Ávarp

Ávarp

Á strjálbýlu landi eins og Íslandi getur verið langt í lífsnauðsynlega sérfræðiþjónustu þegar slys eða alvarleg veikindi koma upp. Flutningar bráðveikra og slasaðra eru því mikilvægur hlekkur í heilbrigðisþjónustu landsins. Lögum samkvæmt eiga allir landsmenn að eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita. Í aðstæðum þar sem nauðsyn krefur meðferðar sjúklinga sem einungis er að finna á sérhæfðum sjúkrahúsum getur þurft að viðhafz sjúkraflutninga um langan veg, ýmist á landi eða í lofti. Samkvæmt skilgreiningu er sérhæfð sjúkrahús aðeins í Reykjavík og á Akureyri. Landspítalinn, aðalsjúkrahús landsins, tekur á móti um 100.000 bráðum komum sjúklinga á ári, sjúklinga hvaðanæva af landinu. Starfsemi sérhæfðu sjúkrahúsanna snertir alla landsmenn og efalaust hagsmunamál landsmanna að aðkoma þangað sé greið og þar sé ávallt hágæðaþjónusta í boði.

Eitt af lykilatriðum við góða og hagkvæma heilbrigðisþjónustu er framþróun þekkingar og rannsóknir sem liggja til grundvallar henni. Rannsóknir geta meðal annars stuðlað að betri greiningu á þjónustunni, vísbendingum um árangur hennar og svörun við þörfum sjúklinga. Með því móti geta rannsóknir lagt grunn að þróun starfsemi og auknum gæðum. Þema Bráðadagsins 2014, „þegar á reynir“ beinir athyglinni ekki aðeins að starfsemi bráðasviðs Landspítala heldur einnig að samvinnu, utanspítalaþjónustu og flutningi sjúklinga. Undibúningsnefndin óskaði eftir rannsóknum og kynningum á verkefnum tengdum þema dagsins. Eftir ritrýni voru 17 ágrip tekin til birtingar. Valin ágrip voru talin sýna fjölbreytta og þverfaglega nálgun að bráðafræðum. Í þeim endurspeglast einnig mikilvægt samstarf bráðasviðs Landspítala við fjölmargar aðrar stofnanir og aðila í samfélaginu.

Undirbúningsnefndin kynnir með stolti dagskrá og ágrip erinda Bráðadagsins 2014. Von okkar er að efni þessa fylgirits Læknablaðsins efli áhuga og hvetji til enn frekari rannsókna í bráðafræðum á Íslandi.

Við færum þeim sem sendu inn ágrip, styrktaraðilum, fundarstjórum og starfsfólki bráðasviðs bestu þakkir fyrir þeirra framlag til Bráðadagsins 2014

Fyrir hönd undirbúningsnefndar,

Dr. Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir
lektor og verkefnastjóri rannsóknarstofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum

 


Undirbúningsnefnd Bráðadagsins 2014

Anna Ingibjörg Gunnarsdóttir, lyfjafræðingur
Brynjólfur Mogensen, læknir
Davíð Þórisson, læknir
Lovísa Agnes Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Sólrún Rúnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur, formaðurÞetta vefsvæði byggir á Eplica