Ágrip erinda

Ágrip erinda

E 1       Almennt heilsufar bænda á Íslandi

Gunnar Guðmundsson1, Sigurður Þór Sigurðarson2, Lára Sigurvinsdóttir3, Kristinn Tómasson3

1Landspítala, 2Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, 3Vinnueftirliti ríkisins

ggudmund@landspitali.is

Inngangur: Vegna mikils vinnuálags og líkamlegs erfiðis eru bændur taldir hafa lakari heilsufar en aðrir. Þetta hefur þó ekki verið rannsakað á Íslandi

Efniviður og aðferðir: Öllum bændum sem skráðir voru fyrir 100 ærgildum eða meira eða ígildi þess í mjólkurkvóta (N= 2042, svarhlutfall 54%) var sendur ítarlegur spurningalisti um heilsufar, notkun á heilbrigðisþjónustu, vinnuumhverfi (QPS-Nordic) og búskaparvenjur. Til samanburðar var 1500 (svarhlutfall 46%) manna slembiúrtaki, 25 til 70 ára, sendur sambærilegur spurningarlisti.

Niðurstöður: Bændur voru oftar karlmenn, eldri og reyktu minna. Það var lítill munur á hópunum þegar skoðuð voru líkamleg einkenni síðustu 12 mánuði. Það var ekki munur á læknisheimsóknum milli hópanna vegna langvinnra sjúkdóma eins og sykursýki eða háþrýstings. Endurtekin fjarvera frá vinnu vegna veikinda var sjaldgæfari hjá bændum. Fjölþátta líkan fyrir kransæðasjúkdómi sýndi minni líkur hjá konum (OR=0,2; CI 0,06-0,73) og hjá yngri einstaklingum (OR=0,42; CI 0,30-0,58) og bændum almennt (OR=0,46; CI 0,21-0,97) og auknar líkur hjá þeim sem reyktu (OR=2,5; CI 1,2-5,2). Það voru einnig minni líkur á að bændur hefðu háþrýsting (OR=0,46; CI 0,21-0,97).

Ályktanir: Lítill munur var á almennum einkennum. Bændur voru sjaldnar frá vinnu vegna veikinda. Bændur voru ólíklegri til að fá kransæðasjúkdóm og háþrýsting.


E 2        Þróun iðraólgu hjá Íslendingum á tíu ára tímabili og mismunandi skilmerki

Linda B. Ólafsdóttir1, Hallgrímur Guðjónsson2, Bjarni Þjóðleifsson2

1Sjálfstætt starfandi í Reykjavík, 2Landspítala

linda04@ru.is

Tilgangur: Iðraólga (irritable bowel syndrome) er algengur sjúkdómur og eru einkennin oft langvarandi. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna þróun iðraólgu hjá Íslendingum yfir 10 ára tímabil og kanna tengsl við einkenni frá öðrum líffærakerfum og við lyf. Að auki voru borin saman mismunandi skilmerki fyrir iðraólgu.

Efniviður og aðferðir: Spurningalisti var sendur til 2000 manna úrtaks Íslendinga á aldrinum 18-75 ára árið 1996. Árið 2006 var rannsóknin endurtekin á sama úrtaki og að auki um 300 einstaklinga á aldrinum 18-27 ára. Spurningalistinn innihélt 46 spurningar um einkenni frá meltingarfærum og 42 spurningar um einkenni sem tengdust öðrum líffærakerfum, lýðfræðilegum og sállíkamlegum þáttum.

Niðurstöður: Árið 1996 var svarhlutfall 67% en 50% árið 2006. Iðraólga var greind með fjórum mismunandi skilmerkjum: Manning, Rome II, Rome III og sjálfsmati.

 

 

 

1996 (%)

 

2006 (%)

 

Manning

 

30,9

 

29,4

 

Sjálfsmat

 

16,0

 

14,8

 

Rome II

 

 N.S.

 

4,0

 

Rome III

 

6,7

 

9,4

 

 

Mikill munur reyndist vera tíðni iðraólgu eftir skilmerkjum.

Einstaklingar sem uppfylla skilmerki Rome II, Rome III og sjálfsmat uppfylla einnig skilmerki Manning. Tveir þriðju sem uppfylla skilmerki Rome II segjast vera með iðraólgu. Konur eru marktækt oftar með iðraólgu samkvæmt öllum skilmerkjum. Iðraólga er algengari hjá yngri einstaklingum. Einstaklingar með iðraólgu (Manning), sem greindir voru bæði 1996 og 2006, voru með marktækt verri einkenni iðraólgu eftir 10 ár. Einstaklingar með iðraólgu eru oftar frá vinnu, nota meira af verkjalyfjum, hafa oftar gengist undir botnlangaskurð og fengið maga- og skeifugarnarsár marktækt oftar en aðrir.

Ályktanir: Mikill munur er á tíðni iðraólgu eftir skilmerkjum. Iðraólga og einkenni tengd iðraólgu eru mjög algeng á Íslandi. Iðraólga er langvarandi sjúkdómur sem hefur mikil áhrif á lífsgæði og notkun heilbrigðiskerfisins.

 

E 3        Eru breytingar á beinþéttni handboltakvenna yfir níu ára tímabil háðar því hvort þær héldu áfram íþróttaiðkun?

Hjörtur Brynjólfsson1,3, Díana Óskarsdóttir1,3, Ólafur Skúli Indriðason2, Gunnar Sigurðsson1,3

1Innkirtla- og efnaskiptasjúkdómadeild, 2nýrnalækningadeild Landspítala, 3læknadeild HÍ

hjb2@hi.is

Inngangur: Takmarkaðar upplýsingar eru til um beintap meðal íþróttafólks þegar reglulegum æfingum er hætt. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort breytingar á beinþéttni (Bone Mass Density, BMD) hjá hópi handboltakvenna væru háðar áframhaldandi íþróttaiðkun.

Efniviður og aðferðir: Við rannsökuðum 24 konur, fyrst árið 1998 þegar allar voru virkar í keppnishandbolta, meðalaldur 21,7 ár, og á ný árið 2007, meðalaldur 30,6 ár. Þá voru 17 hættar keppni. Mæld var hæð og þyngd, tekin ítarleg saga um líkamsáreynslu, æfingar og lyfjanotkun. Við bárum þær sem hættu saman við hinar sem héldu áfram og báða hópana við slembihóp á sama aldri. Beinþéttni var mæld með dual energy X-ray absorptiometry í mjöðm, lendhrygg, ríkjandi framhandlegg og einnig mældum við heildarbeinþéttni líkamans. Mann-Whitney próf var notað við samanburð.

Niðurstöður: Árið 1998 æfði hópurinn að meðaltali 14,8 klukkustundir á viku og beinþéttnin í mjöðm var 18% og í lendhrygg 11% hærri en í slembiþýði (p<0,01). Níu árum síðar höfðu þær sem héldu áfram keppni tapað 1,3% af beinþéttni í mjöðm en þær 17 stúlkur sem hætt höfðu keppni 7,8% (p=0,002) og var beinþéttni í mjöðm þeirra síðarnefndu nú ekki marktækt hærri en í slembiþýði. Þær 17 sem hætt höfðu keppni töpuðu 1,5% í lendhrygg en þær sem keppa enn juku beinmassann um 3,9% (p=0,017). Ekki var marktæk breyting í beinþéttni framhandleggs.

Ályktanir: Þó rannsóknin nái til takmarkaðs hóps eru samt sterkar vísbendingar um að íþróttamenn viðhaldi þeirri umframbeinþéttni sem þeir hafa náð um tvítugt, í þungaberandi beinum svo sem mjöðm og hrygg. Þó eingöngu ef þeir halda áfram reglubundinni æfingu.

Þessara áhrifa virðist þó ekki gæta hjá öðrum beinum svo sem í framhandlegg.

 

E 4        Nýburaskimun, greining meðfæddra efnaskiptasjúkdóma með raðmassagreini. Fyrsta tilfelli 3-methýl krótonýl-CoA karboxýlasaskorts greint á Íslandi

Leifur Franzson1,3, Jón Jóhannes Jónsson1,3, Atli Dagbjartsson2,3

1Erfða- og sameindalæknisfræðideild, 2Barnaspítala Hringsins, 3læknadeild HÍ

leifurfr@landspitali.is

Inngangur: Raðmassagreinir (MSMS) er samsettur úr tveimur massagreinum. Hinn fyrri aðskilur efnin eftir að þau hafa verið jóníseruð í gufufasa, en hinn seinni magngreinir þau með aðstoð innri staðla eftir að þeim hefur verið sundrað. Með MSMS má magngreina nær allar amínósýrur og fjölmörg acýlkarnitín úr einu og sama þerripappírsblóðsýninu, á rúmum tveimur mínútum. MSMS-tæknin hefur valdið byltingu í greiningu meðfæddra efnaskiptasjúkdóma, sem í stuttu máli lýsa sér með brenglun í umbreytingu amínósýra, lífrænna sýra og niðurbroti fitusýra eða á bilinu 30-40 sjúkdóma, hver um sig með mismunandi tíðni.

Lýsing tilfellis: Tíðni sjúkdómsins 3-methýl krótonýl-CoA karboxýlasaskorts (3MCC), sem erfist A litnings víkjandi, er yfirleitt um 1:50000 lifandi fæddum og veldur truflunum í niðurbroti leusíns, sem leiðir til uppsöfnunar 3-methýl krótonýl-CoA (C5-OH). Nýburinn hefur dafnað vel frá greiningu. Sameiginlegt fyrir skylda sjúkdóma er að sumir sjúklingar eru einkennalausir alla ævi, en aðrir geta fengið misalvarleg einkenni á öllu æviskeiði af ýmsu tilefni, svo sem föstu, bólusetningu og sýkingum. Einkenni 3MCC geta verið frá lifur, vöðvum, húð og birst sem slen, síþreyta, krampar, höfuðverkir, ásamt sýru-basa breytingum. Breytingar á starfsemi heila-og taugakerfis geta orðið við endurtekin köst. Einkenni 3MCC hverfa (oft) við meðhöndlum með karnitíni og takmörkun á próteinneyslu. Áhugavert er að tíðni 3MCC hjá Færeyingum er 1:1200.

Ályktanir: Hafin er vinna við að ákveða hvaða sjúkdómum skal skimað fyrir með MSMS, hvaða skilmerki skulu liggja til grundvallar greiningunni, ásamt frekari verkferlum og viðbrögðum við óeðlilegum niðurstöðum. Siðfræðilegar spurningar vakna við greiningu sjaldgæfra sjúkdóma, sem mögulega valda ekki einkennum á ævi einstaklingsins, en geta haft mikilvæg fyrirbyggjandi áhrif á heilsu hans.


E 5        Áhættumat hjarta- og æðasjúkdóma fyrir fimmtugt. Samanburður á hlutfallslegri og raunverulegri áhættu í áhættureikni

Geir Hirlekar1, Thor Aspelund1,2, Þórarinn Guðnason1,3, Vilmundur Guðnason1,2, Karl Andersen1,3

1Læknadeild HÍ, 2Hjartavernd, 3hjartadeild Landspítala

geir@hi.is

Inngangur: Í nýjum leiðbeiningum Evrópsku hjartalæknasamtakanna um forvarnir hjarta- og æðasjúkdóma er mælt með að notast við hlutfallslega áhættu (relative risk) fremur en raunáhættu (absolute risk) hjá ungu fólki. Með því að notast við hlutfallslega áhættu hjá þessum hópi má reyna að finna þá sem eru í margfaldri áhættu miðað við jafnaldra. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort greiningarhæfni hlutfallslegrar áhættu væri betri en raunáhættu.

Efniviður og aðferðir: Notuð voru gögn úr Hóprannsókn Hjartaverndar (1967-1991). Alls var 15.763 einstaklingum (8224 konum og 7539 körlum) á aldrinum 36-64 ára fylgt eftir í 22 ár að meðaltali. Kransæðasjúkdómur var skilgreindur sem einhver af atburðunum kransæðastífla, hjáveituaðgerð eða kransæðavíkkun. Raunáhætta og hlutfallsleg áhætta var metin með áhættureikni Hjartaverndar. Greiningarhæfnin var metin með því að skoða saman næmi og sértæki.

Niðurstöður: Alls fengu 188 (2%) konur og 314 (4%) karlar kransæðasjúkdóm innan 10 ára. Af þeim voru 34 (1%) konur yngri en 50 ára og 187 (5%) karlar. Núverandi reiknivél miðar við að fólk með yfir 10% raunáhættu sé í áhættuhópi. Miðað við þá vinnureglu er næmið 8% og sértækið 98% hjá konum almennt. Hjá konum yngri en 50 ára er næmið ekkert eða 0%. Með því að breyta um vinnureglu og miða við 3,5 í hlutfallslegri áhættu hjá konum yngri en 50 ára fæst 59% næmi og 89% sértæki fyrir þann hóp. Notkun á hlutfallslegri áhættu hjá körlum leiddi ekki til betri samsetningar á næmi og sértæki

Ályktun: Markvissara er að nota hlutfallslega áhættu en raunáhættu í áhættumati fyrir hjartasjúkdóma hjá konum yngri en 50 ára.

 

E 6        Samband arfgerðar og svipgerðar hjá sjúklingum með gáttatif og erfðabreytileika rs2200733 á litningi 4q25

Hilma Hólm1, Davíð O. Arnar2, Daníel F. Guðbjartsson1, Anna Helgadóttir1, Sólveig Grétarsdóttir1, Rúna Sigurjónsdóttir2, Guðmundur Þorgeirsson2, Jeffrey R. Gulcher1, Augustine Kong1, Unnur Þorsteinsdóttir1, Kári Stefánsson1

1Íslenskri erfðagreiningu, 2lyflæknasviði I Landspítala

davidar@landspitali.is hilmaholm@yahoo.com

Inngangur: Við höfum nýlega lýst tilvist tveggja erfðabreytileika á litningi 4q25 sem auka verulega áhættu á gáttatifi í íslenskum sjúklingum. Þessar niðurstöður voru síðan staðfestar í þremur hópum sjúklinga af evrópskum uppruna og jafnframt í kínversku þýði. Um 35% einstaklinga af evrópskum uppruna hafa annan hvorn þessara erfðabreytileika og eykur annar þeirra líkur á gáttatifi um 1,72 og hinn um 1,39. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða samband undirflokka gáttatifs og sterkari erfðabreytileikans, rs2200733.

Efniviður og aðferðir: Gerð var erfðamengisskönnun með 316.000 SNP flögu (Illumina BeadChip) til kortlagningar á arfgerð. Upplýsingar um svipgerð voru fengnar úr sjúkraskrám.

Niðurstöður: Til voru upplýsingar um bæði arfgerð og svipgerð fyrir 719 sjúklinga með gáttatif. Af þeim reyndust 34 vera arfhreinir fyrir rs2200733 en 190 arfblendnir. Meðalaldur við greiningu gáttatifs var 69,9 ár hjá þeim sem voru ekki berar en lækkaði um 1,9 ár fyrir hvora samsætu. Það voru marktæk tengsl milli rs2200733 og gáttatifs án tillits til undirliggjandi hjartasjúkdóms eða háþrýstings en þau voru þó sterkari þar sem þessir áhættuþættir voru ekki fyrir hendi (p=0,042; OR 1,35). Tíðni erfðabreytileikans var einnig hærri meðal þeirra sem höfðu endurtekin köst gáttatifs miðað við þá sem höfðu aðeins greinst með eitt kast (p=0,0045; OR 1,47).

Ályktanir: Erfðabreytileikinn rs2200733 á litningi 4q25 eykur líkur á gáttatifi. Þeir sem hafa erfðabreytileikann greinast með sjúkdóminn fyrr á ævinni en þeir sem hafa hann ekki. Jafnframt hafa þeir síður aðra áhættuþætti þó tilvist erfðabreytileikans auki líkur á gáttatifi í öllum undirhópum þessarar takttruflunar. Arfberar þessa breytileika virðast frekar vera í hættu á endurteknum köstum gáttatifs.

 

E 7        Kransæðaþræðingar á Íslandi og í Svíþjóð árið 2007

Guðný Stella Guðnadóttir1, Bo Lagerqvist2, Kristján Eyjólfsson1, Sigurlaug Magnúsdóttir1, Axel Sigurðsson1, Torfi Jónasson1, Sigurpáll Scheving1, Þorbjörn Guðjónsson1, Ragnar Danielsen1, Guðjón Karlsson1, Karl Andersen1, Tage Nilsson2, Þóra Björnsdóttir1, Unnur Sigtryggsdóttir1, Gestur Þorgeirsson1, Stefan James2,Þórarinn Guðnason1

1Landspítala, 2Uppsala Clinical Research Center, Uppsölum

thorgudn@landspitali.is

Inngangur: Verulegur munur er á tíðni kransæðaþræðinga milli landa en munurinn á ábendingum og niðurstöðum kransæðaþræðinga er minna þekktur.

Efniviður og aðferðir: Kransæðaþræðingar voru skráðar framsýnt í gæðaskrána Swedish Coronary Angiography and Angioplasty Registry á Íslandi og í Svíþjóð frá 1.1. til 31.12. 2007 og þau gögn rannsökuð.

Niðurstöður: Á Íslandi voru gerðar 544/100.000 kransæðaþræðingar á íbúa, en 402/100.000 í Svíþjóð (p<0,001). Konur voru 29% á Íslandi en 34% í Svíþjóð (p<0,01) og sjúklingarnir voru 64 á móti 66 ára (miðgildi). Ábendingar fyrir kransæðaþræðingum á Íslandi og í Svíþjóð voru stöðug hjartaöng í 39% á móti 23%, óstöðug hjartaöng í 29% á móti 39% og bráð kransæðastífla í 9% á móti 16% tilvika (öll p<0,001). Á Íslandi voru fleiri með háþrýsting 63% á móti 53%, fleiri reyktu 22% á móti 16% og fleiri notuðu blóðfitulyf 63% á móti 53% (öll p<0,01). Sykursýki var fátíðari í íslenska hópnum 14% á móti 18% (p<0,01). Einnar æðar sjúkdómur var fátíðari á Íslandi 23% á móti 28% (p<0,01) en höfuðstofnsþrengsli voru algengari á Íslandi 10% á móti 8% (p<0,01). Í báðum löndum var þriðjungur kransæðaþræðinga án marktækra þrengsla. Kransæðaþræðing var gerð frá náraslagæð í 99% tilvika á Íslandi en 66% í Svíþjóð (30% radialis). Fylgikvillar voru svipaðir, um 1% á þræðingastofu og 2-3% á legudeild. Engin dauðsföll urðu á þræðingastofu vegna kransæðaþræðinga 2007.

Ályktanir: Þetta er fyrsta rannsóknin sem ber saman allar kransæðaþræðingar á heilu ári í tveimur löndum. Marktækt fleiri kransæðaþræðingar eru gerðar á Íslandi, en þó ekki að óþörfu, því alvarlegur kransæðasjúkdómur greinist hér oftar. Hærra hlutfall þræðinga á Íslandi er vegna stöðugs kransæðasjúkdóms og hlutfallslega færri konur eru þræddar á Íslandi en í Svíþjóð. Árangur og fylgikvillar eru svipaðir í löndunum tveimur.


E 8        Greining á endurþrengslum í stoðnetum með aðferðum án inngripa

Sigurdís Haraldsdóttir1,3, Þórarinn Guðnason1, Jónína Guðjónsdóttir2, Axel F. Sigurðsson1, Sam Lehman4, Kristján Eyjólfsson1, Sigurpáll Scheving1, Udo Hoffmann 4, Birna Jónsdóttir2, Karl Andersen1,3

1Hjartadeild Landspítala, 2Læknisfræðilegri myndgreiningu, Domus Medica, 3læknadeild HÍ, 4Massachusetts General Hospital, Boston, Bandaríkjunum

sih17@hi.is

Inngangur: Endurþrengsli í stoðneti koma fram hjá 20-30% sjúklinga á fyrstu 6-12 mánuðum eftir kransæðavíkkun. Greining fer yfirleitt fram með nýrri kransæðaþræðingu sem er inngripsmikil greiningaraðferð. Markmið verkefnisins var að kanna á framsæjan hátt hvort nota mætti 64-sneiða tölvusneiðmynd (64-TS) til að greina endurþrengsli í stoðnetum og bera hæfni þess saman við klínískt mat og þolpróf.

Efniviður og aðferðir: Eitt hundrað og fjórtán sjúklingar sem fóru í kransæðavíkkun og fengu stoðnet voru teknir inn á tímabilinu maí 2005 til júlí 2006. Sjúklingar með bráða kransæðastíflu, fyrri sögu um kransæðasjúkdóm, nýrnabilun og skuggaefnisofnæmi voru útilokaðir. Sex mánuðum eftir kransæðavíkkun voru sjúklingar kallaðir inn í klínískt mat, þolpróf, 64-TS (Toshiba Multi-Slice Aquilion 64, snúningstími 0,4-0,45 sek., rúmupplausn 0,5 mm, 135 kV, 350 mA) og fóru að því loknu í kransæðaþræðingu.

Niðurstöður: Samtals 93 sjúklingar með 140 stoðnet voru metnir með 64-TS. Miðtími frá kransæðavíkkun að 64-TS voru 205 dagar (Q1:188, Q3:231) og frá 64-TS að endurþræðingu fjórir dagar (Q1:3, Q3:5). Meðalaldur var 63±10 ár (spönnun 39-83 ár) og 79% sjúklinga voru karlar. Tuttugu og fjórir sjúklingar (26%) reyndust hafa endurþrengsli samkvæmt endurþræðingu. Næmi, sértækni, jákvætt og neikvætt forspárgildi og nákvæmni 64-TS fyrir greiningu endurþrengsla reyndist 27%, 95%, 67%, 78% og 77%. Fjórtán (10%) stoðnet voru ómetanleg vegna myndgalla. Þvermál stoðnets, hjartsláttartíðni, líkamsþyngdarstuðull (Body Mass Index, BMI) og þykkt stoðnetsenda spáðu marktækt fyrir um gæði tölvusneiðmynda. Klínískt mat og þolpróf höfðu lægri nákvæmni (61% og 63%).

Ályktanir: Greiningarhæfni 64-TS er takmörkuð en betri en hjá klínísku mati og þolprófi. Næmi er lágt og því er ekki hægt að mæla með 64-TS sem skimunaraðferð sex mánuðum eftir kransæðavíkkun.

 

E 9        Reykingabann á opinberum stöðum minnkar tíðni óstöðugs kransæðasjúkdóms og fækkar kransæðaþræðingum hjá körlum á Íslandi

Þorsteinn Viðar Viktorsson1, Karl Andersen1,2, Þórarinn Guðnason2

1Læknadeild HÍ, 2Landspítala

thorgudn@landspitali.is

Inngangur: Skaðleg áhrif óbeinna reykinga eru sífellt að koma betur í ljós, þar á meðal áhrif á tíðni hjartaáfalla. Bann við reykingum á opinberum stöðum tók gildi hérlendis 1. júní 2007. Við könnuðum hvort minnkaðar óbeinar reykingar, með tilkomu þess, myndu fækka sem þyrftu kransæðaþræðingu vegna óstöðugs kransæðasjúkdóms. Áhrif reykingabanns á óstöðugan kransæðasjúkdóm, hjá heilli þjóð, hafa ekki verið könnuð áður.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin stóð frá 1. janúar til 31. október 2007, eða fimm mánuði fyrir og eftir bann. Þátttakendur voru allir sjúklingar á Íslandi, sem ekki voru reykingamenn og gengust undir kransæðaþræðingu vegna óstöðugs kransæðasjúkdóms á tímabilinu. Óstöðugan kransæðasjúkdóm skilgreindum við sem; klínísk einkenni um óstöðugan kransæðasjúkdóm ásamt einu eða fleiru af eftirfarandi: 1) hækkuð hjartaensím, 2) blóðþurrðarbreyting á hjartalínuriti eða 3) jákvætt áreynslupróf í hinu bráða sjúkdómsferli.

Niðurstöður: Á tímabilinu gengust 1439 sjúklingar undir kransæðaþræðingu. Alls uppfylltu 378 þeirra skilmerkin fyrir óstöðugan kransæðasjúkdóm, 281 karl en 97 konur (p<0,01). Fyrir reykingabannið fengu 206 sjúklingar óstöðugan kransæðasjúkdóm en 172 eftir bann (p=0,08). Fyrir bann fengu 157 karlar óstöðugan kransæðasjúkdóm en 124 eftir bannið (p<0,05), sem er lækkun um 21%. Mest virtust áhrifin vera hjá yngri körlum. Fyrir bann fengu 49 konur óstöðugan kransæðasjúkdóm en eftir bann 48 (p=ns). Hóparnir voru sambærilegir varðandi aldur, áhættuþætti og flesta aðra grunnþætti.

Ályktanir: Rannsóknin er sú fyrsta í heiminum sem bendir til að tíðni óstöðugs kransæðasjúkdóms meðal karla heillar þjóðar minnki um 21% með reykingabanni á opinberum stöðum. Enginn munur sást meðal kvenna sem mælir gegn því að einungis sé um árstíðarbundinn mun að ræða hjá körlunum. Óbeinar reykingar gætu haft skaðlegri áhrif á kransæðar karla en kvenna.


E 10      Blöðruhálskirtilskrabbamein á Íslandi fyrir og eftir upphaf PSA-mælinga. Leiðir óformleg skimun til ofgreiningar?

Tryggvi Þorgeirsson1, Eyþór Örn Jónsson1, Jón Gunnlaugur Jónasson2,3, Elínborg J. Ólafsdóttir2, Eiríkur Jónsson4, Laufey Tryggvadóttir2

1Læknadeild HÍ, 2Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, 3rannsóknarstofu í meinafræði, 4þvagfæraskurðdeild Landspítala

laufeyt@krabb.is tryggvt@hi.is

Inngangur: Umtalsverður hluti karlmanna yfir fimmtugt hefur krabbameinsbreytingar í blöðruhálskirtli. Í mörgum tilfellum munu þær aldrei leiða til einkenna og hefur meðal annars af þeim sökum ekki verið mælt með skipulagðri leit að sjúkdómnum. Hins vegar á sér víða stað óformleg skimun, einkum með PSA- (Prostate Specific Antigen) mælingum. Markmið rannsóknarinnar var að meta umfang þeirrar skimunar hér á landi og áhrif á sívaxandi nýgengi sjúkdómsins.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar um nýgengi, dánartíðni, TURP-aðgerðir (Transurethral Resection of the Prostate), nálarsýnatökur og PSA-mælingar árin 1983-2002 fengust frá Krabbameinsskrá KÍ, Þjóðskrá og rannsóknarstofum í meina- og meinefnafræði. Gögn um sjúkdómsstig og -gráðu fyrir og eftir upptöku PSA-mælinga fengust úr fyrri rannsókn (1983-1987; N=370) og úr sjúkragögnum (1996-1998; N=420).

Niðurstöður: PSA-mælingum fjölgaði ört eftir upptöku þeirra 1988 og árið 2002 fóru um 25% íslenskra karla 50 ára og eldri í mælingu. Nýgengi krabbameinsins jókst um 53% en dánartíðni stóð í stað eftir ríflega tvöföldun áratugina tvo á undan. Einungis 23% nýgengisaukningarinnar skýrðust af T1c æxlum (klínískt ógreinanleg en finnast vegna PSA-hækkunar) en 63% af æxlisstigum T2 (innan kirtils en klínískt greinanlegt) og T3 (staðbundinn útvöxtur). Hvorki varð aukning í útbreiddum sjúkdómi né æxlum af hæstu gráðum.

Ályktanir: Hér á landi á sér stað óformleg skimun fyrir blöðruhálskirtilskrabbameini. Veruleg nýgengisaukning varð samstíga fjölgun PSA-mælinga og fjórðungur hennar skýrðist af klínískt ógreinanlegum æxlum með afar góðar horfur. Því má halda fram að nokkuð sé um ofgreiningar meinsins. Hins vegar skýrðust nær tveir þriðju aukningarinnar af fremur alvarlegum meinum sem þó voru oftast á læknanlegu stigi og dánartíðni hætti að vaxa. Að svo stöddu er því vart hægt að mæla gegn núverandi skimunarstigi.

 

E 11      Lífshorfur sjúklinga með nýrnafrumukrabbamein hafa vænkast á síðustu áratugum. Niðurstöður úr íslenskri rannsókn sem nær til 913 tilfella á 35 ára tímabili

Helga Björk Pálsdóttir1, Sverrir Harðarson1,2, Vigdís Pétursdóttir2, Ármann Jónsson1, Eiríkur Jónsson3, Guðmundur V. Einarsson3, Tómas Guðbjartsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknarstofu í meinafræði, 3þvagfæraskurðdeild Landspítala

hbp1@hi.is

Inngangur: Á síðustu árum hefur nýgengi nýrnafrumukrabbameins aukist hér á landi og hefur þessi hækkun verið skýrð með aukningu í tilviljangreiningu sem rekja má til vaxandi notkunar myndrannsókna á kviði. Þýðing þessarar þróunar fyrir lífshorfur sjúklingahópsins í heild hefur þó verið óviss. Tilgangur rannsóknarinnar var því að athuga þróun nýgengis og dánarhlutfalls á 35 ára tímabili og um leið kanna forspárþætti lífshorfa með sérstöku tilliti til áhrifa tilviljanagreiningar.

Efniviður og aðferðir: Afturvirk rannsókn á sjúklingum sem greindust á lífi með nýrna-frumukrabbamein á Íslandi 1971-2005. Öll æxlin voru stiguð eftir TNM-kerfi, vefjasýni endurskoðuð og forspárþættir lífshorfa kannaðir með fjölbreytugreiningu. Litið var sérstaklega á tilviljanagreind æxli og þau borin saman við æxli greind vegna einkenna.

Niðurstöður: Alls greindust 913 sjúklingar, meðalaldur 65 ár, 557 karlar (61%). Nýgengi jókst marktækt á tímabilinu og var 13,2/100.000/ár fyrir karla og 8,2 fyrir konur 2001-2005. Dánarhlutfall hélst stöðugt. Af 913 sjúklingum greindust 658 vegna einkenna (72%) og 255 fyrir tilviljun (28%), oftast vegna tölvusneiðmyndatöku og ómskoðunar. Tilviljanagreining jókst á tímabilinu, frá 11,1% 1971-1975 í 39,2% 2001-2005. Tilviljanagreindu æxlin voru 2,7 cm minni og af lægri stigun og gráðu en æxli greind vegna einkenna. Aldur, kynjadreifing og vefjagerð voru hins vegar sambærileg. Fjölbreytugreining á helstu áhættuþáttum sýndi að stigun (p<0,001) er veigamesti sjálfstæði forspárþáttur lífshorfa en einnig aldur, greiningarár, sökk og gráða. Einkennagreindir sjúkl-ingar höfðu einnig marktækt verri horfur en tilviljanagreindir (HR 1,4; 95% CI 1,02-1,93; p=0,04).

Ályktanir: Lífshorfur sjúklinga með nýrnafrumukrabbamein á Íslandi fara batnandi þar sem nýgengi er vaxandi og dánarhlutfall hefur haldist óbreytt. Líklegasta skýringin er aukning tilviljanagreindra æxla en í dag eru þau um helmingur nýgreindra nýrnafrumukrabbameina. Tilviljanagreining er sjálfstæður verndandi forspárþáttur lífshorfa og hefur slíkt ekki sést áður hér á landi. Betri horfur tilviljanagreindra sjúklinga skýrast því ekki eingöngu af lægri stigun og gráðu heldur er tilviljanagreining ein og sér jákvæð fyrir horfur sjúklinga.

 

E 12    Framrás gauklasjúkdóma á Íslandi - fyrstu niðurstöður þýðisrannsóknar

Konstantín Shcherbak1, Ólafur Skúli Indriðason2, Viðar Eðvarðsson3, Jóhannes Björnsson4,5, Runólfur Pálsson2,5

1Öldrunarsviði, 2nýrnalækningaeiningu lyflæknasviðs I, 3Barnaspítala Hringsins, 4rannsóknarstofu í meinafræði, Landspítala, 5læknadeild HÍ

runolfur@landspitali.is

Inngangur: Gauklasjúkdómar eru meðal algengustu orsaka lokastigsnýrnabilunar (LSNB) en framvinda þeirra hefur lítið verið rannsökuð í almennu þýði. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna framrás gauklasjúkdóma á Íslandi.

Efniviður og aðferðir:Þetta var afturskyggn rannsókn á einstaklingum sem greindust með gauklasjúkdóm á árunum 1983-2002. Greiningin var byggð á vefjagreiningu og klínískum þáttum. Upplýsingar um afdrif sjúklinga voru fengnar úr sjúkraskrám Landspítala, Íslensku nýrnabilunarskránni og Þjóðskrá. Niðurstöður eru sýndar sem miðgildi (spönn).

Niðurstöður: Vefjasýni frá 291 einstaklingi leiddu til 294 greininga á gauklasjúkdómi og voru upplýsingar um afdrif aðgengilegar í tilviki 289 sjúklinga. Miðgildi aldurs við greiningu var 47 (1-86) ár og 54% voru karlar. Lengd eftirfylgdar var 8,1 (0,0-24,2) ár. Lifun sjúklinga til ársloka 2007 var 70,8%. Alls hófu 53 sjúklingar (18,3%) meðferð við lokastigsnýrnabilun, með skilun eða ígræðslu nýra, 1,8 (0,0-19,3) ári frá töku nýrasýnis og 66 sjúklingar (22,8%) létust án þess að þarfnast slíkrar meðferðar, 4,6 (0,0-19,3) árum eftir greiningu gauklasjúkdóms. Eftirfylgd sjúklinga með algengustu gauklasjúkdómana varaði 6,1 til 9,9 ár. Meðal sjúklinga með IgA nýrnamein (n=71) fengu 15,5% meðferð við lokastigsnýrnabilun og 4,2% létust. Meðal þeirra sem greindust með focal segmental glomerulosclerosis (n=30) fengu 43,3% meðferð við lokastigsnýrnabilun og 10% létust. Meðal sjúklinga með sykursýkinýrnamein (n=24) fengu 12,5% meðferð við lokastigsnýrnabilun og 41,7% létust og meðal sjúklinga með æðabólgu (n=18) fékk enginn meðferð við lokastigsnýrnabilun en 44,4% létust.

Ályktanir: Gauklasjúkdómum fylgir mikil hætta á nýrnabilun og há dánartíðni. Áhættan er þó mismunandi eftir einstökum sjúkdómum. Áhrif ýmissa þátta á framrás gauklasjúkdóma þarfnast nánari rannsókna.

 

E 13      Non-Hodgkins eitilfrumukrabbamein á Íslandi árin 1990-2005. Klínísk og meinafræðileg rannsókn

Signý Vala Sveinsdóttir1,3, Brynjar Viðarsson3, Friðbjörn Sigurðsson3, Jóhanna Björnsdóttir3*, Kristján Guðmundsson3, Bjarni A. Agnarsson1,2

1HÍ, 2rannsóknarstofu HÍ í meinafræði, 3lyflæknasviði II, Landspítala

*Jóhanna lést í desember 2006.

signysv@landspitali.is

Inngangur: Flokkun Non-Hodgkins eitilfrumukrabbameina (non Hodgkin´s lymphoma, NHL) hefur breyst mikið síðustu áratugi. Skipta má sjúkdómnum í allnokkra flokka en vefjaflokkunin ásamt staðsetningu og dreifingu sjúkdóms er mikilvæg til að ákveða meðferð og horfur sjúklingsins. Meðferð er oftast með lyfjum og/eða geislum en stundum þarf háskammtameðferð með stofnfrumustuðningi. Við hægfara NHL er stundum hægt að bíða með meðferð í lengri tíma. Tilgangur rannsóknarinnar er að skoða þá sem greinst hafa með NHL á Íslandi árin 1990-2005 með tilliti til meinafræði og svipgerðar æxlanna. Að lokum er svo kannað hvort þeir þættir, ásamt ýmsum klínískum, kunna að skipta máli fyrir horfur sjúklinganna.

Efniviður og aðferðir: Um 500 sjúklingar greindust með NHL á tímabilinu. Upplýsingar um þá eru fengnar úr Krabbameinsskrá, skrá Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði og sjúkraskýrslum. Skráð er dagsetning greiningar, kyn, aldur, tegund og stig sjúkdóms, LDH (laktat dehydrogenasi), meðferð, svörun og endurkoma sjúkdóms. Athuguð er svo staða sjúklings í lok árs 2005.

Niðurstöður: Gögn 170 sjúklinga, 62,4% karla og 37,6% kvenna, hafa verið skoðuð. Flestir greinast á aldrinum 61-70 ára. Stórfrumu B-eitilfrumukrabbamein eru algengust (43%) en svo hnútótt eitilfrumukrabbamein (22,2%). B-frumu æxli eru 85%, T-frumu æxli 8,3% og óþekkt 6,8%. Í lok tímabilsins voru 58% látnir, 12,5% á lífi með sjúkdóm og 28,7% á lífi án sjúkdóms.

Ályktanir: Fyrstu niðurstöður samrýmast rannsóknum erlendis. Frekari niðurstöður verða kynntar á þinginu. Sérstaða rannsóknarinnar er að hún endurspeglar heila þjóð í stað afmarkaðs hóps einstaklinga sem eru meðhöndlaðir á einni stofnun.

 

E 14     Aukið algengi sjálfsofnæmissjúkdóma á meðal einstaklinga með IgA skort og fyrstu gráðu ættingja þeirra

Guðmundur H. Jörgensen1,5, Ingunn Þorsteinsdóttir2, Sveinn Guðmundsson3, Lennart Hammarström4, Björn R. Lúðvíksson1,5

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknarstofnun Landspítala, 3Blóðbanki Íslands, 4ónæmisfræðideild Karolínska sjúkrahússins, Huddinge, Svíþjóð, 5ónæmisfræðideild Landspítala

gudmhj@landspitali.is

Inngangur: Sértækur skortur á mótefnaflokki A (IgA) er skilgreindur sem magn IgA í sermi 0,07g/L og eðlilegt magn IgG og IgM. Sértækur IgA skortur (IgAD) er einn algengasti meðfæddi ónæmisgallinn í mannfólki með algengið um 1:500 í N-Evrópu. Tengsl IgAD við sjúkdóma eru ekki ljós en aukin tíðni sýkinga, ofnæmis, astma og sjálfsofnæmissjúkdóma er talin vera til staðar. Algengi sjálfsofnæmissjúkdóma í vestrænum löndum er talið 3-5%, en á meðal einstaklinga með IgAD er algengið á bilinu 7-36%. Orsakatengsl IgAD við sjálfsofnæmissjúkdóma eru ekki ljós en hugsanleg skýring er að báðir sjúkdómarnir eigi að einhverju leyti sameiginlegan erfðafræðilegan bakgrunn. Markmið rannsóknarinnar er að meta algengi sjálfsofnæmissjúkdóma á meðal fyrstu gráðu ættingja einstaklinga með IgAD. Þetta er hluti af stærri rannsókn á IgAD á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Alls 43 einstaklingar með IgAD, úr blóðbankaskimunum (16) og frá Rannsóknarstofnun Landspítala (27) á tímbilinu 1992-2006, voru kallaðir inn til skoðunar. Tekin var ýtarleg saga og fjölskyldusaga um sjúkdóma og í kjölfarið framkvæmd læknisskoðun og rannsóknir. Fyrstu gráðu ættingjar voru kallaðir inn til blóðprufu og sjúkdómasaga tekin og fjölskyldusaga staðfest.

Niðurstöður: Alls voru 18,6% (8/43) IgAD einstaklinga með sjálfsofnæmissjúkdóma og 25% (8/32) af fullorðnum IgAD einstaklingum. Þeir IgAD einstaklingar sem jafnframt höfðu sjálfsofnæmissjúkdóm reyndust í 62,5% tilfella (5/8) eiga fyrstu gráðu ættingja með sjálfsofnæmissjúkdóm. Af 269 fyrstu gráðu ættingjum reyndust 10% (27/269) vera með sjálfsofnæmissjúkdóm sem er tvöfalt hærra en áætlað algengi í þjóðfélaginu.

Ályktanir: Sterk tengsl eru milli IgAD og sjálfsofnæmissjúkdóma. Þar sem um verulega aukna tíðni sjálfsofnæmissjúkdóma meðal ættingja IgAD einstaklinga er að ræða, þá benda niðurstöður til sameiginlegs erfðafræðilegs bakgrunns þessara tveggja sjúkdóma.


E 15      Rófecoxíb, en ekki celecoxíb, eykur áhættuna á hjartaáföllum meðal yngri einstaklinga samkvæmt lyfjagagnagrunni Landlæknisembættisins

Björn Guðbjörnsson1, Sigurður B. Þorsteinsson2, Helgi Sigvaldason5, Rannveig A. Einarsdóttir2, Magnús Jóhannsson4, Kristinn Jónsson5, Helga Zöega5, Matthías Halldórsson5, Guðmundur Þorgeirsson3

1Rannsóknarstofu í gigtarsjúkdómum, 2deild lyfjamála,3lyflæknasviði Landspítala, 4lyfjafræðideild HÍ, 5Landlæknisembættinu

bjorngu@landspitali.is

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar er að kanna áhættu fyrir hjarta- og æðasjúkdómum meðal notenda coxíb- og NSAID-lyfja (M01A).

Efniviður og aðferðir: Nafnalisti úr lyfjagagnagrunni Landlæknisembættisins um notendur bólgueyðandi lyfja á árunum 2001-2004 var samkeyrðar við sjúkdómaskrá Landlæknisembættisins og dánarmeinaskrá Hagstofunnar með tilliti til hjarta- og æðasjúkdóma ásamt skyndidauða.

Niðurstöður: Alls fundust 108.700 einstaklingar, þar af 78.539 (163.406 sjúklingaár) sem notuðu eingöngu eina tegund þessara lyfja. Alls 426 einstaklingar þörfnuðust sjúkrahúsvistar vegna hjarta- eða æðasjúkdóma eða höfðu látist skyndidauða. Miðað við díklófenak var hlutfallsleg áhætta, leiðrétt fyrir aldur og kyn, marktækt hærri meðal rófecoxíb notenda; heilaáföll 2,13 (CI 1,54-2,97; p<0,001), hjartadrep 1,77 (CI 1,34-2,32; p<0,001) og hjartaöng 1,52 (CI 1,01-2,30; p=0,047). Fyrir naproxen notendur var marktækt meiri áhætta á hjartadrepi miðað við þá er notuðu díklófenak (1,46; CI 1,03-2,07; p<0,03). Þeir sem notuðu íbúprófen höfðu marktækt minni áhættu á hjartadrepi (0,63; CI 0,40-1,00; p<0,05). Enginn munur var á þeim sem notuðu celecoxíb eða díklófenak.

Yngstu notendur rófecoxíbs (undir 40 ára) höfðu hlutfallslega mestu áhættuna (hazard ratio) fyrir hjarta- og æðasjúkdómi (8,34; p<0,001).

Ályktanir: Þessi rannsókn, sem byggir á skráningarkerfum Landlæknisembættisins, og Hagstofunnar telur um 78.000 einstaklinga eða 160.000 sjúklingaár, sýnir aukna áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum meðal þessara einstaklinga, sérstaklega meðal ungra einstaklinga sem notuðu rófecoxíb.

 

E 16      Sýnataka með skurðaðgerð breytir greiningu og meðferð á sjúkdómum í millivef lungna

Martin Ingi Sigurðsson1, Tómas Guðbjartsson1,2, Helgi J. Ísaksson3, Gunnar Guðmundsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2brjóstholsskurðdeild, 3rannsóknarstofu í meinafræði, 4lungnadeild Landspítala

ggudmund@landspitali.is

Inngangur: Nákvæm greining sjúkdóma í millivef lunga (interstitial lung diseases, ILD) er afar mikilvæg og er sýnataka með skurðaðgerð talin besta greiningaraðferðin. Lítið er vitað um árangur og fjölda þessara aðgerða á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er aftursýn og náði til allra sjúklinga sem gengust undir lungnasýnatöku með skurðaðgerð á Íslandi 1986-2007, alls 80 einstaklinga (47 karla, meðalaldur 57 ár, meðaleftirfylgd 78 mánuðir).

Niðurstöður: Í 66% tilvika voru sýni tekin með berkjuspeglun áður en skurðaðgerð var framkvæmd, án þess að fullnægjandi greining fengist. Algengustu ábendingar sýnatöku með skurðaðgerð voru ósk um sérhæfða greiningu (61%) og útilokun sýkinga og illkynja vaxtar (18%). Tíðni fylgikvilla (100% á móti 16%, p<0,0001) og dánartíðni (33% á móti 1,4%, p=0,02) var marktækt hærri meðal sjúklinga sem voru í öndunarbilun fyrir aðgerð en þeirra sem ekki voru í öndunarbilun. Ákveðin vefjafræðileg greining fékkst í 80% tilvika. Í kjölfar aðgerðarinnar breyttist klínísk greining í 74% tilfella. Þar af var gerð stærri breyting á greiningu í 63% tilfella en í 37% tilfella var gerð minniháttar breyting. Meðferð var breytt í 57% tilvika. Hjá 63 sjúklingum var vitað um gang sjúkdóms fyrsta árið eftir meðferð. Reyndist klínískur bati vera hjá 57% sjúklinga, líðan var óbreytt hjá 32% sjúklinga og 17% voru verri.

Ályktanir: Greiningargeta sýnatöku úr lungum með skurðaðgerð er ágæt. Í kjölfar aðgerðarinnar breyttist klínísk greining hjá meirihluta sjúklinga. Meirihluti sjúklinga ná bata eftir aðgerð. Í ljósi hærri dánartíðni og aukinnar tíðni fylgikvilla hjá sjúklingum með öndunarbilun ætti að íhuga vandlega kosti og galla aðgerðarinnar hjá þeim.

 

E 17      Faraldsfræði æðabólgusjúkdóma á Íslandi 1996-2006

Tekla Hrund Karlsdóttir1, Ragnar Freyr Ingvarsson2, Árni Jón Geirsson2, Kristján Steinsson2, Jóhannes Björnsson1,2, Björn Rúnar Lúðvíksson1,2

1Læknadeild HÍ, 2Landspítala

rafn@hi.is rfi@heimsnet.is

Inngangur: Æðabólgusjúkdómar eru oft lífshættulegir með afar ólíkar birtingarmyndir og meingerðir. Orsakavaldur þessara margvíslegu sjúkdóma er í flestum tilfellum óþekktir og geta þeir lagst á alla aldurshópa. Almennt er hér um sjaldgæfa sjúkdóma að ræða en slíkt hefur þó ekki verið kannað í heild sinni á Íslandi fram að þessu, að risafrumuæðabólgu undanskilinni*. Okkar markmið var að kanna algengi æðabólgusjúkdóma, annarra en risafrumuæðabólgu, á Íslandi á árunum 1996-2006.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturvirk. Leitað var samkvæmt greiningarkóðum í sjúkraskrárgrunni Landspítala og Fjórðungssjúkrahúss Akureyrar auk þess sem leitað var í gagnagrunni Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Safnað var saman upplýsingum um eftirtalda æðabólgusjúkdóma; Kawasakisjúkdóm (KD), Henoch-Schönlein purpura (HSP), Wegenershnúðager (WG), smásæja fjölæðabólgu (microscopic polyangitis, MPA), Churg-Strauss heilkenni (CSS), ósæðarbogaheilkenni (Takayasu, TA), drepæðabólgu (Polyarteritis nodosa, PAN) og einangraða slagæðabólgu (isolated necrotising arteritis, INA). Sjúkraskrá þeirra sem greindust með æðabólgusjúkdóm á þessu tímabili voru skoðaðar og upplýsingar um sjúkdómsmynd, rannsóknir og afdrif voru skráð.

Niðurstöður:

 

Fjöldi (%)

 

Meðalaldur

 

Kynjahlutfall (kk:kvk)

 

Á lífi

 

Kawasaki sjúkdómur

 

18 (18,2%)

 

29,9 mán.

(2-122 mánaða)

5:1

 

18/18

 

Henoch-Schönlein purpuri

 

32 (32,3%)

 

17 ára

(0,25-79)

1:1

 

31/32

 

Wegenershnúðager

 

23 (23,2%)

 

56,3 ára

(23-87)

1:2

 

22/23

 

Smásæ fjölæðabólga

 

3 (3%)

 

52,7 ára

(20-70)

0:3

 

2/3

 

Churg Strauss heilkenni

 

7 (7%)

 

52,1 ára

(33-72)

1:2

 

7/7

 

Ósæðarbogaheilkenni

 

2 (2%)

 

70 ára

(64-72)

0:2

 

2/2

 

Drepæðabólga

 

6 (6%)

 

47 ára

(15-71)

2:1

 

4/6

 

Einangruð slagæðabólga

 

8 (8%)

 

55 ára

(42-65)

3:5

 

8/8

 

Samtals

 

99

 

 

 

94/99

 

 

Ályktanir: Frumkomnar æðabólgur eru sjaldgæfir sjúkdómar á Íslandi. Tíðni KD, HSP, WG virðist sambærileg því sem þekkist á Vesturlöndum en CSS, PAN, TA, MPA virðist heldur sjaldgæfari. Horfur verða að teljast góðar þar sem einungis fimm af 99 greindum með æðabólgusjúkdóm hafa látist.

Heimild: * Baldursson O, et al. Giant cell arteritis in Iceland. An epidemiologic and histopathologic analysis. Arthritis Rheum 1994; 37: 1007-12.

 

E 18      Ónæmissvar við brátt hjartadrep

Emil Árni Vilbergsson1,3, Dagbjört Helga Pétursdóttir1, Inga Skaftadóttir1, Guðmundur Þorgeirsson2,3, Björn Rúnar Lúðvíksson1,3

1Ónæmisfræðideild, 2lyflæknasviði I Landspítala, 3læknadeild HÍ

dagbhp@landspitali.is bjornlud@landspitali.is

Inngangur: Brátt hjartadrep er lífshættulegt ástand sem krefst skjótrar og réttrar meðferðar. Meðferð felst í því að opna lokaðar kransæðar með segaleysandi lyfjameðferð eða víkkun. Nýlegar rannsóknir hafa bent til að vefjaskaða hjartadreps megi að hluta til rekja til ræsingar á bólgusvari ónæmiskerfisins. Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að athuga hvort finna mætti merki um ræsingu ónæmissvars við brátt hjartadrep.

Efniviður og aðferðir: Öllum einstaklingum með brátt hjartadrep er komu á bráðamóttöku Landspítala frá janúar til júlí 2002 var boðin þátttaka. Þátttakendum var skipt í fjóra hópa eftir því hvaða meðferðarúrræði voru veitt: 1) engin meðferð, 2) segaleysandi meðferð er leiddi til opnunar æðar, 3) segaleysandi meðferð sem opnaði ekki æðina og 4) æð er opnuð með percutaneous coronary intervention (PCI). Blóðsýni voru fengin við komu og 24 klukkustundum frá komu. Ræsing hvítra blóðkorna var metin með frumuflæðisjá þar sem tíðni og flúrljómun yfirborðssameindanna CD4, CD8, CD25, CD14, CD54, HLA-DR, CR-1 voru greind.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu fengust 16 einstaklingar til þátttöku. Hjá 10 af 16 tókst að enduropna kransæð. Hlutfall ræstra CD4+/CD25+ T-frumna jókst á fyrstu 24 klukkustundum (P=0,033). Þessi aukning var mest eftir enduropnun kransæða. Á hinn bóginn reyndist tjáning CD54 (ICAM-1) á CD4+ T frumum vera minnkuð 24 stundum eftir hjartadrep (P=0,02). Að lokum minnkaði hlutfall CD14+ einkjarna frumna sem tjáðu HLA-DR.

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að CD4+ T frumur hafi hlutverki að gegna í bólguferli sem fylgir bráðu hjartadrepi og enduropnun kransæða. Þó er frekari rannsókna þörf. Verði þessar niðurstöður staðfestar gæti það leitt til nýrra meðferðarúrræða við enduropnun kransæða eftir brátt hjartadrep.

 

E 19      Nýgengi, flokkun og sjúkdómsmynd skjaldvakaofseytingar á Íslandi

Ari Jóhannesson1, Arna Guðmundsdóttir1,2, Árni V. Þórsson1, Bolli Þórsson2, Gunnar Sigurðsson1, Gunnar Valtýsson3,4, Kolbeinn Guðmundsson3, Ragnar Bjarnason1,3, Rafn Benediktsson1,2

1Lyflæknasviði Landspítala, 2Læknasetrinu, 3Domus Medica, 4St. Jósefsspítala

arijoh@landspitali.is

Inngangur: Í rannsókn á nýgengi skjaldvakaofseytingar á Íslandi árin 1980-1982 reyndist það vera 23,6/100.000/á ári og 83,3% sjúklinga voru með Graves-sjúkdóm. Af ýmsum ástæðum þótti rétt að kanna nýgengi, orsakir og sjúkdómsmynd skjaldvakaofseytingar að nýju, tæpum 25 árum eftir fyrri rannsóknina.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var framskyggn og náði til tveggja ára (2004-2005). Allir innkirtlalæknar á Íslandi skráðu nýgreind tilvik af skjaldvakaofseytingu á rannsóknartímanum ásamt orsökum og einkennum. Auk þess var haft samband við yfirlækna allra heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa, útskriftargreiningar á Landspítala skoðaðar svo og nýkomur á Ísótópastofu Landspítalans á rannsóknartímanum. Sjúkdómsgreining og undirflokkun studdist við klíníska mynd og niðurstöður blóð- og myndgreiningarrannsókna.

Niðurstöður: Alls greindust 259 einstaklingar með skjaldvakaofseytingu á rannsóknartímabilinu. Nýgengi var 44,2/100.000/á ári. Meðalaldur var 50,6 ár (9-92). Eitt hundrað sjötíu og tveir sjúklingar (66,4%) höfðu Graves-sjúkdóm, 36 (13,9%) ofseytandi hnút(a), 12 (4,6%) verkjalausa skjaldkirtilsbólgu, átta (3,1%) eftirburðarbólgu, 13 (5,0%) millibráða skjaldkirtilsbólgu, 11 (4,2%) skjaldvakaofseytingu tengda amíódaróni og sjö (2,7%) aðrar eða óþekktar orsakir. Nýgengi skjaldvakaofseytingar jókst með aldri, að 70 árum. Algengustu einkenni í Graves-sjúkdómi (>60%) voru hjartsláttarónot (79,3%), þreyta (78,8%), heitfengi (76,7%), aukin svitamyndun (71,1%), þyngdarbreyting (70,9%), skjálfti (67,5%) og mæði (60%).

Ályktanir: Samanborið við fyrri rannsókn hefur nýgengi skjaldvakaofseytingar á Íslandi nær tvöfaldast á tæpum aldarfjórðungi. Mögulegt er að bætt skráning skýri hluta af aukningunni. Graves-sjúkdómur er sem fyrr algengasta orsök skjaldvakaofseytingar á Íslandi.

 

E 20      Faraldsfræði heiladingulsæxla á Íslandi

Tinna Baldvinsdóttir1, Ásta Bragadóttir1, Gunnar Sigurðsson1,2,Jón G. Jónasson1,4Árni V. Þórsson1,3,Rafn Benediktsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2innkirtla- og efnaskiptasjúkdómadeild, 3Barnaspítala Hringsins Landspítala, 4Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands

tib1@hi.is

Inngangur: Rannsóknir benda til að nýgengi heiladingulsæxla fari vaxandi og hefur það verið skrifað á framfarir í myndgreiningartækni. Vísbendingar eru einnig um að algengi æxla er hafa klíníska þýðingu sé mun meira en áður var talið. Á Íslandi var algengi talið 4,8/100.000 árið 1963.

Efniviður og aðferðir: Tímabil rannsóknarinnar var 1955-2007. Upplýsinga var aflað frá myndgreiningardeildum Landspítala og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, Röntgen Domus, Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, Hjartavernd, Rannsóknarstofu í meinafræði á Landspítala og frá sérfræðilæknum í innkirtla- og kvensjúkdómum. Einnig voru upplýsingar fengnar úr rannsókn Ástu Bragadóttur og félaga á heiladingulssjúkdómum frá 2001. (Kynnt á XV. þingi Félags íslenskra lyflækna á Ísafirði 2002. Læknablaðið/Fylgirit 44 2002.)

Niðurstöður: Bráðabirgðaniðurstöður leiða í ljós að 312 einstaklingar greindust með heiladingulsæxli á rannsóknartímabilinu. Miðgildi aldurs við greiningu var 41,9 ár (3-88 ár), 35,2 ár fyrir konur og 53,3 ár fyrir karla. Prólaktínæxli voru 35% en 26% voru óvirk kirtilæxli (non-functioning adenoma). Aldursstaðlað nýgengi miðað við 100.000 íbúa var 2,9 hjá konum og 1,8 hjá körlum. Nýgengið jókst úr 0,1 í 6,3 meðal kvenna frá fyrsta til síðasta fjórðungs tímabilsins en úr 0,4 í 3,6 meðal karla. Algengi í lok desember 2006 reyndist 82/100.000. Einkenni eða teikn við greiningu höfðu 84% einstaklinga en fjöldi greininga var augljóslega tengdur tilkomu nýrrar myndgreiningartækni, tölvusneiðmyndun og segulómun.

Ályktanir: Nýgengi heiladingulsæxla á Íslandi er að aukast og algengi nú er 17 sinnum hærra en 1963 sem er sambærilegt við niðurstöður nýrra erlendra rannsókna. Sú staðreynd að 84% einstaklinga voru með einkenni eða teikn um sjúkdóminn við greiningu undirstrikar mikilvægi þess að læknar séu á varðbergi gagnvart æxlum í heiladingli sem virðast vera tiltölulega algeng eða hátt í 1:1000.

 

E 21      Cushingssjúkdómur á Íslandi í fimmtíu ár

Steinunn Arnardóttir, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir

Lyflæknasviði Landspítala

steinarn@landspitali.is

Inngangur: Cushingssjúkdómur (CS) er sjaldgæfur með áætlað nýgengi um 0,5-1,0/100.000. CS stafar af offramleiðslu ACTH frá heiladingli, sem leiðir til ofseytingar kortisóls frá nýrnahettum. Neikvæð áhrif CS á efnaskipti, svo sem sykursýki, hækkaðar blóðfitur og háþrýstingur, eru talin skýra háa tíðni hjarta- og æðasjúkdóma og hátt dánarhlutfall hjá sjúklingum með CS. Sjúkdómsgreining CS getur verið erfið og rannsóknaraðferðirnar eru flóknar og því hugsanlegt að algengi sjúkdómsins sé vanmetið. Markmið rannsóknarinnar var að finna sjúklinga sem greinst hafa með CS frá árinu 1959-2007 á Íslandi og kanna nýgengi, sjúkdómsmynd, greiningu, meðferð og gang sjúkdómsins hérlendis.

Efniviður og aðferðir: Leitað var upplýsinga um sjúklinga sem greinst hafa með heiladingulsæxli á Íslandi frá 1959-2007 í rafrænni sjúkraskrá Landspítala og auk þess haft samband við starfandi sérfræðinga í innkirtla- og efnaskiptasjúkdómum á Íslandi.

Niðurstöður: Á árunum 1959-2007 greindist 21 Íslendingur með CS, 16 konur og fimm karlar. Meðalalgengi CS síðustu fimm ár er 0,12/100.000. Meðalaldur við greiningu var 44,9 ár. Algengustu einkenni við greiningu voru almennur slappleiki og nýleg þyngdaraukning. Átján sjúklingar höfðu háþrýsting við greiningu sem hvarf eftir meðferð CS hjá sex þeirra. Þrír sjúklingar höfðu skert sykurþol við greiningu og batnaði það við meðferð CS. Heiladingulsæxli var fjarlægt hjá 15 af 21 sjúklingi, þar af átta hérlendis og fengu 12 sjúklingar fullan bata við brottnám æxlisins. Hjá sjö sjúklingum voru báðar nýrnahettur fjarlægðar.

Ályktanir: Nýgengi CS á Íslandi er nokkuð lægra en erlendis. Greiningaraðferðir eru nokkuð sambærilegar og í öðrum löndum. Hlutfall sjúklinga sem læknast hefur aukist með árunum. Mögulegt er að algengi CS sé vanmetið á Íslandi.

 

E 22      Hin mörgu andlit geislagerlabólgu. Niðurstaða afturvirkrar rannsóknar á Íslandi 1984-2007

Eyrún Baldursdóttir1, Lárus Jónasson2, Magnús Gottfreðsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2Landspítala

smergill@gmail.com

Inngangur: Geislagerlabólga (actinomycosis) er fátíð sýking sem orsakast af Actinomyces sp. Sýklarnir lifa gistilífi í örveru-flóru munnhols, meltingarvegar og æxlunarfæra kvenna og geta við rof á slímhúð, til dæmis vegna áverka, tannviðgerða eða sarpbólgu, komist inn í dýpri vefi og valdið vilsufylltum, trafkenndum ígerðum. Greining sjúkdómsins er flókin og veruleg greiningartöf er algeng. Við gerðum afturvirka rannsókn á geislagerlabólgu sem greindist 1984-2007 á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Leitað var að greiningum eftir ICD-kóðum á Landspítala, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri (FSA), Sjúkrahúsinu og heilsugæslustöðinni á Akranesi (SHA) og Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði (FSÍ). Einnig var leitað eftir vefjasýnum með viðeigandi SNOMED-númerum á meinafræðideildum Landspítala og FSA og á vefjarannsóknastofunni Glæsibæ. Greiningarskilmerki voru sett fram sem byggja meðal annars á vefjameinafræðilegum breytingum, klínískum einkennum og niðurstöðum myndrannsókna eða skurðaðgerða.

Niðurstöður: Greiningarskilmerki voru uppfyllt hjá 67 sjúklingum, 42 konum og 25 körlum, og var meðalaldur 44,3 ár. Í 57% tilvika voru sýkingar á hálsi og andliti en í þeim hópi vekur athygli hátt hlutfall í táragöngum (13% af heildinni). Í kviðarholi voru 10% tilvika en 31% í grindarholi sem er hærra hlutfall en áður hefur verið greint frá. Greiningartöf var algeng og gátu liðið á bilinu 15 dagar upp í átta til níu ár frá fyrstu einkennum að greiningu (miðgildi er fjórir til fimm mánuðir). Algengast var að sjúklingar fengju greiningu einum mánuði eftir fyrstu einkenni.

Ályktanir: Þessi rannsókn er fyrsta lýðgrundaða rannsóknin á geislagerlabólgu sem okkur er kunnugt um. Greiningartöf er oft mjög löng. Mikilvægt er að læknar séu meðvitaðir um þessa sjaldgæfu sýkingu sem oft getur hagað sér líkt og illkynja sjúkdómur.


E 23      Sýklalyfið azitrómýcín ver lungnaþekju gegn Pseudomonas aeruginosasýkingu óháð bakteríudrepandi virkni

Skarphéðinn Halldórsson1, Guðmundur Hrafn Guðmundsson1, Þórarinn Guðjónsson3,4, Magnús Gottfreðsson5, Ólafur Baldursson3,6

1Líffræðistofnun, 2rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum líffærafræðideild læknadeildar, 3lyfjafræðideild HÍ, 4blóðmeinafræðideild, 5smitsjúkdómadeild, 6lungnadeild Landspítala

skarph@hi.is

Inngangur: Gram neikvæða bakterían Pseudomonas aeruginosa getur valdið alvarlegum lungnasýkingum í einstaklingum með skerta ónæmisstarfsemi á borð við sjúklinga með slímseygju (cystic fibrosis, CF) eða langvinna lungnateppu (chronic ob-structive pulmonary disease, COPD). Lungnaþelið er fremsta varnarlína gegn sýkingum í öndunarfærum. Samheldni þess, skautun og gegndræpi er stjórnað af þéttitengjaprótínum. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að sýklalyfið azitrómýcín hefur jákvæð áhrif á lungnastarfsemi sjúklinga með slímseygju án þess að um beina bakteríudrepandi virkni sé að ræða. Við höfum áður sýnt að azitrómýcíneykur rafviðnám og breytir tjáningu þéttitengjaprótína í berkjufrumulínunni VA10.

Markmið þessarar rannsóknar var að rannsaka samspil P. aeruginosa og lungnaþelsins við sýkingu og að skilgreina varnaráhrif azitrómýcínsí því samhengi.

Efniviður og aðferðir: Skilgreinda berkjufrumulínan VA10 var notuð í þessari rannsókn. Með því að notast við himnuræktir gátum við mælt rafviðnám, samsetningu þéttitengja og innskrið P. auruginosa í lungnaþekjulíkani. Þekjan var meðhöndluð með lifandi bakteríum, dauðhreinsuðu (sterile) floti úrP. aeruginosa rækt og hreinsuðum rhamnólípíðum.

Niðurstöður: Rannsóknir okkar benda til þess að rhamnólípíð sem P. aeruginosa seytir frá sér riðli byggingu þéttitengja sem lækkar rafviðnám í lungnaþekjunni. Niðurstöðurnar sýna einnig að meðhöndlun lungnaþekjunnar með azitrómýcíni ver þekjuna fyrir lækkun á rafviðnámi og flýtir fyrir bata í kjölfar P. aeruginosa sýkingar, óháð bakteríudrepandi virkni lyfsins.

Ályktun: Með þessari rannsókn er stigið skref í átt að því að útskýra hvernig hliðarverkun azitrómýcíns getur styrkt náttúrulegar varnir lungnaþelsins gegn sýkingum.

 

E 24      Styrkur ómega-3 fjölómettaðra fitusýra í blóði og tíðni gáttatifs eftir opna hjartaskurðaðgerð

Ragnhildur Heiðarsdóttir1, Ólafur Skúli Indriðason2, Davíð O. Arnar2, Bjarni Torfason3, Runólfur Pálsson2, Viðar Örn Eðvarðsson4, Gizur Gottskálksson2, Guðrún V. Skúladóttir1

1Lífeðlisfræðistofnun, læknadeild HÍ, 2lyflæknasviði I, 3skurðlæknasviði, 4Barnaspítala Hringsins, Landspítala

davidar@landspitali.is olasi@landspitali.is

Inngangur: Gáttatif er þekktur fylgikvilli eftir opna hjartaaðgerð. Rannsóknir sýna að bólgumyndun geti átt þar hlut að máli og að meðferð með ómega-3 fjölómettuðum fitusýrum gæti minnkað tíðni gáttatifs eftir slíka aðgerð. Markmið rannsóknarinnar var að kanna sambandið milli tilkomu gáttatifs eftir opna hjartaaðgerð og styrks ómega-3 fjölómettaðra fitusýra og C reactive protein (CRP) í blóði.

Efniviður og aðferðir: Tekin voru blóðsýni úr sjúklingum er taka þátt í slembiraðaðri, blindaðri, lyfleysustýrðri rannsókn á ómega-3 fjölómettuðum fitusýrum til að fyrirbyggja gáttatif eftir opna hjartaaðgerð. Styrkur ómega-3 fjölómettaðra fitusýra í fosfólípíðum blóðs á aðgerðardegi var mældur ásamt styrk CRP eftir aðgerð. Fylgst var með sjúklingum í hjartarafsjá og tilfelli gáttatifs sem stóðu lengur en fimm mínútur skráð.

Niðurstöður: Fjörutíu og einn sjúklingur hefur verið tekinn í rannsóknina. Gáttatif greindist hjá 26 (63,4%, 18 karlar), að meðaltali 2,8 dögum eftir aðgerð. Einþátta greining (Mann-Whitney próf) sýndi að þeir sem fengu gáttatif voru eldri, 70 (46-78) á móti 66 (50-77) ára (p=0,02) og með hærri styrk af heildar ómega-3 fjölómettuðum fitusýrum, 128 (75-194) á móti 96 (68-242) µg/ml (p=0,02), eicosapentaenoic acid (EPA) (20:5n-3), 39 (16-84) á móti 25 (9-53) µg/ml (p=0,02), DHA (22:6n-3), 72 (51-105) á móti 57 (36-76) µg/ml (p=0,001), samanborið við þá sem ekki fengu gáttatif. Hæsta gildi CRP eftir aðgerð var ekki marktækt hærra meðal sjúklinga með gáttatif, 208 (87-312) á móti 195 (55-279) mg/L (p=0,08) við einþátta greiningu. Hins vegar sýndi fjölþátta lógistísk aðhvarfsgreining marktæka fylgni gáttatifs við aldur, OR 1,11 (95% öryggismörk 1,02-1,20), og styrk CRP, OR 1,01 (1,00-1,02), en ekki við styrk ómega-3 fjölómettaðra fitusýra.

Ályktanir: Þessar frumniðurstöður benda til þess að tilkoma gáttatifs eftir opna hjartaskurðaðgerð tengist hækkandi aldri og bólguþáttum. Aukinn styrkur ómega-3 fjölómettaðra fitusýra virðist ekki tengjast fækkun gáttatifstilfella.

 

E 25      Djúpar sýkingar í bringubeinsskurði eftir opnar hjartaskurðaðgerðir á Íslandi

Steinn Steingrímsson1, Tómas Guðbjartsson1,2, Karl G. Kristinsson1,2,3, Magnús Gottfreðsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3sýklafræðideild, 4smitsjúkdómdeild Landspítala

magnusgo@landspitali.is

Inngangur: Sýking í bringubeinsskurði er alvarlegur fylgikvilli opinna hjartaskurðaðgerða og greinist í 1-8% tilfella samkvæmt erlendum rannsóknum. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna tíðni og áhættuþætti þessara sýkinga hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk og náði til allra fullorðinna sem gengust undir opnar hjartaskurðaðgerðir á Íslandi 1997-2004, samtals 1650 einstaklinga. Upplýsingar fengust úr sjúkra- og aðgerðarskrám. Fyrir sérhvern sjúkling með sýkingu voru valdir fjórir sjúklingar í samanburðarhóp sem gengist höfðu undir hjartaskurðaðgerð á sama tímabili. Hóparnir voru bornir saman með tilliti til ýmissa áhættuþátta og fjölbreytugreining notuð til að meta áhættuþætti fyrir sýkingu. Einnig var gangur eftir aðgerð kannaður, lífshorfur, ræktunarsvör og meðferð.

Niðurstöður: Alls greindist 41 sjúklingur (2,5%) með sýkingu en ekki reyndist marktækur munur á sýkingartíðni milli ára á þessu átta ára tímabili. Algengustu sýkingavaldar voru Staphylococcus aureus (37%) og kóagúlasa-neikvæðir stafýlókokkar (34%). Hóparnir voru sambærilegir hvað varðar kynjahlutföll, líkamsþyngdarstuðul og ábendingu fyrir aðgerð. Legutími (43 á móti 10 dögum, p<0,001) og lengd meðferðar í öndunarvél var marktækt lengri hjá sýkingarhópnum. Í þessum hópi sást einnig tilhneiging til fleiri dauðsfalla á sjúkrahúsi (10% á móti 4%, ns) og eins árs lífshorfur voru marktækt lakari en hjá viðmiðunarhópi (83% á móti 95%, p=0,01). Fjölbreytugreining sýndi að sterkustu sjálfstæðu áhættuþættirnir fyrir sýkingu voru heilablóðfall (OR=5,1), útæðasjúkdómar (OR=5), enduraðgerð vegna blæðinga (OR=4,7), meðferð með bólgueyðandi sterum (OR=4,3) og reykingar (OR=3,7).

Ályktanir: Tíðni bringubeins- og miðmætissýkinga á Íslandi (2,5%) er sambærileg við nágrannalöndin, einnig áhættuþættir og dánarhlutfall sem þó er umtalsvert (17,1%).

 

E 26      Klínísk og sameindafræðileg faraldsfræði meticillín ónæmra Staphylococcus aureus(MÓSA) á Íslandi árin 2000-2007

Barbara Holzknecht1,Ólafur Guðlaugsson1,2, Hjördís Harðardóttir3, Gunnsteinn Haraldsson3, Karl G. Kristinsson3

1Lyflæknasviði, 2sýkingavarnadeild, 3sýklafræðideild Landspítala

barbarah@web.de

Inngangur: Á undanförnum árum hefur faraldsfræði meticillín ónæmra Staphylococcus aureus (MÓSA) erlendis verið að breytast frá því að vera dæmigerð spítalasýking í það að eiga í ríkari mæli uppruna sinn úti í samfélaginu.

Efniviður og aðferðir: Safnað var sýklafræðilegum og klínískum upplýsingum um öll MÓSA tifelli á rannsóknartímabilinu. Af stofnunum voru 94% aðgengilegir til sameindafræðilegrar greiningar.

Niðurstöður: Sýking og/eða sýklun af völdum MÓSA greindist hjá 192 einstaklingum (árlegt nýgengi 2,5-16). Sýkingar voru 57,8% og 80,2% þeirra húð- og mjúkvefjasýkingar. Á tímabilinu 2000 til 2003 tilheyrði meirihluti tilfella (48 af 87) tveimur heilbrigðiskerfistengdum faröldrum. Síðustu árin einkenndust af hækkandi tíðni tilfella sem ekki voru tengd faröldrum og uppgötvuðust í samfélaginu. Pulsed-field gel electrophoresis (PFGE-) greining 176 stofna sýndi fram á 67 mismunandi klóna. Tveir faraldrar, 19 hópar (clusters) og 46 stök tilfelli fundust. Hvorugur faraldsklónanna fannst utan faraldstímabils. Stór hluti þeirra tengsla sem uppgötvuðust við stofnagreiningu höfðu ekki greinst við faraldsfræðilega rannsókn. Stofnarnir voru einnig greindir frekar með spa typing. Greindust þá vel þekktir erlendir klónar, svo sem USA 300 og EMRSA 15.

Ályktanir: Með virkri skimun og upprætingu hefur tekist að koma í veg fyrir útbreiðslu MÓSA innan íslenska heilbrigðiskerfisins. En eins og erlendis er MÓSA á Íslandi nú að færast frá heilbrigðiskerfinu út í samfélagið og stökum tilfellum fer fjölgandi. Nýgengi MÓSA tilfella telst samt ennþá lágt á Íslandi. Með hjálp PFGE-greiningar uppgötvuðust fjölmörg áður óþekkt tengsl sem staðfestir mikilvægi þessarar greiningaraðferðar í faraldsfræðilegri uppvinnslu og eftirliti. Notkun spa typing staðfesti tilveru erlendra klóna hér á landi.


E 27      Tjáning Sprouty próteina í greinóttri formgerð brjóstkirtils

Valgarður Sigurðsson, Þórarinn Guðjónsson, Magnús Karl Magnússon

Rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum, blóðmeinafræðideild Landspítala og líffærafræði læknadeildar HÍ

valgardu@hi.is

Inngangur: Boðferlar sem taldir eru mikilvægir fyrir greinótta formgerð ýmissa vefja eru vel varðveittir milli mismunandi líffæra. Boð gegnum týrósín kínasa viðtaka eru dæmi um slíka boðferla. Innanfrumustjórnprótein sem tilheyra Sprouty fjölskyldunni hafa áhrif á virkni týrósín kínasa viðtaka og hafa fundist fjögur mismunandi Sprouty gen í spendýrum; Sprouty-1, 2, 3 og 4. Sprouty prótein gegna mikilvægu hlutverki í myndun greinóttrar formgerðar í lungum, nýrum og æðakerfi og nýlegar rannsóknir gefa til kynna að Sprouty prótein séu mögulega æxlisbæligen. Hlutverk þeirra og tjáning í brjóstkirtli hefur lítið verið kannað. Markmið rannsóknarinnar er að skilgreina tjáningarmynstur Sprouty próteina í eðlilegum brjóstkirtli og í greinóttri formgerð brjóstastofnfrumna í þrívíðri rækt.

Efniviður og aðferðir: Tjáning Sprouty í brjóstavef, ræktuðum frumum og þrívíðum frumuræktunum var metin með mótefnalitunum, Western blettun, og rauntíma-PCR (Q-RT-PCR).

Niðurstöður: Q-RT-PCR tilraunir sýndu litla tjáningu Sprouty-1 í brjóstavef en mótefnalitanir á vefjasneiðum sýna að Sprouty-2 er mikið tjáð í þekjufrumum en minna í stoðvefsfrumum brjóstkirtils. Q-RT-PCR sýnir meiri tjáningu Sprouty-2 í kirtilþekju (2,5-20 falt) en vöðvaþekju. Mótefnalitanir gefa til kynna að Sprouty-3 tjáning sé einkum í vöðvaþekjufrumum en Sprouty-4 finnst aðallega í æðaþelsfrumum. Til að kanna tjáningu Sprouty gena í þrívíðri rækt brjóstastofnfrumna var einangrað RNA á ræktunardögum (RD)-12, RD-14 og RD-16 og framkvæmt Q-RT-PCR. Sprouty-1 tjáning fannst ekki en tjáning Sprouty-2 var allt að 17 falt meiri á RD-14 miðað við RD-12. Ekki sást marktækur munur á tjáningu Sprouty-3 en mikill munur var á tjáningu Sprouty-4 eftir dögum. Mest var tjáning Sprouty-4 á RD-12 þar sem 38 faldur munur var á RD-12 og RD-16.

Ályktanir: Tjáning Sprouty-2 virðist vera mest í kirtilþekju, Sprouty-3 í vöðvaþekju og Sprouty-4 tjáning í æðaþelsfrumum. Tjáning Sprouty-1 er mjög lítil í brjóstavef. Tjáning Sprouty-2 og Sprouty-4 breytist mikið meðan á myndun greinóttrar formgerðar brjóstastofnfrumna á sér stað. Niðurstöðurnar gefa sterklega til kynna að Sprouty prótein hafi áhrif á greinótta formgerð brjóstkirtils og áframhaldandi vinna miðar að því að kanna nánar hlutverk Sprouty í þessu ferli.


 

E 28      Hlutverk prótein týrósín fosfatasa 1B (PTP1B) í brjóstastofnfrumulínunni D492

Bylgja Hilmarsdóttir, Katrín Ósk Guðmundsdóttir, Ragnar Pálsson, Þórarinn Guðjónsson, Magnús Karl Magnússon

Rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum, blóðmeinafræðideild, Landspítala og líffærafræði læknadeildar HÍ

bylgjah@gmail.com

Inngangur: PTP1b týrósín fosfatasi er skráður af geni (PTPN1) sem staðsett er á 20q13, en á þessu svæði er algengt að finna mögnum í brjóstaæxlum. D492 er brjóstastofnfrumulína (Gudjonsson, et al. G&D 2002) sem var gerð ódauðleg með víxlveirugenaferju sem flutti æxlisgenin E6/E7 inn í genamengi hennar. Innskotsstaður víxlveirugenaferjunnar var einangraður með Inverse PCR (iPCR) þar sem finna mátti DNA röð víxlveirunnar í erfðamengi D492. BLAST leit leiddi í ljós að innskotsstaðurinn var á litningi 20q13.1, eða um 95 kílóbasa neðan við PTP1N genið. Í ljósi þessarar staðsetningar innskotsins höfum við mikinn áhuga á að rannsaka hvaða áhrif innskotið hefur á virkni PTP1b í D492 samanborið við aðrar brjóstaþekjufrumur. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvaða áhrif PTP1b hefur á eiginleika D492 frumulínunnar og hvort þau megi að hluta til rekja til innskots á E6/E7 í genamengi frumulínunnar.

Efniviður og aðferðir: Ræktun frumna í tvívíðri rækt, Western blettun, notkun lyfjahindra í frumurækt og flæðifrumusjárgreining.

Niðurstöður: Western blettun leiddi í ljós að tjáning PTP1b próteinsins er mun meiri í D492 frumulínunni en í ferskum (primary) brjóstaþekjufrumum. Þetta bendir til að víxlveiran hafi áhrif á genatjáningu frumulínunnar. Til að kanna starfrænt hlutverk PTP1b í D492 voru áhrif sértæks PTP1b hindra könnuð á D492 og fleiri frumulínur. Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að PTP1b próteinið sé mikilvægt í D492 frumulínunni þar sem 16uM styrkur af hindra nægir til að framkalla víðtækan frumudauða (IC50 fyrir hindrann er 8uM). Hindrinn hefur ekki slík áhrif MCF-7, sem er krabbameinsfrumulína úr brjósti. Vinna við frumuflæðisjárgreiningu er í gangi sem staðfestir mikinn frumudauða. Ekki er ljóst á núverandi tímapunkti hvort frumudauðinn orsakist af stýrðum frumudauða eða almennum frumudauða (nekrósu)

Ályktanir: Innskotsstaður víxlgenaferjunnar í D492 er mjög áhugaverður og virðist hafa áhrif á tjáningu gensins PTP1B í frumulínunni. D492 er mjög viðkvæm fyrir lyfjahindrun á PTP1B sem gefur til kynna mikilvægi gensins fyrir hana. Áframhaldandi rannsóknir miða að því að þagga niður tjáningu PTPN1 með RNAi tækni og kanna hvaða áhrif það hefur á stofnfrumueiginleika D492.

 

E 29      Slímseigjusjúkdómur á Íslandi: tíðni, einkenni og meðferð

Brynja Jónsdóttir1, Hörður Bergsteinsson2, Ólafur Baldursson1,3

1Lyflæknasviði 2Barnaspítala Hringsins Landspítala, 3lyfjafræðideild HÍ

brynjajo@gmail.com

Inngangur: Slímseigjusjúkdómur er arfgengur víkjandi sjúkdómur sem orsakast af stökkbreytingu í CFTR próteini, klórgöngum í himnu þekjuvefsfrumna. Yfir 1500 stökkbreytingar eru þekktar. Algengust er ΔF508. Tíðni sjúkdómsins er 1/2.000-3.000 í evrópskum þjóðum. Galli í CFTR hefur áhrif á seyti og upptöku þekjuvefs. Helstu líffæri sem verða fyrir áhrifum eru öndunarfæri, bris, meltingarfæri og svitakirtlar. Öndunarfærasjúkdómur er oft alvarlegasti hluti sjúkdómsins, með langvinnum sýkingum, ýktu bólgusvari og þykku slími. P. aeuruginosa er helsti sýkillinn og um 70% fullorðinna hafa langvinna sýkingu.

Efniviður og aðferðir: Gerð var úttekt á tíðni sjúkdómsins á Íslandi á árunum 1995-2005. Gögn voru fengin frá Herði Bergsteinssyni barnalækni. Einnig var gerð rannsókn á íslenskum sjúklingum árið 2007. Tólf eru á lífi, sex karlar og sex konur á aldrinum 2-47 ára. Sjúklingar svöruðu spurn-
ingum um greiningu, einkenni og meðferð. Frekari upplýsinga varðandi niðurstöður blóðprufa og sýklarannsókna var leitað í sjúkraskrám.

Niðurstöður: Tuttugu og sjö sjúklingar voru greindir með sjúkdóminn á tímabilinu 1955-2005. Útreiknuð tíðni sjúkdómsins er 1/8344. Stökkbreytingar eru þekktar hjá 22 af 27 sjúklingum og hafa þrjár gerðir fundist, ΔF508 í 59,1%, N1303K í 36,4% og 1078dT í 4,5%. Helstu niðurstöður úr klínísku rannsókninni eru þær að meðferð sjúklinga er svipað háttað og í öðrum Evrópulöndum og eftirlit er gott. Tíðni langvinnrar P. aeuruginosa sýkingar er 20%. Almennt upplifa sjúklingar heilsu sína fremur góða.

Ályktanir: Slímseigjusjúkdómur hefur lægri tíðni hér en í nágrannalöndunum. Stökkbreytingar sem finnast hérlendis eru algengar á keltneskum svæðum en sjaldgæfari á Norðurlöndum. Tíðni langvinnrar P. aeuruginosa sýkingar er mun lægri en í samanburðarlöndum.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica