Ávarp

Ávarp

V. Vísindaþing
Geðlæknafélags Íslands

26.-28. september 2014 á Hótel KEA


Geðlæknafélag Íslands hefur staðið fyrir reglulegum vísindaþingum síðan fyrsta vísindaþing félagsins var haldið á Akureyri árið 2005, og nú höldum við á ný til höfuðstaðar Norðurlands.

Það er afar mikilvægt að efla rannsóknir og rannsóknarvinnu innan geðlæknisfræði, ef til vill enn mikilvægara en í öðrum greinum læknisfræðinnar. Við vitum öll sem vinnum í þessu fagi hversu mikil vanþekking og klárir fordómar ríkja gegn þeim sem þjást af geðsjúkdómum og fjölskyldum þeirra. Vanþekking og fordómar ríkja svo sannarlega einnig gegn okkur sem stundum þessa grein og þeim meðferðarúrræðum sem við beitum. Við þurfum því af meira krafti en aðrir heilbrigðisstarfsmenn að sýna fram á með rökum og vönduðum rannsóknum að það sem við erum að gera getur hjálpað við að líkna og lækna þá fjölmörgu sem einhvern tíma á ævinni þjást af geðsjúkdómum.

Ef litið er yfir sögu geðlækninga má glögglega sjá hve gríðarlegar framfarir hafa orðið í meðferð geðsjúkra á síðustu hundrað árum. Öflug vísindastarfsemi er hornsteinn þessara framfara og forsenda þess að við getum barið kröftuglega á fordómum og hjálpað enn fleirum til að rísa undan þeim þungu byrðum sem alvarlegir geðsjúkdómar eru.

Þess má geta að 13.-16. júní 2018 verður Norræna geðlæknaþingið haldið í Reykjavík, sem mun án efa veita mörgum innblástur til frekari afreka á vísindasviðinu.

Innilega velkomin og hjartans þakkir til allra þátttakenda. 

Þórgunnur Ársælsdóttir
Formaður Geðlæknafélags Íslands
Þetta vefsvæði byggir á Eplica