Ávarp

Ávarp

Magnus Gottfredsson

Magnús Gottfreðsson
yfirlæknir vísindadeildar
vísinda- og þróunarsviðs Landspítala

Vísindi, sjúklinganna vegna

Bandaríkjamenn eru gjarnir á að setja upp lista um allt milli himins og jarðar. Meðal þekktustu lista sem þannig eru birtir með reglulegu millibili eru m.a. listar yfir bestu sjúkrahús landsins. Þar vekur athygli að háskóla- og kennsluspítalar raða sér ávallt í efstu sætin. Hver skyldi vera ástæða þess? Mörg sjúkrahús sem ekki sinna háskólastarfsemi, kennslu og rannsóknum jafnhliða þjónustu við sjúklinga hafa engu að síður á að skipa afar hæfu og vel menntuðu starfsfólki og góðum tækjabúnaði og ættu því að óreyndu að teljast í fremstu röð, eða hvað? Munurinn felst að verulegu leyti í þeirri viðbót sem fæst við það hlutverk sem fylgir tengingunni við rannsóknir og kennslu. Í uppgjörum fyrirtækja er stundum talað um ,,óefnislegar eignir“. Góð háskólasjúkrahús búa yfir meiri slíkum ,,óefnislegum eignum“, sem felast í því að hafa innan sinna vébanda öflugt fagfólk sem er knúið áfram af faglegum metnaði, þörf fyrir að gera betur og skapa nýja þekkingu. Það eru einnig forréttindi háskólaspítala að búa að afar margbrotnu samfélagi innan sinna veggja, að hafa ungt fólk í þjálfun, forvitið og orkumikið, ásamt þeim sem eldri eru og reyndari. Fjölbreytni í réttum hlutföllum. Reynslan segir okkur að slíkar aðstæður ali af sér opinn huga og efli fagmennsku, hvort sem um er að ræða vísindalegar grunnrannsóknir eða beina klíníska þjónustu við sjúklinga. Þannig spítala viljum við hafa. Þess vegna ættu öflugar rannsóknir að vera eitt helsta baráttumál allra þeirra sem bera velferð sjúklinga fyrir brjósti, hvort sem um er að ræða fagfólk í heilbrigðisvísindum eða þeirra sem bera ábyrgð á stefnumótun á vettvangi stjórnmálanna.

Undanfarin ár hefur gefið á bátinn í íslensku samfélagi og hefur Landspítalinn ekki farið varhluta af því. Á árinu 2011 fækkaði vísindagreinum merktum starfsmönnum spítalans sem birtust í ritrýndum fagtímaritum, ef miðað er við árið á undan. Sem betur fer virðist sú öfugþróun hafa stöðvast á síðasta ári og frekar bæst við (mynd 1).

Þó er fullsnemmt að fullyrða að langtímaáhrif niðurskurðar og kreppu hafi þegar komið fram að öllu leyti. Fjöldi ágripa sem kynnt eru í vísindum á vordögum að þessu sinni er nokkuð lægri en undanfarin ár (mynd 2), en vonandi endurspeglar sú lækkun ekki samdrátt til lengri tíma. Spítalinn býr yfir miklum tækifærum, ef rétt er haldið á spilum.

Mikilvægt er að efla enn frekar tengsl spítalans við vísindasamfélagið og halda á lofti því frábæra vísinda- og nýsköpunarstarfi sem hér hefur verið unnið undanfarin ár. Lykillinn að áframhaldandi farsælu vísindastarfi á Landspítala er að tryggja eðlilega nýliðun fagfólks og skapa enn öflugri innviði. Þannig  getum við bætt forsendur fyrir rannsókna- og vísindastarf og með því þjónað bæði sjúklingum og samfélaginu best.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica