttir1, Sveinn Guðmundsson2, Arnar Geirsson3, Kári Hreinsson4, Tómas Guðbjartsson1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Blóðbanka, 3hjarta- og lungnaskurðdeild, 4svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala

sam18@hi.is

Inngangur: Eftir kransæðahjáveituaðgerð getur þurft að grípa til endur-aðgerðar til að stöðva blæðingu. Langtíma afdrif þessar sjúklinga eru lítið rannsökuð. Tilgangur rannsóknarinnar var að rannsaka tíðni enduraðgerða vegna blæðinga eftir hjáveituaðgerð á Íslandi, skilgreina áhættuþætti og kanna langtímalifun sjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Aftursýn rannsókn á öllum sjúklingum (n=1755) sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala 2001-2013. Sjúklingar sem gengust undir enduraðgerð voru bornir saman við þá sem ekki þurftu enduraðgerð. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám. Lifun var áætluð með aðferð Kaplan-Meier og forspárþættir enduraðgerða metnir með lógistískri aðhvarfsgreiningu. Miðgildi eftirfylgdar var 74 mánuðir og miðaðist eftirfylgd við 1. júlí 2014.

Niðurstöður: Alls gengust 121 sjúklingar (6,9%) undir enduraðgerð. Í enduraðgerðarhópi voru 52,2% sjúklinga á aspiríni fyrir aðgerð en 38,0% í viðmiðunarhópi (p=0,004). Aðgerðatengdir þættir, m.a. aðgerðartími, voru sambærilegir í báðum hópum. Meðalblæðing á fyrstu 24 klst. eftir aðgerð var rúmlega þrefalt meiri í enduraðgerðarhópi (2660 sbr. 859 ml, p<0,001), legutími 3 dögum lengri og dánartíðni <30 daga marktækt hærri (9,1 sbr 1,9%, p<0,001). Fimm ára lifun var marktækt lægri í enduraðgerðarhópi, eða 78,6% borið saman við 90,3% (p=0,002). Sjálfstæðir forspárþættir fyrir aukinni tíðni enduraðgerðar voru skert nýrnastarfsemi fyrir aðgerð og notkun clopidogrels. Verndandi þættir voru kvenkyn, hærri líkamsþyngdarstuðull og aðgerð á sláandi hjarta.

Ályktanir: Tíðni enduraðgerða (6,9%) er í hærra lagi hér á landi án þess að skýringin sé ljós.  Tíðni fylgikvilla, legutími og dánartíðni <30 daga þessara sjúklinga er talsvert hærri, og langtímalifun lakari en í viðmiðunarhópi. Því er mikilvægt að þekkja forspárþætti enduraðgerða til að hægt sé að fækka þeim.


28         D-vítamínskortur er algengur hjá sjúklingum á gjörgæslu eftir opnar hjartaðgerðir á Íslandi

Rúnar B. Kvaran1,3, Sigurbjörg J. Skarphéðinsdóttir1, Tómas Guðbjartsson2,3, Martin I. Sigurðsson4, Gísli H. Sigurðsson1,3

1Svæfinga- og gjörgæsludeild, 2 hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslandsl 4Department of Anesthesiology, Perioperative and Pain Medicine Brigham and Women's Hospital, Boston

runarkvaran@gmail.com

Inngangur:D-vítamínskortur hefur verið tengdur við aukna hættu á hjarta- og æðasjúkdómum, lungnasjúkdómum og krabbameini og auknar dánarlíkur af völdum þessara sjúkdóma. Rannsóknir frá suðlægum löndum á hjartaskurðsjúklingum hafa sýnt lág gildi D-vítamíns (25(OH)D) í blóði en upplýsingar um D-vítamínbúskap þessa sjúklingahóps vantar á norðlægum slóðum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna 25(OH)D-gildi sjúklinga eftir opna hjartaaðgerð á Íslandi.

Efniviður og aðferðir:Rannsóknin var framsýn athugunarrannsókn á 77 sjúklingum (77% karlar, meðalaldur 66,4±10,4 ár) sem lágu á gjörgæsludeild Landspítala eftir opna hjartaaðgerð frá febrúar til september 2014. Í flestum tilvikum var um að ræða kransæðahjáveitu (60%) og ósæðarlokuskipti (30%). 25(OH)D var mælt í blóði á fyrsta sólarhring gjörgæslulegu og síðan einum eða tveimur dögum síðar. Klínískum upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám. LÞS sjúklinga var að meðaltali 28,0±5,1 kg/m2 og APACHE II stigun sjúklinga var að meðaltali 12,1±5,0. D-vítamínskortur var skilgreindur sem 25(OH)D <50 nmól/L.

Niðurstöður: Meðalgildi 25(OH)D í blóði sjúklinganna var um 35,2±22,1 nmól/L. Alls höfðu 59 sjúklingar (77%) D-vítamínskort og voru 30 þeirra (39%) með 25(OH)D-gildi <25 nmól/L sem telst alvarlegur skortur. Einungis 18 sjúklingar (23%) höfðu eðlileg gildi. Mismunur á fyrsta og öðru 25(OH)D-gildi sjúklings var að meðaltali 5,4±5,0 nmól/L.

Ályktanir:Mikill meirihluti sjúklinga (77%) mældist með D-vítamíngildi sem talin eru lægri en nægir til viðhalds góðrar heilsu. Nærri 40% mældust með alvarlegan skort sem getur tengst beineyðingu, beinkröm og vöðvaslappleika. Vel kemur til greina að skima fyrir D-vítamínskorti hjá sjúklingum sem gangast undir opnar hjartaaðgerðir á Íslandi.

 

29         D-vítamínbúskapur hjá gjörgæslusjúklingum

Rúnar B. Kvaran1,2, Sigurbjörg J. Skarphéðinsdóttir1, Martin I. Sigurðsson3, Gísli H. Sigurðsson1,2

1Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslandsl 3Department of Anesthesiology, Perioperative and Pain Medicine Brigham and Women's Hospital, Boston

runarkvaran@gmail.com

Inngangur: D-vítamínskortur tengist aukinni hættu á hjarta- og æðasjúkdómum, lungnasjúkdómum og krabbameini til viðbótar við beina- og vöðvasjúkdóma líkt og lengi hefur verið þekkt. Rannsóknir í suðlægum löndum hafa sýnt lág D-vítamíngildi (25(OH)D) í blóði gjörgæslusjúklinga og tengt D-vítamínskort við lengri spítalalegu og aukna dánartíðni. Upplýsingar um D-vítamínbúskap gjörgæslusjúklinga á norðurslóðum vantar. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna D-vítamínbúskap gjörgæslusjúklinga á Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var framsýn athugunarrannsókn á 102 sjúklingum sem lögðust inn á gjörgæslu Landspítala frá febrúar til september 2014. 25(OH)D var mælt í blóði sjúklinga á fyrsta sólarhring gjörgæslulegu og einum eða tveimur dögum síðar. D-vítamínskortur var skilgreindur sem 25(OH)D <50 nmól/L og alvarlegur skortur < 25 nmól/L. Algengi D-vítamínskorts var metið og áhrif hans á gjörgæslu- og spítalalegu og dánartíðni.

Niðurstöður: Meirihluti sjúklinga var karlar (64%) og meðalaldur sjúklinga var 65 ár (19-88 ár). Algengustu ástæður innlagnar á gjörgæslu voru sýklasótt (20%), blæðing (16%) og öndunarbilun (15%). APACHE II stigun, sem metur alvarleika veikinda, var að meðaltali 19. 68% sjúklinga reyndust hafa D-vítamínskort. Aðeins 11% höfðu D-vítamíngildi sem eru talin nauðsynleg til þess að viðhalda góðri heilsu, eða > 75 nmól/L. Meðalmunur á aðskildum D-vítamínmælingum hjá sama sjúklingi var 2,3±9,9 nmól/L. Sjúklingar með 25(OH)D < 25 nmól/L (n = 46) lágu að meðaltali 7,7 daga á gjörgæslu en sjúklingar með 25(OH)D > 25 nmól/L (n = 56) að meðaltali 3,9 daga (p = 0,07).
Ályktun: D-vítamínskortur er algengur á meðal gjörgæslusjúklinga á Landspítala og sjúklingar með alvarlegan D-vítamínskort virðast liggja lengur inni á gjörgæslu en aðrir sjúklingar.

 

30         Áhrif síendurtekins togs á genatjáningu náttúrulega ónæmisvarna í lungnaþekjustofnfrumulínu

Harpa Káradóttir1, Nikhil N. Kulkarni1, Þórarinn Guðjónsson1, Sigurbergur Kárason2, Guðmundur H. Guðmundsson1

1Lífvísindasetri Háskóla Íslands, 2svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala.

hak14@hi.is

Inngangur: Þekkt er að öndunarvélarmeðferð getur valdið skemmdum á lungnavef og aukið líkur á sýkingum í öndunarfærum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif síendurtekins togs, sem líkir eftir öndunarvélarmeðferð, á náttúrulegar ónæmisvarnir lungnaþekjufrumna og hvort hægt væri að styrkja þær samhliða toginu.

Efniviður og aðferðir: VA10 lungnaþekjufrumulínan var sett í Flexcell® FX-5000TM togkerfi þar sem frumurnar gangast undir síendurtekið tog. Frumurnar voru meðhöndlaðar með D3 vítamíni og  4-phenylbutyrat (PBA), sem hafa styrkjandi áhrif á náttúrulegar ónæmisvarnir. Genatjáning frumnanna var mæld á mRNA (qRT-PCR) og prótein (Western blot) stigi. Frumurnar voru einnig litaðar með flúrljómunarmerktum mótefnum og greindar í smásjá.

Niðurstöður: Tjáning á ákveðnum genum ónæmiskerfisins var breytt eftir síendurtekið togálag. Aukning var á genatjáningu bólgumiðlanna IL-8 og IL-1b í mRNA magni. Hins vegar var tjáning flakkboðans IP-10 (CXCL10) og viðtakanum TLR-3 minnkuð. Auk þess var minnkun á örverudrepandi peptíðinu LL-37, sem hægt var að snúa við með D-vítamín og PBA örvun frumnanna. Þessi aukning á LL-37 var einnig staðfest í próteinmagni.

Ályktun: Við síendurtekið togálag jókst bólgusvörun lungnaþekjufrumnanna  á meðan yfirborðsvarnir þeirra minnkuðu. Því má ætla að hið náttúrulega ónæmissvar frumnanna sé skert við slíkar aðstæður og vefurinn viðkvæmur fyrir sýkingum. Hægt var að snúa þessum áhrifum við og styrkja varnir þekjunnar  með D-vítamíni og PBA. Þessar niðurstöður gætu haft klínískt gildi við leit að aðferðum til að draga úr fylgikvillum öndunarvélarmeðferðar.


31         Meðferð og afdrif sjúklinga með mjaðmarbrot sem lögðust inn á Landspítala

Kristófer A Magnússon1, Gísli H. Sigurðsson1,2, Brynjólfur Mogensen1,3, Yngvi Ólafsson4, Sigurbergur Kárason1,2.

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2svæfinga- og gjörgæsludeild, 3bráðamóttökudeild, 4bæklunardeild Landspítala

kam9@hi.is

Inngangur: Mjaðmarbrot eru algeng meðal aldraðra, tíðari meðal kvenna og valda aukningu á dánartíðni. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna meðferð og afdrif sjúklinga sem hafa orðið fyrir mjaðmarbroti og lögðust inn á Landspítala.

Aðferð:Aftursýn rannsókn á öllum sjúklingum ≥ 60 ára sem gengust undir aðgerð á Landspítala árið 2011 vegna mjaðmarbrots og þeim fylgt styst eftir í 18 mánuði. Niðurstöður eru sýndar sem meðaltal (±staðalfrávik; bil)

Niðurstöður: Rannsóknarhópurinn samanstóð af 266 einstaklingum, 166 (65%) konum (meðalaldur 82,9 ár (±8,1; 60-107)) og 89 (35%) mönnum (meðalaldur 81,6 ár (±7,7; 61-101)). Bið eftir aðgerð frá komu var að meðaltali 22 klst. (±14; 3-77). Aðgerð var framkvæmd í mænudeyfingu í 215 (85%) tilvika en svæfingu í 39 (15%). Meðallengd dvalar á bæklunarskurðlækningadeild var 11 dagar (±10; 1-51). Fyrir mjaðmarbrotið bjuggu 68% sjúklinganna á eigin heimili en 54% við lok eftirfylgdar (p<0,001). Dánartíðni  30 dögum eftir brot var 9%, eftir sex mánuði 20% og eftir eitt ár  27%. Dánartíðni meðal þeirra sem hlotið höfðu mjaðmarbrot var áttföld þegar borin saman við almennt þýði ≥ 60 ára í tíu ára aldursbilum.

Ályktanir: Aldur, dvalartími á sjúkrahúsi og dánartíðni eru sambærileg í þessari rannsókn og í erlendum rannsóknum en hlutfall karla hærra. Tími frá komu og til aðgerðar er innan marka erlendra gæðastaðla. Marktækt færri sjúklingar gátu búið á eigin heimili eftir brot en fyrir. Mjaðmarbrot draga verulega úr sjálfbjargargetu og eru kostnaðarsöm fyrir samfélagið.

 

32         Lifun sjúklinga með grun um bráða blóðstorkusótt eftir upphafsgildi antithrombin, protein C og antiplasmin

Einar Hjörleifsson1, Martin I. Sigurðsson2,3, Brynja R. Guðmundsdóttir4, Gísli H. Sigurðsson1,3, Páll T. Önundarson1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 3Department of Anesthesiology, Perioperative and Pain Medicine, Brigham and Women's Hospital, 4rannsóknardeild Landspítala

Eih14@hi.is, gislihs@landspitali.is

Inngangur:Bráð blóðstorkusótt (e. Disseminated intravascular coagulation, DIC) er ástand þar sem mikil blóðstorka á sér stað og samhliða mikil fækkun á ýmsum þáttum blóðstorkukerfisins. Klínískt ástand lýsir sér því með blóðtappamyndun í littlum æðum og samhliða blæðingarhneigð og fylgir þessu mikil aukning í dánartíðni sjúklinga með undirliggjandi sjúkdóma sem ýtta geta undir DIC. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða samband lifunar við þrjú prótein blóðstorkukerfisins, antithrombin, protein C og antiplasmin, í sjúklingum grunaða um DIC.

Efniviður og aðferðir: Safnað var saman öllum tilfellum af grunuðu DIC úr tölvukerfi Rannsóknardeildar LSH yfir 5 ára tímabil, tilfellin skoruð eftir greiningarprófi International society of thrombosis and Haemostasis (ISTH) fyrir DIC, greiningargeta próteinana metin eftir mismunandi viðmiðunargildum og samband þeirra við lifun.

Niðurstöður: Í þeim 1825 tilfellum af grunuðu DIC reyndust 91 uppfylla skilyrði ISTH fyrir DIC. Eins árs lifun var 37% hjá sjúklingum sem uppfylltu skilyrðin. Öll próteinin sýndu fylgni við ISTH stigun. Protein C hafði bestu greiningargetuna fyrir DIC samkvæmt reciver operating characteristic greiningu (ROC). Lægri viðmiðunargildi á antithrombin og protein C sýndu meiri hæfni í að skilja á milli þeirra sem lifðu og þeirra sem deyja. Lifun minnkaði eftir því sem fyrsta blóðgildi anti-thrombin og sér í lagi protein C lækkuðu.

Ályktun: Lækkað antithrombin og protein C hefur forspárgildi um dauðsföll í sjúklingum sem grunaðir eru um DIC og ættu að leiða til kröftugrar leitar og meðhöndlunar á undirliggjandi þáttum sem geta leitt til DIC. Lægri viðmiðunargildi spá betur fyrir um dauðsföll í sjúklingum sem grunaðir eru um DIC.

 

33         Bætt langtímalifun eftir bráðan nýrnaskaða

Þórir Einarsson Long1, Martin I Sigurðsson2, Gísli H Sigurðsson1,3, Ólafur Skúli Indriðason4.

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Department of Anesthesia, Perioperative and Pain Medicine, Brigham and Women's Hospital/Harvard Medical School, Boston, 3svæfinga- og gjörgæsludeild, 4nýrnalækningaeiningu Landspítala

thorirein@gmail.com

Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er algengt vandamál á sjúkrahúsum með háa dánartíðni. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða breytingar í nýgengi BNS og útkomu sjúklinga á 20 ára tímabili.

Aðferðir: Fengnar voru allar mælingar á serum kreatíníni (SKr) á Landspítala frá júní 1993 og út maí 2013. Skrifuð voru tölvuforrit sem greindu BNS og flokkaði sjúklinga í stig samkvæmt RIFLE skilmerkjum út frá hæsta SKr gildi, miðað við lægsta gildi (grunngildi) sex mánuðina á undan. Upplýsingar um innlagnir og sjúkdómsgreiningar fengust úr rafrænu sjúkraskrárkerfi Landspítala. Dánardagur var skráður og seinni tíma SKr notuð til að meta bata á nýrnastarfsemi.

Niðurstöður: Alls áttu 45.607 einstaklingar mælt grunngildi og af þeim fengu 13.992 BNS á rannsóknartímabilinu. Tíðni BNS jókst frá 21,1 (19,2-23,1) í 31,8 (29,2-34,6) per 1000 innlagnir/ári á tímabilinu. Lifun sjúklinga eftir BNS reyndist 67% eftir 90 daga og 56% eftir eitt ár. Í fjölþáttagreiningu tengdist BNS langtímalifun með áhættuhlutfall (hazard ratio) 1,59 ((95% öryggismörk) 1,53-1,65), 2,09 (2,00-2,20), og 2,87 (2,74-3,01) fyrir Stig 1, 2 og 3 af BNS (p<0,0001). Dánartíðni sjúklinga með BNS lækkaði á tímabilinu með áhættuhlutfall 0,78 (0,77-0,79) fyrir hvert 5 ára tímabil (p<0,0001). Alls náðu 8.870 (68%) sjúklinganna að endurheimta nýrnastarfsemi sína á eftirfylgdartímanum en það hlutfall hækkaði marktækt með tímanum og var 72% seinasta 5 ára tímabilið.

Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til að lifun eftir bráðan nýrnaskaða hafi batnað markvert á síðustu 20 árum og að fleiri sjúklingar nái að endurheimta nýrnastarfsemi. Bráður nýrnaskaði virðist þó ekki bara vera sjálfstæður áhættuþáttur fyrir skammtíma dánartíðni heldur einnig fyrir langtíma dánartíðni.

 

34         Útbreiddari kransæðasjúkdómur hjá sjúklingum með brátt kransæðaheilkenni og nýgreinda sykursýki

Steinar Orri Hafþórsson1, Þórarinn Árni Bjarnason1,2, Erna Sif Óskarsdóttir1, Linda Björk Kristinsdóttir1, Ísleifur Ólafsson2, Þórarinn Guðnason2, Guðmundur Þorgeirsson1,2, Karl Andersen1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Landspítala

steinar.orri@gmail.com

Inngangur: Sjúklingar með brátt kransæðaheilkenni (BKH) eru oft með ógreinda truflun á sykurefnaskiptum sem hafa neikvæð áhrif á horfur þeirra. Markmið rannsóknarinnar var að meta hvort truflanir á sykurefnaskiptum væru tengdar útbreiðslu kransæðasjúkdóms.

Efniviður og aðferðir: Rannsakaðir voru sjúklingar með BKH án fyrri greiningar á sykursýki af tegund 2 (SS2) á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Skert sykurþol og SS2 voru greind með mælingu á fastandi blóðsykri (FPG), HbA1c og stöðluðu sykurþolsprófi 2 – 4 dögum eftir innlögn og mælingar endurteknar 3 mánuðum eftir útskrift. Útbreiðsla kransæðasjúkdómsins var metin með Gensini skori sem tekur tillit til þess hve mikil þrenging er, hversu margar þrengingar eru og staðsetningar þeirra.

Niðurstöður: Meðal 171 sjúklinga (77% karlar, meðalaldur 63,3) voru 47% með eðlileg sykurefnaskipti, 41% með skert sykurþol og 12% með SS2. Miðgildi Gensini skors var 30,0 (16,0 – 48,8). Miðgildi Gensini skors voru 26,0 og 28,5 meðal sjúklinga með eðlileg sykurefnaskipti og skert sykurþol. Miðgildi Gensini skors var 37,0 meðal sjúklinga með SS2 (p = 0,07).

Ályktanir: Meðal sjúklinga með brátt kransæðaheilkenni og ekki með greinda sykursýki er tilhneiging til útbreiddari kransæðasjúkdóms hjá þeim sem greinast með truflanir á sykurefnaskiptum með skimun heldur en þeim sem eru með eðlileg sykurefnaskipti. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að skima fyrir efnaskiptasjúkdómum meðal sjúklinga sem leggjast inn vegna BKH.

 

35         Ekki eru tengsl milli sykurefnaskipta og starfsemi æðaþels hjá sjúklingum með bráð kransæðaheilkenni

Linda Björk Kristinsdóttir1,2, Erna Sif Óskarsdóttir1,2 , Steinar Orri Hafþórsson1,2, Þórarinn Árni Bjarnason1,2, Sigrún Helga Lund2, Bylgja Kærnested1,2, Ísleifur Ólafsson1,2, Erna Sif Arnardóttir 1, Sigurður Sigurðsson3, Vilmundur Guðnason2,3, Guðmundur Þorgeirsson1,2,3, Karl Andersen1,2,3

Landspítala1, Háskóla Íslands2, Hjartavernd3

lbk3@hi.is

Inngangur: Um tveir þriðju hlutar þeirra sem fá brátt kransæðaheilkenni (BKH) eru með óþekkta sykursýki eða skert sykurþol. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort tengsl séu milli truflunar í blóðsykur-stjórnun og vanstarfsemi æðaþels hjá sjúklingum með bráð kransæðaheilkenni.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru sjúklingar sem lögðust inn á hjartadeild vegna BKH og höfðu ekki áður verið greindir með sykursýki. Framkvæmt var sykurþolspróf og mælingar á fastandi glúkósa í plasma og HbA1c hjá öllum þátttakendum 2-4 dögum eftir innlögn og aftur þremur mánuðum síðar. Einnig var gerð hálsslagæðaómun til að meta útbreiðslu æðakölkunar hjá þátttakendum. Æðaþelsrannsóknir voru gerðar með EndoPAT tækni sem byggir á viðbrögðum æða við lokun á blóðflæði. Tækið nemur púlsútslag í háræðabeðum fingra fyrir og eftir lokun og reiknar út stuðulinn RHI (Reactive Hyperemia Index).

Niðurstöður: Þátttakendur voru 92 (meðalaldur 63,5 ár, 79% karlar). Miðgildi RHI stuðla mældust 1,85 (IQR: 1,59-2,25), 1,78 (IQR: 1,60-2,27) og 1,85 (IQR: 1,40-3,43) hjá sjúklingum með eðlileg sykurefnaskipti (32%), skert sykurþol (51%) og sykursýki (17%) (p=0.83). RHI stuðull var 2,97 (IQR: 2,97-2,97), 1,82 (IQR: 1,59-2,15), 1,78 (IQR: 1,54-2,22) og 2,09 (IQR: 1,63-2,29) hjá þeim sjúklingum sem voru með eðlilegar hálsæðar, minni háttar, meðal eða alvarlega þrengingu i hálsslagæðum (p=0,41). Neikvæð fylgni var milli RHI stuðuls og stigunar á útbreiðslu kransæðasjúkdóms (r= -0.22, p=0.03).

Ályktun: Vanstarfsemi æðaþels tengist ekki efnaskiptaröskunum hjá sjúklingum með bráð kransæðaheilkenni. Þetta bendir til þess að æðakölkun hjá sjúklingum með BKH sé það langt gengin að ekki sé hægt að greina hjá þeim áhrif efnaskiptatruflana á starfsemi æðaþels.

 

36         Áhrif kóvar á horfur sjúklinga með ristil- eða endaþarmskrabbamein og blæðingartengd einkenni

Jóhann Páll Hreinsson1, Jón Gunnlaugur Jónasson2, Einar S. Björnsson1

1Meltingardeild lyflækningasviðs Landspítala, 2rannsóknarstofnun Landspítala, meinefnafræðideild

hreinssonjp@gmail.com

Inngangur: Óljóst er hvort sjúklingar sem eru með blæðingartengd einkenni, eru á blóðþynningu og greinast með ristil- og/eða endaþarmskrabbamein, greinist fyrr en þeir sem ekki eru á blóðþynningu. Okkar markmið var því að rannsaka hvort kóvar bæti horfur í þessum krabbameinum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var aftursýn en gagnasöfnun er ekki lokið. Rannsóknin tók til allra þeirra sem greindust með ristil- og endaþarmskrabbamein á Íslandi árin 2008-2014, voru með blæðingartengd einkenni og á kóvar. Í viðmiðunarhópi voru þeir sem voru með blæðingartengd einkenni og greindir á sama tímabili en ekki á kóvar. Sjúklingar voru fundnir með upplýsingum úr Krabbameinsskrá. Blæðingartengd einkenni voru skilgreind sem sýnileg blæðing frá endaþarmi, járnskortsblóðleysi eða jákvætt próf fyrir leyndu blóði í hægðum.

Niðurstöður: Það voru 53 sjúklingar með blæðingartengd einkenni og á kóvar sem greindust með ristil- og endaþarmskrabbamein á tímabilinu, meðaldur 75 ár (±8), karlar 59%. Í viðmiðunarhópi voru 212 sjúklingar með blæðingartengd einkenni en ekki á kóvar, meðalaldur 76 ár (±8), karlar 50%. Meðaltími eftirfylgdar var 37 (±26) mánuðir fyrir sjúklinga á kóvar og 41 (±26) mánuður fyrir sjúklinga með blæðingartengd einkenni en ekki á kóvar. Af sjúklingum á kóvar, voru 21% með meinvörp við greiningu, af sjúklingum í viðmiðunarhópi voru 20% með meinvörp. Samanburður með Kaplan-Meier aðferð sýndi að 5 ára lífslíkur hjá þeim á kóvar voru 72% (95% CI 61-86%) en 66% (95% CI 50-72%) hjá þeim ekki á kóvar (p = 0,45).

Ályktun: Þessar niðurstöður benda til þess að þrátt fyrir að kóvar kunni að auka líkur á blæðingu frá ristil- og endaþarmskrabbameini, þá virðist það ekki bæta horfur sjúklinga. Hafa verður í huga að eftirfylgdartími rannsóknarinnar er stuttur.

 

37         Malaría á Íslandi árin 1998-2014

Kristján Godsk Rögnvaldsson1, Sigurður Guðmundsson1,2, Magnús Gottfreðsson1,2 

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Landspítala

kgr2@hi.is

Inngangur: Malaría er sníkjudýrasýking og ein algengasta orsök ótímabærra dauðsfalla í þróunarlöndum, einkum meðal barna. Sjúkdómurinn greinist af og til hérlendis í fólki sem hefur dvalið á malaríusvæðum. Í rannsókn sem gerð var á malaríu hérlendis 1980-1997 fundust 15 staðfest tilfelli. Ferðalög til svæða þar sem sjúkdómurinn er landlægur hafa aukist sem og fjöldi ferðamanna til Íslands. Tilgangur þessarar afturskyggnu rannsóknar var að rannsaka faraldsfræði malaríu 1998-2014.

Efniviður og aðferðir: Blóðstrok til tegundagreiningar malaríu komu frá öllu landinu á sýklafræðideild LSH og reyndust jákvæð í 31 einstaklingum. Sjúkragögn þeirra voru yfirfarin. Notast var við lýsandi tölfræði en einnig Fisher exact, línulega aðhvarfsgreiningu og Mann Whitney U próf.

Niðurstöður: Staðfestar malaríusýkingar reyndust vera 31. Í heild voru að meðaltali 1,82 tilfelli á ári, nýgengi um 0,6 tilfelli/100 þúsund íbúa/ári. Á tímabilinu 1980-1997 var nýgengi 0,3/100 þúsund/ári. Ekki er marktækur munur á nýgengi milli tímabila (p=0,056). Tegundin Plasmodium falciparum greindist í 71% tilfella, P. vivax í 16%, P. ovale og P. malarie hvor um sig í 6,5%. Tveir sjúklingar fengu endurkomu malaríu, tveir lögðust inn á gjörgæslu, tveir þurftu á blóðskilun að halda, einn einstaklingur fékk brátt andnauðarheilkenni en enginn lést. Miðgildi legutíma var 2,5 dagar. Algengasta meðferðin var atóvakón með prógúaníl.

Ályktun: Ekki er hægt að draga ályktun um mun á tíðni malaríu milli tímabila, en tilhneiging til hækkandi nýgengi  virðist vera til staðar. Nýgengi hér er svipað og í Finnlandi árin 2003-2011, en þar voru 0,5 tilfelli/100 þúsund íbúa/ári.

 

38         Saga um langlífa foreldra og tengsl við lifun sjúklinga með mergæxli og MGUS

Ingigerður Sólveig Sverrisdóttir1, Sigrún Helga Lund2, Ingemar Turesson3, Magnus Björkholm4, Lynn R Goldin5, Ola Landgren6, Sigurður Yngvi Kristinsson2,7

1Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Skåne, Háskólasjúkrahús Malmö, 4Blóðlækningadeild Karolinska sjúkrahússins og Karolinska stofnunin, Stokkhólmi, 5Deild faralds- og erfðafræði krabbameina. Bandaríska krabbameinsstofnunin, Bethesda, 6Memorial Sloan-Kettering Cancer Center, Nýju Jórvík, 7Blóðlækningadeild Landspítala.

ingigerdursverrisdottir@gmail.com

Inngangur: Í hinu almenna þýði eru lífslíkur þeirra sem eiga langlífa foreldra auknar. Flestar rannsóknir hafa einblínt á meingerð mergæxlis (multiple myeloma) og áhrif á lifun en fáar á áhrif umhverfis og annarra þátta. Það sama má segja um undanfara mergæxlis, góðkynja einstofna mótefnahækkun (MGUS). Markmið okkar var að rannsaka áhrif þess að eiga langlífa foreldra á lifun sjúklinga með mergæxli og MGUS.

Efni og aðferðir: Í rannsókninni voru 1815 sjúklingar með mergæxli og 1407 með MGUS. Að auki voru 8267 einstaklingar í þýðisbundnum viðmiðunarhópi fyrir sjúklinga með mergæxli og 5595 fyrir MGUS-sjúklinga í rannsókninni. Hættuhlutfall (hazard ratio, HR) meðal sjúklinga með mergæxli og MGUS þar sem saga var um langlífa foreldra var borið saman við þá sem ekki áttu langlífa foreldra.

Niðurstöður: Saga um langlífa foreldra hjá sjúklingum með mergæxli sýndi ekki tengsl við minni áhættu á dauða (HR=0,92; 95% CI 0,81-1,05). Sama gilti um þá sem áttu eitt langlíft foreldri eða þar sem báðir voru langlífir (HR=0,91; 95% CI 0,80-1,04 og HR=1,02; 95% CI 0,72-1,47). Saga um langlífa foreldra meðal MGUS-sjúklinga sýndi fram á minni áhættu á dauða (HR=0,69; 95% CI 0,53-0,91). Áhættan var minni ef annað foreldrið var langlíft (HR=0,69; 95% CI 0,52-0,91). Rannsóknarhópurinn var ekki nægilega stór til að hægt væri að sýna fram á minni áhættu ef báðir foreldrar voru langlífir (HR=0,72; 95% CI 0,34-1,53).

Ályktun: Saga um langlífa foreldra hefur ekki áhrif á lifun sjúklinga með mergæxli. Hins vegar tengist langlífi foreldra MGUS-sjúklinga minni áhættu á dauða og gefur svipaða niðurstöðu og hjá viðmiðunarhópi.

 

39         Áhrif ónæmisglæðis LT-K63 á frumur sem stuðla að lifun mótefnaseytandi frumna í beinmerg nýburamúsa

Auður Anna Aradóttir Pind1,2, Stefanía P. Bjarnarson1,2, Giuseppe Del Giudice3 og Ingileif Jónsdóttir1,2,4.

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Novartis Vaccines, Siena, Ítalíu, 4Íslenskri erfðagreiningu

audurap@landspitali.is

Inngangur: Ónæmiskerfi ungviðis er vanþroskað, mótefnasvör hæg og skammlíf. Virkjun kímmiðja er takmörkuð sem veldur myndun fárra mótefnaseytandi frumna (AbSCs, plasmafrumna) og þær sem fara í beinmerg fá ekki nægjanleg lifunarboð til að verða langlífar AbSCs. Markmið verkefnisins var að kanna hvaða frumur og þættir eru mikilvægir fyrir lifun AbSCs í beinmerg nýburamúsa eftir bólusetningu með próteintengdu pneumókokka bóluefni (Pnc1-TT) og áhrif ónæmisglæðisins LT-K63.

Efniviður og aðferðir: Tíðni frumna var metin í milta og beinmerg á degi 4, 8, 14, 21 og 56 eftir bólusetningu með Pnc1-TT með eða án LT-K63, með litun fyrir einkennissameindum og greiningu í flæðifrumusjá: eósínófílar (Gr-1, F4/80, Cd11b, Siglec-F+, SSChigh), neutrofílar (Gr-1+, F4/80-), mónócýtar (Gr-1, F4/80, CD11bhigh, Siglec-F-, SSClow), makrófagar (Gr-1, F4/80, CD11bint, SSCint), megakaryocýtar (CD41+). Tíðni AbSCs var metin með ELISPOT og sértæk mótefni í sermi mæld með ELISA.

Niðurstöður: Fyrstu niðurstöður sýndu marktækt aukna tíðni megakaryocýta í beinmerg 4 og 8 dögum eftir bólusetningu með Pnc1-TT+LT-K63 miðað við bólusetningu án LT-K63.  Á degi 8 sást einnig aukin tíðni eósínófíla og makrófaga þegar bólusett er með Pnc1-TT+LT-K63. Aftur á móti voru neutrofílar í beinmerg og milta marktækt færri 4 og 8 dögum eftir bólusetningu með Pnc1-TT+LT-K63 en þegar bólusett var með Pnc1-TT eingöngu. Fyrri niðurstöður sýna að tíðni AbSC í beinmerg til langs tíma er marktækt hærri þegar bólusett er með Pnc1-TT+LT-K63 miðað við Pnc1-TT eingöngu.

Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að ónæmisglæðirinn LT-K63 auki tíðni eósínófíla, megakaryocýta og makrófaga í beinmerg nýburamúsa, en sýnt hefur verið að þessar frumur veita AbSCs í beinmerg mikilvæg lifunarboð.

 

40         Fíkólín-2 skortur meðal MBL2arfgerða

Helga Bjarnadóttir1, Margrét Arnardóttir1, Björn Rúnar Lúðvíksson1

1Ónæmisfræðideild Landspítala

hbjarna@landspitali.is

Inngangur: Fimm gerðir mynsturþekkjandi próteina (PRPs) virkja komplímentkerfið í gegnum lektínferilinn. Þau nefnast mannanbindilektín (MBL), kollektín-11 og fíkólín-1-3. Sýnt hefur verið fram á tengsl MBL skorts við meinmyndun ýmissa sjúkdóma s.s. áhættu að fá endurteknar sýkngar. Tíðni MBL skorts (arfgerðir AX/Oog O/O) er 8% í íslenskum blóðgjöfum. Það er tiltölulega hátt meðal heilbrigðra einstaklinga og bendir til að MBL skortur sé bættur upp. Það er líklegt að PRPs séu að bæta hvert annað upp því þau eru náskyld í byggingu og starfsemi.

Markmið: Ef MBL skortur er bættur upp, þá gæti styrkur fíkólína verið hærri í MBL skorts einstaklingum heldur en hjá þeim sem eru ekki með skort.  Þar af leiðandi setjum við fram þá tilgátu að þekktur erfðabreytileiki í FCN2geninu (rs7851696, G>T), sem veldur genaskammtsháðri lækkun á fíkólín-2, sé sjaldgæfari í MBL skorti heldur en hjá þeim sem eru með eðlilegt MBL. Markmiðið var að rannsaka tíðni samsætunnar meðal MBL arfgerða.

Aðferðir: Þýðið samanstóð af blóðgjöfum og sýnum sem höfðu verið send á ónæmisfræðideild til MBL mælinga (N=637). MBL2 og FCN2 arfgerðir voru greindar með rauntíma PCR með þekktri bræðslumarksgreiningu.

Niðurstöður: MBL arfgerðir voru flokkaðar tvo hópa. AX/O + O/O arfgerðir (skortur) (N=106) og A/A + AY/O (ekki skortur – til samanburðar) (N=531). Í skortshópi greindust 6 arfblendnir (G/T) einstaklingar um FCN2 samsætuna, en 106 einstaklingar í samanburðarhópnum (p=0.004). Enginn arfhreinn (T/T) fannst í skortshópi, en 10 voru arfhreinir í samanburðarhópi (p=0.1551).

Ályktun: Fíkólín-2 skortur er sjaldgæfur í MBL skorti sem er hugsanlega vegna uppbætingar í kerfinu. Í framhaldi munum við rannsaka hvaða þýðingu það hefur fyrir heilbrigði mannsins að vera með samsettan PRPs skort.

 

41         Sérhæfing og virkni CD8+ T-stýrifrumna er háð bólgumyndandi boðefnum

Una Bjarnadóttir1, Snæfríður Halldórsdóttir1, 2, Björn Rúnar Lúðvíksson1, 2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ

unab@lsh.is

Inngangur: T-stýrifrumur (Tst) eru mjög mikilvægar í stjórnun á ónæmisviðbrögðum líkamans en þær stilla hárfínt jafnvægi á T-frumu miðluðu ónæmissvari. Ef þetta jafnvægi raskast er hætt við hinum ýmsu sjálfsofnæmisjúkdómum. Þar af leiðir hafa Tst mikla meðferðarmöguleika en frekari rannsóknir eru nauðsynlegar til að auka skilning okkar á virkni þeirra. Markmið rannsóknarinnar er að meta hlutverk ósértæka ónæmiskerfisins á sérhæfingu og virkni CD8+ afleiddra Tst (CD8+ aTst) in vitro og skoða boðefnaseytun þeirra.

Efniviður og aðferðir: Óþroskaðar og óreyndar CD8+CD25-CD45RA+ T-frumur voru einangraðar úr heilbrigðum blóðgjöfum og ræktaðar í Tst hvetjandi aðstæðum með og án IL-1β og TNFα. Boðefnaseytun var skoðuð með ELISA og luminex.

Niðurstöður: TGF-β1 og IL-2 höfðu samlegðaráhrif á sérhæfingu CD8+ aTst (CD8+CD127-CD25hiFoxP3hi, P<0.0001). IL-1β í háum styrk hafði marktækt bælandi áhrif á sérhæfingu CD8+ Tst (P<0.01). Í viðurvist TNFα minnkaði seytun á IL-10 og TGF-β1 (P<0.01/0.05) CD8+ aTst á meðan IL-1β hafði minnkandi áhrif á IL-10 seytun (P<0.05). Bælivirkni CD8+ Tst, á CD4+ og CD8+ T-verkfrumur (P<0.01), var marktækt hindruð þegar bólgumiðlandi boðefnin, IL-1β and TNFα, voru í ræktinni. Frumrannsóknir benda til þess að minnkuð bælivirkni vegna IL-1β er hugsanlega háð IL-10 og IFNg (P<0.01/0.001) á meðan TNFα hafði engin áhrif á seytun þeirra. Sem og að bælivirkni sé ekki snertiháð heldur stjórnist hún af boðefnum sem aTst seyta frá sér.

Ályktanir: CD8+ aTst, virkjaðar í gegnum CD3/CD28 viðtakana eru háðar IL-2 og TGF-β1. Einnig hindra IL-1β og TNFα bælivirkni CD8+ aTst sem hugsanlega er IL-10 og IFNg háð en ekki snertiháð. Rannsóknin sýnir því fram á að margir þættir innan ósérhæfða ónæmiskerfisins hafa mikil áhrif á sérhæfingu og virkni CD8+ aTst.

 

42         NK frumur eru nauðsynlegar fyrir hjöðnun lífhimnubólgu í músum

Ósk Anuforo1,2, Ingibjörg Harðardóttir2, Jóna Freysdóttir1,2

1Ónæmisfræðideild og Rannsóknastofu í gigtsjúkdómum, Landspítala 2, læknadeild, Lífvísindasetri, Háskóli Íslands

jonaf@landspitali.is

Inngangur: Hjöðnun bólgu er nauðsynleg til að hindra að bólgan verði krónísk. Krónísk bólga er talin vera ein af orsökum margra algengra hrörnunarsjúkdóma. Náttúrulegar drápsfrumur (NK frumur) gegna hlutverki í hjöðnun ofnæmistengdrar lungnabólgu og fyrri niðurstöður okkar sýna að fiskolía í fæði músa eykur fjölda NK frumna snemma í vakamiðlaðri bólgu og hraðar hjöðnun bólgunnar. Markmið rannsóknarinnar var að ákvarða hlutverk NK frumna í hjöðnun vakamiðlaðrar bólgu í músamódeli sem endurspeglar bólgukast í sjálfsofnæmissjúkdómum.

Efni og aðferðir: mBSA bólusettar mýs voru sprautaðar í æð með mótefni gegn NK frumum (NK skorts hópur) eða með viðmiðunarmótefni (viðmiðunarhópur). Sólarhring eftir eyðingu NK frumna var lífhimnubólga mynduð með því að sprauta mBSA í kviðarhol þeirra og kviðarholsvökva og frumum safnað á nokkrum tímapunktum. Frumur voru taldar og tjáning sameinda ákvörðuð með frumuflæðisjá. Styrkur boðefna og leysanlegra boðefnaviðtaka var ákvarðaður með ELISA aðferð.

Niðurstöður: Sex tímum eftir að lífhimnubólgu var komið af stað hafði fjöldi daufkyrninga í kviðarholi músa í báðum hópum aukist. Í NK skorts hópnum hafði fjöldi daufkyrninga enn aukist 12 tímum eftir að lífhimnubólgu var komið af stað á meðan í viðmiðunarhópnum hafði þeim fækkað og voru helmingi færri. Fjöldi daufkyrninga hélst hár í NK skorts hópum 48 tímum eftir að lífhimnubólgu var mynduð en þá voru engir daufkyrningar lengur í kviðarholi músanna í viðmiðunarhópnum. Fækkun NK frumna hafði lítil áhrif á aðrar frumur en jók styrk og/eða framlengdi hækkuðum styrk bólguboðefna.

Ályktun: Niðurstöðurnar benda til þess að NK frumur séu mikilvægar við að draga úr íferð daufkyrninga á bólgustað og/eða að ýta undir sjálfstýrðan frumudauða og át daufkyrninga og því nauðsynlegar fyrir hjöðnun bólgunnar.

 

43         Algengi IgA skorts meðal fyrstu gráðu ættingja IgA skorts einstaklinga

Andri Leó Lemarquis1,2, Helga Kristín Einarsdóttir 2, Ingileif Jónsdóttir 1,2,3, Björn Rúnar Lúðvíksson 1,2

1Háskóli Íslands, 2Landspítala, 3Íslenskri erfðagreiningu

andrileo@landspitali.is

Inngangur: IgA skortur (IgAD) er algengasti mótefnaskortur í mönnum, en algengi hans er talin vera um 1:600 á Íslandi. Tíðni ýmissa sjálfsónæmissjúkdóma er margfalt hærri hjá IgA skorts einstaklingum og ættingjum þeirra en sjálfsónæmissjóksómar eru ein helsta ástæða dauða og sjúkdómsbyrði í hinum vestræna heimi. Markmið rannsóknar var að kanna tíðni IgA skorts meðal fyrstu gráðu ættingja IgA skorts einstaklinga til að vita hvort mótefnaskortur væri algengari meðal þeirra og skoða ættlægni IgA skorts í íslenskum fjölskyldym.

Efniviður og aðferðir: 169 fyrstu gráðu ættingjar greindra IgA skorts einstaklinga voru fundnir í gagnagrunni Íslenskrar Erfðagreiningar og IgA mælt hjá þeim með nephelometriu, þeir sem mældust IgA tveim staðalfrávikum undir eða yfir meðaltali voru fremur mældir fyrir IgG og IgM.

Niðurstöður: Þrír einstaklingar voru með IgA skort, þar af einn með sértækan IgA skort en tveir einnig með lágt IgG og IgM. Auk þess mældist einn einstaklingur með lágt IgG og IgM án þess að vera með IgA skort. Ættartré íslenskra fjölskyldna með IgA skort bendir til fjölskylduþyrpingar en frekari mælinga er þörf hjá ættingjum.

Ályktun: Með þessarri rannsókn sést að aukin tíðni er á IgA skort auk annarra mótefnafrávika hjá ættingjum IgA skorts einstaklinga og bendir til hlutverk erfðaþáttar í meinmyndun IgA skorts. Fjölskylduþyrping er á IgA skort en ekki hægt að segja með vissu hver hlutfallsleg áhætta IgA skorts meðal ættingja IgA skorts einstaklinga er sem ekki er um almennt þýði að ræða því munum viðgera frekari útfærslu á þýði samhliða rannsóknum á líffræðilegum og erfðafræðilegum frávikum. Með því móti leitast við að bæta meðferðarmöguleika einstaklinga með IgA skort og sjálfsónæmissjúkdóma.

 

44       Gæði formalin fixeraðra DNA sýna úr vaxkubbum greind með Norðurljósagreiningu

Hans Guttormur Þormar1,2, Bjarki Guðmundsson1,2,3, Jón Jóhannes Jónsson2,3

1Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar, Háskóla Íslands, 2Lífeind ehf, 3erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítali

Hans@hi.is

Inngangur: Flókin kjarnsýrusýni eru notuð við allar helstu aðferðir sameindalíffræði. Þrátt fyrir það hafa fáar aðferðir komið fram sem greint geta slík sýni með tilliti til samsetningar og uppsafnaðra skemmda. Slíkar greiningar geta skipt sköpum ef um er að ræða verðmæt og/eða illfáanleg sýni.

Aðferðir: Norðurljósagreining ((Northern Lights Assay) á flóknum kjarnsýrusýnum samanstendur af rafdráttartæki og einnota örgelum. Greiningin er áreiðanleg, hröð og einföld í framkvæmd. Norðurljósagreining getur greint margvíslegar skemmdir í DNA m.a. einþátta og tvíþátta brot, miliþátta og innanþátta krosstengi, fyrirferðarmikla tengihópa og uppsöfnun einþátta DNA. Við notuðum Norðurljósagreiningu til að meta gæði kjarnsýrusýna einangruðum úr vefjasýnum sem hert voru í formalíni og steypt í paraffín.

Niðurstöður: Norðurljósagreiningar benda til þess að sýni meðhöndluð með formalíni innihaldi talsvert magn einþátta kjarnsýra, milliþátta og innanþátta krosstengja en hlutfallslega lítið af óskemmdum tvíþátta kjarnsýrum. Ofangreindar skemmdir geta haft veruleg áhrif á framhaldsmeðhöndlun sýnanna, niðurstöður raðgreininga og endurtakanleika tilrauna þeim tengdum.

Ályktanir: Norðurljósagreining getur veitt nýja innsýn í uppsöfnun skemmda í flóknum kjarnsýrusýnum, gefur möguleika á að bæta sýnameðhöndlun og gera tilraunir til að lagfæra skemmd kjarnsýrusýni.

 

45         Notkun rafrænna gagnagrunna í krabbameinserfðaráðgjöf  - upplifun ráðþega

Vigdís Stefánsdóttir1,2, Óskar Þór Jóhannsson3, Jón Jóhannes Jónsson1,2, Heather Skirton4.

1Erfða- og sameindalæknisfræðideild, Landspítala, 2lífefna- og sameindalíffræðistofu, læknadeild Háskóla Íslands 3lyflækningasvið, Landspítala, 4Faculty of Health and Human Sciences, Plymouth University

vigdisst@landspitali.is

Inngangur: Einstaklingar og fjölskyldur leita erfðaráðgjafar vegna fjölskyldusögu um krabbamein. Á Íslandi er hægt að gera nákvæm, rafræn ættartré með gögnum úr ættfræðigrunni Erfðafræðinefndar HÍ á Landspítalanum og Krabbameinsskrá.  Markmið þessarar rannsóknar var að kanna viðhorf og upplifun ráðþega sem komið hafa í krabbameinserfðaráðgjöf, þar sem rafæn ættartré hafa verið notuð til að gera áhættumat vegna arfgengra krabbameina.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var eigindleg, gerð á lokuðu spjallborði á netinu. Þáttakendur voru úr þekktum BRCA fjölskyldum (n=225). Alls voru þáttakendur 19 og var skipt upp í 4 hópa sem tóku þátt í umræðum, hver á eftir öðrum.

Niðurstöður: Þemu sem komu fram við greiningu gagna voru:  Hvatning og ástæður fyrir erfðarannsókn, afleiðingar niðurstöðu erfðarannsóknar, tilfinningaleg viðbrögð og hugleiðingar um rafræna gagnagrunna. Þáttakendur höfðu ekki á móti notkun rafrænna gagnagrunna og flestir treystu upplýsingum úr þeim. Nokkrir voru með áhyggjur vegna persónuupplýsinga. Þáttakendur höfðu ekki sérstakar áhyggjur af viðhorfi annarra ættingja vegna upplýsinga í gagnagrunnum.

Ályktun: Þessi rannsókn sýnir að ráðþegar eru sáttir við notkun rafrænna gagnagrunna til að fá nákvæmar ættfræði- og krabbameinsupplýsingar fyrir áhættumat og treysta upplýsingum úr þeim vel.  Hins vegar ber að gæta þess að á Íslandi er löng hefð fyrir því að nota ættfræðiupplýsingar og að þessar niðurstöður séu ef til vill ekki yfirfæranlegar á aðrar þjóðir.

 

46         Norðurljósagreiningar á DNA skemmdum í líkamsvökvum

Bjarki Guðmundsson1,2,3, Hans G. Þormar1,2, Olof Hammarlund1, Joakim Lindblad1, Albert Sigurðsson1, Davíð Ólafsson1,4, Anna M. Halldórsdóttir4, Jón J. Jónsson1,3

1Erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala,2lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeildar, Háskóla Íslands, 2Lífeind ehf, 4Blóðbanka Landspítala

bjarkigu@hi.is

Inngangur: Takmarkaðar rannsóknir hafa verið gerðar á byggingar-skemmdum í utanfrumu DNA (cfDNA) í líkamsvökvum. Slíkar skemmdir gætu orsakast af eðlilegri eða óeðlilegri frumuendurnýjun, óstöðugleika erfðamengis eða meðhöndlun með efnum sem skemma erfðaefnið, t.d. krabbameinslyfjum. Norðurljósagreining byggir á tvívíðum þáttháðum rafdrætti í örgelum. Hægt er að nota Norður-ljósagreiningu til að greina einþátta brot, tvíþátta brot, milliþáttar krosstengi, innanþáttar krosstengi, bognar fyrirferðarmiklar skemmdir og einþátta DNA. Við könnuðum hvort hægt væri nota Norðurljósagreiningu til að greina slíkar skemmdir í DNA í líkamsvökvum.

Efniviður og aðferðir: DNA úr hvítum blóðkornum, plasma, munnvatni, þvagi og botnfallsfrumum úr þvagi var einangrað með sértækum aðferðum sem valda ekki skemmdum á DNA. Skemmdir voru greindar með Norðurljósagreiningu. Sýnin voru greind á tvennan hátt, þ.e. óskorin og skorin með skerðiensíminu Mbo I sem sker bæði einþátta og tvíþátta DNA.

Niðurstöður: Í cfDNA úr plasma í heilbrigðum viðmiðunarsýnum greindist mynstur stýrðs frumudauða, með einþátta og tvíþátta brot í litnisagnarstærð. cfDNA í þvagi sýndi blandað mynstur stýrðs frumudauða og ósértæks niðurbrots. Breytilegar skemmdir greindust í DNA úr munnvatni, þ.á.m. áberandi einþátta brot. Í DNA úr sjúklingum sem verið var að meðhöndla með krabbameinslyfjum greindust skemmdir sem samsvöruðu virkni viðkomandi lyfs. Þannig greindust krosstengi eftir meðhöndlun með carboplatini, bognunarskemmdir eftir meðhöndlun með alkylerandi lyfinu cyclophosphamide og einþátta brot af völdum topoisomerasa hindrans etoposide.

Ályktun: Mögulega er hægt að nota Norðurljósagreiningu til að fylgjast með meðferð með krabbameinslyfjum eða draga úr aukaverkunum þeirra. Þetta þarf að kanna nánar með frekari rannsóknum.

 

47         DNA-metýlun í stýrisvæði og tjáning cystatin C gens í brjóstaæxlum

Elizabeth Cook1, Inga Reynisdóttir2, Rósa Barkardóttir2, Ísleifur Ólafsson1.

1Klínískrilífefnafræðideild, rannsóknakjarna, 2frumulíffræði, meinafræðideild Landspítala

 isleifur@landspitali.is

Inngangur: Cystatin C er prótein sem hemur virkni enzýma af flokki cystein próteinasa en cystein proteinasar taka þátt í ífarandi vexti illkynja æxla. Gen cystatin C (CST3) er staðsett á litningi 20p11.2, er 6,5 kb að stærð, með 4 útraðir og tjáð í öllum vefjum líkamans. Stýrisvæði gensins er GC ríkt og hefur 44 möguleg set fyrir DNA metýlun. Markmið rannsóknar var að greina epigenetíska metýlun í stýrisvæði CST3 og áhrif hennar á tjáningu gensins.

Aðferðir: Erfðaefni var einangrað úr blóði 13 heilbrigðra einstaklinga og 23 frum-brjóstaæxla. Það var látið hvarfast lengi við bísúlfat og raðir stýrisvæðis CST3 fjölfaldaðar og raðgreindar með aðferð Sangers og Applied Biosystems 3130xl Genetic Analyser. Hlutfallslegt magn DNA metýlunar var ákvarðað frá raðgreiningunni. Tjáning CST3 mRNA í brjóstaæxlum var fengin úr birtum örflögurannsóknum (GEO: GSE25307).

Niðurstöður: DNA metýlun greindist á 16 GpC setum sem náðu frá núkleotíðum -362 til -1061 í stýrisvæði (+1 er A í upphafsseti þýðingar ATG). Engin metýlun greindist á 28 GpC setum í röðinni frá -1 til -361. Hlutfallslegt magn metýlunar sýndi svipað mynstur í stýrisvæði í sýnum úr blóði og brjóstaæxlum. Marktækt minni metýlun var á tveimur GpC setum í stýrisvæði CST3 í krabbameinsfrumum (-725 og -730, p = 0.01 og p = 1.7x10-5, í réttri röð) samanborið við erfðaefnið úr blóði. Hlutfallslegt magn metýlunar sýndi ekki marktækt samband við CST3 mRNA tjáningu í brjóstaæxlum.

Ályktun: Meiri breytileiki er í hlutfallslegu magni metýlunar á GpC setum stýrisvæðis CST3 gens í erfðaefni brjóstaæxla  en erfðaefni bláæðablóðs. Metýlun sýnir ekki marktækt samband við CST3 mRNA tjáningu í brjóstaæxlum. Ferkari rannsókna er þörf til að staðfesta þetta samband.

 

48         Tjáning á Aldehyde dehydrogenasa í brjóstastofnfrumulínunni D492 og tengsl við stofnfrumueiginleika

Katrín Birna Pétursdóttir1, Þórarinn Guðjónsson2,3,4, Jón Þór Bergþórsson2,3,4

Læknadeild Háskóla Íslands1, blóðmeinafræðideild Landspítala2, rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum3, Lífvísindasetri Háskóla Íslands4.

kbp2@hi.is

Inngangur: Aldehyde dehydrogenasar (ALDH) eru ensím sem hvata oxun aldehyda og er hvarfið m.a. þáttur í afeitrun frumunnar. ALDH virkni er talin fylgja stofnfrumueiginleikum í bæði eðlilegum og krabbameinsfrumum. D492 er brjóstaþekjufrumulína með stofnfrumueiginleika sem myndar þyrpingar af greinóttri kirtillíkri formgerð sé hún ræktuð í þrívíðri rækt. D492M, dótturfrumulína D492, hefur gengist undir bandvefsumbreytingu þekjuvefjar (EMT), en talið er að skörun sé á milli EMT og stofnfrumueiginleika. Markmið rannsóknarinnar var að athuga hvort ALDH virkni fylgi stofnfrumueiginleikum í D492.

Efniviður og aðferðir: ALDH virkni í D492 og D492M var mæld með Aldefluor prófi og greind í frumuflæðisjá. D492 frumur voru einangraðar og flokkaðar eftir ALDH virkni og sáð í þrívíða rækt.

Niðurstöður: Samanburður á ALDH virkni leiddi í ljós að virknin var marktækt meiri í D492 frumum en D492M. Ræktun frumna hafði ekki marktæk áhrif á ALDH virkni skv. samanburði á mismunandi kynslóðum D492. Þekktir stofnfrumumarkerar sem voru greindir sýndu yfirleitt einsleita tjáningu og voru ekki gagnlegir til að spá fyrir um ALDH virkni í  D492 og D492M. Frumur með háa ALDH virkni mynduðu þyrpingar fyrr í þrívíðri rækt og virtust hafa aukna tilhneigingu til að mynda kirtillíka formgerð. Þessar frumur höfðu einnig hærri tjáningu á stofnfrumumarkernum Thy-1 og fjölguðu sér hraðar en frumur með lága ALDH virkni, þegar sáð í lágum þéttleika.

Ályktun: Niðurstöður þessarar rannsóknar eru vísbendingar um aukna stofnfrumueiginleika D492 frumna með háa ALDH virkni og möguleika ALDH sem stofnfrumumarker. Til þess að staðfesta niðurstöðurnar er þó þörf á frekari rannsóknum sem m.a. fela í sér meiri næmni á stofnfrumueiginleika.

 

49            Kortlagning á breytingum á  micro RNA við geymslu á blóðflögum með og án örveruóvirkjunar

Níels Árni Árnason1, Ragna Landrö1, Óttar Rolfsson2,  Björn Harðarson1, Sveinn Guðmundsson1 , Ólafur E. Sigurjónsson1, 3

1Blóðbanka Landspítala , 2Kerfislíffræðisetri HÍ, 3heilbrigðis- og taugaverkfræðistofnun Háskólans í Reykjavík,

oes@landspitali.is

Inngangur. Blóðflögur gegna mikilvægu hlutverki í segamyndun, blæðingastöðvun, bólgusvörum og sáraviðgerðum. Blóðflögur hafa takmarkaðan geymslutíma utan líkama og við geymslu þeirra myndast ástand sem kallað er “platelet storage lesion” (PLS) sem leitt getur  til þess að virkni þeirra við inngjöf verður ekki ákjósanleg. Til að lengja geymslu tíma þeirra í 7 daga er beitt örveruóvirkjun til að drag úr líkum á sýklasmiti

Markmið: Markmið þessarar rannsóknar var að fá heildarmynd á micro RNA (miRNA) breytingum sem verða við geymslu blóðflaga til að skilja betur myndun á PLS og til að þróa aðferðir sem bæta gæði blóðflaga við geymslu.

Aðferðir. Fylgst var með gæðum og starfsemi flaganna með gæðaprófum og greiningu á miRNA með örflögutækni. Greind voru rúmlega 2000 mismunandi miRNA í fjórum blóðflögueiningum á fjórum tímapunktum við geymslu (D1, 2, 4 og 7) auk þess sem að 20 mismundi gæðaþættir voru skoðaðir til að meta PSL.

Niðurstöður. Greining á gæðaþáttum  sýndu að örveruóvirjaðar blóðflögur sýna meiri merki um PLS samanborið við blóðflögur sem ekki hafa verið örveruóvirkjaðar, sérstaklega á degi 4 og 7. Meiri fjöldi  miRNA  var til staðar í örveruóvirkjuðu blóðflögunum á degi 4 og 7 samanborið við blóðflögur sem ekki voru örveruóvrikjaðar.

Ályktun.  Örveruóvirkjun hefur mögulega áhrif á PSL og veldur breytingum í miRNA samsetningu í blóðflögum við geymslu, Þessar niðurstöður gefa nýja innsýn inn í þá ferla sem mögulega eru valdur af PSL og opnar dyrnar á því að nota slíkar aðferðir ásamt kerfislíffræðilegum nálgunum  og módelsmíði til að bæta gæði blóðhluta.


50         Samanburður á geymslu blóðskilju og buffy coat blóðflaga með tilliti til efnaskipta og gæðaprófa

Giuseppe Paglia1, Ólafur E. Sigurjónsson2, 3, Óttar Rolfsson1, Soley Valgeirsdottir1, Morten Bagge Hansen4, Sigurður Brynjólfsson1, Sveinn Gudmundsson2, Bernhard O. Palsson1.

1Kerfislíffræðisetri HÍ, 2Blóðbanka Landspítala, 2heilbrigðis- og taugaverkfræðistofnun Háskólans í Reykjavík, 4Department of Clinical Immunology, Rigshospitalet

oes@landspitali.is

Inngangur: Blóðflögur gegna mikilvægu hlutverki í segamyndun, blæðingastöðvun, bólgusvörum og sáraviðgerðum. Blóðflögur hafa takmarkaðan geymslutíma utan líkama (fimm til sjö daga) og við geymslu þeirra myndast ástand sem kallað er “platelet storage lesion” (PLS)  sem leitt getur  til þess að virkni þeirra við inngjöf verður ekki ákjósanleg

Markmið: Markmið þessarar rannsóknar var að fá heildarmynd á efnaskiptabreytingum sem verða við geymslu blóðflaga, framleiddum með tveimur mismunandi aðferðum til að skilja betur myndun á PLS og til að þróa aðferðir sem bæta gæði blóðflaga við geymslu.

Aðferðir: Fylgst var með gæðum og starfsemi flaganna með gæðaprófum og djúpgreiningu á efnaskiptaferlum með UPLC aðgreining (HILIC aðferð) sem pöruð var við Q-TOF massagreini. Greindir voru 174 mismunandi þættir í sex blóðflögueiningum sem safnað var með blóðskilun. Greint var á 8 mismunandi tímapunktum við geymslu í 10 daga.

Niðurstöður: Ekki var um að ræða línulega breytingu á efnaskiptaferlum blóðflagana við geymslu heldur mátti greina 3 fasa þar sem breyting varð í efnaskiptaferlum blóðflagna við geymslu þeirra. Í fyrsta fasanum (dagur 0-3) mátti greina virkni í glycolysis ferlinum, phentose phosphate ferlinum og glutathione ferlinum á meðan að það dró úr tricarboxylic acid (TCA) hringnum. Í fasa tvö (dagur 4-6) mátti greina aukningu í TCA hringnum og aukningu í purine efnaskiptaferlum. Í þriðja fasanum (dagur 7-10) mátti greina almennt niðurbrot í öllum efnaskiptum.

Ályktun: PSL leiðir ekki af sér línulegt niðurbrot í efnaskiptaferlum við geymslu blóðflaga heldur breytingum sem greina má í 3 fasa. Þessar niðurstöður gefa nýja innsýn inn í þá ferla sem mögulega eru valdur af PSL og opnar dyrnar á því að nota kerfislíffræðilegar nálganir og módelsmíði til að bæta gæði blóðhluta.

 

51         Frostþurrkuð blóðflögulýsöt úr örveruóvirkjuðum blóðflögueiningum til sérhæfingar miðlagsstofnfrumna

Helena Montazeri1,2, Kristján Torfi Örnólfsson1,2,  Linda Jasonardóttir1,2, Hildur Sigurgrímsdóttir1,2, Sandra Mjöll Jónsdóttir1,2, Ólafur E. Sigurjónsson1,3

1Blóðbanka Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3heilbrigðis- og taugaverkfræðistofnun Háskólans í Reykjavík

oes@landspitali.is

Inngangur: Blóðbankinn hefur þróað aðferðir sem nýta útrunnar örveruóvirkjaðar blóðflögueiningar til ræktunar á miðlagsstofnfrumum úr beinmerg (MSC). Hagnýting á útrunnum blóðflögueiningum með þessum hætti er gífurleg þar sem vandamál tengd dýraafurðum við ræktun á MSC frumum er leyst  á sama tíma og dýrmætur efniviður er endurunninn. Sýnt hefur verið fram á að hægt er að nota lýsöt úr útrunnum blóðflögueiningum og örveruóvirkjuðum útrunnum blóðflögueiningum við ræktun á MSC frumum án þess að hafa áhrif á grunneiginleika og líffræði þeirra.

Markmið: Í þessu verkefni er að kanna áhrif frostþurrkaðra á lýsata unnin úr útrunnum örveruóvirkjuðum blóðflögueiningum til sérhæfingar á miðlagsstofnfrumum.

Aðferðir: MSC frumur úr beinmerg voru ræktaðar í æti bættu með lýsati úr útrunnum örveruóvirkjuðum blóðflögueiningum (PIPL) og frostþurrkaðar útgáfa slíkra lýsata (L-PIPL). Áhrif ætis á vöxt og útlit frumnanna var metið með alizarin red litun og mælingum á alkalískum fosfatasa.

Niðurstöður:  Virkni alkalísks fosfatasa var sambærileg á öllum tímapunktum sem skoðaðir voru í L-PIPL og PIPL frumuræktunum og bendir það til þess að umfang beinsérhæfingarinnar hafi verið svipað hvort sem L-PIPL eða PIPL var notað sem frumuætisviðbót. Frostþurrkuð lýsöt unnin úr útrunnum blóðflögueiningum sýndu. Magnmæling á alizarin red leiddi í ljós að minni steinefnaútfelling átti sér stað í frumuræktunum þar sem notast var við L-PIPL samanborið við PIPL.

Ályktanir:  Þörf er á frekari rannsóknum til að kanna hvort notkun L-PIPL í stað PIPL sem frumuætisviðbót við beinsérhæfingu á MSC hafi í raun og veru í för með sér minnkun á steinefnaútfellingu en það kann að vera að frostþurrkun valdi skemmdum á einhverjum próteinum/vaxtarþáttum sem finnast í blóðflögulýsötum og hvata steinefnaútfellingu.

 

52         Greiningarhæfni tölvusneiðmynda: Þvermál og þéttni fiskbeina

Halla K. Guðfinnsdóttir1, Þórður Helgason1,2

1Háskólanum í Reykjavík, 2Landspítala

halla09@ru.is

Inngangur: Þekking á samhenginu milli stærðar og þéttni beina, við greinanleika þeirra í klíníkri tölvusneiðmynd, er lykilatriði í úrlestri myndanna og veitir mikilsverðar upplýsingar um hvað megi sjá á myndunum. Rannsóknin felur í sér að skoða hversu smá og efnisþunn bein mega vera án þess að hverfa af tölvusneiðmynd. Greiningarhæfnin er þá ákvörðuð með gerð þrívíddarlíkans fiskbeina og samanburði á megindlegum atriðum. Tilgáta er að með þessum aðferðum megi draga upp mynd af því hversu stórt þvermál beina þarf að vera við ákveðna beinþéttni til að sjást á sneiðmynd.

Efniviður og aðferðir: Við rannsóknina var notast við bein úr þorski og laxi en fiskbein eru smágerð og með lægri beinþéttni en í mönnum. Fiskarnir voru skannaðir í tölvusneiðmyndatæki LSH og þrívíddarlíkön af beinagrindum fiskanna unnin úr gögnunum með myndvinnsluforritinu Mimics®. Nokkur bein voru valin til frekari greiningar og skorin úr holdi fiskanna. Þvermáls, lengdar og þyngdar mælingar voru framkvæmdar og mældar stærðir bornar saman við sömu mælingar í líkaninu.

Niðurstöður: Áhugavert er að sjá að þorskbeinin eru þykkari heldur en laxabeinin. Niðurstöðurnar sýna marktækt stærri mun á samanburði mældra stærða og líkansins hjá laxinium (38,5% ± 15,3%) heldur en þorsknum (9,7% ± 9,3%) þar sem stærðir líkansins eru mjög nálægt mældum stærðum. Þetta sýnir getu til að endurbyggja með nákvæmni þvermál og lengd þorskbeinanna en með minni nákvæmni smágerð bein laxsins. Niðurstöðurnar gefa til kynna að mjög þunn og fíngerð bein vanti inn í líkönin sökum smæðar þeirra eða lágri beinþéttni sem rekja má til hlut-rúmmáls áhrifa (e. partial-volume-effect).

Ályktun: Hægt er að gera líkön af smáum beinum með lítilli beinþéttni úr sneiðmyndagögnum. Þetta er gagnlegt fyrir greiningu beinbrots á smáum beinum.


53         Púlsmótunarhugbúnaður fyrir fingurendurhæfi

Skúli Þór Jónasson1,2, Þórður Helgason1,2

1Heilbrigðistæknisetri Landspítala og HR, 2FiRe ehf

skulij11@ru.is

Inngangur: Verkefnið Fingurendurhæfir er hönnun taugastoðtækis til raförvunar fingurvöðva einstaklinga með mænuskaða við 5-7 hálslið (þverlamanir). Meginmarkmið verkefnisins er að notandi geti einn og óstuddur notað búnaðinn sér til hagsbóta. Liður í verkefninu er að þróa og hanna hugbúnað sem stýrir straumstyrk um einstök rafskaut í rafskautafylkjum.

Markmið: Að hanna og þróa vél- og hugbúnað fyrir útgangsstig raförva til að stýra rafpúlsum um rafskautafylki.  Stýra á púlsbreidd, útslagi og tíðni raförvunarpúlsanna.

Aðferðir: Einfalt púlsmótunarforrit var skrifað og prófað fyrir frumgerð af litlu örgjörvabretti sem hefur tengimöguleika við allt að 16 rafskaut, þ.e. eitt fylki. Forritið framkallar tvífasa púlsaraðir þ.a. hver púlsaröð samanstendur bæði af raförvunarpúlsi og andstæðum afhleðslupúlsi til að hleðslujafnvægi haldist við raförvunina.  Notandinn getur með einföldum skipunum stýrt breidd púlsanna (í µs eða ms) og sömuleiðis útslagi og tíðni. Fyrir prófanir á púlsaröð var smágerð útgangsrás fyrir eitt rafskautapar hönnuð og smíðuð.

Niðurstöður: Fram er komið forrit sem gerir notandanum kleift að framkalla púlsaraðir fyrir nokkur rafskaut samtímis og einnig eitt og sér. Forritið getur kveikt á allt að 4 rafskautum samtímis Þá er einnig komið fram útgangsstig fyrir raförva til að stýra straum á hverju rafskauti í fylki. Prófanir á útgangsrásinni sýnir eðlilega virkni púlsaraðanna og þar með bæði vél- og hugbúnaðar.

Ályktun: Púlsmótunarforritið er komið fram og virkni þess er eins og lagt var upp með. Næstu skref eru að laga tæknileg útfærsluatriði og fjölga rafskautum sem kveikja má á samtímis. Forritið og útgangsrásin eru stór þáttur í gerð hugbúnaðarins fyrir fingurendurhæfinn og þar með í að bæta líf mænuskaddaðra einstaklinga.


54         Þróun mælibúnaðar til að meta hljóðsrafhrifmerki sem getur fylgst með raförvun aftaugaðra vöðva

Kristín Inga Gunnlaugsdóttir1,2,3, Þórður Helgason1,2

1Vísindadeild Landspítala, 2Háskólanum í Reykjavík,3Háskólanum í Lübeck

kristin.gunnlaugsdottir@gmail.com

Inngangur: Raförvun er notuð til að örva aftaugaða vöðva, bæði til að styrkja þá og stækka. Það er erfitt að fylgjast með áhrifum raförvunarinnar, hvort að allur vöðvinn sé örvaður eða einungis að hluta til. Okkar kenning er sú að með því að nota hljóðrafhrif, sé hægt að fylgjast með raförvun aftaugaðra vöðva án íhlutunar í rauntíma. Úthljóðsbylgja er send inn í vöðvann, og breytir hún leiðni hans staðbundið. Ef rafstraumur er fyrir, mælist breyting á spennu, sem samsvarar hljóðrafhrifunum. Hrifin ættu að vera auðþekkjanleg, þar sem þau eru á hærri tíðni en aðrar tíðnir líkamans. Með hljóðrafhrifum ætti að vera hægt að kortleggja straumdreifinguna, svokölluð úthljóðsstraumlindarmyndgerð. Meginmarkmið verkefnisins er að setja upp og prófa mæliaðstöðu til að mæla hljóðrafhrif.

Efniviður og aðferðir: Mæliaðstaða fyrir mælingar á hljóðrafhrifum var þróuð. Úthljóðsgjafi sendir bylgju í saltlausn, sem er ætlað að líkja eftir innra umhverfi líkamans. Þar til gerður nemi var smíðaður sem myndar einsleitt rafsvið og nemur spennuna sem myndast. Búnaðurinn var betrumbættur, m.a. með Faraday búri til að koma í veg fyrir rafsegultruflanir. Auk þess var magnari með síu og litlu suði útbúinn, því merkið er afar veikt. Enn fremur var færslubúnaður og sérstakt gataspjald útfærð, sem leyfðu staðsetningu straum- og mæliskauta með mikilli nákvæmni.  Mælibúnaður var prófaður og úthljóðs- og straumsvið mæld.

Niðurstöður: Mæliniðurstöður sýna að mælitækin virka sem skyldi. Enn fremur samsvara úthljóðs- og straumsviðin líkönum sem gerð hafa verið.

Ályktun: Niðurstöður gefa til kynna að þessi mæliaðstaða uppfyllir kröfur til að mæla hljóðrafhrif.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica