Ávarp
Bráðadeild er inngangur bráðveikra og slasaðra inn á Landspítala. Veikum og slösuðum er veitt eins góð þjónusta og tök eru á. Á bráðsviði er mikil fræðsla til sjúklinga, nema og starfsfólks og rannsóknir eru stundaðar í æ vaxandi mæli. Með um 100.000 komum veikra og slasaðra á hverju ári, vel menntuðu starfsfólki og umfangsmikilli rafrænni skráningu hefur bráðasvið Landspítala alla möguleika á mikilvirkum rannsóknum sem geta fengið hljómgrunn í alþjóðlegu vísindasamfélagi. Rannsóknir eru grunnurinn að góðri þjónustu við sjúklinga á bráðasviði. Þær eru gerðar með það að markmiði að fá fram gagnreynda þekkingu á mismunandi þáttum í starfseminni; tengdum sjúklingum og meðferðum, verkferlum, skipulagi og öðru. Þannig fæst vitneskja um hvað er verið að gera vel og hvað má gera betur.
Bráðadagurinn er árleg uppskeruhátíð bráðasviðs, með kynningum á rannsóknum og verkefnum tengdum starfsemi sviðsins. Að þessu sinni var þemað forvarnir haft að leiðarljósi og lögð sérstök áhersla á að fá til kynningar rannsóknarniðurstöður. Auglýst var eftir erindum innan sviðs sem utan og bárust 22 erindi sem öll voru ritrýnd af undirbúningsnefndinni og birt í ráðstefnuritinu sem er fylgirit með Læknablaðinu. Dagskárin endurspeglar það frjóa starf sem unnið er á bráðasviði Landspítala en einnig hina þverfaglegu aðkomu að starfsemi sviðsins og mikilvægar tengingar þess við menntastofnanir, deildir spítalans og aðrar sjúkrastofnanir.
Það er með stolti og ánægju sem við í undirbúningsnefndinni kynnum dagskrá Bráðadagsins 2013. Von okkar er að ágripin skapi umræður og áhuga auk þess að hvetja til enn frekari rannsókna sem efla starfsemi sviðsins.
Við færum öllum þeim sem sendu inn ágrip, styrktaraðilum, fundarstjórum og starfsfólki bráðasviðs bestu þakkir fyrir framlag þeirra til Bráðadagsins 2013.
Fyrir hönd undirbúningsnefndar
Bráðadagsins 2013,
Dr. Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir
verkefnastjóri, rannsóknarstofu Landspítala og
Háskóla Íslands í bráðafræðum
Undirbúningsnefnd Bráðadagsins 2013
Anna I. Gunnarsdóttir, lyfjafræðingur
Brynjólfur Mogensen, yfirlæknir
Helga Rósa Másdóttir, hjúkrunarfræðingur
Viðar Magnússon, yfirlæknir
Þorsteinn Jónsson, hjúkrunarfræðingur
Þórdís K. Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri (formaður)