Fylgirit 66 - 15. HÍ ráðstefnan um rannsóknir

Ágrip erinda

E 1 Sambandið milli líkamsþyngdarstuðuls um miðjan aldur og heilarúmmáls á efri árum. Reykjavíkurrannsóknin

Milan Chang1, Jane Saczynski2, Jón Snædal1,3, Sigurbjörn Björnsson1, Björn Einarsson1,Thor Aspelund3,4, Sigurður Sigurðsson4, Vilmundur Guðnason3,4, Tamara B. Harris5, Lenore J. Launer5, Pálmi V. Jónsson1,3

1Landspítala, 2University of Massachusetts Medical School, Worcester, 3Háskóla Íslands, 4Hjartavernd, 5National Institute on Aging, Bethesda

changmilan@gmail.com

Inngangur: Hár líkamsþyngdarstuðull (LÞ (Body Mass Index, BMI)) um miðjan aldur er talinn vera áhættuþáttur hvað varðar líkur á heilabilun. Lítið er hins vegar vitað um sambandið milli líkamsþyngdarstuðuls á miðjum aldri og rúmmáls heila á efri árum. Við athuguðum sambandið milli líkamsþyngdarstuðuls á miðjum aldri og rúmmáls heila á efri árum.

Efniviður og aðferðir: Notast er við þversniðsúrtak Íslendinga f. 1907-1935 sem tóku þátt í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar (AGES-Reykjavík Study). Milli mælinga á líkamsþyngdarstuðli á miðjum aldri og mælinga á vitrænni getu á efri árum liðu að meðaltali 26 ár. Líkamsþyngdarstuðull á miðjum aldri var skilgreindur sem 1) eðlilegur (LÞ 18,5-24,9; 56,9%), 2) hár/ofþyngd, (LÞ 25-29,9; 34,0%) og 3) mjög hár/offita (LÞ 30 eða meira; 9,1%). Gerður var samanburður við heildarrúmmál heila (TBV), rúmmál af gráum vef, hvítum vef og vefjaskemmdir í hvítum vef, rannsakað með segulómun.

Niðurstöður: Heildarfjöldi í úrtaki var 4552 (konur =58%, heilabilun =4,4%). Við gagnagreiningu voru 4354 einstaklingar eftir að búið var að útiloka þá sem voru með heilabilun. Miðað við þann hóp sem var með eðlilegan líkamsþyngdarstuðul höfðu þeir sem voru með háan eða mjög háan líkamsþyngdarstuðul meira heilarúmmál (hár LÞ: b=3,15, ekki marktækur munur, mjög hár LÞ: b=10,78, p<0,05) eftir að leiðrétt hafði verið fyrir lýðfræðilegum þáttum, lífsstíl, hjarta- og æðasjúkdómum, höfuðstærð, líkamsrækt og apólípóprótein E arfgerð.

Ályktanir: Samband er milli meira rúmmáls heila á efri árum og mjög hás líkamsþyngdarstuðuls á miðjum aldri. Rannsaka þarf þetta samband nánar með tilliti til mismunandi svæða og vefjategunda heilans.

E 2 Sambandið milli líkamsþyngdarstuðuls um miðjan aldur og vitrænnar getu á efri árum. Reykjavíkurrannsóknin

Milan Chang1, Jane Saczynski2, Jón Snædal1,3, Sigurbjörn Björnsson1, Björn Einarsson1,Thor Aspelund3,4, Vilmundur Guðnason3,4, Tamara B. Harris5, Lenore J. Launer5, Pálmi V. Jónsson1,3

1Landspítala, 2University of Massachusetts, Worcester, 3Háskóla Íslands, 4Hjartavernd, 5National Institute on Aging, Bethesda

changmilan@gmail.com

Inngangur: Hár líkamsþyngdarstuðull (LÞ: Body Mass Index/BMI) um miðjan aldur er talinn vera áhættuþáttur hvað varðar líkur á heilabilun. Lítið er hins vegar vitað um sambandið milli líkamsþyngdarstuðuls á miðjum aldri og vitrænnar getu að öðru leyti meðal fólks á efri árum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna fylgni til lengri tíma milli líkamsþyngdarstuðuls á miðjum aldri annars vegar og vitrænnar getu og heilabilunar hins vegar.

Efniviður og aðferðir: Notast er við þversniðsúrtak Íslendinga f. 1907-1935, sem tóku þátt í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar, Reykjavíkurrannsókninni (AGES). Milli mælinga á líkamsþyngdarstuðli á miðjum aldri og mælinga á vitrænni getu á efri árum liðu að meðaltali 26 ár. Líkamsþyngdarstuðull á miðjum aldri var skilgreindur sem 1) eðlilegur (18,5-24,9), 2) hár/ofþyngd (25-29,9) og 3) mjög hár/offita (30 eða meira). Heildarniðurstöður byggðar á úrvinnsluhraða, minni og stýringu (executive function) voru fundnar með taugasálfræðilegu mati. Heilabilun var skilgreind með alþjóðlegum greiningarskilmerkjum og niðurstaða fengin á samráðsfundum.

Niðurstöður: Við gagnagreiningu var notast við 4.949 þáttakendur (konur =57%, heilabilun =3,9%, líkamsþyngdarstuðull innan eðlilegra marka =51,4%, hár =39,8% og mjög hár =8,7%). Í samanburði við þann hóp sem var með líkamsþyngdarstuðul innan eðlilegra marka (viðmið), höfðu bæði hópurinn með háan og hópurinn með mjög háan líkamsþyngdarstuðul marktækt minni úrvinnsluhraða (hár, b=-0,08; mjög hár, b=-0,12, leitni (trend) p<0,05), verra minni (hár, b=-0,06; mjög hár, b=-0,09, leitni p<0,05) og minni stýringu (hár, b=-0,05; mjög hár, b=-0,08, leitni p<0,05), eftir að leiðrétt hafði verið fyrir lýðfræðilegum þáttum, hjarta- og æðasjúkdómum og apólípóprótein E arfgerð. Hár eða mjög hár líkamsþyngdarstuðull um miðjan aldur tengdist ekki aukinni hættu á heilabilun á efri árum, jafnvel eftir að leiðrétt hafði verið fyrir óvissuþáttum.

Ályktanir: Hár eða mjög hár líkamsþyngdarstuðull um miðjan aldur tengdist minni vitrænni getu 26 árum síðar. Hins vegar fannst ekkert samband milli líkamsþyngdarstuðuls og heilabilunar. Þessar þversagnarkenndu niðurstöður þarf að rannsaka frekar en hugsanleg skýring er lágt hlutfall heilabilunar í þessu þýði.

E 3 Eykur makamissir áhættuna á vitrænni skerðingu og heilabilun?

Halldóra Viðarsdóttir1, Fang Fang2, María K. Jónsdóttir3,4, Pálmi V. Jónsson3,5, Tamara B. Harris6, Lenore J. Launer6, Vilmundur Guðnason5,7, Unnur A. Valdimarsdóttir1,2

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ, 2Dept. of Medical Epidemiology and Biostatistics, Karolinska Institutet Stokkhólmi, 3Landspítala, 4sálfræðideild og 5læknadeild HÍ, 6Laboratory of Epidemiology, Demography and Biometry, National Institute on Aging, NIH, Bethesda, 7Hjartavernd

halldvi@hi.is

Inngangur: Árið 2009 birti British Medical Journal niðurstöður finnskrar rannsóknar sem benda til sambands makamissis og áhættu á vitrænni skerðingu. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna hvort áföll á borð við makamissi hafi áhrif á þróun heilabilunar.

Efniviður og aðferðir: Notuð voru gögn úr Öldrunarrannsókn Hjartaverndar um 5764 karla og konur (fædd á árunum 1907-1935). Með samtengingu við Íbúaskrá Hagstofu Íslands var hjúskaparstöðu þátttakenda fylgt eftir frá 1978 til komu í Öldrunarrannsóknina (á tímabilinu 2002-2004). Upplýsingar um dánarmein og dánardag maka þátttakenda fengust úr Dánarmeinaskrá. Bornir voru saman tveir hópar; þeir sem voru í hjónabandi/sambúð allan tímann (n=2.553) og þeir sem misstu maka á rannsóknartímanum (n=1.360). Notuð var tvíkosta aðhvarfsgreining til að reikna líkindahlutfall fyrir heilabilun með 95% öryggismörkum.

Niðurstöður: Af þeim 1360 sem misstu maka á rannsóknartímanum voru 118 (8,7%) greindir með heilabilun og 149 (11,0%) með væga vitræna skerðingu við komu í Öldrunarrannsóknina. Af þeim 2.553 sem voru í hjónabandi/sambúð allan rannsóknartímann voru 132 (5,2%) greindir með heilabilun og 207 (8,1%) með væga vitræna skerðingu. Þegar leiðrétt hafði verið fyrir kyni, aldri, menntun og ApoE áhættuarfgerð var ekki samband milli makamissis og áhættu á heilabilun (OR 0,91; 95% CI 0,64-1,29) og vægri vitrænni skerðingu (OR 0,98; 95% CI 0,73-1,30).

Ályktanir: Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar styðja ekki niðurstöður fyrri rannsóknar um að makamissir auki áhættuna á vitrænni skerðingu eða heilabilun.

 

E 4 Byltur sjúklinga á Landspítala 2005-2009. Einkenni og afleiðingar

Eygló Ingadóttir, Hlíf Guðmundsdóttir

Hjúkrunarfræðideild HÍ, Landspítala

eygloing@landspitali.is

Inngangur: Byltur sjúklinga eru algengar á bráðasjúkrahúsum og er tíðni þeirra oft höfð sem mælikvarði á gæði hjúkrunar. Byltur eru til dæmis eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál aldraðra því þær geta valdið bráðum áverka, haft langvarandi áhrif á lífsgæði og stuðlað að ótímabærum dauða.

Efniviður og aðferðir:Unnið var úr eigindlegum og megindlegum gögnum úr atvikaskráningarkerfi Landspítalans frá 2005 til 2009. Alls voru 2.578 byltur skráðar á tímabilinu. Þar af var unnið úr gögnum um 1761 sjúkling sem hlotið höfðu 2382 byltur.

Niðurstöður: Skráðum byltum sjúklinga á Landspítala fjölgaði um 332 á tímabilinu, úr 323 árið 2005 í 655 árið 2009. Mest fjölgaði skráðum byltum um 142 milli áranna 2007-2008 en á því tímabili var sérstakt byltuvarnarátak á spítalanum og því fjölgaði skráningu tilfella til mikilla muna. Meðalaldur sjúklinga sem hlotið höfðu byltur á sjúkrahúsinu var 77,2 ár. Því eldri sem sjúklingar voru þeim mun líklegri voru þeir til að hljóta byltu. Sjúklingar eldri en 85 ára voru síður líklegir til að fá áverka við byltu en þeir sem yngri voru. Karlar voru líklegri til að detta en konur og karlar voru líka líklegri til að detta oftar en einu sinni. Meiri líkur voru á að áttaðir sjúklingar fengju áverka við byltu en þeir sem óáttaðir voru. Sjálfbjarga sjúklingar voru einnig líklegri til að fá áverka við byltu en þeir sem voru ósjálfbjarga. 35% sjúklinga sem duttu voru á leið á salerni og þeir voru einnig líklegri til að fá áverka heldur en þeir sem duttu af öðrum ástæðum. Á næturnar duttu 40% sjúklinga og var algengasti byltutíminn frá kl. 02:00-04:00.

Ályktanir: Byltutíðni á Landspítala hefur aukist til muna. Engu að síður er tíðni þeirra minni en á 73 enskum bráðasjúkrahúsum. Í erlendum rannsóknum má sjá, að skráning á byltum eykst þegar áhersla er lögð á byltuvarnir. Þessi rannsókn bendir til hins sama. Mikilvægt er að reyna að fyrirbyggja salernistengdar byltur sjúklinga, til dæmis með öruggu aðgengi og reglulegum salernisferðum. Sjúklingar detta oftast fyrri hluta nætur. Ástæðuna má líklega rekja til þess að þá séu sjúklingar undir áhrifum svefnlyfja en rannsóknir hafa sýnt að þau geti leitt til byltna.

 

E 5 Staðbundin og heildræn rafleiðnimæling á fitulausum massa til samanburðar við DXA meðal aldraðra Íslendinga

Alfons Ramel1, Ólöf Guðný Geirsdóttir1, Atli Arnarson1, Pálmi V. Jónsson, Inga Þórsdóttir1

1Rannsóknastofu í næringarfræði Landspítala, matvæla- og næringarfræðideild HÍ, 2öldrunarsviði Landspítala, læknadeild HÍ

alfons@landspitali.is

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var 1) að bera saman mat á fitulausum massa (FLM) með lófatækri rafleiðnimælingu (HHBIA) við hefðbundna rafleiðnimælingu (CBIA) og tvíorku beinþéttnimælingu (DXA) og 2) að þróa jöfnu, sértæka með tilliti til þýðis, til þess að meta FLM hjá öldruðum Íslendingum.

Efniviður og aðferðir: Til staðar voru gögn um FLM meðal 98 heimabúandi, aldraðra Íslendinga sem fengin höfðu verið með DXA, CBIA og HHBIA (aldur =73±5,6 ár, líkamsþyngdarstuððull =28,8±5,2 kg/m2). Þátttakendum var skipt af handahófi í þróunarhóp (n=50) og prufuhóp (n=48). Jafna til þess að spá fyrir um FLM, sem var sértæk með tilliti til þýðis, var þróuð út frá CBIA og líkamsmælingum hjá þróunarhópi og síðan borin saman við aðrar BIA-jöfnur (Deurenberg, Segal jöfnur, sértækar með tilliti til mælitækis) ásamt mati á FLM með DXA hjá prufuhópi.

Niðurstöður: Fylgni á milli BIA og DXA var mjög mikil, eða >0,9. Samt sem áður var meðalmunur til samanburðar við DXA mjög breytilegur en hann var á bilinu -5,0 kg (Deurenberg) til +2,5 kg (Segal, HHBIA) og +3,3 kg (CBIA). Meðalmunur jöfnunnar, sem var sértæk með tilliti til þýðis, var minni en 0,1 kg. Staðalfrávik mismunarins var á bilinu 2,6 til 3,3 kg. Samræmismörk (limits of agreement) BIA aðferðanna voru svipuð og á bilinu 9,9 og 12,9 kg.

Ályktanir: Meðal aldraðra Íslendinga gefa HHBIA og CBIA svipað mat á FLM þegar notaðar eru jöfnur sem sértækar eru með tilliti til mælitækis. CBIA veitir möguleika á því að notaðar séu jöfnur sem sértækar eru með tilliti til þýðis og gefa bestar niðurstöður. Samt sem áður voru samræmismörk víð og svipuð öllum þeim BIA aðferðum sem prófaðar voru. Þetta bendir til þess að BIA-greining sé háð ákveðnum takmörkunum við mat á FLM.

 

E 6 Þunnt skelbein aðgreinir einstaklinga með mjaðmarbrot frá óbrotnum hjá báðum kynjum. Öldrunarrannsókn Hjartaverndar

Fjóla Jóhannesdóttir1, Kenneth E.S. Poole2, Jonathan Reeve2, Kristín Siggeirsdóttir3, Thor Aspelund3,4, Brynjólfur Mogensen5,6, Brynjólfur Y. Jónsson7, Sigurður Sigurðsson3, Tamara B. Harris8, Vilmundur G. Guðnason3,6, Gunnar Sigurðsson3,5,6

1Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild HÍ, 2læknadeild Cambridge háskóla Bretlandi, 3Hjartavernd, 4raunvísindadeild HÍ, 5Landspítala, 6læknadeild HÍ, 7háskólasjúkrahúsinu Malmö, 8Öldrunarstofnun Bandaríkjanna, Bethesda

fjolajo@hi.is

Inngangur: Mikilvægi þykktar skelbeins í lærleggshálsi hefur lítið verið rannsakað með tilliti til áhættu á mjaðmarbrotum. Í þessari framsýnu tilfellaviðmiðuðu rannsókn mátum við þykkt skelbeins á miðjum lærleggshálsi sem áhættuþátt fyrir mjaðmarbroti hjá eldra fólki.

Efniviður og aðferðir: Allir þátttakendur eru hluti af Öldrunarrannsókn Hjartaverndar á aldrinum 67-93 (n=4.831). Á eftirfylgni tíma 4,5 ár, höfðu 143 hlotið mjaðmarbrot. Við mátum þykkt skelbeins í þversniði á miðjum lærleggshálsi út frá sneiðmyndum af mjöðm í líffærafræðilegum fjórðungum í 143 mjaðmarbrotnum og 298 einstaklingum í viðmiðunarhópi (187 kvk, 111 kk) að viðbættri heildarbeinþéttni í lærleggshálsi. Mjaðmarbrotin voru flokkuð í 78 lærleggshálsbrot (47 kvk, 31 kk) og 65 brot á lærhnútu (41 kvk, 24 kk) og var áhættan metin sérstaklega fyrir hvorn flokk.

Niðurstöður: Þykkt skelbeins í efri hluta þversniðs í gegnum miðjan lærleggsháls hafði hærra forspárgildi um mjaðmarbrot en þykktin í neðri hluta þess. Mesti munur á skelbeinsþykkt milli brotinna einstaklinga og óbrotinna var í efri og framanverðum hluta þversniðsins og munurinn var talsvert meiri hjá karlmönnum en konum. Niðurstöðurnar bentu einnig til þess að konur og karlmenn brotni við svipaða skelbeinsþykkt. Þykkt skelbeins metin í efri og framanverðum hluta þversniðs háls var marktækur stiki um hættuna á broti á lærleggshálsi fyrir bæði kynin, eftir leiðréttingu fyrir heildarbeinþéttni í lærleggshálsi. Meðal karlmanna var skelbeinsþykkt einnig marktækur stiki í að spá fyrir um brot á lærhnútu eftir leiðréttingu á heildarbeinþéttni í lærleggshálsi.

Ályktanir: Þunnt skelbein á efra yfirborði miðs lærleggsháls gæti verið ákvarðandi þáttur í minnkandi mótstöðu gegn broti í eldri einstaklingum.

 

E 7 Notkun Basic Erosive Wear Examination kvarðans til að meta sýrueyðingu tanna meðal sjúklinga sem vísað var til sérfræðings

Peter Holbrook, Elísa Kristín Arnarsdóttir, Sverrir Örn Hlöðversson, Sigurður Rúnar Sæmundsson

Tannlæknadeild HÍ

phol@hi.is

Inngangur: Áreiðanlegan kvarða skortir til að meta sýrueyðingu tanna, skrá fjölda þeirra og alvarleika eyðingarinnar. Kvarðinn ætti að nýtast í faraldsfræði- og einstaklingsrannsóknum samanber DMF. Markmiðið er að meta Basic Erosive Wear Examination (BEWE) kvarðann með endurskoðun á gögnum um sjúklinga, sem vísað hafði verið til sérfræðings, og kanna gagnsemi hans með tilliti til áhrifa a) neyslu súrra drykkja og b) bakflæðis á tennur.

Efniviður og aðferðir: Gögn voru fengin frá sérfræðingi um 352 sjúklinga, sem vísað hafði verið til hans, með upplýsingum um stig sýrueyðingar (Lussi 0-3), neyslu súrra drykkja og niðurstöður úr bakflæðisrannsóknum. Gögnin voru endurskoðuð með BEWE kvarðanum. Munninum er þá skipt í sex hluta, sýrueyðing tanna skoðuð í hverjum þeirra og hæsta Lussi gildi skráð. Gildin sex eru loks lögð saman og gefur útkoman BEWE.

Niðurstöður: Af hópnum höfðu 12,2% enga sýrueyðingu (BEWE 0-2), 44,2% lágt BEWE stig (3-8), 32,7% mið BEWE (9-13) og 9,9% hátt BEWE (14-18). Sýrueyðingin var algengari hjá körlum (71%; BEWE meðaltal 8,1) en konum (29%; BEWE meðaltal 6,0) (p<0,001). Af körlum höfðu 12,8% hátt BEWE stig en 2,9% kvenna (p<0,01). Karlar sem neyttu ³0,5L súrra drykkja á dag höfðu BEWE að meðaltali 7,4 en konur 5,0 (p<0,002). Meðaltal þeirra sem sendir voru í bakflæðisrannsóknir var BEWE 9,4 en þeir sem ekki voru rannsakaðir höfðu BEWE 6,0 (p<0,001). Ekki var marktækur munur innan rannsakaða hópsins með tilliti til BEWE hvort sem þeir voru greindir með sjúklegt bakflæði eða ekki.

Ályktanir: BEWE kvarðar sýrueyðingu, leyfir samanburð, er einfaldur í notkun og gagnlegur. Notkun BEWE virðist benda til samspils annarra þátta um hugsanleg áhrif á sýrueyðinguna. Takmarkanir voru bundnar við sýrueyðingu tengda bakflæði. Ekki er hægt að styðjast við óbreyttan kvarðann við meðferð. Betrumbætur með því að tilgreina fjölda sjöttunga með sýrueyðingu myndu auka notagildi kvarðans verulega.

 

E 8 Áhrif tvenns konar skyndibita á efnaskipti eftir máltíð

Fjóla Dröfn Guðmundsdóttir1, Alfons Ramel1, Pálmi V. Jónsson2, Inga Þórsdóttir1

1Rannsóknarstofu í næringarfræði Landspítala og matvæla- og næringarfræðideild HÍ 2Öldrunarsviði Landspítala og læknadeild HÍ

alfonsra@hi.is

Inngangur: Markmið var að rannsaka áhrif af tvenns konar skyndibita á efnaskipti eftir máltíð.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var tilraun sem fór fram á rannsóknastofu í næringarfræði á Landspítala og í HÍ. Tuttugu og fimm þátttakendur mættu tvisvar sinnum á fastandi maga með viku millibili og fengu þá skyndibitamáltíð í bæði skiptin og var röð máltíðanna tilviljunarkennd. Viðmiðunarmáltíð var dæmigert skyndibitafæði (hamborgari með kóki). Tilraunarmáltíðin var laxaborgari með grófu rúgbrauði, salati og appelsínusafa. Orkuinnihald skyndibitamáltíðanna var það sama en fitusýrusamsetning, trefja- og grænmetismagn var mismunandi. Blóðsýni voru tekin fyrir og eftir máltíð og að auki svöruðu þátttakendur stuttum spurningalista um skyndibitaneyslu, hungur, saðningu og seddu.

Niðurstöður: Þátttakendum (27,0±4,8 ára, líkamsþyngdarstuðull =26,6±6,5 kg/m2) fannst laxaborgari jafn góður og hamborgarinn. Þótt orkuinnihaldið væri jafn mikið í báðum máltíðum, voru þátttakendur saddari strax eftir laxamáltíð (P=0,028). Rúmlega helmingur þátttakenda myndi kaupa slíkan laxaborgara í staðinn fyrir hamborgara ef hann væri jafn dýr og venjulegur hamborgari. Blóðsykur 20, 40, 60 og 80 mínútum eftir hamborgaramáltíð var marktækt hærri í samanburði við laxamáltíð og insúlin var líka tvöfalt hærra einum og tveimur klukkutímum eftir hamborgaramáltíð (öll p<0,001). Hækkun blóðfitu eftir máltíð var lítil og svipuð eftir báðar máltíðir. Það urðu engar breytingar á c-reaktífu próteini.

Ályktanir: Rannsóknin sýnir að skyndibitafæði með æskilegri samsetningu og með innihaldsefnum sem dæmigerð eru fyrir Norðurlöndin er vel tekið af einstaklingum sem borða reglulega skyndibitafæði. Niðurstöðurnar benda til þess að slíkt fæði valdi minna álagi á efnaskipti eftir máltíð en dæmigerður hamborgari. Niðurstöðurnar geta verið áhugaverðar fyrir heilbrigðisstarfsfólk og aðrar starfsgreinar.

 

E 9 Uppvöxtur í sveit dregur úr áhættu á myndun sykursýki af tegund 2

Elín Ólafsdóttir1,2, Jóhanna E. Torfadóttir1, Laufey Steingrímsdóttir5, Thor Aspelund2,4, Gunnar Sigurðsson3,6, Bolli Þórsson2, Rafn Benediktsson3,6, Guðný Eiríksdóttir2, Unnur A. Valdimarsdóttir1, Vilmundur Guðnason2,3

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ, 2Hjartavernd, 3læknadeild og 4raunvísindadeild HÍ, 5rannsóknastofu í næringarfræði við matvæla- og næringarfræðideild HÍ og Landspítala, 6Landspítala

elo8@hi.is

Inngangur: Ýmsir hafa kannað tengsl fæðingarþyngdar og næringar á fyrstu æviárum við áhættu á að fá sykursýki af tegund 2 (T2D) síðar á ævinni. Mikill breytileiki var á fæðuvenjum Íslendinga eftir búsetu á fyrri hluta 20. aldar en ekki er vitað hvort búseta á æskuárum tengist áhættunni á að fá T2D síðar á lífsleiðinni.

Efniviður og aðferðir: Gögnin eru úr Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar frá 1967-1987, alls 8610 karlar og 9241 kona, fædd 1907-1935, sem gáfu upplýsingar um búsetu frá fæðingu. Búseta var flokkuð í þrennt: sveit, sjávarþorp og borg. Notuð var tvíkosta aðhvarfsgreining til að greina áhættu á að fá T2D síðar á ævinni eftir búsetu í sveit samanborið við búsetu í Reykjavík frá fæðingu. Leiðrétt var fyrir aldri, slagbils- (systolic) blóðþrýstingi, líkamsþyngdarstuðli og þríglýseríðum í blóði.

Niðurstöður: Meðalaldur við fyrstu komu í Hjartavernd var 52 ár. Algengi T2D í hópi karla, sem búið höfðu að meðaltali 20 ár í sveit en eftir það í Reykjavík, var 3,0% og 2,8% í hópi kvenna. Algengi T2D í hópi þeirra sem búið höfðu í Reykjavík frá fæðingu reyndist 4,9% meðal karla og 3,5% meðal kvenna. Í sjávarþorpum var algengi T2D að meðaltali 4,5% meðal karla og 2,9% meðal kvenna. Við samanburð á áhættu við að fá sykursýki eftir búsetu (sveit/borg) er áhættuhlutfallið 0,56 (95% CI 0,41-0,76) hjá körlum og 0,74 (95% CI 0,54-1,01) hjá konum.

Ályktanir: Áhætta á að fá T2D var umtalsvert lægri í hópi þeirra sem búið höfðu í sveit á æskuárum miðað við búsetu alla ævi í Reykjavík, einkum meðal karla. Munur á lifnaðarháttum bæði hvað varðar mataræði og hreyfingu gæti skýrt þessi verndandi áhrif og er athyglisvert að verndin skuli haldast þrátt fyrir langa búsetu í þéttbýlinu.

 

E 10 Algengi, orsök og meðferð rofs á ristli á Íslandi, 1998-2007

Kristín Jónsdóttir1, Elsa B. Valsdóttir1,2, Shreekrishna Datye3, Fritz H. Berndsen4, Páll Helgi Möller1,2

1Skurðlækningadeild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Sjúkrahúsinu á Akureyri, 4Heilbrigðisstofnun Vesturlands

kristijo@landspitali.is

Inngangur: Rof á ristli er alvarlegur sjúkdómur en samkvæmt erlendum rannsóknum er dánartíðnin há, eða frá 15-30%. Orsakir rofs á ristli eru margar, en helstar eru sarpabólga, krabbamein og utanaðkomandi áverki til dæmis við ristilspeglun. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að meðferð hefur breyst á umræddu tímabili og færri fara nú í aðgerð sem fyrstu meðferð samanborið við áður. Tilgangur þessarar rannsóknar er að skoða algengi, orsakir og afdrif sjúklinga með rof á ristli á tímabilinu 1998-2007.

Efniviður og aðferðir: Gerð var breið leit í gagnagrunnum Landspítala háskólasjúkrahúss, Sjúkrahússins á Akureyri og Heilbrigðisstofnunar Vesturlands eftir líklegum greiningarkóðum (ICD-10). Farið var yfir sjúkrarskrár og gögn um kyn, aldur, orsakir og afdrif einstaklinga með rof safnað.

Niðurstöður: Alls fundust 228 sjúklingar með staðfest rof á ristli, 132 konur og 96 karlar. Miðgildi aldurs var 70 ár (bil 30-95). Algengasta ástæða rofs var sarpabólga (66%), en aðrar ástæður voru áverkar, þar með talið eftir speglanir, (11%), fylgikvillar aðgerða (5%) og aðrir áverkar (3%). Aðrar sjaldgæfari orsakir voru 15%. Í upphafi rannsóknartímabilsins var aðgerð algengasta fyrsta meðferð (67%) en í lok hans var það hlutfall komið niður í 35%. Vægi sýklalyfja og kera jókst á sama tíma.

Ályktanir: Sarpabólga var algengasta ástæða rofs á ristli á rannsóknartímabilinu. Vægi aðgerða sem fyrsta meðferð hefur minnkað á rannsóknartímabilinu og er það í samræmi við þróunina annars staðar.

 

E 11 Vanstarfsemi heiladinguls þremur mánuðum eftir höfuðáverka og innanskúmsblæðingu. Framsýn rannsókn

Ásta Dögg Jónasdóttir1,2, Pétur Sigurjónsson1,2, Ingvar Hákon Ólafsson3, Sigurbergur Kárason4, Guðrún Karlsdóttir5, Guðmundur Sigþórsson6, Rafn Benediktsson7, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir2,7

1Lyflækningasviði Landspítala, 2Háskóla Íslands, 3heila- og taugaskurðlækningadeild, 4gjörgæslu- og svæfingadeild,5endurhæfingardeild, 6klínískri lífefnafræðideild og 7innkirtla- og efnaskiptadeild Landspítala

astadogg@gmail.com

Inngangur: Niðurstöður nýlegra rannsókna benda til að vanstarfsemi heiladinguls (VH) sé algengur fylgikvilli höfuðáverka (HÁ) og innanskúmsblæðinga (IB). Rannsóknir hafa sýnt að vanstarfsemi heiladinguls getur gengið til baka skömmu eftir höfuðáverka og innanskúmsblæðingar eða komið fram síðar. Markmið rannsóknarinnar er að meta algengi og þróun vanstarfsemi heiladinguls eftir höfuðáverka og innanskúmsblæðingar á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Þrjátíu og níu sjúklingum, 18-65 ára, sem komu á Landspítala á eins árs tímabili og voru greindir með miðlungs alvarlega (MAHÁ, GCS 9-12) og alvarlega (AHÁ, GCS <9) höfuðáverka eða innanskúmsblæðingar, var boðin þátttaka í rannsókninni. Sextán sjúklingar voru með alvarlega höfuðáverka og sex með miðlungs alvarlega höfuðáverk, 17 karlmenn og fimm konur, meðalaldur 37±13 ár (spönn 18-65 ára) og 17 með innanskúmsblæðingar, 10 karlmenn og sjö konur, meðalaldur 51±11 ára (spönn 30-66 ára). Fimmtán sjúklingar tóku ekki þátt í frekari eftirfylgni, fjórir létust, einn var erlendur ríkisborgari og 10 afþökkuðu þátttöku. Heiladingulsstarfsemi var metin hjá 24 sjúklingum, 12 með höfuðáverka (8 AHÁ og 4 MAHÁ) og 12 með innanskúmsblæðingar, þremur mánuðum eftir höfuðáverkann/innanskúmsblæðingarnar. Hormónagildi í blóði voru mæld og insúlínþolpróf (IÞP) framkvæmt. Við frábendingu fyrir insúlínþolprófi var framkvæmt GHRH+Arg og Synachten próf.

Niðurstöður: Ein 65 ára kona með alvarlegan höfuðáverka hafði prólaktínofgnótt. Tveir karlmenn, annar 56 ára með innanskúmsblæðingar, hinn 37 ára með alvarlegan höfuðáverka, höfðu vaxtarhormónaskort. Í báðum tilvikum var skorturinn staðfestur með GHRH+Arg prófi. Tvær konur, 41 og 50 ára, höfðu fátíðir í kjölfar innanskúmsblæðinga.

Ályktanir: Vanstarfsemi heiladinguls greindist hjá tveimur af átta (25%) sjúklingum með alvarlegan höfuðáverka og þremur af 12 (25%) sjúklingum með innanskúmsblæðingar, sem er í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna.Rannsóknin undirstrikar mikilvægi þess að skoða starfsemi heiladinguls í kjölfar höfuðáverka og innanskúmsblæðinga. Nánari eftirfylgni getur leitt í ljós hvenær ber að meta sjúklinga eftir alvarlegan höfuðáverka, miðlungs alvarlegan höfuðáverka og innanskúmsblæðingar.

 

E 12 Lifrarskaði af völdum lyfja og náttúruefna. Framsýn rannsókn á Íslandi

Rúnar Bragi Kvaran1, Óttar Bergmann2, Sigurður Ólafsson2, Sif Ormarsdóttir3, Einar Stefán Björnsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2meltingarlækningaeiningu Landspítala, 3Lyfjastofnun

rbk2@hi.is

Inngangur: Lifrarskaði er þekkt aukaverkun ýmissa lyfja og náttúruefna (drug induced liver injury (DILI)). Frönsk rannsókn, sem er eina birta framsýna rannsóknin á nýgengi DILI, sýndi nýgengi 14 á hverja 100.000 íbúa á ári. Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna nýgengi DILI, algengustu orsakir og afla vitneskju um meinmynd og horfur.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er framsýn og tekur til allra tilfella af ófyrirsjáanlegum (idiosyncratic) DILI á Íslandi frá upphafi mars 2010 til loka febrúar 2012. Í byrjun árs 2010 fengu allir læknar á Íslandi bréf um rannsóknina og voru þeir beðnir um að tilkynna öll tilfelli DILI.

Niðurstöður: Niðurstöður sem birtast hér ná yfir fyrstu átta mánuði rannsóknartímabilsins. Tilfellin voru 40 og er nýgengi DILI samkvæmt því 19 tilfelli á hverja 100.000 íbúa á ári. Konur eru í meirihluta (58%) og meðalaldur er 53 ár. Algengustu orsakavaldar voru amoxicillín með klavúlansýru (25%) og náttúruefni (23%); fimm tilfelli tengd notkun á Herbalife® vörum, tvö vegna neyslu efna sem innihalda útdrátt græns tes (Camellia sinensis) og tvö sem innihalda önnur efni. Tvö tilfelli voru orsökuð af díklófenaki, tvö af infliximab og þrjú af fleiri en einu lyfi. Önnur lyf voru amoxicillín, cloxacillín, ísótretínóín, ísóníazíð, trímetóprím/súlfametoxazól, doxýcýklín, interferón b-1a, nítrófúrantóín, atorvastatín, azatíóprín,enoxaparín, fenoxýmetýlpenicillín, gabapentín og fenýtóín.

Ályktanir: Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að nýgengi DILI á Íslandi sé hærra en nýgengi í rannsóknum frá öðrum löndum. Greining skaðans er erfið og því er hann hugsanlega vangreindur. Einnig treystir rannsóknin á tilkynningar lækna og ekki víst að öll tilfelli séu tilkynnt. Læknar eru hvattir til þess að tilkynna öll grunsamleg tilfelli (lifrarskadi@landspitali.is).


E 13 Töf á staðfestingu á láti ástvinar í kjölfar náttúruhamfara og áhrif á heilsufar eftirlifenda til lengri tíma litið

Ragnhildur Guðmundsdóttir1, Christina Hultman2, Arna Hauksdóttir1, Unnur A. Valdimarsdóttir1,3

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ, 2Dept. of Medical Epidemiology and Biostatistics, Karolinska Institutet Stokkhólmi, 3Dept. of Epidemiology, Harvard School of Public Health, Boston

rag16@hi.is

Inngangur: Í kjölfar náttúruhamfara getur tekið tíma að bera kennsl á lík eða að fá læknisfræðilega staðfestingu fyrir því hver hinn látni er. Markmið þessarar faraldsfræðilegu rannsóknar var að rannsaka hvort töf á staðfestingu á láti ástvinar hafi áhrif á heilsu eftirlifenda til lengri tíma litið.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á hópi 10.116 sænskra eftirlifenda tsunami-flóðbylgjunnar 2004 sem komu heim til Svíþjóðar á fyrstu þremur vikunum eftir hamfarirnar. Af þeim svöruðu 4.910 (49%) spurningalista 14 mánuðum síðar. Þátttakendur voru spurðir hvort þeir hefðu misst ástvin í hamförunum og hvenær andlátið var staðfest. Einnig var spurt um geðheilbrigði 14 mánuðum eftir heimkomu (General Health Questionnaire). Lógistísk aðhvarfsgreining var notuð til að reikna líkindahlutfall á geðrænum vanda með aukinni töf á staðfestingu á láti ástvinar. Leiðrétt var fyrir aldri og menntun eftirlifenda.

Niðurstöður: Tvö hundruð fjörutíu og níu einstaklingar sem voru á hamfarasvæði og höfðu misst ástvin svöruðu spurningu um staðfestingu á láti ástvinar. Samanborið við þá sem fengu lát ástvinar staðfest á fyrsta mánuði eftir hamfarirnar voru þeir sem fengu lát ástvinar staðfest síðar en mánuði eftir hamfarirnar í aukinni áhættu á geðrænum vanda 14 mánuðum eftir flóðin (OR 2,1; 95% CI 1,1-3,8). Þegar niðurstöður voru lagskiptar eftir kyni sýndu þær að áhættan var meiri fyrir karla (OR 4,2; 95% CI 1,5-12,1) en konur (OR 1,4; 95% CI 0,6-3,2).

Ályktanir: Fyrstu niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að töf á staðfestingu á láti ástvinar hafi í för með sér aukna áhættu á langtíma heilsufarsafleiðingum, sérstaklega fyrir karla.

 

E 14 Heilsufarslegar afleiðingar snjóflóðanna á Vestfjörðum 1995

Edda Björk Þórðardóttir1,2, Berglind Guðmundsdóttir1,2,3, Unnur Anna Valdimarsdóttir1,4, Ragnhildur Guðmundsdóttir1, Ágúst Oddsson5, Þórunn Finnsdóttir6

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum og 2sálfræðideild HÍ, 3áfallateymi bráðasviðs og geðsviðs Landspítala, 4Dept. of Medical Epidemiology and Biostatistics, Karolinska Institutet Stokkhólmi, 5Heilbrigðisstofnun Vesturlands, 6sjálfstætt starfandi sálfræðingur

eddat@hi.is

Inngangur: Snjóflóðin á Flateyri og í Súðavík árið 1995 tóku líf karla, kvenna og barna og ollu miklu eignatjóni. Fáar rannsóknir hafa kannað tengsl flutnings eftir hamfarir og heilsufar þolenda. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta heilsufar þolenda snjóflóðanna með tilliti til búsetu þremur til 14 mánuðum eftir að snjóflóðin féllu.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru íbúar á aldrinum 16-75 ára sem bjuggu á Flateyri (n=169) og í Súðavík (n=122) þegar flóðin féllu. Í spurningalista voru lýðfræðilegar upplýsingar kannaðar og upplifun svarenda á snjóflóðinu. Tveir spurningalistar voru notaðir til að meta einkenni áfallastreituröskunar (ÁSR); Impact of Event Scale (IES) og Post-traumatic Symptom Scale (PTSS-10). Svarhlutfall var 61% hjá Flateyrarhópnum (n=103) og 60% hjá Súðavíkurhópunum (n=73). Við tölfræðiútreikninga var notuð tvíkosta aðhvarfsgreining. Tölfræðileg marktækni var miðuð við p<0,05.

Niðurstöður: Þremur til fjórum mánuðum eftir snjóflóðið á Flateyri og 12-14 mánuðum eftir snjóflóðið í Súðavík var tíðni einkenna áfallastreituröskunar 28% hjá þolendum snjóflóðsins á Flateyri og 31% hjá þolendum snjóflóðsins í Súðavík (IES >35 stig og PTSS-10 >30 stig). Brottfluttir (n=22) reyndust marktækt líklegri til þess að vera með einkenni áfallastreituröskunar (IES >35 stig og PTSS-10 >30 stig) en þeir sem bjuggu áfram í heimabæ sínum, þegar leiðrétt var fyrir kyni, aldri, menntun, missi, eignatjóni og upplifun einmanaleika og einangrunar.

Ályktanir: Tíðni einkenna áfallastreitu er há hjá þolendum snjóflóðanna í samanburði við aðrar rannsóknir. Vísbendingar eru um að brottfluttir íbúar séu í meiri áhættu að þróa með sér einkenni áfallastreituröskunar en þeir sem bjuggu áfram í heimabæ sínum. Þessar niðurstöður geta haft hagnýtt gildi ef þær verða staðfestar með ítarlegri rannsóknum.

 

E 15 Jarðskjálftinn á Suðurlandi 2008

Karen Ragnarsdóttir1, Berglind Guðmundsdóttir1,2,3, Edda Björk Þórðardóttir2,3, Margrét Blöndal1, Unnur Anna Valdimarsdóttir3,4

1Áfallateymi bráðasviðs og geðsviðs Landspítala, 2sálfræðideild og 3Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ, 4Dept. of Medical Epidemiology and Biostatistics, Karolinska Institutet Stokkhólmi

karenragnarsd@gmail.com

Inngangur: Sálrænar afleiðingar jarðskjálfta geta verið víðtækar. Áfallastreituröskun og þunglyndi eru algengustu geðraskanirnar sem geta þróast í kölfar jarðskjálfta. Hér á landi hafa sálrænar afleiðingar jarðskjálfta lítið verið rannsakaðar. Þessi rannsókn kannaði tíðni áfallastreitu- og þunglyndiseinkenna fyrsta árið eftir Suðurlandsskjálftann 29. maí 2008.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 1.084 einstaklingar (58,4% konur) á aldrinum 18-80 ára sem bjuggu á áhrifasvæði skjálftans og fundu fyrir skjálftanum. Spurningalistar voru lagðir fyrir tveimur, fjórum, átta og 12 mánuðum eftir skjálftann og könnuðu þeir meðal annars lýðfræðilegar upplýsingar, upplifun á skjálftanum, áfallastreitueinkenni og þunglyndi.

Niðurstöður: Helstu niðurstöður sýndu að fleiri konur en karlar upplifðu jarðskjálftann sem áfall. Konur voru líklegri en karlar til að greina frá marktækum áfallastreitueinkennum (7,5% kvenna; 2,8% karla) og miðlungs til alvarlegra þunglyndiseinkenna (8% kvenna; 5% karla) tveimur, fjórum, átta og 12 mánuðum eftir skjálftann. Fjölbreytuaðhvarfsgreining sýndi að áfallastreitu- og þunglyndiseinkenni tveimur mánuðum eftir skjálftann spáðu fyrir um áfallastreitueinkenni ári eftir skjálftann, þegar stjórnað var fyrir kyni, aldri, fyrri áföllum, upplifun á skjálftanum og áfallahjálp.

Ályktanir: Rannsóknin er fyrsta rannsóknin á Íslandi sem kannar þróun sálrænna einkenna eftir jarðskjálfta og veitir innsýn inn í meðferðarþarfir þolenda jarðskjálfta. Niðurstöðurnar veita mikilvægar upplýsingar um þróun einkenna og sýna að stór hópur einstaklinga upplifir langtíma geðræn vandamál þrátt fyrir að engin dauðsföll eða alvarleg meiðsli hafi átt sér stað í jarðskjálftanum. Eins sýna niðurstöður að geðræn einkenni fyrst eftir atburðinn eru áhættuþáttur fyrir áfallastreitueinkenni ári eftir skjálftann.

 

E 16 Áhrif sex vikna hatha jógaiðkunar á sálræn einkenni í kjölfar jarðskjálfta

Kolbrún Þórðardóttir1, Unnur A. Valdimarsdóttir1,2, Ragnhildur Guðmundsdóttir1, Helga Zoëga1, Berglind Guðmundsdóttir1,3,4

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ, 2Dept. of Medical Epidemiology and Biostatistics, Karolinska Institutet Stokkhólmi, 3áfallateymi bráðasviðs og geðsviðs Landspítala, 4sálfræðideild HÍ

kolbrunt@mmedia.is

Inngangur: Rannsóknir benda til þess að jógaiðkun geti dregið úr streitu, kvíða og þunglyndi og margar kannanir sýna að fólk leitar í auknum mæli eftir óhefðbundnum leiðum til að efla heilsu sína. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum jóga á streitueinkenni eftir náttúruhamfarir. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna áhrif reglubundinnar hatha jógaiðkunar á sálræn einkenni í kjölfar jarðskjálfta.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var gerð í febrúar 2009, átta mánuðum eftir stóran jarðskjálfta sem varð á Suðurlandi 29. maí 2008. Um var að ræða jógaíhlutun í tilraunahópi með samanburðarhóp til viðmiðunar. Þátttakendur voru 58 og bjuggu á jarðskjálftasvæðum á Selfossi og í Hveragerði. Þátttakendum var skipt í tvo hópa eftir búsetu, annar hópurinn fékk 60 mínútna jógaþjálfun tvisvar í viku, í sex vikur, meðan hinn hópurinn var á biðlista til samanburðar. Jógaíhlutun fólst í mildum jógaæfingum, öndun, hugleiðslu og slökun. Viðurkenndir spurningalistar voru lagðir fyrir alla þátttakendur við upphaf og lok íhlutunar. Tölfræðiprófið MANOVA var notað til að meta mun á hópunum fyrir og eftir íhlutun.

Niðurstöður: Við upphaf rannsóknarinnar var ekki marktækur munur milli hópanna hvað varðar lýðfræðilega þætti og streitueinkenni. Eftir íhlutun greindi jógahópurinn frá marktækt betri svefni og samskiptum en samanburðarhópurinn. Báðir hópar sýndu minni streitu, kvíða og þunglyndi eftir jógaíhlutun.

Ályktanir: Reglubundin hatha jógaiðkun getur bætt svefn og samskipti. Hatha jóga er auðveld leið til sjálfshjálpar og ákjósanleg viðbótarmeðferð í almennu heilbrigðiskerfi til að bæta heilsu og lífsgæði. Þörf er á stærri langtíma samanburðarrannsóknum á áhrifum hatha jóga á áfallastreitu, kvíða og þunglyndi í kjölfar náttúruhamfara.

 

E 17 Áhrif þungbærrar lífsreynslu á líðan björgunarsveitarmanna á Íslandi

Ásdís Eir Símonardóttir1, Berglind Guðmundsdóttir1,2,3

1Sálfræðideild HÍ, 2áfallateymi bráða- og geðsviðs Landspítala, 3Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ

aes1@hi.is

Inngangur: Þegar náttúruhamfarir, stórslys eða önnur áföll gerast eru það gjarnan björgunarsveitarmenn sem koma fyrstir til hjálpar. Þrátt fyrir mikilvægi vinnunnar eru sálrænar afleiðingar hennar lítið rannsakaðar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni áfalla, sálrænar afleiðingar áfalla og bjargráð meðal björgunarsveitarmanna.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 277 björgunarsveitarmenn (83% karlar) á útkallslista Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Spurningalistar könnuðu lýðfræðilegar upplýsingar, reynslu af björgunarsveitarstörfum, áfallastreitueinkenni, þunglyndi og bjargráð.

Niðurstöður: Helstu niðurstöður voru að 12,3% þátttakenda greindu frá marktækum áfallastreitueinkennum og 8,7% þeirra greindu frá miðlungs til alvarlegra þunglyndiseinkenna. Slys og náttúruhamfarir voru algengustu áföllin sem þátttakendur upplifðu tengt starfi í björgunarsveit en lífshættulegur sjúkdómur, líkamsárás og kynferðislegt ofbeldi voru algengustu áföllin sem voru ótengd starfi í björgunarsveit. Þeir sem upplifðu áföll ótengt starfi í björgunarsveit voru líklegri til að upplifa áfallastreitueinkenni og þunglyndi en þeir sem upplifðu áföll tengt björgunarsveitarstarfinu. Þeir sem greindu frá tilfinningamiðuðum bjargráðum eða forðun til að takast á við áföll upplifðu meiri áfallastreitueinkenni og þunglyndi en þeir sem síður notuðu slík varnarviðbrögð.

Ályktanir: Niðurstöður sýna að tíðni áfalla meðal björgunarsveitarmanna er nokkuð há. Þótt meirihluti björgunarsveitarmanna upplifi ekki langvarandi sálræn vandamál í kjölfar starfsins þá tekst hluti þeirra á við alvarlegar sálrænar afleiðingar. Þessar niðurstöður gefa vísbendingu um að huga þurfi betur að sálrænum þörfum björgunarsveitarmanna og að þeim bjargráðum sem björgunarsveitarmenn nota til að takast á við erfiða lífsreynslu sem starfinu fylgir.

 

E 18 Sjónrýmdarvinnsluminni og stýrifærni hjá geðklofasjúklingum og viðmiðunarhópum með og án eintakabreytileika í erfðamenginu

Sólveig Rósa Davíðsdóttir1, Sunna Arnarsdóttir1, Brynja Björk Magnúsdóttir1, Heimir Snorrason2, Sólveig Hlín Kristjánsdóttir2, Ísafold Helgadóttir1, Magnús Haraldsson1,3, Hannes Pétursson1,3, Engilbert Sigurðsson1,3

1Geðsviði Landspítala, 2Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna, 3læknadeild HÍ

engilbs@landspitali.is

Inngangur: Í erfðamengi flestra, heilbrigðra og sjúkra, er að finna eintakabreytileika, úrfellingar eða margfaldanir samfelldra litningasvæða. Nýverið hefur verið unnt að tengja tiltekna eintakabreytileika við einhverfu. Rannsóknir sýna að sumir eintakabreytileikar auka mjög hættu á geðklofa þótt þeir séu sjaldgæf orsök. Geðklofasjúklingar stríða oft við væga vitræna skerðingu, sér í lagi skerðingu á vinnsluminni og stýrifærni. Lítið er vitað um hvort eintakabreytileiki hjá einstaklingum úr almennu þýði hefur áhrif á vitræna getu.

Efniviður og aðferðir: Í rannsókninni var tengsla leitað á milli eintakabreytileika, tiltekinna mælanlegra svipgerða, geðklofa og þroskahamlana. Þátttakendur voru tæplega 300 og skiptust í þrjá hópa: sjúklingahóp með geðklofagreiningu, viðmiðunarhóp með eintakabreytileika og viðmiðunarhóp án eintakabreytileika. Taugasálfræðipróf voru framkvæmd auk annarra mælinga. Kynntar verða frumniðurstöður úr tveimur slíkum prófum.

Niðurstöður: Frammistaða var marktækt lakari hjá geðklofasjúklingum en viðmiðunarhópunum tveimur í prófum er reyna á sjónrýmdarvinnsluminni og stýrifærni. Frammistaða viðmiðunar-hóps með eintaka- breytileika var jafnframt marktækt verri en sama viðmiðunarhóps án eintakabreytileika á prófi sem mælir sjónrýmdarvinnsluminni. Ekki fannst marktækur munur á stýrifærni á milli viðmiðunarhópanna tveggja.

Ályktanir: Í samræmi við fyrri rannsóknir var frammistaða sjúklinga í báðum prófum slakari en viðmiðunarhópa. Niðurstöður benda til vitrænnar skerðingar á afmörkuðum sviðum hjá einstaklingum í viðmiðunarhópi með eintakabreytileika en án geðrofssjúkdóms.

 

E 19 Fylgni á milli stökkla og DNA metýlunar í erfðamengi kímlínu mannsins

Martin I. Sigurðsson1,2, Albert V. Smith3, Hans T. Björnsson4,5, Jón J. Jónsson1,2

1Lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeildar HÍ, 2erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 3Hjartavernd, 4erfðalæknisfræðideild og 5barnadeild Johns Hopkins háskóla

mis@hi.is

Inngangur: Mögulegt samband milli stökkla og metýlunar kímlínu mannsins er áhugavert því það gæti haft áhrif á starfsemi og tjáningu gena aðlægt stökklum. Að auki hefur verið lagt til að DNA metýlun sé hluti varnakerfis erfðaefnisins gegn skaðlegum áhrifum stökkla.

Efniviður og aðferðir: Við höfum nýlega sýnt fram á að þéttni metýltengdra eins basapara erfðabreytileika (mSNPs) er mælikvarði á DNA metýlun kímlínunnar. Við könnuðum nú fylgni milli þéttleika mSNPs og ER. Einnig notuðum við gögn um metýlun sæðisfrumna, lokaafurðar kímlínunnar í karlmönnum, til að kanna samband DNA metýlunar og ER í hárri upplausn.

Niðurstöður: Eftir að leiðrétt hafði verið fyrir bjagandi breytum fundum við sterka neikvæða fylgni milli hlutfalls Alu undirfjölskyldu stökkla og þéttni mSNPs fyrir 125-1000 kb gluggastærðir. Hins vegar var neikvæð fylgni milli hlutfalls L1 undirfjölskyldunar og mSNPs einungis í stærstu gluggastærðunum. Í hárri upplausn var hlutfall Alu undirfjölskyldunnar hærra aðlægt lágmetýluðum en hámetýluðum svæðum (3-15 kb) en hlutfall L1 fjölskyldunnar var hærra aðlægt hámetýluðum en lágmetýluðum svæðum (3-5 kb).

Ályktanir: Einfaldasta skýringin á niðurstöðum okkar er að tvær stærstu undirfjölskyldur stökkla (Alu og L1) stökkvi frekar inn í lágmetýluð svæði. Þessu fylgir metýlun aðlægt L1 eða val gegn innsetningu L1 í lágmetýluð svæði. DNA metýlun er ólíklega varnarkerfi erfðaefnisins gegn skaðlegum áhrifum stökkla.

 

E 20 Leitin að erfðavísi glólita í íslenska hestinum

Sigríður Klara Böðvarsdóttir

Rannsóknastofu í krabbameinsfræðum læknadeild HÍ

skb@hi.is

Inngangur: Glólitur er sérstæður rauðbrúnleitur litur í hrossum sem gengur undir ýmsum nöfnum, meðal annars muskótt, glóbrúnt, glóbjart og glómoldótt. Hlutfall glóbrúnna hrossa í íslenska hrossastofninum er hverfandi lágt, eða langt innan við hálft prósent. Erfðir á glólit fylgja leirljósa erfðavísinum, en aðeins hluti brúnna hrossa sem ber erfðavísinn er glóbrúnn. Því er ljóst að um sjálfstæðan erfðavísi er að ræða sem þarf að fara saman með leirlita erfðavísinum til að glólitur komi fram.

Efniviður og aðferðir: Til að leita uppi mögulegar basabreytingar (single nucleotide polymorphism; SNP) í erfðamengi hestsins sem hefur áhrif á myndun glólita voru genin TYRP1og OCA2 valin til raðgreiningar. Breytingar í báðum þessum genum eru þekktar fyrir að valda deyfingu á hár-, húð- og augnlit í spendýrum en hefur þó ekki verið lýst í hrossum. Erfðaefni úr tveimur glóbrúnum hestum var notað í greiningarnar. Basabreytingar sem fundust voru skoðaðar nánar í 21 hrossi, en þar til viðbótar voru fjögur glóbrún hross.

Niðurstöður: Engar basabreytingar fundust í sex af átta útröðum sem raðgreindar voru í TYRP1geninu. Hins vegar fundust fjórar basabeytingar í 10 af 21 útröð sem raðgreindar voru í OCA2 geninu. Þrjár af þessum basabreytingum valda amínósýruskiptum og voru því skoðaðar nánar. Tvær þessara basabreytinga voru til staðar í öllum sex glóbrúnu hrossunum, ýmist í arfhreinu eða arfblendnu ástandi.

Ályktanir: Margt bendir til þess að glólitur í íslenskum hrossum ráðist af tveimur basabreytingum í OCA2 geninu. Hvort báðar basabreytingarnar þurfi að fara saman eða hvort önnur þeirra sé nægjanleg er enn óljóst. Til þess að hægt sé að skera úr um það þarf að greina stærri hóp glólitra hrossa, ásamt því að greina brún hross sem bera með sér leirljóst.

 

E 21 Erfðir og sýnd í lófakreppusjúkdómi

Reynir Arngrímsson1, Kristján G. Guðmundsson2, Sandip Hindocha3, Ardeshir Bayat3, Þorbjörn Jónsson4

1Lífefna- og sameindalíffræðisviði læknadeildar HÍ og erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 2Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Glæsibæ, 3Plastic and Reconstructive Surgery Research, University of Manchester, 4Blóðbankanum

reynirar@hi.is

Inngangur: Orsakir lófakreppusjúkdóms (Dupuytren's disease) eru óþekktar. Sjúkdóminn er hægt að stiga eftir alvarleika; hnútar, strengir í lófum og krepptir fingur. Markmið rannsóknarinnar var að skoða fjölskyldulægni, kanna tíðni lófakreppu á meðal ættingja þeirra sem hafa greinst með sjúkdóminn og leggja mat á sýnd hans.

Efniviður og aðferðir: Algengi jákvæðrar fjölskyldusögu var metin í tveimur rannsóknum. Í íslensku lófakreppurannsókninni, sem er angi af upphaflegri hóprannsókn Hjartaverndar (n=122 með sjúkdóminn og n=122 í pöruðum samanburðarhópi) og breskum rannsóknarhópi sem hafði undirgengist skurðaðgerð vegna sjúkdómsins í Manchester (n=135). Erfðamynstur var skoðað þegar um jákvæða fjölskyldusögu var að ræða. PAR (population attributable risk), sem er mælikvarði á erfanleika og sýnd, var metin.

Niðurstöður: Á Íslandi var þátttaka 79% (193/244). Í 28% tilfella (n=39/137) var fjölskyldusaga jákvæð en aðeins hjá 7% í samanburðarhópi (n=4/56) (OR= 5,1; 95% CI=1,7-15,3). Líkur á jákvæðri fjölskyldusögu tengdust alvarleika sjúkdómsins. Af þeim sem höfðu verið skornir voru 46% með jákvæða fjölskyldusögu (OR=11,3; 95% CI=3,1-39,7). Í bresku rannsókninni reyndust 44% vera með jákvæða fjölskyldusögu (n=60). Í bresku rannsókninni mátti greina A-litnings ríkjandi erfðamynstur í 38 fjölskyldum (63%). PAR reyndist vera 22% og sýnd var 34%.

Ályktanir: Lófakreppusjúkdómur sýnir fjölskyldulægni bæði á Íslandi og í Bretlandi. Sjúkdómurinn virðist alvarlegri hjá þeim sem hafa jákvæða fjölskyldusögu. Niðurstöðurnar benda til fjölþátta erfða, en þegar um jákvæða fjölskyldusögu er að ræða líkir erfðamynstrið eftir A-litnings ríkjandi erfðum með lágri sýnd.

 

E 22 Ættgeng einstofna mótefnahækkun. Tengsl við afbrigði í hegðun B-eitilfrumna

Hlíf Steingrímsdóttir1,2, Sóley Valgeirsdóttir1, Hekla Sigmundsdóttir3, Vilhelmína Haraldsdóttir2, Helga M. Ögmundsdóttir1

1Læknadeild HÍ, 2blóðlækninga-, 3blóðmeinafræðideild Landspítala

helgaogm@hi.is

Inngangur: Viðvarandi fjölgun B-eitilfrumna af einum stofni birtist sem mælanleg einsleit aukning á einstofna mótefni í blóði. Slík mótefnahækkun getur greinst án sjúkdómseinkenna og nefnist þá „Monoclonal gammopathy of unknown significance“ (MGUS). Fyrirbærið er mjög sjaldgæft fyrir fimmtugt, algengi þess þá er 1%, en eykst með aldri (3% um sjötugt) og má því túlka sem afleiðingu öldrunar í ónæmiskerfinu. MGUS af IgG eða IgA mótefnagerð getur umbreyst í mergæxli (MM), tíðni um það bil 1% á ári. MGUS af IgM getur þróast í Waldenströms makóglóbúlínemíu (WM), 1,5% á ári. Tilhneiging til þessara sjúkdóma getur verið ættgeng og er lýst um það bil 130 fjölskyldum í heiminum, þar sem fara saman MGUS af IgG/IgA gerð og MM eða IgM og WM. Arfgengum sjúkdómum getur fylgt innri svipgerð sem er algengari í fjölskyldunum en sjúkdómurinn sjálfur.

Efniviður og aðferðir: Kannaðar voru nánar átta íslenskar fjölskyldur með einstofna mótefnahækkun, sem áður voru þekktar, með nákvæmri ættrakningu, samanburði við Krabbameinsskrá og skimun fyrir einstofna mótefnum. Valdir hópar voru prófaðir fyrir ofursvörun B-eitilfrumna við örvun með „poke weed“ mítógeni.

Niðurstöður: Í fimm af fjölskyldunum átta er að finna bæði IgG/IgA og IgM mein. Í fjórum af þeim greindust ofursvarar. Í einni fjölskyldu hefur ofursvarasvipgerðin verið staðfest í mörgum fjölskyldumeðlimum með endurteknum prófunum.

Ályktanir: Fimm af átta íslenskum fjölskyldum með ættlæga einstofna mótefnahækkun eru markverðar fyrir það að þar fara saman mein af IgG/IgA og IgM gerð. Ofursvörun B-eitilfrumna uppfyllir skilyrði þess að vera innri svipgerð og gæti nýst til erfðarannsókna.

 

E 23 Hindrun virion infectivity factor á APOBEC3 próteinum

Harpa Lind Björnsdóttir, Francisco Jose Zapatero Belinchon, Stefán Ragnar Jónsson, Valgerður Andrésdóttir

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

hlb2@hi.is

Inngangur: Lentiveirur eru flokkur retróveira sem valda hæggengum sýkingum í hýslum sínum. HIV-1 og 2, feline immunodeficiency virus (FIV) og mæði-visnuveira (MVV) eru dæmi um lentiveirur. Lentiveirur hafa allar genin gag, pol og env, en að auki geta veirunnar haft ýmis önnur gen, líkt og virion infectivity factor (vif), en hlutverk þess er að óvirkja APOBEC3 (A3) prótein hýsilfrumna. A3 prótein eru cýtósín afamínasar sem valda hárri tíðni G/A stökkbreytinga í DNA veiranna. Vif binst A3 próteinum og sendir þau til niðurbrots í próteasómi.

Cul5 og Cul2 eru hluti af E3 ubiquitin lígasaflóka sem leiðir til niðurbrots á A3. HIV-1 Vif bindur Cul5, en MVV Vif bindur Cul2. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort amínósýruröð í Vif sem líkist markröð Cul2 sé notuð við niðurbrot A3.

Efniviður og aðferðir: Stökkbreytingar voru gerðar á Cul2 seti kódonoptimiseraðs MVV Vif. Stökkbreytt Vif var notað í HIV-green fluorescent protein (GFP) infectivity assay auk kindaA3. Sýkingahæfni veira var könnuð með fluorescence activated cell sorting (FACS). Heildarfrumulýsat af transfectuðum frumum var notað í Western blot (WB).

Niðurstöður: Sé Vif til staðar eru veirur betur hæfar til að sýkja frumur, hvort sem A3 er til staðar eða ekki. Sé Vif stökkbreytt sýkja veirur frumur betur en án Vifs en verr en með óstökkbreyttu Vif. Í WB sést að A3 tapast að mestu leyti hvort sem óstökkbreytt eða stökkbreytt Vif er til staðar.

Ályktanir: Stökkbreyting á Cul2 seti dregur úr virkni MVV Vif til að auka sýkimátt veira en eyðileggur hann þó ekki. Stökkbreytingin kemur ekki í veg fyrir niðurbrot á A3 sem bendir til að Cul2 binding við Vif sé ekki nauðsynleg fyrir ubiquitineringu á A3.

 

E 24 Næmni BRCA2 stökkbreyttra frumulína fyrir Aurora kínasa hindra

Linda Viðarsdóttir, Guðríður Steingrímsdóttir, Sigríður K. Böðvarsdóttir, Helga M. Ögmundsdóttir, Jórunn E. Eyfjörð

Rannsóknastofu í krabbameinsfræðum, Lífvísindasetri læknadeildar HÍ

lindav@hi.is

Inngangur: Aurora kínasar eru mikilvægir þátttakendur í mítósu. Yfirtjáning og/eða mögnun á Aurora-A og -B kínösum finnast gjarnan í hinum ýmsum æxlum. Sýnt hefur verið fram á að BRCA2stökkbreytt brjóstaæxli eru líklegri til að vera með Aurora-A mögnun en önnur brjóstaæxli. Lyfjasprotar sem hindra virkni Aurora kínasa hafa verið þróaðir og eru nú þegar komnir í klínískar prófanir. Mikilvægt er að finna lífmerki sem spá fyrir um næmni Aurora hindra.

Efniviður og aðferðir: Í þessari rannsókn var hindrinn ZM447439 prófaður á 15 þekjuvefsfrumulínur. Frumulínurnar voru ólíkar með tillit til p53og BRCA2 stökkbreytinga. Crystal violet litanir voru gerðar á öllum frumulínum til að meta IC50 gildi. mRNA magn Aurora-A og B var mælt með Real-Time PCR. Propidium iodide og Annexin-V litun var gerð á frumlínum fyrir og eftir meðhöndlun til að meta frumudauða og litun.

Niðurstöður: IC50 gildi ZM447439 í frumulínunum var á bilinu 1,9-8,1 µM. Fylgni var á milli Aurora-A og Aurora–B tjáningar en ekki var hægt að spá fyrir um næmni hindrans eingömgu út frá Aurora tjáningu. Frumulínur sem voru með háa Aurora-A og -B tjáningu, BRCA2 stökkbreytingu og galla í p53voru næmari en aðrar frumulínur fyrir Aurora hindranum. Frumur sem voru meðhöndlaðar með hindranum fóru í gegnum mítósu en luku ekki frymisskiptingu sem olli því að frumur urðu fjöllitna og fjölkjarna. Ekki var hægt að sýna fram á að gallar í p53 útskýra þennan mun.

Ályktanir: BRCA2stökkbreyttar brjóstafrumulínur sýndu mismikla næmni fyrir Aurora hindranum. Því er ekki hægt að spá fyrir um næmni ZM447439 aðeins út frá Aurora magni. En BRCA2 stökkbreytt æxli með háa Aurora tjáningu og óvirkt p53 sýndu mesta næmni fyrir hindranum og því gætu Aurora hindrar hugsanlega gagnast sjúklingum með slík æxli.

 

E 25 Er munur á stökkhæð, átakshorni í hné og vöðvavinnu við uppstökk og lendingar meðal 15-18 ára stúlkna og drengja?

Helena Magnúsdóttir1,2, Þórarinn Sveinsson1, Árni Árnason1

1Rannsóknastofu í hreyfivísindum, námsbraut í sjúkraþjálfun og læknadeild HÍ, 2Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki

helenama@simnet.is

Inngangur: Slit á fremra krossbandi er tvisvar til sjö sinnum algengara meðal kvenna en karla eftir kynþroska. Mesta hættan er í íþróttum sem innihalda hopp, stefnubreytingar og snúninga. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða mögulegan kynjamun hjá 15-18 ára stelpum og strákum í hámarksstökkhæð, stökk- og lendingartækni ásamt vöðvavirkni í fallhoppi.

Efniviður og aðferðir: Unglingum sem sótt höfðu æfingar unglingalandsliða í knattspyrnu (U16-U19) veturinn 2008-2009 og spiluðu með þeim þremur knattspyrnuliðum sem áttu flesta þátttakendur í unglingalandsliðum var boðin þátttaka í rannsókninni. Úrtakið var 20 strákar og 17 stelpur, 15-18 ára. Tíu strákar og 10 stelpur samþykktu þátttöku. Mælingar: 1. hámarkshopphæð, 2. stærð átakshorns í hné (valgus) í fallhoppi, 3. upphafstími vöðvarafrits (EMG) í fimm vöðvum í sitt hvoru læri í fallhoppi.

Niðurstöður: Strákar hoppa marktækt hærra en stelpur í hámarkshoppinu, (30,3±2,6 cm á móti 22,6±3,8 cm, p<0,001). Í fallhoppinu voru stelpur með meiri valgus stöðu í hnénu í þremur af fimm mælipunktum: þegar tá snerti gólf (11,1±4,2° á móti 14,7±4,0°, p=0,04), 25% frá neðsta punkti á leiðinni niður (10,6±9,0° á móti 16,5±6,4°, p=0,14) og tá af í uppstökkinu (12,5±4,4 á móti 17,2±4,2°, p=0,01). Enginn marktækur munur sást í punktunum: neðsta staða og 25% frá neðsta punktinum í uppstökki. Enginn kynjamunur sást á upphafstíma EMG mælingar í fallhoppinu fyrir utan lærtvíhöfða í hægra læri þar sem stelpurnar virkjuðu vöðvann marktækt fyrr fyrir lendingu (-0,31±0,39 á móti -0,12±0,13, p<0,001).

Ályktanir: Strákar stökkva hærra en stelpur. Stelpur fara með hnéin í meiri valgus í þremur punktum í fallhoppinu: tá í, 25% frá neðstu stöðu við lendingu og tá af. Enginn kynjamunur sást á upphafstímanum á virkjun vöðvanna í fallhoppinu nema einum vöðva hægra læris.

 

E 26 Áhrif sérhæfðra æfinga á hreyfimynstur handknattleikskvenna

Einar Óli Þorvarðarson1, Haukur Már Sveinsson1,3, Sigurður Sölvi Svavarsson2, Kristín Briem3

1Atlas sjúkraþjálfun, 2Bata sjúkraþjálfun, 3Háskóla Íslands

kbriem@hi.is

Inngangur: Slit á fremra krossbandi hnés er fjórum til sex sinnum algengara hjá konum í handbolta en körlum. Algengt er að íþróttamenn slíti krossbönd í gabbhreyfingum og við lendingar eftir stökk og hefur áverkinn verið tengdur óæskilegri stöðu í hné (valgus). Talið er að sértæk þjálfun geti haft áhrif á hreyfimynstur og því var tilgangur rannsóknarinnar að athuga áhrif sérhæfðra æfinga á valgusstöðu hnés við gabbhreyfingar og stökk og á styrk lykilvöðva.

Efniviður og aðferðir: Tuttugu og níu konur úr fjórum handboltaliðum á Íslandi voru prófaðar fyrir og eftir íhlutun. Þær framkvæmdu gabbhreyfingar, uppstökk af báðum fótum eftir lendingu og lendingu á öðrum fæti fyrir framan háhraðamyndavél, einnig var styrkur lykilvöðva mældur. Myndböndin voru greind í forriti (Kine ehf.) þar sem mæld var staða fótleggja. Leikmenn tveggja liða (rannsóknarhópur) gerðu sértækar æfingar sem hluta af upphitun í átta vikur á meðan hin tvö liðin höguðu æfingum eins og venjulega (viðmiðunarhópur). Upphafs- og lokamælingar hvors fótleggs voru bornar saman milli hópa með ANOVA fyrir endurteknar mælingar.

Niðurstöður: Rannsóknarhópur bætti sig umfram viðmiðunarhóp hvað varðar valgusstöðu í hné við uppstökk af báðum fótum og í lendingu á öðrum fæti. Almennt minnkaði valgusstaða hnjáa í gabbhreyfingum og styrkur hliðarbeygju og útsnúnings í mjaðmalið jókst hjá báðum hópum á rannsóknartímanum.

Ályktanir: Sérhæfðar upphitunaræfingar hafa áhrif á hreyfingar handboltakvenna eftir átta vikna íhlutun þrátt fyrir að styrktaraukning hafi ekki verið marktækt meiri hjá rannsóknarhópi en almennt varð á tímabilinu hjá viðmiðunarhópi. Styrktaræfingar fyrir vöðva sem hafa áhrif á stjórn lærleggs má nota í þjálfun til þess að hafa áhrif á hreyfimynstur íþróttakvenna.

 

E 27 Meiðsli í handknattleik karla á Íslandi

Elís Þór Rafnsson, Árni Árnason

1Rannsóknarstofu í hreyfivísindum, námsbraut í sjúkraþjálfun HÍ

elis@sjukratjalfun.is

Inngangur: Þrátt fyrir ríka hefð fyrir handknattleik hér á landi og mikinn almennan áhuga, þá hafa engar rannsóknir verið birtar á tíðni og eðli meiðsla í handknattleik á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja tíðni og alvarleika meiðsla í handknattleik karla á Íslandi, sem og þær leikaðstæður þegar meiðsli eiga sér stað. Rannsóknin var framskyggn. Í upphafi var 14 liðum úr tveimur efstu deildum karla boðin þátttaka í rannsókninni. Þrettán lið samþykktu þátttöku, en sex lið skiluðu öllum gögnum, samtals 109 leikmenn og voru þau gögn notuð í úrvinnslu og niðurstöður. Notuð voru stöðluð skráningarblöð til að skrá meiðsli sem upp komu. Leikmenn sem meiddust skráðu meiðslin með hjálp sjúkraþjálfara, þjálfara og forráðamanna liðanna. Þjálfarar skráðu þátttöku leikmanna í æfingum og leikjum.

Niðurstöður: Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að alls voru skráð 86 meiðsli, 53 (61,6%) vegna slysa og 33 (38,4%) vegna álags. Tíðni meiðsla var 15,0 meiðsli á hverjar 1.000 klst. í keppni og 2,2 meiðsli á hverjar 1.000 klst. á æfingum. Hæst var hlutfall meiðsla í hnjám eða 24,4% af heildarfjölda meiðsla, þá á mjóbaki/spjaldhrygg/mjaðmagrind eða 17,2% og því næst ökklum og á fótum/tám 11,6% hvort. Hlutfall bráðra meiðsla var hæst í hnjám (26,4%) og hæst var hlutfall álagsmeiðsla á mjóbaki/spjaldhrygg/mjaðmagrind (33,3%). Algengustu áverkarnir urðu á liðböndum og sinum. Útileikmenn urðu hlutfallslega fyrir flestum meiðslum, en markverðir fæstum.

Ályktanir: Meiðslatíðni í handknattleik karla á Íslandi er svipuð og í sambærilegum eldri rannsóknum. Hins vegar vekur há tíðni áverka á mjóbaki/spjaldhrygg/mjaðmasvæði upp spurningar um þjálfunaraðferðir og undirbúning hjá íslenskum handknattleiksmönnum.

 

E 28 Áhrif þreytu á rafvirkni vöðva og hreyfiferla neðri útlima í hlaupi hjá ungum karlmönnum

Þórarinn Sveinsson, Aðalbjörg Sigurðardóttir

Rannsóknastofu í hreyfivísindum, Lífeðlisfræðistofnun HÍ

thorasve@hi.is

Inngangur: Líkamleg hreyfing er flókið samspil tauga og vöðva sem sjá til þess að hreyfing sé framkvæmd á sem hagkvæmastan hátt. Þegar aðstæður breytast þarf að aðlagast þeim og finna nýja leið til þess að framkvæma hreyfinguna á sem bestan hátt. Einn af þeim þáttum sam þarf að bregðast við í langvarandi orkufrekum hreyfingum eins og hlaupi er þreyta. Markmið rannsóknarinnar er að auka skilning á hreyfistjórn með því að athuga áhrif þreytu á vöðvavirkni og hreyfiferla í neðri útlimum í hlaupi.

Efniviður og aðferðir: Auglýst var eftir heilbrigðum sjálfboðaliðum til að taka þátt í rannsókninni. Þátttakendur mættu tvisvar í mælingu. Í fyrri mælingunni voru loftfirrðarmörk þeirra mæld. Í seinni mælingunni hlupu þeir á jöfnum hraða sem er um 0,4 m/s yfir loftfirrðarmörkunum. Þátttakendurnir hlupu þangað til þeir mátu álagið yfir 19 á Borg mælikvarða. Áður en hlaup hófst var skráningarskautum fyrir þráðlaust vöðvarafrit (KinePro) komið fyrir á yfirborði húðar yfir helstu vöðvum fótleggja. Tekin var mynd með háhraða myndavél í upphafi hlaups og síðan með reglulegu millibili.

Niðurstöður: Þátttakendur voru sjö karlmenn og var meðalaldur þeirra 25,8 ár (SF=3,6). Mælivillur fyrir hornamælingar voru 1-3° og innanþáttafylgnistuðlar (ICC) voru 0,95-0,99. Talsverður einstaklingsmunur var á þeim breytingum sem mældust með aukinni þreytu. Algengast var að horn mjaðma minnkaði með þreytu og beygja hnés minnkaði í fyrri hluta stöðufasa. Tíðnigreining á vöðvarafrit gaf líka til kynna að mismunandi var hvaða vöðvar einstaklinganna þreyttust mest.

Ályktanir: Vöðvaþreyta og áhrif hennar á hlaupahreyfingar er einstaklingsbundin en rannsóknir á henni getur gefið mikilvægar upplýsingar um hreyfistjórn og hvernig hún bregst við aukinni vöðvaþreytu. Áreiðanleiki mælinganna reyndist góður.

 

E 29 Áhrif ökklateipinga á vöðvavirkni við innsnúningsálag

Hrefna Eyþórsdóttir1, Ragnheiður Guðrún Magnúsdóttir2, Rúnar Pálmarsson2, Tinna Rúnarsdóttir2, Kristín Briem3

1Landspítala, 2Sjúkraþjálfun Íslands, 3Háskóla Íslands

kbriem@hi.is

Inngangur: Ökklatognanir eru algengar í íþróttum og er hlutverk langa dálklæga vöðva að auka starfrænan stöðugleika með því að takmarka innsnúning ökklaliðar. Fyrirbyggjandi teipingar með hvítu óteygjanlegu íþróttateipi (WT) hafa verið notaðar til að varna innsnúningi í ökkla, en kíesíóteip (KT) er teygjanlegt teip sem lítið hefur verið rannsakað. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna áhrif þessara teiptegunda á virkni langa dálklæga vöðva við innsnúningsálag hjá íþróttamönnum með starfrænt stöðuga og óstöðuga ökkla.

Efniviður og aðferðir: Fimmtíu og einn íþróttamaður gekkst undir stöðugleikapróf fyrir báða ökkla og út frá niðurstöðunum voru þeir með 15 stöðugustu og 15 óstöðugustu ökklana valdir til nánari mælinga. Yfirborðsvöðvarafrit var tekið af langa dálklæga vöðva við 15° innsnúningsálag á jafnvægisbretti. Hver leikmaður var mældur þrisvar sinnum; með hvítu óteygjanlegu íþróttateipi, kíesíóteipi og án teips (NT). Vöðvavirkni hvers ástands var metin með ANOVA fyrir endurteknar mælingar yfir fjóra 500 ms glugga eftir áreitið og milli stöðugra og óstöðugra þátttakenda.

Niðurstöður: Marktækt meiri meðaltalsvirkni langa dálklæga vöðva fannst þegar ökkli var teipaður með hvítu óteygjanlegu íþróttateipi samanborið við að vera án teips. Hvorki mældust marktæk áhrif kíesíóteips á meðaltals- né hámarksvöðvavirkni. Leikmenn með starfrænt óstöðugan ökkla höfðu marktækt meiri meðaltals- og hámarksvöðvavirkni en leikmenn með stöðugan ökkla eftir innsnúningsálag. Hvorki stöðugleiki né ástand hafði marktæk áhrif á lengd tíma frá áreiti að hámarksvöðvavirkni langa dálklæga vöðva.

Ályktanir: Hvítt óteygjanlegt íþróttateip getur aukið stöðugleika um ökkla. Hlutverk kíesíóteips sem forvörn gegn ökklatognunum er vafasamt, þar sem það virðist hvorki hafa áhrif til aukinnar vöðvavirkni langa dálklæga vöðva né heldur geta veitt stuðning við ökklaliðinn.

 

E 30 Hlutabrottnám á nýra vegna nýrnafrumukrabbameins á Íslandi

Elín Maríusdóttir5, Sverrir Harðarson2,5, Vigdís Pétursdóttir2, Eiríkur Jónsson1, Valur Þór Marteinsson4, Guðmundur V. Einarsson1, Tómas Guðbjartsson3,5

1Þvagfæraskurðdeild, 2rannsóknastofu í meinafræði, 3skurðsviði Landspítala, 4Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, 5læknadeild HÍ

emariusdottir@gmail.com

Inngangur: Hlutabrottnám hefur löngum verið beitt við nýrnafrumukrabbamein í stöku nýra eða þegar nýrnastarfsemi er skert. Í vaxandi mæli hefur aðgerðin verið framkvæmd hjá sjúklingum með lítil æxli og hafa rannsóknir sýnt að sjúklingum farnast betur en eftir hefðbundið brottnám á öllu nýranu. Tilgangur þessarar afturskyggnu rannsóknar var að kanna ábendingar og árangur hlutabrottnáms hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin tekur til sjúklinga sem gengust undir hlutabrottnám vegna nýrnafrumukrabbameins 1991-2005 á Íslandi. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og voru tilfellin stiguð með TNM-kerfi, skráðir fylgikvillar og reiknaðar sjúkdómasértækar lífshorfur (Kaplan-Meier). Miðgildi eftirfylgdar var 94 mánuðir.

Niðurstöður: Alls voru gerð 25 hlutabrottnám (aldur 60 ár, bil 33-80 ár, 20 karlar), eða 6% af 421 brottnámsaðgerðum við nýrnafrumukrabbameini á tímabilinu. Í 18 (72%) tilfellum greindust sjúklinga fyrir tilviljun. Algengasta ábending fyrir aðgerð var lítið æxli (<4 cm) hjá 40% sjúklinga, 28% höfðu þekkta nýrnabilun og 24% stakt nýra. Meðalstærð æxlanna var 3,6 cm og 84% sjúklinga voru á stigi I eða II. Meðalblæðing í aðgerð var 926 ml (bil 0,1-5,4 L), en sex sjúklingar þurftu blóðgjöf vegna blæðingar í aðgerð. Allir lifðu aðgerðina en fjórir (16%) fengu fylgikvilla eftir aðgerð; blæðingu, þvagleka, ígerð í nýra, garnastíflu eða lungnabólgu. Tveir sjúklingar (8%) fengu staðbunda endurkomu og fóru í brottnám á nýra. Eins og fimm ára lífshorfur voru 100% og 91%.

Ályktanir: Hlutfall sjúklinga sem gengust undir hlutabrottnám (6%) er heldur lægra en erlendis en fer vaxandi. Árangur þessara aðgerða er góður hér á landi, lífshorfur ágætar og staðbundin endurkoma krabbameins fátíð. Hafa verður þó í huga að flestir sjúklinganna höfðu lítil æxli á lágum stigum og var því um valinn sjúklingahóp að ræða.

 

E 31 Bráður nýrnaskaði eftir kransæðahjáveituaðgerðir á Íslandi

Sólveig Helgadóttir1,4, Ólafur S. Indriðason2, Gísli Sigurðsson3,4, Martin I. Sigurðsson4, Hannes Sigurjónsson4, Tómas Guðbjartsson1,4

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2nýrnadeild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

soh2@hi.is

Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er alvarlegur fylgikvilli hjarta-aðgerða og áhættuþáttur fyrir lakari útkomu. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna í fyrsta sinn tíðni bráðs nýrnaskaða í kjölfar hjartaaðgerða á Landspítala, með hliðsjón af hinum alþjóðlega viðurkenndu RIFLE skilmerkjum.

Efniviður og aðferðir: Aftursæ rannsókn er náði til sjúklinga sem gengust undir kransæðaaðgerð á Landspítala 2002-2006. Farið var yfir sjúkra- og svæfingarskrár og fjölbreytugreining nýtt til úrvinnslu gagna.

Niðurstöður: Af 720 sjúklingum greindust 112 (15,5%) með bráðan nýrnaskaða; 70 féllu í RISK flokk, 22 í INJURY og 16 í FAILURE flokk. Af þeim fengu 14 (12,5%) skilunarmeðferð í framhaldinu. Sjúklingar með bráðan nýrnaskaða voru 3,9 árum eldri, með lægri gaukulsíunarhraða (71 á móti 78 mL/mín/1,73m2, p<0,001) og útstreymisbrot (EF) (49 á móti 53%, p=0,02) en hærra EuroSCORE (7,1 á móti 4,4, p<0,001), auk þess sem fleiri féllu í NYHA flokk III-IV fyrir aðgerð. Háþrýstingur var algengari í hópnum með bráðan nýrnaskaða (71% á móti 60%, p<0,001) en ekki reyndist marktækur munur á öðrum þekktum áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma, umfangi kransæðasjúkdóms eða hlutfalli aðgerða á sláandi hjarta. Í hópnum með bráðan nýrnaskaða voru fleiri bráðaaðgerðir (13% á móti 2%, p<0,001) og tími á hjarta- og lungnavél var lengri (100 á móti 83 mín, p<0,001). Sjúklingar með bráðan nýrnaskaða lágu átta dögum lengur á sjúkrahúsi og höfðu sexfalt hærri dánartíðni <30 daga (11,1% á móti 1,8%, p<0,001). Í fjölþáttagreiningu reyndust bráðaaðgerð (OR 5,97), háþrýstingur (OR 1,78) og hátt EuroSCORE (OR 1,16) sjálfstæðir áhættuþættir fyrir bráðum nýrnaskaða.

Ályktanir: Samkvæmt RIFLE skilmerkjum hlutu tæplega 16% sjúklinga bráðan nýrnaskaða eftir kransæðaaðgerð á Landspítala. Reyndist sjúkrahúslega þeirra lengri og dánartíðni umtalsvert hærri sem er sambærilegt við niðurstöður erlendra rannsókna. Sjúklingar sem fara í bráðaaðgerð, hafa sögu um háþrýsting eða hátt EuroSCORE eru í sérstakri áhættu að fá bráðan nýrnaskaða.


E 32 Stærð nýrnafrumukrabbameina, líkur á meinvörpum og lífshorfur

Jóhann P. Ingimarsson1, Sverrir Harðarson2,4, Vigdís Pétursdóttir2, Eiríkur Jónsson1, Guðmundur V. Einarsson1, Tómas Guðbjartsson3

1Þvagfæraskurðdeild, 2rannsóknastofu í meinafræði, 3skurðsviði Landspítala, 4læknadeild HÍ

tomasgud@landspitali.is

Inngangur: Sífellt fleiri nýrnafrumukrabbamein greinast fyrir tilviljun og mörg þeirra eru smá (<4 cm). Oftast er mælt með brottnámi þessara æxla. Sumir hafa þó hallast að virku eftirliti (active surveillance), einkum hjá eldri sjúklingum og þeim sem síður eru taldir þola aðgerð. Slíkt eftirlit hefur verið byggt á þeim forsendum að smærri æxlin hafi aðra klíníska hegðun en þau stærri og meinverpist síður. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna áhrif stærðar nýrnafrumukrabbameins á tíðni meinvarpa við greiningu og lífshorfur sjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 791 sjúklingi með nýrnafrumukrabbamein á Íslandi 1971-2005. Aðeins voru tekin með tilfelli þar sem greining var staðfest með vefjasýni og stærð æxlis lá fyrir. Öll sýni voru endurskoðuð og TNM-kerfi notað við stigun. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám. Fjölbreytugreining var notuð til að meta áhrif stærðar á tíðni meinvarpa og lífshorfur (sjúkdóma sértækar).

Niðurstöður: Af sjúklingum höfðu 28% meinvörp og jókst tíðni þeirra marktækt með vaxandi æxlisstærð; eða frá 9% fyrir æxli <4 cm í 48% fyrir æxli >11 cm. Fimm ára lífshorfur versnuðu marktækt með aukinni stærð, eða úr 86% fyrir æxli <4 cm í 35% fyrir >11 cm æxli (p<0,001). Við fjölþáttagreiningu reyndist stærð marktækur sjálfstæður forspárþáttur, bæði fyrir meinvörpum við greiningu (OR 1,08, p=0,01) og lífshorfum (OR 1,09, p<0,01), þótt leiðrétt hafi verið fyrir TNM stigi (OR=2,58, p<0,01).

Ályktanir: Eftir því sem nýrnafrumukrabbamein eru stærri aukast líkur á meinvörpum og lífshorfur skerðast. Þessi áhrif stærðar bætast við forspárgildi TNM stigs sem er langsterkasti forspárþátturinn. Æxli <4 cm geta meinverpst, eða í 9% tilfella, og fimm ára sjúkdómasértækar lífshorfur eru 86%. Þetta ber að hafa í huga þegar íhugað er virkt eftirlit í stað brottnáms þessara æxla.

 

E 33 Bráður nýrnaskaði á gjörgæsludeildum Landspítalans samkvæmt RIFLE skilmerkjum

Íris Ösp Vésteinsdóttir1, Kristinn Sigvaldason2, Ólafur Skúli Indriðason3, Gísli H. Sigurðsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2svæfinga- og gjörgæsludeild, 3meltinga- og nýrnadeild Landspítala

gislihs@landspitali.is

Inngangur: Bráður nýrnaskaði (acute kidney injury) er algengt vandamál hjá gjörgæslusjúklingum sem veldur verulegri aukningu á dánartíðni þeirra. Fram að þessu hafa rannsóknir verið ómarkvissar þar sem ekki hefur verið alþjóðleg samstaða um skilgreiningu ástandsins. Nýlega náðist sátt um alþjóðlegan staðal, svonefnd RIFLE skilmerki og er því nú hægt að bera saman niðurstöður rannsókna milli landa.

Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna algengi og eðli bráðs nýrnaskaða hjá fullorðnum sjúklingum á gjörgæsludeildum Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Úrtakið var allir sjúklingar 18 ára og eldri sem lögðust inn á gjörgæsludeildir Landspítala árið 2007. Leitað var að s-kreatínín grunngildi í gagnagrunni Landspítalans og hjá heilbrigðisstofnunum landsbyggðarinnar. Reiknað var út frá RIFLE skilmerkjum hvort sjúklingur fékk bráðan nýrnaskaða eða ekki. Sjúkraskrár voru skoðaðar með tilliti til orsaka og meðferðar bráðs nýrnaskaða.

Niðurstöður: Alls voru 1.026 sjúklingar 18 ára og eldri lagðir inn á gjörgæsludeildir Landspítala á árinu (meðalaldur 60,6 ár (±17,8), karlar 61,1%). Þar af var 231 (22,5%) með bráðan nýrnaskaða samkvæmt RIFLE skilmerkjum. Meðalaldur þeirra sem hlutu bráðan nýrnaskaða var 67,0 (±16,0) ár á móti 58,7 (±18,0) ár hjá þeim sem ekki hlutu bráðan nýrnaskaða (p<0,001). Sjúklingar með nýrnaskaða dvöldu að meðaltali 8,3 (±13,1) daga á gjörgæslu en sjúklingar án nýrnaskaða dvöldu 3,2 (±4,0) daga (p<0,001). Spítaladánartíðni hópsins með nýrnaskaða var 40,7% samanborið við 9,1% hjá þeim sem ekki hlutu nýrnaskaða.

Ályktanir: Algengi bráðs nýrnaskaða á gjörgæsludeildum Landspítala var 23% sem er marktækt lægri tíðni en í nýlegum erlendum rannsóknum. Dánartíðni þeirra sjúklinga sem fá bráðan nýrnaskaða er þó sambærileg hér og erlendis.

 

E 34 Samanburður á CKD-EPI og MDRD jöfnum við útreikning á gaukulsíunarhraða og mat á algengi langvinns nýrnasjúkdóms á Íslandi

Sverrir I. Gunnarsson1, Runólfur Pálsson1,4, Gunnar Sigurðsson2,4, Leifur Franzson3, Ólafur S. Indriðason1

1Nýrnalækningaeiningu, 2innkirtla- og efnaskiptalækningaeiningu, 3erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 4læknadeild HÍ

sverrirgunnarsson@gmail.com

Inngangur: CKD-EPI jafnan er ný aðferð til að reikna gaukulsíunarhraða (r-GSH) út frá kreatíníni í sermi (S-Kr). Tilgangur þessarar rannsóknar var að bera jöfnuna saman við MDRD jöfnuna við mat á gaukulsíunarhraða og algengi langvinns nýrnasjúkdóms (LNS) í almennu þýði.

Efniviður og aðferðir: Notuð voru gögn úr AB-rannsókninni sem framkvæmd var 2001-2003 og náði til 1.628 slembivalinna fullorðinna einstaklinga á Reykjavíkursvæðinu. Gaukulsíunarhraði var reiknaður með CKD-EPI og MDRD jöfnunum út frá IDMS-stöðluðum mælingum á kreatíníni í sermi. Fylgni var reiknuð með fylgnistuðli Spearmans og samræmi reiknað með kappa-tölfræði. Hópar voru bornir saman með kí-kvaðrat, Wilcoxon-Mann-Whitney og Kruskal-Wallis prófum. Langvinnur nýrnasjúkdómur var skilgreindur sem r-GSH <60 ml/mín/1,73 m2.

Niðurstöður: Meðalaldur þátttakenda var 59,7±14,8 ár og 63,8% voru konur. Miðgildi (spönn) r-GSH var hærra með CKD-EPI jöfnunni, 97,0 (21,2-136,1) ml/mín/1,73 m2 samanborið við 95,9 (22,6-213,9) ml/mín/1,73 m2 (p<0,001). Fylgni jafnanna var há (r=0,87; p<0,01). Mismunur á r-GSH milli jafnanna (CKD-EPI mínus MDRD) var 0,32 (-98,2–18,6) ml/mín/1,73 m2. Miðgildi mismunar og prósentumunur milli jafnanna tveggja fyrir einstaklinga með r-GSH <45, 45-59, 60-74, 75-90 og >90 ml/mín/1,73 m2 var -0,79 (-2,24%), 0,37 (0,81%), 2,82 (3,98%), 5,24 (6,32%) og -4,64 (-4,40%) ml/mín/1,73 m2 (p<0,001). Algengi langvinns nýrnasjúkdóms meðal kvenna var lægra með CKD-EPI (5,6%) en MDRD jöfnunni (6,2%; p<0,001), en fyrir karla var algengið jafnt (3,9%). Gott samræmi var milli jafnanna við greiningu á langvinnum nýrnasjúkdómi (k=0,95), en aðeins 8% af þeim sem voru með langvinnan nýrnasjúkdóm með MDRD jöfnunni voru það ekki samkvæmt CKD-EPI jöfnunni.

Ályktanir: Í almennu þýði er fylgni milli CKD-EPI og MDRD jafnanna mjög góð og gott samræmi við greiningu á langvinnum nýrnasjúkdómi. Mismunur á r-GSH milli jafnanna er þó breytilegur eftir nýrnastarfsemi og er mestur hjá einstaklingum með tiltölulega háan r-GSH. MDRD jafnan virðist ofmeta tíðni langvinns nýrnasjúkdóms meðal kvenna.

 

E 35 Áhrif fangelsisvistunar á lifun karlkyns sjúklinga sem leggjast inn á geðdeild

Steinn Steingrímsson1,3, Hafdís Guðmundsdóttir2, Thor Aspelund4, Martin Ingi Sigurðsson3, Andrés Magnússon1,3

1Geðdeild Landspítala, 2Fangelsismálastofnun ríkisins, 3læknadeild, 4raunvísindadeild HÍ

steinnstein@gmail.com

Inngangur: Karlar með alvarlega geðsjúkdóma eru líklegri til að fremja glæpi sem leiða til fangelsisvistunar miðað við aðra. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka dánartíðni þeirra karla sem leggjast inn á geðdeild og afplána dóm miðað við þá sem leggjast inn en afplána ekki dóm í fangelsi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er tilfellaviðmiðuð rannsókn sem nær til allra karla á Íslandi sem hvoru tveggja lögðust inn á geðdeild á Íslandi með fíknigreiningu og afplánuðu dóm í fangelsi á tímabilinu 1983-2007. Notuð voru gögn frá Landspítala, Fjórðungssjúkrahúsi Akureyrar, Hagstofu Íslands og Fangelsismálastofnun ríkisins. Þrjú viðmið voru fundin fyrir hvert tilfelli út frá: aldri (±5 ár), fyrstu innlögn á tímabilinu (±5 ár) og að lifun viðmiðs var að minnsta kosti fram að afplánun tilfellis. Notaður var Cox áhættulíkindareikningur til að reikna út lifun þar sem leiðrétt var fyrir aldri, innlagnarári og geðgreiningum.

Niðurstöður: Alls lögðust 7670 karlar inn á geðdeild og þar af fóru 815 (10,6%) í fangelsi á rannsóknartímabilinu. Af þeim fengu 749 fíknigreiningu sem afplánuðu dóm. Um þriðjungur afplánaði dóm áður en kom að fyrstu innlögn á tímabilinu. Heildardánartíðni þessara karla með fíknigreiningu sem afplánuðu dóm miðað við þá sem ekki afplánuðu dóm gaf áhættuhlutfallið (hazard ratio (HR))=2,06 (95%-vikmörk=1,60-2,66). Þegar litið var á dánartíðni vegna dauðsfalla vegna slysa eða sjálfsvígs þá var HR=2,47 (95%-vikmörk=1,68-3,61).

Ályktanir: Fangelsisvist eykur talsvert dánarlíkur karla sem leggjast inn á geðdeild. Dánartíðni er tvöfalt hærri meðal karla sem afplána dóm miðað við þá sem afplána ekki dóm á 27 ára tímabili. Þegar litið var á dánarorsakir vegna sjálfsvíga eða slysa þá var dánartíðnin enn hærri.

 

E 36 Karlar verða líka fyrir kynferðisofbeldi

Agnes Gísladóttir1, Berglind Guðmundsdóttir1,2,3,4, Eyrún Jónsdóttir2,3, Unnur Anna Valdimarsdóttir1

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ, 2áfallateymi bráðasviðs og geðsviðs, 3neyðarmóttöku vegna nauðgana Landspítala, 4sálfræðideild HÍ

agnesg@hi.is

Inngangur: Lítið hefur farið fyrir umræðu um kynferðisofbeldi gegn fullorðnum karlmönnum hérlendis og virðist jafnvel gleymast að þeir verða fyrir slíku ofbeldi. Markmið þessarar rannsóknar er varpa ljósi á tíðni, einkenni og afleiðingar kynferðisofbeldis gegn körlum sem leituðu til neyðarmóttöku vegna nauðgana á Landspítala á 10 ára tímabili og bera saman við sambærilegar upplýsingar um kynferðisofbeldi gegn konum.

Efniviður og aðferðir: Komuskýrslur á neyðarmóttökuna voru kóðaðar til gagnavinnslu á ópersónugreinanlegan hátt. Einkenni vegna brota sem fólu í sér kynfærasnertingu/nauðgun voru borin saman milli kynja. Tölfræðilegur samanburður var lýsandi og munur milli kynja ekki skoðaður með marktækniprófum.

Niðurstöður: Komur á 10 árum voru í heild 1188, þar af voru komur karla 35, eða 2,9%. Meðalaldur karla við komu var 30,0 ár en kvenna 24,2 ár. Um þrjár komur af hverjum fjórum hjá báðum kynjum voru vegna nauðgunar/kynfærasnertingar og 15% brota gegn körlum samanborið við 5% gegn konum gerðust erlendis. Í tilfelli karla voru gerendur oftast ókunnugir/lítt þekktir, eða 69%, en 44% gegn konum. Af þeim sem komu í endurkomu voru karlar líklegri en konur að hafa hugleitt eða reynt sjálfsvíg.

Ályktanir: Ekki er ljóst hversu hátt hlutfall þeirra sem verða fyrir kynferðisofbeldi leitar aðstoðar á neyðarmóttökunni, en 35 komur karla á 10 árum sýna þó að kynferðisofbeldi gegn karlmönnum er raunverulegt. Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að kynferðisofbeldi geti haft mjög alvarlegar afleiðingar á sálræna heilsu brotaþola sem undirstrikar mikilvægi þess að gott aðgengi sé að sérhæfðri þjónustu, fyrir karla jafnt sem konur.

 

E 37 Upplifun landsmanna á streitu fyrir og eftir efnahagshrunið á Íslandi

Arna Hauksdóttir1, Cristhopher McClure2, Stefán Hrafn Jónsson3, Unnur Valdimarsdóttir1

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ, 2Yale School of Public Health BNA, 3Lýðheilsustöð

arnah@hi.is

Inngangur: Efnahagshrunið á Íslandi í október 2008 var um margt einstakt í umfangi og hraða og eru enn ófyrirséð þau áhrif sem efnahagshrunið mun mögulega hafa á heilsufar þjóðarinnar. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka áhrif efnahagshrunsins á streitu þjóðarinnar.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er framsýn og er byggð á gögnum úr lýsandi þjóðarúrtaki 18-79 ára Íslendinga (upphaflegt úrtak N=9.807). Gögnum var safnað á vegum Lýðheilsustöðvar með spurningalista árin 2007 og 2009 og innihélt meðal annars spurningar um bakgrunn (svo sem menntun, búsetu, atvinnustöðu og tekjur) og streitu (mæld með PSS-4 kvarðanum). Lógistísk aðhvarfsgreining var notuð til greiningar á áhættu á háu streitustigi á árinu 2009 með mælingar frá 2007 til viðmiðunar.

Niðurstöður: Af 5294 aðspurðum til þátttöku 2009 svöruðu 4092 (77,3%) spurningalista. Fyrstu niðurstöður gefa til kynna auknar líkur á háu streitustigi Íslendinga árið 2009 samanborið við 2007 (OR 1,20 CI 1,04, 1,38). Þegar gögnin voru skoðuð eftir kyni kom í ljós að einungis konur sýndu marktæka aukningu á streitustigi (OR 1,33; CI 1,11, 1,60), en ekki karlmenn (OR 1,04; CI 0,83, 1,31). Aðrir hópar sem sýndu aukningu á streitu voru aldurshópurinn 60-69 ára og einstaklingar með grunnmenntun eða í ófaglærðum störfum. Aukning á streitu var einnig almennt meiri hjá íbúum í stærri þéttbýliskjörnum landsins.

Ályktanir: Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til aukinnar áhættu á háu streitustigi meðal landsmanna eftir efnahagshrunið (2009) samanborið við fyrir efnahagshrunið (2007). Þessi breyting virðist að mestu leyti borin uppi af hækkuðu streitustigi meðal kvenna.

 

E 38 Líðan ekkla fjórum til fimm árum eftir missi eiginkonu úr krabbameini

Arna Hauksdóttir1,2, Unnur Valdimarsdóttir1, Carl-Johan Fürst3, Gunnar Steineck2,3

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ, 2Dept. of Oncology, Institute of Clinical Sciences, Sahlgrenska Akademin Gautaborg, 3Dept. of Oncology and Pathology, Karolinska Institutet Stokkhólmi

arnah@hi.is

Inngangur: Neikvæð áhrif makamissis á líkamlega og andlega heilsu eru vel þekkt, flestar rannsóknir hafa hins vegar beinst að skammtímaáhrifum missis. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka áhættuþætti fyrir langtíma sálræna og líkamlega heilsu ekkla, með áherslu á hjúskaparstöðu og stuðning eftir missi. Sú tilgáta var sett fram, að samanborið við gifta menn hafi ekklar meiri áhættu á vanlíðan fjórum til fimm árum eftir missi eiginkonu úr krabbameini og að áhættan sé meiri fyrir ekkla sem eru einhleypir á þeim tímapunkti.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin, sem byggðist á faraldsfræðilegum aðferðum, tók til 907 manna í Svíþjóð sem misst höfðu eiginkonu úr brjósta-, eggjastokka- eða ristilkrabbameini árin 2000 eða 2001 sem svöruðu spurningalista um heilsu og líðan. Að auki var gögnum safnað frá 330 kvæntum mönnum til samanburðar sem voru paraðir við ekklana með tilliti til aldurs og búsetu. Gagnasöfnun fór fram frá nóvember 2004 til nóvember 2005.

Niðurstöður: Svarshlutfall var 76% fyrir ekkla og 79% fyrir samanburðarhópinn. Í ljós kom að þeir ekklar sem voru einhleypir fjórum til fimm árum eftir missinn voru í aukinni áhættu á sálrænni vanlíðan samanborið við ekkla sem voru komnir í nýtt ástarsamband og gifta menn. Mesta áhættan mældist fyrir þunglyndi (RR 2,2; CI 1,5-3,2), kvíða (RR 1,6; CI 1,1-2,5), tilfinningadoða (RR 2,2; CI 1,7-2,8) og að vakna upp á næturnar með kvíða (RR 2,3; CI 1,4-3,7). Ekklar sem komnir voru í nýtt ástarsamband voru ekki í aukinni áhættu á vanlíðan samanborið við kvænta menn.

Ályktanir: Ekklar sem eru einhleypir fjórum til fimm árum eftir missi konu sinnar eru í áhættuhópi hvað varðar sálræna vanlíðan, bæði borið saman við ekkla sem eru komnir í nýtt samband og við kvænta menn. Rannsóknir og inngrip sem beinast að ekklum sem ekki fara í nýtt samband eða lifa við tilfinningalega einangrun eftir missi gætu minnkað vanlíðan og aukið þar með lífsgæði til lengri tíma eftir makamissi.

 

E 39 Langtíma afleiðingar kynferðislegs ofbeldis í æsku fyrir heilsufar og líðan karla

Sigrún Sigurðardóttir1, Sigríður Halldórsdóttir2, Sóley S. Bender3

1Háskóla Íslands, 2Háskólanum á Akureyri, 3hjúkrunarfræðideild HÍ

olafuros@simnet.is

Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt að kynferðislegt ofbeldi í æsku getur haft mjög víðtækar og alvarlegar afleiðingar fyrir heilsufar og líðan. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna heilsufar og líðan karla sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru sjö karlar með sögu um kynferðislegt ofbeldi í æsku og voru þeir á aldrinum 30-65 ára þegar viðtölin áttu sér stað. Tekin voru tvö viðtöl við hvern þeirra samtals 14 viðtöl. Við gagnasöfnun og gagnagreiningu var byggt á Vancouver-skólanum í fyrirbærafræði sem ætlað er að auka þekkingu og dýpka skilning á tilteknum mannlegum fyrirbærum í þeim tilgangi að bæta mannlega þjónustu.

Niðurstöður: Gagnagreining leiddi í ljós sex meginþemu: Reynslan af áfallinu, æskuárin, líðan á fullorðinsárum, samskiptin við konur, börnin þeirra og heilsufarið. Karlarnir hafa upplifað mikla þrautagöngu sem enn sér ekki fyrir endann á. Upplifun þeirra einkenndist af reiði, hræðslu og líkamlegri og sálrænni aftengingu. Þeir hafa lent í einelti, átt í námsörðugleikum, verið ofvirkir, leiðst út í afbrot, áfengis- og fíkniefnaneyslu. Sjálfsmynd þeirra er mjög brotin og hafa þeir notað kynlíf til að sanna karlmennsku sína. Þeir hafa átt erfitt með að tengjast mökum og börnum, lent í hjónskilnuðum og eru flestir forsjárlausir feður. Þeir eru með einkenni áfallastreituröskunar, hafa flestir leitað sér faglegrar aðstoðar en ekki fundið viðeigandi meðferð.

Ályktanir: Mikilvægt er fyrir fagfólk að þekkja einkenni og langtíma afleiðingar kynferðislegs ofbeldis í æsku til að geta brugðist við slíkum vandamálum með stuðningi og umhyggju. Þróa þarf skilvirk þverfagleg meðferðarúrræði til að minnka þjáningu þeirra sem sætt hafa kynferðislegu ofbeldi í æsku.

 

 

E 40 Sórameðferð í Bláa lóninu er áhrifaríkari en hefðbundin UVB ljósameðferð og bælir niður Th17 og Tc17 bólgusvar í blóði sórasjúklinga

Jenna Huld Eysteinsdóttir1,2,4, Jón Hjaltalín Ólafsson1,2, Steingrímur Davíðsson2, Ása Brynjólfsdóttir3, Bárður Sigurgeirsson2, Björn Rúnar Lúðvíksson2,4

1Húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3lækningalind Bláa lónsins, 4ónæmisfræðideild Landspítala

jennahuld@gmail.com

Inngangur: Sórameðferð í Bláa lóninu er þekkt áhrifarík meðferð gegn sóra. Til að færa frekari sönnur á það voru klínísk og ónæmisfræðileg áhrif meðferðarinnar hjá sjúklingum með langvinnan skellusóra athuguð og borin saman við hefðbundna UVB ljósameðferð.

Efniviður og aðferðir: Sextíu og níu þátttakendum með langvinnan skellusóra var skipt handahófskennt í þrjá meðferðarhópa. Tuttugu og tveir þátttakendur fengu göngudeildarmeðferð í lækningalind Bláa lónsins þrisvar í viku í sex vikur, 23 þátttakendur lögðust inn í lækningalind Bláa lónsins í tvær vikur og fengu UVB ljósameðferð á göngudeild þrisvar í viku í fjórar vikur eftir útskrift og 24 þátttakendur fengu hefðbundna UVB ljósameðferð á göngudeild þrisvar í viku í sex vikur. Til að meta árangur meðferðarhópanna var PASI skor metið og húð- og blóðsýni tekin fyrir meðferð, eftir tvær og sex vikur. Hlutfall T frumna sem tjá CD4 og CD8 ásamt CD45R0+/IL-23 viðtakanum (IL-23R) eða seyttu IL-17A, IL-22, IFNg, IL-4 eða TNFa eftir 16 klst. örvun með and-CD3/and-CD28 var ákvörðuð með frumuflæðisjá.

Niðurstöður: Marktækt fleiri þátttakendur náðu PASI75 (75% árangri) í báðum Bláa lóns hópunum miðað við UVB ljósameðferðina (p=0,03) ásamt því að marktækt fleiri náðu PASI90 (90% árangri) í innlagnarhópnum (p=0,003). PASI skor lækkaði marktækt meira í báðum Bláa lóns hópunum miðað við UVB ljósameðferð (p<0,001). Þessi árangur endurspeglaðist í blóðinu 74% bælingu á tjáningu Th17 frumusvars (p<0,05) og 79% bælingu á tjáningu Tc17 frumusvars (p<0,05) fyrir og eftir meðferð hjá báðum Bláa lóns hópunum. Einnig sást marktæk lækkun á tjáningu Th17 cýtókína (IL-17/IL-22) en ekki Th1 (IFNg/TNFa) eða Th2 (IL-4) cýtókína (p<0,01).

Ályktanir: Sórameðferð í Bláa lóninu er áhrifaríkari meðferð en hefðbundin UVB ljósameðferð og marktæk bæling á T-frumusvari í blóðinu sést eftir meðferðina.

 

E 41 Líflínan. Reynsla fólks með alvarlegan sóra sem er í Remicade® meðferð

Inga Þorbjörg Steindórsdóttir1, Helga Jónsdóttir1,2

1Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild HÍ

ingathos@hi.is

Inngangur: Sóri er margþættur og flókinn sjúkdómur. Sýnileiki sjúkdómsins er talinn eiga mestan þátt í sálfélagslegri byrði þessara einstaklinga. Fjölmargir bólgusjúkdómar tengjast sóra og síðustu árin hafa rannsakendur bent á að þáttur langvinnrar bólgu í efnaskipta-, hjarta- og æðasjúkdómum hjá sjúklingum með sóra sé mun alvarlegri en áður hefur verið talið. Tilgangur rannsóknarinnar var að fá innsýn í reynslu fólks með alvarlegan sóra og sóragigt er hefur verið í meðhöndlun með infliximab (Remicade®).

Efniviður og aðferðir: Rannsóknaraðferðin var eigindleg, byggð á túlkandi fyrirbærafræði. Úrtakið var þægindavalið, fjórar konur og þrír karlar á aldrinum 27-45 ára er voru í reglulegri lyfjameðferð á sex til átta vikna fresti. Gagnasöfnun fór fram með tveimur viðtölum við hvern þátttakanda. Gögnin voru greind samkvæmt aðferð van Manen.

Niðurstöður: Alvarleiki sjúkdómsins var mjög mikill til margra ára og það tímabil einkenndist af skömm, uppgjöf, hjálparleysi og vonleysi. Algjör viðsnúningur varð hjá þátttakendum þegar meðhöndlun hófst með infliximab (Remicade®). Eftirfarandi grunnlífsþemu voru greind: Lifað rými er fól í sér: a) öryggið í einangruninni og b) frelsið er kom með meðferðinni. Lifaður tími sem vísar til: a) lengi vel var það bara sjúkdómurinn, b) engu að tapa, c) kapphlaup við tímann og d) áhyggjur af framtíð. Lifuð tengsl er fólu í sér: a) skömm og feluleik, b) erfiðleika við tengslamyndun og c) samskiptin í Völundarhúsinu. Líkami í reynd sem endurspeglaðist í: a) sjúkdómurinn tók alla stjórn b) ólýsanlegt álag og c) Líflínan-lyfjameðferðin.

Ályktanir: Þróa þarf samfellda, fjölskyldumiðaða og heildræna hjúkrunarþjónustu með þverfaglegri samvinnu við aðrar heilbrigðisstéttir í þeim tilgangi að auka öryggi og bæta lífsgæði þessara sjúklinga.

 

E 42 Um sundmannakláða í Landmannalaugum og árangur aðgerða til að stemma þar stigu við útbrotum eða flakki blóðagða í líkama baðgesta

Karl Skírnisson

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

karlsk@hi.is

Inngangur: Sundlirfur blóðagða (Schistosomatidae) á Íslandi fjölga sér kynlaust í vatnabobbanum Radix peregra, fullorðnar lifa þær í andfuglum. Í vatni smjúga lirfurnar auðveldlega í gegnum húð manna. Annað hvort stöðvar ónæmiskerfið frekari för (kláðabóla myndast eftir hverja lirfu) eða þá að lirfurnar komast inn í líkamann. Sýkingartilraunir á músum hafa sýnt að flestar lirfur sem komast inn í líkama spendýra drepast fljótlega, sumar geta þó lifað vikum saman en þroskun verður óeðlileg. Tvenns konar fuglablóðögður eru kunnar hér á landi: iðraögður eru algengari (margar tegundir, lifa inni í bláæðum í vegg þarmanna) en hin gerðin, nasaagða, ferðast eftir út- og miðtaugakerfi hýsilsins á áfangastaðinn sem er nefhol. Á leiðinni þangað (þær smjúga oftast í gegnum sundfitin) éta ormarnir taugavefinn sér til vaxtar og viðurværis. Staðfest er að svipað á sér stað í músum, einkum þegar smitað er með mörgum lirfum. Í erindinu verður farið yfir rannsóknir á fuglablóðögðum og sundmannakláða í Landmannalaugum, fjölsóttasta náttúrulega baðstað landsins.

Efniviður og aðferðir: Frá árinu 2003 hefur blóðagða verið leitað í 23 stokköndum, þremur urtöndum, þremur duggöndum og 1802 vatnabobbum frá Landmannalaugum og tugir baðgesta hafa veitt upplýsingar um sundmannakláða.

Niðurstöður: Allar stokkendurnar voru smitaðar af nasaögðunni T. regenti, 70% voru með iðraögðuna T. franki. Báðar ögðutegundirnar fundust í duggöndunum en urtendurnar reyndust ósmitaðar. Sumarið 2010 var komið í veg fyrir varp og ungauppeldi anda á svæðinu. Tók þá nær alveg fyrir sundmannakláða.

Ályktanir: Hægt er að rjúfa lífsferil fuglablóðagða í Landmannalaugum og koma þannig í veg fyrir að tugþúsundir manna fái þar kláðabólur, eða eigi á hættu að fuglablóðögður flakki tímabundið um líkamannn með ókunnum afleiðingum.

 

E 43 Atýpískir Spitz nevi á Íslandi 1988-2008

Anna Margrét Jónsdóttir1, Bjarni A. Agnarsson1,2

1Rannsóknarstofu í meinafræði Landspítala, 2læknadeild HÍ

bjarniaa@landspitali.is

Inngangur: Árið 1948 lýsti Sophie Spitz húðmeini í börnum og ungu fólki sem við smásjárskoðun líktist sortuæxli, en sem engu að síður virtist oftast hafa góðkynja hegðun. Hefur þetta mein síðan verið kennt við hana og nefnt Spitz nevus. Síðar hefur verið lýst meini sem kallað hefur verið atýpískur Spitz nevus, en staða þess hvað varðar hegðun er ekki ljós og getur verið erfitt að greina þessi mein frá sortuæxlum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða öll slík mein greind á Íslandi á 20 ára tímabili og kanna afdrif sjúklinganna.

Efniviður og aðferðir: Sjúklingar greindir á Íslandi 1988-2008 voru fundnir með tölvuleit í gagnagrunnum vefjarannsóknastofa á Íslandi. Einnig var athugað hvort endutekin aðgerð hefði verið gerð í kjölfar greiningar og athugað hvort sjúklingar hefðu síðar fengið endurkomu meinsins, sortuæxli eða meinvörp.

Niðurstöður: Alls greindust 97 sjúklingar á tímabilinu (karlar/konur: 1/9). Meðalaldur var 28 ár (aldursbil 8-64 ár). Langflest meinin í konum greindust á neðri útlim (79%) en algengasta staðsetning meinsins í körlum var á bol (29%). Skurðbrúnir voru metnar fríar hjá 66% sjúklinga, en endurtekin aðgerð í því skyni að fá fram víðari skurðbrún var framkvæmd í 57% tilfella. Enginn af þessum sjúklingum hefur fengið endurkomu meinsins, sortuæxli eða meinvörp.

Ályktanir: Þau mein sem greind voru sem atýpískir Spitz nevi á Íslandi á rannsóknatímabilinu hafa í engu tilfelli hegðað sér á illkynja hátt. Þessar niðurstöður benda til að atýpískir Spitz nevi séu líffræðilega góðkynja mein.

 

E 44 Tengsl lófakreppusjúkdóms og iljahnúta

Kristján G. Guðmundsson1, Þorbjörn Jónsson2, Reynir Arngrímsson3

1Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Glæsibæ, 2Blóðbankanum, 3lífefna- og sameindalíffræðisviði læknadeildar og erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala

kristgud@simnet.is

Inngangur: Iljahnútar (fibromatosis plantaris, Morbus Ledderhose) einkennast af bandvefshnútamyndun í sinabreiðu ilja (fascia plantaris). Hnútarnir framkalla sársauka í fótum en geta einnig valdið kreppu á tám. Fremur lítið er vitað um sjúkdóminn og tiltölulega fáum tilfellum hefur verið lýst. Lófakreppusjúkdómur (Dupuytren's contracture) einkennist af bandvefshnútum og strengjum í lófum og vefjameinafræði lófakreppu og iljahnúta er hin sama. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna samband lófakreppu og iljahnúta meðal íslenskra karla.

Efniviður og aðferðir: Þessi rannsókn er angi af upphaflegri hóprannsókn Hjartaverndar. Körlum (n=122) sem greinst höfðu með lófakreppusjúkdóm var boðið að taka þátt í framhaldsrannsókn ásamt pöruðum samanburðarhópi (n=122). Af þessum 244 körlum sem boðið var til rannsóknar mættu 193 (79%) til skoðunar. Allir voru skoðaðir með tilliti til einkenna um lófakreppusjúkdóm í höndum og með tilliti til hnúta í iljum. Spurt var um ýmsa faraldsfræðilega þætti sem tengdir hafa verið báðum sjúkdómunum.

Niðurstöður: Samtals reyndust 18 hafa iljahnúta og allir höfðu þeir líka lófakreppu í höndum. Tíðni iljahnúta hjá þeim sem voru með lófakreppu reyndist þannig vera 13% (18/137). Iljahnútar tengdust lengra gengnum lófakreppusjúkdómi (P<0,001). Sjúklingar með iljahnúta fengu einkenni um lófakreppu yngri að árum (P<0,001) og ættarsaga um lófakreppu var algeng (P<0,001).

Ályktanir: Sterk tengsl fundust milli lófakreppusjúkdóms og iljahnúta. Um 13% eldri karla með lófakreppusjúkdóm hafa jafnframt hnúta í iljum. Iljahnútar tengjast ættarsögu um lófakreppu og lengra gengnum sjúkdómi.

 

E 45 Lífvirkni kítósanfilma með mismunandi deasetíleringu til húðunar á títanígræði

Ramona Lieder1,2,3, Mariam Darai3, C.-H. Ng4, Jón M. Einarsson4, Jóhannes Björnsson5, Benedikt Helgason6, Jóhannes Gíslason4, Gissur Örlygsson3, Ólafur E. Sigurjónsson1,2

1Blóðbankanum Landspítala, 2tækni- og verkfræðideild HR, 3Nýsköpunarmiðstöð Íslands, 4Genís ehf., 5rannsóknastofu í meinafræði Landspítala, 6Institute for Surgical Technology and Biomechanics University of Bern, Sviss

oes@landspitali.is

Inngangur: Viðgerðir á vefjasköðum með bæklunarlækningum fela oft í sér notkun á ígræðum úr títan eða títanblönduðum málmi. Því hafa rannsóknir aukist á því hvernig meðhöndla megi yfirborð títanígræða í þeim tilgangi að auka lífvirkni þeirra og þar með bindingu þeirra í líkamanum til dæmis við bein. Kítósan, deasetílerað form af kítíni, lífrænt efni einangrað úr rækjuskel, er eitt efni sem verið er að skoða með tilliti til húðunar á títanígræðum, í þeim tilgangi að auka beinígreypni og frumuviðloðun títans. Í þessari rannsókn skoðuðum við áhrif mismunandi kítósan deasetíleringar á viðloðun, fjölgun beinforverafrumulínu (MC3T3-E1) á kítósanfilmur með mismunandi deasetíleringu.

Efniviður og aðferðir: Kítósanfilmur voru búnar til með því að leysa deasitílerað (degree of deacitilation (DD) 40%, DD 70%, DD 87% og DD 96%) kítósan upp í ediksýru og steypa úr því filmur í ræktunarbakka. Filmurnar voru hlutleystar í NaOH, sótthreinsaðar með etanóli og sýrustig stillt að pH 7,4. Frumum var sáð á filmurnar og viðloðun, líftala og fjölgun metin með smásjárskoðun og MTT prófi. Beinsérhæfing var metin með q-PCR og ALP prófi. Yfirborðsgerð himnanna var metin með „atomic force microscopy“.

Niðurstöður: Beinforverafrumur loða best við og fjölga sér mest á hærra DD (degree of deacetylation) kítósanhimnum (DD96 og DD87). Mismunur í DD virðist ekki hafa nein afgerandi áhrif á tjáningu beinsérhæfingargena í MC3T3 frumulínu. Krosstengingin á lægri DD himnum (DD70 og DD96) örvar frumuviðloðun og fjölgun frumna.

Ályktanir: Mismunandi DD kítósan virðist ekki hafa áhrif á tjáningu beinsérhæfingar gena í MC3T3 frumulínu. Næstu skref eru að athuga eiginleika mismunandi DD kítosanfilma eftir húðun þeirra á títanígræði og kanna nánar áhrif á beinsérhæfingu með mesenchymal stofnfrumum.

 


E 46 Áhrif glúkósamíns á beinsérhæfingu og tjáningu kítínasalíkra próteina í mesenchymal stofnfrumum

Ramona Lieder1,5, Stefán Ágúst Hafsteinsson1, Sigríður Þóra Reynisdóttir1, Pétur H. Petersen4, Finnbogi Þormóðsson4, Jón M. Einarsson2, C.-H. Ng2, Jóhannes Björnsson3,4, Jóhannes Gíslason2, Ólafur E. Sigurjónsson1,5

1Blóðbankanum Landspítala, 2Genís ehf., 3rannsóknastofu í meinafræði Landspítala, 4læknadeild HÍ, 5tækni- og verkfræðideild HR

oes@landspitali.is

Inngangur: Kítínasalík prótein (CLP) tilheyra fjölskyldu 18 glýkósíl hýdrólasa og eru talin gegna hlutverki í bólgusvörun og vefjaummyndun á fósturstigi. Mesenchymal stofnfrumur (MSC), eru fjölhæfar frumur, sem hægt er að sérhæfa yfir í fituvef, beinvef og brjóskvef. Lítið er vitað um tjáningu og hlutverk CLP í mesenchymal stofnfrumum en sýnt hefur verið fram á að CLP eru tjáð í frum- (primary) brjóskfrumum. Glúkósamín er ein af byggingareiningum kítósan og kítíns sem er að finna í stoðgrind ýmissa hryggleysingja þar á meðal rækjuskel. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif glúkósamíns á tjáningu kítínasalíkra próteina í mesenchymal stofnfrumum og beinsérhæfingu.

Efniviður og aðferðir: Mesenchymal stofnfrumum var fjölgað og þær sérhæfðar yfir í beinmyndandi frumur með og án glúkósamíns. Tjáning á CLP var könnuð með RT-PCR og q-PCR. Beinsérhæfing var könnuð með tjáningu á beinsérhæfingargenum (ALP, osteopontin, osteocalcin) og með athugun á steinefnamyndun (Alizarin red). Greining á tjáningu ýmissa bólguörvandi og bólguletjandi vaxtarþátta var framkvæmd með Luminex bead array-tækni.

Niðurstöður: Mesenchymal stofnfrumur og sérhæfðar beinmyndandi frumur tjá CLP próteinin YKL-39 og YKL-40, en ekki virku kítinasana AMCase og Chitotriosidase. Glúkósamín eykur tjáningu á YKL-39 og YKL-40 og eykur tjáninguna á beinsérhæfinargenum. Hins vegar dregur glúkosamín úr steinefnamyndun samanborið við viðmið.

Ályktanir:Þetta er í fyrsta skiptið sem sýnt hefur verið fram á tjáningu á kítínasalíkum próteinum í mesenchymal stofnfrumum. Fyrir liggur að kanna nánar hlutverk CLP í beinsérhæfingu og áhrif glúkósamíns á steinefnamyndun (minerilization).

 

E 47 Sameindalíffræði myndunar mannslungans, þrívítt frumuræktarkerfi og notagildi þess

Sigríður Rut Franzdóttir1, Ari Jón Arason1, Þórarinn Guðjónsson1,2, Magnús Karl Magnússon1,2,3

1Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum HÍ, 2rannsóknastofu í blóðmeinafræði Landspítala, 3rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði HÍ

sirrut@hi.is

Inngangur: Berkjutréð myndast í ferli sem nefnt er greinótt formmyndun lungna, þar sem hópar þekjufrumna vaxa út frá stofni og greinast í sífellt smærri loftvegi. Þekking á þroskunar- og sameindalíffræði mannslungans er afar takmörkuð og byggir að mestu á óstaðfestum niðurstöðum úr nagdýrum, en aukin þekking gæti komið að miklu gagni við meðhöndlun fyrirbura og alvarlegra lungnasjúkdóma. Hingað til hefur ríkt skortur á frumulínum og ræktunarlíkönum til rannsókna á greinóttri formmyndun mannslungans. Við höfum nú þróað þrívítt frumuræktarlíkan sem byggir á þekjufrumulínu (VA10) í samrækt með æðaþelsfrumum og sett upp lentiveirukerfi með það að markmiði að örva eða bæla tjáningu mikilvægra þroskunargena í þessu líkani til að skoða hlutverk þeirra í formmyndun lungans.

Efniviður og aðferðir: Í þrívíða ræktunarkerfinu eru VA10 frumur ræktaðar með æðaþeli úr naflastreng (HUVEC) í Matrigel grunnhimnugeli. Bæling eða örvun þroskunargena er framkvæmd með innleiðslu HIV lentiveiruferju.

Niðurstöður: HUVEC frumur seyta þáttum sem eru nauðsynlegir til örvunar greinamyndunar í þyrpingum VA10 þekjufrumna. FGF boð örva greinamyndun í ýmsum þroskunarferlum og eru líkleg til að gera það einnig í mannslungum. Þegar FGF viðtakar voru hindraðir fékkst engin greinamyndun, heldur minntu þyrpingarnar á berjaklasa og tjáning shRNA gegn FGFR2 gaf sömu svipgerð. Við vinnum nú að því að kanna nánar hlutverk FGF boðferlisins og Sprouty próteina í greinóttri formmyndun. Að auki verður þáttur annarra boðferla kannaður.

Ályktanir: Þrívíð samrækt þekjufrumna og æðaþels er öflugt kerfi sem leyfir okkur að rannsaka grundvallaratriði við formmyndun lungna. Lentiveiruferjur henta vel til erfðafræðilegra breytinga á kerfinu og gera okkur kleift að kryfja til mergjar þau ferli sem stýra greinamyndun og þroskun lungna.

 

E 48 Áhrif þöggunar og yfirtjáningar Dlg7 á blóðfrumusérhæfingu stofnfrumna úr fósturvísum músa

Níels Árni Árnason1, Sigríður Þóra Reynisdóttir1, Jonathan R. Keller2, Leifur Þorsteinsson1, Kristbjörn Orri Guðmundsson2, Sveinn Guðmundsson1, Ólafur E. Sigurjónsson1,4

1Blóðbankanum Landspítala, 2National Cancer Institute, Maryland BNA, 3tækni- og verkfræðideild HR

oes@landspitali.is

Inngangur: Við höfum lýst geni, Dlg7, sem er tjáð í stofnfrumum, þar á meðal blóðmyndandi stofnfrumum, og stofnfrumum úr fóstuvísum músa (mES). Við höfum einnig sýnt fram á að Dlg7er tjáð í blóðmyndandi stofnfrumum (CD34+CD38+) en mun minna í blóðmyndandi forverafrumum (Cd34+CD38+). Dlg7 er talið gegna hlutverki í frumuhringnum meðal annars við stjórnun stöðugleika spóluþráða í frumuskiptingu. Sýnt hefur verið fram á aukna tjáningu á Dlg7í meinvörpum í lifrarkrabbameini og vísbendingar um að genið gegni hlutverki í krabbameinsmyndun í tengslum við Aurora-A kínasann. Tilgangurinn með þessari rannsókn var að kanna hvert hlutverk Dlg7er í sérhæfingu stofnfrumna úr mES frumum með áherslu á blóðmyndun.

Efniviður og aðferðir: Við notuðum lentiveiruvektora til að yfirtjá og þagga niður Dlg7í mES frumur. Genabreyttar músastofnfrumur voru síðan sérhæfðar yfir í embryoid bodies og þaðan yfir í blóðmyndandi frumur. Áhrif genabreytingarinnar voru athuguð með colony forming unit assay, frumuflæðisjá og Q-PCR.

Niðurstöður: Við höfum sýnt fram á að skammtíma (transient) (non-viral) yfirtjáning á Dlg7 dregur úr stærð og fjölda embryoid bodies. Við höfum fengið samskonar niðurstöður með því að þagga niður í Dlg7 með lentiveiru shRNA tækni.Tekist hefur að mynda stöðugar genabreyttar ES frumur með yfirtjáningu og þöggun í Dlg7 geninu. Einnig höfum við sett upp sérhæfingaraðferðir fyrir mES frumur yfir í blóðmyndandi frumur og sérhæfingu þeirra yfir í rauðfrumur.

Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að yfirtjáning og þöggun á Dlg7í músa ES frumum hafi áhrif á sérhæfingu mES frumna til blóðmyndunar.

 

E 49 Tjáning Dlg7 í þroskun æðaþelsfrumna úr naflastrengsblóði

Leifur Þorsteinsson1, Sigríður Þ. Reynisdóttir1, Valgarður Sigurðsson2, Birkir Þ. Bragason3, Kristrún Ólafsdóttir4, Karl Ólafsson5, Ólafur E. Sigurjónsson1,6, Sveinn Guðmundsson1

1Blóðbankanum Landspítala, 2blóðmeinafræðideild Landspítala, 3Tilraunastöð HÍ að Keldum, 4rannsóknastofu HÍ í meinafræði, 5kvennadeild Landspítala, 6tækni- og verkfræðideild HR

leifurth@landspitali.is

Inngangur: Fyrri rannsóknir sýna að Dlg7 er gen sem hefur mikilvægu hlutverki að gegna í viðhaldi stofnfrumueiginleika frumna fyrir blóðmyndandi vef. Eftir því sem fruman sérhæfist minnkar tjáning gensins. Þó svo forverafrumur æðaþels í blóði hafi ekki verið fullskilgreindar ríkir nokkur einhugur um að þær sé að finna þar og þá sérstaklega í naflastrengsblóði. Markmiðið með rannsókninni var að sýna fram á að hægt sé að rækta æðaþelslíkar frumur úr naflastrengsblóði og endursá þeim og að kanna tjáningamynstur Dlg7 í þroskunarferlinu.

Efniviður og aðferðir: Einkjarna blóðfrumur (lymphocytes/monocytes) voru einangraðar úr naflastrengsblóði og ræktaðar í æti sérstaklega ætluðu til að fá fram frumur með æðaþelsfrumueiginleika. Æðaþelsfrumur úr naflastreng (HUVEC) voru notaðar sem viðmið. Tjáning markera fyrir æðaþelsfrumur var könnuð strax eftir einangrun og eftir ræktun/þroskun, með frumuflæðisjá, til að staðfesta að breytingin hefði gengið í rétta átt.Tjáning Dlg7 var staðfest með RT-PCR, ónæmisbindingu (Western-blot) og ónæmislitun (immunohistochemsitry).

Niðurstöður: Fullt samræmi var milli þeirra frumna sem ræktaðar voru úr naflastrengsblóði og HUVEC hvað varðar tjáningu CD markera og hæfileika þeirra til að mynda æðar á matrígeli. Engin tjáning á Dlg7 sást með RT-PCR og ónæmisbindingu í frumum strax eftir einagrun úr naflastrengsblóði. Eftir að frumurnar höfðu öðlast æðaþelsfrumueiginleika kom fram sterk tjáning á Dlg7 með RT-PCR. Þetta var staðfest með ónæmisbindingu og ónæmislitun með mótefni gegn Dlg7.

Ályktanir: Dlg7 er tjáð í æðaþelsfrumum þroskuðum frá frumum úr naflastrengsblóði og hefur mögulega hlutverki að gegna í þroskun æðaþelsfrumna í blóði.

 

E 50 Þrívítt frumuræktunarlíkan til rannsókna á hlutverki erfðaþátta í þroskun og sérhæfingu eðlilegra og illkynja þekjufrumna blöðruhálskirtils

Jón Þór Bergþórsson1, Valgarður Sigurðsson1, Sævar Ingþórsson1, Sigríður Rut Franzdóttir1, Ásgeir Sigurðsson2, Magnús Karl Magnússon1, Þórarinn Guðjónsson1

1Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum HÍ, 2Íslenskri erfðagreiningu

jon.bergthorsson@gmail.com

Inngangur: Myndun greinóttrar formgerðar er lykilþáttur í þroskun kirtla af þekjuvefsuppruna svo sem brjóst- og blöðruhálskirtils og breyting á þessari formgerð er eitt af fyrstu skrefum æxlisvaxtar. Þekkt er að stroma (uppistöðuvefur) þar á meðal bandvefsfrumur og æðaþelsfrumur hafa mikil áhrif á þroskun ýmissa líffæra af þekjuvefsuppruna. Við höfum nýlega sýnt fram á í þrívíðum frumuræktunum að æðaþel örvar vöxt og sérhæfingu þekjufrumna í brjóstkirtli og lungum og jafnframt myndun greinóttrar formgerðar sem er einkennandi fyrir þessi líffæri. Hér er markmiðið að útbúa frumuræktunarkerfi sem endurspeglar formgerð blöðruhálskirtils í mönnum og nota má til rannókna á erfðaþáttum blöðruhálskirtilskrabbameins á litningi 8q24. Virkni þessara erfðaþátta hefur verið tengd wnt boðferlinum sem er mikilvægt í þroskun og æxlismyndun. Í rannsókninni var könnuð hæfni frumulína frá blöðruhálskirtilsþekju til að mynda greinóttar formgerðir í þrívíðum ræktunarkerfum í samrækt með æðaþelsfrumum.

Efniviður og aðferðir: Frumlínur úr eðlilegri blöðruhálskirtilsþekju (PZHPV7, PWR1E, RWPE1, CAHPV10), krabbameinslínan 22RV1 og æðaþelsfrumur úr naflastreng (HUVEC). Frumulínurnar voru skilgreindar með tilliti til arfgerðar og litningaóstöðugleika á 8q24 svæðinu (FISH). Vaxtarhæfni í mjúk-agar, tjáning á þekjuvefssameindum (mótefnalitun) og hlutfall ætlaðra stofnfrumna (flæðigreining) var einnig metið. Ræktun var framkvæmd í þrívíðu grunnhimnuefni með og án æðaþelsfrumna. Gerð var úttekt á fjölda, þrívíddarlögun og skautun frumuþyrpinga með hefðbundinni smásjárskoðun og confocal smásjárgreiningu.

Niðurstöður: Í þrívíddarræktun mynda frumulínurnar blöðrulaga þyrpingar (prostasphere) en eiginlegar greinóttar formgerðir eru fátíðar. Samrækt með æðaþelsfrumum magnaði í öllum tilfellum fjölda þyrpinga og skýrar greinóttar formgerðir (til dæmis PZHPV7) sambærilegar þeim sem einkenna blöðruhálskirtilinn mynduðust í sumum frumulínunum.

Ályktanir: Líkanið nýtist til að varpa ljósi á áhrif erfðaþátta blöðruhálskirtilskrabbameins á vefja- og frumusérhæfða genatjáningu á 8q24 svæðinu.

 

E 51 Áhrif blóðflögulýsata framleiddum úr útrunnum blóðflögueiningum á fjölgun og sérhæfingu mesenchymal stofnfrumna

Hulda Rós Gunnarsdóttir1,2, Ramona Lieder1,2, Björn Harðarson1, Jóhannes Björnsson3, Þorbjörn Jónsson1, Sveinn Guðmundsson1, Brendon Noble4,5, Ólafur E. Sigurjónsson1,2

1Blóðbankanum Landspítala, 2tækni- og verkfræðideild HR, 3rannsóknastofu í meinafræði Landspítala, 4MRC Centre for Regenerative Medicine, Edinborg, 5University Campus Suffolk

oes@landspitali.is

Inngangur: Mesenchymal stofnfrumur (MSC) er meðal annars að finna í beinmerg og hafa miklar vonir verið bundnar við notkun þeirra í læknisfræðilegri meðferð í framtíðinni. Eitt vandamál við slíkt er nauðsyn þess að nota kálfasermi til að fjölga þeim ex vivo. Galli við kálfasermi er að hætta er á ónæmisvari gegn próteinum sem þar er að finna og ýmsum sýkingarögnum sem geta valdið skaða í frumuþegum. Tilgangur þessa verkefnis er að athuga áhrif þess að rækta MSC frumur með blóðflögulýsötum, unnum úr ferskum (HPLF) eða útrunnum (HPLÚ) blóðflögum á fjölgun, sérhæfingu og virkni þeirra in vitro.

Efniviður og aðferðir: Mesenchymal stofnfrumur, einangraðar úr beinmerg, voru ræktaðar með HPLF eða HPLÚ og bornar saman við frumur ræktaðar með sérvöldu kálfasermi. Áhrif á MSC var athugað með greiningu á yfirborðssameindum í frumuflæðisjá, hæfni frumna til fjölgunar og hæfileika þeirra til sérhæfingar. Einnig var kannað hvort MSC frumur ræktaðar á þennan máta gætu bælt T-frumu fjölgun og innihald blóðflögulýsata greint með vaxtarþáttarprófi.

Niðurstöður: Mesenchymal stofnrumur ræktaðar með HPLF eða HPLÚ fjölga sér jafn vel og MSC frumur ræktaðar í kálfa sermi. Engin breyting er á tjáningu yfirborðsameinda sem einkenna MSC frumur. Hins vegar sjáum við aukningu í bein- og fitusérhæfingu en lakari brjósksérhæfingu í frumum ræktuðum í HPLF eða HPLÚ.

Ályktanir: Hægt er að að fjölga MSC frumum með blóðflögulýsati unnu úr útrunnum blóðflögueiningum. Hins vegar þarf að kanna nánar hvaða áhrif slíkt hefur á sérhæfingu frumnanna.

 

E 52 Gildi endurtekinna anti-neutrophil cytoplasmic antibody (ANCA) mælinga hjá sjúklingum með ANCA-tengda æðabólgu. Safngreining

Gunnar Tómasson1,2, Peter C. Grayson1, Alfred Mahr3, Michael LaValley1, Peter A. Merkel1

1Boston University, 2Læknasetrinu, 3Hôpital Cochin, París

gunnar.tomasson@gmail.com

Inngangur: Skiptar skoðanir eru um gildi endurtekinna anti-neutrophil cytoplasmic antibody (ANCA) mælinga hjá sjúklingum með staðfesta ANCA-tengda æðabólgu (AAV). Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort hækkun á ANCA eða stöðugt jákvætt ANCA próf hjá sjúklingum í sjúkdómshléi spái fyrir um endurkomu sjúkdóms.

Efniviður og aðferðir: Leit var gerð í MEDLINE og EMBASE gagnagrunnunum. Rannóknir með að minnsta kosti 10 þátttakendum, þar sem mögulegt var að reikna bæði næmi og sértæki fyrir hækkun á ANCA og/eða stöðugt jákvæðu ANCA á endurkomu sjúkdóms, voru notaðar. Líkindahlutföll voru reiknuð fyrir hverja rannsókn og dregin saman í samantektargildi. I2 - gildi voru reiknuð sem mælikvarði á misleitni og safn-aðhvarfsgreining (meta-regression) var notuð til að kanna hugsanlegar orsakir misleitni.

Niðurstöður: Níu rannsóknir um hækkun á ANCA og níu rannsóknir um stöðugt jákvætt ANCA voru notaðar. Samantektargildi fyrir jákvætt líkindahlutfall (LR+) og neikvætt líkindahlutfall (LR-) fyrir hækkun á ANCA voru 2,84 (95% öryggisbil: 1,65-4,90) og 0,49 (95% öryggisbil: 0,27-0,87) fyrir endurkomu sjúkdóms. Samantektar LR+ og LR- fyrir stöðugt jákvætt ANCA voru 1,97 (95% öryggisbil: 1,43-2,70) og 0,73 (95% öryggisbil: 0,50-1,06) fyrir endurkomu sjúkdóms. Það var töluverð misleitni milli einstakra rannsókna sem skýrðist að nokkru leyti af mismunandi tíðni ANCA mælinga.

Ályktanir: Bæði hækkun á ANCA eða stöðugt jákvætt ANCA hjá sjúklingum með AAV í sjúkdómshléi hafa takmarkað forspárgildi fyrir endurkomu sjúkdóms. Samanteknar niðurstöður birtra rannsókna styðja þannig ekki notkun endurtekinna ANCA mælinga í sjúkdómshléi til að fyrirbyggja endurkomu sjúkdóms.

 

E 53 Má einfalda sjúkdómsgreiningu á heilkenni Sjögrens?

Hrafnhildur K. Jónsdóttir1, W. Peter Holbrook2, Eysteinn Pétursson1, Heiðar I. Eyjólfsson4, Gunnar Stefánsson4, Björn Guðbjörnsson1,3

1Landspítala, 2tannlæknadeild, 3læknadeild, 4raunvísindadeild HÍ

bjorngu@landspitali.is

Inngangur:Heilkenni Sjögrens (SS) einkennist af slímhúðarþurrki í augum og munni, þreytu og stoðkerfisverkjum. Heilkennið fylgir oft öðrum gigtarsjúkdómum (sSS)), en kemur einnig fyrir eitt og sér án annarra bólgusjúkdóma (pSS). Algengi augn- og munnþurrks á Íslandi er 12-20%, á meðan algengi pSS er eingöngu 0,2%. Samkvæmt nýjum, alþjóðlegum greiningarskilmerkjum þarf skoðun hjá gigtar-, augn- og tannlækni, auk þess blóðrannsóknir, myndgreiningu og skoðun á vefjasýni frá slímhúð til þess að staðfesta pSS. Skilmerki þessi henta frekar til vísindarannsókna, en daglegrar læknisþjónustu. Markmiðið var að kanna hvort unnt væri að einfalda ferilinn við sjúkdómsgreiningu á pSS og draga þannig úr óþægindum fyrir sjúklinginn og lækka rannsóknarkostnað.

Efniviður og aðferðir:Þrjátíu og sjö konur með augn- og munnþurrk gengust undir kerfisbundna rannsókn með tilliti til pSS: læknisskoðun; blóðprufur (ANA, SSA og SSB), mælingar á munnvatnsflæði og táraframleiðslu, ásamt myndgreining. Ellefu konur fóru í sýnatöku frá neðri vör.

Niðurstöður: Tólf konur uppfylltu skilmerkin fyrir pSS, sjö konur voru með sSS og 18 konur með þurrkeinkenni af öðrum toga. Mótefni gegn SSB og SSA var besta spágildið fyrir pSS. Þá óeðlileg myndgreining með ísótópum, skert munnvatnsrennslismæling og loks skert táraframleiðsla. Jákvætt ANA-próf og óeðlileg ísótóparannsókn fannst hjá 58% allra með pSS.

Ályktanir: Niðurstöður styðja að uppvinnsla á pSS fari eftir þrepanálgun: á eftir ítarlegu læknisviðtali yrði munnvatns- og táraframleiðsla mæld og síðan gigtarpróf (SSB, SSA). Ef greining er enn óljós mætti gera ísótópagreiningu og enda á vefjasýnatöku. Vandað rannsóknarval getur sparað tíma og fjármuni og dregið úr óþægindum fyrir sjúklinginn.

 

E 54 Fingralengdarhlutfall og slitgigt. Einstaklingar með lengri baugfingur en vísifingur fá oftar gervilið í hné vegna slitgigtar. AGES-Reykjavík rannsóknin

Þórir Már Björgúlfsson1, Kristín Sigurjónsdóttir1, Thor Aspelund2, Sigurður Sigurðsson2, Þorvaldur Ingvarsson3, Tamara B. Harris4, Lenore Launer4, Vilmundur Guðnason1,2, Helgi Jónsson1,5

1Háskóla Íslands, 2Hjartavernd, 3Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, 4National Institute on Aging, Bethesda, Bandaríkjunum, 5Landspítala

thb1@hi.is

Inngangur: Nýlegar rannsóknir hafa bent til tengsla á milli fingralengdarhlufalls (hlutfall vísi- og baugfingurs) og slitgigtar í hnjám. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort samband væri milli fingralengdarhlufalls og gerviliðaðagerða vegna slitgigtar í AGES–Reykjavík rannsókn Hjartaverndar og NIA.

Efniviður og aðferðir: Fingralengd var metin sjónrænt af 5170 ljósmyndum af höndum (2975 konur og 2195 karlar, meðalaldur 76±6 ár). Þátttakendum var skipt í þrjá flokka eftir niðurstöðum (flokkur 1: vísifingur lengri, flokkur 2: vísifingur og baugfingur álíka langir og flokkur 3: baugfingur lengri). Gerviliðir í hnjám og mjöðmum voru skráðir með hjálp tölvusneiðmynda og slitgigt var talin orsök þegar búið var að útiloka að um brot eða bólgugigtarsjúkdóm væri að ræða.

Niðurstöður: Algengi gerviliða í hnjám var 223 (4,3%) og í mjöðmum 316 (6,1%). Varðandi fingralengd var flokkur 3 (baugfingur lengri) algengastur eða 50% (43% í konum og 58% í körlum). Framkvæmd var aðhvarfsgreining (regression analysis; backwards binary logistic regression) á sambandi fingralengdar og gerviliða í hnjám og mjöðmum og teknir með í reikninginn aðrir þekktir og mögulegir áhrifavaldar eins og slitgigt í höndum, aldur, kyn, mittismál, BMI, hs-CRP, kólesteról, notkun statínlyfja, beinþéttni í hrygg, menntun og reykingar. Hlutfallstala (OR) fyrir gervilið í hné reyndist 1,65 (1,24-2,2) p=0,0007, fyrir flokk 3, sambærilegt fyrir bæði kyn. Engin tengsl sáust við gerviliði í mjöðmum.

Ályktanir:Fingralengdarhlutfall hefur tengsl við gerviliði í hnjám en ekki í mjöðmum. Orsakir eru ekki þekktar en mögulegar skýringar tengjast atferli, útlimalengd og lögun og kynhormónum.

 

E 55 Markviss styrkþjálfun aldraðra, áhrif á starfræna færni og heilsutengd lífsgæði

Kristín Briem1, Ólöf Guðný Geirsdóttir2, Atli Arnarson2, Alfons Ramel2, Kristinn Tómasson3, 4Pálmi V. Jónsson, Inga Þórsdóttir2

1Námsbraut í sjúkraþjálfun, 2rannsóknastofu í næringarfræði, 3Vinnueftirliti ríkisins, 4rannsóknastofu HÍ og Landspítala í öldrunarfræðum

kbriem@hi.is

Inngangur: Á meðal þekktra öldrunartengdra breytinga líkamans má nefna minnkaðan vöðvamassa og -styrk. Þessar breytingar gerast hraðar eftir að fólk kemst á sjötugsaldur og eru að hluta til háðar næringu og líkamsþjálfun. Rannsóknir hafa sýnt að markviss líkamsþjálfun hefur jákvæð áhrif á vöðvastyrk, en minna er vitað um tengsl styrks við starfræna færni og lífsgæði. Tilgangur okkar var því að kanna áhrif styrkþjálfunar á vöðvamassa, styrk, starfræna getu og lífsgæði aldraðra á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Auglýst var eftir almennt heilbrigðum þátttakendum, 65 ára og eldri. Við upphaf rannsóknartímabilsins voru gerðar mælingar á líkamssamsetningu, vöðvastyrk, gripstyrk og líkamlegri færni, en lífsgæði voru mæld með spurningalista fyrir heilsutengd lífsgæði. Þátttakendur tóku síðan þátt í 12 vikna styrkþjálfun, en að þeim tíma loknum voru allar mælingar endurteknar.

Niðurstöður: Alls luku 213 manns þjálfun. Almennt jókst styrkur og vöðvamassi marktækt en fitumassi minnkaði. Einnig varð bæting á mælingum á starfrænni færni og heilsutengdum lífsgæðum. Marktæk fylgni reyndist vera milli þeirra breytinga sem mældust á styrk og starfrænni færni á tímabilinu og einnig á milli breytinga sem mældust á starfrænni færni og lífsgæðum. Þessi fylgni var sterkari hjá konum en körlum.

Ályktanir: Markviss styrkþjálfun aldraðra er vel til þess fallin að bæta vöðvastyrk þeirra. Auk þess hefur þjálfunin jákvæð áhrif á starfræna færni og mat þeirra á heilsutengdum lífsgæðum. Styrkþjálfun gæti leitt til heilbrigðara og sjálfstæðara lífs aldraðra, aukið lífsgæði og lífslíkur. Aukin áhersla á styrkþjálfun aldraðra mundi þannig ekki einungis skila sér til einstaklingsins, heldur samfélagsins alls í minnkuðum heilbrigðiskostnaði.

 

E 56 Heilsufarslegar breytingar sjúklinga í offitumeðferð á Reykjalundi

Steinunn H. Hannesdóttir1,2, Erlingur Jóhannsson1, Ludvig Á. Guðmundsson2

1Rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræðum HÍ, 2Reykjalundi, endurhæfingarmiðstöð SÍBS

hveri@simnet.is

Inngangur: Á Íslandi hafa verið gerðar rannsóknir sem sýna svipaða þróun hér á landi á holdafari og annars staðar. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða árangur offitumeðferðar á Reykjalundi á þrek, púls- og blóðþrýstingssvörun á þolprófi í offitumeðferð. Auk þess var mat sjúklinganna á eigin líðan kannað með spurningalistum og borið saman við árangur. Í þessari rannsókn voru einnig skoðaðar breytingar á lífsgæðum einstaklinganna.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 47 konur (n=47) á aldrinum 20–60 ára. Notaðar voru eftirfarandi mælingar og breytur: hæð, þyngd, líkamsþyngdarstuðull (LÞS), mittismál, BIA (bioelectrical impedance method) rafleiðnimæling, 6 mínútna göngupróf, þolpróf á hjóli, ásamt púls- og blóðþrýstingssvörun, þrektala (v/kg) og hámarkssúrefnisnotkun (ml/kg/mín). Auk þess voru lagðir fyrir spurningalistarnir SF-36v2 um heilsutengd lífsgæði (short form 36 health survey version 2.0), OP kvarði um sálfélagslega líðan tengdri offitu (Obesity-related Problems scale), BAI kvíðakvarði (Beck´s anxiety inventory scale) og BDI-II þunglyndiskvarði (Beck´s depression inventory scale).

Niðurstöður: Líkamsþyngdarstuðull breyttist um 4 kg/m2 (p<0,001), heildarhámarksálag í þolprófi á hjóli jókst um 12% (p<0,001), sem bætti þrektölu um 21% (p<0,001) og hámarkssúrefnisnotkun jókst um 18% (p<0,001). Marktæk lækkun varð á blóðþrýstingi og í hvíldarpúlsi (p<0,05). Niðurstöður allra spurningalista sýndu marktækan jákvæðan mun á heildarstigum (p<0,001).

Ályktanir: Niðurstöðurnar undirstrika þýðingu markvissrar offitumeð-ferðar með áherslu á varanlegar lífsstílsbreytingar. Gagnlegt og áhugavert væri að skoða langtímaárangur sömu offitumeðferðar til að meta heildarárangur. Ávinningurinn af breyttum lífsstíl er óumdeildur til aukins heilbrigðis fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið í heild.

 

E 57 Heilsuefling bæjarstarfsmanna á Höfn

Matthildur Ásmundardóttir, Þórarinn Sveinsson

Rannsóknarstofu í hreyfivísindum, Lífeðlisfræðistofnun HÍ

matthildur77@simnet.is

Inngangur: Vinnuveitendur einblína margir á kostnað sem tengist heilsu starfsmanna sinna en rannsóknir hafa sýnt fram á greinileg tengsl milli áhættuþátta sjúkdóma, heilsu og heilsutengdan kostnað fyrirtækja. Heilsuefling getur því dregið úr heilsutengdum kostnaði. Rannsóknir hafa sýnt að íhlutanir með áherslu á hreyfingu eru áhrifaríkar í að auka eða viðhalda hreyfingu. Íhlutanir geta verið á ýmsu formi. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort tvær mismunandi íhlutanir á formi heilsueflingar geti leitt til aukinnar hreyfingar og bættrar heilsu á meðal bæjarstarfsmanna á Hornafirði. Annað íhlutunarformið byggði á einstaklingsmiðuðum viðtölum en hitt formið var hins vegar almennara og hópmiðað.

Efniviður og aðferðir: Öllum bæjarstarfsmönnum Hornafjarðar í 50% starfshlutfalli eða meira var boðin þátttaka og tóku 125 starfsmenn þátt. Allir þátttakendur voru mældir í upphafi, eftir sex mánaða íhlutunartímabil og aftur sex mánuðum eftir að íhlutun lauk. Mælingarnar voru: holdafarsmælingar (hæð, þyngd, líkamsþyngdarstuðull, mittisummál og fituprósenta), þrekmæling (sex mínútna hjólapróf), blóðmælingar (heildarkólesteról, HDL og LDL kólesteról, þríglýseríð, blóðsykur), spurningalisti um heilsutengd lífsgæði, hreyfing með hreyfimæli. Þátttakendum var skipt í þrjá hópa sem fengu mismunandi íhlutun: viðmiðunarhóp og tvo rannsóknarhópa.

Niðurstöður: Allir hóparnir lækkuðu marktækt í efri mörkum (p=0,01) og neðri mörkum (p=<0,001) blóðþrýstings. Breytingarnar voru eins í öllum hópunum (víxlhrif voru ekki marktæk). Allir hóparnir hreyfðu sig minna (p=0,03) í lok rannsóknartímabils, marktæk víxlhrif (p=0,05) komu fram milli hópa.

Ályktanir:  Íhlutunin skilaði ekki tilætluðum árangri. Niðurstöður benda til að íhlutunin hafi ekki verið nægilega mikil til að ná að hafa áhrif á þátttakendur.

 

E 58 Hefur fæðingarmánuður áhrif á heilsu og menntun Íslendinga?

Þórhildur Ólafsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir

Hagfræðideild HÍ

tho32@hi.is

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvort fæðingarmánuður tengist því hvernig íslenskum stúlkubörnum reiðir af síðar á lífsleiðinni. Erlendar rannsóknir hafa fjallað um ýmsa þætti í byrjun lífs sem gætu haft áhrif á velferð einstaklinga síðar á lífsleiðinni og hefur fæðingarmánuður verið kynntur til sögunnar í því samhengi. Ýmsar kenningar hafa komið fram til skýringar þessara tengsla. Niðurstöðurnar hafa túlkanlegt gildi fyrir mismunandi skólakerfi, hlutfallslegan aldur nemenda við upphaf skólagöngu og rannsóknaraðferðir þar sem fæðingarmánuður er notaður sem náttúruleg tilraun í rannsóknum á lengd skólagöngu. Áhugavert er að framkvæma slíka rannsókn á Íslandi þar sem skólakerfið er ólíkt því sem gerist í samanburðarlöndunum en lengd skólaskyldu miðast við fæðingarmánuð í Bandaríkjunum en hérlendis er miðað við skólaárið. Því má búast við ólíkum niðurstöðum ef þessir þættir hafa áhrif á sambandið sem er til athugunar.

Efniviður og aðferðir: Gögn rannsóknarinnar eru úr könnun sem Krabbameinsskrá framkvæmdi árið 2004 og inniheldur handahófskennt úrtak 20.000 íslenskra kvenna á aldrinum 18-45 ára. Aðhvarfsgreining er framkvæmd til þess að meta hvort fæðingarmánuður tengist eigin mati á heilsu og árafjölda í skóla.

Niðurstöður: Niðurstöður benda ekki til þess að um samband sé að ræða milli fæðingarmánaðar og þess hvernig einstaklingunum reiðir af síðar á lífsleiðinni ef notuð eru hefðbundin viðmið um tölfræðilega marktækni, þó má greina kerfisbundnar breytingar á punktmati.

Ályktanir: Í fyrri rannsóknum hefur sambandið milli fæðingarmánaðar og árafjölda í skóla ekki verið sterkt og ef niðurstöður þessarar rannsóknar eru skoðaðar með tilliti til úrtaksstærðar þá eru þær í samræmi við bandarískar niðurstöður sem benda til þess að þeir sem fæðast í byrjun árs hafi færri menntunarár að baki en aðrir. Þessi niðurstaða rennir ekki stoðum undir kenningar um áhrif skólakerfis eða hlutfallslegs aldurs á sambandið sem er til athugunar. Áhugavert væri því að rannsaka breytileika í árafjölda menntunar eftir fæðingarmánuði að teknu tilliti til fjölskyldubakgrunns með töluvert stærra úrtaki.

 

E 59 Líðan og heilsutengd lífsgæði foreldra barna með meðfædda heilalömun í samanburði við foreldra heilbrigðra barna

Ásta Harðardóttir1, Zuilma Gabríela Sigurðardóttir1, Haukur Freyr Gylfason2

1Sálfræðideild HÍ, 2viðskiptadeild HR

zuilma@hi.is

Inngangur: Á Íslandi hefur verið lítið um rannsóknir á líðan og heilsutengdum lífsgæðum foreldra barna sem búa við skerta heilsu sem varir lengur en þrjá mánuði. Heilsutengd lífsgæði (Health-Related Quality of Life) felast í að vera án verkja, hafa næga orku, getu og aðstæður til að takast á við daglegt líf á þann hátt sem fólki finnst eðlilegt að geta gert. Ef þau skerðast þá hefur það áhrif á líðan.

Efniviður og aðferðir: Spurningalistar voru sendir til foreldra allra barna sem fengu greiningu með meðfædda heilabilun (Cerebral Palsy, CP) á árunum 1991-2007. Svör bárust frá foreldrum 79 barnanna (N=150). Sambærilegur hópur foreldra heilbrigðra barna (foreldrar 81 barns, N=132) var valinn til samanburðar út frá fjölda þeirra mæðra barna með meðfædda heilabilun sem tóku þátt í rannsókninni að teknu tillti til aldurs, menntunnar og hjúskaparstöðu. Til að mæla heilsutengd lífsgæði voru notaðir tveir spurningalistar; HL-listinn sem er íslenskur og hefur verið staðlaður (T=50, SF=10) meðal landsmanna og EQ-5D sem er alþjóðlegur listi sem gerir alþjóðlegan samanburð mögulegan, en vantar þó enn stöðluð viðmið fyrir Ísland. Á báðum þessum listum merkir hærra skor meiri heilsutengd lífsgæði. Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sendi út spurningalista til foreldra barna með meðfædda heilabilun. Samanburðarhópur var valinn með hentugleikaaðferð en sem mest sambærilegur við foreldra barna með meðfædda heilabilun sem tóku þátt í rannsókninni.

Niðurstöður: Rannsóknin leiddi í ljós mun á heilsutengdum lífsgæðum foreldra eftir því hvort að barn var með meðfædda heilabilun eða ekki. Þá var munur á heilsutengdum lífsgæðum foreldra barna með meðfædda heilabilun eftir greiningarári barns og að hluta til einnig á líðan.

Ályktanir:Niðurstöður styðja að ákveðin tímabil séu foreldrum erfiðari en önnur og álykta má út frá þeim um fyrirbyggjandi aðgerðir.

 

E 60 Líðan grunnskólakennara og mat á hegðun nemenda

Anna Dóra Steinþórsdóttir, Zuilma Gabríela Sigurðardóttir

Sálfræðideild HÍ

zuilma@hi.is

Inngangur: Þessi rannsókn athugaði áhrifin af líðan kennara á mat þeirra á hegðun nemenda sinna. Þetta er mikilvæg spurning þar sem mat kennara á hvað er eðlileg hegðun miðað við þroska og aldur nemenda skiptir oft höfuðmáli þegar kemur að því að vísa nemanda til skólasálfræðings. Mikill meirihluti grunnskólakennara eru konur á svipuðum aldri og rannsóknir sýna að þunglyndi er algengast.

Efniviður og aðferðir: Fjögur hundruð og þrettán kennarar (44% stöðugilda grunnskólakennara í Reykjavík) í 18 grunnskólum tóku þátt í rannsókninni. Hver þátttakandi svaraði eftirfarandi listum: Penn State Worry Questionnarie, Beck Anxiety Inventory©, Beck Depression Inventory© og Spurningar um líðan og ánægju í starfi, en sá listi var saminn fyrir þessa rannsókn til að meta þætti á vinnustað og einkalífi sem gætu haft áhrif á líðan kennara í vinnu. Viðhorf kennara til hegðunarvanda nemenda voru metin út frá svörun þeirra á spurningum listans um hegðunarvanda og óhlýðni í kennslustundum og sú breyta notuð sem skilgreining á hegðunarvanda nemenda í rannsókninni en hún byggir á huglægu mati kennara. Upplýsingar um meðalaldur, meðaltekjur íbúa skólahverfanna og upplýsingar frá þjónustumiðstöðvum um fjölda tilvísana frá viðkomandi skólum á skólaárinu 2007 til 2008 voru fengnar.

Niðurstöður: Fylgni var milli líðanar grunnskólakennara við hvernig þeir meta hegðun nemenda sinna. Þeir sem hafa meiri áhyggjur, kvíða eða einkenni þunglyndis hafa tilhneigingu til að meta hegðunarvanda nemenda meiri en þeir kennarar sem sýna minni einkenni vanlíðanar.

Ályktanir: Þegar barni er vísað til sálfræðings skóla ber að hafa í huga að huglægt mat kennara á vanda nemandans er undir áhrifum kvíða, þunglyndis, áhyggja og almennrar líðanar kennarans.

 

E 61 Kennsla á stöfum með aðferðum beinnar kennslu og þjálfun í aðgreiningu

Kolbrún Ingibjörg Jónsdóttir, Zuilma Gabríela Sigurðardóttir

Sálfræðideild HÍ

zuilma@hi.is

Inngangur: Lestrarörðugleikar koma fram strax á fyrsta ári grunnskóla og magnast eftir því sem á líður. Bein kennsla (direct instruction) er árangursrík aðferð í lestri en hún er ekki notuð á Íslandi, hvorki verðandi kennarar né sérkennarar læra um þessa aðferð. Stúlku í þriðja bekk í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu sem var nánast ólæs var kennt að lesa með þessari aðferð. Henni var vísað til skólasálfræðings þar sem sérkennsla skilaði engu en hann gat ekki fundið sálfræðilegan vanda að baki lestrarerfiðleikunum, því var ákveðið að prófa að nota beina kennslu.

Efniviður og aðferðir: Þjálfunin fór fram á heimili stúlkunnar á sex vikna tímabili, flesta daga vikunnar í um tvær klukkustundir á dag. AB-snið með eftirfylgd var notað til að meta árangur kennslunnar. Grunnfærni var metin fyrst til að sjá hvað þyrfti að byrja að kenna og markmið voru sett. Handrit var notað til að kenna stafina og villur leiðréttar í hvert skipti. Stúlkunni var hrósað fyrir hverja rétta svörun en einnig var notast við hvatningakerfi þar sem hún gat unnið sér til lítilla verðlauna þegar frammistaða hennar batnaði. Samræmismælingar á frum- og fylgibreytum voru rúmlega 99%.

Niðurstöður: Þessi átta ára stúlka var nánast ólæs í byrjun þjálfunar þrátt fyrir tvö ár í sérkennslu. Lestur hennar var ekki mælanlegur í atkvæðum. Með aðferðum beinnar kennslu og villulausri aðgreiningarþjálfun í 60 klukkustundir lærði hún nöfn og hljóð allra stafa, gat hljóðað út orð, lærði að lesa setningar og einnig texta. Tvisvar á þessu ári hafa svo borist fréttir um gífurlegar og áður óþekktar framfarir hjá stúlkunni, ekki aðeins í lestri heldur í öllum öðrum greinum.

Ályktanir: Bein kennsla ætti að vera notuð við kennslu á Íslandi, að minnsta kosti fyrir þá sem lenda í erfiðleikum með að læra að lesa.

 

E 62 Heilsa og líðan eftir útskrift af gjörgæslu

Rannveig J. Jónasdóttir1,2, Lovísa Baldursdóttir2, Herdís Sveinsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2skurðlækningasviði Landspítala

rannveij@landspitali.is

Inngangur: Lega sjúklinga á gjörgæslu vegna bráðra, alvarlegra veikinda getur skert líkamlega, sálræna og félagslega heilsu, virkni og vellíðan langvarandi. Markmið þessarar lýsandi þverskurðarrannsóknar var að lýsa sjálfmetnum heilsutengdum lífsgæðum, einkennum áfallastreituröskunar, minningum um legu á gjörgæslu, sjálfmetnu heilsufari og félagslegum aðstæðum þremur til 15 mánuðum eftir útskrift af gjörgæslu. Tilgangurinn er öflun þekkingar til að skipuleggja þjónustu og sinna þörfum sem þessir sjúklingar kunna að hafa.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur (N=143) voru fullorðnir sjúklingar sem höfðu legið á gjörgæsludeildum Landspítalans ³72 klukkustundir 1. mars 2008 til 10. mars 2009. Sendur var spurningalisti með mælitækjunum SF-36v2 (heilsutengd lífsgæði), IES-R (einkenni áfallastreituröskunar) og ICU Memory Tool (minningar). Gögnum var safnað um sjálfmetið heilsufar og félagslegar aðstæður með spurningum rannsakanda.

Niðurstöður: Svarhlutfall var 50% (N=73) og meðalaldur svarenda 60,7±16,9 ár. Heilsutengd lífsgæði (líkamlegt hlutverk, félagsleg virkni, tilfinningalegt hlutverk) voru marktækt minni þremur til 11 mánuðum en 12 til 15 mánuðum eftir útskrift af gjörgæslu. Mikil einkenni áfallastreituröskunar höfðu 29% og marktækt fleiri ranghugmyndir, minningar um líðan úr legu á gjörgæslu og minni heilsutengd lífsgæði (sálræn heilsa) en þeir sem höfðu lítil einkenni áfallastreituröskunar. Tæpur helmingur taldi heilsu sína miklu eða dálitlu verri en sex mánuðum fyrir innlögn á gjörgæslu. Vegna veikindanna unnu færri launaða vinnu utan heimilis en fyrir legu á gjörgæslu.

Ályktanir: Skerðing á líkamlegri, sálrænni og félagslegri heilsu, virkni og vellíðan sjúklinga sem legið hafa í ³72 klukkustundir á gjörgæslu er langvinn og ekki lokið 15 mánuðum frá útskrift þaðan.

 

E 63 Samband starfsánægju hjúkrunarfræðinga á skurðlækningasviði Landspítala við starfskröfur og væntingar í starfi

Birna G. Flygenring1, Katrín Blöndal1,2, Herdís Sveinsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2skurðlækningasviði Landspítala

herdis@hi.is

Inngangur: Starfsánægja hjúkrunarfræðinga stuðlar að ánægju og öryggi sjúklinga. Starfsánægja felur í sér neikvæðar og jákvæðar tilfinningar starfsmanns til vinnu sinnar og geta komið fram vegna mats hans á eða reynslu af vinnu. Þannig eru öll atriði starfsins, jafnt jákvæð sem neikvæð, líkleg til að hafa áhrif á þróun starfsánægju. Rannsóknir hafa sýnt fram á að hjúkrunarstarfið sjálft þar á meðal að fá tækifæri til að sinna starfinu á árangursríkan hátt, samstarf við vinnufélaga, starfsandi og viðurkenning frá stjórnendum hefur jákvæð áhrif á starfsánægju hjúkrunarfræðinga. Markmið þessarar lýsandi rannsóknar var að skoða samband starfsánægju hjúkrunarfræðinga við starfskröfur og væntingar í starfi.

Efniviður og aðferðir: Þýði var hjúkrunarfræðingar starfandi á skurðlækningasviði Landspítala (N=383), svörun var 49%. Gagna var aflað í netkönnun sem fór fram í desember 2009 og janúar 2010. Starfsánægjumælikvarði var notaðu til að mæla starfsánægju. Spurt er um ánægju með 17 atriði á kvarða frá 5 (mjög ánægð/ur) -1 (mjög óánægð/ur). Innra samræmi spurninganna var gott (Chronbachs a=0,91). Væntingar í starfi voru metnar með fjórum spurningum og starfskröfur með 15. Notast er við Pearsons fylgnipróf, dreifigreiningu og t-próf við úrvinnslu.

Niðurstöður: Meðalstarfsánægja var 3,4 (±0,7). Starfsánægja mældist meiri meðal hjúkrunarfræðinga sem töldu að hjúkrunin væri góð á þeirra deild, að þekking þeirra nýttist í starfi, að þeir gætu forgangsraðað tíma sínum út frá ástandi sjúklings, að starfskröfur væri í samræmi við gildismat þeirra og að úrræði væru til staðar til að leysa vanda sjúklinga. Niðurstöður sýna að starfsumhverfi sem styður við að hjúkrunarfræðingar geti sinnt störfum sínum eykur á starfsánægju þeirra. Skoða þarf starfsumhverfi á sviðinu með tilliti til þessara þátta.

 

E 64 Kynbundin breyting á tíðni greiningar fíknisjúkdóms meðal inniliggjandi sjúklinga á geðdeildum

Steinn Steingrímsson1,2, Hanne Krage Carlsen2, Sigmundur Sigfússon3, Andrés Magnússon1,2

1Geðdeild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri

steinnstein@gmail.com

Inngangur: Áfengis- og vímuefnaneysla er alvarlegt heilsufarsvandamál á Íslandi, sem leiðir til ótímabærs dauða ungra einstaklinga og mikils kostnaðar fyrir samfélagið ekki síst vegna álags á sjúkrahús og geðdeildir. Mikill kynjamunur hefur verið á tíðni fíknisjúkdóma, sérstaklega hefur áfengisneysla verið meiri hjá körlum. Markmið þessarar rannsóknar var að greina breytingar í fjölda innlagðra sjúklinga með fíknigreiningu yfir 27 ára tímabil með sérstakri áherslu á kynjahlutföll.

Efniviður og aðferðir:Rannsóknin byggir á tölum Hagstofu Íslands varðandi áfengissölu og gagnagrunni yfir allar innlagnir á geðdeildir á Íslandi síðastliðin 27 ár. Borinn var saman fjöldi innlagðra einstaklinga með fíknisjúkdóms meðal karla og kvenna og hvort breyting á kynjahlutfalli hefði átt sér stað. Til þess að vera skilgreindur með fíknisjúkdóm í þessari rannsókn þurfti einstaklingur að fá greiningu úr flokki geð- og atferlisraskana af völdum geðvirkra efna (samkvæmt ICD-9 eða 10) á gefnu ári (tóbaksfíkn undanskilin).

Niðurstöður: Árleg áfengisneysla hreins vínanda jókst úr 4,3 í 7,5 lítra á hvern einstakling yfir 15 ára aldri á rannsóknartímabilinu. Síðustu 27 ár hefur hlutfall innlagna vegna fíknisjúkdóma sífellt aukist á meðan að innlagnir vegna annarra geðkvilla hafa hlutfallslega minnkað. Fyrir 27 árum síðan var kynjadreifing þeirra sem lögðust inn á geðdeild vegna fíknisjúkdóma þrír karlar fyrir hverja konu, en nú er hlutfallið þrír karlar fyrir hverjar tvær konur.

Ályktanir: Fíknisjúkdómar hafa orðið stöðugt algengari ástæða fyrir innlögnum á geðdeildir. Aukin neysla kvenna skýrir að mestu leyti þessa þróun og hefur kynjamunur minnkað á tímabilinu. Sennilega skýrir breytt samfélagsleg staða kvenna mest þessa breytingu.

 

E 65 Hafa lögleg vanabindandi efni áhrif á vonleysi og sjálfskaða hjá einstaklingum sem leita til heilsugæslunnar eða á göngudeild geðsviðs?

Jón Áki Jensson1, Hafrún Kristjánsdóttir2, Jón Friðrik Sigurðsson1,2, Engilbert Sigurðsson1,2

1Læknadeild, 2geðsvið Landspítala

engilbs@landspitali.is

Inngangur: Markmið þessarar rannsóknar er að kanna tengsl notkunar áfengis og tóbaks við vonleysi og sjálfskaða hjá einstaklingum sem leita til heilsugæslunnar vegna algengra tilfinningavandamála svo sem þunglyndis og kvíða. Aðaltilgáta okkar var sú að regluleg notkun áfengis yki líkur á vonleysi, sjálfsvígshugsunum og sjálfsskaða. Við settum einnig fram þá tilgátu að reykingar hefðu ekki slík áhrif.

Efniviður og aðferðir: Úrtakið (n=640) var valið með þeim hætti að tveir þriðju komu inn í rannsóknina að tilvísun heilsugæslulækna á höfuðborgarsvæðinu og þriðjungur kom að tilvísun göngudeildar geðsviðs. Þessir einstaklingar höfðu þunglyndis- og/eða kvíðaeinkenni og var vísað í hópmeðferð sem byggði á hugrænni atferlisnálgun. Meðferðin varði í fimm vikur, tvo tíma í hvert skipti. Fyrir meðferð og reglulega meðan á meðferðinni stóð voru notaðir staðlaðir spurningalistar til að meta þunglyndis- og kvíðaeinkenni auk þess sem lýðfræðilegum upplýsingum var safnað um þátttakendur.

Niðurstöður: Einstaklingar sem notuðu áfengi „alltaf“ eða „oft“ til að minnka vanlíðan voru marktækt líklegri til að þjást af miklu vonleysi en aðrir. Sama gilti um sjálfsvígshugsanir og sjálfsskaða. Þegar allir sem reykja voru metnir án tillits til áfengisneyslu fengust sambærilegar niðurstöður nema varðandi sjálfsskaða, en þar voru tengslin tölfræðilega ómarktæk. Tengslin við reykingar héldust áfram tölfræðilega marktæk þrátt fyrir að einstaklingar sem notuðu áfengi reglulega væru ekki teknir með, en voru sem fyrr ómarktæk varðandi sjálfsskaða.

Ályktanir:Samkvæmt þessum niðurstöðum virðast reykingar hafa sambærileg tengsl við þekkta áhættuþætti sjálfsvíga og áfengi í þessu þýði.

 

E 66 Rannsókn á aldursákvörðunum af tönnum

Sigríður Rósa Víðisdóttir, Svend Richter

Tannlækningastofnun, tannlæknadeild HÍ

srv2@hi.is

Inngangur:Ekki hefur fyrr verið gerð rannsókn hér á landi á tannþroska íslenskra barna og ungmenna með tilliti til aldursgreiningar út frá tönnum. Rannsókn þessi mun gagnast íslenskum réttartannlæknum við aldursgreiningar, öðrum tannlæknum og öðrum heilbrigðisstéttum sem fjalla um þroska barna og ungmenna. Markmið rannsóknarinnar er einnig að bera saman niðurstöður við sambærilegar erlendar rannsóknir og kanna hvort þær aðferðir við aldursgreiningar, sem mest eru notaðar á Vesturlöndum, gildi fyrir íslenskt þýði.

Efniviður og aðferðir: Þroskastig allra tanna, alls um 30 þúsund, var rannsakað af breiðmyndum (orthophan röntgenmyndum) af 1.010 íslenskum börnum. Af þeim voru 37 útilokaðar. Úrtakið var 500 stúlkur og 473 drengir á aldrinum 2-25 ára. Notuð voru þroskastig Havikko til aldursákvörðunar. Gerð var forrannsókn (pilot study) á 100 myndum, 300 myndir voru skoðaðar bæði hægra og vinstra megin og 710 voru skoðaðar aðeins hægra megin.

Niðurstöður: Stúlkur eru fyrr í tannþroska en drengir. Ekki reyndist marktækur munur á tannþroska í hægri og vinstri hlið. Þroskastig tanna í íslensku þýði virðist vera svipað og í öðrum vestrænum löndum.

Ályktanir: Niðurstöður sýna að aðferðir Havikko og Demirjan, sem mest hafa verið notaðar hér á landi, henta vel til aldursgreiningar íslenskra barna og ungmenna, svo og aðferð Kullman til aldursgreiningar út frá endajöxlum.

 

E 67 Rými í tannbogum. Langtímaþróun með eða án tannréttingar

Teitur Jónsson1, Þórður Eydal Magnússon2

1Tannlæknadeild HÍ, 2prófessor emeritus

tj@hi.is

Inngangur: Í rannsókninni voru skoðaðar langtímabreytingar á þrengslum og gleiðstöðu í tannbogum og þær bornar saman hjá þeim sem fóru í tannréttingu og þeim sem fóru ekki. Markmiðið var að meta vægi tannréttingar í samanburði við almenna, langvarandi bitþróun, þar sem tannskipti, öndunarmunstur, kjálkavöxtur og mjúkvefjaþrýstingur eru talin meðal áhrifaþátta.

Efniviður og aðferðir:Úr stóru slembiúrtaki voru valin 308 börn og unglingar á aldrinum 8-17 ára. Þau voru fyrst skoðuð klínískt á tannskiptaaldri eða að nýlega loknum tannskiptum og aftur á sama hátt 25 árum síðar, þá 31-44 ára gömul. Í þeim hluta hópsins sem hafði farið í tannréttingu með föstum eða lausum tækjum á tímabilinu frá fyrri skoðuninni til þeirrar seinni voru 36 konur og 22 karlar, eða alls 58. Í samanburðarhópnum voru 160 konur og 90 karlar, eða alls 250 sem höfðu ekki farið í tannréttingu. Allir voru fulltenntir við fyrri og seinni skoðun, að frátöldum undirhópi 19 einstaklinga af 58 í meðferðarhópnum þar sem úrdráttur framjaxla hafði verið liður í tannréttingu. Notuð var stöðluð skráningaraðferð dr. Björk og miðað við 2 mm frávik í rými.

Niðurstöður: Marktæk minnkun varð á tíðni gleiðstöðu í framtannasvæði efri góms hjá þeim sem fóru í tannréttingu (úr 15,5% í 3,4%) og einnig hjá samanburðarhópnum (úr 11,6% í 2,8%). Marktækur munur var á þeim sem fóru í tannréttingu án úrdráttar og samanburðarhópnum varðandi þrengsli í framtannasvæði neðri góms. Hjá fyrri hópnum var jókst tíðni úr 2,6% í 28,2%, en hjá samanburðarhópnum úr 8,8 í 15,6%. Hjá þeim sem fóru í tannréttingu með úrdrætti minnkaði tíðni þrengsla í efri tannboganum marktækt miðað við samanburðarhópinn.

Ályktanir: Þegar horft er yfir tímabilið frá unglingsaldri til fullorðinsára sést að langvarandi áhrif almennra þroskaþátta, skipta miklu máli varðandi rými í tannbogum. Tannrétting og úrdráttur hefur þó veruleg og varanleg áhrif á vissa þætti rýmisþróunar.

 

E 68 Langtímaþróun bitskekkju með eða án tannréttingar

Teitur Jónsson1, Karl Örn Karlsson1, Björn Ragnarsson1, Þórður Eydal Magnússon2

1Tannlæknadeild HÍ, 2prófessor emeritus

tj@hi.is

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að kanna langtímabreytingar á vissum þáttum tann- og bitskekkju og bera saman þróunina hjá þeim sem fóru í tannréttingu og þeim sem fóru ekki. Leitað var svara við spurningunni um varanleg áhrif tannréttinga á langtímaþróun bits og tannstöðu.

Efniviður og aðferðir: Í upphaflegu slembiúrtaki rannsóknarinnar var 1641 grunnskólabarn í Reykjavík, en í þessum hluta hennar er lýst bitþróun 308 einstaklinga úr þeim hópi. Klínísk skoðun var gerð á 112 drengjum og 196 stúlkum á tannskiptaaldri eða að nýlega loknum tannskiptum og aftur á sama hátt 25 árum síðar. Við seinni skoðunina höfðu 58 farið í tannréttingu með föstum eða lausum tækjum, þar af 39 án úrdráttar á tönnum. Í samanburðarhópnum voru 250 einstaklingar sem höfðu ekki farið í tannréttingu. Allir voru fulltenntir við fyrri og seinni skoðun, að frátöldum undirhópi 19 einstaklinga þar sem úrdráttur framjaxla hafði verið liður í tannréttingu.

Niðurstöður: Tíðni lárétts yfirbits minnkaði marktækt hjá samanburðarhópnum og einnig hjá báðum meðferðarhópum, það er hjá 39 án úrdráttar og hjá 19 með úrdrætti í tengslum við tannréttingu. Tíðni distalbits á jöxlum minnkaði marktækt aðeins hjá þeim 39 sem fóru í tannréttingu án úrdráttar á tönnum. Samanburður á hópum sýndi að þróun yfirbits var marktækt hagstæðari með tannréttingu, (32,8% lækkun á tíðni), hvort sem hún var gerð með eða án úrdráttar, heldur en hjá samanburðarhópnum (4,8% lækkun á tíðni), Einnig sást að þróun distalbits á jöxlum var marktækt betri hjá þeim sem fóru í tannréttingu án úrdráttar (25,5% lækkun á tíðni), heldur en hjá samanburðarhópnum (4,4% lækkun á tíðni). Þróun krossbits á jöxlum var hins vegar marktækt verri hjá þeim sem fóru í meðferð án úrdráttar, heldur en hjá samanburðarhópnum.

Ályktanir: Rannsóknin sýndi að ávinningur af tannréttingu, með eða án úrdráttar, er varanlegur varðandi yfirbit og að ávinningur varðandi distalbit er varanlegur varðandi distalbit á jöxlum hjá þeim sem fara í tannréttingu án úrdráttar.

 

E 69 Áhrif tveggja ára lífsstílsíhlutunar í skólum á holdafar, þrek og hreyfingu sjö til níu ára barna

Kristján Þór Magnússon1, Hannes Hrafnkelsson2, Ingvar Sigurgeirsson3, Þórarinn Sveinson4, Erlingur Jóhannsson1

1Rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræðum HÍ, 2Heilsugæslunni Seltjarnarnesi og læknadeild HÍ, 3kennaradeild HÍ, 4rannsóknarstofu í hreyfivísindum HÍ

ktm@hi.is

Inngangur: Aukin ofþyngd og hreyfingarleysi meðal ungra barna kallar á raunhæfar aðgerðir sem miða að því að sporna gegn þessari þróun. Markmið rannsóknarinnar var að innleiða íhlutunaraðgerðir í tvö skólaár og á þeim tíma kanna breytingar á líkamsástandi og lífsstílstengdri hegðun barnanna.

Efniviður og aðferðir: Notast var við hálftilraunasnið, sex skólar voru valdir til þátttöku og þeim slembiraðað í íhlutunarhóp og viðmiðunarhóp. Alls var 321 barni fæddu 1999 boðin þátttaka við upphaf rannsóknar haustið 2006. Þátttakendur voru mældir með tilliti til holdafars, hreyfingar og þreks, auk annarra þátta við upphaf, um miðbik rannsóknarinnar og við lok hennar. Tveggja ára íhlutunin byggði á því að efla þekkingu, færni og samstarf kennara íhlutunarskólanna þannig að þeir sjálfir ættu auðveldara með að samþætta hreyfingu og hollan lífsstíl almennu skólastarfi.

Niðurstöður: Um miðbik rannsóknarinnar jókst hreyfing barna í íhlutunarskólunum marktækt meira á skólatíma -95% öryggismörk (ÖM) (2,36; 4,90 log cpm), samanborið við hreyfingu barna í viðmiðunarskólunum. Hreyfing um helgar var meiri meðal barna íhlutunarskólanna við lok rannsóknarinnar, samanborið við viðmiðunarhópinn -95% öryggismörk (0,25; 3,53 log cpm). Þrek íhlutunarhóps jókst meira en þrek viðmiðunarhópsins yfir tveggja ára íhlutunartímabilið -95% öryggismörk (0,04; 0,31 vött/kg). Ekki varð mismunandi breyting á holdafari þátttakenda eftir því hvorum hópnum þeir tilheyrðu.

Ályktanir: Jákvæðar niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að með aukinni hreyfingu í skólastarfi megi jafnvel bæta þrek ungra barna á skólaaldri umtalsvert. Sérstaklega þeirra sem hafa slakt líkamlegt þrek fyrir.


E 70 Áhrif íhlutandi rannsóknar á ávaxta- og grænmetisneyslu barna í skóla og heima.

Ása G. Kristjánsdóttir1, Erna Héðinsdóttir1, Ingibjörg Gunnarsdóttir1, Erlingur Jóhannsson2, Inga Þórsdóttir1

1Rannsóknastofu í næringarfræði Landspítala og matvæla- og næringarfræðideild HÍ, 2menntavísindasviði HÍ

asagk@landspitali.is

Inngangur: Hægt er að ná til breiðs hóps í þjóðfélaginu í gegnum grunnskólann. Hann getur því gengt mikilvægu hlutverki í að jafna stöðu barna meðal annars með tilliti til aðgengis að hollum mat. Heilsueflandi rannsókn (íhlutun) í grunnskólum í Reykjavík hafði jákvæð áhrif á ávaxta- og grænmetisneyslu barna. Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif íhlutunar á ávaxta- og grænmetisneyslu þeirra sem borðuðu minnst við upphaf íhlutunar samanborið við þá sem borðuðu mest. Meta vægi nestistímans, skólamáltíðarinnar og heimilisins á ávaxta- og grænmetisneyslu skólabarna. Einnig að rannsaka mögulegan kynjamun.

Efniviður og aðferðir: Mataræði sjö til níu ára barna (n=105) var metið með þriggja daga nákvæmri fæðuskráningu, fyrir og eftir íhlutun, 2006-2008, í þremur skólum en þrír skólar voru til viðmiðunar. Tími dags og staðsetning neyslu var skráð.

Niðurstöður: Í upphafi rannsóknarinnar borðuðu örfá börn ráðlagt magn af grænmeti og minna en 20% barnanna það sem ráðlagt er af ávöxtum. Sá þriðjungur íhlutunarhópsins sem borðaði minnst af grænmeti og ávöxtum í upphafi (að meðaltali um 54 g/dag á skóladegi) jók neyslu sína hvað mest (að meðaltali um 109 g/dag í 163 g/dag, P<0,001). Ekki varð marktæk breyting meðal þess þriðjungs sem borðaði mest í upphafi. Í viðmiðunarhópnum minnkaði ávaxta- og grænmetisneysla meðal þeirra sem borðuðu mest í upphafi, en engin breyting var á neyslu þeirra sem borðuðu minnst. Aukning á ávaxtaneyslu var aðallega í nestistímanum og mest meðal drengja, meðalaukning um 68 g/dag (P=0,001). Aukning á grænmetisneyslu var dreifðari yfir máltíðir dagsins. Ávaxtaneysla stúlkna í viðmiðunarhópnum minnkaði að meðaltali um 72 g/dag (P<0,001) í nestistímanum.

Ályktanir: Íhlutunin hafði mest áhrif á þá sem borðuðu minnst. Tækifæri til þess að auka ávaxta- og grænmetisneyslu skólabarna eru í öllum máltíðum.

 

E 71 Að stilla skapið sitt. Athugun á árangri hópmeðferðar fyrir bráðlynd börn

Urður Njarðvík, Hrönn Smáradóttir

Sálfræðideild HÍ

urdurn@hi.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að athuga árangur hópmeðferðar fyrir börn sem lenda oft í árekstrum við jafnaldra sína eða missa oft stjórn á skapi sínu. Nokkrar hópmeðferðir hafa verið þróaðar til að kenna börnum reiðistjórnun en þær eru ætlaðar börnum með andfélagslega hegðun og mikil áhersla lögð á bætta siðferðiskennd. Ung börn hafa mjög takmarkaðar leiðir til að tjá vanlíðan sína og brýst hún gjarnan út sem pirringur og mótþrói. Skapofsaköst geta til dæmis verið vegna þunglyndis, kvíða, námserfiðleika eða félagslegs vanda og því er mikilvægt að finna leið til að aðstoða börn sem sýna skapbresti án þess að gert sé ráð fyrir að orsökin sé andfélagsleg.

Efniviður og aðferðir: Áttatíu börnum úr fimm grunnskólum var raðað tilviljanakennt í tilraunahóp og samanburðarhóp. Börnin voru á aldrinum 7-11 ára og hafði verið vísað til skólasálfræðings vegna hegðunarvanda. Hópurinn var blanda af börnum sem höfðu fengið ýmsar greiningar og börnum sem enn biðu eftir þjónustu. Námskeiðið samanstóð af sex vikulegum tímum sem haldnir voru á skólatíma. Áhersla var lögð á lausnamiðaða hugsun og ýmsar leiðir til að stýra viðbrögðum sínum. Spurningalistarnir SDQ, DBRS, Hegðun á heimili og Ofvirknikvarðinn voru lagðir fyrir foreldra og kennara fyrir og eftir námskeið.

Niðurstöður:Samvirkniáhrif milli tíma og hópa voru marktæk og marktækur munur var milli tilrauna- og samanburðarhóps að námskeiðinu loknu. Börnin í tilraunahópnum sýndu bætta hegðun í skólanum, meðal annars minni mótþróa og færri skapofsaköst.

Ályktanir: Námskeiðið Að stilla skapið sitt er árangursrík leið til að bæta hegðun bráðlyndra barna og hentar börnum með margvísleg vandamál. Rannsóknin sýnir einnig að stutt inngrip í skólanum getur verið gagnlegt á meðan barn bíður eftir þjónustu.

 

E 72 Brunaslys af völdum kranavatns

Lára G. Sigurðardóttir1,2, Jens Kjartansson2,3

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum, 2læknadeild HÍ, 3Landspítali

lara@sessionimpossible.com

Inngangur: Hitaveituvatn er oft um 70-80°C heitt og getur valdið alvarlegum bruna á sekúndubroti en örugg hitamörk eru við 43°C. Tíðni brunaslysa er 14 sinnum hærri meðal fullorðinna á Íslandi en á Bretlandi miðað við höfðatölu. Tilgangurinn með rannsókninni var að skoða faraldsfræði brunaslysa af völdum kranavatns á Íslandi en slík samantekt hefur ekki verið gerð áður.

Efniviður og aðferðir: Sjúkraskrár einstaklinga sem komu á Landspítalann með brunasár eftir kranavatn voru skoðaðar frá fimm ára tímabili (2002-2006).

Niðurstöður: Á tímabilinu voru 25 innlagnir á Landspítala vegna brunaslysa sem rekja mátti til kranavatns. Flest slysin urðu á baðherbergjum. Börn undir fjögurra ára voru fjórðungur innlagna (n=6; 24%) og af fullorðnum voru flestir með annan sjúkdóm (n=11; 61%) vo sem flogaveiki. Allir voru með II. eða III. stigs brunasár og nam útbreiðslan 2-60% af líkamsyfirborði. Um fjórðungur (n=6; 24%) gekkst undir samtals 20 aðgerðir en þar af var eitt barn sem fór í 12 aðgerðir.

Ályktanir: Alvarlegustu brunaslysin verða á baðherbergjum, hjá börnum undir fjögurra ára og fullorðnum með annan sjúkdóm. Fækka má brunaslysum með því að lækka hitann við inntak í 60°C og nota hitastýrð blöndunartæki á öllum krönum, sérstaklega á baðherbergjum.

 

E 73 Fléttuefnið úsnínsýra hefur áhrif á virkni hvatbera og eykur sjálfsát í krabbameinsfrumum

Margrét Bessadóttir1,2, Már Egilsson1, Eydís Einarsdóttir2,Guðrún Björnsdóttir2, Íris H. Magnúsdóttir2, Sesselja Ómarsdóttir2, Helga M. Ögmundsdóttir1

1Rannsóknarstofu í krabbameinsfræðum, læknadeild og 2lyfjafræðideild HÍ

mab24@hi.is

Inngangur: Fléttuefnið úsnínsýra (US) er eitt innihaldsefna í fitubrennsluefninu Lipokinetix. Úsnínsýra veldur minnkun á ATP framleiðslu í lifrarfrumum hvatbera, sem gæti verið tengd eiginleikum úsnínsýru til að skutla prótónum yfir frumuhimnur. Úsnínsýra hefur einnig hamlandi áhrif á vöxt og frumuskiptingu krabbameinsfrumna en hvetur ekki til stýrðs frumudauða. Ein viðbragðsleið frumna við miklu álagi á efna- og orkuskipti er sjálfsát sem er fyrirbæri sem lengi hefur verið þekkt en hlýtur vaxandi athygli vegna tengsla við öldrun og krabbameinsmyndun. Markmið verkefnisins var að kanna breytingar á himnuspennu hvatbera og mæla breytingar á ATP gildum í brjósta- og briskrabbameinsfrumum sem meðhöndlaðar voru með úsnínsýru. Einnig að kanna hvort frumur meðhöndlaðar með úsnínsýru fari í sjálfsát.

Efniviður og aðferðir: Breyting á himnuspennu hvatbera var metin með JC-1 litun og ATP gildi mæld með litrófssjá. Sjálfsát var metið með skoðun í rafeindasmásjá, með mótefnalitun með LC-3, og með Western blot mati á sjálfsátsbólu flutningspróteininu p62.

Niðurstöður: Eftir 24 tíma meðhöndlun með US (5 µg/mL og 10 µg/mL) kom fram minnkun á himnuspennu hvatbera og lækkun á ATP gildum í brjósta- og briskrabbameinsfrumum. Greinileg merki sjálfsáts sáust eftir meðhöndlun með úsnínsýru, en niðurstöður gefa til kynna að ekki verði niðurbrot á p62. Í framhaldinu er verið að kanna samruna sjálfsátsbóla við súr lýsosóm með plasmíði með samsettu geni mRFP-GFP-LC3 og sérlitun með lýsótracker til að kanna hvort fjöldi súrra lýsósóma eykst eftir meðhöndlun með úsnínsýru.

Ályktanir: Meðhöndlun með úsnínsýru veldur minnkun í himnuspennu hvatbera sem getur verið ástæða fyrir lækkun á ATP gildum í krabbameinsfrumunum. Þessi ferli koma mögulega af stað sjálfsáti sem sést eftir meðhöndlun með úsnínsýru en að öllum líkindum verður ekki niðurbrot á innihaldi sjálfsátsbóla.

 

E 74 Sérhæfing stofnfrumna úr fósturvísum manna í frumur hjarta- og æðakerfis

Lena Valdimarsdóttir, Arna Rún Ómarsdóttir, Helga Eyja Hrafnkelsdóttir, Guðrún Valdimarsdóttir

Lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeilar HÍ

lev1@hi.is

Inngangur: Stofnfrumur úr fósturvísum manna (hES frumur) eru fjölhæfar frumur sem geta endurnýjast eða sérhæfst í ýmsar gerðir frumna. Rannsóknir hafa sýnt fram á að TGFbfjölskyldan gegni þýðingarmiklu hlutverki í miðlagssérhæfingu músa, þar á meðal í frumur hjarta- og æðakerfis. Innan TGFbfjölskyldunnar eru tvær meginboðleiðir; TGFb og BMP boðleiðirnar. Undanfarin misseri höfum við rannsakað áhrif þessara tveggja boðleiða á fjölhæfar hES frumur og miðlagstengda sérhæfingu þeirra. Einnig höfum við kannað áhrif þeirra á ferli sem kallast epithelial-mesenchymal transition (EMT).

Efniviður og aðferðir: Í tilraunum hefur verið notast við þrjár mismunandi hES frumulínur; HUES9, HES2 og H1. Til að kanna áhrif mismunandi meðlima TGFbfjölskyldunnar á hES frumur höfum við gert tilraunir þar sem ólíkir meðlimir hennar hafa verið örvaðir og hindraðir. Greiningar úr slíkum tilraunum hafa aðallega farið fram með western blottun og flúrljómandi ónæmislitunum. Nú stendur einnig yfir vinna við að búa til hES frumulínu sem gerir okkur kleift að fylgjast sérstaklega með BMP boðleiðinni, en í hana verður innlimað BMP responsive element sem er tengt við GFP.

Niðurstöður: Niðurstöður okkar hafa sýnt fram á að TGFb boðleiðin heldur hES frumum ósérhæfðum í gegnum umritunarþættina Smad 2/3. BMP boðleiðin stuðlar hins vegar að sérhæfingu hES frumna í gegnum umritunarþættina Smad 1/5/8. Greiningar okkar á BMP tengdri sérhæfingu hafa sýnt fram á að hún fer í átt að miðlagi og getur stuðlað að sérhæfingu í frumur hjarta- og æðakerfis. Niðurstöður okkar benda einnig til þess að BMP boðleiðin hvati EMT sem er mikilvægt ferli í fósturþroska.

Ályktanir: Nú stendur yfir vinna við að búa til hES frumulínu sem gerir okkur kleift að fylgjast sérstaklega með BMP boðleiðinni í rauntíma, en í hana verður innlimað BMP responsive element sem er tengt við GFP. BMP hvötuðu EMT virðist vera miðlað af SLUG umritunarþættinum og framundan eru tilraunir sem miða að því að skýra þessi tengsl nánar.

 

E 75 Hlutverk microRNA í miðlagssérhæfingu stofnfrumna úr fósturvísum manna

Arna Rún Ómarsdóttir1,2, Lena Valdimarsdóttir2, Helga Eyja Hrafnkelsdóttir2, Zophonías O. Jónsson1, Guðrún Valdimarsdóttir2

1Líf- og umhverfisvísindadeild og 2 Lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeildar HÍ

aro1@hi.is

Inngangur: Stofnfrumur úr fósturvísum manna (hES) eru fjölhæfar frumur sem hafa þann einstaka hæfileika að geta endurnýjast eða sérhæfst í ýmsar gerðir frumna. MicroRNA (miRNA) eru um 21-25 núkleótíð að stærð og hafa áhrif á mRNA þýðingu, frumudauða og þroskun. Kortlagning á mistjáðum miRNA á ólíkum sérhæfingarstigum hES frumna í hjartavöðvafrumur (cardiomyocytes, CM) er því þýðingarmikil. Rannsóknir á músum hafa bent til þess að miR-126 gegni mikilvægu hlutverki í miðlagsþroskun. Ósérhæfðar hES frumur voru því sýktar með miR-126-GFP lentiveiru og fylgst með áhrifum á miðlagssérhæfingu.

Efniviður og aðferðir: hES frumulínunum HUES9 og HES2 var haldið ósérhæfðum með ræktun á MEF frumulagi í sérstöku æti. Þrjár sérhæfingaraðferðir voru notaðar sem byggjast allar á frumukúlum (EBs). RNA var einangrað úr ósérhæfðum frumum, forverafrumum CM og sláandi CM. RNA var síðan sent til Exiqon í miRNA greiningu. Tveir vektorar með miR-126-GFP voru notaðir til að búa til lentiveiruagnir.

Niðurstöður: Spin EBs sérhæfingaraðferðin gaf bestar heimtur á sláandi CM. BMP4 ýtti undir miðlagssérhæfingu hES frumna með því að auka tjáningu gena eins og T-Brachyury, ISLET-1 og HAND1. Til staðfestingar á hES frumusérhæfingu í forvera CM og sláandi CM hafa ákveðin kenniprótein sem tilheyra þessum frumugerðum verið athuguð með PCR og FACS. Tekist hefur að búa til veiruagnir sem innihalda miR-126-GFP innskot. Við munum sýna niðurstöður á áhrifum miR-126 á hES frumuhegðun.

Ályktanir: Áhugi okkar beinist að þætti miRNA í sérhæfingu CM. Okkur hefur tekist að sérhæfa hES frumur í sláandi hjartavöðvafrumur. Við höfum einangrað RNA úr ósérhæfðum hES, forvera CM og sláandi CM og sent það til miRNA greiningar.

 

E 76 Arfgeng heilablæðing. Meinafræðirannsóknir á heilaslagæðum sjúklinga

Ásbjörg Ósk Snorradóttir1, Helgi J. Ísaksson2, Birkir Þór Bragason1, Elías Ólafsson3, Ástríður Pálsdóttir1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2rannsóknarstofu í meinafræði og 3taugalækningadeild B2 Landspítala

aos3@hi.is

Inngangur: Arfgeng heilablæðing er séríslenskur erfðasjúkdómur sem stafar af stökkbreytingu í cystatín C geni. Stökkbreytingin finnst eingöngu í arfberum í vissum ættum þar sem hægt er að rekja stökkbreytinguna í gegnum fjölskyldur. Sjúkdómurinn erfist ríkjandi, ókynbundið og veldur heilablæðingum í arfberum. Stökkbreytta próteinið hleðst upp í heilaslagæðum arfbera sem mýlildi (amyloid) og sléttvöðvafrumur eru að mestu og stundum að öllu leyti horfnar úr æðaveggjunum. Arfberar deyja að meðaltali flestir um þrítugt en einstaka arfberar lifa lengur. Sjúklingar hafa einungis þriðjung af eðlilegu magni cystatín C í mænuvökva. Mögulega er þessi cystatín C skortur að örva aðra boðferla í arfberum en sjúklingum.

Efniviður og aðferðir:Heilasneiðar úr 16 sjúklingum og átta viðmiðum voru notaðar í rannsókninni. Gerðar voru ýmsar vefjalitanir og ónæmislitanir til þess að kanna hvaða utanfrumuefni og prótein væru til staðar í heilaæðum og vefnum í kring. Einnig var ónæmislitað fyrir frumum ónæmiskerfisins, svo sem makrófögum og stjörnufrumum (astrocytes).

Niðurstöður: Massons trichrome litun fyrir bandvef sýndi bandvefsuppsöfnun í slagæðarveggjum hjá sjúklingum. Nánari greining sýndi að um collagen IV var að ræða sem kemur heim og saman við niðurstöður úr microarray rannsókn þar sem collagen IV er martækt upptjáð í arfberum. Í tengslum við þetta var connective tissue growth factor (CTGF) einnig skoðað og í sumum tilfellum var mikil CTGF litun í kringum æðar sjúklinga. Makrófagar sáust utan á æðaveggjum og stjörnufrumur umkringdu slagæðar hjá sjúklingum.

Ályktanir: Auk mýlildis uppsöfnunar í heilaslagæðum sjúklinga er mikil uppsöfnun utanfrumuefna. Þessar miklu vefjaskemmdir virðast hafa stuðlað að íferð frumna ónæmiskerfisins inni í heilann, svo sem makrófaga og stjörnufrumna.

 

E 77 Rannsóknir á meðhöndlun cystatín C og heildargenatjáningu í húðfíbróblöstum CST3-L68Q arfbera

Birkir Þór Bragason1, Ásbjörg Ósk Snorradóttir1, Gustav Östner1,3, Björn Þór Aðalsteinsson1, Elías Ólafsson2, Ástríður Pálsdóttir1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2taugalækningadeild B2 Landspítala, 3Dept. of Clinical Chemistry and Pharmacology háskólasjúkrahúsinu í Lundi

birkirbr@hi.is

Inngangur: Arfgeng heilablæðing er séríslenskur mýlildissjúkdómur sem stafar af stökkbreytingu (L68Q) í cystatín C geninu, CST3. Stökkbreytt cystatín C myndar mýlildi í slagæðaveggjum heilans þar sem uppsöfnun þess, ásamt uppsöfnun utanfrumuefna, veldur heilablæðingum í ungu fólki. Við höfum framkvæmt samanburðarrannsóknir á húðfíbróblöstum arfbera og viðmiða með það að markmiði að skilgreina frávik með tilliti til meðhöndlunar stökkbreytts cystatín C og heildargenatjáningar frumnanna, sem gætu legið til grundvallar sjúkdómsmynd arfgengrar heilablæðingar.

Efniviður og aðferðir: Notaðir voru húðfíbróblastar úr níu arfberum og sex viðmiðum. Meðhöndlun og staðsetning cystatín C prótíns var greind með ónæmislitunum, prótínþrykki og ELISA. Genatjáning í frumunum var rannsökuð með microarray (expression microarray (NimbleGen)) og með rauntíma PCRi.

Niðurstöður: Niðurstöðurnar benda til þess að gæðaeftirlitskerfi arfberafrumnanna sendi L68Q cystatín C að einhverju leyti til niðurbrots í ubiquitin-próteasóm kerfinu og það leiði til þess að magn cystatín C í seyti arfberafrumnanna sé marktækt lægra en í seyti viðmiðanna. Hlutfallinu svipar til þess munar sem er á magni cystatín C í mænuvökva arfbera og viðmiða. Samanburður á heildargenatjáningu frumna úr arfberum og viðmiðum sýndi að tjáning 257 gena var marktækt frábrugðin í arfberunum (p<0,001; 128 upptjáð, 129 niðurtjáð).

Ályktanir: Genatjáning arfberafrumnanna bendir til þess að þær hafi svipgerð mýófíbróblasta, sem er sérhæfð viðgerðarfrumugerð með mikla seytingu utanfrumuefna. Þessi svipgerð frumunnar kann að orsakast af lægra utanfrumumagni cystatín C. Þetta hefur skírskotun til meingerðar sjúkdómsins þar sem mikil uppsöfnun utanfrumuefna (til dæmis kollagens) greinist í æðaveggjum heilans ásamt lægra cystatín C magni í mænuvökva.

 

E 78 Hreyfingar deilikorna við aðskilnað dótturfrumna

Ásta Björk Jónsdóttir1,2, Roeland W. Dirks2, Hans Vrolijk2, Helga M. Ögmundsdóttir1,3, Hans J. Tanke2, Jórunn E. Eyfjörð1,3, Karoly Szuahi2

1Rannsóknastofu í krabbameinsfræðum læknadeild HÍ, 2Dept. of Molecular Cell Biology, Leiden University Medical Center Hollandi, 3læknadeild HÍ

ABJ26@hutchison-mrc.cam.ac.uk

Inngangur: Mítósa er sá fasi frumuskiptingaferilsins þar sem litningum frumna er deilt jafnt í tvær dótturfrumur. Samhliða lokafasa mítósunnar, nefndur telófasi, hefst aðskilnaður umfrymisins, nefnt frymisskipting (cytokinesis). Hugsanlegt er að deilikorn geislaskauta stuðli að og stjórni frymisskipingu að einhverju leyti. Við upphaf frymisskiptingar aðskiljast deilikornin og haldið hefur verið fram að aðskilnaður dótturfrumna og frymisskipting sé háð því að deilikorn flytjist frá skautum og að skiptimiðju.

Efniviður og aðferðir: Til að rannsaka hlutverk deilikorna við frymisskiptingu voru hreyfingar þeirra kannaðar í þremur frumulínum: manna bandvefsfrumulínunum HeLa og MCF 10A og p53-óvirkri músa-brjóstakrabbameinsfrumulínu KP-7.7. Centrin-1-EGFP og a-Tubulin-mCherry plasmíð voru tjáð í þessum frumulínum til að gera deilikorn og örpíplur sýnileg. Lifandi frumur í skiptingu, sem tjáðu þessi plasmíð voru myndaðar á 10 mínútna fresti í allt að sex klukkustundir með smásjártækni til myndgreiningar á lifandi frumum.

Niðurstöður: Deilikorn sem skildust að í telófasa voru mjög hreyfanleg og hreyfðust þau 1) eftir nýmynduðum kjarnahjúpnum, 2) óreglulega eða 3) meðfram örpíplum sem mynduðu spóluás (spindle axis). Deilikorn sást sjaldan við skiptimiðju áður en dótturfrumurnar aðskildust og var mikill munur þar á á milli frumulína.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að deilidkorn eru mjög hreyfanleg meðan á frymisskiptingu stendur og gefa til kynna að flutningur deilikorns eða deilikorna að skiptimiðju sé ekki nauðsynlegur fyrir aðskilnað dótturfrumna eins og haldið hefur verið fram. Við drögum þær ályktanir að hreyfingar deilikorna séu tengdar örpíplum og að aðskilnaður dótturfrumna sé háðari öðrum ferlum en staðsetningu deilikorna.

 

E 79 Boðleiðin LKB1 – AMPK – eNOS virkjast í æðaþeli þegar mest á reynir

Brynhildur Thors1, Haraldur Halldórsson1,2, Guðmundur Þorgeirsson1,2

1Rannsóknarstofu lyfja- og eiturefnafræði HÍ, 2lyflækningadeild Landspítala

gudmth@landspitali.is

Inngangur: Hæfni æðaþels til að mynda NO liggur til grundvallar ýmsum mikilvægum eiginleikum æðaþelsins. Lífhvatinn endothelial NO-synthasi (eNOS) hvatar myndunina og lýtur stjórn margra kínasa þar sem margar boðleiðir koma við sögu. Við kynnum hér „nýja“ boðleið sem virkjast þegar ATP-innihald frumnanna lækkar við örvun þeirra.

Efniviður og aðferðir: Tilraunir voru gerðar á æðaþelsfrumum sem ræktaðar voru úr bláæðum naflastrengja. Ræktaðar æðaþelsfrumur voru örvaðar með trombíni eða histamíni, kínasarnir CaMKK og AMPK hindraðir með sértækum hindrum, tjáning LKB1 og AMPK hindruð með SiRNA, fosfóprótein greind og mæld með sértækum mótefnum og rafdrætti (Western blotting) og NO-framleiðsla metin með mælingu á cGMP í frumunum.

Niðurstöður: Bæði trombín og histamín valda lækkun ATP í frumum sem hafðar eru í ræktunaræti 199 en ekki í ræktunaræti 1640. Í æti 199 veldur hindrun CaMKK (STO-609) hluta-hindrun á fosfórun AMPK en eftir að slökkt er á tjáningu LKB1 verður alger hindrun á AMPK-fosfórun með sama hindra. Þegar slökkt er á tjáningu AMPK með siRNA hindrast fosfórun eNOS að hluta og eftir að slökkt hefur verið á LKB1 með SiRNA verður mikil minnkun í myndun NO. Þegar tilraunirnar eru gerðar í 1640 verður miklu minni myndun á NO og AMPK fosfórast eingöngu fyrir hvatningu CaMKK og hefur við þær aðstæður engin áhrif á fosfórun eNOS eða NO-myndun.

Ályktanir: Ræktunaraðstæður ráða úrslitum um hvaða boðleiðir virkjast við örvun æðaþels með thrombini eða histamíni. Við aðstæður þar sem ATP lækkar við örvun virkjast boðleiðin LKB1 - AMPK - eNOS og eykur NO myndun. Boðleiðin virkjast þannig eingöngu þegar orkubirgðir falla og mest á reynir.

 

E 80 Prótein týrósín fosfatasi 1B og anoikis- frumudauði í stofnfrumum brjóstkirtils

Bylgja Hilmarsdóttir1,2, Valgarður Sigurðsson1,2, Hekla Sigmundsdóttir2,Sævar Ingþórsson1,2, Sigríður Rut Franzdóttir1,2, Magnús K. Magnússon1,2,3, Þórarinn Guðjónsson1,2,4

1Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum Lífvísindasetri Læknagarðs, 2rannsóknastofu í blóðmeinafræði Landspítala, 3rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði HÍ, 4líffærafræði læknadeild HÍ

bylgjah@gmail.com

Inngangur: D492 er brjóstaþekjufrumulína með stofnfrumueiginleika sem búin var til með innskoti á E6 og E7 æxlisgenum frá vörtuveiru 16. Innskotsstaður retróveirunnar í D492 er á litningi 20q13.1, en það svæði er oft magnað upp í brjóstakrabbameini. Það gen sem er næst innskotstað veirunnar er genið sem kóðar fyrir prótein týrósín fosfatasa 1B (PTP1B). Rannsóknir benda til að PTP1B hvati framþróun æxlisvaxtar í ErbB2 jákvæðum brjóstaæxlum og að PTP1B gegni hlutverki í myndun skriðfóta (invadopodia) í krabbameinsfrumum. PTP1B er yfirtjáð í D492 og hindrun á PTP1B veldur frumudauða í D492. D492 er því kjörin frumulína til að rannsaka PTP1B og hlutverk þess í stofnfrumum brjóstkirtilsins og framþróun krabbameina í brjósti.

Efniviður og aðferðir: Í rannsókninni voru frumur ræktaðar í tvívíðri og þrívíðri rækt. Frumur voru meðhöndlaðar með lyfjahindra og einnig var framkvæmd mótefnalitun, Western blettun og flæðifrumusjárgreining.

Niðurstöður: PTP1B hindri framkallar stýrðan frumudauða í D492. Frumudauðinn hefur svipgerð anoikis, sem er stýrður frumudauði sem framkallast þegar fruma missir tengsl við millifrumuefnið. Hindrun á PTP1B í D492 óvirkjar krabbameinsgenið Src, sem hindrar anoikis í krabbameinsfrumum. Hindrun á PTP1B í D492 minnkar einnig tjáningu á E-cadherin, claudin1 og FAK (focal adhesion kinase) en það eru allt prótein sem eru mikilvæg fyrir tengsl frumna sín á milli og/eða við millifrumuefnið.

Ályktanir: Sífellt fleiri vísbendingar koma fram sem benda til að PTP1B gegni mikilvægu hlutverki í brjóstakrabbameinum. Okkar niðurstöður benda til að PTP1B gegni hlutverki í viðhaldi tengipróteina og geri þar með frumum kleift að komast hjá anoikis frumudauða. Áframhaldandi rannsóknir miða að því að rannsaka frekar hlutverk PTP1B í anoikis og skoða önnur prótein sem taka þátt í þeim boðferli.

 

E 81 Aðferðir kerfislífræði notaðar til að spá fyrir um ný lyfjamörk gegn P. aeruginosa í klösum

Gunnar Sigurðsson1, Ines Thiele2

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknarsetri í kerfislíffræði við HÍ

gus19@hi.is

Inngangur: Sýklalyfjaónæmi er hratt vaxandi vandamál í heilbrigðiskerfinu. Bakteríur sem vaxa í klösum eru taldar gegna mikilvægu hlutverki í aðlögunarhæfni baktería og þróun ónæmra stofna. Með aðferðum kerfislíffræðinnar má líkja eftir vexti og efnaskiptum baktería hvort sem þær eru í klösum eða stakar og nota niðurstöðurnar til að finna líkleg lyfjamörk.

Efniviður og aðferðir: Í þessari rannsókn var notast við efnaskiptalíkan af Pseudomonas aeruginosa (PA) og in silico vöxtur bakteríunnar rannsakaður með því að nota skilyrta eftirmyndun.

Niðurstöður: Einkum voru könnuð áhrif genaeyðingar á vöxt baktería undir mismunandi gróðurskilyrðum. Tuttugu og sex gen fundust sem stöðva vöxt PA undir öllum kringumstæðum og hafa enga samsvörun í genamengi manna. Engin gen fundust sem stöðva sértækt fyrir klasavöxt en hins vegar mörg gen sem hægja á vextinum. Einnig var prófað að eyða tveimur genum í einu og með því fundust 17 genasamsetningar úr 21 geni sem stöðvuðu vöxt PA og voru niðurstöðurnar mismunandi fyrir klasa og stakan vöxt PA. Í nokkrum tilvikum var unnt að útskýra mismuninn með ætinu sem var notað til að líkja eftir mismunandi aðstæðum, einnig var greinilegur munur á áhrifum genasamsetninganna með því að breyta súrefnismettuninni. Í öðrum tilfellum fannst engin augljós skýring.

Ályktanir: Þessi rannsókn bendir til að hægt sé að nota efnaskiptalíkön af bakteríum til að finna líkleg lyfjamörk. Þessi aðferð kerfislíffræðinnar getur því reynst öflug við uppgötvun og þróun nýrra sýklalyfja.

 

E 82 Tannsýkla og tannáta. Frá sérhæfðu kenningunni til hinnar vistfræðilegu

Peter Holbrook1, Árni Rafn Rúnarsson1,2, Álfheiður Ástvaldsdóttir1, Viggó Þ. Marteinsson2, Margrét O. Magnúsdóttir1

1Tannlæknadeild HÍ, 2Matís

phol@hi.is

Inngangur: Streptococcus mutans hefur lengi verið talin helsti valdur tannátu en einnig Lactobacillus sem fjölgar við lægra pH í munni þegar tannáta er komin á byrjunarstig. Á Íslandi hefur S. sobrinus einnig verið að finna hjá einstaklingum með háa tíðni tannátu. Þekkt er að tannáta tengist þeim aldri þegar S. mutans kemur í munnflóruna og hafa þessi tengsl mikið verið rannsökuð. Hér hafa rannsóknir meðal annars sýnt að tannátutíðni tengist fjölda S. mutans í munni og að S. mutans frá einstaklingum með mikla tannátu: (i) festast betur á tannglerung; (ii) úrkalkar apatít meira; (iii) hindrar vöxt annarra baktería og (iv) hefur öðruvísi bakteríuvegg. Þetta styrkir sérhæfðu kenninguna um tengsl sérhæfðra baktería við tannátu.

Efniviður og aðferðir:Nýjar aðferðir til að greina tannátu (DIAGNOdent) og samsetningu örvera (16S rRNA) voru notaðar til að skoða tannsýklu í einstaklingum hér á landi.

Niðurstöður: Niðurstöður sýna að fjölbreytileiki örveruflórunnar minnkaði við upphaf tannátu þó engin ein tegund hafi verið yfirgnæfandi. Önnur sameindaerfðafræðileg rannsókn á S. mutans stofnum frá einstaklingum með tannátu annars vegar og enga tannátu hins vegar sýndi að enginn erfðafræðilegur munur var á þessum stofnum.

Ályktanir: Þessi rannsókn bendir til að þó tannáta tengist úrkölkun tannvefs vegna sýrumyndandi baktería sé orsökin aðallega vegna breytinga í samsetningu tannsýklunar vegna vistfræðilegra þátta frekar en fjölgun sérstakra bakteríutegunda eða að erfðafræðilegur munur sé á S. mutans. Nokkur innlend rannsóknarverkefni hafa fylgt þessari þróun á kenningum um tannsýklu og tannátu, frá sérhæfðu kenningunni yfir í vistfræðilegu kenninguna sem almennt er viðurkennd í dag.

 

E 83 Þróun míkrókorna sem innihalda fríar fitusýrur einangraðar úr þorskalýsi og áhrif þeirra á hjúpaðar veirur og gram+ og gram- bakteríur

Fífa Konráðsdóttir1, Þorsteinn Loftsson1, Hilmar Hilmarsson2, Halldór Þormar2, Martha Á. Hjálmarsdóttir2, Arnar Halldórsson3

1Lyfjafræðideild, 2lífeindafræði læknadeild HÍ, 3Lýsi hf.

fifa@hi.is

Inngangur: Markmið verkefnis var að koma fríum fitusýrum, einangruðum úr þorskalýsi á vatnsleysanlegt form og kanna hvort slík lausn, sem inniheldur fitusýrublöndu af svipaðri samsetningu og eru í lýsinu á formi þríglýseríða, hafi veiru- eða bakteríuhamlandi áhrif. Sýklódextrín (CD), sykrur sem geta aukið leysni fitusækinna sameinda með fléttun, voru valin til að koma fituefnunum í lausn til frostþurrkunar.

Efniviður og aðferðir: Mismunandi samsetningum frírra fitusýra, þorskalýsis og sýklódextrína blandað saman við vatn, hrist í fjóra til fimm daga undir N2 og dreifur frostþurrkaðar. Míkrókorn skoðuð í ljós-, rafeinda-, og confocal smásjám. Herpes Simplex vírusar 1 og 2 (HSV-1 og HSV-2) meðhöndlaðir með dreifunum og sáð á Vero frumulínu, ræktað í fimm daga (37°C, 5%CO2). Staðalstofnum baktería, Pseudomonas aeruginosaATCC-27853, Staphylococcus aureusATCC-25932, Escherichia coliATCC-25922 og Enterococcus faecalis ATCC-29212 sáð á agarskálar. Göt gerð á agar fyrir dreifurnar sem aðsogast í agarinn, ræktað (18-24 klst. 37°C).

Niðurstöður: Algengasta kornastærð var frá 10-20 µm. Míkrókorn í lausn höfðu fitusækna miðju og vatnssækið ytra yfirborð. Þorskalýsi og míkrókorn sem innihéldu þorskalýsi höfðu engin áhrif á veirutíter HSV-1 og HSV-2 en fríar fitusýrur og fríar fitusýrur í míkrókornum höfðu veiruhamlandi áhrif. Míkrókorn sem innihéldu fríar fitusýrur höfðu bakteríuhamlandi áhrif á gram+ bakteríurnarS.aureus og E.faecalisog gram- bakteríuna E.coli en engin áhrif á fjölónæmu gram- bakteríuna P. aeruginosa.

Ályktanir: Líklegt er að sýklódextrín raðist í kringum fituefnin og myndi þannig míkrókorn sem síðan er hægt að frostþurrka. Míkrókorn sem innihalda fríar fitusýrur og sýklódextrín geta losað fríar fitusýrur út í vatnslausnir sem hafa bæði veiru- og bakteríuhindrandi verkun.

 

E 84 Týmól við miðeyrnabólgu - in vivo mælingar í rottum

Hákon Hrafn Sigurðsson1, Elísabet Jónsdóttir1, Hannes Petersen2

1Lyfjafræðideild og 2læknadeild HÍ

hhs@hi.is

Inngangur: Miðeyrnabólga er algengasta sýkingin í börnum af völdum baktería og er helsta ástæða sýklalyfjanotkunar barna á Íslandi. Ofnotkun sýklalyfja er vaxandi áhyggjuefni vegna aukinnar tíðni á sýklalyfjaónæmum bakteríum. Er því mikilvægt að minnka sýklalyfjanotkun eða finna önnur meðferðarúrræði. Mörg innihaldsefni ilmkjarnaolía hafa þekkta bakteríudrepandi eiginleika, þar á meðal týmól. Sýnt hefur verið fram á að týmól, gefið sem útvortis meðferð, hefur virkni gegn bakteríusýkingu í miðeyra in vivo og hefur því skapast grundvöllur fyrir því að skoða nánar hvort týmól gæti verið ný lyfjameðferð við eyrnabólgu. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort hægt væri að koma týmóli á gufuformi úr einföldu lyfjaformi í gegnum hljóðhimu í rottu og hvort mismunandi leysar hefðu áhrif á uppgufunarhraða týmóls.

Efniviður og aðferðir: Gerð var athugun á uppgufunarhraða týmóls í mismunandi leysum. Einnig voru frásogshvetjandi áhrif þess á hornlag húðar in vitro könnuð sem liður í að meta skaðsemi týmóls. Einnig var gerð rannsókn á því hvort að týmól úr völdum lyfjaformum kæmist yfir hljóðhimnu í rottum in vivo.

Niðurstöður: Rannsóknin sýndi að rokfimir leysar koma týmóli auðveldlega yfir á gufuform. Staðfest var að 4% týmól í etanóli hefur marktækt meiri frásogshvetjandi áhrif á hornlag húðar en etanól eitt og sér. Í in vivo prófunum reyndust 1% og 4% týmól í etanóli skila lyfi best yfir hljóðhimnu, þar á eftir skilaði 1% týmóllausn í sýklódextrínum lyfi næstbest yfir hljóðhimnu en ekki var hægt að greina mælanlegan styrk af týmóli í miðeyra úr 4% lausn af týmóli gefið á gufuformi.

Ályktanir: Þessar niðurstöður renna stoðum undir fyrri rannsóknir að týmól gæti verið möguleg lyfjameðferð við miðeyrnabólgu. Frekari rannsókna er þó þörf með tilliti til öryggis og hentugs lyfjaforms.

 

E 85 Skyldleiki streptókokka stofna af flokki B sem sýkja menn og kýr á Íslandi

Erla Soffía Björnsdóttir, Gunnsteinn Haraldsson, Helga Erlendsdóttir, Karl G. Kristinsson

Sýklafræðideild Landspítala, læknadeild HÍ

erlasoff@landspitali.is

Inngangur: Streptókokkum af flokki B (Streptococcus agalactiae, group B streptococcus, GBS) var fyrst lýst í kringum 1900 sem sýkingarvaldi í júgurbólgu hjá kúm. Um 1970 var GBS orðinn einn aðalsýkingavaldurinn í ífarandi sýkingum hjá nýburum og síðustu ár hefur tíðni ífarandi sýkinga hjá fullorðnum aukist. Hægt er að flokka GBS í 10 mismunandi hjúpgerðir eftir gerð fjölsykra í hjúp (Ia,Ib, II – IX). Markmið rannsóknarinnar var að bera saman GBS stofna úr ífarandi sýkingum við stofna sem ræktast hafa úr kúamjólk á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar um allar ífarandi sýkingar á landinu frá árinu 1975 til 2009, 238 tilvik, voru unnar úr gögnum sýklafræðideildar Landspítalans, tiltækir stofnar voru 196. Öllum GBS stofnum sem ræktuðust úr mjólkurtönkum á tímabilinum apríl 2008 til apríl 2009 var safnað á Rannsóknastofu mjólkuriðnaðarins, 24 stofnar. Allir stofnar voru hjúpgreindir með latex kekkjunarprófi og stofngreindir með pulsed-field gel electrophoresis (PFGE).

Niðurstöður: Hjúpgerð III var algengust í ífarandi sýkingum hjá nýburum, en hjá fullorðnum var dreifingin á milli hjúpgerða Ia, III og V nokkuð jöfn, eða um 20%. Algengasta hjúpgerðin úr kúamjók var V, en hjúpgerð III og Ib voru einnig til staðar. Stofngreining sýndi 72 klóna í mannastofnum og 16 klóna í stofnum frá kúamjólk. Af þeim 24 stofnum sem ræktuðust úr kúamjólk tilheyrðu 13 klónum sem einnig fundust í ífarandi sýkingum. Einsleitni innan hjúpgerðar V var mikil og algengasti klónninn innan hjúpgerðarinnar hefur ekki breyst síðust 16 árin. Sá klónn fannst einnig í kúamjólk.

Ályktanir: Niðurstöður stofngreiningar benda til að sömu GBS stofnar sýki menn og kýr á Íslandi þar sem að um helmingur stofna sem ræktuðust frá kúamjólk tilheyrðu klónum sem valda ífarandi sýkingum hjá mönnum.


E 86 Faraldsfræði nýrnaveiki af völdum Renibacterium salmoninarum í laxfiskum á Íslandi

Sigríður Guðmundsdóttir, Ívar Örn Árnason, Sigurður Helgason, Árni Kristmundsson

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

siggag@hi.is

Inngangur: Nýrnaveiki í laxfiskum, af völdum Gram jákvæðu bakteríunnar Renibacterium salmoninarum, getur orskað erfiðleika í eldi. Fiskurinn getur borið bakteríuna mánuðum og jafnvel árum saman án einkenna, sýklalyf gagnast ekki og nothæft bóluefni er ekki tiltækt. Bakterían smitast bæði milli einstaklinga og milli kynslóða í hrognum. Bakterían og mótefnavakar sem hún seytir finnast í ýmsum líffærum, og valda fjölbreytilegum einkennum. Bakterían greindist í fyrsta skipti á Íslandi árið 1968 og aftur 1977-78. Árin 1985-1992 varð nýrnaveiki vandamál í kjölfar aukningar í laxeldi. Á árunum 1992-2003 var allt með kyrrum kjörum en þá hófst faraldur í eldisstöðvum sem nú er að fjara út. Á sama tíma greindust æ fleiri smitaðir villifiskar sem notaðir voru til fiskiræktar.

Efniviður og aðferðir: Sjúkdómsgreiningar, skimun einkennalausra fiska og rannsóknir á Renibacterium salmoninarum hafa verið á dagskrá rannsóknadeildar fisksjúkdóma á Keldum í aldarfjórðung. Þessi efniviður var notaður til að draga fram helstu þætti í faraldsfræði nýrnaveikinnar. Niðurstöður ná til eldisfisks og villtra stofna sem notaðir eru til að ala undan seiði til sleppinga í ár og vötn (fiskirækt) og til sýna sem hafa verið tekin úr villtum fiski í rannsóknaskyni. Einangrun með ræktun tekur 4-12 vikur. Algengasta skimunaraðferðin er ELISA próf sem greinir mótefnavaka og PCR greiningum er nú beitt í vaxandi mæli.

Niðurstöður: Það hefur mikla efnahagslega þýðingu að hefta útbreiðslu bakteríunnar og lykilatriði í þeim árangi sem náðst hefur í eldisstöðvum er skimun klakfisks og hraðvirkar greiningaraðferðir. Mikilvægt er að afla meiri þekkingar á hegðun bakteríunnar í einstaklingum, rannsaka mun milli tegunda laxfiska, smitleiðir og samspil hýsils og sýkils.

Ályktanir: Smit í urriða og bleikju, sem ekki ganga til sjávar, virðist vera mikilvæg uppspretta smits í vatnakerfinu hérlendis.

 

E 87 Nýrnaveikibakterían í sýktum eldisklaklaxi. Samanburður greiningaraðferða

Ívar Örn Árnason1, Sunna Sigurðardóttir2, Árni Kristmundsson1, Sigurður Helgason1, Vilhjálmur Svansson1, Sigríður Guðmundsdóttir1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Lífeinda- og sameindalíffræðistofu HÍ

ivarar@gmail.com

Inngangur: Skimun fyrir Renibacterium salmoninarum, bakteríunni sem veldur nýrnaveiki í laxfiskum, er oftast framkvæmd með ELISA prófi sem nemur mótefnavaka bakteríunnar. Til að staðfesta jákvætt svar, í áður ósýktri eldisstöð, þarf að nota ólíka aðferð. Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin mælir með nested PCR til staðfestingar. Meginmarkmið verkefnisins var að þróa nýja PCR aðferð, semi-nested PCR, og bera saman við nested PCR og ýmsar aðrar aðferðir til greiningar á Renibacterium salmoninarum. Einnig var prófuð ný aðferð til að einangra DNA úr sýnum og hún var borin saman við hefðbundna DNA einangrunaraðferð.

Efniviður og aðferðir: Tvær ELISA aðferðir voru bornar saman, önnur notar fjölstofna mótefni, pELISA, og hin þar sem einstofna mótefni eru notuð, mELISA. Fjórar mismunandi PCR aðferðir voru prófaðar, það er semi-nested PCR, nested PCR, qPCR og RT-qPCR. Tvö mismunandi gen eru mögnuð upp í qPCR og RT-qPCR. Í nested PCR eru notaðir fjórir prímerar sem framleiða tvær mismunandi afurðir í aðskildum hvörfum. Afurðinni úr fyrra hvarfinu, sem er framleitt úr einu prímerapari, er flutt í glas með seinna prímeraparinu og ný afurð mynduð út frá þeirri fyrri. Við flutninginn myndast mengunarhætta. Í semi-nested PCR eru notaðir þrír prímerar sem framleiða tvær mismunandi afurðir en í sama PCR hvarfi. Ekki þarf að flytja afurðir á milli hvarfa sem minnkar þar af leiðandi mengunarhættuna. Prófuð var DNA einangrunaraðferð þar sem sýni eru sett á svokallaðan FTA pappír sem inniheldur ensím til að brjóta niður frumuveggi og dúa til að varðveita kjarnsýrurnar. Lítill bútur er klipptur úr pappírnum sem inniheldur sýnið og settur í PCR glas. Búturinn er þveginn og þurrkaður áður en hann er notaður sem DNA mót fyrir PCR hvarf. Hefðbundin einangrunaraðferð var höfð til samanburðar (kitt frá Puregene).

Niðurstöður: pELISA aðferðin greindi flest jákvæð sýni í sýnahópnum en mELISA aðferðin fæst. Nýja DNA einangrunaraðferðin reyndist gefa fleiri jákvæð sýni í PCR samanborið við hina hefðbundnu einangrunaraðferð. Semi-nested- og nested PCR gáfu sambærilegar niðurstöður og námu fleiri jákvæð sýni en bæði qPCR og RT-qPCR.

Ályktanir: snPCR aðferðin hefur marga kosti fram yfir nPCR aðferðina; minni kostnað, aukinn tímasparnað og minni mengunarhættu. Einangrun DNA úr sýnum með FTA pappír er þægilegri og einfaldari aðferð en hefðbundin einangrun með DNA „kitti“, auk þess sem sýni á FTA pappírnum geta geymst í stofuhita í mörg ár.

 

E 88 Sýkingarmætti bakteríunnar Aeromonas salmonicida er stjórnað af þéttniskynjun

Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, Johanna Schwenteit, Þórunn Guðmundsdóttir, Bryndís Björnsdóttir

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

bjarngud@hi.is

Inngangur:Þéttniskynjun með efnaboðum gerir bakteríum kleift að stjórna genatjáningu í samræmi við fjölda þeirra í bakteríusamfélögum. Margar G-neikvæðar bakteríur nota LuxIR- þéttniskynjun byggða á N-acyl-homoserinelactone (AHLs) boðeindum. LuxI er synþasi sem stuðlar að myndun AHL sameinda og LuxR er AHL-háður umritunarþáttur. A. salmonicida undirtegund achromogenes(Asa) veldur kýlaveikibróður í fiski. Asa hefur LuxIR-gerð af þéttniskynjun nefnda AsaIR. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif þéttniskynjunar á sýkingarmátt Asa með áherslu á hlutverk AsaI synþasans.

Efniviður og aðferðir: Framleiðsla AHL sameinda var könnuð með massagreiningu utanfrumuafurða Asa. AsaI neikvætt Asa stökkbrigði var gert með markvissri stökkbreytingu. Sýkingarmáttur stökkbrigðisins var borinn saman við sýkingarmátt móðurstofnsins í tilraunasýktri bleikju. Tjáning stofnanna á frumubundnum og seyttum þáttum var líka borin saman. Tvívíður rafdráttur var notaður við samanburð á frumubundnum þáttum. Samanburður á seyttum þáttum var gerður með massagreiningu, virknimælingum, ónæmisþrykki og ljósgleypnimælingum.

Niðurstöður: Aðeins ein AHL gerð, N-butanoyl-L-homoserine lactone (C4-HSL), greindist í seyti Asa. AsaI-neikvæði stofninn framleiddi ekki greinanlega boðsameind. Sýkingarmáttur stökkbreytta stofnsins í bleikju var marktækt veiklaður. Banaskammtur stökkbrigðisins var 20 sinnum hærri en móðurstofnsins og smittími hans var líka lengri. Ekki greindist munur á tjáningu stofnanna á frumubundnum próteinum, en í seyti var minni tjáning eftirtalinna sýkiþátta hjá stökkbreytta stofninum: AsaP1 peptíðasa (MEROPS M35); repeat in toxin (RTX); N-acetylglucosamine bindipróteini; Leucyl amino peptíðasa (MEROPS M28) og brúnu litarefni.

Ályktanir: Þéttniskynjun byggð á einni AHL sameind hefur áhrif á sýkingarmátt kýlaveikibróðurbakteríu og nægir að slá út AHL synþasann AsaI til að hefta þéttniskynjun hennar. Til eru bakteríuensím sem sundra AHL sameindum. Asa er því áhugaverð baktería til að rannsaka hlutverk þéttniskynjunar í þróun sjúkdóms og sjúkdómsvarna.

 

E 89 Reynsla kynslóða Íslendinga af refsingum í uppeldisskyni á tuttugustu öld

Jónína Einarsdóttir1, Geir Gunnlaugsson2,3

1Félagsvísindadeild HÍ, 2landlæknisembættinu, 3kennslufræði- og lýðheilsudeild HR

geirg@hr.is

Inngangur: Þegar umræða erlendis hófst á seinni hluta 20. aldar um alvarlegt ofbeldi gegn börnum var talið að vandamálið væri óverulegt á Íslandi. Ætti það rætur í að félagsleg samskipti og fjölskyldu- og vinatengsl væru sterkari hér á landi en erlendis. Aukin þekking hefur þó sýnt að ofbeldi gegn börnum viðgengst hér á landi sem annars staðar. Markmið rannsóknarinnar er að skoða reynslu Íslendinga á mismunandi aldri af ofbeldi og refsingum sem þeir urðu fyrir sem börn af hálfu foreldra sinna.

Efniviður og aðferðir:Tekin voru viðtöl við 22 einstaklinga fædda á tímabilinu 1920-1985, 11 karlmenn og 11 konur. Notast var við þægindaúrtak og voru viðmælendur valdir með það að sjónarmiði að hafa jafna kynjaskiptingu og dreifðan aldur og búsetu. Viðtölin beindust meðal annars að reynslu af refsingum og ofbeldi. Rannsóknin fékk leyfi vísindasiðanefndar.

Niðurstöður: Hópur viðmælenda úr öllum aldurshópum taldi sig aldrei hafa verið beitta líkamlegu ofbeldi. Æska sumra þeirra einkenndist þó stundum af vanhirðu og andlegu ofbeldi. Aðrir viðmælendur nefndu að í þeim einstaka tilvikum þegar þeir hefðu verið flengdir var um einstakan og eftirminnilegan atburð að ræða. Nokkrir voru reglulega flengdir, ýmist eingöngu af mæðrum sínum eða báðum foreldrunum þegar þeir höfðu brotið af sér. Viðmælendur sem fengu líkamlega refsingu töldu sig hafa átt refsinguna skilið og þeir ekki borið skaða af.

Ályktanir: Ljóst er að breytt viðhorf til ofbeldis og ásættanlegra refsinga endurspeglast í frásögnum viðmælenda. Margir viðmælendur benda á breytt viðhorf til flenginga, einu sinni var það ekkert tiltökumál að rassskella óþekka krakka en í dag væri það bannað. Ætla má af samtölunum að þekking á skaðsemi harkalegra refsinga fyrir börn ráði miklu um breytt viðhorf.

 

E 90 Deilur og ofbeldi í fjölskyldum og andleg vellíðan fjórtán til fimmtán ára íslenskra unglinga

Geir Gunnlaugsson1,2, Álfgeir Logi Kristjánsson2,3, Jónína Einarsdóttir4, Inga Dóra Sigfúsdóttir2,3

1Landlæknisembættinu, 2kennslufræði- og lýðheilsudeild HR, 3rannsóknum- og greiningu, 4félagsvísindadeild HÍ

geirg@hr.is

Inngangur: Börn eru oft saklaus fórnarlömb í eldlínu deilna á heimili sínu. Hætta er á að þau taki beinan þátt í þeim og að þeim sé hótað eða hafnað og þau jafnvel beitt líkamlegu ofbeldi. Markmið rannsóknarinnar er að: (1) meta umfang reynslu íslenskra unglinga á deilum og líkamlegu ofbeldi í fjölskyldum sínum og (2) rannsaka samband á andlegri vellíðan unglinga og reynslu þeirra af því að vera vitni eða hafa reynslu af líkamlegu ofbeldi innan heimilisins.

Efniviður og aðferðir:Þátttakendur voru 3515 grunnskólanemar, 14-15 ára að aldri sem tóku þátt í svokölluðum B-hluta ESPAD (European School Project on Alcohol and other Drugs) rannsóknarinnar árið 2003. Á grunni svara þeirra var geðheilsa og almenn líðan metin með matstækjum eins og Symptom Distress Checklist 90 (SCL-90) og Rosenberg Self-Esteem Scale.

Niðurstöður: Um 22% unglinganna höfðu orðið vitni að alvarlegu rifrildi foreldra og 34% þeirra höfðu rifist alvarlega við þá. Heldur fleiri stúlkur en drengir sögðu frá slíkri reynslu. Um 7% unglinganna höfðu orðið vitni að líkamlegum átökum á heimili sínu þar sem fullorðnir voru þátttakendur og um 6% þeirra höfðu sjálf lent í líkamlegum átökum við fullorðna innan veggja heimilisins. Að vera vitni að eða vera þátttakandi í alvarlegu rifrildi heima og/eða hafa reynslu af líkamlegu ofbeldi við fullorðinn einstakling á heimilinu gaf auknar líkur á einkennum um þunglyndi, reiði eða kvíða auk þess að hafa neikvæð áhrif á sjálfsálit þeirra (p<0,05).

Ályktanir: Margir unglingar á Íslandi verða vitni að alvarlegu rifrildi foreldra á heimili sínu eða líkamlegum átökum þeirra og hafa sjálfir reynslu af líkamlegu ofbeldi. Slík reynsla hefur langtímaáhrif á andlega líðan þeirra. Huga þarf að andlegri heilsu og vellíðan barna þar sem slíkt ofbeldi á sér stað á heimilum.

 

E 91 MentisCura aldurstuðull til að meta heilaþroska barna og unglinga

Paula Newman1, Halla Helgadóttir1, Berglind Brynjólfsdóttir2, Gísli Baldursson2, Guðrún B. Guðmundsdóttir2, Málfríður Lorange2, Páll Magnússon2, Ásdís L. Emilsdóttir1, Gísli H. Jóhannesson1, Nicolas P. Blin1, Kristinn Johnsen1, Ólafur Ó. Guðmundsson2

1Mentis Cura, rannsóknar- og þróunarfyrirtæki, 2barna- og unglingageðdeild Landspítala

paula@mentiscura.is

Inngangur: Heilarithafa verið notuð til þess að mæla virkni í heilaberki með góðum árangri. Fjölmargar rannsóknir á athyglisbresti með eða án ofvirkni (ADHD) með heilaritum hafa verið framkvæmdar og hafa niðurstöður sýnt fram á tölfræðilega marktækan mun á milli hópa þeirra sem greindir eru með ADHD og þeirra sem ekki eru greindir með röskunina. Í þessari rannsókn Mentis Cura og Landspítalans var búið til safn heilarita barna á aldrinum 6-14 ára sem greind voru með eða án ADHD í þeim tilgangi að þróa aldursstuðul.

Efniviður og aðferðir: Í rannsókninni var notast við safn heilarita 216 barna án ADHD og annarra geðraskana til að búa til MentisCura aldursstuðulinn. MentisCura aldursstuðullinn var þróaður með það í huga að endurspegla lífaldur þátttakendanna þegar virkni í heilaberki þroskast með eðlilegum hætti. Í samanburðarhópnum voru 150 einstaklingar með ADHD greiningu. Notuð var nútíma, tölfræðileg mynsturgreining við útreikning á aldursstuðlinum og svokölluð robust-fit línuleg nálgun til að reikna fylgni lífaldurs við aldursstuðulinn, sem er minna háð áhrifum útlaga en hefðbundin línuleg nálgun.

Niðurstöður: Góð fylgni var á milli lífaldurs og aldursstuðuls. Þannig að, ef þátttakandi þroskast ekki eðlilega eða ekki í samræmi við aðra á sama aldri þá ætti það að endurspeglast í ósamræmi milli aldursstuðuls og lífaldurs þátttakandans. Aldursstuðlar 150 þátttakenda með ADHD voru síðan bornir saman við aldursstuðulinn hjá þeim sem ekki voru með ADHD og kom í ljós töluverður munur á hópunum. Þróun aldursstuðuls innan ADHD hópsins er töluvert hægari með lífaldri. Þessar niðurstöður eru í samræmi við nýlega rannsókn þar sem MRI tæknin var notuð til að sýna fram á seinkun í heilaþroska hjá hópi einstaklinga með ADHD. Það er því líklega hægt að tengja MentisCura aldursstuðulinn við heilaþroska.

Ályktanir: Með notkun aldursstuðulsins er hugsanlegt að bera saman heilaþroska hópa með mismunandi heilaraskanir á tiltölulega ódýran og áreiðanlegan hátt.

 

E 92 Heilablæðingar hjá fyrirburum - tíðni, áhættuþættir og afleiðingar

Jóhanna Gunnlaugsdóttir1, Laufey Ýr Sigurðardóttir1,2, Þórður Þórkelsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins

thordth@landspitali.is

Inngangur: Lífslíkur fyrirbura hafa aukist mikið á undanförnum áratugum. Flest barnanna verða heilbrigðir einstaklingar, en fötlun er þó algengari meðal þeirra en fullburða barna. Ein helsta ástæða fötlunar hjá fyrirburum er heilablæðing. Markmið rannsóknarinnar er að kanna tíðni heilablæðinga hjá minnstu fyrirburunum hér á landi, helstu áhættuþætti og afleiðingar þeirra.

Efniviður og aðferðir: Gerð var afturskyggn tilfellaviðmiðarannsókn á fyrirburum sem fæddir voru eftir 24-30 vikna meðgöngu hér á landi árin1988-2007. Tilfellin voru þau börn sem fengu heilablæðingu en viðmiðin jafn mörg börn sem ekki fengu heilablæðingu, pöruð á meðgöngulengd og fæðingarári.

Niðurstöður: Níutíu og þrír fyrirburar greindust með heilablæðingu, þar af 56 með væga (gráða I eða II) og 37 með alvarlega heilablæðingu, (gráða III eða IV). Tíðni heilablæðinga var í öfugu hlutfalli við meðgöngulengd. Áhættuþættir fyrir alvarlegri heilablæðingu voru glærhimnusjúkdómur (p=0,004) og Apgarstig við 5 mín. <6 (p=0,01), en steragjöf fyrir fæðingu verndandi (p=0,03). Af þeim sem fengu alvarlega heilablæðingu létust 64,9%. Af þeim sem lifðu fengu 61,5% heilalömun (cerebral palsy) síðar á ævinni, en 6,1% viðmiðanna (p<0,0001).

Ályktanir: Tíðni heilablæðingar eykst eftir því sem meðgöngulengdin er styttri. Áföll í fæðingunni og mikil veikindi á nýburaskeiði auka líkur á alvarlegri heilablæðingu hjá fyrirburum. Dánartíðni og tíðni fatlana er há meðal fyrirbura sem fá alvarlega heilablæðingu. Líklegt er að með frekari framförum í fæðingarhjálp og umönnun fyrirbura sé hægt að minnka tíðni alvarlegra heilablæðinga hjá þeim.

 

E 93 Bólusetningar barna á Íslandi, afstaða foreldra

Emma Dögg Ágústsdóttir1, Ragnheiður Elísdóttir3, Sveinn Kjartansson2,5, Þórólfur Guðnason4, Haraldur Briem4, Ásgeir Haraldsson1,2,5

1Læknadeild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins, 3Miðstöð heilsuverndar barna, 4landlæknisembættinu, 5Landspítala

asgeir@landspitali.is

Inngangur:Bólusetningar eru ein arðbærasta og mikilvægasta heilbrigðisaðgerð sem til er. Árangurinn er minnkandi nýgengi smitsjúkdóma sem bólusett er gegn. Reglulega koma upp umræður um öryggi bólusetninga og aukaverkanir, slík umræða kann að hafa neikvæð áhrif á afstöðu foreldra til bólusetninga. Rannsóknin er gerð til að meta afstöðu foreldra á Íslandi til bólusetninga barna.

Efniviður og aðferðir:Spurningalisti sem var lagður fyrir foreldra nýfæddra barna á helstu fæðingarstöðum landsins. Spurningarnar voru samdar með það að markmiði að meta afsöðu foreldra til bólusetninga og til heilbrigðiskerfisins. Listinn var lagður fyrir föður og móður hvort í sínu lagi.

Niðurstöður: Alls tóku 845 einstaklingar þátt í rannsókninni, 45% voru karlar og 55% konur. Nær allir þátttakendur (99%) telja bólusetningar veita vörn gegn sýkingum og 97% foreldra ætla að láta bólusetja barn sitt samkvæmt íslensku fyrirkomulagi. Foreldrar eru mjög jákvæðir gagnvart bólusetningum á fyrsta og öðru aldursári. Meirihluti foreldra (63%) óttast ekki alvarlegar aukaverkanir bólusetninga. Aðeins 38% foreldra telur bólusetningar ákjósanlegri en náttúrulegar sýkingar, 62% eru óvissir eða telja náttúrulegar sýkingar gera barnið hraustara en bólusetningar. Menntun, kyn og fjöldi barna eru þeir þættir sem helst hafa marktæk áhrif á afstöðu foreldra til bólusetninga barna.

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar staðfesta að íslenskir foreldrar treysta gagnsemi bólusetninga og ótti við alvarlegar aukaverkanir er afar lítill. Þetta gefur von um að áfram megi halda alvarlegum smitsjúkdómum frá íslenskum börnum. Ávinningur af bólusetningum er ríkulegur og fjölþættur bæði fyrir einstaklinga og samfélagið í heild sinni.

 

E 94 Sýkingar og sjálfsónæmissjúkdómar eru algengir hjá einstaklingum sem hafa fengið slæma einkirningasótt

Davíð Þór Þorsteinsson1,2, Björn Rúnar Lúðvíksson1,3, Helga Bjarnadóttir1,3, Arthúr Löwe1,4, Ásgeir Haraldsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins, 3rannsóknastofu í ónæmisfræði og 4rannsóknastofau í veirufræðu Landspítala

asgeir@landspitali.is

Inngangur: Yfir 90% mannkyns er sýktur af Epstein Barr veiru (EBV) en fáir fá klínísk einkenni, nefnd einkirningasótt. Tengsl hafa fundist milli EBV sýkingar og ákveðinna illkynja sjúkdóma. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort mikil klínísk einkenni við frumsýkingar EBV hefðu fylgni við aðra sjúkdóma, svo sem sýkingar og sjálfsónæmissjúkdóma.

Efniviður og aðferðir: Í skrám Landspítala fundust sjúklingar sem voru lagðir inn með einkirningasótt. Safnað var gögnum um aldur, kyn, dagsetningu greiningar og aðrar greiningar. Eitt hundrað og fimmtán manns með lengstan tíma eftirfylgdar var boðið í viðtal og svöruðu spurningum um heilsufar með áherslu á sýkingar og sjálfsónæmissjúkdóma.

Niðurstöður: Sex hundruð og tveir einstaklingar voru lagðir inn með einkirningasótt frá 1981 til 2005; 310 karlar (52%) og 289 konur (48%). Miðgildi aldurs við greiningu var 15 ár (17 dagar-86 ár). Miðgildi tíma frá greiningu var 15,1 ár (4,3-29 ár). Eitt hundrað og fimmtíu manns (25%) höfðu 210 aðrar greiningar. Af 115 manns með lengstan tíma eftirfylgdar tóku 83 þátt í rannsókninni (72%). Miðgildi eftirfylgdar var 20 ár (13-28 ár) og miðgildi aldurs við innlögn 14,6 ár (17 daga-36 ára). Af hópnum höfðu 30 fengið lungnabólgu einu til fimm sinnum (36%) og oftar en fimm sinnum (2%), 58 höfðu fengið hálsbólgu oftar en 10 sinnum (70%), 43 fóru í hálskirtlatöku (52%) og 28 í nefkirtlatöku (33%). Fjórtán (17%) fengu sýkingar oftar en jafnaldrar í æsku og 33 (40%) fengu sýklalyf á síðasta ári. Tuttugu og sjö einstaklingar (32%) voru greindir með ofnæmiskvef, exem eða ofnæmisbólgur í augum og nefi og 33 (40%) með ofnæmi. Þrjátíu og einn (37%) hafði verið greindur með sjálfsónæmissjúkdóm.

Ályktanir: Faraldsfræði einkirningasóttar á Íslandi er svipuð og á Vesturlöndum. Sýkingar, ofnæmistilhneiging og sjálfsónæmissjúkdómar eru algengir hjá einstaklingum sem hafa fengið slæma einkirningasótt.

 

E 95 Tengsl sýklalyfjaónæmis og meðferðar bráðrar miðeyrnabólgu í börnum

Hildigunnur Úlfsdóttir1, Ásgeir Haraldsson1,2, Martha Hjálmarsdóttir1,3, Kristján G. Guðmundsson4,5, Hannes Petersen1,4, Karl G. Kristinsson1,3

1Læknadeild, 2Barnaspítala Hringsins, 3sýklafræðideild, 4háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala, 5Læknastöðinni Glæsibæ

asgeir@landspitali.is

Inngangur: Miðeyrnabólga er algengt vandamál, einkum hjá börnum, og krefst oft meðhöndlunar með sýklalyfjum. Pneumókokkar eru algeng orsök bráðrar miðeyrnabólgu. Fjölónæmi pneumókokka torveldar meðferð en þeim fjölgaði á Íslandi á árunum 1990-1996 en fækkaði síðan í nokkur ár. Frá árinu 2002 hefur fjölónæmum pneumókokkum fjölgað á ný hér á landi. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort tengsl væru á milli sýklalyfjaónæmis pneumókokka og meðferðar bráðrar miðeyrnabólgu í börnum.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar um sýklalyfjanæmi og hjúpgerðir pneumókokka frá börnum (1995-2008) fengust frá sýklafræðideild Landspítalans og um greiningar á miðeyrnabólgum úr gagnagrunni Landspítala (1990-2008). Úrtak sjúkraskýrslna frá þeim árum þar sem fjölónæmi pneumókokka var mest (1996 og 2007) og minnst (2001) voru skoðaðar og meðal annars skráð sýklalyfjameðferð, skammtastærð, endurteknar sýkingar og rör.

Niðurstöður: Hlutfall fjölónæmra stofna pneumókokka var nálægt 20% til ársins 1999, undir 15% árin 2000-2002 en um og yfir 30% frá árinu 2005. Fjölónæmir stofnar voru nær eingöngu af hjúpgerð 6B í fyrra toppnum og 19F í þeim síðari. Skoðaðar voru sjúkraskýrslur 260 barna. Hlutfallslega fleiri fengu amoxicillín-klavúlansýrumeðferð á árunum 1996 og 2007 borið saman við 2001. Fleiri fengu háskammta- eða stungulyfjameðferð árin 1996 og 2007 (37% og 32%) en árið 2001 (24%), þó ekki marktækt (p=0,1 og p=0,2). Fleiri fengu stungulyfjameðferð 1996 en 2001 og 2007 (25% á móti 18% og 19%), þó ekki marktækt.

Ályktanir: Fjölgun fjölónæmra pneumókokka á Íslandi virtist leiða af sér ný meðferðarúrræði eins og háskammta- og stungulyfjameðferð. Ítarlegri rannsóknir með stærra úrtaki gætu svarað áleitnum spurningum um áhrif til lengri tíma og freakri breytingar á ónæmi og hjúpgerðum.

 

E 96 Fæðuofnæmi hjá íslenskum börnum til tveggja ára aldurs

Kristrún E. Sigurðardóttir1, Michael V. Clausen2, Hildur S. Ragnarsdóttir3, Ingibjörg H. Halldórsdóttir3, Doreen McBride4, Kirsten Beyer5, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir1,3

1Læknadeild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins, 3ónæmisfræðdeild Landspítala, 4Charite Universitätsmedizin Berlin, Institute for Social Medicine, Epidemiology and Health Economics og 5Dept. of Pediatrics, Division of Pneumonology and Immunology

kes5@hi.is

Inngangur: Algengi ofnæmissjúkdóma hefur aukist síðustu áratugi. Tíðni fæðuofnæmis hefur verið á reiki vegan mismunandi rannsóknaraðferða. Þessi framskyggna ferilrannsókn er hluti af EuroPrevall, alþjóðlegri rannsókn á fæðuofnæmi. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka algengi fæðuofnæmis hjá íslenskum börnum til tveggja ára aldurs.

Efniviður og aðferðir: Börnum var fylgt eftir frá fæðingu til 30 mánaða aldurs. Staðlaðir spurningalistar voru lagðir fyrir við fæðingu, 12, 24 og 30 mánaða aldur. Ef barn fékk einkenni um fæðuofnæmi var það skoðað af sérfræðingi í ofnæmissjúkdómum, fæðusértækt IgE mælt og ofnæmishúðpróf (SPT) framkvæmd. Fæðuofnæmi var sannað eða afsannað með tvíblindu þolprófi (DBPCFC) á Barnaspítala Hringsins. Fæðuofnæmi var aðeins greint ef þolprófið var jákvætt eða ef barnið hafði fengið það alvarleg viðbrögð við fæðu að ekki þótti öruggt að framkvæma prófið.

Niðurstöður: Af 1345 börnum sem voru skráð til þáttöku svöruðu 1259 (94%) 24 mánaða spurningalista. Alls tilkynntu 515 (41%) um einkenni, 249 (20%) voru skoðuð af lækni. Af þeim voru 84 (7%) talin af lækni vera með fæðuofnæmi en 40 (3%) voru með sannanlegt fæðuofnæmi á DBPCFC. Fæðuofnæmi sem greindist var fyrir eggjum: 28 (70%); mjólk: 12 (30%); fiski: átta (20%); jarðhnetum: sex (15%); hveiti: hjá tveimur (5%) og trjáhnetum: hjá einum (3%). Mestur hluti fæðuofnæmis greindist á fyrsta aldursári; fyrir mjólk (92%), eggjum (85%), fiski (63%), hveiti (100%) á meðan jarðhnetuofnæmi greindist seinna (33%). Við tveggja ára aldur hafði ofnæmið elst af 14 (35%).

Ályktanir: Á Íslandi fá 3% barna undir tveggja ár aldri sannanlegt fæðuofnæmi. Meirihluti þeirra sem fá ofnæmi fyrir mjók, eggjum, fiski og hveiti greinast á fyrsta aldursári á meðan að hnetuofnæmi greinist síðar. Við tveggja ára aldur hefur þriðjungur af fæðuofnæmi elst af.

Þakkir: EB (FOOD-CT-2005-514000), Vísindasjóður Landspítala, GlaxoSmithKline.

 

E 97 Súrefnisbúskapur í gláku

Ólöf Birna Ólafsdóttir1, Sveinn Hákon Harðarson1,2,3, María Soffía Gottfreðsdóttir3, Alon Harris4, Einar Stefánsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2augndeild Landspítala, 3Oxymap ehf., 4Indiana University School of Medicine

obo4@hi.is

Inngangur: Margt bendir til þess að blóðflæði í augum glákusjúklinga sé minnkað eða því illa stjórnað og getur það hugsanlega leitt til súrefnisskorts. Markmið verkefnisins er því að mæla súrefnismettun sjónhimnuæða í glákusjúklingum og kanna hvort tengsl séu á milli súrefnismettunar og sjónsviðsskemmda í gláku.

Efniviður og aðferðir:Súrefnismettun í sjónhimnuæðum sjúklinga með gleiðhornsgláku (n=31) var mæld með súrefnismæli (Oxymap ehf.) og borin saman við meðalskemmd í sjónsviði (Mean Defect, MD), sem fékkst úr Octopus 123 sjónsviðsmæli. Einnig var borin saman súrefnismettun sjónhimnuæða hjá einstaklingum með gott sjónsvið (MD=(-2)-2dB, n=12) og slæmt sjónsvið (MD³10dB, n=9). Framkvæmd voru Pearsons r fylgnipróf og stúdents t-próf.

Niðurstöður: Hjá öllum hópnum fannst jákvæð fylgni á milli súrefnismettunar bláæða og meðalsjónsviðsskemmdar (r=0,43; p=0,015). Sömuleiðis minnkaði munur á súrefnismettun milli slagæðlinga og bláæðlinga marktækt með aukinni meðalsjónsviðsskemmd (r=-0,55; p=0,0013). Einstaklingar með slæmt sjónsvið voru að meðaltali hærri í súrefnismettun bláæðlinga (68±4%, meðaltal±staðalfrávik) samanborið við einstaklinga með gott sjónsvið (62±3%, p=0,002). Meðalmunur í súrefnismettun milli slagæðlinga og bláæðlinga var lægri hjá einstaklingum með slæmt sjónsvið (30±4%) samanborið við einstaklinga með gott sjónsvið (37±4%, p=0,0003).

Ályktanir: Augu með dýpri glákuskemmd hafa lægri súrefnismettun í bláæðlingum og minni mun í súrefnismettum milli slagæðlinga og bláæðlinga og því hugsanlega minni súrefnisflutning til vefsins.

 

E 98 Áreiðanleiki súrefnismælinga í sjónhimnu

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir1, Halldór Reynir Bergvinsson2, Renata Sigurbergsdóttir3, Sveinn Hákon Harðarson1,2,3, Einar Stefánsson1,2

1Augndeild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Oxymap ehf.

jonakv@landspitali.is

Inngangur:Tilgangur rannsóknarinnar var tvíþættur. (1) Að prófa hvort æðavídd hefur einhver áhrif á mælingar á súrefnimettun í æðum sjónhimnu. (2) Að kanna áreiðanleika endurtekinna mælinga á súrefnismettun sömu æðar í sjónhimnu.

Efniviður og aðferðir:Súrefnismælirinn (Oxymap ehf.) samanstendur af venjulegri augnbotnamyndavél með aukabúnaði, sem gerir kleift að greina lit blóðs í æðum sjónhimnu á sérstakan hátt. Súrefnismettunin er reiknuð út frá þeirri greiningu. Samhliða súrefnismælingum er vídd æðanna mæld. Mælingar voru gerðar á 12 heilbrigðum einstaklingum. Súrefnimettunin var mæld í fyrstu gráðu æðum og eftir greiningu þeirra æða í tvær, grennri, annarrar gráðu æðar. Auk þess var áreiðanleiki skoðaður með því að mæla tvisvar sömu æð á sitt hvorri myndinni.

Niðurstöður: (1) Hlutfall súrefnismettunar í fyrstu og annarrar gráðu slagæðum var 97±2% (meðaltal±staðalfrávik) og fyrir bláæðar var þetta hlutfall 90±4%. (2) Staðalfrávik milli endurtekinna mælinga var 3,4% fyrir fyrstu gráðu bláðæðar, 1,5% fyrir fyrstu gráðu slagæðar, 4,3% fyrir annarrar gráðu bláæðar og 0,9% fyrir annarrar gráðu slagæðar.

Ályktanir: (1)Mælingar á súrefnismettun æða eru háðar vídd æðanna þar sem grennri æðar sýna hærri mælda súrefnismettun. Gera má ráð fyrir að raunveruleg mettun sé sú sama, að minnsta kosti í slagæðlingum fyrir og eftir greiningu þeirra. (2) Endurteknum mælingum á sömu æð bar vel saman.

 

E 99 Áhrif bláæðalokana og sykursýki á súrefnisbúskap sjónhimnu

Sveinn Hákon Harðarson1,2,3, Einar Stefánsson1,2

1Augndeild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Oxymap ehf.

sveinnha@hi.is

Inngangur: Súrefnisbúskapur sjónhimnu er talinn vera óeðlilegur í ýmsum algengum augnsjúkdómum en mælingar á súrefni í sjónhimnu hafa hingað til reynst erfiðar. Tilgangur rannsóknarinnar var að mæla súrefnismettun í sjónhimnuæðum sjúklinga með bláæðalokun eða sykursýki.

Efniviður og aðferðir: Súrefnismælirinn (Oxymap ehf.) er settur saman úr augnbotnamyndavél, speglum, ljóssíum, tveimur stafrænum myndavélum og hugbúnaði. Mælingin byggir á lit blóðs og útkoman er súrefnismettun í sjónhimnuæðum. Mælingar voru gerðar á (A) 24 sjúklingum með stíflaða bláæðagrein í sjónhimnu, (B) 11 sjúklingum með stíflaða miðbláæð, (C) 28 sjúklingum með sykursýki og 31 heilbrigðum einstaklingi.

Niðurstöður: (A) Í bláæðum, þar sem greinarstífla hafði áhrif, var miðgildi súrefnismettunar 59% (12-93%, n=22), 63% (23-80%) í sama auga þar sem stífla hafði ekki áhrif og 55% (39-80%) í hinu auganu (p=0,66). (B) Súrefnismettun í bláæðum sjónhimnu með stíflaða miðbláæð var 49±12% (meðaltal±staðalfrávik, n=8) og 65±6% í hinu auganu (p=0,003). (C) Í heilbrigðri sjónhimnu var súrefnismettun í bláæðum 58±6% (n=31) og 93±4% í slagæðum. Súrefnismettun bæði blá- og slagæða var hærri í öllum flokkum sjúklinga með sjónhimnusjúkdóm í sykursýki; meðaltal var 66-70% í bláæðum og 100-103% í slagæðum (fjórir flokkar, sex til átta í hverjum flokki, p<0,05 fyrir allan samanburð við heilbrigða).

Ályktanir: Súrefnismettun í bláæðum sjónhimnu er breytileg í kjölfar bláæðagreinarlokunar. Miðbláæðarlokun veldur lækkun á mettun í bláæðum. Súrefnismettun í sjónhimnuæðum sykursjúkra er meiri en í heilbrigðum.

 

E 100 Áreiðanleiki æðarvíddarmælinga í sjónhimnu

Renata Sigurbergsdóttir Blöndal1, Margrét Kara Sturludóttir1, Sveinn Hákon Harðarson1,2, Gísli Hreinn Halldórsson1, Einar Stefánsson2

1Oxymap, 2Háskóla Íslands og augndeild Landspítala

ghh@oxymap.com

Inngangur: Ýmsir sjúkdómar hafa áhrif á þvermál æða í sjónhimnu. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta áreiðanleika æðarvíddarmælis sem er ný viðbót við súrefnismæli.

Efniviður og aðferðir: Augnbotnamyndir voru teknar af 12 heilbrigðum einstaklingum með súrefnismæli Oxymap. Þvermál æða í sjónhimnunni var mælt sjálfvirkt með Oxymap Analyzer hugbúnaði. Áreiðanleiki var metinn með tvennum hætti: (1) Staðalfrávik endurtekinna mælinga á sömu æðabútum. (2) Sömu myndir mældar með hálf-sjálfvirkum mælibúnaði, það er æðarvíddarviðbót fyrir ImageJ.

Niðurstöður: Staðalfrávik deilt með meðaltali endurtekinna mælinga var 2,8% og 4,0% fyrir fyrstu og annarrar gráðu bláæðlinga og 3,5% og 5,4% fyrir fyrstu og annarrar gráðu slagæðlinga. Æðar mældust breiðari með ImageJ en Oxymap Analyzer í öllum tilvikum. Mismunurinn var 5,1±2,2; 2,9±1,3 og 2,7±1,6 pixel (meðaltal±staðalfrávik) fyrir fyrstu, annarrar og þriðju gráðu bláæðlinga og 3,1±1,2; 2,7± 0,9 og 2,9±1,4 pixel fyrir fyrstu, annarrar og þriðju gráðu slagæðlinga.

Ályktanir: Skekkja í endurteknum mælingum á æðavídd er sambærileg við sérhæfða æðavíddarmæla. Mismunurinn og staðalfrávik mismunar miðað ImageJ er ásættanlegur. Nýnæmið felst í því að geta mælt samtímis þvermál og súrefnimettun æða sem er gagnlegt fyrir rannsóknir á ýmsum lífeðlisfræðilegum þáttum.

 

E 101 Losun cýtókína úr litþekjufrumum við örvun P2X7 viðtakans

Þór Eysteinsson1, Leigh-Ann Tu2, Sonia Guha3, Jason Lim2, Alan M. Laties4, Claire H. Mitchell3

1Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 2Anatomy and Cell Biology, 3Physiology Dept. og 4Ophthalmology Dept., University of Pennsylvania, Bandaríkjunum

thoreys@hi.is

Inngangur: Litþekja augans liggur milli ljósnema og æðu. Við hrörnun miðgrófar augans er mögulegt að losun vaxtarþátta og cýtókína úr litþekjufrumum í vanda stuðli að nýæðamyndun í æðu og sjóntapi. Cýtókínið interleukin-6 (IL-6) örvar nýæðamyndun, og hömlun IL-6 getur hindrað bólgumyndun og vöxt nýrra æða. Vitað er að tjáning IL-6 gensins er aukin í litþekjufrumum í augum með hrörnun miðgrófar, en ekki er vitað hvað veldur losun IL-6 úr frumunum. Í öðrum vefjum veldur örvun ATP viðtakans P2X7 virkjun pannexin jónaganga, sem aftur vekur upp bólgusvar og losun cýtókína. Hér var athugað hvort sambærileg örvun P2X7 viðtakans veldur losun IL-6 úr frumulínu litþekjufrumna.

Efniviður og aðferðir: Ræktaðar voru litþekjufrumur úr ARPE-19 frumulínunni á 96 brunna ræktunarplötum. Losun IL-6 var mæld með ELISA mótefnamælingu. ARPE-19 voru fylltar með flúrljómandi litarefninu fura-2 og það örvað með 340 nm og 380 nm ljósi til að mæla styrk kalsíum í innanfrumuvökva.

Niðurstöður: Við örvun P2X7 viðtaka með BzATP varð snögg en samfelld aukning í styrk kalsíum í ARPE-19 litþekjufrumum, sem hvarf ef kalsíum var fjarlægt úr utanfrumuvökva, en var enn meiri ef magnesíum var tekið úr utanfrumuvökva. ATP hamlararnir Brilliant Blue G, A438079 og KN-62 hömluðu áhrif BzATP á kalsíumstyrk. Styrkur IL-6 í utanfrumuvökva, mældur með ELISA, jókst sjöfallt við örvun P2X7 viðtaka með BzATP og sást ef mælt eftir 1, 15 og 60 mínútur eftir örvun með BzATP og því losun hröð. Losun IL-6 var hindruð með pannexin hamlaranum carbenoxolone (10 µM)

Ályktanir: Á litþekjufrumum augans eru P2X7 viðtakar sem sýna svörun. Örvun þeirra veldur losun IL-6, en er háð starfsemi pannexin jónaganga. Enn er ekki ljóst hvort losun IL-6 við örvun P2X7 viðtaka örvar nýæðamyndun.

 

E 102 Ósamhverfa í viðbragðstíma stökkhreyfinga augna eftir sjónsviðum

Ómar Ingi Jóhannesson1, Árni Kristjánsson1,2

1Sálfræðideild HÍ, 2Institute of Cognitive Neuroscience, University College, London

ak@hi.is

Inngangur: Taugabrautir úr sjónbotni að efri hólum (superior colliculi) eru sterkari fyrir neflægan hluta sjónbotns en gagn(auga)lægan (temporal) hluta sjónbotns. Efri hólar skipta miklu máli við stjórn augnhreyfinga og athygli. Til dæmis benda rannsóknarniðurstöður til þess að áreiti fangi fyrr athygli ef þau birtast í gagnlægum hluta sjónsviðs (og varpast því á neflægan hluta sjónbotns), heldur en ef þau varpast á gagnlægan hluta sjónbotns. Hins vegar hefur verið deilt um hvort stökkhreyfingar (saccades) augna séu hraðari í átt að gagnlægum áreitum. Nýlegar rannsóknir hafa bent til þess að svo sé ekki.

Efniviður og aðferðir: Við mældum svartíma augnhreyfinga ráðandi auga (oftast því hægra) eftir því hvort áreiti birtust í neflægum eða gagnlægum hluta sjónu og notuðum til þess háhraðamælingar (250 Hz) með innrauðri endurvarpstækni.Mældar voru bæði stuttar (13 gráður) og langar (26 gráður) hreyfingar frá vinstri til hægri og frá hægri til vinstri.

Niðurstöður: Niðurstöður fyrir sjö þátttakendur sýna að stökkhreyfingar semviðbragð við áreitum í gagnlægum hluta sjónsviðs eru skemmri en þær sem eru viðbragð við áreiti í neflægum hluta sjónsviðs. Sérstaklega virtist þetta áberandi fyrir langar (26 gráður) augnhreyfingar.

Ályktanir: Rétt eins og fyrir athyglisvirkni eru stökkhreyfingar augna sneggri þegar áreiti birtast í gagnlægum hluta sjónsviðs (og varpast í neflægan hluta sjónbotns). Þetta þarf ekki að koma á óvart í ljósi náinna tengsla athyglisvirkni og stjórnar augnhreyfinga. Hins vegar er þessi niðurstaða í ósamræmi við nýlegar rannsóknir þar sem enginn munur fannst á neflægum og gagnlægum hreyfingum.

 

E 103 Úrvinnsla áreita sem gaumstolssjúklingar taka ekki eftir, mæld með heilarafriti

Árni Kristjánsson1,2, Styrmir Sævarsson1,3, Michael Bach4, Sven Heinrich4

1Sálfræðideild HÍ, 2Institute of Cognitive Neuroscience, University College, London, 3Georgia Tech University, 4Universitäts-Augenklinik Freiburg

ak@hi.is

Inngangur: Gaumstol (hemispatial neglect) er skyntruflun þar sem sjúklingar eiga í erfiðleikum með að veita áreitum sem birtast öðru megin í skynsviði (oftast því vinstra) athygli. Gaumstol má oftast rekja til skemmda á hægra hvirfilblaði og/eða mótum gagnauga- og hvirfilblaðs heila. Við könnuðum hversu djúpt þessi skyntruflun ristir. Má greina einhver merki um úrvinnslu á áreitum sem sjúklingarnir taka þó ekki eftir? P300 hluti heilarafritsins (sterk, jákvæð spennubreyting, 300 ms eftir að áreiti sem fangar athygli birtist) er talinn tengjast athyglisvirkni. Til dæmis kemur sterkt P300 fram hjá heilbrigðum þátttakendum sem viðbragð við óvæntu áreiti.

Efniviður og aðferðir:Í hverri umferð birtust tvö áreiti, annað í vinstra sjónsviði og hitt í því hægra. Oftast birtust tveir hringir, en í 20% umferða birtist óvænt markáreiti (þríhyrningur) öðrum megin og var athyglisviðbragðið (P300) við þessu óvænta áreiti mælt hjá gaumstolssjúklingunum.

Niðurstöður:Markáreiti í vinstra sjónsviði leiddu til sterkara P300 ef sjúklingarnir tóku eftir þeim, en athyglisvert er að P300 var sterkara fyrir þríhyrninga sem sjúklingarnir tóku ekki eftir en hringina. Munur kom því fram á P300 eftir því hvort áreitið sem sjúklingarnir tóku ekki eftir var óvænt eða ekki.

Ályktanir: Þessi niðurstaða bendir til þess að áreiti sem fara fram hjá sjúklingunum fangi athyglina að einhverju marki. Talsverð úrvinnsla fer fram á áreitum í vinstra skynsviði gaumstolssjúklinga þó svo að áreitin nái ekki meðvitund þeirra.


E 104 Þróun á HPLC-MS/MS aðferð til magngreiningar á sterum með hönnun tilrauna

Finnur Freyr Eiríksson1,2, Baldur Bragi Sigurðsson2, Margrét Þorsteinsdóttir1,2

1Lyfjafræðideild HÍ, 2ArcticMass ehf.

finnur@arcticmass.is

Inngangur: Sterar gegna mikilvægu hlutverki í stjórnun á líkamsstarfsemi. Mikilvægt er að geta greint raskanir í þeirri stjórnun með nákvæmum og áreiðanlegum mæliaðferðum. Ónæmismælingar eru þær aðferðir sem eru hvað algengastar við mælingar á sterum en eru óáreiðanlegar og ósértækar þegar mælingar eru gerðar á sterum við lágan styrk. Markmið var að þróa mæliaðferð með næginlegt næmni við mælingar á lágum styrk af testósteróni og estradíóli í sömu HPLC-MS/MS keyrslunni án afleiðumyndunar.

Efniviður og aðferðir: Hönnun tilrauna var beitt við þróun mæliaðferðar með HPLC-MS/MS. Notuð var D-optimal hönnun til að skima fyrir breytum með áhrif á næmni fyrir estradíóli og testósteróni. Næmnin var síðan hámörkuð fyrir marktækar breytur hámarkaðar með CCD-hönnun og endurtakanleiki þeirrar aðferðar metinn.

Niðurstöður: Skimun gaf til kynna að kvaðratískt kerfi lægi að baki áhrifum breyta. Ekki greindust marktæk áhrif annarra breyta en spennu á cone á næmni fyrir testósteróni. Val lífræns fasa, flæði og stigull höfðu öll marktæk áhrif á næmni fyrir estradíóli. Spenna á capillary, hitastig á súlu og spenna á extractor höfðu einnig marktæk áhrif, en þeim tveimur síðasttöldu var haldið í háu gildi við CCD-hönnun vegna augljóss ávinnings til tímasparnaðar og fjölda mælinga. Endurtakanleiki aðferða sem fengust úr CCD-hönnuninni reyndist vera góður fyrir bæði testósteróni og estradíóli, það er R.S.D 3% fyrir testósteróni og 8% fyrir estradíóli.

Ályktanir: Ekki tókst að sýna fram á að hámarki hafi verið náð með CCD-hönnuninni þó líkanið bendi til að varla verði komist lengra með aðferðina hvað varðar næmni fyrir mælingar á estradíóli. Jákvæð áhrif breyta á næmni fyrir testósteróni leiddu ávallt til aukins rástíma, fyrir utan capillary sem hafði ekki marktæk áhrif á rástíma.

 

E 105 Nákvæm magngreining á utanfrumuhvarfefnum í efnaskiptaferlum frumna

Giuseppe Paglia1, Sigrún Hrafnsdóttir1, Steinunn Thorlacius1, Maike Aurich1, Bernhard Ö. Pálsson1,2, Ines Thiele1

1Kerfislíffræðisetri HÍ, 2Dept. of Bioengineering University of California, San Diego

gpaglia@hi.is

Inngangur:Lykilatriði í rannsóknum á efnaskiptum (metabolomics) er að geta magnmælt nákvæmlega fjölda þekktra hvarfefna í sama sýninu. Með notkun vökva súluskiljunar undir háþrýstingi tengdri massagreini (Ultra Performance Liquid Chromatography Quadrupole-Time of Flight-Mass Spectrometry; UPLC-Q-ToF-MS) er unnt í einu og sama sýninu að sundurgreina og magnmæla fjölda efna svo sem amínósýrur, asetýl amínósýrur, lífrænar sýrur, sykrur, púrín, pírímídin, vítamín og nukleósíð.

Efniviður og aðferðir: Aðferðin byggir á súluskiljun með skautuðu amíð stoðefni, sem aðskilur vatnsleysanleg hvarfefni (metabolite) mun betur en hefðbundin háþrýstivökvaskiljun með óskautuðum stöðufasa. Því næst er gerð massagreing í Q-ToF massagreini. Efnin eru auðkennd út frá nákvæmum massa þeirra ásamt árekstrarniðurbrotsaðferð (collision induced dissociation - CID).

Niðurstöður: Til að magnmæla efnin voru gerðir kvörðunarferlar fyrir 90 staðalefni, þar sem fylgnistuðlar (R2) mældust frá 0,967-0,999.

Ályktanir: Hægt er að nota UPLC-Q-ToF-MS aðferðina til að fylgjast með upptöku og seytun efna í frumuræktum. Við höfum meðal annars notað þessa aðferð til að greina utanfrumuhvarfefni frá tveimur bráðahvítblæðis frumulínum sem voru meðhöndlaðar með beinum (A-769552) og óbeinum (AICAR) AMPK virkjum.

 

E 106 Notkun tölvulíkans í þeim tilgangi að uppgötva áður ókunn efnahvörf í efnaskiptaferlum mannslíkamans

Óttar Rolfsson, Bernhard Ö. Pálsson, Ines Thiele

Kerfislíffræðisetri HÍ

ottarr@hi.is

Inngangur: Kerfislíffræði er tiltölulega ný fræðigrein þar sem líffræðileg gögn, til dæmis DNA og RNA raðgreiningargögn, eru nýtt til að útbúa og/eða betrumbæta tölvulíkön af lífeðlisfræðilegum ferlum, til dæmis efnaskiptaferlum. Tölvulíkönin eru gagnvirk og geta meðal annars nýst við að segja til um áhrif umhverfisaðstæðna eða stökkbreytinga á lífeðlisfræðileg ferli eða á birtingarform sjúkdóma. Einn meginkostur slíkra tölvulíkana er sú heildarmynd sem fæst á viðkomandi ferli sem síðan nýtist í aukinni þekkingarsköpun.

Efniviður og aðferðir: RECON 1 er tölvulíkan af öllum efnaskiptaferlum mannslíkamans. Það samanstendur af rúmlega 3400 efnahvörfum, 2800 hvarfefnum og er yfirgripsmesta tölvulíkan sinnar tegundar. Við notuðumst við RECON 1 til þess að auðkenna 110 hvarfefni í efnaskiptaferlum mannsins sem ekki er vitað hvernig myndast eða hvað verður um (dead-end metabolites). Við nýttum síðan tölvuforritið SMILEY til þess að koma með tilgátur um hvaða efnahvörf úr gagnabankanum KEGG þyrfti að bæta við RECON 1 til að útskýra myndun eða nýtingu áðurnefndra hvarfefna. Á þennan máta athuguðum við hvaða efnahvörf í manninum eru illa skilgreind, í hvaða efnaskiptaferlum þau eiga sér stað og hvernig hægt væri útskýra tilvist þeirra í mannslíkamanum. Við skoðuðum síðan SMILEY tilgáturnar með tilliti til hversu líklegt það væri að þau eigi sér stað í manninum með samanburðar erfðafræðilegri aðferðafræði (comparative genomics).

Niðurstöður: Á þennan máta tókst okkur á útbúa lista yfir efnahvörf sem líklegt er að eigi sér stað í mannslíkamanum. Við vinnum nú að því að staðfesta tilvist þessara hvarfa með hefðbundnum lífefnafræði-rannsóknum.

Ályktanir: Niðurstöður okkar sýna fram á hvernig hægt er að styðjast við tölvulíkön og hálf sjálfvirkar aðferðir til að auka vitneskju um efnaskiptaferli mannsins.

 

E 107 Hegðun slímlags ex vivo skoðað í smásjá

Hákon Hrafn Sigurðsson

Lyfjafræðideild HÍ

hhs@hi.is

Inngangur: Stjórnuð lyfjagjöf á slímhimnur er og hefur verið mikið rannsökuð. Lyfjaform á slímhimnur eiga það sameiginlegt að vera hönnuð með aukna viðveru lyfs á himnunni í huga. Grunnur lyfjaformanna eru langar fjölliðukeðjur eða net með slímhimnuviðloðandi eiginleika. Nýlega hafa komið fram rannsóknir sem benda til þess að nanóagnir eigi greiðari leið að undirliggjandi vef heldur en lyf úr þessum hefðbundnu lyfjaformum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna og bera saman hreyfanleika nanóagna og míkróagna í slími. Einnig að kanna áhrif ýmissa efna á hreyfieiginleika slíms.

Efniviður og aðferðir: Vélinda úr 18 daga gömlu kjúklingafóstri er komið fyrir í rakastýrðu hólfi mettuðu með Locke-Ringer lausn. Flúrljómandi latex-nanóögnum dreifðum í lausn með mismunandi efnum (meðal annars fjölsykrum úr sölvum) er skolað niður vélindað áður. Vélindað er svo skorið upp endilangt og kolaögnum (míkróögnum) er dreift yfir og hólfið svo lokað og sett í smásjá og fylgst með hreyfingum agnanna í 2-30 mínútur á mismunandi stöðum í vélindanu.

Niðurstöður: Smásjárskoðanir sýndu mun meiri hreyfingu á nanóögnum heldur en á kolaögnum sem virtust sitja fastar í slímnetinu. Fjölsykrur úr sölvum virtust draga úr hreyfingu slímsins. Önnur þekkt efni höfuð fyrirsjáanleg áhrif á slímið.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að nanóagnir séu jafnvel hentugri til að koma lyfjum í gegnum slímlag að slímhimnu heldur en hefðbundin slímhimnuviðloðandi lyfjaflutningskerfi sem byggjast á fjölliðum.


E 108 Samanburður á getu þorskatrypsína og nautatrypsína við að brjóta niður prótein í náttúrlegri myndbyggingu

Bjarki Stefánsson1, Jón Bragi Bjarnason1,2, Ágústa Guðmundsdóttir1,3

1Raunvísindastofnun, 2verkfræði- og náttúruvísindasviði, 3matvæla- og næringarfræðideild heilbrigðisvísindasviði HÍ

bjarkis@hi.is

Inngangur:Trypsín úr Atlantshafsþorski eru kuldaaðlöguð prótein-kljúfandi ensím sem hafa mikla virkni samkvæmt hraðafræðilegum mælingum með litlum hvarfefnum. Möguleg not þessara ensíma í iðnaði, snyrtivörur og læknisfræðilegum tilgangi byggja meðal annars á getu þeirra við að brjóta niður prótein í sinni náttúruleg mynd. Í þessari rannsókn var benzamidín hreinsuð blanda trypsína úr Atlantshafsþorski skilgreind og geta þeirra borin saman við getu nautatrypsíns við að brjóta niður prótein í náttúrulegri myndbyggingu.

Efniviður og aðferðir:Þorskatrypsín (ensímtækni) var skilgreint með tvívíðum geljum og með jónaskiptasúlu (MonoQ). Trypsín af jónaskiptasúlu voru keyrð á geli og síðan skoðuð með massagreini (MALDI-TOF). Niðurbrotsmælingar voru gerðar á fjórum hvarfefnum (lysozyme, lactoferrin, myoglobin og bovine serum albumin) við þrjú mismunandi hitastig (4°C, 25°C og 37°C). Niðurbrotsafurðinar voru aðgreindar með háþrýstivökvaskiljun með óskautuðum stöðufasa (reversed phase) og umfang niðurbrots ákvarðað út frá rófum sem fengust við þáttunina.

Niðurstöður: Um níu ísóensím af þorskatrypsíni voru greind með tvívíðum geljum. Átta ísóensím af þorskatrypsíni (þorskatrypsín 1-8) fundust með þáttun á jónaskiptasúlu. Leit með MASCOT hugbúnaði út frá massarófum af trypsíni 1-8 sýndi að öll líkjast þau áður skilgreindum ísóensímum úr þorski nema þorskatrypsín 8. Niðurbrot allra hvarfefnanna var meira í öllum tilfellum með þorskatrypsíni í samanburði við nautatrypsín nema fyrir bovine serum albumin við 25°C, þar sem það var nánast það sama.

Ályktanir: Þorskatrypsínblandan inniheldur fleiri ísóensím en áður var talið, átta til níu ísóensím í stað þriggja. Byggt á okkar niðurstöðum, þá eru þorskatrypsín betri en nautatrypsín að brjóta niður prótein í náttúrulegri myndbyggingu.

 

E 109 Líkan af eitrunaráhrifum mýlildismyndandi Cystatin C í Drosophila melanogaster

Guðrún Jónsdóttir, Finnbogi Þormóðsson, Pétur Henry Petersen

Rannsóknarstofu í taugalíffræði og líffærafræði læknadeild HÍ

phenry@hi.is

Inngangur: Arfgeng heilablæðing er nær séríslenskur ríkjandi erfðasjúkdómur sem orsakast af punktbreytingu í Cystatin C geninu. Stökkbreytt Cystatin C prótein myndar mýlildi (amyloid) er fellur út í æðakerfi heilans og veldur frumudauða, vefjabreytingum og að lokum blæðingum í heila. Einnig er möguleiki að stökkbreytt Cystatin C valdi eituráhrifum í þeim frumum er tjá það. Sjúkdómurinn er ólæknandi og ekki hefur tekist að útbúa líkan af sjúkdómnum í módellífverum. Tilgangur þessa verkefnis var að útbúa líkan af meinafræði sjúkdómsins í ávaxtaflugunni Drosophila melanogaster.

Efniviður og aðferðir: Erfðabreyttar flugur voru útbúnar með venjubundnum hætti og tjáningu villigerðar og stökkbreytts Cystatin C gens stjórnað með gal4-UAS kerfinu. Próteintjáningu var lýst með western þrykki og með mótefnalitun á fluguheilum.

Niðurstöður: Hægt er að tjá Cystatin C genið úr manni í Drosophilu, bæði villigerð og stökkbreytta gerð. Cystatin C tvíliða myndast úr stökkbreytta próteininu en ekki villigerðarpróteininu. Þrátt fyrir mikla tjáningu í taugakerfinu, virðist mýlildi ekki myndast. Hins vegar sýnir Cystatin C próteinið sækni að loftæðum. Að tjá stökkbreytta próteinið hefur ekki áhrif á lífslengd eða ytri svipgerð flugnanna.

Ályktanir: Stökkbreytt Cystatin C virðist ekki mynda mýlildi í Drosophilu en tvíliður myndast, þær eru taldir vera fyrsta skrefið í átt að eitrunaráhrifum og mýlildismyndun. Engin áhrif eru á ytri svipgerð, ástæður þessa gætu verið ýmsar. Cystatin C próteinið sýnir sækni í loftæðar, líklega í grunnhimnu þeirra, eins og í meinafræði sjúkdómsins í manninum. Líkan af eitrunaráhrifum stökkbreytts Cystatin C í Drosophilu opnar möguleikana á erfðafræðilegum inngripum og skimun fyrir efnum sem hafa áhrif á dimeramyndun in vivo til góðs eða ills.

 

E 110 Magn tvíþátta DNA við cDNA nýmyndun er lykilatriði fyrir nákvæmni örflögugreininga á genatjáningu

Hans Guttormur Þormar1,2, Bjarki Guðmundsson1,2, Freyja S. Eiríksdóttir1, Guðmundur Heiðar Gunnarsson1,2, Jón Jóhannes Jónsson2,3

1Lífeind ehf., 2lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeildar HÍ, 3erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala

hans@hi.is

Inngangur: Þrátt fyrir miklar framfarir við örflögugreiningar á genatjáningu eru niðurstöður endurtekinna tilrauna enn ónákvæmar. Meginúrbætur hafa snúist um að bæta tölfræðigreiningar og framleiðslutækni örflagna. Lítil áhersla hefur verið lögð á gæðagreiningu flókinna skrefa frá RNA einangrun þar til cDNA eða RNA afleiða þess eru blenduð við örflöguna. Við rannsökuðum hvort tvívíður þáttháður rafdráttur (2D-SDE) væri gagnlegur við gæðamat á cDNA nýmyndun fyrir örflögugreiningar.

Efniviður og aðferðir:SuperScriptIII víxlriti var notaður til að nýmynda cDNA eftir Universal Human Reference RNA(Stratagene) með T7 oligo(dT) vísi. Sýnin voru nýmynduð bæði eftir leiðbeiningum framleiðanda og með endurbættum aðferðum sem við höfðum þróað. Magn tvíþátta cDNA var metið með 2D-SDE. Merkt RNA afleiða af cDNAi var búin til með T7 RNA pólýmerasa og blenduð á Agilent örflögu fyrir 230 gen með þekkta en mismikla tjáningu. Örflagan innihélt 10 þreifara fyrir hvert gen og hver þreifari var endurtekinn sex sinnum til að meta nákvæmni mælingar. Niðurstöður voru greindar með R-tölfræðihugbúnaði.

Niðurstöður: Magn tvíþátta cDNA eftir nýmyndun úr sex RNA sýnum, greint með 2D-SDE var mjög breytilegt á bilinu 0-73%. Niðurstöður úr örflögutilraunum leiddu í ljós að fjöldi þreifara með marktækan breytileika milli sýna minnkaði þeim mun meira sem var af tvíþátta cDNA í sýnunum. Þannig reyndust 15% þreifara marktækt breytilegir milli sýna með 12% og 35% tvíþátta cDNA en einungis 3% þreifara milli sýna með 69% og 73% tvíþátta cDNA.

Ályktanir:Niðurstöður benda til að gæðagreining og hámörkun magns tvíþátta cDNA við örflögugreiningar á genatjáningu sé mikilvægt skref í að auka nákvæmni og endurtakanleika.

 

E 111 Nýgengi statínnotkunar fyrir og eftir breytingar á reglum um greiðsluþátttöku

Guðrún Þengilsdóttir1, Ingunn Björnsdóttir2,3, Anna Birna Almarsdóttir1,3

1Lyfjafræðideild HÍ, 2heilbrigðisráðuneytinu, 3Rannsóknastofnun um lyfjamál HÍ

gth2@hi.is

Inngangur: Lyfjagagnagrunnur landlæknisembættisins gefur tækifæri á að framkvæma lýðgrundaðar lyfjanotkunarrannsóknir. Breytingar á reglum um greiðsluþátttöku lyfja hafa áhrif á hvaða lyf eru valin. Markmið rannsóknarinnar var að skoða 1) nýgengi statínnotkunar fyrir og eftir 1. mars 2009, en þá voru settar skorður á greiðsluþátttöku statína þannig að einungis var greitt fyrir ódýrasta lyfið; 2) tíðni þess að hætta meðferð snemma og 3) fjölda notenda sem skiptu úr einu statíni í annað í kjölfar breytinga á greiðsluþátttöku.

Efniviður og aðferðir: Gerð var lýsandi áhorfsrannsókn á gögnum lyfjagagnagrunns landlæknisembættisins fyrir alla fullorðna einstaklinga sem skilgreindir voru sem nýir notendur statína 2005-2009 (engin útleyst statín 12 mánuði áður). Árlegt nýgengi (á hverja 1.000 íbúa) var skoðað fyrir mismunandi statín, skipti milli statína voru skoðuð fyrir og eftir breytingar á greiðsluþátttöku og hlutfall nýrra notenda sem hætti snemma, það er leysti bara út eina ávísun á 12 mánaða tímabili var skoðað fyrir árin 2005-2008.

Niðurstöður:Samkvæmt tölum frá landlæknisembættinu fór nýgengi statínnotkunar úr 13,2 fyrir 1.000 árið 2005 upp í 14,8 2008 og síðan upp í 18,8 árið 2009. Nýgengi simvastatínnotkunar fór úr 8,0 fyrir 1.000 árið 2008 og upp í 17,2 árið 2009. Árin 2005-2008 hættu 12,0% nýrra notenda meðferð snemma. Frá 1. mars 2009 til 31. desember 2009 skiptu 4.200 einstaklingar úr atorvastatíni í simvastatín, í 78% tilfella minnkaði meðferðarskammtur.

Ályktanir: Auknar skorður á greiðsluþátttöku statína hafa aukið notkun ódýrustu lyfjanna. Hlutfall þeirra sem hætta snemma er svipað eða lægra en hefur verið greint frá erlendis. Óútskýrð, skörp aukning í nýgengi árið 2009 krefst ítarlegri rannsókna.

 

E 112 Opinber rekstur og einkarekstur í heilbrigðisþjónustu. Kostnaður og gæði

Rúnar Vilhjálmsson

Hjúkrunarfræðideild HÍ

runarv@hi.is

Inngangur: Fjöldi erlendra rannsókna hefur athugað kostnað og gæði heilbrigðiskerfa og einstakra þjónustustofnana með tilliti til rekstrarforma. Erindið er fræðilegt yfirlit yfir rannsóknir á kostnaði og gæðum heilbrigðiskerfa og sjúkrahúsa.

Efniviður og aðferðir: Byggt er á niðurstöðum rannsókna sem birst hafa á ritrýndum alþjóðlegum vettvangi og snerta annars vegar gæði og árangur heilbrigðiskerfa og hins vegar gæði og árangur sjúkrahússtarfsemi.

Niðurstöður: Kostnaður heilbrigðiskerfa virðist því hærri sem einkarekstur heilbrigðisþjónustu er umfangsmeiri. Spítalar sem reknir eru af einkaaðilum á hagnaðargrundvelli (fyrirtækjaspítalar) eru mun dýrari í rekstri en spítalar sem reknir eru af opinberum aðilum eða sjálfseignarstofnunum. Fyrirtækjaspítalar hafa auk þess tilhneigingu til að velja úr þá sjúklinga sem ábatasamast er að sinna. Samanburður á gæðum heilbrigðiskerfa og spítala bendir auk þess til að í ýmsum tilvikum séu gæði þjónustunnar lakari í einkarekstrarkerfum og á einkaspítölum þar sem rekstur er í hagnaðarskyni.

Ályktanir: Fagleg og rekstrarleg rök virðast almennt mæla gegn einkarekstri spítala og háu umfangi einkarekstrar í heilbrigðisþjónustunni. Líklegt er að umfangsmikil einkavæðing heilbrigðisþjónustu vinni gegn meginmarkmiðum félagslegra heilbrigðiskerfa um hagkvæma og aðgengilega heilbrigðisþjónustu.

 

E 113 Viðhorf samfélagshópa á Íslandi til fjármögnunar og reksturs heilbrigðisþjónustu

Rúnar Vilhjálmsson

Hjúkrunarfræðideild HÍ

runarv@hi.is

Inngangur:Rannsóknir benda til þess að almenningur í Skandinavíu styðji almennt opinberan rekstur og fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar. Tilgangur núverandi rannsóknar var að kanna viðhorf almennings á Íslandi til fjármögnunar og reksturs heilbrigðisþjónustunnar. Sérstaklega var athugað hvort stuðningur við ólík rekstrarform eða fjármögnunarleiðir færi eftir þjóðfélagshópum.

Efniviður og aðferðir: Byggt er á gögnum úr landskönnuninni Heilbrigði og aðstæður Íslendinga I. Könnunin fór fram frá september til desember 2006 meðal slembiúrtaks Íslendinga, búsettra hérlendis, á aldrinum 18-75 ára. Fjöldi svarenda í landskönnuninni var 1532 og heimtur (svarshlutfall) rúmlega 60%.

Niðurstöður: Almenningur á Íslandi reyndist almennt fylgjandi félagslegu heilbrigðiskerfi og er það í samræmi við niðurstöður skandinavískra rannsókna. Stuðningur almennings við hið félagslega kerfi var eindregnastur þegar kom að fjármögnun þjónustunnar og rekstri stærri þjónustueininga, lýðheilsustarfsemi og þjónustu við börn. Þeir hópar sem mest eiga undir þjónustu heilbrigðiskerfisins studdu félagslegt heilbrigðiskerfi heldur meir en þeir sem minna þurfa á heilbrigðiskerfinu að halda (í bili).

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að einkavæðing einstakra þátta heilbrigðisþjónustunnar njóti lítils stuðning meðal almennings, en að frekari félagsvæðing ýmissa þátta þjónustunnar hafi almennara fylgi. Á sumum sviðum íslensku heilbrigðisþjónustunnar er einkarekstur umfangsmeiri en almenningur virðist telja æskilegt.

 

E 114 Vanræktir sjúkdómar þróunarlanda

Júlíus Kristjánsson1, Sigurður Guðmundsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2heilbrigðisvísindasviði HÍ

juk2@hi.is

Inngangur: Vanræktir sjúkdómar þróunarlanda eru samnefnari fyrir fjölbreyttan hóp smitsjúkdóma. Vanræksla þeirra er talin felast í því hve litla athygli og fjármagn þeir hljóta frá vísindasamfélagi og fjölmiðlum miðað við sjúkdómsbyrði. Einnig búa þeir sem smitast oft við afar lakar þjóðfélagsaðstæður og hafa sjaldnast aðgang að viðunandi heilbrigðisþjónustu. Hér er fjallað sérstaklega um 14 sjúkdóma og smitleiðum þeirra, faraldsfræði, greiningu, forvörnum, meðferð og áhrifum þeirra á samfélög lýst. Athugað er hvort þá megi í raun kalla vanrækta, þá sérstaklega í samanburði við HIV, malaríu og berkla.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar fengust gegnum PubMed og ScienceDirect auk heimasíðu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Leitast var við að nota sem nýjastar upplýsingar um faraldsfræði og fjármagn. Um lýsandi tölfræði er að ræða.

Niðurstöður: Vanræktu sjúkdómarnir eru mjög algengir og valda mikilli sjúkdómsbyrði. Þeir finnast í mörgum ríkjum heimsins sem langflest teljast til þróunarlanda. Meðferðir og forvarnir þeirra geta reynst efnahag margra ríkja ofviða. Áhrif sjúkdómanna á einstaklinga jafnt sem samfélög eru slæm. Fjármagn sem veitt er til rannsókna virðist ekki vera ákvarðað í hlutfalli við sjúkdómsbyrði, dánartíðni, algengi eða nýgengi sjúkdóma. Nú eru starfrækt nokkur verkefni sem leggja áherslu á ákveðna, vanrækta sjúkdóma.

Ályktanir: Í samanburði við fjármagn sem varið er til rannsókna á HIV, malaríu og berklum má segja að sjúkdómahópurinn sé í raun vanræktur. Þó má draga þá ályktun að ákveðnir sjúkdómar innan hópsins séu vanræktari en aðrir. Ástæður þessarar vanrækslu eru líklega samspil margra þátta. Lausn vandans felst ekki í að einblína á sjúkdómana, heldur að taka að auki inn í myndina aðra áhrifaþætti í viðeigandi samfélögum.

 

E 115 Rof á vinnu hjúkrunarfræðinga við lyfjaumsýslu á bráðalegudeildum

Helga Bragadóttir

Hjúkrunarfræðideild HÍ

helgabra@hi.is

Inngangur: Hjúkrun er nákvæmisvinna sem krefst fullrar einbeitingar, ekki síst lyfjaumsýsla hjúkrunarfræðinga. Rannsóknir benda til þess að lyfjamistök séu algeng meðal hjúkrunarfræðinga á sjúkrahúsum. Fæst mistök leiða til skaða fyrir sjúklinga en einhver gera það og þá jafnvel til varanlegs skaða. Rannsóknir benda til þess að algengar orsakir lyfjamistaka séu truflanir, aukið vinnuálag, óreynt starfsfólk, þreyta, skortur á verklegri færni, að geta ekki lesið skrift lækna og að lyf séu með svipuð heiti. Rannsókn var gerð á vinnu hjúkrunarfræðinga þar sem meðal annars rof á vinnu þeirra við lyfjatiltekt og lyfjagjafir voru mæld.

Efniviður og aðferðir: Gerð var rannsókn á vinnu reyndra hjúkrunarfræðinga með beinni athugun þar sem vinna og áhrifaþættir hennar voru mældir. Gögnum var safnað á fjórum bráðalegudeildum Landspítala 2008.

Niðurstöður: Gögnum var safnað á átta morgun- og kvöldvöktum sem þátttakendur lýstu sem rólegum og viðráðanlegum. Tæp 17% af vinnutíma hjúkrunarfræðinga fór í lyfjaumsýslu. Að meðaltali var lyfjaumsýsla hjúkrunarfræðinga rofin 11,4 sinnum á vakt, oftast við lyfjatiltekt á morgunvakt. Við lyfjatiltekt voru rof oftast vegna óvæntra samskipta samstarfsmanns við þátttakanda, þátttakandi þurfti að aðstoða samstarfsmann eða lyf voru ekki til. Við lyfjagjöf voru rof oftast vegna þess að þátttakandi mat líðan sjúklings.

Ályktanir: Stór hluti vinnu hjúkrunarfræðinga er lyfjatiltekt og lyfjagjöf sem hvoru tveggja krefst nákvæmni og fullrar einbeitingar. Rof í lyfjaumsýslu hjúkrunarfræðinga eru algeng en þau geta ógnað öryggi sjúklinga. Ástæða er til að endurskoða verkferla og vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga á bráðalegudeildum með það fyrir augum að lágmarka rof við lyfjaumsýlsu og þar með hættuna á lyfjamistökum.

 

E 116 Meðferðir fyrir fjölskyldur barna og unglinga sem leita eftir heilbrigðisþjónustu á barnasviði Landspítala

Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Anna Ólafía Sigurðardóttir

Hjúkrunarfræðideild HÍ og Landspítala

eks@hi.is

Inngangur: Það hefur sjaldan verið brýnna en nú að vinna að markvissri þróun á hjúkrunarmeðferðum fyrir fjölskyldur barna og unglinga með langvinn og bráð heilbrigðisvandamál.

Efniviður og aðferðir: Undanfarin þrjú ár hefur staðið yfir innleiðing á fjölskylduhjúkrun á Landspítala þar sem meðferðir hafa meðal annars verið þróaðar fyrir fjölskyldur sem leita eftir þjónustu á Barnaspítala Hringsins. Meðferðirnar byggja á Calgary fjölskylduhjúkrunarhugmyndafræðinni þar sem sérstök áhersla er lögð á meðferðarsamræður við foreldra barnanna.

Niðurstöður: Í erindinu verður greint frá niðurstöðum rannsókna meðal 149 fjölskyldna barna og unglinga með langvinna og bráða sjúkdóma. Sérstök áhersla verður lögð á upplifun fjölskyldnanna af stuðningi frá hjúkrunarfræðingum og eins af sjónarmiðum foreldra á virkni fjölskyldunnar, lífsgæði þeirra og ánægju með heilbrigðisþjónustuna. Niðurstöðurnar eru kynntar í þremur meginþáttum, það er (a) árangur af einum stuttum meðferðarsamræðum (20-40 mín.) meðal 76 fjölskyldna barna og unglinga með langvinn og bráð heilbrigðisvandamál, (b) árangur af tveimur meðferðarsamræðum (50-60 mín.) meðal 70 fjölskyldna barna og unglinga með krabbamein, astma eða sykursýki og (c) árangur af þremur meðferðarsamræðum (50-60 mín.) meðal þriggja fjölskyldna barna og unglinga með nýgreint krabbamein.

Ályktanir: Hagnýting niðurstaðnanna á klínískum vettvangi er rædd og tillögur að framtíðarrannsóknum kynntar.

 

E 117 Fræðslusíða um brjóstagjöf: www.brjostagjof.is

Arnheiður Sigurðardóttir, Ásrún Matthíasdóttir

Háskólanum í Reykjavík

arnheidur06@ru.is

Inngangur: Á undanförnum árum hefur mikil áhersla verið lögð á að börn séu á brjósti eða fái brjóstamjólk og á Íslandi fæðast um 4500 börn árlega. Sífellt fleiri rannsóknir hafa komið fram á síðastliðnum tveimur áratugum sem hampa ágæti brjóstagjafar fyrir móður og barn. Svo þungt vega rökin að fræðimönnum ber saman um að ekki sé kostur á betri ungbarnafæðu og fagfólk eigi að hvetja mæður og veita þeim stuðning við brjóstagjöf með öllum tiltækum ráðum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, Miðstöð heilsuverndar barna og Manneldisráð mæla með að börn séu eingöngu á brjósti í sex mánuði og hvetja til brjóstagjafar ásamt annarri fæðu í allt að tvö ár eða lengur og telja það ákjósanlegt lýðheilsumarkmið.

Efniviður og aðferðir: Vefsíðan fjallar um brjóstagjöf frá ýmsum sjónarhornum meðal annars næringu, ónæmisfræði, tengslamyndun og sem uppeldisaðferð. Efni síðunnar er byggt á niðurstöðum rannsókna og rannsóknartengdu efni og er tilgangurinn að koma niðurstöðum rannsókna til fólksins með kennslufræðilegum aðferðum og auðvelda heilbrigðisstarfsfólki að vinna faglega á hverjum tíma svo auka megi gæði heilbrigðisþjónustu.

Niðurstöður: Heimsóknir á www.brjostagjof.is voru frá janúar til október 2010 frá 7420 tölvum 12.617 (483-2.799) og 67.576 flettingar á síðum. Heimsóknir í október voru frá 797 tölvum 1319 heimsóknir og 11.936 flettingar. Heimsóknir fylgja mánaðalegum sveiflum í fæðingum á Íslandi.

Ályktanir: Draga má þá ályktun að þörf hafi verði fyrir rannsóknartengt fræðsluefni á íslensku um brjóstagjöf á veraldarvefnum og að sú fræðslan sem síðan inniheldur geti fært þjóðina nær ákjósanlegu lýðheilsumarkmiði. Síðan er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi sem kynnir rannsóknir á sviði brjóstagjafar og hefur verið vel tekið.

 

E 118 Árangur lungnasmækkunaraðgerða við lungnaþembu á Íslandi 1996-2008

Sverrir I. Gunnarsson1, Kristinn B. Jóhannsson2, Marta Guðjónsdóttir3,5, Hans J. Beck3, Björn Magnússon4, Tómas Guðbjartsson2,5

1Lyflækninga-, 2hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 3hjarta- og lungnarannsókn Reykjalundi, 4Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað, 5læknadeild HÍ

sverrirgunnarsson@gmail.com

Inngangur: Lungnasmækkunaraðgerð (lung-volume reduction surgery) getur bætt líðan og lífshorfur sjúklinga með alvarlega lungnaþembu. Þar sem fylgikvillar eru tíðir hafa þessar aðgerðir þó verið umdeildar. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna árangur þessara aðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Framsæ rannsókn á 16 sjúklingum (meðalaldur 59 ár, 10 karlar) með alvarlega lungnaþembu sem gengust undir lungnasmækkunaraðgerð á Landspítala frá 1996 til 2008. Flestir sjúklingarnir voru stórreykingamenn og höfðu reykt í 49 pakkaár að meðaltali. Í gegnum bringubeinsskurð var ~20% af efri hluta beggja lungna fjarlægður með heftibyssu. Skráð voru afdrif sjúklinga, fylgikvillar, legutími og öndunarmælingar fyrir og þremur mánuðum eftir aðgerð. Meðaleftirfylgd var 8,7 ár og miðaðist við 31. des. 2009.

Niðurstöður: Aðgerðartími var 86 mín. (bil 55-135) og miðgildi legutíma 17 dagar (bil 9-85). Allir sjúklingarnir lifðu af aðgerðina. Viðvarandi loftleki (n=7) var algengasti fylgikvillinn en fjórir þurftu í enduraðgerð, þrír vegna bringubeinsloss og hinir vegna blæðingar, gallblöðrubólgu og rofs á smágirni. Einn sjúkling þurfti að endurlífga í enduraðgerð. FEV1 hækkaði marktækt um 34%, úr 0,97 L (33% af spáðu) fyrir aðgerð í 1,3 L (44% af áætluðu) (p<0,001) eftir aðgerð og FVC hækkaði marktækt úr 2,9 L (76% af spáðu) í 3,3 L (87% af spáðu) eftir aðgerð (p=0,014). Aukning í þoli var hins vegar ekki marktæk, eða úr 69 W í 71 W eftir aðgerð (p=0,09). Við eftirlit voru 10 af 16 sjúklingum á lífi og voru eins og 10 ára lífshorfur 100% og 60%.

Ályktanir: FEV1 og FVC mælingar jukust marktækt eftir aðgerð og allir sjúklingarnir lifðu af aðgerðina. Tíðni alvarlegra fylgikvilla var þó há og legutími langur. Túlka verður þessar niðurstöður varlega þar sem um lítinn sjúklingahóp er að ræða og viðmiðunarhópur ekki til staðar.

 

E 119 Skurðaðgerðir við sjálfsprottnu loftbrjósti á Íslandi. Þróun aðgerðatækni, ábendinga og tíðni fylgikvilla á átján ára tímabili

Guðrún Fönn Tómasdóttir1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

gft@hi.is

Inngangur: Fyrsta meðferð við sjálfsprottnu loftbrjósti er brjóstholskeri en við endurteknu loftbrjósti eða viðvarandi loftleka er yfirleitt gripið til skurðaðgerðar með opinni aðgerð eða brjóstholssjá. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna aðgerðatækni, ábendingar og árangur þessara aðgerða á 18 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk og nær til 251 sjúklings (meðalaldur 27,7 ár, 191 karl) sem gengust undir 281 skurðaðgerð vegna sjálfsprottins loftbrjósts (án undirliggjandi lungnasjúkdóms) á Landspítala á árunum 1991-2008. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og meinafræðiskýrslum. Tímabilinu var skipt í sex tímabil og þau borin saman.

Niðurstöður: Aðgerðafjöldi jókst á milli tímabila, eða frá 33 í 61 aðgerð á síðasta tímabilinu (p<0,05). Brjóstholsspeglun var oftar framkvæmd en opin aðgerð nema á tímabilinu 2000-2002 (45%) en voru 82% aðgerðanna á síðasta tímabilinu. Fleygskurður eingöngu var algengasta aðgerðin (55%) þar til á síðasta tímabilinu að auk fleygskurðar var gerð fleiðruerting með sandpappír og/eða hlutabrottnámi á fleiðru (84% tilfella). Ábendingar fyrir aðgerð voru sambærilegar milli tímabila, endurtekið loftbrjóst í 38% tilfella og viðvarandi loftleki hjá 31%. Aðgerðartími var að meðaltali 58 mínútur og breyttist ekki marktækt á tímabilinu, einnig legutími sem var í kringum fjórir dagar. Tíðni snemmkominna fylgikvilla var sambærileg á milli tímabila, einnig síðkomið endurtekið loftbrjóst, en 84% þeirra greindust eftir brjóstholsspeglunaraðgerð.

Ályktanir: Ábendingar skurðaðgerða hafa lítið breyst á þeim 18 árum sem rannsóknin náði til. Hins vegar hefur orðið veruleg fjölgun á brjóstholsspeglunaraðgerðum þar sem ertingu og hlutabrottnámi á fleiðru er bætt við fleygskurð. Því er áhyggjuefni að tíðni endurtekins loftbrjósts hefur ekki minnkað, en um er að ræða þekkt vandamál eftir speglunaraðgerðir sem mikilvægt er finna lausn á.

 

E 120 Forspárþættir lífshorfa eftir blaðnám við lungnakrabbameini á Íslandi 1999-2008

Guðrún Nína Óskarsdóttir1, Rut Skúladóttir1, Húnbogi Þorsteinsson1, Helgi J. Ísaksson2, Steinn Jónsson3,4, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknarstofu í meinafræði, 3 lungnadeild, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

gno1@hi.is

Inngangur: Skurðaðgerð er helsta læknandi meðferð við lungnakrabba-meini. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna stigun, lífshorfur og forspárþætti lífshorfa hjá sjúklingum sem gengist hafa undir lungnablaðnám vegna lungnakrabbameins á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 213 sjúklingum (meðalaldur 66,9 ár) sem gengust undir blaðnám á Íslandi við lungnakrabbameini öðru en smáfrumukrabbameini (ÖES) á tímabilinu 1999-2008. Æxlin voru stiguð samkvæmt TNM-stigunarkerfi og ein- og fjölþáttagreining notuð til að meta forspárþætti lífshorfa.

Niðurstöður: Heildarlífshorfur (Kaplan-Meier) eftir eitt og fimm ár voru 82,7% og 45,1%, en enginn lést <30 daga frá aðgerð. Algengustu vefjagerðir voru kirtilfrumu- (62%) og flöguþekjukrabbamein (29,1%) og meðalstærð æxlanna var 3,7 cm. Flestir sjúklinganna greindust á stigi I (59,6%), eða II (17,8%,), en 7% á stigi IIIA og 14,6% á stigi IIIB-IV. Stigun, stærð æxlis, kirtilfrumukrabbamein (HR=0,5, p=0,002), skert lungnastarfsemi og hjartsláttaróregla reyndust sjálfstæðir forspárþættir lífshorfa í fjölbreytugreiningu.

Ályktanir: Lífshorfur eru sambærilegar við erlendar rannsóknir, en tæplega helmingur sjúklinga var á lífi fimm árum eftir aðgerð. Hátt TNM sjúkdómsstig, skert lungnastarfsemi og saga um hjartsláttaróreglu fyrir aðgerð skerða lífshorfur þessara sjúklinga. Sjúklingum með kirtilfrumukrabbamein vegnar hins vegar betur en sjúklingum með flöguþekjukrabbamein, ólíkt því sem flestar aðrar rannsóknir hafa sýnt.

 

E 121 Samanburður á kostnaði vegna langvinnrar lungnateppu í nútíð og framtíð á Íslandi og í Noregi

Bryndís Benediktsdóttir1, Þórarinn Gíslason1,2

1Læknadeild HÍ, 2lungnadeild Landspítala

brynben@hi.is

Inngangur: Á tímum vaxandi kostnaðar við heilbrigðisþjónustu er kostnaðargreining algengra, langvinnra sjúkdóma mikilvæg. Skoða þarf kostnað líðandi stundar, en ekki síður þarf að áætla hver kostnaður muni verða í komandi framtíð. Taka þarf tillit til algengi, nýgengi, og áætla líklega framvindu sjúkdóms á komandi árum. Greining á kostnaði þarf að vera gagnsæ og sundurliðuð þannig að hægt sé að draga ályktanir af niðurstöðum í heild, en samtímis varpa ljósi á einstaka kostnaðarliði þar sem ná má hagræðingu. Gagnlegt er að bera saman milli landa kostnaðarliði mismunandi þjónustueininga.

Efniviður og aðferðir: Gögnum um notkun Íslendinga með langvinna lungnateppu (LLT) á heilbrigðiskerfinu var aflað úr niðurstöðum fjölþjóðarannsóknar á algengi og eðli langvinnrar lungnateppu. Kostnaðartölur voru fundnar á samræmdan hátt í opinberum gögnum á Íslandi og í Noregi. Stuðst var við niðurstöður Framingham-rannsóknarinnar þegar væntanleg framþróun á langvinnri lungnateppu var metin með tilliti til reykinga, aldurs og kynferðis.

Niðurstöður: Kostnaður árið 2005 vegna langvinnrar lungnateppu á Íslandi reyndist vera 478 evrur, en 284 evrur í Noregi á hvern sjúkling. Áætlaður heildarkostnaður vegna einstaklinga eldri en 40 ára með langvinna lungnateppu næstu 10 árin varð 130 milljónir evra á Íslandi en 1539 í Noregi. Hlutdeild langvinnrar lungnateppu af heildarfjárframlögum til heilbrigðismála reyndist vera 1,2% á Íslandi, en 0,7% í Noregi. Tölfræðileg úrvinnsla leiðir í ljós að hversu oft sjúklingum með langvinna lungnateppu versnar hefur mest áhrif á áætlaðan kostnað vegna sjúkrómsins næstu 20 árin.

Ályktanir: Kostnaður þjóðarbús vegna langvinnrar lungnateppu er verulegur bæði á Íslandi og í Noregi og mun að óbreyttu aukast í framtíðinni. Forvarnir sem draga úr tíðni þess að sjúklingum með langvinna lungnateppu versni eru líklegastar til að minnka kostnað vegna sjúkdómsins næstu 10 árin.

 

E 122 Hjúkrun sjúklinga með langvinna lungnateppu. Innleiðing líknarmeðferðar á sjúkradeild

Guðrún Jónsdóttir1, Helga Jónsdóttir1,2

1Landspítala, 2Háskóla Íslands

gudrun@itn.is

Inngangur: Nýlega útgefnar klínískar leiðbeiningar um líknarmeðferð á Landspítala gefa tilefni til að skoða hvernig hægt sé að bæta þjónustu við sjúklinga með langvinna lungnateppu á sjúkradeild. Markmiðið er að heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir sjúklingum með langvinna lungnateppu taki mið af hugmyndafræði líknarmeðferðar en meginmarkmið hennar er að bæta lífsgæði sjúklinga og fjölskyldna þeirra andspænis lífsógnandi sjúkdómi. Óvissulíkan Roland van Linge gerir ráð fyrir að við innleiðingu þekkingar í klínískt starf þurfi samþýðanleika milli nýjungar (líknarmeðferðar lungnasjúklinga) og umhverfis eða núverandi starfshátta. Tilgangur þessarar rannsóknar er að meta hindranir og greina árangursríkar leiðir fyrir innleiðinguna í því augnamiði að stuðla að þessum samþýðanleika.

Efniviður og aðferðir:Í þessu meistaraverkefni var beitt fyrirbærafræðilegri nálgun. Tekin voru tvö rýnihópaviðtöl við hjúkrunarfræðinga (n=8) sem starfa og hafa reynslu af hjúkrun lungnasjúklinga á Landspítala. Rannsóknargögnin voru þemagreind.

Niðurstöður:Þemagreining sýndi að meginhindranir við innleiðingu líknarmeðferðar eru hugtakaruglingur varðandi líknar- og lífslokameðferð, að hjúkrunarfræðingar eru í baráttu eða ágreiningivið aðrar heilbrigðisstéttir meðal annars lækna um að vinna eftir hugmyndafræði líknarmeðferðar, auk þess sem óvissa um framgang sjúkdóms getur hindrað ákvarðanatöku um meðferðina. Árangursríkar leiðir til innleiðingar vörðuðu mikilvægi þess að vera samstíga í þverfaglegri samvinnu um framkvæmd líknarmeðferðar og að samræmingar í vinnubrögðum væri þörf.

Ályktanir: Enn er langt í land með að unnið verði eftir klínískum leiðbeiningum um líknarmeðferð fyrir lungnasjúklinga. Innleiðing leiðbeininganna þarfnast tíma og fjármuna og mögulega þarf að aðlaga leiðbeiningarnar að sértækum þörfum sjúklinga með langvinna lungnateppu.

 

E 123 Fjölskylduhjúkrunarmeðferð á lungnadeild

Bryndís S. Halldórsdóttir1, Erla K. Svavarsdóttir2,3

1Göngudeild lungnasjúklinga Landspítala, 2Landspítala, 3hjúkrunarfræðideild HÍ

brynhall@landspitali.is

Inngangur: Sjúklingum með langvinna lungnateppu (LLT) fjölgar þegar sjúklingum með aðra langvinna sjúkdóma fækkar. Gera má ráð fyrir að um 12 þúsund Íslendingar hafi langvinna lungnateppu á II-IV stigi samkvæmt stigun GOLD. Álag á fjölskyldur vegna langvinnra sjúkdóma er mikið og fer vaxandi, meðal annars tengt breytingum í heilbrigðiskerfinu. Mikilvægt er að hjúkrunarfræðingar byggi hjúkrunarmeðferðir á gagnreyndum aðferðum. Veturinn 2008-2009 var gerð rannsókn á lungnadeild sem hluti af meistargráðu í hjúkrun. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta ávinning af stuttum fjölskyldumeðferðarsamræðum

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á hugmyndafræði Calgary fjölskyldumats- og meðferðarlíkananna og felst í stuttum meðferðarsamræðum við einn fjölskyldumeðlim sjúklings með langvinna lungnateppu við innlögn á lungnadeild. Rannsóknin var megindleg hjúkrunarmeðferðarrannsókn með hálfstöðluðu tilraunasniði. Þátttakendur voru fjölskyldumeðlimir sjúklinga með langvinna lungnateppu á lungnadeild, valið í tímaröð í samanburðarhóp fyrst (15 n), síðar í tilraunahóp (15 n) (N=30). Makar og börn sjúklinga voru 80% þátttakenda, 67% voru eldri en 50 ára og 73% voru konur. Mælitæki voru þrír spurningalistar, bakgrunnsþættir, fjölskylduvirkni og upplifaður stuðningur. Með SPSS tölfræðiforritnu fékkst lýsandi tölfræði,T-próf og fylgni.

Niðurstöður: Styður stefnutilgátu rannsóknarinnar. Rannsóknarhópur meðalskor =3,31; Std =1,030 og tilraunahópur meðalskor =2,60; Std =1,140 (*p=0,045). Meginniðurstaða er að fjölskyldumeðlimir lungnasjúklinga á lungnadeild upplifa marktækt meiri stuðning eftir stuttar meðferðarsamræður við hjúkrunarfræðing en þeir sem fá hefðbundna hjúkrun á lungnadeild.

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar eru skýr vísbending um að með stuttum fjölskyldumeðferðarsamræðum má bæta líðan fjölskyldumeðlima sjúklinga með langvinna lungnateppu og auka gæði hjúkrunarþjónustu.

 

E 124 Þættir sem hafa áhrif á mæði hjá sjúklingum með langvinna lungnateppu

Elfa Dröfn Ingólfsdóttir1,2, Guðbjörg Pétursdóttir1, Marta Guðjónsdóttir1,2,3

1Reykjalundi endurhæfingarmiðstöð SÍBS, 2læknadeild, 3Lífeðlisfræðistofnun HÍ

elfa.ingolfs@gmail.com

Inngangur: Óeðlilega mikil mæði er algengt og flókið einkenni hjá sjúklingum með langvinna lungnateppu (LLT). Mikilvægt er að skilgreina og afmarka betur hvaða þættir það eru sem skýra helst upplifun sjúklinga á mæðinni.

Efniviður og aðferðir: Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvaða þættir það eru sem spá best fyrir um upplifun á mæði hjá sjúklingum með langvinna lungnateppu. Þátttakendur voru 140 sjúklingar með langvinna lungnateppu sem voru að hefja sex vikna endurhæfingu á Reykjalundi. Þeir fóru í öndunarmælingu og sex mínútna göngupróf. Mæði var metin með Shortness of breath questionnaire (SOBQ) sem metur upplifun á mæði við athafnir daglegs lífs hjá einstaklingum með langvinna lungnasjúkdóma. Andleg líðan var metinn með Hospital anxiety depression(HAD) spurningarlistanum sem flokkar líðan í kvíða og þunglyndi. Viðmiðunargildi sem gefur til kynna merki um þunglyndi eða kvíða er ³8 stig í hvorum flokki.

Niðurstöður: Meðalaldur var 67,3±8,8 ár, FEV1 var 62,6±25,1% af áætluðu gildi. Líkamsþyngdarstuðull (BMI) var 29,1±6,2 kg/m2, 63% (N=88) þátttakenda voru konur. Vegalengd sem gengin var á sex mínútna gönguprófi vra 441±106 metrar eða 75,3±17,9% af áætlaðri vegalengd. Mæðistig á SOBQ voru 54,8±20,4. Af þátttakendum höfðu 26% merki um kvíða og 29% merki um þunglyndi. Af þeim þáttum sem skoðaðar voru (aldur, kyn, BMI, kvíði, þunglyndi, FEV1%, % af áætlaðir göngugetu), sýndi fjölbreytuaðhvarfsgreining (multiple regression analysis) að kvíði (r2=0,159) og göngugeta (r2=0,214) spáðu best fyrir um upplifun á mæði eða 35%, aðrar breytur bættu þar engu við.

Ályktanir: Göngugeta á sex mínútna gönguprófi (% af áætluðu gildi) og kvíðastig á HAD lista spá fyrir um 35% af upplifun á mæði við upphaf endurhæfingar, hjá sjúklingum með langvinna lungnateppu.

 

E 125 Notkun espaðs storkuþáttar VII á Landspítala á 10 ára tímabili

Róbert Pálmason1, Brynjar Viðarsson2, Felix Valsson3, Kristinn Sigvaldason3, Tómas Guðbjartsson4,5, Páll Torfi Önundarson2,5

1Lyflækningasviði, 2blóðmeinafræðideild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 5læknadeild HÍ

robertpalmason@gmail.com

Inngangur: Espaður storkuþáttur VII (recombinant factor VIIa, rFVIIa) hefur verið notaður á Landspítala frá árinu 1999 við blæðingum af ýmsum orsökum. Tilgangur þessarar aftursæju rannsóknar var að athuga ábendingar og árangur af notkun rFVIIa á Landspítala frá upphafi til ársloka 2008.

Efniviður og aðferðir: Fengnar voru upplýsingar um notkun rFVIIa frá apóteki Landspítalans og gagnagrunni blæðaramiðstöðvar. Klínískar upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám og voru meðal ananrs skráðar ábendingar notkunar lyfsins; klínísk svörun að mati meðhöndlandi læknis; fjöldi blóðhluta gefinn 12 klst. fyrir og 12 klst. eftir gjöf rFVIIa; storkupróf fyrir og eftir gjöf og afdrif sjúklinga.

Niðurstöður: Alls fengu 73 sjúklingar rFVIIa, meðalaldur 51 ár (0-84). Helstu ábendingar voru óviðráðanlegar blæðingar við hjartaskurðaðgerðir (n=23), eftir áverka (n=8) og fæðingu (n=9). Átta sjúklingar fengu lyfið vegna heilablæðingar, níu sem fyrirbyggjandi meðferð fyrir skurðaðgerð og 16 við öðrum ábendingum. Klínísk svörun var góð í 73% tilfella. Notkun rauðkornaþykknis minnkaði að meðaltali úr 10,6 einingum 12 klst. fyrir lyfjagjöf (bil 0-32, miðgildi 10) í 4,3 einingar 12 klst. eftir gjöf lyfsins (bil 0-22, miðgildi 3; p<0,0001); notkun blóðvökva minnkaði úr 10,2 einingum (bil 0-26, miðgildi 8) í 6,2 (bil 0-33, miðgildi 5,5; p<0,002) og PT styttist um 6,9 sek (p<0,0001). Alls létust 24 sjúklingar innan 30 daga (33%), þar af sex af níu með heilablæðingu og 10 af 24 sjúklingum eftir opnar hjartaaðgerðir.

Ályktanir: Þrír af hverjum fjórum sjúklingum svöruðu rFVIIa vel samkvæmt klínísku mati. Marktæk minnkun á gjöf blóðhluta og stytting PT styður það mat. Þótt dánarhlutfall sé hátt (33%), sérstaklega eftir heilablæðingar (66%), þá ber að hafa í huga að lyfið var aðeins gefið þegar önnur meðferðarúrræði höfðu brugðist.

 

E 126 Noradrenalín hefur lítil áhrif á smáæðablóðflæði í þörmum við opnar kviðarholsaðgerðir

Gísli H. Sigurðsson1,2, Oliver Limberger3, Luzius B. Hiltebrand3

1Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Dept. of Anaesthesiology Inselspital Berne og University of Bern, Sviss

gislihs@landspitali.is

Inngangur: Algengt er að blóðþrýstingur lækki undir ásættanleg mörk við svæfingu sjúklinga sem undirgangast stórar kviðarholsaðgerðir. Venjan hefur verið að mæta þessari blóðþrýstingslækkun með aukinni i.v. vökvagjöf. Á hinn bóginn hefur því verið haldið fram að ríkuleg vökvagjöf tefji fyrir bata sjúklinga sem fara í valaðgerðir. Við könnuðum áhrif þess að nota noradrenalín í stað aukins vökva til að hækka blóðþrýsting hjá svínum sem undirgengust opna kviðarholsaðgerð í svæfingu þar sem líkt var eftir aðstæðum hjá mönnum eins og frekast var kostur.

Efniviður og aðferðir: Tuttugu svín voru svæfð, lögð í öndunarvél og skipt í viðmiðunarhóp C (n=10) og noradrenalínhóp NA (n=10). Báðir hóparnir fengu Ringer laktat (RL) lausn í æð, 3 ml/kg/klst. Hópur NE fékk auk þess noradrenalín dreypi til að hækka meðalslagæðaþrýsting upp í 65 og 75 mmHg í tveimur skrefum. Hjartaútfall var mælt með stöðugri „thermodilution“, svæðisblóðflæði í superior mesenteric slagæð og nýrnaslagæð með transit time flowmetry og smáæðablóðflæði í smáþörmum með laser Doppler flæðimælingu. Súrefnisþrýstingur í garnavef var mældur með Clark-skautum.

Niðurstöður: Hópur C fékk samtals 985±44 ml og hópur NE 964±69 ml af RL. Hópur NE fékk 35±12 ng/kg/mín af noradrenalíni til að hækka meðalslagæðaþrýsting upp í 65 mmHg og 120±50 ng/kg/mín til að hækka þrýsting í 75 mmHg. Blóðþrýstingshækkun með noradrenalíni hafði lítil áhrif á svæðis- eða smáæðablóðflæði í smáþörmum eða nýrum. Súrefnisþrýstingur í garnavef breyttist ekki heldur.

Ályktanir: Í þessari dýrarannsókn þar sem líkt var eftir aðstæðum við opnar kviðarholsaðgerðir hjá mönnum hafði noradrenalín dreypi lítil sem engin áhrif á smáæðablóðflæði og súrefnisþrýsting í görnum og nýrum.

 

E 127 Áhrif þjálfunar á sjúklinga með langvinna lungnateppu eða langvinna hjartabilun

Marta Guðjónsdóttir1,2, Arna E. Karlsdóttir1, Ásdís Kristjánsdóttir1, Egill Thoroddsen2, Magdalena Ásgeirsdóttir1, Magnús R. Jónasson1

1Hjarta- og lungnarannsókn Reykjalundi endurhæfingarmiðstöð, 2LífeðlisfræðistofnunHÍ

Marta@REYKJALUNDUR.is

Inngangur: Sjúklingar með langvinna hjartabilun eða langvinna lungnateppu þjást af úthaldsleysi vegna óeðlilegrar mæði eða þreytu eða hvorutveggja. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif þjálfunar á úthald og mæði sjúklinga með langvinna hjartabilun eða langvinna lungnateppu.

Efniviður og aðferðir: Tuttugu og þrír sjúklingar með langvinna hjartabilun (21 karl, 55±10 ára, NYHA II-III, með £35% útstreymisbrot vinstri slegils) og 24 sjúklingar með langvinna lungnateppu (10 karlar, 64±9 ára, GOLD 3 & 4) fóru í hámarksþolpróf fyrir og eftir endurhæfingu þar sem mæld var súrefnisupptaka (V‘O2), öndun (V‘E) og púls auk þess sem sjúklingar mátu mæði sína með Borg-mæðiskala (0-10 stig) við hámarksáreynslu. Þjálfunin í endurhæfingunni byggði á þol- og styrkþjálfun, þjálfað var alla virka daga að meðaltali í 5,8±1,1 vika.

Niðurstöður: Þolið var mjög skert hjá báðum hópum í upphafi endurhæfingar þar sem þoltala sjúklinga með langvinna hjartabilun var 11,9±4,1 og sjúklinga með langvinna lungnateppu 10,7±3,2 ml/kg/mín en báðir hópar juku þol sitt við endurhæfinguna (p<0,05). Hjá sjúklingum með langvinna hjartabilun hækkaði súrefnispúlsinn úr 10,4±3,8 í 11,9±3,7 ml/slag en úr 5,9±2,2 í 6,7±2,8 ml/slag hjá sjúklingum með langvinna lungnateppu. Púlsleifin var 32±21% hjá sjúklingum með langvinna hjartabilun en lægri hjá sjúklingum með langvinna lungnateppu eða 21±9% fyrir þjálfun og breyttist hjá hvorugum hópnum. Mat sjúklinga með langvinna lungnateppu og langvinna hjartabilun á mæði var sambærilegt fyrir og eftir þjálfun; fór 4,8 í 5,2 stig hjá sjúklingum með langvinna hjartabilun en úr 5,7 í 5,5 stig hjá sjúklingum með langvinna lungnateppu. Mæðistuðull (V‘Emax/V‘Emax áætlað) var hins vegar marktækt hærri hjá sjúklingum með langvinna lungnateppu (0,82 fyrir og 0,93 eftir) en hjá sjúklingum með langvinna hjartabilun (0,44 fyrir og 0,51 eftir) fyrir þjálfun og hækkaði hjá báðum hópum við þjálfun.

Ályktanir: Báðir sjúklingahópar bættu þol sitt við þjálfunina þar sem bæði þoltala og súrefnispúls hækkuðu án breytinga á púlsleif. Hvorugur hópurinn skynjaði frekari mæði (á Borg-skala) þrátt fyrir að mæðistuðullinn hafi hækkað hjá báðum hópum, sem bendir til aðlögunar á mæðitilfinningu við þjálfun.


E 128 Áhættugreining augnbotnabreytinga hjá sykursjúkum einstaklingum

Rúnar Bragi Kvaran1,3, Arna Guðmundsdóttir2,3

1Læknadeild HÍ, 2innkirtla- og efnaskiptadeild Landspítala, 3Risk Medical Solutions

rbk2@hi.is

Inngangur: Venja er að sykursjúkir mæti árlega eða annað hvert ár í skimun fyrir augnbotnabreytingum. Þar sem áhættuþættir sykursjúkra fyrir augnbotnabreytingum eru mismunandi fara sumir oftar í augnskoðun en þeir þurfa og aðrir sjaldnar en þörf er á. Tilgangur rannsóknarinnar var að prófa áhættureikniforrit Risk Medical Solutions (RMS) á íslensku úrtaki sykursjúkra og meta út frá þekktum áhættuþáttum hversu reglulega þeir þurfa að mæta í augnskoðun.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var aftursýn og voru sjúkraskrár sjúklinga, er hittu tvo af innkirtlalæknum göngudeildar sykursjúkra á Landspítala í janúar, febrúar og mars árið 2010, rannsakaðar. Áhættuþættir augnbotnabreytinga voru skráðir fyrir hverja komu. Út frá þeim var áhættureikniforrit RMS látið reikna hvenær sjúklingar ættu næst að mæta í augnskoðun. Notuð voru 4% áhættumörk við útreikninga. Forritið gefur skimunartíma á bilinu sex til 60 mánuði.

Niðurstöður: Komurnar voru alls 289. Karlar voru í meirihluta (58%) og 53% höfðu sykursýki af tegund eitt. Engar augnbotnabreytingar voru hjá 68% einstaklinganna, 23% höfðu bakgrunnsbreytingar og rúm 9% höfðu lengra genginn augnsjúkdóm. Útreiknaður meðalskimunartími var 24 mánuðir. Samkvæmt útreikningum þurfa 41% sjúklinganna að fara í augnskoðun innan árs. Hins vegar þurfa önnur 41% allra sjúklinga ekki að fara í augnskoðun nema á tveggja ára fresti eða sjaldnar og 27% á þriggja ára fresti eða sjaldnar.

Ályktanir: Niðurstöður sýna að breytilegt er meðal sykursjúkra hversu oft þeir þurfa á augnskoðun að halda. Mesta athygli vekur að rúmur fjórðungur sjúklinga þarf aðeins á augnskoðun að halda á þriggja ára fresti eða sjaldnar. Þetta bendir til þess að með upptöku einstaklingsmiðaðrar skimunar má ráðstafa betur því fjármagni sem varið er í skimanir.

 

E 129 Áhrif hæðar á frammistöðu í taugasálfræðiverkefnum, líðan og losun próteinsins S100B í fjallgöngu upp í 4554 metra hæð á Monte Rosa

Engilbert Sigurðsson1,2, Tómas Guðbjartsson2,3, Magnús Gottfreðsson2,4, Orri Einarsson5, Per Ederoth6, Ingvar Syk7, Henrik Bjursten7

1Geðsviði Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3skurðsviði, 4lyflækningasviði Landspítala, 5röntgendeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, 6gjörgæslu- og svæfingadeild háskólasjúkrahússins í Lundi, 7hjartaskurðdeild háskólasjúkrahússins í Lundi

engilbs@landspitali.is

Inngangur: Með aukinni hæð dregur úr framboði á súrefni til frumna líkamans. Súrefnisskortur getur leitt til aukinnar þéttni próteinsins S100B í sermi sem hefur verið tengd byrjunarleka í heila-blóð þröskuldi miðtaugakerfisins.

Efniviður og aðferðir:Sjö sjálfboðaliðar við góða heilsu gengu upp fjallið Monte Rosa. Á uppleið og niðurleið voru mælingar gerðar á líðan og einkennum háfjallaveiki með Lake Louise-skori (LLS), taugasálfræðiverkefni leyst í tölvum, súrefnismettun og hjartsláttartíðni mæld og blóð dregið til að mæla breytingar á S100B í sermi. Leiðrétt var á einstaklingsbundinn hátt fyrir að einstaklingar læra á taugasálfræðiverkefni við það að svara þeim endurtekið.

Niðurstöður: Aðeins einn þátttakandi af sjö fékk veruleg einkenni háfjallaveiki. Meðalskor á LLS voru 0,57 til 2,57 í göngunni. Þéttni S100B jókst um 42% til 122% frá grunngildum og varð aukningin mest og þéttnin hæst þegar farið var úr 1155 m í 3647 m hæð. Eftir það féll þéttnin og nálgaðist grunngildi á ný þótt gengið væri áfram í 4554 m hæð. Marktæk fylgni kom fram milli LLS og tveggja af sex flokkum taugasálfræðibreyta í 3647 m og 4554 m hæð. Alls lækkuðu skor 15 taugasálfræðibreyta af 18 með hækkandi LLS-skori þótt ekki næði lækkunin marktækni nema í fáum tilfellum enda fjöldi þátttakenda lítill (n=7).

Ályktanir:Rannsóknin sýndi að þéttni S100B eykst í sermi þegar súrefnisþéttni fellur í blóði með aukinni hæð á fjallgöngu. Aukningin gengur til baka í aukinni hæð með hæðaraðlögun. Á hinn bóginn náði fall taugasálfræðiskora almennt hámarki í mestu hæð, 4554 m líkt og skor á LLS sem metur einkenni háfjallaveiki.

 

E 130 Meningókokkafjölsykrur af gerð C (MenC-PS) bæla ónæmissvar í nýburamúsum með því að reka MenC-PS sértækar B minnisfrumur í stýrðan frumudauða

Siggeir F. Brynjólfsson1,2, Maren Henneken1, Stefanía P. Bjarnarson1,2, Elena Mori3, Giuseppe Del Giudice3, Ingileif Jónsdóttir1,2,4

1Landspítala, 2Háskóla Íslands,3Novartis Vaccines srl. Siena, Ítalíu, 4Íslenskri erfðagreiningu

siggeir@landspitali.is

Inngangur: Áhrif endurbólusetningar með MenC-PS fjölsykrum á ónæmissvör nýburamúsa, sem höfðu verið frumbólusettar með prótíntengdum MenC-PS (MenC-CRM197) voru könnuð, svo og lifun MenC-PS sértækra B frumna í milta og beinmerg.

Efniviður og aðferðir: Nýburamýs (einnar viku gamlar) voru frumbólusettar með tveimur skömmtum af MenC-CRM197 + CpG1826 og endurbólusettar með MenC-CRM197, MenC-PS eða saltvatni. Þær fengu BrdU í kvið í 12 klst. eða fimm daga og var síðan fargað. MenC-PS sértækar frumur í milta og beinmerg voru flúrskinslitaðar og rannsakaðar í flæðifrumusjá. Magn og sækni MenC-PS sértækra IgG mótefna í sermi var mælt (ELISA), svo og bakteríudrápsvirkni (SBA).

Niðurstöður: Mýs sem voru endurbólusettar með MenC-PS höfðu lægra magn og sækni MenC-PS sértækra IgG mótefna og lægra SBA en mýs endurbólusettar með MenC-CRM197. Fimm dögum eftir endurbólusetningu með MenC-PS höfðu mýsnar lægri tíðni af BrdU jákvæðum (það er nýmynduðum) MenC-PS sértækum B frumum með óreynda (CD138-/B220+), minnis/plasmablast (CD138+/B220+) og plasmafrumu (CD138+/B220-) svipgerðir í miltanu en mýs sem voru endurbólusettar með MenC-CRM197. BrdU jákvæðar MenC-PS sértækar IgG+ og IgM+ B frumur í miltanu voru einnig færri en í músum sem fengu saltvatn. Tólf klukkustundum eftir endurbólusetningu með MenC-PS var auknari tíðni af MenC-PS sértækum B frumum í stýrðum frumudauða (Annexin V+) í miltanu en í músum sem fengu MenC-CRM197 eða saltvatn.

Ályktanir: Í músum sem eru bólusettar með MenC-CRM197 sem nýburar rekur MenC-PS endurbólusetning MenC-sértækar B minnisfrumur í stýrðan frumudauða, sem leiðir til skerts ónæmissvars síðar.

 

E 131 Fjölsykrubóluefni (23-gilt) gegn pneumókokkum eyðir fjölsykrusértæku mótefnasvari sem myndast við frum- eða endurbólusetningu nýburamúsa með 7-gildu prótíntengdu fjölsykrubóluefni

Hreinn Benónísson1,2, Stefanía P. Bjarnarson1,2, Brenda C. Adarna1, Ingileif Jónsdóttir1,2,3

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Íslenskri erfðagreiningu

hreinnb@landspitali.is

Inngangur: Við höfum sýnt að endurbólusetning með hreinni pneumókokkafjölsykru (PPS) af gerð 1 skerðir PPS-sértækt mótefnasvar og mótefnaseytandi frumur sem hafa myndast við frumbólusetningu með prótíntengdu fjölsykrubóluefni (Pnc1-TT). Vöxtur pneumókokka í nefkoki fyrir fyrstu bólusetningu ungbarna með 7-gilda (4, 6B, 9V, 14, 18C, 19F og 23F) próteintengda fjölsykrubóluefninu Prevnar dregur úr mótefnasvari gegn því. Markmið rannsóknarinnar var að meta hvort frum- og/eða endurbólusetning með 23-gildu fjölsykrubóluefni skerði ónæmissvör nýburaburamúsa við frum- eða endurbólusetningu með Prevnar.

Efniviður og aðferðir: Nýburamýs (einnar viku) voru frumbólusettar undir húð með ¼ mannaskammti af Prevnar, 1/5 skammti Pneumovax (23-gilt PPS) eða saltvatni og endurbólusettar 16 dögum síðar með Prevnar, Pneumovax eða saltvatni. Blóðsýni voru tekin vikulega að sjöttu viku og á 15. viku. Magn IgG mótefna sértækra gegn sjö fjölsykrum Prevnar voru mæld með ELISA.

Niðurstöður: Nýburamýs bólusettar einu  sinni eða tvisvar með Prevnar höfðu sambærileg og marktækt hærri mótefni gegn öllum fjölsykrum Prevnar nema fjölsykrugerð 14 en mýs sem voru frumbólusettar með Prevenar og endurbólusettar með Pneumovax, sem vakti lítið endursvar. Frumbólusetning með Pneumovax skerti mótefnasvörun nýburamúsa við endurbólusetningu með Prevnar marktækt gegn öllum sjö fjölsykrunum, sem sást fjórum og 13 vikum síðar.

Ályktanir:Endurbólusetning Prevnar-bólusettra nýburamúsa með fjölsykrubóluefninu Pneumovax gefur lélegt svar miðað við endurbólusetningu með Prevnar. Frumbólusetning nýburamúsa með Pneumovax dregur verulega úr ónæmissvari gegn öllum hjúpgerðum Prevnar til styttri og lengri tíma. Ráðlegt er að bólusetja ungbörn snemma með prótíntengdum fjölsykrum, ssvo sem Prevnar, áður en þau bera pneumókokka í nefkoki, og varast skyldi að gefa þeim fjölsykrubóluefni.

 

E 132 Ónæmisglæðirinn IC31® eykur Th1 svar nýburamúsa gegn þremur vel varðveittum pneumókokkaprótínum og bætir vernd gegn pneumókokkasýkingum

Þórunn Ásta Ólafsdóttir1,2, Karen Lingnau3, Eszter Nagy3, Ingileif Jónsdóttir1,2,4

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ , 3Intercell AG Vín, Austurríki, 4Íslenskri erfðagreiningu

thorasta@landspitali.is

Inngangur: Yfir90 hjúpgerðir pneumókokka eru þekktar og þrátt fyrir að bóluefni úr fjölsykruhjúp bakteríunnar (hreinar og prótíntengdar fjölsykrur) séu skráð er hún meðal skæðustu sýkla heims. Bóluefni byggð á vel varðveittum pneumókokkaprótínum eru vænlegur kostur til að vekja upp vernd óháð hjúpgerð í ungum börnum. Við bárum saman áhrif ónæmisglæðanna IC31® og Alum á ónæmissvar nýburamúsa við bólusetningu með þrígildu prótínbóluefni.

Efniviður og aðferðir: Nýburamýs (viku gamlar) voru bólusettar með 20 µg af PcsB, StkP og PsaA með eða án IC31® eða Alum og endurbólusettar 16 dögum síðar. Viku síðar voru eitilfrumur einangraðar úr milta og örvaðar með prótínunum in vitro. Boðefnamagn í floti og mótefnamagn í sermi var mælt með ELISA. Í aðskilinni tilraun voru mýsnar bólusettar þrisvar og sýktar um nef með S. pneumoniae af hjúpgerð 1 til að mæla verndarmátt bólusetningarinnar gegn blóð- og lungnasýkingu.

Niðurstöður: Bæði Alum og IC31® juku magn prótínsértækra IgG mótefna miðað við ef prótínin voru gefin án ónæmisglæðis. Mýs sem fengu IC31® mynduðu mikið af IgG2a en mýs sem fengu Alum eða engan ónæmisglæði mynduðu lítið IgG2a. IgG2a tengist Th1 boðefnamyndun í músum og í samræmi við það mældist mest af IFN-g í músum sem fengu IC31®. Niðurstöðurnar gefa til kynna að IC31®, ólíkt Alum, geti yfirunnið Th2 ráðandi ónæmissvar nýburamúsa. Mýs sem voru bólusettar með PcsB, StkP og PsaA ásamt IC31® voru fullkomlega verndaðar gegn blóðsýkingu (P=0,019) og marktækt minna sýktar í lungum (P=0,002) en mýs sem fengu ekki ónæmisglæði. Alum jók hins vegar ekki verndarmátt prótínanna.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að bólusetning með þrígildu prótínbóluefni ásamt ónæmisglæði sem ýtir undir Th1 ónæmissvar getur vakið verndandi ónæmissvar gegn pneumókokkasýkingum í nýburamúsum.

 

E 133 Ónæmisglæðirinn LT-K63, en ekki CpG1826, nær að yfirvinna takmarkanir í þroska kímmiðjufrumna í nýburamúsum

Stefanía P. Bjarnarson1,2, Hreinn Benónísson1,2, Giuseppe Del Giudice3, Ingileif Jónsdóttir1,2,4

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HR, 3Novartis Vaccines, Siena Ítalíu, 4Íslenskri erfðagreiningu

stefbja@landspitali.is

Inngangur:Ónæmiskerfi nýbura og ungbarna er vanþroskað og mótefnasvör gegn flestum bóluefnum hæg, lækka hratt og endast stutt. Kímstöðvar eru aðalvirkjunarstaðir B-frumna til sérhæfingar í mótefnaseytandi B-frumur (AbSC) og B-minnisfrumur. Virkjun kímstöðva er takmörkuð í nýburamúsum vegna vanþroska kímstöðvafrumna (FDC). Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif ónæmisglæðanna CpG1826 og LT-K63 á virkjun kímstöðva og myndun AbSC við bólusetningu nýburamúsa með próteintengdri pneumókokkafjölsykru (Pnc-TT).

Efniviður og aðferðir: Nýburamýs voru bólusettar með Pnc-TT án eða með CpG1826 eða LT-K63, saltvatn var notað sem viðmið. Fjórtán dögum eftir bólusetningu voru miltu einangruð og vefjasneiðar litaðar með PNA, IgM, IgG, FDC-M2, MOMA-1 og TNFa. Fjöldi IgG+ AbSC í milta, sértækra fyrir fjölsykru- eða próteinhluta bóluefnisins var metinn með ELISPOT.

Niðurstöður: CpG1826 og LT-K63 auka báðir Pnc-TT sértækt mótefnasvar nýburamúsa og fjölda IgG+ AbSC miðað við Pnc1-TT eitt og sér. LT-K63 jók marktækt fjölda virkra kímstöðva og FDC-M2 litun, sem einkennir fullþroskaðar FDC og varðveislu mótefnafléttna á yfirborði þeirra. Flutningur MOMA-1+ átfrumna (MMM) frá jaðarsvæðum inn í virku kímstöðvarnar jókst einnig, en MMM taka upp mótefnafléttur og flytja til FDC. CpG1826 hafði lítil áhrif á myndun kímstöðva og engin áhrif á þroska kímstöðvarfrumna. Staðsetning FDC og MMM frumna í kímstöð er háð TNFa og lymphotoxin ferlum. Kannað var hvort áhrif LT-K63 á þroska kímstöðvafrumna tengist áhrifum á tjáningu TNFa miðað við CpG1826 sem jók ekki þroska kímstöðvarfrumna. LT-K63 jók til muna litun á TNFaí kímstöðvum nýburamúsa, en CpG1826 ekki.

Ályktanir: LT-K63 er fyrsti og eini ónæmisglæðirinn sem sýnt hefur verið að yfirvinnur takmörkun í þroska kímstöðvafrumna í nýburamúsum, sem tengist meðal annars aukinni TNFa tjáningu.

 

E 134 Frumuboðefnin Transforming growth factor b1 og Interleukin-2 hafa samverkandi áhrif á tjáningu viðloðunarsameindarinnar Interleukin aE

Brynja Gunnlaugsdóttir1,2,3, Sólrún Melkorka Maggadóttir1,3, Laufey Geirsdóttir1,3, Inga Skaftadóttir1, Björn Rúnar Lúðvíksson1,3

1Ónæmisfræðideild, 2rannsóknarstofu í gigtsjúkdómum Landspítala, 3læknadeild HÍ

brynja@landspitali.is

Inngangur: CD103 er alpha keðja Integrin aE/b7 sem bindur E-cadherin og stuðlar að vefjasértækri viðloðun T frumna við E-cadherin rík líffæri og bólgusvæði. CD103 er tjáð af CD4+ og CD8+ T frumum og einkennir hluta T stýrifrumna og getur því hvoru tveggja tengst bólgumiðlandi og bólguhamlandi virkni. Transforming growth factor-b1 (TGF-b1) stýrir virkni og sérhæfingu T frumna og hefur einnig þekkt áhrif á tjáningu CD103. Markmið rannsóknarinnar var að kanna stjórnunaráhrif TGF-b1 og Interleukin-2 (IL-2) á tjáningu CD103.

Efniviður og aðferðir: Einkjarna hvítfrumur voru einangraðar úr naflastrengsblóði fullburða barna. T frumur voru örvaðar með mótefnum (anti-CD3 +/- anti-CD28). TGF-b1 og IL-2 var bætt í valdar ræktir. Frumum var safnað á þriðja degi ræktar og litað var fyrir yfirborðssameindunum CD4, CD8, CD25, CD103, CD49d og Integrin b7. Auk þess var litað fyrir umritunarþættinum FoxP3 með innanfrumulitun. Tjáning sameinda var skoðuð í frumuflæðisjá.

Niðurstöður: TGF-b1 og IL-2 höfðu ekki sjálfstæð áhrif á tjáningu CD103. Hins vegar höfðu þau sterk samverkandi áhrif á tjáningu CD103 meðal CD4+ og CD8+ T frumna sem örvaðar voru um CD3 viðtakann. CD8+ T frumur voru mun næmari gagnvart þessum áhrifum (hlutfallshækkun 103+ T frumna: 30 föld meðal CD8+ miðað við sexföld meðal CD4+ T frumna; p <0,05). Hins vegar dró verulega úr áhrifum TGF-b1 og IL-2 á tjáningu CD103 þegar einnig var ræst um CD28 viðtakann. TGF-b1 og IL-2 höfðu samverkandi áhrif á FoxP3 tjáningu CD4+ og CD8+ T frumna og hlutfallslega tjáningu FoxP3 meðal CD103+ T frumna.

Ályktanir: Niðurstöður okkar benda til þess að stjórnunaráhrif TGF-b1 á tjáningu CD103 séu háð IL-2. Jafnframt benda niðurstöður okkar til þess að ofangreind boðferli stuðli að sérhæfingu CD103 jákvæðra stýrifrumna bæði meðal CD4+ og CD8+ T frumna.

 

E 135 Blöðruhálskirtilskrabbamein. Samanburður á íslensku og dönsku þýði

Inga Jóna Ingimarsdóttir1,2,3, Ea Rusch3, Klaus Brasso4, Gerda Engholm3, Jan Adolfsson5, Laufey Tryggvadóttir6, Hans H. Storm3

1Landspítala, 2Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ, 3Krabbameinsfélagi Danmerkur, 4þvagfæraskurðdeild Rigshospitalet Kaupmannahöfn, 5þvagfæraskurðdeild Háskólasjúkrahúsinu Örebro, 6Krabbameinsskrá KÍ

ingajona@landspitali.is

Inngangur: Fyrri rannsóknir, byggðar á upplýsingum úr krabbameinsskrám, sýna mikinn mun á lifun á blöðruháls-kirtilskrabbameini (PC) á milli Danmerkur og Íslands. Markmið rannsóknarinnar er kanna ástæður fyrir þessum mismun. Nýgengi PC er mun hærra á Íslandi en dánartíðnin hefur verið svipuð.

Efniviður og aðferðir: Krabbameinsskrár landanna voru notaðar til að bera kennsl á sjúklinga sem greindust á árunum 1996-1998 á Íslandi og í átta af 16 landsvæðum Danmerkur árið 1997. Klínískar upplýsingar voru sóttar í sjúkraskrár. Gerð var TNM stigun, skráð þroskun æxlis, PSA gildi fyrir meðferð og tegund meðferðar. Ekki voru teknir með karlar greindir við krufningu, með fyrri krabbamein (undanskilið húðkrabbamein) eða yfir nírætt við greiningu. Mismunur á dánartíðni landanna var reiknaður og leiðrétt fyrir þekktum breytum sem hafa áhrif á horfur.

Niðurstöður:Hlutfallslega fleiri íslenskir sjúklingar voru yngri en 69 ára. Á Íslandi voru ¾ sjúklinganna með staðbundinn sjúkdóm miðað við 56% í Danmörku. Danirnir voru með hærri Gleason-stigun (score) og helmingi fleiri voru með staðfest fjarmeinvörp. Heildarlifun í þýðunum tveimur var sambærileg við fyrri niðurstöður sem byggjast á heilu þýði (population-based) sem hafa verið birtar. Marktækur munur var á dánartíðni (excess mortality rate). Eftir að leiðrétt var fyrir mun á eigindum sjúklinga svo sem meinvörp/ekki meinvörp, klínískt stig og PSA gildi jafnaðist munurinn út.

Ályktanir: Á Íslandi virðist sem aukin virkni í að greina menn með sjúkdóminn hafi leitt til þess að fleiri sjúklingar greinast með staðbundinn sjúkdóm sem hefur óvissa klíníska þýðingu. Rannsóknir á lifun sem ekki hafa klínískar upplýsingar eru mögulega ekki nægilega greinagóðar. Eigindi sjúklinga geta ef til vill útskýrt megnið af muninum á lifun sem greint hefur verið frá á Norðurlöndunum.

 

E 136 Mjólkurneysla á unglingsárum og áhætta á langt gengnu krabbameini í blöðruhálskirtli síðar á lífsleiðinni

Jóhanna E. Torfadóttir1, Laufey Steingrímsdóttir2, Lorelei Mucci3,4, Thor Aspelund5,10, Julie Kaspezyk3,4,Örn Ólafsson1, Katja Fall6 , Laufey Tryggvadóttir7, Tamara Harris8, Lenore Launer8, Eiríkur Jónsson9, Hrafn Tulinius7, Meir Stampfer3,4, Hans-Olov Adami3,6 , Vilmundur Guðnason5,11, Unnur A. Valdimarsdóttir1,3

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ, 2rannsóknastofu í næringarfræði HÍ og Landspítala, 3Dept. of Epidemiology Harvard School of Public Health, Boston, 4Channing Laboratory, Brigham and Women's Hospital, Harvard Medical School, Boston, 5Hjartavernd, 6Dept. of Medical Epidemiology and Biostatistics, Karolinska Institutet, Stokkhólmi, 7Krabbameinsskrá Íslands, 8Laboratory of Epidemiology Demography and Biometry, Intramural Research Program, National Institute on Aging, Bethesda, 9Landspítala, 10raunvísindadeild, 11læknadeild HÍ

6613521@talnet.is

Inngangur: Markmið verkefnisins var að skoða tengsl búsetu og fæðuvenja frá unga aldri við áhættu á blöðruhálskirtilskrabbameini (BHK) síðar á ævinni.

Efniviður og aðferðir: Notuð voru gögn úr Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar um 8.914 karlmenn (fæddir á árunum 1907-1935) sem gáfu upplýsingar um búsetu frá fæðingu. Með samtengingu við Krabbameinsskrá var þátttakendum fylgt eftir frá fyrstu komu (á tímabilinu 1967-1987) í rannsóknina með tilliti til greiningar og dánarorsakar vegna blöðruhálskirtilskrabbameins allt til loka árs 2008. Undirhópur þátttakenda (N=2.267) tók svo þátt í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar sem hófst árið 2002 og svaraði spurningum um fæðuvenjur á unglingsárum og á miðjum aldri. Fyrir búsetuútreikningana var gerð lifunargreining og fyrir mjólkurútreikninga var notuð tvíkosta aðhvarfsgreining til að reikna áhættuhlutfall fyrir blöðruhálskirtilskrabbamein með 95% öryggismörkum. Leiðrétt var fyrir helstu áhættuþáttum og fæðutegundum.

Niðurstöður:Eftirfylgni þátttakenda var að meðaltali 24,6 ár og á því tímabili greindust 1090 karlar með blöðruhálskirtilskrabbamein, þar af voru 349 með langt gengið krabbamein (dánarorsök eða stigun IV eða III við greiningu). Borið saman við þá sem aldir voru upp í Reykjavík þá var sveitarbúseta á æskuárum tengd aukinni áhættu á langt gengnu blöðruhálskirtilskrabbameini (HR=1,35; 95% CI: 1,03-1,77), sérstaklega meðal manna sem fæddust fyrir 1920 (HR=1,77; 95% CI 1,18-2,65). Ekki fannst samband fyrir búsetu í sjávarþorpi á unga aldri og langt gengnu blöðruhálskirtilskrabbameini. Borið saman við litla mjólkurneyslu (sjaldnar en daglega) var dagleg mjólkurneysla á unglingsárum, en ekki á miðjum aldri, tengd þrefalt aukinni áhættu á langt gengnu blöðruhálskirtilskrabbameini (OR= 3,8; 95% CI 1,07-8,83).

Ályktanir: Mikil mjólkurneysla á unglingsárum var tengd aukinni áhættu á að greinast með langt gengið krabbamein í blöðruhálskirtli.

 

E 137 Áhrif svefntruflana á krabbamein í blöðruhálskirtli

Lára G. Sigurðardóttir1,2,3, Unnur Valdimarsdóttir1,2,4, Jennifer Stark4, Katja Fall5, Eva Schernhammer4, Lenor Launer6, Tamara Harris6, Vilmundur Guðnason2,7, Lorelei Mucci1,4,8

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum, 2læknadeild HÍ, 3Krabbameinsskrá Íslands, 4Dept. of Epidemiology Harvard School of Public Health, Boston, 5Dept. of Medical Epidemiology and Biostatistics, Karolinska Institutet, 6The Laboratory of Epidemiology, Demography and Biometry, Intramural Research Program, National Institute on Aging, Bethesda, 7Hjartavernd, 8Channing Loboratory, Harvard Medical School, Boston

lara@sessionimpossible.com

Inngangur: Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur lýst því yfir að vaktavinna sé mögulegur áhættuþáttur krabbameins. Þessi yfirlýsing byggist fyrst og fremst á niðurstöðum faraldsfræðirannsókna sem benda til tengsla svefnóreglu, til dæmis vegna vaktavinnu, og lágs melatóníns við brjóstakrabbamein meðal kvenna. Fáar rannsóknir hafa skoðað hvort svefntruflanir auki áhættuna á krabbameini í blöðruhálskirtli (BHK).

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er framsýn hóprannsókn sem samanstendur af 2166 körlum sem á aldrinum 65-96 tóku þátt í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar á árunum 2002-2004. Svefntruflanir voru skilgreindar sem að vakna upp á næturna ásamt því að vakna árla morguns, hið minnsta einu sinni í viku. Upplýsingar um nýgengi blöðruhálskirtilskrabbamein voru fengnar hjá Krabbameinsskrá Íslands. Eftirfylgnin náði til lok árs 2008. Tvíkosta aðhvarfsgreining var notuð til að reikna líkindahlutfall fyrir blöðruhálskirtilskrabbamein með 95% öryggismörkum. Leiðrétt var fyrir helstu áhættuþáttum.

Niðurstöður: Eitt hundrað níutíu og fimm karlar (9,0%) voru greindir með blöðruhálskirtilskrabbamein eftir komu í Öldrunar-rannsókn Hjartaverndar. Svefntruflanir hrjáðu 11,3% karla í rannsókninni. Niðurstöður sýna tilhneigingu til aukinnar áhættu á blöðruhálskirtilskrabbameini meðal karla sem höfðu svefntruflanir (aldursleiðrétt OR 1,62; 95% CI 1,08-2,43) miðað við karla sem sváfu eðlilega.

Ályktanir: Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingar um tengsl milli svefntruflana og aukinnar áhættu á blöðruhálskirtilskrabbameini.

 

E 138 Krabbamein í eistum á Íslandi 2000-2009

Andri Wilberg Orrason1, Bjarni Agnarsson2, Guðmundur Geirsson3, Helgi H. Hafsteinsson4, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknastofu í meinafræði, 3þvagfæraskurðdeild, 4krabbameinslækningadeild Landspítala

andriwo@gmail.com

Inngangur: Á síðustu áratugum hafa lífshorfur sjúklinga með eistnakrabbamein batnað umtalsvert, aðallega vegna tilkomu öflugra krabbameinslyfja. Markmið rannsóknarinnar var að kanna nýgengi, stigun og lífshorfur sjúklinga við greiningu eistnakrabbameins á Íslandi á 10 ára tímabili og bera saman við eldri rannsóknir.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem nær til allra íslenskra karla sem greindust með kímfrumuæxli í eistum 2000-2009. Klínískar upplýsingar fengust úr sjúkraskrám. Æxlin voru stiguð (Boden-Gibb) og reiknaðar heildarlífshorfur. Borin voru saman sáðfrumukrabbamein (SFK) og ekki-sáðfrumukrabbamein (E-SFK). Eftirlitstími var 4,9 ár að meðaltali.

Niðurstöður: Alls greindust 97 karlar og var aldursstaðlað nýgengi 5,9/100.000/ári. Hlutfall sáðfrumukrabbameins og ekki- sáðfrumukrabbameins var jafnt og voru einkenni svipuð í báðum hópum. Meðalstærð æxla var 4,0±2,1 cm og hélst óbreytt á rannsóknartímabilinu. Meðalaldur sjúklinga var marktækt hærri hjá sjúklingum með sáðfrumukrabbamein (41,6 ár) samanborið við ekki-sáðfrumukrabbamein (30,1 ár) (p<0,0001). Flest æxlanna voru á stigi I, eða 78,4%, 13,4% á stigi II og 8,2% á stigum III-IV. Sáðfrumukrabbamein greindust á marktækt lægri stigum samanborið við ekki-sáðfrumukrabbamein (57,9 á móti 42,1% á stigi I; p=0,003). Engin fjarmeinvörp greindust hjá sjúklingum með sáðfrumukrabbamein en hjá átta sjúklingum með ekki-sáðfrumukrabbamein (p<0,006). Fjórir sjúklingar létust á rannsóknartímabilinu, tveir úr ekki- sáðfrumukrabbameini, tveir vegna óskyldra sjúkdóma en enginn úr sáðfrumukrabbameini. Fimm ára lífshorfur fyrir allan hópinn voru 96%.

Ályktanir: Miðað við nágrannalönd er nýgengi eistnakrabbameins á Íslandi í meðallagi og hefur haldist stöðugt síðustu tvo áratugi. Á sama tímabili hefur hlutfall sjúklinga með staðbundinn sjúkdóm (stig I) lítið breyst og stærð æxlanna sömuleiðis. Lífshorfur hér á landi eru mjög góðar og með því besta sem þekkist.

 

E 139 Æxli í hóstarkirtli á Íslandi 1984-2010

Elín Maríusdóttir1,2, Sigfús Nikulásson3, Tómas Guðbjartsson2,1

1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3meinafræðideild Landspítala

emariusdottir@gmail.com

Inngangur: Æxli í hóstarkirtli eru sjaldgæfur og misleitur hópur æxla með afar mismunandi horfur. Upplýsingar um faraldsfræði þessara æxla hérlendis er ekki þekkt. Markmið rannsóknarinnar er að bæta úr því og flokka æxlin samkvæmt nýjustu skilmerkjum, en nýlega var gefin út alþjóðleg vefjafræðiflokkun (WHO) þar sem lífshorfur sjúklinga eru lagðar til grundvallar.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og nær til allra einstaklinga á Íslandi sem greindust með æxli í hóstarkirtli frá 1984 til 2010. Upplýsingar fengust úr meinafræði- og sjúkraskrám. Æxlin voru stiguð (Masoka-kerfi) og flokkuð vefjafræðilega en einnig reiknaðar lífshorfur og aldursbundið nýgengi sjúkdómsins. Meðaleftirfylgni var 67 mánuðir.

Niðurstöður: Alls greindust 19 tilfelli (11 karlar, aldur 63 ár, bil 31-87) og var aldurstaðlað nýgengi 0,3 og 0,2 /100.000/ár fyrir karla og konur. Átta sjúklingar greindust fyrir tilviljun, níu vegna staðbundinna einkenna og tveir við uppvinnslu vöðvaslensfárs. Ellefu sjúklingar gengust undir brottnám æxlis í gegnum bringubeinsskurð en í átta tilfellum var eingöngu tekið sýni. Alvarlegir fylgikvillar sáust ekki og enginn lést <30 daga frá aðgerð. Fimmtán æxlanna (79%) reyndust góðkynja (thymoma) og voru þau oftast af flokki B2 (n=5) og A (n=5). Fjögur þeirra voru á stigi I og fimm á stigi II, tvö á stigi III. Ekki var hægt að stiga sex sjúklinga sem eingöngu fóru í sýnatöku. Af fjórum sjúklingum með illkynja æxli (thymic carcinoma) voru tveir á hvoru stigi, III og IV. Eins og fimm ára lifun var 76% og 53% fyrir allan hópinn en enginn sjúklingur með illkynja æxli lifði lengur en tvö ár.

Ályktanir: Æxli í hóstarkirtli eru sjaldgæf, aldurstaðlað nýgengi er 0,2-0,3/100.000. Í flestum tilvikum eru æxlin góðkynja og horfur góðar. Illkynja hóstarkirtilsæxli hafa mun verri horfur og flestir látnir innan árs frá greiningu.


E 140 Aukin notkun ECMO-meðferðar á Íslandi

Halla Viðarsdóttir1, Þorsteinn Ástráðsson2, Bjarni Torfason1,3, Líney Símonardóttir1, Tómas Guðbjartsson1,3, Felix Valsson2,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 3læknadeild HÍ

hallavi@landspitali.is

Inngangur: ECMO-meðferð (extracorporeal membrane oxygenation) getur verið lífsbjargandi í alvarlegri öndunarbilun (V-V (Veno-Venous) ECMO) eða mikilli hjartabilun (V-A (Veno-arterial) ECMO). Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna ábendingar og árangur ECMO-meðferðar hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til allra sjúklinga sem fengu ECMO-meðferð á Íslandi fram að 2010, bæði V-V og V-A ECMO. Skráðar voru ábendingar og fylgikvillar meðferðar en einnig hverjir lifðu af meðferðina.

Niðurstöður: Tuttugu og níu sjúklingar (20 karlar), með meðalaldur 45,7 ár (bil 14-84) voru meðhöndlaðir á tímabilinu. Alls fóru 17 (59%) sjúklingar í V-A ECMO vegna hjartabilunar, þar af 12 meðhöndlaðir 2007-2009, í átta tilfellum eftir hjartaaðgerð. Heildarlifun var 35% en 25% fyrir þá sem fóru í ECMO eftir hjartaaðgerð. Meðalaldur sjúklinga í V-A ECMO sem lifðu meðferðina var 36 ár samanborið við 60 ár fyrir þá sem létust. Tólf sjúklingar voru meðhöndlaðir með V-V ECMO vegna öndunarbilunar og var lifunin 67%, þar af tveir með H1N1 sýkingu og lifðu báðir. Marktækur munur var á aldri sjúklinga sem lifðu af V-V ECMO og þeirra sem létust (31 á móti 50 ár, p=0,03) en einnig sást marktækt betri lifun hjá sjúklingum sem höfðu verið innan við sjö daga á öndunarvél fyrir ECMO-meðferð (p<0,05). Algengasti fylgikvilli meðferðar voru blæðingar sem sáust í 10 tilfellum, en fjórir sjúklingar í V-A ECMO fengu blóðrásarskerðingu í ganglim.

Ályktanir: Árangur VV-ECMO-meðferðar er mjög góður á Íslandi (67% lifun) og sambærilegur við það sem best þekkist erlendis. Árangur eftir V-A ECMO, sérstaklega eftir hjartaaðgerð, er hins vegar síðri (25% lifun), og því mikilvægt að meta ábendingar fyrir notkun ECMO í slíkum tilfellum.

 

E 141 Fylgikvillar blaðnámsaðgerða við lungnakrabbameini á Íslandi 1999-2008

Rut Skúladóttir1, Guðrún Nína Óskarsdóttir1, Helgi J. Ísaksson2, Steinn Jónsson1,3, Húnbogi Þorsteinsson1, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknarstofu í meinafræði, 3lungnadeild, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

rus2@hi.is

Inngangur: Skurðaðgerð er helsta meðferðin við lungnakrabbameini og er langoftast beitt blaðnámi. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna ábendingar og snemmkomna fylgikvilla blaðnáms á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Tvö hundruð og þrettán sjúklingar sem gengust undir blaðnám vegna lungnakrabbameins á árabilinu 1999-2008. Kannaðar voru ábendingar, fylgikvillar, æxlisgerð og TNM-stigun. Aðhvarfsgreining var notuð til að meta áhættuþætti fylgikvilla.

Niðurstöður: Áttatíu og fimm sjúklingar (40%) greindust fyrir tilviljun en aðrir vegna einkenna sjúkdómsins. Kirtilmyndandi (62%) og flöguþekjukrabbamein (29,1%) voru algengust. Flestir greindust á stigi I (59,6%) og stigi II (17,8%), 7% á stigi IIIA og 14,8% á stigum IIIB-IV. Miðmætisspeglun var gerð hjá 13,6% sjúklinga fyrir blaðnámið. Meðalaðgerðartími var 128 mín. og blæðing í aðgerð 580 ml. Sextán sjúklingar (7,5%) fengu alvarlega fylgikvilla og 36 (17%) minniháttar fylgikvilla, oftast lungnabólgu (6,1%) og gáttatif/flökt (6,1%). Tólf sjúklingar þurftu enduraðgerð, tveir vegna fleiðruholssýkingar og einn vegna berkjufleiðrufistils. Eldri sjúklingar með hátt ASA skor og langa reykingasögu voru í aukinni hættu á að fá fylgikvilla eftir aðgerðirnar. Legutími eftir aðgerð var 10 dagar (miðgildi). Enginn sjúklingur lést innan 30 daga frá aðgerð en fjórir (1,9%) innan 90 daga frá aðgerð.

Ályktanir: Skammtímaárangur blaðnámsaðgerða vegna lungnakrabba-meins er góður hér á landi samanborið við aðrar rannsóknir.

 

E 142 Skurðaðgerðir vegna lungnameinvarpa á Íslandi 1984-2008

Halla Viðarsdóttir1, Páll Helgi Möller1,4, Jón Gunnlaugur Jónasson3,4, Tómas Guðbjartsson2,4

1Skurðlækningadeild, 2 hjarta- og lungnaskurðdeild, 3rannsóknastofu Landspítala í meinafræði, 4læknadeild HÍ

hallavi@landspitali.is

Inngangur: Rúmur þriðjungur sjúklinga með krabbamein greinast fyrr eða síðar með lungnameinvörp. Þegar meinvörpin eru bundin við lungu kemur til greina að fjarlægja þau með skurðaðgerð og bæta þannig lífshorfur. Markmið þessarar afturskyggnu rannsóknar var að kanna algengi og árangur þessara aðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til allra sjúklinga sem gengust undir brottnám á lungnameinvörpum með lækningu að markmiði á Íslandi 1984-2008. Litið var nánar á sjúklinga með þrjár algengustu frumæxlin, meðal annars kannaðar ábendingar, fylgikvillar aðgerða og reiknuð út lifun (Kaplan-Meier). Útreikningar miðuðust við 31. des. 2009 og var meðal eftirfylgni 45 mánuðir (bil: 3-311).

Niðurstöður: Alls fór 81 sjúklingur í aðgerð vegna lungnameinvarpa á tímabilinu (aldur 55 ár, bil: 2-81 ár, 51% karlar). Algengustu frumæxlin voru krabbamein í ristli/endaþarmi (33%, n=27), sarkmein (26%, n=21) og nýrnafrumukrabbamein (17%, n=14) en fjórðungur sjúklinga hafði önnur krabbamein. Hlutfall sjúklinga sem fóru í aðgerð var 1,0%, 6,5% og 1,4% fyrir þrjár algengustu æxlisgerðirnar. Þessir 62 sjúklingar gengust undir 79 aðgerðir. Fleygskurður (n=45) og blaðnám (n=30) voru algengastu aðgerðirnar en hjá fjórum var framkvæmt lungnabrottnám. Skurðdauði var 1,2%. Miðgildi legutíma var 11 dagar (bil: 4-85). Fimm ára lifun fyrir sjúklinga með ristil- og endarþarmskrabbamein var 45%, nýrnafrumukrabbamein 39% og sarkmein 19% (p=0,11).

Ályktanir: Hlutfall krabbameinssjúklinga sem fer í brottnám á lungnameinvörpum hér á landi var frekar lágt. Árangur þessara aðgerða var góður og sambærilegur við erlendar rannsóknir.

 

E 143 Árangur lungnaskurðaðgerða við lungnakrabbameini á Íslandi

Húnbogi Þorsteinsson1, Ásgeir Alexandersson1, Guðrún Nína Óskarsdóttir1, Rut Skúladóttir1, Helgi J. Ísaksson3, Steinn Jónsson1,4, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3rannsóknastofu í meinafræði, 4lungnadeild Landspítala

hth14@hi.is

Inngangur: Hér á landi hefur vantað upplýsingar um hlutfall sjúklinga með lungnakrabbamein sem gangast undir lungnaskurðaðgerð með lækningu að markmiði. Í Bandaríkjunum hefur þetta hlutfall verið um 30% en 20-25% í Evrópu. Markmið okkar var að kanna þetta hlutfall hér á landi og bera saman árangur helstu aðgerða.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til allra sjúklinga með lungnakrabbamein önnur en smáfrumukrabbamein (ÖES) sem gengust undir læknandi lungnaskurðaðgerð á Íslandi 1994-2008. Upplýsingar um tegund aðgerðar, alvarlega fylgikvilla og skurðdauða (<30 dagar) fengust úr sjúkraskrám. Heildarfjöldi greindra lungnakrabbameina (ÖES) fékkst úr Krabbameinsskrá, en þau voru 1.568. Æxli voru stiguð samkvæmt TNM-kerfi og lífshorfur reiknaðar. Borin voru saman þrjú fimm ára tímabil.

Niðurstöður: Alls gengust 397 sjúklingar undir 404 aðgerðir; þar af voru 73,5% blaðnám, 14,9% lungnabrottnám og 11,6% fleyg-/geiraskurðir. Hlutfall sjúklinga sem fóru í aðgerð var 25,3% og breyttist ekki marktækt milli tímabila. Sama átti við um hlutfall kirtilfrumukrabbameina, tilviljunargreindra æxla og sjúklinga á stigum I+II. Alvarlegir fylgikvillar greindust í 8,4% tilfella, oftast eftir lungnabrottnám (18,3%). Skurðdauði var 0,7% eftir blaðnám, 3,3% eftir lungnabrottnám og 0% eftir fleygskurð (p>0,1). Fimm ára lífshorfur fyrir allan hópinn voru 40,7% samanborið við 4,8% fyrir þá sem ekki fóru í aðgerð. Lífshorfur voru marktækt betri eftir blaðnám (44,5%) og fleyg-/geiraskurð (41,2%) samanborið við lungnabrottnám (22,3%) (p<0,005) og á síðustu fimm árunum miðað við fyrstu fimm (p=0,04).

Ályktanir: Hlutfall sjúklinga sem gengust undir skurðaðgerð var 25,3% sem er í hærra lagi miðað við önnur Evrópulönd. Árangur fyrst eftir aðgerð er mjög góður (skurðdauði 1%) og langtímalífshorfur í meðallagi.

 

E 144 Fleyg- og geiraskurðir við lungnakrabbameini á Íslandi

Ásgeir Alexandersson1, Steinn Jónsson1,2, Helgi J. Ísaksson3, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2lungnadeild, 3rannsóknastofu í meinafræði, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

alexandersson@gmail.com

Inngangur: Hefðbundin aðgerð við lungnakrabbameini öðru en smáfrumukrabbameini (ÖES) er blaðnám. Í völdum tilvikum er þó gripið til fleyg- eða geiraskurðar, tildæmis ef lungnastarfsemi er mikið skert. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna árangur þessara aðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem gengust undir fleyg- eða geiraskurð vegna lungnakrabbameins (ÖES) á Íslandi 1994–2008. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og voru kannaðar ábendingar aðgerðar, TNM-stigun, fylgikvillar og heildarlífshorfur. Öll vefjasýni voru endurskoðuð.

Niðurstöður: Alls gengust 44 sjúklingar (52,3% konur) undir samtals 47 fleyg- eða geiraskurði. Meðalaldur var 69,1 ár og greindust 38,3% sjúklinga fyrir tilviljun. Alls höfðu 55,3% sögu um kransæðasjúkdóm og 40,4% langvinna lungnateppu. Meðal ASA-skor var 2,6. Aðgerðirnar tóku að meðaltali 82,5 mínútur (bil 30-131), blæðing í aðgerð var 260 ml (bil 100-650) og miðgildi legutíma níu dagar (bil 4-24). Sýni úr eitlum voru tekin í 12,8% aðgerðanna en miðmætisspeglun aðeins gerð einu sinni. Helstu fylgikvillar voru lungnabólga (14,9%), langvarandi loftleki (12,8%) og blæðing í aðgerð (>500 ml) (8,7%). Tveir sjúklingar fengu alvarlega fylgikvilla, 36,2% dvöldu á gjörgæslu yfir nótt, en enginn lést <30 daga frá aðgerð. Meðalstærð æxlanna var 2,3 cm (bil 0,8-5). Kirtilmyndandi krabbamein var algengasta vefjagerðin (66,7%) og 43,8% æxlanna illa þroskuð. Eftir aðgerð voru 78,7% sjúklinga á stigi IA/IB, 17,0% á stigi IIA/IIB og tveir á stigi IIIA. Eins og fimm ára lífshorfur voru 85,1% og 41,2%.

Ályktanir: Tíðni fylgikvilla eftir fleyg- og geiraskurði er lág á Íslandi, svipuð og eftir blaðnám. Lífshorfur eru einnig sambærilegar. Þetta er athyglisvert þar sem flestir þessara sjúklinga hafa undirliggjandi hjarta- og æðasjúkdóma.

 

E 145 Meðgöngusykursýki á Íslandi 2007-2008

Ómar Sigurvin Gunnarsson1,2, Hildur Harðardóttir3, Arna Guðmundsdóttir4

1Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3kvenna- og barnasviði, 4göngudeild sykursjúkra Landspítala

omarsg@gmail.com

Inngangur: Tíðni fylgikvilla á meðgöngu, í fæðingu og hjá nýbura eykst ef móðir hefur meðgöngusykursýki (MGS). Eldri rannsóknir sýna að hjá konum með meðgöngusykursýki er líklegra að fæðing sé framkölluð og að fæðing verði með keisaraskurði. Fylgikvillar barns eru með annars axlarklemma, fósturköfnun, nýburagula og blóðsykurfall. Tíðni meðgöngusykursýki fer hratt vaxandi í hinum vestræna heimi og var 2,3% á Íslandi árið 2003 en erlendis er tíðnin á bilinu 3-14%. Í þessari rannsókn var könnuð tíðni meðgöngusykursýki og fylgikvilla móður og barns á Íslandi 2007-8.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin tók til allra kvenna sem greindust með og/eða komu til meðferðar vegna meðgöngusykursýki á Landspítala 1. janúar 2007 til 31. desember 2008. Skráður var aldur móður, þyngdarstuðull, þjóðerni, ættarsaga um sykursýki og niðurstöður sykurþolprófs, fylgikvillar á meðgöngu og í fæðingu, fæðingarmáti, fæðingarþyngd, fæðingaráverkar og fylgikvillar nýbura. Niðurstöður voru bornar saman við almennt þýði á sama tíma og lýsandi tölfræði notuð til að bera saman hópana.

Niðurstöður: Meðgöngusykursýki greindist á 4,6% meðganga. Af 289 konum þurftu 113 konur (39%) insúlínmeðferð en 61% dugði mataræðisbreyting og hreyfing til sykurstjórnunar. Ef rannsóknarhópur er borinn saman við almennt þýði sést að framköllun fæðingar var algengari (44,3% og 18,5%; p<0,0001) sem og fæðing með keisaraskurði (29,4% og 17,6%; p<0,0001), bæði val- (11,8% og 6,1%; p=0,0004) og bráðaaðgerð (17,6% og 11,5%; p=0,0027). Algengara var að þungburar (>4.500gr) fæddust með keisaraskurði (63% og 27%; p=0,003).Ekki var marktækur munur á tíðni fyrirbura (7,6% og 6,6%; p=0,47) eða andvana fæðinga (0,7% og 0,4%; p=0,11). Börn kvenna með meðgöngusykursýki voru líklegri til að fá blóðsykurfall (13,5% og 2,4%; p<0,0001), nýburagulu (12,8% og 8,5%; p=0,018) og viðbeinsbrot (2,4% og 1%; p=0,027) en tíðni axlarklemmu var ekki aukin (1,4% og 0,6%; p=0,11).

Ályktanir: Tíðni meðgöngusykursýki á Íslandi hefur tvöfaldast frá árinu 2003 en 4,6% þungaðra kvenna greinast með meðgöngusykursýki. Meðgöngusykursýki eykur líkur á inngripum, bæði framköllun fæðingar og fæðingu með keisaraskurði, val- og bráðaaðgerð. Fylgikvillar barns eru algengari en axlarklemma ekki.

 

E 146 Erfðafræðilegar orsakir endurtekinna fósturláta

Helga Hauksdóttir1,3, Halldóra Sunna Sigurðardóttir1, Hjörleifur Skorri Þormóðsson3, Ástrós Arnardóttir1, Vigdís Stefánsdóttir1,3, Jóhann Heiðar Jóhannsson1, Margrét Steinarsdóttir1, Hildur Harðardóttir2, Jón Jóhannes Jónsson1,3

1Erfða- og sameindalæknisfræðideild, 2fæðinga-, meðgöngu- og fósturgreiningardeild Landspítala, 3lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeild HÍ

heh12@hi.is

Inngangur: Um 20% af þekktum þungunum enda í fósturláti. Litningagallar greinast í 50-60% tilfella fósturláta á fyrsta þriðjungi meðgöngu og örflögugreiningar finna skýringu í um 10% í viðbót. Mislitun (aneuploidy) er algengasta tegund litningagalla. Stökkbreytingum í SYCP3geni hefur verið lýst í tveimur konum, en það gen tjáir hluta af pörunarborða (synaptonemal complex) í rýriskiptingu. Við rannsökuðum hjá hópi kvenna með endurtekin fósturlát hvort stökkbreytingar í SYCP3geni skýra mislitnun hjá fóstrum og hvort háskerpuörflögugreining með þreifara fyrir allar útraðir í erfðamengi mannsins greini úrfellingu eða tvöföldun í fóstrum með eðlilega litningagerð.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru pör sem leituðu til Landspítala eftir þrjú eða fleiri fósturlát og meðgöngulengd undir 20 vikum. Gerð var litningarannsókn á 23 fylgjuvefssýnum og blóði úr foreldrum. Stökkbreytingaskimun (PCR, bræðslumarkskúrfa, raðgreining) var gerð á SYCP3 geninu með 200 handhófseinstaklinga sem viðmið fyrir erfðabreytileika hjá Íslendingum. Örflögugreining var gerð með 720K útraða CGH flögu (NimbleGen).

Niðurstöður: Fjórtán fóstur voru með mislitnun eða tíglun, tvö með fjöllitnun og sjö með eðlilega litningagerð. Foreldrarnir voru allir með eðlilega litningagerð. Við stökkbreytigreiningu á SYCP3 geni í 11 mislitna fóstrum og foreldrum fannst 5 basa úrfelling í innröð, sem talin er breyta splæsingu, hjá einni móður. Örflögugreining fann úrfellingar í tveimur fóstrum sem hugsanlega skýra fósturlát. Önnur úrfellingin var um 6 kb í REREgeni og virðist vera ný en hin var um 17 kb í FOXG1geni sem er genagreypt.

Ályktanir: SYCP3stökkbreytingar hjá móður, ef fóstur eru mislitna og háskerpu örflögugreining á öllum útröðum hjá fóstrum með eðlilega litningagerð, greina orsakir endurtekinna fósturláta hjá hluta para.

 

E 147 Áhrif efnahagshrunsins á Íslandi 2008 á tíðni fyrirbura- og léttburafæðinga

Védís Helga Eiríksdóttir1, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir2, Ragnheiður Bjarnadóttir3, Unnur Anna Valdimarsdóttir1

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum, 2hagfræðideild HÍ, 3kvennadeild Landspítala

vedis.helga@gmail.com

Inngangur: Léttburar (LB) og fyrirburar (FB) eru í aukinni áhættu á ýmsum heilsufarsvandamálum hvort sem litið er til skemmri og lengri tíma. Mögulegir orsakavaldar léttbura- og fyrirburafæðinga eru streituvaldandi atburðir og sálræn streita. Rannsóknir benda til þess að efnahagslægðir geti haft neikvæð áhrif á sálræna heilsu, meðal annars vegna streitu sem fylgir þröngum efnahag og atvinnuleysi í kreppu. Markmið rannsóknarinnar var að skoða nýgengi léttbura- og fyrirburafæðinga á Íslandi í kjölfar efnahagskreppunnar í október 2008 og bera saman við nýgengi undanfarinna ára.

Efniviður og aðferðir: Um var að ræða ferilrannsókn þar sem fæðingaskrá var notuð til að greina íslenskar konur sem eignuðust lifandi fædda einbura hérlendis frá 1/1 2006 til 31/12 2009. Börn sem vega undir 2500 g við fæðingu eru skilgreind sem léttburar og börn fædd fyrir 37. viku meðgöngu sem fyrirburar. Lógistísk aðhvarfsgreining var notuð til að reikna líkindahlutfall á léttbura- og fyrirburafæðingum á krepputíma (eftir 1/10 2008) samanborið við tímann fyrir kreppu.

Niðurstöður: Alls fæddu 16.262 konur einbura á tímabilinu, 11.036 fyrir kreppu og 5226 eftir kreppu. Eftir að leiðrétt var fyrir aldri móður, fæðingarmáta, búsetu, háþrýstingi, sykursýki, fæðingarmánuði, atvinnustöðu, fjölda fyrri fæðinga, kyni barns og meðgöngulengd (í léttburalíkani) var líkindahlutfall léttburafæðinga 1,30 (95% CI 0,95-1,79) en 1,05 (95% CI 0,89-1,23) fyrir fyrirburafæðingar.

Ályktanir: Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna tilhneigingu til aukningar á tíðni léttburafæðinga í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Mikilvægt er að fylgjast áfram með heilsufari verðandi mæðra og barna þeirra í efnahagskreppunni.

 

E 148 Engin tengsl milli tannholdsbólgu og fyrirburafæðinga. Seinni rannsókn á Íslandi

W. Peter Holbrook1, Hildur Káradóttir2, Andrew Brooks3, Arnar Hauksson4, Alexander Smárason5, Sigfús Þ. Nikulásson1, Þórarinn Sigurðsson2,3, P.G. Larson6

1Tannlæknadeild HÍ, 2Tannlæknastofunni Glerárgötu, Akureyri, 3Háskólanum á Akureyri, 4Heilsuverndarstöð Reykjavíkur, 5Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, 6Skövde, Svíþjóð

phol@hi.is

Inngangur: Í erlendum rannsóknum hafa fundist tengsl milli tannholdsbólgu og fyrirburafæðinga. Í forransókn á Íslandi 2004, tókst ekki að sýna fram á tengsl milli vægrar tannholdsbólgu og fyrirburafæðinga. Markmiðið var að kanna með stærri rannsókn hvort slík tengsl finnist með því að ná til stærri hóps mæðra með verri tannholdsbólgu.

Efniviður og aðferðir: Rannsókn náði til 396 kvenna. Skráð var ástand tannholds og tannholdsbólgu (PSR skor), auk þess heilsufarssaga og nákvæmar upplýsingar um heilsufar og sjúkdóma á meðgöngu og í fæðingu, þar með talin meðgöngulengd og fæðingarþyngd barns. Tekið var ræktunarsýni frá skeið.

Niðurstöður: Þrettán konur (3,3%) fæddu fyrirbura (<259 dagar) og sex þessara barna voru einnig léttburar (<2500 gr.). Engin tengsl fundust milli fæðingarlengdar og PSR skors (p=0,068), eða milli fæðingarþyngdar og PSR skors þótt beitt væri næmnigreiningu (p=0,072). Ekki fundust marktæk tengsl milli fyrirburafæðinga og eins eða fleiri sjöttunga (í tanngómi) sem höfðu PSR skor 3 eða 4. Ólíkt forrannsókninni fundust nú ekki tengsl milli reykinga og fyrirburafæðinga (9,9% reyktu alla meðgönguna). Ekki fundust tengsl fyrirburafæðinga við skort á lactobacillus í stroki frá leggöngum né við nærveru candidiasisí stroki. Einu marktæku tengslin við fyrirburafæðingar voru fyrri saga um fyrirburafæðingu og það að kona mætti sjaldnar í meðgöngueftirlit.

Ályktanir: Í þessari seinni og mun stærri rannsókn á íslenskum þunguðum konum tókst ekki að finna tengsl tannholdsbólgu við hættu á fæðingu fyrirbura eða léttbura. Gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu og góðar félagslegar aðstæður á Íslandi gætu skýrt þennan mun sem rannsókn okkar sýnir í samanburði við erlendar rannsóknir.

 

E 149 Reynsla af fæðingu og val á verkjameðferð eftir þátttöku í foreldrafræðslunámskeiði

Helga Gottfreðsdóttir

Hjúkrunarfræðideild ljósmóðurfræði HÍ, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

helgagot@hi.is

Inngangur: Á hverju ári sækja rúmlega 1000 manns skipulagða fæðingarfræðslu sem boðin er af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Eitt af aðalmarkmiðum fræðslunnar er að þátttakendur geti valið af þekkingu milli mismunandi fæðingarstellinga, verkjameðferðar og fleira og að auka sjálfsstyrk, sjálfshjálp og draga úr kvíða varðandi fæðinguna. Hér er sjónum beint að reynslu kvenna af fæðingu og notagildi fæðingarfræðslu í fæðingu.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er með tilraunasniði og þýðið allir verðandi foreldrar sem sóttu fæðingarfræðslu á vegum heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins yfir þrettán mánaða tímabil. Úrtakið var það sama og þýðið og voru sendir tveir spurningalistar til 590 para. Upplýsinga var aflað eftir þátttöku á námskeiði og eftir fæðingu barns. SPSS tölfræðiforritið var notað við úrvinnslu. Aðallega er notuð lýsandi tölfræði og fylgnipróf eftir því sem við átti.

Niðurstöður: Fyrri listanum svöruðu 227 verðandi mæður en þeim seinni 117 nýbakaðar mæður. Almennt telja konurnar að fræðslan hafi hjálpað þeim við ákvarðanatöku varðandi fæðinguna. Stór hluti þeirra (79,66%) telur að fræðsla á námskeiðinu hafi hjálpað þeim að taka ákvarðanir um bjargráð án lyfja í fæðingu, og nær sami fjöldi (75,21%) telur að fræðslan hafi hjálpað þeim að taka ákvarðanir varðandi notkun lyfja í fæðingu. Eingöngu 47,46% kvenna telja að fræðslan hafi hjálpað þeim að taka ákvarðanir varðandi stellingar í fæðingu. Jákvæð fylgni reyndist milli nokkurra þátta eftir þátttöku á námskeiði og svo eftir fæðingu. Flestar konurnar nýttu sér einhverskonar verkjadeyfingu, algengast var glaðloft og þar á eftir mænurótardeyfing. Inngrip í fæðingu var framkvæmt hjá 70,1% kvenna, 41,88% fékk hríðaörvandi lyf og hjá 25,64% var gert belgjarof.

Ályktanir: Notagildi fæðingarfræðslu virðist fyrst og fremst hafa áhrif á upplifun kvenna af fæðingunni en síður um val á verkjameðferð. Skoða þarf áhrif fæðingarfræðslu á sjálfstraust kvenna með því að meta sjálfstraust fyrir og eftir fæðingarfræðsluinngrip. Jafnframt þarf að rannsaka frekar ákvarðantöku um val á verkjameðferð hjá konum sem annars vegar fara í skipulagða fæðingafræðslu og hinsvegar þeim sem ekki þiggja slíka fræðslu.

 

E 150 Er hægt að viðhalda bættri líðan kvenna með tíð þunglyndiseinkenni eftir fæðingu ári eftir að netnámskeiði fyrir hjúkrunarfræðinga sem meðferðaraðila lýkur?

Marga Thome1, Brynja Örlygsdóttir1, Bjarki Elvarsson2

1Hjúkrunarfræðideild, 2tölfræðimiðstöð HÍ

marga@hi.is        

Inngangur: Endurmenntun heilsugæsluhjúkrunarfræðinga er talin lykilatriði til að draga úr vanlíðan kvenna eftir fæðingu barns. Með rannsókninni Efling geðheilsu eftir barnsburð (2001-2005) var kannað: 1) hvort líðan kvenna sem upplifðu vanlíðan eftir fæðingu batni eftir að hafa fengið meðferð frá heilsugæsluhjúkrunarfræðingum sem höfðu farið á netnámskeiðið Geðvernd eftir fæðingu og 2) hvort meðferð heilsugæsluhjúkrunarfræðinga beri árangur þó að ár sé liðið frá því að þær sóttu netnámskeiðið.

Efniviður og aðferðir: Notast var við tilraunasnið þar sem 16 heilsugæslustöðvar tóku þátt á landsvísu, og var þeim skipt í meðferðar- (n=12), samanburðar- (n=13) og eldri tilraunastöðvar (n=15). Eingöngu hjúkrunarfræðingar á meðferðarstöðvum sóttu netnámskeiðið. Konum var boðin þátttaka í rannsókninni ef þær fengu gildið 12 eða hærra á Edinborgar-þunglyndiskvarðanum (EPDS) níu vikum eftir barnsburð. Foreldrastreita, þreyta, þunglyndiseinkenni og fleira var einnig skoðað.

Niðurstöður: Af 141 konu sem fékk 12 stig og meira á EPDS samþykktu 103 þátttöku. Þær dreifðust jafnt í hópa á meðferðar- og samanburðarstöðvum (n=39) og n=25 á eldri meðferðastöðvum. Gagnasöfnun reyndist viðunandi níu og 15 vikum eftir barnsburð hjá öllum hópum, en mikið affall varð á eldri meðferðastöðvum á 24. viku. Í byrjun rannsóknar greindist enginn munur á þunglyndiseinkennum, streitu né þreytu á milli hópanna. Hins vegar minnkuðu þunglyndiseinkenni kvenna í meðferðahópi marktækt miðað við samanburðarhóp frá níundu til 24. viku. Enginn marktækur munur greindist milli kvenna í samanburðahópi og í hópi eldri meðferðarstöðva.

Ályktanir: Aukin þekking hjúkrunarfræðinga á meðferðarstöðvum hafði tilætluð áhrif þar sem þar dróg marktækt úr þunglyndiseinkennum og árangurinn því háður þekkingu þeirra. Hinsvegar er ekki hægt að álykta að árangurinn viðhaldist ári eftir að netnámskeiðinu lýkur. Skýringar á því eru annarsvegar að þekkingin staldri stutt við eða að skortur á gögnum fyrir eldri meðferðastöðvar á 24. viku hafi verið of mikið til að geta sýnt fram á að árangur menntunar vari.

 

E 151 Fjölskyldumiðuð hjúkrunarmeðferð við vanlíðan á meðgöngu

Stefanía B. Arnardóttir1, Marga Thome2

1Þróunarstofu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 2hjúkrunarfæðideild HÍ

stefar@hi.is

Inngangur: Geðheilsuvandi, svo sem kvíði og þunglyndi, er ekki síður algengur á meðgöngu en eftir fæðingu. Í meðgönguvernd, Heilsugæslu höfuðborgasvæðisins, er hluta kvenna sem finnur fyrir vanlíðan á meðgöngu vísað í fjölskyldumiðaða hjúkrunarmeðferð. Ekki er vitað hvort sú meðferð bæti líðan kvenna og því var gerð matsrannsókn frá nóvember 2007 til október 2009.

Efniviður og aðferðir: Úrtakið er konur á öðru eða þriðja misseri meðgöngu, sem hafa lýst vanlíðan sinni við ljósmóður í meðgönguvernd, og maki þeirra. Notast var við aðlagað tilraunarsnið fyrir einn hóp með mælingum fyrir og í lok meðferðar á pari á þunglyndiseinkennum (Edinborgar-þunglyndiskvarða=EDS), kvíða (trait/state inventory=STAI,), sjálfsmynd (Self-esteem scale=RSES) og gæðum samskipta (Dyadic assessment scale=DAS). Meðferðin er veitt af hjúkrunarfræðingi á heimili þátttakenda og er fólgin í fjórum samtölum og nær til konunnar og maka hennar. Hún er byggð á Calgary-líkani um fjölskylduhjúkrun, sem byggir á fjölskyldumati (CFAM), fjölskyldumeðferð (CFIM) og líkani um lífssýn til sjúkdóma (IBM). Markmið meðferðarinnar er að bæta líðan pars, styrkja sjálfsmynd, auka skilning/þekkingu á aðstæðum og að bæta samskipti í parsambandinu.

Niðurstöður: Sextíu fjölskyldur völdust í úrtakið og 47 pör skiluðu gögnum fyrir og eftir meðferð. Í upphafi var marktækur munur á pörum samkvæmt EDS, STAI, RSES and DAS, þar sem konum leið mun verr en feðrum. Bati var hins vegar marktækur fyrir bæði verðandi mæður og feður í lok meðferðar á öllum kvörðunum.

Ályktanir:Fjölskyldumiðuð hjúkrunarmeðferð á meðgöngutíma gagnast verðandi foreldrum. Betri líðan pars er líkleg til að bæta tjáskipti, skilning og stuðning milli verðandi foreldra.

 

E 152 Áhrif vatnsútdrátta af horblöðku og vallhumli á þroska angafrumna og getu þeirra til að ræsa ósamgena CD4+ T frumur in vitro

Guðbjörg Jónsdóttir1,2,3, Ingibjörg Harðardóttir3, Sesselja Ómarsdóttir4, Arnór Víkingsson1, Jóna Freysdóttir1,2,3

1Rannsóknastofu í gigtsjúkdómum og 2ónæmisfræðideild Landspítala, 3læknadeild og 4lyfjafræðideild HÍ

jonaf@landspitali.is

Inngangur: Horblaðka og vallhumall hafa verið notuð i alþýðulækningum í aldaraðir og eru talin hafa góð áhrif á ýmsa sjúkdóma, meðal annars gigt. Áhrif þessara plantna á ónæmiskerfið hafa hins vegar lítið verið rannsökuð og engin gögn eru til um áhrif þeirra á angafrumur, sem gegna veigamiklu stjórnunarhlutverki í ónæmiskerfinu.

Efniviður og aðferðir: CD14+ mónócýtar úr mönnum voru ræktaðir í sjö daga með IL-4 og GM-CSF til að sérhæfa þá í angafrumur. Angafrumurnar voru síðan ræktaðar með IL-1b, TNF-a og LPS í tvo daga með eða án vatnsútdrátta af horblöðku og vallhumli í nokkrum styrkjum. Boðefnaseytun var mæld með ELISA aðferð. Angafrumur, meðhöndlaðar með vatnsútdráttum af horblöðku eða vallhumli, voru einnig samræktaðar með ósamgena CD4+ T frumum og áhrif þeirra á T frumufjölgun mæld með þrívetna týmidíni og áhrif á boðefnaseytun mæld með ELISA aðferð.

Niðurstöður: Angafrumur þroskaðar í návist vatnsútdrátta af horblöðku eða vallhumli sýndu lækkun á boðefnahlutfallinu IL-12p40/IL-10. Ósamgena CD4+ T frumur, samræktaðar með angafrumum þroskuðum með vatnsútdrætti af horblöðku eða vallhumli seyttu minna af IL-17 og T frumur samræktaðar með angafrumum þroskuðum með útdrætti af horblöðku seyttu einnig minna af IFN-g en CD4+ T frumur samræktaðar með angafrumum sem voru þroskaðar án útdráttar.

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að vatnsútdrættir af horblöðku og vallhumli leiði til ónæmisdempandi svipgerðar hjá angafrumum sem dregur úr getu þeirra til að ræsa Th17 frumusvar hjá ósamgena CD4+ T frumum og einnig minnkar vatnsútdráttur af horblöðku getu angafruma til að ræsa Th1 frumusvar. Slík áhrif gætu mögulega haft hagnýtt gildi við að draga úr sjálfsofnæmissjúkdómum þar sem Th1 og/eða Th17 frumur eru ráðandi.

 

E 153 Etanólútdráttur af birkiberki dregur úr getu angafrumna til að miðla Th1 svari og beinir ónæmissvarinu í átt að Th17 stjórnunarsvari

Jóna Freysdóttir1,2, Marinó Bóas Sigurpálsson1,2,4, Sesselja Ómarsdóttir4, Elín S. Ólafsdóttir4, Arnór Víkingsson1, Ingibjörg Harðardóttir3

1Rannsóknastofu í gigtsjúkdómum, 2ónæmisfræðideild Landspítala, 3lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeildar, 4lyfjafræðideild HÍ

jonaf@landspitali.is

Inngangur:Útdrættir úr birkiberki hafa verið notaðir í alþýðulækningum til að meðhöndla ýmsa sjúkdóma, til dæmis í húð og liðum, og vegna verkjastillandi áhrifa þeirra. Niðurstöður úr in vitro og in vivo rannsóknum sýna að útdrættir úr birkiberki hafa áhrif á stjórnun ónæmissvara og hafa þau einkum verið tengd við ýmsa tríterpena sem finnast í miklu magni í birkiberki. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif barkar af íslenska birkinu (Betula pubescens) á þroskun angafrumna og getu þeirra til að miðla T frumu svari.

Efniviður og aðferðir: Etanólútdráttur var gerður úr þurrkuðum birkiberki og hann þáttaður í fimm þætti (I-V) með mismunandi hlutfalli af díklórmetani og metanóli. Óþroskaðar angafrumur voru þroskaðar með eða án útdráttar og þátta I-V í nokkrum styrkjum og áhrif þeirra á þroskunina metin með því að mæla boðefnaseytun með ELISA aðferð og tjáningu á yfirborðssameindum með frumuflæðisjá. Angafrumur þroskaðar í návist eða án útdráttar og þátta III og IV voru samræktaðar með ósamgena CD4+ T frumum og frumufjölgun mæld með innlimun 3H-tímidíns og boðefnaseytun með ELISA aðferð.

Niðurstöður: Etanólútdráttur og þættir III og IV drógu úr IL-6, IL-10 og IL-12p40 seytingu angafrumna og einnig úr tjáningu á CD86, CCR7 og DC-SIGN miðað við angafrumur þroskaðra án efna. Frumufjölgun ósamgena CD4+ T frumna sem voru samræktaðar með angafrumum sem höfðu verið þroskaðar í návist þáttar IV var eins og frumufjölgun T frumna sem voru samræktaðar með viðmiðunar angafrumum. Hins vegar minnkaði seytun þeirra á IFN-γ á meðan seytun á IL-10 og IL-17 jókst.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að börkur af íslenska birkinu Betula pubescens innihaldi efni sem hafi áhrif á þroskun angafrumna og dragi úr getu þeirra til að miðla Th1 ónæmissvari en beini svarinu í Th17 stjórnunarsvar.


E 154 Fyrstu viðbrögð þorsks við öflugu áreiti á ónæmiskerfið

Bergljót Magnadóttir1, Sigríður Steinunn Auðunsdóttir1, Berglind Gísladóttir2, Birkir Þór Bragason1, Zophonías O. Jónsson3, Valerie H. Meier3, Sigríður Guðmundsdóttir1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Blóðbankanum, 3Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ

bergmagn@hi.is

Inngangur: Bráðasvar er fyrsta viðbragð ónæmiskerfisins í kjölfar áverka, sýkingar eða vefjabreytinga, því fylgir breyting á styrk svokallaðra bráðaprótína í sermi. Dæmigerð bráðaprótín spendýra eru pentraxínin CRP og SAP. Pentraxín hafa greinst í sermi fiska en hlutverk þeirra í bráðasvar óljóst. Tvær gerðir, CRP-PI og CRP-PII, hafa greinst hjá þorski. Hér var bráðasvar framkallað í þorski og áhrif á vessabundna þætti og genatjáningu ónæmisþátta könnuð, einnig áhrif á átfrumuvirkni.

Efniviður og aðferðir: 1) Þorskur, 90 g að þyngd, frá Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar, Stað, Grindavík, var hafður í 170 l kerum og skipt í tvo hópa: Hópur 1 var ómeðhöndlaður, hópur 2 var sprautaður í vöðva með 1 ml kg1 af terpentínu. Blóðsýni og sýni úr nýra og milta voru tekin fyrir meðhöndlun og eftir 1-168 klst. Eftirfarandi þættir voru mældir í sermi: kortisól, heildarmagn prótína, pentraxína og IgM og virkni náttúrulegra og sérvirkra mótefna og ensímtálma. Magnbundin rauntíma PCR aðferð var notuð til að mæla genatjáningu pentraxína, C3, ApoLP-AI, transferrin, IL-1b og cathelicidin. 2) Þorskur, 125 g að þyngd, var meðhöndlaður eins og að framan, sýni tekin úr nýra, hvítfrumur einangraðar og átfrumuvirkni mæld.

Niðurstöður: Serumþættir: Bráðaáreiti leiddi til marktækrar hækkunar á kortisóli, hámark eftir 72 klst., styrkur IgM og ensímtálmavirkni lækkaði en aðrir þættir voru óbreyttir. Genatjáning: Aukin genatjáning var á öllum þáttum á einhverjum tímapunkti í nýra en aðeins genatjáning IL-1b, transferrin og cathelicidin jókst í milta eftir 72 klst. Bráðaáreiti bældi átfrumuvirkni.

Ályktanir: Bráðaáreiti hefur tiltölulega lítil en oft bælandi áhrif á vessabundna þætti og bælir átfrumuvirkni. Örvun á genatjáningu, einkum í nýra, var hins vegar marktæk, sérstaklega á boðefninu IL-1b.

 

E 155 Ólík ræsing T-frumna hefur áhrif á tjáningu viðtaka á yfirborði þeirra

Þórdís Emma Stefánsdóttir1,2, Hekla Sigmundsdóttir1,3

1Blóðmeinafræðideild Landspítala, 2líf- og umhverfisvísindadeild, 3læknadeild HÍ

heklas@landspitali.is

Inngangur: Ákveðnar samsetningar viðtaka miðla ratvísi T-frumna til vefja. Þessi ratvísi T-frumna stjórnast af samskiptum sameinda á æðaþeli við viðtaka á T-frumum. Meðal þeirra viðtaka sem miðla fari T-frumna til húðar eru viðloðunarsameindin cutaneous lymphocyte antigen (CLA) og efnatogsviðtakinn CCR4 sem stuðla að ratvísi frumnanna inn í neðri húðlög. Tjáning þessara viðtaka ákvarðast við ræsingu T-frumnanna þar sem sýnifrumur (til dæmis angafrumur) gegna lykilhlutverki. Angafrumur eru fáar í blóði og því algengt að T-frumur í rækt séu ræstar gegnum T-frumuviðtakann (með einstofna mótefnum gegn CD3 og CD28). Spurningar vöknuðu um það hvort ólík ræsing T-frumna hefði áhrif á tjáningu viðtakanna. Markmið rannsóknarinnar er að bera saman áhrif ólíkrar ræsingar á tjáningu ratvísisameinda á T-frumum sem miðla fari þeirra til húðar.

Efniviður og aðferðir: Mey- (CD45RO-) og minnis- (CD45RO+) T-frumur voru einangraðar úr blóði. Átfrumur (mónócýtar) voru einangraðar úr blóði og þroskaðar í angafrumur í rækt í sjö daga með IL-4 og GM-CSF. LPS var bætt í hluta ræktanna á mismunandi tímapunktum. T-frumur voru ræstar a) gegnum T-frumuviðtakann með mótefnum gegn CD3 og CD28 eða b) með angafrumum á mismunandi þroskastigi í sex daga. Tjáning viðtaka á yfirborði T-frumnanna var metin með mótefnalitun og greiningu í frumuflæðisjá fyrir ræsingu og eftir sex daga.

Niðurstöður: T-frumur sem voru ræstar með einstofna mótefnum sýndu mun meiri CCR4 tjáningu en T-frumur ræstar með angafrumum. T-frumur ræstar með angafrumum tjáðu hins vegar meira CLA en T-frumur ræstar með einstofna mótefnum.

Ályktanir: Fyrstu niðurstöður benda til þess að ólíkar aðferðir við ræsingu T-frumna hafa mikil áhrif á tjáningu ýmissa viðtaka sem miðla ratvísi T-frumna til húðar, meðal annars CLA og CCR4.

 

E 156 Ættlæg einstofna mótefnahækkun og æxli af B-eitilfrumuuppruna. Afbrigði í kímstöð?

Sóley Valgeirsdóttir1, Helga Ögmundsdóttir1, Hlíf Steingrímsdóttir1,2, Vilhelmína Haraldsdóttir2, Hekla Sigmundsdóttir1,3

1Læknadeild HÍ, 2blóðlækninga-, 3blóðmeinafræðideild Landspítala

sov4@hi.is

Inngangur: Verkefni þetta er hluti af stærri rannsókn sem kannar arfgengar orsakir afbrigðilegrar starfsemi B-eitilfrumna og tilhneigingar til myndunar mergæxla. Efniviðurinn er átta íslenskar fjölskyldur sem, auk tilhneigingar til mergæxlismyndunar, sýna einnig svokallaða einstofna mótefnahækkun (monoclonal gammopathy of undetermined significance – MGUS), sem ber um það bil 1% áhættu á ári til myndunar mergæxla. Í fyrri rannsóknum á einni af þessum fjölskyldum kom í ljós ofursvörun B eitilfrumna meðal heilbrigðra fjölskyldumeðlima sem lýsti sér í aukinni mótefnaframleiðslu og langlífi B-eitilfrumna. Þessir einstaklingar voru skilgreindir sem ofursvarar. Talið er að æxlisvöxtur af B-eitilfrumuuppruna eigi rætur að rekja til mistaka eða afbrigða í B-frumuviðbragðinu í kímstöð. Í þessari rannsókn voru frumur úr ofursvörum, ættingjum þeirra og óskyldum viðmiðum prófaðar í áður þróuðu ræktunarlíkani sem hermir eftir svari B-eitilfrumna í kímstöð og leitast var við að svara sértækum spurningum um afbrigði í frumuviðbrögðum.

Efniviður og aðferðir: Tekin voru blóðsýni úr 11 ofursvörum og samsvarandi skyldum og óskyldum viðmiðum þeirra. B-eitilfrumur voru einangraðar úr blóðsýnunum með Histopaque®-1077 þéttnistigli og CD19 segulkúlum. Frumurnar voru ræstar með CHO frumum sem tjá CD40L, ásamt IL-4 og ræktaðar í þrjá vikur. B-eitilfrumum var safnað vikulega og þroskaferli þeirra metið með greiningu á nokkrum einkennissameindum í frumuflæðisjá.

Niðurstöður: Fyrstu niðurstöður benda til þess að munur sé á tjáningu umritunarþáttanna Bcl-6 og Blimp1 við ræktun í kímstöðvarlíkaninu þegar bornar eru saman B-eitilfrumur úr ofursvörum og óskyldum viðmiðum.

Ályktanir: Fyrstu niðurstöður benda til afbrigðileika í þroskaferli B-eitilfrumna í kímstöð hjá ofursvörum séu þeir bornir saman við óskyld viðmið.

 

E 157 Langlífi B-minnisfrumna gegn fjölsykruhjúpi Haemophilus influenzae gerð b

Maren Henneken1, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir1,2, Nicolas Burdin3, Emanuelle Trannoy3, Ingileif Jónsdóttir1,2,4

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3sanofi pasteur, Marcy l'Etolie Frakklandi, 4Íslenskri erfðagreiningu

marenh@landspitali.is

Inngangur: Bólusetning ungbarna með prótíntengdum fjölsykrum (FS) Hemophilus influenzae, gerð b (Hib-conjugate) hófst á Íslandi 1989. Því getum við rannsakað langtíma viðhald Hib-FS sértækra B-minnisfrumna í ungmennum, sem voru bólusett sem ungbörn og bera saman við ári eldri óbólusett ungmenni. Hib-bakterían hvarf úr samfélaginu eftir að bólusetningar hófust, svo náttúruleg útsetning er ólíkleg til að hafa áhrif á viðhald ónæmisminnis.

Efniviður og aðferðir: Tíðni Hib-FS-sértækra B-frumna í blóði var ákvörðuð með flúrmerktum Hib-FS og greiningu í fræðifrumusjá (FACS). Mótefni í sermi voru mæld með ELISA. Blóðsýni úr 30 ungmennum hafa verið rannsökuð, 17 bólusettum og 13 óbólusettum samkvæmt bólusetningarskírteinum eða aldri. Til samanburðar var blóð átta óbólusettra ungbarna undir sex mánaða aldri rannsakað, en ólíklegt er að þau hafi verið útsett fyrir Hib bakteríunni.

Niðurstöður: Ekki reyndist marktækur munur á tíðni Hib-FS-sértækra B-frumna milli bólusettra 0,17% (N=16) og óbólusettra 0,26% (N=12) ungmenna, en tíðnin var hærri en hjá óbólusettum ungbörnum 0,02% (N=8, p=0,0001 og p=0,0003). Styrkur IgA og IgG mótefna var lágur, vegið meðaltal IgG var 0,8 µg/mL í bólusettum og 1,0 µg/mL í óbólusettum ungmennum. Ekkert samband var milli tíðni Hib-FS sértækra minnisfrumna og styrks IgG mótefna.

Ályktanir: Hægt er að greina Hib-FS-sértækar B-minnisfrumur 23 árum eftir bólusetningu ungbarna með prótíntengdu Hib-FS bóluefni. Tíðni Hib-FS-sértækra B-frumna og styrkur IgG og IgA mótefna var svipaður í bólusettum og óbólusettum ungmennum. Niðurstöðurnar benda til að í óbólusetta hópnum hafi náttúruleg útsetning fyrir Hib bakteríunni í frumbernsku vakið myndun Hib-FS-sértækra minnisfrumna sem hafa viðhaldist í áratugi, jafnvel án útsetningar fyrir sýklinum.

 

E 158 Langtíma T- og B-frumu ónæmisminni gegn kúabóluveiru

Halla Halldórsdóttir1,2, Maren Henneken1, Ingileif Jónsdóttir1,2,3

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Íslenskri erfðagreiningu

halla.halldorsdottir@gmail.com

Inngangur: Bólusótt er einn skæðasti smitsjúkdómur sem þekkst hefur. Í faraldri á Íslandi, 1707-1708, sýktust tugir þúsunda og 26% þeirra létust. Bólusótt var útrýmt í heiminum (WHO, 1979) með bólusetningu með kúabóluveiru. Á Íslandi var bólusett með kúabólu til 1978. Um <3% fólks svara bólusetningunni ekki klínískt og hún getur valdið aukaverkunum. Í þessari rannsókn könnum við langtíma ónæmisminni, svörun T- og B-minnisfrumna áratugum eftir kúabólusetningu, með tilliti til klínískrar svörunar og aukaverkana.

Efniviður og aðferðir: Eitilfrumur voru einangraðar úr blóði einstaklinga sem voru bólusettir sem börn fyrir meira en 20 árum og hlutu aukaverkanir eða svöruðu ekki bólusetningu eða svöruðu eðlilega (n=30). T-frumuminni var metið með ELISA mælingum á boðefnum (IL-2, Il-5 og IFN-g) í frumufloti eftir örvun með kúabóluveiru in vitro. B-frumuminni var metið sem tíðni B-frumna sem seyta kúabólusértækum mótefnum af heildarfjölda mótefnaseytandi frumna (AbSC, með ELISPOT) eftir ósértæka örvun. Svipgerð eitilfrumna var greind með flúrskinslitun.

Niðurstöður: Svipgerð eitilfrumna í einstaklingum sem hlutu aukaverkanir af bólusetningu með kúabólu var eðlileg. Tíðni B-frumna sem mynduðu kúabólusértæk IgG mótefni var breytileg milli einstaklinga 0,70%-12,37% (miðgildi 2,40%) af öllum IgG+ mótefnamyndandi frumum. Magn IL-2 (miðgildi 89,71pg/ml) og IFN-g (miðgildi 2308 pg/ml) eftir örvun með kúabóluveiru var breytilegt milli einstaklinga, en Il-5 var lágt hjá þeim sem hafa verið mældir.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að áratugum eftir bólusetningu með kúabólu er B- og T-frumuminni enn til staðar. T-minnisfrumur virðist einkum vera af Th1 gerð, þar sem IFN-gboðefnið er ráðandi. T- og B-frumusvör verða borin saman milli hópa eftir klínísku svari, svarleysi eða aukaverkunum.

 

E 159 Nýbúar og heilsugæsla. Könnun á notkun nýbúa á þjónustu Heilsugæslunnar Glæsibæ

Halldór Jónsson, Þórhildur Halldórsdóttir, Kristján G. Guðmundsson

Heilsugæslunni Glæsibæ

halldor.jonsson@heilsugaeslan.is

Inngangur:Undanfarinn áratug hefur hlutfall íbúa með erlent ríkisfang meira en þrefaldast og er hlutfall útlendinga af íbúum í heild 6,0% í lok árs 2006. Nýlegar tölur sýna að á einni heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu eru 17% þungaðra kvenna með erlent ríkisfang. Þessar samfélagsbreytingar hafa nokkur áhrif á starfsemi heilsugæslunnar. Túlkaþjónusta er til dæmis orðin fastur liður í þjónustu á heilsugæslustöð. Einnig gerir fjölmenningasamfélagið kröfu um þekkingu heilbrigðisstarfsmanna á mismundi trúarbrögðum og menningu. Við Heilsugæsluna í Glæsibæ er ein læknisstaða sem sérstaklega sinnir nýbúum. Markmið rannsóknarinnar er að fá aukið innsæi í notkun nýbúa á heilsugæslunni og viðhorfi þeirra til þjónustunnar.

Efniviður og aðferðir: Um er að ræða paraða rannsókn á 57 nýbúum og 57 innfæddum. Pörunin var gerð með tilliti til kyns, aldurs og ástæðu komu. Þýðið var níu pör karla og 46 pör kvenna. Spurt var um upprunaland, fjölskyldustærð, ástæðu komu, greiningar, fjölda koma síðasta ár, túlkanotkun, ánægju með þjónustuna á stöðinni og innflytjendur voru inntir eftir samanburði á komu hingað og sambærilegri þjónustu í heimalandi.

Niðurstöður: Meðalaldur er 34 ár í báðum hópum. Yngstu þátttakendur voru tvítugir og elstu níræðir. Stærsti hópur innflytjenda kom frá Tælandi og þar næsti frá Póllandi og sá þriðji stærsti frá Víetnam. Alls var fólkið frá 32 þjóðlöndum. Það hefur dvalið hér á landi í 6,7 ár að meðaltali. Ekki var munur á fjölda barna milli hópanna. Tólf af hópi innflytjenda nýttu sér túlkaþjónustu eða 21%. Mikil ánægja var með þjónustu túlka. Á skala 0 til 5 var gefið 4,3 sem ánægja með þjónustuna á heilsugæslustöðinni hjá innflytjendum en hjá 4,13 innfæddum var munurinn ekki marktækur. Ekki var munur á fjölda koma á heilsugæslustöðina seinasta árið milli hópanna. Stærri hluti innflytjenda var giftur. Ekki var mismunur á sjúkdómsgreiningum hópanna. Innflytjendur telja að þjónustan hér sé betri en í upprunalandi í 54% tilfella og 23% telja hana sambærilega.

Ályktanir: Í rannsókn á nýbúum kemur fram að liðlega 20 % þeirra þarf á túlk að halda við komu á heilsugæslustöð. Ekki er munur á notkun nýbúa á þjónustu stöðvarinnar og innfæddra. Viðhorf til þjónustu heilsugæslunnar var sambærilegur milli hópanna. Stór hluti nýbúa telur að þjónusta hér á landi sé betri eða sambærileg miðað við heimalandið.

 

E 160 Eflandi fræðsla til bæklunarsjúklinga, mat og alþjóðlegur samanburður

Árún K. Sigurðardóttir1, Brynja Ingadóttir2

1Heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri, 2Landspítala

arun@unak.is

Inngangur: Fræðsla til sjúklinga er álitin mikilvæg og hefur sannað gildi sitt til að draga úr kvíða, stytta sjúkrahúslegur og auka sjálfsumönnun. Hér verður greint frá fyrsta hluta í fjölþjóðlegri rannsókn um sjúklingafræðslu. Þátttökulöndin eru sjö og er rannsókninni stýrt frá Finnlandi. Tilgangur rannsóknarinnar er að renna betri stoðum undir hvað felst í eflandi sjúklingafræðslu og að greina og skýra mismun í sjúklingafræðslu eftir löndum. Áætlað er að rannsóknin veiti mikilvægar upplýsingar um þarfir og væntingar sjúklinga sem fara í liðskiptaaðgerðir og hvernig þeim er mætt.

Efniviður og aðferðir: Þetta er framvirk, lýsandi samanburðarrannsókn með úrtaki sjúklinga sem gangast undir skipulagðar liðskiptaaðgerðir á hné eða mjöðm á Íslandi (n=280) og aðstandenda þeirra. Tímapunktar mælinga eru þrír: fyrir aðgerð (T1), áður en sjúklingur útskrifast af sjúkrahúsi (T2) og sex til sjö mánuðum eftir aðgerð (T3). Mælitækin eru safn níu staðlaðra spurningalista.

Niðurstöður: Kynntar verða niðurstöður úr fyrsta hluta rannsóknarinnar (T1), þar sem kannaðar voru væntingar sjúklinga til fræðslu fyrir aðgerð og mat þeirra á heilsutengdum lífsgæðum sínum og þær bornar saman við bakgrunn þátttakenda.

Ályktanir: Mikilvægt er að efla þekkingu á sjúklingafræðslu á Íslandi í þeim tilgangi að mæta betur þörfum sjúklinga og aðstandenda þeirra fyrir fræðslu og upplýsingar. Réttur sjúklinga er staðfestur í lögum og siðareglur heilbrigðisstarfsmanna endurspegla skyldur þeirra til að standa vörð um þann rétt. Með þessari rannsókn gefst bæði tækifæri til samanburðar við önnur lönd en einnig verða niðurstöður hennar nýttar til að þróa sjúklingafræðslu á íslenskum sjúkrahúsum.

 

E 161 Stjórnun á krepputímum

Birna G. Flygenring

Hjúkrunarfræðideild HÍ

bgf@hi.is

Inngangur: Í ársbyrjun 2009 lagði þáverandi heilbrigðisráðherra fram tillögur um breytingu á rekstri Kragasjúkrahúsanna svonefndu. Þessar tillögur komu í kjölfar þeirra efnahagslegu þrenginga sem dundu yfir þjóðina haustið 2008 og ollu miklu uppnámi meðal stjórnenda og starfsfólks stofnana. Á þeim tíma sem liðinn er hefur þrívegis verið skipt um heilbrigðisráðherra og óvissa hefur verið um rekstur stofnana, einkum á Suðurlandi, Keflavík og í Hafnarfirði. Allar hafa stofnanirnar þurft að ganga í gegnum mikinn niðurskurð í rekstri. Óhjákvæmilega hefur þetta tímabil verið erfitt fyrir stjórnendur og starfsfólk spítalanna og valdið margvíslegum vandamálum. Markmið þessarar eigindlegu rannsóknar er að kanna hvernig hjúkrunarstjórnendur hafa upplifað þennan tíma, hvaða vandamál þeir hafa þurft að glíma við í starfi og hvaða bjargráð þeir hafa notað til að leysa þau.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknaraðferðin er eigindleg. Á hverri stofnun voru myndaðir rýnihópar (samtals fimm hópar) þar sem hjúkrunardeildarstjórar stofnana tóku þátt í viðtölum. Einn rýnihópur að auki samanstóð af framkvæmdastjórum hjúkrunar á stofnunum. Viðtölin fóru fram í október og nóvember 2010.

Niðurstöður: Við frumgreiningu viðtalanna hafa komið fram nokkur meginþemu. Þau eru meðal annars skortur á upplýsingum, biðin, óvissa um framtíðina, stuðningur, að halda í vonina og sorg og sorgarviðbrögð.

Ályktanir: Ljóst er að hjúkrunarstjórnendur Kragasjúkrahúsanna hafa staðið frammi fyrir mörgum og erfiðum vandamálum í starfi og upplifað erfiðleika við að leysa þau. Við það bætast síðan önnur vandamál sem starfsmenn upplifa vegna þeirrar kreppu sem fyrir er í þjóðfélaginu.

 

E 162 Notkun sjúkrahúsþjónustu eftir búsetu

Sigríður Haraldsdóttir1,2, Unnur A. Valdimarsdóttir1, Sigurður Guðmundsson1,2

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum, heilbrigðisvísindasviði HÍ, 2landlæknisembættinu

sigridur.haraldsdottir@gmail.com

Inngangur: Íslenska heilbrigðiskerfið er í stöðugri þróun, þar með talin þjónusta sjúkrahúsa eða sjúkrasvið heilbrigðistofnana um allt land. Á árinu 2011 er ráðgert að draga verulega úr starfsemi sjúkrasviða heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Við skipulag heilbrigðisþjónustu er mikilvægt að greina og skilja notkun hennar. Markmið rannsóknar er að varpa ljósi á notkun sjúkrahúsþjónustu í heilbrigðisumdæmum á Íslandi og skilja að hve miklu leyti þörfum íbúa hvers svæðis vegna sértækra heilsufarsvandamála er sinnt af stofnunum innan svæðisins. Einnig að skilja hvort fjarlægð frá heilbrigðisstofnun í heimaumdæmi íbúa hefur áhrif á notkun þeirra á þjónustu stofnunarinnar.

Efniviður og aðferðir: Innlagnir á öll sjúkrahús eða sjúkrasvið heilbrigðisstofnana í öllum heilbrigðisumdæmum eru kortlagðar eftir búsetu. Til þess eru notuð gögn úr vistunarskrá sjúkrahúsa sem er ein af heilbrigðisskrám landlæknis en skráin inniheldur tilteknar upplýsingar um allar legur á sjúkrahúsum. Með lýsandi tölfræði er varpað ljósi á hlutfall þjónustunnar sem sinnt er á sjúkrahúsum innan heilbrigðisumdæmisins annars vegar og á sérgreinahúsunum (Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri) hins vegar. Einnig er greint hvaða sértæku heilsufarsvandamál eru helst send til innlagnar á stofnanir utan heilbrigðisumdæmis.

Niðurstöður: Hlutfall innlagna sem sinnt er innan héraðs var nokkuð breytilegt eftir heilbrigðisumdæmum en gjarnan öðru hvoru megin við 50%. Á landsbyggðinni var hlutfallið hæst á Norðurlandi en þar sinna sjúkrahúsin í umdæminu 83% lega sjúklinga í sínu svæði. Þá gefa gögn vísbendingar um að fjarlægð frá umdæmissjúkrahúsi hafi áhrif það hvort þjónusta í héraðinu er notuð eða hvort farið er á höfuðborgarsvæðið.

Ályktanir: Fyrstu niðurstöður gefa ákveðnar vísbendingar um að það sé mismunandi að hve miklu leyti þörfum íbúa hvers svæðis varðandi sjúkrahúslegur er sinnt af stofnunum innan umdæmis einstaklinga

 

E 163 Kynheilbrigðisþjónusta. Þróun mælitækis

Sóley S. Bender

Hjúkrunarfræðideild HÍ, Landspítala

ssb@hi.is

Inngangur: Mælitæki sem hafa verið notuð í erlendum rannsóknum til að skoða viðhorf ungs fólks til kynheilbrigðisþjónustu hafa byggst á handahófskenndum spurningum en ekki hugmyndafræðilegri nálgun. Tilgangur þessarar rannsóknar var að þróa mælitæki sem byggði á hugmyndafræðilegum grunni.

Efniviður og aðferðir: Gerð var fræðileg úttekt á erlendum rannsóknum um viðhorf ungs fólks til kynheilbrigðisþjónustu sem náði til áranna 1998-2008. Niðurstöður rannsóknanna voru flokkaðar eftir efni þeirra. Fimm efnisflokkar voru greindir og var hver þeirra skilgreindur. Efnisflokkarnir voru aðgengi að þjónustu, skipulag þjónustunnar, gæði þjónustunnar, mikilvægir aðilar og persónulegir þættir. Þróað var mælitæki sem byggðist á þessum efnisflokkum. Lögð var fyrir landskönnun vorið 2009 meðal ungs fólks 18-20 ára þar sem mælitækið var prófað. Gerð var þáttagreining á 29 atriðum.

Niðurstöður: Þáttagreiningin leiddi í ljós fjóra þætti sem endurspegluðu fjóra af fimm efnisflokkum sem greindir voru. Þetta voru gæði þjónustunnar, mikilvægir aðilar, skipulag þjónustunnar og persónulegir þættir. Tveir þættir voru með áreiðanleika (Cronbach´s alfa) ³0,70. Gæði þjónustunnar samanstóð af 12 atriðum og var með hæstan áreiðanleika, 0,88. Hinir þættirnir byggðust á tveimur til fjórum atriðum.

Ályktanir: Þáttagreining studdi fjóra af fimm efnisflokkum sem lagðir voru til grundvallar. Einn þátturinn kom best út en það var sá þáttur er laut að gæðum þjónustunnar. Í þessari gagnagreiningu voru eingöngu greind atriði sem gætu stuðlað að notkun þjónustunnar en ekki atriðum sem gætu dregið úr notkun hennar. Athyglisvert væri að setja þetta tvennt saman. Þróun gagnreynds mælitækis sem byggist á hugmyndafræðilegri nálgun er mikilvægt til að geta betur greint hvað skiptir ungt fólk máli varðandi notkun kynheilbrigðisþjónustu.

 

E 164 Upplifun ungs fólks af kynheilbrigðisþjónustu

Sóley S. Bender

Hjúkrunarfræðideild HÍ, Landspítali

ssb@hi.is

Inngangur: Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á bæði jákvæð og neikvæð viðhorf ungs fólks til kynheilbrigðisþjónustu. Hér á landi hefur aðeins ein rannsókn verið gerð (2007) á upplifun ungs fólks af því að fara á göngudeild húð- og kynsjúkdóma. Sú rannsókn byggði á einni tegund kynheilbrigðisþjónustu.

Efniviður og aðferðir: Landskönnun á kynheilbrigðisþjónustu, sem byggði á slembiúrtaki úr þjóðskrá, var gerð vorið 2009 meðal 2500 ungmenna af báðum kynjum sem voru á aldrinum 18-20 ára. Var þátttakendum gefinn kostur á að skrá athugasemdir sínar um þá kynheilbrigðisþjónustu sem þau höfðu notað. Um margvíslega kynheilbrigðisþjónustu var að ræða. Skráð svör voru greind eftir þemum.

Niðurstöður: Alls voru um 25% (n=260) þátttakenda sem gáfu skriflegar upplýsingar um reynslu sína af þjónustunni. Svör þeirra voru greind í þrjú meginþemu, það er persónulega þætti, fagmennsku og skipulag. Ungt fólk upplifði ýmist mjög persónulega, fagmannlega, vel skipulagða og góða þjónustu en einnig andstæðu þess. Þau lýsa til dæmis neikvæðri upplifun af því að þjónustan sé óskipulögð og ópersónuleg þar sem ekki er borin virðing fyrir þeim, litlar upplýsingar veittar, vandræðalegar aðstæður, mæta fordómum og kuldalegri framkomu.

Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að bæta megi fagmennsku og ýmislegt verðandi skipulag þjónustunnar. Margt ungt fólk þarf að hafa heilmikinn kjark til að leita sér kynheilbrigðisþjónustu, einkum í fyrstu heimsókn og þeir sem yngri eru. Þegar þangað er komið er mikilvægt að upplifa þjónustuna á jákvæðan hátt. Jákvæð reynsla byggir upp einstaklinginn og stuðlar að kynheilbrigði hans.

 

E 165 Reynsla ungs fólks af þjónustu er lýtur að greiningu og meðferð á kynsjúkdómum

Jenný Guðmundsdóttir1, Sóley S. Bender1,2

1Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild HÍ

ssb@hi.is

Inngangur: Erlendar rannsóknir sýna að það eru margvíslegir þættir sem skipta ungt fólk máli þegar leitað er eftir kynheilbrigðisþjónustu. Þessi rannsókn sem framkvæmd var árið 2007 er fyrsta sinnar tegundar hér á landi sem skoðar viðhorf og reynslu ungs fólks af þjónustu er varðar greiningu og meðferð við kynsjúkdómum.

Efniviður og aðferðir: Tekin voru eigindleg viðtöl við átta einstaklinga, sjö stelpur og einn strák sem voru á aldrinum 17-23 ára. Þátttakendur voru valdir af handahófi úr hópi 34 einstaklinga sem gáfu kost á sér í viðtal þegar þeir mættu á göngudeild húð- og kynsjúkdóma á Landspítalanum. Viðtölin voru skráð frá orði til orðs og þau greind í þemu.

Niðurstöður: Í ljós komu fjögur meginþemu sem voru: að komast á staðinn; ótti við greiningu; hreinsunareldurinn og óskalistinn. Niðurstöður sýndu að ungt fólk ætti erfitt með að hringja inn og panta tíma en mætti að jafnaði þægilegu viðmóti. Það er ánægt með staðsetningu deildarinnar og hversu vel hún er falin. Það er að mörgu leyti óþægilegt fyrir unga fólkið að koma á deildina því það vill í raun ekki vera þarna. Það óttast að aðrir komist að því og er áhyggjufullt að fá greiningu. Upplifun þess af heilbrigðisstarfsfólk er yfirleitt góð en það vill gjarnan fá meiri fræðslu og finnst erfitt að nálgast niðurstöður úr rannsóknum sínum. Ungt fólk hefur margar hugmyndir um það hvernig ætti að breyta þjónustunni og aðgengi að henni.

Ályktanir: Það er heilmikið átak fyrir ungt fólk að fara á göngudeild húð- og kynsjúkdóma og að fara í gegnum þjónustuferlið þar. Niðurstöður endurspegla mikilvægi þess að skipuleggja opnunartíma, tímapantanir og upplýsingar um niðurstöður betur, veita betri fræðslu og auglýsa deildina meira en gert hefur verið.

 

E 166 Slímvefjaræxli í hjarta á Íslandi

Hannes Sigurjónsson1, Karl Andersen2,7, Maríanna Garðarsdóttir3, Vigdís Pétursdóttir4, Guðmundur Klemenzson5, Gunnar Þór Gunnarsson6,7, Ragnar Danielsen2, Tómas Guðbjartsson1,7

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2hjartadeild ,3myndgreiningardeild, 4meinafræðideild, 5svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 6Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, 7læknadeild HÍ

hannes@landspitali.is

Inngangur: Slímvefjaræxli (myxoma) eru algengustu æxlin sem upprunnin eru í hjarta. Þetta eru góðkynja æxli sem vaxa staðbundið og valda oft fjölbreytilegum einkennum, meðal annars stíflu/leka á míturloku og blóðreka. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta nýgengi slímvefjaræxla hér á landi og kanna árangur skurðaðgerða við þeim.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk og nær til allra sjúklinga sem greindust með slímvefjaræxli á Íslandi frá því hjartaaðgerðir hófust í júní 1986 og fram til dagsins í dag. Sjúklingar voru fundnir eftir þremur leiðum, meinafræði- og hjartaómunarskrá- og vélindaómskrá frá skurðstofu Landspítala.

Niðurstöður: Alls greindust níu tilfelli, þrír karlar og sex konur, með meðalaldur 60,7 ár (bil 37-85). Aldursstaðlað nýgengi var 0,12 á hverja 100.000 íbúa/ári (95% CI: 0,05-0,22). Átta æxli voru staðsett í vinstri gátt og eitt í hægri gátt. Meðalstærð æxlanna var 3,6 cm (bil 1,5-7 cm). Mæði (n=5) og heilablóðfall vegna reks (n=2) voru algengustu einkennin. Átta tilfelli greindust við hjartaómun og eitt fyrir tilviljun á tölvusneiðmynd af kransæðum. Allir sjúklingarnir fóru í aðgerð þar sem æxlið var fjarlægt. Meðalaðgerðartími var 236 mín. og allir sjúklingarnir lifðu aðgerðina og útskrifuðust heim. Fylgikvillar voru minniháttar, oftast gáttatif (n=4). Legutími var 30 dagar (miðgildi), þar af einn dagur á gjörgæslu. Í mars 2009 voru sjö sjúklingar af níu á lífi, allir við góða heilsu og án teikna um endurtekið slímvefjaræxli.

Ályktanir: Einkenni, greining og nýgengi slímvefjaræxla á Íslandi eru svipuð og í erlendum rannsóknum. Eftir því sem best er vitað er þetta fyrsta rannsóknin á slímvefjaræxlum að ræða sem nær til heillar þjóðar og þar sem reiknað er út lýðgrundað nýgengi.

 

E 167 Árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi 2002-2006

Hannes Sigurjónsson1, Sólveig Helgadóttir2, Sæmundur J. Oddsson1, Martin Ingi Sigurðsson1, Þórarinn Arnórsson1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild HÍ

hannes@landspitali.is

Inngangur: Hátt í 4000 kransæðahjáveituaðgerðir hafa verið fram-kvæmdar hér á landi. Í flestum tilvikum hefur verið notast við hjarta- og lungnavél (CABG) en á síðasta áratug hafa margar aðgerðanna verið gerðar á sláandi hjarta (OPCAB). Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna árangur þessara aðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og nær til allra sjúklinga (n=720) sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Íslandi árin 2002-2006. Sjúklingum sem gengust undir aðrar aðgerðir samtímis, t.d. lokuaðgerð, var sleppt. Bornir voru saman fylgikvillar og dánartíðni (<30 d.) í CABG-hópi (n=513), og OPCAB-hópi (n=207), og notuð til þess bæði ein- og fjölþáttagreining.

Niðurstöður: Áhættuþættir voru mjög sambærilegir fyrir báða hópa, m.a. aldur, líkamsþyngdarstuðull, fjöldi æðatenginga (2,8) og EuroSCORE (4,8). Aðgerðir á sláandi hjarta tóku lengri tíma (222 vs. 197 mín., p<0,001) og blæðing var aukin samanborið við hefðbundna aðgerð og munaði 274 ml (p<0,001). Tíðni enduraðgerða vegna blæðinga og blóðgjafir voru heldur hærri í CABG-hópnum og CK-MB mældist hærra (43,4 á móti 36,3 µg/L, p<0,05). Aftur á móti var tíðni gáttatifs (53%) og heilablóðfalls (2%) sambærileg í báðum hópum, einnig legutími (12 dagar) og dánartíðni innan við 30 dagar (3% á móti 4%). Í fjölþáttagreiningu hafði tegund aðgerðar ekki forspárgildi fyrir dánartíðni innan við 30 daga en það gerðu EuroSCORE, blóðfitulækkandi lyf og magn blóðgjafar sem voru sjálfstæðir forspárþættir. Línuleg aðhvarfsgreining sýndi að tegund aðgerðar, líkamsþyngdarstuðull og fjöldi æðatenginga voru sjálfstæðir áhættuþættir aukinnar blæðingar.

Ályktun: Árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi er góður (3,2% dánir <30 daga) og sambærilegur við stærri hjartaskurðdeildir erlendis. Þetta á við um bæði hefðbundnar aðgerðir og aðgerðir á sláandi hjarta. Í þessari óslembuðu rannsókn reyndist þó blæðing aukin eftir aðgerðir á sláandi hjarta en tíðni hjartadreps hins vegar lægri.

 

E 168 Tengsl offitu við snemmkominn árangur kransæðahjáveituaðgerða

Sæmundur J. Oddsson1, Hannes Sigurjónsson1, Sólveig Helgadóttir1, Martin Ingi Sigurðsson1, Þórarinn Arnórsson1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild HÍ

saemiodds@hotmail.com

Inngangur: Offita hefur verið talin auka tíðni fylgikvilla eftir ýmsar skurðaðgerðir, þar á meðal opnar hjartaaðgerðir. Nýlegar rannsóknir benda þó til þess að tengsl offitu og fylgikvilla sé flóknara en áður var talið, til dæmis eru rannsóknir sem hafa sýnt lægri tíðni fylgikvilla hjá þessum sjúklingum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna tengsl offitu við árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Aftursýn rannsókn sem náði til allra sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð (CABG/OPCAB) á Landspítala frá 2002–2006, samtals 720 einstaklinga. Sjúklingum var skipt í tvennt; offituhóp með BMI >30 kg/m2 (n=207, 29%), og viðmiðunarhóp með BMI £30 kg/m2) (n=513, 71%). Hóparnir voru bornir saman með ein- og fjölþáttagreiningu og áhrif offitu metin hvað varðar tíðni fylgikvilla og skurðdauða innan 30 daga.

Niðurstöður: Ekki var marktækur munur á áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma en sjúklingar í ofþyngd vou með lægra EuroSCORE (4,3 á móti 5,0; p=0,02) og voru 2,7 árum yngri (p=0,002). Aðgerðartími var lengri hjá sjúklingum í ofþyngd og munaði 18 mínútum (p=0,02). Tíðni minniháttar fylgikvilla (53 og 55%) og alvarlegra fylgikvilla (9 og 10%) var sambærileg í báðum hópum, einnig dánartíðni innan 30 daga (2 og 3,7%; p=0,3). Þegar leiðrétt var fyrir EuroSCORE og aldri við fjölbreytugreiningu reyndist offita hvorki sjálfstæður áhættuþáttur fyrir tíðni fylgikvilla né dánartíðni (p>0,1).

Ályktanir: Tíðni fylgikvilla og dánartíðni eftir kransæðahjáveituaðgerð er ekki marktækt aukin hjá offitusjúklingum en aðgerðirnar taka lengri tíma. Hafa verður í huga að viss valskekkja getur verið til staðar og haft áhrif á niðurstöðurnar, til dæmis voru offitusjúklingarnir bæði yngri og með lægra EuroSCORE.

 

E 169 Blóðfitulækkandi statín lækka dánartíðni sjúklinga eftir kransæðahjáveituaðgerð

Sæmundur J. Oddsson1, Sólveig Helgadóttir1, Hannes Sigurjónsson1, Martin Ingi Sigurðsson1, Sindri Aron Viktorsson3, Þórarinn Arnórsson1, Guðmundur Þorgeirsson2,3, Tómas Guðbjartsson1,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2hjartadeild Landspítala, 2læknadeild HÍ

saemiodds@hotmail.com

Inngangur: Hækkun á blóðfitum er þekktur áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma og felst meðferð meðal annars í lyfjameðferð með statínum. Sýnt hefur verið fram á að statín minnka bólguviðbrögð (SIRS) í líkamanum, meðal annars eftir skurðaðgerðir. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif statína á tíðni fylgikvilla og dánartíðni 30 dögum eftir kransæðahjáveituaðgerð.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var aftursýn og náði til 720 sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala árin 2002-2006. Bornir voru saman sjúklingar sem voru á statínum fram að aðgerð (n=529) og þeir sem ekki tóku statín (n=154). Hóparnir voru bornir saman og ein- og fjölþáttagreining notuð til að meta áhrif statína á fylgikvilla og dánartíðni innan 30 daga frá aðgerð.

Niðurstöður: Hóparnir voru mjög sambærilegir hvað varðar áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma, tegund og tímalengd aðgerða. Sjúklingar á statínum höfðu þó oftar háþrýsting og EuroSCORE þeirra var lægra (4,6 á móti 5,6, p=0,003). Ekki var marktækur munur á tíðni alvarlegra fylgikvilla í hópunum tveimur (5,8 á móti 5,1%), þar með talið heilablóðfalli, sýkingu í bringubeini, kransæðastíflu og enduraðgerð vegna blæðingar. Dánartíðni sjúklinga á statínum var hins vegar marktækt lægri (1,7 á móti 5,8%, p=0,001). Í fjölþáttagreiningu, þar sem meðal annars var leiðrétt fyrir EuroSCORE (OR 1,36 p=0,003) og hækkandi aldri (OR 1,13; p=0,02), reyndust statín vera sjálfstæður verndandi forspárþáttur 30 daga dánartíðni eftir aðgerð (OR 0,20, p= 0,02).

Ályktanir: Blóðfitulækkandi statín tengjast lækkaðri dánartíðni sjúklinga eftir kransæðahjáveituaðgerð. Erlendis hefur verið lýst svipuðum niðurstöðum eftir opnar hjartaaðgerðir. Skýringin á áhrifum statína er ekki augljós en gæti hugsanleg legið í bólguhemjandi áhrifum þeirra eftir skurðaðgerðina og/eða jákvæðum áhrifum á æðaþelsstarfsemi.

 

E 170 Míturlokuskipti á Íslandi 1990-2006

Sigurður Ragnarsson1, Þórarinn Arnórsson1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild HÍ

sigurra@landspitali.is

Tilgangur: Árangur míturlokuskipta á Íslandi hefur ekki verið kannaður áður en fyrsta slíka aðgerðin hér á landi var gerð 1990. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna skammtímaárangur þessara aðgerða, þar með talda dánartíðni og fylgikvilla.

Efniviður og aðferðir: Aftursýn rannsókn sem náði til allra sjúklinga sem fóru í míturlokuskipti á Íslandi 1990-2006, samtals 52ja sjúklinga. Karlmenn voru 34 (65%) og meðalaldur 61 ár (bil 17-85). Rúmlega 2/3 voru með míturlokuleka en 15 með þrengsli. Sex sjúklingar höfðu hjartaþelsbólgu, sjö nýlegt hjartadrep og 90% voru í NYHA flokki III-IV fyrir aðgerð. Meðal logEuroSCORE var 16,2% (bil 1,5-78,9%). Helmingur fór samtímis í kransæðahjáveituaðgerð, 19,2% í ósæðarlokuskipti og 9,6% í þríblöðkulokuviðgerð. Fjórðungur hafði áður farið í opna hjartaaðgerð.

Niðurstöður: Tveir fengu lífræna loku en 50 gerviloku. Meðalstærð nýju lokanna var 30,3 mm (bil 27-31). Meðaltími á hjarta- og lungnavél var 162 mín. og tangartími 107 mín. Miðgildi gjörgæslulegu var 2,9 sólarhringar (bil 0,5-77). Marktæk hækkun á hjartaensímum (CK-MB >70) greindist hjá 62% sjúklinganna og alvarlegir fylgikvillar hjá 46%. Nýtilkomið hjartadrep var algengast (22%), en aðrir alvarlegir fylgikvillar voru öndunarbilun (n=5) og bráð nýrnabilun (n=4). Sjö sjúklingar (13,5%) fóru í enduraðgerð vegna blæðingar og tveir þurftu ósæðardælu (IABP) eftir aðgerð. Minniháttar fylgikvillar greindust hjá helmingi sjúklinga og voru gáttatif, lungnabólga og skurðsýkingar algengastar. Þrír sjúklingar létust innan daga (5,8%), en tveir til viðbótar létust fyrir útskrift.

Ályktanir: Míturlokuskipti er umfangsmikil aðgerð þar sem tíðni alvarlegra fylgikvilla er há, sérstaklega hjartadrep og blæðingar sem krefjast enduraðgerða. Hér á landi er dánartíðni <30 daga tiltölulega lág (5,8%), sérstaklega þegar haft er í huga að margir sjúklinganna eru alvarlega veikir fyrir aðgerð. 

 

E 171 Veldur Kawasaki-sjúkdómur míturlokaleka?

Halla Sif Ólafsdóttir1, Gylfi Óskarsson1,2, Ásgeir Haraldsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins

asgeir@landspitali.is

Inngangur: Kawasaki-sjúkdómurinn (KS) er æðabólgusjúkdómur sem einkennist einkum af hita, útbrotum, tárubólgu, slímhúðarbólgu, roða og bjúg á útlimum og eitlastækkunum. Alvarleiki sjúkdómsins felst í myndun kransæðagúla og jafnvel kransæðastíflu. Mörgum spurningum er ósvarað um langtímaáhrif sjúkdómsins. Markmið rannsóknarinnar var meðal annars að athuga fylgikvilla sjúkdómsins með áherslu á síðkomnar aukaverkanir á hjarta. Einnig var faraldsfræði KS hér á landi á tímabilinu 1996-2005 metin.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn fyrir árin1996 til og með 2005. Leitað var að tilfellum eftir ICD númerum (KS og atýpískur KS) og gögnum safnað úr sjúkraskrám. Öllum, sem greindust á Barnaspítala Hringsins, var boðið í ómskoðun af hjarta til að meta starfsemi hjartans nokkrum árum eftir sjúkdóminn.

Niðurstöður: Alls greindust 30 með Kawasaki sjúkdóm á árunum 1996-2005. Nýgengi var 10,7/100.000 börn innan fimm ára á ári og kynjahlutfall 2,3:1 (drengir/stúlkur). Öll börnin fengu meðferð með mótefnum án alvarlegra fylgikvilla. Enginn sjúklinganna dó. Í bráðafasa sjúkdόmsins fengu tveir (6,7%) kransæðagúla og önnur eða báðar meginkransæðarnar víkkuðu hjá þremur (10%). Við mat á langtímaáhrifum á hjarta reyndust sex vera með míturlokuleka (25%) og tveir með víkkun á kransæð.

Ályktanir: Nýgengi og kynjahlutfall er sambærilegt við fyrri íslenska rannsókn og rannsóknir frá Norðurlöndunum. Fá börn greindust með kransæðabreytingar í bráðafasanum, þær breytingar gengu til baka í öllum nema tveim án alvarlegra fylgikvilla. Horfur barna sem greinast með Kawasaki-sjúkdóm á Íslandi eru góðar. Sérstaka athygli vekur að við mat á langtímaáhrifum á hjarta greindist míturlokuleki hjá sex einstaklingum.

 

E 172 Langtímaárangur og lifun eftir lokuskiptaaðgerðir vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi

Sindri Aron Viktorsson1, Inga Lára Ingvarsdóttir1, Kári Hreinsson3, Ragnar Danielsen1,2, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2hjartadeild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild, 4hjarta og lungnaskurðdeild Landspítala

sav2@hi.is

Inngangur: Árangur ósæðarlokuaðgerða hefur lítið verið rannsakaður á Íslandi. Markmið okkar var að kanna árangur ósæðarlokuskipta vegna ósæðarlokuþrengsla með sérstaka áherslu á langtímafylgikvilla.

Efniviður og aðferðir: Eitt hundrað fimmtíu og sex sjúklingar, sem gengust undir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Landspítala 2002-2006. Sleppt var sjúklingum sem áður höfðu farið í hjartaaðgerð (n=17) eða fóru í aðgerð vegna ósæðarlokuleka eða hjartaþelsbólgu (n=5). Meðalaldur sjúklinga var 71,7 ár (bil 41-88) og voru tveir þriðju karlar. Gerviloku var komið fyrir hjá 29 (18,6%) sjúklingum en lífrænni loku hjá 127. Úr sjúkraskrám og stofunótum sérfræðinga voru skráðir langtímafylgikvillar og lokutengdar innlagnir til 1. apríl 2010. Einnig voru kannaðar hjartaómanir og reiknuð heildarlifun samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu. Meðaleftirfylgd var 4,8 ár. Tíðni langtímafylgikvilla er miðuð við 100 sjúklingaár.

Niðurstöður: EuroSCORE fyrir aðgerð var 9,6%, hámarksþrýstingsfall (ΔP) yfir lokuna 74,1 mmHg og útfallsbrot (EF) 57%. Þremur til tólf mánuðum eftir aðgerð mældist þrýstingsfallandi yfir nýju lokunni 19,8 mmHg (bil 2,5-38) og útfallsbrot hélst óbreytt. Hjá 50 sjúklingum virðist ómskoðun ekki hafa verið gerð eftir aðgerð. Rúmur fjórðungur sjúklinga var lagður inn vegna lokutengdra vandamála; fjórir oftar en einu sinni, sem eru 6,0 innlagnir/100 sjúkl./ár. Algengustu ástæður endurinnlagna voru hjartabilun (1,74/100 sjúkl./ár), blóðsegarek (1,60), blæðing (1,6), hjartaþelsbólga (0,67) og hjartadrep (0,40). Eins og fimm ára lifun eftir aðgerð var 93% og 90%.

Ályktanir: Tíðni langtímafylgikvilla eftir ósæðarlokuskipti hér á landi er tiltölulega lág samanborið við erlendar rannsóknir, sérstaklega tíðni alvarlegra blæðinga vegna blóðþynnandi meðferðar. Tíðni blóðsegareks og hjartaþelsbólgu er hins vegar svipuð. Of snemmt er að segja til um endingu lífrænu lokanna en lifun sjúklinga er góð.

E 173 Efnasmíð N-fjórgildra kítósanafleiða og rannsóknir á sambandi byggingar og örverudrepandi virkni

Már Másson1, Ögmundur V. Rúnarsson1, Martha Hjálmarsdóttir2

1Lyfjafræðideild, 2læknadeild lífeindafræði HÍ

mmasson@hi.is

Inngangur: Kítósan er misleit fjölsykra gerð úr b-1-4 tengdum glúkósamín- og asetýglúkósamín-einingum. Kítósan hefur verið notað í vefjalækningum, við lyfjagjöf og sem örverhemjandi efni. Notkun þess er hins vegar takmörkuð af vatnsleysanleika. Markmið verkefnisins var að þróa aðferðir við vendina efnasmíði vatnsleysanlegra N-fjórgildra kítósanafleiða og rannsaka samaband byggingar og örverudrepandi virkni.

Efniviður og aðferðir: Efnasmíðavinna var framkvæmd á rannsóknstofu lyfjafræðideildar í Haga. Himnuskiljur voru notaðar til að hreinsa lokaefnin. Allar afurðir voru greindar með IR og NMR til þess að ákvarða byggingu. Virkni gegn Gram-jákvæðum S. aureus stofnum og Gram-neikvæðum E. coli, P. aeriginosa og E. Facialis stofnum var mæld með stöðluðum aðferðum Clinical Laboratory Standard Institute (CLSI).

Niðurstöður: N-vendin efnasmíð á fjórgildum 2-ammóníumýl-asýl kítósanafleiðum með umbreytingarstig (US) 0,81-0,87 reyndist möguleg án notkunar verndarhópa. Þessi aðferð var ekki nothæf við efnasmíði N,N-dímetýl-N-dódesýl og N,N-dímetýl-N-bútýlafleiða, en þær voru smíðaðar út frá TBDMS kítósani. Sambærilegar afleiður glúkósamínu og kítófásykrunga voru einnig smíðaðar. Næmismörk (MIC) 50 afleiða með breytilegan mólþunga voru á bilinu ³8192-2 µg/ml. Minniháttar breytingar á byggingu höfðu veruleg áhrif á virkni en hækkun US yfir 0,5 hafði lítil áhrif. Í sumum afleiðum hafði umbreyting 2-amínóhópsins neikvæð áhrif á virkni en jákvæð í öðrum tilvikum.

Ályktanir: Samband byggingar og virkni er með öðrum hætti í afleiðum kítósanfjölliða en í afleiðum glúkósamínu og kítófásykrunga. N,N,N–trímetýlkítósan og N-(2-(1,4,4-trímetýlpiperazíndííumýl)-asetýl)-kítósan voru virkustu efnin í þessari rannsókn.

 

E 174 Leynast lyfjasprotar í íslenskum soppmosum?

Jenny Sophie R.E. Jensen1, Sesselja Ómarsdóttir1, Helga M. Ögmundsdóttir2, Jerzy W. Jaroszewski3, Elín Soffía Ólafsdóttir1

1Lyfjafræðideild, 2læknadeild HÍ, 3lyfjafræðideild Kaupmannahafnarháskóla

jennyj@hi.is

Inngangur: Soppmosar (Hepaticae) tilheyra mosafylkingunni (Bryophyta) og er talið að um sex til átta þúsund tegundir séu til í heiminum. Soppmosar teljast frumstæðastir allra landplantna en framleiða samt flókna blöndu annars stigs efnasambanda. Rannsóknir hafa sýnt að mörg þessara efna hafa áhugaverða lífvirkni, þar á meðal hemjandi áhrif á krabbameinsfrumur. Hins vegar hafa malaríuhemjandi áhrif þessara efna ekki verið könnuð. Markmið þessa verkefnis er að kanna áhrif efna úr íslenskum soppmosum á krabbameinsfrumur og malaríusníkilinn Plasmodium falciparum in vitro.

Efniviður og aðferðir: Lækjareifa (Chiloschyphus pallescens) og stjörnumosa (Marchantia polymorpha) var safnað við Fossá í Hvalfirðir og í Esjunni. Útbúnir voru díetýleterútdrættir sem voru þáttaðir niður á VLC (Vacuum Liquid Chromatography) súlu með n-hexan: etýlasetat stigli. Hemjandi áhrif þátta voru könnuð annars vegar á þrjár gerðir krystal víólet litun eftir 48 klst. rækt og hins vegar gegn P. falciparum in vitro í styrkjum 100, 50, 25 og 12,5 µg/mL og lifun metin með 3H-thýmidín upptöku.

Niðurstöður: Þættir úr báðum soppmosatgundunum höfðu hemjandi áhrif á bæði krabbameinsfrumur og á malaríusníkilinn in vitro. Þáttur úr C. pallescens hindraði lifun krabbameinsfrumna mest og reyndist IC50 vera um 6 µg/mL. Þáttur úr M. polymorpha hindraði hins vegar fjölgun malaríusníkilsins mest, eða um 98% í styrknum 12,5 µg/mL.

Ályktanir: Þættir úr íslenskum soppmosum innihalda áhugaverð efni sem vert er að skoða frekar gegn bæði krabbameinsfrumum og malaríusníklinum in vitro. Framhald verkefnisins miðar þess vegna að því að hreinsa og byggingargreina virku efnin í þessum þáttum og staðfesta virkni hreinna og vel skilgreindra efna.

 

E 175 Samanburður á tveimur plastblendiefnum eftir fimm ár

Sigfús Þór Elíasson, Svend Richter

Tannlækningastofnun, tannlæknadeild HÍ

sigfuse@hi.is

Inngangur: Á undanförnum árum hefur verið leitast við að finna nýtt plastblendi sem dregst minna saman. Tilgangur rannsóknarinnar er að bera saman gæði og endingu tveggja jaxlafyllingarefna.

Efniviður og aðferðir: Borin voru saman Hermes, sem er nýtt silorane plastblendi sem dregst minna saman við hvörfun með Hermes bindiefni (3M ESPE) og hins vegar Tetric Ceram, sem er hefðbundið bis-GMA plastblendi með AdheSE bindiefni (Vivadent). Bæði bindiefnin eru sjálfætandi. Efnin voru sett í tennur fullorðinna sem þurftu að minnsta kosti tvær boxlaga II. klassa fyllingar af svipaðri stærð. Samtals voru sett 53 fyllingarpör. Fyllingarnar voru metnar af tveimur tannlæknum eftir einfölduðu USPHS skráningakerfi.

Niðurstöður: Ein Tetric fylling hafði verið fjarlægð vegna viðkvæmni og ekki náðist í tvo einstaklinga, þannig að eftir fimm ár voru 50 fyllingarpör skoðuð. Allir snertipunktar voru metnir innan eðlilegra marka. Yfirborðssléttleiki fyllinga og tannholdsástand var óbreytt. Engin tannáta fannst meðfram brúnum fyllinga. Kvarnast hafði úr þremur Tetric og fimm Hermes fyllingum og rúmlega þriðjungur beggja fyllingarefnanna voru metnar með niðurbrot við brúnir. Mislitanir meðfram samskeytum fundust hjá 50% Tetric og 64% Hermes fyllinga. Alvarlegar mislitanirnar voru marktækt fleiri meðfram Hermes fyllingum. Einnig voru marktækt fleiri Hermes fyllingar metnar með einhver merki um slit.

Ályktanir: Slit virðist vera vandamál, sérstaklega hjá Hermes plastblendi. Niðurbrot brúna og há tíðni mislitana meðfram brúnum beggja fyllingartegunda bendir til að bæta þurfi eða breyta um tannbindiefni. Minni samdráttur við hvörfun virðist ekki duga til.

 

E 176 Notkun tannfyllingarefna á Íslandi

Svend Richter, Sigfús Þór Elíasson

Tannlækningastofnun, tannlækningadeild HÍ

svend@hi.is

Inngangur: Upplýsingar um notkun tannfyllinga eru mikilvægar þegar meta á þátttöku hins opinbera í tannlæknaþjónustu, við kennslu tannlæknanema og fyrir tannlækna almennt. Fáar slíkar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi. Árin 1983 og 2000 gerðu sömu höfundar rannsókn á notkun og endingu tannfyllinga á Íslandi. Tilgangur þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á hugsanlega breytta notkun fyllingarefna, ástæðum fyrir gerð og endurgerð þeirra og meta endingartíma fyllinga í ljósi breytinga á efnisvali.

Efniviður og aðferðir:Rannsóknin er hluti stærri rannsóknar á tannfyllingum og endurgerð þeirra. Tannlæknar á stofum voru beðnir að skrá fyrirfram skilgreindar ástæður fyrir gerð 100 tannfyllinga, vali fyllingarefna, lögun (klössum) og endingu þeirra ef um endurfyllingu var að ræða.

Niðurstöður: Upplýsingar fengust um nálægt 8000 fyllingar. Niðurstöður sýna marktækt aukna notkun plastblendis í álagssvæði jaxla. Notkun amalgams, sem var aðal fyllingarefnið í flokki I í jaxlafyllingum 1983 (55,2%) og hafði lækkað í tæp 15% árið 2000, er nú að mestu horfið. Einnig reyndist amalgam að mestu horfið í allar tegundir fyrstu fyllinga. Það er þó enn notað nokkuð við endurgerð stærri fyllinga í flokki II í aftari jaxla eldra fólks. Eldri tannlæknar velja oftar amalgam í stórar jaxlafyllingar þar sem yngri tannlæknar nota nánast eingöngu tannlitað fyllingarefni. Hlutfall upphafsfyllinga og endurfyllinga var nánast það sama og árin 2000 og 1983. Aukning hefur orðið á óskum fólks um að heilum amalgam fyllingum sé skipt út fyrir tannlituð fyllingarefni.

Ályktanir: Notkun plastblendis í álagsfleti jaxla eykst stöðugt. Með sömu þróun mun notkun amalgams hverfa að mestu. Aðalástæður fyrir gerð og endurgerð fyllinga hafa lítið breyst. Breytingar tengjast bættum fyllingarefnum.

 

 

E 177 Hámörkun á eðlisefnafræðilegum eiginleikum sílikon forðalyfjaforma með skipulögðu tilraunamynstri og in vitro húðtilraunir

Bergþóra S. Snorradóttir1, Pálmar I. Guðnason2, Freygarður Þorsteinsson2, Már Másson1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Össuri hf.

bss@hi.is

Inngangur: Í framhaldi af fyrri niðurstöðum, með notkun sílikonfjölliða og bólgueyðandi lyfja, var ákveðið að nota skipulagt tilraunamynsturs (STM) forrit (MODDE) til að hámarka eðlisefnafræðilega eiginleika sílikon forðalyfjaforms. Forðalyfjaformið inniheldur lyfjaagnir og hjálparefni í misháum styrk.

Efniviður og aðferðir:Markmið rannsóknarinnar var að framleiða fjölliðu með góða efnaeiginleika og hámarka lyfjalosun í gegnum húð með hjálparefnum. STM forritið lagði til að nota D-hámörkunarhönnun fyrir okkar kerfi. Slík tölvustýrð hönnun býður upp á sveigjanleika til aðlögunar að hverju vandamáli fyrir sig. Lyfjalosun var mæld í Frans-flæðisellum og efnisstyrkur forðakerfanna var mældur með teygnimæli.

Niðurstöður: STM var notað til að takmarka fjölda tilrauna sem þurfti til að hámarka lyfjalosunarkerfið. Þetta gerði mögulegt að breyta þáttum samtímis í samræmi við vel skipulagða áætlun, í fyrsta lagi með því að skanna áhrifaþættina, í öðru lagi með hámörkuninni og í þriðja lagi með því að prófa lyfjalosun á hámarkaða kerfinu í gegnum húð. Út frá hámörkunartilraununum lagði forritið til samsetningu á sílikonhimnum sem voru í framhaldinu framleiddar og lyfjalosun prófuð í gegnum hitaaðskilda mannshúð. Hjálparefnin sem notuð voru í húðtilraununum juku lyfjalosun úr sílikoninu fjór- til sjöfalt (háð lyfjastyrk).

Ályktanir: Hámarkaða sílikonfjölliðukerfið hefur góða eðlisefna-fræðilega eiginleika til notkunar í lækningartæki og mætti því íhuga þau til notkunar í hjálpartæki og þar með að sameina lyfjalosun og gervihlutaverkun.

 

E 178 Hópmyndun sýklódextrínfléttna

Martin Messner, Sergey V. Kurkov, Phatsawee Jansook, Þorsteinn Loftsson

Lyfjafræðideild HÍ

messner@hi.is

Inngangur: Sýklódextrín eru hjálparefni sem notuð eru við lyfjagerð til að auka leysanleika og stöðugleika lyfja í vatni og til að auka aðgengi lyfja eftir inntöku (oral bioavailability). Rannsóknir á eðlisefnafræðilegum eiginleikum sýklódextrína hafa nýlega leitt til nýrra uppgötvana. Meðal annars hafa rannsóknirnar okkar sýnt að fléttur lyfja og sýklódextrína hópa sig saman og mynda nanóagnir. Markmið verkefnisins er greina og ákvarða einkenni nanóagna (aggregata) sýklódextrínfléttna, og rannsaka hvernig bygging lyfja og sýklódextrína hefur áhrif á myndun nanóagna.

Efniviður og aðferðir:Þrjú náttúruleg sýklódextrín og nokkrar afleiður þeirra voru notaðar við rannsóknir á hópmyndun (það er: aggregeringu, myndun nanóagna) fléttna lyfja og sýklódextrína. Mælingar á flæði lyfja í gegnum hálfgegndræpar himnur voru notaðar til að nema myndun nanóagna í vatnslausnum sýklódextrína sem mettaðar höfðu verið með lyfjum. Magn lyfja og sýklódextrína var mælt með HPLC.

Niðurstöður: Með fasa-leysanleika mælingum og mælingum á flæði lyfja í gegnum hálfgegndræpar himnur var hægt að áætla stærð agna og stærðardreifingu þeirra og hvernig mismunandi sýklódextrín og mismunandi lyf hafa áhrif á þessa þætti. Rannsóknirnar sýndu að hópmyndun sýklódextrínfléttna (myndun nanóagna) jókst með vaxandi styrk sýklódextríns. Stærð agnanna jókst einnig með vaxandi sýklódextrínstyrk. Stærð og hlutfallslegt magn agna eru bæði háð gerð lyfs og sýklódextríns. Settar eru fram kenningar um myndun agnanna.

Ályktanir: Hópmyndun sýklódextrínfléttna og myndun nanóagna skýrir ýmis áhrif hjálparefna á fléttumyndun lyfja. Mikilvægt er að rannsaka þessa hópmyndun frekar og þá möguleika sem hún skapar í lyfjafræði.

 

E 179 Hámörkun tert-bútýldímetýlsílýlverndunar á kítósani og notkun tert-bútýldímetýlsilýlkítósans í ofurvatnsfælnar lífhermandi himnur

Vivek Gaware1, Ögmundur V. Rúnarsson1, Berglind E. Benediktsdóttir1, Wenlong Song2, Joao F. Mano2, Már Másson1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2 IBB - Institute for Biotechnology and Bioengineering, Guimaraes Portúgal

vsg3@hi.is

Inngangur: Kítósan og kítósanafleiður eru lífsamræmanlegar og hafa verið notaðar í líflæknisfræði, í lífhimnur og í matavælageiranum. Vatnsleysni kítósans við pH <5 takamarkar hins vegar notkun kítósanhimna þar sem krafa er um mikinn pH stöðugleika og að himnan drekki ekki í sig mikið vatn. Vatnsfælnar afleiður kítósans væru því ákjósanlegar fyrir ýmis not. Við höfum nýlega greint frá efnasmíði vatnsfælinnar kítósanafleiðu, dí-3,6-O-tert-bútýldímetýlsílýlkítósan (TBDMS-kítósan). Markmið verkefnisins var hámarka aðferðir við efnasmíði TBDMS-kítósans og rannsaka notkun þessarar afleiðu í vatnsfælnar lífsamræmanlegar himnu.

Efniviður og aðferðir: Efnasmíðavinnan var framkvæmd á rannsókna-stofu lyfjafræðideildar í Haga. Afurðir voru greindar með IR og NMR til þessa ákvarða byggingu. Rannsóknir á vætunarhæfni og skimrafeindasmásjárrannsóknir voru framkvæmdar í Portúgal.

Niðurstöður: Efnasmíðaaðferðin fyrir TBDMS-kítósan byggir á því að hvarfa kítósanmesýlat við yfirmagn af TBDMS-klóríði. Lykilskref í hámökun þessarar aðferðar reyndist vera endurkristöllun á kítósanmesýlati. Með þessu hráefni var mögulegt að smíða O-silýlerað kítósan með litlu yfirmagni af TBDMS-klóríði á tiltölulega stuttum hvarftíma. Toppar fyrir prótónur í sykrukeðjunni og á hliðarkeðjum reyndust vera full-aðgreindir í H-1 NMR rófi og því var hægt að staðfesta að TBDMS-kítósan smíðað með þessari aðferð var full O-silýlerað. TBDMS-kítósan var notað til að steypa himnur sem reyndust vera ofurvatnsfælnar á pH bilinu 1-14. Skimrafeindasmásjármyndir staðfestu þriggja stiga grófleika í yfirborðslagi sem einkennandi fyrir ofurvatnsfælnar himnur.

Ályktanir: Þessi ofurvatnsfælnu efni mætti nota í vatnsfælnar og örveruhamlandi vefnaðarvörur, í vefjalækningum eða þróun á himnum fyrir læknisfræðileg not.

 

E 180 Sértæk efnasmíðaleið fyrir nýmyndun á fjórgildum kítósanafleiðum með hjálp silýl verndarhópa

Berglind E. Benediktsdóttir1, Vivek S. Gaware1, Knud J. Jenssen2, Paul R. Hansen2, Sigríður Jónsdóttir3, Már Másson1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Faculty of Life Sciences Kaupmannahafnarháskóla, 3Raunvísindastofnun HÍ

berglib@hi.is

Inngangur: Kítósan (pólý-b-(1-4)-glúkosamín) er lífsamræmanleg fjölliða með marga notkunarmöguleika og eykur til dæmis gegndræpi peptíð- og próteinlyfja. Helsta takmörkun kítósans er lág vatnsleysni við lífeðlisfræðilegt pH og léleg leysni í lífrænum leysum sem hamlar bæði sértækri nýmyndun á kítósanafleiðum og afurð slíks efnahvarfs verður sjaldnast vel skilgreind. Tilgangur þessarar rannsóknar var að nota 3,6-O-dí tert-bútýldímetýlsilýl kítósan (TBDMS-kítósan) til nýmyndunar á N,N,N-trímetýl kítósani (TMC) og N-alkýl-N,N-dímetýl kítósanafleiðum.

Efniviður og aðferðir: Kítósan (5% asetýlerað, 8 kDa) var fengið frá Genís ehf. Afleiður kítósans voru smíðaðar við stofuhita eða 50°C og unnið var með rakaviðkvæm efni undir nítri. Himnuskiljur (MW cutoff 3,5 kDa) voru notaðar til að hreinsa lokaefnin. Til að greina nýsmíðaðar kítósanafleiður voru 1H-NMR, 13C NMR, COSY og HSQC róf tekin við 400,13 MHz.

Niðurstöður: Þegar TBDMS-kítósan var hvarfað við metýljoðíð og afverndað með tetrabútýlammóníum flúoríð (TBAF) þá kom fram full-fjórgilt TMC (einkennandi trímetýl toppur við 3,37 ppm). Notuð voru mismunandi alkýl aldehýð (própýl, bútýl og hexýl) til að mynda mismunandi N-alkýlimín-TBDMS kítósanafleiður (imín toppur við 7,44 ppm) úr TBDMS-kítósani sem voru síðan afoxaðar með bóróhýdrati sem leiddi til mónó-N-alkýl-TBDMS kítósanafleiða. Þessar kítósanafleiður voru síðan hvarfaðar með dímetýlsúlfati og afverndaðar með TBAF sem leiddi til myndunar á fjórgildu N-alkýl-N,N-dímetýl kítósani (dímetýl toppur við 3,29 ppm) en einnig voru til staðar toppar fyrir N-alkýl-N-mónómetýl- og N,N,N-trímetýl kítósan.

Ályktanir: Þessar niðurstöður sýna að TBDMS-kítósan er nothæf fjölliða fyrir sértæka efnasmíð á amínóhóp kítósans eins og N-alkýleringu og N-fjórgildingu og gerir þannig kleift að gera ítarlega greiningu á NMR rófum.

 

E 181 Fiskolía minnkar hlutfall hefðbundinna mónócýta í heilbrigðum músum en eykur hlutfall þeirra í músum sprautuðum með inneitri

Hildur H. Arnardóttir1,2,3, Jóna Freysdóttir1,2,3, Ingibjörg Harðardóttir1

1Lífefna- og sameindalíffræðistofu HÍ, 2rannsóknastofu í gigtsjúkdómum, 3ónæmisfræðideild Landspítala

hha3@hi.is

Inngangur:Fiskolía, rík af ómega-3 fjölómettuðum fitusýrum, hefur jákvæð áhrif í sumum langvinnum bólgusjúkdómum og einnig í sumum sýkingum. Flakkboðinn CCL2 er mikilvægur í togi mónócýta úr beinmerg í blóð og einnig úr blóði til heilbrigðra og sýktra vefja. CCL2 binst flakkboðaviðtakanum CCR2 sem er tjáður af undirgerð mónócýta sem gjarnan eru kallaðir hefðbundnir eða bólgumónócýtar. Markmið rannsóknarinnar var að ákvarða áhrif fiskolíu á yfirborðssameindir mónócýta og styrk flakkboða í blóði músa.

Efniviður og aðferðir: Kvenkyns C57BL/6 mýs fengu fóður byggt á vestrænu fæði með eða án 2,8% fiskolíu. Helmingur músanna í hvorum hóp var sprautaður með inneitri (lípópólísakkaríð, LPS) í kviðarhol þremur eða 48 klst. áður en blóði var safnað. Yfirborðssameindir og flakkboðaviðtakar á blóðfrumum voru greindir í frumuflæðisjá og styrkur CCL2 í sermi mældur með ELISA aðferð.

Niðurstöður: Heilbrigðar mýs sem fengu fiskolíu voru með minna hlutfall af hefðbundnum mónócýtum í blóði en mýs sem fengu viðmiðunarfóður. Eftir sprautun með inneitri jókst hlutfall hefðbundinna mónócýta í blóði músa sem fengu fiskolíu en ekki í blóði músa sem fengu viðmiðunarfóður. Styrkur CCL2 í sermi heilbrigðra músa sem fengu fiskolíu var minni en styrkur CCL2 í sermi músa sem fengu samanburðarfóður. Hins vegar var styrkur CCL2 í sermi LPS-sprautaðra músa sem fengu fiskolíu meiri en í sermi músa sem fengu viðmiðunarfóður.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að fiskolía hafi dempandi áhrif á bólguvirkni í jafnvægi og ef til vill í langvinnri bólgu en auki hins vegar bólguviðbragð eftir sýkingu. Dempandi áhrif fiskolíu í heilbrigðum músum samræmist jákvæðum áhrifum hennar á langvinna bólgusjúkdóma en aukið bólguviðbragð gæti að hluta skýrt jákvæð áhrif hennar í sumum sýkingum.

 

E 182 Áhrif fiskolíu í fóðri músa á hjöðnun (lausnarfasa) bólgu

Valgerður Tómasdóttir1,2,3, Arnór Víkingsson2, Jóna Freysdóttir2,3, Ingibjörg Harðardóttir1

1Lífefna- og sameindalíffræðistofu HÍ, 2rannsóknastofu í gigtsjúkdómum, 3ónæmisfræðideild Landspítala

valgerd@hi.is

Inngangur: Tíðni langvinnra bólgusjúkdóma hefur aukist á Vesturlöndum síðustu áratugi. Ein möguleg skýring á því er minnkuð bólguhjöðnun samfara breyttu mataræði. Markmið rannsóknarinnar var að ákvarða áhrif fiskolíu í fóðri músa á myndun og hjöðnun bólgu.

Efniviður og aðferðir:Mýs fengu fóður með eða án fiskolíu og voru bólusettar með BSA og mild lífhimnubólga mynduð. Kviðarholsfrumum og -vökva var safnað á nokkrum tímapunktum. Yfirborðssameindir á frumum voru skoðaðar í frumuflæðisjá. Styrkur frumu- og flakkboða í kviðarholsvökva var mældur með ELISA aðferð.

Niðurstöður: Þremur stundum eftir myndun lífhimnubólgu höfðu mýs sem fengu fiskolíubætt fóður fleiri neutrófíla í kviðarholi og styrkur IL-6, IL-12, KC, MIP-1aog MCP-1 var hærri en hjá músum sem fengu viðmiðunarfóður. Eftir 12 klst. voru hins vegar færri neutrófílar í kviðarholi músa í fiskolíuhópnum og styrkur IL-12 lægri. Fjörutíu og átta klst. eftir myndun lífhimnubólgu var hlutfall eosínófíla í kviðarholi músa sem fengu fiskolíu hærra en í viðmiðunarhópi og makrófagar tjáðu meira af hlutleysis flakkboðaviðtakanum D6. Þá var styrkur TGF-bí kviðarholsvökva einnig hærri. Fimm og 10 dögum eftir lífhimnubólgumyndun tjáðu makrófagar meira af D6 sem og af flakkboðaviðtakanum CCR7 og styrkur TGF-bvar hærri en hjá viðmiðunarhópi. Um frumniðurstöður er að ræða og munur milli hópanna ekki í öllum tilvikum tölfræðilega marktækur. Unnið er að endurtekningu tilraunanna.

Ályktanir: Þessar frumniðurstöður benda til að í upphafi bólgusvarsins auki fiskolía bólguhvetjandi boðefni en á síðari stigum bólgusvarsins auki fiskolíugjöf bólguhemjandi boðefni og tjáningu á sameindum sem eru mikilvægar fyrir hjöðnun bólgu. Þannig er mögulegt að fiskolía geri viðbrögð við bólguáreiti hnitmiðaðri og stuðli að hámarks árangri ónæmissvarsins.

 

 

E 183 Fiskolía eykur hlutfall neutrófíla í blóði og kviðarholi músa 48 stundum eftir sprautun með inneitri

Hildur H. Arnardóttir1,2,3, Jóna Freysdóttir1,2,3, Ingibjörg Harðardóttir1

1Lífefna- og sameindalíffræðistofu HÍ, 2rannsóknastofu í gigtsjúkdómum, 3ónæmisfræðideild Landspítala

ih@hi.is

Inngangur: Fiskolía hefur jákvæð áhrif í sumum langvinnum bólgusjúkdómum og einnig í sumum sýkingum. Flakkboðarnir CXCL1 (KC), CXCL2 (MIP-2) og CCL3 (MIP-1a og viðtakarnir sem þeir bindast gegna mikilvægu hlutverki í togi neutrófíla á sýkinga- og bólgustaði. Markmið rannsóknarinnar var að ákvarða áhrif fiskolíu á styrk flakkboða og á flakkboðaviðtaka á frumum í sermi og kviðarholsvökva músa.

Efniviður og aðferðir: Kvenkyns C57BL/6 mýs fengu fóður byggt á vestrænu fæði með eða án 2,8% fiskolíu. Helmingur músanna í hvorum hópi var sprautaður með inneitri (LPS) í kviðarhol þremur eða 48 klst. áður en blóði og kviðarholsvökva var safnað. Yfirborðssameindir og flakkboðaviðtakar á blóð- og kviðarholsfrumum voru greindir í frumuflæðisjá. Styrkur CXCL1, CXCL2 og CCL3 í sermi og kviðarholsvökva var mældur með ELISA aðferð.

Niðurstöður:Sérstæðir neutrófílar, sem voru stærri og minna kyrndir en aðrir neutrófílar, greindust í blóði músa sem höfðu verið sprautaðar með LPS. Mýs sem fengu fiskolíu voru með hærra hlutfall af þessum sérstæðu neutrófílum en mýs sem fengu viðmiðunarfóður. Mýs sem fengu fiskolíu voru einnig með hærra hlutfall hefðbundinna (allra) neutrófíla í kviðarholi en mýs sem fengu viðmiðunarfóður, 48 klst. eftir LPS sprautun. Þá jók fiskolía styrk CCL3 bæði í sermi og kviðarholsvökva þremur og 48 klst. eftir sprautun með inneitri.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að fiskolía hafi áhrif á tog neutrófíla í blóð og kviðarhol í kjölfar sýkinga og að áhrif hennar gætu að hluta til verið vegna áhrifa á flakkboðann CCL3. Aukinn fjöldi neutrófíla í blóði og kviðarholi bendir til sterkara ónæmissvars sem gæti mögulega haft jákvæð áhrif í ónæmisbælingu sem á sér stað í kjölfar bráðablóðeitrunar.

 

E 184 Sumarexem, smámýsofnæmi í hrossum. Bólusetning í húð og í eitil með smámýs ofnæmisvökum með og án IC31Ò ónæmisglæði

Sigurbjörg Þorsteinsdóttir1, Sigríður Jónsdóttir1, Eliane Marti2, Eman Hamza2, Jozef Janda2, Ben Wizel3, Vilhjálmur Svansson1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2dýrasjúkdómadeild Háskólans í Bern, Sviss, 3Intercell Vín, Austurríki

sibbath@hi.is

Inngangur: Sumarexem er ofnæmi af gerð I í hrossum gegn próteinum sem berast við bit smámýs (Culicoides spp). Exemið er vandamál í íslenskum hestum sem fluttir eru út. Við höfum framleitt ofnæmisvakana sem valda exeminu í E. coliog hreinsað þá. Markmiðið er að þróa ónæmismeðferð gegn sumarexemi. Borin er saman bólusetning á hestum í húð og í eitla með fjórum hreinsuðum ofnæmisvökum með og án Th1 stýrandi ónæmisglæði.

Efniviður og aðferðir: Tólf íslenskir fjögurra til níu vetra hestar. Ofnæmisvakar ættaðir úr bitkirtlum C. nucbeculosusframleiddir í E. coli; Antigen-5-like protein, hýalúronidasi, tvö óþekkt prótein. IC31ñglæðir frá Intercell (Vín). Sex hestar eru sprautaðir í húð og sex í kjálkabarðseitla þrisvar sinnum með ofnæmisvökunum fjórum, 10 µg af hverjum með fjögurra vikna millibili. Þrír hestar í hvorum hóp með IC31ñog þrír án. Fylgst er með áhrifum glæðis með skoðun, mælingu, líkamshita og deilitalingu blóðs. Heilblóð er tekið tveimur vikum eftir bólusetningar og hvítfrumur örvaðar in vitro með ofnæmisvökunum, smámýsseyði og mítógenum. Framleiðsla Th1, Th2 og Tstýri boðefna er mæld í RT-PCR og í elísuprófi. Sermi er tekið aðra hverja viku fyrir mótefnamælingar (IgG, IgG undirflokka og IgE) í elísuprófi og ónæmisþrykki. Ofnæmispróf verða gerð í lok tilraunar, sex mánuðum frá fyrstu bólusetningu.

Niðurstöður: Búið er að bólusetja tvisvar. Ekki sjást breytingar í blóðmynd né skaðleg áhrif á hrossin. Hægt er nú þegar að staðfesta svörun gegn ofnæmisvökum hjá flestum hestunum, munur milli hópa og nánari niðurstöður varðandi styrk og gerð ónæmissvars verða útskýrðar og ræddar.

Ályktanir: Sprautun með próteinum í IC31 glæði í eitla og húð á hestum ræsir ónæmissvar án aukaverkana. Frekari rannsóknir munu leiða í ljós hvort svarið er nægilega öflugt og af réttri gerð fyrir ónæmismeðferð.

Þakkir: RANNÍS, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, RHÍ, þróunar-fjárframlag til hrossaræktar, VETSUISSE.

 

E 185 Einangrun og tjáning á hýalúroniðasa, aðalofnæmisvaka í sumarexemi, smámýsofnæmi, í hestum

Sigríður Jónsdóttir1, Vilhjálmur Svansson1, Einar Mäntylä2, Eliane Marti3, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2ORF Líftækni, 3dýrasjúkdómadeild háskólans í Bern, Sviss

sij9@hi.is

Inngangur:Sumarexem er ofnæmi af gerð I í hrossum. Sjúkdómurinn orsakast af próteinum (ofnæmisvökum) úr bitkirtlum smámýs (Culicoides spp.) en það lifir ekki á Íslandi. Íslenskir hestar sem fluttir eru út og eru útsettir fyrir smámýi fá sumarexem í 50% tilfella. Búið er að tjá ofnæmisvakana sem valda sumarexemi í E. coli og hreinsa þá. Einn af aðalofnæmisvökunum er hýalúroniðasi (hýa). Markmiðið er að tjá hýa í skordýrafrumum og í byggi. Einnig að framleiða einstofna mótefni gegn próteininu fyrir greiningu og hreinsun.

Efniviður og aðferðir:Hýa genið var magnað upp úr lZapII cDNA safni úr bitkirtlum Culicoides nubeculosus með Taq polymerasa, límt inn í FastBac ferju og raðgreint. Próteinið var tjáð í Sf-9 skordýrafrumum með Baculoveirukerfinu (Bac-to-Bac). Tjáning var skoðuð með ónæmisþrykki. Tjáning í byggi var gerð samkvæmt OrfeusTM-kerfinu.

Niðurstöður: Tekist hefur að magna upp alla hýa röðina og raðgreina hana, hún reyndist vera 1209 bp. Búið er að tjá og magnframleiða hýa próteinið í Sf-9 skordýrafrumum, það safnast í innlyksur og er 52 kDa. Sértæk mótefni, framleidd gegn hýa, voru notuð til að greina próteinið í ónæmisþrykki. Hýaröðin var táknabestuð hjá ORF fyrir tjáningu í byggi. Fræ frá 35 hýa-bygglínum af fyrstu kynslóð voru skimuð. Fjórar línur voru jákvæðar með anti hýa mótefni og fræjum frá þeim sáð. Í skimun á T2 hýa-bygglínum voru þessar fjórar línur ennþá jákvæðar og tvær valdar til að sá fyrir framleiðslu á T3 fræjum.

Ályktanir: Tekist hefur að tjá í skordýrafrumum og byggi hýalúroníðasa úr smámýi, einn af aðalofnæmisvökum í sumarexemi. Þetta mun nýtast í ónæmismeðferð og prófunum á henni.

Þakkir: RANNÍS, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, RHÍ og þróunarfjárframlag til hrossaræktar.

 

 

E 186 Einangrun og tjáning ofnæmisvaka úr smámýi (Culicoides spp) sem orsakar sumarexem í hestum

Heiða Sigurðardóttir1, Sigríður Jónsdóttir1, Vilhjálmur Svansson1, Eliane Marti2, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2dýrasjúkdómadeild háskólans í Bern, Sviss

hes19@hi.is

Inngangur: Sumarexem er ofnæmi af gerð I gegn próteinum smámýs sem lifir ekki hér á landi. Ofnæmið er algengt í útfluttum hestum, um helmingur þeirra sem hafa verið tvö ár eða lengur á flugusvæðum fá sumarexem. Íslenskir hestar fæddir erlendis fá ofnæmið í minna mæli. Einangruð hafa verið 15 ofnæmisvakagen úr flugnabitkirtlum og próteinin tjáð í E. coli. Tveir þessara vaka eru cul-nub-a21 og cul-nub-c4. Markmiðið er að einangra og raðgreina a21 og c4, tjá í skordýrafrumum og hreinsa próteinin. Einnig setja V5 tjáningarmerki á pFastBac HT ferju sem er notuð við tjáningu próteina í skordýrafrumum.

Efniviður og aðferðir: lZAP II cDNA safn úr bitkirtlum C. nubeculosus. Genamögnun með PCR og raðgreining með BigDye v3.1. Genin voru límd inn í pFastBac HT ferju í E. colistofninum DH5a. Tjáning í skordýrafrumum (Sf-9) með Baculoveirukerfi (Bac-To-Bac), greining með ónæmisþrykki og próteinhreinsun með His-select affinity geli.

Niðurstöður: V5 merkihali úr pcDNA3.1/V5-His B ferju var settur inn á pFastBac HT og virkar vel í próteingreiningu. Genin voru mögnuð upp úr lambdasafninu, límd inn í pFastBac HT/V5 og raðgreind, a21 genið er 1218 bp en c4 genið 1254 bp. Í Sf-9 skordýrafrumunum eru bæði próteinin tjáð í innlyksum, a21 próteinið sést sem 52 kDa band í ónæmisþrykki og c4 sem 55kDa. Cul-Bac-a21 og Cul-Bac-c4 veirur voru framleiddar efldar og títreraðar. Próteinin voru magnframleidd og hreinsuð. Hlutar af a21 og c4 voru tjáðir í E. coliaf samstarfsaðilum okkar í Sviss og fjölstofna mótefni framleidd gegn hlutapróteinunum í músum.

Ályktanir: Til að ofnæmisvakarnir séu rétt sykraðir og líkastir þeim náttúrulegu þá er nauðsynlegt að framleiða þá í skordýrafrumum. Ofnæmisvirkni þeirra verður borin saman við sömu vaka framleidda í E. coli.

Þakkir: RHÍ, Framleiðnisjóður landbúnaðarins.

 

E 187 Þróun Baculoveiruferju til bólusetninga gegn sumarexemi í hestum

Lilja Þorsteinsdóttir1, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir1, Einar G. Torfason2, Vilhjálmur Svansson1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2rannsóknastofu Landspítala í veirufræði

liljatho@hi.is

Inngangur: Sumarexem er húðofnæmi af gerð I í hestum sem orsakast af biti smámýs sem lifir ekki á Íslandi. Tíðni sjúkdómsins er mjög há í útfluttum hestum. Frá árinu 2000 hefur á Keldum verið unnið, í samstarfi við erlenda aðila, að rannsóknum á sumarexemi með endanlegt markmið að þróa ónæmismeðferð. Baculoveira er skordýraveira sem hefur aðallega verið þróuð og notuð til að tjá endurröðuð prótein. Einnig er verið að þróa baculoveirur sem genaferjur og þær þá hannaðar með viðeigandi tjáningarkasettu. Markmið verkefnisins er að hanna baculoveirugenaferju til bólusetninga.

Efniviður og aðferðir: Notað verður Bac-to-bac baculoveirukerfið (Invitrogen). Til genainnsetninga í baculoveiruna er notað pFastBac plasmíð. Glýkóprótein B (gB) úr equine gammaherpesveiru 2 (EHV2-Bj) er sett inn á pFastBac undir stjórn polyhederin stýrils sem aðeins virkar í skordýrafrumum. gB-genið er tjáð í veirukápunni og gerir innleiðslu í hestafrumur mögulega. Baculoveiran getur ekki fjölgað sér í hestafrumum. Til að fá tjáningu á ofnæmisvakagenum er tjáningarkasettu komið fyrir í erfðaefni veirunnar sem hefur cýtómegalóveiru stýril, intron A, ofnæmisvakagen og poly A hala.

Niðurstöður: gB úr EHV2-Bj hefur verið magnað upp og sett inn á pFastBac. Unnið er að gerð tjáningarkasettu með Ag5 ofnæmisvakageni. Kasettan er gerð í gWiz vektor, klippt út og komið fyrir í pFastBac sem inniheldur gB genið.

Ályktanir: Baculoveiruferja til fyrirbyggingar eða meðhöndlunar á ofnæmi er einstök í sinni röð og ný nálgun í ofnæmisrannsóknum og ofnæmismeðhöndlun. Niðurstöður munu ekki eingöngu nýtast fyrir sumarexemi í hrossum heldur einnig í öðrum ofnæmissjúkdómum í dýrum og jafnvel í mönnum.

Þakkir: Framleiðnisjóður landbúnaðarins, RHÍ og þróunarfjárframlag til hrossaræktar

 

E 188 Þróun herpesveiruferju til bólusetninga gegn sumarexemi í hestum

Lilja Þorsteinsdóttir1, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir1, Einar G. Torfason2, Vilhjálmur Svansson1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2rannsóknastofu Landspítalans í veirufræði

liljatho@hi.is

Inngangur: Sumarexem er húðofnæmi af gerð I í hestum sem orsakast af biti smámýs sem lifir ekki á Íslandi. Tíðni sjúkdómsins er mjög há í útfluttum hestum. Síðan 2000 hefur á Keldum verið unnið, í samstarfi við erlenda aðila, að rannsóknum á sumarexemi með endanlegt markmið að þróa ónæmismeðferð. Hestar eru sýktir af equine gammaherpesveiru 2 (EHV-2) frá unga aldri og veldur veiran litlum sem engum sjúkdómi. Sýkingin þróast yfir í dulsýkingu sem endist ævilangt, en endursýkingar með öðrum afbrigðum eru algengar. Markmið verkefnisins er að hanna herpesveirugenaferju til bólusetninga.

Efniviður og aðferðir: Við hönnun veiruferja verður notuð eyðuhreinsuð íslensk veira, EHV2-Bj, sem ræktaðist úr heilbrigðum hesti. Fullgerðar veiruferjur verða innleiddar með lipofectamineTM2000 (Invitrogen) í EHV2-Bj sýktar hestafósturnýrnafrumur. Green fluorescent protein (GFP) verður notað sem prófgen á innsetningu. Skimað verður fyrir endurröðuðum veirum með PCR, ónæmisþrykki eða flúrsmásjá.

Niðurstöður: Verið er að hanna fjórar ólíkar EHV ferjur þar sem genum er komið fyrir á ólíkum stöðum í erfðaefni EHV2-Bj, ýmist í tjáningarkasettu eða beint fyrir aftan gen og er þá tjáð samhliða því. Þrjár ferjur sem tjá EGFP og tvær sem tjá ofnæmisvakagenið Ag5 eru tilbúnar. Unnið er að eyðuhreinsun á ferjum með GFP.

Ályktanir: Tekist hefur að hanna veiruferjur fyrir hesta byggðar á EHV-2. Ferjurnar munu nýtast í genabóluefni fyrir hesta og með sýnigeni verður hægt að nota þær í rannsóknir á sýkingar- og sjúkdómsferli gammaherpesveira í hestum. Veirugenaferjur til bólusetninga gegn ofnæmi eru ný nálgun í ofnæmisrannsóknum og ofnæmismeðhöndlun.

Þakkir: Framleiðnisjóður landbúnaðarins, RHÍ og þróunarfjárframlag til hrossaræktar.

 

E 189 Forspárþættir og horfur hjá arfberum BRCA2 stökkbreytingar með brjóstakrabbamein - hraður framgangur tvílitna æxla

Laufey Tryggvadóttir1,2, Elínborg J. Ólafsdóttir1, Guðríður H. Ólafsdóttir1, Helgi Sigurðsson2,3, Bjarni A. Agnarsson2,4, Jórunn E. Eyfjörð5, Jón G. Jónasson1,2,4

1Krabbameinsskrá KÍ, 2læknadeild HÍ, 3krabbameinslækningadeild, 4rannsóknastofu í meinafræði Landspítala, 5rannsóknastofu í krabbameinsfræðum HÍ

laufeyt@krabb.is

Inngangur: Konur með stökkbreytt BRCA2 gen hafa aukna brjóstakrabbameinsáhættu. Fyrri rannsóknir benda til að stökkbreytingar hafi lítið samband við horfur.

Efniviður og aðferðir: Í rannsóknarhóp voru konur með brjóstakrabbamein (greindar 1928-2008) sem tekið höfðu þátt í rannsóknum rannsóknastofu í sameinda- og frumulíffræði og Krabbameinsskrár KÍ þar sem leitað var að íslensku BRCA2landnemastökkbreytingunni; 222 arfberar og 2.357 án stökkbreytingarinnna (þar af undirhópur 444 kvenna, paraðar á fæðingarár og greiningarár). Tenging við lýðgrundaðar heilsufarsskrár gaf upplýsingar um krabbamein og forspárþætti. Hættuhlutfall (Hazard ratio, HR) fyrir brjóstakrabbameinssértæka lifun var metið með lifunargreiningu Cox.

Niðurstöður:Arfberar höfðu aukið áhættuhlutfall (HR, 1,38; 95% CI 1,04-1,83) eftir leiðréttingu fyrir stærð æxlis og eitlaíferð. Konur með og án stökkbreytingar höfðu svipað hlutfall æxla með jákvæða estrógen viðtaka og hlutfall tvílitna æxla (DNA index 1,00±1,15), en hins vegar voru arfberar átta árum yngri við greiningu (P<0,001), hærra hlutfall fékk nýja brjóstakrabbameinsgreiningu (18,5% miðað við 8,1%, P<0,001), æxlin voru stærri (meðalstærð 27,6 mm miðað við 23,0 mm, P=0,01), oftar eitlaíferð (51,3% miðað við 42,2%, P=0,06) og æxlisgráða hærri (52,0% með hæstu gráðu miðað við 30,9%, P<0,001). Munur á forspárþáttum var bundinn við sjúklinga með tvílitna æxli, og þar var hann mun skarpari. Í þeim hópi var einnig meira afgerandi munur á horfum arfbera og óstökkbreyttra (HR=3,64; 95% CI 2,16-6,13). Arfberar með tvílitna æxli höfðu mun hærra áhættuhlutfall en arfberar með mislitna æxli (HR=3,77; 95% CI 1,54-9,23).

Ályktanir: Íslenskar konur með BRCA2 stökbreytingu höfðu nærri fjórfalt verri horfur en konur án breytingarinnar ef æxlin voru tvílitna. Hjá arfberum voru tvílitna æxli mun framgangsharðari en mislitna æxli. Niðurstöðurnar hafa meðal annars klínískt gildi.

 

E 190 Áhrif slökunarmeðferðar á einkenni sjúklinga með krabbamein

Þóra Jenný Gunnarsdóttir1, Nanna Friðriksdóttir2, Lilja Jónasdóttir2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítala

thoraj@hi.is

Inngangur: Gagnreyndar viðbótarmeðferðir eins og nudd og slökun hafa samkvæmt erlendum rannsóknum reynst árangursríkar til þess að draga úr einkennum og bæta líðan sjúklinga með krabbamein. Slökunarmeðferð hefur verið í boði á dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala í rúman áratug. Sjúklingar hafa tjáð ánægju sína með meðferðina en árangur hennar hefur ekki verið markvisst metinn.

Efniviður og aðferðir: Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvaða áhrif slökunarmeðferð hefur á ýmis einkenni sem hrjá krabbameinssjúklinga. Frá árinu 2007 hafa krabbameinssjúklingar sem þiggja slökunarmeðferð verið beðnir um að meta líðan sína og einkenni fyrir og eftir slökunarmeðferð með einkennamatstækinu Edmonton Symptom Assessment Scale. Gagna var aflað úr sjúkraskrá tvö hundruð fimmtíu og eins sjúklings með krabbamein sem fékk slökunarmeðferð frá janúar 2007 til ágúst 2008. Gerður var tölfræðilegur samanburður á tíðni, fjölda og styrk einkenna hjá sjúklingum fyrir og eftir slökunarmeðferð.

Niðurstöður: Niðurstöður sýndu marktækt færri sjúklinga með einkenni, meðalfjöldi einkenna var marktækt lægri og meðalstyrkur allra einkenna á ESAS mælitækinu var marktækt minni eftir slökun. Mest fækkaði sjúklingum sem fundu fyrir vanlíðan úr 92% í 59%, með kvíða úr 78% í 59%, með þreytu úr 87% í 65% og með mæði úr 60% í 40%. Fyrir slökunarmeðferð var meðalfjöldi (SF) einkenna 6,2±2,2 og þeim fækkaði í 4,8±2,8 (p<0,01) eftir meðferð. Meðalstyrkur einkenna lækkaði mest fyrir vanlíðan úr 3,8 í 1,8 (p<0,01), þreytu úr 3,9 í 1,9 (p<0,01) og kvíða úr 3,5 í 1,5 (p<0,01).

Ályktanir: Álykta má að slökunarmeðferðin hafi haft jákvæð og að minnsta kosti tímabundin áhrif til þess að draga bæði úr tíðni og styrk einkenna sem eru algeng hjá sjúklingum með krabbamein.

 

E 191 Fjórlitnun í BRCA2 brjóstakrabbameinum

Ásta Björk Jónsdóttir1, Ólafur Andri Stefánsson1, Jóhannes Björnsson2,3, Jón G. Jónasson2,3,4, Helga M. Ögmundsdóttir1,2, Jórunn E. Eyfjörð1,2

1Rannsóknastofu í krabbameinsfræðum HÍ, 2læknadeild HÍ, 3rannsóknastofu í meinafræði Landspítala, 4Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands

ABJ26@hutchison-mrc.cam.ac.uk

Inngangur: Fjórlitnun og fjöllitnun getur orðið til í frumum sem ekki hafa gengið í gegnum eðlilega frumuskiptingu. Þess konar litningaóstöðugleiki er algengur í krabbameinsfrumum. Við höfum sýnt fram á að frumur sem arfblendnar eru fyrir BRCA2geninu hafa lengri frumuskiptingatíma en þær frumur sem ekki bera BRCA2stökkbreytingu og að BRCA2 próteinið safnast fyrir í skiptimiðju fruma sem eru að ljúka mítósu, sem gefur til kynna að próteinið taki þátt í lokaskrefum frumuskiptingaferilsins. Í þessari rannsókn bárum við saman litnun (fjölda eintaka litninga) BRCA2 stökkbreyttra brjóstaæxla við stök brjóstakrabbameinstilfelli.

Efniviður og aðferðir: Flæðigreinigögn á brjóstakrabbameinssýnum, sem áður höfðu verið stökkbreytigreind með tilliti til BRCA2 999del5stökkbreytingar, voru greind og litnun brjóstakrabbameinsæxla sem voru BRCA2stökkbreytt (n=71) borin saman við pöruð stök æxli (n=165). Munur á litnun æxlanna var borinn saman við undirflokkun þeirra samkvæmt mótefnalitun á vefjasneiðum á örflögum (tissue microarrays (TMA)).

Niðurstöður: Þegar á heildina var litið var engin marktækur munur á milli litnunar BRCA2-æxla og stakra tilfella. Fjórlitnun var aftur á móti marktækt 2,9 sinnum algengari í BRCA2-æxlum en stökum tilfellum (P-gildi 0,029). Fjórlitnun í BRCA-æxlum tengdist luminal svipgerð, en meðal stakra æxla var fjórlitnunum tengd þríneikvæðri svipgerð.

Ályktanir: Aukin tíðni fjórlitnunar í BRCA2stökkbreyttum brjóstakrabbameinum er hugsanlega tengd óeðlilegum frumu–skiptingum, sér í lagi galla við aðskilnað dótturfrumna í lokaskrefum frumuskiptingahringsins.

 

E 192 Áhrif BRCA2 kímlínustökkbreytingar á krabbameinsmyndun og sjúkdómsframvindu

Ólafur Andri Stefánsson1,2, Jón Gunnlaugur Jónasson2,3, Hörður Bjarnason1,2, Kristrún Ólafsdóttir3, Óskar Þór Jóhannsson4, Sigríður Klara Böðvarsdóttir1,2, Sigríður Valgeirsdóttir5, Jórunn Erla Eyfjörð1,2

1Rannsóknastofu í krabbameinsfræðum, 2læknadeild HÍ, 3rannsóknastofu HÍ í meinafræði, 4krabbameinsdeild Landspítala, 5Roche Nimblegen á Íslandi

jorunne@hi.is

Inngangur: Arfgengar breytingar í BRCA2 geni auka áhættu á brjóstakrabbameini í konum og körlum og illvígu krabbameini í blöðruhálskirtli. Skilningur á hlutverki BRCA2 við krabbameinsmyndun er mikilvægur við áhættumat og þróun meðferðarúrræða. Fyrri rannsóknir okkar bentu til að íslensk BRCA2 stökkbreyting, 999del5, hefði breytilega sýnd og tjáningu. Við höfum áður nýtt örgreiningatækni til að greina brjóstaæxli með tilliti til fjöldabreytinga og sjúkdómshorfa og meðal annars sýnt fram á að BRCA2 æxli skiptist í tvo undirhópa. Hér gerum við nákvæmar fíngreiningar á BRCA2 brjóstaæxlum til að auka skilning á æxlisframvindu í BRCA2 arfberum

Efniviður og aðferðir: Brjóstakrabbameinsæxli úr 34 arfberum BRCA2 999del5 stökkbreytingar voru skoðuð með tilliti til DNA fjöldabreytinga á aCGH (array comparative genomic hybridization) örflögum með hárri upplausn (385 þúsund þreifarar, það er ~1 fyrir hver 7kbp), og tjáningar á genum tengdum svipgerð á TMA (tissue microarrays) flögum.

Niðurstöður: Við sýnum að BRCA2 æxli af luminal svipgerð annars vegar og basal/þríneikvæðum (triple-negative phenotype, TNP) svipgerð hins vegar eru ólík með tilliti til DNA fjöldabreytinga og tjáningar á pRb/p16. Þetta gefur til kynna að æxlisframvinduferlar séu ekki þeir sömu. Tap á villigerðar samsætu BRCA2tengdist vaxtaryfirburðum BRCA2 æxla sem tjá luminal erfðamörk á meðan þetta er sjaldgæfara í æxlum af basal/TNP svipgerð. Ennfremur sýnum við fram á að úrfelling á villigerðar samsætu BRCA2 á 13q er hluti af stærra tengslaneti erfðabreytinga sem inniheldur úrfellingar á 6q og 11q ásamt mögnun á 1q. DNA fjöldabreytingar á þessum svæðum tengjast hraðari æxlisframvindu og meinvarpamyndun.

Ályktanir: Niðurstöður gefa til kynna að tap á villigerðar samsætu BRCA2sé ekki nauðsynlegt til að æxlismyndun eigi sér stað, en gegni hins vegar mikilvægu hlutverki við þróun æxla í átt að illvígari meinum í BRCA2 arfberum.

 

E 193 Tap á BRCA2 villigerðarsamsætu í brjósta-, blöðruháls- og briskrabbameinum í arfberum 999del5 kímlínu­stökk­breytingar og DNA viðgerðarhæfni í arfblendum brjóstaþekjufrumum

Hörður Bjarnason1, Ólafur Andri Stefánsson1, Jón Gunnlaugur Jónasson2, Hólmfríður Hilmarsdóttir1, Jórunn Erla Eyfjörð1, Sigríður Klara Böðvarsdóttir1

1Rannsóknarstofu í krabbameinsfræðum HÍ, 2meinafræðideild Landspítala, læknadeild HÍ og Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands

hob3@hi.is

Inngangur: Ættlægar stökkbreytingar í BRCA2 geni auka verulega líkur á krabbameini í brjóstum og eggjastokkum. Á Íslandi finnst kímlínustökkbreytingin 999del5 í BRCA2geni í um 6-7% greindra brjóstakrabbameina. BRCA2tekur þátt í viðgerðum á tvíþátta DNA brotum og er leið krabbameins-myndunar talin vera óvirkjun á heilbrigða eintaki gensins sem valdi vanvirkum DNA viðgerðum og þar með upp-söfnun stökkbreytinga. Markmið rannsóknarinnar er að sannreyna hvort brottfall heilbrigðu BRCA2 samsætunnar sé afgerandi í ættlægum BRCA2krabbameinum og að kanna viðgerðavirkni BRCA2 prótínsins í arfblendnu ástandi.

Efniviður og aðferðir: DNA úr ferskfrosnum og paraffíninnsteyptum brjósta-, blöðruháls- og brisæxlum. Brjóstaþekju-frumulínur, ýmist arfblendnar eða án 999del5 BRCA2 stökkbeytingar. TaqMan aðferð er notuð til að bera saman hlutfallslegt magn stökkbreyttrar og villigerðar BRCA2samsætu innan æxla. Frumulínur eru ræktaðar með og án mítómýsín C (MMC) sem veldur DNA krosstengslum.

Niðurstöður: Samsætusértækar TaqMan niðurstöður sýna að í brjósta-, blöðruháls- og brisæxlum 999del5 arfbera er merkjanleg úrfelling villigerðarsamsætunnar aðeins í um helmingi æxlanna. Skert DNA viðgerðarhæfni í BRCA2 arfblendnu frumunum eftir MMC meðhöndlun var sýnileg á fjölgun litningabrota og myndun geislalitninga.

Ályktanir: Niðurstöður um að tap á heilbrigða eintaki BRCA2sé ekki til staðar í æxlum um helmings arfbera gefa hugmyndir um að algert tap á villigerð BRCA2 sé ekki endilega forsenda æxlismyndunar, heldur getur verið síðbúinn atburður. Meðhöndlun frumulína með MMC sýnir að BRCA2arfblendnar frumur eiga erfitt með að gera við DNA brot sem getur skýrt aukna áhættu á æxlismyndun án þess að algert tap verði á BRCA2.

 

E 194 Gallar í litningaendum í BRCA2 stökkbreyttum brjóstaæxlum og frumulínum

Sigríður Klara Böðvarsdóttir1, Hörður Bjarnason1, Margrét Steinarsdóttir2, Jórunn Erla Eyfjörð1

1Rannsóknastofu í krabbameinsfræðum HÍ, 2litningarannsóknum, erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala

skb@hi.is

Inngangur: Litningaóstöðugleiki er algengur í brjóstaæxlum, einkum þeim sem bera ættlæga stökkbreytingu í BRCA2 geni. Prótín sem taka þátt í DNA viðgerð, líkt og BRCA2, hafa oft hlutverki að gegna við pökkun litningaenda í D-lykkju sem kemur í veg fyrir skynjun þeirra sem tvíþátta DNA brot. Galli í pökkun litningaenda leiðir til þess að frumur viðhalda litningaendum með endurröðun (alternative lenthening of telomeres; ALT) óháð telomerasa. Markmið verkefnisins er að kanna stöðugleika litningaenda í brjóstaæxlum og brjóstafrumulínum sem bera stökkbreytingu í BRCA2 geni.

Efniviður og aðferðir: Tíðni endatenginga milli litninga er metin í brjóstaæxlum og brjóstafrumulínum með BRCA2 stökkbreytingu. FISH greining er gerð á litningaendum í BRCA2 arfblendnum brjóstafrumulínum til að meta galla í þeim og millivíxl metin með stefnuháðri FISH aðferð (CO-FISH).

Niðurstöður: Tíðni endatenginga milli litninga reynist marktækt meiri í BRCA2 stökkbreyttum brjóstaæxlum. Þetta fæst staðfest með telomere-FISH greiningu á BRCA2 arfblendnum brjóstafrumulínum þar sem einnig koma fram brotgjarnir litningendar utan litninga. CO-FISH greining sýnir fram á tíð millivíxl milli litningenda þar sem leiðandi DNA þátturinn er ríkjandi, líkt og í ALT jákvæðum frumum.

Ályktanir: Niðurstöður um endatengingar litninga benda til þess að BRCA2 prótínið hafi hlutverki að gegna við pökkun litningaenda. Niðurstöður um tíð millivíxl milli litningaenda og vísbendingar um telomer raðir utan litninga benda til þess að BRCA2arfblendar frumur noti að einhverju leyti ALT ferlið til að viðhalda litningaendum þrátt fyrir telomerasa tjáningu. BRCA2 hefur því líklega einnig hlutverki að gegna við bælingu á millivíxlum milli litningaenda.

 

E 195 Greiningar á DNA skemmdum af völdum útfjólublárra geisla með tvívíðum rafdrætti

Bjarki Guðmundsson1,2, Wendy Dankers1, Hans G. Þormar1,2, Jón Jóhannes Jónsson1,3

1Lífefna- og sameindalíffræðistofu HÍ, 2Lífeind ehf., 3erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala

bjarkigu@hi.is

Inngangur: Geislun af völdum útfjólublás ljóss (UVA 315-400 nm og UVB 290-315 nm) er ein helsta orsök húðkrabbameina. Þrjár algengustu gerðir DNA skemmda af völdum UV geislunar eru cýklóbútan pyrimídín tvennd (CPD), (6-4) ljósskemmd og Dewar skemmd en þær eru allar basabreytingar og valda bognun á DNA sameindum. Við prófuðum að nota tvívíðan rafdrátt til að greina skemmdir í flóknum DNA sýnum og frumuræktum meðhöndluðum með UV geislum.

Efniviður og aðferðir:Hreinsað DNA var skorið með MboI og geislað með UVB (5-30 J/cm2) í dropum á Petri skál. HeLa frumur voru einnig UVB geislaðar (15-45 J/cm2), DNA var einangrað úr þeim og það skorið með MboI. Sýnin voru greind með tvívíðum þáttaháðum rafdrætti (2D-SDE) og tvívíðum lögunarháðum rafdrætti (2D-CDE). AvaI skorið lambda DNA var meðhöndlað með UVA (44 J/cm2) og greint á sama hátt.

Niðurstöður: UVB skemmt DNA færðist fyrir framan tvíþátta DNA á 2D-CDE eins og vænta mátti því basaskemmdirnar valda bognun á DNA sameindum. UVA geislun á lambda DNA olli einnig myndun búta sem færðust fram fyrir boga af tvíþátta DNA með 2D-SDE. Greining á UVB meðhöndluðu DNA með 2D-SDE sýndi hins vegar óvænt nýjan DNA boga sem var staðsettur fyrir aftan bogann fyrir tvíþátta DNA. Hlutfall aftari bogans jókst með auknum UVB skammti. Sami bogi sást í erfðaefni fruma sem voru UVB geislaðar.

Ályktanir: 2D-SDE og 2D-CDE eru hentugar aðferðir til að greina DNA skemmdir vegna UV geislunar. DNA boginn af völdum UVB geislunar sem færist fyrir aftan tvíþátta DNA á 2D-SDE hegðar sér líkt og DNA með A helix byggingu. Slíkri byggingarbreytingu hefur ekki verið lýst áður. Hugsanlega valda basaskemmdir eða oxun dexóyríbósa í ríbósa því að DNA myndi A helix. Verið er að kanna þessar tilgátur frekar.


E 196 Metýlering á Alu-röðum og stýrli MLH1-gens í ristilkrabbameinsfrumum

Jing Fan1, Xiying Wang1, Dong Liu1, Siqing Fu1,Sigurður Ingvarsson2, Huiping Chen1

1Dept. of Medical Genetics, Tongji Medical College, Huazhong University of Science and Technology, Wuhan, Hubei, Kína, 2Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum og læknadeild HÍ

siguring@hi.is

Inngangur: Alu-endurteknar raðir í erfðamenginu eru taldar vera miðstöðvar metýleringar og í eðlilegum frumum eru Alu-raðirnar yfirmetýleraðar. Vísbendingar eru um að metýlering geti dreifst frá slíkum miðstöðvum yfir á stýrilröð gena, einkum í æxlisfrumum. Afurð MLH1-gens gegnir lykilhlutverki í mispörunarviðgerðum og þar með við stöðugleika erfðamengisins. Metýlering á stýrilröð MLH1 er algeng í ákveðnum æxlisgerðum og veldur lækkaðri tjáningu á geninu. Ekki er vitað hvernig þessi metýlering fer fram. Fyrri rannsóknir okkar benda til að ákveðin MLH1 arfgerð í -93 stöðu gensins hafi áhrif á metýleringuna. Markmið núverandi rannsóknar er að varpa ljósi á hvort metýlering á þremur Alu-röðum innan MLH1-gensins eigi þátt í metýleringu á stýrli sama gens.

Efniviður og aðferðir: Notuð var bisulfite raðgreining til að greina CpG raðir á 5' enda (stýrill, útröð 1 og innröð 1 sem inniheldur þrjár Alu-raðir) MLH1-gens í eðlilegri þarmaslímhúð, blóðfrumum og tveimur ristilkrabbameinsfrumulínum, RKO og SW48.

Niðurstöður: Kortlagning fékkst á mynstri metýleringar Alu-raða í 5'-enda MLH1 í eðlilegri þarmaslímhúð, blóðfrumum og ristilkrabbameinsfrumulínum. Yfirmetýlering á Alu-röðum greindist í eðlilegu frumunum og svæðið milli Alu-raða og stýrils voru ekki eða lítið metýleraðar í þeim frumum. Undirmetýlering á Alu-röðum, einkum tveimur þeirra og yfirmetýlering á stýrli og á svæðum milli stýrils og Alu-raða greindist í RKO og SW48 frumulínum.

Ályktanir: Metýlering Alu-raða í fyrstu innröð MLH1-gens getur borist yfir á MLH1 stýril í ristilkrabbameinsfrumulínunum RKO og SW48.

 

E 197 Snemmkomnir fylgikvillar eftir lokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi 2002-2006

Inga Lára Ingvarsdóttir1,Sólveig Helgadóttir1, Ragnar Danielsen1,2, Tómas Guðbjartsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2hjartadeild, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

ili1@hi.isv

Inngangur: Ósæðarlokuskipti er önnur algengasta hjartaaðgerðin og eru ósæðarlokuþrengsli algengasta ábendingin. Tilgangur rannsóknarinnar var að gera ítarlega rannsókn á árangri ósæðarlokuskipta vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Aftursæ rannsókn sem náði til allra sjúklinga með ósæðarlokuþrengsl er gengust undir ósæðarlokuskipti á Landspítala á árunum 2002-2006, samtals 156 einstaklinga. Sleppt var 29 sjúklingum sem fóru í aðgerð vegna ósæðarlokuleka eða höfðu áður farið í hjartaaðgerð. Meðalaldur var 71,7 ár (bil 41-88) og karlar 64,7%. Skráðir voru áhættuþættir og fylgikvillar aðgerðanna, þar á meðal skurðdauði, en einnig niðurstöður hjartaómunar fyrir og fyrst eftir aðgerð.

Niðurstöður: Algengustu einkenni voru mæði (80,8%) og hjartaöng (52,6%), en 11 sjúklingar voru án einkenna. Fyrir aðgerð var hámarksþrýstingsfall (DP) að meðaltali yfir lokuna 74,1 mmHg, útfallsbrot (EF) 57% og EuroScore 9,6%. Meðal aðgerðar- og tangartími voru 282 og 124 mínútur. Ríflega helmingur sjúklinganna gekkst samtímis undir kransæðahjáveitu og níu undir aðgerð á míturloku. Lífrænni loku var komið fyrir í 127 aðgerðanna (81,4%), í 102 tilvikum án grindar (stentless), og gerviloka hjá 18,6% sjúklinganna. Meðalstærð ígræddra loka var 25,6 mm (bil 21-29) og hámarksþrýstingsfallandi yfir nýju lokuna viku frá aðgerð 28,1 mmHg. Algengustu fylgikvillar eftir aðgerð voru nýtilkomið gáttatif (64%) og nýrnaskaði (32%) en 19 sjúklingar (12,2%) fengu fjöllíffærabilun. Enduraðgerð vegna blæðingar þurfti í 12% tilfella. Miðgildi legutíma var 13 dagar, þar af einn á gjörgæslu. Skurðdauði (<30 d.) var 6,4%.

Ályktanir: Fylgikvillar eru tíðir eftir ósæðarlokuaðgerðir, sérstaklega gáttatif og nýrnaskaði en einnig blæðingar sem oft krefjast enduraðgerðar. Skurðdauði er helmingi hærri en eftir kransæðahjáveituaðgerðir, sem er í samræmi við aðrar rannsóknir.

 

E 198 Enduraðgerðir vegna blæðinga eftir opnar hjartaskurðaðgerðir á Íslandi. Tíðni, fylgikvillar og afdrif sjúklinga

Njáll Vikar Smárason1, Hannes Sigurjónsson2, Kári Hreinsson3, Þórarinn Arnórsson2, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2hjarta-og lungnaskurðdeild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala

nvs1@hi.is

Inngangur: Blæðing er algengur fylgikvilli opinna hjartaaðgerða. Í alvarlegum tilfellum getur þurft að taka sjúklinga aftur á skurðstofu til að stöðva blæðinguna. Tíðni og afdrif í kjölfar enduraðgerðar er ekki þekkt hér á landi og er tilgangur rannsóknarinnar að bæta úr því.

Efniviður og aðferðir: Sjúklingar 18 ára og eldri sem gengust undir enduraðgerð vegna blæðinga eftir opna hjartaskurðaðgerð á tímabilinu 2000-2005 voru fundnir eftir tveimur aðskildum skrám. Úr sjúkraskrám voru meðal ananrs skráð lyf sjúklings fyrir aðgerð, blóðgjafir, fylgikvillar og legutími.

Niðurstöður: Alls voru gerðar 103 enduraðgerðir (meðalaldur 67,9 ár, 75 karlar) sem er 8% hjartaaðgerða á tímabilinu. Þriðjungur sjúklinganna tóku acetýlsalicýlsýru og átta klópídógrel síðustu fimm dagana fyrir aðgerð. Meðalblæðing í upphafi enduraðgerðar var 1523 ml (bil 300-4.780ml) og á fyrsta sólarhring 3942 ml (bil 690-10.740ml). Helmingur sjúklinganna var tekinn í enduraðgerð innan tveggja klst. og 97% innan sólarhrings frá upprunalegri aðgerð. Samtals voru gefnar 16,5 ein af rauðkornaþykkni, 15,6 ein af plasma og 2,3 sett af blóðflögum. Helstu fylgikvillar eftir aðgerð voru hjartsláttaróregla, fleiðruvökvi sem þurfti að tæma, hjartadrep og sýking í bringubeinsskurði. Miðgildi legutíma var 14 dagar (bil 6-85 dagar), þar af tveir dagar (bil 1-38 dagar) á gjörgæslu. Alls létust 16 sjúklingar (15,5%) £30 daga frá aðgerð en 79,6% sjúklinganna voru á lífi ári eftir aðgerð.

Ályktanir: Tíðni enduraðgerða vegna blæðinga (8%) er í hærra lagi hér á landi, án þess að skýringin á því sé þekkt. Um er að ræða hættulegan fylgikvilla sem lengir legutíma og getur dregið sjúklinga til dauða. Kostnaður er einnig verulega aukinn vegna blóðgjafa. Því er mikilvægt að leita lausna til að draga úr blæðingum og um leið fækka enduraðgerðum.

 

E 199 Bringubeinsfistlar eftir opnar hjartaskurðaðgerðir, tíðni, áhættuþættir og horfur

Steinn Steingrímsson1,3, Tómas Guðbjartsson1,3, Ronny Gustafsson2, Arash Mokhtari2, Richard Ingemansson2, Johan Sjögren2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala og 2Háskólasjúkrahússins á Skáni, Svíþjóð, 3læknadeild HÍ

steinnstein@gmail.com

Inngangur: Bringubeinsfistlar er alvarlegur en fátíður fylgikvilli opinna hjartaaðgerða. Erfitt er að uppræta þessa fistla og oft þörf á langvarandi sýklalyfjameðferð og endurteknum skurðaðgerðum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna tíðni þessara fistla, skilgreina áhættuþætti og kanna afdrif og lifun sjúklinganna.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á framsýnum gagnagrunni hjartaskurðdeildar Háskólasjúkrahússins á Skáni, eða 12.297 opnum hjartaaðgerðum frá 1999-2008. Af þeim greindust 30 sjúklingar með bringubeinsfistil. Fjölþátta aðhvarfsgreining var notuð við mat á áhættuþáttum og 120 (4:1) sjúklingar án fistla notaðir sem samanburðarhópur.

Niðurstöður: Tíðni bringubeinsfistla var 0,23% einu ári frá aðgerð. Meðaldur sjúklinga var 68 ár, þar af 77% karlar. Flestir, eða 63%, höfðu farið í kransæðahjáveituaðgerð og 20% í ósæðarlokuskipti. Helstu áhættuþættir fistla voru fyrri saga um sýkingu í bringubeinsskurði (Áhættuhlutfall (odds ratio (OR))=15,7, p-gildi=0,002), nýrnabilun (OR=12,5, p<0,001), reykingar (OR=4,7, p=0,01) og þegar beinvax var notað í upphaflegu aðgerðinni (OR=4,2, p=0,02). Sárasugu var beitt í 20 alvarlegustu tilfellunum og létust tveir sjúklingar meðan á meðferð stóð. Fimm ára heildarlifun sjúklinga með fistla var 58% borið saman við 85% í viðmiðunarhóp (p=0,003).

Ályktanir: Dánartíðni er aukin hjá sjúklingum með bringubeinsfistla og fylgikvillar tíðir. Fyrri sýking í bringubeinsskurði og nýrnabilun eru langmikilvægustu áhættuþættirnir. Fæstir hafa þó fyrri sögu um sýkingu í bringubeini, sem bendir til að í þorra tilfella sé um síðbúna sýkingu að ræða í kringum stálvíra sem halda saman bringubeininu. Á síðari árum hefur sárasuga reynst vel í meðferð þessara sjúklinga.

 

E 200 Framsýn rannsókn á skurðsýkingum eftir 246 opnar hjartaaðgerðir

Helga G. Hallgrímsdóttir1, Magnús Gottfreðsson2, Tómas Guðbjartsson3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2smitsjúkdómadeild Landspítala, 3læknadeild HÍ

helgahal@landspitali.is

Inngangur: Í framsýnni rannsókn á Landspítala árið 2007 kom óvænt í ljós að tíðni skurðsýkinga á ganglim eftir bláæðatöku við kransæðahjáveituaðgerðir var óvenjuhá, eða 23,1%. Í kjölfarið var ákveðið að yfirfara verkferla, meðal annars húðþvott og frágang umbúða. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvernig til tókst, en í þetta sinn á heilu ári og í ferfalt stærra þýði en í fyrri rannsókn. Einnig var markmiðið að kanna tíðni sýkinga í bringubeinsskurði.

Efniviður og aðferðir: Framsýn rannsókn sem tók til allra sjúklinga sem gengust undir opna hjartaaðgerð á Landspítala á 12 mánaða tímabili, 2008-2009, samtals 246 einstaklinga (191 karl, meðalaldur 66,5 ár). Flestir (60,1%) gengust undir kransæðahjáveitu (CABG/OPCAB), ósæðalokuskipti (11,4%) eða báðar aðgerðirnar saman (13,4%). Skurðsár voru metin á öðrum, fjórða, sjötta og sjöunda degi þegar sjúklingar lágu inni. Einnig var haft samband við alla sjúklinga nema þrjá símleiðis, 30 dögum frá útskrift. Skurðsár voru skilgreind samkvæmt staðli CDC og bornir saman sjúklingar með og án sýkingar.

Niðurstöður: Alls greindist 31 sjúklingur með skurðsýkingu (12,6%) og voru 16 þeirra í bringubeinsskurði (6,5%), þar af fimm djúpum með miðmætisbólgu (2%). Nítján sjúklingar af 184 sem fóru í bláæðatöku á ganglim greindust með sýkingu (10,3%) og voru 90% þeirra yfirborðssýkingar. Sýkingar eftir bláæðatöku greindust á 24. degi frá aðgerð (miðgildi) og voru þá 20% sjúklinga inniliggjandi. Sambærilegar tölur fyrir bringubeinssýkingar voru 20,5 dagar og 41,7%. Algengustu sýkingavaldarnir voru kóagúlsa neikvæðir stafýlókokkar (35,5%) og Staphylococcus aureus (35,5%). Legutími var marktækt lengri hjá sjúklingum með sýkingu í bringubeini en ganglim (17,1 á móti 9 dögum, p=0,006).

Ályktanir: Skurðsýkingar eru töluvert vandamál eftir opnar hjartaaðgerðir og reyndust mun algengari á ganglim eftir bláæðatöku (10,3%) en á brjóstholi (6,5%). Ljóst er að tíðni þessara sýkinga á ganglim hefur lækkað um helming frá fyrri rannsókn, en tíðni djúpra bringubeinssýkinga (2,0%) er svipuð og í eldri rannsókn (2,5%).

 

E 201 Algengi gáttatifs á Íslandi í dag og spá fyrir næstu fjóra áratugi

Hrafnhildur Stefánsdóttir1, Thor Aspelund2,3, Vilmundur Guðnason2,3, Davíð O. Arnar1,3

1Landspítala, 2Hjartavernd, 3Háskóla Íslands

hrafnhildurstef@gmail.com

Inngangur: Gáttatif hefur alvarlega fylgikvilla og því fylgir mikill kostnaður. Sjúkdómurinn verður algengari með hækkandi aldri. Markmið rannsóknarinnar var að kanna umfang gáttatifs hér á landi og spá fyrir um framtíðarþróun með upplýsingum um nýgengi og dánarlíkur. Slík spá hefur ekki verið birt áður fyrir þjóð í Evrópu.

Efniviður og aðferðir: Leitað var að öllum höfuðborgarbúum 20-99 ára með greininguna gáttatif á Landspítalanum 1987-2008. Við höfum áður sýnt að 1991-2008 jókst nýgengi gáttatifs á höfuðborgarsvæðinu um 0,1% (95% CI: -0,6-0,9) hjá körlum og 0,9% (95% CI: 0,1-1,8) hjá konum. Sett var upp líkan byggt á nýgengi gáttatifs, mannfjölda og dánarlíkum til að spá fyrir um algengi gáttatifs fram til 2050. Mannfjöldaspá frá Hagstofunni var notuð til að meta fjölda Íslendinga til 2050. Dánarlíkur voru annars vegar miðaðar við 2008 og hins vegar við spá Hagstofunnar um þróun á dánarlíkum.

Niðurstöður: Algengi gáttatifs hjá 20-99 ára höfuðborgarbúum var 1,9% árið 2008. Það svarar til að á Íslandi hafi 4.264 manns greinst með gáttatif. Spáð er að árið 2050 verði fjöldinn 10.617 ef nýgengi gáttatifs og dánarlíkur haldast óbreytt frá 2008. Ef nýgengi heldur áfram að hækka yrði fjöldinn 12.115 og ef dánarlíkur breytast til viðbótar yrði hann 13.612. Árið 2008 voru 32% gáttatifssjúklinga 80 ára eða eldri, en 2050 verða það 50%. Aukningin í fjölda einstaklinga með gáttatif frá 2000 til 2050 er 219% en á sama tíma er spáð að þjóðinni í heild fjölgi um 37%.

Ályktanir: Gáttatif er algengur sjúkdómur hér á landi. Spáð er að fjöldi Íslendinga með gáttatif muni þrefaldast næstu fjóra áratugi. Aukingin er hlutfallslega sex sinnum meiri en hjá þjóðinni í heild. Sífellt stærri hluti sjúklingahópsins verður háaldraður. Því er ljóst að byrði gáttatifs á samfélaginu mun fara vaxandi.

 

E 202 Gáttatif eftir opnar hjartaaðgerðir á Íslandi

Sólveig Helgadóttir1, Inga Lára Ingvarsdóttir1, Sæmundur J. Oddsson1, Hannes Sigurjónsson1, Martin Ingi Sigurðsson1, Þórarinn Arnórsson1, Davíð O. Arnar2,3, Tómas Guðbjartsson1,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2hjartadeild Landspítala, 3læknadeild HÍ

soh2@hi.is

Inngangur: Gáttatif er algengt vandamál eftir opnar hjartaaðgerðir. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni gáttatifs eftir hjartaaðgerðir hér á landi, skilgreina áhættuþætti og meta fylgikvilla.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var aftursýn og náði til sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveitu- (n=638) og/eða ósæðarlokuskiptaaðgerð (n=128) á Landspítala 2002-2006. Sjúklingum sem gengust undir aðrar hjartaaðgerðir eða höfðu þekkt gáttatif fyrir aðgerð var sleppt. Gáttatif var greint með hjartalínuriti eða hjartarafsjá, stóð í að minnsta kosti mínútur, og/eða sjúklingur fékk lyfjameðferð við gáttatifi. Ein- og fjölþáttagreining var notuð til samanburðar áhættuþátta sjúklinga með gáttatif og þeirra með reglulegan hjartslátt.

Niðurstöður: Tíðni gáttatifs fyrir allan hópinn var 44% og reyndist marktækt hærri eftir ósæðarlokuskipti en hjáveituaðgerð (72% miðað við 38%, p<0,001). Útfallsbrot (EF) og helstu áhættuþættir kransæðasjúkdóms voru sambærilegir í báðum hópum, sem og notkun ß-blokkera. Sjúklingar með gáttatif voru hins vegar sjaldnar á blóðfitulækkandi lyfjum, oftar með hjartabilun, marktækt eldri, oftar konur og með hærra EuroSCORE. Vélar- og tangartími þeirra var lengri og tíðni bæði alvarlegra og minni fylgikvilla hærri. Loks var legutími þeirra helmingi lengri og dánartíðni rúmlega fimmföld (0,9% sbr. 4,8%, p=0,002). Í fjölbreytugreiningu reyndust ósæðarlokuskipti (OR 4,2), heilkenni bráðrar andnauðar (OR 6,0), hár aldur (OR 1,1) og hjartabilun (OR 1,8) sjálfstæðir áhættuþættir gáttatifs.

Ályktanir: Gáttatif er algengasti fylgikvilli hjartaaðgerða hér á landi og greinist hjá næstum helmingi sjúklinga. Þetta er frekar hátt hlutfall en í erlendum rannsóknum er tíðni gáttatifs oftast á bilinu 17-35%. Áhættuþættir hérlendis eru svipaðir og lýst hefur verið í öðrum rannsóknum.

 

E 203 Ómega-3 fjölómettaðar fitusýrur, bólguþættir og áhætta á gáttatifi eftir hjartaskurðaðgerð

Lára Björgvinsdóttir1,2, Ólafur Skúli Indriðason3, Ragnhildur Heiðarsdóttir1.2, Davíð O. Arnar2,4, Bjarni Torfason2,5, Runólfur Pálsson2,3, Kristin Skogstrand6, David M. Hougaard6, Guðrún V. Skúladóttir1,2

1Lífeðlisfræðistofnun, 2læknadeild HÍ, 3nýrnalækningaeiningu, 4rannsóknastöð hjartasjúkdóma og hjartalækningaeiningu, 5brjóstholsskurðlækningadeild Landspítala, 6Dept. of Clinical Biochemistry Statens Serum Institut, Kaupmannahöfn

lab3@hi.is

Inngangur: Gáttatif er algeng hjartsláttartruflun eftir opna hjartaaðgerð. Hár aldur, flókin aðgerð og bráð bólgusvörun eru talin auka áhættu á gáttatifi eftir slíka aðgerð. Ómega-3 fjölómettuðu fitusýrurnar (FÓFS), eikósapentaensýra (EPA) og dókósahexaensýra (DHA) eru forverar hemjandi bólguþátta og ómega-6 FÓFS arakidónsýra (AA) er forveri bæði hvetjandi og hemjandi bólguþátta. Markmið rannsóknarinnar var að kanna samband hlutfalls þessara FÓFS í himnum rauðra blóðkorna (RBK) og styrks ýmissa hvetjandi og hemjandi bólguþátta og tengsl þessara þátta við tilkomu gáttatifs eftir opna hjartaskurðaðgerð.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggðist á 168 sjúklingum sem gengust undir opna hjartaskurðaðgerð á Landspítala. Viku fyrir aðgerð voru blóðsýni tekin úr sjúklingum og hlutfall fitusýra í himnum rauðra blóðkorna ákvarðað og styrkur bólguþátta í blóðvökva mældur með ELISA-aðferð. Endapunktur rannsóknarinnar var gáttatif sem stóð í meira en 5 mínútur.

Niðurstöður: Sjúklingar sem fengu gáttatif (54,2%) voru eldri en þeir sem fengu ekki gáttatif (69 ára; spönn 45-82 ára) samanborið við 65 ára (43-79; P<0,001). Að meðaltali var hlutfall bæði EPA og DHA í himnum rauðra blóðkorna tiltölulega hátt. Enginn munur var á hlutfalli AA, EPA og DHA í himnum rauðra blóðkorna eða á styrk hvetjandi eða hemjandi bólguþátta hjá sjúklingum sem fengu gáttatif og þeirra sem ekki fengu gáttatif. Jákvæð tengsl voru milli hlutfalls AA og styrks hvetjandi bólguþáttarins TNF-ß (r=0,208, P<0,01) og neikvæð tengsl voru á milli hlutfalls DHA og styrks hvetjandi bólguþáttarins IL-18 (r=-0,252; P<0,01).

Ályktanir: Tíðni gáttatifs eftir opna hjartaskurðaðgerð á Íslandi er há eins og erlendis. Tíðnin virðist óháð styrk ómega-3 FÓFS í himnum RBK. Ómega-3 FÓFS virðast hafa áhrif á bólgusvörun en tengsl bólguþátta við gáttatif þarf að rannsaka betur.

 

E 204 Afturvirk lýsandi rannsókn á breytingum á áhættuþáttum hjá kransæðasjúklingum sem fengið hafa hjúkrunarmeðferð á göngudeild kransæðasjúklinga

Inga Valborg Ólafsdóttir1, Helga Jónsdóttir2, Helga Lára Helgadóttir2, Margrét Leósdóttir3

1Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild HÍ, 3Háskólasjúkrahúsinu UMAS Malmö

ingavo@landspitali.is

Inngangur: Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta orsök ótímabærs heilsubrests og dauðsfalla á Vesturlöndum, þar með talið á Íslandi. Stjórnun áhættuþátta hjá þeim sem eru í áhættuhópi og hjá þeim sem hafa greinst með sjúkdóm getur dregið úr framvindu sjúkdómsins. Gefnar hafa verið út klínískar leiðbeiningar þar að lútandi.Tilgangur þessarar afturvirku lýsandi rannsóknar var að kanna stöðu áhættuþátta hjá þeim sem sótt hafa hjúkrunarmeðferð á göngudeild kransæðasjúklinga á Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Staða áhættuþátta og lifnaðarhátta við upphaf meðferðar var borin saman við stöðu við lok hennar. Úrtakið voru 80 einstaklingar, innlagðir á hjartadeild Landspítala vegna kransæðasjúkdóms árið 2007 sem komu í tvö eða fleiri viðtöl á göngudeild kransæðasjúklinga eftir útskrift.

Niðurstöður: Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að nær allir breyttu einhverjum lifnaðarháttum á meðferðartímanum. Stór hluti sjúklinganna (77%) hafði aukið hreyfingu sína (p=0,03). Meirihluti reykingafólks (65%) hætti að reykja við innlögn á sjúkrahús og virtist ekki byrja aftur en 15% af úrtaki reykti enn í lokaviðtali (svipað og í fyrsta viðtali). Langflestir sjúklinganna voru yfir kjörþyngd (90%) og 40% voru of feitir og breyttist það ekki á meðferðartímanum. Mikill meirihluti sjúklinganna sagðist í lokaviðtali hafa breytt mataræði eftir veikindin og voru það mun fleiri en í fyrsta viðtali (p=0,001). Færri sjúklingar greindu frá streitu í lokaviðtali en í upphafi meðferðar (p=0,001). Meirihluti sjúklinganna (60%) var með of háan blóðþrýsting í fyrsta viðtali og lokaviðtali (³130/80 mmHg).

Ályktanir: Helstu ályktanir sem draga má af rannsóknarinni eru að góð breyting varð á stöðu áhættuþátta hjá þeim sem sóttu meðferð á göngudeildinni en margir þættir hefðu mátt verða betri. Auka þarf stuðning við þá sem reykja, og þá sem þurfa að léttast og bæta þarf blóðþrýstingsstjórnun.

 

 

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica