Ágrip veggspjalda

Ágrip veggspjalda

V-1       Árangur og umfang endurlífgunar á Landspítala

Bylgja Kærnested, Gísli E. Haraldsson, Jón Baldursson, Davíð O. Arnar

Endurlífgunarnefnd Landspítala

bylgjak@landspitali.is

Inngangur: Árangur endurlífgunar á Landspítala er ekki þekktur. Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta umfang og árangur þessarar starfsemi á spítalanum.

Efniviður og aðferðir: Á Landspítala eru starfandi tvö endurlífgunarteymi, eitt við Hringbraut og eitt í Fossvogi. Hvert teymi skipa fjórir læknar og einn hjúkrunarfræðingur. Frá því í ársbyrjum 2006 hafa skýrslur um endurlífgunartilraunir verið fylltar út jafnharðan samkvæmt Utstein staðli.

Niðurstöður: Á árunum 2006-2007 voru alls 311 útköll endurlífgunarteyma vegna bráðra uppákoma þar af 113 í Fossvogi og 198 við Hringbraut. Af þessum útköllum var þörf á endurlífgun í 82 tilfellum (26%). Endurlífgun bar árangur hjá 57 sjúklingum (71%). Af þessum 57 voru 25 (58%) á lífi eftir eitt ár. Meðalaldur sjúklinga sem fóru í hjartastopp var 71 árs. Um 63% þeirra sem fóru í hjartastopp voru karlar. Rafvirkni án dæluvirkni eða rafleysa voru upphafstaktar hjá 38 sjúklingum (46%) við komu endurlífgunarteymis. Endurlífgun tókst hjá 19 þeirra (50%) en eftir 12 mánuði voru aðeins þrír (16%) lifandi. Tuttugu og einn (26%) sjúklingur var í sleglatifi eða sleglahraðtakti án blóðflæðis (VF/VT) en hjá nær öllum (95%) bar endurlífgun árangur og 12 (60 %) voru lifandi að ári liðnu. Ekki voru til fullnægjandi upplýsingar fyrir alla sjúklinga sem fóru í hjartastopp á þessu tímabili. Hjartastopp var oftar á hjartadeildum, hjá 25 (30%), en á öðrum deildum Landspítala. Af þeim bar endurlífgun árangur í 76% tilvikum samanborið við 67% þeirra sem fóru í hjartastopp á almennum legudeildum. Hjá þeim sem fóru í hjartastopp á þræðingarstofu var upphafsárangur 88%. Í 73% tilfella reyndust sjúklingar hafa fengið grunnendurlífgun af starfsmönnum deildar.

Ályktanir: Þessar frumniðurstöður eru góðar ef mið er tekið af sambærilegum árangri í nágrannalöndunum. Lifun þeirra sem voru með sleglatif eða sleglahraðtakt voru betri en hjá þeim sem höfðu rafleysu eða rafvirkni án dæluvirkni.


V-2        Örblæðingar í heila: Niðurstöður úr öldrunarrannsókn Hjartaverndar

Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir1,2, Thor Aspelund1,3, Sigurður Sigurðsson1, Ólafur Kjartansson1,2, Guðný Eiríksdóttir1, Bylgja Valtýsdóttir1, Oskar Lopez4, Mark van Buchem5, Pálmi V. Jónsson1,2,3, Vilmundur Guðnason1,3, Lenore J. Launer6

1Hjartavernd, 2taugalækningadeild, röntgendeild Landspítali, 3læknadeild, raunvísindadeild HÍ, 4Háskólanum í Pittsburgh, Pennsylvaníu, USA, 5 röntgendeild Háskólaspítalans í Leiden, Hollandi, 6National Institute on Aging, Bethesda, Maryland, USA

sigurls@landspitali.is

Inngangur: Hjá sjúklingum með heilablóðfall sjást aukalega oft menjar eftir örblæðingar í heila þegar beitt er ákveðinni tækni við myndgerðina, svonefndri *T2-segulómun. Slíkum örblæðingum hefur einnig verið lýst hjá miðaldra og eldri einstaklingum sem ekki hafa fengið heilablóðfall. Í öldrunarrannsókn Hjartaverndar er m.a. gerð *T2-segulómun af heila auk fjölmargra annarra rannsókna sem miða að því að skýra áhrifavalda á sjúkdóma og öldrun. Hér er lýst algengi og staðsetningu örblæðinga hjá úrtaki í rannsókninni og fylgni við þætti sem tengjast sjúkdómum í æðakerfinu.

Aðferðir: Þátttakendur í rannsókninni eru slembiúrtak karla og kvenna sem fæddust á árunum 1907-1935 og hafa sl. 40 ár tekið hafa þátt í langtíma faraldsfræðirannsókn Hjartaverndar á hjarta- og æðasjúkdómum (Reykjavíkurrannsókninni). Auk öflunar heilsufarsupplýsinga, prófunar á vitrænni starfsemi og ýmissa myndgreiningar- og blóðrannsókna er segulómun af heila gerð með *T2-tækni hjá öllum þátttakendum sem ekki hafa sérstakar frábendingar. Niðurstöður sem kynntar eru hér byggjast á fyrstu 1.962 þátttakendum þessarar rannsóknar, 820 körlum og 1142 konum (meðalaldur 76 ára, bil 66-93 ára).

Niðurstöður: 218 einstaklingar (11,1%) reyndust hafa menjar eftir örblæðingar í heila. Algengi var hærra meðal karla (14,4% karla, 8,8% kvenna; p=0,0002, aldursstaðlað). Algengi örblæðinga jókst með hækkandi aldri (p=0,0001), bæði fyrir karla (p=0,006) og konur (p=0,007). Staðsetning örblæðinganna var í heilahvelunum (70%), djúpt í heila á svæði botnkjarna (10,5%) og í heilastofni (18,6%). Auk þess að sýna fylgni við aldur og karlkyn fannst fylgni við sögu um heilablóðfall eða tímabundna blóðþurrð í heila (p=0,02), kransæðasjúkdóm (p=0,001) og aldurstengda sykursýki (p=0,06). Fylgni við háþrýsting var jákvæð en ekki sterk (p=0,07). Marktæk fylgni fannst hins vegar við ApoE ε4,4 arfgerð.

Ályktanir: Örblæðingar í heila virðast tengdar hjarta- og æðasjúkdómum sem gæti bent til slagæðafitukölkunar í smáæðum heila. Fylgni við ApoE ε4,4 arfgerð gæti hins vegar bent til mýlildissjúkdóms í heilaæðum líkt og finnst í Alzheimersveiki. Frekari rannsókna er þörf til þess að greina orsakir þessara blæðinga og þýðingu þeirra varðandi heilabilun og öldrunartengda hrörnun á starfsemi taugakerfisins.


V-3        Eitranir í börnum yngri en 18 ára

Guðborg Auður Guðjónsdóttir1,2, Jakob Kristinsson1,4, Runólfur Pálsson3, Curtis P. Snook1,5; Margrét Blöndal2, Sigurður Guðmundsson6

1 Eitrunarmiðstöð 2slysa- og bráðasviði, 3lyflækningasviði I, Landspítala, 4rannsóknarstofu í lyfja-og eiturefnafræði, HÍ, 5Division of Toxicology, University of Cincinnati, Cincinnati, USA, 6landlæknisembættinu

gudborgg@landspitali.is

Inngangur: Markmiðið með rannsókninni var að kanna tíðni og eðli eitrana og meintra eitrana hjá börnum og unglingum yngri en 18 ára og bera saman við tíðni eitrana hjá fullorðnum.

Aðferðir: Notuð voru gögn úr íslensku eitrunarrannsókninni sem var framsýn og náði yfir allt landið (1). Rannsóknartímabilið var eitt ár frá 1. apríl 2001 til 31. mars 2002. Leitað var að upplýsingum um börn og unglinga sem komu á bráðamóttöku, sjúkrahús eða heilsugæslustöð vegna eitrana. Að auki voru notuð gögn frá Eitrunarmiðstöðinni frá sama tímabili.

Niðurstöður: Áttahundruð sjötíu og ein eitrun var skráð. Þessi fjöldi svarar til 1,11% barna og unglinga á Íslandi en tíðni eitrana hjá fullorðnum er 0,44%. Börn þriggja ára og yngri áttu í hlut í 59% tilvika. Þrjúhundruð níutíu og níu (45,8%) tilfelli voru vegna lyfja en 472 (54,2%) vegna annarra efna. Algengasta íkomuleið var inntaka (87,5%). Algengast var að um óhapp væri að ræða (82,7%), 7,5% voru sjálfsvígstilraunir og 4,1% misnotkun lyfja. Hundrað tuttugu og sex (14,5%) börn fengu einhverskonar meðferð á heilbrigðisstofnun og 67 (7,7%) voru lögð inn á sjúkrahús.

Ályktanir: Tíðni eitrana hjá börnum og unglingum var hærri en hjá fullorðnum. Tæplega 60% eitrana og meintra eitrana í þessum aldurshópi voru hjá börnum þriggja ára og yngri. Meirihluti eitrana voru minniháttar óhöpp og sjaldan var þörf á innlögn á sjúkrahús.

(1) Kristinsson J, Pálsson R, Guðjónsdóttir GA, Blöndal M, Guðmundsson S, Snook CP. Acute poisonings in Iceland: a prospective nationwide study. Clin Toxicol 2008; 46, 126-32.

 

V-4        Ígræðsla á nýrnahluta (autotransplantation) vegna nýrnakrabbameins í báðum nýrum

Bjarni G. Viðarsson1, Jón Guðmundsson3,Ólafur S. Indriðason2, Eiríkur Jónsson1

1Þvagfæraskurðlækninga-, 2nýrnalækninga-, 3röntgendeild Landspítala

bjarnigv@landspitali.is

Inngangur: Hlutabrottnám á nýra er viðurkennd aðgerð vegna nýrnakrabbameins. Sérstaklega á hún við ef til staðar er minnkuð starfsemi eða vöntun á gagnstæðu nýra. Forsenda slíkrar meðferðar eru krabbameinsfríar skurðbrúnir. Ef erfitt reynist að framkvæma slíkt hlutabrottnám, á nýrnastaðnum, kemur til greina að fjarlægja allt nýrað, kæla niður og framkvæma hlutabrottnámið á hliðarborði.

Tilfelli: 55 ára kona greinist, í kjölfar gallblöðrubólgu, með æxli í báðum nýrum. Ekki merki um meinvörp. Þar sem æxlin lágu miðlægt í báðum nýrum var ákveðið að fjarlægja og kæla hægra nýrað og framkvæma hlutabrottnám á hliðarborði.

Niðurstaða: Heilbrigður efri hluti nýrans var græddur í grindarholsæðar og nýrnaskjóða tengd beint við þvagblöðru. Í kjölfarið var vinstra nýrað fjarlægt. Slagæða-bláæða fistill kom fram í ígrædda nýrnahlutanum sem var stíflaður með gormi í æðaþræðingu. Fjórum mánuðum eftir aðgerð er konan við góða heilsu, án krabbameinsmerkja, með væga kreatínínhækkun.

Umræða: Lýst er fyrsta autotransplantation nýrnahluta á Íslandi. Aðgerðin leiddi til varðveislu á nýrnastarfsemi og forðaði viðkomandi frá tafarlausri blóðskilunarmeðferð. Þá tókst með æðaþræðingu að meðhöndla alvarlegan fylgikvilla aðgerðarinnar.

 

V-5        Sjálfsprottið loftmiðmæti eftir iðkun jóga

Einar Hafberg1, Gunnar Guðmundsson2,4, Tómas Guðbjartsson3,4

1Slysa og bráðadeild, 2lungnadeild, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 4læknadeild HÍ

hafberg@gmail.com

Inngangur: Sjálfsprottið loftmiðmæti (e. spontanteous pneumomediastinum) er skilgreint sem óeðlileg loftsöfnun í miðmæti án augljóss orsakavalds (t.d. sýkingar eða áverka). Um er að ræða sjaldgæfan kvilla sem aðallega greinist í annars hraustum karl-mönnum. Oftast þarf enga sérstaka meðferð og horfur eru ágætar. Hér er lýst einstæðu tilfelli af Landspítala.

Sjúkratilfelli: Áður hraustur 23 ára karlmaður leitaði á slysadeild Landspítala vegna brjóstverkja sem versnuðu við innöndun og komu skyndilega tæpum 10 klst. áður þegar hann var í svokölluðu Ashtanga-jóga. Var hann þá í bakfettu og andaði um leið í gegnum nefið með lokað spjaldbrjósk. Þetta kallast ujjayi-öndun og er eins konar afbrigði af svokallaðri valsalva-öndun. Hann var ekki veikindalegur að sjá við komu og lífsmörk voru eðlileg. Ekki sást loft undir húð og hlustun á lungum var eðlileg. Hins vegar heyrðust skruðningsóhljóð yfir hjarta en bæði hjartalínurit og hjartaómun reyndust eðlileg. Á röntgenmynd af lungum sást loft í miðmæti og loftrönd í hægra hluta gollurshúss. Verkirnir héldu áfram og 7 klst. eftir komu voru fengnar tölvusneiðmyndir af brjóst- og kviðarholi. Þar sást loftið í miðmætinu betur og umlukti það vélindað. Einnig sást loftrönd í gollurshúsi en ekki loftbrjóst eða merki um fleiðru- og/eða gollurshússvökva. Tæpum ½ sólarhring frá komu var gerð skuggaefnisrannsókn af vélinda og maga sem var eðlileg. Smám saman rénaði verkurinn og sólarhring síðar var hann útskrifaður nánast verkjalaus. Skoðun þremur dögum síðar var eðlileg og röntgenmynd af lungum sýndi minna loft í miðmæti, sérstaklega vinstra megin. Rúmu hálfu ári frá þessu er hann við góða heilsu. Ekki hefur borið á endurteknum einkennum. Hann hefur haldið áfram iðkun jóga æfinga.

Umræða: Loftmiðmæti getur greinst án áverkasögu, jafnvel eftir iðkun jóga eins og í þessu tilviki. Slíku tilfelli hefur aðeins verið lýst einu sinni áður. Þetta tilfelli sýnir mikilvægi þess að rannsaka einstaklinga með brjóstverki ítarlega til að finna orsakir.

 

V-6        Sjálfsprottið loftbrjóst báðum megin samtímis vegna lungnameinvarpa eistnakrabbameins - sjúkratilfelli

Gígja Guðbrandsdóttir1, Ásgerður Sverrisdóttir2, Adolf Þráinsson3, Guðmundur Vikar Einarsson1, Tómas Guðbjartsson4,5

1Þvagfæraskurðdeild, 2krabbameinslækningadeild, 3myndgreiningardeild, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 5læknadeild HÍ

gigjag@hotmail.com

Inngangur: Sjálfsprottið loftbrjóst er algengur sjúkdómur sem í 2-4% tilvika getur greinst báðum megin samtímis (simultaneous bilateral spontaneous pneumothorax, SBPS). Er þá oftast um lífshættulegt ástand að ræða, enda langflestir þessara sjúklinga með króníska lungnasjúkdóma, t.d. lungnaþembu og herpusjúkdóma. Í einstaka tilfellum getur SBPS greinst í sjúklingum með aðra sjúkdóma í lungum, oftast krabbamein. Hér er lýst ungum manni með SBSP vegna lungnameinvarpa eistnakrabbameins.

Tilfelli: 18 ára karlmaður leitaði á bráðamóttöku Landspítala með tveggja daga sögu um mæði og brjóstverk. Hann hafði aldrei reykt en 6 mánuðum áður hafði hann greinst með eistnakrabbamein með meinvörpum í heila, augum, aftanskinurými og báðum lungum. Hægra eista var fjarlægt og gefin lyfjameðferð með bleomycin, etoposíð og cisplatin. Sjúkdómurinn í lungum svaraði meðferð mjög vel. Fjórum mánuðum síðar voru merki um stækkun meinvarpa í heila og var þá lyfjameðferð breytt í etoposíð, ifosfamide auk cisplatins. Þar að auki var beitt tveggja mánaða geislameðferð á höfuð og háskammta sterameðferð (prednisólon) sem hann hafði nýlokið við þegar hann kom á bráðamóttöku. Þar var hann einkennalítill í hvíld, cushingoid með öndunartíðni 28, SO2 97% án súrefnis, BÞ136/86 og púls 120. Öndunarhljóð voru minnkuð beggja vegna og á lungnamynd og TS af lungum sást loftbrjóst beggja vegna, með 48% samfalli á hægra lunga og 51% á því vinstra. Komið var fyrir brjóstholskera beggja vegna og tveimur dögum síðar þegar loftleki hafði stöðvast var gerð fleiðruerting (pleurodesis) með mepacrine (alls 4 skammtar hvoru megin á fjórum dögum) sem hann þoldi vel. Einkenni gengu til baka, brjóstholkerar voru fjarlægðir tveimur dögum síðar og síðan hafin ný lyfjameðferð. Stuttu eftir útskrift greindust lifrarmeinvörp og heilameinvörpin reyndust stækkandi. Lést hann úr þeim tæpum tveimur mánuðum síðar.

Umræða: SBPS getur greinst hjá sjúklingum með lungnameinvörp eistnakrabbameins. Um er að ræða afar sjaldgæft fyrirbæri og er orsök loftlekans talin blæðing inn í meinvarp aðlægt fleiðru eða drep, t.d. eftir krabbameinslyfjameðferð. Athyglisvert er hversu lítil einkenni þessi sjúklingur hafði í hvíld, jafnvel þótt stór hluti beggja lungna væri samanfallinn.

 

V-7        Rof á vélinda á Landspítala 1980-2007

Halla Viðarsdóttir1, Sigurður Blöndal2, Tómas Guðbjartsson2,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2almenn skurðdeild Landspítala, 3læknadeild HÍ

hallavi@landspitali.is

Inngangur: Rof á vélinda er sjaldgæfur og oft lífshættulegur kvilli sem getur verið sjálfsprottinn eða komið eftir áverka. Meðferð er langoftast fólgin í skurðaðgerð þar sem reynt er að hefta útbreiðslu sýkingar í miðmæti og blóðeitrun sem oft fylgir í kjölfarið. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna faraldsfræði rofs á vélinda og árangur skurðaðgerða á Landspítala á 28 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum með rof á vélinda 1980-2007. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og miðuðust útreikningar á lifun (hráar tölur) við 31. des. 2007 en meðaleftirfylgni var 69 mán.

Niðurstöður: Alls greindust 27 sjúklingar, meðalaldur 62 ár (bil 7 mán.-90 ár), 15 karlar. Orsök var af læknisvöldum í 14 tilvikum (54%), oftast eftir vélindavíkkun (n=7) og magaspeglun (n=3). Sjálfkrafa rof greindist hjá átta sjúklingum (31%) og 4 (15%) höfðu rof vegna aðskotahlutar. Rof á brjóstholshluta vélinda greindist hjá 15 sjúklingum (68%), 4 í kviðarhols- (18%) og 3 (14%) í hálshluta. Undirliggjandi sjúkdómur í vélinda var til staðar hjá 11 sjúklingum, langoftast þrenging. Af 27 sjúklingum greindust fimm við krufningu, 10 fengu eingöngu sýklalyfjameðferð, og fjórir fengu að auki brjósholskera en þurftu síðar í brjóstholsaðgerð. Alls fóru því 16 sjúklingar í opna skurðaðgerð þar sem miðmætið var opnað og lagðir inn brjóstholskerar. Í átta tilfellum var að auki lögð út stómía á maga og komið fyrir næringarlegg í smágirni. Þrír sjúklingar fengu T-kera í vélinda, í fimm tilfellum var saumað yfir rofið. Tíminn frá rofi að aðgerð var að meðaltali 22 klst. (bil 2 klst.-7 d.), en 11 sjúklingar fóru í aðgerð innan 24 klst. Átta sjúklingar fengu alvarlega fylgikvilla og fimm þurftu enduraðgerð. Alls lágu 16 sjúklingar á gjörgæslu og miðgildi legutíma var fjórir dagar (bil 1-41). Heildarlegutími voru 16 dagar (bil 9-83). Af 27 manns eru 16 á lífi og mældist eins og fimm ára lifun 81 og 65%. Fimm létust vegna rofs á vélinda (19%).

Ályktun: Tíðni vélindarofs virðist svipuð hér á landi og í nágrannalöndum okkar. Rofið er oftast af læknisvöldum og staðsett í brjóstholshluta vélinda. Stór hluti sjúklinga (19%) lætur lífið eftir vélindarof og eru fylgikvillar og enduraðgerðir tíðar. Athygli vekur að allt að fjórðungur sjúklinga er meðhöndlaður án skurðaðgerðar sem telja verður nokkuð hátt hlutfall, enda horfur þeirra lélegar.

 

V-8        Áhrif NovoSeven® og fibrinogens á blóðstorku eftir opnar hjartaaðgerðir með aðstoð hjarta- og lungnavélar

Hanna S. Ásvaldsdóttir1 , Páll T. Önundarson2 , Brynja R. Guðmundsdóttir2, Benny Sörensen3

1 Hjarta og lungnaskurðdeild, 2blóðsjúkdómadeild Landspítala, 3 blóðsjúkdómadeild Skejby Sygehus, Árósum, Danmörku

hannaasv@landspitali.is

Inngangur: Opnar hjartaaðgerðir með aðstoð hjarta- og lungnavélar (HLV) hafa neikvæð áhrif á blóðstorku sjúklings og blæðingar eru algengur fylgikvilli þessara aðgerða. Nýlega hefur verið sýnt fram á að lyfið NovoSeven® geti stöðvað lífshættulegar blæðingar hjá þessum sjúklingum. Storkurit (Rotem®) er rannsóknaraðferð þar sem storkuferli heilblóðs er gert sýnilegt. Markmið þessarar rannsóknar var að athuga með storkuriti hvort meta megi ex vivo áhrif NovoSeven® og fibrinogens á storkuferlið með því að bæta þeim út í blóðsýni sjúklings.

Aðferð: Storkurit (4 breytur), hefðbundin storkupróf og lokunartími voru gerð á blóðsýnum 18 sjúklinga (meðalaldur 67 ár, 14 karlar, 4 konur) fyrir og eftir hjartaaðgerð með HLV. Aðgerðirnar voru CABG (n=12), AVR (n=2), CABG + AVR (n=3) og MVR (n=1).

Niðurstöður: Meðaltími á HLV var 112 mínútur (45-206) og ósæðartöng 67 mínútur (21-153). Marktækar breytingar urðu á storkuriti eftir HLV. Þegar NovoSeven® var bætt við blóðsýnin breyttust tvær breytur storkurits marktækt. Tími frá ræsingu storku þar til að hún hefst (CT) minnkaði frá miðgildi 386 sek (95% CI 175-516) í 231 sek (154-396). Tíminn að hámarkshraða storknunar (t.Max Vel) minnkaði frá miðgildi 560 sek (311-764) í 436 sek (314-556). Sömu niðurstöður fengust þegar fibrinogeni var bætt út í sýnin en að auki sást aukinn stöðugleiki storknunar (MCF), eða frá 55 mm (52-60) í 58 mm (56-62). Best storknun fékkst þegar NovoSeven® og fibrinogeni var bætt út í saman en þá leiðréttust allar fjórar breyturnar marktækt.

Ályktun: Neikvæðarbreytingar verða á storkuriti eftir HLV og þær má að hluta til leiðrétta með því að bæta NovoSeven® og/eða fibrinogeni út í blóðsýni. Hugsanlegt er að þessi efni, saman eða í sitt hvoru lagi, geti haft sambærileg áhrif á klíníska blæðingu hjá sjúklingum. Frekari rannsóknir þarf þó til áður en hægt er að fullyrða um slíkt.

 

V-9        Blæðing er aukin eftir kransæðahjáveituaðgerðir á sláandi hjarta í samanburði við aðgerðir framkvæmdar með aðstoð hjarta- og lungnavélar

Hannes Sigurjónsson1, Bjarni G. Viðarsson1, Bjarni Torfason1,2, Tómas Guðbjartsson 1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild HÍ

hannes@landspitali.is

Inngangur: Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á betri árangur kransæðahjáveituagerða sem framkvæmdar eru á sláandi hjarta samanborið við hefðbundna aðgerð þar sem notast er við hjarta- og lungnavél. Meðal annars hefur verið sýnt fram á minni blæðingar eftir aðgerð á sláandi hjarta. Þessar rannsóknir hafa hins vegar verið gagnrýndar fyrir lítinn sjúklingaefnivið og val-skekkju (selection bias). Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman þessar tvær aðgerðir, sérstaklega með tilliti til blæðingar og blóðgjafa eftir aðgerð.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og nær til allra sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Íslandi frá júní 2002 til febrúar 2005. Sjúklingum sem gengust undir aðra aðgerð samtímis kransæðahjáveitu (t.d. lokuaðgerð) var sleppt. Sjúklingunum, 307 talsins, var skipt í tvo hópa, CABG-hóp (n=218) og OPCAB-hóp (n=89).

Niðurstöður: Hóparnir voru sambærilegir (tafla I) þegar kom að aldri (67 ár), kyni, útbreiðslu kransæðasjúkdóms og fjölda græðlinga í aðgerð. OPCAB-aðgerðirnar tóku lengri tíma og blæðing var aukin um 498 ml (p<0,001). Þó var tíðni enduraðgerða vegna blæðinga og magn blóðgjafa sambærilegt í báðum hópum. Hjartadrep í aðgerð (9% vs. 18% p <0,05) og aftöppun fleiðruvökva (7% vs. 17% p = 0,03) var marktækt algengara í CABG hópnum. Tíðni gáttatifs/flökts, heilablóðfalla, skurðdauða og heildarlegutími voru sambærileg í báðum hópum.

Ályktun: Kransæðahjáveituaðgerðir á sláandi hjarta eru líkt og hefðbundin aðgerð örugg meðferð, jafnvel hjá sjúklingum með útbreiddan kransæðasjúkdóm og lélegan slegil. Tíðni hjartadreps í aðgerð er lægri en hins vegar taka þær lengri tíma og blæðing er marktækt aukin. Hugsanleg ástæða þess gæti verið of kröftug blóðþynning þessara sjúklinga fyrst eftir aðgerðina.

v9-TI 

 

V-10      Kviðarholsháþrýstiheilkenni í kjölfar ECMO meðferðar eftir bráða ósæðarlokuskiptaaðgerð

Haraldur Már Guðnason1, Guðjón Birgisson2, Alma Möller3,4, Kári Hreinsson3, Helgi K. Sigurðsson2, Tómas Guðbjartsson1,4

1Hjarta og lungnaskurðdeild, 2almenn skurðdeild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 4læknadeild HÍ

harmagu@landspitali.is

Inngangur: Kviðarholsháþrýstiheilkenni (Abdominal Compart-ment Syndrome, ACS) er skilgreint sem kviðarholsþrýstingur >20 mmH2O, og einkennist af skertu blóðflæði til hjarta, lungna og líffæra í kviðarholi. Heilkennið sést oft á gjörgæslu; sérstaklega hjá sjúkl. með kviðarholsáverka og eftir stórar kviðarholsaðgerðir. Í alvarlegum tilfellum er dánarhlutfall mjög hátt (>50%). Hér er greint frá tilfelli af alvarlegu ACS í kjölfar bráðrar hjartaaðgerðar.

Tilfelli: 46 ára kona með þekkta ósæðarlokuþrengingu kom á bráðamóttöku þar sem hún fór endurtekið í hjartastopp sem ekki svaraði rafstuði eða hjartahnoði. Hún var færð beint á skurðstofu, hjartað hnoðað beint og með aðstoð hjarta- og lungnavélar var skipt um ósæðarloku. Í aðgerðinni, sem tók 18 klst., var dæluvirkni hjartans afar léleg (stone heart) og varð því að hvíla hjartað með því að koma fyrir ECMO-dælu úr hægri gátt yfir í ósæð sjúklings. Nokkrum klst. eftir að ECMO-meðferð var hafin þandist kviður upp og mældist þrýstingur í þvagblöðru 27 mmH2O. Kviðarholið var opnað og lækkaði þrýstingurinn strax í eðlileg gildi. Kviðurinn var skilinn eftir opinn í sólarhring og síðan lokað með sárasogsvampi (VAC). ECMO-meðferðin tók alls átta daga og fór sjúklingurinn í fjölkerfabilun þar sem blóðstorkuvandamál (DIC), nýrna-, lifrar- og öndunarbilun (ARDS) voru mest áberandi. Hún greindist einnig með sýklasótt og þurfti háa skammta af æðaherpandi lyfjum til að halda uppi blóðþrýstingi. Í kjölfarið greindist drep í maga og görnum og þurfti að nema á brott þriðjung magans. Sárasogsvampi var beitt áfram og smám saman var hægt að draga saman opið á kviðarholinu. Fjölkerfabilun gekk til baka og útskrifaðist hún á legudeild eftir 108 daga á gjörgæslu. Heildarblæðing var 44 lítrar og hefur hún samtals gengist undir 38 skurðaðgerðir, flestar á kviðarholi. Fjórum mánuðum frá upphaflegu hjartaaðgerðinni er hún á góðum batavegi og innan skamms er fyrirhugað að loka kviðarholinu að fullu með skurðaðgerð.

Umræða: Kviðarholsháþrýstiheilkenni er lífshættulegt fyrirbæri sem mikilvægt er að hafa í huga hjá gjörgæslusjúklingum. Auðvelt er að greina það með þrýstimælingu í þvagblöðru og meðferð felst í að opna kviðarholið og létta þannig á þrýstingnum. Í þessu tilfelli voru orsakir heilkennisins sennilega margþættar, m.a. bjúgur í görnum vegna langrar hjartaaðgerðar og ECMO-meðferðar, mikil notkun æðaherpandi lyfja og blæðingar í aftanskinurými.

 

V-11      Krabbamein í smágirni á Íslandi

Jóhann Páll Ingimarsson1, Jón Gunnlaugur Jónasson2, Jónas Magnússon1, Páll Helgi Möller1

1Skurðlækningadeild Landspítala, 2rannsóknarstofu HÍ í meinafræði

johannpa@landspitali.is

Inngangur: Æxli í smágirni eru sjaldgæf orsök garnastíflu og blæðinga um meltingarveg. Tilgangur rannsóknar okkar var að athuga faraldsfræði æxlanna, greiningaraðferðir, meðferðir og lifun á Íslandi yfir 50 ára tímabil frá 1955 til 2005.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar úr Krabbameinsskrá KÍ um þá er greinst hafa með æxli í smágirni voru bornar saman við greiningaskrá Rannsóknarstofu Háskólans. Gögn voru fengin úr sjúkraskrám. Öll sýni voru endurskoðuð af meinafræðingi.

Niðurstöður: 110 greindust á tímabilinu, 58 karlar og 52 konur. Meðalaldur við greiningu var 65 ár (bil 15-91). Nýgengi var 1,04 á 100.000 íbúa á ári. Silfurfrumuæxli (carcinoid) voru 78, kirtilfrumuæxli 22, strómaæxli sjö og önnur þrjú. Dausgarnaræxli voru mun algengari en í ásgörn. Algengustu einkennin óháð vefjaflokkum voru: kviðverkir (n=47), uppköst (n=20), niðurgangur (n=19) og slappleiki (n=18). Silfurfrumuheilkenni var til staðar í átta tilvikum. Æxlin voru tilviljunargreiningar í 26 sjúklingum. Algengustu rannsóknir voru magaspeglun (n=24), ristilspeglun (n=24) og tölvusneiðmynd (n=23). Algengustu aðgerðir voru hlutabrottnám á smágirni (n=43) og brottnám á botnristli og dausgarnarenda (n=13). Helstu fylgikvillar voru garnastífla (n=11), sárasýkingar (n=8) og lungnabólga (n=6). Fjórir létust í kjölfar aðgerðar. 16 fengu krabbameinslyfjagjöf. Eins árs lifun fyrir kirtilfrumukrabbamein var 36%, 5 ára 12% og 10 ára 6%. Eins árs lifun fyrir silfurfrumuæxli er 72%, 5 ára 52% og 10 ára 33%.

Umræða: Æxli í smágirni eru sjaldgæf á Íslandi og hefur tíðni haldist svipuð undanfarin 40 ár. Æxlin eru oft tilviljanafundur. Hlutfall silfurfrumuæxla er hærra hér en erlendis. Einkenni eru ósértæk og greina ekki milli meingerða. Silfurfrumuheilkenni er fátítt. Lífslíkur eru slæmar líkt og erlendis.

 

V-12      Taugaslíðursæxli á þvagfæraskurðdeild 2002-2007

Jóhann Páll Ingimarsson1, Guðmundur Geirsson1, Guðjón Haraldsson1, Guðjón Birgisson2, Bjarni Torfason3, Ingvar Hákon Ólafsson4, Ágústa Andrésdóttir5, Sigfús Nikulásson6, Eiríkur Jónsson1

1Þvagfæraskurðdeild, 2almenn skurðdeild, 3hjarta- og lungnaskurðdeild, 4heila- og taugaskurðdeild, 5röntgendeild Landspítala, 6 rannsóknarstofu HÍ

johannpa@landspitali.is

Inngangur: Taugaslíðursæxli (schwannoma) við þvagvegi eru sjaldgæf, jafnan góðkynja æxli. Einkenni og myndrannsóknir eru ósértæk og æxlin oft innvaxin í taugar við greiningu. Tilgangur greinarinnar er að lýsa slíkum tilfellum á Íslandi, greiningu þeirra, meðferð og afdrifum.

Efniviður og aðferðir: Á Landspítala greindust fimm taugaslíðursæxli við þvagvegi á árunum 2002-2007. Gögn voru fengin úr sjúkraskrám.

Niðurstöður: Tveir sjúklinganna voru konur og þrír karlar, 26 til 52 ára. Tveir greindust vegna viðvarandi verkja, tveir fyrir tilviljun og einn vegna verkja við holdris. Nokkur töf var á greiningu þeirra þriggja sem höfðu einkenni. Beðið var með eina aðgerð vegna meðgöngu. Þrjú æxlanna voru aftan skinu (retroperitoneal), þar af eitt einnig vaxið upp í brjósthol aftan fleiðru. Eitt æxli fannst í lim og eitt í sáðstreng (funiculus). Enginn sjúklinganna hafði von Recklinghausen sjúkdóm eða aðra þekkta taugasjúkdóma. Öll æxli voru kortlögð með tölvusneiðmynd og segulómun. Eitt var fjarlægt um kviðsjá en hin í opinni aðgerð. Í öllum tilvikum náðist að fjarlægja allan æxlisvöxt. Í fjórum tilvikum var komist hjá stórsæjum skaða á taugum. Æxlin voru 1-8 cm og reyndust öll góðkynja. Sjúklingurinn með æxlið aftan fleiðru fékk loftbrjóst í kjölfar aðgerðar, en ekki voru aðrir snemmkomnir fylgikvillar við aðgerðir. Einu til fimm árum frá aðgerð eru allir sjúklingar á lífi án endurkomu á æxli. Tveir hafa langvinn taugaeinkenni, einn tilfinningaglöp (parestehsia) á skynsvæði fyrstu spjaldhryggstaugar og annar viðvarandi verki í aðgerðaröri.

Umræður: Æxli aftan skinu eru algengustu taugaslíðursæxli við þvagvegi. Skammtímahorfur af meðferð á Landspítala eru góðar, en fylgikvillar frá taugum til staðar. Ekki hefur áður verið lýst taugaslíðursæxli sem orsök verkja við holdris.

 

V-13      Samanburður á krufningagreindum nýrnafrumukrabbameinum og þeim sem greinast fyrir tilviljun í sjúklingum á lífi

Ármann Jónsson1, Sverrir Harðarson2,1, Vigdís Pétursdóttir2, Helga Björk Pálsdóttir1, Eiríkur Jónsson3,1, Guðmundur Vikar Einarsson3, Tómas Guðbjartsson3,1

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknarstofu í meinafræði, 3þvagfæraskurðdeild Landspítala

arj1@hi.is

Inngangur: Krufningagreind nýrnafrumukrabbamein eru æxli sem greinast við krufningu hjá sjúklingum sem fyrir andlát hafa ekki þekkt einkenni sjúkdómsins. Segja má að um nokkurs konar tilviljanagreiningu sé að ræða en það hugtak er þó eingöngu notað um æxli sem greinast án einkenna í sjúklingum á lífi, oftast vegna myndrannsókna á óskyldum sjúkdómum í kviðarholi. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman þessi einkennalausu æxli á 35 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á gagnagrunni um alla sjúklinga með nýrnafrumukrabbamein sem greindust 1971-2005. Upplýsingar fengust úr gagnagrunni rannsóknarstofu Landspítala í meinafræði, Krabbameinsskrá KÍ og sjúkraskrám Landspítala. Öll æxlin voru stiguð skv. TNM-stigunarkerfi og vefjasýni endurskoðuð. Hóparnir voru bornir saman m.t.t. aldurs, kyns, stærðar, stigunar, gráðunar og vefjagerðar.

Niðurstöður: Alls greindust 110 sjúklingar við krufningu og 913 á lífi, þar af 255 fyrir tilviljun, oftast vegna ómskoðunar (29%) eða tölvusneiðmyndar (26,7%) á óskyldum sjúkdómum í kviðarholi. Samanburður hópanna er sýndur í töflu I. Þeir sem greindust við krufningu voru marktækt eldri en hinir en æxlin voru hins vegar marktækt minni og munaði 1,7 cm. Auk þess voru þau á lægri stigum og gráðum en tilviljanagreindu æxlin. Totufrumugerð (papillary RCC) var hlutfallslega algengari í krufningagreinda hópnum en tærfrumugerð (clear cell RCC) sjaldgæfari.

Ályktun: Krufninga- og tilviljanagreind nýrnafrumukrabbamein eiga margt sameiginlegt í samanburði við einkennagreind nýrnafrumukrabbamein, enda bæði greind í sjúklingum sem ekki hafa einkenni sjúkdómsins. Sjúklingar í krufningagreinda hópnum eru eldri og sjúkdómurinn á heldur lægri stigum og gráðum en fyrir sjúklinga sem greinast fyrir tilviljun á lífi.

v13-TI 

 

V-14      Skurðsýkingar eftir bláæðatöku á ganglimum við opnar kransæða-hjáveituaðgerðir

Helga Hallgrímsdóttir1, Ásta S. Thoroddsen1, Tómas Guðbjartsson 3,2

1Hjúkrunarfræðideild, 2læknadeild HÍ, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

helgahal@landspitali.is

Inngangur: Einn algengasti fylgikvilli kransæðahjáveituaðgerða (CABG) eru skurðsýkingar og geta þær m.a. komið í bringubeinsskurð. Mun algengari eru þó skurðsýkingar eftir bláæðatöku, eða 2-24% skv. erlendum rannsóknum. Ekki eru til tölur um tíðni þessara sýkinga hér á landi og markmið þessarar rannsóknar að bæta úr því.

Efniviður og aðferðir: Framsýn rannsókn á 65 sjúklingum (51 karl, meðalaldur 64 ár) sem gengust undir CABG á LSH frá 1. sept. til 26. des. 2007. Oftast var um að ræða CABG eingöngu, þar af átta aðgerðir framkvæmdar á sláandi hjarta (OPCAB), en í 12 tilfellum var framkvæmd önnur aðgerð samtímis, oftast lokuaðgerð. Klínískar upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og öllum sjúklingum var fylgt eftir í 30-40 daga eftir aðgerð. Skurðsár voru metin skv. ASEPSIS stigakerfi og var sýking skilgreind sem ASEPSIS-skor >20. Bornir voru saman sjúklingar með og án sýkingar og lagt mat á áhættuþætti sýkingar.

Niðurstöður: Alls greindust 15 sjúklingar með sýkingu (23,1%) innan 35 daga frá aðgerð og fengu þeir allir sýklalyf. Jafnframt fengu 13 sjúklingar í ósýkta hópnum (ASEPSIS ≤20) sýklalyf, oftast vegna þvagfæra- eða lungnasýkingar. Að meðaltali greindist skurðsýkingin á 17. degi (bil 9-33 dagar). Í töflu I eru bornir saman sjúklingar í hópum tveimur. Eins og búast mátti við var ASEPSIS-skor hærra hjá sjúklingum með sýkingu en hjá þeim sem ekki voru með sýkingu (29,5 vs. 9, p<0,0001). Aldur og kynjadreifing voru sambærileg, sömuleiðis áhættuþættir og legutími fyrir og eftir aðgerð (9 og 11 dagar fyrir báða hópa). Tilhneiging til lægri sýkingatíðni sást eftir brotinn skurð miðað við samfelldan (p=0,12).

Ályktun: Skurðsýkingar eftir bláæðatöku eru stórt vandamál eftir kransæðahjáveituaðgerðir en tæplega fjórði hver sjúklingur fær slíka sýkingu og fær meðferð með sýklalyfjum. Þetta eru heldur hærri tölur en sést hafa í erlendum rannsóknum en hafa verður í huga að í þessari rannsókn var sjúklingum fylgt eftir óvenju lengi sem hækkar tíðni sýkinga. Brýnt er að kanna betur þessa áhættuþætti í stærri samanburðarrannsókn og með því móti gera ráðstafanir til að fyrirbyggja þær.

v14-TI

 

V-15      Risablaðra í lunga læknuð með skurðaðgerð

Hilmir Ásgeirsson1, Dóra Lúðvíksdóttir1, Ólafur Kjartansson2, Tómas Guðbjartsson3,4

 1Lungnadeild, 2myndgreiningardeild, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 4læknadeild HÍ

hilmirasg@yahoo.com

Inngangur: Risablaðra í lungum (giant bulla) er loftfyllt rými sem nær yfir >1/3 lungans. Þetta er sjaldgæft fyrirbæri og orsökin eyðing og þensla á lungnavef líkt og sést í lungnaþembu. Í blöðrunum er lítið loftflæði og taka þær lítinn þátt í lofskiptum. Með vaxandi stærð blöðrunnar finna sjúklingar fyrir mæði og hætta á fylgikvillum eins og blæðingum, sýkingum og loftbrjósti eykst. Því getur þurft að fjarlægja risablöðrur með skurðaðgerð. Hér er lýst slíku tilfelli sem greindist á Landspítala.

Tilfelli: 49 ára stórreykingamaður var greindur á lungnamynd með risastóra blöðru í hægra lunga. Hann hafði þriggja mánaða skeið haft endurteknar efri loftvegasýkingar, þurran hósta og vaxandi mæði. Hann var áður hraustur og hafði ekki fyrri sögu um lungnasjúkdóma. Á TS sást að blaðran var 17 cm í þvermál, staðsett í neðra blaði þar sem hún þrýsti á efra og miðblað. Einnig sáust minni blöðrur miðlægt í efra blaði en vinstra lunga var eðlilegt að sjá. Rúmmál risablöðrunnar mældist 3,1 L á sneiðmyndunum en heildarrúmmál blaðranna 3,2 L. Öndunarmæling sýndi talsverða herpu en þó með blandaðri mynd (tafla I). Með því að bera saman lungnarúmmálsmælingar með tveimur mismunandi aðferðum, þrýstingsaðferð (heildarlungnarúmmál) og þynningaraðferð (lungnarúmmál með virku loftflæði), var rúmmál blaðranna áætlað 2,9 L (tafla I). Vegna einkenna sjúklings og stærðar blaðranna var ákveðið að taka sjúkling í aðgerð. Blöðrurnar í efra blaðinu voru fjarlægðar með fleygskurði (bullectomy) þar sem notast var við Goretex®-remsur til styrkingar á heftilínunni. Risablaðran var síðan fjarlægð í heild sinni með leifum neðra blaðs (lobectomy). Einnig var gerð fleiðrulíming með talkúmi til að fyrirbyggja loftleka. Bati eftir aðgerð var góður, kerar voru fjarlægðir á þriðja degi og sjúklingur útskrifaður viku frá aðgerð. Fjórum mánuðum síðar er hann við góða heilsu og aftur kominn til vinnu. Öndunarmælingar eftir aðgerð sýna verulega bætta öndunarstarfssemi (tafla I).

Umræða: Þetta tilfelli sýnir að hægt er að lækna risablöðrur í lunga með skurðaðgerð og að hægt er að mæla rúmmál blaðranna með myndgreiningarrannsóknum eða öndunarmælingum.

v15-TI

V-16      Tjáning próteina í nýrnakrabbameini og eðlilegum nýrnavef skoðuð með örflögutækni

Hrefna Guðmundsdóttir1, Sigurlína Dögg Tómasdóttir2, Fjóla Haraldsdóttir2, Eiríkur Jónsson3, Guðmundur Vikar Einarsson3, Rósa Björk Barkardóttir2, Sigríður Zoëga3, Tómas Guðbjartsson3, Sverrir Harðarson2, Vigdís Pétursdóttir2

1Nýrnadeild, 2rannsóknarstofu í meinafræði, 3þvagfæraskurðdeild Landspítala, 4læknadeild HÍ

hrefnag@landspitali.is

Inngangur: Tíðni nýrnafrumukrabbameins hefur vaxið undanfarin ár, að hluta vegna bættra greiningaraðferða. Greinast nú fleiri sjúklingar á fyrri stigum sjúkdómsins, en dánartíðni hefur þó haldist tiltölulega óbreytt. Tilgangur rannsóknarinnar var að leita að mismunatjáðum próteinum í nýrnafrumukrabbameini og bera saman við eðlilegan nýrnavef.

Efniviður og aðferðir: Vefjasýni 48 sjúklinga með tærfrumugerð nýrnafrumu-krabbameins voru fengin frá lífsýnasafni Rannsóknastofu í meinafræði. Vefjasneiðar úr hverju sýni voru smásjárskoðaðar og aðlægar sneiðar leystar upp í urea og CHAPS-lausn til próteingreiningar. Sýni voru slembiröðuð og tvíkeyrð á CM10 flögu (neikvætt hlaðið yfirborð, BioRad Inc.). Próteintjáning var greind með SELDI örflögutækni (Surface Enhance Lazer Desorption/Ionization) og skoðuð með CiphergenExpressClient forriti (Ciphergen Inc.). Tjáning á próteinum í nýrnafrumukrabbameini og eðlilegum vef var borin saman með Mann Whitney prófi og var núll-tilgátan sú að ekki væri munur á tjáningu í vefjunum tveimur.

Niðurstöður: Samtals fengust 71 sýni frá 48 einstaklingum. Alls voru 59 sýni úr krabbameinsvef og 40 þeirra frá æxlum sem voru stærri en 7 cm (T2). Tólf sýni fengust frá eðlilegum vef. Þegar borin var saman próteintjáning milli eðlilegs nýrnavefs og tærfrumukrabbameins fundust 46 mismunatjáð prótein þar sem munurinn var marktækur upp á p-gildi <0,05, þar af 13 prótein mismunatjáð með p-gildi <0,001.

Ályktun: SELDI örflögutækni hentar vel til að skoða prótein-tjáningu úr nýrnavef, bæði á tærfrumukrabbameini og eðlilegum nýrnavef. Fjöldi próteina aðgreinir eðlilegan nýrnavef og tærfrumukrabbamein og má hugsanlega nota slík prótein í framtíðinni sem æxlismerki (tumor marker).

 

V-17      Árangur skurðaðgerða við miðblaðsheilkenni

Jón Þorkell Einarsson1, Jónas G. Einarsson1, Helgi J. Ísaksson2, Gunnar Guðmundsson1,4, Tómas Guðbjartsson3,4

1Lungnadeild, 2rannsóknastofu í meinafræði, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 4læknadeild HÍ

jonthorkell@gmail.com

Inngangur: Miðblaðsheilkenni (MLS) er tiltölulega sjaldgæft sjúkdómsástand sem einkennist af endurteknu og/eða viðvarandi samfalli á miðblaði hægra lunga. Einkenni tengjast endurteknum lungnasýkingum þar sem hósti, uppgangur, takverkur og mæði eru algengust. Oftast dugar lyfjameðferð en þegar hún dugar ekki til er gripið til skurðaðgerðar. Tilgangur þessarar afturskyggnu rannsóknar var að kanna árangur þessara skurðaðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin nær til allra sjúklinga sem gengust undir brottnám á miðblaði vegna miðblaðsheilkennis á Íslandi 1984-2006. Alls greindust 16 einstaklingar, þrír karlar og 13 konur, meðalaldur 53 ár (bil 2-86 ár). Sjúklingar fundust með leit í gagnagrunni meina-fræðideildar Landspítala og í greiningarskrám sjúkrahúsa. Klínískar upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og gögnum frá stofum lungnalækna. Skráðar voru ábendingar fyrir aðgerð, fylgikvillar í og eftir aðgerð og skurðdauði (< 30 d.). Einnig voru könnuð afdrif sjúklinganna og reiknaðar lífshorfur (hráar) í mánuðum en útreikningar miðast við 31. des. 2007 og var meðaleftirfylgni 81 mánuður.

Niðurstöður: Aðgerðirnar tóku að meðaltali 86 mínútur (bil 40-215 mín). Alls greindust tveir sjúklingar (12,5%) með fylgikvilla í aðgerð en í báðum tilvikum var um blæðingar að ræða. Hjá fimm (31%) greindust fylgikvillar eftir aðgerð, viðvarandi loftleki (>72 klst.) hjá tveimur og sá þriðji með samfall í neðra lungnablaði. Í einu tilfelli þurfti enduraðgerð vegna blæðingar og loftleka. Allir lifðu aðgerðina af og útskrifuðust, en miðgildi legutíma voru níu dagar (bil 5-37 d.). Nú eru 13 af sjúklingunum á lífi en enginn hefur látist úr lungnasjúkdómi eða sjúkdómi sem tengist aðgerðinni. Fimm ára sjúkdómsfríar lífshorfur eru því 100% og 94% og 81% sjúklinga eru á lífi 5 og 10 árum frá aðgerð. Enginn þeirra hefur þurft endurinnlögn eftir aðgerð vegna fylgikvilla sem tengjast MLS.

Ályktanir: Brottnám á miðblaði er örugg meðferð við miðblaðsheilkenni og fylgikvillar eftir aðgerð oftast minniháttar. Enda þótt efniviður í þessari rannsókn sé lítill og samanburðarhópur ekki til staðar virðast flestir sjúklinganna ná bót á einkennum sínum eftir að miðblaðið er fjarlægt og langtíma lífshorfur eru ágætar.

 

V-18      Lungnasýnatökur með skurðaðgerð til greiningar sjúkdóma í millivef lungna

Martin Ingi Sigurðsson1, Gunnar Guðmundsson1,2, Helgi J. Ísaksson3, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2lungnadeild, 3rannsóknastofu í meinafræði, 4 brjóstholsskurðdeild Landspítala

mis@hi.is

Inngangur og markmið: Nákvæm greining sjúkdóma í millivef lunga (interstitial lung diseases, ILD) er afar mikilvæg og er sýnataka með skurðaðgerð talin besta greiningaraðferðin. Takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um áhættu og greiningargetu þessara aðgerða og áhrif þeirra á meðferð, og var markmið rannsóknarinnar að varpa ljósi á þessa þætti.

Efni og aðferðir: Rannsóknin er aftursýn og náði til allra sjúklinga sem gengust undir lungnasýnatöku með skurðaðgerð á Íslandi 1986-2007, samtals 80 einstaklinga (47 karlar, meðalaldur 57,2 ár). Vefjasýni voru yfirfarin og var meðaleftirfylgd 78,2 mánuðir.

Niðurstöður: Algengustu einkenni voru hósti og mæði. Í 66% tilvika hafði sýnataka með berkjuspeglun þegar verið gerð án fullnægjandi greiningar. Gerð var opin aðgerð í 64% tilvika og brjóstholsspeglunaraðgerð hjá 29 sjúklingum, en í þremur tilvikum þurfti að breyta yfir í opna aðgerð. Miðgildi legutíma var 5 dagar (bil 1-89) og brjóstholskerameðferðar 2 dagar (bil 1-89). Þrír sjúklingar (3,8%) létust í sjúkralegunni og aðrir þrír fengu alvarlega fylgikvilla. Algengasti fylgikvillinn var viðvarandi loftleki (>96 klst.), eða hjá 13 sjúklingum. Sjúkdómsgreining byggð á skurðsýni fékkst í 80% tilfella en í 16 tilvikum var greiningin ófullkomin (ósérhæfð bólga eða endastig lungnatrefjunar). Þegar einungis var tekið sýni úr lingula var tíðni ófullkominnar greiningar hærri en þegar tekin voru sýni frá öðrum lungnahlutum (50% vs. 16%, p=0,004). Klínísk greining breyttist í 74% tilfella og hjá 57% sjúklinga breyttist meðferð. Lifun tveimur og fimm árum frá aðgerð var 87% og 72%.

Umræða: Sýnataka með skurðaðgerð er áreiðanleg aðferð til greiningar ILD og leiðir til breyttrar meðferðar hjá helmingi sjúklinga. Þrátt fyrir lága dánartíðni í kjölfar sýnatökunnar (3,8%) þarf að vanda val á sjúklingum í aðgerð. Einnig ætti að forðast staka sýnatöku úr lingula.

 

V-19      Lífupplýsingafræðileg kortlagning DNA metýlunar kímlínu mannsins

Martin Ingi Sigurðsson1, Hans Tómas Björnsson2, Jón Jóhannes Jónsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2Erfðafræðimiðstöð Johns Hopkins háskólans,3erfða- og sameindalíffræðideild Landspítala

mis@hi.is

Inngangur: Utangenamerki eru þættir sem eru nátengdir erfðaefninu og erfast til dótturfrumna án þess að vera hluti af DNA-kóðanum sjálfum. Eitt best þekkta utangenamerkið er DNA metýlun. Hefðbundin líffræðileg kortlagning utangenamerkja er enn sem komið er skammt komin og erfitt er að ná í frumur úr kímlínu mannsins til tilrauna með DNA metýlun.

Markmið: Að kortleggja DNA metýlun í kímlínu mannsins með lífupplýsingafræðilegum hætti og sýna fram á hagnýtingu kortlagningarinnar.

Aðferðir: HapMap gagnagrunnurinn inniheldur 15,5 milljón eins basapara erfðabreytileika sem eru varðveittir í kímlínu mannsins. Skrifuð voru forrit í JAVA forritunarmálinu sem fóru í gegnum gagnagrunninn í leit að metýltengdum erfðabreytileikum. Með því að kortleggja metýltengda erfðabreytileika var unnt að kortleggja metýlþéttni erfðaefnisins. Frekari gögn voru unninn með því að skrifa forrit til úrvinnslu gagna úr raðgreiningu mannsins og töflum yfir eiginleika erfðamengis mannsins. Gagnakeyrslur voru framkvæmdar á einmenningstölvu og ofurtölvu RHÍ. Gröf voru teiknuð í R og tölfræði unnin í SPSS.

Niðurstöður: Alls innihélt HapMap gagnagrunnurinn 2,31 milljón metýltengda erfðabreytileika. Reiknaðir voru út metýlstuðlar fyrir allt erfðamengi mannsins og skrifuð forrit til að sýna metýlun á myndrænan hátt. Vel er þekkt að svæði í erfðamenginu sem eru rík af CpG tvínúkleotíðinu (CpG eyjar) eru lítið metýluð. Til að staðfesta aðferðafræði verkefnisins var könnuð fylgni milli CpG eyja einkunnar og metýlstuðuls. Reyndist fylgnin neikvæð (R= -0,533, p<0,001). Jákvæð fylgni reyndist milli endurröðunartíðni erfðamengisins og metýlstuðuls (R= 0,319, p<0,001). Þá reyndust dökk litningabönd ríkari af DNA metýlun en ljós bönd (p<0,001)

Ályktun: Við höfum kortlagt DNA metýlun kímlínu mannsins á lífupplýsingafræðilegan hátt og sýnt fram á að kortlagning okkar stenst samanburð við metýltengda eiginleika sem sannreyndir hafa verið með líffræðilegum tilraunum. Þá höfum við sýnt fram á möguleika á hagnýtingu kortlagningarinnar til að auka skilning á hlutverki DNA metýlunar.

 

V-20      Æsavöxtur (acromegaly) vegna villiframleiðslu á vaxtarhormónakveikju frá krabbalíki í lunga - sjúkratilfelli

Páll S. Pálsson1, Ari Jóhannesson1, Tómas Guðbjartsson2,3

1Lyflækningasviði I, 2hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 3læknadeild HÍ

pallpals@landspitali.is

Inngangur: Æsavöxtur stafar langoftast af offramleiðslu vaxtarhormóns (VH) frá góðkynja æxli í heiladingli. Í einstaka tilvikum (<1%) getur æxli annars staðar í líkamanum, t.d. briseyjaæxli eða krabbalíki í lungum, orsakað æsavöxt með framleiðslu á vaxtar-hormónakveikju (growth hormone releasing hormone, GHRH). Hér er lýst einu slíku tilfelli.

Tilfelli: 42 ára kona greindist fyrir tilviljun með 7 cm stórt æxli miðlægt í hægra lunga. Hún hafði aldrei reykt eða kennt sér meins frá lungum. Tveimur árum áður hafði greinst hjá henni hnútur í skjaldkirtli með vægri skjaldvakaofseytingu (sub-
clinical thyrotoxicosis). Hálfu ári síðar greindi einn höfunda (AJ) hjá henni æsavöxt. Segulómun sýndi vægt stækkaðan heiladingul og IGF-1 mældist langt yfir efri mörkum. Hafin var meðferð með lanreótíð og síðar einnig með cabergolin. Rúmu ári eftir að meðferð hófst var fyrirhuguð aðgerð á heiladingli en fyrir þá aðgerð var tekin lungnamynd sem sýndi áðurnefnt æxli. Gerð var ástunga á æxlinu og kom í ljós dæmigert krabbalíki án illkynja frumna. Í skurðaðgerð var æxlið fjarlægt ásamt mið- og neðra lungnablaði, og voru skurðbrúnir hreinar og eitilmeinvörp ekki til staðar. Gangur eftir aðgerð var góður og var sjúklingur útskrifaður viku eftir aðgerð. Sermisgildi vaxtarhormónakveikju var 82 pg/ml (viðmiðunargildi 5-18 pg/ml) fyrir aðgerð, en 24 pg/ml nokkrum dögum eftir aðgerð. Tæpum fimm mánuðum síðar er konan við góða heilsu og einkenni æsivaxtar hafa að hluta til gengið til baka. S-VH gildi hafa lækkað úr 21,4ng/ml í 0,8ng/ml (viðmiðunargildi 0,5-5 ng/ml) og IGF-1 er nú eðlilegt.

Umræða: Tilfellið sýnir að æxli utan heiladinguls geta framleitt vaxtarhormónakveikju og valdið æsavexti. Fyrirbærið er afar sjaldgæft og aðeins nokkrum tugum tilfella hefur áður verið lýst. Hjá sjúklingum með æsavöxt er mikilvægt að hafa krabbalíki í lungum í huga, sérstaklega ef niðurstöður myndgreiningar-rannsókna á heiladingli eru ekki afgerandi, og útiloka slík æxli með rannsóknum á lunga.

 

 V-21     Gore-tex® míturlokustög sem viðbótarmeðferð við míturlokuleka vegna langvarandi blóðþurrðar í hjarta

Sigurður Ragnarsson1, Arnar Geirsson2, Sabet Hashim2, Tómas Guðbjartsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2hjartaskurðdeild Yale University School of Medicine, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

sigurra@hi.is

Inngangur: Hefðbundin meðferð við míturlokuleka af völdum langvarandi blóðþurrðar í hjarta (chronic ischemic mitral regurgitation, CIMR) er að þrengja míturlokuhringinn með hring (annuloplasty) og framkvæma kransæðahjáveitu. Árangur þessara aðgerða er þó misjafn, enda talið að framfall á fremra míturlokublaði og/eða hersli á því aftara hafi þýðingu í þessu samhengi. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort Gore-tex®stög í fremra míturlokublaðið, sem viðbótarmeðferð við míturlokuhring, bæti árangur þessara aðgerða.

Efniviður og aðferðir: Alls gengust 630 sjúklingar undir míturlokuviðgerð á Yale-New Haven Hospital frá 1995-2006, flestir vegna hrörnunarsjúkdóms í lokunni (79,4%). Þessi aftur-skyggða rannsókn tók til 32 sjúklinga (5,1%) með alvarlegan CIMR. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og var farið yfir ábendingar fyrir aðgerð, ómskoðanir af hjarta fyrir og eftir aðgerð, fylgikvilla og afdrif sjúklinganna (lifun). Bornir voru saman þeir sem fengu bæði Gore-tex® stög og míturlokuhring (hópur G, n=13) og þeir sem einungis fengu hring (hópur H, n=12) (tafla 1). Átta sjúklingar fengu annars konar viðgerð. Míturlokuleki var metinn sem vægur, meðal eða mikill.

Niðurstöður: Allir sjúklingarnir voru með meðal eða mikinn míturlokuleka fyrir aðgerð og útstreymisbrot (EF) og euroSCORE var svipað í báðum hópum (tafla 1). Tíðni fylgikvilla var sambærileg í báðum hópum en algengastur var fleiðruholsvökvi sem þurfti að tæma (n=3). Einn sjúklingur fékk sýkingu í bringubein og annar slag og lést <30 daga frá aðgerð. Á rannsóknartímabilinu fékk enginn í hópi G endurkomu hvorki meðal né mikils míturloku-leka en í hópi H fengu tveir endurkomu meðalleka og tveir endurkomu mikils leka. Þessi munur á endurkomu leka var þó ekki marktækur og heldur ekki lifun í hópunum tveimur.

Ályktun: Míturlokuviðgerð með Gore-tex® stögum er örugg aðgerð og þótt erfitt sé að meta árangur í svo litlum efnivið þá virðist vera tilhneiging til betri árangurs, þ.e. lægri tíðni endurkomins leka, sé fremra míturlokublað styrkt með Gore-tex® stögum.

v21-TI 

V-22      Aldur hefur áhrif á tíðni endurþrengingar eftir skurðaðgerð við með-fæddri ósæðarþrengingu hjá börnum

Sverrir I. Gunnarsson1,2, Bjarni Torfason1,2, Gunnlaugur Sigfússon1,3, Hróðmar Helgason3, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, Landspítala, 3Barnaspítala Hringsins

sverrirgunnarsson@gmail.com

Inngangur: Meðfædd ósæðarþrenging (aortic coarctation, CoA) er í kringum 6% meðfæddra hjartagalla.Algengasta meðferðin er skurðaðgerð en stundum er beitt útvíkkun með belg. Algengir fylgikvillar skurðaðgerðar eru endurþrenging og háþrýstingur. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort aldur við aðgerð og/eða tegund aðgerðar hefði áhrif á tíðni fylgikvilla eftir aðgerð.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk og nær til allra barna sem gengust undir skurðaðgerð við CoA á Íslandi 1990-2006, samtals 38 barna (22 drengir, meðalaldur 34,5 mán.). Börnunum var skipt í hópa, annars vegar eftir því hvort þau gengust undir aðgerð innan mánaðar frá fæðingu (n=17) eða síðar (n=21) og hins vegar eftir því hvort gerð var bein æðatenging eða subclavian flap viðgerð (tafla I). Meðaleftirfylgd var 103 mánuðir.

Niðurstöður: Alls fengu 22 börn (57,9%) háþrýsting eftir aðgerð,  sjö (18,4%) endurþrengingu og fjögur (10,5%) hjartabilun (tafla I). Háþrýstingur eftir aðgerð var ekki tengdur endurþrengingu í neinu tilviki og varði skemur en eina viku í öllum tilvikum. Endurþrenging var greind að meðaltali 20,7 mán. ± 50,4 eftir aðgerð og í öllum tilvikum var hún meðhöndluð með belgvíkkun. Eitt barn hlaut ósæðargúl í kjölfar víkkunar og þurfti þess vegna enduraðgerð. Skurðdauði var enginn og ekkert barn greindist með mænuskaða.

Ályktun: Endurþrenging og tímabundinn háþrýstingur eru algengir fylgikvillar eftir aðgerð við CoA. Háþrýstingur sást oftar í eldri sjúklingum en endurþrenging í þeim yngri og mátti nær alltaf meðhöndla hana með belgvíkkun. Ákveðin tilhneiging til aukinna fylgikvilla sást eftir subclavian flap viðgerð en sú aðgerð er yfirleitt notuð í alvarlegri tilfellum og því viðbúið að tíðni fylgikvilla sé hærri.

v22-TI 


 

V-23      Ábendingar og árangur meðferðar með ECMO-dælu á Íslandi 1991-2007

Þorsteinn H. Ástráðsson1, Tómas Guðbjartsson2,3, Bjarni Torfason2,3, Líney Símonardóttir2, Felix Valsson1

1Svæfinga- og gjörgæsludeild, 2hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 3læknadeild HÍ

felix@landspitali.is

Inngangur: ECMO-dæla (extracorporeal membrane oxygenation) hefur í rúma þrjá áratugi verið eitt af meðferðarúrræðum við alvarlega öndunar- og/eða hjartabilun. Dælan er þá notuð til að „hvíla“ lungu og/eða hjörtu sjúklinganna með því að veita blóði úr stórri bláæð í loftskiptatæki (gervilunga) og þaðan aftur í blá- eða slagæðakerfi sjúklings. Erlendis hefur góður árangur náðst í ECMO-meðferð nýbura en hjá fullorðnum eru ábendingar óljósari og árangur lakari. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna árangur ECMO-meðferðar hjá fullorðnum á Íslandi á árunum 1991-2007.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk og nær til allra tilfella þar sem ECMO hefur verið beitt hér á landi. Upplýsingar um sjúklinga fengust úr sjúkraskrám.

Niðurstöður: 16 sjúklingar (meðalaldur 38,4 ár, bil 14-73, 12 karlar) voru meðhöndlaðir frá 1991, flestir á árinu 2007, eða átta talsins. Níu þessara sjúklinga voru með öndunarbilun (ARDS), oftast vegna lungnabólgu (n=4) og sjö höfðu hjartabilun, oftast vegna kransæðastíflu (n=4). Heildarlifun var 50%, 56% fyrir sjúklinga þar sem ábendingin var öndunarbilun og 43% fyrir hjartabilaða. Af sjúklingum <45 ára lifðu 75% meðferðina en 25% sjúklinga ≥45 ára. Allar fjórar konurnar lifðu en 8 af 12 körlum létust. Meðaltími í öndunarvél áður en ECMO meðferð var beitt var 4,4 dagar fyrir allan hópinn (bil 0,5-18) og meðaltími á ECMO 12,3 dagar (bil 5-40). Sjúklingar með öndunarbilun sem lifðu af meðferðina voru 5,2 daga í öndunarvél samanborið við 9,8 daga hjá þeim sem ekki lifðu meðferðina. Tveir sjúklingar hlutu alvarlegar blæðingar sem að hluta til mátti rekja til blóðþynningar í tengslum við meðferðina. Annars tengdist dánarorsök þeirra sem létust undirliggjandi sjúkdómsástandi og var ekki rakin beint til ECMO meðferðarinnar.

Ályktun: Árangur af notkun ECMO-dælu á Íslandi telst vera góður og stenst vel erlendan samanburð. Helmingur sjúklinga hér á landi lifir af meðferðina, svipað fyrir sjúklinga með hjarta- og lungnabilun. Yngri sjúklingum virðist farnast heldur betur og þeim sem eru stutt í öndunarvél áður en ECMO-dælu meðferð er hafin. Í öllum tilvikum var ECMO-dæla síðasta meðferðarúrræði og telja höfundar að án dælunnar hefðu þeir allir látist. Við teljum því að þessi meðferð hafi sannað sig hér á landi.

 

V-24      Staðbundinn æxlisvöxtur með uppruna í fleiðru á Íslandi

Tryggvi Þorgeirsson1, Helgi J. Ísaksson2, Hrönn Harðardóttir3, Hörður Alfreðsson4, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknarstofu í meinafræði, 3lungnadeild, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

tryggvt@hi.is

Inngangur: Æxlisvöxtur upprunninn í fleiðru getur verið staðbundinn eða útbreiddur um himnuna. Æxli af fyrrnefndu gerðinni nefnast á ensku Solitary Fibrous Tumors of the Pleura (SFTP) en um 20% þeirra eru illkynja og draga þá þriðjung sjúklinga til dauða. Algengari og betur rannsökuð eru mesothelioma, sem vaxa með dreifðum hætti, tengjast útsetningu fyrir asbesti og hafa nær 100% dánarhlutfall. Markmið rannsóknarinnar er að nýta hagstæðar aðstæður hér á landi til lýðgrundaðrar (e. population-based) úttektar á SFTP og ákvarða nýgengi sjúkdómsins sem hingað til hefur ekki verið þekkt.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskygn og fengust upplýsingar um sjúklinga með SFTP úr sjúkragögnum og skrám rannsóknarstofu Landspítala í meinafræði. Vefjafræði æxlanna var yfirfarin af meinafræðingi. Til samanburðar voru upplýsingar um nýgengi mesothelioma sóttar til Krabbameinsskrár KÍ.

Niðurstöður: Alls greindust 11 sjúklingar með SFTP á tímabilinu (8 konur og 3 karlar, meðalaldur 60 ár) en 35 með mesothelioma (4 konur og 31 karl, meðalaldur 68 ár). Árlegt aldursstaðlað nýgengi SFTP og mesothelioma er því 1,4 og 4,0 af 1.000.000 (95% öryggisbil 0,69-2,5 og 2,6-5,4). Aðeins þrír sjúklingar með SFTP höfðu einkenni af sjúkdómnum en hinir greindust fyrir tilviljun. Allir sjúklingarnir voru meðhöndlaðir með brottnámi æxlis í opinni aðgerð utan einn sem greindist við krufningu. Engir alvarlegir fylgikvillar komu upp í eða eftir aðgerð. Endurkoma sjúkdómsins hefur ekki verið skráð í neinu tilfelli og enginn sjúklinganna látist úr sjúkdómnum (miðgildi eftirfylgni 70 mán.).

Ályktanir: Á 24 ára tímabili greindust hér á landi 46 tilfelli æxlisvaxtar með uppruna í fleiðru. Fjórðungur þeirra voru staðbundin SFTP æxli sem í öllum tilvikum sýndu af sér góðkynja klíníska hegðun og vefjagerð. Þótt um sé að ræða litla rannsókn og fá tilfelli er þetta fyrsta lýðgrundaða rannsóknin sem vitað er um á SFTP og gefur hún nýgengið á þessum sjaldgæfa sjúkdómi.

 

V-25      Lyfjabrunnar á Landspítala 2002-2006, ísetning og notkun

Skúli Óskar Kim1, Páll Helgi Möller2, Bergþór Björnsson2, Pétur Hannesson3, Agnes Smáradóttir4

1Læknadeild HÍ, 2skurðlækningadeild, 3myndgreiningadeild, 4lyflækningadeild krabbameina Landspítala

sok1@hi.is

Inngangur: Ísetning og notkun lyfjabrunna hefur aukist undanfarin ár á Landspítala. Erlendar rannsóknir sýna lága tíðni snemm- og síðkominna fylgikvilla. Þetta hefur ekki verið rannsakað hér á landi. Tilgangur rannsóknar var að kanna ísetningu og notkun lyfjabrunna á Landspítala, auk tíðni fylgikvilla og bera saman við niðurstöður erlendra rannsókna.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn. Allir sjúklingar yfir 18 ára aldur sem fengu lyfjabrunn á skurðlækningadeild Landspítala Hringbraut á tímabilinu 1. janúar 2002 til 31. desember 2006 voru teknir inn í rannsóknina. Skráðar voru upplýsingar úr aðgerð, niðurstöður lungnamyndatöku eftir ísetningu og klínískar upplýsingar á meðan notkun stóð. Farið var yfir myndrannsóknir þar sem vandkvæði komu upp við ísetningu eða notkun á lyfjabrunni. Rannsókn var samþykkt af Vísindasiðanefnd Landspítala og Persónuvernd.

Niðurstöður: Á tímabilinu voru settir 482 lyfjabrunnar í 438 sjúklinga. Sjúklingar voru með lyfjabrunna í 398 (2-1875) daga. Ábendingar fyrir ísetningu voru krabbamein (n=361), blóðsjúkdómar (n=97) og aðrir sjúkdómar (n=24). Snemmkomnir fylgikvillar voru loftbrjóst (n=12) og blæðing (n=1). Síðkomnir fylgikvillar voru blóðsegar (n=23), brunnsýkingar (n=6) og blóðsýkingar (n=8), snúningur á lyfjabrunni (n=11), tilfærsla á æðalegg (n=8) og slöngurek (n=2).

Ályktun: Tíðni fylgikvilla við ísetningu og notkun lyfjabrunna á Landspítala er svipuð og þekkt er úr erlendum rannsóknum. Blóðsegar eru ívið tíðari hjá okkur samanborið við erlendar rannsóknir. Ástæður kunna að vera fjöldi daga sem lyfjabrunnur er til staðar eða ófullnægjandi skolun við notkun. Mögulega er hægt að draga úr tíðni annarra fylgikvilla með hjálp ómskoðunar við neðanviðbeinsbláæðaástungu eða með ísetningu lyfjabrunns með skurði niður á bláæð.

 

V-26    Þrívíddarlíkan af mjúkvefjaæxli í hnésbót og nærliggjandi vefjum

Eyþór Örn Jónsson1, Paolo Garguilo2, Hildur Einarsdóttir3, Halldór Jónsson jr.1,4, Þórður Helgason2

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknar- og þróunarstofu, 3röntgendeild, 4bæklunarskurðdeild Landspítala

eythororn@gmail.com

Inngangur: Myndgreining í þrívídd hefur reynst gagnleg við undirbúning ýmissa skurðaðgerða en þrívíddarlíkön sýna afstöðu vefja með skýrari hætti en tvívíðar þversneiðar. Þrívíddarlíkön af mjúkvefjaæxlum á grunni segulómskoðunar eru nánast óþekkt. Tilgangur verkefnisins var að gera þrívíddarlíkan af mjúkvefjaæxli í hnésbót ásamt nærliggjandi vefjum á grunni segulómskoðunar og meta hvort líkanið gagnaðist við undirbúning á brottnámi æxlisins.

Efniviður og aðferðir: Sjúklingurinn er áður hraustur 41 árs gamall karlmaður sem gekkst undir segulómskoðun vegna verkja í hné og greindist þá með mjúkvefjaæxli djúpt í hnésbótinni. Vefir hnésbótarinnar voru einangraðir og endurbyggðir með myndvinnsluforritinu MIMICS. Gerð var viðbótar segulómskoðun með mjög þunnum sneiðum til að kanna hvort þrívíddarlíkan á þeim grunni hefði meira notagildi.

Niðurstöður: Gerð þrívíddarlíkananna gekk vel en það tók 2½ klst. að gera hvort líkan um sig. Í MIMICS er hægt að skoða líkönin frá öllum sjónarhornum og birta og hylja vefi að vild. Einnig var framleitt haldbært gipslíkan en gerð þess tók 3½ klst. Við undirbúning aðgerðarinnar var einkum gagnlegt að sjá afstöðu æxlisins til tauga og æða vegna vals á nálgun (approach). Við aðgerðina kom í ljós að líkanið spáði mjög vel fyrir um legu æxlisins. Líkanið sem byggir á hefðbundinni sneiðaþykkt sýnir afstöðu vefja með fullnægjandi hætti en það sem byggir á þynnri sneiðum er þó talsvert nákvæmara. Við meinafræðilega skoðun kom í ljós að um mjög stóran hlaupbelg (ganglion) var að ræða.

Umræða: Það er unnt að gera þrívíddarlíkön af mjúkvefjaæxlum á grunni segulómunar. Þau geta nýst við undirbúning aðgerðar með því að auðvelda val á nálgun og aðgerðartækni og gætu nýst til að ákveða hversu mikinn vef skuli fjarlægja. Gagnsemin er líklega mest við undirbúning krefjandi aðgerða á svæðum með flókna uppbyggingu. Þrívíddarlíkön af mjúkvefjum geta án efa nýst í öðrum sérgreinum.

 

V-27      Samanburður á breytingum í þéttni beina og aftaugaðra vöðva meðhöndluðum með raförvun

Þórður Helgason ¹ ², Paolo Gargiulo ¹ ², Guðfinna Halldórsdóttir¹, Páll Ingvarsson³, Sigrún Knútsdóttir³, Vilborg Guðmundsdóttir³, Stefán Yngvason³

1Rannsókna- og þróunarstofa, HTS, Landspítala, 2heilbrigðisverkfræðiskor Tækni- og verkfræðideildar HR, 3endurhæfingardeild Landspítala Grensási

thordur@landspitali.is

Inngangur: Þrír íslenskir sjúklingar með aftaugaða og rýra lærisvöðva hafa verið meðhöndlaðir með raförvun frá hausti 2003. Þeir eru þverlamaðir eftir slys. Afleiðingar skaðans er óvirk neðri hreyfitaug og þar með er vöðvinn alveg óvirkur. Hann rýrnar og endar með að hafa engar samdráttarhæfar einingar. Í staðinn eru komin bindivefur og fita.

Markmið: Markmið verkefnisins er að athuga hvort beinþéttni fylgi aukningu í rúmmáli og þéttni vöðva í raförvunarmeðferð.

Aðferðir: Ef byrjað er á raförvunarmeðferð innan nokkurra ára frá slysi, helst innan þriggja til fjögra ára, má hægja á, stöðva og jafnvel snúa við þessu hrörnunarferli vöðvans. Með raförvun vöðva-þráða í hálfa til tvær klukkustundir á dag u.þ.b. sex daga vikunnar getur sjúklingur endurheimt rúmmál vöðvans og að verulegu leiti samdráttarkraft hans. Íslensku sjúklingarnir þrír hafa verið tölvuseiðmyndaðir þrisvar á ári með spíral tölvusneiðmyndum. Úr þessum myndum hafa rectus femoris, lærleggur og hnéskel verið einangruð, rúmmáls- og þéttnimælingar gerðar og lögun greind.

Niðurstöður: Niðurstöður eru skýr hækkun á þéttni vöðva og stækkun rúmmáls vöðvanna en þéttniaukning beina er ekki eins skýr. Beinþéttni hefur bæði aukist og minnkað í sama beini á sama tíma.

Ályktun: Vísbendingar eru um að þéttni beina aukist þar sem reynir á þau vegna raförvunar. Frekari rannsókna er þörf til að fá ábyggilegar niðurstöður.

 

V-28      Endurhæfing aftaugaðra vöðva í raförvunarmeðferð: mælingar á rúmmáli, þéttni og lögun

1,3Paolo Gargiulo, 1Brynjar Vatnsdal, 2Páll Ingvarsson, 2Sigrún Knútsdóttir, 2Vilborg Guðmundsdóttir, 2Stefán Yngvason, 1,3 Þórður Helgason

1Rannsóknar- og þróunarstofa, HTS, Landspítala, 2endurhæfingardeild Landspítala Grensási, 3heilbrigðisverkfræðiskor tækni- og verkfræðideildar HR

thordur@landspitali.is

Inngangur: Fyrirliggjandi vinna sýnir á nýstárlegan hátt ferli sem fer í gang þegar aftaugaðir vöðvar eru meðhöndlaðir með raförvun. Vöxtur aftaugaðra vöðva veldur breytingum á mismunandi kennistærðum hans. Rúmmál, þéttni og lögun breytast verulega við raförvunarmeðferðina og fylgni þessara stærða er hægt að mæla.

Markmið: Markmið fyrirliggjandi vinnu er að þróa aðferð til að fylgjast með raförvunarmeðferð aftaugaðra og rýrnaðra lærisvöðva. Sérstaklega til að bera saman aukningu í rúmmáli og þéttni vöðvans við breytingar í lögun hans.

Aðferðir: Í þessu skyni eru teknar spíral sneiðmyndir og myndvinnslutól notuð til að einangra vöðvabelgi og mæla breytingu í rúmmáli, þéttni og lögun mjög nákvæmlega. Rectus Femoris vöðvinn liggur yst lærvöðva og verður mest fyrir rafstaumnum, hann er því áhugaverðastur fyrir rannsóknina. Fylgst hefur verið með vöðvunum í fjögur ár og þrívíð líkön gerð af þeim á mismunandi tímum. Stækkun vöðvans og breytingar hans á meðan meðferð stóð má sjá í þessum líkönum og gera mælingar á þeim. Sérstaklega er lögun vöðvans mæld og borin saman við heilbrigðan vöðva til þess að meta hvernig endurhæfingu hans miðar.

Niðurstöður: Niðurstöðurnar sýna hægan en samfelldan vöxt vöðvans á meðferðartímabilinu. Aukningu í rúmmáli og þéttni fylgir breytingar í lögun vöðvans sem bendir til samhengis milli þéttnibreytinga á ákveðnum stöðum í vöðvanum og breytinga í lögun.

Ályktun: Fyrirliggjandi vinna sýnir nýja leið til að fylgjast með og fá magnbundnar og ómagnbundnar upplýsingar um aftaugaða og rýrnaða vöðva sem annars væru huldar.

 

V-29      Geislaskammtar við nokun keilulaga röntgensneiðmynda

Harpa Dís Birgisdóttir1, Elsa Dögg Gunnarsdóttir2, Garðar Mýrdal1

1Geislaeðlisfræðideild krabbameinslækninga, Landspítala, 2námsbraut í geislafræði við HR

gardar@landspitali.is

Inngangur: Keilulaga röntgensneiðmyndir (Cone Beam CT eða CBCT) gegna vaxandi hlutverki við myndstýrða geislameðferð. Með CBCT tækni er unnt að fylgjast með uppstillingu sjúklings af aukinni nákvæmni. Á röntgenhermi sem settur var upp á Landspítala í október 2007 er CBCT og hefur verið notuð við undirbúning fyrir nokkrar ólíkar tegundir geislameðferðar. Geislaskammtar sem orsakast af sneiðmyndatöku af meðferðarsvæðinu eru oftast óveruleg viðbót við meðferðarskammtinn. Þó er rétt að huga að þessum skömmtum einkum ef CBCT-myndatökur verða notaðar í reglubundnu eftirliti í geislameðferð.

Markmið: Í þessari rannsókn eru mældir geislaskammtar í líkönum þegar teknar eru af þeim keilulaga sneiðmyndir (CBCT) og eru þeir bornir saman við geislaskammta frá hefðbundnari sneiðmyndatöku.

Aðferðir: CBCT myndataka er gerð af líkönum, bæði svo kölluðum CTDI (CT Dose Index) líkönum og er mæling geislaskammta gerð með 10 cm löngum jónunarklefa sem komið er fyrir í holum í líkaninu, bæði í miðju þess og einnig í 1 cm dýpi frá yfirborði. TLD (Thermo Luminicanse Dosimeters) eru settir í líkönin og eru geislaskammtar þannig mældir með tveim aðferðum. Sams konar mælingar eru gerðar til samanburðar í sneiðmyndatæki.

Niðurstöður: Geislaskammtar í CTDI líkönum mælast 28-56 mGy við CBCT myndatökur en í sneiðmyndatæki á Myndgreiningardeild Landspítala á bilinu 31-52 mGy. Taka þarf tillit til stillinga á tökuþáttum eins og kV, mAmp o.s.frv. Myndgæði CBCT mynda eru umtalsvert verri en hinna hefðbundnari sneiðmynda, en þó er myndirnar nýtilegar fyrir sértækar mælingar á þykkt og staðsetningu líffæra.

Ályktun: CBCT myndir auka öryggi við geislameðferð krabbameina. Með notkun þessarar tækni er unnt að auka eftirlit með hreyfingu líffæra og fá fram vinnuhagræðingu við undirbúning meðferðar. Geislaskammtar sem mælast við CBCT myndatöku mælast af sambærilegum gildum og hefðbundnari sneiðmyndatökur. Rétt er að leita eftir hámarks ávinningi með sem lægstum viðbótar geislaskammti.

 

V-30      Myndtækni nýtt til þróunar og endurbóta í geislameðferð krabbameins í blöðruhálskirtli

Agnes Þórólfsdóttir1, Garðar Mýrdal2

1Geislameðferð krabbameinslækninga, 2 geislaeðlisfræðideild krabbameinslækninga, Landspítala

agnest@landspitali.is

Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt að með hækkun geislaskammta í meðferðarsvæði megi ná fram auknum lækningalíkum. Við aukinn geislaskammt er þörf á að minnka öryggismörk um meðferðarsvæði til að hlífa sem mest heilbrigðum vef. Stefnt er á að hafa á Landspítala styrkmótaða geislameðferð (e. Intensity Modulated Radiation Therapy) sem gefur möguleika á hærri geislaskömmtum í meðferðarsvæði og heilbrigðum vef yrði jafnframt betur hlíft. Mikinn undirbúning þarf til að hefja slíka meðferð og skoða þarf alla þætti meðferðar, eins og tæknilega þætti, gæðaeftirliti, fræðslu o.fl.

Markmið: Að fá tölulegt mat á nákvæmni geislameðferðar við staðbundnu krabbameini í blöðruhálskirtli með stafrænu myndkerfi til ákvörðunar á stærð öryggismarka um meðferðarsvæði. Skoðuð voru áhrif líkamsmassastuðuls (BMI) á nákvæmni meðferðar. Athuguð voru áhrif hans á nákvæmni innstillingar með tilliti til ákvörðunar á stærð öryggismarka og möguleika sjúklinga með hátt BMI að fá IMRT meðferð.

Aðferðir: Myndir voru skoðaðar í myndskoðunarkerfi eftir að meðferð sjúklings var lokið. Þátttakendur voru 40, það er allir þeir sjúklingar sem fengu geislameðferð vegna staðbundins krabbameins í blöðruhálskirtli á geisladeild Landspítala árið 2006. Mæld voru frávik í innstillingu þessara sjúklinga. Heildarfjöldi mynda sem teknar voru og metnar í myndskoðunarforriti var 3032. Myndir sem hægt var að meta voru 2595. Fundnar voru kerfisskekkjur innstillingar (SSE) og slembiskekkjur innstillingar (sSE) í stefnur M-L (hægri – vinstri á sjúkling), S-I (til höfða-fóta og A-P (fram-aftur á sjúkling). Niðurstöður voru notaðar til að reikna út ráðlögð öryggismörk utanum kjörmeðferðarsvæði (CTV-PTV).

Niðurstöður: Niðurstöður þessa verkefnis eru að öryggismörk um meðferðarsvæði þyrftu að vera 6,2 mm í SI stefnu og 10,1 mm í AP stefnu. Reiknuð þrívíð öryggismörk vegna IMRT-meðferðartækni þyrftu að vera 15,8mm miðað við uppstillingarforsendur á Landspítala árið 2006, sem ekki er ásættanlegt með tilliti til líklegra aukaverkana. Jákvæð fylgni var á milli BMI sjúklinga og skekkju til hægri eða vinstri (M-L) (r=0,21)

Ályktun: Áður en tekin er upp IMRT-tækni þarf að fara yfir alla þætti undirbúnings og framkvæmd meðferðar og fá fram aukna nákvæmni. Unnið er að þeim endurbótum.

 

V-31      Grindarbotnsþjálfun með raförvun og án sem meðferð við áreynsluþvagleka

Halldóra Eyjólfsdóttir1, María Ragnarsdóttir1, Guðmundur Geirsson2, Þórarinn Sveinsson3

1Endurhæfingardeild, 2þvagfæraskurðdeild Landspítala, 3sjúkraþjálfunarskor læknadeildar HÍ

halldey@landspitali.is

Inngangur: Tólf -55% kvenna hafa fundið fyrir þvagleka einhvern tímann á ævinni. Þetta er því algengt vandamál sem mikil-
vægt er að finna árangursríka meðferð við.

Markmið: Að kanna gagnsemi grindarbotnsþjálfunar með og án raförvunar og bera saman hvor meðferðin gefi betri árangur.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru þægindaúrtak 24 kvenna 20-75 ára sem greindar voru með áreynsluþvagleka. Barnshafandi konur og konur með bráðaþvagleka voru útilokaðar. Þeim var skipt í tvo hópa með slembivali, hópur 1 þjálfaði grindarbotnsvöðva með hefðbundnum grindarbotnsæfingum, en hópur 2 notaði raförvun að auki. Styrkur og úthald grindarbotnsvöðva var metinn með þreifingu frá 0-5 og vöðvarafriti (Myomed 930 Enraf Nonius), sem sýnir hámarks-, lágmarks-, heildar-, og meðalspennu í samdrætti og hvíld. Konurnar svöruðu spurningalista International Continence Society um magn og gerð þvaglekans, áhrif á daglegt-, félags- og kynlíf, fyrir meðferð við áreynsluþvagleka og árangur þeirrar meðferðar, fylltu út þvaglátaskrá og mátu þvaglekan á VAS kvarða fyrir og eftir meðferð.

Meðferð: Konur í báðum hópum gerðu grindarbotnsæfingar tvisvar á dag, spenntu í 7 sekúndur með 7 sekúndna hléi á milli í alls 15 mínútur. Konur í hópi 2 notuðu auk þess raförvun með yfirborðselektróðu í leggöngum samtímis æfingunum.

Úrvinnsla: Lýsandi tölfræði, Mann-Whitney U-próf og Wilcoxon signed rank test fyrir paraðar mælingar. Við úrvinnslu var notað Excel forritið og tölfræðigreining gerð í SPSS 11.0. Marktækni sett við p≥0,05

Niðurstöður: Í upphafi meðferðar var einungis marktækur munur á hópunum í aldri. Eftir meðferð juku báðir hópar marktækt spennu í grindarbotnsvöðvum (p=0,007: p=0,005) og hópur 2 hafði marktækt minni þvagleka (p=0,008) og lágmarks spennu (p=0,013) í EMG. Munur á árangri hópanna var hvergi marktækur.

Ályktanir: Grindarbotnsþjálfun er árangursrík við áreynsluþvagleka. Raförvunarhópurinn var ekki marktækt betri að meðferð lokinni.


V-32      Stöðluð skráning í sjúkraþjálfun: Réttmætis- og áreiðanleikaprófun á orðasafni meðferða og vörpun þess í Metathesaurus

Arna Harðardóttir1, María Heimisdóttir1, Alan Aronsson2, Valgerður Gunnarsdóttir3

1Hag- og upplýsingasvið Landspítala, 2National Library of Medicine, NIH Bethesda, 3Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

arnah@landspitali.is

Markmið: Á Landspítala er til nýtt orðasafn, 141 orð, sem lýsir meðferðum sjúkraþjálfara spítalans. Rannsókn þessi fjallar um eftirfarandi rannsóknarspurningar: 1. Inniheldur orðasafnið öll meðferðarform sem sjúkraþjálfarar á LSH veita? 2. Er orðasafnið áreiðanlegt í klínískri vinnu á LSH? 3. Er hægt að varpa orðasafninu yfir í flokkunar- og kóðunarkerfi í UMLS, Metathesaurus?

Aðferðir: Orðasafnið var þýtt yfir á ensku, bakþýtt og metið af klínískum sérfræðingum í sjúkraþjálfun. Þýðingin er grunnur þriðju rannsóknarspurningarinnar.Spurningarlisti, á íslensku og ensku, var lagður fyrir alla sjúkraþjálfara (N=69) LSH með fjögurra vikna millibili. Sjúkraþjálfarar voru beðnir að meta hversu oft þeir notuðu meðferðina, sem orðið lýsti, síðustu tvær vikurnar (7 punkta raðkvarða). Einnig var óskað eftir viðbótum ef einhver meðferðarorð vantaði. Orðasafninu var varpað, með MetaMap, yfir í 2006AC útgáfu af Metathesaurus að viðbættum fjórðu útgáfu Nursing Intervention Classification (NIC) og 3. útgáfu Nursing Outcome Classification (NOC).Notast var við SPSS, útgáfu 11.0 við greiningu gagna.

Niðurstöður: Þýðingin er réttmæt og áreiðanleiki mældist hár og mjög hár (p<0,001). Svörun var 72,5%. Engin orð voru tekin út úr orðasafninu og sex orðum var bætt við. Innihald orðasafnsins (alls 147 orð) er réttmætt. Áreiðanleiki orðasafnsins mældist hár og mjög hár (p<0,001). MetaMap fann nákvæmlega eins orð í 40% af flokkunar- og kóðunarkerfum í Metathesaurus og flest orð, 37%, vörpuðust yfir í SNOMED CT í Metathesaurus. Orðasafnið hefur verið kóðað og er þegar í notkun í Sögu sjúkraskrárkerfi Landspítala.

 

V-33      Innri áreiðanleiki og réttmæti DASS samkvæmt MINI

Baldur Heiðar Sigurðsson, Hafrún Kristjánsdóttir, Jón Friðrik Sigurðsson, Sigurður J. Grétarsson

Geðsviði Landspítala, læknadeild, sálfræðiskor HÍ

baldurhs@landspitali.is               

Inngangur: DASS-listinn er stuttur og handhægur sjálfsmatskvarði sem metur einkenni þunglyndis, kvíða og streitu og var hann upprunalega hannaður í þeim tilgangi að geta greint betur á milli þunglyndis og kvíða en hægt hefur verið með öðrum kvörðum. Niðurstöður rannsókna höfunda listans hafa stutt samleitandi og aðgreinandi réttmæti listans og hafa þær niðurstöður verið studdar í endurteknum rannsóknum erlendis. Innri áreiðanleiki kvarðanna þriggja hefur einnig hlotið endurtekinn stuðning í erlendum rannsóknum. Rannsóknin var liður í lokaverkefni Baldurs Heiðars Sigurðssonar til Cand. Psych. prófs við Háskóla Íslands.

Markmið: Að meta áreiðanleika undirkvarða íslenskrar þýðingar DASS-listans og kanna samleitandi réttmæti þeirra með samanburði við greiningarviðtalið Mini International Neuropsyciatric Interview í úrtaki íslenskra sjúklinga á geðdeildum Landspítala.

Aðferð: 37 sjálfboðaliðar, allir sjúklingar á geðsviði Landspítala, tóku þátt í rannsókninni. Úrtakið var því valið af hentugleika og fengu þátttakendur ekkert greitt fyrir þátttökuna. Upplýsingum um þátttakendur var aflað frá þeim sjálfum með MINI greiningarviðtalinu og DASS listanum. Þátttakendur voru beðnir um að koma á Prófamiðstöð geðsviðs í greiningarviðtal, þar sem þeir skrifuðu einnig undir upplýst samþykki og svöruðu spurningalistum.

Niðurstöður: Innri áreiðanleiki allra undirkvarða var mjög góður. ROC-greining leiddi í ljós að DASS spáir vel fyrir um greiningu MINI á þunglyndi og gefur góða vísbendingu um kvíðaröskun. Þeir sem greindust með almenna kvíðaröskun skoruðu hærra á streitukvarðanum en þeir sem ekki greinast með almenna kvíðaröskun.

Ályktun: Íslensk þýðing Dass-listans er áreiðanlegur sjálfsmatskvarði sem gefur góða vísbendingu um hvort svarandi greinist með þunglyndi og kvíða. Sé einkunn hærri en viðmiðsgildið á kvíða má líta sérstaklega á streitukvarðann, en há einkunn þar gefur tilefni til að hafa sérstaklega í huga þrálátan kvíðaþátt í þunglyndismeðferð eða jafnvel að grennslast frekar fyrir um hvort um almenna kvíðaröskun sé að ræða.

 

V-34      Innleiðing klínískra gæðavísa/útkomumælinga á bráða- og ferlideild geðsviðs: Könnun á afdrifum og árangri meðferðar hjá sjúklingum með algengar geðraskanir á bráða- og ferlideild geðsviðs við Hringbraut með CORE árangursmatslistanum

Baldur Heiðar Sigurðsson, Jón Friðrik Sigurðsson, Halldóra Ólafsdóttir, Pétur Tyrfingsson, Unnur Jakobsdóttir Smári, Kristín Gyða Jónsdóttir, Guðrún Úlfhildur Grímsdóttir

Geðsviði Landspítala

baldurhs@landspitali.is

Inngangur: Mikil þörf er fyrir hentugt tæki til að samræma mat á árangri geðmeðferðar hjá sjúklingum. CORE-OM listinn (Clinical Outcomes in Routine Evaluation-Outcome Measure) hefur verið sannprófaður í Bretlandi á geðdeildum og í heilsu-gæslu. Hann er næmur fyrir breytingum á líðan sjúklinga með algengar geðraskanir og greinir vel á milli klínískra hópa og almennings.

Markmið: Að meta árangur geðmeðferðar hjá sjúklingum með algengar geðraskanir á bráða- og ferlideild geðsviðs með það í huga að þeir fái meðferð sem skilar árangri og er sambærileg við það sem best gerist erlendis.

Aðferð: CORE-OM listinn var lagður fyrir 520 sjúklinga sem komu í inntökuviðtöl á göngudeild bráða- og ferliþjónustu geðsviðs. Sjúklingar svöruðu síðan styttri útgáfu listans í hverjum meðferðartíma. Í inntökuviðtali var geðgreiningarviðtal samkvæmt greiningarviðmiðum DSM-IV lagt fyrir sjúkling og hann svaraði spurningalistum sem mæla þunglyndis-, kvíða og streitueinkenni og viðhorf til lífsgæða. Auk þess var skimað eftir persónu-leika-röskunum. Í upphafi og við lok meðferðar fylltu meðferðaraðilar út staðlað matsblað þar sem meðal annars kemur fram mat og lýsing á vandkvæðum sjúklings, sjálfsvígshættu, meðferðarformi og lengd meðferðar. Framkvæmdastjórn Landspítala veitti styrk til rannsóknarinnar og Siðanefnd spítalans veitti leyfi til hennar.

Niðurstöður: Niðurstöður gefa vísbendingu um að árangur af geðmeðferð á göngudeild sé almennt góður, en vísbendingarnar eru þó ekki traustar sökum mikils brottfalls úr gögnunum. Greining á því brottfalli hefur leitt í ljós að það megi að nokkru leyti rekja til óskýrrar aðgreiningar bráðamóttöku og göngudeildar.

Ályktun: Niðurstöður brottfallsgreiningar hafa verið nýttar til að bæta skipulag og skerpa á aðgreiningu og verkaskiptingu bráðamóttöku og göngudeildar. Tillögur eru gerðar að því hvernig megi koma árangursmælingum með CORE-OM betur inn í almennt verklag á göngudeild svo endurtaka megi rannsóknina í einhverri mynd með betri heimtum á gögnum.

V-35      Þróun þunglyndis- og kvíðaeinkenna á meðal íslenskra unglinga og heimsóknir þeirra til geðlækna, félagsráðgjafa og sálfræðinga

Bryndís Björk Ásgeirsdóttir1, Inga Dóra Sigfúsdóttir2, Jón Friðrik Sigurðsson2,3,4, og Gísli H. Guðjónsson1,2

1Institute of Psychiatry, King's College í London, 2HR, 3læknadeild HÍ, 4Geðsviði Landspítala

jonfsig@landspitali.is

Inngangur: Erlendar rannsóknir gefa til kynna að á undanförnum áratugum hafi einkenni þunglyndis og kvíða farið vaxandi meðal ungs fólks. Á sama tíma hefur aukningar orðið vart í eftirspurn eftir geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga. Á Íslandi hefur nokkuð borið á umræðu um aukningu geðrænna vandamála barna og ungmenna en fáar rannsóknir hafa verið gerðar.

Markmið: Markmið þessarar rannsóknar var annars vegar að rannsaka þróun einkenna þunglyndis og kvíða meðal ungmenna á Íslandi frá árinu 1997 til 2006 og hins vegar að rannsaka þróun í heimsóknum ungmenna til geðlækna, sálfræðinga og félagsráðgjafa á sama tímabili.

Aðferð: Rannsóknin byggir á fjórum könnunum sem lagðar voru fyrir alla nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla á Íslandi sem mættir voru í skóla á fyrirlagningardegi árin 1997, 2000, 2003 og 2006. Samanlagt tóku 21.245 nemendur þátt í könnunum fjórum.

Niðurstöður: Kvíðaeinkenni jukust marktækt meðal bæði stelpna og stráka frá árinu 1997 til 2006. Þunglyndiseinkenni jukust einnig marktækt meðal stelpna, en á meðal stráka varð engra breytinga vart. Á sama tímabili hækkaði hlutfall ungmenna sem höfðu einhvern tíma leitað aðstoðar geðlækna, sálfræðinga og félagsráðgjafa sl. 12 mánuði fyrir könnun. Þá gáfu niðurstöðurnar til kynna að hlutfall þeirra, sem höfðu leitað sér aðstoðar geðlækna, sálfræðinga og félagsráðgjafa reglulega (6 sinnum eða oftar á ári), hafði aukist marktækt á sama tímabili meðal stelpna en ekki meðal stráka.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna aukningu á einkennum þunglyndis og kvíða meðal ungmenna á Íslandi síðasta áratug. Frekari rannsókna er þörf til að athuga ástæður þessarar þróunar. Sérstaklega þarf að beina athygli að aukinni áhættu stelpna fyrir bæði einkennum þunglyndis og kvíða.

 

V-36      Áhrif NRG1 á vitræna færni og sjúkdómseinkenni í geðklofa

Brynja Björk Magnúsdóttir1,2, H. Magnús Haraldsson1, Robin Morris2, Robin Murray2 , Engilbert Sigurðsson1, Hannes Pétursson1, Þórður Sigmundsson1

1Geðsviði Landspítala, 2King's College University of London, Institute of Psychiatry

brynjabm@landspitali.is

Inngangur: Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á fylgni milli Neuregulin 1 gensins (NRG1) og geðklofa. Neuregulin tekur þátt í tjáningu og virkni NMDA, sem er glútamat viðtaki, og sýnt hefur verið fram á tengsl neikvæðra einkenna geðklofa og skertrar glútamatvirkni. Neikvæð einkenni hafa einnig verið tengd verri frammistöðu á taugasálfræðilegum prófum.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var þríþætt; 1) kanna hvort NRG1 hafi áhrif á vitræna færni hjá einstaklingum með geðklofa og heilbirgðum samanburðarhóp, 2) kanna hvort NRG1 hafi áhrif á sjúkdómseinkenni í geðklofa, og 3) athuga hvort finna megi fylgni milli vitrænnar færni og sjúkdómseinkenna í geðklofa.

Aðferð: Þátttakendur voru valdir í rannsóknina með tilliti til arfgerðar þeirra og var skipt í tvo hópa eftir því hvort þeir hefðu íslensku 5 SNP áhættuarfgerðina á NRG1 (80 sjúklingar með geðklofa og 77 heilbrigðir einstaklingar). Taugasálfræðipróf sem meta m.a. minni, stýrihæfni og athygli voru lögð fyrir þátttakendur. Sjúkdómseinkenni voru metin með PANSS einkennalistanum.

Niðurstöður: 1) Niðurstöður benda til þess að tilhneiging sé til áhrifa áhættuarfgerðarinnar NRG1 á vitræna færni en ekki komu fram marktæk áhrif. 2) Ekki komu fram marktæk áhrif NRG1 áhættuarfgerðarinnar á sjúkdómseinkenni geðklofa. 3) Marktæk neikvæð fylgni fannst milli vitrænnar hæfni og allra sjúkdómseinkenna, utan jákvæðra einkenna.

Ályktun: Það virðist vera sterkt samband milli slakrar vitrænnar færni og neikvæðra einkenna hjá einstaklingum með geðklofa. Ekki fundust marktæk áhrif NRG1 áhættuarfgerðarinnar á vitræna færni né sjúkdómseinkenni í geðklofa, en tilhneigingu í þá átt mátti þó greina.

 

V-37      Einkenni athyglisbrests með ofvirkni eftir aldri og kyni á Ofvirknikvarðanum

Guðmundur Skarphéðinsson1, Páll Magnússon1, Bóas Valdórsson1, Jakob Smári2

1Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, 2sálfræðiskor HÍ

gudmundr@landspitali.is

Inngangur: Athyglisbrestur með ofvirkni er ein algengasta tilvísunarástæða á Barna- og unglingageðdeild Landspítala. ADHD má skilgreina sem röskun á sviði taugaþroska sem venjulega birtist áður en barn nær sjö ára aldri og lýsir sér í erfiðleikum með athyglisstjórn, hvatvísi og hreyfiofvirkni. Frá árunum 1998 til 2000 var viðmiðunartölum fyrir Ofvirknikvarðann (Attention-Deficit Hyperactivity Disorder Rating Scale – IV) safnað um 4-16 ára börn. Ofvirknikvarðinn byggir á 18 kjarnaeinkennum ADHD úr flokkunarkerfi bandarískra geðlækna (Diagnostic and Statistical Manual – 4. útgáfu) en helmingur atriða lýsir einkennaflokki athyglisbrests og hinn helmingur einkennaflokki ofvirkni/hvatvísi. Próffræðilegir eiginleikar kvarðans hafa reynst góðir.

Markmið: Markmið rannsóknar var að bera saman einkenni eftir aldri og kyni.

Aðferðir: Um heildargreiningu er að ræða þar sem gögn um meðaltöl og staðalfrávik á Ofvirknikvarðanum voru fengin úr áður birtum rannsóknum eða námsritgerðum. Gögn úr foreldramati voru fengin hjá svörum foreldra 572 drengja og 614 stúlkna. Gögn úr kennaramati voru fengin hjá 778 drengjum og 782 stúlkum.

Niðurstöður: Í ljós kom að drengir voru með fleiri einkenni ADHD en stúlkur. Einnig kom í ljós að einkennum athyglisbrests virtist fjölga með hækkandi aldri en einkenni ofvirkni/hvatvísi minnkuðu með hækkandi aldri, foreldra- og kennaramat sýndu sömu niðurstöður. Drengir sýndu fleiri einkenni athyglisbrests á öllum aldursárum en kynjamunur virtist minnka með hækkandi aldri samkvæmt foreldramati en ekki kennaramati. Drengir sýndu einnig fleiri einkenni ofvirkni/hvatvísi á öllum eða flestum aldursárum. Kynjamunur virtist þó minnka með hækkandi aldri bæði á foreldra- og kennaramati.

Ályktun: Niðurstöður voru í samræmi við fyrri rannsóknir að undanskildum þeim niðurstöðum að athyglisbrestseinkenni í þessari rannsókn virtust fjölga með hækkandi aldri. Einkennum ofvirkni/hvatvísi minnkuðu þó með aldri sem var í samræmi við fyrir rannsóknir. Rætt var um mögulegar skýringar á þessum niðurstöðum.

 

V-38      Tengsl tölvuleikjavanda og tölvuleikjanotkunar við athyglisbrest með ofvirkni

Guðmundur Skarphéðinsson1, Soffía Elísabet Pálsdóttir2, Daníel Þór Ólason2

1Barna- og unglingageðdeild Landspítala, 2sálfræðiskor HÍ

gudmundr@landspitali.is

Inngangur: Óhófleg tölvuleikjanotkun hefur verið tengd við athyglisbrest með ofvirkni (ADHD) hjá börnum og unglingum. Fáar rannsóknir eru þó til sem kannað hafa þetta samband en niðurstöður benda til að sambandið sé til staðar.

Markmið: Markmið rannsóknar var að kanna tengsl tölvuleikjanotkunar og tölvuleikjavanda við einkennaflokka athyglisbrests og ofvirkni/hvatvísi.

Aðferðir: Þátttakendur voru 196 drengir og 184 stúlkur úr sex framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu. Nemendur svöruðu spurningum um tölvuleikjanotkun sína í klukkustundum á viku ásamt Problem Video Game Playing – Revised sem metur níu einkenni tölvuleikjavanda aðlöguð úr greiningarviðmiðum spila- og vímuefnafíknar og loks DSM-IV kvarða fyrir athyglisbrest og ofvirkni/hvatvísi úr Conners-Wells Adolescent Self-Report Scale.

Niðurstöður: Gerð var marghliða þrepaaðhvarfsgreining. Í fyrra líkani var tölvuleikjavandi fylgibreyta en frumbreytur voru í fyrsta þrepi kyn og í öðru þrepi bættust heildarstig einkennaflokka athyglisbrests og ofvirkni/hvatvísi. Í ljós kom að kyn og athyglisbrestur höfðu afmörkuð tengsl við tölvuleikjavanda en ekki ofvirkni/hvatvísi. Sem þýðir að drengir í úrtaki og þeir með einkenni athyglisbrests tengudst frekar tölvuleikjavanda. Í seinna líkani var tölvuleikjanotkun fylgibreyta en frumbreytur voru þær sömu. Kyn sýndi afmörkuð tengsl við tölvuleikjanotkun sem þýðir að drengir í úrtakinu höfðu frekar tengsl við tölvuleikjanotkun. Engin afmörkuð tengsl voru við athyglisbrests eða ofvirkni/hvatvísi.

Ályktun: Drengir höfðu frekar einkenni tölvuleikjavanda og spiluðu tölvuleiki meira en stúlkur. Einnig kom í ljós að einkenni athyglisbrests höfðu afmörkuð tengsl við tölvuleikjavanda. Þessi tengsl voru ekki til staðar milli tölvuleikjavanda og ofvirkni/hvatvísi. Engin tengsl reyndust vera á milli tölvuleikjanotkunar og athyglisbrests né ofvirkni/hvatvísi. Mögulegar skýringar voru settar fram.

 

V-39    Réttmæti PHQ skimunartækisins

Hafrún Kristjánsdóttir2, Guðmundur B. Arnkelsson1, Valdís E. Pálsdóttir3

1Félagsvísindadeild HÍ, 2geðsviði Landspítala, 3Reynir ráðgjafastofa

hafrunkr@landspitali.is

Inngangur: Samkvæmt breskum rannsóknum leita einstaklingar með geðrænan vanda fyrst til heilsugæslu. Hérlendis virðist þriðjungur skjólstæðinga heilsugæslu búa við geðrænan vanda, en meirihluti þeirra fær meðhöndlun hjá heilsugæslulæknum. Almennt er talið að ómeðhöndlaðar lyndisraskanir hafi alvarlegar afleiðingar og skjót og rétt greining og meðferð sé því lykilatriði. Patient Health Questionnair er 58 atriða skimunarlisti sem er hentugur til notkunar í heilsugæslu. Hann skimar fyrir átta geðröskunum með sex kvörðum en þeir eru líkömnunarröskunarkvarði, þunglyndiskvarði, felmturskvarði, kvíðakvarði, átröskunarkvarði og áfengiskvarði

Markmið: Rannsókninni er ætlað að meta réttmæti PHQ.

Aðferð: Þátttakendur eru 203 einstaklingar sem tóku þátt í hugrænni atferlismeðferð á nokkrum heilsugæslustöðum. Allir þátttakendur svöruðu PHQ listanum, MINI geðgreiningarviðtalinu, BDI – II þunglyndiskvarðanum, BAI kvíðakvarðanum, CORE – OM árangursmatskvarðanum og QOLS lífsgæðakvarðanum.


Niðurstöður og umræður
:
Niðurstöður úr réttmætisathugunum benda til þess að PHQ kvarðarnir hafi viðunandi innri samkvæmni, allir nema áfengiskvarðinn. Þrír kvarðar fengu stuðning við hugsmíðarréttmæti: Líkömnunarröskunar-
kvarði, þunglyndiskvarði og felmturskvarði. Kvíðakvarðinn fékk stuðning sem almenn mæling á depurð, kvíða og ,,vanda skjólstæðings” fremur en sem hrein kvíðamæling. Réttmæti PHQ tækisins í heild fékk stuðning af athugun á því hvernig fólk með misalvarlegar PHQ greiningar mældist á öðrum óháðum mælitækjum.


V-40      Mat á alvarleika áráttu- og þráhyggjueinkenna: Próffræðilegir eiginleikar sjálfsmatsútgáfu Yale-Brown Obsessive-Compulsive Scale (Y-BOCS-SR) í úrtaki háskólanema

Ívar Snorrason, Ragnar P. Ólafsson, Jakob Smári

Geðsviði Landspítala, HÍ

ragnarpo@landspitali.is

Aðferðir: Sjálfsmatsútgáfa Yale-Brown Obsessive-Compulsive Scale (Y-BOCS-SR; Bear, 1991; Steketee, Frost og Bogart, 1996) var notuð til að meta alvarleika áráttu- og þráhyggjueinkenna 427 háskólanema. Einnig voru lagðir fyrir spurningalistar sem notaðir eru til að meta alvarleika mismunandi tegunda áráttu- og þráhyggjueinkenna (OCI-R), þrálátar áhyggjur (PSWQ) og einkenni almennrar kvíðaröskunar (GAD-Q-IV). Áreiðanleiki þráhyggju- og áráttukvarða Y-BOCS-SR reyndist vera góður. Heildarskor Y-BOCS-SR hafði marktækt hærri fylgni við heildarskor á OCI-R heldur en við skor á PSWQ og GAD-Q-IV.

Niðurstöður: Staðfestandi þáttagreiningar (Confirmatory Factor Analysis) sýndu að tveggja þátta líkan þar sem fimm þráhyggjuatriði listans og fimm áráttuatriði listans hlóðu á aðskilda en tengda þætti, lýstu þáttabyggingu listans best í samanburði við önnur líkön sem hafa verið prófuð í rannsóknum.

Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til að próffræðilegir eiginleikar íslenskrar gerðar Y-BOCS-SR séu góðir í úrtaki háskólanema. Kanna þarf eiginleika listans í úrtaki sjúklinga og athuga samræmi í mati á alvarleika áráttu- og þráhyggjueinkenna sem fæst með sjálfsmatsútgáfunni annars vegar og með viðtalsútgáfu mælitækisins hins vegar.

  1.         Baer L. Getting control: Overcoming obsessions and compulsions. Little Brown, Boston 1991.
  2.         Steketee G, Frost R, Bogart K. The Yale-Brown Obsessive Compulsive Scale: Interview versus self-report. Behav Res Therapy 1996; 34: 675-84.

 

V-41      Samband tengslamyndunar í tilfinningasamböndum og undanlátssemi

Jón Friðrik Sigurðsson1,2, Gísli H. Guðjónsson3, Linda Bára Lýðsdóttir1, Halldóra Ólafsdóttir1, Pétur Ingi Pétursson1

1Geðsviði Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Institute of Psychiatry, King's College, University of London

jonfsig@landspitali.is

Inngangur: Undanlátssemi hefur fyrst og fremst verið rannsökuð í tengslum við yfirheyrslur hjá lögreglu og félagaþrýsting á afbrotahegðun unglinga, en lítið í tengslum við persónuleg samskipti og náin tilfinningatengsl.

Markmið: Að skoða hvort samband væri á milli undanlátssemi og tegunda tengsla í tilfinningasamböndum hjá verðandi mæðrum. Tilgáta rannsóknarinnar var sú að undanlátssemi væri mest í ótraustum tilfinningasamböndum en minnst í traustum tilfinningasamböndum.

Aðferðir: Þátttakendur í rannsókninni voru 377 konur sem komu til mæðraskoðunar á 11 heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er hluti af stærri rannsókn þar sem fyrirhugað er að skima eftir þunglyndi, kvíða og streitu hjá um 5000 verðandi mæðrum. SpurningalistarnirUndanlátssemispróf Gísla H. Guðjónssonar (GCS; Gísli H. Guðjónsson, 1989) og Multi-item Measure of Adult Romantic Attachment (MMARA; Brennan o.fl., 1998) voru lagðir fyrir konurnar á 16 viku meðgöngu.

Niðurstöður: Niðurstöður sýndu að samband var á milli undanlátssemi og tegunda tengsla í tilfinningasamböndum þannig að þátttakendur sem mynda traust tengsl eru líklegri til að sýna minni undanlátsemi en þeir sem mynda óttabundin og eignandi tengsl.

Ályktun: Undanlátssemi er mikilvægur þáttur í tengslamyndun í tilfinningasamböndum.

 

V-42      Höfuðáverkar barna og unglinga: Forspárgildi alvarleika áverka, slysstaðar og aldurs um einkenni fjórum árum síðar

Jónas G. Halldórsson1, Kjell M. Flekkøy2, Guðmundur B. Arnkelsson3, Kristinn Tómasson4, Kristinn R. Guðmundsson5, Eiríkur Örn Arnarson1,6

1Sálfræðiþjónustu Landspítala, 2sálfræðideild Háskólans í Ósló og Öldrunardeild Ullevål sjúkrahússins, Ósló, 3sálfræðideild HÍ, 4Vinnueftirliti ríkisins, 5heila- og taugaskurðdeild Landspítala, 6læknadeild HÍ

jonasgh@landspitali.is

Inngangur: Höfuðáverkar og heilaskaðar eru algengastir meðal barna og ungmenna. Heilaskaði af völdum höfuðáverka er ein algengasta orsök varanlegrar skerðingar, sjúkleika og dauða í þessum aldurshópi. Heilaskaðar breyta framtíðarhorfum og möguleikum ungs fólks á ýmsan hátt.

Markmið: Að meta forspárgildi alvarleika höfuðáverka, slysstaðar, aldurs, kyns og búsetu hvað snertir einkenni fjórum árum síðar.

Aðferðir: Rannsóknarhópurinn var öll íslensk börn og unglingar 0-19 ára, sem greind voru með höfuðáverka (ICD-9 850-854) á einu ári, frá 15. apríl 1992 til 14. apríl 1993 á Borgarspítalanum (N=405). Um var að ræða framvirka rannsókn, þar sem safnað var upplýsingum um aldur, kyn og búsetu sjúklinga, alvarleika höfuðáverka og hvar slysið átti sér stað, orsök og ICD-9 greiningu. Alvarleiki höfuðáverka var flokkaður samkvæmt viðmiðum Head Injury Severity kvarðans. Búseta var annars vegar skilgreind sem þéttbýli, þ.e. Reykjavíkursvæðið, og hins vegar dreifbýli, þ.e. önnur svæði landsins. Spurningakönnun, þar sem spurt var um langvarandi afleiðingar höfuðáverka, var send til rannsóknarhópsins fjórum árum eftir slys.

Niðurstöður: Kvörtun um langtímaafleiðingar var algengari meðal sjúklinga með miðlungs/alvarlegan höfuðáverka en sjúklinga með vægan höfuðáverka (p<0,001). Staðsetning slyssins hafði forspárgildi (p<0,05). Í heildina kvörtuðu 72% sjúklinga með miðlungs/alvarlegan höfuðáverka tengdan vélknúnu ökutæki undan því að afleiðingar væru enn til staðar fjórum árum síðar. Kvartanir um eftirstöðvar voru fæstar í yngsta aldurshópnum, 0-4 ára, og algengastar í aldurshópnum 5-14 ára. Kyn og búseta höfðu ekki marktækt forspárgildi um einkenni.

Ályktun: Rannsóknin gefur til kynna að höfuðáverkar barna og unglinga geta haft langtímaafleiðingar. Jafnvel sjúklingur sem talinn er vera með vægan höfuðáverka getur verið með afleiðingar fjórum árum síðar. Stór hluti sjúklinga með miðlungs/alvarlega höfuðáverka sem tengdir voru vélknúnum ökutækjum kvörtuðu undan því að afleiðingar væru enn til staðar fjórum árum síðar. Staðsetning slyss hafði forspárgildi. Sjúklingar með höfuðáverka sem tengjast vélknúnum ökutækjum þarfnast sérstakrar eftirfylgdar óháð alvarleika áverkans á bráðadeild.


V-43      Framvirk rannsókn á heilli þjóð: Munur á tíðni höfuðáverka meðal íslenskra barna og unglinga í dreifbýli og þéttbýli

Jónas G. Halldórsson1, Kjell M. Flekkøy DrPhilos2, Kristinn R. Guðmundsson3, Guðmundur B. Arnkelsson4, Eiríkur Örn Arnarson1,5

1Sálfræðiþjónustu Landspítala, 2Sálfræðideild Háskólans í Ósló og Öldrunardeild Ullevål sjúkrahússins, Ósló, 3heila- og taugaskurðdeild Landspítala, 4sálfræðideild HÍ, 5læknadeild HÍ

jonasgh@landspitali.is

Inngangur: Rannsóknir benda til þess að tíðni höfuðáverka geti verið breytileg milli landa og landsvæða. Tíðnirannsóknir veita mikilvægar upplýsingar, m.a. við þróun markvissra og árangursríkra fyrirbyggjandi aðgerða. Hér á landi hafa rannsóknir fyrst og fremst beinst að höfuðborgarsvæðinu.

Markmið: Að meta mismunandi tíðni skráðra höfuðáverka eftir kyni, aldri, alvarleika og búsetu.

Aðferðir: Rannsóknarhópurinn var öll íslensk börn og unglingar 0-19 ára, sem greind voru með höfuðáverka (ICD-9 850-854) á einu ári, frá 15. apríl 1992 til 14. apríl 1993 (N=550). Heildarfjöldi íslenskra barna og unglinga 0-19 ára var á þessu tímabili 85,746. Um var að ræða framvirka rannsókn, þar sem leitað var til allra sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva á Íslandi um upplýsingar um börn og unglinga sem greind voru með höfuðáverka. Búseta var annars vegar skilgreind sem þéttbýli, þ.e. Reykjavíkursvæðið, og hins vegar dreifbýli, þ.e. öll önnur svæði Íslands. Höfuðáverkar voru flokkaðir eftir því hvort um var að ræða heilahristing greindan á bráðadeild, heilahristing sem leiddi til innlagnar, höfuðáverka sem leiddi til heilamars eða blæðingar, og heilaskaða sem leiddi til dauða.

Niðurstöður: Fleiri strákar en stelpur voru greindir með höfuðáverka. Hæst tíðni höfuðáverka var í yngsta aldurshópnum, 0-4 ára, ekki síst vegna fjölda þeirra sem komu á bráðadeildir. Marktækt færri börn voru greind með höfuðáverka í dreifbýli en í þéttbýli. Sérstaklega á þetta við um greiningu höfuðáverka á bráðadeildum. Meirihluti látinna bjó í dreifbýli.

Ályktun:Miðað við niðurstöður fyrri rannsókna er ólíklegt að færri verði fyrir höfuðáverka í dreifbýli en þéttbýli. Því má álykta að einhverra hluta vegna leiti foreldrar í dreifbýli síður með börn sín, sem veða fyrir höfuðhöggi og heilahristingi, á heilsugæslustöðvar en foreldrar í þéttbýli.

 

V-44      Tengsl orðfimiprófa við málfærni barna með þroska- og geðraskanir

Sólveig Jónsdóttir

Sálfræðiþjónustu Landspíta, læknadeild HÍ

soljonsd@landspitali.is

Inngangur: Athyglisbrestur með ofvirkni (ADHD), einhverfa, Tourette heilkenni, áráttu- og þráhyggjuröskun og fleiri taugaþroskaraskanir tengjast allar vanstarfsemi í forennisberki (prefrontal cortex) og tengingum hans við grunnhnoðu (frontostriatal circuit) og einkennast af skertri stjórnunarfærni (executive dysfunction). Málþroskaröskun er mjög algengur fylgikvilli með taugaþroskaröskunum, en tengslin þar á milli eru ekki ljós. Orðfimipróf eru iðulega notuð við taugasálfræðilegar athuganir á fólki, sem á við ýmsa taugasjúkdóma að stríða. Algengast er að athuguð sé færni við að nefna orð sem byrja á ákveðnum bókstaf annars vegar og færni við að nefna tegundir innan ákveðins flokks (dýrategundir, fæðutegundir) hins vegar. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að bókstafaorðfimi reynir meira á starfsemi forennisbarkar og stjórnunarfærni, en að flokkaorðfimi reyni hins vegar meira á starfsemi gagnaugablaðs (temporal lobe) og minna á stjórnunarfærni.

Markmið: Tilgangur þessarar rannsóknar var að athuga hvernig bókstafa- og flokkaorðfimi tengjast málfærni barna með þroska- og geðraskanir.

Aðferðir: Málþroska-, bókstafa- og flokkaorðfimipróf voru lögð fyrir 68 börn, sem vísað var í taugasálfræðilegt mat vegna gruns um röskun á taugaþroska á barna- og unglingageðdeild Landspítala.

Niðurstöður: Helstu niðurstöður eru þær að bókstafaorðfimi er marktækt tengd málfærni eins og hún er mæld með málþroskaprófum, en engin tengsl koma fram milli flokkaorðfimi og frammistöðu á málþroskaprófum.

Ályktun: Rannsóknin gefur vísbendingar um að málfærni barna með þroska- og geðraskanir tengist starfsemi forennisbarkar, sem álitin hefur verið mikilvæg fyrir stjórnunarfærni fólks. Ef málfærni reynir aðallega á sömu heilastöðvar og stjórnunarfærni gæti það skýrt hvers vegna málþroskaröskun er eins algengur fylgikvilli með mörgum taugaþroskaröskunum og raun ber vitni.

 

V-45      Tengsl sálfélagslegra breyta, langtíma blóðsykursgildis og meðferðarheldni hjá fólki á aldrinum 20-30 ára með sykursýki af tegund eitt

Fjóla Katrín Steinsdóttir1, Hildur Halldórsdóttir1, Steinunn Arnardóttir2, Arna Guðmundsdóttir2, Jakob Smári1, Eiríkur Örn Arnarson3,4

1Félagsvísindadeild HÍ, 2göngudeild sykursjúkra, 3sálfræðiþjónustu, endurhæfingarsviði Landspítala, 4læknadeild HÍ

eirikur@landspitali.is

Inngangur: Vakning hefur orðið um áhrif sálrænna þátta á framgang langvarandi sjúkdóma líkt og sykursýki.Fjöldi erlendra rannsókna benda til þess að sálfræðileg aðstoð geti aukið almenna vellíðan, bætt blóðsykursstjórnun og dregið úr líkum á fylgikvillum. Því er mikilvægt að kanna hvaða og hvernig sálfræðilegir þættir tengjast framvindu sykursýki á Íslandi.

Markmið: Að kanna tengsl sálfélagslegra breyta, t.d. bjargráða og félagslegs stuðnings, einkenna kvíða og þunglyndis og framgangs sykursýki eitt hjá ungu fólki.

Aðferðir: Þátttakendur voru 56 sykursýkissjúklingar á aldrinum 20-30 ára sem mætt hafa í eftirlit á D-G3 á Landspítala. Alls uppfylltu 72 þátttökuskilyrði en svarhlutfall var 78%. Sjálfsmatskvarðar voru notaðir til að meta m.a. þunglyndi, kvíða, bjargráð og félagslegan stuðning. Einnig var spurt um lífsstíl og sjálfsstjórn. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám um niðurstöður blóðsykursmælinga, fylgikvilla, mætingu, sýrueitrun o.fl.

Niðurstöður: Að meðaltali lækkaði HbA1c eftir tímabilum, síðasta gildi á barnadeild var að meðtaltali 9,2% en nýjasta á D-G3 8,1%. Einungis 28,7% mættu til eftirlits fjórum sinnum eða oftar á einu ári; þeir sem voru komnir með fylgikvilla mættu oftar en hinir. Minni notkun á tilfinningamiðuðum bjargráðum tengdist betri meðferðarheldni og minni kvíða og þunglyndi, en meiri notkun fleiri fylgikvillum. Þeir sem notuðu verkefnamiðuð bjargráð mældust með færri einkenni kvíða og þunglyndis. Eftir því sem stuðningsaðilar voru fleiri og gæði stuðnings meiri því minni kvíða og þunglyndi upplifðu þátttakendur.

Ályktun: Á heildina litið virðist meðferðarheldni hjá ungu fólki með sykursýkinni vera ábótavant. Það virðist ekki huga nægilega að blóðsykurstjórnun fyrr en fylgikvillar gera vart við sig. Af niðurstöðum má ætla að þessum hóp myndi gagnast sálfræðileg aðstoð til viðbótar við hefðbundna meðferð. Sú viðbót gæti aukið lífsgæði t.d. með því að gera fólki auðveldara að sætta sig við ástandið, greina og hafa áhrif á hegðun sem bæti umhirðu og finna árangursríkar leiðir til að takast á við sjúkdóminn.

 

V-46      Val158met breytileiki catechol-O-methyltransferasa og antisaccade augnhreyfingar í geðklofa

H. Magnús Haraldsson1, Ulrich Ettinger2, Brynja B. Magnúsdóttir1,2, Þórður Sigmundsson1, Engilbert Sigurðsson1, Hannes Pétursson1

1Geðdeild Landspítala, 2King's College University of London, Institute of Psychiatry

hmagnus@landspitali.is

Inngangur: Catechol-O-methyltransferasi (COMT) brýtur niður dópamín í framheila. Breytileiki á einum stað í COMT geninu veldur því að einstaklingar hafa mismunandi hlutfall valíns (val) metíóníns (met) samsæta á codon 158. Breytileikinn hefur áhrif á hraða dópamínniðurbrots og hafa val arfhreinir 3-4 sinnum hraðara niðurbrot en þeir sem eru met arfhreinir. Breytileikinn hefur mikið verið rannsakaður í geðklofa enda fjöldi vísbendinga um að dópamínvirkni í framheila tengist meingerð sjúkdómsins. Vísbendingar eru um að breytileikinn tengist frammistöðu á prófum sem meta framheilastarfsemi. Þannig geti val tengst betri frammistöðu á prófum sem krefjast stöðugrar endurnýjunar vinnsluminnis (cognitive flexibility) en met betri frammistöðu þar sem krafist er stöðugrar athygli (cognitive stability). Antisaccade augnhreyfingar (AS) reyna mjög á sveigjanleika í vitrænni starfsemi. Truflanir á AS eru innri svipgerðir sem notaðar eru í erfðarannsóknum á geðklofa. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif COMTval/met breytileikans á AS augnhreyfingar í geðklofasjúklingum og heilbrigðum.

Aðferðir: Augnhreyfingar voru mældar með innrauðri ljóstækni í 118 sjúklingum með geðklofa og 109 heilbrigðum einstaklingum. Þátttakendur voru greindir m.t.t. COMTval/met breytileika og skipt í hópa eftir val samsætum (val vs ekki-val).

Niðurstöður: Sjúklingar höfðu marktækt fleiri villur, lengri viðbragðstíma og ónákvæmari AS augnhreyfingar en heilbrigðir (p< 0,004). Met arfhreinir höfðu marktækt fleiri villur en þeir sem höfðu val samsætur (p=0,038). Ekki var marktækur munur á hópunum fyrir viðbragðstíma eða nákvæmni AS augnhreyfinga og engin marktæk víxlhrif voru milli sjúklinga og heilbrigðra (p>0,1).

Ályktanir: Niðurstöður samrýmast kenningum um að val samsæta bæti frammistöðu á prófum sem meta sveigjanleika í vitrænni starfsemi.

 

V-47      Geðheilsa kvenna á meðgöngu og eftir barnsburð: Algengi einkenna þunglyndis, kvíða og streitu á þremur tímabilum meðgöngu og 9 vikum eftir barnsburð

Linda Bára Lýðsdóttir1, Pétur Ingi Pétursson1, Halldóra Ólafsdóttir1, Pétur Tyrfingsson1, Jón Friðrik Sigurðsson1,2, Marga Thome3, Arnar Hauksson4, Sigríður Brynja Sigurðardóttir5, Sigríður Sía Jónsdóttir

1Geðsviði Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3hjúkrunarfræðideild HÍ, 4Miðstöð mæðraverndar, 5Heilsugæsla Grafarvogs

lindabl@landspitali.is

Inngangur: Rannsóknir á geðheilsu kvenna í tengslum við meðgöngu og fæðingu hafa einkum beinst að þunglyndi eftir barnsburð. Færri rannsóknir hafa beinst að líðan kvenna á sjálfri meðgöngunni og hafa kvíði og streita einkum orðið útundan.

Markmið: Meginmarkmið rannsóknarinnar var að kanna algengi þunglyndis- og kvíða-einkenna hjá þunguðum konum og nýbökuðum mæðrum. Jafnframt voru streitueinkenni könnuð.

Aðferðir: Skimað var eftir þunglyndi, kvíða og streitu á meðgöngu og eftir barnsburð hjá konum sem komu til mæðraskoðunar á 11 heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu frá 1. maí 2006 til 1. mars 2008. Um er að ræða hluta af stærri rannsókn þar sem fyrirhugað er að skima eftir þunglyndi, kvíða og streitu hjá allt að 5000 verðandi mæðrum og kanna þætti sem hugsanlga spá fyrir um fæðingarþunglyndi.. Tvö skimunarpróf, - Edinburgh Postnatal Depression Scale (EPSD; Cox, Holden og Sagovsky, 1987) ogDepression Anxiety and Stress Scales (DASS; Lovibond og Lovibond, 1995), - voru lögð fyrir konurnar fjórum sinnum á 16., 25. og 36. viku meðgöngu og á níundu viku eftir barnsburð.

Niðurstöður: Algengi kvíðaeinkenna á 16. viku meðgöngu var svipað og algengi þunglyndiseinkenna en jókst eftir því sem leið á meðgönguna. Aftur á móti dró úr algengi þunglyndiseinkenna eftir því sem leið á meðgönguna. Á hinn bóginn var algengi kvíða og þunglyndis aftur orðið áþekkt níu vikum eftir barnsburð. Streita var mest á 16. viku meðgöngu, hopaði eftir því sem nær dró fæðingu en hækkaði svo aftur níu vikum eftir barnsburð. Þá kom í ljós að aldur þátttakenda hefur áhrif á algengi.

Ályktun: Í rannsóknum á geðheilsu kvenna í tengslum við meðgöngu og fæðingu er mikilvægt að einblína ekki eingöngu á þunglyndi eftir barnsburð, heldur athuga einnig geðheilsu þeirra á meðgöngunni og kanna einnig áhrifaþætti kvíða og streitu samhliða þunglyndi.

 

V-48      Vefjaræktun berkjufruma í þrívíðu umhverfi er háð samskiptum við æðaþel

Ívar Þór Axelsson1, Ólafur Baldursson1,2, Magnús Karl Magnússon1, Þórarinn Guðjónsson1

1Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum, blóðmeinafræðideild Landspítala og líffærafræði læknadeildar H, 2lungnalækningadeild Landspítala

ivarax@gmail.com

Inngangur: Rannsóknir benda til að vefjastofnfrumur í berkjum sé að finna meðal basal fruma. Við höfum nýlega búið til berkjufrumulínuna VA10 (Halldorsson et al. In Vitro Cell. and Dev. Biol. 2007). VA10 sýnir basalfrumueiginleika og getur meðal annars myndað aðrar frumugerðir lungna í rækt sem bendir til stofnfrumueiginleika hennar. Nýlegar rannsóknir benda til að æðaþelsfrumur spili stórt hlutverk í vefjamyndun ýmissa líffæra. Þrátt fyrir nálægð æðaþelsfruma og þekjuvefsfruma í lungum þá er lítið vitað um áhrif æðaþels á vöxt og sérhæfingu lungnaþekjufruma.

Markmið: Að kanna áhrif æðaþelsfruma á vöxt og sérhæfingu VA10 berkjufrumulínunnar í þrívíðri frumuræktun.

Efni og aðferðir: Samræktir VA10 og æðaþelsfruma úr naflastreng voru settar upp við þrívíð ræktunarskilyrði í geli sem inniheldur uppleysta grunnhimnu (reconstituted basement membrane, rBM). Ræktunum var fylgt eftir í fasakontrast smásjá í þrjár vikur og sem viðmið voru VA10 frumur og æðaþelsfrumur ræktaðar sitt í hvoru lagi. Í lok ræktunartíma voru gel frystiskorin og mótefnalituð gegn kennipróteinum til greiningar á frumugerðum greinóttra þyrpinga. Hliðstætt voru litaðar vefjasneiðar úr heilbrigðum lungavef.

Niðurstöður: VA10 frumur ræktaðar einar og sér í rBM mynda kúlulaga frumuþyrpingar. Æðaþelsfrumur ræktaðar á sama hátt sýna engin merki um skiptingu og koma fyrir í ræktinni sem stakar frumur. Við samrækt frumugerðanna á sér stað greinótt formmyndun VA10 frumulínunnar sem líkist berkjugöngum tengdum lungablöðrum. Mótefnalitun með β4-integrin og öðrum kennipróteinum staðfestir þekjuvefsuppruna berkjuganganna.

Ályktun: Niðurstöður okkar benda til þess að VA10 frumulínan búi yfir stofnfrumueiginleikum, sem dregnir eru fram á yfirborðið í samskiptum við æðaþelsfrumur. Áframhaldandi rannsóknir beinast að frekari greiningu á vefjaræktunarlíkaninu og þeim þáttum sem æðaþelið seytir og stuðla að greinóttri formbyggingu VA10 í þrívíðum ræktunum.

 

V-49      Hlutverk protein tyrósín fosfatasa 1B (PTP1B) í brjóstastofnfrumulínunni D492

Bylgja Hilmarsdóttir, Katrín Ósk Guðmundsdóttir, Ragnar Pálsson, Þórarinn Guðjónsson, Magnús Karl Magnússon

Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum, blóðmeinafræðideild Landspítala, líffærafræði læknadeildar HÍ

bylgjah@gmail.com

Inngangur: PTP1b tyrosín fosfatasi er skráður af geni (PTPN1) sem staðsett er á 20q13, en á þessu svæði er algengt að finna mögnum í brjóstaæxlum. D492 er brjóstastofnfrumulína (Gudjonsson et al G&D 2002) sem var gerð ódauðleg með víxlveirugenaferju sem flutti æxlisgenin E6/E7 inn í genamengi hennar. Innskotsstaður víxlveirugenaferjunnar var einangraður með Inverse PCR (iPCR) þar sem finna mátti DNA röð víxlveirunnar í erfðamengi D492. BLAST leit leiddi í ljós að innskotsstaðurinn var á litningi 20q13.1 eða um 95 kílóbasa neðan við PTP1N genið. Í ljósi þessarar staðsetningar innskostsins höfum við mikinn áhuga að rannsaka hvaða áhrif innskotið hefur á virkni PTP1b í D492 samanborið við aðrar brjóstaþekjufrumur.

Markmið: Að kanna hvaða áhrif PTP1b hefur á eiginleika D492 frumulínunnar og hvort að þau megi að hluta til rekja til innskots á E6/E7 í genamengi frumulínunnar.

Aðferðir: Ræktun frumna í tvívíðri rækt, Western blettun, notkun lyfjahindra í frumurækt og flæðifrumusjárgreining.

Niðurstöður: Western blettun leiddi í ljós að tjáning PTP1b próteinsins er mun meiri í D492 frumulínunni en í ferskum (primary) bróstþekjufrumum. Þetta bendir til að víxlveiran hafi áhrif á genatjáningu frumulínunnar. Til að kanna starfrænt hlutverk PTP1b í D492 voru áhrif sértæks PTP1b hindra könnuð á D492 og fleiri frumulínur. Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að PTP1b próteinið sé mikilvægt í D492 frumulínunni þar sem 16uM styrkur af hindra nægir til að framkalla víðtækan frumudauða (IC50 fyrir hindrann er 8uM). Hindrinn hefur ekki slík áhrif MCF-7, sem er krabbameinsfrumulína úr brjósti. Vinna við frumuflæðisjárgreining er gangi sem staðfestir mikinn frumudauða. Ekki er ljóst á núverandi tímapunkti hvort að frumudauðinn orsakist af stýrðum frumudauða eða almennum frumudauða (nekrósu)

Ályktanir: Innskotstaður víxlgenaferjunnar í D492 er mjög áhugaverður og virðist hafa áhrif á tjáningu gensins PTP1B í frumulínunni. D492 er mjög viðkvæm fyrir lyfjahindrun á PTP1B sem gefur til kynna mikilvægi gensins fyrir hana. Áframhaldandi rannsóknir miða að því að þagga niður tjáningu PTPN1 með RNAi tækni og kanna hvaða áhrif það hefur stofnfrumueiginleika D492.

 

V-50      Ómega-3 fjölómettaðar fitusýrur draga úr tjáningu á yfirborðssameindum sem taka þátt í vakasýningu og ræsingu T-frumna

Arna Stefánsdóttir1,2, Ingibjörg Harðardóttir2, Jóna Freysdóttir1,3

1Rannsóknastofu í gigtsjúkdómum, Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3ónæmisfræðideild Landspítala

jonaf@landspitali.is

Inngangur: Angafrumur hafa mikilvægu hlutverki að gegna í sérhæfingu T-frumna og þar með talið sérhæfingu ónæmissvara. Sýnt hefur verið fram á að ómega-3 fjölómettaðar fitusýrur hafa áhrif á makrófaka og T-frumur, en lítið er vitað um áhrif þeirra á angafrumur.

Markmið: Markmið þessa verkefnis er að kanna áhrif ómega-3 fjölómettuðu fitusýrunnar eikósapentaeonsýru (EPA) á þroskun angafrumna.

Aðferðir: CD14+ mónócýtar úr heilbrigðu blóði voru þroskaðir í angafrumur með því að rækta þá með IL-4 og GM-CSF í viku. Síðasta sólarhringinn var 50µM af EPA bætt út í suma brunna. Til samanburðar voru angafrumur ræktaðar með ómega-6 fjöl-ómettuðu fitusýrunni arakídonsýru (AA) eða án fitusýra. Eftir þvott voru angafrumurnar ræstar með því að rækta þær með IL-1β og TNF-α í 2 daga. Þá var tjáning ýmissa yfirborðssameinda sem tengjast ræsingu angafrumnanna mældar með frumuflæðisjá og seytun boðefna mæld með ELISA.

Niðurstöður:Þegar angafrumur voru ræktaðar í 24 tíma með EPA og síðan ræstar með IL-1β og TNF-α tjáðu marktækt færri frumur ræsisameindirnar CD40 (tengist CD40L á T-frumum), CD80 og CD86 (miðlar boðum til T -rumna í gegnum CD28), CD197 (CCR7, dregur angafrumur til eitla), CD209 (DC-SIGN, tekur þátt í viðloðun við óreyndar T-frumur í eitlum), og HLA-DR (sýnir T-frumum ónæmisvaka) en frumur sem voru ræktaðar með AA eða engum fitusýrum. Enginn marktækur munur var á seytingu boðefnanna IL-6, IL-10, og IL-12p40.

Ályktun: Meðhöndlun angafrumna með EPA hefur áhrif á tjáningu sameinda sem draga angafrumur inn í eitla, miðla viðloðun við T-frumur og taka þátt í vakasýningu og ræsingu T-frumna. Meðhöndlun með EPA getur því hugsanlega dregið úr hæfni angafrumnanna til að ræsa T-frumur og hafa þannig áhrif á sérhæfingu ónæmissvars.

 

V-51      Áhrif TGF-β1 og T-stýrifrumna á Immunological synapse

Brynja Gunnlaugsdóttir1,2,3, Björn Rúnar Lúðvíksson1,3

1Ónæmisfræðideild, 2rannsóknastofu í gigtsjúkdómum, Landspíala, 3læknadeild HÍ

brynja@landspitali.is

Inngangur: Immunological synapse (IS) kallast samskiptaflötur sýnifrumna og T-frumna. Fyrri niðurstöður okkar benda til þess að boðefnið Transforming growth factor beta1 (TGF-β1) hafi mögulega neikvæð áhrif á frumræsingu T-frumna með því að hindra myndun eða stöðugleika IS.

Markmið: Að sannreyna þá tilgátu að TGF-b1 hafi áhrif á IS. Í ljósi þess að bæliáhrif svonefndra CD4+ CD25+ T-stýrifrumna á virkni annarra T-frumna fer mögulega fram með hjálp TGF-β1, voru áhrif T-stýrifrumna á IS einnig skoðuð.

Aðferðir: Einkjarna hvítfrumur (PBMC´s), CD4+CD25- T-frumur og CD4+CD25+ T-stýrifrumur voru einangraðar úr blóði heilbrigðra einstaklinga. Plastkúlur húðaðar með vaxandi styrk mótefna gegn T-frumuviðtaka-komplexinum (anti-CD3e) voru notaðar sem staðgengils-sýnifrumur. T-frumur voru paraðar við jafnmargar „sýnifrumur“ og ræktaðar í 15 mínútur í sermislausu æti (án TGF-b1). Hlutfall CD4+CD25+ T-stýrifrumna á móti öðrum T-frumum var 0, 10 og 50%. TGF-β1 var bætt í valdar ræktir og einnig sértækum TβRI kínasa-hindra (hindrar boðferli TGF-b). Áhrif TGF-β1 og CD4+CD25+ T-stýrifruma á pörunartíðni T-frumna við staðgengils-sýnifrumur úr plasti voru metin í frumuflæðisjá (pörunartíðnin gefur ákveðna vísbendingu um myndun og stöðugleika IS). Áhrif TβRI kínasa-hindra á fjölgun PBMC´s var metin út frá upptöku á geislamerktu Thymidíni eftir ræsingu með anti-CD3 (0,1 og 10) í 48 og 96 klst, með eða án TGF-β1.

Niðurstöður: Hvorki TGF-β1 né TβRI kinasa-hindrinn höfðu bein áhrif á pörunarhlutfallið. Hins vegar lækkaði hlutfall paraðra T-frumna ef T-stýrifrumur voru til staðar. Áhugavert er að þetta hlutfall lækkaði enn frekar ef TbRI-kínasa hindrinn var til staðar. TβRI-kínasa hindrinn bældi fjölgun PBMC´s og aflétti ekki bæliáhrifum TGF-β.

Ályktun. Niðurstöðurnar styðja því ekki þá tilgátu að TGF-β1 hafi áhrif á IS myndun, hvorki beint, né í gegnum T-stýrifrumur. Hins vegar virðast CD4+CD25+ T-stýrifrumur hafa neikvæð áhrif á IS myndun sem aukast ef boðferlar óháðir TGF-b1 um TbRI eru hindraðir.

 

V-52      Áhrif TGFbeta1 á þroskun og sérhæfingu T-frumNa í CD4+CD25+FoxP3+ T-frumur

Laufey Geirsdóttir1,2, Brynja Gunnlaugsdóttir1,2,3, Þórunn Hannesdóttir2, Inga Skaftadóttir1, Björn Rúnar Lúðvíksson1,2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3gigtarrannsóknarstofu Landspítala

lag1@hi.is

Inngangur: CD4+CD25+ T stýrifrumur (e. Treg´s) viðhalda sjálfsþoli og koma í veg fyrir sjálfsofnæmissjúkdóma. FoxP3 umritunarþátturinn (e. forkhead box protein 3) hefur helst verið notaður til að aðgreina T-stýrifrumur en hann hefur lykilhlutverki að gegna í þroskun og virkni T-stýrifrumna. Helsta frumuboðefnið sem talið er að auki tjáningu á Foxp3 er TGFβ (e. transforming growth factor beta) en sýnt hefur verið fram á að TGFβ1 bælir almennt bólguferla og stuðli að sérhæfingu T-frumna í T-stýrifrumur í hóstarkirtli.

Markmið: Meta hvort mismunandi ræsingarumhverfi T-frumna hafi áhrif á tilurð T-stýrifrumna.

Aðferðir: PBMC úr blóði fullorðinna voru einangraðar á ficoll eftir hefðbundinni aðferð. Frumufjölgunin var metin með CFSE aðferð. Frumur ræktaðar ó 96 holu „round bottom cells“ bakka og ræktaðar með og án TGFβ. Ræsingarskilyrði voru; +/- CD28 viðbótarræsing ásamt antiCD3= 0, antiCD3=1 (1µg anti-CD3/mL) og antiCD3=10 (10µg anti-CD3/mL). Ræktun í 3 daga. Frumurnar litaðar fyrir yfirborðssameindunum CD25, CD4, TGFbeta og fyrir umritunarþættinum FoxP3. Greining í flæðifrumusjá.

Niðurstöður: Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að hjálparörvun um CD28 hefur neikvæð áhrif á tjáningu FoxP3 umritunarþáttinn við öll ræsingarskilyrði en ef TGFβ er til staðar hverfa þessi áhrif og fleiri frumur sérhæfast í CD4+CD25+FoxP3+ frumur. Sjá töflu I.

v52-TI 

Ályktun: Ljóst er að viðbótarörvun um CD28 viðtakann hefur hamlandi áhrif á sérhæfingu CD4+ frumna í CD4+CD25+FoxP3+ frumur. Hins vegar hefur viðbótarörvun um CD28 viðtakann þegar TGFβ er til staðar öfug áhrif og hlutfallsleg aukning verður á CD4+CD25+FoxP3+ frumum. Einnig er áhugavert að áhrif TGFβ hverfa við antiCD3=10 en eru einungis sýnileg við lága ræsingu um CD3 viðtakann (antiCD3=1). Þessar niðurstöður gefa ákveðnar vísbendingar um að lyf sem hindra ræsingu um CD28 viðtakann auki hlutfallslegt magn CD4+CD25+FoxP3+. Hugsanlegt er að slík vitneskja geti skilað sér í nýjum meðferðarleiðum sjálfsofnæmissjúkdóma.

 

V-53      Ræsing T-frumna við brátt hjartadrep

Emil Árni Vilbergsson1,3, Dagbjört Helga Pétursdóttir1, Inga Skaftadóttir1, Guðmundur Þorgeirsson2,3, Björn Rúnar Lúðvíksson1,3

1Ónæmisfræðideild, 2lyflækningasvið I Landspítala, 3læknadeild HÍ

emil.vilbergsson@gmail.com

Inngangur: Brátt hjartadrep er lífshættulegt ástand sem krefst skjótrar og réttrar meðferðar. Meðferð felst í því að opna lokaðar kransæðar með segaleysandi lyfjameðferð eða víkkun (PCI:percutaneous coronary intervention). Nýlegar rannsóknir hafa bent til að vefjaskaða hjartadreps megi að hluta til rekja til ræsingar á bólgusvari ónæmiskerfisins. Megin markmið þessarar rannsóknar var að athuga hvort finna mætti merki um ræsingu ónæmissvars við brátt hjartadrep.

Efniviður og aðferðir: Öllum með brátt hjartadrep er komu á bráðamóttöku Landspítala frá janúar til júlí 2002 var boðin þátttaka. Þátttakendum var skipt í fjóra hópa eftir því hvaða meðferðarúrræði voru veitt: 1) engin meðferð, 2) segaleysandi meðferð er leiddu til opnunar æðar, 3) segaleysandi meðferð sem opnaði ekki æðina og 4) æð er opnuð með PCI. Blóðsýni voru fengin á fjórum tímapunktum á fyrsta sólahring eftir komu. Ræsing kompliment kerfisins var metin með mælingum á C3d. Einnig var ræsing hvítra blóðkorna metin með mótefnalitun og frumutalningu í frumuflæðisjá.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu fengust 16 einstaklingar til þátttöku í rannsókninni. Hjá tíu af sextán tókst að enduropna kransæð. Hlutfall CD4+/CD25+ T-frumna var aukið hjá öllu rannsóknarþýðinu við komu. Auk þess virðist enduropnun kransæða með PCI auka enn frekar á hlutfall þessara T-frumna. Hjá sama hóp fylgdi óveruleg hækkun á C3d opnun kransæða.

Ályktun: Þrátt fyrir niðurstöður dýratilrauna og post-mortem meinafræðilegra rannsókna um ræsingu kompliment kerfisins við brátt hjartadrep, sjáum við ekki marktæk merki um slíka ræsingu í heilblóði. Hins vegar benda niðurstöður okkar til að T-frumu ræsing fylgi endurflæði til blóðþurrðarsvæða hjartans. Þetta rennir stoðum undir þátt ónæmiskerifisins í bólguferli sem fylgir bráðu hjartadrepi við enduropnun kransæða.

 

V-54      B-minnisfrumur sem myndast við bólusetningu gegn meningókokkum C eru langlífar

Maren Henneken1, Nicolas Burdin2, Einar Thoroddsen3, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir1,4, Emanuelle Trannoy2, Ingileif Jónsdóttir1,4,5

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2, Sanofi Pasteur, Frakklandi, 3HNE-deild Landspítala, 4læknadeild HÍ, 5deCODE genetics

marenh@landspitali.is

Bakgrunnur: Til að bólusetning verndi fólk til lengri tíma gegn sýkingum af völdum Neisseria meningitidis af gerð C (MenC) er mikilvægt að hún veki ónæmisminni. Fjöldi og langlífi B-minnisfrumna gegn MenC fjölsykru var metinn í blóði ungbarna, smábarna og unglinga sem höfðu verið bólusett með prótein-tengdu MenC-fjölsykrubóluefni 2-3 árum fyrr. Sértækar B-frumur, einkum B-minnisfrumur, voru merktar með flúrskinsmerktri MenC-fjölsykru og greindar í flæðifrumusjá.

Efni og aðferðir: Eitilfrumur voru einangraðar úr blóði og litaðar með flúrskinmerktum mótefnum og flúrskilmerktri MenC-fjölsykru fyrir greiningu í flæðifrumusjá. Eitilfrumur voru einnig örvaðar og fjöldi þeirra sem seytti MenC-sértækum IgG eða IgA mótefnum metinn með svokallaðri ELISPOT aðferð. Magn MenC-sértækra IgM, IgG og IgA mótefna í sermi var mælt með ELISA.

Niðurstöður: Hægt var að greina MenC-sértækar B frumur í blóði allt að 3 árum eftir bólusetningu. Tíðni þeirra var 0,01%-0,78% (miðgildi) af öllum B-frumum í hópum barna og unglinga sem voru bólusett á mismunandi aldri. Flestar MenC-sértæku B-frumurnar höfðu svipgerð minnisfrumna (CD27med) í öllum aldurshópum (N=67, miðgildi=100%, efri og neðri fjórðungur 87.5% og 100%). Hlutfall MenC-sértækra B-minnisfrumna af heildarfjölda CD27med minnisfrumna sýndi marktæka fylgni við fjölda MenC-sértækra B-frumna (r=0,5617, P< ,0001), og við tíðni B-frumna sem seyttu IgA og IgG mótefnum eftir örvun (r=0,5627, P= ,029) í öllum aldurshópum.

Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að hægt er að merkja MenC-sértækar B-frumur beint með flúrskinsmerktri MenC-fjölsykru og fylgjast þannig með tilurð og langlífi sértækra B minnisfrumna. Hægt var að greina MenC-sértækar B minnisfrumur allt að 3 árum eftir bólsetningu barna og unglinga. Þessari aðferð má beita sem lið í að meta árangur af bólusetningum og við þróun á nýjum bóluefnum og bólusetningaleiðum.

 

V-55    Lektínferilsprótein og sykrun IgA sameinda í sjúklingum með IgA nýrnamein

Ragnhildur Kolka, Magnús Böðvarsson, Sverrir Harðarson, Sigrún Laufey Sigurðardóttir, Helgi Valdimarsson, Þorbjörn Jónsson

Ónæmisfræðideild, lyflækningadeild, meinafræðideild og blóðbanki Landspítala

ragnhk@landspitali.is

Inngangur: IgA nýrnamein (IgA-N) einkennist af útfellingum á IgA innihaldandi ónæmisfléttum og komplementum í nýrnagauklum. Þessar útfellingar valda bólgu og starfsskerðingu, sem leitt getur til nýrnabilunar. Komplementþættir sem tilheyra bæði styttri ferlinum (alternative pathway, AP), C3 og lektínferlinum, finnast í þessum útfellingum. Hugsanlegt er að ónæmisfléttur í IgA-N séu tilkomnar vegna gallaðrar sykrunar (glycosylation) á IgA sameindum, sem síðan falla út í nýrum meðal annars vegna skertrar upptöku IgA af átfrumum.

Markmið: Heildarmarkmið rannsóknarinnar er að kanna samspil gallaðrar sykrunar á IgA og þátta lektínferils komplementkerfisins.

Aðferðir: 1) Sjúklingar og sýni. Blóðsýnum, bæði sermi og EDTA plasma, hefur verið safnað frá 49 sjúklingum með IgA nýrnamein. Til samanburðar var safnað blóðsýnum úr 47 heilbrigðum einstaklingum. 2) Rannsóknir. IgA frá hverjum einstaklingi var einangrað með sækniskiljun. Með ELISA mælingu voru síðan sykrur á hjöruliðssvæði IgA1 metnar með þremur sértækum lektínpróteinum. Magn og virkni lektínferilspróteina var mælt með ELISA aðferð og IgA-IC og C3d með ELISA aðferð eftir PEG útfellingu. Heildarmagn IgA var mælt sem ónæmisútfelling í agarose gel.

Niðurstöður: IgA nýrnameinssjúklingar sýndu marktækt hærri gildi við mælingu með þremur sértækum lektínum fyrir sykrur borið saman við heilbrigða. Þetta er merki um aukna GalNAc sykrun í endastöðu, sem telst vera óeðlilegt. Ekki fannst marktækur munur milli heilbrigða hópsins og IgA nýrnameinssjúklinganna hvað varðar magn af MBL, L-og H-fíkólín, MASP-2 og MASP-3. Hins vegar fannst marktæk neikvæð fylgni milli MASP-3 magns og C4d magns annars vegar og óeðlilegrar sykrunar IgA1 sameinda hins vegar.

Ályktun: Nokkur hluti sjúklinga með IgA nýrnamein er með merki um óeðlilega sykrun á IgA1 sameindum í blóði og þessi óeðlilega sykrun tengist jafnframt lækkun á MASP-3 í lektínferli komplementkerfisins.

 

V-56      Mótefnasvar og ónæmisminni aukast við bólusetningu nýburamúsa með prótein-tengdum meningókokkafjölsykrum C ef ónæmisglæðirinn LT-K63 eða CpG2006 er gefinn með

Siggeir F. Brynjólfsson1,2, Stefanía P. Bjarnarson1,2, Elena Mori3, Giuseppe Del Giudice3, Ingileif Jónsdóttir1,2,4

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Novartis Vaccines, Siena, Ítalíu, 4 deCODE genetics

siggeir@landspitali.is

Inngangur: Ónæmiskerfi nýbura einkennist af vanþroska. Því er brýnt að þróa bólusetningaleiðir sem hámarka ónæmissvör nýbura og þar með vernd gegn smitsjúkdómum. Meningókokkar sem geta valdið heilahimnubólgu og blóðsýkingu er gott dæmi um slíkan sýkil. Rannsóknarhópur okkar hefur þróað nýburamúsamódel fyrir pneumókokkasýkingar sem hefur verið aðlagað að bólusetningu gegn meningókokkum. Þar sem meningókokkar sýkja ekki mýs, er verndandi virkni í sermi eftir bólusetningu metin in vitro sem bakteríudrápsvirkni (serum bactericidial activity, SBA). Verndandi áhrifum próteintengdra MenC bóluefna hefur verið lýst í unglingum og ungbörnum, en þau hafa ekki verið gefin nýburum.

Markmið:Markmið rannsóknarinnar var að meta hæfni próteintengds fjölsykrubóluefnis gegn meningókokkum af gerð C (MenC-CRM197) til að vekja ónæmisvar í nýburamúsum. Áhrif ónæmisglæðanna LT-K63, CpG2006 og mismunandi bólusetningaleiða voru einnig könnuð.

Aðferðir: Nýburamýs (1 viku gamlar) voru frumbólusettar með MenC-CRM197 með eða án LT-K63 eða CpG2006, undir húð (s.c.) eða um nef (i.n.) og endurbólusettar 16 og 30 dögum síðar. Mótefnamagn og sækni var mælt. Einnig mældum við SBA til að meta vernd.

Niðurstöður: Hátt IgG mótefnamagn mældist eftir aðra og þriðju bólusetningu með MenC-CRM197 og LT-K63 (p=0,007, eftir þriðju bólusetningu) eða CpG2006 (p<0,005, eftir þriðju bólusetningu. SBA mældist eftir þrjár bólusetningar með MenC-CRM197 einu og sér, en eftir aðeins tvær bólusetningar með MenC-CRM197 + LT-K63. SBA var 50-500 sinnum hærra ef bólusett var með MenC-CRM197 ásamt LT-K63 eða CpG2006 m.v. MenC-CRM197 eingöngu, annaðhvort með stungu undir húð eða um nef.

Ályktun: Rannsóknin sýndi að ónæmisglæðarnir LT-K63 og CpG2006 juku mótefnasvar og ónæmisminni gegn MenC-CRM197 í nýburamúsum, bæði við bólusetningu með stungu undir húð og með dropum í nef. Niðurstöðurnar benda til að hægt sé að þróa örugga og öfluga leið til bólusetninga nýbura gegn meningókokkum C.

 

V-57      Örverudrepandi peptíðið hCAP18/LL-37 hefur áhrif á ónæmissvör í kverkeitlum sórasjúklinga

Sigrún Laufey Sigurðardóttir, Andrew Johnston, Guðmundur Hrafn Guðmundsson, Helgi Valdimarsson

Ónæmisfræðideild Landspítala1, læknadeild HÍ2, Department of Dermatology, University of Michigan, USA3, líffræðistofnun HÍ4

sigrunls@landspitali.is

Inngangur: Ein algengasta sýkingarleið örvera er gegnum öndunarveg. Eitilvefur er tengist slímhúð munnsvæðis, háls og efri öndunarvegar er því afar mikilvægur hluti af varnarkerfi líkamans. Eitt fyrsta varnarsvar kverkeitla er framleiðsla á örverudrepandi peptíðum. Eitt þeirra, hCAP18/LL-37, hefur bakteríudrepandi virkni gegn bæði Gram jákvæðum og neikvæðum bakteríum, sér í lagi streptókokkum. Sýnt hefur verið að sóri getur byrjað í kjölfar hálsbólgu af völdum β-hemólýtískra streptókokka og fá sórasjúklingar að jafnaði tíu sinni oftar slíkar hálsbólgur en óskylt sambýlisfólk og tengjast sýkingarnar versnun sóraútbrota.

Markmið verkefnisins var að kanna ónæmisfræðileg áhrif hCAP18/LL-37 á hnattkjarna hvítfrumur sem einangraðar voru úr kverkeitlum sórasjúklinga. Frumurnar voru örvaðar með vaxandi styrk af hCAP18/LL-37 og tjáning yfirborðsviðtaka metin með flæðifrumusjá og seytun frumuboðefna mæld með Luminex.

Niðurstöður: Fyrstu niðurstöður benda til þess að LL-37 auki tjáningu hnattkjarna átfrumna á RANTES er örvar skrið og íferð eitilfrumna á bólgusvæði ásamt virkjun og rötun T eitilfrumna. Ennfremur virðist LL-37 geta haft bælandi áhrif á tjáningu CD4+ T-frumna á nokkrum flakkboðefnum og viðloðunarsameindum svo sem CCR6, CXCR6, CCR4 og ICAM-1 auk þess sem það virðist hafa einhver bælandi áhrif á tjáningu CD25 og húðrötunar sameindina CLA. Áhrif peptíðsins á CD8+ T-frumur virðist ekki vera eins afgerandi.

LL-37 gæti tekið þátt í stjórn staðbundinna ónæmissvara með því að hafa áhrif á CD4+ T-frumur.

 

V-58      Nýburamýs geta myndað ónæmissvar gegn meningókokka B bóluefnum

Sindri Freyr Eiðsson1, Þórunn Ásta Ólafsdóttir1,2, Mariagrazia Pizza3, Rino Rappuoli3, Ingileif Jónsdóttir1,2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Novartis Vaccines, Siena, Ítalíu

sindrifr@landspitali.is

Inngangur: Mörg tilfelli heilahimnubólgu og blóðsýkinga um allan heim á uppruna sinn að rekja til Neisseria meningitidis, eða meningókokka. Dánartíðni er há og stór hluti sjúklinga lifir við varanleg örkuml í kjölfar sýkingar. Meningókokkasjúkdómur er algengastur í ungum börnum en getur komið fyrir á öllum aldri. Bóluefni eru til gegn gerðum A, C, Y og W135 en ekkert alhliða bóluefni er til gegn gerð B (MenB), sem veldur ~56% tilfella hér á landi. Genamengjarannsóknir hafa gjörbylt bóluefnisrannsóknum, en með því að skoða erfðamengi sýkla má finna vel varðveitt yfirborðstjáð meinvirk prótein og nota til að þróa bóluefni gegn sýklum sem hefur verið erfitt eða ómögulegt áður. Próteinin sem notuð voru í þessari rannsókn voru fundin með genamengjarannsóknum.

Markmið:Markmið rannsóknarinnar var að meta hvort MenB próteinin GNA2132, GNA1870, GNA2091, GNA1030 og NadA væru ónæmisvekjandi í nýburamúsum sem fimmgilt bóluefni (5CVMB) og hvort bæta megi ónæmissvör með ónæmisglæðum.

Aðferðir: Nýburamýs (einnar viku gamlar) voru bólusettar undir húð (s.c) með 20µg af hverju próteini með/án ónæmisglæða, og endurbólusettar þriggja og fimm vikna. Notast var við ónæmisglæðina LT-K63, MF-59, Alum og CpG1826. Alum og CpG1826 var bæði gefið saman og í sitthvoru lagi. Mótefni í sermi voru mæld með ELISA og drápsvirkni sermis (serum bactericidal activity) var metin.

Niðurstöður:Meinvirknipróteinin GNA2132, GNA1870, GNA2091, GNA1030 og NadA voru ónæmisvekjandi í nýburamúsum. Allir ónæmisglæðarnir ollu marktækri hækkun í mótefnasvörun miðað við próteinin gefin ein og sér. Hópurinn sem fékk próteinin ein og sér sýndi bakteríudráps virkni gegn 2 af þeim 6 stofnum sem prófað var fyrir. Ónæmisglæðarnir bættu þá svörun auk þess sem sumir juku drápsvirknina þannig hún næði til fleiri MenB stofna. Hópurinn sem fékk próteinin auk alum og CpG1826 sýndi víðtækustu drápsvirkni sermis með drápsvirkni gegn 5 af 6 MenB stofnum.

Ályktun: Próteinbóluefni gegn meningókokkum B eru ónæmisvekjandi í nýburamúsum. Frekari rannsóknir á próteinblöndum og ónæmisglæðum eru liður í þróun Men B bóluefna fyrir nýbura.

 

V-59      Áhrif ónæmisglæða á angafrumur – lykill að eflingu ónæmissvars í nýburamúsum?

Sólveig G. Hannesdóttir1, Þórunn Á. Ólafsdótttir1,2, Giuseppe Del Giudice3, Emanuelle Trannoy4, Ingileif Jónsdóttir1,2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Novartis Vaccine, Siena, Ítalíu, 4Sanofi Pasteur, Marcy l´Etoile, Frakklandi

shannesd@landspitali.is

Inngangur: Nýburar svara bólusetningum seinna og veikara en fullorðnir. Nauðsynlegt hefur reynst að tengja bóluefni úr pneumókokkafjölsykrum við burðarprótein til að vekja ónæmissvar í nýburamúsum og hægt er að auka ónæmissvörin marktækt með ónæmisglæðum. Angafrumur (dendritic cells, DC) gegna lykilhlutverki í frumræsingu ónæmissvars.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar er að kanna þátt DC frumna í eflingu ónæmissvars nýburamúsa fyrir tilstilli ónæmisglæða.

Aðferðir: Nýburamýs voru bólusettar með próteintengdu fjölsykrubóluefni (Pnc-TT), með eða án ónæmisglæðanna LT-K63 eða CpG. Músunum var fórnað, þær blæddar og miltisfrumur einangraðar. DC voru einangraðar með CD11c segulkúlum, en CD11c er einkennissameind DC frumna. Boðefnatjáning DC frumnanna var metin eftir örvun í rækt með CpG eða LT-K63 með mælingu boðefna í frumufloti með ELISA. Einnig voru frumurnar litaðar með flúrljómandi mótefnum gegn CD11c og ýmsum virkjunarsameindum, CD86, CD40 og MHCII og greindar í flæðifrumusjá (FACS) til að kanna tjáningu þessara sameinda, en það endurspeglar virkjunarstig DC.

Niðurstöður:Mýs sem fengu LT-K63 mynduðu meira af frumuboðefnum eftir örvun í rækt með CpG en þær sem fengu CpG eða engan ónæmisglæði við bólusetningu. Mýs sem fengið höfðu annaðhvort LT-K63 eða CpG sýndu aukningu á tjáningu á MHCII (47% og 57% MHCIIhigh á móti 28% hjá þeim sem fengu ekki ónæmisglæði, P<0,05). Tjáning á CD86 er aukin eftir örvun með LT-K63 í rækt hjá þeim músum sem fengu LT-K63 eða CpG við bólusetningu (P<0,001). Tjáning á CD86 og CD40 er einnig aukin eftir örvun með CpG í rækt hjá öllum músunum (P<0,05).

Ályktun: Niðurstöðurnar benda til þess að virkjunarstig CD11c+ DC í nýburamúsum er hærra eftir bólusetningu með LT-K63 eða CpG ásamt Pnc-TT. Með því að kanna áhrif ónæmisglæðanna á virkni frumna ónæmiskerfisins verður hægt að skilgreina þá þætti sem geta aukið ónæmissvör hjá nýburamúsum.

 

V-60      Ónæmisglæðirinn IC31 eykur ónæmissvör nýburamúsa gegn tvenns konar pneumókokka bóluefnum

Þórunn Ásta Ólafsdóttir1,2,Karen Lingnau3, Eszter Nagy3, Ingileif Jónsdóttir1,2,4

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Intercell AG, Vín, Ausurríki, 4Íslenskri erfðagreiningu

thorasta@landspitali.is

Inngangur:S. pneumoniae veldur árlega um 1 milljón dauðsfalla í börnum undir 5 ára aldri. Nýburar geta svarað próteintengdum pneumókokka fjölsykrubóluefnum (Pnc) en svörunin er lægri en í fullorðnum einstaklingum auk þess sem þau eru dýr og því ekki fýsilegur kostur fyrir þróunarlönd. Vel varðveitt prótein gætu veitt vernd gegn mörgum hjúpgerðum í mismunandi heimssvæðum. IC31 samanstendur af örverudrepandi peptíði og fákirnaröð (oligonucleotide) sem hefur reynst auka Th1 ónæmissvör í fullorðnum músum.

Markmið: Að kanna áhrif IC31 á ónæmissvar nýburamúsa gegn Pnc1-TT og nýjum prótínbóluefnum gegn pneumókokkum.

Aðferðir: Nýburamýs voru bólusettar með Pnc1-TT eða pró-teinbóluefnum (Sp2216. Sp1732, Sp0117 og Sp1650) með eða án IC31. Þegar mýsnar voru 5 vikna (Pnc1-TT) eða 7 vikna (pró-teinbóluefni) voru þær sýktar með S. pneumoniae serótýpu 1 um nef og lungna- og blóðsýking metin með því að telja kóloníu myndandi einingar (CFU). Mótefnamagn var mælt í sermi.

Niðurstöður: Ein bólusetning með Pnc1-TT og IC31 jók mótefnamagn nýburamúsa marktækt miðað við ef enginn ónæmisglæðir var gefinn og voru þær fullkomlega verndaðar gegn blóðsýkingu auk þess sem lungnasýking var marktækt lægri. Öll próteinin vöktu ónæmissvar í nýburamúsunum en besta vernd gegn blóð- og lungnasýkingum fékkst ef öll fjögur pró-teinin voru gefin saman í blöndu með IC31.

Ályktun: Niðurstöður okkar sýna að IC31 getur aukið ónæmissvar nýburamúsa bæði gegn Pnc1-TT og nýjum prótínbóluefnum. Þetta gefur til kynna að IC31 megi nota til að bæta virkni nýburabóluefna.

 

V-61      Áhrif neyslu magurs fisks á þyngdartap í of þungum og of feitum einstaklingum

Alfons Ramel, Margrét Þóra Jónsdóttir, Inga Þórsdóttir

Rannsóknarstofu í næringarfræði, Landspítala og HÍ

alfons@landspitali.is

Inngangur: Fiskneysla getur haft jákvæð áhrif á líkamsþyngd samkvæmt dýra- og faraldsfræðilegum rannsóknum. Íhlutandi rannsóknir á samspili þyngdartaps og fiskmetisneyslu eru fáar, en þær styðja þessi tengsl. Markmið rannsóknarinnar var því að kanna áhrif neyslu magurs fisks á þyngdartap í of þungum og of feitum einstaklingum.

Efniviður og aðferðir: Alls hófu 126 karlar og konur (20-40 ára) með líkamsþyngdarstuðul á bilinu 27,5-32,5 kg/m2 þátttöku. Íhlutun stóð yfir í 8 vikur. Dagleg orka sem þarf til að halda óbreyttri þyngd var metin fyrir hvern þátttakanda í upphafi íhlutunarinnar og hver einstaklingur fékk matseðil sem samsvaraði 30% orkuskerðingu. Þátttakendum var skipt í þrjá rannsóknarhópa af handahófi: 1) viðmiðunarhóp (sólblómaolíu hylki, enginn fiskur eða fiskiolíur), 2) þorskhóp 1 (3 x 150g af þorski/viku), og 3) þorskhóp 2 (5 x 150g af þorski/viku). Mælingar á líkamssamsetningu og blóðbreytur voru gerðar við upphaf og lok íhlutunar. ANCOVA líkan var notað til að meta áhrif fiskneyslu á þyngdartap.

Niðurstöður: Líkamsþyngd lækkaði eftir 8 vikur (-5,0 ± 2,9 kg, P<0,001), líka mittisummál (-5,0 ± 3,2 cm, P<0,001), líkamsþyngdarstuðull (-1,65 ± 0,95 kg, P<0,001), slagþrýstingur (-3,4 ± 8,9 mmHg, P=0,001), þanþrýstingur (-2,4 ± 6,9 mmHg, P<0,001), þríglýceríð (-1,26 ± 0,567 mmol/L, P=0,030) og fastandi insúlín (-1,21 ± 5,31 mU/L, P=0,025). Samkvæmt ANCOVA líkani voru línuleg tengsl milli þorskneyslu og þyngdartaps og 5x150 g þorskneysla í viku jók þyngdartap aukalega um 1,7 kg í of þungum og of feitum einstaklingum í samanburði við viðmið.

Ályktun: Þessi rannsókn sýnir að neysla magurs fisks fimm sinum í viku meðan á megrun stendur er ásættanleg leið til að auka þyngdartap í of þungum og of feitum einstaklingum í samanburði við fæðu án sjávarfangs.

(Rannsóknin var styrkt af AVS, samningsnúmer R 048-05)

 

V-62      Mataræði og járnbúskapur íslenskra ungbarna - áhrif nýrra ráðlegginga

Ása Vala Þórisdóttir1, Gestur I. Pálsson2, Inga Þórsdóttir1

1Rannsóknastofu í næringarfræði, 2Barnaspítala Hringsins, Landspítala

asavala@landspitali.is

Inngangur: Íslenskar ráðleggingar um mataræði ungbarna voru endurbættar árið 2003. Rannsókn á næringu ungbarna 1995-97 leiddi í ljós lágan járnbúskap og háa próteininntöku

Markmið: Markmið með þessari rannsókn 2005-07 var að rannsaka áhrif nýrra ráðlegginga á mataræði og járnbúskap ungbarna.

Aðferðir: Handahófskennt úrtak fjögurra mánaða ungbarna var valið af Hagstofu Íslands. Fæðusaga var notuð til að meta mataræði 0-4 mánaða barna og mánaðarlegum upplýsingum um mataræði var safnað með 24 stunda matarskráningum við 5-8 og 10-11 mánaða aldur og með þriggja daga vigtuðum skráningum við 9 og 12 mánaða aldur (n=250). Við 12 mánaða aldur voru teknar blóðprufur og járnbúskapur metinn (n=140).

Niðurstöður: Í þessari rannsókn voru engin börn með járnskortsblóðleysi (Hb<105g/L, s-ferritin<12µg/L, MCV<74fl); 4,3% höfðu járnskort (s-ferritin<12µg/L, MCV<74fl) og 5,8% voru með skertar járnbirgðir (s-ferritin<12µg/L). Hins vegar voru 2,7% með járnskortsblóðleysi, 20% með járnskort og 41% með skertar járnbirgðir í fyrri rannsókninni. Helstu breytingar sem orðið hafa á mataræði barnanna voru samkvæmt nýju ráðleggingunum, þ.e. kúamjólkurneysla hefur dregist verulega saman en stoðmjólk hefur að miklu leyti komið í staðinn fyrir hana. Aukin neysla á grautum og ávöxtum hafði einnig jákvæða fylgni við járnbúskaps breytur. Börnin voru lengur eingöngu á brjósti í þessari rannsókn en í fyrri rannsókninni (miðgildi fjórir mánuðir á móti þremur mánuðum). Ennfremur hafði próteinneysla minnkað síðan 1995-97.

Ályktanir: Ráðleggingar frá 2003 og breytingar á mataræði ungbarna hafa bætt járnbúskap 12 mánaða íslenskra ungbarna. Íslenskir foreldrar fylgja ráðleggingum um mataræði ungbarna, en fylgni við ráðleggingar um brjóstagjöf þarf að bæta.


V-63      Íslenska næringarmódelið - aukið framboð á hollum mat fyrir börn

Ingibjörg Gunnarsdóttir, Tinna Eysteinsdóttir, Inga Þórsdóttir

Rannsóknastofu í næringarfræði við HÍ og Landspítala

ingigun@landspitali.is

Inngangur: Börn læra snemma að þekkja vörumerki og hafa margir matvælaframleiðendur nýtt sér þetta til þess að markaðssetja vörur sem innihalda annaðhvort of mikið af viðbættum sykri, mettaðri fitu og salti, eða vörur sem eru snauðar af næringarefnum.

Markmið: Í íslenska næringarmódelinu er hugmyndin sú að Latibær (vörumerki) myndi einskonar regnhlíf fyrir kynningu á hollum matvörum ætluðum börnum á Íslandi. Sett eru skilyrði um hollustugildi í samvinnu við Rannsóknastofu í næringarfræði. Fyrstu vörurnar eru væntanlegar á markað innan skamms.

Aðferðir: Samvinna milli Rannsóknastofu í næringarfræði, matvælafyrirtækja, Latabæjar og annarra hagsmunaaðila er forsenda fyrir árangri verkefnisins. Mataræði þriggja og fimm ára barna (n=460) var kannað með þriggja daga skráningu á mataræði fyrri hluta ársins 2007 (grunnlínugögn). Árið 2009 er áætlað að endurtaka könnun á mataræði þessara aldurshópa til þess að meta hugsanlegan árangur af módelinu. Einnig var framkvæmd bragðkönnun þar sem börn á aldrinum 3,5-6 ára voru beðin um að meta fimm pör af samskonar mat og drykk, borið fram annars vegar í Latabæjarumbúðum og hins vegar í hefðbundnum umbúðum.

Niðurstöður: Neysla grænmetis var að meðaltali 32±32 g/dag meðal þriggja ára barna og 44±40 g/dag meðal fimm ára barna og neysla á ferskum ávöxtum 107±69 g/dag og 109±75 g/dag að meðaltali. Meðalneysla gosdrykkja og annarra sykraðra drykkja var 61±93 g/dag (þriggja ára) og 87±103 g/dag (fimm ára). Niðurstöður bragðkönnunar sýndu að börnunum fannst hollur matur bragðast betur í Latabæjarumbúðum heldur en í hefðbundnum umbúðum. Um 95% barna sögðust myndu velja Latabæjarvatn fremur en „venjulegt“ vatn.

Ályktun: Hollar fæðutegundir bragðast betur þegar búið er að skreyta þær með skemmtilegum umbúðum. Einstakt tækifæri er nú til að stuðla að hollara mataræði meðal íslenskra barna í samvinnu við Latabæ og íslenskan matvælaiðnað.

 

V-64      Minnkuð Lactotransferrin tjáning í lungnaæxlum

Þórgunnur E. Pétursdóttir1, Unnur Þorsteinsdóttir2, Páll H. Möller3, Jóhannes Björnsson1, Stefan Imreh4, Valgarður Egilsson1,   Sigurður Ingvarsson5

1Rannsóknarstofu í meinafræði, frumulíffræðideild, 2Íslenskri erfðagreiningu, 3skurðlækningasviði, Landspítala, 4Karolinska Institutet, Microbiology and Tumorbiology Center, Stokkhólmi, 5Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

thorgep@landspitali.is

Inngangur: Stutti armur litnings 3 í mönnum er afbrigðilegur í flestum æxlum. Et (elimination test) er próf sem var þróað, af samstarfsaðilum okkar á Karolinska Institutet, til að finna litningasvæði með æxlisbæligenum. Með notkun prófsins fannst svæði á 3p21.3 sem var nefnt CER1 (common eliminated region 1). Á svæðinu eru 34 virk gen og miðað við núverandi þekkingu þykja LIMD1 (LIM domain containing gene 1) og LTF (lactotransferrin) líklegust sem æxlisbæligen. Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar sem benda til þess að Ltf og Limd1 próteinin taki þátt í að verjast myndun æxla.

Markmið: Að skilgreina frekar hlutverk LIMD1 og LTF í sjúkdómsferli krabbameins í mönnum.

Aðferðir: Efniviðurinn samanstendur í heild af 576 mannaæxlum frá 10 líffærum. Til að meta tíðni úrfellinga var gerð LOH greining með microsatellite erfðamörkum. Útraðir voru skimaðar með SSCP aðferð fyrir fjölbreytileika í LTF (lungnaæxli) og LIMD1 (brjóstaæxli) og síðan var kannað með raðgreiningu hvort sá fjölbreytileiki sem fannst væru stökkbreytingar. Ltf próteintjáning var könnuð í lungnaæxlum með IHC aðferð.

Niðurstöður: Við rannsökuðum úrfellingatíðni á CER1 og bárum saman við tíðni úrfellinga í sama efnivið á tveimur öðrum þekktum æxlisbæligenasvæðum á 3p. Úrfellingatíðnin var hæst á CER1 svæðinu (84%). Við fundum fjölbreytileika í basaröðum bæði LIMD1 og LTF en höfum engar stökkbreytingar fundið í LIMD1. Í LTF geninu fundum við breytileika í exoni 2 í hárri tíðni (49%) miðað við kontról (27%). Um er að ræða basabreytingu sem leiðir til amínósýru skipta úr Alanine yfir í Threonine (A29T). Einungis fannst ltf tjáning í 5 af 60 lungnaæxlum (92%).

Ályktun: Þar sem við fundum mjög háa tíðni úrfellinga á CER1 bendir það til þess að á svæðinu geti verið æxlisbæligen. Úrfellingarnar voru ekki vefjasértækar þar sem há tíðni fannst í öllum æxlisgerðum eða 70-94%, nema í sarkmeinum þar sem tíðnin var 40%. Þó að lítið hafi fundist af stökkbreytingum höfum við ekki útilokað að um æxlisbæligen sé að ræða þar sem skrúfað er fyrir ltf tjáningu í 92% lungnaæxla.

 

V-65      Tilviljanagreining er sjálfstæður forspárþáttur lífshorfa hjá sjúklingum með nýrnafrumukrabbamein: Niðurstöður úr íslenskri rannsókn sem nær til 913 sjúklinga á 35 ára tímabili

Helga Björk Pálsdóttir1, Sverrir Harðarson2,1, Vigdís Pétursdóttir2, Ármann Jónsson1, Eiríkur Jónsson3, Guðmundur V. Einarsson3, Tómas Guðbjartsson3,1

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknarstofu í meinafræði, 3þvagfæraskurðdeild Landspítala

hbp1@hi.is

Inngangur: Á síðustu árum hefur nýgengi nýrnafrumukrabbameins aukist hér á landi og er nú með því hæsta sem gerist í heiminum. Þessi hækkun á nýgengi hefur að verulegu leyti verið skýrð með tilviljanagreiningu. Í fyrri rannsóknum hérlendis hefur tilviljanagreining ekki verið sjálfstæður forspárþáttur lífshorfa og betri horfur þessara sjúklinga verið skýrðar með lægri stigun og gráðu æxlanna. Tilgangur rannsóknarinnar var að athuga þróun nýgengis og dánarhlutfalls á 35 ára tímabili og um leið kanna forspárþætti lífshorfa með sérstöku tilliti til áhrifa tilviljanagreiningar.

Efniviður og aðferðir: Afturvirk rannsókn á sjúklingum sem greindust á lífi með nýrnafrumukrabbamein á Íslandi 1971-2005. Kannað var nýgengi og dánarhlutfall og athugaðir forspárþættir lífshorfa með fjölbreytugreiningu. Öll æxlin voru stiguð skv. TNM-kerfi og vefjasýni endurskoðuð. Litið var sérstaklega á tilviljanagreind æxli og þau borin saman við æxli greind vegna einkenna.

Niðurstöður: Alls greindust 913 sjúklingar, meðalaldur 65 ár, 557 karlar (61%). Nýgengi jókst marktækt á tímabilinu og var 13,2/100.000/ár fyrir karla og 8,2 fyrir konur 2001-5. Dánarhlutfall hélst hins vegar stöðugt. Af 913 sjúklingum greindust 658 vegna einkenna (72%) og 255 fyrir tilviljun (28%), oftast vegna tölvusneiðmyndatöku og ómskoðunar. Tilviljanagreining jókst á tímabilinu, eða frá 11,1% 1971-5 í 39,2% 2001-5. Tilviljanagreindu æxlin voru 2,7 cm minni og af lægri stigun og gráðu en æxli greind vegna einkenna. Aldur, kynjadreifing og vefjagerð voru hins vegar sambærileg. Samanburður á hópunum er sýndur í töflu I. Fjölbreytugreining sýndi að stigun (p<0,001) er veigamesti sjálfstæði forspárþáttur lífshorfa en einnig aldur, greiningarár, sökk og gráða. Einkennagreindir sjúklingar höfðu einnig marktækt verri horfur en tilviljanagreindir (HR 1,4; 95% CI 1,02-1,93; p=0,04).

Ályktun: Lífshorfur sjúklinga með nýrnafrumukrabbamein á Íslandi fara batnandi (vaxandi nýgengi og óbreytt dánarhlutfall). Líklegasta skýringin er aukning tilviljanagreindra æxla en í dag eru þau um helmingur nýgreindra nýrnafrumukrabbameina. Tilviljanagreining er sjálfstæður verndandi forspárþáttur lífshorfa og hefur slíkt ekki sést áður hér á landi. Betri horfur tilviljanagreindra sjúklinga skýrast því ekki eingöngu af lægri stigun og gráðu heldur er tilviljanagreining ein og sér jákvæð fyrir horfur sjúklinga.

v65-TI 

 

V-66      Neikvæðar vísbendingar um tengsl PALB2 og brjóstakrabbameins á Íslandi

Haukur Gunnarsson1, Aðalgeir Arason1, Elizabeth M. Gillanders2, Bjarni A. Agnarsson1, Guðrún Jóhannesdóttir1, Óskar Þ. Jóhannsson3, Rósa B. Barkardóttir1

1Rannsóknastofu í meinafræði, Landspítali, 2Inherited Disease Research Branch, National Human Genome Research Institute, NIH, Baltimore, Maryland, 3rrabbameinslækningadeild Landspítala

haukur@landspitali.is

Inngangur: PALB2 genið er bindiþáttur BRCA2 brjóstakrabbameinsgensins og stuðlar að því að BRCA2 starfi á eðlilegan hátt sem æxlisbæligen. Stökkbreytingar í PALB2 hafa verið tengdar aukinni hættu á brjóstakrabbameini. Ein slík stökkbreyting, 1592delT, sem rekja má til sameiginlegs forföður, hefur fundist í finnskum brjóstakrabbameins-fjölskyldum.

Aðferðafræði: Til að kanna hvort PALB2 tengist brjóstakrabbameini á Íslandi var tengslagreiningu beitt á 111 einstaklinga (61 brjóstakrabbameinstilfelli) úr 9 fjölskyldum með háa tíðni brjóstakrabbameins sem eru án skýringa í BRCA1 eða BRCA2 brjóstakrabbameinsgenunum. Auk þess var skimað eftir 1592delT stökkbreytingunni í 9 brjóstakrabbameinsfjölskyldunum og hjá 638 óvöldum brjóstakrabbameinstilfellum.

Niðurstöður: Niðurstöður gefa ekki til kynna tengsl brjóstakrabbameins og PALB2 í brjóstakrabbameinsfjölskyldunum auk þess sem skimun fyrir 1592delT stökkbreytingunni var neikvæð í öllum tilfellum.

Ályktun: PALB2 virðist því ekki vera áhrifaþáttur brjóstakrabbameins hvað varðar fjölskyldur með háa tíðni brjóstakrabbameins á Íslandi auk þess sem 1592delT stökkbreytingin virðist ekki vera tengd brjóstakrabbameini á Íslandi.

 

V-67      Eru breytingar á beinþéttni handknattleikskvenna yfir níu ára tímabil háðar því hvort þær héldu áfram íþróttaiðkun?

Hjörtur Brynjólfsson, Díana Óskarsdóttir, Gunnar Sigurðsson

Innkirtla- og efnaskiptasjúkdómadeild Landspítala, læknadeild HÍ

gunnars@landspitali.is

Inngangur: Mjög takmarkaðar upplýsingar eru til um beintap meðal íþróttafólks eftir að reglubundnum æfingum er hætt. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort breytingar á beinþéttni hóps handknattleikskvenna væru háðar því hvort þær héldu áfram íþróttaiðkun.

Rannsóknarhópur: Við rannsökuðum 24 konur, fyrst árið 1998 þegar þær voru allar mjög virkar í keppnishandbolta, meðalaldur 21,7 ár og að nýju árið 2007, níu árum síðar, meðalaldur 30,6 ár. Alls voru þá 19 þeirra enn þá virkar í íþróttum, þar af voru sjö þeirra enn í meistaraflokki í handbolta. Fimm höfðu hins vegar alveg hætt reglubundnum æfingum (<1 klst á viku). Samanburður var gerður milli þessara þriggja mismunandi áreynsluhópa og við slembihóp af sama aldri.

Aðferðir: Beinþéttni var mæld með dual energy X-ray absorptiometry (DXA) í mjöðm, lendhrygg og ríkjandi framhandlegg. Mæld var hæð og þyngd og tekin ítarleg saga um líkamsáreynslu, æfingar og lyfjanotkun. Non-parametric Mann-Whitney próf var notað við samanburð á hópunum.

Niðurstöður: 1998 æfði hópurinn að meðaltali 14,8 klst á viku og beinþéttnin í mjöðm var 18% og í lendhrygg 11% hærri en í slembiþýði (p<0,01). Á níu árum milli mælinga höfðu þær fimm stúlkur sem hætt höfðu íþróttaiðkun tapað u.þ.b. 10% í beinþéttni í mjöðm samanborið við um 3% (p=0,025) meðal hinna 19 sem enn stunduðu æfingar. Þær sjö sem enn voru virkar í keppnishandbolta viðhéldu alveg sinni beinþéttni í mjöðminni. Beintap í lendhrygg virtist í sömu átt en náði ekki marktækni. Beinþéttnin í ríkjandi framhandlegg var hins vegar óbreytt í öllum þremur hópunum. Meðalbeinþéttni í mjöðm hópsins sem alveg hafði hætt íþróttum var nú ekki marktækt hærri en í slembiþýði.

Ályktun: Rannsókn okkar sem vissulega nær til takmarkaðs hóps samrýmist þeim vísbendingum að til þess að íþróttamenn viðhaldi þeirri umframbeinþéttni í mjöðm sem þeir hafa náð um tvítugt þurfi þeir að halda áfram reglubundinni æfingu. Þessu virðist þó mismunandi háttað eftir því hvaða bein um ræðir.

 

V-68      Boðleiðir sem miðla boðum thrombíns til örvunar eNOS í æðaþelinu eru háðar breytingum á innanfrumu ATP eftir meðhöndlun

Brynhildur Thors1, Haraldur Halldórsson1,2, Guðmundur Þorgeirsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2Landspítala

brynhit@hi.is

Inngangur: Undanfarin misseri höfum við unnið að því að kortleggja þátt tveggja kínasa í örvun AMP-háða kínasans AMPK í æðaþeli eftir meðhöndlun með thrombíni; LKB1 sem örvast við hækkun á innanfrumu AMP/ATP og Ca+2/CaM kínasa kínasans (CaMKK) sem bregst við hækkun í Ca+2. Eins höfum við athugað þátt AMPK sjálfs í fosfórun ensímsins endothelial NO-synthase (eNOS).

Aðferðir: Æðaþelsfrumur (HUVEC) voru teknar úr bláæðum naflastrengja og ræktaðar í æti Morgans 199 sem inniheldur tween 80, kólesteról og ATP ásamt tocopherýl fosfati og öðrum fituleysanlegum vítamínum. Tilraunir voru gerðar í þremur ólíkum ætum: Morgans 199, Williams æti (inniheldur fituleysanleg vítamin) og æti 1640 (inniheldur ekkert af ofantöldu). Luciferase assay var notað til ATP mælinga, Western blotting og ECL var notað til að greina sértæka fosfórun próteina.

Niðurstöður: Í æti 1640 varð ekki lækkun á innanfrumu ATP eftir meðhöndlun frumnanna með thrombíni og var fosfórun AMPK og ACC alveg hindruð af CaMKK hindranum STO-609. Hindrinn hafði hins vegar engin áhrif á eNOS fosfórunina eftir thrombín. Í Morgans 199 olli thrombin greinilegri lækkun á innanfrumu ATP og í því æti hindraði STO-609 fosfórun AMPK, ACC og eNOS að hluta til. Eins dró AMPK hindrinn Compound C að hluta úr fosfóruninni á eNOS í æti 199 eftir thrombín en hafði engin áhrif í 1640 sem sýnir skýrt að mismunandi boðferlar miðla thrombin háðri eNOS fosfórun í mismunandi ætum.

Ályktun: Við aðstæður sem leyfa lækkun á innanfrumu ATP verður AMPK-háð eNOS fosfórun eftir örvun með thrombíni og fosfórun AMPK sjálfs er háð CaMKK sem og öðrum AMPK-kínasa (væntanlega LKB1). Á hinn bóginn, í æti þar sem ekki verður lækkun á ATP, er örvun AMPK algjörlega háð CaMKK og veldur ekki fosfórun á eNOS.

 

V-69      Skráning lyfjasögu sjúklings, mat á lyfjatengdum vandamálum og nothæfi eigin lyfja

Ásta Friðriksdóttir1, Anna Birna Almarsdóttir 1Anna Ingibjörg Gunnarsdóttir2, Þórunn Kristín Guðmundsdóttir2

1Lyfjafræðideild HÍ, 2 sjúkrahúsapóteki Landspítala

thorunnk@landspitali.is

Inngangur: Rannsóknir sýna að lyfjafræðingar taka nákvæmari lyfjasögu en aðstoðarlæknar og greina frekar lyfjatengd vandamál, sem fækkar lyfjaávísunarvillum og leiðir til markvissari lyfjameðferðar. Til að skrá nákvæma lyfjasögu er m.a. hægt að nota eigin lyf sjúklinga en sumstaðar erlendis nota sjúklingar sín eigin lyf í sjúkrahúsinnlögn. Lyfin eru þá metin nothæf út frá ákveðnum viðmiðum og sýna rannsóknir að gæði þeirra eru almennt góð.

Efniviður og aðferðir: Óskað var eftir þátttöku allra sjúklinga sem lögðust inn á skurðdeildir 12-E, 12-G, 13-D og 13-G á Landspítala og komu í gegnum innskriftarmiðstöð. Rannsóknartímabilið var sex vikur og heildarfjöldi sjúklinga 222. Rannsakandi tók viðtal við 134 sjúklinga eftir aðgerð og skráði lyfjasögu, lyfjatengd vandamál og mat gæði eigin lyfja sjúklinga. Lyfjasaga tekin af aðstoðarlækni í innskriftarmiðstöð var skráð upp úr sjúkraskrá og borin saman við lyfjasögu tekna af rannsakanda. Misræmi þar á milli sem og lyfjatengd vandamál voru greind og flokkuð. Farið var yfir eigin lyf sjúklinga og þau dæmd nothæf eða ónothæf með tilliti til notkunar í sjúkrahúsinnlögn.

Niðurstöður: Þegar borin var saman lyfjasaga tekin af rannsakanda og aðstoðarlækni kom í ljós 331 misræmi hvað varðaði lyfseðilskyld lyf. En 804 misræmi ef náttúrulyf, náttúruvörur og lausasölulyf voru einnig tekin með. Gæði eigin lyfja sjúklinga voru almennt góð. Af þeim 267 eigin lyfjum sjúklinga voru 90,6% talin nothæf í sjúkrahúsinnlögn. Alls greindust 165 lyfjatengd vandamál hjá 79 sjúklingum. Flest þeirra tengdust óæskilegri verkun lyfs (39%) og lélegri meðferðarheldni (16%).

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að lyfjafræðingar taki mun ítarlegri lyfjasögu en aðstoðarlæknar. Gæði eigin lyfja sjúklinga sem koma í valaðgerðir á skurðlækningasvið Landspítala Hringbraut eru almennt góð og nothæf í sjúkrahúsinnlögn. Tæplega helmingur þessara sjúklinga telur sig upplifa lyfjatengd vandamál sem styður mikilvægi lyfjafræðilegrar umsjár.

 

V-70      Lyfjafræðileg umsjá á dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga 11B, Landspítala

Guðrún Eva Níelsdóttir1, Anna Birna Almarsdóttir1, Þórunn K. Guðmundsdóttir2

1Lyfjafræðideild HÍ, 2 sjúkrahúsapóteki Landspítala

thorunnk@landspitali.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var gera greinargott yfirlit yfir hvað lyfjafræðileg umsjá er á íslensku, fyrir íslenskar aðstæður og sérstaklega með starfsemi á göngudeildum Landspítala í huga. Einnig að setja fram skilmerki fyrir því hvernig best sé að þjálfa lyfjafræðinema og lyfjafræðinga í að veita lyfjafræðilega umsjá. Enn fremur að veita sjúklingum á dag- og göngudeild 11B lyfjafræðilega umsjá og taka saman klínísk gögn úr þeirri lyfjafræðilegu umsjá sem veitt var.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta hluta rannsóknarinnar var unnið með hugtakið lyfjafræðileg umsjá og fjögurra vikna fjarnámskeiði við Minnesotaháskóla lokið þar sem kennd voru undirstöðuatriði lyfjafræðilegrar umsjár. Annar hluti fól í sér þjálfun við að veita lyfjafræðilega umsjá á dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga 11B, Landspítala. Þriðji hluti rannsóknarinnar fólst í samantekt klínískra upplýsinga, s.s. flokkun lyfjatengdra vandamála og úrlausna þeirra.

Niðurstöður: Óskað var eftir þátttöku sjúklinga á tímabilinu 12. febrúar – 3. apríl 2007. Úrtakið var valið í samráði við lækna á dag- og göngudeild 11B og samanstóð af 65 sjúklingum. Þátttakendur voru 51 talsins, sjö neituðu og aðrir sjö forfölluðust. Tekið var frum- og eftirfylgniviðtal við 50 sjúklinga (einn lést á tímabilinu). Lyfjatengd vandamál fundust hjá 31 sjúklingi. Þau voru 46 talsins og tókst að leysa 40 þeirra. Flest voru lyfjatengdu vandamálin í flokknum “þörf er á viðbótarlyfjameðferð” og næstflest í flokknum „meðferðarheldni léleg“. Sett var upp þjálfunaráætlun og hún endurskoðuð eftir að rannsakandi hafði veitt lyfjafræðilega umsjá á dag- og göngudeild 11B. Í ljósi reynslu rannsakanda gæti vel verið mögulegt að hefja starfsemi í lyfjafræðilegri umsjá á göngudeildum Landspítala.

Ályktun: Lyfjafræðileg umsjá gæti gagnast sjúklingum á Íslandi líkt og sýnt hefur verið fram á erlendis. Ákjósanlegast er að lyfjafræðingar/lyfjafræðinemar fái þjálfun í grunnatriðum lyfjafræðilegrar umsjár áður en þeir hefjast handa við að veita hana. Lyfjafræðilega umsjá er vel hægt að veita við íslenskar aðstæður. Hugsanlega væri best að gangsetja þjónustuna þar sem fólk er vant að fá heilbrigðisþjónustu, s.s. á göngudeildum og heilsugæslustöðvum.

 

V-71      Sýklalyfið azithromycin ver lungnaþekju gegn Pseudomonas aeruginosasýkingu óháð bakteríudrepandi virkni

Skarphéðinn Halldórsson1, Guðmundur Hrafn Guðmundsson1, Þórarinn Guðjónsson3,4, Magnús Gottfreðsson5, Ólafur Baldursson3,6

1Líffræðistofnun, 2rannsóknastofa í stofnfrumufræðum, líffærafræðideild læknadeildar, 3lyfjafræðideild HÍ, 4blóðmeinafræðideild, 5smitsjúkdómadeild, 6lungnadeild Landspítala

skarph@hi.is

Inngangur: Gram neikvæða bakterían Pseudomonas aeruginosa getur valdið alvarlegum lungnasýkingum í einstaklingum með skerta ónæmisstarfsemi á borð við sjúklinga með slímseygju (cystic fibrosis (CF)) eða króníska lungnateppu (chronic obstructive pulmonary disease (COPD)). Lungnaþelið er fremsta varnarlína gegn sýkingum í öndunarfærum. Samheldni þess, skautun og gegndræpi er stjórnað af þéttitengjapróteinum. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að sýklalyfið azithromycin hefur jákvæð áhrif á lungnastarfsemi CF sjúklinga án þess að um beina bakteríudrepandi virkni sé að ræða. Við höfum áður sýnt að azithromycin eykur rafviðnám og breytir tjáningu þéttitengja-
próteina í berkjufrumulínunni VA10.

Markmið: Að rannsaka samspil P. aeruginosa og lungnaþelsins við sýkingu og að skilgreina varnaráhrif azithromycins í því samhengi.

Aðferðir: Með því að notast við himnuræktir gátum við mælt rafviðnám, samsetningu þéttitengja og innskrið P.auruginosa í lungnaþekju líkani. Þekjan var bæði meðhöndluð með lifandi bakteríum og sterílu floti úrP.aeruginosa rækt.

Niðurstöður: Rannsóknir okkar benda til þess að rhamnolípíð sem P.aeruginosa seytir frá sér riðli byggingu þéttitengja sem lækkar rafviðnám í lungnaþekjunni. Niðurstöðurnar sýna einnig að meðhöndlun lungnaþekjunnar með azithromycini ver þekjuna fyrir lækkun á rafviðnámi og flýtir fyrir bata í kjölfar P.aeruginosa sýkingar, óháð bakteríudrepandi virkni lyfsins.

Ályktun: Með þessari rannsókn er stigið skref í átt að því að útskýra hvernig hliðarverkun azithromycins getur styrkt náttúrulegar varnir lungnaþelsins gegn sýkingum.

 

V-72      Áhrif kúrkúmíns og kúrkúmínóíða á lungnaþekjuvef in vitro

Berglind Eva Benediktsdóttir1, Þórarinn Guðjónsson2, Hanne Hjort Tønnesen 3, Már Másson1, Ólafur Baldursson1,4

1Lyfjafræðideild HÍ, 2rannsóknastofu í stofnfrumufræðum, líffærafræði, læknadeild HÍ og blóðmeinafræðideild Landspítala, 3School of Pharmacy, Dept. of Pharmaceutics, University of Oslo, 4lungnadeild Landspítala

berglib@hi.is

Inngangur: Kúrkímín er náttúruefni og finnst í þurrkuðum jarðstönglum plöntunnar Curcuma longa L. en þurrkuðu jarðstönglarnir hafa víða verið notaðir í aldaraðir sem gult litarefni og sem krydd og því er kúrkúmín talið lítt eitrað. Kúrkúmín hefur verið rannsakað frá lyfjafræðilegu sjónarhorni vegna hugsanlegrar virkni þess gegn ýmsum sjúkdómum en rannsóknir hafa sýnt að efnið hefur bólgueyðandi- og andoxunarvirkni, virkni gegn krabbameini auk þess sem stök tilfelli hafa sýnt að kúrkúmín hefur reynst vel sjúklingum með slímseigjusjúkdóm. Til að skilgreina betur hugsanleg áhrif kúrkúmíns þá rannsökuðum við áhrif þess á lungnaþekjufrumur in vitro.

Aðferðir: Lungnaberkjuþekjufrumum var sáð á gegndræpa filtra og þær meðhöndlaðar með kúrkúmíni og kúrkúmínóíðunum dímetoxýkúrkúmín og bisdemetoxýkúrkúmín.

Niðurstöður: Tilraunir okkar sýna að kúrkúmín eykur rafviðnám (TER, transepithelial electrical resistance) lungnaþekju in vitro og virðast áhrifin vera skammtaháð. Niðurstöðurnar sýna einnig að mismunandi afleiður kúrkúmíns hafa mismunandi áhrif á TER. Dímetoxýkúrkúmín jók ekki TER heldur virtist halda því niðri en bisdemetoxýkúrkúmín jók rafviðnám marktækt þótt áhrifin væru skammvinn. Þar sem vitað er að þétttengslapró-tein stjórna TER, leituðum við skýringa á áhrifum kúrkúmíns á tjáningu þeirra. Mótefnaflúrlitun og western blotting benda til þess að kúrkúmín hafi áhrif á tjáningu þétttengslaprótína og að samband TER og tjáningar slíkra prótína sé flókið. Mismunandi áhrif kúrkúmíns og afleiðna þess á TER lungnaþekju benda til þess að hluti byggingar kúrkúmíns hækki TER en aðrir hlutar kúrkúmíns hafi ýmist engin áhrif eða lækki TER.

Ályktun: Þessar niðurstöður gætu hjálpað við að útskýra ávinning við notkun kúrkúmíns fyrir sjúklinga með slímseigjusjúkdóm. Gera þarf mun viðameiri rannsóknir til að skilja áhrif kúrkúmíns á byggingu og virkni lungnaþekju almennt.

 

V-73      Q100R stökkbreyting í geni storkuþáttar VII hjá íslenskri fjölskyldu með blæðingarhneigð

Helga Sigrún Sigurjónsdóttir1, Elizabeth Cook1, Brynja R. Guðmundsdóttir2, Vigfús Þorsteinsson3, Ísleifur Ólafsson1

1Klínískri lífefnafræðideild, 2blóðmeinafræðideild Landspítala, 3rannsóknardeild Sjúkrahúsinu á Akureyri

isleifur@landspitali.is

Inngangur og markmið: Storkuþáttur VII er K-vítamínháður serín próteasi sem kemur af stað fyrstu þrepum storkukerfisins. Skortur á storkuþætti VII (FVII) er sjaldgæfur arfgengur storkugalli, en algengi hans er talin vera 1:300.000-500.000. Nýlega var lýst íslenskri fjölskyldu með FVII skort. Einn fjölskyldumeðlimur hafði blæðingarsjúkdóm og minna en 2% af eðlilegri virkni FVII. Þá höfðu aðrir í fjölskyldunni verulega lækkaða virkni FVII en voru án klínískra einkenna. Tilgangur þessarar rannsóknar var að finna sameindaerfðafræðilega orsök FVII skorts í fjölskyldunni.

Efniviður og aðferðir: Erfðaefnið var einangrað úr bláæðablóði frá vísitilfelli og þremur systkinum. Allar útraðir í geni strokuþáttar FVII voru fjölfaldaðar með fjölliðunarhvarfi og niturbasaröð þeirra ákvörðuð. Aðferðir til arfgerðargreiningar á geni FVII voru þróaðar og leitað að stökkbreytingum og erfðabreytileikum í 100 manna úrtaki heilbrigðs íslensk þýðis.

Niðurstöður og ályktun: Við stökkbreytingaleit í geni vísitilfellis fannst stökkbreyting í útröð 5 á arfhreinu formi. Stökkbreytingin felst í að kóðinn CAG fyrir Gln í stöðu 100 í fjölpeptíðkeðju FVII verður CGG fyrir Arg (Q100R). Stökkbreytingaleitin sýndi að aðrir fjölskyldumeðlimir voru samsett arfblendnir fyrir stökkbreytingunni Q100R og erfðabreytileika í útröð 8, R353Q, en hann er þekktur fyrir að valda um það bil 25% lækkun í virkni FVII. Samsætutíðni R353Q var ákvörðuð í 100 manna heilbrigðu íslensku úrtaki og reyndist hún vera 0,08. Þar sem Q100R er algengasta stökkbreytingin í geni FVII meðal Norðmanna er líklegt að tilvist hennar hér á landi megi rekja þangað.

 

V-74      Stjórn á afritun cystatín C gens um stutta kjarnsýruröð í stýrilsvæði

Elizabeth Cook, Ísleifur Ólafsson

Klínískri lífefnafræðideild Landspítala

ecook@landspitali.is

Inngangur: Cystatín C tilheyrir stórri fjölskyldu þróunarlega skyldra próteina, sem hafa það hlutverk að hemja virkni próteinkljúfandi ensíma af flokki cystein próteinasa. Gen cystatín C er staðsett á litningi 20p11.2, en þar er að finna gen margra annarra cystatína. Stýrilsvæði gensins er GC-ríkt og svipar að mörgu leyti til stýrilsvæða hússtjórnargena. Rannsóknir hafa sýnt að genið er tjáð í öllum vefjum, en þó mismikið eftir vefja-
gerð og ytri þættir geta haft áhrif á tjáninguna. Í klínísku starfi er styrkur cystatíns C í serumi víða notaður til að meta skerta starfsemi nýrna. Þá er stökkbreytingin cystatín L68Q þekkt fyrir að valda arfgengri heilablæðingu með æðamýlildi. Tilgangur þessarar rannsóknar var að finna þær kjarnsýruraðir sem taka þátt í að stjórna afritun cystatín C gensins.

Efniviður og aðferðir: Plasmíð með mislanga hluta stýrilsvæðis cystatín C gens tengda vísigeni (reporter gene) voru innleidd í ræktaðar HeLa frumur. Með fákirnum og fjölliðunarhvarfi voru 8 mismunandi stökkbreytingar settar inn í kjarnsýruröðina sem nær frá -172 til -189 í stýrilsvæði. Áhrif stökkbreytinganna á afritunarvirkni stýrilsvæðisins voru mæld bæði með 340 bp og 1084 bp löngum bút af svæðinu og einnig með og án dexamethason í frumurætunaræti.

Niðurstöður og ályktun: Veruleg minnkun varð í afritunarvirkni stýrilsvæðis við að setja stökkbreytingar í kjarnsýruröðina frá -172 til -178. Athyglisvert var að stökkbreytingar sem settar voru í kjarnsýruröðina frá -179 til -189 höfðu lítil áhrif á afritunarvirkni þegar þær voru í 1084 bp löngum bút af stýrilsvæði, meðan sömu stökkbreytingar í 340 bp bút drógu verulega úr afritunarvirkni. Þetta fyrirbæri má skýra með víxlverkunar við afritunarþætti sem tengjast fjarlægum markröðum. Að setja markröð fyrir glúkókortikóíð viðtækið í kjarnsýruröðina frá -177 til -190 leiddi ekki til aukinnar afritunarvirkni við dexamethasón örvun.

 

V-75      A-ONE: Rasch greining ADL kvarða

Guðrún Árnadóttir1, Anne G. Fisher2

1Iðjuþjálfun, endurhæfingarsviði  Landspítala, 2Háskólinn í Umeå, Svíþjóð

gudrunar@landspitali.is

Inngangur: A-ONE matstækið (Árnadóttir OT-ADL Neurobehavioral Evaluation) er notað af iðjuþjálfum til að meta samtímis færni við framkvæmd athafna daglegs lífs (ADL) og þau einkenni, sem tengjast röskun á taugaatferli, sem draga úr framkvæmd ADL. Kvarðar A-ONE eru raðkvarðar. Matstækið var þróað samkvæmt hefðbundnum próffræði aðferðum. Nýrri próffræði aðferð býður upp á tölfræði greiningu sem nýta má til að kanna innra réttmæti matstækja og breyta raðkvörðum í jafnbilakvarða. Með notkun hennar skapast því möguleiki á að breyta matstækjum í mælikvarða sem nota má til að mæla árangur.

Markmið: Meginmarkmið rannsóknarinnar var að kanna réttmæti ADL kvarða A-ONE með því að nota Rasch greiningu, til að athuga möguleika á breytingu kvarðans yfir í jafnbilakvarða. Annað markmið var að kanna uppbyggingu stigagerðar kvarðanna (rating scale structure) og áreiðanleika atriðanna.

Aðferðir: Að fengnu leyfi siðanefndar Landspítala var upplýsingum af A-ONE eyðublöðum, úr 209 sjúkraskrám safnað. Rasch greining á hrátölum allra atriða var framkvæmd með WINSTEPS forritinu til að kanna hvort kvarðinn stæðist staðhæfingar greiningaraðferðarinnar og hvort atriði hans myndi eina vídd.

Niðurstöður: Öll atriði kvarðans mynda eina hugsmíðaheild að tjáskiptaatriðunum undanskildum. Eitt atriði af 20 var með infit MnSq > 1,4 og z ≥ 2, eða 5%. Með því að sameina tvö þrep (munnleg aðstoð og eftirlit) má leiðrétta víxlun þröskulda. Áreiðanleiki kvarðans til að skipta einstaklingum í hópa (person separation reliability) var 0,9, þannig að hægt er að nota kvarðann til að nema breytingu á ástandi.

Ályktun: Breyting ADL raðkvarða A-ONE matstækisins í jafnbila mælikvarða eykur á nákvæmni kvarðans og rannsóknarmöguleika matstækisins. Með breytingunni verður því hægt að beita stærðfræðilegum aðgerðum til að mæla árangur í endurhæfingu, kanna áhrif mismunandi íhlutunar og hvers konar breytingar á frammistöðu.

 

V-76      Áhrif árlegra breytinga á vigtum NordDRG flokkunarkerfisins, á legulengd og kostnað meðferðar á Landspítala

Elín J.G. Hafsteinsdóttir1, Luigi Siciliani2

1Landspítala og hagfræðideild háskólans í York, 2hagfræðideild háskólans í York, Englandi

elinhaf@landspitali.is

Inngangur: Kjarninn í stefnu stjórnvalda við fjármögnun sjúkrahúsa felst í hvort, og þá hvernig, fjárveiting til sjúkrahúsa hefur áhrif á kostnað þjónustunnar, gæði hennar og magn. Fræðileg líkön, sem leitast við að lýsa viðbrögðum sjúkrahúsa, benda til þess að breytingar á verðum fyrir þjónustu geti haft í för með sér breytingar á þjónustu til sjúklinga. Í fyrsta lagi benda þau til þess að hækki verð þá hafi sjúkrahús tilhneigingu til þess að veita sambærilegum sjúklingum meiri þjónustu en það gerði fyrir breytingu (freistniáhrif, e. moral hazard effect). Í öðru lagi hafi þau tilhneigingu til þess að velja veikari sjúklinga til meðferðar en áður (valáhrif). Þessu er öfugt farið ef verð lækkar.

Markmið: Markmið þessarar rannsóknar er að greina hvort árlegar breytingar á vigtum NordDRG flokkunarkerfisins, sem notað er til þess að dreifa fjárveitingum innan Landspítala, hafi haft áhrif á þjónustumagn, á árunum 2003-2005.

Aðferðir: Rannsóknin byggir á gögnum úr DRG grunni Landspítala. Við greininguna er notuð aðhvarfsgreining fyrir panil gögn, þar sem panill er skilgreindur út frá DRG flokkum. Í greiningunni er legulengd sjúklinga og kostnaður meðferðar notuð sem vísar fyrir þjónustumagn. Mælingar á meðalbráðleika sjúklinga eru notaðar til þess að leiðrétta fyrir hugsanlegum valáhrifum á magn þjónustu.

Niðurstöður: Niðurstöður benda til þess að hækkun á meðalvigt DRG um 80 prósent tengist 0,6 daga lengingu á meðallengd legu, þar af eru 8,5 prósent tengd „veikari sjúklingum“, þ.e. valáhrifum. Sama hækkun á meðalvigt tengist 40.300 kr. hækkun á meðalkostnaði meðferðar, þar af eru 9,6 prósent tengd valáhrifum. Marktækur munur er á tengslum breytinga á meðalvigt og kostnaði, eftir tegund DRG flokka.

Ályktun: Niðurstöðurnar benda því til að á árunum 2003-2005 megi greina bæði freistniárif og valáhrif, á legulengd og kostnað, í tengslum við árlegar breytingar á DRG vigtum.

 

V-77      Áhrif kverkeitlatöku á sóra (psoriasis)

Ragna Hlín Þorleifsdóttir1,2, Andrew Johnston3, Sigrún Laufey Sigurðardóttir1, Jón Hjaltalín Ólafsson2, Bárður Sigurgeirsson2, Hannes Petersen4, Helgi Valdimarsson1

1Ónæmisfræðideild, 2húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala, 3húðsjúkdómadeild, University of Michigan, 4háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala

ragnah@landspitali.is

Inngangur: Streptókokkasýkingar hafa verið tengdar tilurð og versnun á sóra. Nokkrar rannsóknir hafa gefið vísbendingu um bata sórasjúklinga eftir kverkeitlatöku. Hins vegar hafa þessar rannsóknir allar verið afturvirkar eða án viðmiðunarhóps og í mörgum þeirra var bæði um ræða einstaklinga með dropa- og krónískan skellusóra.

Markmið: Að ákvarða hvort kverkeitlataka sé raunhæfur meðferðarmöguleiki fyrir einstaklinga með krónískan skellusóra og enn frekar að kanna hlutverk kverkeitla T-frumna í meinmyndun sóra.

Aðferðir: Fjörutíu manns með krónískan skellusóra er skipt í tvo sambærilega hópa þar sem annar hópurinn fer í kverkeitlatöku en hinn er til viðmiðunar. Einstaklingarnir eru metnir á tveggja mánaða fresti í tvö ár með viðtölum, mati á útbreiðslu og virkni útbrotanna (PASI mat), ljósmyndun og lífsgæðaspurningum. Auk þess eru gerðar ýmsar ónæmisfræðilegar mælingar á T-frumum úr blóði og kverkeitlum, meðal annars með frumuflæðisjá.

Niðurstöður: Í lok febrúar 2008 hafa 21 tekið þátt í rannsókninni í að minnsta kosti tvo mánuði. Frumniðurstöður benda til 42% lækkunar á PASI mati hjá þeim sem hafa farið í kverkeitlatöku (n=13) miðað við 1% meðaltalslækkun í viðmiðunarhóp (n=8). Auk þess virðast koma fram breytingar í svörun T-frumna gegn amínósýruröðum sem sameiginlegar eru M-prótíni streptóckokka og keratíni í yfirhúð í blóði þeirra sem fóru í kverkeitlatöku.

Ályktun: Þessar frumniðurstöður benda til þess að kverkeitlataka hafi a.m.k. tímabundin áhrif á krónískan skellusóra til batnaðar. Einnig benda þær til að þessi áhrif tengist hugsanlega breytingum á T-frumu svörum gegn peptíðum sem eru álitin geta verið sjálfsvakar (autoantigens) í sóra.

 

V-78      Líðan starfsmanna á sjúkrahúsi - list hins mögulega í eldhúsi og þvottahúsi

Sigrún Gunnarsdóttir

Þróunarskrifstofau hjúkrunarforstjóra Landspítala

sigrungu@landspitali.is

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að kanna líðan starfsmanna í eldhúsi og þvottahúsi Landspítala frá stjórnarhóli starfsmanna sjálfra. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á líðan ófaglærðra starfsmanna sjúkrahúsa en ljóst margir þættir í aðstæðum þeirra og aðbúnaði geta haft neikvæð áhrif á líðan þeirra og heilsu.

Aðferðir: Eigindlegar aðferðir voru notaðar til að afla gagna við rannsóknina. Í fyrsta lagi voru gerðar vettvangsathuganir þar sem rannsakandi dvaldi á vinnustöðunum báðum og safnaði eigindlegum gögnum um aðstæður, samskipti og líðan starfsmanna. Í kjölfar greiningar gagna frá vettvangsathugunum tók rannsakandi viðtöl við átta starfsmenn á báðum vinnustöðum. Auk gagna frá vettvangsathugunum og viðtölum voru skýrslur um skipulag og starfsmannamál vinnustaðanna tveggja notaðar við úrvinnslu gagna.

Niðurstöður rannsóknanna sýna að starfsfólk í eldhúsi og þvottahúsi Landspítala vinnur við mjög krefjandi aðstæður og álag á starfsmenn er umtalsvert. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður í vinnuumhverfi njóta margir starfsmenn vinnunnar og líður vel í starfi. Mikilvægustu þættir sem hafa áhrif á vellíðan starfsmanna eru uppbyggjandi samskipti við starfsmenn og stjórnendur, sérstaklega næsta yfirmanna. Niðurstöður benda einnig til þess að starfsmenn sem hafa áhuga og sýna ábyrgð gagnvart eigin velferð og annarra í starfi hafa meiri möguleika til að hafa yfirsýn yfir störf sín og aðstæður. Slík yfirsýn eykur möguleika til að sjá tækifæri á vinnustaðnum til að hafa jákvæð áhrif á eigin vinnuaðstæður og líðan í starfi.

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar styðja niðurstöður erlendra rannsókna um jákvæð áhrif góðra samskipta á líðan starfsmanna og áhrif stjórnunarhátta næsta yfirmanns á velferð starfsmanna. Jafnframt styðja niðurstöðurnar rannsóknir um mikilvægi þess að starfsmenn hafi áhrif á eigin störf og tengsl þess við líðan og árangur í starfi.

 

V-79      Lykilhlutverk deildarstjóra hjúkrunar - tengsl uppbyggjandi samskipta og öryggis sjúklinga og starfsmanna

Sigrún Gunnarsdóttir

Þróunarskrifstofu hjúkrunarforstjóra Landspítala

sigrungu@landspitali.is

Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra og tengsl þátta í vinnuumhverfi við líðan starfsmanna og gæði þjónustunnar. Með rannsókninni var leitast við að koma auga á leiðir til að hafa jákvæð áhrif á vinnuumhverfi og líðan starfsmanna og þar með jákvæð áhrif á velferð sjúklinga.

Fræðilegur bakgrunnur eru kenningar um forystu í heilbrigðisþjónstunni, gagnreynd þekking um skipulag sjúkrahúsa og kenningar um kulnun. Fyrri rannsóknir sýna tengsl á milli starfsánægju og styðjandi þátta í starfsumhverfi, einkum stuðnings stjórnenda og jákvæðra samskipta lækna og hjúkrunarfræðinga. Jafnframt sýna fyrri rannsóknir jákvæð tengsl á milli styðjandi starfsumhverfis og gæða þjónustunnar.

Aðferðir: Gerð var spurningalistakönnun með spurningum um þætti í vinnuumhverfi, starfsánægju, einkenni kulnunar og viðhorf starfsmanna til gæða þjónustunnar, alls um 100. Spurningalistinn er þýdd og staðfærð útgáfa erlendra mælitækja sem hafa verið prófuð í erlendum rannsóknum.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að mikilvægustu þættir í starfsumhverfi á Landspítala eru styðjandi stjórnunarhættir deildarstjóra hjúkrunar, mönnun og gott samstarf lækna og hjúkrunarfræðinga. Stuðningur stjórnenda í sviðsstjórn og framkvæmdastjórn hafa minna vægi. Rannsóknir staðfestir mikilvægi góðra stjórnunarhátta fyrir árangur sjúkrahúsa, einkum lykilhlutverk næsta yfirmanns í þessu sambandi.

Ályktanir: Niðurstöðurnar staðfesta enn fremur mikilvægi fullnægjandi mönnunar fyrir öryggi starfsmanna og sjúklinga. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna ekki marktæk tengsl á milli starfsánægju og stjórnunarhátta í efra stjórnlagi. Mikilvægt er að rannsaka frekar stjórnunarhætti sviðsstjóra og framkvæmdastjóra og hugsanleg áhrif þeirra á árangur þjónustunnar og ánægju starfsmanna.

 

V-80      Stuðningur við millistjórnendur – starfsþróun deildarstjóra. Þátttökurannsókn með deildarstjórum hjúkrunar á Landspítala

Sigrún Gunnarsdóttir

Þróunarskrifstofu hjúkrunarforstjóra Landspítala

sigrungu@landspitali.is

Starfsþróun er hluti af starfi allra hjúkrunarfræðinga og felur í sér styrkingu á hæfni og getu. Starfsþróun er markvisst ferli og er sameiginlegt verkefni vinnuveitanda og starfsmanna. Vinnuveitandi er ábyrgur fyrir því að skapa umgjörð og tækifæri til starfsþróunar og starfsmaður ber ábyrgð á að vera meðvitaður um starfsumhverfi sitt, setja sér raunhæf markmið til framtíðar og nýta tækifæri til starfsþróunar.

Starfsþróun heilbrigðisstétta hefur áhrif á gæði þjónustunnar og starfsánægju. Undanfarin ár hefur verið lögð aukin áhersla á starfsþróun hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra. Starfsþróun í hjúkrun nær til allra hópa hjúkrunarfræðinga miðað við aldur, reynslu og starfssvið. Starfsþróun stjórnenda er mjög mikilvæg á tímum hraðra breytinga og aukins álags í heilbrigðisþjónustunni.

Á Landspítala er unnið að starfsþróun stjórnenda. Hluti af því starfi er þátttökurannsókn sem felur í sér fræðslu og markvissan stuðning við deildarstjóra í hjúkrun. Grundvallarhugtak rannsóknarinnar er styrkjandi stjórnun (e. organizational empowerment) og er markmið rannsóknarinnar að auka starfsánægju deildarstjóra og styrkja þá í starfi. Þátttakendur nota ígrundun í starfi til að auka innsæi og skilning á árangursríkum aðferðum í stjórnun.

Árangur rannsóknarinnar er metinn með megindlegum og eigindlegum aðferðum.

Niðurstöður sýna góðan árangur. Deildarstjórarnir (n=19) telja ígrundun í starfi tengjast aukinni starfsánægju og vera mikilvægt tækifæri til að vaxa í starfi.

Ályktanir: Rannsóknin bendir til þess að ígrundun í starfi sé árangursrík leið fyrir deildarstjóra hjúkrunar til að læra og vaxa í starfi. Fræðsla um stjórnun og markviss stuðningur er mikilvægur liður í starfsþróun stjórnenda. Ígrundun í starfi er ákjósanleg leið til að styðja við starfsþróun stjórnenda í hjúkrun. Ígrundun er leið til að auka hæfni í starfi, árangur þjónustunnar og starfsánægju stjórnenda.


V-81      Næringarástand mænuskaðaðra skjólstæðinga Landspítala

Dóróthea Bergs, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Ólöf Sigríður Erlingsdóttir

Endurhæfingarsviði, næringarstofu Landspítala, Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri

dorothea@landspitali.is

Inngangur: Í kjölfar mænuskaða á sér stað mikið niðurbrotsferli sem getur varað frá nokkrum vikum upp í nokkra mánuði, með tilheyrandi þyngdartapi. Efnaskiptahraði líkamans eykst, niðurbrot eykst og hömlulaust tap verður á nitri og kalsíum úr líkamanum. Því hærri sem mænuskaðinn er því meira verður niðurbrotsferlið. Afleiðingin er rýrnun í orku- og beinabúskap líkamans, vöðvamassa, hægari nýmyndun próteina, rýrnun þarmaslímhúðar og lakari ónæmissvörun. Mænuskaðaðir einstaklingar eru því í áhættuhópi í að þróa með sér vannæringu innan tveggja til þriggja vikna eftir áverka.

Markmið: Markmið rannsóknar var að kanna næringarástand mænuskaðaðra skjólstæðinga Landspítala, breytingu á matarvenjum eftir mænuskaða og viðhorf til eigin næringar. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á minni orkuþörf meðal þessara einstaklinga í kjölfar hreyfitaps og vöðvarýrnunar.

Aðferð:Rannsóknin fól í sér skráningu á fæðu- og vökvainntekt, líkamsmælingum, lífefnafræðilegum mælingum á blóðvökva og svörun á spurningarlista. Alls voru þátttakendur 9 mænuskaðaðir einstaklingar, valdir með þægindaúrtaki. Af þeim voru fjórir þátttakendur inniliggjandi á endurhæfingardeild Landspítala en hinir sex voru útskrifaðir og hafa lifað í samfélaginu við fötlun í allt að þrjú ár.

Niðurstöður:Rannsóknin sýndi fram á að orkuinntaka þátttakenda var mun lægri heldur en áætluð orkuþörf, eða um 24,7% að meðaltali. Þrátt fyrir að inniliggjandi þátttakendur væru að neyta orkuríkari fæðu (1710 vs 1414 kkal/dag) heldur en útskrifaðir þátttakendur þá fengu þeir síður næringarþörf sinni fullnægt fyrir flest vítamín, stein- og snefilefni og trefjar. Fæða inniliggjandi þátttakenda var fituríkari sem gæti skýrt þann mismun á orkuinntöku að einhverju leyti sem var á milli úrtaka þar sem hvert g af fitu gefur meiri orku heldur en sama magn af kolvetni. Samfara aukinni orkuinntöku voru innliggjandi þátttakendur að þyngjast meira að meðaltali heldur en útskrifaðir einstaklingar. Allir þeir þátttakendur sem voru inniliggjandi þyngdust, frá 200g upp í 1800g. Sá þátttakandi sem þyngdist mest hafði þó minnstu orkuinntökuna og neytti fæðunnar innan Landspítala að litlu leyti.

Ályktanir: Mænuskaðaðir einstaklingar virðast hafa lægri orkuþörf heldur en aðrir einstaklingar. Aðlögun að réttu mataræði eftir mænuskaða er mikilvæg til að hindra óhóflega þyngdaraukningu með tilheyrandi fylgikvillum, þrýstingssárum, skerðingu á lífsgæðum og vannæringu.

 

V-82      Aðlögun og aðlögunarleiðir foreldra unglinga með sykursýki. Hefur skammtíma hjúkrunarmeðferð í formi fræðslu- og stuðnings áhrif?

Elísabet Konráðsdóttir1, Erla Kolbrún Svavarsdóttir2

1Barnaspítala Hringsins Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild HÍ

elisakon@landspitali.is

Inngangur: Sykursýki barna og unglinga tegund eitt, er einn algengasti langvinni sjúkdómur í börnum og tíðni hans fer vaxandi. Foreldrar unglinga með sykursýki þurfa að aðlagast nýjum aðstæðum, huga að velferð unglingsins og velferð fjölskyldunnar.

Markmið: Markmið þessarar rannsóknar var að skoða aðlögun og aðlögunarleiðir foreldra 13-18 ára unglinga með sykursýki. Einnig að skoða hvort aðlögun og aðlögunarleiðir foreldra breyttust 6 mánuðum eftir að veitt var skammtíma hjúkrunarmeðferð í formi fræðslu- og stuðnings. Stuðst var við Calgary-fjölskyldumats- og meðferðarlíkanið en megininntak þess er að veikindi eru viðfangsefni fjölskyldna og þau hafa áhrif á alla innan hennar á grundvelli viðhorfa og samskipta fjölskyldunnar.

Aðferðir: Í rannsókninni var notað aðlagað tilraunasnið með eins hóps fyrir og eftirprófun. Skoðaður var árangur íhlutunar sem var skammtíma fræðslu- og stuðningsmeðferð. Hjúkrunarmeðferðin náði til 23 fjölskyldna 13-18 ára unglinga með sykursýki, 22 mæðra og 19 feðra. Meðferðin samanstóð af hópfræðslu í eitt skipti, foreldrar fengu eitt stuðningsviðtal og unglingarnir mættu einu sinni í stuðningshóp ásamt öðrum unglingum með sykursýki.   

Niðurstöður: Helstu niðurstöður voru þær að aðlögun mæðra og feðra að sjúkdómi unglingsins var nokkuð góð. Tekjur fjölskyldunnar höfðu marktæk áhrif á aðlögun mæðra. Mæður notuðu fjölbreyttari aðlögunarleiðir en feður og marktækur munur reyndist vera á notkun aðlögunarleiða hjá mæðrum og feðrum. Mæðrum og feðrum fannst aðlögunarleiðin að viðhalda styrk fjölskyldunnar hjálplegust. Þá kom í ljós að feðurnir mátu alla flokka aðlögunarleiða marktækt hjálplegri eftir skammtíma fræðslu- og stuðningsmeðferðina.

Ályktun: Rannsóknin gefur vísbendingu um að skammtíma fræðslu- og stuðningsmeðferð sé fýsileg hjúkrunarmeðferð til að stuðla að árangursríkri aðlögun foreldra unglinga með sykursýki.

 

V-83      Þarfir aðstandenda sem fylgja alvarlega veikum/slösuðum ástvini á bráðamóttöku

Guðrún Björg Erlingsdóttir1, Herdís Sveinsdóttir2, 3            

1Bráðamóttöku 10-D, 2fræðasviði skurðhjúkrunar Landspítala, 3hjúkrunarfræðideild HÍ                        

gudruner@hi.is

Inngangur: Alvarlegur sjúkdómur/slys hjá einstaklingi getur haft djúpstæð áhrif á fjölskyldur og er fjölskyldan mikilvægur þáttur í heilsu og velferð einstaklinga innan hennar. Bráð veikindi/slys valda því að fjölskyldan er skyndilega í aðstæðum sem hún hefur ekki sótt sjálf eftir að komast í, þar sem þarfir hennar eru aðrar en hún á að venjast og ekki svo augljósar í þeirra augum í fyrstu.


Markmið: Þýða, staðfæra og forprófa mælitækið Critical Care Family Inventory (CCFNI) fyrir bráðamóttöku. Meta áreiðanleika og réttmæti íslensku útgáfunnar. Jafnframt að fá fram hvernig þarfastaðhæfingar skipta mismiklu máli fyrir aðstandendur og hvar mikilvægt er að heilbrigðisstarfsmenn standi sig vel í umönnun aðstandenda.

Aðferðir: Megindleg póstkönnun á þörfum aðstandenda sem fylgdu alvarlega veikum/slösuðum fullorðnum sjúklingum slysa- og bráðamóttöku í Fossvogi og bráðamóttöku á Hringbraut á tímabilinu 9. apríl-21. maí 2007. Lýsandi þversniðskönnun, með þægindaúrtaki 202 aðstandenda. Þátttakendur svöruðu að meðaltali 16 dögum eftir veru sína á bráðamóttöku (svarhlutfall 62,3%).

Niðurstöður: Meðalaldur þátttakanda; 55 ár (sf =14,9), fleiri þátttakendur voru konur (n=142) en karlar (n=57). Meginþorri (n=113, 55,9%%) var maki sjúklings. Í 55,9% tilfella var tekið á móti þeim af hjúkrunarfræðingi (n=113) samstundis í 41,5% (n=81) tilvika. 32 þarfastaðhæfingar (af 39) voru álitnar frekar/mjög mikilvægar (85-97% þátttakenda). Mikilvægustu þarfir; vera viss um að ættingi fengi bestu hugsanlegu umönnun, heiðarleg svör við spurningum og finna að heilbrigðisstarfsfólki væri ekki sama um ættingja þeirra. Best uppfylltu þarfirnar; hitta ættingja sinn eins fljótt og auðið var, vera með ættingja sínum hvenær sem var, og finna að heilbrigðisstarfsfólki væri ekki sama um ættingja þeirra. 60-70% töldu 5 þáttum ekki/illa mætt af heilbrigðisstarfsfólki, þeir lutu að tilfinningum þeirra og þjónustu sjúkrahúsprests. Átján þarfastaðhæfingar töldu 85-97% vel/mjög vel uppfylltar, þ.e. framkoma heilbrigðisstarfsmanna, upplýsingagjöf varðandi meðferð sjúklings og niðurstöður rannsókna.

Ályktun: Þátttakendur eru ánægðir með dvöl sína á bráðamóttöku þó bæta megi ákveðna þætti. Konur eru áberandi sem aðstandendur í umönnunarhlutverki sjúklinga. Niðurstöður endurspegla ókunnan veruleika sjúklinga og aðstandenda þeirra á bráðamóttökum. Heilbrigðisstarfsfólk sem myndar traust samband við fjölskylduna á þessum viðkvæma tímapunkti getur auðveldað þeim að sætta sig við ástand og meðferð sjúklings.

 

V-84      Að sigrast á hindrunum: Upplifun filippseyskra sjúklinga á Landspítala

Gwendolyn P. Requierme1, Auðna Ágústsdóttir2

1Endurhæfingarsviði, 2skrifstofu kennslu, vísinda og þróunar, kennslu- og fræðasviði Landspítala

audnaag@landspitali.is

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að lýsa upplifun filippseyskra sjúklinga sem hafa legið á Landspítala. Tilgangurinn var að öðlast dýpri skilning á reynslu þeirra. Stuðst var við fyrirbærafræði vanManen og hugmyndafræði Gadamer til að lýsa og skilja reynslu.

Aðferðir: Átta filippseyskir þátttakendur voru valdir með tilgangsúrtaki. Þeir voru á aldrinum 30-75 ára, þrír karlmenn og fimm konur, sem höfðu verið búsett á Íslandi í 3-16 ár og lágu á ýmsum deildum Landspítala. Viðtöl við þátttakendur fóru fram á filippseyskum tungumálum, Tagalog og Cebuano.

Niðurstöður: Þrjú meginþemu voru greind. 1. Duldar tilfinningar tengdust fyrsta tímabili eftir innlögn. Sjúklingarnir upplifðu ýmiss konar ótta eins og við að vera ein/n, vera mismunað á grundvelli þjóðernis og þekkingarskort. Einstaka fundu til reiði yfir að vera sett til hliðar. 2. Menningarlegir árekstrar var þema þar sem tókust á siðir og venjur Filippseyinganna annars vegar og spítalans hins vegar hvað varðar líkamlega, andlega og félagslega þætti sjúkrahúslegunnar. 3. Að sigrast á hindrunum lýsti hvernig filippseysku sjúklingarnir lærðu hvernig hlutirnir ganga fyrir sig á íslensku sjúkrahúsi og fengu aukið sjálfstraust við að yfirstíga erfiðleikana sem fylgdu sjúkrahúslegu í ókunnugri menningu. Sérstaklega var þeim stuðningur í trúnni, en einnig fundu þeir stuðning frá starfsfólki, öðrum sjúklingum og samlöndum. Þetta varð til að vekja tilfinningu um þakklæti yfir að vera hjálpað og veitt þjónusta; tilheyra samfélaginu.

Ályktun: Það er mikilvægt að skilja og þekkja menningarlegan bakgrunn sjúklinga til að veita þeim góða þjónustu. Taka þarf tillit til óska filippseyskra sjúklinga um túlk og hversu mikilvægt hlutverk fjölskyldan hefur í veikindum og bata. Trúariðkun og andlegur stuðningur er mikilvægur sjúklingunum. Frekari rannsóknir ættu að beinast að leiðum til að styrkja menningarhæfa þjónustu á Landspítala.

 

V-85      Rannsókn á vinnu og vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga

Helga Bragadóttir¹,², Teitur Helgason¹, Sigrún Gunnarsdóttir¹, Helgi Þór Ingason¹, Lovísa Baldursdóttir², Svava Þorkelsdóttir²

¹HÍ, ²Landspítala

helgabra@hi.is

Inngangur: Rannsóknir hafa verið gerðar á vinnu hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða í þeim tilgangi að nýta betur starfskrafta þeirra og þekkingu. Eldri rannsóknir á vinnu þeirra beindust einkum að því að greina verk og verkefni sem þeir sinntu og meta hve mikill tími fór í þau. Slíkar rannsóknir voru gerðar á Landspítala, Borgarspítala og Landakoti á 9. áratug síðustu aldar. Nýlegar rannsóknir frá Bandaríkjunum benda til þess að hjúkrun sé flókið og margbrotið líkamlegt og vitsmunalegt starf og að hjúkrunarfræðingar verði oft fyrir töfum og truflunum í vinnu sinni. Viðvarandi skortur og vinnuálag er á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum hérlendis sem erlendis. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) og Alþjóðasamtök hjúkrunarfræðinga (ICN) hafa ályktað um vandann og mælt með því að fundnar verði leiðir til að nýta betur starfskrafta og þekkingu heilbrigðisstétta. Í þeim tilgangi er nú unnið að rannsókn á vinnu og vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á Landspítala. Kynntar eru fyrstu niðurstöður þeirrar rannsóknar.

Markmið: Að bæta verkferla og vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á bráðadeildum svo að veita megi sjúklingum betri og öruggari hjúkrun.

Aðferðir: Notuð er blönduð aðferð (mixed method) þar sem gögnum er safnað með athugunum og verkferlagreiningu. Lögð er áhersla á að greina tafir og truflanir í vinnunni, hvers eðlis þær eru og hvenær þær eiga sér stað. Vinna hjúkrunarfræðinga var flokkuð í: a) beina hjúkrun, b) óbeina hjúkrun, c) lyfjaumsýsla, d) skráningu gagna, e) deildarvinnu og f) persónulegan tíma. Tafir og truflanir voru flokkaðar í: a) skort á stoðþjónustu, b) samskipti/upplýsingar, c) breytingar á umhverfi og d) skort á aðföngum, allir flokkar með undirflokkum. Notuð var handtölva og upptökutæki við gagnasöfnun.

Niðurstöður: Fylgst var með hjúkrunarfræðingum á tveimur bráða legudeildum Landspítals á 12 8-tíma vöktum. Samtals greindust 434 tafir og truflanir. Meðalfjöldi truflana/tafa var því 4,52/klst. Algengastar voru tafir og truflanir a) vegna skorts á stoðþjónustu vegna beinnar og óbeinnar hjúkrunar og deildarvinnu og b) vegna samskipta eða upplýsinga. Tafir og truflanir áttu sér oftast stað þegar hjúkrunarfræðingurinn sinnti beinni eða óbeinni hjúkrun og lyfjaumsýslu.

Ályktun: Niðurstöður gefa vísbendingar um að truflanir og tafir séu tíðar í vinnu hjúkrunarfræðinga á bráða legudeildum Landspítala við umönnun sjúklinga sem getur ógnað öryggi þeirra. Skortur virðist á stoðþjónustu og að bæta megi samskipti og upplýsingar til að gera vinnu hjúkrunarfræðinga skilvirkari.

 

V-86      Líðan skurðsjúklinga á skurðdeild og sex vikum eftir aðgerð

Herdís Sveinsdóttir1,2, Heiða Steinunn Ólafsdóttir2, Katrín Blöndal2, Sesselja Jóhannsdóttir2, Sigríður S. Þorleifsdóttir2, Soffía Eiríksdóttir2, Þuríður Geirsdóttir2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítala

herdis@hi.is

Inngangur: Fjöldi rannsókna hafa sýnt fram á að yfirvofandi skurðaðgerð veldur fólki kvíða og einkennum sem getur haft áhrif á allt bataferlið og jafnframt að mikilvægi umönnunar fyrir aðgerð og á sjúkrahúsi á líðan sjúklinga og bataferlið.

Markmið: Að lýsa algengi einkenna skurðsjúklinga á sjúkradeild eftir aðgerð og sex vikum eftir útskrift af sjúkrahúsi; lýsa sjúklingafræðslu tengt aðgerðaferlinu og skoða samband einkenna og sjúklingafræðslu.

Aðferð: Úrtak rannsóknarinnar takmarkaðist við sjúklinga sem fóru í ákveðnar aðgerðir á Landspítala frá 15. janúar 2007 til 15. júlí 2007, gátu lesið og skilið íslensku, dvöldu að minnsta kosti 24 klst. á sjúkrahúsinu, útskrifuðust heim og hjúkrunarfræðingar mátu hæfa til þátttöku. Gagna var aflað með spurningalista þar sem spurt er m.a. um líkamlega einkenni, svefn, verki, sjúklingafræðslu og kvíða og þunglyndi með notkun HADS-mælitækinu. Gagnasöfnun fór fram á sjúkrahúsinu og heima sex vikum eftir útskrift.

Niðurstöður: Þátttakendur voru 572 (303 karlar/245 konur). Skv. HADS flokkast 49 til 59 sjúklingar með marktækan kvíða eða þunglyndi. Einkenni sem valda mestri vanlíðan á spítala og heima eru erfiðleikar með hreyfingu, erfiðleikar með kynlíf og mæði. Um 10% sjúklinga upplifði verki að styrk 7 á kvarða frá 0-10, heima eða á spítalanum. Af 23 atriðum sem spurt var um sögðust þátttakendur vilja betri upplýsingar um fylgikvilla aðgerðar, tíma sem tekur að jafna sig, í hvaða tilvikum ætti að hafa sambandi við lækni/deild, hreyfingu, sjúkdóminn, verki, notkun verkjalyfja og hvenær eigi að draga úr notkun þeirra, mataræði, hægðir, hvenær má hefja störf að nýju og um skurðsárið. Sterkt jákvætt samband var á milli líkamlegra einkenna við kvíða og þunglyndi heima og á spítala. Nokkur munur var á kynjum í sjálfsmati þeirra á einkennum og fræðslu.

Ályktun: Endurskoða þarf fræðslu til skurðsjúklinga og eftirfylgni með þeim eftir aðgerð ekki síst m.t.t. kvíða og þunglyndis.

 

V-87      Fræðslu- og stuðningsmeðferð fyrir fjölskyldumeðlimi einstaklinga með átröskun til að styðja þá til bata

Margrét Gísladóttir¹, Erla Kolbrún Svavarsdóttir²

Hjúkrunarfræðideild HÍ

margretgisla@simnet.is

Útdráttur: Eitt til þrjú prósent kvenna eru talin fá átröskun á aldrinum 14-19 ára en allt að 10% kvenna eru talin fá átröskunareinkenni. Aðstandendur einstaklings með átröskun hafa ekki fengið nægilegan stuðning í heilbrigðiskerfinu en tilgangur rannsóknarinnar var að þróa og prófa hjúkrunarmeðferð á aðstandendum einstaklinga með átröskun til að styðja þá til bata. Í rannsókninni var notað aðlagað tilraunasnið (quasi) með eins hóps fyrir- og eftirprófun.

Aðferðir: Einstaklingar með átröskun höfðu sjúkdómsgreininguna lystarstol, lotugræðgi eða átröskun, sem var ekki skilgreind að öðru leyti, og voru á aldrinum 13-31 árs. Aðstandendur voru foreldrar, makar eða systkini eldri en 18 ára. Veitt var fræðsla og stuðningsmeðferð fyrir 21 þátttakanda í þremur hópum. Hver hópur kom í fjögur skipti og stóð meðferðin í 3-4 vikur fyrir hvern hóp fyrir sig. Stuðst var við Calgary-fjölskyldumeðferðarlíkanið sem byggist á kerfakenningum, póstmódernisma, stýrifræði, samskiptakenningum, breytingakenningum og líffræðikenningu hugans. Lagðir voru fyrir þrír spurningalistar, LEE (Cole og Kazarian, 1998), FQ (Wiedemann, Rayki, Feinstein og Hahlweg, 2002) og ABOS (Vanderycken, 1992) fyrir fyrsta tímann og eftir síðasta tímann. Jafnframt var lagður fyrir aðstandendur bakgrunnsspurningalisti og spurningalisti um mat þeirra á fræðslu- og stuðningsmeðferðinni eftir síðasta tímann.

Niðurstöður: Helstu niðurstöður voru þær að marktæk breyting varð á kvörðunum skilningur í LEE-spurningalistanum og matarhegðun, áhyggjur af þyngd og mat og innsæi í sjúkdóm í ABOS-spurningalistanum og breyting varð á öðrum kvörðum í rétta átt. 95% aðstandenda voru ánægð með stuðningsmeðferðina og umræðu í tímum. Yfir 80-90% fannst fræðslan skiljanleg, gagnleg og hjálpleg eða frekar skiljanleg, -gagnleg og -hjálpleg. 80-95% aðstandenda voru ánægðust með að skrifa um reynslu sína af að vera aðstandandi einstaklings með átröskun.

Ályktanir: Rannsóknin gefur vísbendingar um að fræðslu- og stuðningsmeðferð geti komið aðstandendum og átröskunarsjúklingum að gagni. Mikilvægt er að hjúkrunarfræðingar sinni stuðningi við aðstandendur, slíkt mun skila sér í bata skjólstæðinga með átröskun.


V-88      Lífsgæði og endurhæfingarþarfir sjúklinga sem fá lyfjameðferð við krabbameini – langtímarannsókn

Þórunn Sævarsdóttir1, Nanna Friðriksdóttir1, Sigríður Gunnarsdóttir1,2

1Lyflækningasviði II Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild HÍ

torunnsa@landspitali.is

Inngangur: Greining og meðferð við krabbameini hefur áhrif á lífsgæði, og er þekking á því mikilvæg fyrir hjúkrun krabbameinssjúklinga..

Markmið: Að kanna breytingar á lífsgæðum og endurhæfingarþörfum einstaklinga sem fá lyfjameðferð við krabbameini yfir 6 mánaða tímabil.

Aðferð: Þátttakendur svöruðu CARES-SF (CAncer Rehabilitation Evaluation System, Short Form) við upphaf lyfjameðferðar (T1), eftir 3 (T2) og sex mánuði (T3). CARES-SF spurningalistinn metur lífsgæði og endurhæfingarþarfir, inniheldur 59 vandamálamiðaðar spurningar sem skiptast niður í 5 lífsgæðaþætti., líkamleg einkenni, sálfélagsleg líðan, kynlíf, samskipti við maka og samskipti við heilbrigðisstarfsfólk. Mögulegt lífsgæðaskor er 0-4, hærra skor gefur til kynna verri lífsgæði. Endurhæfingarþarfir eru metnar með því að spyrja hvort viðkomandi óski eftir aðstoð við hvert vandamál.

Niðurstöður: Við upphaf lyfjameðferðar (T1) var fjöldi þátttakenda 144 , 90 konur og 54 karlar og meðalaldur (SD) 55 (12,1) ár. Eftir 3 mánuði (T2) voru þátttakendur 109 og 92 eftir 6 mánuði (T3) . Lífsgæðaskorið (SD) mældist marktækt hærra eftir 3 (0.96(0.53)) og 6 (0.90(0.50)) mánuði borið saman við upphaf lyfjameðferðar (0.70(0.43)) (p=0,01). Á öllum tímapunktum voru lífsgæðin verst á kynlífs -og líkamlegum þáttum spurningalistans og best á þættinum samskipti við fagfólk. Það var ekki martækt samband milli lífsgæða og sjúkdómsbreyta, né lífsgæða og lýðfræðilegra breyta fyrir utan aldur. Eldri sjúklingar voru með marktækt betri lífsgæði en yngri sjúklingar. Meðalfjöldi endurhæfingarþarfa var 3,3 (T1), 2.97 (T2) og 3,2 (T3) og munurinn ekki marktækur. Algengustu endurhæfingarþarfirnar tengdust þreytu, verkjum, svefnleysi og kvíða.

Ályktun: Þátttakendur upplifðu marktækt verri lífsgæði yfir 6 mánaða tímabil frá upphafi lyfjameðferðar. Lífsgæðin mældust verst á kynlífs -og líkamlegum þáttum spurningalistans. Meðalfjöldi endurhæfingarþarfa var svipaður yfir tímabilið og flestar tengdust líkamlegum vandamálum.

 

V-89      Andlát eftir heimferð frá bráðamóttöku Landspítala Hringbraut

Oddný S. Gunnarsdóttir1, Vilhjálmur Rafnsson2

1Skrifstofu vísinda, kennslu og þróunar, Landspítala, 2 rannsóknastofu í heilbrigðisfræði, læknadeild HÍ

oddnysgu@landspitali.is

Inngangur: Aftursýnar rannsóknir á þeim sem útskrifuðust af bráðamóttökum og létust skömmu síðar hafa sýnt að andlátin komu óvænt, þau tengdust sjúkdómsgreiningu við útskrift frá bráðamóttökunni eða gáfu til kynna læknamistök. Meira en 20% þeirra sem fóru heim af bráðamóttökunni fengu illa skilgreindar sjúkdómsgreiningar. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta tengsl illa skilgreindar sjúkdómsgreininga (R-flokkurinn samkvæmt Alþjóðlegu tölfræðiflokkun sjúkdóma) við dánarmein þeirra sem létust innan 8, 15 og 30 daga eftir heimferð frá bráðamóttökunni.

Aðferð: Þetta er framsýn rannsókn og gögnin eru rafrænar skrár frá bráðamóttökunni á tímabilinu 1995 til 2001. Í skránum voru upplýsingar um kyn, aldur, kennitölu, komudag og sjúkdómsgreiningu. Dánarmein voru fundin úr Dánarmeinaskrá með samkeyrslu á kennitölum. Reiknað var hættuhlutfall (hazard ratio, HR) og 95% öryggismörk (ÖM) í tímaháðri greiningu þar sem dánartíðni þeirra með illa skilgreindar sjúkdómsgreiningar var borin saman við dánartíðni þeirra sem fengu aðrar sjúkdómsgreiningar.

Niðurstöður: Af þeim sem létust innan 8 daga voru 11% með illa skilgreindar sjúkdómsgreiningar við útskrift. Dánartíðni innan 8 daga var 208,5, innan 15 daga 347.4 og innan 30 daga 648.6 á hverja 100.000. HR hjá körlum sem létust innan 8 daga var hærra en hjá konum og aldur tengdist hækkaðri dánartíðni. HR þeirra með illa skilgreindar sjúkdómsgreiningar miðað við þá með aðrar sjúkdómsgreiningar var 0,44(95% ÖM 0.20 til 0.96) að teknu tilliti til aldurs og kyns.

Ályktun: Dánartíðni þeirra sem létust innan 8 daga er talsvert hærri en fundist hefur í tveimur bandarískum rannsóknum, sem gæti skýrst af því að auðvelt er að fylgja fólki eftir í Þjóðskrá og Dánarmeinaskrá hér á landi. Þeir sem útskrifast af bráðamóttökunni með illa skilgreindar sjúkdómsgreiningar hafa lægri dánartíðni en aðrir, en óvíst er hvort það er ásættanlegt að einstaklingar látist skömmu eftir útskrift með þessa sjúkdómsgreiningar og spurning vaknar um hvort viðkomandi hafi verið rétt metnir á móttökunni.

 

V-90      Áhættumat hjarta- og æðasjúkdóma fyrir fimmtugt – samanburður á hlutfallslegri og raunverulegri áhættu í áhættureiknivél

Geir Hirlekar1, Thor Aspelund1,2, Vilmundur Guðnason1-2, Þórarinn Guðnason1,2,3, Karl Andersen1,2,3

1HÍ, 2Hjartavernd, 3Landspítala

geir@hi.is

Inngangur: Í nýjum leiðbeiningum Evrópsku hjartalæknasamtakanna ESC í september 2007 um forvarnir hjarta- og æðasjúkdóma er mælt með að notast við hlutfallslega áhættu (relative risk) fremur en raunáhættu (absolute risk) hjá konum og ungu fólki. Með því að notast við hlutfallslega áhættu hjá þessum hópum má reyna að finna þá sem eru í margfaldri áhættu miðað við jafnaldra. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman hefðbundna aðferð með áhættureiknivél Hjartaverndar sem styðst við raunáhættu og að reikna hlutfallslega áhættu einstaklings miðað við markgildi. Leitað var svara við þeirri spurningu hvort hlutfallsleg áhætta væri betri aðferð til aðgreiningar en raunáhætta.

Aðferðir: Notuð voru gögn úr Hóprannsókn Hjartaverndar (The Reykjavík study). Alls 15.763 einstaklingar á aldrinum 36-64 ára. Kransæðasjúkdómur var skilgreindur sem einhver af atburðunum kransæðastífla, hjáveituaðgerð eða kransæðavíkkun. Aðferðafræði í samræmi við Systematic Coronary Risk Evaluation (SCORE) rannsóknina var notuð. Aðgreiningarhæfnin var metin með aðgreiningarferlum (ROC gröfum).

Niðurstöður: Alls fengu 188 (2,2%) konur kransæðasjúkdóm innan 10 ára. Af konum yngri en fimmtíu ára fengu 34 (1,0%) kransæðasjúkdóm innan 10 ára. 314 (4,1%) karlar fengu kransæðasjúkdóm innan 10 ára. Af körlum yngri en fimmtíu fengu 187 (5,3%) kransæðasjúkdóm innan 10 ára. Núverandi reiknivél miðar við að fólk með 10% raunáhættu eða meira sé í mikilli áhættu. Miðað við þá vinnureglu er næmið 8,0% hjá konum almennt. Hjá konum yngri en fimmtugt er næmið ekkert eða 0%. Líkur á að fá kransæðasjúkdóm innan 10 ára hjá konum yngri en fimmtíu með viðmiðið 3,0 í hlutfallslega áhættu gefur 0,83 í area under the curve (AUC). Næmi 62%, sértæki 83%, jákvætt forspárgildi 3,6% og neikvætt forspárgildi 99,5%. Hjá körlum yngri en fimmtíu með viðmiðið 3,5 í hlutfallslega áhættu gefur 0,68 í AUC. Næmi 44%, sértæki 81%, jákvætt forspárgildi 11% og neikvætt forspárgildi 97%.

Ályktun: Hlutfallsleg áhætta bætir aðgreiningarhæfni áhættureiknivélarinnar hjá konum yngri en fimmtíu ára.

 

V-91    Ættlægni skyndidauða af völdum hjartasjúkdóma

Þorgeir Gestsson1, Anna Helgadóttir2, Kristleifur Kristjánsson2,Guðbjörn F. Jónsson2, Gestur Þorgeirsson1

1Lyflækningasviði I Landspítala, 2Íslenskri erfðagreiningu

thorgg@landspitali.is

Inngangur: Á höfuðborgarsvæðinu deyja árlega um 60 manns skyndidauða utan sjúkrahúsa. Stærstur hluti þeirra dauðsfalla er vegna undirliggjandi hjartasjúkdóma.

Markmið: Að rannsaka þátt ættlægni í skyndidauða af völdum hjartasjúkdóma.

Aðferðir: Notaðar voru skýrslur neyðarbíls um hjartastoppstilfelli utan sjúkrahúsa á Reykjavíkursvæðinu á árunum 1987-2005. Öll árin hefur neyðarbílslæknir skráð skv. Utstein skilmerkjum m.a. takttruflun á fyrsta riti, viðbragðstíma, líklegustu orsök hjartastoppsins o.fl. Í þessari rannsókn voru eingöngu tilfelli skyndidauða sem voru talin orsökuð af hjartasjúkdómi. Hjartastopp til dæmis vegna eitrana, drukknunar og heilablæðinga voru útilokuð. Úr skýrslunum var sótt kennitala og nafn um 770 sjúklinga og þessar upplýsingar sendar dulskráðar í tölfræðilega rannsókn á skyldleika einstaklinganna. Meðaltalsskyldleikastuðull (kinship coefficient (KC)) var reiknaður út fyrir sjúklingahópinn og út frá því reiknuð hlutfallsleg áhætta á skyndidauða fyrir skyldmenni sjúklings. Marktækni þessara gilda var fundin með því að bera saman sömu gildi fyrir þúsund viðmiðunarhópa sem hver um sig var jafnstór sjúklingahópnum. Viðmiðunarhóparnir voru paraðir við sjúklingahópinn m.t.t. fæðingarárs, fæðingarstaðar og kyns. Útreikningarnir byggðust á ættfræðigagnagrunni Íslenskrar erfðagreiningar.

Niðurstöður: Alsystkini voru með hlutfallslega áhættu 1,85 [1,17-2,95, p gildi 0,009]. Fyrir 1. gráðu ættingja í heild var áhættan 2,03 [1.34 - 3.00, p gildi 0,001].

Ályktun: Í ljós kom að marktækt auknar líkur á skyndidauða voru í 1. gráðu ættingjum einstaklinga sem höfðu fengið hjartastopp. Reikna má með auknum skyldleika innan hóps sjúklinga sem fær hjartastopp miðað við handahófsvalinn viðmiðunarhóp þar sem þekktir eru ættlægir sjúkdómar sem valda skyndidauða. Þeirra helstur er kransæðasjúkdómur. Þó virðist skyldleiki þessa hóps hugsanlega meiri heldur en sambærilegar tölur hafa sýnt um skyldleika fólks með kransæðasjúkdóm eingöngu. Til stendur að bera saman erfðaefni þessa þýðis við erfðaefni hóps sjúklinga með kransæðasjúkdóm í því skyni að finna meingen sem veldur auknum líkum á skyndidauða.

 

V-92      Bólgumiðlar spá ekki fyrir um tilkomu endurþrengsla í stoðnetum

Sigurdís Haraldsdóttir1,3, Dagbjört Helga Pétursdóttir2, Þórarinn Guðnason1, Axel F. Sigurðsson1, Anna Helgadóttir4, Kristján Eyjólfsson1, Sigurpáll Scheving1, Kristleifur Kristjánsson4, Björn Rúnar Lúðvíksson2, Karl Andersen1,3

1Hjartadeild, 2næmisfræðideild Landspítala, 3 læknadeild HÍ, 5 Íslenskri erfðagreiningu

sigurdih@landspitali.is

Inngangur: Stoðnetsísetningum er nú beitt í vaxandi mæli hjá sjúklingum með kransæðaþrengsli en búast má við endurþrengslum hjá 20-30% þessara sjúklinga á fyrstu 3-6 mánuðum eftir kransæðavíkkun. Oft reynist erfitt að greina endurþrengsli og því þarf að grípa til kransæðaþræðingar sem er inngripsmikil greiningartækni. Bólgumiðlar hafa talsvert verið rannsakaðir í kransæðasjúkdómi en minna í greiningu endurþrengsla í stoðnetum.

Markmið: Að kanna á framsæjan hátt hvort nota mætti mælingar á bólgumiðlum til að spá fyrir um tilkomu endurþrengsla í stoðnetum.

Aðferðir: Hundrað og fjórtán sjúklingar sem fóru í kransæðavíkkun og fengu stoðnet voru teknir inn á tímabilinu maí 2005 – júlí 2006. Sjúklingar með bráða kransæðastíflu, fyrri sögu um kransæðasjúkdóm, nýrnabilun og skuggaefnisofnæmi voru útilokaðir. Blóðprufur voru teknar í kransæðavíkkun og 6 mánuðum seinna voru allir kallaðir inn í nýja kransæðaþræðingu og blóðprufa endurtekin. Eftirfarandi bólgumiðlar voru mældir: hs-CRP (CRP Latex HS reagent, Roche Diagnostics), myeloperoxidasi (ELISA, Assay Design Inc.), IL-1b, IL-6, IL-8, MCP-1, VEGF, IFN-g, TNF-a, IL-18 og VCAM-1 (Bioplex Cytokine Assay, BioRad).

Niðurstöður: Tíu sjúklingar duttu út á tímabilinu og því voru samtals 104 sjúklingar með 157 stoðnet metnir. Miðtími frá kransæðavíkkun að endurþræðingu voru 203 dagar (Q1-Q3: 185-233). Meðalaldur var 63 +/-10 ár (spönnun 39-83 ár) og 79% sjúklinga voru karlar. Tíðni áhættuþátta var eftirfarandi: háþrýstingur 61%, háar blóðfitur 49%, sykursýki 14% og reykingar 22%. Lyfjahúðuð stoðnet voru notuð í 35% sjúklinga. Tuttugu og átta sjúklingar (27%) reyndust hafa endurþrengsli, þar af fengu 5 sjúklingar klínísk endurþrengsli sem krafðist kransæðavíkkunar áður en fyrirhuguð endurþræðing fór fram. Það var ekki marktækur munur á áhættuþáttum hjá sjúklingum með endurþrengsli sbr. við sjúklinga án endurþrengsla. Ennfremur reyndust engin tengsl milli styrks bólgumiðla og tíðni endurþrengsla skv. kransæðaþræðingu.

Ályktun: Ofannefndir bólgumiðlar spá ekki fyrir um tilkomu endurþrengsla í stoðnetum.

 

V-93      Minnkuð tjáning PD-1 viðtakans og lækkað hlutfall CD25+ CD4 T fruma hjá SLE sjúklingum samanborið við heilbrigða einstaklinga

Helga Kristjánsdóttir 1,2, Kristján Steinsson1, Iva Gunnarsson3, Þuríður Þorsteinsdóttir1, Marta E. Alarcón-Riquelme2

1Rannsóknastofu í gigtsjúkdómum, Landspítala, 2 Department of Genetics and Pathology, Rudbeck Laboratory, Uppsala University, 3Unit for Rheumatology, Karolinska University Hospital, Solna, Svíþjóð

helgak@landspitali.is

Inngangur: PD-1.3A arfgerðinni var fyrst lýst sem áhættuþætti fyrir SLE í íslenskum fjölskyldum með ættlægan SLE. PD-1 genið skráir fyrir ónæmisviðtakanum PD-1, sem tjáður er á ræstum T og B frumum og gegnir hlutverki í útvefjaþoli í gengum bælingu sjálfnæmra fruma.

Markmið: Að skoða tjáningu PD-1 viðtakans á T-frumum úr SLE sjúklingum og heilbrigðum í tengslum við áhrif PD-1.3A arfgerðina. Rannsóknaþýði: 11 SLE sjúklingar og 17 viðmiðunareinstaklingar.

Aðferði: Einkjarna hvítfrumur ræstar með aCD3 og aCD28. Við 0 og 48 klst. frumur merktar með flúorljómandi einstofna mótefnum gegn PD-1, CD3, CD4, CD8, CD25 og tjáning yfir-
borðssameindanna greind í frumuflæðisjá út frá meðaltals flúórljómun (MFI).

Niðurstöður: Tíðni PD-1.3AG arfgerðar er marktækt hærri hjá SLE sjúklingum (54%) samanborið við viðmiðunarhóp (0%) (p=0.001). Tíðni PD-1.3AA arfhreinna er mjög lág og greindist einn einstaklingur í viðmiðunarhópi. Við t0 og á óræstum frumum við t48 mælist aukning á PD-1 tjáningu, en munur er ekki á milli hópa. Eftir ræsingu með aCD3+CD28 í 48 klst er hlutfall PD-1 jákvæðra fruma marktækt lægra hjá SLE sjúklingum samanborið við viðmiðunarhóp (p=0.0215) og auk þess er marktækt minni PD-1 tjáning (MFI) hjá SLE sjúklingum samanborið við viðmiðunarhóp (p=0.04). Nánari athugun á hópum T-frumna sýnir markækt lækkað hlutfall of CD25+CD4 T fruma hjá SLE sjúklingum (p=0.0215), sem jafnframt tjá marktækt minna af PD-1 (p=0.001). SLE sjúklingar með PD-1.3AG sýna minni PD-1 tjáningu samanborið við SLE sjúklinga með PD-1.3AA arfgerð.

Ályktun: Niðurstöðurnar sýna marktækt minnkaða tjáningu á PD-1 viðtakanum hjá SLE sjúklingum, sem rekja má til martkækt minni PD-1 tjáningar á CD25 jákvæðum CD4 T-frumum, en hlutfall þeirra er auk þess marktækt minna hjá SLE sjúklingum. Frekari rannsóknir þarf til að greina hvort minnkuð PD-1 tjáninga er í beinum tengslum við PD-1.3A arfgerðina. Við ályktum að niðurstöður rannsóknarinnar endurspegli galla í starfsemi CD25 jákvæðra CD4 T fruma hjá SLE sjúklingum, sem PD-1.3A arfgerðin hefur áhrif á.

 

V-94      Könnun á gagnsemi reglulegs mænuskaðaeftirlits á Landspítala fyrir mænuskaðaða einstaklinga á Íslandi

Sigrún Garðarsdóttir1,2, Sigrún Knútsdóttir1, Marta Kjartansdóttir1

1 Endurhæfingardeild Landspítala Grensási, 2 Háskólanum á Akureyri

sigrgard@landspitali.is

Inngangur: Veruleg hætta er á ýmsum fylgikvillum hjá einstaklingum með mænuskaða. Á endurhæfingardeild Landspítala Grensási hófst haustið 1999 reglulegt eftirlit með mænusköðuðum einstaklingum á Íslandi eftir að endurhæfingu er lokið.

Markmið: Að kanna hver voru helstu vandamál og fylgikvillar mænuskaðaðra sem þátt tóku í eftirlitinu á árunum 1999-2006, hvaða úrræða var gripið til að draga úr fylgikvillum og hvort þörf sé á að bæta mænuskaðaeftirlitið enn frekar.

Aðferðir: Afturvirkt mat var gert á niðurstöðum staðlaðs spurningalista frá Norræna Mænuskaðaráðinu sem notaður er í eftirlitinu, þar sem tíðni og magn eftirtalda fylgikvilla voru skoðuð: verkir, sár, þvagfærasýkingar og aðrir fylgikvillar frá þvagfærum, þarmavandamál, aukin vöðvaspenna, kreppur, rangar setstöður og þörf fyrir nýjan hjólastól eða önnur hjálpartæki. Skoðuð voru gögn allra sem höfðu komið í mænu-
skaðaeftirlitið frá því að það hófst haustið 1999.

Niðurstöður: Sjötíu og tveir einstaklingar 18 ára og eldri hafa tekið þátt í eftirlitinu. Hver þeirra hefur komið í 1-4 heimsóknir, alls 145 heimsóknir. Meðalaldur þeirra við fyrsta eftirlit var 46 ár, 54 (75%) karlar og 18 (25%) konur. Háir mænuskaðar voru 41 (57%) og lágir mænuskaðar 31 (43%). Þátttakendur kvörtuðu helst um verki (N=52), þvagfæravandamál (N=37), þarmavandamál (N=22), þrýstingssár (N=29), kreppur (N=32), aukna vöðvaspennu (N=49), bjúg (N=42) og slæma setstöðu og þörf fyrir nýjan hjólastól.

Ályktanir: Árangur eftirlitsins virðist vera góður. Upplýsingar hafa fengist um helstu vandamál og fylgikvilla, til hvað úrræða var gripið og gagnsemi þeirra. Flestir þeirra sem komið hafa í eftirlitið eru ánægðir með það og vilja halda áfram að koma reglulega. Þeir hafa fengið betri innsýn í hugsanlega fylgikvilla og sótt göngudeildarþjónustu sem deildin býður upp á í auknu mæli.

 

V-95      Einföld, hlutlæg greining á asatíðum

Brynja R. Guðmundsdóttir1,3, E. Fanney Hjaltalín1, Guðrún Bragadóttir1, Arnar Hauksson2, Páll Torfi Önundarson1,3

1Blóðmeinafræðideild Landspítala, 2Heilsugæslunni Reykjavík, 3læknadeild HÍ

brynjarg@landspitali.is

Inngangur og markmið: Asatíðir (menorrhagia) geta verið einkenni um kvensjúkdóm eða blæðingasjúkdóm, t.d. von Willebrands sjúkdóm. Klínísk greining asatíða byggir á frásögn konunnar, skoðun og járnskorti. Nákvæm mæling á tíðablóðtapi (alkaline hematin method) gefur kost á því að greina einkennalitlar konur og að meta hlutlægt meðferðarsvörun en aðferðin er flestum rannsóknarstofum ofviða. Aðferðir sem áætla blóðtap, svo sem myndskor, hafa reynst óáreiðanlegar (pictorial blood loss assessment chart, PBAC áætlar blóðtap). Við rannsökuðum hvort vigtun með einfaldri, hreinlegri og ásættanlegri aðferð fyrir konur gæti gefið góða mynd af tíðablóðtapi og svörun við meðferð.

Aðferð: Þátttakendur svöruðu spurningaskema um tíðablæðingar og almenna blæðingahneigð. Við næstu tíðablæðingar söfnuðu allir þátttakendur notuðum bindum, pökkuðu þeim inn í ógagnsæjar loftþéttar umbúðir samkvæmt leiðbeiningum. Notuðu bindin voru vigtuð og talin á rannsóknastofu, áður þekkt þurrvigt dregin frá og mismunurinn var þyngd heildarmagns blæðinga. Vegið magn tíðablóðtaps var borið saman milli hópa kvenna, sem taldar voru hafa eðlilegar, auknar eða minnkaðar tíðablæðingar.

Niðurstöður: Þátttakendur voru 113 og var greiningarhópum skipt í (1) konur með eðlilegar blæðingar (26 fullorðnar og 52 unglingsstúlkur, sem notuðu ekki getnaðarvarnarpillu eða lykkju, (2) sjö með eðlilegar blæðingar á pillunni, (3) sautján ómeðhöndlaðar konur með asatíðir skv. klínísku mati kvensjúkdómalæknis, (4) sex konur sem voru á pillunni vegna asatíða, og (5) fimm unglingsstúlkur með miklar blæðingar að eigin mati. Meðal heildarmagn blæðinga kvenna með eðlilegar blæðingar var 51g±4 (5-144), enginn munur var milli unglingsstúlkna og fullorðinna. Meðal heildarmagn blæðinga hjá konum með asa-tíðir var 217g±26 (63 – 402)(p<0,001, Mann-Whitney próf). Pillan minnkaði eðlilegar blæðingar í 13g±2 (3-19)(p<0,0001) og asa-
tíðir í 74±21 (28-140)(p<0,01).

Ályktun: Vigtun greindi á milli hópanna og gefur vísbendingu um að aðferðin sé nothæf til greiningar á asatíðum og svörun við meðferð.

 

V-96      Æðaþelsfrumur örva vöxt og sérhæfingu brjóstaþekjufruma í þrívíðri frumuræktun

Sævar Ingþórsson, Valgarður Sigurðsson, Magnús Karl Magnússon, Þórarinn Guðjónsson

Rannsóknastoua í stofnfrumufræðum, blóðmeinafræðideild Landspítala, líffærafræði læknadeildar HÍ

saevari@hi.is

Inngangur: Vaxandi þekking á vefjamyndun líffæra bendir til þess að æðaþelsfrumur spili stórt hlutverk í þroskun og sérhæfingu vefja. Nýlegar rannsóknir benda einnig til að æðaþel gegni lykilhlutverki í stofnfrumuvist (e. niche) í ýmsum líffærum. Lítið er hins vegar vitað um áhrif æðaþels á sérhæfðar þekjufrumur (kirtilþekju- og vöðvaþekjufrumur) og stofnfrumur í brjóstkirtli. Nauðsynlegt er að auka þekkingu á vefjamyndun í brjóstkirtli þar sem líklegt er að sú vitneskja auðveldi frekari kortlagningu fyrstu skrefa brjóstakrabbameinsmyndunar.

Markmið: Þróun vefjaræktunarmódels sem líkir eftir aðstæðum í brjóstkirtli og nýting slíks módels til að kanna áhrif æðaþelsfruma á vöxt og formgerð sérhæfðra þekjufruma og stofnfruma í brjóstkirtli.

Aðferðir: Ferskar æðaþelsfrumur og þekjufrumur voru einangraðar úr brjóstaminnkunaraðgerðum skv stöðluðum aðferðum. Einnig var notast við brjóstaþekjufrumulínurnar D382 (kirtil- þekjufrumulína) og D492 (stofnfrumulína). Þekjufrumum var steypt ásamt æðaþeli í grunnhimnuefni og áhrif æðaþels á formgerð og stærð frumu¬þyrpinga metin. Til að meta áhrif leysanlegra þátta voru frumurnar ræktaðar aðskildar með Transwell filtrum ásamt því að notuð voru hindrandi mótefni gegn vaxtarþáttunum hepatocyte growth factor (HGF) og epidermal growth factor (EGF).

Niðurstöður: Í samrækt með kirtilþekjufrumum stuðlaði æðaþel að myndun kirtilberja og aukningu á fjölda kirtilberja. Kirtilberin mynda miðlægt hol líkt því sem sést í brjóstkirtlinum Þessi holmyndun eykst mikið í samrækt með æðaþeli. Sambærilegar niðurstöður fást í samrækt með D382 þó er holmyndun ekki eins áberandi og hjá primary frumunum. Æðaþelsfrumur örva vöxt vöðvaþekjufruma en formgerð er óbreytt miðað við viðmiðunarrækt. D492 stofnfrumulínan myndar greinótta kirtilganga í þrívíðri rækt ef frumurnar eru ræktaðar í ákveðnum þéttleika. Æðaþelsfrumurnar stuðla hins vegar að klónal vexti kirtilgangana út frá einni frumu. Þegar frumurnar voru samræktaðar aðskildar með Transwell filtrum hafði æðaþelið einnig vaxtarhvetjandi áhrif.

Ályktun: Þessar rannsóknir sýna að æðaþelsfrumur hvetji vöxt og sérhæfingu brjóstaþekjufruma í þrívíðri rækt, og er líklegt að þessum áhrifum sé m.a. miðlað af leysanlegum vaxtarþáttum frá æðaþeli. Rannsóknir okkar benda einnig til þess að æðaþel sé mikilvægur þáttur í vist stofnfruma í brjóstkirtli. Áframhaldandi rannsóknir okkar miða að því að sundurgreina þá þætti frá æðaþelinu sem stuðla að vexti og formmyndun þekjuvefjar og einnig að greina þá ferla í þekjuvefsfrumum sem spila lykilhlutverk greinóttri formgerð brjóstkirtilsins.

 

V-97      Tjáning sprouty próteina í lungnaþekjufrumulínunni VA10

Ari Jón Arason, Ólafur Baldursson, Þórarinn Guðjónsson, Magnús Karl Magnússon

Rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum, líffærafræðideild læknadeildar HÍ, blóðmeinafræðideild Landspítala, lyfjafræðideild HÍ, lungnadeild Landspítala

aja1@hi.is

Inngangur: Týrósín kínasa viðtakar (RTK) og innanfrumuferlar tengdir þeim spila lykilhlutverk í myndun greinóttrar formgerðar ýmissa líffæra, þ.m.t. lungna. Nýlegar rannsóknir sýna að RTK er stýrt af sprouty prótein fjölskyldunni. Sprouty fjölskyldan samanstendur af fjórum próteinum, sprouty 1-4. VA10 er berkjufrumulína sem búin var til á rannsóknastofu okkar (Halldórsson et al In Vitro 2007). Hún myndar greinótta berkju-alveolar formgerð í þrívíðri rækt sem bendir til þess að frumulínan búi yfir ákveðnum stofnfrumeiginleikum.

Markmið: Að kanna tjáningu Sprouty próteina í VA10 frumulínunni í tvívíðum ræktunum og í framhaldi að rannsaka hvaða áhrif sprouty próteinin hafa á berkju-alveolar formbyggingu í þrívíðri rækt.

Aðferðir: VA10 frumulínan var ræktuð í tvívíðri rækt á sérhæfðu lungnaþekjufrumuæti. Prótein og RNA var einangrað við mismunandi vaxtaraðstæður frumanna til að fá sem heildstæðasta mynd af tjáningu valinna próteina. Tjáning á sprouty í VA10 var metin með mótefnalitunum og Western blettun. Rauntíma PCR (q-RT-PCR) var notað til að rannsaka mRNA tjáningu.

Niðurstöður: Sprouty 1 og 3 eru almennt lítið tjáð í VA10. Greinileg aukning þessara próteina verður við svelti frumanna sem bendir til tengingar við vaxtarstopp. Tjáning sprouty 4 magnast við aukna þéttni rækta. Það gefur til kynna tengingu við temprun á vaxtarboðum gegnum RTK, þar sem frumurnar hlýða vaxtarstöðvandi skilaboðum við aukna þéttni í rækt. Við ofurþéttni hrapar þessi tjáning hins vegar. Þar er sprouty 2 lang mest tjáða sprouty próteinið en tjáning þess er tiltölulega stöðug við mismunandi þéttni rækta.

Ályktanir: Rannsóknir okkar sýna að tjáning Sprouty er breytileg eftir aðstæðum Það að VA10 myndi greinótta berkju-alveolar formgerð í þrívíðri rækt býður upp á mikla möguleika á að hægt verði að rannsaka betur þá innanfrumuboðferla sem stýra greinóttri formgerð lungna. Næstu skref eru að athuga hvaða hlutverk sprouty spilar við myndun greinóttrar formgerðar lungna.


V-98      Tjáning Sprouty próteina í greinóttri formgerð brjóstkirtils

Valgarður Sigurðsson, Þórarinn Guðjónsson, Magnús Karl Magnússon

Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum, blóðmeinafræðideild Landspítala, líffærafræði læknadeildar HÍ

valgardu@landspitali.is

Inngangur: Boðferlar sem taldir eru mikilvægir fyrir greinótta formgerð ýmissa vefja eru vel varðveittir milli mismunandi líffæra. Boð gegnum tyrosín kínasa viðtaka eru dæmi um slíka boðferla. Innanfrumustjórnprótein sem tilheyra sprouty fjölskyldunni hafa áhrif á virkni týrósín kínasa viðtaka og hafa fundist fjögur mismunandi sprouty gen í spendýrum; sprouty-1, 2, 3 og 4. Sprouty prótein gegna mikilvægu hlutverki í myndun greinóttrar formgerðar í lungum, nýrum og æðakerfi og nýlegar rannsóknir gefa til kynna að sprouty prótein séu mögulega æxlisbæligen. Hlutverk þeirra og tjáning í brjóstkirtli hefur lítið verið kannað.

Markmið: Að skilgreina tjáningamynstur sprouty próteina í eðlilegum brjóskirtli og í greinóttri formgerð brjóstastofnfruma í þrívíðri rækt.

Efni og aðferðir: Tjáning sprouty í brjóstavef, ræktuðum frumum og þrívíðum frumuræktunum var metin með mótefnalitunum, western blettun, og rauntíma-PCR (Q-RT-PCR).

Niðurstöður: Q-RT-PCR tilraunir sýndu litla tjáningu sprouty-1 í brjóstavef en mótefnalitanir á vefjasneiðum sýna að sprouty-2 er mikið tjáð í Þekjufrumum en minna í stoðvefsfrumum brjóstkirtils. Q-RT-PCR sýnir meiri tjáningu sprouty-2 í kirtilþekju (2,5-20 falt) en vöðvaþekju. Mótefnalitanir gefa til kynna að sprouty-3 tjáning sé einkum í vöðvaþekjufrumum en sprouty-4 finnst aðallega í æðaþelsfrumum. Til að kanna tjáningu sprouty gena í þrívíðri rækt brjóstastofnfruma var einangrað RNA á ræktunardögum (RD)-12, RD-14 og RD-16 og framkvæmt Q-RT-PCR. Sprouty-1 tjáning fannst ekki en tjáning sprouty-2 var allt að 17 falt meiri á RD-14 miðað við RD-12. Ekki sást marktækur munur á tjáningu sprouty-3 en mikill munur var á tjáningu sprouty-4 eftir dögum. Mest var tjáning sprouty-4 á RD-12 þar sem 38 faldur munur var á RD-12 og RD-16.

Ályktun: Tjáning sprouty-2 virðist vera mest í kirtilþekju, sprouty-3 í vöðvaþekju og sprouty-4 tjáning í æðaþelsfrumur. Tjáning sprouty-1 er mjög lítil í brjóstavef. Tjáning sprouty-2 og sprouty-4 breytast mikið meðan á myndun greinóttrar formgerðar brjóstastofnfruma á sér stað. Niðurstöðurnar gefa sterklega til kynna að sprouty prótein hafi áhrif á greinótta formgerð brjóstkirtils og áframhaldandi vinna miðar að því að kanna nánar hlutverk sprouty í þessu ferli.

 

V-99      Aukið algengi sjálfsofnæmissjúkdóma á meðal einstaklinga með IgA skort og fyrstu gráðu ættingja þeirra

Guðmundur H. Jörgensen1,5, Ingunn Þorsteinsdóttir2, Sveinn Guðmundsson3, Lennart Hammarström4, Björn R. Lúðvíksson1,5

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknarstofnun Landspiíala, 3blóðbanka Íslands 4ónæmisfræðideild Karolinska spítali, Huddinge, Svíþjóð, 5ónæmisfræðideild Landspítala

gudmhj@landspitali.is

Inngangur: Sértækur skortur á mótefnaflokki A (IgA) er skilgreindur sem magn IgA í sermi ≤0,07g/L, og eðlilegt magn IgG og IgM. Sértækur IgA skortur (IgAD) er einn algengasti meðfæddi ónæmisgallinn í mannfólki með algengið um 1:500 í N-Evrópu. Tengsl IgAD við sjúkdóma eru ekki klár en aukin tíðni sýkinga, ofnæmis, astma og sjálfsofnæmissjúkdóma er talin vera til staðar.

Algengi sjálfsofnæmissjúkdóma í vestrænum löndum er talið 3-5%, en á meðal einstaklinga með IgAD er algengið á bilinu 7-36%. Orsakatengsl IgAD við sjálfsofnæmissjúkdóma eru ekki ljós en hugsanleg skýring er að báðir sjúkdómarnir eigi að einhverju leyti sameiginlegan erfðafræðilegan bakgrunn.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar er að meta algengi sjálfsofnæmissjúkdóma á meðal fyrstu gráðu ættingja einstaklinga með IgAD. Þetta er hluti af stærri rannsókn á IgAD á Íslandi.

Aðferðir: Alls 43 einstaklingar með IgAD, úr blóðbankaskimunum (16) og frá rannsóknarstofnun LSH (27) á tímabilinu 1992-2006, voru kallaðir inn til skoðunar. Tekin var ýtarleg saga og fjölskyldusaga um sjúkdóma og í kjölfarið gerð læknisskoðun og rannsóknir. Fyrstu gráðu ættingjar voru kallaðir inn til blóðprufu og sjúkdómasaga tekin og fjölskyldusaga staðfest.

Niðurstöður: Alls voru 18,6% (8/43) IgAD einstaklinga með sjálfsofnæmissjúkdóma og 25% (8/32) af fullorðnum IgAD einstaklingum. Þeir IgAD einstaklingar sem jafnframt höfðu sjálfsofnæmissjúkdóm reyndust í 62,5% tilfella (5/8) eiga fyrstu gráðu ættingja með sjálfsofnæmissjúkdóm. Af 269 fyrstu gráðu ættingjum reyndust 10% (27/269) vera með sjálfsofnæmissjúkdóm sem er tvöfalt hærra en áætlað algengi í þjóðfélaginu.

Ályktun: Sterk tengsl eru milli IgAD og sjálfsofnæmissjúkdóma. Þar sem um verulega aukna tíðni sjálfsofnæmissjúkdóma meðal ættingja IgAD einstaklinga er að ræða, þá benda niðurstöður til sameiginlegs erfðafræðilegs bakgrunns þessara tveggja sjúkdóma.

 

V-100    Háskammta krabbameinslyfjameðferð og ígræðsla eigin stofnfrumna á Landspítala – reynslan fyrstu fjögur árin

Sigrún Reykdal1, Þórunn Sævarsdóttir1, Leifur Thorsteinsson2, Guðmundur Rúnarsson1, Steinunn J. Matthíasdóttir2, Erna Guðmundsdóttir2, Brynjar Viðarsson1, Vilhelmína Haraldsdóttir1, Ólafur E. Sigurjónsson2, Sveinn Guðmundsson2 , Hlíf Steingrímsdóttir1

Blóðlækningadeild1, Blóðbankanum Landspítala2

sigrunre@landspitali.is

Inngangur og markmið: Ígræðsla eigin stofnfruma í kjölfar háskammta krabbameinslyfjameðferðar hjá sjúklingum með illkynja blóðsjúkdóma, hefur verið framkvæmd á Landspítala frá því í ársbyrjun 2004. Markmið rannsóknar var að meta meðferðarárangur fyrstu fjögur árin.

Aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og byggir á upplýsingum fengnum úr sjúkraskrám. Lifun var metin með Kaplan-Meier aðferð.

Niðurstöður: Alls hefur verið safnað stofnfrumum úr blóði hjá 73 sjúklingum og framkvæmdar 54 ígræðslumeðferðir. Meðalaldur við ígræðslumeðferðina var 54,5 ár, 36 karlar og 18 konur. Alls voru 25 sjúklingar með eitilfrumukrabbamein, 5 með Hodgkins sjúkdóm, 28 með mergfrumuæxli eða annan plasmafrumusjúkdóm og einn með bráða mergfrumuhvítblæði. Ekki tókst að safna stofnfrumum hjá tveimur sjúklingum á tímabilinu. Hjá 7 sjúklingum tókst stofnfrumusöfnun í annarri tilraun og hjá einum í þriðju tilraun. Fjöldi safnana fyrir allan hópinn var 165, eða 2,26 safnanir á hvern einstakling. Heildarsöfnun fyrir hvern einstakling var að meðaltali 9,3 x106 CD34+ frumur /kg (spönnun 3-38.9 x106 CD34+ frumur /kg). Marktæk tengsl voru milli fjölda CD34+ frumna og fjölda hvítfrumu kólónía (CFU-GM). Undirbúningsmeðferð fyrir ígræðslu hjá sjúklingum með eitilfrumukrabbamein var BEAM (BCNU, Etoposide, Ara-C og Melphalan), Melphalan 140-200mg/m2 hjá sjúklingum með mergfrumuæxli og Busulfan og Cyclofosfamíð hjá sjúklingum með bráða hvítblæði. Meðallegutími á blóðlækningadeild var 21,6 dagar. Tími til rótunar (engraftment): Neutrofílar > 0,5x109/L á degi 12 eftir stofnfrumuinngjöf, blóðflögur > 20x109/L á degi 12 og blóðflögur > 50x109/L á degi 23. Neupogen var gefið að meðaltali í 3,5 daga. Nær allir sjúklingarnir fengu hita en engar lífshættulegar sýkingar. Hundrað daga dánartíðni var 0%. Heildarlifun fyrir allan hópinn var 89%.

Ályktun: Fjöldi ígræðslumeðferða hefur þrefaldast á tímabilinu. Stofnfrumusöfnun úr blóði tókst í nær öllum tilvikum og heildarárangur er sambærilegur við það sem best gerist í nálægum löndum.


V-101    Greining taugastofnfrumna með þyrpingaræktunum í Pogz -/- músafóstrum

Anna María Halldórsdóttir1, Jonathan R. Keller2, Kristbjörn Orri Guðmundsson1,2, Ólafur E. Sigurjónsson1,3

Blóðbankanum Landspítala1, Laboratory of Molecular Immunoregulation, National Cancer Institute, Frederick, USA2, tækni og verkfræðideild  HR3

oes@landspitali.is

Inngangur: Neurospherur myndist frá taugastofnfrumu og hægt sé að sérhæfa þær yfir í taugafrumur og taugastoðfrumur. Því hefur einnig verið var haldið fram að hver neurosphera sé afurð einnar taugastofnfrumu þannig að fjöldi neurosphera sem ræktast úr tauga vefsýni jafngildi fjölda taugastofnfrumna. Þetta er ekki rétt og eru vísindamenn sammála um það að neuro-
spherur séu ýmist myndaðar af taugastofnfrumum eða taugaforverafrumum með mismikinn hæfileika til fjölgunar og sérhæfingar. Nýlega lýstum við pogz geninu sem við útslátt í músum (knock out) leiðir ýmist til fósturdauða eða verulegs skaða í taugakerfinu Pogz er m.a. tjáð í blóðmyndandi stofnfrumum, taugastofnfrumum, mesenchymal stofnfrumum og músafósturstofnfrumum.

Markmið: Tilgangur þessa verkefnis var að reyna að fá vísbendingar um hvort að skekkt hlutfall taugaforverafrumna og taugastofnfrumna í pogz-/- og pogz+/+ músafóstrum skýri skaða í taugakerfinu við útslátt pogz.

Aðferðir: Neural-Colony Forming Cell Assay (N-CFCA) var notað til að greina á milli stofnfrumna og forverafrumna. N-CFCA greinir á milli stofnfruma og forverafrumna með tilliti til fjölgunargetu og byggir á þyrpingaræktum. Stórar þyrpingar (≥ 2 mm í þvermál) sýna eiginleika stofnfrumna á meðan minni þyrpingar (≤ 2mm) gera það ekki.

Niðurstöður: Úr pogz-/- ræktuðust að meðaltali 45 þyrpingar fyrir hverjar 2500 frumur (2%) á meðan að í viðmiðunar músunum ræktuðust 130 þyrpingar fyrir hverja 2500 frumur (5%). Ef borinn er saman annars vegar fjöldi þyrpinga þess sem skilgreint er stofnfrumur (≥ 2 mm) og forverafrumur (< 2 mm), þá ræktast engar stofnfrumur úr pogz-/- neurospherunum á meðan að um það bil sex þyrpingar ræktast í viðmiðunarræktunum (0,2 %). Pogz-/- neurospherurnar sérhæfðust bæði yfir í stoðfrumur og taugafrumur í skilyrtu æti. Munur var á sérhæfingarhraða frumnanna og virtist sem svo að þær frumur sem voru sérhæfðar frá pogz-/- neurospherunum sérhæfðust fyrr (á 3-4 dögum) á meðan að viðmiðunar neurospherurnar sérhæfðust mun hægar (á 6-8 dögum).

Ályktun: Pogz útsláttur virðist leiða til fækkunar í taugastofnfrumum og óeðlilegrar taugamyndunar. Frekari rannsóknir eru í gangi til að skilgreina þessar niðurstöður nánar.

 

V-102    Tjáning á Kítínasa líkum próteinum í mesenchymal stofnfrumum

Stefán Ágúst Hafsteinsson1, Jón M. Einarsson2, Jóhannes Björnsson3, Jóhannes Gíslason2, Ólafur E. Sigurjónsson1,4

Blóðbankanum Landspítala1, Genís ehf 2, rannsóknastofu HÍ í meinafræði2, tækni- og verkfræðideild HR 4

oes@landspitali.is

Inngangur: Kítínasalík prótein (CLP) heyra til genafjölskyldu kítínasa og hafa varðveitt kítínbindisetið frá kítínasanum. Sýnt hefur verið fram á tilvist þessara próteina í plöntum og dýrum en niðurstöður rannsókna benda til að þau gegni mikilvægu en óskilgreindu hlutverki í ónæmiskerfinu, frumuboðskiptum og í vefjaummyndun hjá hryggdýrum. Sérstaklega áhugaverðar eru niðurstöður sem gefa til kynna hlutverk CLP í vefjamyndun í fósturþroska hryggdýra. Fyrri niðurstöður okkar benda til að kítín afleiður geti örvað stofnfrumur til nýmyndunarbrjósk- og beinvefs in vivo, sem gefur vísbendingu um að þessi efni geti gegnt klínísku hlutverki við nýmyndun skaddaðra vefja og þar með meðhöndlun ýmissa hrörnunarsjúkdóma. Mesenchymals stofnfrumur eru fjölhæfar frumur sem hægt er að fjölga í rækt og sérhæfa a.m.k. yfir í fituvef, beinvef og brjóskvef. Lítið er vitað um tjáningu og hlutverk CLP í mesenchymal stofnfrumum, sýnt hefur verið fram á að CLP eru tjáð í brjóskfrumum.

Markmið: Í þessari rannsókn var markmiðið að kanna tjáningu á kítínasalíku próteinum í mesenchymal stofnfrumum.

Aðferðir: Mesenchymal stofnfrumur, einangraðar úr beinmerg, voru ræktaðar í fjórar umsáningar, RNA var einangrað og víxl fjölliðunar hvarf (RT-PCR) gert til að kanna tjáninguna á kítínasalíkum próteinum.

Niðurstöður: Fyrstu niðurstöður sýna að mesenchymal stofnfrumur tjái kítinasalíka próteinið, YKL-40.

Ályktanir: Þetta er í fyrsta skiptið sem sýnt hefur verið fram á tjáningu á kítinasalíku próteinum í mesenchymal stofnfrumum. Næstu skref eru að athuga próteintjáningu þessara gena og kanna áhrif kítósan á tjáningu þessara próteina.

 

V-103    Tjáning á bakteríudrepandi peptíðum í mesenchymal stofnfrumum, beinfrumuræktum og brjóskfrumuræktum

Una K. Pétursdóttir1*, Rósa Halldórsdóttir1*, Jóhannes Björnsson2, Guðmundur Hrafn Guðmundsson3, Ólafur E. Sigurjónsson1,4

Blóðbankanum Landspítala1, rannsóknastofu HÍ í meinafræði2, líffræðiskor HÍ3, tækni- og verkfræðideild HR4, - jafnt framlag*

oes@landspitali.is

Inngangur: Bakteríudrepandi peptíð eru hluti af meðfædda ónæmissvarinu sem tekur þátt í fyrstu vörn gegn bakteríu-, sveppa- og veirusýkingum. Ólíkt flestum sýkladrepandi lyfjum virðist sem svo að bakteríudrepandi peptíð geti einnig aukið og dregið úr ónæmissvarinu með ónæmisstýringum. Meðal þessara bakteríudrepandi peptíða eru beta-defensin 1-3 og LL-37, sem hafa áhrif á gram-neikvæðar bakteríur, sveppi, mycobakteríur og umluktar veirur. Þessi peptíð hafa verið greind í daufkyrningum, átfrumum, epithelial frumum, sýktu brjóski og beini. Mesenchymal stofnfrumur eru fjölhæfar frumur sem hægt er að fjölga í rækt og sérhæfa a.m.k. yfir í fituvef, beinvef og brjóskvef. Mesenchymal stofnfrumur (MSC) hafa, undir vissum kringumstæðum, hlutverki að gegna í stýringu ónæmissvars. Ekki hefur verið sýnt fram á tilvist bakteríudrepandi peptíða í mesenchymal stofnfrumum en vitað er að þau eru tjáð í sýktum brjóskvef og beinvef.

Markmið: Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna tjáningu á bakteríudrepandi peptíðum í mesenchymal stofnrumum og sérhæfðum brjóskfrumum og beinfrumum

Aðferðir: Mesenchymal stofnfrumur, einangraðar úr beinmerg, voru ræktaðar í fjórar umsáningar og sérhæfðar yfir í beinfrumur og brjóskfrumur. RNA var einangrað og víxl fjölliðunar hvarf (RT-PCR) gert til að kanna tjáninguna á bakteríudrepandi peptíðum.

Niðurstöður: Okkar niðurstöður sýna að bakteríudrepandi peptíðin HBD1,3 og LL-37 eru tjáð í MSC. Hins vegar er HBD-2 ekki tjáð og er það í samræmi við tjáningamynstur þess, sem er aðallega í sýktum vefjum. HBD-1 var tjáð í beinræktum, HBD-3 var með veika tjáningu í bein- og brjóskræktum á meðan LL-37 sýndi veika tjáningu í beinræktunum.

Ályktanir: Þetta eru fyrstu niðurstöður sem vinna að því að kortleggja tjáningu á bakteríudrepandi peptíðum í MSC, beinræktum og brjóskræktum.

 

V-104    Sýkingar í beinum og liðum hjá íslenskum börnum 1996-2005

Ásgeir Þór Másson1, Þórólfur Guðnason1,2,3, Guðmundur K. Jónmundsson1,2, Helga Erlendsdóttir1,4, Már Kristjánsson1,5, Karl G. Kristinsson1,2,4, Ásgeir Haraldsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins, 3landlæknisembættinu, 4sýklafræðideild, 5smitsjúkdómadeild Landspítala

asgeir@landspitali.is

Inngangur: Sýkingar í beinum og liðum geta haft alvarlegar afleiðingar, örugg og skjót greining og markviss meðferð er mikilvæg.

Markmið: Að kanna faraldsfræðilega þætti sýkinga í beinum og liðum hjá börnum á Íslandi.

Aðferðir: Afturvirk rannsókn á sjúkraskrám barna (<18 ára) sem lögðust inn á Barnaspítala Hringsins á árunum 1996-2005 með greininguna sýking í beini eða sýking í lið.

Niðurstöður: 201 barn var tekið í rannsóknina, 149 með sýkingu í beini og 52 með sýkingu í lið. Aldursstaðlað nýgengi var 25,7 /105/ár fyrir báðar sýkingarnar, mismunur milli ára var ekki marktækur (p=0,086). Meðalaldur barna með sýkingar í beini var 6,6 ár en 4,1 fyrir börn með sýkingar í lið (p=0,002). Nýgengið fyrir báðar sýkingar var hæst hjá yngstu börnunum (p<0,0001) og hækkaði marktækt í yngsta aldurshópnum allt rannsóknartímabilið (p=0,0399). Ræktanir voru jákvæðar í 57% af beinsýkingum og í 44% af liðsýkingum. S. aureus var algengasta bakterían (65% beinsýkinga og 22% liðsýkinga) næstalgengust var K. kingae (7% og 14%). MRSA fannst ekki. Sýking í sköflungi var algengasta beinsýkingin (20%) og algengasta liðsýkingin var í hné (54%)

Ályktun: Rannsóknin leiðir í ljós vaxandi nýgengi sýkinga í beinum og liðum hjá ungum börnum á Íslandi. S. aureus er algengasta bakterían, næstalgengust er K. kingae. Niðurstöðurnar ber að hafa í huga við val á fyrstu sýklalyfjum barna með sýkingar í beinum og liðum á Íslandi.        

 

V-105    Hemólýtískir streptókokkar af flokki B í börnum

Guðrún Lilja Óladóttir1, Helga Erlendsdóttir1,2, Gestur Pálsson1,3, Karl G. Kristinsson1,2, Ásgeir Haraldsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2sýklafræðideild Landspítala, 3Barnaspítala Hringsins

asgeir@landspitali.is

Inngangur: Streptókokkar af flokki B (GBS), valda alvarlegum sýkingum hjá börnum og nýburum. GBS flokkast í níu hjúpgerðir. Algengi hjúpgerða og nýgengi sýkinga eru breytileg yfir tíma og milli landa.

Markmið: Að kanna faraldsfræðilega þætti GBS sýkinga barna á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn barna (<16 ára) með jákvæða GBS ræktun blóðs eða mænuvökva á árunum 1975-2006. Úr sjúkraskrám var aflað upplýsinga varðandi klíníska þætti tengda meðgöngu, fæðingu, sýkingu og ástand barns.

Niðurstöður: Í rannsókninni voru 91 barn með 93 sýkingar, 50 drengir og 41 stúlka. Hjá nýburum (<90 dagar) voru 87 sýkingar, 53 snemmkomnar (<6dagar frá fæð., early onset, EO) en 34 síðkominnar (7-90 dagar, late onset, LO). Nýgengi EO og LO jókst úr 0,14 á fyrsta fjórðungi tímabilsins í 0,98/1000 lifandi fæddra barna á síðasta fjórðungi (p<0,001). Nýgengi EO lækkaði á síðasta fjórðungi en LO fór vaxandi yfir allt tímabilið ( p<0,001). Átta börn létust (síðast 1999), sjö með EO, ekki sást fylgni við hjúpgerðir. Meðallengd meðgöngu var 37,7 vikur hjá EO en 36,2 hjá LO. Meðalfæðingarþyngd EO var 3322 grömm en 2501 hjá LO. Fyrirburar (<38 vikur) voru 17 EO og 13 LO. Til stofngreiningar voru 63 stofnar, hjúpgerð III var algengust bæði í EO (31,6%) og LO (59,1%). Einn eða fleiri áhættuþáttur GBS sýkingar (jákvætt strok móður, hiti móður við fæðingu eða ótímabært rof himna) sáust í 25 EO og 4 LO. Sex börn greindust eftir 90 daga aldur, öll með aðra undirliggjandi sjúkdóma.

Ályktanir: Niðurstöðurnar varpa ljósi á þróun GBS sýkinga. Fækkun EO tilfella gefur til kynna árangur fyrirbyggjandi sýklalyfjagjafar í fæðingu. Hins vegar fer LO tilfellum fjölgandi. Þörf er á að styrkja varnir gegn GBS sýkingum í börnum frekar. Skýrar reglur varðandi greiningu áhættuþátta á meðgöngu og meðferð mæðra og barna eru æskilegar.

 

V-106    Reykingar mæðra á meðgöngu eða á fyrsta aldursári barns auka hættu á barnaexemi við 10-11 ára aldur

Michael Clausen1,2, Sigurður Kristjánsson1,2, Ásgeir Haraldsson1,2 , Bengt Björkstén3

1Barnaspítala Hringsins, Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Institute of Environmental Medicine, Karolinska Institutet, Stokkhólmi

mc@landspitali.is

Inngangur: Reykingar foreldra hafa verið tengdar öndunarfæraeinkennum barna of ofnæmi.

Markmið: Að kanna tengsl reykinga mæðra á meðgöngu eða á fyrsta aldursári barns við barnaexsem (atopic dermatis, AD) við 10-11 ára aldur.

Aðferð: Rannsóknin var hluti af International Study of Asthma and Allergy in Childhood. Á Íslandi svöruðu 946 börn og foreldrar þeirra spurningum um ofnæmissjúkdóma og mögulega áhættuþætti, þar með talið umhverfisþætti eins og reykingar foreldra. Húðpróf gegn algengum loftbornum ofnæmisvökum voru gerð á 774 börnum og börnin skoðuð m.t.t. einkenna um AD.

Niðurstöður: Við skoðun höfðu 9,2% barnanna einkenni AD en 27% þeirra höfðu haft einkenni um AD á undangengnum 12 mánuðum. Tæplega 20% mæðra höfðu reykt á meðgöngu en 25,7% reyktu á fyrsta aldursári barnsins, 23% mæðra reyktu þegar rannsóknin var gerð. Greinileg tengsl voru milli reykinga mæðra á meðgöngu eða á fyrsta aldursári og AD barnanna við 10-11 ára aldur (OR 2.0 (1.1-3.8), p=0,018 fyrir reykingar á meðgöngu og OR 2.0 (1.1-3.6), p=0,013 fyrir reykingar á fyrsta ári). Ekki fundust tengsl milli reykinga mæðranna og astma eða ofnæmiskvefs barnanna.

Ályktun: Reykingar mæðra á meðgöngu eða á fyrsta aldursári barnsins tengjast marktækt AD barnanna við 10-11 ára aldur. Reykingar mæðra á meðgöngu eða á fyrsta aldursári barns geta haft langvarandi áhrif á heilsu barnanna. Ekki fundust tengsl við aðra ofnæmissjúkdóma.

 

V-107    Sýklalyfjaónæmi og hjúpgerðir pneumókokka í heilbrigðum börnum í Litháen

Óli H. Ólason1, Jolanta Bernatoniene2, Helga Erlendsdóttir1,3, Karl G. Kristinsson1,3, Ásgeir Haraldsson1,4

Læknadeild HÍ1, Vilnius University Children Hospital, Litháen2, smitsjúkdómadeild Landspítala3, Barnaspítala Hringsins4

asgeir@landspitali.is

Inngangur: Rannsóknir hafa leitt í ljós að penisillín ónæmir pneumókokkar eru tiltölulega sjaldgæfir í Litháen, einkum í samanburði við lönd í mið og austur Evrópu.

Markmið: Að meta sýklalyfjaónæmi og hjúpgerðir pneumókokka í heilbrigðum börnum í Litháen.

Aðferð: Nefkokssýnum var safnað í mars árið 2006 frá 601 heilbrigðu barni á aldrinum 1-7 ára á 13 leikskólum í Vilníus, Lithaén. Leikskólarnir voru valdir þannig að þeir endurspegluðu mismunandi félags- og fjárhagslegan aðbúnað sem og uppruna barnanna. Sýnin voru ræktuð og sýklalyfjanæmi ákvarðað skv viðurkenndum stöðlum. Sýklalyfjanæmi var metið fyrir oxacillíni, erythromycíni, tetracyclíni, chloramphenicóli og trimethoprimi/sulfamethoxazóli. Oxacillín ónæmir stofnar voru einnig metnir fyrir penicillín MIC með E-prófi. Allir pneumókokkar voru hjúpgreindir með Pneumotest-Latex aðferð.

Niðurstöður: Beratíðni pneumókokka var 43% (258/601). Stofnar með minnkað penicillínnæmi (MIC≥0,094µg/ml) voru 9% (25/282), algengasta hjúpgerðin var „rough“ (16 stofnar). Aðrar hjúpgerðir stofna með minnkað næmi voru 6B, 23F og 9V. Allar þessar hjúpgerðir að frátaldri 9V voru fjölónæmar. Þrír stofnar voru ónæmir fyrir penicillíni (MIC≥2µg/ml), og voru allir af hjúpgerð 9V. Nítján stofnar (7%) voru ónæmir gegn erythromýcíni, algengasta hjúpgerðin var 23F (9 stofnar) og „rough“ (5 stofnar). 24 börn báru tvær tegundir pneumókokka. Algengasta tegund pneumókokka voru 23F og 19F (37 stofnar hvor), næst komu 6A og 6B (22 stofnar hvor). Samtals voru 26 hjúpgerðir greindar. Af þeim pneumókokkum sem greindust voru 46% af hjúpgerðum sem eru í sjögilda pneumókokka bóluefninu.

Ályktun: Rannsóknin undirstrikar nauðsyn þess að hvert land meti markvisst sýklalyfjaónæmi og hjúpgerðir algengsutu baktería, einkum pneumókokka. Þannig skapast grundvöllur til markvissrar meðferðar og mögulegra fyrirbyggjandi aðgerða.


 

V-108    Sýkingar hjá börnum í meðferð vegna bráðaeitilfrumuhvítblæðis

Sólveig Hafsteinsdóttir1, Guðmundur Jónmundsson2, Jón R. Kristinsson1, Ólafur Gísli Jónsson1,2, Inga Huld Alfreðsdóttir2, Kristján Jónasson5, Thomas Wiebe3, Corrado Cilio4, Ásgeir Haraldsson1,2        

1Barnaspítala Hringsins, 2læknadeild HÍ, 3barnakrabbameinsdeild Háskólasjúkrahússins í Lundi, Svíþjóð, 4barnadeild Háskólasjúkrahússins í Málmey, Svíþjóð, 5verkfræðideild HÍ

solhaf@landspitali.is

Inngangur: Bakteríusýking er alvarlegur og takmarkandi þáttur í lyfjameðferð gegn bráðaeitilfrumuhvítblæði (ALL) í börnum. Um það bil 3% sjúklinganna deyja af orsökum sem tengjast meðferðinni, flestir vegna sýkinga.

Markmið: Að kanna hvernig aldur, kyn og fleiri þættir hafa áhrif á sýkingartíðni við lyfjameðferð gegn bráðaeitilfrumuhvítblæði.

Aðferðir: Öll börn sem fengu bráðaeitilfrumuhvítblæði, af flokki lítil áhætta eða meðal áhætta, á árunum 1996-2006 í Suður-Svíþjóð og á Íslandi eru með í rannsókninni. Upplýsingum var safnað um aldur, kyn, blóðgildi, blóðræktanir og meðferð við sjúkdómsgreiningu, og einnig um sýkingartímabil á fyrsta ári eftir greiningu (tilvik þegar grunur um sýkingu vaknaði og sýklalyfjameðferð fylgdi). Allir sjúklingar höfðu inniliggjandi æðaleggi eða lyfjabrunn.

Niðurstöður: Heildarfjöldi sjúklinga var 73 (43 drengir og 30 stúlkur, 65 frá Svíðþjóð og 8 frá Íslandi). Meðalaldur var 4,5 ár. Alls komu upp 179 sýkingartímabil. Hjá sex börnum vaknaði aldrei sýkingargrunur, en flest urðu sýkingartímabil 8, hjá einu barni. Bakteríur ræktuðust í 57 tilvikum (32%) en niðurstöður ræktunar voru neikvæðar í 122 tilvikum (68%). Algengasta bakterían var kóagúlasa neikvæður stafýlókokkur (KNS) sem ræktaðist í 22 tilvikum. Meðalfjöldi grunaðra sýkinga var marktækt (p=0,03) meiri hjá stúlkum (3,07) en hjá drengjum (2,02). Tíðni staðfestra sýkinga var hins vegar svipaður hjá báðum kynjum, um það bil 0,8. Tíðni bæði grunaðra og staðfestra sýkinga minnkaði marktækt með aldri (p<0,001 og p=0,03). Hlutfall sýkinga sem staðfestar voru með ræktun var umtalsvert og marktækt hærra í fyrstu sýkingu eftir greiningu (51%) en þegar lengri tími var liðinn frá greiningu (á 5.-8. sýkingartímabili var hlutfallið 10%).

Ályktun: Grunur um sýkingu er líklegri til að vakna hjá stúlkum en drengjum, en staðfestar sýkingar eru jafnlíklegar hjá báðum kynjum. Bæði grunuðum og staðfestum sýkingum fækkar með aldri. Flestar alvarlegar sýkingar verða í upphafi meðferðar. Algengustu sýkingarnar voru vegna KNS baktería, sem er áminning um mikilvægi aðgæslu við meðhöndlun á æðaleggjum og lyfjabrunnum.

 

V-109    Meðferð fyrir of feit börn og fjölskyldur, Barnaspítala Hringsins

Þrúður Gunnarsdóttir1, Anna Sigríður Ólafsdóttir2, Urður Njarðvík3, Linda Craighead4, Ragnar Bjarnason5

1HÍ, 2KHÍ, 3Barnasálfræðistöðinni, 4Emory University, 5Landspítala

thrudur@hi.is

Inngangur: Offita barna hefur aukist mikið í heiminum á síðustu áratugum. Mikilvægt er að þróa áhrifaríka meðferð sem þjónar um leið þeim tilgangi að stemma stigu við offitu fullorðinna.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka árangur af meðferð fyrir of feit börn (LÞS >2,5 sf yfir meðaltali) á aldrinum 7-13 ára. Annað markmið var að athuga hvort að viðbót nýs meðferðarþáttar (þjálfun í að þekkja mun á svengd og seddu) myndi bæta árangur til lengri og/eða skemmri tíma.

Aðferðir: Þátttakendur voru 84 fjölskyldur, eitt foreldri og barn úr hverri fjölskyldu. Meðferð samanstóð af 12 vikum sem dreifðust yfir 18 vikur. Þátttakendur mættu á Barnaspítala Hringsins tvisvar í viku, einu sinni í stuttan einstaklingstíma og einu sinni í hóptíma. Fjölskyldur skiptust með tilviljunarvali í tvo meðferðarhópa. Annar hópurinn fékk hefðbundna meðferð fyrir of feit börn og fjölskyldur en hinn meðferð þar sem nýr meðferðarþáttur var prófaður.

Niðurstöður: Af þeim fjölskyldum sem hófu meðferð luku 73% fjölskyldna meðferðarvikunum 12. Líkamsþyngdarstuðull barna sem kláruðu meðferð lækkaði að meðaltali um 2,0 (±1,4 stig) á meðferðarvikunum 12 en ekki var marktækur munur á milli hópa.

Ályktun: Líklegt er að hátt brottfall úr meðferð megi að einhverju leyti skýra með þeirri staðreynd að stór hluti þeirra barna og foreldra sem tóku þátt áttu við aðra erfiðleika að stríða, svo sem hegðunar-, tilfinninga-, félags-, eða námstengda. Þeir erfiðleikar gætu hafa sett strik í reikninginn í krefjandi meðferð sem hingað til hefur einungis verið prófuð með úrtaki þar sem foreldrar og börn með annan vanda eru útilokuð frá þátttöku. Þessar fyrstu niðurstöður benda þó til að meðferð fyrir of feit börn og fjölskyldur þeirra beri árangur til skemmri tíma. Ekki kom fram munur milli tilrauna- og samanburðarhóps þrátt fyrir að tilhneiging hafi verið til betri útkomu í hópnum sem fékk meðferð með nýjum meðferðarþætti. Áhugavert verður að skoða frekari niðurstöður og eins að fylgja hópunum eftir til lengri tíma en eftirfylgni er áætluð til þriggja ára.

 

V-110    Súrefnismettun í sjónhimnu sjúklinga með sykursýki eftir laser aðgerð

Sveinn Hákon Harðarson1, Róbert Arnar Karlsson2, Þór Eysteinsson1, James M. Beach2, Jón Atli Benediktsson3, Einar Stefánsson1

1Augndeild Landspítala, 2Oxymap ehf, 3rafmagns- og tölvuverkfræðiskor HÍ

sveinnha@gmail.com

Inngangur: Súrefnisþurrð í vef sjónhimnu er talin vera stór þáttur í sjónhimnusjúkdómi í sykursýki. Laser meðferð er talin geta leiðrétt súrefnisþurrð. Litlar rannsóknir hafa verið gerðar á súrefnisbúskap sjónhimnu manna vegna skorts á tækjabúnaði en rannsóknarhópurinn vinnur að þróun og prófun slíkrar tækni.

Markmið: Markmið þessarar rannsóknar var að mæla súrefnismettun í æðum sjónhimnu í sykursjúkum með nýæðamyndun í sjónhimnu (e. proliferative diabetic retinopathy) og sögu um laser meðferð.

Aðferðir: Súrefnismælirinn mælir súrefnismettun blóðrauða í æðlingum sjónhimnu. Hann er settur saman úr augnbotnamyndavél, ljósdeilum, ljóssíum og sérhæfðum hugbúnaði. Súrefnismæling var gerð á fyrstu og annarrar gráðu æðlingum í sjónhimnu 20 heilbrigðra einstaklinga og sjö sjúklinga með nýæðamyndun vegna sykursýki. Allir sjö sjúklingarnir höfðu farið í árangursríka laser meðferð. Tölfræðileg úrvinnsla var gerð með ópöruðum t-prófum.

Niðurstöður: Súrefnismettun í slagæðlingum var 92±4% (meðaltal±staðalfrávik) í heilbrigðum en 100±10% í sykursjúkum (p=0,002). Í bláæðlingum var súrefnismettun í heilbrigðum 60±8% en 70±7% í sykursjúkum (p=0,007).

Ályktun: Súrefnismettun í slag- og bláæðlingum sjónhimnu er hærri í sykursjúkum með nýæðamyndun í sjónhimnu og sögu um laser meðferð en í heilbrigðum.

 

V-111    Áhrif glákuaðgerða á súrefnismettun í sjónhimnu

María Soffía Gottfreðsdóttir, Sveinn Hákon Harðarson, Einar Stefánsson

Augndeild Landspítala

mariago@landspitali.is

Inngangur: Samkvæmt lögmáli Poiseuille ætti lækkun á augnþrýstingi, að öðru óbreyttu, að auka blóðflæði um sjónhimnu. Ef gert er ráð fyrir fastri súrefnisnotkun í sjónhimnu ætti súrefnismettun í bláæðlingum sjónhimnu að aukast við lækkun á augnþrýstingi.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif augnþrýstingslækkunar með glákuaðgerð á súrefnismettun í sjónhimnu.

Aðferðir: Súrefnismælirinn mælir súrefnismettun blóðrauða í æðlingum sjónhimnu. Hann er settur saman úr augnbotnamyndavél, ljósdeilum, ljóssíum og sérhæfðum hugbúnaði. Súrefnismettun var mæld í fyrstu og annarrar gráðu æðlingum í sjónhimnu fyrir og um það bil einum mánuði eftir þrýstingslækkandi glákuaðgerð. Öllum sjúklingum með gleiðhornsgláku, sem undirgengust aðgerð á sex mánaða tímabili, var boðið að taka þátt. Alls voru 25 einstaklingar mældir fyrir og eftir aðgerð en niðurstöður fyrir sex voru útilokaðar frá lokaúrvinnslu vegna slæmra myndgæða. Tölfræðileg greining var framkvæmd með tvíþátta ANOVA fyrir endurteknar mælingar og Bonferroni eftirprófum.

Niðurstöður: Í slagæðlingum augna sem aðgerð var gerð á hækkaði súrefnismettun úr 97±4% (meðaltal±staðalfrávik) í 99±6% við aðgerð (p<0,05). Súrefnismettun í bláæðlingum í sömu augum var óbreytt eða 63±5% fyrir aðgerð og 63±6% eftir aðgerð. Breytingar í augum sem ekki var gerð aðgerð á voru ómarktækar. Í þeim augum var súrefnismettun 96±5% í slagæðlingum fyrir aðgerð og sömuleiðis 96±5% eftir aðgerð en í bláæðlingum var súrefnismettun 64±6% fyrir aðgerð og 63±8% eftir aðgerð. Augnþrýstingur lækkaði í öllum augum sem aðgerð var gerð á og að meðaltali úr 25±9mmHg í 10±4mmHg.

Ályktun: Súrefnismettun í slagæðlingum sjónhimnu hækkar lítillega við glákuaðgerð en mettun í bláæðlingum breytist ekki.

 

V-112    Súrefnisþurrð í miðbláæðarlokun í sjónhimnu manna

Sindri Traustason1, Sveinn Hákon Harðarson2, Gísli Hreinn Halldórsson1, Róbert Arnar Karlsson1, James M. Beach1, Jón Atli Benediktsson3, Þór Eysteinsson2, Einar Stefánsson2

1Oxymap ehf, 2augndeild Landspítala, 3rafmagns- og tölvuverkfræðiskor HÍ

sveinnha@gmail.com

Inngangur: Miðbláæðarlokun í sjónhimnu (e. central retinal vein occlusion, CRVO) er talin geta leitt til súrefnisþurrðar en vegna skorts á tækni hefur verið erfitt að mæla súrefnisbúskap í sjónhimnu manna. Rannsóknarhópurinn vinnur að þróun og prófun slíkrar tækni.

Markmið: Markmið þessarar rannsóknar var að beita nýrri tækni til að mæla súrefnismettun í æðlingum sjónhimnu í sjúklingum með miðbláæðarlokun.

Aðferðir: Súrefnismælirinn mælir súrefnismettun blóðrauða í æðlingum sjónhimnu. Hann er settur saman úr augnbotnamyndavél, ljósdeilum, ljóssíum og sérhæfðum hugbúnaði. Súrefnismæling var gerð á fyrstu og annarrar gráðu æðlingum í sjónhimnu fimm sjúklinga með miðbláæðarlokun. Meðaltals súrefnismettun var reiknuð fyrir bæði slag- og bláæðlinga í hvoru auga hvers sjúklings og parað t-próf notað til samanburðar á sjúkum og heilbrigðum augum.

Niðurstöður: Í augum með miðbláæðarlokun var súrefnismettun í bláæðlingum 51±10% (meðaltal± staðalfrávik) en 66±4% (p=0,04) í heilbrigðum augum. Súrefnismettun í slagæðlingum var 100±3% í augum með miðbláæðarlokun en 98±5% í heilbrigðum augum (p=0,38). Talsverður breytileiki var í súrefnismettun bláæðlinga í augum með miðbláæðarlokun og dæmi er um að tveir bláæðlingar í sama auga hafi mælst með mettunina 13% og 59%.

Ályktun: Meðaltals súrefnismettun í bláæðlingum er marktækt lægri í augum með miðbláæðarlokun en í heilbrigðum augum sömu einstaklinga. Súrefnisþurrðin virðist geta verið breytileg innan auga með miðbláæðarlokun.

 






Þetta vefsvæði byggir á Eplica