Ágrip veggspjalda

Ágrip veggspjalda

V 1       Ábendingar og árangur meðferðar með ECMO-dælu á Íslandi 1991-2007

Þorsteinn H. Ástráðsson1, Bjarni Torfason2,3, Tómas Guðbjartsson2,3, Líney Símonardóttir2, Felix Valsson1

1Svæfinga- og gjörgæsludeild, 2hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 3læknadeild HÍ

steini30@gmail.com, felix@landspitali.is

Inngangur: ECMO (ExtraCorporeal Membrane Oxygenation)-dæla hefur í rúma þrjá áratugi verið eitt af meðferðarúrræðum við mjög svæsinni öndunar- og/eða hjartabilun. Dælan er þá notuð til að veita blóði úr stórri bláæð í loftskiptatæki (gervilunga) og þaðan aftur í blá- eða slagæðakerfi sjúklings. Erlendis hefur góður árangur náðst við ECMO-meðferð nýbura en hjá fullorðnum eru ábendingar óljósari og árangur lakari. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna árangur ECMO-meðferðar hjá fullorðnum á Íslandi á árunum 1991-2007.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturvirk og náði til allra tilfella þar sem ECMO-meðferð hefur verið beitt hér á landi. Upplýsingar um sjúklinga fengust úr sjúkraskrám Landspítala.

Niðurstöður: Átján sjúklingar hafa verið meðhöndlaðir með ECMO-dælu. Níu þessara sjúklinga voru með svæsna öndunarbilun, oftast vegna lungnabólgu (n=4) og níu höfðu hjartabilun, oftast vegna kransæðastíflu (n=4). Heildarlifun var 56%. Lifunin var 56% hjá bæði sjúklingum með öndunarbilun og hjartabilun. Konurnar fimm lifðu allar en átta af 13 körlum létust. Sjúklingar með öndunarbilun sem lifðu af ECMO-meðferðina voru 5,2 daga í öndunarvél áður en meðferðin hófst samanborið við 9,8 daga hjá þeim sem ekki lifðu meðferðina. Tveir sjúklingar hlutu alvarlegar blæðingar sem að hluta til mátti rekja til blóðþynningar í tengslum við ECMO-meðferðina og lést annar þeirra.

Ályktanir: Árangur af notkun ECMO-dælu á Íslandi telst vera góður og stenst vel erlendan samanburð. Rúmur helmingur sjúklinga hér á landi lifir af meðferðina. Yngri sjúklingum virðist farnast heldur betur sem og þeim sem eru stutt í öndunarvél áður en ECMO-meðferð er hafin. Í öllum tilvikum var ECMO-dæla síðasta meðferðarúrræðið og telja höfundar að án hennar hefðu allir sjúklingar látist. Við teljum því að gildi þessarar meðferðar hér á landi hafi verið staðfest.

 

V 2        Kviðarholsháþrýstiheilkenni í kjölfar ECMO meðferðar eftir bráða ósæðarlokuskiptaaðgerð. Sjúkratilfelli

Haraldur Már Guðnason1, Guðjón Birgisson2, Alma Möller3,5, Kári Hreinsson3, Helgi K. Sigurðsson2, Davíð O. Arnar4,5, Tómas Guðbjartsson1,5

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2almenn skurðdeild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild,  4hjartadeild Landspítala, 5læknadeild HÍ

hstudmed@gmail.com

Inngangur: Kviðarholsháþrýstiheilkenni (abdominal compartment syndrome) er skilgreint sem kviðarholsþrýstingur >20 mmHg og einkennist af skertu blóðflæði til hjarta, lungna og líffæra í kviðarholi. Heilkennið sést einkum hjá sjúklingum með kviðarholsáverka og eftir stórar kviðarholsaðgerðir. Í alvarlegum tilfellum er dánarhlutfall mjög hátt (>50%). Hér er greint frá tilfelli af alvarlegu tilfelli kviðarholsháþrýstiheilkennis í kjölfar bráðrar hjartaaðgerðar.

Sjúkratilfelli: Fjörutíu og sex ára kona með þekkta ósæðarlokuþrengingu leitaði á bráðamóttöku með brjóstverk. Þar fer hún endurtekið í hjartastopp sem ekki svarar rafstuði og er því flutt á skurðstofu þar sem hjartað er hnoðað beint, hún tengd við hjarta- og lungnavél og skipt um ósæðarloku. Í aðgerðinni sem tók 18 klukkustundir var dæluvirkni hjartans afar léleg og varð því að hvíla hjartað með því að koma fyrir ECMO (ExtraCorporeal Membraneous Oxygenation) -dælu úr hægri gátt yfir í ósæð. Nokkrum klukkustundum síðar þandist kviðurinn út og mældist þrýstingur í þvagblöðru 27 mm Hg. Kviðarholið var opnað og lækkaði þrýstingurinn strax í eðlileg gildi. Kviðurinn var skilinn eftir opinn í sólarhring og síðan lokað með sárasogsvampi. ECMO-meðferðin tók alls átta daga. Á þeim tíma fékk konan í fjölkerfabilun. Í kjölfarið greindist hjá henni drep í maga og görnum og þurfti að nema á brott þriðjung magans. Sárasogsvampi var beitt áfram og smám saman var hægt að loka kviðarholinu. Fjölkerfabilun gekk yfir og útskrifaðist hún á legudeild eftir 108 daga á gjörgæslu. Heildarblæðing var 44 lítrar og gekkst hún undir 38 skurðaðgerðir, flestar á kviðarholi. Fjórum mánuðum frá upphaflegu hjartaaðgerðinni er konan á góðum batavegi.

Umræða: Kviðarholsháþrýstiheilkenni er lífshættulegt fyrirbæri sem mikilvægt er að hafa í huga hjá gjörgæslusjúklingum. Auðvelt er að greina það með þrýstimælingu í þvagblöðru og meðferð felst yfirleitt í að opna kviðarholið og létta þannig á þrýstingnum. Í þessu tilfelli voru orsakir heilkennisins sennilega margþættar, meðal annars bjúgur í görnum vegna langrar hjartaaðgerðar og ECMO-meðferðar, mikil vökvagjöf og blæðing í aftanskinurými.

 

V 3        Sjálfsprottið loftmiðmæti í kjölfar jógaæfinga. Sjúkratilfelli

Einar Hafberg1, Gunnar Guðmundsson2,4, Tómas Guðbjartsson3,4

1Slysa- og bráðadeild, 2lungnadeild, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 4læknadeild HÍ

hafberg@gmail.com

Inngangur: Sjálfsprottið loftmiðmæti (spontanteous pneumomediastinum) er skilgreint sem óeðlileg loftsöfnun í miðmæti án augljóss orsakavalds (til dæmis sýkingar eða áverka). Um er að ræða sjaldgæfan kvilla sem aðallega greinist í annars hraustum karlmönnum. Oftast þarf enga sérstaka meðferð og horfur eru góðar. Hér er lýst einstæðu tilfelli af Landspítala.

Sjúkratilfelli: Áður hraustur 23 ára karlmaður leitaði á slysadeild Landspítala vegna brjóstverkja sem versnuðu við innöndun og komu skyndilega tæpum 10 klukkustundum áður þegar hann var í svokölluðu Ashtanga-jóga. Var hann þá í bakfettu og andaði um leið í gegnum nefið með lokað spjaldbrjósk. Þetta kallast ujjayi-öndun og er eins konar afbrigði af svokallaðri valsalva-öndun. Hann var ekki veikindalegur við komu og lífsmörk eðlileg. Ekki sást loft undir húð og hlustun á lungum var eðlileg. Hins vegar heyrðust skruðningsóhljóð yfir hjarta. Bæði hjartalínurit og hjartaómun reyndust eðlileg. Á röntgenmynd af lungum sást loft í miðmæti og loftrönd í hægra hluta gollurshúss. Verkirnir héldu áfram og sjö klukkustundum eftir komu voru fengnar tölvusneiðmyndir af brjóst- og kviðarholi. Þar sást loftið í miðmætinu betur og umlukti það vélindað. Einnig sást loftrönd í gollurshúsi en ekki loftbrjóst eða merki um fleiðru- og/eða gollurshússvökva. Tæpum hálfum sólarhring frá komu var gerð skuggaefnisrannsókn af vélinda og maga sem var eðlileg. Smám saman rénaði verkurinn og sólarhring síðar var hann útskrifaður nánast verkjalaus. Skoðun þremur dögum síðar var eðlileg og röntgenmynd af lungum sýndi minna loft í miðmæti, sérstaklega vinstra megin. Nú rúmu hálfu ári síðar er hann við góða heilsu. Ekki hefur borið á endurteknum einkennum þrátt fyrir áframhaldandi iðkun jóga.

Umræða: Loftmiðmæti getur greinst án áverkasögu, jafnvel eftir iðkun jóga eins og í þessu tilviki. Slíku tilfelli hefur aðeins verið lýst einu sinni áður.

Ályktun: Þetta tilfelli sýnir mikilvægi þess að rannsaka einstaklinga með brjóstverki ítarlega til að finna orsakir.

 

V 4        Sjálfsprottið loftbrjóst báðum megin samtímis vegna lungnameinvarpa eistnakrabbameins. Sjúkratilfelli

Gígja Guðbrandsdóttir1, Ásgerður Sverrisdóttir2, Adolf Þráinsson3, Guðmundur Vikar Einarsson1, Tómas Guðbjartsson4,5

1Þvagfæraskurðdeild, 2krabbameinslækningadeild, 3myndgreiningardeild, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 5læknadeild HÍ

gigjag@hotmail.com

Inngangur: Sjálfsprottið loftbrjóst er algengur sjúkdómur sem í 2-4% tilvika getur greinst báðum megin samtímis (simultaneous bilateral spontaneous pneumothorax, SBPS). Er þá oftast um lífshættulegt ástand að ræða, enda langflestir þessara sjúklinga með langvinna lungnasjúkdóma, til dæmis lungnaþembu og herpusjúkdóma. Í einstaka tilfellum getur SBPS greinst í sjúklingum með aðra sjúkdóma í lungum, oftast krabbamein. Hér er lýst ungum manni með SBSP vegna lungnameinvarpa eistnakrabbameins.

Sjúkratilfelli: Átján ára karlmaður leitaði á bráðamóttöku Landspítala með tveggja daga sögu um mæði og brjóstverk. Hann hafði aldrei reykt en sex mánuðum áður hafði hann greinst með eistnakrabbamein (non-seminoma) með meinvörpum í heila, augum, aftanskinurými og báðum lungum. Hægra eista var fjarlægt og gefin lyfjameðferð með bleomýcíni, etoposíði og cisplatíni. Sjúkdómurinn í lungum svaraði meðferð mjög vel. Fjórum mánuðum síðar voru merki um stækkun meinvarpa í heila og var þá lyfjameðferð breytt í etoposíð, ifosfamíð auk cisplatíns. Þar að auki var beitt tveggja mánaða geislameðferð á höfuð og háskammtasterameðferð (prednisólon) sem hann hafði nýlokið við þegar hann kom á bráðamóttöku. Þar var hann einkennalítill í hvíld, „cushingoid“, með öndunartíðni 28, SO2 97% án súrefnis, blóðþrýstingur 136/86 og púls 120. Öndunarhljóð voru minnkuð beggja vegna og á lungnamynd og tölvusneiðmynd af lungum sást loftbrjóst beggja vegna, með 48% samfalli á hægra lunga og 51% á því vinstra. Komið var fyrir brjóstholskera beggja vegna og tveimur dögum síðar, þegar loftleki hafði stöðvast, var gerð fleiðruerting (pleurodesis) með mepacrine (alls fjórir skammtar hvoru megin á fjórum dögum) sem hann þoldi vel. Einkenni gengu til baka, brjóstholskerar voru fjarlægðir tveimur dögum síðar og síðan hafin ný lyfjameðferð. Stuttu eftir útskrift greindust lifrarmeinvörp og heilameinvörpin reyndust stækkandi. Lést hann úr þeim tæpum tveimur mánuðum síðar.

Umræða: SBPS getur greinst hjá sjúklingum með lungnameinvörp eistnakrabbameins. Um er að ræða afar sjaldgæft fyrirbæri og er orsök loftlekans talin blæðing inn í meinvarp aðlægt fleiðru eða drep, til dæmis eftir krabbameinslyfjameðferð. Athyglisvert er hversu lítil einkenni þessi sjúklingur hafði í hvíld, jafnvel þótt stór hluti beggja lungna væri samanfallinn.

 

V 5        Miðaldra reykingamaður með risablöðru í lunga. Sjúkratilfelli

Hilmir Ásgeirsson1, Dóra Lúðvíksdóttir1, Ólafur Kjartansson2, Tómas Guðbjartsson3,4

1Lungnadeild, 2myndgreiningardeild, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 4læknadeild HÍ

hilmirasg@yahoo.com

Inngangur: Risablaðra í lunga (giant bulla) er þunnveggja loftfyllt rými sem nær yfir meira en þriðjung lungans. Fyrirbærið er sjaldgæft og orsökin eyðing og þensla á lungnavef líkt og sést í lungnaþembu. Í blöðrunum er lítið loftflæði og taka þær lítinn þátt í loftskiptum. Með vaxandi stærð blöðrunnar finna sjúklingar fyrir mæði og hætta á fylgikvillum eins og blæðingum, sýkingum og loftbrjósti eykst. Því getur þurft að fjarlægja risablöðrur með skurðaðgerð.

Sjúkratilfelli: Fjörutíu og níu ára stórreykingamaður var greindur á lungnamynd með risastóra blöðru í hægra lunga. Hann hafði þriggja mánaða sögu um endurteknar efri loftvegasýkingar, þurran hósta og vaxandi mæði. Hann var áður hraustur og hafði ekki fyrri sögu um lungnasjúkdóma. Á tölvusneiðmynd sást að blaðran var 17 cm í þvermál og var staðsett í neðra blaði en þrýsti á efra og miðblað. Auk þess sáust minni blöðrur miðlægt í efra blaði en vinstra lunga var eðlilegt að sjá. Rúmmál blaðranna mældist 3,2 L á tölvusneiðmynd. Með því að bera saman lungnarúmmálsmælingar með tveimur mismunandi aðferðum, þrýstingsaðferð (heildarlungnarúmmál) og þynningaraðferð (lungnarúmmál með virku loftflæði), var rúmmál blaðranna áætlað 2,9 L. Á blástursprófi sást talsverð herpa en þó með blandaðri mynd. Vegna einkenna sjúklings og stærðar blaðranna var ákveðið að taka sjúkling í aðgerð. Risablaðran var fjarlægð í heild sinni með leifum neðra blaðs (lobectomy) en blöðrurnar í efra blaði voru fjarlægðar með fleygskurði (bullectomy). Bati eftir aðgerð var góður. Fjórum mánuðum síðar er hann við góða heilsu og kominn til vinnu. Öndunarmælingar eftir aðgerð sýna verulega bætta öndunarstarfsemi.

Ályktanir: Tilfellið sýnir að hægt er að lækna risablöðrur í lunga með skurðaðgerð og að hægt er að mæla rúmmál blaðranna með bæði myndgreiningarrannsóknum og öndunarmælingum.

 

V 6        Broddblöðruheilkenni. Sjúkratilfelli

Guðný Stella Guðnadóttir1, Hannes Sigurjónsson1, Þorbjörn Guðjónsson1,4, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir2, Maríanna Garðarsdóttir3, Ragnar Danielsen1, Karl Andersen1,4

1Hjartadeild, 2efnaskipta- og innkirtladeild, 3myndgreiningadeild Landspítala, 4læknadeild HÍ

gudnystella@yahoo.com

Inngangur: Broddblöðruheilkenni (Apical Ballooning Synd-rome) er hjartasjúkdómur sem nýlega hefur verið lýst. Broddblöðruheilkenni einkennist af bráðri afturkræfri truflun á samdrætti í miðhluta og broddi vinstri slegils sem leiðir til útþenslu brodds í slagbili. Einkenni og teikn hjá sjúklingunum benda til bráðs kransæðasjúkdóms en ekki finnast marktækar þrengingar við kransæðaþræðingu sem útskýra einkenni sjúk-lings. Samdráttartruflunin gengur til baka á fáeinum dögum.

Sjúkratilfelli: Í desember 2007 voru þrjár konur greindar með broddblöðruheilkenni á 10 daga tímabili á Landspítala. Allar höfðu vægar hækkanir á hjartaensímum, nýjar ST-breytingar, tímabundna hreyfiskerðingu á vinstri slegli samkvæmt hjarta-ómun auk þess sem þær höfðu verið undir miklu álagi. Tvær konur höfðu ekki marktækar breytingar á kransæðum. Þriðja konan var með marktækt þrengda hægri kransæð en einkenn-andi útlit fyrir broddblöðruheilkenni við hjartaómskoðun auk fyrrnefndra ST-breytinga. Hún þróaði síðar djúpar T-bylgjur í öllum leiðslum á hjartalínuriti.

Umræða: Meingerð broddblöðruheilkennis er óþekkt en nokkrar tilgátur hafa verið settar fram. Offramleiðsla katekólamína er ein þeirra. Katekólamín geta valdið kransæðaherpingi, truflun á æðaþeli og haft neikvæð áhrif á hjartavöðvafrumur. Einstaklingar með broddblöðruheilkenni hafa aukið magn kate-
kólamína og neurópeptíða. Þekkt er að sjúkdómar sem hafa áhrif á magn katekólamína geta valdið tímabundinni truflun á starfsemi vinstri slegils. Konur eru í miklum meirihluta þeirra sem fá broddblöðruheilkenni. Tilraunir með estrógengjöf hafa sýnt minnkaða virkni í sympatíska taugakerfinu.

Ályktanir: Lýst er fyrstu þremur tilfellum á Íslandi með broddblöðruheilkenni, áður óþekktum sjúkdómi hér á landi. Mikilvægt er að læknar hafi hann í huga við skoðun kvenna með einkenni bráðs kransæðaheilkennis sem ekki reynast hafa marktækar þrengingar við kransæðamyndatöku.

 

V 7        Rof á vélinda er oftast fylgikvilli læknisinngripa. Afturskyggn rannsókn á Landspítala

Halla Viðarsdóttir1, Sigurður Blöndal2, Hörður Alfreðsson1, Tómas Guðbjartsson1,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2skurðlækningadeild Landspítala, 3læknadeild HÍ

hallavi@landspitali.is

Inngangur: Rof á vélinda er sjaldgæfur og oft lífshættulegur kvilli sem getur verið sjálfsprottinn eða komið eftir áverka. Meðferð er langoftast fólgin í skurðaðgerð þar sem reynt er að hefta útbreiðslu sýkingar í miðmæti og blóðeitrun sem oft fylgir í kjölfarið. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna orsakir og faraldsfræði rofs á vélinda og hvaða meðferð var beitt á Landspítala á 28 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum með rof á vélinda 1980-2007. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og miðuðust útreikningar á lifun (hráar tölur) við 31. desember 2007 en meðaleftirfylgni var 69 mánuðir.

Niðurstöður: Alls greindust 27 sjúklingar, meðalaldur 62 ár (bil sjö mánaða til 90 ára), 15 karlar. Orsök var af læknisvöldum í 14 tilvikum (54%), oftast eftir vélindavíkkun (n=7) og maga-speglun (n=3). Sjálfkrafa rof greindist hjá átta sjúklingum (31%) og fjórir (15%) höfðu rof vegna aðskotahlutar. Rof á brjóstholshluta vél-inda greindist hjá 18 sjúklingum (75%), hjá þremur í kviðarhols- (13%) og þremur (13%) í hálshluta. Sjúkdómur í vélinda var til staðar hjá 12 sjúklingum, langoftast þrenging. Af 27 sjúklingum greindust fimm við krufningu, 10 fengu eingöngu sýklalyfja-meðferð, og fjórir fengu að auki brjósholskera en þurftu síðar í brjóstholsaðgerð. Alls fóru því 15 sjúklingar í opna skurðaðgerð, þar sem miðmætið var opnað og lagðir inn brjóstholskerar. Í átta tilfellum var að auki lögð út stómía á maga og komið fyrir næringarlegg í smágirni. Þrír sjúklingar fengu T-kera í vélinda og í fimm tilfellum var saumað yfir rofið. Átta sjúklingar fengu alvarlega fylgikvilla og fimm þurftu enduraðgerð. Alls lágu 16 sjúklingar á gjörgæslu og miðgildi legutíma voru fjórir dagar (bil 1-41). Heildarlegutími voru 16 dagar (bil 9-83). Af 27 einstaklingum eru 16 á lífi og mældist eins og fimm ára lifun 81 og 65%. Fimm einstaklingar létust af völdum rofs á vélinda (19%).

Ályktanir: Tíðni vélindarofs virðist svipuð hér á landi og í nágrannalöndum okkar. Rofið er oftast af læknisvöldum og staðsett í brjóstholshluta vélinda. Stór hluti sjúklinganna (19%) deyr eftir vélindarof.


 

V 8        Aðgerð á Zenkers sarpi með sveigjanlegri holsjá. Tvö sjúkratilfelli

Jón Örvar Kristinsson

Meltingardeild Landspítala

jonorvar@internet.is

Inngangur: Zenkers sarpur (ZS) (Zenkers diverticulum) er algengasta tegund sarpa í efri hluta meltingarvegar. Meirihluti sjúklinga er eldri en 70 ára við greiningu, heldur fleiri karlar en konur. Helstu einkenni eru kyngingarerfiðleikar, hósti, tilfinning um aðskotahlut í koki eða vélinda og bakflæði á fæðu í munn. Alvarlegir fylgikvillar geta verið ásvelging með endurteknum lungnabólgum og vannæring.

Sjúkratilfelli: Um er að ræða tvö tilfelli þar sem framkvæmdar voru í fyrsta skipti á Íslandi aðgerðir á ZS með sveigjanlegri holsjá. Fyrra tilfellið er 87 ára gömul kona með háþrýsting og byrjandi elliglöp. Hún var innlögð vegna endurtekinnar lungnabólgu beggja vegna sem talin var vera vegna ásvelgju. Saga var um hægt versnandi kyngingarerfiðleika og hafði hún að mestu nærst á fljótandi fæðu síðastliðinn tvö ár og lést um rúm 10 kg. Framkvæmd var kyngingarrannsókn með skuggaefni og kom í ljós stór (6 cm) ZS. Var henni ekki treyst í aðgerð í svæfingu en ákveðið að gera aðgerð í holsjá. Eftir aðgerð gat hún nærst á eðlilega hátt og líkamsþyngd tók að aukast. Seinna tilfellið er 71 árs gamal karlmaður með sögu um vanstarfsemi á skjaldkirtli, kransæðasjúkdóm og væga langvinna nýrnabilun. Síðastliðin fimm ár hafði hann hægt vaxandi kyngingarerfiðleika og var farinn að sneiða hjá ákveðinni fæðu en þyngd var þó stöðug. Hann hafði orðið stöðuga tilfinningu um aðskotahlut í hálsi, bakflæði á fæðu í munn og hósta. Röntgenrannsókn leiddi í ljós 4 cm stóran ZS. Holsjáraðgerð var gerð og gekk án fylgikvilla. Einkenni hurfu eftir aðgerð.

Umræða: Hingað til hafa aðgerðir á ZS á Íslandi verið framkvæmdar í opnum aðgerðum á hálsi eða með stífum holsjám í svæfingu. Víða erlendis hefur frá árinu 1995 færst í vöxt að þess-
ar aðgerðir séu framkvæmdar með sveigjanlegum holsjám þar sem sjúklingi eru gefin róandi lyf. Kostur þessarar aðferðar er að komast má hjá svæfingu auk þess sem aðgerðin er einföld og innlagnar á sjúkrahús í mörgum tilfellum ekki þörf. Oft eru þess-
ir sjúklingar mjög aldraðir og algengt að þeir þjáist af öðrum sjúkdómum sem gerir svæfingu og aðgerð áhættusama.


V 9        Afnæmingarmeðferð á Íslandi 1977-2006

Yrsa B. Löve1, Björn Rúnar Lúðvíksson1, Davíð Gíslason1, Unnur Steina Björnsdóttir2, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir1, Inga Skaftadóttir1

1Landspítali, 2

yrsa@landspitali.is

Inngangur: Tíðni ofnæmis hefur farið ört vaxandi á síðustu áratugum. Afnæmingarmeðferð (specific immunotherapy, SIT) er eina meðferðin sem mögulega er talin geta læknað ofnæmi varanlega. Meðferðin hefur tíðkast á Íslandi í um þrjá áratugi. Samantekt á fjölda einstaklinga sem fengið hafa afnæmingarmeðferð og á árangri meðferðarinnar á Íslandi hefur ekki áður verið gerð. Meðferðin felst í því að gefnar eru sprautur sem inni- halda lausn með ofnæmisvakanum í. Lausnin er gefin undir húð í vaxandi skömmtum þar til viðhaldsskammti er náð en þá tekur við viðhaldsmeðferð sem gefin er á sex vikna fresti og stendur í um þrjú ár.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin nær til allra sem fengið hafa afnæmingarmeðferð á göngudeild ofnæmis á Landspítala. Upplýsingar voru sóttar í sjúkraskrár og tölvukerfi Landspítala. Heildarfjöldi, kyn og aldur við upphaf meðferðar var skráð samkvæmt upplýsingum úr sjúkraskrá.

Niðurstöður: Á 30 ára tímabili, 1977-2006, fengu alls 289 einstaklingar afnæmingarmeðferð á göngudeildinni. Af þeim voru 164 karlar (57%) og 125 konur (43%). Aldursskipting hópsins var þannig að flestir hófu meðferð á aldrinum 11-20 ára (138, eða 48,6%), því næst á aldrinum 21-30 ára (84 eða, 29,6%) og 31-40 ára (39, eða 13,7%). Fimm voru 10 ára og yngri. Einn var yfir fimmtugu. Nánast allir fengu meðferð vegna grasofnæmis.

Ályktanir: Afnæmingarmeðferð við ofnæmissjúkdómum er viðurkennd aðferð til meðhöndlunar á ofnæmi og hefur fest sig í sessi hér á landi. Hún er mest notuð meðal unglinga og ungra fullorðinna, sem samrýmist vel gangi ofnæmissjúkdóma, en þeir valda mestum einkennum hjá þessum sömu aldurshópum. Hærra hlutfall karla en kvenna fékk meðferðina. Tíðni ofnæmis er heldur hærri hjá drengjum en stúlkum, en þessi munur eyðist er kemur fram á fullorðinsár.

 

V 10      Bælivirkni TGF-b1 og anti-TNFatengist bælingu á helstu hjálparviðtökum T-frumna

Brynja Gunnlaugsdóttir1,2,3, Laufey Geirsdóttir1, Björn Rúnar Lúðvíksson1,3

1Ónæmisfræðideild, 2rannsóknarstofu í gigtsjúkdómum Landspítala, 3læknadeild HÍ

brynja@landspitali.is bjornlud@landspitali.is

Inngangur: Boðefnið Transforming growth factor beta1 (TGF-b1) mótar ræsingu og sérhæfingu T-frumna. Almennt eru áhrifin ónæmisbælandi en bælivirknin minnkar ef T-frumur fá boð um að ónæmisvakinn sé hættulegur (danger signal). Ekki er vitað hvort og þá hvernig TGF-b1 hefur áhrif á samskipti T-frumna við sýnifrumur. Stöðugleiki þessara samskipta ræðst af innlimun helstu lykilsameinda og himnufleka inn í snertiflötinn sem nefnist immunological synapse (IS). Rannsóknartilgátan er sú að TGF-b1 hamli gegn uppbyggingu og/eða virkni IS og að boð sem miðla hættuboðum til T-frumna vinni gegn þessum áhrifum TGF-b1.

Efniviður og aðferðir: Óreyndar T-frumur (CD3+) úr naflastrengsblóði og óræstar (CD4+CD25-) T-frumur úr bláæðablóði voru einangraðar. T-frumurnar voru örvaðar um T-frumuviðtakann með sértæku mótefni. Anti-CD28 var bætt í valdar ræktir til að veita viðbótarörvun. Einnig var TGF-b1, TNFa og anti-TNFa (infliximab) bætt í valdar ræktir. T-frumum var safnað 15 mínútum, tveimur klukkustundum eða fjórum dögum eftir ræsingu. Tjáning á CD4, CD8 og himnuflekum var metin. Myndun og virkni IS var metin út frá hlutfalli T-frumna sem paraðist við anti-CD3 húðaðar plastkúlur.

Niðurstöður: TGF-b1 hafði marktæk bælandi áhrif á tjáningu CD4 og CD8. Þessi áhrif voru þó eingöngu til staðar við lágmarksörvun og hurfu ef viðbótarörvun eða TNFa var einnig til staðar. Áhugavert var að anti-TNFa meðferð leiddi einnig til bælingar á CD4 en ekki CD8 við sömu skilyrði. Að lokum benda frumniðurstöður okkar til þess að bælivirkni TGF-b1 tengist bælingu á myndun himnurafta án þess að það endurspeglist í minnkaðri bindingu við gervi-sýnifrumur af sömu stærð.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að bælivirkni TGF-b1 sé að hluta til komin vegna áhrifa á tjáningu CD4 og CD8 sem eru lykilsameindir í samskiptum T-frumna við sýnifrumur og mikilvægar í myndun og virkni IS. Auk þess varpa þær ljósi á áður óþekkta bælivirkni anti-TNFa.

 

V 11      Lungnastarfsemi sjúklinga með sóragigt

Jónas G. Einarsson1,4, Björn Guðbjörnsson1,2, Þorvarður Jón Löve1,5, Pétur H. Hannesson3, Kristín Bára Jörundsdóttir4, Gunnar Guðmundsson4

1Gigtardeild, 2rannsóknarstofu í gigtarsjúkdómum, 3myndgreiningasviði, 4lungnadeild Landspítala, 5Brigham and Women's Hospital, Harvard University, Boston

jonasge@landspitali.is

Inngangur: Sóragigt er langvinnur liðbólgusjúkdómur samhliða húðsjúkdómnum sóra. Vel þekkt eru tengsl milli ýmissa gigtsjúkdóma við lungnasjúkdóma og þá sérstaklega sjúkdóma í millivef lungna. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar þar sem lungnastarfsemi er skoðuð með kerfisbundnum hætti hjá sjúklingum með sóragigt, en einstökum tilfellum hefur verið lýst af millivefssjúkdómum í lungum í tengslum við sóragigt, en þá oft í tengslum við methótrexatmeðferð. Ein rannsókn hefur þó bent til þess að ónæmiskerfi sóragigtarsjúklinga sé virkjað í lungum. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort greina megi merki um breytingar á lungnastarfsemi hjá einstaklingum með sóragigt.

Efniviður og aðferðir: Einstaklingar með staðfesta sóragigt eru valdir af handahófi úr gagnagrunni nýlegrar faraldsfræðirannsóknar um sóragigt á Ísland. Þátttakendur svöruðu stöðluðum spurningalista um lungnaeinkenni, gengust undir öndunarpróf og háskerputölvusneiðmyndatöku af lungum. Einnig voru bólguþættirnir IL-6 og hs-CRP í blóði mældir.

Niðurstöður: Skoðaðir voru 16 einstaklingar, níu konur og sjö karlar. Meðalaldur var 59 ár (46-70). Átta þátttakendur voru einkennalausir frá lungum, en átta með væg lungnaeinkenni. Enginn þátttakandi reyndist hafa herpu eða uppfylla skilyrði fyrir teppu samkvæmt lungnamælingu, hins vegar höfðu þrír af 16 skert loftskipti með lækkuðu DLCO-gildi (<80%). Tveir sjúklingar voru með merki um vægan millivefslungnasjúkdóm á háskerpu tölvusneiðmynd. Sex sjúklingar höfðu sögu um methótrexatnotkun en enginn af þessum sjúklingum var með skerðingu á loftskiptum.

Ályktanir: Sjúklingar með sóragigt geta haft skerðingu á lungnastarfsemi. Hvort þetta tengist lyfjameðferð eða sjúkdómnum sjálfum er óvíst. Klínísk þýðing þessara breytinga þarfnast ítarlegri rannsókna.

 

V 12      Ættgengi sóragigtar er sterk í fjóra ættliði

Ari Kárason1, Þorvarður Jón Löve2, Björn Guðbjörnsson3

1Íslenskri erfðagreiningu, 2Brigham and Women's Hospital, Harvard University, Boston, 3rannsóknarstofu í gigtarsjúkdómum, Landspítala

bjorngu@landspitali.is

Inngangur: Sóragigt hefur sterka ættarfylgni samkvæmt fyrri rannsóknum, en þessar rannsóknir hafa þær takmarkanir að byggja á sjúkrahúsþýði eða eingöngu á fyrstu gráðu ættingjum og algengi sóragigtar í bakgrunnsþýði hefur oft verið óþekkt. Eingöngu ein tvíburarannsókn hefur verið birt um algengi sóragigtar.

Efniviður og aðferðir: Í fyrri rannsókn okkar (1) um algengi sóragigtar hér á landi greindum við 220 einstaklinga búsetta í Reykjavík. Nafnalistinn var kóðaður og samkeyrður við Íslendingabók. Þannig var reiknað áhættuhlutfall (risk ratio, RR) fyrir ættingja að hafa sóragigt og unnt var að reikna fjölskyldustuðul (kinship coefficient, KC). Fyrir hvert sjúkdóms-
tilfelli af sóragigt voru valdir 1000 samanburðareinstaklingar úr Íslendingabók þegar áhættuhlutfall var reiknað og 100.000 einstaklingar þegar fjölskyldustuðull var reiknaður.

Niðurstöður: Fyrstu til fjórðu gráðu ættingjar einstaklinga með sóragigt höfðu marktækt hækkaða hlutfallsáhættu á sóragigt eða 39; 12; 3,6 og 2,3, (öll p-gildi <0,0001), en fimmtu gráðu ættingjar þessara 220 einstaklinga með sóragigt höfðu lága hlutfallsáhættu á að hafa sjálfir sóragigt eða 1,2 (p=0,236). Fjölskyldustuðull staðfesti þessi fjölskyldutengsl með marktækum KC-gildum; 5,0; 3,4; 1,7; 1,3; 1,0; 0,8 og 0,7 fyrir sjö meiósur (öll p-gildi <0,0001).

Ályktanir: Einstaklingar með sóragigt eru marktækt skyldari hver öðrum en almenningur í landinu. Þetta er í samræmi við fyrri rannsóknir, en þessi rannsókn er sérstök bæði með tilliti til fjölda viðmiðunartilfella og umfangs ættfræðiupplýsinga. Niðurstöðurnar benda til að fleiri en einn erfðaþáttur hafi hlutverk í meingerð sóragigtar og/eða óþekktur umhverfisþáttur hafi mikilvægt hlutverk í myndun sóragigtar.

Heimildir

  1. Löve ÞJ, Guðbjörnsson B, Guðjónsson JE, Valdimarsson H. Psoriatic Arthritis in Reykjavik, Iceland: Prevalence, Demographics, and Disease Course. J Rheumatol 2007; 34: 2082-8.

 

V 13      Hodgkins eitilfrumukrabbamein á Íslandi, klínísk og meinafræðileg rannsókn

Hallgerður Lind Kristjánsdóttir1, Brynjar Viðarsson1, Friðbjörn Sigurðsson1, Bjarni A. Agnarsson2,3

1Lyflæknasviði, 2meinafræðideild Landspítala, 3læknadeild HÍ

hallglk@landspitali.is

Inngangur: Tíðni Hodgkins eitilfrumukrabbameins (HE) er 0,7 af 100 greindum krabbameinum á Íslandi. Meðferðin hefur þróast mikið á undanförnum áratugum og er sjúkdómurinn nánast læknanlegur í dag.

Efniviður og aðferðir: Markmið rannsóknarinnar er að taka saman upplýsingar um alla sjúklinga sem greindust með HE á Íslandi á árunum 1990-2005 og bera saman við erlendar rannsóknir, sjá hvernig þróunin hefur orðið í tíðni, meðferð og lifun á þessum árum auk þess sem fylgni ákveðinna breytna við horfur er könnuð. Safnað er upplýsingum úr sjúkraskrám um ýmsa klíníska þætti, niðurstöður rannsókna, greiningaraðferðir, meðferð, endurkomu sjúkdómsins og lifun. Vefjasneiðar eru skoðaðar og litaðar með microarray-tækni fyrir ýmsum mótefnum. Könnuð er hugsanleg ættlægni sjúkdómsins á Íslandi.

Niðurstöður og ályktanir: Eitt hundrað og sex einstaklingar greindust með HE á þessu 16 ára tímabili. Aldur sjúklinganna var 5-88 ár, meðalaldurinn var 38 ár og miðgildi 32,5 ár. Af þeim voru 61% karlar og 39% konur. Í 65% tilfella var um að ræða hnútuhersli (noduler sclerosis), í 14% tilfella blandaða frumugerð (mixed cellularity) og í 14% óflokkanlegt klassískt HE, aðrir undirflokkar voru innan við 5%. Af 72 sjúklingum eru níu með stig I, 48 með stig II, 10 með stig III og fimm með stig IV. Algengasta staðsetningin var á hálsi og/eða miðmæti eða 48 af 70. Þrjátíu og átta af 74 höfðu B einkenni við greiningu. Algengasta lyfjameðferðin er ABVD eða 45 af 68 og ABVD-MOPP eða 18 af 68. Aðrar lyfjameðferðir eru mun sjaldgæfari. Tuttugu og átta af 64 fengu geislameðferð að hluta eða öllu leyti. Heildarlifun í lok árs 2007 er 75% og fimm ára lifun fyrir allan hópinn er 80%. Frumniðurstöður eru að mestu í samræmi við erlendar rannsóknir. Mikil gagnasöfnun og úrvinnsla er eftir og von er á frekari niðurstöðum á þinginu.


 

V 14      Staðbundinn æxlisvöxtur með uppruna í fleiðru á Íslandi

Tryggvi Þorgeirsson1, Helgi J. Ísaksson2, Hrönn Harðardóttir3, Hörður Alfreðsson4, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknarstofu í meinafræði, 3lungnadeild, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

tomasgud@landspitali.is tryggvt@hi.is

Inngangur: Æxlisvöxtur upprunninn í fleiðru er ýmist útbreiddur eða staðbundinn. Fyrrnefnda gerðin nefnist miðþekjuæxli (mesothelioma) en sú síðarnefnda Solitary Fibrous Tumor of the Pleura (SFTP). Ýmislegt er á huldu varðandi SFTP, sem virðast hafa illkynja sjúkdómsgang í 10-20% tilfella og er nýgengi sjúkdómsins meðal annars ekki þekkt. Markmið rannsóknarinnar var að gera lýðgrundaða (population-based) úttekt á SFTP á Íslandi 1984-2007, meðal annars í því skyni að ákvarða nýgengi sjúkdómsins.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og fengust upplýsingar um sjúklinga með SFTP úr sjúkragögnum og skrám Rannsóknarstofu Landspítala í meinafræði. Vefjafræði æxla var yfirfarin af meinafræðingi. Til samanburðar voru upplýsingar um nýgengi miðþekjuæxla sóttar til Krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands.

Niðurstöður: Ellefu sjúklingar greindust með SFTP á tímabilinu (átta konur og þrír karlar, meðalaldur 60 ár) en 35 með miðþekjuæxli (fjórar konur og 31 karl, meðalaldur 68 ár). Árlegt aldursstaðlað nýgengi SFTP og miðþekjuæxla er því 1,4 og 4,0 af 1.000.000 (95% öryggisbil 0,69-2,5 og 2,6-5,4). Aðeins þrír sjúklingar með SFTP höfðu einkenni af sjúkdómnum, í öðrum tilvikum var um tilviljanafund að ræða. Allir sjúklingarnir voru meðhöndlaðir með brottnámi æxlis í opinni aðgerð utan einn sem greindist við krufningu. Endurkoma sjúkdómsins hefur ekki verið skráð í neinu tilfelli og enginn hefur látist úr sjúkdómnum (miðgildi eftirfylgni 70 mánuðir).

Ályktanir: Á 24 ára tímabili greindust hér á landi 46 tilfelli æxlisvaxtar með uppruna í fleiðru. Fjórðungur þeirra voru staðbundin SFTP æxli sem í öllum tilvikum höfðu góðkynja sjúkdómsgang og vefjagerð. Þótt um sé að ræða litla rannsókn og fá tilfelli er þetta fyrsta lýðgrundaða rannsóknin sem vitað er um á SFTP og gefur hún nýgengið á þessum sjaldgæfa sjúkdómi.

 

V 15      Lyfjabrunnar á Landspítala 2002-2006, ísetning og notkun

Skúli Ó. Kim1, Páll H. Möller2, Bergþór Björnsson2, Pétur Hannesson3, Agnes Smáradóttir4

1Læknadeild HÍ, 2skurðlækningadeild, 3myndgreiningadeild, 4lyflækningadeild krabbameina Landspítala

sok1@hi.is

Inngangur: Ísetning og notkun lyfjabrunna hefur aukist undanfarin ár á Landspítala. Tilgangur rannsóknar var að kanna tíðni fylgikvilla við ísetningu og notkun lyfjabrunna á Landspítala og bera saman við niðurstöður erlendra rannsókna.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn. Allir sjúklingar yfir 18 ára aldur sem fengu lyfjabrunn á skurðlækningadeild Landspítala á tímabilinu 1. janúar 2002 til 31. desem-ber 2006 voru teknir inn í rannsóknina. Skráðar voru upplýsingar úr aðgerð, niðurstöður lungnamyndatöku eftir ísetningu og klínískar upplýsingar á meðan á notkun stóð. Farið var yfir myndrannsóknir þar sem vandkvæði komu upp við ísetningu eða notkun á lyfjabrunni.

Niðurstöður: Fjögur hundruð þrjátíu og átta sjúklingar fengu 482 lyfjabrunna. Sjúklingar voru með lyfjabrunna í 398 (2-1875) daga. Ábendingar voru krabbamein (n=361), blóðsjúkdómar (n=97) og aðrir sjúkdómar (n=24). Snemmkomnir fylgikvillar voru loftbrjóst (n=12) og blæðing (n=1). Síðkomnir fylgikvillar voru blóðsegar (n=23), brunnsýkingar (n=6) og blóðsýkingar (n=8), snúningur á lyfjabrunni (n=11), tilfærsla á æðalegg (n=8) og slöngurek (n=2).

Ályktanir: Tíðni fylgikvilla við ísetningu og notkun lyfjabrunna á Landspítala er svipuð og þekkt er úr erlendum rannsóknum. Blóðsegar eru ívið tíðari hjá okkur samanborið við erlendar rannsóknir. Ástæður kunna að vera fjöldi daga sem lyfjabrunnur er til staðar eða ófullnægjandi skolun við notkun. Mögulega er hægt að draga úr tíðni annarra fylgikvilla með hjálp ómskoðunar við neðanviðbeinsbláæðaástungu.


V 16      Valmiltistökur við meðferð blóðsjúkdóma á Íslandi 1993-2004

Margrét Jóna Einarsdóttir1, Bergþór Björnsson2, Guðjón Birgisson2, Margrét Oddsdóttir1,2,Vilhelmína Haraldsdóttir3

1Læknadeild HÍ, 2skurðlækningadeild, 3blóðlækningadeild Landspítala

mje1@hi.is

Inngangur: Tilgangurinn var að meta með langtímaeftirfylgd árangur valmiltistöku, tíðni fylgikvilla og kanna hvernig fræðslu og bólusetningum væri háttað.

Efniviður og aðferðir: Skilgreining valmiltistöku var að um valaðgerð væri að ræða. Farið var yfir sjúkraskrár þeirra 67 sjúklinga sem gengust undir valmiltistöku 1993-2004. Spurningalistar voru sendir til 96% (44/46) núlifandi sjúklinga.

Niðurstöður: Meðalaldur við aðgerð var 50 (8-83) ár. Karlar voru 35 og konur 32. Svörun spurningalista var 80%. Ekki náðist eftirfylgd hjá fjórum sjúklingum. Flestir sjúklinganna, eða 31, höfðu blóðdílasótt (idiopathic thrombocytopenic purpura) og voru 30 á sterameðferð fyrir aðgerð. Miltistaka skilaði fullum bata hjá 60% (18/30) og nokkrum bata hjá 23% (7/30). Fimm sjúklingar voru með hnattrauðkornablóðleysi (spherocytosis) og fengu allir fullan bata. Enginn þriggja sjúklinga með sjálfnæmisrauðalosblóðleysi (autoimmune hemolytic anemia) fékk bata. Hjá sjúklingum með illkynja sjúkdóma var erfiðara að meta árangur. Sjúklingar voru bólusettir gegn pneumókokkum í 92% (61/66) tilvika. Endurbólusetning hafði verið gerð hjá 44% (14/32). Einungis 41% (14/34) töldu sig hafa fengið góða fræðslu um hugsanlegar afleiðingar miltisleysis. Alvarlegir bráðir fylgikvillar komu fram hjá 16% (10/64) sjúklinga. Einn sjúklingur með útbreitt lungnakrabbamein og blóðflögufæð lést stuttu eftir aðgerð. Síðkomnir fylgikvillar komu fram hjá fimm sjúklingum. Tveir fengu pneumókokkasýklasótt, annar þeirra var óbólusettur og hinn hafði ekki fengið endurbólusetningu á tilskildum tíma.

Ályktanir: Miltistaka skilar góðum langtímaárangri hjá sjúkling- um með blóðdílasótt og hnattrauðkornakvilla. Tíðni fylgikvilla er há. Vinnureglur um undirbúning, bólusetningar, eftirfylgd og fræðslu sjúklinga gætu fækkað fylgikvillum og bætt útkomu.

 

V 17      Þróun meltuónota hjá Íslendingum á tíu ára tímabili

Linda B. Ólafsdóttir1,BjarniÞjóðleifsson2, Hallgrímur Guðjónsson2

1Sjálfstætt starfandi í Reykjavík, 2Landspítali

linda04@ru.is

Tilgangur: Meltuónot (functional dyspepsia) eru algengur sjúkdómur og eru einkennin oft langvarandi. Tilgangur rann-sóknarinnar var að kanna þróun meltuónota hjá Íslendingum á 10 ára tímabili og kanna tengsl þeirra við einkenni frá öðrum líffærakerfum og við lyf.

Efniviður og aðferðir: Spurningalisti var sendur til 2000 manna úrtaks Íslendinga á aldrinum 18-75 ára árið 1996. Tíu árum síðar, 2006, var rannsóknin endurtekin á sama úrtaki Íslendinga og að auki úrtaki um 300 einstaklinga á aldrinum 18-27 ára. Spurningalistinn innihélt 46 spurningar um einkenni frá meltingarfærum og 42 spurningar um einkenni sem tengdust öðrum líffærakerfum og einnig lýðfræðilegum og sállíkamlegum þáttum.

Niðurstöður: Árið 1996 var svarhlutfall 67% sem er um 1% íslensku þjóðarinnar á aldrinum 18-75 ára. Árið 2006 var svar-hlutfallið um 50% sem sýnir svipaða þróun í svörum og í öðrum póstlistarannsóknum á Íslandi. Meltuónot voru greind með einkennalista sem innihélt 19 mismunandi einkenni. Árið 1996 voru 17,8% með meltuónot (15,3% karla, 24,0%
kvenna) en 22,4% árið 2006 (17,1% karla, 26,9% kvenna). Meltuónot eru marktækt algengari hjá yngri einstaklingum. Ekki eru tengsl milli þyngdar og meltuónota. Einstaklingar með meltuónot eru marktækt líklegri til að missa úr vinnu vegna veikinda en aðrir. Tengsl eru á milli töku aspiríns, parasetamóls og verkjalyfja almennt og gigtarlyfja og einkenna meltuónota. Tengsl eru á milli kviðverkja í æsku og einstaklinga með meltuónot. Einstaklingar með meltuónot leita oftar til læknis en aðrir og oftar vegna kviðverkja.

Ályktanir: Meltuónot eru algeng á Íslandi. Einstaklingar sem greindir eru með meltuónot eru líklegir til að hafa sömu ein-kenni eftir 10 ár. Ekki er munur á milli kynja. Meltuónot hafa áhrif á lífsgæði einstaklinga, þeir nota heilbrigðiskerfið í meira mæli en aðrir, bæði á sviði lækninga og lyfjanotkunar.


V 18      Faraldsfræðileg rannsókn á brjóstsviða á Íslandi, tíu ára eftirfylgni

Linda B. Ólafsdóttir1, Hallgrímur Guðjónsson2, Bjarni Þjóðleifsson2

1Sjálfstætt starfandi í Reykjavík, 2Landspítali

linda04@ru.is

Tilgangur: Brjóstsviði er algengur kvilli í þróuðum löndum og er hann oft langvarandi. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna þróun brjóstsviða hjá Íslendingum á 10 ára tímabili og kanna tengsl við einkenni frá öðrum líffærakerfum og við lyf.

Efniviður og aðferðir: Spurningalisti var sendur til 2000 manna úrtaks Íslendinga á aldrinum 18-75 ára árið 1996. Rannsóknin var endurtekin 2006 á sama úrtaki og að auki úrtaki um 300 einstaklinga á aldrinum 18-27 ára. Spurningalistinn innihélt 46 spurningar um einkenni frá meltingarfærum og 42 spurningar um einkenni sem tengdust öðrum líffærakerfum, lýðfræðilegum og sállíkamlegum þáttum.

Niðurstöður: Árið 1996 var svarhlutfall 67% en 50% árið 2006. Brjóstsviði var greindur með sjálfsmati einstaklinga. Árið 1996 sögðust 43,1% einstaklinga vera með brjóstsviða en 45,1% 2006. Tveir þriðju sem skráðu brjóstsviða 1996 voru einnig með brjóstsviða 2006, ekki var munur á aldri. Nær allir sögðu að lyf við brjóstsviða hefðu áhrif á einkennin. Fjórðungur er á stöðugri lyfjameðferð við brjóstsviða. Aðrir taka lyf við einkennum brjóstsviða í hvert skipti. Lyfjanotkun við brjóstsviða eykst með hækkandi aldri. Marktæk tengsl reyndust á milli brjóstsviða og meltuónota hjá einstaklingum bæði 1996 og 2006. Einstaklingar með of háan eða of lágan líkamþyngdarstuðul eru líklegri til að fá brjóstsviða en aðrir. Einstaklingar með brjóstsviða eru líklegri en aðrir að fara til læknis og fara oftar. Reykingar auka tíðni brjóstsviða. Þriðjungur telur brjóstsviða hafa áhrif á matarlyst og 20% segjast sleppa ákveðnum fæðutegundum og áfengi. Helmingur telur brjóstsviða hafa áhrif á svefn.

Ályktanir: Brjóstsviði er algengur á Íslandi. Líkur eru á að einstaklingar með brjóstsviða séu með sömu einkenni eftir 10 ár. Brjóstsviði hefur áhrif á lífsgæði einstaklinga og notkun þeirra á heilbrigðiskerfinu og lyfjum er meiri en annarra.

 

V 19      Áhættuþættir beintaps í mjöðm hjá 70 ára konum, mikilvægi líkamsþyngdar

Sigríður Lára Guðmundsdóttir1, Díana Óskarsdóttir2,4, Ólafur Skúli Indriðason1, Leifur Franzson3, Gunnar Sigurðsson1,2,4

1Innkirtla- og efnaskiptasjúkdómadeild, 2beinþéttnimælistofu, 3erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 4læknadeild HÍ

mariah@landspitali.is

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka áhættuþætti beintaps á mjaðmarsvæði hjá 70 ára konum.

Efniviður og aðferðir: Eitt hundrauð sextíu og tvær konur tóku þátt. Meðaltími á milli rannsókna var 9,12 ár. Beinþéttni (g/cm2) í lærleggshálsi, lærhnútu (trochanter) og mjöðm var mæld með dual x-ray absorptiometry (DXA). Kannaðar voru breytingar á beinþéttni og samband þeirra við: beinþéttni, þyngd, vöðva-og fitumassa, beinumsetningarvísa, hormón, vítamín og lífsstíl samkvæmt spurningakveri við upphaf rannsóknar og þyngdarbreytingar á rannsóknartíma.

Niðurstöður: Marktækur munur var á beintapi milli mælistaða. Meðaltal beintaps var -0,83%/ár í lærleggshálsi, -0,47%/ár í lærhnútu (p<0,01 miðað við lærleggsháls) og -0,53%/ár í mjöðm (p<0,01/0,05 miðað við lærleggsháls/lærhnútu). Marktæk fylgni var milli D-vítamíns í sermi við 70 ára aldur og beintaps í lærleggshálsi (r=0,21; p<0,01). Beinþéttni í lærhnútu við 70 ára aldur hafði neikvæða fylgni við beintap í lærhnútu (r=-0,41; p<0,01). Engin marktæk fylgni var milli mældra þátta við 70 ára aldur og breytinga á beinþéttni í mjöðm. Beintap í lærleggshálsi, lærhnútu og mjöðm var -9,8%, -7,5% og -8,7% hjá konum sem léttust um >5% líkamsþyngdar á rannsóknartímanum en hjá konum sem viðhéldu eða juku líkamsþyngd sína var beintapið á sömu mælistöðum -6,4%, -2,6% og -2,9% (p<0,01 á öllum mælistöðum).

Ályktanir: Þyngdartap hjá 70 ára konum var marktækur áhættuþáttur fyrir beintap á mjaðmarsvæði og hvetja ætti eldri konur til að viðhalda líkamsþyngd sinni. Lágt gildi D-vítamíns í sermi var áhættuþáttur fyrir beintapi í lærleggshálsi og því ætti að leggja áherslu á nægilega inntöku þess. Þrátt fyrir margar breytur sem kannaðar voru í þessari rannsókn er enn margt óútskýrt varðandi það beintap sem verður með hækkandi aldri.

 

V 20      Sjúklingur með skjaldbúskrabbamein og skjaldvakaofseytingu. Sjúkratilfelli

Ari Jóhannesson1, Eysteinn Pétursson3, Jón Hrafnkelsson2

1Lyflæknasviði I, 2Lyflæknasviði II, 3ísótópastofu Landspítala

arijoh@landspitali.is

Inngangur: Skjaldbúskrabbameini (carcinoma thyroidae folliculare) með meinvörpum fylgir stöku sinnum skjaldvakaofseyting. Er þá ætlað að meinvörpin séu starfhæf og samlegðaráhrif valdi hækkuðum styrk skjaldkirtilshormóna í sermi.

Sjúkratilfelli: Sjötíu og fimm ára kona kom á Landspítala til aðgerðar á mjöðm vegna þrálátra verkja. Röntgenmyndir sýndu óvænt eyðu í mjaðmarbeini og fyrirferð í miðmæti svarandi til skjaldkirtils. Segulómun af mjaðmagrind leiddi í ljós stórt mjúkvefjaæxli sem reyndist vera skjaldbúskrabbamein. Skömmu eftir skjaldkirtilsbrottnám mældist fT4 40,3 pmól/l (13-22), TSH < 0,01 mU/l og thýróglóbúlín (Tg) 98.700 mcg/l (1,4 -7,8). 131I skann sýndi ríkulega upptöku í lungum og hægri mjöðm. Í meðferðarskyni fékk sjúklingur 30 mCi af 131I og skjaldkirtilsbælandi lyfið Carbimazole (Neo-Mercazole®). Fyrstu vikurnar eftir upphafsmeðferð hrakaði sjúklingi mjög, fékk meðal annars lungnabólgu, bláæðasega í hægri ganglim og síðan langvinna meðvitundarskerðingu, mögulega af völdum þunglyndis. Segulómun sýndi meinvarpsgrunsamlegar fyrirferðir í miðtaugakerfi. Styrkur mótefna gegn TSH-viðtaka (thyroid receptor antibodies, TRAb) mældist ítrekað hár (25; 26,36 og 27,7 IU/l (<1,0)). Við endurteknar gjafir af 131I (samtals 600 mCi) hefur dregið mjög úr virkni meinvarpa og ofseytingu. Í dag er konan við þokkalega og reyndar batnandi heilsu, sermisstyrkur Tg er 203 mcg/l og 131skann sýnir að upptaka í meinvörp hefur minnkað stórlega.

Ályktanir: Greiningarskilmerki skjaldvakaofseytingar frá skjaldbúskrabbameinvörpum eru uppfyllt. Hár og viðvarandi styrkur TRAb sýnir að samtímis krabbameini í skjald-
kirtli var sjúklingur með Gravessjúkdóm. Mótefnin hafa örvað TSH viðtaka í meinvörpum svo af hlaust skjaldvakaofseyting. Nokkrum slíkum tilvikum hefur verið lýst áður. Hugsanlegt er að Gravessjúkdómur sé oftast til staðar þegar meinvörp frá skjaldbúskrabbameini ofseyta skjaldvaka.

 

V 21      Æsavöxtur vegna villiframleiðslu á vaxtarhormónakveikju frá krabbalíki í lunga. Sjúkratilfelli

Páll S. Pálsson1, Ari Jóhannesson1, Tómas Guðbjartsson2,3

1Lyflæknasviði I, 2hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 3læknadeild HÍ

arijoh@landspitali.is

Inngangur: Æsavöxtur (acromegaly) stafar langoftast af offramleiðslu vaxtarhormóns (VH) frá góð-kynja æxli í heiladingli. Í einstaka tilvikum (<1%) getur æxli annars staðar í líkamanum, til dæmis briseyjaæxli eða krabbalíki í lungum, orsakað æsavöxt með framleiðslu á vaxtarhormóna-kveikju (growth hormone releasing hormone, GHRH). Hér er lýst einu slíku tilfelli.

Sjúkratilfelli: Fjörutíu og tveggja ára kona greindist fyrir tilviljun með 7 cm stórt æxli miðlægt í hægra lunga. Hún hafði aldrei reykt eða kennt sér meins frá lungum. Tveimur árum áður hafði greinst hjá henni hnútur í skjaldkirtli með vægri skjaldvakaofseytingu (subclinical thyrotoxicosis). Hálfu ári síðar greindi einn höfunda (AJ) hjá henni æsavöxt. Segulómun sýndi vægt stækkaðan heiladingul og IGF-1 mældist mjög hækkað. Hafin var meðferð með lanreótíði og síðar einnig með cabergólíni. Rúmu ári eftir að meðferð hófst var fyrirhuguð aðgerð á heiladingli en fyrir þá aðgerð var tekin lungnamynd sem sýndi áðurnefnt æxli. Gerð var ástunga á æxlinu og kom í ljós dæmigert krabbalíki án illkynja frumna. Í skurðaðgerð var æxlið fjarlægt ásamt mið- og neðra lungnablaði, og voru skurðbrúnir hreinar og eitilmein-vörp ekki til staðar. Gangur eftir aðgerð var góður og var sjúklingur útskrifaður viku eftir aðgerð. Sermisgildi vaxtarhormónakveikju (S-VH) var 82 pg/ml (5-18 pg/ml) fyrir aðgerð, en 24 pg/ml nokkrum dögum eftir aðgerð. Tæpum fimm mánuðum síðar er konan við góða heilsu og einkenni æsivaxtar hafa að hluta til gengið til baka. S-VH gildi hafa lækkað úr 21,4 ng/ml í 0,8 ng/ml (0,5–5 ng/ml) og IGF-1 er nú eðlilegt.

Ályktanir:Þetta tilfelli sýnir að æxli utan heiladinguls geta framleitt vaxtarhormónakveikju og valdið æsavexti. Um afar sjaldgæft fyrirbæri er að ræða og aðeins nokkrum tugum tilfella hefur verið lýst til þessa. Hjá sjúklingum með æsavöxt er mikilvægt að hafa krabbalíki í lungum í huga, sérstaklega ef niðurstöður myndgreiningarrannsókna á heiladingli eru ekki afgerandi.

 

V 22      Algengi og nýgengi samfallsbrota í hrygg meðal sjötíu og fimm ára kvenna

Díana Óskarsdóttir1,3, Gunnar Sigurðsson1,2,3

1Læknadeild HÍ, 2innkirtla- og efnaskiptasjúkdómadeild Landspítala, 3Hjartavernd

mariah@landspitali.is

Inngangur: Samfallsbrot í hrygg eru ein algengustu beinþynningarbrot meðal kvenna eftir 65 ára aldur. Algengi þeirra er hins vegar ekki ljóst þar sem einungis hluti þessara einstaklinga er greindur með brot. Konur með samfallsbrot eru í aukinni hættu á frekari brotum. Með nýjustudual energy X-ray absorptiometry (DEXA) tækjum er hægt að meta útlit hryggjarliðbola með álíka gæðum og með venjulegri röntgenmynd. Markmið rannsóknarinnar var að kanna algengi og nýgengi samfallsbrota samkvæmt DEXA-myndum hjá 166 konum 75 ára, á fjögurra ára tímabili með tveimur mismunandi aðferðum. McCloskey-aðferð sem er bein hæðarmæling á hryggjarliðbolum og algorithm-based qualitative method(ABQ).

Efniviður og aðferðir: Hryggjarmynd af brjóst- og lendaliðbolum (hliðarmynd L4-T4) var gerð með DEXA – Hologic QDR 4500 árið 2003 og að nýju 2007 á beinþéttnimælistofu Landspítala háskólasjúkrahúss. Brotin voru skilgreind sjálfstætt með hvorri aðferð fyrir sig; McCloskey-brotin voru staðfest ef lækkun á liðbol var >20%, ABQ byggir á sjónrænu mati á aflögun hryggjarliðbola.

Niðurstöður: Samkvæmt McCloskey varalgengi samfallsbrota meðal kvennanna 29% árið 2003 en 41% árið 2007. Nýgengi á rannsóknartímabilinu var 17%. Samkvæmt ABQ var algengi brotanna 32,5% 2003 en 38,5% 2007. Nýgengi á rannsóknartímabilinu var 9%.

Ályktanir: Hryggjarmyndir má auðveldlega framkvæma í kjölfarið á beinþéttnimælingum í DEXA. Þar sem algengi samfallsbrota, samanber niðurstöður rannsóknarinnar, var um 30% og nýgengi á rannsóknartímabilinu um 17% samkvæmt McCloskey-greiningu eru slíkar mælingar ákjósanlegar viðbótarmælingar meðal eldri kvenna við heildarmat á bein-þynningu. Svo virðist sem samfallsbrot greinist fyrr með ABQ aðferðinni og því er vert að gera frekari athugun á samræmi milli þessara tveggja aðferða.

 

V 23      Hvaða þættir tengjast styrk kalkkirtlahormóns í blóði við D-vítamín skort?

Örvar Gunnarsson1, Ólafur Skúli Indriðason1, Leifur Franzson2, Gunnar Sigurðsson1

1Lyflæknasviði I, 2rannsóknarsviði Landspítala

orvarg@gmail.com

Inngangur: Þó samband styrks kalkkirtlahormóns (PTH) og D-vítamíns (25(OH)D) í blóði sé vel þekkt er töluverður breytileiki í styrk PTH sem ekki skýrist eingöngu af D-vítamínstöðu ein-staklingsins. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða hvaða þættir tengjast PTH-styrk við 25(OH)D skort.

Efniviður og aðferðir: Þetta var þversniðsrannsókn sem tók til 516 karla og kvenna á aldrinum 30-85 ára með D-vítamín skort, skilgreint sem 25(OH)D <45 nmól/L. Hópnum var skipt í fernt eftir PTH-styrk í blóði og hæstu og lægstu fjórðungarnir bornir saman. Við notuðum þrepaskipta, fjölþátta lógistíska aðhvarfsgreiningu til að ákvarða hvaða þættir hefðu sjálfstæð tengsl við PTH-stöðu. Allur samanburður var gerður fyrir karla og konur sérstaklega.

Niðurstöður: Karlmenn með PTH-gildi í lægsta fjórðungnum reyndust vera marktækt (p0,05) yngri, með minni orkuinntöku, lægri líkamsþyngdarstuðul (Body Mass Index, BMI) og betri nýrnastarfsemi samanborið við hæsta fjórðunginn. Þeir voru með hærri gildi jónaðs kalsíum, Insulin-like Growth Factor 1 (IGF-1), testósteróns og voru líklegri til að reykja. Konur með PTH-gildi í lægsta fjórðungnum voru yngri, höfðu lægri lík-amsþyngdarstuðul og magnesíumgildi en hærri gildi IGF-1 og voru líklegri til að reykja. Aðhvarfsgreining leiddi í ljós að IGF-1, testósterón og líkamsþyngdarstuðull höfðu marktæk sjálfstæð tengsl við PTH-gildi hjá körlum (R2=0,472) en reykingar, líkams-þyngdarstuðull og nýrnastarfsemi hjá konum (R2=0,362).

Ályktanir: Niðurstöður okkar benda til þess að við D-vítamín skort hafi aðrir þættir en D-vítamín áhrif á styrk PTH og geti bætt upp þann skort. Þessir þættir virðast vera ólíkir milli karla og kvenna. Þannig höfum við hjá körlum fundið áður óþekkt tengsl IGF-1 og testósteróns við PTH og meðal kvenna höfum við staðfest niðurstöður fyrri rannsókna er sýna tengsl reykinga, líkamsþyngdarstuðuls og nýrnastarfsemi við PTH-styrk.

 

V 24      Háþrýstingur í börnum og marklíffæraskemmdir á fullorðinsárum

Ásthildur Erlingsdóttir1 Ólafur Skúli Indriðason2, Viðar Örn Eðvarðsson3

1Læknadeild HÍ, 2lyflæknasviði I, 3Barnaspítala Hringsins Landspítala

olasi@landspitali.is

Inngangur: Hár blóðþrýstingur í börnum getur verið áhættuþáttur fyrir háþrýstingi og aukinni tíðni hjarta- og æðasjúkdóma síðar á ævinni. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna tengsl blóðþrýstings á barnsaldri við hjarta-, æða- og nýrnasjúkdóma á fullorðinsaldri.

Efniviður og aðferðir: Við fundum einstaklinga undir 18 ára aldri, sem lögðust inn til valaðgerða eða rannsókna á sjúkrahúsin í Reykjavík á árunum 1950-67, þar sem blóðþrýstingur hafði verið mældur. Við könnuðum afdrif þeirra og kölluðum þá inn til rannsókna. Þeir svöruðu spurningalista um heilsufar og lyfjanotkun og komu til viðtals þar sem við mældum blóðþrýsting, hæð og þyngd og fengum blóð- og þvagsýni. Lokaeftirfylgdartími var við andlát eða í mars 2008. Við könnuðum tengsl blóðþrýstings við útkomu með χc prófi eða lógistískri aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Við höfum fundið 112 einstaklinga (47 karla) fyrir rannsóknina. Meðalaldur við innlögn var 15±1,8 ár og meðalblóðþrýstingur 126/79. Höfðu 46 slagbilsþrýsting yfir 90. prósentustigi (%) og 35 yfir 95% en í lagbilsþrýstingi voru 50 yfir 90% og 33 yfir 95%. Meðalaldur við eftirfylgni var 58±4,9 ár. Ellefu höfðu látist (fimm karlar), 43 greinst með háan blóðþrýsting (21 karl), 11 kransæðasjúkdóm (níu karlar), fimm með öralbúmínmigu og tveir voru með reiknaðan gaukulsíunarhraða (rGSH) <60 ml/mín/1,73 m2. Meðal rGSH var 81±15 ml/mín/1,73 m2 og meðal blóðþrýstingur 133/75. Við fundum takmarkaða fylgni útkomubreyta við upphaflegan blóðþrýsting. Háþrýstingur við eftirfylgni sýndi nær marktæka fylgni við slagbilsblóðþrýsting í upphafi (P=0,07) og tilvist kransæðasjúkdóms sýndi marktæka fylgni við púlsþrýsting í upphafi (P=0,04).

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að tengsl geti verið milli slagbilsþrýstings eða púlsþrýstings á unglingsaldri og háþrýstings- og hjartasjúkdóma seinna á ævinni. Smæð rannsóknarinnar og blóðþrýstingshækkun samfara álagi við innlögn á sjúkrahús geta þó skekkt niðurstöður og þarf að skoða í stærra þýði.

 

V 25      Þróun langvinns nýrnasjúkdóms í almennu þýði

Ólafur Skúli Indriðason1, Ólöf Viktorsdóttir1, Thor Aspelund2,3, Margrét Birna Andrésdóttir1,2, Vilmundur Guðnason2,4, Runólfur Pálsson1,4

1Lyflæknasviði I Landspítala, 2Hjartavernd, 3stærðfræðideild, 4læknadeild HÍ

olasi@landspitali.is

Inngangur: Ný skilgreining og aukin þekking á langvinnum nýrnasjúkdómi (LNS) hafa leitt til þess að fleiri greinast með nýrnasjúkdóm en áður. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna sjúkdómsframvindu meðal einstaklinga með langvinnan nýrnasjúkdóm.

Efniviður og aðferðir: Í hóprannsókn Hjartaverndar uppfylltu 548 karlar og 1131 kona skilyrði fyrir greiningu um langvinnan nýrnasjúkdóm; reiknaður gaukulsíunarhraði (rGSH) <60 ml/mín/1,73 m2 og/eða próteinmiga. Við leituðum í sjúkraskrám Hjartaverndar og heilbrigðisstofnana á höfuðborgarsvæðinu til að finna nýrri kreatínínmælingar fyrir þessa einstaklinga og notuðum þær til að meta hnignun rGSH í ml/mín/1,73 m2 yfir 10 ár. Við skiptum einstaklingum í hópa eftir kyni, tilvist próteinmigu og rGSH undir eða yfir 60. Sem viðmiðunarhóp notuðum við einstaklinga með rGSH >60, án próteinmigu og að minnsta kosti tvær fyrirliggjandi kreatínínmælingar hjá Hjartavernd.

Niðurstöður: Við höfum fundið kreatínínmælingar fyrir 479 (87%) karla og 1003 (88%) konur með langvinnan nýrnasjúkdóm og 3215 karla og 2545 konur án langvinns nýrnasjúkdóms. Meðal einstaklinga án sjúkdómsins var hnignun rGSH að meðaltali 3,8 ml/mín/1,73 m2 yfir 10 ár hjá konum en 4,9 hjá körlum. Engin hnignun fannst hjá þeim sem voru með rGSH <60 án próteinmigu því meðaltalslækkun var 0,1 ml/mín/1,73 m2 yfir 10 ár hjá konum (N=903) og -0,3 hjá körlum (N=253). Meðal einstaklinga með próteinmigu var hnignun rGSH mun meiri en hinna sem ekki höfðu próteinmigu og var sá munur marktækur (p<0,001) hjá öllum hópum nema konum með rGSH <60 (P=0,21) en fáar voru með próteinmigu í þeim hópi.

Ályktanir: Próteinmiga virðist tengjast hraðari hnignun rGSH bæði meðal einstaklinga með skerta og eðlilega nýrnastarfsemi. Hins vegar virðast flestir þeirra sem eingöngu greinast með langvinnan nýrnasjúkdóm vegna rGSH mælingar <60 hafa stöðuga nýrnastarfsemi til langs tíma, en þörf er að kanna betur tengsl sjúkdómsframvindu og undirliggjandi áhættuþátta.

 

V 26      Nýtt form bráðrar nýrnabilunar

Helga Margrét Skúladóttir, Margrét Birna Andrésdóttir, Margrét Árnadóttir

Lyflæknasviði Landspítala

helgam@lsh.is

Inngangur: Að undanförnu hafa nýrnalæknar á Landspítala tekið eftir sérkennilegu formi bráðrar nýrnabilunar hjá ungu fólki (nýrnabilun x). Hún einkennist af kreatínínhækkun og svæsnum verkjum í baki eða kviði ásamt nýlegri neyslu bólgueyðandi lyfja og/eða áfengis án annarra augljósra orsaka nýrnabilunar. Þessu formi nýrnabilunar hafa sáralítil skil verið gerð. Rannsóknin miðaði að því að kanna hversu margir lögðust inn á Landspítala með nýrnabilun x síðustu 10 árin og að kortleggja klínísku myndina betur.

Efniviður og aðferðir: Farið var yfir sjúkraskrár sjúklinga á aldrinum 18-41 árs sem fengið höfði greininguna bráð nýrnabilun (N17) á tímabilinu 1998-2007. Aldur, kyn og orsök nýrnabilunar var skráð og farið nánar yfir sögu og rannsóknarniðurstöður þeirra sjúklinga sem féllu undir ofangreinda skilgreiningu á nýrnabilun x.

Niðurstöður: Af 106 sjúklingum reyndist 21 hafa nýrnabilun x (20%). Meðalaldur sjúklinga með nýrnabilun x var 26±5 ár en annarra sjúklinga 30±7 ár (p<0,05). Karlar voru í meirihluta í báðum hópum (18/21 og 59/86) en ekki var marktækur kynjamunur milli hópa. Sjúklingar með nýrnabilun x leituðu jafnan læknis vegna verkja í baki eða kviði. Þeir höfðu yfirleitt tekið lítinn skammt af bólgueyðandi lyfi, oftast íbúprófeni, eftir áfengisneyslu. Nýrnabilunin gekk sjálfkrafa yfir á fáum vikum.

Ályktanir: Nýrnabilun x er hlutfallslega algengt form bráðrar nýrnabilunar hjá ungu fólki á Íslandi. Hún hefur ekki verið útskýrð nákvæmlega og það ekki vitað hvort gaukulsíunarhraði nær sér að fullu á eftir. Læknar þurfa að þekkja þessa sjúkdómsmynd því ekki er nauðsynlegt að gera miklar rannsóknir á hinum dæmigerða sjúklingi. Sá boðskapur þarf að berast til almennings að bólgueyðandi lyf sem tekin eru við timburmönnum geti valdið bráðri nýrnabilun.

 

V 27    Faraldsfræði og framrás gauklasjúkdóma meðal aldraðra einstaklinga

Konstantín Shcherbak1, Ólafur Skúli Indriðason2, Viðar Eðvarðsson3, Jóhannes Björnsson4,5, Runólfur Pálsson2,5

1Öldrunarsviði, 2nýrnalækningaeiningu lyflæknasviðs I, 3Barnaspítala Hringsins, 4rannsóknarstofu í meinafræði, Landspítala, 5læknadeild HÍ

runolfur@landspitali.is

Inngangur: Gauklasjúkdómar eru meðal algengustu orsaka lokastigsnýrnabilunar (LSNB).Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta faraldsfræði og framrás gauklasjúkdóma meðal aldraðra samanborið við yngri fullorðna einstaklinga.

Efniviður og aðferðir: Þetta var afturskyggn rannsókn á einstaklingum sem greindust með gauklasjúkdóm á Íslandi á árunum 1983-2002. Upplýsingar um afdrif sjúklinga voru fengnar úr sjúkraskrám Landspítala, Íslensku nýrnabilunarskránni og Þjóðskrá. Sjúklingar yngri en 18 ára voru útilokaðir og þeim fullorðnu skipt í tvo hópa, undir 65 ára og 65 ára og eldri. Niðurstöður eru sýndar sem miðgildi (spönn).

Niðurstöður: Af 257 fullorðnum voru 187 undir 65 ára aldri (18,3-64,8 ár) og 70 voru 65 (65,3-85,6) ára eða eldri.Nýgengi gauklasjúkdóms hjá þeim eldri var 12,3/100.000/ár og hjá þeim yngri 5,9/100.000/ár. Nýrungaheilkenni var algengasta ástæða nýrasýnistöku hjá eldri hópnum en afbrigðileg þvagrannsókn meðal þeirra yngri. Hjá þeim eldri voru algengustu greiningarnar æðabólga (11,4%), sykursýkinýrnamein (11,4%), mýlildi (8,6%) og membranous nephropathy (8,6%) en í tilviki þeirra yngri voru það IgA nýrnamein (33,2%), focal segmental glomerulosclerosis (11,2%) og gauklabólga af völdum rauðra úlfa (8,6%). Lengd eftirfylgdar hjá eldri hópnum var 4,1 (0,0-20,9) ár og voru 21,4% sjúklinga á lífi án þess að þarfnast meðferðar við lokastigsnýrnabilun í lok tímabilsins, 17,1% höfðu fengið meðferð við lokastigsnýrnabilun og 61,4% höfðu látist án þess að hafa þarfnast meðferðar við lokastigsnýrnabilun, þar af voru 26% með rGSH <15 ml/mín./1,73 m2. Við lok eftirfylgdar sem varaði í 10,3 (0,0-24,2) ár, voru 69,7% yngri einstaklinganna á lífi án þess að þarfnast meðferðar við lokastigsnýrnabilun, 17,8% höfðu fengið meðferð við lokastigsnýrnabilun og 12,4% höfðu látist án þess að hafa þurft á meðferð við lokastigsnýrnabilun að halda.

Ályktanir: Tíðni, orsakir og sjúkdómsframvinda gauklasjúkdóma virðist mismunandi meðal yngri og eldri fullorðinna.

 

V 28      Skurðsýkingar eftir bláæðatöku á ganglimum við opnar kransæðahjáveituaðgerðir

Helga Hallgrímsdóttir1, Ásta S. Thoroddsen1, Tómas Guðbjartsson3,2

1Hjúkrunarfræðideild, 2læknadeild HÍ, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

helgahal@landspitali.is

Inngangur: Skurðsýkingar eru einn algengasti fylgikvilli kransæðahjáveituaðgerða (CABG) og geta meðal annars komið í bringubeinsskurð. Mun algengari eru þó skurðsýkingar eftir bláæðatöku, eða 2-26% samkvæmt erlendum rannsóknum. Ekki eru til tölur um tíðni þessara sýkinga hér á landi og markmið þessarar rannsóknar var að bæta úr því.

Efniviður og aðferðir: Framsýn rannsókn á 65 sjúklingum (51 karl, meðalaldur 64 ár) sem gengust undir CABG á Landspítala frá 1. sept. til 26. des. 2007. Klínískar upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og var öllum sjúklingum fylgt eftir í 30-40 daga eftir aðgerð. Skurðsár voru metin samkvæmt ASEPSIS stigakerfi og var sýking skilgreind sem ASEPSIS-skor >20. Bornir voru saman sjúklingar með og án sýkingar og kannaðir áhættuþættir sýkingar.

Niðurstöður: Alls greindust 15 sjúklingar með sýkingu (23,1%) innan 35 daga frá aðgerð og fengu þeir allir sýklalyf. Að meðaltali greindist skurðsýkingin á 17. degi (bil 9-33 dagar) en í 67% tilfella voru sjúklingar útskrifaðir þegar skurðsýking greindist. Eins og búast mátti við var ASEPSIS-skor hærra hjá sýktum en hjá ósýktum (29,5 á móti 9; p<0,0001) og skurðirnir 6 cm lengri í fyrrnefnda hópnum þótt munurinn væri ekki marktækur (p=0,06). Að öðru leyti voru hóparnir mjög sambærilegir hvað varðar áhættuþætti eins og til dæmis aldur, kyn, líkamsþyngdarstuðull (body mass index, BMI), sykursýki og æðasjúkdóma. Legutími fyrir og eftir aðgerð var einnig sambærilegur í báðum hópum (níu og 11 dagar). Hins vegar sást tilhneiging til lægri sýkingatíðni eftir brotinn í stað heils skurðar (13,3 á móti 36%, p=0,12).

Ályktanir: Tæplega fjórðungur sjúklinga greinist með skurðsýkingu eftir bláæðatöku við CABG og fær meðferð með sýklalyfjum. Sýkingartíðni var hærri í þessari rannsókn en í sambærilegum rannsóknum erlendis, en taka verður tillit til þess að sjúklingum var fylgt óvenjulengi eftir í þessari rannsókn sem hækkar tíðnina. Brýnt er að kanna betur áhættuþætti þessara sýkinga í stærri samanburðarrannsókn og gera ráðstafanir til að fækka þeim.


V 29      Bólgumiðlar spá ekki fyrir um tilkomu endurþrengsla í stoðnetum

Sigurdís Haraldsdóttir1,3, Dagbjört Helga Pétursdóttir2, Þórarinn Guðnason1, Axel F. Sigurðsson1, Anna Helgadóttir4, Kristján Eyjólfsson1, Sigurpáll Scheving1, Kristleifur Kristjánsson4, Björn Rúnar Lúðvíksson2, Karl Andersen1,3

1Hjartadeild, 2ónæmisfræðideild Landspítala, 3læknadeild HÍ, 4Íslenskri erfðagreiningu

sih17@hi.is

Inngangur: Endurþrengsli í stoðneti koma fram hjá 20-30% sjúklinga á fyrstu 6-12 mánuðum eftir kransæðavíkkun. Bólgumiðlar hafa talsvert verið rannsakaðir í kransæðasjúkdómi en minna í greiningu endurþrengsla í stoðnetum. Markmið verkefnisins var að kanna á framsæjan hátt hvort nota mætti mælingar á bólgumiðlum til að spá fyrir um tilkomu end-
urþrengsla í stoðnetum.

Efniviður og aðferðir: Hundrað og fjórtán sjúklingar sem fóru í kransæðavíkkun og fengu stoðnet voru teknir inn á tímabilinu maí 2005 til júlí 2006. Sjúklingar með bráða kransæðastíflu, fyrri sögu um kransæðasjúkdóm, nýrnabilun og skuggaefnisofnæmi voru útilokaðir. Blóðprufur voru teknar í kransæðavíkkun og sex mánuðum seinna voru allir kallaðir inn í nýja krans-æðaþræðingu og blóðprufa endurtekin. Eftirfarandi bólgu-miðlar voru mældir: hs-CRP (CRP Latex HS reagent, Roche Diagnostics), myeloperoxidasi (ELISA, Assay Design Inc.), IL-1b, IL-6, IL-8, MCP-1, VEGF, IFN-γ, TNF-α, IL-18 og VCAM-1 (Bioplex Cytokine Assay, BioRad).

Niðurstöður: Tíu sjúklingar duttu út á tímabilinu og því voru samtals 104 sjúklingar með 157 stoðnet metnir. Miðtími frá kransæðavíkkun að endurþræðingu voru 203 dagar (Q1-Q3: 185-233). Meðalaldur var 63±10 ár (spönnun 39-83 ár) og 79% sjúklinga voru karlar. Tíðni áhættuþátta var eftirfarandi: háþrýstingur 61%, háar blóðfitur 49%, sykursýki 14% og reykingar 22%. Lyfjahúðuð stoðnet voru notuð í 35% sjúklinga. Tuttugu og átta sjúklingar (27%) reyndust hafa endurþrengsli. Það var ekki marktækur munur á áhættuþáttum hjá sjúklingum með endurþrengsli samanborið við sjúklinga án endurþrengsla. Ennfremur reyndust engin tengsl milli styrks bólgumiðla og tíðni endurþrengsla samkvæmt kransæðaþræðingu.

Ályktun: Ofannefndir bólgumiðlar spá ekki fyrir um tilkomu endurþrengsla í stoðnetum.

 

V 30      Árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi

Hannes Sigurjónsson1, Bjarni G. Viðarsson1, Þórarinn Arnórsson1, Bjarni Torfason1,2, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild HÍ

hannes@lsh.is, tomasgud@landspitali.is

Inngangur: Fyrsta kransæðahjáveituaðgerðin á Íslandi var gerð árið 1986 og tveimur áratugum síðar hafa verið gerðar rúmlega 3000 slíkar aðgerðir á Landspítala. Ekki eru til rannsóknir á árangri þessara aðgerða hér á landi og tilgangur rannsóknarinnar að bæta úr því.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og nær til allra sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Íslandi frá júní 2002 til febrúar 2005. Sjúklingum sem gengust undir aðra aðgerð samtímis kransæðahjáveitu (til dæmis lokuaðgerð) var sleppt. Alls voru 307 sjúklingar teknir með í rannsóknina (meðalaldur 67 ár, 79% karlar), 218 sem gengust undir hefðbundna aðgerð með aðstoð hjarta- og lungnavélar (CABG) og 89 sem fóru í aðgerð á sláandi hjarta (OPCAB). Þessir hópar voru síðan bornir saman með tilliti til fylgikvilla eftir aðgerð.

Niðurstöður: Áhættuþættir voru mjög sambærilegir fyrir bæði CABG og OPCAB-hóp, en tæplega tveir þriðju sjúkling-
anna voru í NYHA-flokki III/IV, 7% með EF <30% og marktæk
vinstri höfuðstofnþrengsl voru til staðar hjá 41% sjúklinga. Sama átti við um aldur, fjölda æðatenginga (3,4) og EuroSCORE (4,8). Aðgerðir á sláandi hjarta tóku lengri tíma (215 á móti 191 mínútu, p<0,01) og blæðing í þeim var aukin í samanburði við hefðbundna aðgerð og munaði 498 ml (p<0,001). Tíðni enduraðgerða vegna blæðinga og magn blóðgjafa var þó sambærileg í báðum hópum en hjartadrep í aðgerð var algengara í CABG hópi (18% á móti 9%, p<0,05) líkt og aftöppun fleiðruvökva (17% á móti 7%, p=0,03). Aftur á móti var tíðni gáttatifs (53%) og heila-
blóðfalls (2%) sambærileg í báðum hópum, einnig legutími (10 dagar). Ekki var heldur marktækur munur á skurðdauða (<30 dagar) á milli hópa en hann var 2,6% fyrir hópinn í heild.

Ályktanir: Árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi er góður og sambærilegur við stærri hjartaskurðdeildir erlendis, þar með talinn skurðdauði. Blæðing er aukin eftir aðgerðir á sláandi hjarta en tíðni hjartadreps heldur lægri samanborið við CABG.

 

V 31      Æðaþelsfrumur örva vöxt og sérhæfingu brjóstaþekjufrumna í þrívíðri frumuræktun

Sævar Ingþórsson, Valgarður Sigurðsson, Magnús Karl Magnússon, Þórarinn Guðjónsson

Rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum og blóðmeinafræðideild Landspítala og líffærafræði læknadeildar HÍ

saevari@hi.is

Inngangur: Vaxandi þekking á vefjamyndun líffæra bendir til þess að æðaþelsfrumur spili stórt hlutverk í þroskun og sérhæf-ingu vefja. Nýlegar rannsóknir benda einnig til að æðaþel gegni lykilhlutverki í stofnfrumuvist (niche) í ýmsum líffærum. Lítið er hins vegar vitað um áhrif æðaþels á sérhæfðar þekjufrumur (kirtilþekju- og vöðvaþekjufrumur) og stofnfrumur í brjóstkirtli. Nauðsynlegt er að auka þekkingu á vefjamyndun í brjóstkirtli þar sem líklegt er að sú vitneskja auðveldi frekari kortlagningu fyrstu skrefa brjóstakrabbameinsmyndunar. Markmið rann-
sóknarinnar er að þróa vefjaræktunarlíkan sem líkir eftir aðstæðum í brjóstkirtli og meta nýtingu slíks líkans til að kanna áhrif æðaþelsfrumna á vöxt og formgerð sérhæfðra þekju-
frumna og stofnfrumna í brjóstkirtli.

Efniviður og aðferðir: Ferskar æðaþelsfrumur og þekjufrumur voru einangraðar úr brjóstaminnkunaraðgerðum samkvæmt stöðluðum aðferðum. Einnig var notast við brjóstaþekjufrumulínurnar D382 og MCF10a (kirtilþekjufrumulínur). Þekjufrumum var steypt ásamt æðaþeli í grunnhimnuefni og áhrif æðaþels á formgerð og stærð frumuþyrpinga metin. Til að meta áhrif leysanlegra þátta voru frumurnar ræktaðar aðskild-ar með Transwell filtrum ásamt því að notuð voru hindrandi mótefni gegn vaxtarþáttunum hepatocyte growth factor (HGF) og epidermal growth factor (EGF).

Niðurstöður: Í samrækt með kirtilþekjufrumum stuðlaði æðaþel að myndun kirtilberja og aukningu á fjölda kirtilberja. Kirtilberin mynda miðlægt hol líkt því sem sést í brjóstkirtl-inum Þessi holmyndun eykst mikið í samrækt með æðaþeli. Sambærilegar niðurstöður fást í samrækt með D382 og MCF10a, þó er holmyndun ekki eins áberandi og hjá primary frumunum. Æðaþelsfrumur örva vöxt vöðvaþekjufrumna en formgerð er óbreytt miðað við viðmiðunarrækt. Þegar frumurnar voru samræktaðar aðskildar með Transwell filtrum hafði æðaþelið einnig vaxtarhvetjandi áhrif.

Ályktanir: Þessar rannsóknir sýna að æðaþelsfrumur hvetja vöxt og sérhæfingu brjóstaþekjufrumna í þrívíðri rækt og er líklegt að þessum áhrifum sé meðal annars miðlað af leysanlegum vaxtarþáttum frá æðaþeli.

 

V 32      Vefjaræktun berkjufrumna í þrívíðu umhverfi er háð samskiptum við æðaþel

Ívar Þór Axelsson1,6, Ólafur Baldursson1,2,4,5.6, Tómas Guðbjartsson3,6, Magnús Karl Magnússon1,6, Þórarinn Guðjónsson1,6

1Rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum blóðmeinafræðideild Landspítala og líffærafræði læknadeildar HÍ, 2lungnalækningadeild, 3brjóstholsskurðdeild, 4lyflæknasviði Landspítala, 5lyfjafræðideild HÍ, 6lífvísindasetri Læknagarðs

ivarax@gmail.com

Inngangur: Rannsóknir benda til að vefjastofnfrumur í berkjum sé að finna meðal basalfrumna. Við höfum nýlega búið til berkjufrumulínuna VA10 (Halldorsson, et al. In Vitro Cell and Dev Biol, 2007). VA10 sýnir basalfrumueiginleika og getur meðal annars myndað aðrar frumugerðir lungna í rækt sem bendir til stofnfrumueiginleika hennar. Nýlegar rannsóknir benda til að æðaþelsfrumur spili stórt hlutverk í vefjamyndun ýmissa líffæra. Þrátt fyrir nálægð æðaþelsfrumna og þekjuvefsfrumna í lungum þá er lítið vitað um áhrif æðaþels á vöxt og sérhæfingu lungnaþekjufrumna. Markmið rannsóknarinnar er að kanna áhrif æðaþelsfrumna á vöxt og sérhæfingu VA10 berkjufrumulínunnar í þrívíðri frumuræktun.

Efniviður og aðferðir: Samræktir VA10 og æðaþelsfrumna úr naflastreng voru settar upp við þrívíð ræktunarskilyrði í geli sem inniheldur uppleysta grunnhimnu (in reconstituted base-ment membrane, rBM). Ræktunum var fylgt eftir í fasakon-trast-smásjá í þrjár vikur og sem viðmið voru VA10 frumur og æðaþelsfrumur ræktaðar í sitt hvoru lagi. Í lok ræktunartíma voru gel frystiskorin og mótefnalituð gegn kennipróteinum til greiningar á frumugerðum greinóttra þyrpinga. Hliðstætt voru litaðar vefjasneiðar úr heilbrigðum lungnavef.

Niðurstöður: VA10 frumur ræktaðar einar og sér í rBM mynda kúlulaga frumuþyrpingar. Æðaþelsfrumur ræktaðar á sama hátt sýna engin merki um skiptingu og koma fyrir í ræktinni sem stakar frumur. Við samrækt frumugerðanna á sér stað greinótt formmyndun VA10 frumulínunnar sem líkist berkjugöngum tengdum lungablöðrum. Mótefnalitun með β4-integrin og öðrum kennipróteinum staðfestir þekjuvefsuppruna berkjuganganna.

Ályktanir: Niðurstöður okkar benda til þess að VA10 frumulínan búi yfir stofnfrumueiginleikum, sem dregnir eru fram á yfirborðið í samskiptum við æðaþelsfrumur. Áframhaldandi rannsóknir beinast að frekari greiningu á vefjaræktunarlíkaninu og þeim þáttum sem æðaþelið seytir og stuðla að greinóttri formbyggingu VA10 í þrívíðum ræktunum.

 

V 33      Tjáning Sprouty próteina í lungnaþekjufrumulínunni VA10

Ari Jón Arason1, Ólafur Baldursson2,3, Þórarinn Guðjónsson1, Magnús Karl Magnússon1

1Rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum, líffærafræðideild læknadeildar HÍ og blóðmeinafræðideild Landspítala, 2lyfjafræðideild HÍ, 3lungnadeild Landspítala

magnuskm@landspitali.is, aja1@hi.is

Inngangur: Týrósín kínasa viðtakar (RTK) og innanfrumuferlar tengdir þeim spila lykilhlutverk í myndun greinóttrar formgerðar ýmissa líffæra, þar með talið lungna. Nýlegar rannsóknir sýna að RTK er stýrt af Sprouty prótein fjölskyldunni. Sprouty fjölskyldan samanstendur af fjórum próteinum, Sprouty 1-4. VA10 er berkjufrumulína sem búin var til á rannsóknastofu okkar (Halldórsson, et al. In Vitro, 2007). Hún myndar greinótta berkju-alveolar formgerð í þrívíðri rækt sem bendir til þess að frumulínan búi yfir ákveðnum stofnfrumeiginleikum. Markmiðrannsóknarinnar var að kanna tjáningu Sprouty próteina í VA10 frumulínunni í tvívíðum ræktunum og í framhaldi að rannsaka hvaða áhrif Sprouty próteinin hafa á berkju-alveolar formbyggingu í þrívíðri rækt.

Efniviður og aðferðir: VA10 frumulínan var ræktuð í tvívíðri rækt á sérhæfðu lungnaþekjufrumuæti. Prótein og RNA var einangrað við mismunandi vaxtaraðstæður frumnanna til að fá sem heildstæðasta mynd af tjáningu valinna próteina. Tjáning á Sprouty í VA10 var metin með mótefnalitunum og Western blettun. Rauntíma PCR (q-RT-PCR) var notað til að rannsaka mRNA tjáningu.

Niðurstöður: Sprouty 1 og 3 eru almennt lítið tjáð í VA10. Greinileg aukning þessara próteina verður við svelti frumnanna sem bendir til tengingar við vaxtarstopp. Tjáning Sprouty 4 magnast við aukna þéttni rækta. Það gefur til kynna tengingu við temprun á vaxtarboðum gegnum RTK, þar sem frumurnar hlýða vaxtarstöðvandi skilaboðum við aukna þéttni í rækt. Við ofurþéttni hrapar þessi tjáning hins vegar. Þar er Sprouty 2 langmest tjáða Sprouty próteinið en tjáning þess er tiltölulega stöðug við mismunandi þéttni rækta.

Ályktanir: Rannsóknir okkar sýna að tjáning Sprouty er breytileg eftir aðstæðum Það að VA10 myndi greinótta berkju-alveolar formgerð í þrívíðri rækt býður upp á mikla möguleika á að hægt verði að rannsaka betur þá innanfrumuboðferla sem stýra greinóttri formgerð lungna. Næstu skref eru að athuga hvaða hlutverk Sprouty leikur við myndun greinóttrar formgerðar lungna.

 

V 34      Hætta á þunglyndiseinkennum er ekki aukin meðal þeirra sem fengið hafa heilahimnubólgu

Martina Vigdís Nardini1, Ingi Karl Reynisson1, Hafrún Kristjánsdóttir2, Ragnar Freyr Ingvarsson2, Jón Friðrik Sigurðsson2, Magnús Gottfreðsson2

Læknadeild HÍ, Landspítala

mvn1@hi.is, magnusgo@landspitali.is

Inngangur: Heilahimnubólga af völdum meningókokka, Neisseria meningitidis, er bæði algengt og alvarlegt heilsufars-vandamál í heiminum. Dánartíðni hér á landi sökum slíkra sýkinga er um 10% en meðal þeirra sem lifa sýkinguna af eru algengustu fylgikvillar heyrnarskerðing og drep í húð. Ýmislegt bendir til að andleg vandamál í kjölfar heilahimnubólgu séu vangreind og að hætta á ótímabærum dauðsföllum sé aukin mánuðum eða árum eftir sýkinguna.

Efniviður og aðferðir: Valið var handahófsúrtak 170 einstaklinga sem höfðu fengið ífarandi meningókokkasýkingu og lifað hana af. Þeim var boðin þátttaka í rannsókninni. Af þeim tóku þátt 120 manns. Fyrir þátttakendur voru lagðir þrenns konar spurningarlistar (Becks, DASS og PHQ) sem allir kanna andlega líðan einstaklingsins, þó aðallega með tilliti til þunglyndis,
streitu og kvíða. Hóparnir voru bornir saman með t-prófi.

Niðurstöður: Þunglyndiseinkenni samkvæmt Becks-kvarða voru ekki marktækt algengari meðal þeirra sem fengið höfðu meningókokkasýkingu (p=0,63). Niðurstöður úr DASS-spurn-ingalistum sýndu að sjúklingahópurinn hefur minni einkenni um þunglyndi, kvíða og streitu en samanburðarhópur (p<0,001). Niðurstöður úr PHQ-spurningarlistum sýndu að tíðni felmt-ursröskunar, annarra kvíðaraskana, lotugræðgi og ofáts var ekki frábrugðin almennu þýði en tíðni áfengismisnotkunar var marktækt hærri meðal þeirra sem fengið höfðu meningó-
kokkasýkingu (17,4% á móti 7%, p<0,001).

Ályktanir: Hugmyndir hafa verið uppi um að heilahimnubólga af völdum meningókokka geti leitt til þunglyndis meðal þeirra sem lifa sýkinguna af. Niðurstöður okkar benda hins vegar ekki til að svo sé og þvert á móti eru kvíða- og streitueinkenni minni en hjá almennu þýði.

 

V 35      Taugatrefjaæxli af tegund 1 og heila- og mænusigg. Sjúkratilfelli

Steinunn Þórðardóttir, María Guðlaug Hrafnsdóttir, Albert Páll Sigurðsson, Ólafur Kjartansson

Landspítala

steintho@landspitali.is

Inngangur: Taugatrefjaæxli af tegund 1 (NF-1) og heila- og mænusigg í sama sjúklingi er mjög sjaldgæft fyrirbrigði. Vangaveltur hafa verið uppi um tengsl þessara tveggja sjúkdóma og hefur samtals 11 tilfellum þar sem þeir koma saman verið lýst.

Sjúkratilfelli:Þrjátíu og níu ára kona greindist með NF-1 í barnæsku á grundvelli taugatrefjaæxla í húð og café-au-lait bletta. Fyrir tveimur árum sáust breytingar á segulómun af höfði sem voru grunsamlegar fyrir heila- og mænusigg, en hún þróaði ekki slík einkenni fyrr en tveimur árum síðar. Þau lýstu sér í svima og gangtruflunum sem fóru hratt vaxandi. Segulómun af höfði, mænuvökvi og hrifrit samrýmdust heila- og mænusiggi.

Ályktanir: NF-1 virðist tengjast heila- og mænusiggi og hafa rannsóknir sýnt að algengi heila- og mænusiggs er fimmtánfalt meira hjá NF-1 sjúklingum en búast mætti við. NF-1 er autosomal ríkjandi sjúkdómur og hefur gen hans sæti á litningi 17q.11.2. Innan NF1 gensins er gen sem kóðar fyrir smágriplufrumu (oligodendrocyte) mýelín glýkópróteini sem gæti átt hlutverki að gegna við mýelínframleiðslu. Kannað hefur verið hvort ákveðnar stökkbreytingar í þessu geni séu algengari í sjúklingum með heila- og mænusigg en öðrum, án þess að það hafi fengist staðfest. Frekari rannsókna er þörf til að varpa ljósi á ástæður tengsla þessara sjúkdóma.


V 36      Faraldsfræði sýkinga af völdum streptókokka af flokki B - Streptococcus agalactiae- á Íslandi árin 1975-2007

Helga Erlendsdóttir1,3, Erla Soffía Björnsdóttir1, Magnús Gottfreðsson2,3, Karl G. Kristinsson1,3

1Sýklafræðideild, 2smitsjúkdómadeild Landspítala, 3læknadeild HÍ

helgaerl@landspitali.is

Inngangur: Streptókokkar af flokki B (SFB), eða Streptococcus agalactiae, valda alvarlegum sýkingum hjá nýburum og barnshafandi konum. Á síðustu áratugum hefur ífarandi sýkingum hjá öðrum fullorðnum fjölgað til muna, einkum hjá þeim sem hafa aðra sjúkdóma. Unnt er að flokka SFB í níu hjúpgerðir, en þær eru Ia, Ib og II-VIII. Skort hefur faraldsfræðirannsóknir á bakteríunni, sem ná yfir heila þjóð og langt tímabil.

Efniviður og aðferðir: Farið var yfir niðurstöður blóð-, liðvökva- og mænuvökvaræktana á sýklafræðideild Landspítalans og sýklarannsóknadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur á tímabilinu 1975-2007. Eftirfarandi upplýsingar voru skráðar fyrir alla fullorðna sjúklinga (>16 ára) sem greindust með ífarandi sýkingar af völdum SFB: aldur, kyn, dagsetning jákvæðrar ræktunar, sýkingarstaður og afdrif. Ef sjúklingur lést innan fjögurra vikna frá jákvæðri ræktun var sýkingin talin dánarorsök. Allir tiltækir stofnar voru hjúpgreindir.

Niðurstöður: Á tímabilinu1975-2007 greindust116 fullorðnir einstaklingar með ífarandi SFB sýkingar (karlar 40%, konur 60%). Fjöldi sýkinga var breytilegur milli ára, eða 0-14 sýkingar árlega. Tveir sjúklingar fengu endurteknar sýkingar. Sýkingafjöldi var sem hér segir: 13 sýkingar 1975-1985, 30 sýkingar 1986-1996 og 75 sýkingar 1997-2007, sem samsvarar nýgengi 0,7; 1,5 og 3,2 sýkingar/100.000 fullorðna íbúa/ár, sem er marktæk aukning (p<0,0001). Fimmtán sjúklingar voru með liðsýkingu (13%), þrír með heilahimnubólgu (3%) og aðrir með blóðsýkingu (84%). Níu sjúklingar voru á aldrinum 17-30 ára (8%), 52 (45%) 30-65 ára og 55 (47%) eldri en 65 ára. Dánartíðni meira en fjórum vikum eftir jákvæða ræktun) var 16% (19/116) og var svipuð öll tímabilin. Dánartíðni var lægri í tveimur yngri aldurshópunum (11%) samanborið við þann elsta (25%), en munurinn var ekki marktækur (p=0,058). Alls voru 90 stofnar hjúpgreindir. Svipaður fjöldi var af hjúpgerð Ia, Ib, II, III og V (15-18), aðrar hjúpgerðir voru sjaldgæfari. Hjúpgerð Ib er mun algengari hér en erlendis og hjúpgerð V sjaldgæfari. Hvorki sáust tengsl á milli hjúpgerða og afdrifa, né skýrðist fjölgun síðustu ára af ákveðnum hjúpgerðum.

Ályktanir: Nýgengi ífarandi SFB sýkinga meðal fullorðinna hefur aukist til muna hér á landi síðastliðna þrjá áratugi. Á sama tíma hefur dánartíðni staðið í stað.

 

V 37      Langvinn lungnateppa hjá þeim sem ekki reykja

Gunnar Guðmundsson1,2, Bryndís Benediktsdóttir1,2, Þórarinn Gíslason1,2 fyrir alþjóðlega BOLD rannsóknarhópinn

1Læknadeild HÍ, 2lungnadeild Landspítala

ggudmund@landspitali.is

Inngangur: Lítið er vitað um eðli langvinnrar lungnateppu (LLT) hjá þeim sem aldrei hafa reykt.

Efniviður og aðferðir: Unnið var úr gögnum frá 12 löndum sem tóku þátt í alþjóðlegu rannsókninni Burden of Obstructive Lung Disease (BOLD (www.kpchr.org/boldcopd)). Þátttakendur voru 40 ára og eldri og var framkvæmd öndunarmæling eftir berkjuvíkkandi lyf. Einnig svöruðu þeir spurningum um lungnaheilsu. Öndunarmæling var framkvæmd á staðlaðan hátt af þjálfuðu starfsfólki. Greining á langvinnri lungnateppu var byggð á FEV1/FVC hlutfalli eftir berkjuvíkkun samkvæmt leiðbeiningum GOLD. Reykleysi var skilgreint sem reykingar minna en 20 pakkar af sígarettum um ævina.

Niðurstöður: Reyklausir (n=3169) voru 42,3% af BOLD þýðinu. Af þeim uppfylltu 12,7% skilyrði fyrir langvinnri lungnateppu á stigi I eða hærra, 6,8% höfðu væga (GOLD stig I) og 5,9% höfðu klínískt marktæka óafturkræfa lungnateppu (GOLD stig II eða hærra). Reyklausir voru 33,7% af öllum með langvinna lungnateppu I og 23,4% af öllum með langvinna lungnateppu II+. Að meðaltali voru reyklausir með langvinna lungnateppu eldri, minna menntaðir, höfðu meiri öndunarfæraeinkenni og oftar læknisgreindan hjartasjúkdóm og/eða háþrýsting samanborið við reyklausa án lungnateppu. Þeir sem reyktu höfðu langvinna lungnateppu á hærra stigi en þeir sem ekki höfðu reykt.

Ályktanir: Reyklausir eru umtalsverður hluti af einstaklingum með langvinna lungnateppu og hafa þeir annað klínískt mynstur en þeir sem hafa reykt.

 

V 38      Skert fráblástursgeta og bólguboðefni (CRP og IL-6)

Sigurður James Þorleifsson1, Ólöf Birna Margrétardóttir1, Gunnar Guðmundsson1,2, Ísleifur Ólafsson3, Bryndís Benediktsdóttir1, Christer Janson4, Þórarinn Gíslason1,2

1Læknadeild HÍ, 2lungnadeild, 3klínískri lífefnafræðideild Landspítala, 4Respiratory Medicine and Allergology, Háskólanum í Uppsölum, Svíþjóð

ggudmund@landspitali.is

Inngangur: Langvinn lungnateppa (LLT) er samheiti teppusjúkdóma í lungum svo sem langvinnrar berkjubólgu, lungnaþembu og lokastigs astma. Rannsóknir hafa sýnt að C-reactive protein (CRP) og Interleukin-6 (IL-6) hækka við marga langvinna
bólgusjúkdóma. Möguleg tengsl CRP og langvinnrar lungna-teppu hafa áður aðeins verið metin í útvöldum sjúklingahópum og lítið er vita um samband IL-6 og langvinnrar lungnateppu.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggðist á slembiúrtaki 938 karla og kvenna, 40 ára og eldri, sem búsett voru á höfuðborg-arsvæðinu. Þetta var hluti af alþjóðlegri rannsókn á algengi langvinnrar lungnateppu (http://www.kpchr.org/boldcopd) þar sem fráblástursgeta var mæld fyrir og eftir gjöf berkjuvíkkandi lyfs. Að auki var styrkur CRP og IL-6 mældur í sermi.

Niðurstöður: Fjögur hundruð og þrír karlar og 355 konur tóku þátt (81% þátttökuhlutfall) þar sem meðalaldur var 57,7 (±12,7) ár. Mælingum á CRP og IL-6 í sermi var skipt í fjóra jafnstóra hópa ([CRP: ≤0,75; 0,75-1,27; 1,27-3,25 og >3,25 mg/L], [IL-6: ≤1,51; 1,51-2,82; 2,82-4,69 og >4,69 pg/mL]). Alls uppfylltu 130 einstaklingar (18%) skilyrði fyrir GOLD stig I eða hærra. Bæði CRP og IL-6 tengdust lægri gildum á FEV1 og FVC. Þeir einstaklingar sem voru í hæstu fjórðungum CRP og IL-6 höfðu 7,5% og 3,9% lægri gildi af spáðu FEV1% þegar leiðrétt hafði verið fyrir reykingum, aldri og líkamsþyngd. Einstaklingar sem reyndust hafa há gildi bæði á CRP og IL-6 voru með 10% skerðingu af spáðum gildum fyrir FEV1 og FVC. Há CRP gildi höfðu sterkari tengsl við lægri FEV1 gildi í körlum (-11,4%) en í konum (-0,4%).

Ályktanir: Niðurstöður okkar sýna að bæði CRP og IL-6 eru marktækt tengd lægri fráblástursgildum í þessu slembiúrtaki úr almennu þýði og styður það hugmyndir um mikilvægi almennrar bólgusvörunar í langvinnri lungnateppu.

 

V 39      Kransæðavíkkanir á Íslandi og í Svíþjóð árið 2007

Þórarinn Guðnason1, Guðný Stella Guðnadóttir1, Bo Lagerqvist2, Kristján Eyjólfsson1, Sigurpáll Scheving1, Axel Sigurðsson1, Þorbjörn Guðjónsson1, Ragnar Danielsen1, Torfi Jónasson1, Guðjón Karlsson1, Karl Andersen1, Sigurlaug Magnúsdóttir1, Tage Nilsson2, Þóra Björnsdóttir1, Unnur Sigtryggsdóttir1, Gestur Þorgeirsson1, Stefan James2

1Landspítala, 2Uppsala Clinical Research Centre, Uppsölum, Svíþjóð

thorgudn@landspitali.is

Inngangur: Tíðni kransæðavíkkana er mismunandi eftir lönd-um en munurinn á ábendingum og árangri er minna þekktur.

Efniviður og aðferðir: Kransæðavíkkanir voru skráðar framsýnt í gæðaskrána Swedish Coronary Angiography and Angioplasty Registry á Íslandi og í Svíþjóð frá 1.1. til 31.12. 2007 og þau gögn rannsökuð.

Niðurstöður: Tíðni kransæðavíkkana var 214/100.000 íbúa á Íslandi en 204/100.000 í Svíþjóð (p=ns) og ábendingar voru: stöðug hjartaöng í 40% tilvika á Íslandi og 24% í Svíþjóð (p<0,01), óstöðug hjartaöng í 36% á móti 45% (p=ns) og bráð kransæðastífla í 20% á móti 27% (p<0,001). Konur voru 21% á Íslandi og aldur 63 ár (miðgildi), en í Svíþjóð 28% og aldur 66 ár. Á Íslandi reyktu 29% á móti 19% (p<0,001), háþrýsting höfðu 62% á móti 52% (p<0,01), blóðfitulyf tóku 61% á móti 53% (p<0,05) og sykursýki höfðu 16% á móti 19% (p=ns). Árangur kransæðavíkkana var góður í 94% tilfella og 1,5 stoðnet notuð að meðaltali á víkkun í báðum löndum. Stoðnet voru notuð í 88% víkkana á Íslandi en 84% í Svíþjóð (p=ns) en lyfjastoðnet í 23% á móti 19% (p<0,05). Notkun ósæðarpumpu, gangráða og segareksvarnartækja var eins. Notkun innæðaómunar (IVUS) var 0,5% á Íslandi en 3% í Svíþjóð (p<0,01) meðan flæðismæl-ingum (FFR) var beitt í 0,2% á móti 10% tilvika (p<0,001). Á þræðingarstofu var gangur fylgikvillalaus í 95% tilvika á Íslandi en í 97% í Svíþjóð og á legudeild í 93% og 93% tilvika (p=ns fyrir bæði). Dauðsföll vegna kransæðavíkkana voru 0% á Íslandi og 0,07% í Svíþjóð (p=ns).

Ályktanir: Hér eru í fyrsta sinn bornar saman allar krans-æðavíkkanir á heilu ári í tveimur löndum. Hlutfall kvenna meðal sjúklinga er fóru í kransæðavíkkun er lægra á Íslandi en í Svíþjóð. Fjöldi, árangur og fylgikvillar víkkana eru sambærilegir, en innæðaómun og flæðismælingar eru meira notaðar í Svíþjóð. Á Íslandi er stöðug hjartaöng oftar ástæða víkkunar, meira er um áhættuþætti hjá sjúklingum og lyfjastoðnet eru oftar notuð.

 

V 40      Fækkun dauðsfalla eftir kransæðastíflu á Íslandi á síðastliðnum tuttugu árum

Bergrós Kristín Jóhannesdóttir1, Jón M. Kristjánsson2, Sigurpáll S. Scheving3, Þórarinn Guðnason3, Karl Andersen1,3

1Læknadeild HÍ, 2háskólasjúkrahúsinu í Lundi, Svíþjóð, 3Landspítala

bkj1@hi.is

Inngangur: Á síðustu tveimur áratugum hefur meðferð sjúklinga með bráða kransæðastíflu tekið miklum breytingum. Í byrjun níunda áratugarins var aðallega beitt stuðningsmeðferð og lítið sem ekkert inngrip af hálfu lækna. Í dag hefur meðferðarúrræðum fjölgað til muna með tilkomu nýrra segaleysandi og blóðþynnandi lyfja og aðgerða á borð við kransæðavíkkanir og hjáveituaðgerðir. Markmið rannsóknarinnar var að meta heildaráhrif þessara breytinga á meðferð og dánartíðni sjúklinga með kransæðastíflu með ST hækkun (STEMI) á síðastliðnum 20 árum.

Efniviður og aðferðir: Safnað var upplýsingum úr sjúkraskrám allra sjúklinga sem lögðust inn á sjúkrahúsin í Reykjavík á almanaksárunum 1986, 1996 og 2006. Skráðar voru upplýsingar um áhættuþætti og meðferð sjúklinga fyrir og eftir innlögn og fylgst var með afdrifum þeirra einu ári eftir útskrift.

Niðurstöður:Rannsóknin náði til samtals 903 sjúklinga með STEMI, 335 árið 1986, 351 árið 1996 og 217 árið 2006. Konur voru 277 (31%) og karlar 626 (69%). Helstu áhættuþættir voru háþrýstingur (48%), ættarsaga (50%) og sykursýki (16%). Dánartíðni á fyrsta ári eftir kransæðastíflu lækkaði um 42% á tímabilinu. Hún fór úr 26,3% árið 1986 í 15,2% árið 2006 (p<0,01). Dauðsföllum meðal karla fækkaði um 43% en kvenna um 38%. Yfir tímabilið var dánartíðni kvenna hærri (24,9%) miðað við karla (19,3%; p=0,06).

Ályktanir: Töluverð fækkun hefur orðið á fjölda greindra STEMI tilfella á síðastliðnum 20 árum. Þá hefur orðið marktæk lækkun á heildardánartíðni á fyrsta ári eftir kransæðastíflu. Dánartíðni kvenna virðist hærri en karla en hún hefur þó einnig lækkað á rannsóknartímabilinu.

 

V 41      Notkun ígrædds taktnema til greiningar á orsökum yfirliða og hjartsláttaróþæginda

Guðrún Reimarsdóttir1, Davíð O. Arnar1,2

1Lyflæknasviði I, 2slysa- og bráðasviði Landspítala

davidar@landspitali.is

Inngangur: Það getur verið vandasamt að greina orsakir yfirliða og hjartsláttaróþæginda, sér í lagi ef einkenni eru fátíð. Ígræddur taktnemi (implantable loop recorder - Reveal) er nýjung þar sem hjartataktur er stöðugt vaktaður og frávik skráð í minni tækisins. Taktnemanum er komið fyrir undir húð á brjóstkassa en ekki er þörf á neinum leiðslum til hjartans. Tilgangur þessarar samantektar var að kanna ávinning af notkun taktnema hérlendis.

Efniviður og aðferðir: Gögn 10 sjúklinga, sem hafa haft ígræddan taktnema hérlendis, voru skoðuð á afturskyggnan hátt. Upplýsingar varðandi niðurstöður skráningar á hjartatakti eru geymdar í gangráðseftirliti á Landspítalanum.

Niðurstöður: Um var að ræða sex karla og fjórar konur, meðalaldur 56,5 ár (23-86 ára), og höfðu átta þeirra óútskýrð yfirlið og tvö hjartsláttaróþægindi með svimatilfinningu. Hjá fimm greindust takttruflanir samhliða einkennum sem töldust fullnægjandi skýring á þeim. Þar af voru tveir með ofansleglahraðtakt, tveir með hægatakt og einn með sleglahraðtakt. Hjá þremur sást ekki nein takttruflun á meðan á yfirliðaköstum stóð og hjartsláttartruflun því útilokuð sem orsök yfirliða. Einn sjúklingur fékk ekki einkenni meðan hann hafði tækið og hjá öðrum var yfirskynjun á T-bylgju sem truflaði skráningu verulega. Hjá þeim sem höfðu tækið allan líftíma rafhlöðunnar entist hún að meðaltali 17 mánuði. Einn sjúklingur fékk húðsýkingu um það bil ári eftir ígræðslu og var tækið fjarlægt auk þess sem hann var meðhöndlaður með sýklalyfi.

Ályktanir: Upphafsreynsla af notkun ígrædds taktnema hérlendis er góð. Tækið hefur reynst gagnlegt til að bæði greina og í vissum tilfellum útiloka hjartsláttartruflanir sem orsök yfirliða og hjartsláttaróþæginda.

 

V 42      Endurlífgun á sjúkrahúsi, skipulag, umfang og árangur á Landspítalanum

Bylgja Kærnested1,2, Gísli E. Haraldsson1,3, Jón Baldursson1,3, Davíð O. Arnar1,2,3

1Endurlífgunarnefnd, 2lyflæknasviði I, 3slysa- og bráðasviði Landspítala

davidar@landspitali.is bylgjak@landspitali.is

Inngangur: Árangur endurlífgunar á Landspítala hefur ekki verið þekktur. Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta umfang og árangur þessarar starfsemi á Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Á Landspítala eru starfandi tvö endurlífgunarteymi, eitt við Hringbraut og eitt í Fossvogi. Hvort teymi skipa fjórir læknar og einn hjúkrunarfræðingur. Frá því í ársbyrjum 2006 hafa skýrslur um endurlífgunartilraunir verið fylltar út jafnharðan samkvæmt svokölluðum Utstein staðli.

Niðurstöður: Á árunum 2006-2007 voru alls 311 útköll endurlífgunarteyma vegna bráðra uppákoma, þar af 113 í Fossvogi og 198 við Hringbraut. Af þessum útköllum var þörf á fullri endurlífgun í 82 tilfellum (26%). Endurlífgun bar árangur hjá 57 sjúklingum (71%). Af þessum 57 voru 25 (43%) á lífi eftir eitt ár. Meðalaldur sjúklinga sem fóru í hjartastopp var 71 ár. Um 63% þeirra sem fóru í hjartastopp voru karlar. Rafleysa og rafvirkni án dæluvirkni voru upphafstaktar hjá 38 sjúklingum (46%) við komu endurlífgunarteymis. Endurlífgun tókst hjá 19 þeirra (50%) en eftir 12 mánuði voru aðeins þrír (16%) á lífi. Tuttugu og einn (26%) sjúklingur var með sleglatif eða sleglahraðtakt án blóðflæðis (VF/VT) en hjá nær öllum (95%) bar endurlífgun árangur og 12 (60 %) voru lifandi að ári liðnu. Af þeim sem fóru í hjartastopp þar var endurlífgun árangursrík í 76% tilvikum samanborið við 67% þeirra sem fóru í hjartastopp á almennum legudeildum. Hjá þeim sem fóru í hjartastopp á þræðingarstofu var upphafsárangur 88%. Í 73% tilfella reyndust sjúklingar hafa fengið grunnendurlífgun af starfsmönnum deildar í upphafi.

Ályktanir: Þessar frumniðurstöður eru ágætar þegar mið er tekið af sambærilegum árangri í nágrannalöndunum. Lifun þeirra sem var með sleglatif eða sleglahraðtakt voru betri en hjá þeim sem höfðu rafleysu eða rafvirkni án dæluvirkni.

 

V 43      Er munur á klínískum áhættuþáttum gáttatifs og gáttaflökts?

Rúna Björg Sigurjónsdóttir1, Hilma Hólm1,2, Davíð O. Arnar1

1Lyflæknasviði I Landspítala, 2Íslenskri erfðagreiningu

davidar@landspitali.is

Inngangur: Þótt gáttatif og gáttaflökt hafi mismunandi raflífeðlisfræðileg grunnferli eru viss klínísk tengsl milli þessara tveggja takttruflana. Þannig geta gáttatif og gáttaflökt sést hjá sama sjúklingnum á mismunandi tímum og einkenni eru oft svipuð. Að auki hafa nýlegar rannsóknir sýnt að tveir erfðabreytileikar á litningi 4q25 tengjast verulega aukinni áhættu á bæði gáttatifi og gáttaflökti. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort munur væri á klínískum áhættuþáttum þessara hjartsláttartruflana.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturvirk og sjúkraskrár þeirra sem greinst höfðu með gáttatif og gáttaflökt á Landspítalanum voru skoðaðar. Leitað var eftir upplýsingum um fyrri eða samhliða greiningu háþrýstings og/eða undirliggjandi hjartasjúkdóms (kransæðasjúkdóms, hjartalokusjúkdóms eða hjartabilunar).

Niðurstöður: Meðalaldur 674 einstaklinga með gáttatif var 67 ár og meðalaldur 85 einstaklinga með gáttaflökt 66 ár (p=ns). Hjartasjúkdómur hafði greinst hjá alls 280 (41,5%) einstaklingum með gáttatif en 53 (62,4%) einstaklingum með gáttaflökt (p<0,0001). Háþrýstingur greindist hjá 369 (54,7%) einstaklingum með gáttatif en aðeins hjá 35 (41,2%) sjúklingum með gáttaflökt (p<0,05). Í gáttatifshópnum voru 195 (28,9%) hvorki með háþrýsting né hjartasjúkdóm en 23 (27,1%) af þeim sem voru með gáttaflökt (p=ns).

Ályktanir: Tíðni undirliggjandi hjartasjúkdóms var hærri hjá sjúklingum með gáttaflökt heldur en sjúklingum með gáttatif. Á móti var háþrýstingur algengari meðal þeirra sem höfðu gáttatif. Þótt sömu erfðabreytileikar á litningi 4q25 auki hættu á bæði gáttatifi og gáttaflökti þá gefa þessar niðurstöður vísbendingu um að klínískir áhættuþættir þessara takttruflana geti verið mismunandi.

 

V 44    Ættlægni skyndidauða af völdum hjartasjúkdóma

Þorgeir Gestsson1, Anna Helgadóttir2, Kristleifur Kristjánsson2,Guðbjörn F. Jónsson2, Gestur Þorgeirsson1

1Lyflæknasviði I Landspítala, 2Íslenskri erfðagreiningu

thorgeirgestsson@gmail.com, gesturth@landspitali.is

Inngangur: Á höfuðborgarsvæðinu deyja árlega um 60 manns skyndidauða utan sjúkrahúsa. Um 75% þeirra dauðsfalla er vegna hjartasjúkdóms. Markmið rannsóknarinnar er að rannsaka þátt ættlægni í skyndidauða af völdum hjartasjúkdóma.

Efniviður og aðferðir: Notaðar voru skýrslur neyðarbíls um hjartastoppstilfelli utan sjúkrahúsa á Reykjavíkursvæðinu á árunum 1987-2005. Upplýsingar um 770 tilfelli skyndidauða af völdum hjartasjúkdóms voru sendar dulskráðar í tölfræðilega rannsókn á skyldleika einstaklinganna. Hjartastopp af öðrum ástæðum voru útilokuð. Meðaltalsskyldleikastuðull var reiknaður út fyrir sjúklingahópinn og út frá því reiknuð hlutfallsleg áhætta á skyndidauða fyrir skyldmenni sjúklings. Marktækni þessara gilda var fundin með því að bera saman sömu gildi fyrir þúsund viðmiðunarhópa, sem voru paraðir við sjúklingahópinn með tilliti til fæðingarárs, fæðingarstaðar og kyns. Útreikningarnir byggðust á ættfræðigagnagrunni Íslenskrar erfðagreiningar.

Niðurstöður: Alsystkini voru með hlutfallslega áhættu 1,85 [1,17-2,95; p gildi 0,009]. Fyrir fyrstu gráðu ættingja í heild var áhættan 2,03 [1,34-3,00; p gildi 0,001].

Ályktanir: Líkur á skyndidauða hjá fyrstu gráðu ættingjum einstaklinga sem höfðu farið í hjartastopp voru um helmingi meiri en hjá viðmiðunarhópnum. Reikna má með auknum skyldleika innan hóps sjúklinga, sem hefur farið í hjartastopp, miðað við handahófsvalinn viðmiðunarhóp, þar sem þekktir eru ættlægir sjúkdómar sem geta valdið skyndidauða. Þeirra helstur er kransæðasjúkdómur. Þó virðist skyldleiki þessa hóps hugsanlega meiri heldur en sambærilegar tölur hafa sýnt um skyldleika fólks með kransæðasjúkdóm eingöngu. Til stendur að bera saman erfðaefni þessa þýðis við erfðaefni hóps sjúklinga með kransæðasjúkdóm í því skyni að finna meingen sem veldur auknum líkum á skyndidauða.

 

V 45      Broddþensluheilkenni. Sjúkratilfelli         

Björn Gunnarsson1, Gunnar Þór Gunnarsson2, Sigurður Einar Sigurðsson1, Þórir Sigmundsson1, Jón Þór Sverrisson2

1Svæfinga- og gjörgæsludeild, 2lyflækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri

bjorngun@fsa.is

Inngangur: Ómskoðun á hjarta er oft afar gagnleg rannsókn hjá sjúklingum í alvarlegur losti. Við greinum frá sjúklingi með óvenjulega sjúkdómsmynd þar sem þetta var raunin.

Sjúkratilfelli: Sextíu og átta ára gömul kona var lögð inn á sjúkrahús vegna slappleika. Hún hafði neytt áfengis í óhófi og ekki farið fram úr rúmi í margar vikur. Saga var um háþrýsting, þvagsýrugigt, þunglyndi og áfengissýki. Hún var verulega þreytuleg við komu en ekki bráðveik að sjá. Hjartarafrit sýndi gáttatif, 120-130/mín. TnT mældist <0,01 µg/ml (0,0-0,1). Meðferð fólst meðal annars í áframhaldandi gjöf b-blokka. Eftir tæplega sólarhringslegu fór konan skyndlega í sleglahraðtakt (Torsade de pointes). Skömmu eftir að grunnendurlífgun hófst fór hún í hægan sínus-takt, en nokkrum mínútum síðar í sleglatif sem svaraði rafmeðferð. Blóðþrýstingur mældist 70/50 mmHg. Hjartarafrit sýndi sínus-takt 65/mín., 1 gráðu AV-leiðslurof, lágspennt rit og QTc 528ms. Aðeins kom fram mjög væg hækkun á hjartaensímum. Ómskoðun á hjarta var framkvæmd (mynd 1A). Konan var meðhöndluð með levósímendan í tvo sólarhringa og dóbútamíni í þrjá sólarhringa. Magnesíum og kalíum voru gefin í æð og ekki bar á frekari hjartsláttaróreglu. Tveimur sólarhringum eftir hjartastoppið var ástand vinstri slegils orðið mun betra (mynd 1B).

Umræða: Við teljum að hér sé um að ræða tilfelli af broddþensluheilkenni (Takotsubo cardiomyopathy, transient LV apical ballooning syndrome, stress-induced cardiomyopathy). Meingerð þessa ástands er flókin. Heilkennið sést oftast hjá konum eftir tíðahvörf, mögulega vegna áhrifa kynhormóna á samspil sjálfvirka taugakerfisins og innkirtlakerfa. Aðrar orsakir kunna að vera meðvirkandi í þessu tilfelli, svo sem hjartakvilli vegna áfengisneyslu, hraðtakts eða blóðþurrðar. Ekki er búið að framkvæma hjartaþræðingu.

Mynd 1. Hjartaómskoðun (A4C). A. Broddblaðra á vinstri slegli. Útstreymisbrot mældist um 30%. B. Eðlileg lögun á vinstri slegli, útstreymisbrot mældist 45-50%.

 






Þetta vefsvæði byggir á Eplica