Ávarp

Ávarp

Í bráðaþjónustu eru margar áskoranir tengdar slysum, ofbeldi og veikindum sem ekki gera boð á undan sér. Áskoranir tengdar fyrsta mati á einkennum, flutningi sjúklinga, viðbúnaði heilbrigðiskerfisins, veittri meðferð, teymisvinnu, úrræðum og framvindu sjúklings. Áskoranirnar felast líka í því hver sjúklingurinn er. Þó mat og meðferð bráðveikra sjúklinga megi nálgast út frá almennu viðurkenndu verklagi eru alltaf hópar og einstaklingar sem bregða út af norminu, sýna óvanaleg einkenni eða bregðast ekki við venjubundinni meðferð sem skyldi. Heilbrigðisstarfsfólk þarf í sínu vel skipulagða starfi ætíð að hafa í huga þessa hópa og einstaklinga, að þjónustan taki mið af þeirra þörfum og viðmiðum.

Þema Bráðadagsins 2015 var valið með þá hópa í huga sem leita í miklum mæli bráðaþjónustu en falla ekki alltaf undir skilgreiningar um venjubundið mat og meðferðir. Þemanu „Börn og aldraðir“ er ætlað að vekja athygli á sérstöðu þessara hópa í bráðaþjónustu, á að nálgun og úrræði séu sérsniðin að þeirra þörfum. Með því að kynna okkur rannsóknir og nýjustu þjónustumöguleika eigum við kost á að þróa bráðaþjónustu á Íslandi á allra besta máta inn í framtíðina.

Bráðadagurinn hefur öðlast sess sem þverfagleg ráðstefna í bráðafræðum, innsendum ágripum fjölgar ár frá ári og ráðstefnuritið er orðið ómissandi og mikilvæg heimild í bráðafræðum. Í ár lagði undirbúningsnefndin sérstaka áherslu á þverfaglegar nálganir og þar sem mörg góð ágrip bárust var ákveðið að bjóða upp á kynningar bæði með erindum og veggspjöldum. Í þessu riti eru birt 26 ritrýnd ágrip sem endurspegla nýjustu þekkingu og þróun í bráðaþjónustu á Íslandi á 21. öldinni.

Von okkar er að efni þessa blaðs efli áhuga og hvetji til enn frekari rannsókna í bráðafræðum á Íslandi.

Við færum þeim sem sendu inn ágrip, gestafyrirlesurum, styrktaraðilum, fundarstjórum og starfsfólki flæðissviðs bestu þakkir fyrir þeirra framlag til Bráðadagsins 2015.  


Fyrir hönd undirbúningsnefndar,

Dr. Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir
lektor og verkefnastjóri rannsóknarstofu Landspítala
og Háskóla Íslands
í bráðafræðum





Þetta vefsvæði byggir á Eplica