Fylgirit 68 - Vísindi á vordögum, þing Landspítala

Ávarp - Vísindi á vordögum, þing Landspítala
28. apríl til 5. maí 2011

Mitt í kröftugum hagræðingaraðgerðum á síðasta ári voru sett fram þau markmið fyrir árið 2010 að Landspítali skyldi vera meðal fremstu háskólaspítala í N-Evrópu og að halda áfram að stunda vísindi á heimsmælikvarða. Eins og sjá má á þessari uppskeruhátíð vísindastarfa á spítalanum lítur út fyrir að bærilega hafi gengið hjá starfsfólki Landspítala að halda sig við sett markmið.

Enn er fjölgun í birtingu vísindagreina, meistara- og doktorsnemum hefur fjölgað og nánast hefur tekist að halda í horfinu með styrkjaupphæðir, fjölda ágripa fyrir spjaldasýningu og umsóknum í Vísindasjóð hefur ekki fækkað. Auðvitað kann að taka einhvern tíma fyrir áhrif samdráttar og hagræðingar  á spítalanum að koma fram, enn sem komið er hefur það ekki gerst. Á árinu voru í fyrsta skipti veitt hvatningarverðlaun til þriggja vísindamanna spítalans, sem hafa skarað fram úr og líkur eru á að hægt verði að halda áfram á sömu braut. Jafnframt hefur forstjóri lagt fram tillögu um að á þessu ári verði teknar upp skipulagðar styrkveitingar til ungra vísindamanna spítalans í klínísku framhaldsnámi.

Kennsla og rannsóknastarfsemi er hluti af kjarnastarfsemi háskólaspítala eða svo vitnað sé til umræðu sem nú fer fram á Mayo Clinic í Rochester: „Science and education is a part of patient service“. 

Það er mikilvægt að ekki sé slegið af. Áfram verðum við að standa vörð um háskólastarf á spítalanum; þannig er lagður grunnur að framtíðarmönnun heilbrigðiskerfisins og gæðum þess. Það má hins vegar ekki líta fram hjá því að vísindamenn spítalans hafa ekki farið varhluta af breyttum aðstæðum og hafa brugðist við á sama hátt og aðrir starfsmenn spítalans, með útsjónarsemi og aukinni vinnu.

Við þessar aðstæður er mikilvægt að bera sig áfram saman við það sem best gerist og sækja styrk í aukna samvinnu, hérlendis og erlendis. Þar er mikilvægt að leita samanburðar þar sem smæð okkar hefur ekki áhrif, eða skekkir mynd, hvorki á jákvæðan eða neikvæðan hátt. Fjöldi tilvitnana í greinar og skipulagðar samantektir t.d. fyrir háskólaspítala á Norðurlöndum (s.s. citation index) koma sérstaklega vel út fyrir Landspítalann og skipa honum í fremstu röð í vísindavirkni og fremst í hóp öflugustu háskólaspítala á Norðurlöndum. Þar kemur til hjálpar víðtækt samstarf við innlendar rannsóknastofnanir, einkum HÍ, Íslenska erfðagreiningu og Hjartavernd. Gagnkvæmt vísindasamstarf eflir og viðheldur vísindavirkni í heilbrigðisvísindum. Vaxandi áhugi erlendra stofnana er á slíku samstarfi, sbr. heimsókn sendinefndar frá University of  Pennsylvania í nóvember sl., sem er merki þess áhuga og setur enn frekari þrýsting á okkar fólk að standa undir merkjum og spítalann að skapa aðstöðu til góðra verka. Landspítalinn hefur nú gerst aðili að ECRIN (European Clinical Research Infrastructure Network) og fær á þessu ári 11 milljón kr. styrk frá Evrópusambandinu til að efla innviði spítalans fyrir vísindarannsóknir. Sömuleiðis mun heilbrigðisvísindabókasafn Landspítala fá rúmlega þriggja milljón kr. styrk til þátttöku í skráningarverkefni á vegum Evrópusambandsins.

Starfsemi Klínísks rannsóknaseturs Landspítala og HÍ fór af stað á síðasta ári og hefur þegar sannað tilverurétt sinn, s.s. er varðar ECRIN, klínískar lyfjarannsóknir og fjöldann allan af erindum og verkefnum sem til þess hafa safnast.

Ég vona að áfram verði hægt að skrifa svona jákvæða pistla á næstu árum. Landspítalinn er klárlega á réttri braut á þessu sviði sem og svo mörgum öðrum.

 

Kristján Erlendsson

Framkv.stj. vísinda-, mennta- og gæðasviðs Landspítala

Varadeildarforseti læknadeildar Háskóla Íslands





Þetta vefsvæði byggir á Eplica