Fylgirit 66 - 15. HÍ ráðstefnan um rannsóknir

Opinn fundur fyrir almenning ágrip fyrirlestra

O 1 Bólusetningar. Ávinningur og áhætta

Þórólfur Guðnason

Sóttvarnasviði landlæknisembættisins

thorolfur@landlaeknir.is

Á undanförnum árum hefur talsverð umræða farið fram um hugsanlega skaðsemi bólusetninga en oft á tíðum minna borið á umræðu um gagnsemi þeirra.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur ályktað að almennar bólusetningar barna bjargi fleiri mannslífum og komi í veg fyrir fleiri alvarlega sjúkdóma en nokkur önnur aðgerð í heilbrigðismálum.

Á Íslandi hefur almenn þátttaka í bólusetningum ávallt verið mjög góð og hefur það leitt til þess að í dag sjást hér varla þeir sjúkdómar sem bólusett er gegn. Þegar litið er á íslenskar heilbrigðisskýrslur kemur glöggt í ljós, að flestir ofangreindir sjúkdómar hafa alfarið horfið vegna tilkomu bólusetninga.

En eru bólusetningar hættulegar? Bólusetningar valda oft vægum aukaverkunum eins og hita, roða og þrota á stungustað en alvarlegar aukaverkanir eru afar sjaldséðar. Alvarlegar aukaverkanir geta sést eftir um það bil eina af 500.000 bólusetningum sem þýðir að á Íslandi

má búast við slíkum aukaverkunum á 30-40 ára fresti. Hins vegar eru alvarlegar afleiðingar sjúkdómanna sem bólusett er gegn margfalt algengari og alvarlegri. Sem dæmi má nefna að alvarlegar afleiðingar mislinga (dauði, heilabólga og lungnabólga) sjást hjá um 10% barna sem sýkjast en engin meðferð er til í dag við sjúkdómnum.

Umræðunni um skaðsemi bólusetninga vex oft fiskur um hrygg á tímum þegar sjúkdómar sem bólusett er gegn eru sjaldséðir (vegna bólusetninganna). Umræðan er hins vegar oft á tíðum óábyrg og full af rangfærslum sem leitt getur til þess að foreldrar hætta við að láta bólusetja börn sín. Þetta leiðir gjarnan til þess að bólusetningasjúkdómar blossa upp á ný með skelfilegum, heilsufarslegum afleiðingum.

Íslenskir foreldrar hafa ávallt haft skilning á mikilvægi bólusetninga og því hefur tekist að halda mörgum alvarlegum sjúkdómum frá landinu. Mikilvægt er, að hér á landi verði áfram góð almenn þátttaka í bólusetningum, þannig að viðhaldið verði þeim góða árangri sem hér hefur náðst. Heilbrigðisyfirvöldum ber jafnframt skylda til að fylgjast vel með öryggi bólusetninga og grípa til aðgerða ef líkur eru á að alvarlegir sjúkdómar stafi af völdum þeirra.

 

 O 2 Opnar hjartaskurðaðgerðir á Íslandi

Tómas Guðbjartsson

Landspítala, Háskóla Íslands

tomasgud@landspitali.is

Fyrsta opna hjartaskurðaðgerðin var framkvæmd á Íslandi þann 16. júní 1986. Síðan hafa rúmlega 5200 hjartaaðgerðir verið framkvæmdar hér á landi en á hverju ári eru gerðar í kringum 250 hjartaaðgerðir á fullorðnum og 10-15 aðgerðir á börnum. Aðgerðunum má í grófum dráttum skipta í þrennt; kransæðahjáveituaðgerðir, aðgerðir á hjartalokum og viðgerðir á meðfæddum hjartagöllum. Kransæðahjáveituaðgerðir eru langalgengastar eða um 70% aðgerðanna. Blóðflæði til hjartans er bætt með því að tengja framhjá stíflum í kransæðum. Yfirleitt er notast við hjarta- og lungnavél og hjartað stöðvað tímabundið í aðgerðinni en einnig er hægt að gera kransæðahjáveitu á sláandi hjarta. Við hjartalokuaðgerðir er annað hvort skipt um loku, eins og við þrengsli í ósæðarloku, eða lokan lagfærð, til dæmis við míturlokuleka. Þegar skipt er um loku er annaðhvort komið fyrir gerviloku úr hertu kolefni eða loku úr svíni eða kálfi. Hjá nýburum er lokun á fósturæð, sem ekki lokast af sjálfu sér eftir fæðingu, algengasta hjartaaðgerðin, en hjá eldri börnum er algengara að loka þurfi opum á milli hjartahólfa eða lagfæra meðfædd þrengsli í ósæð.

Fyrir fimm árum hófst á Landspítala umfangsmikil rannsókn á árangri opinna hjartaskurðaðgerða sem fjöldi lækna, læknanema og hjúkrunarfræðinga hafa tekið þátt í með skipulögðum hætti. Um brýnt verkefni er að ræða þar sem fáar rannsóknir voru til áður um árangur opinna hjartaaðgerða hér á landi. Hátt í 1000 hjartaaðgerðir hafa þegar verið skráðar í rafrænan gagnagrunn og upplýsingar úr honum notaðar til að meta árangur aðgerðanna. Könnuð hafa verið afdrif sjúklinganna en einnig fylgikvillar sem komið hafa upp eftir aðgerðirnar. Sérstök áhersla hefur verið lögð á skráningu sýkinga í skurðsárum en einnig könnuð tíðni nýrnabilunar, alvarlegra blæðinga og þörf fyrir blóðgjafir. Loks hefur langtímaárangur eftir lokuskipti og kransæðahjáveituaðgerðir verið rannsakaður og bornar saman aðgerðir sem gerðar voru á sláandi hjarta og með aðstoð hjarta- og lungnavélar.

Í fyrirlestrinum verða helstu þættir rannsóknarinnar kynntir og sérstök áhersla lögð á framlag læknanema.

 

O 3 Þyngdin til rannsóknar

Laufey Steingrímsdóttir

Rannsóknastofu í næringarfræði Landspítala, matvæla- og næringarfræðideild HÍ

laufst@landspitali.is

Síðustu áratugi hefur líkamsþyngd meðal Íslendingsins aukist jafnt og þétt og æ fleiri konur, karlar og börn flokkast með offitu samkvæmt stöðlum Alþjóðaheilbrigðisstofnunar, WHO. Hér er síður en svo um séríslenskt fyrirbæri að ræða, svipaða sögu má segja um heimsbyggð víða, jafnvel í löndum þar sem næringarskortur er alvarlegur heilsuvandi meðal þeirra lægst settu.

Á sama tíma er fræðsla og hvatning um holla lífshætti á hverju strái og þrýstingur umhverfisins á grannan og stæltan líkama meiri en nokkru sinni fyrr. Auglýsingar á heilsuvörum og framboð á líkamsrækt fylla síður blaða, sem gjarnan eru prýddar myndum af vöðvastæltu og tággrönnu fólki. Væntanlega hefur sjaldan eða aldrei verið svo djúp gjá milli staðalímyndar og raunverulegrar líkamsbyggingar alls almennings og einmitt nú.

Rannsóknir á helstu orsökum þessa heimsfaraldurs eins og WHO nefnir fyrirbærið, heilsufarslegum afleiðingum hans, fylgikvillum og meðferð, svo ekki sé minnst á leiðum til að sporna við þróuninni, hafa verið áberandi við margar helstu vísindastofnanir heims síðustu áratugi. Árlega birtist fjöldi vísindagreina á þessu sviði og þar leggja vísindamenn við Háskóla Íslands sitt af mörkum. En þrátt fyrir allt það ágæta vísindastarf hefur þyngdin aukist ár eftir ár hjá æ fleirum - og nú eru góð ráð dýr. Í fyrirlestrinum verður rædd nauðsyn þess að endurskoða áherslur, aðferðir og nálgun við rannsóknir og á þessu mikilvæga lýðheilsumáli.

Vísbending um breytta þróun leynist þó meðal annars úr skólaheilsugæslu í Reykjavík sem sýnir að hlutfall barna í yfirþyngd hefur ekki aukist allra síðustu ár. Lýðheilsuverkefni í skólum á vegum sveitarfélaga, heilsugæslu, Lýðheilsustöðvar og háskóla hafa væntanlega haft sitt að segja í þeirri þróun. Þar hefur áherslan verið á heilsusamlega lífshætti og aðbúnað frekar en líkamsþyngd, og forðast að ala á megrunaráráttu eða grafa undan jákvæðri og sterkri sjálfsvitund ungs fólks. Þótt fræðsla geti sannarlega haft áhrif, benda flestar rannsóknir til þess að umhverfi fólks, skipulag bæja og borga, framboð og verðlag á hollri matvöru skipti hvað mestu máli fyrir heilsu og líkamsþyngd íbúanna.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica