Ágrip veggspjalda

Ágrip veggspjalda


V-1    Ofnæmissjúkdómar hjá ungum Íslendingum - framhaldsrannsókn

Anna Freyja Finnbogadóttir1, Björn Árdal1,2, Herbert Eiríksson1,2, Helgi Valdimarsson2,3, Björn Rúnar Lúðvíksson2,3, Ásgeir Haraldsson1,2

1Barnaspítala Hringsins, 2læknadeild HÍ, 3rannsóknastofu í ónæmisfræði, Landspítala

asgeir@lsh.is

Inngangur: Ofnæmissjúkdómar eru algeng heilbrigðisvandamál og algengið virðist vaxandi, einkum hjá börnum. Lífsgæði fólks með ofnæmissjúkdóma eru skert og fylgir þeim mikill kostnaður. Mikilvægt er að þekkja algengi ofnæmissjúkdóma og breytingar þar á.

Markmið: Að varpa ljósi á þróun ofnæmissjúkdóma hjá íslenskum börnum og unglingum.

Aðferðir: Rannsóknarhópurinn hefur fylgt eftir hópi einstaklinga frá fæðingu í um 20 ár og metið ofnæmiseinkenni og sögu með reglulegu millibili. Úrtak rannsóknarinnar voru allir sem skoðaðir voru við 18-23 mánaða aldur (179 einstaklingar) sem nú eru 21 árs. Staðlaður spurningalisti var lagður fyrir þátttakendur, gerð líkamsskoðun og húðpróf.

Niðurstöður: Þátttakendur voru 120. Alls höfðu 35 (29%) einstaklingar verið greindir með astma en 16 (13%) höfðu haft einkenni síðastliðna 12 mánuði. Alls 54 einstaklingar (45%) höfðu sögu um einkenni frá húð, níu (8%) voru með einkenni þegar rannsóknin fór fram. Sögu um ofnæmiskvef höfðu 48 (40%) og 40 (33%) höfðu einkenni þegar rannsóknin fór fram.

Niðurstöður: Niðurstöðurnar staðfesta að ofnæmissjúkdómar eru algengir á Íslandi og um margt sambærilegir við nágrannalönd. Breyting á sýnd sjúkdómsins, þ.e. hátt algengi astma og atópísks exems í barnæsku sem lækkar með aldri en vaxandi algengi ofnæmiskvefs er einnig í samræmi við erlendar rannsóknir. Nokkra athygli vekur þó óvenju hátt algengi ofnæmiskvefs hjá þessum 21 árs gömlu einstaklingum.

 

 

V-2    Pneumókokkar og hemophilus í nefkoki leikskólabarna, faraldsfræði og möguleg tengsl við sýklalyfjanotkun

Árni Sæmundsson1, Helga Erlendsdóttir1,2, Ásgeir Haraldsson1,3, Þórólfur Guðnason1,4, Karl G. Kristinsson1,2

1Læknadeild HÍs, 2sýklafræðideild Landspítala, 3Barnaspítala Hringsins, 4sóttvarnarsviði andlæknisembættisins

asgeir@lsh.is

Inngangur: Ónæmum pneumókokkum virðist fjölga á Íslandi og mikilvægt er að fylgjast með þessari þróun.

Markmið: Að kanna bakteríur í nefkoki leikskólabarna, sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi. Faraldsfræði og sýklalyfjanæmi S. pneumoniae (pneumókokkar), S. pyogenes(gr. A streptókokkar) og Haemophílus sp. hjá leikskólabörnum var kannað.

Efniviður og aðferðir: Nefkokssýni voru tekin úr heilbrigðum leikskólabörnum vorið 2009, á 15 leikskólum á höfuðborgarsvæðinu. Sýklalyfjanotkun, veikindi o.fl. var kannað með spurningalista. Í sýnunum var leitað að pneumókokkum, streptókokkum af flokki A og Haemophílus sp. og gerð næmispróf, en b-laktamasa próf gert á hemophilus. Þá voru pneumókokkar hjúpgreindir.

Niðurstöður:Alls tóku 516 börn þátt í rannsókninni á aldrinum 1,2-6,3 ára (meðalaldur 4,1 ár). Berahlutfall pneumókokka var 72,1% (372/516), þar af voru 14,1% (57/404) með minnkað penisillín-næmi og var hjúpgerð 19F algengust. Enginn var ónæmur (MIC³1,5µg/ml). Berahlutfall streptókokka af flokki A var 9,9% (51/516), þar af voru 3 ónæmir fyrir erythromysini. Berahlutfall Haemophílus sp. var84,5% (436/516), þar af voru 15,3% (79/436) b-laktamasa jákvæðir.

Umræða: Mikil aukning hefur orðið á beratíðni pneumókokka miðað við fyrri rannsóknir. Algengasta hjúpgerð pneumókokka með minnkað penisillín næmi var 19F. Ónæmi fyrir >1 sýklalyfi var algengt hjá stofnum með minnkað næmi.Bólusetningar hefðu væntanlega umtalsverð áhrif á beratíðnina.

V-3    Meðfædd launeistu - fátíð á Íslandi miðað við nágrannalönd

Árni V. Þórsson1,2, Hörður Bergsteinsson1, Atli Dagbjartsson1,2, Jón H. Friðriksson1, Steinn A. Jónsson1, Sveinn Kjartansson1, Kristín Leifsdóttir1, Gestur Pálsson1, Þórður Þórkelsson1, Ragnar Bjarnason1,2

1Barnaspítala Hringsins, 2læknadeild HÍ

Arniv@landspitali.is

Inngangur:Faraldsfræðilegar rannsóknir hafa leitt í ljós að algengi meðfæddra launeistna (congenital cryptorchidism) hefur farið vaxandi meðal margra þjóða. Sérstaka athygli hafa vakið niðurstöður samvinnurannsóknar frá Danmörku og Finnlandi, þar sem algengi launeistna var 9% hjá dönskum drengjum samanborið við 2,4% hjá finnskum drengjum.1 Markmið rannsóknarinnar var að kanna algengi launeistna við fæðingu hjá íslenskum drengjum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var framsýn og þýðið samanstóð af öllum drengjum sem fæddust á fæðingardeild Landspítalans á tveggja ára tímabili 1.október 2006 – 30. september 2008. Um það bil 70 % allra fæðinga á Íslandi fara fram á fæðingardeild Landspítala. Drengirnir voru skoðaðir við fæðingu, síðan fimm dögum eftir fæðingu og við þriggja og sex mánaða aldur. Drengir sem fæddust fyrir tímann voru skoðaðir við útskrift af vökudeild. Staða eistna var ákvörðuð með staðlaðri tækni. Allar tegundir launeistna voru teknar með í rannsóknina, en “retractile” eistu voru talin eðlileg. Læknarnir sem framkvæmdu skoðanirnar eru allir reyndir sérfræðingar í nýburalækningum.

 Niðurstöður: Á þeim tveimur árum sem rannsóknin stóð yfir voru 3391 drengir rannsakaðir Miðgildi fæðingarþyngdar var 3647,5 grömm (2775-4770). Miðgildi meðgöngulengdar var 39 vikur (33-42). Við fyrstu skoðun fundust alls 36 drengir með launeista. Algengi meðfæddra launeistna á Íslandi var því 1,06 %. Hjá einum dreng var hvorugt eista gengið niður.Við 6 mánaða skoðun kom í ljós að hjá 6 drengjum (16,6%) höfðu eistun gengið niður án inngripa. Öllum öðrum drengjum sem greindust með launeista var vísað til barnaskurðlækna og samkvæmt nýlegum sam-
norrænum ráðleggingum2 gengust þeir undir skurðaðgerð fyrir 12 mánaða aldur.

Niðurstaða:Algengi meðfæddra launeistna hjá íslenskum drengjum er lágt samanborið við nýlegar rannsóknir frá öðrum norðurlöndum. Frekari rannsókna er þörf til að skýra verulegan landfræðilegan mun í algengi meðfæddra launeistna.

1.                     Boisen KA, et.al. Difference in prevalence of congenital cryptorchidism in infants between two Nordic countries. Lancet 2004; 363: 1264.

2.                     Martin Ritzén E, et. al. Nordic concensus on treatment of undescended testis. Acta Pediatrica 2007; 96: 638-43.

 

 

V-4    Hátt CRP hjá börnum

Bryndís Baldvinsdóttir1, Sigurður Þorgrímsson1,2, Trausti Óskarsson2, Ísleifur Ólafsson1,3, Sigurður Kristjánsson1,2, Ásgeir Haraldsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins, 3rannsóknastofu í klínískri lífefnafræði, Landspítala

asgeir@lsh.is

Inngangur: Mælingar á CRP eru nýttar við greiningu sýkinga hjá veikum einstaklingum. Tilgangur rannsóknarinnar var að sjá hvaða sjúkdómsgreiningar eru algengastar hjá börnum með CRP >100 mg/L, hver afdrif þeirra einstaklinga verða og hvaða meðferð er helst beitt. Að auki voru ýmis faraldsfræðileg atriði skoðuð.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn. Upplýsinga var aflað úr sjúkraskrám barna sem mælst höfðu með CRP >100 mg/L á Barnaspítala Hringsins á árunum 2007 og 2008. Beitt var lýsandi tölfræði og óháðu t-prófi.

Niðurstöður: Alls voru 417 sjúkraskrár skoðaðar þar sem CRP var >100 mg/L. Af þeim voru 118 með staðfesta bakteríusýkingu, 19 með staðfesta veirusýkingu en 280 með aðrar eða óvissar greiningar. Hlutfallsleg
áhætta (e. odds ratio) fyrir að greinast með staðfesta bakteríusýkingu miðað við að greinast með staðfesta veirusýkingu reyndist 6,2, ef CRP var >100 mg/L. Lungnabólga reyndist algengasta greiningin og kom fyrir í 120 (28,8%) tilvikum. Flest barnanna höfðu verið veik og/eða með hita lengur en sólarhring áður en mæling á CRP var framkvæmd.

Ályktanir: Mjög há CRP gildi í börnum benda oft til bakteríusýkingar sem krefst sýklalyfjameðferðar. Mælingar á CRP við greiningu veikinda geta sagt til um alvarleika sýkingar hafi veikindin staðið yfir í nokkurn tíma þar sem CRP hækkar ekki í blóði á fyrstu klukkustundunum. Áframhaldandi notkun og rannsóknir tengdar mælingum á CRP auka þekkingu okkar á þessari greiningaraðferð og auka enn frekar notagildi hennar.

 

 

V-5    Langtímaáhrif cisplatin- og carboplatin- krabbameinslyfjameðferðar í æsku á heyrn

Einar Jón Einarsson1,2, Trausti Oskarsson3, Måns Magnusson2, Christian Moëll4, Jón R. Kristinsson3,5, Ásgeir Haraldsson3,5, Hannes Petersen1,5

1Háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala, 2Háskólasjúkrahúsinu Lundi, 3Barnaspítala Hringsins, 4Barnadeild Háskólasjúkrahússins Lundi, 5læknadeild HÍ

asgeir@lsh.is

Inngangur: Krabbameinslyfin carboplatin og cisplatin eru mikið notuð í meðferð illkynja æxla hjá börnum og unglingum. Vel þekkt aukaverkun þessara lyfja er heyrnarskaði sem i vissum tilfellum er óafturkræfur og getur versnað með árunum.

Markmið: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna langtímaáhrif á heyrn einstaklinga sem fengu krabbameinslyfjameðferð með cisplatin og/eða carboplatin í æsku.

Aðferðir:Sjúkraskrá allra barna og unglinga sem greindust með illkynja æxli á Íslandi á árunum 1981-2006 og fengu meðferð með cisplatin og/eða carboplatin voru yfirfarnar. Gerðar voru ítarlegar heyrnarmælingar á þátttakendum auk þess sem þeir mátu sjálfir áhrif heyrnarskaðans á daglegt líf með aðstoð Hearing Measurement Scale (HMS). Heyrnarskaði var metinn útfrá Brock´s skala.

Niðurstöður: Fimmtán einstaklingar uppfylltu þátttökuskilyrði rannsóknarinnar. Þrír einstaklingar greindust með heyrnarskaða, tveir af þeim fengu cisplatin og einn fékk cisplatin og carboplatin. Mestur var heyrnarskaðinn hjá þeim sem fékk bæði cisplatin og carboplatin. Áhrifin voru mest á hátíðnisvið heyrnarinnar. Suð fyrir eyrum greindist hjá níu einstaklingum. Niðurstöður HMS benda til þess að sumir þátttakendanna eiga erfiðara með að heyra undir ákveðnum kringumstæðum.

Ályktun: Hætta er á langtíma heyrnarskaða eftir krabbmeinslyfjameðferð með cisplatin og carboplatin og á það sérstaklega við um cisplatin. Mikilvægt er að fylgja eftir sjúklingum sem fengið hafa cisplatin og carboplatin meðferð í æsku.

 

 

V-6    Áhrif sýklalyfjaónæmis á meðferð bráðrar miðeyrnabólgu í börnum

Hildigunnur Úlfsdóttir, Ásgeir Haraldsson, Martha Hjálmarsdóttir, Kristján Guðmundsson, Hannes Petersen, Karl G. Kristinsson

Læknadeild HÍ, Barnaspítala Hringsins, sýklafræði- og HNE deildir Landspítala og Læknastöðinni Glæsibæ

karl@landspitali.is

Inngangur: Pneumókokkar eru algeng orsök bráðrar miðeyrnabólgu sem er oftast meðhöndluð með sýklalyfjum. Fjölónæmum pneumókokkum fjölgaði á árunum 1990-1996, fækkaði síðan áður en þeim fjölgaði á ný frá árinu 2002. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort tengsl væru á milli sýklalyfjaónæmis pneumókokka og meðferðar bráðrar miðeyrnabólgu í börnum.

Aðferðir: Upplýsingar um sýklalyfjanæmi og hjúpgerðir pneumókokka frá börnum á tímabilinu 1995-2008 fengust frá Sýklafræðideild Land-spítalans og um greiningar á miðeyrnabólgum úr gagnagrunni Landspítalans fyrir tímabilið 1990-2008. Úrtak sjúkraskýrslna frá þeim árum þar sem fjölónæmi pneumókokka var mest (1996 og 2007) og minnst (2001) voru skoðaðar.

Niðurstöður: Hlutfall fjölónæmra stofna var nálægt 20% til ársins 1999, undir 15% 2000-2002 en um og yfir 30% frá árinu 2005. Fjölónæmir stofnar voru nær eingöngu af hjúpgerð 6B í fyrra toppnum og 19F í þeim síðari. Skoðaðar voru sjúkraskýrslur 260 barna. Hlutfallslega fleiri fengu amoxicillin-klavulansýru meðferð á árunum 1996 og 2007 borið saman við 2001. Fleiri fengu háskammta- eða stungulyfjameðferð árin 1996 og 2007 (37% og 32%) en árið 2001 (24%), en þó ekki marktækt (p=0,1 og p=0,2). Eins fengu fleiri stungulyfjameðferð árið 1996 borið saman við 2001 og 2007 (25% á móti 18% og 19%), en sá munur var ekki marktækur.

Ályktanir: Fjölgun fjölónæmra pneumókokka á Íslandi virtist leiða af sér ný meðferðarúrræði eins og háskammta- og stungulyfjameðferð.

 

 

V-7    Kawasaki sjúkdómur á Íslandi 1996-2005

Halla Sif Ólafsdóttir1, Gylfi Óskarsson1,2, Ásgeir Haraldsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins, Landspítala

asgeir@lsh.is

Inngangur:Kawasaki sjúkdómurinn (KS) er æðabólgusjúkdómur sem einkennist af hita, útbrotum, tárubólgu, slímhúðarbólgu, roða og bjúg á útlimum og eitlastækkunum. Alvarleiki sjúkdómsins felst í myndun kransæðagúla og jafnvel kransæðastíflu.

Markmið: Að athuga faraldsfræði KS hér á landi á tímabilinu 1996-2005 og skoða fylgikvilla sjúkdómsins, bráða og síðkomna.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn fyrir árin1996 til og með 2005. Leitað var að tilfellum eftir ICD númerum (KS og atypiskur KS) og gögnum safnað úr sjúkraskrám. Öllum sem greindust á Barnaspítalanum var boðið í ómskoðun af hjarta og blóðprufur.

Niðurstöður:Alls greindust 30 með KS á árunum 1996-2005. Nýgengi var 10,7/100.000 börn < 5 ára á ári og kynjahlutfall 2,3:1 (dr:st). Öll börnin fengu meðferð með mótefnum án alvarlegra fylgikvilla. Miðfjöldi daga frá upphafi veikinda til mótefnagjafar var 6 dagar (3-31dagur). Tveir (6,7%) fengu kransæðagúla og önnur eða báðar megin kransæðarnar víkkuðu hjá þremur (10%) í bráðafasa sjúkdómsins. Enginn sjúklinganna dó. Við endurkomu voru tveir með víkkun á kransæð og sex voru með míturlokuleka (22,7%).

Ályktanir:Nýgengi og kynjahlutfall er sambærilegt við fyrri íslenska rannsókn og rannsóknir frá Norðurlöndunum. Fá börn greindust með kransæðabreytingar í bráðafasanum, þær breytingar gengu til baka í öllum nema einum án alvarlegra fylgikvilla. Sérstaka athygli vekur miturlokuleki hjá fimm. Horfur barna sem greinast með KS á Íslandi eru góðar.

 

 

V-8    Bólusetning gegn Neisseria meningitidis C á Íslandi

Sigurður Árnason1, Valtýr Stefánsson Thors2, Þórólfur Guðnason1,3, Haraldur Briem3, Karl G. Kristinsson4,5, Ásgeir Haraldsson1,5

1Barnaspítala Hringsins, Landspítala 2Wilhelmina kinderziekenhuis, Utrecht, Hollandi, 3landlæknisembættinu, 4sýklafræðideild Landspítala 5

asgeir@lsh.is

Inngangur: Bólusetning gegn Neisseria meningitidis C (MenC) hófst á Íslandi árið 2002 (NeisVac-C®; Baxter). Öll börn 0-18 ára voru bólusett á árunum 2002-2003 og síðan hafa öll börn verið bólusett við sex og átta mánaða aldur. Bólusetning gegn MenC á Íslandi er kostnaðarhagkvæm.1

Markmið: Að meta árangur bólusetningar á Íslandi gegn MenC sem hófst árið 2002.

Efniviður og aðferðir: Niðurstöður allra blóð- og mænuvökvaræktana hjá börnum 0-18 ára á Sýklafræðideild Landspítala frá september 1994 til mars 2005 (> 90% af blóðræktunum á Íslandi eru gerðar á Sýklafræðideild). Upplýsingar um fjölda sjúklinga með ífarandi MenC sýkingu árin 2005-2009 voru fengnar frá sóttvarnalækni.

Niðurstöður: Neisseria meningitidis ræktaðist hjá 72 börnum á rannsóknartímabilinu; 42 af hjúpgerð B (58,3%) og 30 af hjúpgerð C (41.7%). Öll tilfelli af hjúpgerð C komu fram fyrir 2002 nema eitt. Fyrir bólusetningu 2002 ræktaðist MenC hjá 3,8 börnum að meðaltali á ári en frá 2002 hefur hjúpgerðin aðeins ræktast hjá einu barni en það barn hafði ekki verið bólusett gegn sjúkdómnum.2

Ályktun: Bólusetning gegn MenC hefur tekist mjög vel en engin staðfest sýking hefur komið fram hjá bólusettu barni síðan bólusetning hófst árið 2002. Ífarandi MenC sýkingum hefur einnig fækkað hjá fullorðnum.

Bergþórsson GI, Matthíasson Þ, Guðnason Þ, Briem H. Kostnaðarhagkvæmnisgreining á bólusetningu gegn meningókokkum C á Íslandi. Læknablaðið 2004; 90: 379-83.

Farsóttafréttir Landlæknisembættisins. www.landlaeknir.is - Janúar 2008.

 

V-9    Lifun barna sem greindust með krabbamein á Íslandi 1981-2006

Trausti Óskarsson1, Ólafur Gísli Jónsson1,2, Jón R. Kristinsson1,2, Guðmundur K. Jónmundsson1,2, Jón Gunnlaugur Jónasson2,3,4, Ásgeir Haraldsson1,2

1Barnaspítala Hringsins, 2læknadeild HÍ, 3rannsóknarstofu í meinafræði, 4Krabbameinsskrá Íslands

asgeir@landspitali.is

Inngangur: Krabbamein er næst algengasta dánarorsökin hjá börnum. Um fjórðungur barna sem greinist með krabbamein deyr vegna sjúkdómsins eða tengdra ástæðna.

Markmið: Að kanna lifun barna sem greinst hafa með krabbamein á Íslandi.

Aðferðir: Rannsóknin var lýðgrunduð og náði til allra einstaklinga yngri en 18 ára sem greindust með krabbamein á Íslandi frá upphafi árs 1981 til loka ársins 2006. Upplýsingar um sjúkdómsgreiningar og faraldsfræðilega þætti fengust frá Krabbameinsskrá Íslands, sjúkraskrám og Hagstofu Íslands.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu greindust 279 börn með krabbamein á Íslandi. Af þeim voru 215 á lífi í lok árs 2008. Níu einstaklingar greindust með meðferðartengd krabbamein, átta þeirra létust. Á tímabilinu var fimm ára lifun 81,2% (76,1-85,4%) og 10 ára lifun 76,7% (71,1-81,4%). Ekki var marktækur munur á lifun milli kynja (P=0,8174), tímabilanna 1981-1993 og 1994-2006 (P=0,4542), aldurshópanna 0-4 ára, 5-9 ára, 10-14 ára og >15 ára (P=0,3284) eða búsetu við greiningu borið saman milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar (P=0,5273).

Ályktun: Horfur barna á Íslandi með krabbamein eru góðar og sambærilegar því sem gerist í nágrannalöndunum. Horfur eru mun verri í meðferðartengdum krabbameinum.

 

 

V- 10    Algengi vikulegra verkja á árunum 1989-2006 meðal íslenskra skólabarna

Guðrún Kristjánsdóttir

Hjúkrunarfræðideild HÍ, Barnaspítala Hringsins, Landspítala

gkristi.is

Inngangur: Fyrri rannsóknir á Íslandi og á Norðurlöndum sýna að endurteknir verkir í höfði, maga og baki eru algengir meðal skólabarna á aldrinum 11-16 ára. Sýnt hefur verið fram á stigmögnun vanlíðunar, skert lífsgæði og náms- og starfsgetu við tíða og samsetta verki í maga, höfði og baki.

Tilgangur: Rannsókn þessi skoðaði þróun í algengi bak-, maga- og höfuðverkja meðal íslenskra skólabarna á árunum 1989 og 2006.

Efniviður: Byggt var á gögnum úr landskönnunum á heilsu og lífskjörum íslenskra skólanema frá árunum 1989 og 2006 sem tengjast fjölþjóðlegum könnunum WHO í um 40 löndum (HBSC). Rannsóknin tekur til tveggja árganga skólabarna í 6. og 10. bekk grunnskóla. Fyrri könnun tók til tilviljunarúrtaks 2073 skólabarna og var svarhlutfall 90,5%, en síðari könnunin tók til tilviljunarúrtaks 5697 skólabarna og var svarhlutfall 86%. Spurt var hve oft börnin hefðu upplifað bak-, maga- og höfuðverki. Algengi var athugað eftir kyni og aldri.

Niðurstöður: Niðurstöður sýna að algengi vikulegra stakra verkja hefur ekki breyst marktækt hjá 11-12 ára börnum og er höfuðverkur enn leiðandi í vikulegu algengi ('89/'06 = 25,0/27,9), en magaverkir annar í röðinni ('89/'06 = 23,1/24,5), og lægsta tíðnin er í bakverkjum ('89/'06 = 15,3/15,5). Hjá 15-16 ára börnunum hefur vikulegt algengi allra verkja hækkað marktækt á þessum 17 árum. Höfuðverkir úr 19,2% í 39,2%, magaverkir úr 14,1% í 29,9% og bakverkir úr 25,4 í 38,3%. Algengi vikulegra stakra verkja hefur aukist úr 40,4% í 55,5%, samsettra tveggja vikulegra verkja úr 15,1% í 29,6% og algengi þriggja vikulegra verkja úr 4,7% í 12,8%.

Ályktun: Sláandi er hin mikla aukning á algengi allra tegunda verkja í eldri aldurshópnum. Erlendar rannsóknir benda til svipaðrar þróunar í auknu algengi verkja, þó ekki sé vitað til að gerður hafi verið slíkur samanburður á landsvísu. Þó eru engin dæmi um svo mikla aukningu á algengi endurtekinna verkja 15-16 ára barna og ljóst að í þessu sambandi er brýn þörf á að endurskoða heilbrigðisþjónustu skólabarna.

 

V-11    Mat á sársauka 2 mánaða til 2 ára barna við ástungu á bráðamóttöku – samanburður tveggja mæliaðferða

Guðrún Kristjánsdóttir1, 2, Anna Ólafía Sigurðardóttir2, Rakel Björg Jónsdóttir1, 2, Ólöf Kristjánsdóttir3

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins, Landspítala, 3Dalhousie University, IWK Health Centre, Halifax, Kanada

gkrist@hi.is

Inngangur: Þegar þróa á viðeigandi aðferðir til að lina eða koma í veg fyrir íþyngjandi sársauka í álagsvaldandi aðstæðum hjá ómálga börnum þarf ábyggileg matstæki. MBPS (Modified Behavioral Pain Scale) er eitt af fáum matstækjum til að meta sársauka hjá 0-2 ára börnum. MBPS samanstendur af þremur þáttum, andlitstjáningu, hreyfingu og grátmynstri og gefur safnstig sem spanna frá 0-10 eftir styrk sársaukans. VAS (Visual Analogue Scale) er 10 cm einföld lína sem reynst hefur gagnleg til að leggja mat á styrkleika verkja hjá börnum jafnt sem fullorðnum. Rannsóknir sýna samræmi í niðurstöðum milli matsaðila bæði fyrir VAS og MBPS þegar börn eiga í hlut. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða hvort þessi matstæki séu í innbyrðis samræmi við sársaukamat á 2 mánaða til 2 ára börnum sem verða fyrir ástungu á bráðamóttöku.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 103 2 mán.-2 ára börn sem fóru í ástungu á bráðamóttöku barna á LSH yfir 12 mánaða tímabil. Starfsmaður rannsóknar mat hvert barn með MBPS og VAS við ástungu. Hjúkrunarfræðingur sem framkvæmdi ástungu og foreldri barnsins mátu einnig sársaukann með VAS við sömu ástungu.

Niðurstöður: Meðalskor fyrir MBPS reyndist 4.9 (SD=2.75). Meðalskor VAS mats var 3,05-3,41. Sá sem stakk gaf marktækt lægri gildi en foreldri og starfsmaður sem horfðu á. Marktæk fylgni var milli MBPS og VAS mats starfsmanns rannsóknar (r=0,83; p<0,0001). Einnig var marktæk fylgni milli VAS mats allra þeirra sem framkvæmdu slíkt mat (r=0,65-0,7; p<0,0001).

Ályktanir: Niðurstöður eru í samræmi við þau MBPS gildi sem fram komu í forprófun og benda einnig til að VAS gefi sambærilega niðurstöðu um styrk sársauka og MBPS hjá barni við einfalda ástungu í bráðaaðstæðum. Eiginleikar þessara tveggja matstækja sýna þó tvær ólíkar víddir, sem geta reynst gagnlegar við rannsóknir á árangri inngripa til að lina sársauka í slíkum aðstæðum.

 

 

V-12    Áhrif kæliúða á verki 2 til 24 mánaða barna við nálastungur á bráðamóttöku barna: Tvíblind tilraun

Guðrún Kristjánsdóttir1, 2, Ólöf Kristjánsdóttir3, Anna Ólafía Sigurðardóttir2, Rakel Björg Jónsdóttir1, 2

1 Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2 Barnaspítala Hringsins, Landspítala, 3 Dalhousie University, IWK Health Centre, Halifax, Kanada

gkrist@hi.is

Inngangur: Sársaukafull inngrip eru megin orsök streitu og verkja hjá börnum á bráðamóttöku barna. Ef verkir barna eru greindir og meðhöndlaðir er hægt að koma í veg fyrir streitu og töf á nauðsynlegum inngripum. Meðhöndlun verkja vegna sársaukafullra inngripa er ábótavant á bráðamóttökum einkum meðal yngstu aldurshópa barna (< 2 ára). Rannsóknir sem notað hafa kæliúða (etýlklóríð) sem verkjadeyfingu við nálarstungur yngri barna sýna jákvæðar niðurstöður.

Markmið: Að kanna áhrif kæliúða á sársaukaupplifun og -viðbragð 2-24 mánaða barna á bráðamóttöku sem þurfa blóðprufu og/eða æðaleggsuppsetningu vegna greiningar og/eða meðferðar. Aðrir samverkandi þættir sem tengja má við sársaukaupplifun í annasömu umhverfi bráðamóttöku verða skoðaðir í þeim tilgangi að stjórna fyrir áhrifaþáttum öðrum en meðferðaríhlutuninni.

Aðferð:Tvíblind klínísk tilraun 200 barna á aldrinum 2-24 mánaða á bráðamóttöku barna á Landspítalanum. Þátttakendum var skipt tilviljunarkennt í 2 rannsóknarhópa. Meðferðarhópur (n=97) fékk etýlklóríð vætt í bómull á húð fyrir stungu: samanburðarhópur (n=103) fékk sæft-vatn (placebo) vætt í bómull á húð fyrir stungu. Verkjaviðbrögð voru metin blint af þjálfuðum aðstoðarmönnum með mælitækinu ‘Modified Behavioral Pain Scale' (MBPS) auk þess sem foreldrar og heilbrigðisfagfólk mátu verkjaupplifun barns með 100 mm sjónrænum verkjaskala (VAS).

Niðurstöður: Niðurstöður sýndu mun á verkjaupplifun barnanna, mældum með VAS og MBPS, fyrir og við inngrip (p<0.0001). Börnin sem fengu sársaukadeyfingu með kæliúða við nálastungur sýndu minni verkjahegðun (MBPS) en samanburðarhópurinn. Sá munur mældist ekki marktækur (p=0.064). Ekki kom fram marktækur munur (p>0.05) á hópunum þegar allar mælingar voru skoðaðar saman.

Ályktun:Þessi rannsókn var liður í að þróa nýja aðferð við verkjameðhöndlun yngri barna í bráðaaðstæðum. Notkun kæliúða með bómullar aðferð reyndist ein og sér ekki draga marktækt úr verkjaupplifun þessa aldurshóps. Mikilvægt er að rannsaka útfærslu kæliúðameðferðar nánar meðal yngri barna og samþættingu þess við aðrar verkjameðferðir.

 

 

V-13    Lífsmarkamælingar á barnadeildum

Hanna Guðrún Brynjarsdóttir1, 2, Guðrún Kristjánsdóttir1, 2

1 Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2 Barnaspítala Hringsins, Landspítala

gkrist@hi.is

Inngangur: Rannsóknir sýna að lífsmarkamælingar eru oftast hluti af rútínubundinni starfsemi barnadeilda. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna lífsmarkamælingar á barnadeildum m.t.t. tækja og viðhorfa starfsfólks til framkvæmdar og mikilvægis þeirra í samhengi fræðilegrar þekkingar.

Efniviður og aðferðir: Vettvangsathugun var gerð með hálfstöðluðum viðtölum við 19 starfsmenn (sjúkraliða, lækna og hjúkrunarfræðinga) á fjórum barnadeildum um viðhorf þeirra til lífsmarkamælinga auk könnunar á tegund, ástandi og notkun tækja til mælinganna. Við úrvinnslu gagna var notast við efnisþáttagreiningu og þemu einangruð. Tegund, fjöldi, tengsl og dreifing tækja á deildum var skráð. Niðurstöður voru skoðaðar í ljósi fræðilegrar úttektar á rannsóknum og fræðilegri umræðu.

Niðurstöður: Tæki til lífsmarkamælinga eru í nokkru samræmi við þarfir skjólstæðinga deildanna. Takmarkaðar upplýsingar fengust um reglulegt viðhald þeirra og aðgengi starfsfólks að leiðbeiningu um notkun þeirra. Víða vantaði aldurstengda fylgihluti tækja. Úr viðtölum voru greind fjögur þemu (þægindi við mælingar, ástand og viðbrögð barns við mælingu, aðferð við notkun tækja og réttmæti tækja til lífsmarkamælinga) sem falla undir framkvæmd lífsmarkamælinga og fimm um mikilvægi lífsmarkamælinga (öryggi barns, eftirlit með ástandi, viðmiðunargildi, fer eftir yfirvegun og mati fagmanna, mælingar komi öðru til leiðar). Viðhorf sýndu skýrt sérstöðu barna í framkvæmda og mikilvægi lífsmarkamælinga.

Ályktanir: Bæta þarf eftirlit með tækjakosti og gera leiðbeiningar aðgengilegar starfsfólki. Viðhorf starfsmanna er í samræmi við fræðilega umræðu og rannsóknir og kalla á frekari rannsóknir á gildi, framkvæmd og skráningu lífsmarkamælinga á barnadeildum. Lífsmarkamælingar fara fram við breytilegar kringumstæður og brýnt er að móta skýrari verklagsreglur við framkvæmd þeirra í samræmi við niðurstöður rannsókna.

 

 

V-14    Fósturhjartaómskoðanir á Íslandi 2003- 2007; ábendingar og útkoma

Sigurveig Þórisdóttir1, Hildur Harðardóttir1,2, Hulda Hjartardóttir2, Gylfi Óskarsson1,3, Hróðmar Helgason3, Gunnlaugur Sigfússon1,3

1Læknadeild HÍ, 2kvennasviði Landspítala, 3Barnaspítala Hringsins, Landspítala

hhard@landspitali.is

Inngangur: Í þessari rannsókn voru skoðaðar ábendingar og útkoma fósturhjartaómskoðana og hvaða ábendingum fylgja mestar líkur á hjartagalla.

Efniviður og aðferðir: Farið var yfir ábendingar og útkomu fósturhjartaómana sem gerðar voru á árunum 2003-2007 og hjartagallar sem greindust skráðir. Meðgöngulengd við greiningu, hnakkaþykkt fósturs við 12 vikur, afdrif þungunar, niðurstöður krufninga og greiningu barns eftir fæðingu fengust úr sjúkraskýrslum.

Niðurstöður: Alls voru framkvæmdar 1187 fósturhjartaómskoðanir og greindist hjartagalli í 73 fóstrum. Algengasta ábendingin var fjölskyldusaga um hjartagalla (n=631;53,2%) sem leiddi til greiningar 18 hjartagalla í fósturlífi (2,9%). Næst algengasta ábendingin var aukin hnakkaþykkt (n=159) og voru 16 hjartagallar greindir (10,1%). Þrjátíu konur fóru í fósturhjartaómun vegna óeðlilegrar fjögurra hólfa sýnar sem leiddi til greiningar 22 (73,3%) hjartagalla sem kröfðust inngrips á nýburaskeiði eða höfðu slæmar horfur. Aðrar ábendingar leiddu til greiningar á minniháttar hjartagöllum.

Ályktanir: Óeðlileg fjögurra hólfa sýn er mikilvægasti forspárþátturinn fyrir greiningu hjartagalla í fósturlífi. Sú ábending var aðeins 2,5% af heildarfjölda fósturhjartaómana á tímabilinu en leiddi til greiningar 30% allra hjartagalla og voru allir meiriháttar.

 

 

V-15    Greining þvagfæragalla á meðgöngu og útkoma eftir fæðingu

Þorbjörn Jónsson1, Hildur Harðardóttir1,2, Viðar Örn Eðvarðsson1,3, Hulda Hjartardóttir2

1Læknadeild HÍ, 2fæðinga- og kvensjúkdómalækningum, 3barnalækningum, Landspítala

thorbjo@gmail.com

Inngangur: Engar íslenskar rannsóknir eru til á greiningu þvagfæragalla á meðgöngu og útkomu eftir fæðingu.

Markmið: Að rannsaka með afturvirkum hætti greiningu þvagfæragalla við fósturómskoðun sem gerð er við 12. og 20. viku og síðar á meðgöngu. Útkoma eftir fæðingu og faraldsfræði er skoðuð.

Aðferðir: Gagna var aflað úr sjúkraskrám LSH fyrir tímabilið 01.01.2004-31.12.2008. Upplýsingar um greiningar á meðgöngu og greiningar/inngrip eftir fæðingu voru skráðar og horfur metnar.

Niðurstöður: Á tímabilinu vaknaði grunur um þvagfæragalla í 105 tilfellum við fósturómskoðun. Eftir fæðingu reyndust 7 hafa annan meðfæddan sjúkdóm en ekki þvagfæragalla og 14 voru heilbrigð. Ellefu tilfelli greindust með þvagfæragalla við 12 vikna skoðun, 2 við 16 vikur, 54 við 20 vikur (0,33% allra skoðaðra) og 30 síðar á meðgöngu. Upplýsingar vantar um tímasetningu greiningar hjá 1 tilfelli. Af 84 fóstrum með þvagfæragalla, staðfesta eftir meðgöngu, fæddust 67 lifandi börn, 15 meðgöngur enduðu með fósturláti (sjálfkrafa eða framkölluðu) og 2 börn fæddust andvana. Eftir fæðingu greindust 41 með víkkun á safnkerfum þvagvega (þar af 14 með góðkynja víkkun), 22 höfðu sjúkdóm í nýrnavef, tvö höfðu galla í færslu fósturvefja (migration anomalies) og upplýsingar vantar um tegund galla hjá tveimur. Þrjú (4%) barnanna hafa látist og 17 (25%) gengist undir skurðaðgerðir. Í öllum tilvikum fósturláta (sjálfkrafa/framkallaðra) var um alvarlega fósturgalla að ræða (15/16 tengdir þvagfærum).

Ályktun: Horfur fósturs/barns með meðfæddan þvagfæragalla eru verri og tíðni fósturláta, burðarmálsdauða og ungbarnadauða er aukin miðað við íslenskt þýði. Tegund, nýgengi og horfur meðfæddra galla á þvagfærum eru svipaðar á Íslandi og gerist hjá öðrum Evrópuþjóðum.

 

 

V-16    Samanburður á sjálfvirkum og handvirkum blóðþrýstingsmælingum hjá 9-10 ára börnum á Íslandi

Sigríður Birna Elíasdóttir1, Sandra Dís Steinþórsdóttir1, Runólfur Pálsson1,2, Ólafur Skúli Indriðason2, Viðar Örn Eðvarðsson1,3

1Læknadeild, heilbrigðisvísindasviði HÍ, 2nýrnalækningum, 3barnalækningum Landspítala

vidare@landspitali.is

Inngangur: Notkun sjálfvirkra blóðþrýstingsmæla hefur aukist gríðarlega í barnalækningum en rannsóknum ber ekki saman um áreiðanleika þeirra.

Markmið: Að rannsaka mismun á blóðþrýstingi (BÞ) mældum með sjálfvirkum mæli (SM) eða handvirkum mæli (HM) hjá 9-10 ára börnum.

Aðferðir:BÞ var mældur hjá 1023 skólabörnum sem slembiraðað var í tvo hópa. Í hópi 1 var hvert barn mælt í tvígang með HM og svo tvisvar með SM og jafnoft í hinum hópnum en í öfugri röð. Hóparnir voru bornir saman með t-prófi og c2.

Niðurstöður: Sökum ófullnægjandi gagna voru 65 börn ekki tekin með og voru 505 í hópi 1 og 453 í hópi 2. Enginn munur var á hópunum m.t.t. kyns, hæðar eða líkamsþyngdarstuðuls. Fyrsta mæling slagbilsþrýstings (SBÞ) var hærri með SM (115±10 sbr. við 113±9 mm Hg, p<0,001). Enginn munur var á annarri og þriðju mælingu en í fjórðu mælingu var SBÞ lægri með SM (109±9 sbr. við 110±8 mm Hg, p=0,02). Ekki var munur milli fyrstu mælinga hlébilsþrýstings (HBÞ) en í annarri, þriðju og fjórðu mælingu mældist HBÞ lægri með SM (61±8 sbr. við 64±6, p<0,001, 61±7 sbr. við 65±7, p<0,001 og 61±7 sbr. við 65±7 mm Hg, p<0,001). Meðal-SBÞ var 111±9 mm Hg með báðum aðferðum (p=0,67) en meðal-HBÞ var 62±7 mm Hg með SM og 65±7 mm Hg með HM (p<0,001). Þegar meðaltal mælinga var notað reyndust 15,9% hafa slagbilsháþrýsting (³95. hundraðsröð) með SM en 14,0% með HM. Helmingur þeirra sem mældust með hækkaðan BÞ með annarri aðferðinni reyndist hafa eðlilegan BÞ með hinni.

Ályktun: Okkar niðurstöður benda til nokkurs misræmis milli sjálfvirkra og handvirkra blóðþrýstingsmælinga. Þar sem BÞ lækkar við endurteknar mælingar skiptir röð þeirra einnig máli og það flækir samanburðinn.

 

 

V-17    Dreifing blóðþrýstings, tengsl við líkamsþyngdarstuðul og algengi háþrýstings í 9-10 ára börnum á Íslandi

Sandra Dís Steinþórsdóttir1, Sigríður Birna Elíasdóttir1, Runólfur Pálsson1,2, Ólafur Skúli Indriðason2, Inger María Sch Ágústsdóttir3, Viðar Örn Eðvarðsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2nýrnalækningum, 3barnalækningum Landspítala

vidare@landspitali.is

Inngangur: Engar rannsóknir eru til um dreifingu blóðþrýstings (BÞ) og algengi háþrýstings meðal íslenskra barna.

Markmið:Að kanna dreifingu BÞ, tengsl BÞ við líkamsþyngdarstuðul (LÞS) og algengi háþrýstings meðal barna í 4. bekk grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu.

Aðferðir:Blóðþrýstingur var mældur hjá 1023 börnum í samtals 39 grunnskólum. Í upphafi var BÞ mældur 4 sinnum í sitjandi stöðu með mínútu millibili. Börn með blóðþrýsting að meðaltali ³95. hundraðsröð við fyrstu mælingu voru mæld aftur á sama hátt tveimur vikum síðar og væri meðaltal BÞ þá ³95. hundraðsröð var þriðja mælingalotan framkvæmd. Börn með BÞ ³95. hundraðsröð í öll skiptin voru talin hafa háþrýsting. Fengnar voru upplýsingar um kyn, hæð og þyngd og LÞS reiknaður. Til að reikna hundraðsröð og fjórðungsbil BÞ var notast við gögn um eðlilegan BÞ í bandarískum börnum.

Niðurstöður:Af 989 börnum sem áttu fullnægjandi gögn, voru 496 (50,2%) stúlkur. Við fyrstu mælingu var BÞ stúlkna 111±7,9/63±5,8 mm Hg og drengja 112±7,3/64±5,0 mm Hg. Við fyrstu mælingu voru 0,5%, 9,7%, 29,8% og 60% barna með slagbilsþrýsting (SBÞ) og 3,4%, 32,5%, 49,5% og 14,6% voru með hlébilsþrýsting í 1., 2., 3. og 4. fjórðungi. Meðaltal SBÞ var ³95. hundraðsröð hjá 13,0%, 6,0% og 2,8% barnanna eftir fyrstu, aðra og þriðju mælingarlotu. Af 28 börnum með háþrýsting reyndust 6 (21,4%) hafa eðlilegan sólarhingsblóðþrýsting. Jákvæð fylgni var milli BÞ og LÞS (r = 0,261, p = <0,001).

Ályktun:Þótt BÞ hafi verið hár í fyrstu mælingunni miðað við bandarísk börn er algengi háþrýstings lægra hér, eða 2,8% hjá 9-10 ára börnum. Vaxandi offita barna gæti leitt til aukningar á algengi háþrýstings og þarf að sporna við þeirri þróun.

 

 

V-18    Faraldsfræði langvinns nýrnasjúkdóms á stigi II – V meðal íslenskra barna

Helgi M. Jónsson1, Ólafur S. Indriðason2, Loftur I. Bjarnason3, Runólfur Pálsson1,2, Viðar Ö. Eðvarðsson1,4

1Læknadeild heilbrigðisvísindasviði, 3tölvunarfræðideild, verkfræði- og náttúruvísindasviði HÍ, 2nýrnalækningum, 4barnalækningaum Landspítala

vidare@landspitali.is

Inngangur:Faraldsfræði lokastigsnýrnabilunar meðal barna er vel þekkt en tíðni vægari stiga langvinns nýrnasjúkdóms (LNS) hefur ekki verið vel rannsökuð.

Markmið: Að kanna faraldsfræði LNS á stigi II – V meðal íslenskra barna á tímabilinu 1997-2006.

Aðferðir: Rannsóknin var afturvirk og náði til áranna 1997-2006. Leitað var að öllum mælingum kreatíníns í sermi (SKr), á Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og sjálfstæðum rannsóknarstofum fyrir einstaklinga <18 ára. Reiknaður gaukulsíunarhraði (r-GSH) var metinn með Schwartz-jöfnu. Stig II LNS var skilgreint sem r-GSH milli 60-89, stig III 30-59, stig IV 15-29 og stig V <15 ml/mín./1,73m² eða meðferð við lokastigsnýrnabilun.
Niðurstöður: Við fundum 40.486 mælingar SKr hjá 15,170 börnum. Af þeim voru 19 (9 drengir) með LNS á stigi II-V, þar af 13 börn sem voru með LNS við upphaf rannsóknartímabilsins. Á hverju ári höfðu 10-14 börn LNS á stigi II-V og var meðalalgengi 15,5/100,000 börn. Sex börn greindust með LNS á tímabilinu og var árlegt nýgengi 0,77/100,000 börn að meðaltali. Átta börn voru á stigi V við upphaf tímabilsins og 6 börn færðust yfir á stig V. Árlegt nýgengi lokastigsnýrnabilunar var því 0,77/100,000 börn og meðalalgengi 7,7/100.000 börn. Að auki höfðu 373 börn óeðlilega lág gildi r-GSH en áttu ýmist aðeins eina mælingu SKr, eða að r-GSH varð eðlilegur innan 3 mánaða og töldust því ekki hafa LNS.

Umræða: Þessi rannsókn, sem er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum, gefur nýjar upplýsingar um faraldsfræði LNS í börnum. Fyrir hvert barn með lokastigsnýrnabilun er um það bil eitt á stigi II – IV. Algengi og nýgengi lokastigsnýrnabilunar hjá börnum á Íslandi er svipuð og hjá öðrum Evrópuþjóðum.

 

 

V-19    Sérhannað húsnæði aldraðra: Stefnumótun og löggjöf á Íslandi 1983-2008

Steinunn K. Jónsdóttir

Félagsráðgjöf, öldrunarlækningadeildum, Landspítala, Félagsráðgjafardeild HÍ

steinkj@lsh.is

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að veita fræðilegt yfirlit stefnu í húsnæðismálum aldraðra á Íslandi á undanförnum 25 árum og auka skilning á þróun hennar. Einnig að kanna framboð íbúða eldri borgara og hvort þjónusta sé aðgengileg eða fylgi búsetu í húsnæðinu.

Aðferðir: Notuð var stefnugreining á löggjöf og stefnumótun og skjalagreining á löggjöf og opinberum gögnum. Gerð var könnun á umfangi íbúða fyrir eldri borgara í landinu og meðfylgjandi þjónustu. Spurningalisti var sendur félagsmálastjórum og viðbótarupplýsinga aflað.

Niðurstöður: Uppbygging stofnanarýma er í samræmi við markmið, en skort hefur á stefnumótun um hvar þörf er hjúkrunarheimilum, nánari útfærslu á aðstöðu fyrir hvern íbúa og í hverju þjónusta eigi að felast. Löggjöf um þjónustuíbúðir er óskýr og ábyrgð á stefnumótun og framkvæmd í uppbyggingu íbúða hefur verið dreifð milli ráðuneyta og nefnda á sveitarstjórnarstigi. Könnun og skilgreining á húsnæði fyrir eldri borgara á Íslandi leiddi í ljós meira af sérhönnuðu húsnæði hér en á hinum Norðurlöndunum. Í nóvember 2008 bjuggu 3344 á hjúkrunar- og dvalarheimilum, og fjöldi íbúða með aðgengi að þjónustu var 3304.

Ályktun: Auðvelda þarf búsetu heima með skipulagi umhverfis og þjónustu er eykur öryggistilfinningu. Fjöldi íbúða eldri borgara vitnar um andsvar við stofnanaáherslu. Aukin þjónusta í slíkum íbúðum, sambærileg við þá sem veitt er í þjónustu- og öryggisíbúðum, gæti seinkað flutningi á hjúkrunarheimili. Bæta þarf úr skilgreiningum á þjónustuíbúðum og gera rekstraraðilum kleift að sækja um notkun þjónustuíbúðaheitis eftir á. Aðgreina þarf rekstur hjúkrunarrýma á sjúkrahúsum frá rekstri sjúkrahúsa og samræma þannig ákvæði um hjúkrunarheimili. Stefnt er að því að stytta meðalbiðtíma eftir hjúkrunarheimili í 90 daga og er því eitt mikilvægasta réttindamál eldra fólks að fá nægilega endurhæfingu í kjölfar heilsufarsáfalla.

 

 

V-20    Áhrif umhverfis á þátttöku í daglegu lífi: Sjónarhorn einstaklinga með mænuskaða

Hjördís Anna Benediktsdóttir1,Guðrún Heiða Kristjánsdóttir2, Snæfríður Þóra Egilson3

1Iðjuþjálfun Landspítala Grensási, 2Þjónustumiðstöðinni Víðilundi, 3iðjuþjálfun við Háskólann á Akureyri

hjordben@lsh.is

Inngangur: Miklar framfarir hafa orðið í læknavísindum á síðustu áratugum og samfara því hafa lífslíkur aukist eftir stór áföll sem leiðir til þess að þeim fjölgar sem fara aftur út í lífið skaddaðir á mænu. Allir verða með einum eða öðrum hætti fyrir áhrifum af því umhverfi sem þeir lifa í og mikilvægt er að huga vel að samspili einstaklings- og umhverfisþátta þar sem það hefur mismikil áhrif á lífsgæði fólks og þátttöku þeirra í samfélaginu.

Markmið: Megintilgangur rannsóknarinnar var að afla þekkingar á sjónarhorni fólks með mænuskaða á umhverfi sínu og því hvaða þættir hamla þátttöku þess í daglegu lífi.

Aðferðir: Rannsóknin byggir á blandaðri rannsóknaraðferð. Í megindlega hlutanum fylltu þátttakendur, þ.e. 24 meðlimir í Samtökum endurhæfðra mænuskaddaðra 18 ára og eldri, út matslistann CHIEF (Craig Hospital Inventory of Environmental Factors) ásamt viðbótarspurningalista um lýðfræðilega þætti. Í eigindlega hlutanum voru sex þátttakendur valdir með hentugleikaúrtaki til að taka þátt í rýnihópaumræðu um efnið.

Niðurstöður: Helstu hindranir sem þátttakendur tilgreindu tengjast efnislegu umhverfi, svo sem ýmsum þáttum í náttúrunni og skipulagi og hönnun bygginga og rýmis. Aðrar helstu hindranir tengjast þjónustu og aðstoð ásamt stjórnsýslulegum þáttum.

Ályktun: Rannsóknin varpar ljósi á reynslu einstaklinga með mænuskaða á áhrifum umhverfis á þátttöku í daglegu lífi og getur nýst við skipulag og framkvæmd þjónustu við markhópinn. Einnig getur hún auðveldað ráðamönnum að skilja betur þarfir fólks með mænuskaða og taka ákvarðanir um breytingar til að ryðja hindrunum úr vegi.

 

 

V-21    Vonir og væntingar fjölskyldna í endurhæfingarferlinu: Fræðileg samantekt

Dóróthea Bergs, Ellen Þórarinsdóttir, Marta Kjartansdóttir

Endurhæfingardeild Grensási, Landspítala

Dorothea@landspitali.is

Inngangur: Von, örvænting, þjáning og mögulegar líkur á bata eru hugsanir sem líf fjölskyldna fer að snúast um þegar fjölskyldumeðlimur fær langvinnan sjúkdóm. Þetta hefur áhrif á fjölskyldutengslin og getur haft truflandi áhrif á endurhæfingarferli sjúklings. Þó hjúkrunarfræðingar séu vel meðvitaðir um hlutverk sitt í að safna upplýsingum og meta líkamlegt ástand sjúklinga, skortir þá oft frumkvæði í að efla og styrkja vonir og væntingar aðstandenda. Ef byggt er upp gott meðferðarsamband í gegnum fjölskylduhjúkrun, er hægt að takast á við og draga úr neikvæðum tilfinningum og hugsunum fjölskyldunnar.

Eftirfarandi spurningar voru settar fram;

1. Hvaða vonir hafa fjölskyldur í endurhæfingarferlinu?

2. Hvað er hlutverk hjúkrunar í að greina vonir/vonleysi fjölskyldna?

3. Hvernig er hægt að efla hjúkrunarfræðinga í að nota mats- og
    meðferðarlíkan fjölskylduhjúkrunar?

Aðferð: Notuð var kerfisbundin, fræðileg samantekt. Leitað var í eftirfarandi gagnabönkum: Medline, Pubmed, Cinahl, OVID, PsycInfo og Synergy upp að árinu 2009. Notuð voru eftirfarandi lykilorð:Von, væntingar, þátttaka, fjölskylda, fjölskylduhjúkrun, fötlun, lífsgæði og þessi leitarorð voru ennfremur samþætt. Efni var lesið yfir og metið af tveim rannsakendum og flokkað m.t.t. rannsókna- og fræðigreina þar sem lögð var áhersla á kenningar og hugtök tengt viðfangsefninu.

Niðurstöður: Alls voru 60 fræðigreinar teknar inn í samantektina og flokkaðar í eftirfarandi þemu: Von og lífsgæði; von og væntingar fjölskyldna; að kenna um vonina; að byggja upp meðferðasamband.
Ályktun: Vonin er mikilvægur þáttur í því að ná bata. Með því að efla von, aukast lífsgæði fjölskyldna og batinn eða aðlögunin að heilsufari verður auðveldari.

 

 

V-22    Gott næringarástand leiðir til betri lífsgæða heilablóðfallsjúklinga

Dóróthea Bergs, Marianne Klinke, Þóra Hafsteinsdóttir

Endurhæfingardeild Grensási, Landspítala, hjúkrunarfræðideild HÍ

Dorothea@landspitali.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknar er að kanna hvort innleiðing og notkun klínískra hjúkrunarleiðbeininga um mat og varnir gegn næringar- og vökvavandamálum heilablóðfallsjúklinga leiði til betra heilsufarsástands þeirra.

Markmið: Markmiðið er að kanna áhrif notkunar á klínískum hjúkrunarleiðbeiningum á; næringarástand, hreyfigetu, fylgikvilla og lífsgæði heilablóðfallsjúklinga.

Aðferðir: Rannsóknin er framsýn (prospective), rannsókn með viðmiðunarhópi fyrir innleiðingu klínískra leiðbeininga um mat og varnir gegn næringar- og vökvavandamálum heilablóðfallsjúklinga og tilraunahópi eftir innleiðingu. Upplýsinga er aflað varðandi næringarástand sjúklingsins, getu hans til að hreyfa sig, sjálfsbjargargetu, lífsgæði og fylgikvilla sem tengjast næringarvandamálum og truflunum á salt- og vökvabúskap. Sjúklingum sem uppfylla skilyrði til þátttöku, þ.e. eru með nýgreint heilablóðfall, samþykkja þátttöku (eða maki eða forráðamaður), búa á stór höfuðborgarsvæðinu og hafa lagst inn síðustu 3 sólarhringa er boðin þátttaka í rannsókninni. Í viðmiðunarhóp (fyrir innleiðingu á leiðbeiningum) voru heilablóðfallsjúklingar sem lögðust inn frá lok janúar til loka maí 2009. Þeir sjúklingar sem lögðust inn á Grensás var fylgt eftir þangað en þeir sem útskrifuðust heim boðið að koma í blóðprufur og viðtal í Fossvogi. Klínískar leiðbeiningar um næringu og vökvaástand verða síðan innleiddar haust 2010. Þegar innleiðingu er lokið mun sjúklingum verða boðin þátttaka í tilraunarhópi í 4 mánuði..

Niðurstöður: Endanlegir þátttakendur í fyrri hluta voru 62. Meðalaldur var rétt rúmlega 70 ár og 50% þeirra útskrifaðist heim. Um 20% sjúklinga skoruðu <2 á MUST næringarkvarða, þ.e. eru í áhættu vegna vannæringar.

Ályktun: Vonast er til þess að niðurstöður rannsóknar sýni fram á bætt næringarástand heilablóðfallssjúklinga eftir innleiðingu gagnreyndra klínískra leiðbeininga, ásamt cost-effectiveness þ.m.t. færri fylgikvillum, styttri legutíma og bættum lífsgæðum.

 

 

V 23    Aukið úthald og minni fallhætta hjá nýrnasjúklingum eftir þjálfun á meðan þeir voru í skilun

Ebba Malmberg, Emma Strandberg, María Ragnarsdóttir

Endurhæfing Landspítala Hringbraut

ebbab@andspitali.is

Inngangur: Við upphaf meðferðar í skilun er talið að líkamshreysti sjúklinga sé um 50% af því sem búast má við af heilbrigðum jafnöldrum. Líkamsþjálfun er því mikilvæg til að sporna við síminnkandi líkamlegri getu og aukinni þörf fyrir aðstoð.

Markmið: Að kanna áhrif sex mánaða þjálfunar á sjúklinga í blóðskilun.

Aðferðir: Sjúklingum í blóðskilun á LSH var boðin þátttaka í þjálfun og þáðu 21 af 35. Líkamleg geta þeirra var mæld með 6-mínútna gönguprófi, 6MGP, “Timed-up-and go” TUG, standa upp af stól 10 sinnum með tímatöku og Rombergs prófi. Borg skali var notaður til að meta álag í 6MGP og TUG prófi. Sjúklingarnir hjóluðu í MOTOmed letto hjóli (ReckMOTOmed.com) í 12 – 40 mínútur þrisvar í viku með vaxandi álagi eftir getu hvers og eins. Við úrvinnslu gagna var notuð lýsandi tölfræði og Wilcoxon Signed Ranks Test með SPSS forriti, 11. útgáfu.

Niðurstöður: Tólf sjúklingar (níu karlar og þrjár konur) luku 3ja mánaða þjálfun, meðal aldur var 66±16 ár (37-88), meðalfjöldi ára í blóðskilun var 4±3.6 (1-11) ár og BMI 25.4±3.4 (20-31). Rombergs próf var jákvætt hjá fjórum í upphafi en þrem eftir þriggja mánaða þjálfun. Níu (sjö karlar og tvær konur) luku 6 mánaða þjálfun. Engin þeirra var með jákvætt Rombergs próf. Göngulengd í 6MGP jókst marktækt eftir þriggja og sex mánaða þjálfun (p=0.002; p=0.012), tími í TUG prófi (p=0.041; p=0.044) og að standa upp af stól 10 sinnum (p=0.015; 0.018) styttist marktækt miðað við fyrir þjálfun.

Ályktun:Þolþjálfun eykur göngulengd og minnkar fallhættu hjá sjúklingum í blóðskilun.

Lykilorð:Nýrnabilun, þolþjálfun, 6MGP, “Timed Up &Go”, Rombergs próf.

 

V-24    Tíðni og einkenni kynferðisofbeldis gegn konum sem leituðu til Neyðarmóttöku á árunum 1998 til 2007

Agnes Gísladóttir1, Berglind Guðmundsdóttir2,3, Ragnhildur Guðmundsdóttir1, Eyrún Jónsdóttir2, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir2, Már Kristjánsson2, Unnur Anna Valdimarsdóttir1

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ, 2bráðasviði, 3geðsviði Landspítala

agnesg@hi.is

Inngangur: Kynferðisofbeldi er alvarlegt lýðheilsuvandamál um allan heim en rannsóknir hafa sýnt að slíkt ofbeldi er algengt og getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga sem verða fyrir því.

Markmið: Að kanna tíðni og einkenni kynferðisofbeldis gegn konum sem leituðu til Neyðarmóttöku Landspítala frá 1998 til 2007.

Aðferðir: Komuskýrslur voru lesnar og kóðaðar og ópersónugreinanlegur gagnagrunnur útbúinn. Árlegt nýgengi var reiknað fyrir fjölda koma, og einkenni ofbeldis, þolenda og gerenda borin saman yfir tíma.

Niðurstöður: Af 1152 komum kvenna á Neyðarmóttökuna voru 827 (71,8%) vegna alvarlegs kynferðisofbeldis (nauðgunar). Komum fjölgaði á tímabilinu, úr 12,5 í 16,9 fyrir hverjar 10.000 konur á Íslandi á aldrinum 13-49 ára (p=0,01). Komum vegna alvarlegs kynferðisofbeldis fjölgaði einkum meðal 18-25 ára kvenna (p<0,01). Einkenni voru borin saman milli 1998-2002 og 2003-2007. Árásum af hendi fleiri en eins geranda fjölg-
aði úr 13,7% í 19,0% (p=0,04). Hlutfall kvenna sem hafði neytt áfengis þegar ofbeldið átti sér stað var óbreytt, en á seinna tímabilinu var hærra hlutfall af þeim sem höfðu neytt áfengis með verulega skerta vitund (p<0,01) og fleiri voru undir áhrifum ólöglegra vímuefna
(p<0,05). Hlutfall erlendra gerenda hækkaði ekki umfram fjölgun 15-49 ára karlmanna á Íslandi með erlent ríkisfang.

Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til aukningar á komum á Neyðarmóttöku á árunum 1998 til 2007, einkum meðal 18-25 ára kvenna. Vert er að veita aukningu á fjölda gerenda, skertu vitundarástandi og vímuefnaneyslu þolenda eftirtekt. Kynferðisofbeldi er lýðheilsuvanda-mál á Íslandi sem og annars staðar, því er nauðsynlegt að þjónusta sé veitt og stuðlað að forvörnum.

 

 

V-25    Algengi þunglyndis meðal aldraðra með sykursýki af tegund 2 á Íslandi

Benedikt Bragi Sigurðsson1,2, Thor Aspelund3,5, Arna Guðmundsdóttir4, Brynja Björk Magnúsdóttir2, Þórður Sigmundsson5,6, Vilmundur Guðnason 3,5, Eiríkur Örn Arnarson2,5

1Háskólanum í Kaupmannahöfn, 2sálfræðiþjónustu Landspítala, geðsviði, 3Hjartavernd, 4göngudeild sykursjúkra, Landspítala, 5HÍ, 6geðsviði Landspítala

eirikur@landspitali.is

Inngangur: Sykursýki af tegund 2 (SS2) og þunglyndi eru alvarlegir sjúkdómar. Rannsóknir benda til að algengi þunglyndis sé meira meðal SS2 en heilbrigðra.

Markmið:Að kanna samband þunglyndis og SS2 meðal aldraðra. Þeir sem frumgreindust með SS2 við rannsókn voru bornir saman við áður greinda. Kannað var hvort tími frá greiningu og insulín-meðferð hefði áhrif á sambandið og mat þunglyndra og sykursjúkra á eigin heilsu.

Aðferðir: Gögn voru fengin úr Öldrunarrannsókn Hjartaverndar, sem var handahófsúrtak (n = 5.764), dregið úr þýði eftirlifandi Íslendinga, sem bjuggu á Stór-Reykjavíkur svæðinu árið 1967 (N = 30.795) og voru hluti af Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar (n=19.381). Þátttakendur, sem uppfylltu viðmið, voru 4.605 (42,7% karlar og 57,3% konur), meðalaldur 76,3 ár. Þátttakendur mátu eigin heilsu á fimm stiga kvarði. Þunglyndi var skimað með GDS, en M.I.N.I. til staðfestingar greiningu. Blóðsykurpróf staðfesti nýjar greiningar á SS2.

Niðurstöður: Samband þunglyndis og SS2 sem varað hafði í minna en 10 ár (áhættuhlutfall = 1,65), og þunglyndis og þeirra með SS2 sem greindust við rannsókn (áhættuhlutfall = 1,02), var ekki marktækt. Marktækt samband reyndist milli þunglyndis og þekktrar SS2 sem varað hafði í 10 ár eða lengur, áhættuhlutfall = 1,98 (95% öryggisbil: 1,13-3,47, p = 0,018) og þunglyndis og þess að vera á insulin-meðferð vegna SS2 (áhættuhlutfall = 3,88 – 99% öryggisbil 1,55-9,69 p = 0,004). Þunglyndir og sykursjúkir mátu heilsu sína marktækt verr en samanburðarhópur. Stjórnað var fyrir 10 breytum, sem útskýrðu ekki sambandið.

Ályktun: Algengi þunglyndis meðal SS2 eykst eftir því, sem lengra hefur liðið frá greiningu. Ekki var samband milli þunglyndis og þeirra sem greindust með SS2 við rannsókn og bendir til að sálfélagslegir þættir tengdir SS2 auki líkur á þunglyndi fremur en líffræðilegir.

 

 

V-26    Geð- og atferlisbreytingar hjá einstaklingum sem greindir hafa verið með heilabilun og álag á aðstandendur

Sólveig Rósa Davíðsdóttir1, Kristín Hannesdóttir1, Jón G. Snædal2

1 Geðsviði Landspítala, 2Minnismóttöku Landakots

solvrosa@landspitali.is

Inngangur:Rannsóknir sýna að geð- og atferlisraskanir eru algengur fylgikvilli heilabilana. Talið er að þær geti þróast í nokkurn tíma áður en vitræn skerðing gerir vart við sig og einnig áður en klínísk greining á sjúkdómnum á sér stað. Hegðunartruflanir (t.d. þunglyndi og sinnuleysi), breytingar á atferli (t.d. árásargirni) og breytingar á líffræðilegri virkni (svefn og matarlyst) eru algengar. Sýnt hefur verið fram á að geðraskanir hafa í för með sér aukið álag á umönnunaraðila og auki líkur á innlögn sjúklings á sjúkrahús. Jafnframt geta lífsgæði bæði sjúklinga og aðstandenda þeirra skerðst.

Markmið:Markmiðið með þessari rannsókn var að meta hegðunarbreytingar hjá sjúklingum með heilabilun sem og álag og streitu á aðstandendur.

Aðferðir:Þátttakendur í rannsókninni voru 38 aðstandendur sjúklinga sem greindir höfðu verið með heilabilun á Minnismóttöku Landakots. Til að meta breytingar á atferli sjúklings (ásamt atferlistengdum einkennum og þunglyndi) voru Taugageðlækniskvarði með álagskvarða fyrir aðstandendur (NPI-D), auk annarra kvarða, lagðir fyrir aðstandendur. Álag og streita aðstandenda var metin með nokkrum kvörðum og spurningalistum.

Niðurstöður:Um 80% sjúklinga sýndu að minnsta kosti eina atferlistengda breytingu. Sinnuleysi var algengasta og alvarlegasta atferlisröskunin (82%) ásamt matarlyst og afbrigðilegum matarvenjum (66%). Atferlistengdar breytingar virðast hafa áhrif á álag og streitu aðstandenda, þá sérstaklega sinnuleysi sjúklings.

Ályktun:Geð- og atferlisraskanir virðast algengar hjá einstaklingum með heilabilun og þá sérstaklega sinnuleysi. Aukinn skilningur á atferlisröskunum í heilabilun getur leitt til sérhæfðari meðferðar og endurhæfingar, en einnig dregið úr álagi á aðstandendur.

 

 

V-27    Breytingar á vímuefnaneyslu kvenna á Íslandi og kynjamunur í dánartíðni fíknisjúkdóma

Steinn Steingrímsson,1 Hanne Krage Carlsen,2 Sigmundur Sigfússon,3 Andrés Magnússon1

Geðdeild Landspítala,1 Miðstöð í Lýðheilsuvísindum, læknadeild HÍ,2 geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri3

steinnstein@gmail.com

Inngangur: Áfengis- og vímuefnaneysla er alvarlegt heilsufarsvandamál á Íslandi, hún leiðir til ótímabærs dauða ungra einstaklinga og eykur mjög álag á sjúkrahús og geðdeildir. Í aldanna rás hafa það fyrst og fremst verið karlmenn sem hafa ánetjast áfengi og vímuefnum en það er ástæða til að ætla að hin síðari ár hafi þetta breyst með breyttum kynja-hlutverkum hérlendis.

Markmið: Markmið rannsóknar var að rannsaka breytt hlutfall sjúklinga sem hafa fíknigreiningu yfir 25 ára tímabil með sérstakri áherslu á kynja-hlutföll.

Aðferðir: Rannsóknin byggðir á íslenskum gagnagrunni sem hefur skráð allar innlagnir á geðdeildir á Íslandi síðastliðin 25 ár. Einnig var rannsakað hvort neysla vímuefna hjá einstaklingum með geðsjúkdóma hefði önnur áhrif á lifun kvenna en karla.Lifunargreining (survival analysis) var reiknuð með Cox proportional hazards regression líkani, leiðrétt fyrir aldri og árinu sem einstaklingurinn kom inn í rannsóknina.

Niðurstöður: Síðustu 25 ár hefur hlutfall innlagna vegna fíknisjúkdóma sífellt aukist á meðan að innlagnir vegna annarra geðkvilla hafa hlutfallslega minnkað. Fyrir 25 árum síðan var hlutfall þeirra sem lögðust inn á geðdeild vegna fíknisjúkdóma fjórir karlar fyrir hverja konu. Í dag er hlutfallið orðið 1,5:1. Dánartíðni vegna fíknisjúkdóma er hærri heldur en vegna geðklofa hjá konum, en ekki körlum. Meðal karlmanna með fíknisjúkdóma þá auka aðrir geðsjúkdómar á dánarlíkur þeirra, það
gildir hins vegar ekki um konur.

Umræða: Fíknisjúkdómar hafa orðið stöðugt algengari ástæða fyrir innlögnum á geðdeildir; neysla kvenna skýrir að mestu leyti þessa þróun. Tengsl fíknisjúkdóma og annarra geðkvilla er mismunandi meðal karla og kvenna hvað lifun áhrærir.

 

 

V-28    Lifun inniliggjandi geðsjúklinga með fíknisjúkdóm

Steinn Steingrímsson1,2, Thor Aspelund3, Sigmundur Sigfússon4, Andrés Magnússon1

Geðdeild Landspítala,1 læknadeild,2 raunvísindadeild HÍ,3 geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri4

steinnstein@gmail.com

Inngangur: Fíknisjúkdómur er algengur og alvarlegur sjúkdómur bæði meðal almenns þýðis og inniliggjandi geðsjúklinga. Fíknisjúkdómur getur verið meginorsök innlagnar á geðdeild eða verið meðvirkandi þáttur.

Markmið: Meginmarkmið rannsóknarinnar var að bera saman tvo hópa inniliggjandi sjúklinga; þá með og án fíknigreiningar.

Aðferðir: Rannsóknin náði til allra innlagna (18 ára og eldri) á geðdeildir Íslands á 25 árum. Gengið var út frá greiningu við fyrstu innlögn; bornir voru saman þeir sem höfðu fíknigreiningu við þá sem höfðu ekki þá greiningu. Útreikningar voru aðskildir fyrir kyn og notað Cox-áhættulíkindareikningur. Leiðrétt var fyrir aldri og innlagnarári. Sá hópur sjúklinga sem var bæði með fíknisjúkdóm og aðrar meðfylgjandi geðgreiningar var skoðaður sérstaklega.

Niðurstöður: Á tímabilinu lögðust inn 14.025 sjúklingar á geðdeild. Eftirfylgnitími var alls 156.123 ár. Lifun karla með fíknisjúkdóm var svipuð lifun geðklofasjúklinga án fíknisjúkdóms (HR=1,02, p>0,05) en verri borin saman við sjúklinga með lyndisraskanir (HR=0,86, p<0,05) og aðra geðsjúkdóma (HR=0,79, p<0,05). Lifun kvenna með geðklofa (HR=0,75, p<0,05), lyndisraskanir (HR=0,60, p<0,05) og aðra geðsjúkdóma (HR=0,66, p<0,05) var betri heldur en þeirra með fíknigreiningu. Önnur geðgreining ásamt fíknisjúkdóm borin saman við einungis fíknigreiningu jók marktækt dánartíðni karla (HR=1,23, p<0,05) en ekki kvenna (HR=1,11, p>0,05).

Ályktun: Fíknisjúkdómur hefur verri lífshorfur en lyndisraskanir og aðrir geðsjúkdómar án fíknisjúkdóms. Hjá körlum er lifun svipuð við fíknigreiningu og geðklofa án fíknigreiningar en fíknisjúkdómur gefur verri lífshorfur hjá konum. Önnur geðgreining samhliða fíknisjúkdómi eykur dánartíðni karla en ekki kvenna.

 

 

V-29    Samskipti heilahvela: Tengsl stærðar hvelatengsla við hliðlægni taugabrauta

Sunna Arnarsdóttir1,2, Marco Catani2

1Geðsviði Landspítala, 2Institute of Psychiatry, King´s College London

sunnaarn@landspitali.is

Inngangur:Starfræn sérhæfing vinstra og hægra heilahvels er áberandi þáttur í heilastarfi. Hvelatengsl (HT), stærsta taugabraut heilans, miðlar upplýsingum á milli hvelanna og almennt er talið að samband sé á milli stærðar HT og sérhæfingu hvela: stærri HT, meiri samhverfa í heilastarfi.

Markmið:Markmiðið var að athuga sambandið á milli stærðar HT og hliðlægni (e. lateralization) taugabrauta heilans. Búist var við að aukin stærð HT hefði fylgni við minni vinstri hliðlægni/aukna samhverfu taugabrauta og einnig kynjamun í þessu sambandi.

Aðferð:Rannsóknin var framsýn hóprannsókn á 25 einstaklingum (11 kvk/14 kk), mældum 14 og 19 ára. Hefðbundin og ,,diffusion tensor” segulómun (e. DTI) var notuð til að meta stærð og hliðlægni 13 tengi- og frávarpsbrauta (e. association & projection tracts) og fylgni mæld við stærð og breytingar HT á unglingsaldri (14-19 ára).

Niðurstöður:Stærri HT höfðu ekki alltaf fylgni við aukna samhverfu í staðsetningu taugabrauta og einnig mældist mismunandi samband á milli HT og tengi- og frávarpsbrauta. Stærri HT höfðu fylgni við minni vinstri hliðlægni frávarpsbrauta, en hliðlægnimynstur tengibrauta var flóknara. Aðeins tengibrautir tengdar tungumáli höfðu fylgni við breytingar á HT á unglingsaldri. Reyndust tvær þeirra meira hliðlægar í vinstra hveli, með auknum vexti fremsta hluta HT.

Kynjamunur mældist, meiri fylgni var á milli HT stærðar og tengi- og frávarpsbrauta hjá stúlkum en drengjum.

Ályktun:Niðurstöður benda til að vöxtur fremsta hlutar HT sé nauðsynlegur fyrir hliðlægni tungumálabrauta í vinstra hveli og styðja jafnframt hömlunarkenningu um hlutverk HT. Af þessum niðurstöðum má því álykta að ólíkar taugabrautir þroskist á mismunandi hátt og að vöxtur og stærð hvelatengsla geti haft áhrif þar á.

 

 

V-30    Áhrif geðheilbrigðisþjónustu og sjónarhorn notenda

Sveinbjörg J. Svavarsdóttir, Guðrún K. Blöndal, Kristín V. Ólafsdóttir, Halldór Kolbeinsson

Geðsviði Landspítala, endurhæfing

sveinbsv@landspitali.is

Bakgrunnur: Hátúns módelið í íslenska heilbrigðiskerfinu er einstakt. Það einkennist af dagdeild í sama húsi og langveikir geðfatlaðir einstaklingar búa. Deildin var legudeild á endurhæfingu geðsviðs LSH þar til í maí 2008 þegar henni var breytt í dagdeild (DAG HT 28), sem þjónar einstaklingum, sem búa sjálfstætt, ýmist í sama húsi og dagdeildin (n=38) eða annars staðar (n=25). Mikið hefur verið rætt og ritað um hversu óheppilegt er að hafa búsetu svo margra fatlaðra í einu húsi.

Markmið:Meta Hátúns módelið með því að bera saman ofangreinda hópa og kanna hvaða áhrif innlögn, þegar deildin var innlagnardeild, hafði á fjölda innlagnardaga á bráðadeildir geðsviðs LSH.

Aðferðir:Rannsóknin sem er um lífsgæði geðfatlaðra á DAG HT 28 er bæði megindleg og eigindleg. Þátttakendurnir eru metnir m.t.t. þarfa og að hve miklu leyti þær eru uppfylltar. Það er gert með CAN-R spurningalista. Þá voru lífsgæði þeirra mæld með lífsgæðalistanum QOL og loks voru ýmsar lýðfræðilegar, félagslegar og heilsutengdar breytur mældar. Þá er fjöldi legudaga á bráðadeildir geðsviðs LSH skoðaður fyrir og eftir innlögn í Hátún.

Klínískt og vísindaleg gildi: Niðurstöður rannsóknarinnar munu varpa ljósi á lífsgæði þátttakenda og skila sér í markvissari þjónustu í ljósi þekkingar á Hátúns módelinu.

Niðurstöður:Samantekt hefur verið gerð á fjölda innlagnardaga á bráðadeildum geðsviðs LSH fyrir og eftir innlögn í Hátúni og voru þeir 983 ári fyrir, 39 ári eftir, 38 tveimur árum eftir og 70 þremur árum eftir innlögn.

Samantekt: Gagnaöflun er lokið hjá þátttakendum sem búa í Hátúni, og fljótlega verður byrjað hjá þeim sem búa utan Hátúns. Lokaniðurstöður eru væntanlegar síðar á þessu ári. Ljóst er að þeir þátttakendur sem áður höfðu mikið notast við bráðadeildir geðsviðs þurftu lítið sem ekkert á því að halda eftir lengri tíma innlögn í Hátúni.

 

 

V-31    Algengi þrýstingssára á Landspítala: Áhættumat og forvarnir

Guðrún Sigurjónsdóttir1, Ásta Thoroddsen,2 Árún K. Sigurðardóttir3

1Grensásdeild Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild HÍ, 3heilbrigðisvísindasviði HA

gudsigr@landspitali.is

Inngangur: Þrýstingssár eru algeng vandamál í heilbrigðiskerfinu. Algengi þeirra erlendis er breytilegt, frá 7 til 45%. Þau hamla bata, rýra lífsgæði og eru kostnaðarsöm

Markmið: Að kanna a) algengi, alvarleika og staðsetningu þrýstingssára hjá inniliggjandi sjúklingum ákveðinn dag, b) helstu áhættuþætti sjúklinga að fá þrýstingssár; c) forvarnir, tegund undirlags og notkun snúnings- og hagræðingarskema á Landspítala.

Aðferðir: Rannsóknin var lýsandi þverskurðarrannsókn. Þýðið var inniliggjandi sjúklingar á Landspítala 7. maí 2008, 18 ára og eldri, að undanskildum sjúklingum á sængurkvenna- og geðdeildum. Notað var mælitæki Evrópsku ráðgjafarsamtakanna um þrýstingssár.
Niðurstöður: Þátt tóku 66,8% sjúklinga (n=219). Algengi þrýstingssára var 21,5% (n=47). Fimmtán sjúklingar voru með fleiri en eitt sár. Þrýstingssár voru samtals 66. Með 1. og 2. stigs þrýstingssár voru 70% (n=33), með 3. og 4. Stigs sár (fullþykktarsár) voru 30% (n=14).

Flest þrýstingssár voru á spjaldhrygg (n=20) og á hælum (n=16). Karlar voru með marktækt fleiri sár en konur. Í áhættu skv. Bradenkvarða voru 38% sjúklinga (n=80). Áætlaður legutími á deild var marktækt lengri og áhættustig á Bradenkvarða, að undanskildum raka- og þvag- og hægðaleka, voru marktækt lægri hjá sjúklingum með sár en hjá sjúklingum án sára. Fjórtán áhættusjúklingar lágu á svampdýnu og fjórir án áhættu lágu á loftskiptidýnu. Fimm snúnings- og hagræðingarskemar fundust.
Ályktun: Algengi þrýstingssára var fremur hátt, en þó ekki hærra en í mörgum sambærilegum rannsóknum. Aðgerðir til varnar þrýstingssárum virtust ómarkvissar, sjúklingar lágu ekki alltaf á réttu undirlagi miðað við áhættu og of fáir snúnings- og hagræðingarskemar fundust. Með aukinni þekkingu starfsfólks um áhættumat og varnir gegn myndun þrýstingssára á að vera unnt að lækka algengi þrýstingssára á Landspítala.

 

 

V-32    Meðferð í Bláa Lóninu bælir niður Th17 og Tc17 frumusvar hjá sjúklingum með psoriasis

Jenna Huld Eysteinsdóttir (a), Jón Hjaltalín Ólafsson (b), Steingrímur Davíðsson, Ása Brynjólfsdóttir (c), Bárður Sigurgeirsson(b), Björn Rúnar Lúðvíksson (b,d)

 (a) Húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala, (b) læknadeild HÍ, (c) Bláa Lónið Lækningalind, (d) ónæmisfræðideild Landspítala

jenna@landspitali.is

Inngangur: Meðferð í Bláa Lóninu er áhrifarík meðferð við psoriasis, en verkunarmáti þess er ekki að fullu þekktur.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar er að skoða bæði klínísk og ónæmisfræðileg áhrif meðferðar í Bláa Lóninu við psoriasis og bera saman við hefðbundna UVB ljósameðferð. Hér kynnum við niðurstöður frá fyrstu 18 þátttakendunum.

Aðferðir: Átta þátttakendur fengu tveggja vikna innlögn í Bláa Lónið ásamt fjögurra vikna UVB ljósameðferð, fimm þátttakendur fengu 6 vikna göngudeildarmeðferð í Bláa Lónið og fimm þátttakendur fengu 6 vikna UVB ljósameðferð á göngudeild. Psoriasis Area Severity Index (PASI) var reiknað út og blóði safnað fyrir meðferð og eftir tveggja og 6 vikna meðferð. Hlutfall T-fruma sem tjáðu CD4+/CD8+, IL-23 viðtakann (IL-23R) og CD45RO eða seyttu IL-17, IL-22, interferon-g (IFN-g) og tumor necrosis factor-a (TNF-a) eftir 16 klst örvun með anti-CD3 og anti-CD28 var metið með frumuflæðisjá.

Niðurstöður: Innlögn í Bláa Lónið leiddi til 74% bælingar á frumum sem tjá CD4+/CD45RO+/IL23R+ (Th17) svipgerð í T-frumum í blóði (p<0,05), og 79% bælingar á CD8+/CD45RO+/IL23+ (Tc17) svipgerð í T frumum í blóði (p<0,05). Th1 og Th17 svipgerða innanfrumu boðefnasvar eftir in vitro örvun fyrir og eftir meðferð mun verða kynnt. Þessi bólguhamlandi áhrif í blóði sáust einnig við klíníska skoðun þar sem PASI skor lækkaði um 79% við innlögn í Bláa Lónið, 74% við göngudeildarmeðferð í Bláa Lóninu og 62% við hefðbundna UVB ljósameðferð.

Ályktun: Th17 og Tc17 sjálfsofnæmissvar hefur sterka fylgni við psoriasis, ásamt því að meðferð í Bláa lóninu virðist hafa marktæk bólgueyðandi áhrif í blóði.

 

 

V-33    Að lofa hvern dag sem kemur: Andlegar og trúarlegar þarfir
fólks sem þiggur líknarmeðferð

Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir,1 Einar Sigurbjörnsson,2 Rannveig Traustadóttir,3 Sigríður Gunnarsdóttir,4 Valgerður Sigurðardóttir5

1Líknardeild Landspítala, Kópavogi, 2hugvísindasviði, 3félagsvísindasviði, hjúkrunarfræðideild HÍ og fræðasviði krabbameinshjúkrunar á Landspítala4, Líknardeild, Kópavogi5

gudlauga@landspitali.is

Inngangur:Andleg og trúarleg þjónusta er einn af meginþáttum líknarmeðferðar.

Markmið:Markmið rannsóknarinnar er að skoða andlegar og trúarlegar þarfir fólks sem þiggur líknarmeðferð. Leitast er við að meta vægi andlegra og trúarlegra þátta gagnvart lífsógnandi aðstæðum og áhrif þeirra á vellíðan.

Aðferðir:Byggt er á hagnýtri guðfræði sem felst í gagnrýninni guðfræði-legri greiningu sem leitast við að fjalla um mannlega reynslu. Eigindleg nálgun er notuð sem byggir á túlkunarfræðilegri fyrirbærafræði. Gagnasöfnun hefur farið fram og viðtöl hafa verið tekin við tíu einstaklinga sem þáðu líknarmeðferð á líknardeildum LSH og/eða voru í þjónustu heimahlynningar.

Niðurstöður:Gagnagreining sýnir að andleg og trúarleg reynsla fólks sem stendur nálægt dauðanum grundvallast á leitinni að merkingu og tilgangi. Niðurstöður birta gildi fjölskyldunnar og samskipta við fjölskyldumeðlimi þar sem fjölskyldan var einn af mikilvægustu þáttunum í lífi þátttakenda. Bænin skipti máli þar sem þátttakendur báðu sjálfir eða þáðu fyrirbænir annarra. Níu sögðust vera trúaðir en einn taldi sig ekki trúaðan. Dauðinn var álitinn eðlilegt ferli, ferðalag, hið óþekkta og ógn. Hugmyndir um líf eftir dauðann komu einnig fram. Vonin var lífgefandi afl sem hjálpaði þátttakendum.

Ályktun:Gildi rannsóknarinnar er að varpa ljósi á andlegar og trúarlegar þarfir fólks til að auka þekkingu og skilning meðferðaraðila í líknarmeðferð og fagfólks í heilbrigðisþjónustu á nauðsyn andlegrar og trúarlegrar þjónustu. Rannsóknin er nýjung í guðfræðirannsóknum.

 

 

V-34    Fjölskylduhjúkrun á lungnadeild - ávinningur af stuttum meðferðarsamræðum við hjúkrunarfræðing

Bryndís S. Halldórsdóttir, Erla Kolbrún Svavarsdóttir

Göngudeild A3 Landspítala Fossvogi og hjúkrunarfræðideild HÍ

brynhall@landspitali.is

Inngangur:Langvinn lungnateppa (LLT) er sjúkdómur sem leggur miklar byrðar á sjúkling og fjölskyldu hans. Fjöldi þeirra sem hafa LLT fer vaxandi og æ fleiri látast úr sjúkdómnum á hverju ári. Sjúklingar með LLT eru lagðir inn á lungnadeild þegar sjúkdómurinn ágerist. Fjölskylduhjúkrun nýtur vaxandi athygli í tengslum við langvinn veikindi. Þegar sjúklingur með langvinnan sjúkdóm er lagður inn á sjúkrahús er fjölskyldan mikilvæg í bata sjúklingsins. Hjúkrunarfræðingar á lungnadeild fá dýrmætt tækifæri við innlögn til að vinna með sjúklingum og fjölskyldum.

Markmið:Að meta ávinning af stuttum fjölskyldumeðferðarsamræður á lungnadeild.

Aðferðir:Stefnutilgáta var, að þeir sem fá stuttar fjölskyldu-meðferðar-samræður telji sig fá meiri stuðning en þeir sem fá hefðbundna hjúkrun á lungnadeild. Beitt var hálfstöðluðu rannsóknarsniði. Upplýsinga var aflað um bakgrunn þátttakenda auk þess að svara tveimur spurningalistum, um fjölskylduvirkni fyrir og eftir hjúkrunarmeðferð og um fjölskyldustuðning eftir hjúkrunarmeðferð. Þátttakendur eru nánustu ættingjar sjúklinga á lungnadeild. Alls 30, 15 í tilraunahópi (n=15) og 15 (n=15) í samanburðarhópi, 8 karlar og 22 konur, á aldrinum 19–³60 ára. Hjúkrunarmeðferðin fólst í einu stuttu meðferðarsamtali sem tók að meðaltali 23 mínútur.

Niðurstöður:Helstu niðurstöður voru að marktækur munur er á upplifuðum stuðningi á milli tilrauna- og samanburðarhóps sem styður rannsóknartilgátuna um að stuttar fjölskyldumeðferðarsamræður veiti nánustu ættingjum sjúklinga á lungnadeild meiri upplifaðan stuðning en hefðbundin hjúkrunarþjónusta á lungnadeild.

Ályktun:Rannsóknin er vísbending til hjúkrunarfræðinga um að stuttar fjölskyldumeðferðarsamræður geta bætt líðan fjölskyldna sjúklinga sem leggjast á lungnadeild og þannig aukið gæði þjónustunnar.

 

 

V-35    Þarfir, lífsgæði og einkenni kvíða og þunglyndis meðal aðstandenda sjúklinga með krabbamein

Nanna Friðriksdóttir,¹² Guðbjörg Guðmundsdóttir,¹ Arndís Jónsdóttir,¹ Hrefna Magnúsdóttir,¹ Kristín Lára Ólafsdóttir,¹ Þórunn Sævarsdóttir,¹ Svandís Íris Hálfdánardóttir,¹ Sigríður Gunnarsdóttir¹²

¹Lyflækningasviði Landspítala, ²hjúkrunarfræðideild HÍ

nannafri@landspitali.is

Inngangur: Aðstandendur sjúklinga með krabbamein hafa margvíslegar stuðningsþarfir sem oft er ekki mætt innan heilbrigðiskerfisins.

Markmið: Að kanna þarfir aðstandenda sjúklinga með krabbamein, sérstaklega þær sem ekki er mætt, lífsgæði, einkenni kvíða og þunglyndis og samband þessara breyta.

Aðferð:Lýsandi þversniðsrannsókn. Aðstandendur 332 krabba-meinssjúklinga samþykktu þátttöku og 223 (67%) luku rannsókn. Mælitækin voru Family Inventory of Needs, Quality of Life Scale og Hospital Anxiety and Depression Scale.

Niðurstöður:Af 20 þörfum var meðalfjöldi (SF) mikilvægra þarfa 16.6 (4.3) og mikilvægra þarfa mætt 9.9 (6.1). Konur höfðu fleiri þarfir en karlar (p=.02) og fengu færri þörfum mætt (p=.02). Ekki var munur á fjölda þarfa eftir tengslum við sjúkling , en makar voru líklegri til að fá þörfum mætt en aðrir (p<.05). Yngri (en 55 ára) höfðu fleiri þarfir en eldri (p=.04) og fengu færri þörfum mætt (p=.00). Heildarmeðallífsgæðaskor (SF) var 84.88 (14.7), svipað og hjá almenningi en makar höfðu verri lífsgæði en aðrir (p=.02). Marktæk jákvæð fylgni var á milli lífsgæða og fjölda þarfa mætt. Meðalkvíðaskor (SF) var 5.5 (2.8) og meðalþunglyndisskor 7.3 (2.7). Hvorttveggja hærra en meðal almennings og meðal íslenskra krabbameinssjúklinga í lyfjameðferð. Konur höfðu meiri einkenni kvíða en karlar (p=.01) og þeir sem höfðu einkenni kvíða voru með fleiri þarfir sem ekki var mætt heldur en þeir sem ekki höfðu einkenni (p=.02). Samband lífsgæða og einkenna kvíða og þunglyndis var marktækt.

Ályktun:Þrátt fyrir auknar áherslur á þjónustu fyrir aðstandendur virðast þeir ekki fá nema um helmingi mikilvægra þarfa mætt, sem getur haft áhrif á líðan og lífsgæði.

 

 

V-36    Vanstarfsemi heiladinguls í bráðafasa höfuðáverka og innanskúmsblæðinga: framsýn rannsókn

Pétur Sigurjónsson1,2,7, Ásta Dögg Jónasdóttir1,7, Ingvar Hákon Ólafsson3, Sigurbergur0 Kárason2,7, Guðrún Karlsdóttir4, Guðmundur Sigþórsson5, Rafn Benediktsson6,7, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir6,7.

1Lyflækningasviði, 2svæfinga- og gjörgæsludeild, 3heila- og taugaskurðdeild, 4endurhæfingardeild, 5klínískri lífefnafræðideild, 6innkirtla- og efnaskiptadeild Landspítala, 7læknadeild HÍ

petursig@landspitali.is

Inngangur: Höfuðáverkar (TBI) eru algengasta orsök fötlunar og dauða ungs fólks. Innanskúmsblæðingar (SAH) valda einnig fötlun og dauða. Rannsóknir sýna að TBI og SAH geti fylgt tímabundin eða varanleg vanstarfsemi heiladinguls (HP), allt að 50% í bráðafasa TBI.

Markmið: Meta algengi HP í bráðafasa eftir alvarlega TBI (A-TBI) og miðlungsalvarlega TBI (M-TBI) (Glasgow coma score £8 eða 9-12) og SAH á LSH.

Aðferðir: Á einu ári voru framsýnt valdir 21 TBI sjkl., 6 M-TBI og 15 A-TBI, 17 karlar og 4 konur, meðalaldur 34±13 ár (aldursbil 18-65 ára). Nítján SAH sjkl., 12 karlar og 7 konur, meðalaldur 54±14 ár (aldursbil 30-85 ára). Hormónagildi voru mæld við innlögn og 6 dögum síðar, kortisól að morgni dags 1-6 og synacthen próf á degi 6.

Niðurstöður: Á degi 6 höfðu, 3 af 6 M-TBI, 6 af 15 A-TBI og 3 af 19 SAH sjkl. miðlægan kynhormónaskort, einn A-TBI mið-lægan skjaldkirtilshormónaskort, þrír SAH sjkl. mögulegan vaxtar-hormónaskort, einn A-TBI sykursteraskort sem hafði lagast á degi 19. Tveir A-TBI og einn SAH sjkl. höfðu vanstarfsemi á tveimur hormónaöxlum. Sjö voru ekki athugaðir á degi 6, fjórir höfðu látist, þrír mættu ekki. Algengi HP við M-TBI og A-TBI til samans var 42,9% og SAH 26,3%.

Ályktun:Algengi HP við TBI er sambærilegt við erlendar rannsóknir. Miðlægur kynhormónaskortur finnst í bráðafasa SAH eins og TBI. Vanstarfsemi annarra hormónaöxla er líklegri við A-TBI og SAH en M-TBI. Rannsóknin sýnir að HP getur fylgt SAH í bráðafasa líkt og TBI, því hefur ekki verið lýst áður.

 

 

V-37    Verkir, ávísanir á ópíóíða, fræðsla, fræðsluþarfir og ánægja með verkjameðferð meðal íslenskra krabbameinssjúklinga á ópíóíð meðferð

Sigríður Gunnarsdóttir,1 Valgerður Sigurðardóttir2

1,2Lyflækningasviði Landspítala, 1hjúkrunarfræðideild HÍ

sigridgu@landspitali.is

Tilgangur:Tilgangur rannsóknar var að meta styrk verkja meðal íslenskra krabbameinssjúklinga sem taka ópíóíða reglubundið, skoða hvaða læknar ávísuðu ópíóíðum, hvernig sjúklingafræðslu varðandi lyfin var háttað, þarfir sjúklinga fyrir fræðslu og ánægju þeirra með verkjameðferðina.

Aðferðir: 150 sjúklingar, þátttakendur í alþjóðlegri rannsókn Evrópsk rannsókn á lyfjaerfðafræði ópíóíða, svöruðu stuttum verkjalista (Brief Pain Inventory) auk spurninga varðandi verkjameðferð.

Niðurstöður: Niðurstöður voru skoðaðar með lýsandi tölfræði. Meðalaldur var 64 ár, 41% voru karlar og 59% konur. Flestir (67%) fengu þjónustu á dag- og göngudeildum eða í heimahúsum. Meðaltími (sd) frá greiningu var 36,32 (55,14) mánuðir og frá upphafi ópíóíðanotkunar voru 4,04 (6,03) mánuðir.

Meðalgildi (sd) á styrk verkja var 11,64 (7,22) á kvarða frá 0-40. Meðalgildi jafngildisskammta morfíns, gefnir reglubundið, var 378.03 (592.23) mg og 35,00 (265.86) mg fyrir gegnumbrotsverki. Nær allar (97%) ávísanir á ópíóíða voru frá krabbameinslækni. Um 70% sjúklinga sögðust hafa fengið upplýsingar um ópíóíða og mögulegar aukaverkanir þeirra. Upplýsingarnar voru oftast gefnar munnlega (63%) af meðferðarlækni eða hjúkrunarfræðingi, en sjaldan fylgdu skriflegar upplýsingar (18%). Þriðjungur sjúklinga sögðust hafa fengið upplýsinga um aðra meðferð við verkjum en lyf. Flestir (70%) sjúklingar vildu meiri upplýsingar um lyfin, verkun þeirra og aukaverkanir. Um 80% voru mjög ánægðir eða ánægðir með verkjameðferðina. Aðeins 2,9% voru ósáttir.

Ályktun: Niðurstöðurnar benda til þess að bæta þurfi sjúklingafræðslu í tengslum við verkjameðferð. Íslenskir krabbameinssjúklingar eru almennt ánægðir með verkjameðferðina þrátt fyrir að þeir hafi töluverða verki sem er í takt við niðurstöður erlendra rannsókna.

 

 

V-38    Vísbendingar um óæskileg áhrif lyfja sem leiða til innlagna á sjúkrahús

Guðrún Þengilsdóttir1, Anna Birna Almarsdóttir1, Þórunn K. Guðmundsdóttir2, Aðalsteinn Guðmundsson3, María Heimisdóttir4

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Sjúkrahúsapóteki 3öldrunarlækningum, 4hag og upplýsingarmálum Landspítala

thorunnk@landspitali.is, gth2@hi.is

Inngangur: Óæskileg áhrif lyfja (ÓÁL) er hugtak sem á við um að lyfjanotkun valdi sjúklingi á einhvern hátt skaða. Margar rannsóknir hafa verið gerðar á ÓÁL, meðal mismunandi hópa sjúklinga, á mismunandi þrepum í heilbrigðiskerfinu og með mismunandi aðferðafræði. Niðurstöður benda til að líkur á ÓÁL fari vaxandi eftir því sem sjúklingur tekur fleiri lyf og séu oft meira vandamál meðal aldraðra. ÓÁL hafa lítið verið rannsökuð á Íslandi.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að þróa aðferðafræði til að meta tengsl ÓÁL við innlagnir á LSH.

Aðferðir: Rannsakaðar voru bráðainnlagnir 369 sjúklinga, ³75 ára, á LSH árið 2007. Ræsimerkjaaðferð (e.trigger tool) var þróuð, með því að lesa sjúkraskrá afturrýnt í leit að 66 fyrirfram ákveðnum ræsimerkjum. Einnig var þróuð aðferðafræði, byggð á ræsimerkjum sem fundust og lyfjum sem sjúklingur var á við komu til að meta líkurnar á að innlögn væri vegna ÓÁL.

Niðurstöður: Að meðaltali fundust 4,8 ræsimerki hjá hverjum sjúkling. Sjúklingar á fjöllyfjameðferð (³7 lyf) voru með fleiri ræsimerki en þeir sem voru ekki á fjöllyfjameðferð. Fjöldi ræsimerkja var mismunandi milli sjúklinga sem tóku eða tóku ekki lyfin fúrósemíð, kalíum, warfarin og digoxin og ákveðin ræsimerki reyndust vera sértæk fyrir sjúklinga á þeim lyfjum.

Ályktun: Auðvelt og fljótlegt var að nota ræsimerkjalistann, en í heild reyndist hann töluvert næmari en listar í öðrum rannsóknum. Endurskilgreina þarf val og viðmiðunarmörk ræsimerkja fyrir framhaldsrannsókn. Sum ræsimerki fundust of oft til að koma að gagni við greiningu ÓÁL, en önnur virtust vera sértæk til að greina ástand sem rekja má til tiltekinna lyfja. Til að leggja frekara mat á styrkleika tengsla ræsimerkja til að skima fyrir ÓÁL, er nauðsynlegt að fá sérfræðiálit á því hvaða innlagnir eru raunverulega vegna ÓÁL.

 

 

 

 

V-39    Skráning og mat á ávinningi íhlutunar lyfjafræðinga á deildum sem njóta klínískrar lyfjafræðiþjónustu

María Erla Bogadóttir1, Anna Birna Almarsdóttir1, Anna I. Gunnarsdóttir2, Þórunn K. Guðmundsdóttir2, Pétur S. Gunnarsson3

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Sjúkrahúsapóteki Landspítala, 3Actavis og RUL

thorunnk@landspitali.is, meb1@hi.is

Inngangur: Klínísk lyfjafræðiþjónusta er starfrækt á völdum deildum LSH, með þátttöku lyfjafræðinga í stofugangi, skráningu lyfjasögu, yfirferð og eftirfylgni lyfjaávísana og lyfjaupplýsingagjöf.

Markmið: Að meta klínísk og hagræn áhrif íhlutana lyfjafræðinga þar sem klínísk lyfjafræðiþjónusta er veitt.

Aðferðir: Lyfjafræðingar skráðu íhlutanir á sérhannað eyðublað, á 6 legudeildum. Meistaranemi í lyfjafræði og klínískur lyfjafræðingur flokkuðu íhlutanirnar. Lyfjatengd vandamál voru flokkuð skv. Blix and Viktil og Cipolle et.al. og klínískt mikilvægi var flokkað skv. Overhage & Lukes og Bosma.

Niðurstöður: Íhlutanir voru 684. Í 58,6% tilfella voru íhlutanir teknar til greina, 2,8% ekki teknar til greina, 24,3% átti ekki við/óútfyllt og 14,3% var ekki fylgt eftir. Lyfjatengd vandamál voru 758, 32% tengd virkni lyfs, 24,2% öðrum vandamálum, 17,1% meðferðarumræðu, 15,9% öryggi meðferðar og 10,5% ábendingu. Í 4,9% tilfella var íhlutun metin sem mjög þýðingarmikil - ákaflega þýðingarmikil, 54,6% ekkert mikilvægi - nokkuð þýðingamikil og 40,5% þýðingamikil. Engin íhlutun leiddi af sér óheppileg áhrif. Gögn vantaði til geta lagt mat á hagræn áhrif íhlutana.

Ályktanir: Eftirspurn virðist vera eftir klínískri lyfjafræðiþjónustu á LSH, en 11,5% íhlutana var á öðrum deildum en þeim sem njóta þjónustunnar. Sterk vísbending er um að læknar kunni að meta íhlutanir lyfjafræðinga þar sem meirihluti þeirra var tekin til greina. Lyfjatengd vandamál skráð gefa til kynna að lyfjafræðingar gegna mikilvægu hlutverki í lyfjafræðilegri umsjá. Skráningu íhlutana þarf að þróa áfram, til þess að meta nánar klínísk og hagræn áhrif klínískar lyfjafræðiþjónustu. Vísbendingar eru um að íhlutanir lyfjafræðinga geti leitt til lækkunar á lyfjakostnaði LSH.

 

 

V-40    Faraldsfræði gáttatifs undanfarna tvo áratugi og spá um framtíðarþróun

Höfundar: Hrafnhildur Stefánsdóttir1, Thor Aspelund2, Vilmundur Guðnason2, Davíð O. Arnar1

1Lyflækningasviði Landspítala, 2Hjartavernd

hrafnhis@landspitali.is

Inngangur:Gáttatif getur valdið verulegum einkennum, hefur alvarlega fylgikvilla og því fylgir mikill kostnaður. Markmið rannsóknarinnar var að kanna þróun nýgengis og algengis gáttatifs hér á landi og reyna að spá fyrir um hver fjöldi sjúklinga með gáttatif verður næstu áratugina.

Aðferðir: Leitað var afturvirkt að öllum höfuðborgarbúum sem greinst höfðu með gáttatif á LSH frá 1987 til 2008. Þróun nýgengis og algengis var metið með Poisson regression. Sett var upp líkan sem byggir m.a. á nýgengi gáttatifs, dánartíðni og mannfjöldaspá á Íslandi til að spá fyrir um algengi gáttatifs fram til 2050.

Niðurstöður: Kyn- og aldursstaðlað nýgengi gáttatifs per 1000 persónuár var 2,0 árið 1991 og 2.4 árið 2008. Aukning á hverju ári var 0,1% (p=ns) hjá körlum og 0,9% (p=0,003) hjá konum. Frá 1998 til 2008 jókst kyn- og aldursstaðlað algengi gáttatifs úr 1,5% í 1,9% (p= 0,001). Hjá einstakling-um ³75 ára var algengið 18,0% hjá körlum og 11,7% hjá konum. Áætlað er að fjöldi einstaklinga á Íslandi sem greinst hafa með gáttatif sé um 4500 í dag, árið 2050 verði fjöldinn 10700 ef nýgengi gáttatifs helst óbreytt en 12000 ef nýgengi hjá konum eykst áfram.

Ályktun: Gáttatif er algengur sjúkdómur sérstaklega hjá eldri einstaklingum. Nýgengi þess hefur farið vaxandi meðal kvenna en ekki karla á síðustu tveimur áratugum. Búist er við að fjöldi sjúklinga með gáttatif muni þrefaldast á næstu fjórum áratugum. Því er líklegt að heilsufars-legar afleiðingar gáttatifs eigi eftir að verða enn meira áberandi.

 

V-41    Sheehan heilkenni á 21. öld

Hallgerður Lind Kristjánsdóttir1, Sigrún Perla Böðvarsdóttir2, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir1,3

1Lyflækningasviði, 2kvennadeild Landspítala, 3

hallgerdur.lind@gmail.com

Inngangur: Sheehans heilkenni (SH) er heiladingulsbilun sem verður hjá konum eftir fæðingu. Fyrir hálfri öld var algengið 10-20 per 100.000 konur. Með betri fæðingarhjálp hefur algengi SH minnkað og því fengið litla athygli.

Markmið: Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna algengi SH á 21. öldinni á Íslandi.

Efni og aðferðir: Sjúklingar voru fundnir með viðtölum við alla starfandi innkirtlasérfræðinga á Íslandi og rafræna skráningarkerfi LSH frá 1983 var skannað. Upplýsingum varðandi fæðingarhjálp, einkenni við greiningu og niðurstöður hormónaprófa var safnað.

Niðurstöður: Átta konur fundust með SH og algengi því 5,1 per 100.000 konur. Meðalaldur við inngöngu í rannsókn var 51,5 (spönn 41-81) ár. Elsta konan (fædd 1928) var útilokuð vegna skorts á upplýsingum. Meðalaldur við fæðingu og greiningu var 33,0 (spönn 21-39) ár og 36,6 (spönn 30-41) ár og greiningartöf (GT) því 2-240 mánuðir. Konan með lengstu GT greindist fyrir tilviljun. Fjórar konur höfðu lágan blóðþrýst-ing í fæðingu og fimm höfðu hlotið mikið blóðtap (>1000 mL). Einungis ein fæðingin var fylgikvillalaus. Algengasta einkennið var vangeta til að mjólka og að fara aftur á blæðingar. Sjúklingarnir voru með 3-5 hor-mónaöxla skaðaða.

Umræður: Lágt algengi SH á Íslandi skýrist mögulega af góðri fæðingarhjálp. Löng GT og tilviljanagreiningar benda til þess að einhverjar konur séu ógreindar úti í samfélaginu.

Auðvelt er að greina og meðhöndla SH en ógreint getur það verið lífshættulegt. Mikilvægt er að læknar og ljósmæður séu vakandi fyrir greiningunni.

 

 

V-42    Árangur Landspítala í fyrirbyggjandi meðferð gegn bláæðasegasjúkdómum - framsýn þversniðsrannsókn

Hallgerður Lind Kristjánsdóttir1, Guðný Stella Guðnadóttir1, Sigríður Bára Fjalldal1, Hulda Rósa Þórarinsdóttir2, Agnar Bjarnason1, Óskar Einarsson1

1 Lyflækningasviði, 2 svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala

hallgerdur.lind@gmail.com

Inngangur:Bláæðasegasjúkdómar (venous thromboembolism (VTE)) eru taldir valda 5-10% af dauðsföllum hjá inniliggjandi sjúklingum. ENDORSE, fjölþjóðleg rannsókn frá 2008 sýndi að 51,8% sjúklinga á bráðadeildum voru í áhættuhópi fyrir VTE en af þeim fengu 58,5% og 39,5% sjúklinga á skurð (SKD)- og lyflækningadeildum (LD) forvarnar-meðferð (1). Tilgangur rannsóknarinnar er að sjá hver árangur LSH er í að veita fyrirbyggjandi meðferð gegn VTE. Niðurstöðurnar verða bornar saman við árangur annarra landa úr ENDORSE.

Efni og aðferðir: Þann 2.des 2009 var farið yfir sjúkraskrár allra inni-liggjandi sjúklinga á SKD og LD LSH. Kannað var hvort viðkomandi var að fá fyrirbyggjandi meðferð gegn VTE skv. leiðbeiningum American College of Chest Physicians (ACCP) frá 2008 (2).

Niðurstöður:Inntökuskilyrðin uppfylltu 251 sjúklingur. Leiðbeiningum ACCP var fylgt hjá 82% sjúklinga á SKD og 76% á LD. Inniliggjandi sjúklingar á LSH voru í 47% tilfella með ábendingu fyrir forvarnar-meðferð (áhættusjúklingar) og af þeim fengu 57% slíka meðferð. Áhættusjúklingar fengu forvarnarmeðferð í 78% tilfella á SKD og 26% tilfella á LD.

Umræður:Árangur skurðlæknisdeilda LSH var góður og yfir meðaltali í ENDORSE rannsókninni en árangur lyflæknisdeilda var slakur. Skurðlæknar eru betur meðvitaðir um efnið en eins eru ábendingar skýrari. Í þessum niðurstöðum felst tækifæri til að bæta gæða þjónustu LSH. Besta leiðin til þess er að deildir hafi skýrar leiðbeiningar um fyrirbyggjandi meðferð, notist við stöðluð innlagnafyrirmæli eða kvaðir í tölvuskráningu lyfja.

 

V-43    Áhrif natalizumab (Tysabri) meðferðar á þreytu hjá MS-sjúklingum

Sólveig Jónsdóttir, Elías Ólafsson, Haukur Hjaltason, Jónína Hallsdóttir, Sóley Þráinsdóttir

Taugalækningadeild Landspítala, læknadeild HÍ

soljonsd@landspitali.is

Inngangur:Þreyta er eitt algengasta einkenni MS-sjúkdómsins og skerðir verulega bæði lífsgæði og starfshæfni sjúklinga. Undanfarin ár hafa komið á markað lyf, sem draga úr bólguvirkni MS-sjúkdómsins, en áhrif þeirra á þreytu hafa lítið verið könnuð.

Markmið:Markmið rannsóknarinnar var að athuga áhrif 12 mánaða meðferðar með natalizumab á þreytu hjá MS-sjúklingum. Rannsóknin er hluti stærri rannsóknar, sem öllum MS-sjúklingum, sem fara á natalizumab meðferð á Íslandi, er boðin þátttaka í.

Aðferðir:Þreyta var mæld hjá 16 MS-sjúklingum (meðalaldur 45,9; konur 56,3%) fyrir natalizumab meðferð og aftur eftir 12 mánuði á meðferð. Þreyta var mæld með Modified Fatigue Impact Scale (MFIS) (skor 0 til 84; skor >38 = alvarleg þreyta). Þunglyndi var metið með Beck Depression Inventory (BDI). MFIS þreytukvarðinn var líka lagður fyrir16 heilbrigða einstaklinga (meðalaldur 47,5; konur 75%).

Niðurstöður:Meðal þreytuskor sjúklinga fyrir meðferð var 43,6 (SD 12,5) og lækkaði niður í 27,8 (SD 10,4) (p < 0,001) eftir 12 mánaða meðferð. Þreyta minnkaði hjá öllum sjúklingum nema einum. Fyrir meðferð voru 75% sjúklinganna með alvarlega þreytu, en eftir meðferð voru þeir 18,8%. Meðal þreytuskor hjá heilbrigðum var 16,8 (SD 9,3). Meðal þunglyndisskor fyrir meðferð hjá sjúklingum var 11,1 (SD 8,5) og eftir meðferð 8,2 (SD 6,8) (p = 0,06). Enginn sjúklinga mældist með alvarlegt þunglyndi.

Ályktun:Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til að tólf mánaða meðferð með natalizumab dragi mjög marktækt úr þreytu hjá MS-sjúklingum. Meðferðin hafði ekki marktæk áhrif á þunglyndiseinkenni. Niðurstöður vekja vonir um að lyfið natalizumab bæti bæði lífsgæði og starfshæfni MS-sjúklinga.

 

 

V-44    Faraldsfræði Multiple System Atrophy (MSA) á Íslandi

Anna Björnsdóttir1, Grétar Guðmundsson1,2, Hannes Blöndal3, Elías Ólafsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2taugadeild, 3meinafræðideild Landspítala

abjorns@gmail.com

Inngangur:MSA er síversnandi taugahrörnunarsjúkdómur sem leggst á einstaklinga eldri en 40 ára og einkennist af truflun í ósjálfráða taugakerfinu auk parkinsonisma eða einkennum frá litla heila. Sjúkdómurinn orsakast af a-synuclein útfellingum í glia frumum miðtaugakerfisins.

Markmið:Að ákvarða 10 ára nýgengi og stundaralgengi MSA á Íslandi.

Efni og aðferðir: Tilfella var leitað á taugadeild Landspítalans sem og hjá öllum starfandi taugalæknum á Íslandi. Það að auki voru allar sjúkraskrár göngudeildar taugadeildar með greininguna Parkinson sjúkdómur skimaðar á 10 ára tímabili.

Niðurstöður: 19 tilfelli MSA greindust á tímabilinu (11 konur, 8 karlar). Nýgengi var 0,6;100.000. Tíu voru lifandi 15. apríl 2009 þegar stundaralgengi var ákvarðað, 3.1:100,000. Sextán höfðu probable og þrír possible MSA skv. skilgreiningu. Sextán höfðu MSAp og þrír MSAc. Meðalaldur við greiningu var 68 ár en aldur við upphaf einkenna var 65 ár. Níu dóu á rannsóknartímabilinu. Þrír voru krufðir og greining MSA staðfest.

Ályktun: Nýgengi MSA á Íslandi er svipað því sem skýrt hefur verið frá í fyrri rannsóknum. Þetta er fyrsta faraldsfræðilega rannsóknin sem gerð er skv. nýjum og bættum greiningarskilmerkjum MSA svo vitað sé.

V-45    Nýgengi Multiple Sclerosis á Íslandi 2002-2007

Ólöf Jóna Elíasdóttir1, Elías Ólafsson1,2, Ólafur Kjartansson3

1Taugalækningadeild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3röntgendeild Landspítala

olofel@hi.is

Inngangur: Multiple sclerosis (MS) er algengur sjúkdómur og ein algengasta orsök fötlunar hjá ungu fólki.

Markmið:Við gerðum rannsókn til að ákvarða nýgengi MS á Íslandi á 6 ára tímabili.

Aðferðir: Leitað var að öllum MS sjúklingum sem greindust á sex ára tímabili (2002-2007) og höfðu búsetu á Íslandi. Tilfelli voru fundin úr gögnum sjúkrahúsa, og frá öllum sjálfstætt starfandi taugalæknum. Sjúklingarnir uppfylltu allir alþjóðleg skilmerki (Poser) um clinically definite MS og var greiningin miðuð við annað MS kast sjúklingsins. Nýgengi var reiknað út frá persónuárum þar sem tölur frá Hagstofunni voru notaðar.

Niðurstöður:Alls greindust 136 sjúklinga með MS á tímabilinu og þar af 102 (75%) konur. Meðalaldur við greiningu var 36,3 ár (konur 35.7 ár og karla 38,3 ár). Reiknað meðal árlegt nýgengi á tímabilinu 1. janúar 2002 til og með 31. desember 2007 var 7,6 á hverja 100 þúsund íbúa. Nær allir sjúklingarnir (99%) gengust undir MRI rannsókn við greiningu og 61% (83/136) af þeim uppfyllti Barkhof greiningarskilmerki fyrir MS. Rannsóknin var eðlileg hjá 0,7% tilfella. Sjónhrifrit var framkvæmt hjá 68% (93/136) sjúklinga, við greiningu 30% (28/93) sjúklinga höfðu óeðlilega rannsókn. Mænustunga var gerð hjá 78% (106/136) sjúklinga og 75% (80/106) höfðu oligoklonal bönd.

Ályktun:Mikilvægt er að hafa sem nákvæmastar upplýsingar um tíðni MS hér á landi, m.a. vegna mats á þörf þessa sjúklingahóps fyrir þjónustu heilbrigðiskerfisins. Þessar tölur eru hærri en áður hafa birst frá Íslandi.

 

 

V-46    Notkun á SPR (Statistical Pattern Recognition) á heilaritum til greiningar á Alzheimers sjúkdómi

Jón Snædal1), Gísli Hólmar Jóhannesson2), Þorkell Elí Guðmundsson1), Nicolas Blin2), Kristinn Johnsen2)

1) Öldrunarlækningadeild Landspítala, 2) Mentis Cura, rannsóknar- og þróunarfyrirtæki, Reykjavík

jsnaedal@landspitali.is

Inngangur:Alzheimers sjúkdómur (AS) veldur fyrst og fremst breytingum í heilaberki og ætti því að vera vel fallinn til rannsóknar með heilariti sem mælir fyrst og fremst heilabarkar-rafvirkni. Meginbreytingar á heilariti í AS er að hægar bylgjur verða meira áberandi en þær hraðari og aflið er minnkað. Næmi tækninnar þykir vera ágæt en sértækni lakari og greiningarnákvæmmi nálægt 80%. SPR er staðtöluleg greining á gögnum úr gagnagrunni, í þessu tilviki gagnagrunni heilarita. Með þessari aðferð er hægt að nota atriði sem skilja að rit heilbrigðra frá riti sjúklinga með sjúkdóm eins og AS.

Markmið:Markmiðið er að auka greiningarnákvæmni frá því sem nú er hægt með venjulegu megindlegu heilariti.

Aðferðir:Þátttakendur voru 300 sjúklingar greindir með AS á minnismóttöku öldrunarlækningadeildar LSH á Landakoti og 400 heilbrigðir einstaklingar. Þátttakendur voru á aldrinum 50-90 ára. SPR aðferðin notaði um 600 atriði úr ritunum til að aðgreina hópana. Kvarði á bilinu 0-100 er notaður til að lýsa líkunum á AS í hverju tilviki (AS-index). Sjúkdómsgreiningar voru endurmetnar óháð af tveimur öldrunarlæknum, og þegar ekki var samræmi var komist að sameiginlegri niðurstöðu með þriðja lækninum.

Niðurstöður:Þessi aðferð greindi einstaklega réttilega í liðlega 90% tilvika. Ennfremur var samræmi milli niðurstöðu á MMSE prófi og AS-index. Einnig reyndist aðferðin aðgreina AS rétt frá æðavitglöpum í liðlega 80% tilvika.

Ályktun:SPR aðferð við úrvinnslu á megindlegum EEG heilaritum virðist vera nákvæmari til greiningar á Alzheimers sjúkdómi en fyrri aðferðir með heilaritum. Aðferðin er einföld í notkun og því auðveldara að koma henni við en flóknari greiningaraðferðum.

 

V-47    Áhrif þyngdartaps og fiskneyslu á bólguþætti í blóði

Alfons Ramela, J. Alfredo Martinezb, Mairead Kielyc, Narcisa M. Bandarrad, Inga Þórsdóttira

aRannsóknastofu í næringarfræði, Landspítala og HÍ, bThe Department of Physiology and Nutrition, University of Navarra, Navarra, Spain., cDepartment of Food and Nutritional Sciences, University College Cork, Cork, Ireland., dThe National Research Institute on Agriculture and Fisheries Research, Lissabon

alfons@landspitali.is

Inngangur:Ofþyngd og offita eru tengdar aukinni bólgu. In vitro rannsóknir hafa sýnt fram á að langar fjölómettaðar n-3 fitusýrur geta haft lækkandi áhrif á bólgu, hins vegar veita íhlutandi rannsóknir í ofþungum eða of feitum misvísandi niðurstöður.

Markmið:Markmið rannsóknarinnar var því að kanna áhrif þyngdartaps og fiskneyslu á bólguþætti í blóði.

Aðferðir:Alls hófu 324 karlar og konur (20-40 ára) frá Íslandi, Spáni og Írlandi, með líkamsþyngdarstuðul á bilinu 27,5-32,5 kg/m2 þátttöku. Íhlutun stóð yfir í 8 vikur. Dagleg orka sem þarf til að halda óbreyttri þyngd var metin fyrir hvern þátttakanda í upphafi íhlutunarinnar og hver einstaklingur fékk matseðil sem samsvaraði 30% orkuskerðingu. Þátttakendum var af handahófi skipt í fjóra rannsóknarhópa: (1) viðmiðunarhóp (sólblómaolíu hylki, enginn fiskur eða fiskiolíur), (2) þorskhóp (3 x 150g af þorski/viku), (3) laxhóp (3 x 150g af laxi/viku), (4) fiskolíu hóp (DHA/EPA hylki, enginn fiskur). Mælingar á C-reactive prótein (hsCRP), interleukin-6 (IL-6), glutathione reductase (GSHR) og prostaglandin F2a (PGE F2a) í blóði voru gerðar við upphaf og lok íhlutunar.
Niðurstöður
: Íhlutun hafði jákvæð áhrif á líkamsþyngd þátttakenda (-5,2±3,2kg, P<0,001) og allar bólgubreytur lækkuðu marktækt. Þegar hver hópur var skoðaður sérstaklega kom í ljós að laxhópurinn kom best út – þrír af fjórum bólguþáttum lækkuðu (hsCRP=-32,0%; IL-6=-18,4%; PGE F2a=-18,5%; allir þættir P<0,05). Í þorskhópnum lækkuðu tveir bólguþættir (hsCRP=-21,5% og IL-6= -10,8%). Það voru engar marktækar breytingar í hinum tveimur hópunum sem hugsanlega stafar af stórum staðalfrávikum sem voru á mælingunum.

Ályktun:Meðalgildi bólguþátta í blóði lækka meðan á megrun stendur. Í rannsókninni kom laxhópurinn best út – þrír af fjórum bólguþáttum lækkuðu marktækt í laxhópnum.

 

 

V-48    Næring 7-9 ára skólabarna – íhlutandi rannsókn til að bæta mataræði

Ása Guðrún Kristjánsdóttir, Inga Þórsdóttir

Rannsóknastofu í næringarfræði (RÍN) við Landspítala og matvæla- og næringarfræðideild heilbrigðisvísindasviðs HÍ

asagk@landspitali.is

Inngangur: RÍN hefur tekið þátt í tveimur evrópskum og tveimur íslenskum samstarfsverkefnum sem rannsaka leiðir til að auka hollustu mataræðis skólabarna. Hér er um að ræða rannsóknarverkefni unnið með menntavísindasviði og læknadeild (HVS) HÍ.

Markmið:Meta áhrif íhlutandi aðgerða í skólaumhverfi á þróun og hollustu mataræðis 7-9 ára barna.

Aðferðir:Mataræði barna (n=165) var metið með þriggja daga nákvæmri fæðuskráningu 2006 og 2008, fyrir og eftir íhlutun í 3 skólum en 3 skólar voru til viðmiðunar. Íhlutun fólst m.a. í fræðslu og einföldum reglum sem skólar/bekkir settu sér. Áhrif íhlutunarinnar voru metin út frá ráðleggingum Lýðheilsustöðvar og Norrænum ráðleggingum um næringarefni.

Niðurstöður:Árið 2006 náði minna en einn fimmti hluti barnanna ráðleggingum varðandi ávaxta- og grænmetisneyslu og um helmingur ráðleggingum varðandi fiskneyslu. Meðalneysla viðbætts sykurs var meiri en ráðlagt er og trefja lægri, sem endurspeglar lítil gæði kolvetnaríkra matvæla. Meðalneysla D-vítamíns og joðs var undir ráðlögðum dagskömmtum.

Mat á áhrifum íhlutunarinnar sýndi að ávaxta- og grænmetisneysla jókst um 47% í íhlutunarskólum (meðaltal=61g/dag) og minnkaði um 27% í viðmiðunarskólunum (meðaltal=46g/dag). Fiskneysla jókst í báðum hópum. Sykurneysla var enn há. Báðir hópar náðu að meðaltali ráðlögðum dagskammti af joði árið 2008, en ekki af D vítamíni. Trefjaneysla jókst í íhlutunarskólum, sem og kalíum, magnesíum, b-karótín og C vítamín. Auk þessa leiddi verkefnið í ljós að auka þarf kennslu í næringarfræði mannsins í grunnskólum.

Ályktun:Íhlutunin hafði jákvæð áhrif á ávaxta- og grænmetisneyslu skólabarna, trefjar og ákveðin vítamín í fæðunni. Námsskrá grunnskóla 2007 tók mið af verkefninu varðandi kennslu í næringarfræði mannsins.

 

 

V-49    Næring ungbarna - próteininntaka og vöxtur á seinni hluta fyrsta árs

Ása Vala Þórisdóttir, Inga Þórsdóttir

Rannsóknastofu í næringarfræði (RÍN) við Landspítala og matvæla- og næringarfræðideild heilbrigðisvísindasviðs HÍ

asavala@landspitali.is

Inngangur: Rannsókn á íslenskum ungbörnum 1995-1997 sýndi hærri próteininntöku en ráðlagt er. Jákvæð tengsl sáust milli vaxtarhraða og próteinneyslu á fyrsta aldursári, sem aftur tengdist hærri líkamsþyngdarstuðli við sex ára aldur meðal drengja. Ráðleggingum um mataræði ungbarna var breytt 2003, lögð var meiri áhersla á brjóstagjöf og stoðmjólk ráðlögð í stað venjulegrar kúamjólkur. Stoðmjólk hefur lægri próteinstyrk en kúamjólk.

Markmið: Að kanna próteininntöku og vöxt ungbarna 2005-2007.

Aðferðir: Þátttakendur voru handahófsvalin heilbrigð, fullburða börn fædd 2005 (n=196) sem fylgt var eftir til 12 mánaða aldurs. Gögnum um fæðuinntöku var safnað með fæðissögu fyrir 0-5 mánaða börn og mánaðarlegum mataræðisskráningum frá 5-12 mánaða. Stærðarmælingar voru gerðar reglulega.

Niðurstöður: Brjóstagjafatíðni síðasta hluta fyrsta árs var hærri heldur en í fyrri rannsókninni og stoðmjólk hafði að töluverðu leyti komið í stað kúamjólkur eftir 6 mánaða aldur. Þyngdaraukning frá 6-10 mánaða aldri var marktækt minni en í fyrri rannsókninni (1345±522 g miðað við 1537±558 g, p<0,001). Próteininntaka var einnig marktækt lægri við 9 mán aldur (23,4 d/dag miðað við 28,3 g/dag, p<0,001) og 12 mán aldur (31,5 d/dag miðað við 35,7g/dag, p=0,001). Jákvæð tengsl sáust milli próteininntöku (við 9 mán aldur) og þyngdaraukningar (frá 8-12 mán) (r=0,204, p=0,019). Líkt og í fyrri rannsókninni var próteinneysla lægri meðal barna sem voru höfð á brjósti.

Ályktun: Þyngdaraukning á síðari hluta fyrsta árs er minni 2005-2006 heldur en í fyrri rannsókn, 1995-1997, sem gæti skýrst af lægri próteininntöku, aukinni tíðni brjóstagjafar og notkun stoðmjólkur. Langtímaáhrif lækkaðrar próteininntöku og vaxtarhraða ungbarna þarf að meta.

 

 

V-50    Tengsl vaxtarhraða í barnæsku við offitu á fullorðinsárum meðal Íslendinga sem fæddir eru 1912-1932

Ingibjörg Gunnarsdóttir1, Þórhallur Ingi Halldórsson1, Vilmundur Guðnason2,3, Thor Aspelund2,3, Inga Þórsdóttir1

1Rannsóknarstofu í næringarfræði HÍ og Landspítala, 2Hjartavernd, 3

ingigun@landspitali.is

Inngangur: Rannsóknir sýna að hraður vöxtur í barnæsku tengist offitu á fullorðinsárum og á þetta sérstaklega við um börn sem eru í ofþyngd.

Markmið: Að kanna tengsl vaxtarhraða í barnæsku við offitu á full-orðinsárum.

Aðferðir: Þátttakendur voru 1333 drengir og 1258 stúlkur, fædd í Reykjavík 1912-1932 og tóku þátt í hóprannsókn Hjartaverndar. Upplýsinga um hæð og þyngd í barnæsku var aflað úr skóla-skoðunarskrám. Breytingar á líkamsþyngdarstuðli (LÞS, kg/m2) voru metnar yfir tveggja ára tímabil, 8-10 ára, 9-11 ára, 10-12 ára og 11-13 ára. Samband milli breytinga á LÞS í barnæsku og LÞS á fullorðinsárum var kannað með aðhvarfsgreiningu. Tekið var tillit til fæðingarstærðar, fæðingarárs, LÞS við upphaf hvers tímabils og aldurs við mælingar á fullorðinsárum.

Niðurstöður: Yfir 95% þátttakenda voru í kjörþyngd sem börn meðan einungis 41% karla og 54% kvenna voru í kjörþyngd á fullorðinsárum (meðalaldur 51 ár við mælingu). Meiri vaxtarhraði (á öllum tímabilum) í barnæsku tengdist aukinni hættu á ofþyngd og offitu á fullorðinsárum, bæði meðal karla og kvenna (p<0,05). Líkur (líkindahlutfall) á ofþyngd og offitu þess fimmtungs drengja sem jók LÞS sinn mest frá 11-13 ára aldurs var 2,05 (95%CI: 1,19-3,53) og 4,40 (95%CI: 1,70-11,39), samanborið við þann fimmtung sem jók LÞS sinn minnst. Sambærilegar tölur fyrir stúlkur voru 1,47 (95%CI: 0,88-2,55) og 2,89 (95%CI: 1,13-7,41). Útilokun of þungra barna hafði ekki áhrif á niðurstöðurnar.

Ályktun: Hröð þyngdaraukning meðal barna getur aukið líkurnar á ofþyngd og offitu á fullorðinsárum, þrátt fyrir að þau séu innan kjör-þyngdar.

 

 

V-51    Joðhagur íslenskra unglingsstúlkna

Ingibjörg Gunnarsdóttir1,2, Bryndís Elfa Gunnarsdóttir1, Laufey Steingrímsdóttir1,2, Ari J. Jóhannesson3, Amund Maage4, Inga Þórsdóttir1,2

1Rannsóknarstofu í næringarfræði við HÍ og Landspítala, 2matvæla- og næringarfræðideild, heilbrigðisvísindasviði HÍ, 3lyflækningasviði 1, Landspítala, 4National Institute of Nutrition and Seafood Research (NIFES), Noregi

ingigun@landspitali.is

Inngangur:Ísland hefur löngum verið þekkt fyrir góðan joðhag vegna mikillar fisk- og mjólkurneyslu. Alvarlegustu afleiðingar joðskorts eru áhrif á fóstur í móðurkviði og mikilvægt er að leiðrétta joðskort áður en kona verður þunguð. Undanfarna áratugi hefur fisk- og mjólkurneysla minnkað, sérstaklega meðal ungs fólks.

Markmið:Að kanna joðhag íslenskra unglingsstúlkna sem og áhrif helstu joðgjafa fæðunnar á joðhag þeirra.

Aðferðir:Þátttakendur voru unglingsstúlkur (n=112, árin 1987-1992) á höfuðborgarsvæðinu. Spurningalisti var notaður til að meta fæðuinntöku og joðstyrkur mældur í þvagi. Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) telst joðhagur þýðis vera ákjósanlegur ef miðgildi joðstyrks er á bilinu 100-199µg/l og ekki meira en 20% einstaklinga sé með joðstyrk undir 50µg/l.

Niðurstöður:Mjólkurvörur voru helsta uppspretta joðs úr fæðu (43%) og fiskur þar á eftir (24%). Meira en 65% stúlkna neytti fisks sjaldnar en tvisvar sinnum í viku og 40% þeirra neytti minna heldur en tveggja skammta af mjólkurvörum daglega. Miðgildi joðstyrks í þvagi var 140µg/g. Joðstyrkur í þvagi innan við 10% þátttakenda mældist undir 50µg/g. Jákvæð tengsl voru milli mjólkurneyslu og joðstyrks í þvagi (r=520, p<0,001). Engin bein tengsl sáust milli fiskneyslu og joðstyrks í þvagi.

Ályktun:Joðhagur unglingsstúlkna á Íslandi er innan viðmiðunarmarka sem WHO setur. Mjólkurvörur voru helsta uppspretta joðs og hafði mest áhrif á joðhag þátttakenda. Í ljósi margþættra heilsufarsáhrifa fiskneyslu þarf að auka fiskneyslu ungra stúlkna en fiskneysla var langt undir ráðleggingum.

 

 

V-52    Tengsl vaxtarhraða 8-13 ára barna við háþrýsting á fullorðinsaldri

Þórhallur I. Halldórsson1,3 Ingibjörg Gunnarsdóttir1,3, Vilmundur Guðnason2,3, Thor Aspelund2,3, Inga Þórsdóttir1,3

1Rannsóknarstofu í næringarfræði, 2Hjartavernd, 3heilbrigðisvísindasviði HÍ

tih@hi.is

Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl lágrar fæðingarþyngdar og aukinnar áhættu á háum blóðþrýstingi og háþrýstingi, meðal annars hjá íslenskum börnum. Í þessari rannsókn voru sjálfstæð áhrif vaxtar-hraða barna með tilliti til blóðþrýstings og háþrýstings skoðuð.

Aðferð: Mælingum á hæð og þyngd var safnað fyrir 1333 drengi og 1258 stúlkur (fæðingarár 1918-1932) á aldrinum 8 til 13 ára Þessir einstaklingar tóku síðar þátt í Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar. Meðalvaxtarhraði með tilliti til þyngdar og hæðar (Dvöxtur/tíma) barnanna var reiknaður fyrir aldursbilin 8-10 ár, 11-13 ár og 8-13 ár. Könnuð voru tengsl vaxtar-hraða við blóðþrýsting og háþrýsting, leiðrétt fyrir upphafsvaxtargildi, fæðingarþyngd, fæðingarári og aldri við blóðþrýstingsmælingu (mið-gildi: 51ár).

Niðurstöður: Drengir sem seinna greindust með 1. eða 2. stigs háþrýsting voru í báðum tilfellum þyngri og hávaxnari en þeir drengir sem ekki greindust með háþrýsting. Enginn munur var hins vegar á hæð og þyngd stúlkubarna. Sterk marktæk tengsl voru milli breytinga á bæði hæð og þyngd drengja milli 8 og 13 ára aldurs og blóðþrýstings og háþrýstings. Ef bornir voru saman drengir í efsta fimmtung og lægsta fimmtung vaxtar-
hraðadreifingar með tilliti til þyngdar, voru drengir í efsta fimmtung með að meðaltali 9 mmHg hærri slagbilsþrýsting og 6 mmHg hærri hlébilsþrýsting (p<0.0001). Líkindahlutfall fyrir auknar líkur 2. háþýstings voru
2.83 (95% öryggisbil: 1.48, 5.40). Svipuð tengsl sáust einnig fyrir styttri vaxtartímabil. Vaxtarhraði hafði ekki marktæk áhrif á blóðþrýsting stúlkna.

Ályktanir: Vaxtarhraði drengja, en ekki stúlkna, á aldrinum 8 til 13 ára er sjálfstæður áhættuþáttur fyrir hækkaðan blóðþrýsting og háþrýsting á fullorðinsaldri.

 

 

V-53    Tengsl neyslu sykurskertra drykkjarvara á meðgöngu og fyrirburafæðinga

Þórhallur I. Halldórsson1,2, Sjúrður F. Ólsen2

1Rannsóknarstofu í næringarfræði og HÍ, 2Maternal Nutrition Group, Division of Epidemiology Statens Serum Institut, Kaupmannahöfn

tih@hi.is

Inngangur: Þrátt fyrir auknar vinsældir og aukna neyslu sykurskertra matvara undanfarin ár eru enn uppi efasemdir um hollustu þeirra sætu-efna sem notuð eru í slíkar vörur. Nýlegar rannsóknir á rottum hafa bent til að langtíma neysla aspartame geti hugsanlega aukið líkur á krabba-meini. Neysla sykurskertra drykkjarvara hefur einnig verið tengd aukn-um líkum á háþrýstingi. Áhrif neyslu sætuefna á meðgöngu hefur hins vegar lítt verið könnuð. Í þessari rannsókn voru tengsl sykurskertra og sykraðra drykkjarvara við tíðni fyrirburafæðinga könnuð.

Aðferð: Framvirk ferilrannsókn byggð á upplýsingum um drykkju-
neyslu 59,334 þungaðra danskra kvenna sem tóku þátt í rannsókninni “Bedre Sundhed for Mor og Barn” á árunum 1996 til 2002 (sjá www.bsmb.dk). Skoðuð voru tengsl sykurskertra gosdrykkja og sykurskertra ókolsýrðra drykkjarvara við tíðni fyrirburafæðinga (lengd meðgöngu <37vikur). Til samanburðar voru áhrif sambærilegra sykraðra drykkjarvara einnig könnuð.   

Niðurstöður: Neysla á sykurskertum gosdrykkjum á meðgöngu var marktækt tengd aukinni tíðni fyrirburafæðinga (P=0,0001). Konur sem drukku 4 glös á dag eða meira af sykurskertu gosi voru 78% líklegri (95% öryggisbil: 19% til 166%) til að fæða fyrir viku 37 samanborið við konur sem ekki neyttu sykurskertra gosdrykkja. Marktækt samhengi fannst bæði hjá konum í kjörþyngd fyrir meðgöngu og hjá þeim sem voru yfir kjörþyngd og leiðrétting fyrir átta þekktum áhættuþáttum fyrirburafæðinga hafði ekki áhrif. Marktæk aukin tíðni fyrirburafæðinga sást einnig fyrir ókolsýrða sykurskerta drykki en engin tengsl sáust fyrir sambærilegar sykraðar drykkjarafurðir.

Ályktanir:Neysla á sykurskertum drykkjarvörum á meðgöngu virðist vera áhættuþáttur með tilliti til fyrirburafæðinga. Óljóst er þó hvort um beint orsakasamhegi sé að ræða.

 

 

V-54    Mat á gildi afturvirks tíðnispurningalista um fæðuval

Tinna Eysteinsdóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Inga Þórsdóttir, Laufey Steingrímsdóttir

Rannsóknastofu í næringarfræði við HÍ og Landspítala

tinnaey@landspitali.is

Inngangur: Fáar heimildir eru til um áreiðanleika þess að spyrja eldra fólk um mataræði á fyrri æviskeiðum.

Markmið: Að meta gildi afturvirks tíðnispurningalista um mataræði á miðjum aldri, en listi þessi var hannaður fyrir þátttakendur í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar.

Aðferðir:Fæðuinntaka var metin afturvirkt með hjálp tíðnispurningalista hjá einstaklingum sem voru á miðjum aldri (38-53ára) þegar þeir tóku þátt í Landskönnun Manneldisráðs 1990 og gáfu þá greinagóðar upplýsingar um mataræði sitt á þeim tíma. Svör tíðnispurningalista, sem lagður var fyrir 2008-2009, voru borin saman við gögn frá sömu einstaklingum fengin á rauntíma árið 1990 og fylgni milli svara metin.

Niðurstöður: Sterkust var fylgnin milli aðferða fyrir lýsisneyslu (r=0,53, p=<0,001 fyrir karla og r=0,58, p=<0,001 fyrir konur). Einnig sást góð fylgni fyrir neyslu karla á mjólk og mjólkurmat (r=0,41, p=0,001). Nokkuð lægri, en þó ásættanleg fylgni (r=0,25-0,37) var fyrir neyslu kjöts, fisks og kartaflna hjá báðum kynjum, ásamt neyslu ferskra ávaxta og mjólkur og mjólkurmatar hjá konum og heilhveitibrauðs, hafragrauts/múslí og sláturs hjá körlum. Fylgni fyrir grænmeti og rúgbrauð var ekki talin ásættanleg. Þátttakendur voru flokkaðir í fimm hópa m.t.t. neyslu samkvæmt spurningalistanum annars vegar og 1990 gögnunum hinsvegar og reyndust 19-55% raðast í sama neysluhóp, 47-87% í sama eða næsta hóp og 1-13% í gagnstæðum hóp.

Ályktun: Unnt er að raða einstaklingum eftir neyslu þeirra á nokkrum mikilvægum fæðuflokkum með notkun afturvirks tíðnispurningalista Öldrunarrannsóknar Hjartaverndar um mataræði á miðjum aldri.

 

 

V-55    Aukin tíðni HLA-DRB1*01 hjá sjúklingum með lófakreppusjúkdóm (Dupuytren's disease)

Þorbjörn Jónsson1), Kristján G. Guðmundsson2), Kristjana Bjarnadóttir1), Ína B. Hjálmarsdóttir1), Sveinn Guðmundsson1) Reynir Arngrímsson3)

1)Blóðbanknum, 2)Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins í Glæsibæ, 3)erfða-og sameindalæknisfræðideild Landspítala

thorbjor@landspitali.is

Inngangur:Lófakreppusjúkdómur (Dupuytren's disease) einkennist af myndun bandvefshnúta í lófum. Með tímanum geta einn eða fleiri fingur kreppst með tilheyrandi færniskerðingu handar. Lófakreppa er oft ættlæg og er tiltölulega algeng í Norður-Evrópu. Ýmsir áhættuþættir eru þekktir svo sem reykingar, mikil áfengisneysla, flogaveiki, sykursýki og erfiðisvinna.

Markmið: Rannsaka tíðni HLA-DR arfgerða hjá lófakreppusjúklingum á Íslandi og kanna hvort tengsl finnast við alvarleika eða útbreiðslu sjúkdómsins.

Aðferðir: EDTA blóðsýnum var safnað úr 172 karlmönnum sem þátt tóku í framvirkri rannsókn á lófakreppusjúkdómi. Af þeim var 121 með einkenni sjúkdómsins en 51 var einkennalaus. Sjúkdómurinn var stigaður með tilliti til alvarleika í stig 1 og stig 2. Arfgerð HLA-DRB1var greind með hefðbundinni kjarnsýrumögnun (SSP low resolution aðferð frá Invitrogen).

Niðurstöður: Af lófakreppusjúklingunum voru 72 einungis með bandvefsstrengi eða hnúta í lófum (stig 1) en 49 voru með kreppta fingur eða höfðu gengist undir skurðaðgerð (stig 2). Tíðni HLA-DRB1*01 var marktækt aukin hjá lófakreppusjúklingunum borið saman við einkennalausa (OR=3.22 ; 95% CI=1.06-9.75, P= 0,031). Engin tengsl fundust við fjöl-
skyldusögu, upphaf sjúkdóms, alvarleika eða útbreiðslu.

Ályktun: Niðurstöðurnar benda til þess að einstaklingar með HLA-DRB1*01 arfgerð séu í aukinni áhættu á að fá lófakreppusjúkdóm.

 

 

V-56    Áhrif blóðflögulýsata úr útrunnum blóðflögueiningum á fjölgun og sérhæfingu mesenchymal stofnfrumna

Hulda Rós Gunnarsdóttir1, 2, Björn Harðarson1, Sveinn Guðmundsson1, Brendon Noble3, Ólafur E. Sigurjónsson1,2

1Blóðbankinn, 2 Tækni og Verkfræðideild HR, 3 MRC Centre for Regenerative Medicine, Edinborg

oes@landspitali.is

Inngangur:Mesenchymal stofnfrumur (MSC) er m.a. að finna í beinmerg og hafa miklar vonir verið bundnar við notkun þeirra í læknisfræðilegri meðferð í framtíðinni. Eitt vandamál við slíkt er nauðsyn þess að nota kálfasermi til að fjölga þeim ex vivo. Galli við kálfasermi er hætta er á ónæmisvari gegn próteinum sem þar er að finna og ýmsum sýkingarögnum sem geta valdið skaða í frumuþegum.

Tilgangur og markmið: Tilgangur þessa verkefnis er að athuga áhrif þess að rækta MSC frumur með blóðflögulýsötum, unnum úr ferskum (HPLF) eða útrunnum (HPLÚ) blóðflögum á fjölgun, sérhæfingu og virkni þeirra in vitro.

Efni og aðferðir: Mesenchymal stofnfrumur, einangraðar úr beinmerg, voru ræktaðar með HPLF eða HPLÚ og bornar saman við frumur ræktaðar með sérvöldu kálfa sermi. Áhrif á MSC var athugað með greiningu á yfirborðssameindum í frumuflæðisjá, hæfni frumna til fjölgunar og hæfileika þeirra til sérhæfingar. Einnig var kannað hvort MSC frumur ræktaðar á þennan máta gæti bælt T-frumu fjölgun og innihald blóðflögulýsata greint með vaxtarþáttaprófi.

Niðurstöður:Mesenchymal stofnrumur ræktaðar með HPLF eða HPLÚ fjölga sér jafn vel og MSC frumur ræktaðar í kálfa sermi. Engin breyting er á tjáningu yfirborðsameinda sem einkenna MSC frumur. Hins vegar sjáum við aukningu í bein og fitusérhæfingu en lakari brjósksérhæfingu í frumum ræktuðum í HPLF eða HPLÚ.

Ályktanir:Hægt er að fjölga MSC frumum með blóðflögulýsati unnu úr útrunnum blóðflögueiningum. Hins vegar þarf að kanna nánar hvaða áhrif slíkt hefur á sérhæfingu frumnanna.

 

 

V-57    Tjáning Dlg7 í þroskun æðaþelsfrumna úr naflastrengsblóði

Leifur Þorsteinsson1), Sigríður Þ. Reynisdóttir1), Valgarður Sigurðsson2), Birkir Þ Bragason 3), Kristrún Ólafsdóttir 4), Ólafur E Sigurjónsson1, 6), Karl Ólafsson5), Sveinn Guðmundsson1)

1)Blóðbankanum, 2) blóðmeinafræðideild 3) Tilraunastöð HÍ á Keldum, 4) rannsóknastofu háskólans í meinafræði, 5)kvennadeild Landspítala, 6)tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík

leifurth@lsh.is

Inngangur: Fyrri rannsóknir sýna að Dlg7 er gen sem hefur mikilvægu hlutverki að gegna í viðhaldi stofnfrumueiginleika frumna fyrir blóðmyndandi vef (Gudmundsson KO, et.al. Stem Cell 2007). Eftir því sem fruman sérhæfist minnkar tjáning gensins. Þó svo forverafrumur æðaþels í blóði hafi ekki verið fullskilgreindar ríkir nokkur einhugur um að þær sé að finna þar og þá sérstaklega í naflastrengsblóði.

Markmið: 1. Sýna fram á að hægt sé að rækta æðaþels líkar frumur úr blóði og endursá þeim 2. Kanna þátt Dlg7 í þroskunarferlinu.

Aðferðir:Einkjarna blóðfrumur (lymphocytes/monocytes) voru ein-angraðar úr naflastrengsblóði og ræktaðar í æti sérstaklega ætluðu til að fá fram frumur með æðaþelsfrumueiginleika. Æðaþelsfrumur úr naflastreng (HUVEC) voru notaðar sem viðmið. Tjáning markera fyrir æðaþelsfrumur var könnuð strax eftir einangrun og eftir ræktun/þroskun, með frumuflæðisjá, til að staðfesta að breytingin hefði gengið í rétta átt. Tjáning Dlg7 var staðfest með RT-PCR, ónæmisbindingu (Western-blot) og ónæmislitun (immunohistochemsitry).

Niðurstöður: Fullt samræmi var milli þeirra frumna sem ræktaðar voru úr naflastrengsblóði og HUVEC hvað varðar tjáningu CD markera og hæfileika þeirra til að mynda æðar á matrigeli. Engin tjáning á Dlg7 sást með RT-PCR og ónæmisbindingu í frumum strax eftir einagrun úr naflastrengsblóði. Eftir að frumurnar höfðu öðlast æðaþelsfrumueiginleika kom fram sterk tjáning á Dlg7 með RT-PCR. Þetta var staðfest með ónæmisbindingu og ónæmislitun með mótefni gegn Dlg7.

Ályktun. Dlg7 er tjáð í æðaþelsfrumum þroskuðum frá frumum úr naflastrengsblóði og hefur möguelga hlutverki að gegna í þroskun æðaþelsfrumna í blóði.

 

 

V-58    Áhrif kítínfásykra á líkamsþyngd og BMI-stuðul í C57BL/6 músum

Magdalena Stefaniak1,4, Jón M. Einarsson2, Eggert Gunnarsson3, Jóhannes Gíslason2, Kristber Kristbergsson4

Blóðbankanum1, Genís ehf2, Tilraunastöðinni í meinafræði að Keldum3, matvæla og næringarfræðideild HÍ

oes@landspitali.is

Inngangur:Kítósan er náttúruleg fjölliða úr glúkósamín og N-acetyl-glúkósamín. Kítósan hefur verið rannsakað í læknisfræðielgum tilgangi, sem efni til að draga úr líkamsþyngd einstaklinga. Nýlega hefur verið líst vel skilgreindum kítínfásykrum, sem talið er að geti haft áhrif á þyngdaraukningu í nagdýrum. Það er talið að kítínfáykrur dragi úr magni fitu í meltingarveginum, en ekki er vitað með vissu hvernig slíkt fer fram.

Markmið:Áhrif kítínfásykra á mataræðis-aukandi líkamsþyngd og BMI-stuðul var kannaður í C57BL/ 6 músum.

Aðferðir:Tíu vikna gamlar kvenkyns C57BL/6 mýs var gefið fituríkt æti í 26 vikur. Að auki fengu mýsnar mismunandi samsetningar af kítínfásykrum og glúkósamín. Næringarinntaka var mæld ásamt þyngd og BMI stuðull var reiknaður.

Niðurstöður:Mýs sem fengu fituríkt æti ásamt fásykrum eða amínósykrum, sýndu breytingar í líkamsþyngd. 10 mg/ kg og 20 mg/kg af kítínfásykrum og 21 mg/ kg af glúkósamín leiddi til verulegrar offitu í músunum. Mýs sem fengu bæði 20 mg/ kg af fásykrum og 21 mg/ kg af glúkósamín, voru bæði léttari og með lægri BMI-stuðul en mýs sem voru einungis á fituríku fæði.

Ályktanir:Þessar niðurstöður benda til mögulegrar stjórnunaráhrifa kítínfásykra og amínósykra á líkamsþyngd og BMI stuðul í músum á fituríku fæði.

 

 

V-59    Áhrif þöggunar og yfirtjáningar Dlg7 á sérhæfingu stofnfrumna úr fósturvísum músa

Níels Árni Árnason1, Sigríður Þóra Reynisdóttir1, Helga Eyja Hrafnkelsdóttir1, Leifur Þorsteinsson1, Jonathan R. Keller2, Kristbjörn Orri Guðmundsson2, Ólafur E. Sigurjónsson1,4

Blóðbankanum1, National Cancer Institute, Maryland, USA2, tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík3

oes@landspitali.is

Inngangur:Við höfum lýst geni, Dlg7, sem er tjáð í stofnfrumum, þar með talið blóðmyndandi stofnfrumum, og stofnfrumum úr fósturvísum músa (mES). (Gudmundsson et al, Stem Cell, 2007). Við höfum sýnt fram á að Dlg7 er tjáð í blóðmyndandi stofnfrumum (CD34+CD38-) en mun minna í blóðmyndandi forverafrumum. Dlg7 er talið gegna hlutverki í frumuhringnum meðal annars við stjórnun stöðugleika spóluþráða í frumuskiptingu. Auk þess er Dlg7 talið gegna hlutverki í krabbameinsmyndun í gegnum Aurora-A og vísbendingar eru um að það hvetji til myndunar meinvarpa í lifrarkrabbameini.

Markmið:Tilgangurinn með þessari rannsókn er að kanna hvert hlutverk Dlg7 er sérhæfingu stofnfrummna úr mES frumum með sérstaka áherslu á blóðmyndun.

Efni :Við notuðum lentiveiruvektora til að yfirtjá og þagga niður Dlg7 í mES frumur. Genabreyttar músastofnfrumur voru síðan sérhæfðar yfir í embryoid bodies og þaðan yfir í blóðmyndandi frumur. Áhrif genabreytingarinnar var athuguð með colony forming unit assay, frumuflæðisjá og Q-PCR.

Niðurstöður:Við höfum sýnt fram á að transient (non-viral) yfirtjáning á Dlg7 dregur úr stærð og fjölda embryoid bodies. Við hofum fengið samskonar niðurstöður með því að þagga niður í Dlg7 með lentiveiru shRNA tækni. Tekist hefur að mynda stöðugar genabreyttar ES frumur með yfirtjáningu og þöggun í Dlg7 geninu. Einnig höfum við sett upp sérhæfingaraðferðir fyrir mES frumur yfir í blóðmyndandi frumur og sérhæfingu þeirra yfir í rauðfrumur.

Ályktanir:Niðurstöður benda til þess að yfirtjáning á Dlg7 í músa ES frumum viðhaldi stofnfrumueiginleikum og dragi úr sérhæfingar mætti mES fruma

 

 

V-60    Áhrif glúkósamín á beinsérhæfingu og tjáningu kítínasa-líkra próteina í mesenchymal stofnfrumum

Ramona Lieder1, Stefán Ágúst Hafsteinsson1, Sigríður Þóra Reynisdóttir1, Pétur H. Petersen3, Finnbogi Þormóðsson3, Jón M. Einarsson2, Jóhannes Björnsson3, Jóhannes Gíslason2, Ólafur E. Sigurjónsson1,4

Blóðbankanum1, Genís ehf 2, rannsóknastofu háskólans í meinafræði, Landspítala2, læknadeild -HÍ3, tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík4

oes@landspitali.is

Inngangur:Kítínasa-lík prótein (CLP) tilheyra fjölskyldu 18 glycosil hydrolasa og eru talin gegna hlutverki í bólgusvörun og vefjaummyndun á fósturstigi. Mesenchymal stofnfrumur (MSC), eru fjölhæfar frumur, sem hægt er að sérhæfa yfir í fituvef, beinvef og brjóskvef. Lítið er vitað um tjáningu og hlutverk CLP í mesenchymal stofnfrumum en sýnt hefur verið fram á að CLP eru tjáð í primary brjóskfrumum. Glúkósamín er ein af byggingareiningum kítósan og kítíns sem er að finna í stoðgrind ýmissa hryggleysingja.

Tilgangur og markmið: Markmið með þessari rannsókn var að kanna áhrif glúkósamín á tjáningu kítínasa-líkra próteina í mesenchymal stofnfrumum og beinsérhæfingu.

Efniviður og Aðferðir: Mesenchymal stofnfrumur var fjölgað og sérhæfðar yfir í bein með og án glúkósamín. Tjáning á CLP var könnuð með RT-PCR og q-PCR. Beinsérhæfing var könnuð með tjáningu á beinsérhæfingargenum (ALP, osteopontin, osteocalcin) og með athugun á steinefnamyndun (Alizarin red). Greining á tjáningu ýmissa bólguörvandi og bólguletjandi vaxtarþátta var gerð með Luminex bead array tækni.

Niðurstöður:Mesenchymal stofnfrumur og sérhæfðar beinfrumur tjá CLP próteinin YKL-40 og YKL-39, en ekki virku kítinasana AMCase og Chitotriosidase. Glúkósamín eykur tjáninguna á YKL-39 og YKL-40 og eykur tjáninguna á beinsérhæginargenum. Hins vegar dregur glúkosamín úr steinefnamyndun samanborðið við viðmið.

Ályktanir:Þetta er í fyrsta skiptið sem sýnt hefur verið fram á tjáningu á kítinasalíku próteinum í mesenchymal stofnfrumum. Við erum núna að kanna nánar hlutverk CLP í beinsérhæfingu og áhrif glúkósamín á steinefnamyndun (e. Minerilization)

 

 

V-61    Lífvirkni kítósanfilma með mismunandi deasetíleringu til húðunar á títan ígræði

Ramona Lieder1,2,3, Mariam Darai3, C.-H. Ng4, Jón M. Einarsson4, Jóhannes Björnsson5, Benedikt Helgason6, Jóhannes Gíslason4 , Gissur Örlygsson3, Ólafur E. Sigurjónsson1,2

1Blóðbankanum, 2tækni- og verkfræðideild HR, 3Nýsköpunarmiðstöð Íslands, 4Genís ehf, 5rannsóknarstofu í meinafræðum 6 Institute for Surgical Technology and Biomechanics, University of Bern, Sviss

oes@landspitali.is

Inngangur:Viðgerðir á vefjasköðum með bæklunarlækningum fela oft í sér notkun á ígræðum úr títan eða títanblönduðum málmi. Því rannsóknir aukist á því hvernig meðhöndla megi yfirborð títan ígræða í þeim tilgangi að auka lífvirkni þeirra og þar með bindingu þeirra í líkamanum. Kítósan, deasitílerað form af kítíni, er efni sem verið er að skoða með tilliti til húðunar á títan ígræðum, í þeim tilgangi að auka beinígreyppni og frumuviðloðun títans.

Markmið:Í þessar rannsókn skoðuðum við áhrif mismunandi kítósan deasitlíeringar og fíbrónektín á viðloðun, fjölgun og beinsérhæfingu mesenchymal stofnfrumna og beinforvera (MC3T3-E1) á kítósanfilmu.

Aðferðir: Kítósanfilmur voru búnar til með því að leysa deasitílerað (DD 40%, 70%, 87% og 96%) kítósan upp í ediksýru og steypa úr því filmur í ræktunarbakka. Filmurnar voru hlutleystar í NaOH, sótthreinsaðar með ethanóli og sýrustig stillt að pH 7.4. Frumum var sáð á filmurnar (4000 frumur/ cm2) og viðloðun, líftala og fjölgun metin með smásjárskoðun og MTT prófi. Beinsérhæfing var metin með q-PCR og greiningu á stein-efnaútfellingum.

Niðurstöður: Bæði MSC frumur og beinforvera-frumursýna aukningu í viðloðun við kítósan filmur húðaðar með fíbrónektíni. MSC frumurnar loða best við DD96 filmur. MC3T3-E1 frumurnar sýndu viðloðun við DD70, DD87 og DD96 filmur. MC3T3-E1 frumur fjölga sér mest á DD96 filmum en hægar á DD70 og DD87 filmum. Engin viðloðun frumna verður við DD40 filmur.

Ályktanir:Fíbrónektín örvar viðloðun MSC og MC3T3-E1 frumna við kítósan filmur og hefur ekki neikvæð áhrif á fjölgun þeirra. Næstu skref er að athuga eiginleika mismunandi DD kítosanfilma, kanna áhrif á beinsérhæfingu og húðun þeirra á títanplötur.

 

 

V-62    Áhrif bakteríudrepandi peptíða á ratvísi T-frumna

Þórdís Emma Stefánsdóttir1,2, Guðmundur Hrafn Guðmundsson2,3, Hekla Sigmundsdóttir1,4

1Blóðmeinafræðideild Landspítala, 2líf- og umhverfisvísindadeild HÍ, 3líffræðistofnun HÍ, 4læknadeild HÍ

heklas@landspitali.is

Inngangur: Sérstakar samsetningar viðtaka miðla ratvísi T-frumna til húðar. Þessi ratvísi T-frumna stjórnast af samskiptum sameinda á æðaþeli við viðtaka á T-frumum. Meðal þeirra viðtaka sem miðla fari T fruma eru viðloðunarsameindin CLA (cutaneous lymphocyte antigen) og efnatogsviðtakinn CCR4 sem stuðla að ratvísi frumanna inn í neðri húðlög (dermis). Bakteríudrepandi peptíð gegna mikilvægu hlutverki í náttúrulegum vörnum líkamans gegn sýkingum. Bakteríudrepandi peptíðið LL-37 er m.a. framleitt í húð en hún verður stöðugt fyrir áreiti örvera. Vitað er að peptíðin hafa ónæmisbælandi áhrif, en hlutverk þeirra í áunnum vörnum eru ekki vel þekkt. Sýnt hefur verið fram á að D-vítamín örvar framleiðslu á LL-37.

Markmið:Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna áhrif LL-37 á tjáningu viðtaka á T-frumum sem miðla ratvísi þeirra til húðarinnar.

Aðferðir: T-frumur voru einangraðar úr blóði og ræstar gegnum T-frumuviðtakann, með eða án bakteríudrepandi peptíðsins LL-37, D-vítamíns eða bæði LL-37 og D-vítamíns. Hluti frumnanna var ræstur en fékk LL-37, D-vítamín eða bæði LL-37 og D-vítamín þremur dögum síðar. Tjáning viðtaka á yfirborði T-frumnanna var könnuð með mótefnalitun og frumuflæðisjár greiningu fyrir og eftir ræsingu.

Niðurstöður: Ræsing T-frumna í návist LL-37 jók tjáningu CLA viðtakans, og eingöngu þeirra T-frumna sem einnig tjáðu CCR4 viðtakann. Hinsvegar hafði D-vítamín öfug áhrif; ræsing í návist þess bældi tjáningu CLA.

Ályktun: Fyrstu niðurstöður benda til þess að LL-37 og D-vítamín hafi ólík áhrif á tjáningu ratvísisameinda á T-frumum sem hafa sértækni til húðar.

 

 

V-63    Ónæmisglæðir eflir þroska kímmiðja og viðhald frumna sem seyta fjölsykrumótefnum í nýburamúsum

Stefanía P. Bjarnarson1,2, Hreinn Benónísson1, Giuseppe Del Giudice3, Ingileif Jónsdóttir1,2,4

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Novartis Vaccines, Siena, Ítalíu,, 4Íslenskri erfðagreiningu

stefbja@landspitali.is

Inngangur: Kímmiðjumyndun og myndun fjölsykrusértækra IgG+ mótefnamyndandi frumna (PPS-IgG+-AbSC) við bólusetningu með próteintengdu fjölsykrubóluefni (Pnc-TT) er aldursháð, en LT-K63 yfirvinnur þær takmarkanir í nýburamúsum. Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif LT-K63 á kímmiðjufrumur (follicular dendritic cells, FDC), átfrumur (marginal metallophilic macrophages; MMM) og viðhaldi sértækra PPS IgG+ AbSC í milta (SP) og beinmerg (BM).

Aðferðir: Nýburamýs (NN) og fullorðnar mýs (AD) voru bólusettar undir húð með Pnc-TT, Pnc1-TT+LT-K63, LT-K63 eða saltvatni. Miltu voru fjarlægð á degi 14 í NN en degi 10 í AD og 23, 39 eða 55 dögum eftir frumbólusetningu í NN. Vefjasneiðar voru litaðar með FDC-M2 sem einkennir fullþroskaðar FDC og MOMA-1 sem einkennir MMM í jaðarsvæðum eitilbúa. Fjöldi sértækra PPS-IgG-AbSC var metinn.

Niðurstöður: Í Pnc1-TT+LT-K63 bólusettum NN jókst FDC-M2 litun og flutningur MMM inn í virku kímstöðvarnar. Tíðni PPS-IgG-AbSC í SP og BM var marktækt hærri í NN sem voru bólusettar með Pnc-TT+LT-K63 strax á degi 14 miðað við Pnc-TT hópinn, en ekki á degi 23. Á degi 39 dróg marktækt úr tíðni PPS-IgG-AbSC í SP og BM músa bólusettra með Pnc-TT og hélt áfram að lækka á degi 55. Aftur á móti jókst tíðni PPS-IgG-AbSC marktækt frá degi 23 til dags 55 í BM Pnc-TT+LT-K63 bólusettra músa.

Ályktun: LT-K63 nær að yfirvinna takmörkun í kímmiðjumyndun, þroska FDC, flutningi MMM inn í virkar kímmiðjur og myndun fjölsykrusértækra frumna í milta nýburamúsa. LT-K63 eykur einnig viðhald minnisfrumna og langlífra mótefnamyndandi frumna í beinmerg.

 

 

V-64    Nýtt prótínbóluefni gegn pneumókokkum gefið með ónæmisglæðinum IC31® vekur upp verndandi vessa- og frumubundið svar í nýburamúsum

Þórunn Ásta Ólafsdóttir1,2, Karen Lingnau3, Eszter Nagy3 og Ingileif Jónsdóttir1,2,4

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Intercell AG, Vín, Austurríki, 4Íslenskri erfðagreiningu

thorasta@landspitali.is

Inngangur:Pneumókokkabóluefni sem eru á markaði í dag hafa ýmsar takmarkanir og því er verið að þróa ný prótínbóluefni sem hugsanlega geta veitt vernd óháð hjúpgerð, er ódýr í framleiðslu og geta vakið verndandi ónæmissvar í nýburum.

Markmið: Að rannsaka vernd vessa- og frumubundin ónæmissvör nýburamúsa við bólusetningum gegn nýju pneumókokka bóluefni (IC47) sem inniheldur prótínin, PcsB, StkP og PsaA, og áhrif ónæmisglæðanna IC31® eða Alum.

Aðferðir:Viku gamlar mýs voru bólusettar með IC47 (20 µg af hverju prótíni) með eða án IC31® eða Alum. Einni viku eftir aðra bólusetningu voru miltisfrumur endurörvaðar in vitro með einstökum prótínum í 48 klst. Magn boðefna í frumufloti og mótefnamagn í sermi voru mæld með ELISA. Í aðskilinni tilraun voru mýsnar sýktar um nef með pneumókokkum af hjúpgerð 1 og blóð- og lungnasýking metin.

Niðurstöður: Báðir ónæmisglæðarnir Alum og IC31® juku heildarmótefnamagn gegn prótínbóluefninu IC47 marktækt miðað við ef bóluefnið var gefið án ónæmisglæðis. Hinsvegar, var ónæmissvarið einungis verndandi í hópnum sem fékk IC47 ásamt ónæmisglæðinum IC31® sem verndaði fullkomlega gegn blóðsýkingu og olli marktækri lækkun á lungnasýkingu miðað við hópinn sem fékk bóluefnið eitt og sér. Alum hópurinn var ekki verndaður. Þegar ónæmissvarið var skoðað nánar kom í ljós að IC31®, en ekki Alum, jók myndun á Th1 tengda undirflokknum IgG2a og var það í samræmi við mikla myndun á IFN-g í IC31® hópnum en ekki Alum hópnum. Þannig skiptir gerð mótefna máli fyrir vernd, ekki bara heildarmagn. Þetta gefur til kynna að IC31® geti yfirunnið Th2 sveigt svar nýbura ónæmiskerfisins, en Alum ekki.

Ályktun:Prótínbóluefnið IC47 ásamt Th1 hvetjandi ónæmisglæðinum IC31® vekur verndandi vessa- og frumubundið ónæmissvar í nýburamúsum.

 

 

V-65    T-frumur úr kverkeitlum sórasjúklinga hafa aukna tjáningu á húðrötunar sameindum

Sigrún Laufey Sigurðardóttir1,2 Ragna Hlín Þorleifsdóttir1,2 Hannes Petersen3, Hannes Hjartarson4, Andrew Johnston5, Helgi Valdimarsson1

Ónæmisfræðideild Landspítala1, læknadeild HÍ2, háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala3, Læknastöðin Glæsibæ4, húðlækningadeild háskólans í Michigan5

sigrunls@landspitali.is, helgiv@landspitali.is

Inngangur: Sóri (psoriasis) er algengur T-frumumiðlaður sjálfsofnæmissjúkdómur í húð er lýsir sér sem rauðar, upphleyptar skellur þaktar hvítu hreistri.  Meingerð sóra virðist sterkt tengd við ónæmisvirkni kverkeitla þar sem hálsbólgur af völdum streptókokka orsaka eða valda versnun í sóraútbrotum auk þess sem sórasjúklingar fá oftar slíkar sýkingar.

Markmið: Tilgangur verkefnisins var að kanna hvort meðfædd ónæmissvör sórasjúklinga væru afbrigðileg og leiði þar með til aukinnar tjáningar á sameindum sem mikilvægar eru fyrir meingerð sóra.

Aðferðir: Hnattkjarna hvítfrumur voru einangraðar úr 15 kverkeitlum úr sórasjúklingum (PST) og 15 kverkeitlum úr einstaklingum með endurteknar sýkingar (RT). Frumurnar voru litaðar fyrir ýmsum yfirborðsviðtökum og svipgerð þeirra greind í flæðifrumusjá. Tíðni strepókokkasýkinga var sambærileg milli hópa.  Tölfræði var metin með Student´s t-próf  með marktækni p<0,05.

Niðurstöður: T-frumur úr kverkeitlum sórasjúklinga tjáðu marktækt meira af húðrötunarsameindinni CLA heldur en T-frumur úr RT kverkeitlum.  Einnig var aukning á CCR6 jákvæðum T-frumum í PST kverkeitlum.  Hins vegar tjáðu T-frumur úr RT kverkeitlum marktækt meira af CCR5, CD69 og CD25.

Ályktun: Niðurstöðurnar samræmast þeirri tilgátu að meðfædd ónæmissvör í PST kverkeitlum séu afbrigðileg.  Hin aukna tjáning á húðrötunarsameindinni CLA og CCR6 er sérlega áhugaverð þar sem CLA er mikilvægt fyrir rötun til húðar og CCR6 er sértækt fyrir TH17 frumur sem eru aðal meinvaldandi frumugerðin í sóra.  Verið er að bera saman tíðni T1 og T17 frumna í PST og RT kverkeitlum auk þess sem vefjafræðileg einkenni eru skoðuð.

V-66    TGF-beta1 og IL-2 hafa samverkandi áhrif á tjáningu viðloðunarsameindarinnar Integrin alphaE

Brynja Gunnlaugsdóttir1, 2, 3, Sólrún Melkorka Maggadóttir1, 2, Laufey Geirsdóttir1, 2, Inga Skaftadóttir1 , Björn Rúnar Lúðvíksson1, 2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3rannsóknastofu í gigtsjúkdómum, Landspítala

brynja@landspitali.is

Inngangur:Viðloðunarsameindin Integrin alphaE (CD103) gegnir lykilhlutverki við vefjasækni og bólgusvari T-frumna. Jafnframt er talið að tjáning hennar einkenni FoxP3+ T stýrifrumur (Tst). Rannsóknir hafa sýnt að frumuboðefnið TGF-beta1 stuðli að tjáningu FoxP3 og CD103. Hins vegar hafa ekki verið ítarlega skilgreind þau ræktunarskilyrði sem þarna liggja til grundvallar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif ræktunarskilyrða auk vaxtarþáttarins IL-2 á tjáningu CD103 og FoxP3.

Aðferðir: Einkjarna hvítfrumur voru einangraðar úr naflastrengsblóði og örvaðar með einstofna mótefnum um T frumuviðtaka (anti-CD3) og hjálparviðtaka (anti-CD28). TGF-beta1 og IL-2 var bætt í valdar ræktir. Tjáning T-fruma á CD4, CD8, CD103, CD25, Integrin alpha4, Integrin beta7 og FoxP3 metin með frumuflæðisjá.

Niðurstöður:TGF-beta1 og IL-2 höfðu samverkandi jákvæð áhrif á CD103 tjáningu T fruma sem eingöngu voru örvaðar um T frumuviðtakann og stuðluðu að fjórfaldri aukningu CD4+ CD103+ T fruma (% CD103+: +IL-2+TGF = 9,0 m.v. viðmið = 1,3, P=0,009) en tífaldri aukningu CD8+ CD103 T fruma (+IL-2+TGF = 41,9 m.v. viðmið= 3,9, P=0,05). Hins vegar reyndist hjálparörvun um CD28 draga verulega úr tjáningu á CD103 í kjölfar TGF-beta1 og IL-2 meðferðar (% fækkun: CD4+ = 27% og CD8+ = 40%). Frumniðurstöður sýna að hlutfallsleg tjáning Tst á CD103 nái hámarki þegar vaxtarþátturinn IL-2 og hjálparræsing um CD28 eru til staðar.

Ályktun: Ljóst er að samsetning bólguboðefna hefur afgerandi áhrif á hæfni T-fruma til vefjaviðloðunar fyrir áhrif CD103. Líklegt er að bólguferlar sem framkalli ofangreind hámarks skilyrði T-frumuræsingar stuðli að sérhæfingu Tst fruma og viðloðunar þeirra á bólgustað í gegnum CD103.

 

 

V-67    Myndun snemmbærra æðaþelslíkra klasa er T-frumu háð

Dagbjört Helga Pétursdóttir, Björn Rúnar Lúðvíksson

Ónæmisfræðideild Landspítala

dagbhp@landspitali.is

Inngangur: Fjöldi æðaþelsstofnfrumna (ÆS) í blóði hefur neikvæða fylgni við hjarta- og æðasjúkdóma. Myndun og fjöldi snemmbærra æðaþelslíkra klasa (SÆK) eftir sértæka ræktun einkjörnunga er talinn gefa upplýsingar um fjölda ÆS í blóði. Hins vegar er ekki ljóst hvaða sértæku aðstæður og frumuhópar taka þátt í sérhæfingu SÆK. Markmið rannsóknarinnar var því að meta þátt T-frumna í sérhæfingu SÆK.

Aðferðir: Einkjarna blóðfrumur voru einangraðar úr heilbrigðum einstaklingum og þær ræktaðar við sértækar aðstæður í 7 daga. Sérhæfing SÆK var metin út frá klasamyndunarhæfni (smásjá) og svipgerð (flæðifrumusjá). Sérhæfing SÆK var metin með eða án T-frumna. T-frumur voru einangraðar eða fjarlægðar með segulflokkun.

Niðurstöður: Flæðifrumusjárgreining leiddi í ljós að SÆK samanstóð af tveim frumuhópum, aðgreinanlegum út frá stærð og sértækri tjáningu yfirborðssameinda. Smærri frumuhópurinn tjáði sameindir einkennandi fyrir T-frumur (CD3, CD4, CD8) en stærri frumuhópurinn tjáði sameindir sem einkenndu átfrumur (CD14, CD68). Frumur sem tjáðu einkennandi sameindir fyrir æðaþelsfrumur (VEGFR-2, CD144) voru þó fáar (1-10%) og tjáðu þær allar átfrumusameindina CD14. T-frumur höfðu afgerandi áhrif á sérhæfingu SÆK með tvíþættum hætti. Þannig var SÆK sérhæfing alfarið háð tilvist T-fruma þar til ákveðnum þröskuldi var náð, en þá hömluðu T-frumur myndun SÆK.

Ályktun: Sérhæfing SÆK ákvarðast út frá vaxtarþáttum og nánu samspili við aðliggjandi einfrumunga. Niðurstöður okkar sýna eindregið fram á nauðsyn T-frumna í sérhæfingarferlinu. Einnig benda þær til þess að íferð T-frumna á bólgustað geti hamlað sérhæfingu á SÆK. Áframhaldandi rannsóknir okkar munu beinast að þeim sértæku ferlum sem hér um ræðir og kanna tengsl þeirra við hjarta- og æðasjúkdóma.

V-68    Arfgerðin C4B*Q eykur líkur á langvinnri lungnateppu meðal reykingamanna

Einar Teitur Björnsson1-2, Karolína Einarsdóttir1, Bryndís Benediktsdóttir3, Þórarinn Gíslason3, Guðmundur Jóhann Arason1,2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3lyflækningasviði Landspítala

garason@lsh.is

Inngangur: Rannsóknir okkar sýna að C4B*Q0 er alvarlegur áhættuþáttur fyrir fólk sem reykir (tíðni lækkar úr 19.2% í 4% og 0% við 50 og 60 ára aldursbilið). Í leit að ástæðu athuguðum við fólk með grunaðan kransæðasjúkdóm (CVD) og fundum að C4B*Q0 var hækkað í reykingafólki með hjartaöng (AP) (p=0,005; OR 30.07) eða hjartaáfall (MI) (p=0,0003; OR 22.66), og líkur á dauðsfalli eftir hjartaáfall voru 3.50 (p=0,008) (OR=odds ratio).

Markmið: Að kanna hvort C4B*Q0 geti einnig tengst öðrum sjúkdómi sem herjar á reykingafólk eftir miðjan aldur, þ.e. langvinnri lungnateppu (LLT).

Aðferðir: Til athugunar var slembiúrtak Íslendinga yfir 40 ára aldri (BOLD rannsóknin), alls 755 manns. Tíðni C4B*Q0 var skoðuð með rafdrætti og borin saman við sögu um reykingar og sjúkdómsgreiningu. Sjúklingar með kransæðasjúkdóm voru útilokaðir.

Niðurstöður: Búið er að greina helming sýna. Tíðni C4B*Q0 féll úr 20,7% í 14,42% eftir 50 ára aldur (p=0,067) og úr 17,2% í 9,6% meðal reykingafólks (p=0,109). Tíðnin var hækkuð í LLT sjúklingum með stig II (p=0,018), einkuð meðal þeirra sem reyktu (p=0,007).

Ályktun: C4B*Q0 eykur líkur reykingafólks á að greinast með LLT stig II. C4B*Q0 er því áhættuþáttur fyrir tvo mikilvæga sjúkdóma sem herja á fólk við miðjan aldur, þ.e. LLT og kransæðasjúkdóm. Fyrri niðurstöður sem sýndu fall C4B*Q0 við miðjan aldur hjá reykingafólki eru studdar af núverandi niðurstöðum, sem eru að vísu ekki marktækar en þær eru áhugaverðar (p=0,109). Full ástæða er til að greina afgang sýna.

 

 

V-69    Framleiðsla prótínsins VCP í framleiðslukerfi gersveppsins Pichia pastoris

Guðni Á. Alfreðsson1, Hafliði M. Guðmundsson1, Björn Rúnar Lúðvíksson2, Girish J. Kotwal2, Guðmundur Jóhann Arason2*

1Örverufræðistofu, líffræðiskor; HÍ Öskju; 2ónæmisfræðideild Landspítala

garason@lsh.is

Inngangur: Prótínlyf eru nú <10% af heimsframleiðslu lyfja en eru talin ná 30% á næstu árum. VCP er hindri fyrir magnakerfið, og e.t.v. fyrir bólgu almennt.** Dýramódel sýna að VCP getur bæði hindrað bólguskemmdir í kjölfar kransæðastíflu (eingjöf), og meinþróun sjúkdómsins sjálfs (endurteknar gjafir).

Markmið: að framleiða VCP hérlendis til vísindarannsókna og til lyfjaþróunar.

Aðferðir:VCP hefur verið framleitt í framleiðslukerfi gersveppsins P. pastoris(rVCP) síðan 1999; geninu var stökkbreytt 2005 (hrVCP)** til að auka virkni. Í ársbyrjun 2009 voru fengnar 3 klónur fyrir rVCP og 2 fyrir hrVCP, með það fyrir augum að velja bestu klónurnar, staðla framleiðslu- og einangrunaraðferðir, og hámarka framleiðslu. Fyrst er unninn lífmassi gersvepps með tveggja daga ræktun, þá er sá lífmassi látinn framleiða VCP í tvo daga, og það endurtekið. Afurðir eru greindar með SDS-PAGE og WB, og VCP einangrað á heparínsúlu.

Niðurstöður: VCP myndar 30 kDa bönd í SDS-PAGE. Með endurbótum á framleiðsluferlinu hefur framleiðslugeta kerfisins verið fjórfölduð. Til eru staðlaðar vinnuáætlanir (SOP)** fyrir ræktun lífmassa, framleiðslu VCP úr þeim lífmassa, greiningu sýna, hreinsun VCP, prófun á gæðum afurða, og pökkun.

Umræður: Þróun aðferða hefur á einu ári skilað fjórfaldri framleiðslugetu, sem samsvarar allt að 100 mg á mánuði per starfsmann. Heimsframleiðsla VCP prótínsins í P. pastoris fer nú öll fram á Íslandi. Næsta skref í þróun VCP er að fá vottað framleiðsluferli.

 

** VCP= vaccinia virus complement control protein; r=recombinant; h=humanized; SOP=standard operating protocol

 

V-70    Bólguboðar og sérhæfing T-stýrifrumna

Laufey Geirsdóttir1,2, Brynja Gunnlaugsdóttir1,2, Inga Skaftadóttir2, Björn R. Lúðvíksson1,2

1Læknadeild HÍ, 2ónæmisfræðideild Landspítala

laufeyge@landspitali.is

Inngangur:T-stýrifrumur (Tst) sem myndast utan thymus eru taldar nauðsynlegar til að viðhalda árangursríku sjálfsþoli. Tst eru einkenndar með hárri yfirborðstjáningu á Interleukin (IL)-2 alpha viðtaka keðju (CD25), lágri tjáningu af IL-7 alpha viðtakakeðju (CD127) og stöðugri tjáningu á umritunarþættinum FoxP3. Óreyndar T-frumur geta sérhæfst í Tst þegar TGFb1 og IL-2 eru til staðar en einnig getur A-vítamín afleiðan retinoic acid stuðlað að þeirri sérhæfingu. Sýnt hefur verið fram á að há tjáning á FoxP3 er nauðsynleg fyrir þroskun og bæligetu Tst.

Markmið:Markmið þessarar rannsóknar var að kanna áhrif helstu bólgu-
miðlanna, TNF
a og IL-1b, á sérhæfingu T stýrifrumna.

Aðferðir:CD4+CD25- T-frumur úr naflastrengjum voru einangraðar og ræktaðar í návist TGFb1 og IL-2 í allt að 7 daga með ræsingu um TcR og CD28; ± TNFa eða IL-1b. Frumurnar voru því næst litaðar daglega fyrir TNFRI, TNFRII, FoxP3, CD25 og CD127. Lausir TNFRII viðtakar og TNFa í floti voru mældir með ELISA.

Niðurstöður: T-frumur sem ræktaðar eru við bestu skilyrði Tst sérhæfingar tjá minna af FoxP3 á degi 2 og 3 in vitro (-12%+/-1,2 og -11%+/-4,2; p>0,05). T-frumurnar seyttu miklu magni af TNFRII viðtökum og náðu að hlutleysa það TNF sem var til staðar í æti þeirra eftir dag 4. Við hlutleysingu TNFa fóru Tst að tjá aftur FoxP3. Aftur á móti virðist IL-1b bæla algerlega FoxP3 tjáningu og þess vegna Tst sérhæfingu á degi 6-7.

Ályktun:Bólgumiðlarnir TNFa og IL-1b geta báðir hindrað sérhæfingu Tst jafnvel þótt að aðrir nauðsynlegir sérhæfingarþættir eru til staðar. Niðurstöður okkar benda þó til að T-frumur sem ræsast geti komist hjá áhrifum TNFa með viðtakalosun í langvarandi bólguástandi. Aftur á móti hefur langvarandi IL-1b viðvera, eins og finna má í bólgusjúk-dómum, bælandi áhrif á sérhæfingu Tst.

 

 

V-71    Langtímaviðhald Haemophilus influenzae type b sértækra B-minnisfrumna

Maren Henneken1, Einar Thoroddsen3, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir1,4, Emanuelle Trannoy2, Ingileif Jónsdóttir1,4,5

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2Sanofi Pasteur, Marcy l' Etolie, Frakklandi, 3háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala, 4) læknadeild HÍ, Íslenskri erfðagreiningu

marenh@landspitali.is

Inngangur:Bólusetningar þurfa að vekja ónæmisminni til að veita langtímavernd gegn smitsjúkdómum. Fjölsykrusértækar (PS-specific) B-minnisfrumur sem myndast í æsku geta viðhaldist án náttúrulegrar útsetningar fyrir sýklinum. Bólusetning ungbarna gegn Hib hófst 1989, sem gerir okkur kleyft að rannsaka langlífi Hib-PS-sértækra minnisfrumna í ungmennum, sem voru eða voru ekki bólusettir sem ungbörn fyrir yfir 20 árum. Hib bakterían hvarf úr samfélaginu eftir að Hib-bólusetningar hófust, svo náttúruleg útsetning getur ekki orsakað viðhald ónæmisminnis.

Efniviður og aðferðir: Tíðni Hib-PS-sértækra B-frumna í blóði var ákvörðuð og svipgerð þeirra (minnisfrumur, meyfrumur, mótefnaflokkur) greind í flæðifrumusjá eftir litun með flúrskinsmerktri Hib-fjölsykru og flúrskinsmerktum mótefnum. Eftir örvun in vitro voru mótefnaseytandi frumur (antibody secreting cells, AbSC) taldar með ELISpot. Mótefni í sermi verða mæld með ELISA. Blóð 16 ungmenna (10 bólusettir og 9 óbólusettir/óþekkt) hefur verið rannsakað.

Niðurstöður:Hib-sértækar CD19+ B-frumur voru 0.2% meðaltal fyrir hópinn í heild, 0.11% í bólusettum (N=10) og 0.27% í óbólusettum/óþekktum (N=9). Fyrir hópinn í heild voru 71% (45.8 –89.7%) af CD19+ B-frumum CD20+CD27+ minnisfrumur. Meirihluti Hib-sértækra B-minnisfrumna hafði gengið í gegnum flokkaskipti og tjáði IgG eða IgA.

Ályktanir:Bráðabirgðaniðurstöður okkar sýna að Hib-sértækar minnisfrumur eru mælanlegar í einstaklingum sem hafa verið bólusettir fyrir yfir 2 áratugum, en smæð rannsóknarúrtaksins leyfir okkur ekki að meta áhrif bólusetningar á tíðni þeirra. Við erum að stækka rannsóknarúrtakið og munum kanna hvort tíðni Hib-sértækra B-frumna er hærri hjá þeim sem voru bólusettir fyrir meira en 20 árum, en þeim sem ekki voru bólusettir.

 

 

V-72    Fylgni bólgumiðilsins C3 við æðakölkunarsjúkdóm og áhættuþætti hans

Perla Þorbjörnsdóttir1, Sigurður Þór Sigurðarson2, Sigurður Böðvarsson2, Guðmundur Þorgeirsson2,3, Guðmundur Jóhann Arason1,3

1Ónæmisfræðideild, 2lyflækningadeild Landspítala, 3læknadeild HÍ

garason@lsh.is

Inngangur: Magnakerfið er einn öflugasti bólgumiðill mannslíkamans. Stungið hefur verið upp á því að C3 hækkun í blóði geti haft forspárgildi fyrir æðakölkunarsjúkdóm.

Aðferðir: Til skoðunar voru 271 sjúklingar með kransæðasjúkdóm og 132 heilbrigðir. Styrkur C3 var mældur með strýturafdrætti í mótefnageli. Niðurstöður voru bornar saman við eftirfarandi áhættuþætti kransæðasjúkdóms: sykursýki (DM) eða hár fastandi glúkósi (pre-DM) (>6,1 mmól/L), háþrýstingur (>130/85 mm Hg), lágt HDL kólesteról (HDLC) (<1,04 mmól/L í körlum, <1,29 mmól/l í konum), há fastandi þríglyseríð (>1,69 mmól/L) og há líkamsþyngd (LÞS>25). Ef þrjú eða fleiri þessara einkenna fóru saman var það greint sem efnaskiptaheilkenni (metabolic syndrome).

Niðurstöður: Í viðmiðunarhóp var C3 hækkað í einstaklingum með há þríglyseríð (p<0,001), háa líkamsþyngd (p=0,002) eða háþrýsting (p=0,019), og sérstaklega þeim sem höfðu þrjá eða fleiri áhættuþætti (p<0,001). C3 gildi voru hækkuð í hjartaöng (p=0,035), kransæðastíflu (p<0,001) og þeim sem höfðu sögu um kransæðastíflu (p=0,004), en þetta reyndist bundið við þá sem höfðu efnaskiptaheilkenni. Af þeim 9 sem voru með efnaskiptaheilkennið við komu greindust 6 með kransæðasjúkdóm á næstu 10 árum (6/9), en af þeim 28 sem var ekki með efnaskiptaheilkennið við komu hafði enginn greinst með kransæðasjúkdóm 10 árum síðar (p<0,001).

Ályktun: Styrkur C3 sýnir fylgni við efnaskiptaheilkenni og einstök skilmerki hans, og getur hugsanlega spáð fyrir um kransæðasjúkdóm síðar meir.

 

 

V-73    Áhrif BCG á ónæmissvar nýburamúsa við bólusetningu gegn meningókokkum C

Siggeir F. Brynjólfsson1,2, Stefania P. Bjarnarson1,2, Elena Mori3,Giuseppe Del Giudice3, Ingileif Jónsdóttir1,2,4

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Novartis Vaccines, Siena, Ítalíu, 4Íslenskri erfðagreiningu

siggeir@landspitali.is

Inngangur:Varnir nýbura gegn ýmsum sýklum eru skertar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif berklabóluefnisins BCG á ónæmissvar nýburamúsa við próteintengdu fjölsykrubóluefni meningókokka af gerð C, MenC-CRM197, en BCG er víða gefið nýburum.

Aðferðir:Nýburamýs voru frumbólusettar undir húð eða um nef með MenC og BCG gefið samtímis, degi fyrir eða viku fyrir MenC bólusetningu. Mýsnar voru endurbólusettar með MenC 16 dögum síðar. Mótefni voru mæld með ELISA og myndun ónæmisminnis metin út frá hraða og styrk mótefnasvarsins. Drápsvirkni sermis (serum bactericidal activity, SBA) var einnig mæld.

Niðurstöður: Mýs bólusettar með MenC sem nýburar höfðu marktækt hærri IgG mótefni en mýs sem fengu saltvatn. Nýburamýs sem fengu BCG samtímis MenC bóluefninu höfðu marktækt hærra IgG mótefnamagn en mýs sem fengu eingöngu MenC. Enginn munur var á magni IgG mótefna músa sem fengu BCG degi eða viku fyrir MenC bólusetningu og þeirra sem fengu aðeins MenC. Drápsvirkni sermis var aðeins mælanleg í músum sem fengu BCG og MenC samtímis og voru endurbólusett með MenC undir húð eða um nef. BCG jók og flýtti ónæmissvari nýburamúsa, sem endurspeglar eflingu ónæmisminnis. BCG hafði áhrif á undirflokka IgG sem bendir til aukins Th1 svars.

Ályktanir:Niðurstöðurnar sýna að BCG hefur ónæmisglæðandi áhrif sé það gefið samtímis MenC. Þær stangast á við niðurstöður rannsókna, sem sýndu að BCG sem er gefið nýburum manna eykur mótefnasvar gegn óskyldum bóluefnum sem voru gefin allt að þremur mánuðum síðar.

 

 

V-74    Áhrif fjölsykra úr íslenskum fléttum og cyanóbakteríu á frumuboðamyndun THP-1 mónócýta

Guðný Ella Thorlacius1,2, Sesselja S. Ómarsdóttir3, Elín Soffía Ólafsdóttir3, Ingibjörg Harðardóttir2, Jóna Freysdóttir1

1Rannsóknarstofu í gigtsjúkdómum og ónæmisfræðideild Landspítala, 2lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar, 3lyfjafræðideild HÍ

get1@hi.is

Inngangur: Notkun flétta á borð við fjallagrös (Cetraria islandica) á sér langa sögu í alþýðulækningum og hafa þær m.a. verið notaðar til að meðhöndla ýmsa bólgusjúkdóma. Collema flétturnar klappaslembra (Collema glebulentum) og hreisturslembra (Collema flaccidum), hafa hins vegar lítið verið rannsakaðar og því fátt vitað um áhrif þeirra á ónæmiskerfið. Fyrri rannsóknir okkar hafa sýnt að fjölsykran lichenan úr fjallagrösum dempar ónæmissvör í angafrumulíkani in vitro og dregur úr liðbólgu í rottum.

Markmið: Að kanna áhrif fjölsykrunnar lichenans og grófhreinsaðra fjölsykra úr fléttunum klapparslembru og hreisturslembru og cýanóbakteríunni N. commune á IL-6, IL-10 og IL-12p40 seytingu mónócýta.

Aðferðir: THP-1 mónócýtafrumulína (úr mönnum) var meðhöndluð með IFN-g í 3 klst og síðan örvuð með inneitri (LPS) í návist eða án fjölsykra í mismunandi styrkjum. Eftir 48 klst voru frumurnar spunnar niður, floti safnað og styrkur frumuboða mældur með ELISA aðferð.

Niðurstöður:THP-1 frumur örvaðar í návist lichenans seyttu minna af IL-12p40 og IL-6 en frumur örvaðar án lichenans. THP-1 frumur örvaðar í návist grófhreinsaðra fjölsykra úr klapparslembru, hreisturslembru og N. commune seyttu einnig minna af þessum frumuboðum með eða án áhrifa á IL-10 en frumur örvaðar án fjölsykra. Cýklóoxýgenasa hindrinn indómetacín kom nánast í veg fyrir þessi áhrif fjölsykra úr klapparslembru.

Ályktanir: Minnkun á IL-12p40 seytingu THP-1 mónócýta í kjölfar meðferðar með fjölsykrum úr fléttum og N. commune gæti bent til temprunar ónæmissvars, þar sem minni seytun á IL-12 dregur úr Th1 ónæmissvari. Áhrif fjölsykra úr klapparslembru virðast vera í gegnum cýklóoxýgenasaferilinn.

 

 

V-75    Fiskolía í fæði músa minnkar hlutfall CCR2 jákvæðra mónócýta í heilbrigðum músum en eykur hlutfallið í músum sprautuðum með inneitri

Hildur H. Arnardóttir1,2, Jóna Freysdóttir2, Ingibjörg Harðardóttir1

1Lífefna- og sameindalíffræðistofa, læknadeild HÍ, 2rannsóknastofu í gigtsjúkdómum og ónæmisfræðideild Landspítala

hha3@hi.is

Inngangur: Fiskolía, rík af ómega-3 fjölómettuðum fitusýrum, hefur jákvæð áhrif í sumum krónískum bólgusjúkdómum og einnig í sýkingum. Flakkboðinn CCL2 er mikilvægur í togi mónócýta úr beinmerg í blóð og einnig úr blóði til heilbrigðra og sýktra vefja. CCL2 binst flakkboðaviðtakanum CCR2 sem er tjáður af undirgerð mónócýta sem gjarnan eru kallaðir bólgu-mónócýtar.

Markmið: Að ákvarða áhrif fiskolíu í fæði músa á undirgerðir mónócýta í blóði og á styrk CCL2 í sermi úr heilbrigðum músum og músum sprautuðum með inneitri (LPS).

Aðferðir: Kvenkyns C57BL/6 mýs fengu fóður byggt á vestrænu fæði með eða án fiskolíu. Helmingur hvors fæðuhóps var sprautaður með LPS í kviðarhol þremur eða 48 klst áður en blóði var safnað. Yfirborðssameindir og flakkboðaviðtakar á blóðfrumum voru greindir í frumuflæðisjá og styrkur CCL2 í sermi mældur með ELISA aðferð.

Niðurstöður: Heilbrigðar mýs sem fengu fiskolíu voru með lægra hlutfall af bólgu-mónócýtum (mónócýtar sem tjá CCR2) í blóði en mýs sem fengu viðmiðunarfæði. Eftir sprautun með inneitri jókst hlutfall bólgu-mónócýta í músum sem fengu fiskolíu en ekki í músum sem fengu viðmiðunarfæði. Styrkur CCL2 í sermi heilbrigðra músa sem fengu fiskolíu var minni en styrkur CCL2 í sermi músa sem fengu samanburðarfæði. Hins vegar var styrkur CCL2 í sermi LPS-sprautaðra músa sem fengu fiskolíu meiri en í sermi músa sem fengu viðmiðunarfæði.

Ályktun: Niðurstöðurnar benda til þess að fiskolía hafi dempandi áhrif á bólguvirkni í jafnvægi og ef til vill í krónískri bólgu en auki hins vegar bólguviðbragð eftir sýkingu. Dempandi áhrif fiskolíu í heilbrigðum músum samræmist jákvæðum áhrifum hennar á króníska bólgusjúkdóma en aukið bólguviðbragð gæti að hluta skýrt jákvæð áhrif hennar í sýkingu.

 

 

V-76    Fiskolía í fæði músa eykur hlutfall daufkyrninga í blóði og kviðarholi músa 48 klst eftir innsprautun með inneitri

Hildur H. Arnardóttir1,2, Jóna Freysdóttir2, Ingibjörg Harðardóttir1

1Lífefna- og sameindalíffræðistofa, læknadeild HÍ, 2rannsóknastofu í gigtsjúkdómum og ónæmisfræðideild Landspítala

hha3@hi.is

Inngangur: Fiskolía, rík af ómega-3 fjölómettuðum fitusýrum, hefur jákvæð áhrif í sumum krónískum bólgusjúkdómum og einnig í sýkingum. Flakkboðarnir KC (CXCL1), MIP-2 (CXCL2) og MIP-1a (CCL3) og viðtakarnir sem þeir bindast gegna mikilvægu hlutverki í togi daufkyrninga á sýkinga- og bólgustaði.

Markmið: Að ákvarða áhrif fiskolíu í fæði músa á styrk flakkboðanna KC, MIP-2 og MIP-1a í sermi og kviðarholsvökva, og á undirflokka daufkyrninga í blóði og kviðarholi í músum sprautuðum með inneitri (LPS).

Aðferðir: Kvenkyns C57BL/6 mýs fengu fóður byggt á vestrænu fæði með eða án fiskolíu. Helmingur hvors fæðuhóps var sprautaður með LPS í kviðarhol þremur eða 48 klst áður en blóði og kviðarholsvökva var safnað. Yfirborðssameindir og flakkboðaviðtakar á blóð- og kviðarholsfrumum voru greindir í frumuflæðisjá. Styrkur KC, MIP-2 og MIP-1a í sermi og kviðarholsvökva var mældur með ELISA aðferð.

Niðurstöður:Eftir innsprautun með LPS, kom í ljós sérstæður undirflokkur daufkyrninga í blóði sem var stærri og minna kyrndur en daufkyrningar í blóði frá heilbrigðum músum. Mýs sem fengu fiskolíu fæði voru með hærra hlutfall af þessum sérstæða undirflokki daufkyrninga í blóði 48 klst eftir LPS sprautun, meira en tvöfalt miðað við mýs sem fengu viðmiðunarfæði. Einnig voru mýs sem fengu fiskolíu í fæði með hærra hlutfall daufkyrninga í kviðarholi 48 klst eftir LPS sprautun. Þá jók fiskolía í fæði styrk MIP-1a bæði í sermi og kviðarholsvökva 3 og 48 klst eftir innsprautun með inneitri en minnkaði hins vegar styrk MIP-2 í sermi 3 klst eftir LPS sprautun.

Ályktun: Niðurstöðurnar benda til þess að fiskolía hafi áhrif á tog daufkyrninga í blóði og kviðarholi í kjölfar sýkingar og að áhrif hennar gætu að hluta til verið vegna áhrifa á MIP-1a.

 

 

V-77    Áhrif vatnsútdrátta af vallhumli og horblöðku á ræsingu angafrumna og getu þeirra til að ræsa CD4+ T-frumur in vitro

Guðbjörg Jónsdóttir1,2,3, Ingibjörg Harðardóttir3, Sesselja Ómarsdóttir4, Arnór Víkingsson1, Jóna Freysdóttir1,2

1Rannsóknastofa í gigtsjúkdómum, LSH, 2Ónæmisfræðideild LSH, 3Læknadeild HÍ, 4Lyfjafræðideild HÍ

gj@hi.is

Inngangur: Vallhumall og horblaðka hafa verið notuð i alþýðulækn-ingum í aldaraðir og eru talin hafa góð áhrif á ýmsa sjúkdóma m.a. gigt. Áhrif þessara plantna á ónæmiskerfið hafa hins vegar lítið verið rannsökuð og engin gögn eru til um áhrif þeirra á angafrumur, sem gegna veigamiklu stjórnunarhlutverki í ónæmiskerfinu.

Markmið:Að kanna hvort vatnsútdrættir af vallhumli og horblöðku hafi áhrif á þroskun angafrumna in vitro og hvort þroskaðar angafrumur ræktaðar með vatnsútdráttum frá vallhumli og horblöðku hafi áhrif á ræsingu CD4+ T frumna.

Aðferðir: CD14+ mónócýtar úr mönnum voru ræktaðir í 7 daga með IL-4 og GM-CSF til að sérhæfa þá í angafrumur. Angafrumurnar voru síðan ræktaðar með IL-1b, TNF-a og LPS í 2 daga með eða án vatnsútdrátta af vallhumli og horblöðku í nokkrum styrkjum. Boðefnaseytun var mæld með ELISA aðferð. Angafrumur, meðhöndlaðar með vatnsútdráttum af vallhumli eða horblöðku, voru einnig samræktaðar með ósamgena CD4+ T frumum og áhrif þeirra á T frumufjölgun mæld með þrívetna týmidíni og áhrif á boðefnaseytun mæld með ELISA aðferð.

Niðurstöður:Angafrumur meðhöndlaðar með vatnsútdráttum af horblöðku og vallhumli seyttu minna af IL-12p40 og jafnmikið (horblaðka) eða meira af IL-10 (vallhumall) samanborið við angafrumur ræktaðar án vatnsútdrátta. CD4+ T frumur, samræktaðar með angafrumum sem meðhöndlaðar höfðu verið með vatnsútdráttum af horblöðku og vallhumli, seyttu minna af IL-17 en T frumur sem voru samræktaðar með ómeðhöndluðum angafrumum.

Ályktun:Niðurstöðurnar benda til þess að vatnsleysanleg efni í vallhumli og horblöðku hvetji til ónæmisdempandi svipgerðar hjá anga-
frumum sem leiði til minni ræsingar Th17 frumna. Slík áhrif gætu mögulega haft hagnýtt gildi í að draga úr sjálfsofnæmisbólgusjúk-dómum þar sem IL-17 er ráðandi.

 

 

V-78    Áhrif kverkeitlatöku á sóra (psoriasis) - framvirk blind rannsókn með viðmiðunarhóp

Ragna Hlín Þorleifsdóttir1,2, Andrew Johnston3, Sigrún Laufey Sigurðardóttir1, Jón Hjaltalín Ólafsson2, Bárður Sigurgeirsson2, Hannes Petersen4, Helgi Valdimarsson1

1Ónæmisfræðideild LSH, 2Húð- og kynsjúkdómadeild LSH, 3Húðsjúkdómadeild, University of Michigan, Ann Arbor, USA, 4Háls, nef og eyrnadeild LSH

ragnahlin@gmail.com

Inngangur:Streptokokka hálsbólgur tengjast tilurð og versnun á sóra (psoriasis) en rannsóknir án viðmiðunarhóps hafa sýnt fram á góð áhrif kverkeitlatöku á sóra. Við höfum sýnt fram á að í blóði sórasjúklinga eru víxlvirkar T-frumur sem virkjast af stuttum peptíðum með aminosýruröðum sem eru sameiginlegar fyrir M-protein streptókokka og keratin í húð (M/K peptíð).

Markmið:Tilgátan er sú að kverkeitlar séu uppeldisstöðvar fyrir þær T-frumur sem valda sóra. Því erum við að kanna klínísk og ónæmisfræðileg áhrif kverkeitlatöku á sóra.

Aðferðir:30 sjúklingum með krónískan skellusóra og sögu um versnun eftir hálsbólgur er skipt í tvo sambærilega hópa, annar fer í kverkeitlatöku en hinn er til viðmiðunar. Þeim er fylgt eftir í 2 ár með blindu mati á sjúkdómsvirkni (PASI) og greiningu á fjölda T-frumna sem framleiða IFN-g eða IL-17 eftir örvun með M/K peptíðum.

Niðurstöður:Í mars 2009 höfðu 29 einstaklingar hafið þátttöku. Eftir 2, 6, 12 og 18 mánuði hafði PASI lækkað að meðaltali um 40% hjá þeim sem fóru í aðgerð (n=15, p=0.012) miðað við óbreytt viðmið (n=14). Eftir 24 mánuði var lækkun á PASI enn um 32% (n=11, p=0.05) hjá aðgerðarhópnum. Batinn hjá aðgerðarhópnum hélst í hendur við verulega fækkun víxlvirkra CLA+CD8+ T frumna í blóðinu og hefur þessi fækkun haldist í allt að 24 mánuði. Samsvarandi fækkun hefur ekki greinst hjá viðmiðunarhópnum.

Ályktun: Sóraútbrot minnka a.m.k. tímabundið eftir kverkeitlatöku og niðurstöðurnar styðja þá tilgátu að víxlvirkar T-frumur í kverkeitlum sórasjúklinga komist út í húð þeirra og taki þátt í myndun sóraútbrota.

 

 

V-79    Aukið algengi sýkinga og ofnæmissjúkdóma einstaklinga með IgA-skort; tengsl við heilsutengd lífsgæði

Guðmundur H. Jörgensen1,2, Sigurveig Sigurðardóttir1,2, Sigurjón Arnlaugsson3, Ásgeir Theodórs4, Ingunn Þorsteinsdóttir5, Sveinn Guðmundsson6, Lennart Hammarström7, Björn R. Lúðvíksson1,2

1 Læknadeild HÍ, 2Ónæmisfræðideild Landspítala, 3Tannlæknadeild HÍ, 4Lyflæknissvið, 5Rannsóknarstofnun Landspitala, 6Blóðbankinn, 7Ónæmisfræðideild Karolinska spítali, Svíþjóð

guðmhj@landspitali.is

Inngangur:Sértækur skortur á IgA (IgA-skortur/IgAD) er algengur ónæmisgalli en áhrif á heilsufar eru mjög mismunandi milli einstaklinga.

Markmið rannsóknar: Meta heilsufarslegar afleiðingar af IgA-skorti m.t.t. algengi sýkinga, ofnæmissjúkdóma og áhrifa á heilsutengd lífsgæði.

Aðferðir:32 fullorðnir einstaklingar með IgA-skort voru bornir saman við 63 einstaklinga, handahófskennt valda úr þjóðskrá með tilliti til aldurs og kyns. Þátttakendur svöruðu spurningarlistum sem m.a. lutu að algengi greininga og einkenna ofnæmissjúkdóma og sýkinga. Heilsutengd lífsgæði voru metin með almennum (SF-36) og ónæmissjúkdómasértækum lífsgæða spurningalista á 3 tímapunktum (0-6-12 mán.). Ýtarleg læknisskoðun var framkvæmd ásamt rannsóknum svo sem blástursprófi til greiningar á virkri H. pylori sýkingu, lungnablástursprófi og ofnæmis húðprófi.

Niðurstöður:Samanlagt algengi ofnæmissjúkdóma var marktækt hærra hjá IgA-skorts einstaklingunum samanborið við viðmiðunarhóp (46.9% vs. 24.4%) og jafnframt reyndist IgE næming algengari (56.3% vs. 22.2%).

Algengi herpes sýkinga í varir, hálsbólgu og sýkinga í efri og neðri öndunarvegum var marktækt aukin í IgA-skorts einstaklingum. Enginn munur var á hópunum m.t.t. algengi sýkinga í meltingarvegi, kynfærum eða þvagvegum. Við læknisskoðun reyndust marktækt fleiri IgA-skorts einstaklingar vera með húðvörtur, húð-eða naglsvepp og exem. Enginn marktækur munur var á algengi H. Pylori sýkinga í magaslímhúð (38% vs. 33%).

Almennt reyndust lífsgæði einstaklinga með IgA-skort sambærileg á við lífsgæði viðmiðunarhóps. Hinsvegar, höfðu áhyggjur IgAD einstaklinga vegna mögulegra sýkinga aukist 6 mánuðum eftir viðtal.

Ályktun:IgA-skort einstaklingar eru útsettir fyrir ofnæmissjúkdómum og öndunarfærasýkingum. Lífsgæði einstaklinga með IgA-skort eru almennt góð.

 

 

V-80    Samanburður á lektínferli komplimentkerfisins hjá sjúklingum með IgA nýrnamein og Henoch-Schönlein Purpura

Ragnhildur Kolka1, Steffen Thiel2, Magnús Böðvarsson3, Sverrir Harðarson4, Sigrún Laufey Sigurðardóttir1, Helgi Valdimarsson1, Þorbjörn Jónsson5.

1Ónæmisfræði, 3Lyflækningadeild, 4Rannsóknastofa í meinafræði og 5Blóðbankinn, 2Immunology og microbiology, Árósaháskóla

ragnhk @landspitali.is

Inngangur og markmið: IgA nýrnamein (IgAN) og Henoch-Schönlein Purpura (HSP) einkennast af IgA innihaldandi ónæmisfléttum (IC) sem valda skaða í nýrnagauklum. HSP sjúklingar hafa stærri IC sem einnig geta fallið út í æðum utan nýrna. Styttri ferill komplimentkerfisins er virkjaður í IgAN en klassíski ferillinn er ekki talinn ræstur. Markmið
þessarar rannsóknar var að kanna þátt lektínferilsins í IgAN og HSP.

Aðferðir: Sermi var safnað frá 49 sjúklingum með IgAN, 36 með HSP og 46 heilbrigðum einstaklingum. MBL og C4d var greint með ELISA prófi. L-fíkólín, H-fíkólín, MASP-2 og MASP-3 var mælt með time-resolved immunofluorometric assay. C4 arfgerðir voru greindar með rafdrætti.

Niðurstöður: Áberandi aukning fannst á MASP-3 í blóði ásamt auknu magni af MBL og L-fíkólín hjá HSP sjúklingum borið saman við bæði IgAN sjúklinga og viðmiðunarhópinn. Enginn munur var á MASP-2 og H-fíkólín milli IgAN og HSP hópanna. Hjá HSP sjúklingum, en ekki IgAN sjúklingum, fannst marktæk aukning á C4B null arfgerð og tengd-ist sú arfgerð lágu magni af C4d ræsiafurð.

Ályktun: Þar sem rannsóknir hafa bent til að MASP-3 geti hindrað lektínháða komplimentræsingu gæti hátt magn MASP-3 ásamt lágu C4 útskýrt hvers vegna HSP sjúklingar hafa stærri IC í blóði, sem hafa tilhneigingu til að falla út í æðaveggjum utan nýrna. Þekkt er að klassíski ferill komplimentkerfisins hindrar myndun stórra IC af IgG og IgM gerð. Lektínferillinn gæti á sambærilegan hátt hindrað myndun stórra IC af IgA gerð.

 

 

V-81    Samanburður á svörun C57Bl/6 og NMRI músa á Inflúensubóluefni (H5N1)

Sindri Freyr Eiðsson 1,2, Þórunn Ásta Ólafsdóttir1,2, Luuk Hilgers5, Karen Duckworth6 , Ingileif Jónsdóttir1,2,3

1Landspítala, ónæmisfræðideild, 2læknadeild HÍ, 3Íslenskri erfðagreiningu, 4Erasmus MC Uniersity, Rotterdam, 5Nobilon International BV, Boxmeer, the Netherlands, 6BTG, London

sindrifr@landspitali.is

Inngangur:Heimsfaraldur inflúensu veldur alvarlegum veikindum og dauða og heimsfaraldur af völdum H1N1-inflúensustofns geisar víða. Bólusetningarleiðir sem auka vernd og breikka virkni með minna magni af veiruónæmisvaka gætu mætt þörfum fyrir bóluefni í heimsfaraldri. Nýburamýs og aldraðar mýs verða notaðar sem líkön fyrir aðalmarkhópana, unga og aldraða, til að rannsaka ónæmissvör gegn bóluefni úr heilli óvirkjaðri inflúensuveiru (H5N1, heimsfaraldsstofni) framleiddri í vefjarækt og blandaðri ónæmisglæðinum CoVaccine HT. Vegna erfiðleika við ræktun á einræktuðum C57bl/6 músum var ákveðið að bera saman svörun þeirra á inflúensubóluefninu við útæxlaðar NMRI mýs.

Efniviður og aðferðir: Nýburamýs (1 viku gamlar, bæði C57bl/6 og NMRI) voru bólusettar undir húð (s.c) með 0,1µg HA inflúensubóluefni (óvirkjuð influensuveira) ásamt 1mg eða 0,1mg af CoVaccineHT, og endurbólusettar 2 vikum síðar. Viðbótarhópar fengu 0,5µg HA ásamt Alumgel eða Imject alum. Inflúensusértæk mótefni voru metin með ELISA og geta mótefna til að hlutleysa inflúensuveiru með rauðkornakekkjun (Hemagglutination Inhibition Assay).

Niðurstöður: Inflúensusértæk mótefnasvörun jókst verulega með CoVaccineHT reyndist sambærileg milli músastofna. Báðar tegundir alum gáfu sambærilega svörun hjá báðum músastofnum. Undirflokkamynstur IgG var svipað milli músastofna, nema IgG2a, sem var hærra hjá NRMI músum. NMRI músastofninn virtist hafa tilhneigingu til að vera næmari en C57bl/6 í rauðkornakekkjunarprófinu.

Ályktun: Niðurstöðurnar gefa til kynna að svörun C57bl/6 og NMRI músa við inflúensubóluefni sé sambærileg þegar tekið er tillit til IgG mótefnasvörunar og hlutleysingargetu mótefna í rauðkornakekkjunarprófi. Niðurstöðurnar eru liður í prófun á vefjaræktuðu inflúensu (H5N1) bóluefni fyrir nýbura.

 

 

V-82    Tjáning á LIMD1 og HIF1-alpha próteinunum í nýrnaæxlum

Þórgunnur E. Pétursdóttir1, Sigrún Kristjánsdóttir1, Unnur Þorsteinsdóttir2, Kristrún Ólafsdóttir1, Páll H. Möller3, Stefan Imreh4, Valgarður Egilsson1, Sigurður Ingvarsson5, Jóhannes Björnsson1

1Rannsóknarstofu í meinafræði, Landspítala, 2Íslenskri erfðagreiningu, 3skurðlækningasviði Landspítala, 4Karolinska Institutet, Microbiology and Tumorbiology Center, Stokkhólmi,  5Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

thorgep@landspitali.is

Inngangur: Stutti armur litnings 3 í mönnum er afbrigðilegur í flestum æxlum. Et (elimination test) er próf sem var þróað, af samstarfsaðilum okkar á Karolinska Institutet, til að finna litningasvæði með æxlisbæligenum. Með notkun prófsins fannst svæði með tapi á erfðaefni á 3p21.3 CER1 (common eliminated region 1). Þar eru 34 virk gen þeirra á meðal er LIMD1 (LIM domain containing protein 1). Við höfum áður sýnt fram á að með notkun 5 erfðamarka var úrfellingatíðni á CER1 í yfir 90% af æxlum m.v. eðlilegan vef og að úrfellingatíðnin á CER1 var hærri en á tveimur þekktum æxlisbæligena svæðum (FHIT á 3p14.2 og VHL á 3p25.5). Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar sem benda til þess að LIMD1 próteinið taki þátt í að verjast myndun æxla. HIF1-alpha (Hypoxia inducible factor 1 alpha) er umritunarþáttur sem virkjast við lágan súrefnisstyrk innan fruma og stýrir umritun gena sem taka þátt í nýæðamyndun (angiogenesis). Nýæðamyndun er mikilvæg til að viðhalda og/eða auka vaxtarhraða æxla.

Markmið:Að kanna prótein tjáningu LIMD1 og HIF1-alpha í nýrnaæxlum.

Aðferðir: Mótefnalitanir með viðeigandi mótefnum voru notaðar til að kanna tjáningu próteina í 12 nýrnaæxlis sneiðum og aðlægum eðlilegum vef. Öll æxlin voru af tærfrumu gerð (clear cell renal cell carcinoma).

Niðurstöður: LIMD1 próteintjáning er minnkuð í 11 af 12 (92%) nýrnaæxlum. Af þeim 11 sem voru með minnkaða LIMD1 prótein tjáningu voru 9 (82%) með aukna HIF1-alpha tjáningu.

Ályktun: Neikvætt samband er á milli tjáningar LIMD1 og HIF-1alpha í nýrnakrabbameinum í mönnum, þ.e.a.s. þegar við sjáum sterka próteinlitun á Limd1 er litunin á HIF1-alpha veik og öfugt. Hugsanlega tekur LIMD1 próteinið með einhverjum hætti þátt í niðurbroti á HIF1-alpha.

 

V-83    Fylgni á milli stökkla og DNA metýlunar í erfðamengi kímlínu mannsins

Martin I. Sigurðsson1,2, Albert V. Smith3, Hans T. Björnsson4,5, Jón J. Jónsson1,2

1Lífefna og sameindalíffræðistofa, læknadeild HÍ, 2erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 3Hjartavernd, eerfðalæknisfræðideild, 5Barnadeild Johns Hopkins háskóla

mis@hi.is

Inngangur: Mögulegt samband milli stökkla og metýlunar kímlínu mannsins er áhugavert því það gæti haft áhrif á starfsemi og tjáningu gena aðlægt stökklum. Að auki hefur verið lagt til að DNA metýlun sé hluti varnarkerfi erfðaefnisins gegn skaðlegum áhrifum stökkla.

Markmið: Að kanna tengsl milli ER og metýlunar kímlínunnar

Aðferðir: Við höfum nýlega sýnt fram á að þéttni metýltengdra eins basapara erfðabreytileika (mSNPs) er mælikvarði á DNA metýlun kímlínunnar. Við könnuðum nú fylgni milli þéttleika mSNPs og ER. Einnig notuðum við gögn um metýlun sæðisfruma, lokaafurðar kímlínunnar í karlmönnum, til að kanna samband DNA metýlunar og ER í hárri upplausn.

Niðurstöður: Eftir að leiðrétt hafði verið fyrir bjagandi breytum fundum við sterka neikvæða fylgni milli hlutfalls Aluundirfjölskyldu stökkla og þéttni mSNPs fyrir 125-1000 kb gluggastærðir. Hins vegar var neikvæð fylgni milli hlutfalls L1 undirfjölskyldunnar og mSNPs einungis í stærstu gluggastærðunum. Í hárri upplausn var hlutfall Alu undirfjölskyldunnar hærra aðlægt lágmetýluðum en hámetýluðum svæðum (3-15 kb) en hlutfall L1 fjölskyldunnar var hærra aðlægt hámetýluðum en lágmetýluðum svæðum (3-5 kb).

Ályktun: Einfaldasta skýringin á niðurstöðum okkar er að tvær stærstu undirfjölskyldur stökkla (Alu og L1) stökkvi frekar inn í lágmetýluð svæði. Þessu fylgir metýlun aðlægt L1 eða val gegn innsetningu L1 í lágmetýluð svæði. DNA metýlun er ólíklega varnarkerfi erfðaefnisins gegn skaðlegum áhrifum stökkla.

 

 

V-84    Orsakir iðrasýkinga á Íslandi: framskyggn rannsókn á tímabilinu 2003-2007

Ingibjörg Hilmarsdóttira, Hjördís Harðardóttira, Guðrún E. Baldvinsdóttirb, Haraldur Briemc, Sigurður Ingi Sigurðssond, rannsóknarhópur um iðrasýkingar á Íslandie

aSýklafræðideild Landspítala, bveirufræðideild, cembætti sóttvarnalæknis, dHeilsugæslan Hamraborg, Kópavogi, eHeilsugæslustöðvar Akraness, Akureyrar, Kópavogs (Hvammur), Selfoss og Seltjarnarness

ingibjh@landspitali.is

Inngangur:Iðrasýkingar eru vaxandi vandamál í nútímasamfélagi; líklega vegna aukinnar dreifingar matvæla og neyslu utan heimilis. Afleiðingarnar eru sjúkdómar og samfélagslegur kostnaður vegna vinnu-
taps, heilbrigðisþjónustu og innköllun matvæla. Faraldsfræði iðrasýkinga hefur áhrif á nálgun lækna og val greiningaraðferða.

Markmið: Kanna, í fyrsta sinn, orsakir bráðra iðrasýkinga á Íslandi.

Aðferðir: Framskyggn rannsókn á sjúklingum sem leituðu til heimilislæknis vegna niðurgangs. Inntökuskilyrði: bráður niðurgangur í £14 daga. Útilokunarskilyrði: sýklalyfjanotkun, ónæmisbæling og niðurgang-
ur sem var langvarandi eða hófst í sjúkrahúslegu. Sjúklingar gáfu upp-lýsingar um sjúkrasögu, ferðalög o.fl, og veittu samþykki fyrir þátttöku. Saursýni voru rannsökuð m.t.t. veira, baktería og sníkjudýra.

Niðurstöður: Fjöldi þátttakenda var 464; 53,4% voru konur, og miðgildi aldursdreifingar var 30 ár (0 – 83 ár). Iðrasýkill fannst hjá 210 sjúkl-ingum (45,3%), og fjöldi greindra sýkla var 222. Algengustu sýklarnir voru calici- og rotaveirur (23% og 18% af 222), Campylobactersp. (17%), Cryptosporidium sp. (12%) og Salmonellasp. (9%). Aðrir sýklar voru Giardia lamblia, astro- og adenoveirur og Yersinia enterocolitica.

Umræða: Þjónusturannsóknir gefa skakka mynd af faraldsfræði iðrasýkinga vegna þess að flest saursýni eru rannsökuð m.t.t. baktería eingöngu. Þessi rannsókn veitir fyrstu upplýsingar um innbyrðis hlutfall sýkla í greindum tilfellum hér á landi, og er búist við að niðurstöður muni nýtast læknum við val á þjónusturannsóknum. Rannsóknin leiddi til endurbóta á Sýklafræðideild; er nú leitað að Cryptosporidium sp. í öllum saursýnum sem send eru í sníkjudýrarannsókn, en áður þurfti að panta leitina sérstaklega.

 

 

V-85    Klónar pneumókokka og hlutverk pili (festiþráða), 1995-2008

Karl G. Kristinsson, Helga Erlendsdóttir, Martha Á. Hjálmarsdóttir, Þóra Gunnarsdóttir, Hólmfríður Jensdóttir, Gunnsteinn Haraldsson

Sýklafræðideild Landspítala og HÍ

karl@landspitali.is

Inngangur:Hjúpur pneumókokka er mikilvægur meinvirkniþáttur en mismunandi klónar sömu hjúpgerðar geta haft mismikinn sýkingarmátt. Mikilvægi annarra eiginleika í meinvirkni er óljós. Pili (festiþræðir) sem nýlega uppgötvuðust á pneumókokkum, gætu verið mikilvægir í pneumókokkasýkingum. Markmið rannsóknarinnar er að flokka ífarandi pneumókokka í klóna og sjá hverjir eru með pili og af hvaða gerð.

Aðferðir:Frá 1995 hafa ífarandi stofnar (blóð og mænuvökvi) verið frystir (-80oC). Allir tiltækir stofnar voru hjúpgreindir og klónagreindir með PFGE, fulltrúastofnar mikilvægustu klóna stofngreindir með MLST og tilvist pili og piligerðar könnuð með PCR (Moschioni et al, 2008).

Niðurstöður:Af 498 pneumókokkum voru 459 frá blóði og 39 frá mænuvökva, 121 frá yngri en 7 ára og 190 frá eldri en 64 ára. Af 491 hjúpgreindum stofnum voru algengustu hjúpgerðirnar 7F (86), 14 (60), 4 (41), 9V (35), 6B (32), 23F (31), og 19F (19). PFGE greining var framkvæmd á 460 (92%) stofnanna. Fjöldi klóna innan hverrar hjúpgerðar var mjög mismunandi. Allir 7F stofnarnir tilheyrðu 2 klónum (ST191, ST218). Nýgengi algengustu klónanna var breytilegt eftir árum. Lækkun á nýgengi hjúpgerða 6B og 7F fækkaði stofnum af klónum ST90 og ST218. Pilus gen fundust ekki í tveimur algengustu klónunum (ST191, ST218). Af 7 algengustu klónunum fundust pili aðeins í ST162 (hjúpgerð 9V, clade-I), ST205 (hjúpgerð 4, clade-I) og ST90 (hjúpgerð 6B clade-II).

Ályktun:Nýgengi klóna getur breyst án þess að það endurspegli tíðni hjúpgerða. Það að pilus gen finnist aðeins í 3 af 7 algengustu ífarandi klónunum, bendir til þess að pili sé ekki mikilvægur þáttur í ífarandi sýkingum.

 

 

V-86    Arfgerðir breiðvirkra beta-laktamasa og sýklalyfjanæmi hjá Escherichia coli og Klebsiella spp

Eygló Ævarsdóttira, Freyja Valsdóttirb, Guðrún Svanborg Hauksdóttirb, Ingibjörg Hilmarsdóttirab

aLæknadeild HÍ,  bSýklafræðideild Landspítala

ingibjh@landspitali.is

Inngangur: Breiðvirkir beta-laktamasar (ESBL) í Enterobacteriaceae eru hratt vaxandi vandamál í heiminum. Þeir valda ónæmi fyrir öllum beta-laktamlyfjum nema karbapenum, og þeim fylgir oft ónæmi fyrir öðrum sýklalyfjum. Yfir 200 gerðum hefur verið lýst; TEM, SHV og CTX-M eru algengastar. Á Sýklafræðideild er leitað að ESBL í næmisprófum, en arfgerðagreiningar á viðkomandi bla genum hafa ekki verið gerðar hér á landi.

Markmið: Kanna arfgerðir ESBL og sýklalyfjanæmi hjá völdu úrtaki af ESBL myndandi E. coli og Klebsiella spp. sem greindust á Sýklafræðideild á árunum 2007 – 2009.

Aðferðir:Leitað var að blaTEM, blaSHV og blaCTX-M í 77 bakteríum; þar af voru 25 úr faraldri ESBL myndandi Klebsiellaspp. á Landspítala og voru þær stofngreindar. Að auki var sýklalyfjanæmi ESBL jákvæðra og neikvæðra baktería kannað.

Niðurstöður: ESBL gerðir af blaTEM, blaSHV og blaCTX-M fundust í 45 bakteríum; 69% þeirra höfðu blaCTX-M-15 ; hinar höfðu önnur blaCTX-M gen eða blaSHV. blaCTX-M-15 fannst í 21 af hinum 25 Klebsiella spp. úr faraldrinum. Fyrstu niðurstöður stofngreiningar bentu til að um helmingur faraldurstilfellanna hefði orsakast af útbreiðslu sama stofns. Ónæmi fyrir öðrum sýklalyfjum var margfalt algengara hjá ESBL jákvæðum en ESBL neikvæðum bakteríum; 50% af 24 jákvæðum, en aðeins 5% af 1161 neikvæðum, voru ónæmar fyrir ciprófloxacíni.

Umræða: Niðurstöður benda til að við glímum við sömu vandamál og nágrannalöndin, þ.e. hraða útbreiðslu á CTX-M-15 beta-laktamösum, ESBL myndandi Klebsiella pneumoniae sem berst á milli sjúklinga í spítalaumhverfinu og fjölónæmi ESBL myndandi baktería. Þetta er fyrsta sameindafaraldsfræðirannsókn á ESBL myndandi bakteríum hér á landi, og leggur hún grunninn að áframhaldandi þekkingaröflun á þessu sviði.

V-87    Faraldsfræði mænuskaða og hryggbrota í slysum á Íslandi

Sigrún Knútsdóttir1, Herdís Þórisdóttir1, Páll Ingvarsson1, Kristinn Sigvaldason2, Aron Björnsson3, Halldór Jónsson jr4, 5

1Sjúkraþjálfun- og endurhæfingardeild, Grensási, 2gjörgæsludeild, Fossvogi, 3heila- og taugaskurðdeild, 4bæklunarskurðdeild, 5bæklunarskurðlækningasviði, læknadeild HÍ

sigrunkn@landspitali.is

Inngangur: Allt frá stofnun endurhæfingardeildar Landspítala á Grensási árið 1973 hafa flestir sem hljóta mænuskaða í slysum hlotið þar endurhæfingu. Umferðarslys hafa verið ein algengasta orsök mænuskaða og hefur forvarnarstarf aðallega beinst að þeim.

Markmið: Til að efla forvarnir enn frekar, er víðtækari kortlagning þessara áverka nauðsynleg.

Aðferð: Í fyrsta hluta rannsóknarinnar beindist athyglin að tíðni, orsök, aldri, kyni og alvarleika mænuskaða frá 1973 til 2008.

Niðurstöður: Við afturvirka skoðun á sjúkragögnum frá tímabilinu fundust 191 einstaklingar; ka 73% (n=140), ko 27% (n=51); meðalaldur 37 ár (5-81). Árlegt meðalnýgengi mænuskaða var 5,3 (36 ár). Á árunum 2005-08 jókst nýgengið í 9,75 sem var marktæk aukning miðað við fyrri ár. 44% (n=84) voru 30 ára eða yngri en 11% (n=28) voru yfir sextugt og var marktæk fjölgun í þessum aldurshópi frá 2001 miðað við 28 árin á undan (p< 0.05). Umferðarslys voru orsök skaðans í 46% tilfella (n=87) og föll í 29% (n=55). Föll voru helsta orsök mænuskaða hjá einstaklingum yfir sextíu ára. Frístundaslys voru orsök mænuskaða í 20,5% tilfella (n=39), þar af gerðust 19 árin 2001-2008 og var það marktæk aukning (p<0.01). Hestaslys voru 13 eða 32,5% af öllum frístundaslysum; sjö áttu sér stað 2001-2008. Tólf hlutu mænuskaða við vetraríþróttir (skíði, snjóþotur, vélsleðar). Tíu voru vegna annarra slysa, oftast vegna höggs. Alvarleiki skaðans var slíkur að tíu manns létust innan 10 daga. Af þeim 181 sem lifðu af hlutu 55% (n=100) tetraplegiu og 45% (n=81) paraplegiu. Níutíu manns urðu háðir hjólastól.

Ályktun: Ljóst er að mikilvægt er að beina forvörnum meira að föllum og frístundaslysum með sérstakri áherslu á hestamennsku og vetraríþróttir. Í öðrum hluta rannsóknarinnar verður sjónum því beint sérstaklega að orsök og tegund hryggbrotanna, aldri og frístundaiðkun.

 

 

V-88    Árangur ristilaðgerða hjá 70 ára og eldri á Landspítala

Árni Þór Arnarson 1, Elsa Björk Valsdóttir 1, 2, Karl Kristinsson11, 2, Kristján Jónasson 3, Páll Helgi Möller 1, 2

1 Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3verkfræði- og náttúruvísindasviði HÍ

arnithor@landspitali.is

Tilgangur: Að kanna útkomu og afdrif sjúklinga eldri en 70 ára sem gengust undir valaðgerð á ristli, borið saman við yngri sjúklinga. Einnig að athuga hvort eldri sjúklingar fái frekar fylgikvilla, hafi hærri dánartíðni eða fleiri legudaga. Slíkt hefur ekki verið kannað á Íslandi áður.

Efniviður: Þetta var afturskyggn rannsókn. Rannsóknarþýðið voru allir sjúklingar sem gengust undir hluta- eða heildarbrottnám á ristli á LSH árið 2008. Bráðaaðgerðir voru ekki teknar með. Lengd aðgerðar, ASA flokkun, fylgikvillar, dánartíðni og fjöldi legudaga voru m.a. þeir þættir sem skráðir voru og bornir saman milli hópanna.

Niðurstöður: Alls voru 106 sjúklingar. Tæplega helmingur þeirra var eldri en 70 ára (44,3%). Flestir fóru í aðgerð vegna krabbameins (54,7%), en aðrir vegna endurtekinnar sarpbólgu í digurgirni (24,5%), sepa í ristli (10,4%) eða annarra sjúkdóma (10,4%).

 Tæplega fjórðungur sjúklinga fékk fylgikvilla (23,6%). Algengustu fylgikvillar voru sárasýking (6,6%), ígerð (5,7%), leki á garnatengingu (6,6%), þvagfærasýking (3,7%) og lungnabólga (2,8%). Tveir sjúklingar fengu ígerð í kjölfar leka á garnatengingu. Tíðni sýkinga hjá eldri sjúklingum var 23,4% og tíðni allra fylgikvilla 25,5%. Sambærilegar tölur hjá yngri sjúklingum voru 20,3% og 22,0%. Ekki var tölfræðilega marktækur munur á tíðni fylgikvilla milli hópanna (p=0,71 og p=0,68). Enginn sjúklingur lést innan 30 daga frá aðgerð. Sjúklingar eldri en 70 ára voru inniliggjandi að jafnaði í 6 daga en yngri sjúklingar í 5 daga og var það tölfræðilega marktækt.

Ályktanir: Sjúklingum eldri en 70 ára sem gangast undir val ristilaðgerð á LSH vegnar ekki verr m.t.t fylgikvilla, þrátt fyrir að þurfa lengri innlögn. Aldur einn og sér ætti því ekki að vera frábending fyrir aðgerð.

V-89    IceSG – meðferðarteymi sarkmeina á Íslandi

Bjarni A Agnarsson8, Eiríkur Jónsson6, Halldór Jónsson jr3, Halldóra Kristín Þórarinsdóttir1, Helgi Hafsteinn Helgason4, Helgi Sigurðsson4, Hildur Einarsdóttir5, Hlynur N Grímsson4, Ingibjörg Guðmundsdóttir7, Jón R Kristinsson1, Kristrún R Benediktsdóttir8, Margrét Snorradóttir7, Ólafur Gísli Jónsson1, Óskar Þór Jóhannsson4, Þráinn Rósmundsson2

1Barnalyflækningadeild, 2barnaskurðlækningadeild, 3bæklunarskurðlækningadeild, 4) krabbameinslækningadeild, 5myndgreiningardeild, 6þvagfæraskurðdeild, 7frumurannsóknardeildin í Glæsibæ, 8rannsóknarstofu HÍ í meinafræði

halldor@landspitali.is

Inngangur: Sarkmein eru um 1% allra krabbameina. Samkvæmt tveimur íslenskum rannsóknum á nýgengi sarkmeina, mjúkvefja- (1955-88) og beina- (1955-74), var tíðni svipuð og í nágrannalöndunum. Sarkmein voru algengari í mjúkvefjum (1,8/100.000), en beini (0,85/100.000). Í nýrri rannsókn 2004 fyrir 1989 – 2003 var veruleg aukning á mjúkvefjaæxlum hjá körlum (1,8 1955-88 í 3,0 1989-02), en tíðni beinsarkmeina var óbreytt.

Markmið: Þann 17.10.2007 var formlega stofnaður vinnuhópur fyrir greiningu og meðferð sarkmeina á Íslandi sem gefið var nafnið IceSG í samræmi við SSG í Lundi, Svíþjóð. Eftirfarandi verkferli er viðhaft á Landspítalanum þegar beiðni berst:

Einstaklingur boðaður í skoðun og mat í Endurkomudeild í Fv. Þar eru fyrri rannsóknir endurskoðaðar og nýjar pantaðar. Rannsóknir eru:

 a. MR af mjúkvefjum og rtg + MR af beinum

 b.Fínnálar-, grófnálar eða vefjasýni, allt eftir eðli æxlis á mynd

 c.CT af lungum, beinascann

Að fengum niðurstöðum frumu- og /eða vefjarannsókna gera skurð- og krabbameinslæknar stigun og taka ákvörðun um meðferð (sjá einnig heimasíðu Landspítala (ytra net) – Sérþjónusta/ Sarkmein)

Aðferð: Skráning allra tilfella er í Excel grunn, en afgreiðsla beiðna, meðferð, eftirlit og rannsóknarniðurstöður í Sögukerfið og Röntgenkerfið. Að lokum eru öll staðfest sarkmeinatilfelli skráð í sérstakan gagnagrunn (IceSG Registry) á þar til gert eyðublað sem allir meðlimir hafa aðgang að og fylla út. IceSG gagnagrunnsblöð eru send til sameiginlegs gagnagrunns SSG í Lundi. Samræmingarfundir eru mánaðarlega og þess utan tölvupóstur.

Niðurstöður: Fjöldi aðsendra beiðna jókst frá 40/ár í 80 árið 2009; þar af voru 13 sarkmein sem er í samræmi við það sem búast má við á Íslandi.

Ályktun: Með stofnun IceSG hefur á 2 árum tekist að ná utan um nánast öll útlimasarkmein sem áður var víða á Íslandi.

 

 

V-90    Endurkoma á bráðamóttöku eftir skurðaðgerð

Guðrún Eiríksdóttir1, Elsa Björk Valsdóttir1,2, Páll Helgi Möller1,2

1Læknadeild HÍ, 2skurðlækningadeild Landspítala

gudruei@hi.is

Inngangur: Endurkoma sjúklinga á BMT eftir aðgerð er þekkt vandamál. Ástæður eru margvíslegar, svo sem blæðingar, sýkingar eða verkir. Í sumum tilfellum leiðir þetta til endurinnlagnar. Tilgangur rannsóknar var að skoða endurkomur sjúklinga skurðdeildar á BMT eftir aðgerð með tilliti til helstu áhættuþátta fyrir endurkomu.

Efniviður og aðferðir: Um var að ræða afturskyggna rannsókn. Rannsóknarþýðið voru sjúklingar sem gengust undir valaðgerð á almennri skurðdeild árið 2009 og leituðu á BMT innan 30 daga frá útskrift. Tegund aðgerðar, ASA-skor, fylgikvillar aðgerðar, legulengd, ástæða endurkomu og afdrif á bráðamóttöku voru m.a. þeir þættir sem skráðir voru.

Niðurstöður: Alls gengust 1799 sjúklingar undir valaðgerð á tímabilinu. Þar af leituðu 135 á Bráðamóttöku innan 30 daga frá útskrift. Konur voru 62%, meðalaldur var 56 ár. Algengustu ástæður endurkomu voru einkenni frá sári í 49 tilfellum, þar á eftir sýkingar í 31 tilviki. Helstu afdrif á bráðamóttöku voru ráðgjöf (28%) eða gjöf sýklalyfja (24%). Endurinnlagnir voru 13%.

Ályktun:Rúmur þriðjungur leitar á BMT vegna verkja frá skurðsári og mætti kanna hvort ekki mætti bæta úr því við útskrift. Annar þriðjungur þeirra sem leita á bráðamóttöku fær enga meðferð og þarf að athuga hvort finna megi betri farveg fyrir slík tilfelli.

V-91    Dagdeildarmeðferð á Landspítala – gallblöðrutaka um kviðsjá

Gunnar Thorarensen1, Páll Helgi Möller1,2, Guðjón Birgisson1,2

1 Skurðlækningadeild Landspítala, 2 læknadeild HÍ

gunnarth@landspitali.is

Inngangur: Dagdeildarmeðferð á Landspítala færist sífellt í vöxt og hafa sjúklingar sem gangast undir gallblöðrutöku verið útskrifaðir samdægurs í auknum mæli síðastliðin ár.

Markmið: Að skoða dagdeildarsjúklinga sem koma í gallblöðrutöku um kviðsjá (GK) lýðfræðilega og meta árangur þessa fyrirkomulags m.v. þá sem fara um legudeild.

Aðferðir: Rannsóknin er aftursýn og nær til allra sjúklinga sem gengust undir valaðgerð á tímabilinu maí 2007 til febrúar 2010. Skoðaðir voru lýðfræðilegir þættir og bornir saman fyrir dag- og legudeildarsjúklinga og tíðni endurinnlagna athuguð.

Niðurstöður: Fjöldi valaðgerða sem fór í gegnum dagdeild voru 334. Milli áranna 2008 og 2009 jókst fjöldi dagdeildaraðgerða um 240% og hlutfall þeirra af öllum skipulögðum GK fór úr 31,2% í 59,7%. Sjúklingar dagdeildar voru yngri en sjúklingar legudeildar (46,1 ár og 55,6 ár) og höfðu lægra ASA skor að meðaltali (p<0,05). Hlutfall kvenna var hærra meðal dagdeildarsjúklinga (p<0.05). Ekki sást munur á tíðni endurinnlagna milli dag- og legudeildarsjúklinga (1,5% og 3,8%) og hlutfall dagdeildarsjúklinga sem þurfti að leggja inn á legudeild í kjölfar aðgerðar lækkaði úr 20,8% árið 2007 í 9,7% 2009 (p<0,05). Þeir sjúklingar reyndust eldri og með hærra ASA skor (p<0,05).

Ályktun: Dagdeildarsjúklingar sem fara í GK eru yngri og heilsuhraustari en legudeildarsjúklingar. Tíðni endurinnlagna meðal dagdeildarsjúklinga sem fara í GK er lág og hlutfall þeirra sem ekki tekst að útskrifa samdægurs var 9,7% 2009.

 

 

V-92    Stórdýramódel til rannsókna á umhverfisviðbögðum nýrra ígræða

Halldór Jónsson jr,1,2 , Elín Laxdal1,2,6, Sigurbergur Kárason1,2, Atli Dagbjartsson1, Eggert Gunnarsson1, Bergþóra Eiríksdóttir3, Gissur Örlygsson4, Jóhannes Björnsson1, Jóhannes Gíslason5, J M. Einarsson5, Ng Chuen How5

1Læknadeild HÍ, 2Landspítala,3ArcticLAS, Reykjavík, 4Nýsköpunarmiðstöð Íslands, 5Genis ehf. Reykjavík, 6Dpt of Surgical Sciences, University of Bergen

halldor@landspitali.is

Inngangur: Við þróun ígræða til lækninga þarf að skapa kringumstæður sem líkjast fyrirhuguðum notkunarstað. Nýsköpunarfyrirtækið Genís hefur unnið að þróun efnis til að leiða og örva beinvöxt. Fyrirtækið hefur unnið í nokkur ár með mismunandi samsetningar kítínafleiddra fjöl- og fásykra. Ákveðið var að nota kindur þar sem ætla má að þar sé álag á bein með svipuðum hætti og í manni.

Markmið: Markmiðið með stórdýramódeli var að þróa aðferð til að bera saman ígræði frá Genís og Chronos (tricalcium-phosphate), sem er algengt í klínískum aðgerðum á fólki til að leiða beinvöxt í beinskörðum (osteoconductive).

Aðferð: Rúmlega vetur gamlar gimbrar og ær voru svæfðar með Diprivan (Propofol) í hálsæð og barkaþræðingu og tengdar við sæfinga-vél. Í hægri hliðarlegu var efri hluti vinstri sköflungs sótthreinsaður og dekkaður með aðgerðarlökum. Gerð var frílagning á innri og efri hluta sköflungs og boruð tvö 8mm göt rétt neðan liðbils. Bæði göt voru tæmd af beinmerg; efra skilið eftir tómt en neðra fyllt með tilraunaefni (skurðlæknum óþekkt) eða Chronos. Skurði var lokað með saumi í beinhimnu og húð og aðgerðarsvæði staðdeyft (Markain 0.5%). Gefin voru sýkla- og verkjalyf. Eftir 6 og 12 vikur var kindunum lógað, leggirnir settir í formalín og skannaðir í micro-CT skanna.

Niðurstöður: Tveimur kindum var lógað vegna fótbrots gegnum neðra borgatið. Sneiðmyndir sýndu afgerandi mun á beinvexti milli viðmiðunar- og efnisgats. Þá kom einnig fram afgerandi þróun í viðbrögðum á mismunandi tíma. Niðurstöðurnar staðfesta fyrri þekkingu á virkni efnanna tilraunum sem framkvæmdar voru í Ísrael og Arizona í Bandaríkjunum.

Ályktun: Stórdýramódel með kindum og kortlagning með micro-CT skanna eins og að ofan er lýst er nýlunda á Íslandi. Aðferðin hentar vel til rannsókna á virkni nýrra ígræða og skapar nýja möguleika í íslenskum rannsóknum á þessu sviði.

V-93    Smádýramódel til magngreiningar á beinvef

Halldór Jónsson jr,1,2, Elín Laxdal1,2,6, Bergþóra Eiríksdóttir3, Þóra Jóna Dagbjartsdóttir3, Katrín Ástráðsdóttir3, Atli Dagbjartsson1, Eggert Gunnarsson1, Gissur Örlygsson4, Jóhannes Björnsson1, Jóhannes Gíslason5, Jón M. Einarsson5, Ng Chuen How5

1Læknadeild HÍ, 2Landspítala,3ArcticLAS, Reykjavík, 4Nýsköpunarmiðstöð Íslands, 5Genis ehf. Reykjavík, 6Dpt of Surgical Sciences, University of Bergen

halldor@landspitali.is

Inngangur: Ferli við þróun nýrra ígræða er mjög flókið. Nýsköpunarfyrirtækið Genís hefur unnið í nokkur ár með mismunandi samsetningar kítínafleiddra fjöl- og fásykra sem ígræðsluefni til að örva virkni beinvefs. Frumniðustöður í kindum gefa vísbendingu um mjög góða virkni samanborið við efnið Chronos (tricalcium-phosphate), sem er mikið notað í klínískum aðgerðum á fólki til að fylla upp í beinskörð og leiða beinvöxt (osteoconductive).

Markmið: Markmiðið með smádýramódeli var að athuga hvort hægt væri að hraða beinmyndunarferlinu með því að besta samsetningu og efniseiginleika kítínafleiðanna. Verkefnið var unnið í samstarfi við ArcticLAS.

Aðferð: Framkvæmdar voru 2 tilraunir; fyrri til að þróa aðferðir og síðari til að mæla eiginleika mismunandi samsetninga. Notaðar voru fullorðnar Sprague Dawley karlrottur og borað 4mm gat („critical size bone defect“ ;holrými sem ekki grær sjálfkrafa) í vinstra kjálkabeinið, sem er aðgengilegt og án hættu að skemma yfirliggjandi vefi eða skerða burðarmátt beinsins. Í fyrri tilrauninni var rottum skipt í 4 hópa og voru 7 dýr í hverjum hópi; 4 sem fengu ígræði og 3 með tómt gat. Tekin voru sýni samkvæmt fyrirfram skilgreindu tímaplani; degi 7, 10, 14 og 21. Micro-CT tækni var notuð til að magngreina rúmmál nýs beinvefs sem myndast hafði í hverjum tímapunkti. Þannig fékkst fram kúrva sem lýsti ferli beinmyndunarinnar yfir tímabilið. Þessar niðurstöður voru notaðar til að ákvarða lengd líffasa (7 d.) í seinni tilrauninni, þar sem 4 mismunandi samsetningar voru prófaðar í sams konar tilraun. Fylgst var náið með líðan dýranna í báðum tilraununum og öll heilsueinkenni skráð samkvæmt gæðakerfi ArcticLAS.

Niðurstöður: Beinvefsaukningin tengdist á afgerandi hátt samsetningu ígræðisins. CT-greiningin reyndist öflug til magngreiningar á nýmyndun beins og var hægt að sannreyna beinmyndun með hefðbundinni vefja-rannsókn.

Ályktun: Magngreining í smádýramódeli með rottum eins og að ofan er lýst til rannsókna á nýjum ígræðum er nýlunda á Íslandi.

 

 

V-94    Breytt staða axlargrindar og hálshryggs hjá einstaklingum með hálsverki

Harpa Helgadóttir1, Eyþór Kristjánsson1, Halldór Jónsson jr1, 2

1Læknadeild HÍ, 2Landspítala

harpahe@hi.is

Inngangur: Breytt staða axlargrindar getur orsakað og viðhaldið rangri starfsemi í hálsi- og brjósthrygg. Þessi rannsókn er sú fyrsta sem notar viðmið International Society of Biomechanics (STCISB) við mat á stöðu axlargrindar hjá einstaklingum með hálsverki. Stöðu axlargrindar-
innar er lýst með tveimur snúningum viðbeinsins: upp-/ niður snúningi og fram-/ aftur snúningi, og þremur snúningum herðablaðsins: upp-/ niður snúningi, inn-/ út snúningi og fram-/aftur halla.

Markmið: Meginmarkmið rannsóknarinnar var að finna út hvort ein-staklingar með hálsverki hefðu breytt mynstur á stöðu axlargrindar miðað við heilbrigða einstaklinga. Aukamarkmið var að meta stöðu hálshryggs hjá þessum sömu hópum.

Aðferð: Einstaklingar með hálsverki eftir bílákeyrslu (n=23) og einstaklingar með hálsverki af óþekktum uppruna (n=21) voru bornir saman við 20 heilbrigða einstaklinga, Þrívíddargreinir (Fastrak) mældi stöðu viðbeins og herðablaðs í samræmi við tilmæli STCISB.

Niðurstöður: Mæligildi á stöðu axlargrindar staðfestu með marktækum hætti aukinn framsnúning viðbeins og niðursnúning herðablaðs hjá einstak-
lingum með hálsverki miðað við heilbrigða einstaklinga. Marktækur mismunur var á milli einstaklinga með hálsverki af óþekktum
uppruna og eftir aftanákeyrslu þar sem sá fyrri hafði aukinn niður-snúning viðbeins en seinni aukinn framhalla á herðablaðinu. Aukin framhöfuðstaða fannst einnig hjá einstaklingum með hálsverki miðað við heilbrigða einstaklinga.

Ályktun: Breytt staða axlargrindar hjá einstaklingum með hálsverki bendir til breyttrar starfsemi stöðugleikavöðva axlargrindar og stuttra ofvirkra vöðva sem geta valdið ofálagi á háls- og brjósthrygg. Aukin framhöfuðstaða bendir til minnkaðrar getu hálshryggjar til þungaburðar sem getur meðal annars stafað af truflaðri starfsemi í djúpu beygju-vöðvum hálsins.

 

 

V-95    Stærð nýrnafrumukrabbameina, líkur á meinvörpum og lífshorfur

Jóhann P. Ingimarsson1, Sverrir Harðarson2,4, Vigdís Pétursdóttir2, Eiríkur Jónsson1, Guðmundur V. Einarsson1, Tómas Guðbjartsson3

1Þvagfæraskurðdeild, 2rannsóknastofu í meinafræði, 3skurðsviði Landspítala, 4læknadeild HÍ

johanningimars@gmail.com

Inngangur: Sífellt fleiri nýrnafrumukrabbamein greinast fyrir tilviljun, og mörg þeirra eru smá (<4 cm). Oftast er mælt með brottnámi þessara æxla. Sumir hafa þó hallast að virku eftirliti (active surveillance), einkum hjá eldri sjúklingum og þeim sem síður eru taldir þola aðgerð. Slíkt eftirlit hefur verið byggt á þeim forsendum að smærri æxlin hafi aðra klíníska hegðun en þau stærri og meinverpist síður. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna áhrif stærðar nýrnafrumukrabbameins á tíðni meinvarpa við greiningu og lífshorfur sjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 791 sjúklingum með nýrnafrumukrabbamein á Íslandi 1971-2005. Aðeins voru tekin með tilfelli þar sem greining var staðfest með vefjasýni og stærð æxlis lá fyrir. Öll sýni voru endurskoðuð og TNM-kerfi notað við stigun. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám. Fjölbreytugreining var notuð til að meta áhrif stærðar á tíðni meinvarpa og lífshorfur (sjúkdóma sértækar).

Niðurstöður: 28% sjúkl. höfðu meinvörp og jókst tíðni þeirra marktækt með vaxandi æxlisstærð; eða frá 9% fyrir æxli <4 cm í 48% fyrir æxli >11 cm. Fimm ára lífshorfur versnuðu marktækt með aukinni stærð, eða úr 86% fyrir æxli <4 cm í 35% fyrir >11 cm æxli (p<0,001). Við fjölþáttagreiningu reyndist stærð marktækur sjálfstæður forspárþáttur,.bæði fyrir meinvörpum við greiningu (OR 1,08, p=0,01), og lífshorfum (OR 1,09, p<0,01), þótt leiðrétt hafi verið fyrir TNM stigi (OR=2,58, p<0,01).

Umræður: Eftir því sem nýrnafrumukrabbamein eru stærri aukast líkur á meinvörpum og lífshorfur skerðast. Þessi áhrif stærðar bætast við forspárgildi TNM stigs sem er langsterkasti forspárþátturinn. Æxli <4 cm geta meinverpst, eða í 9% tilfella, og 5 ára sjúkdóma sértækar lífshorfur eru 86%. Þetta ber að hafa í huga þegar íhugað er virkt eftirlit í stað brottnáms þessara æxla.

 

 

V-96    Nýrnafrumukrabbamein af litfælugerð Íslandi 1971-2005

Jóhann P Ingimarsson1, Sverrir Harðarson2,4, Vigdís Pétursdóttir2, Eiríkur Jónsson1, Guðmundur V. Einarsson1, Tómas Guðbjartsson3,4

1Þvagfæraskurðdeild, 2rannsóknastofu í meinafræði, 3skurðsviði Landspítala, 4læknadeild HÍ

johanningimars@gmail.com

Inngangur: Litfæluæxli (chromophobe) eru sjaldgæfur undirflokkur nýrnafrumukrabbameina. Erlendar rannsóknir benda til betri lífshorfa sjúklinga með þessi æxli, en fáar byggja á stóru þýði sjúklinga frá heilli þjóð. Markmið rannsóknarinnar var að kanna lífshorfur þessara sjúklinga borið saman við aðra vefjaflokka.

Efniviður og aðferðir: 828 vefjafræðilega staðfest nýrnafrumukrabbamein greindust á Íslandi 1971-2000. Öll vefjasýni voru endurskoðuð og reyndust 15 þeirra af litfælugerð. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám. Æxlin voru stiguð og reiknaðar út lífshorfur (sjúkdóma sértækar), með aðferð Kaplan-Meier. Litfæluæxlin voru borin saman við tærfrumu (n=740) og totugerð (n=66) nýrnafrumukrabbameina, bæði með ein- og fjölþáttagreiningu. Eftirfylgd var 5 ár að miðgildi.

Niðurstöður: Litfæluæxli voru 1,8% nýrnafrumukrabbameina og nýgengi 0,17/100.000/ári fyrir bæði kyn. Samanborið við hinar vefjagerðirnar voru æxli af litfælugerð oftar greind vegna einkenna, (93% vs 71%, p=0,02) og á lægri stigum (73% vs 45% á stigum I+II, p<0,01). Einn sjúklingur var með meinvörp við greiningu og annar greindist ári síðar. Báðir létust úr meininu en aðrir 6 létust af öðrum orsökum og 7 voru á lífi í lok árs 2009. Fimm ára lífshorfur voru 87% fyrir litfæluæxlin, en 59% og 50% fyrir tærfrumu og totufrumugerð. Munurinn var marktækur í einþáttagreiningu, en eftir að leiðrétt var fyrir stigun reyndist litfælugerð ekki sjálfstæður forspárþáttur lífshorfa.

Umræður: Hlutfall litfæluæxla á Íslandi (1,8%) er ívíð lægra en annars staðar hefur verið lýst (~2-3%). Þrátt fyrir að vera oftar einkennagefandi eru litfæluæxli oftar staðbundin í nýrum en æxli af hinum vefjagerðunum, þ.e á lægra stigi, sem skýrir líklega betri lífshorfur þeirra. Þetta bendir til að litfæluæxli hafi aðra líffræðilega hegðun en hinar vefjagerðirnar.

 

 

V-97    Góðkynja stækkun á hvekk, breytingar á meðferð og ábendingum fyrir aðgerðir - framhaldsrannsókn

Jóhann Páll Ingimarsson, Guðmundur Geirsson

Þvagfæraskurðdeild Landspítala

johanningimars@gmail.com

Inngangur: Fyrri íslenskar rannsóknir hafa sýnt lækkandi tíðni skurðaðgerða og aukna lyfjanotkun við meðferð einkenna vegna góðkynja stækkun á hvekk (BPH). Markmið þessarar framhaldsrann-sóknar var að athuga hvort áframhald væri á sömu þróun.

Efniviður: Safnað var upplýsingum úr sjúkraskrám sjúklinga sem fóru í aðgerð á LSH vegna BPH á árunum 2006-08. Skoðaðar voru ábendingar, lyfjanotkun, legutími, enduraðgerðir, fylgikvillar o.fl. Upplýsingar um heildarlyfjanotkun voru fengnar frá Lyfjastofnun.

Niðurstöður: Áframhaldandi fækkun er á skurðaðgerðum við hvekks-stækkun á tímabilinu, samtíma aukningu í notkun lyfja (úr 239 í 157 aðgerðum og úr 3672 í 4539 ársskömmtum á hverja 100.000 karla yfir 35 ára). Þannig hefur orðið veruleg aukning í meðhöndlun einkenna BPH. Aðgerðir voru oftast (96%) brottnám hvekks um þvagrás (TURP). Meðalaldur hélst óbreyttur frá fyrri rannsóknum. Meðallegutími styttist úr 4,4 í 3,1 dag. Fjórðungur sjúklinga hafði sögu um fyrri aðgerð á hvekk og 64% höfðu reynt lyf. Hlutfall algerra ábendinga á móti afstæðum hélst óbreytt 55 vs. 45%. Tilviljanagreining hvekksskrabbameins jókst, úr 10 í 15%. Tíðni blóðgjafa (5%), endurinnlagna (7%) og enduraðgerða (4%) hélst óbreytt. Heildarfylgikvillum fjölgar, úr 10 í 15 % einkum vegna fjölgunar þvagfærasýkinga úr 1 í 4%. Skurðdauði var enginn. Kostnaður vegna meðferðar hélst stöðugur á tímabilinu og vó minnkuð tíðni aðgerða upp aukin lyfjakostnað.

Umræður: Samtímis og fleiri karlar eru meðhöndlaðir við einkennum góðkynjastækkunar á hvekk, f.o.f með aukinni lyfjanotkunar, fækkar bæði aðgerðum bæði vegna afstæðra og algerra ábendinga. Álykta má að 3% karlmanna á lyfjameðferð hverju sinni undirgangast aðgerð. Aukin tíðni þvagfærasýkinga eftir aðgerð þarfnast frekari skoðunar.

 

 

V-98    Algengi, orsök og meðferð rofs á ristli á Landspítala, 1998-2007

Kristín Jónsdóttir1, Elsa B. Valsdóttir1,2, Páll Helgi Möller1,2

1Skurðlækningadeild Landspítala, 2læknadeild HÍ

kristjo@landspitali.is

Inngangur: Rof á ristli er alvarlegur sjúkdómur en samkvæmt erlendum rannsóknum er dánartíðnin há, eða frá 15-30%. Orsakir rofs á ristli eru margar, en helstar eru sarpabólga, krabbamein og utanaðkomandi áverki t.d. við ristilspeglun. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að meðferð hefur breyst á umræddu tímabili og færri fara nú í aðgerð sem fyrstu meðferð samanborið við áður. Tilgangur þessarar rannsóknar er að skoða algengi, orsakir og afdrif sjúklinga með rof á ristli á Landspítala á tímabilinu 1998-2007.

Efniviður og aðferðir: Gerð var breið leit í gagnagrunnum Landspítala eftir líklegum greiningarkóðum (ICD-10). Farið var yfir sjúkrarskrár og gögn um kyn, aldur, orsakir og afdrif einstaklinga með rof safnað.

Niðurstöður: Alls fundust 618 einstaklingar en þar af voru 193 með staðfest rof á ristli, 108 konur og 85 karlar. Meðalaldur var 66 ár (bil 30-93 ára). Algengasta ástæða rofs var sarpabólga (67%), en aðrar ástæður voru áverkar, þar með talið eftir speglanir, (15%) og fylgikvillar aðgerða (4%). Aðrar sjaldgæfari orsakir voru 14%. Í upphafi rannsóknartímabilsins var aðgerð algengasta fyrsta meðferð (67%) en í lok hans var það hlutfall komið niður í 35%. Vægi sýklalyfja og kera jókst á sama tíma.

Ályktun:Sarpabólga var algengasta ástæða rofs á ristli á Landspítala. Vægi aðgerða sem fyrsta meðferð hefur minnkað á rannsóknartímabilinu og er það í samræmi við þróunina annars staðar.

 

 

V-99    Menntun, starfsvettvangur og framtíðarhorfur á vinnumarkaði íslenskra skurðlækna

Tómas Guðbjartsson1,3, Halla Viðarsdóttir1, Sveinn Magnússon2

1Skurðlækningasviði Landspítala, 2heilbrigðisráðuneytinu, 3lækna-deild HÍ

tomasgud@landspitali.is

Inngangur: Hér á landi hefur vantað upplýsingar um menntun íslenskra skurðlækna, starfsvettvang og framtíðarhorfur á vinnumarkaði. Markmið rannsókn-arinnar var að bæta út því.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til allra íslenskra skurðlækna sem útskrifaðir eru frá læknadeild HÍ, í öllum undirsérgreinum skurð-lækninga, og búsettir eru á Íslandi eða erlendis. Safnað var upplýsingum um sérgrein, menntunarland og prófgráður, en einnig lagt mat á framboð og eftirspurn á vinnumarkaði fram til ársins 2025. Beitt var nálgunum, meðal annars að þörf fyrir þjónustu skurðlækna myndi haldast óbreytt miðað við íbúafjölda.

Niðurstöður: Af 237 skurðlæknum með sérfræði-réttindi í ágúst 2008 voru tveir af hverjum þremur búsettir á Íslandi og 36 komnir á eftirlaun. Rúmlega 2/3 höfðu stundað sérnám í Svíþjóð og flestir störfuðu innan bæklunar (26,9%) og almennra skurð-lækninga (23,9%). Meðalaldur skurðlækna á Íslandi var 52,1 ár og 44 ár erlendis. Hlutfall kvenna var 8% á Íslandi en 17,4% á meðal 36 lækna í sérnámi erlendis (p<0,01). Alls höfðu 19,7% lokið doktors-prófi. Útreikningar benda til að árið 2025 muni framboð og eftirspurn eftir skurðlæknum á Íslandi haldast í hendur, en framboð (n=248) verði mun meira en eftirspurn (n=156) ef taldir eru með íslenskir skurðlæknar erlendis.

Ályktun: Þriðjungur íslenskra skurðlækna er búsettur erlendis. Hlutfall kvenna er lágt en fer vaxandi. Næsta áratug munu margir skurðlæknar á Íslandi fara á eftirlaun og endurnýjun því fyrirsjáanleg. Ljóst er að ekki munu allir skurðlæknar geta fengið vinnu á Íslandi. Rétt er þó að hafa í huga að óvissuþættir eru margir í þessum útreikningum og ná ekki til einstakra undirsérgreina.

 

 

V-100    Illkynja iðraþekjuæxli í fleiðru á Íslandi 1985-2008

Eyrún Valsdóttir1, Tryggvi Þorgeirsson1, Helgi J. Ísaksson2, Hrönn Harðardóttir3, Tómas Guðbjartsson1,4

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2rannsóknarstofu í meinafræði, 3lungnadeild Landspítala, 4læknadeild HÍ

eyrunv@hotmail.com

Inngangur:Æxli í fleiðru eru aðallega af tveimur gerðum, góðkynja SFTP-æxli (solitary fibrous tumor of pleura) eða illkynja fleiðruæxli (malignant mesothelioma). Ekki hafa verið gerðar rannsóknir á illkynja fleiðruæxlum á Íslandi. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða tíðni sjúkdómsins hérlendis, einkenni, áhættuþætti og lífshorfur.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn hjá 33 sjúklingum (meðalaldur 71,5 ár, bil 49-89 ár, 88% karlar) sem greindust með illkynja fleiðruæxli á Íslandi 1985-2009. Farið var yfir sjúkraskrár og einkenni sjúklinganna skráð ásamt atvinnu- og reykingasögu og hvort sjúklingar hefðu komist í snertingu við asbest. Æxlin voru endurskoðuð af meinafræðingi og stiguð skv. kerfi International Mesothelioma Interest Group. Einnig voru reiknaðar lífshorfur (hráar) og miðast útreikningar við 31. des. 2009.

Niðurstöður: Aldursstaðlað nýgengi var 4,9 fyrir milljón karla og konur (95% CI 3,32-7/106). Alls höfðu 87% sjúklinganna sögu um reykingar og 63% höfðu staðfesta sögu um snertingu við asbest. Algengustu einkenni sem leiddu til greiningar voru mæði og brjóstverkur Alls voru 78% sjúklinganna á stigi III eða IV við greiningu, þar af 11 (41%) með staðfest fjarmeinvörp, oftast í lifur og lungum. Enginn greindist á stigi I og 6 sjúklingar (22%) voru á stigi II. Ekki var hægt að stiga 6 sjúklinga þar sem upp-
lýsingar vantaði eða þær voru ófullnægjandi. Skurðaðgerðir til grein-ingar voru gerðar hjá 14 sjúklingum og tekin fleiðrusýni, annaðhvort í gegnum brjóstholsskurð (n=8) eða með brjósthols-spelgun (n=6). Enginn sjúklinganna gekkst undir brottnám á fleiðru og lunga með lækningu að markmiði. Lífshorfur voru 8,3 mánuðir að meðaltali (miðgildi 6 mán), eða frá 2 vikum og upp í 40 mánuði fyrir þann sem lifði lengst. Í dag eru 5 af 33 sjúklingum á lífi, allir greindir innan 48 mánaða.

Ályktun: Illkynja fleiðruæxli eru fátíðari á Íslandi miðað við nágranna-lönd. Flestir (78%) greinast með útbreiddan sjúkdóm þar sem lækning kemur ekki til greina. Ljóst er að stigun þessara sjúklinga er oft ábótabant og athyglisvert að enginn hafi gengist undir brottnám á fleiðru og lunga.

 

 

V-101    Árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi

Hannes Sigurjónsson1, Sólveig Helgadóttir2, Sæmundur J. Oddsson1, Martin Ingi Sigurðsson1, Þórarinn Arnórs-son1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild HÍ

hannes@landspitali.is

Inngangur: Frá því fyrsta kransæðahjáveitu-aðgerðin var gerð á Íslandi árið 1986 hafa >3500 slíkar aðgerðir verið framkvæmdar á Landspítala. Í flestum tilvikum hefur verið notast við hjarta- og lungnavél (CABG) en á síðasta áratug hafa margar aðgerðanna verið gerðar á sláandi hjarta (OPCAB). Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna árangur þessara aðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og nær til allra sjúklinga (n=720) sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Íslandi árin 2002-2006. Sjúklingum sem gengust undir aðrar aðgerðir samtímis, t.d. lokuaðgerð, var sleppt. Bornir voru saman fylgikvillar og dánartíðni (£30 d.) þeirra sem gengust undir hefðbundna aðgerð (CABG-hópur, n=513), og á sláandi hjarta (OPCAB-hópur, n=207), og notuð til þess bæði ein- og fjölþáttagreining.

Niðurstöður: Áhættuþættir voru mjög sambærilegir fyrir bæði CABG- og OPCAB-hópa, m.a. aldur, líkamsþyngdarstuðull, fjöldi æðatenginga (2,8) og EuroSCORE (4,8). Aðgerðir á sláandi hjarta tóku lengri tíma (222 vs. 197 mín., p<0,001) og blæðing í var aukin í samanburði við hefðbundna aðgerð og munaði 274 ml (p<0,001). Tíðni enduraðgerða vegna blæðinga og blóðgjafa var heldur hærri í CABG-hópnum og CK-MB sömuleiðis marktækt hærra (43,4 vs. 36,3 µg/L, p<0,05). Aftur á móti var tíðni gáttatifs (53%) og heilablóðfalls (2%) sambærileg í báðum hópunum, einnig legutími (12 dagar) og skurðdauði (3% vs. 4%). Tegund aðgerðar hafði ekki forspárgildi fyrir skurðdauða. Fjölþáttagreining á áhættuþáttum skurðdauða sýndi að EuroScore var sterkasti áhættuþátturinn, en hækkaðar blóðfitur og magn blóðgjafar reyndist einnig sjálfstæðir forspárþættir. Línuleg aðhvarfsgreining sýndi að tegund aðgerðar, líkamsþyngdarstuðull og fjöldi æðatenginga voru sjálfstæðir áhættu-þættir aukinnar blæðingar.

Ályktun: Árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi er góður (3,2% skurðdauði) og sambærilegur við stærri hjartaskurðdeildir erlendis. Þetta á við um bæði hefðbundnar aðgerðir og aðgerðir á sláandi hjarta. Í þessari óslembuðu rannsókn reyndist þó blæðing aukin eftir aðgerðir á sláandi hjarta en tíðni hjartadreps lægri.

 

 

V-102    Framsýn rannsókn á skurðsýkingum eftir 246 opnar hjartaaðgerðir

Helga G. Hallgrímsdóttir1, Magnús Gottfreðsson2, Tómas Guðbjartsson3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2smitsjúkdómadeild Landspítala. 3læknadeild HÍ

helgahal@landspitali.is

Inngangur: Í framsýnni rannsókn á Landspítala árið 2007 kom óvænt í ljós að tíðni skurðsýkinga á ganglim eftir bláæðatöku við kransæðahjáveituaðgerðir (CABG) var 23,1%. Í kjölfarið var ákveðið að yfirfara verkferla, m.a. húðþvott og frágang umbúða. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvernig til tókst, en í þetta sinn á heilu ári og í ferfalt stærra þýði en í fyrri rannsókn. Einnig var markmiðið að kanna tíðni sýkinga í bringubeinsskurði.

Efniviður og aðferðir: Framsýn rannsókn sem tók til allra sjúklinga sem gengust undir opna hjartaaðgerð á Landspítala á 12 mánaða tímabili, frá 18. nóv. 2008 til 17. nóv. 2009, samtals 246 einstaklinga (191 karlar, meðalaldur 66,5 ár). Flestir (60,1%) gengust undir kransæðahjáveitu (CABG/OPCAB), ósæðalokuskipti (11,4%) eða báðar aðgerðirnar saman (13,4%). Skurð-sár voru metin á 2., 4. og 6.-7. degi þegar sjúklingar lágu inni. Einnig var haft samband við alla sjúklinga nema þrjá símleiðis, 30 dögum frá útskrift. Skurðsár voru skilgreind skv. staðli CDC. Bornir voru saman sjúklingar með og án sýkingar og lagt mat á áhættu-þætti.

Niðurstöður: Alls greindust 39 sjúkl. með skurð-sýkingu, 15 á bringubeini, 20 á ganglim og 4 á báðum stöðum. Í flestum tilvikum var um yfirborðssýkingu að ræða (79,1%) en 7 af 15 sjúkl. með bringubeinssýkingu höfðu djúpa sýkingu með miðmætisbólgu. Fóru þeir allir í enduraðgerð með sárasugu. Af 184 sjúkl. sem gengust undir hjáveituaðgerð fengu 24 sýkingu í skurðsár á ganglim, eða 13,0%, langflestir yfirborðs-sýkingu (90%). Tæpur helmingur bringubeinssýkinga var greindur þegar sjúkl. lágu inni en aðeins 15% sýkinga á ganglim. Miðgildi legutíma var marktækt hærra hjá sjúkl. með skurðsýkingu í bringubeini en ganglim (15 vs. 9 dagar, p=0,045). Alls létust 9 sjúklingar <30 d. (3,6%).

Ályktun: Skurðsýkingar eru töluvert vandamál eftir opnar hjartaaðgerðir og reyndust mun algengari á ganglim eftir bláæðatöku (13,0%) en á brjóstholi (6,1%). Ljóst er að tíðni þessara sýkinga á ganglim hefur lækkað um helming frá fyrri rannsókn, en tíðni djúpra bringubeinssýkinga (2,8%) er svipuð og í eldri rannsókn (2,5%).

 

 

V103    Lokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi 2002-2006

Inga Lára Ingvarsdóttir1, Sólveig Helgadóttir1, Ragnar Danielsen1,2, Tómas Guðbjartsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2hjartadeild, 3hjarta- og lungnaskurðdeild

ili1@hi.is

Inngangur: Ósæðarlokuskipti er önnur algengasta hjartaaðgerðin og er oftast gerð vegna ósæðarloku-þrengsla. Tilgangur rannsóknarinnar var að gera ítarlega rannsókn á árangri ósæðarlokuskipta vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Aftursæ rannsókn sem náði til allra sjúklinga með ósæðarlokuþrengsl er gengust undir ósæðarlokuskipti á Landspítala (LSH) á árunum 2002-2006, samtals 156 einstaklinga. Sleppt var 29 sjúklingum sem fóru í aðgerð vegna ósæðar-lokuleka eða höfðu áður farið í hjartaaðgerð. Meðalaldur var 71,7 ár (bil 41-88) og 64,7% karlar. Skráðir voru áhættuþættir, fylgikvillar aðgerðanna, þ.á.m. skurð-dauði og niðurstöður hjartaómana.

Niðurstöður: Algengustu einkenni voru mæði (80,8%) og hjartaöng (52,6%), en 11 sjúklingar voru án einkenna. Fyrir aðgerð var hámarks þrýstings-fallandi (DP) að meðaltali yfir lokuna 74,1 mmHg, útfallsbrot (EF) 57% og EuroScore 9,6%. Meðalaðgerðar- og -tangartími voru 282 og 124 mínútur. Ríflega helmingur sjúklinganna gekkst samtímis undir kransæðahjáveitu og 9 undir aðgerð á míturloku. Lífrænni loku var komið fyrir í 127 aðgerðanna (81,4%), í 102 tilvikum án grindar (stentless), og gerviloka hjá 18,6% sjúklinganna. Meðalstærð ígræddra loka var 25,6 mm (bil 21-29) og hámarks DP yfir nýju lokuna 28,1 mmHg. Algengustu fylgikvillar eftir aðgerð voru nýtilkomið gáttatif (64%) og nýrnaskaði (32%) en 19 sjúklingar (12,2%) fengu fjöllíffærabilun. Enduraðgerð vegna blæðingar þurfti í 12% tilfella. Miðgildi legutíma var 13 dagar, þar af 1 á gjörgæslu. Skurðdauði (£30 d.) var 6,4%.

Ályktun: Alvarlegir fylgikvillar eru tíðir eftir ósæðarlokuaðgerðir, ekki síst blæðingar sem oft krefjast enduraðgerðar. Skurðdauði er helmingi hærri en eftir kransæðahjáveituaðgerðir, sem er í samræmi við aðrar rannsóknir.

 

 

V-104    Rof á hjarta eftir gangráðsísetningu: Tilfellaröð af Landspítala

Ingvar Þ. Sverrisson1, Halla Viðarsdóttir1, Gizur Gottskálksson2, Tómas Guðbjartsson1,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2hjartadeild Landspítala, 3læknadeild HÍ

ingvarsv@landspitali.is

Inngangur: Gangráðsísetning er algeng aðgerð og tíðni alvarlegra fylgikvilla er lág. Blæðingar og sýk-ingar eru algengustu fylgikvillarnir en einnig er þekkt að rof geti komið á hjartavöðvann og leiðslurnar stungist út úr hjartanu. Um er að ræða sjaldgæfan en hættulegan fylgikvilla. Lýst er 5 tilfellum af Landspítala (LSH) sem meðhöndluð voru á tveggja ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Safnað var upplýsingum um öll tilfelli þar sem rof á hjarta hafði greinst með vissu eftir gangráðsísetningu á LSH frá 1. jan. 2008 til 31. des. 2009. Farið var yfir sjúkraskrár og könnuð meðferð og afdrif sjúklinganna.

Niðurstöður: 5 sjúklingar greindust á tímabilinu, einn árið 2008 og 4 árið eftir. Á sama tímabili voru gerðar 389 nýísetningar á gangráðum á LSH og komið fyrir samtals 700 gangráðsvírum. Tíðni hjartarofs var því 0,7% fyrir hvern vír og 1,3% fyrir hverja gangráðsísetningu. Meðalaldur var 71 ár (51-84 ára) og karlar 2 talsins. Algengasta einkennið var brjóstverkur og hafði enginn sjúkl. klár einkenni um bráða hjartaþröng (tamponade). Greining var staðfest með TS (gated CT) eða ómskoðun og greindust allir nema einn innan tveggja vikna frá aðgerð (bil: 1 sólarhr. - 33 mán.). Hjá 3 sjúklinganna var gerður bringubeins-skurður, blóð tæmt úr gollurshúsi (mest 0,5 L), saumað yfir gatið og nýjum leiðslum komið fyrir. Hjá hinum 2 var vírinn dreginn á skurðstofu með vélindaómstýringu. Fjórir sjúklingar lifðu af og útskrifuðust en 83 ára kona dó á gjörgæslu úr lungnabólgu sem ekki tengdist gangráðsísetningunni.

Ályktun: Rof á hjartavöðva eftir gangráðsísetningu er hættulegur fylgikvilli sem getur valdið blæðingu inn í gollurshúsið. Fáar rannsóknir eru til um tíðni þessa fylgikvilla og sömuleiðis hvaða meðferð sé skynsamlegast að beita. Mikilvægt er að hafa rof á hjartavöðva í huga hjá sjúklingum með brjóstverk eða lágþrýsting eftir gangráðsísetningu.

 

 

V-105    Míturlokuskipti á Íslandi 1990-2006

Sigurður Ragnarsson1, Þórarinn Arnórsson1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2læknadeild HÍ

sigurra@landspitali.is

Tilgangur: Árangur míturlokuskipta á Íslandi hefur ekki verið kannaður áður en fyrsta slíka aðgerðin hér á landi var gerð 1990. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna skammtímaárangur þessara aðgerða, þ.m.t. dánartíðni og fylgikvilla.

Aðferðir: Aftursýn rannsókn sem náði til allra sjúklinga sem fóru í míturlokuskipti á Íslandi 1990-2006, samtals 52ja sjúklinga. Karlmenn voru 34 (65%) og meðalaldur 61 ár (bil 17-85). Rúmlega 2/3 voru með míturlokuleka en 15 með þrengsli. Sex sjúklingar höfðu hjartaþelsbólgu, 7 nýlegt hjartadrep og 90% voru í NYHA flokki III-IV fyrir aðgerð. Meðal logEuroSCORE var 16,2% (bil 1,5-78,9%). Helmingur fór samtímis í kransæðahjáveituaðgerð, 19,2% í ósæðarlokuskipti og 9,6% í þríblöðkuloku-viðgerð. Fjórðungur hafði áður farið í opna hjartaaðgerð.

Niðurstöður: Tveir fengu lífræna loku en 50 gerviloku. Meðalstærð nýju lokanna var 30,3 mm (bil 27-31). Meðaltími á hjarta- og lungnavél var 162 mín. og tangartími 107 mín. Meðallegutími á gjörgæslu var 9,4 sólarhringar (bil 0,5-77). Marktæk hækkun á hjartaensímum (CK-MB >70) greindist hjá 62% sjúklinganna og alvarlegir fylgikvillar hjá 46%. Nýtilkomið hjartadrep var algengast (22%), en aðrir alvarlegir fylgikvillar voru öndunarbilun (n=5) og bráð nýrnabilun (n=4). Sjö sjúklingar (13,5%) fóru í enduraðgerð vegna blæðingar og 2 þurftu ósæðardælu (IABP) eftir aðgerð. Minniháttar fylgikvillar greindust hjá helmingi sjúklinga, og voru gáttatif, lungnabólga og skurðsýkingar algeng-astar. Þrír sjúklingar létust <30 d. (7,1%), en tveir til viðbótar létust fyrir útskrift.

Ályktun: Míturlokuskipti er umfangsmikil aðgerð þar sem tíðni alvarlegra fylgikvilla er há, sérstaklega hjartadrep og blæðingar sem krefjast enduraðgerða. Hér á landi er dánartíðni <30 daga tiltölulega lág, sérstaklega þegar haft er í huga að margir sjúkling-anna eru alvarlega veikir fyrir aðgerð.

 

 

V106    Gáttatif eftir opnar hjartaaðgerðir á Íslandi

Sólveig Helgadóttir1, Hannes Sigurjónsson2, Inga Lára Ingvarsdóttir1, Sæmundur J. Oddsson2, Martin Ingi Sigurðsson2, Davíð O. Arnar3, Þórarinn Arnórsson2, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild og 3hjartadeild Landspítala

soh2@hi.is

Inngangur: Gáttatif er algengur fylgikvilli opinna hjartaaðgerða. Einkenni eru oftast væg en geta verið hættuleg og aukið tíðni fylgikvilla og lengt legutíma. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni gáttatifs eftir hjartaaðgerðir hér á landi og skilgreina áhættuþætti.

Efni og aðferðir: Rannsóknin var aftursýn og náði til sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveitu- (n=638) og/eða ósæðarlokuskiptaaðgerð (n=130) á Landspítala (LSH) 2002-2006. Sjúklingum sem gengust undir aðrar hjartaaðgerðir eða höfðu þekkt gáttatif fyrir aðgerð var sleppt. Gáttatif/-flökt var greint með hjartalínuriti eða hjartarafsjá, hafði staðið í a.m.k. 5 mínútur, og/eða sjúklingur fengið lyfja-meðferð við gáttatifi. Ein- og fjölþáttagreining var notuð til að meta áhættuþætti gáttatifs og sjúklingar með gáttatif bornir saman við þá sem höfðu reglulegan hjartslátt.

Niðurstöður: Tíðni gáttatifs/-flökts fyrir allan hópinn var 44%, marktækt hærri eftir ósæðarloku-skipti en hjáveituaðgerð (73% vs. 38%, p<0,001). Útfallsbrot (EF) og helstu áhættuþættir kransæða-sjúkdóms voru sambærilegir í báðum hópum, en sjúklingar með gáttatif voru marktækt eldri, oftar konur og með hærra EuroScore. Þeir höfðu einnig lengri vélar- og tangartíma og tíðni bæði alvarlegra og minni fylgikvilla var hærri. Auk þess var legutími sjúklinga með gáttatif 3 dögum lengri (miðgildi) og dánartíðni þeirra marktækt hærri (0,9% vs. 4,8%, p=0,002). Í fjölbreytugreiningu reyndust aðeins aldur og EuroScore sjálfstæðir áhættuþættir gáttatifs eftir aðgerð.

Ályktun: Gátttif er algengasti fylgikvilli hjartaaðgerða og greinist hjá næstum helmingi sjúklinga. Helstu áhættuþættir hér á landi eru hærri aldur og EuroScore, og hefur einnig verið lýst í öðrum sambærilegum rannsóknum.

 

 

V-107    Bringubeinsfistlar eftir opnar hjarta­skurðaðgerðir. – Tíðni, áhættuþættir og horfur

Steinn Steingrímsson1,3, Tómas Guðbjartsson1,3, Ronny Gustafsson2, Arash Mokhtari2, Richard Ingemansson2, Johan Sjögren2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2hjartaskurðdeild háskólasjúkrahússins á Skáni, Svíþjóð, 3læknadeild HÍ

steinnstein@gmail.com

Inngangur: Bringubeinsfistlar er alvarlegur en fátíður fylgikvilli opinna hjartaaðgerða. Erfitt er að uppræta þessa fistla og oft þörf á langvarandi sýklalyfjameðferð og endurteknum skurðaðgerðum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna tíðni þessara fistla, skilgreina áhættuþætti og kanna afdrif og lifun sjúklinganna.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á framsýnum gagnagrunni hjartaskurðdeildar Háskólasjúkrahússins í Lundi, eða 12.297 opnum hjartaaðgerðum frá 1999-2008. Af þeim greindust 30 sjúklingar með bringubeinsfistil. Aðhvarfsgreining var notuð við mat á áhættuþáttum og 120 (4:1) sjúklingar án fistla notaðir sem samanburðarhópur.

Niðurstöður: Tíðni bringubeinsfistla var 0,23% einu ári frá aðgerð. Meðalaldur sjúklinga var 68 ár, þar af 77% karlar. Flestir, eða 63%, höfðu farið í kransæðahjáveituaðgerð og 20% í ósæðarlokuskipti. Helstu áhættuþættir fistla voru fyrri saga um sýkingu í bringubeinsskurði (OR=15,7), nýrnabilun (OR=12,5), reykingar (OR=4,7) og þegar beinvax var notað í upphaflegu aðgerðinni (OR=4,2). Sárasugu var beitt í 20 alvarlegustu tilfellunum og létust tveir sjúklingar á meðan meðferð stóð. Fimm ára heildarlifun sjúklinga með fistla var 58% borið saman við 85% í viðmiðunarhóp (p=0,003).

Ályktun:Dánartíðni er aukin hjá sjúklingum með bringubeinsfistla og fylgikvillar tíðir. Fyrri sýking í bringubeinsskurði og nýrnabilun eru langmikilvægustu áhættuþættirnir. Flestir hafa þó ekki fyrri sögu um sýkingu í bringubeini, sem bendir til að í þorra tilfella sé um síðbúna sýkingu að ræða í kringum stálvíra sem halda saman bringubeininu. Á síðari árum hefur sárasuga reynst vel í meðferð þessara sjúklinga.

 

 

V-109    Notkun espaðs storkuþáttar VII á Landspítala á 10 ára tímabili

Róbert Pálmason1, Brynjar Viðarsson2, Felix Valsson3, Kristinn Sigvaldason3, Tómas Guðbjartsson4,5, Páll Torfi Önundarson2,5

1Lyflækningasviði, 2blóðmeinafræðideild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 5læknadeild HÍ

robertpalmason@gmail.com

Inngangur: Espaður storkuþáttur VII (recombinant factor VIIa, rFVIIa) hefur verið notaður á Landspítala (LSH) frá árinu 1999 við blæðingar af ýmsum orsökum. Tilgangur þessarar aftursæju rannsóknar var að athuga ábendingar og árangur af notkun rFVIIa á LSH frá upphafi til ársloka 2008.

Efniviður og aðferðir: Fengnar voru upplýsingar um notkun rFVIIa frá apóteki LSH og gagnagrunni blæðaramiðstöðvar. Klínískar upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám og voru m.a. skráðar ábendingar notkunar lyfsins; klínísk svörun að mati meðhöndlandi læknis; fjöldi blóðhluta gefinn 12 klst. fyrir og 12 klst. eftir gjöf rFVIIa; storkupróf fyrir og eftir gjöf; og afdrif sjúklinga.

Niðurstöður: Alls fengu 73 sjúklingar rFVIIa, meðalaldur 51 ár (0-84). Helstu ábendingar voru óviðráðanlegar blæðingar við hjartaskurðaðgerðir (n=23), eftir áverka (n=8) og fæðingu (n=9). Átta sjúklingar fengu lyfið vegna heilablæðingar, níu sem fyrirbyggjandi meðferð fyrir skurðaðgerð og 16 við öðrum ábendingum. Klínísk svörun var góð í 73% tilfella. Notkun rauðkornaþykknis minnkaði að meðaltali úr 10,6 einingum 12 klst. fyrir lyfjagjöf (bil 0-32, miðgildi 10) í 4,3 einingar 12 klst. eftir gjöf lyfsins (bil 0-22, miðgildi 3; p<0,0001); notkun blóðvökva minnkaði úr 10,2 einingum (bil 0-26, miðgildi 8) í 6,2 (bil 0-33, miðgildi 5,5; p<0,002); og PT styttist um 6,9 sek (p<0,0001). Alls létust 24 sjúklingar innan 30 daga (33%), þar af 6 af 9 með heilablæðingu og 10 af 24 sjúkl. eftir opnar hjartaaðgerðir.

Ályktun: Þrír af hverjum fjórum sjúklingum svöruðu rFVIIa vel skv. klínísku mati. Marktæk minnkun á gjöf blóðhluta og stytting PT styður það mat. Þótt dánarhlutfall sé hátt (33%), sérstaklega eftir heilablæðingar (66%), þá ber að hafa í huga að lyfið var aðeins gefið þegar önnur meðferðarúrræði höfðu brugðist.

 

 

V-110    Skurðaðgerðir vegna lungnameinvarpa á Íslandi 1984-2008

Halla Viðarsdóttir1, Páll Helgi Möller1,4, Jón Gunnlaugur Jónasson3,4, Tómas Guðbjartsson2,4

1Skurðlækningadeild, 2 hjarta- og lungnaskurðdeild, 3rannsóknarstofu Landspítala í meinafræði, 4læknadeild HÍ

hallavi@landspitali.is

Inngangur:Rúmur 1/3 hluti sjúklinga með krabbamein greinist með lungnameinvörp. Þegar meinvörpin eru bundin við lungu kemur til greina að fjarlægja þau með skurðaðgerð til að bæta lífshorfur. Markmið þessarar afturskyggnu rannsóknar var að kanna algengi og árangur þessara aðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar sem gengust undir brottnám á lungnameinvörpum með lækningu að markmiði á Íslandi 1984-2008. Litið var nánar á sjúklinga með 3 algengustu frumæxlin, m.a. kannaðar ábendingar, fylgikvillar aðgerða og reiknuð út lifun (Kaplan-Meier). Útreikningar miðuðust við 31. des. 2009 og var eftirfylgni 45 mán. (bil: 3-311).

Niðurstöður: Alls fóru 83 sjúklingar í aðgerð vegna lungnameinvarpa á tímabilinu (aldur 55 ár, bil: 2-81, 51% karlar). Algengustu frumæxlin voru krabbamein í ristli og endaþarmi (32%, n=27), sarkmein (25%, n=21) og nýrnafrumukrabbamein (17%, n=14). Fjórðungur sjúklinga hafði önnur krabbamein, flestir sortuæxli (n=4). Hlutfall sjúklinga sem fóru í aðgerð var 1.0%, 6,5% og 1,4% fyrir þrjár algengustu æxlisgerðirnar. Þessir 62 sjúklingar gengust undir 79 aðgerðir. Fleygskurður (n=45) og blaðnám (n=30) voru algengastar en 3 sjúklingar fóru í lungnabrottnám. Skurðdauði var 1,2%. Miðgildi legutíma var 11 dagar (bil: 4-85). Fimm ára lifun fyrir sjúklinga með ristil og endarþarmskrabbamein var 45%, nýrnafrumukrabbamein 39% og sarkmein 19% (p=0,11).

Ályktun: Hlutfall sjúklinga sem greindust með krabbamein og fóru í brottnám á lungnameinvörpum var lágt. Árangur hér á landi var góður og sambærilegur við erlendar rannsóknir. Bestur var árangur hjá sjúklingum með ristil og endaþarmskrabbamein en tæpur helmingur þeirra var á lífi 5 árum eftir aðgerð.

V-111    Sjúkratilfelli: Krabbamein í botnlanga með fistil yfir í þvagblöðru

Halla Viðarsdóttir1, Páll Helgi Möller1,4, Kristrún Benediktsdóttir2,4, Guðmundur Geirsson3,4

1Skurðlækningadeild, 2rannsóknarstofu Landspítala í meinafræði, 3þvagfæraskurðlækningadeild, 4 læknadeild HÍ

hallavi@landspitali.is

Inngangur: Krabbamein í botnlanga er sjaldgæfur sjúkdómur eða um 0,5% allra illkynja sjúkdóma í meltingarvegi. Hér er kynnt tilfelli krabbameins í botnlanga með fistil yfir í þvagblöðru. Sjúkl. var með óþægindi í kviðarholi og tíð þvaglát en ekki dæmigerð einkenni fyrir þarmablöðrufistil s.s loftmigu eða þvagfærasýkingar.

Tilfelli: 64 árakonu var vísað á BMT með 3 vikna sögu um kviðverk, hita, slappleika og þyngdartap. Við uppvinnslu þá var hún með dreifð þreifieymsli, blóðleysi og hægðir voru jákvæðar fyrir blóði. CEA var hækkað 7,8 ng/mL. Þvagskoðun og tölvusneiðmynd af kvið var neikvæð. Tveimur vikum síðar var gerð ófullkomin ristilspeglun sem var kláruð með eðlilegri röntgenmynd af ristli. Sjúkl. hafði áfram óþægindi í kvið og tíð þvaglát. Sex mánuðum síðar leitaði sjúkl. til kvensjúkdómalæknis og fannst þá fyrirferð við leggangaómun. Segulómun gaf grun um fistil á milli smágirnis og þvagblöðru. Blöðruspeglun leiddi í ljós dæmigert fistilsop í aftari vegg þvagblöðru. Við aðgerð var botnlangi og smágirni vaxið við þvagblöðruvegg og í ristilhengju fundust stækkaðir eitlar. Fyrirferðin var fjarlægð í heilu lagi með góðri skurðbrún á þvagblöðruvegg ásamt hægri hluta ristils. Vefjarannsókn leiddi í ljós slímmyndandi kirtilfrumukrabbamein í botnlanga með rofi yfir í þvagblöðru og vöxt í gegnum öll vegglög yfir á smágirni. Alls fundust 23 eitlar og voru þeir neikvæðir. Meinafræðileg stigun var T4N0M0. Sjúkl. útskrifaðist á 5. degi eftir aðgerð og er nú í viðbótarkrabbameinslyfjameðferð með 5-fluorouracil, leucovorin og oxaliplatin.

Umræða:Hér er um að ræða sjaldgæft krabbamein með óvenjulega birtingarmynd. Kirtilfrumukrabbamein í botnlanga með fistil yfir í þvagblöðru er afar sjaldgæft en einungis tvö tilfelli hafa verið birt.

 

 

V-112    Aukin notkun ECMO meðferðar á Íslandi

Halla Viðarsdóttir1, Þorsteinn Ástráðsson2, Bjarni Torfason1,3, Líney Símonardóttir1, Tómas Guðbjartsson1,3, Felix Valsson2,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 3læknadeild HÍ

hallavi@landspitali.is

Inngangur: ECMO-meðferð (extracorporeal membrane oxygenation) getur verið lífsbjargandi í alvarlegri öndunarbilun (V-V (Veno-Venous) ECMO) eða mikilli hjartabilun (V-A (Veno-arterial) ECMO).. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna ábendingar og árangur ECMO-meðferðar hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til allra sjúklinga sem fengu ECMO-meðferð á Íslandi fram að 2010 , bæði V-V og V-A ECMO. Skráðar voru ábendingar og fylgikvillar meðferðar en einnig hverjir lifðu af meðferðina.

Niðurstöður: 29 sjúklingar (20 karlar), með meðalaldur 45,7 ár (bil 14-84) voru meðhöndlaðir á tímabilinu. Alls fóru 17 (59%) sjúklingar í V-A ECMO vegna hjartabilunar, þar af 12 meðhöndlaðir 2007-2009, í 8 til-fellum eftir hjartaaðgerð. Heildarlifun var 35% en 25% fyrir þá sem fóru í ECMO eftir hjartaaðgerð. Meðalaldur sjúklinga í V-A ECMO sem lifðu meðferðina var 36 ár samanborið við 60 ár fyrir þá sem létust. Tólf sjúklingar voru meðhöndlaðir með V-V ECMO vegna öndunarbilunar og var lifunin 67%, þar af tveir með H1N1 sýkingu og lifðu báðir. Marktækur munur var á aldri sjúklinga sem lifðu af V-V ECMO og þeirra sem létust (31 vs. 50 ár, p=0,03) en einnig sást marktækt betri lifun hjá sjúklingum sem höfðu verið <7 daga á öndunarvél fyrir ECMO-meðferð (p<0.05).Algengasti fylgikvilli meðferðar voru blæðingar sem sáust í 10 til-fellum, en 4 sjúklingar í V-A ECMO fengu blóðrásarskerðingu í ganglim.
Ályktun: Árangur VV-ECMO-meðferðar er mjög góður á Íslandi (67% lifun) og sambærilegur við það sem best þekkist erlendis. Árangur eftir V-A ECMO, sérstaklega eftir hjartaaðgerð, er hins vegar síðri (25% lifun), og því mikilvægt að meta ábendingar fyrir notkun ECMO í slíkum til-fellum.

V-113    Kirtilfrumukrabbamein í botnlanga á Íslandi 1990-2009

Halla Viðarsdóttir 1, Jón Gunnlaugur Jónasson 2,4 , Páll Helgi Möller 1,4

1Skurðlækningadeild, 2rannsóknarstofu Landspítala í meinafræði, 3læknadeild HÍ

hallavi@landspitali.is

Inngangur:Kirtilfrumukrabbamein í botnlangatotu er sjaldgæft, eða minna en 0,5% af öllum krabbameinum í meltingarvegi. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða tíðni, einkenni, meinafræði og meðferð þessa krabbameins hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem greindust með kirtilfrumukrabbamein í botnlangatotu á Íslandi 1990-2009. Skoðaðir voru faraldsfræðilegir þættir, meðferð og lifun (Kaplan-Meier). Meðaleftirfylgni var 35 mánuðir (bil: 0-145).

Niðurstöður:Alls greindust 22 sjúklingar með kirtilfrumukrabbamein í botnlanga (aldur 60 ár, bil: 30-88, 50% karlar). Aldurstaðlað nýgengi er því 0,4/100.000/ár. Algengasta einkennið var kviðverkur (n=17) en 8 sjúklingar höfðu klínísk einkenni botnlangabólgu. CEA (carcinoembryonic antigen) var mælt hjá 9 sjúklingum og hækkað hjá tveimur. Flestir greindust í aðgerð eða við vefjagreiningu eða 21 sjúklingur en 1 var greindur við krufningu. Fimm sjúklingar fór í botnlangatöku, 12 í brottnám á hægri hluta ristils.. Einn sjúklingur fór ekki í skurðaðgerð og hjá 3 var eingöngu tekið sýni til vefjarannsóknar. Tólf sjúklingar fengu krabbameinslyfjameðferð þar af 7 við útbreiddum sjúkdómi. Ellefu sjúklingar höfðu slímkrabbamein, sjö kirtilfrumukrabbamein, 2 sigðfrumukrabbamein og 2 kirtilfrumukrabbalíkisæxli. Hjá 3 sjúklingum var æxlið upprunnið í kirtilæxli. Rúmlega helmingur hafði sjúkdóm á stigi IV (n=12), 3 á stigi III, 3 á II og 3 á stigi I. Skurðdauði var 4,8% (n=1). 1 og 5 ára lifun var 75 og 44%.

Ályktun:Kirtilfrumukrabbamein í botnlanga er sjaldgæft. Allir sjúklingar greinast fyrir tilviljun í aðgerð,við vefjarannsókn eða í krufningu. Rúmlega helmingur sjúklinga er með útbreiddan sjúkdóm við greiningu.

 

 

V-114    Lægri dánartíðni sjúklinga með blóðfituhækkun eftir kransæðahjáveituaðgerð – verndandi áhrif blóðfitulækkandi statína?

Sæmundur J. Oddsson1, Hannes Sigurjónsson1, Sólveig Helgadóttir2, Martin Ingi Sigurðsson1, Þórarinn Arnórsson1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild HÍ

saemiodds@hotmail.com

Inngangur: Hækkun á blóðfitum er þekktur áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma og felst meðferð m.a. í lyfjameðferð með statínum. Sýnt hefur verið fram á að statín minnki bólguviðbrögð (SIRS) í líkamanum, m.a. eftir skurðaðgerðir. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif blóðfituhækkunar/statína á tíðni fylgikvilla og dánartíðni eftir krans-æðahjáveituaðgerð.

Efni og aðferðir: Rannsóknin var aftursýn og náði til 720 sjúklinga sem gengust undir kransæða-hjáveituaðgerð á Landspítala (LSH) árin 2002-2006. Bornir voru saman sjúklingar sem höfðu sögu um blóðfituhækkun (S-kólesteról ³7,8 mmól/L) og voru á statínum (n=421) við sjúklinga sem ekki höfðu hækkaðar blóðfitur eða tóku statín (n=299). Ein- og fjölþátta-greining var notuð til að meta áhrif á fylgikvilla og dánartíðni £30 daga.

Niðurstöður: Sjúklingar með blóðfituhækkun voru marktækt yngri (65,6 vs. 67,6 ára) og þyngri (BMI 28,3 vs. 27,6), en EuroSCORE þeirra lægra (4,5 vs. 5,2). Ekki var marktækur munur á meiriháttar fylgikvillum í
hópunum tveimur, þ.m.t. heilablóðfalli, sýkingu í bringubeini, krans-æðastíflu og enduraðgerð vegna blæðingar. Hjá sjúklingum með blóðfitu-hækkun sást tilhneiging til lægri tíðni bráðs andnauðarheil-
kennis (ARDS) og fjölkerfabilunar (MOF) (2,1% vs 4,7%, p=0,089). Dánartíðni
£30 d. var marktækt lægri hjá sjúklingum með blóðfitu-hækkun (1,4 vs. 5,7%, p=0,003) en legutími á gjörgæslu og heildar-legutími sambærilegur. Í fjöl-þáttagreiningu, þar sem m.a. var leiðrétt fyrir aldri (OR 1,12, p=0,04) og EuroScore (OR 1,59, p=0,0002) reyndist saga um blóðfituhækkun vera sjálfstæður forspárþáttur lægri dánartíðni £30 d. (OR 0,24, p= 0,03).

Ályktun: Sjúklingar með blóðfituhækkun virðast hafa marktækt lægri dánartíðni en þeir sem hafa eðlilegar blóðfitur. Hugsanlega má rekja þessi áhrif til bólguhemjandi áhrifa statína, samanber tilhneigingu til lægri tíðni fjölkerfabilunar og andnauðar-heilkennis.

V-115    Fleyg- og geiraskurðir við lungna­krabbameini á Íslandi

Ásgeir Alexandersson1, Steinn Jónsson1,2, Helgi J. Ísaksson3, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2lungnadeild,3rannsóknarstofu í meinafræði, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

asa6@hi.is

Inngangur: Hefðbundin aðgerð við lungnakrabba-meini öðru en smáfrumukrabbameini (ÖES) er blaðnám. Í völdum tilvikum er þó gripið til fleyg- eða geiraskurðar, t.d. ef lungnastarfsemi er mikið skert. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna árangur þessara aðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem gengust undir fleyg- eða geiraskurð vegna lungnakrabbameins (ÖES) á Íslandi 1994–2008. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og voru kannaðar ábendingar aðgerðar, TNM-stigun, fylgikvillar, og heildarlífshorfur. Öll vefjasýni voru endurskoðuð.

Niðurstöður: Alls gengust 44 sjúklingar (52,3% konur) undir samtals 47 fleyg- eða geiraskurði. Meðalaldur var 69,1 ár og greindust 38,3% sjúklinga fyrir tilviljun. Alls höfðu 55,3% sögu um krans-æðasjúkdóm og 40,4% langvinna lungnateppu. Meðal ASA-skor var 2,6. Aðgerðirnar tóku að meðaltali 82,5 mínútur (bil 30-131), blæðing í aðgerð var 260 ml (bil 100-650) og miðgildi legutíma 9 dagar (bil 4-24). Sýni úr eitlum voru tekin í 12,8% aðgerðanna en miðmætisspeglun aðeins gerð einu sinni. Helstu fylgikvillar voru lungnabólga (14,9%), langvarandi loftleki (12,8%) og blæðing í aðgerð (>500 ml) (8,7%). Tveir sjúklingar fengu alvarlega fylgikvilla, 36,2% dvöldu á gjörgæslu yfir nótt, en enginn lést <30 daga frá aðgerð. Meðalstærð æxlanna var 2,3 cm (bil 0,8–5). Kirtilmyndandi krabbamein var algeng-asta vefjagerðin (66,7%) og 43,8% æxlanna illa þroskuð. Eftir aðgerð voru 78,7% sjúklinga á stigi IA/IB, 17,0% á stigi IIA/IIB og tveir á stigi IIIA. Eins og 5 ára lífshorfur voru 85,1% og 40,9%.

Ályktun: Tíðni fylgikvilla eftir fleyg- og geiraskurði er lág á Íslandi, og lítið hærri en eftir blaðnám. Lífshorfur eru einnig nokkuð sambærilegar og eftir blaðnám. Þetta er athyglisvert þar sem flestir þessara sjúklinga hafa undirliggjandi hjarta- og æðasjúkdóma.

 

 

V-116    Forspárþættir lífshorfa eftir blaðnám við lungnakrabbameini á Íslandi 1999-2008

Guðrún Nína Óskarsdóttir1, Rut Skúladóttir1, Húnbogi Þorsteinsson1, Helgi J. Ísaksson2, Steinn Jónsson3,4, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknarstofu í meinafræði, 3 lungnadeild, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

gno1@hi.is

Inngangur: Skurðaðgerð er helsta læknandi meðferð við lungna-krabbameini. Tilgangur þessarar rann-sóknar var að kanna stigun, lífshorfur og forspárþætti lífshorfa hjá sjúklingum sem gengist hafa undir lungnablaðnám vegna lungnakrabbameins á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 213 sjúklingum (meðalaldur 66,9 ár) sem gengust undir blaðnám á Íslandi við lungnakrabbameini öðru en smáfrumukrabbameini (ÖES) á tímabilinu 1999-2008. Æxlin voru stiguð samkvæmt TNM-stigunarkerfi og ein- og fjölþáttagreining notuð til að meta forspárþætti lífshorfa.

Niðurstöður: Heildarlífshorfur (Kaplan-Meier) eftir 1 og 5 ár voru 82,7% og 45,1%, en enginn lést <30 daga frá aðgerð. Algengustu vefjagerðir voru kirtilfrumu- (62%) og flöguþekjukrabbamein (29,1%) og meðalstærð æxlanna var 3,7 cm. Flestir sjúkling-anna greindust á stigi I (59,6%) eða II (17,8%,) en 7% á stigi IIIA og 14,6% á stigi IIIB-IV. Stigun, stærð æxlis, kirtilfrumukrabbamein (HR=0,5, p=0,002), skert lungnastarfsemi og hjartsláttaróregla reyndust sjálfstæðir forspárþættir lífshorfa í fjölbreytugreiningu.

Ályktun: Lífshorfur eru sambærilegar við erlendar rannsóknir, en tæplega helmingur sjúklinga var á lífi fimm árum eftir aðgerð. Hátt TNM sjúkdómsstig, skert lungnastarfsemi og saga um hjartsláttaróreglu fyrir aðgerð skerða lífshorfur þessara sjúklinga. Sjúklingum með kirtilfrumukrabbamein vegnar hins vegar betur en sjúklingum með flöguþekjukrabba-mein, ólíkt því sem flestar aðrar rannsóknir hafa sýnt.

 

V-117    Lungnaskurðaðgerðir við lungnakrabba­meini á Íslandi: Tegund aðgerða og árangur

Húnbogi Þorsteinsson1, Ásgeir Alexandersson1, Guðrún Nína Óskarsdóttir1, Rut Skúladóttir1, Helgi J. Ísaksson3, Steinn Jónsson1,4, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3rannsóknarstofu í meinafræði, 4lungnadeild Landspítala

hth14@hi.is

Tilgangur: Helstu skurðaðgerðir við lungna-krabbameini öðru en smáfrumukrabbameini (LÖES) eru blaðnám, lungnabrottnám og fleyg-/geiraskurður. Hér á landi hefur vantað upplýsingar um hversu hátt hlutfall sjúklinga með LÖES gangast undir skurðaðgerð á lungum með lækningu að markmiði. Í Bandaríkjunum hefur þetta hlutfall verið í kringum 30% en lægra í Evrópu (~20%). Markmið þessarar rannsóknar var að kanna þetta hlutfall hér á landi og bera saman árangur aðgerðanna þriggja.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum með LÖES sem gengust undir lungnaaðgerð á Íslandi 1994–2008. Upplýsingar um tegund aðgerða, alvarlega fylgikvilla og skurðdauða (<30 d.) fengust úr sjúkraskrám. Upplýsingar um heildarfjölda greindra tilfella fengust úr Krabbameinsskrá, en þau voru 1757. Æxlin voru stiguð skv. TNM-kerfi og reiknaður lífshorfur. Borin voru saman þrjú 5 ára tímabil.

Niðurstöður: Alls gengust 387 sjúklingar undir 397 aðgerðir; þar af voru 73% blaðnám, 15,1% lungnabrottnám og 11,9% fleyg-/geiraskurðir (tafla 1). Hlutfallið af öllum greindum sjúklingum var 22,6% fyrir allt tímabilið og breyttist ekki marktækt á milli tímabila. Ekki var heldur marktækur munur á tíðni tilviljanagreindra æxla á milli tímabila, hlutfalli sjúklinga á stigi I+II eða hlutfalli kirtilmyndandi krabbameina (58,7% í heild). Skurðdauði var 0,7% eftir blaðnám, 3,3% eftir lungnabrottnám og 0% eftir fleygskurð (p>0,1). Lífshorfur eftir lungnabrottnám reyndust marktækt verri en eftir blaðnám og fleygskurð (p<0,005), og marktækt betri á síðasta tímabili samanborið við það fyrsta (p = 0,04).

Ályktun: Hlutfall sjúklinga með LÖES sem gangast undir skurðaðgerð í læknandi tilgangi á Íslandi (22,6%) er vel sambærilegt við önnur Evrópulönd. Árangur aðgerðanna er góður, enda tíðni alvarlegra fylgikvilla lág og skurðdauði aðeins 1,0% fyrir hópinn í heild.

 

Tafla 1 Blað­nám Lungna­brottnám Fleyg-/geira­skurður Samtals
Fjöldi aðg. og hlutfall (%) af heildarfj. greindra (n=1757)

290

(16,5%)

60

(3,4%)

47

(2,68%)

397

(22,6%)

Hlutfall á stigi I+II 78,9% 60,1% 95,7%* 78,1%
Tíðni alv. fylgikvilla 5,9% 18,3%* 4,3% 7,6%
5 ára lífshorfur 44,6% 21,2%* 40,9% 40,3%
Skurðdauði (<30 d.) 0,7% 3,3% 0% 1,0%
* marktækur munur (p<0,05)        

 

 

 

V-118    Fylgikvillar blaðnámsaðgerða við lungnakrabbameini á Íslandi 1999-2008

Rut Skúladóttir1, Guðrún Nína Óskarsdóttir1, Helgi J. Ísaksson2, Steinn Jónsson1,3, Húnbogi Þorsteinsson1, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknarstofu í meinafræði, 3lungnadeild, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

rus2@hi.is

Inngangur: Skurðaðgerð er helsta meðferðin við lungnakrabbameini og er langoftast beitt blaðnámi. Markmið þesssarar rannsóknar var að kanna ábend-ingar og snemmkomna fylgikvilla blaðnáms á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: 213 sjúklingar sem gengust undir blaðnám vegna lungnakrabbameins á árabilinu 1999-2008. Kannaðar voru ábendingar, fylgikvillar, æxlisgerð og TNM-stigun. Aðhvarfsgreining var notuð til að meta áhættuþætti fylgikvilla.

Niðurstöður: 85 sjúklingar (40%) greindust fyrir tilviljun en aðrir vegna einkenna sjúkdómsins. Kirtil-myndandi (62%) og flöguþekjukrabbamein (29,1%) voru algengust. Flestir greindust á stigi I (59,6%) og stigi II (17,8%), 7% á stigi IIIA og 14,8% á stigum IIIB-IV. Miðmætisspeglun var gerð hjá 13,6% sjúklinga fyrir blaðnámið. Meðal aðgerðartími var 128 mín. og blæðing í aðgerð 580 ml. Sextán sjúklingar (7,5%) fengu alvarlega fylgikvilla og 36 (17%) minniháttar fylgikvilla, oftast lungnabólgu (6,1%) og gáttatif/flökt (6,1%). Tólf sjúklingar þurftu enduraðgerð, tveir vegna fleiðruholssýkingar og einn vegna berkjufleiðrufistils. Eldri sjúklingar með hátt ASA skor og langa reykingasögu voru í aukinni hættu á að fá fylgikvilla eftir aðgerðirnar. Legutími eftir aðgerð var 10 dagar (mið-gildi). Enginn sjúklingur lést <30 daga frá aðgerð en fjórir (1,9%) <90 daga frá aðgerð.

Ályktun: Skammtímaárangur blaðnámsaðgerða vegna lungnakrabba-meins er góður hér á landi samanborið við aðrar rannsóknir.

 

 

 

V-119    Hlutabrottnám á nýra vegna nýrna­frumukrabbameins á Íslandi

Elín Maríusdóttir5, Sverrir Harðarson2,5, Vigdís Pétursdóttir2, Eiríkur Jónsson1,5, Valur Þór Marteinsson4, Guðmundur Vikar Einarsson1, Tómas Guðbjartsson3,5

1Þvagfæraskurðdeild, 2rannsóknarstofu í meinafræði, 3skurðsvið Landspítala, 4Sjúkrahúsinu á Akureyri, 5læknadeild HÍ

elm1@hi.is

Inngangur: Hlutabrottnám hefur löngum verið beitt við nýrnafrumu-krabbamein í stöku nýra eða þegar nýrnastarfsemi er skert. Í vaxandi mæli hefur aðgerð-in verið framkvæmd hjá sjúklingum með lítil æxli og sýna rannsóknir að sjúklingum farnast betur en eftir hefðbundið brottnám á öllu nýranu. Tilgangur þessarar afturskyggnu rannsóknar var að kanna ábendingar og árangur hlutabrottnáms hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin tekur til sjúkl-inga sem gengust undir hlutabrottnám vegna nýrnafrumukrabbameins árin 1991-2005 á Íslandi. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og voru tilfellin TNM-stiguð, skráðir fylgikvillar og reiknaðar lífs-horfur (Kaplan-Meier). Miðgildi eftirfylgdar var 94 mán.

Niðurstöður: Alls voru gerð 25 hlutabrottnám (meðalaldur 60 ár, bil 33-80 ár, 20 karlar), eða 6% af 421 aðgerð á nýra við nýrnafrumukrabbameini á tímabilinu. Í 18 (72%) tilfella greindust sjúklingar fyrir tilviljun. Algengasta ábendingin fyrir aðgerð var lítið æxli (<4 cm) hjá 40% sjúklinganna, 28% höfðu þekkta nýrnabilun og 24% stakt nýra. Kreatinín fyrir og eftir aðgerð var 94 mm/L (bil 65-196) og 110 mm/L (bil 64-311) að meðaltali. Meðalstærð æxlanna var 3,6 cm og 84% sjúklinga voru á stigi I eða II. Aðgerðin tók 140 mín. að meðaltali og var meðalblæðing í aðgerð 926 ml (bil 0,1-5,4 L). Allir lifðu aðgerðina en 4 (16%) fengu fylgikvilla eftir aðgerð; blæðingu, þvagleka, ígerð í nýra, garnastíflu eða lungnabólgu. Miðgildi legutíma var 8 d. Tveir sjúklingar (8%) fengu staðbundna endurkomu og fóru í brottnám á nýra. Eins og fimm ára lífshorfur (sjúkdóma sértækar) voru 100% og 91%.

Ályktanir: Hlutfall sjúklinga sem fóru í hlutabrott-nám (6%) er heldur lægra en erlendis en fer vaxandi. Árangur af hlutabrottnámi er góður hér á landi, horfur góðar og staðbundin endurkoma krabbameins fátíð. Hafa verður þó í huga að flestir sjúklinganna höfðu lítil æxli á lágum stigum og því um valinn sjúklingahóp að ræða.

 

 

V-120    Áhrif vökva og pressora á smáæðablóðflæði í þörmum við opnar kviðarholsaðgerðir

Gísli H Sigurðsson, Luzius B Hiltebrand, Oliver Limberger, Sebastian Brandt

Department of Anaesthesiology, Inselspital, Berne and University of Bern, svæfinga og gjörgæsludeild Landspítala og læknadeild HÍ

gislihs@landspitali.is

Inngangur: Blóðþrýstingsfall er algengt við svæfingu sjúklinga sem undirgangast stórar kviðarholsaðgerðir. Venjan hefur verið að mæta þessari blóðþrýstingslækkun með aukinni i.v. vökvagjöf. Því hefur verið haldið fram að ríkuleg vökvagjöf tefji fyrir bata sjúklinga sem fara í valaðgerðir. Við könnuðum áhrif þess að nota noradrenalín í stað aukins vökva til að hækka blóðþrýsting hjá svínum sem undirgengust opna kviðarholsaðgerð í svæfingu þar sem líkt var eftir aðstæðum hjá mönnum við aðgerð og svæfingu eins og frekast var kostur.

Aðferð: 20 svín voru svæfð, lögð í öndunarvél og skipt í viðmiðunarhóp C (n=10) og noradrenalínhóp NA (n=10). Báðir hóparnir fengu Ringer laktat (RL) lausn í æð, 3 ml/kg/klst. Hópur NE fékk auk þess noradrenalín dreypi til að hækka meðalslagæðaþrýsting upp í 65 og 75 mmHg í tveimur skrefum. Hjartaútfall var mælt með stöðugri “thermodilution”, svæðisblóðflæði í „superior mesenteric“ slagæð og nýrnaslagæð með „transit time“ flæðimælingu og smáæðablóðflæði í smáþörmum með laser Doppler flæðimælingu. Súrefnisþrýstingur í garnavef var mældur með Clark-skautum.

Niðurstöður: Hópur C fékk samtals 985 ± 44 ml og hópur NE 964 ± 69 ml af RL. Hópur NE fékk 35 ± 12 ng/kg/mín af noradrenalíni til að hækka meðalslagæðaþrýsting upp í 65 mmHg og 120 ± 50 ng/kg/mín til að hækka þrýsting í 75 mmHg. Blóðþrýstingshækkun með noradrenalíni hafði lítil áhrif á svæðis- eða smáæðablóðflæði í smáþörmum eða nýrum. Súrefnisþrýstingur í garnavef breyttist ekki heldur.

Umræða: Noradrenalín dreypi, sem var beitt til að meðhöndla lágan blóðþrýsting, hafði lítil sem engin áhrif til að bæta blóðflæði og/eða súrefnisþrýsting í þörmum og nýrum.

 

 

V-121    Alvarleg sýklasótt á íslenskum gjörgæsludeildum - Tíðni, meingerð og meðferðarárangur

Edda Vésteinsdóttir1, Sigurbergur Kárason1.4, Sigurður E. Sigurðsson3, Magnús Gottfreðsson2,4, Sigrún Hallgrímsdóttir1, Alma Gunnarsdóttir1, Gísli H. Sigurðsson1,4

1Svæfinga- og gjörgæsludeild, 2smitsjúkdómadeild Landspítala, 3svæfinga- og gjörgæsludeild Sjúkrahúss Akureyrar, 4læknadeild HÍ

eddave@lsh.is

Inngangur og markmið: Sýklasótt er ein algengasta ástæða gjörgæsluinnlagna. Dánartíðni er há, frá 15-30 % í alvarlegri sýklasótt og upp í 50% í sýklasóttarlosti. Lungu og kviðarhol eru algengustu sýkingarstaðir. Síðustu 15-20 ár hefur sýkingum af völdum gram-jákvæðra sýkla fjölgað á kostnað gram-neikvæðra. Tilgangur okkar rannsóknar var að kanna faraldsfræði sýklasóttar sem leiðir til innlagnar á gjörgæsludeildir hér á landi.

Aðferðir:Framsýn rannsókn á 12 mán. tímabili, frá 1. apríl 2008 til 31. mars 2009. Þátttakendur voru allir sjúklingar (³18 ára) sem uppfylltu skilyrði fyrir alvarlegri sýklasótt eða sýklasóttarlosti við innlögn á gjörgæsludeildir LSH og FSA. Upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám sjúklinga.

Niðurstöður:115 sjúklingar lögðust inn á gjörgæsludeildir LSH og FSA vegna sýklasóttar. Nýgengi er 0,48 tilfelli per 1000 íbúa á ári. Meðalaldur var 65,4 ár og karlar voru 53%. Sjúklingar komu frá bráðamóttökum (50%), lyfjadeildum (23%) og skurðdeildum (19%). Dánartíðni við 28 daga var 25%. Helstu sýkingarstaðir voru: Lungu (37%), kviðarhol (28%) og þvagfæri (8%). Sýkingar skiptust í gram jákvæðar (39%), gram neikvæðar (30%) og blandaða flóru (28%). Fjölónæmir sýklar ræktuðust frá 9% sjúklinga. Empirísk sýklalyfjameðferð var ekki virk gegn þeim meinvaldi sem ræktaðist í 21% tilfella.

Ályktun:Nýgengi sýklasóttar á íslenskum gjörgæsludeildum er svipað og erlendis. Dánartíðni í rannsókninni var með því lægsta sem sést í rannsóknum. Uppruni sýkinga og tegund sýkla eru í samræmi við þróun erlendis síðustu ár. Sýklasótt af völdum sveppa virðist fátíð á Íslandi.

 

 

V-122    Alvarlegar blæðingar: Áhrif af gjöf fíbrínógenþykknis

Hulda R. Þórarinsdóttir1, Friðrik Þ. Sigurbjörnsson1, Kári Hreinsson1, Páll T. Önundarson2,4, Tómas Guðbjartsson3,4, Gísli H. Sigurðsson1,4

1Svæfinga- og gjörgæsludeild, 2blóðmeinafræðdeild, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 4læknadeild HÍ

huldaros@landspitali.is

Inngangur:Fíbrínógen er mikilvægur storkuþáttur sem virðist lækka fyrr en blóðflögur og aðrir storkuþættir við alvarlegar blæðingar. Dýrarannsóknir hafa sýnt bætta storknun blóðs þegar lyfið er notað við alvarlegar blæðingar. Klínískar rannsóknir eru hins vegar af skorn-um skammti. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna árangur af gjöf
fíbrínógenþykknis við alvarlegar blæðingar á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem tók til 30 sjúklinga (meðalaldur 74 ár, bil 23-87, 50% karlar) sem fengu fíbrínógen við alvarlegum blæðingum (>2000 mL) á Landspítala 2006-2008. Sjúklingar sem fengu marga skammta af fíbrínógeni eða virkjaðan storkuþátt VIIa voru ekki teknir með í rannsóknina. Flestir sjúklinganna fengu alvarlega blæðingu í tengslum við hjarta- (67%) eða kviðarholsaðgerð (17%). Skráð var tímasetning fíbrínógengjafar og styrkur þess í sermi, einnig blóðhluta- og vökvagjafir, blæðingarpróf (APTT; PT), blóðflögur og D-dímer; fyrir og eftir gjöf lyfsins. Notkun annarra storkuhvetjandi lyfja, áhættuþættir blæðinga, undirliggjandi sjúkdómar og afdrif sjúklinganna voru könnuð.

Niðurstöður:Eftir gjöf fíbrínógenþykknis (miðgildi 2g, bil 1-6g) hækkaði s-fíbrínógen úr 1,8g/L í 2,5g/L (p<0,001). Einnig varð marktæk lækkun á APTT og PT-gildum (p<0,001) en blóðflögufjöldi og D-dímer héldust óbreytt. Gjöf rauðkornaþykknis minnkaði marktækt á 24 klst. eftir gjöf fíbrínógens en ekki varð marktæk breyting á gjöfum blóðvatns eða blóðflagna. Engar aukaverkanir tengdar gjöf lyfsins voru skráðar. Níu sjúklingar (17%) létust á gjörgæslu, flestir innan 28 daga, en 76% útskrif-uðust af sjúkrahúsi og voru á lífi hálfu ári síðar.

Ályktun:Fíbrínógen gjöf við alvarlegar blæðingar virðist (1) hækka marktækt styrk fíbrínógens í blóði, (2) bæta blæðingarpróf (PT og APTT) þegar það er gefið sem viðbót við hefðbundna meðferð og (3) gæti tengst minnkaðri þörf á rauðkornaþykkni.

 

 

V-123    Bráður nýrnaskaði á gjörgæsludeildum LSH samkvæmt RIFLE-skilmerkjum

Íris Ösp Vésteinsdóttir1,Kristinn Sigvaldason2, Ólafur Skúli Indriðason3, Gísli H. Sigurðsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2svæfinga- og gjörgæsludeild, 3meltinga- og nýrnadeild Landspítala

gislihs@landspitali.is

Inngangur:Bráður nýrnaskaði (Acute Kidney Injury) er algengt vandamál hjá gjörgæslusjúklingum sem veldur verulegri aukningu á dánartíðni þeirra. Fram að þessu hafa rannsóknir verið ómarkvissar þar sem ekki hefur verið alþjóðleg samstaða um skilgreiningu ástandsins. Nýlega náðist sátt um alþjóðlegan staðal, s.k. RIFLE skilmerki, og er því nú hægt að bera saman niðurstöður rannsókna milli landa.

Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna algengi og eðli bráðs nýrnaskaða hjá fullorðnum sjúklingum á gjörgæsludeildum Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Úrtakið var allir sjúklingar 18 ára og eldri sem lögðust inn á gjörgæsludeildir LSH árið 2007. Leitað var að s-kreatínín grunngildi í gagnagrunni LSH og hjá heilbrigðisstofnunum landsbyggðarinnar. Reiknað var út frá RIFLE skilmerkjum hvort sjúklingur fékk bráðan nýrnaskaða eða ekki. Sjúkraskrár voru skoðaðar m.t.t. orsaka og meðferðar bráðs nýrnaskaða.

Niðurstöður:Alls voru 1026 sjúklingar 18 ára og eldri lagðir inn á gjörgæsludeildir LSH á árinu (meðalaldur 60,6 ár (±17,8), karlar 61,1%). Þar af voru 231 (22,5%) með bráðan nýrnaskaða skv. RIFLE skilmerkjum. Meðalaldur þeirra sem hlutu bráðan nýrnaskaða var 67,0 (±16,0) ár á móti 58,7 (±18,0) ár hjá þeim sem ekki hlutu bráðan nýrnaskaða (p<0,001). Sjúklingar með nýrnaskaða dvöldu að meðaltali 8,3 (±13,1) daga á gjörgæslu en án nýrnaskaða dvöldu 3,2 (±4,0) daga (p<0,001). Spítaladánartíðni nýrnaskaðahóps var 40,7% samanborið við 9,1% hjá þeim sem ekki hlutu nýrnaskaða.

Ályktanir:Algengi bráðs nýrnaskaða á gjörgæsludeildum LSH var 23% sem er marktækt lægri tíðni en í nýlegum erlendum rannsóknum. Dánartíðni þeirra sjúklinga sem fá bráðan nýrnaskaða er þó sambærileg hér og erlendis.

 

 

V-124    Clostridium difficile sýkingar á Landspítala 1998-2008

Rúnar Bragi Kvaran1, Elsa Björk Valsdóttir1,2, Helgi Kjartan Sigurðsson2, Magnús Gottfreðsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2skurðdeild, 3smitsjúkdómadeild Landspítala

rbk2@hi.is

Tilgangur:Að kanna faraldsfræði og alvarleika ristilbólgu af völdum C. difficileá LSH og meta hvort meinvirkni sýkingarinnar hafi aukist á Íslandi líkt og víða á Vesturlöndum.

Efniviður og aðferðir: Sýkingar með C. difficileá LSH árin 1998-2008 voru fundnar með því að finna jákvæð eiturefnapróf í hægðasýnum. Úrtak klínískra upplýsinga um sjúklinga, sem greindust sjötta hvern mánuð á rannsóknartímabilinu, var skoðað sérstaklega.

Niðurstöður: Á 11 ára tímabili reyndist 1.861 sýni af 11.981 (16%) jákvætt fyrir C. difficile og einstakar sýkingar voru 1492. Heildarnýgengi sýkingar hækkaði um 29% á tímabilinu og var hæst í aldurshópnum >80 ára þar sem það var 387 tilfelli á hverja 100.000 einstaklinga >80 ára hvert ár. Fjöldi sýkinga á hverjar 1.000 innlagnir jókst um 71% og fjöldi sýkinga á hverja 10.000 legudaga jókst um 102%. 47% sýkinganna flokkuðust sem spítalasýkingar. Meirihluti sjúklinga tók sýklalyf innan þriggja mánaða fyrir sýkingu og algengasta einkenni sýkingar var niðurgangur. Yfirgnæfandi meirihluti (93%) þeirra sem nægar upplýsingar fundust um náðu bata eftir eina sýklalyfjameðferð og enginn gekkst undir aðgerð.

Ályktun:Sýkingum með C. difficile hefur fjölgað undanfarin ár á Landspítala en ekki jafnmikið og innsendum sýnum. Fáir sýkjast án þess að hafa einn eða fleiri þekktra áhættuþátta. Flestum dugði stök meðferð með metrónídazóli til þess að uppræta sýkingu. Meinvirkni C. difficile virðist ekki hafa aukist hér á landi.

 

V-125    Fylgni beinþéttni og hvetjandi vöðvasamdráttar í þverlömuðum sjúklingum sem fá raförvunarmeðferð

Paolo Gargiulo1,2, Benedikt Helgason5, Páll Jens Reynisson2, Egill Axfjörð Friðgeirsson2, Þórður Helgasson1,2, Halldór Jónsson jr3,4

1Heilbrigðis- og upplýsingatæknideild Landspítala, 2Heilbrigðisverkfræðideild, Háskólinn í Reykjavík, 3) bæklunarskurðdeild Landspítala, 4bæklunarskurðlæknisfræðadeild – læknadeild HÍ, 5skurðtækni- og vefjaverkfræðisviði – verkfræðideild Bernarháskóla í Sviss

paologar@lsh.is

Inngangur: Eftir mænuskaða, verður beinþéttni þverlamaðra einstaklinga fyrir hraðri samfelldri rýrnun sem veldur beinþynningu með þeim afleiðingum að hætta á alvarlegum beinbrotum eykst. Innan RISE verkefnis á vegur Evrópusambandsins hafa sjúklingar með þverlömun hlotið meðferð á lærvöðva með raförvun heima fyrir. Þar af leiðandi hefur vöðvasamdrátturinn búið til álag á bein sem er mjög hagstætt fyrir beinþéttnina, sem stjórnaði þar með beinþéttni meðan á rannsókn stóð.

Markmið: Upplýsingarnar sem notaðar voru til að rannsaka hnéskelina voru teknar úr spíral tölvusneiðmyndum er myndaðar voru yfir rannsóknina. Þrívíddar líkanagerð var notuð til þess að rannsaka beinþéttni breytingar á hnéskel. Aðferðarfræðin er byggð á gagnaöflun frá háupplausna spíral tölvusneiðmyndum, notkun á vinnsluforritum þeim tengdum (MIMICS, SolidWorks, Matlab, ANSYS) og tölulegum aðferðum.

Aðferð: Til að rannsaka beinþéttni var búin til síunargríma; hnéskelin var einangruð frá öðrum vefjum og flutt yfir í tölvuvætt form þar sem fjaðurstuðull var umreiknaður frá HU-gildum sneiðmynda1, 2 og smurður á tölvuvædda líkanið með NI aðferð3 til að sýna myndræna framsetningu á yfirborði hnéskeljarinnar. Rúmfræðilegar breytingar á hnéskelinni voru mældar sem bein afleiðing af raförvuninni.

Niðurstöður: Niðurstöðurnar benda til að rýrnunarhraði beinþéttni minnki í þeim sjúklingum sem stundi raförvun samviskusamlega. Eini hugsanlegi þáttur sem útskýrir minnkandi rýrnunarhraða er krafturinn sem kemur frá lærvöðva við samdrátt.

Ályktun: Líkanið er hægt að nota til að mæla og tengja saman krafta og endursköpun beins ásamt því að sannprófa nýstárlega hugmynd fyrir meðferð á beinþynningu byggða á titrunarkrafti, sem örvar bein.

 

1.                     Jóhannesdóttir F. BONE-Use it or lose it. Verkfræðideild HÍ, 2006.

2.                     Morgan EF, Bayraktar HH, Keaveny TM. Trabecular bone modulus-density relationships depend on anatomic site. J Biomech 2003; 36: 897-904.

3.                     Helgason B, Perilli E, Schileo E, Taddei F, Brynjólfsson S, Viceconti M. Mathematical relationships between bone density and mechanical properties: A literature review. Clin Biomech 2008; 23: 124: 135-46.

 

 

V-126    Frumgerð taugastoðtækis fyrir endurhæfingu fingra og sjálfstæði notanda

Arna Óskarsdóttir², Haraldur Sigþórsson², Þórður Helgason¹ ²

1Rannsóknar- og þróunarstofu HUTS, Landspítala, 2Háskólanum í Reykjavík

arnao05@ru.is

Inngangur: Taugastoðtækið er þróað til þess að gera fólki sem er lamað fyrir neðan háls kleift að auka virkni fingra og framkvæma þannig helstu dagleg verk með notkun raförva. Raförvun er aðferð til að draga saman lamaða vöðva í þeim tilgangi að mynda eða auka glataða vöðvavirkni. Mikilvægt er að ná upp vöðvamassa í vöðvum sem hafa rýrnað eftir skaða til að kraftur verði nægur og hreyfingar fingra hæfari til að framkvæma verk.

Markmið: Helstu markmið verkefnisins er að finna leið til að endurhæfa fingrahreyfingar og í kjölfar þess að hanna taugastoðtæki í formi hulsu sem einstaklingur, með mænuskaða við hálsliði C4-C8, getur notað sjálfstætt, þ.e. án hjálpar. Notandi þarf að geta komið hulsunni á sig sjálfur og stjórnað búnaði tengdum henni.

Aðferðir: Fyrsta skref er að tryggja að nægjanlegur vöðvakraftur sé til reiðu og hreyfanleiki fingra hamli ekki hreyfingum. Til þess að ná þessu marki eru viðkomandi fingurvöðvar þjálfaðir og hreyfanleiki fingra tryggður. Fylgst er með fingrahreyfingum og breytingar á rúmmáli og þéttni vöðva mældar með tölvusneiðmyndum. Fyrsta frumgerð hulsunnar er gerð úr plastgifsi. Hún er í þremur hlutum og eru riflásar notaðir til að festa hulsuna á hönd notandans. Á enda hvers rifláss er lykkja sem notandinn krækir í til að opna eða festa hulsuna á sig. Hulsan er þétt að hendinni og vel föst sem veitir notandanum öryggi. Í hulsunni eru rafskaut sem eru staðsett á ákveðnum stöðum til að ná fram mismunandi hreyfingum. Þessar hreyfingar eru fingurrétta, fingurkreppa, þumalrétta og þumalkreppa. Staðsetningar eru fundnar með hjálp rafskautafylkja. Á hulsunni er áfest stjórnstöð sem ákvarðar hvert straumurinn fer en honum er stjórnað með fjórum rofum á stjórnstöðinni. Hulsan er síðan tengd við raförva sem gefur straumpúlsa sem hægt er að stjórna.

Niðurstöður: Niðurstöður sýna aukinn hreyfanleika og kraft í fingrum. Þær sýna einnig að lamaður einstaklingur með skaða við hálsliði C6-C7 getur sett hulsuna á sig sjálfur, stillt búnaðinn, framkvæmt æfingar og tekið hulsuna af sér að lokum, allt án utanaðkomandi aðstoðar.

Ályktun: Niðurstöður benda til að þjálfun með raförvun og notkun rafskautahulsu fyrir sjálfstæða beitingu notanda sé ákjósanleg leið til að endurheimta tapaðar fingrahreyfingar. Reynist þetta rétt er fýsilegt að hanna hulsu sem þessa. Hún sparar tíma og peninga notanda og af henni gæti orðið hagrænn ávinningur.

 

 

V-127    Vanstarfsemi heiladinguls í síðfasa í kjölfar höfuðáverka eða innanskúmsblæðinga

Ásta Dögg Jónasdóttir1, Pétur Sigurjónsson1, Guðrún Höskuldsdóttir2, Ingvar Hákon Ólafsson3, Sigurbergur Kárason4, Guðrún Karlsdóttir5, Rafn Benediktsson6, Guðmundur Sigþórsson7, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir6

1Lyflækningadeild Landspítala, 2slysa- og bráðadeild, 3heila- og taugaskurðlækningadeild, 4gjörgæslu- og svæfingadeild, 5endurhæfingardeild, 6innkirtla- og efnaskiptadeild, 7klínískri lífefnafræðideild Landspítala

astadogg@landspitali.is

Inngangur: Niðurstöður nýlegra rannsókna benda til að vanstarfsemi heiladinguls sé algengur fylgikvilli höfuðáverka (HÁ) og innan-skúmsblæðinga (SAH). Rannsóknir hafa sýnt að slík vanstarfsemi getur gengið til baka en einnig birst síðar hjá öðrum.

Markmið: Að meta algengi og þróun heiladingulsbilunar í síðfasa eftir HÁ og SAH á Íslandi.

Aðferðir: Í rannsóknina voru valdir 18-65 ára sjúklingar sem koma á Landspítala og voru greindir með miðlungs alvarlega (GCS 9-12) og alvarlega (GCS <9) HÁ eða SAH á tímabilinu 9. mars 2009 til 9. mars 2010. Sjúklingunum verður fylgt eftir í tvö ár og verða metnir þremur, tólf og tuttugu og fjórum mánuðum eftir greiningu. Þremur og tólf mánuðum eftir HÁ/SAH verður framkvæmt ítarlegt mat á heiladingulsstarfsemi. Mæld verða hormónagildi í blóði og framkvæmt verður insúlínþolpróf. Ef frábendingar fyrir insúlínþolprófi eru til staðar verður framkvæmt GHRH+ Arg og Synachten próf. Sjúklingar fylla út AGHDA lífsgæðaspurningalista. Tuttugu og fjórum mánuðum eftir greiningu munu þeir sjúklingar sem þurft hafa uppbótarhormónameðferð fylla út AGHDA-lífsgæðaspurningalista.

Niðurstöður:38 sjúklingar, 22 sjúklingar með höfuðáverka og 16 sjúklingar með SAH, hafa samþykkt þátttöku í rannsókninni. Sautján sjúklingar (11 karlmenn og 6 konur) hafa verið metnir þremur mánuðum eftir höfuðáverka. Tveir sjúklingar reyndust hafa vaxtarhormónaskort sem staðfest var með GHRH+Arg prófi. Annar þeirra hafði hlotið alvarlegan HÁ en hinn SAH.

Ályktanir:Rannsóknin undirstrikar mikilvægi þess að skoða starfsemi heiladinguls í kjölfar HÁ og SAH.

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica