Ágrip veggspjalda

Ágrip veggspjalda

V-01 Meinvarp gunnfrumukrabbameins

 

Martina Vigdís Nardini, Guðmundur Már Stefánsson og Gunnar Auðólfsson

 

Lýtalækningadeild Landspítala

 

martinav@landspitali.is

 

Inngangur: Grunnfrumukrabbamein (basal cell) er húðkrabbamein sem myndast út frá frumum í grunnlagi yfirhúðar (epidermis). Krabbameinið er oftast talið lítið illkynja og að það meinverpist ekki. Hér er lýst tilfelli af Landspítala sem sýnir að það er ekki rétt.

 

Tilfelli: 72 ára karlmaður greindist með ífarandi grunnfrumukrabbamein. Meinið var fjarlægt og sárinu lokað með hlutþykktarhúðágræðslu. Vefjarannsókn leiddi í ljós æxlisvöxt út í vinstri skurðbrún. Ábyrgur læknir ákvað eftirlit á göngudeild og komu ekki fram merki um endurkomu meinsins á næstu mánuðum. Þremur árum síðar greindist hnúður við vinstri brún húðágræðslunnar. Meinið var fjarlægt og sýndi vefjarannsókn grunnfrumukrabbamein af morephea-gerð en vöxtur sást út í vefjabrúnir. Í stað endurtekinnar skurðaðgerðar, sem hefði krafist húðágræðslu, var ákveðið geisla svæðið. Fimm árum síðar greindist sjúklingurinn með fyrirferð á mótum háls og vinstri herðar, sem virtist illkynja við skoðun. Ómrannsókn og fínnálarsýni bentu til þess að um meinvarp væri að ræða. Meinið var fjarlægt með aðgerð og vefjarannsókn staðfesti að um grunnfrumuæxlismeinvarp væri að ræða. Skurðbrúnir voru tæpar. Gerð varð enduraðgerð með útvíkkuðum brúnum og voru engar menjar æxlis í því sýni.

 

Umræða: Þetta tilfelli áréttar að grunnfrumukrabbamein er ekki eins saklaust og oft er haldið fram, og getur vaxið ífarandi í vefi og meinverpst. Áður hefur verið lýst 172 tilfellum með meinvörp frá grunnfrumukrabbameini, en talið er að tíðni meinvarpa þessarar æxlisgerðar sé 0,0028%-0,5%.

 

V-02 Rof  á þvagblöðru vegna gassprengingar við heflun á blöðruhálskirtli (TURP) – sjúkratilfelli

 

Bryndís Baldvinsdóttir, Þorsteinn Gíslason, Eiríkur Jónsson

 

Þvagfæraskurðdeild Landspítala

 

bryndbal@landspitali.is

 

Inngangur: Heflun blöðruhálskirtils (TURP) er algeng aðgerð. Rof á þvagblöðru vegna gassprengingar er þekktur en afar sjaldgæfur fylgikvilli. Hér er lýst slíku tilfelli.

 

Tilfelli: 83 ára maður gekkst undir heflun blöðruhálskirtils vegna góðkynja blöðruhálskirtilsstækkunar. Einkennin voru blóðmiga, næturmiga og þvagteppa. Blöðruhálskirtillinn var heflaður á hefðbundinn hátt. Við lok aðgerðarinnar heyrðist hávær hvellur og kviður sjúklingsins lyftist. Gerð var blöðruspeglun og sást gat á vinstri hliðarvegg þvagblöðrunnar og var hún í fyrstu talin vera aftan lífhimnu. Sjúklingurinn var fluttur í stöðugu ástandi á vöknunardeild. Tveimur klukkustundum síðar kvartaði sjúklingurinn um kviðverki og ógleði. Tekin var tölvusneiðmynd með skuggaefni sem sýndi rof á þvagblöðruveggnum og dreifðist skuggaefnið innan lífhimnu. Sjúklingurinn var tekinn brátt til opinnar kviðarholsaðgerðar og reyndist hafa stórt rof á þvagblöðrunni sem var saumað saman. Einnig var settur leggur í þvagblöðru ofan lífbeins. Sjúklingurinn útskrifaðist heim viku eftir aðgerðina og þvagleggurinn var síðan fjarlægður tveimur vikum eftir aðgerð. Þremur mánuðum síðar líður sjúklingnum vel og virðist ekki hafa haft nein eftirköst af þessu atviki.

 

Ályktanir: Rof á þvagblöðru er sjaldgæfur en ekki óþekktur fylgikvilli heflunar á blöðruhálskirtli. Tíðnin er talin vera um 0,01%, en við heimildaleit fundust innan við 30 svipuð tilfelli. Talið er að rofið orsakist af sprengingu sem verði við rafgreiningu vatns í súrefni og vetni. Rafmagn sem notað er við heflunina orsakar sennilega íkveikju vetnisins.

 

V-03 Æxli við mænu með einkenni Brown-Séquard og vöxt innan- og utanbasts – sjúkratilfelli

 

Bryndís Baldvinsdóttir1, Ingvar Hákon Ólafsson2

 

Heila- og taugaskurðdeild Landspítala og Læknadeild Háskóla Íslands

 

bryndbal@landspitali.is

 

Inngangur: Æxli við mænu eru sjaldgæf og flest eru góðkynja. Einkenni sjúklinga með þessi æxli ráðast af staðsetningu og stærð æxlisins. Hér er lýst tilfelli þar sem slíkt æxli hafði sérstaka einkennamynd en æxlisgerðin reyndist einnig óvenjuleg.

 

Tilfelli: 67 ára maður með sögu um háþrýsting hafði fundið fyrir verk vinstra megin í brjóstkassa um nokkurra mánaða skeið. Hann hafði farið í margvíslegar rannsóknir án niðurstöðu. Síðar bar á máttleysi í fótum. Skyndileg versnun varð á þeim einkennum og komu fram einkenni um Brown-Séquard. Gerð var segulómskoðun sem sýndi æxli við mænu í hæð við Th6-Th7, og teygði það sig yfir til vinstri. Sjúklingurinn var lagður inn á heila- og taugaskurðdeild. Honum voru gefnir sterar í æð og fylgst var með honum yfir nótt. Einkennin gengu að hluta til baka eftir steragjöfina en engu að síður var ákveðið að taka sjúkling til aðgerðar og fjarlægja æxlið. Aðgerðin tókst vel. Æxlið reyndist að mestu vaxið utanbasts (extraduralt) en einnig var vöxtur innanbasts (intraduralt).  Vefjarannsókn leiddi í ljós cavernous hemangioma. Einkenni sjúklingsins gengu að mestum hluta til baka eftir aðgerðina en þörf er á frekari endurhæfingu.

 

Ályktanir: Einkennamynd sjúklingsins, þ.e. Brown-Séquard heilkenni, er afar fátíð. Þá er cavernous hemangioma mjög sjaldgæf æxlisgerð. Okkur er ekki kunnugt um tilfelli þar sem þessi tegund æxlis er vaxin bæði utan- og innanbasts (extra- og intraduralt).

 

V-04 Er hjartalíkan úr þrívíddarprentara gagnlegt við undirbúning fyrir flóknar hjartaskurðaðgerðir?

 

 Bjarni Torfason1,2 , Paolo Gargiulo3,5,Maríanna Garðarsdóttir4, Þórður Helgason 3,5

 

1Hjarta- og brjóstholssskurðdeild, Landspítala, 2Læknadeild, Háskóla Íslands 3Vísindadeild, Heilbrigðisverkfræðisetri, Landspitala, 4 Myndgreiningardeild Landspítala, 5Heilbrigðis og taugaverkfræðistofnun, Háskóla Reykjavíkur

 

bjarnito@landspitali.is

 

 Inngangur: Hér er lýst notkun á þrívíðum líkönum við flóknar hjartaaðgerðir Ferlið hefst með töku á hjartalínuritsstýrðum tölvusneiðmyndum af hjartanu, myndvinnslu af skurðsvæði og þrívíðri útprentun hjartans í stærðinni 1/1. Markmiðið er að hnitmiða undirbúning og ákvarðanatöku í flóknum hjartaskurðaðgerðum.

 

Aðferðir: Notaður er sérhæfður hugbúnaður MIMICS 16 (www.materialise.com ). Fyrir aðgerð er hjartað tölvusneiðmyndað með joðskuggaefni í öllum fösum hjartahringsins út frá hjartalínuriti. Svokallaðar DICOM-myndir, sem fást með tölvusneiðmyndatökunni, eru teknar úr PACS-myndgeymslukerfi spítalans. Valdar eru bestu myndaraðirnar og þær endurunnar í tveggja og fjögurra hólfa sýn til nákvæmrar greiningar á byggingu hjartans. Einnig eru myndir handunnar til að sýna betur hjartalokur, sleglaskipti og ýmis smágerð form. Þá er hjartað byggt upp að nýju í tölvu og gögnin send íþrívíddarprentara (Zcorp 450). Prentun hjarta í þrívídd tekur 6 – 10 klukkustundir. Til að aðgreina vefi enn frekar er hægt að prenta líkanið í mismunandi litum. Efnisgert líkan í réttri stærð (1/1) er síðan notað fyrir og í aðgerð. t.d. við að sníða og staðsetja bót við gat í hjartavegg og meta hvar hefla megi af sleglaskiptum í einstaklingum með ofvaxtarhjartavöðvakvilla.

 

Niðurstöður: Hið nýja klíníska ferli sem hér er kynnt var notað viðundirbúning á fjórum hjartaaðgerðum sem gerðar voru á síðasta ári. Í öllum tilfellum reyndust líkönin gagnleg við undirbúning aðgerðar. Einnig reyndust ný líkön mikilvæg við að fylgja sjúklingum eftir og til að meta árangur aðgerðar. Í einu tilviki var líkan gert á meðan á meðferð stóð og reyndist það gagnlegt við ákvarðanatöku.

 

Ályktun: Rannsóknin sýnir að hagur er af notkun hlutgerðra líkana við undirbúning og eftirfylgni flókinna hjartaaðgerða.

 

V-05 Skeggsaumur til lokunar á legi við brottnám legvöðvaæxla í kviðsjáraðgerðum 

 

Jens A. Guðmundsson og Auður Smith

 

Kvennadeild Landspítala

 

jens@landspitali.is

 

Inngangur: Skeggsaumur (barbed suture) er ný tegund þráðar með litlum hökum sem skorin eru með reglulegu millibili í þráðinn.  Hökin valda því að þráðurinn festist í vef með jöfnu átaki og hnútar eru óþarfir.  Í kviðsjáraðgerðum hefur skeggsaumur reynst flýta og auðvelda lokun á rofi í legi eftir brottnám legvöðvaæxla (myomata uteri). Hér er lýst fyrstu aðgerðunum á Íslandi þar sem skeggsaumur er notaður við brottnám góðkynja legvöðvaæxla í kviðsjáraðgerðum. 

 

Tilfelli:  Lýst er fjórum tilvikum þar sem 5-8 cm legvöðvaæxli voru fjarlægð í kviðsjáraðgerðum.  Æxlin uxu í gegnum legvegg og inn í leghol (submucosa) í 2 tilvikum og í legvegg að hluta í 2 tilvikum.  Sprautað var þynntri lausn af vasópressíni í legið og hnútarnir skornir út með tvípóla rafbrennslutöng til að tryggja blóðleysi.  Leginu var lokað í 3 lögum með einátta (unidirectional) frásoganlegum skeggsaumi (V-locTM 180 2-0).  Æxlin voru fjarlægðimeð vefhakkavél (morcellator).  Blæðing var 20-90 ml og konurnar fóru heim samdægurs eða daginn eftir aðgerð.  Ómskoðun og segulómun eftir aðgerð sýndu að rof í legi höfðu gróið vel. 

 

Ályktanir:  Með skeggsaumi er lokun legvöðva örugg og fljótleg. Með þessari nýju saumatækni geta kviðsjáraðgerðir í flestum tilvikum komið í stað opinna aðgerða, við brottnám legvöðvaæxla án legnáms.

 

V-06 Afdrif sjúklinga með vélindarof - niðurstöður úr evrópskri fjölsetrarannsókn

 

Halla Viðarsdóttir1, Fausto Biancari2, Juha Saarnio2, Ari Mennander3, Linda Hypén2, Paulina Salminen4, Kari Kuttila4, Mikael Viktorzon5, Camilla Böckelman5, Enrico Tarantino6, Oliver Tiffet6, Vesa Koivukangas2, Jon Arne Søreide7,8, Asgaut Viste9, Luigi Bonavina10,Tómas Guðbjartsson1

 

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala og læknadeild Háskóla Íslands; 2Department of Surgery, Oulu University Hospital, Oulu, Finnlandi; 3Heart Center, Tampere University Hospital, Tampere, Finnlandi; 4Department of Surgery and Heart Center, Turku University Hospital, Turku, Finnlandi; 5Department of Surgery, Vaasa Central Hospital, Vaasa, Finnlandi; 6Unité de Chirurgie Général et Thoracique, Hôpital Nord, CHU de St Etienne, St Etienne, Frakklandi; 7Department of Gastroenterologic Surgery, Stavanger University Hospital, Stavanger, Noregi;8Department of Clinical Medicine, University of Bergen, Noregi; 9Department of Gastroenterologic Surgery and Clinical Medicine, Haukeland University Hospital, Bergen, Noregi; 10Department of Surgery, University of Milano, IRCCS Policlinico San Donato, Milano, Ítalíu

 

tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur: Hefðbundin meðferð vélindarofs er skurðaðgerð þar sem saumað er yfir rofið og fleiðra og miðmæti dreneruð með kera. Á síðustu árum hefur meðferð með vélindastoðnetum rutt sér til rúms. Rannsóknir vantar þó á árangri þesssarar nýju meðferðar og var markmið rannsóknarinnar að bæta úr því.

 

Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar sem meðhöndlaðir voru vegna vélindarofs frá 2000 til 2013 á 9 sjúkrahúsum í Evrópu. Skráðir voru lýðfræðilegir þættir, orsakir rofs, tegund meðferðar, fylgikvillar og heildarlifun. Sjúklingar sem fengu skurðmeðferð og stoðnet voru bornir saman með propensity score pörun og CHAID-greining notuð til að ákvarða forspárþætti sjúkrahússdauða.

 

Niðurstöður: Alls voru 194 sjúklingar meðhöndlaðir (meðalaldur 65 ár, bil: 7–93 ár, 40% karlar) og var rofið af læknisvöldum í 49% tilvika, í 26% tilvika vegna Boerhaaves heilkennis og vegna aðskotahlutar hjá 6% sjúklinga. Samtals 43 sjúklingar voru meðhöndlaðir án inngrips, 4 með EndoclipTM, 63 með stoðneti og 84 með skurðaðgerð. Sjúkrahússdauði fyrir allan hópinn var 18% og 3 ára lifun 67%. Aldur, kransæðasjúkdómur og vélindakrabbamein voru sjálfstæðir áhættuþættir fyrir sjúkrahússdauða. CHAID-greining sýndi að sjúklingar yngri en 70 ára sem hvorki höfðu kransæðasjúkdóm né vélindakrabbamein höfðu lægstu dánartíðnina (4%). Skurðaðgerð fylgdi lægri sjúkrahússdauði en ef beitt var meðferð með stoðneti (13% sbr. 19%). Eitt sjúkrahúsanna meðhöndlaði 26 sjúklinga með stoðneti og var dánartíðni 8%.

 

Ályktanir: Vélindarof er af læknisvöldum í helmingi tilvika og því fylgir há dánartíðni. Stoðnet virðast ekki lækka dánartíðni en niðurstöður á einu sjúkrahúsanna gefa þó vísbendingu um að stoðnet geti hugsanlega bætt árangur

 

V-07Sjálfkrafa blæðing frá gallvegum - sjúkratilfelli

 

Birta Dögg Ingudóttir Andrésdóttir1, Elsa Björk Valsdóttir1,2 Rafn Hilmarsson2


Læknadeild Háskóla Íslands 1, Skurðlækningasviði Landspítala2

 

bda1@hi.is

 

Inngangur: Blæðing frá lifrar- og gallvegum verður oftast vegna áverka. Hér er lýst tilfelli þar sem sjálfkrafa blæðing varð í kjölfar veikinda.

 

Tilfelli: 70 ára karlmaður með fjölþætta heilsufarssögu greindist með krabbamein í blöðruhálskirtli og ári síðar krabbamein í þvagblöðru. Þvagblaðra og blöðruhálskirtill voru því fjarlægð (cystoprostatectomy) með Bricker's þvagfráveitu. Gangur fyrst eftir aðgerð var eðlilegur. Sólarhring eftir útskrift var hann lagður inn að nýju vegna vaxandi slappleika, mæði, uppkasta, niðurgangs og lélegrar matarlystar. Hiti mældist 38,3°C og var hann grunaður um lungnabólgu. Hafin var sýklalyfjameðferð en Staphylococcus aureus ræktaðist úr blóði og hjartaómun sýndi ekki merki um hjartaþelsbólgu. Á myndrannsóknum sást fleiðruvökvi, samfall á lunga og vökvasöfnun við lifur. Hann var færður á gjörgæslu og sýndu endurteknar blóðræktanir vöxt af Enterococcus fecalis. Voru því breiðvirkari sýklalyf gefin í æð. Stuttu síðar varð vart við lífhimnubólgu og sýndu sneiðmyndir bólgu í hægri hluta ristils og vökvafleyga neðan lifrarhýðis, en ekki var hægt að útiloka ígerð. Við ristilspeglun sáust ekki merki um blóðþurrð í ristli. Hann útskrifaðist á legudeild en fimm dögum síðar féll blóðþrýstingur og ferskt blóð og sortusaur (melena) gengu niður úr endaþarmi. Magaspeglun sýndi blæðingu frá lifrar- og gallvegum (hemobilia) og tölvusneiðmyndir sýndu merki um virka blæðingu við gallblöðru. Reynt var að koma fyrir spólu (coil) í gallvegum en það gekk ekki og stöðvaðist blæðingin sjálfkrafa. Á segulómun kom í ljós rof á gallblöðru inn að lifur með ígerð. Stungið var á ígerðinni í gallblöðru og vökvasöfnun neðan lifrarhýðis var tæmd.

 

Umræða: Líklega hefur sjúklingurinn fengið gallblöðrubólgu án steina í kjölfar veikinda sem síðan orsakaði sýklasótt (sepsis) og bakteríublóðsmit (bacteremia). Við rof á gallblöðru hefur blætt inn í ígerð og þaðan í gallvegi. Sjálfsprottin blæðing frá lifrar- og gallvegum er sjaldgæf en lífshættuleg og því mikilvæg mismunagreining við blæðingar frá meltingarvegi.

 

V-08 Austrian syndrome með ósæðarflysjun og sýktum ósæðargúl meðhöndlað með innæðaaðgerð – Sjúkratilfelli

 

Þórður Skúli Gunnarsson1, Lilja Þyri Björnsdóttir2, Kristbjörn Reynisson3

 

1Skurðlæknasviði Landspítala, 2Æðaskurðdeild Landspítala, 3Röntgendeild Landspítala

 

thordsg@landspitali.is           

 

Inngangur: Austrian syndrome er ífarandi sýking Streptococcus pneumoniae sem samanstendur af lungnabólgu, heilahimnubólgu og æðaþelsbólgu. Þessari þrenningu var fyrst lýst 1956. Einungis 32 tilfellum lýst í heiminum á árunum 1990-2013. Hér er lýst tilfelli af manni sem greinist með Austrian syndrome  á Landspítala Háskólasjúkrahúsi.

 

Tilfelli: 59 ára karlmaður með sögu um Hodgkins lymphoma og sykursýki. Greinist með bólgubreytingar í ósæð aðlægt vinstri nýrnaslagæð við eftirlit eitlafrumukrabbameins ári frá meðferð. Meðhöndlað með sterum vegna gruns um ósæðarbólgu. Kvið- og bakverkir versna og tveimur dögum síðar leitar hann á slysadeild LSH þar sem sést að bólgubreytingar í ósæð eru vaxandi og ná upp að ósæðarboga. Lagður inn og settur á háskammta sterameðferð. Somnolent, óáttaður og með háan hita 6 dögum síðar.  Endurtekin tölvusneiðmynd sýnir ósæðarflysjun í brjóstholi og 4,9 cm stóran ósæðargúl í nýrnaslagæðarhæð. Mænuvökvi gruggugur og ræktast pneumococcar.  Greinist einnig með lungnabólgu í vinstra lunga.  Hann er settur á breiðvirk sýklalyf.  Endurteknar tölvusneiðmyndir sýna hratt stækkandi thoracoabdominal ósæðargúl sem varð stærstur um 5.9cm að þvermáli með ósæðarflysjun í brjóstholi, lokun á vinstri nýrnaslagæð og aðþrengdri hægri nýrnaslagæð.  Ljóst var áhætta við opna thoracoabdominal aðgerð á sýktri ósæð yrði mjög mikil.  Því var sjúklingur sendur á æðaskurðlækningadeildina í Malmö þar sem sett var ósæðar fóðring með 4 hliðargreinum (fenestrated stent graft) alveg frá ósæðarboga og niður fyrir ósæðarskiptingu með innæðaaðgerð.  Nær sér vel á nokkrum vikum og útskrifast til endurhæfingar á sjúkrahús í heimahéraði. 

 

Ályktanir: Fyrsta tilfelli Austrian syndrome sem greinist á Íslandi. Sjúklingur hefði líklegast ekki lifað af opna aðgerð.  Tilfelli sýnir því mikilvægi framfara sem hafa orðið á sviði innæðaaðgerða.

 

 

V-09 Tíðni og orsakir rákvöðvarofs greininga á Landspítala árin 2008-2010

 

Arnljótur Björn Halldórsson1,2, Elísabet Benedikz1,3, Ísleifur Ólafsson1,4, Brynjólfur Mogensen1,2

 

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Rannsóknastofu Landspítala og HÍ í bráðafræðum, 3Bráðasviði og 4Rannsóknasviði Landspítala

 

abh15@hi.is

 

Inngangur: Rákvöðvarof orsakast m.a. af áverkum, sýkingum, blóðþurrð, langri legu og ofþjálfun. Creatine kinase (CK) er notað til greiningar á rákvöðvarofi. Markmið rannsóknarinnar var að kanna faraldsfræði rákvöðvarofstilfella er komu til meðferðar á Landspítala á árunum 2008-2010.

 

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og tók til allra sjúklinga sem komu á Landspítala frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2010 með 2,5x hækkun á CK-gildi eða meira (>1000 IU/L). Undanskildir voru sjúklingar með CK-hækkun vegna hjartasjúkdóma. Skráður var fjöldi tilfella, kyn, CK-gildi, dagsetning komu og orsök, staðsetning rákvöðvarofsins, legutími ásamt fylgikvillum er þörfnuðust meðferðar.

 

Niðurstöður: Alls greindust 391 sjúklingur með rákvöðvarof, 128 konur (32,7%) og 263 karlar (67,3%). Meðalaldur sjúklinga var 51,1 ár. Vikmörk CK-hækkunar voru 1003-605628 IU/L en flestir voru með CK-hækkun á bilinu 1000-5000 IU/L, eða 261 sjúklingur (66,8%). Ástæðu rákvöðvarofs má sjá í töflu 1. Staðsetning rákvöðvarofsins var algengust á mjaðmasvæði/neðri útlimum (24,1%) og efri útlimum (16,6%) en  ótilgreind hjá 54,9% sjúklinga. Alvarlega fylgikvilla rákvöðvarofs, þ.e. nýrnabilun og hólfaheilkenni greindust hjá 20,4% sjúklinga.

 

Ályktun: Fleiri karlar en konur fengu rákvöðvarof Aldursdreifing var nokkuð jöfn. Algengustu orsakir voru vegna vímu, langvarandi legu aldraða og áverka. Alvarlegir fylgikvillar rákvöðvarofs voru algengir.

 

Tafla 1.

Orsök Fjöldi Hlutfall (%) CK-meðalgildi (IU/L)
Löng lega vegna  vímu 84 21,5 15242
Löng lega aldraðra heima 61 15,6 3744
Áverkar 59 15,1 6116
Sýkingar 31 7,9 5464
Rákvöðvarof í  langri aðgerð 31 7,9 7182
Súrefnisþurrð 27 6,9 37712
Ofþjálfun/áreynsla 26 6,6 36744
Önnur orsök 72 18,4 9429

 

 

 

V-10 Sjúkraflug þyrlu Landhelgisgæslu Íslands árin 2008-2012

 

Hrafnkell Óskarsson,1, Auður Elva Vignisdóttir1, Viðar Magnússon2, Auðunn Kristinsson3, Brynjólfur Mogensen1,4

 

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Bráðasviði Landspítala, 3Landhelgisgæslu Íslands, 4Rannsóknarstofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum

 

hro16@hi.is

 

Inngangur: Æskilegt er að alvarlega slasað og veikt fólk komist sem fyrst á sjúkrahús til greiningar og sérhæfðrar meðferðar. Þyrla Landhelgisgæslunnar (LHG), með lækni um borð, er mikilvægur þáttur í heilbrigðisþjónustu Íslendinga þar sem hún getur á skömmum tíma vitjað slasaðra og veikra þar sem ekki er hægt að koma við hefðbundnum farartækjum. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka umfang og nauðsyn sjúkraflugs þyrlu LHG á Íslandi árin 2002-2012 og kanna hversu mikið slasaðir eða veikir sjúklingarnir voru.

 

Efniviður og aðferðir: Þýði rannsóknarinnar eru  þeir sjúklingar sem fluttir voru á Landspítala með þyrlu LHG árin 2008-2012. Upplýsingar voru fengnar úr þyrlu- og sjúkraskrám Landspítala. Áverkar slasaðra sjúklinga voru stigaðir með Revised Trauma Score (RTS), Injury Severity Score (ISS) og Trauma and Injury Severity Score (TRISS). Aðrir sjúklingar voru stigaðir með Modified Early Warning Score (MEWS) og flokkaðir m.t.t. 10. útgáfunnar um alþjóðlega flokkun sjúkdóma (ICD-10).

 

Niðurstöður: Alls voru 276 sjúklingar fluttir með þyrlu LHG á Landspítala vegna áverka eða veikinda árin 2008-2012. Af þeim voru karlar 70,7% en konur 29,3%. Meðalaldur var 43 ár. Útköll vegna slasaðra voru 66,0% en veikra sjúklinga 34,0%. Flestir voru með áverka á neðri útlim. Að meðaltali var RTS 7,55 ± 0,17,  ISS 8,7 ± 1,97 og TRISS 95,3 ± 2,6%. Veikir sjúklingar fengu meðaltali 1,2 ± 0,42 á MEWS-skala og algengasta orsök útkalls voru sjúkdómar í blóðrásarkerfi (48,9%).

 

Ályktanir: Stór hópur þeirra sjúklinga sem fluttur var með þyrlunni árin 2008-2012 var alvarlega slasaður eða alvarlega veikur.

 

 

V-11 Triclosan-húðaðir saumar til að fyrirbyggja bringubeinssýkingar eftir opnar hjartaskurðaðgerðir – framsýn tvíblind rannsókn

 

Steinn Steingrimsson1,2, Linda Thimour-Bergström1, Henrik Scherstén2, Örjan Friberg3, Anders Jeppsson1,4, Tómas Guðbjartsson2

 

Hjarta- og lungnaskurðdeildum 1Landspítala, 2Sahlgrenska háskólasjúkrahússins í Gautaborg, og 3Örebro, 4Sahlgrenska Akademían, Gautaborgarháskóla, Svíþjóð, 5Læknadeild Háskóla Íslands.

 

tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur: Skurðsýkingar eru algengur fylgikvilli opinna hjartaskurðaðgerða. Fjöldi rannsókna hefur sýnt að saumar sem húðaðir eru með triclosan, sem er bakteríudrepandi efni, geti fækkað skurðsýkingum, t.d. eftir kviðarholsaðgerðir og bláæðatöku á ganglimum. Markmið rannsóknarinnar var að skoða tíðni bringubeinsskurðssýkinga eftir opnar hjartaaðgerðir með triclosan-húðuðuðum saumum.

 

Efniviður og aðferðir: Framsýn tvíblind slembirannsókn sem framkvæmd var á Sahlgrenska hjáskólasjúkrahúsinu frá 2009 til 2012. Alls voru teknir með í rannsóknina 352 sjúklingar sem gengust undir kransæðahjáveitu með eða án lokuaðgerðar. Skurðsári var lokað með annars vegar triclosan-saumi (Vicryl Plus®) eða hefðbundnum sjálfeyðandi sárasaumi (Vicryl®) og hóparnir bornir saman. Eftir aðgerð voru sárin skoðuð reglulega á legudeild og síðan 30 og 60 dögum frá útskrift. Sýking var skilgreind skv. CDC-skilmerkjum.

 

Niðurstöður: Hóparnir voru sambærilegir hvað varðar aldur, hlutfall karla og tíðni áhættuþátta kransæðasjúkdóms eins og sykursýki og reykinga. Sýking í bringubeinsskurði greindist hjá 43 sjúklingum; 23 í triclosan-hópi borið saman við 20 í viðmiðunarhópi (12,8% sbr. 11,2%, p=0,63). Í flestum tilfellum (36/43) var um yfirborðssýkingu að ræða en 7 sjúklingar (2.0%) höfðu djúpa miðmætissýkingu. Bakteríur ræktuðus hjá 33 af 43 sjúklingum, oftast Staphylococcus aureus (35%) og kóagulasa neikvæðir staphylokokkar (28%).

 

Ályktun: Triclosan-húðaðir saumar lækka ekki tíðni skurðsýkinga í bringubeinsskurði eftir opnar hjartaskurðaðgerðir.

 

V-12 Meðgöngulengd og tíðni fæðingarinngripa hjá konum með meðgönguháþrýsting og væga meðgöngueitrun á tímabilinu 2001-2011

 

Rakel Ingólfsdóttir1, Hildur Harðardóttir1,2, Ragnheiður I. Bjarnadóttir2

 

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Kvennadeild Landspítala

 

rakelingolfs@gmail.com

 

Inngangur: Um 6-12% kvenna greinast með háþrýsting á meðgöngu. Eggjahvítuefni í þvagi eða merki um marklíffæraskemmdir auk háþrýstings kallast meðgöngueitrun sem getur verið lífshættuleg fyrir móður og barn. Hollensk rannsókn frá 2009, sýndi að afdrif móður með meðgönguháþrýsting eða væga meðgöngueitrun var betri eftir framköllun fæðingar við 37 vikna meðgöngu heldur en ef beðið var átekta. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða tíðni meðgönguháþrýstings (O13) og vægrar meðgöngueitrunar (O14.0) á 11 ára tímabili og áhrif breytinga á framköllun fæðingar á Landspítala í kjölfar hollensku rannsóknarinnar, m.a. á meðgöngulengd, tíðni fæðingarinngripa og afdrif kvenna.

 

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn. Gögnum var safnað úr fæðingarskrá kvenna með greiningarnar meðgönguháþrýstingur og mild meðgöngueitrun og fæddu á Landspítala á rannsóknartímabilinu eftir 37-42 vikna meðgöngu. Ef fullnægjandi upplýsingar voru ekki til staðar í fæðingartilkynningum var leitað í fæðingarskýrslum eða sjúkraskrárgögnum Landspítala. Fjölburafæðingar sem og andvana fæðingar voru útilokaðar úr rannsóknargögnunum.

 

Niðurstöður: 1742 konur fengu greiningarnar meðgönguháþrýsting og væga meðgöngueitrun á tímabilinu og jókst nýgengi að meðaltali um 0,2% á ári. Rannsóknartímabilinu var skipt í tvennt, fyrir og eftir birtingu hollensku rannsóknarinnar. Meðgöngulengd var marktækt styttri við framköllun fæðingar hjá konum með meðgönguháþrýsting (p=0,0032) og væga meðgöngueitrun á Sienna tímabilinu (p=0,047). Marktækt fleiri fæðingar voru framkallaðar í báðum hópum  á seinna tímabilinu (p<0,0001) auk þess sem sjúkrahúslega var marktækt styttri  á því tímabili ( p=0,036).

 

Ályktanir: Aukið nýgengi getur verið vegna bættrar skráningar en hækkandi aldur og þyngd barnshafandi kvenna getur einnig skýrt fjölgun tilfella. Fæðingar voru framkallaðar fyrr og oftar eftir birtingu hollensku rannsóknarinnar en það hefur  ekki valdið aukinni tíðni inngripa.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica