Ágrip veggspjalda

Ágrip veggspjalda

V01     Lýðgrunduð rannsókn á áhrifum fjölskyldusögu á horfur sjúklinga með Waldenström's Macroglobulinemia

Vilhjálmur Steingrímsson1, Sigurður Kristinsson2, Sigrún Lund2, Ingemar Turesson3, Lynn Goldin4, Magnus Björkholm5, Ola Landgren6

1Háskóla Íslands, 2Læknadeild Háskóla Íslands , 3Department of Hematology and Coagulation Disorders, Skane University Hospital, 4Division of Cancer Epidemiology and Genetics, National Cancer Institute , 5Department of Medicine, Karolinska University Hospital, 6Myeloma Service, Memorial Sloan-Kettering Cancer Center

Inngangur: Sýnt hefur verið fram á að ættingjar sjúklinga með Waldenström's macroglobulinemia (WM) hafa auknar líkur á eitilfrumusjúkdómum. Fyrri rannsókn á 135 sjúklingum á sérhæfðri stofnun sýndi fram á tvíbendnar niðurstöðu um áhrif fjölskyldusögu á svörun WM sjúklinga við meðferð. Við réðumst í þessa lýðgrunduðu rannsókn til að ákvarða betur áhrif fjölskyldusögu á horfur í WM.

Efniviður og aðferðir: Gögnum um 2.185 WM sjúklinga og 6.460 foreldra, systkini og börn var aflað hjá opinberu sænsku skráningarstofnunum og sænska blóðmeina-/krabbameinsgagnagrunninum. Fjölskyldusaga um eitilfrumusjúkdóm var skilgreind sem saga um eitilfrumusjúkdóm hjá fyrst gráðu ættingja (WM, Hodgkin's lymphoma, non-Hodkgin's lymphoma, multiple myeloma, chronic lymphocytic leukemia og/eða MGUS). Við notuðumst við Cox líkan við tölfræðigreiningu.

Niðurstöður: Fjölskyldusaga um eitilfrumusjúkdóm (áhættuhlutfall: 1.34; 95% öyggisbil 1.03-1.75) hafði marktæk tengsl við verri horfur í WM. Enn fremur voru horfurnar verri fyrir hvern ættingja sem greindist með eitilfrumufjölgun (1.24; 1.02-1.51).

Ályktanir: Í lýðgrundaðri rannsókn höfum við sýnt að fjölskyldusaga um eitilfrumufjölgun er tengd við verri horfur í WM og ennfremur reyndust tengslin vera skammtaháð, þ.e. áhættan jókst með hverjum ættingja sem greindist með eitilfrumusjúkdóm. Niðurstöðurnar okkar, ásamt fyrri rannsóknum, benda til að sú gerð WM sem liggur í fjölskyldum gæti haft ólíka líffræðilega eiginleika og svörun við meðferð en WM almennt .


V02      Áhrif greiningar og eftirfylgni góðkynja einstofna mótefnahækkunar á lifun sjúklinga með mergæxli

Elín Edda Sigurðardóttir1, Ingemar Turesson2, Sigrún Helga Lund3, Ebba K. Lindqvist4, Sham Mailankody5, Neha Korde5, Magnus Björkholm4, Ola Landgren6, Sigurður Yngvi Kristinsson4

1Landspítala, 2Skane University Hospital, Malmö, Svíþjóð, 3Læknadeild Háskóla Íslands 4Karolinska University Hospital and Karolinska Institutet, Stokkhólmi, 5National Cancer Institute, Bethesda, MD, Bandaríkjunum, 6Memorial Sloan-Kettering Cancer Center, New York

Inngangur: Mergæxli (MM) tekur til um 1% illkynja meina á alþjóðavísu og einkennist af fjölgun á einstofna plasmafrumum, einstofna mótefnum í blóði og/eða þvagi og líffæraskemmdum er rekja má til sjúkdómsins. Góðkynja einstofna mótefnahækkun (MGUS) er ávallt undanfari MM. Mælt er með árlegri eftirfylgni einstaklinga greinda með MGUS.

Efniviður og aðferðir: Þýði rannsóknarinnar samanstóð af öllum einstaklingum er greindir voru með MM í Svíþjóð á tímabilinu 1976-2005 (n=14.798). Þar af höfðu 394 sjúklingar verið greindir með MGUS sem undanfara MM. Kaplan Meier gröf voru notuð til að meta heildarlifun sjúklinga. Cox aðhvarfsgreiningarlíkan var notað til greiningar á þáttum sem hafa áhrif á lifun. Kí-kvaðrat próf var notað til að meta mun á fjölkvillum með tilliti til fyrri vitneskju um MGUS.

Niðurstöður: MM sjúklingar með fyrri vitneskju um MGUS (áhættuhlutfall (HR)=0,85;95% öryggisbil(öb):0,76-0,96) höfðu marktækt betri lifun (miðgildi=2,8 ár) borið saman við aðra MM sjúklinga (miðgildi=2,1 ár). Mjög lágur M-prótín styrkur (5g/L) við greiningu MGUS, borinn saman við hærri styrk, var tengdur verri lifun (1,86;1,13-3,04,p=0,014)). Fjölkvillar voru marktækt algengari í MM sjúklingum með fyrri vitneskju um MGUS en öðrum MM sjúklingum (p<0,001).

Ályktanir: Í þessari lýðgrunduðu rannsókn sýndum við fram á að horfur MM sjúklinga með fyrri vitneskju um MGUS eru betri en annarra MM sjúklinga, þrátt fyrir marktækt hærri tíðni fjölkvilla. Verri horfur MM sjúklinga sem greindust með lág-áhættu MGUS kunna að skýrast af minni eftirfylgni þeirra en annarra einstaklinga greinda með MGUS. Af þessu má álykta að eftirfylgni einstaklinga með MGUS sé mikilvæg, óháð áhættu á þróun í illkynja sjúkdóm.

 

V03      Sýkingar hjá sjúklingum með Waldenströms sjúkdóm

Sigrún Helga Lund1, Malin Hultcrantz2, Lynn Goldin3, Ola Landgren4, Magnus Björkholm2, Ingemar Turesson5, Sigurður Yngvi Kristinsson1

1Háskóla Íslands, 2Karolinska University Hospital, Stokkhólmi, 3National Cancer Institute, Bethesda, 4Memorial Sloan-Kettering Cancer Center, New York, 5Skane University Hospital, Malmö

Inngangur: Sýkingar eru algeng orsök veikinda og dauðsfalla hjá sjúklingum með illkynja blóðsjúkdóma. Þekking er takmörkuð á uppkomu sýkinga hjá sjúklingum með Waldenströms sjúkdóm (Waldenström´s macroglobulinemia (WM)). Markmið rannsóknarinnar er að meta sýkingaráhættu WM sjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin notar samkeyrslu sænsku krabbameins-, sjúklinga-, þjóð- og dánarmeinaskránna, ásamt gagnagrunni stærstu blóðsjúkdóma/krabbameinsdeilda landsins. Þátttakendur voru allir einstaklingar sem greindust með WM í Svíþjóð á árunum 1980-2005. Til viðmiðunar fyrir hvern WM sjúkling voru valdir allt að fjórir einstaklingar, lifandi á greiningardegi, paraðir eftir búsetu, aldri og kyni. Þátttakendum var fylgt eftir m.t.t. sýkinga og dauða eða fram til loka árs 2006. Samband WM og sýkinga er sett fram með áhættuhlutfalli (HR) og 95% öryggisbilum.

Niðurstöður: Þátttakendur voru 2608 WM sjúklingar og 10433 pöruð viðmið. Meðaleftirfylgnitíminn var 4,2 ár hjá WM/LPL og 6,9 ár hjá viðmiðum. Á eftirfylgnitímanum fengu 2801 sýkingar. WM sjúklingar voru í aukinni áhættu (HR=3,4;3,1-3,6) á sýkingu. Áhættan var aukin fyrir bakteríusýkingar (HR=3,2;2,9-3,5), þar af: blóðsýkingar (HR=9,3;3,7-23,5), hjartaþelsbólgu (HR=5,0; 2,5-10,0), lungnabólgu (HR=3.8;3,4-4,2), heilahimnubólgu (HR=3,4;1.1-10,3), húðnetjubólgu (HR=2,6;2,0-3,4), beinasýkingar (HR=1,9;1,01-3,6) og nýrnasýkingar (HR=1,6;1,2-2,4). Áhættan var einnig aukin fyrir veirusýkingar (HR=6,0;4,9-7,3), þar af: ristil (HR=9,2;6,7-12,6) og inflúensu (HR =2,3;1,5-3,5). Samanborið við WM sjúklinga greinda 1980-1989, jókst sýkingaráhættan á tímabilunum 1990-1999 (HR=1,5;1,3-1,6) og 2000-2004 (HR=1,8;1,6-2,1)(Mynd2). Konur voru í minni sýkingarhættu en karlar (p<0,001). Sýkingaráhættan jókst með aldri (p<0,001).

Ályktanir: Sjúklingar með WM hafa verulega hækkaða áhættu á uppkomu sýkinga af völdum fjölbreyttra sýkingarvalda í flestum líffærakerfum. Þessar niðurstöður undirstrika að meðferð og eftirfylgni WM skuli taka mið af víðtækri ónæmisbælingu þessa sjúklingahóps.

 

V04      Áhrif offitu á góðkynja einstofna mótefnahækkun: Lýðgrunduð rannsókn

Maríanna Þórðardóttir1, Sigrún Helga Lund1, Ebba K Lindqvist2, Rene Costello3, Debra Burton3, Neha Korde4, Sham Mailankody3, Guðný Eiríksdóttir5, Lenore J Launer6, Vilmundur Guðnason5, Tamara B Harris6, Ola Landgren4, Sigurður Yngvi Kristinsson7

1Háskóla Íslands, 2Karolinska Institutet Stokkhólmi, Svíþjóð, 3National Cancer Institute, National Institute of Health, 4Memorial Sloan-Kettering Cancer Center, Bandaríkjunum, 5Hjartavernd, 6National Institute on Aging, National Institute of Health, Bandaríkjunum, 7læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Góðkynja einstofna mótefnahækkun (MGUS) er fyrirbæri sem einkennist af hækkun á einstofna mótefni í blóði án þess að skilmerkjum um tengda illkynja sjúkdóma sé fullnægt og er flokkað sem forstig mergæxlis. Orsök MGUS er að miklu leyti óþekkt. Tvær rannsóknir hafa skoðað sambandið á milli offitu og MGUS og gefið mismunandi niðurstöður, rannsóknir hafa endurtekið sýnt fram á samband á milli offitu og mergæxlis. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða hvort offita auki líkur á MGUS og MGUS af völdum léttra keðja (LC-MGUS).

Efniðviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á þátttakendum úr AGES rannsókninni (n=5764). Próteinrafdráttur og mæling á léttum keðjum í blóði var framkvæmt á öllum þátttakendum til að greina MGUS og LC-MGUS. Fjölmargar mælingar voru notaðar til að meta offitu. Sambandið var skoðað með lógístískri aðhvarfsgreiningu. Áhættuhlutfall var reiknað í Cox-líkani til að skoða áhrif offitu á framþróun MGUS yfir í mergæxli.

Niðurstöður: Alls greindust 299 (5.2%) með MGUS og 33 (0.6%) með LC-MGUS. Ekkert samband fannst á milli offitu og MGUS eða LC-MGUS. Offita við 55 ára aldur hafði áhrif á framþróun MGUS yfir í mergæxli (HR 3.20; 95% CI 1.15 - 8.88).

Ályktanir: Í þessari rannsókn fundum við ekkert samband á milli offitu og MGUS eða LC-MGUS. Offita við 55 ára aldur hafði áhrif á framþróun yfir í mergæxli. Margir mismunandi þættir geta orskað offitu, sem gæti skýrt ósamræmi milli rannsókna. Framtíðarrannsóknir á þessu sviði ættu að leggja áherslu á þá mismunandi lífsstílstengdu þætti sem orsaka offitu til að auka skilning á orsökum MGUS.

 

V05      Áhrif fjölskyldusögu um eitilfrumusjúkdóma á lifun sjúklinga með mergæxli

Kristrún Aradóttir1, Sigrún Helga Lund2, Ola Landgren3, Magnus Björkholm4, Ingemar Turesson5, Sigurður Yngvi Kristinsson5

1Háskóla Íslands, 2Læknadeild Háskóla Íslands, 3Myeloma Service, Memorial Sloan-Kettering Cancer Center, Bandaríkjunum, 4Skåne University Hospital, Malmö, Svíþjóð, 5Karolinska háskólasjúkrahúsið og Karolinska Institutet, Stokkhólmi

Inngangur: Mergæxli (multiple myeloma, MM) er illkynja mein sem einkennist af fjölgun á plasmafrumum í beinmerg og offramleiðslu á einstofna mótefnum í sermi eða þvagi. Ættlægni MM hefur áður verið lýst en erfðafræðilegar orsakir sjúkdómsins og vægi fjölskyldusögu um eitilfrumusjúkdóma (lymphoproliferative disease, LPD) eru óþekkt. Markmið rannsóknarinnar var að skoða lifun sjúklinga með MM með tilliti til fjölskyldusögu um LPD.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar um sjúklinga með mergæxli og ættingja þeirra fengust úr miðlægum sænskum gagnagrunnum. Með því að tengja gögn okkar við sænsku krabbameinsskrána fengust upplýsingar um greiningar illkynja sjúkdóma í ættingjum sjúklinga með mergæxli. Við úrvinnslu gagna var leiðrétt fyrir aldri, kyni og greiningarári.

Niðurstöður: Í rannsóknarhópnum voru 13,926 sjúklingar sem greindust með mergæxli á árunum 1957-2005. Af þeim áttu 630 sjúklingar ættingja með sögu um LPD, alls 876 ættingjar. Lifun MM-sjúklinga með fjölskyldusögu um LPD var marktækt betri en þeirra sem ekki áttu ættingja með sögu um LPD (HR 0.85; 95% CI 0.77-0.92, p<0.001). Munurinn var mestur í yngsta aldurshópnum (0.79; 0.65-0.96, p<0.05) og var meira áberandi í körlum en konum (1.20; 1.01-1.43, p<0.05).

Ályktanir: Samkvæmt rannsókn okkar var lifun sjúklinga með MM sem áttu ættingja sem fengið höfðu eitilfrumusjúkdóm marktækt betri en þeirra sem ekki höfðu fjölskyldusögu um slíka sjúkdóma. Ekki hefur verið sýnt fram á þessi tengsl áður. Undirliggjandi ástæður þessa eru hins vegar enn á huldu og er frekari rannsókna á efninu þörf.

 

V06      Saga um langlífa foreldra og tengsl við lifun sjúklinga með mergæxli og MGUS

Ingigerður Sverrisdóttir1, Sigurður Yngvi Kristinsson1, Sigrún Helga Lund2

1Landspítala, 2Háskóla Íslands

Inngangur: Í hinu almenna þýði eru lífslíkur þeirra sem eiga langlífa foreldra auknar. Flestar rannsóknir hafa einblínt á meingerð mergæxlis (multiple myeloma) og áhrif á lifun en fáar á áhrif umhverfis og annarra þátta. Það sama má segja um undanfara mergæxlis, góðkynja einstofna mótefnahækkun (MGUS). Markmið okkar var að rannsaka áhrif þess að eiga langlífa foreldra á lifun sjúklinga með mergæxli og MGUS.

Efniviður og aðferðir: Í rannsókninni voru 1815 sjúklingar með mergæxli og 1407 með MGUS. Að auki voru 8267 einstaklingar í þýðisbundnum viðmiðunarhópi fyrir sjúklinga með mergæxli og 5595 fyrir MGUS-sjúklinga í rannsókninni. Hættuhlutfall (hazard ratio, HR) meðal sjúklinga með mergæxli og MGUS þar sem saga var um langlífa foreldra var borið saman við þá sem ekki áttu langlífa foreldra.

Niðurstöður: Saga um langlífa foreldra hjá sjúklingum með mergæxli sýndi ekki tengsl við minni áhættu á dauða (HR=0,92; 95% CI 0,81-1,05). Sama gilti um þá sem áttu eitt langlíft foreldri eða þar sem báðir voru langlífir (HR=0,91; 95% CI 0,80-1,04 og HR=1,02; 95% CI 0,72-1,47). Saga um langlífa foreldra meðal MGUS-sjúklinga sýndi fram á minni áhættu á dauða (HR=0,69; 95% CI 0,53-0,91). Áhættan var minni ef annað foreldrið var langlíft (HR=0,69; 95% CI 0,52-0,91). Rannsóknarhópurinn var ekki nægilega stór til að hægt væri að sýna fram á minni áhættu ef báðir foreldrar voru langlífir (HR=0,72; 95% CI 0,34-1,53).

Ályktanir: Saga um langlífa foreldra hefur ekki áhrif á lifun sjúklinga með mergæxli. Hins vegar tengist langlífi foreldra MGUS-sjúklinga minni áhættu á dauða og gefur svipaða niðurstöðu og hjá viðmiðunarhópi.

 

V07     Dreifing og fjöldi meinvarpa í sjúklingum sem greinast með nýrnafrumukrabbamein

Ívar Marinó Lilliendahl1, Eiríkur Jónsson2, Guðmundur Vikar Einarsson2, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2þvagfæraskurðdeild Landspítala

Inngangur: Rúmlega fjórðungur sjúklinga með nýrnafrumukrabbamein (NFK) hafa útbreiddan sjúkdóm (synchronous metastases) við greiningu. Horfur þessara sjúklinga eru oftast slæmar og 5-ára lifun er <10%. Tilgangur þessarar afturvirku rannsóknar var að kanna frekar afdrif þessa sjúklingahóps eftir dreifingu og fjölda meinvarpa.

Efniviður og aðferðir: 250 NFK-sjúklingar sem greindust á Íslandi 1981-2010 og höfðu fjarmeinvörp við greiningu. Nýrnabrottnám var framkvæmt hjá tæplega helmingi sjúklinga (45%) en tæplega þriðjungur (32%) sjúklinga fengu krabbameinslyfjameðferð. Brottnám lungnameinvarpa var framkvæmt hjá aðeins 1 sjúklingi fljótlega eftir greiningu meinvarpa. Úr sjúkraskrám og myndgreiningarrannsóknum var kannaður fjöldi meinvarpa og dreifing til líffæra. Heildarlifun hópanna var borin saman með log-rank prófi og miðuðust útreikningar við maí 2013.

Niðurstöður: Meinvörp greindust oftast í lungum (58%), beinum (39%) og lifur (20%), en 35% sjúklinga höfðu jafnframt eitilmeinvörp. Algengustu einkenni voru kviðverkir (46%), megrun (38%) og blóðmiga (32%) en 6% sjúklinga voru tilviljanagreindir. Flestir höfðu meinvörp í einu líffæri (61%), oftast í beinum eða lungum, 28% höfðu meinvörp í tveimur líffærum og 11% í 3 líffærum. Eins árs lifun sjúklinga með meinvörp í 1, 2 og 3 líffærum var 35%, 22% og 7% en 5-ára lifun 10%, 6% og 0% (p=0,008). Eins árs lifun sjúklinga með eitt meinvarp í einu líffæri, mörg meinvörp í einu líffæri eða mörg meinvörp í mörgum líffærum var 47%, 38% og 20% og 5 ára lifun 13%, 10% og 5% (p=0,04).

Ályktun: NFK meinverpist oftast til lungna, beina og lifrar. Flestir sjúklingar greinast með mörg meinvörp í einu eða fleiri líffærum. Lifun þessara sjúklinga er marktækt verri en sjúklinga með eitt meinvarp í einu líffæri, sem hafa bestu horfurnar.

 

V08     Bandvefsmyndun í beinmerg sjúklinga með mergæxli: Áhrif og horfur

Tinna Hallgrímsdóttir1, Anna Porwit2, Magnus Björkholm3, Eva Rossmann3, Hlíf Steingrímsdóttir1, Sigrún Helga Lund4, Sigurður Yngvi Kristinsson1

1Landspítala, 2Háskólanum í Toronto, 3Karolinska Institutet, 4Háskóla Íslands

Inngangur: Mergæxli einkennist af offjölgun á plasmafrumum í beinmerg og seytrun á einstofna mótefnum. Mikill breytileiki er í lifun sjúklinga en þekkt er að ákveðnir þættir hafi áhrif á horfur, meðal annars aldur og erfðabreytileiki. Bandvefsmyndun í beinmerg er þekkt í mergæxlum en hefur verið mjög lítið rannsakað og áhrif þess á horfur að mestu óþekkt. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna algengi bandvefsmyndunar í beinmerg sjúklinga með mergæxli og áhrif þess á lifun.

Efniviður og aðferðir: Gagnasöfnun fór fram á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi og gögn voru fengin úr sjúkraskrám þaðan. Farið var yfir öll beinmergssvör (N=1500) einstaklinga sem greindust með mergæxli á tímabilinu 2003-2011. Gerð var ferilrannsókn þar sem metið var algengi bandvefsmyndunar í beinmerg við greiningu mergæxlis. Sjúklingar með bandvefsmyndun voru paraðir við sjúklinga án bandvefsmyndunar af sama kyni, greiningarári og fæðingarári svo framarlega sem unnt var. Metin var lifun milli hópa með Kaplan-Meier aðferð og Cox-líkani.

Niðurstöður: Alls greindust 586 einstaklingar með mergæxli á Karolinska sjúkrahúsinu á árunum 2003-2011 en af þeim höfðu 223 (38%) bandvefsmyndun í beinmerg við greiningu. Borið saman við paraða sjúklinga án bandvefsmyndunar (N=217) höfðu sjúklingar með bandvefsmyndun marktækt verri lifun (p=0,0485). Munurinn var mestur hjá karlmönnum og sjúklingum yngri en 65 ára. Jafnframt voru lífshorfur verri eftir því sem bandvefsmyndunin var meiri.

Ályktanir: Bandvefsmyndun í beinmerg er algeng hjá sjúklingum með mergæxli og hefur slæm áhrif á horfur. Kanna þarf betur undirliggjandi ástæður þessa til dæmis svörun meðferðar, fylgikvilla og tengsl við aðra þætti sem hafa áhrif á horfur.

 

V09     Algengi og nýgengi heiladingulsæxla á Íslandi 1955-2012

Tómas Þór Ágústsson1, Tinna Baldvinsdóttir1, Jón G Jónasson2, Elínborg Ólafsdóttir2, Valgerður Steinþórsdóttir3, Gunnar Sigurðsson1, Árni V. Þórsson1, Paul V. Carroll4, Márta Korbonits5, Rafn Benediktsson1,6

1Landspítala, 2Leitarstöð krabbameinsfélagsins, 3Íslenskri erfðagreiningu, 4The Department of Diabetes and Endocrinology, Guy´s and St Thomas´ NHS Foundation Trust, London, 5The William Harvey Research Institute, Barts and The London School of Medicine, Queen Mary University of London, 6Læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Fáar yfirgripsmiklar tæmandi rannsóknir eru til á faraldsfræði heiladingulsæxla. Eldri rannóknir gáfu misvísandi niðurstöður en nýlegri lýðgrundaðar rannsóknir benda til vaxandi algengi og nýgengi. Við höfum safnað upplýsingum um öll heiladingulsæxli á Íslandi frá 1955 til ársloka 2012 í gagnagrunn sem veitir einstakt tækifæri til að lýsa þeim í vel skilgreindu þýði heillar þjóðar yfir langt tímabil og kanna áhrifaþætti faraldsfræðilegra breytinga.

Efniviður og aðferðir: Þetta er afturskyggn lýsandi rannsókn. Upplýsingar voru skráðar um greiningu, einkenni og meðferð. Heildarfjöldi æxla var metinn og algengi reiknað á mismunandi tímapunktum út frá íbúafjölda ásamt aldursstöðluðu nýgengi fyrir alla undirflokka æxla og með tilliti til einkenna við greiningu.

Niðurstöður: Alls fundust 471 einstaklingur, 190 karlar og 281 kona. 372 voru á lífi 2012 og er algengi því 115.57/100.000.  Miðgildi aldurs var 44 ár og hefur ekki breyst markvert á tímabilinu. Algengustu æxlin í heild voru óstarfandi,43%, og prólaktínóma 39.9%. 11.3% höfðu acromegaly og 5.7% Cushings sjúkdóm. Í árslok 2012 var algengi prólaktínóma hinsvegar hæst (54.37/100.000) en óstarfandi æxla næsthæst (41.32/100.000). Konur greinast yngri og hafa minni æxli. Aldursstaðlað nýgengi hefur vaxið markvert og er nú í heild 5.8/100.000/ár. Langstærstur hluti sjúklinga af öllum flokkum hafði einkenni við greiningu.

Ályktanir: Faraldsfræði heiladingulsæxla á Íslandi eru svipuð og í öðrum minni nýlegum lýðgrunduðum rannsóknum en algengi og nýgengi er þó markvert hærra. Þetta gæti skýrst af auknu aðgengi að myndgreiningu en nýgengi tilviljanafunda er ekki nærri nægilegt til að skýra þessa þróun. Algengi klínískt markverðra heiladingulæxla er hærra en talið var og aukin vitund og rannsóknir á þessum sjúkdómum er nauðsynleg.

 

V10     Tengsl gáttatifs eftir hjartaskurðaðgerð við styrk D-vítamíns í blóði

Guðrún V. Skúladóttir1, Arieh Cohen2, Davíð O. Arnar3, David M. Hougaard2, Kristin Skogstrand2, Bjarni Torfason4, Runólfur Pálsson3, Ólafur S. Indriðason3

1Háskóla Íslands, Lífeðlisfræðistofnun, 2Statens Serum Institute, Kaupmannahöfn, 3lyflækningasviði Landspítala, 4skurðlækningasviði Landspítala

Inngangur: Rannsóknir benda til að styrkur heildar-25-hýdroxý-D-vítamíns (25(OH)D2+25(OH)D3) í blóði tengist áhættu á alvarlegum fylgikvillum eftir hjartaskurðaðgerðir. Gáttatif er einn algengasti fylgikvilli slíkra aðgerða og er bólga talin mikilvæg í meinmyndun þess. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna tengsl heildar-25(OH)D, 25(OH)D2 og 25(OH)D3 við gáttatif eftir hjartaskurðaðgerð.

Efniviður og aðferðir: Styrkur 25(OH)D2 og 25(OH)D3 var mældur í blóðvökva rétt fyrir aðgerð og þremur dögum eftir aðgerð hjá sjúklingum (n=126), sem gengust undir opna hjartaskurðaðgerð á Landspítala. Tengsl við gáttatif voru könnuð með lógístískri aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Sjúklingar sem fengu gáttatif eftir aðgerð höfðu hærri styrk 25(OH)D2 í blóðvökva en þeir sem héldu sínustakti (1,3 (0,0-20,8) sbr. við 0,8 (0,0-4,4) nmól/L, p=0,003), en ekki var munur á styrk 25(OH)D3 (51,6 (8,6-83,5) sbr. við 37,8 (7,4-89,1) nmól/L, p>0,05) eða heildar-25(OH)D (p>0,05) milli hópanna. Styrkur 25(OH)D2, 25(OH)D3 og heildar-25(OH)D var marktækt lægri í báðum hópum eftir aðgerðina miðað við fyrir aðgerð (p<0,05). Tengsl gáttatifs við styrk 25(OH)D2 voru markæk (odds ratio (OR) = 2,065; 95% öryggismörk (CI) 1,132-3,768) eftir að leiðrétt var fyrir aldri, líkamsþyngdarstuðli, reykingum, áfengisneyslu, tegund aðgerðar og hæsta CRP gildi eftir aðgerð, en engin tengsl fundust við styrk 25(OH)D3 (OR = 0,997; 95% CI 0,974-1,021).

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að hár styrkur 25(OH)D2 í blóðvökva geti átt þátt í myndun gáttatifs eftir opna hjartskurðaðgerð en ekki 25(OH)D3 eða heildar-25(OH)D. Þessi munur getur mögulega verið vegna mismunandi áhrifa D2- og D3-vítamína á bólguferla eða raflífeðlisfræði hjartans.

 

V11     Stökkbreytingar í genum sem tjá samdráttarprótín í gáttum valda snemmkomnu gáttatifi

Davíð O. Arnar1, Daníel F. Guðbjartsson2, Hilma Hólm2, Patrick Sulem2, Unnur Þorsteinsdóttir2, Kári Stefánsson2

1Lyflækningasviði Landspítala, 2Íslenskri erfðagreiningu

Inngangur: Það er vel þekkt að gáttatif getur verið ættlægt, ekki síst í þeim tilvikum þegar takttruflunin greinist hjá tiltölulega ungum einstaklingum. Við höfum lýst nokkrum erfðabreytileikum sem auka áhættu á gáttatifi þar á meðal stökkbreytingu í geninu MYH6 sem tjáir alfa þungar keðjur samdráttarprótínsins mýósín í gáttafrumum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna sérstaklega áhættugen gáttatifs hjá einstaklingum sem greinast innan við sextugt.

Aðferðir: Víðtæk erfðamengisleit var framkvæmd á öllum þeim sem höfðu greinst með gáttatif fyrir sextugt á Íslandi frá 1987-2013. Erfðamengisskönnunin byggðist á meira en tuttugu milljón erfðabreytileikum, sem höfðu fundist með raðgreiningu á öllu erfðamengi 1176 Íslendinga, og áætlun arfgerða hjá 60 þúsund einstaklingum og ættingjum þeirra.

Niðurstöður: Erfðamengisskönnunin sýndi sjaldgæft (0.7% tíðni samsætu) eins basa brottfall sem orsakaði lesrammahliðrun og stýfingu í sarkómer geninu MYL4 sem tengdist gáttatifi með víkjandi erfðum. Átta arfhreinir berar fundust á Íslandi, sem allir höfðu sögu um gáttatif greint snemma á ævinni (14-56 ára). Þrír þeirra höfðu sömuleiðis fengið heilaáfall fyrir sextugt. Ekki fundust tengsl milli arfblendinna og sögu um snemmkomið gáttatif. Arfhreinir höfðu hvorki greinanleg merki um hjartavöðvasjúkdóm né aðra hefðbundna áhættuþætti gáttatifs. Engir úr þýðum frá Tromsö eða Hong Kong báru stökkbreytinguna.

Ályktun: Stökkbreyting í sarkómer geninu MYL4 veldur gáttatifi snemma á ævinni. Þetta er önnur stökkbreytingin sem við höfum fundið í genum sem tjá samdráttarprótín í gáttavef og tengist aukinni áhættu á gáttatifi. Þessar niðurstöður varpa áður óþekktu ljósi á meinalífeðlisfræði gáttatifs og gefa til kynna að samdráttarprótín geti, án augljóss hjartavöðvasjúkdóms, átt þátt í myndun takttruflunarinnar.

        

V12     Mjaðmagrindarbrot meðhöndluð á Landspítala árin 2008-2012

Unnur Lilja Úlfarsdóttir1, Gunnar Sigurðsson2, Brynjólfur Mogensen3

1Háskóla Íslands, 2lyflækningasviði Landspítala, 3rannsóknastofu LSH og HÍ í bráðafræðum

Inngangur: Mjaðmagrindarbrotum hefur ekki verið gefinn mikill gaumur í samanburði við mjaðmarbrot (lærleggshálsbrot/lærhnútubrot) en margt bendir til að þau hafi verið verulega vanmetin m.t.t. afleiðinga fyrir sjúklingana og kostnaðar þjóðfélagsins. Markmið rannsóknarinnar var að kanna umfang, eðli og afleiðingar mjaðmagrindarbrota.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á einstaklingum sem mjaðmagrindarbrotnuðu og voru meðhöndlaðir á Landspítala árin 2008-2012. Leitað var í sjúkraskrám eftir ICD-10 greiningum og skráður var fjöldi brota, aldur, kyn, orsök og staðsetning áverka og legutími á LSH.

Niðurstöður: Alls voru 443 einstaklingar sem mjaðmagrindarbrotnuðu á þessu tímabili, þar af voru 314 konur (70,9%) og 129 karlar (29,1%). Meðalfjöldi brota á ári var 88,6 sem svipar til meðalfjölda lærhnútubrota (78,2 á ári), á sama tímabili. Lágorkubrotin (eftir fall < 1 m) voru samtals 325 (73,4%) og háorkubrotin voru 114 (25,7%). Af lágorkubrotunum voru konur 81,8% og karlar 18,2% (p<0,0001). Af háorkubrotunum voru konur 39,5% og karlar 60,5% (p=0,03). Meðalaldur sjúklinga með lágorkubrot var 78,5 ár (bil 12-104) sem er töluvert hærri en meðalaldur sjúklinga með háorkubrot (45,2 ár). Algengasta staðsetning lágorkubrota var á lífbeini (67,1%). Hlutfall þeirra sem lögðust inn á LSH eftir lágorkubrot var 66,2% og miðgildi legutíma 10,9 dagar.

Ályktanir: Mjaðmagrindarbrot eru algengust hjá eldri konum og þær brotna oftar við lágorkuáverka. Karlar brotna frekar við háorkuáverka og hafa lægri meðalaldur við brot. Stór hluti leggst inn á Landspítalann til verkjastillingar og hreyfimeðferðar. Flestir aldraðir geta ekki bjargað sér sjálfir eftir brotin og liggja lengi inni. Mjaðmagrindarbrot hafa verulegar afleiðingar bæði fyrir sjúklinga og kostnað fyrir þjóðfélagið.

 

V13     Staða lyfjagjafa á hjúkrunarheimilum

Pétur Gunnarsson1, Hlynur Traustason2, Ólafur Samúelsson1, Jón Eyjólfur Jónsson1, Aðalsteinn Guðmundsson1

1Landspítala, 2Háskóla Íslands

Inngangur: Lyfjanotkun íbúa hjúkrunarheimila er mikil og algengt að kyngingarörðugleikar eða aðrar færniskerðingar hamli notkun og gjöf hefðbundinna lyfjaforma. Markmið rannsóknarinnar var að kanna stöðu lyfjagjafa á hjúkrunarheimilum. Skoðað var hvaða lyf var verið að gefa og fylgst með því hvort að þau væru meðhöndluð og gefin í samræmi við fylgiseðil.

 Efniviður og aðferðir: Rannsóknin fór fram á tveimur hjúkrunarheimilum þar sem farið var á tvær deildir á hvoru hjúkrunarheimili í fjóra daga. Íbúar voru flokkaðir eftir aldri, kyni og hvort að þeir væru með vitræna skerðingu. Fylgst var með hjúkrunarfræðingunum taka til lyfin, undirbúa lyfjagjöfina og gefa íbúum lyfin. Skráð voru niður nöfn lyfjanna, fjöldi og hvort að þau væri brotin í skömmtunarpokanum. Einnig var skráð hvort að lyfin væru mulin eða hylkin opnuð og þá í hvaða íblöndunarfasa þau væru gefin.

 Niðurstöður: Meirihluti lyfja sem gefin voru á rannsóknartímabilinu voru mulin (54%). Ef litið er á dreifinguna eftir lyfjaformum er algengast að töflur með og án filmuhúðar séu muldar (61%). Niðurstöður sýna að mulningur á lyfjum er algeng verklagsaðferð hjá hjúkrunarfræðingum og umtalsverðum fjárhæðum er eytt í lyf sem verða við það óvirk. Oft vantar heimildir um það hvort að mylja megi töflur eða opna hylki og það getur komið í veg fyrir rétta lyfjagjöf. Úr niðurstöðum rannsóknarinnar var unninn listi yfir þau lyf sem ekki má mylja.

Ályktanir: Mulningur lyfja er almennur á hjúkrunarheimilum og getur ógnað lyfjaöryggi. Mörg lyf verða ónýt eða minna virk við mulning. Þörf er á frekari úttektum og endurskoðun verkferla.

 

V14     SENATOR-Fjölsetra Evrópurannsókn á Landspítala: Þróun og klínísk prófun á nýjum hugbúnaði sem metur og gefur ráðleggingar um lyfjameðferð og aðrar meðferðarleiðir hjá eldri einstaklingum

Aðalsteinn Guðmundsson1,2, Ástrós Sverrisdóttir1 , Ólafur Samúelsson1, Pétur S. Gunnarsson1,3

1Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3lyfjafræðideild Háskóla Íslands

Inngangur: Landspítalinn er þátttakandi í rannsókninni SENATOR (Development and clinical trials of a new Software ENgine for the Assessment & Optimization of drug and non-drug Therapy in Older persons). Bakhjarl og styrktaraðili  rannsóknarinnar er 7. Rammaáætlun EU (Grant agreement No 305930).

Öldruðum einstaklingum með marga  langvinna sjúkdóma fjölgar hratt í löndum Evrópu. Samhliða fjölgar ábendingum lyfjameðferðar sem ýtir undir fjöllyfjameðferð og líkur á óviðeigandi lyfjameðferð aukast. Aukaverkanir lyfja eru tíðari og alvarlegri hjá öldruðum og tengist m.a. lífeðlisfræðilegum breytingum, fjölda langvinnra sjúkdóma, fjöllyfjanotkun og óviðeigandi lyfjameðferð. Einnig eru vísbendingar um að þekkingargrunnur öldrunarlækninga og önnur meðferðarúrræði (s.s. næringarráðgjöf, sjúkra- og iðjuþjálfun) séu vannýtt.

Efniviður og aðferðir: Rannsakendur í átta löndum koma að SENATOR verkefninu sem samanstendur af 12 vinnuhlutum. Meðal viðfangsefna er þróun matstækis á aukaverkunum lyfja, skráning lyfjagagna allra þátttökulanda, þýðing texta á viðkomandi  tungumál, heilsuhagfræðileg úttekt  og mat á gagnsemi ráðlegginga SENATOR hugbúnaðarins með framskyggnri samanburðarrannsókn á sex háskólasjúkrahúsum.

Niðurstöður: Á Landspítala verður rúmlega 400 sjúklingum boðin þátttaka. Skilmerki til þátttöku eru aldur >65, virk meðferð >þriggja langvinnra sjúkdóma og innlögn á bráðadeildir aðrar en öldrunarlækningadeildir. Ítarleg og einstaklingsmiðuð úttekt verður gerð á sjúkdómsbyrði, ástandi, færni og lagt  mat á ábendingar og hagkvæmni lyfjameðferðar. Aðalendapunktur er nýgengi aukaverkana.  Algengar aukaverkanir sem hafa fundist í forprófunum eru t.d. byltur, óráð, blæðingar, salttruflanir og nýrnabilun.

Ályktanir: Fyrri hluti rannsóknar sem skoðar viðmiðunarhóp er þegar hafinn. Ekki liggja fyrir niðurstöður. Í seinni áfanga bætist við íhlutunarhópur þar sem hugbúnaðurinn gefur meðhöndlandi læknum ráðleggingar um lyfjameðferð og ábendingar um aðra meðferð.

Á vefsíðunni www.senator-project.eu/home/ eru upplýsingar um undirbúning og framkvæmd SENATOR.

 

V15      Íslenska ofvaxtarhjartavöðvakvillaverkefnið. Sýnd ofvaxtarhjartavöðvakvilla í þýði arfbera með MYBPC3 c.927-2A>G landnemastökkbreytingu

Gunnar Þór Gunnarsson1,2, Berglind Aðalsteinsdóttir2,5, Mike Burke3, Polakit Teekakirikul3, Barry Maron4, Ragnar Danielsen5, Christine Seidman3, Jonathan Seidman3

1Sjúkrahúsið á Akureyri, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Department of Genetics, Harvard Medical School, Boston, USA, 4Hypertrophic Cardiomyopathy Center, Minneapolis Heart Institute Foundation, 5Landspítala

Inngangur: Það sem einkennir flestar þýðisrannsóknir á ofvaxtarhjartavöðvakvilla (OHK) er mikill breytileiki erfðagalla í genum samdráttareininga hjartavöðvafruma. Á Ísland er 88% af erfðagalla jákvæðum OHK orsakað af MYPC3 c.927-2A>G sem er 500 ára gömul landnema stökkbreyting. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna sýnd og meingerð OHK í stóru þýði sjúklinga og ættingja með sama erfðagalla.

Efniviður og aðferðir: Í íslenska ofvaxtarhjartavöðvakvillaverkefninu greindust 88 OHK sjúklingar með MYBPC3 c.927-2A>G stökkbreytinguna. Í framhaldi af því samþykktu 223 fyrstu gráðu ættingjar þeirra að taka þátt í rannsókn með erfðafræðilegri athugun á MYBPC3 c.927-2A>G, klínísku mati og ómskoðun af hjarta.

Niðurstöður: Af 223 ættingjum reyndust 95 bera c.927-2A>G stökkbreytinguna og 47 (50%) þeirra voru með OHK með vinstri slegils þykknun (VSÞ) >13 mm. Sýnd OHK var tengd aldri (34% <40 ára samanborið við 61% 40 ára, p=0.009) og meiri hjá körlum (67%) en konum (35%, p=0.001). Enginn var komin með OHK fyrir 17 ára aldur og 90% eldri en 80 ára vorum komnir með OHK. VSÞ var á bilinu 13 - 28 mm. Enginn var með >30 mmHg þrýstingsfallanda í útflæðisrás vinstri slegils. Mynstri þykknunar sleglaskiptaveggjar var skipt í 4 flokka, 67% voru með þykknun um miðbik, 21% með jafna þykknun, 5,8% með þykknun í hjartabroddi og 3,5% með hnapp þykknun í nær hluta sleglaskiptaveggjar.

Niðurstöður: Á Íslandi virðist MYBPC3 c.927-2A>G landnemastökkbreytingin valda frekar seinkomnum OHK með kynjamuni á sýnd.

 

V16     Aukin æðakölkun í hálsæðum sjúklinga með brátt kransæðaheilkenni samanborið við almennt þýði

Þórarinn Árni Bjarnason1, Linda Björk Kristinsdóttir2, Erna Sif Óskarsdóttir2, Steinar Orri Hafþórsson2, Thor Aspelund3, Sigurður Sigurðsson3, Vilmundur Guðnason3, Karl Andersen1

1Landspítala, 2Háskóla Íslands, 3Hjartavernd

Inngangur: Æðakölkun á hálsslagæðum og kransæðum hafa marga sameiginlega áhættuþætti. Sjúklingar með brátt kransæðaheilkenni (BKH) hafa nánast allir æðakölkunarsjúkdóm í kransæðum. Líkur eru á að æðakölkun nái til fleiri líffæra hjá þessum sjúklingum. Í þessari rannsókn könnuðum við útbreiðslu æðakölkunarsjúkdóms í hálsslagæðum hjá sjúklíngum með BKH og bárum saman við almennt þýði.

Efniviður og aðferðir: Sjúklingar sem lögðust inn á hjartadeild LSH með BKH var boðið að taka þátt í rannsókninni.Æðakölkun í skiptingu beggja hálsslagæða og innri hálsslagæðum var metin með stöðluðum hætti með hálsæðarómun. Sjúklingar voru flokkir eftir því hvort þeir höfðu enga, litla, í meðallagi eða alverlega æðakölkun í hálsslagæðum. Niðurstöðurnar voru bornar saman við aldurs og kyn paraðan samanburðarhóp (n=251) frá REFINE Reykjavík rannsókninni.

Niðurstöður: Sextíu og fjórir sjúklingar (73% karlar, meðalaldur 61 ár) sem lagðir voru inn á hjartadeild LSH með BKH tóku þátt í rannsókninni. Hjá sjúklingum með BKH voru 3, 49, 42 og 6% með enga, litla, í meðallagi eða alvarlega æðakölkun í hálsslagæðum samanborið við 27, 50, 19 og 4% með enga, litla , í meðallagi eða alvarlega æðakölkun í hálsslagæðum í aldurs og kyn pöruðum samanburðarhóp. Magn æðakölkunar var marktækt meiri (p<0.001) hjá sjúklingum með nýlegt BKH.

Ályktun: Um helmingur allra sjúklinga með BKH hafa meðal til alvarleg þrengsl í hálsslagæðum. Útbreiðsla æðakölkunarsjúkdóms í hálsslagæðum er marktækt meiri hjá BKH sjúklingum samanborið við almennt þýði.

 

V17     Truflun í sykurefnaskiptum eykur líkur á æðakölkunarsjúkdómi í hálsslagæðum hjá sjúklingum með bráð kransæðaheilkenni

Þórarinn Árni Bjarnason1, Steinar Orri Hafþórsson2, Erna Sif Óskarsdóttir2, Linda Björk Kristinsdóttir2, Sigrún Helga Lund2, Fríða Björk Skúladóttir1, Bylgja Kærnested1, Ísleifur Ólafsson1, Sigurður Sigurðsson3, Vilmundur Guðnason3, Karl Andersen1

1Landspítala, 2Háskóla Íslands, 3Hjartavernd

Inngangur: Sykursýki 2 (SS2) og skert sykurþol eru þekktir áhættuþættir fyrir æðakölkun. Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif SS2 og skerts sykurþols á útbreiðslu æðakölkunar í hálsslagæðum hjá sjúklingum með brátt kransæðaheilkenni (BKH)

Efni og aðferðir: Sjúklingar sem lögðust inn á hjartadeild LSH með áður ógreinda sykursýki var boðið að taka þátt í rannsókninni.Mælingar á sykurefnaskiptum (fastandi glúkósi í plasma, HbA1c og sykurþolspróf) voru gerðar í innlögn og endurteknar þremur mánuðum seinna. Æðakölkun var metin með stöðluðum hálsæðaómunum og flokkuð í enga, litla, í meðallagi og alvarlega æðakölkun.

Niðurstöður: Hundrað fjörtíu og einn sjúklingar (79% karlar, meðalaldur 63 ár) með BKH og áður ógreinda SS2 tóku þátt í rannsókninni. Sjúklingar með eðlileg sykurefnaskipti voru 46.8%, 42.6% með skert sykurþol og 10.6% með SS2. Æðakalkanir í hálsslagæðum voru til staðar í 95, 98 og 100% sjúklinga með eðlileg sykurefnaskipti, skert sykurþol og SS2. Algengi í meðallagi og alvarlegra æðakalkana í hálsslagæðum var 41, 59 og 83% hjá sjúklingum með eðlileg sykurefnaskipti, skert sykurþol og SS2. Í fjölþátta aðhvarfsgreiningu var gagnalíkindahlutfall 2.56 (95% Cl 1.07-6.37) fyrir meðal- til alvarlega æðakölkun í hálsslagæðum hjá sjúklingum með skert sykurþol og 5.56 (95% Cl 1.50-24.89) hjá sjúklingum með SS2.

Ályktanir: Æðakölkun í hálsæðum var til staðar í nær öllum sjúklingum með BKH. Magn æðakölkunar var aukin hjá sjúklingum með nýgreinda truflun á sykurefnaskiptum. Nýgreint skert sykurþol og SS2 er sjálfstæður áhættuþáttur fyrir í meðallagi til alvarlega æðakölkun í hálslagæðum hjá sjúklingum með BKH. Þessar niðurstöður styðja markvissa greiningu á truflaðri sykurstjórnun hjá sjúklingum með BKH.Algengi æðakölkunar í hálsslagæðum eftir flokkun sykurefnaskipta

 

V18      Endurteknar mælingar á sykurefnaskiptum bæta greiningu á skertu sykurþoli og sykursýki 2 hjá sjúklingum með brátt kransæðaheilkenni

Þórarinn Árni Bjarnason1, Linda Björk Kristinsdóttir2, Erna Sif Óskarsdóttir2, Steinar Orri Hafþórsson2, Bylgja Kærnested1, Fríða Björk Skúladóttir1, Ísleifur Ólafsson1, Karl Andersen1

1Landspítala, 2Háskóla Íslands

Inngangur: Sykursýki 2 (SS2) og skert sykurþol eru áhættuþættir fyrir kransæðasjúkdómi sem oft eru ógreindir hjá sjúklingum með brátt kransæðaheilkenni (BKH). Markmið rannsóknarinnar var að meta hvort hægt væri að bæta greiningu á SS2 og skertu sykurþoli með því að mæla sykurefnaskipti sjúklinga með BKH í sjúkrahúslegu og endurtaka mælingar að þremur mánuðum liðnum.

Efni og aðferðir: Sjúklingar sem lagðir voru inn á hjartadeild LSH með BKH án fyrri SS2 greininar var boðið að taka þátt í rannsókninni. Sykurefnaskipti voru metin með fastandi glúkósa í plasma (FGP), HbA1c og stöðluðu sykurþolsprófi. Mælingar voru framkvæmdar í sjúkrahúslegu og endurteknar þremur mánuðum seinna. Sjúklingar voru flokkaðir með eðlileg sykurefnaskipti, skert sykurþol eða SS2 eftir hæsta gildi þessara mælinga.

Niðurstöður: Hundrað fimmtíu og fjórir sjúklingar (80.5% karlar, meðalaldur 63 ár) sem ekki höfðu verið greindir með SS2 tóku þátt í rannsókninni. Þegar teknar eru saman mælingar frá innlögn voru 46,8, 40,2 og 13,0% flokkaðir með eðlileg sykurefnaskipti, skert sykurþol eða SS2. Þremur mánuðum seinna voru 40,3, 50,0 og 9,7% flokkaðir með eðlileg sykurefnaskipti, skert sykurþol eða SS2. Þegar niðurstöðurnar í innlögn og þremur mánuðum seinna voru teknar saman voru 28,6, 53,9 og 17,5% flokkaðir með eðlileg sykurefnaskipti, skert sykurþol eða SS2. Flokkun sjúklinga eftir sykurefnaskiptum var óbreytt hjá 59.7%, 18,2% urðu betri og 22,1% verri milli mælinga.

Ályktanir: Um tveir þriðju hlutar þeirra sem leggjast á hjartadeild vegna BKH eru með truflun á sykurefnaskiptum. Greiningarhæfni eykst verulega við endurtekna mælingu þremur mánuðum eftir útskrift.

 

V19     Leiðir rafvending vegna gáttatifs til aukningar á blóðflæði til heila?

Maríanna Garðarsdóttir1, Sigurður Sigurðsson2, Thor Aspelund2, Valdís Anna Garðarsdóttir3, Vilmundur Guðnason2, Davíð O. Arnar3

1Rannsóknarsviði Landspítala, 2Hjartavernd, 3lyflækningasviði Landspítala

Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt að gáttatif tengist vitrænni skerðingu og skertu heilarúmmáli, óháð heilaáföllum. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða blóðflæði til og gegnumstreymi blóðs um heila fyrir og eftir rafvendingu vegna gáttatifs.

Efniviður og aðferðir: Framskyggn rannsókn á einstaklingum fyrir og eftir rafvendingu. Segulómun af heila var framkvæmd fyrir rafvendingu og endurtekin 10 vikum síðar. Skoðað var blóðflæði í hálsæðum og gegnumstreymi blóðs um heilavef. Teknar voru myndir af heilavef til ákvörðunar á blóðflæði og gegnumstreymi blóðs um mismunandi svæði heilans. Þeir sem voru í sinus takti og þeir sem höfðu ekki farið í takt við rafvendingu voru skoðaðir tvisvar, en þeir sem höfðu dottið úr takti á vöktunartímanum voru útilokaðir frá seinni heimsókninni þar sem tímalengd taktóreglunnar var óviss.

Niðurstöður: Rannsókn er lokið hjá 22 einstaklingum, 17 körlum, meðalaldur 65 ár. Blóðflæði jókst marktækt í heila og í gráum vef hjá þeim einstaklingum sem fóru í sinus takt við rafvendinguna (n=13). Blóðflæðið jókst úr 35,3 ml/mín/100g í 40,8 ml/mín/100g í öllum heila og úr 38,7 ml/mín/100g í 45,7 ml/mín/100g í gráum vef. Marktækt meiri breyting varð á blóðflæði þeirra sem fóru í sinus takt miðað við þá sem höfðu áfram gáttatif (p<0,05).Fylgni mælinga á blóðflæði til heila og gegnumstreymi blóðs um heila var 0,81 (p<0,0001).

Ályktun: Blóðflæði til heila og gegnumstreymi blóðs eykst eftir rafvendingu vegna gáttatifs. Hjá þeim sem voru áfram í gáttatifi varð engin breyting til batnaðar. Skert blóðflæði gæti skýrt að hluta vitræna skerðingu og minna heilarúmmál sem getur sést hjá einstaklingum með gáttatif.

 

V20      Ábendingar fyrir og notkun á blóðþynningarlyfjum hjá einstaklingum með gáttatif

Stefán Björnsson1, Karl Andersen1,2, Davíð O Arnar1,2

1Háskóla Íslands, 2lyflækningasviði Landspítala

Tilgangur: Gáttatif er meginorsök heilaáfalla. Blóðþynningarlyf geta dregið verulega úr hættu á segareki, en þeim fylgir þó viss áhætta. Við ákvörðun um hvort beita eigi slíkri meðferð er tekið mið af ákveðnum skilmerkjum, CHA2DS2-VASc. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvort gáttatifssjúklingar fái viðeigandi blóðþynningarmeðferð samkvæmt þessum skilmerkjum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til allra gáttatifssjúklinga sem komu inn á bráðamóttöku og Hjartagátt LSH frá 1. janúar til 30. júní 2012. Reiknað var út CHA2DS2-VASc skor og notkun blóðþynningarlyfja hjá þeim könnuð í eitt ár eftir komu. Sjúklingum var fylgt eftir í eitt ár og nýgengi dauðsfalla, kransæðastíflu og segareks kannað.

Niðurstöður: Af 347 sjúklingum voru 148 (42,7%) konur og 199 (57,3%) karlar. Aldur þeirra var 69,8 ± 15 ár. Sjötíu og sjö (22,1%) sjúklingar voru í lágri til miðlungs áhættu (0 til 1 stig) samkvæmt CHA2DS2-VASc. Alls 160 (59,3%) af 270 sem voru með CHA2DS2-VASc 2 voru á warfarin eða nýju blóðþynningarlyfi, 33 (11,1%) á blóðflöguhemli eingöngu og 77 (28,5%) ekki á neinni blóðþynningu. Alls voru 32 frumendapunktar (segarek, kransæðastífla eða dauði á eftirfylgnitímabilinu). Nýgengi þeirra var 6,9% á ári (95% CI:3.4-12.2) hjá þeim sem voru á blóðþynningu á móti 19.8% (95% CI:12.1-30.6) (p=0,003) hjá þeim sem voru ekki á slíkri meðferð.

Ályktun: Aðeins tæplega 60% þeirra sem ættu að vera á blóðþynningarmeðferð samkvæmt CHA2DS2-VASc skilmerkjum reyndust vera það. Þessari meðferð var því verulega vanýtt en óljóst af hverju. Tíðni segareks, kransæðastíflu eða dauða var verulega hærri hjá þeim sem voru ekki á blóðþynningarlyfi sem undirstrikar mikilvægi þeirrar meðferðar.

 

V21     Notagildi og mismunagreiningar hækkunar á hánæmu trópóníni T

Stefán Þórsson1, Davíð O. Arnar1,2, Karl Andersen1,2

1Háskóla Íslands, 2lyflækningasviði Landspítala

Inngangur: Mæling trópóníns T er grundvöllur greiningar hjartadreps hjá sjúklingum með brjóstverki. Almennt viðmið er að troponin hækkun yfir 99. percentile normaldreifingar (>14 microg/L) gefi til kynna hjartavöðvaskemmd. Árið 2012 var tekin upp mæling á hánæmu trópóníni T (hs-TnT) á LSH sem eykur næmi mælingarinnar en kemur niður á sértæki. Markmið með þessari rannsókn var að kanna dreifingu hs-TnT mælinga á LSH og meta greiningarhæfni prófsins.

Efniviður og aðferðir: Fundnar voru allar mælingar TnT á LSH 2012. Hæsta gildi mælingar var fundið hjá þeim sem áttu margar mælingar í sömu legu. Útskriftargreiningar þessara sjuklinga í voru fundnar. Reiknað var gagnlíkindahlutfall (OR) fyrir algengustu sjúkdómsgreiningum eftir því hvort TnT var >14 microg/l eða lægra.

Niðurstöður: Hs-TnT var mælt hjá 7259 einstaklingum á LSH 2012. Þar af reyndust 3164 (43,6%) yfir 14 microg/l í hæsta gildi. Næmi TnT >14 microg/l til greiningar á hjartavöðvadrepi var 98,5%, sértæki 60,3%, jákvætt forspárgildi 15,0% og neikvætt forspárgildi 99,8%. Algengustu mismunagreiningar sjúklinga með hækkað TnT voru ósértækar greiningar (14,6%); annað og óskilgreint (9,5%); hjartsláttartruflanir (7,1%); áverkar (4,1%); brátt hjartadrep (3,2%); hjartabilun (2,6%); langvinnir blóðþurrðarsjúkdómar í hjarta (2,5%) og lungnabólga (2,2%). Hjá sjúklingum með hækkað TnT var OR (95% CI) fyrir greiningunni hjartavöðvadrep 133 (18,6-959) p<0,01.

Ályktanir: Margar mismunagreiningar koma til álita þegar hs-TnT mælist hækkað. Því er mikilvægt að setja niðurstöður prófsins í samhengi við klínísk einkenni. Hs-TnT >14 microg/l hefur gott næmi og neikvætt forspárgildi fyrir greiningu á hjartavöðvadrepi en sértæki er frekar lágt og jákvætt forspárgildi er takmarkað.

 

V22     Ekki eru tengsl milli sykurefnaskipta og starfsemi æðaþels hjá sjúklingum með bráð kransæðaheilkenni

Linda Björk Kristinsdóttir1, Þórarinn Árni Bjarnason2, Steinar Orri Hafþórsson1, Erna Sif Óskarsdóttir1, Erna Sif Arnardóttir2, Sigurður Sigurðsson3, Vilmundur Guðnason3, Ísleifur Ólafsson2, Guðmundur Þorgeirsson2, Karl Andersen2

1Háskóla Íslands, 2Landspítala, 3Hjartavernd

Inngangur: Um tveir þriðju hlutar þeirra sem fá brátt kransæðaheilkenni (BKH) eru með óþekkta sykursýki eða skert sykurþol. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort tengsl séu milli truflunar í blóðsykur-stjórnun og vanstarfsemi æðaþels hjá sjúklingum með bráð kransæðaheilkenni.

Efni og aðferðir: Þátttakendur voru sjúklingar sem lögðust inn á hjartadeild vegna BKH og höfðu ekki áður verið greindir með sykursýki. Framkvæmt var sykurþolspróf og mælingar á fastandi glúkósa í plasma og HbA1c hjá öllum þátttakendum 2-4 dögum eftir innlögn og aftur þremur mánuðum síðar. Einnig var gerð hálsslagæðaómun til að meta útbreiðslu æðakölkunar hjá þátttakendum. Æðaþelsrannsóknir voru gerðar með EndoPAT tækni sem byggir á viðbrögðum æða við lokun á blóðflæði. Tækið nemur púlsútslag í háræðabeðum fingra fyrir og eftir lokun og reiknar út stuðulinn RHI (Reactive Hyperemia Index).

Niðurstöður: Þátttakendur voru 92 (meðalaldur 63,5 ár, 79% karlar). Miðgildi RHI stuðla mældust 1,85 (IQR: 1,59-2,25), 1,78 (IQR: 1,60-2,27) og 1,85 (IQR: 1,40-3,43) hjá sjúklingum með eðlileg sykurefnaskipti (32%), skert sykurþol (51%) og sykursýki (17%) (p=0.83). RHI stuðull var 2,97 (IQR: 2,97-2,97), 1,82 (IQR: 1,59-2,15), 1,78 (IQR: 1,54-2,22) og 2,09 (IQR: 1,63-2,29) hjá þeim sjúklingum sem voru með eðlilegar hálsæðar, minni háttar, meðal eða alvarlega þrengingu i hálsslagæðum (p=0,41). Neikvæð fylgni var milli RHI stuðuls og stigunar á útbreiðslu kransæðasjúkdóms (r= -0.22, p=0.03).

Ályktun: Vanstarfsemi æðaþels tengist ekki efnaskiptaröskunum hjá sjúklingum BKH. Þetta bendir til þess að æðakölkun hjá þessum sjúklingum sé það langt gengin að ekki sé hægt að greina hjá þeim áhrif efnaskiptatruflana á starfsemi æðaþels.

 

V23     Spáir litningasvæði 9p21 fyrir um horfur einstaklinga sem gangast undir kransæðaþræðingu?

Eyþór Björnsson1, Anna Helgadóttir2, Daníel Guðbjartsson2, Þórarinn Guðnason3, Tómas Guðbjartsson4, Unnur Þorsteinsdóttir2, Guðmundur Þorgeirsson3, Kári Stefánsson2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Íslenskri erfðagreiningu, 3lyflækningasviði Landspítala,

4skurðlækningasviði Landspítala

Inngangur: Á litningasvæði 9p21 er algengur arfbreytileiki (rs10757278) sem tengist aukinni áhættu á að fá kransæðasjúkdóm, en verkunarmátinn er óþekktur. Fjöldi rannsókna hefur sýnt að arfbreytileikinn eykur líkur á hjartadrepi meðal heilbrigðra einstaklinga en lítið er vitað um hvort hann spái fyrir um horfur eftir að einkenni kransæðasjúkdóms eru komin fram. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna áhrif á langtímahorfur þeirra sem gangast undir kransæðaþræðingu.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknarúrtakið samanstóð af 5182 einstaklingum sem gengust undir kransæðaþræðingu á Landspítala frá 2007 til 2012. Langtímahorfur (>30 daga) á tímabilinu voru kannaðar afturskyggnt með samkeyrslu við útskriftargreiningar á Landspítala, dánarmeinaskrá og klíníska gagnagrunna. Eftirfylgd var til ársloka 2012. Fjölþátta Cox lifunargreining var notuð til þess að meta sjálfstætt forspárgildi arfbreytileikans rs10757278.

Niðurstöður: Ekki voru marktæk tengsl milli arfbreytileikans rs10757278 og áhættu á hjartadrepi (HR=1,12, p=0,24) eða dauða (HR=0,96, p=0,58), þegar leiðrétt var fyrir áhættuþáttum kransæðasjúkdóms. Hins vegar hafði breytileikinn marktæka fylgni við þörf á kransæðahjáveituaðgerð eða kransæðavíkkun (HR=1,20, p=0,0026). Það samband skýrðist af þekktum áhrifum arfbreytileikans á útbreiðslu kransæðasjúkdóms og hvarf þegar leiðrétt var fyrir niðurstöðum kransæðaþræðingar.

Ályktanir: Litningasvæði 9p21 spáir ekki fyrir um áhættu á hjartadrepi eða dauða meðal einstaklinga sem hafa gengist undir kransæðaþræðingu, en tengist líkum á því að þurfa á kransæðahjáveituaðgerð eða kransæðavíkkun að halda. Þessar niðurstöður benda til þess að arfbreytileikinn stuðli fyrst og fremst að framvindu æðakölkunar en hafi síður áhrif á þá ferla sem leiða til bráðrar lokunar á kransæð.

 

V24     Bráð kransæðaheilkenni á Landspítalanum 2003-2012

Gestur Þorgeirsson1, Birna Björg Másdóttir2, María Heimisdóttir2

1Hjartadeild Landspítala, 2Landspítala

Inngangur: Á síðustu áratugum hefur tilfellum bráðrar kransæðastíflu (STEMI) farið fækkandi á Vesturlöndum en vísbendingar verið um að tilfellum með bráðu hjartadrepi án ST-hækkunar (NSTEMI) hafi farið fjölgandi. Með þessari rannsókn er könnuð faraldsfræði bráðra kransæðaheilkenna á Landspítalanum árin 2003-2012.

Efniviður og aðferðir: Til bráðra kransæðaheilkenna teljast hvikul hjartaöng, NSTEMI og STEMI. Gagna um sjúklinga var aflað úr gagnagrunnum LSH, einkum Vöruhúsi gagna.

Niðurstöður: Bráð kransæðatilfelli voru flest árið 2008 eða 840. Sjúklingum með hvikula hjartaöng fjölgaði mikið fram til 2008 en fækkaði aftur. Í lok tímabils var fjöldi þeirra svipaður og árið 2003. NSTEMI tilfelli voru flest árið 2010 eða 338 en fæst árið 2003 eða 173. Mikil fjölgun NSTEMI tilfella varð árið 2005. Það ár hófust trópónínmælingar. STEMI tilfelli greindust flest árið 2004 eða 325 og fæst á árinu 2010 eða 220. Dánarhlutfall STEMI sjúklinga á LSH var 15% árið 2003. Flest ár síðan um 8%. Dánarhlutfall NSTEMI sjúklinga á LSH var mismunadi eftir árum eða frá rúmlega 2% árið 2012 og upp í 9% 2006. Konur voru hlutfallslega flestar í NSTEMI hóp eða um 35% en í STEMI og NSTEMI um 30% . Meðalaldur NSTEMI sjúklinga var 72 ár en um 5 árum lægri í STEMI og hvikulli hjartaöng. Um 1/3 bráðra kransæðatilfella á LSH kom af landsbyggðinni.

Ályktanir: STEMI tilfellum fækkaði um allt að þriðjung á tímabilinu en NSTEMI tilfellum fjölgaði um helming. Nokkrir þættir sem skipta máli í því sambandi eru næmari greiningaraðferðir, eldri sjúklingar og lyfjameðferð fyrir innlögn, sem dregur úr stærð hjartadreps.

 

V25      Kransæðafistill hjá ungum knattspyrnumanni. Hvað er til ráða?

Sigrún Benediktsdóttir1, Hróðmar Helgason2, Stanton Perry3, Gunnar Þór Gunnarsson1,4

1Sjúkrahúsið á Akureyri, 2Barnaspítala Hringsins, 3Lucile Packard Children's Hospital Stanford, Bandaríkjunum, 4læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Tvítugum hraustum knattspyrnumanni er vísað til hjartalæknis út af þungum hjartslætti. Hann æfir knattspyrnu á afreksmannastigi og greinist með kransæðafistil. Taka þarf afstöðu til rannsókna, hugsanlegrar meðferðar og áframhaldandi íþróttaiðkunar.

Saga: Fann fyrir „þungum“ en ekki hröðum hjartslætti í eitt skipti um nótt. Áhyggjufull móðir pantar tíma hjá hjartalækni. Hann lýsir ekki hjartsláttaróreglu né hröðum hjartslætti. Engin vandamál í sambandi við æfingar, ekki brjóstverkir eða saga um yfirlið. Neitar ættarsögu um skyndidauða.

Niðurstöður: Líkamsskoðun: Eðlileg. EKG: Ósértækt sleglaleiðslurof. Hjartaómun: Vægt víkkaður hægri slegill í fjögurra hólfa mynd. Hlébilsflæði sést í lungnaslagæð sem virðist byrja rétt fyrir ofan lungnaslagæðalokuna. Annað við ómun er eðlilegt. Grunur vaknar um kransæðafistil. Tölvusneiðmynd af kransæðum sýnir aukaæð frá fyrstu hliðargrein framveggskvíslar vinstri kransæðar. Myndar hún æðanet yfir útflæðishluta hægri slegils með tveimur megingreinum sem enda annars vegar í fistli í lungnaslagæð og hins vegar í hægri kransæð. Áreynslupróf: Hjólar 230W án sjúklegra einkenna eða merkja um blóðþurrð í hjartavöðva.

Ályktanir: Hjá þessum unga afreksíþróttamanni þurfti að ákveða hvort kransæðafistill ylli einkennum og hvort frekari íþróttaiðkun væri hugsanlega varasöm. Nákvæm sjúkrasaga, skoðun og sambland myndrænna og starfrænna rannsókna leiddi í ljós að fistillinn gaf ekki einkenni og olli ekki blóðþurrð í hjartavöðva. Ekki þótti ástæða til að loka fistlinum og óhætt var talið að halda áfram íþróttaiðkun. Kransæðafistlar til stóru æðanna kringum hjarta eða inn í hjartahólf eru taldir vera til staðar hjá um 0,002% almennings og sjást í um 0,25% tilvika hjá sjúklingum sem fara í hjartaþræðingu.

 

V26      Tengsl D-vítamíns við sykurefnaskipti sjúklinga með brátt kransæðaheilkenni

Erna Sif Óskarsdóttir1,2, Guðmundur Þorgeirsson2, Þórarinn Árni Bjarnason2, Linda Björk Kristinsdóttir1,2, Steinar Orri Hafþórsson1,2, Ísleifur Ólafsson2, Karl Andersen2

1Háskóla Íslands, 2Landspítala

Inngangur: Vísbendingar eru um að D-vítamín gegni hlutverki í blóðsykurstjórnun og meingerð sykursýki 2 (SS2) en fáar rannsóknir hafa skoðað þetta samband hjá sjúklingum með brátt kransæðaheilkenni (BKH). Markmið þessarar rannsóknar var að skoða mögulegt samband D-vítamínstyrks í blóði og sykurefnaskipta í sjúklingum með BKH.

Aðferðir: Þátttakendur (N=108, meðalaldur=63,5±9,7 ár, karlar=82%) voru sjúklingar með BKH sem ekki höfðu sögu um óeðlileg sykurefnaskipti (skert sykurþol eða SS2). Átta til 12 vikum eftir útskrift voru sjúklingarnir kallaðir inn í sykurþolspróf og mælingu á langtímablóðsykri (HbA1C) og D-vítamínstyrk (s-25(OH)D). Sjúklingunum var svo skipt í hópana „eðlileg sykurefnaskipti“, „skert sykurþol“ og „SS2“, byggt á leiðbeiningum Amerísku sykursýkissamtakanna.

Niðurstöður: 28% sjúklinganna voru með eðlileg sykurefnaskipti, 60% voru með skert sykurþol og 12% voru með SS2. Miðgildi (IQR) D-vítamíns hjá sjúklingum með eðlileg sykurefnaskipti var 67,8 (47-87,8) nmól/L og voru 37% sjúklinganna með D-vítamínskort (s-25(OH)D <50 nmól/L). Miðgildi D-vítamíns hjá sjúklingum með óeðlileg sykurefnaskipti var 51,9 (38,3-85,4) nmól/L og voru 46% með D-vítamínskort. Munur D-vítamíngilda milli hópanna var ekki tölfræðilega marktækur. Neikvæð fylgni var milli D-vítamíns og fastandi blóðsykurs (r=-0,21, p<0,05). Leitni var í átt að neikvæðri fylgni milli D-vítamíns og HbA1C (r=-0,20, p=0,08). Lógístísk aðhvarfsgreining leiddi í ljós að fyrir hverja 10 nmól/L hækkun í D-vítamínstyrk minnkaði gagnlíkindahlutfall óeðlilegra sykurefnaskipta um 25% (OR=0,75; CI=0,60-0,95; p<0,01).

Ályktanir: Neikvæð fylgni er á milli D-vítamíns og FBS. Hugsanlegt er að lækkaður styrkur D-vítamíns geti haft áhrif á sykurefnaskipti og jafnvel verið áhættuþáttur í meingerð SS2. Íhlutandi rannsókna á þessu sviði er þó þörf til að staðfesta slíkt orsakasamband.


V27     Sjúklingar með brátt kransæðaheilkenni en áður ógreinda sykursýki eru með útbreiddari kransæðasjúkdóm en sjúklingar með eðlileg sykurefnaskipti

Steinar Orri Hafþórsson1, Þórarinn Árni Bjarnason2, Erna Sif Óskarsdóttir1, Linda Björk Kristinsdóttir1, Ísleifur Ólafsson2, Þórarinn Guðnason2, Guðmundur Þorgeirsson2, Karl Andersen2

1Háskóla Íslands, 2Landspítala

Inngangur: Sjúklingar með brátt kransæðaheilkenni (BKH) eru oft með ógreinda truflun á sykurefnaskiptum sem hafa neikvæð áhrif á horfur þeirra. Markmið rannsóknarinnar var að meta hvort truflanir á sykurefnaskiptum væru tengdar útbreiðslu kransæðasjúkdóms.

Efniviður og aðferðir: Rannsakaðir voru sjúklingar með BKH án fyrri greiningar á sykursýki af tegund 2 (SS2) á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Skert sykurþol og SS2 voru greind með mælingu á fastandi blóðsykri (FPG), HbA1c og stöðluðu sykurþolsprófi 2 - 4 dögum eftir innlögn og mælingar endurteknar 3 mánuðum eftir útskrift. Útbreiðsla kransæðasjúkdómsins var metin með Gensini skori sem tekur tillit til þess hve mikil þrenging er, hversu margar þrengingar eru og staðsetningar þeirra.

Niðurstöður: Meðal 171 sjúklinga (77% karlar, meðalaldur 63,3) voru 47% með eðlileg sykurefnaskipti, 41% með skert sykurþol og 12% með SS2. Miðgildi Gensini skors var 30,0 (16,0 - 48,8). Miðgildi Gensini skors voru 26,0 og 28,5 meðal sjúklinga með eðlileg sykurefnaskipti og skert sykurþol. Miðgildi Gensini skors var 37,0 meðal sjúklinga með SS2 (p = 0,07).

Ályktanir: Sjúklingar með BKH sem eru með ógreinda sykursýki eru með útbreiddari kransæðasjúkdóm heldur en þeir sem eru með eðlileg sykurefnaskipti. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að skima fyrir efnaskiptasjúkdómum meðal sjúklinga sem leggjast inn vegna BKH.

 

V28     Vatnspípureykingar eru hættulegar, kapp er best með forsjá - sjúkratilfelli

Bára Dís Benediktsdóttir,Hildur Einarsdóttir, Hrönn Harðardóttir

Landspítala

Hraustur ungur karlmaður leitaði á bráðamóttöku með mikinn brjóstverk eftir nýlega millilandaflugferð. Brjóstverkurinn versnaði við djúpa innöndun, hósta og varð afar slæmur í flugvélinni. Erlendis hafði hann reykt kannabis með vatnspípu og dregið andann endurtekið djúpt og haldið honum niðri. Voru þeir félagarnir í keppni hver gat haldið lengst niðri í sér andanum eftir innsog úr vatnspípunni. Erlendis fann hann einnig fyrir kvefeinkennum.

Við komu voru lífsmörk stöðug, líkamsskoðun var eðlileg utan vefja-braks yfir viðbeinum, teppu við lungnahlustun og nefmælgi. Tekin var tölvusneiðmynd af brjóstholi sem sýndi mikla húðbeðsþemu á brjóstkassa, útbreitt miðmætisloft og örþunn loftbrjóst. Einnig var mikið loft í mænugangi. Sjúklingur var meðhöndlaður með súrefni í nös, berkjuvíkkandi innúðalyfjum og barksterum vegna teppu við lungnahlustun.

Í eftirliti tveimur vikum síðar var allt loft utan lungna horfið og sjúklingur einkennalaus. Var þá greindur áður óþekktur undirliggjandi ofnæmisastmi, staðfest með berkjuauðreitniprófi og húðprófi.

Mænugangsloft, miðmætisloft og húðbeðsþemba getur komið í kjölfar þrýstingsáverka. Hér er lýst tilfelli ungs manns sem reykti kannabis með vatnspípu, dró andann endurtekið djúpt og hélt honum niðri. Við það myndast mikill neikvæður þrýstingur í brjóstholi með þeim afleiðingum að rof verður á litlum lungnablöðrum. Frá miðmæti ferðast loftið gegnum milliliðagat og inn í mænugang. Aukinn loftþrýstingur við millilandaflug jók enn frekar á ástandið. Þekkt er að undirliggjandi astmi gerir fólk berskjaldaðri fyrir loftþrýstiáverkum sem þessum.

Loft í mænugangi er afar sjaldgæft ástand. Hér er fyrsta íslenska tilfellinu lýst og jafnframt fyrsta tilfellinu í heiminum þar samspil vatnspípureykinga og flugferðar er orsakavaldur fyrir lofti í mænugangi.

 

V29      Áhrif bólgumiðlandi boðefna á sérhæfingu og virkni CD8+ T-stýrifrumna

Una Bjarnadóttir1, Snæfríður Halldórsdóttir2, Björn Rúnar Lúðvíksson2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2Landspítala

Inngangur: T-stýrifrumur (Tst) stjórna hárfínu jafnvægi á T-frumu miðluðu ónæmissvari í líkamanum. Ef þetta jafnvægi raskast er hætt við hinum ýmsu sjálfsofnæmisjúkdómum. Þar af leiðir hafa Tst mikla meðferðarmöguleika en frekari rannsóknir á hegðun þeirra eru nauðsynlegar til að auka skilning okkar á virkni þeirra. Markmið rannsóknarinnar er að meta hlutverk ósértæka ónæmiskerfisins á sérhæfingu og virkni CD8+ afleiddra Tst (CD8+ aTst) in vitro og skoða boðefnaseytun þeirra.

Efniviður og aðferðir: Óþroskaðar og óreyndar CD8+CD25-CD45RA+ T-frumur voru einangraðar úr heilbrigðum blóðgjöfum og ræktaðar í Tst hvetjandi aðstæðum með og án IL-1â og TNFá. Boðefnaseytun var skoðuð með ELISA og luminex.

Niðurstöður: TGF-â1 og IL-2 höfðu samlegðaráhrif á sérhæfingu CD8+ aTst (CD8+CD127-CD25hiFoxP3hi, P<0.0001). IL-1â og TNFá var sett í ræktirnar í mismunandi styrk og hafði IL-1â í háum styrk marktækt bælandi áhrif á sérhæfingu CD8+ Tst (P<0.01). Í viðurvist TNFá minnkaði seytun á IL-10 og TGF-â1 (P<0.01/0.05) CD8+ aTst á meðan IL-1âhafði minnkandi áhrif á IL-10 seytun (P<0.05). Bælivirkni CD8+ Tst, á CD4+ og CD8+ T-verkfrumur (P<0.01), var marktækt hindruð þegar bólgumiðlandi boðefnin, IL-1â and TNFá, voru í ræktinni. Minnkuð bælivirkni vegna IL-1â er hugsanlega tengt minnkaðri seytun á IL-10 og IFNg (P<0.01/0.001) á meðan TNFá hafði engin áhrif á seytun þeirra.

Ályktanir: CD8+ aTst, virkjaðar í gegnum CD3/CD28 viðtakana eru háðar IL-2 og TGF-â1. Einnig hindra IL-1â og TNFábælivirkni CD8+ aTst sem hugsanlega er IL-10 og IFNg háð. Rannsóknin sýnir því fram á að margir þættir innan ósérhæfða ónæmiskerfisins hafa mikil áhrif á sérhæfingu og virkni CD8+ aTst.

 

V30      Uppsetning á TREC og KREC greingarprófum til greiningar á meðfæddum ónæmisgöllum

Anna Margrét Kristinsdóttir1, 2, Una Bjarnadóttir2, Björn Rúnar Lúðvíksson1, 2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2ónæmisfræðideild Landspítala

Inngangur: Þekktir eru yfir 250 misalvarlegir meðfæddir ónæmisgallar og þarfnast langflestir þeirra tafarlausrar greiningar og meðferðar til að koma í veg fyrir lífshættulegar sýkingar og óafturkræfar líffæraskemmdir. Tíðni alvarlegustu gallanna í New York-fylki 2010-2012 er 1:5000 og samantekt okkar á Íslandi (1990-2010) sýndi að algengið er u.þ.b. 19:100.000. Greina má alvarlegustu gallana, þ.m.t. SCID, með magnbundinni rauntíma kjarnsýrumögnun (qRT-PCR) þar sem mælt er magn TREC og KREC í blóði. TREC og KREC eru DNA afurðir sem myndast eingöngu í nýmynduðum og óreyndum T- og B-eitilfrumum og eru því góður mælikvarði á fjölda þeirra í blóði. Þessi aðferð hefur verið innleidd sem nýburaskimunaraðferð gegn meðfæddum T- og/eða B-eitilfrumu ónæmisgöllum í auknu mæli í Evrópu og Bandaríkjunum.

Efniviður og aðferðir: Fengin voru blóðsýni frá sex einstaklingum sem greindir hafa verið með T-eitilfrumugalla og 1200 þerripappírssýni frá íslenskum nýburum. Magn TREC og KREC var mælt með qRT-PCR. Viðmiðunargildi voru TREC 8 eintök/µL, KREC 6 eintök/µL og Beta-actin (ACTB) 1000 eintök/µL til að meta DNA einangrun og/eða gæði RT-qPCR.

Niðurstöður: Uppsetning á skimunarprófinu gekk vel fyrir sig og var næmni >99,65% og sérhæfni 100% fyrir bæði TREC og KREC. Allir einstaklingar með T-eitilfrumugalla mældust með of lágt magn TREC í blóði, en eðlileg KREC gildi. Allir íslensku nýburarnir reyndust vera með eðlileg TREC og KREC gildi. Tíðni prófa sem þurfti að endurtaka var einungis 0,58%.

Ályktanir: Uppsetning á TREC og KREC qRT-PCR aðferðinni tókst og telst hún tilbúin til innleiðingar sem nýburaskimunaraðferð gegn meðfæddum T- og/eða B-eitilfrumu ónæmisgöllum hér á landi.

 

V31     Tíðni IgA-skorts hjá fyrstu gráðu ættingjum einstaklinga með sértækan IgA-skort

Andri Leó Lemarquis1, Helga Kristín Einarsdóttir1, Ingileif Jónsdóttir2, Björn Rúnar Lúðvíksson1

1Landspítala, 2Íslenskri erfðagreiningu

Inngangur: Sértækur IgA skortur (sIgAD) er algengasti mótefnaskortur í mönnum en tíðni hans er talin vera 1:600 á Íslandi. Tíðni ýmissa sjálfsónæmissjúkdóma er margfalt hærri hjá IgA skorts-einstaklingum og ættingjum þeirra en sjálfsónæmissjúkdómar eru ein helsta ástæða dauða og sjúkdómsbyrði í hinum vestræna heimi. Það er mikilvægt að skilja betur meinmyndun sIgAD og tengsl þess við sálfssónæmis til að geta nýtt sér þekkingu til frekari greiningar og fyrirbyggingar. Hér er lýst mælingum á IgA í sermi hjá fyrstu gráðu ættingjum sIgAD einstaklinga.

Aðferðir: 169 fyrstu gráðu ættingjar sIgAD einstaklinga fundust í sermisbanka Íslenskrar erfðagreiningar og var IgA mælt hjá þeim í sermi með nephelometriu. IgG og IgM var einnfremur mælt hjá einstaklingum sem mældust með IgA skort, IgA 0,07g/L.

Niðurstöður: Þrír einstaklingar mældust með IgA0,07g/L, þar af einn með lágt IgA og IgM. Tíðni sIgAD hjá fyrstu gráðu ættingjum sIgAD einstaklinga virðist því vera hærri en í almennu þýði, eða 1:85 samkvæmt þessu þýði.

Umræður: Þessar niðurstöður benda til þess að erfðir skipti máli í meinmyndun sIgAD. Það er mikilvægt að skoða styrk IgA hjá fyrstu og annarar gráðu ættingjum sIgAD einstaklinga og tengsl við sögu um sjálfsónæmissjúkdóma. Frekari skilningur á ættgengi með tilliti til sameiginlegra sjálfsónæmis- og erfðaþátta gæti leitt til betra áhættumats og einstaklingsmiðaðrar meðferðar fyrir enstaklinga með sIgAD sem þjást af sjálfsónæmissjúkdómum.

 

V32      Úteitur og M-gerðir Streptococcus pyogenes og tengsl þeirra við ífarandi sýkingar

Sunna Borg Dalberg1, Helga Erlendsdóttir2, Þórólfur Guðnason3, Karl G. Gústafsson2, Magnús Gottfreðsson4

1Háskóla Íslands 2Sýkladeild Landspítala, 3Landlæknisembættið 4Smitsjúkdómadeild Landspítala

Inngangur: Sýkingar af völdum streptókokka eru algengar um allan heim en undanfarin 30 ár hefur ífarandi sýkingum af völdum S. pyogenes farið fjölgandi á heimsvísu og alvarleiki þeirra aukist. Markmið rannsóknarinnar var að skoða faraldsfræði ífarandi sýkinga af völdum S. pyogenes á Íslandi og rannsaka tengsl M-gerða og úteitra bakteríunnar við birtingarmynd sýkingar og afdrif sjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Framkvæmd var aftursýn faraldsfræðileg rannsókn á ífarandi S. pyogenes sýkingum sem greindust á Íslandi á árunum 1975 til ársbyrjunar 2014 (n=312). Leitað var að 11 gerðum úteitra með kjarnsýrumögnun í tiltækum ífarandi stofnum bakteríunnar frá árunum 1984-2014 (n=250). Við samanburð á nýgengi sýkinganna á milli tímabila og aldurshópa var notuð aðhvarfsgreining þar sem gengið var út frá Poisson dreifingu sjúkdómstilfella. Lógistísk fjölþátta aðhvarfsgreining var notuð til þess að rannsaka tengsl M-gerða og úteitra S. pyogenes við birtingarmynd sýkingar og afdrif sjúklinga.

Niðurstöður: Nýgengi ífarandi sýkinga jókst línulega yfir rannsóknartímabilið (p<0.001) og var aldursbundið nýgengi marktækt hæst í aldurshópnum 80-89 ára. Flest tilfelli greindust í mars og apríl. M-gerðin M28 reyndist hafa marktæk tengsl við myndun úteitursins speC (p=0.028), M89 við myndun úteitranna speC (p=0.006) og speJ (p<0.001), M1 við greiningu mjúkvefjasýkingar (p=0.033) og verri horfur sjúklinga (p=0.008) og höfðu úteitrin speC (p=0.03) og speH (p=0.013) marktæk tengsl við greiningu sýklasóttar.

Ályktanir: Sýnt var fram á tengsl ákveðinna M-gerða og úteitra bakteríunnar við birtingarmynd sýkingar og afdrif sjúklinga. Niðurstöðurnar geta aukið innsæi í meinvirkni S. pyogenes og hæfileika bakteríunnar til þess að valda alvarlegum og lífshættulegum sýkingum.

 

V33     HIV á Íslandi 1983-2012

Hlynur Indriðason1, Sigurður Guðmundsson2, Bergþóra Karlsdóttir2, Arthur Löve2, Haraldur Briem3, Magnús Gottfreðsson2

1Háskóla Íslands, 2Landspítala, 3Embætti landlæknis

Inngangur: Markmið þessarar rannsóknar var að kortleggja faraldsfræði HIV á Íslandi frá upphafi sem og að meta áhrif bættra lyfjameðferða á veirumagn og fjölda CD4+ T-fruma í blóði.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til allra með þekkt HIV smit á Íslandi árin 1983-2012. Klínískar upplýsingar, CD4+ T-frumutalningar, HIV veirumagn, hlutfall seingreindra og virkni andretróveirulyfjameðferðar voru borin saman eftir áratugum.

Niðurstöður: Í heild greindust 313 með HIV á Íslandi á árunum 1983-2012, þar af 222 (71%) karlar og 91 (29%) kona. Flestir smituðust utan Íslands (65%). Meðalnýgengi HIV var 3,7 en marktæk aukning varð árin 2010-2012 (p = 0,0113), tengt misnotkun lyfseðilsskylda lyfsins metýlfenídats meðal sprautufíkla. Opinberum lyfjaávísunum þessa lyfs fjölgaði úr 3,5 árið 2002 í 17,4 DDD/1.000 íbúa/dag árið 2012. Dánartíðni alnæmis lækkaði um 70% frá fyrrri helmingi rannsóknarinnar til þess síðari (p = 0,0275). Hlutfall seingreindra lækkaði úr 74% fyrsta áratug rannsóknarinnar í 36% á þeim þriðja (p = 0,0001). Eftir 6 mánaða andretróveirulyfjameðferð fjölgaði CD4+ T-frumum að meðaltali um 26 frumur/µl árin 1987-1995 (p = 0,174), 107 frumur/µl árin 1996-2004 (p < 0,0001) og um 159 frumur/µl árin 2005-2012 (p < 0,0001). Á sama hátt sást meiri lækkun á veirumagni árin 2005-2012 en 1996-2004 (p <0,0001).

Ályktanir: Nýgengi HIV hélst hlutfallslega lágt til ársins 2010 og jókst þá marktækt vegna útbreiðslu HIV í hópi sprautufíkla. Mikill meirihluti HIV smitanna átti sér stað erlendis. Með bættri lyfjameðferð á CD4+ T-frumur og veirumagn í blóðvökva hefur alnæmisgreiningum og dauðsföllum vegna alnæmis fækkað frá því sem mest var.

 

V34      Áhrif sparnaðar á greiningu, meðferð og horfur blóðsýkinga á Barnaspítala Hringsins

Jón Magnús Jóhannesson1,2, Ásgeir Haraldsson1,3, Helga H. Bjarnadóttir4, María Heimisdóttir4, Magnús Gottfreðsson1,5, Karl G. Kristinsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2sýklafræðideild Landspítala, 3Barnaspítala Hringsins, 4hagdeild, 5vísindadeild Landspítala

Inngangur: Bakteríusýkingar í blóði geta verið lífshættulegar og skiptir mestu máli að hefja rétta sýklalyfjameðferð sem fyrst. Blóðræktanir eru teknar til að greina blóðsýkingar, orsakir þeirra og sýklalyfjanæmi. Í kjölfar efnahagskreppunnar sem hófst á Íslandi árið 2008 fækkaði blóðræktunum á Landspítalanum um u.þ.b. fjórðung. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif fækkunar á greiningu, meðferð og horfur blóðsýkinga á Barnaspítala Hringsins.

Efniviður og aðferðir: Rannsakaðar voru blóðræktanir, legur, andlát og ICD-greiningar á Barnaspítalanum 1.1.2007 - 31.12.2012. Rannsóknin var aftursýn og fengust gögn úr gagnagrunni Sýklafræðideildar Landspítalans, klínísku vöruhúsi gagna á Landspítalanum og Þjóðskrá.

Niðurstöður: Teknar voru 5786 blóðræktanir úr 3948 sjúklingum á tímabilinu, flestar frá Bráðamóttöku barna og Vökudeild. Fækkun bæði jákvæðra og neikvæðra blóðræktana milli ára var marktæk frá 2008 (samtals frá 1192 niður í 733), mest innan Bráðamóttökunnar. Kóagúlasa-neikvæðir klasakokkar voru algengustu bakteríurnar, en helstu sýkingavaldarnir voru E. coli, S. aureus og S. pneumoniae. S. pneumoniae-ræktunum fækkaði marktækt (7 ræktanir árið 2007, 13 árið 2008, 5 árið 2009, 5 árið 2010, 3 árið 2011 og engar árið 2012). Dánartíðni á Barnaspítalanum breyttist ekki milli ára. Almenn sýklalyfjanotkun jókst, en fjöldi blóðsýkingatengdra ICD-greininga breyttist ekki á tímabilinu.

Ályktanir: Samfara fækkun blóðræktana fækkaði greindum sýkingarvöldum hlutfallslega jafn mikið. Marktæk fækkun var á greindum blóðsýkingum af völdum pneumókokka og fækkunin hófst fyrir tilkomu bólusetninga (þó ekki marktæk fækkun). Mikilvægt er að skoða áhrif fækkunar blóðræktana á öllum deildum Landspítalans.

 

V35      Ífarandi sýkingar af völdum Bacillus tegunda á Landspítala, 2006-2013

Anna Kristín Gunnarsdóttir1, Helga Erlendsdóttir1,2, Ásgeir Haraldsson1,3, Karl G. Kristinsson1,2, Magnús Gottfreðsson1,4, Sigurður Guðmundsson1,4

Læknadeild Háskóla Íslands1, sýklafræðideild Landspítala2, Barnaspítala Hringsins3, smitsjúkdómadeild4

Inngangur: Ættkvíslin Bacillus er almennt talin með litla meinvirkni og því oft álitin mengun ef sýklaræktun reynist jákvæð. Algengast er að B. cereus valdi sýkingum en sem aukaleikari getur bakterían gert sýkingarástand verra með framleiðslu á vefjaskemmandi eitri eða ensímum (t.d beta-laktamasa) auk þess að mynda lífhimnur. Þáttur Bacillus í ífarandi sýkingum á Landspítala hefur ekki verið kannaður áður.

Efniviður og aðferðir: Kannaðar voru allar jákvæðar ífarandi ræktanir (blóð, liðvökvi, mænuvökvi) af völdum Bacillus á Landspítala 2006 til 2013 með upplýsingum frá Sögu og rafrænu kerfi Sýklafræðideildar. Mat á því hvort bakterían teldist mengun, mögulegur sýkingavaldur eða sýkingavaldur byggðist á klínísku mati leiðbeinenda, undirliggjandi áhættuþáttum, mati meðferðarlækna skv. sjúkraskrá, meðferð og fjölda jákvæðra ræktunarsýna.

Niðurstöður: Á tímabilinu greindust 97 einstaklingar með jákvæða ífarandi ræktun, 64 kk og 33 kvk. Hjá 91 ræktaðist bakterían úr blóði og 7 úr liðvökva (í blóði og liðvökva hjá einum sjúklingi). Alls voru 12 tilvik talin sýking, 15 möguleg sýking og 70 mengun. Sprautufíkn var undirliggjandi ástand í 6/12 með sýkingu og í 3/15 með mögulega sýkingu. Hjá sýktum ræktaðist bakterían í fleiri en einu blóðræktunarsetti í 9/12 tilfellum og engar aðrar bakteríur ræktuðust frá blóði meðal 12/12. Einn sjúklingur meðal sýktra lést. Í öllum sýkingatilfellum og 13/15 mögulegum tilfellum var bakterían ónæm fyrir penicillíni en í 63% tilvika þar sem hún var ekki talin völd að sýkingu (p=0.003).

Ályktanir: Það er mikilvægt að taka jávæðar ífarandi ræktanir af Bacillus alvarlega vegna hættu á lífshættulegri sýkingu, sérstaklega ef sjúklingar þjást af sprautufíkn og/eða ónæmisbælingu.

 

V36      Áhrif metótrexats á meðferðarárangur TNF-a hemla við iktsýki

Birta Ólafsdóttir1, Pétur S. Gunnarsson2, Anna I. Gunnarsdóttir2, Þorvarður J. Löve3, Björn Guðbjörnsson3

1Háskóla Íslands, 2lyfjafræðideild, 3læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Iktsýki (RA) er algengasti liðbólgusjúkdómurinn og einkennist af samhverfum liðbólgum og sjálfsmótefnum. Ekki er til lækning við RA en fjöldi lyfja er í boði sem hafa umbreytt langtímahorfum. Lyfjunum er skipt í 3 flokka: einkennadempandi (t.d. NSAID), sjúkdómsdempandi (t.d. metótrexat) og líftæknilyf (t.d. TNF-áhemlarnir; adalimumab, etanercept og infliximab). Erlendar rannsóknir benda til þess að samhliðameðferð TNF-á lyfja og metótrexats gefi betri meðferðarárangur en einlyfjameðferð með TNF-áhemili. Þetta hefur ekki verið skoðað í íslensku þýði.

Efniviður og aðferðir: Notast var við gögn úr ICEBIO gagnagrunninum. ICEBIO er kerfisbundin meðferðaskrá yfir gigtarsjúklinga á Íslandi sem meðhöndlaðir eru með líftæknilyfjum. Í þessari rannsókn var fyrsta TNF-áhemla meðferð RA-sjúklinga skoðuð (n = 206) og meðferðarárangur skoðaður með og án metótrexats með tilliti til meðferðasvars. Klínísk svörun var metin með skilmerkjum amerísku gigtarlæknasamtakanna (ACR20, ACR50) og evrópsku gigtarsamtakanna (DAS28-CRP). Sjúkdómsvirkni, sjúkdómshlé og fjöldi sjúklinga á hvorri meðferð sem hættu á fyrsta meðferðarári, var einnig skoðað. Notuð var lógístísk aðhvarfsgreining til að kanna gagnlíkindahlutfall og skoða mun TNF-α hemla meðferðar með og án samhliðameðferðar metótrexats.

Niðurstöður: Árangur samhliðameðferðar TNF-áhemils og metótrexats var betri í flestum mældum útkomum. Ári eftir upphaf meðferðar náðu 68% sjúklinga á samhliðameðferð 50% bata, en 32% sjúklinga á einlyfjameðferð með TNF-á hemili (P = 0,046). Fleiri sjúklingar á samhliðameðferð náðu góðu meðferðarsvari og sjúkdómshléi ásamt því að sjúkdómsvirkni var að meðaltali lægri.

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að samhliðameðferð metótrexats og TNF-áhemils gefi betri meðferðarárangur en einlyfjameðferð með TNF-áhemli, meðal íslenskra RA-sjúklinga.

 

V37      Samlegðaráhrif meðferðar með TNFa-hemli og metótrexat við sóragigt

Pétur Gunnarsson1, Björn Guðbjörnsson1, Stefán P Jónsson2, Anna I Gunnarsdóttir1, Þorvarður J Löve1

1Landspítala, 2Háskóla Íslands

Inngangur: Sjúkdómsdempandi áhrif metótrexats og TNFáhemla við sóragigt er vel þekkt, en takmarkaðar upplýsingar eru til um samhliðameðferð með þessum lyfjum við sóragigt. Markmið þessarar rannsóknar var því að skoða samlegðaráhrif meðferðar með TNFáhemli og metótrexat við sóragigt hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Fengnar voru upplýsingar úr ICEBIO gagnagrunninum um einstaklinga með sóragigt á sinni fyrstu meðferð með TNFá hemli þar sem til staðar voru upplýsingar um sjúkdómsvirkni við upphaf meðferðar og að minnsta kosti einn af eftirtöldum tímapunktum; 13 vikur, 26 vikur eða 52 vikur (n =83). Notast var við skilmerkin ACR20, ACR50, ACR70 og EULAR response criteria til að meta árangur. Bornir voru saman þeir sem fengu metótrexat samhliða TNFáhemli við þá sem aðeins fengu TNFá hemil.

Niðurstöður: Samhliða meðferð með TNFáhemli og metótrexat reyndist ekki skila marktækt betri meðferðarárangri fyrr en eftir 52 vikna meðferð. Við þann tímapunkt höfðu 18% sjúklinga á TNFá hemli, en 65% af þeim sem voru jafnframt á metótrexat náð ACR50 (p = 0,0165); fyrir ACR20 voru hlutfallið 42% og 65% (p = 0,0426). Eftir 52 vikur hafði um helmingur sjúklinga á TNFá hemli, en 92% sjúklinga á samsettri meðferð náð góðri EULAR svörun (p=0,0004)

Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að sjúklingar á samhliða meðferð með metótrexat og TNFá hemli séu líklegri til að ná betri meðferðarárangri til langs tíma en þeir sem eingöngu fá TNFá hemil.

 

V38      Meðferðarheldni sjúklinga með iktsýki og sóragigt á TNFa-hemli

Þórunn Óskarsdóttir1, Anna Ingibjörg Gunnarsdóttir1, 3, Pétur Sigurður Gunnarsson1, 3, Þorvarður Jón Löve1, 2,  Björn Guðbjörnsson 1, 2

1Landspítala, 2 læknadeild, 3lyfjafræðideild Háskóla Íslands

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að skoða meðferðarheldni sjúklinga með iktsýki og sóragigt á TNFα (e. Tumor necrosis factor alpha) hemlunum, adalimumab, etanercept og infliximab, en meðferðarheldni gegnir lykilhlutverki í virkni lyfjameðferða.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var byggð á gögnum fengnum úr gagnagrunninum ICEBIO og lyfjaafgreiðslu- og lyfjaskráningarkerfum Landspítalans. Í rannsókninni voru 499 sjúklingar, 321 með iktsýki og 178 með sóragigt. Allir sjúklingar voru á sínum fyrsta TNF hemli á rannsóknartímabilinu (2009-2013). Meðferðarheldni var metin með reikniaðferðunum MPR (e. medication possession ratio) og PDC (e. proportion of days covered). Þá var meðferðarheldni skoðuð og mörkuð við 80% þar sem 80% táknaði góða meðferðarheldni.

Niðurstöður: Af 499 sjúklingum voru 53% á infliximab, 34% á etanercept og um 13% á adalimumab. Meiri líkur eru á að ná góðri meðferðarheldni með infliximab heldur en etanercept og adalimumab (p<0,0001). Sjúklingar á infliximab sýna 99% meðferðarheldni þegar reiknað er með MPR og 95% meðferðarheldni þegar reiknað er með PDC. Þeir sem eru á etanercept sýna 90% og 82%, og á adalimumab 94% og 86%. Yfir 80% sjúklinga í rannsókninni náðu góðri meðferðarheldni.

Ályktanir: Meðferðarheldni sjúklinga með iktsýki og sóragigt á meðferð með TNFáhemlum á Íslandi er góð. Sjúklingar á infliximab sýndu betri meðferðarheldni en sjúklingar á etanercept eða adalimumab. Háttur lyfjagjafar gegnir mögulega lykilhlutverki í meðferðarheldni sjúklinga með gigtarsjúkdóma.

 

V39      Ástæður stöðvunar á meðferð TNFa-hemla við iktsýki og sóragigt

Þórunn Óskarsdóttir, Anna Ingibjörg Gunnarsdóttir1,3, Þorvarður Jón Löve1, 2, Pétur Sigurður Gunnarsson1,3, Björn Guðbjörnsson 1, 2

1Landspítala, 2 læknadeild, 3lyfjafræðideild Háskóla Íslands

Inngangur: Õryggi og virkni TNFá (e. Tumor necrosis factor alpha) hemla skiptir miklu máli. Upplýsingar um ástæður stöðvunar á meðferð eru því mikilvægar. Markmið rannsóknarinnar var að skoða ástæður stöðvunar á meðferð hjá sjúklingum með iktsýki og sóragigt á TNFá (e. Tumor necrosis factor alpha) hemlunum; adalimumab, etanercept og infliximab.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var byggð á gögnum úr gagnagrunninum ICEBIO, lyfjaafgreiðslu- og lyfjaskráningarkerfi Landspítalans og viðtölum við sjúklinga. Stöðvunum á meðferð var skipt í tvo flokka, tilfelli þar sem meðferð var algjörlega stöðvuð eða skipt var um meðferð annars vegar og tímabundna stöðvun eða hlé hins vegar (112 dagar).

Niðurstöður: Af 513 sjúklingum stöðvuðu 283 meðferð, 229 stöðvuðu meðferð alfarið eða skiptu um TNFα hemil (304 tilfelli) og 54 stöðvuðu meðferð tímabundið (74 tilfelli). Algengustu ástæður stöðvunar eða skipta var ónóg virkni (36,2%) og aukaverkanir (32,6%). Síðari ástæðan var einnig algengasta ástæðan fyrir tímabundinni stöðvun (28,4%), en þar af voru sýkingar algengastar (76,2%). Infliximab var algengasta lyfið þegar um stöðvun/skipti var að ræða (45,7%) en etanercept var algengast í tímabundinni stöðvun (64,9%).

Ályktanir: Ónóg virkni og aukaverkanir eru algengustu ástæður stöðvunar á meðferð TNFá hemla hjá sjúklingum með iktsýki og sóragigt. Infliximab er algengast lyfið þegar um stöðvun meðferðar er að ræða. Aftur á móti eru aukaverkanir, þá helst sýkingar, algengasta ástæða tímabundinnar stöðvunar og er etanercept þar algengasta lyfið.

 

V40      Forspárgildi IgA-gigtarþáttar um árangur meðferðar með TNF-alfa hemlum á sjúklinga með iktsýki

Sæmundur Rögnvaldsson1, Una Bjarnadóttir2, Björn Guðbjörnsson1,2, Björn Rúnar Lúðvíksson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Landspítala

Inngangur: Meðferð við iktsýki hefur mikið batnað á undanförnum árum með tilkomu TNF-alfa hemla. Enn er árangur þó ennþá lakur í um 30% sjúklinga. Með því að finna leiðir til að spá fyrir um árangur af meðferð með TNF-alfa hemlum mætti koma í veg fyrir óþarfa aukaverkanir og fjárútleggingar sem fylgja árangurslausri meðferð með hinum dýru TNF-alfa hemlum. Vitað er að T stýrifrumur gegna hlutverki í meðferðarsvörun við TNF-alfa hemlum og einnig er þekkt að virkni T stýrifruma tengist myndun IgA mótefna. Þess vegna er áhugavert að kanna hvort að gigtarþáttur, mótefni í blóði sumra sjúklinga með iktsýki, af IgA gerð gæti bennt til öðruvísi meðferðarsvörunar við TNF-alfa hemlum.

Efni og aðferðir: Til að kanna áhrif IgA gigtarþáttar á árangur meðferðar voru gögnum úr gagnagrunni um notkun og árangur líftæknilyfja á Íslandi (ICEBIO), keyrð saman við gigtarpróf sem gerð hafa verið á Landspítala. Árangur meðferðar var metinn út frá ACR og DAS28 kvörðum.

Niðurstöður: Enginn marktækur munur fannst á hlutfallslegum bata á ACR kvarða (p=0.28) eða DAS28 (t=0.26) kvarða milli eftir því hvort sjúklingar væru með IgA gigtarþátt í blóði og leiðrétt hafði verið fyrir aldri, kyni, CRP gildi og anti-CCP mótefnum.

Umræða: Samkvæmt þessari rannsókn hefur IgA gigtarþáttur ekkert forspárgildi um árangur meðferðar á iktsýki með TNF-alfa hemlum. Það er þó ýmislegt sem bendir til að IgA gigtarþáttur geti sagt til um eðli sjúkdómsins í þeim sjúklingum þar sem hann finnst.


V41       Flogalyf og miðlægur skjaldvakabrestur

Margrét Jóna Einarsdóttir, Elías Ólafsson, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir

Landspítala

Inngangur: Rannsóknir benda til að flogalyf geti valdið skjaldvakabresti en þýðing þess er óljós. Markmið rannsóknarinnar var að skoða skjaldkirtilshormón sjúklinga á flogalyfjum og kanna tengsl þeirra við skjaldvakabrest.

Efniviður og aðferðir: Fullorðnir flogaveikir sjúklingar í eftirliti á Göngudeild taugadeildar LSH á tímabilinu 01.01.1998-31.12.2011 mynduðu rannsóknarhópinn. Lyf sjúklinganna og niðurstöður úr blóðmælingum á fríu týroxíni (fT4) og týrótrópíni (TSH) var skráð. Ef niðurstöður fT4 og TSH lágu ekki fyrir voru sjúklingar boðaðir í blóðprufur. Miðlægur skjaldvakabrestur (MSB) var skilgreindur sem fT4 gildi neðan við lægri viðmiðunarmörk og TSH innan viðmiðunarmarka. Mann-Whitney próf og tvíundargreining (logistic regression) voru notuð við tölfræðiútreikninga

Niðurstöður: Rannsóknarhópurinn var 165 einstaklingar (92 konur). Meðalaldur var 45,6 (±15,5) ár. Meðaltalsgildi TSH var 2,2 mIU/L, (bil <0,01-7,98). Meðaltalsgildi fT4 í rannsóknarhóp var 14,2 pmol/L, (bil 8,1-24,4) sem reyndist lægra en meðaltal 13248 mælinga á rannsóknarstofu LSH á eins árs tímabili (16,9 pmol/L, p<0,001). Sá munur (fT4) var einnig marktækur fyrir karla (p<0,001) og konur (p<0,001). Alls voru 35 einstaklingar (21%) með MSB. Með tvíundargreiningu reyndust mest tengsl vera milli MSB og notkunar á annað hvort carbamazepín (CBZ) eða oxcarbazepín (OCBZ) meðal kvenna; áhættuhlutfall (odds ratio) 15,0 (95% CI 4,6 - 49,5).

Ályktanir: FT4 gildi var lægra hjá þeim sem tóku flogalyf samanborið við alla sem fóru í mælingu á fT4 á rannsóknarstofu LSH á eins árs tímabili. MSB sést oftar meðal kvenna sem taka CBZ eða OCBZ.

 

V42      Takmarkaður árangur af valrafvendingum sem meðferð við gáttatifi

Maríanna Garðarsdóttir1, Valdís Anna Garðarsdóttir2, Davíð O. Arnar2

1Rannsóknarsviði, 2lyflækningasvið Landspítala

Inngangur: Gáttatif er algengasta hjartsláttartruflunin. Meðferð gáttatifs getur verið erfið en rafvending er mjög algengt meðferðarúrræði. Rafvendingar eru gerðar ýmist brátt eða sjúklingar eru innkallaðir að lokinni nokkurra vikna blóðþynningarmeðferð (valrafvending). Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna árangur valrafvendinga hjá sjúklingum á Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Einstaklingarnir sem tóku þátt voru hluti af rannsókn á blóðflæði til heila fyrir og eftir valrafvendingu á Landspítala. Skoðaður var árangur af rafvendingunni og hversu margir héldust í sinus takti í a.m.k. 10 vikur eftir rafvendingu.

Niðurstöður: Alls hafa 45 einstaklingar verið teknir inn í rannsóknina, þar af 36 karlar, meðalaldur 64 ár. Einungis 19 höfðu áður farið í rafvendingu og þar af leiðandi var meirihluti sjuklinga að fara í fyrsta sinn. Alls fóru 39 sjúklingar í sinus takt við rafvendinu (87%) en einungis 12 (27%) voru í sinus takti 10 vikum síðar. Allir sjúklingarnir voru á blóðþynningarlyfjum, 15 á warfaríni (33%) en 30 á nýjum blóðþynningarlyfjum (66%), þar af 22 á dabígatran og átta á rívaroxaban. Enginn sjúklingur fékk segarek í tengslum við rafvendinguna.

Samantekt: Þýðið í rannsókninni var lítið en takmarkaður árangur af valrafvendingum á Landspítala kom á óvart. Einungis 27% alls hópsins var í sínus réttum takti 10 vikum eftir rafvendingu. Ef til vill þarf að vanda betur valið á sjúklingum sem fara í rafvendingu og í völdum tilvikum huga að því hvort hraðastillandi meðferð sé hugsanlega raunhæfari kostur. Nýju blóðþynningarlyfin eru talsvert notuð fyrir valrafvendingar, en meirihluti sjúklinga var á dabígatran eða rívaroxaban.

 

V43     Árangur kransæðahjáveituaðgerða hjá yngri sjúklingum

Linda Ó. Árnadóttir1, Tómas A. Axelsson1, Daði Helgason1, Hera Jóhannesdóttir1, Jónas A. Aðalsteinsson1, Arnar Geirsson2, Axel F. Sigurðsson3, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3hjartadeild Landspítala

Inngangur: Flestir sem gangast undir kransæðahjáveituaðgerð eru nálægt sjötugu. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna árangur kransæðahjáveituaðgerða hjá yngri sjúklingum (50 ára), meðal annars snemmkomna fylgikvilla, dánartíðni innan 30 daga og langtímalifun.

Aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 1626 sjúklingum sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala 2001-2012. Bornir voru saman 100 sjúklingar 50 ára og yngri við 1526 sjúklinga yfir fimmtugu.

Niðurstöður: Hlutfall karla og áhættuþættir kransæðasjúkdóms voru sambærilegir í báðum hópum, einnig útbreiðsla kransæðasjúkdóms og hlutfall sjúklinga með vinstri höfuðstofnsþrengsli. Útstreymisbrot vinstri slegils yngri sjúklinga fyrir aðgerð var marktækt lægra en þeirra eldri (52% sbr. 55%, p=0,004), fleiri þeirra höfðu nýlegt hjartadrep fyrir aðgerð (41% sbr. 27%, p=0,003) og aðgerð var oftar gerð með flýtingu (58% sbr. 45%, p=0,016). Tíðni minniháttar fylgikvilla var lægri hjá yngri sjúklingum (30% sbr. 50%, p<0,001), sérstaklega nýtilkomið gáttatif (14% sbr. 35%, p<0,001), en blæðing eftir aðgerð var einnig minni (853 ml sbr. 999 ml, p=0,015) og þeir fengu færri einingar af rauðkornaþykkni (1,3 sbr. 2,8 ein, p<0,001). Hins vegar reyndist ekki marktækur munur á alvarlegum fylgikvillum (6% sbr. 11%, p=0,13) eða dánartíðni innan 30 daga (1% sbr. 3%, p=0,5). Legutími yngri sjúklinga var rúmlega tveimur dögum styttri að meðaltali en þeirra eldri (p<0,001). Sjúkdómasértæk lifun var sambærileg fyrir báða aldurshópana en þó sást tilhneiging í átt að betri lifun fyrir yngri sjúklinga (96% sbr. 90% fimm ára lifun, p=0,06).

Ályktun: Minniháttar fylgikvillar eru sjaldgæfari hjá yngri sjúklingum en þeim eldri, legutími þeirra er styttri og blóðgjafir fátíðari. Einnig virðast veikindi þeirra bera bráðar að. Sjúkdómasértæk lifun yngri sjúklinga virðist ívið betri en eldri sjúklinga.

 

V44     Árangur kransæðahjáveituaðgerða hjá sjúklingum með sykursýki

Jónas A. Aðalsteinsson1,Tómas A. Axelsson1, Daði Helgason1, Linda Ó. Árnadóttir1, Hera Jóhannesdóttir1, Arnar Geirsson3, Karl Andersen1,2, Tómas Guðbjartsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2hjartadeild, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

Inngangur: Sykursýki er einn af helstu áhættuþáttum kransæðasjúkdóms. Sykursjúkir einstaklingar þróa gjarnan þriggja æða kransæðasjúkdóm sem er í flestum tilvikum meðhöndlaður með kransæðahjáveituaðgerð. Í þessari rannsókn voru könnuð áhrif sykursýki á snemmkomna fylgikvilla kransæðahjáveituaðgerða.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala á árunum 2001-2012. Af 1626 sjúklingum voru 261 greindir með sykursýki (16%) og voru þeir bornir saman við 1365 sjúklinga án sykursýki. Forspárþættir fylgikvilla og dauða innan 30 daga voru metnir með aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Aldur, kyn, útbreiðsla kransæðasjúkdóms og EuroSCORE voru sambærileg í báðum hópum, einnig hlutfall hjáveituaðgerða á sláandi hjarta (21%). Sjúklingar með sykursýki höfðu hærri líkamsþyngdarstuðul (30 á móti 28 kg/m2, p<0,01) og voru oftar með háþrýsting (82% á móti 60%, p<0,001) og gaukulsíunarhraða undir 60 ml/mín/1,73 m2 (22% á móti 15%, p=0,01). Auk þess var aðgerðartími þeirra 16 mín lengri (p<0,001). Tíðni djúpra bringubeinssýkinga, heilaáfalls og hjartadreps var sambærileg í báðum hópum. Bráður nýrnaskaði var metinn samkvæmt RIFLE-skilmerkjum og voru sykursýkissjúklingar oftar í RISK-flokki (14% á móti 9%, p=0,02) og FAILURE-flokki (2% á móti 0,5%, p=0,01). Minniháttar fylgikvillar (gáttatif, lungnabólga, þvagfærasýking og yfirborðssýking í skurðsári) voru hins vegar svipaðir í báðum hópum. Dánartíðni innan 30 daga var marktækt hærri hjá sjúklingum með sykursýki, eða 5% borið saman við 2% í viðmiðunarhópi (p=0,01). Sykursýki reyndist ekki sjálfstæður áhættuþættur fyrir dauða innan 30 daga þegar leiðrétt var fyrir öðrum áhættuþáttum með fjölþáttaaðhvarfsgreiningu (OR=1,98, 95% ÖB: 0,72-4,95).

Ályktanir: Sjúklingar með sykursýki eru í aukinni áhættu á að fá bráðan nýrnaskaða eftir kransæðahjáveituaðgerð en sykursýki virðist ekki vera sjálfstæður forspárþáttur 30 daga dánartíðni.

 

V45     Góður langtímaárangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi

Hera Jóhannesdóttir1, Jónas A. Aðalsteinsson1, Tómas Andri Axelsson1, Linda Ósk Árnadóttir1, Helga Rún Garðarsdóttir1, Arnar Geirsson2, Guðmundur Þorgeirsson1,3, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3hjartadeild Landspítala

Inngangur: Kransæðahjáveituaðgerð er algengasta opna hjartaaðgerðin á Íslandi. Langtímaárangur þessara aðgerða hefur lítið verið rannsakaður, bæði hér á landi og í öðrum löndum. Tilgangur þessarar afturskyggnu rannsóknar var að kanna afdrif sjúklinga með áherslu á langtímafylgikvilla og lifun.

Aðferðir: 1622 sjúklingar (meðalaldur 66 ár, 82% karlar, meðal EuroSCOREst 4,7) gengust undir kransæðahjáveituaðgerð (23% á sláandi hjarta) á Landspítala 2001-2012. Auk klínískra og aðgerðartengdra þátta voru eftirfarandi endapunktar skráðir: hjartaáfall, heilablóðfall, þörf á endurhjáveituaðgerð, kransæðavíkkun með eða án kransæðastoðnets og dauði. Áhættuþættir allra ofangreindra endapunkta þegar þeir voru teknir saman (major adverse cardiac and cerebrovascular events, MACCE) og dauða voru fundnir með Cox-aðhvarfsgreiningu. Meðaleftirfylgd var 6,7 ár.

Niðurstöður: Heildarlifun 1, 5 og 10 árum frá aðgerð var 96%, 89% og 73%. Tíðni MACCE var 9% einu ári frá aðgerð og 20% eftir 5 ár. Fimm árum frá aðgerð höfðu 4,6% sjúklinga greinst með heilaáfall, 2,1% sjúklinga greinst með hjartaáfall og 6% farið í kransæðavíkkun með eða án stoðnets. Aðeins 4 sjúklingar (0,3%) þurftu endurhjáveituaðgerð 5 árum frá aðgerð. Sjálfstæðir forspárþættir MACCE voru EuroSCORE og bráður nýrnaskaði skv. RIFLE-skilmerkjum og blæðing 24 klst. eftir aðgerð. Forspárþættir lifunar voru þeir sömu auk aldurs og aðgerðarárs.

Ályktun: Langtímaárangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi er góður og fer batnandi. Fimm árum frá greiningu eru 89% sjúklinga á lífi og 80% þeirra hafa ekki fengið alvarlega fylgikvilla eða þurft á enduraðgerðum að halda.

 

V46      Samanburður á lifun sjúklinga eftir ósæðarlokuskipti og Íslendinga af sama aldri og kyni

Sindri Aron Viktorsson1, Daði Helgason2, Thor Aspelund2, Andri Wilberg Orrason2, Arnar Geirsson1,2, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild HÍ

Inngangur: Ósæðarlokuskipti er önnur algengasta opna hjartaaðgerðin á Íslandi og er oftast gerð vegna þrengsla í lokunni. Upplýsingar um langtímaafdrif þessara sjúklinga hefur vantað hér á landi. Með upplýsingum úr miðlægum gagnagrunnum var borin saman langtíma lifun sjúklinga sem gengust undir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarþrengsla við Íslendinga af sama aldri og kyni.

Aðferðir: Rannsóknin náði til 366 sjúklinga (meðalaldur 70,1 ár, 62,8% karlar) sem gengust undir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Landspítala 2002-2011. Lífræn loka var notuð hjá 298 sjúklingum (81,4%) og gerviloka hjá 68 (18,6%). Kransæðahjáveita var framkvæmd samhliða í 54,0% tilfella. Lifun sjúklinga var metin og borin saman við væntanlega lifun Íslendinga af sama aldri og kyni, samkvæmt gögnum um ævilíkur frá Hagstofu Íslands. Skammtíma fylgikvillar og 30-daga dánartíðni voru einnig skráð. Miðgildi eftirfylgdar var 4,7 ár og öllum sjúklingum var fylgt eftir.

Niðurstöður: Meðal EuroSCORE-II fyrir aðgerð var 3,8% og hámarks þrýstingsfallandi yfir lokuna 69,9 mmHg. Meðalstærð ígræddra loka var 25,1 mm (bil 21-29). Gáttatif (67,6%) og bráður nýrnaskaði (22,7%) voru algengustu snemmkomnu fylgikvillarnir, en 55 (15,0%) sjúklingar þurftu á enduraðgerð vegna blæðingar að halda. 30 daga dánartíðni var 5,7%. Heildarlifun ári frá aðgerð var 91,8% og eftir 5 ár 82,3%, en 96,3% og 77% á sömu árum fyrir Íslendinga af sama aldri og kyni. Fyrstu 2 árin eftir aðgerð var lifun verri hjá sjúklingum í aðgerðarhópnum, aðallega vegna aðgerðartengdra dauðsfalla. Eftir það var lifun sambærileg og 5 árum frá aðgerð reyndist lifun aðgerðarsjúklinga betri en samanburðarhóps.

Ályktun: Langtímalifun sjúklinga eftir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla er svipuð eða betri en hjá Íslendingum af sama aldri og kyni. Ástæður þessa eru ekki þekktar og þarfnast frekari rannsókna. Tíðni fylgikvilla er há, sérstaklega enduraðgerðir vegna blæðinga. Þessar niðurstöður undirstrika mikilvægi ósæðarlokuskipta sem árangursíkrar meðferðar við ósæðarlokuþrengslum.

 

V47      Bráðar kransæðahjáveituaðgerðir: Ábendingar og árangur

Tómas Andri Axelsson1, Anders Jeppsson2, Tómas Guðbjartsson3

1Læknadeild HÍ, 2hjartaskurðdeild Sahlgrenska-háskólasjúkrahússins í Gautaborg, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

Inngangur: Kransæðahjáveituaðgerð er í langflestum tilvikum valaðgerð, en árangur þeirra er töluvert rannsakaður. Hins vegar skortir upplýsingar um bráðar kransæðahjáveituaðgerðir en þær eru annars vegar neyðaraðgerðir (emergency CABG) sem framkvændar eru innan næsta vinnudags eftir að ákvörðun um aðgerð er tekin og hins vegar björgunaraðgerð (salvage CABG) þegar sjúklingur þarf endurlífgun á leið á skurðstofu. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna ábendingar og árangur þessara aðgerða.

Aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum neyðar- og björgunar kransæðahjáveituaðgerðum sem framkvæmdar voru milli 2005-2013 á Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu (n=268) og á Landspítala (n=42). Meðal eftirfylgd var 3 ár.

Niðurstöður: Af 310 sjúklingum voru 296 neyðaraðgerðir og 14 (5%) björgunaraðgerðir; eða 5% af kransæðaaðgerðum framkvæmdum á tímabilinu. Karlmenn voru 71%, meðalaldur var 67 ár og meðal Euro-SCORE-II var 6,9%. Allir sjúklingarnir höfðu brátt kransæðarheilkenni við komu; 42% STEMI, 39% NSTEMI og 19% óstöðuga hjartaöng. Tæplega helmingur sjúklinga fór beint á skurðstofu eftir kransæðaþræðingu og fengu 15% fengu þeirra ósæðardælu (IABP) fyrir aðgerð og önnur 9% eftir aðgerð. Meðal hjarta- og lungnavélartími var 87 mín. Tæplega helmingur sjúklinga þurfti samdráttarhvetjandi hjartalyf >12 klst eftir aðgerð og 8 sjúklingar (3%) ECMO-dælu. Heilablóðfall greindist hjá 4% sjúklinga eftir aðgerð og tíðni enduraðgerða vegna var blæðingar 16%. Dánarhlutfall í sjúkrahússlegu var 16%; 15% eftir neyðaraðgerð en 85% eftir björgunaraðgerð. Fimm ára lifun eftir aðgerð var 73%.

Ályktun: Dánarhlutfall eftir björgunaraðgerðir er hátt (85%) en mun lægra fyrir neyðaraðgerðir (15%). Enduraðgerðir vegna blæðinga voru algengar, enda fengu nánast allir sjúklingarnir kröftuga blóðflöguhemjandi meðferð fyrir aðgerð. Sjúklingar sem lifa af aðgerðina hafa ágætar langtímahorfur.

 

V48     SSRI- og SNRI geðdeyfðarlyf auka ekki áhættu á blæðingu eftir kransæðahjáveituaðgerðir

Simon Morelli1,Steinþór Marteinsson2, Hera Jóhannesdóttir2, Helga R. Garðarsdóttir2, Tómas Andri Axelsson2, Engilbert Sigurðsson2,3, Tómas Guðbjartsson2,4

1Skurðlækningasvið Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3geðdeild, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

Inngangur: Fjöldi rannsókna hefur sýnt að geðdeyfðarlyfin SSRI (Selective Serotonin Reuptake Inhibitors) og SNRI (Serotonin Noradreanlin Reuptake Inhibitor) geta aukið blæðingu eftir skurðaðgerðir. Áhrif þessara lyfja eru þó minna rannsökuð eftir opnar hjartaaðgerðir. Tilgangur þessarar afturskyggnu rannsóknar var að kanna áhrif SSRI/SNRI-lyfja á blæðingu eftir kransæðahjáveituaðgerð.

Aðferðir: 808 sjúklingar sem gengust undir kransæðaðahjáveitu eingöngu á Landspítala á tímbilinu 2007-2012. Af þeim tóku 40 SSRI/SNRI lyf (5%) fyrir aðgerð og voru þeir bornir saman við viðmiðunarhóp (V-hóp). Endur-hjáveituaðgerðum og bráðasjúklingum var sleppt, einnig tilfellum þar sem blæðing var >5L. Skráð var magn blóðhlutagjafa, blæðing í brjóstholskera á fyrstu 24 klst. eftir aðgerð og enduraðgerðir vegna blæðingar. Einnig voru skráðir alvarlegir og minniháttar fylgikvillar, 30 daga dánartíðni og reiknuð langtíma heildarlifun. Miðgildi eftirfylgdar var 3 ár.

Niðurstöður: Hóparnir voru sambærilegir hvað varðar aldur, kynjadreifingu, áhættuþætti kransæðasjúkdóms, og EuroSCORE II. Aðgerðartengdir þættir eins og tímalengd aðgerðar voru einnig sambærilegir (p=0,26). Ekki reyndi marktækur munur á blæðingu eftir aðgerð, eða 760 ml í SSRI/SNRI-hópi og 946 ml í V-hópi (p=0,07). Fjöldi rauðkornagjafa var einnig sambærilegur (p=0,47) líkt og tíðni snemmkominna- og alvarlegra fylgikvilla. Dánartíðni innan 30 daga var einnig sambærileg í hópunum, eða 3% borið saman við 2% í V-hópi (p=1,0).

Ályktun: Ekki sást aukin blæðing eftir aðgerð hjá sjúklingum á SSRI/SNRI-geðdeyfðarlyfjum og tíðni fylgikvilla og 30 daga dánartíðni var heldur ekki aukin. Því virðist ekki ástæða til þess hætta notkun þessar lyfja fyrir hjartaaðgerð.

 

V49     Triclosan-húðaðir saumar til að fyrirbyggja bringubeinssýkingar eftir opnar hjartaskurðaðgerðir – framskyggn tvíblind rannsókn

Tómas Guðbjartsson1,5, Steinn Steingrímsson1,2, Linda Thimour-Bergström1, Henrik Scherstén2, Örjan Friberg3, Anders Jeppsson1,4

Hjarta- og lungnaskurðdeildum 1Landspítala, 2Sahlgrenska háskólasjúkrahússins í Gautaborg og 3Örebro, 4Sahlgrenska Akademían, Gautaborgarháskóla, Svíþjóð, 5læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Skurðsýkingar eru algengur fylgikvilli opinna hjartaskurðaðgerða. Fjöldi rannsókna hefur sýnt að saumar sem húðaðir eru með triclosan, sem er bakteríudrepandi efni, geti fækkað skurðsýkingum, t.d. eftir kviðarholsaðgerðir og bláæðatöku á ganglimum. Markmið rannsóknarinnar var að skoða tíðni bringubeinsskurðssýkinga eftir opnar hjartaaðgerðir með triclosan-húðuðuðum saumum.

Efniviður og aðferðir: Framskyggn tvíblind slembirannsókn sem framkvæmd var á Sahlgrenska hjáskólasjúkrahúsinu frá 2009 til 2012. Alls voru teknir með í rannsóknina 352 sjúklingar sem gengust undir kransæðahjáveitu með eða án lokuaðgerðar. Skurðsári var lokað með annars vegar triclosan-saumi (Vicryl Plus®) eða hefðbundnum sjálfeyðandi sárasaumi (Vicryl®) og hóparnir bornir saman. Eftir aðgerð voru sárin skoðuð reglulega á legudeild og síðan 30 og 60 dögum frá útskrift. Sýking var skilgreind skv. CDC-skilmerkjum.

Niðurstöður: Hóparnir voru sambærilegir hvað varðar aldur, hlutfall karla og tíðni áhættuþátta kransæðasjúkdóms eins og sykursýki og reykinga. Sýking í bringubeinsskurði greindist hjá 43 sjúklingum; 23 í triclosan-hópi borið saman við 20 í viðmiðunarhópi (12,8% sbr. 11,2%, p=0,63). Í flestum tilfellum (36/43) var um yfirborðssýkingu að ræða en 7 sjúklingar (2.0%) höfðu djúpa miðmætissýkingu. Bakteríur ræktuðus hjá 33 af 43 sjúklingum, oftast Staphylococcus aureus (35%) og kóagulasa neikvæðir staphylokokkar (28%).

Ályktun: Triclosan-húðaðir saumar lækka ekki tíðni skurðsýkinga í bringubeinsskurði eftir opnar hjartaskurðaðgerðir.

 

V50     Árangur kransæðahjáveituaðgerða hjá konum á Íslandi

Helga Rún Garðarsdóttir1,Linda Ósk Árnadóttir1, Jónas A. Aðalsteinsson1, Hera Jóhannesdóttir1, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir3, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3hjartadeild Landspítala

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að kanna árangur kransæðahjáveitu-aðgerða hjá konum með áherslu á fylgikvilla, dánarhlutfall innan 30 daga og langtíma lifun.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til allra sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Íslandi árin 2001-2012. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og Dánarmeinaskrá Landlæknisembættis. Fylgikvillar voru skráðir og heildarlifun reiknuð með aðferð Kaplan-Meier. Fjölþáttagreining var notuð til að meta forspárþætti dauða innan 30 daga og lifunar. Meðaleftirfylgd var 5,7 ár.

Niðurstöður: Af 1622 sjúklingum voru konur 291 (18%). Meðalaldur þeirra var hærri en karla (69 ár sbr. 65 ár, p<0,001), þær höfðu oftar sögu um háþrýsting (72% sbr. 62%, p <0,001) og EuroSCORE þeirra var hærra (6,1 sbr. 4,4, p <0,001). Hlutfall annarra áhættuþátta eins og sykursýki og dreifing kransæðasjúkdóms var sæmbærileg. Alls létust 12 konur (4%) og 30 karlar (2%) innan 30 daga en munurinn var ekki marktækur (p=0,1). Heildartíðni skammtíma (53% sbr. 43%, p=0,07) og langtíma fylgikvilla (27% sbr. 32%) var sambærileg (p>0,1). Fimm árum frá aðgerð var lifun kvenna 87% borið saman við 90% hjá körlum (p=0,09). Sterkustu forspárþættir dauða innan 30 daga voru hár aldur, skert nýrnastarfsemi og bráðaaðgerð. Kvenkyn reyndist hins vegar hvorki vera sjálfstæður forspárþáttur dauða innan 30 daga (OR 0,99; 95%-ÖB: 0,97-1,01) né langtíma lifunar (OR 1,09; 95%-ÖB 0,79-1,51).

Ályktun: Konur gangast sjaldnar undir kransæðahjáveituaðgerðir en karlar og eru fjórum árum eldri þegar kemur að aðgerð. Árangur kransæðahjáveitu er ekki síður góður hjá konum en körlum en 5 árum frá aðgerð eru 87% þeirra á lífi sem telst mjög góður árangur.

 

V51      Árangur míturlokuviðgerða á Íslandi 2001-2012

Jóhanna Fríða Guðmundsdóttir1,Sigurður Ragnarsson3, Arnar Geirsson1, Ragnar Danielsen2, Tómas Guðbjartsson1,4

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2hjartadeild Landspítala, 3hjartaskurðdeild háskólasjúkrahússins á Skáni, Lundi, Svíþjóð, 4læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna árangur míturlokuviðgerða á Íslandi, en það hefur ekki verið gert áður.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 125 sjúklingum (meðalaldur 64 ár, bil 28-84 ár, 74% karlar) sem gengust undir míturlokuviðgerð vegna míturlokuleka á Landspítala 2001-2012. Ábending fyrir aðgerð var míturlokuhrörnun hjá 70 (56%) sjúklingum, en starfrænn leki hjá 55 (44%). Heildarlifun var reiknuð með aðferð Kaplan-Meier en miðgildi eftirfylgdar var 3,9 ár (bil: 0-11,7 ár).

Niðurstöður: Aðgerðum fjölgaði á rannsóknartímabilinu úr 39 í 86 á fyrra og síðara hluta þess. Meðal EuroSCORE var 12,9; tveir þriðju sjúklinga voru í NYHA flokki III/IV fyrir aðgerð og 50% með alvarlegan míturlokuleka. Tíundi hver sjúklingur hafði áður farið í opna hjartaaðgerð og 12% höfðu nýlegt hjartadrep. Allir sjúklingar, að þremur undanskilum, fengu míturlokuhring (meðalstærð 28,4 mm). Framkvæmt var brottnám á hluta lokublaðs hjá 51 sjúklingi (41%), 28 fengu ný lokustög úr gerviefni (Goretex®) og 7 Alfieri-saum. Hjá 83% sjúklinga var einnig framkvæmd önnur hjartaaðgerð, oftast kransæðahjáveita (53%), Maze-aðgerð (31%) eða ósæðarlokuskipti (19%). Meiriháttar fylgikvillar greindust hjá rúmum helmingi sjúklinga, algengastir voru hjartadrep, enduraðgerð vegna blæðingar og hjarta- og öndunarbilun. Minniháttar fylgikvillar greindust í 71% tilfella. Átta sjúklingar létust innan 30 daga frá aðgerð (6%), en 5-ára lifun var 79%; 84% hjá sjúklingum með míturlokuhrörnun og 74% hjá þeim með starfrænan leka.

Ályktun: Míturlokuaðgerðum hefur fjölgað umtalsvert á síðasta áratug á Íslandi. Fylgikvillar eru tíðir en dánartíðni <30 daga og langtímalifun er svipuð og í sambærilegum erlendum rannsóknum.

 

V52      Ágrip dregið til baka

 

V53      Bráður nýrnaskaði eftir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi

Daði Helgason1,Sindri Aron Viktorsson2, Andri Wilberg Orrason2, Inga Lára Ingvarsdóttir3, Sólveig Helgadóttir3, Arnar Geirsson2, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala

Inngangur: Bráður nýrnaskaði er alvarlegur og tíður fylgikvilli eftir opnar hjartaaðgerðir. Tilgangurinn var að kanna tíðni og áhættuþætti bráðs nýrnaskaða eftir ósæðarlokuskipti ásamt því að meta áhrif hans á skamm- og langtímalifun sjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til 366 sjúklinga sem gengust undir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi á árunum 2002-2011. Nýrnaskaði eftir aðgerð var metinn samkvæmt RIFLE skilmerkjum. Áhættuþættir fyrir bráðum nýrnaskaða voru fundnir með ein- og fjölbreytugreiningu og lifun reiknuð með Kaplan-Meier aðferðinni.

Niðurstöður: 83 einstaklingar fengu nýrnaskaða eftir aðgerð (22,7%), þar af höfðu 37 skerta nýrnastarfsemi fyrir aðgerð (GSH <60 mL/min/1,73 m2). Fjörutíu sjúklingar féllu í RISK-, 29 í INJURY- og 14 í FAILURE-flokk. Alls þurftu 17 sjúklingar skilunarmeðferð eftir aðgerð (4,6%). Af alvarlegum fylgikvillum voru hjartadrep (29% sbr. 9%), fjöllíffærabilun (41% sbr. 1%) og enduraðgerðir vegna blæðinga (29% sbr. 11%) algengari hjá sjúklingum með nýrnaskaða (p<0,01). Dánarhlutfall innan 30 daga var 18% hjá sjúklingum með nýrnaskaða borið saman við 2% hjá viðmiðunarhópi (p<0,001). Fjölbreytugreining leiddi í ljós að kvenkyn (OR=1,10), hár líkamsþyngdarstuðull (OR=1,02) og lengdur tími á hjarta- og lungnavél (OR=1,03) eru sjálfstæðir áhættuþættir fyrir nýrnaskaða eftir ósæðalokuskipti. Bráður nýrnaskaði var sjálfstæður forspárþáttur dauða innan 30 daga frá aðgerð (HR=1,69, 95% CI=1,01-2,79) en ekki langtíma lifunar (HR=1,11, 95% CI= 0.59-2,12).

Ályktun: Fjórði hver sjúklingur greindist með nýrnaskaða eftir ósæðarlokuskipti sem er hærri tíðni en eftir kransæðahjáveituaðgerð (16%). Dánartíðni þessara sjúklinga er margfalt aukin sem og tíðni alvarlegra fylgikvilla. Bráður nýrnaskaði eftir ósæðarlokuskipti er sjálfstæður forspárþáttur fyrir skurðdauða en ekki langtíma lifun.

 

V54      Bráður nýrnaskaði á Landspítala: Nýgengi og horfur sjúklinga

Þórir E. Long1, Martin Ingi Sigurðsson2, Gísli H. Sigurðsson3, Ólafur Skúli Indriðason4

1Háskóla Íslands, 2Department of Anesthesia, Perioperative and Pain Medicine, Brigham and Women's, 3Svæfinga og gjörgæsludeild Landspítala, 4Nýrnalækningaeining Landspítala

Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er algengt vandamál á sjúkrahúsum með háa dánartíðni. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða breytingar í nýgengi BNS og útkomu sjúklinga á 20 ára tímabili.

Aðferðir: Fengnar voru allar mælingar á serum kreatíníni (SKr) á Landspítala frá júní 1993 og út maí 2013. Skrifuð voru tölvuforrit sem greindu BNS og flokkaði sjúklinga í stig samkvæmt RIFLE skilmerkjum út frá hæsta SKr gildi, miðað við lægsta gildi (grunngildi) sex mánuðina á undan. Upplýsingar um innlagnir og sjúkdómsgreiningar fengust úr rafrænu sjúkraskrárkerfi Landspítala. Dánardagur var skráður og seinni tíma SKr notuð til að meta bata á nýrnastarfsemi.

Niðurstöður: Alls áttu 45.607 einstaklingar mælt grunngildi og af þeim fengu 13.992 BNS á rannsóknartímabilinu. Tíðni BNS jókst frá 21,1 (19,2-23,1) í 31,8 (29,2-34,6) per 1000 innlagnir/ári á tímabilinu. Lifun sjúklinga eftir BNS reyndist 67% eftir 90 daga og 56% eftir eitt ár. Í fjölþáttagreiningu tengdist BNS langtímalifun með áhættuhlutfall (hazard ratio) 1,59 ((95% öryggismörk) 1,53-1,65), 2,09 (2,00-2,20), og 2,87 (2,74-3,01) fyrir Stig 1, 2 og 3 af BNS (p<0,0001). Dánartíðni sjúklinga með BNS lækkaði á tímabilinu með áhættuhlutfall 0,78 (0,77-0,79) fyrir hvert 5 ára tímabil (p<0,0001). Alls náðu 8.870 (68%) sjúklinganna að endurheimta nýrnastarfsemi sína á eftirfylgdartímanum. Líkur á því að nýrnastarfsemi endurheimtist minnkuðu með vaxandi stigi BNS.

Ályktanir: Tíðni BNS hjá sjúklingum á Landspítala jókst um nánast 50% á 20 ára tímabili. Á sama tíma virðist meðferð hafa farið fram því lifun sjúklinga með BNS batnaði verulega en umtalsverður hluti sjúklinga nær ekki fyrri nýrnastarfsemi.

 

V55     Fiix-prothrombin tími leiðir til aukins stöðugleika warfarín blóðþynningar og fækkunar blóðsega með lágri blæðingartíðni

Páll T. Önundarson1,2, Charles W. Francis3, Ólafur Skúli Indriðason1, Davíð O. Arnar1, Einar S. Björnsson1,2, Magnús K. Magnússon1,2, Sigurður J. Júlíusson1, Hulda M. Jensdóttir1, Sigrún Helga Lund2, Brynja R. Guðmundsdóttir1

1Landspítala, 2Háskóla Íslands, 3 University of Rochester Medical Center, Rochester, NY

Inngangur: Við meðferð með warfaríni er storkuþáttur (F) VII óstöðugur vegna stutts helmingunartíma. Hann hefur þó alveg sömu áhrif á prothrombin tíma (PT, INR) eins og FII og FX sem eru stöðugir vegna langs helmingunartíma. Rannsóknir benda hins vegar til þess, að það séu einkum FII og FX, sem skýri blóðþynnandi áhrif warfaríns. Því er hugsanlegt að sveiflur í PT-INR við warfaríngjöf stafi að hluta til af breytileika á FVII, sem hafi ekkert með hina eiginlegu blóðþynningu að gera en rugli mat á blóðþynningunni og skammtaákvarðanir. Í ljósi þess fundum við upp Fiix-PT, sem er aðeins næmur fyrir áhrifum FII og FX í mælisýni. Tilgáta okkar var sú, að Fiix-PT myndi leiða til aukins stöðugleika warfarín blóðþynningar og jafngildrar eða bættrar klínískrar útkomu sjúklinga á warfaríni.

Efniviður og aðferðir: Í því skyni að prófa tilgátuna gerðum við framskyggna tvíblindaða jafngildis samanburðarrannsókn þar sem sjúklingum á warfaríni á vegum Segavarna Landspítala var boðin þátttaka. Þátttakendum var með tilviljanaúrtaki skipt í tvo hópa þar sem rannsóknarhópi var stýrt með Fiix-PT (Fiix-INR) og samanburðarhópi með PT (PT-INR). Skammtendur og metendur klíniskra niðurstaðna fengu uppgefin INR gildi en ekki upprunapróf.

Niðurstöður: Þátttakendur í rannsókninni voru 1148 og stóð rannsóknin í tvö ár. Miðgildi rannsóknartíma sjúklinga var 1.7 ár. Stöðugleiki þynningarinnar var óvenju hár í viðmiðunarhópi en batnaði þó marktækt þegar skömmtunin byggði á Fiix-PT. Sömuleiðis fækkaði blóðsegum og segareki um 50% miðað við samanburðarhóp án þess að blæðingartíðin ykist, en blæðingartíðni var lág miðað við aðrar sambærilegar rannsóknir.

Ályktun: Fiix-PT bætir stöðugleika og klínísk afdrif sjúklinga á warfaríni.

 

V56      Þynntur prothrombin tími (dPT) og þynntur Fiix-Prothrombin tími (dFiix-PT) til mælinga á warfaríni, dabigatran, rivaroxaban, apixaban, heparíni og enoxaparíni

Loic Letertre1 , Páll T. Önundarson1,2, Brynja R. Guðmundsdóttir1

1Landspítala, 2Háskóla Íslands

Bakgrunnur: Sjúklingar á fullri blóðþynningu geta þarfnast skjótra mælinga á blóðþynningu í tengslum við alvarlegar blæðingar, við bráðar skurðaðgerðir, slys, skerta nýrnastarfsemi og eftir atvikum til að staðfesta fullnægjandi þynningu og meðferðarheldni. Í dag þarf fjögur mismunandi próf til þess að meta áhrif þessara lyfja, þ.e. þynntan thrombin tíma, anti-Xa mælingu, APTT, og prothrombin tíma (PT) eða Fiix-PT sem gefur réttari mynd af blóðþynningu með warfaríni því truflandi áhrif FVII eru ekki mæld. Við stefndum að því að þróa storkupróf, sem nothæft yrði til bráðra mælinga á öllum helstu blóðþynningarlyfjum 24 tíma sólarhringsins.

Aðferðir: Mælingar voru gerðar á cítrat plasma sýnum frá sjúklingum á warfaríni, dabigatran, rivaroxaban og apixaban calibratorum, og normal plasma með íbættu heparíni, enoxaparíni og fondaparinux. Prófaðar voru vaxandi þynningar á thromboplastíni með og án íblöndurnar Fiix-snauðs plasma í mælisýni í því skyni að leiðrétta fyrir áhrifum storkuþáttar VII á mælinguna og recalcificerað var með CaCl2.

Niðurstöður: Tilraunirnar sýndu að bæði dPT og dFiix-PT voru nothæf til að meta virkni dabigatrans, rivaroxabans, apixabans, UFH og enoxaparins en ekki fondaparinux. Nota mátti eina thromboplastinþynningu, dPT 1:300 (lokaþéttni) eða dFiix-PT 1:1156 til mælingar dabigatrans, rivaroxabans, apixabans, heparíns og enoxaparíns. Í sýnum sjúklinga á warfaríni stemmdi dFiix-PT 1:1156 vel við við INR og betur heldur en dPT 1:750.

Ályktun: Nota má eina þynningu af dFIIx-PT (1:1156) til þess að fá rétta mælingu á blóðþynningu warfaríns, dabigatrans, rivaroxabans, apixabans, heparín og enoxaparíns. Sé notað dPT þarf að nota tvær þynningar.

 

V57      K-vítamínháðir storkuþættir eru stöðugri í blóði sjúklinga á warfaríni sem stýrt er með Fiix-INR heldur en hjá þeim sem stýrt er með INR. Fiix-rannsókn

Pétur Ingi Jónsson 1, Páll T. Önundarson1,2, Brynja R. Guðmundsdóttir1

1Landspítala, 2Háskóla Íslands

Við warfarínmeðferð er storkuþáttur (F)VII óstöðugur vegna stutts helmingunartíma. FVII hefur þó sömu áhrif á prothrombin tíma (PT) eins og FII og FX, sem eru stöðugir vegna langs helmingunartíma. Rannsóknir benda til þess, að lækkun á FII og FX skýri einkum blóðþynnandi áhrif warfaríns. Því er hugsanlegt að óstöðugt PT-INR við warfaríngjöf vegna breytileika á FVII hafi ekkert með hina eiginlegu blóðþynningu að gera en rugli mat á blóðþynningunni og skammta-ákvarðanir. Við þróuðum því Fiix-PT, sem er aðeins næmur fyrir áhrifum FII og FX í mælisýni. Í Fiix rannsókninni var tilraunahópi skammtað skv. Fiix-INR en viðmiðunarhópi skv. PT-INR og leiddi Fiix-INR til bætts stöðugleika warfaríns og færri blóðsega.

Til þess að greina betur áhrif Fiix-PT á blóðþynninguna bárum við saman K-vítamín háða (KVH) storkuþætti sjúklinga á stöðugri blóðþynningu og fyrstu 30 daga warfarín meðferðar í Fiix hópnum miðað við INR samanburðarhópinn.

Á stöðugri blóðþynningu mældist prósentuleg virkni KVH storkuþátta (miðgildi, 95% bil) sem hér segir í rannsóknarhóp vs viðmiðunarhóp: FII 28 (19-40) vs 25 (18-40), FVII 48 (30-88) vs 42 (23-85), FIX 66 (41-85) vs 61 (36-79), og FX 15 (11-17) vs 15 (10-22). Við upphafsmeðferð lækkaði FVII meira í Fiix-hópnum en í INR viðmiðunarhópi fyrstu 10 dagana (í 20% vs 30%) en síðan varð þynningin stöðugri í Fiix hópnum sbr. 46% Fiix-INR milli markgildanna 2-3 en 29% INR gilda (p=0.06) í samanburðarhópi. Minni sveifla er í storkuþáttamælingum og skammtastærðir voru minna rokkandi í Fiix-hópnum.

KVH storkuþættir mælast svipaðir en sveiflast minna hjá sjúklingum sem skammtað er byggt á Fiix-INR.

 

V58      Lifrarígræðslur á Íslandi

Lára Ósk Eggertsdóttir Claessen1, Einar Stefán Björnsson1,2, Óttar Bergmann2, Sigurður Ólafsson2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2 meltingarlækningaeiningu Landspítala

Inngangur: Lifrarígræðsla er mikilvægt meðferðarúrræði fyrir sjúklinga með lokastigs lifrarbilun. Lifrarígræðslur eru ekki framkvæmdar hérlendis og sjúklingar því sendir utan. Markmið þessarar rannsóknar er að athuga helstu ábendingar og árangur lifrarígræðslu hjá íslenskum sjúklingum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra íslenskra sjúklinga sem höfðu gengist undir lifrarígræðslu frá upphafi lifrarígræðslna árið 1984 til 31.desember 2012. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskýrslum. Rannsóknartímabilinu var skipt í 3 undirtímabil til að meta breytingar á tíðni lifrarígræðslna og horfum.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu voru framkvæmdar 45 lifrar-ígræðslur, þar af 5 endurígræðslur. Alls gengust 40 sjúklingar undir lifrarígræðslu, 16 karlar og 18 konur, meðalaldur 40 ár, og 6 börn, meðalaldur 4 ár. Marktæk aukning var á fjölda ígræðslna á hverja milljón íbúa milli tímabila (2,40 frá 1984-1996; 5,18 frá 1997-2006 og 8,90 frá 2007-2013; p<0,01). Helstu ábendingar fyrir ígræðslu voru skorpulifur með fylgikvillum hjá 26 sjúklingum (65%), skorpulifur og lifrarfrumukrabbamein hjá 3 (8%), bráð lifrarbilun   6 (15%) og önnur æxli en lifrarfrumukrabbamein 2 (5%). Algengustu undirliggjandi sjúkdómar voru frumkomin gallskorpulifur (PBC) í 8 tilfellum (20%), bráð lifrarbilun í 6 (15%), sjálfsofnæmislifrarbólga í 4 (10%), áfengistengd skorpulifur í 3 (7,5%) og frumkomin trefjunargallgangabólga (PSC) í 3 tilfellum (7,5%). Meðalbiðtími var 5,9 mánuðir (miðgildi 3,2). Lifun var 84% eftir 1 ár og 63% eftir 5 ár. Marktæk aukning varð á lifun á tímabilinu.

Ályktanir: Aukning hefur orðið á fjölda lifrarígræðslna á undanförnum árum. Lifun sjúklinga hefur batnað umtalsvert og er sambærileg við það sem þekkist í löndum þar sem lifrarígræðslur eru framkvæmdar.

 

V59      Árangur meðferðar við lifrarbólgu C á Íslandi

Benedikt Friðriksson, Sigurður Ólafsson, Óttar Már Bergmann

Lyflækningasvið Landspítala

Inngangur: Lifrarbólga C er umtalsvert vandamál á heimsvísu og ein aðal orsök langvinns lifrarsjúkdóms og skorpulifrar. Lyfjameðferð beinist að því að uppræta veiruna og sjúklingar teljast almennt læknaðir sé RNA veirunnar ekki mælanlegt í sermi 24 vikum eftir að meðferð lýkur. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna árangur lyfjameðferðar við lifrarbólgu C á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og náði til allra sjúklinga með lifrarbólgu C sem voru meðhöndlaðir með peginterferóni og ríbavíríni á tímabilinu 2002 til 2012 og höfðu ekki fengið meðferð áður. Upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám og frá apóteki Landspítala.

Niðurstöður: Sjúklingar voru alls 207, 136 karlar (66%) og 71 kona (34%). Meðalaldur við upphaf meðferðar var 38 ár (bil 17-66). Arfgerð 1 veirunnar höfðu 71 (34%) sjúklingar, 135 (65%) höfðu arfgerð 3 og einn arfgerð 2. Hjá 147 sjúklingum (71%) sem hófu meðferð náðist að uppræta veiruna. Sjúklingar með arfgerð 3 veirunnar læknuðust í 77,8% tilvika og sjúklingar með arfgerð 1 í 57,7% tilvika. Sjúklingar eldri en 45 ára læknuðust í 53% tilvika en yngri sjúklingar læknuðust í 78% tilvika. Níu sjúklingar (4%) voru með skorpulifur og þriðjungur þeirra losnaði við af veiruna. Alls lauk 161 sjúklingur meðferð samkvæmt áætlun, af þeim hlaust lækning hjá 87,5% sjúklinga með arfgerð 3 og 77,1% sjúklinga með arfgerð 1.

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar sýna nokkuð betri árangur meðferðar á Íslandi miðað við sambærilegar rannsóknir í nágrannalöndum. Góður árangur gæti að hluta skýrst af lágum aldri sjúklinga, hlutfallslega fáum með skorpulifur og þéttu utanumhaldi við greiningu og meðferð sjúkdómsins.

 

V60      Sýklalyfjanæmi Helicobacter pylori á Íslandi

Karen Dröfn Jónsdóttir1, Hallgrímur Guðjónsson2, Hjördís Harðardóttir3, Anna Ingibjörg Gunnarsdóttir1,4, Einar Stefán Björnsson2

1Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 2meltingasjúkdómadeild, 3sýklafræðideild, 4Sjúkrahúsapóteki Landspítala

Inngangur: Talið er að um helmingur mannkyns sé sýktur af Helicobacter pylori. Sýking er tengd við magabólgur, maga- og skeifugarnarsár og illkynja æxli í maga. Alþjóðlegar leiðbeiningar mæla með svokallaðri staðlaðri þriggja lyfja meðferð með sýrudæluhemli, clarithromycin og amoxicillin eða metronidazole á svæðum þar sem ónæmi clarithromycins mælist minna en 20%. Í íslenskri rannsókn frá 1998 reyndist ónæmi bakteríunnar gegn clarithromycin 7,7%. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna sýklalyfjanæmi H.pylori á Íslandi ásamt áhrifum fyrri upprætingarmeðferða á lyfjanæmið.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin fór fram á Landspítala og Læknasetrinu ehf. á tímabilinu október 2012 til september 2013. Vefjasýni voru tekin frá maga þátttakenda og tilvist H. pylori könnuð með hraðvirkandi úreasa prófi. Jákvæðum sýnum var síðan komið á sýklafræðideild Landspítala til ræktunar og næmisprófa. Næmispróf voru framkvæmd með E-test aðferð fyrir ampicillin, clarithromycin, levofloxacin, metronidazole og tetracycline.

Niðurstöður: Af 615 þátttakendum reyndust 138 (22%) jákvæðir fyrir H. pylori. Tókst að rækta upp og framkvæma næmispróf á 105 stofnum. Lyfjaónæmi reyndist vera 0% fyrir ampicillin og tetracycyline, 10% fyrir claritromycin, 4% fyrir levofloxacin og 1% fyrir metronidazole. Séu þeir sem áður höfðu fengið upprætingarmeðferð útilokaðir var lyfjaónæmi 0% fyrir ampicillin og tetracycline, 7% fyrir clarithromycin, 3% fyrir levofloxacin og 1% fyrir metronidazole. Ónæmi gegn clarithromycin reyndist 60% hjá þeim sem höfðu fengið upprætingarmeðferð samanborið við 7% hjá þeim sem ekki höfðu fengið slíka meðferð (p=0,0001).

Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að hin staðlaða þriggja lyfja meðferð hæfi áfram á Íslandi, a.m.k. hjá þeim sem ekki hafa fengið upprætingarmeðferð áður.

 

V61      Bráður nýrnaskaði eftir hjartaaðgerð - áhættuþættir og langtímaeftirfylgd

Sólveig Helgadóttir1, Runólfur Pálsson1, Gísli H. Sigurðsson1, Martin I. Sigurðsson2, Arnar Geirsson1, Tómas Guðbjartsson1

1Landspítala, 2Brigham and Women´s Hospital, Boston

Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er alvarelgur fylgikvilli hjartaaðgerða en skort hefur á rannsóknir á langtíma útkomu þessa sjúklingahóps.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 1512 sjúklingum sem gengust undir hjartaaðgerð á LSH á árunum 2001-2011. BNS var skilgreint með hinum alþjóðlega viðurkenndu RIFLE skilmerkjum. Gögnum var safnað úr sjúkra-, svæfinga-, aðgerðar- og dánarmeinaskrá og úr skilunargrunni LSH. Ein- og fjölbreytugreining var notuð við úrvinnslu gagna og Kaplan-Meier aðferð við mat á lifun.

Niðurstöður: 201 (13,3%) sjúklinga greindust með BNS, þar af voru 59 með skerta nýrnastarfsemi fyrir aðgerð (60 mL/mín/1,73 m2). 148 sjúklingar féllu í RISK flokk, 40 í INJURY flokk og 13 í FAILURE flokk. Sjúklingar sem fengu BNS reyndust marktækt eldri, líklegri til að vera með háþrýsting (HTN), sykursýki og sögu um hjartabilun, höfðu hærri NYHA, CCS og EuroSCORE, lægra útstreymisbrot og voru lengur á hjarta- og lungnavél. Í fjölbreytugreiningu reyndust hærra EuroSCORE, HTN og bráð aðgerð vera sjálfstæðir áhættuþættir fyrir þróun BNS. BNS hópurinn dvaldist marktækt lengur á spítala og á gjörgæslu, voru líklegri til að fá fylgikvilla eftir aðgerð og 12 sinnum líklegri til að þurfa skilunarmeðferð eftir aðgerð. Á eftirfylgdartímanum voru BNS sjúklingar einnig marktækt líklegri til að verða háðir langtímaskilun. Lifun var marktækt minni hjá BNS hópnum og var í öfugu sambandi við alvarleika nýrnaskaða (77% í hóp án BNS, 54% í RISK hóp, 35% í INJURY hóp og 22% í FAILURE hóp).

Ályktanir: BNS er alvarlegur fylgikvilli hjartaaðgerða á Íslandi og marktækur áhættuþáttur fyrir lakari útkomu eftir aðgerð.

 

V62      Áhrif æðakölkunar og blóðfitu á langvinnan nýrnasjúkdóm

Berglind María Jóhannsdóttir1,2,Ólafur Skúli Indriðason1, Gunnar Sigurðsson1,2,3, Runólfur Pálsson1,2, Margrét Birna Andrésdóttir1, Lesley Inker4, Vilmundur Guðnason2,3, Thor Aspelund2,3, Hrefna Guðmundsdóttir1,2,5

1Landspítala, 2Háskóla Íslands, 3Hjartavernd, 4Tufts Medical Center, Boston, 5Lyfjastofnun

Inngangur: Í langvinnum nýrnasjúkdómi eru æðakölkun og blóðfitu-röskun vel þekktir fylgisjúkdómar en einnig eru vísbendingar um að blóðfituröskun auki hættu á framrás nýrnasjúkdómsins. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort það tengdist slagæðakölkun.

Efniviður og aðferðir: Gerð var þversniðsrannsókn á 5212 þátttakendum úr fyrsta áfanga Õldrunarrannsóknar Hjartaverndar. Gaukulsíunarhraði var reiknaður (r-GSH) með CKD-EPI jöfnunni út frá stöðluðum kreatínínmælingum í sermi. Æðakalk var skilgreint sem summa æðakalks í ósæðarboga og í fallhluta ósæðar í brjóstholi og var það metið með tölvusneiðmyndatækni. Heildarkólesteról, háþétt lípóprótein (HDL) og þríglýseríðar (ÞG) voru mæld í sermi og HDL-frítt kólesteról (HFK) reiknað. Framkvæmd var línuleg aðhvarfsgreining með r-GSH sem aðalútkomu og æðakalk, ÞG, HDL og HFK sem aðalskýribreytur; leiðrétt var fyrir aldri, líkamsþyngdarstuðli, sykursýki, háþrýstingi, albúmínmigu og reykingasögu.

Niðurstöður: Meðalaldur (staðalfrávik) var 76,5 (±5,5) ár, 57% voru konur, 81% var með háþrýsting og 12% sykursýki. Meðaltal r-GSH var 63,4 (±15,2) mL/mín./1,73 m2. Miðgildi æðakalks var 2.101 (spönn, 0-50.360) á Agatston-kvarða. Hærri gildi æðakalks og ÞG höfðu marktæk tengsl við lægri gildi r-GSH (p<0,0001 og p<0,05). HFK hafði ekki marktæk tengsl við r-GSH en lágt HDL tengdist lágum r-GSH marktækt í körlum (p<0,05). Tengsl æðakalks við r-GSH voru háð ÞG-gildi þannig að einstaklingar með mikið æðakalk og lágan styrk ÞG höfðu hærri gildi r-GSH, þetta var þó aðeins marktækt hjá konum (p<0,01).

Ályktanir: Nýrnastarfsemi er verri hjá einstaklingum með útbreidda æðakölkun í ósæð og hátt gildi ÞG. Hugsanlega er lágur styrkur ÞG verndandi hjá konum með miðlæga æðakölkun. Þetta þarf að skoða í framsýnni rannsókn.

 

V63      Áhrif víðavangshlaups á vöðvafrumur og nýrnastarfsemi

Björn Magnússon1, Erla Björnsdóttir2, Anna Þóra Árnadóttir3, Ragnheiður Þórarinsdóttir3

1Heilbrigðisstofnun Suðurlands, 2Háskóla Íslands, 3Heilbrigðisstofnun Austurlands

Inngangur: Vöðvafrumur skaddast stundum tímabundið eða varanlega eftir mikla áreynslu með leka vöðvaensíma og vöðvapróteina út í blóðrásina sem getur leitt til vöðvaskaða og skertrar nýrnastarfsemi. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta mögulegan vöðva- og nýrna-skaða hjá þátttakendum í þremur erfiðum utanvegahlaupum.

Efniviður og aðferðir: Mæld voru vöðva-og hjartaensím (CK, ASAT, ALAT, LDH og TNI ultra), electrolytar og kreatínín í sermi hjá 31 hlaupara fyrir og strax eftir þrjú erfið utanvegahlaup (14, 28 og 55 km) og svo 1 og 2 sólarhringum síðar. Auk þess var mælt serum myoglobin strax eftir hlaup og þvag skoðað með strimli gagnvart haematuriu og próteinum fyrir og eftir hlaup.

Niðurstöður: CK hækkaði hjá öllum þátttakendum eftir hlaup í hlutfalli við lengd álags. Fyrir hlaup mældist Ck (u/l) 153 ± 140 en 24 tímum síðar 1239 ± 1059 en gildin lækkuðu svo í kjölfarið. Myoglobin hækkaði hjá öllum eftir hlaup í réttu hlutfalli við lengd álags, meðaltal 905 ± 645 microg/l (viðmið < 76). Hjartaensím (TNI) hækkuðu hjá öllum, mest í lengri hlaupum en nálguðust upphafsgildi sólarhring síðar. Kreatínín hækkaði hjá öllum fyrst eftir hlaup, ótengt lengd álags. Prótein fundust eftir hlaup í þvagi 65% hlaupara en hematuria hjá 55%.

Ályktanir: Erfið utanvegahlaup valda tímabundnum vöðvaskaða, sem vex eftir lengd álags, með leka vöðvaensíma og myoglobins út í blóðið. Hjartaensým hækka alltaf tímabundið og mest við langvinnt álag. Kreatínín hækkar við álag sem bendir til tímabundinnar skerðingar á starfsemi nýrna. Eftir hlaup er strimilspróf jákvætt fyrir haematuriu og próteinum í þvagi hjá liðlega helmingi hlaupara.

 

V64      Áhrif allópúrinóls og febúxóstats á útskilnað 2,8-dihydroxyadeníns í þvagi sjúklinga með APRT-skort: Samanburðarrannsókn

Viðar Eðvarðsson1, Hrafnhildur Runólfsdóttir2, Steinunn Oddsdóttir1, Inger Agústsdóttir1, Finnur Eiríksson3, Margrét Þorsteinsdóttir2, Runólfur Pálsson1

1Landspítala,  2Háskóla Íslands, 3ArcticMAss

Inngangur: Þekkt er að xantíndehýdrógenasa (XDH)-hemillinn allópúrinól dregur úr myndun 2,8-díhydroxyadeníns (DHA) og getur komið í veg fyrir myndun nýrnasteina og framrás langvinns nýrnasjúkdóms hjá sjúklingum með adenínfosfóríbósýltransferasa (APRT)-skort. Markmið þessarar frumrannsóknar (pilot study) var að bera saman áhrif allópúrinóls og annars XDH-hemils, febúxóstats, á útskilnað DHA í þvagi.

Efniviður og aðferðir: Átta sjúklingar í APRT Deficiency Registry of the Rare Kidney Stone Consortium, sem hafa verið á lyfjameðferð með allópúrinóli, samþykktu þátttöku í rannsókninni. Eftir að hafa verið án lyfja í 7 daga fengu þátttakendur afhent allópúrinól 400 mg sem þeir voru beðnir um að taka í einum skammti daglega í 14 daga. Eftir annað 7 daga tímabil án lyfja fengu þeir afhent 80 mg af febúxóstati til töku í einum skammti daglega, einnig í 14 daga. Sólarhringsútskilnaður DHA í þvagi var metinn eftir 7 daga án lyfjameðferðar og í lok meðferðar með allópúrinóli og febúxóstati (dagar 7, 21 og 42). Útskilnaður DHA í þvagi var mældur með nýrri aðferð sem byggir á háhraðavökvaskilju og tvöföldum massagreini (UPLC-MS/MS).

Niðurstöður: Sex sjúklingar hafa lokið þátttöku í rannsókninni. Miðgildi DHA/kreatnínín-hlutfalls var 3207 (1620-5374) ng/mmól án lyfjameðferðar, 2105 (813-4014) ng/mmól á meðferð með allópúrinóli og 422 (141-446) ng/mmól á meðferð með febúxóstati. Tölfræðileg marktækni var ekki reiknuð vegna smæðar þýðis.

Ályktanir: Bæði allópúrinól og febúxóstat virðast minnka verulega útskilnað DHA í þvagi sjúklinga með APRT-skort. Í þeim skömmtum sem ávísað var, virðist febuúxóstat áhrifaríkara en allópúrinól. Þessar niðurstöður þyrfti að staðfesta í stærri hópi sjúklinga.

 

V65      Nýrnaígræðslur hjá sjúklingum með APRT-skort

Hrafnhildur Runólfsdóttir1, Runólfur Pálsson2, Inger M. Ágústsdóttir2, Viðar Ö. Eðvarðsson2

1Háskóla Íslands, 2Landspítala

Inngangur: Adenínfosfóríbósýltransferasa (APRT)-skortur er galli í efnaskiptum púrína sem veldur stóraukinni myndun og útskilnaði 2,8-díhýdroxýadeníns (DHA) í þvagi og leiðir til nýrnasteina og langvinns nýrnasjúkdóms. Meðferð með xantíndehydrógenasa (XDH)-hemli (allópúrinól eða febúxóstat) kemur í veg fyrir steinamyndun og nýrnabilun. Markmið rannsóknarinnar var að meta árangur nýrnaígræðslna meðal sjúklinga með APRT-skort.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til allra einstaklinga í APRT Deficiency Registry of the Rare Kidney Stone Consortium sem hafa gengist undir ígræðslu nýra. Nýrnastarfsemi var metin með útreikningi gaukulsíunarhraða (r-GSH) og var notast við MDRD-jöfnu og Schwartz-jöfnu (aldur <18 ára). Niðurstöður eru settar fram sem miðgildi (spönn).

Niðurstöður: Tólf af 52 sjúklingum (23%) með APRT-skort greindust með lokastigsnýrnabilun og 10 (5 karlar) þeirra gengust undir alls 14 nýrnaígræðslur, þar af einn í tvígang og einn fjórum sinnum. Aldur við fyrstu ígræðslu var 44 (15-67) ár. Sex sjúklingar voru á meðferð með allópúrinóli 300 (150-400) mg daglega er þeir gengust fyrst undir ígræðslu en fjórir voru ekki á lyfjameðferð. Við síðasta eftirlit, 1,7 (0,2-8,8) árum eftir ígræðslu, var starfsemi 7 nýragræðlinga enn fullnægjandi og miðgildi r-GSH 35 (21-65) mL/mín./1,73 m2. Fimm þessara 7 sjúklinga höfðu staðfesta endurkomu DHA-kristallanýrnameins. Fjórir græðlingar töpuðust vegna endurkomu nýrnasjúkdómsins, 1,3 (0,1-3,4) árum eftir ígræðslu, í tilviki sjúklinga sem fengu ekki meðferð með XDH-hemli. Þá létust fjórir sjúklingar með starfandi nýragræðling.

Ályktanir: Lifun ígræddra nýrna hjá sjúklingum með APRT-skort er mun betri þegar beitt er meðferð með XDH-hemli. Skortur á þekkingu um sjúkdóminn og töf á viðeigandi lyfjameðferð eiga vafalítið stóran þátt í ótímabæru tapi nýragræðlinga.

 

V66     Bráður nýrnaskaði á bráðamóttöku: Tíðni og orsakavaldar

Ingibjörg Kristjánsdóttir1, Runólfur Pálsson1,2, Ólafur Skúli Indriðason1

1Lyflækningasvið Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er algengt vandamál á sjúkrahúsum og hafa fyrri rannsóknir sýnt að um 1% þeirra er leita á bráðamóttöku sjúkrahúsa eru með BNS. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna faraldsfræði BNS á bráðamóttökum Landspítala, orsakir og áhættuþættir.

Aðferðir: Þetta var afturvirk rannsókn er náði til ársins 2010. Leitað var að öllum einstaklingum 18 ára og eldri er komu á bráðamóttökur Landspítala og voru með hækkun á kreatíníni í sermi (SKr). Niðurstöður SKr-mælinga voru skoðaðar með tilliti til BNS og alvarleika hans. Klínískar upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrárkerfi Landspítala.

Niðurstöður: Alls leituðu 74.822 sjúklingar, 18 ára og eldri, á bráðamóttökur Landspítala árið 2010, þar af reyndust 2878 (3,8%) vera með hækkað SKr og 1091 sjúklingur (1,5%) með BNS. Miðgildi (spönn) aldurs þeirra var 79 (21-102) ár, 55,5% voru karlmenn og 29,3% með langvinnan nýrnasjúkdóm. Alls voru 650 (59,6%) með BNS á stigi 1, 284 (26.0%) á stigi 2 og 157 (14,4%) á stigi 3. BNS stafaði af fornýrnabilun í 88,8% tilvika, og var oftast um að kenna vökvaskorti (32,4%), sýklasótt  (25,5%) og blóðflæðiskerðingu í tengslum við versnun á langvinnum hjarta-,lungna- eða lifrarsjúkdómi (14,6%). Hjá 54,1% sjúklinga reyndust lyf vera mikilvægur orsakaþáttur, þar af  lyf sem blokka renín- og angíótensínkerfið hjá 42,3% og bólgueyðandi gigtarlyf  hjá 11,7%.

Ályktanir: Um 1,5 % sjúklinga er leita á bráðamóttöku eru með BNS, oftast á vægu stigi tengdan röskun á blóðrás. Lyf koma oft við sögu og mætti mögulega fyrirbyggja BNS af þeirra völdum með vel ígrunduðum ávísunum, upplýsingagjöf og greiðu aðgengi að þjónustu þegar veikindi steðja að.

 

V67      Tengsl líkamssamsetningar og nýrnastarfsemi í eldri körlum og konum

Hrefna Guðmundsdóttir1,2,3, Ólafur Skúli Indriðason2, Margrét Birna Andrésdóttir2, Runólfur Pálsson2,3, Vilmundur Guðnason3,4, Thor Aspelund3,4

1Lyfjastofnun, 2Landspítala, 3Háskóla Íslands, 4Hjartavernd

Inngangur: Með aldri verða breytingar á líkamssamsetningu og nýrnastarfsemi. Lítið er vitað um áhrif nýrnastarfsemi á líkamssamsetningu hjá öldruðum. Markmið rannsóknarinnar var að skoða slík tengsl í eldri körlum og konum.

Efniviður: Þetta var þversniðsrannsókn úr 1. áfanga öldrunarrannsóknar Hjartaverndar. Af 5764 þátttakendum höfðu 940 undirgengist mælingu á bæði kreatíníni og cystatíni C til útreikninga á gaukulsíunarhraða (r-GSH) skv. CKD-EPI jöfnunni. Staðlaðar aðferðir voru notaðar til að mæla líkamsþyngdarstuðul (LÞS) og kviðarummál (KU). Fituprósenta var mæld með viðnámsmæli og vöðvastyrkur í læri með aflmæli. Línuleg aðhvarfsgreining var gerð til að skoða tengsl vöðvastyrks og líkamssamsetningar við r-GSH, leiðrétt fyrir aldri, háþrýstingi, sykursýki og reykingum.

Niðurstöður: Meðalaldur (staðalfrávik) var 76 (4) og 55% voru konur. R-GSH var 74 (17) ml/mín./1,73m2, 81% höfðu háþrýsting, 10% sykursýki og 13% reyktu. Marktæk víxlverkun var á tengslum líkamssamsetningar og r-GSH milli karla og kvenna.

Ályktun: Tengsl eru á milli líkamssamsetningar og r-GSH meðal aldraðra, en svo virðist sem sambandið sé ólíkt milli kynja. Þó að þessi útkoma gæti að einhverju leyti skýrst af tengslum kreatíníns og cystatin C við líkamssamsetningu er ekki ólíklegt að skert nýrnastarfsemi hafi mismunandi áhrif á líkamssamsetningu karla og kvenna og þarf að staðfesta niðurstöður okkar með beinni mælingu á GSH.

 

V68     Hætta á bráðum nýrnaskaða í almennu þýði

Arnar J. Jónsson1, Bjarni Gunnarsson2, Hrefna Guðmundsdóttir1,3, Margrét Birna Andrésdóttir3, Thor Aspelund1,2, Vilmundur Guðnason1,2, Runólfur Pálsson1,3, Ólafur S. Indriðason3

1Háskóla Íslands, 2Hjartavernd, 3nýrnalækningaeiningu lyflækningasviðs Landspítala

Bakgrunnur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er algengur meðal sjúklinga á sjúkrahúsum og hefur slæmar horfur í för með sér. Lítið er vitað um faraldsfræði BNS í almennu þýði. Markmið þessarar rannsóknar var að ákvarða áhættu og áhættuþætti BNS í lýðgrunduðu þýði.

Aðferðir: Þetta var afturvirk rannsókn sem náði til allra er tóku þátt í hóprannsókn Hjartaverndar á árunum 1967-1996. Leitað var allra mælinga á kreatíníni í sermi (SKr) sem tilheyrðu þessum einstaklingum á rannsóknarstofum í Reykjavík til mars 2012. BNS var skilgreindur samkvæmt KDIGO-greiningarskilmerkjum. Langvinnur nýrnasjúkdómur (LNS) var skilgreindur sem r-GSH <60 ml/mín./1,73 m2. Aðhvarfsgreining var notuð til að meta tengsl BNS við mögulega áhættuþætti.

Niðurstöður: Endurteknar mælingar á SKr fundust fyrir 14.572 þátttakendur. Af þeim voru 47,1% karlkyns, 28,7% höfðu háþrýsting, 2,9% voru með sykursýki og 5,9% höfðu LNS við upphaf rannsóknarinnar. Eftirfylgnitími var 29,6 (spönn 0,4-45,5) ár og greindust alls 3065 einstaklingar (21,1%; 95% CI 20,4-21,8) með BNS. Af þeim voru 51,1% karlar. BNS tengdist marktækt aldri (OR 1,012, 95% CI 1,007-1,018), kyni (OR 1,25, 95% CI 1,16-1,37 fyrir karla) og r-GSH <60 ml/mín./1,73 m2 (OR 1,24, 95% CI 1,05-1,46) en ekki fundust tengsl við háþrýsting eða sykursýki.

Ályktun: Áætluð æviáhætta á BNS í almennu þýði er nokkuð há en virðist að mestu bundin við efri ár. Karlar og einstaklingar með LNS eru einnig í aukinni áhættu. Sérstakrar aðgátar er þörf hjá þessum hópum.

 

V69      Hnignun nýrnastarfsemi með aldri: Líkön byggð á endurteknum kreatínínmælingum yfir langt tímabil

Runólfur Pálsson1,2, Bjarni Gunnarsson3, Anna A. Kjeld2, Hrefna Guðmundsdóttir1,2, Margrét Birna Andrésdóttir1, Vilmundur Guðnason2,3, Thor Aspelund2,3, Ólafur S. Indriðason1

1Nýrnalækningaeiningu lyflækningasviðs Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Hjartavernd

Bakgrunnur: Hnignun á starfsemi nýrna með aldrinum tengist ýmsum langvinnum sjúkdómum, einkum hjarta- og æðasjúkdómum, en er einnig talin afleiðing eðlilegrar öldrunar. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna aldurstengdar breytingar á nýrnastarfsemi í almennu þýði á Íslandi

Aðferðir: Þetta var afturskyggn rannsókn þar sem leitað var allra mælinga á kreatíníni í sermi (SKr) á rannsóknarstofum á höfuðborgarsvæðinu er tilheyrðu einstaklingum sem tóku þátt í hóprannsókn Hjartverndar á árunum 1967-1996. Aldur við fyrstu mælingu SKr var 33-75 ára og 36-95 ára við síðustu mælingu. Reiknaður gaukulsíunarhraði (r-GSH) var metinn með MDRD-jöfnunni og tölfræðilíkön notuð til að skilgreina ferli breytinga á r-GSH og kanna tengsl við áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma.

Niðurstöður: Endurteknar SKr-mælingar fundust fyrir 14.572 þátttakendur, þar af voru konur 51,6%. Miðgildi (spönn) eftirfylgnitíma var 27,8 (0,4-45,5) ár og fjöldi SKr-mælinga 16 (2-316). Hnignun r-GSH með hækkandi aldri var ekki línuleg og fékkst besta líkanið með „generalized additive mixed models“ sem sýndi hraðari lækkun r-GSH eftir 70 ára aldur. Aldur, hærri aldur við fyrstu skoðun í Hjartavernd og sykursýki tengdust hraðari hnignun r-GSH hjá körlum og konum, og einnig hærri hlébilsþrýstingur og prótínmiga hjá konum. Við 70 ára aldur var r-GSH <60, <45 og<30 ml/mín./1,73 m2 hjá 29,5%, 6,6% og 1,3% þátttakenda og við 80 ára aldur hjá 45,1%, 17,9% og 4,3% þátttakenda.

Ályktanir: Nýrnastarfsemi hnignar með aldri en ekki með jöfnum línulegum hætti. Tölfræðilegt mat á aldursbundnum breytingum á nýrnastarfsemi krefst því nálgunar með líkönum sem meta ólínuleg ferli. Hnignun nýrnastarfsemi tengist að vissu leyti þekktum áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma.

 

V70      Tengslin milli líkamlegrar færni og vitsmunastarfs sjúklinga með MS

Sólveig Jónsdóttir, Haukur Hjaltason, Sóley Þráinsdóttir

Landspítala

Inngangur: Algengasta aðferð við að meta líkamlega færni sjúklinga með MS er með notkun Expanded Disability Status Scale (EDSS). Vitsmunastarf skerðist hjá um helmingi sjúklinga með MS. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tengslin á milli skertrar líkamlegrar færni og skerts vitsmunastarfs sjúklinga með kastaform MS sjúkdómsins (relapsing-remitting multiple sclerosis).

Efniviður og aðferðir: Fimmtíu og níu sjúklingar á taugalækningadeild Landspítala tóku þátt í rannsókninni. Þeir voru allir með kastaform MS og voru um það bil að hefja meðferð með natalizumab (Tysabri). Líkamleg færni var metin með EDSS kvarðanum og vitsmunastarf var metið með taugasálfræðilegum prófum.

Niðurstöður: Fylgni kom fram á milli skertrar líkamlegrar færni og skertrar frammistöðu á flestum taugasálfræðilegum prófum. Mest var fylgnin við próf sem reyndu á notkun handar og úrvinnsluhraða upplýsinga, en einnig kom fram fylgni við orðaminnispróf, sem reyndi á hvorugt. Engin fylgni var við próf sem reyndu á yrta og óyrta athyglisspönn og engin fylgni var við sjónræna rökhugsun. Þau próf sem spáðu best fyrir líkamlegri skerðingu eins og hún var metin með EDSS kvarðanum, voru Symbol Digit Modalities Test (SDMT), Slóðarpróf-A og Stroop prófið, sem öll reyna á úrvinnsluhraða upplýsinga. Líkamleg skerðing var marktækt tengd árafjölda með sjúkdóm. Fylgni milli skerts vitsmunastarfs og árafjölda með sjúkdóm einskorðaðist við taugasálfræðileg próf, sem reyndu á notkun handar og úrvinnsluhraða upplýsinga. Ekki var marktæk fylgni við yrta og óyrta athyglisspönn, skammtíma- og langtímaorðaminni eða sjónræna rökhugsun.

Ályktanir: Skert líkamleg færni er marktækt tengd skertri frammistöðu á taugasálfræðilegum prófum, einkum þeim sem reyna á notkun handar og úrvinnsluhraða.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica