Fylgirit 66 - 15. HÍ ráðstefnan um rannsóknir

Ávarp - Fimmtánda ráðstefnan um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands

Ávarp


Fimmtánda ráðstefnan um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands

 

Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og undirbúningsnefnd býður ykkur velkomin til fimmtándu ráðstefnunnar um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og allar deildir, námsbrautir og stofnanir heilbrigðisvísindasviðs standa að henni. Ráðstefnan hefur aldrei verið jafn umfangsmikil og nú, en nálega fjögur hundruð ágrip bárust til kynningar á rannsóknarverkefnum. Til þess að koma til móts við þátttakendur og gefa sem flestum færi á að kynna rannsóknarniðurstöður sínar sem erindi verða fjórar málstofur samhliða báða ráðstefnudagana.

Ráðstefnan hefur með árunum orðið vettvangur þeirra sem vilja kynna rannsóknir á sviði líf- og heilbrigðisvísinda í víðustu merkingu. Hún gefur því gott yfirlit yfir rannsóknastarfsemi í þessum málaflokki hér á landi. Höfundar efnis eru ekki eingöngu starfandi við Háskóla Íslands heldur einnig við aðra háskóla og rannsóknastofnanir erlendar sem innlendar, frá Landspítala sem og öðrum heilbrigðisstofnunum og heilsugæslu.

Í tilefni af eitt hundrað ára afmæli Háskóla Íslands og læknadeildar verður skipulögð opin málstofa á ráðstefnunni ætluð almenningi. Á þennan fund eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Þrír fræðimenn við heilbrigðisvísindasvið munu flytja erindi um heilbrigðismál og rannsóknir sem ætla má að höfði til margra. Erindin heita: Bólusetningar, ávinningur og áhætta, flutt af dósent Þórólfi Guðnasyni, smitsjúkdómalækni barna; Hjartaskurðlækningar á Íslandi, flutt af prófessor Tómasi Guðbjartssyni, hjartaskurðlækni og loks Þyngdin til rannsóknar, flutt af prófessor Laufeyju Steingrímsdóttur, næringarfræðingi. Eftir erindin gefst fundargestum tækifæri til fyrirspurna. Þessari nýbreytni er ætlað að veita almenningi innsýn í hvernig rannsóknaráðstefna gengur fyrir sig, og er eins og áður sagði, í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands og læknadeildar og er fyrsti viðburðurinn í röð ráðgerðra uppákoma á afmælisárinu 2011.

Það hvílir fyrst og fremst á þátttakendum sjálfum hversu vel ráðstefnan tekst til. Það er von skipuleggjenda að hún skapi vettvang fyrir virka þátttöku og lífleg, opin og akademísk skoðanaskipti og leiði þannig til nýrra tengsla og samskipta sem orðið gætu grunnur að nánara samstarfi rannsakenda hinna ýmsu fræðasviða heilbrigðisvísindasviðsins.

Velkomin til ráðstefnu!

 

                Sigurður Guðmundsson,   Vilhjálmur Rafnsson,

                forseti heilbrigðisvísindasviðs        formaður Vísindanefndar

                Háskóla Íslands   læknadeildar





Þetta vefsvæði byggir á Eplica