Ágrip erinda

Ágrip erinda

E-01  Holsjáraðgerðir gegnum endaþarmsop: Uppgjör fyrstu aðgerða á Íslandi

Helena Árnadóttir1, Páll Helgi Möller1,2, Helgi Kjartan Sigurðsson1,2

1Skurðlækningadeild Landspítala, 2læknadeild HÍ

Helenar@landspitali.is

Tilgangur: Holsjáraðgerð í gegnum endaþarmsop (HGE) er nýr valmöguleiki í meðhöndlun á góðkynja og útvöldum illkynja æxlum í endaþarmi. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna fjölda aðgerða, ábendingar og árangur.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum sem framkvæmd var á HGE-aðgerð á Íslandi fram til loka árs 2011. Sjúkraskrár voru skoðaðar m.t.t. ábendinga, fylgikvilla, vefjagreininga og árangurs aðgerða.

Niðurstöður: Alls voru 33 HGE-aðgerðir framkvæmdar á 32 sjúklingum. Ábendingar aðgerða voru góðkynja (n=28) og illkynja, eða grunur um illkynja (n=5) æxli. Miðgildi aldurs var 70 ár (bil: 37–90), og kynjaskipting var jöfn. Neðri brún æxlis var að meðaltali 8 cm (bil: 0-18) frá endaþarmsopi og voru æxlin á bilinu 0,2-5,5 cm í þvermál. Engir meiriháttar fylgikvillar komu fram í eða eftir aðgerð. Í sex (18%) aðgerðum urðu minniháttar fylgikvillar, blæðing (n=2) og rof á lífhimnu (n=4) sem auðveldlega tókst að meðhöndla. Í einu tilfelli var HGE-aðgerð breytt strax í opna aðgerð vegna stærðar og legu æxlis. Flest æxlanna voru góðkynja (n=25); píplu- og títukirtilæxli með lággráðu (n=15) eða hágráðu misvexti (n=8), og örvefur (n=2). Önnur æxli voru illkynja (n=8), 7 kirtilkrabbamein og 1 krabbalíki. Fimm (16%) sjúklingar fengu fylgikvilla eftir aðgerð. Fjórir fengu hita en af þeim fengu þrír einnig þvagtregðu. Einn fékk tímabundna garnalömun. Tveir sjúklingar fóru í brottnám á endaþarmi í kjölfar HGE vegna djúpvaxtaræxlis.

Ályktun: HGE-aðgerð hefur reynst góður valkostur við opna aðgerð þegar fjarlægja á valin æxli í endaþarmi. Árangur aðgerða og tíðni minniháttar fylgikvilla er mjög sambærileg niðurstöðum erlendra rannsókna. Engir meiriháttar fylgikvillar hafa komið upp í eða eftir HGE-aðgerðir á Íslandi.

 

E-02  Gallblöðrunám með kviðsjártækni á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Yfirlit yfir 1000 aðgerðir

Haraldur Hauksson, Sigurður Albertsson, Valur Þór Marteinsson, Hafsteinn Guðjónsson, Theodór Sigurðsson, Shree Datye

Handlækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri (FSA)

haraldur@fsa.is

Inngangur: Frá fyrstu aðgerð 27. júlí 1992 hefur gallblöðrunám með kviðsjártækni verið fyrsta valaðgerð við gallblöðrunám á FSA. Árangri og fylgikvillum við 1000 fyrstu aðgerðirnar á FSA erl ýst og þær bornar saman við niðurstöður á Landspítala (LSH) og erlendis.

Efniviður og aðferðir: Þann 28. feb. 2011 höfðu verið framkvæmdar 1051 aðgerðir. Í 15 tilfellum voru aðgerðirnar hluti af annarri opinni aðgerð. Í 36 tilfellum var opin aðgerð valin frá byrjun. 1000 sjúklingar fóru í gallblöðrunám með kviðsjártækni, 774 konur (77%) og 226 karlar (23%). Meðalaldur var 50 ár (bil 20-90 ár). 68% sjúklinga voru frá Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu.

Niðurstöður: Valaðgerðir voru 934 en bráðaaðgerðir 66. Breyta þurfti í opna aðgerð hjá 55 sjúklingum (5,5%), oftast vegna bólgu eða samvaxta (n=39). Meðallegutími eftir aðgerð var 2,7 dagar (bil: 0-45) og styttist úr 3,6 dögum hjá fyrstu 400 sjúklingum í 1,4 daga í lok tímabils. Fylgikvillar komu fyrir hjá 79 sjúklingum (7,9%). Alvarlegasti fylgikvilli við þessar aðgerðir utan dauðsfalla er skaði á megingallrás og kom fyrir hjá þremur sjúklingum (0,3%). Tveir fengu málmklemmu á megingallrás, en klemman var fjarlægð í sömu aðgerð hjá öðrum þeirra, en í enduraðgerð hjá hinum. Sá þriðji hafði erfiða bólgu og gallblaðra tengdist beint megingallrás. Allir fengu bata af tímabundnum þrengingum á gallrásinni með endurteknum víkkunum og stoðleggsísetningum. Enduraðgerð í sömu legu þurfti hjá 7 sjúklingum (0,7%). Eftirlegusteinar í gallrás greindust hjá 12 einstaklingum (1,2%). Dauðsföll eftir aðgerð voru þrjú (0,3%).

Ályktun: Á FSA er gallblöðrunám með kviðsjártækni örugg aðgerð. Fylgikvillar og dánartíðni er lág og fyllilega sambærileg við tölur frá LSH og sambærilegar stofnanir erlendis.

 

E-03  Gallrásarsteinar eftir gallblöðrutöku á Landspítala 2008-2011

Þórey Steinarsdóttir1, Elsa Björk Valsdóttir1,2, Páll Helgi Möller1,2

1Skurðlækningadeild Landspítala, 2læknadeild Hákóla Íslands

thorey.steinarsdottir@gmail.com

Inngangur: Einkenni um gallsteina í gallrás geta komið fram eftir gallblöðrutöku. Ef gallrásarsteinar greinast innan tveggja ára er talið að steinn hafi verið til staðar við aðgerðina. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna fjölda sjúklinga sem greindust með gallrásarstein eftir gallblöðrutöku á Landspítala 2008-2011 og meta hvort gallrásarsteinar við gallblöðrutökur séu vangreindir.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn þar semupplýsingum um sjúklinga var safnað úr sjúkraskrárkerfi Landspítala. Lifrarpróf, niðurstöður myndgreiningar, tími frá aðgerð, meðferð og fylgikvillar voru meðal þess sem skráð var.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu greindust 40 sjúklingar með gallrásarstein eftir gallblöðrutöku. Útreiknað algengi var 2%. Meðalaldur var 49,5 ár (bil: 20-89) og konur voru 24 (60%). Meðaltími frá aðgerð að greiningu gallrásarsteins voru 382 dagar. Greining var staðfest í 87,5% tilfella. Hjá 36 (90%) sjúklingum var meðferð gerð með afturvirkri gall- og brisrásamyndatöku með holspeglun (ERCP). Gallrásamyndataka með ástungu gegnum kviðvegg og lifur (PTC) var gerð hjá einum sjúklingi en þremur sjúklingum batnaði án meðferðar og einn fór í opna aðgerð. Þrír sjúklingar fengu fylgikvilla vegna meðferðar. Gallrásarsteinn greindist innan við tveimur árum frá aðgerð hjá 31 sjúklingi (77,5%). Tíðni fyrri gallrásarsteina, hækkunar á bilirúbíni eða víkkunar á gallgöngum án sjáanlegs steins var svipuð hvort sem steinar greindust snemma eða seint.

Ályktanir: Algengi gallrásarsteina eftir gallblöðrutöku er svipað á Landspítala og í öðrum löndum. Nær alla er hægt að meðhöndla án skurðaðgerðar. Þó meirihluti steina greinist innan tveggja ára verður ekki séð að grunur um gallrásarstein hafi átt að vakna við sjálfa gallblöðrutökuna.

 

E-04  Svínahúð (Strattice) í tafarlausum brjóstauppbyggingum. Er hún þess virði?

Hrólfur Vilhjálmsson1, Davíð Þór Þorsteinsson2, Þorvaldur Jónsson2, Kristján Skúli Ásgeirsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2skurðlækningadeild Landspítala

kriskuli@landspitali.is

Inngangur: Notkun ígræðis er algengasta tegund tafarlausra brjóstauppbygginga hér á landi og í u.þ.b. 75% tilfella er um tveggja stiga aðgerð að ræða, þ.e. vefjaþenjari settur undir brjóstvöðva í fyrri aðgerð og sílikon ígræði sett í þeirri seinni. Notkun lífræns húðbeðs (StratticeTM tissue matrix) er talin geta aukið möguleika á því að hægt sé að gera fleiri uppbyggingar í einni aðgerð. Við lýsum hér fyrstu aðgerðum þar sem þetta efni hefur verið notað í brjóstauppbygginum hér á landi og ræðum kosti og galla notkunar þess.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á þeim 6 aðgerðum þar sem StratticeTM hefur verið notað í brjóstauppbyggingum. Kostnaðargreining var unnin eftir upplýsingum hagdeildar Landspítala

Niðurstöður: 5 konur á aldrinum 44-61 árs (meðaltal 52,4 ár) fóru í samtals 7 tafarlausar brjóstauppbyggingar. Í 6 tilvikum (86%), var ígræði sett beint en í einu tilfelli var vefjaþenjari notaður.  Minniháttar húðdrep komu fyrir í 3 tilvikum (43%), sem þurfti að laga í minniháttar aðgerð á göngudeild, en meiriháttar húðdrep í kjölfar húðsýkingar kom fyrir 1 tilfelli (14%). Til þessa hefur ekki þurft að fjarlægja ígræði vegna þessara vandamála. Kostnaður aðgerða (efniskostnaður, skurðstofutími, legudagar á deild, göngudeildarkomur) þar sem Strattice var notað var áætlaður 1.081.700 kr. en í tveggja stiga ígræðisuppbyggingu 1.169.317 kr. og latissimus dorsi flipa 1.395.527 kr.

Ályktun: Flestir sjúklingarnir gengust undir eina aðgerð. Minniháttar húðdrep virðist algengara í tafarlausum uppbyggingum þar sem Strattice er notað, en kostnaður samanborið við tveggja stiga ígræðisuppbyggingu sambærilegur. Í vel völdum sjúklingum er ábending fyrir notkun þessa efnis.

 

E-05  Meðgöngusykursýki á Íslandi 2007-2008

Ómar Sigurvin Gunnarsson1, Hildur Harðardóttir1, Arna Guðmundsdóttir2

1Kvennadeild og 2göngudeild sykursjúkra, Landspítala

omarsg@landspitali.is

Inngangur: Eldri rannsóknir sýna að hjá konum með meðgöngusykursýki (MGS) er líklegra að fæðing sé framkölluð og að fæðing verði með keisaraskurði. Fylgikvillar nýburans eru m.a. axlaklemma, fósturköfnun, nýburagula og blóðsykurfall. Tíðni MGS var 2,3% á Íslandi árið 2003 en erlendis er tíðnin 3-14%. Í þessari rannsókn var könnuð tíðni MGS og fylgikvilla móður og nýbura á Íslandi 2007-08.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin tók til allra kvenna sem greindust með og/eða komu til meðferðar vegna MGS á Landspítala 1. janúar 2007 til 31. desember 2008. Skráður var aldur og þjóðerni móður, fylgikvillar á meðgöngu og í fæðingu, fæðingarmáti, fæðingarþyngd, fæðingaráverkar og fylgikvillar nýbura. Niðurstöður voru bornar saman við almennt þýði á sama tíma með lýsandi tölfræði.

Niðurstöður: MGS greindist á 4,6% meðganga. Ef rannsóknarhópur er borinn saman við almennt þýði sést að framköllun fæðingar var algengari (44,3% og 18,5%; p<0,0001) sem og fæðing með keisaraskurði (29,4% og 17,6%; p<0,0001), bæði val- (11,8% og 6,1%; p=0,0004) og bráðaaðgerð (17,6% og 11,5%; p=0,0027). Nýburar kvenna með MGS voru líklegri til að fá blóðsykurfall (13,5% og 2,4%; p<0,0001), nýburagulu (12,8% og 8,5%; p=0,018) og viðbeinsbrot (2,4% og 1%; p=0,027) en tíðni axlaklemmu var ekki aukin (1,4% og 0,6%; p=0,11), né tíðni fyrirburafæðinga (7,6% og 6,6%; p=0,47) eða andvana fæðinga (0,7% og 0,4%; p=0,11).

Ályktanir: Tíðni meðgöngusykursýki á Íslandi hefur tvöfaldast frá árinu 2003 en 4,6% þungaðra kvenna greinast með hana. Meðgöngusykursýki eykur líkur á inngripum, bæði framköllun fæðingar og fæðingu með keisaraskurði, val- og bráðaaðgerð. Fylgikvillar barns eru algengari en axlaklemma ekki.

 

E-06  Er gagn af segulómskoðun (MRI) á brjóstum fyrir skurðaðgerð vegna brjóstakrabbameins?

Kristín Huld Haraldsdóttir1, Margrét Agnarsdóttir2, Þorvaldur Jónsson1, Kristján Skúli Ásgeirsson1,3

1Skurðlækningadeild og 2Rannsóknarstofu í meinafræði, Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

kristinh@landspitali.is

Inngangur: Á Landspítala er segulómskoðun (MRI) brjósta til viðbótar hefðbundnari myndgreiningarrannsóknum framkvæmd fyrir aðgerð vegna brjóstakrabbameins. Þó deilt sé um gagnsemi þess er talið að þessi rannókn geti gefið viðbótarupplýsingar um umfang sjúkdóms í brjósti. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða mat MRI, röntgenrannsóknar (MGM) og ómskoðunar (US) á umfang sjúkdóms í brjósti fyrir aðgerð, og bera saman við vefjagreiningu.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem greindust með ífarandi brjóstakrabbamein á árunum 2007-2009. Rannsóknarhópurinn var þannig skilgreindur að lýsing á umfangi/stærð sjúkdóms í öllum þremur myndgreiningarrannsóknnum (MRI, MGM, US) fyrir skurðaðgerð lægi fyrir, auk vefjagreiningar.

Niðurstöður: Alls greindust 648 sjúklingar með brjóstakrabbamein á tímabilinu. MRI var framkvæmt hjá 438 (68%). Samtals voru 335 sjúklingar með upplýsingar um umfang/stærð í öllum þremur rannsóknum (MRI, MGM og US). Þannig voru 103 útilokaðir, ýmist vegna þess að upplýsingar um stærð lágu ekki fyrir eða æxlið var ekki greinanlegt á einni af rannsóknunum. Stærð ífarandi krabbameina á MGM og US var marktækt vanmetin miðað við vefjagreiningu (p=0,02 og p<0,01). Í 37 tilfellum (11%) reyndist stærðin ≥10 mm minni á US en vefjagreiningu en í 23 (7%), var slíkur munur til staðar á MGM. Ekki reyndist marktækur munur á stærð á MRI og vefjagreiningu. Í 30 tilfellum (9%), var stærðin á MRI ≥10 mm miðað við vefjagreiningu. Í öðrum 30 (9%), greindi MRI fjöluppsprettusjúkdóm sem ekki var greint með MGM eða US.

Ályktun: MRI gefur nákvæmari upplýsingar um stærð ífarandi brjóstakrabbameins heldur en MGM eða ómskoðun. Í 18% tilfella ofmetur MRI stærð eða greinir fjöluppsprettusjúkdóm. Slíkar niðurstöður geta leitt til breytingar á tegund brjóstaskurðaðgerðar, sem mælt er með.

 

E-07  Innlagnir á gjörgæsludeild í tengslum við meðgöngu og/eða fæðingu

Inga Rós Valgeirsdóttir1, Guðmundur Klemenzson2, Aðalbjörn Þorsteinsson2, Ragnheiður Inga Bjarnadóttir1

1Kvennadeild og 2svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala

inga.ros.valgeirsdottir@gmail.com

Inngangur: Ýmsir fylgikvillar geta komið upp í tengslum við meðgöngu og fæðingu. Alvarleg sjúkdómsbyrði kvenna og innlagnir á gjörgæslu hefur verið notað sem mælikvarði á gæði mæðraeftirlits, heilbrigðisþjónustu og fæðingarhjálp þungaðra kvenna.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á innlögnum á gjörgæsludeild Landspítala í tengslum við meðgöngu og/eða fæðingu frá árinu 2001 til 2010 (n=136). Skráð var innlagnarástæða, legutími, mögulegir áhættuþættir, lífsmörk við innlögn, meðferð og afdrif sjúklinganna.

Niðurstöður: Alls voru 1,48% (n=136) allra gjörgæsluinnlagna tengdar meðgöngu og/eða fæðingu. Tíðni innlagna var 2,8/1000 fæðinga (eftir ≥22 vikna meðgöngu). Miðgildi legutíma var 12 klst. (bil:1,2 - 807,2 klst.). Meðalaldur var 30,4±6,3 ár. Algengustu innlagnarástæðurnar voru blæðing eftir fæðingu (með eða án blóðstorkusóttar) (52,9%), háþrýstingur og/eða háþrýstingstengdir fylgikvillar meðgöngu (22,1%) og sýklasótt (9,6%). Helstu undirliggjandi sjúkdómar voru háþrýstingur (12,6%), geðsjúkdómar (6,7%) og sykursýki (5,2%). Algengustu meðgöngutengdu sjúkdómarnir voru meðgöngueitrun (27,2%), HELLP heilkenni (8,8%) og föst fylgja (5,9%). Andvana fæðingar voru 7,0% og innlagnir tengdar tvíburameðgöngu voru 8,1%. Helstu aðgerðir og inngrip voru bráða- eða bjöllukeisari (47,8%), handþreifað leghol (16,9%) og legnám (13,2%). Öndunarvélameðferð var beitt í 30,9% tilvika, háþrýstingsmeðferð í 25,0% tilvika, holæðarlegg komið fyrir í 21,3% tilvika og samdráttarhvetjandi hjartalyf gefin í 11,8% tilvika. Alls var gefinn blóðhluti í 64,0% tilvika. Dánartíðni var 0,8% (ein kona lést, í kjölfar heilablæðingar).

Ályktanir: Niðurstöðurnar eru sambærilegar við það sem þekkist erlendis. Mikilvægt er að heilbrigðisstarfsfólki sé kunnugt um áhættuþætti svo hægt sé að flýta greiningu og koma í veg fyrir varanlega og alvarlega sjúkdómsbyrði ungra kvenna.

 

E-08  Botnlangabólga á meðgöngu á árunum 1994-2009

Hrund Þórhallsdóttir1, Elsa Björk Valsdóttir2,3, Ragnheiður Inga Bjarnadóttir1,3, Auður Smith1

1Kvenna- og barnasviði og 2skurðlækningadeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

hrundtho@gmail.com

Bakgrunnur: Botnlangabólga er algengasti sjúkdómurinn á meðgöngu sem krefst skurðaðgerðar, án þess að tengjast meðgöngunni. Töf á greiningu getur haft alvarlega fylgikvilla í för með sér. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna nýgengi og meta árangur meðferðar við botnlangabólgu á meðgöngu og fyrstu 6 vikurnar eftir fæðingu á Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Farið var yfir sjúkraskrár kvenna sem gengust undir aðgerð á Landspítala 1994-2009 vegna botnlangabólgu á meðgöngu og fyrstu 6 vikunum eftir fæðingu. Meðgöngulengd við greiningu, sjúkdómseinkenni, greiningaraðferð, tegund skurðaðgerðar, fylgikvillar, niðurstöður meinafræðiskoðunar, legutími og notkun samdráttarhemjandi lyfja ásamt meðgöngulengd við fæðingu barns voru skráð.

Niðurstöður: 62 konur uppfylltu skilyrði rannsóknarinnar. Meðgöngulengd var 4 til 37 vikur og tími eftir fæðingu 4-42 dagar. Algengasta kvörtunin var kviðverkur í hægri neðri fjórðungi. Greining byggðist á einkennum hjá 63 (97%). 50 (80,6%) fóru í kviðsjárspeglun, 8 (12,9%) í opna aðgerð og ein gekkst undir keisaraskurð við greiningu. Þrjár voru meðhöndlaðar með sýklalyfjum. Ein fékk fylgikvilla í aðgerð og fjórar eftir aðgerð. Ein missti fóstur. Það var rof á botnlanga í 22,7% og 13,3% tilfella (meðganga og eftir fæðingu). Meðallegutími var 2,7 dagar. Meinafræðirannsókn staðfesti sjúkdóm í 75% og 83% tilfella (meðganga  og eftir fæðingu). Nýgengi sjúkdómsins á meðgöngu er 0,07%.

Ályktun: Kviðsjáraðgerð við botnlangabólgu er örugg fyrir ófrískar konur og fylgikvillar sjaldgæfir. Greining út frá einkennum og skoðun er ásættanleg. Nýgengi botnlangabólgu á meðgöngu er eins og í nágrannalöndum. Það getur reynst erfitt að greina botnlangabólgu hjá konum á fyrstu vikunum eftir fæðingu.

 

E-09  Brjóstnám í fyrirbyggjandi eða áhættuminnkandi skyni á Landspítala 2008–2012. Erum við á réttri leið?

Davíð Þór Þorsteinsson1, Katrín Jónsdóttir1, Þorvaldur Jónsson1, Höskuldur Kristvinsson1, Kristján Skúli Ásgeirsson1,2

1Skurðlækningasviði Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

david.thor.thorsteinsson@gmail.com

Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt að brjóstnám í fyrirbyggjandi eða áhættuminnkandi skyni (BÍFÁS) áður en brjóstakrabbamein greinist, getur bætt horfur. Þetta á sérstaklega við um konur með arfgenga áhættu (arfberar BRCA1/BRCA2 genastökkbreytinga). Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða BÍFÁS á Landspítala á ákveðnu tímabili og ábendingar fyrir þeim.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum konum sem gengust undir BÍFÁS á Landspítala 2008-2012.

Niðurstöður: Á tímabilinu voru 26 BÍFÁS framkvæmd hjá 20 konum. 13 konur (65%) voru með arfgengan sjúkdóm (11 BRCA2, 2 BRCA1). Meðalaldur var 47 ár (bil: 33–64). Í 8 (31%) tilfellum var BÍFÁS gert á gagnstæðu brjósti í sömu aðgerð og brjóstakrabbamein var fjarlægt úr hinu. Af þessum konum reyndust 4 (50%) með eitlajákvætt brjóstakrabbamein við vefjagreiningu. Síðbúið BÍFÁS á 8 brjóstum (27%) var framkvæmt hjá 7 konum 1-17 árum eftir skurðaðgerð vegna brjóstakrabbameins (miðgildi tímabils 6,8 ár). Setkrabbamein greindist úr einu brjósti í hópnum. Í 10 (38%) tilfellum var BÍFÁS gert á báðum brjóstum hjá 5 konum sem ekki höfðu áður greinst með brjóstakrabbamein. Meðalaldur var 43 ár (33–54 ára). Þær voru allar með arfgenga áhættu, þrjár arfberar BRCA2 stökkbreytingar en tvær BRCA1 og fannst setkrabbamein í einu brjósti við vefjagreiningu.

Ályktanir: Aðeins fjórðungur gekkst undir BÍFÁS án þess að hafa áður greinst með brjóstakrabbamein. Ekki er ljóst hvaða áhrif BÍFÁS hefur á horfur kvenna sem hafa á sama tíma, eða áður, greinst með brjóstakrabbamein. Með bættum tengslum erfðaráðgjafar við brjóstaskurðlækningaeiningu Landspítala má vænta þess að aukning verði á BÍFÁS fyrir greiningu brjóstakrabbameins.

 

E-10  Ígræðslur nýrna frá lifandi gjöfum á Íslandi: Árangur fyrstu 50 ígræðslanna

Björg Jónsdóttir1, Árni Sæmundsson4, Margrét Birna Andrésdóttir2, Viðar Örn Eðvarðsson3, Jóhann Jónsson1,5, Runólfur Pálsson2,4, Eiríkur Jónsson1,4

1Skurðlækningasviði, 2lyflækningasviði og 3Barnaspítala Hringsins, Landspítala; 4læknadeild Háskóla Íslands; 5Fairfax Hospital, Virginia, Bandaríkjunum

bjorgjo@landspitali.is

Inngangur: Árið 2003 fór fyrsta nýrnaígræðsan frá lifandi gjafa fram á Íslandi en ígræðslur nýrna frá látnum gjöfum hafa ekki farið fram hér á landi. Markmið rannsóknarinnar var meta árangur af fyrstu 50 ígræðslunum.

Efniviður og aðferðir: Þetta var afturskyggn rannsókn á fyrstu 50 ígræðslum nýrna frá lifandi gjöfum sem fóru fram á tímabilinu desember 2003 til maí 2011. Fengnar voru upplýsingar um gjafa og þega úr sjúkraskrám og Íslensku nýrnabilunarskránni.

Niðurstöður: Miðaldur nýrnagjafa var 47 ár (bil: 23-72) og í 39 tilvikum (78%) var gjafinn skyldur þeganum. Flest gjafanýru voru numin brott með kviðsjáraðgerð (60%) og miðgildi tímalengdar aðgerða var 202 mínútur (bil: 170-275) fyrir kviðsjáraðgerðir en 127 mínútur (bil: 99-106) fyrir opnar aðgerðir. Miðgildi sjúkrahúslegu gjafa var 3 dagar (bil: 2-8 dagar). Engir meiriháttar fylgikvillar komu fram. Miðaldur þega reyndist 48 ár (spönn, 4-76) og sex (12%) voru að fá sinn annan nýrnagræðling. Miðgildi heits blóðþurrðartíma var 3 mínútur (spönn, 2-7,3). Einn nýrnagræðlingur (2%) starfaði aldrei vegna blóðsega í nýrnabláæð og sjö sjúklingar (14%) fengu meðferð við bráðri höfnun innan viku frá aðgerð. Miðgildi sjúkrahúslegu þega var 5 dagar (bil: 2-26). Einn þegi var greindur með brátt hjartadrep innan mánaðar frá aðgerð og annar með blóðrek í lungum. Einn þegi lést vegna lungnakrabbameins 3,8 árum frá aðgerðardegi. Miðgildi kreatíníns þega ári eftir ígræðslu var 109 µmól/l (bil: 33-193).

Ályktun: Fyrsta reynsla af ígræðslum nýrna frá lifandi gjöfum á Íslandi er góð og sambærileg við það sem þekkist í öðrum löndum.

 

E-11  Skurðmeðferð legusára á Landspítala 2001-2010

Davíð Jensson1, Jens Kjartansson1,2

1Lýtalækningadeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

Davidjensson81@gmail.com

Inngangur: Meðferð við legusárum er löng og kostnaðarsöm. Aðeins lítill hluti legusára krefst skurðaðgerða. Sjúklingar sem undirgangast skurðaðgerð eru sjúklingar með III og IV stigs legusár. Þetta eru sár með fullþykktar húðdrepi og mismiklu drepi á undirliggjandi vefjum. Meðferðin er skurðaðgerð með lokun á sári, flipaaðgerð og/eða húðágræðslu. Tilgangur verkefnis var að framkvæma afturskyggna rannsókn á meðferð legusára á tímabilinu 2001-2010. Skoðað var sérstaklega tegund aðgerðar, gangur eftir aðgerð, legutími og þörf fyrir enduraðgerð á fyrsta ári eftir útskrift.

Efniviður og aðferðir: Um er að ræða afturskyggna rannsókn. Farið var í sjúklingabókhald á lýta- og brunaskurðdeild Landspítala og þaðan fenginn listi yfir sjúklinga sem lögðust inn og undirgengust aðgerð vegna legusárs frá byrjun árs 2001 fram til loka árs 2010.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu lögðust inn til aðgerðar 49 sjúklingar, þar af 33 (67%) með mænuskaða. Heildarinnlagnir voru 73. Fjórtán sjúklingar (19%) lögðust inn af öðrum deildum spítalans með legusár. Alls þurfti að framkvæma skurðaðgerð á 83 legusárum; yfir spjaldbeini hjá 24 (29%), setbeini hjá 41 (49%), lærhnút hjá 14 (17%) og annars staðar í 4 tilfellum (5%). Miðgildi legudaga var 34 dagar (bil 3-265), 28 fyrir húðfellsflipa (n=21) og 41,5 fyrir vöðvahúðflipa (n=51). Sjö sjúklingar (9,7%) gengust undir enduraðgerð í legunni, vegna sýkingar (n=2), opnun í sári (n=3) og blæðingar (n=2). Endurkomutíðni sárs innan eins árs frá útskrift var 18,3% (n=15).

Ályktanir: Legutími var lengri hjá sjúklingum sem undirgengust aðgerð með vöðvahúðflipa. Tíðni enduraðgerða í legunni var sambærileg samanborið við erlendar rannsóknir. Húðvöðvaflipi var framkvæmdur í meirihluta tilfella. Ekki var marktækur munur á endurkomutíðni legusárs fyrsta árið milli húðfellsflipa og vöðvahúðflipa.

 

E-12  Lyfjameðferð í tengslum við vélindabrottnám á Landspítala 2004-2009

Birgir Guðmundsson1, Davíð Þór Þorsteinsson2, Guðjón Birgisson1,2, Sigurður Blöndal1,2, Agnes Smáradóttir3, Kristín Huld Haraldsdóttir2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2skurðlækningadeild og 3krabbameinsdeild Landspítala

big6@hi.is

Inngangur: Tíðni kirtilmyndandi krabbameins í vélinda fer vaxandi. Þrátt fyrir meðferð eru horfur sjúklinga slæmar. Undanfarin ár hefur krabbameinslyfjameðferð fyrir aðgerð (neoadjuvant) verið beitt í auknu mæli þar sem rannsóknir hafa sýnt betri horfur en við skurðaðgerð eingöngu. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða þá meðferð hérlendis.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem greindust með kirtilmyndandi krabbamein á vélinda- og magamótum á tímabilinu 2004-2009. Farið var yfir sjúkragögn og upplýsinga aflað um faraldsfræði, meðferð og meinafræðisvör.

Niðurstöður: Alls var 101 einstaklingur greindur með krabbamein á vélinda- og magamótum á tímabilinu, þar af 70 (69%) með kirtilmyndandi krabbamein. Af þeim greindust 35 með dreifðan sjúkdóm og fengu líknandi meðferð með lyfjum og/eða geislum. Hinir 35 voru með staðbundinn sjúkdóm og fóru 13 beint í aðgerð. Alls fengu 22 (63%) lyfjameðferð fyrir aðgerð. Fjórir (18%) luku ekki þeirri meðferð; tveir vegna versnandi heilsufars og tveir vegna nýtilkominna meinvarpa. Einn reyndist við aðgerð vera óskurðtækur. Vélindabrottnám var því gert á 30 (86%) einstaklingum. Af þeim fengu 17 lyfjameðferð eftir aðgerð en 13 ekki og var algengasta ástæða þess ástand sjúklings eftir aðgerð.

Ályktanir: Helmingur sjúklinga var með dreifðan sjúkdóm við greiningu. Í aðgerðarhópi fóru 63% í lyfjameðferð fyrir aðgerð og þoldist sú meðferð vel. Einungis 57% fengu lyfjameðferð eftir aðgerð, en ástæður þess eru margvíslegar. Þetta er í samræmi við erlendar niðurstöður.

 

E-13  Gildi segulómunar af gall-og brisvegum (MRCP) í sjúklingum með grun um steina í gallvegum

Ingvar Þ. Sverrisson1, Einar Stefán Björnsson2,4, Bjarki Ívarsson3, Helgi Már Jónsson3, Pétur Hannesson3, Sigurður Blöndal1,4

1Skurðlækningadeild, 2meltingarlækningadeild og 3myndgreiningadeild Landspítala. 4læknadeild Háskóla Íslands

ingvarsv@landspitali.is

Inngangur: Steinar í gallvegum er algeng og mögulega hættulegt birtingarform gallsteinasjúkdóms. Segulómun af gall- og brisvegum (MRCP) hefur rutt sér til rúms til að ákvarða tilvist steina í gallvegum. Gildi segulómunar til að útiloka steina í gallvegum var viðfangsefni rannsóknarinnar.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum með grun um steina í gallvegum sem gengust undir segulómun á Landspítala árið 2008. Sjúklingar með aðrar ábendingar fyrir segulómun en steina í gallvegum voru útilokaðir. Upplýsinga var aflað um aldur, kyn, lifrar- og brisprufur og fjölda sjúklinga sem fóru í ERCP í kjölfar segulómunar.

Niðurstöður: Alls fóru 179 sjúklingar (konur 63%, meðalaldur 56 ár) í segulómun vegna gruns um steina í gallvegum. Samtals voru 49 sjúklingar með gallsteina á segulómun og 130 án steina. Alls fóru 55 sjúklingar í ERCP eftir óeðlilega segulómun og reyndust 39 vera með stein (71%). Eingöngu 1/49 (2%) greindist með stein með ERCP eftir eðlilega segulómun. Sjúklingar með steina í gallgangi voru með hærra bilirubin (45 U/L sbr. 19 U/L, p=0,001), GGT (458 U/L sbr. 286 U/L, p=0,04) og ASAT (214 U/L sbr. 130 U/L, p=0,03) en þeir án galllsteina. Alls greindust 46 sjúklingar með briskirtilsbólgu (>þreföld hækkun á lípasa) og þar af voru aðeins 9/49 (18%) með stein í gallvegum , miðgildi lipasa 4068 U/L (981 U/L -9332 U/L) sbr. 4400 U/L (1192 U/L -11851 U/L) hjá þeim án steina (p=0,2).

Ályktun: Segulómun af gallvegum hjá sjúklingum sem grunaðir eru um gallsteina hefur mjög hátt neikvætt forspárgildi og getur komið í veg fyrir óþarfa ERCP. Hækkun á bilirubin, GGT og ASAT ásamt jákvæðri segulómun gefur sterka vísbendingu um steina í gallvegum.

 

E-14  Ísetning á næringarslöngu (magahnappi) í maga á börnum með aðstoð magaspeglunar á Íslandi 1999-2010

Margrét Brands Viktorsdóttir1, Kristján Óskarsson2, Lúther Sigurðsson3, Anna Gunnarsdóttir2

1Skurðlækningasviði og 2Barnaspítala Hringsins, Landspítala, 3háskólasjúkrahúsinu í Madison, Wisconsin, Bandaríkjunum

margrbr@landspitali.is

Inngangur: Ísetning á magahnappi með aðstoð magaspeglunartækis (Percutaneous endoscopic gastrostomy –PEG) er ein algengasta aðferðin sem notuð er í dag til að koma fyrir magahnappi. Ýmsir fylgikvillar eru þekktir við þessa aðgerð, sérstaklega hjá börnum. Markmið þessarar rannsóknar er að meta hvaða ábendingar lágu að baki PEG ísetningar hjá börnum, árangur aðgerða, fylgikvilla og langtíma áhrif þeirra.

Efniviður og aðferðir: Aftursæ rannsókn á öllum 0-18 ára sjúklingum sem fengu PEG á Barnaspítala Hringsins á árunum 1999-2010. Leitað var í sjúklingabókhaldi eftir aðgerðarkóðum og sjúkraskrár sjúklinga skoðaðar.

Niðurstöður: 84 börn fengu PEG á árunum 1999-2010. 73% (61/84) höfðu notast við magasondu fyrir aðgerð. Meðalaldur við ísetningu PEG var 3,8 ár (aldursbil 1 mán-17 ára). Algengasta ábendingin fyrir PEG ísetningu voru taugasjúkdómar (43/84). Þyngdarstuðull (Body Mass Index - BMI) fyrir aðgerð var að meðatali 14,6 kg/cm2 (miðgildi 14,5) og Z skor þyngdarstuðuls miðað við aldur var að meðaltali -1,59 (miðgildi -1,4). Þyngdarstuðull að 12 mánuðum liðnum var að meðatali 15,6 kg/cm2 (miðgildi 15,4) og Z skor þyngdarstuðuls miðað við aldur var að meðaltali -0,43 (miðgildi -0,43). Að meðaltali var þyngdarauking upp á 1,13 staðalfrávik. P-gildi milli þessara tveggja hópa var <0,0001 (95% ÖB -1,513 ˗ -0,7506). Skráðir fylgikvillar voru 114 og þar af 3,5% (4/114) skilgreindir sem meiriháttar fylgikvillar. Algengustu fylgikvillarnir voru ofholdgun (25%) og sýkingar kringum aðgerðarsvæði sem kröfðust meðhöndlunar (32%).

Ályktun: Ísetning á PEG í börnum hefur í för með sér marktæka þyngdaraukningu á einu ári. Ísetningin hefur í för með sér hátt hlutfall fylgikvilla en flestir auðmeðhöndlanlegir og minniháttar.

 

E-15  Garnasmokkun (intussusception) barna á Íslandi 1986–2010

Kristín Pétursdóttir1, Páll Helgi Möller1,2, Pétur Hannesson1,4, Þráinn Rósmundsson1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2skurðlækningadeild, 3barnaskurðdeild og 4myndgreiningardeild Landspítala

kpeturs@gmail.com

Inngangur: Garnasmokkun kallast það þegar hluti af görn smokrast inn í sjálfa sig. Hún kemur fyrir á hvaða aldri sem er en er þó algengust í börnum. Ef garnasmokkun er ekki greind og meðhöndlað tímanlega getur það leitt til dreps og rofs á görn. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna nýgengi, aldur, kyn og einkenni garnasmokkunar hjá börnum á Íslandi, greiningartækni, árangur meðferðar, endurkomu og dánartíðni.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn þar sem safnað var gögnum úr sjúkraskrám barna sem höfðu fengið garnasmokkun á árunum 1986-2010. Sjúklingar voru fundnir með því að leita í rafrænu sjúkraskrárkerfi Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri.

Niðurstöður: Staðfest voru 67 tilfelli garnasmokkunar hjá börnum, 44 drengjum (66%) og 23 stúlkum (34%). Flest greindust fyrir eins árs aldur (67%). Nýgengi garnasmokkunar var 0,41 tilfelli á hver 1000 börn yngri en 1 árs. Algengustu einkennin voru kviðverkir og uppköst. Garnasmokkunin var algengust á mótum smágirnis og ristils (94%) og í 66% tilvika var orsökin óþekkt. Helsta greiningaraðferðin var skuggaefnisinnhelling um ristil sem var jafnframt helsta meðferðarúrræðið. Hlutfall skuggaefnisinnhellinga þar sem leiðrétting tókst var 62%. Tæplega helmingur barnanna þurfti að gangast undir skurðaðgerð og var framkvæmt hlutabrottnám á görn hjá 9% þeirra. Endurkomutíðni var 4,5%.

Ályktanir: Rannsóknin staðfestir það sem erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að garnasmokkun sé algengust í ungum börnum þar sem drengir eru í meirihluta. Meðferð og árangur hennar er innan þeirra marka sem sést erlendis en nokkuð frá því sem best gerist og má bæta árangurinn.

 

E-16  Innæðakrabbameinslyfjameðferð með slagæðastíflun: Hvernig er árangurinn á Íslandi?

Þórarinn Árni Bjarnason1, Haraldur Bjarnason1,2, Óttar Már Bergmann1,3, Hjalti Már Þórisson4,5

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Department of Radiology, Mayo Clinic, Rochester MN, 3meltingarfæradeild og 4myndgreiningadeild Landspítala, 5Yale School of Medicine, New Haven CT, Bandaríkjunum

thb52@hi.is

Inngangur: Innæðakrabbameinslyfjameðferð með slagæðastíflun (IKSS) er röntgenstýrt inngrip til að meðhöndla krabbamein í lifur. Takmarkið er að ná háum styrk krabbameinslyfs innan meinsins og lágmarka aukaverkanir sem líkaminn verður fyrir ásamt því að hlífa aðlægum lifrarvef. IKSS er líknandi meðferð en getur einnig nýst samfara skurðaðgerð og/eða rafbrennslu. IKSS getur einnig nýst til að halda sjúklingum á lifrarígræðslulista eða niðurstiga sjúkdóminn svo þeir komist á listann. Markmið rannsóknarinnar var að kanna árangur meðferðar og tíðni fylgikvilla IKSS á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Gerð var afturskyggn klínísk rannsókn sem náði til allra IKSS, slagæðastíflanna og svæðisbundinna krabbameinslyfjameðferða sem gerðar voru á Íslandi frá 1. maí 2007 til 1. mars 2011. Upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrárkerfi Landspítlans og Impax myndgreiningarkerfinu.

Niðurstöður: Það hafa verið gerðar 18 IKSS, sex slagæðastíflanir og tvær svæðisbundnar krabbameinslyfjameðferðir til að meðhöndla 9 sjúklinga með lifrarfrumukrabbamein og þrjá sjúklinga með meinvörp frá krabbalíki. Meðallifun sjúklinga með lifrarfrumukrabbamein var 15,2 mánuðir og hjá sjúklingum með krabbalíkismeinvörp 61 til 180 mánuðir. Alger svörun varð tvisvar og hlutasvörun varð fjórum sinnum. Sjúkdómurinn hélst stöðugur í 11 skipti en versnaði í þremur tilvikum. Minniháttar fylgikvillar greindust eftir 6 af 26 inngripum. Einu sinni kom upp meiriháttar fylgikvilli. Enginn sjúklingur fékk varanlega lifrarbilun vegna inngripanna. Einn sjúklingur með lifrarfrumukrabbamein var á lifrarígræðslulista fyrir IKSS og tókst að halda honum á listanum fram að ígræðslu. Að auki tókst að niðurstiga þrjá sjúklinga svo þeir kæmust á ígræðslulista.

Ályktun: Árangur IKSS er viðunandi hér á landi og eru fylgikvillar í kjölfar inngripsins innan viðunandi marka.

 

E-17  Áhrif súrefnisskorts á efnaskipti hvatbera greind með aðferðum kerfislíffræði

Martin Ingi Sigurðsson1,2, Ines Thiele2

1Svæfinga-og gjörgæsludeild Landspítala, 2Kerfislíffræðisetri Háskóla Íslands

mis@hi.is

Inngangur: Ólík virkni hvatbera kann að skýra að hluta misjafnar horfur bráðveikra einstaklinga sem verða fyrir súrefnisskorti. Kerfislíffræði er þverfagleg vísindagrein sem beitir aðferðum línulegrar algebru og tölvunarfræði til að kanna svar flókinna kerfa í heild við breytingum á einstökum þáttum þess.

Efniviður og aðferðir: Tölvulíkan af efnaskiptum hvatbera mannsins (189 efnahvörf, 230 hvarfefni) var notað ásamt COBRA forritinu í Matlab. Slembað úrtak (random sampling) af reiknilausnum sem leiða til hámarks framleiðslu ATP var tekið. Flæði hvarfefna í gegnum öll ensím í efnaskiptum hvatbera í tveimur mismunandi líkönum, við eðlilegan hlutþrýsting súrefnis (147 mmHg) og við verulega skertan hlutþrýsting súrefnis (47 mmHg), voru borin saman. Kannað var hvaða gen skrá fyrir þeim ensímum sem höfðu mestar flæðisbreytingar, en þau eru viðkvæmust fyrir súrefnisskorti.

Niðurstöður: Af þeim 15 hvörfum þar sem flæði hvarfefna minnkaði mest, höfðu fjögur verið tengd við svar efnaskipta við súrefnisskorti, svo sem laktat dehydrogenasi og arginosuccinat lysasi. Af þeim 6 hvöfum þar sem flæði hvarfefna jókst mest, höfðu 2 verið tengd við svar efnaskipta við súrefnisskorti. Hin 15 hvörfin og tilsvarandi 13 gen hafa ekki þekkt tengsl við svar við súrefnisskorti.

Ályktun: Aðferðir kerfislíffræði má nota til að finna ný gen og efnahvörf sem tengjast mismunandi svari efnaskipta hvatbera við súrefnisskorti. Áframhald verkefnisins miðar að því framkvæma frekari kerfislíffræðilega greiningu og bera niðurstöðurnar við gagnasafn um erfðabreytileika fólks sem býr í Nepal. Loks er áformað að bera niðurstöðurnar saman við mælingar á efnaskiptum einstaklinga sem gerðar voru við göngu á Everest.

 

E-18  Lítil nýrnafrumukrabbamein og fjarmeinvörp

Pétur Sólmar Guðjónsson1, Elín Maríusdóttir2, Helga Björk Pálsdóttir 2, Guðmundur Vikar Einarsson2, Eiríkur Jónsson2, Vigdís Pétursdóttir3, Sverrir Harðarson3, Martin Ingi Sigurðsson2, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2skurðlækningasvið og 3Rannsóknarstofu í meinafræði, Landspítala

psg2@hi.is

Inngangur: Nýgengi nýrnafrumukrabbameins (NFK) er vaxandi sem að verulegu leyti má rekja til fjölgunar lítilla æxla (≤4 cm) sem greinast fyrir tilviljun við myndrannsóknir á kvið. Horfur lítilla NFK eru almennt taldar góðar og mælt er með hlutabrottnámi ef æxli eru undir 4 cm. Fjarmeinvörp lítilla nýrnafrumukrabbameina (synchronous metastasis) hafa ekki verið rannsökuð áður hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Af 1102 sjúklingum sem greindust með NFK á tímabilinu 1971-2010 var litið sérstaklega á 257 æxli ≤4 cm og sjúklingar með meinvörp við greiningu bornir saman við sjúklinga án meinvarpa. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og vefjagerð, TNM-stig og sjúkdóma-sértæk lifun var borin saman í hópunum.

Niðurstöður: Hlutfall lítilla NFK hækkaði úr 9% fyrsta áratuginn í 33% þann síðasta (p<0,001) á sama tíma og hlutfall tilviljanagreiningar jókst úr 14% í 39%. Alls greindust 25 af 257 (10%) sjúklingum með lítil NFK með fjarmeinvörp, oftast í lungum og beinum. Sjúklingar með meinvörp voru 1,9 árum eldri, æxlin 0,2 cm stærri og oftar staðsett í hægra nýra. Vefjagerð var sambærileg í báðum hópum en æxli greindust síður fyrir tilviljun hjá sjúklingum með meinvörp, blóðrauði þeirra var lægri og bæði Fuhrman-gráða og T-stig hærra. Fimm ára lifun sjúklinga með meinvörp var 0% borið saman við 84% hjá viðmiðunarhópi (p<0,001).

Ályktun: Við greiningu eru 10% sjúklinga með lítil NFK með fjarmeinvörp. Þetta er hærra hlutfall en í öðrum rannsóknum, en flestar þeirra ná aðeins til sjúklinga sem gengust undir nýrnaskurðaðgerð. Sjúklingar með meinvörp eru marktækt eldri, greinast oftar með einkenni, hafa stærri frumæxli og verri lifun.

 

E-19  Blóðhlutagjafir á gjörgæsludeildum Landspítala

Karl Erlingur Oddason1,2 , Kári Hreinsson2, Tómas Guðbjartsson1,3, Sigurbergur Kárason1,2, Sveinn Guðmundsson4, Gísli H. Sigurðsson1,2

1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2svæfinga- og gjörgæsludeild, 3hjarta- og lungnaskurðdeild og 4Blóðbankanum, Landspítala

oddason@gmail.com

Inngangur: Blóðhlutagjafir eru mikilvægur hluti meðferðar á gjörgæslum. Mikilvægt er að blóðhlutagjöfum sé beitt í hófi því þeim geta fylgt aukaverkanir eins og sýkingar. Nýlegar klínískar leiðbeiningar blóðhlutagjafa boða aukið aðhald og minni notkun. Ýmsar rannsóknir benda til þess að fylgni við klínískar leiðbeiningar sé ábótavant. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna notkun blóðhluta á gjörgæsludeildum Landspítala og hvort hún samræmist klínískum leiðbeiningum.

Efniviður og aðferðir: Allir blóðhlutar gefnir gjörgæslusjúklingum voru rannsakaðir afturskyggnt á 6 mánaða tímabili frá 1. júní til 31. nóvember 2010. Athugaður var fjöldi og tegund blóðhluta ásamt við hvaða gildi blóðrauða, próthrombíntíma eða blóðflagna blóðhlutar voru gefnir.

Niðurstöður: Af 598 innlögðum gjörgæslusjúklingum fengu 149 blóðhluta, 88 (31%) á Hringbraut og 61 (18%) í Fossvogi, um helmingur eftir skurðaðgerð. Miðgildi fjölda blóðhlutagjafa fyrir hvern sjúkling var 2,5 (bil 1-54) og miðgildi gefinna blóðhluta/gjöf var 10,8 (bil 1-143). Miðgildi blóðrauða fyrir rauðblóðkornagjöf var 88 g/L, en blóðrauði var > 90g/L við gjöf í 42% tilfella, þar af 7,3% við blóðrauða yfir 100 g/dL. Miðgildi próthrombínstíma var 17,2 sek fyrir blóðvatnsgjöf en 46% blóðvatnsgjafa voru gefin á próthrombíntíma undir 17,5 sek, þar af 12% undir 15 sek. Miðgildi blóðflaga fyrir blóðflögugjöf var 70x10e9/L en í 25% tilfella voru blóðflögur gefnar á gildi yfir 100x10e9/L.

Ályktanir: Klínískum leiðbeiningum virðist vera ágætlega fylgt hvað varðar rauðkornagjöf en mætti bæta fyrir gjöf blóðvatns og blóðflaga. Hlutfall gjörgæslusjúklinga sem fengu blóðhluta er lágt en þeir fá fleiri blóðhluta í hverri gjöf. Brýnt er að gera framsýna rannsókn til að skilgreina ástæður blóðhlutagjafa og meta nánar fylgni við leiðbeiningar.

 

E-20  Nýgengi og meðferð bráðs andnauðarheilkennis (ARDS/BAH) á Íslandi

Martin Ingi Sigurðsson1, Þórður Skúli Gunnarsson1,2, Kristinn Sigvaldason1, Alma Möller1,2, Gísli H. Sigurðsson1,2

1Svæfinga-og gjörgæsludeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

mis@hi.is

Inngangur: Markmið verkefnisins var að kanna breytingar á nýgengi og meðferð BAH á Íslandi og möguleg áhrif á lifun á 23 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar sem uppfylltu alþjóðleg skilmerki BAH á árunum 1988-2010, alls 435 manns. Skráðar voru upplýsingar um aldur, kyn, lifun, APACHEII, orsök og meðferð BAH. Forspárþættir andláts vegna BAH voru metnir og langtíma lifun sjúklinga sem útskrifuðust lifandi var borin saman við samanburðarþýði.

Niðurstöður: Aldursstaðlað nýgengi BAH var 7,2 tilfelli/100,000 íbúa/ári, og jókst um 0,2 tilfelli/100,000 íbúa/ári á rannsóknartímabilinu (p<0,001). Meðal APACHE II skor var 16±7 og jókst ekki marktækt á tímabilinu(p=0,06). Algengustu orsakir BAH voru lungnabólga (29%) og sýklasótt (29%). Notkun þrýstingsstýrðrar öndunarvélameðferðar varð nær allsráðandi upp úr 1993 og hlutfall sjúklinga sem voru meðhöndlaðir með hátíðni öndunarvél, grúfulegu og ytri lungnavél jókst marktækt. Hæsti innöndunarþrýstingur lækkaði (-0,5 cmH2O/ári, p<0,001) en hæsti útöndunarþrýstingur hækkaði (0,1 cmH2O/ári, p<0,001). Dánartíðni vegna BAH var 37% og lækkaði marktækt á tímabilinu (-1%/ári, p=0,03). Fjölþáttalíkan sýndi að hærra APACHE II skor (OR 1,68; 95% ÖB 1,39-2,04) og hærri aldur (OR 1,62; 95% ÖB 1,39-1,88) juku líkur en hærra greiningarár minnkaði líkur (OR 0,71; 95% ÖB 0,58-0,85) á andláti vegna BAH. Niðurstöðurnar voru sambærilegar þegar leiðrétt var fyrir hámarks innöndunarþrýstingi eða notkun þrýstingsstýrðrar öndunar. Tíu ára lifun sjúklinga sem lifðu af BAH var 68% samanborið við 90% lifun samanburðarþýðis (p<0,001).

Ályktun: Nýgengi og lifun jókst á rannsóknartímabilinu, samhliða breyttri meðferð BAH. Sennilegt er að önnur meðferð sjúklinganna hafi batnað samhliða bættri öndunarvélameðferð. Lifun sjúklinga sem lifa af BAH er mun lakari en lifun samanburðarhóps.

 

E-21  Fyrsta reynsla af Trifecta ósæðarloku í Lundi

Jóhanna F. Guðmundsdóttir1, Sigurður Ragnarsson2, Shahab Nozohoor2, Tómas Guðbjartsson1,3, Johan Sjögren2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild háskólasjúkrahússins á Skáni, Lundi, Svíþjóð, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

johafg@gmail.com

Inngangur: St Jude Medical® TrifectaTM (SJT) er ný tegund lífrænnar ósæðarloku sem er gerð úr gollurshúsi kálfa. Niðurstöður úr prófunum á lokunum hafa lofað góðu en klínískar rannsóknir eru enn af skornum skammti. Markmið þessarar afturskyggnu rannsóknar var að kanna snemmkominn árangur fyrstu aðgerðanna í Lundi og meta þrýstingsfall yfir lokuna á fyrstu mánuðum eftir aðgerð.

Efniviður og aðferðir: Frá október 2010 til maí 2011 gengust 11 sjúklingar undir ósæðarlokuskipti með Trifecta-loku. Átta af 11 höfðu alvarleg ósæðarlokuþrengsl en í 6 tilfellum var einnig gerð kransæðahjáveita. Stuðst var við gögn úr sjúkraskrám og haft samband við alla sjúklinga símleiðis til að kanna afdrif þeirra. Þrýstingsfall yfir lokuna var metið með hjartaómskoðun. Meðaleftirfylgd var 13±2,5 mánuðir.

Niðurstöður: Meðalaldur sjúklinga var 78±6 ár, og voru konur 5 talsins. Meðalstærð ígræddu lokanna var 23 mm (bil 21-25). Allir sjúklingarnir voru á lífi ári frá aðgerð, án merkja um lokubilun, blóðsegamyndun eða hjartaþelsbólgu. Ári frá aðgerð voru 5 sjúklinganna (45%) í lægri NYHA-flokki en hinir 6 í sama flokki. Meðal þrýstingsfall yfir lokuna fyrstu viku eftir aðgerð var 9,5±6,0 mmHg og hámarks þrýstingsfall 16,9±9,9 mmHg. Tíu sjúklinganna höfðu gengist undir ómskoðun, að meðaltali 8,1±5,9 mánuðum eftir aðgerð, og mældist þrýstingsfall 10,0±6,5 mmHg og hámarks þrýstingsfall 19,2±11,6 mmHg.

Ályktun: Fyrstu niðurstöður benda til þess að snemmkominn árangur við ósæðarlokuskipti með Trifecta-loku sé góður og þrýstingsfall lágt. Frekari rannsókna með stærra sjúklingaþýði er þörf til að meta langtímaárangur lokunnar.

 

E-22  Heilaæðaáföll eftir opnar hjartaskurðaðgerðir á Íslandi 2002-2006

Rut Skúladóttir1, Martin Ingi Sigurðsson2, Haukur Hjaltason1,3, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild og 3taugadeild Landspítala

rus2@hi.is

Inngangur: Heilaæðaáföll er alvarlegur fylgikvilli opinna hjartaskurðaðgerða og getur skert lifun og lífsgæði sjúklinga. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna tíðni og áhættuþætti heilaæðaáfalla eftir opnar hjartaskurðaðgerðir á Íslandi.

Efniviður og aðferð:Afturskyggn rannsókn á 876 sjúklingum sem gengust undir opna hjartaskurðaðgerð á Landspítala 2002-2006. Sjúklingunum var skipt í tvo hópa; þá sem fengu heilaæðaáfall eftir aðgerð (n=20) og viðmiðunarhóp (n=856). Heilaæðaáfall var skilgreint sem heilaslag með einkennum sem stóðu yfir í >24 klst eða skammvinna heilablóðþurrð (TIA) ef einkenni gengu til baka <24 klst. Hóparnir voru bornir saman m.t.t. fylgikvilla, dánartíðni innan 30 daga, langtíma heildarlifunar og áhættuþættir heilaæðaáfalls metnir með einþáttargreiningu.

Niðurstöður: Alls fengu 20 sjúklingar (2,3%) heilaæðaáfall, þar af 17 heilaslag. Sautján sjúklingar gengust undir kransæðahjáveituaðgerð (70%) en þrjár aðgerðanna voru gerðar á sláandi hjarta. Sjúklingar með heilaæðaáfall voru 5,4 árum eldri, höfðu marktækt lægri líkamsþyngdarstuðul og hærra EuroSCORE (7,4 sbr. 5,2, p=0,004). Áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma voru sambærilegir í hópunum. Alvarlegir fylgikvillar, þ.á.m fjöllíffærabilun, voru fjórfalt algengari hjá sjúklingum með heilaæðaáfall (p=0,002), heildarlegutími þeirra tæplega viku lengri og magn blóðgjafa helmingi hærra (p=0,017). Dánartíðni innan 30 daga í hópi sjúklinga með heilaæðaáfall var 20% en 3% í viðmiðunarhópi (p=0,005). Eins og fimm ára lifun var 75% og 65% hjá sjúklingum með heilaæðaáfall borið saman við 95% og 86% í viðmiðunarhópi (logrank próf, p=0,007).

Ályktun: Tíðni heilaæðaáfalls eftir hjartaaðgerð á Íslandi er lág (2,3%) og í samræmi við stærri erlendar rannsóknir. Eldri sjúklingar með lágan líkamsþyngdarstuðul og hátt EuroSCORE eru í aukinni áhættu. Dánarhlutfall innan 30 daga er verulega aukið, einnig legutími og tíðni alvarlegra fylgikvilla.

 

E-23  Innlagnir á gjörgæslu eftir blaðnám og fleygskurði við lungnakrabbameini

Tómas Andri Axelsson1,2, Martin Ingi Sigurðsson3, Ásgeir Alexandersson2, Húnbogi Þorsteinsson2, Guðmundur Klemenzson3, Steinn Jónsson1,4, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild og 4lungnadeild Landspítala

taa2@hi.is

Inngangur: Eftir brjóstholsskurðaðgerð við lungnakrabbameini eru sjúklingar jafnan lagðir á vöknunardeild (VD) í nokkrar klukkustundir áður en þeir flytjast á legudeild (LD). Sumir þarfnast þó innlagnar á gjörgæsludeild (GGD), ýmist í beinu framhaldi af aðgerð eða af vöknunar- eða legudeild. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna ástæður og áhættuþætti fyrir gjörgæsluinnlögn eftir þessar aðgerðir.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 252 sjúklingum sem gengust undir blaðnám, fleyg- eða geiraskurð vegna lungnakrabbameins á Landspítala 2001-2010. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og voru sjúklingar sem lögðust á GGD bornir saman við þá sem ekki lögðust þangað.

Niðurstöður: Alls lagðist 21 sjúklingur (8%) á GGD og var miðgildi legutíma einn dagur (bil 1-68). Hjá 11 sjúklinganna (52%) var innlögn rakin til vandamála í aðgerð, oftast lágs blóðþrýstings eða blæðingar. Tíu sjúklingar lögðust á GGD af LD (n=4) eða VD (n=6) og voru ástæður innlagnar lágur blóðþrýstingur (n=4), hjarta- og/eða öndunarbilun (n=4) og enduraðgerð vegna blæðingar (n=2). Þrír sjúklingar þurftu endurinnlögn eftir útskrift af GGD. Meðalaldur GGD-sjúklinga var 6 árum hærri en viðmiðunarhóps (p=0,004) og þeir höfðu oftar sögu um langvinna lungnateppu og kransæðasjúkdóm. Stærð æxlis, pTNM-stig, aðgerðarlengd og hlutfall sjúklinga með utanbastsdeyfingu voru sambærileg í hópunum. Rúmlega tveir þriðju GGD-hópsins greindust með minniháttar fylgikvilla og tæplega helmingur alvarlega fylgikvilla, samanborið við 30% og 4% í viðmiðunarhópi.

Ályktun: Fáir sjúklingar þarfnast innlagnar á GGD eftir skurðaðgerðir við lungnakrabbameini og þá oftast þeir sem eru eldri og með sögu um hjarta- og lungnasjúkdóma. Í helmingi tilfella er innlögn á GGD í beinu framhaldi af aðgerð og endurinnlagnir á GGD eru fátíðar.

 

E-24  Er árangur skurðaðgerða við lungnakrabbameini síðri hjá öldruðum?

Kristján Baldvinsson1, Andri Wilberg Orrason1, Ingvar Þ. Sverrisson2, Húnbogi Þorsteinsson1, Martin Ingi Sigurðsson3, Steinn Jónsson4, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild, og 4lungnadeild Landspítala

krb12@hi.is

Inngangur: Aldraðir eru vaxandi hluti þeirra sem greinast með lungnakrabbamein og geta því þurft skurðaðgerð. Óljóst er um árangur þessara aðgerða hjá öldruðum og tilgangur rannsóknarinnar að kanna árangur skurðaðgerða í þessum aldurshópi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem gengust undir skurðaðgerð vegna lungnakrabbameins (smáfrumukrabbamein undanskilin) á Íslandi 1991-2010. Einstaklingar 75 ára og eldri (n=108, 21%) voru bornir saman við yngri sjúklinga (n=404, 79%) m.t.t. áhættuþátta, fylgikvilla, stigunar eftir aðgerð (pTNM) og lifunar. Fjölbreytugreining var notuð til að meta forspárþætti langtíma heildarlifunar og áhrif aldurs á árangur aðgerðanna.

Niðurstöður: Karlmenn voru marktækt fleiri á meðal eldri sjúklinga (61% sbr. 48%, p=0,02), ASA-skor var hærra og tíðni kransæðasjúkdóms (47% sbr. 22%, p<0,0001) hærri. Lungnastarfsemi var hins vegar sambærileg í hópunum. Eldri sjúklingar gengust oftar undir fleygskurð (24% sbr. 8%, p<0,0001) og sjaldnar undir lungnabrottnám (4% sbr. 16%, p=0,0002). Æxlisstærð í hópunum var sambærileg en eldri sjúklingar greindust með lægri TNM-stigun, eða 91% sbr. 71% á stigi I+II (p=0,0002). Tíðni alvarlegra fylgikvilla var sambærileg en minniháttar fylgikvillar voru tíðari í eldri hópnum (37% sbr. 25% p=0,01). Ekki reyndist marktækur munur á legutíma og 5 ára sjúkdómasértæk lifun var sambærileg í báðum hópum (p=0,125). Í fjölbreytugreiningu reyndust stigun, greiningarár og frumugráðun sjálfstæðir forspárþættir fyrir langtímalifun. Aldur 75 ára reyndist hins vegar ekki vera neikvæður forspárþáttur (p=0,57).

Ályktun: Langtíma sjúkdómasértæk lifun eldri og yngri sjúklinga er sambærileg eftir skurðaðgerð við lungnakrabbameini. Niðurstöður okkar benda til þess að skurðaðgerð sé ekki síðri meðferðarkostur hjá eldri sjúklingum með skurðtæk æxli.

 

E-25  Ísetning ósæðarloku með þræðingartækni frá nára

Margrét Brands Viktorsdóttir1,2, Gunnar Mýrdal2, Guðmundur Klemenzson3, Kristján Eyjólfsson4, Þórarinn Guðnason4, Bjarni Torfason2

1Skurðlækningasviði, 2hjarta og lungnaskurðdeild, 3gjörgæslu- og svæfingadeild og 4hjartadeild Landspítala

margrbr@landspitali.is

Inngangur: Margir eldri sjúklingar með ósæðarlokuþrengsli eru ekki taldir skurðtækir fyrir opna hjartalokuaðgerð, t.d. vegna fyrri hjartaðgerðar eða lélegs heilsufars almennt. Ísetning ósæðarloku með þræðingartækni (Transcatheter Aortic Valve Implantation - TAVI) er nýlegur valmöguleiki í meðferð há-áhættu sjúklinga með ósæðarlokuþrengsli.  Reynsla af TAVI aðgerðum erlendis er almennt góð en aðgerðin er þó ekki hættulaus. Í janúar 2012 voru fyrstu TAVI aðgerðirnar framkvæmdar á Íslandi, allar með þræðingu gegnum náraslagæð.

Efniviður og aðferðir: Saga og fyrra heilsufar sjúklinganna var könnuð sem og ábendingar aðgerðar, áhættuskor og fylgikvillar. Einnig voru kannaðar hjartaómanir og rannsóknarniðurstöður.

Niðurstöður: Fjórir sjúklingar gengust undir TAVI á Landspítala í janúar 2012. Meðalaldur var 84 ár (aldursbil 79-87 ár), allt karlmenn. Meðalflatarmál ósæðarlokunnar fyrir aðgerð var samkvæmt hjartaómun 0,7 cm2. Útstreymishlutfall var að meðaltali 56% og hámarksþrýstingshlutfall yfir lokuna var að meðaltali 88 mmHg. Hámarksþrýstingsfall eftir aðgerð var að meðaltali 17 mmHg. Mismunur á þrýstingsfalli fyrir og eftir aðgerð var því að meðaltali 55 mmHg (p<0,0018; 95% ÖB 38,6-71,4). Euroscore fyrir aðgerð var að meðaltali 18,9 og allir sjúklingarnir voru í NYHA flokki 3. Allir sjúklingarnir höfðu fyrri sögu um hjartaáfall og þrír höfðu áður gengist undir kransæðahjáveituaðgerð. Engir alvarlegir fylgikvillar komu upp eftir aðgerð og útskrifuðust allir sjúklingar heim 7 dögum eftir aðgerð og létu vel af sér við 30 daga endurkomu.

Ályktun: TAVI er nýr meðferðarmöguleiki fyrir há-áhættusjúklinga með ósæðarlokuþrengsli. Fyrsta reynslan af TAVI aðgerðum á Landspítala er góð og allir sjúklingar eru á lífi án alvarlegra fylgikvilla 6 vikum eftir aðgerð.

 

E-26  Möguleg áhrif spelkunotkunar til að draga úr hættu á fremra krossbandssliti

Micah Nicholls1,2, Þorvaldur Ingvarsson2, Kristín Briem2,3

1Össuri hf, 2læknadeild og 3námsbraut í sjúkraþjálfun, Háskóla Íslands

thingvarsson@ossur.com

Inngangur: Hreyfing og kraftar um hnéð hafa talsvert verið rannsakaðir í tengslum við hættu á fremra krossbandssliti. Hefðbundin spelka til varnar þessum áverka styður við sköflunginn og varnar rennsli hans fram á við (í sagittal plani). Unloader One® (U1) spelka er hönnuð til að minnka álag á innan- eða utanvert hné (í frontal plani). Tilgangur þessarar forrannóknar var að kanna áhrif U1 á þá áhættuþætti fremra krossbandsslits sem tengjast hreyfingu og kröftum í frontal plani.

Efniviður og aðferðir: Átta karlmenn (18-40 ára) tóku þátt í mælingum þar sem 8 myndavélar og tvær kraftplötur voru notaðar til að safna upplýsingum um hreyfingu og krafta í hné við stökk. Þátttakendur stigu af 31 cm háum kassa, lentu jafnfætis á tveimur kraftplötum og stukku upp aftur. Í spelkunni voru staðsettir þrír þráðlausir nemar, sem mældu tog og samþjöppun í liðamótum spelkunnar og togkrafta í þeim böndum spelkunnar sem veita varus átak síðustu 20° hnéréttu. Hver þátttakandi stökk þrisvar sinnum, með og án U1 hnéspelku.

Niðurstöður: Ekki var tölfræðilega marktækur munur á horni í hné við upphaf lendingar án spelku og með (7,4°±4,7° og 8,3°±4,7° aðfærsla sköflungs; p=0,18). Marktækur munur var hins vegar á mestu mældri fráfærslu sköflungs, án spelku og með, í lendingu eftir stökk (6,5°±5,3° og 3,9°±5,8°; p=0,02). Mest tog mældist í böndum spelkunnar við mestu hnéréttu við fráspyrnu stökks, en átak í lið spelkunnar var mest samtímis mestu fráfærslu í hnélið.

Ályktun: Spelkan virðist hafa tvíþætt varus áhrif, annars vegar í böndum við hnéréttu og hins vegar í liðamótum hennar við valgus átak.

 

E-27  Samanburður á hæfni fjögurra tegunda hálskraga til að skorða hálshrygg og áhrif þeirra á bláæðaþrýsting í hálsi

Sigurbergur Kárason1,2, Kristbjörn Reynisson3, Kjartan Gunnsteinsson4, Ása Guðlaug Lúðvíkdóttir4, Kristinn Sigvaldason2, Gísli H Sigurðsson1,2, Þorvaldur Ingvarsson1,4,5

1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2svæfinga- og gjörgæsludeild og 3myndgreiningardeild Landspítala, 4Össuri hf , 5bæklunardeild Sjúkrahússins á Akureyri

skarason@landspitali.is

Inngangur: Við grun um áverka á hálshrygg er ávallt settur hálskragi til að draga úr líkum á mænuskaða. Þröngur hálskragi getur valdið hækkun á innankúpuþrýstingi vegna aukinnar mótstöðu á blóðflæði í hálsbláæðum og aukið á alvarleika heilaáverka.

Tilgangur: Að bera saman fjórar tegundir hálskraga hvað varðar hæfni til að skorða hálshrygg og áhrif á þrýsting í hálsbláæð.

Efniviður og aðferðir: Hjá 10 sjálfboðaliðum (5 konum, 5 körlum) var mælt hve vel Laerdal Stifneck® (SN) (Laerdal Medical AS), Vista® (VI) (Aspen Medical Products), Miami J® Advanced (MJ) (Össur hf) og Philadelphia® (PH) (Össur hf) hálskragar hindruðu hreyfingu hálsliða með stafrænu mælitæki (Goniometer CROM) og hve mikil áhrif þeir hefðu á hálsbláæðaþrýsting með beinni þrýstingsmælingu gegnum legg þræddum í bláæðina. Rannsóknin var styrkt af Össuri hf.

Niðurstöður: Meðalaldur þátttakenda var 27±5ár, hæð 176±11 cm, þyngd 80±9 kg og BMI 26±5. Meðaltalshreyfing hálsliða (53±9°) minnkaði marktækt (p<0,001) við ásetningu kraga, þó mismikið, í eftirfarandi gildi: SN (18±7°), MJ (21±10°), PH (22±8°), VI (25±9°). Ekki var marktækur munur á milli SN og MJ (p=0,06) eða MJ og PH, að öðru leyti var marktækur munur á milli kraga. Meðaltalsþrýstingur í hálsbláæðum (9,4±1,4 mmHg) jókst við ásetningu hálskraga, þó mismikið, í eftirfarandi gildi: SN (10,5±2,1 mmHg), MJ (11,7±2,4 mmHg), VI (13,5±2,5 mmHg), PH (16,3±3,3 mmHg). Hækkun vegna SN frá meðaltalsþrýstingi var ekki marktæk en hækkun annarra var það (p<0,001). Ekki var marktækur munur á milli SN og MJ en að öðru leyti marktækur munur milli kraga.

Ályktanir: Laerdal Stifneck® kraginn hindraði mest hreyfingu um hálsliði og hafði jafnframt minnst áhrif á þrýsting í hálsbláæð. Aðferðafræðin sem notuð var í þessari rannsókn gæti gefið ný viðmið varðandi hönnun hálskraga.

 

E-28  Réttmæti og áreiðanleiki íslenskra þýðinga á KOOS- og KOS-ADLS-spurningalistunum

Kristín Briem

Námsbraut í sjúkraþjálfun, læknadeild, Háskóla Íslands

kbriem@hi.is

Inngangur: Spurningalistar líkt og KOOS (Knee injury and Osteoarthritis Outcome Score) og KOS-ADLS (Knee Outcome Survey-Activities of Daily Living Scale) meta einkenni og starfræna færni í hné. Báðir hafa verið þýddir á mörg tungumál og gagnast í klíník jafnt sem fjölþjóðlegum rannsóknum. KOS-ADLS er stuttur (14 spurningar) og því fljótafgreiddur, en KOOS er lengri (42 spurningar) en tekur til fleiri þátta líkt og áhrifum hnékvilla á lífsgæði. Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta réttmæti og áreiðanleika íslenskra þýðinga KOOS- og KOS-ADLS-spurningalistanna.

Efniviður og aðferðir: Alls svöruðu 145 einstaklingar listunum, auk þess að skrá verki á VAS-kvarða (visual analog scale), tölulegt mat á færni í hné við daglegar athafnir, og TUG (timed up-and-go) færniprófi. Samræmi við endurteknar mælingar var metið með ICC-gildi, innra réttmæti með Cronbach‘s alpha, og fylgni undirþátta kvarðanna við aðrar útkomumælingar með Pearson‘s fylgnistuðli. Þátttakendum var skipt í þrjá hópa samkvæmt alvarleika hnékvilla og einþátta ANOVA notuð til að kanna hvort munur fyndist á meðalútkomu milli hópanna.

Niðurstöður: Marktæk breyting varð á útkomu þeirra einstaklinga sem fengu meðferð við hnékvilla sínum (p<0,001), en samræmi milli endurtekinna mælinga hjá einstaklingum með óbreytt ástand í hné. Cronbach‘s alpha var ásættanlegt fyrir undirþætti listanna. Marktæk fylgni fannst milli undirþátta spurningalistanna og verkjamats VAS, tölulegs mats á eigin færni í hné og frammistöðu í TUG-prófinu. Marktækur munur var á útkomumælingum milli hópanna þriggja á KOS-ADLS og flestum undirþátta KOOS.

Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að nota megi KOS-ADLS- og KOOS-spurningalistana sem klíníska mælingu og í rannsóknum til mats á einstaklingum með margvíslega hnékvilla.

 

E-29  Takmarka ökklaspelkur hreyfingar í ökkla jafnvel og gips?

Þorvaldur Ingvarsson1,2,3, Lárus Gunnsteinsson2, Pétur Helgason2, Ása Guðlaugsdóttir2, Örn Thorstensen4, Micah Nicholls2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Össuri hf2, 3bæklunardeild Sjúkrahússins á Akureyri, 4röntgenstofu Orkuhússins4

thingvarsson@ossur.com

Inngangur: Við meðferð ýmissa áverka, svo sem brota og áverka á liðböndum, er ökklinn settur í gips eða aðrar umbúðir til þess að takmarka hreyfingu. Gips er talin „kjörmeðferð” eftir flesta áverka þar sem hreyfitakmörkunar er þörf. Því eru nýjar umbúðir og meðferðaform borin saman við gips þegar meta á hvort nýjar leiðir eru færar til að hindra hreyfingu í ökkla eftir áverka. Rannsóknin er gerð til að kanna hvort ökklaspelkur takmarki hreyfingar í ökkla á sama hátt og göngugips og eldri gerðir spelkna.

Efniviður og aðferðir: Hjá 22 sjálfboðaliðum (11 konum og 11 körlum) var mælt hversu mikið Rebound® Air Walker hár (RWH), Rebound® Air Walker Low (RWL), Aircast XP® Walker High (AWH), Aircast XP® Walker Low (AWL), Equalizer® Air Walker High (EH), Equalizer® Air Walker Low (EL) og hefðbundið göngugips (HG) takmarka hreyfingu ökkla. Mælingin varð framkvæmd með töku röntgenmyndar með álagi. Rannsóknin var styrkt af Össuri hf.

Niðurstöður: Meðaldur þátttakenda var 27 ár (23-52) og BMI 28±4. Allar spelkurnar og göngugipsið takmörkuðu hreyfingu í ökkla marktækt miðað við hreyfiferil ökkla án umbúða (p<0,001), þó mismunandi mikið. Hámarkshreyfiferill mældist eftirfarandi: Án umbúða 74,8±19,0°, göngugips 9,5±4,7°, RWH 9,6±5,6°, RWL 20,7±9,7°, AWH 11,8±5,3°, AWL 26,0±11,2°, EH 9,7±4,5°, og EL 23,5±9,5°. Háar spelkur takmörkuðu hreyfingar marktækt betur en lágar. Ekki reyndist marktækur munur á takmörkun hreyfinga á milli spelkutegunda og ekki var marktækur munur á hreyfiskerðingu göngugips og hárra ökkla spelkna (Walkera)

Ályktanir: Ökklaspelkur (Walkers) takmarka hreyfingu í ökkla jafnvel og göngugips. Háar spelkur takmarka hreyfingu betur en lágar. Ábendingar fyrir notkun spelkna gætu því verið þær sömu og fyrir göngugips.

 

E-30  Vöðvavirkni  hamstrings og gastrocnemius vöðva hjá íþróttafólki eftir fremra krossbandsslit og hjá samanburðarhópi við tvenns konar æfingar

Bjartmar Birnir, Garðar Guðnason, Stefán Magni Árnason, Tómas Emil Guðmundsson, Kristín Briem

Námsbraut í sjúkraþjálfun, Rannsóknarstofu í hreyfivísindum, Háskóla Íslands

kbriem@hi.is

Inngangur: Deilt hefur verið um áhrif þess að taka hluta af semitendinosus vöðva við endurgerð fremra krossbands á starfsemi vöðvans. Styrkur beygjuvöðva hnéliðar hefur verið töluvert rannsakaður eftir aðgerð en aftur á móti hefur sértæk virkni vöðvanna lítið verið skoðuð. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna vöðvavirkni þeirra vöðvahópa sem koma að beygju hnéliðar við starfrænar hreyfingar hjá íþróttamönnum sem hafa fengið hamstrings-ígræðslu (HG) eftir fremra krossbandsslit.

Efniviður og aðferðir: Átján knattspyrnumenn með HG eftir fremra krossbandsslit (rannsóknarhópur; tími frá sliti 1-6 ár) og 18 aðrir sem ekki höfðu slitið (samanburðarhópur) tóku þátt í rannsókninni. Allir gengust undir vöðvarafritsmælingar með yfirborðselektróðum við framkvæmd tveggja æfinga; Nordic-hamstring æfingar, og hamstrings æfingar í TRX-böndum. Fjórir vöðvar beggja fótleggja voru mældir (medial/lateral hamstrings, medial/lateral gastrocnemius) og var söfnunartíðni 1600 Hz. Merkið var síað og kvarðað og fjölþátta anova var notuð við tölfræðigreiningu gagna.

Niðurstöður: Marktæk víxlhrif fyrir útlim og æfingu, milli hópa (p<0,05), fundust á vöðvavirkni medial hamstrings. Vöðvavirkni var svipuð milli fótleggja í báðum æfingum hjá samanburðarhópi, á meðan merkið minnkaði milli æfinga skornu megin, en jókst hinum megin hjá rannsóknarhópi. Marktæk víxlhrif útlims og hlutfallslegrar vöðvavirkni lateral hamstrings/gastrocnemius, milli hópa, fundust einnig (p<0,05). Hlutfall vöðvavirkni var svipað milli fótleggja samanburðarhóps (hamstrings>gastrocs), á meðan vöðvavirkni hamstrings var minni en hjá gastrocnemius áverkamegin, en meiri hinum megin hjá rannsóknarhópi.

Ályktun: Munur á vöðvavirkni rannsóknarhóps og viðmiðunarhóps bendir til þess að breyting verði á vöðvavirkni beygjuvöðva í hné eftir fremra krossbandsslit. Óljóst er hvort það tengist krossbandsáverkanum sjálfum, eða í kjölfar þess áverka sem semitendinosus verður fyrir við endurgerð krossbandsins.

 

E-31  Heyrnataugaslíðursæxli á Íslandi í 30 ár, 1979-2009

Þorsteinn H. Guðmundsson1, Einar J. Einarsson1, Hannes Petersen1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala

thhg86@gmail.com

Inngangur: Heyrnataugaslíðursæxli (acoustic neuroma, AN) er æxli í 8. heilataug. Tilgangur rannsóknarinnar var að finna nýgengið á tímabilinu 1979-2009 og meta faraldsfræðilega þætti og kosti og galla meðferðarmöguleika.

Efniviður og aðferðir: Fyrri hluti rannsóknarinnar var afturskyggn og náði til allra sem greinst höfðu tímabilið 1979-2009. Athugaðir voru faraldsfræðilegir þættir og á framvirkan hátt voru þeir sem greindust á síðustu 5 árum tímabilsins fengnir í heyrnar- og jafnvægispróf.

Niðurstöður: Nýgengi AN á tímabilinu var 1,1/100.000 og fór vaxandi. 10% æxla voru greind fyrir tilviljun, flest á síðasta þriðjungi tímabilsins. Meðferðarkostir voru skurðaðgerð (n=47), eftirlit (n=30) og gammahnífsgeislun (n=16). 63% (n=27) misstu heyrn eftir aðgerð og 28% (n=12) hlutu óafturkræfa andlitslömun. Meðaleftirfylgni þeirra sem voru í eftirliti var 3,2 ár og stækkuðu 17% æxlanna. Aðgerðarsjúklingar upplifðu mestu heyrnarfötlun miðað við þá sem ekki fóru í aðgerð (85,8 sbr. 51,7 stig af 224, p=0,018). Gammahnífsgeislunarhópur upplifði mest svimaeinkenni miðað við hina hópana (33,7 sbr. 24,1 stig af 124, p=0,562) og sýndi mest ójafnvægi á jafnvægisplötu miðað við hina hópana en munurinn reyndist ekki marktækur.

Álykun: Nýgengið á Íslandi er svipað og á hinum Norðurlöndunum og fer vaxandi. Fleiri æxli greinast fyrir tilviljun. Ef æxli eru smá er eftirlit raunhæfur kostur þar sem lágt hlutfall æxla stækkar innan nokkurra ára. Hátt hlutfall aðgerðarsjúklinga missti heyrn eftir aðgerð og upplifun þeirra á skertri heyrn sem fötlun var mest. Jafnvægi og upplifun jafnvægis var lakast hjá einstaklingum í gammahópnum en taka verður tillit til annarra þátta eins og aldurs, stærð æxlanna og jafnvægisfærni fyrir meðferð.

 

E-32  Þrívíddarmódel notuð við undirbúning heilaskurðaðgerðar. - Sjúkratilfelli

Bryndís Baldvinsdóttir1, Ólafur Guðmundsson2, Arnar Þór Guðjónsson2, Paolo Gargiulo3, Ingvar Hákon Ólafsson1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2háls-, nef- og eyrnadeild, 3heilbrigðis- og upplýsingatæknideild og 4heila- og taugaskurðlækningadeild Landspítala

bryndisbaldvins@gmail.com

Inngangur: Heila- og höfuðkúpubotnsaðgerðir eru oft á tíðum erfiðar aðgerðir og áhættusamar fyrir sjúklinginn. Brottnám æxla eru algeng ástæða þessara aðgerða. Staðsetning æxlanna getur verið erfið og vandasamt að komast að þeim. Samtengd notkun staðsetningartækja og þrívíddarmódela af höfði sjúklings gæti hjálpað mikið til við undirbúning þessara aðgerða. Var þetta nýlega reynt í fyrsta skipti á Íslandi hjá sjúklingi með æxli á mjög aðgengilega erfiðum stað. Árangur aðgerðanna var mjög góður og ber vitni um samþættingu góðrar skipulagningar, samvinnu og notkunar á þeirri tækni sem stendur til boða nú til dags.

Efniviður og aðferðir: Búin voru til tvö þrívíddarmódel í raunstærð af viðkomandi sjúklingi. Módelin fengust sem þrívíddarprentun af tölvusneiðmynd og segulómskoðun af höfði sjúklingsins. Annað módelið innihélt auðsjáanlegt æxli sjúklingsins og var aðgerðin æfð á því módeli einni viku fyrir hina eiginlegu skurðaðgerð. Voru sömu skurðlæknar að störfum við sýndaraðgerðina og hina eiginlegu aðgerð.

Niðurstöður: Aðgerðin sem framkvæmd var á sjúklingnum sjálfum gekk vonum framar. Greiðlega gekk að fjarlægja meinsemdina. Sú reynsla sem fékkst við sýndaraðgerðina skipti veigamiklu máli við úrlausn og framvindu hinnar eiginlegu skurðaðgerðar.

Umræða: Ætla má að notkun staðsetningartækja, þrívíddarmódela og sýndaraðgerðin hafi auðveldað skurðlæknunum sjálfa aðgerðina, enda gekk greiðlega að komast að æxlisstaðnum. Auk þess urðu engar uppákomur í aðgerðinni sem stofnuðu sjúklingnum í hættu. Þetta tilfelli sýnir að þrívíddarmódel getur gagnast við undirbúning flókinna aðgerða. Einnig má telja sennilegt að þessi aðferðartækni stytti aðgerðartíma, stuðli að betra öryggi sjúklinga og geti nýst við þjálfun skurðlækna.

 

E-33  Legnám með lágmarks inngripi – áhrif á kostnað og fylgikvilla

Guðrún María Jónsdóttir1,3, Selena Jorgensen2, Sarah L. Cohen1, Kelly N. Wright1, Neel T. Shah1, Niraj Chavan1, Jón Í. Einarsson1

1Brigham and Women´s Hospital, 2Harvard Medical School, 3læknadeild Háskóla Íslands3

gudmarjo@gmail.com

Inngangur: Á þriggja ára rannsóknartímabili breyttist aðferð við legnámsaðgerðir úr opinni kviðarholsaðgerð í kviðsjáraðgerð. Markmið þessarar rannsóknar er að meta hugsanleg áhrif breytingarinnar á útkomu sjúklinga og kostnað við legnámsaðgerðir framkvæmdar á Brigham and Women´s sjúkrahúsinu árið 2006 og bera saman við árið 2009.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn lýsandi rannsókn, 2133 konur (17-92 ára) sem gengust undir legnám árin 2006 og 2009. Aðgerðirnar voru framkvæmdar á þriðja stigs kennslusjúkrahúsi af fjölbreyttum hópi kvensjúkdómalækna. Upplýsingar um aðgerðakostnað fengust úr reikningsbókhaldi Brigham and Women's sjúkrahússins en aðrar upplýsingar fengust úr sjúkraskrám.

Niðurstöður: Heildarfjöldi legnámsaðgerða var svipaður bæði árin; 1054 aðgerðir 2006 og 1079 aðgerðir 2009, samtals 2133 aðgerðir á jafnmörgum konum. Hlutfall kviðarholsaðgerða og kviðsjáraðgerða breyttist marktæk; kviðarholsaðgerðum fækkaði úr 64,7% í 35,8%, p<0,0001 og kviðsjáraðgerðum fjölgaði úr 17,7% í 46% milli ára, p=0,0001. Hlutfall meiriháttar fylgikvilla í aðgerð (líffæraáverki og/eða blóðmissir ≥ 1 lítri) og minni háttar fylgikvilla eftir aðgerð lækkaði marktækt frá 2006 til 2009 (7,2% í 4%, p=0,0012 og 18% í 5,7%, p<0,0001). Kostnaður vegna aðgerða jókst marktækt frá 2006 til 2009 við allar aðgerðir nema þar sem notast var við vélmenni.

Ályktun: Breytt nálgun við legnám, þar sem meirihluti aðgerða er framkvæmdur með hjálp kviðsjár í stað opinnar aðgerðar, hélst í hendur við marktækt lægri tíðni fylgikvilla.

 

E-34  Vefjauppruni lungnatrefjunar og tengsl hennar við bandvefsumbreytingu þekjufruma

Hulda Rún Jónsdóttir1,2, Ragnar Pálsson1,2,4, Ari Jón Arason1,2, Sigríður Rut Franzdóttir1,2, Helgi J. Ísaksson3, Ólafur Baldursson4, Tómas Guðbjartsson5,8, Gunnar Guðmundsson6, Þórarinn Guðjónsson1,2,8, Magnús Karl Magnússon1,2,7,8

1Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum, Lífvísindasetri Háskóla Íslands, 2Rannsóknastofu í blóðmeinafræði, 3Rannsóknastofu í meinafræði, 4lyflækningasviði,, 5hjarta- og lungnaskurðdeild og 6lungnadeild, Landspítala, 7Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði og 8læknadeild, Háskóla Íslands

hrj11@hi.is

Inngangur: Bandvefsumbreyting þekjufruma (epithelial-to-mesenchymal transition, EMT) er mikilvægt ferli í fósturþroska þar sem þekjuvefsfrumur tapa þekjuvefstengslum, öðlast skriðhæfileika og taka á sig bandvefslíka svipgerð. Nýlega hefur EMT verið tengt við ýmsa sjúkdóma, t.d. krabbamein og bandvefsmyndun (fibrosis). Lungnatrefjun af óþekktri orsök (Idiopathic Pulmonary Fibrosis, IPF) er alvarlegur lungnasjúkdómur og talið er að EMT kunni að spila hlutverk í tilurð sjúkdómsins. Markmið verkefnisins var að skoða IPF með ónæmisvefjalitunum með sérstaka áherslu á kenniprótein tengd EMT og rannsaka EMT í lungnaþekjufrumum í rækt.

Efniviður og aðferðir: Vefjasýni úr sjúklingum með lungnatrefjun af óþekktri orsök voru skilgreind með mótefnalitun gegn þekjuvefs- og bandvefskennipróteinum. EMT eiginleikar VA10 lungnafrumulínunnar voru einnig rannsakaðir.

Niðurstöður: Ónæmisvefjalitanir sýndu að keratin-14 og p63 voru sterkt tjáð í þekjufrumum nálægt svæðum með virkni (fibroblastic foci) í lungnatrefjun. Vimentin, kenniprótein fyrir bandvefsfrumur, virtist einnig vera tjáð í þekjufrumum í þessum sýnum. Þegar VA10 frumur voru ræktaðar á sérhæfingaræti uxu upp tvær ólíkar svipgerðir, bandvefslíkar frumur með þekjuvefsklösum inni á milli. Einangrun bandvefslíku frumanna og nánari skilgreining leiddi í ljós stöðuga bandvefsfrumusvipgerð. Bandvefslíku frumurnar sýndu aukna skriðeiginleika og aukið viðnám gegn stýrðum frumudauða.

Ályktanir: Við höfum sýnt fram á tjáningu EMT kennipróteina í þekjuvef IPF lungna ásamt því að sýna fram á EMT í basal-lungnafrumulínunni VA10. Margt bendir til að basalfrumur lungnaþekjunnar gegni þýðingarmiklu hlutverki við meinmyndun IPF. Áframhaldandi vinna miðar að því að að skýra þátt EMT í tilurð IPF og hvaða sameindaþættir koma þar við sögu.

 

E-35  Áhættuþættir nýrnafrumukrabbameins á Íslandi

Elín Maríusdóttir1,3, Jóhann Páll Ingimarsson1, Eiríkur Jónsson1, Guðmundur Vikar Einarsson1, Thor Aspelund2,3, Vilmundur Guðnason2,3, Tómas Guðbjartsson3

1Þvagfæraskurðdeild Landspítala, 2Hjartavernd, 3læknadeild Háskóla Íslands

emariusdottir@gmail.com

Inngangur: Lítið er vitað um áhættuþætti nýrnafrumukrabbameins (NFK). Markmið rannsóknarinnar var að kanna þessa áhættuþætti hér á landi með sérstakri áherslu á tíðni hjá mismunandi starfsstéttum.

Efniviður og aðferðir: Gagnagrunnur hóprannsóknar Hjartaverndar sem tekur til 18.875 karla og kvenna fæddra á árunum 1907-1935 var samkeyrður við gagnagrunn sem innheldur öll NFK greind á Íslandi 1971-2005 (n=910). Alls fundust 232 einstaklingar með NFK (152 karlar og 80 konur, meðalaldur 53 ár) í gagnagrunni Hjartaverndar og voru þeir bornir saman við 18.643 einstaklinga í viðmiðunarhópi (meðalaldur 53 ár, 48% karlar). Framsýn greining á áhættuþáttum NFK var gerð með fjölbreytulíkani Cox út frá tíma frá komu í hóprannsóknina að greiningu NFK, andláti eða til loka eftirfylgni. Forspárgildi áhættuþátta NFK var metið í líkaninu; m.a. líkamsþyngdarstuðuls (LÞS), reykinga og sykursýki, búsetu og starfsstétta og áhættuhlutfall (ÁH) með 95% öryggisilum (ÖB) reiknað út.

Niðurstöður: Hár LÞS (>25 kg/m2) (HR 1,39, CI=1,07-1,86, p=0,02) og aldur (ÁH 1,05, ÖB=1,03-1,07, p=<0,0001) juku áhættu á NFK en aukningin var ekki marktæk fyrir alvarlegan háþrýsting (>160/100 mm/Hg) (ÁH 1,37, ÖB=1,00-1,93, p=0,06). Reykingar, sykursýki og búseta reyndust ekki marktækir áhættuþættir. Kvenkyn var verndandi (ÁH 0,44, ÖB=0,35-0,61, p=<0,0001.) Marktækt aukin áhætta á NFK sást hjá málurum (ÁH 2,89, ÖB=1,30-6,68, p=0,01), flugvirkjum (ÁH 4,61, ÖB=1,15-18,87 p=0,03) og þeim sem unnu verksmiðjuvinnu (ÁH 1,96, ÖB=1,00-3,84, p=0,05).

Ályktanir: Hár aldur, LÞS yfir 25 kg/m2 og karlkyn juku áhættu á NFK sem lýst hefur verið í öðrum rannsóknum. Einnig kom í ljós verulega aukin áhætta hjá málurum, flugvirkjum og þeim sem unnu í verksmiðjum, sennilega vegna áhættuþátta í vinnuumhverfi þeirra.

 

E-36  Bráð briskirtilsbólga á Landspítala – framsýn rannsókn á nýgengi, orsökum og fylgikvillum

Hanna Viðarsdóttir1, Páll Helgi Möller2,3, Hildur Þórarinsdóttir1, Hanna Torp2, Halla Viðarsdóttir2, Einar Stefán Björnsson1,3

1 Meltingarfæradeild og 2skurðlækningadeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

hannavidars@gmail.com

Inngangur: Bráð briskirtilsbólga leiðir oft til innlagnar og getur valdið alvarlegum fylgikvillum. Nýgengi af fyrsta kasti bráðrar briskirtilsbólgu á Suðvesturlandi var 32 á 100.000 íbúa í íslenskri rannsókn frá 1999. Á síðasta áratug hefur áfengisneysla aukist á Íslandi frá 6 L árið 1999 í 8 L á mann árið 2010. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort nýgengi og orsakir hafi breyst á Íslandi miðað við fyrri rannsókn.

Efniviður og aðferðir: Framsýn rannsókn á sjúklingum eldri en 18 ára sem greindust með bráða briskirtilsbólgu á Landspítala frá 1. okt. 2010 til 30. sept. 2011. Skráðar voru upplýsingar um kyn, aldur, einkenni, orsakir og fylgikvilla.

Niðurstöður: Alls greindust 134 sjúklingar með bráða briskirtilsbólgu og var miðgildi aldurs 57 ár (IQR, 42-71) og karlar 78 (58%). Af þessum voru 119 sjúklingar með fyrsta kast bráðrar briskirtilsbólgu. Nýgengi á Suðvesturlandi var 53/100.000. Orsakir voru gallsteinar í 52 tilfellum (47%), áfengi í 29 (23%), ERCP í 12 (9,5%), lyf í 10 tilfellum (8%), óþekkt orsök í 15 (12%) og aðrar orsakir í 7 tilfellum (5,5%). Alls höfðu 63 sjúklingar (50%) CRP >210 mg/L á fyrstu fjórum dögunum eða >120 mg/L fyrstu vikuna eftir komu. Alls fengu sex sjúklingar alvarlega fylgikvilla, þrír sjúklingar fengu drep í kirtilinn, tveir fengu sýndarblöðru og einn fékk nýrnabilun en einungis einn þeirra lagðist á gjörgæslu. Enginn sjúklingur lést af bráðri briskirtilsbólgu.

Ályktanir: Nýgengi bráðrar briskirtilsbólgu á Íslandi hefur aukist en aðallega af síður alvarlegri briskirtilsbólgu. Tilfellum bráðrar briskirtilsbólgu af völdum gallsteina og áfengis hefur fjölgað en hlutfallslega hefur ekki orðið aukning á áfengistengdri briskirtilsbólgu þrátt fyrir aukna áfengisnotkun á Íslandi.

 

E-37  Tilviljunargreining á tölvusneiðmynd er sjálfstæður forspárþáttur lifunar sjúklinga sem gangast undir skurðaðgerð við lungnakrabbameini

Andri Wilberg Orrason1, Kristján Baldvinsson1, Húnbogi Þorsteinsson2, Martin Ingi Sigurðsson1, Steinn Jónsson1,3, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild og 3lungnadeild, Landspítala

andriwo@gmail.com

Inngangur: Lungnakrabbamein greinast oftast vegna einkenna en sum greinast fyrir tilviljun við myndrannsóknir sem gerðar eru við eftirlit eða vegna óskyldra sjúkdóma. Á síðustu árum hefur orðið mikil aukning í notkun tölvusneiðmynda (TS) og segulómana. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort þessi þróun hafi fjölgað tilviljunargreiningum en um leið kanna áhrif tilviljunargreiningar á lifun.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra sjúklinga sem gengust undir skurðaðgerð vegna lungnakrabbameins á Íslandi 1991-2010. Sjúklingar með einkenni voru bornir saman við tilviljunargreinda á fjórum 5 ára tímabilum, m.t.t. klínískra og meinafræðilegra þátta en einnig lífshorfa. Forspárþættir lifunar og áhrif tilviljunargreiningar á lifun voru metnir með fjölbreytugreiningu.

Niðurstöður: Af 512 sjúklingum voru 174 (34%) greindir fyrir tilviljun og hélst hlutfall tilviljunargreininga svipað á milli tímabila. Æxlin greindust fyrir tilviljun á lungnamynd (76%) og TS (24%) en á síðasta 5 ára tímabilinu voru TS 43% tilviljunargreininga. Tilviljunargreind æxli voru minni (3,0 sbr. 4,3 cm, p<0,001), oftar á lægri stigum (64 sbr. 40% á stigi I, p<0,001) og kirtilfrumugerð algengari. Blaðnám var algengara hjá tilviljunargreindum en tíðni fylgikvilla svipuð í báðum hópum. Eftir að leiðrétt var fyrir öðrum þáttum í fjölbreytugreiningu, svo sem lægra TNM-stigi og aldri reyndust sjúklingar sem greindust fyrir tilviljun á TS með marktækt betri lifun en sjúklingar með einkenni (HR 0,38, 95% Cl: 0,16-0,88, p=0,02).

Ályktun: Þriðji hver sjúklingur sem gengst undir skurðaðgerð vegna lungnakrabbameins greinist fyrir tilviljun. Enda þótt hlutfall tilviljunargreininga hafi lítið breyst á síðustu tveimur áratugum er þáttur tölvusneiðmynda vaxandi, sem virðist fela í sér betri lífshorfur, jafnvel þótt leiðrétt sé fyrir stigi sjúkdómsins.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica