Ágrip erinda

Ágrip erinda

E-01 Framsýn rannsókn á áhrifum uppbyggingar brjósts með bakbreiðivöðva á axlargrind, brjóstkassa og hrygg ásamt mati á ánægju kvennanna með útlit brjóstsins

 

Halldóra Eyjólfsdóttir1, Brynja Haraldsdóttir1, María Ragnarsdóttir1, Kristján Skúli Ásgeirsson2

 

1Endurhæfingadeild og,2 skurðlækningasviði, Landspítala. Læknadeild Háskóla Íslands

 

kriskuli@landspitali.is

 

Inngangur: Aukning er á tíðni brjóstauppbygginga á Landspítala, einkum í tafarlausum tilgangi. Í um fjórðungi tilfella er bakbreiðivöðvinn, ásamt ofanáliggjandi húð og fitu (E-LDF), notaður í stað ígræðis.  Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif  brjóstauppbyggingar með E-LDF á stoðkerfið og ánægju sjúklinga með útlit brjóstsins.

 

Efniviður og aðferðir: Framsýn rannsókn á 15 konum sem farið höfðu í E-LDF-aðgerð.  Klínískar upplýsingar voru skráðar af skurðlækni (KSÁ).  Sjúkraþjálfari (HE) mældi liðferla axlaliða með liðmæli, vöðvastyrk í hreyfiferli m. latissimus dorsi með kraftmæli, stöðu herðablaðs með málbandi, hliðarbeygjur hryggjar með Spinal Mouse og öndunarhreyfingar með ÖHM-Andra. Mælingarnar voru framkvæmdar fyrir skurðaðgerð og 1, 6, og 12 mánuðum eftir skurðaðgerð. Ánægja með útlit brjósts var metin á kvarðanum 0-10.

 

Niðurstöður: Fimmtán konur hafa til þessa verið mældar fyrir aðgerð, 1 og 6 mánuðum eftir aðgerð, en 11 konur ári eftir aðgerð. Meðalaldur kvennanna var 47±9 ára (bil: 31-64) BMI 25,51±2,63 kg/m2 (bil: 21-29), allar rétthentar. Sex konur voru skornar hægra megin en 9 vinstra megin. Sex mánuðum eftir skurðaðgerð voru 7 konur (47,7%) með skertar hreyfingar í axlarlið og vöðvastyrkur var að meðaltali 1,3 kg minni á þeirri hlið. Ári eftir skurðaðgerð voru 2 konur (18%) með skertar axlarhreyfingar skurðmegin og vöðvastyrkur var að meðaltali 1,3 kg minni á þeirri hlið. Hliðarbeygjur hryggjar, staða herðablaðs og öndunarhreyfingar voru að meðaltali samhverfar. Ánægja með útlit brjóstins var að meðaltali 9,4 (bil: 8-10).

 

Ályktun: Skertar hreyfingar í axlarlið eru algengar 6 mánuðum eftir E-LDF, en rúmlega 80% kvenna hafa náð óskertri hreyfigetu ári frá aðgerð. Ánægja með útlit brjósts eftir E-LDF er mikil.

 

 

E-02 Meðferð vélindarofs í sjúklingum áttræðum og eldri: fjölsetra rannsókn

 

Halla Viðarsdóttir1, Tómas Guðbjartsson1, Ari Mennander2, Linda Hypén3, Paulina Salminen4, Kari Kuttila4, Mikael Viktorzon5, Camilla Böckelman5, Enrico Tarantino6, Oliver Tiffet6, Vesa Koivukangas3, Jon Arne Søreide7,8, Asgaut Viste9, Luigi Bonavina10, Juha Saarnio2, Fausto Biancari3

 

1Hjarta- og lungaskurðdeild Landspítala og læknadeild Háskóla Íslands; 2Heart Center, Tampere University Hospital, Tampere, Finnlandi; 3Department of Surgery, Oulu University Hospital, Oulu, Finnlandi; 4Department of Surgery and Heart Center, Turku University Hospital, Turku, Finnlandi; 5Department of Surgery, Vaasa Centra Hospital, Vaasa, Finnlandi; 6Unité de Chirurgie Général et Thoracique, Hôpital Nord, CHU de St Etienne, St Etienne, Frakklandi; 7Department of Gastroenterologic Surgery, Stavanger University Hospital, Stavanger, Noregi; 8Department of Clinical Medicine, University of Bergen, Noregi; 9Department of Gastroenterologic Surgery and Clinical Medicine, Haukeland University Hospital, Bergen, Noregi; 10Department of Surgery, University of Milano, IRCCS Policlinico San Donato, Milano, Ítalíu

 

tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur: Vélindarof er alvarlegur sjúkdómur þar sem dánartíðni er há og fylgikvillar algengir. Flestar rannsóknir á vélindarofi ná til fárra sjúklinga og sérstaklega vantar upplýsingar um afdrif eldri sjúklinga. Markmið þessarar evrópsku rannsóknar var að kanna árangur meðferðar í þessum hópi sjúklinga.

 

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum >80 ára sem meðhöndlaðir voru vegna vélindarofs á 9 evrópskum sjúkrastofnunum á tímabilinu 2000-2013. Upplýsingar um lýðfræðilega þætti, orsakir, meðferð, fylgikvilla og heildarlifun voru skráðar.

 

Niðurstöður: Alls voru 33 sjúklingar yfir áttræðu meðhöndlaðir vegna vélindarofs (meðalaldur 84,8±3,4 ár, 63,6 % karlar). Rof af læknisvöldum var algengast (75,8%), Boerhaaves-heilkenni greindist hjá 4 (12,1%) og aðskotahlutur í vélinda hjá öðrum 4. Tíu sjúklingar voru meðhöndlaðir án inngrips, 11 fengu stoðnet, 11 gengust undir skurðaðgerð og 1 fékk EndoclipTM. Hjá 7 sjúklingum fólst skurðmeðferð í því að sauma fyrir rofið og vélindabrottnám var gert í 2 tilvikum. Einn sjúklingur sem upphaflega fékk stoðnet fór síðar í skurðaðgerð. Þrettán sjúklingar (39,4%) létust innan 30 daga eða í sjúkrahúslegu, 3/9 eftir meðferð án inngrips, 5/11 eftir meðferð með stoðneti og 4/9 eftir skurðmeðferð (p= 0,55). 30 daga lifun þar sem vélinda var varðveitt var 42,4%, 54,5% eftir stoðnets-ísetningu og 54,5% eftir skurðmeðferð (p=0,56). Gaukulsíunarhraði <60mL/mín/1,73m2 (70,0% sbr. 25,0%, p=0,04) og sýklasótt (100% sbr. 32,1%, p=0,05) við greiningu voru tengdir hærri 30 daga dánartíðni í einbreytugreiningu.

 

Ályktanir: Vélindarof í sjúklingum eldri en 80 ára hefur í för með sér háa dánartíðni innan 30 daga eða í sjúkrahúslegu óháð því hvaða meðferð er beitt. Dánartíðnin er þrefalt hærri samanborið við sjúklinga undir 80 ára aldri sem fengu meðferð vegna vélindrofs á sömu 9 sjúkrastofnunum á sama tímabili

 

E-03 Samanburður á meinafræði og skurðmeðferð brjóstakrabbameina á Íslandi og í Færeyjum

 

Anna Lind Kristjánsdóttir1, Þorvaldur Jónsson1, Jón Gunnlaugur Jónsson1, Mata Kaminski2 , Kristján Skúli Ásgeirsson1,2

 

1Skurðækningasviði og 2rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði, Landspítala

3Rannsóknastofu í Meinafræði, Landssjúkrahúsinu í Þórshöfn.

 

annalkr@landspitali.is

 

Inngangur: Á Íslandi er skipulögð hópleit við brjóstakrabbameini og greinist ákveðinn hlutur sjúklinga án einkenna. Slík hópleit er ekki fyrir hendi í Færeyjum og greinist mikill meirihluti sjúklinga vegna einkenna. Samanburður á greiningu og meðferð brjóstakrabbameina milli Íslands og Færeyja er því um margt áhugaverður, sérstaklega m.t.t. meinafræði og tegundar skurðaðgerða sem framkvæmdar eru.

 

Efniviður og aðferðir: Gerð var afturskyggn rannsókn þar sem skoðaðir voru sjúklingar sem greindust með brjóstakrabbamein á tímabilinu mars 2010 til febrúar 2013. Fengnar voru upplýsingar úr sjúkraskrám og bornir voru saman meinafræðilegir þættir og tegund skurðaðgerða.

 

Niðurstöður: Rannsóknarhópurinn saman-stóð af 598 íslenskum og 75 færeyskum brjóstakrabbameinssjúklingum. Meðalaldur við greiningu var 61,6 ár (bil: 26-96) á Íslandi, en 68,4 ár (bil: 36-94) í Færeyjum. Í 8% tilfella var sjúkdómurinn óskurðtækur við greiningu á Íslandi, en í 20% tilfella í Færeyjum (p<0,001). Ekki var marktækur munur á stærð meina við greiningu (2,2 sbr. 2,4 cm, p=0,48), eitilmeinvarpa (37% sbr. 33%, p=0,21) en hlutfall brjóstasparandi aðgerða virtist marktækt lægri í Færeyjum samanborið við Ísland (50% sbr. 45%, p=0,046).

 

Ályktun: Meðalaldur við greiningu brjóstakrabbameins er u.þ.b. 7 árum hærri í Færeyjum en á Íslandi og færri konur gangast undir brjóstasparandi aðgerðir. Hugsanlegt er að þessi munur skýrist af hópleitinni.

 

 

E-04 Lifrarmeinvörp ristilkrabbameins 2008-2012 – Greining og afdrif sjúklinga

 

Bryndís Baldvinsdóttir1, Páll Helgi Möller1,2, Pétur Hannesson2,3, Kristín Huld Haraldsdóttir1

 

1Skurðlækningadeild og , 2myndgreiningarsviði Landspítala, 3Læknadeild Háskóla

 

bryndbal@landspitali.is

 

Inngangur: Ristil- og endaþarmskrabbamein er meðal allra algengustu krabbameina og það þriðja algengasta á Íslandi. Árlega greinast um 130 með slíkt mein. Um 20-30% fá útbreiddan sjúkdóm og eru lifrarmeinvörp algengust. Meirihluti meinvarpa greinast samtímis og frumæxlið (synchronous meinvörp) eða 75% lifrarmeinvarpa, samkvæmt erlendum rannsóknum.

 

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem greindust með ristil- eða endaþarmskrabbamein á árunum 2008-2012 og fóru í skurðaðgerð. Sjúklingar sem metnir voru með óskurðtækan sjúkdóm, þar með talin lifrarmeinvörp, voru metnir nánar og farið yfir myndrannsóknir þeirra. Lýsandi tölfræði var notuð við úrvinnslu gagna.

 

Niðurstöður: Á árunum 2008-2012 fóru 585 einstaklingar í skurðaðgerð vegna ristil- eða endaþarmskrabbameins. Úr þeim hópi greindust 95 sjúklingar (16%) með lifrarmeinvörp. 58 (61%) þeirra voru greind samtímis og frumæxlið og fóru 15 (16%) í aðgerð. 37 (39%) greindust síðar með lifrarmeinvörp, af þeim fóru 16 (43%) í lifrarbrottnám. Níu sjúklingar greindust með óskurðtæk lifrarmeinvörp innan sex mánaða frá aðgerð frumæxlis. Af þeim sjúklingum höfðu 2 ekki farið í myndgreiningarrannsókn fyrir aðgerð og í einu tilfelli var rannsókn ekki framkvæmd með skuggaefni í æð. Tólf sjúklingar greindust með óskurðtækan sjúkdóm eftir 6 mánuði eða meira. Eftirlit sjúklinga eftir frumaðgerð var mismunandi m.t.t. mælinga á CEA og myndgreininga. Helstu þættir sem útilokuðu sjúklinga frá aðgerð vegna lifrarmeinvarpa var útbreiddur sjúkdómur innan lifrar (56%), sjúkdómur í lifur auk fjarmeinvarpa (25%) eða að sjúklingi var ekki treyst í aðgerð (13%).

 

Ályktun: Tíðni lifrarmeinvarpa vegna ristil- eða endaþarmskrabbameins er lægri hérlendis en í erlendum rannsóknum. Hátt hlutfall sjúklinga sem greinist síðar vekur grun um að staðla þurfi uppvinnslu og eftirlit þessara sjúklinga.

 

 

E-05 Aðgerðir vegna lifrarmeinvarpa ristilkrabbameina 2008-2012

 

Bryndís Baldvinsdóttir1, Páll Helgi Möller1,2, Kristín Huld Haraldsdóttir1,2

 

1Skurðlækningadeild Landspítala, 2Læknadeild Háskóla Íslands

 

bryndbal@landspitali.is

 

Inngangur: Lifrarmeinvörp eru algengustu meinvörp ristil- og endaþarmskrabbameina en um 20% sjúklinga fá meinvörp í lifur. Horfur sjúklinga með skurðtæk lifrarmeinvörp eru góðar og er 5 ára lifun þeirra 35-40%. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hlutfall aðgerðarsjúklinga hérlendis og árangur aðgerðanna.

 

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem gengust undir lifrarbrottnám vegna meinvarpa ristil- eða endaþarmskrabbameina á árunum 2008-2012. Upplýsinga var aflað úr sjúkraskrám. Skoðaðir voru þættir eins og tegund aðgerðar, legutími eftir aðgerð, fylgikvillar og endurkomutíðni. Notast var við lýsandi tölfræði við úrvinnslu.

 

Niðurstöður: Á árunum 2008-2012 greindust 95 sjúklingar með lifrarmeinvörp og var lagt upp með aðgerð hjá 34 (36%) þeirra. Tveir sjúklingar fóru í tvær aðgerðir (two-stage hepatectomy). Hætt var við lifrarbrottnám í aðgerð í tveimur tilfellum sökum útbreiddari sjúkdóms en talið var fyrir aðgerð og einn sjúklingur afþakkaði aðgerð. Alls voru því gerðar 33 lifrarbrottnámsaðgerðir vegna lifrarmeinvarpa á þessu 5 ára tímabili. Fleiri sjúklingar fóru í minniháttar aðgerð  (minor hepatectomy, n=19), en stærri aðgerð (major hepatectomy, n=14). Legutími eftir aðgerð var að meðaltali 8 dagar (bil: 5-35 dagar). Fylgikvillar eftir aðgerð greindust í 11 tilfellum. Tuttugu sjúklingar (61%) fengu krabbameinslyfjameðferð eftir aðgerð (adjuvant). Eftirfylgdartími var að meðaltali 43 mánuðir (bil: 10-67 mán.). Á þeim tíma hafa 16 (48%) sjúklingar greinst með endurkomu krabbameins og 12 (30%) hafa látist.

 

Ályktun: Fáar aðgerðir eru gerðar á Íslandi vegna lifrarmeinvarpa ristil- og endaþarmskrabbameina. Hlutfall þeirra sem fá lyfjameðferð eftir slíka aðgerð er lágt í samanburði við erlendar rannsóknir. Tíðni endurkomu samrýmist niðurstöðum erlendra rannsókna.

 

 

E-06 Hlutabrottnám á brisi á Landspítala 2003-2012 

 

Marta Rós Berndsen1, Guðjón Birgisson1,2, Sigurður Blöndal1,2, Kristín Huld Haraldsdóttir1

 

1 Skurðlækningadeild Landspítala, 2Læknadeild Háskóla Íslands

 

martarb@landspitali.is

 

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna árangur og fylgikvilla í kjölfar hlutabrottnáms á brisi á Landspítala 2003-2012.

 

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin tekur til sjúklinga sem gengust undir hlutabrottnám á brisi á Landspítala frá 2003-2012. Rannsóknin er afturskyggn og var gagnaöflun gerð úr sjúkraskrám, svæfingarskýrslum og aðgerðarlýsingum. Fylgikvillar voru flokkaðir samkvæmt Clavien-Dindo flokkun.

 

Niðurstöður: 22 sjúklingar gengust undir hlutabrottnám á brisi á tímabilinu en hjá 2 sjúklingum reyndist krabbamein útbreiddara í aðgerð en myndgreining fyrir aðgerð gaf til kynna. Meðalaldur sjúklinga var 56 ár (bil: 21-70). Algengustu ábendingarnar fyrir aðgerð voru kirtilmyndandi krabbamein (35%), innkirtlaæxli (25%) og blöðrumyndandi æxli (25%). Meðalaðgerðarlengd var 180 mínútur (bil: 102-311). Miðgildi áætlaðs blóðmissis í aðgerð var 650 ml (bil: 100-5000) og fengu 25% sjúklinga blóðgjöf í kjölfar aðgerðar. Aðgerð var framkvæmd með opinni tækni í 85% tilfella og miltisbrottnám var gert í 70% tilfella. Þrír sjúklingar (15%) hlutu alvarlega fylgikvilla (Clavien-Dindo 3-4), þar af voru 2 með brisleka. Einn þeirra gekkst undir enduraðgerð (5%) og lést í kjölfarið. Helmingur sjúklinga fékk minniháttar fylgikvilla (Clavien-Dindo 1-2). Meðallegutími var 14 dagar (bil: 4-39). Meinafræði blöðrumyndandi æxla (n=5) reyndist í öllum tilfellum góðkynja, en 1 reyndist hafa slímmyndandi tegund. Fimm af 7 sjúklingum sem skornir voru vegna kirtilmyndandi krabbameins greindust með endurkomu sjúkdómsins og létust að meðaltali 22 mánuðum eftir aðgerð, 40% af þeim höfðu eitlameinvörp. Fimmtán sjúklingar eru á lífi, án endurkomu og er miðgildi eftirfylgdar þeirra 60 mánuðir (bil: 20-132).

 

Ályktun: Rannsóknin bendir til þess að árangur hlutabrottnáms á brisi sé góður og sambærilegur við erlendar rannsóknir. Aðgerðin er oft framkvæmd í fyrirbyggjandi tilgangi á góðkynja blöðrumyndandi æxlum. 

 

 

E-07 Árangur bris- og skeifugarnarbrottnáms  (Whipple) á Landspítala 2003-2012

 

Marta Rós Berndsen1, Guðjón Birgisson1,2, Sigurður Blöndal1,2, Kristín Huld Haraldsdóttir1

 

1 Skurðlækningadeild Landspítala, 2Læknadeild Háskóla Íslands

 

martarb@landspitali.is

 

Inngangur: Whipple-aðgerð er framkvæmd vegna krabbameina í brishöfði, skeifugörn eða í megingallrás (choledochus). Tíðni fylgikvilla er há. Markmið rannsóknarinnar var meta árangur þessara aðgerða  á Landspítala 2003-2012.

 

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem tók til sjúklinga sem gengust undir Whipple-aðgerð á Landspítala 2003-2012. Gagnaöflun var úr sjúkraskrám. Upplýsinga var aflað frá Krabbameinsskrá Íslands um heildarfjölda sjúklinga sem greindust með krabbamein í brisi, neðri hluta gallvega og skeifugörn. Farið var yfir mat á skurðtæki og orsök óskurðtækis skráð. Fylgikvillar voru flokkaðir samkvæmt Clavien-Dindo flokkun.

 

Niðurstöður: Á tímabilinu greindust 364 einstaklingar með krabbamein í brishöfði, megingallrás og skeifugörn og voru 79 (22%) þeirra metnir skurðtækir. Algengustu orsakir fyrir óskurðtæki við greiningu voru meinvörp (47%), æðainnvöxtur og/eða vöxtur yfir á nærliggjandi líffæri (26%). Whipple-aðgerð var framkvæmd hjá 47 einstaklingum. Að auki fóru 32 sjúklingar í aðgerð þar sem krabbameinsvöxtur reyndist útbreiddari en myndgreining benti til og því fallið frá brnottnámi. Meðalaldur sjúklinga var 64 ár og maðgerðartími 353 mínútur. Alvarlega fylgikvilla hlutu 19 sjúklingar (40%, Clavien-Dindo 3-4), þar af voru 9 með brisleka. Enduraðgerð var framkvæmd hjá 11 sjúklingum (23%) og 4 (8,5%) létust innan 35 daga frá aðgerð. Endurkoma sjúkdómsins greindist hjá 21 sjúklingi (45%) að meðaltali 17 mánuðum eftir aðgerð. 13 (62%) reyndust með eitlajákvæðan sjúkdóm. Sautján sjúklingar (36%) eru enn án endurkomu sjúkdóms og er tími eftirfylgdar þeirra að miðgildi 42 mánuðir (bil: 24-144).

 

Ályktun: Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að tíðni alvarlegra fylgikvilla er sambærileg og sýnt hefur verið fram á erlendis.  Endurkoma sjúkdóms verður oftast innan tveggja ára og er meirihluti þeirra sjúklinga með eitlajákvæðan sjúkdóm.

 

E-08 Skurðmeðferð við lifrarfrumukrabbameini á Landspítalanum 1993-2012

 

Anna Kristín Höskuldsdóttir1, Sigurður Blöndal1,2, Jón Gunnlaugur Jónasson2,3, Kristín Huld Haraldsdóttir1

 

1Skurðlækningadeild Landspítala, 2Læknadeild Háskóla Íslands, 3Rannsóknarstofu í meinafræði.

 

annaho@landspitali.is

 

Inngangur: Lifrarfrumukrabbamein er meðal algengustu krabbameina í heimi. Nýgengi á Íslandi er með því lægsta sem þekkist og er helsta ástæða þess lág tíðni á skorpulifur. Læknandi meðferð felur í sér skurðaðgerð með lifrarígræðslu eða lifrarbrottnámi, en einungis um 30% sjúklinga eru skurðtækir við greiningu. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hversu margir sjúklingar  gangast undir lifrarbrottnám vegna lifrarfrumukrabbameins og kanna árangur skurðaðgerða á Landspítalanum.

 

Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn þýðisrannsókn sem náði til þeirra einstaklinga 18 ára og eldri sem greindust með lifrarfrumukrabbamein og gengust undir skurðaðgerð á Landspítala frá 1.janúar 1993 til 31.desember 2012. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám. Notast var við lýsandi tölfræði. Fylgikvillar voru flokkaðir samkvæmt Clavien-Dindo flokkun.

 

Niðurstöður: Á tímabilinu greindust 105 einstaklingar með lifrarfrumukrabbamein en einungis 28 þeirra gengust undir skurðaðgerð eða 27%. Af þeim gengust 22 undir lifrarbrottnám, þar af 12 (55%) í stærri lifraraðgerð (major hepatectomy). Meðalstærð æxla var 9 cm (bil: 3-22). Fjórir einstaklingar voru með skorpulifur (Child-Pugh A). Tíðni alvarlegra fylgikvilla í aðgerð var 23% og eftir aðgerð 36% (Clavien-Dindo flokkar 4 og 4). Alls þurftu 3 sjúklingar enduraðgerð. Enginn sjúklingur lést innan 30 daga frá aðgerð. Tólf sjúklingar hafa greinst með endurkomu á sjúkdómi (55%) og hafa 9 látist. 18% aðgerðarsjúklinga létust innan árs frá aðgerð.

 

Ályktun: Líkt og sýnt hefur verið fram á erlendis er hlutfall skurðtækra einstaklinga með lifrarfrumukrabbamein á Íslandi lágt. Lágt hlutfall þeirra sem greinast eru með skorpulifur eða annan undirliggjandi lifrarsjúkdóm. Dánartíðni er sambærileg og í erlendum rannsóknum en tíðni alvarlegra fylgikvilla er hærri.

 

 

E-09 Samanburður á lifun sjúklinga eftir ósæðarlokuskipti og Íslendinga af sama aldri og kyni

 

Sindri Aron Viktorsson2, Daði Helgason2, Thor Aspelund2, Andri Wilberg Orrason2, Arnar Geirsson1,2, Tómas Guðbjartsson1,2

 

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2Læknadeild Háskóla Íslands

 

tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur: Ósæðarlokuskipti er önnur algengasta opna hjartaaðgerðin á Íslandi og er oftast gerð vegna þrengsla í lokunni. Upplýsingar um langtímaafdrif þessara sjúklinga hefur vantað hér á landi. Með upplýsingum úr miðlægum gagnagrunnum var borin saman langtíma lifun sjúklinga sem gengust undir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarþrengsla við Íslendinga af sama aldri og kyni.

 

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til 366 sjúklinga (meðalaldur 70,1 ár, 62,8% karlar) sem gengust undir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Landspítala 2002-2011. Lífræn loka var notuð hjá 298 sjúklingum (81,4%) og gerviloka hjá 68 (18,6%). Kransæðahjáveita var framkvæmd samhliða í 54,0% tilfella. Lifun sjúklinga var metin og borin saman við væntanlega lifun Íslendinga af sama aldri og kyni, samkvæmt gögnum um ævilíkur frá Hagstofu Íslands. Skammtíma fylgikvillar og 30-daga dánartíðni voru einnig skráð. Miðgildi eftirfylgdar var 4,7 ár og öllum sjúklingum var fylgt eftir.

 

Niðurstöður: Meðal EuroSCORE-II fyrir aðgerð var 3,8% og hámarks þrýstingsfallandi yfir lokuna 69,9 mmHg. Meðalstærð ígræddra loka var 25,1 mm (bil 21-29). Gáttatif (67,6%) og bráður nýrnaskaði (22,7%) voru algengustu snemmkomnu fylgikvillarnir, en 55 (15,0%) sjúklingar þurftu á enduraðgerð vegna blæðingar að halda. 30 daga dánartíðni var 5,7%. Heildarlifun ári frá aðgerð var 91,8% og eftir 5 ár 82,3%, en 96,3% og 77% á sömu árum fyrir Íslendinga af sama aldri og kyni. Fyrstu 2 árin eftir aðgerð var lifun verri hjá sjúklingum í aðgerðarhópnum, aðallega vegna aðgerðartengdra dauðsfalla. Eftir það var lifun sambærileg og 5 árum frá aðgerð reyndist lifun aðgerðarsjúklinga betri en samanburðarhóps (mynd 1).

 

Ályktun: Langtíma lifun sjúklinga eftir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla er svipuð eða betri en hjá Íslendingum af sama aldri og kyni. Ástæður þessa eru ekki þekktar og þarfnast frekari rannsókna. Tíðni fylgikvilla er há, sérstaklega enduraðgerðir vegna blæðinga. Þessar niðurstöður undirstrika mikilvægi ósæðarlokuskipta sem árangursíkrar meðferðar við ósæðarlokuþrengslum.
E-10 Árangur kransæðahjáveituaðgerða hjá sjúklingum með sykursýki

 

Jónas A. Aðalsteinsson1, Tómas A. Axelsson1, Daði Helgason1,  Linda Ó. Árnadóttir1, Hera Jóhannesdóttir1, Arnar Geirsson3, Karl Andersen1,2, Tómas Guðbjartsson1,3

 

1Læknadeild Háskóla Íslands,2 hjartadeild og3 hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

 

tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur: Sykursýki er einn af helstu áhættuþáttum kransæðasjúkdóms og sykursjúkir einstaklingar þurfa oft að gangast undir kransæðahjáveituaðgerð. Í þessari rannsókn voru könnuð áhrif sykursýki á snemmkomna fylgikvilla og langtíma lifun eftir kransæðahjáveituaðgerð.

 

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala frá 2001-2012. Af 1626 sjúklingum voru 261 greindir með sykursýki (16%) og voru þeir bornir saman við 1365 sjúklinga án sykursýki. Forspárþættir fylgikvilla og dánartíðni innan 30 daga voru metnir með aðhvarfsgreiningu og heildarlifun reiknuð (Kaplan-Meier).

 

Niðurstöður: Aldur, kyn, útbreiðsla kransæðasjúkdóms og EuroSCORE voru sambærileg í báðum hópum, einnig hlutfall hjáveituaðgerða á sláandi hjarta (21%). Sjúklingar með sykursýki höfðu hærri líkamsþyngdarstuðul (29,6 sbr. 27,9 kg/m2, p<0,001), voru oftar með háþrýsting (82% sbr. 60%, p<0,001) og gaukulsíunarhraða <60 ml/mín/1,73m2 (22% sbr. 15%, p=0,013). Auk þess var aðgerðartími þeirra 16 mín lengri (p<0,001). Tíðni djúpra bringubeinssýkinga, heilaáfalls og hjartadreps var sambærileg í báðum hópum. Sykursýkissjúklingar greindust oftar með bráða nýrnaskaða í bæði RISK- (13,8% sbr. 8,8%, p=0,018) og FAILURE-flokki (2,3% sbr. 0,5%, p=0,009). Tíðni minniháttar fylgikvilla (t.d. gáttatifs og lungnabólgu) var hins vegar svipuð í báðum hópum. Dánartíðni innan 30 daga var marktækt hærri hjá sjúklingum með sykursýki en viðmiðunarhópi (5% sbr, 2,1%, p=0,014) og 5 ára lifun marktækt verri (82 sbr. 91%, p<0,001). Sykursýki reyndist ekki sjálfstæður áhættuþættur fyrir dauða innan 30 daga þegar leiðrétt var fyrir öðrum áhættuþáttum með fjölþáttaaðhvarfsgreiningu (OR=1,98, 95%-ÖB: 0,72-4,95) en hins vegar spáði sykursýki fyrir verri langtímahorfum (HR=1,8, 95%-ÖB 1,29-2,53).

 

Ályktanir: Sjúklingar með sykursýki eru í aukinni áhættu á að fá bráðan nýrnaskaða eftir kransæðahjáveituaðgerð án þess að sykursýki sé sjálfstæður forspárþáttur 30 daga dánartíðni. Sykursýki spáir hins vegar fyrir um verri langtímalifun.

 

 

E-11 Bráðar kransæðahjáveituaðgerðir- ábendingar og árangur

 

Tómas Andri Axelsson1, Anders Jeppsson2, Tómas Guðbjartsson3

 

1Læknadeild, Háskóla Íslands,2 Hjartaskurðdeild Sahlgrenska háskólasjúkrahússins í Gautaborg, Svíþjóð, 3Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala.

 

tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur: Kransæðahjáveituaðgerð er í langflestum tilvikum valaðgerð, en árangur þeirra er töluvert rannsakaður. Hins vegar skortir upplýsingar um bráðar kransæðahjáveituaðgerðir en þær eru annars vegar neyðaraðgerðir (emergency CABG) sem framkvændar eru innan næsta vinnudags eftir að ákvörðun um aðgerð er tekin og hins vegar björgunaraðgerð (salvage CABG) þegar sjúklingur þarf endurlífgun á leið á skurðstofu. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna ábendingar og árangur þessara aðgerða.

 

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum neyðar- og björgunar kransæðahjáveituaðgerðum sem framkvæmdar voru milli 2005-2013 á Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu (n=268) og á Landspítala  (n=42). Meðal eftirfylgd var 3 ár.

 

Niðurstöður: Af 310 sjúklingum voru 296 neyðaraðgerðir og 14 (5%) björgunaraðgerðir; eða 5% af kransæðaaðgerðum framkvæmdum á tímabilinu. Karlmenn voru 71%, meðalaldur var 67 ár og meðal EuroSCORE-II var 6,9%. Allir sjúklingarnir höfðu brátt kransæðarheilkenni við komu; 42% STEMI, 39% NSTEMI og 19% óstöðuga hjartaöng. Tæplega helmingur sjúklinga fór beint á skurðstofu eftir kransæðaþræðingu og fengu 15% fengu þeirra ósæðardælu (IABP) fyrir aðgerð og önnur 9% eftir aðgerð. Meðal hjarta- og lungnavélartími var 87 mín. Tæplega helmingur sjúklinga þurfti samdráttarhvetjandi hjartalyf >12 klst eftir aðgerð og 8 sjúklingar (3%) ECMO-dælu. Heilablóðfall greindist hjá 4% sjúklinga eftir aðgerð og tíðni enduraðgerða vegna var blæðingar 16%. Dánarhlutfall í sjúkrahússlegu var 16%; 15% eftir neyðaraðgerð en 85% eftir björgunaraðgerð. Fimm ára lifun eftir aðgerð var 73%.

 

Ályktun: Dánarhlutfall eftir björgunaraðgerðir er hátt (85%) en mun lægra fyrir neyðaraðgerðir (15%). Enduraðgerðir vegna blæðinga voru algengar, enda fengu nánast allir sjúklingarnir kröftuga blóðflöguhemjandi meðferð fyrir aðgerð. Sjúklingar sem lifa af aðgerðina hafa ágætar langtímahorfur.

 

 

E-12 Góður langtímaárangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi

 

Hera Jóhannesdóttir1, Jónas A. Aðalsteinsson1, Tómas Andri Axelsson1, Linda Ósk Árnadóttir1, Helga Rún Garðarsdóttir1, Arnar Geirsson2, Guðmundur Þorgeirsson1,3, Tómas Guðbjartsson1,2

 

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Hjarta- og lungnaskurðdeild og 3Hjartadeild Landspítala.

 

hej23@hi.is

 

Inngangur: Kransæðahjáveituaðgerð er algengasta opna hjartaaðgerðin á Íslandi. Langtímaárangur þessara aðgerða hefur lítið verið rannsakaður, bæði hér á landi og í öðrum löndum. Tilgangur þessarar afturskyggnu rannsóknar var að kanna afdrif sjúklinga með áherslu á langtímafylgikvilla og lifun.

 

Efniviður og aðferðir: 1622 sjúklingar (meðalaldur 66 ár, 82% karlar, meðal EuroSCOREst 4,7.) gengust undir kransæðahjáveituaðgerð (23% á sláandi hjarta) á Landspítala 2001-2012. Auk klínískra og aðgerðartengdra þátta voru eftirfarandi endapunktar skráðir: hjartaáfall, heilablóðfall, þörf á endurhjáveituaðgerð,  kransæðavíkkun með eða án kransæðastoðnets og dauði. Áhættuþættir allra ofangreindra endapunkta þegar þeir voru teknir saman (MACCE) og dauða voru fundnir með Cox-aðhvarfsgreiningu. Meðaleftirfylgd var 5,7 ár.

 

Niðurstöður: Heildarlifun 1, 5 og 10 árum frá aðgerð var 96%, 90% og 73%. Tíðni MACCE var 8% einu ári frá aðgerð og 20% eftir 5 ár. Fimm árum frá aðgerð höfðu 4,9% sjúklinga greinst með heilaáfall, 1,5% sjúklinga greinst með hjartaáfall og 6% farið í kransæðavíkkun með eða án stoðnets. Aðeins 4 sjúklingar (0,3%) þurftu endurhjáveituaðgerð 5 árum frá aðgerð. Sjálfstæðir forspárþættir MACCE voru EuroSCORE og bráður nýrnaskaði skv. RIFLE-skilmerkjum og blæðing 24 klst. eftir aðgerð. Forspárþættir lifunar voru þeir sömu auk aldurs, sykursýki og aðgerðarárs.

 

Ályktun: Langtímaárangur kransæðahjáveitu-aðgerða á Íslandi er góður og fer batnandi. Fimm árum frá greiningu eru 90% sjúklinga á lífi og 80% þeirra hafa ekki  fengið alvarlega fylgikvilla eða þurft á enduraðgerðum að halda.

 

 

E-13 Árangur kransæðahjáveituaðgerða hjá yngri sjúklingum

 

Linda Ó. Árnadóttir1, Tómas A. Axelsson1, Daði Helgason1, Hera Jóhannesdóttir1, Jónas A. Aðalsteinsson1, Arnar Geirsson2, Axel F. Sigurðsson3, Tómas Guðbjartsson1,2

 

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Hjarta- og lungnaskurðdeild og 3Hjartadeild Landspítala.

 

Inngangur: Flestir sem gangast undir kransæðahjáveituaðgerð eru nálægt sjötugu. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna árangur kransæðahjáveituaðgerða hjá yngri sjúklingum (≤50 ára), meðal annars snemmkomna fylgikvilla, dánartíðni innan 30 daga og langtímalifun.

 

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 1626 sjúklingum sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala 2001-2012. Bornir voru saman 100 sjúklingar 50 ára og yngri við 1526 sjúklinga yfir fimmtugu.

 

Niðurstöður: Hlutfall karla og áhættuþættir kransæðasjúkdóms voru sambærilegir í báðum hópum, einnig útbreiðsla kransæðasjúkdóms og hlutfall sjúklinga með vinstri höfuðstofnsþrengsli. Útstreymisbrot vinstri slegils yngri sjúklinga fyrir aðgerð var marktækt lægra en þeirra eldri (52% sbr. 55%, p=0,004), fleiri þeirra höfðu nýlegt hjartadrep fyrir aðgerð (41% sbr. 27%, p=0,003) og aðgerð var oftar gerð með flýtingu (58% sbr. 45%, p=0,016). Tíðni minniháttar fylgikvilla var lægri hjá yngri sjúklingum (30% sbr. 50%, p<0,001), sérstaklega nýtilkomið gáttatif (14% sbr. 35%, p<0,001), en blæðing eftir aðgerð var einnig minni (853 ml sbr. 999 ml, p=0,015) og þeir fengu færri einingar af rauðkornaþykkni (1,3 sbr. 2,8 ein, p<0,001). Hins vegar reyndist ekki marktækur munur á alvarlegum fylgikvillum (6% sbr. 11%, p=0,13) eða dánartíðni innan 30 daga (1% sbr. 3%, p=0,5). Legutími yngri sjúklinga var rúmlega tveimur dögum styttri að meðaltali en þeirra eldri (p<0,001). Sjúkdómasértæk lifun var sambærileg fyrir báða aldurshópana en þó sást tilhneiging í átt að betri lifun fyrir yngri sjúklinga (96% sbr. 90% fimm ára lifun, p=0,06).

 

Ályktun: Minniháttar fylgikvillar eru sjaldgæfari hjá yngri sjúklingum en þeim eldri, legutími þeirra er styttri og blóðgjafir fátíðari. Einnig virðast veikindi þeirra bera bráðar að. Sjúkdómasértæk lifun yngri sjúklinga virðist ívið betri en eldri sjúklinga.

 

 

 

E-14 SSRI- og SNRI geðdeyfðarlyf auka ekki áhættu á blæðingu eftir kransæðahjáveituaðgerðir

 

Simon Morelli1, Steinþór Marteinsson3, Hera Jóhannesdóttir3 , Helga R. Garðarsdóttir3, Tómas Andri Axelsson3, Engilbert Sigurðsson2,3, Tómas Guðbjartsson2,3

 

1Hjarta- og lungnaskurðdeild og 2geðdeild Landspítala. 3Læknadeild Háskóla Íslands.

 

simonmor@landspitali.is

 

Inngangur: Fjöldi rannsókna hefur sýnt að SSRI (Selective Serotonin Reuptake Inhibitors) og SNRI (Serotonin Noradreanlin Reuptake Inhibitors) geðdeyfðarlyf geta aukið blæðingu eftir skurðaðgerðir. Áhrif þessara lyfja eru þó minna rannsökuð eftir opnar hjartaaðgerðir. Tilgangur þessarar afturskyggnu rannsóknar var að kanna áhrif SSRI/SNRI-lyfja á blæðingu eftir kransæða-hjáveituaðgerð.

 

Efniviður og aðferðir: 808 sjúklingar sem gengust undir kransæðaðahjáveitu eingöngu á Landspítala á tímbilinu 2007-2012. Af þeim tóku 40 SSRI/SNRI lyf (5%) fyrir aðgerð og voru þeir bornir saman við viðmiðunarhóp (V-hóp). Endurhjáveituaðgerðum og bráðasjúklingum var sleppt, en einnig tilfellum þar sem blæðing var >5L. Skráð var magn blóðhlutagjafa, blæðing í brjóstholskera á fyrstu 24 klst eftir aðgerð og enduraðgerðir vegna blæðingar. Einnig voru skráðir alvarlegir og minniháttar fylgikvillar, 30 daga dánartíðni og reiknuð langtíma heildarlifun. Miðgildi eftirfylgdar var 3 ár.

 

Niðurstöður: Hóparnir voru sambærilegir hvað varðar aldur, kynjadreifingu, áhættuþætti kransæðasjúkdóms, og EuroSCORE II. Aðgerðartengdir þættir eins og tímalengd aðgerðar voru einnig sambærilegir (p=0,26). Ekki reyndist marktækur munur á blæðingu eftir aðgerð, eða 760 ml í SSRI/SNRI-hópi og 946 ml í V-hópi (p=0,07). Fjöldi rauðkornagjafa var einnig sambærilegur (p=0,47) líkt og tíðni snemmkominna og alvarlegra fylgikvilla. Dánartíðni innan 30 daga var einnig sambærileg í hópunum, eða 3% borið saman við 2% í V-hópi (p=1,0).

 

Ályktun: Ekki sást aukin blæðing eftir aðgerð hjá hjá sjúklingum á SSRI/SNRI-geðdeyfðarlyfjum og tíðni fylgikvilla og 30 daga dánartíðni var heldur ekki aukin. Því virðist ekki ástæða til þess hætta notkun þessar lyfja fyrir hjartaaðgerð.

 

 

E-15 Árangur skurðaðgerða vegna ósæðarflysjunar af tegund A á Íslandi 1992-2013

 

Inga Hlíf Melvinsdóttir1, Bjarni A. Agnarsson2, Þórarinn Arnórsson3, Tómas Guðbjartsson1,3, Arnar Geirsson3

 

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Rannsóknastofu í meinafræði og 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

 

arnarge@landspitali.is

 

Inngangur: Ósæðarflysjun er lífshættulegur sjúkdómur með háa dánartíðni. Einkenni ber oftast brátt að og sjúklingar þurfa á bráðaskurðaðgerð að halda. Þessar aðgerðir eru áhættusamar og fylgikvillar tíðir. Í þessari rannsókn var í fyrsta sinn skoðaður árangur skurðaðgerða vegna ósæðarflysjunar af tegund A á Íslandi.

 

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum sem gengust undir skurðaðgerð vegna ósæðarflysjunar af tegund A á Landspítala frá 1992 til 2013. Tilfellin voru fundin í gegnum aðgerða- og greiningarskrá Landspítala. Alls fundust 42 sjúklingar og voru m.a. skráðir áhættuþættir, einkenni og ástand sjúklings við komu, tegund aðgerða og tíðni fylgikvilla. Einnig var könnuð 30 daga dánartíðni.

 

Niðurstöður: Meirihluti aðgerðanna (74%) var gerður á seinni helmingi rannsóknartímabilsins. Meðalaldur sjúklinga var 60 ár og 69% voru karlar. Tveir þriðju sjúklinga höfðu ósæðargúl í rishluta ósæðar og var meðalstærð gúlsins 5,6 cm. Einkenni blóðþurrðar (malperfusion) voru til staðar hjá 60% sjúklinga og Euroscore II var að meðaltali 8,8. Notast var við kælingu í algerri blóðrásarstöðvun (hypothermic arrest) í 30% tilfella og skipt um loku eða ósæðarrót hjá þriðjungi sjúklinga. Enduraðgerð vegna blæðinga þurfti í 36% tilfella. Gefnar voru 17 einingar af rauðkornaþykkni að meðaltali, 19 einingar af blóðvökva og 4,7 pokar af blóðflögum. Meðallegutími á gjörgæslu var 8,9 dagar og heildarlegutími 26 dagar. Dánarhlutfall innan 30 daga var 19% (8 tilfelli).

 

Ályktun: Árangur skurðaðgerða vegna ósæðarflysjunar af tegund A á Íslandi er sambærilegur við það sem þekkist á erlendum sjúkrahúsum. Fylgikvillar eru tíðir, sértaklega blæðingar sem krefjast enduraðgerðar. Aðgerðum hefur fjölgað á síðasta áratug án þess að ástæður þess séu ljósar.

 

 

E-16 Mjaðmagrindarbrot meðhöndluð á Landspítala 2008-2012, umfang og afleiðingar

 

Unnur Lilja Úlfarsdóttir1, Gunnar Sigurðsson1,2,  Brynjólfur Mogensen1,3

 

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Lyflækningasviði Landspítala, og 3Rannsóknastofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum

 

ulu1@hi.is

 

Inngangur: Mjaðmagrindarbrot eru algeng brot sem koma fyrir við háorkuáverka hjá yngra fólki eða við lágorkuáverka hjá öldruðum. Þessum brotum hefur ekki verið gefinn mikill gaumur í samanburði við mjaðmarbrot (lærleggshálsbrot/lærhnútubrot) og margt bendir til þess að þau hafi verið verulega vanmetin m.t.t. afleiðinga fyrir sjúklinga og kostnaðar þjóðfélagsins. Markmið þessarar rannsóknar var kanna umfang, eðli og afleiðingar mjaðmargrindabrota.

 

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á einstaklingum sem mjaðmargrindarbrotnuðu og komu á bráðamóttöku Landspítalans árin 2008-2012. Leitað var í sjúkraskrám eftir ICD-10 greiningum á mjaðmargrindarbrotum. Skráður var fjöldi brota, aldur, kyn, orsök og staður áverka, fleiri brot samhliða mjaðmagrindarbrotinu og legutími.

 

Niðurstöður: Alls voru 330 sjúklingar sem mjaðmagrindarbrotnuðu á þessu tímabili, þar af voru 240 konur (72,7%) og 90 karlar (27,3%). Afrifubrot á mjaðmargrind voru ekki tekin með. Meðalaldur sjúklinga var 69,7 ár, 74,8 ár hjá konum og 55,9 ár hjá körlum. Lágorkubrotin (eftir fall innan við 1 m) voru samtals 240 (72,7%) og háorkubrotin voru 86 (26,1%). Af lágorkubrotunum voru konur 199 (82,9%) og karlar 41 (17,1%) og af háorkubrotunum voru konur 38 (44,2%) og karlar 48 (55,8%). Orsök 4 brota var óþekkt. Hlutfall þeirra sem lögðust inn á Landspítala var 60,6% og meðallegutími var 18,2 dagar.  

 

Ályktun: Mjaðmagrindarbrot eru algengari hjá eldri konum og þær brotna oftar við lágorkuáverka. Karlar brotna hins vegar frekar við háorkuáverka og hafa mun lægri meðalaldur við brot en konur. Legutími sjúklinga er langur.

 

 

E-17 Nýgengi, meðferð og fylgikvillar garnaflækju á botnristli á Íslandi 2000-2013

 

Anna Sigurðardóttir1, Elsa Björk Valsdóttir1,2, Páll Helgi Möller1,2

 

1Skurðlækningadeild Landspítala, 2Læknadeild Háskóla Íslands

 

annsig@landspitali.is

 

Inngangur: Garnaflækja á botnristli er næst algengasta tegund garnaflækju, á eftir garnaflækju á bugðuristli, með nýgengi um 2,8-7,1 á hverja milljón íbúa á ári. Meðferð er skurðaðgerð þar sem fjarlægður er hluti af görn. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta nýgengi, meðalaldur, meðferð og fylgikvilla aðgerðar vegna garnaflækju á botnristli.

 

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra einstaklinga sem lögðust inn á árunum 2000-2013. Farið var í gegnum sjúkraskrár og skráðar meðal annars upplýsingar um kyn, aldur, meðferð, legutíma, fylgikvilla aðgerðar og vefjagreiningarsvar.

 

Niðurstöður: Sextíu sjúklingar lögðust inn á tímabilinu, 54 konur og sex karlar. Meðalaldur sjúklinga var 60,9 ár Spönn á vera (bil: 22-96 ár) og nýgengi fyrir þann aldurshóp2,1/100.000 á ári. Við greiningu var algengasta myndrannsóknin yfirlitsmynd af kvið (60%) en 53% fóru í tölvusneiðmynd af kvið. Allir nema einn sjúklingur voru teknir til aðgerðar,  84,7% samdægurs eða daginn eftir greiningu og 96,6% innan tveggja daga. 66,1%, fóru í brottnám á hægri hluta ristils og í 28,8% tilfella voru dausgörn og botnristill fjarlægð. Meðallegutími var 10,2 dagar spönn á bera (bil: 3-32 dagar). Algengasti fylgikvilli eftir aðgerð var blæðing (11,9%) en leki á samtengingu greindist í vera 3,4%. 5,1% sjúklinga voru teknir til enduraðgerðar. Dánartíðni eftir aðgerð var 3,4%.

 

Ályktun: Garnaflækja á botnristli er töluvert algengari hérlendis en erlendis, en að meðaltali leggjast inn fjórir sjúklingar á ári. Fyrir hvern karl greinast níu konur, sem er mun hærra en erlendis. Oftast er gripið hratt inn í sjúkdóminn og flestir teknir til aðgerðar innan tveggja daga. Alvarlegir fylgikvillar eftir aðgerð eru sjaldgæfir og dánartíðni lág.

 

 

E-18 Aðgerðir vegna endaþarmskrabbameins og árangur þeirra 2008-2012

 

Hörður Már Kolbeinsson1, Elsa B Valsdóttir1,2, Páll Helgi Möller1,2

 

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Skurðlækningadeild Landspítala

 

hmk3@hi.is

 

Inngangur: Endaþarmskrabbamein eru um 2-3% allra krabbameina á Íslandi og aðgerðir á endaþarmi eru hornsteinn í meðferð þeirra. Upplýsingar hefur vantað um þá sjúklinga sem fara í brottnám á endaþarmi vegna krabbameins eða forstiga þeirra á Íslandi. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna árangur aðgerða á endaþarmi þegar þekkt meinsemd var til staðar á 5 ára tímabili.

 

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn. Gerð var leit í Orbit skurðstofukerfi Landspítala að öllum þeim sjúklingum sem fóru í brottnám eða hlutabrottnám vegna endaþarmskrabbameins eða forstiga þeirra á árunum 2008-2012.  Gagna var aflað um aldur, aðgerðir, aðra krabbameinsmeðferð en skurðaðgerð, þörf á enduraðgerð og dánarhlutfall sjúklinga.

 

Niðurstöður: 145 sjúklingar fóru í aðgerð á tímabilinu.  Miðgildi aldurs sjúklinga var 66 ár (bil: 33-89). Flestir, eða 65%, fóru í fremra brottnám, 21% í gagngert brottnám (abdominal peritoneal resection), 11% í Hartmanns-aðgerð og 3% gengust undir annars konar aðgerðir. 85% sjúklinga voru með krabbamein, 8% með forstig krabbameins en 7% reyndust ekki vera með krabbameinsvöxt í sýni.  Samtenging (anastomosis) var gerð í 67% tilfella og varanlegt stóma lagt út hjá 33% sjúklinga.  Alls fengu 65 (45%) sjúklingar  meðferð með geislum og/eða lyfjum fyrir aðgerð.  Framkvæma þurfti enduraðgerð innan 30 daga í 12% tilfella.  Dánarhlutfall eftir 30 daga var 0,7% og eftir eitt ár 5,5%.  Meðallifun sjúklinga með krabbamein eftir aðgerð var 58 mánuðir og meðal eftirfylgni 37 mánuðir (bil: 1-72).

 

Ályktun: Aðgerðir við endaþarmskrabbameini eru svipaðar og þekkist erlendis. Árangur skurðaðgerða á endaþarmi vegna krabbameina eða forstiga þess virðist sambærilegur við það sem best gerist erlendis

 

 

E-19 Forspárgildi ómskoðunar og segulómunar með tilliti til vefjagreiningar eitlameinvarpa í brjóstakrabbameini

 

Ragnheiður Martha Jóhannesdóttir1, Kristín Huld Haraldsdóttir1, Þorvaldur Jónsson1, Anna Björg Halldórsdóttir3, Kristján Skúli Ásgeirsson1,2

 

1 Skurðlækningasviði Landspítala, 2Læknadeild Háskóla Íslands, 3Krabbameinsfélag Íslands

 

ragnhjoh@landspitali.is

 

Inngangur: Eitlastigun er mikilvægur hluti skurðaðgerða vegna brjóstakrabbameins, bæði til að meta horfur og þörf á eftirmeðferð. Markmið rannsóknarinnar var að meta nákvæmni eitlastigunar fyrir aðgerð með ómskoðun og segulómskoðun (SÓ) á holhönd og bera saman við vefjagreiningu.

 

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 413 sjúklingum greindum með ífarandi brjóstakrabbamein á árunum 2007-2009 sem fóru í ómskoðun og SÓ á holhönd fyrir skurðaðgerð. Svör úr myndrannsóknum, vefjameinasvör og stigun voru fengin úr sjúkraskrám. Reiknað var jákvætt og neikvætt forspárgildi rannsókna ásamt næmi og sértæki.

 

Niðurstöður: Ómskoðun með ástungu greindi meinvarp í holhandareitli í 44% tilfella (72 af 162 eitlajákvæðum) en SÓ vakti grun um slíkt í 41% tilfella (66/162). Í sjúklingum með N2 eða N3 sjúkdóm á vefjagreiningu, var tíðni eitlameinvarpa 61% (30/49) með ómskoðun og ástungu en 59% með SÓ (29/49). Jákvætt forspárgildi ómskoðunar og ástungu fyrir aðgerð var 75%, en neikvætt forspárgildi var 74%. Næmi og sértæki var 64% og 82%. Fyrir SÓ var jákvætt forspárgildi 76% og neikvætt forspárgildi 72%. Næmi og sértæki var 63% og 81%.  Jákvætt forspárgildi fyrir N2 og N3 á ómskoðun var 66% og næmi 72% og fyrir SÓ var jákvætt forspárgildi á N2 og N3 stigi 75% og næmi 71%.

 

Ályktun: Tæplega helmingur allra sjúklinga með eitilmeinvörp greinast með ómskoðun á holhönd og ástungu fyrir aðgerð, en rúmlega 60% greinist hjá sjúklingum með N2/N3 sjúkdóm. Forspárgildi ómskoðunar og SÓ er hejjar ru þetta adenoma?breytti til að gera prenthæft  var eramfarir áþekkk sem og næmi og sértæki.

 

 

E-20 Komur slasaðra á Bráðadeild Landspítala árin 2001-2012 eftir vélsleðaslys

 

Páll Óli Ólason1, Þorsteinn Jónsson1,2, Brynjólfur Mogensen1,3

 

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Skurðsviði Landspítala, og 3Rannsóknastofu LSH og HÍ í bráðafræðum

 

brynmog@landspitali.is

 

Bakgrunnur: Mikil aukning hefur verið í vélsleðanotkun hér á landi á síðustu árum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna faraldsfræði slasaðra í vélsleðaslysum sem komu á Bráðadeild Landspítala árin 2001-2012.

 

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og tók til allra sjúklinga sem lent höfðu í vélsleðaslysi og komu á Landspíala frá 1. janúar 2001 - 31. desember 2012. Skráður var fjöldi slasaðra, kyn, aldur, komuár, mánuður og vikudagur slyss, athöfn, slysstaður, orsök, fylgd, dagar milli slyss og komu, aðgerðir, legutími, útbúnaður og slysagreiningar. Alvarleiki áverka var metinn skv. AIS - áverkastigi og ISS-áverkaskori.

 

Niðurstöður: Alls komu 342 sjúklingur á Landspítala  á rannsóknartímabilinu, 69 konur (20,2%) og 273 karlar (79,8%). Meðalaldur sjúklinga var 35,9 ár. Í heildina voru 264 (77,2%) slysa tengd frítíma og komu 216 (63,2%) sjúklingar á bráðamóttöku á eigin vegum.  Á hálendi og jöklum slösuðust 178 (52,0%) sjúklingar. Í 131 (38,3%) tilfelli var orsökin lágt fall eða stökk og í 55 (16,1%) var um veltu að ræða. Flest þessara slysa gerðust í janúar - apríl eða 251 (73,4%) og flest um helgi, eða 207 (60,5%). Flestir áverkar voru á efri útlim (30,8%) og mjaðmagrind/neðri útlim (30,5%). Alls þurftu 62 sjúklingar (18,1%) innlögn. Flestir voru lítið slasaðir eða 188 (57,3%), miðlungs slasaðir 114 (34,8%), mikið slasaðir 22 (6,7%) en 4 sjúklingar reyndust alvarlega eða lífshættulega slasaðir.

 

Ályktun: Mun fleiri karlar en konur komu á Landspítala vegna afleiðinga vélsleðaslysa. Slysin gerast yfirleitt að vori og tengjast langflest frístundaiðkun. Flestir slasast lítið en 18,1% slasaðra þurfti  að leggja inn á Landspítala.

 

 

E-21 Dreifing og fjöldi meinvarpa í sjúklingum sem greinast með nýrnafrumukrabbamein

 

Ívar Marinó Lilliendahl1, Eiríkur Jónsson2, Guðmundur Vikar Einarsson2, Tómas Guðbjartsson1,2

 

 1Læknadeild Háskóla Íslands og 2Þvagfæraskurðdeild Landspítala

 

tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur: Rúmlega fjórðungur sjúklinga með nýrnafrumukrabbamein (NFK) hafa útbreiddan sjúkdóm (synchronous metastases) við greiningu. Horfur þessara sjúklinga eru oftast slæmar og 5-ára lifun er <10%. Tilgangur þessarar afturvirku rannsóknar var að kanna frekar afdrif þessa sjúklingahóps eftir dreifingu og fjölda meinvarpa.

 

Efniviður og aðferðir: 250 NFK-sjúklingar sem greindust á Íslandi 1981-2010 og höfðu fjarmeinvörp við greiningu. Nýrnabrottnám var framkvæmt hjá tæplega helmingi sjúklinga (45%) en tæplega þriðjungur (32%) sjúklinga fengu krabbameinslyfjameðferð. Brottnám lungnameinvarpa var framkvæmt hjá aðeins 1 sjúklingi fljótlega eftir greiningu meinvarpa. Úr sjúkraskrám og myndgreiningarrannsóknum var kannaður fjöldi meinvarpa og dreifing til líffæra. Heildarlifun hópanna var borin saman með log-rank prófi og miðuðust útreikningar við maí 2013.

 

Niðurstöður: Meinvörp greindust oftast í lungum (58%), beinum (39%) og lifur (20%), en 35% sjúklinga höfðu jafnframt eitilmeinvörp. Algengustu einkenni voru kviðverkir (46%), megrun (38%) og blóðmiga (32%) en 6% sjúklinga voru  tilviljanagreindir. Flestir höfðu meinvörp í stöku líffæri (61%), oftast í beinum og lungum, 28% höfðu meinvörp í tveimur líffærum og 11% í ≥3 líffærum. Eins árs lifun sjúklinga með meinvörp í 1, 2 og ≥3 líffærum var 35%, 22% og 7% en 5-ára lifun 10%, 6% og 0% (p=0,008). Eins árs lifun sjúklinga með stakt meinvarp í stöku líffæri, fjölda meinvarpa í stöku líffæri eða fjölda meinvarpa í mörgum líffærum var 47%, 38% og 20% og 5 ára lifun var 13%, 10% og 5% (p=0,04).

 

Ályktun: NFK meinverpist oftast til lungna, beina og lifrar. Flestir sjúklingar greinast með fjölda meinvarpa í einu eða fleiri líffærum. Lifun þessara sjúklinga er marktækt verri en sjúklinga með stakt meinvarp í einu líffæri, sem hafa bestu horfurnar.

 

 

E-22 Ígræðslur nýrna frá lifandi gjöfum á Íslandi: Árangur fyrstu 10 árin

 

Árni Sæmundsson1, Björg Jónsdóttir1, Runólfur Pálsson2,3, Jóhann Jónsson1,4 og Eiríkur Jónsson1

 

1Þvagfæraskurðdeild og 2nýrnalækningadeild Landspítala, 3Læknadeild Háskóla Íslands, 4Fairfax Hospital, Virginia, Bandaríkjunum.

 

arnisaem@gmail.coml

 

Inngangur: Fyrsta nýrnaígræðslan á Íslandi var framkvæmd 2003 og 2013 hafði 71 nýrnaígræðsla farið fram. Einungis nýrnaígræðslur frá lifandi gjöfum eru framkvæmdar hérlendis. Markmið rannsóknarinnar var að meta árangur nýrnaígræðslna á Íslandi.

 

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn á fyrstu nýrnaígræðslunum sem framkvæmdar voru frá desember 2003 til október 2013. Gögn voru fengin úr sjúkraskrám og Íslensku nýrnabilunarskránni.

 

Niðurstöður: Þær 71 nýrnaígræðslur sem gerðar voru töldu samtals 60,2% af öllum nýrnaígræðslum á íslenskum sjúklingum á tímabilinu 2003-2013; en 6 ígræðslur frá lifandi gjöfum og 41 úr látnum gjöfum fóru fram erlendis. Miðgildi aldurs gjafa var 48 ár (bil: 22-72) ár og þega 47 ár (bil: 4-76) ár. 52% gjafa og 56% þega voru konur. Gjafar og þegar voru erfðafræðilega skyldir í 54 tilfellum (76%). Miðgildi legudaga gjafa voru 4 dagar (bil: 2-8) og þega 5 dagar (bil: 3-26). Nýrnabrottnám var framkvæmt með kviðsjá í 41 tilfelli (58%). Miðgildi heits blóðþurrðartíma græðlings var 3 mínútur (bil: 2-7,3). Enginn hlaut alvarlega fylgikvilla. Einn græðlingur (1,4%) starfaði aldrei vegna blóðsega í nýrnabláæð. Sjö þegar (10%) fengu meðhöndlun við bráðri höfnun. Einn þegi hlaut brátt hjartavöðvadrep og annar blóðsegarek til lungna, báðir innan mánaðar frá aðgerð. Hjá einum þega var þvagleiðari nýrnagræðlings saumaður í lífhimnu í stað þvagblöðru og gekkst hann því undir enduraðgerð samdægurs. Einn þegi hefur látist á rannsóknartímabilinu og var dánarorsök af ótengdum orsökum. Eins árs lifun græðlinga var 98,6%. Miðgildi kreatíníns ári eftir aðgerð var 109 μmol/L hjá þegum.

 

Ályktun: Árangur ígræðslna nýrna frá lifandi gjöfum á Íslandi er sambærilegur þeim árangri sem birtur hefur verið erlendis. Með góðu skipulagi má ná þeim árangri á litlum ígræðslueiningum.

 

 

E-23 Burðarmálsdauði á Íslandi 1982-2011

 

Ragnhildur Hauksdóttir1, Gestur Pálsson1,2, Ragnheiður I. Bjarnadóttir1,3,

Þórður Þórkelsson1,2

 

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Barnaspítala Hringsins og 3Kvennadeild LSH

 

rah30@hi.is

 

Inngangur: Með burðarmálsdauða er átt við fæðingu andvana barns eða dauða þess á fyrstu sjö dögunum eftir fæðingu. Tíðni burðarmálsdauða á Íslandi hefur verið ein sú lægsta í heimunum undanfarin ár. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvernig tíðni og orsakir burðarmálsdauða hafa breyst á síðastliðnum 30 árum og athuga hvort hugsanlega sé hægt að minnka tíðnina enn frekar.

 

Efniviður og aðferðir: Gerð var afturskyggn rannsókn og var rannsóknartímabilið árin 1982-2011. Upplýsingar um þau 649 börn sem dóu burðarmálsdauða voru fengnar úr Fæðingarskráningu og þau flokkuð eftir NBPDC-flokkunarkerfinu, en það flokkunarkerfi byggist á því að skilgreina þá flokka burðarmálsdauða sem hugsanlega væri hægt að fyrirbyggja.  Dánartíðni er gefin upp á hverja 1000 fædda (‰).

 

Niðurstöður: Þegar síðustu fimm ár rannsóknartímabilsins eru borin saman við fyrstu fimm ár þess, sést að tíðni burðarmálsdauða lækkaði úr 6,9‰ í 2,7‰, eða um 60,7% (p<0,001). Hlutfall þeirra barna sem dóu eftir fæðingu lækkaði um 35,6% (p<0,001). Hlutfall þeirra sem dóu vegna meðfæddra galla lækkaði um 89% (p<0,001). Tilfellum í þeim flokkum NBPDC kerfisins þar sem hugsanlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir dauðsfall fækkaði um 66,7% (p<0,001).

 

Ályktanir: Tíðni burðarmálsdauða hefur lækkað umtalsvert síðastliðin 30 ár. Líklegt er að þessi lækkun stafi að miklu leyti af framförum í mæðravernd og fæðingarhjálp. Þar má nefna betri fósturgreiningu sem hefur gert kleift að fækka mikið dauðsföllum vegna meðfæddra galla. Hugsanlega er hægt að gera enn betur, til dæmis að fækka andvanafæðingum vaxtarskertra barna með árvekni í mæðravernd.

 

 

E-24 Notkun þunglyndislyfja úr flokki SSRI á meðgöngu og áhrif þeirra á nýbura

 

Gunnbjört Sigmarsdóttir¹, Sveinbjörn Gizurarson¹, Þórður Þórkelsson²,³, Hildur Harðardóttir²,⁴

 

¹Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, ²Læknadeild Háskóla Íslands, ³Barnaspítala Hringsins, 4Kvenna- og barnasviði LSH

 

hhard@landspitali.is

 

Inngangur: Sérhæfðir serótónín endurupptöku hemlar (Selective Serotonin Reuptake Inhibitors, SSRI) hafa á undanförnum árum leyst eldri þunglyndislyf af hólmi sem fyrsta val við meðferð þunglyndis. Aukaverkanir eru þekktar, en ef ástand móður krefst slíkrar lyfjagjafar er notkun þeirra talin réttlætanleg. Þekktar aukaverkanir barna eru m.a. lág fæðingarþyngd, fyrirburafæðing, viðvarandi lungnaháþrýstingur á nýburaskeiði og blóðflögufæð.

 

Aðferðir: Blóðsýnum var safnað frá móður og úr naflastreng barns við fæðingu. Mældur var blóðhagur og blóðflögufjöldi metinn. Upplýsingum um lyfjasögu móður á meðgöngu var safnað og hvort aðrir fylgikvillar hafi verið til staðar hjá móður. Einnig var skráð kyn og ástand barns eftir fæðingu, metið með Agpar-einkunn.

 

Niðurstöður: Alls voru 15 konur í SSRI meðferðarhópi og 45 í viðmiðunarhópi. Meðal dagskammtur þeirra kvenna sem voru á SSRI lyfjum síðustu sex vikur meðgöngu var 0,60±0,16 mg/kg fyrir sertralín (n=6), 0,3±0,1 mg/kg fyrir flúoxetín (n=8) og 0,48 mg/kg fyrir cítalópram (n=1). Niðurstöður sýndu að ekki var marktækur munur á blóðflögufjölda barna milli rannsóknarhópa (p=0,6). Fjögur af 15 börnum í SSRI hópi (4/15=26,67%) grétu ekki við fæðingu samanborið við ekkert í viðmiðunarhópnum en þau börnin grétu öll við fæðingu (p=0,03). Ekki var marktækur munur á Apgar-stigun við eina og fimm mínútur eftir fæðingu, á milli rannsóknarhópa (p=0,54 og p=0,59).

 

Ályktanir: SSRI lyfjanotkun móður eykur ekki hættu á blóðflögufæð hjá nýbura. Færri börn grétu skömmu eftir fæðingu en þó var ekki marktækur munur á Agpar-einkunn. Þörf er á stærra rannsóknarþýði til að staðfesta þessar niðurstöður. Skoða þarf nánar hvort skortur á gráti endurspegli slævandi lyfjaáhrif.

 

 

E-25 Axlaklemma á Landspítala 2002 – 2011

 

Telma Huld Ragnarsdóttir1, Brynja Ragnarsdóttir2,3

 

1Kvenna- og barnasviði Landspítala, 2Læknadeild Háskóla Íslands

 

brynjara@landspitali.is

 

Inngangur: Axlaklemma er bráðatilvik í fæðingum þar sem beita þarf sérstökum handbrögðum til losa axlir barns. Axlaklemma getur leitt til áverka hjá móður og nýbura og í alvarlegustu tilvikum dauða barns. Skjót og rétt viðbrögð starfsfólks skipta því miklu máli.

 

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og tók til allra kvenna sem fæddu á Landspítala árin 2002-2011 og fengu greininguna axlaklemma O66.0. Notast var við gögn úr fæðingarskrá, fæðingarskýrslum og Sögukerfi. Skoðað var algengi og helstu áhættuþætti axlarklemmu á Íslandi, aðferðir sem beitt var við meðferð og þær bornar saman við vinnulagsreglur og hvort skráningu hafi verið ábótavant. Einnig voru afdrif nýburanna skoðuð. Borið var saman tímabil fyrir og eftir notkun á sérstöku skráningarblaði sem tekið var í gildi 2007.

 

Niðurstöður: Alls greindust 241 axlaklemmur á tímabilinu. Algengi axlaklemmu á tímabilinu var 0,7%. Þegar skoðuð var sérstaklega skráning á viðbrögðum kom í ljós að skráningu var oft ábótavant, en eftir innleiðslu sérstaks skráningarblaðs árið 2007 batnaði skráning marktækt. Af fylgikvillum nýbura hlutu 33 (13,7%) taugaskaða, 29 (12,0%) fósturköfnun og 25 (10,4%) upphandleggs- eða viðbeinsbrot. Tíðni þriðju- og fjórðu gráðu spangaráverka var 37 (15,4%).

 

Ályktanir: Algengi axlarklemmu á Íslandi er sambærilegt við það sem gerist í nágrannalöndum. Skráningu á viðbrögðum við axlarklemmu er ábótavant en hefur þó batnað verulega eftir að tekið var í gildi sérstakt skráningarblað. Tíðni fylgikvilla hjá nýburum er sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndum okkar.

 

 

E-26 Er veggspjald númer V-12

 

E-27 Fósturskimun á fyrsta þriðjungi meðgöngu árin 2006-2012

 

Hildur Harðardóttir¹,², Valdís Finnsdóttir³, Kristín Rut Haraldsdóttir², Hulda Hjartardóttir², Ragnheiður Baldursdóttir⁴, Vigdís Stefánsdóttir³, Jóhann Heiðar Jóhannsson³, Jón Jóhannes Jónsson¹,³

 

¹Læknadeild Háskóla Íslands, ²Kvenna-og barnasviði og ³Erfða-og sameindalæknisfræðideild Landspítala, ⁴Sjúkrahúsinu á Akureyri.

 

hhard@landspitali.is

 

Inngangur:  Verðandi foreldrum stendur til boða fósturskimun á fyrsta þriðjungi meðgöngu til að meta heilbrigði fósturs með ómun og blóðrannsókn. Hér eru kynntar niðurstöður fósturskimunar á fyrsta þriðjungi meðgöngu árin 2006-2012.

 

Efniviður og aðferðir: Allar konur sem  komu í fósturskimun á árunum 2006-2012 á fyrsta þriðjungi meðgöngu. Í skoðuninni felst ómun til ákvörðunar á meðgöngulengd, mæling á hnakkaþykkt, mat á byggingu fósturs ásamt mælingu lífefnavísanna frítt β-hCG og þungunarhormónsins PAPP-A. Aðferðin er stöðluð frá Fetal Medicine Foundation.

 

Niðurstöður: Á árunum 2006-2012 komu 23,426 konur í fósturskimun eða 72,6% (23,426/32,269) allra þungaðra kvenna í landinu.  Meðgöngulengd var á bilinu 11v1d-13v6d, aldursbil mæðra 14-54 ár, miðgildisaldur 29 ár. Skimjákvæðni var 2,95% (691/23,426) og fengu þær konur ráðgjöf varðandi niðurstöður og var boðið greiningarpróf. Alls þáðu 81,0% (560/691) skimjákvæðra greiningarpróf (fylgju eða legvatnssýni) til greiningar á litningagerð fósturs. Af þeim sem þáðu greiningarpróf greindust  97 litningagallar, þar af 43 með þrístæðu 21, 11 með þrístæðu 13, 15 með þrístæðu 18, auk 28 sjúklinga með aðra litningagalla. Meðal skimjákvæðra sem afþökkuðu greiningarpróf voru fimm tilfelli af  þrístæðu 21.  Meðal skimneikvæðra reyndust 11 fóstur vera með þrístæðu 21, þar af greindust þrjú á fósturskeiði vegna annarra vísbendinga en átta börn fengu greiningu við fæðingu. Næmi prófsins til greiningar á öllum litningagöllum var 90%, sértæki 97,5%, jákvætt forspárgildi 14,8% og neikvætt forspárgildi  99,95%.

 

Ályktanir: Fósturskimun á fyrsta þriðjungi meðgöngu er nú viðurkenndur hluti meðgönguverndar þar sem um 3/4 verðandi foreldra þiggja skoðunina. Skimjákvæðni er lág, með fáum inngripum og greiningarhæfni er góð, eða um 90% fyrir alla litningagalla fósturs.

 

 

E-28 Algengir erfðaþættir kransæðasjúkdóms hafa áhrif útbreiðslu sjúkdómsins

 

Eyþór Björnsson1,2, Daníel F. Guðbjartsson2,3, Anna  Helgadóttir1,2, Þórarinn Guðnason1,4, Tómas Guðbjartsson1,4, Kristján Eyjólfsson4, Riyaz S. Patel5,6, Nima Ghassemzadeh5, Guðmar Þorleifsson2, Arshed A. Quyyumi5, Unnur Þorsteinsdóttir1,2, Guðmundur Þorgeirsson1,4, Kári Stefánsson1,2.

 

1Læknadeild Háskóla Íslands; 2Íslenskri erfðagreiningu, 3Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands, 4Landspítala, 5Emory University School of Medicine, Atlanta, Bandaríkjunum, 6University College London, London, Bretlandi.

 

eyb8@hi.is

 

Inngangur: Rannsóknir á arfgengi kransæðasjúkdóms hafa leitt í ljós fjölda algengra erfðaþátta sem auka líkur einstaklings á að fá sjúkdóminn. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna tengsl þessara erfðaþátta við útbreiðslu kransæðasjúkdóms, sem hafa lítið verið rannsökuð.

 

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin tók til 8.654 íslenskra sjúklinga og 1.853 sjúklinga frá Atlanta í Bandaríkjunum sem höfðu marktæk kransæðaþrengsl (≥ 50% þrenging í a.m.k. einni kransæð) við kransæðaþræðingu sem skráð var í klínískum gagnagrunnum. Fyrir hvern sjúkling var reiknað áhættuskor byggt á fjölda áhættusamsæta þekktra erfðaþátta (50 einbasabreytileikar á Íslandi og 32 í Atlanta) sem vigtaður var með tilliti til áður birtra áhrifa erfðaþáttanna á áhættu á sjúkdómnum. Útbreiðsla kransæðasjúkdóms var skilgreind sem fjöldi marktækt þrengdra kransæða við kransæðaþræðingu.

 

Niðurstöður: Erfðafræðilegt áhættuskor fyrir kransæðasjúkdóm sýndi sterk tengsl við útbreiðslu sjúkdómsins (á Íslandi: p = 8,7∙10-15 og í Atlanta: p = 1,9∙10-7), óháð hefðbundnum áhættuþáttum. Sjúklingar í efsta fimmtungi áhættuskorsins voru líklegri en sjúklingar í neðsta fimmtungi til að hafa fjölæða sjúkdóm á Íslandi (OR = 1,62; 95% CI: 1,40-1,87) og í Atlanta (OR = 1,90; 95% CI: 1,37-2,64). Áhættuskorið hafði neikvæða fylgni við aldur við fyrstu skráðu kransæðaþræðingu á Íslandi (p = 1,8∙10-18) og í Atlanta (p = 0,021).

 

Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að erfðaþættir kransæðasjúkdóms hafa sterk samlegðaráhrif á útbreiðslu sjúkdómsins. Sjúklingar með óhagstæða samsetningu algengra erfðaþátta kransæðasjúkdóms eru bæði líklegri til að greinast fyrr með sjúkdóminn og líklegri til að hafa útbreiddari sjúkdóm í samanburði við sjúklinga með hagstæðari samsetningu þessara erfðaþátta.

 

 

E-29 Langtíma lífsgæði eftir Nissen-bakflæðisaðgerð

 

Simon Morelli1 ,  Kristín Huld Haraldsdóttir1, Guðjón Birgisson1,2, Sigurður Blöndal1,2

 

1Skurðlækningasviði Landspítala,2 Læknadeild Háskóla Íslands

 

simonmor@landspitali.is

 

Inngangur: Ábendingar fyrir bakflæðisaðgerð í kviðsjá eru vel skilgreindar. Deilt hefur verið um langtímaáhrif þessara aðgerða þar sem s.k. Nissen-aðgerð er algengust. Markmið þessarar rannsóknar var að meta langtíma lífsgæði hjá sjúklingum sem gengist hafa undir aðgerð sem og lyfjanotkun þeirra. 

 

Efniviður og aðferðir: Framsýn rannsókn þar sem sjúklingar sem gengust undir bakflæðisaðgerð á tímabilinu september 2003 til nóvember 2005 svöruðu spurningarlista fyrir aðgerð. Um var að ræða 115 sjúklinga. Sendur var spurningalisti að nýju 8-10 árum eftir aðgerð. Spurningarlistinn innihélt annars vegar þýddan lista, GIQLI (Gastrointestinal Quality of Life Index) og hins vegar 4 aukaspurningar varðandi lyf og einkenni.

 

Niðurstöður: Alls fengust svör frá 85 (74%) sjúklingum (tími eftirfylgdar var 97-123 mánuðir). 30 sjúklingar voru útilokaðir frá rannsókn; 20 svöruðu ekki spurningarlista eftir aðgerð, 8 höfðu gengist undir enduraðgerð og tveir greindust með krabbamein í efri hluta meltingarvegar á tímabilinu. Ellefu spurningalistar voru ófullgerðir og því útilokaðir úr útreikningum ánægjuvísis (satisfaction index). Fimmtíu og tveir sjúklingar (61%) tóku engin lyf við bakflæði, en 23 (27%) tóku lyf daglega. Hjá sjúklingum sem skiluðu fullkláruðum spurningalistum (n=74) var meðaltal ánægjuvísis 80% (0.8 ± 0.13), samanborið við 70% (0.7 ± 0.1) fyrir aðgerð.

 

Ályktun: Lífsgæði sjúklinga sem gangast undir bakflæðisaðgerð Nissen, haldast til lengri tíma og lyfjanotkun með sýruhemjandi lyfjum er ásættanleg.

 

 

E-30 Sykursýki 2 í kjölfar meðgöngusykursýki

 

Laufey Dóra Áskelsdóttir1, Ómar Sigurvin Gunnarsson2, Hildur Harðardóttir1,2, Arna Guðmundsdóttir3

 

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Kvenna- og barnasviði Landspítala, 3Göngudeild sykursjúkra Landspítala

 

hhard@landspitali.is

 

Inngangur: Konur sem fá meðgöngusykursýki (MGS) fá oftar sykursýki 2 (SS2) síðar á ævinni, ásamt fylgikvillum. Nýgengi MGS hérlendis er um 4%, en nýgengi SS2 í kjölfar meðgöngusykursýki hefur aldrei verið skoðað í íslensku þýði.

 

Efniviður og aðferðir: Um tilfella-viðmiðarannsókn var að ræða. Í tilfellahópi voru 53 mæður sem fengu meðgöngusykursýki árin 2002-2003 og 2007-2008. Í viðmiðunarhópi voru 36 konur sem fæddu á sama tíma en fengu ekki MGS. Tekið var viðtal við konurnar og mældur fastandi blóðsykur ásamt langtíma blóðsykurgildi (HbA1c). Tölfræðileg marktækni var miðuð við p-gildi <0,05.

 

Niðurstöður: Þrjár af 53 konum (5,7%) í tilfellahópi höfðu greinst með sykursýki 2 eftir fæðingu en engin kvennanna í viðmiðunarhópi. Munurinn var ekki marktækur (p=0,15). Líkamsþyngdarstuðull þegar viðtal var tekið var 29,4 ± 6,4 kg/m2 hjá tilfellahópi en 26,3 ± 5,2 kg/m2 hjá konum í viðmiðunarhópi (p=0,014). Mittis-mjaðma hlutfall var hærra í tilfellahópi; 0,9 ± 0,08 á móti 0,8 ± 0,07 (p<0,001) í viðmiðunarhópi. Fastandi blóðsykur var hærri hjá MGS konum; 5,3 ± 0,6 mmól/L miðað við 5,0 ± 0,4 (p=0,001) og HbA1c einnig marktækt hærra; 5,6 ± 0,4 á móti 5,3 ± 0,4 (p=0,001). Marktækt fleiri konur í tilfellahópi (35,4%) höfðu fastandi gildi sem bentu til skerts sykurþols (³ 5,6 mmól/L) miðað við viðmiðunarhóp (6,9% p=0,005).

 

Ályktanir: Fimm og tíu árum eftir fæðingu voru konur sem fengu MGS þyngri, með hærra mittis-mjaðma hlutfall, hærri fastandi blóðsykur og hærra HbA1c en konur sem ekki fengu MGS. Þetta bendir til aukinnar hættu fyrir þær á SS2.

 

 

E-31 Samanburður á árangri kransæðavíkkana og kransæða-hjáveituaðgerða hjá sjúklingum undir fimmtugu – Niðurstöður úr evrópskri fjölsetrarannsókn (CRAIGS)

 

Tómas A. Axelssson, Tómas Guðbjartsson, Jouni Heikkinen,Vesa Anttila, Timo Mäkikallio,  Anders Jeppsson, Linda Thimour-Bergström, Carmelo Mignosa, Antonino S. Rubino, Kari Kuttila, Jarmo Gunn, Jan-Ola Wistbacka, Kari Teittinen, Kari Korpilahti, Francesco Onorati, MD, Giuseppe Faggian, Giulia Vinco, Corrado Vassanelli, Flavio Ribichini, Axel F. Sigurdsson, Pasi P. Karjalainen, Ari Mennander, Olli Kajander, Markku Eskola, Erkki Ilveskoski, Veronica D'Oria, Marisa De Feo, Tuomas Kiviniemi, Juhani Airaksinen, Fausto Biancari.

 

Hjarta- og lungnaskurðdeildir og hjartalyflækningadeildir háskólasjúkrahúsanna í Reykjavík, Oulu, Gautaborg, Catania, Turku, Vaasa, Verona, Pori, Tampere og Napólí

 

tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur: Upplýsingar skortir um afdrif ungra sjúklinga sem gangast undir kransæðavíkkun (PCI) eða kransæðahjáveituaðgerð (CABG). Tilgangur þessarar rannsóknar var að bera saman lifun og síðkomna fylgikvilla eftir PCI og CABG hjá sjúklingum ≤50 ára.

 

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 2209 sjúklingum ≤50 ára sem gengust undir PCI (n=1617) eða CABG (592) á 15 evrópskum háskólasjúkrahúsum milli 2000-2012. Leiðrétt var fyrir mun á milli hópa með propensity scoring pörun og þeir síðan bornir saman. Reiknuð var lifun og könnuð tíðni MACCE, sem er sameiginlegur endapunktur dauða, hjartaáfalls, heilablóðfalls, endur-PCI og endur-CABG.

 

Niðurstöður: Karlar voru 85,2% í PCI-hópi og 87,5% í CABG-hópi (p=0,175). Í PCI-hópi höfðu 82,8% brátt kransæðarheilkenni en 60,5% í CABG-hópi (p<0,001). Dánartíðni innan 30 daga reyndist sambærileg eftir PCI og CABG (0,8% sbr. 1,4%, p=0,27); einnig 5-ára lifun (97,8% sbr. 94,9%, p=0,08). Fleiri sjúklingar í PCI-hópi greindust með MACCE eftir 5 ár (26,1% sbr. 15% : RR 4,795, 95%-ÖB 3,166-7,262), og vó tíðni hjartaáfalla þyngst (22,4% sbr. 7,5%, : RR 10,614, 95% CI 6,603-17,061). Tíðni heilablóðfalls var hins vegar sambærileg í hópunum (2%). Marktækt fleiri í PCI hópi þurftu endur-PCI eða endur-CABG innan 5 ára frá aðgerð (10,1% sbr. 3,4%: RR 9,851, 95% CI 4,500-21,567). Munurinn á tíðni MACCE í hópunum 5 árum frá aðgerð var enn meiri hjá sykursjúkum (42% sbr. 24,1%, p<0,0001) og hjá sjúklingum með dreifðan kransæðasjúkdóm (36,4% sbr. 14,9%, p<0,0001).

 

Ályktun: Lifun sjúklinga ≤50 ára sem gangast undir PCI eða CABG er sambærileg. Tíðni hjartaáfalla, endur-PCI eða endur-CABG eru hins vegar mun hærri hjá sjúklingum sem gangast undir kransæðaþræðingu.

 

 

E-32 Innri geislameðferð við blöðruhálskirtilskrabbameini á Íslandi

 

Karl Erlingur Oddason 1, Baldvin Þ. Kristjánsson 1, Garðar Mýrdal 2,

Hanna B. Henrýsdóttir 2

 

1 Þvagfæraskurðdeild og 2 geislaeðlisfræðideild Landspítala

 

oddason@gmail.com

 

Inngangur: Nokkrir meðferðarmöguleikar eru í boði við staðbundnu blöðruhálskirtilskrabbameini (BHKK), þar á meðal innri geislameðferð (brachytherapy). Innri geislameðferð við BHKK hófst hérlendis árið 2012 en áður voru sjúklingar sendir til Svíþjóðar. Markmið rannsóknarinnar var meta árangur og framkvæmd innri geislameðferðar við BHKK á Íslandi.

 

Efniviður og aðferðir: Framsýn rannsókn á öllum þeim sem fengu innri geislun við BHKK á Íslandi á árunum 2012 og 2013. Fyrir meðferð voru skráðar upplýsingar um gráðu og stig BHKK, PSA-blóðgildi, niðurstöðu þvagflæðimælingar og stigafjölda á spurningalistunum IPSS (þvaglátaeinkenni og lífsgæði) og IIEF-5 (ristruflanir). Einstaklingum var fylgt eftir á göngudeild, 1, 3, 6, 9 og 12 mánuðum eftir meðferð með mælingu á þvagflæði og PSA-blóðgildi, viðtali og spurningalistum. Einnig voru tekin saman geislunargildin V100, D90, R30 og U30.

 

Niðurstöður: Alls gengust 27 karlar (meðalaldur 60 ár) með staðbundið BHKK undir innri geislameðferð. PSA-blóðgildi var að meðaltali 9,36 ng/ml (bil: 1,2 – 51,6) fyrir meðferð. Geislunargildi voru öll innan viðmiðunarmarka. Eftir meðferð fengu þrír karlar þvagfærasýkingu, jafnmargir þvaglegg í styttri tíma og tveir kvörtuðu undan óþægindum frá endaþarmi. PSA-blóðgildi lækkuðu samfellt hjá öllum sjúklingum nema einum í  eftirfylgd. Ekki var marktækur munur á þvaglátaeinkennum fyrir meðferð og ári seinna samkvæmt IPSS, sama á við um lífsgæði. Hinsvegar olli meðferðin marktækum ristruflunum að ári liðnu.

 

Ályktun: Árangur innri geislameðferðar við BHKK á Íslandi fyrstu tvö árin er góður og niðurstöðum svipar til samanburðarrannsókna. Einkenni tengd þvaglátum hafa að miklu leyti gengið til baka en ristruflanir eru áfram til staðar ári eftir meðferð.

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica