Ágrip

Ágrip

1. Þegar á reynir skiptir sjúkraflug máli

Pálmi Óskarsson1, Stefán Steinsson1, Sveinbjörn Dúason2

1Slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri, 2Sjúkraflugi ehf

Bakgrunnur: Frá árinu 1997 hefur miðstöð sjúkraflugs verið á Akureyri. Fyrir því liggja ýmis rök, m.a. lega staðarins. Fyrstu fimm árin var sjúkraflugið mannað sjúkraflutningamönnum frá Slökkviliði Akureyrar. Í mars 2002 bættust læknar frá Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilsugæslustöðinni á Akureyri í hópinn. Sú þjónusta hefur haldist í meginatriðum óbreytt s.l. 12 ár. Starfsemin er orðin viðamikil en farin eru tæp 500 flug á ári. Það er læknir sjúklings sem pantar sjúkraflugið og metur forgang flutnings (F1-F4) og þar með hvort þörf er á sjúkraflugi eða hvort aðrar flutningsleiðir henti betur. Skráning í sjúkraflugi er mikilvæg til að tryggja umbætur á þjónustunni.

Markmið: Að kanna tíðni og eðli sjúkraflugs á árunum 2004-2013.

Aðferð: Gögn úr gagnagrunni sjúkraflugs og sjúkraflugsskýrslumá tíu ára tímabili frá og með árinu 2004 til og með árinu 2013 voru notuð.

Niðurstöður: Sjúkraflutningum hefur fjölgað á undanförnum tíu árum. Það voru 301 sjúkraflug árið 2004 og í þeim fluttir 307 sjúklingar en það voru að meðaltali 460 flug á ári s.l. fimm ár og 487 sjúklingar fluttir á ári á sama tíma. Í um helmingi tilfella fara læknar með í flug en þeir fara yfirleitt með í forgangsflug (F1 og F2). Sjúkraflugin eru einnig flokkuð eftir NACA flokkun sem er flokkun á ástandi sjúklings meðan á flutningi stendur frá núll og upp í sjö þar sem núll táknar enginn sjúkdómur eða áverki en sjö táknar látinn á staðnum eða í flutningi. Langflestir flutningarnir eru í NACA flokki 3. Algengasta ástæða flutnings er kransæðasjúkdómur og næst algengast er útlimaáverkar. Læknar sem fara með í sjúkraflug eru ýmist frá Sjúkrahúsinu á Akureyri eða Heilsugæslustöðinni og hafa þeir hlotið sérstaka þjálfun til að stunda sjúkraflug.

Ályktun: Sjúkraflugið er nauðsynlegur hluti af heilbrigðisþjónustu landsmanna, sérstaklega í þeim tilfellum þar sem miklu skiptir að koma sjúklingum af landsbyggðinni tímanlega í hendur okkar færustu sérfræðinga. Með fyrirsjánlegum samdrætti í sérhæfðri læknisþjónustu á landsbyggðinni og aukinni sérhæfingu á stóru sjúkrahúsunum, sem og aukinni kröfu um jafnan rétt á læknisþjónustu verður æ mikilvægara að viðhalda þessu öryggisneti.

 

2. Sjúkraflug þyrlu Landhelgisgæslu Íslands árið 2012

Auður Elva Vignisdóttir1,2, Brynjólfur Mogensen1,2, Viðar Magnússon3, Auðunn Kristinsson4

1Rannsóknastofu Landspítala og HÍ í bráðafræðum, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3bráðasviði, 4Landhelgisgæslunni

Bakgrunnur: Miklu máli skiptir að alvarlega slasað og veikt fólk komist sem fyrst á sjúkrahús til greiningar og sérhæfðrar meðferðar. Þyrla Landhelgisgæslunnar (LHG), með lækni um borð sem getur veitt sérhæfða meðferð, er mikilvægur þáttur í heilbrigðisþjónustu Íslendinga. Þyrlan getur sótt mikið slasaða og veika út á sjó, í dreifbýli eða hálendi, þar sem ekki er hægt að koma við hefðbundnum farartækjum á skömmum tíma. Orsök útkalla þyrlunnar og afdrif sjúklinga sem fluttir voru hafa ekki verið skoðuð nema að litlu leyti síðastliðinn áratug.

Markmið: Að rannsaka umfang og mikilvægi sjúkraþyrlu LHG á Íslandi árin 2002-2012, að kanna hversu mikið slasaðir eða veikir sjúklingarnir voru sem fluttust með þyrlunni og reyna að meta árangurinn af flutningunum. Hér eru kynntar niðurstöður ársins 2012.

Aðferðir: Þýði rannsóknarinnar voru þeir sjúklingar sem fluttir voru á Landspítala með þyrlu LHG árið 2012. Upplýsingar voru fengnar úr þyrlu- og sjúkraskrám Landspítalans. Áverkar sjúklinga eru flokkaðir með Revised Trauma Score (RTS), Injury Severity Score (ISS) og Trauma and Injury Severity Score (TRISS). Bráðveikir sjúklingar eru stigaðir með Modified Early Warning Score (MEWS) og flokkaðir eftir orsökum veikinda.

Niðurstöður: Alls voru 77 sjúklingar fluttir með þyrlu Landhelgis-gæslunnar árið 2012 á Landspítala. Þrír sjúklingar voru úrskurðaðir látnir við komu þyrlunnar og einn við komu á bráðamóttöku. Í eitt skipti var fallið frá flugi vegna veðurs. Karlar voru 72,8% sjúklinga en konur 27,2%. Meðalaldur sjúklinga var 43,6 ár. Útköll vegna slasaðra sjúklinga voru 52 (64,2%) en veikra 29 (35,8%) en einn sjúklingur flokkaðist í báða hópa. Flestir sem slösuðust voru með áverka á neðri útlim. RTS slasaðra var að meðaltali 7,558 ± 0,289 og ISS var að meðaltali 7,6 ± 1,79. Lífslíkur slasaðra sjúklinga (TRISS) voru að meðaltali 97,3% ± 2,32%. Bráðveikir sjúklingar fengu að meðaltali 1,8 ± 1,05 á MEWS skala og algengasta orsök útkalls veikra var hjarta- og æðasjúkdómur (44,4%).

Ályktanir: Stór hópur þeirra sjúklinga sem fluttur var með þyrlunni árið 2012 var alvarlega slasaður eða mikið veikur. Mikilvægt er að kanna nánar inngrip lækna um borð í þyrlunni og afdrif sjúklinga eftir flutning með þyrlu.

 

3. Útköll þyrlu Landhelgisgæslu Íslands árið 2012

Auður Elva Vignisdóttir1,2, Brynjólfur Mogensen1,2, Viðar Magnússon3, Auðunn Kristinsson4

1Rannsóknastofu LSH og HÍ í bráðafræðum, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3bráðasviði, 4Landhelgisgæslunni

Bakgrunnur: Þyrlur Landhelgisgæslunnar gegna mikilvægu hlutverki í almannavarnakerfi Íslendinga. Þyrlan hefur meðal annars það hlutverk að sinna leit og björgun fólks á landi og sjó. Einnig sækir hún og flytur mikið slasaða og bráðveika sjúklinga til sérhæfðrar greiningar og meðferðar á  sjúkrahúsi. Útköll þyrlunnar eru flokkuð í fjóra flokka eftir því hve mikið liggur á: Alfa-F1, Bravo-F2, Charlie-F3 og Delta-F4. Um borð í þyrlunni er auk áhafnar læknir sem getur veitt séhæfða meðferð.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að vera upplýsandi um umfang og mikilvægi sjúkraþyrlu á Íslandi árin 2002-2012.

Aðferðir: Þýði þessa hluta rannsóknarinnar voru öll útköll þyrlu Landhelgisgæslunnar árið 1. Janúar til 31. desember 2012. Útköllin voru flokkuð eftir orsök og alvarleika. Staðsetning sjúklings var könnuð og flokkuð í land, óbyggðir og sjó. Tímasetning útkalls og aðstæður til flugs voru athugaðar. Hlutfall afturkallaðra útkalla var kannað og hve stór hluti útkalla leiddi til flutnings á sjúklingi/-um á bráðamóttöku Landspítalans.

Niðurstöður: Alls voru 175 útköll hjá þyrlu Landhelgisgæslunnar árið 2012, þar af 62 Alfa, 86 Bravo, 21 Charlie og 6 Delta. Afturkölluð útköll voru 39 (22,2%) og þyrlu snúið við 10 sinnum (5,7%). Sjúkraflug voru 104 (59,4%) og af þeim voru 28 á sjó (26,9%) og 76 á landi (73,1%), þar af 24 í óbyggðum. Útköll þyrlu til leitar og björgunar voru 36 (20,6%) og af þeim voru 9 á sjó (25%) og 27 á landi (75%), þar af 17 í óbyggðum. Útköll voru í 80,4% að degi til. Aðstæður til flugs voru í 70% útkalla góðar, í 13,7% útkalla meðalgóðar og í 11,9% tilvika slæmar eða mjög slæmar. Þyrlan lenti í heild 54 sinnum við bráðamóttöku Landspítala og flutti þangað samtals 58 sjúklinga.

Ályktanir: Meirihluti fluga þyrlu Landhelgisgæslunnar árið 2012 var með slasaða og bráðveika sjúklinga. Einungis helmingur þeirra voru sóttir í byggð. Líklegt er að hluti sjúklinga hafi ekki verið aðgengilegur á skömmum tíma nema úr lofti. 

 

4. Efnaslys – viðbrögð

Sveinbjörn Gizurarson

Öryggisnefnd Háskóla Íslands

Bakgrunnur: Háskóli Íslands er einn af stærstu vinnustöðum landsins með um 16 þúsund nemendur og rúmlega 2000 starfsmenn. Í Háskólanum er unnið með flesta þá efnaflokka sem finnast, hvort sem það eru föst efni, fljótandi eða lofttegundir, ætandi-, sprengifim- eða geislavirk efni og líffræðilega skaðvalda, svo fátt eitt sé nefnt. Ef um efnaslys er að ræða, þarf að bregðast hratt og örugglega við, hlúa að hinum slasaða og tryggja að efnið dreifist ekki víðar en það hefur gert.

Markmið/aðferðir: Farið var yfir þau óhöpp og slys sem höfðu átt sér stað síðustu ár í Háskóla Íslands og kannað hvernig mætti efla samstarfið milli Háskóla Íslands, sjúkraflutninga og bráðamóttöku Landspítalans.

Niðurstöður: Fyrirbyggjandi samstarf öryggisnefndar Háskóla Íslands, sjúkraflutninga og bráðamóttöku Landspítalans skiptir lykilmáli til að vel fari. Samstarfið felst í því að fara yfir og tryggja að viðbragðsáætlanir séu til staðar, áhættumat sé rétt og ef það eru til mótefni, þá séu þau aðgengileg t.d. á Landspítalanum. Í mörgum tilfellum eru aðstæður vanmetnar eða ofmetnar t.d. ef verið er að vinna með ný og óþekkt efni.

Ályktanir: Fyrirbyggjandi samstarf um viðbrögð við efnaslysum mætti vera nánara. Allir þeir aðilar sem koma að fyrstu viðbrögðum þurfa að hittast reglulega og útbúa og/eða fara yfir viðbragðsáælanir. Í vissum tilfellum gæti þurft mjög sérhæfð viðbrögð til að bregðast við efnaslysi eða þegar verið er að prófa nýtt lyf t.d. í klínísku prófi.

 

5. Líðan þolenda snjóflóðanna á Vestfjörðum: 16 ára eftirfylgd

Edda Björk Þórðardóttir1,2, Berglind Guðmundsdóttir1,2,3, Unnur Anna Valdimarsdóttir1,4, Ingunn Hansdóttir2

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum Háskóla Íslands, 2sálfræðideild Háskóla Íslands, 3geðsviði Landspítala, 4faraldsfræðideild Harvard School of Public Health

Bakgrunnur: Árið 1995 féllu tvö mannskæð snjóflóð í Súðavík og á Flateyri sem tóku líf 34 manna. Fáar rannsóknir hafa kannað langtímaáhrif hamfara á heilsu eftirlifenda.

Markmið: Meginmarkmið rannsóknarinnar var að meta andlega og líkamlega heilsu þolenda snjóflóðanna 16 árum síðar, í samanburði við líðan annarra Íslendinga.

Aðferð: Spurningalistar voru sendir til þeirra sem bjuggu í Súðavík og á Flateyri árið 1995, voru 18 ára eða eldri árið 2011 og búsettir á Íslandi (N=399). Til samanburðar var sambærilegur spurningalisti sendur til íbúa Breiðdalsvíkur og Raufarhafnar árið 1995, svæða sem stafar engin hætta af snjóflóðum, sem voru 18 ára eða eldri árið 2011 og búsettir hér á landi (N=541). Svarhlutfall var 72% (286/399) í þolendahópnum og 66% (357/541) í samanburðarhópnum. Depression Anxiety Stress Scales (DASS-21) var notaður til að meta einkenni kvíða, þunglyndis og streitu. Almennur svefnvandi var metinn með Pittsburg Sleep Quality Index (PSQI) og svefntruflanir tengdar áfallastreitu voru metnar með PSQI-Addendum for PTSD (PTSD-A). Áfallastreita var metin með Posttraumatic Diagnostic Scale (PDS). Líkamleg heilsa var metin með spurningalista.

Niðurstöður: Þolendur snjóflóðanna voru líklegri til að upplifa í dag almenn svefnvandamál (PSQI stig  > 5) (aRR=1.34; 95% CI [1.05-1.70]); svefntruflanir tengdar áfallastreitu (PSQI-A stig 4) (aRR=1.86; 95% CI [1.30-2.67] ); króníska bakverki (aRR 1.65; 95% CI 1.23-2.23); mígreni (aRR 1.75; 95% CI 1.14-2.69); magasár eða magabólgur (aRR 2.91; 95% CI 1.26-6.72) og önnur magavandamál (aRR 1.72; 95% CI 1.07-2.77) en samanburðarhópurinn. Fimmtán prósent þolenda upplifa í dag áfallastreitu tengda snjóflóðunum (PSSSR stig > 14).

Ályktanir: Svefnvandamál, sérstaklega þau sem tengjast áfallastreitu og streitutengdir sjúkdómar eru algengari meðal þolenda snjóflóðanna en annarra Íslendinga, 16 árum eftir hamfarirnar. Auk þess er hátt hlutfall þolenda með einkenni áfallastreitu í samanburði við sambærilegar erlendar rannsóknir. Niðurstöður benda til mikilvægi þess að samfélögum sem verða fyrir hamförum standi til boða gagnreynd meðferð við áfallastreitu og svefnvandamálum til lengra tíma.

 

6. Aukning á heima- og frítímaslysum milli áranna 2003 - 2011

Edda Björk Þórðardóttir1,2,3, Sigríður Haraldsdóttir1,2, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir4,5, Brynjólfur Mogensen4,6

1Embætti landlæknis, 2Miðstöð í lýðheilsuvísindum Háskóla Íslands, 3sálfræðideild Háskóla Íslands, 4rannsóknarstofu Landspítala og HÍ í bráðafræðum, 5hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 6læknadeild Háskóla Íslands

Bakgrunnur: Heima- og frítímaslys hafa verið algengasta tegund slysa frá því skráning í Slysaskrá Íslands hófst árið 2002, eða um helmingur allra skráðra slysa. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að flestar komur vegna meiðsla á bráðadeildir sjúkrahúsa í Evrópu eru vegna heima- og frítímaslysa, en þau eru jafnframt sú tegund slysa sem oftast leiðir til innlagnar á sjúkrahús.

Markmið: Meginmarkmið rannsóknarinnar var að meta tíðni heima- og frítímaslysa sem skráð voru á Landspítalanum árin 2003-2011 og kanna hugsanlega áhættuþætti, s.s. kyn og aldur.

Aðferð: Slysaskrá Íslands er miðlægur gagnabanki sem hýsir upplýsingar um slys á öllu landinu. Skráð heima- og frítímaslys hjá bráðasviði Landspítalans voru skoðuð í Slysaskrá Íslands fyrir tímabilið 2003-2011. Árleg tíðni slysa auk aldurs og kyns þolenda var reiknuð út og borin saman.

Niðurstöður: Heima- og frítímaslysum fjölgaði á rannsóknartímabilinu úr 38 í 43 slys á hverja 1.000 íbúa á ári. Slysatíðnin var breytileg milli ára. Heima- og frítímaslys voru algengari á sumrin en á öðrum árstímum. Karlar voru líklegri til að slasast en konur á öllu tímabilinu, óháð aldri (42 vs. 38 slys á hverja 1.000 íbúa á ári að meðaltali). Slysaaukningin á þessu tímabili var mest í yngstu og elstu aldurshópunum. Slysum í aldurshópnum 0-19 ára fjölgaði úr 54 í 64 slys á hverja 1.000 íbúa á ári á rannsóknartímabilinu. Meðal 75 ára og eldri fjölgaði slysum úr 50 í 59 slys á hverja 1.000 íbúa á ári á rannsóknartímabilinu.

Ályktanir: Karlar, börn og aldraðir voru í meiri áhættu að verða fyrir heima- og frítímaslysi en aðrir hópar á árunum 2003-2011. Nauðsynlegt er að rýna nánar í slysagögn og rannsaka m.a. tildrög slysa og athafnir sem ollu þeim, auk tegundar og alvarleika meiðsla. Nánari rannsókn á ofangreindum þáttum er forsenda þess að hægt sé að koma á fót árangursríku forvarnarstarfi til að snúa þessari þróun við.

 

7. Teymisþjálfun á slysa- og bráðamóttöku með notkun BEST hugmyndafræðinnar

Ingibjörg Lára Símonardóttir1, Pálmi Óskarsson1, Hildigunnur Svavarsdóttir2

1Slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri, 2skrifstofu forstjóra á Sjúkrahúsinu á Akureyri

Bakgrunnur: Rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi þess að “non-technical” þættir s.s. samvinna, forysta, ákvarðanataka og góð samskipti séu lykilþættir í árangursríkri teymisvinnu heilbrigðisstarfsmanna. Læknar í Noregi hafa þróað áhrifaríka þjálfun s.k. BEST (better and systematic team training) sem upphaflega var hugsuð til að meðhöndla áverkasjúklinga. Síðar þróaðist þessi þjálfun upp í teymisþjálfun sem hægt er að nýta við mismunandi aðstæður inni á sjúkrahúsum. BEST hugmyndafræðin hefur verið kynnt og prófuð á Sjúkrahúsinu á Akureyri með góðum árangri.

Aðferðir: BEST námskeiðið er eins dags námskeið sem skipulagt er út frá þörfum hverrar stofnunar. Þjálfunin fer fram á bráðastofu stofnunar, þar sem eigin tæki og tól eru nýtt til að meðhöndla “sjúklinginn”. Námskeiðið samanstendur af fyrirlestrum, verklegri þjálfun og umræðum. Áherslan er lögð á teymisvinnuna og “non-technical” þætti. Æfingin er tekin upp á myndband, umræður um æfinguna á eftir og svo er æfingin endurtekin til að læra af því sem betur mátti fara.

Niðurstöður: Frá árinu 2010 hefur Sjúkrahúsið á Akureyri notað BEST hugmyndafræðina með það að markmiði að ná markvissum árangri. Nú er unnið eftir nýjum verklagsreglum um móttöku og meðferð áverkasjúklinga, áverkateymi hefur verið stofnað og haldnir eru þverfaglegir fundir. Reglulegar æfingar eru hjá áverkateymi þar sem lögð er áhersla á “non-technical” þætti. Í ljósi góðs árangurs í teymisvinnu við meðferð áverkasjúklinga er nú BEST þjálfunaraðferðin einnig notuð við endurlífgunaræfingar með góðum árangri. Það sem reyndist erfiðast í þessu ferli var að fá alla meðlimi teymisins til að breyta gömlu verklagi og huga meira að “non-technical” þáttunum. Í dag eru allir ánægðir með nýtt verklag og BEST þjálfunina sem er ódýr og einföld í framkvæmd og viðhaldi og miðast við búnað og mannafla viðkomandi stofnunar.

Ályktanir: BEST þjálfunin hefur sýnt sig vera árangursrík leið til þjálfunar á sjúkrahúsinu enda er farið að nýta hugmyndafræðina við ýmis konar aðstæður þar sem þörf er á teymisvinnu s.s. móttöku áverkasjúklinga, endurlífgun o.fl. Það að byggja upp markvisst teymi, bera virðingu fyrir hlutverkum hvers og eins í teyminu og leggja áherslu á “non-technical” þætti í æfingunum á sjúkrahúsinu er talinn vera mikilvægur þáttur í að efla starfsfólk og stuðla að auknu öryggi í þeirri þjónustu sem starfsfólk sjúkrahússins veitir.

 

8. Á að skorða hrygg eftir áverka?

Viðar Magnússon

Bráðasviði Landspítala

Bakgrunnur: Háls- og hryggáverkar geta leitt til mænuskaða. Talið er að mikil hreyfing á hálsi og hrygg eftir áverka geti valdið auknum skaða. Því er mikið upp úr því lagt að skorða háls og hrygg við minnsta grun um áverka. Vaninn hefur verið að skorða  með stífum hálskraga og bakbretti og er sú aðferð kennd á námskeiðum um skyndihjálp, við þjálfun sjúkraflutningamanna og bráðatækna, og á námskeiðum í sérhæfðri slysameðferð fyrir lækna. Þessi aðferð hefur verið tekin inn í vinnuferla sjúkraflutningamanna um allan heim. Borið hefur á því að vaninn sé að byrja á því að skorða háls áður en öndunarvegur er opnaður.  Almennt er talið öruggara að skorða hrygg en að sleppa því.

Markmið: Að kanna hvort rannsóknir styðji skorðun á hrygg með kraga og bretti og hvort til séu aðrar betri aðferðir til þess að flytja sjúklinga með hugsanlega áverka á hrygg.

Aðferðir: Könnuð voru Cochrane yfirlit og nýlegar yfirlitsgreinar um efnið og heimildir þeirra skoðaðar að auki.

Niðurstöður: Engar stórar slembirannsóknir sem sýna fram á gagnsemi þess að skorða hrygg með kraga og bretti fundust. Tvær stórar aftursæjar samanburðarrannsóknir og nokkrar minni rannsóknir hafa verið birtar sem sýna fram á mögulegan skaða vegna skorðunar á hrygg, svo sem legusár og jafnvel aukna dánartíðni. Þá ýmsar smærri rannsóknir verið birtar sem kanna getu mismunandi aðferða við að skorða hrygg en niðurstöður eru óljósar um það hvort aðferðirnar gagnist til að minnka skaða.

Umræða: Undanfarin misseri hefur komið fram vaxandi gagnrýni á skorðun á hrygg með kraga og bretti og að þetta sé ekki vísindalega gagnreynd aðferð. Ekki hefur verið sýnt fram á að aðferðin gagnist til þess að draga úr líkum á mænuskaða en auk þess gefa nokkrar rannsóknir til kynna að þessi meðferð sé ekki hættulaus. Í vaxandi mæli er því verið að endurskoða sjúkraflutninga eftir áverka og kallað eftir gagnreyndri þekkingu. Hvort þörf sé fyrir skorðun á hrygg og með hvaða hætti þarfnast frekari rannsókna í framtíðinni.

 

9. Upplifun starfsfólks á bráðamóttöku í Fossvogi af því að vera í ytri öndunarvélarmeðferð

Guðbjörg Pálsdóttir1, Þorsteinn Jónsson2

1Bráðasviði Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

Bakgrunnur: Reynsluþekking er stór þáttur í heilbrigðisvísindum. Kennismiðir í hjúkrunarfræði hafa bent á mikilvægi þess að heilbrigðisstarfsfólk setji sig í spor sjúklinga til að skilja þarfir þeirra. Fjölmargir sjúklingar sem leita á bráðadeildir í andnauð eru meðhöndlaðir með ytri öndunarvél. Rannsóknir gefa til kynna breytileika í notkun á ytri öndunarvélum og má ætla að reynsluþekking hafi þar áhrif. Tilgangur verkefnisins var að efla þekkingu starfsfólks á bráðamóttöku í Fossvogi á ytri öndunarvélameðferð og greina fræðsluþörf.

Markmið: Að kanna upplifun þátttakenda af því að vera í ytri öndunarvél og skynjun þeirra af mismunandi stillingum.

Aðferð: Tilviljunarkennt úrtak á sex morgunvöktum á bráðamóttöku haustið 2013 þar sem starfsfólki var boðin þátttaka. Rannsóknin var kynnt og munnlegs samþykkis aflað. Þátttakendur voru settir í ytri öndunarvél á tveimur stillingum, mínútu á hvorri. Milli stillinga svöruðu þátttakendur spurningum rafrænt. Fyrri stillingin á öndunarvélinni var 12/6cmH2O, ÖT 16/mín og seinni stillingin 16/8cm/H2O, ÖT 20/mín.

Niðurstöður: Alls tóku 63 starfsmenn þátt. Fyrri stilling: Rúmlega 40% vissi ekki hver innöndunarþrýstingurinn var og rúmlega 30% taldi innöndunarþrýstinginn vera á bilinu 5-10cm/H2O.Tæplega 47% vissi ekki hver lok-útöndunarþrýstingurinn var og 50% taldi sig anda 10-15 sinnum á mínútu. Seinni stilling: Rúmlega 37% taldi innöndunarþrýsting vera 10-15cm/H2O og tæplega 34% vissi ekki hver innöndunarþrýstingurinn var. Þá vissu ekki rúmlega 43% hver var lok-útöndunarþrýstingurinn. Um 29% taldi sig anda 15-20 sinnum á mínútu. Um 68% fannst óþægilegt að vera í öndunarvélinni. Þá töldu 67% sig hafa fundið fyrir álagi/streitu á meðan þeir voru í öndunarvélinni. Áttatíu og fimm prósent töldu sig þurfa frekari fræðslu um öndunarvélameðferð og 89% þátttakenda fannst skilningur þeirra hafi aukist gagnvart ytri öndunarvélameðferð með þátttöku í rannsókninni.

Ályktanir: Þátttakendur greindu á milli ólíkra stillinga á öndunarvélinni og höfðu frekar tilfinningu fyrir meiri öndunarstuðningi. Þá hafði stór hluti þátttakenda ekki tilfinningu fyrir hver stillingin var á öndunarvélinni. Með því að efla fræðslu og reynsluþekkingu starfsfólks má bæta gæði þjónustu við sjúklinga sem þurfa á ytri öndunarvélameðferð að halda.

 

10. Bráð bólguviðbrögð (SIRS) á bráðamóttöku í Fossvogi

Þorsteinn Jónsson1, Guðbjörg Pálsdóttir2

1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2bráðasviði Landspítala

Bakgrunnur: Bráð bólguviðbrögð (Systemic Inflammatory Response Syndrome, SIRS) eru skilgreind breyting á öndunartíðni, hjartsláttartíðni, líkamshita og fjölda hvítra blóðkorna. Tveir eða fleiri þættir þurfa að uppfylla ákveðin skilmerki til að kallast bráð bólguviðbrögð. Viðmið fyrir bráð bólguviðbrögð eru vel þekkt og hefur verið stuðst við þau á gjörgæsludeildum í mörg ár en lítið er vitað um sjúklinga með bráð bólguviðbrögð á bráðamóttökum. Viðmið fyrir bráð bólguviðbrögð hafa verið gagnrýnd fyrir að vera ósértæk.

Markmið: Að kanna tíðni, lífeðlisfræðilega þætti og afdrif sjúklinga sem leituðu á bráðamóttöku Landspítala (LSH) í ljósi viðmiða um bráð bólguviðbrögð.

Aðferð: Rannsóknargögnum var safnað afturvirkt úr rafrænni sjúkraskrá á tímabilinu 1. október 2011 – 30. nóvember 2011 og voru allir sjúklingar sem leituðu á bráðamóttöku í úrtakinu.

Niðurstöður: Alls leituðu 3971 sjúklingar á bráðadeild á rannsóknartímabilinu. Rúmlega 8% sjúklinga 18 ára og eldri (n=322) voru með skilgreind viðmið fyrir bráð bólguviðbrögð. Meðalaldur var 54 ár. Að meðaltali voru sjúklingar með bráð bólguviðbrögð að anda 24 sinnum á mínútu. Hjartsláttur var að meðaltali 107/mín og líkamshiti að meðaltali 37,8°C. Þá var fjöldi hvítra blóðkorna að meðaltali 11x10E9/L. Tæplega 68% sjúklinga (n=218) voru með tvo af fjórum þáttum bráðra bólguviðbragða og 30,4% (n=98) var með þrjá af fjórum þáttum. Rúmlega 2% sjúklinga (n=7) voru í lostástandi við komu (slagbilsblóðþrýstingur <90mmHg). Um 50% sjúklinga (n=163) fengu bólgu- og/eða sýkingargreiningu á bráðamóttöku. Algengustu sjúkdómsgreiningarnar voru lungnabólga, kviðverkur, hiti og þvagfærasýking. Þá fengu 3,7% sjúklinga (n=12) greininguna sýklasótt. Tæplega 47% sjúklinganna (n=151) lögðust inn á LSH, þar af 3,4% á gjörgæsludeild (n=11). Meðallegutími á sjúkrahúsi var fjórir dagar. Þrjátíu daga dánartíðni var 2,5% (n=8).

Ályktanir: Ef fjöldi sjúklinga með skilgreind viðmið fyrir bráð bólguviðbrögð er yfirfærður á fjölda bráðakoma 2012, má áætla að 5889 sjúklingar falli innan hópsins árlega. Meðalaldur sjúklinga með bráð bólguviðbrögð á bráðadeildum LSH er lágur og meirihluti var með tvo þætti. Tæplega helmingur sjúklinga sem kemur á bráðamóttöku með bráð bólguviðbrögð leggst inn á LSH og svipaður fjöldi fær bólgu- og/eða sýkingargreiningu. Niðurstöðurnar gætu verið til marks um að viðmið fyrir bráð bólguviðbrögð séu ósértæk fyrir sjúklinga á bráðamóttökum.

 

11. Sjö daga lota í mynstri legulengdar og dánartíðni eftir innlögn af bráðamóttöku Landspítala

Elísabet Benedikz1,2, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir3,4, Bjarki Þór Elvarsson5, Brynjólfur Mogensen1, 3, 6

1Bráðamóttöku, 2gæða- og sýkingarvarnadeild, vísinda og þróunarsviði, 3rannsóknarstofu Landspítala og HÍ í bráðafræðum, 4hjúkrunarfræðideild, 5raunvísindadeild, 6læknadeild Háskóla Íslands

Bakgrunnur: Þekkt er úr erlendum rannsóknum að dánartíðni sjúklinga er um 10% hærri eftir innlagnir um helgar en virka daga. Áhrifin eru rakin til vaktaástands þegar mönnun til að sinna verkefnum og taka ákvarðanir er í lágmarki.

Markmið: Að skoða áhrif komudags og innlagnartíma á 30-daga dánarlíkur og/eða legulengd eftir innlögn frá bráðamóttöku Landspítala. 

Aðferðir: Rannsóknin var aftursæ þýðisrannsókn. Skoðaðir voru allir sjúklingar sem lögðust inn frá bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi tímabilið 1. maí 2010 t/m 30. apríl 2011. Upplýsingar voru fengnar úr rafrænni sjúkraskrá. Útilokaðir voru sjúklingar sem fóru á skammverueiningu. Tvíkosta aðhvarfsgreiningu var beitt til að spá fyrir um dánartíðni en línulegri aðhvarfsgreiningu til að skoða legulengd.

Niðurstöður: Alls voru 7208 sjúklingar rannsakaðir. Mánudags-morgun-vaktir og helgarnæturvaktir höfðu fleiri komur en sambærilegar vaktir aðra daga. Meðaldánartíðni þrjátíu dögum eftir innlögn var 4,47%. Sjúklingar sem lögðust inn eftir komu á morgunvakt voru bæði eldri og höfðu marktækt hærri dánartíðni en þeir komu á kvöld- og næturvakt (OR = 1.56; 95% CI: 1,05-2,37). Hæst var 30-daga dánartíðnin eftir komu á miðvikudagsmorgunvakt (6,55%) en næsthæst eftir komu á föstudagsmorgunvakt (6,24%). Kvöldvaktir á föstudögum og laugardögum höfðu hærri dánartíðni en aðrar kvöldvaktir vikunnar en þó lægri en morgunvaktir sömu daga. Þegar skoðaður var munur á 30-daga dánartíðni eftir dögum vikunnar, kom í ljós að hlutfall látinna var 14,4% hærra eftir innlögn föstudag t/m laugardag samanborið við aðra daga.  Sunnudagar höfðu hins vegar lægri dánartíðni en aðrir vikudagar. Sjúklingar sem lögðust inn af dagvakt lágu 13,7% lengur inni en sjúklingar sem komu á öðrum tímum sólarhringsins.

Ályktanir: 30-daga dánartíðni eftir innlagnir um helgar er hærri en eftir innlagnir virka daga ef frá er talinn sunnudagur. Þetta virðist í takt við niðurstöður erlendra rannsókna. Sjúklingar sem koma á morgunvaktir eru eldri, liggja lengur inni og hafa hærri dánartíðni en sjúklingar sem koma á kvöld- og næturvöktum.

 

12. Upplýsingar sem sjúklingum eru veittar um lyf á sjúkrahúsi  í London

Freyja Jónsdóttir1,Wendy Pullinger2, Dr. Felicity Smith3.

1Sjúkrahúsapóteki Landspítala, 2Sjúkrahúsapóteki St. George's Healthcare NHS Trust London, UCL School of Pharmacy London

Bakgrunnur: Til er fjöldi rannsókna sem sýna fram á það að röng lyfjanotkun hefur í för með sér talsverða byrði á heilbrigðiskerfi og einnig hefur verið sýnt fram á það að aðkoma lyfjafræðinga getur haft jákvæð áhrif á heilsufar sjúklinga.

Markmið: Að kanna hversu miklar lyfjaupplýsingar lyfjafræðingar (og lyfjatæknar) veita sjúklingum og kanna hvaða upplýsingar voru veittar. Einnig var kannað hvaða áhrif vinnuálag hefði á upplýsingagjöfina.

Aðferðir: Rannsóknin var gerð með þátttökuathugun á starfsháttum í afgreiðsluapóteki og könnun á meðal lyfjafræðinga og lyfjatækna sem unnu á deildum eða í afgreiðsluapótekinu.

Niðurstöður: Í fyrra skrefinu var fylgst með afhendingu 128 lyfja. Lyfjafræðingar voru í yfirgnæfandi meirihluta tilvika þeir sem afhentu lyfin og veittu sjúklingum upplýsingar eða í 95% tilvika en aðstoðarlyfjafræðingar (pre-registration pharmacists) önnuðust það í 3% tilvika og lyfjatæknar í 2% tilvika. Þetta endurspeglar almenna starfshætti í afgreiðsluapótekinu.

Bæði þátttökuathugunin og könnunin bentu til þess að sjúklingar væru líklegri til að fá upplýsingar um nýjar lyfjaávísanir samanborið við endurávísanir. Einnig var minni tíma varið í að veita upplýsingar fyrir endurávísanir lyfja. Niðurstöðurnar sýndu einnig að þegar að vinnuálag jókst dró úr upplýsingargjöf. Einnig mátti sjá töluverðan mun milli lyfja, þ.e. meiri upplýsingar voru veittar þegar um var að ræða lyf sem þekkt eru fyrir að geta valdið lyfjatengdum vandamálum eins og warfarin, metformin og ísótretínóin.

Ályktanir: Það virðist vera rík tilhneiging til að álykta að sjúklingar þurfi minni upplýsingar þegar um endurávísanir er að ræða. Sú ályktun getur orkað tvímælis því lyf sem er endurávísað eru líklegri til að valda lyfjatengdum vandamálum. Sú staðreynd að það dragi úr upplýsingagjöfinni þegar álagið eykst er einnig áhyggjuefni. Ef um nauðsynlegar upplýsingar er að ræða er mikilvægt að færa til mannafla þannig að hann hæfi vinnuálaginu. Meiri upplýsingar voru veittar þegar um var að ræða lyf sem þekkt er að valdi lyfjatengdum vandamálum eins og warfarin, metformin og isotretinoin. Hins vegar er einnig nauðsynlegt að huga að lyfjum eins og ibuprofeni, ásamt öðrum NSAID-lyfjum sem eru á meðal þeirra lyfja sem algengast er að valdi lyfjatengdum vandamálum.

 

13. Mjaðmabrot hjá einstaklingum 67 ára og eldri sem leituðu á bráðamóttöku LSH á árunum 2008-2012

Sigrún Sunna Skúladóttir1, Elísabet Guðmundsdóttir2, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir3,4

1Bráðamóttöku, 2hagdeild Landspítala, 3hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 4rannsóknarstofu Landspítala og HÍ í bráðafræðum

Bakgrunnur: Mjaðmabrot eru alvarlegur áverki. Vitað er að yfir 90% af brotum verða hjá fólki eldra en 50 ára og er um það bil 2 til 3 sinnum algengara hjá konum en körlum. Mjaðmabrot eru algengari meðal hvítra kvenna í Skandinavíu en meðal kvenna á sama aldri í Suður Ameríku og Eyjaálfu. Erlendar rannsóknis sýna að tíðni mjaðmabrota virðist hærri í dreifbýli en þéttbýli. Þessi sjúklingahópur þarf skjóta og góða þjónustu og helst aðgerð innan 48 klst. til að fækka fylgikvillum. Landspítali sinnir stærsta hópi sjúklinga sem mjaðmabrotna á Íslandi en faraldsfræðilega samantekt á þessum sjúklingum á Íslandi hefur skort.

Markmið: Að auka þekkingu á faraldsfræði og þjónustu hjá þessum sjúklingahóp til að finna leiðir til að bæta þjónustu við þennan hóp og efla forvarnir.

Aðferð: Gagna var aflað úr Vöruhúsi gagna á LSH í afturskyggnri faraldsfræðilegri rannsókn á sjúklingum eldri en 67 ára sem leituðu á bráðamóttöku Landspítala á árunum 2008-2012. Leitað var að einstaklingum sem komu vegna brots á lærleggshálsi, lærhnútubrots og brots fyrir neðan lærhnútu. Gögn voru greind með lýsandi tölfræði. Þessi rannsókn er hluti af stærri rannsókn um komur einstaklinga eldri en 67 ára á bráðamóttöku LSH.

Niðurstöður: 1.052 einstaklingar á þessu aldursbili komu á bráðamóttöku vegna mjaðmabrots á tímabilinu. Karlar voru 295 (28%) og konur 757 (72%). Skipting milli ára var nokkuð jöfn eða á bilinu 161 til 222 komur á ári. Dánartíðni innan 3 mánaða var 11,2% hjá konum og 21,7% hjá körlum. Sá elsti í gagnasafninu var 107 ára við komu. Meðalbiðtími eftir skurðaðgerð var 19,6 klukkustundir.

Ályktanir: Fyrstu gögn sýna að faraldsfræði þeirra sem koma vegna mjaðmabrota á LSH virðist nokkuð svipuð því sem gerist í heiminum. Afdrif sjúklinga sem koma á bráðadeild vegna mjaðmabrota geta verið alvarleg. Þörf gæti verið á að efla fræðslu og styðja sjúklinga og aðstandendur þegar á bráðadeild.

 

14. Viðhorf starfsfólks á bráðadeildum Landspítala til skapandi starfshátta

Sigrún Gunnarsdóttir1, Birna Dröfn Birgisdóttir2, Sigrún Sunna Skúladóttir3, Sólrún Rúnarsdóttir3

1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2Háskólanum í Reykjavík, 3bráðasviði Landspítalans

Bakgrunnur: Gagnreyndir og agaðir starfshættir eru grundvöllur árangursríkrar heilbrigðisþjónustu um leið og skapandi aðferðir og skapandi viðbrögð við ófyrirséðum aðstæðum eru liður í daglegum störfum starfsfólks. Rannsóknir sýna að frumkvæði og skapandi nálgun eru mikilvægir eiginleikar til að efla árangur og öryggi heilbrigðisþjónustu og eru hluti af af fagmennsku heilbrigðisstétta. Rannsóknir gefa til kynna að starfsmenn nýti frekar skapandi nálgun þegar hvatning  og umburðarlyndi eru til staðar og þar vega þungt viðhorf og stjórnunaraðferðir yfirmanna. Nýjar rannsóknir sýna að árangursríkar aðferðir í stjórnun og forystu grundvallast á að virkja frumkvæði starfsfólks með áherslu á stuðning í daglegum störfum sem einkennist af leiðsögn í stað fyrirskipana eða stýringar þar sem litið er á skipulagsheildina sem lifandi og síbreytilega. Fáar rannsóknir eru  til um vægi og gildi skapandi nálgunar í starfsháttum í heilbrigðisstarfsfólks. Markmið rannsóknar sem hér um ræðir er að kanna viðhorf heilbrigðisstarfsfólks til skapandi nálgunar við dagleg viðfangsefni og hugsanleg tengsl við áherslur í stjórnun hjá næsta yfirmanni.

Aðferðir: Gerð var spurningalistakönnun meðal alls starfsfólks á tveimur bráðamóttökudeildum á Landspítala í febrúar 2013. Þátttakendur voru hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, læknar, ritarar og annað starfsfólk. Spurt var um viðhorf til starfsumhverfis, stjórnunar (30 spurningar með 6 svarmöguleikum) og skapandi nálgunar við dagleg viðfangsefni (13 spurningar með 5 svarmöguleikum). Við úrvinnslu gagna var notuð lýsandi tölfræði og könnuð marktækni tengsla milli breyta með fylgnireikningum (Pearson correlation; marktæknimörk við p< 0,01).

Niðurstöður: Alls bárust 125 svör, svarshlutfall 50,6%. Starfsfólk á bráðadeildunum taldi sig almennt vera skapandi við lausn viðfangsefna og ánægt í starfi. Meirihluti starfsfólks telur skapandi nálgun í starfi vera mikilvæga og að þau njóti stuðnings við slíka nálgun í störfum sínum. Almennt telur starfsfólk yfirmenn sína vera styðjandi, umburðarlynda, ábyrga og forgangsraða fyrir hag heildarinnar. Jákvæð martæk tengsl (p<0,01) komu í ljós á á milli annars vegar skapandi nálgunar starfsfólks í störfum sínum á bráðadeildum og hins vegar stuðnings (0,43), forgangsröðunar (0,39), ábyrgðar (0,28), umburðarlyndis (0,27), hugrekkis (0,26), falsleysis (0,34), samfélagslegrar ábyrgðar (0,36) og auðmýktar næsta yfirmanns (0,28).

Ályktanir: Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um að áhersla yfirmanns á stuðning til starfsmanna, og þar með við frelsi og sjálfstæði starfsfólks, geti eflt getu starfsfólks til að nýta skapandi nálgun við dagleg viðfangsefni. Einnig að umburðarlyndi, auðmýkt, falsleysi og ábyrgð næsta yfirmanns geti eflt getu starfsfólks til að sýna frumkvæði í starfi og að nýta skapandi aðferðir við lausn viðfangsefna á bráðadeildum. Mikilvægt er að auka þekkingu um vægi skapandi nálgunar í menntun, þjálfun og störfum starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar til að eiga möguleika á að efla árangur og öryggi í heilbrigðisþjónustu.

 

15. Áhættuþættir og heilsa á meðgöngu hjá konum sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi

Agnes Gísladóttir1, Bernard L. Harlow2, Berglind Guðmundsdóttir1,3,4, Ragnheiður I. Bjarnadóttir5, Eyrún Jónsdóttir4, Thor Aspelund1,6, Sven Cnattingius7, Unnur A. Valdimarsdóttir1,8

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum Háskóla Íslands, 2faraldsfræðideild University of Minnesota School of Public Health, 3sálfræðideild Háskóla Íslands, 4neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis Landspítala, 5Fæðingaskrá - Kvennadeild Landspítala, 6Hjartavernd, 7Karolinska Institutet, 8faraldsfræðideild Harvard School of Public Health

 

Bakgrunnur: Upplifun á áfalli getur haft neikvæðar afleiðingar á heilsu fólks. Kynferðisofbeldi er eitt af algengustu áföllunum sem konur verða fyrir, en möguleg áhrif þess á meðgöngu hafa ekki verið skoðuð til hlítar.

Markmið: Að skoða hvort konur sem urðu fyrir kynferðisofbeldi á unglings- eða fullorðinsárum séu í aukinni hættu á óæskilegum einkennum á meðgöngu síðar á lífsleiðinni.

Aðferð: Ferilrannsókn byggð á samtengingu gagna frá Neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis (NM) við fæðingaskrá. Af 1421 konu sem leitaði til NM á árunum 1993-2008 höfðu 586 íslenskar konur síðar fætt barn til apríl 2011 (útsettur hópur). Einkenni þeirra voru borin saman við einkenni kvenna sem ekki höfðu leitað til NM, fæddu í sömu mánuðum og voru valdar af handahófi (n=1641, óútsettur hópur). Leiðrétt áhættuhlutfall (aRR) með 95% öryggisbili (CI) var reiknað með Poisson aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Útsettar konur voru samanborið við óútsettar konur yngri, líklegri til að vera ekki í sambúð (45.6% vs. 14.2%; aRR 2.15, CI 1.75–2.65), að reykja (45.4% vs. 13.5%; aRR 2.68, CI 2.25–3.20), og hafa neytt vímuefna á meðgöngu (3.4% vs. 0.4%; aRR 6.27, CI 2.13–18.43). Útsettar frumbyrjur voru líklegri til að vera of feitar (15.5% vs. 12.3%; aRR 1.56, CI 1.15–2.12). Ekki fannst marktækur munur á háþrýstingi eða meðgöngueitrun.

Ályktanir: Konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi eru líklegri til að vera með áhættuþætti á meðgöngu síðar á lífsleiðinni, sem auk áhrifa á heilsu móður geta jafnframt haft áhrif á fóstrið.

 

16. Árangur endurlífgunar utan sjúkrahúsa á Íslandi árið 2012

Bergþór Steinn Jónsson1, Hildigunnur Svavarsdóttir2,3, Felix Valsson4, Viðar Magnússon5

1Læknadeild HÍ, 2bráða-, fræðslu- og gæðasvið FSA, 3heilbrigðisvísindasviði HA, 4svæfinga- og gjörgæsludeild, 5bráðasviði Landspítala

Bakgrunnur: Rannsóknir á árangri endurlífgana á Íslandi hafa sýnt fram á 16-21% lifun fram að útskrift af sjúkrahúsi. Þær hafa eingöngu náð til höfuðborgarsvæðisins eða Akureyrar og einblínt á endurlífganir vegna bráðra hjartasjúkdóma.

Markmið: Í fyrsta lagi að meta árangur endurlífgunar utan sjúkrahúsa á Íslandi á árinu 2012 með tilliti til helstu áhrifaþátta, s.s. hvort vitni var að hjartastoppinu, hver var upphafs hjartataktur, viðbragðstíma sjúkrabíls, endurlífgun nærstaddra. Í öðru lagi að kanna hvort munur sé á árangri milli höfuðborgarsvæðisins, landsbyggðar þar sem atvinnu sjúkraflutningalið er á vakt allan sólarhringinn (þéttbýli) og landsbyggðarinnar þar sem hlutastarfandi sjúkraflutningamenn eru á bakvöktum (dreifbýli).

Aðferðir: Fengnar voru skýrslur sjúkraflutningamanna eða lækna úr endurlífgunum utan sjúkrahúsa á árinu 2012 frá öllum rekstraraðilum sjúkraflutninga á Íslandi. Upplýsingar um viðbragðstíma sjúkrabíls fengust hjá Neyðarlínunni og upplýsingar um útskrift af sjúkrahúsi fengust úr sjúkraskrám á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Við úrvinnsluna var Utstein staðlinum fylgt. -kvaðrat próf og t-próf voru notuð við tölfræðilega úrvinnslu og miðað við marktæktarkröfu p<0,05.

Niðurstöður: Alls var 121 endurlífgun þar sem sjúkraflutningamenn voru ekki vitni að hjartastoppi. 70 endurlífganir fóru fram á höfuðborgarsvæðinu, þar af útskrifuðust 13 (19%). Í þéttbýli utan höfuðborgarsvæðisins voru 21 endurlífgun þar af útskrifuðust 7 (33%). Í dreifbýli voru 30 endurlífganir þar af útskrifuðust 2 (7%). Munurinn á milli þessara svæða náði ekki marktækni (p=0,05). Ef aðeins var miðað við tilfelli þar sem vitni var að hjartastoppi og sjúklingur var í stuðvænlegum takti voru 18 tilfelli á höfuðborgarsvæðinu, þar af útskrifuðust 11 (61%). Í þéttbýli utan höfuðborgarsvæðis voru 7 tilfelli þar af útskrifuðust 5 (71%). Í dreifbýli voru 6 tilfelli þar af útskrifuðust 2 (33%). Munurinn á milli svæða var ekki marktækur (p=0,35). Stuðanlegur upphafstaktur, bráða hjartavandamál sem orsök hjartastopps og vitni að hjartastoppi reyndust vera þættir sem stuðluðu að marktækt aukinni lifun að útskrift (p<0,05).

Ályktanir: Fáar rannsóknir á Vesturlöndum hafa sýnt fram á betri árangur úr endurlífgunum utan sjúkrahúsa. Því benda niðurstöðurnar til þess að árangurinn á Íslandi sé góður í samanburði við önnur lönd. Mikilvægt er að bæta skráningu á endurlífgunum utan sjúkrahúsa og þörf er á rannsóknum sem ná yfir lengri tíma.

 

17. Komur á bráðamóttöku vegna sjálfsskaða og sjálfsvígstilrauna á Íslandi 2003-2012

Hildur Guðný Ásgeirsdóttir1, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir2,3, Brynjólfur Mogensen2,3, Unnur Valdimarsdóttir1, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir5, Sigrún Helga Lund1, Arna Hauksdóttir1

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum Háskóla Íslands, 2rannsóknarstofu Landspítala og HÍ í bráðafræðum, 3hjúkrunarfræðideild, 3læknadeild, 5hagfræðideild Háskóla Íslands

Bakgrunnur: Efnahagshrunið á Íslandi árið 2008 var einstakt hvað varðar umfang þess og hraða atburðarásarinnar. Íslenskar rannsóknir hafa bent til aukinnar hættu á streitu og þunglyndiseinkennum eftir efnahagsþrengingarnar, sérstaklega meðal kvenna. Þá hafa erlendar rannsóknir einnig bent til aukinnar tíðni sjálfsvíga við efnahagsþrengingar víðsvegar um heiminn. Aðalmarkmið þessarar rannsóknar var að skoða breytingar á tíðni sjálfsskaða og sjálfsvígstilrauna mismunandi hópa á Íslandi árin 2003-2012.

Aðferðir: Notaðar voru upplýsingar frá bráðasviði Landspítala. Skoðaðar voru allar komur á bráðamóttöku á árunum 2003-2012 þar sem ástæða komu var tilgreind sem sjálfsmeiðing, sjálfsvígstilraun, hugsanleg sjálfsvígstilraun eða sjálfsskaði af ásettu ráði samkvæmt Norræna orsakaskráningarkerfinu (NOMESCO) (hér eftir nefnd einu nafni sjálfsskaði). Skoðuð var þróun í tíðni á komum vegna sjálfsskaða fyrir og eftir efnahagshrunið í október 2008.

Niðurstöður: Á árunum 2003 til 2012 voru 3223 komur skráðar vegna sjálfsskaða; 36% voru karlar og 64% konur. Aldursdreifingin var svipuð eftir kynjum og var aldurshópurinn 18-25 ára fjölmennastur hjá körlum, en 26-35 ára hjá konum. Tölfræðilega marktæk aukning varð á skráðum komum eftir kreppu samanborið við fyrir kreppu (p=0.002). Árleg aukning koma vegna sjálfsskaða eftir hrun var 7.5 per 100.000 konur (p=0.004) og 4.15 per 100.000 karla (p= 0.02). Leiðrétt var fyrir mannfjöldaþróun. Mesta aukning var í aldurshóp 26-35 ára.

Ályktanir: Þó tölfræðileg úrvinnsla sé enn á frumstigi benda fyrstu niðurstöður til aukningar á tíðni skráðra koma á bráðamóttöku vegna sjálfsskaða í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi, bæði meðal kvenna og karla.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica