Ágrip erinda

Ágrip erinda

E-01 D-vítamínskortur er algengur hjá bráðveikum sjúklingum

Rúnar B. Kvaran1,2, Sigurbjörg J. Skarphéðins­dóttir1, Martin I. Sigurðsson3,

Gísli H. Sigurðsson1,2

1Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 2Læknadeild Háskóla Íslands, 3Department of Anesthesiology, Perioperative and Pain Medicine Brigham and Women's Hospital, Boston BNA.

runarkvaran@gmail.com

Inngangur: D-vítamínskortur tengist auk­inni hættu á hjarta- og æðasjúkdómum, lungnasjúkdómum og krabbameini til viðbótar við beina- og vöðvasjúkdóma líkt og lengi hefur verið þekkt. Rannsóknir í suðlægum löndum hafa sýnt lág D-vítamíngildi (25(OH)D) í blóði gjörgæslusjúklinga og tengt D-vítamínskort við lengri spítalalegu og aukna dánartíðni. Upplýsingar um D-vítamínbúskap gjörgæslusjúklinga á norðurslóðum vantar. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna D-vítamínbúskap gjörgæslusjúklinga á Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var framsýn athugunarrannsókn á 102 sjúklingum sem lögðust inn á gjörgæslu Landspítala frá febrúar til september 2014. 25(OH)D var mælt í blóði sjúklinga á fyrsta sólarhring gjörgæslulegu og 1-2 dögum síðar. D-vítamínskortur var skilgreindur sem 25(OH)D <50 nmól/L og alvarlegur skortur <25 nmól/L. Algengi D-vítamínskorts var metið og áhrif hans á gjörgæslu- og spítalalegu og dánartíðni.

Niðurstöður: Meðalaldur sjúklinga var 65 ár (19-88 ár), 61% karlar. Algengustu ástæður innlagnar á gjörgæslu voru sýklasótt (20%), blæðing (16%) og öndunarbilun (15%). APACHE II stigun, sem metur alvarleika veikinda, var 19,3±7,7. 68% sjúklinga reyndust hafa D-vítamínskort og einungis 11% höfðu D-vítamíngildi yfir 75 nmól/L. Meðalmunur á aðskildum D-vítamínmælingum hjá sama sjúklingi var 2,3±9,9 nmól/L. Sjúklingar með 25(OH)D <25 nmól/L (n = 46) lágu að meðaltali 7,7 daga á gjörgæslu en sjúklingar með 25(OH)D >25 nmól/L (n = 56) að meðaltali 3,9 daga (p = 0,07).

Ályktun: D-vítamínskortur er algengur á meðal gjörgæslusjúklinga á Landspítala og sjúklingar með alvarlegan D-vítamínskort virðast liggja lengur inni á gjörgæslu en aðrir sjúklingar. Einungis 11% sjúklinga höfðu D-vítamíngildi sem eru talin nauðsynleg til þess að viðhalda góðri heilsu.

 

 

E-02 Árangur kransæðahjáveituaðgerða hjá konum á Íslandi

Helga Rún Garðarsdóttir1, Hera Jóhannes­dóttir2, Jónas A. Aðalsteinsson1,

Linda Ósk Árnadóttir1, Sólveig Helgadóttir2, Tómas A. Axelsson2, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir3, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Hjarta- og lungnaskurðdeild og 3hjartadeild Landspítala.

hrg53@hi.is

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að kanna árangur kransæðahjáveitu-aðgerða hjá konum með áherslu á fylgikvilla, dánarhlutfall innan 30 daga og langtíma lifun.

Efniviður og aðferðir:Afturskyggn rannsókn sem náði til allra sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Íslandi árin 2001-2012. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og Dánarmeinaskrá Landlæknisembættis. Fylgikvillar voru skráðir og heildarlifun reiknuð með aðferð Kaplan-Meier. Fjölþáttagreining var notuð til að meta forspárþætti dauða innan 30 daga og lifunar. Meðaleftirfylgd var 5,7 ár.

Niðurstöður: Af 1622 sjúklingum voru konur 291 (18%). Meðalaldur þeirra var hærri en karla (69 ár sbr. 65 ár, p<0,001), þær höfðu oftar sögu um háþrýsting (72% sbr. 62%, p <0,001) og EuroSCORE þeirra var hærra (6,1 sbr. 4,4, p <0,001). Hlutfall annarra áhættuþátta eins og sykursýki og umfang kransæðasjúkdóms var sæmbærileg. Alls létust 12 konur en 30 karlar (4% sbr. 2%, p=0,1) innan 30 daga en munurinn var ekki marktækur. Heildartíðni skammtíma (53% sbr. 43%, p=0,07) og langtíma fylgikvilla (27% sbr. 32%, p=0,1) var sambærileg milli kynja. Fimm árum frá aðgerð var lifun kvenna 87% borið saman við 90% hjá körlum (p=0,09). Sterkustu forspárþættir dauða innan 30 daga voru hár aldur, skert nýrnastarfsemi og bráðaaðgerð. Kvenkyn reyndist hins vegar hvorki vera sjálfstæður forspárþáttur dauða innan 30 daga (OR 0,99; 95%-ÖB: 0,97-1,01) né langtíma lifunar (OR 1,09; 95%-ÖB 0,79-1,51).

Ályktun:Konur gangast sjaldnar undir kransæðahjáveituaðgerðir en karlar en eru fjórum árum eldri þegar kemur að aðgerð. Árangur kransæðahjáveitu er ekki síðri meðal kvenna en karla og 5 árum frá aðgerð eru 87% þeirra á lífi.

 


E-03 Bráðar kransæðahjáveituaðgerðir: Ábendingar og árangur

Tómas Andri Axelsson1, Anders Jeppsson2, Tómas Guðbjartsson3

1Læknadeild HÍ, 2hjartaskurðdeild Sahlgrenska háskólasjúkrahússins í Gautaborg, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

taa2@hi.is

Inngangur: Kransæðahjáveituaðgerð er í langflestum tilvikum valaðgerð, en árangur þeirra er töluvert rannsakaður. Upplýsingar skortir hins vegar um bráðar kransæðahjáveituaðgerðir, en þær eru annars vegar neyðaraðgerðir (emergency CABG) sem framkvændar eru innan næsta vinnudags eftir að ákvörðun um aðgerð er tekin og hins vegar björgunaraðgerð (salvage CABG) þegar sjúklingur þarf endurlífgun á leið á skurðstofu. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna ábendingar og árangur þessara aðgerða.

Aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum neyðar- og björgunar kransæðahjáveituaðgerðum sem framkvæmdar voru milli 2005-2013 á Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu (n=268) og á Landspítala (n=42). Meðal eftirfylgd var 3 ár.

Niðurstöður: Af 310 sjúklingum voru 296 neyðaraðgerðir og 14 (5%) björgunaraðgerðir; eða 5% af kransæðaaðgerðum framkvæmdum á tímabilinu. Karlmenn voru 71%, meðalaldur var 67 ár og meðal Euro-SCORE-II 6,9%. Allir sjúklingarnir höfðu brátt kransæðarheilkenni við komu; 42% STEMI, 39% NSTEMI og 19% óstöðuga hjartaöng. Tæplega helmingur sjúklinga fór beint á skurðstofu eftir kransæðaþræðingu og fengu 15% fengu þeirra ósæðardælu (IABP) fyrir aðgerð og önnur 9% eftir aðgerð. Meðal hjarta- og lungnavélartími var 87 mín. Tæplega helmingur sjúklinga þurfti samdráttarhvetjandi hjartalyf  í >12 klst eftir aðgerð og 8 sjúklingar (3%) ECMO-dælu. Heilablóðfall greindist hjá 4% sjúklinga eftir aðgerð og tíðni enduraðgerða vegna blæðingar var 16%. Dánarhlutfall í sömu sjúkrahússlegu var 16%; 15% eftir neyðaraðgerð en 85% eftir björgunaraðgerð. Fimm ára lifun eftir aðgerð var 73% fyrir allan hópinn.

Ályktun: Dánarhlutfall eftir björgunaraðgerðir er hátt (85%) en mun lægra fyrir neyðaraðgerðir (15%). Enduraðgerðir vegna blæðinga voru algengar, enda fengu nánast allir sjúklingarnir kröftuga blóðflöguhemjandi meðferð fyrir aðgerð. Sjúklingar sem lifa af aðgerðina hafa ágætar langtímahorfur.


 

E-04 Skurðaðgerðir við hjartaþelsbólgu á Íslandi 1997-2013

Ragnheiður Martha Jóhannesdóttir1, Tómas Guðbjartsson1,2, Arnar Geirsson1

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala , 2Læknadeild Háskóla Íslands

ragnheidur.martha@gmail.com

Inngangur: Hjartaþelsbólga er sýking í hjartaþeli sem oftast leggst á hjartalokur. Meðferðin felst í sýklalyfjagjöf en stundum er skurðaðgerðar þörf til lækningar. Upplýsingar um árangur þessara aðgerða og hlutfall sjúklinga sem þurfa aðgerð vantar hér á landi.

Efniviður og aðferðir:Afturvirk rannsókn á öllum sjúklingum sem greindust með hjartaþelsbólgu á Landspítala 1997-2013. Litið var sérstaklega á sjúklinga sem gengust undir hjartaðgerð vegna hjartaþelsbólgu á tímabilinu. Upplýsingar fengust úr miðlægum greiningar- og aðgerðarskrám.

Niðurstöður: Alls greindust 307 einstaklingar með hjartaþelsbólgu á rannsóknartímabilinu og þurftu 38 þeirra skurðaðgerð (12,3%). Oftast var um sýkta ósæðarloku að ræða, eða hjá 27 sjúklingum. Skipta þurfti um loku hjá öllum sjúklingum nema tveimur, ýmist með gerviloku (28%) eða lífrænni loku (57%). Í 3 tilvikum var um sýkta gerviloku að ræða sem skipt var út. Kransæðahjáveita var framkvæmd samhliða hjá 19% sjúklinga og hjá 16% þurfti að lagfæra aðra hjartaloku, oftast míturloku. Fimm sjúklingar höfðu fyrri sögu um hjartaaðgerð og aðrir 5 sjúklingar voru sprautufíklar. Alls voru 26 sjúklingar með jákvæðar blóðræktanir og voru algengustu sýklarnir gram-jákvæðir kokkar, oftast Staphylococcus aureus. Oftast var notast við 3ju kynslóðar cephalosporin og penicillín. Tímalengd frá greiningu að skurðaðgerð voru 12 dagar (miðgildi, bil: 0-330 dagar). Algengustu fylgikvillar eftir aðgerð voru hjartadrep (35%), öndunarbilun (44%) og enduraðgerð vegna blæðingar (26%). Alls létust 4 sjúklingar innan 30-daga (11%). Fimm og 10 ára lifun var 59,5% og 49,5%.

Ályktanir: Tæplega sjötti hver sjúklingur með hjartaþelsbólgu á Landspítala þurfti skurðgerð, oftast ósæðarlokuskipti. Fylgikvillar eru tíðir og dánarhlutfall umtalsvert hærra en við valaðgerð á hjartalokum.

 


E-05 D-vítamínskortur er algengur hjá sjúklingum á gjörgæslu eftir opnar hjartaðgerðir á Íslandi

Rúnar B. Kvaran1,3, Sigurbjörg J. Skarphéðins­dóttir1, Tómas Guðbjartsson2,3, Martin I. Sigurðsson4, Gísli H. Sigurðsson1,3

1Svæfinga- og gjörgæsludeild, 2 hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 3Læknadeild Háskóla Íslands, 4Department of Anesthesiology, Perioperative and Pain Medicine Brigham and Women's Hospital, Boston BNA.

runarkvaran@gmail.com

Inngangur: D-vítamínskortur hefur verið tengdur við aukna hættu á hjarta- og æðasjúkdómum, lungnasjúkdómum og krabbameini og auknar dánarlíkur af völdum þessara sjúkdóma. Rannsóknir frá suðlægum löndum á hjartaskurðsjúklingum hafa sýnt lág gildi D-vítamíns (25(OH)D) í blóði en upplýsingar um D-vítamínbúskap þessa sjúklingahóps vantar á norðlægum slóðum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna 25(OH)D-gildi sjúklinga eftir opna hjartaaðgerð á Íslandi.

Efniviður og aðferðir:Rannsóknin var framsýn athugunarrannsókn á 77 sjúklingum (77% karlar, meðalaldur 66,4±10,4ár) sem lágu á gjörgæsludeild Landspítala eftir opna hjartaaðgerð frá febrúar til september 2014. Í flestum tilvikum var um að ræða kransæðahjáveitu (60%) og ósæðarlokuskipti (30%). 25(OH)D var mælt í blóði á fyrsta sólarhring gjörgæslulegu og síðan einum eða tveimur dögum síðar. Klínískum upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám. LÞS sjúklinga var að meðaltali 28,0±5,1 kg/m2 og APACHE II stigun sjúklinga var að meðaltali 12,1±5,0. D-vítamínskortur var skilgreindur sem 25(OH)D <50 nmól/L.

Niðurstöður: Meðalgildi 25(OH)D í blóði sjúklinganna var um 35,2±22,1 nmól/L. Alls höfðu 59 sjúklingar (77%) D-vítamínskort og voru 30 þeirra (39%) með 25(OH)D-gildi <25 nmól/L sem telst alvarlegur skortur. Einungis 18 sjúklingar (23%) höfðu eðlileg gildi. Mismunur á fyrsta og öðru 25(OH)D-gildi sjúklings var að meðaltali 5,4±5,0 nmól/L.

Ályktanir: Mikill meirihluti sjúklinga (77%) mældist með D-vítamíngildi sem talin eru lægri en nægir til viðhalds góðrar heilsu. Nærri 40% mældust með alvarlegan skort sem getur tengst beineyðingu, beinkröm og vöðvaslappleika. Vel kemur til greina að skima fyrir D-vítamínskorti hjá sjúklingum sem gangast undir opnar hjartaaðgerðir á Íslandi.


 

E-06 Kirtilfrumukrabbamein í lungum - vefjaflokkun og lífshorfur eftir skurðaðgerð

Guðrún Nína Óskarsdóttir1,5, Jóhannes Björnsson4, Steinn Jónsson3,4, Helgi J Ísaksson2, Tómas Guðbjartsson1,5.

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2meinafræðideild og 3lungnadeild Landspítala. 4Meinafræðideild Sjúkrahússins á Akureyri, 5Læknadeild Háskóla Íslands.

gudrunn87@gmail.com

Inngangur: Lungnakrabbamein eru í 85% tilvika af ekki-smáfrumugerð og eru algengustu vefjagerðirnar kirtilfrumu-, flöguþekju- og stórfrumukrabbamein. Nýlega var birt nýtt flokkunarkerfi fyrir kirtilfrumukrabbamein í lungum og markmiðið að spá betur fyrir um lifun sjúklinga. Markmið þessarar rannsóknar var að endurskoða vefjagerð allra kirtilfrumukrabbameina í lungum á Íslandi  eftir lugnaaðgerð á 20 ára tímabili og meta áhrif vefjagerðar á lifun.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til 310 sjúklinga með kirtilfrumukrabbamein í lungum (meðalaldur 65,5 ár, 56% konur) sem gengust undir aðgerð á árunum 1991-2010 á Íslandi. Æxlin voru endurflokkuð samkvæmt nýjustu flokkun IASLC/ATS/ERS á kirtilfrumukrabbameinum. Heildarlifun var metin með aðferð Kaplan-Meier og miðast eftirfylgd við 1. janúar 2015.

Niðurstöður: Acinar-ríkjandi kirtilfrumukrabba­mein var algengasta vefjagerðin (45% tilfella) en næstu komu solid (24%), lepidic (19%) og papillary (8%) ríkjandi undirgerðir kirtilfrumukrabbameins. Eitt tilfelli greindist af kirtilfrumukrabbameini in situ, 3 tilfelli af lítið ífarandi (minimally invasive) kirtilfrumukrabbameini og 7 tilfelli voru ífarandi slímmyndandi. Heildarlifun fyrir allar vefjagerðir var 81,1% eftir 1 ár og 42,6% eftir 5 ár. Ekki sást marktækur munur á lifeun eftir undirgerðum kirtilfrumukrabbameins (log-rank próf, p=0,43) (mynd 1).

Ályktun: Acinar og solid ríkjandi kirtilfrumu­krabbamein eru algengustu undirflokkar frum­komins kirtilfrumukrabbameins í lungum. Ekki sást munur á lifun eftir undirflokkum kirtilfrumukrabbameins, líkt og sést hefur erlendis.E-07 Vitræn geta og heilarit eftir kransæðahjáveituaðgerð – framsýn rannsókn

Magnús Jóhannsson1, Tómas Guðbjartsson2,4, Lilja Ásgeirsdóttir 2, Ásdís Emilsdóttir1, Tómas Andri Axelsson4, Kristinn Johnsen1, Jón Snædal3

1Mentis Cura ehf, 2Hjarta- og Lungnaskurðdeild og 3öldrunarlækningadeild Landspítala, 4 Læknadeild Háskóla Íslands

magnus@mentiscura.is

Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt að vitræn skerðing, einkum minnistruflanir, geta fylgt opnum hjartaaðgerðum. Kólínvirkni heilans mæld með heilariti virðist hafa mikla samsvörun við vitræna skerðingu og er markmið þessarar rannsóknar að kanna þessi tengsl frekar og þá sérstaklega tengsl kólínvirknistuðuls (KS) við breytingar á vitrænni getu í kjölfar kransæðahjáveitu.

Efniviður og aðferðir: Framsýn rannsókn sem náði til 41 sjúklings (meðalaldur 64 ár, bil: 41-79, 34 karlar) sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð (CABG) á árunum 2010-2013. Gert var taugasálfræðilegt mat fyrir aðgerð og 4 og 12 mánuðum eftir aðgerð, til að meta vitræna getu ásamt mati á þunglyndi og kvíða. Heilarit var skráð samhliða. Úr heilaritunum var virkni kólínvirka kerfisins metin á tilbúnum kvarða frá 0-200 (miðgildi 100), þar sem hærra gildi bendir til aukinnar kólínvirkni. KS var reiknaður fyrir hverja heimsókn. Breytingar voru metnar með t-prófi, dreifigreiningu og fylgnireikningum. 

Niðurstöður: Flestir sjúklingar sem mældust með lágan KS fyrir aðgerð hækkuðu eftir aðgerð, en flestir með háan stuðul lækkuðu og reyndust breytingarnar marktækar [r= -0,56, p<0,01]. Fram komu marktækar breytingar í kjölfar aðgerðar á taugasálfræðiprófum þar sem frammistaðan batnaði á sviði minnis [eta2= 0,55; p<0,01] og hreyfihraða [eta2= 0,33; p<0,05]  ásamt lækkuðu heildarskori á þunglyndiskvarða [eta2= 0,36, p<0,05]. Miðlung til sterk fylgni (r= 0,33 - 0,58, p<0,05) var á milli KS og taugasálfræðiprófa á sviði minnis, hugræns hraða, mál/orðaflæði og kvíðakvarða.

Ályktun: Niðurstöður staðfesta fyrri niðurstöður okkar þar sem sáust tengsl kólínvirknistuðuls í heilariti við breytingar á vitrænni getu í kjölfar kransæðahjáveituaðgerða. Þessi aðferð gæti haft forspárgildi varðandi breytingar á vitrænni getu í kjölfar kransæðahjáveitu.

 

 

E-08 Árangur skurðmeðferðar við Pancoast-lungnakrabbameini á Íslandi

Björn Már Friðriksson1, Steinn Jónsson2, Guðrún Nína Óskarsdóttir1, Andri Wilberg Orrason1, Helgi J. Ísaksson3, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2lungnadeild, 3meinafræðideildog 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

bmf3@hi.is

Inngangur: Pancoast-æxli eru lungnakrabbamein sem vaxa út frá lungnatoppum í þak fleiðruhols og valda einkennum frá ífarandi vexti í aðlæg líffæri. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna árangur skurðmeðferðar við Pancoast-æxlum á Íslandi.

Efniviður og aðferðir:Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum sem gengust undir skurðaðgerð við Pancoast-krabbameini í læknandi tilgangi á Landspítala á árunum 1991-2010. Skráð voru einkenni sjúklinga, fylgikvillar meðferðar og endurkomutíðni. Æxlin voru stiguð samkvæmt nýju TNM-stigunarkerfi.

Niðurstöður: Tólf sjúklingar gengust undir aðgerð á þeim 20 árum sem rannsóknin náði til, þar af 7 á hægra lunga. Algengustu einkenni voru verkur í herðablaði eða öxl (n=5) og/eða brjóstverkur (n=3), hósti (n=6) og megrun (n=5). Flest æxlanna voru af kirtilfrumugerð (n=5) eða flöguþekjugerð (n=4). Meðalstærð æxlanna var 5,9 cm (bil: 2,8-15) og voru 5 á stigi IIB og 7 á stigi IIIA. Æxlin voru fjarlægð með hreinum skurðbrúnum í 10 tilfellum (83%). Allir sjúklingarnir lifðu aðgerðina af en einn sjúklingur varð fyrir alvarlegum fylgikvilla (8%) sem var mikil blæðing í aðgerð. Einn sjúklingur fékk geisla- og lyfjameðferð fyrir aðgerð en 8 fengu geislameðferð eftir aðgerð. Níu sjúklingar greindust síðar með endurkomu sjúkdóms; fjórir með staðbundna endurkomu, fjórir með útbreiddan sjúkdóm og einn með hvort tveggja. Heildarlifun eftir 5 ár var 33% en miðgildi lifunar var 27,5 mánuðir (bil: 4-181).

Ályktanir: Árangur skurðaðgerða og skammtíma horfur sjúklinga með Pancoast-krabbamein hafa verið góðar hérlendis. Langtíma horfur í þessarri rannsókn voru hins vegar lakari en í nýlegum erlendum rannsóknum og tíðni staðbundinnar endurkomu há, hugsanlega vegna minni notkunar á samtvinnaðri geisla – og lyfjameðferð fyrir aðgerð hjá þessum sjúklingum. 

 

 

E-09 Árangur þvagblöðrubrottnáms vegna krabbameins í þvagblöðru á Íslandi árin 2003-2013

Oddur Björnsson1 , Eiríkur Orri Guðmundsson2, Valur Þór Marteinsson3, Eiríkur Jónsson2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Þvagfæraskurðdeild Landspítala, 3Handlækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri

odb5@hi.is

Inngangur: Þvagblöðrubrottnám er kjörmeðferð við vöðvaífarandi krabbameini í þvagblöðru. Aðgerðin er umfangsmikil og fylgikvillar því algengir. Markmið rannsóknarinnar var að kanna afdrif sjúklinga sem fóru í aðgerðina og fylgikvilla hennar.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og tók til allra sjúklinga sem gengust undir þvagblöðrubrottnám vegna krabbameins í þvagblöðru á Landspítala og á Sjúkrahúsinu á Akureyri á árunum 2003-2013. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og Dánarmeinaskrá Landlæknisembættis. Fylgikvillar voru flokkaðir samkvæmt Clavien-Dindo flokkunarkerfinu. Langtímalifun sjúklinga var einungis skoðuð hjá þeim sjúklingum sem voru með breytiþekjukrabbamein (transitional cell cancer).

Niðurstöður: Alls gengust 108 sjúklingar (meðalaldur 67 ár, 81,5% karlar) undir þvagblöðrubrottnám vegna krabbameins í þvagblöðru á rannsóknartímabilinu og af þeim höfðu 99 sjúklingar breytiþekjukrabbamein. Bricker-þvagveita var gerð í 86% tilfella og nýblaðra á þvagrás hjá 14% sjúklinga. Miðgildi aðgerðartíma var 266 mínútur og miðgildi blóðtaps í aðgerð 1000 ml. Miðgildi legutíma eftir aðgerð var 15 dagar. Enginn sjúklingur lést innan 30 daga frá aðgerð en 1 sjúklingur (0,9%) lést innan 90 daga úr fylgikvilla aðgerðar. Alls fengu 62 sjúklingar (57%) fylgikvilla í kjölfar aðgerðar. Minniháttar fylgikvilla (Clavien: 1-2) fengu 30 sjúklingar (28%), 17 (16%) alvarlega fylgikvilla (Clavien: 3-5) og 15 (14%) hvoru tveggja. Enduraðgerð var framkvæmd á 26 sjúklingum (24%). Heildarlifun eftir 5 ár var 54% og sjúkdómatengd lifun 59%.

Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að lifun sjúklinga eftir þvagblöðrubrottnám hér á landi er sambærileg því sem lýst hefur verið í erlendum rannsóknum. Sama má segja um háa tíðni fylgikvilla og enduraðgerða.

 

 

E-10 Komur á bráðamóttöku Landspítala vegna rákvöðvarofs í kjölfar ofþjálfunar árin 2008-2012

Arnljótur Björn Halldórsson1,2, Elísabet Benedikz1,3, Ísleifur Ólafsson1,4, Brynjólfur Mogensen1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Rannsóknastofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, 3Vísinda- og þróunarsviði Landspítala, 4Rannsóknarkjarna Landspítala

abh15@hi.is

Inngangur: Margt getur orsakað rákvöðvarof, þar á meðal ofþjálfun og áreynsla. Við rákvöðvarof losnar kreatín kínasi (CK) og vöðvarauði (myoglóbín) úr vöðvafrumum. Kreatín kínasi nýtist til greiningar á rákvöðvarofi en vöðvarauði getur orsakað bráða nýrnabilun. Bráð nýrnabilun er alvarlegasti og þekktasti fylgikvilli rákvöðvarofs. Markmið rannsóknarinnar var að kanna faraldsfræði rákvöðvarofs í kjölfar ofþjálfunar eða áreynslu hjá sjúklingum sem leituðu á bráðamóttöku Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og lýsandi. Úrtakið var allir sjúklingar á Landspítala frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2012 með CK-gildi yfir 1000 IU/L. Undanskildir voru sjúklingar með CK-hækkun vegna blóðþurrðarsjúkdóms í hjarta og vegna rákvöðvarofs af öðrum orsökum. Skráður var fjöldi tilfella, kyn, CK-gildi, dagsetning komu, orsök og staðsetning rákvöðvarofsins, innlagnarlengd ásamt fylgikvillum sem þörfnuðust meðferðar.

Niðurstöður: Alls greindust 54 sjúklingur með áreynslurákvöðvarof, 18 konur og 36 karlar með miðgildi aldurs 28 ár (vikmörk 15–60 ár). Flest tilfelli greindust 2012 (n=18) og fæstar árið 2008 (n=7). Miðgildi CK-hækkunar var 24.132 IU/L og meðalgildi 35.496 IU/L. Bráð nýrnabilun sást í tveimur tilfellum (3,7%). Konur voru með marktækt meiri CK-hækkun en karlar (p < 0,001). Rákvöðvarof greindist í 89% tilvika í vöðvum grip- eða ganglima. CK hækkun var marktækt meiri í griplimum (p< 0,001). Ekki var marktækur munur á CK-hækkun eftir aldri (p = 0,79).

Ályktun: Fleiri karlar en konur fengu rákvöðvarof vegna áreynslu eða ofþjálfunar. Flestir voru með rákvöðvarof í vöðvum útlima. CK-hækkun var veruleg en fylgikvillar fátíðir. CK-hækkun var marktækt meiri meðal kvenna en karla og marktækt meiri eftir áreynslurákvöðvarof í griplimum en ganglimum.


 

E-11 Gallblöðrukrabbamein á Landspítalanum 2004-2013

Bryndís Baldvinsdóttir1, Kristín Huld Haraldsdóttir1

1Skurðlækningadeild Landspítala

bryndisbaldvins@gmail.com

Inngangur: Gallblöðrukrabbamein er um 0,5% allra krabbameina sem greinast. Horfur sjúklinga með slík æxli eru slæmar. Skurðaðgerð er eini meðferðarmöguleikinn sem getur leitt til lækningar. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða algengi sjúkdómsins hérlendis og voru sérstaklega skoðaðir þeir sem greindust á Landspítalanum.

Efniviður og aðferðir:Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem greindust með gallblöðrukrabbamein á Íslandi á árunum 2004-2013. Listi yfir greind tilfelli á landinu öllu var fenginn frá Krabbameinsskrá Íslands og var upplýsinga aflað úr sjúkraskrárkerfum Landspítala. Notast var við lýsandi tölfræði við úrvinnslu. Eftirfylgd var að meðaltali 5,8 ár.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu greindust 24 einstaklingar með gallblöðrukrabbamein á Íslandi, 16 konur og 8 karlar. Meðalaldur við greiningu var 72,5 ár (bil: 35-89). Af öllum sem greindust eru 17 látnir og meðallifitími þeirra eftir greiningu var rúmt ár. Af þeim 17 sem greindust á Landspítala voru 12 greindir í kjölfar gallblöðrutöku. Kirtilkrabbamein (adenocarcinoma) var algengasta æxlisgerðin (n=14). Þrír (3/24, 12,5%) sjúklingar gengust undir umfangsmeiri aðgerð í kjölfar greiningar á gallblöðrukrabbmeini með góðum árangri. Sex sjúklingar fóru í gallvegaspeglun (ERCP) og fengu stoðnet í gallgang sem einkennameðferð. Fjórir þeirra fengu einnig lyfjameðferð í líknandi tilgangi. Af hinum átta voru tveir sem fengu eingöngu líknandi meðferð, aðrir sex sjúklingar fengu enga sérstaka meðferð.

Ályktun:Gallblöðrukrabbamein er sjaldgæft krabbamein á Íslandi með slæmar horfur. Tæplega þriðjungur sjúklinga (7/24) hafði ekki tengsl við Landspítala í kjölfar greiningar. Skurðaðgerðir með lækningu að markmiði voru fáar en báru góðan árangur. 

 

 

E-12 Samanburður á húðdrepi í tveggja stiga og eins stigs brjóstauppbyggingu með ígræði og notkun lífræns húðbeðs

Anna Krisín Höskuldsdóttir1, Þorvaldur Jónsson1, Jarþrúður Jónsdóttir1, Kristján Skúli Ásgeirsson1

1Skurðlækningadeild Landspítala

annaho@landspitali.is

Inngangur: Notkun lífræns húðbeðs (acellular dermal matrix) í brjóstauppbyggingu með ígræði hefur aukist. Kostir þess eru margir, m.a. bætt útlit og möguleiki á eins stigs aðgerð þar sem ígræði er komið fyrir beint. Markmið þessarar rannsóknar var að bera saman fylgikvillatíðni og þá sérstaklega tíðni húðdreps, í tveggja stiga og eins stigs aðgerðum.

Efniviður og aðferðir:  Afturskyggn rannsókn á öllum enduruppbyggðum brjóstum með annað hvort tveggja stiga tækni eða eins stigs tækni á Landspítala frá júlí 2011 til desember 2013. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám. Notast var við lýsandi tölfræði.

Niðurstöður: Tveggja stiga brjóstauppbygginar voru framkvæmdar á 28 sjúklingum, alls 32 brjóstum (meðalaldur 50,6, bil: 26-70) en eins stigs aðgerðir voru framkvæmdar á 22 sjúklingum, alls 28 brjóstum (meðalaldur 49,6, bil 32-64). Ekki var marktækur munur á þyngd brjósta milli hópa eða stærð ígræðis sem var notað. Tíðni húðdreps var 15,6% (n=5) í tveggja stiga hópnum og 32,1% (n=9) í eins stigs hópnum (p=0,135). Alls þurftu þrír (9,4%) í tveggja stiga hópnum og fimm (17,9%) í eins stigs hópnum enduraðgerð vegna húðdreps. Ekkert ígræði tapaðist vegna húðdreps en í þremur (10,7%) sjúklingum í eins stigs hópnum var ígræði skipt út fyrir vefjaþenjara til að bæta gróanda. Vegna gruns um sýkingu voru fjórir (12,5%) settir á sýklalyf í tveggja stiga hópnum og níu (32,1%) í eins stigs hópnum (p=0,067).

Ályktun: Tíðni húðdreps var hærra í eins stigs uppbyggingum en munurinn reyndist þó ekki vera marktækur. Forðast má tap á ígræði ef þröskuldurinn fyrir að skipta ígræðinu út fyrir vefjaþenjara er lágur.

 

 

E-13 Garnastífla af völdum gallsteina á Íslandi árin 2000-2014

Gísli Gunnar Jónsson1, Haraldur Hauksson2, Páll Helgi Möller1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Skurðlækninga­deild Sjúkrahússins á Akureyri og 3Skurð­lækningadeild Landspítala

gislijonsson89@gmail.com

Inngangur: Garnastífla af völdum gallsteina er sjaldgæfur sjúkdómur sem getur verið erfitt að greina og þar sem skurðaðgerð er kjörmeðferð. Upplýsingar um sjúkdóminn vantar á Íslandi og er markmið þessarar rannsóknar að bæta úr því.

Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn lýsandi þýðisrannsókn sem náði til einstaklinga sem greindust með garnastíflu af völdum gallsteina á Íslandi á árunum 2000 til 2014. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám. Skoðaðar voru eftirtaldar breytur;  kyn, aldur, greiningarár, einkenni, myndgreiningaraðferð, staðsetning steins, aðgerð sem beitt var við meðferð og fyrri saga um gallsteinasjúkdóma. Notast var við lýsandi tölfræði.

Niðurstöður: Níu einstaklingar greindust með garnastíflu af völdum gallsteina (8 konur og einn karl). Miðgildi aldurs við greiningu var 78 ár (bil: 52-85). Flestir sjúklingar höfðu einkenni um garnastíflu (n=7). Algengasta myndrannsóknin til greiningar var tölvusneiðmynd af kvið (n=8) en í 6 af 8 tilfellum sást gallsteinn í görn. Í öllum tilvikum var gallsteinninn staðsettur í smágirni, í fimm tilvikum í dausgörn og í fjórum tilvikum í ásgörn.Meðalstærð steinanna var 2,8 cm. Allir sjúklingar gengust undir skurðaðgerð þar sem smágirni var opnað og steinninn fjarlægður (enterolithiotomy) (n=7) eða gert hlutabrottnám á smágirni (n=2). Í einu tilviki var gallblöðrutaka og viðgerð á fistli framkvæmt í sömu aðgerð og hlutabrottnám á smágirni. Enginn lést í tengslum við aðgerðina.

ÁlyktunGarnastífla af völdum gallsteina virðist sjaldgæf á Íslandi. Aldurssamsetning, kynjahlutfall, greining og meðferð þessa sjúklingahóps er sambærileg við það sem lýst hefur verið í erlendum rannsóknum.

 

 

E-14 Garnaflækja á bugaristli á Landspítala 2000-2013   

Birta Dögg Ingudóttir Andrésdóttir1, Pétur H. Hannesson1,2, Páll Helgi Möller1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Röntgendeild og 3skurðlækningadeild Landspítala

bda1@hi.is

Inngangur: Garnaflækja á bugaristli (sigmoid volvulus) orsakar oft garnastíflu. Kjörmeðferð er ristilspeglun og síðar skurðaðgerð. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna meðferð og horfur garnaflækju á bugaristli á Landspítala. 

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á einstaklingum sem greindust með garnaflækju á bugaristli á Landspítala á tímabilinu 2000-2013. Farið var yfir sjúkraskrár og m.a. skráð kyn, aldur, legutími, meðferð, fylgikvillar meðferðar, vefjagreining og tíðni endurkomu.

Niðurstöður: Heildarfjöldi sjúklinga var 49; 29 karlar og 20 konur (1,5:1). Meðalaldur var 74 ár (bil: 25-93).  Í fyrstu legu gengust 12 sjúklingar undir skurðaðgerð; ýmist beint (n=1), í kjölfar innhellingar (n=1) eða í kjölfar ristilspeglunar (n=10). Af þeim sem fóru í ristilspeglun fóru allir í bráða aðgerð af eftirtöldum ástæðum: drep í görn (n=3), misheppnuð speglun (n=6) eða garnaflækja á botnristli (n=1). Einn sjúklingur lést eftir tvær speglanir og bráðaaðgerð í kjölfarið.

Hinir 37 (75,5%) sjúklingarnir fóru ekki í skurðaðgerð og voru meðhöndlaðir með ristilspeglun (n=35), innhellingu (n=1) eða endaþarmsröri (n=1). Einn af þessum sjúklingum lést. Tveir af 37 sjúklingum (5,4%) gengust síðar undir valaðgerð á ristli. Endurtekin garnaflækja á bugðuristli greindist hjá 22 (59,4%) sjúklingum. Af þessum 22 hafði einn verið settur upp fyrir valaðgerð en var lagður inn þrátt fyrir áætlaðan aðgerðardag. Af þeim sjúklingum sem ekki fóru í skurðaðgerð í fyrstu legu (n=37) höfðu 66% ekki fengið endurkomu eftir 3 mánuði en það hlutfall lækkaði í 22% tveimur árum eftir fyrstu meðferð.

Ályktanir: Meirihluti sjúklinga sem ekki fer í aðgerð í fyrstu komu kemur aftur inn að nýju með endurtekna garnaflækju á bugaristli. Líkindi á endurkomu aukast eftir því sem frá líður. Mikilvægt er huga að valaðgerð eftir fyrsta kast.

 

 

E-15 Meðfætt gallblöðruleysi (agenesis of gallbladder) – tvö sjúkratilfelli af Landspítala

Sigurbjörn Þór Þórsson1, Óttar M. Bergmann2, Jón Örvar Kristinsson2, Páll Helgi Möller1,3

1Skurðlækningadeild og, 2meltingardeild Landspítala, 3Læknadeild Háskóla Íslands

sithth@landspitali.is

Inngangur:Meðfætt gallblöðruleysi (agenesis of gallbladder) er sjaldgæft frábrigði á gallvegakerfinu og er algengi talið liggja á bilinu 0,01%-0,06%. Steinar í gallrás myndast hjá 18-50% af þessum sjúklingum og er áætlað að fjórðungur þeirra þrói með sér einkenni sem oft eru túlkuð sem gallblöðrubólga eða frárennslishindrun í gallrás. Þar sem myndrannsóknir geta verið misvísandi fara sumir þessara sjúklinga í skurðaðgerð sem útsetur þá fyrir óþarfa fylgikvilla. Hér er greint frá 2 tilfellum á Landspítala.

Tilfelli: Fyrra tilfellið var 76 ára gamall karlmaður sem leitaði endurtekið til heimilislæknis vegna verkja í hægri efri fjórðungi kviðar. Hann hafði ekki fyrri sögu um aðgerðir á kvið. Við ómskoðun á lifur, gallvegum og brisi var ekki hægt að greina gallblöðru. Segulómun af gall- og brisgöngum (MRCP) staðfesti að gallblaðra  væri ekki til staðar en steinn sást í gallrás. Í framhaldinu var gerð holsjárröntgenmyndataka af gall- og brisgöngum (ERCP) þar sem steinninn var fjarlægður úr gallrás með því að opna papilla Vateri. Einkennin hurfu og hafa ekki gert vart við sig síðan. Í síðara tilfellinu var um að ræða 56 ára gamlan karlmann sem endurtekið hafði verið lagður inn með brisbólgu vegna áfengisneyslu. Endurteknar ómskoðanir og tölvusneiðmyndir gátu ekki sýnt fram á gallblöðru eða hún jafnvel talin samfallin. Samkvæmt sjúklingi kom fram að ekki hafi fundist gallblaðra við ómskoðun hjá systur og föður. Framkvæmd var segulómun af gallvegum sem staðfesti meðfætt gallblöðruleysi.

Ályktun:Hafa ber í huga meðfætt gallblöðruleysi hjá sjúklingum með einkenni gallkveisu ef gallblaðra er illgreinanleg við ómun eða á tölvusneiðmyndum. Þetta má staðfesta með segulómun sem er kjörrannsókn og þannig koma í veg fyrir ónauðsynlega skurðaðgerð.

 

 

E-16 Lifrarhólfaheilkenni (liver compartment syndrome) – sjúkratilfelli

Bjartur Sæmundsson1, Kristín Huld Haraldsdóttir1, Sigurður Blöndal1,2

1Skurðlækningasviði Landspítala, 2Læknadeild Háskóla Íslands

bjartur@landspitali.is

Inngangur: Hólfaheilkenni (compartment syndrome) er vel þekkt í tengslum við áverka á útlimi. Heilkennið getur einnig sést í kviðarholi eftir mikla áverka eða eftir aðgerðir. Hér er lýst tilfelli hólfaheilkennis í lifur (liver compartment syndrome, LCS) en það er afar sjaldgæft og hefur sjaldan  verið lýst. Lifrarhólfaheilkenni hefur mismunandi orsakir og birtingarmynd. Því er engin samræmd meðferð til og meta þarf hvert tilfelli fyrir sig og haga meðferð eftir því.

Tilfelli: 23 ára gamall maður leitaði á bráðamóttöku eftir líkamsárás. Tölvusneiðmynd leiddi í ljós blóðgúl (hematoma) við lifur og blóðpróf sýndu hækkun á lifrarprófum. Ákveðið var að meðhöndla sjúklinginn án inngripa. Níu dögum eftir innlögn á almenna skurðdeild versnaði ástand hans, kviðurinn þandist út, þvagútskilnaður minnkaði og hann varð háður súrefni í nös. Teknar voru nýjar tölvusneiðmyndir sem sýndu aukningu á fríum vökva í kvið. Var þá ákveðið að taka hann til aðgerðar og blóðgúllinn við lifrina ræstur fram. Klínískt ástand sjúklingsins batnaði eftir aðgerðina. HIDA skann sem gert var 7 dögum frá aðgerð sýndi enga virkni í hægri lifrarhelmingi. Þrátt fyrir það sáust engar brenglanir á lifrarprófum. Sjúklingi fór hægt batnandi og útskrifaðist hann við góða líðan 40 dögum eftir innlögn. Hann fékk ekki aðra fylgikvilla eins og lifrardrep eða Budd-Chiari heilkenni sem list hefur verið í svipuðum tilfellum.

Ályktun: Hér er list tilfelli þar sem sljór (blunt) áverki á lifur eftir líkamsárás olli lifrarhólfaheilkenni. Orsökin fyrir heilkenningu var aukinn þrýstingur innan lifrar vegna blóðgúls. Heilkennið er sjáldgæft og höfundum er ekki kunnugt um að því hafi verið lýst áður hérlendis.

 

 

E-17 Nýgengi krabbalíkisæxla í lungum hefur aukist þrefalt á síðustu áratugum

Ástríður Pétursdóttir1, Björn Már Friðriksson1, Jóhanna M. Sigurðardóttir2, Helgi J. Ísaksson3, Steinn Jónsson1,4, Tómas Guðbjartsson1,5

1Læknadeild Háskóla Íslands 2Skurðdeild Västerås-sjúkrahússins, Västerås, Svíþjóð, 3rannsóknarstofu Landspítala í meinafræði,4lungnadeild og 5hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

astridurp@gmail.com

Inngangur: Krabbalíkisæxli (carcinoids) í lungum eru sjaldgæf tegund lungnakrabbameina sem oftast eru bundin við lungu en geta meinverpst. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna nýgengi og árangur þessara æxla í vel skilgreindu þýði á 60 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem tók til allra krabbalíkisæxla í lungum sem greindust á Íslandi árin 1955-2014. Vefjasýni voru endurskoðuð og upplýsingar fengnar úr sjúkraskrám. Æxlin voru stiguð skv. 6. útgáfu TNM-stigakerfisins. Lífshorfur voru reiknaðar með aðferð Kaplan-Meier og miðast lifun við 1. janúar 2015. Meðaleftirfylgd voru 186 mánuðir.

Niðurstöður: Alls greindust 93 sjúklingar (62 konur, meðalaldur 52 ár) á tímabilinu. Nýgengi jókst úr 0,2/100.000/ári 1955-1964 í 0,7 2005-2014. Alls greindust 26 sjúklingar af 85 (31%) án einkenna og jókst hlutfall tilviljanagreindra úr 17% fyrri 30 árin í 33% þau síðari. Algeng einkenni voru hósti (56%), lungnabólga (28%) og takverkur (11%). Meðalstærð æxlanna var 2,7 cm (bil: 0,3-6,3 cm) en 71(84%) sjúklingur var með dæmigerða(typical) vefjagerð og 14 (16%) ódæmigerða (atypical). Alls gengust 77 sjúklingar undir skurðaðgerð, oftast blaðnám (84%). Einn sjúklingur lést innan 30 daga frá aðgerð (0,1%). Flestir, eða 67 sjúklingar greindust á stigi I (79%) og 4 á stigi II (5%). Fjórir aðrir sjúklingar greindust með meinvörp í miðmætiseitlum (stig III), allir með dæmigerða vefjagerð. Sex sjúklingar (7%) höfðu fjarmeinvörp við greiningu (stig IV); 2 með dæmigerða vefjagerð. Við eftirlit höfðu 5 sjúklingar (6%) látist úr sjúkdómnum en 5 ára lífshorfur alls hópsins voru 87% og 92% fyrir sjúklinga með dæmigerða vefjagerð.

Ályktanir:  Nýgengi krabbalíkisæxla í lungum hefur aukist þrefalt síðustu 6 áratugina, aðallega vegna aukningar í tilviljanagreiningum. Langflestir (>84%) greinast með sjúkdóm bundinn við lungað en þá eru horfur mjög góðar.

 


E-18 Bráð ósæðarflysjun á Íslandi - nýgengi og dánartíðni

Inga Hlíf Melvinsdóttir1, Sigrún Helga Lund1, Bjarni A. Agnarsson1,2, Tómas Gudbjartsson1,3, Arnar Geirsson3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2meinafræðideild og 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

ihm4@hi.is

Inngangur: Bráð ósæðarflysjun er lífshættulegur sjúkdómur þar sem skjót greining getur skipt sköpum varðandi lifun og tíðni alvarlegra fylgikvilla. Upplýsingar um nýgengi og árangur meðferðar við ósæðarflysjun vantar bæði hér á landi og erlendis.

Efniviður og aðferðir:Rannsóknin náði til allra sjúklinga sem greindir voru með bráða ósæðarflysjun á Íslandi frá 1992–2013. Upplýsingar um fyrra heilsufar, áhættuþætti og klínísk einkenni voru skráðar úr sjúkraskrám og krufningarskýrslum. Aldursstaðlað nýgengi var reiknað út frá gögnum Hagstofu Íslands og lifun metin með Cox lifunargreiningu og logrank prófum.

Niðurstöður: Alls greindust 148 einstaklingar með ósæðarflysjun, 97 með gerð A og 47 með gerð B og var aldurstaðlað nýgengi  2,55/100.000/ári. Ekki sáust marktækar breytingar á nýgengi á rannsóknartímabilinu. Meðalaldur sjúklinga var 66±13 ár og 62% voru karlmenn. Alls létust 24 sjúklingar (16%) utan spítala en af þeim 124 sem náðu lifandi inn á sjúkrahús létust 29% <24 klst og 48% innan 30 daga. Fimm og tíu ára heildarlifun fyrir allan hópinn var 43,6% og 37,6%. Á rannsóknartímabilinu sást ekki marktæk lækkun á dánartíðni <24 klst en 30 daga dánartíðni lækkaði marktækt (0,96/ár, 95% CI: 0.923- 0.996, p= 0,03) og 10 ára lifun batnaði úr 25,4% á fyrri 12 árunum í 49,1% þau síðari (p=0,02).

Ályktanir: Nýgengi bráðrar ósæðarflysjunar reyndist 2,55/100.000 íbúa á ári sem er aðeins lægra en í flestum erlendum rannsóknum, en engin þeirra rannsókn nær þó til heillar þjóðar líkt og þessi rannsókn. Ekki hefur orðið aukning í nýgengi og dánartíðni sjúkdómsins er há. Árangur meðferðar hefur batnað þar sem 30 daga dánartíðni hefur lækkað og langtíma lifun aukist.

 

 

E-19 Enduraðgerðir vegna blæðinga eftir kransæðahjáveituaðgerðir á Íslandi 2001-2013: Tíðni, forspárþættir og afdrif sjúklinga

Steinþór Árni Marteinsson1, Helga Rún Garðarsdóttir1, Sveinn Guðmundsson2, Arnar Geirsson3, Kári Hreinsson4, Tómas Guðbjartsson1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Blóðbanka, 3hjarta- og lungnaskurðdeild og 4svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala.

sam18@hi.is

Inngangur: Eftir kransæðahjáveituaðgerð getur þurft að grípa til enduraðgerðar til að stöðva blæðingu. Langtíma afdrif þessar sjúklinga eru lítið rannsökuð. Tilgangur rannsóknarinnar var að rannsaka tíðni enduraðgerða vegna blæðinga eftir hjáveituaðgerð á Íslandi, skilgreina áhættuþætti og kanna langtímalifun sjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Aftursýn rannsókn á öllum sjúklingum (n=1755) sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala 2001-2013. Sjúklingar sem gengust undir enduraðgerð voru bornir saman við þá sem ekki þurftu enduraðgerð. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám. Lifun var áætluð með aðferð Kaplan-Meier og forspárþættir enduraðgerða metnir með lógistískri aðhvarfsgreiningu. Miðgildi eftirfylgdar var 74 mánuðir og miðaðist eftirfylgd við 1. júlí 2014.

Niðurstöður: Alls gengust 121 sjúklingar (6,9%) undir enduraðgerð. Í enduraðgerðarhópi voru 52,2% sjúklinga á aspiríni fyrir aðgerð en 38,0% í viðmiðunarhópi (p=0,004). Aðgerðatengdir þættir, m.a. aðgerðartími, voru sambærilegir í báðum hópum. Meðalblæðing á fyrstu 24 klst. eftir aðgerð var rúmlega þrefalt meiri í enduraðgerðarhópi (2660 sbr. 859 ml, p<0,001), legutími 3 dögum lengri og dánartíðni <30 daga marktækt hærri (9,1 sbr 1,9%, p<0,001). Fimm ára lifun var marktækt lægri í enduraðgerðarhópi, eða 78,6% borið saman við 90,3% (p=0,002). Sjálfstæðir forspárþættir fyrir aukinni tíðni enduraðgerðar voru skert nýrnastarfsemi fyrir aðgerð og notkun clopidogrels. Verndandi þættir voru kvenkyn, hærri líkamsþyngdarstuðull og aðgerð á sláandi hjarta.

Ályktanir: Tíðni enduraðgerða (6,9%) er í hærra lagi hér á landi án þess að skýringin sé ljós.  Tíðni fylgikvilla, legutími og dánartíðni <30 daga þessara sjúklinga er talsvert hærri, og langtímalifun en lakari en í viðmiðunarhópi. Því er mikilvægt að þekkja forspárþætti enduraðgerða til að hægt sé að fækka þeim.

 

 

E-20 Æxlissegi í hægri gátt upprunin í nýra - sjúkratilfelli

Rut Skúladóttir1, Arnar Geirsson2, Bjarni Torfason2,3, Tómas Guðbjartsson2,3, Rafn Hilmarsson1

1Þvagfæraskurðdeild og  2hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala. 3Læknadeild Háskóla Íslands

rutskula@landspitali.is

Inngangur: Á Íslandi greinast árlega um 50 tilfelli af nýrnafrumukrabbameini. Í 1% tilfella vaxa þessi æxli inn í neðri holæð, upp fyrir þind og inn í hægri gátt. Engu að síður geta þessi æxli verið skurðtæk og ef næst að þau í heild  sinni eru horfur ekki ósvipaðar og hjá sjúklingum með staðbundið nýrnafrumukrabbamein. Aðgerðin er umfangsmikil en vegna hættu á lungnareki er oftast notast við hjarta- og lungnvél og jafnvel blóðrásarstopp í djúpri kælingu. Dánartíði er há, eða í kringum 5-13%. Hér er lýst tilfelli af Landspítala.

Sjúkratilfelli: 68 ára karlmaður leitaði á bráðamóttöku Landspítala vegna verkjalausrar bersærrar blóðmigu. Á tölvusneiðmyndum sást 6 cm  stórt æxli í hægra nýra með æxlisega sem teygði sinn inn í hægri nýrnabláæð, og í gegnum neðri holbláæð upp hægri gátt. Ekki sáust þrengsli í kransæðum við hjartaþræðingu og hvorki lokubilanir né lugnaháþrýsingur við hjartaómu,.  Æxlið var síðan fjarlægt af þvagfæra- og hjartaskurðlæknum í sameiningu. Fyrst var nýrað fríað og sjúklingurinn tengdur við hjarta- og lungnavél. Æxlisseginn var síðan fjarlægður með því að opna holæðina í blóðfríu felti og var það gert með 14 mínútna blóðrásarstoppi í djúpri kælingu (líkamshiti 17,1 gráður).  Sjúklinguirnn var hitaður í hjarta- og lungnvél og  nýrað fjarlægt. Gangur eftir aðgerð var góður  og engir fylgikvillar greindust.Vefjagreining sýndi nýrnafrumukrabbamein af tærfrumugerð og voru eitlar án æxlisvaxtar (TNM-stig T3bN0M). Þremur mánuðum síðar var sjúklingur án einkenna og lét vel af sér.

Ályktanir: Hægt er að lækna nýrnafrumu­krabbameini með æxlissega vaxinn upp í hjarta. Aðgerðin var gerð án fylgikvilla en grípa þurfti til blóðrásarstopps í djúpri kælingu til að komast fyrir æxlið. 


 

E-21 Hnífstunguáverki á hjarta meðhöndlaður með bráðum brjóstholsskurði á bráðamóttöku – sjúkratilfelli

Anna Sigurðardóttir1, Helgi Kjartan Sigurðsson2, Sigurjón Örn Stefánsson3, Bergrós Kristín Jóhannesdóttir1, Tómas Guðbjartsson1,4

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2almennri skurðdeild og 3svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala,  4Læknadeild Háskóla Íslands

annsig@landspitali.is

Inngangur: Á Íslandi eru alvarlegir brjóstholsáverkar mun oftar af völdum umferðarslysa en hníf- eða skotáverka. Stungu­áverkum á hjarta eða ósæð fylgja oftast lífshættulegar blæðingar og gollurshússþröng og dánarhlutfall er mjög hátt. Nái sjúklingar lifandi á sjúkrahús getur komið til greina að framkvæma bráðan brjóstholsskurð á bráðamóttöku. Árangur þessara aðgerða er þó umdeildur. Hér er lýst tilfelli af Landspítala þar sem tókst að bjarga lífi sjúklings eftir hnífstungu á hjarta.

Tilfelli: Karlmaður á fertugsaldri var stunginn með hnífi í miðborg Reykjavíkur og hlaust af þriggja cm skurður við 5. rifjabil vinstra megin við bringubein. Kallað var á neyðarbíl sem flutti sjúklinginn á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi. Við komu þangað var hann í losti og gollurshússþröng til staðar. Nokkrum mínútum síðar stöðvaðist hjartað. Því var samstundis gerður vinstri brjóstholsskurður, gollurshúsið opnað og framkvæmt beint hjartahnoð í fimm mínútur. Við þetta hrökk hjartað í gang, ljósop drógust saman og blóðþrýstingur hækkaði. Síðan var bringubeinið opnað og tveggja cm gat á framvegg hægri slegils hjartans lokað með saumi og bót úr gerviefni. Heildarblæðing var 5 lítrar og gefnar voru 8 einingar af neyðarblóði. Sjúklingur var útskrifaður 9 dögum síðar en 4 mánuðum frá áverkanum er hann við góða heilsu, hjartastarfsemi eðlileg og ekki merki um tauga- eða heilaskaða.

Umræður: Þetta tilfelli sýnir að bráður brjóstholsskurður á bráðamóttöku getur bjargað lífi sjúklinga með lífshættulega áverka á hjarta. Í tilfellum sem þessum, þar sem alvarlegt blæðingarlost og gollurshúsþröng valda hjartastoppi, eru skjót viðbrögð nauðsynleg og tókst að tryggja blóðflæði til heila með beinu hjartahnoði í gegnum brjóstholsskurð á bráðamóttöku.

 

 

E-22 Banaslys í umferðinni á Íslandi í 100 ár

Brynjólfur Mogensen1,2,4, Óli H. Þórðarson2 , Þorsteinn Jónsson1,3, Ágúst Mogensen2,  Sævar Helgi Lárusson2, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,3

1 Rannsóknastofa Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, 2 Rannsóknarnefnd samgönguslysa, 3Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 4 Læknadeild Háskóla Íslands

brynmog@landspitali.is

Inngangur: Banaslys í umferðinni hafa tekið háan toll frá upphafi bílaaldar á Íslandi og umferðarslys kosta árlega um 30 milljarða. Unnið hefur verið markvisst að fækkun banaslysa í umferðinni. Banaslysin hafa verið ítarlega rannsökuð eftir að Rannsóknarnefnd samgönguslysa tók til starfa. Markmið rannsóknarinar var að kanna faraldsfræði látinna í umferðarslysum á Íslandi frá 1915-2014.

Aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn. Að frumkvæði Óla H. Þórðarsonar var unnin banaslysaskrá frá upphafi bílaaldar og stuðst  við gögn frá Samgöngustofu, lögreglu, Rannsóknarnefnd samgönguslysa, Vegagerðinni, fjölmiðlum og samstarfsaðilum um allt land. Skráð var: Fjöldi látinna, kyn, aldur, tegund slyss, fjöldi banaslysa,staðhættir og fleiri þættir.

Niðurstöður: Alls létust í umferðarslysum 1502 einstaklingar á hundrað ára tímabili í 1374 banaslysum. Karlar voru 1062 (71%) og konur 440 (29%). Látnum í umferðarslysum hefur fækkað mikið á síðustu árum og létust 4 á árinu 2014. Á tímabilinu létust 504 börn og ungmenni á aldrinum 0-19 ára eða 34% látinna. Fyrsta fórnarlambið í umferðinni var níu ára drengur sem varð fyrir reiðhjóli í Austurstræti árið 1915. Í þéttbýli hafa látist 55% og í dreifbýli 45%. Í upphafi létust flestir í umferðarslysum í þéttbýli en síðustu þrjá áratugi létust flestir í dreifbýli. Helstu vegfarendahópar voru ökumenn 530, farþegar 414, gangandi 470 og hjólandi 57.

Ályktun:Alls hafa látist 1502 í umferðarslysum á síðustu hundrað árum og þar af eru börn og ungmenni þriðjungur. Karlar eru í miklum meirihluta. Banaslysum í umferðinni hefur fækkað mikið á síðustu árum. Þekkingu á orsökum banaslysa í umferðinni hefur fleygt fram.

 

 

E-23 Hryggjar- og mænuáverkar á Landspítala á árunum 2007-2011

Eyrún Arna Kristinsdóttir1, Páll E. Ingvarsson2, Kristinn Sigvaldason3, Sigrún Knútsdóttir2,  Halldór Jónsson Jr1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Endur­hæfingardeild, 3 svæfinga-og gjörgæsludeild og 4bæklunarskurðdeild Landspítala

eak4@hi.is

Inngangur: Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á faraldsfræði hryggbrota. Mænuáverkar í tengslum við þau eru meðal alvarlegustu afleiðinga slysa og forvarnarstarf því mikilvægt. Markmið rannsóknarinnar var að afla faraldsfræðilegra upplýsinga um hryggjar- og mænuáverka á Landspítala og leita að áhættuþáttum fyrir forvarnarstarf.

Efniviður og aðferðir: Upplýsinga um orsakir, alvarleika, aldur, kyn o.fl. var aflað úr sjúkraskrám allra sem greindust með hryggbrot á Landspítala árin 2007-2011.

Niðurstöður: Hryggbrot greindust hjá 487 einstaklingum og hlutu 42 þeirra mænuskaða (9%). Fimm einstaklingar fengu mænuskaða án hryggbrots. Meðalaldur var 56 ár og karlar voru 57%. Árlegt nýgengi hryggbrota var 31 tilfelli/100.000 íbúa en mænuskaða 2,7 tilfelli/100.000 íbúa. Fall var algengasta orsök hryggbrota (49%) og mænuskaða (43%) en umferðarslys voru næst algengasta orsökin (31% og 26%). Meðalaldur þeirra sem hryggbrotnuðu vegna lágs falls (<1m) var hár (77 ár) og konur voru í meirihluta. Algengustu umferðarslysin voru bílslys (82%) en flest þeirra voru bílveltur. Bílvelta var orsök allra mænuskaða eftir bílslys. Meirihluti hryggbrota vegna bílslysa varð í dreifbýli (79%) og 19,5% slasaðra notuðu ekki bílbelti. Upplýsingar um notkun bílbelta vantaði fyrir 27% einstaklinganna. Íþrótta- og tómstundaslys voru orsök hryggbrota í 12% tilfella og hestaslys voru algengust þeirra (36%). Algengust voru brot á lenda- og spjaldhrygg (41%) en sjaldgæfust á efri hálshrygg (9%). Af þeim sem hlutu mænuskaða voru 38% með alskaða við komu á sjúkrahús. Tæplega helmingur mænuskaðaðra var háður hjólastól við útskrift. 

Ályktanir: Um 9% þeirra sem hryggbrotnuðu hlutu mænuskaða, flestir eftir fall eða bílveltur. Öruggir vegir og góð umferðarmenning draga úr hættu á alvarlegum umferðarslysum. Mögulega mætti draga úr fjölda hryggbrota og mænuskaða vegna falls með hertum öryggisreglum á vinnustöðum en einnig þarf að kanna nánar ástæður hryggbrota hjá eldra fólki og gera viðeigandi ráðstafanir til að auka öryggi í umhverfi þess.

 

 

E-24 Áhrif innleiðslu Cunningham aðferðarinnar á árangur réttingar fremra liðhlaups í öxl

Þorsteinn H. Guðmundsson1, Hjalti Már Björnsson1,2

1Bráðadeild Landspítala, 2Læknadeild Háskóla Íslands.

thorsteg@landspitali.is

Inngangur: Cunningham aðferð við réttingu á liðhlaupi í öxl byggir á þeirri kenningu að höfuð upphandleggs haldist utan liðskálar vegna spennu í löngu sin tvíhöfðavöðva upphandleggs. Í byrjun árs 2013 var læknum bráðamóttökunnar í Fossvogi kennd Cunningham aðferð við réttingu liðhlaups í öxl án slævingar. Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif innleiðslu Cunningham aðferðar á fjölda tilrauna til réttingar, dvalartíma á bráðadeild, fjölda  slævinga og verkjalyfjagjafa á áringu 2013 borið saman við árið 2012.

Efniviður og aðferðir:Leitað var í rafrænum gagnagrunnum að sjúklingum sem komu á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi og fengu greininguna liðhlaup í öxl og/eða meðferðarkóðann rétting liðhlaups í öxl fyrir árin 2012 og 2013. Skráðar voru upplýsingar um aldur og kyn, legutíma á bráðamóttöku, fyrstu til fjórðu aðferð réttingar og lyf gefin til verkjastillingar og slævingar. Beitt var lýsandi tölfræði og við samanburð hópa var notast við t-test eða x2-próf.

Niðurstöður: Meðalfjöldi tilrauna var 1,15 fyrra árið og 1,38 það síðara (p=0,002). Hlutfall heppnaðra réttinga í fyrstu tilraun lækkaði úr 81,6% í 66% (p=0,016) milli ára en hlutfall þar sem rétting tókst á bráðamóttöku jókst úr 93,1% í 97,1% tilfella (p=0.31). Meðferðartími var svipaður milli ára, eða 226 og 219 mínútur (p=0,84). Hlutfall slævinga lækkaði úr 85,1% í 73,8% (p=0,02) en notkun verkjalyfja var svipuð milli ára eða 70,6% og 69,6% (p=0,84).

Ályktun:Innleiðsla Cunningham aðferðarinnar við réttingu axlarliðhlaupa hafði í för með sér marktæka fækkun á slævingum, jók fjölda tilrauna til réttingar en hafði engin áhrif á dvalartíma á bráðadeild eða heildarhlutfall heppnaðra réttinga.

 

 

E-25 Árangur heilliðskipta á mjöðm á Landspítala 2003-2005

Húnbogi Þorsteinsson1, Eyþór Örn Jónsson1,2, Sigrún Helga Lund3,4, Ólafur Ingimarsson1, Grétar Ottó Róbertsson1

1Bæklunarskurðdeild Landspítala, 2Bæklunarskurðdeild Sahlgrenska háskólasjúkrahússins í Gautaborg, Svíþjóð, 3Læknadeild Háskóla Íslands og 4Miðstöð í lýðheilsuvísindum Háskóla Íslands

hunbogi1@gmail.com

Inngangur: Yfir helmingur heilliðskipta á mjöðm á Íslandi er framkvæmdur á Landspítala. Markmið rannsóknarinnar var að meta heildarárangur aðgerðanna á Landspítala en það hefur ekki verið gert áður.

Efniviður og aðferðir: Leitað var að fyrstu heilliðskiptum á mjöðm framkvæmdum á Landspítala 2003-2005, skv. gerviliðaskrá bæklunarskurðdeildar Landspítala. Einnig var leitað í aðgerðarnúmerum í tölvukerfi spítalans. Alls fundust 568 aðgerðir. Algengustu ábendingar voru: slitgigt (80,6%), beindrep (6,0%) og afleiðing brots (7,4%). 476 aðgerðir voru gerðar með steyptum Spectron-gervilið, 86 með ósteyptum CLS-gervilið og 6 með öðrum tegundum gerviliða. Enduraðgerð var skilgreind sem ný aðgerð á sama lið þar sem hluta gerviliðar var skipt út, bætt við eða liðurinn numinn á brott. Eftirfylgd lauk 1. október 2014, við andlát eða þegar enduraðgerð fór fram, eftir því hvað bar fyrst upp. Lifun gerviliða eftir 10 ár var reiknuð með Kaplan-Meier aðferð með enduraðgerð sem endapunkt. Áhættuhlutföll enduraðgerðar voru metin með Cox-aðhvarfsgreiningu. Meðallengd eftirfylgni var 9,0 ár (bil: 0,005-11,7).

Niðurstöður: Enduraðgerðir voru 51 og voru ábendingar los á gerviliðnum (n=33), liðhlaup (n=14), plasteyðing (n=2), sýking (n=1) og beinsundrun (n=1). Tíu ára heildarlifun gerviliða var 92,3% (95%-ÖB: 89,5-94,3). Hjá slitgigtarsjúklingum var heildarlifun gerviliða 92,2% (95%-ÖB: 89,0-94,4). Innan þess hóps var lifun Spectron-gerviliða 92,4% (95%-ÖB: 88,9-94,8) og CLS-gerviliða 90,8% (95%-ÖB: 80,6-95,7), p=0,45. Við Cox-aðhvarfsgreiningu reyndist áhætta á enduraðgerð minnka með hverju hækkandi aldursári sjúklinga (HR 0,945, p=0,007) en tegund gerviliðar, ár frumaðgerðar eða kyn höfðu ekki marktæk áhrif.

Ályktun: Áhætta á enduraðgerð 10 árum eftir fyrstu heilliðskipti á mjöðm á Landspítala er svipuð og í erlendum liðskiptaskrám

.

 

E-26 Meðferð og afdrif sjúklinga með mjaðmarbrot sem lögðust inn á Landspítala

Kristófer A Magnússon1, Gísli H Sigurðsson1,2, Brynjólfur Mogensen1,3, Yngvi Ólafsson4, Sigurbergur Kárason1,2.

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Svæfinga- og gjörgæsludeild, 3bráðamóttökudeild og 4 bæklunardeild Landspítala

kam9@hi.is

Inngangur: Mjaðmarbrot eru algeng meðal aldraðra, eru tíðari meðal kvenna og hækka dánartíðni. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna meðferð og afdrif sjúklinga sem urðu fyrir mjaðmarbroti og lögðust inn á Landspítala.

Efniviður og aðferðir:Aftursýn rannsókn á öllum sjúklingum ≥ 60 ára sem gengust undir aðgerð á Landspítala árið 2011 vegna mjaðmarbrots. Sjúklingunum var fylgt eftir í a.m.k.18 mánuði.

Niðurstöður: Rannsóknarhópurinn samanstóð af 266 einstaklingum, 166 (65%) konum (meðalaldur 82,9±8,1 ár; bil: 60-107)) og 89 (35%) kölrum (meðalaldur 81,6 ár ±7,7; bil: 61-101). Bið eftir aðgerð frá komu var að meðaltali 22 ±14 kst. (bil: 3-77). Aðgerð var framkvæmd í mænudeyfingu í 215 (85%) tilvika en svæfingu í 39 (15%). Meðallengd dvalar á bæklunarsdeild var 11±10 dagar; (bil: 1-51). Fyrir mjaðmarbrotið bjuggu 68% sjúklinganna á eigin heimili en 54% við lok eftirfylgdar (p<0,001). Dánartíðni 30 dögum eftir brot var 9%, eftir sex mánuði 20% og eftir eitt ár  27%. Dánartíðni þeirra sem hlotið höfðu mjaðmarbrot var áttföld í samanburði við almennt þýði ≥ 60 ára í tíu ára aldursbilum.

Ályktanir: Aldur, dvalartími á sjúkrahúsi og dánartíðni eru sambærileg í þessari rannsókn og í erlendum rannsóknum en hlutfall karla hærra. Tími frá komu og til aðgerðar er innan marka erlendra gæðastaðla. Marktækt færri sjúklingar gátu búið á eigin heimili eftir brot en fyrir bortið. Mjaðmarbrot draga verulega úr sjálfbjargargetu og eru kostnaðarsöm fyrir samfélagið.

 

 

E-28 Lifun sjúklinga með grun um bráða blóðstorkusótt eftir upphafsgildum antíþrómbíns, próteins C og antiplasmíns

Einar Hjörleifsson1, Martin I. Sigurðsson2,3, Brynja R. Guðmundsdóttir4, Gísli H. Sigurðsson1,3, Páll T. Önundarson1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 3Department of Anesthesiology, Perioperative and Pain Medicine, Brigham and Women's Hospital, 4Rannsóknardeild Landsspítala

eih14@hi.is

Inngangur: Þó sýnt hafi verið fram á gildi antithrombíns, próteins C og antiplasmíns lækki í bráðri blóðstorkusótt (disseminated intravascular coagulation, DIC) hefur ekki verið sýnt fram á samband milli gilda þeirra í blóði og lifunar. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða samband lifunar við þessi prótein í sjúklingum grunaða um bráða blóðstorkusótt.

Efniviður og aðferðir: Safnað var saman öllum tilfellum sem grunaðir voru um bráða blóðstorkusótt úr tölvukerfi Rannsóknardeildar LSH yfir 5 ára tímabil, tilfellin skoruð eftir greiningarprófi International society of thrombosis and haemostasis (ISTH) fyrir bráðri blóðstorkusótt. Greiningargeta antithrombíns, próteins C og antiplasmíns var metin eftir mismunandi viðmiðunargildum og samband þeirra við lifun kannað.

Niðurstöður: Í þeim 1825 tilfellum þar sem grunur lék á bráðri blóðstorkusótt reyndust 91 uppfylla skilyrði ISTH fyrir sjúkdóminn. Lifun lækkaði eftir því sem upphaflegt gildi antithrombíns og próteins C lækkuðu. Fylgni var á milli hækkunar á ISTH stigun og lækkunar á bæði antithrombíni og próteins C. Eins árs dánartíðni var 5, 18, 24, 36, 54 and 63% fyrir sjúklinga með ISTH stig 0, 1, 2, 3, 4 og ≥ 5 (p<0.001).

Ályktun:Lækkað upphaflegt gildi antithrombíns og sér í lagi próteins C hefur forspárgildi um dauðsföll í sjúklingum sem grunaðir eru um bráða blóðstorkusótt og ættu að leiða til kröftugrar leitar og meðhöndlunar á undirliggjandi þáttum sem geta leitt til sjúkdómsins. Lifun lækkaði í samræmi við hækkandi ISTH stig en ekki eftir hvort sjúklingar uppfylli skilyrði stigunarkerfisins einsog áður hefur verið talið.

 

 

E-29 Sjúklingar með stunguáverka lagðir inn á Landspítala 2005-2014

Una Jóhannesdóttir1, Guðrún María Jónsdóttir2, Bergrós Kristín Jóhannesdóttir4, Hjalti Már Björnsson1,3, Tómas Guðbjartsson1,4, Brynjólfur Mogensen1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands,  2Svæfinga- og gjörgæsludeild, 3bráðadeild og 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

una.johannesdottir@gmail.com

Inngangur: Slys og ofbeldi eru meðal algengustu dánarorsaka ungs fólks. Fáar rannsóknir eru til um faraldsfræði stunguáverka í Evrópu og engar á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar var að kanna faraldsfræði sjúklinga með stunguáverka á 10 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til allra einstaklinga sem lagðir voru inn á Landspítala 2005-2014 í kjölfar áverka með hníf eða sveðju. Upplýsingar fengust úr rafrænum sjúkraskrám Landspítala. Áverkar voru metnir með áverkaskori og áverkamati.

Niðurstöður: 49 sjúklingar voru lagðir inn (0,15 á hverja 1000 íbúa), meðalaldur var 33 ár og karlar 42 (86%). Meirihluti stunguáverka urðu í heimahúsi, 26 tilfelli (53%), 15 utanhúss (31%), 4 á skemmtistað (8%) og 2 á vinnustað (4%). Áverkar á brjósthol voru algengastir (n=23), síðan komu efri útlimir (n=21), höfuð, háls, andlit (n=17), kviður (n=15) og hryggur, mjaðmagrind, neðri útlimir (n=13). Meðaltími frá áverka að komu á sjúkrahús var 41 mínúta (bil: 6-161). Meðal áverkaskor var 9,5 (bil: 1-34), 9 einstaklingar (18%) voru alvarlega slasaðir (áverkaskor >16). Meðal áverkamat var 7,0 og meðallegutími 5,5 dagar. Alls gengust 27 sjúklingar (55%) undir aðgerð og var meðal áverkaskor þeirra 10,6, en 19 þeirra þurftu gjörgæslumeðferð (39%). Tveir sjúklingar létust innan 30 daga (4%), báðir lífshættulega slasaðir. Af þeim 47 sjúklingum sem lifðu áverkann útskrifuðust 43 heim (92%).

Ályktun:Stunguáverkar sem leiða til innlagna eru tiltölulega sjaldgæfir hér á landi samanborið við nágrannalönd. Flestir eru mikið slasaðir en 18% einstaklinga reyndust með alvarlega eða lífshættulega áverka. Dánartíðni þeirra sem leggjast inn á Landspítala eftir stunguáverka er mjög lág (4%) og gæti stuttur viðbragðs- og flutningstími neyðarbíls skipt máli ásamt góðri meðferð eftir innlögn.

 

 

E-30 Bráður nýrnaskaði á Landspítala - nýgengi og horfur sjúklinga.

Þórir Einarsson Long1, Martin I Sigurðsson2, Gísli H Sigurðsson1,3, Ólafur Skúli Indriðason4.

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Department of Anesthesia, Perioperative and Pain Medicine, Brigham and Women's Hospital/Harvard Medical School, Boston, MA 3Svæfinga-og gjörgæsludeild Landspítala, 4Nýrnalækningaeining Landspítala.

thorirein@gmail.com

Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er algengt vandamál á sjúkrahúsum með háa dánartíðni. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða breytingar í nýgengi BNS og útkomu sjúklinga á 20 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Fengnar voru allar mælingar á serum kreatíníni (SKr) á Landspítala frá júní 1993 og til loka maí 2013. Útbúin voru tölvuforrit sem greindu BNS og flokkaði sjúklinga í stig samkvæmt RIFLE-skilmerkjum út frá hæsta SKr gildi, miðað við lægsta gildi (grunngildi) sex mánuðina á undan innlögn. Upplýsingar um innlagnir og sjúkdómsgreiningar fengust úr rafrænu sjúkraskrárkerfi Landspítala. Dánardagur var skráður og seinni tíma SKr mælingar notaðar til að meta bata á nýrnastarfsemi.

Niðurstöður: Alls áttu 45.607 einstaklingar mælt grunngildi í skrám Landspítala og af þeim fengu 13992 BNS á rannsóknartímabilinu. Tíðni BNS jókst frá 21,1 (19,2-23,1) í 31,8 (29,2-34,6) á 1000 innlagnir/ári á tímabilinu. Lifun sjúklinga eftir BNS reyndist 67% eftir 90 daga og 56% eftir eitt ár. Í fjölþáttagreiningu tengdist BNS langtímalifun með áhættuhlutfall (hazard ratio) 1,59 ((95% öryggismörk) 1,53-1,65), 2,09 (2,00-2,20), og 2,87 (2,74-3,01) fyrir stig 1, 2 og 3 af BNS (p<0,0001). Dánartíðni sjúklinga með BNS lækkaði á tímabilinu með áhættuhlutfall 0,78 (0,77-0,79) fyrir hvert 5 ára tímabil (p<0,0001). Alls náðu 8870 (68%) sjúklinganna að endurheimta nýrnastarfsemi sína á eftirfylgdartímanum. Líkur á því að nýrnastarfsemi endurheimtist minnkuðu með hækkandi stigi BNS.

Ályktanir: Tíðni BNS hjá sjúklingum á Landspítala jókst um nánast 50% á 20 ára tímabili. Á sama tíma virðist meðferð hafa farið fram því lifun sjúklinga með BNS batnaði verulega á tímabilinu. Engu að síður er umtalsverður hluti sjúklinga sem nær ekki fyrri nýrnastarfsemi.

 

 

E-31 Áhrif síendurtekins togs á genatjáningu náttúrulega ónæmisvarna í lungnaþekjustofnfrumulínu

Harpa Káradóttir1, Nikhil N. Kulkarni1, Þórarinn Guðjónsson1, Sigurbergur Kárason2, Guðmundur H. Guðmundsson1

1Lífvísindasetri Háskóla Íslands, 2Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala

hak14@hi.is

Inngangur: Þekkt er að öndunarvélarmeðferð getur valdið skemmdum á lungnavef og aukið líkur á sýkingum í öndunarfærum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif síendurtekins togs, sem líkir eftir öndunarvélarmeðferð, á náttúrulegar ónæmisvarnir lungnaþekjufrumna og hvort hægt væri að styrkja þær samhliða toginu.

Efniviður og aðferðir: VA10 lungnaþekju­frumulínan var sett í FlexcellÒ FX-5000TM togkerfi þar sem frumurnar gangast undir síendurtekið tog. Frumurnar voru meðhöndlaðar með D3 vítamíni og  4-phenylbutyrat (PBA), sem hafa styrkjandi áhrif á náttúrulegar ónæmisvarnir. Genatjáning frumnanna var mæld á mRNA (qRT-PCR) og prótein (Western blot) stigi. Frumurnar voru einnig litaðar með flúrljómunarmerktum mótefnum og greindar í smásjá.

Niðurstöður: Tjáning á ákveðnum genum ónæmiskerfisins var breytt eftir síendurtekið togálag. Aukning var á genatjáningu bólgumiðlanna IL-8 og IL-1b í mRNA magni. Hins vegar var tjáning flakkboðans IP-10 (CXCL10) og viðtakanum TLR-3 minnkuð. Auk þess var minnkun á örverudrepandi peptíðinu LL-37, sem hægt var að snúa við með D-vítamín og PBA örvun frumnanna. Þessi aukning á LL-37 var einnig staðfest í próteinmagni.

Ályktanir: Við síendurtekið togálag jókst bólgusvörun lungnaþekjufrumnanna  á meðan yfirborðsvarnir þeirra minnkuðu. Því má ætla að hið náttúrulega ónæmissvar frumnanna sé skert við slíkar aðstæður og vefurinn viðkvæmur fyrir sýkingum. Hægt var að snúa þessum áhrifum við og styrkja varnir þekjunnar  með D-vítamíni og PBA. Þessar niðurstöður gætu haft klínískt gildi við leit að aðferðum til að draga úr fylgikvillum öndunarvélarmeðferðar.

 

 

E-32 Árangur fyrstu meðferðar við frumkomnu sjálfsprottnu loftbrjósti á Landspítala 1992 – 2011

Stefán Ágúst Hafsteinsson, Tómas Guðbjartsson, Anna Gunnarsdóttir

Barnaskurðdeild Barnaspítala Hringsins og hjarta og lungnaskurðdeild Landspítala. Læknadeild Háskóla Íslands

stefanah@landspitali.is

Inngangur: Við frumkomið sjálfsprottið loftbrjóst fellur lungað saman vegna rofs á litlum blöðrum sem oftast eru á lungnatoppum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna árangur fyrstu meðferðar við frumkomnu sjálfsprottnu loftbrjósti og tíðni skurðaðgerða þar sem gert er blöðrubrottnám og fleiðruerting.

Efniviður og aðferðir:Afturskyggn rannsókn á öllum sem greindust með sitt fyrsta frumkomna sjálfsprottna loftbrjóst á Landspítala 1992-2011. Sjúklingar fundust með leit í greiningar- og aðgerðarskrám Landspítala. Úr sjúkraskrám feng­ust upplýsingar um aldur við greiningu, meðferð og tíðni endurtekins loftbrjósts. Miðgildi eftir­fylgdar var 120 mánuðir (bil: 1-240).

Niðurstöður:  Alls greindust 616 loftbrjóst hjá 426 einstaklingum (meðalaldur 28,6 ár, 79,6% karlar). 96 sjúklingar greindust tvívegis sömu megin og 22 þrívegis eða oftar. Hjá 37 (8,7%) sjúklingum greindist loftbrjóst beggja vegna en þó ekki í sömu legu. Algengasta fyrsta meðferð var ísetning brjósholskera hjá 253 (59,4%) sjúklingum. Af þeim fengu 73 (28,9%) síðar loftbrjóst sömu megin, að meðaltali 14,5 mánuðum síðar, en 44 (60%) fóru beint í aðgerð eftir sitt annað loftbrjóst. 124 sjúklingar (29,1%) fóru beint í aðgerð við fyrsta loftbrjóst og fengu 6 þeirra endurtekið loftbrjóst sömu megin en 17 fengu síðar loftbrjóst hinum megin og fóru 12 þeirra í aðgerð. Alls fengu 45 sjúklingar enga meðferð við fyrsta loftbrjósti og fékk þriðjungur þeirra endurtekið loftbrjóst sömu megin, að meðaltali 15,6 mánuðum síðar. (51)

ÁlyktanirTæplega þriðjungur sjúklinga fór beint í skurðaðgerð við fyrsta loftbrjóst og af þeim læknuðust 95%. Langalgengasta fyrsta meðferð (59,4%) var brjóstholskeri og þrír af hverjum fjórum þurftu ekki frekari meðferð. Tæplega helmingur (47%) sjúklinganna fór í skurðaðgerð á rannsóknartímanum.

 

 

E-33 Notkun tölvusneiðmyndatöku við greiningu á botnlangabólgu á Landspítala á árunum 2008-2012

Þórður Skúli Gunnarsson1, Kristín Huld Haraldsdóttir1, Sigurður Blöndal1,2

1Skurðlækningadeild Landspítalans, 2 Læknadeild Háskóla Íslands

thordsg@landspitali.is

Inngangur: Bráð botnlangabólga er ein algengasta ástæða bráðra kviðverkja á bráðamóttöku. Síðastliðin 20 ár hefur verið mikil aukning á notkun tölvusneiðmyndatöku til greiningar botnalangabólgu erlendis. Ekki er vitað hvernig þróunin hefur verið hér á landi. Tilgangur þessarar afturskyggnu rannsóknar var því að kanna hvort breyting hefðir orðið á notkun tölvusneiðmynda á umræddu tímabili.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum sem gengust undir bráða botnlangatöku á Landspítalanum á tímabilinu 8. apríl 2008 – 7. apríl 2012. Á miðju rannsóknar­tímabilinu voru bráðamóttökur Landspítalans sameinaðar. Borin voru saman 2 ár fyrir og 2 ár eftir sameiningu. Athugað var hvort sjúklingur fór í tölvusneiðmyndatöku en einnig farið yfir tölvusneiðmyndasvör og tímasetningu rannsókna m.t.t. tímasetningar aðgerðar.

Niðurstöður: Alls gengust 883 sjúklingar undir bráða botnlangatöku á tímabilinu.  Meðalaldur var 36 ár (bil 18-86) og 54,5% sjúklinganna voru karlmenn. Á fyrri hluta tímabilsins (8.apríl 2008 – 7.apríl 2010), gengust 426 manns undir aðgerð vegna bráðrar botnlangabólgu og af þeim fóru 26% (109/426) í tölvusneiðmynd til greiningar fyrir aðgerð samanborið við 24% (109/457) sjúklinga á síðara tímabilinu, en munurinn var ekki markætkur (p > 0,05). Tími frá tölvusneiðmyndatöku þar til aðgerð var gerð lengdist hins vegar um 49% á fyrra og síðara tímabili, eða úr 6 klst og 38 mín. í 9 klst og 53 mín. (p < 0,01).

Ályktanir: Ekki hefur orðið aukning á notkun tölvusneiðmynda til greiningar botnlangabólgu hjá sjúklingum sem gengust undir bráða botnlangatöku á rannsóknartímabilinu.  Tíminn sem líður frá tölvusneiðmyndatöku þar til sjúklingur var tekinn til aðgerðar lengdist hins vegar. Þann tíma má að hluta til skýra með flutningi frá bráðamóttökuí Fossvogi á almenna skurðdeildina á Hringbraut.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica