Sameiginlegt vísindaþing SKÍ, SGLÍ og Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna
Umbúnaður, frágangur og innihald efnisins er birt á ábyrgð þinghaldara.
Sameiginlegt vísindaþing Skurðlæknafélags Íslands
Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands og
Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna
Hilton Reykjavík Nordica
1. - 2. apríl 2011
Velkomin á þingið
Ágætu kollegar og aðrir þinggestir!
Sameiginlegt vísindaþing Skurðlæknafélags Íslands og Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands er nú haldið í 13. sinn. Þingið fer að þessu sinni fram dagana 1.-2. apríl á Hótel Hilton Nordica og er hægt að skrá sig á þingið á www.congress.is. Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna (FÍFK) kemur að þinginu í ár eins og í fyrra. Er það ánægjuleg viðbót við þingið og eykur fjölbreytnina. Uppbygging þingsins er með svipuðu sniði og undanfarin ár með málþingum ýmiss konar, sem er ætlað að ná til sem flestra félagsmanna, fyrirlestrum, kynningum vísindaerinda og veggspjalda. Nýjungar í ár eru hádegisfundir með unglæknum og svæfingarlæknum og kynningar á rannsóknarverkefnum kollega sem hafa nýlega lokið doktorsprófi.
Þingið byrjar með málþingi um stunguslys á skurð- og svæfingadeildum, og verður fjallað um viðfangsefnið út frá ýmsum sjónarhornum. Er það von okkar að sem flestir sjái sér fært um að sækja málþingið og taka virkan þátt í umræðum, enda er um að ræða málefni sem snertir okkur öll og varðar mikilvæg öryggis- og tryggingarmál okkar í starfi.
Félögin hafa með stuðningi styrktaraðila boðið til landsins þremur erlendum fyrirlesurum sem leiða munu málþing á sínu sérsviði. Kynning vísindaerinda og veggspjalda skipar áfram stóran sess og er ánægjulegt að sjá gróskuna í vísindastarfi félagsmanna. Ungir kollegar og læknanemar leika þar stórt hlutverk og viðhalda þannig þeirri hefð að þeir stígi sín fyrstu skref í kynningu rannsókna á vísindaþingi SKÍ og SGLÍ. Samkeppni um besta erindi unglæknis eða læknanema verður því áfram í hávegum haft og kemur til með að setja lokapunktinn á fræðilega hluta þingsins.
Vísindaþing SKÍ og SGLÍ hefur margvíslegan tilgang, m.a. uppskeruhátíð fyrir vísindastörf hinna ýmsu sérgreina og fagleg samskipti, en ekki síður sem félagslegur vettvangur til að efla samstöðu hópsins. Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúning og skipulag þingsins og verða kynnt rúmlega 50 vísindaerindi og fjöldi málþinga á boðstólnum. Félagsmönnum fer fjölgandi og er það von okkar að sem flestir sjái sér fært að mæta og taka virkan þátt í þinginu. Aðalfundir aðildarfélaganna verða á sínum stað og hvetjum við sömuleiðis alla félagsmenn að mæta á þá.
Vísindaþing af þessu tagi er ekki hægt að halda án stuðnings fyrirtækja í heilbrigðisgeiranum og á því er engin undantekning í ár. Við þökkum þeim stuðninginn og bendum þinggestum á að kynna sér þær vörur sem eru til sýnis.
Um leið og við bjóðum ykkur velkomin á þingið vonumst við til þess að þið munið hafa bæði gagn og gaman af.
Stjórn Skurðlæknafélags Íslands
Anna Gunnarsdóttir, formaður
Tómas Guðbjartsson, varaformaður
Kristín Huld Haraldsdóttir, gjaldkeri
Kristján Skúli Ásgeirsson, ritari
Gunnar Auðólfsson, meðstjórnandi Stjórn Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands
Kári Hreinsson, formaður
Guðmundur K. Klemenzson, gjaldkeri
Alma D. Möller, ritari
Sigurbergur Kárason, meðstjórnandi
Hönnun og frágangur
Gunnhildur Jóhannsdóttir, ritari SKÍ
Ráðstefnuhald
Congress Reykjavík, Engjateigi 5, 105 Reykjavík
Skráning á þingið:
www.congress.is
Dagskráryfirlit
Föstudagur 1. apríl 2011
|
|||||
Salur A+B | Salur D | Salir F+G | Salur H | Salur I | |
08:30 | Setning og ávarp ráðherra |
|
|||
09:00 | Málþing um stunguslys á skurð- og svæfingadeildum | ||||
12:00 | Hádegisfundur deildarlækna | ||||
13:00 |
|
Frjáls erindi E01-E16 |
Frjáls erindi E17-E32 |
Málþing um hryggjar-skurðlækningar | |
15:00 | Málþing um krabbamein í þvagblöðru | ||||
16:25 |
|
Veggspjaldakynning V01-V10 |
|||
17:30 |
|
Aðalfundur SKÍ | Aðalfundur SGLÍ | ||
Laugardagur 2. apríl 2011
|
|||||
Salir A+B | Salur D | Salir F+G | Salur H | Salur I | |
09:00 |
|
Málþing um lungnakrabbamein | Málþing og vinnubúðir: FATE hartaómskoðun |
Málþing um maximally invasive oncologic treatment |
|
12:00 | Hádegisfundur svæfingalækna | ||||
13:00 |
|
Málþing um næringu skurð- og gjörgæslusjúklinga og innri herniur sem fylgikvilli eftir hjáveituaðgerðir | |||
15:00 |
|
Besta vísindaerindi unglæknis eða læknanema E33-E37 |
|||
16:00 |
|
Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin á Haíti |
Kaffihlé f.h. kl 10:30-11:00 Hádegishlé kl 12:00-13:00 Kaffihlé e.h. kl 14:30-15:00 og 16:10-16:25
Salir A+B
08:30 |
Setning: Anna Gunnarsdóttir, formaður SKÍ Ávarp: Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra |
09:00-12:00 Málþing um stunguslys á skurð- og svæfingadeildum | |
Fundarstjórar: Tómas Guðbjartsson og Kári Hreinsson | |
09:00 | Inngangur: Tómas Guðbjartsson |
09:05 |
Tíðni stunguslysa og helstu orsakir blóðsmits |
09:30 |
Nýjungar í meðferð HIV |
09:40 |
Nýjungar í meðferð á lifrarbólgu C og B |
09:55 |
Á að skima sjúklinga fyrir aðgerðir? Hvað með starfsfólk? |
10:20 |
Sjónarmið Vinnueftirlitsins |
10:30 | Kaffihlé (30 mín) |
11:00 |
Lögfræðileg álitamál við stunguslys starfsfólks |
11:30 | Pallborðsumræður með þátttöku fyrirlesara, Birnu Jónsdóttur formanns LÍ, Þorbjörns Jónssonar formanns Læknaráðs LSH, Önnu Gunnarsdóttur formanns SKÍ og Gunnars Mýrdal, skurðlæknis |
12:00 | Hádegishlé |
Salir F+G
12:00-12:45 |
Hádegisfundur fyrir deildarlækna: Meðferð fjöláverka Styrktaraðili: Inter |
Salir F+G
13:00-14:30 Frjáls erindi (7+3 mín)
Fundarstjórar: Kristján Skúli Ásgeirsson og Sigurbergur Kárason
13:00 | E-01 |
Krabbamein í eistum á Íslandi 2000-2009: Nýgengi og lífshorfur |
13:10 | E-02 |
Hlutabrottnám á nýra vegna nýrnafrumukrabbameins á Íslandi |
13:20 | E-03 |
Áhrif aprótiníns á blæðingar í aðgerðum vegna kúpusaumalokunar |
13:30 | E-04 |
Dánarmein látinna í umferðarslysum árin 2000-2009 |
13:40 | E-05 |
Alvarlegir brunar á Íslandi 2005-2009 |
13:50 | E-06 |
Meðgöngusykursýki á Íslandi 2007-2008 |
14:00 | E-07 |
Fylgikvillar við keisaraskurði á Landspítala |
14:10 | E-08 |
Þungun eftir Roux-en-Y magahjáveituaðgerð |
14:20 | E-09 |
Utanbastsdeyfingar í fæðingu og bráðakeisaraskurðir |
14:30 | Kaffihlé (30 mín) |
Salir F+G
15:00-16:10 Frjáls erindi (7+3 mín)
Fundarstjórar: Sigurbjörg Skarhéðinsdóttir og Helgi Kjartan Sigurðsson
15:00 | E-10 |
Myndun og viðhald æðaaðgengis í blóðskilunarsjúklingum |
15:10 | E-11 |
Árangur brjóstasparandi aðgerða vegna brjóstakrabbameins á Íslandi 2000-2005 |
15:20 | E-12 |
Uppbygging á grindarbotni með húð- og vöðvaflipa frá kviðvegg eftir brottnám endaþarms |
15:30 | E-13 |
Notagildi holsjárómunar við stigun á vélinda- og magakrabbameini |
15:40 | E-14 |
Endurtenging eftir Hartmanns aðgerð eftir rof á ristli á Landspítala 1998-2010 |
15:50 | E-15 |
Rof á ristli við ristilspeglun á Landspítala 1998-2007 |
16:00 | E-16 |
Einkenni sjúklinga sem greindust með krabbamein í ristli á Íslandi árabilið 1995-2004 - Tengsl einkenna við meinafræðiþætti æxlanna |
16:10 | Kaffihlé (15 mín) |
Salur H
13:00-14:30 Frjáls erindi (7+3 mín)
Fundarstjórar: Gunnar Mýrdal og Guðmundur K. Klemenzson
13:00 | E-17 |
Góður árangur kælimeðferðar eftir hjartastopp |
13:10 | E-18 |
Má komast hjá uppsetningu þvagleggs við mænudeyfingu? |
13:20 | E-19 |
Er hægt að nota S-NT-pro-BNP sem mælikvarða á árangur hjartabilunarmeðferðar hjá gjörgæslusjúklingum? |
13:30 | E-20 |
Sárasogsmeðferð við djúpum sýkingum í bringubeinsskurði eftir opnar hjartaaðgerðir – samanburður við eldri sárameðferð |
13:40 | E-21 |
Afdrif sjúklinga með ósérhæfðar breytingar í eitlum við miðmætisspeglun |
13:50 | E-22 |
Ábendingar og árangur sárasogsmeðferðar á Íslandi |
14:00 | E-23 |
Hjartaaðgerðir á Íslandi og í Svíþjóð 2010: Niðurstöður úr Swedeheart |
14:10 | E-24 |
Árangur skurðaðgerða á lungnakrabbameini í öldruðum |
14:20 | E-25 |
Lokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi 2002–2006: Langtíma fylgikvillar og lifun |
14:30 | Kaffihlé (30 mín) |
Salur H
15:00-16:10 Frjáls erindi (7+3 mín)
Fundarstjórar: Sigurbergur Kárason og Ingvar H. Ólafsson
15:00 | E-26 |
Bráðaaðgerð og saga um hækkaðan blóðþrýsting eru sjálfstæðir áhættuþættir á bráðum nýrnaskaða eftir kransæðahjáveituaðgerð |
15:10 | E-27 |
Áhættuþættir enduraðgerða vegna blæðinga eftir kransæðahjáveituaðgerðir |
15:20 | E-28 |
Áhættuþættir og afdrif sjúklinga sem fá rauðkornaþykkni eftir kransæðaskurðaðgerðir |
15:30 | E-29 |
Bráðabrjóstholsskurðaðgerðir vegna lífshættulegra brjóstholsáverka á Íslandi 2005-2010 |
15:40 | E-30 |
Árangur af endurlífgunum utan sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2004-2007 |
15:50 | E-31 |
Höfuðáverkar meðhöndlaðir á Landspítala |
16:00 | E-32 |
Sjálfsprottin flysjun í kransæð unglingsstúlku - sjúkratilfelli |
16:10 | Kaffihlé (15 mín) |
Salur H
16:25-17:15 Veggspjaldakynning með stuttri kynningu (2+3 mín)
Fundarstjórar: Eiríkur Jónsson og Felix Valsson
16:25 | V-01 |
Blaðra á gallvegum (choledochal cyst) - Sjúkratilfelli |
16:30 | V-02 |
Risagúll í ósæðarrót ásamt víkkun á vinstra kransæðakerfi - Sjúkratilfelli |
16:35 | V-03 |
Hjartaþelsbólga á Íslandi 2000-2009 |
16:40 | V-04 |
Einkenni, kjarnsýru eintakafjölbreytileiki og árangur skurðaðgerða í Cenani-Lenz syndactyly heilkenni |
16:45 | V-05 |
Fjöluppsprettu krabbalíki í smágirni |
16:50 | V-06 |
Rof á hægri slegli í kjölfar miðmætissýkingar eftir kransæðahjáveituaðgerð |
16:55 | V-07 |
Blæðingarlost og loftrek vegna fistils á milli berkju og bláæðakerfis – Óvenjulegur fylgikvilli æxlisbrottnáms í berkju Martin Ingi Sigurðsson, Hjörtur Sigurðsson, Kári Hreinsson, Tómas Guðbjartsson |
17:00 | V-08 |
Berkjufleiðrufistill eftir drepmyndandi lungnabólgu, upprættur með einstefnuberkjuloka – Sjúkratilfelli |
17:05 | V-09 |
Notkun miðlægs gagnagrunns við gæðamat á opnum hjartaaðgerðum á Landspítala 2010 |
17:10 | V-10 |
Ehlers-Danlos heilkenni (tegund IV) á Íslandi. Samband arf- og svipgerðar |
Veggspjöld án kynningar
V-11 |
Brottnám blóðreks úr lungnaslagæð með hjálp hjarta- og lungnavélar |
V-12 |
Bútalíkanagerð til að styðja bestu ákvörðunartöku við heilliðun á mjaðmarlið með og án sements |
Salur I
13:00-15:45 Málþing um hryggjarskurðlækningar | |
Fundarstjóri: Björn Zoëga | |
13:00 | Velkomin: Björn Zoëga |
13:05 |
Brjósklosaðgerð á baki sem dagdeildaraðgerð |
13:25 |
Aperius®. Þátttaka Íslands í stórri slembirannsókn |
13:45 |
Bryan® hálsgerviliðir - Ábendingar og fyrstu niðurstöður |
14:05 |
Bakverkir. Hverja á að skera? |
14:30 | Kaffihlé (30 mín) |
15:00 |
Kynning á doktorsverkefni: |
Salur D
15:00-16:15 Málþing um krabbamein í þvagblöðru | |
Fundarstjóri: Guðmundur Geirsson | |
15:00 |
Kynning á doktorsverkefni: |
15:45 | Umræður og sjúkratilfelli |
Salir F+G og H
17:30-18:00 Aðalfundir SKÍ og SGLÍ
Salir F+G: Skurðlæknafélag Íslands
Salur H: Svæfinga- og gjörgæslulæknafélag Íslands
09:00-12:00 MÁLÞING, haldin samhliða í sölum D, F+G og H+I
Salur D
09:00-12:00 Málþing um lungnakrabbamein - Nýjungar í stigun og árangur skurðaðgerða | |
Fundarstjóri: Steinn Jónsson | |
09:00 | Velkomin: Hrönn Harðardóttir |
09:10 |
Sound against sword: Endosonography, the new standard for lung cancer staging |
10:00 |
Hversu stórt hlutfall lungnakrabbameinssjúklinga á Íslandi gangast undir skurðaðgerð og hver eru afdrif þeirra? |
10:15 |
Er fleygskurður jafn góð aðgerð og blaðnám við lungnakrabbameini? |
10:30 | Kaffihlé (30 mín) |
11:00 |
Greiningarferli lungnakrabbameins á LSH |
11:20 |
Fyrstu tilfelli af “radioablation” á Íslandi |
11:40 |
Sjúklingabæklingur um lungnakrabbamein - kynning |
Málþingið er styrkt af Roche á Íslandi
|
Salir F+G
09:00-12:00 Málþing og vinnubúðir: FATE hjartaómskoðun (Focused-assessed Transthoracic Echocardiography) |
|
Umsjón: Einar Örn Einarsson og Kári Hreinsson | |
09:00 | Kynning: Einar Örn Einarsson |
09:05 | FATE: Aage Christiansen, MD, Skejby Univ, Århus |
10:00 | Kaffihlé (30 mín) |
10:30 | FATE vinnubúðir. Hjartaómskoðun á 3 stöðvum |
Salir H+I
09:00-12:00 Maximally invasive oncologic treatment | |
Fundarstjóri: Elsa Björk Valsdóttir | |
09:00 | Velkomin: Elsa Björk Valsdóttir |
09:05 |
Hyperthermic Intraperitoneal Chemotherapy for Carcinomatosis –Hype or HIPEC? |
10:00 |
HIPEC sjúkratilfelli af LSH |
10:10 |
Krabbameinslyf – viðbót í vexti |
10:30 | Kaffihlé (30 mín) |
11:10 |
Sarkmein í aftanskinu |
11:20 |
Sarkmeinasjúkratilfelli af LSH |
11:30 | Umræður |
Málþingið er styrkt af Roche á Íslandi
|
12:00 | Hádegishlé |
Salir F+G
12:00- 12:45 |
Hádegisfundur fyrir svæfingalækna - Kynning á svæfingavél frá GE Umsjón: Kári Hreinsson Veitingar í boði Á.Hr. umboðsaðila GE á Íslandi |
Salir F+G
13:00-14:30 Málþing um næringu skurð- og gjörgæslusjúklinga og innri herniur sem fylgikvilli eftir hjáveituaðgerðir | |
Fundarstjórar: Kristín Huld Haraldsdóttir og Guðmundur Klemenzson | |
13:00 |
Næring gefin í meltingarveg |
13:25 |
Klínískar leiðbeiningar LSH um næringargjöf |
13:50 | Umræður |
14:00 |
Innri herniur sem fylgikvilli eftir hjáveituaðgerðir |
14:30 | Kaffihlé (30 mín) |
Salir H+I
15:00-15:50 Besta vísindaerindi unglæknis eða læknanema: Fimm bestu keppa til Hvatningaverðlauna Jónasar Magnússonar (7+3 mín) | ||
Fundarstjórar: Anna Gunnarsdóttir og Gísli H. Sigurðsson | ||
15:00 | E-33 |
Árangur tafarlausra brjóstauppbygginga á Landspítala 2008-2010 |
15:10 | E-34 |
Blöðruhálskirtilskrabbamein. Samanburður á íslensku og dönsku þýði |
15:20 | E-35 |
Gallstasi á meðgöngu – Íslenskur gagnagrunnur |
15:30 | E-36 |
Nárakviðslitsaðgerðir á Sjúkrahúsi Akraness 2004-2010 – framsýn rannsókn |
15:40 | E-37 |
Árangur opinna hjartaskurðaðgerða hjá öldruðum Martin Ingi Sigurðsson, Sólveig Helgadóttir, Inga Lára Ingvarsdóttir, Sindri Aron Viktorsson, Tómas Guðbjartsson |
15:50 | Stutt hlé (10 mín) |
16:00 |
Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin á Haíti Hilmar Már Aðalsteinsson, stjórnandi ÍA |
16:45 | Þingi slitið |
Ágrip erinda
E-01 Krabbamein í eistum á Íslandi 2000–2009: Nýgengi og lífshorfur
Andri Wilberg Orrason1, Bjarni Agnarsson2, Guðmundur Geirsson3, Helgi H. Hafsteinsson4, Tómas Guðbjartsson1,5
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Rannsóknarstofu í meinafræði, 3þvagfæraskurðdeild, 4krabbameinslækningadeild og 5skurðsviði Landspítala
andriwo@gmail.com
Inngangur: Á síðustu áratugum hafa lífshorfur sjúklinga með eistnakrabbamein batnað umtalsvert, aðallega vegna tilkomu öflugra krabbameinslyfja. Markmið rannsóknarinnar var að kanna nýgengi, stigun og lífshorfur sjúklinga síðastliðin 10 ár og bera saman við eldri rannsóknir.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og nær til allra íslenskra karla sem greindust 2000- 2009. Farið var yfir meinafræðisvör og æxlin stiguð með kerfi Boden-Gibb. Heildarlífshorfur voru reiknaðar og borin saman sáðfrumukrabbamein (SFK) og ekki-sáðfrumukrabbamein (E-SFK).
Niðurstöður: Alls greindust 97 karlar og var aldursstaðlað nýgengi 5,9/100.000 karla á ári. Hlutfall SFK og E-SFK var jafnt, en meðalaldur við greiningu var 35,6 ± 12,0 ár (bil 15-76 ) og var 11,5 árum hærri fyrir SFK en E-SFK. Einkenni og tímalengd einkenna voru hins vegar svipuð, einnig meðalstærð æxlanna (4,0 cm) sem hélst óbreytt á rannsóknartímabilinu. Flest æxlanna voru á stigi I, eða 78,4%, 13,4% á stigi II og 8,2% á stigum III-IV. SFK greindust á marktækt lægri stigum samanborið við E-SFK (91,7 sbr. 65,3% á stigi I; p=0,003). Engin fjarmeinvörp greindust hjá sjúklingum með SFK en hjá átta sjúklingum með E-SFK. Fjórir sjúklingar létust á rannsóknartímabilinu, tveir með E-SFK en enginn með SFK. Fimm ára lífshorfur fyrir allan hópinn voru 95,1%.
Ályktanir: Miðað við nágrannalönd er nýgengi eistnakrabbameins á Íslandi í meðallagi og hefur haldist stöðugt síðustu tvo áratugi. Á sama tímabili hefur hlutfall sjúklinga með staðbundinn sjúkdóm (stig I) lítið breyst og stærð æxlanna sömuleiðis. Lífshorfur hér á landi hafa haldist mjög góðar síðustu áratugi og eru með því hæsta sem þekkist.
E-02 Hlutabrottnám á nýra vegna nýrnafrumukrabbameins á Íslandi
Elín Maríusdóttir3, Sverrir Harðarson2, Vigdís Pétursdóttir2, Eiríkur Jónsson1, Valur Þór Marteinsson4, Guðmundur Vikar Einarsson1, Tómas Guðbjartsson3
1Þvagfæraskurðdeild, 2Rannsóknastofu í meinafræði, 3skurðlækningasviði Landspítala, 4Sjúkrahúsinu á Akureyri
emariusdottir@gmail.com
Inngangur: Langvinn nýrnaskerðing er þekktur fylgikvilli brottnáms á nýra. Það er því í vaxandi mæli framkvæmt hlutabrottnám þegar um lítil nýrnaæxli er að ræða. Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman nýrnastarfsemi og lifun eftir hlutabrottnám annars vegar og brottnám á öllu nýranu hins vegar.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem gengust undir hlutabrottnám vegna nýrnafrumukrabbameins á Íslandi 2000-2010, samtals 44 einstaklingum (meðalaldur 60 ár, 64% karlar). Til samanburðar voru 114 sjúklingar (3 viðmið fyrir hvert tilfelli) á TNM-stigum I-III (meðalaldur 64 ár, 62% karlar) sem gengust undir fullt nýrnabrottnám á sama tímabili. Reiknaður var út gaukulsíunarhraði (GSH) og sjúkdómasértæk lifun. Forspárþættir nýrnaskerðingar voru metnir með fjölbreytugreiningu. Miðgildi eftirfylgdar var 27 mánuðir.
Niðurstöður: Lítið æxli (<4 cm) var ábending hlutabrottnáms í 64% tilfella, stakt nýra hjá 16% sjúklinga og nýrnaskerðing hjá öðrum 16%. Staðbundin endurkoma greindist ekki eftir hlutabrottnám og skurðbrún mældist 4 mm (miðgildi, bil 0-17). Æxli í hlutabrottnámshópi voru marktækt minni (3,2 sbr. 6,3 cm, p<0,0001) og oftar á stigi I eða II (91% sbr. 70%, p=0,0002). GSH var sambærilegt í báðum hópum fyrir aðgerð en marktækt hærra 6 mánuðum síðar í hlutabrottnáms¬hópi (58,8 sbr. 46,2 mL/mín, p=0,0005). Tíðni fylgikvilla var sambærileg í báðum hópum og sömuleiðis legutími (miðgildi 7 dagar). Fimm ára lifun var marktækt betri eftir hlutabrottnám en í viðmiðunarhópi (100 sbr. 75,7%, p=0,006). Fjölbreytugreining sýndi að aldur (p=0,002), GSH fyrir aðgerð (p=<0.0001) og fullt nýrnabrottnám voru marktækir forspárþættir lægri GSH 6 mánuðum eftir aðgerð (p=<0.0001).
Ályktanir: Árangur hlutabrottnáms vegna nýrnafrumukrabbameins er góður hér á landi. Marktækt minni skerðing varð á nýrnastarfsemi borið saman við fullt brottnám og lifun sjúklinga var betri. Fylgikvillar og aðgerðartími reyndust hins vegar sambærilegir.
E-03 Áhrif aprótiníns á blæðingar í aðgerðum vegna kúpusaumalokunar
Birkir Örn Hlynsson1, Ívar Gunnarsson2, Þráinn Rósmundsson1,3, Aðalbjörn Þorsteinsson1,2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 3Barnaspítala Hringsins
boh1@hi.is
Inngangur: Kúpusaumalokun (Craniosynostosis) er ótímabær samvöxtur á einum eða fleiri höfuðbeinamótum í börnum og veldur einkennandi aflögun höfuðlags auk mögulegri hækkun á innankúpuþrýstingi. Meðferð er kúpuopnun, þar sem höfuðbeinin eða höfuðbeinamótin eru klippt upp. Blæðingar í þessum aðgerðum eru miklar og margar aðferðir hafa verið notaðar til að minnka þær. Markmið verkefnisins var að meta blóðsparandi áhrif aprótiníns, sem var notað hérlendis frá 2003, á blæðingar við þessar aðgerðir.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem greindir voru með kúpusaumalokun frá 1958 til apríl 2008. Upplýsingar voru fengnar úr greiningabókum barnadeildar (1958-1970), aðgerðabókum skurðdeildar Landspítala (LSH) við Hringbraut (1971-1982) og tölvukerfi LSH (1983-2008). Blæðingar, blóðgjafir og tengdir þættir hjá sjúklingum sem fengu aprótinín voru bornir saman við þá sem fengu ekki aprótinín.
Niðurstöður: Alls fundust 91 sjúklingur, þrír þeirra höfðu ekki farið í aðgerð og hjá einum fundust ekki fullnægjandi upplýsingar. Eftir stóðu 87 sjúklingar sem fóru í 93 aðgerðir. Þrettán fengu aprótinín, 74 ekki. Hóparnir voru sambærilegir hvað varðar aldur, hæð, þyngd og áætlað heildarblóðrúmmál (EBV). Meðaltal blæðinga reyndist 5,8% af EBV hjá aprótinínhópnum, en 30,0% hjá þeim sem fengu ekki aprótinín og munurinn 24,2% (95% CI: 18,1-30,2%, p<0,0001). Meðaltal gefins blóðs miðað við EBV var 1,8% í aprótinínhópnum borið saman við 28,8% og munurinn 26,9% (95% CI: 2,7-32,3%, p<0,0001).
Ályktanir: Aprótinin minnkar marktækt blæðingar í aðgerðum vegna craniosynostosis og þar af leiðandi þörf fyrir blóðgjafir.
E-04 Dánarmein látinna í umferðarslysum árin 2000-2009
Brynjólfur Mogensen1,2,3, Kári E Þórðarson2, Ágúst Mogensen3, Sævar Helgi Lárusson3
1Bráðasviði Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Rannsóknarnefnd umferðarslysa
brynmog@landspitali.is
Inngangur: Umferðarslys eru algengasta orsökin fyrir ótímabærum dauða eftir slys. Markmið rannsóknarinnar var að kanna dánarmein látinna í umferðarslysum á Íslandi árin 2000-2009.
Efniviður og aðferðir: Upplýsingar voru fengnar úr gagnasafni Rannsóknarnefndar umferðarslysa. Dánarmein einstaklinga voru kóðuð með ICD-10 og áverkaskor reiknað skv. ISS og NISS.
Niðurstöður: Á tímabilinu 2000-2009 létust 225 einstaklingar í 190 slysum. Karlar voru 68% og konur 32%. Flestir voru 16 til 25 ára og 50% allra voru 16-45 ára. Flestir (52%) dóu um helgar. Greindir voru 465 áverkar hjá 164 einstaklingum. Á höfði voru 210 áverkar, 186 á brjóstholi, 37 í kvið og 31 á hrygg. Helstu áverkar voru dreifðir heila- og lungnaáverkar. Meðaltal ISS-skors í öllum áverkum var 50 en meðtaltal NISS-skors 58,3. Tala látinna fækkaði á tímabilinu.
Ályktanir: Karlmenn voru í miklum meirihluta. Þeir sem létu lífið í umferðinni voru flestir innan við fimmtugt. Dánarmein vegna áverka skiptust nokkuð jafnt milli höfuðs og brjósthols. Ef margir alvarlegir áverkar voru á sama líkamssvæði virtist NISS-skor gefa nákvæmari upplýsingar. Tala látinna fækkaði á tímabilinu.
E-05 Alvarlegir brunar á Íslandi 2005-2009
Hannes Sigurjónsson1,2, Davíð Jensson1, Jens Kjartansson1,2
1Lýtalækningadeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands
hannes@landspitali.is
Inngangur: Brunar eru algengt og alvarlegt heilsufarslegt vandamál á heimsvísu. Þeir eru með algengustu orsökum fötlunar, langvarandi verkjavandamála og lýta. Ennfremur krefjast alvarleg brunasár sérhæfðar og kostnaðarsamrar meðferðar af hendi sérhæfðs fagfólks. Í þessari rannsókn var upplýsingum safnað um alvarlega bruna á fimm ára tímabili.
Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og tók til allra sjúklinga sem lögðust inn á gjörgæsludeild Landspítala vegna bruna. Á fimm ára tímabili, frá 1. janúar 2005 til 31. desember 2009, lögðust inn 41 sjúklingur. Einum sjúklingi, sem kom við á leið sinni frá Grænlandi til frekari meðferðar í Danmörku, var sleppt.
Niðurstöður: Af 41 sjúklingum voru 71% karlar (n=29). Meðalaldur var 28,8 ár (bil 1-84). Algengasta orsök bruna var eldur, eða í 59% allra tilfellanna (n=24), þá heitt vatn 32% (n=13), rafmagn 5% (n=2) og efnabrunar 5% (n=2). Miðgildi daga á öndunarvél var 21 (bil 1-90). Meðal yfirborðsútbreiðsla brunanna (Total body surface area, TBSA%) var 23% (bil 1-80%). Af þeim sjúklingum sem voru með >23% bruna (n=14) voru 12 sjúklingar meðhöndlaðir með opinni meðferð og tveir með snemmskurði. Húðágræðsla var gerð hjá tæplega helmingi sjúklinga (n=19) og var meðaltími frá slysi fram að ágræðslu 10 dagar (bil 2-18). Miðgildi gjörgæslulegu var 2 dagar (bil 1-92) og meðaltal heildarlegutíma var 26 dagar (bil 1-457). Dánartíðni var 9,8% (n=4).
Ályktanir: Tíðni alvarlegra bruna er sambærileg við það sem þekkist á hinum Norðulöndunum. Opin meðferð er góður valkostur sem meðferð við hlutþykktarbrunum. Dánartíðni sjúklinga með alvarleg brunasár á Íslandi er sambærileg við stórar brunameðferðarmiðstöðvar erlendis.
E-06 Meðgöngusykursýki á Íslandi 2007-2008
Ómar Sigurvin Gunnarsson1,2, Hildur Harðardóttir1, Arna Guðmundsdóttir2
1Kvennadeild, 2göngudeild sykursjúkra á Landspítala
omarsg@gmail.com
Tilgangur: Tíðni fylgikvilla á meðgöngu, í fæðingu og hjá nýbura eykst ef móðir hefur meðgöngusykursýki (MGS). Fylgikvillar eru m.a. axlarklemma, fósturköfnun, nýburagula og blóðsykurslækkun hjá nýbura. MGS hefur áhrif á fæðingarmáta og líklegra er að fæðing sé framkölluð og verði með keisaraskurði. Tíðni MGS fer hratt vaxandi í hinum vestræna heimi og er nú 3-14%. Í rannsókninni er könnuð tíðni og fylgikvilla MGS á Íslandi 2007-2008.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin tók til allra kvenna sem greindust með og/eða komu til meðferðar á MGS á Landspítala (LSH) 1. janúar 2007 til 31. desember 2008. Skráður var aldur, þyngdarstuðull og þjóðerni móður, ættarsaga um sykursýki og niðurstöður sykurþolprófs. Einnig voru skráðir fylgikvillar á meðgöngu, fæðingarmáti og fylgikvillar í fæðingu, ásamt fæðingarþyngd, fæðingaráverkum og fylgikvillum hjá nýbura.
Niðurstöður: MGS greindist á 289 af 6502 meðgöngum (4,4%) á LSH á tímabilinu. Þyngdarstuðull (BMI) við fyrstu komu var 30,3±6,2. Insúlínmeðferð var beitt hjá 113 konum (39,1%). Samanborið við almennt þýði sást að framköllun fæðingar var algengari (44,3% sbr. 18,5%; p<0,0001) og fæðing með keisaraskurði (29,4% sbr. 17,6%; p<0,0001), hvort sem um valaðgerð (11,8% sbr. 6,1%; p=0,0004) eða bráðaaðgerð var að ræða (17,6% sbr. 11,5%; p=0,0027). Algengara var að þungburar (>4500 g) fæddust með keisaraskurði (63% sbr. 27%; p=0,003). Ekki var marktækur munur á tíðni fyrirbura eða andvana fæddra barna en munur var á tíðni blóðsykurlækkunar (13,5% sbr. 2,4%; p<0,0001), nýburagulu (12,8% sbr. 8,5%; p=0,018) og viðbeinsbrota (2,4% sbr. 1%; p=0,027).
Ályktanir: MGS greindist á 4,4% meðganga á Íslandi. Framköllun fæðingar og fæðing með keisaraskurði voru algengari hjá konum sem greindust með MGS, ásamt því að auknar líkur voru á fylgikvillum í fæðingu og hjá nýbura.
E-07 Fylgikvillar við keisaraskurði á Landspítala
Heiðdís Valgeirsdóttir1, Hildur Harðardóttir1,2, Ragnheiður I. Bjarnadóttir1,2
1Kvenna- og barnasviði Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands
heiddis@gmail.com
Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna tíðni fylgikvilla við keisaraskurði á Landspítala árið 2009 og bera saman við tíðni árin 2001-2002 og við tíðni erlendis. Skoðaðir voru fylgikvillar sem komu upp í aðgerð eða á fyrstu dögum eftir fæðingu.
Efniviður og aðferðir: Þýði rannsóknarinnar var konur sem fæddu með keisaraskurði á Landspítala árið 2009. Upplýsingum um aðgerð og feril sjúklings í kjölfarið var safnað afturvirkt úr mæðraskrá og sjúkraskrám spítalans.
Niðurstöður: Á tímabilinu voru framkvæmdir 615 keisaraskurðir. Tvær konur voru útilokaðar frá rannsókninni og því voru alls 613 konur í henni. Heildartíðni fylgikvilla var 28,4%. Algengustu fylgikvillarnir voru blóðtap ≥1000 ml (10,4%), hiti (9,4%), blóðgjöf (7,4%) og rifa frá legskurði (6,0%). Aðrir fylgikvillar voru sýking í legi (2,2%), skurðsári (1,0%) eða þvagfærum (1,0%), þörf á enduraðgerð (1,7%), blöðruskaði (0,7%), garnastífla (0,7%), legnám (0,5%) og lungnabólga (0,2%). Meiri hætta var á fylgikvilla ef kona fór í bráðakeisaraskurð (33,5%) heldur en valkeisaraskurð (19,8%), (p<0,01). Þeir einstöku fylgikvillar sem voru marktækt algengari eftir bráðakeisaraskurð en valaðgerð voru hiti (p<0,01) og rifa frá legskurði (p=0,01). Tíðni fylgikvilla reyndist örlítið minni en árin 2001-2002, þá 35,5%.
Ályktanir: Fylgikvillar í kjölfar keisarskurðar eru algengir en þeim hefur fækkað á 8 ára tímabili. Mikilvægt er að geta upplýst sjúklinga um mögulega fylgikvilla sem fylgja fyrirhuguðum keisaraskurði. Einnig koma þessar upplýsingar að notum þegar meta skal hvort kona skuli fara í valkeisaraskurð eða stefna á fæðingu um leggöng.
E-08 Þungun eftir Roux-en-Y magahjáveituaðgerð
Alda Birgisdóttir1, Björn Geir Leifsson2, Hildur Harðardóttir1,3, Reynir Tómas Geirsson1,3
1Kvennadeild, 2skurðlækningadeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands
aldabirgis@gmail.com
Inngangur: Offita er vaxandi vandamál meðal kvenna á barneignaaldri. Skurðaðgerð er áhrifaríkasta aðferðin til að stuðla að varanlegu þyngdartapi og draga úr fylgisjúkdómum offitu. Roux-en-Y magahjáveituaðgerð er algengasta offituaðgerðin sem gerð er á Íslandi. Þekking á áhrifum slíkrar aðgerðar á útkomu þungunar er takmörkuð. Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman útkomu þungunar hjá konum eftir Roux-en-Y magahjáveituaðgerð og viðmiðunarhópi kvenna í sama þyngdarstuðulsflokki við upphaf þungunar.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn tilfellaviðmiða rannsókn. Tilfellahópur samanstóð af konum sem gengust undir Roux-en-Y magahjáveituaðgerð á Landspítalanum á árunum 2002-2007, urðu þungaðar í kjölfarið og fæddu einbura (n=30). Viðmiðunarhóp skipuðu þær konur sem fæddu einbura næst á eftir tilfellum, voru á sama aldri, með sama fjölda fyrri fæðinga og í sama þyngdarstuðulsflokki (n=30). Upplýsingum var safnað úr mæðra- og sjúkraskrám.
Niðurstöður: Enginn munur var á tíðni fylgikvilla þungungar hjá tilfella og viðmiðahóp. Ekki var munur á meðgöngulengd, fjölda áhaldafæðinga eða keisaraskurða á milli hópa en framköllun fæðingar var algengari hjá tilfellahópi (p<0,05). Þyngdaraukning var minni meðal kvenna eftir Roux-en-Y magahjáveituaðgerð og fæðingarþyngd (p<0,03) og fæðingarlengd (p<0,01) barna þeirra var marktækt minni. Enginn munur var á tíðni létt– og þungburafæðinga á milli hópa.
Ályktanir: Roux-en-Y magahjáveituaðgerð hefur ekki afgerandi skammtímaáhrif á útkomu þungunar. Þörf er á frekari rannsóknum á áhrifum breyttra efnaskipta í kjölfar Roux-en-Y magahjáveituaðgerðar á þungun og langtíma afleiðingum fyrir mæður og börn.
E-09 Utanbastsdeyfingar í fæðingu og bráðakeisaraskurðir
Jóhann Sigurjónsson1, Aðalbjörn Þorsteinsson1,2, Ragnheiður I. Bjarnadóttir1,3, Hildur Harðardóttir1,3, Reynir Tómas Geirsson1,3
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2svæfinga- og gjörgæsludeild, 3kvennasviði Landspítala
johannsi@hi.is
Tilgangur: Fyrstu rannsóknir á áhrifum utanbastsverkjameðferðar hjá fæðandi konum bentu til aukningar á tíðni keisaraskurða. Nýrri rannsóknir benda ekki til þess. Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna tíðni og mögulegt samband utanbastsdeyfingar og bráðakeisaraskurða á Landspítalanum (LSH) á árunum 1991-2005.
Efniviður og aðferðir: Úr skrám svæfingadeildar LSH var fenginn listi yfir utanbastsdeyfingar sem voru gerðar hjá fæðandi konum. Úr fæðingaskrá fengust jafnframt upplýsingar um alla bráðakeisaraskurði ásamt upplýsingum um fjölda fyrri fæðinga. Rannsóknartímanum var skipt niður í þrjú 5 ára tímabil og borið saman fyrsta og síðasta tímabilið. Könnuð var tíðni deyfingar og bráðakeisaraskurða og hvort samband væri þar á milli, bæði fyrir frum- og fjölbyrjur.
Niðurstöður: Alls voru lagðar 10651 utanbastsdeyfingar og gerðir 4348 bráðakeisaraskurðir. Bráðakeisaraskurður var gerður hjá 1751 konum sem höfðu fengið utanbastsdeyfingu. Notkun utanbastsdeyfingar jókst hjá frumbyrjum, úr 30,1% í 45,9% og hjá fjölbyrjum úr 11,1% í 19,9%. Heildartíðni bráðakeisaraskurða jókst hjá frumbyrjum úr 11,1% í 16,4% og hjá fjölbyrjum úr 5,6% í 8,0%. Hjá frumbyrjum varð aukningin svipuð á bráðakeisurum hjá þeim sem fengu (5,1%) og ekki fengu deyfingu (3,4%). Hjá fjölbyrjum lækkaði tíðni bráðakeisara örlítið hjá þeim sem fengu deyfingu (0,5%) á meðan tíðni keisara virtist aukast (2,3%) hjá þeim sem ekki fengu deyfingu.
Ályktanir: Aukin tíðni bráðakeisara hjá frumbyrjum sást bæði hjá þeim sem fengu og ekki fengu deyfingu. Utanbastsdeyfing hjá fjölbyrjum virtist ekki hafa áhrif á tíðni keisara og jafnvel lækkaði hana.
E-10 Myndun og viðhald æðaaðgengis í blóðskilunarsjúklingum
Steinþór Runólfsson1, Ólafur Skúli Indriðason2, Elín Laxdal1,3,4, Lilja Þyri Björnsdóttir3, Runólfur Pálsson1,2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2nýrnalækningadeild, 3æðaskurðdeild Landspítala, 4háskólasjúkrahúsinu í Bergen
str4@hi.is
Inngangur: Æðaaðgengi sem tryggir ríkulegt blóðflæði er nauðsynleg forsenda árangursríkrar blóðskilunarmeðferðar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni og endingartíma æðaaðgengis fyrir blóðskilun á Íslandi.
Aðferðir: Rannsóknin var afturvirk og náði til allra sjúklinga sem hófu blóðskilun á skilunardeild Landspítala á tímabilinu 2000-2009. Aflað var upplýsinga úr sjúkraskrám, m.a. um tímasetningu upphafs og loka blóðskilunar og tegund og staðsetningu æðaaðgengis. Þroskunar- og endingartími æðaaðgengis var metinn með Kaplan-Meier aðferð og hópar bornir saman með log-rank prófi.
Niðurstöður: Á tímabilinu voru mynduð 282 æðaaðgengi hjá 145 sjúklingum, 86 körlum og 59 konum. Meðalaldur við upphaf blóðskilunar var 61,5 ±18,2 ár og hlutfall sykursjúkra var 24,1%. Hjá 75 sjúklingum (51,7%) hófst blóðskilun um fistil en 70 (48,3%) byrjuðu meðferðina um bláæðarlegg. Af 203 fistlum voru 163 (80,3%) náttúrulegir og gerviæðafistlar voru 40 (19,7%). Þar af urðu 32 náttúrulegir og 3 gerviæðafistlar aldrei nothæfir (p=0,23). Þroskunartími var að miðgildi 77 (bil 1-805) dagar fyrir náttúrulega fistla en 28 (bil 1-196) dagar fyrir gerviæðafistla (p<0,001). Endingartími náttúrulegra fistla var 516 (bil 0-3559) dagar en gerviæðafistla 587 (bil 0-2051) dagar (p=0,56). Fistlar sjúklinga sem voru yngri en 65 ára höfðu marktækt betri endingartíma (p=0,029) en þeirra sem eldri voru. Sykursjúkir reyndust hafa marktækt skemmri endingartíma náttúrulegra fistla en þeir sem ekki voru með sykursýki (p=0,028). Fistlar á upphandlegg þroskuðust marktækt fyrr en á framhandleggsfistlar (p=0,005).
Ályktanir: Hlutfall náttúrulegra fistla var hátt en langur þroskunartími gæti að hluta skýrt tíða notkun æðaleggjar við upphaf blóðskilunar. Þroskunartími náttúrulegra fistla á upphandlegg var skemmri en á framhandlegg en þroskist fistill er ending góð.
E-11 Árangur brjóstasparandi aðgerða vegna brjóstakrabbameins á Íslandi 2000-2005
Elmar Johnson1, Svanheiður Lóa Rafnsdóttir2, Höskuldur Kristvinsson2, Þorvaldur Jónsson2, Lárus Jónasson3, Kristján Skúli Ásgeirsson2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2skurðlækningadeild, 3rannsóknastofu í meinafræði á Landspítala
elj4@hi.is
Inngangur: Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein kvenna á Íslandi og hefur næsthæstu dánartíðni. Í vaxandi mæli hefur nýgreindum sjúklingum verið boðið að gangast undir brjóstasparandi aðgerð (fleygskurð) í stað brottnáms. Mikilvægt er að skrá endurmein, bæði staðbundin og svæðisbundin, eftir fleygskurð, enda mælikvarði á árangur staðbundinnar meðferðar og líklegt að þau geti haft áhrif á horfur. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna afdrif sjúklinga sem gengust undir fleygskurði á Íslandi á árunum 2000-2005, sérstaklega m.t.t. tíðni staðbundinna endurmeina.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn þýðisrannsókn og náði til allra sjúklinga er gengust undir fleygskurð á sex ára tímabili (2000-2005) vegna brjóstakrabbameins og uppfylltu rannsóknarskilyrðin.
Niðurstöður: Samtals uppfylltu 435 sjúklingar rannsóknarskilyrðin og greindist 21 þeirra með staðbundið endurmein. Einn sjúklingur greindist með svæðisbundið endurmein og 15 sjúklingar með fjarmein. Miðgildi eftirfylgnitíma var 50 mánuðir (4,2 ár). Endurkomutíðni staðbundinna endurmeina var þannig 1,2%/ár. Enduraðgerðartíðni vegna æxlisvaxtar í skurðbrúnum var 19,3% (25% útvíkkaður fleygur, 75% brjóstnám).
Ályktanir: Tíðni staðbundinna endurmeina ásamt enduraðgerðartíðni í okkar rannsóknarhópi féll innan viðmiða evrópskra verklagsreglna. Hlutfall fleygskurða miðað við brottnám á þessu tímabili var þó lágt, eða 49%. Í dag gangast u.þ.b. 65% nýgreindra sjúklinga á Íslandi undir fleygskurð. Þetta hlutfall getur haft áhrif á tíðni endurmeina og mikilvægt að skoða árangur þessara aðgerða í framsýnni rannsókn.
E-12 Uppbygging á grindarbotni með húð- og vöðvaflipa frá kviðvegg eftir brottnám endaþarms
Þórir Auðólfsson1, Rafael Acosta1, Mikael Machado2, Jonas Nygren2, Claes Lenander2
1Lýtalækningadeild háskólasjúkrahússins í Uppsölum, 2skurðlækningadeild Ersta sjúkrahússins í Stokkhólmi
thorir.audolfsson@gmail.com
Inngangur: Eftir brottnám endaþarms og jafnvel hluta legganga vegna illkynja æxlis verður til stórt sár sem getur verið erfitt að loka. Oftast hefur vefurinn verið geislaður og sáragróandi því hægur, einkum eftir geislun vegna krabbameins í endaþarmsopi þar sem geislaskammtur er stór og rúmlega 60% sáranna ekki gróin eftir þrjá mánuði. Stilkaðan húð- og vöðvaflipa frá kviðvegg; TRAM (Transverse Rectus Abdominis Myocutan) flipa, er hægt að nota til að fylla upp minna grindarholið, loka sárinu og jafnvel byggja upp leggöng.
Efniviður og aðferðir: Árin 2003 til 2009 voru framkvæmdar 150 aðgerðir með brottnámi endaþarms (124 vegna endaþarmskrabbameins, 26 vegna illkynja æxlis í endaþarmsopi) á Ersta sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Í 20 tilfellum var TRAM flipi notaður. Meðalaldur var 57 ár (35-72). Hjá 9 af 12 konum var hluti legganga fjarlægður. Af 17 æxlum í endaþarmsopi höfðu 10 verið geislaðir með 64 Gy og 7 með 46 Gy. Einn sjúklingur var ógeislaður (Mb Paget). Tveir sjúklingar með endaþarmskrabbamein voru geislaðir með 25 Gy (leggangafistilll) en annars með 54 Gy samhliða krabbameinslyfjameðferð. Ábending fyrir aðgerðinni var mikil geislun (>50 Gy), útbreidd æxli, skurðsár sem ekki höfðu gróið og leggangafistlar.
Niðurstöður: Meðalaðgerðartími var 508 mín. (bil 328-760) og legutími 13 dagar (bil 8-26). Eftir aðgerðina mynduðust 7 minniháttar sár við flipann og fjögur minniháttar sár í kviðvegg. Í nokkrum tilfellum reyndist flipinn óþægilega stór og einn sjúklingur fékk kviðslit. Aðrir fylgikvillar voru tengdir krabbameinsmeðferðinni (lyfja-/geislameðferð og æxlisaðgerðinni). Fjórir sjúklingar hafa látist, þrír með meinvörp (einn sjúklingur með lungnakrabbamein) og einn með staðbundna endurkomu æxlis (R1 brottnám).
Ályktanir: Uppbygging með TRAM flipa hefur reynst vel og eru fylgikvillar fáir. Við mælum með notkun hans við uppbyggingu á grindarbotni eftir mikla geislun og umtalsverðs vefjabrottnáms.
E-13 Notagildi holsjárómunar við stigun á vélinda- og magakrabbameini
Davíð Þór Þorsteinsson1, Sigurður Blöndal1, Guðjón Birgisson1, Ásgeir Theodórs2, Kristín Huld Haraldsdóttir1
1Skurðlækningadeild, 2lyflækningadeild Landspítala
david.thor.thorsteinsson@gmail.com
Inngangur: Lyfjameðferð fyrir aðgerð bætir lifun sjúklinga með skurðtæk vélinda- og magakrabbamein. Holsjárómun (HÓ) er í auknum mæli beitt við stigun sjúkdóms fyrir aðgerð. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna nákvæmni HÓ við stigun fyrir aðgerð á kirtilmyndandi krabbameinum í maga og vélinda.
Efniviður og aðferðir: Sjúklingar sem gengust undir aðgerð vegna kirtilmyndandi krabbameins í maga og vélinda á árunum 2004 til 2009 voru fundnir í skrám Landspítala. Skráðar voru upplýsingar um myndrannsóknir, krabbameinslyfjameðferð, vefjagreiningu og stigun.
Niðurstöður: Sextíu og átta sjúklingar gengust undir aðgerð; 54 (79%) karlar og 14 (21%) konur. Miðgildisaldur var 69 ±12 ár (bil 13-101). HÓ var gerð hjá 33 sjúklingum (49%). Tólf höfðu sannjákvæða eitlastigun og 10 sannneikvæða við HÓ. Fimm höfðu falsjákvæða eitlastigun og 6 falsneikvæða. Næmi og sértæki HÓ fyrir eitlameinvörpum var 67%. Tuttugu sjúklingar (61%) fengu krabbameinslyfjameðferð fyrir aðgerð. Marktækur munur fannst á öllum T-stigum milli HÓ og vefjagreiningar. Mestur munur var á stigun T3-æxla. Nítján sjúklingar (58%) voru á stigi T3 stig samkvæmt HÓ, en 9 (27%) við vefjaskoðun (p<0,05). Í hópi 9 sjúklinga sem voru endurstigaðir með HÓ eftir lyfjameðferð ásamt 13 sjúklingum sem fengu ekki lyfjameðferð (n=22) var áfram marktækt hærra T-stig við HÓ (p<0,05).
Ályktanir: Holsjárómun af vélinda- og magakrabbameini hefur lágt næmi og sértæki fyrir eitilmeinvörpum. Krabbameinslyfjameðferð fyrir aðgerð virðist draga úr T-stigi æxla. Mismunur helst marktækur eftir að leiðrétt hefur verið fyrir áhrifum lyfjameðferðar.
E-14 Endurtenging eftir Hartmanns aðgerð eftir rof á ristli á Landspítala 1998-2010
Kristín María Tómasdóttir1, Elsa Björk Valsdóttir1,2, Kristín Jónsdóttir1, Páll Helgi Möller1,2
1Skurðlækningadeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands
kristinmariat@gmail.com
Inngangur: Hartmanns aðgerð er ein algengasta aðgerðin sem beitt er við rofi á ristli. Aðeins hluti þessara sjúklinga fer í endurtengingu (40%). Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hversu margir fóru í endurtengingu eftir Hartmanns aðgerð á Landspítala í kjölfar rofs á ristli og skoða árangur þeirra aðgerða.
Efniviður og aðferðir: Farið var afturvirkt yfir sjúkraskrár sjúklinga sem höfðu rof á ristli og fóru í Hartmanns aðgerð á Landspítala 1997-2007. Skráður var aldur, kyn, ASA flokkur þegar Hartmanns aðgerðin var framkvæmd, tími frá Hartmanns aðgerð að endurtengingu, legutími, fylgikvillar og endurinnlagnir eftir endurtengingu.
Niðurstöður: 62 sjúklingar fengu rof á ristli og fóru í Hartmanns aðgerð. Af þeim fóru 35 (56%) í endurtengingu. Meðalaldur þeirra sem fór í endurtengingu var 63 ár (bil: 35-89) en 77 ár (bil: 65-90) hjá þeim sem ekki fóru í endurtengingu. ASA skor við Hartmanns aðgerð hjá þeim sem fóru síðar í endurtengingu var að meðaltali 2 en 3 hjá hinum. Alls fóru 17 (63%) af 27 körlum og 19 (54%) af 35 konum í endurtengingu. Endurtenging fór fram að meðaltali 8 mánuðum (bil: 2-47) eftir Hartmanns aðgerðina. Legutími eftir endurtengingu var að meðaltali 11 dagar (bil: 4-25). Fjórtán sjúklingar (40%) fengu fylgikvilla eftir endurtengingu og leiddu þeir til endurinnlagnar hjá 10 (29%) þeirra. Algengustu fylgikvillarnir voru sárasýkingar (n=5) og örkviðslit (n=4). Skurðdauði var enginn.
Ályktanir: Sjúklingar sem fóru í endurtengingu eftir Hartmanns aðgerð voru yngri og með lægri ASA skor en þeir sem ekki fóru í endurtengingu. Tíðni endurtenginga er hærri á Landspítala samanborið við erlendar rannsóknir en fylgikvillar sambærilegir.
E15 Rof á ristli við ristilspeglun á Landspítala 1998-2007
Bryndís Snorradóttir1, Elsa Björk Valsdóttir1,2, Einar Stefán Björnsson1,3, Páll Helgi Möller1,2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2skurðlækningadeild, 2meltingarfæradeild Landspítala
brs2@hi.is
Inngangur: Rof á ristli er sjaldgæfur en alvarlegur fylgikvilli við ristilspeglun. Skurðaðgerðir vegna rofs á ristli hafa hátt hlutfall fylgikvilla og dánartíðni er um 25%. Algengi og árangur meðferðar hérlendis er ekki þekktur. Tilgangur þessarar rannsóknar var annars vegar að kanna algengi rofs á ristli í kjölfar ristilspeglunar á Landspítala 1998-2007 og hins vegar að skoða afdrif allra þeirra sjúklinga sem meðhöndlaðir voru á Landspítala á sama tíma af sömu ástæðu.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturvirk og var leitað í tölvukerfi Landspítala eftir ICD kóðum um rof á ristli. Farið var yfir sjúkraskrár allra sjúklinga og skráðar upplýsingar um meðferð og afdrif þeirra. Alls voru framkvæmdar 9058 ristilspeglanir á Landspítala 1998-2007.
Niðurstöður: Alls fengu 7 sjúklingar rof á ristil í kjölfar ristilspeglunar á Landspítala á umræddu tímabili. Algengi rofs á ristli í kjölfar ristilspeglunar var því 0,08% á Landspítala. Á sama tíma voru hins vegar 18 sjúklingar meðhöndlaðir á Landspítala vegna rofs á ristli í kjölfar ristilspeglunar. Þrettán sjúklingar fengu rof í kjölfar fullrar ristilspeglunar en 5 í kjölfar stuttrar speglunar. Helmingur speglananna var íhlutandi (n=9). Meðalaldur sjúklinga var 68 ár (bil 32-80) og algengasta staðsetning rofs í bugaristli (n=7). Fjórtán sjúklingar fóru í aðgerð en fjórir voru meðhöndlaðir með föstu og sýklalyfjum. Miðgildi legudaga var 9 (bil 1-73 dagar). Alls fengu fimm sjúklingar fylgikvilla eftir aðgerð (28,7%). Tveir sjúklingar létust og skurðdauði því 28,6%.
Ályktanir: Tíðni rofs eftir ristilspeglanir á Landspítala er lág. Staðsetning rofs var oftast, líkt og sést hefur í erlendum rannsóknum, í bugaristli. Árangur meðferðar hérlendis er sambærilegur við erlendar rannsóknir.
E-16 Einkenni sjúklinga sem greindust með krabbamein í ristli á Íslandi árabilið 1995-2004 - Tengsl einkenna við meinafræðiþætti æxlanna
Kristín K. Alexíusdóttir1, Páll Helgi Möller1,2, Laufey Tryggvadóttir1,3, Lárus Jónasson4, Pétur Snæbjörnsson4, Einar Stefán Björnsson1,5, Jón Gunnlaugur Jónasson1,3,4
1Læknadeild Háskóla Íslands, Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Háskóla Íslands, 2skurðlækningadeild Landspítala, 3Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, 4rannsóknarstofu í meinafræði, 5meltingarsjúkdómadeild Landspítala
kristal@landspitali.is
Inngangur: Ristilkrabbamein eru um 8% allra illkynja æxla á Íslandi og næstalgengasta dánarorsökin af völdum krabbameina. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna einkenni sjúklinga sem greindust með ristilkrabbamein 1995-2004 og athuga tengsl þeirra við meinafræðilega þætti og útbreiðslustig sjúkdómsins.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturvirk, lýsandi, greinandi og lýðgrunduð. Upplýsingar voru fengnar úr fyrri rannsókn um meinafræði ristilkrabbameina á Íslandi og úr sjúkraskrám.
Niðurstöður: Alls greindust 807 einstaklingar en 768 voru með í rannsókninni, þar af voru 422 karlar og 346 konur: Meðalaldur við greiningu var 71 ár. Tæp 60% sjúklinga reyndust vera með blóðleysi við greiningu, 53% með ferskt blóð í hægðum og tæp 65% með sögu um breytingar á hægðavenjum. Alls 85% sjúklinga höfðu annaðhvort blóð í hægðum eða blóðleysi við greiningu. Hjá þeim sem voru með æxli hægra megin í ristli voru 75% með blóðleysi. Æxli vinstra megin tengdust fremur fersku blóði í hægðum (68%) og breytingum á hægðavenjum (74%). Þeir sem greindust vegna blóðs í hægðum voru með sjúkdóm á lægri stigum en þeir sem greindust vegna blóðleysis. Blóð í hægðum tengdist fremur hagstæðari meinafræðiþáttum eins og lægri gráðu, ýtandi æxlisjaðri, minni ífarandi dýpt æxlis og bólgufrumuíferð í æxlisjaðri. Kviðverkir og bráðagreining tengdust óhagstæðari meinafræðiþáttum.
Ályktanir: Þeir sem greindust með ristilkrabbamein vegna ferskrar blæðingar voru líklegri til að greinast með æxlið á læknanlegu stigi en þeir sem greindust vegna annarra einkenna, á meðan þeir sem voru með blóðleysi við greiningu reyndust gjarnan vera með óhagstæðari meinafræðiþætti. Þetta bendir til að skipuleg leit að blóði í hægðum sé líkleg til að uppgötva meinin fremur á meðan þau enn eru á læknanlegu stigi.
E-17 Góður árangur kælimeðferðar eftir hjartastopp
Valentínus Þór Valdimarsson1,2, Gísli H. Sigurðsson1,2, Felix Valsson1
1Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands
valentva@gmail.com
Inngangur: Endurlífgun er reynd hjá um 100 sjúklingum á ári sem fara í hjartastopp utan sjúkrahúsa. Helsti fylgikvilli eftir endurlífgun er alvarlegur heilaskaði en kæling þessara sjúklinga hefur sýnt að dragi úr heilaskaða. Þessi könnun lýsir áhrifum kælingar á dánartíðni og heilastarfsemi hjá 114 sjúklingum sem voru meðhöndlaðir með kælingu á gjörgæsludeild LSH eftir hjartastopp.
Efni og aðferðir: Allir sjúklingar 18 ára og eldri sem meðhöndlaðir voru með kælingu eftir hjartastopp utan sjúkrahúss frá 1. janúar 2006 til 30. júní 2010 (n=114). Sjúklingar með skerta meðvitund (GCS ≤7) og án alvarlegra undirliggjandi sjúkdóma voru kældir niður í 32-34°C með köldum innrennslisvökva og kælivél (Coolgard®) í 24 klst. Heilastarfsemi var metin með CPC kvarða (Cerebral Performance Category).
Niðurstöður: Við útskrift af spítalanum voru 61% sjúklinga lifandi, aðeins 6 sjúklingar (5%) með skerta heilastarfsemi og enginn meðvitundarlaus. Svipaða útkomu mátti sjá 6 mánuðum síðar. Meðalaldur var 61 ár (20-89 ára), 80% voru karlmenn, meðaltími frá stoppi að blóðflæði var 18 mín. (0-60) og 83% voru með hjartasjúkdóma sem líklega ástæðu fyrir hjartastoppi. Ef upphafstaktur var rafleysa og ekki voru vitni að hjartastoppi lifði enginn (n=7). Vitni að hjartastoppi og stuðanlegur taktur jók líkur á lifun (76% og 42%, p<0,001) og góðri heilastarfsemi (73% og 34%, p<0,001) við útskrift.
Ályktanir: Miðað við rannsókn á sambærilegum sjúklingahópi, áður en kælimeðferð hófst, þá hefur lifun aukist úr 28% í 61%. Lifun hér er sambærileg við aðrar rannsóknir. Af þeim sjúklingum sem lifðu af meðferðina er mikill meirihluti með óskerta vitræna getu og enginn meðvitundarlaus. Góðar horfur eru hjá þeim sem leggjast inn á gjörgæslu og hafa stuðanlegan fyrsta takt en lélegar hjá þeim sem hafa rafleysu.
Tafla 1. [Úr ágripi E-17] Árangur kælingar eftir hjartastopp flokkaður eftir upphafstakti. Stuðanlegur taktur (VT/VF): púlslaus sleglahraðtaktur/sleglatif.
N (%) | Aldur (miðgildi) | Vitni að hjartastoppi | Góð heilastarfsemi við útskrift | Lifun við útskrift | |
Upphafstaktur | |||||
- Stuðanlegur taktur (VT/VF) | 77 (68%) | 62 (20-89) | 83% | 71% | 75% |
- Rafvirkni án dæluvirkni (Pulseless electrical activity) | 16 (14%) | 62 (44-89) | 69% | 43% | 57% |
- Rafleysa (Asystole) | 21 (18%) | 59 (21-79) | 67% | 14% | 19% |
E-18 Má komast hjá uppsetningu þvagleggs við mænudeyfingu?
Þórarinn A. Ólafsson, Sigurbergur Kárason
Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala
thoraro@gmail.com
Inngangur: Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort komast mætti hjá því að setja þvaglegg hjá sjúklingum sem fá lágskammta mænudeyfingu.
Efniviður og aðferðir: Þýðið voru sjúklingar á leið í gerviliðaaðgerð á hné. Útilokaðir voru þeir sem voru óhæfir til mænudeyfingar, höfðu sögu um mikla þvagteppu eða þvagleka, konur með skerta hreyfigetu og ef þvagmagn var >200 mL samkvæmt blöðruómun fyrir aðgerð. Fylgst var með blöðrufyllingu með ómun eftir aðgerð og verkjastilling tryggð með gjöf lyfja gegnum legg í hnjáliðinn.
Niðurstöður: Fjöldi sjúklinga var 52 (28 konur, 27 karlar). Gefin deyfing var 7,8 mg hýperbarískt búpivakaín (±1,08 mg, bil 7,5-13,5) og alltaf súfentaníl 7,5 µg. Aðgerðarlengd var 1:11 klst (±00:18 klst, bil 00:47-1:56) og dugði deyfingin í öllum tilvikum. Þvagmagn í blöðru í fyrstu ómun á vöknun reyndist 290 mL (±143 mL, bil 65-750). Lengd dvalar á vöknun var 4:49 klst (±00:50 klst, bil 1:29-7:10). Alls köstuðu 46 (88%) vatni án íhlutunar eftir 7:05 klst (±2:05 klst, bil 3:45-11:40) eftir að deyfing var lögð og 6 (12%, 2 konur, 4 karlar) þurfti að tappa 5:43 klst (±2:17 klst, bil 4:08-9:40) eftir að deyfing var lögð. Magn í blöðru fyrir töppun var 543 mL (±159 mL, bil 405- 850). Af þessum 6 voru 5 tappaðir á vöknun. Enginn var tappaður oftar en einu sinni eða fékk inniliggjandi þvaglegg eða truflun á blöðrustarfsemi.
Ályktanir: Með því að nota lágskammta mænudeyfingu má komast hjá því að setja þvaglegg hjá stórum hluta sjúklinga sem gangast undir gerviliðaskipti á hné.
E-19 Er hægt að nota S-NT-pro-BNP sem mælikvarða á árangur hjartabilunarmeðferðar hjá gjörgæslusjúklingum?
Harpa Viðarsdóttir1, Gísli H. Sigurðsson1,2, Felix Valsson2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2svæfinga-og gjörgæsludeild Landspítala
harpavi85@gmail.com
Inngangur: Fjöldi rannsókna hefur sýnt að það er hægt að nota S-NT-pro-BNP (BNP) til að meta áhættu á dauða hjá hjartabiluðum sjúklingum. Engar rannsóknir hafa sýnt fram á fylgni BNP gilda og meðferðar hjá gjörgæslusjúklingum. Tilgangur þessarar könnunar var að skoða BNP gildi hjá hjartabiluðum sjúklingum á gjörgæsludeild Landspítala (LSH) og bera saman við klínískst ástand þeirra og afdrif.
Aðferðir: Þetta var aftursæ rannsókn á öllum gjörgæslusjúklingum sem höfðu BNP gildi yfir 3000 ng/l á árunum 2006-2010. Fengnar voru BNP mælingar frá rannsóknarstofu LSH og þær bornar saman við klínisk afdrif sjúklings.
Niðurstöður: Af 49 sjúklingum létust 16. Fjórir sjúklingar voru með gildi yfir 100.000 og létust þeir allir. Marktækur munur var á hámarksgildi BNP milli þeirra sem lifðu (miðgildi 27.598 ng/L) og þeirra sem létust (miðgildi 45.394,5 ng/L; p<0,02). Einkennandi var að þeir sem svöruðu hjartabilunarmeðerð og lifðu af lækkuðu um a.m.k. 50% frá hámarksgildi. Þessi lækkun gerðist oftast á örfáum dögum.
Ályktanir: Þessi könnun bendir til að BNP hafi ekki eingöngu forspárgildi um lifun hjartabilaðra sjúklinga á gjörgæsludeild heldur að einnig sé hægt að nota það sem mælikvarða á árangur hjartabilunarmeðferðar.
E-20 Sárasogsmeðferð við djúpum sýkingum í bringubeinsskurði eftir opnar hjartaaðgerðir – samanburður við eldri sárameðferð
Steinn Steingrímsson1,2, Magnús Gottfreðsson1,3, Ingibjörg Guðmundsdóttir4, Johan Sjögren5, Tómas Guðbjartsson1,2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3smitsjúkdómadeild, 4æðaskurðdeild Landspítala, 5hjarta- og lungnaskurðdeild háskólasjúkrahússins á Skáni
steinnstein@gmail.com
Inngangur: Sárasogsmeðferð (SSM) hefur verið notuð við alvarlegum sýkingum í bringubeinsskurði hér á landi frá árinu 2005. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman árangur sárasogsmeðferðar við djúpum sýkingum í bringubeinsskurði við eldra þýði sjúklinga sem meðhöndlaðir voru með hefðbundinni meðferð (HM), þ.e. sáraskiptingum með grisjum og skoldreni.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin tók til allra sjúklinga sem greindust með djúpa sýkingu í bringubeinskurði eftir opna hjartaaðgerð á Landspítala frá 2000 til 2010, samtals 44 sjúklingar. Sjúklingum var skipt í tvo hópa; 23 sjúklinga sem voru meðhöndlaðir með HM til loka júlí 2005 og 21 sjúklingur sem var meðhöndlaður með SSM frá ágúst 2005. Leitað var að sjúklingum í aðgerðarskrám Landspítala og var borinn saman árangur í hópunum tveimur.
Niðurstöður: Hóparnir voru sambærilegir með tilliti til aldurs og kyns. Fleiri sjúklingar í HM-hópi höfðu sögu um útæðasjúkdóm (p=0,02) en að öðru leyti voru lýðfræðilegir þættir hópanna svipaðir. Árangur meðferðar með tilliti til endurkomu djúprar sýkinga var 76% hjá SSM-hópi borið saman við 65% hjá HM-hópi (p=0,52). Legutími á sjúkrahúsi (30 og 31 dagar, p=0,90) og gjörgæslu (3 og 4 dagar, p=0,51) vegna meðhöndlunar var svipaður milli hópa. Tíðni bringubeinsfistla sem þörfnuðust skurðmeðferðar var 5% hjá SSM-hópi og 26% hjá HM-hópi (p=0,10). Dánartíðni innan árs var 5% hjá SSM-hópi og 17% hjá HM-hópi (p=0,34).
Ályktanir: Sárasogsmeðferð við djúpum sýkingum í bringubeinsskurði hefur gefið góða raun á Íslandi og árangur síst síðri en við hefðbundna sárameðferð. Ekki er munur á legutíma en færri sjúklingar virtust þurfa endurtekna skurðaðgerð vegna fistla, enda þótt munurinn hafi ekki verið marktækur. Hafa ber í huga að fjöldi sjúklinga er takmarkaður og ekki verið að bera saman sömu tímabil.
E-21 Afdrif sjúklinga með ósérhæfðar breytingar í eitlum við miðmætisspeglun
Jónína Ingólfsdóttir1, Tómas Guðbjartsson1,2, Þóra Sif Ólafsdóttir2, Gunnar Guðmundsson1,3
1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3lungnadeild Landspítala
jonina.ingolfsdottir@gmail.com
Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að kanna afdrif þeirra sjúklinga sem greindust með ósérhæfðar vefjabreytingar við miðmætisspeglun.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 54 sjúklingum (meðalaldur 59 ár, 46% konur) sem greindust með ósérhæfðar breytingar í eitlum við miðmætisspeglun á Íslandi 1983-2007. Sjúklingum, sem fengið höfðu sértæka greiningu (n=182), höfðu þekkt lungnakrabbamein (n=23) eða þar sem upplýsingar vantaði (n=17), var sleppt. Afdrif sjúklinganna, m.a. síðari greiningar, meðferð og lifun, voru könnuð úr sjúkraskrám og stofunótum sérfræðinga. Miðgildi eftirfylgdartíma var 38 mánuðir.
Niðurstöður: Eftir miðmætisspeglun fengu 76% sjúklinga sérhæfða greiningu, oftast viku (miðgildi) frá aðgerð. Algengustu greiningarnar voru illkynja sjúkdómur (n=34), sýking í lungum (n=12) og góðkynja æxli í miðmæti eða lungum (n=5). Algengustu aðferðir til greiningar voru skurðaðgerð (73%), ástunga (10%) eða berkjuspeglun (5%). Alls fengu 40 sjúklingar (74%) meðferð í formi lyfja, geislunar og/eða aðgerðar. Allir sjúklingar að 5 undanskildum voru í eftirlit hjá sérfræðingi eftir aðgerðina, oftast hjá lungna- eða krabbameinslæknum. Við lok eftirfylgdar voru 70% sjúklinga látnir, þar af voru 81% í hópi þeirra sem fengu sérhæfða greiningu.
Ályktanir: Meirihluti sjúklinga með ósérhæfðar breytingar í eitlum við miðmætisspeglun greindist eftir aðgerðina með illkynja sjúkóm. Ekki varð löng töf á greiningu illkynja sjúkdóms þrátt fyrir neikvæða miðmætisspeglun og flestum sjúklinganna var fylgt eftir af sérfræðingum.
E-22 Ábendingar og árangur sárasogsmeðferðar á Íslandi
Ingibjörg Guðmundsdóttir1, Tómas Guðbjartsson2,3
1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands
ingibjgu@landspitali.is
Inngangur: Sárasogsmeðferð er nýjung í meðferð sára þar sem undirþrýstingur er myndaður staðbundið í sárbeðnum með loftþéttum umbúðum og sogtæki. Með þessu móti er sárið hreinsað og flýtt fyrir sárgræðslu. Notkun sárasogsmeðferðar hefur aukist mjög mikið síðustu ár. Markmið rannsóknarinnar var að kanna útbreiðslu meðferðarinnar hér á landi en um leið kanna ábendingar og árangur meðferðar
Efniviður og aðferðir: Aftursýn lýsandi rannsókn þar sem skoðaðar voru sjúkraskrár allra sjúklinga, bæði á sjúkrahúsum og utan, sem fengu sárasogsmeðferð á Íslandi frá janúar til desember 2008. Skráðar voru ábendingar og tímalengd meðferðar og hvort sárin gréru að fullu eða ekki. Einnig voru skoðaðir þættir sem geta haft áhrif á gróanda sára, eins og sykursýki, reykingar og aldur.
Niðurstöður: Alls fengu 56 sjúklingar 65 sárasogsmeðferðir. Karlar voru 62,5% og meðalaldur 61,5 ár (bil 8-93 ár). Meðferð var oftast veitt á sjúkrahúsi, eða í 84,6% tilfella, oftast á æðaskurðdeild og hjartaskurðdeild. Algengustu ábendingar fyrir meðferð voru sýking í sári (40%), örvun gróanda (41,5%) og viðhald opinna holrúma (18,5%). Flest sárin voru á brjóstkassa (24,6%) og neðri útlimum (26,2%). Sex sjúklingar létust vegna undirliggjandi sjúkdóma og voru þeir ekki teknir með við mat á gróanda sára. Af 59 meðferðum náðist fullur gróandi sára í 40 þeirra (67,8%) en ófullkominn gróandi í hinum 19 (32,2%). Fylgikvillar tengdir meðferð voru skráðir í 19 (32,2%) tilfellum og voru verkir (12,3%) og húðvandamál (10,8%) algengust.
Ályktanir: Sárasogsmeðferð er töluvert notuð á Íslandi, sérstaklega við sýkt skurðsár og langvinn sár. Í tveimur þriðju tilfella náðist fullur gróandi sára sem telst góður árangur.
E-23 Hjartaaðgerðir á Íslandi og í Svíþjóð 2010: Niðurstöður úr Swedeheart
Sigurður Ragnarsson1, Þórarinn Guðnason2, Bjarni Torfason1, Gunnar Mýrdal1
1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2hjartadeild Landspítala
sigurra@landspitali.is
Tilgangur: Að kanna árangur hjartaskurðaðgerða á Íslandi árið 2010 með áherslu á tegundir aðgerða, fylgikvilla og dánartíðni og bera saman við niðurstöður í Svíþjóð.
Efniviður og aðferðir: Stuðst var við Swedeheart gagnagrunn, en þar eru skráðar framvirkt upplýsingar um árangur opinna hjartaaðgerða í Svíþjóð og Íslandi. Fyrir ofangreint tímabil lágu upplýsingar frá Landspítala og 4 háskólasjúkrahúsum í Svíðþjóð sem framkvæma opnar hjartaaðgerðir. Fylgikvillar og skurðdauði voru bornir saman á milli landa.
Niðurstöður: Framkvæmd var 201 hjartaaðgerð á Íslandi árið 2010 en 3023 aðgerðir á sjúkrahúsunum fjórum í Svíþjóð. Aldur, kynjaskipting og EuroSCORE voru sambærileg í báðum löndum. Á Íslandi voru kransæðahjáveituaðgerðir framkvæmdar í 63,7% tilvika samanborið við 43,4% í Svíþjóð (p<0,001). Kransæðahjáveituaðgerðir voru framkvæmdar á sláandi hjarta 5 sinnum oftar á Íslandi en á sænsku sjúkrahúsunum (p<0,001). Lokuaðgerðir voru gerðar í 26% tilfella á Íslandi en 45% í Svíþjóð. Helstu fylgikvillar voru sambærilegir í báðum löndum nema enduraðgerð vegna blæðingar sem reyndist algengari á Íslandi, eða 11,4% sbr. 5,7% í sænsku sjúklingunum (p=0,002). Auk þess var nýtilkomið gáttatif/flökt algengara á Íslandi (33% sbr. 25%, p=0,005). Skurðdauði var 5% á Íslandi en 3% í sænsku sjúkrahúsunum. Hátt hlutfall bráðaaðgerða var einkennandi á Íslandi 2010 eða 10% af heildaraðgerðarfjölda. Af þeim 10 sem létust á Íslandi höfðu átta gengist undir bráðahjartaaðgerð.
Ályktanir: Sjúklingar sem gengust undir opnar hjartaaðgerðir í þessum tveimur löndum voru sambærilegir lýðfræðilega. Hlutfall kransæðaaðgerða er hærra hér á landi en í Svíþjóð. Fylgikvillar og skurðdauði er sambærilegur á milli landa. Notkun framvirkrar skráningar á hjartaaðgerðum á Íslandi hefur gefist vel og virðist nothæft til gæðaeftirlits á starfsemi hjartaskurðlækninga.
E-24 Árangur skurðaðgerða á lungnakrabbameini í öldruðum
Ingvar Þ. Sverrisson1, Húnbogi Þorsteinsson3, Steinn Jónsson2, Tómas Guðbjartsson1,3
1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2lungnadeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands
ingvarsv@landspitali.is
Inngangur: Með vaxandi fjölda aldraðra færist í vöxt að lungnakrabbamein greinist í eldri einstaklingum. Því er mikilvægt að kanna árangur skurðaðgerða við lungnakrabbameini í þessum sjúklingahópi.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum sem gengust undir skurðaðgerð vegna lungnakrabbameins (smáfrumukrabbamein undanskilin) á Íslandi 1994-2008. Sjúklingum var skipt í tvo hópa; 76 sjúklinga sem voru ≥75 ára (E-hópur) og 328 sem voru <75 ára (Y-hópur). Hóparnir voru bornir saman m.t.t. áhættuþátta, fylgikvilla, sjúkrahússlegu og skurðdauða (<30 d.).
Niðurstöður: Hlutfall kvenna og lungnastarfsemi var sambærileg í báðum hópum en kransæðasjúkdómur mun algengari í E-hópi (49% sbr. 22%, p<0,01) og ASA-skor var hærra. Marktækt fleiri sjúklingar í E-hópi gengust undir fleygskurð (24%) og aðeins 3 (4%) undir lungnabrottnám samanborið við 9% og 17% í Y-hópi (p<0,01). Æxlisstærð var sambærileg (4 cm) en á stigum I+II voru 88% sjúklinga í E-hópi en 76,5% í Y-hópi. Heildarlegutími var 1 degi lengri í E-hópi en tíðni minniháttar (20%) og alvarlegra fylgikvilla (40%) reyndist sambærileg í báðum hópum. Skurðdauði var einnig sambærilegur í báðum hópum (1,3 sbr. 0,9%).
Ályktanir: Árangur lungnaskurðaðgerða hjá öldruðum er góður hér á landi og skurðdauði með því lægsta sem þekkist. Þrátt fyrir hærri tíðni kransæðasjúkdóms er tíðni fylgikvilla sambærileg og hjá yngri sjúklingum. Í þessum samanburði verður þó að hafa í huga að eldri sjúklingar eru oft með lungnakrabbamein á lægri stigum og oftar gerð minni skurðaðgerð en hjá þeim yngri.
E-25 Lokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi 2002–2006: Langtíma fylgikvillar og lifun
Sindri Aron Viktorsson1, Inga Lára Ingvarsdóttir1, Kári Hreinsson3, Martin Ingi Sigurðsson1, Ragnar Danielsen1,3, Tómas Guðbjartsson1,4
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild, 4hjartadeild Landspítala
sav2@hi.is
Inngangur: Markmið þessarar rannsóknar var að kanna langtímaárangur ósæðarlokuskipta vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannókn á 156 sjúklingum (aldur 71,7 ár, 64,7% karlar) sem gengust undir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Landspítala 2002-2006. Skráðir voru langtíma fylgikvillar og innlagnir tengdar aðgerðinni fram til 1. apríl 2010 og stuðst við sjúkrakrár og stofunótur sérfræðinga. Einnig var farið yfir hjartaómanir við eftirfylgd, reiknuð út heildarlifun og hún borin saman við meðallifun Íslendinga af sama aldri og kyni.
Niðurstöður: Gerviloku var komið fyrir hjá 29 sjúklingum en lífrænni loku hjá 127. EuroSCORE fyrir aðgerð var 9,6%, hámarks þrýstingsfall (ΔP) yfir lokuna 74,1 mmHg og útfallsbrot vinstri slegils (EF) 57%. Hálfu ári frá aðgerð mældist þrýstingsfallandi yfir nýju lokuna 19,8 mmHg (bil 2,5-38). Ómskoðun eftir útskrift vantaði hjá 24% sjúklinga. Á eftirlitstímanum var rúmur fjórðungur sjúklinga lagður inn vegna vandamála sem tengdust lokunni; þar af fjórir oftar en einu sinni. Tíðni endurinnlagna var 6,0 innlagnir/100 sjúklingaár. Algengustu ástæður endurinnlagna voru hjartabilun (1,7/100 sjúklingaár), blóðsegarek (1,6/100), blæðing (1,6/100), hjartaþelsbólga (0,7/100) og hjartadrep (0,4/100). Eins og fimm ára lifun eftir aðgerð var 90% og 82%. Langtíma lifun reyndist sambærileg við lifun Íslendinga af sama aldri og kyni.
Ályktanir: Tíðni langtímafylgikvilla eftir ósæðarlokuskipti hér á landi er tiltölulega lág og lifun góð borið saman við erlendar rannsóknir. Of snemmt er að segja til um endingu lífrænu lokanna.
E-26 Bráðaaðgerð og saga um hækkaðan blóðþrýsting eru sjálfstæðir áhættuþættir á bráðum nýrnaskaða eftir kransæðahjáveituaðgerð
Sólveig Helgadóttir1,4, Ólafur Skúli Indriðason2, Gísli H. Sigurðsson3,4, Martin Ingi Sigurðsson4, Hannes Sigurjónsson4, Tómas Guðbjartsson1,4
1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2nýrnadeild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands
soh2@hi.is
Inngangur: Bráður nýrnaskaði er alvarlegur fylgikvilli hjartaaðgerða. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna áhættuþætt bráðs nýrnaskaða eftir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala.
Efniviður og aðferðir: Aftursæ rannsókn er náði til sjúklinga sem gengust undir kransæðaaðgerð á Landspítala 2002-2006. Nýrnaskaði var skilgreindur skv. RIFLE-skilmerkjum og fjölbreytugreining notuð til að skilgreina áhættuþætti bráðs nýrnaskaða.
Niðurstöður: Af 720 sjúklingum greindust 112 (15,5%) með bráðan nýrnaskaða; 70 féllu í RISK flokk, 22 í INJURY og 16 í FAILURE flokk. Af þeim fengu 14 (12,5%) skilunarmeðferð í framhaldinu. Sjúklingar með bráðan nýrnaskaða voru 3,9 árum eldri, með lægri gaukulsíunarhraða (71 á móti 78 mL/mín/1,73 m2, p<0,001) og útstreymisbrot (EF) (49 á móti 53%, p=0,02) en hærra EuroSCORE (7,1 á móti 4,4, p<0,001), auk þess sem fleiri féllu í NYHA flokk III-IV fyrir aðgerð. Háþrýstingur var algengari í hópnum með bráðan nýrnaskaða (71% á móti 60%, p<0,001) en ekki reyndist marktækur munur á öðrum þekktum áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma, umfangi kransæðasjúkdóms eða hlutfalli aðgerða á sláandi hjarta. Í hópnum með bráðan nýrnaskaða voru fleiri bráðaaðgerðir (13% á móti 2%, p<0,001) og tími á hjarta- og lungnavél var lengri (100 á móti 83 mín., p<0,001). Sjúklingar með bráðan nýrnaskaða lágu 8 dögum lengur á sjúkrahúsi og höfðu sexfalt hærri dánartíðni <30 daga (11,1% á móti 1,8%, p<0,001). Í fjölþáttagreiningu reyndust bráðaaðgerð (OR 5,97), háþrýstingur (OR 1,78) og hátt EuroSCORE (OR 1,16) sjálfstæðir áhættuþættir fyrir bráðum nýrnaskaða.
Ályktanir: Sjötti hver sjúklingur hlaut bráðan nýrnaskaða eftir kransæðaaðgerð og var sjúkrahúslega þeirra lengri og dánartíðni umtalsvert hærri. Sjúklingar sem fara í bráðaaðgerð og hafa sögu um háþrýsting eru í sérstakri áhættu að fá bráðan nýrnaskaða.
E-27 Áhættuþættir enduraðgerða vegna blæðinga eftir kransæðahjáveituaðgerðir
Njáll Vikar Smárason1, Martin Ingi Sigurðsson1, Kári Hreinsson3, Þórarinn Arnórsson2, Tómas Guðbjartsson1,2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta-og lungnaskurðdeild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala
nvs1@hi.is
Inngangur: Enduraðgerð vegna blæðingar er alvarlegur fylgikvilli kransæðahjáveituaðgerða. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna áhættuþætti enduraðgerða og afdrif þessara sjúklinga.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til 42 sjúklinga sem gengust undir enduraðgerð (EA-hópur) á Landspítala árin 2002-2006 og 168 sjúklinga í viðmiðunarhópi (V-hópur, 4 sjúklingar fyrir hvert tilfelli). Hóparnir voru bornir saman, m.t.t. lyfjanotkunar fyrir aðgerð, fylgikvilla og skurðdauða. Fjölbreytugreining var notuð til að skilgreina áhættuþætti enduraðgerðar
Niðurstöður: Tíðni enduraðgerða var 5,4% (42/778). Hóparnir voru sambærilegir m.t.t. aldurs, kyns, líkamsþyngdarstuðuls, EuroSCORE og hlutfalls aðgerða á sláandi hjarta. Í EA-hópi höfðu fleiri áður gengist undir kransæðahjáveituaðgerð eða höfðu sögu um nýrnabilun (p<0,05). Þriðjungur sjúklinga í báðum hópum tóku acetýlsalisýlsýru ≤5 daga fyrir aðgerð en marktækt fleiri í EA-hópi klópídógrel og/eða warfarín (p<0,01). Tíðni alvarlegra fylgikvilla og magn blóðgjafa var hærra í EA-hópi og legutími 6 dögum lengri (p<0,02). Dánartíðni var einnig hærri, eða 11,9% samanborið við 3,6% í V-hópi (p<0,05). Í fjölbreytugreiningu reyndust warfarín ≤5 daga fyrir aðgerð, NYHA-flokkun IV, reykingar og langur tangartími sjálfstæðir áhættuþættir enduraðgerðar. Notkun statína (OR 0,15, p=0,001) og acetýlsalisýlsýru (OR 0,17, p=0,01) voru hins vegar verndandi.
Ályktanir: Rúm 5% sjúklinga gengust undir enduraðgerð vegna blæðingar og var legutími og dánartíðni þeirra umtalsvert hærri. Notkun warfaríns fyrir aðgerð og reykingar auka líkur á enduraðgerð. Á óvart kom að sjúklingar á statínum og sérstaklega acetýlsalisýlsýru fóru sjaldnar í enduraðgerð. Acetýlsalisýlsýra virðist því ekki auka áhættu á alvarlegum blæðingum sem krefjast enduraðgerðar.
E-28 Áhættuþættir og afdrif sjúklinga sem fá rauðkornaþykkni eftir kransæðaskurðaðgerðir
Kári Hreinsson1, Daði Jónsson2, Sólveig Helgadóttir2, Njáll Vikar Smárason4, Gísli H. Sigurðsson1,4, Martin Ingi Sigurðsson2, Sveinn Guðmundsson3,4, Tómas Guðbjartsson2,4
1Svæfinga og gjörgæsludeild, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3Blóðbanka, Landspítala Háskólasjúkrahúss, 4læknadeild Háskóla Íslands
karih@landspitali.is
Inngangur: Rannsaka áhættuþætti blóðgjafar og afdrif sjúklinga sem fá rauðkornaþykkni (RKÞ) eftir kransæðaskurðaðgerð.
Efniviður og aðferðir: Aftursýn rannsókn á 392 sjúklingum sem gengust undir kransæðaskurðaðgerð á Íslandi 2004-2006. Sjúklingum var skipt í tvo hópa; 264 sem fengu rauðkornaþykkni (RKÞ-hóp) og viðmiðunarhóp (V-hóp) sem í voru 128 sjúklingar sem ekki fengu blóðgjöf. Hóparnir voru bornir saman m.t.t. magns blæðingar, RKÞ-gjafa, fylgikvilla og skurðdauða (<30 daga). Aðfallsgreining var notuð til þess að meta forspárþætti RKÞ-gjafar.
Niðurstöður: Sjúklingar í RKÞ-hópi voru 4,8 árum eldri og hlufall kvenna hærra (24,6% sbr. 3,1%, p<0,001). Áhættuþættir kransæðasjúkdóms voru sambærilegir, einnig EuroSCORE og hlutfall aðgerða á slándi hjarta (OPCAB). Blóðrauði fyrir aðgerð var marktækt lægri hjá RKÞ hópi (139 sbr. 150 g/L). Hærra hlutfall sjúklinga sem tóku asetýlsalisýlsýru <5 daga fyrir aðgerð fengu rauðkornaþykkni, en munurinn var ekki marktækur (p=0,07). Fylgikvillar voru sambærilegir í hópnun fyrir utan gáttatif og fjölkerfabilun sem voru algengari í RKÞ-hópi (p=0,04). Ekki var munur á skurðdauða (0 sbr. 2,3% p=0,09). Blæðing <24 klst. frá aðgerð var 1036 og 641 ml í RKÞ- og V-hópi (p<0,0001) og 11 sjúklingar í RKÞ-hópi gengust undir enduraðgerð vegna blæðingar. Að meðaltali voru gefnar 3,9 ein af RKÞ (bil 1-31) og sjúkrahússdvöl í þeim hópi var 1 degi lengri. Sjálfstæðir áhættuþættir RBK-gjafar voru kvenkyn (OR 6,43, p=0,002), asetýlsalisýlsýrunotkun fyrir aðgerð (OR 1,95, p=0,04), hærri aldur (OR 1,06, p=0,001) og lengri aðgerðartími (OR 1,01, p=0,003). Hærri líkamsþyngdarstuðull (0,88, p=0,004) og hár blóðrauði fyrir aðgerð (OR 0,93, p<0,0001) voru verndandi þættir.
Ályktanir: Kvenkyn, asetýlsalisýlsýrunotkun og hærri aldur voru sjálfstæðir áhættuþættir RKÞ-gjafar. Tíðni fylgikvilla var hærri í RKÞ-hópnum en ekki reyndist munur á skurðdauða.
E-29 Bráðabrjóstholsskurðaðgerðir vegna lífshættulegra brjóstholsáverka á Íslandi 2005-2010
Bergrós K. Jóhannesdóttir1, Brynjólfur Mogensen1,2, Tómas Guðbjartsson1,3
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2bráðasviði, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala
bkj1@hi.is
Inngangur: Við alvarlega áverka á brjóstholi getur bráðabrjóstholsaðgerð bjargað lífi sjúklings. Markmið þessarar afturskyggnu rannsóknar var að kanna algengi og afdrif þessara sjúklinga á Íslandi.
Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar sem gengust undir bráðaaðgerð á brjóstholi eftir brjóstholsáverka á Íslandi árin 2005-2010. Leitað var að sjúklingum í rafrænum gagnagrunni Landspítala og stærri sjúkrahúsum á landsbyggðinni. Skráð var eðli áverka og ábending aðgerða, afdrif sjúklinga, legutími og magn blóðgjafa. Einnig var reiknað ISS- og NISS-áverkaskor og gert RTS-áverkamat við fyrstu læknisskoðun og lifunarlíkur (PS) áætlaðar út frá því.
Niðurstöður: Níu karlmenn gengust undir brjótshols- (n=6) eða bringubeinsskurð (n=4), en einn gekkst undir báða skurðina. Meðalaldur var 40,2 ár (bil 20-76). Sex sjúklinganna voru aðallega með brjósholsáverka en þrír fjöláverka. Í fjórum tilfellum var um hnífstungu (n=2) eða skotáverka (n=2) að ræða en afleiðingar umferðarslyss (n=3) eða falls hjá hinum fimm. Endurlífgun var hafin hjá fjórum sjúklingum á slysstað og tveimur á bráðamóttöku. Meðal ISS- og NISS-skor voru 33,7 (bil 16-54) og 48,6 (bil 25-75). Meðal RTS-áverkamat var 4,9 (bil 0-7,8) og PS-lifunarlíkur 57,2%, (bil 1,2-95,6%). Meðalblæðing þeirra sem lifðu aðgerðina var 20,1 L (bil 0,9-55) og meðallegutími 60 dagar (bil 19-112). Að meðaltali voru gefnar 27,1 ein. af rauðkornaþykkni (bil 0-112), 12,9 ein af blóðvatni (bil 0-46) og 1,2 pokar af flögum (bil 0-4). Af fimm sjúklingum sem lifðu aðgerðina og útskrifuðust (44,4% lifun) hlaut einn þverlömun eftir hryggbrot og annar vægan heilaskaða af völdum súrefnisskorts. Hinir þrír eru við góða heilsu.
Ályktanir: Bráðaskurðaðgerðir vegna lífshættulegra brjóstholsáverka eru tiltölulega fátíðar á Íslandi. Tæpur helmingur sjúklinga lifði aðgerðina sem telst ágætur árangur hjá svo mikið slösuðum sjúklingum.
E-30 Árangur af endurlífgunum utan sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2004-2007
Brynjólfur Árni Mogensen1, Gestur Þorgeirsson1,4, Felix Valsson2, Jón Magnús Kristjánsson3, Gísli Engilbert Haraldsson3, Hjalti Már Björnsson3, Brynjólfur Mogensen3,4
1Lyflækningasviði, 2skurðsviði, 3bráðasviði Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands
brynjmo@landspitali.is
Inngangur: Á höfuðborgarsvæðinu var starfræktur neyðarbíll með lækni árin 1982-2007 og kallaður út í bráð F1 sjúkdóms- og slysatilfelli. Árangur af endurlífgunum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið góður, 31-41% sjúklinganna lifað að innlögn á sjúkrahús en 16-19% lifað að útskrift. Markmið rannsóknarinnar var að meta samkvæmt Utstein-staðli árangur endurlífgunar utan sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu árin 2004-2007.
Efniviður og aðferðir: Skráð voru framvirkt öll útköll vegna hjartastopps á höfuðborgarsvæðinu árin 2004-2007. Skoðað var m.a.hvort grunnendurlífgun var hafin, upphafstaktur og hlutfall lifenda á sjúkrahús, kælihlutfall þeirra sem komust lifandi á sjúkrahús og hlutfall þeirra sem útskrifuðust af sjúkrahúsi.
Niðurstöður: Af 290 einstaklingum í hjartastoppi var reynd endurlífgun hjá 280. Af þeim 193 tilvikum þar sem hjartasjúkdómur var talinn orsök voru karlar 75%, konur 25% og meðalaldur var 65,1 ár. Lifandi á sjúkrahús komust 108 sjúklingar (56%) og 49 (25,4%) útskrifuðust af sjúkrahúsi. Helmingur (50%) sjúklinga var í sleglatifi (VF), 30% í rafleysu og 20% með rafvirkni án dæluvirkni (PEA). Af sjúklingum í sleglatifi útskrifuðust 44% lifandi heim af sjúkrahúsi. Af PEA sjúklingum í fyrsta takti útskrifuðust 20% en enginn með rafleysu útskrifaðist. Í 59% tilvika var grunnendurlífgun beitt fyrir komu neyðarbíls.
Ályktanir: Hlutfall þeirra sem útskrifast lifandi af sjúkrahúsi eftir endurlífgun er enn hærra en áður og er með því besta sem gerist í heiminum. Góður árangur skýrist m.a. af stuttum útkallstíma og háu hlutfalli af grunnendurlífgun sem einnig er með því hæsta sem gerist í heiminum. Þá getur aukin lifun þeirra sem koma inn í VF m.a. skýrst af háu kælingarhlutfalli á GG, bundinni þræðingarvakt, farsímanotkun á Íslandi og góðri utanspítalaþjónustu.
E-31 Höfuðáverkar meðhöndlaðir á Landspítala
Eyrún Harpa Gísladóttir1, Elfar Úlfarsson2, Kristinn Sigvaldason3, Sigurbergur Kárason1,3, Þóra Elísabet Jónsdóttir3, Brynjólfur Mogensen1,4
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2heila- og taugaskurðlækningadeild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild, 4bráðadeild Landspítala
ehg2@hi.is
Inngangur: Höfuðáverkar eru algeng afleiðing slysa og ofbeldis. Þeir geta haft varanlegar afleiðingar í för með sér og eru ein af meginorsökum fyrir ótímabærum dauða. Markmið rannsóknarinnar var að gera heildarúttekt á komum á Landspítala vegna áverka á höfði í Reykjavík, og m.a. athugað nýgengi, eðli og alvarleika áverkanna en slík heildarúttekt hefur ekki verið framkvæmd áður.
Efniviður og aðferðir: Skoðaðar voru afturvirkt allar komur Reykvíkinga á Landspítala vegna höfuðáverka á árunum 2000-2005 og 2008-2009. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrárkerfum Landspítala. Valin var ein aðalgreining ef höfuðáverkagreiningar voru margar. Greiningarnar voru flokkaðar í mjúkpartaáverka, augnáverka, höfuðbeinaáverka, innankúpu- og heilataugaáverka og fjöláverka. Hagstofa Íslands veitti upplýsingar um íbúafjölda Reykjavíkur.
Niðurstöður: Á átta árum komu 35.031 Reykvíkingar á Landspítala vegna höfuðáverka. Karlar voru 67% og konur 33%. Meðalaldur var 26 ár (0-107) og miðgildi 21 ár. Flestar komur voru hjá börnum á aldrinum 0-4 ára (20,8%), síðan 5-9 ára (11,5%) og hjá sjúklingum 20-24 ára (9,4%). Árlegt nýgengi lækkaði úr 4,2% árið 2000 í 3,3% árið 2009. Nýgengi innlagna lækkaði úr 181/ár/100.000 íbúa árið 2000 í 110/ár/100.000 íbúa árið 2009. Slys orsökuðu 80,5% höfuðáverka en slagsmál og ofbeldi 12,7%. Flestir komu á Bráðadeild vegna mjúkpartaáverka (65%), augnáverka (15%) og innankúpu- og heilataugaáverka (14%). Hlutfallslega flestir lögðust inn vegna innankúpublæðingar (90,1%). Lagðir voru inn 8,7% þeirra er hlutu andlitsbeinabrot en 79,2% þeirra er hlutu höfuðkúpubrot.
Ályktanir: Nýgengi koma og innlagna Reykvíkinga á Landspítala vegna höfuðáverka hefur lækkað síðasta áratuginn. Karlar hljóta mun oftar höfuðáverka en konur. Algengustu komuástæður eru sár á höfði en hlutfallslega algengasta orsök innlagnar er innankúpublæðing. Algengustu orsakir höfuðáverka eru slys og ofbeldi.
E-32 Sjálfsprottin flysjun í kransæð unglingsstúlku – sjúkratilfelli
Girish Hirklear1, Oddur Ólafsson1, Valentínus Þ. Valdimarsson2, Hildur Tómasdóttir2, Gylfi Óskarsson5, Hróðmar Helgason5, Sigurður E. Sigurðsson1, Kristján Eyjólfsson4, Tómas Guðbjartsson3,6
1Svæfinga- og gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri, 2svæfinga- og gjörgæsludeild, 3hjarta- og lungnaskurðdeild, 4hjartadeild Landspítala, 5Barnaspítala Hringsins, 6læknadeild Háskóla Íslands
girish@fsa.is
Inngangur: Kransæðastífla er afar sjaldséð hjá unglingum. Lýst er sjálfkrafa flysjun í kransæð sem olli hjartabilun og hjartastoppi hjá áður hraustum unglingi.
Tilfelli: Komið var með 12 ára stúlku á FSA eftir skyndileg uppköst og andnauð á sundæfingu. Lungnamynd sýndi íferðir og hjartalínurit og hjartaómun bentu ekki til kransæðastíflu. Lék grunur á svelgjulungnabólgu. Stuttu síðar fór hún í hjartastopp og var flutt með sjúkraflugi á Landspítala. Við komu þangað hafði hjartahnoði verið beitt með hléum í rúmar 2 klst. og alvarlegt lost til staðar. Á meðan á hjartahnoði stóð var ECMO-slöngum komið fyrir í hæ. náraslagæð og hálsbláæð. BÞ hækkaði við ECMO-meðferðina en vegna hjartalínuritsbreytinga og hækkunar á hjartaensímum var gerð kransæðaþræðing. Þar sást flysjun með 90% þrengingu á LAD og var æðin opnuð með stoðneti. Við tók fjöllíffærabilun og þurfti að opna fell á hægri kálfavöðvum (fasciotomia) vegna skertrar blóðrásar. Samdráttur hjarta hélst mikið skertur (EF 8-10%) og 4 dögum frá innlögn var hún flutt til Gautaborgar til undirbúnings hugsanlegrar hjartaígræðslu. Þar batnaði samdráttur hjartans af sjálfu sér (EF 30%) og var ECMO-meðferð hætt 2 dögum síðar. Hún var flutt aftur á LSH og útskrifaðist 6 vikum frá upphafi veikinda. Í dag, tæpum 3 mánuðum síðar, er samdráttur hjartans nánast eðlilegur (EF 45%). Hún er byrjuð í skóla en er áfram í endurhæfingu.
Ályktanir: Kransæðastífla getur greinst hjá hraustum unglingum. Aðeins einu sinni áður hefur sjálfsprottinni flysjun verið lýst hjá unglingi. Þar þurfti þó hvorki að beita ECMO-meðferð né stoðneti.
E-33 Árangur tafarlausra brjóstauppbygginga á Landspítala 2008-1010
Katrín Jónsdóttir, Svanheiður Lóa Rafnsdóttir, Þórdís Kjartansdóttir, Höskuldur Kristvinsson, Þorvaldur Jónsson, Kristján Skúli Ásgeirsson
Skurðlækningadeild Landspítala
kata.jonsd@gmail.com
Inngangur: Erlendar rannsóknir hafa sýnt að í vaxandi mæli er nýgreindum brjóstakrabbameinssjúklingum boðið að gangast undir tafarlausa brjóstauppbyggingu samfara brjóstnámi. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna árangur tafarlausra brjóstauppbygginga á Landspítala á þriggja ára tímabili.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn þýðisrannsókn á öllum konum sem gengust undir tafarlausa brjóstauppbyggingu á Landspítala á árunum 2008-2010.
Niðurstöður: Heildarfjöldi brjóstnámsaðgerða á tímabilinu var 319 en brjóstauppbyggingar voru 157. Af þeim voru 98 (62%) tafarlausar og var meðalaldurinn 49 ár (bil 29-69). Tafarlausar uppbyggingar voru því gerðar hjá 31% allra sem gengust undir brottnám, en á árunum 2000-2007 var hlutfallið 7%. Fjöldi tafarlausra vöðvaflipauppbygginga var 25 (26%) en aðrar uppbyggingar voru gerðar með ígræði. Meðalaðgerðartími vöðvaflipa-brjóstauppbyggingar var 432 mínútur (bil 371-534) en meðaltal samanlagðra aðgerðatíma beggja aðgerða með ígræði var 300 mínútur (bil 185-501). Fylgikvillar í legu urðu í kjölfar aðgerðar í samtals 12 (12%) tafarlausum uppbyggingum, þar af þurftu fjórir sjúklingar enduraðgerð (þrír vegna blæðingar og einn vegna yfirvofandi vöðvaflipadreps). Þörf var á endurinnlögn eftir útskrift í 14 (14%) tilfellum. Eftir útskrift urðu vægir fylgikvillar sem ekki kröfðust endurinnlagnar í 39% tilfella.
Ályktanir: Veruleg aukning hefur orðið á tafarlausum uppbyggingum á Landspítala frá árinu 2008. Almennt eru þessar aðgerðir áhættulitlar og alvarlegir fylgikvillar eru sjaldgæfir. Í ljósi þessa er mikilvægt að meta ánægju sjúklinganna og starfræna getu þeirra eftir aðgerð en fyrirhuguð er framsýn rannsókn á því.
E-34 Blöðruhálskirtilskrabbamein. Samanburður á íslensku og dönsku þýði
Inga Jóna Ingimarsdóttir1,2,3, Ea Rusch3, Klaus Brasso4, Gerda Engholm3, Jan Adolfsson5, Laufey Tryggvadóttir6, Eiríkur Jónsson1, Hans H. Storm3
1Þvagfæraskurðdeild Landspítala, 2Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, 3danska krabbameinsfélaginu í Kaupmannahöfn, 4þvagfæraskurðdeild Ríkisspítalans í Kaupmannahöfn, 5þvagfæraskurðdeild háskólasjúkrahússins í Örebro í Svíþjóð, 6Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands
ingajona@landspitali.is
Inngangur: Fyrri rannsóknir, byggðar á upplýsingum úr krabbameinsskrám, sýna mikinn mun á lifun á blöðruhálskirtilskrabbameini (PC) í Danmörku og á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar var að kanna ástæður fyrir þessum mismun. Nýgengi PC er mun hærra á Íslandi en dánartíðnin hefur verið svipuð.
Efniviður og aðferðir: Með krabbameinsskrám voru borin kennsl á sjúklinga sem greindust árin 1996-1998 á Íslandi og árið 1997 í Danmörku. Klínískar upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám. Gerð var TNM stigun og skráð þroskun æxlis (Gleason score), PSA gildi og tegund meðferðar. Útilokaðir voru karlar yfir nírætt, þeir sem greindust við krufningu auk þeirra sem voru með fyrri krabbamein (undanskilið húðkrabbamein). Umfram dánartíðni landanna var borin saman og leiðrétt fyrir þekktum breytum sem hafa áhrif á horfur.
Niðurstöður: Hlutfallslega fleiri íslenskir sjúklingar voru yngri en 69 ára. Á Íslandi voru 76% sjúklinganna með staðbundinn sjúkdóm miðað við 56% í Danmörku. Danirnir voru með hærri Gleason skor og helmingi fleiri voru með staðfest fjarmeinvörp. Heildarlifun í þýðunum tveimur var sambærileg við fyrri niðurstöður sem byggjast á heilu þýði (population-based) sem hafa verið birtar. Marktækur munur var á umfram dánartíðni. Eftir að leiðrétt var fyrir mun á sjúklingatengdum þáttum s.s. meinvörp/ekki meinvörp, sjúkdómsstigi (TNM) og PSA gildum jafnaðist munurinn út.
Ályktanir: Á Íslandi virðist sem aukin virkni í að greina menn með sjúkdóminn hafi leitt til þess að fleiri sjúklingar greinast með staðbundinn sjúkdóm með óvissa klíníska þýðingu. Klínískar upplýsingar eru mikilvægar þegar borin er saman lifun íslenskra og danskra karla með blöðruhálskirtilskrabbamein. Sjúklingatengdir þættir virðast útskýra muninn á lifuninni.
E-35 Gallstasi á meðgöngu – Íslenskur gagnagrunnur
Þóra Soffía Guðmundsdóttir1, Þóra Steingrímsdóttir1,2, Einar Stefán Björnsson1,3
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2kvennadeild, 3lyflækningadeild Landspítala
thg47@hi.is
Inngangur: Gallstasi á meðgöngu (GM) lýsir sér með kláða án húðútbrota og hækkuðum gallsýrum í sermi. Hann felur í sér aukna hættu á fósturstreitu, fyrirburafæðingu og fósturdauða. Sjúkdómurinn er misalgengur eftir svæðum og þjóðum heims. Meinmyndun sjúkdómsins tengist áhrifum hormóna og gena. Tíðni GM hefur ekki fyrr verið rannsökuð á Íslandi og er það meginmarkmið þessarar rannsóknar sem og að kanna áhættuþætti og fylgikvilla.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknarhópurinn samanstendur af konum með GM sem fæddu á árunum 2005–2009 (n=431). Upplýsingar úr sjúkraskrám voru færðar í Microsoft Access og Microsoft Excel notað við úrvinnslu og tölfræðiútreikninga. Samanburðarhópur var búinn til með því að skrá upplýsingar úr 449 fæðingartilkynningum frá Landspítala frá árinu 2009.
Niðurstöður: Árið 2009 var algengi GM 3,73% (n=184). Fjölburar voru marktækt algengari hjá konum með GM, eða 6,73%, miðað við 1,76% (p<0,05). Hjá rannsóknarhópnum átti framköllun fæðingar sér stað í 33% tilvika vegna gallstasa en vegna annarra ábendinga í 28% tilvika. Í saman¬burðarhópnum var fæðing framkölluð marktækt sjaldnar eða í 32% tilvika (p<0,05). Fyrirbura¬fæðingar urðu í 12,8% tilvika í rannsóknarhópnum en í 11,0% tilvika í samanburðarhópnum (p>0,05). Hins vegar voru fyrirburafæðingar 40,7% fæðinga í hópi kvenna sem höfðu haft gallsýrustyrk yfir 55 µmól/L (p<0,05).
Ályktanir: Tíðni GM á Íslandi er sú hæsta sem þekkist utan Suður-Ameríku. Tíðnin reyndist hærri í tvíburameðgöngum. Sjúkdómsgreiningin tvöfaldar líkur á að fæðing verði framkölluð. Hættan á fyrirburafæðingu er aukin í hópi kvenna með alvarlegan sjúkdóm.
E-36 Nárakviðslitsaðgerðir á Sjúkrahúsi Akraness 2004-2010 – framsýn rannsókn
Marta Rós Berndsen1, Fritz H. Berndsen2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2handlækningadeild Sjúkrahúss Akraness
mrb3@hi.is
Inngangur: Aðgerðir á nárakviðsliti fullorðinna eru algengar og má ætla að um 500-600 aðgerðir séu framkvæmdar árlega á Íslandi. Engar rannsóknir hafa verið birtar á árangri nárakviðslitsaðgerða á Íslandi. Framsætt gæðaeftirlit þessa sjúklingahóps hefur farið fram á Sjúkrahúsi Akraness frá 1. janúar 2004.
Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar (≥18 ára) sem fóru í nárakviðslitsaðgerð á tímabilinu frá 1. janúar 2004 til 31. desember 2010. Í gæðaeftirlitinu felst skráning upplýsinga fyrir aðgerð, aðgerðarupp¬lýsingar, skoðun 4 vikum eftir aðgerð ásamt spurningalista þremur og fimm árum eftir aðgerð til mats á langtímaárangri (endurtekin kviðslit og óþægindi).
Niðurstöður: Alls voru gerðar 485 nára¬kviðslitsaðgerðir hjá 452 sjúklingum á tímabilinu (33 tvíhliða aðgerðir). Miðgildi aldurs var 55 ár. Aðgerðir vegna endurtekins kviðslits voru 62 (12,8%). Miðgildi aðgerðartíma við einhliða kviðsliti var 37 mínútur en 57 mínútur við tvíhliða kviðsliti. Speglunaraðgerðir voru 417 (86%). Alls fengu 25 (5,5%) sjúklingar fylgikvilla sem í flestum tilfellum voru minniháttar. Veikindaleyfi voru 9 dagar eftir einhliða aðgerð en 10 dagar eftir tvíhliða aðgerð. Af þeim 233 aðgerðum sem fylgt hefur verið eftir voru 8 (3,4%) sjúklingar með endurtekið kviðslit (miðgildi eftirfylgni 57 mánuðir). Tíðni endurtekins kviðslits var hærri þar sem skurðlæknir mat aðgerð erfiða (7,1%) en hjá sjúklingum þar sem aðgerð var metin auðveld (1,5%, p=0,027). Sjúklingar sem unnu erfiðisvinnu voru í aukinni áhættu á að fá endurtekið kviðslit (9,3% á móti 1,9%, p=0,022).
Ályktanir: Árangur nárakviðslitsaðgerða á Sjúkrahúsi Akraness er mjög góður, bæði hvað varðar skammtímaárangur og tíðni endurtekinna kviðslita. Gæðaeftirlit í skurðlækningum er mikilvægt til að fylgjast með árangri svo hægt sé að bregðast við með umbótum ef við á.
E-37 Árangur opinna hjartaskurðaðgerða hjá öldruðum
Martin Ingi Sigurðsson1,2, Sólveig Helgadóttir2, Inga Lára Ingvarsdóttir2, Sindri Aron Viktorsson1,2, Tómas Guðbjartsson1,2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala
mis@hi.is
Inngangur: Mikilvægt er að þekkja til árangurs opinna hjartaaðgerða hjá sífellt stækkandi hópi eldri sjúklinga á Íslandi.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 876 sjúklingum sem gengust undir kransæðahjáveitu- (n=720) og/eða ósæðarlokuskipti á Landspítala 2002-2006. Kannaðir voru fylgikvillar, skurðdauði (<30 d.) og lifun sjúklinga eldri en 75 ára (n=221, 25,2%) og þeir bornir saman við yngri sjúklinga (n=655). Lifun eldri sjúklinga var einnig borin saman við lifun viðmiðunarhóps.
Niðurstöður: Eldri sjúklingar höfðu hærri tíðni gáttatifs (57% sbr. 37%, p<0,001), heilablóðfalls (5% sbr. 1%, p=0,009), nýrnaskaða (25% sbr. 12%, p=0,002) og skurðdauða (9% sbr. 2%, p<0,001) eftir kransæðahjáveituaðgerð, samanborið við yngri sjúklinga. Eftir ósæðarlokuskipti höfðu eldri sjúklingar hærri tíðni lungnabólgu (24% sbr. 6%, p=0,003), gáttatifs (90% sbr. 71%, p=0,006), bráðs andnauðarheilkennis (ARDS) (19% sbr. 7%, p=0,04), hjartadreps (21% sbr. 8%, p=0,05) og skurðdauða (11% sbr. 2%, p=0,04), samanborið við yngri hópinn. Legutími á gjörgæslu (6 sbr. 3 dagar, p=0,01) og heildarlegutími var einnig lengri hjá eldri hópnum. Sjálfstæðir áhættuþættir skurðdauða hjá eldri sjúklingum voru aldur (OR 1,24) og EuroSCORE (OR 1,26). Alls voru 89% og 84% eldri sjúklinga á lífi 1 og 3 árum eftir kransæðahjáveituaðgerð samanborið við 98% og 87% viðmiðunarhóps (p=0,87). Sambærilegar tölur eftir ósæðarlokuskipti voru 82% og 76% fyrir eldri sjúklinga, samanborið við 96% og 90% í viðmiðunarhópi (p=0,06). Sjálfstæðir forspárþættir langtíma lifunar hjá eldri sjúklingum voru aldur (HR 1,17) og útstreymisbrot hjarta (HR 0,97).
Ályktanir: Tíðni skammtíma fylgikvilla, legutími og skurðdauði hjá sjúklingum eldri en 75 ára er há, sérstaklega eftir ósæðarlokuskipti. Langtíma lifun hópsins er ekki frábrugðin lifun viðmiðunarhóps, sem bendir til ágætis langtíma árangurs.
Ágrip veggspjalda
V-01 Blaðra á gallvegum (choledochal cyst) - Sjúkratilfelli
Karl Kristinsson1, Kristín Huld Haraldsdóttir1, Páll Helgi Möller1,2
1Skurðlækningadeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands
karl.kristinsson@gmail.com
Inngangur: Birtingarmynd gallvegablaðra er fjölbreytt og við uppvinnslu þeirra beinist grunur að algengari sjúkdómum eins og gallsteinum, gallblöðrubólgu eða brisbólgu. Frumgreining er gerð með ómskoðun en í kjölfarið eru fullkomnari myndgreiningaraðferðir með holsjárröntgenmyndatöku eða segulómskoðun nauðsynlegar. Hætta á illkynja umbreytingu gallvegablaðra er þekkt og tíðni krabbameins á bilinu 10-30%. Meðferð felst í brottnámi með skurðaðgerð.
Tilfelli 1: 41 árs gamall karlmaður með sögu um blóðsegarek til lungna og nýrnasteina leitaði á bráðamóttöku Landspítala með 2ja vikna sögu um kviðverkjaköst. Blóðprufur sýndu brenglun á lifrarprófum. Ómskoðun af lifur, gallvegum og brisi sýndi grun um gallblöðrubólgu ásamt blöðru útgenginni frá gallvegum. Segulómskoðun staðfesti grun um gallvegablöðru. Í kjölfarið var gallblaðra ásamt gallvegablöðru fjarlægð. Meinafræðirannsókn sýndi gallvegablöðru án illkynja vaxtar. Sjúklingur útskrifaðist 7 dögum eftir aðgerð. Við eftirfylgd 5 mánuðum síðar var hann við góða heilsu og lifrarpróf höfðu leiðrést.
Tilfelli 2: 19 ára kona með sögu um vatnshöfuð, góðkynja æxli á heyrnartaug, op milli hjartagátta og astma, leitaði á Landspítala með tveggja mánaða sögu um kviðaróþægindi, ásamt lystarleysi, ógleði og þyngdartapi. Lifrarpróf voru eðlileg. Ómskoðun af lifur, gallvegum og brisi sýndi enga gallblöðru en við tölvusneiðmynd vaknaði grunur um gallvegablöðru sem var staðfest með segulómskoðun og holsjárröntgenmyndatöku. Við skurðaðgerð kom í ljós flókin líffærafræði og var hún því send til aðgerðar á Children's Hospital í Boston. Þar voru fjarlægðar þrjár gallvegablöðrur. Legan var fylgikvillalaus og hún útskrifaðist við góða líðan.
Ályktanir: Gallvegablöðrur eru sjaldgæf fyrirbæri og á árunum 2000-2010 greindust aðeins tvö tilfelli á Íslandi. Mikilvægt er að greina sjúkdóminn þar sem hætta á illkynja umbreytingu er umtalsverð.
V-02 Risagúll í ósæðarrót ásamt víkkun á vinstra kransæðakerfi - Sjúkratilfelli
Þorsteinn Viðar Viktorsson1, Þórarinn Arnórsson1, Martin I. Sigurðsson1, Jón Þór Sverrisson2, Tómas Guðbjartsson1,3
1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2lyflækningadeild Sjúkrahúss Akureyrar, 3læknadeild Háskóla Íslands
steini.vidar@gmail.com
Inngangur: Sjaldgæft er að gúlar eigi upptök frá ósæðarrót. Hér er lýst risagúl frá sinus valsalva á ósæðarrót en sjúklingurinn var auk þess með óeðlilega víðar kransæðar.
Tilfelli: Áður hraust sjötug kona leitaði læknis vegna mæði. Við skoðun heyrðist óhljóð yfir ósæðarloku í lagbili og hjartalínurit sýndi 1. gráðu gáttasleglarof. Á lungnamynd sást fyrirferð í brjóstholi sem á tölvusneiðmynd reyndist 10x9 cm ósæðargúll með upptök frá hægri sinus valsalva. Hjartaómskoðun sýndi iðustraum í gúlnum og meðal ósæðarlokuleka. Gúllinn þrýsti á bæði hægri slegil og gátt en útstreymisbrot vinstri slegils var eðlilegt (55%). Við kransæðaþræðingu sáust óeðlilega víðar kransæðar (ectasia) vinstra megin og stuttur höfuðstofn, en þvermál LAD var fjórfalt víkkað. Sjúklingur gekkst undir skurðaðgerð þar sem gúllinn var fjarlægður og ósæðarrótinni skipt út fyrir lífræna ósæðarrót með loku (Freestyle®). Gangur eftir aðgerð var góður og útskrifaðist hún heim þremur vikum frá aðgerð. Vefjaskoðun á gúlnum sýndi æðakölkun en enga bandvefsgalla. Blóðvatnspróf fyrir syphilis voru neikvæð. Tæpu ári frá aðgerð er hún við góða líðan og einkennalaus frá hjarta.
Ályktanir: Risagúll frá sinus valsalva er afar sjaldgæft fyrirbæri sem getur haft lífshættulega fylgikvilla í för með sér, eins og rof og blóðsegarek. Eins og sást í þessu tilfelli geta einkenni verið lítt áberandi og hægfara. Yfirleitt er mælt með skurðaðgerð, jafnvel í einkennalausum sjúklingum. Hér er lýst einum stærsta gúl sinnar tegundar og fyrsta tilfellinu þar sem jafnframt var til staðar mikil víkkun á vinstra kransæðakerfi.
V-03 Hjartaþelsbólga á Íslandi 2000 – 2009
Elín Björk Tryggvadóttir1, Uggi Þórður Agnarsson1,2, Jón Þór Sverrisson3, Sigurður B. Þorsteinsson2, Jón Vilberg Högnason2, Guðmundur Þorgeirsson1,2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2lyflækningadeild Landspítala, 3Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri
ebt1@hi.is
Inngangur: Hjartaþelsbólga (infective endocarditis -IE) er sýking í hjartaþeli. Sjúkdómurinn er sjaldgæfur en alvarlegur og leiðir til langvarandi veikinda og/eða dauða. Erlendar rannsóknir sýna töluverðar breytingar á sjúkdómsmyndinni á síðustu áratugum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna faraldsfræði IE á Íslandi m.t.t. nýgengis, orsaka og afdrifa, en einnig athuga hvort sjúkdómsmyndin hafi breyst frá árunum 1976-1985 þegar faraldsfræði IE hérlendis var síðast metin.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og nær til allra sjúklinga sem greindust með IE á Íslandi árin 2000–2009. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og við mat á gæðum greiningar var stuðst við Dukes-greiningarskilmerkin.
Niðurstöður: Nýgengi IE reyndist 3/100.000 íbúa/ári. Meðalaldur var 58 ár (bil 1,3–91 ár) og karlar í meirihluta (71%). Flestar sýkingar (83%) urðu í lokum vinstri hluta hjartans og í 19 tilfellum var sýking í gerviloku (22%). Algengustu orsakavaldar voru streptókokkar (33%), stafýlókokkar (25%) og enterókokkar (19%) en ræktun var neikvæð í 9 tilfellum (10%). Gripið var til lokuaðgerðar í 16 tilfellum (20%). Tólf sjúklingar létust í legu (14%) og hjá þremur þeirra greindist IE fyrst við krufningu.
Ályktanir: Nýgengi IE er lágt hér á landi samanborið við erlendar rannsóknir. Frá árunum 1976-1985 hefur hlutfall sprautufíkla með IE aukist og sýkingum í gervilokum fjölgað. Bakteríuflóran hefur lítið breyst og voru streptókokkasýkingar algengastar gagnstætt því sem sést víða hefur sést erlendis þar sem S. aureus er orðinn megin orsakavaldur. Lokuaðgerðum er sjaldnar beitt hér en víða erlendis auk þess sem dánartíðni reyndist fremur lág samanborið við fyrra tímabil og erlendar upplýsingar.
V-04 Einkenni, kjarnsýru eintakafjölbreytileiki og árangur skurðaðgerða í Cenani-Lenz syndactyly heilkenni
Auður Elva Vignisdóttir1, Helga Hauksdóttir1,2, Sigurður Þorvaldsson3, Reynir Arngrímsson1,2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2erfða- og sameinda, læknisfræðideild Landspítala, 3skurðlæknir emeritus
aev2@hi.is
Inngangur: Cenani-Lenz heilkenni (CL) er sjaldgæfur erfðasjúkdómur sem einkennist m.a. af samvexti á fingrum og tám. Fáum tilfellum hefur verið lýst. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa svipgerð, skoða árangur skurðaðgerða hjá einstaklingi með CL og kanna eintakafjölbreytileika (EFB) í erfðamengi hans.
Efniviður og aðferðir: Í rannsókninni var einstaklingur með CL og foreldrar hans. Líkamshlutföll voru mæld, teknar klínískar ljósmyndir og mat lagt á beinabreytingar á röntgenmyndum. Samanburður var gerður á ljósmyndum fyrir og 20 árum eftir skurðaðgerðir og starfhæfni handa metinn. DNA úr blóði var notað til örflögugreiningar. CGH örflögur, 12x135K og útraðamiðuð 3x720K frá NimbleGen, voru notaðar til þáttapörunar. Úrlestur var gerður með flúrljómunarskanna og honum umbreytt í tölulegar niðurstöður í Nimblescan. Svæði erfðamengisins með eintakafjöldabreytileika (EFB) voru skráð samkvæmt Signalmap.
Niðurstöður: Einkennum nýja tilfellisins svipar til áður lýstra CL-tilfella og voru bundin við útlimi. Á annarri hendi var algjör samvöxtur á húð á milli fingra II-IV. Hann var með 5 D-P, 4 M-P, P-P og MCP. Á hinni voru 4 MCP en aðeins 3 fingur þar af þumalfingur og tveir aðrir mjög sveigðir fingur, annar með „delta middle and proximal phalanx“ og „macrodactyly“. Samruni á handarbeinum (carpal) beinum var greinilegur í báðum höndum. Í nokkrum skurðaðgerðum var losað um húðsamvexti og gerður beinskurður (osteotomia) til að rétta við boginn fingur. Á öðrum fæti var klumbufótur. Í erfðaefni tilfellisins fundust 27 breytingar með örflögugreiningu og af þeim hafði 16 breytileikum ekki verið lýst áður.
Ályktanir: Árangur skurðagerða var mjög góður og skilaði höndum með ágætri starfhæfni. EFB rannsóknirnar sýndu m.a. breytingar á NELL1 geni sem er þekkt af því að valda samruna á beinum í dýratilraunum og KCP geni tengist inn á boðleið BMP, hóps próteina sem stýra beinþroska á fósturskeiði Kanna þarf nánar hlutverk þessara gena í meingerð eða þróun heilkennisins.
V-05 Fjöluppsprettu krabbalíki í smágirni
Davíð Jensson1, Páll Helgi Möller1,5, Friðbjörn Sigurðsson2, Einar Stefán Björnsson3,5, Jón Gunnlaugur Jónasson4,5
1Skurðlækningadeild, 2krabbameinslækningadeild, 3meltingardeild, 4rannsóknarstofu í meinafræði á Landspítala, 5læknadeild Háskóla Íslands
davidj@landspitali.is
Inngangur: Krabbalíki (carcinoid) eru sjaldgæf form af illkynja krabbameinum en rannsóknir sýna vaxandi nýgengi þeirra. Meltingarvegurinn er algengasti myndunarstaður krabbalíkis og eru upptökin oftast í smágirni. Við greiningu eru 15% krabbalíkisæxla í smágirni fjöluppsprettu æxli. Hér verða kynnt tvö tilfelli fjöluppsprettu krabbalíkisæxla í smágirni.
Tilfelli 1: Tæplega sextug kona leitaði á Landspítala með þriggja daga sögu um vaxandi slappleika, svima og kviðverki. Við komu var hún með blóð í hægðum og lágt blóðgildi. Maga- og ristilspeglun voru eðlilegar. Garnamyndataka með hylki (capsular enteroscopia) sýndi upphækkun í slímhúð ásgarnar sem talin var geta verið æxli. Aðgerð í kjölfarið sýndi á 50 cm svæði í smágirni fimm æxli, allt frá nokkrum mm upp í einn cm og 2 stækkaða eitla í aðlægri smágirnishengju. Vefjagreining sýndi tíu krabbalíkisæxli í ásgörn og meinvarp í tveimur af 10 eitlum.
Tilfelli 2: Rúmlega þrítug kona leitaði á Landspítala með 3ja daga sögu um dökkar hægðir. Komudag versnaði henni skyldilega með niðurgangi, uppköstum, yfirliðatilfinningu og kviðverkjum. Uppvinnsla sýndi blóð í hægðum og lágt blóðgildi. Magaspeglun var eðlileg og ristilspeglun sýndi gamalt blóð í ristli. Blæðingarskann sýndi aukna upptöku hægra megin í kvið í hæð við nafla sem gaf grun um Meckels-sarp. Í kjölfarið var hún tekin til aðgerðar. Á 80 cm svæði í smágirni þreifuðust 7 litlar fyrirferðir, frá 2 mm og upp í einn cm. Vefjagreining sýndi fjöluppsprettu krabbalíkisæxli en engin meinvörp fundust í eitlum.
Ályktanir: Einkenni krabbalíkja eru ósértæk og greinast oft fyrir tilviljun við aðgerð. Horfur sjúklinga ráðast af stærð æxlis, eitlameinvörpum og fjærmeinvörpum. Þegar um fjölþætt krabbalíki er að ræða þá ráðast horfur af stærsta æxlinu en ekki fjölda æxla.
V-06 Rof á hægri slegli í kjölfar miðmætissýkingar eftir kransæðahjáveituaðgerð
Davíð Þór Þorsteinsson1, Tómas Þór Kristjánsson1, Felix Valsson2, Tómas Guðbjartsson1,3
1Hjarta- og lungaskurðdeild, 2svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands
davidtho@landspitali.is
Inngangur: Rof á hjarta er sjaldgæfur fylgikvilli miðmætissýkingar eftir opnar hjartaaðgerðir. Lýst er sjúklingi með rof á hægri slegli eftir sáraskiptingu á sýktum bringubeinsskurði.
Tilfelli: Tæplega áttræður karlmaður með sögu um ofþyngd, sykursýki og Parkinsonsveiki gekkst undir kransæðahjáveituaðgerð. Í kjölfarið fékk hann nýrnabilun, heilaáfall og Serratia-lungnabólgu sem krafðist tveggja vikna öndunarvélameðferðar og barkaraufunar. Þremur vikum síðar ræktaðist Serratia í bringubeinsskurði. Neðstu 5 cm skurðarins voru opnaðir og lagður sogsvampur. Sýkingin lét ekki undan meðferð og var allt sárið opna niður að bringubeini á skurðstofu. Allir vírar voru fjarlægðir en lítið hald var í þeim neðstu. Sogsvampi var komið fyrir í sárið ofan á bringubeinið sem virtist heillegt. Tveimur klukkustundum eftir aðgerð hóstaði sjúklingurinn kröftuglega og umbúðir fylltust af blóði. Grisjum var þrýst á sárið og sjúklingurinn fluttur samstundis á skurðstofu. Þar var hjarta- og lungnavél tengd við náraæðar og umbúðir fjarlægðar. Í ljós kom 7 cm rifa á framvegg hægra slegils. Slegillinn var fastur við bringubeinið sem hafði gliðnað í sundur neðst. Beinkantar voru fríaðir og rifunni lokað með saumi og teflonbótum. Blóð frá rofinu var endurnýtt í gegnum hjarta- og lungavél en auk þess voru gefnar 19 einingar af rauðkornaþykkni. Sárinu var lokað eftir 3ja vikna meðferð með sogsvampi. Í dag er sjúklingurinn í endurhæfingu og á góðum batavegi.
Ályktanir: Rof getur orðið á hjarta eftir miðmætissýkingu í kjölfar opinnar hjartaaðgerðar. Líklega er orsökin fyrir rofinu í þessu tilfelli samvextir milli bringubeins og framveggs hjarta. Eftir víratöku hefur beinið náð að gliðna í sundur í kjölfar kröftugs hósta og með því rofið gat á hjartað.
V-07 Blæðingarlost og loftrek vegna fistils á milli berkju og bláæðakerfis – Óvenjulegur fylgikvilli æxlisbrottnáms í berkju
Martin Ingi Sigurðsson1, Hjörtur Sigurðsson2, Kári Hreinsson2, Tómas Guðbjartsson1,3
1Hjarta-og lungnaskurðdeild, 2svæfinga-og gjörgæsludeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands
mis@hi.is
Tilfelli: Hraustur karlmaður á fertugsaldri leitaði læknis vegna vaxandi mæði og öndundarerfiðleika. Ári áður hafði hann verið greindur með astma sem ekki svaraði berkjuvíkkandi lyfjameðferð. Fengnar voru tölvusneiðmyndir af brjóstholi sem sýndu æxli neðarlega í barka sem næstum lokaði barkanum að fullu.
Ákveðið var að taka sjúklinginn í aðgerð, opna loftveginn og ná sýni til greiningar. Sjúklingurinn var svæfður og síðan gerð speglun með stífum berkjuspegli. Æxlið var losað með rafhníf sem tengdur var við sog. Skyndilega blæddi innan úr barkanum og sjúklingurinn fór í blæðingarlost á nokkrum mínútum. Strax var reynt að tengja hjarta- og lungnavél við æðar í nárum en vegna mikils lofts í bláæðakerfi var ekki hægt að koma vélinni af stað. Því var bringubein opnað, nýjum slöngum komið fyrir í hæ. hjartagátt, loft sogað úr hjartanu og það fyllt af vökva. Alls liðu 22 mín. frá því blóðþrýstingur féll uns hægt var að koma vélinni í gang. Allan þann tíma var beitt beinu hjartahnoði, án mælanlegs blóðþrýstings. Í ljós kom að gat hafði komið á hæ. berkjuna eftir rafhnífinn en einnig á azygous-bláæðina og grein frá hæ. lungnaslagæð. Götin voru lagfærð og mest af æxlinu fjarlægt. Aðgerðin tók 10 klst. og voru samtals gefnar 46 ein. af blóðhlutum. Heildarlegutími var 43 dagar og lá hann 12 daga á gjörgæslu vegna alvarlegrar fjölkerfabilunar. Vefjagreining sýndi mucoepidermoid æxli af lágri gráðu. Rúmu ári frá aðgerð er hann einkennalaus og stundar háskólanám.
Ályktanir: Tilfellið lýsir vel lífshættulegum en afar sjaldgæfum áverka sem getur fylgt skurðaðgerðum á stærri loftvegum. Fistli milli berkju og azygous-bláæðar hefur ekki verið lýst áður eftir berkjuspeglun. Þrátt fyrir mikið og langvarandi blóðþrýstingsfall má leiða líkur að því að komið hafi verið í veg fyrir heilaskaða með beinu hjartahnoði.
V-08 Berkjufleiðrufistill eftir drepmyndandi lungnabólgu, upprættur með einstefnuberkjuloka – Sjúkratilfelli
Ásgeir Þór Másson1, Sólveig Helgadóttir1, Lars Ek3, Jónas G. Einarsson4, Erik Gyllstedt3, Bryndís Sigurðardóttir2, Tómas Guðbjartsson1,3
1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2smitsjúkdómadeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands, 4lungnadeild og lungnaskurðdeild háskólasjúkrahússins í Lundi
asgeirthor@gmail.com
Inngangur: Berkjufleiðrufistlar (BFF) eru lífshættulegir fylgikvillar alvarlegra lungnasýkinga en geta einnig sést eftir stærri lungnaskurðaðgerðir. Hefðbundin meðferð er umfangsmikil brjóstholsskurðaðgerð þar sem fistlinum er lokað með vöðvaflipa. Lýst er tilfelli þar sem stórum BFF var lokað með einstefnuloka sem komið var fyrir með berkjuspeglun.
Tilfelli: Tæplega tvítugur karlmaður veiktist með háum hita og hósta á ferðalagi í SA-Asíu. Stuttu síðar sást á lungnamynd drepmyndandi lungnabólga með sýkingu í fleiðruholi. Í fyrstu lék grunur á berklum en frekari rannsóknir leiddu í ljós melioidosis sem er sýking af völdum bakteríunnar Burkholderia pseudomallei. Hann var meðhöndlaður með sýklalyfjum í æð og brjósholskera en svaraði illa meðferð. Því var gerður brjósholsskurður og næstum allt efra blað vinstra lunga fjarlægt. Við þetta batnaði líðan hans en viðvarandi loftleki flæktu meðferð og var orsökin stór BFF. Eftir tæplega hálfs árs meðferð með brjóstholskera vegna stöðugs loftleka var ákveðið að reyna meðferð með einstefnu-berkjuloka. Þessir lokar eru notaðir við lungnasmækkun teppusjúklinga. Í B1 og B3 berkjugreinar var komið fyrir tveimur 4-5,5 mm lokum af Zephyr/Pulmox®-gerð. Við þetta stöðvaðist loftleki og holrými í vinstri fleiðru dróst verulega saman. Tveimur mánuðum síðar er hann við góða líðan. Ekki hefur borið á loftleka, CRP er eðlilegt og sýklalyfjameðferð ekki verið stöðvuð.
Ályktanir: Hægt er að beita einstefnuberkjulokum við BFF af völdum alvarlegra lungnasýkinga. Eftir því sem best er vitað hefur þessum lokum ekki verið beitt áður í slíkum tilfellum.
V-09 Notkun miðlægs gagnagrunns við gæðamat á opnum hjartaaðgerðum á Landspítala 2010
Helga Hallgrímsdóttir1, Elín Ýrr Halldórsdóttir1, Arna Brynjólfsdóttir1, Ása Ingólfsdóttir1, Vigdís Árnadóttir1, Þórunn Kjartansdóttir1, Kristjana Ellertsdóttir1, Herdís Alfreðsdóttir1, Alda Jörundsdóttir1, Svanhildur Jónsdóttir1, Matthildur Guðmannsdóttir1, Þórarinn Guðnason2, Gunnar Mýrdal3, Sigurður Ragnarsson3
1Skurðdeild, 2hjartadeild, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala
helgahal@landspitali.is
Tilgangur: Að nota Swedeheart-gagnagrunninn til að fá upplýsingar um sjúkrahússlegur þeirra sem gengust undir opna hjartaaðgerð á Íslandi árið 2010.
Efniviður og aðferðir: Í Swedeheart-gagnagrunnin eru skráðar framvirkt upplýsingar um opnar hjartaaðgerðir í Svíþjóð og Íslandi. Fengnar voru upplýsingar um biðtíma, legutíma, fylgikvilla og afdrif sjúklinga sem gengust undir aðgerð á Landspítala á ofangreindu tímabili.
Niðurstöður: Framkvæmd var 201 hjartaaðgerð á Íslandi árið 2010. Þar af voru börn 6% (n=12) og voru kynjahlutföll jöfn. Af fullorðnum voru konur 26% (n=49). Miðgildi biðtíma eftir aðgerð voru 8 dagar hjá körlum (0-99) en 9 hjá konum (0-169). Eitt af hverjum 10 tilfellum fóru í bráðaaðgerð og var rúmur helmingur þeirra aðgerða utan daginnutíma. Rúm 11% (n=23) fóru í enduraðgerð vegna blæðingar. Sex fengu miðmætissýkingu og 32 sjúklingar (16%) fengu annars konar sýkingar. Sextán sjúklingar (8%) voru í öndunarvél á gjörgæsludeild í lengur en tvo sólarhringa. Legutími var sambærilegur hjá báðum kynjum og var miðgildi legutíma 9 dagar. Lengsti legutími var 132 dagar. Tíu sjúklingar (5%) létust innan 30 daga en einn lést til viðbótar fyrir útskrift.
Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að biðtími eftir hjartaaðgerð árið 2010 var í flestum tilfellum stuttur þó sumir hafa þurft að bíða lengi. Hlutfall bráðaaðgerða var hátt. Fækka þarf enduraðgerðum vegna blæðinga en að öðru leyti eru fylgikvillar og legutími ásættanlegir. Swedeheart-gagnagrunnurinn er gagnlegur í gæðamati fyrir sjúklinga sem gangast undir hjartaskurðaðgerð á Landspítala.
V-10 Ehlers-Danlos heilkenni (tegund IV) á Íslandi. Samband arf- og svipgerðar
Signý Ásta Guðmundsdóttir1, Páll Helgi Möller1,2, Reynir Arngrímsson1,3
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2skurðlækningadeild, 3erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala
sag14@hi.is
Inngangur: Ehlers-Danslos heilkenni af tegund IV (EDS-IV) er A-litnings ríkjandi bandvefssjúkdómur með þekkta alvarlega fylgikvilla s.s. æðarof, garnarof og rof á legi á meðgöngu. Á Íslandi hefur ein fjölskylda greinst með þennan sjúkdóm. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa svipgerð sjúkdómsins í þessari fjölskyldu og meta samband arf- og svipgerðar tengdar stökkbreytingu sem ekki hefur verið lýst áður.
Efniviður og aðferðir: Íslenskri fjölskyldu sem greinst hefur með EDS-IV og stökkbreytingu í COL3A1 geni er lýst. Núlifandi EDS-IV greindum einstaklingum (>18 ára) var boðin þátttaka í rannsókninni. Lagður var fyrir spurningalisti um heilsufar, líkamshlutföll mæld og klínískar ljósmyndir teknar. Sjúkra- og krufningaskýrslur voru yfirfarnar. Lýsandi tölfræði var notuð við samantekt á niðurstöðum. Svipgerðarkort var útbúið fyrir arfgerðina sem lýsir sambandi svip- og arfgerðar.
Niðurstöður: Tíu einstaklingar voru greindir með klínísk svipgerðareinkenni EDS-IV og DNA greining staðfest í átta þeirra. Tveir höfðu látist vegna æðarofs og einn greindist með ósæðarvíkkun. Tveir fengu garnarof við 32 ára aldur með alvarlegum fylgikvillum. Algengust voru einkenni frá æða- og stoðkerfi svo sem æðahnútar, ilsig og langvarandi verkir.
Ályktanir: Svipgerð tengd brottfalli á 18 amínósýrum í þrístrandahelix hluta kollagens III hefur talsverð áhrif á bandvef í æðum og innri líffærum sem getur leitt til lífshættulegra veikinda. Í þessari fjölskyldu reyndust flest einkenni sjúkdómsins væg, sem eflaust skýrir hversu lengi hann var ógreindur, jafnvel þótt feðgar hefðu látist ungir úr æðarofi og mæðgur fengið garnarof, báðar við 32ja ára aldur. Niðurstöður staðfesta að EDS-IV sjúkdómur er alvarlegur með lífshættulegum fylgikvillum og hárri dánartíðni.
V-11 Brottnám blóðreks úr lungnaslagæð með hjálp hjarta- og lungnavélar
Hanna Ásvaldsdóttir1, Bjarni Torfason1,2, Líney Símonardóttir1
1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands
hannaasv@landspitali.is
Inngangur: Lungnarek telst alvarlegt ef verulegt blóðþrýstingsfall verður eða það stíflar meira en 50% af lungnaslagæðinni og skapar þannig líshættulegt ástand. Dánartíðni er um 30% og hækkar ef sjúklingur hefur þurft endurlífgun.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 3 sjúklingum sem gengust undir brátt brottnám alvarlegs lungnareks á Landspítala á síðustu 4 árum. Allir sjúklingarnir voru í lífshættu þegar aðgerð var framkvæmd.
Niðurstöður: Sjúklingarnir voru 17 ára, 51 árs og 54 ára, 2 konur og einn karl. Sá fyrsti þjáðist af andþyngslum og brjóstverk í nokkra daga fyrir innlögn en sjúklingurinn í tilfelli 2 var fluttur meðvitundarlaus á spítalann. Þriðji sjúklingurinn veiktist skyndilega, fór í hjartastopp og var endurlífgaður. Í öllum tilfellum var alvarlegt lungnarek staðfest með tölvusneiðmynd og hjartaómun og metin þörf á skurðaðgerð, í tilfellum 1 og 3 án tafar. Í tilfelli 2 var bráð skurðaðgerð ákveðin eftir 9 daga legu á gjörgæsludeild í Fossvogi þar sem sjúklingurinn hafði sögu um ítrekuð hjartastopp og segaleysandi meðferð sem hafði verið beitt var án árangurs. Sjúklingarnir voru tengdir við hjarta- og lungnavél og aðgerð gerð á sláandi hjarta án sérstakrar kælingar. Lungnaslagæð var opnuð og fjarlægðir stórir segar. Tími á hjarta- og lungnavél var 30, 59 og 60 mín. Sjúklingur í tilfelli 1 náði sér fljótt en fjarlægja þurfti gollurshúsvökva mánuði síðar með góðum árangri. Sjúklingur í tilfelli 2 var nokkra mánuði að ná sér að fullu en sjúklingur í tilfelli 3 lést eftir fjóra sólarhringa á gjörgæsludeild.
Ályktanir: Hjarta- og lungnavél gegnir lykilhlutverki þegar fjarlægja þarf lungnarek hjá sjúklingum í lífshættulegu ástandi.
V-12 Bútalíkanagerð til að styðja bestu ákvörðunartöku við heilliðun á mjaðmarlið með og án sements
Paolo Gargiulo1,2, Egill Axfjörð Friðgeirsson1,2, Þröstur Pétursson2, Ellen Óttarsdóttir2, Þórður Helgason1,2, Halldór Jónsson jr3,4
1Heilbrigðis- og upplýsingatæknideild Landspítala, 2tækni- og verkfræðideild heilbrigðisverkfræðisviðs Háskólans í Reykjavík, 3bæklunarskurðdeild Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands
paologar@lsh.is
Inngangur: Beinbrot í kringum gerviliði valda ákveðnum festingarvandræðum. Brot getur orðið við fyrstu ísetningu, langtíma viðvera gerviliðs getur breytt byggingu beinsins og aukið líkur á broti. Þess vegna er mikilvægt að velja hagstæðasta ígræðið í byrjun, bæði fyrir sjúklinginn og heilbrigðiskerfið. Þetta er kynning á forrannsókn til að þróa tölvustýrða aðferð til að ákvarða hvort betra sé að gera skipti á mjaðmarlið með eða án sements.
Efniviður og aðferðir: Tölvusneiðmyndir voru teknar af tveimur sjúklingum og var annar með gervimjaðmarlið með sementi og hinn án sements. Sneiðmyndirnar voru teknar frá fremri hluta mjaðmarblaðs niður að miðjum lærlegg. Þrívíddarvefjaflokkun, líkanagerð og möskvagerð af mjaðmarbeini, lærleggsbeini og ígræði voru framkvæmdar í hugbúnaðinum MIMICS. Mjaðmar- og lærleggs beinþéttleiki var reiknaður út yfir þrívíddarsvæðið sem beinin spanna. Bútalíkanagerð (e.“finite element method“) var notuð til að líkja eftir spennu umhverfis mjaðmarliðinn vegna mjaðmarígræðlis með og án sements. Eftir vefjaflokkunina voru bein og ígræðissmöskvar fluttir yfir í Ansys Workbench þar sem efniseiginleikum var úthlutað og jaðarskilyrði hönnuð fyrir líkanið. Að lokum var munurinn milli beggja ígræðlinganna skoðaður með Von Mises spennudreifingu þar sem mismunandi kraftaskilyrðum var beitt á mjaðmar- og lærleggsbeinin.
Niðurstöður: Líkanið sýndi að með því að beita sama krafti á báða sjúklinga dreifðist spennan eftir beinunum á mismunandi hátt.
Ályktanir: Frekari rannsókna er þörf til að þróa tölulega aðferð sem getur ráðlagt hvort betra sé að nota sement eða ekki.
Höfundaskrá
Aðalbjörn Þorsteinsson E-03, E-09
Alda Birgisdóttir E-08
Alda Jörundsdóttir V-09
Andri Wilberg Orrason E-01
Arna Brynjólfsdóttir V-09
Arna Guðmundsdóttir E-06
Auður Elva Vignisdóttir V-04
Ágúst Mogensen E-04
Ása Ingólfsdóttir V-09
Ásgeir Þór Másson V-08
Ásgeir Theodórs E-13
Bergrós K. Jóhannesdóttir E-29
Birkir Örn Hlynsson E-03
Bjarni Agnarsson E-01
Bjarni Torfason E-23, V-11
Björn Geir Leifsson E-08
Bryndís Sigurðardóttir V-08
Bryndís Snorradóttir E15
Brynjólfur Mogensen E-04, E-29, E-30, E-31
Brynjólfur Árni Mogensen E-3
Claes Lenander E-12
Daði Jónsson E-28
Davíð Jensson E-05, V-05
Davíð Þór Þorsteinsson E-13, V-06
Ea Rusch E-34
Egill Axfjörð Friðgeirsson V-12
Einar Stefán Björnsson E15, E-16, E-35, V-05
Eiríkur Jónsson E-02, E-34
Elfar Úlfarsson E-31
Elín Ýrr Halldórsdóttir V-09
Elín Laxdal E-10
Elín Maríusdóttir E-02
Elín Björk Tryggvadóttir V-03
Ellen Óttarsdóttir V-12
Elmar Johnson E-11
Elsa Björk Valsdóttir E-14, E15
Erik Gyllstedt V-08
Eyrún Harpa Gísladóttir E-31
Felix Valsson E-17, E-19, E-30, V-06
Friðbjörn Sigurðsson V-05
Fritz H. Berndsen E-36
Gerda Engholm E-34
Gestur Þorgeirsson E-30
Girish Hirklear E-32
Gísli Engilbert Haraldsson E-30
Gísli H. Sigurðsson E-17, E-19, E-26, E-28
Guðjón Birgisson E-13
Guðmundur Vikar Einarsson E-02
Guðmundur Geirsson E-01
Guðmundur Þorgeirsson V-03
Gunnar Guðmundsson E-21
Gunnar Mýrdal E-23, V-09
Gylfi Óskarsson E-3
Halldór Jónsson jr V-12
Hanna Ásvaldsdóttir V-11
Hannes Sigurjónsson E-05, E-26
Hans H. Storm E-34
Harpa Viðarsdóttir E-19
Heiðdís Valgeirsdóttir E-07
Helga Hallgrímsdóttir V-09
Helga Hauksdóttir V-04
Helgi H. Hafsteinsson E-01
Herdís Alfreðsdóttir V-09
Hildur Harðardóttir E-06, E-07, E-08, E-09, E-32
Hjalti Már Björnsson E-30
Hjörtur Sigurðsson V-07
Hróðmar Helgason E-32
Húnbogi Þorsteinsson E-24
Höskuldur Kristvinsson E-11, E-33
Inga Jóna Ingimarsdóttir E-34
Inga Lára Ingvarsdóttir E-25, E-37
Ingibjörg Guðmundsdóttir E-20, E-22
Ingvar Þ. Sverrisson E-24
Ívar Gunnarsson E-03
Jan Adolfsson E-34
Jens Kjartansson E-05
Johan Sjögren E-20
Jonas Nygren E-12
Jóhann Sigurjónsson E-09
Jón Vilberg Högnason V-03
Jón Gunnlaugur Jónasson E-16, V-05
Jón Magnús Kristjánsson E-30
Jón Þór Sverrisson V-02, V-03
Jónas G. Einarsson V-08
Jónína Ingólfsdóttir E-21
Karl Kristinsson V-01
Katrín Jónsdóttir E-33
Kári Hreinsson E-25, E-27, E-28, V-07
Kári E Þórðarson E-04
Klaus Brasso E-34
Kristinn Sigvaldason E-31
Kristín K. Alexíusdóttir E-16
Kristín Huld Haraldsdóttir E-13, V-01
Kristín Jónsdóttir E-14
Kristín María Tómasdóttir E-14
Kristjana Ellertsdóttir V-09
Kristján Skúli Ásgeirsson E-11, E-33
Kristján Eyjólfsson E-32
Lars Ek V-08
Laufey Tryggvadóttir E-16, E-34
Lárus Jónasson E-11, E-16
Lilja Þyri Björnsdóttir E-10
Líney Símonardóttir V-11
Magnús Gottfreðsson E-20
Marta Rós Berndsen E-36
Martin Ingi Sigurðsson E-25, E-26, E-27, E-28, E-37, V-02, V-07
Matthildur Guðmannsdóttir V-09
Mikael Machado E-12
Njáll Vikar Smárason E-27, E-28
Oddur Ólafsson E-32
Ólafur Skúli Indriðason E-10, E-26
Ómar Sigurvin Gunnarsson E-06
Paolo Gargiulo V-12
Páll Helgi Möller E-14, E15, E-16, V-01, V-05, V-10
Pétur Snæbjörnsson E-16
Rafael Acosta E-12
Ragnar Danielsen E-25
Ragnheiður I. Bjarnadóttir E-07, E-09
Reynir Arngrímsson V-04, V-10
Reynir Tómas Geirsson E-08, E-09
Runólfur Pálsson E-10
Signý Ásta Guðmundsdóttir V-10
Sigurbergur Kárason E-18, E-31
Sigurður Blöndal E-13
Sigurður Ragnarsson E-23, V-09
Sigurður E. Sigurðsson E-32
Sigurður B. Þorsteinsson V-03
Sigurður Þorvaldsson V-04
Sindri Aron Viktorsson E-25, E-37
Sólveig Helgadóttir E-26, E-28, E-37, V-08
Steinn Jónsson E-24
Steinn Steingrímsson E-20
Steinþór Runólfsson E-10
Svanheiður Lóa Rafnsdóttir E-11, E-33
Svanhildur Jónsdóttir V-09
Sveinn Guðmundsson E-28
Sverrir Harðarson E-02
Sævar Helgi Lárusson E-04
Tómas Guðbjartsson E-01, E-02, E-20, E-21, E-22, E-24, E-25, E-26, E-27, E-28, E-29, E-32, E-37, V-02, V-06, V-07, V-08
Tómas Þór Kristjánsson V-06
Uggi Þórður Agnarsson V-03
Valentínus Þór Valdimarsson E-17, E-32
Valur Þór Marteinsson E-02
Vigdís Árnadóttir V-09
Vigdís Pétursdóttir E-02
Þorsteinn Viðar Viktorsson V-02
Þorvaldur Jónsson E-11, E-33
Þóra Soffía Guðmundsdóttir E-35
Þóra Elísabet Jónsdóttir E-31
Þóra Sif Ólafsdóttir E-21
Þóra Steingrímsdóttir E-35
Þórarinn Arnórsson E-27, V-02
Þórarinn Guðnason E-23, V-09
Þórarinn A Ólafsson E-18
Þórdís Kjartansdóttir E-33
Þórður Helgason V-12
Þórir Auðólfsson E-12
Þórunn Kjartansdóttir V-09
Þráinn Rósmundsson E-03
Þröstur Pétursson V-12