Ávarp

Ávarp

Runólfur Pálsson      Velkomin á XVIII. þing Félags íslenskra lyflækna á Selfossi

          

        Runólfur Pálsson

        læknir

        formaður Félags

        íslenskra lyflækna

         

Kæru félagar.        

Fyrir hönd stjórnar Félags íslenskra lyflækna býð ég ykkur velkomin á XVIII. vísindaþing félagsins sem fer fram á Hótel Selfossi, 6.-8. júní 2008. Þessi þing hafa í meira en þrjá áratugi verið mikilvægur vettvangur fyrir lyflækna hér á landi til að kynna vísindarannsóknir sínar og skiptast á skoðunum um áhugaverð málefni á sviði lyflækninga eða heilbrigðismála. Óhætt er að segja að þingin hafi verið í stöðugri framþróun undanfarin ár. Til að mæta auknum faglegum gæðum hefur stjórn Félags íslenskra lyflækna lagt sérstaka áherslu á að öll aðstaða sé góð. Fullnægjandi aðstaða er ekki fyrir hendi nema í Reykjavík og næsta nágrenni og því hefur verið horfið frá því um sinn að halda þingin fjarri höfuðborgarsvæðinu eins og tíðkast hefur í gegnum árin. Raunar var kannað hvort fýsilegt væri að halda þingið í Reykjavík að þessu sinni en það reyndist of kostnaðarsamt og því varð Selfoss fyrir valinu eins og fyrir tveimur árum.

Dagskrá þingsins er sérlega glæsileg að þessu sinni og ætti að höfða til breiðs hóps lyflækna og annarra áhugasamra um lyflæknisfræði. Meginþemað er blóðsjúkdómar og krabbamein en að auki verða ýmis önnur viðfangsefni krufin til mergjar. Meðal þess sem ber hæst er málþing um blóðsjúkdóma og er það tileinkað minningu læknanna Jóhönnu Björnsdóttur og Guðmundar M. Jóhannessonar, sérfræðinga í blóðlækningum. Meðal fyrirlesara á málþinginu verður dr. Cynthia Dunbar frá National Institutes of Health í Bandaríkjunum en hún er aðalritstjóri tímaritsins Blood og mun erindi hennar fjalla um genalækningar. Enn fremur verður málþing um nýjungar í lyfjameðferð krabbameina og verður meðal annars skipst á skoðunum um notagildi nýrra lyfja og þann mikla kostnað þau geta haft í för með sér. Þá verður kastljósi beint að lifrarlækningum og mun Roger Williams, CBE, prófessor við Royal Free and University College Medical School í Bretlandi, einn virtasti sérfræðingur heims á þessu sviði, flytja erindi sem meðal annars fjallar um þróun þessarar „nýju“ og ört vaxandi sérgreinar innan lyflækninga. Að venju verður kynning vísindarannsókna stór þáttur og hefur vísindanefnd félagsins samþykkt 74 ágrip til kynningar á þinginu, ýmist með erindi eða veggspjaldi. Veitt verða verðlaun fyrir framúrskarandi rannsókn ungs læknis og fyrir besta framlag læknanema.

Í tengslum við síðasta þing var bryddað upp á þeirri nýjung að hafa sérstaka dagskrá fyrir unga lækna sem stunda eða hyggja á framhaldsnám í lyflækningum og þótti það heppnast vel. Ákveðið hefur verið að halda áfram á þessari braut og verður formleg dagskrá fyrir unga lækna við upphaf þingsins. Þar munu deildarlæknarnir Jónas Geir Einarsson og Ragnar Freyr Ingvarsson greina frá þátttöku sinni í Evrópska lyflæknaskólanum (European School of Internal Medicine) í september á síðastliðnu ári. Einnig mun sérstakur gestur, Roger W. Duckitt, ritari Young Internists Group, innan vébanda European Federation of Internal Medicine, kynna helstu málefni ungra lyflækna í Evrópu. Loks verða flutt yfirlitserindi um áhugaverð og hagnýt efni.

Að venju verður efnt til vandaðrar skemmtidagskrár í tengslum við þingið. Ég vil vekja sérstaka athygli á hátíðarkvöldverði laugardaginn 7. júní þar sem lyf- og blóðlæknirinn Páll Torfi Önundarson mun sjá um vandaða tónlistardagskrá ásamt landsþekktum tónlistarmönnum. 

Að vanda hefur Birna Þórðardóttir hjá Menningarfylgd Birnu annast skipulag og undirbúning þingsins í samvinnu við stjórn Félags íslenskra lyflækna. Þetta samstarf hefur verið einkar gott og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka Birnu fyrir störf hennar í þágu  Félags íslenskra lyflækna í gegnum árin. Lyfjafyrirtækið Vistor er aðalstyrktaraðili þingsins í ár eins og fyrir tveimur árum. Færi ég þeim og öðrum stuðningsaðilum okkar bestu þakkir.   

Hittumst heil á Selfossi.

 






Þetta vefsvæði byggir á Eplica