Ávarp

Ávarp

Ávarp

Fyrir hönd heilbrigðisvísindasviðs bjóðum við ykkur hjartanlega velkomin á 17. ráðstefnuna um líf- og heilbrigðisvísindi í Háskóla Íslands. Ráðstefnan verður haldin á Háskólatorgi dagana 5. – 6. janúar næstkomandi. Undirbúningsnefnd ráðstefnunnar hefur unnið að dagskrá og skipulagi með aðstoð rannsóknastjóra og kynningarstjóra á sviðsskrifstofunni og þökkum við þeim öllum góð störf.

Fjöldi ágripa barst undirbúningsnefndinni til ritrýni. Haldnir verða 160 fyrirlestrar í málstofum, auk gestafyrirlestra og fyrirlestra sem eru sérstaklega ætlaðir almenningi, og sýnd verða 130 veggspjöld. Við dagskrárgerð var sérstök áhersla lögð á að hafa málstofur þverfræðilegar til þess að efla vísindaleg samtöl, kveikja nýjar hugmyndir og auka skilning milli fræðigreina. Við hvetjum því til spurninga og umræðu. Mikilvæg störf eru lögð á herðar stjórnenda málstofa og veggspjaldasýninga, sem eiga þakkir skildar. Ráðstefnan á að vera til að stefna fólki í heilbrigðisvísindum saman og styðja þannig við rannsóknir og heilbrigðisþjónustu til framtíðar. Í þessum tilgangi samþykkti stjórn heilbrigðisvísindasviðs og undirbúningsnefnd ráðstefnunnar að leita eftir styrkjum til ráðstefnuhaldsins meðal fyrirtækja svo kostnaður þátttakenda yrði í lágmarki og ekki þyrfti að taka ráðstefnugjöld eða aðgangseyri af þeim. Styrktaraðilum ráðstefnunnar eru þökkuð þeirra framlög.   

Helstu verkefni heilbrigðisvísindasviðs sem hvetja til rannsókna og þróunar á fræðasviðinu snúa að aðstöðu og fjármögnun. Það er hagur allra landsmanna að byggt verði sameiginlegt húsnæði fyrir heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og að endurbætur verði gerðar á Landspítala með nýbyggingu og því sem til þarf vegna nútímaheilbrigðisþjónustu. Þetta tengist ótvírætt menntun og nýliðun heilbrigðisstétta í landinu. Talið er að dreifing starfseininga heilbrigðisvísindasviðs kosti landsmenn um milljarð árlega, vegna aukins kostnaðar í rekstri og vegna glataðra tækifæra meðal annars til þverfaglegrar kennslu, alþjóðlegra verkefna og rannsókna.

Bætt aðstaða felst meðal annars í því að efla innviði sem styrkja fræðigreinar sviðsins. Í undirbúningi er stofnun Heilsubrunns HÍ sem mun aðstoða við undirbúning klínískra gagna til notkunar í rannsóknum og þjónustu og er honum ætlað að þjóna bæði starfsmönnum skólans og samvinnustofnunum okkar á sviði heilbrigðisþjónustu. Það þjónar einnig hagsmunum allra að styrkja samvinnu stofnana og heilbrigðisvísindasviðs enn frekar. Auk þess sem þegar hefur verið nefnt mun ráðstefnan um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands enn á ný leggja til við stjórnvöld að samkeppnissjóður ætlaður heilbrigðisvísindum verði stofnaður.

Velkomin á 17. ráðstefnuna um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands.

Inga Þórsdóttir
prófessor
forseti heilbrigðisvísindasviðs

Fanney Þórsdóttir
dósent í sálfræðideild
formaður undirbúningsnefndar
Þetta vefsvæði byggir á Eplica