Ávarp

Ávarp

Ráðstefna um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands er nú haldin í 14. sinn. Hún hefur fest í sessi sem ein helsta ráðstefna hér innanlands um rannsóknir á þessum sviðum og hefur þróun hennar undanfarna áratugi verið skólanum og aðstandendum ráðstefnunnar mjög til sóma. Að henni standa nú læknadeild, tannlæknadeild, lyfjafræðideild, hjúkrunarfræðideild, matvæla- og næringarfræðideild og sálfræðideild, námsbrautir í sjúkraþjálfun, geisla- og lífeindafræði, Miðstöð í lýðheilsuvísindum, og Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum. Umsjón hefur eins og fyrr Vísindanefnd læknadeildar og fulltrúar annarra deilda, námsbrauta og stofnana við Háskóla Íslands. Ráðstefna er nú haldin undir merkjum nýs heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands sem var ýtt úr vör nú í haust.

Með skiptingu Háskóla Íslands í fimm fræðasvið er grunnur lagður að mikilsverðri og metnaðarfullri breytingu sem er mikið tækifæri til eflingar háskólans, aukins samstarfs innan sviða og deilda og skýrrari sýnar á markmið skólans. Markmið heilbrigðisvísindasviðs er ljóst, að mennta áfram færa heilbrigðisstarfsmenn á Íslandi. Þar þarf að líta til þess að þeir verði mjög hæfir til að sinna hinu fjórþætta hlutverki heilbrigðiskerfisins, þjónustu við veikt fólk, rannsóknum, kennslu og loks samfélagslegu hlutverki þess. Meginhugsun að baki sviðinu er samvinna þeirra sem sinna sjúku fólki. Heilbrigðismálum er ekki lengur sinnt af einyrkjum, heldur er henni yfirleitt sinnt af hópum, með teymisvinnu. Gildir þetta jafnt um þjónustu, kennslu og rannsóknir.

Háskólinn hefur sett sér háleitt markmið af miklum metnaði, að setjast að borði með hinum bestu og verða einn af 100 bestu háskólum í veröldinni. Ein af meginforsendum þess að slíkt takist er öflugt starf að rannsóknum. Ef horft er til framlags þeirra sem starfa innan þeirra deilda sem nú mynda heilbrigðisvísindasvið er ljóst að menn hafa ekki látið sitt eftir liggja, fjöldi greina í alþjóðlegum tímaritum og tilvitnanar í þau hefur aukist ár frá ári. Þar hefur samvinna við Landspítala og rannsóknastofnanir á borð við Íslenska erfðagreiningu og Hjartavernd vegið þungt. Einar Ólafur Sveinsson heitinn prófessor sagði einhvern tímann að „afrek gera yfirlæti óþarft“, og verða því ekki höfð fleiri orð um þetta hér. Hins vegar er ljóst að verði haldið áfram á sömu braut og slegið í frekar en hitt munu líkur skólans á því að ná settu marki aukast mjög.

Hvað þarf þá til að svo verði? Ýmislegt má nefna þó ekkert sé einhlítt. Auka þarf aðgang að styrkfé með eflingu samkeppnissjóða hér innanlands. Efla þarf rannsóknahópa, ekki síst þverfaglega, en það er ef til vill ein besta leið til að greiða götu öflugra vísindamanna og auðvelda leið þeirra til öflunar styrkja hérlendis og erlendis, eins og dæmin sanna. Ánægjuleg fjölgun hefur orðið á doktors- og meistaranemum undanfarin ár og miklu skiptir að framhald verði á. Ennfremur þurfum við að fjölga tækifærum fyrir unga vísindamenn, meðal annars með fleiri störfum til handa nýdoktorum.

Heilbrigðisvísindasviðið nýja vill leggja sitt af mörkum til að greiða þessa götu og lítur svo á að þetta sé eitt af meginmarkmiðum þess. Samvinna við Landspítala býður upp á þróun rannsóknaþjónustu sem rekin yrði sameiginlega af báðum stofnunum. Hún annaðist sameiginlega starfsemi og þjónustu við rannsóknastofnanir, einstaka vísindamenn, rannsóknanema  og öndvegissetur. Í þessu skjóli getur líka þróast öflugri umsýsla með og samvinna um rannsóknatengt framhaldsnám (graduate school).

Ráðstefnan er vegleg að vanda. Nú bárust á fjórða hundrað ágrip til ráðstefnunnar, mun fleiri en fyrir tveimur árum. Þau verða kynnt í erindum og á veggspjöldum. Sex gestafyrirlesarar flytja erindi. Ráðstefnan sækir áfram í sig veðrið að gæðum og fjölbreytni. Hún er nú haldin í nýju glæsilegu húsnæði skólans, Háskólatorgi, sem veitir öflugu efni verðuga umgjörð. Veittar verða viðurkenningar fyrir þau erindi eða veggspjöld sem þykja skara fram úr. Ráðherrar menntamála og heilbrigðismála munu hvor um sig veita verðlaun, svo og munu verðlaun verða veitt úr sjóði Þorkels Jóhannessonar, prófessors emeritus.

Birna Þórðardóttir er nú framkvæmdastjóri ráðstefnunnar í sjötta sinn. Henni eru þökkuð frábær störf. Jafnframt eru Vísindanefnd færðar sérstakar þakkir fyrir mikið og fórnfúst starf að undirbúningi ráðstefnunnar nú sem endranær.

Vonast er til þeir sem sæki ráðstefnuna njóti vel þess sem fram fer ráðstefnudagana tvo. Fólk er eindregið hvatt til að koma og kynna sér það sem fram fer. Vegur ráðstefnunnar stendur og fellur með tvennu, því sem á borð er borið og þeim sem koma til að læra, vega og meta.

 

Sigurður Guðmundsson,

forseti heilbrigðisvísindasviðs HÍ

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica