Ávarp
Velkomin á þingið
Ágætu kollegar og aðrir þinggestir!
Velkomin á 15. sameiginlega vísindaþing Skurðlæknafélags Íslands (SKÍ) og Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands (SGLÍ).
Þingið er haldið á sama stað og í fyrra enda teljum við Hörpu og umgjörð hennar henta því vel. Er það von okkar að þingið í ár verði jafn vel sótt og síðustu ár. Dagskráin verður með hefðbundnu sniði og hefst með ávarpi forseta læknadeildar Háskóla Íslands, Guðmundar Þorgeirssonar. Þar á eftir verður málþing um undirbúning aðgerða, hvort bæta megi meðferð sjúklinga með aukinni sérhæfingu og fækkun á meðferðarstöðum. Nokkrir erlendir fyrirlesarar koma á þingið og munu þeir taka þátt í áhugaverðum málþingum meðal annars um gjörgæslumeðferð framtíðar, briskrabbamein, stunguáverka og læknisfræði í þriðja heiminum. Hádegisfyrirlestrar verða með hefðbundnu sniði báða dagana.
Kynning vísindaerinda og veggspjalda er að venju mikilvægur hluti þingsins. Markmiðið er að tefla fram ungum læknum og læknanemum sem hafa lagt stund á rannsóknir og gefa þeim tækifæri að kynna niðurstöður sínar. Í ár bárust tæplega 50 erindi sem ber vitni um grósku í vísindastörfum sérgreina okkar. Á laugardeginum keppa síðan 6 unglæknar og læknanemar um verðlaun fyrir besta vísindaerindið sem er einn af hápunktum þingsins.
Vísindaþing af þessari stærðargráðu verður ekki haldið án stuðnings fyrirtækja í heilbrigðisrekstri og þjónustu. Í ár hafa fleiri fyrirtæki styrkt þingið en nokkurn tíma áður. Kunnum við þessum fyrirtækjum bestu þakkir fyrir.
Um leið og við bjóðum þig velkominn á þingið vonum við að þingið verði ánægjulegt.
Stjórn Skurðlæknafélags Íslands Stjórn Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands
Helgi Kjartan Sigurðsson, formaður Kári Hreinsson, formaður
Kristín Huld Haraldsdóttir, varaformaður Sigurbjörg Skarphéðinsdóttir, ritari
Kristján Skúli Ásgeirsson, gjaldkeri Ívar Gunnarsson, gjaldkeri
Tómas Guðbjartsson, ritari Guðmundur Klemenzson, meðstjórnandi
Gunnar Auðólfsson, meðstjórnandi
Umsjón með undirbúningi og framkvæmd
Athygli ráðstefnur, www.athygliradstefnur.is, birna@athygliradstefnur.is og thorunn@athygliradstefnur.is.