Ágrip veggspjalda

Ágrip veggspjalda

V 1      Mótefni gegn bólusetningarsjúkdómum hjá börnum af erlendum uppruna sem flust hafa til Íslands

 

Erna Sigmundsdóttir1, Þórólfur Guðnason1,2,3, Arthur Löve1,4, Gestur Pálsson1,3, Björn Rúnar Lúðvíksson1,5, Haraldur Briem1, Ásgeir Haraldsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2landlæknisembættinu, 3Barnaspítala Hringsins, 4rannsóknarstofu í veirufræði, 5rannsóknarstofu í ónæmisfræði Landspítala

ers5@hi.is asgeir@landspitali.is

 

Inngangur:Margir barnasjúkdómar sjást nú afar sjaldan á Íslandi, þökk sé almennum bólusetningum. Sífellt fleiri einstaklingar af erlendum uppruna flytja til Íslands ár hvert hvaðan-
æva að úr heiminum og lítið er vitað um mótefnastöðu þeirra. Markmið rannsóknarinnar var að kanna mótefnastöðu erlendra barna sem flytjast til Íslands svo beita megi markvissum vörnum gegn helstu barnasjúkdómum.

Efniviður og aðferðir: Rannsökuð voru öll börn nýbúa og öll erlend kjörbörn á aldrinum 2-14 ára sem skoðuð voru á göngudeild smitsjúkdóma Barnaspítala Hringsins frá janúar 2005 til mars 2008. Úr sjúkraskrám fengust upplýsingar um fyrri bólusetningar, aldur, kyn og þjóðerni. Börnunum var skipt í þrjá aldurshópa (tveggja til fjögurra ára, fimm til níu ára og 10-14 ára) og sex hópa eftir landsvæðum (A-Evrópa, aðrir hlutar Evrópu, Asía, Afríka, N-Ameríka, S-Ameríka). Mæld voru mótefni gegn mislingum, hettusótt, rauðum hundum (MMR) og stífkrampa á 115 sýnum og teknar saman niðurstöður mótefnamælinga gegn mislingum (80 börn), hettusótt (80 börn) og rauðum hundum (115 börn) sem gerðar voru í september 2007 til mars 2008.

Niðurstöður:Tvö hundruð og tólf börn (46,4%) skiluðu inn bólusetningarskírteini við skoðun. Af þeim voru 164 (77,4%) fullbólusett með DTP, Hib, Polio og MMR samkvæmt skírteini. Oftast vantaði upp á bólusetningar gegn MMR (18,9%). Alls höfðu 82,6% barnanna mótefni gegn mislingum, 59,5% gegn hettusótt og 70,4% gegn rauðum hundum. Öll börnin höfðu langtímavörn gegn stífkrampa.

Ályktanir:Skil á bólusetningapappírum voru slök og samkvæmt þeim voru börnin illa bólusett á íslenskan mælikvarða. Mörg börn reyndust næm gegn veirusjúkdómunum þremur (MMR) sérstaklega hettusótt þar sem um 40% barnanna reyndust án mótefna. Öll börnin höfðu verndandi mótefni gegn stífkrampa sem gefur til kynna að þekjun DTP á framangreindum landsvæðum er góð og mun betri en þekjun MMR. Niðurstöður vekja upp áhyggjur af því að hettusóttarþáttur MMR bóluefnisins sé lakari en hinna tveggja. Mikilvægt er að fylgjast vel með mótefnum gegn barnasjúkdómum hjá innflytjendum þannig að hægt sé að bjóða þeim bólusetningu og hindra faraldra innanlands.

 

 

V 2        Einhverfa hjá börnum með flog á fyrsta æviári, lýðgrunduð hóprannsókn

 

Evald Sæmundsen1, Pétur Lúðvígsson2, Ingibjörg Hilmarsdóttir3, Vilhjálmur Rafnsson4

1Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, 2Barnaspítala Hringsins Landspítala, 3heilsugæslunni Efstaleiti, 4rannsóknarstofu í heilbrigðisfræði, læknadeild HÍ

evald@greining.is

 

Inngangur: Lítið er vitað um tengsl floga á fyrsta æviári og einhverfu nema hvað varðar kippaflogaveiki ungbarna. Tilgangur rannsóknarinnar var að leita að einhverfu hjá börnum með sögu um flog án vaka á fyrsta æviári önnur en kippaflogaveiki ungbarna.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar um flog á fyrsta æviári fengust úr sjúkraskýrslum barnadeilda á árunum 1982-2000. Börn með flog án vaka á fyrsta æviári (28 daga til 12 mánaða) voru alls 102 og var foreldrum þeirra boðin þátttaka í rannsókn á einhverfu. Börn með þekkt frávik í þroska og börn þar sem foreldrar höfðu áhyggjur af þroska eða hegðun voru athuguð með tilliti til mögulegrar einhverfu. Sérstökum spurningalista (SCQ) var beitt til að leita að einkennum einhverfu og fylgt eftir með viðurkenndum greiningartækjum fyrir einhverfu (ADI-R, ADOS, CARS). Greining einhverfu var gerð samkvæmt ICD-10 af teymi sérfræðinga. Allir þátttakendur gengust undir þroskamælingar. Meðalaldur við athugun var 11 ár og einn mánuður (spönn fjögurra til 20 ára). Reiknað var algengi sem hundraðshlutfall tilvika ásamt 95% öryggisbili.

Niðurstöður: Þátttakendur voru 84 (82,4%), 28 drengir og 56 stúlkur, og voru 36,9% (31/84) athuguð með tilliti til einhverfu. Tuttugu og fjögur (28,6%) voru með greiningum um að minnsta kosti eina röskun í taugaþroska, 14,3% voru með þroskahömlun og sex (7,1%; 95% öryggisbil 2,7-14,9) voru með einhverfu. Börn með einhverfu voru öll þroskahömluð (greindartala undir 70) og þrjú þeirra voru jafnframt með afbrigði í heila samkvæmt mynd eða með litningagalla.

Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til þess að algengi einhverfu hjá börnum með flog án vaka á fyrsta æviári sé hærra en almennt gerist (0,6%; öryggisbil 0,5-0,7). Einnig, að börn með einhverfu í þessum hópi séu oftar með afbrigði í heila og séu oftar stúlkur heldur en börn með einhverfu almennt.

 

 

V 3        Einhverfa hjá börnum með sögu um kippaflogaveiki ungbarna, lýðgrunduð hóprannsókn

 

Evald Sæmundsen1, Pétur Lúðvígsson2, Vilhjálmur Rafnsson3

1Greiningar-  og ráðgjafarstöð ríkisins, 2Barnaspítala Hringsins Landspítala, 3rannsóknarstofu í heilbrigðisfræði læknadeild HÍ

evald@greining.is

 

Inngangur: Kippaflogaveiki ungbarna (KFU) er flogaheilkenni sem er talið hafa sérstök tengsl við einhverfu. Tilgangur þessarar rannsóknar var að leita að einhverfu hjá börnum með kippaflogaveiki á fyrsta æviári.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar um kippaflogaveiki fengust úr sjúkraskýrslum barnadeilda. Tuttugu börn greindust með veikina á fyrsta æviári á árunum 1981-1998 og var foreldrum þeirra boðin þátttaka í rannsókn á einhverfu. Lagður var fyrir sérstakur spurningalisti fyrir foreldra (SCQ) og börnin síðan skoðuð með hjálp viðurkenndra greiningartækja fyrir einhverfu (ADI-R, ADOS, CARS) og gengust þau undir þroskamælingar eða mat á aðlögunarfærni. Greining einhverfu var gerð samkvæmt ICD-10 af teymi sérfræðinga. Meðalaldur við athugun var 11 ár og sex mánaða (spönn 5-19 ára). Reiknað var algengi einhverfu sem hundraðshlutfall tilvika ásamt 95% öryggisbili.

Niðurstöður: Sautján börn tóku þátt í rannsókninni, 10 drengir og sjö stúlkur. Fjórtán barnanna höfðu greiningu um að minnsta kosti eina röskun í taugaþroska, þar af 10 með djúpa þroskahömlun (greindartala/þroskavísitala undir 20). Sex af 17 (35,3%; 95% öryggisbil 14,2-61,7) greindust með einhverfu (þrír drengir og þrjár stúlkur), þar af höfðu fimm sögu um sjúkdómsvakta kippaflogaveiki og fjögur höfðu djúpa þroskahömlun. Ef einhverfugreining var takmörkuð við börn með að minnsta kosti 24 mánaða þroskaaldur (þrjú tilvik), þá var algengi einhverfu 17,6% (95% öryggisbil 3,8-43,4).

Ályktanir: Mat á algengi einhverfu í þessum hópi var mun hærra en almennt gerist (0,6%; 95% vikmörk 0,5-0,7).

 

 

V 4        Sársaukamat hjá börnum tveggja mánaða til tveggja ára við ástungu á bráðamóttöku, samanburður tveggja mæliaðferða

 

Guðrún Kristjánsdóttir1,2, Anna Ólafía Sigurðardóttir2, Rakel Björg Jónsdóttir1,2, Ólöf Kristjánsdóttir2,3

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins, 3Dalhousie University, IWK Health Centre, Halifax

gkrist@hi.is

 

Inngangur: Þegar þróa á viðeigandi aðferðir til að lina eða koma í veg fyrir íþyngjandi sársauka í álagsvaldandi aðstæðum hjá ómálga börnum þarf ábyggileg matstæki. MBPS (Modified Behavioral Pain Scale) er eitt af fáum matstækjum til að meta sársauka hjá 0-2 ára börnum. Matstækið samanstendur af þremur þáttum, andlitstjáningu, hreyfingu og grátmynstri og gefur safnstig sem spanna frá 0-10 eftir styrk sársaukans. VAS (Visual Analogue Scale) er 10 cm einföld lína sem reynst hefur gagnleg til að leggja mat á styrkleika verkja hjá börnum jafnt sem fullorðnum. Rannsóknir sýna samræmi í niðurstöðum milli matsaðila bæði fyrir VAS og MBPS þegar börn eiga í hlut. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða hvort þessi matstæki séu í innbyrðis samræmi við sársaukamat hjá tveggja mánaða til tveggja ára brna sem verða fyrir ástungu á bráðamóttöku.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 103 börn, sem fóru í ástungu á bráðamóttöku barna á Landspítala yfir 12 mánaða tímabil. Börnin voru á aldrinum tveggja mánaða til tveggja ára. Starfsmaður rannsóknar mat hvert barn með MBPS og VAS við ástungu. Hjúkrunarfræðingur sem framkvæmdi ástungu og foreldri barnsins mátu einnig sársaukann með VAS við sömu ástungu.

Niðurstöður: Meðalskor fyrir MBPS reyndist 4,9 (SD=2,75). Meðalskor VAS mats var 3,05-3,41. Sá sem stakk gaf marktækt lægri gildi en foreldri og starfsmaður sem horfðu á. Marktæk fylgni var milli MBPS og VAS mats starfsmanns rannsóknar (r=0,83; p<0,0001). Einnig var mærktæk fylgni milli VAS mats allra þeirra sem framkvæmdu slíkt mat (r=0,65-0,7; p<0,0001).

Ályktanir: Niðurstöður eru í samræmi við þau MBPS gildi sem fram komu í forprófun og benda einnig til að VAS gefi sambærilega niðurstöðu um styrk sársauka og MBPS hjá barni við einfalda ástungu í bráðaaðstæðum. Eiginleikar þessara tveggja matstækja sýna þó tvær ólíkar víddir sem geta reynst gagnlegar við rannsóknir á árangri inngripa til að lina sársauka í slíkum aðstæðum.

 

 

V 5        Lífsmarkamælingar á barnadeildum

 

Hanna Guðrún Brynjarsdóttir1,2, Guðrún Kristjánsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins

gkrist@hi.is

 

Inngangur: Rannsóknir sýna að lífsmarkamælingar eru oftast hluti af venjubundinni starfsemi barnadeilda og að álitamál eru mörg um gildi þeirra og framkvæmd. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna lífsmarkamælingar á barnadeildum með tilliti til tækja og viðhorfa starfsfólk til framkvæmdar og mikilvægis þeirra í samhengi fræðilegrar þekkingar.

Efniviður og aðferðir: Vettvangsathugun var gerð með hálfstöðluðum viðtölum við 19 starfsmenn (sjúkraliða, lækna og hjúkrunarfræðinga) á fjórum barnadeildum um viðhorf þeirra til lífsmarkamælinga auk könnunar á tegund, ástandi og notkun tækja til mælinganna. Við úrvinnslu gagna var notast við efnisþáttagreiningu og þemu einangruð. Tegund, fjöldi, tengsl og dreifing tækja á deildum var skráð. Niðurstöður voru skoðaðar í ljósi fræðilegrar úttektar á rannsóknum og fræðilegri umræðu.

Niðurstöður: Tæki til lífsmarkamælinga voru í nokkru samræmi við samsetningu og fjölda barna á deildunum. Tæki voru almennt í nothæfu ástandi en óljóst var um reglulegt viðhald þeirra. Víða vantaði aldurstengda fygihluti tækja. Úr viðtölum voru greind fjögur þemu sem falla undir framkvæmd lífsmarkamælinga (þægindi við mælingar, ástand og viðbrögð barns við mælingu, aðferð við notkun tækja og réttmæti tækja til lífsmarkamælinga) og fimm um mikilvægi lífsmarkamælinga (öryggi barns, eftirlit með ástandi, viðmiðunargildi, yfirvegun og mat fagmanna, aðrar afleiðingar mælinga). Viðhorf sýndu skýrt sérstöðu barnadeilda í framkvæmd og mikilvægi lífsmarkamælinga.

Ályktanir: Bæta þarf eftirlit með tækjakosti og gera leiðbeiningar aðgengilegar starfsfólki. Viðhorf starfsmanna er í samræmi við fræðilega umræðu og kalla á frekari rannsóknir á gildi, framkvæmd og skráningu lífsmarkamælinga á barnadeildum og mikilvægi þess að móta skýrar verklagsreglur í samræmi við niðurstöður rannsókna.

 

V 6        Sýklalyfjaónæmi og hjúpgerðir pneumókokka í heilbrigðum börnum í Litháen

 

Óli H. Ólason1, Jolanta Bernatoniene2, Helga Erlendsdóttir1,3,

Karl G. Kristinsson1,3, Ásgeir Haraldsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2Vilnius University Children Hospital, Litháen,

3smitsjúkdómadeild, 4Barnaspítali Hringsins Landspítala

oho@hi.is

 

Inngangur: Rannsóknir hafa leitt í ljós að penisillín ónæmir pneumókokkar eru tiltölulega sjaldgæfir í Litháen, einkum í samanburði við lönd í Mið- og Austur-Evrópu. Markmið rannsóknarinnar var að meta sýklalyfjaónæmi og hjúpgerðir pneumókokka í heilbrigðum börnum í Litháen.

Efniviður og aðferðir: Nefkokssýnum var safnað í mars árið 2006 frá 601 heilbrigðu barni á aldrinum eins til sjö ára á 13 leikskólum í Vilníus. Leikskólarnir voru valdir þannig að þeir endurspegluðu mismunandi félags- og fjárhagslegan aðbúnað sem og uppruna barnanna. Sýnin voru ræktuð og sýklalyfjanæmi ákvarðað („disk diffusion” aðferð samkvæmt viðurkenndum stöðlum). Sýklalyfjanæmi var metið fyrir oxacillíni, erýthrómýcíni, tetracýklíni, klóramfenikóli og trímethóprimi/sulfamethoxazóli. Oxacillín ónæmir stofnar voru einnig metnir fyrir penisillín MIC með E-prófi. Allir pneumókokkar voru hjúpgreindir með Pneumotest-Latex kit.

Niðurstöður:Beratíðni pneumókokka var 43% (258/601). Stofnar með minnkað penisillínnæmi (MIC≥0,094µg/ml) voru 9% (25/282), algengasta hjúpgerðin „án hjúps“ (16 stofnar). Aðrar hjúpgerðir stofna með minnkað næmi voru 6B, 23F og 9V. Allar þessar hjúpgerðir að frátaldri 9V voru fjölónæmar. Þrír stofnar voru ónæmir fyrir penisillíni (MIC≥2µg/ml), og voru allir af hjúpgerð 9V. Nítján stofnar (7%) voru ónæmir gegn erýthrómýcíni, algengasta hjúpgerðin var 23F (níu stofnar) og „án hjúps“ (fimm stofnar). Tuttugu og fjögur börn báru tvær tegundir pneumókokka. Algengasta tegund peneumókokka voru 23F og 19F (37 stofnar hvor), næst komu 6A og 6B (22 stofnar hvor). Samtals voru 26 hjúpgerðir greindar. Af þeim pneumókokkum sem greindust voru 46% af hjúpgerðum sem eru í sjögilda pneumókokka bóluefninu.

Ályktanir:Rannsóknin undirstrikar nauðsyn þess að hvert land meti markvisst sýklalyfjaónæmi og hjúpgerðir algengustu baktería, einkum pneumókokka. Þannig skapast grundvöllur til markvissrar meðferðar og mögulegra fyrirbyggjandi aðgerða.

 

 

V 7        Blóðsýkingar barna með bráðahvítblæði

 

Sólveig Hafsteinsdóttir1, Guðmundur Jónmundsson1,2, Jón R. Kristinsson1,2, Ólafur Gísli Jónsson1,2, Inga Huld Alfreðsdóttir2, Thomas Wiebe3, Corrado Cilio4, Kristján Jónasson5, Ásgeir Haraldsson1,2

1Barnaspítala Hringsins, 2læknadeild HÍ, 3barnakrabbameinsdeild háskólasjúkrahússins Lundi, 4barnadeild háskólasjúkrahússins í Malmö, 5verkfræðideild HÍ

asgeir@landspitali.is

 

Inngangur:Meðferð við bráðahvítblæði hjá börnum ber stöðugt betri árangur. Þó látast um 3% sjúklinga af orsökum sem tengjast meðferðinni, flestir vegna bakteríusýkinga. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvernig ýmsir þættir hafa áhrif á fjölda sýkinga hjá börnum í lyfjameð-ferð gegn bráðahvítblæði.

Efniviður og aðferðir: Í rannsókninni voru öll börn sem fengu bráðahvítblæði (vægt eða meðalvægt, SI eða II) í Suður-Svíþjóð og á Íslandi á árunum 1996-2006. Úr sjúkra-skrám var safnað upplýsingum um tilvik þegar grunur vaknaði um sýkingu auk upplýsinga um greiningu, aldur, kyn og niðurstöður blóðrannsókna.

Niðurstöður:Fjöldi sjúklinga var 73 (43 drengir og 30 stúlkur, 65 frá Svíðþjóð og átta frá Íslandi). Hjá öllum sjúklingum var notaður æðaleggur í miðlæga bláæð á sýkingartímabilum. Miðaldur var 4,6 ár. Sýkingartímabil reyndust alls 179. Hjá sex börnum vakn-aði aldrei sýkingargrunur, en flest urðu sýkingartímabil átta, hjá einu barni. Bakteríur ræktuðust í 57 tilvikum (32%) en niðurstöður ræktunar voru neikvæðar í 122 tilvikum (68%). Algengasta bakteríutegund var kóagúlasa-neikvæðir stafýlókokkar (KNS) sem fundust í 22 tilvikum. Með-al--fjöldi ætlaðra sýkinga hjá stúlkum var (3,07) en hjá drengjum (2,02) og var munurinn marktækur (p=0,03). Nýgengi staðfestra sýkinga var hins vegar svipaður hjá báðum kynjum, um það bil 0,8. Nýgengi bæði ætlaðra og staðfestra sýkinga minnkaði marktækt með aldri (p<0,001 og p=0,03). Þegar grunur vaknaði um sýkingu var hann marktækt oftar staðfestur með ræktun í fyrstu sýkingatímabilunum (51%) heldur en þegar lengri tími var liðinn frá greiningu (á sjötta til áttunda sýkingar-tímabili var hlut-fallið 10%) (p<0,001).

Ályktanir:Grunur um sýkingu er líklegri til að vakna hjá stúlkum en drengjum, en staðfestar sýkingar eru jafnlíklegar hjá báðum kynjum. Bæði ætluðum og staðfestum sýkingum fækkar með aldri. Flestar alvarlegar sýkingar verða í upphafi meðferðar. Algengustu sýkingarnar voru vegna kóagúlasa-neikvæðra stafýlókokkabaktería sem er áminning um mikilvægi aðgæslu við meðhöndlun á æðaleggj-um tengdum lyfjabrunnum.

 

 

V 8        Meðfæddir úttauga- og vöðvasjúkdómar meðal íslenskra barna 1984-2007

 

Unnur Ragna Pálsdóttir1, Helgi Ísaksson3, Solveig Sigurðardóttir4, Pétur Lúðvígsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins, 3rannsóknarstofu í

meinafræði Landspítala, 4Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

peturl@landspitali.is

 

Inngangur:Sjúkdómar í úttaugum og vöðvum eiga það sameiginlegt að valda skertum vöðvakrafti. Sjúkdómarnir eru flokkaðir í vöðvakvilla, þegar sjúkdómurinn er bundinn við vöðva og taugakvilla þegar sjúkdómurinn er í framhornafrumu mænu, úttaug eða á taugavöðvamótum. Sjúkdómarnir eru ýmist meðfæddir eða áunnir. Markmið rannsóknarinnar var að kanna nýgengi og dreifingu meðfæddra sjúkdóma úttaugum og vöðvum meðal íslenskra barna á 24 ára tímabili frá 1984 til 2007. Faraldsfræðileg rannsókn af þessu tagi hefur ekki verið gerð áður á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Efniviðurinn var öll börn sem greindust með meðfæddan sjúkdóm í úttaugum eða vöðvum fyrir 18 ára aldur á rannsóknartímabilinu 1. janúar 1984 til 31. desember 2007. Leitað var tilvika í gagnagrunnum barnadeilda íslenskra sjúkrahúsa, Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins og Rannsóknarstofu í meinafræði. Einnig var rætt við sérfræðinga í heila- og taugasjúkdómum barna til að missa ekki af óskráðum tilfellum. Farið var ítarlega yfir sjúkraskrár þeirra einstaklinga sem fundust við leitina og klínískar upplýsingar skráðar í gagnagrunn rannsóknarinnar.

Niðurstöður:Sjötíu og eitt tilvik fannst sem uppfyllti rannsóknarskilyrði, 45 drengir og 26 stúlkur. Af þeim eru nú níu látin. Meðalaldur við fyrstu einkenni voru tvö ár en sex ár við greiningu. Algengasti sjúkdómurinn var vista (spinal muscular atrophy), en 17 slík tilvik fundust. Safnnýgengi meðfæddra úttauga- og vöðvasjúkdóma í heild var eitt tilvik af 1782 lifandi fæddum börnum.

Ályktanir:Safnnýgengi var í heild svipað á Íslandi og í sambærilegri rannsókn frá Vestur-Svíþjóð. Aðrar rannsóknir sem vitað er um taka aðeins til einstakra sjúkdóma.

 

 

V 9        Cardio-ankle vascular index er sjálfstæður áhættuþáttur æðakölkunar en eykur ekki forspárgildi áhættureiknilíkans. Áhættuþáttakönnun Hjartaverndar

 

Bolli Þórsson1, Thor Aspelund1,2 Vilmundur Guðnason1,2

1Hjartavernd 2

bolli@hjarta.is

 

Inngangur:Áhættukönnun Hjartaverndar hófst í byrjun árs 2006 meðal annars til að bæta forspárgildi (predictability) reiknilíkana sem meta líkur á kransæðasjúkdómi. Hlutfall blóðþrýstings og hraða púlsbylgjunnar (pules wave velocity) er kallað CAVI (cardio-ankle vascular index). Aukinn hraði er merki um aukinn stífleika í æðakerfinu sem eykst við æðakölkun. Athugað var hvort CAVI mælingar auki forspárgildi reiknilíkans fyrir líkum á æðakölkun.

Efniviður og aðferðir:Rannsóknin var þversniðsrannsókn. Æðakölkun var metin með hálsæðaómun. Leitað var eftir greinilegum merkjum um æðaskellu (plaque). Í sömu heimsókn var CAVI mælt ásamt öðrum áhættuþáttum kransæðasjúkdóms. Lógistískt aðhvarfsgreiningarlíkan var notað til að meta líkur (odds ratio) á æðaskellu miðað við CAVI gildi eftir leiðréttingu fyrir aldri, kyni, kólesteróli, slagbilsþrýstingi og reykingum. Forspárgildi líkansins var metið bæði með og án CAVI með því að reikna flatarmál undir ferlum (area under curve (AUC)) í ákveðinni greiningu.

Niðurstöður:Metnir voru 1.488 einstaklingar 35-65 ára án sögu um kransæðasjúkdóm. Líkur á æðakölkun jukust við hverja einingu sem CAVI jókst, odds ratio = 1,26 (1,02-1,56) p=0,03. Forspárgildi (reiknað sem AUC) fyrir áhættulíkanið, þegar aðeins hefðbundnir áhættuþættir voru notaðir var 0,8197 SE 0,0172. Þegar niðurstöðum CAVI mælinga var bætt við líkanið varð AUC 0,8230 SE 0,0169. Munur á AUC gildunum var ekki marktækur, p=0,27.

Ályktanir:Aukið CAVI er nýr og sjálfstæður áhættuþáttur fyrir æðakölkun. Hins vegar bætir CAVI mæling ekki forspárgildi reiknilíkans fyrir líkum á æðakölkun umfram það sem fékkst þegar hefðbundnir áhættuþættir voru notaðir í þessari þversniðsrannsókn.

 

 

V 10      Tíðni óþekktra og þekktra hjartadrepa í almennu þýði eldri einstaklinga með hækkað NT-proBNP í Öldrunar-rannsókn Hjartaverndar

 

Erik B. Schelbert1, Jie J. Cao1, Sigurður Sigurðsson2, Peter Kellman1, Anthony H. Aletras1, Thor Aspelund2,4, Guðný Eiríksdóttir2, Lenore J. Launer3, Tamara B. Harris3, Vilmundur Guðnason2,4, Andrew E. Arai1
1Bandaríska hjarta-, lungna- og blóðstofnunin (NHLBI), Bethesda, Maryland, 2Hjartavernd, 3bandaríska öldrunarstofnunin, Bethesda, 4

Sigurdur@hjarta.is

 

Inngangur:Hækkað BNP (B-type natriuretic peptide) tengist verri horfum einstaklinga með hjartasjúkdóma. Ástæður eru ekki fullþekktar, en það getur hamlað meðferðarúrræðum. Við notuðum segulómun af hjarta með skuggaefni til að rannsaka tengsl hjartadreps og hjartavirkni við hækkað NT-proBNP í öldruðum einstaklingum.

Efniviður og aðferðir:Samtals 616 einstaklingar (meðalaldur 75±7 ár) handahófskennt valdir úr úrtaki Öldrunarrannsóknarinnar voru myndaðir með segulómun af hjarta. Hjartadrep var skilgreint sem seinkaður útskilnaður gadolinium skuggaefnis í hjartavöðva samkvæmt segulómunarmyndum. Upplýsingar í sjúkraskrám voru notaðar til greiningar á hvort um þekkt eða óþekkt hjartadrep væri að ræða.

Niðurstöður:Bæði þekkt (p<0,001) og óþekkt (p=0,005) hjartadrep voru marktækt tengd hækkuðu NT-proBNP samkvæmt línulegri aðhvarfsgreiningu eftir að leiðrétt hafði verið fyrir aldri, kyni, sykursýki, nýrnastarfsemi (glomerular filtration), hjartamassa og útfallsbroti vinstri slegils. Með ROC- greiningu reyndist NT-proBNP gildið 235 pg/mL greina á milli einstaklinga með hjartadrep eða ekki. Tíðni hjartadrepa var meiri þegar BNP var >235 miðað við þegar BNP var <235 (37% á móti 12%). Svipað samband reyndist vera á milli BNP og þekktra hjartadrepa (13% á móti 3%) og BNP og óþekktra hjartadrepa (24% á móti 9%, p<0,001 fyrir öll). Hjá einstaklingum með eðlilegt útfallsbrot og enga sögu um (þekkt) hjartadrep, reyndist NT-proBNP>235 pg/mL hafa sterk tengsl við óþekkt hjartadrep (23% á móti 8%, p<0,001).

Ályktanir:Bæði þekkt og óþekkt hjartadrep hafa sterk tengsl við NT-proBNP og finnast oft í einstaklingum með hækkað NT-proBNP, jafnvel þó þeir hafi eðlilegt útfallsbrot vinstri slegils.

 

 

V 11      Áhættumat hjarta- og æðasjúkdóma. Samanburður á hlutfallslegri og raunverulegri áhættu í áhættureikni

 

Geir Hirlekar1, Thor Aspelund1,2, Þórarinn Guðnason1-3, Vilmundur Guðnason1,2, Karl Andersen1-3

1Læknadeild HÍ, 2Hjartavernd, 3hjartadeild Landspítala

geir@hi.is

 

Inngangur:Í nýjum leiðbeiningum evrópsku hjartalæknasamtakanna um forvarnir hjarta- og æðasjúkdóma er mælt með að notast við hlutfallslega áhættu (relative risk) fremur en raunáhættu (absolute risk) hjá ungu fólki. Með því að notast við hlutfallslega áhættu hjá þessum hópi má reyna að finna þá sem eru í margfaldri áhættu miðað við jafnaldra. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort greiningarhæfni hlutfallslegrar áhættu væri betri en raunáhættu.

Efniviður og aðferðir:Notuð voru gögn úr Hóprannsókn Hjartaverndar (1967-1991). Alls 15.763 einstaklingum (8224 konum og 7539 körlum) á aldrinum 36-64 ára var fylgt eftir í 22 ár að meðaltali. Kransæðasjúkdómur var skilgreindur sem einhver af atburðunum: kransæðastífla, hjáveituaðgerð eða kransæðavíkkun. Raunáhætta og hlutfallsleg áhætta var metin með áhættureikni Hjartaverndar. Greiningarhæfnin var metin með því að skoða saman næmi og sértæki.

Niðurstöður:Alls fengu 188 (2%) konur og 314 (4%) karlar kransæðasjúkdóm innan 10 ára. Af þeim voru 34 (1%) konur yngri en 50 ára og 187 (5%) karlar. Núverandi reiknivél miðar við að fólk með yfir 10% raunáhættu sé í áhættuhópi. Miðað við þá vinnureglu er næmið 8% og sértækið 98% hjá konum almennt. Hjá konum yngri en 50 ára er næmið ekkert eða 0%. Með því að breyta um vinnureglu og miða við 3,5 í hlutfallslegri áhættu hjá konum yngri en 50 ára fæst 59% næmi og 89% sértæki fyrir þann hóp. Notkun á hlutfallslegri áhættu hjá körlum leiddi ekki til betri samsetningar á næmi og sértæki

Ályktun: Markvissara er að nota hlutfallslega áhættu en raun-áhættu í áhættumati fyrir hjartasjúkdóma hjá konum yngri en 50 ára.

 

 

V 12      Samanburður á kransæðaþræðingum á Íslandi og í Svíþjóð árið 2007

 

Guðný Stella Guðnadóttir1, Kristján Eyjólfsson1,3, Sigurlaug Magnúsdóttir1, Bo Lagerqvist2, Axel Sigurðsson1,3, Torfi Jónasson1, Sigurpáll Scheving1,3, Þorbjörn Guðjónsson1,3, Ragnar Danielsen1,3, Guðjón Karlsson1,3, Karl Andersen1,3, Tage Nilsson2, Þóra Björnsdóttir1, Unnur Sigtryggsdóttir1, Gestur Þorgeirsson1,3, Stefan James2, Þórarinn Guðnason1,3

1Landspítala, 2Uppsala Clinical Research Center, Uppsölum, 3læknadeild HÍ

thorgudn@landspitali.is

 

Inngangur: Verulegur munur er á tíðni kransæðaþræðinga milli landa en munurinn á ábendingum og niðurstöðum er minna þekktur.

Efniviður og aðferðir: Kransæðaþræðingar voru skráðar framsýnt í gæðaskrána Swedish Coronary Angiography and Angioplasty Registry á Íslandi og í Svíþjóð frá 1.1. til 31.12. 2007 og þau gögn rannsökuð.

Niðurstöður: Á Íslandi voru gerðar 544 kransæðaþræðingar á hverja 100.000 íbúa, en 402 á 100.000 í Svíþjóð (p<0,001). Konur voru 29% á Íslandi en 34% í Svíþjóð (p<0,01) og sjúklingarnir voru 64 á móti 66 ára (miðgildi). Ábendingar fyrir kransæðaþræðingum á Íslandi og í Svíþjóð voru stöðug hjartaöng í 39% á móti 23%, óstöðug hjartaöng í 29% á móti 39% og bráð kransæðastífla í 9% á móti 16% tilvika (öll p<0,001). Á Íslandi voru fleiri með háþrýsting 63% á móti 53%, fleiri reyktu 22% á móti 16% og fleiri notuðu blóðfitulækkandi lyf 63% á móti 53% (öll p<0,01). Sykursýki var fátíðari í íslenska hópnum 14% á móti 18% (p<0,01). Einnar æðar sjúkdómur var fátíðari á Íslandi 23% á móti 28% (p<0,01) en höfuðstofnsþrengsli voru algengari á Íslandi 10% á móti 8% (p<0,01). Í báðum löndum var þriðjungur kransæðaþræðinga án marktækra þrengsla. Kransæðaþræðing var gerð frá náraslagæð í 99% tilvika á Íslandi en 66% í Svíþjóð (30% radialis). Fylgikvillar voru svipaðir, um 1% á þræðingastofu og 2-3% á legudeild. Engin dauðsföll urðu á þræðingarstofu vegna kransæðaþræðinga árið 2007.

Ályktanir: Þetta er fyrsta rannsóknin sem ber saman allar kransæðaþræðingar á heilu ári í tveimur löndum. Marktækt fleiri kransæðaþræðingar eru gerðar á Íslandi, en þó ekki að óþörfu, því alvarlegur kransæðasjúkdómur greinist hér oftar. Hærra hlutfall þræðinga á Íslandi er vegna stöðugs kransæðasjúkdóms og hlutfallslega færri konur eru þræddar á Íslandi en í Svíþjóð. Árangur og fylgikvillar eru svipaðir í löndunum tveimur.

 

 

V 13      Samanburður kransæðavíkkana á Íslandi og í Svíþjóð árið 2007

 

Guðný Stella Guðnadóttir1,3, Bo Lagerqvist2, Sigurpáll Scheving1.3, Axel Sigurðsson1,3, Þorbjörn Guðjónsson1,3, Ragnar Danielsen1,3, Torfi Jónasson1,3, Guðjón Karlsson1,3, Sigurlaug Magnúsdóttir1, Tage Nilsson2, Þóra Björnsdóttir1, Unnur Sigtryggsdóttir1, Gestur Þorgeirsson1,3, Stefan James2, Karl Andersen1,3, Kristján Eyjólfsson1,3, Þórarinn Guðnason1,3

1Landspítala, 2Uppsala Clinical Research Centre, Uppsölum, 3læknadeild HÍ

gudnystg@landspitali.is thorgudn@landspitali.is

 

Inngangur: Tíðni kransæðavíkkana er mismunandi eftir löndum en munurinn á ábendingum og árangri er minna þekktur.

Efniviður og aðferðir: Kransæðavíkkanir voru skráðar framsýnt í gæðaskrána Swedish Coronary Angiography and Angioplasty Registry á Íslandi og í Svíþjóð frá 1.1. til 31.12. 2007 og þau gögn rannsökuð.

Niðurstöður: Tíðni kransæðavíkkana var 214 á 100.000 íbúa á Íslandi en 204 á 100.000 í Svíþjóð (p=em (ekki marktækt)) og ábendingar voru: stöðug hjartaöng í 40% tilvika á Íslandi og 24% í Svíþjóð (p<0,01), óstöðug hjartaöng í 36% á móti 45% (p=em) og bráð kransæðastífla í 20% á móti 27% (p<0,001). Konur voru 21% á Íslandi og aldur 63 ár (miðgildi), en í Svíþjóð 28% og aldur 66 ár. Á Íslandi reyktu 29% á móti 19% (p<0,001), háþrýsting höfðu 62% á móti 52% (p<0,01), blóðfitulækkandi lyf tóku 61% á móti 53% (p<0,05) og sykursýki höfðu 16% á móti 19% (p=em). Árangur kransæðavíkkana var góður í 94% tilfella og 1,5 stoðnet notuð að meðaltali á víkkun í báðum löndum. Stoðnet voru notuð í 88% víkkana á Íslandi en 84% í Svíþjóð (p=em) en lyfjastoðnet í 23% á móti 19% (p<0,05). Notkun ósæðarpumpu, gangráða og segareksvarnartækja var eins. Notkun innæðaómunar (IVUS) var 0,5% á Íslandi en 3% í Svíþjóð (p<0,01) meðan flæðismælingum var beitt í 0,2% á móti 10% tilvika (p<0,001). Á þræðingarstofu var gangur fylgikvillalaus í 95% tilvika á Íslandi en í 97% í Svíþjóð og á legudeild í 93% og 93% tilvika (p=em fyrir bæði). Dauðsföll vegna kransæðavíkkana voru 0% á Íslandi og 0,07% í Svíþjóð (p=em).

Ályktanir: Hér eru í fyrsta sinn bornar saman allar kransæðavíkkanir á heilu ári í tveimur löndum. Hlutfall kvenna meðal sjúklinga er fóru í kransæðavíkkun er lægra á Íslandi en í Svíþjóð. Fjöldi, árangur og fylgikvillar víkkana eru sambærilegir, en innæðaómun og flæðismælingar eru meira notaðar í Svíþjóð. Á Íslandi er stöðug hjartaöng oftar ástæða víkkunar, meira er um áhættuþætti hjá sjúklingum og lyfjastoðnet eru oftar notuð.

 

 

V 14      Íblöndun líftæknigerðs storkuþáttar VIIa ásamt fíbrínógeni leiðréttir storkutruflun eftir opnar hjartaaðgerðir í tilraunaglösum (ex vivo)

 

Páll T. Önundarson1,3, Hanna S. Ásvaldsdóttir2, Brynja R. Guðmunds-dóttir1,3, Benny Sörensen4

1Blóðmeinafræðideild, 2hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 3HÍ, 4Skejby Sygehus, storkumeinadeild, Árósum

brynjarg@landspitali.is

 

Inngangur: Opnum hjartaaðgerðum með aðstoð hjarta- og lungnavélar (HL) fylgir oft alvarleg truflun á blóðstorknun og mikið niðurbrot fíbríns, sem leiðir til afbrigðilegra blæðinga. Markmið þessarar rannsóknar var að rannsaka hvort heilblóðs storkurit (Rotem®), espað með lágum styrk vefjaþáttar (tissue faktor, TF), geti greint storkutruflun eftir hjartaaðgerð. Einnig að meta hvort fíbrínógen og espaður líftækniframleiddur faktor VIIa (rFVIIa), sitt í hvoru lagi eða saman, geti bætt storkutruflunina í tilraunaglösum.

Efniviður og aðferðir: Storkurit var gert á heilblóði 22 sjúklinga, sem gengust undir hjartahjáveitu aðgerð eða lokuskipti með aðstoð HL. Storkuritinu var komið af stað með þynntum TF (Innovin®, lokaþynning 1:17000). Sýni voru tekin rétt fyrir aðgerð og strax eftir aðgerð þegar heparínverkun hafði verið stöðvuð með protamíni. Í sýnin eftir aðgerð var bætt rFVIIa (2 µg/ml) eða fíbrínógeni (1 mg/ml) eða blöndu af báðum. Einnig voru mæld hefðbundin storkupróf í sambærilegum sýnum.

Niðurstöður: Hefðbundin storku- og blóðflögupróf staðfestu mikla truflun á blóðstorknun eftir hjartaaðgerð. Storkuritið sýndi einnig tölfræðilega marktækar (Wilcoxon signed rank test) breytingar í sýnum eftir aðgerð: miðgildi upphafsstorkutíma (CT) í storkuriti hækkaði úr 183 sek.eftir aðgerð í 385 sek. eftir aðgerð. Mesti hraði storknunar (MaxVel) minnkaði úr 17,5 mm *100/sek. fyrir aðgerð í 15,1 mm*100/sek. eftir aðgerð. Þéttleiki storku (MCF) minnkaði úr 6234 mm fyrir aðgerð í 5527 eftir aðgerð. Þegar rFVIIa var bætt í sýni eftir aðgerð styttist miðgildi CT í 232 sek. Íbætt fíbrínógen stytti CT í 246 sek. og jók MCF í 5839 mm. Að lokum leiðrétti íblöndun samblands af rFVIIa og fíbrínógeni óeðlileg gildi storkurits (CT, MaxVel og MCF) algerlega í þau gildi, sem mældust fyrir aðgerð.

Ályktanir: Þessi tilraun sýnir að íblöndun fíbrínógens eins sér eða í samblandi með rVIIa geti valdið verulegri leiðréttingu storkutrufluna eftir hjartaaðgerðir. Þetta gæti bent til þess að sambærilegum áhrifum mætti ná við meðhöndlun sjúklinga en frekari rannsókna er þörf í því skyni.

 

V 15      Tengist gáttatif eftir opnar hjartaskurðaðgerðir styrk ómega-3 fjölómettaðra fitusýra í blóði?

 

Ragnhildur Heiðarsdóttir1, Ólafur Skúli Indriðason2, Davíð O. Arnar2, Bjarni Torfason3, Runólfur Pálsson2, Viðar Örn Eðvarðsson4, Gizur Gottskálksson2, Guðrún V. Skúladóttir1

1Lífeðlisfræðistofnun, læknadeild HÍ, 2lyflækningasviði I, 3skurðlækningasviði, 4Barnaspítala Hringsins, Landspítala

ragga@hi.is

 

Inngangur:Gáttatif er þekktur fylgikvilli eftir opna hjartaskurðaðgerð. Rannsóknir gefa til kynna að bólgumyndun sé áhrifaþáttur og að ómega-3 fjölómettaðar fitusýrur (FÓFS) dragi úr tíðni gáttatifs eftir slíka aðgerð. Markmið rannsóknarinnar var að kanna samband gáttatifs eftir opna hjartaskurðaðgerð og styrks ómega-3 FÓFS og bólguþáttarins C reacitve protein (CRP) í blóði.

Efniviður og aðferðir:Sjúklingar sem tóku þátt í slembiraðaðri blindaðri lyfleysustýrðri rannsókn tóku ómega-3 FÓFS eða lyfleysu (ólífuolíu) viku fyrir aðgerð og fram að útskrift. Styrkur ómega-3 FÓFS aðgerðardaginn var ákvarðaður í gasgreini og CRP var mælt daglega eftir aðgerð með ELISA aðferð. Tilfelli gáttatifs sem stóðu lengur en fimm mínútur voru skráð.

Niðurstöður: Af 108 sjúklingum sem hafa tekið þátt í rannsókninni greindist gáttatif hjá 55,6% að meðaltali 2,7 dögum eftir aðgerð. Einþátta greining sýndi að þeir sem fengu gáttatif voru eldri, miðgildi (spönn) aldurs var 69,5 (45-82) á móti 65 (45-79) ára (Mann-Whitney próf, p=0,003), og með hærri styrk af heildar ómega-3 FÓFS, 116 (47-256) á móti 96 (47-294) µg/mL (p=0,008) samanborið við þá sem ekki fengu gáttatif. Enginn marktækur munur var á hæsta gildi CRP eftir aðgerð meðal sjúklinga með eða án gáttatifs, 213 (81-386) á móti 201 (55-370) mg/L (p=0,08). Fylgni var milli aldurs og styrks FÓFS (fylgnistuðull Spearmans, r=0,25, P=0,008) en ekki milli aldurs og CRP (r=0,01, P=0,92). Fjölþátta lógistísk aðhvarfsgreining sýndi martæk tengsl gáttatifs við aldur, OR 1,07 (95% öryggismörk 1,02-1,20) og styrk CRP, OR 1,007 (1,001-1,013), en ekki við styrk ómega-3 FÓFS.

Ályktanir:Frumniðurstöður benda til að tilkoma gáttatifs eftir opna hjartaskurðaðgerð tengist hækkandi aldri og bólguviðbrögðum en ekki styrk ómega-3 FÓFS í blóði.

 

 

V 16      Bólgumiðlar spá ekki fyrir um tilkomu endurþrengsla í stoðnetum

 

Sigurdís Haraldsdóttir1,3, Dagbjört Helga Pétursdóttir2, Þórarinn Guðnason1, Axel F. Sigurðsson1, Anna Helgadóttir4, Kristján Eyjólfsson1, Sigurpáll Scheving1, Kristleifur Kristjánsson4, Björn Rúnar Lúðvíksson2, Karl Andersen1,3

1 Hjartadeild, 2ónæmisfræðideild Landspítala, 3læknadeild HÍ, 4Íslenskri erfðagreiningu

sih17@hi.is

 

Inngangur:Stoðnetsísetningum er nú beitt í vaxandi mæli hjá sjúklingum með kransæðaþrengsli en búast má við endurþrengslum hjá 20-30% þessara sjúklinga á fyrstu þremur til sex mánuðum eftir kransæðavíkkun. Bólgumiðlar hafa talsvert verið rannsakaðir í kransæðasjúkdómi en minna í greiningu endurþrengsla í stoðnetum.

Efniviður og aðferðir:Eitt hundrað og fjórtán sjúklingar sem fóru í kransæðavíkkun og fengu stoðnet voru teknir inn á tímabilinu maí 2005 til júlí 2006. Sjúklingar með bráða kransæðastíflu, fyrri sögu um kransæðasjúkdóm, nýrnabilun og skuggaefnisofnæmi voru útilokaðir. Blóðprufur voru teknar í kransæðavíkkun og sex mánuðum seinna voru allir kallaðir inn í nýja kransæðaþræðingu og blóðprufa endurtekin. Eftirfarandi bólgumiðlar voru mældir: hs-CRP (CRP Latex HS reagent, Roche Diagnostics), myeloperoxidasi (ELISA, Assay Design Inc.), IL-1b, IL-6, IL-8, MCP-1, VEGF, IFN-g, TNF-g, IL-18 og VCAM-1 (Bioplex Cytokine Assay, BioRad).

Niðurstöður:Tíu sjúklingar duttu út á tímabilinu og því voru samtals 104 sjúklingar með 157 stoðnet metnir. Miðtími frá kransæðavíkkun að endurþræðingu var 203 dagar (Q1-Q3: 185-233). Meðalaldur var 63±10 ár (spönnun 39-83 ár) og 79% sjúklinga voru karlar. Tíðni áhættuþátta var eftirfarandi: háþrýstingur 61%, háar blóðfitur 49%, sykursýki 14% og reykingar 22%. Tuttugu og átta sjúklingar (27%) reyndust hafa endurþrengsli, þar af fengu fimm sjúklingar klínísk endurþrengsli sem krafðist kransæðavíkkunar áður en fyrirhuguð endurþræðing fór fram. Það var ekki marktækur munur á áhættuþáttum hjá sjúklingum með endurþrengsli samanborið við sjúklinga án endurþrengsla. Ennfremur reyndust engin tengsl milli styrks bólgumiðla og tíðni endurþrengsla samkvæmt kransæðaþræðingu.

Ályktanir:Ofannefndir bólgumiðlar spá ekki fyrir um tilkomu endurþrengsla í stoðnetum.

 

 

V 17      Breyting á heildarkólesteróli 45-64 ára Íslendinga 1967-2007 er ekki útskýrð af notkun blóðfitulækkandi lyfja

 

Vilmundur Guðnason1,2, Thor Aspelund1,2, Bolli Þórsson1, Karl Andersen2, Gunnar Sigurðsson1,2

1Hjartavernd, 2

v.gudnason@hjarta.is

 

Inngangur:Meðalgildi heildarkólesteróls í blóði hafa lækkað á síðustu áratugum hjá íbúum í hinum vestræna heimi. Lækkunina má útskýra með breytingu á mataræði og þá sérstaklega minni neyslu á mettaðri fitu. Eftirtektarverð lækkun á kólesteróli hefur orðið á Íslandi og víðar eftir 1990. Á sama tíma jókst notkun á blóðfitulækkandi lyfjum. Ýmsar rannsóknir á almennu þýði hafa sýnt lækkun á kólesteróli og ályktað hefur verið að blóðfitulækkandi lyfjum sé að þakka. Hins vegar hefur vantað að upplýsingar liggi fyrir um kólesteról og lyfjanotkun í sömu rannsókn á almennu þýði.

Efniviður og aðferðir:Í hóprannsóknum Hjartaverndar hefur heildarkólesteról verið mælt og spurt um notkun blóðfitulækkandi lyfja eftir að þau komu til sögunnar. Notaðar voru niðurstöður úr átta þverskurðarrannsóknum á 45-64 ára einstaklingum á tímabilinu 1967-2007. Meðalgildi voru vegin miðað við aldursdreifingu frá Hagstofu 2006.

Niðurstöður:Notkun á blóðfitulækkandi lyfjum hefur aukist eftir 1990 og er algengi notkunar nú um 12% hjá körlum og 5% hjá konum í aldurshópnum 45-64 ára. Meðalkólesterólgildi 2007 er 5,4 mmól/L hjá körlum og konum. Lækkun kólesterólgilda karla og kvenna milli 1990 og 2007 hjá þeim sem ekki notuðu blóðfitulækkandi lyf var að jafnaði 13% (0,8 mmól/L) og hefur fylgt lækkun alls hópsins sem var 14% (0,9 mmól/L).

Ályktanir:Fullyrða má að lækkun kólesterólgilda Íslendinga síðustu 15 ár sé ekki útskýrð af notkun blóðfitulækkandi lyfja. Ætla má að svipað gildi um aðrar þjóðir með svipað algengi á notkun blóðfitulækkandi lyfja.

 

 

V 18      Reynsla mæðra af brjóstagjöf fyrirbura

 

Arnheiður Sigurðardóttir1,Geir Gunnlaugsson1,2

1Kennslufræði- og lýðheilsudeild HR, 2Miðstöð heilsuverndar barna

arnheidur06@ru.is

 

Inngangur: Með framförum í læknavísindum hefur tekist að auka lífslíkur minnstu fyrirburanna. Fjölmargar rannsóknir hafa staðfest mikilvægi brjóstamjólkur fyrir nýfædd börn, þar með talið fyrirbura. Aðstæður fyrirburamæðra og barna þeirra eru sérstæðar að því leyti að þau eru aðskilin strax við fæðingu. Rannsóknir hafa sýnt að heilbrigðisstarfsmaður getur haft mikil áhrif á framgang mjólkunar og brjóstagjafar með fræðslu, stuðningi og áhuga.

Efniviður og aðferðir:Markmið rannsóknarinnar var að afla þekkingar á þeim margvíslegu ferlum við brjóstagjöf sem móðir gengur í gegnum við það að eignast fyrirbura <1500 g eða eftir <32 vikna meðgöngu. Eigindleg viðtöl voru tekin við átta fyrirburamæður. Aflað var gagna um mjólkun og brjóstagjöf á meðan barn dvaldi á nýburagjörgæsludeild og þegar heim var komið. Öll tilskilin leyfi voru fengin.

Niðurstöður: Mæðurnar voru mjög jákvæðar gagnvart brjóstagjöf og reyndu að hefja brjóstagjöf. Tíminn sem leið frá fæðingu þar til móðir fór í mjaltavél var allt frá því að vera strax þar til þremur til fjórum dögum síðar. Þær mjólkuðu sig með mjaltavél frá átta vikum upp í sjö og hálfan mánuð. Allar mæðurnar notuðu kengúrumeðferð og börn fóru heim á misjöfnu stigi í brjóstagjöfinni. Af átta mæðrum voru tvær með barn sitt á brjósti þegar viðtalið var tekið. Mæður nefna að þær hefði vantað ítarlegri endurtekna aðstoð og fræðslu. Tillögur mæðra voru að ráða sérstakan starfsmann til starfa á nýburagjörgæsludeild og að hjúkrunarfræðingur í ung- og smábarnavernd heimsækti þær fyrr fyrir útskrift.

Ályktanir:Niðurstöður rannsóknarinnar benda á mikilvæg atriði við framkvæmd mjólkunar fyrirburamæðra, hversu snemma þær fara í mjaltavél og hversu oft og hve lengi þær mjólka sig. Mikilvægt er að efla markvissa aðstoð og fræðslu um brjóstagjöf til fyrirburamæðra.

 

 

 

 

 

 

 

 

V 19      Ógreindir léttburar eftir þrjátíu og sjö vikna meðgöngu

 

Birna Málmfríður Guðmundsdóttir1,2, Ingibjörg Eiríksdóttir1,3, Helga Gottfreðsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild, ljósmóðurfræði HÍ, 2kvennasviði Landspítala, 3Heilsugæslau höfuðborgarsvæðisins

helgagot@hi.is

 

Inngangur: Rannsóknir benda til þess að vaxtarseinkuð fóstur eigi frekar á hættu að fæðast andvana eða verða fyrir súrefnisskorti í fæðingu en fóstur með eðlilegan vöxt. Einnig eru vísbendingar um að börn sem hafa orðið fyrir vaxtarseinkun á fósturskeiði eigi frekar í vandamálum á nýburaskeiði og þrói með sér heilsutengd vandamál síðar á ævinni. Greining á meðgöngu getur því skipt miklu máli þegar kemur að útkomu og framtíðarhorfum barnsins eftir fæðingu. Tilgangur rannsóknarinnar var tvískiptur; að skoða fjölda ógreindra léttbura eftir 37 vikna meðgöngu og að skoða bakgrunnsþætti til að meta hvort um væri að ræða sameiginlega áhrifaþætti sem hefðu forspárgildi um hvort greining fyrir fæðingu ætti sér stað.

Efniviður og aðferðir:Megindleg rannsókn með afturvirku rannsóknarsniði, byggð á upplýsingum úr sjúkraskrám. Úrtakið var börn sem fæddust á LSH árin 2005 og 2006 eftir fullar 37 meðgönguvikur og fengu ICD 10 greininguna P05.1. Skoðaðar voru breytur úr mæðraskrám, barnablöðum og sónarblöðum. Tölfræðileg úrvinnsla var að mestu lýsandi.

Niðurstöður:Á tímabilinu fengu 1,9% fullburða barna (n=111) sem fæddust á Landspítalanum léttburagreininguna P05.1. Af þeim sem skoðuð voru gögn um í rannsókninni (n=92) voru 45,7% greind fyrir fæðingu en ógreind voru 54,3%. Niðurstöður leiddu einnig í ljós að þjóðerni móður hafði marktækt forspárgildi um hvort léttburarnir greindust fyrir fæðingu eða ekki (P=0,031). Legbotnsmælingar gáfu oftar vísbendingar um lítið barn eða seinkaðan vöxt fósturs hjá mæðrum sem voru í kjörþyngd en hjá þeim sem voru yfir kjörþyngd (P=0,001).

Ályktanir:Við túlkun niðurstaðna ber að hafa í huga að úrtak rannsóknarinnar var lítið. Þær gætu þó gefið vísbendingar um að þörf sé á nánari athugun á þeim skimprófum sem notuð eru til að meta fósturvöxt á meðgöngu.

 

 

V 20      Val á fæðingarstað. Sjónarhorn kvenna

 

Elva Björg Einarsdóttir1, Jónína Einarsdóttir2, Ólöf Ásta Ólafsdóttir1

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2

elvab@hi.is

 

Inngangur: Val kvenna á fæðingarstað hefur breyst umtalsvert síðastliðin 50 ár, frá því að flestar konur fæddu heima í það að þær fæða velflestar á sjúkrahúsum. Rannsóknin beinir sjónum sínum að ákvörðun kvenna um val á fæðingarstað. Hvers vegna velja konur áveðinn fæðingarstað og býr eitthvað að baki sem stýrir því vali? Rannsóknin er innan heilsumannfræði við mann- og félagsvísindasvið HÍ.

Efniviður og aðferðir: Um eigindlega rannsókn er að ræða þar sem rætt var við 20 konur sem fætt höfðu 50 börn á mismunandi fæðingarstöðum á Íslandi á árunum 1979-2007. Ritgerðin er femínískt sjónarhorn á val kvenna á fæðingarstað. Notast er við hugmyndir Foucault um vald sem net í samfélaginu, valdið er ekki eign neins og allir geta nýtt sér til að hafa áhrif á stöðu sína. Ritgerðin er ennfremur styrkt með kenningum Bourdieu um habitus, en þar heldur hann því fram að menn beri keim af því samfélagi sem þeir alast upp í og breyti iðulega samkvæmt hefðum og gildum sem þar eru viðhafðar.

Niðurstöður: Niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á að þekking, öryggi og vald eru þættir sem skipta höfuðmáli varðandi val kvenna á fæðingarstað: Konur fæða þar sem þær finna til öryggis. Hér skiptir máli hver hefur vald til að skilgreina hvar öryggi er að finna, opinberlega eru heilbrigðisstéttir handhafar þessa valds þar sem þær búa yfir þekkingu á fæðingum. Með reynslu af fæðingum öðlast konur þessa þekkingu og geta snúið valdastöðu sinni sér í hag. Endanlegt vald fæðingarþekkingarinnar virðist þó vera í höndum heilbrigðisstéttanna og er það í samræmi við kenningar Bourdieu.

Ályktanir: Upp á síðkastið má greina nýjan og kvenmiðlægari tón í orðræðunni um fæðingar sem leggur áherslu á að öryggi í fæðingum sé að finna þar sem konan sjálf er örugg svo framarlega sem meðgangan er eðlileg og búast má við eðlilegri fæðingu. Hér er áherslan á konuna og upplifun hennar af fæðingunni. Í þessari orðræðu fara hagsmunir móður og barns saman.

 

 

V 21      Opin fósturæð meðal fyrirbura 1987-2006

 

Friðrik Rúnar Garðarsson1, Gunnlaugur Sigfússon2, Gylfi Óskarsson2, Hróðmar Helgason2, Þórður Þórkelsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins.

thordth@landspitali.is

 

Inngangur: Helsta vandamál fyrirbura er vanþroski líffæra, einkum lungna. Einnig getur fósturæðin lokast seint eða ekki og getur það leitt til hjartabilunar hjá barninu. Oftast næst að loka fósturæðinni með gjöf indómetasíns, ef ekki þarf að loka henni með skurðaðgerð. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna tíðni viðvarandi opinnar fósturæðar (patent ductus arteriosus, PDA) meðal fyrirbura, hugsanlega áhættuþætti og árangur meðferðar.

Efniviður og aðferðir: Um er að ræða afturskyggna rannsókn á fyrirburum sem greindust með opna fósturæð á vökudeild Barnaspítala Hringsins á árunum 1987-2006. Aflað var upplýsinga um meðgönguna, fæðinguna og barnið úr sjúkraskrám. Fyrir barn með opna fósturæð var fundið barn fætt eftir sömu meðgöngulengd, sem ekki hafði opna fósturæð og sömu upplýsinga aflað fyrir það.

Niðurstöður: Eitt hundrað fjörutíu og fimm fyrirburar greindust með opna fósturæð á rannsóknartímabilinu. Tíðnin var í öfugu hlutfalli við meðgöngulengd. Börnin með opna fósturæð höfðu lægri Apgar við 5 mín. (p=0,02), hærri tíðni glærhimnusjúkdóms (p<0,001), þurftu ferkar að fara á öndunarvél (p<0,001) og voru með hærra CRP á fyrstu tveimur dögunum (p=0,015) en börnin í viðmiðunarhópnum. Meðgöngulengd barnanna sem þurftu fleiri en þrjá skammta af indómetasíni var marktækt lægri en hinna (p=0,01). Sautján börn þurftu á skurðaðgerð að halda. Meðgöngulengd barnanna sem þurftu á skurðaðgerð að halda var marktækt lægri en hinna (p=0,01).

Ályktanir:Tíðni opinnar fósturæðar meðal fyrirbura fer vaxandi með lækkandi meðgöngulengd. Helstu áhættuþættir fyrir opna fósturæð eru lágur Apgar við fæðingu, alvarlegur lungnasjúkdómur og hugsanlega sýking í kringum fæðinguna. Í flestum tilvikum næst að loka fósturæðinni með gjöf indómetasíns. Minnstu börnin eru líklegri til að þurfa fleiri skammta af indómetasíni og að þurfa á aðgerð að halda en þau sem stærri eru.

 

 

V 22      Vanlíðan á meðgöngu. Fræðilegt yfirlit á stöðu þekkingar

 

Marga Thome1, Stefanía B. Arnardóttir2

1Hjúkrunarfæðideild HÍ, 2geðteymi miðstöðvar heimahjúkrunar, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

marga@hi.is

 

Inngangur: Vísbendingar eru um að vanlíðan á meðgöngu sé ekki síður algeng en vanlíðan eftir fæðingu. Skimun fyrir algengum geðheilbrigðisvandamálum, svo sem þunglyndi og kvíðaraskanir fer ekki fram í meðgönguvernd. Helsta ástæða er talin vera skortur á þekkingu á eðli og áhrifaþáttum vanlíðunar á meðgöngu svo og á mælitækjum sem hafa nægilega jákvætt spágildi fyrir geðrænum heilsufarsvanda á meðgöngu. Því er ekki ljóst hvernig á að finna konur sem þjást af vanlíðan á meðgöngu né hvaða úrræði dragi helst úr einkennum.

Efniviður og aðferðir:Til að skapa yfirlit yfir stöðu þekkingar var leitað að samantektarrannsóknum, klíniskum leiðbeiningum, eigindlegum og megindlegum rannsóknum, í gagnagrunnum PubMed, Ovid, CINAHL og Cochrane undir eftirfarandi leitarorðum: pregnancy, depression, anxiety, fatigue, intervention, screening, foetus.

Niðurstöður: Stöðu þekkingar er lýst með tilliti til eðlis, algengis og einkenna vanlíðunar á meðgöngu, auk mats- og mælitækja og meðferðarannsókna. Heimildir eru samþættar undir lykilhugtökunum; þreyta, kvíði og þunglyndiseinkenni. Lýst eru áhættu- og áhrifaþætti og afleiðingum vanlíðunar á móður, fóstur og fjölskyldu. Mælitæki sem hafa verið notuð til að meta, greina og skima fyrir vanlíðan og til að meta árangur stuðningsmeðferða eru lýst. Meðferðarrannsóknum sem hafa þann tilgang að bæta líðan foreldra á meðgöngu eru gerð skil.

Ályktanir: Í ljósi samantektar er ályktað um hvernig þekking um geðheilbrigði þungaðra kvenna getur upplýst heilbrigðisstéttir við störf sín í meðgönguvernd og hvaða rannsóknir er brýnt að stunda.

 

 

 

 

 

 

 

V 23      Fæðingarsögur íslenskra ljósmæðra. Yfirseta og þróun þekkingar í ljósmóðurfræði

 

Ólöf Ásta Ólafsdóttir

Námsbraut í ljósmóðurfræði hjúkrunarfræðideildar HÍ og fræðasviði kvennasviðs Landspítala

olofol@hi.is

 

Inngangur:Kynnt verður rannsókn sem unnin var til doktorsgráðu við ljósmóðurdeild Thames Valley University í London árið 2006. Markmið hennar var að skoða fæðingarsögur íslenskra ljósmæðra og skilgreina hugmyndafræði þeirra og þekkingu. Ennfremur að kanna frá menningarlegu sjónarhorni hvernig barneignarþjónusta hefur þróast með tilliti til breytinga á fæðingarstað frá síðari hluta síðustu aldar til okkar daga.

Efniviður og aðferðir:Eigindleg mannfræðileg aðferð og frásagnargreining var notuð. Fæðingarsögum var safnað frá tæplega 40 ljósmæðrum með ólíkan bakgrunn víða af landinu.

Niðurstöður:Meginsöguþráðurinn reyndist vera um yfirsetuna, nærveru og tengsl við konur sem skiptir sköpum í þekkingarþróun ljósmæðra óháð fæðingarstað sem hefur áhrif á þróun svokallaðrar innri þekkingar í samhengi við annars konar þekkingarform tækni-, læknis- og lífvísinda. Skilgreindar voru þrjár tegundir innri þekkingar: innsæisþekking sem byggist á reynslu í starfi; á andlegri meðvitund og þekking þar sem þessir þættir skarast í tengslamyndun milli ljósmæðra og kvenna sem hefur áhrif á eðlilega fæðingu og öryggi við barnsburð.

Ályktanir:Niðurstöður gefa til kynna að íslenskar ljósmæður upplifi árekstra milli ólíkrar nálgunar í umönnun barnhafandi kvenna og fjölskyldna þeirra, en þær leitist við að byggja starf sitt á sameiginlegum þekkingar- og hugmyndagrunni sem einnig hefur verið lögð til grundvallar í námsskrá í ljósmóðurfræði, frá upphafi námsins við HÍ árið 1996.

 

 

V 24      Samanburður á notkun getnaðarvarna meðal kvenna fyrir og eftir fóstureyðingu

 

Sóley S. Bender1,3, Reynir T. Geirsson2,3

1Hjúkrunarfræðideild, 2læknadeild HÍ, 3kvennasviði Landspítala

ssb@hi.is

 

Inngangur: Gerðar hafa verið rannsóknir á notkun getnaðarvarna hér á landi á skráðum gögnum um fóstureyðingar en aðeins ein rannsókn hefur verið framkvæmd á kvennasviði Landspítala sem byggist á viðtölum við konur sem hafa sótt um fóstureyðingu. Tilgangur hennar var meðal annars að bera saman notkun getnaðarvarna fyrir og eftir fóstureyðingu.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggist á viðtölum við 202 konur fyrir fóstureyðingu og var 148 þeirra fylgt eftir með símaviðtölum í fjórum til sex mánuðum eftir fóstureyðingu. Spurt var um fyrri notkun getnaðarvarna, notkun þegar getnaður varð og fyrirhugaða og raunverulega notkun þeirra eftir fóstureyðingu. Gögnin voru aldursgreind.

Niðurstöður: Rúmlega fjórðungur kvenna hafði almennt verið að nota getnaðarvarnir í helmingi tilvika eða sjaldnar. Þegar getnaður varð notaði helmingur kvennanna enga getnaðarvörn en aðeins lægra hlutfall var meðal kvenna 20-24 ára. Helsta ástæða notkunarleysins var kæruleysi og notkun áfengis. Reyndist kæruleysi algengara hjá þeim yngstu. Helstu getnaðarvarnir sem allir aldurshóparnir notuðu fyrir fóstureyðingu og við getnað voru pillan og smokkurinn en konur sem voru 20-24 ára höfðu hærra hlutfall notkunar. Eftir fóstureyðingu bættist hormónasprautan jafnt í alla aldurshópana og lykkjan meðal eldri kvenna. Um 95% kvenna í öllum aldurshópum höfðu áætlun um notkun getnaðarvarna eftir fóstureyðingu en raunveruleg notkun getnaðarvarna fjórum til sex mánuðum eftir fóstureyðingu sýndi að um 86% voru byrjaðar að nota getnaðarvarnir, aðeins fleiri í yngsta aldurshópnum.

Ályktanir: Niðurstöður benda til áhættuhegðunar hvað varðar takmarkaða notkun getnaðarvarna á þeim tíma sem viðkomandi kona ætlaði sér ekki þungun. Skoða þarf takmarkaða notkun getnaðarvarna betur út frá áhættuþáttum. Reynst gæti gagnlegt að þróa mælitæki til að greina áhættuþætti notkunarleysis getnaðarvarna meðal kvenna sem sækja um fóstureyðingu.

 

 

V 25      Eðlilegar fæðingar, öryggi og áhætta. Skynjun íslenskra ljósmæðra

 

Valgerður Lísa Sigurðardóttir1, Ólöf Ásta Ólafsdóttir2

1Kvennasviði Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild HÍ

valgerds@landspitali.is

 

Inngangur:Innan ljósmóðurfræði er á alþjóðavísu áhyggjuefni að eðlilegum fæðingum án íhlutana fækkar og því hafa hugtökin öryggi og áhætta í tengslum við eðlilegar fæðingar verið til umfjöllunar. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvernig ljósmæður skynja hugtökin öryggi og áhættu í eðlilegum fæðingum á Íslandi og hvernig ljósmæður taka ákvarðanir og skynja öryggi og áhættu í fæðingarhjálp.

Efniviður og aðferðir: Gögnum var safnað með tveimur rýnihópaviðtölum við samtals 18 ljósmæður sem störfuðu á fæðingargangi og í Hreiðri á Landspítalanum. Úrtak var valið með þægindaaðferð og höfðu þátttakendur mismunandi bakgrunn. Gögn voru greind í þemu og undirþemu með menningarbundinni nálgun.

Niðurstöður: Fæðingarstaður og áhættuhugsun í umhverfi hafa áhrif á sjálfstraust og innri þekkingu ljósmæðra og hvernig þær skilgreina eðlilega fæðingu. Ljósmæður töldu yfirsetu mikilvæga vegna möguleika til að mynda gagnkvæmt samband, byggt á trausti, milli konu og ljósmóður. Það skapaði öryggistilfinningu og tækifæri til að nota klíníska færni og innri þekkingu til að ákveða bestu umönnun fyrir hverja konu. Ef slíkt samband myndaðist ekki fannst þeim það draga úr öryggistilfinningu. Verklagsreglur sem brjóta í bága við þekkingu og mismunandi hugmyndafræði sköpuðu óöryggi og tilfinningu fyrir að vera undir smásjá. Það hafði áhrif á sjálfræði þeirra og kvennanna til ákvarðanatöku um umönnun í fæðingu.

Ályktanir: Ljósmæður lýstu ákveðnu ferli þar sem þær fara út fyrir ramma reglna en þá er ákvörðun byggð á gagnreyndri þekkingu, klínísku mati og samráði við konuna. Það eru í raun gagnreynd vinnubrögð, en ljósmæður virðast ekki alltaf sjá leiðir til að vinna þannig. Efla þarf rannsóknir innan ljósmóðurfræðinnar á því hvernig hægt er að stuðla að eðlilegum fæðingum í fæðingarumhverfi um leið og velferð og öryggi konunnar og fjölskyldu hennar er höfð að leiðarljósi.

 

 

V 26      Samband menntunar, þekkingar og reynslu og þess að vilja taka þátt í fósturskimun með samþættu líkindamati

 

Vigdís Stefánsdóttir1, Kristján Jónasson3, Jón Jóhannes Jónsson1,2 Hildur Harðardóttir4

1Erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 2lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeildar HÍ, 3tölvunarfræði HÍ, 4fósturgreiningadeild Landspítala

vigdisst@landspitali.is

 

Inngangur:Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna viðhorf barnshafandi kvenna á Íslandi til skimunar með samþættu líkindamati (SÞL) sem gert er á fyrsta þriðjungi meðgöngu. Kannað var hvort þættirnir menntun, þekking, aldur og fyrri reynsla af fötlun hefðu áhrif á val um þátttöku.

Efniviður og aðferðir:Spurningalisti var afhentur 400 konum sem skiptust í tvo hópa. Fyrri svarhópurinn (n=237) fékk hefðbundnar upplýsingar um SÞL fyrir fósturgöllum. Seinni hópurinn (n=142) fékk sömu upplýsingar en að auki bæklinginn „Fósturskimun og fósturgreining á meðgöngu“. Báðir hóparnir fengu samskonar spurningalista. Unnið var úr svörum með forritunum SPSS 11.0 og Matlab.

Niðurstöður: Reynslu af fötlun hjá nánum ættingja höfðu 79 (20,8%). Af þeim sögðust 60 (76%) miklar líkur á því að þiggja samþætt líkindamat. Af þeim sem ekki höfðu reynslu af fötlun (n=300) sögðust 188 (63%) telja líklegt að þær myndu þiggja samþætt líkindamat (p=0,017). Fylgni var milli menntunar og þess að vilja þiggja matið. Svarendur með stúdents- og háskólapróf voru líklegri til að þiggja boð um SÞL (69,2%) samanborið við svarendur með grunnskóla- og iðnskólapróf (56,7%). Þekkingarstig frá 0-8 var ákvarðað út frá innihaldi svara við fjórum spurningum. Hópurinn sem fékk bækling var með marktækt hærra þekkingarstig. Notuð var lógístísk aðhvarfsgreining til að reikna fylgni á milli líkindahlutfalls þess að fara í skimun (AL) og þekkingarstigs (KS) á samþættu líkindamati. Líkani var best lýst með:

(AL = 1/(1-exp(0,654 – 0,326·KS))

Stuðull sambandsins var marktækt frábrugðinn 0 og p = 7·106.

Ályktanir: Þekking barnshafandi kvenna á Íslandi varðandi skimun fyrir fósturgöllum var almennt góð. Fyrri reynsla náinna ættingja af fötlun, meiri þekking og hærra menntunarstig voru þættir sem juku líkur á að konur þæðu boð um skimun með samþættu líkindamati.

 

 

 

 

 

 

 

 

V 27      Áhættuþættir á meðgöngu og í fæðingu fyrir ein-hverfu

 

Vilhjálmur Rafnsson1, Evald Sæmundsen2, Ingibjörg Georgsdóttir2

1Rannsóknastofu í heilbrigðisfræði, læknadeild HÍ, 2Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

vilraf@hi.is

 

Inngangur: Orsakatilgátur um einhverfu benda til erfðafræðilegra þátta en vitað er að umhverfisþættir koma einnig við sögu. Við áætlum að gera tilfellaviðmiðarannsókn á einhverfu þar sem leitað verður að hugsanlegum orsakaþáttum á fósturskeiði fyrir þessari röskun í taugaþroska. Fæðingarskráin verður notuð til að fá upplýsingar um þætti sem tengjast móður, föður, meðgöngu, fæðingu og þroska fósturs. Einstaklingar með einhverfu verða bornir saman við viðmiðunar einstaklinga sem ekki hafa einhverfu með tilliti til ofannefndra þátta. Tilgangur þessarar könnunar er að athuga styrkleika (power) rannsóknarinnar miðað við íslenskar aðstæður.

Efniviður og aðferðir:Samkvæmt fyrri rannsóknum hafa um 250 einstaklingar greinst með einhverfu á Greiningarstöð frá árinu 1995 og valdir verða af handahófi fimm sinnum fleiri á svipuðum aldri úr Þjóðskrá til samanburðar, en Fæðingarskráin tekur til allrar þjóðarinnar. Notað var tölvuforritið EPI-INFO við styrkleikareikningana.

Niðurstöður: Gert var ráð fyrir 95% öryggismörkum og 80% styrkleika og miðað við að viðmið (controls) væru fimm sinnum fleiri en tilfelli (cases), útsetning fyrirhugaðs áhættuþátts í viðmiðahópi væri um 20% og líkindahlutfall (odds ratio) væri 2, þá þarf samkvæmt reikningum 745 viðmið og 145 tilfelli. Ef gert er ráð fyrir sömu forsendum og að ofan greinir nema að líkindahlutfallið væri 1,8 þá þarf 1.005 viðmið og 201 tilfelli.

Ályktanir: Forsendurnar sem hér eru notaðar eru raunhæfar samkvæmt fyrri rannsóknum. Könnunin sýnir að reiknaður fjöldi viðmiða og tilfella sem þarf í rannsóknina er vel innan stærða hópanna sem hægt er að fá til rannsóknarinnar hér á landi. Þessi tvö dæmi lýsa greinilega styrkleika rannsóknarinnar.

 

 

V 28      Tjáning sprouty próteina í lungnaþekjufrumulínunni VA10

 

Ari Jón Arason1,4, Tómas Guðbjartsson2,4, Ólafur Baldursson1,3-5, Þórarinn Guðjónsson1,4, Magnús Karl Magnússon1,4

1Rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum, líffærafræðideild læknadeildar HÍ og blóðmeinafræðideild Landspítala, 2brjóstholsskurðdeild, 3lungnadeild Landspítala, 4Lífvísindasetri Læknagarðs, 5lyfjafræðideild HÍ

aja1@hi.is

 

Inngangur:Týrósín kínasa viðtakar (RTK) og innanfrumuferlar tengdir þeim spila lykilhlutverk í myndun greinóttrar formgerðar ýmissa líffæra, þar með talið lungna. Nýlegar rannsóknir sýna að RTK er stýrt af sprouty prótein fjölskyldunni. Sprouty fjölskyldan samanstendur af fjórum próteinum, sprouty 1-4. VA10 er berkjufrumulína sem búin var til á rannsóknastofu okkar ((Halldorsson et al. In vitro Cell and Dev Biol, 2007). 2007). Hún myndar greinótta berkju-alveolar formgerð í þrívíðri rækt sem bendir til þess að frumulínan búi yfir ákveðnum stofnfrumueiginleikum. Markmiðrannsóknarinnar var að kanna tjáningu sprouty próteina í VA10 frumulínunni í tvívíðum ræktunum og í framhaldi að rannsaka hvaða áhrif sprouty próteinin hafa á berkju-alveolar formbyggingu í þrívíðri rækt.

Efniviður og aðferðir: VA10 frumulínan var ræktuð í tvívíðri rækt á sérhæfðu lungnaþekjufrumuæti. Prótein og RNA (ribonucleic acid) var einangrað við mismunandi vaxtaraðstæður frumnanna til að fá sem heildstæðasta mynd af tjáningu valinna próteina. Tjáning á sprouty í VA10 var metin með mótefnalitunum og Western blettun. Rauntíma PCR (q-RT-PCR) var notað til að rannsaka mRNA tjáningu.

Niðurstöður: Sprouty 1 og 3 eru almennt lítið tjáð í VA10. Greinileg aukning þessara próteina verður við svelti frumnanna sem bendir til tengingar við vaxtarstopp. Tjáning sprouty 4 magnast við aukna þéttni rækta. Það gefur til kynna tengingu við temprun á vaxtarboðum gegnum RTK, þar sem frumurnar hlýða vaxtarstöðvandi skilaboðum við aukna þéttni í rækt. Við ofurþéttni hrapar þessi tjáning hins vegar. Þar er sprouty 2 langmest tjáða sprouty próteinið en tjáning þess er tiltölulega stöðug við mismunandi þéttni rækta.

Ályktanir:Rannsóknir okkar sýna að tjáning sprouty er breytileg eftir aðstæðum Það að VA10 myndi greinótta berkju-alveolar formgerð í þrívíðri rækt býður upp á mikla möguleika á að hægt verði að rannsaka betur þá innanfrumuboðferla sem stýra greinóttri formgerð lungna. Næstu skref eru að athuga hvaða hlutverk sprouty spilar við myndun greinóttrar formgerðar lungna.

 

 

V 29      Stjórn TGFbá genatjáningu í stofnfrumum úr fósturvísum manna

 

Helga Eyja Hrafnkelsdóttir1, Eiríkur Steingrímsson1, Þórarinn Guðjónsson2,3, Magnús Karl Magnússon1,2, Christine Mummery4, Guðrún Valdimarsdóttir1

1Lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeild HÍ, 2rannsóknarstofu í blóðmeinafræði og erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 3rannsóknarstofa í stofnfrumufræðum, 4Leiden University Medical Center – LUMC, Hollandi

heh@hi.is

 

Inngangur:TGFb-fjölskyldan (Transforming Growth Factor beta) hefur áhrif á miðlagssérhæfingu í músum og ræður trúlega miklu um örlög ES frumna (stofnfrumur úr fósturvísum). Vegna mikilvægis TGFb-fjölskyldunnar munum við rannsaka hlutverk hennar í stjórnun á markgenum í endurnýjun og sérhæfingu hES frumna (stofnfrumur úr fósturvísum manna). Við höfum athugað ósérhæfðar og sérhæfðar ES frumur með tilliti til umritunarstjórnar á genatjáningu. Markmið þessa verkefnis var að skoða hvernig umritunarþættir TGFb-boðleiðarinnar stjórna örlögum stofnfrumna.

Efniviður og aðferðir:Í þessari rannsókn notum við ChIP- (Chromatin ImmunoPrecipitation) aðferðina sem byggist á krómatín útfellingum og quantitative PCR (Polymerase Chain Reaction). Þessi aðferð veitir okkur upplýsingar um hvernig umritunarþættir TGFb-fjölskyldunnar stjórna tjáningu þekktra og óþekktra gena í ES frumum. Einnig höfum við borið saman tjáningu gena í fjölhæfum og sérhæfðum hES frumum með örflögutækni og notast við genamengi mannsins.

Niðurstöður:hES frumuræktun og þróun sérhæfingalíkana eru í stöðugri þróun. MEF- (mouse embryonic fibroblasts) frumur eru nauðsynlegar til að viðhalda ósérhæfðum hES frumum en þegar MEF-frumur eru fjarlægðar hefst sérhæfing þeirra. Við höfum gert samanburð á ósérhæfðum og sérhæfðum hES frumum með og án TGFb og BMP4 (Bone Morphogenetic Protein) til að skoða mismunandi tjáningu úr öllu genamenginu með því að nota 4-plex array flögu frá NimbleGen. Við krómatín útfellingar (ChIP) höfum við notað mótefni gegn umritunarþáttum sem tengdir eru TGFb-fjölskyldunni (Smad2/3, Smad1/5 and Id1).

Þegar tjáning á ósérhæfðum og sérhæfðum hES frumum er skoðuð, kemur í ljós að þekktir markerar sem finnast aðeins í ósérhæfðum hES frumum hafa miklu meiri tjáningu.

Ályktanir:Þessar niðurstöður staðfesta að tilraunin hefur tekist. Við höfum fundið ýmis áhugaverð gen í samanburði á þessum frumum sem við munum sýna. Nanog er einn mikilvægasti marker ósérhæfðra hES frumna. ChIP niðurstöður sýna að Smad2 getur bundist Nanog stýrlinum og gefur það til kynna að TGFb/Smad2 boðleiðin sé mikilvæg í sjálfsendurnýjun hES frumna.

 

 

V 30      Vefjaræktun berkjufrumna í þrívíðu umhverfi er háð samskiptum við æðaþel

 

Ívar Þór Axelsson1,6, Ólafur Baldursson1,2,4-6, Tómas Guðbjartsson3,6, Magnús Karl Magnússon1,6, Þórarinn Guðjónsson1,6

1Rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum, blóðmeinafræðideild Land-spítala og líffærafræði læknadeildar HÍ, 2lungnalækningadeild, 3brjóstholsskurðdeild, 4lyflækningasviði Landspítala, 5lyfjafræðideild HÍ, 6Lífvísindasetri Læknagarðs

ivarax@gmail.com

 

Inngangur:Rannsóknir benda til að vefjastofnfrumur í berkjum sé að finna meðal basalfrumna. Við höfum nýlega búið til berkjufrumulínuna VA10 (Halldorsson et al. In vitro Cell and Dev Biol, 2007). VA10 sýnir basalfrumueiginleika og getur meðal annars myndað aðrar frumugerðir lungna í rækt sem bendir til stofnfrumueiginleika hennar. Nýlegar rannsóknir benda til að æðaþelsfrumur spili stórt hlutverk í vefjamyndun ýmissa líffæra. Þrátt fyrir nálægð æðaþelsfrumna og þekjuvefsfrumna í lungum þá er lítið vitað um áhrif æðaþels á vöxt og sérhæfingu lungnaþekjufrumna. Markmið rannsóknarinnar er að kanna áhrif æðaþelsfrumna á vöxt og sérhæfingu VA10 berkjufrumulínunnar í þrívíðri frumuræktun.

Efniviður og aðferðir:Samræktir VA10 og æðaþelsfrumna úr naflastreng voru settar upp við þrívíð ræktunarskilyrði í geli sem inniheldur uppleysta grunnhimnu (in reconstituted basement membrane, rBM). Ræktunum var fylgt eftir í fasakontrast-smásjá í þrjár vikur og sem viðmið voru VA10 frumur og æðaþelsfrumur ræktaðar sitt í hvoru lagi. Í lok ræktunartíma voru gel frystiskorin og mótefnalituð gegn kennipróteinum til greiningar á frumugerðum greinóttra þyrpinga. Hliðstætt voru litaðar vefjasneiðar úr heilbrigðum lungnavef.

Niðurstöður: VA10 frumur ræktaðar einar og sér í rBM mynda kúlulaga frumuþyrpingar. Æðaþelsfrumur ræktaðar á sama hátt sýna engin merki um skiptingu og koma fyrir í ræktinni sem stakar frumur. Við samrækt frumugerðanna á sér stað greinótt formmyndun VA10 frumulínunnar sem líkist berkjugöngum tengdum lungnablöðrum. Mótefnalitun með β4-integrin og öðrum kennipróteinum staðfestir þekjuvefsuppruna berkjuganganna.

Ályktanir:Niðurstöður okkar benda til þess að VA10 frumulínan búi yfir stofnfrumueiginleikum, sem dregnir eru fram á yfirborðið í samskiptum við æðaþelsfrumur. Áframhaldandi rannsóknir beinast að frekari greiningu á vefjaræktunarlíkaninu og þeim þáttum sem æðaþelið seytir og stuðla að greinóttri formbyggingu VA10 í þrívíðum ræktunum.

 

 

V 31      Skautun AQP4 himnupróteinsins í stjörnufrumum

 

Marteinn Þ. Snæbjörnsson1, Sigurður V. Smárason2, Pétur Henry Petersen1

1Rannsóknarstofu í taugalíffræði og rannsóknarstofu í líffærafræði, læknadeild HÍ, 2raunvísindastofnun HÍ

Mths1@hi.is

 

Inngangur: Aquaporin (AQP) próteinin eru himnugöng sértæk fyrir smáar sameindir svo sem vatn og auka gegndræpi og stjórna samvægi vatns í ýmsum frumum líkamans. AQP4 er tjáð í stoðfrumum taugakerfisins svo sem ependymal frumum og stjörnufrumum sem eru staðsettar á snertiflötum heila við heilahol og æðakerfi en hlutverk þess þar er fyrst og fremst talið vera að stýra vatnsflæði milli heila og heilahimnuvökva annars vegar og blóðs hins vegar. Í stjörnufrumum er staðsetning AQP4 mjög skautuð (polar) en stjörnufrumurnar mynda svokallaða endafætur (end feet) sem umlykja æðar taugakerfisins en þar er AQP4 helst að finna. Skautun AQP4 er nauðsynleg fyrir eðlilega starfsemi og tilgangur þessa verkefnis er að rannsaka hvaða prótein taka þátt í að skauta AQP4. Síðustu þrjár amínónsýrurnar á carboxylenda AQP4 eru SSV (serine serine valine amínósýruröð), en slík bindisvæði á carboxylenda eru þekkt fyrir að bindast PDZ (Post synaptic density, disc large, zo-1 protein domains) próteinum.

Efniviður og aðferðir: Gersveppablendingsskimanir (yeast two hybrid screen) voru notaðar til að bera kennsl á manna og músaprótein sem geta bundist carboxylenda AQP4. GST (gluthathione-S-transferasi) prótein niðurtog (pulldown) úr HEK (human embryonic kidney) 293 frumuhreti og vefjumvar svo notað til að staðfesta og kortleggja slík tengsl. Notast var við genaferjur sem tjá fyrir caroxylenda AQP4 bæði með og án SSV bindisvæðisins.

Niðurstöður:Við fundum tengsl við fjögur prótein með gersveppaskimum, binding AQP4 við eitt þeirra, þekkt PDZ staðsetningarprótein (scaffolding protein) var svo staðfest með GST prótein niðurtogi en binding tveggja er óstaðfest og því ólíkleg.

Ályktanir: Við höfum með lífefnafræðilegum aðferðum fundið möguleg bindiprótein við AQP4. Þær niðurstöður eru grundvöllur fyrir frekari rannsóknir á eðli samskipta AQP4 við önnur prótein og skautunar þess, á mótum tauga- og æðakerfis.

 

 

V 32      Hlutverk Dlg7 í blóðmyndun

 

Níels Árni Árnason1, Sigríður Þóra Reynisdóttir1, Jonathan R. Keller2, Kristbjörn Orri Guðmundsson2, Ólafur E. Sigurjónsson1,3

1Blóðbankinn Landspítala, 2National Cancer Institute, Maryland, 3tækni- og verkfræðideild HR

oes@landspitali.is

 

Inngangur:Við höfum nýlega lýst geni, Dlg7, sem er meðal annars tjáð í stofnfrumum, þar með talið blóðmyndandi stofnfrumum, bandvefsstofnfrumum og músa fósturstofnfrumum (Gudmdundsson, Stem Cell, 2007). Dlg7, gegnir hlutverki í frumuhringnum við stjórnun stöðugleika spólu. Auk þess er Dlg7 talið gegna hlutverki í krabbameinsmyndun í gegnum Aurora-A og vísbendingar eru um að það hvetji til myndunar meinvarpa í lifrarkrabbameini. Við höfum sýnt fram á að Dlg7 er tjáð í blóðmyndandi stofnfrumum (CD34+CD38-) en mun minna í blóðmyndandi forverafrumum. Einnig höfum við sýnt að Dlg7 er tjáð í nokkrum hvítblæði frumulínum og æxlum, þar á meðal í þvagblöðru, ristli og lifur, en ekki í heilbrigðum aðlægum vef. Tilgangurinn með þessari rannsókn er að finna hvert hlutverk Dlg7 er í blóðmyndun.

Efniviður og aðferðir:Við notum lentiveiru yfirtjáningar vektor til að yfirtjá Dlg7 í músa fósturstofnfrumum og lentiveiru shRNA til að slökkva á tjáningu á Dlg7 í músa fósturstofnfrumum. Genabreyttar músastofnfrumur eru síðan sérhæfðar yfir í ”embryoid bodies” og þaðan sérhæfðar yfir í blóðmyndandi frumur með ”colony forming unit assay” til að kanna virkni blóðmyndunar.

Niðurstöður:Við höfum áður sýnt fram á að ”transient” (non-viral) yfirtjáning á Dlg7 dregur úr stærð og fjölda ”embryoid bodies” og eykur tjáningu á genum sem einkenna músafósturstofnfrumur (Bmp4, Oct4, Rex1 og Nanog). Einnig höfum við sett upp sérhæfingaraðferðir fyrir músafósturstofnfrumur yfir í blóðmyndandi frumur.

Ályktanir:Fyrstu niðurstöður benda til þess að yfirtjáning á Dlg7 í músafósturstofnfrumum viðhaldi stofnfrumueiginleikum þeirra og dragi úr sérhæfingarmætti.

 

 

V 33      Mataræði og járnbúskapur íslenskra ungbarna. Áhrif nýrra ráðlegginga

 

Ása Vala Þórisdóttir1, Gestur I. Pálsson2, Inga Þórsdóttir1

1Rannsóknarstofu í næringarfræði, 2Barnaspítala Hringsins

asavala@landspitali.is

 

Inngangur:Íslenskar ráðleggingar um mataræði ungbarna voru endurbættar árið 2003. Rannsókn á næringu ungbarna 1995-1997 leiddi í ljós lágan járnbúskap og háa próteininntöku. Markmið með þessari rannsókn 2005-2007 var að rannsaka áhrif nýrra ráðlegginga á mataræði og járnbúskap ungbarna.

Efniviður og aðferðir:Handahófskennt úrtak fjögurra mánaða ungbarna var valið af Hagstofu Íslands. Fæðusaga var notuð til að meta mataræði ungbarna frá fæðingu að fjögurra mánaða aldri og mánaðarlegum upplýsingum um mataræði var safnað með 24 stunda matarskráningum við fimm til átta mánaða og 10-11 mánaða aldur og með þriggja daga vigtuðum skráningum við níu og 12 mánaða aldur (n=250). Við 12 mánaða aldur voru teknar blóðprufur og járnbúskapur metinn (n=140).

Niðurstöður: Í þessari rannsókn voru engin börn með járnskortsblóðleysi (Hb<105g/L, s-ferritin<12µg/L, MCV<74fl); 4,3% höfðu járnskort (s-ferritin<12µg/L, MCV<74fl) og 5,8% voru með skertar járnbirgðir (s-ferritin<12µg/L). Hins vegar voru 2,7% með járnskortsblóðleysi, 20% með járnskort og 41% með skertar járnbirgðir í fyrri rannsókninni. Helstu breytingar sem orðið hafa á mataræði barnanna voru samkvæmt nýju ráðleggingunum, það er kúamjólkurneysla hefur dregist verulega saman en stoðmjólk hefur að miklu leyti komið í staðinn fyrir hana. Aukin neysla á grautum og ávöxtum hafði einnig jákvæða fylgni við járnbúskapsbreytur. Börnin voru lengur eingöngu á brjósti í þessari rannsókn heldur en í fyrri rannsókninni (miðgildi fjórir mánuðir á móti þremur mánuðum). Ennfremur hafði próteinneysla minnkað síðan 1995-97.

Ályktanir: Ráðleggingar frá 2003 og breytingar á mataræði ungbarna hafa bætt járnbúskap 12 mánaða íslenskra ungbarna. Íslenskir foreldrar fylgja ráðleggingum um mataræði ungbarna, en fylgni við ráðleggingar um brjóstagjöf þarf að bæta.

 

 

V 34      Samanburður á hreyfiþroska fyrirbura og fullburða barna á aldrinum þriggja til fjögurra ára

 

Björk Gunnarsdóttir1, Þórunn Arnardóttir2, Þjóðbjörg Guðjónsdóttir2,3

1Æfingastöð Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, 2Sjúkraþjálfaranum ehf., 3námsbraut í sjúkraþjálfun HÍ

thbjorg@hi.is

 

Inngangur:Undanfarin ár hefur lifun fyrirbura aukist. Aðeins lítill hluti þeirra er með stórvægilegar fatlanir en margir glíma við vandamál eins og frávik í hreyfiþroska, athyglisbrest og námsörðugleika sem koma fram þegar þeir eru nokkurra ára. Fáar rannsóknir eru þó til um hreyfiþroska þeirra á aldrinum þriggja til fjögurra ára. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort fyrirburar á aldrinum þriggja til fjögurra ára standi verr að vígi í gróf- og fínhreyfingum en fullburða jafnaldrar þeirra.

Efniviður og aðferðir:Í rannsókninni var borinn saman hreyfiþroski 12 fyrirbura með fæðingarþyngd undir 1.200 gr og 12 fullburða barna á aldrinum þriggja til fjögurra ára. Börnin voru öll laus við hreyfihömlun eins og CP. Hreyfiþroskinn var metinn með Peabody Developmental Motor Scales Second Edition (PDMS-2). Prófið skiptist í grófhreyfihluta og fínhreyfihluta. Grófhreyfihlutinn skiptist í þrjá undirþætti og fínhreyfihlutinn í tvo. Börnin mættu einu sinni til prófunar á Æfingastöð Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra og var lagður fyrir bæði gróf- og fínhreyfihluti prófsins.

Niðurstöður:Helstu niðurstöður voru að fyrirburar komu marktækt verr út en fullburða börn í hreyfiþroska (p<0,01). Þeir voru marktækt verri í bæði grófhreyfiþroska (p<0,01) og fínhreyfiþroska (p<0,01). Munurinn reyndist marktækur í öllum undirþáttum prófsins nema boltafærni (p=0,12). Lítil fylgni reyndist vera milli gróf- og fínhreyfiþroska fyrirburanna. Fylgni milli gróf- og fínhreyfiþroska fullburða barnanna var hins vegar marktæk. Niðurstöðurnar sýndu að meðgöngulengd spáir marktækt betur fyrir um hreyfiþroska en fæðingarþyngd (p<0,01).

Ályktanir:Þessar niðurstöður benda til að mikilvægt sé að hafa eftirlit með þroska fyrirbura lengra en það er í dag. Þannig væri hægt að greina þessar hreyfiraskanir hjá þeim og grípa til viðeigandi ráðstafana fyrr en ella.

 

 

V 35      Próffræðilegt mat á mælitækinu Heilsuefling 10-12 ára skólabarna

 

Brynja Örlygsdóttir1,2, Ann Marie McCarthy2, Erla Kolbrún Svavarsdóttir1

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2University of Iowa, College of Nursing, Iowa

brynjaor@hi.is

 

Inngangur: Heilsueflingarmeðferðir sem virka og beinast að 10-12 ára skólabörnum eru fjárfesting til framtíðar. Þrátt fyrir það er lítið vitað um það hvernig íslensk börn í þessum aldurshóp efla heilsu sína, auk þess sem mælitæki hefur skort til að mæla breitt svið heilsueflingar. Tilgangur þessarar rannsóknar var því að framkvæma próffræðilegt mat á mælitækinu Heilsuefling 10-12 ára barna, sem var stytt, breytt og þýdd útgáfa af tævanska mælitækinu Adolescent Health promotion Scale.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var hluti af stærri þversniðsrannsókn, þar sem gögnum var safnað frá 480 10-12 ára börnum í 5. og 6. bekk úr 12 grunnskólum í Reykjavík. Leitandi þáttagreining (principal factor analysis) var framkvæmd til að finna þætti sem lýsa eða skýra innbyrðis tengsl milli breyta (construct validity) í mælitækinu Heilsuefling 10-12 ára barna. Innra réttmæti (reliability) var mælt með Cronbachs a.

Niðurstöður: Fimm þættir fengust úr mælitækinu, sem var 21 atriði. Þættirnir voru nefndir: Jákvæð hugsun; Næringar- og svefnvenjur; Leita eftir sálfélagslegum stuðningi; Bjargráð og Heilbrigðisvenjur. Áreiðanleiki heildarsummu mælitækisins var 0,86, og áreiðanleiki þáttanna spannaði frá 0,57 til 0,75.

Ályktanir: Mælitækið Heilsuefling 10-12 ára barna er áreiðanlegt og réttmætt til þess að mæla heilsueflingarhegðun 10-12 ára íslenskra skólabarna. Rætt verður um klíníska notkun á mælitækinu og framtíðarrannsóknir.

 

 

V 36      Að ná flugfærni með beinni kennslu, endurteknum æfingum og hvatningakerfi

 

Ester Ingvarsdóttir, Zuilma Gabriela Sigurðardóttir

Sálfræðideild HÍ

zuilma@hi.is

 

Inngangur: Bein kennsla (direct instruction) er ein árangursríkasta leiðin til kennslu á grunnfærni eins og lestur og reikning. Margra áratuga rannsóknir hafa leitt í ljós að þessi kennsluaðferð ætti að vera fyrsti kostur í kennslu og ekki síður í sérkennslu. Um 25% barna í grunnskólum eiga við erfiðleika að stríða í grunnfærni. Oftast finnur greining ekki hvar vandinn liggur hjá hverjum og einum og vandamál hvers barns hefur tilhneigingu til að aukast með árunum. Rannsökuð voru áhrif beinnar kennslu, endurtekinna æfinga og hvatningakerfis á árangur í stærðfræði hjá nemanda í sjöunda bekk.

Efniviður og aðferðir: Nemandinn átti við náms- og hegðunarvandamál að stríða sem varð til þess að leitað var aðstoðar fyrir hann. Vandinn hafði staðið yfir öll árin sem hann var í grunnskóla. Frumbreytur rannsóknarinnar eru bein kennsla, endurteknar æfingar og hvatningakerfi. Fylgibreyturnar eru færni í frádrætti og færni í deilingu, auk sjálfsmats og mats móður nemandans á árangrinum. Notast var við margfalt grunnlínu-snið yfir færniþætti til að meta árangur inngripsins.

Niðurstöður: Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að frammistaða nemandans jókst og að hann náði settum námsviðmiðum á örfáum vikum. Frammistaða hans varð jafnvel betri en frammistaða bestu nemenda í bekknum. Sjálfsmat nemandans sem og mat móður var mjög hátt og bæði sýndu mikla ánægju með inngripið. Niðurstöðurnar eru í samræmi við fyrri rannsóknir á árangri kennsluaðferðanna og styður að hægt er að ná flugfærni hjá nemanda sem taldist áður með takmarkaða námsgetu.

Ályktanir: Bein kennsla er árangursrík kennslutækni sem hægt er að nota á Íslandi með börnum sem gengur illa í námi.

 

 

V 37      Þyngd skólataskna og stoðkerfisverkir grunn-skólanema, athugun meðal nema í 5. bekk í Reykjavík

 

Guðbjörg Rós Guðjónsdóttir1, Margrét Ágústa Þorvaldsdóttir2, Þjóðbjörg Guðjónsdóttir2,3

1Heilbrigðisstofnun Austurlands, Neskaupstað, 2Sjúkraþjálfaranum ehf., 3námsbraut í sjúkraþjálfun HÍ

margret.thorvalds@gmail.com

 

Inngangur:Erlendar rannsóknir hafa margar hverjar sýnt fram á að hluti grunnskólanema ber mun þyngri skólatöskur en ráðlagt er fyrir líkamsþyngd þeirra. Sumar þessara rannsókna hafa einnig sýnt að þau börn sem báru of þungar skólatöskur fundu frekar fyrir verkjum frá stoðkerfi en önnur börn, en algengir voru bakverkir. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort börn í 5. bekk grunnskóla bæru of þungar skólatöskur miðað við líkamsþyngd og hvort þau fyndu fyrir stoðkerfisverkjum. Kannað var hvort tengsl væru á milli þyngdar skólatöskunnar og verkjanna.

Efniviður og aðferðir:Í rannsókninni tóku þátt 136 börn úr sjö grunnskólum. Börnin svöruðu spurningalista þar sem meðal annars var spurt um stoðkerfisverki, hreyfivenjur og þreytu við að bera skólatöskuna auk þess sem börnin mátu þyngd skólatösku sinnar. Hæð og þyngd barnanna var mæld auk þyngdar skólataskna þeirra.

Niðurstöður:Niðurstöður leiddu í ljós að 97,1% barnanna notaði bakpoka sem skólatösku og var meðalþyngd þeirra 9,3% af líkamsþyngd barnanna sem telst ásættanlegt. Alls höfðu 80,3% barnanna fundið fyrir stoðkerfisverk, á undanförnum mánuði, á einhverjum af svæðunum sem spurt var um (höfuð, axlir og háls og bak). Þau sem fundu oft ( fjórum sinnum eða oftar í mánuði) fyrir verkjum frá hálsi og öxlum eða baki báru þyngri bakpoka en þau sem ekki fundu fyrir þessum verkjum. Alls höfðu 72,1% barnanna fundið fyrir þreytu við að bera bakpokann undanfarinn mánuð og voru þau í meiri áhættu að finna fyrir verkjum frá hálsi og öxlum annars vegar og bakverk hins vegar ef miðað var við börnin sem aldrei fundu fyrir þreytu.

Ályktanir:Niðurstöðurnar sýna að skýra má hluta stoðkerfisverkja grunnskólanema með þungum bakpokum og því er mikilvægt að hafa bakpoka í huga sem orsök stoðkerfisverkja barna.

 

 

V 38      Stuðningur við jákvæða hegðun. Grunnlínumælingar í 1.-4. bekk í þremur grunnskólum vorið 2008

 

Guðrún Ólafsdóttir, Zuilma Gabriela Sigurðardótti

Sálfræðideild HÍ

zuilma@hi.is

 

Inngangur: Nokkur sveitarfélög á Íslandi hafa verið að innleiða hegðunarstjórnunarkerf fyrir grunnskóla, er felur í sér stuðning við jákvæða hegðun (Positive Behaviour Support, PBS). Kerfið er alhliða hegðunarstjórnunarkerfi, sem byggir á hagnýtri atferlisgreiningu. Unnið er að langtímarannsókn á árangri kerfisins í þeim skólum þar sem næst stendur til að innleiða kerfið. Rannsóknin mun taka um fimm ár en mælingar urðu að hefjast á síðasta skólaár, það er áður en innleiðing kerfisins hefst í þeim skólum sem um ræðir, þannig að hægt verði að bera saman grunnlínumælingar við mælingar eftir að innleiðing hefst og þannig frá ári til árs í sömu skólum. Rannsóknin sýnir grunnlínumælingar sem voru teknar í þremur grunnskólum í einum aldursflokki og er sú fyrsta sinnar tegundar.

Efniviður og aðferðir: Fjöldi þátttakenda í grunnlínumælingunum var 492 nemendur og starfsmenn í 1.-4. bekk. Hegðun nemenda og starfsmanna var mæld með beinu áhorfi með bilaskráningakerfi í 15 daga á þriggja vikna tímabili. Áhorfskerfið er sérhannað en í samræmi við svipuð áhorfskerfi sem hafa verið notuð við áhorf á samskiptum fullorðinna og barna. Ekki eru til áhorfskerfi sem hægt er að nota í grunnskólum þannig að þetta er nýtt áhorfskerfi.

Niðurstöður: Helstu niðurstöður voru að óviðeigandi hunsun var nokkuð algeng sérstaklega á almennum svæðum skólanna. Leiðréttingar, virk hunsun óæskilegrar hegðunar og viðeigandi hegning andfélagslegrar hegðunar var ekki í samræmi við magn óæskilegrar og andfélagslegrar hegðunar nemenda. Á sumum svæðum í skólunum voru starfsmenn ekki á staðnum þar sem margir nemendur voru í einu. Óæskileg hegðun nemenda var algengari þegar starfsmenn voru ekki á staðnum. Það bendir til þess að nærvera starfsfólks dragi úr óæskilegri hegðun og því er mikilvægt að hafa virkt eftirlit á öllum svæðum skólans þar sem óæskileg hegðun er algeng sem lágmarksaðgerð.

Ályktanir:Grunnlínumælingar leiddu í ljós að hegðun starfsmanna og nemenda er í samræmi við það sem margar rannsóknir hafa leitt í ljóst, að algeng hegðun í grunnskólum, það er viðbrögð starfsfólks séu ekki í samræmi við hegðun nemenda, hvort sem hún er æskileg eða óæskileg. Fróðlegt verður að mæla endurtekið í sömu skólum næstu fimm árin og sjá hvort hegðun starfsfólks og nemenda breytist í rétta átt þannig að stuðlað verði á allan hátt að því að nemendur sýni viðeigandi félagslega og aðra æskilega hegðun og sem minnst af andfélagslegri hegðun.

 

 

V 39      Algengi fæðuofnæmis hjá íslenskum börnum á fyrsta aldursári

 

Harpa Kristinsdóttir1, Michael Clausen2,3, Anna Guðbjörg Gunnarsdóttir3, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir3

1Læknadeild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins, 3ónæmisfræðideild Landspítala

hak2@hi.is

 

Inngangur:Algengi ofnæmissjúkdóma hjá börnum hefur farið vaxandi í heiminum síðustu áratugi. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka algengi fæðuofnæmis hjá íslenskum börnum á fyrsta aldursári og auk þess að skoða algengi barnaexems og astma.

Efniviður og aðferðir:Rannsóknin er hluti af alþjóðlegri fæðuofnæmisrannsókn, EuroPrevall. Skoðaðar voru niðurstöður 626 heilbrigðra barna á fyrsta aldursári. Við fæðingu voru lagðir fyrir foreldra staðlaðir spurningalistar um umhverfisþætti, lifnaðarhætti og ofnæmissjúkóma. Ef barn sýndi einkenni um ofnæmissjúkdóm var það skoðað, gerð ofnæmishúðpróf og tekin blóðprufa til að mæla IgE gegn helstu ofnæmisvökum í fæðu. Ef jákvætt svar kom fram í ofnæmisprófi var fæðuofnæmi staðfest eða afsannað með tvíblindu þolprófi.

Niðurstöður:Alls komu88 börn í læknisheimsókn. Saga og skoðun gáfu til kynna fæðuofnæmi hjá 13 (2,08%). Sextán börn (2,56%) voru með jákvæð ofnæmishúðpróf eða með fæðusértækt IgE í sermi. Fæðuofnæmi var staðfest með tvíblindu þolprófi hjá fimm börnum (0,80%), öll fimm voru með ofnæmi fyrir eggjum (0,80%), tvö fyrir jarðhnetum (0,32%), tvö fyrir mjólk (0,32%) og eitt fyrir hveiti (0,16%).Við læknisheimsókn voru 13 (2,08%) börn talin með astma og 58 (9,27%) með exem. Jákvæð fjölskyldusaga var sterkasti áhættuþátturinn fyrir staðfest fæðuofnæmi (OR=10,76 (95% CI 1,77-65,41); p=0,001), fyrir næmingu (OR=3,29 (95% CI 1,11-9,74); p=0,023) og exem (OR=2,20 (95% CI 1,13-4,29); p=0,018).

Ályktanir: Algengi fæðuofnæmis á fyrsta aldursári hefur ekki áður verið rannsakað á Íslandi. Þær frumniðurstöður sem fengust hér sýna heldur lægri tíðni en fyrri rannsókn á fæðuofnæmi hjá íslenskum börnum á öðru ári. Þær sýna einnig lægri tíðni fæðuofnæmis en í sumum öðrum Evrópulöndum sem hugsanlega má rekja til erfða og umhverfisþátta.

 

 

 

 

 

V 40      Áfengisneyslumynstur 16-20 ára íslenskra unglinga

 

Helga Sif Friðjónsdóttir

Hjúkrunarfræðideild, heilbrigðisvísindasviði HÍ

helgasif@hi.is

 

Inngangur: Erlendar langtímarannsóknir sýna að áfengisneyslumynstur eru ólík hvað varðar upphaf, reglulega notkun áfengis, aðstæður og magns neytt í hvert sinn og afleiðingar til skamms eða langs tíma. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða hvort greinanlegir væru ólíkir undirhópa með tilliti til mismunandi áfengisneyslumynstra meðal 16-20 ára unglinga í framhaldsskólum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var seinni greining á þversniðsrannsókn Rannsókna og greiningar sem gerð var árið 2004 í framhaldsskólum. Þátttakendur voru 11.031 (svarhlutfall 80,9%). Gerð var „latent class analysis” og nýttar spurningar er könnuðu hversu oft þátttakendur höfðu neytt ákveðinna áfengistegunda og höfðu orðið drukknir síðustu 30 daga, sem og hvar áfengisneyslan fór fram.

Niðurstöður: Niðurstöður sýna þrjá hópa meðal þátttakenda. Í hópi I voru 50%, en þar var áætluð tíðni áfengisofneyslu lægst og bjór- og léttvínsneysla töluvert minni miðað við hina tvo hópana. Í hópi II voru 43% þátttakenda, þar var áætluð tíðni áfengisofneyslu og bjórneyslu há en neysla á léttvíni og landa var miklu minni. Neyslan fór mikið til fram í partíum og á skemmtistöðum. Í hópi III voru 7% þátttakenda, þar var áætluð tíðni ofneyslu áfengis og bjórneyslu há. Tíðni neyslu léttvíns og landa var töluvert hærri hjá þessum hópi miðað við hina hópana og neyslan fór fram í partíum og á skemmtistöðum eða skólaböllum.

Ályktanir: Í þýðinu reyndust ólíkir undirhópar hvað varðar áfengisnotkun. Mikilvægt er að þróa frekar mælitæki er skoða afleiðingar áfengisneyslu á líkamlega og sálfélagslega heilsu íslenskra unglinga og framkvæma langtímarannsóknir til að greina mismunandi áfengisneyslumynstur þeirra. Slíkar langtímarannsóknir væru nýtilegar til að þróa forvarnir fyrir ólíka hópa.

 

 

V 41      Áhrif örvandi geðlyfjameðferðar á námsárangur barna með athyglisbrest og ofvirkni. Lýðgrunduð rannsókn á Íslandi

 

Helga Zoëga1-3, Anna B. Almarsdóttir3, Matthías Halldórsson2, Gísli Baldursson4, Sólveig Jónsdóttir4, Sigurgrímur Skúlason5, Ulf Bergman6, Unnur A. Valdimarsdóttir1

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ, 2lyfjafræðideild HÍ, 3landlæknisembættinu, 4Landspítala, 5Námsmatsstofnun, 6Division of Clinical Pharmacology, Karolinska Institutet, Svíþjóð

helgazoega@gmail.com

 

Inngangur:Vitað er að athyglisbrestur og ofvirkni (ADHD) hafa víðtæk áhrif á daglegt líf barns, þar með talið á skólanám þess. Rannsóknir hafa sýnt fram aukna notkun lyfja við ADHD meðal barna á Íslandi sem og í öðrum löndum Vesturheims. Markmið þessarar rannsóknar var að greina áhrif örvandi geðlyfjameðferðar á námsárangur grunnskólabarna með ADHD.

Efniviður og aðferðir:Um er að ræða lýðgrundaða rannsókn, sem nær yfir geðlyfjanotkun og námsárangur allra íslenskra grunnskólabarna fæddra árin 1994, 1995, 1996 og 1997, alls um 16.000 börn. Upplýsingar um lyfjanotkun úr lyfjagagnagnagrunni Landlæknisembættisins eru tengdar við gögn Námsmatsstofnunar um námsárangur barns á samræmdum grunnskólaprófum í íslensku og stærðfræði. Árangur barns í prófum fjórða og sjöunda bekkjar er borinn saman með tilliti til mynsturs geðlyfjameðferðar (self controlled design). Rannsóknartímabilið nær frá 1. janúar 2003 til 31. desember 2009.

Niðurstöður: Gögnin benda til að tæplega 700 börn úr rannsóknarhópnum hefji örvandi geðlyfjameðferð á tímabilinu, milli samræmdra prófa í fjórða og sjöundabekk. Við útreikninga á tölfræðilegum styrk er prófeinkunn barna með ADHD án lyfjameðferðar borin saman við prófeinkunn þeirra á lyfjum í sjöunda bekk. Sé áhættuhlutfall (RR) 0,83 fyrir óviðundandi námsárangri barna með ADHD, það er falleinkunn hjá 420 börnum í fjórða bekk án lyfjameðferðar en 350 börnum í sjöunda bekká lyfjum, er tölfræðilegur styrkleiki rannsóknar 98,3% (95% öryggismörk). Gert er ráð fyrir að fyrstu niðurstöður verði birtar á árinu 2009.

Ályktanir og vísindalegt gildi:Aukin notkun örvandi geðlyfja við ADHD kallar á vísindalega þekkingu um ávinning lyfjameðferðar fyrir daglega færni og lífsgæði barna. Rannsóknin er sú fyrsta sem notar lýðgrunduð gögn heillar þjóðar til að greina hvort örvandi geðlyfjameðferð hafi jákvæð áhrif á námsárangur barna með ADHD. Gögn rannsóknar veita nægilegan tölfræðilegan styrk til að álykta um áhrif örvandi geðlyfjameðferðar á námsárangur barna með ADHD.

 

 

V 42      Íslensk börn og unglingar með höfuðáverka. Hver er fjöldi þeirra sem líklegt er að þurfi sérhæfða íhlutun til lengri tíma?

 

Jónas G. Halldórsson1, Kjell M. Flekkøy2, Guðmundur B. Arnkelsson3, Kristinn Tómasson4, Hulda Brá Magnadóttir5, Eiríkur Örn Arnarson1

1Læknadeild HÍ og sálfræðiþjónustu Landspítala, 2sálfræðideild háskólans og öldrunarlækningadeild Ullevål-háskólasjúkrahússins í Ósló, 3sálfræðideild HÍ, 4Vinnueftirliti ríkisins, 5Upper Valley Neurology and Neurosurgery, Lebanon, NH

jonasgh@landspitali.is

 

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna fjölda barna og unglinga, sem enn kvarta undan eftirstöðvum fjórum árum eftir höfuðáverka, og meta þannig fjölda þeirra sem líklegt er að þarfnist sérhæfðrar íhlutunar og eftirfylgdar í kjölfar höfuðáverka.

Efniviður og aðferðir: Gögnum var safnað á framvirkan hátt um alla sjúklinga 0-19 ára gamla, sem greindir voru með höfuðáverka (ICD-9 850-854) á Borgarspítalanum á einu ári, frá 15. apríl 1992 til 14. apríl 1993 (n=405). Alvarleiki áverka á bráðadeild var metinn samkvæmt viðmiðum Head Injury Severity Scale (HISS) og ICD-9 greiningu. Fjórum árum síðar var spurningalisti um eftirstöðvar áverka sendur til sjúklinga. Alvarleikastig byggt á eðli kvartana var metið samkvæmt viðmiðum Glasgow Outcome Scale (GOS), barnaútgáfu.

Niðurstöður: Á bráðadeild greindust 49 af 405 sjúklingum með miðlungs eða alvarlegan höfuðáverka samkvæmt HISS og 22 sjúklingar greindust með ICD-9 851-854, það er heilamar, tætingu í heila eða blæðingu í heila eða heilahimnum. Alls 39 sjúklingar lýstu eftirstöðvum höfuðáverka fjórum árum síðar. Samkvæmt viðmiðum GOS lýstu 19 þeirra góðri útkomu (good outcome), 14 lýstu miðlungs hömlun (moderate disability), tveir lýstu alvarlegri hömlun (severe disability) og fjórir höfðu látist vegna heilaskaða. Nýleg athugun bendir til þess að ekki hafi orðið fækkun á börnum og unglingum sem hljóta alvarlegri höfuðáverka (ICD-9 851-854) á ári hverju.

Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að tugir íslenskra barna og unglinga þarfnist sérhæfðrar íhlutunar og eftirfylgdar á ári hverju vegna afleiðinga höfuðáverka. Íhlutunin getur verið mjög breytileg og þarf að taka mið af vanda hvers og eins.

 

 

V 43      Tengsl aðhalds og stuðnings foreldra og áfengis-notkunar unglinga

 

Rúnar Vilhjálmsson1, Guðrún Kristjánsdóttir1, 2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins

runarv@hi.is

 

Inngangur:Rannsóknir benda til þess að foreldrar ráði miklu um áhættuhegðun unglinga. Tveir þættir sem komið hafa til skoðunar eru stuðningur og aðhald foreldra. Samkvæmt samvirknikenningu Durkheims og kenningu Baumrinds um uppeldishætti dregur stuðningur og aðhald foreldra úr áhættuhegðun unglinga. Rannsóknir á grunni þessara kenninga hafa þó ekki lagt mat á möguleg, ólínuleg tengsl fjölskylduumhverfis og áhættuhegðunar. Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á línuleg og ólínuleg tengsl aðhalds og stuðnings foreldra og áfengisnotkunar unglinga.

Efniviður og aðferðir:Gögn rannsóknarinnar byggjast á landskönnuninni Heilsa og lífskjör skólanema sem fram fór á vegum Háskólans á Akureyri og Lýðheilsustöðvar meðal nemenda í 6., 8. og 10. bekk vorið 2006. Í 10. bekk voru lagðar fyrir tvær útgáfur af spurningalistanum (A og B) og réð tilviljun hvorri útgáfunni nemandinn svaraði. Byggt er á svörum 1918 nemenda sem fylltu úr lista A (86% svarhlutfall).

Niðurstöður:Niðurstöður marghliða aðhvarfsgreiningar sýna að stuðningur og aðhald foreldra tengjast minni tíðni áfengisnotkunar. Hins vegar er að finna háð tengsl (interaction) og sveiglínuleg (polynomial) tengsl milli foreldrabreyta og áfengisnotkunar. Háðu tengslin gefa til kynna að stuðningur og aðhald foreldra hafi meiri forvarnaráhrif saman en sitt í hvoru lagi. Sveiglínulegu tengslin benda til að ávinningur af auknu aðhaldi foreldra sé mestur á lægri stigum aðhalds.

Ályktanir:Minnst er um áfengisnotkun unglinga þegar fer saman stuðningur og aðhald af hálfu foreldranna. Þó virðist ávinningur af aðhaldi foreldra vera fallandi, fremur en jafn. Bestrar útkomu virðist að vænta meðal foreldra sem eru stuðningsríkir, þekkja til lifnaðarhátta og verustaða unglingsins og setja frítímahegðun hans ákveðin mörk.

 

V 44      Arfgeng heilablæðing. Ónæmislitanir á æðum sjúklinga sýna mikla bandvefsmyndun í heilaslagæðum

 

Ásbjörg Snorradóttir1, Helgi J. Ísaksson2, Birkir Þór Bragason1, Finnbogi Rútur Þormóðsson3, Elías Ólafsson4, Ástríður Pálsdóttir1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2rannsóknastofu í meinafræði Landspítala, 3rannsóknastofu í líffærafræði, læknadeild HÍ, 4taugalækningadeild Landspítala

astripal@hi.is

 

Inngangur: Arfgeng heilablæðing er séríslenskur erfðasjúkdómur sem stafar af stökkbreyttu cystatín C (L68Q) próteini. Sjúkdómurinn erfist ríkjandi, ókynbundið og er bundinn við nokkrar ættir á Íslandi. Stökkbreytt cystatin C prótein er óstöðugt og brotnar auðveldlega niður og leiðir það til lækkunar í heildamagni af cystatín C í heila-og mænuvökva arfbera. Stökkbreytt cystatín C prótein myndar einnig mýlildi (amyloid), sem sest í æðaveggi smáslagæða arfbera og veldur að lokum heilablæðingu. Nýlegar niðurstöður benda til þess að cystatin C geti latt Tgf-b1 boðleiðir með því að hindra bindingu Tgf-b1 við viðtaka sinn (TGFRII). Tilgáta okkar er sú að cystatin C skortur í heila-og mænuvökva valdi bandvefsmyndun í heilaæðum vegna ofvirkni Tgf-b1 og það stuðli að uppsöfnun mýlildis.

Efniviður og aðferðir: Notaðar voru vefjalitanir og ónæmislitanir með ýmsum mótefnum til þess að kanna hvaða prótein væru til staðar í heilasýnum.

Niðurstöður: Ónæmislitanir með cystatín C mótefni staðfestu mikið magn cystatín C próteins í æðaveggjum. Lítil litun sást með mótefni gegn sléttvöðva-alpha-actin sem bendir til að sléttvöðvafrumur séu að mestu (og stundum að öllu leyti) horfnar. Masson-Trichrome litun fyrir bandvef sýndi mikla litun, sem bendir til að bandvefur hafi komið í stað sléttvöðvafruma. Ónæmislitun gegn CTGF (connective tissue growth factor) var mjög sterk en CTGF-tjáning er örvuð af Tgf-b1.

Ályktanir: Mikil bandvefsmyndun í æðaveggjum heilaslagæðum arfbera styður þá tilgátu okkar að Tgf-b boðleiðir séu ofvirkar í mænu-og heilavökva arfbera og kemur það heima og saman við aðrar rannsóknir okkar á heildargenatrjáningu á ræktuðum frumum arfbera, með Microarray og rauntíma PCR.

 

 

V 45      Áreiðanleiki sjálfvirkrar rúmmálsgreiningar á svæðum í heila með segulómun og klasatölvu í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar

 

Ásdís Egilsdóttir1,3, Sigurður Sigurðsson1, Jesper Fredriksson2, Lars Forsberg2, Ólafur Kjartansson1, Bryndís Óskarsdóttir1, Guðný Eiríksdóttir1, Pálmi V. Jónsson1,3, Mark A. Buchem4, Alex Zijdenbos5, Lenore Launer6, Vilmundur Guðnason1,3

1Hjartavernd, 2Raferninum Reykjavík, 3HÍ, 4háskólasjúkrahúsinu í Leiden, 5Montreal Neurology Institute, Kanada, 6bandaríska öldrunarstofnunin (NIA), Bethesda

Sigurdur@hjarta.is

 

Inngangur:Í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar hefur verið þróaður hugbúnaður sem með klasatölvu merkir og rúmmálsgreinir sjálfvirkt einstaka vefi í heila útfrá segulómmyndum. Aðferðin gerir kleift að mæla rúmmál heila- og mænuvökva, hvítavefsbreytinga ásamt gráa- og hvíta vefs heila í 36 svæðum, meðal annars í blöðungum og í basal ganglia. Við könnuðum áreiðanleika aðferðarinnar.

Efniviður og aðferðir:Áreiðanleiki sjálfvirkrar merkingar heilavefja er venjulega mældur með því að bera niðurstöður saman við handmerkingu vefja á sömu myndum þar sem engar upplýsingar liggja fyrir um raunveruleg rúmmál vefjanna. Áreiðanleiki sjálfvirkrar rúmmálsgreiningar á 36 svæðum heila var mældur í átta einstaklingum í úrtaki Öldrunarrannsóknarinnar með því að bera saman niðurstöður sjálfvirku aðferðarinnar við niðurstöður fengnar með handmerkingu sömu mynda. Fyrir merkingarvinnuna var útbúin sérstaklega hugbúnaður og tölva sem gerir kleift að merkja vefi og svæði heilans nákvæmlega í því myndsviði sem best hentar hverju sinni. Reiknuð var fylgni aðferðanna miðað við rúmmál hvers svæðis fyrir sig. Einnig var samræmi merkinga-aðferðanna mælt miðað við staðsetningu hverrar myndeiningar (voxel) reiknuð með kappa tölfræði (Dice Similarity Coefficient).

Niðurstöður:Meðalfylgni fyrir öll svæði á milli aðferðanna tveggja reyndist 0,7±0,2 (meðaltal±staðalfrávik) og meðal Kappa 0,8±0,1 (meðaltal±staðalfrávik). Fylgni- og kappagildi voru venjulega hærri eftir því sem svæði heilans voru stærri.

Ályktanir:Samræmi sjálfvirkrar merkingar svæða í heila með klasatölvu og handmerkingar sömu svæða reyndist almennt gott. Hafa ber í huga að hvorug aðferð gefur upplýsingar um raunveruleg rúmmál svæðanna í heila heldur einungis upplýsingar um samræmi aðferðanna sem gefur vísbendingar um áreiðanleika.

 

 

V 46      Áhrif erfða frá foreldri á lifun arfbera með arfgenga heilablæðingu

 

Ástríður Pálsdóttir1, Agnar Helgason2,3, Snæbjörn Pálsson2,4, Hans Tómas Björnsson5, Birkir Þór Bragason1, Sólveig Grétarsdóttir2, Unnur Þorsteinsdóttir2,6, Elías Ólafsson6,7, Kári Stefánsson2,6

1Tilraunastöð HÍ í meinafræðum að Keldum, 2Íslenskri erfðagreiningu, 3félags- og mannvísindadeild, 4líffræðistofnun HÍ, 5Johns Hopkins University School of Medicine, McKusick-Nathans Institute of Gen. Med., Dept. Pediatrics, Baltimore, 6læknadeild HÍ, 7taugalækningadeild Landspítala

astripal@hi.is

 

Inngangur: Arfgeng heilablæðing er eingena sjúkdómur sem erfist ríkjandi, ókynbundið með mjög mikla sýnd. Cystatín C genið er tjáð í öllum líkamanum. Próteinið, sem hefur hlutverk sem hindri fyrir cysteine próteinasa finnst í öllum líkamsvessum, mest í heila-og mænuvökva. Stökkbreytt cystatín C (L68Q) er óstöðugt og brotnar niður, sem gæti útskýrt lágt cystatín C magn í heila-og mænuvökva arfbera. Í blóði L68Q arfbera er cystatín C magn hins vegar eðlilegt.

Efniviður og aðferðir:Arfberar í heilablæðarættum voru flokkaðir eftir því hvort þeir höfðu erft stökkbreytta cystatin C genið frá móður eða föður.Alls fengust upplýsingar um 224 arfbera. Eingöngu voru teknir með þeir sem fæddust árið 1900 eða síðar en þá er sú breyting á sýnd sem átti sér stað á 19. öldinni afstaðin. Einnig var sleppt arfberum sem fæddust eftir 1950 til þess að útiloka þá sem eru í hópi 1-2% arfbera sem lifa lengi með stökkbreytinguna.

Niðurstöður:Meðallifun arfbera sem fæddir voru eftir 1900 var skoðuð. Séu þeir teknir sérstaklega fyrir sem erfðu sjúkdómsgenið frá móður (n= 53; 29 synir og 24 dætur) kemur í ljós að þeir lifa að meðaltali 27,14 ár (staðalfrávik 7,78) en þeir sem erfa það frá föður (n= 51; 23 synir og 28 dætur) lifa hins vegar lengur eða í 36,4 ár (staðalfrávik 11,44) að meðaltali. Þessar niðurstöður, það er munur á meðaltölum hópanna, eru tölfræðilega mjög marktækar (t-test, p<0,001). Aldur móður við getnað afkvæmis skipti engu máli né fjöldi ára sem hún átti þá eftir ólifað.

Ályktanir:Móðuráhrifin eru mjög sterk sem gætu bent til þess að cystatin C sé tjáð mismunandi mikið eftir uppruna litnings frá móður eða föður. Slík áhrif benda á genagreypingaráhrif eins og „imprinting“ en cystatin C er reyndar ekki á svæði, sem þekkt er fyrir slík áhrif. En þar sem þessi mæðraáhrif urðu smám saman meira sýnileg á 19 öldinni er mögulegt að sömu umhverfisáhrif og ollu lækkun í ævilengd L68Q arfbera á 19. öldinni hafi einnig áhrif hér.

 

 

V 47      Útfellingar mýlildis í nýrnahettuberki sjúklinga með arfgenga heilablæðingu

 

Finnbogi R. Þormóðsson, Hannes Blöndal

Rannsóknastofu í líffærafræði, læknadeild HÍ

finnbogi@hi.is

 

Inngangur: Arfgeng heilablæðing á Íslandi einkennist af uppsöfnun mýlildis (amyloid) í veggi heilaæða og endurtekinna heilablæðinga er draga sjúklinginn til dauða langt um aldur fram. Mýlildið sem gert er af erfðabreyttu cystatíni C er ekki einvörðungu bundið við miðtaugakerfið. Cystatín C mótefnasvörun finnst í flestum líffærum sjúklinga, en engar sjúklegar vefjaskemmdir sjást samfara þessum cystatín C uppsöfnunum og þær eru í besta falli veikt Congo red og Thioflavin jákvæðar, sem bendir til þess að fullþroskað mýlildi sé ekki nema að litlu leyti til staðar. Sterkust svörun finnst í kynkirtlum og nýrnahettuberki. Hér skoðum við nánar og greinum mýlildisútfellingar í nýrnahettuberki.

Efniviður og aðferðir: Vefjasneiðar voru litaðar á hefðbundinn hátt með Hæmatoxylin &eosin (HE), Congo red, Thioflavin S og einnig mótefnalitaðar fyrir Cystatíni C. Einnig var rafeindasmásjárskoðun beitt.

Niðurstöður: Sterk cystatín C mótefnasvörun sést í nýrnahettum og sérstaklega bundin við knippisbelti (zona fasciculata) nýrnahettubarkarins. Mótefnasvörunin finnst umhverfis stokk-háræðarnar (sinusoid) sem ganga niður börkin og sama svæði flúrljómar skært eftir thioflavin litun. Rafeindasmásjárskoðun á sýnum merktum með gulltengdum mótefnum gegn cystatín C sýna þræði í bilinu milli grunnhimnu innanþelsfrumna stokkháræðanna og kirtilfrumnanna.

Ályktanir: Greinileg cystatín C mýlildismyndun á sér stað í nýrnhettum sjúklinga með arfgenga heilablæðingu. Mýlildisútfellingarnar eru bundnar við stokkháræðar knippisbeltis nýrnahettubarkarins. Áætlað er að fylgja þessum niðurstöðum eftir og kanna hvaða þættir stuðli að mýlildismyndun á þessum stað og þannig reyna að varpa nánara ljósi á mýlildismyndun almennt.

 

 

V 48      Einangrun og greining á tveimur gerðum pentraxína í þorski, Gadus morhua L.

 

Berglind Gísladóttir1, Sigríður Guðmundsdóttir1, Linton Brown2, Zophonías O. Jónsson3, Bergljót Magnadóttir1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Institute of Aquaculture, háskólanum í Stirling, 3líf- og umhverfisvísindadeild HÍ

bergmagn@hi.is

 

Inngangur:Pentraxín, serum amyloid P (SAP) og C-reactive prótín (CRP) eru varnarþættir ósérvirka ónæmiskerfisins sem greina framandi prótín og gegna hlutverki í bráðasvari hjá bæði spendýrum og fiskum.

Pentraxín eru fimmgildar sameindir með tvö virkniset, hrifilset sem ræsir komplement kerfið og skynset sem greinir framandi sameindir. Í rannsóknum á bráðasvari hjá þorski var fyrsta skrefið að einangra og greina pentraxín í sermi þorsks.

Efniviður og aðferðir: Pentraxín var einangrað úr þorskasermi með sértækri súluskiljun á phosphorylcholine (PC) agarose súlu sem hefur Ca-háða bindivirkni við bæði CRP (sem binst phosphorylcholine) og SAP (sem binst agarose). Bundið prótín var losað með EDTA og frekari hreinsun gerð á jónaskiptasúlu. Tvö prótín greindust með mismunandi hleðslustyrk, PI og PII. Frekari greining var gerð í rafdrætti (SDS-PAGE), einnig sykrugreining og rafeindasmásjárgreining og sýni voru send til amínósýrugreiningar. Bindisækni við PC og agarose var könnuð og mótefni voru framleidd gegn báðum prótínunum fyrir greiningu á sermi einstakra þorska í ónæmisþrykk.

Niðurstöður:Bæði prótínin, PI og PII sýndu bindisækni við phosphorylcholine en ekki agarose og eru því skilgreind sem CRP-líkar sameindir. Amínósýru raðgreining sýndi hins vegar að PI líktist SAP en PII líktist CRP annarra tegunda. Fimmgild bygging greindist fyrir PII í rafeindasmásjá. Undireiningar PI í einstökum þorskum voru af tveimur stærðum, 28 og 31 kDa, sú stærri sykruð. Undireiningar PII voru af tveimur til sex stærðum, 22-29 kDa og stærsta einingin var sykruð. Mikill einstaklingsmunur greindist á gerð og fjölda undireininga þessa prótíns (PII) hjá þorski.

Ályktanir:Nýrri gerð af pentraxíní var lýst í þorski (CRP PII) sem sýndi mikinn breytileika undireininga hvað varðar stærð, hleðslu og sykrun.

 

 

 

 

 

 

 

 

'

V 49      HLA svipgerð og algengi sjálfsofnæmissjúkdóma meðal einstaklinga með IgA skort og fyrstu gráðu ættingja þeirra

 

Guðmundur H. Jörgensen1,5, Ingunn Þorsteinsdóttir2, Sveinn Guðmundsson3, Lennart Hammarström4, Björn R. Lúðvíksson1,5

1Læknadeild HÍ, rRannsóknarstofnun Landspítala, 3Blóðbanka Íslands, 4ónæmisfræðideild Karolinska sjukhuset, Svíþjóð, 5ónæmisfræðideild Landspítala

gudmhj@landspitali.is

 

Inngangur:Sértækur skortur á mótefnaflokki A (IgAD) er skilgreindur sem magn IgA í sermi 0,07g/L, og eðlilegt magn IgG og IgM. Algengi sjálfsofnæmissjúkdóma í vestrænum löndum er 3-5%, en á meðal einstaklinga með IgAD er algengið á bilinu 7-36%. Orsakatengsl IgAD við sjálfsofnæmi eru ekki ljós en ákveðnar HLA-svipgerðir eru tengdar IgAD og sumar þeirra eru jafnframt algengari í ákveðnum sjálfsofnæmissjúkdómum. Markmið rannsóknarinnar var að meta algengi sjálfsofnæmissjúkdóma á meðal IgA skorts einstaklinga og fyrstu gráðu ættingja þeirra og tengsl við HLA-svipgerð.

Efniviður og aðferðir: Alls tóku 43 IgAD einstaklingar þátt í rannsókninni. Tekin var ítarleg saga og fjölskyldusaga um sjúkdóma, læknisskoðun framkvæmd og rannsóknir. Fyrstu gráðu ættingjar voru kallaðir inn til blóðprufu, sjúkdómasaga tekin og fjölskyldusaga staðfest. Vefjaflokkun var gerð á 39 af 43 IgAD einstaklingum og skoðuð í ljósi þekktra HLA-svipgerða í IgAD.

Niðurstöður: Alls voru 25% (8/32) fullorðinna IgAD einstaklinga með sjálfsofnæmissjúkdóma og í 63% tilfella (5/8) áttu þeir jafnframt fyrstu gráðu ættingja með sjálfsofnæmissjúkdóm. Af 269 fyrstu gráðu ættingjum reyndust 10% (27/269) vera með sjálfsofnæmissjúkdóm, marktækt hærra en algengi í þjóðfélaginu (p<0,05). Þegar HLA-svipgerðir voru skoðaðar kom í ljós að 71% IgAD einstaklinga með sjálfsofnæmissjúkdóm höfðu svipgerðina HLA-DR1,DQ5. IgAD einstaklingar með fjölskyldusögu um sjálfsofnæmi höfðu í 55% tilfella svipgerðina HLA-B8,DR3,DQ2.

Ályktanir: Sterk tengsl eru milli IgAD og sjálfsofnæmissjúkdóma. Aukið algengi sjálfsofnæmissjúkdóma meðal ættingja IgAD einstaklinga bendir til sameiginlegs erfðafræðilegs bakgrunns þessara tveggja sjúkdóma. Jafnframt benda niðurstöður til tengsla milli ákveðinna HLA-svipgerða hjá IgAD einstaklingum og sjálfsofnæmissjúkdóma.

 

 

V 50      Áhrif fiskolíu í fæði músa á flakkboðamyndun miltis-frumna

 

Guðný Ella Thorlacius, Ásta Rós Sigtryggsdóttir, Dagbjört Helga Pétursdóttir, Hildur Hrönn Arnardóttir, Ingibjörg Harðardóttir

Lífefna- og sameindalíffræðistofu, læknadeild HÍ

get1@hi.is

 

Inngangur: Ómega-3 fjölómettaðar fitusýrur (n-3 FÓFS) hafa áhrif á frumur ónæmiskerfisins, meðal annars á myndun þeirra á fituboðefnum (eicosanoids), frumuboðum (cytokines) og flakkboðum (chemokines). Flakkboðarnir RANTES, MCP-1 og MIP-1a eru bólgu-flakkboðar sem stjórna flæði einkjörnunga (monocytes) og annarra frumna á sýkingarstað. Markmið rannsóknarinnar var að ákvarða áhrif n-3 FÓFS í fæði músa á myndun miltisfrumna á þessum flakkboðum ex vivo.

Efniviður og aðferðir: BalbC mýs voru hafðar á fóðri bættu með fiskolíu (n-3 FÓFS) eða kornolíu (n-6 FÓFS, viðmiðunarhópur) í fjórar til sex vikur. Miltu voru tekin og miltisfrumur settar í rækt og örvaðar með inneitri (LPS) (örvar átfrumur) eða mótefnum gegn CD3 og CD28 (aCD3/ aCD28) (örvar T frumur) í 24 klst. Styrkur flakkboðanna var mældur í floti með ELISA aðferð.

Niðurstöður: LPS örvaðar miltisfrumur úr músum sem fengu fiskolíu mynduðu meira af MIP-1a, en minna af MCP-1 og RANTES, en miltisfrumur úr músum sem fengu kornolíu. Þegar miltisfrumur voru örvaðar með aCD3/aCD28 mynduðu miltisfrumur úr músum sem fengu fiskolíu minna af MIP-1a og RANTES en miltisfrumur úr músum sem fengu kornolíu. Hins vegar var ekki marktækur munur á MCP-1 myndun þessara frumna.

Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til að fiskolía í fæði músa hafi mismunandi áhrif á T frumur og átfrumur í milta. Fiskolía hefur þannig bólgudempandi áhrif á T frumur í milta með því að minnka myndun á Th1 flakkboðunum MIP-1 a og RANTES en hefur bólguhvetjandi áhrif á átfrumur í milta með því að auka MIP-1 a myndun og minnka myndun á Th2 flakkboðanum MCP-1.

 

 

V 51      Áhrif fiskolíu í fæði á flakkboðana MCP-1 og MIP-1aí heilbrigðum og LPS-sprautuðum músum

 

Hildur H. Arnardóttir1, Jóna Freysdóttir2, Ingibjörg Harðardóttir1

1Lífefna- og sameindalíffræðistofa, læknadeild HÍ, 2rannsóknarstofu í gigtsjúkdómum og ónæmisfræðideild Landspítala

hha3@hi.is

 

Inngangur: Fiskolía, rík af ómega-3 fjölómettuðum fitusýrum, hefur jákvæð áhrif á suma langvinna bólgusjúkdóma eins og liðagigt og einnig í sýkingum. Hvernig fiskolía hefur þessi áhrif er ekki vitað en talið að frumu- og flakkboðar geti komið þar við sögu. MCP-1 og MIP-1a eru flakkboðar sem eru mikilvægir í togi átfrumna til heilbrigðra vefja sem og á sýkingarstaði. Í þessari rannsókn voru athuguð áhrif fiskolíu í fæði músa á MCP-1 og MIP-1a.

Efniviður og aðferðir: Kvenkyns C57BL/6 mýs fengu fóður byggt á vestrænu fæði með eða án 2,8% fiskolíu. Helmingur hvors hóps var sprautaður með inneitri (LPS) í kviðarhol. Kviðarholsvökva og sermi var safnað og kviðarholsátfrumur úr heilbrigðum músum einangraðar og örvaðar með LPS. Styrkur MCP-1 og MIP-1a var mældur með ELISA aðferð.

Niðurstöður: Styrkur MCP-1 í sermi heilbrigðra músa sem fengu fiskolíu var minni en styrkur MCP-1 í sermi músa sem fengu samanburðarfæði (MIP-1a mældist ekki). Hins vegar var styrkur MCP-1, sem og styrkur MIP-1a, í sermi LPS-sprautaðra músa sem fengu fiskolíu meiri en í sermi músa sem fengu samanburðarfæði. Í kviðarholsvökva LPS-sprautaðra músa sem fengu fiskolíu var meira af MIP-1a en í kviðarholsvökva músa sem fengu samanburðarfóður en svipaður styrkur var af MCP-1 í kviðarholsvökva músa úr báðum fæðuhópum. LPS örvaðar kviðarholsfrumur úr músum sem fengu fiskolíu seyttu meira af MIP-1a en minna af MCP-1 en kviðarholsfrumur úr músum sem fengu samanburðarfæði.

Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til að fiskolía hafi dempandi áhrif á flakkboðamyndun í heilbrigðum músum en auki hins vegar bólguviðbragð í músum eftir sýkingu. Dempandi áhrif fiskolíu í heilbrigðum músum samræmist jákvæðum áhrifum hennar á króníska bólgusjúkdóma en aukið bólguviðbragð gæti að hluta skýrt jákvæð áhrif hennar í sýkingu.

 

 

V 52      Áhrif TNFaog IL-35 á sérhæfingu og virkni T-stýrifrumna og Th17 frumna

 

Laufey Geirsdóttir1,2, Brynja Gunnlaugsdóttir1,2,3, Björn Rúnar Lúðvíks-son1,2

1HÍ, 2ónæmisfræðideild, 3rannsóknarstofu í gigtsjúkdómum Landspítala

lag1@hi.is

 

Inngangur:Iktsýki einkennist meðal annars af liðbólgum og virðist sem mikið magn TNFa gegni veigamiklu hlutverki í tilurð sjúkdómsins. Auk þess virðast T-frumur af Th17- og T-stýrifrumugerð gegna lykilhlutverki í sjúkdómsmynd iktsýkinnar. Meðferð með TNFa hemjandi lyfjum hefur gefið góða raun við meðferð sjúklinga en ekki er ljóst hvaða hlutverki TNFa gegnir við að móta sérhæfingu og starfsemi Th17 frumna eða T stýrifrumna. Markmið rannsóknarinnar er að skilgreina nánar hlutverk TNFa í meinvirkni iktsýki og virkni TNFa hlutleysandi lyfja við meðferð.

Efniviður og aðferðir:Upplýst samþykki var fengið hjá fimm heilbrigðum einstaklingum. CD4+CD25- voru einangraðar með jákvæðu og neikvæðu vali úr naflastreng. Frumur voru örvaðar um T frumuviðtakann með hjáparörvun um CD28. Frumurnar voru ræktaðar í 72 klst. og TGFb1, IL-21, TNFa, and-TNFa (Infliximab) eða IL-35 sett út í valdar ræktir. Litað var fyrir CD4, CD127, TGFbRII og FoxP3 og skoðað í flæðifrumusjá.

Niðurstöður:Ræsing CD4+ T-frumna undir áhrifum TGFb1 stuðlar að sérhæfingu T-stýrifrumna, sérstaklega ef þær eru ræstar ásamt CD28 (p<0,05). Auk þess virðist að TNFa hafi ekki áhrif á sérhæfingu T-stýrifrumna (p= 0,718). Jafnframt hefur and-TNFa enga virkni til þess að stuðla að sérhæfingu T-stýrifrumna. Frumniðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að TNFa meðferð hafi neikvæð áhrif á sérhæfingu Th17 frumna, frekari rannsóknir eru þó nauðsynlegar.

Ályktanir:Frumniðurstöður okkar benda til þess að TNFa hafi ekki áhrif á sérhæfingu T-stýrifrumna. Hins vegar er ekki ljóst hvort TNFa hafi áhrif á bælivirkni þeirra. Er það von okkar að áframhaldandi rannsóknir okkar á þessum lykilstjórnunarferlum meðal einstaklinga með iktsýki muni auka skilning okkar á þessum skæða sjúkdómi og opna möguleika á markvissari meðferðarleiðum hans.

 

 

 

 

V 53      Uppsetning á ónæmislitun á náttúrlegum T-stjórnfrumum og týmusfrumum í hestum

 

Mareike Heimann1, Ólöf Sigurðardóttir1, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir1, Vilhjálmur Svansson1, Eliane Marti2

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2dýrasjúkdómadeild háskólans í Bern

mareike@hi.is

 

Inngangur: Skortur á prófefnum hamlar mjög rannsóknum á ónæmissvörun hesta og sjúkdómum sem tengjast ónæmiskerfi þeirra. Lítið úrval er af mótefnum gegn sameindum á hestahvítfrumum en stundum má nota víxlbindandi mótefni framleidd gegn ónæmissameindum í öðrum dýrategundum eða mönnum. Við sýnum hér að kennisameindirnar FoxP3 á náttúrlegum T-stjórnfrumum og CD1 á týmusfrumum má greina í hestavef með einstofna mótefnum sem gerð eru gegn FoxP3 í mönnum og gegn CD1 í mönnum og naggrísum.

Efniviður og aðferðir: Einstofna mótefnin 221D/D3 (Serotec) gegn manna FoxP3, BCD1b3 gegn manna CD1 og CD1F2/1B12 gegn naggrísa CD1 voru notuð til að lita frosnar og/eða forma-línhertar vefjasneiðar. Framkallað var með avidin-biotin-peroxidasa aðferð (Vectastain Elite ABC kit). Skoðað og myndað með Nikon H550S.

Niðurstöður: Greinileg sértæk kjarnalitun fékkst með mótefninu gegn manna Foxp3 í formalín hertum eitilvef, görnum, lungum og húð. Binding mótefnisins kom heim og saman við áætlaða dreifingu á T-stjórnfrumum í vefjunum. CD1 sérvirku mótefnin tvö (a-manna CD1 og a-naggrísa CD1) gáfu greinilega frumuhimnulitun á týmusfrumum í berki á frosnum vef. Þetta er í samræmi við birtar niðurstöður með amanna CD1 litun á naggrísatýmus.

Ályktanir: Eftir því sem við best vitum er þetta í fyrsta sinn sem sýnt er fram á ónæmislitun á náttúrlegum T-stjórnfrumum og CD1 jákvæðum týmusfrumum í hestinum. Frekari rannsókna er þörf til að sýna ótvírætt fram á að mótefnin bindist samsvarandi FoxP3 og CD1 sameindum á hestafrumum eins og hjá mönnum og naggrísum. Einnig er verið að kanna tjáningu CD1 á sýnifrumum í ýmsum hestavefjum með CD1 sértæku mótefnunum.

 

 

V 54      B-minnisfrumur sem myndast við bólusetningu gegn meningókokkum C eru langlífar

 

Maren Henneken1, Nicolas Burdin2, Einar Thoroddsen3, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir1,4, Emanuelle Trannoy2, Ingileif Jónsdóttir1,4,5
1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2Sanofi pasteur, Marcy l Étolie, Frakklandi, 3háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala, 4læknadeild HÍ, 5Íslenskri erfðagreiningu

marenh@landspitali.is

 

Inngangur: Til að veita langtímavernd gegn smitsjúkdómum þurfa bólsetningar að vekja ónæmisminni. ELISpot próf hafa verið notuð til að greina B-minnisfrumur, eftir ósértæka örvun in vitro, sem hvetur þær til sérhæfingar í mótefnaseytandi frumur (antibody secreting cells AbSC). Markmiðið var að kanna langlífi B-minnisfrumna gegn Meningococcus type C (MenC) með tveimur aðferðum.

Efniviður og aðferðir: Eftir bólusetningu með próteintengdri MenC-fjölsykru (MenC-TT) voru MenC-sértækar B-minnisfrumur litaðar með flúrskinsmerktri MenC-fjölsykru og fjöldi þeirra ákvarðaður í flæðifrumusjá. ELISpot próf var gert til samanburðar og tíðni MenC-sértækra mótefnamyndandi frumna reiknuð sem hlutfall af heildarfjölda mótefnamyndandi frumna.

Niðurstöður:Tíðni beinmerktra MenC-sértækra B-frumna og IgG+ + IgA + MenC-sértækra mótefnaseytandi frumna bar ekki alveg saman fyrir hvern einstakling, en niðurstöður fyrir hópinn voru sambærilegar í blóði (N=19; P=0,2911) og nefkokseitlum (N=17; P=0,1157), en í hálseitlum gaf beinmerking hærri tíðni (N=14; P=0,8394). Fylgni var milli tíðni beinmerktra MenC-sértækra B-frumna og tíðni IgA+ + IgG+ MenC-sértækra mótefnaseytandi frumna í blóði (r=0,5159, P=0,0238) og nefkokseitlum (r=0,5261, P=0,0439), en ekki í hálseitlum. Einnig var fylgni milli tíðni beinmerktra B-frumna sértækra fyrir próteinhluta bóluefnisins (TT), og tíðni IgA+ + IgG+ TT-sértækra mótefnaseytandi frumna í blóði (N=19; r=0,5853, P= 0,0085).

Ályktanir:Beinmerking MenC-sértæka B-frumna og greining í flæðifrumusjá er næm, sértæk og fljótleg aðferð til að greina minnisfrumur og gefur sambærilegar niðurstöður og mæling á IgA+ + IgG+ MenC-sértækrum mótefnaseytandi frumum með ELISpot, sem er seinleg aðferð.

 

 

V 55      Endurteknar bólusetningar með hreinni pneumókokkafjölsykru eyða langlífum minnisfrumum og mótefnaseytandi frumum sem hafa myndast við frumbólusetningu nýburamúsa með próteintengdu fjöl–sykrubóluefni

 

Stefanía P. Bjarnarson1,2, Maren Henneken1, Giuseppe Del Giudice3, Emanuelle Trannoy4, Ingileif Jónsdóttir1,2,5

1Ónæmisfræðideild Landspítala , 2læknadeild HÍ, 3Novartis Vaccines, Siena, 4Sanofi pasteur, Marcy l´Etoile, Frakklandi, 5Íslenskri erfðagreiningu

stefbja@landspitali.is

 

Inngangur: Við höfum sýnt að endurbólusetning með hreinni pneumókokkafjölsykru (PPS) skerti PPS-sértæktmótefnasvar sem hafði myndast við frumbólusetningu með próteintengdu fjölsykrubóluefni (Pnc-TT), ef endurbólusett var undir húð (s.c.) en ekki ef endurbólusett var um nefslímhúð (i.n.). Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif endurbólusetninga með PPS á svörun fjölsykrusértækra B-minnisfrumna í milta og ratvísi PPS-sértækra langlífra mótefnaseytandi frumna og viðhald í beinmerg (BM).

Efniviður og aðferðir: Nýburamýs (viku ga,lar) voru frumbólusettar s.c. eða i.n. með Pnc-TT og ónæmisglæðinum LT-K63 og endurbólusettar með PPS +LT-K63 eða saltvatni einu sinni til þrisvar sinnum með 16 daga millibili. Miltu voru einangruð á degi sjö eftir endurbólusetningu og vefjasneiðar litaðar með PNA (kímmiðjur) og mótefnum gegn IgM og IgG. Fjöldi IgG+ mótefnaseytandi frumna (AbSC), sem voru sértækar fyrir fjölsykru- eða próteinhluta bóluefnisins, var metinn í milta og beinmerg með ELISPOT.

Niðurstöður: Hlutfall PNA+/IgM+ frumna sjö dögum eftir fyrstu endurbólusetningu var hæst í músum sem voru endurbólusettar með PPS+LT-K63 i.n. en lægst í þeim sem fengu PPS+LT-K63 s.c. Í samræmi við þær niðurstöður var fjöldi IgG+ kímmiðja mestur í músum sem voru endurbólusettar með PPS+LT-K63 i.n. en minnstur í þeim sem fengu PPS+LT-K63 s.c. Tíðni fjölsykrusértækra AbSCs í milta og beinmerg lækkaði marktækt við hverja endurbólusetningu með PPS+LT-K63 s.c. Endurtekin bólusetning með PPS+LT-K63 um nef lækkaði einnig tíðni PPS sértækra AbSCs í BM, en minna en þegar fjölsykran var gefin undir húð.

Ályktanir: Endurbólusetning með hreinni fjölsykru, sérstaklega undir húð, eyðir fjölsykrusértækum minnisfrumum og langlífum mótefnaseytandi frumum sem hafa myndast við frumbólusetninguna með próteintengdu fjölsykrubóluefni.

 

 

V 56      Niðurbrot cýtókína og annarra próteina með trypsíni úr þorski, Gadus Morhua

 

Una B. Jóhannsdóttir1, Bjarki Stefánsson2, Jón Bragi Bjarnason2, Ágústa Guðmundsdóttir1

1Matvæla- og næringarfræðideild, 2raunvísindadeild HÍ

unaj@hi.is

 

Inngangur:Rannsóknir sýna að þorskatrypsín (ÞT) er virkast 15 samanburðarensíma, að nautatrypsíni (NT) meðtöldu, gagnvart cýtókínum er gegna hlutverki í ónæmissvörun og bólgumyndun. Verkefnið er hluti stærri rannsóknaráætlunar sem miðar að auknum skilningi á áhrifum þorskatrypsíns á frumur í rækt og klínískar rannsóknir þar sem trypsín gaf góðan árangur við græðingu sára. Gerður var samanburður á getu þorskatrypsíns og nautatrypsíns til að brjóta niður cýtókín og önnur hnattlaga prótein í náttúrlegri myndbyggingu.

Efniviður og aðferðir:Þorskatrypsín er frá Ensímtækni ehf. Nautatrypsín, BSA, Myoglobin, Lysozyme og Lactoferrin eru frá Sigma Aldrich og ICAM-1 frá R&D systems. Ofangreind prótein voru meðhöndluð með þorskatrypsíni annnars vegar og nautatrypsíni hins vegar í mislangan tíma við 25°C. Til að meta getu ensímanna (ÞT og NT) til að brjóta niður próteinin voru sýnin greind með „reversed phase“ C2/C18 ST 4,5/100 súlu frá Pharmacia Biotech. Sýnin voru losuð af með styrkhallanda 0-70% acetonitrile (0,1% TFA í 80% acetonitrile). Línuritin úr keyrslunum voru borin saman til að meta umfang niðurbrotsins. Rúmmál sýnis af þorskatrypsíni og nautatrypsíni sem notað var við niðurbrot á hnattlaga próteinunum miðaðist við að þau
innihéldu jafnmikla virkni gagnvart BA-pNA. Próteinmælingar sýndu að próteinmagn sem notað var í meltuna á hnattlaga próteinunum var meira hjá nautatrypsíni en þorskatrypsíni.

Niðurstöður:Mælingar sýna að þorskatrypsín hefur hærri virkni en nautatrypsín gagnvart öllum hnattlaga próteinunum sem mæld voru. Niðurstöður á meltu á ICAM-1 gefa til kynna að þorskatrypsín hafi hærri virkni en nautatrypsín gagnvart þessu cýtókíni.

Ályktanir:Skýringin á því að serínpróteasar úr kaldsjávardýrum eins og þorski séu virkari gangvart hnattlaga próteinum gæti verið sú að þeir eru sveigjanlegri en sambærileg ensím úr meðalhitakærum lífverum eins og nautum og eigi því auðveldara með að melta próteinin.

 

 

V 57      Pneumókokkaprótín ásamt IC31® eru ónæmisvekj-andi í nýburamúsum og draga úr pneumókokkasýkingum

 

Þórunn Ásta Ólafsdóttir1,2,Karen Lingnau3, Eszter Nagy3, Ingileif Jónsdóttir1,2,4

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Intercell AG, Vín, 4deCODE genetics

thorasta@landspitali.is

 

Inngangur:Pneumókokkabóluefni sem eru á markaði í dag eru ekki ónæmisvekjandi í nýburum (fjölsykrubóluefni) eða dýr í framleiðslu (prótíntengd fjölsykrubóluefni). Því hafa sjónir manna beinst að vel varðveittum pneumókokkaprótínum sem gætu verndað gegn pneumókokkasýkingum óháð hjúpgerð bakteríunnar, auk þess sem þau eru ódýrari kostur en pró-tíntengd fjölsykrubóluefni. Tvö nýuppgötvuð prótín, PcsB og StkP, eru verndandi gegn pneumókokkasýkingum í fullorðnum músum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna ónæmisvekjandi og verndandi áhrif pneumókokka-prótínanna PcsB, StkP, PspA og PsaA í nýburamúsum.

Efniviður og aðferðir:Mýs voru bólusettar þrisvar sinnum með tveggja vikna millibili. Prótínin voru gefin ein og sér með IC31® eða öll fjögur saman með eða án IC31®. Mýs í viðmiðunarhópi fengu saltvatn. Mótefni í sermi voru mæld með ELISA. Tveimur vikum eftir þriðju bólusetninguna voru mýsnar sýktar um nef með S. pneumoniae og blóð- og lungnasýking metin með talningu á bakteríuþyrpingum.

Niðurstöður: Öll fjögur prótínin voru ónæmisvekjandi í nýburamúsum og IC31® jók ónæmissvarið gegn PcsB, StkP og PspA marktækt miðað við ef enginn ónæmisglæðir var gefinn. Mýs sem voru bólusettar með StkP eða PspA höfðu marktækt minni blóðsýkingu en mýs í viðmiðunarhópi. Hópurinn sem fékk öll fjögur prótínin ásamt IC31® var best verndaður gegn blóðsýkingu og sá eini sem sýndi marktæka vernd gegn lungnasýkingu.

Ályktanir: PcsB, StkP, PspA og PsaA eru öll ónæmisvekjandi í nýburamúsum og blanda þessara prótína ásamt ónæmisglæðinum IC31® getur dregið úr blóð- og lungnasýkingum af völdum S. pneumoniae. Nauðsynlegt virðist að blanda saman nokkrum prótínum til að vekja verndandi ónæmi gegn pneumókokkasýkingum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

V 58      IC31®, nýr samsettur ónæmisglæðir, eykur verndandi ónæmissvar gegn pneumókokkasýkingum í nýburamúsum eftir bólusetningu með prótíntengdu fjölsykrubóluefni

 

Þórunn Ásta Ólafsdóttir1,2, Karen Lingnau3, Eszter Nagy3, Ingileif Jónsdóttir1,2,4

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Intercell AG, Vín, 4deCODE genetics

thorasta@landspitali.is

 

Inngangur:Prótíntengd fjölsykrubóluefni (PCV) gegn S. pneumoniae geta dregið úr pneumókokkasýkingum í ungum börnum, en nauðsynlegt er að bólusetja nokkrum sinnum til að vekja verndandi mótefnasvar. Ónæmisglæðar gætu aukið ónæmissvörun nýbura og hugsanlega leitt til þess að hægt væri að fækka bólusetningum. IC31® er nýr ónæmisglæðir sem samanstendur af bakteríudrepandi peptíði og fákirnisröð sem gefur boð í gegnum Toll-like viðtakann TLR9. Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif IC31® á ónæmissvör nýburamúsa við bólusetningu með PCV.

Efniviður og aðferðir: Nýburamýs voru bólusettar einu sinni eða tvisvar með PCV úr hjúpfjölsykru af gerð 1 tengdri við Tetanus Toxoid (PCV1-TT) með eða án IC31® eða CpG-ODN. Mótefni í sermi voru mæld með ELISA. Fjórum vikum eftir fyrstu bólusetningu eða tveimur vikum eftir aðra bólusetningu voru mýsnar sýktar um nef með S. pneumoniae af hjúpgerð 1. Sólarhring síðar voru lungna- og blóðsýking metnar með talningu á bakteríuþyrpingum.

Niðurstöður: Ein bólusetning með PCV1-TT og lágum (L) skammti af IC31® jók mótefnamagn nýburamúsanna meira en hár (H) skammtur af IC31®. Í lok tilraunarinnar var mótefnamagn hópa sem fengu tvo skammta af PCV1-TT með annaðhvort H eða L skammti af IC31® svipað þó svo sá hópur sem fékk L skammt af IC31® myndaði verndandi mótefnasvar fyrr en sá sem fékk H skammt. Einn skammtur af PCV1-TT og L skammti af IC31® verndaði nýburamýs gegn blóðsýkingu og olli marktækri minnkun á lungnasýkingu miðað við mýs sem voru bólusettar með PCV1-TT án ónæmisglæðis. Tvær bólusetningar með PCV1-TT með eða án ónæmisglæðaanna IC31® eða CpG-ODN vernduðu nýburamýsnar algjörlega gegn pneumókokkasýkingum.

Ályktanir: IC31® er lofandi ónæmisglæðir fyrir nýburabólusetningar þar sem hann veitir aukið og hraðara mótefnasvar þegar hann er gefinn með PCV1-TT.

 

 

V 59      Minnkuð tjáning á PD-1 ónæmisviðtakanum hjá sjúklingum með rauða úlfa og tengsl við PD-1.3A arfgerðina

 

Helga Kristjánsdóttir1,2, Kristján Steinsson1,4, Iva Gunnarsson3, Gerður Gröndal1, Kristján Erlendsson1,4, Marta E. Alarcón-Riquelme2

1Rannsóknarstofu í gigtsjúkdómum Landspítala, 2Dpt. of Genetics and Pathology, Rudbeck Laboratory, Uppsala University, 3Dpt. of Medicine, Rheumatology Unit, Karolinska Sjukhuset, Solna, 4læknadeild HÍ

helgak@landspitali.is

Inngangur: Markmið verkefnisins var að kanna yfirborðstjáningu PD-1 hjá sjúklingum með rauða úlfa (systemic lupus erythematosus, SLE), ættingjum og viðmiðunarhópi í tengslum við PD-1.3A arfgerðina. PD-1.3A er skilgreindur áhættuþáttur fyrir rauða úlfa. PD-1.3A breytir bindistað RUNX umritunarþáttar í PDCD1 geninu, sem skráir fyrir ónæmisviðtakann PD-1. PD-1 viðtakinn er tjáður á ræstum T og B frumum og gegnir mikilvægu hlutverki í útvefjaþoli með bælingu á frumu-
ræsingu.

Efniviður og aðferðir:Rannsakaðir voru 15 sjúklingar með rauða úlfa, sjö ættingjar og 16 heilbrigðir viðmiðunareinstaklingar. Einkjarna hvítfrumur voru ræstar með aCD3 and aCD28 og merktar með einstofna flúrljómandi mótefnum gegn PD-1, CD3, CD4, CD8, CD25 fyrir frumuflæðisjárgreiningu. Skoðaður var fjöldi frumna sem tjá PD-1 og meðaltjáning (meðalflúrstyrkur) PD-1. Tölfræðilegur samanburður var gerður á sjúklingum með rauða úlfa, ættingjum og viðmiðum og á PD-1.3AG og PD-1.3GG arfgerðum.

Niðurstöður:Fjöldi PD-1+ frumna var markækt lægri hjá sjúklingum með rauða úlfa samanborið við ættingja og viðmið. Meðaltjáning PD-1 var marktækt lægri hjá sjúklingum með rauða úlfa og ættingjum samanborið við viðmið og var þessi munur var mest áberandi á CD4+CD25+ T frumum. Í öllum hópum var PD-1 tjáning marktækt hærri á CD4+CD25hi T frumum samanborið við CD4+CD25lo. Bæði FoxP3+ og FoxP3- CD4+CD25+ tjáðu PD-1. Marktæk fylgni er á milli lágrar PD-1 tjáningar og PD-1.3A arfgerðar. Sjúklingar með rauða úlfa og ættingjar með PD-1.3AG sýndu marktækt lægri PD-1 tjáningu samanborið við sjúklinga með rauða úlfa og ættingja með PD-1.3GG arfgerð.

Ályktanir:Þetta er fyrsta rannsókn á mönnum sem sýnir minnkaða tjáningu PD-1 viðtakans hjá sjúklingum með rauða úlfa og ættingjum og jafnframt tengsl við PD-1.3A arfgerðina. Við ályktum að PD-1.3A erfðabreytileikinn liggi að baki í breyttir virkni CD4+CD25+ T frumna hjá sjúklingum með rauða úlfa og gegni mikilvægu hlutverki í brostnu sjálfsþoli.

 

 

V 60      Aukin notkun sýklalyfja og vélindabakflæði meðal IgAD einstaklinga, tengsl við H. pylorisýkingar

 

Guðmundur H. Jörgensen1,3, Ásgeir Theódórs2, Björn R. Lúðvíksson1,3

1Læknadeild HÍ, 2lyflækningadeild, 3ónæmisfræðideild Landspítala

gudmhj@landspitali.is

 

Inngangur:Sértækur skortur á mótefnaflokki A (IgAD) er skilgreindur sem magn IgA í sermi 0,07g/L, og eðlilegt magn IgG og IgM. IgA gegnir veigamiklu hlutverki í sértækum vörnum slímhúða en lítið er vitað um algengi meltingarfæraeinkenna og tíðni virkra H. pylori sýkinga hjá IgAD einstaklingum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tengsl IgAD við meltingarfæraeinkenni, virka H. pylori sýkingu og notkun sýklalyfja.

Efniviður og aðferðir: Alls svöruðu 32 fullorðnir IgAD einstaklingar spurningalista um meltingarfæraeinkenni, bólgu- og sárasjúkdóma í efri meltingarvegi og sýklalyfjanotkun. Blásturspróf, til greiningar á virkri H. pylori sýkingu, voru framkvæmd. Til samanburðar voru 63 einstaklingar, af sama kyni og aldri, valdir handahófskennt.

Niðurstöður:Enginn marktækur munur var á milli IgAD hóps og viðmiðunarhóps hvað varðar algengi virkrar H. pylori sýkingu (38% á móti 33%) og samanlagt algengi bólgu- og sárasjúkdóma í efri meltingarvegi (22% á móti 16%). IgAD hópurinn var hins vegar marktækt líklegri til að upplifa bakflæði (28% á móti 11%) og brjóstsviða (38% á móti 21%) í tengslum við máltíðir eða ákveðið matarræði. IgAD hópurinn var jafnframt marktækt líklegri til að hafa fengið sýklalyfjameðferð síðasta árið (72% á móti 33%) en enginn marktækur munur var á reglulegri notkun NSAID lyfja (16% á móti 21%) eða magalyfja (22% á móti 14%). Hvorki sýklalyfjanotkun eða jákvætt H. pylori blásturspróf höfðu fylgni við meltingarfæraeinkenni eða bólgu- og sárasjúkdóma. Jafnframt virtist almenn sýklalyfjanotkun engin áhrif hafa á H. pylori sýkingar.

Ályktanir: IgAD einstaklingar eru ekki í aukinni áhættu fyrir H. pylori sýkingum eða bólgu- og sárasjúkdómum í efri hluta meltingarvegar. Hinsvegar upplifa IgAD einstaklingar marktækt oftar bakflæði og brjóstsviða. Þetta vekur upp spurningar hvort vélindaslímhúð IgAD einstaklinga sé hugsanlega næmari fyrir áreitum líkt og magasýru.

 

 

V 61      Meltuónot hjá Íslendingum á 10 ára tímabili. Faralds-fræðileg rannsókn

 

Linda B. Ólafsdóttir1, Hallgrímur Guðjónsson2, Bjarni Þjóðleifsson2

1Módelhús ehf. Reykjavík, 2Landspítala

linda04@ru.is

 

Inngangur: Meltuónot (functional dyspepsia) er algeng sjúkdómsmynd og eru einkennin oft langvarandi. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna algengi og þróun meltuónota hjá Íslendingum á 10 ára tímabili og kanna tengsl þeirra við einkenni frá öðrum líffærakerfum og við lyf.

Efniviður og aðferðir: Spurningalisti var sendur til 2000 manna úrtaks Íslendinga á aldrinum 18-75 ára árið 1996 og aftur árið 2006 á sama úrtaki. Spurningalistinn innihélt 46 spurningar um einkenni frá meltingarfærum og 42 spurningar um einkenni sem tengdust öðrum líffærakerfum, lýðfræðilegum og sállíkamlegum þáttum. Meltuónot voru greind með einkennalista sem innihélt 19 mismunandi einkenni.

Niðurstöður: Árið 1996 var svarshlutfall 67% en af þeim svöruðu 68% árið 2006. Árið 1996 voru 14% með meltuónot (13% karla, 15% kvenna) en 18,3% árið 2006 (15% karla, 21% kvenna) með marktækan kynjamun árið 2006. Meltuónot eru marktækt algengari hjá yngri einstaklingum. Einstaklingar eru ekki alltaf með sömu einkenni einkennalista meltuónota eftir 10 ár og verkir aukast. Ekki eru tengsl milli þyngdar og meltuónota. Einstaklingar með meltuónot eru marktækt líklegri til að missa úr vinnu vegna veikinda en aðrir. Tengsl eru á milli töku aspiríns, parasetamóls og verkjalyfja almennt og gigtarlyfja og einkenna meltuónota. Tengsl eru á milli kviðverkja í æsku og einstaklinga með meltuónot. Einstaklingar með meltuónot leita oftar til læknis en aðrir og oftar vegna kviðverkja.

Ályktanir:Um fimmtungur Íslendinga lýsa meltuónotum. Einstaklingar með meltuónot eru líklegir til að hafa þau enn 10 árum seinna. Einkenni meltuónota geta breytst eftir 10 ár og verkir versnað. Meltuónot hafa áhrif á lífsgæði og aukna notkun heilbrigðiskerfisins.

 

 

V 62      Iðraólga, greiningaraðferðir og meðferð. Könnun meðal meltingarfæra-, heimilis- og kvensjúkdómalækna

 

Linda B. Ólafsdóttir1, Hallgrímur Guðjónsson2, Jón Steinar Jónsson3, Bjarni Þjóðleifsson2

1Módelhús ehf. Reykjavík, 2Landspítala, 3heilsugæslunni Garðabæ

linda04@ru.is

 

Tilgangur: Iðraólga er algengur sjúkdómur og eru einkennin oft langvarandi. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna greiningaraðferðir, þekkingu á alþjóðlegum greiningarviðmiðum og meðferð við iðraólgu hjá þremur hópum lækna; heimilislækna, kvensjúkdómalækna og meltingarfæralækna.

Efniviður og aðferðir: Spurningalisti var sendur til 218 lækna á Íslandi. Spurt var um algengi meltingafærasjúkdóma og hversu margir fái greininguna iðraólga. Einnig var spurt um hvaða greiningaraðgerðir voru notaðar til að greina iðraólgu og meðferð sem og um einstök greiningarviðmið á iðraólgu.

Niðurstöður: Áttatíu og fimm læknar svöruðu könnuninni, 40% heimilislækna, 45% meltingarfæralækna og 39% kvensjúkdómalækna. Að meðaltali greina meltingafæralæknar 13 skjólstæðinga með iðraólgu á mánuði, heimilislæknar 2,5 og kvensjúkdómalæknar tvo. Sjötíu og níu prósent lækna greindu iðraólgu með sjúkrasögu, 38% nefndu skoðun og útilokun annarra sjúkdóma, 22% notuðu þekkt greiningaviðmið og 7% sendu skjólstæðinga í speglun. Sextíu og sex prósent lækna töldu að til væru alþjóðleg greiningarviðmið iðraólgu (100% meltingarfæralækna, 64% heimilislækna og 33% kvensjúkdómalækna). Tuttugu og eitt prósent þekktu Manning, 34% Rome og 28% Rome II. Níutíu og sjö prósent svarenda veitti ráðleggingar varðandi mataræði. Flestir læknar ávísa lyfjum við iðraólgu, 86% ávísa Spasmerin, 36% Husk, 25% Librax. Þunglyndislyfjum var ávísað vegna iðraólgu hjá 7% skjólstæðinga og ýmsum öðrum lyfjum hjá 9%. Fimmtán prósent ráðlögðu hreyfingu og 14% slökun. Um 81% svarenda veittu fræðslu um iðraólgu.

Ályktanir:Aðalaðferð við greiningu á iðraólgu er sjúkrasaga en einungis einn fimmti þessara lækna þekkja alþjóðlegu greiningarviðmiðin við iðraólgu. Nánast allir læknar veita ráðgjöf um mataræði og mjög margir fræðslu um sjúkdóminn.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

V 63      Lektínferilsprótein, sykrun og IgA1+2 útfellingar í IgA nýrnameini

 

Ragnhildur Kolka1, Sverrir Harðarson2, Magnús Böðvarsson3, Sigrún Laufey Sigurðardóttir1, Helgi Valdimarsson1, Þorbjörn Jónsson4

Ónæmisfræðideild1, meinafræðideild2, lyflækningadeild3, Blóðbankinn4 Landspítala

ragnhk@landspitali.is

 

Inngangur: IgA nýrnamein (IgA-N) einkennist af útfellingum á IgA ónæmisfléttum (IgA-IC) og komplementum í nýrnagauklum. Útfellingarnar valda bólgu og starfsemiskerðingu, sem leitt getur til nýrnabilunar. Ef til vill stafa ónæmisútfellingarnar af gallaðri sykrun (glycosylation) á IgA sameindum og skertri upptöku IgA af átfrumum. Markmið rannsóknarinnar er að kanna samspil gallaðrar IgA sykrunar og þátta lektínferils komplementkerfisins.

Efniviður og aðferðir: Blóðsýnum var safnað frá 49 sjúklingum með IgA-N og úr 46 heilbrigðum einstaklingum. IgA var einangrað með sækniskiljun. Með ELISA mælingu voru sykrur á hjöruliðssvæði IgA1 metnar með sértækum lektínum (HAA, HPA, SN). Magn og virkni lektínferilspróteina var mælt með ELISA aðferð og IgA-IC og C3d með ELISA aðferð eftir PEG útfellingu. Nýrnasýni frá 22 IgA nýrnameinssjúklingum voru lituð fyrir IgA1 og IgA2 með ónæmisflúrskinslitun.

Niðurstöður: Af 22 nýrnasýnum reyndust sex (27%) vera jákvæð fyrir bæði IgA1 og IgA2, en í 16 (73%) tilvikum greindust einungis útfellingar af IgA1. IgA nýrnameinssjúklingar sýndu hærri gildi við mælingu með HAA, HPA og SN lektínum, borið saman við heilbrigða. Þetta er merki um Gal-NAc sykrun í endastöðu, sem telst vera óeðlilegt. Ekki fannst marktækur munur milli heilbrigðra og IgA nýrnameinssjúklinga hvað varðar magn lektínpróteina. Hins vegar fannst marktæk neikvæð fylgni milli MASP-3 magns og C4d magns annars vegar og óeðlilegrar IgA sykrunar hins vegar.

Ályktanir: Liðlega fjórðungur IgA-N sjúklinga er með útfellingar af bæði IgA1 og IgA2 í nýrnagauklum. Hluti sjúklinga með IgA nýrnamein er með merki um óeðlilega sykrun á IgA sameindum í blóði og þessi óeðlilega sykrun tengist lágum MASP-3 gildum.

 

 

V 64      Brjóstsviði hjá Íslendingum á 10 ára tímabili

 

Linda B. Ólafsdóttir1, Hallgrímur Guðjónsson2, Bjarni Þjóðleifsson2

1Módelhús ehf. Reykjavík, 2Landspítala

linda04@ru.is

 

Tilgangur: Brjóstsviði er algengur og oft langvarandi vandamál. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna algengi hans meðal Íslendinga á 10 ára tímabili og kanna tengsl við einkenni frá öðrum líffærakerfum sem og við lyf.

Efniviður og aðferðir: Spurningalisti var sendur til 2000 manna úrtaks Íslendinga á aldrinum 18-75 ára árið 1996. Rannsóknin var endurtekin 2006 á sama úrtaki og að auki um 300 einstaklinga á aldrinum 18-27 ára. Spurningalistinn innihélt 46 spurningar um einkenni frá meltingarfærum og 42 spurningar um einkenni sem tengdust öðrum líffærakerfum, lýðfræðilegum og sállíkamlegum þáttum.

Niðurstöður: Árið 1996 var svarshlutfall 67% en af þeim svöruðu 68% árið 2006. Brjóstsviði var greindur með sjálfsmati einstaklinga. Árið 1996 sögðu 43,1% einstaklinga vera með brjóst-sviða en 45,1% 2006. Tveir þriðju sem skráði brjóstsviða 1996 var einnig með hann 2006. Ekki var munur á brjóstsviða eftir aldri. Nær allir sögðu að lyf við brjóstsviða hefðu áhrif á einkennin. Fjórðungur eru á stöðugri lyfjameðferð við brjóstsviða. Aðrir taka lyf við einkennum brjóstsviða eftir þörfum. Lyfjanotkun við brjóstsviða eykst með hækkandi aldri. Marktæk tengsl eru á milli brjóstsviða og meltuónota hjá einstaklingum bæði 1996 og 2006. Einstaklingar með of háan eða of lágan líkamsþyngdarstuðul eru líklegri til að fá brjóstsviða. Einstaklingar með brjóstsviða eru líklegri en aðrir að fara til læknis og fara oftar. Reykingamenn hafa oftar brjóstsviða. Þriðjungur telur brjóstsviða hafi áhrif á matarlyst og 20% segjast sleppa ákveðnum fæðutegundum og áfengi. Helmingur telur brjóstsviða hafa áhrif á svefn.

Ályktanir:Meirihluti, eða tveir þriðju einstaklinga með brjóstsviða, virðist hafa þrálátan sjúkdóm og meirihluti, eða þrír fjórðu, notar ekki lyf að staðaldri. Brjóstsviði hefur áhrif á lífsgæði einstaklinga og notkun þeirra á heilbrigðiskerfinu og lyfjum er meiri en annarra.

 

 

V 65      Flögnunarheilkenni og tengsl við augnþrýsting og þykkt og boglínu hornhimnu

 

Ársæll Arnarsson1,2, Karim Damji3, Friðbert Jónasson1

1Augndeild Landspítala, 2Háskólinn á Akureyri, 3Dpt. of Ophthalmology, University of Alberta, Edmonton, Kanada

aarnarsson@unak.is

 

Inngangur: Nýleg rannsókn sem byggði á klínísku úrtaki sýndi að í augum með flögnunarheilkenni (Exfoliation Syndrome – XFS) er bogi hornhimnunnar meiri en í augum sem ekki hafa heilkennið. Auk þessa kom í ljós að hornhimnan var þynnri í augum með XFS og eðlilegan augnþrýsting, en þykkari í XFS augum með gláku. Í okkar rannsókn eru fyrrnefndar niðurstöður sannreyndar í stóru slembiúrtaki.

Efniviður og aðferðir: Alls voru 1045 þátttakendur 50 ára og eldri, sem allir voru valdir úr Þjóðskrá. Þeir voru skoðaðir með tilliti til flögnunarheilkennis og gláku, auk þess sem Scheimpflug-ljósmyndir voru teknar af fremra hólfi augans.

Niðurstöður: Í þeim 90 augum sem greindust með flögnunarheilkenni var meðal K1-gildið (flatt) 43,4 (staðalfrávik 1,4) sem var marktækt frábrugðið (p=0,04) gildinu í þeim augum sem ekki voru með heilkennið (meðaltal 42,9; staðalfrávik 1,5). Ef hins vegar stýrt var fyrir áhrifum aldurs glataðist marktæknin (p=0,275). K2-gildin (bratt) í augum með XFS (meðaltal 44,2; staðalfrávik 1,6) voru líka marktækt frábrugðin (p=0,05) þeim sem mældust í augu, sem ekki voru með flögnunarheilkenni (meðaltal 43,7; staðalfrávik 1,6). Þessi munur hélst ekki marktækur eftir að stýrt hafði verið fyrir áhrifum aldurs. Meðalhornhimnuþykkt einstaklinga með flögnunarheilkenni og gláku reyndist 0,541 mm (staðalfrávik 0,049), samanborið við 0,532 mm (staðalfrávik 0,033) í augum sem höfðu heilkennið en án gláku (p=0,597).

Ályktanir: Niðurstöður nýlegrar rannsóknar sem framkvæmd var á klínísku úrtaki koma ekki fram þegar rannsókn er gerð á stóru slembiúrtaki. Þetta bendir til þess að vel þurfi að huga að áhrifum aldurstengdra breytinga sem geta haft mjög mikil áhrif á klínísk úrtök.

 

 

V 66      Ísoform AMPK í æðaþelsfrumum

 

Brynhildur Thors1, Haraldur Halldórsson1,2, Guðmundur Þorgeirsson1,2
1Læknadeild HÍ, 2Landspítala

brynhit@hi.is

 

Inngangur: AMPK er ser/thr kínasi samsettur úr hvötunareiningu, a, og tveimur stjórnunareiningum b og g. Tvö mismunandi ísoform eru af a einingunni, AMPKa1 sem er tjáður í flestum frumugerðum og a2 sem er mest tjáður í lifur, hjarta og þverrákáttum vöðva. Æðaþelsfrumur tjá aðallega a1 og hafa sumir talið að a2 ísoformið sé jafnvel alls ekki til staðar í æðaþeli.

Efniviður og aðferðir: Æðaþelsfrumur (HUVEC) voru teknar úr bláæðum naflastrengja og ræktaðar þar til þær náðu samfelldri þekju. Lípófektamín RNAiMAX var notað við siRNA meðhöndlun frumnanna. Eftir meðhöndlun með áverkunarefnum voru frumurnar drepnar og sértæk fosfórun próteina greind með Western blotting/ECL.

Niðurstöður: Western bletting gegn a ísoformum AMPK sýndi að bæði ísoformin eru tjáð í ræktuðum æðaþelsfrumum. Hindrun á AMPK með Compound C eftir thrombín gjöf dró verulega úr fosfórun NO syntasa (eNOS) þegar frumurnar voru í æti 199. eNOS fosfórunin var hins vegar óbreytt eftir meðhöndlun með thrombíni þegar slökkt var á tjáningu annars hvors ísoformsins með sértæku siRNA og slökkva þurfti á báðum ísoformunum samtímis til að fá fram hindrun á fosfórun eNOS. Frumur meðhöndlaðar með siRNA fyrir AMPKa2 í 48 tíma sýndu breytt útlit og minnkuð fosfórun varð á lifunar-kínasanum Akt í þessum frumum. Engin slík áhrif fengust við siRNA meðhöndlun gegn AMPKa1.

Ályktanir: Greinilegt er að bæði a ísoform AMPK eru tjáð í HUVEC og gegna hlutverki í AMPK-háðri fosfórun á eNOS eftir thrombín gjöf í frumum ræktuðum við aðstæður sem leyfa lækkun í ATP (ræktun í æti 199).

 

 

V 67      Karlar með kæfisvefn svitna oft á næturna. Faraldsfræðilegur samanburður

 

Erna Sif Arnardóttir1,2, Bryndís Benediktsdóttir1,2, Þórarinn Gíslason1,2

1Landspítala,2 læknadeild HÍ

erna@mail.med.upenn.edu

 

Inngangur:Nætursviti er einkenni margra sjúkdóma en getur líka komið upp hjá frísku fólki. Kæfisvefnssjúklingar kvarta oft um að þeir svitni mikið á næturna. Ekki hefur verið kannað nánar hvað einkennir slíka einstaklinga og aldrei hefur verið leitað viðmiðs úr almennu þýði. Markmið rannsóknarinnar var að skoða algengi nætursvita hjá körlum með kæfisvefn. Einnig tengsl þessa einkennis við almennt heilsufar og önnur einkenni kæfisvefns og bera saman við hóp frískra karla á sama aldri.

Efniviður og aðferðir: Í kæfisvefnshópnum voru 312 karlar, á aldrinum 40-70 ára, með nýgreindan kæfisvefn. Viðmiðunarhópurinn var slembiúrtak 333 karla á sama aldri, sem tók þátt í fjölþjóðarannsókn á algengi lungnateppu (www.BOLDCOPD.org) þar sem val á efniviði og aðferðir voru stöðluð. Þátttakendur svöruðu spurningalistum um nætursvita, heilsufar og svefn. Dagsyfja var metin með Epworth Sleepiness Scale (ESS stig).

Niðurstöður: Karlar með kæfisvefn svitna oftar (oftar en þrisvar til fimm sinnum í viku), en karlar í viðmiðunarhópi (28,2% á móti 9,6%, p<0,001). Þessir sjúklingar eru yngri (p=0,01) og töluvert syfjaðri (p=0,01) en aðrir karlar með kæfisvefn. Karlmenn í viðmiðunarhópi sem svitna oft á næturna hrjóta oftar hávært (p=0,003).

Ályktanir: Tíðni nætursvita þrisvar til fimm sinnum í viku eða oftar meðal karla með kæfisvefn er þrisvar sinnum hærri en meðal karla í viðmiðunarhópi. Þessir sjúklingar eru yngri og syfjaðri en aðrir kæfisvefnsjúklingar. Karlar í viðmiðunarhópi sem svitna oft á næturna eru líklega í aukinni áhættu að vera með kæfisvefn en aðrir.

 

 

V 68      Áhrif mismunandi vökvagjafar á smáæðablóðflæði í þörmum eftir opnar kviðarholsaðgerðir

 

Gísli H. Sigurðsson1, Oliver Limberger2, Luzius B. Hiltebrand2

1Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala og læknadeild HÍ, 2Dept. Of Anaesthesiology, Inselspital, og háskólanum í Bern

gislihs@landspitali.is

 

Inngangur: Truflanir á smáæðablóðflæði þarma eru algengar eftir stórar kviðarholsaðgerðir og geta leitt til alvarlegra aukakvilla. Við könnuðum áhrif mismunandi vökvagjafar á smáæðablóðflæði þörmum eftir kviðarholsaðgerðir í svínum.

Efniviður og aðferðir: Tuttugu og sjö svín voru svæfð, lögð í öndunarvél og skipt í þrjá meðferðarhópa (n=9 í hverjum). Allir hóparnir þrír, A, B og C fengu Ringers laktat (RL) lausn í æð 3 ml/kg/klst. Hópur B fékk auk þess 250 ml. bólusa af RL og hópur C 250 ml. bólusa af sterkjulausn (hydroxyethyl starch 140/0,4) í æð. Vökvabólus var gefinn í hópum B og C ef miðbláæðablóðsmettun var undir 60%. Hjartaútfall var mælt með stöðugri “thermodilution”, svæðisblóðflæði í “superior mesenteric” slagæðinni með “transit time flowmetry” og smáæðablóðflæði í slímhúð og vöðvalagi smáþarma með laser Doppler flæðimælingu.

Niðurstöður: Eftir fjögurra stunda meðferð voru blóðþrýstingur, hjartaútfall, mesenterialslagæðarblóðflæði og miðbláæðablóðsmettun áþekk í hópum B og C en voru lakari í hópi A. Í hópi C jókst smáæðablóðflæði í slímhúð smáþarma um 50% og súrefnisþrýstingur í þarmavegg um 30% en bæði héldust óbreytt eða minnkuðu í hópum A og B (p<0,01).

Ályktanir: Vökvameðferð með sterkjulausn jók marktækt smáæðablóðflæði og súrefnisþrýsting í smáþörmum eftir kviðarholsskurðaðgerðir. Meðferð með saltvatnslausn hafði ekki slík áhrif þrátt fyrir sambærilegan blóðþrýsting og hjartaútfall. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til að vökvameðferð með sterkjulausn geti hugsanlega minnkað hættu á blóðþurrð í þörmum eftir kviðarholsskurðaðgerðir miðað við notkun saltvatnslausna.

 

 

V 69      Grindarbotnsþjálfun með raförvun og án sem meðferð við áreynsluþvagleka

 

Halldóra Eyjólfsdóttir, María Ragnarsdóttir, Guðmundur Geirsson

Endurhæfingardeild Landspítala

halldey@landspitali.is

 

 

Inngangur: Þvagleki er algengt vandamál hjá konum og talið er að 12-55% kvenna finni fyrir þvagleka einhvern tímann á ævinni. Það er því mikilvægt að finna árangursríka meðferð við honum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna gagnsemi og árangur grindarbotnsþjálfunar með og án raförvunar sem meðferð við áreynsluþvagleka hjá konum.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru þægindaúrtak 24 kvenna á aldrinum 27-73 ára sem greindar höfðu verið með áreynsluþvagleka. Útilokaðar voru barnshafandi konur og konur með bráðaþvagleka. Þátttakendum var skipt í tvo hópa með slembivali, hópur 1 stundaði hefðbundna grindarbotnsþjálfun en hópur 2 notaði raförvun að auki. Styrkur og úthald grindarbotnsvöðva var metinn á Oxford-kvarða með þreifingu og vöðvarafriti (Myomed 930 Enraf Nonius), sem sýnir hámarks-, lágmarks-, heildar- og meðalspennu í samdrætti og hvíld. Konurnar svöruðu spurningalista ICSsf fyrir og eftir meðferð um magn og gerð þvaglekans, áhrif á lífsgæði, félagslíf og kynlíf. Þær mátu einnig þvaglekann á VAS kvarða fyrir og eftir meðferð. Konur í báðum hópum gerðu grindarbotnsæfingar tvisvar á dag, spenntu í sjö sekúndur með sjö sekúndna hléi á milli í alls 15 mínútur. Konur í hópi 2 notuðu auk þess rofna raförvun á grindarbotnsvöðva um leggöng samtímis æfingunum.

Niðurstöður: Ekki var lýðfræðilegur munur á hópunum í upphafi meðferðar að aldri undanskildum en konur í hópi 2 voru marktækt yngri. Eftir meðferð höfðu báðir hópar marktækt aukið styrk í grindarbotnsvöðvum (p=0,007; p=0,005) og höfðu marktækt minni þvagleka (p=0,008). Hópur 2 hafði auk þess marktækt lægri lágmarksspennu (slökun) (p=0,013) á EMG. Munur á árangri milli hópanna var hvergi marktækur. Hjá 70% kvennanna var þvaglekinn minni eða horfinn.

Ályktanir: Grindarbotnsþjálfun er árangursrík við áreynsluþvagleka bæði með og án raförvunar. Ekki sást munur milli meðferðarhópa hvað varðar árangur og virðist raförvun til viðbótar grindabotnsþjálfun ekki bæta árangur meðferðar hjá konum með áreynsluþvagleka. Raförvunarhópurinn náði hins vegar betri slökun í grindarbotnsvöðvum eftir meðferð. Raförvun gæti því verið heppilegur kostur í meðferð vandamála þar sem yfirspenna er í grindarbotni til dæmis við lélega blöðrutæmingu (dysfunctional voiding). Sterk fylgni áreynsluþvagleka við ósérhæfða verki frá mjóbaki og spjaldliðum gerir það að verkum að við meðferð vandamálsins er mikilvægt að líta til fleiri þátta en grindarbotnsvöðva eingöngu.

 

 

V 70     Áhrif langvarandi streitu á skammtíma stress-viðbrögð

 

Jón Ó. Skarphéðinsson1, Mikael Elam2, Stein Knardahl3, Þorsteinn Gunnarsson4

1Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 2Klin Neurofys Lab, Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg, 3Arbejdsmiljöinstitutet í Ósló, 4Dept. of Surgery, Div. of Neurosurgery McMaster University, Hamilton, Kanada

joskarp@hi.is

 

Inngangur:Margt bendir til að langvarandi streita kunni að auka skammtímaviðbrögð ósjálfráða taugakerfisins við stressáreitum. Þetta gæti magnað upp blóðþrýstingsviðbrögð og þannig komið við sögu í þróun háþrýstings.

Efniviður og aðferðir:Við leituðumst við að kanna þetta hjá læknastúdentum á klásusmisseri en ætla má að þeir hafi verið undir miklu álagi þetta misseri. Könnuðum þetta með því að bera saman viðbrögð stúdentanna við skammtíma stressáreitum í upphafi misserisins (sept.) og aftur rétt fyrir próf (nóv.). Áreitin sem við notuðum voru a) upplestur texta í tvær mín., b) litarugl (Word Color Conflict Test, WCCT) í 10 mín. og c) hönd í ísvatn (Cold Pressor Test, CPT) í tvær mín. Mæld voru hjartsláttar- (HT) og díastóluþrýstingur, viðbrögð sympatískra tauga til æða í beinagrindarvöðvum (MSA), styrkur noradrenalíns og adrenalíns í blóði. Alls voru 17 stúdentar rannsakaðir.

Niðurstöður:Miklir tæknilegir örðugleikar eru samfara því að skrá sympatíska taugavirkni undir stressáreiti því alls kyns truflanir geta gert úrvinnslu ómögulega. Mikil afföll urðu því í taugaritum og skýrir það mismunandi fjölda einstaklinga í tölfræðilegum útreikningum (n=7-17). Hjartsláttarþrýstingur jókst við stressáreitin en ekki var munur á viðbrögðunum milli september og nóvember. Sama er að segja um viðbrögð noradrenalíns og adrenalíns við litarugli. Hins vegar reyndust viðbrögð MSA við litarugli meiri í nóvember heldur en í september (n=7). Bæði er heildarvirknin meiri og viðbragðsmynstrið öðruvísi. Díastóluþrýstingur hækkaði verulega í upphafi litarugls og hélst hár í september en fór hins vegar lækkandi þrátt fyrir viðvarandi stress í nóvember. Hliðstæður munur er ekki fyrir hendi í upplestri eða CPT þótt tilhneiging væri til sterkari viðbragða við CPT í nóvember (p=0,083).

Ályktanir:Niðurstöðurnar benda til að langvarandi streita geti magnað upp viðbrögð MSA við stressáreitum.

 

 

 

 

 

 

 

V 71      Áhrif langvarandi streitu á stjórnun hjarta og blóðrásar

 

Jón Ó. Skarphéðinsson1, Mikael Elam2, Stein Knardahl3, Þorsteinn Gunnarsson4

1Lífeðlisfræðstofnun HÍ, 2Klin Neurofys Lab, Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg, 3Arbejdsmiljöinstitutet í Ósló, 4Dept. of Surgery, Div. of Neurosurgery McMaster University, Hamilton, Kanada

joskarp@hi.is

 

Inngangur: Margt bendir til að sálræn streita gegni mikilvægu hlutverki í meinalífeðlisfræði háþrýstings. Streita veldur örvun sympatíska taugakerfisins og hækkun blóðþrýstings. Talið er að langvarandi og tíð slík viðbrögð valdi breytingum í hjarta og æðakerfi og viðvarandi hækkuðum hvíldarblóðþrýstingi. Viðnámsæðar í vöðvum ákvarða stórt hlutfall heildarviðnáms æðakerfisins og sympatísk taugavirkni til þeirra (MSA) endurspeglar því mikilvægan þátt í stjórnun blóðþrýstings. MSA er tiltölulega stöðug breyta innan einstaklings og lítið vitað um viðbrögð við langvarandi streitu. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna langtímaáhrif streitu á MSA í hvíld.

Efniviður og aðferðir: Sem líkan var notast við læknanema í undirbúningi fyrir samkeppnispróf, en ætla má að þeir hafi verið undir töluverðu álagi þar sem einungis um það bil 20% þeirra fengu að halda áfram námi á grundvelli árangurs í prófunum. Gögnum var safnað fyrst í upphafi misseris og síðan aftur rétt fyrir próf. Tókst að ná heildstæðum gögnum frá 17 nemum. Auk MSA beindust mælingar að ýmsum sálrænum og lífeðlisfræðilegum þáttum tengdum streitu og starfsemi hjarta og blóðrásar (STAI og BDI spurningalistar, blóðþrýstingur, hjartastarfsemi, noradrenalín, adrenalín, cortisól og testósterón í plasma).

Niðurstöður: Niðurstöður sýna hækkaðan hvíldardíastóluþrýsting en engar breytingar fengust í MSA þótt plasmanoradrenalín hafi aukist. Aðrir þættir sýna ekki marktækar breytingar (svo sem STAI, BDI, cortisól, testóstreón, adrenalín, púls, sýstóluþrýstingur).

Ályktanir:Niðurstöðurnar benda til að stúdentarnir hafi ekki verið verulega stressaðir fyrir prófin samkvæmt hefðbundnum mælikvörðum. Engu að síður hækkar í þeim dísastólískur blóðþrýstingur sem bendir til aukins æðaviðnáms. Hugsanlegt er að aukin sympatísk taugavirkni til annarra líffæra en beinagrindarvöðva gæti legið þar að baki

 

 

V 72      Súrefnismettun í gláku

 

Ólöf Birna Ólafsdóttir1, María Soffía Gottfreðsdóttir2,Sveinn Hákon Harðarson1,3, Einar Stefánsson1,2,3

1Læknadeild HÍ, 2augndeild Landspítala, 3Oxymap ehf.

obo4@hi.is

 

Inngangur:Gláka er gjarnan talin blóðþurrðarsjúkdómur, en blóðþurrð fylgir yfirleitt súrefnisskortur. Til skamms tíma hefur ekki verið auðvelt að mæla súrefnisástand augans, en það hefur breyst með tilkomu súrefnismælis sem við höfum þróað. Við notum hann til að mæla mettun súrefnis í æðum sjónhimnu í glákusjúklingum fyrir og eftir meðferð við gláku.

Efniviður og aðferðir: Notaður var sérstakur súrefnismælir sem mælir súrefnismettun blóðrauða í æðlingum í sjónhimnu. Súrefnismælirinn samanstendur af augnbotnamyndavél, ljósdeili (beam splitter), ljóssíum og sérstökum hugbúnaði. Mældar voru fyrstu og annarrar gráðu æðlingar í sjónhimnu fyrir og um það bil mánuði eftir glákuaðgerð hjá 25 einstaklingum. Einstaklingar sem voru búnir að vera á lyfjameðferð eða höfðu farið í aðgerð voru einnig mældir (n=20). Myndir frá sex sjúklingum voru útilokaðar vegna lélegra gæða. Sjúklingarnir voru allir með gleiðhornsgláku með og án tálflögnunar (pseudoexfoliation). Notuð var tvíþátta fervikagreining fyrir endurteknar mælingar ásamt Bonferroni eftiráprófi.

Niðurstaða: Súrefnismettun í slagæðlingum jókst úr 97±4% (meðaltal±staðalfrávik, n=19) fyrir aðgerð í 99±6% eftir aðgerð (p<0,05). Súrefnismettun í bláæðlingum í sömu augum var óbreytt eða 63±5% fyrir aðgerð og 63±6% eftir aðgerð. Augnþrýstingur lækkaði eftir aðgerð úr 25±9mmHg (meðaltal±staðalfrávik) fyrir í 10±4mmHg eftir skurðaðgerð. Súrefnismettun hjá einstaklingum á lyfjameðferð var 97±4% í slagæðlingum og 63±4% í bláæðlingum.

Ályktanir: Lækkun augnþrýstings virðist leiða til aukningar á súrefnismettun í slagæðlingum. Súrefnismettun í bláæðlingum virðist haldast stöðug og blóðflæði eykst, sem bendir til þess að súrefnisflæði (oxygen delivery) til sjónhimnu aukist við skurðaðgerð við gláku. Frekari rannsóknir eru í gangi.

 

 

V 73      Áhrif NHE-hindrans EIPA á seytun Cl- í ræktuðum nærpíplufrumum úr nýrum hænsnfugla

 

Sighvatur S. Árnason1, Ashley Anttila2, Gary Laverty2

1Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 2Dept. of Biological Sciences,University of Delaware, Newark

ssa@hi.is

 

Inngangur: Kalkkirtilshormóninn PTH og cAMP-agónistinn forskólín örva jákvæðan skammhlaupsstraum (Isc, short-circuit current) í spennuþvinguðum ræktuðum nærpíplufrumum úr nýrum hænsnfugla, sem er næmur bæði fyrir styrk klórjóna í utanfrumuvökvanum og fyrir klórjónagangahindrum. Gefur þetta til kynna nettó seytun á Cl-, það er flutning á klórjónum inn í holrými nærpíplanna. Þessi aukning á þekjustrauminum af völdum PTH og forskólíns er einnig næm fyrir EIPA (5-ethylisopropyl amiloride), en EIPA hindrar Na+-H+ andferjuna (NHE). Gefur það til kynna tengsl á milli þessara tveggja ólíku flutningskerfa, NHE og klórjónaganga.

Efniviður og aðferðir: Til að kanna þessa víxlverkun var samband straums og spennu kannað með gerð IV-kúrfa undir spennuþvingun í Ussing-hólfum hjá nærpípluþekjufrumum, sem höfðu verið gerðar gegndræpar með amphotericin B (10 µM) á blóðhlið frumnanna. Viðmiðunarþekjur og EIPA-meðhöndlaðar þekjur (100 µM) voru örvaðar með 1,0 µM forskólíni og síðan voru áhrif NPPB, sem hindrar klórjónagönginn, könnuð. IV-kúrfur voru gerðar eftir hvert inngrip.

Niðurstöður: Forskólín örvaði Isc þekjustrauminn um 19,4±3,1 µA/cm2 (n=7) og EIPA hindraði að mestu þessi áhrif (0,96±1,27 µA/cm2, n=5). Hins vegar minnkaði forskólín hallann á IV-kúrfunum, sem er mælikvarði á leiðnina (conductance), um 19±4% í viðmiðunarþekjum, en jók hallann um 17,2±4,4% í EIPA-meðhöndluðum þekjum. NPPB hafði einnig andstæð áhrif á halla IV-kúrfa í þekjum án og með EIPA.

Ályktanir: Þessar niðurstöður sýna að forskólín gæti verið samtímis að örva klórjónagöng og hindra leiðni af völdum NHE og að þessi tvö flutningskerfi séu samtengd.

 

 

V 74      Lífeðlisfræðileg áhrif líkamlegrar þjálfunar á sjúklinga með langvinna lungnateppu eða langvinna hjartabilun

 

Egill Thoroddsen2, Arna Elísabet Karlsdóttir1, Ásdís Kristjánsdóttir1, Magdalena Ásgeirsdóttir 1, Magnús R. Jónasson1, Stefán B. Sigurðsson2, Marta Guðjónsdóttir1,2

1Reykjalundi, Endurhæfingarmiðstöð SÍBS, 2lífeðlisfræðistofnun HÍ

egill.thoroddsen@gmail.com

 

Inngangur:Sjúklingar með langvinna lungnateppu og langvinna hjartabilun þjást af mæði og þreytu sem takmarkar getu þeirra í daglegu lífi. Á Reykjalundi er boðið upp á endurhæfingu fyrir hjarta- og lungnasjúklinga þar sem lögð er áhersla á þol- og styrkþjálfun auk fræðslu. Markmið rannsóknarinnar var að meta lífeðlisfræðileg áhrif sex vikna innliggjandi endurhæfingar á Reykjalundi.

Efniviður og aðferðir: Fimmtán sjúklingar með langvinna lungnateppu (9kk/6kvk, 61±9 ára, FEV1<50%) og 15 sjúklingar með langvinna hjartabilun (15kk/1kvk, 56±8 ára, útfallsbrot úr vinstri slegli 35%) gengust undir hámarks þolpróf á þrekhjóli fyrir og eftir endurhæfingu á Reykjalundi. Súrefnisupptaka (V’O2), koldíoxíðútskilnaður (V’CO2), loftun (V’E), andrýmd (VT) voru mæld. Einnig var Borg mæðiskalinn notaður til að sjúklingar gætu metið mæði við hámarksálag.

Niðurstöður:Marktækar breytingar með pöruðu t-prófi (p<0,05) komu fram í eftirfarandi mælingum við hámarksáreynslu: V’O2 max jókst úr 1,05±0,50L/mín. í 1,20±0,56L/mín., V’O2max sem hlutfall af áætluðu gildi jókst úr 50,3±14,2% í 57,1±17,0%, þoltala sjúklinganna jókst úr 12,74±4,15mL O2*kg-1*mín.-1 í 14,49±4,92 mL O2*kg-1*mín.-1. V’E max jókst úr 40,8±17,6L/mín. í 47,2±20,1L/mín. og VT max jókst úr 1,42±0,61L í 1,58±0,66L, hámarksvinnugeta á þrekhjóli jókst úr 84,5±48,6W í 92,7±58,3W. Öndunartíðni við hámarksálag (ÖTmax) og Borg mæðiskalinn breyttust ekki

Ályktanir:Bæði sjúklingarnir með langvinna lungnateppu og langvinna hjartabilun juku þol sitt við endurhæfinguna þar sem V’O2 max jókst ásamt þoltölunni. VT max jókst og þar með V’E max en ÖTmax stóð í stað. Sjúklingarnir eru því með betra öndunarmynstur eftir endurhæfinguna.

Þrátt fyrir hærra V’E max fundu sjúklingarnir ekki fyrir meiri mæði á Borg-skalanum.

 

 

 

 

V 75     Bráða speldisbólga á Íslandi 1983-2005

 

Birgir Briem1, Örnólfur Þorvarðarson2, Hannes Petersen3,4

1Háls-, nef- og eyrnadeild Buskerud sjúkrahúsinu í Drammen, 2háls-, nef- og eyrnadeild Akademiska sjúkrahúsinu í Uppsölum, 3læknadeild HÍ, 4háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala

hpet@hi.is

 

Inngangur:Bráða speldisbólga vísar tilhraðrar ákomu bólgu í speldi og ofanraddglufuhluta barkakýlis. Þar sem þessari hröðu bólgumyndun getur fylgt lokun á efri öndunarvegi telst sjúkdómurinn alvarlegt bráðavandamál. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á breytingar í faraldursfræði sjúkdómsins á Íslandi árin 1983 til 2005.

Efniviður og aðferðir:Allir sjúklingar með útskriftargreininguna bráð speldisbólga (acute epiglottitis) á öllum sjúkrahúsum landsins voru teknir til og sjúkraskrár þeirra kannaðar afturvirkt með tilliti til aldurs, kyns, greiningarmánaðar og árs, bakteríugreiningar, meðferðar öndunarvegar, vistunar á gjörgæslu, sýklalyfjavals, legutíma og helstu fylgikvilla.

Niðurstöður:Fimmtíu og sjö sjúklingar greindust með bráða speldisbólgu á tímabilinu (árlegt nýgengi 0,93 á 100.000). Meðalaldur var 33,3 ár. Bráða speldisbólga í börnum hvarf eftir að bólusetning gegn Haemophilus influenzae gerð b (Hib) hófst árið 1989, en breyttist ekki marktækt hjá fullorðnum. Fyrir tíma bólusetningar var Hib algengasta bakterían sem ræktaðist, en hefur ekki greinst á Íslandi frá 1991. Keðjukokkar eru nú algengustu bakteríurnar sem ræktast úr sjúklingum með bráða speldisbólgu. Meðal legutími var 5,05 dagar og voru 51% sjúklinganna vistaðir á gjörgæslu. Öll börn yngri en 10 ára og samanlagt 30% sjúklinganna þurftu á öndunarvegsaðstoð að halda. Hjá 90% fullorðinna nægði að fylgjast með öndunarvegi án inngrips. Meiriháttar fylgikvillar voru sjaldgæfir og enginn dó.

Ályktanir:Faraldsfræðibráðrar speldisbólgu breyttist á rannsóknartímanum. Bráð speldisbólga, sem áður var aðallega barnasjúkdómur, greinist nú nánast einvörðungu í fullorðnum. Þessu má þakka markvissri Hib-bólusetningu. Meðferð þessa lífshættulega sjúkdóms er enn áskorun, en í okkar starfsvenjum má sjá að óhætt er að fylgjast náið með sjúklingum með mildan til miðlungs sjúkdóm án inngripa í öndunarveg.

 

 

V 76      Áhrif sex vikna alhliða endurhæfingar á andnauð og andlega líðan sjúklinga með langvinna lungnateppu

 

Elfa Dröfn Ingólfsdóttir1,2, Marta Guðjónsdóttir1,2,3

1Reykjalundi, Endurhæfingarmiðstöð SÍBS, 2læknadeild HÍ, 3lífeðlis–fræðistofnun HÍ

elfa.ingolfs@gmail.com

 

Inngangur:Andnauð er eitt helsta einkenni sjúklinga með langvinna lungnateppu (LLT) og rannsóknir sýna að stórt hlutfall þeirra þjáist af ýmsum andlegum sjúkdómum. Talið er að 20-40% þeirra sem fara í lungnaendurhæfingu þjáist af kvíða og þunglyndi.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 133 sjúklingar með langvinna lungnateppu á biðlista Reykjalundar sem svöruðu SOBQ (Shortness of Breath Questionnaire) fyrir innskrift. Þeir svöruðu síðan SOBQ og HAD (Hospital anxiety and depression scale) við innskrift, við útskrift og einu ári eftir útskrift.

SOBQ er mælitæki sem metur andnauð við athafnir daglegs lífs hjá einstaklingum með langvinnan lungnasjúkdóm. HAD er mælitæki sem metur andlega líðan og flokkar í kvíða og þunglyndi.

Niðurstöður: Meðalaldur±SD var 67,5±8,6 ár. Öndunarmæling við komu sýndi FEV1 1,47±0,61 L (62,2±24,6% af áætluðu) og FEV1/FVC 0,59±0,14. Líkamsþyngdarstuðull (BMI) var 29,2±6,3 kg/m2. ANOVA sýndi marktæka (p<0,05) lækkun á andnauð úr 55,7±20,2 stigum við innlögn í 47,6±21,2 stig við útskrift, og aftur hækkun í 52,8±25,0 stig einu ári eftir útskrift, sem þó er marktækt lægra en fyrir innskrift (57,4±20,3 stig). Við innskrift voru 37% kvíðnir og/eða þunglyndir en 29% við útskrift. Þeir sem voru með eðlilegt HAD (innan við 8 stig) reyndust vera með marktækt minni andnauð en hinir, á öllum tímapunktum og enginn munur var á FEV1% á milli hópanna.

Ályktanir:Andnauð minnkar við sex vikna endurhæfingu og sá árangur helst í eitt ár á eftir. Sjúklingar með langvinna lungnateppu sem finna fyrir kvíða og/eða þunglyndi upplifa meiri andnauð en þeir sem ekki hafa kvíða og/eða þunglyndi þrátt fyrir að vera með sambærilega teppu.

 

 

V 77      Lungnasýnatökur með skurðaðgerð til greiningar sjúkdóma í millivef lungna

 

Martin Ingi Sigurðsson1, Gunnar Guðmundsson1,2, Helgi J. Ísaksson3, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2lungnadeild, 3rannsóknastofu í meinafræði, 4brjóstholsskurðdeild Landspítala

mis@hi.is

 

Inngangur og markmið: Nákvæm greining sjúkdóma í millivef lunga (interstitial lung diseases, ILD) er afar mikilvæg og er sýnataka með skurðaðgerð talin besta greiningaraðferðin. Takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um áhættu og greiningargetu þessara aðgerða og áhrif þeirra á meðferð og var markmið rannsóknarinnar að varpa ljósi á þessa þætti.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er aftursýn og náði til allra sjúklinga sem gengust undir lungnasýnatöku með skurðaðgerð á Íslandi 1986-2007, samtals 80 einstaklinga (47 karlar, meðalaldur 57,2 ár). Vefjasýni voru yfirfarin og var meðaleftirfylgd 78,2 mánuðir.

Niðurstöður: Algengustu einkenni voru hósti og mæði. Í 66% tilvika hafði sýnataka með berkjuspeglun þegar verið gerð án fullnægjandi greiningar. Gerð var opin aðgerð í 64% tilvika og brjóstholsspeglunaraðgerð hjá 29 sjúklingum, en í þremur tilvikum þurfti að breyta yfir í opna aðgerð. Miðgildi legutíma var fimm dagar (bil 1-89) og brjóstholskerameðferðar tveir dagar (bil 1-89). Þrír sjúklingar (3,8%) létust í sjúkralegunni og aðrir þrír fengu alvarlega fylgikvilla. Algengasti fylgikvillinn var viðvarandi loftleki (>96 klst.), eða hjá 13 sjúklingum. Sjúkdómsgreining byggð á skurðsýni fékkst í 80% tilfella en í 16 tilvikum var greiningin ófullkomin. Þegar einungis var tekið sýni úr lingula (tunga vinstri lunga) var tíðni ófullkominnar greiningar hærri en þegar tekin voru sýni frá öðrum lungnahlutum (50% á móti 16%, p=0,004). Klínísk greining breyttist í 74% tilfella og hjá 57% sjúklinga breyttist meðferð. Lifun tveimur og fimm árum frá aðgerð var 87% og 72%.

Ályktanir: Sýnataka með skurðaðgerð er áreiðanleg aðferð til greiningar ILD og leiðir til breyttrar meðferðar hjá helmingi sjúklinga. Þrátt fyrir lága dánartíðni í kjölfar sýnatökunnar (3,8%) þarf að vanda val á sjúklingum í aðgerð. Einnig ætti að forðast staka sýnatöku úr lingula.

 

 

V 78      Langvarandi sýkingar með Chlamydia pneumoniae og skerðing á lungnastarfsemi

 

Þórarinn Gíslason1,2, Vilmundur Guðnason1,3, Thor Aspelund3,4, Christer Jansson5, Ísleifur Ólafsson2, Bjarni Þjóðleifsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2Landspítala, 3rannsóknarstöð Hjartaverndar, 4raunvísindadeild HÍ, 5Akademiska sjukhuset, Uppsölum

bjarnit@landspitali.is

 

Inngangur: Við 20 ára aldur hafa ≈75% einstaklinga sýkst af Chlamydia pneumoniae (C. pneumoniae), metið útfrá tilvist IgG og IgA mótefna í sermi. Sýkingin veldur bráðri bólgu í öndunarfærum en í sumum tilfellum verður sýkingin langvinn og jafnvel ævilöng. IgG mótefni hverfa oftast á tveimur til fjórum árum en viðvarandi mótefni er vísbending um að sýkingin sé langvinn eða að um tíðar endursýkingar sé að ræða. Áhrif langvarandi C. pneumoniae sýkingar á lungnaheilsu eru lítt þekktar. Tilgangur rannsóknarinnar er að meta áhrif langvarandi C. pneumoniae sýkingar á lungnastarfsemi, mælt sem fráblástursgetu (FEV1).

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á undirflokk úr hóprannsókn Hjartaverndar, einstaklingum 20-34 ára, fæddum á tímabilinu 1939 til 1954, sem bjuggu á Reykjavíkursvæðinu og komu til skoðunar 1973 og síðan í endurheimsókn 1983-2003. IgG mótefni gegn C. pneumoniae voru mæld hjá þeim sem áttu sermissýni frá báðum heimsóknum og einnig FEV1 mælingar. Langvarandi IgG sýking var talin vera til staðar hjá þeim sem voru með bæði sýnin jákvæð.

Niðurstöður: Alls voru 500 konur og 609 karlmenn tekin í rannsóknina. Meðalaldur (±SD) við upphafsskoðun 28±6 (19-45) ár. Eftirfylgni 27±4 (16-30) ár. Minnkuð lungastarfsemi mælt sem lækkun á FEV1 milli skoðana hafði fylgni við reykingar og hækkandi líkamsþyngd bæði hjá konum og körlum (p<0,05). Konur, sem reyktu og voru einnig með jákvætt IgG próf við upphaf og endi rannsóknar, höfðu marktækt meiri lækkun (p<0,01) á FEV1 en konur með neikvæð serólógísk próf. Þessi niðurstaða var áfram marktæk þegar tekið var tilllit til aldurs, reykinga og þyngdarbreytinga. Ekkert slíkt samband fannst hjá körlum.

Ályktanir: Niðurstöður benda til að langvarandi C. pneumoniae sýking leiði til skertrar lungnastarfsemi hjá konum, sérstaklega þeim sem reykja. Orsakir eru ekki þekktar en mismunandi hjálparfrumu jafnvægi (Th 1/Th 2) hjá konum og körlum gæti leitt til aukins bólgusvars hjá konum við C. pneumoniae sýkingu.

 

V 79      Tengsl sálfélagslegra breyta, framgangs sykursýki og meðferðarheldni hjá fólki á aldrinum 20-30 ára með sykursýki af tegund eitt

 

Fjóla Katrín Steinsdóttir[1], Hildur Halldórsdóttir1, Steinunn Arnardóttir2, Arna Guðmundsdóttir[2], Jakob Smári1, Eiríkur Örn Arnarson[3],[4]

1Félagsvísindadeild HÍ, 2göngudeild sykursjúkra Landspítala, 3sálfræðiþjónustu á endurhæfingarsviði Landspítala, 4læknadeild HÍ

eirikur@landspitali.is

 

Inngangur:Fjöldi erlendra rannsókna bendir til þess að sálfræðileg aðstoð geti aukið almenna vellíðan og bætt blóðsykursstjórnun. Því er mikilvægt að kanna hvernig sálfræðilegir þættir tengjast framvindu sykursýki á Íslandi.

Efniviður og aðferðir:Þátttakendur voru 56 ungmenni á aldrinum 20-30 ára sem mætt hafa í eftirlit á D-G3 á Landspítalanum. Alls uppfylltu 72 þátttökuskilyrði en svarhlutfall var 78%. Sjálfsmatskvarðar voru notaðir til að meta meðal annars þunglyndi, kvíða, bjargráð, félagslegan stuðning og lífsstíl. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám um blóðsykursmælingar, fylgikvilla, mætingu og fleira.

Niðurstöður: Einungis 28,7% mættu til eftirlits fjórum sinnum eða oftar á einu ári, þeir sem voru komnir með fylgikvilla mættu oftar en hinir. Fimmtíu prósent kvenna og tæplega 30% karla voru með fylgikvilla og var sjónumein algengast. Einn fjórði sagðist reykja, að meðaltali skoruðu þeir hærra á þunglyndis- og kvíðakvörðum og notuðu síður verkefnamiðuð bjargráð. Minni notkun á tilfinningamiðuðum bjargráðum tengdist betri meðferðarheldni og minni kvíða og þunglyndi, en meiri notkun fleiri fylgikvillum. Þeir sem notuðu verkefnamiðuð bjargráð mældust með færri einkenni kvíða og þunglyndis. Eftir því sem félagslegur stuðningur var betri því minni kvíða og þunglyndi upplifðu þátttakendur. Tæplega 53% töldu sig vita frekar mikið um sjúkdóminn.

Ályktanir:Á heildina litið virðist meðferðarheldni hjá ungu fólki með sykursýki vera ábótavant. Það virðist ekki huga nægilega að sykursýkinni fyrr en fylgikvillar gera vart við sig. Því má ætla að þessum hóp myndi gagnast sálfræðileg aðstoð til viðbótar við hefðbundna meðferð. Sú viðbót gæti aukið lífsgæði, til dæmis með því að gera fólki auðveldara að sætta sig við ástandið og efla notkun viðeigandi bjargráða. Einnig þyrfti að taka meira mið af aðstandendum í meðferð.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

V 80      Eðli kynferðislegs ofbeldis hjá þolendum sem leita til Neyðarmóttöku Landspítala. Er munur á áfengis-/vímuefnatengdu og öðru kynferðislegu ofbeldi?

 

Agnes Björg Tryggvadóttir1, Berglind Guðmundsdóttir1,2, Agnes Gísladóttir3, Unnur Valdimarsdóttir3, Eyrún Jónsdóttir1, Jakob Smári4, Brynjólfur Mogensen1, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir1, Már Kristjánsson1

1Rannsóknarstofu í slysa-, ofbeldis- og bráðafræðum á slysa- og bráðasviði Landspítala, 2sálfræðiþjónustu endurhæfingarsviðs Landspítala, 3Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ, 4sálfræðideild HÍ

agnesbjorg83@gmail.com

 

Inngangur: Kynferðislegt ofbeldi er alvarlegt samfélagsvandamál. Rannsóknir benda til þess að 25-33% kvenna séu beittar kynferðislegu ofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni. Lítið er vitað um áhrif vitundarástands þolenda á eðli og alvarleika kynferðislegs ofbeldis. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða hvort munur sé á áfengis-/vímuefnatengdu og öðru kynferðislegu ofbeldi á árunum 2003 til 2007.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 634 einstaklingar á aldrinum 10-76 ára (meðalaldur 24 ár) sem leituðu til neyðarmóttöku Landspítala á tímabilinu. Rannsóknin byggist á skýrslum lækna, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og ráðgjafa sem innihéldu meðal annars ítarlegar upplýsingar um ofbeldið, heilsufar og þjónustunýtingu. Skýrslurnar voru yfirfarnar og kóðaðar samkvæmt stöðluðum gátlista.

Niðurstöður: Helstu niðurstöður sýndu að í 57% tilvika var aðdragandi kynferðislega ofbeldisins skemmtun og í 64% tilvika átti það sér stað í heimahúsum. Tæp 70% þolenda urðu fyrir nauðgun. Um helmingur þolenda (54%) var með verulega skert vitundar-ástand sökum áfengis-/vímuefnaneyslu, þegar ofbeldi átti sér stað. Niðurstöður sýndu að þolendur áfengis-/vímuefnatengds ofbeldis voru líklegri en aðrir þolendur til að hafa þekkt gerandann lítið/ekkert, ofbeldið var líklegra til að gerast í tengslum við skemmtun og urðu þolendur síður fyrir öðru líkamlegu ofbeldi en þeir sem urðu fyrir öðru kynferðislegu ofbeldi.

Ályktanir: Niðurstöður sýna ótvírætt að áfengis-/vímuefnaneysla er mikilvægur áhættuþáttur fyrir alvarlegt kynferðislegt ofbeldi. Niðurstöður sýna að gerendur nýta sér gjarnan bágborið vitundarástand þolenda og er mikilvægt að taka mið af því í forvörnum sem beinast að ungu fólki.

 

 

V 81      Innleiðing klínískra gæðavísa/útkomumælinga á bráða- og ferlideild geðsviðs

 

Baldur Heiðar Sigurðsson1, Jón Friðrik Sigurðsson1,2, Halldóra Ólafsdóttir1,2, Pétur Tyrfingsson1, Unnur Jakobsdóttir Smári1, Kristín Gyða Jónsdóttir1, Guðrún Úlfhildur Grímsdóttir1

1Geðsviði Landspítala, 2læknadeild HÍ

jonfsig@landspitali.is

 

Inngangur:Þörf er á hentugu tæki til að samræma mat á árangri geðmeðferðar. CORE-OM-listinn (Clinical Outcomes in Routine Evaluation-Outcome Measure) hefur verið sannprófaður í Bretlandi á geðdeildum og í heilsu-gæslu. Hann er næmur fyrir breytingum á líðan sjúklinga með algengar geðraskanir og greinir almenning vel frá klínískum hópum. Markmiðrannsóknarinnar var að meta innleiðingu árangursmats sjúklinga með algengar geðraskanir á bráða- og ferlideild geðsviðs Landspítala.

Efniviður og aðferðir:CORE-OM-listinn, auk annarra matstækja, var lagður fyrir 520 sjúklinga sem komu í inntökuviðtöl á göngudeild bráða- og ferliþjónustu geðsviðs. Sjúklingar svöruðu síðan styttri útgáfu listans í hverjum meðferðartíma. Í upphafi og við lok meðferðar fylltu meðferðaraðilar út staðlað matsblað þar sem meðal annars kemur fram mat og lýsing á vandkvæðum sjúklings, sjálfsvígshættu, meðferðarformi og lengd meðferðar.

Niðurstöður:Meðaltalsmælingar á heildarkvarða CORE-OM lækka úr 1,75 í 0,83 sem er bæði klínískt marktækt og tölfræðilega marktækt miðað við 99% öryggi. Brottfall úr gögnunum var hins vegar mikið en greining á því bendir til að 38,1% brottfallsins megi rekja til óskýrrar aðgreiningar bráðamóttöku og göngudeildar og 30,2% til þess að ekki hafi verið tök á því að sinna mælingum til enda.

Ályktanir:Niðurstöður brottfallsgreiningar hafa verið nýttar til að bæta skipulag og skerpa á aðgreiningu og verkaskiptingu bráðamóttöku og göngudeildar. Sérstaklega er lagt til að skammtímameðferð sem veitt hefur verið á bráðamóttöku eigi sér frekar stað á göngudeild. Tillögur eru gerðar að því hvernig megi laga almennt verklag á göngudeild betur að árangursmælingum með CORE-OM. Þær miða einkum að því að innleiða CORE-kerfið í áföngum og er vonast til að þá verði unnt að endurtaka megi rannsóknina í einhverri mynd með betri heimtum á gögnum.

 

 

V 82      Landskönnun á áhrifaþáttum ofbeldis í nánu sambandi á heilsu kvenna

 

Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Brynja Örlygsdóttir

Hjúkrunarfræðideild HÍ

eks@hi.is

 

Inngangur:Þekking á þeim þáttum sem spá fyrir um heilbrigði kvenna sem eru þolendur ofbeldis í nánu sambandi (IPA) getur gefið innsæi við þróun meðferða sem hafa forvarnargildi. Hér er byggt á niðurstöðum úr þversniðsrannsókn sem framkvæmd var á landsvísu, greint frá áhrifum ofbeldis sem og áhrifum áhættuhegðunar og langvinnra sjúkdóma á heilsu íslenskra kvenna.

Efniviður og aðferðir:Spurningalistar voru sendir til 7523 kvenna í íslensku þjóðfélagi sem voru valdar af handahófi. Gagnasöfnun byrjaði í desember 2005 og endaði ári síðar. Alls svöruðu 2746 konur listunum, en af þeim voru 1974 giftar og 772 kvennana í sambúð. Lýsandi tölfræði, óháð t-próf og aðhvarfsgreining var notuð við greiningu gagnanna.

Niðurstöður:Áhættuhegðun (svo sem misnotkun áfengis og reykingar) langvinn heilsufarsvandamál/sjúkdómar (svo sem svefntruflanir, þunglyndi og átraskanir) og það að vera núverandi fórnarlamb ofbeldis í nánu sambandi, spáði fyrir um líkamlega og andlega heilsu og vellíðan kvennana.

Ályktanir: Til að minnka bæði skammtíma og langvarandi áhrif ofbeldis má bjóða konum sem eru fórnarlömb ofbeldis af hálfu maka/sambýlismanns meðferðir sem hannaðar eru til að minnka áhrifin af áhættuhegðun, meðhöndla langvinn heilsufarsvandamál og sjúkdóma auk þess sem mikilvægt er að bjóða konunum viðeigandi fyrstu viðbrögð. Í stefnu heilbrigðis-yfirvalda þarf að leggja sérstaka áherslu á umfjöllun um ofbeldi gegn konum í nánum samböndum, auk þess sem áhersla þarf að vera á hlutverk heilbrigðisstarfsmanna við að greina ofbeldi snemma og að bjóða upp á viðeigandi úrræði/meðferð.

 

 

V 83      Lífslíkur, krónískir sjúkdómar og þunglyndi

 

Helgi Tómasson1, Hallgrímur Magnússon2, Tómas Helgason3

1Hagfræðideild HÍ, 2öldrunardeild Landspítala,3prófessor emeritus

helgito@hi.is

 

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar er að meta áhrif langvinnra sjúkdóma og þunglyndis á lífslíkur. Líta má á lífshlaupið sem bið eftir tilteknum atburðum. Líkindafræðilegum eiginleikum slíkra biðtíma er lýst með hazarföllum (hazard functions). Hefðbundin lifunarfræði (survival analysis) gengur út á að skýra hættu á einum tilteknum atburði. Hér er fengist við flóknari líkanasmíð því að beðið er eftir þremur atburðum, greiningu þunglyndis, greiningu á krónískum sjúkdómi og dauða.

Efniviður og aðferðir: Fyrir liggja söguleg gögn nokkurra árganga Íslendinga. Upplýsingar liggja fyrir um dánaraldur og aldur við byrjun þunglyndis. Staða langvinnra sjúkdóma er skráð á fjórum tímaskeiðum en ekki eru nákvæmari greiningardagsetningar þeirra. Að biðtímar skuli vera skornir (censored) gerir tölfræðilega líkanasmíð flókna. Notast er við einföld parametrísk líkön. Meðal annars er gengið út frá því að setja upp einfaldar skilyrtar Weibull-líkindadreifingar fyrir hvern biðtíma. Hæfni líkans til að meta tengsl er metin með hermun. Stikar líkans eru metnir með bayesískum aðferðum.

Niðurstöður: Líkön af þeirri gerð sem hér eru metin gefa kost á hlutlægu mati á nýgengi sjúkdóms og tengslum við aðra sjúkdóma. Aðgæslu er þörf við meðhöndlun skorinna gagna. Nýgengi sumra þeirra sjúkdóma sem hér er skoðaðir vex með aldri.

Ályktanir: Mikilvægt er að vanda líkanasmíði í allri gagnagreiningu. Þó að gögnin sem hér eru notuð séu öll þjóðin eru tilfelli fá og það setur tölfræðigreiningu takmörk. Bayesísk aðferðafræði getur gefið stöðugri niðurstöður en hefðbundin tíðniaðferðafræði í slíkum tilfellum.

 

 

V 84      Áhrif táknbundinnar styrkingar á vinnusemi og truflandi hegðun drengs með athyglisbrest, ofvirkni og mótþróaþrjóskuröskun

 

Inga Dröfn Wessman, Zuilma Gabriela Sigurðardóttir

Sálfræðideild HÍ

zuilma@hi.is

 

Inngangur: Hegðunarvandamál barna í grunnskólum leiða oft til greininga á röskunum. Kennarar eiga fullt í fangi með að sjá um innleiðingu námskrárefnis fyrir stóra hópa barna sem eru skólaskyld, en tími og orka fer því miður of oft í að glíma við erfiða hegðun nemenda. Flestir kennarar fá ekki neina þjálfun í námi sínu í því hvernig hægt sé að fyrirbyggja og útrýma hegðunarvanda nemenda þótt svo þekking hafi verið til í nokkra áratugi um þessi mál.

Efniviður og aðferðir:Unnið var með hegðun 10 ára drengs sem hafði nýlega verið greindur með athyglisbrest og ofvirkni (AMO) og mótþróaþrjóskuröskun (ODD). Einnig sýndi greindarpróf mikinn misstyrk og mat á aðlögunarfærni leiddi í ljós vandkvæði í boðskiptum og félagslegri aðlögun. Drengurinn hafði tekið inn örvandi lyfið Concerta, en þeirri meðferð var hætt áður en rannsókn hófst. Markmið rannsóknarinnar var að auka vinnusemi og minnka tíðni truflandi hegðunar í kennslustundum en rannsóknin fór bæði fram í almennri kennslu og sérkennslu. Notast var við marghliða grunnlínusnið yfir aðstæður. Mælingar fóru fram með beinu áhorfi á frammistöðu yfir nokkra mánuði. Fylgibreyturnar voru tíðni truflandi hegðunar og hlutfall þess tíma sem var varið í vinnusemi á áhorfstíma. Til að breyta hegðun drengsins voru notaðar fyrirbyggjandi aðgerðir, hegðunarsamningar, sjálfsmat og táknbundið styrkingarkerfi (token economy). Auk þess voru kennarar og samnemendur beðnir um að hrósa og veita athygli fyrir viðeigandi hegðun en hunsa óviðeigandi hegðun. Drengnum voru kenndar viðeigandi leiðir til að ná athygli jafnaldra og kennara.

Niðurstöður: Vinnusemi jókst í almennri kennslu úr 48,52% í 79,82% en í sérkennslu úr 65,50% í 91,67%. Tíðni truflandi hegðunar minnkaði úr um 14,44 í 2,68 í almennri kennslu en úr 10 í 1,17 í sérkennslu.

Ályktanir:Hægt er að beita þekktum árangursríkum aðferðum til að öðlast stjórn á jafnvel mjög erfiðri hegðun nemenda ef unnið er í samvinnu við alla, kennara, foreldra og barnið sjálf. Vinna verður markvisst að því að breyta og bæta hegðun og frammistöðu í námi í rétta átt. Kennarar og annað starfsfólk skóla ætti að fá betri þjálfun í að beita þessum aðferðum.

 

 

V 85      Hversu vel spáir taugasálfræðilegt mat á stjórnunarfærni fyrir um atferli í daglegu lífi?

 

Sólveig Jónsdóttir

Sálfræðiþjónustu Landspítala, læknadeild HÍ

soljonsd@landspitali.is

 

Inngangur: Stjórnunarfærni (executive function) er regnhlífarhugtak sem notað hefur verið til að skilgreina hæfileikann til að stýra hegðun sinni og tilfinningum þannig að það þjóni sem best markmiðum einstaklingsins. Talið er að stjórnunarfærni sé að stórum hluta tengd starfsemi framheila. Stjórnunarfærni er yfirleitt metin með taugasálfræðilegum prófum, en ekki er vitað hversu vel þau spá fyrir um hegðun í daglegu lífi. Markmiðið með þessari rannsókn var að athuga sambandið á milli taugasálfræðilegra prófa, sem ætlað er að meta stjórnunarfærni og hæfileikans til að hafa stjórn á hegðun og tilfinningum í daglegu lífi.

Efniviður og aðferðir:Þátttakendur í rannsókninni voru 40 sjúklingar á taugadeild og endurhæfingardeild Landspítala og aðstandendur þeirra. Taugasálfræðileg próf sem meta hömlustjórnun, sveigjanleika, vinnsluminni, skipulagsfærni og orðfimi voru lögð fyrir sjúklingana. Einnig var þunglyndi metið. Sjúklingar og aðstandendur þeirra fylltu út spurningalista, sem metur ýmsa þætti stjórnunarfærni í daglegu lífi. Könnuð var fylgni á milli taugasálfræðilegra prófa og hegðunarmatsins. Þeir þættir sem sýndu marktæka fylgni voru metnir með aðhvarfsgreiningu (regression analysis).

Niðurstöður:Marktæk fylgni kom fram á milli sjálfsmats og mats aðstandenda á stjórnunarfærni. Einnig kom fram marktæk fylgni á milli taugasálfræðilegra prófa og hegðunarmats sjúklinga og aðstandenda. Mat aðstandenda hafði fylgni við fleiri taugasálfræðileg próf heldur en mat sjúklinga. Sá þáttur sem best spáði fyrir skertri stjórnunarfærni var þunglyndiskvarði.

Ályktanir: Niðurstaða rannsóknarinnar sýnir að taugasálfræðileg próf, sem notuð eru til að spá fyrir um stjórnunarfærni fólks hafa góða fylgni við stjórn hegðunar og tilfinninga í daglegu lífi. Mikilvægt er að meðhöndla þunglyndi hjá sjúklingum með taugasjúkdóma.

 

 

 

V 86      Áhrif hvatningakerfis og aukins erfiðis á val á drykkjarmálum og skilum á þeim

 

Thelma Lind Tryggvadóttir, Zuilma Gabriela Sigurðardóttir

Sálfræðideild HÍ

zuilma@hi.is

 

Inngangur: Magn úrgangs hefur aukist mjög á Íslandi undanfarin ár. Árið 2006 var tekið á móti 221 þúsund tonnum úrgangs frá höfuðborgarsvæðinu sem hafði þá aukist úr 137 þúsund tonnum frá árinu 2001 eða um 60% á fimm árum. Á sama tíma fjölgaði höfuðborgarbúum um 8%. Á þessu tímabili hefur magn sorps á hvern íbúa því aukist úr 770 kílóum í 1150 kíló á ári. Rannsóknin snérist um að draga úr notkun einnota umbúða úr plasti á kaffistofum HÍ með því að breyta neysluhegðun námsmanna með virkri skilyrðingu. Markmið voru tvenns konar: að draga úr notkun einnota mála og auka notkun fjölnota mála. Hins vegar að fá fólk til að skila fjölnota postulínsbollum því það að fá bollana til baka er forsenda þess að geta endurnotað þá.

Efniviður og aðferðir:Þátttakendur voru viðskiptavinir kaffistofa stúdenta í Odda og Öskju sem keyptu sér kaffi eða fengu sér vatn á tímabilinu 22. febrúar til 1. maí 2008 á venjulegum opnunartíma. Margfalt grunnlínusnið yfir tvennar aðstæður var notað til að meta áhrif inngripsins. Um var að ræða tvennskonar inngrip, að gera aðgang að einnota umbúðum erfiðari og að greiða fyrir að skila fjölnota umbúðir. Reynt var að breyta vali fólks með auknu erfiði, gera auðveldara að nota fjölnota en einnota umbúðir. Hvatningakerfi þar sem hægt var að vinna sér inn frítt kaffi var notað til þess að auka skil á postulínsbollum.

Niðurstöður:Það tókst að hækka hlutfall postulínsbolla sem skilað var á annarri kaffistofunni, en á hinni hafði hlutfallið verið fremur hátt fyrir inngrip. Sjónræn greining var notuð til að meta áhrif inngripsins, munurinn sést samkvæmt viðurkenndum viðmiðum í sjónrænni greiningu ef inngrip hefur leitt til breytinga á hegðun, í þessu tilfelli, val á ílátum og skil á fjölnota bollum.

Ályktanir:Frekar auðveldlega er hægt að breyta vali fólks á kaffistofum HÍ á umbúðum en það er ein leið til að minnka magn sorps á Íslandi. Þessar niðurstöður eru í samræmi við aðrar rannsóknir á áhrifum virkrar skilyrðingar á hegðun stórra hópa fólks og gætu því nýst á Íslandi til að móta hegðun íbúa í þá átt að minnka sorp almennt.

 

 

V 87      „Ég bara sneri mér út í vestur og hélt áfram.” Eigindleg rannsókn á líkamsímynd og líðan í kjölfar aflimunar

 

Arndís Sverrisdóttir1,2, Erna Björk Harðardóttir1,2, Herdís Sveinsdóttir1,2

1Skurðlækningasviði Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild HÍ

herdis@hi.is

 

Inngangur: Rannsóknin var gerð til að skoða reynslu og upplifun einstaklinga af því að missa neðri útlim, en erlendar rannsóknir hafa sýnt að missir útlims hefur margþætt áhrif á einstaklinginn sem fyrir því verður.

Efniviður og aðferðir: Tekin voru viðtöl við sex einstaklinga á aldrinum 50-79 ára, fimm karla og eina konu. Viðtölin voru hljóðrituð, rituð orðrétt upp í tölvu og þemagreind út frá aðferðum fyrirbærafræðinnar.

Niðurstöður: Sex meginþemu og níu undirþemu greindust. Meginþemun eru: að sættast við orðinn hlut, leiðir til að takast á við aflimun, ber er hver að baki nema sér bróður eigi, lífið heldur áfram, glíman við gervifótinn og að geta eða geta ekki. Helstu niðurstöður sýna að þátttakendur áttu miserfitt með að sætta sig við aflimunina og virtist skipta máli hvort þeir upplifðu stjórn á aðstæðum sínum eða ekki. Þátttakendur fóru ýmsar leiðir til að takast á við aðstæður sínar til að mynda að bera sig saman við aðra, nota húmor, trú og reiði. Þá var stuðningur frá öðrum mikilvægur. Því fylgdu blendnar tilfinningar að koma heim í fyrsta skiptið og upplifðu einhverjir tómarúm og skugga. Þá var margt sem þátttakendur þurftu að læra að gera á annan hátt en þeir voru vanir. Af sex þátttakendum gátu fimm notast við gervilim og gekk það vel hjá flestum. Misjafnt var hversu vel þátttakendum gekk að viðhalda virkni, fjórir af sex létu aflimunina ekki hamla sér og fóru leiða sinna á meðan tveir höfðu einangrast og gerðu lítið sem ekkert.

Ályktanir: Upplifuð stjórn á aðstæðum, stuðningur, virkni og þau bjargráð sem einstaklingar nota hafa áhrif á hvernig einstaklingum gengur að ná sátt við aflimun.

 

 

 

 

 

 

 

 

V 88      Langvinn fótasár á Íslandi, algengi, orsakir og með-ferð

 

Guðbjörg Pálsdóttir, Ásta Thoroddsen

Hjúkrunarfræðideild HÍ

gup2@hi.is

 

Inngangur: Langvinn fótasár er sjúkdómsástand sem varir mánuðum og jafnvel árum saman, sérstaklega meðal eldri einstaklinga. Bati er hægur og sárin koma aftur og aftur. Fótasár skerða lífsgæði umtalsvert og meðferð fótasára er auk þess kostnaðarsöm. Erlendar rannsóknir sýna að gagnreyndir starfshættir við meðferð langvinnra fótasára flýta bata, auka lífsgæði og minnka kostnað. Ekkert er vitað um algengi fótasára á Íslandi, dreifingu þeirra, orsakir eða meðferð. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hversu margir eru með fótasár á Íslandi, hvers eðlis þau eru og hvernig þau eru meðhöndluð og skapa þannig þekkingargrunn sem nýtist við frekari rannsóknir og stefnumótun í heilbrigðisþjónustu.

Efniviður og aðferðir:Rannsóknin er lýsandi með þverskurðarsniði. Rannsóknin beindist að fólki á Íslandi sem er með langvinn fótasár og nota þjónustu heilsbrigðiskerfisins þess vegna. Gögnum var safnað á heilsugæslustöðvum, hjá heimahjúkrun, hjúkrunar- og dvalarheimilum, langlegudeildum og göngudeildum sjúkrahúsa á öllu landinu. Leitað var til heilbrigðisstarfsmanna og þeir beðnir að fylla út spurningalista fyrir hvern þann sem þeir sinntu á ákveðnu tveggja vikna tímabili vorið 2008.

Bráðabirgðaniðurstöður:Svörun var 100% eftir að spurningalistum var fylgt eftir með einu til tveimur símtölum. Algengi er áætlað 0,75 á 1.000 íbúa. Um 80% einstaklinga eru 65 ára eða eldri. Hlutfall karla og kvenna (kvk/kk) er 1:1,2. Um 22% hafa haft sár lengur en eitt ár og 47% hafa fengið sár endurtekið. Í heilsugæslu eða heimahjúkrun eru 47,5% meðhöndlaðir, 28% á öldrunarstofnunum og 18% á göngudeildum en 50% einstaklinga hafa verið skoðaðir af sérfræðingi (lækni). Hjúkrunarfræðingur ákveður sárameðferð í 80% tilfella.

Ályktanir:Fyrstu niðurstöður benda til þess að algengi langvinnra fótasára á Íslandi sé með því lægsta sem þekkist. Hærra hlutfall fótasárasjúklinga virðist fá skoðun sérfræðings og meðferð innan sjúkrahúsa en erlendar rannsóknir sýna.

 

 

V 89      Skurðsýkingar í ganglimum eftir bláæðatöku við opnar kransæðahjáveituaðgerðir

 

Helga Hallgrímsdóttir1, 3, Ásta S. Thoroddsen1, Tómas Guðbjartsson3,2

1Hjúkrunarfræðideild, 2læknadeild HÍ, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

helgahal@landspitali.is

 

Inngangur: Sýkingar í skurðsárum eru einn algengasti fylgikvilli krannsæðahjáveituaðgerða. Skurðsýkingarnar geta komið bæði í ganglim og bringubein, tíðni skurðsýkinga í bringubeini er þekkt hér á landi og er hún lág eða 2,5%. Tíðni skurðsýkinga í ganglim er ekki þekkt hérlendis en samkvæmt erlendum rannsóknum er tíðnin á bilinu 2-24%. Tilgangur þessarar rannsóknar var að athuga tíðni skurðsýkinga í ganglimum hér á landi.

Efniviður og aðferðir:Um var að ræða framsýna, lýsandi rannsókn á 65 sjúklingum (51 karl) sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítalanum frá 1. september til 26. dessember 2007. Sjúklingum var fylgt eftir í 30-40 daga frá skurðaðgerð. Skurðsár þeirra voru metin eftir ASEPSIS stigakerfinu og var sýking skilgreind sem fleiri en 20 ASEPSIS stig. Klínískar upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám sjúklinga. Sjúklingar með skurðsýkingu voru bornir saman við sjúklinga sem ekki höfðu skurðsýkingu.

Niðurstöður:Fimmtán greindust með skurðsýkingu (23,1%) innan 35 daga frá aðgerð. Allir sjúklingar sem greindust með sýkingu voru settir á sýklalyf. Skurðsýking greindist að meðaltali á 17. degi (bil 9-33). Aðeins 33% sjúklinganna greindust á meðan þeir voru inniliggjandi á spítalanum. Hóparnir (sýktir samanborið við ósýkta) voru sambærilegir hvað varðar áhættuþætti svo sem aldur, kyn, líkamsþyngdarstuðul, sykursýki og æðasjúkdóma. Legutími fyrir og eftir aðgerð var einnig sambærilegur milli hópanna (níu og 11 dagar). Tilhneiging til lægri sýkingartíðni sást eftir brotinn skurð í stað heils skurðar (13,3% á móti 36%, p=0,12).

Ályktanir: Skurðsýkingar í ganglimum eftir kransæðahjáveituaðgerðir eru stórt vandamál. Sjúklingar greinast með skurðsýkingu eftir útskrift af spítalanum þannig að ljóst er að það er þörf á eftirliti með skurðsárum sjúklinga eftir útskrift. Sýkingartíðnin í þessari rannsókn var hærri en í erlendum rannsóknum en hafa verður í huga að þessum sjúklingum var fylgt lengi eftir en það hækkar tíðnina. Brýnt er að kanna betur áhættuþætti þessara sýkinga með stærri rannsókn og gera ráðstafanir til þess að fækka þeim.

 

 

V 90      Í hringiðu faglegrar færni. Inntak starfa hjúkrunar-fræðinga á skurðlækningasviði Landspítala

 

Katrín Blöndal1,2, Bergþóra Eyjólfsdóttir1, Herdís Sveinsdóttir1,2

1Skurðlækningasviði Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild HÍ

herdis@hi.is

 

Inngangur: Störf hjúkrunarfræðinga á skurðlækningasviði á háskólasjúkrahúsi felast í stórum dráttum í því að annast sjúklinga sem hafa farið í aðgerðir af ýmsum toga eða hafa sjúkdóma sem undir þetta svið fellur. Lítið er þó vitað nákvæmlega hvað það þýðir að vera hjúkrunarfræðingur á skurðlækningadeild eða í hverju störf þeirra felast raunverulega.

Efniviður og aðferðir: Tilgangur rannsóknarinnar var aðrýna í hjúkrunarstarfið með það að markmiði að dýpka klíníska þekkingu og skilning á eðli starfa hjúkrunarfræðinga á skurðlækningadeildum Landspítala. Beitt var eigindlegri rannsóknaraðferð í formi hópviðtala. Myndaður var einn rýnihópur með 10 þátttakendum (hjúkrunarfræðingum) frá átta mismunandi deildum á skurðlækningasviði. Hver þátttakandi greindi nákvæmlega frá atvikum og einni vakt í starfi sínu. Viðtölin voru þemagreind.

Niðurstöður: Fimm meginvíddir í störfum hjúkrunarfræðinga komu fram: Að vinna margslungin verk af færni, finna það sérstæða í hinu almenna, fást við flæði upplýsinga og samskipti, hrærast í síbreytilegu umhverfi og láta hlutina ganga, og loks að nýta og njóta starfsþroskans. Hjúkrunarfræðingarnir unnu yfirleitt á mörgum sviðum í einu. Samskipti við sjúklinga og aðstandendur eru þó veigamesti þáttur þess og forgangsröðuðu hjúkrunarfræðingarnir markvisst tíma sínum og kröftum.

Ályktanir: Hjúkrunarfræðingar á skurðlækningasviði starfa í hringiðu síbreytilegs og krefjandi umhverfis. Þeir nýta þekkingu sína, reynslu og skýra sýn á starfið til klínískrar ákvarðanatöku og forgangsröðunar. Starfið veitir möguleika til faglegs þroska sem gefur hjúkrunarfræðingunum tækifæri til að nýta og njóta þekkingar sinnar og reynslu og veitir þeim aukið vald yfir starfinu.

 

 

V 91      Mat skurðsjúklinga á fræðslu og stuðningi á sjúkra-húsi eftir aðgerð og sex vikum eftir útskrift

 

Katrín Blöndal1,2, Heiða Steinunn Ólafsdóttir1, Sesselja Jóhannsdóttir1, Herdís Sveinsdóttir1,2

1Skurðlækningasviði Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild HÍ

herdis@hi.is

 

Inngangur:Í lögum um réttindi sjúklinga er kveðið á um réttinn á að fá ýmsar upplýsingar um heilsufar, svo sem um fyrirhugaða meðferð ásamt upplýsingum um framgang meðferðar, áhættu og gagnsemi. Einnig skal sjúklingur við útskrift af heilbrigðisstofnun fá, eftir því sem þörf krefur, leiðbeiningar um þýðingarmikil atriði er varða eftirmeðferð. Fjöldi rannsókna hafa sýnt fram á gildi þess að sjúklingar séu vel upplýstir og er ávinningur sjúklingafræðslu marghátta fyrir einstaklinginn sjálfan sem og þjóðfélagið. Fáar íslenskar rannsóknir hafa verið gerðar um sjúklingafræðslu en vísbendingar eru um að bæta megi gæði þeirrar fræðslu.

Efniviður og aðferðir:Markmið rannsóknarinnar var að lýsa mati skurðsjúklinga á fræðslu sem þeir fengu um sjúkdóm og sjúkdómsferli fyrir skurðaðgerð og við útskrift af sjúkrahúsi. Úrtakið voru sjúklingar sem fóru í ákveðnar aðgerðir á Landspítala, gátu lesið og skilið íslensku, dvöldu að minnsta kosti 24 klukkustundir á sjúkrahúsinu, útskrifuðust heim og hjúkrunarfræðingar mátu hæfa til þátttöku. Gagna var aflað með tveimur spurningalistum sem voru lagðir fyrir á sjúkrahúsinu annars vegar og hins vegar heima sex vikum síðar.

Niðurstöður:Þátttakendur voru 572. Almennt voru sjúklingar ánægðir með fræðsluna. Þeir voru þó ánægðari aðspurðir á spítalanum samanborið við heima. Atriði sem sjúklingar vildu fá frekari fræðslu um fyrir aðgerð voru einkum fylgikvillar aðgerðar, hreyfing, sjúkdómur og verkir, en eftir heimkomu ýmislegt sem tengist verkjum og afturbata. Munur var á ánægju sjúklinga eftir kyni og hjúskaparstöðu/sambúðarstöðu og aldri.

Ályktanir:Endurskoða þarf einstaka þætti fræðslunnar, ekki síst við heimferð. Sérstaklega þarf að skoða fræðslu þeirra hópa sem hún nær síður til.

 

 

 

V 92      Lykilhlutverk næsta yfirmanns fyrir starfsánægju og árangur þjónustu. Tengsl uppbyggjandi samskipta og öryggis sjúklinga og starfsmanna

 

Sigrún Gunnarsdóttir

Hjúkrunarfræðideild HÍ

sigrungu@hi.is

 

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra og tengsl þátta í vinnuumhverfi við líðan starfsmanna og gæði þjónustunnar. Með rannsókninni var leitast við að koma auga á leiðir til að hafa jákvæð áhrif á vinnuumhverfi og líðan starfsmanna með velferð sjúklinga að leiðarljósi. Fræðilegur bakgrunnur eru kenningar um forystu í heilbrigðisþjónustu, gagnreynd þekking um skipulag sjúkrahúsa og kenningar um kulnun. Fyrri rannsóknir sýna tengsl milli starfsánægju og styðjandi þátta í starfsumhverfi, einkum stuðnings stjórnenda og jákvæðra samskipta lækna og hjúkrunarfræðinga. Jafnframt sýna fyrri rannsóknir jákvæð tengsl á milli styðjandi starfsumhverfis og gæða þjónustunnar.

Efniviður og aðferðir: Gerð var spurningalistakönnun með alls um 100 spurningum um þætti í vinnuumhverfi, starfsánægju, einkenni kulnunar og viðhorf starfsmanna til gæða þjónustunnar. Könnunin náði til 695 hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á Landspítala. Spurningalistinn er þýdd og staðfærð útgáfa erlendra mælitækja sem hafa verið prófuð í erlendum rannsóknum.

Niðurstöður:Niðurstöðurnar sýna að mikilvægustu þættir í starfsumhverfi á Landspítala eru styðjandi stjórnunarhættir deildarstjóra hjúkrunar, mönnun og gott samstarf lækna og hjúkrunarfræðinga. Stuðningur stjórnenda í sviðsstjórn og framkvæmdastjórn hafa minna vægi. Rannsóknir staðfestir lykilhlutverk næsta yfirmanns varðandi ánægju starfsmanna og árangur þeirra í starfi. Niðurstöðurnar staðfesta ennfremur mikilvægi fullnægjandi mönnunar fyrir öryggi starfsmanna og sjúklinga.

Ályktanir: Rannsóknin gefur tilefni til að leggja enn frekar áherslu á stjórnunaraðferðir næsta yfirmanns á sjúkrahúsinu. Í því sambandi má álykta að tryggja þurfi að þessi hópur stjórnenda hafi góðan aðgang að fræðslu og stuðningi til að mæta kröfum starfsins. Athygli vekur að niðurstöðurnar sýna ekki marktæk tengsl milli starfsánægju og árangurs og stjórnunarhátta á sjúkrahúsinu í efra stjórnlagi. Er áríðandi að kanna frekar tengsl stjórnunarhátta sviðsstjóra og framkvæmdastjóra fyrir árangur þjónustunnar og ánægju starfsmanna.

 

 

V 93      Ástand og vöktun sjúklinga fyrir óvænta innlögn á gjörgæsludeild

 

Þorsteinn Jónsson1,2, Alma Möller2, Lovísa Baldursdóttir2

1HÍ, 2Landspítala

thj@internet.is

 

Inngangur:Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða ástand og vöktun sjúklinga fyrir óvænta innlögn á gjörgæsludeild. Rannsókninni var ætlað að vekja heilbrigðisstarfsfólk til umhugsunar um alvarleg og bráð veikindi og efla skilning á mikilvægi vöktunar.

Efniviður og aðferðir:Aðferðafræði rannsóknarinnar var afturvirk og lýsandi (retrospective - descriptive) þar sem sem gögnum var safnað úr sjúkraskrám sjúklinga við óvænta innlögn á gjörgæsludeild Landspítala á rannsóknartímabilinu, frá 1. október 2006 til 31. desember 2006. Óvænt innlögn á gjörgæsludeild var skilgreind sem allar innlagnir sjúklinga á gjörgæsludeild sem ekki fóru í gegnum skurðstofu eða innlagnir á gjörgæsludeild vegna þátta sem ekki teljast tilkomnar vegna alvarlegra eða bráðra veikinda.

Niðurstöður:Í rannsókninni var safnað gögnum frá 132 sjúklingum sem er 87% þátttaka. Flestir lögðust inn á gjörgæsludeild á tímabilinu kl. 16:00 til 24:00. Tæplega helmingur (49%) óvæntra innlagna á gjörgæsludeild kom frá legudeildum Landspítalans. Algengasta ástæða innlagna var öndunarbilun og næst kom sýklasótt. Sjö sjúklingar (5%) voru endurinnlagðir á gjörgæsludeild innan 48 klukkustunda frá útskrift. Hjá 13 sjúklingum (20%) á legudeild var síðasta mæling á súrefnismettun (SpO2) lægri en 90% og miðgildi öndunartíðni sjúklinga var 30 sinnum á mínútu. Sá þáttur sem gaf bestu vísbendingar um alvarleika ástands sjúklinga fyrir óvænta innlögn á gjörgæsludeild var öndunartíðni en var á sama tíma lakast skráð. Öndunartíðni var skráð í sjúkraskrá hjá níu sjúklingum (14%) á legudeild vaktina fyrir innlögn á gjörgæsludeild. Þvagútskilnaður og vökvajafnvægi sjúklinga var skráð hjá 27 sjúklingum (42%) og meðvitundarástand skráð hjá 31 sjúklingi (48%). Þá var líkamshiti mældur hjá 45 sjúklingum (69%) og súrefnismettun hjá 52 sjúklingum (80%) fyrir óvænta innlögn á gjörgæsludeild.

Ályktanir:Efla þarf skráningu, árvekni og þekkingu heilbrigðisstarfsfólks á vöktun sjúklinga. Leggja þarf sérstaka áherslu á að bæta vöktun með öndun sjúklinga í ljósi þess að stærstur hluti óvæntra innlagna á gjörgæsludeild er tilkominn vegna vandamála frá öndunarfærum. Liður í að efla vöktun gæti verið fólginn í að innleiða mælitækið stigun bráðveikra sjúklinga, sem og að setja á laggirnar sérskipulagt gjörgæsluteymi sem hefði þann tilgang að aðstoða og styðja legudeildir í vöktun og mati á bráð- og alvarlega veikum sjúklingum.

 

 

V 94      Notkun bætibaktería á fyrstu stigum þorsklirfu- og seiðaeldis

 

Hélène L. Lauzon1, Sigríður Guðmundsdóttir2, Agnar Steinarsson3, Matthías Oddgeirsson3, Bergljót Magnadóttir2, Ívar Örn Árnason2, Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir2

1Matís ohf., 2Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 3Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar í Grindavík

siggag@hi.is helene.l.lauzon@matis.is

 

Inngangur: Nauðsynlegt er að efla þorskeldi hérlendis því búast má við samdrætti í sjávarafla á komandi árum. Talið er að notkun bætibaktería geti bætt lifun eldislirfa, vöxt þeirra og þroskun. Einangrun bætibaktería úr þorskeldi hefur tekist (Lauzon et al., 2008) og prófun þeirra á lirfustigi hefur sýnt árangur með tilliti til aukinnar lifunar og örveruflórustýringar, en einnig aukins vaxtar og streituþols. Markmið þessarar rannsóknar var tvíþætt: að sannprófa notkun tveggja bætibaktería í þorsklirfueldi með reglulegri böðun fyrir og eftir klak og kanna möguleika á notkun þeirra í seiðaeldi með bakteríubættu fóðri.

Efniviðuðr og aðferðir: Við lirfueldi var blanda tveggja bætibaktería notuð reglulega við böðun fyrir og eftir klak, alls átta skipti. Fjögur ómeðhöndluð lirfusíló voru borin saman við jafn mörg meðhöndluð síló. Eftir 36 daga voru mælingar gerðar til að meta örverufræðilegt ástand lirfa, auk lifunar og vaxtar þeirra. Enn fremur voru sýni tekin til mats á nokkrum ónæmisþáttum í lirfum milli fjórða og 28. dags eftir klak. Við seiðaeldi var tilraunin tvískipt, sex seiðaker sem fengu fóður í 27 daga (tveir hópar: viðmiðunarfóður og hitt bætt með báðum bætibakteríum) og sex önnur í 54 daga (þrír hópar: viðmiðunarfóður og hin bætt hvort með sinni bætibakteríu). Seiðin (80 í 300 l ker) voru 10±1 g við upphaf tilrauna. Fylgst var með þyngdaraukningu á 28. og 55. degi, auk örverufjölda í eldisvatni, á tálknum og í görnum.

Niðurstöður: Böðun með bætibakteríum leiddi til marktækt (p<0,05) meiri vaxtar lirfa og aukins heildarörverufjölda í meltingarvegi þeirra. Próteinrannsóknir sýndu hraðari þroskun hjá böðuðum lirfum. Seiði sem fengu eina gerð bakteríubætts fóðurs uxu marktækt (p<0,05) hraðar fyrstu 28 dagana og sýndu lægri fjölda Vibrio tegunda í görnunum.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að bætibakteríurnar hafi áhrif á örveruflóru í meltingarvegi og bein eða óbein áhrif á meltingu lirfa og seiða.

 

 

V 95      Áhrif bætibakteríumeðhöndlunar á próteintjáningu þorsklirfa,Gadus morhua, á frumfóðurstigi

 

Hólmfríður Sveinsdóttir, Ágústa Guðmundsdóttir

Matvæla- og næringarfræðideild HÍ

holmfrs@hi.is

 

Inngangur: Markmið verkefnisins var að skapa nýja þekkingu á áhrifum bætibaktería á próteintjáningu þorsklirfa (Gadus morhua) á frumfóðrunarstigi með hjálp próteinmengjagreiningar. Fyrstu dagarnir eftir upphaf fæðunáms hjá lirfum sjávarfiska einkennast af hárri dánartíðni og hægum vexti. Ástæðuna má meðal annars rekja til sýkinga. Þroskun sérhæfðs ónæmiskerfis þorsks er tiltölulega hæg og hafa vísindamenn því einbeitt sér að leitun leiða til að örva ósérhæfða ónæmiskerfið á fyrstu þroskastigunum. Rannsóknir með bætibakteríum hafa bent til bættrar lifunar og aukins sjúkdómsþols.

Efniviður og aðferðir: Lirfueldið var framkvæmt samkvæmt stöðluðum aðferðum við Hafrannsóknarstofnunina að Stað. Nýklöktum kviðpokalirfum var skipt upp í C-hóp (viðmiðunarsýni) og B-hóp (bætibakteríumeðhöndlun).

Bætibakteríumeðhöndlun: Bætibakteríublanda (REMUS®, Avecom) var sett út í eldissjóinn annan hvern dag. Hjóldýr sem gefin voru í morgungjöf voru böðuð upp úr bætibakteríublöndunni. Próteinextrakt úr samsettu þorsklirfusýni (24 dögum eftir klak) var greint með tvívíðum rafdrætti og próteinmengið greint með tölvuhugbúnaði. Meðalpróteinmagn í depli (n=4) var notað til að bera saman mun í tjáningu einstakra depla milli hópanna. Deplar sem sýndu marktækan (p≤0,05) mun voru greindir með MALDI-TOF massagreiningu.

Niðurstöður: Þrátt fyrir betri lifun hjá B-hópi greindist ekki marktækur munur á stærð lirfanna milli hópanna. Flest prótein sem sýndu marktæka minnkun í tjáningu eftir bætibakteríumeðhöndlun má tengja við ósérhæft ónæmissvar á meðan meirihluti próteinanna sem sýndi aukna tjáningu eftir meðhöndlunina tengjast þroska og vexti.

Ályktanir: Niðurstöður próteinmengjagreininga benda til að þorsklirfur meðhöndlaðar með bætibakteríum upplifi minni streitu úr umhverfi sínu af völdum sjúkdómsvaldandi baktería.

 

 

V 96      Tegundasamsetning og árstíðasveiflur hnísla í ásetningsgimbrum á fjárbúinu í Fossárdal

 

Karl Skírnisson

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

karlsk@hi.is

 

Inngangur: Ellefu tegundir hnísla Eimeria spp. (Coccidia, Protozoa) eru þekktar í sauðfé í heiminum og valda sumar þeirra vanþrifum sem nefnd er hníslasótt. Tegundasamsetning og árstíðasveiflur hnísla voru rannsakaðar í ásetningsgimbrum á fjárbúinu í Fossárdal í Berufirði, en þar hefur hníslasótt verið vandamál um árabil.

Efniviður og aðferðir:Saursýni voru tekin úr 10 lömbum/ungum ám í 23 skipti frá september 2002 til október 2003. Fjöldi þolhjúpa í grammi saurs var metinn í hverju sýni og 50-150 þolhjúpar greindir til tegundar úr þremur lambanna í hverjum mánuði.

Niðurstöður: Alls fundust 10 tegundir hnísla. E. ovinoidalis var algengasta tegundin á öllum árstímum með 40,7% hlutdeild. Næstalgengust var E. bakuensis (18,9%) en síðan komu E. weybridgensis (11,1%), E. granulosa (8,2%), E. parva (6,7%), E. ahsata (5,6%), E. faurei (4,2%), E. intricata (1,6%), E. pallida (1,6%) og E. crandallis (1,4%). Að meðaltali fundust 7,4 tegundir (5-9) í hverju sýni. Árstíðasveiflur komu einkum fram hjá tegundunum E. ovinoidalis, E. bakuensis, E. weybridgensis og E. granulosa.

Ályktanir: E. ovinoidalis er vel þekktur sjúkdómsvaldur en meinvirkni flestra hinna tegundanna er minna þekkt. Hníslasótt virðist sjaldgæf að vori og sumri á bænum, sennilegast vegna þess hversu fé er sleppt fljótt eftir burð á beitiland með litlu hníslasmiti. Á hinn bóginn fá lömb í sig hnísla strax og þau koma af fjalli niður á láglendi á haustin. Lömbin voru yfirleitt komin með hníslasótt eftir um þrjár vikur og einni til tveimur vikum síðar náði hníslafjöldi í saur hámarki. Nokkrir lægri hníslatoppar sáust að vetrinum. Hníslafjöldi í saur virtist ekki hækka að neinu marki um sauðburð og reyndist vera lítill en stöðugur frá miðjum vetri allt fram á haust þegar ærnar voru 17 mánaða.

 

 

 

 

V 97      Ytri sníkjudýr á nautgripum

 

Matthías Eydal og Sigurður H. Richter

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

meydal@hi.is

 

Inngangur:Ýmis húðeinkenni eru þekkt á nautgripum hér á landi en ekki er alltaf vitað af hvaða völdum þau eru. Skipulögð rannsókn á nautgripaóværu hefur ekki verið framkvæmd hérlendis. Markmið rannsóknarinnar er að leita að lúsum (Mallophaga; naglýs og Anoplura; soglýs) og mítlum (Acari) á nautgripum, finna tegundir, kanna tíðni þeirra eftir búum, innan búa, eftir aldri gripanna, athuga útbreiðslu þeirra á gripunum og tengsl við sjúkdómseinkenni.

Efniviður og aðferðir:Skoðaðar voru fimm mjólkurkýr og fimm 4-15 mánaða kálfar á hverjum fimm bæja á Suðurlandi og fimm bæja á Vesturlandi, völdum af handahófi, og leitað skipulega að sníkjudýrum á yfirborði. Hver gripur var kembdur með fíntenntum kambi aðskilið á haus, hálsi, löpp, baki/lend og hala. Hár og annað sem safnaðist var skoðað í víðsjá í leit að sníkjudýrum eða nit.

Niðurstöður:Tvær tegundir lúsa fundust; naglúsin Bovicola bovis og soglúsin Solenopotes capillatus. Lýs fundust á 7 (70%) búanna. Á 50% búa fundust naglýs og á 40% búanna soglýs. Á 20% búanna fundust báðar tegundir. Lýs fundust á 40% kálfanna en einungis á tveimur (4%) mjólkurkúnna. Naglýs fundust oftast á baki/lend, en varð vart víða annars staðar á líkamanum. Soglýs fundust oftast á haus og á hálsi en varð einnig vart víða annars staðar á gripunum. Almennt fundust tiltölulega fáar lýs á gripunum og ekki sáust greinileg merki um nudd eða breytingar í húð gripa sem voru með lúsasýkingu. Eigendur höfðu ekki orðið varir við kláða í þeim gripum sem rannsóknin náði til.

Ályktanir:Tvennt kemur nokkuð á óvart. Hversu lýsnar finnast á mörgum búum en jafnframt að kláðaeinkenni virðast ekki augljós. Í framhaldinu verða tekin húðsýni í sláturhúsum af nautgripum frá Suður - og Vesturlandi í vefjaskoðun til leitar að mítlum í húð.

 

 

V 98      Æxli í gervitálknum þorsks af völdum sníkjudýrs, „x-cell disease“

 

Matthías Eydal1, Árni Kristmundsson1, Sigurður Helgason1, Slavko H. Bambir1, Mark Freeman2

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Institute of Aquaculture, University of Stirling

meydal@hi.is

 

Inngangur: Sníkjudýr sem kallast „x-cell“ (óþekkt fruma) veldur æxlisvexti í gervitálknum (pseudobranchia) þorsks. Það flokk-ast innan frumdýranna (Protozoa), smitleið er óþekkt. Þessi æxli finnast í þorski víða, meðal annars við Ísland. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni æxla í ungum villtum þorski við Ísland og í eldi hér á landi og að athuga með sýkingartilraun hvort sjúkdómsvaldurinn getur smitast beint milli fiska.

Efnviður og aðferðir: A. Villtir þorskar (4-22 mánaða og 2-5 ára) og B. eldisþorskar (0-2 ára) af villtum uppruna annars vegar og frá klakstöð hins vegar, voru skoðaðir og æxlisvöxtur í gervitálknum kannaður. Í aðskildri sýkingartilraun var smitfríum þorskseiðum gefið æxlismauk úr sýktum fiski í munn eða sprautað í kviðarhol og fylgst með framvindu í fjóra mánuði.

Niðurstöður: A. Villtur þorskur: Yngstu seiðin sem greindust með sýkingu voru sex mánaða gömul (7% tíðni). Sýkingartíðnin var svo 3%, 6% og 23% í 10, 18 og 22 mánaða ungþorski og 7% í tveggja til fimm ára gömlum þorski. B. Eldisþorskur: Seiði veidd til eldis voru með náttúrulega ”x-cell”-sýkingu, um það bil 5% tíðni, þegar eldið hófst. Á fyrstu mánuðum eldistímans horuðust þau flest eða öll og megnið af þeim drapst að því er séð varð á nokkurra mánaða tímabili. Engin merki sáust um að smit bærist úr þessum seiðum í ósýkt seiði úr klakstöð þegar þau voru alin saman. Í sýkingartilrauninni tókst ekki að fá fram æxlisvöxt.

Ályktanir: Ekki er vitað hvernig sýktum villiseiðum reiðir af í náttúrunni, en eldisseiði með æxli eru ekki lífvænleg. Niðurstaðan úr eldi og úr smittilraun styður ekki þá kenningu að sníkjudýrið smitist með beinum hætti milli þorska. Ef til vill þurfa önnur þroskastig sníkjudýrsins eða millihýslar að koma til svo smitun leiði til æxlismyndunar.

 

 

V 99      Útbreiðsla, tíðni og arfgerðir Giardia duodenalis í dýrum og mönnum á Íslandi

 

Sigurður H. Richter1, Ingibjörg Hilmarsdóttir2, Charlotte Maddox-Hyttel3, Heidi L. Enemark3

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2sýklafræðideild Landspítala, 3Danmarks Veterinærinstitut

shr@hi.is

 

Inngangur:Giardia duodenalis (syn. G. lamblia, G. intestinalis) er frumdýr (Protozoa) sem getur valdið sýkingu í meltingarvegi manna og dýra og berst með saur-munn smiti. Helstu einkenni eru kviðverkir og niðurgangur. Einfrumungurinn er algengur um allan heim og af honum er fjöldi arfgerða sem virðast vera mishýsilsérhæfðar og missjúkdómsvaldandi. Lítið hefur verið vitað um tíðni Giardia eða útbreiðslu á Íslandi, einkum í dýrum.

Efniviður og aðferðir:Á tímabilinu 2002-07 var saursýnum safnað úr lömbum, kálfum, folöldum og grísum, allt að 10 sýnum úr einni dýrategund á hverjum bæ, alls 428 sýni, víðsvegar af landinu. Hluti hvers sýnis var undir-búinn með formalín-ethylacetat botnfellingu og síðan notað flúrljómunar-mótefnapróf við leit að þolhjúpum einfrumunganna. Einnig var hluti hvers sýnis frystur til arfgerðargreininga með DNA-raðgreiningu. Saursýni úr sýktum mönnum og innfluttum og innlendum hundum og köttum, hafa einnig verið fryst til arfgerðargreininga.

Niðurstöður:Giardia fannst í lömbum á 18 bæjum af 18 rannsökuðum, í kálfum á fimm bæjum af sjö, í folöldum á einum bæ af 13 og í grísum á tveimur búum af sjö. Tíu saursýni úr mönnum, fjögur sýni úr lömbum, tvö úr kálfum, eitt úr folaldi, eitt úr grís, eitt úr hvolpi og eitt úr kettlingi með Giardia voru send til Danmerkur til arfgerðargreininga. Það tókst að magna upp og greina G. duodenalis úr öllum mannasaursýnunum til arfgerðar-
hópa (1 A og 9 B) en aðeins úr tveimur sýnum úr lömbum og einu sýni úr ketti.
G. duodenalis úr lömbunum voru úr arfgerðarhópi (E) sem ekki fer í menn en G. duodenalis úr kettlingnum tilheyrði arfgerðarhópi (A) þar sem einnig má finna arfgerðir sem fara í menn.

Ályktanir: G. duodenalis er algeng í ýmsum spendýrum á Íslandi og finnst einnig oft í mönnum. Ekki er vitað hvort á Íslandi finnast arfgerðir sem geta borist milli manna og dýra.

 

 

V 100    Nor98 riða greinist í íslensku sauðfé

 

Stefanía Þorgeirsdóttir1, Jóna A. Auðólfsdóttir1, Marianne Jensdóttir1, Sigurður Sigurðarson2

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Matvælastofnuninni Selfossi

stef@hi.is

 

Inngangur: Á Íslandi hefur verið virkt eftirlit með riðu í sauðfé um árabil, en árlega finnast nokkur tilfelli af þessum ólæknandi taugasjúkdómi. Notkun nýrra skimunarprófa hafa leitt til greiningar á nokkrum tilfellum af nýju afbrigði af riðu hér á landi, einnig nefnd Nor98 riða, fyrst greind í Noregi árið1998. Helstu einkenni þessara tilfella er önnur dreifing vefjaskemmda og uppsöfnunar smitefnis í heila miðað við hefðbundna riðu. Þessi riðutilfelli greinast oft í eldra fé og oftast er bara um eina jákvæða kind að ræða í hverri hjörð. Auk þess bera þessi tilfelli aðrar PrP arfgerðir en þær sem hafa hingað til verið tengdar áhættu fyrir riðu.

Efniviður og aðferðir: Í samstarfi við Matvælastofnun eru prófuð árlega 4-5000 sláturhúsasýni úr fullorðnu fé auk sýna úr áhættuhópum. Skimað er fyrir riðusjúkdómnum með TeSeE Elísu-prófi (Bio-Rad), en í því er mælt magn riðusmitefnis í heila, en próteinþrykk er notað sem staðfestingarpróf og til að greina á milli hefðbundinnar riðu og Nor98 riðu. Skerðibútamelta var notuð til greiningar á arfgerðum príongensins.

Niðurstöður:Þrjú tilfelli af Nor98 riðu hafa greinst hér á landi. Fyrsta tilfellið greindist við skimun á sláturfé haustið 2004, en hin tilfellin greindust 2007 og 2008, hvorutveggja í kindum með sjúkdómseinkenni. Eftir niðurskurð var skimað fyrir riðusmitefninu í riðuhjörðunum og fannst eitt jákvætt sýni til viðbótar í fyrstu hjörðinni. Það, líkt og hin sýnin, sýndi 11-12 kDa band á próteinþrykki, eitt einkenna Nor98 riðu. Hafa því fundist tvö jákvæð sýni í Nor98 hjörð sem er sjaldgæft í tilfellum sem þessum. Skoðun arfgerða príongensins sýndi að öll Nor98 tilfellin báru histidine í tákna 154, sem er einkennandi fyrir slík riðuafbrigði.Í þessari rannsókn bárum við saman arfgerðir príongensins í fyrstu tveim Nor98 hjörðunum við nokkrar riðuhjarðir þar sem hefðbundin riða hefur greinst. Sú arfgerð sem fannst í Nor98 tilfellunum, AHQ, hefur verið tengd þoli gagnvart hefðbundinni riðu í íslensku fé, en VRQ er áhættuarfgerð hefðbundinnar riðu.

Ályktanir: Þessum íslensku Nor98 tilfellum svipar því til Nor98 tilfella erlendis, bæði hvað varðar arfgerðir príongensins og próteinprófíl smitefnisins. Hins vegar fundust tvö tilfelli í einni hjörðinni sem er sjaldgæft í þessari gerð riðu.

 

V 101    Breytingar á hjúppróteini mæði-visnuveiru við náttúrulegar sýkingar

 

Hallgrímur Arnarson1, Margrét Guðnadóttir2, Valgerður Andrésdóttir1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2veirurannsóknastofnun læknadeildar HÍ

valand@hi.is

 

Inngangur:Mæði-visnuveira er lentiveira sem smitast um öndunarveg og frá móður til afkvæmis með mjólk. Veiran á það sameiginlegt með öðrum lentiveirum (þar á meðal HIV) að hún helst í líkamanum þrátt fyrir öflugt ónæmissvar. Mikill breytileiki, sérstaklega í yfirborðspróteinum, er meðal þátta sem auðvelda veirunni að komast fram hjá ónæmissvarinu. Yfirborðsprótein lentiveira eru á meðal sykruðustu próteina sem þekkjast og hafa komið fram kenningar um að sykurhjúpurinn sé síbreytilegur og verji veirurnar fyrir mótefnasvari. Í bólusetningartilraun með mæði-visnuveiru þar sem reynt var á bólusetningu í gegnum náttúrlegar smitleiðir fékkst nokkur vörn, en þó smitaðist um það bil helmingur þeirra kinda sem voru bólusettar. Markmið þessarar rannsóknar var að athuga hvort þær veirur sem ræktuðust úr bólusettum kindum hefðu stökkbreytt væki í yfirborðspróteini og kæmust þannig fram hjá ónæmissvarinu.

Efniviður og aðferðir: Í bóluefni voru notaðar fixeraðar veiruagnir af stofni K796 ásamt ónæmisglæði. Bólusettar kindur og óbólusettar voru hafðar með kindum sem voru sýktar með bóluefnisstofni. Veirur voru einangraðar bæði úr bólusettum og óbólusettum kindum og klónaður um það bil 450 bp bútur úr vækisstöð yfirborðspróteins. Einnig voru gerð hlutleysandi mótefnapróf með sértæku sermi gegn bóluefnisstofni og með breiðvirkara sermi.

Niðurstöður: Allir veirustofnar, hvort sem var úr bólusettum eða óbólusettum kindum, höfðu stökkbreytingar í vækisstöð sem leiddu til þess að þeir komust undan sértæku ónæmissvari. Flestar þessar stökkbreytingar voru í sykrunarseti sem styður þá tilgátu að sykrunin gegni sérstöku hlutverki hjá þessum veirum við að komast undan ónæmissvarinu.

Ályktanir:Niðurstöður benda til þess að það séu aðallega veirur sem komast undan ónæmissvarinu sem berast á milli í náttúrlegri sýkingu.

 

 

V 102    Breytileiki stofna gammaherpesveira í hestum á Íslandi

 

Lilja Þorsteinsdóttir1, Einar G. Torfason2, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir1, Vilhjálmur Svansson1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2rannsóknastofu Landspítala í veirufræði

liljatho@hi.is

 

Inngangur:Sýnt hefur verið fram á að hestar á Íslandi eru sýkir af báðum gerðum gammaherpesveira (γ-EHV, equine herpes-virus) sem þekktar eru, EHV-2 og EHV-5. Erfitt er að segja til um hvenær g-EHV í íslenskum hestum bárust til landsins. Miðað við eðli herpessýkinga mætti álykta að vegna einangrunar og hafta á innflutningi hafi veirurnar komið til landsins við upphaf byggðar. Markmið verkefnisins er að rannsaka erfðafræðilegan breytileika g-EHV veira hér á landi og skoða skyldleika við erlenda stofna. Einnig að kanna hvort þúsund ára einangrun í litlum stofni hafi haft áhrif á erfðafræðilegan breytileika veiranna og aðlögun þeirra að hýsli.

Efniviður og aðferðir:Íslensku veirurnar voru ræktaðar frá heilbrigðum og veikum hestum í hestafósturnýrnafrumum, þær voru eyðuhreinsaðar. Erlendu veirurnar komu frá Zürich og voru ræktaðar upp hér. DNA var einangrað (Purgene®Gentra systems) og PCR framkvæmt. PCR afurðir voru ýmist raðgreindar beint (BigDye®Terminator v1.3cycle, Applied Biosystems) eða klónaðar fyrst inn í pBAD TOPO (Invitrogen).

Niðurstöður:Raðgreind voru fjögur gen úr innlendum og erlendum veirustofnum, það er glycoprotein B (glyB), glycoprotein H (glyH), DNA-terminasa genið og DNA-háða DNA-fjölliðunarensímið. Genin voru fullraðgreind fyrir þrjár íslenskar veirur. Út frá breytileika sem sást eftir raðgreiningar voru ákveðin svæði valin og þau raðgreind fyrir níu íslenskar veirur til viðbótar. Genin voru fullraðgreind fyrir sjö erlendar veirur. Hjá glyB og glyH genunum er mikill breytileiki milli veirustofna en lítill breytileiki er milli stofna hjá hinum genunum. Ekki er munur á íslensku og erlendu veirunum.

Ályktanir:Enginn munur virðist vera á breytileika íslensku og erlendu g-EHV. Því má segja að þúsund ára einangrun sé ekki nægur tími til að hafa merkjanleg áhrif á genamengi þeirra.

 

 

V 103    Áhrif lyfjasprota á BRCA2brjóstafrumulínur

 

Anna María Halldórsdóttir1,2, Linda Viðarsdóttir1,2, Jórunn Erla Eyfjörð1,2

1Rannsóknarstofu KÍ og HÍ í sameinda- og frumulíffræði, 2læknadeild HÍ

amh1@hi.is

 

Inngangur:BRCA2 próteinið tekur þátt í því að viðhalda stöðugleika erfðaefnisins frumna við DNA viðgerð. Sýnt hefur verið að Aurora-A er magnað upp í BRCA2 stökkbreyttum æxlum. Frymisnetsálag er það ástand sem skapast þegar ójafnvægi ríkir á milli frymisnetsvirkni og -getu. Langvarandi ójafnvægi leiðir frumurnar í stýrðan frumudauða. Ensímið PARP1 tekur þátt í skerðiviðgerð og viðgerð á einþátta-DNA brotum. Sýnt hefur verið fram á að BRCA2 stökkbreyttar frumur eru viðkvæmar fyrir hindrun á PARP1 virkni. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort frumulínur með stökkbreytingu í BRCA2 færu í gegnum frymisnetsálag eftir meðhöndlun með Aurora lyfjasprota og einnig að athuga áhrif PARP lyfjasprota á sömu línur.

Efniviður og aðferðir: BRCA2 arfblendnar frumulínur voru meðhöndlaðar með 1 og 4 µM af Aurora lyfjasprotanum ZM447439 í 72 klst og prótín einangruð. Western blettun var framkvæmt með mótefnum fyrir XBP-1s og p-eIFα2 til að athuga hvort frumurnar sýndu merki um frymisnetsálag. Þá voru sömu frumulínur meðhöndlaðar með PARP lyfjasprotanum AG14361 í styrkleikum milli 1-100 µM og frumuvöxtur þeirra metinn með MTS prófi.

Niðurstöður: Western blettun sýndi að líklegt er að frumurnar séu að ganga í gegnum frymisnetsálag af völdum Aurora lyfjasprotans. MTS prófun sýndi að PARP lyfjasprotinn AG14361 hefur lítil áhrif á frumufjölgun í þessum frumulínum.

Ályktanir: Aurora lyfjasprotinn er væntanlega að neyða frumurnar til að svara álagi með viðbrögðum sem leiða til stýrðs frumudauða. Mikilvægt er að kanna hvernig lyfjasprotinn fer að því. PARP lyfjasprotinn sem var notaður er ekki mjög virkur og getur það hafa orsakað þessi litlu viðbrögð í frumuvexti. Þessu verður fylgt eftir með því að prófa áhrif annarra PARP hindra sem sýnt hefur verið fram á að eru mun virkari.

 

 

V 104    Hlutverk prótein týrósín fosfatasa 1B (PTP1B) í brjóstastofnfrumulínunni D492

 

Bylgja Hilmarsdóttir, Katrín Ósk Guðmundsdóttir, Ragnar Pálsson, Þórarinn Guðjónsson, Magnús Karl Magnússon

Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum, blóðmeinafræðideild Landspítala og líffærafræði læknadeildar HÍ

bylgjah@gmail.com

 

Inngangur:PTP1b týrósín fosfatasi er skráður af geni (PTPN1) sem staðsett er á 20q13, en á þessu svæði er algengt að finna mögnun í brjóstaæxlum. D492 er brjóstastofnfrumulína sem var gerð ódauðleg með víxlveirugenaferju sem flutti æxlisgenin E6/E7 inn í genamengi hennar. Innskotsstaður víxlveirugenaferjunnar var einangraður með Inverse PCR (iPCR) þar sem finna mátti DNA röð víxlveirunnar í erfðamengi D492. BLAST leit leiddi í ljós að innskotsstaðurinn var á litningi 20q13.1 eða um 95 kílóbasa neðan við PTP1N genið. Í ljósi þessarar staðsetningar innskotsins höfum við mikinn áhuga að rannsaka hvaða áhrif innskotið hefur á virkni PTP1b í D492 samanborið við aðrar brjóstaþekjufrumur. Markmiðrannsóknarinnar var að kanna hvaða áhrif PTP1b hefur á eiginleika D492 frumulínunnar og hvort að þau megi að hluta til rekja til innskots á E6/E7 í genamengi frumulínunnar.

Efniviður og aðferðir: Ræktun frumna í tvívíðri rækt, Western blettun, notkun lyfjahindra í frumurækt og flæðifrumusjárgreining.

Niðurstöður:Western blettun leiddi í ljós að tjáning PTP1b próteinsins er mun meiri í D492 frumulínunni en í ferskum (primary) brjóstþekjufrumum. Þetta bendir til að víxlveiran hafi áhrif á genatjáningu frumulínunnar. Til að kanna starfrænt hlutverk PTP1b í D492 voru áhrif sértæks PTP1b hindra könnuð á D492 og og fleiri frumulínur. Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að PTP1b próteinið sé mikilvægt í D492 frumulínunni þar sem 16uM styrkur af hindra nægir til að framkalla víðtækan frumudauða (IC50 fyrir hindrann er 8uM). Hindrinn hefur ekki slík áhrif á MCF-7, sem er krabbameinsfrumulína úr brjósti. Vinna við frumuflæðisjárgreiningu er gangi sem staðfestir mikinn frumudauða. Ekki er ljóst á núverandi tímapunkti hvort að frumudauðinn orsakist af stýrðum frumudauða eða almennum frumudauða (nekrósu)

Ályktanir:Innskotsstaður víxlgenaferjunnar í D492 er mjög áhugaverður og virðist hafa áhrif á tjáningu gensins PTP1B í frumulínunni. D492 er mjög viðkvæm fyrir lyfjahindrun á PTP1B sem gefur til kynna mikilvægi gensins fyrir hana. Áframhaldandi rannsóknir miða að því að að þagga niður tjáningu PTPN1 með RNAi tækni og kanna hvaða áhrif það hefur stofnfrumueiginleika D492.

 

 

V 105    Áhrif Aurora mögnunar á virkni Aurora lyfjasprota í BRCA2frumulínum

 

Linda Viðarsdóttir1, Sigríður K. Böðvarsdóttir1, Helga M. Ögmundsdóttir1, Jórunn E. Eyfjörð1

1Rannsóknastofu HÍ og KÍ í sameinda- og frumulíffræði, læknadeild HÍ

lindav@hi.is

 

Inngangur: Aurora kínasar eru serín/þreónín kínasar sem eru mikilvægir þátttakendur í mítósu. Aurora kínasar eru oft magnaðir og/eða yfirtjáðir í æxlum. Æxli með BRCA2 999del5 stökkbreytingu eru líklegri til að vera með Aurora-A mögnun. Nýlega voru Aurora lyfjasprotar hannaðir og bindast þeir ATP virka bindiseti Aurora próteina og hindra þar með virkni þeirra. Rannsóknir á þessum lyfjasprotum lofa góðu en hafa ekki verið sértækar með tilliti til vals á frumulínum eða sjúklingum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif lyfjasprotans á frumulínur, sem bera stökkbreytingu í BRCA2, og einnig hvort mögnun á Aurora-A eða -B og p53 staða auki áhrif lyfjasprotans.

Efniviður og aðferðir:Aurora hindrinn, ZM447439, var prófaður í mismunandi styrk á frumulínur sem eru með stökkbreytt og heilbrigt BRCA2. Lifunarkúrfur voru gerðar með Crystal Violet litun og IC50 stuðull ákvarðaður. DNA innihald frumulínanna var skoðað með PI litun í flæðisfrymissjá. Litningagreining var gerð fyrir og eftir meðhöndlun.

Niðurstöður: Aurora kínasa lyfjasprotinn sýndi mikil árhif á formgerð frumnanna. Frumurnar urðu stórar, fjölkjarna og með uppsafnað DNA. Litningagreining sýndi að hver fruma innihélt yvisvar til þrisvar sinnum meira DNA en viðmiðin eftir meðhöndlun. Frumulínur með BRCA2 999del5 stökkbreytingu voru viðkvæmari fyrir lyfjasprotanum en viðmið og frumulínur með 4700del4 eða 6872del4 BRCA2 stökkbreytingu.

Ályktanir: Aurora lyfjasprotinn, ZM447439, hafði mikil áhrif á frumulínurnar. Frumulínurnar voru þó misnæmar fyrir áhrifum lyfjasprotans og líklegt að bakgrunnur frumunanna hafi þar áhrif. Hugsanlega getur p53 staða útskýrt þann mun sem sást á milli mismunandi BRCA2 stökkbreyttra frumulína.

 

 

V 106    Erfðamynstur brjóstakrabbameina í tengslum við BRCA afbrigðileika og möguleika á BRCA-sértækri lyfjameðferð

 

Ólafur Andri Stefánsson1, Jón Gunnlaugur Jónasson2, Óskar Þór Jóhannsson3, Kristrún Ólafsdóttir2, Margrét Steinarsdóttir4, Sigríður Valgeirsdóttir5, Jórunn Erla Eyfjörð1

1Læknadeild HÍ, 2meinafræðideild, 3krabbameinslækningadeild, 4erfða- og sameindalæknisfræði Landspítala, 5Nimblegen Systems á Íslandi

oas@hi.is

Inngangur: Kímlínustökkbreytingar í BRCA1 og BRCA2 genum auka áhættu á brjóstakrabbameini. Stökkbreytingar í stökum brjóstakrabbameinum finnast ekki og mikilvægi þessara gena því ekki ljóst í stökum tilfellum.

Efniviður og aðferðir: Erfðamynstur brjóstakrabbameina (n=67) með og án afbrigðileika í BRCA genum var skoðuð með CGH örflögutækni í ~7kbp upplausn. Svipgerð brjóstakrabbameina var skoðuð með vefjaörgreinatækni (ER, PR, HER-2, EGFR, CK5/6 og Claudin-3).

Niðurstöður: Erfðamynstur brjóstakrabbameina skiptist upp í fjóra hópa og af þeim sýndu þrír óstöðugleika. Af þessum þremur hafði einn hópur óvenjulega háa tíðni af BRCA1 afbrigðileika og annar háa tíðni af BRCA2 afbrigðileika. Þrátt fyrir að BRCA1- og BRCA2 æxli hafi sýnt ólík erfðamynstur höfðu þau svipuð einkenni í erfðamengjum sínum. Nánari greining á breytileika í erfðamynstrum brjóstaæxla í þeim æxlishópi sem sýndi tiltölulega lítinn óstöðugleika leiddi í ljós klasa af æxlum með óvenjulega lítinn óstöðugleika.

Ályktanir: Ákveðinn hluti af stökum brjóstaæxlum sýna æxlisframvindu sem líkist þeirri er sést í arfberum BRCA1- eða BRCA2 kímlínustökkbreytinga. Þrátt fyrir að BRCA1- og BRCA2 afbrigðileg æxli fari ólíkar leiðir með tilliti til erfðamynsturs sýna þau sameiginleg einkenni sem benda til þess að þau öðlist óstöðugleika á svipaðan hátt. Ákveðinn undirhópur af brjósta-æxlum sýnir áberandi lítinn óstöðugleika í erfðaefninu og sérstaka svipgerð. Þetta sýnir að framþróun ákveðinna brjósta- æxla felur ekki í sér óstöðugleika í erfðaefninu. Mikilvægi þess að kanna hlutverk BRCA1 og BRCA2 gena í stökum brjóstakrabbameinum felst í hugsanlegum ávinningi af BRCA-sértækri lyfjameðferð.

 

 

V 107    Gallar í litningaendum í BRCA2stökkbreyttum brjóstaæxlum og frumulínum

 

Sigríður Klara Böðvarsdóttir1, Margrét Steinarsdóttir2, Jórunn Erla Eyfjörð1

1Rannsóknastofu HÍ og KÍ í sameinda- og frumulíffræði, læknadeild HÍ, 2litningarannsóknum, erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala

skb@krabb.is

 

Inngangur: Litningaóstöðugleiki er algengur í brjóstaæxlum, einkum þeim sem bera ættlæga stökkbreytingu í BRCA1 eða BRCA2 geni. Orsakir litningóstöðugleika má rekja til galla í DNA viðgerð. Prótín sem taka þátt í DNA viðgerð hafa einnig oft hlutverki að gegna við pökkun litningaenda í D-lykkju sem kemur í veg fyrir skynjun þeirra sem tvíþátta DNA brota. Sýnt hefur verið fram á líklegt hlutverk BRCA1 við pökkun litningaenda. Óvíst er hvort BRCA2 gegni einnig hlutverki þar. Markmið þessa verkefnis var að kanna stöðugleika litningaenda í brjóstaæxlum og brjóstafrumulínum sem bera stökkbreytingu í BRCA2.

Efniviður og aðferðir: Tíðni endatenginga milli litninga var metin í brjóstaæxlum með eða án BRCA2 stökkbreytingar og án eyðingar á litningaendum. FISH greining var gerð á litningaendum í BRCA2 stökkbreyttum brjóstafrumulínum til að meta galla í litningaendum. Vegna missterkra telomere merkja á milli systurlitningsþráða í BRCA2 frumulínum voru millivíxl milli lintningaenda metin með stefnuháðri FISH aðferð (CO-FISH).

Niðurstöður: Tíðni endatenginga milli litninga reyndist marktækt meiri í BRCA2 stökkbreyttum brjóstaæxlum en í öðrum brjóstaæxlum. FISH greining á litningaendum í BRCA2 brjóstafrumulínum sýndi að endatengingar ættu sér stað án þess að um endaeyðingu væru að ræða. Þetta bendir til galla í pökkun litningaenda, auk þess sem litningaendar voru brotgjarnir. Með CO-FISH greiningu var hægt að sýna fram á að millivíxl milli litningenda voru tíð, líkt og í frumum sem nota ALT (alternative lengthening of telomeres) til að viðhalda litningaendum.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að BRCA2 prótínið hafi hlutverki að gegna við pökkun litningaenda, auk þess að bæla millivíxl milli litningaenda.

 

 

V 108    Hjúpgerðir í ífarandi pneumókokkasýkingum 1998-2007 með tilliti til nýrra próteintengdra bóluefna

 

Helga Erlendsdóttir1,2, Þórólfur Guðnason3, Karl G. Kristinsson1,2

1Sýklafræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3landlæknisembættinu

helgaerl@landspitali.is

 

Inngangur: Pneumókokkar hafa 91 þekkta hjúpgerð og ífarandi sýkingar af völdum þeirra geta verið lífshættulegar. Á markaði er bóluefni sem inniheldur sjö hjúpgerðir (Prevnar®, PCV-7), bóluefni með 10 hjúpgerðum (PCV-10) er væntanlegt og 13 gilt bóluefni (PCV-13) er í þróun. PCV-7 dregur mjög úr ífarandi sýkingum og hefur einnig sýnt virkni gegn lungnabólgum og miðeyrnabólgum. Bólusetning ungbarna með PCV-7 hefur ýmist verið hafin eða er á dagskrá hjá hinum Norðurlöndunum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna mögulega virkni nýrra bóluefna miðað við nýgengi viðkomandi hjúpgerða á Íslandi.

Efniviður og aðferðir:Hjúpgerðir í PCV-7 eru 4, 6B, 9V, 14, 18C, 19F og 23F. Í PCV-10 eru auk þess hjúpgerðir 1, 5 og 7F og í PCV-13 bætast við hjúpgerðir 3, 6A og 19A. Úr gögnum sýklafræðideildar Landspítalans voru unnar upplýsingar um nýgengi viðkomandi hjúpgerða. Skráðar voru ífarandi pneumókokkasýkingar síðustu 10 ár eftir aldurshópum, heilahimnubólgur skráðar svo og afdrif (andlát). Reiknað var hlutfall sjúklinga með hjúpgerðir tilheyrandi viðkomandi bóluefnum.

Niðurstöður: Alls greindust 486 ífarandi sýkingar á tímabilinu og voru hjúpgerðir þekktar í 464 tilvikum. Hjúpgerðir sem tilheyrðu PCV-7, -10 og -13 voru 51%, 72% og 82%. Fyrir hjúpgerðir í heilahimnubólgu (alls 31 eða 6,3%) var hlutfallið 48%, 61% og 68%. Fjöldi þeirra sem lést var 56 (12%) og höfðu 43%, 59% og 74% þeirra hjúpgerðir sem tilheyrðu PCV-7, -10 og -13. Dreifing hjúpgerða var mismunandi eftir aldurshópum. Mun fleiri í yngri aldurshópunum höfðu hjúpgerðir sem tilheyrðu bóluefnunum.

Ályktanir:Forsenda hagkvæmnisútreikninga á bólefnum er nákvæm skráning og afdrif sjúklinga sem fá sjúkdóma sem hægt er að fyrirbyggja.

 

V 109    Hröð útbreiðsla fjölónæms klóns pneumókokka á Íslandi

 

Karl G. Kristinsson1,2, Martha Á. Hjálmarsdóttir1,2, Þóra R. Gunnarsdóttir1

1Sýklafræðideild Landspítala, 2

hjalmars@hi.is

 

Inngangur: Á árunum 1989-1993 jókst nýgengi fjölónæms klóns pneumókokka (Spain6B-2) úr 0% í 16% af öllum stofnum sem orsökuðu sýkingar. Íhlutandi aðgerðir leiddu til minni sýklalyfjanotkunar og í kjölfarið lækkaði tíðni pneumókokka með minnkað næmi fyrir penisillíni (PMNP) og fór niður fyrir 10%. Árið 2004 jókst tíðni PMNP aftur, sérstaklega frá 2005. Markmið okkar var að rannsaka þessa aukningu.

Efniviður og aðferðir: Skimað var fyrir minnkuðu penisillín næmi (oxasillín skífa) og næmispróf voru gerð á öllum pneumókokkastofnum sem ræktuðust frá sjúklingasýnum. Lágmarksheftistyrkur penisillíns og ceftriaxóns var mældur hjá oxasillín ónæmum stofnum. PMNP voru hjúpgerðargreindir og hluti 19F stofna valinn til arfgerðargreiningar (PFGE og MLST). Upplýsinga um sýklalyfjanotkun var aflað hjá embætti sóttvarnarlæknis.

Niðurstöður: Árið 2007 náði tíðni PMNP 37%. Af þeim voru 81% einnig ónæmir fyrir erythromýsíni og tetracyklíni og af þeim tilheyrðu 88% hjúpgerð 19/19F. Flestir fjölónæmu stofnanna tengdust sýkingum í efri loftvegum. PFGE sýndi að langflestir tilheyrðu einum klóni. Afturvirk rannsókn ífarandi stofna sýndi að einn stofn var af þessum klóni 2004 og einn 2005. Í stofnasafni frá rannsóknum á leikskólabörnum (EURIS og PREVIS) fundust 2, 6, 7, 2, 0 og 12 stofnar árin 2001-2006. MLST stofngerð klónsins var ST-1968, sem er tveggja seta afbrigði af PMEN klóni Taiwan19F-14. Sýklalyfjanotkun á Íslandi jókst úr 20,2 stöðluðum dagskömmtum á 1000 íbúa á dag 2003 í 24,9 árið 2007 og azithrómýsín notkun úr 0,4 í 0,8.

Ályktanir: Fjölónæmur klónn af hjúpgerð 19F sem aðallega orsakar efri loftvegasýkingar í börnum hefur breiðst út sem faraldur á Íslandi. Þessi hæfni hans getur tengst litlu eða engu hjarðónæmi fyrir viðkomandi klónagerð hjá landsmönnum og/eða aukinni notkun sýklalyfja.

 

 

V 110    Andleg líðan sjúklinga eftir ífarandi meningókokka-sýkingar. Niðurstöður úr þversniðsrannsókn

 

Martina Vigdís Nardini1, Ingi Karl Reynisson1, Ragnar Freyr Ingvarsson2, Hafrún Kristjánsdóttir2, Jón Friðrik Sigurðsson2, Magnús Gottfreðsson2

1Læknadeild HÍ, 2Landspítala

magnusgo@landspitali.is

 

Inngangur:Ífarandi sýkingar af völdum meningókokka (Neisseria meningitidis) eru bæði alvarlegar og algengar um heim allan. Dánartíðni sjúklinga með slíkar sýkingar hérlendis er um 10%. Algengustu fylgikvillar sýkinganna eru heyrnarskerðing, drep í húð og fylgikvillar frá miðtaugakerfi. Ýmislegt bendir til að hætta á ótímabærum dauðsföllum sé aukin mánuðum eða árum eftir sýkinguna, en óljóst er hvort þar sé um eftirköst sýkingarinnar er að ræða.

Efniviður og aðferðir:Valið var handahófsúrtak 170 einstaklinga sem höfðu fengið ífarandi meningókokkasýkingu og lifað hana af og var þeim boðin þátttaka í rannsókninni. Af þeim tóku þátt 120 manns. Fyrir þátttakendur voru lagðir þrenns konar spurningalistar (Becks, DASS og PHQ) sem allir kanna andlega líðan, þó aðallega með tilliti til þunglyndis, streitu og kvíða. Úrta-kið var borið saman við samanburðarhóp með t-prófi.

Niðurstöður: Þunglyndiseinkenni samkvæmt Becks-kvarða voru ekki marktækt algengari meðal þeirra sem fengið höfðu meningókokkasýkingu (p=0,63). Niðurstöður úr DASS -spurningalistum sýndu að sjúklingahópurinn hefur minni einkenni um þunglyndi, kvíða og streitu en samanburðarhópur (p<0,001). Niðurstöður úr PHQ-spurningalistum sýndu að tíðni felmtursröskunar, annarra kvíðaraskana, lotugræðgi og ofáts var ekki frábrugðin almennu þýði en tíðni áfengismisnotkunar var marktækt hærri meðal þeirra sem fengið höfðu meningókokkasýkingu (17,4% samanborið við 7%, p<0,001).

Ályktanir:Hugmyndir hafa verið uppi um að heilahimnubólga af völdum meningókokka geti leitt til þunglyndis meðal þeirra sem lifa sýkinguna af. Niðurstöður okkar benda hins vegar ekki til að svo sé og þvert á móti eru kvíða- og streitueinkenni minni en hjá almennu þýði. Áfengismisnotkun virðist hins vegar vera algengari en vænta mátti.

 

 

V 111    Bakteríur í miðeyrnavökva

 

Thelma M. Andersen1, Ólafur Guðmundsson2, Karl G. Kristinsson1,3, Björn R. Lúðvíksson1,4, Ásgeir Haraldsson1,5, Hannes Petersen1,2

1Læknadeild HÍ, 2háls,- nef- og eyrnadeild, 3sýklafræðideild, 4ónæmisfræðideild, 5Barnaspítala Hringsins Landpítala

hpet@hi.is

 

Inngangur:Miðeyrnabólga (otitis media) er einn algengasti sjúkdómur meðal barna og er talið að allt að 80% barna hafi greinst með sjúkdóminn að minnsta kosti einu sinni fyrir þriggja ára aldur. Hlutverk baktería í meinmynd miðeyrnabólgu er þekkt, en óljósari er þáttur þeirra í meinmynd langdreginar vökvasöfnunar í miðeyra eftir sýkingu. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tilvist baktería í miðeyravökva barna með vökvasöfnun í miðeyra.

Efniviður og aðferðir:Rannsóknarþýðið voru öll börn 0-12 ára sem gangast áttu undir ástungu á hljóðhimnu eða röraísetningu á Handlæknastöðinni í Glæsibæ, rannsóknartímabilið 17.03-30.04 2008. Miðeyrnavökva var safnað og hann ræktaður auk þess sem spurningalisti var lagður fyrir foreldra/forráðamenn.

Niðurstöður:Þátttakendur í rannsókninni voru 181 barn (55% drengir, aldur fjögurra mánaða til 10 ára). Níutíu og eitt prósent barnanna hafði sögu um eyrnabólgu, 88% voru í dagvistun, 76% áttu systkini, 56% höfðu fengið sýklalyf mánuðinn fyrir aðgerð og 24% voru á sýklalyfjum á aðgerðardegi. Skoðuð voru 337 eyru, vökvi var í 245 þeirra (72,7%) og náðust úr þeim 241 (98,4%) sýni. Jákvæð ræktun fyrir meinvaldandi bakteríur fékkst úr 124 sýnum (51,5%). Úr þeim voru einangraðar 148 bakteríur (isolates) og af þeim voru Heamophilus influenzae 85 (57,4%), Streptococcus pneumoniae 35 (23,6%) og Moraxella catarrhalis 20 (13,5%). Pneumókokkar ræktuðust úr fjórum eyrum sem útsett höfðu verið fyrir sýklalyfjum (amoxicillín) á aðgerðardegi og voru allir þeir stofnar fjölónæmir.

Ályktanir:Þessi rannsókn sýnir hærra hlutfall jákvæðra ræktana úr miðeyrnavökva en aðrar sambærilegar rannsóknir. Þetta verður að teljast áhugavert sérstaklega með tilliti til þess hversu mikil sýklalyfjanotkun var hjá þessum börnum. Hlutfall Haemophilus influenzae af jákvæðum ræktunum var auk þess mun hærra en búast mátti við.

 

 

V 112    Greining á inflúensu A. Samanburður á hefðbundinni veiruræktun og rauntíma kjarnsýrumögnun

 

Þóra Rósa Gunnarsdóttir, Borghildur Kristjánsdóttir, Hanna Guðjónsdóttir, Einar G. Torfason

Veirufræðideild Landspítala

thorag@landspitali.is

 

Inngangur: Hér á landi eru inflúensufaraldrar árlegir. Á veirufræðideild hafa blóðvatnspróf, flúrskinslitanir, veiruræktanir og aðkeypt skyndipróf verið notuð til greininga á inflúensu. Ræktanir hafa þann kost að hægt er að notast við ýmsar gerðir sýna frá öndunarvegi og frá sjúklingum á öllum aldri meðan flúrskinslitun er nær eingöngu bundin við frumurík nefkokssog frá ungum börnum. Ræktun hefur hins vegar þann ókost að niðurstöður fást ekki fyrr en eftir tvo til 10 daga. Um áraskeið hafa próf sem byggjast á kjarnsýrumögnun (PCR) verið í þróun og víða notuð en þó ekki án vandkvæða. Vegna fuglainflúensu er aukin áhersla á hraðar og áreiðanlegar aðferðir til að greina inflúensu A. Á seinni hluta árs 2005 birti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) forskrift fyrir mögnun á kjarnsýru matrix gens inflúensu A með rauntíma PCR. Þessi aðferð hefur verið tiltæk á veirufræðideildinni frá 2006 vegna viðbúnaðar gegn fuglaflensu. Markmiðið með þessari könnun er að gera samanburð á rauntíma PCR við hefðbundna ræktun inflúensu A til að bæta þjónusturannsóknir.

Efniviður og aðferðir: Eitt hundrað sýni frá öndunarvegi veturinn 2007/2008 sem sett höfðu verið í veiruræktun voru skoðuð. Kjarnsýra var einangruð með QIAamp®Viral RNA Mini Kit aðferð. Rauntíma PCR á matrix geni inflúensu A var gert eftir forskrift WHO í LightCycler® 2,0 tæki frá Roche.

Niðurstöður: Inflúensa A ræktaðist frá 39 af 100 sýnum, en 61 sýni var neikvætt með tilliti til inflúensu A. Fjörutíu og sex sýni sýndu mögnun matrix gena í rauntíma PCR en þar af voru níu sýni neikvæð í ræktunum. Tvö sýni sem reyndust jákvæð í ræktunum mögnuðust ekki.

Ályktanir: Rauntíma PCR er næm og vinnusparandi aðferð við að greina inflúensu A. Meginkostur aðferðarinnar er að greina má inflúensu A í öllum gerðum öndunarfærasýna og greining getur legið fljótt fyrir.

 

 

 

V 113    Einkennasjúkdómsgreiningar við útskrift heim af bráðamóttöku og hættan á sjálfsvígi

 

Oddný S. Gunnarsdóttir1, Vilhjálmur Rafnsson2

1Skrifstofu vísinda, kennslu og þróunar Landspítala, 2rannsóknastofu í heilbrigðisfræði læknadeild HÍ

oddnysgu@landspitali.is

 

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að meta tengsl einkennasjúkdómsgreiningar við dánartíðni vegna allra dánarmeina, slysa og sjálfsvíga, hjá þeim sem útskrifaðir voru af bráðamóttöku Landspítala Hringbraut. Um það bil 20% þessa hóps fengu sjúkdómsgreiningu í flokknum: einkenni, merki og óeðlilegar klínískar niðurstöður (R00-R99, ICD-10) sem hér eru kallaðar einkennasjúkdómsgreiningar.

Efniviður og aðferðir: Þetta er framsýn rannsókn og rannsóknargögnin eru rafrænar skrár frá bráðamóttöku Landspítala Hringbraut á tímabilinu 1995 til 2001. Sjúkdómsgreiningar við útskrift voru skráðar samkvæmt Alþjóðlegu tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála (ICD-10). Þeir sem fengu einkennasjúkdómsgreiningar voru bornir saman við þá sem fengu líkamlegar sjúkdómsgreiningar. Dánarmein voru fundin með tölvutengingu við Dánarmeinskrá. Reiknuð voru staðlað dánarhlutfall, áhættuhlutfall og öryggismörk (ÖM) þar sem notuð var tímaháð fjölþáttagreining.

Niðurstöður: Dánarhlutföll vegna þeirra með einkennasjúkdómsgreiningu miðað við dánartölur þjóðarinnar voru 1,57 fyrir karla og 1,83 fyrir konur. Áhættuhlutfall vegna slysa var 1,64 (95% ÖM 1,07-2,52) og vegna sjálfsvíga 2,08 (95% ÖM 1,02-4,24) fyrir þá sem útskrifaðir voru heim með einkenna sjúkdómsgreiningu miðað við þá sem fengu líkamlega sjúkdómsgreiningu.

Ályktanir: Þeir sem útskrifaðir voru heim af bráðamóttökunni og fengu einkennasjúkdómsgreiningu (R00-R99, ICD-10) skipa sér í nýjan áður óþekktan hóp sjúklinga, sem er síðar í meiri sjálfsvígshættu en aðrir. Forvarnir gegn sjálfsvígum ættu að beinast að þessum hópi ef frekari rannsóknir styðja það.

 

 

V 114    Áhætta sjálfsvíga og banvænna eitrana eftir útskrift heim af bráðmóttökunni. Tilfellaviðmiðarannsókn skipulögð innan hóps

 

Oddný S. Gunnarsdóttir1, Vilhjálmur Rafnsson2

1Skrifstofu vísinda, kennslu og þróunar Landspítala, 2rannsóknastofu í heilbrigðisfræði læknadeild HÍ

oddnysgu@landspitali.is

 

Inngangur:Markmiðið var að meta áhættu á sjálfsvígum og banvænum eitrunum hjá þeim sem komu á bráðamóttökuna og voru útskrifaðir heim í ljósi aðalsjúkdómsgreininga við útskrift.

Efniviður og aðferðir:Þetta er tilfellaviðmiðarannsókn skipulögð innan hóps sjúklinga sem komið höfðu á bráðamóttöku og verið útskrifaðir heim á tímabilinu 1995-2001. Upplýsingar fengust úr tölvuskrám um fjölda koma og aðalsjúkdómsgreiningar sem skráðar höfðu verið samkvæmt Alþjóðlegu tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála (ICD-10). Einstaklingar sem látist höfðu vegna sjálfsvíga (n=41) og eitrana (n=21) voru fundin í Dánarmeinaskrá Hagstofu Íslands og fimm sinnum fleiri viðmið voru tekin sem hendingsúrtak úr hópnum sem komið hafði á bráðamóttökuna. Fjölþáttaaðhvarfsgreining var gerð til reikna líkindahlutfall (odds ratio) og 95% öryggismörk.

Niðurstöður:Tíðar heimsóknir á bráðmóttökuna tengdust marktækt áhættu á sjálfsvígum og eitrunum. Líkindahlutfall fyrir sjálfsvíg miðað við viðmið var 7,84 vegna geðraskana (F00-F99 undanskilin F10-F19), 96,89 vegna áfengisneyslu (F10, T51), 24,51 vegna lyfjaeitrana (F11-F19, T36- T50, X40-X44, X61-X63) og 2,69 vegna einkennasjúkdómsgreininga (R00-R99). Líkindahlutfall fyrir banvænar eitranir miðað við viðmið var 12,26 vegna áfengisneyslu, 37,22 vegna lyfjaeitrana og 5,76 vegna sjúkdómsgreininga á þáttum sem áhrif hafa á heilbrigðisástand og samskipti við heilbrigðisþjónustuna (Z00-Z99).

Ályktanir:Þetta eru klínískar vísbendingar um að sjúklingar sem koma oft á bráðamóttökuna og eru með aðalsjúkdómsgreiningarnar geðröskun, áfengisneysla, lyfjaeitranir, einkenna sjúkdómsgreiningar og þætti sem áhrif hafa á heilbrigðisástand og samskipti við heilbrigðisþjónustuna, ætti að meta vegna hugsanlegrar hættu á sjálfsvígum og eitrunum.

 

 

 

V 115    Bættir lífshættir vega þungt í lækkun blóðþrýstings á Íslandi undanfarin 40 ár

 

Bolli Þórsson1, Thor Aspelund1,2, Vilmundur Guðnason1,2

1Hjartavernd, 2

bolli@hjarta.is

 

Inngangur:Hár blóðþrýstingur er einn af mikilvægustu áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma og tengist fjölmörgum sjúkdómum, svo sem smáæðasjúkdómum í nýrum og augum. Því er mikilvægt að fylgjast með þróun blóðþrýstings hjá þjóðinni.

Efniviður og aðferðir:Athuguð var þróun slagbilsblóðþrýstings mældum í millimetrum kvikasilfurs hjá fólki á aldrinum 45-64 ára á tímabilinu 1967-2007. Hópnum var skipt eftir kyni annars vegar og hins vegar eftir kyni og blóðþrýstingslyfjameðferð. Notaðar voru niðurstöður úr átta þverskurðarrannsóknum. Meðalgildi voru vegin miðað við aldursdreifingu frá Hagstofu 2006, samtals 20.216 manns.

Niðurstöður:Meðalslagbilsblóðþrýstingur hefur lækkað mikið síðastliðin 40 ár. Meðalslagbilsblóðþrýstingur hjá konum árið 1967 var 144 (staðalfrávik (SF) 22), en lækkaði í 122 (SF 17) árið 2007. Þetta er lækkun um 22 eða 15,3%. Hjá körlum var meðalslagbilsblóðþrýstingur 140 (SF 19) 1967 og 127 (SF 16) árið 2007, lækkun um 13 eða 9,6 %. Mest var lækkunin hjá fólki á lyfjameðferð við blóðþrýstingi eða um 30 (19%) hjá körlum og 41(25%) hjá konum. Lækkunin gerist samsíða í öllum hópum hjá báðum kynjum.

Ályktanir:Slagbilsblóðþrýstingur lækkar jafnt og þétt hjá þjóðinni. Lækkunin er mest hjá fólki á blóðþrýstingsmeðferð en er einnig umtalsverð hjá fólki sem er ekki á lyfjameðferð. Skýringar á lækkuninni liggja að verulegu leyti í bættum lífsháttum hjá þjóðinni þótt árangur lyfjameðferðar sé góður.

 

 

V 116    Gildi ólíkra tengsla í rómantískum samböndum

 

Dagmar Rósa Guðjónsdóttir, Sóley S. Bender

Hjúkrunarfræðideild HÍ

dagmar@hi.is

 

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna samband tengslagerða og tengslavídda við sjálfsvirðingu, gæði í rómantískum samböndum, viðhorf til ofbeldis í kynlífi og ofbeldi í kynlífi. Talið er mikilvægt að kanna þessa þætti þar sem það hefur ekki áður verið gert á Íslandi.

Efniviður og aðferðir:Rannsóknin er hluti af alþjóðlegri rannsókn (International Sexuality Description Project, ISDP). Aðferðin er megindleg með þverskurðarsniði og er úrtakið þægindaúrtak 423 kvenna og karla á aldrinum 19-36 ára sem stunduðu nám við HÍ á vorönn árið 2005. Lögð voru fyrir átta mælitæki sem mældu meðal annars tengsl, sjálfsvirðingu, gæði í rómantískum samböndum, viðhorf til kynlífs og kynhegðun.

Niðurstöður: Niðurstöðurnar sýndu að því traustari sem tengslagerð einstaklinga var því meiri gæðum lýstu þeir í rómantískum samböndum. Einnig kom fram að eftir því sem tengslagerð var óttablandnari eða þeir voru með meiri kvíða í tengslum því minni var sjálfsvirðing þeirra og gæðin sem þeir lýstu í rómantískum samböndum. Viðhorf þeirra var einnig jákvæðara til ofbeldis í kynlífi og meira var um að þeir beittu ofbeldi í kynlífi. Að auki kom fram að karlmenn höfðu jákvæðara viðhorf til ofbeldis í kynlífi heldur en konur og þeir sem áttu erfiðara með að mynda náið samband áttu fleiri kynlífsfélaga.

Ályktanir: Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um að mikilvægt sé fyrir einstaklinga að þeir þrói með sér traust tengsl svo meiri líkur séu á því að þeir myndi ánægjuleg rómantísk sambönd.

 

 

V 117    Sprautunotkun meðal fíkla á Íslandi og viðhorf þeirra til aðgengis að hreinum sprautubúnaði

 

Helga Sif Friðjónsdóttir1,2, Jóna Sigríður Gunnarsdóttir2, Rúna Guðmundsdóttir2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítala

jonasig@simnet.is

 

Inngangur: Algengi blóðborinna sjúkdóma á borð við HIV og lifrarbólgu B og C hefur aukist á Íslandi á undanförnum árum. Áhættusöm sprautunotkun, svo sem samnýting og endurnýting nála og annars sprautubúnaðar, er ein helsta smitleið slíkra sjúkdóma. Talið er að um 700 virkir sprautufíklar séu á Íslandi í dag en lítið er vitað um sprautunotkun þessa hóps. Til að hægt sé að þróa forvarnir eða inngrip er miða að því að lágmarka þann heilsu-, félags- og fjárhagslega skaða sem einstaklingar og samfélagið í heild verður fyrir vegna blóðborinna sjúkdóma meðal sprautufikla er mikilvægt að afla upplýsinga um áhættusama sprautunotkun þessa hóps.

Efniviður og aðferðir: Megintilgangur rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um sprautuhegðun fíkla á Íslandi og viðhorf þeirra til aðgengis að sprautubúnaði. Megindlegar og eigindlegar aðferðir (margskoðun) voru notaðar þar sem fyrirbærafræði og lýsandi rannsóknarsnið voru samnýtt. Spurningakönnun var lögð fyrir 69 einstaklinga með sögu um sprautunotkun og voru tekin viðtöl við 11 sprautufíkla. Eingöngu verður fjallað um eigindlega hluta rannsóknarinnar.

Niðurstöður: Þátttakendur sögðu áhættusama sprautunotkun algenga og töldu lifrarbólgu C óhjákvæmilegan fylgifisk sprautu-
notkunar. Þeir sögðu sprautubúnað ekki nægilega aðgengilegan og töldu það ýta undir áhættuhegðun eins og endurnýtingu og samnýtingu. Þátttakendur töldu brýnt að bæta aðgengi að sprautubúnaði á Íslandi og komu með ýmsar tillögur þar að lútandi.

Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að nauðsynlegt sé að bæta aðgengi að sprautubúnaði á Íslandi. Með auknu aðgengi er hægt að draga úr áhættusamri sprautunotkun og þannig sporna við frekari útbreiðslu blóðborinna sjúkdóma. Þörf er á frekari rannsóknum til að finna leiðir sem henta best sprautufíklum á Íslandi og samfélaginu í heild.

 

 

V 118    Akstur undir áhrifum ólöglegra ávana- og fíkniefna og lyfja á Íslandi 2003-2008

 

Kristín Magnúsdóttir, Svava Þórðardóttir

Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði HÍ

svavahth@hi.is

 

Inngangur: Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði hefur í áratugi rannsakað lífsýni sem tekin hafa verið úr íslenskum ökumönnum vegna gruns um akstur undir áhrifum alkóhóls eða annarra efna. Markmið rannsóknarinnar er að taka saman upplýsingar um ólögleg ávana- og fíkniefni og lyf sem mælst hafa í lífsýnum úr ökumönnum á tímabilinu 1. janúar 2003 til 30. júní 2008.

Efniviður og aðferðir: Efniviðurinn er lífsýni sem send hafa verið til rannsóknar frá lögregluembættum vegna gruns um akstur undir áhrifum ólöglegra ávana- og fíkniefna og lyfja. Þessar rannsóknir eru gerðar samkvæmt óskum lögreglu og takamarkar það hversu tæmandi upplýsingar koma fram um lyfjanotkun hvers og eins.

Niðurstöður: Teknar verða saman niðurstöður um heildarfjölda mála og dreifingu milli ára. Einnig hlutfall lífsýna sem send eru til rannsóknar á ólöglegum ávana- og fíkniefnum og lyfjum af heildarfjölda sýna sem berast frá lögreglu vegna gruns um akstur undir áhrifum. Teknar verða saman upplýsingar um hvaða efni mælast og hlutföll af heildarfjölda mála. Í einu og sama máli geta mælist fleira en eitt efni eða lyf. Algengustu ólöglegu ávana- og fíkniefnin og lyfin sem mælast hjá íslenskum ökumönnum á tímabilinu eru amfetamín, kannabisefni og benzódíazepínsambönd.

Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að akstur undir áhrifum ólöglegra ávana- og fíkniefna og lyfja sé vaxandi vandamál á Íslandi. Í júní 2006 voru gerðar breytingar á umferðarlögum með það að markmiði að taka sérstaklega á akstri þeirra sem nota ólögleg ávana- og fíkniefni. Þessar breytingar virðast hafa kallað fram verulega aukningu á rannsóknarbeiðnum frá lögreglu, sérstaklega leit að ólöglegum ávana- og fíkniefnum.

 

 

V 119    Forvarnir og meðferð HIV/AIDS á Monkey Bay-svæðinu í Malaví

 

Lilja Rut Arnardóttir1, Ruth Nkana2, Sigurður Guðmundsson2,3, Geir Gunnlaugsson1,4,5

1Læknadeild HÍ, 2Monkey Bay Community Hospital, Malaví, 3heilbrigðisvísindadeild HÍ, 4kennslufræði- og lýðheilsudeild HR, 5Miðstöð heilsuverndar barna

lra1@hi.is

 

Inngangur: Í lok árs 2006 var áætlað að rétt innan við 40 milljónir einstaklinga lifðu með HIV (human immunodeficiency virus) /alnæmi. Um 60% smitaðra búa í Afríku sunnan Sahara. Eitt þúsaldarmarkmiða er að stöðva og snúa við útbreiðslu HIV. Alþjóðlega er ráðgjöf og prófun(Voluntary Counseling and Testing, VCT) beitt til að draga úr útbreiðslu HIV og lyfjameðferð (Anti-retroviral treatment, ART) til að hindra þróun úr HIV í alnæmi og koma í veg fyrir smit frá móður til barns (Prevention of Mother to Child Transmission, PMTCT). Markmið rannsóknarinnar er að kanna, lýsa og greina forvarnir og meðferð á HIV/alnæmi á Monkey Bay Community Hospital í suðurhluta Malaví.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var gerð í mars-apríl 2007. Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur stutt heilsugæslu á svæðinu frá árinu 2000. Skipulagning og framkvæmd VCT- og ART-meðferðar var könnuð, upplýsinga aflað úr birtum skýrslum og gagnagrunnum heilsugæslunnar og rætt við heilbrigðisstarfsfólk.

Niðurstöður: Algengi HIV í Malaví er um 14% í aldurshópnum 15-49 ára. Alls höfðu 5.043 einstaklingar sótt VCT frá því í apríl 2005 og voru 1.257 (25%) HIV-jákvæðir. Af þeim sem sóttu þjónustuna voru 2.542 (50%) þungaðar konur og voru 392 (15%) HIV-jákvæðar. Algengustu komuástæður var áhugi á að vita smitstöðu sína (39%), þungun (56%) og tækifærissýkingar (3%). PMTCT er í auknum mæli ástæða prófana frekar en sjálfvalin ráðgjöf og prófun. Frá því í júní 2006 hafa 317 einstaklingar hafið ART-meðferð. Á tímabilinu fengu 111 nýburar HIV smitaðra mæðra nevírapín í forvarnarskyni. Starfsfólk kvartaði helst undan lélegri aðstöðu og miklu vinnuálagi.

Ályktanir: HIV/alnæmi er alvarlegt heilsufarsvandamál í Malaví. Alþjóðlegt átak til að bjóða VCT og ART skila sér í heilbrigðiskerfi dreifbýlissvæða í landinu og þarf að efla. Stuðningur Þróunarsamvinnustofnunar er mikilvægur og í samræmi við þúsaldarmarkmiðin.

 

 

 

 

 

 

 

V 120    Tengsl tekna og frestunar læknisþjónustu

 

Rúnar Vilhjálmsson

Hjúkrunarfræðideild HÍ

runarv@hi.is

 

Inngangur:Vestrænar rannsóknir benda til að vannotkun á heilbrigðisþjónustu sé meiri meðal tekjulágra en tekjuhárra. Slíkar niðurstöður eru áhyggjuefni í félagslegum heilbrigðiskerfum sem hafa það markmið að aðgengi að heilbrigðisþjónustunni sé sem jafnast. Skýringar sem nefndar hafa verið á ójöfnu aðgengi eftir tekjum varða viðhorf(neikvæðari viðhorf til heilbrigðisþjónustu meðal tekjulágra), efnahagslega þætti (verri fjárhag tekjulágra og meiri kostnaðarbyrði vegna heilbrigðisþjónustu) og hindranir heilbrigðiskerfisins (lakari og jafnvel fráhrindandi heilbrigðisþjónustu við tekjulága). Tilgangur rannsóknarinnar var að leggja mat á þessar skýringar.

Efniviður og aðferðir:Rannsóknin byggir á landskönnuninni Heilbrigði og aðstæður Íslendinga I. Könnunin fór fram frá september til desember 2006 meðal slembiúrtaks Íslendinga, búsettra hérlendis, á aldrinum 18-75 ára. Fjöldi svarenda í landskönnuninni var 1.532 og heimtur (svarshlutfall) rúmlega 60%. Unnið var úr niðurstöðum með lógaritmalínulegri aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður:Niðurstöður leiddu í ljós hærra hlutfall frestunar læknisþjónustu meðal tekjulágra en tekjuhárra. Ástæður meiri frestunar tekjulágra tengdust fyrst og fremst lakari fjárhag þeirra og meiri kostnaðarbyrði vegna heilbrigðisþjónustu og einnig að nokkkru leyti hindrunum tengdum heilbrigðisþjónustunni (minni ánægju tekjulágra með þá heilbrigðisþjónustu sem þeir höfðu fengið). Almenn viðhorf til heilbrigðisþjónustunnar skýrðu ekki mun á frestun milli tekjuhópa.

Ályktanir:Frestun læknisþjónustu meðal tekjulágra er áhyggjuefni. Draga kann úr frestun tekjulágra með aukinni tryggingavernd, minni útgjaldabyrði og bættri heilbrigðisþjónustu.

 

 

V 121    Hverjir halda áfram að reykja?

 

Sigríður Bára Fjalldal1, Bryndís Benediktsdóttir1,2, Gunnar Guðmunds-son1,2, Þórarinn Gíslason1,2

1Lyflækningadeild Landspítala, 2læknadeild HÍ

siggabara@hotmail.com

 

Inngangur: Tóbaksneysla er leiðandi áhættuþáttur margra langvinnra sjúkdóma. Mikilvægt er því að koma í veg fyrir og draga úr tóbaksnotkun. Til að stuðla að markvissu forvarnarstarfi þarf að skoða viðhorf, sérkenni og lífsgæði reykingafólks. Markmið rannsóknarinnar er að kanna algengi reykinga á höfuðborgarsvæðinu, skoða hvað einkennir þá sem reykja og hvað einkennir sérstaklega þann hóp reykingafólks sem hefur áhuga á að hætta reykingum.

Efniviður og aðferðir: Efniviðurinn er hluti af fjölþjóðarannsókn á algengi langvinnrar lungnateppu (www.BOLDCOPD.org). Rannsóknarhópurinn (n=938) var slembiúrtak Íslendinga, 40 ára og eldri, sem búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu og ekki vistaðir á stofnun. Notast var við staðlaða spurningalista um reykingar, einkenni frá öndunarfærum, lífsstíl, heilsufar og lífsgæði (SF-12). Viðhorf til reykinga voru könnuð með sérstökum spurningum.

Niðurstöður: Alls tóku 755 einstaklingar þátt (80,5%). Sama hlutfall (61%) karla og kvenna reykir eða hefur reykt einhvern tíma á ævinni. Yngri konur reykja hlutfallslega meira og hafa síður hætt en karlar. Eldri reykingamenn hafa síður áhuga á að hætta reykingum. Hlutfallslega eru heldur færri konur (21,2%) en karlar (29,1%) stórreykingamenn (með 20 eða fleiri pakkaár að baki). Þeir sem reykja eru marktækt yngri og eru líklegri til að vera með styttri skólagöngu. Konur skammast sín frekar fyrir að reykja. Þeir sem reykja mælast með lakari líkamleg lífsgæði samanborið við þá sem ekki reykja.

Ályktanir: Konur hætta síður að reykja og skammast sín frekar fyrir að reykja. Eldri reykingamenn hafa lítinn áhuga á að hætta. Hugsanlega þarf kyn- og aldursbundna nálgun í forvörnum og reykleysismeðferð. Lífsgæðakvarðar gætu komið að notum við reykleysismeðferð með því að gera skaðsemi reykinga sýnilegri.

 

 

V 122    Heilsufar á Íslandi eftir búsetu

 

Sigríður Haraldsdóttir1,2, Unnur A. Valdimarsdóttir1, Sigurður Guð-mundsson1,2

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum, heilbrigðisvísindasviði HÍ, 2landlæknis-embættinu

 zigga2002@hotmail.com

 

Inngangur; Eitt af meginmarkmiðum heilbrigðisþjónustulaga er að tryggja eins og frekast er unnt jafnræði til heilbrigðisþjónustu. Nokkrar vísbendingar hafa komið fram um mismunandi aðgengi að heilbrigðisþjónustu á Íslandi eftir búsetu. Ekki er vitað hvort heilsufar og þar með þörf fyrir heilbrigðisþjónustu, sé mismunandi eftir búsetu.

Efniviður og aðferðir:Almennt heilsufar og heilsutengd hegðun voru kortlögð eftir búsetu. Til þess voru notuð gögn úr úrtakskönnun Lýðheilsustöðvar á heilsu og líðan Íslendinga árið 2007. Í úrtakinu voru 10.000 manns á aldrinum 18-79 ára sem fengu sendan spurningalista. Unnin er lýsandi tölfræði sem gefur yfirlit yfir almennt heilsufar og heilsutengda hegðun eftir heilbrigðisumdæmum og/eða byggðarkjörnum.

Niðurstöður:Spurningalistanum svöruðu 5906 manns (59% svörun). Tæplega helmingur úrtaks bjó á höfuðborgarsvæðinu og ríflega helmingur utan þess. Fyrstu niðurstöður benda til þess að fólk á höfuðborgarsvæðinu telji sig hafa betri heilsu en þeir sem búa utan þess, sérstaklega með tilliti til líkamlegrar heilsu. Aðspurðir töldu 620 (22,5%) íbúar á höfuðborgarsvæðinu, en 878 (29,6%) íbúar á landsbyggðarinni að líkamleg heilsa sín væri sæmileg eða slæm. Sambærilegar tölur fyrir sæmilega eða slæma andlega heilsu voru 472 (17,1%) fyrir höfuðborgarsvæðið og 606 (20,4%) fyrir landsbyggðina.

Ályktanir:Fyrstu niðurstöður gefa ákveðnar vísbendingar um að heilsufar Íslendinga sé mismunandi eftir því hvort búseta er á höfuðborgarsvæðinu eða utan þess. Þó er þörf á frekari tölfræðigreiningum, með stjórn á öðrum áhrifaþáttum, til að draga megi óyggjandi ályktanir. Einnig er fyrirhuguð ítarlegri skoðun á öðrum þáttum heilsufars og heilsutengds lífsstíls milli einstakra byggðarkjarna.

 

 

V 123    Veldur reykingabann á opinberum stöðum fækkun á kransæðaþræðingum, vegna óstöðugs kransæðasjúkdóms, meðal karla á Íslandi?

 

Þorsteinn Viðar Viktorsson1,2, Karl Andersen1,2, Þórarinn Guðnason1,2

1Landspítala, 2læknadeild HÍ

steini.vidar@gmail.com

 

Inngangur:Skaðleg áhrif óbeinna reykinga koma sífellt betur í ljós meðal annars á tíðni kransæðastíflu. Bann við reykingum á opinberum stöðum tók gildi hérlendis 1. júní 2007. Við könnuðum hvort tíðni kransæðaþræðinga vegna óstöðugs kransæðasjúkdóms væri sú sama fyrir og eftir bannið. Slík rannsókn hefur ekki verið gerð áður, en erlendar rannsóknir hafa sýnt fækkun á tilvikum af kransæðastíflu við sambærileg reykingabönn.

Efniviður og aðferðir:Gögnum var safnað framsýnt um alla sjúklinga sem ekki reyktu og voru þræddir vegna óstöðugs kransæðasjúkdóms frá 1. janúar til 31. október 2007 (fimm mánuðum fyrir og eftir bannið). Óstöðugur kransæðasjúkdómur var skilgreindur sem klínísk einkenni um sjúkdóminn ásamt að minnsta kosti einu af eftirfarandi: 1. hækkuð hjartaensím, 2. blóðþurrðarbreyting á hjartalínuriti eða 3. jákvætt áreynslupróf í hinu bráða sjúkdómsferli.

Niðurstöður: Á tímabilinu voru 1439 sjúklingar þræddir. Alls uppfyllu 378 inntökuskilmerkin, 281 karl en 97 konur (p<0,01). Fyrir bann voru það 206 sjúklingar en 172 eftir (p=0,08). Af þessum hópi voru karlar 157 fyrir bann en 124 eftir (p<0,05), sem er 21% lækkun. Mest tilhneiging í þessa átt virtist meðal yngri karla. Alls voru 49 konur þræddar vegna óstöðugs kransæðasjúkdóms fyrir bann en 48 eftir (p>0,05).

Ályktanir:Fækkun þræðinga vegna óstöðugs kransæðasjúkdóms sást meðal karla en ekki kvenna, eftir reykingabann. Frekari rannsóknir þarf til að útiloka að árstíðabundnar sveiflur í tíðni sjúkdómsins skýri þessa fækkun. Niðurstöðurnar samræmast erlendum niðurstöðum á kransæðastíflu og tilgátum um að óbeinar reykingar geti aukið hættu á skellurofi (plaque rupture) og blóðsegamyndun í kransæðum og þar með á tíðni óstöðugus kransæðasjúkdóms. Það gæti einnig skýrt hvers vegna áhrifin virðast meiri á kransæðar karla sem oftar hafa æðakölkunarskellur í kransæðum en konur.

 

 

V 124    Líkamleg hreyfing Íslendinga í frítíma, við heimilisstörf og við að ferðast á milli staða árið 2006

 

Þórarinn Sveinsson1,2, Svandís Sigurðardóttir1

1Rannsóknarstofu í hreyfivísindun, 2lífeðlisfræðistofnun HÍ

thorasve@hi.is

 

Inngangur: Nú á tímum er litið á hreyfingarleysi sem alvarlegt heilsufarsvandamál á Vesturlöndum og víðar. Sýnt hefur verið fram á að reglubundin hreyfing sé ein mikilvægasta leiðin til að vernda og bæta heilsuna. Markmið þessarar könnunar er að afla nýrra upplýsinga og ítarlegri en áður um líkamlega hreyfingu Íslendinga.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru valdir af handahófi úr Þjóðskrá (1600 Íslendingar á aldrinum 18-80 ára). Alþjóðlegur spurningalisti (IPAQ) var þýddur á íslensku og póstsendur þátttakendunum. Á listanum eru spurningar um hreyfingu á mismunandi sviðum daglegs lífs. Kí-kvaðrat próf var notað til að bera saman hreyfingu á milli mismunandi aldurshópa, menntunarstiga og milli kynja.

Niðurstöður: Í frítíma hreyfa 39% sig að meðaltali í 30 mínútur eða meira á dag og var það óháð aldri og kyni. Hins vegar var það háð menntun þar sem 48% þeirra með háskólamenntun náðu þessu en ekki nema 33% þeirra með einungis grunnskólapróf (p=0,02). Einungis 14% ferðuðust hjólandi eða gangandi að jafnaði í 30 mínútur eða meira á dag á milli staða. Við heimilisstörf hreyfa 52% sig að jafnaði í 30 mínútur eða meira á dag en það var háð bæði aldri og kyni. Á meðan 55% þeirra elstu (55-80 ára) ná þessu þá eru það einungis 42% þeirra yngstu (18-34 ára) (p=0,03). Þá ná 60% kvenna þessu en ekki nema 41% karla (p<0,001). Ef hreyfing við heimilstörf, ferðir og í frítíma er lögð saman ná 80% Íslendinga að hreyfa sig að jafnaði í 30 mínútur á dag eða meira. Mun fleiri konur ná þessu en karlar eða 86% á móti 70% (p<0,001).

Ályktanir: Samkvæmt þessari könnun ná einungis um 20% Íslendinga ekki ráðleggingum um lágmarkshreyfingu til að hafa jákvæð áhrif á heilsuna en af þeim eru karlar í meirihluta.

 

 

V 125    Myndtækni nýtt til þróunar og endurbóta í geisla-meðferð krabbameins í blöðruhálskirtli

 

Agnes Þórólfsdóttir1,2, Ásbjörn Jónsson3,4, Garðar Mýrdal5, Þórarinn E. Sveinsson6

1Geisla- og lífeindafræði HÍ, 2geisladeild Landspítala, 3læknadeild HÍ, 4myndgreiningarsviði, 5geislaeðlisfræðideild, 6krabbameinslækningadeild Landspítala

ath44@hi.is

Inngangur: Geislameðferð er ein af meðferðarleiðum við staðbundnu krabbameini í blöðruhálskirtli. Geisladeild Landspítala stefnir á þróun meðferðar í styrkmótaða geislameðferð (Intensity Modulated Radiation Therapy) sem gefur möguleika á hærri geislaskömmtum í meðferðarsvæði. Heilbrigðum vef yrði jafnframt betur hlíft. Við aukinn geislaskammt er þörf á að minnka öryggismörk um meðferðarsvæði til að hlífa sem mest heilbrigðum vef. Markmið rannsóknarinnar var að fá tölulegt mat á nákvæmni geislameðferðar við staðbundnu krabbameini í blöðruhálskirtli til ákvörðunar á stærð öryggismarka um meðferðarsvæði. Einnig voru skoðuð áhrif líkamsmassastuðuls (BMI) á nákvæmni meðferðar.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 40, það er allir sjúklingar sem fengu geislameðferð vegna staðbundins krabbameins í blöðruhálskirtli á geisladeild Landspítala árið 2006. Meðferðin var gefin í 35-37 skipti. Hver sjúklingur var myndaður þrisvar í viku alla meðferðina. Stafrænt myndkerfi var notað til að mæla frávik frá áætlaðri innstillingu. Meðalfjöldi mynda á sjúkling voru um það bil 75. Heildarfjöldi mynda var 3032. Niðurstöður frávika voru notaðar til að reikna út ráðlögð öryggismörk utan um kjörmeðferðarsvæði.

Niðurstöður: Reiknuð þrívíð öryggismörk vegna IMRT-meðferðartækni þyrftu að vera 15,8mm miðað við uppstillingarforsendur á Landspítala árið 2006, sem ekki er ásættanlegt með tilliti til líklegra aukaverkana við hækkun geislaskammta. Jákvæð fylgni var á milli BMI sjúklinga og skekkju til hægri eða vinstri (r=0,21).

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknar sýndu að bæta þyrfti undirbúning geislameðferðar og innstillingarnákvæmni áður en styrkmótuð geislameðferð (IMRT) væri tekin í notkun á Landspítala.

 

 

V 126    Fræðslumeðferð á vefnum. Tengsl lífsgæða og heilsueflingar hjá fjölskyldum barna og unglinga með krabbamein

 

Anna Ólafía Sigurðardóttir1, Erla Kolbrún Svavarsdóttir1,2,Sigrún Þóroddsdóttir1

1Barnasviði Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild HÍ

annaosig@landspitali.is

 

Inngangur:Niðurstöður rannsóknar á íslenskum fjölskyldum barna og unglinga með krabbamein leiddi í ljós að líðan foreldra barna og unglinga með krabbamein varð betri í kjölfar fræðslu- og stuðningsmeðferðar. Lítið er hins vegar vitað um lífsgæði íslenskra fjölskyldna barna og unglinga með krabbamein.

Efniviður og aðferðir:Tilgangur rannsóknarinnarvar í fyrsta lagi að kanna áhrif fræðslumeðferðar á lífsgæði og heilsueflingu fjölskyldna barna og unglinga með krabbamein. Í öðru lagi að hanna og þróa fræðsluefni á vefnum og kanna viðhorf fjölskyldna og almennings til heimasíðunnar og gagnsemi hennar. Í þriðja lagi að hanna spurningar á rafrænu formi með lokaðri og opinni vefkönnun fyrir fjölskyldur barna og unglinga með krabbamein og almenning. Hugmyndafræðilegur rammi er Calgary-fjölskyldumats- og meðferðarlíkanið.

Niðurstöður:Frumniðurstöður verða kynntar auk þess sem hagnýtingu þeirra verður gerð skil. Um er að ræða hálfstaðlað tilraunasnið með fyrir og eftir mælingu. Þátttakendur í rannsókninni á tíma 1 voru, 27 foreldrar (16 mæður og 13 feður) og 16 börn (5-18 ára). Flestir foreldrarnir (96%) voru giftir eða í sambúð og 82% foreldranna voru útivinnandi. Áttatíu og eitt prósent foreldranna fengu fræðslu og upplýsingar um krabbamein barnsins frá fagaðilum (hjúkrunarfræðingum og læknum) á legudeild eða á göngudeild. Við greiningu sjúkdóms voru börnin á aldrinum eins árs til 17 ára og um helmingur barnanna (52% ) var undir fimm ára. Flest barnanna voru með hvítblæði (37%) og heilaæxli (25%).

Ályktanir:Með fræðslu þessari eru vonir bundnar við að bæta megi lífsgæði og heilsueflingu fjölskyldna barna og unglinga með krabbamein þannig að þær ráði betur við veikindi barnanna og fjölskyldan nái að lifa sem eðlilegustu lífi. Slík fræðsla og upplýsingar gæti að auki leitt til færri endurinnlagna á sjúkrahús og þar af leiðandi til ánægjulegra fjölskyldulífs.

 

 

V 127    Hnitmiðun krabbameinsmeðferðar

 

Finnbogi Þormóðsson1,3, Ásgerður Sverrisdóttir2, Sigurður Árnason3,5, Ian Cree4, Helgi Sigurðsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2Landspítala, 3ValaMed ehf., 4Queen Alexendra Hospital, Portsmouth, 5Heilbrigðisstofnun Suðurnesja

finnbogi@hi.is

 

Inngangur: Val lyfja byggist að jafnaði á meðaltalsniðurstöðum úr misstórum lyfjaprófunum. Það er hins vegar ljóst að krabbameinsfrumur bregðast mismunandi við lyfjum, jafnvel þó um sömu sjúkdómsgreiningu sé að ræða. Næmi æxlisfrumna getur einnig breyst með tímanum. Auðsæ er því þörf fyrir aðferðir til þess að sérsníða lyfjameðferð að hverju æxli. Ýmis próf hafa verið þróuð en ekkert þeirra náð almennri úbreiðslu vegna ýmissa takmarkana. Svokölluð ATP-lúsíferasa greining er nýleg aðferð. Hér eru birtar niðurstöður úr fyrsta lyfjanæmisprófinu sem gert hefur verið hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Sýnið, um rúmsentimetri að stærð, kom úr 3 cm brjóstakrabbameinsæxli og var melt næturlangt í kollagenasa lausn. Heildarfrumufjöldi var áætlaður nálægt 2 milljónum, sem nægir til að prófa fjögur mismunadi lyf eða lyfjablöndur í sex þynningum. Lausninni var sáð í 96 holu frumuræktunarbakka með krabbameinslyfjum í mismunandi styrk. Styrkurinn var frá tvöföldum þeim hámarksstyrk sem næst í lyfjameðferð og lausnin raðþynnt niður í 6% af upphaflegum styrk, þrítekið fyrir hvert lyf. Eftirfarandi lyf voru prófuð:paclitaxel, 5-fluorouracil,epirubicin og blanda af 5-fluorouracil + epirubicin + hydroperoxycyklofofosamíð (4-HC). Fjöldi frumna var metinn sex dögum síðar með mælingu á ljósmagni sem myndast við hvarf ATP við lúsíferasa.

Niðurstöður:Bæði 5-fluorouracil og epirubicin sýndu nokkurn árangur. Árangurinn jókst í blöndu þeirra með afleiðu af cýklófosfamíð (4-HC) og sýndi 98% frumudauða í þeim styrk sem hægt er að ná í líkamanum. Paclitaxel sýndi langsamlega mestu svörun með 100% frumudauða í töluvert lægri styrk en næst í lifandi einstaklingi.

Ályktanir:Þessar niðurstöður eru skýrar og í samræmi við niðurstöður á öðrum rannsóknastofum.

 

 

V 128    Spádómsþættir fyrir lifun í mælitæki fyrir vistunarmat á Íslandi

 

Sigríður Helgadóttir1, Valgerður Sigurðardóttir2, Ingibjörg Hjaltadóttir1, Guðrún Dóra Guðmannsdóttir1, Pálmi V. Jónsson1

1Öldrunarsviði, 2líknardeild lyflækningasviðs II Landspítala

sigrihe@landspitali.is

 

Inngangur: Mikið hefur verið rannsakað um spádómsþætti fyrir lifun en þetta er fyrsta birta rannsóknin sem gerir það með matstæki sem hefur verið þróað fyrir líknarsjúklinga (interRAI PC (Palliative Care)). Tilgangur rannsóknarinnar er að finna út hvaða þættir í interRAI PC spá fyrir um lifun á ári og athuga hversu vel spá lækna og hjúkrunarfræðinga um lifun samræmist raunlifun.

Efniviður og aðferðir: Framsýn þýðisrannsókn á sjúklingum skráðum í líknarþjónustu á tímabilinu 15.10.2003-15.04.2004. Notast var við interRAI PC við upplýsingaöflun. Tölfræðileg úrvinnsla gerð með Kaplan-Meier greiningu í SPSS.

Niðurstöður: Af þeim 124 sjúklingum (64 konur og 60 karlar) sem voru þátttakendur í rannsókninni voru 15 enn á lífi eftir eitt ár. Meðalaldur sjúklinga var 71 ára (staðalfrávik 13). Eitt hundrað og sextán sjúklingar voru með krabbamein en átta með aðra sjúkdóma. Algengasta krabbameinið var meltingarfæra- og kviðarkrabbamein (33%) sem og lungnakrabbamein (28%). Miðgildi lifunar er 41 dagur (95%; öryggisbil 30-52). Marktækan mun var að finna á lifun milli verkjahópa. Þeir sem fundu ekki fyrir neinum verkjum lifa lengur en þeir sem finna fyrir verkjum (p<0,01). Ekki var að finna mun á lifun eftir styrkleika verkja. Einnig er aukin lifun hjá þeim sem eru sjálfbjarga við hreyfingu í rúmi í samanburði við þá sem eru ósjálfbjarga eða þurfa mikla aðstoð (p<0,001). Lifunarspá lækna og hjúkrunarfræðinga passar vel við raunlifun þegar andlát er yfirvofandi, eða innan sex vikna (<0,001).

Ályktanir: Niðurstöður okkar samræmast niðurstöðum annarra rannsókna sem hafa verið gerðar um svipað efni.

 

 

V 129    Tjáning próteina í nýrnakrabbameini og eðlilegum nýrnavef skoðuð með örflögutækni

 

Sigurlína Dögg Tómasdóttir1, Hrefna Guðmundsdóttir2, Fjóla Haraldsdóttir1, Eiríkur Jónsson3, Guðmundur Vikar Einarsson3, Rósa Björk Barkardóttir1, Sigríður Zoëga3, Tómas Guðbjartsson3, Sverrir Harðarson1, Vigdís Pétursdóttir1

1Rannsóknarstofu í meinafræði, 2nýrnadeild, 3þvagfæraskurðdeild Landspítala, 4læknadeild HÍ

vigpet@landspitali.is

 

Inngangur: Tíðni nýrnafrumukrabbameins hefur vaxið undanfarin ár, að hluta vegna bættra greiningaraðferða. Greinast nú fleiri sjúklingar á fyrri stigum sjúkdómsins, en dánartíðni hefur þó haldist tiltölulega óbreytt. Tilgangur rannsóknarinnar var að leita að mismunatjáðum próteinum í nýrnafrumukrabbameini og bera saman við eðlilegan nýrnavef.

Efniviður og aðferðir: Vefjasýni 48 sjúklinga með tærfrumugerð nýrnafrumukrabbameins voru fengin frá lífsýnasafni Rannsóknastofu í meinafræði. Vefjasneiðar úr hverju sýni voru smásjárskoðaðar og aðlægar sneiðar leystar upp í urea og CHAPS-lausn til próteingreiningar. Sýni voru slembiröðuð og tvíkeyrð á CM10 flögu (neikvætt hlaðið yfirborð, BioRad Inc.). Próteintjáning var greind með SELDI örflögutækni (Surface Enhance Lazer Desorption/Ionization) og skoðuð með CiphergenExpressClient forriti (Ciphergen Inc.). Tjáning á próteinum í nýrnafrumukrabbameini og eðlilegum vef var borin saman með Mann Whitney-prófi og var núlltilgátan sú að ekki væri munur á tjáningu í vefjunum tveimur.

Niðurstöður: Samtals fékkst 71 sýni frá 48 einstaklingum. Alls voru 59 sýni úr krabbameinsvef og 40 þeirra frá æxlum sem voru stærri en 7 cm (T2). Tólf sýni fengust frá eðlilegum vef. Þegar borin var saman próteintjáning milli eðlilegs nýrnavefs og tærfrumukrabbameins fundust 46 mismunatjáð prótein þar sem munurinn var marktækur upp á p-gildi <0,05, þar af 13 prótein mismunatjáð með p-gildi <0,001.

Ályktanir: SELDI örflögutækni hentar vel til að skoða prótein-tjáningu úr nýrnavef, bæði á tærfrumukrabbameini og eðlilegum nýrnavef. Fjöldi próteina aðgreinir eðlilegan nýrnavef og tærfrumukrabbamein og má hugsanlega nota slík prótein í framtíðinni sem æxlisvísa (tumor markers).

 

 

 

V 130    Nanóagnir með úsnínsýru og vaxtarhemjandi áhrif á Panc-1 briskrabbameinsfrumulínu

 

Anna Kristín Karlsdóttir1, Skúli Skúlason1, Stefanía G. Baldursdóttir2,, Þórdís Kristmundsdóttir1, Helga M. Ögmundsdóttir3, Sesselja S. Ómarsdóttir1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2lyfjafræðideild Kaupmannahafnarháskóla, 3lækna-deild HÍ

sesselo@hi.is

 

Inngangur:Rannsóknir hafa sýnt að úsnínsýra hefur vaxtarhemjandi áhrif á krabbameinsfrumur in vitro og á krabbamein í tilraunadýrum. Hins vegar er úsnínsýra mjög torleyst efnasamband og erfitt er að leysa hana í leysum sem ekki hafa einhver eituráhrif á frumurnar. Markmið verkefnisins var að einangra og hreinsa úsnínsýru og koma henni í nanóagnir með lífsamræmanlegri fjölliðu og óeitruðum leysum og bera saman vaxtarhemjandi áhrif úsnínsýra í DMSO og úsnínsýru í nanóögnum á Panc-1 krabbameinsfrumur.

Efniviður og aðferðir: Úsnínsýru var úrhlutuð með petróleumeter úr hreindýrakrókum og endurkristölluð með heitu etanóli. Efnafræðileg auðkenning var framkvæmd með kjarnsegulgreiningu. Nanóagnir voru útbúnar með útfellingaraðferð. Magn úsnínsýru í nanóögnum og losun hennar úr ögnunum var greind með háþrýstivökvaskiljun. Vaxtarhemjandi áhrif úsnínsýru í lausn og í nanógögnum á Panc-1 briskirtilkrabbameinsfrumur voru metin með [3H]-týmidín upptöku.

Niðurstöður: Stærðardreifing nanóagnanna var í kringum 70 og 500 nm og virðist vera sem tvö dreifikerfi hafi myndast. Pökkunarskilvirkni reyndist vera á bilinu 53-74% en ekki reyndist unnt að fá marktækar niðurstöður úr losunarprófunum. Vaxtarhemjandi áhrif úsnínsýru í DMSO voru staðfest og var ED50 gildið 2,9 µg/mL. Hins vegar kom ekki fram marktækur munur á vaxtarhemjandi áhrifum nanóagna með og án úsnínsýrau (ED50 gildi nanóagna með úsnínsýru var 4,5 µg/mL og gildi nanóagna án úsnínsýru var 3,7µg/mL).

Ályktanir: Þar sem að nanóagnirnar sjálfar hafa vaxtarhemjandi áhrif á Panc-1 frumulínuna eru þær ekki heppilegt lyfjaform til notkunar á þessa frumulínu. Það er þó áhugavert að halda áfram þróun á framleiðslu nanóagna með úsnínsýru og framkvæma frekari losunarpróf þar sem svo virðist sem úsnínsýra losni ekki úr ögnunum. Auk þess er mikilvægt að prófa áhrif nanóagnanna á fleiri krabbameinsfrumulínur.

 

 

V 131    Separ og krabbamein í ristli. Faraldsfræðileg rann-sókn 2000-2004

 

Sjöfn Kristjánsdóttir1, Jón Gunnlaugur Jónasson2-4, Nick Cariglia5, Bjarni Þjóðleifsson2,3

1Speglun ehf. Reykjavík, 2læknadeild HÍ, 3Landspítala, 4Krabbameinsskrá KÍ, 5Sjúkrahúsinu á Akureyri

bjarnit@landspitali.is

 

Inngangur: Árlega greinast á Íslandi um 115 krabbamein í ristli og 55 deyja úr sjúkdómnum. Talið er að krabbamein í ristli þróist úr góðkynja æxlissepum (adenoma) sem eru algeng (≈15%) eftir fimmtugt. Í litlum hluta þessara sepa þróast alvarleg missmíð (high grade dysplasia), sem eru forstigsbreytingar að krabbameini. Jafnframt finnast í ristli ofvaxtarsepar (hyperplastískir) sem hafa ekki æxlisvöxt og eru þeir ekki greinanlegir frá æxlissepum nema með smásjárskoðun. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni, staðsetningu og missmíðar í ristilsepum, sem höfðu verið fjarlægðir viðristilspeglun og tengja það við tíðni og staðsetningu ristilkrabbameins.

Efniviður og aðferðir:Öll vefjasvör æxlissepa í ristli, sem voru fjarlægðir á árunum 2000-2004, voru tekin fram og skráð úr þeim vefjaflokkun sepanna, stærð þeirra, staðsetning og alvarleiki missmíðar (dysplasiu). Úrvinnsla var gerð í SPSS-forritinu og Kendals-próf notað til að meta marktækni. Upplýsingar um fjölda og staðsetningu ristilkrabbameina voru fengnar úr Krabbameinsskrá KÍ.

Niðurstöður:Fjöldi einstaklinga með æxlissepa var 2599 á tímabilinu, en auk þess greindust hjá þeim 572 ofvaxtarsepar. Æxlissepar með alvarlegri missmíð voru 138 (5,3%). Ekki var marktækur munur á milli kynja. Áætlað var að um 16% þeirra sem fóru í ristilspeglun hefðu æxlissepa og 1% sepa með alvarlegri missmíð.Staðsetning æxlissepa var í 42,5 % tilvika í hægri ristli og 57,5% í vinstri ristli. Enginn munur var á dreifingu hjá körlum og konum. Staðsetning ristilkrabbameins og sepanna hjá körlum var sú sama, en hjá konum voru krabbameinin meira staðsett vinstra megin 36,7% á móti 63,3% (P<0,01). Áhættuþættir fyrir alvarlega missmíð voru stærð og fjöldi sepa, aldur við greiningu, villous vefjagerð og staðsetning í endaþarmi, allt p<0,001. Ofvaxtarsepar höfðu neikvæða fylgni við alvarlega missmíð (p<0,039).

Ályktanir:Rannsóknin gefur vísbendingar um hvers megi vænta við skimun á ristilkrabbmeini. Ef aðeins vinstri (neðri) ristill er skoðaður við skimun þá tapast greining á ≈40% æxlissepa. Ofvaxtarsepar eru ekki vísbending um aukna áhættu um alvarlega missmíð. Gera má ráð fyrir að ≈16% þeirra sem fara í skimun hafi æxlissepa og þar af hafa 1% alvarlega missmíð.

 

 

 

 

V 132    Breytingar yfir fimm ára tímabil á þáttum tengdum gláku

 

Ársæll Arnarsson1,2, Guðmundur Viggósson1,3, Þórður Sverrisson1, Friðbert Jónasson1

1Augndeild Landspítala, 2Háskólanum á Akureyri, 3Sjónstöð Íslands

aarnarsson@unak.is

 

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að skoða breytingar í þáttum sem tengjast gláku yfir fimm ára tímabil.

Efniviður og aðferðir: Um var að ræða slembiúrtak Reykvíkinga 50 ára og eldri sem fengið var úr Þjóðskrá. Alls mættu 1045 einstaklingar til skoðunar í upphafi og 88,2% eftirlifenda mættu svo aftur til skoðunar fimm árum seinna. Í báðum skoðunum var gerð sjónlagsmæling, augnþrýstingsmæling og nákvæm skoðun á forhólfi augans bæði með raufarsmásjá og Scheimpflug-myndatöku. Þá var einnig framkvæmd ítarleg skoðun á augnbotnum og þeir ljósmyndaðir. Greiningarviðmið fyrir gláku voru fengin frá Foster og samstarfsmönnum og byggjast bæði á byggingarlegum og starfrænum þáttum, svo sem hlutfalli sjóntaugarbolla og disks, glákutengdum breytingum við sjóntaugarós, sjónsviðsmælingum, sjóntapi, afbrigðilegum augnþrýstingi og fleiru.

Niðurstöður: Við sjáum litla og ómarktæka hækkun í augnþrýstingi í vinstri augum yfir þetta fimm ára tímabil, þar sem þrýstingur er 15,38 mmHg í upphafi en 15,48 mmHg eftir fimm ár. Þrýstingur í hægri augum helst að meðaltali óbreyttur í 15,50 mmHg allan tímann. Meðalstærð sjóntaugarbollans jókst marktækt yfir árin fimm. Að meðaltali stækkaði bollinn í hægri augum úr 0,39 í 0,50 (p<0,001) en í þeim vinstri úr 0,41 í 0,46 (p<0,001). Auk þess varð marktæk breyting í þá átt að bollarnir yrðu samhverfari á þessum fimm árum. Meðalósamhverfa milli hægri og vinstri augna mældist 0,10 í upphafi, en hafði minnkað í 0,08 (p<0,005) á fimm árum.

Ályktanir: Við sjáum engar breytingar í augnþrýstingi á þessu fimm ára tímabili. Stærð sjóntaugarbolla verður marktækt meiri á þessu tímabili og samhverfa milli augna eykst. Báðir þessir þættir einkenna dauða sjóntaugarfrumna.

 

 

V 133    Fimm ára nýgengi flögnunarheilkennis í Reykjavíkur–augnrannsókninni

 

Ársæll Arnarsson1,2, Karim Damji3, Friðbert Jónasson1

1Augndeild Landspítala, 2Háskólinn á Akureyri, 3Dpt. of Ophthalmology, University of Alberta, Edmonton

aarnarsson@unak.is

 

Inngangur: Flögnunarheilkenni (Exfoliation Syndrome – XFS) er aldurstengt fyrirbæri sem lýsir sér sem afbrigðileg uppsöfnun á bandvefsþráðum í fremra hólfi augans. Heilkennið er afar sterkur áhættuþáttur fyrir gláku. Fari þetta tvennt saman verður það oft til þess að erfitt reynist að ná stjórn á glákunni og sjóntapið verður meira en ella. Flögnunarheilkenni er sérstaklega algengt meðal Íslendinga. Markmið rannsóknarinnar var að greina fimm ára nýgengi heilkennisins og breytingar í augnhag því tengdu.

Efniviður og aðferðir: Framsæ rannsókn á tilviljunarúrtaki Reykvíkinga eldri en 50 ára sem fengið var úr Þjóðskrá. Við upphafsskoðun voru 1045 einstaklingar skoðaðir og leitað eftir einkennum XFS og gláku. Fimm árum síðar komu 846 þeirra (88,2% eftirlifenda) í endurtekna skoðun.

Niðurstöður: Fimm ára nýgengi XFS var 3,5% í hægri augum og svipað í vinstri. Ef litið er til einstaklinga þá greindust 5,2% hópsins eftir fimm ár. Aldur jók marktækt hættuna á fimm ára nýgengi eða um 5% fyrir hver 10 ár (p=0,02). Konur voru einnig marktækt líklegri en karlar til að greinast að fimm árum liðnum (p=0,05). Augnþrýstingur hækkaði í hópnum sem þróaði með sér flögnunarheilkenni á þessum fimm árum, en stærð sjóntaugarbollans jókst mest í þeim augum sem þegar höfðu XFS við upphafsskoðun.

Ályktanir: Nákvæm greining flögnunarheilkennisins skiptir miklu máli. Hátt fimm ára nýgengi er í samræmi við fyrri algengisrannsóknir á Íslandi. Sömuleiðis rímar hærri tíðni meðal kvenna við fyrri rannsóknir. Tíðni heilkennisins kann að vera vanmetin sökum þess hversu margir í eldri aldurshópunum höfðu farið í augasteinaskipti og því ómögulegt að greina þá.

 

 

V 134    Áhættuþættir flögnunarheilkennis í Reykjavíkur-augnrannsókninni

 

Ársæll Arnarsson1,2, Karim Damji3, María Soffía Gottfreðsdóttir1, Þórður Sverrisson1, Hiroshi Sasaki4, Friðbert Jónasson1

1Augndeild Landspítala, 2Háskólinn á Akureyri, 3Dpt. of Ophthalmology, University of Alberta, Edmonton, 4Dpt. of Ophthalmology, Kanazawa Medical University, Uchinada, Japan

aarnarsson@unak.is

 

Inngangur: Flögnunarheilkenni (Exfoliation Syndrome – XFS) er galli í bandvefsþráðum og þrátt fyrir að einkennin komi fram í augum er líklega um kerfissjúkdóm að ræða. Lengi hefur verið vitað að heilkennið er einn sterkasti áhættuþátturinn fyrir gláku. Hins vegar hefur minna verið gert af því að reyna að greina áhættuþætti fyrir flögnunarheilkennið sjálft. Erfðaþáttur XFS hefur þegar verið greindur í þessu úrtaki en í þessari rannsókn er tekið á öðrum hugsanlegum áhættuþáttum.

Efniviður og aðferðir: Framsæ rannsókn á tilviljunarúrtaki Reykvíkinga eldri en 50 ára sem fengið var úr Þjóðskrá. Við upphafsskoðun voru 1045 einstaklingar skoðaðir og leitað eftir einkennum flögnunarheilkennis og gláku. Fimm árum síðar komu 846 (88,2% eftirlifenda) þeirra í endurtekna skoðun. Ennfremur svöruðu þátttakendur ítarlegum spurningalista um lífsvenjur og heilsufar, þar á meðal voru spurningar um fæðu-
neyslu fólks á mismunandi æviskeiðum.

Niðurstöður: Aldur var að sjálfsögðu sterkur áhættuþáttur auk þess sem konur greinast frekar með heilkennið en karlar. Meðalaldur þeirra sem greindust með XFS var 72,3 ár samanborið við 67,0 ár þeirra sem ekki höfðu sjúkdóminn. Þeir sem hafa brúna eða blandaða lithimnu eru líklegri til að greinast með flögnunarheilkenni. Meiri neysla grænmetis og ávaxta, auk hóflegrar áfengisneyslu eru allt þættir sem tengjast minni líkum á að fá XFS. Einstaklingar með astma voru líklegri til að greinast með flögnunarheilkenni.

Ályktanir: Niðurstöður okkar tilgreina nokkra mögulega áhættuþætti sem vert væri að skoða frekar með orsakatengsl í huga. Einhverjir þessara þátta virðast tengjast andoxunaráhrifum.

 

 

V 135    Algengi og orsakir sjónskerðingar og blindu Íslendinga 50 ára og eldri. Augnrannsókn Reykjavíkur

 

Elín Gunnlaugsdóttir1, Ársæll Arnarsson2, Friðbert Jónasson1

1Augndeild Landspítala, 2Háskólinn á Akureyri

elingun@gmail.com

 

Inngangur: Skráning á sjónskerðingu og blindu fer fram á Sjónstöð Íslands. Vitað er að sambærilegar stofnanir erlendis vanskrá oft miðlungs mikla sjónskerðingu. Síðasta íslenska rannsóknin þar sem notað var slembiúrtak til að ákvarða ofannefnt er hin 20 ára gamla Austfjarðarannsókn.

Efniviður og aðferðir:Notað var slembiúrtak Reykvíkinga 50 ára og eldri af jafnri aldurs- og kynjadreifingu. Eitt þúsund fjörutíu og fimm einstaklingar (75,8% svarshlutfall) gengust undir augnskoðun sem fólst meðal annars í mælingum á sjónlagi og sjónskerpu. Stuðst var við staðal Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) sem skilgreinir sjónskerðingu sem sjón <6/18 og ≥3/60 á betra auga með besta gleri eða sjónvídd ≥5° frá athyglispunkti og blindu sem sjón á betra auga <3/60 eða sjónvídd <5°. Einnig var notaður Bandaríkjastaðall (US) sem skilgreinir sjónskerðingu sem sjón á betra auga <6/12 og >6/60 og blindu sem sjón ≤6/60. Ef einstaklingur reyndist hafa skerta sjón var orsök sjóntapsins ákvörðuð.

Niðurstöður: Samkvæmt staðli WHO var algengi sjónskerðingar 0,96% (95% CI: 0,37-1,55) og blindualgengi 0,57% (95% CI: 0,12-1,03). Bandaríkjastaðall gaf algengi sjónskerðingar 2,01% (95% CI: 1,16-2,86) og blindu 0,77% (95% CI: 0,24-1,29). Algengi sjónskerðingar og blindu, sem bundin voru við eitt auga, voru 4,40% (95% CI: 3,16-5,65) og 1,72% (95% CI: 0,93-2,51) samkvæmt staðli WHO en 5,45% (95% CI: 4,08-6,83) og 3,06% (95% CI: 2,02-4,11) samkvæmt Bandaríkjastaðli. Aldursbundin hrörnun í augnbotnum var algengasta orsök sjónmissis á báðum augum en „letiauga“, ský á augasteini og gláka orsökuðu oftast sjóntap sem bundið var við eitt auga.

Ályktanir:Sjóntap eykst með aldri. Rannsókn þessi getur reynst gagnleg við skipulagningu heilbrigðisþjónustu og snemmgreiningu á meðhöndlanlegum blinduvaldandi augnsjúkdómum.

 

V 136    Erfðabreytileiki í C-reactive próteini breytir tengslum offitu og C-reactive prótein-gilda. Öldrunarrannsókn Hjartaverndar

 

Guðný Eiríksdóttir1, Albert V. Smith1 ,Thor Aspelund1,2, Sigríður H. Hafsteinsdóttir1, Elín Ólafsdóttir1, Tamara B. Harris3, Lenore J. Launer3, Vilmundur Guðnason1,2

1Hjartavernd, 2HÍ, 3NIA/NIH, Bethesda

 gudny@hjarta.is

 

Inngangur: Bólguviðbrögð æðakölkunar endurspeglast í magni bólguvísa eins og C-reactive prótein (CRP). Magn CRP í blóði tengist fituvef og er að vissu marki undir áhrifum frá ákveðnum CRP arfgerðum. Við höfum skoðað samspil líkamsþyngdarstuðuls (Body Mass Index, BMI), mittisummáls og fitumassa prósentu (heildarfita mæld með bioimpedance) við CRP arfgerðir og CRP styrk í blóði.

Efniviður og aðferðir: Erfðamarkagreining var gerð fyrir SNP rs1205 í CRP geninu hjá fyrstu 2.296 þátttakendum (meðalaldur 76±6 ár, 42% karlar) í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar, sem er fjölþátta faraldsfræðileg rannsókn til að greina áhættuþætti og heilbrigði öldrunar. Ofurnæm aðferð (mælisvið 0-10 mg/L) var notuð til að mæla styrk CRP í blóði. Skoðað var samband milli rs1205 arfgerða og CRP styrks í blóði. Einnig var skoðað samspil við líkamsþyngdarstuðul, mittisummál og fitumassa prósentu til að meta tengsl arfgerðanna við CRP styrk í körlum og konum.

Niðurstöður: Einstaklingar með rs1205 G samsætu höfðu marktækt hærri styrk CRP í blóði heldur en einstaklingar með AA arfgerðina (p<0,01). Aukning á styrk CRP við hækkandi líkamsþyngdarstuðul og aukið mittisummál var borið af G samsætu og var eins bæði í körlum og konum. Hækkun á CRP við hækkandi líkamsþyngdarstuðul og mittisummál í einstaklingum með AA arfgerðina var mun minni í körlum en konum, og náði marktækni (p=0,02; p=0,006). Ekki fannst marktækur munur á samspili rs1205 við heildar fitumassa prósentu og bendir það til tengsla við staðsetningu fitunnar í líkamanum.

Ályktanir:rs1205 SNP í CRP geninu tengist styrk CRP í blóði og hefur áhrif á tengsl líkamsþyngdarstuðuls og mittisummáls við CRP styrk í blóði.

 

 

V 137    Öldrunarrannsókn Hjartaverndar. Þáttagreining á tauga-sálfræðilegum gögnum í faraldsfræðilegri rannsókn á öldrun

 

María K. Jónsdóttir1-3, Haraldur Þorsteinsson4, Pálmi V. Jónsson1,3, Vilmundur Guðnason2, Lenore J. Launer5

1HÍ, 2Hjartavernd, 3Landspítala, 4HR, 5NIA

marijon@landspitali.is

 

Inngangur: Einstök taugasálfræðileg próf meta jafnan marga ólíka þætti og líklegt er að einstaklingar með ólíka hugræna getu leysi þessi próf á mismunandi hátt. Því er ekki víst að réttlætanlegt sé að túlka taugasálfræðileg próf ætíð á sama hátt. Þáttagreining á taugasálfræðilegum gögnum í ólíkum undirhópum aldraðra gæti gefið mikilvægar vísbendingar um hvernig túlka beri prófin í þessum hópum.

Efniviður og aðferðir: Leitandi þáttagreining (PCA) með horn-skökkum (oblique) snúningi var gerð á taugasálfræðilegum gögnum tveggja hópa. Annar hópurinn skoraði undir viðmiðunarmörkum á öðru af tveimur skimunarprófum (MMSE, DSST) (hugræn skerðing, N 441, meðalaldur 80,5 ár). Hinn skoraði yfir þessum mörkum (heilbrigðir, N 1.219, meðalaldur 75,2 ár). Notað var viðmið Kaisers (eigingildi >1) og skriðupróf. Þáttahleðsla yfir 0,40 var talin marktæk. Greining á gögnum heilbrigða hópsins var áreiðanleikaprófuð með því að skipta hópnum í tvo jafnstóra hópa.

Niðurstöður: Í báðum hópum komu fram fjórir þættir. Tveir minnisþættir (vinnsluminni, langtímaminni) voru svipaðir í hópunum tveimur en þeir þættir er snerta hraða og stýringu voru ólíkir. Að auki var fylgni milli þátta hærri í heilbrigða hópnum.

Ályktanir: Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi þess að túlka stór taugasálfræðileg gagnasöfn með varfærni, til dæmis í faraldsfræðilegum rannsóknum, því ekki er víst að réttlætanlegt sé að túlka taugasálfræðileg próf á sama hátt í ólíkum undirhópum. Rannsóknin verður endurtekin með stærra gagnasafni (N>5000) og verður þá unnt að sundurgreina hópinn betur og bera saman þrjá undirhópa (heilbrigðir, væg vitræn skerðing, heilabilun).

 

V 138    Þróun aðferðar til að míkróhúða doxýcýklín

 

Árni Þorgrímur Kristjánsson1, Skúli Skúlason1,2, Þórdís Kristmunds-dóttir1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Líf-Hlaup ehf.

thordisk@hi.is

 

Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt að tetracýklín og afleiður þess hafa hemjandi virkni á matrix-metallópróteinasa ensím (MMP) sem eru hluti af bólgusvörun og taka einnig þátt í niðurbroti á vef í sárum. In vitro rannsóknir hafa sýnt að tetracýklínafleiðan doxýcýklín hemur MMP ensím við mun lægri styrk en þarf til að ná fram bakteríuhemjandi virkni. Doxýcýklín hefur aðallega verið notað sem systemískt sýklalyf en nýlegar rannsóknir hafa beinst að staðbundinni verkun lyfsins í munnholi gegn tannholdssjúkdómum. Doxýcýklín hefur takmarkað geymsluþol þar sem það oxast auðveldlega og hefur það valdið erfiðleikum við hönnun lyfjaforma. Markmið verkefnisins var að þróa aðferð til að míkróhúða doxýcýklín með fjölliðu í vatnsfríu umhverfi til að stjórna losun lyfsins og bæta stöðugleika þess.

Efniviður og aðferðir: Við míkróhúðun á doxýcýklíni var þróuð áfram aðferð sem byggist á uppgufun leysis frá olíu í olíufleytu (O/O). Sem húðunarefni voru notaðar tvær akrýlsýrufjölliður, Carbópól 974 og Carbópól Ultrez 10. Kannaðar voru heimtur við húðunina svo og eiginleikar húðaðra agna og stærðardreifing þeirra, viðloðun agnanna við slímhúð og losun lyfs frá þeim.

Niðurstöður: Með þróun aðferðarinnar tókst að míkró-húða doxýcýklín án þess að niðurbrotsefni væru greinanleg. Losunarprófin sýndu hraðari losun og betri heimtur hjá míkróögnum sem húðaðar voru með Carbópól Ultrez 10 en á móti höfðu míkróagnir, sem húðaðar voru með Carbópól 974 meiri viðloðun við slímhúð. Viðloðun agnanna var reyndar ekki mikil hjá ögnum beggja fjölliða en hún jókst eftir auknu hlutfalli þeirra í forskrift.

Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að tekist hafi að þróa aðferð við að míkróhúða doxýcýklín með Carbópól fjölliðunum en frekari rannsóknir þarf til að kanna áhrifin á langtímageymsluþol lyfsins.

 

 

V 139    Tert-bútýldímetýlsilýl O-verndað kítósan. Nothæft efni fyrir sértæka breytingu á amínóhópi kítósans í algengum lífrænum leysum

 

Berglind Eva Benediktsdóttir1, Ögmundur Viðar Rúnarsson1, Snorri Þór Sigurðsson2, Már Másson1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2raunvísindastofnun HÍ

berglib@hi.is

 

Inngangur:Kítósan (pólý-b-(1-4)-glúkósamín) er myndað úr kítíni með afasetýleringu. Þessi fjölliða hefur lofað góðu þegar kemur að lyfjafræðilegum notum þar sem komið hafa fram eiginleikar hennar, meðal annars til að binda fitu, loða við slímhimnur, auka upptöku lyfja og drepa bakteríur. Hins vegar hefur léleg vatnsleysni kítósans við lífeðlisfræðilegt pH takmarkað líffræðilega virkni þess. Því hefur verið aukinn áhugi fyrir því að breyta kítósani með efnafræðilegum hætti, ekki aðeins til að auka vatnsleysni heldur einnig til að auka líffræðilega virkni þess við lífeðlisfræðilegt pH. Þar sem kítósan leysist illa í algengum lífrænum leysum takmarkar það efnasmíðar á nýjum kítósanafleiðum. Markmið verkefnisins var því að búa til kítósanafleiðu sem leysist í lífrænum leysi og setja inn tert-bútýldímetýlsilýl (TBDMS) verndarhóp sem gerir kleift að breyta fjölliðunni sértækt á amínóhópnum með efnum sem eru lífsamræmanleg.

Efniviður og aðferðir:Kítósan var fengið frá Genís ehf. Afleiður kítósans voru smíðaðar við stofuhita og unnið var með rakaviðkvæm efni undir nitri. Til að greina nýsmíðaðar kítósanafleiður voru 1H-NMR og 13C-NMR sýni mæld við 400,13 MHz en einnig voru sýni mæld með IR.

Niðurstöður:Nýmyndun kítósan mesýlats tókst vel en mesýlat saltið er leysanlegt í DMSO. Silýlering á kítósan mesýlati með TBDMSCl var því framkvæmd í DMSO í einu hvarfi en við það silýleruðust hýdroxýhópar kítósans að fullu og sértækt, það er að segja ekki átti sér stað silýlering á amínóhópnum. Silýlkítósan hefur góða leysni í lífrænum leysum sem gerði næstu efnahvörf og uppvinnslu mun auðveldari í meðhöndlun. Með því að hafa O-hópa kítósans verndaða var mögulegt að setja sértækt inn efni á amínóhóp kítósans eins og alkýlkeðju en þó tókst ekki að hafa amínóhópinn fullsetinn. Að lokum mun vera hægt að gera amínóhópinn fjórgildan og þannig auka vatnsleysni kítósanafleiðna umtalsvert við lífeðlisfræðilegt pH.

Ályktanir:Þessi efnasmíðaleið mun gera mögulegt að smíða fjölbreyttar kítósanafleiður sem verða rannsakaðar in vitro með tilliti til hugsanlegra áhrifa afleiðanna á aukna upptöku lyfja í frumum.

 

 

V 140    Metýleringsgreining á fjölsykrum úr fléttum, þróun aðferðar

 

Berglind Ósk Pálsdóttir1, Berit Smestad Paulsen2, Elín Soffía Ólafsdóttir1, Sesselja S. Ómarsdóttir1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2lyfjafræðideild háskólans í Ósló

sesselo@hi.is

 

Inngangur:Til að ákvarða efnabyggingu fjölsykra er yfirleitt stuðst við nokkar mismunandi aðferðir. Oft eru það metanólýsa, metýleringsgreining og kjarnsegulgreining. Niðurstöður fyrri rannsókna okkar sýna að metýleringsgreining galaktómannana og heteróglýkana sýnir of hátt hlutfall endastæðra eininga miðað við greinafjölda. Þetta er heldur ekki í samræmi við þær niðurstöður sem fást með kjarnsegulgreiningu þar sem endastæðar einingar eru jafnmargar og greinafjöldi. Hugsanlegar ástæður þessa eru vanmetýlering, efnafræðilegt niðurbrot fjölsykrunnar, ófullkomið vatnsrof eða rúmfræðileg hindrun. Markmið verkefnisins var að gera breytingar á metýleringsgreiningaraðferðinni einkum vatnsrofinu til að unnt sé að nota hana við byggingaákvörðun á flóknum fléttufjölsykrum.

Efniviður og aðferðir: Galaktómannönin Pc5, Pc2 og Pc3 úr engjaskóf (Peltigera canina) voru notuð í þessari rannsókn. Vatnsrof er mikilvægt skref í metýleringsgreiningu þar sem tengin í fjölsykrunni verða að klofna algjörlega til að niðurstöður fáist um staðsetningu tengjanna. Margar gerðir af vatnsrofi voru prófaðar til dæmis vatnsrof með mismunandi styrk af brennisteinssýru og með formolýsu. Þessar hálfmetýleruðu fjölsykrur voru síðan afoxaðar og asetýleraðar til að mynda hálfmetýleruð alditól asetöt, sem voru síðan mæld með gasgreini áfastan massagreini (GC-MS).

Niðurstöður: Með því að nota meðhöndla fjölsykrurnar með 90% maurasýru við 120°C í sex stundir og vatnsrjúfa þær síðan með vatni í tvær stundir reyndist unnt að bæta mólhlutfall endastæðra eininga á móti greinafjölda sem er 1:1 og voru niðurstöðurnar í samræmi við niðurstöður kjarnsegulgreiningarinnar.

Ályktanir: Þessi breytta aðferð fyrir metýleringsgreiningu er mikilvæg fyrir byggingaákvörðun fléttufjölsykra, einkum galaktómannana og heteróglýkana.

 

 

V 141    Losun bólgueyðandi lyfja úr sílikonmatrixkerfi

 

Bergþóra S. Snorradóttir1, Pálmar I. Guðnason2, Freygarður Þorsteinsson2, Már Másson1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Össur hf.

bss@hi.is

 

Inngangur: Sílikonfjölliður eru þekktar fyrir að vera líffræðilega samrýmanlegar og óniðurbrotshæfar sem gerir það að verkum að hægt er að nota þær í lækningaskyni. Matrixkerfi eru kerfi þar sem lyfi er dreift um óniðurbrotshæfa fjölliðumatrixu og hægt er að móta þær í mismunandi form með því að setja blönduna í þar til gerð mót.

Efniviður og aðferðir: Markmið rannsóknarinnar var að koma bólgueyðandi lyfjum (non-steroidal anti-inflammatory drugs (NSAIDs)) í sílikon fjölliðu, skoða eðlisefnafræðileg áhrif lyfjanna á herslu sílkonmatrixanna og lyfjalosun. Losun lyfja úr sílikonmatrixkerfum var mæld í Frans flæðisellum og metin áhrif ýmissa þátta á losunina.

Niðurstöður: Hersla á sílikonblöndum með 1% (w/w) af lyfi á natríumsaltformi tókust að fullu en aftur á móti önnur saltform eða lyfin á formi frírrar sýru truflaði hersluferilinn. Losunarhraðinn er að mestu háður leysni lyfsins í sílikon fjölliðunni og hröðustu losunina sýndi natríum íbúprófen. Niðurstöðurnar benda til þess að innlimun á NSAID natríumsöltum breyti ekki míkróbyggingu, né gegndræpi sílikonmatrixkerfanna og að myndun ganga (channel formation) sé í lágmarki.

Ályktanir:Eiginleikar sílikonfjölliðu sem inniheldur NSAID eru sambærilegar því ferli sem notað er til framleiðslu á ýmsum lækningatækjum úr sílikoni, svo sem stoðnetum (stents) og þvagleggjum og þar af leiðandi gæti hugsanlega verið notað í slík lækningartæki til að draga úr bólgu á/við stungustað (site of an implant) og einnig til staðbundinnar losunar.

 

 

V 142    Andkólínesterasavirkni alkalóíða úr íslenskum lyngjafna Lycopodium annotinum

 

Elsa Steinunn Halldórsdóttir1, Jerzy W. Jaroszewski2, Elín Soffía Ólafsdóttir1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2lyfjafræðideild Kaupmannahafnarháskóla

esh2@hi.is

 

Inngangur: Lágplöntur sem teljast til jafnaættkvíslanna Lycopodium og Huperzia framleiða áhugaverð efnasambönd, sem eru fjölhringa alkalóíðar og finnast eingöngu í jöfnum. Jafninn Huperzia serrata, sem hefur lengi verið notaður í kínverskum alþýðulækningum gegn minnissjúkdómum, framleiðir huperzine A, sem er öflugur asetýlkólínesterasa hemill og er í klínískum rannsóknum sem hugsanlegt lyf gegn hinum illvíga Alzheimerssjúkdómi. Markmið þessa verkefnis var að kanna alkalóíðainnihald íslenska lyngjafnans, Lycopodium annotinu, og rannsaka hemjandi áhrif alklóíðanna á ensímið asetýlkólinesterasa in vitro.

Efniviður og aðferðir:Lyngjafna var safnað á Íslandi og efnasambönd einangruð úr extrakti með ýmsum vökvaskiljuaðferðum og byggingar greindar með tvívíðri kjarnsegulgreiningu og massagreiningu. Magnbundin greining á andkólínesterasavirkni alkalóíðanna var framkvæmd með ljósgleypnimælingu samkvæmt svokallaðri Ellmans-aðferð.

Niðurstöður: Rannsóknin leiddi til byggingargreiningar á 12 alkalóíðum úr lyngjafna þar af var einn áður óþekktur. Sjö alkalóíðanna sýndu hemjandi áhrif á asetýlkólinesterasa með IC50 gildi á bilinu 250-2000µM.

Ályktanir: Niðurstöðurnar gefa tilefni til frekari rannsókna á sambandi á milli byggingar og verkunar þessara alkalóíða á asetýlkólínesterasa ensímið. Niðurstöðurnar ásamt frekari rannsóknum með hjálp hermilíkana í tölvu, gætu spáð fyrir um lofandi hönnun afleiða með aukna sækni í ensímviðtakann.

V 143    Áhrif fléttuefnisins úsnínsýru á lifun frumna og starfsemi hvatbera

 

Eydís Einarsdóttir1,2, Judith Groeneweg1, Sesselja S. Ómarsdóttir2, Helga M. Ögmundsdóttir1

1Rannsóknarstofu í sameinda- og frumulíffræði, læknadeild HÍ, 2lyfjafræðideild HÍ

helgaogm@hi.is

 

Inngangur: Fléttuefnið úsnínsýra hefur lengi verið þekkt meðal annars fyrir örveru-, veiru- og bólguhemjandi verkun, auk hita- og verkjastillandi verkunar. Úsnínsýra er meðal annars notuð vegna bakteríuheftandi verkunar í snyrtivörur og sem fæðubótarefni í fitubrennslukúra og hefur verið sýnt fram á að úsnínsýra hefur áhrif á orkuvinnslu í hvatberum. Niðurstöður okkar og annarra hafa leitt í ljós marktæka hamlandi verkun á fjölgun krabbameinsfrumna. Fyrri niðurstöður okkar sýndu fækkun lifandi frumna án þess að um væri að ræða klassíska apoptósu. Markmiðið nú var því að kanna hvort úsnínsýra ylli annars konar frumudauða.

Efniviður og aðferðir: Úsnínsýra (C18H16O7) var einangruð úr Cladonia arbusculaog var efnabygging hennar staðfest með 1H og 13C kjarnsegulgreiningu. Áhrif úsnínsýru voru prófuð á brjóstakrabbameinsfrumulínunni T-47D og briskrabbameinsfrumulínunni Capan-2. Auk vefjauppruna eru þessar tvær frumur ólíkar að því leyti að T-47D hefur óstarfhæft TP53 (æxlisbæligen). Prófað var fyrir nekrósu með LDH losunaraðferð. Himnuspenna hvatbera var metin með JC-1 litun, skoðun og myndatöku í confocal smásjá.

Niðurstöður: Úsnínsýraolli engri nekrósu í T-47D, en í Capan-2 kom fram nekrósa, en ekki fyrr en eftir 48 klukkustunda ræktun með úsnínsýruí styrknum 5µg/mL, sem er örlítið hærri styrkur en ED50 fyrir hindrun á frumufjölgun. Með JC-1 litun var sýnt fram á að úsnínsýra olli falli á himnuspennu hvatbera í báðum frumulínumeftir meðhöndlun með úsnínsýru í styrknum 5µg/mL. Áhrifin voru enn meiri eftir meðhöndlun í styrknum 10 µg/mL.

Ályktanir: Úsnínsýra olli síðbúinni nekrósu aðeins í annarri frumulínunni, þeirri sem hafði starfhæft TP53 (Capan-2). Úsnínsýra olli falli á himnuspennu hvatbera í báðum frumulínum. Næst verður kannað hvort þessu fylgir losun á cytochrome C með hugsanlegri ræsingu dauðaferla.

 

 

V 144    Þróun líkans til að meta slímhimnuviðloðun

 

Hákon Hrafn Sigurðsson1, Sólrún Flókadóttir1, Björn Viðar Aðal-björnsson1

1Lyfjafræðideild HÍ

hhs@hi.is

 

Inngangur:Fjölliður sem loða við slímhimnur hafa síðustu tvo áratugi vakið áhuga á sviði lyfjalosunarkefa enda möguleikarnir fyrir þennan eiginleika við lyfjagjafir miklir. Fjölliður auka tímann sem lyfjaformið dvelur við slímhimnur og eykur þannig frásog á lyfi í gegnum þekjufrumurnar. Markmið verkefnisins var að þróa einfalt líkan við mælingar á slímhimnuviðloðun. Forsendur fyrir góðu líkani er að lítill mælibreytileiki milli daga komi fram. Stór kostur við að hanna gott líkan sem líkir eftir aðstæðum á raunverulegri slímhimnu er að ekki verður þörf á að fórna dýrum.

Efniviður og aðferðir:Kannaðar voru sex mismunandi fjölliður við þrjú sýrustig. Þurrt slím úr svínsmaga var leyst upp í buffer og dreift jafnt á gervihimnu sem límd var á líkanið. Fjölliðulausninni sem innihélt lyfið hýdrókortisón var síðan dreift á slímið. Líkanið var síðan sett saman og bufferlausn með sama sýrustig og slímið var látið renna yfir það í þrjá tíma. Styrkur hýdrókortisóns var síðan mældur í útskolsvökvanum sem var þá mælikvarði á bindieiginleika fjölliðulausnarinnar.

Niðurstöður:Helstu niðurstöður voru að fjölliðan HDMBr sem hefur jákvæða hleðslu við öll sýrustigin er ekki að bindast við slímið en uppi hafa verið kenningar að jákvæð hleðsla fjölliðu dragist að neikvætt hlöðnu slími. Niðurstöður sýndu að sýrustig hefur áhrif á viðloðunina þar sem binding jónanlegra fjölliða var mest við pKa gildi þeirra og einnig var samband á milli seigjustigs og slímhimnuviðloðunar.

Ályktanir:Líkanið er einfalt í uppsetningu og notkun. Það þarf þó að þróa frekar vegna mælibreytileika milli daga (10-20%). Sá breytileiki er fullmikill til þess að hægt sé að fullyrða um mun á milli slímhimnuviðloðunareiginleika fjölliða.

 

 

V 145    Áhrif úrdrátta úr íslenskum soppmosum á malaríu- sníkilinn in vitro

 

Jenny Sophie R.E. Jensen1, Greta María Pálsdóttir1, Sesselja S. Ómarsdóttir1, Jerzy W. Jaroszewski2, Elín Soffía Ólafsdóttir1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2lyfjafræðideild Kaupmannahafnarháskóla

jennyj@hi.is

 

Inngangur: Soppmosar (Hepaticae) tilheyra mosafylkingunni (Bryophyta) og hafa yfir 6.000 tegundir soppmosa fundist í heiminum. Soppmosar eru frumstæðustu tegundir allra landplantna og eru bæði laufin og þölin aðeins eitt eða örfá frumulög að þykkt. Þeir innihalda flókna samsetningu annars stigs efnasambanda og framleiða meðal annars fitusækna mónó, seskví- og díterpena og arómatísk sambönd eins og til dæmis bíbensýla og bisbíbensýla. Mörg þessara innihaldsefna hafa áhugaverða lífvirkni og þar má nefna frumu-, veiru-, sýkla- og sveppahemjandi verkun. Markmið verkefnisins var að kanna áhrif etanólúrdrátta úr fimm tegundum íslenskra soppmosa á malaríusníkilinn Plasmodium falciparum in vitro.

Efniviður og aðferðir:Soppmosunum Jungermannia exsertifolia, Chiloscyphus polyanthos, Leiocolea bantriensis, Marchantia polymorpha ogScapania undulata var safnað á Íslandi. Útbúnir voru etanólúrdrættir og áhrif þeirra prófuð í fjórum styrkleikum 100, 50, 25 og 12,5 µg/mL á malaríusníkilinn in vitro.

Niðurstöður: Allir úrdrættirnir sýndu skammtaháða virkni gegn malaríusníklinum in vitro en úrdráttur af Leiocolea bantriensis sýndi mesta virkni og var IC50 minna en 12,5 µg/mL.

Ályktanir: Malaríuhemjandi virkni úrdrátta og hreinna innihaldsefna úr soppmosum hefur ekki verið lýst áður. Þar af leiðandi eru þessar niðurstöður hvatning til frekari rannsókna sem miða meðal annars að því að hreinsa og byggingagreina virku efnin í þessum úrdráttum og staðfesta virkni hreinna og vel skilgreindra efna gegn malaríusníklinum.

 

 

V 146    Áhrif prótólichesterínsýru úr fjallagrösum á fitusýru-synþasa

 

Kristín Björk Eiríksdóttir1, Sesselja Ómarsdóttir1, Helga M. Ögmunds-dóttir2

1Lyfjafræðideild HÍ, 2læknadeild HÍ

sesselo@hi.is

 

Inngangur: Sýnt hefur verið fram á að prótólichesterínsýra (PS), sem einangruð er úr fjallagrösum, hindrar 5- og 12-lípoxýgenasa, frumufjölgun (EC50 2,4-18,1µg/mL) og hefur áhrif á stýrðan frumudauða krabbameinsfrumna. Rannsóknir sýna ennfremur að efni, sem nefnist C75 og er efnafræðilega náskylt PS, hindrar fitusýrusynthasa, en mikill áhugi er nú á slíkum efnum til lyfjaþróunar þar sem tjáning á fitusýrusynthasa er meiri hjá krabbameinsfrumum en heilbrigðum frumum. Meginmarkmið verkefnisins var kanna hvort PS hindrar fitusýrusynthasa.

Efniviður og aðferðir: Upphreinsun prótólichesterínsýru var framkvæmd með magnbundinni vökvaskiljunaraðferð. Hafin var þróun ljósmæliaðferðar til þess að mæla virkni prótólichesterínsýru gegn fitusýrusynthasa sem var aðkeypt. Upptaka krabbameinsfrumna á 14C-acetati var rannsökuð með frumuprófunum, en frumur nota acetat til þess að mynda acetýl-CoA og malonýl-CoA sem eru forefni í fitusýrunýmyndun og í öðrum lífmyndunarferlum.

Niðurstöður: Prótólichesterínsýra sem notuð var í prófanirnar er 98% hrein. Ekki reyndist unnt að fá endurtakanlegar niðurstöður með ljósmælingaraðferðinni en sennilega má rekja það til þess að fitusýrusynthasa ensímið var óvirkt. Prótólichesterínsýra í styrkleikunum 10µg/mL og 20µg/mL hindraði upptöku á 14C-acetats í MCF-7 brjóstakrabbameinsfrumum. Upptaka frumnanna á 14C-acetati var einungis 73-75% af upptöku viðmiðunarfrumnanna.

Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að PS hemji upptöku MCF7 krabbameinsfrumna á 14C-acetati. Þar sem fitusýrur voru ekki einangraðar í lok frumuprófanna er mögulegt að PS hindri einnig aðra lífmyndunarferla en fitusýrunýmyndun.

 

 

V 147    Virkni mónókapríns í tannlími gegn Candida sveppum

 

Kristín Björk Eiríksdóttir1, Skúli Skúlason1,3, Þórdís Kristmundsdóttir1, W. Peter Holbrook2

1Lyfjafræðideild, 2tannlæknadeild HÍ, 3Líf-Hlaup ehf.

thordisk@hi.is

 

Inngangur: Mónókaprín (1-mónóglýseríð af kaprínsýru) er náttúrulegt fituefni sem sýnt hefur mikla virkni gegn ýmsum bakteríum og veirum. Rannsóknir á virkni mónókaprínlausna gegn örverum sem sýkja munnhol hafa sýnt fram á virkni gegn Candida sp. en slímhúðarbólgur undir gervitönnum af völdum Candida sp. eru algengar hjá öldruðum. Markmið verkefnisins var að kanna virkni mónókapríns í tannlími á vöxt Candida en það gæti verið góður kostur að nota náttúrulegt fituefni í stað fúkkalyfja við Candida sýkingum í munnholi.

Efniviður og aðferðir:Mónókapríni var blandað saman við COREGA tannlím í 10%, 15% og 20% þéttni og 10 g af hverri blöndu sett á túpur. Virkni mónókaprínblöndunnar var prófuð gegn tveimur tegundum af Candida albicans, Candida glabrata og Candida dubliniensis. Tannlím sem innihélt mónókaprín var blandað með 100µL af sterílu vatni og sýni síðan strokið yfir blóðagarplötu. Vatni var blandað við tannlímið til að auðvelda dreifingu þess. Örverustofnunum var síðan strokið yfir blóðagarplöturnar, hornarétt á mónókapríntannlímið. Ræktað var við 37°C í einn dag og ef þurfa þótti til að fá skýra svörun, í einn dag í viðbót.

Niðurstöður: Virkni gegn Candida sveppunum var háð þéttni mónókapríns og Candida tegund. Við 15% þéttni mónókapríns kom fram vöxtur hjá öðrum Candida dubliniensis stofninum en í tannlími sem innihélt 20% mónókaprín var virkni gegn öllum Candida stofnunum. Niðurstöður sýndu einnig aðCandida glabrata virtist vera næm fyrir neikvæða viðmiðinu, tannlíminu. Candida glabrata er einungis til sem blastospore og hefur ekki hyphal form. Það er hugsanlegt að þetta geti verið orsök fyrir auknu næmi þó er þetta enn óljóst.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að mónókaprín í tannlími sé vænlegur kostur til að hindra vöxt Candida undir gervitönnum.

 

 

 

V 148    Rafeindasmásjárathugun á áhrifum fléttuefnisins úsnínsýru á krabbameinsfrumur

 

Már Egilsson1,2, Jóhann Arnfinnsson2, Sesselja S. Ómarsdóttir3, Helga M. Ögmundsdóttir1

1Rannsóknarstofu HÍ og KÍ í sameinda- og frumulíffræði, 2læknadeild, 3lyfjafræðideild HÍ

mae4@hi.is

 

Inngangur: Fléttuefnið úsnínsýra (ÚS) hefur lengi verið þekkt og er meðal annars notað vegna örveruhemjandi verkunar í snyrtivörur og sem fæðubótarefni í fitubrennslukúra. Niðurstöður okkar og annarra hafa sýnt fram á marktæka hamlandi verkun á fjölgun krabbameinsfrumna. Markmiðið var að nota rafeindasmásjárskoðun til þess að kanna áhrif úsnínsýra á frumulíffæri

Efniviður og aðferðir: Úsnínsýra var einangruð úr hreindýrakrókum (Cladonia arbuscula)og efnabygging auðkennd með kjarnsegulgreiningu. Áhrif úsnínsýra voru prófuð á brjóstakrabbameinslínunni T-47D og briskrabbameinsfrumulínunni Capan-2. Auk vefjauppruna eru þessar tvær frumugerðir ólíkar að því leyti að T-47D hefur óstarfhæft TP53 (æxlisbæligen). Eftir meðhöndlun með úsnínsýra voru frumurnar meðhöndlaðar eftir hefðbundnum aðferðum fyrir rafeindasmásjárskoðun og athugað hvort einhverjar áberandi myndgerðarbreytingar sæjust á frumunum sem gæfu frekari vísbendingar um áhrif úsnínsýrunnar.

Niðurstöður: Eftir meðhöndlun með úsnínsýru í styrknum 5µg/mL í sólarhring sáust mjög áberandi misstórar bólur í Capan-2 frumunum. Við nánari skoðun sáust hálfmánar og himnumyndanir sem samræmast því ferli sem áður hefur verið lýst sem sjálfsáti (autophagy). Talning leiddi í ljós að áberandi fleiri Capan-2 frumur sýndu þetta dæmigerða útlit sjálfsáts eftir meðhöndlun með úsnínsýru en ómeðhöndlaðar. Í T-47D frumum sáust sams konar myndanir en í minna mæli og voru frumur meðhöndlaðar með úsnínsýru ekki afgerandi frábrugðnar ómeðhöndluðum frumum samkvæmt talningum.

Ályktanir: Sjálfsát í kjölfar úsnínsýrumeðhöndlunar er mjög athyglisverð niðurstaða í ljósi þeirrar athygli sem þetta fyrirbæri nýtur nú í krabbameinsrannsóknum og er þar margt óljóst enn. Trúlegt er að þessi áhrif tengist hamlandi áhrifum úsnínsýra á orkubúskap frumna og vísbendingar eru um að TP53 eigi þátt í ræsingu sjálfsáts.

 

 

V 149    Áhrif hjálparefna á leysanleika og losun dexametasóns úr augndropum sem innihalda sýklódextrín míkróagnir

 

Phatsawee Jansook, Þorsteinn Loftsson

Lyfjafræðideild HÍ

phj1@hi.is

 

Inngangur: Dexametasón (Dx) er steri sem meðal annars er notaður til að meðhöndla bólgusjúkdóma í auga, svo sem í bakhluta augans. Sýklódextrín (CDs) eru hringlaga fásykrungar sem meðal annars má nota til að auka vatnsleysanleika fituleysanlegra augnlyfja. CDs mynda vatnsleysanlegar fléttur með lyfjunum. Augndropar eru oftast vatnslausnir sem auk lyfja innihalda ýmis hjálparefni, svo sem natríum eðetat (EDTA), benzalkóníumklóríð (BAC) og hýdroxýprópýlmetýlsellulósu (HPMC). Markmið verkefnisins var að rannsaka áhrif þessara hjálparefna á leysanleika og losun Dx úr augndropadreifum sem innihalda blöndur CDs.

Efniviður og aðferðir: Leysanleiki Dx var mældur í vatnslausnum með hitun í gufusæfi, það er hitun við 121°C í 20 mínútur. Yfirmagni af Dx var bætt í vatnslausnir sem innihéldu 0-20% (w/v) CD, 0,0 eða 0,2% (w/v) BAC, 0,0 eða 0,1% (w/v) EDTA, og 0,0 eða 0,1% (w/v) HPMC. Leysanleikastuðull (complexation efficiency, CE) Dx í vatnslausnunum var að lokum ákvarðaður. Áhrif hjálparefna á losun Dx var ákvörðuð með því að bæta 150 mg af Dx í vatnslausn sem innihélt 2 mg af BAC, 10 mg af EDTA og breytilegt magn af gCD og HPgCD. HPMC (0,1-0,75%) var notað til að auka stöðugleika míkróagnanna sem mynduðust í lausninni. Losun Dx var mæld í Franz sellum.

Niðurstöður: HPMC jók CE í gCD lausnum. Losun Dx úr dreifum sem innihéldu gCD/HPgCD (80:20) var hraðari en losun úr dreifum sem innihéldu aðeins gCD. Niðurstöðurnar benda til þess að HPgCD í gCD dreifum auki myndun á litlum míkró- og nanóögnum sem eiga auðveldar með að losa Dx.

Ályktanir: Bæði BAC, sem er yfirborðsvirt efni, og HPMC, sem er vatnsleysanleg fjölliða, auka CE. Leysanleiki Dx í gCD vatnslausnum jókst með vaxandi styrk af HPMC. Losunarhraði Dx úr gCD dreifum jókst þegar HPgCD var bætt út í dreifuna.

 

 

V 150    Algínat míkróagnir framleiddar með úðaþurrkun

 

Rúnar Guðlaugsson1, Skúli Skúlason1,2, Þórdís Kristmundsdóttir1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Líf-Hlaup ehf.

thordisk@hi.is

 

Inngangur: Algínsýra er náttúruleg fjölsykra sem unnin er úr brúnþörungum. Natríum algínat hefur sýnt mikla viðloðunarhæfni við slímhúð og gæti því hentað sem hjálparefni í lyfjaform til lyfjagjafar um munnhol.Markmið verkefnisins var að þróa aðferð til að míkróhúða doxýcýklín með natrium algínati með úðaþurrkun. Rannsóknir hafa sýnt fram á að doxýcýklín í lágum styrk getur hindrað virkni matrix metallópróteinasa ensíma (MMP) en aukin tjáning MMP ensíma kemur fram í ýmsum bólgusjúkdómum í tannholdi og er talið að stjórnun á MMP ensímum fari úr skorðum í þessum sjúkdómum og stuðli að auknu niðurbroti tannholds. Staðbundin meðferð með lágskammta doxýcýklíni getur haft hemjandi áhrif á bólgusjúkdóma í tannholdi auk þess sem að hún hefur ekki ókosti systemískrar meðferðar.

Efniviður og aðferðir:Við míkróhúðun á doxýcýklíni voru notaðar natríum algiínat fjölliður með mismunandi keðjulengd, könnuð voru áhrif mismunandi hlutfalls algínats og doxycýklíns á eiginleika míkróhúðaðra agna, lögun, heimtur við húðunina svo og stærð agnanna, viðloðun þeirra við slímhúð svo og losun lyfs frá þeim.

Niðurstöður: Þrátt fyrir að nota þyrfti hátt hitastig við úðaþurrkunina olli það ekki niðurbroti doxýcýklíns. Keðjulengd algínatsins hafði áhrif á lögun og stærð míkróagnanna. Losun doxýcýklíns úr míkróögnum var hröð og óháð styrk og tegund algínats. Sýnt var fram á aukna slímhimnuviðloðun míkróagnanna með vaxandi magni fjölliðu í míkróögnunum. Frekari rannsókna er þörf til þess að kanna stöðugleika doxýcýklíns í algínat míkróögnum.

Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að natríum algínat henti vel sem húðunarefni við míkróhúðun með úðaþurrkun. Doxýcýklín þoldi framleiðsluferilinn án marktæks niðurbrots efnisins.

 

 

V 151    Áhrif sýklódextrína á dreifingu og útskilnað lyfja eftir gjöf sýklódextrína í æð

 

Sergey V. Kurkov1,2, Martin Messner1, Maria Dolores Moya Ortega1,3, Þorsteinn Loftsson1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Institute of Solution Chemistry RAS, Russia, 3University of Santiago de Compostela, Spáni

kurkov@hi.is

 

Inngangur: Þegar lyf sem innihalda sýklódextrín (CDs) eru gefin beint í æð er hugsanlegt að sýklódextrínsameindir keppi um lyfjasameindir við plasmapróteinin (P) og geti þannig haft áhrif á dreifingu lyfjanna og útskilnað, til dæmis haft áhrif á helmingunartíma lyfja og aðgengi þeirra að viðtækjum. Markmið verkefnisins var að rannsaka þessa samkeppni CD og P um lyfjasameindir (competitive binding).

Efniviður og aðferðir: Tíu lyf voru valin þannig að þau féllu í fjóra flokka byggt á stöðugleikastuðlum fléttna þeirra við CD (K1:1) og P (KP). 2-Hýdroxyprópýl-b-CD (HPbCD) og albúmín (Ab) úr mönnum var notað við rannsóknirnar. Leysanleiki lyfjanna var ákvarðaður í jafnþrýstnum HPbCD (0-16% w/v) buffer lausnum (pH 7,4). Binding lyfjanna við Ab, sem og hlutfallsleg binding þeirra við Ab í HPbCD lausnum, var ákvörðuð með díalýsuaðferð. Lyfin voru magngreind með HPLC.

Niðurstöður: Gildin á K1:1 og KP, sem og K1:1/KP hlutfallið, sýna að mjög litlar líkur eru á því að sýklódextrín sem gefin eru með stungulyfjum hafi áhrif á útskilnað lyfjanna og dreifingu. Niðurstöður rannsókna okkar staðfesta fyrri rannsóknir í mönnum sem sýna að gefa þarf mjög stóra skammta af HPbCD til að það hafi áhrif á dreifingu og útskilnað lyfja en auk þess þarf viðkomandi lyf að hafa mjög mikla sækni í HPbCD (það er hátt K1:1) til að svo verði.

Ályktanir: Vegna lítils styrks í plasma og samkeppni við
plasmaprótein hefur HP
bCD fléttun lyfja engin áhrif á dreifingu og útskilnað lyfja eftir lyfjagjöf í æð.

 

 

V 152    Munnlausnartöflur sem innihalda mónókaprín. Þróun og virkniprófanir

 

Skúli Skúlason1,3, Eydís Huld Helgadóttir1, W. Peter Holbrook2, Þórdís Kristmundsdóttir1

1Lyfjafræðideild, 2tannlæknadeild HÍ, 2Líf-Hlaup ehf.

skulis@hi.is

 

Inngangur: Örverudrepandi áhrif lípíða hafa lengi verið þekkt og hafa fitusýrur og einglýseríð þeirra sýnt mikla og breiða virkni in vitro gegn ýmsum bakteríum, veirum og sveppum sem geta valdið sýkingum í mönnum. Mónókaprín er 1-einglýseríð af kaprínsýru og hefur sýnt mikla virkni gegn sjúkdómsvaldandi örverum. Eiginleikar þess hafa mikið verið rannsakaðir og í flestum samanburðarrannsóknum hefur mónókaprín sýnt mikla virkni gegn örverum í lægri styrk en flest þau lípíð sem eru prófuð til samanburðar. Markmið verkefnisins var að þróa munnlausnartöflur, sem innihalda mónókaprín sem virkt efni, til staðbundinnar lyfjagjafar í munnholi. Einnig var markmiðið að prófa framleiðslurnar in vitro gegn hinum ýmsu örverum sem geta valdið kvillum í munnholi og kanna hversu vel hefur tekist til við að hanna munnlausnartöflur sem einstaklingar gætu notað í daglegu lífi.

Efniviður og aðferðir: Munnlausnartöflurnar voru framleiddar með steypun, kyrningu og beinsláttu. Gerðar voru virkniprófanir in vitro á sveppum og sýklum í munnvatni. Þá var einnig gerð könnun á því hvort einstaklingum líkaði við bragð afurðarinnar og gæti hugsað sér að nota hana við kvillum í munnholi.

Niðurstöður: Framleiðsla tókst mjög vel með öllum aðferðum. Slegnu töflurnar sýndu góða eðliseiginleika en þóttu heldur þurrar og bragðvondar í bragðprófunum. Steyptu töflurnar komu betur út úr bragðprófunum en þó voru misjafnar skoðanir á gæði bragðsins. Þá sýndi lyfjaformið góða virkni in vitro gegn sveppum, einstaka bakteríum og örverum í munnvatni.

Ályktanir: Niðurstöður virkniprófanna in vitro benda til þess að verðugt væri að kanna möguleikann á að þróa töflurnar enn frekar. Þó er nauðsynlegt að þróa bragð enn betur svo og aðferð til þess að magngreina mónókaprínið í töflunum.

 

 

V 153    Nýjar kúrkúmínóíð- og ferrúlínsýruafleiður og rannsóknir á fléttumyndun við sýklódextrín

 

Vivek Sambhaji Gaware1, Ravinder Singh1,2, Hanne Hjorth Tønnesen2, Már Másson1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2University of Oslo, School of Pharmacy, Dep. of Pharmaceutics

mmasson@hi.is

 

Inngangur: Kúrkúmín (1,7-bis(4-hýdroxý-3-metoxýfenýl)-1,6-hepatadíen-3,5-on) og aðrir kúrkúmínóíðar eru náttúruleg efni sem er að finna í kryddi og notuð sem matarlitur. Þessi efni hafa margskonar líffræðilega virkni og því er lyfjafræðileg notkun þeirra mjög áhugaverð. Lyfjaþróun er þó takmörkuð af lítilli leysni og efnafræðilegum og ljósefnafræðilegum óstöðugleika. Myndun fléttu við sýklódextrín getur þó haft jákvæð áhrif. Ferrúlínsýra er með byggingu náskylda kúrkúmínum og er notuð sem andoxunarefni í matvæli og snyrtivörur Tilgangur verkefnisins var að smíða nýjar kúrkúmín- og ferrúlínsýruafleiður og mæla fléttumyndun þeirra við sýkóldextrín.

Efniviður og aðferðir: Kúrkúmínóíðar og ferrúlínsýruafleiður voru smíðaðir með þekktum efnasmíðaaðferðum og bygging þeirra var staðfest með NMR. Rannsóknir á fléttumyndun við hýdroxýprópýl-b-sýklódextrín (HPbCD) og hýdroxýprópýl-g-sýklódextrín voru gerðar með leysnimælingu og ljósgleypnitítrun. Rannsóknir voru einnig gerðar á áhrifum sýklódextrína við mismunandi etanólstyrk

Niðurstöður: Vel gekk að smíða mismunandi kúrkúmínóíða með samhverfa byggingu og einnig ferrúlínsýruafleiður. Leið til að smíða ósamhverfar afleiður hefur einnig verið þróuð og unnið er að efnasmíðum á glýkósýlafleiðum kúrkúmínóíða. Samhverfir kúrkúmínóíðar er hafa mjög lítinn leysanleika en etanól og sýklódextrín hafa samverkandi áhrif til að auka leysanleikann. Ferrúlínsýruafleiður hafa mun betri leysanleika en kúrkúmínóíðar.

Ályktanir:Ljósgleypnitítrun hentar vel til að mæla fléttumyndunarstuðul efnanna við sýklódextrín. Ljósgleypnitítrunarmæling bendir til 1:1 flétta myndist en leysanleika mælingar benda til 1:2 fléttumyndunar.

 

 

V 154    Aldur cystatín C L68Q stökkbreytingarinnar og útbreiðsla

 

Ástríður Pálsdóttir1, Agnar Helgason2,3, Snæbjörn Pálsson2,4, Hans Tómas Björnsson5, Birkir Þór Bragason1, Sólveig Grétarsdóttir2, Unnur Þorsteinsdóttir2,6, Elías Ólafsson6,7, Kári Stefánsson2,6

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Íslenskri erfðagreiningu, 3félags- og mannvísindadeild, 4Líffræðistofnun HÍ, 5Johns Hopkins University School of Medicine, McKusick-Nathans Institute of Gen. Med., Dpt. of Ped., Baltimore, 6læknadeild HÍ, 7taugalækningadeild Landspítala

astripal@hi.is

 

Inngangur: Arfgeng heilablæðing er erfðasjúkdómur sem erfist á ríkjandi, ókynbundinn hátt með mikla sýnd. Sjúkdómurinn stafar af stökkbreyttu cystatín C geni (L68Q) og hefur fundist í 15 ættum á Íslandi sem eiga það sameinginlegt að flestar er hægt að rekja til Vesturlands (Borgarfjörður, Snæfellsnes) og Vestfjarða (Barðstrandsýslu). Af þeim hafa níu fengið DNA-greiningu. Við höfum sett fram þá tilgátu að umhverfisáhrif, sem framkalli sjúkdómsmyndina í arfgengri heilablæðingu vegna stökkbreytts cystatín C gens, hafi vantað fyrr á öldum og ekki farið að hafa teljandi áhrif á lifun fyrr en um miðja 19. öldina og því hafi L68Q arfberar ekki dáið úr heilablæðingu fyrr á öldum.

Efniviður og aðferðir:Örtunglagreining á litnings-DNA 36 DNA sjúklinga var notuð til þess að meta aldur stökkbreytingarinnar. Íslendingabók var notuðtil að rekja ættir þekktra skylduarfbera í öllum ættum aftur til sameiginlegs forföður hverrar ættar og staðsetja ættirnar.

Niðurstöður: Örtunglagreiningin bendir til að stökkbreytingin hafi orðið fyrir 17,9 kynslóðum, sem gæti þýtt að sameigilegur forfaðir (móðir) hafi fæðst um 1550. Ekki hefur tekist að tengja allar ættirnar saman með ættfræðiupplýsingum. Tvær Suðurlandsættir tengdust með sameiginlegum forföður sem fæddist árið 1684 á Snæfellsnesi. Við leit í prestabókum fannst ein ný ætt á Snæfellsnesi með 11 líklegum arfberum en í öllum þessum þremur ættum er L68Q stökkbreytingin útdauð.

Ályktanir: Vegna skorts á umhverfisáhrifum á sýnd náði L68Q stökkbreytingin að dreifast víða í nær 300 ár án svipgerðar, það er heilablæðingar. Eftir að umhverfisáhrifin voru að fullu komin fram fækkaði arfberum hratt, sérstaklega eftir 1910 og nú er stökkbreytingin útdauð í flestum ættum.

V 155    Markgen Mitf umritunarþáttarins í sortuæxlum

 

Christian Praetorius1, Christine Grill1, Steingrímur Óli Einarsson1, Alexander Schepsky1, Keith Hoek2, Eiríkur Steingrímsson1

1Lífefna- og sameindalíffræðistofu og Lífvísindasetri Læknagarði, læknadeild HÍ, 2Department of Dermatology, University Hospital of Zürich

pra@hi.is

 

Inngangur:Nýlegar rannsóknir á sortuæxlum benda til þess að þau eigi ýmislegt sameiginlegt með melanoblast-frumum, forverum litfrumna (melanocytes) en sortuæxli eiga uppruna sinn í þessum frumum.Þroskun litfrumna er háð umritunarþættinum Mitf (microphthalmia-associated transcription factor) sem stjórnar tjáningu ýmissa gena, þar með talið gena sem eru mikilvæg fyrir stjórnun frumuhringsins, lifunar og frumufars auk gena sem taka þátt í framleiðslu litarefnisins melaníns. Mitf gegnir einnig mikilvægu hlutverki í myndun sortuæxla. Því fer þó fjarri að þau markgen sem nú eru þekkt útskýri að fullu hlutverk Mitf í þroskun litfruma og sortuæxla. Hér var ætlunin að leita allra markgena Mitf umritunarþáttarins.

Efniviður og aðferðir:Notast var við tveggja-þrepa gena-
tjáningarrannsókn til að finna markgen Mitf umritunarþáttarins í sortuæxlum. Í fyrra skrefinu voru gögn um tjáningu gena í sortuæxlum greind til að finna gen sem alltaf fylgja (correlate with) tjáningu Mitf í sýnunum. Í seinna skrefinu var genatjáning borin saman milli Skmel28 melanoma fruma (sem ekki tjá Mitf genið) og Skmel28 frumna sem stöðugt tjá Mitf. Að lokum voru genalistarnir tveir bornir saman til að finna gen sem líklega er stjórnað af Mitf.

Niðurstöður: Með þessari aðferð fundum við 84 gen sem eru líkleg markgen Mitf umritunarþáttarins (p<10-13). Meðal þessara gena eru 13 gen sem þegar eru þekkt sem Mitf markgen en þetta eru um helmingur þekktra markgena Mitf í litfrumum og sortuæxlum.

Ályktanir:Niðurstöður benda til þess að aðferð okkar hafi virkað og genin 71 sem eftir standa séu raunveruleg markgen Mitf. Meðal þessara nýju gena eru gen sem hafa verið tengd við starfsemi litfrumna. Við erum nú að skoða nokkur þessara gena nánar til að ákvarða hvort þau séu raunverulega undir stjórn Mitf í litfrumum og sortuæxlum.

  

 

[3]             

 

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica