Öll ágrip 2019

Öll ágripin 2019

Málstofa:

Krefjandi starfsumhverfi


Viðhorf og upplifun hjúkrunarfræðinga á bráðadeild Landspítala til vinnustaðamenningar

Ragna María Ragnarsdóttir1, Gylfi Dalmann Aðalsteinsson2

1Bráðadeild G2 Landspítala, 2viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

ragnamr@landspitali.is

Bakgrunnur: Fyrirhuguð er sameining allra 6 bráðamóttaka Landspítala þegar nýr meðferðarkjarni verður tekinn í notkun sem áætlað er að verði eftir um 7 ár. Rannsakanda þótti áhugavert að skoða og reyna að komast að upplifun hjúkrunarfræðinga á bráðadeild af vinnustaðamenningu sem hugsanlega væri hægt að nýta þegar kæmi að sameiningu.

Markmið: Að kanna viðhorf og upplifun hjúkrunarfræðinga til vinnustaðamenningar á bráðadeild Landspítala og hvort það er munur eftir starfsaldri.

Aðferð: Rannsóknin byggði á eigindlegri aðferðafræði þar sem tekin voru viðtöl við þátttakendur, hálfopin viðtöl með fyrirfram ákveðnum viðtalsramma. Fyrirbærafræði var notuð við greiningu og úrvinnslu ganga og þemu og undirþemu voru greind við úrvinnslu. Viðtöl voru tekin við 8 hjúkrunarfræðinga á bráðadeild og var starfsaldur þeirra frá tveimur árum upp í 27 ár.

Niðurstöður: Tvö þemu og 8 undirþemu komu fram þegar niðurstöðurnar voru greindar. Fyrra þemað var Umhverfið og fókið og voru undirþemun þar: lítil stéttaskipting, mikill vinskapur, eins og fjölskylda, teymisvinna og mótun vinnustaðamenningar, siðir og venjur. Seinna þemað var Erfiðleikar og áskoranir í síbreytilegu umhverfi, þar voru einnig fjögur undirþemu: atvik, viðrunarfundir, stöðugar breytingar og gildi. Í niðurstöðunum kom fram að hjúkrunarfræðingarnir upplifðu ekki stéttaskiptingu á bráðadeildinni. Þar væri litið á alla sem jafningja. Upplifun af samskiptum á deildinni var sú, að þau væru opin, þar sem allir gætu talað við alla. Þeir voru sammála því að teymisvinna gengi mjög vel þegar tekið væri á móti alvarlega slösuðum eða veikum einstaklingum eða í endurlífgunum. Aftur á móti fannst þeim lítil teymisvinna vera þess utan. Þátttakendur voru sammála um fjóra þætti sem hefðu mótandi áhrif á menningu deildarinnar en það var fólkið sjálft, aðstæðurnar sem það ynni við, stjórnendur og fjölbreytileiki verkefna. Ýmsir siðir og venjur komu fram hjá viðmælendum eins og svartur húmor og snerting. Flestir voru hjúkrunarfræðingarnir sammála um að þegar mistök væru gerð á deildinni færi atvikið í ákveðinn farveg. Þeir voru einnig flestir sammála um að eftirfylgni vantaði í tengslum við atvik. Allir viðmælendur voru sammála að þegar erfið mál kæmu upp á deildinni væru viðrunarfundir notaðir sem tæki til að takast á við þau mál og voru þeir allir ánægðir með það fyrirkomulag. Þátttakendur voru sammála því að stöðugar breytingar væru á deildinni, stundum gengi vel en ekki alltaf og þá vantaði upp á eftirfylgnina. Þátttakendur nefndu að starfsfólk þekkti gildi Landspítala og ynni eftir þeim dags daglega en ómeðvitað.

Ályktanir: Upplifun hjúkrunarfræðinga á bráðadeild var að samskipti milli starfsfólks séu góð og lítil stéttarskipting en hægt væri að auka teymisvinnu á hverri vakt. Bæta þyrfti eftirfylgni þegar kæmi að atvikum og einnig þegar breytingar stæðu yfir.


Vinnustaðamenning hjúkrunarfræðinga í bráðaþjónustu á Landspítala

Helga Pálmadóttir1, Svala Guðmundsdóttir2, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir3,4

1Bráðadeild G2 Landspítala, 2viðskiptafræðideild, 3hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 4rannsóknarstofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum3

helgapal@landspitali.is

Bakgrunnur: Vinnustaðamenning vísar til menningar innan skipulagsheilda. Rannsóknir hafa sýnt að vinnustaðamenning hefur áhrif á frammistöðu skipulagsheilda og sé hún sterk næst meiri árangur. Rannsóknir á vinnustaðamenningu skortir bæði meðal hjúkrunarfræðinga sem og bráðahjúkrunarfræðinga.

Markmið: Að kanna vinnustaðamenningu meðal hjúkrunarfræðinga í bráðaþjónustu á Landspítala, skoða styrkleika og veikleika hennar og hvort deildir eða starfsaldur skiptu þar máli.

Aðferð: Lýsandi þversniðskönnun með rafrænum spurningalista (Denison Organizational Culture Survey) var gerð meðal hjúkrunarfræðinga á 6 bráðamóttökum á Landspítala haustið 2018. Sem mælikvarði á vinnustaðamenningu voru styrkleikar fjögurra menningarvídda mældir með 60 spurningum, á 5 punkta Likert-kvarða. Menningarvíddirnar voru aðlögunarhæfni, hlutverk og stefna, þátttaka og aðild og samkvæmni og stöðugleiki. Meðaltal hverrar víddar var umreiknað í 100 stiga kvarða og vinnustaðamenning metin sterk, ásættanleg eða veik. Notuð var lýsandi tölfræði og munur á marktækni milli deilda og eftir starfsaldri greindur með krossprófi og kíkvaðrat-prófi en milli menningavídda með dreifigreiningu (ANOVA) og Mann-Whitney U-prófi. Svör bárust frá 112 hjúkrunarfræðingum og heildarsvarhlutfall var 54%.

Niðurstöður: Vinnustaðamenning var í heild metin veik (<73). Menningarvíddin þátttaka og aðild mældist hærri á bráðadeild (76) en á bráða- og göngudeild (65) og Hjartagátt (64) (p<0,05). Einnig var marktækur munur eftir starfsaldri (p<0,05) en hjúkrunarfræðingar með 0-5 ára starfsaldur mátu sig hærra (74) en þeir með 11-15 ára starfsaldur (64). Menningarvíddin hlutverk og stefna mældist lægri á Hjartagátt (49) en á bráðadeild (71), bráðamóttöku barna (70) og bráðamóttöku kvenna (68) (p<0,05). Heildargildi vinnustaðamenningar meðal hjúkrunarfræðinga á bráða- og göngudeild (55) var marktækt lægra en á bráðadeild (71) og bráðamóttöku barna (70). Ekki var að finna marktækan mun milli deilda eða eftir starfsaldri hjá menningarvíddunum aðlögunarhæfni og samkvæmni og stöðugleiki.

Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að vinnustaðamenning meðal hjúkrunarfræðinga í bráðaþjónustu á Landspítala sé veik en mismunandi víddir höfðu mismikið vægi milli deilda. Breytingar á starfsemi á meðan rannsókninni stóð gætu skýrt mun á vinnustaðamenningu milli deilda en ákveðið var að hætta bráðastarfsemi á Hjartagátt og óvissa var um starfsemi bráða- og göngudeildar. Nýta má niðurstöður rannsóknarinnar til að bæta vinnustaðamenningu meðal bráðahjúkrunarfræðinga á markvissan hátt.


Þjónn sem leiðtogi: Landspítali - Viðhorf til stjórnunar og forystu

Þóra Gunnarsdóttir1, Erla Sólveig Kristjánsdóttir2, Sigrún Sunna Skúladóttir3

1Flæðisviði Landspítala, 2viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, 3skurðlækningasviði Landspítala Fossvogi

thogunna@landspitali.is

Bakgrunnur: Hugmyndafræði Robert K. Greenleaf um þjón sem leiðtoga leggur fyrst og fremst áherslu á hæfni, getu og valdeflingu einstaklingsins til að ná árangri með stuðningi frá leiðtoganum, þar á eftir kemur áherslan á að ná markmiðum fyrirtækisins. Rannsóknir hafa gefið vísbendingar um gagnsemi þjónandi forystu á starfsumhverfi og jákvæð tengsl hennar við starfsánægju. Þekkt er að vinnuálag er mikið á Landspítala. Nýting legurýma er með því hæsta sem þekkist á háskólasjúkrahúsum og mönnun fagfólks hlutfallslega lág. Mikilvægt var því að kanna viðhorf starfsfólks til stjórnunar og forystu á Landspítala. Með því að tengja niðurstöðurnar við átta kjarnaþætti þjónandi forystu var tækifæri til að skilja betur hvar styrkleikar leiðtoga á Landspítala liggja og hvar veikleikar gætu leynst.

Markmið: Að kanna viðhorf starfsfólks til stjórnunar og forystu á Landspítala og meta vægi þjónandi forystu, ásamt því að kanna hve hátt hlutfall starfsfólks á Landspítala upplifir starfsánægju.

Aðferð: Gerð var megindleg þversniðsrannsókn þar sem sendar voru spurningar til 980 starfsmanna óháð starfstitli á öll klínísk svið Landspítala. Í rannsókninni var notast við Servant Leadership Survey (SLS), spurningarlista um 8 kjarnaþætti þjónandi forystu sem þátttakendur tóku afstöðu til á 6 stiga Likert kvarða.

Niðurstöður: Svarhlutfall var 27% (N=265). Heildarmeðaltal þjónandi forystu á Landspítala reyndist vera 4,44 á kvarða frá einum og upp í 6. Heildarmeðaltal starfsánægju var hátt en alls sögðust 90% svarenda vera ánægðir í starfi. Marktæk fylgni fannst á milli þjónandi forystu (í heild) og starfsánægju, einnig var marktæk fylgni milli starfsánægju og allra þátta þjónandi forystu fyrir utan undirþáttinn Hugrekki.

Ályktanir: Starfsánægja var mikil á Landspítala. Rannsóknin gefur til kynna að stjórnendur á Landspítala noti aðferðir þjónandi forystu, þrátt fyrir að formleg innleiðing hafi ekki átt sér stað. Starfsumhverfi Landspítala einkennist af samvinnu, góðum samskiptum, gagnkvæmu trausti á milli stjórnenda og starfsfólks, sem hefur jákvæð áhrif á öryggismenningu og stuðlar að auknum gæðum klínískrar þjónustu ásamt jákvæðu og hvetjandi starfsumhverfi fyrir starfsfólk.Gestafyrirlestur


Vel virk í vellíðan

Ingibjörg Loftsdóttir

VIRK Starfsendurhæfingarsjóði

Við lifum í samfélagi þar sem sífellt fleiri virðast heltast úr lestinni vegna tímabundinna eða langvarandi veikinda. Svo virðist sem hluti af þessum veikindum sé til kominn vegna langvarandi álags bæði í starfi og einkalífi. Í janúar 2018 fór VIRK Starfsendurhæfingarsjóður af stað með forvarnarverkefni sem nefnist Vel-VIRK með það að markmiði að sporna við brotthvarfi af vinnumarkaði vegna slíks heilsubrests. Forvarnarverkefnið hefur þríþætta nálgun þ.e. út frá einstaklingnum sjálfum, vinnustaðnum og samfélaginu í heild sinni.

Ingibjörg mun í erindi sínu kynna Vel-VIRK verkefnið með áherslu á velvirk.is þar sem starfsmenn og leiðtogar á vinnustöðum geta nálgast upplýsingar og verkfæri bæði til að bæta jafnvægi í lífinu almennt og auka vellíðan á vinnustaðnum. Einnig mun hún fjalla stuttlega um þá helstu þætti sem þekkt er að geti stuðlað að starfsánægju.


Málstofa:

Flæði og gæði – gæðaverkefni og rannsóknir


Notkun saumaskúffu á bráðamóttöku að næturlagi - Gæðaverkefni

Páll Óli Ólason1, Jón Magnús Kristjánsson1, Amelia Samuel2

1Bráðamóttöku, 2gæða- og sýkingavarnadeild Landspítala

pallo@landspitali.is

Bakgrunnur: Á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi er sjúklingum með sár sinnt á deild G2 að næturlagi. Þar eru áhöld til sáralokunar geymd á stofu 7. Þar er oft sjúklingur inniliggjandi sem veldur truflun þegar áhöld eru tekin saman auk þess að fara þarf á fleiri staði til að finna hlutina. Með því að útbúa hreyfanlega saumaskúffu er ekki þörf á að raska ró á stofu 7 auk þess að allt er á einum stað. Því er hægt að sauma hvar sem er á bráðamóttöku sem flýtir fyrir heimför sjúklings.

Markmið: Að stytta tíma sjúklinga sem leita á bráðamóttöku Landspítala að næturlagi með sár um 20% með því að taka í gagnið hreyfanlega saumaskúffu sem inniheldur allt sem þarf til lokun húðar.

Aðferðir: Notaðar voru aðferðir gæðaverkefnis, hugmyndin mótuð með SMART kríteríu og beitt ÁFrAM (Áætlanagerð-Framkvæmd-Athugun-Markviss Lagfæring) í tvígang; 1. Saumaskúffa tekin í notkun, 2. Upplýsingapóstur sendur á starfsfólk. Með notkun flæðirita voru kostir og gallar fyrir og eftir breytingar athugaðir. Gögn voru fengin úr gagnagátt Landspítala á rannsóknartímabilinu 26. nóvember 2018 til 12. febrúar 2019. Tekinn saman fjöldi þeirra sem leita á bráðamóttöku að næturlagi með sáragreiningu í forgangi 3-5 og skoðaður tími að aðkomu læknis og heimför. Til viðmiðunar var tímabilið 17. september - 25. nóvember 2018.

Niðurstöður: Á viðmiðunartímabilinu leituðu 46 á bráðamóttöku með sáragreiningu með meðaltíma til læknis 71 mínútur og heimfarar 144 mínútur. ÁFrAM 1 hófst 26. nóvember og stóð í 9 vikur. Á því tímabili leituðu 33 á bráðamóttöku með meðaltíma til læknis 101 mín (+42%) og heimfarar 176 mín (+22%). ÁFrAM 2, hófst 28. janúar og leituðu 4 á tímabilinu á bráðamóttöku með meðaltíma til læknis og heimfarar 44 mín (-38%) og 109 mínútur (-24%).

Ályktanir: Við fyrra ÁFrAM varð lenging á tíma sjúklings á bráðamóttöku en við seinna stytting á tímanum umfram það sem lagt var upp með í byrjun. Það skiptir því máli að saumaskúffan sé kynnt öllu starfsfólk svo hún festist enn frekar í sessi. Liður í því er að útbúa skjal um saumaskúffuna á innri vef bráðamóttöku.


Eftirfylgd ræktunarrannsókna sem teknar eru á bráðamóttöku Landspítala – gæðaverkefni

Guðrún Katrín Oddsdóttir1, Jón Magnús Kristjánsson1, Davíð Björn Þórisson1, Amelia Samuel2

1Bráðamóttöku, 2gæða- og sýkingavarnadeild Landspítala

gudrunk@landspitali.is

Bakgrunnur: Fjöldi rannsókna er pantaður í greiningartilgangi á einkennum sjúklinga sem leita á bráðamóttökuna á degi hverjum. Rannsóknarniðurstöður hafa hingað til lent eingöngu á vinnulista þess læknis sem skrifaður er fyrir rannsókninni, en allur gangur er á því hvort sá læknir sinnir sjúklingnum. Eins er misjafnt milli lækna hvernig eftirfylgd á rannsóknarniðurstöðum er hagað og hvort afdrifum sjúklinga er fylgt eftir. Hingað til hefur afstaða verið tekin til sýkingareinkenna við útskrift af bráðamóttöku og hvort sýklalyfja sé ávísað eður ei, en sjúklingar hvattir til þess að hafa samband við sinn heimilislækni í framhaldinu með tilliti til þess hvort meðferð sé í samræmi við rannsóknarniðurstöður.

Markmið: Að auka eftirfylgd á ræktunarniðurstöðum og fækka þannig endurkomum á bráðamóttöku vegna sýkinga sem hefði mátt meðhöndla utan sjúkrahúss.

Aðferð: Verkefnið var sett upp í samræmi við SMART leiðbeiningar umbótaverkefna, þ.e. að það væri sérhæft, mælanlegt, framkvæmanlegt, mikilvægt og tímasett. Einnig var gerð aðgerðaráætlun fyrir helstu tímasetningar og deildarlæknum kynnt fyrirkomulagið með tölvupóstum og þeir minntir á verkefnið með persónulegum skilaboðum.

Sett var upp Vinnuhólf bráðamóttöku með hliðsjón af sambærilegu hólfi kvennadeildar sem gefið hefur góða raun með tilliti til eftirfylgni og sjúklingaöryggis. Í hólfið safnast öll ræktunarsvör sem pöntuð eru í nafni lækna bráðamóttökunnar og bíða rafræns samþykkis læknis. Deildarlæknir á C-vakt hefur það verkefni að fara yfir Vinnuhólfið á virkum dögum og taka afstöðu til svaranna í samráði við vakthafandi sérfræðing. Eingöngu er haft samband við sjúklinga ef niðurstaðan breytir þeirri meðferð sem ákveðin var við útskrift.

Niðurstöður: Samantekt og úrvinnsla stendur yfir og verður kynnt á Bráðadeginum.

Ályktanir: Vonir standa til þess að notkun Vinnuhólfs muni auka eftirfylgd og öryggi sjúklinga eftir útskrift frá bráðamóttöku Landspítala. Árangurinn verður mældur í tímalengd frá því að niðurstöður liggja fyrir í Cyberlab og þar til þær eru staðfestar af lækni. Markmið verkefnisins er að staðfesting liggi fyrir innan þriggja sólarhringa frá því að lokaniðurstaða berst.


Bætt greining óráðs á bráðamóttöku - gæðaverkefni

Eva Hrund Hlynsdóttir1, Amelia Samuel2, Ingibjörg Sigurþórsdóttir1, Jón Magnús Kristjánsson1

1Bráðamóttöku, 2gæða- og sýkingavarnadeild Landspítala

evahh@landspitali.is

Bakgrunnur: Óráð (delirium) er sveiflukennt ástand sem einkennist af truflun á hugsanaferli, rugli og skertri vitrænni getu. Óráð er algengt og alvarlegt vandamál sem tengist slæmum horfum og lengri spítalalegu og þarf að bregðast fljótt og rétt við til að fyrirbyggja óráðið eða meðhöndla. Algengi óráðs eykst meðal annars með hækkandi aldri, alvarleika veikinda og undirliggjandi heilabilun. Tíðni óráðs hjá eldri sjúklingahópi á bráðamóttöku er talin mishá í rannsóknum en almennt er talið að greiningu óráðs sé ábótavant. Á bráðamóttöku séu tækifæri til að fyrirbyggja, greina og meðhöndla óráð fyrr. Gefnar voru út klínískar leiðbeiningar á Landspítala um óráð, skimun, greiningu og meðferð í mars 2015.

Markmið: Að kortleggja tíðni óráðsgreininga (F05.0-9,R41.0) hjá sjúklingum 65 ára og eldri á bráðamóttöku á vikugrundvelli, gera klínískar leiðbeiningar aðgengilegri og bæta þannig greiningu og meðhöndlun óráðs á bráðamóttöku Landspítala.

Aðferð: Notast var við umbótaaðferðir í Model for improvement methodology þar sem stöðug og endurtekin umbótaskref eru gerð í lotum sem í felst skipulag, inngrip, lærdómur og viðbrögð (plan-do-study-act, PDSA) þar til jákvæð niðurstaða fæst. Notast var meðal annars við kraftakenningu (force-field analysis) og fiskibeina-skýringamyndir (fishbone-diagram) til að kortleggja vandamál og greiningartafir. Leitast var við að auka meðvitund starfsfólks bráðamóttöku á óráði og bæta greiningu í aldurshópinum 65 ára og eldri. Klínískar leiðbeiningar og skimunarpróf voru gerð aðgengilegri.

Niðurstöður: Greiningartíðni í bráðamóttökuskrám var tekin saman á vikugrundvelli frá 11. október 2018 - 28. febrúar 2019. Niðurstöðurnar sýna breytilegan fjölda greininga. Gæti aukin greiningartíðni í sumum vikum tengst inngripum en ekki greindist heildaraukning á tímabilinu og þannig er markmiðinu enn ekki náð.

Ályktanir: Með bættu aðgengi að klínískum leiðbeiningum og aukinni meðvitund starfsfólks á óráði er hægt að bæta greiningu og meðferð. Svo slík breyting beri árangur og viðhaldist þarf öflugri inngrip sem einfalda greiningu, mat og meðferð og verða hluti almennrar skimunar í áhættuhópum. Hægt væri til dæmis að setja upp áminningar inn á skjáborð deildarinnar eða senda slíkar áminningar á starfsfólk, en slík inngrip hefur ekki náðst að prófa.


Að bæta flæði og öryggi í móttöku sjúklinga með fjöláverka á bráðamóttöku - gæðaverkefni

Sasan Már Nobakht, Mikael Smári Mikaelsson, Jón Magnús Kristjánsson

Bráðamóttöku Landspítala

sasanm@landspitali.is

Bakgrunnur: Fjöláverkar eru algeng dánarorsök fólks á öllum aldri. Á bráðamóttöku Landspítala er mikill breytileiki í þjálfun starfsmanna í móttöku mikið slasaðra auk þess sem aðstæður á bráðastæðum gætu verið betri. Það eru engin viðmiðunarmörk á hvað skoðun og meðferð á bráðamóttöku á að taka langan tíma eða hvernig bráðastæðin skulu vera skipulögð.

Markmið: Að finna umbótatækifæri og flöskuhálsa í ferli við móttöku sjúklinga með fjöláverka sem koma á forgangi 1 á bráðamóttöku þar sem fjöláverkateymi Landspítala er virkjað.

Aðferð: Til að fá sem nákvæmasta tíma hefur komutími sjúklings á bráðastæði og tíminn þegar sjúklingur yfirgefur bráðastæði verið skráður sérstaklega. Sjúklingar sem ljúka meðferð án þess að yfirgefa bráðastæðin eru undanskildir mælingum. Mælingar eru gerðar í stuttum lotum sem vara í 3-4 vikur og er notast við PDSA (plan, do, study, act) aðferðafræði fyrir hverja lotu ásamt því sem fiskibeina-skýringamyndir (fishbone diagrams) eru notuð til finna flöskuhálsa og umbótatækifæri.

Niðurstöður: Á tímabilinu 17.12.18 til 18.01.19 var tími skráður fyrir sjö sjúklinga og grunnmeðalgildið reiknað. Allir sjúklingar fóru í tölvusneiðmynd (TS). Meðaltími frá komu sjúklings þangað til flutningur var hafinn yfir í TS var 17,5 mínútur með miðgildi 18. Meðaltími frá komu þangað til að myndrannsókn var lokið voru 43 mínútur, miðgildi 45 mínútur. Í seinni lotu, tímabilinu frá 24.01.19 til 21.02.19, var ákveðið að einblína á hlutverk starfsfólks og takmarka fjölda starfsfólks á bráðastæðum. Fimm fjöláverkasjúklingar komu á því tímabili. Tími skráður fyrir þrjá sjúklinga og fékkst meðaltími 16,5 mínútur, miðgildi 12. Meðaltími frá komu þangað til að myndrannsókn var lokið voru 35,5 mínútur, miðgildi 24 mínútur.

Ályktanir: Tíminn virðist betri í seinni lotu en úrtakið er ekki eins stórt og þegar grunngildið var mælt. Hafa verður í huga að ýmsir þættir hafa áhrif á tíma og geta aukið skekkju, t.d. þjálfun starfsfólks, hvort sneiðmyndartæki sé laust og hvort sjúklingar þurfi inngrip á bráðastæðum sem enginn þurfti í ofangreindum tilvikum. Í næstu lotu verður einblínt á það að flutningur verði undirbúinn og tilbúinn eins og hægt er á meðan skoðun sjúklings er enn í gangi. Einnig verður farið í að endurskoða hlutverk starfsfólks þegar fjöláverkahnappur er ræstur.


Landspítali – hlekkur í þjónustu fyrir fólk með alvarlegar heilsufarstakmarkanir

Steinunn Kristín Jónsdóttir

Útskriftarteymi Landspítala

steinunn.k.jonsdottir@landspitali.is

Bakgrunnur: Á síðustu 5 árum hefur 80 ára og eldri á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um tæplega 100 manns á ári. Staðan á höfuðborgarsvæðinu, eins og hún birtist nú á Landspítala, þegar fjöldi eldra fólks í biðstöðu á vegum spítalans, virðist í hámarki. Sama gildir um þá sem yngri eru og þurfa í kjölfar veikinda eða slysa á sambærilegri aðstoð að halda. Veruleg bið er eftir þjónustu við hæfi fyrir þessa hópa fólks.

Markmið: Að varpa ljósi á stöðuna, kynna stefnu hins opinbera og mögulegar úrbætur.

Aðferð: Hér á landi hefur opinbera stefnan verið sú að 80% af þeim sem eru 80 ára og eldri geti búið í heimahúsi. Jafnframt er stefnt að því að það hlutfall aukist í 85%, líkt og algengt er á hinum Norðurlöndunum. Hér er skoðuð fjölgun þessa aldurhóps á höfuðborgarsvæðinu á síðastliðnum 5 árum, fjöldi hjúkrunarrýma og studdrar búsetu, og biðtími á Landspítala eftir hjúkrunarheimili. Einnig er skoðuð stefnumótun hins opinbera í þjónustu við eldra fólk sem þarf verulega aðstoð.

Niðurstöður: Eldra fólki fer fjölgandi og þar með þeim sem búa við góða færni á efri árum. Þeim sem þurfa margháttaða aðstoð yfir sólarhringinn fjölgar einnig og þar erum við sem samfélag vanbúin til að mæta þörfum þeirra. Í kjölfar breytinga á framkvæmd færni- og heilsumats 2008 og 2012 styttist biðtími eftir hjúkrunarheimilum verulega og þeim fækkaði sem biðu á Landspítala. Þjónusta á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki haldið í við fjölgun eldra fólks og þeim sem bíða á Landspítala hefur á sl. fimm árum fjölgað úr 45 manns 1. janúar 2014, í 119 manns um síðustu áramót. Í ljósi stefnu um að 85% 80 ára og eldri geti búið heima dregur úr þörf fyrir hjúkrunarheimili og leggja þarf megináherslu á búsetu í heimahúsum.

Ályktanir: Aðkallandi er að efla þjónustu í heimahúsum, og stytta biðtíma eftir flutningi á hjúkrunarheimili þegar á þarf að halda. Sama gildir um þá sem yngri eru og þurfa í kjölfar veikinda eða slysa á sambærilegri aðstoð að halda. Forvitnilegt er að líta til Norðurlandanna um leiðir til að efla þjónustu í heimahúsum ekki síst með velferðartækni.


Inngjöf neyðarblóðs á bráðamóttöku Landspítala

Yousef Ingi Tamimi1, Sólrún Rúnarsdóttir2, Jón Magnús Kristjánsson2, Guðrún Svansdóttir4, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir,1,3, Anna Margrét Halldórsdóttir,4

1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2flæðisviði, 3rannsóknastofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, 4Blóðbankanum Landspítala

yousefinta@gmail.com

Bakgrunnur: Skráningu á inngjöf neyðarblóðseininga á bráðamóttöku Landspítala hefur verið ábótavant og afdrif um 20% neyðarblóðseininga því óþekkt. Neyðarblóð, O RhD neg rauðkornaþykkni, er takmörkuð auðlind og því er mikilvægt að neyðarblóð sé notað á markvissan hátt og aðeins þegar viðeigandi ábendingar eru fyrir hendi.

Markmið: Að skoða hvernig notkun neyðarblóðs er háttað á bráðamóttöku Landspítala en slík athugun hefur ekki verið gerð hér á landi áður.

Aðferð: Rannsóknin var framsýn, lýsandi gagnaöflun um sjúklinga sem komu á bráðamóttöku Landspítala og fengu neyðarblóð á tímabilinu 1. janúar 2017 til 31. desember 2018. Upplýsingar um neyðarblóðsþega á tímabilinu voru skráðar jafnóðum á sérútbúin eyðublöð. Öðrum gögnum var safnað afturvirkt úr rafrænni sjúkraskrá Landspítala.

Niðurstöður: Upplýsingar um inngjöf neyðarblóðs bárust fyrir 92 neyðarblóðstilfelli á tímabilinu, eða alls 184 neyðarblóðseiningar. Karlar voru 57,6% (n=53) neyðarblóðsþega, meðalaldur var 58,2 ár og erlendir ferðamenn voru 13,0% (n=12). Algengustu ábendingarnar fyrir blóðgjöf voru fjöláverkar, 38,0% (N=35) og efri/neðri meltingarvegsblæðingar, 34,8% (N=32). Rof á ósæðargúl/ósæðarflysjun var ábending í 6.5% tilvika (N=6) og blæðingar frá kvenlífærum í 2,2% tilvika (n=2). Helstu afdrif sjúklinga voru innlögn á gjörgæslu (45,7%), á almenna legudeild (20,7%) eða tafarlaus skurðaðgerð (23,9%). Meðaldvalartími á bráðamóttöku var tæpar 5 klst og meðallegutími var 13 dagar. Alls létust 23,9% neyðarblóðsþega á bráðamóttöku eða í legu, að meðaltali 5,5 dögum eftir komu á bráðamóttöku (miðgildi 2 dagar, spönn 10 mín - 20 dagar). Í 73,9% tilvika fengu sjúklingar frekari blóðhlutainngjafir í framhaldinu. Í 91,3% tilvika var blóðhagur pantaður í kringum inngjöf en meðalblóðrauðagildi fyrir og eftir blóðgjöf voru 99 og 108 g/l. Meðalslagbilsblóðþrýstingur fyrir inngjöf var 105 mmHg. Verklagi fyrir lífsmarkamælingar við blóðinngjöf var fylgt í 14,1% tilvika samkvæmt skráningu í Sögu.

Ályktanir: Algengustu ástæður fyrir notkun neyðarblóðs á bráðamóttöku voru áverkar og meltingarvegsblæðingar og um fjórðungur blóðþega lést í legu. Flestir fengu frekari blóðhlutainngjafir í innlögn. Um það bil einn af hverjum 8 neyðarblóðsþegum var erlendur ferðamaður. Skráning lífsmarka í kringum inngjöf var ekki í samræmi við verklag Landspítala.


Málstofa:

Flæði og gæði – gæðaverkefni og rannsóknir


Notkun Ottawa reglna til að stytta dvalartíma sjúklinga með ökklaáverka á bráðamóttöku - gæðaverkefni

Unnur Ósk Stefánsdóttir1, Jón Magnús Kristjánsson1, Amelia Samuel2

1Bráðamóttöku, 2gæða- og sýkingarvarnadeild Landspítala

unnuro@landspitali.is

Bakgrunnur: Ökklaáverkar eru ein algengasta ástæða komu á bráðamóttökur. Ottawa-reglurnar fyrir ökkla og fót voru settar fram af bráðalæknum í Ottawa, Kanada árið 1992. Þær voru þróaðar til að aðstoða við mat á þörf fyrir röntgenmyndir af ökklum og fótum með það að markmiði að takmarka óþarfa röntgenmyndir. Síðan hafa þessar reglur verið teknar upp víða enda reynst mjög nákvæmar (99,6%-100%) og tiltölulega sértækar (47,9%) í rannsóknum.

Markmið: Að stytta dvalartíma sjúklinga með ökkla- og fótaáverka á bráðamóttöku með kennslu hjúkrunarfræðinga um mat og ákvörðun um töku röntgenmynd af Ottawa-jákvæðum einstaklingum meðan þeir bíða læknisskoðunar.

Aðferðir: Notast var við aðferðafræði svonefnds ÁFrAM hrings Demings: Áætlun, framkvæmd, athuganir, markviss lagfæring (PDSA: plan, do, study, act) og farið var í þrjá hringi á tímabilinu þar sem áætlun var sett fram um breytingar, breytingar framkvæmdar, dvalartími mældur fyrir og eftir og afstaða tekin til breytinganna auk mats í eftirfarandi röð: #1 Innleiðing og kennsla hjúkrunarfræðinga í triage um reglurnar. #2 Tekið upp nýtt verklag á bráðamóttöku, innleiðing og kennsla nýrra hjúkrunarfræðinga. #3 Flöskuhálsar fundnir með flæðiriti, jákvæð styrking og hvatning til hjúkrunarfræðinga og frekari kennsla.

Niðurstöður: Meðaltími sjúklinga var í upphafi verkefnisins 4,26 klst en við lok verkefnisins 3,68 klst og hafði því styst um 0,58 klst (14%). Stytting sást einnig eftir inngrip #1 (1,2 klst, 29%) og #2 (0,8 klst, 27%) en jókst við inngrip #3 um 1,48 klst (33%). Fjöldi koma var svipaður í upphafi (99) og við lok verkefnisins (108) en sveiflaðist talsvert á tímabilinu og sjá má mikla aukningu eftir inngrip #3 (58 í 108).

Ályktanir: Út frá þessu má ætla að hægt sé að stytta dvalartíma sjúklinga með ökkla- og fótaáverka með eflingu annarra fagstétta til að panta röntgen myndir af ökklum meðan þeir bíða læknisskoðunar. Taka ber þó fram að ýmsir þættir aðrir en ofangreint verkefni gætu haft áhrif á niðurstöður þar sem miklar breytingar á starfsemi bráðamóttökunnar fóru fram á sama tíma. Fróðlegt væri að einangra þann sjúklingahóps sem verkefnið tekur til og bera saman tíma þeirra við annarra sjúklinga.


Bætt yfirfærsla ábyrgðar milli unglækna á bráðamóttöku Landspítala – gæðaverkefni

Steinar Orri Hafþórsson1, Amelia Samuel2, Jón Magnús Kristjánsson1

1Bráðamóttaka, 2gæða- og sýkingarvarnadeild Landspítala

steinaro@landspitali.is

Bakgrunnur: Yfirfærsla ábyrgðar (handover) á milli vakta á bráðamóttöku hefur mikið að segja fyrir öryggi sjúklinga. Hingað til hefur verið einn formlegur fundur á morgnana. Fyrir kvöldvakt og næturvakt er alla jafna óformleg yfirfærsla ábyrgðar þar sem unglæknar taka sér stöðu fyrir framan tölvu inni á vinnustöðvum þar sem er hætt við truflunum. Yfirfærsla ábyrgðar á sér oft stað rétt fyrir vaktalok þess læknis sem er að fara heim, og oft eftir að vinnutíma hans lýkur. Sýnt hefur verið fram á aukið öryggi með notkun SBAR auk þess sem með því að færa yfir ábyrgð hjá sjúklingi má auka ánægju sjúklinga og lækna. Helsta hindrun í því að innleiða yfirfærslu ábyrgðar hjá sjúklingi hefur verið tímaþátturinn.

Markmið: Markmið er að yfirfærsla ábyrgðar eigi sér ávallt stað hjá sjúklingi og SBAR notað.

Aðferð: Þrisvar á tímabilinu voru gerð inngrip. #1 Tölvupóstur sendur út til að kynna gæðaverkefnið og óformleg kennsla á deild um útprentað SBAR hjálpartæki. #2 Vikuleg símtöl til deildarlækna og kandídata til að meta hlutfall þeirra sem færa ábyrgð yfir hjá sjúkling auk þess að greina helstu hindranir þess að innleiða verklagið. #3 Festa tímann á yfirfærslu ábyrgðar við kl 15, 20 og 23 þannig að það fyrsta sem læknar gerðu þegar þeir mæta á vakt væri að taka við ábyrgð sjúklinga.

Ályktun: Í upphafi tímabils átti yfirfærsla ábyrgðar meðal deildarlækna og kandidata sér ávallt stað inni á vinnustöðvum en aldrei við hlið sjúklings. Eftir inngrip #1 voru 7/27 (26%) sem unnu eftir verkferlinu stundum (<50% tilvika) en 20 (74%) aldrei. Eftir inngrip #2 jókst þátttakan umtalsvert og 6/20 (30%) unnu eftir verkferlinu oftast (≥50% tilvika) eða alltaf við yfirfærslu ábyrgðar. Við lok tímabils voru 5/19 (26%) sem unnu samkvæmt þessu verkferli oftast eða alltaf við yfirfærslu ábyrgðar. 11/19 (58%) unnu samkvæmt verkferli stundum og 3 (16%) aldrei. Erfitt var að fá lækna til að breyta verklagi sínu við yfirfærslu ábyrgðar en reglulegar áminningar hjálpuðu hvað mest til.


Leiðsludeyfing lærleggstaugar á bráðamóttöku hjá sjúklingum með brot á lærleggshálsi - gæðaverkefni

Arnar Jan Jónsson, Þórir Bergsson, Jón Magnús Kristjánsson, Julia Vallieres-Pilon

1Bráðamóttöku Landspítala

thoriber@landspitali.is

Bakgrunnur: Nýleg samantekt hefur sýnt á nokkuð glöggan hátt að leiðsludeyfing á lærleggstaug (n. femoralis) er örugg leið til að verkjastilla sjúklinga með brot á lærleggshálsi. Minnkar það notkun ópíóíða til verkjastillingar og fækkar tilfellum lungnabólgu í legu þessara sjúklinga.

Markmið: Auka fjölda sjúklinga með brot á lærleggshálsi sem fá leiðsludeyfingu á bráðamóttöku Landspítala.

Aðferðir: Notuð var „Model of improvement“ aðferðarfræði sem byggir á svokölluðum PDSA hringjum. Afmarkaðar íhlutanir eru þá gerðar í einu og stöðugt fylgst með sjúklingahópnum. Við tókum vikulegar úttektir á hlutfalli þeirra sjúklinga með brot á lærleggshálsi eða –hnútum sem fengu leiðsludeyfingu á lærleggstaug. Skoðaðar voru þrjár vikur aftur í tímann fyrir fyrsta inngrip til samanburðar. Fyrsta inngrip var einfaldur spurningarlisti sem sendur var á sérfræðinga og deildarlækna á bráðamóttöku til þess að vekja umhugsun og kanna hvað stæði í vegi fyrir notkun inngripsins. Annað inngrip var ítrekun þess spurningalista með viðbættum almennum fræðslugögn um inngripið. Þriðja inngrip var gerð skúffu með þeim verkfærum sem nauðsynleg eru til að einfalda framkvæmd inngripsins. Fjórða inngripið var fræðileg og verkleg kennsla fyrir áhugasama sérfræðinga og deildarlækna.

Niðurstöður: Á þeim vikum sem mældar voru fyrir fyrsta inngrip var tíðni 0-25%. Eftir öll inngrip mátti sjá greinilega aukningu á hlutfalli sjúklinga sem fengu deyfingu en sú aukning virðist ekki vera varanleg. Eftir inngrip #1 jókst tíðni upp í 44%. Tíðnin féll þó aftur niður í 0-25% nokkrum vikum síðar en komst tímabundið upp í 44% að nýju eftir inngrip #4.

Ályktanir: Hingað til hefur notkun deyfingarinnar verið mjög sveiflukennd á milli vikna sem virðist fyrst og fremst einskorðast við þá sérfræðinga sem eru á vakt hverju sinni. Aukin umræða og kennsla hefur greinileg áhrif á notkun leiðsludeyfinga en þörf er á að viðhalda þeirri umræðu betur og auka aðgengi að verkfærum til inngripsins. Það gæti haft jákvæð áhrif sem næsta inngrip að nálgast einstaka sérfræðinga sem ekki nota leiðsludeyfingu og bjóða þeim kennslu sérstaklega.


Nýtt verklag við móttöku bráðveikra sjúklinga - umbótaverkefni

Auður Elva Vignisdóttir, Davíð Björn Þórisson

Bráðamóttöku Landspítala

audurelva@gmail.com

Bakgrunnur: Við móttöku bráðveikra og slasaðra sjúklinga skiptir góð teymisvinna miklu máli. Oft þarf að hafa hraðar hendur, greina strax í hverju veikindi sjúklings felast og veita tafarlaust rétta meðferð.

Markmið: Að hanna nýtt vinnulag við móttöku bráðveikra sjúklinga, straumlínulaga ferli sjúklings og bæta skráningu.

Aðferð: Ný hugbúnaðarlausn er í vinnslu sem til að byrja með snýr að móttöku slasaðra en má svo útfæra til móttöku á mismunandi sjúklingahópum – til að mynda endurlífgunum, slösuðum og veikum börn, bráðaofnæmi.

Niðurstöður: Einn af stóru kostum kerfisins er hvernig það leiðir teymið áfram og samræmir skoðun og meðferð. Þegar forritið „sér“ hvað amar að sjúklingnum (út frá skoðun læknis og skráningu hjúkrunarfræðings) svarar það með leiðbeiningum um hver næstu skref ættu að vera. Eins er öll skoðun, meðferð og farvegur sjúklinga skráður með kóðum og tímastimplum sem að mun skapa viðamikinn og nákvæman rannsóknarefnivið. Höfundar vita ekki til þess að slíkri nálgun hafi verið beitt annars staðar í heiminum.

Ályktanir: Forritið er ekki tilbúið til notkunar en á Bráðadeginum verður sýnt lifandi dæmi til að hugmyndin komist sem best til skila.


Reynsla heilbrigðisstarfsfólks af þverfaglegum samskiptum við komu sjúklings með sjúkrabíl á bráðamóttöku

Sveinbjörn Dúason1, Margrét Hrönn Svavarsdóttir1, Björn Gunnarsson1,2

1Háskólanum á Akureyri, 2Sjúkrahúsinu á Akureyri

sduason@simnet.is

Bakgrunnur: Sjúkraflutningar eru einn þáttur íslensks heilbrigðiskerfis sem mikið mæðir á, sér í lagi þegar um bráð veikindi eða slys er að ræða. Mikill meirihluti sjúkraflutninga endar á bráðamóttöku þar sem sérhæft starfsfólk tekur á móti sjúklingum. Klínísk yfirfærsla sjúklinga (handover) er mikilvægur en að sama skapi viðkvæmur þáttur í meðferð þeirra. Þar skapast sú hætta að mikilvægar upplýsingar berist ekki á milli meðferðaraðila, sem getur haft neikvæðar afleiðingar fyrir sjúklinga. Rannsóknir skortir á þessu sviði og mikilvægt að bæta úr því, með öryggi sjúklinga í huga.

Markmið: Að rannsaka klíníska yfirfærslu sjúklinga sem koma með sjúkrabíl á bráðamóttöku. Í því fólst að skoða þætti sem hefðu áhrif á miðlun upplýsinga, samskipti milli starfsstétta og brotalamir samfara yfirfærslu ábyrgðar á sjúklingi frá sjúkraflutningamönnum til hjúkrunarfræðinga og lækna. Jafnframt að auka þekkingu og dýpka skilning á yfirfærslu sjúklinga með úrbætur í huga. Vonast er til að niðurstöður rannsóknarinnar geti nýst til að bæta yfirfærslu og þannig auka öryggi sjúklinga.

Aðferð: Notuð var fyrirbærafræðileg aðferð og stuðst við Vancouver-skólann. Tilgangsúrtak sjúkraflutningamanna, hjúkrunarfræðinga og lækna með reynslu af störfum á bráðamóttökum sjúkrahúsa, var valið. Tekin voru hálfstöðluð viðtöl og stuðst við viðtalsramma. Viðtölin voru þemagreind, gerð einstaklingsgreiningarlíkön og heildargreiningarlíkan.

Niðurstöður: Alls lýstu 17 sjúkraflutningamenn, hjúkrunarfræðingar og læknar reynslu sinni af samskiptum við yfirfærslu sjúklinga og yfirfærslu ábyrgðar á bráðamóttökum sjúkrahúsa.

Meginniðurstaða rannsóknarinnar var að formföst samskipti og upplýsingagjöf heilbrigðisstarfsfólks hefðu mikil áhrif á gæði þjónustunnar og eru lykilþáttur í að vel takist til við yfirfærslu sjúklinga sem koma með sjúkrabíl á bráðamóttöku. Þessu er lýst í fjórum meginþemum; óljós fagleg ábyrgð, upplýsingaflæði milli fagaðila, mannlegir þættir, kerfislægir þættir og níu undirþemum.

Ályktanir: Efla þarf staðlaða upplýsingagjöf og fræðslu til heilbrigðisstarfsmanna um yfirfærslu sjúklinga. Skýra þarf vinnureglur, ábyrgðarhluta fagstétta og bæta viðhorf þeirra á milli.


Vakandi og virkur í uppréttri stöðu í öndunarvél. Slembiröðuð samanburðarrannsókn með 12 mánaða eftirfylgni

Ólöf R. Ámundadóttir1,2, Rannveig J. Jónasdóttir3, Kristinn Sigvaldason3,4, Ester Gunnsteinsdottir2, Brynja Haraldsdottir2, Þórarinn Sveinsson1, Elizabeth Dean1,5, Gísli H. Sigurðsson1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Sjúkraþjálfun, 3gjörgæsludeild , 4svæfinga- og gjörgæslulækningar, Landspítala, 5Department of Physical Therapy, Faculty of Medicine, The University of British Columbia, Vancouver, Canada

olofra@landspitali.is

Bakgrunnur: Sjúklingar í öndunarvél á gjörgæsludeild geta tapað vöðvamassa vegna afleiðinga svæfingar og rúmlegu. Vísbendingar eru um að ef sjúklingar í öndunarvél eru vakandi og færir um að hreyfa sig með aðstoð í upprétta stöðu nokkrum sinnum á dag, hefur það jákvæð áhrif á bataferli þeirra. Sýnt hefur verið fram á fýsileika og öryggi slíkrar hreyfingar.

Markmið: Að bera saman skammtíma- og langtíma árangur sjúkraþjálfunar sem miðar að aukinni hreyfingu í upprétta stöðu, við árangur hefðbundinnar sjúkraþjálfunar hjá sjúklingum í öndunarvél.

Aðferð: Slembiröðuð samanburðarrannsókn50 alvarlegra veikra sjúklinga, 18 ára og eldri, í öndunarvél á gjörgæsludeildum Landspítala. Rannsóknarhópurinn (N=29) hóf sjúkraþjálfun eftir tvo sólarhringa í öndunarvél og fékk aðstoð við að setjast fram á rúmstokk eins fljótt og ástand þeirra leyfði. Áhersla sjúkraþjálfunar var á virka hreyfingu í upprétta stöðu á meðan á gjörgæsludvöl stóð. Samanburðarhópurinn (N=21) fékk hefðbundna sjúkraþjálfun sem hófst eftir fjóra sólarhringa í öndunarvél. Helstu útkomumælingar voru tímalengd í öndunarvél, lengd gjörgæslu- og sjúkrahúslegu, heilsutengd lífsgæði, líkamlegt þol, vöðvastyrkur og færni.

Niðurstöður: Enginn marktækur munur var á milli hópa í tímalengd öndunarvélameðferðar, lengd gjörgæslu- og sjúkrahúslegu, heilsutengdum lífsgæðum, líkamlegu þoli, vöðvastyrk eða færni. Sjúklingar í rannsóknarhópi voru fyrst aðstoðaðir við að setjast á rúmstokk á sjöunda degi öndunarvélameðferðar, en sjúklingar í samanburðarhópi á áttunda degi. Djúp svæfing var ástæða seinkunar á hreyfingu í upprétta stöðu hjá 80% (12/15) þátttakenda í rannsóknarhópi. Sjúklingar í rannsóknarhópi fengu sjúkraþjálfun með hreyfingu í upprétta stöðu í 31% gjörgæsludaga og sjúklingar í samanburðarhópi í 22% gjörgæsludaga (p=0.03).

Ályktanir: Árangur af sjúkraþjálfun sem miðaði að því að auka hreyfingu í upprétta stöðu kom ekki betur út en hefðbundin sjúkraþjálfun. Sjúklingar í rannsóknarhópi hófu hreyfingu í upprétta stöðu seinna í gjörgæslulegu en áætlað var, þar sem djúp svæfing hindraði hreyfingu í upprétta stöðu. Líkamlegt þol og heilsutengd lífgæði voru skert hjá báðum hópum 12 mánuðum eftir útskrift af gjörgæslu.


Veggspjöld


Grípum brotin - Samþætting þjónustu við einstaklinga sem hljóta beinþynningarbrot

Birkir Friðfinnsson1, Anna Björg Jónsdóttir2, Rafn Benediktsson1

1Innkirtlalækningadeild, lyflækningasviði, 2öldrunarlækningadeild, flæðisviði Landspítala

birkir@landspitali.is

Bakgrunnur: Beinþynning sem er algengur sjúkdómur en þögull þar til einstaklingur brotnar. Algengt er að hljóta fleiri en eitt beinþynningarbrot. Landspítali, að erlendri fyrirmynd (Alþjóða beinverndarsamtökin - IOF) hratt á haustmánuðum 2017 af stað gæðaverkefninu “Grípum brotin” sem miðar að því að minnka líkur á öðru broti. Verkefnið felur í sér að finna fólk með brot og koma þeim í ákveðinn farveg mats, meðferðar og eftirfylgni. Miðpunktur kerfisins er svokallaður brotatengill sem sér um að finna fólk og tengja við hinar ýmsu þjónustur sem í boði eru svo sem heimilislækni, byltu og beinverndarþjónustu á Landakoti eða sérhæfða beinþynningarmóttöku á Innkirtladeild.

Markmið: Að samþætta þjónustu með það að markmiði að koma í veg fyrir annað beinþynningarbrot.

Aðferð: Rafræn kerfi Landspítala auðkenndu alla einstaklinga 45 ára og eldri sem hlutu fram- eða upphandleggsbrot á árinu 2018 og leituðu á bráðamóttöku Landspítala. Einfaldri lýsandi tölfræði var beitt á þýðið í MS-Excel.

Niðurstöður: Alls fundust 796 einstaklingar á rannsóknartímabilinu. Þar af 221 með framhandleggsbrot á árinu 2017 og 385 á árinu 2018. Upphandleggsbrot voru því 190. Fjöldi einstaklinga sem brotatengill hlutaðist til um málefni fyrir var 442. Aðrir voru erlendir ferðamenn, þegar í farvegi eða höfðu orðið fyrir háorkuáverka. Rúm 7% þekktust ekki boð um beinþéttnimælingu (59 einstaklingar). Af þeim sem hlutu framhandleggsbrot og brotatengill hlutaðist til um, reyndust 82% með beingisnun eða beinþynningu og fyrir upphandleggsbrot var talan 80%.

Ályktun: Rúmur helmingur einstaklinga með brot á efri útlimi þurfti íhlutun af hálfu brotatengils. Af þeim voru nánast allir (um 80%) með óeðlilega beinþéttnimælingu, flestir með beingisnun. Kerfið finnur mikinn fjölda fólks með afbrigðilega beinþéttni en frekara mat á fyrirliggjandi gögnum er fyrirhuguð svo bæta megi skilvirkni þjónustunnar.


Komur erlendra ferðamanna á heilbrigðisstofnanir á Íslandi á árunum 2009-2015

Elín Ósk Hjartardóttir1, Jóhanna Rut Óskarsdóttir1, Guðbjörg Pálsdóttir2, Gyða Halldórsdóttir3, Brynjólfur Mogensen3, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,3

1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, 3rannsóknastofu Landspítala og HÍ í bráðafræðum

thordith@landspitali.is

Bakgrunnur: Ferðamenn geta verið misvel í stakk búnir til að takast á við nýjar og óþekktar aðstæður og þurfa því oftar en ekki að leita sér heilbrigðisþjónustu á þeim stöðum sem þeir heimsækja, bæði vegna slysa og veikinda. Hingað til hefur ekki verið ljóst hverjar ástæður komu ferðamanna á Íslandi á heilbrigðisstofnanir, aðrar en Landspítala, eru né hver dreifing á komum er eftir aldri, kyni, árstíðum og landshluta.

Markmið: Að afla gagna til að draga fram hvað betur mætti fara í veittri heilbrigðisþjónustu, ásamt því að efla forvarnir og fræðslu til þess að sporna gegn slysum og veikindum erlendra ferðamanna.

Aðferð: Gerð var aftursæ lýsandi rannsókn á gögnum úr lágmarksskráningu vistunarupplýsinga frá Embætti landlæknis um allar komur einstaklinga 18 ára og eldri með gervikennitölur á heilbrigðisstofnanir utan höfuðborgarsvæðis 1. janúar 2009 til og með 31. desember 2015. Gerð var lýsandi tölfræðigreining á kyni og aldursflokkum, ástæðum komu út frá ICD-10 greiningum, komutíma og heilbrigðisumdæmi. Tölfræðileg marktækni á samböndum milli breyta var könnuð með kí-kvaðrat prófi.

Niðurstöður: Alls voru 22.648 skráðar komur á heilbrigðisstofnanir utan höfuðborgarsvæðis á tímabilinu en gögn reyndust ekki fullhreinsuð og gera má ráð fyrir allt að 15% ofáætlun, jafnt yfir tímabilið. Meðalaukning var 15% á milli ára. Skráðar komuástæður voru 54,3% vegna veikinda, 29,8% vegna slysa og 16,0% vegna annarra ástæðna. Komur vegna veikinda voru hlutfallslega fleiri á veturna (67,5%) en á sumrin (63%; p<0,001). Konur komu oftar vegna slysa (37,1%) en karlar (33,8%; p<0,001) og hærri aldur jók líkur á slysum (p<0,001). Komur vegna veikinda voru algengastar í Heilbrigðisumdæmi Suðurnesja (83%; p<0,001).

Ályktanir: Auknu álagi í íslensku heilbrigðiskerfi vegna erlendra ferðamanna hefur verið lýst en gagnaúrvinnslu skráninga heilbrigðisþjónustu við þá á landsbyggðinni virðist vera ábótavant. Rannsóknin bendir til mismunandi komusástæðna eftir árstíma, landshluta, kyni og aldri. Til að greina enn frekar heilbrigðisþjónustu erlendra ferðamanna og efla gæði er nauðsynlegt að bæta skráningu og úrvinnslu viðeigandi gagna. Þannig má bæta forvarnir og fræðslu sem ferðamönnum er veitt á Íslandi.


Verklag við sjúkraflutninga nýbura á Íslandi

Elín Ögmundsdóttir, Hrólfur Brynjarsson, Þórður Þórkelsson

Vökudeild Barnaspítala Hringsins, Landspítala

elinogm@landspitali.is

Bakgrunnur: Á Vökudeild Barnaspítala Hringsins er starfandi sérhæft teymi sem sinnir bráðum og skipulögðum sjúkraflutningum nýbura til og frá Landspítala. Í teyminu eru 7 reyndir nýburagjörgæsluhjúkrunarfræðingar og 5 nýburalæknar. Börn sem fæðast utan Landspítala og þurfa á frekari meðferð að halda eru jafnan sótt af teyminu. Einnig sinnir teymið flutningum nýbura og ungbarna með meðfædda hjartagalla til Svíþjóðar þar sem þau gangast undir aðgerð. Flutningur veikra nýbura er í eðli sínu áhættusamur og þarfnast sérþekkingar og sérhæfðs búnaðar, þar sem unnið er í framandi umhverfi með takmörkuð bjargráð. Til langs tíma hafa mögulegar boðleiðir verið margar og nýburar stundum fluttir af öðrum en flutningsteymi Vökudeildar.

Markmið: Að samræma vinnubrögð allra aðila við skipulagningu flutnings veikra nýbura sem fæðast utan Landspítala í þeim tilgangi að tryggja aðkomu sérhæfðs flutningsteymis þegar þess er þörf. Rannsóknir sýna að veikir nýburar og ungbörn sem flutt eru af sérhæfðu flutningsteymi hafa betri lífslíkur, fá færri fylgikvilla og minni líkur eru á óvæntum uppákomum meðan á flutningi stendur.

Aðferð: Eftir vinnufund fulltrúa flutningsteymis Vökudeildar, miðstöðvar sjúkraflugs á Akureyri og annarra hagsmunaaðila var unnið verklag sem kveður á um að þegar nýburi sem fæðist utan Landspítala þarf meðferð á Vökudeild, skuli í öllum tilvikum hafa samband beint við vakthafandi nýburalækni til ráðgjafar um meðferð og skipulagningu flutnings. Skilgreint var hvaða upplýsingar æskilegt er að komi fram í samtalinu til að auðvelda ákvarðanatöku um framkvæmd flutnings. Að öllu jöfnu sér Sjúkraflutningateymið um flutninginn og er það á ábyrgð vakthafandi nýburalæknis og vaktstjóra Vökudeildar að kalla til hjúkrunarfræðing og lækni úr teyminu. Sérútbúinn ferðahitakassi ásamt öðrum búnaði er ávallt til reiðu og viðbragðstími í bráðatilvikum < 30 mínútur.

Niðurstöður: Verklagið hefur verið sent á alla fæðingarstaði á Íslandi sem og til Neyðarlínunnar sem sér um að virkja viðeigandi flutningsaðila (sjúkrabíl, sjúkraflugvél, þyrlu). Útgáfa verklagsins hefur skýrt boðleiðir en frekari kynningar en þörf.

Ályktanir: Mikilvægt er að starfsfólk í fæðingarþjónustu utan Landspítala viti af tilvist teymisins og þekki réttar boðleiðir við útkall þess, til að ekki verði töf á sérhæfðri meðferð veikra nýbura.


Eitrunarmiðstöð Landspítala. Mat á umfangi og eðli fyrirspurna

Guðrún Svanhvít S. Michelsen1, Freyja Jónsdóttir1,2, Curtis Snook3, Helena Líndal4, Guðborg Auður Guðjónsdóttir1

1Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 2sjúkrahúsapóteki, 3bráðamóttöku, 4Eitrunarmiðstöð Landspítala

gsvanhvit@gmail.com

Bakgrunnur: Rannsóknin var unnin sem hluti af meistaraverkefni í lyfjafræði við Háskóla Íslands vorið 2018. Hún er fyrsta greiningin á símafyrirspurnum til Eitrunarmiðstöðvarinnar frá stofnun hennar árið 1994, að ársskýrslum undanskildum.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að skoða umfang og eðli fyrirspurna sem berast Eitrunarmiðstöð Landspítala, auk þess að meta tækifæri til forvarna.

Aðferðir: Gögn fengust úr gagnagrunni Eitrunarmiðstöðvar fyrir tímabilið 1. janúar 2010 – 31. desember 2017. Við vinnslu og greiningu gagnanna var notast við Microsoft Excel og R Studio.

Niðurstöður: 2,57 fyrirspurnir voru skráðar á hverja 1000 íbúa á ári á árunum 2010 – 2017, en alls voru skráðar 6747 fyrirspurnir. 30,8% fyrirspurna bárust vegna 1-3 ára barna. Drengir voru fleiri í öllum aldursflokkum til 12 ára aldurs, en stúlkur og konur voru fleiri frá 13 ára aldri. Efnafyrirspurnir voru algengari til 6 ára aldurs, en lyfjafyrirspurnir í öllum eldri aldursflokkum. Algengast var að fyrirspurnir um fullorðna væru vegna einstaklinga á aldrinum 20-29 ára. Flestar fyrirspurnir bárust á milli kl. 16:00 – 20:00, en algengast var að þær fyrirspurnir tengdust börnum 0-9 ára. Líklegra var að fyrirspurnir tengdar eldri aldurshópum bærust á kvöldin og á nóttunni. Algengasta ástæða fyrirspurna voru óhöpp (60,9%). Hjá konum var algengasta ástæða fyrirspurna sjálfsvígstilraunir og sjálfskaði, en hjá körlum voru það óhöpp, misnotkun efna og slys á vinnustað.

Ályktanir: Niðurstöðurnar gefa til kynna að forvörnum vegna eitrana barna þurfi helst að beina inn á heimilin, með áherslu á geymslu og umgengni við efni sem geta verið skaðleg börnum. Algengustu fyrirspurnir til Eitrunarmiðstöðvarinnar voru ekki í samræmi við algengustu tilfelli í rannsóknum á eitrunum sem koma til meðferðar á bráðamóttökum. Umfang og eðli fyrirspurna til Eitrunarmiðstöðvar Landspítala voru sambærileg við önnur vestræn lönd. Þar sem flestar fyrirspurnir bárust síðdegis, milli kl. 16:00 – 20:00, væri aðgerðum til að styðja við svarendur Eitrunarmiðstöðvarinnar best varið á þeim tíma dags.


Eitrunarmiðstöð Landspítala – uppgjör og tölfræði þeirra símtala sem bárust í eitrunarsímann 543-2222 árið 2018

Helena Líndal

Eitrunarmiðstöð Landspítala, flæðisviði

hlindal@landspitali.is

Bakgrunnur: Eitrunarmiðstöð Landspítala starfar samkvæmt íslenskum lögum. Eitt af helstu hlutverkum hennar er að veita upplýsingar um eiturefni og ráðgjöf um viðbrögð og meðferð þegar eitranir verða og halda utan um tíðni og tegundir fyrirspurna. Símaþjónustan er opin öllum og veitt ráðgjöf af fagfólki allan sólarhringinn. Einnig ber Eitrunarmiðstöð Landspítala að taka við upplýsingum frá innflytjanda, framleiðanda eða öðrum sem ber ábyrgð á markaðssetningu eiturefnis eða varnarefnis á Íslandi. Slíkar upplýsingar varðandi efnasamsetningu og eiturhrif efna skulu vera aðgengileg sérfræðingum miðstöðvarinnar.

Markmið: Að kynna uppgjör og tölfræði þeirra símtala sem Eitrunarmiðstöðinni bárust á árinu 2018.

Aðferð: Hlutverk Eitrunarmiðstöðvar var skilgreint. Öll símtöl sem bárust í eitrunarsímann skráð á þar til greind eyðublöð og í gagnagrunn og teknar út tölur og tölfræðin skoðuð.

Niðurstöður: Frá 1. janúar 2018 til 31. desember 2018 bárust 1754 símtöl í eitrunarsíma Eitrunarmiðstöðvarinnar. Þetta er um 20% aukning frá árinu þar á undan. Í um 20% tilvika var hringjanda vísað á að fara beint á næstu bráðamóttöku eða hringja í 112. Um 48,4% fyrirspurnanna voru vegna hugsanlegra eiturefna, 45,9% vegna lyfjaeitrana og 5,7% voru almennar fyrirspurnir um lyf og eiturefni. Þessar tölur eru sambærilegar við tölurnar frá 2017. Um 19% símtalanna voru vegna barna undir 2ja ára (23% árið 2017) og 25% vegna barna 2-6 ára (30% árið 2017).

Ályktanir: Símtöl sem berast í eitrunarsímann hafa í gegnum tíðina líklega verið vanskráð en með bættri fræðslu og samstarfi síðustu tvö ár (við þá sem svara í símann) hefur skráning batnað mikið. Árið 2016 voru skráð 934 símtöl og árið 2017 1398 símtöl. Talið er að betri skráningu frekar en fjölgun símtala sé að þakka. Enn er hægt að gera betur sérstaklega er varðar eftirfylgni símtala og samstarf við þá aðila sem sinna meðferð vegna eitrana til dæmis bráðamóttöku barna. Einnig mætti vinna ötular að forvörnum.


Parasetamóleitranir á Landspítala. Umfang og eðli eitrana og verklag við meðhöndlun

Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir1, Freyja Jónsdóttir1,2, Curtis P. Snook2,3, Einar S. Björnsson1,4, Helena Líndal5

1Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 2Sjúkrahúsapóteki, 3bráðadeild, 4meltingar- og nýrnadeild, 5Eitrunarmiðstöð Landspítala

thorbjaf@landspitali.is

Bakgrunnur: Parasetamóleitranir eru heilbrigðisvandamál víða um heim og heilbrigðiskostnaður sökum þeirra mikill. Á Íslandi er parasetamól eitt mest notaða verkja- og hitastillandi lyfið. Parasetamóleitranir eru helsta ástæða bráðrar lifrarbilunar í Bandaríkjunum og Bretlandi í dag. Í meðferðarskömmtum er parasetamól öruggt lyf en við hærri skammta þess getur komið fram eiturverkun á lifur.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að skoða umfang parasetamóleitrana á Landspítala út frá árlegu nýgengi frá 2010-2017. Auk þess var eðli eitrana kannað, hvort kynið væri í meiri áhættu og hvaða aldurshópar í mestri áhættu. Að lokum var verklag við meðhöndlun parasetamóleitrana skoðað og afdrif sjúklinga.

Aðferð: Rannsóknarsnið var afturskyggn lýsandi rannsókn þar sem upplýsingar voru fengnar úr gagnagrunni Landspítala um allar parasetamólmælingar sem framkvæmdar voru, óháð aldri, á Landspítala á tímabilinu 1. janúar 2010 - 31. desember 2017. Mælingarnar voru flokkaðar í tvo mismunandi flokka, þá sem voru með mælingar lægri en 66 µmól/L og svo 66 µmól/L eða hærri, en meðferðarmörk sett við 66-200 µmól/L. Sjúklingum var flett upp í sjúkraskrám og safnað var frekari upplýsinga um þá sem uppfylltu viðmið parasetamóleitrunar.

Niðurstöður: Parasetamóleitranir voru alls 542 yfir 8 ára tímabil, frá 2010-2017. Árlegt nýgengi eitrana fór lækkandi úr 26/100.000 íbúa árið 2010 í 25/100.000 árið 2017. Mesta hækkun í nýgengi átti sér stað árin 2012 og 2016 en það var talið tilviljunarkennt. 5,4% (29/542) sjúklinga fengu lifrarbilun og sex sjúklingar létust þar sem parasetamól átti hlut í dánarorsök, sem er aukning borið saman við fyrri íslenska rannsókn frá árinu 2011. Konur í aldurshópi 16-25 ára með sjálfsskaða í huga voru í meirihluta parasetamóleitrana. Óviljandi eitranir hjá körlum 65 ára og eldri fór fjölgandi en þeim fylgdu verri afdrif.

Ályktanir: Parasetamóleitranir í sjálfsskaðandi tilgangi voru algengastar hjá konum í aldurshópi 16-25 ára. Óviljandi eitranir voru líklegri til þess að eiga sér stað hjá körlum eldri en 65 ára þar sem afdrifin voru verri. Afdrif flestra sjúklinga voru jákvæð en aukning á lifrarbilun og dauðsföllum er áhyggjuefni.


Mat á leiðbeinendanámskeiði í herminámi

Þorsteinn Jónsson1,2,3, Hrund Sch. Thorsteinsson1,2

1Menntadeild Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 3gjörgæsludeild Landspítala

thorsj@hi.is

Bakgrunnur: Herminám er vinsælt kennsluform innan heilbrigðisvísinda. Margar ástæður liggja að baki vinsældum hermináms svo sem flókið starfsumhverfi, sem og aukin áhersla á öryggi sjúklinga. Á Landspítala er stuðst við viðurkenndar aðferðir í herminámi og hefur umfang þess vaxið verulega á undanförnum árum. Mikil reynsla er komin á herminám hérlendis og Landspítali orðinn sjálfbjarga með þjálfun leiðbeinenda. Haustið 2018 var haldið fyrsta íslenska leiðbeinendanámskeið í herminámi á Landspítala. Um var að ræða 15 klukkustunda grunnnámskeið, auk verklegrar þjálfunar.

Markmið: Var þríþætt. 1. Að þátttakendur þekki hugmyndafræði hermináms; 2. Að þátttakendur skilji hlutverk hermileiðara; 3. Að þátttakendur geti leitt herminám.

Aðferð: Þátttaka var þverfagleg, alls 18 þátttakendur. Þátttakendur mátu námskeiðsdaga og námskeiðið í heild. Fyrri daginn voru spurningar lagðar fyrir rafrænt og niðurstöðum varpað upp á skjá og skoðaðar með þátttakendum í rauntíma. Seinni daginn var lagt fyrir skriflegt námskeiðsmat, sem samanstóð af 16 spurningum.

Niðurstöður: Allir þátttakendur (n=18) voru sammála eða mjög sammála því að herminám sé góð leið til að læra. Þegar spurt var um þekkingu þátttakenda á hugmyndafræði hermináms í lok námskeiðsins á skalanum 0-10, var meðaltalið 7. Rúmlega 88% (n=15) voru sammála eða mjög sammála því að þeir hefðu gott vald á að leiða herminám. Allir þátttakendur voru sammála eða mjög sammála því að sjálfstraust þeirra í að leiða herminám hefði aukist með leiðbeinendanámskeiðinu. Eins voru allir (n=18) sammála eða mjög sammála því að hafa lært mikið á námskeiðinu sem þeir munu nýta sér. Þá voru allir (n=18) sammála eða mjög sammála því að reynsla þeirra af leiðbeinendanámskeiðinu hafi verið góð. Tæplega 95% (n=17) voru sammála eða mjög sammála því að skipulag námskeiðsins hafi verið gott. Þátttakendur gáfu námskeiðinu 8,9 í meðaleinkunn báða námskeiðsdagana, (spönn: 8-10). Þegar spurt var um hvort þátttakendum hafi liðið vel á námskeiðinu, á skalanum 0-10, var meðaltalið 8,9 (spönn: 8-10).

Ályktanir: Leiðbeinendanámskeiðið gekk vel og mikil ánægja var með námskeiðið. Í lok námskeiðsins töldu þátttakendur sig hafa góða þekkingu á hugmyndafræði hermináms. Því er óhætt að ætla að þátttakendur hafi tileinkað sér lykilþætti hermináms og séu tilbúnir í að leiða herminám í heilbrigðisvísindum.


Diplómanám í bráðahjúkrun við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands frá hausti 2019

Ágústa Hjördís Kristinsdóttir1,2, Ingibjörg Sigurþórsdóttir1, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,2

1Fagráð bráðahjúkrunar á Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

thordith@landspitali.is

Bakgrunnur: Hjúkrunarfræðingar í bráðaþjónustu standa sífellt frammi fyrir nýjum áskorunum sem undanfarið hafa meðal annars falist í hjúkrun fjölveikra aldraðra, veikra og slasaðra ferðamanna, æ fleiri einstaklinga sem leita hjálpar vegna ofneyslu ópíóða, kynferðisofbeldis eða annars ofbeldis. Fyrir utan það veldur skortur á legurýmum á sjúkrahúsum lengri legu fjölveikra á bráðamóttökum. Fagdeild bráðahjúkrunarfræðinga, Fagráð í bráðahjúkrun á Landspítala auk stjórnenda bráðamóttöku Landspítala hafa greint þörf á að boðið sé upp á diplómanám í bráðahjúkrun. Síðast var boðið upp á slíkt nám við Háskóla Íslands fyrir hátt í 10 árum og eru hjúkrunarfræðingar farnir að kalla eftir framhaldsnámi þar sem þeim gefst tækifæri á að dýpka fræðilega en ekki síður klíníska þekkingu sína.

Markmið: Að skipuleggja nám á meistarastigi sem eflir hæfni hjúkrunarfræðinga í bráðaþjónustu.

Aðferð: Námsnefnd hefur undirbúið og lagt drög að námsskrá diplómanáms í bráðahjúkrun á meistarastigi við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Námið verður 30 einingar, klínískt og bóklegt, sem ljúka má á tveimur námsárum miðað við þau hæfniviðmið sem gilda um slíkt nám við Hjúkrunarfræðideild.

Niðurstöður: Á deildarfundi Hjúkrunarfræðideildar 23. janúar var samþykkt að haustið 2019 hæfist diplómanám í bráðahjúkrun og gert ráð fyrir að einn þriðji hluti þess verði klínískur, kenndur á bráðamóttöku Landspítala eða 3./4. stigs bráðamóttöku erlendis. Námskrá hefur verið lögð fram og til stendur að kynna hana.

Ályktanir: Eftir breytingar á námskrá BS-náms við Háskóla Íslands hefur klínískum stundum í bráðahjúkrun fækkað og því talin þörf á framhaldsnámi þar sem gefinn væri kostur á slíkri sérhæfingu. Mikil ánægja var með diplómanám í bráðahjúkrun þegar það var síðast í boði, hjúkrunarfræðingarnir efldust í starfi og stór hluti hélt áfram námi. Bráðahjúkrun er sinnt um allt land og á mismunandi þjónustustigum. Til að auka öryggi borgara sem veikjast eða slasast er mikilvægt að efla hæfni hjúkrunarfræðinga í bráðaþjónustu, þekkingu þeirra, viðhorf og klíníska færni .


Hæfniviðmið efla hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku Landspítala

Dóra Björnsdóttir1, Gyða Halldórsdóttir2, Ágústa Hjördís Kristinsdóttir1,Bryndís Guðjónsdóttir1, Helga Rósa Másdóttir1, Ingibjörg Sigurþórsdóttir1, Kristín Halla Marínósdóttir1, Ragna Gústafsdóttir1, Sigurlaug A. Þorsteinsdóttir1, Sólrún Rúnarsdóttir1, Þuríður Anna Guðnadóttir1, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,3

1Fagráð bráðahjúkrunar, 2flæðisviði Landspítala, 3hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 4rannsóknastofu Landspítala og HÍ í bráðafræðum

thordith@landspitali.is

Bakgrunnur: Hæfni hjúkrunarfræðinga skiptir lykilmáli varðandi öryggi sjúklinga og útkomur þeirra í og eftir sjúkrahúsdvöl. Hæfniviðmið hafa verið skilgreind fyrir mismunandi hlutverk bráðahjúkrunarfræðinga sums staðar erlendis og þróun slíkra hófst á Landspítala árið 2013. Nýlega gaf Royal College of Nursing í Bretlandi út skilgreind hæfniviðmið í starfsþróun bráðahjúkunarfræðinga almennt og í mismunandi hlutverkum. á bráðamóttökum. Auk þess að auka öryggi sjúklinga og staðla þjónustu þeirra, gætu vel skilgreind og viðeigandi hæfniviðmið aukið starfsánægju og komið í veg fyrir hvarf bráðahjúkrunarfræðinga úr starfi.

Markmið: Að kynna innleiðingu hæfniviðmiða fyrir hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku Landspítala í rafrænu hæfnistjórnunarkerfi.

Aðferð: Fagráð í bráðahjúkrun skilgreindi fjögur þrep í starfsþróun hjúkrunarfræðinga og þrjú sérhæfð hlutverk. Æskileg hæfni innan þrepa og hlutverka var greind í rýnihópum hjúkrunarfræðinga. Að loknum forprófunum og eftir rafræna innleiðingu í Focal hæfnistjórnunarkerfi hafa nú tveir hópar af nýjum hjúkrunarfræðingum á bráðadeild G2 tekið þátt í starfsþróun samkvæmt skilgreindum hæfniviðmiðum með góðum árangri. Haldið er utan um hópinn með skipulagðri fræðslu og mentorakerfi.

Niðurstöður: Hjúkrunarfræðingar sem tekið hafa þátt lýstu því að hæfnistjórnunarkerfið veitti þeim hvatningu til að efla hæfni, halda áfram í starfsþróun og meira námi. Hæfnistjórnunarkerfið veitir gott aðgengi að gæðaskjölum og verklagslýsingum. Lögð hefur verið áhersla á að leysa úr tæknilegum vandkvæðum og veita mentorum og hjúkrunarfræðingum tíma til formlegs mats.

Ályktanir: Greining og innleiðing hæfniviðmiða í bráðahjúkrun lofar góðu og full ástæða er til að halda áfram að gefa fleiri hjúkrunarfræðingum tækifæri á starfsþróun samkvæmt kerfinu. Hæfnistjórnunarkerfið er byggt á sterkum faglegum grunni og getur nýst í formlegu námi í bráðahjúkrun.


Viðhorf sjúkraþjálfara á Landspítala til starfsþróunar

Sigrún Knútsdóttir1, Halldóra Eyjólfsdóttir1

1Sjúkraþjálfun Landspítala

Bakgrunnur: Áhersla á starfsþróun heilbrigðisstarfsmanna hefur aukist mjög á síðustu árum í takt við auknar kröfur um þjónustu byggðar á gagnreyndri þekkingu. Sjúkraþjálfurum ber lagaleg skylda til að viðhalda þekkingu sinni og færni og tileinka sér nýjungar. Á Landspítala er stefna um starfsþróun til að bæta þjónustu við sjúklinga og auka starfsánægju. Ákveðið var að þróa og innleiða starfsþróunarkerfi fyrir sjúkraþjálfara til að starfsþróun þeirra verði markvissari. Fyrir innleiðingu kerfisins var þátttaka og viðhorf sjúkraþjálfara til starfsþróunar könnuð.

Markmið: Að kanna þátttöku og viðhorf sjúkraþjálfara til starfsþróunar.

Aðferðir: Ópersónugreinanlegur, rafrænn spurningalisti í Lime Survey forritinu var sendur til allra sjúkraþjálfara sem starfa við sjúkraþjálfun á Landspítala (N=74). Spurt var um þátttöku í starfsþróun, ætlaða gagnsemi hennar, hvata, hindranir, kostnaðarþátttöku og umbun , auk almennra lýðfræðilegra spurninga. Úrvinnsla gagna var í Excel og lýsandi tölfræði notuð við túlkun niðurstaðna.

Niðurstöður: Svarhlutfall var 66% (N=49). Langflestir (96%, N=47) höfðu sinnt starfsþróun síðastliðin 5 ár. Allir voru mjög sammála/sammála um að starfsþróun væri gagnleg og 78% mjög sammála/sammála um að gera ætti kröfur um árlega starfsþróunarskyldu. Helstu hvatar voru að koma í veg fyrir kulnun, auka starfsánægju og verða betri starfsmenn. Hindranir voru skortur á tíma vegna mikils vinnuálags og manneklu. Flestir þátttakendanna (88%) voru mjög sammála/sammála um að vilja fara á námskeið/ráðstefnu ef vinnuveitandi/stéttarfélag greiddi kostnaðinn að fullu eða að hluta, 20% þótt þeir þyrftu að greiða allan kostnað sjálfir. Nánast allir vildu umbun fyrir að sinna starfsþróun og settu 49% (N=19) hærri laun í 1. sæti, 36% (N=14) aukna starfsánægju og 15% (N= 6) ósk um auka frídaga.

Ályktanir: Sjúkraþjálfarar á Landspítala eru virkir í starfsþróun og hafa jákvætt viðhorf til hennar. Koma þarf á árlegri starfsþróunarskyldu. Mikilvægt er að skapa svigrúm fyrir sjúkraþjálfara til að sinna starfsþróun. Viðhorf sjúkraþjálfara til starfsþróunar styður við þróun og innleiðingu starfsþróunarkerfis.


Þróun og innleiðing starfsþróunarkerfis fyrir sjúkraþjálfara á Landspítala

Sigrún Knútsdóttir

Sjúkraþjálfun Landspítala

sigrunkn@landspitali.is

Bakgrunnur: Sjúkraþjálfurum ber lagaleg skylda til að viðhalda þekkingu sinni og færni og tileinka sér nýjungar til að geta veitt sem besta þjónustu. Á Landspítala er stefna um starfsþróun til að bæta þjónustu við sjúklinga og auka starfsánægju. Ákveðið var að þróa og innleiða starfsþróunarkerfi fyrir sjúkraþjálfara til að starfsþróun þeirra verði markviss.

Markmið: Verkefnastjóri var ráðinn til að annast verkefnið. ÁFrAM (PDSA) gæðahringur Deming´s var notaður við þróun og innleiðingu starfsþróunarkerfisins. Vinnuhópur var skipaður til að þróa starfsþróunarlíkan sem byggir á starfslýsingum sjúkraþjálfara. Líkanið var kynnt fyrir sjúkaþjálfurum spítalans sem gátu komið með ábendingar. Líkanið er tvískipt; almennt líkan fyrir alla sjúkraþjálfara og sértækt líkan frá nýliða upp í sérhæfðan sjúkraþjálfara. Sértæka líkanið skiptist í ábyrgð, hæfniviðmið, klíniska starfsemi, fagþróun, umbóta- og gæðastarf, rannsóknir og stjórnun. Fyrsta stig innleiðingar var viðtal verkefnastjóra við sjúkraþjálfara á Landspítala (N=70). Þeir gerðu sjálfsmat samkvæmt líkaninu og starfsþróunaráætlun samkvæmt S.M.A.R.T. markmiðasetningu (Skýr, Mælanleg, Aðlaðandi, Raunhæf, Tímasett). Næstu skref í innleiðingarferlinu verða að fylgja starfsþróunaráætlun eftir til að meta hvort markmið hafi náðst, endurtaka sjálfsmat og bera saman við fyrsta sjálfsmatið, meta gagnsemi líkansins og hvort líkanið sé auðvelt í notkun.

Niðurstöður starfsþróunaráætlana voru að 60% vildu dýpka fagþekkingu á sínu sviði, 56% vildu fara á námskeið/ráðstefnur, 41% vildu skoða og uppfæra fræðsluefni og 40% vildu skoða verklagsreglur.

Ályktanir: Vísbendingar eru um að starfsþróunarkerfið geti auðveldað markvissa starfsþróun. Þannig geti starfsmenn gert raunhæfar starfsþróunaráætlanir með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi. Yfirmenn fá betri yfirsýn yfir starfsþróun starfsmanna. Mikilvægt er að skapa umhverfi á vinnustaðnum sem hlúir að starfsþróun.


Heilaskaðamat á Grensási

Heilaskaðateymi endurhæfingardeildar Landspítala

Flæðisviði

idabraga@landspitali.is

Bakgrunnur: Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO (World Health Organization) áætlar að tíðni heilahristings sé 600/100.000 manns á ári eða um 2000 tilvik árlega á Íslandi. Talið er að allt að 15% þeirra hafi einkenni sem standa lengur en í einn mánuð, eða um 300 manns (J.Rehab.Med. maí 2005, Holm L). Ætla má að allt að helmingur þeirra hefðu þörf fyrir mat og meðferð hjá heilaskaðateymi.

Markmið: Að kynna hvernig mat hjá heilaskaðateymi fer fram á Grensási.

Aðferð: Heilaskaðateymið byggir á þverfaglegu samstarfi sem sinnir fólki yfir 18 ára aldri með vægari form heilaskaða aðallega í kjölfar slysa. Beiðnir berast til heilaskaðateymisins um mat frá læknum annarra deilda Landspítala, heilsugæslunni og Virk starfsendurhæfingarsjóði. Matið nær yfir 3 daga og er unnið út frá ákveðnu tímaskipulagi. Að loknu heilaskaðamati fær sjúklingur skriflega samantekt. Þar er farið yfir helstu vandamál, samantekt á niðurstöðum fagaðila og ráðleggingar veittar.

Niðurstaða: Heilaskaðateymi hefur verið starfandi á endurhæfingardeild LSH Grensási í 15 ár. Starfsemi þess hefur aukist mikið síðustu 2-3 árin. Árið 2018 var 50 einstaklingum vísað á göngudeild og í framhaldi af því hafa 24 þeirra komið í heilaskaðamat og 13 haldið áfram í meðferð hjá teyminu á dagdeild.

Ályktun: Heilaskaðar eru mjög alvarlegt heilsufarslegt og félagslegt vandamál. Með vaxandi árvekni gagnvart afleiðingum heilaskaða má gera ráð fyrir verulegri aukningu í tilvísunum til mats og meðferðar hjá teyminu. Ekki er ósennilegt að fjöldi þeirra geti farið úr 50 í 100 á ári. Nauðsynlegt er að auka mönnun í teyminu til að mæta þessari aukningu til að útvíkka starfsemi þess, stunda árangursrannsóknir og þróunarvinnu á starfsemi og þjónustu þess.


Sjúkraþjálfun á bráðamóttöku og bráðalyflækningadeild Landspítala

Guðbjörg Þóra Andrésdóttir, Þórunn Gísladóttir Roth

Sjúkraþjálfun Landspítala Fossvogi

gthora@landspitali.is

Inngangur: Sjúkraþjálfarar hafa starfað á bráðamóttökum í Bretlandi, Ástralíu og Bandaríkjunum frá 10. áratug sl. aldar. Þar hefur starf sjúkraþjálfara sem fyrsta meðferðaraðila hjá sjúklingum með vægari stoðkerfisvandamál þróast. Fyrir tæpum þremur árum var ákveðið að auka aðkomu sjúkraþjálfara á bráðamóttöku Landspítala, á svipuðum tíma og breytingar urðu á skipulagi bráðalyflækningadeildar.

Markmið: Að kynna aðkomu sjúkraþjálfara á bráðamóttöku og bráðalyflækningadeild.

Aðferðir: Meginhlutverk sjúkraþjálfara á bráðalyflækningadeild og bráðamóttöku er að meta og þjálfa getu til hreyfifærni við dagleg verkefni. Stærsti hluti tilfella eru eldri einstaklingar sem misst hafa hreyfifærni til dæmis í kjölfar byltu. Auk færniskerðingar getur einnig verið um að ræða verki, til dæmis vegna samfallsbrots, rifbrots, mjaðmagrindarbrots og upphandleggs/axlabrots sem og lungnavandamál. Í öðrum tilvikum og þá gjarnan hjá yngri einstaklingum, getur verið um bakverki að ræða, bráða eða langvinna. Sjúklingar með bráð taugaeinkenni er einnig sinnt svo sem vegna heilablóðfalls, sem og einstöku einstaklingum með starfræn einkenni. Aðkoma sjúkraþjálfara felur almennt í sér mat á hreyfifærni, þörf á beinum leiðbeiningum með hreyfifærni og fræðslu, svo sem í tilviki einstaklinga með bráðabakverki, mat á hjálpartækjaþörf og frekari þörf á þjálfun.

Niðurstöður: Aðkoma sjúkraþjálfara á bráðamóttöku og bráðalyflæknisdeild hefur aukist til muna síðastliðin þrjú ár. Árið 2015 sinntu sjúkraþjálfarar 41 einstaklingi á bráðamóttöku en 536 árið 2018. Á bráðalyflækningadeild voru tölurnar 268 árið 2015 en 905 einstaklingar árið 2018. Heildarfjöldi innlagna á bráðalyflækningadeild var 1429 einstaklingar árið 2015 en 2473 árið 2018.

Ályktanir: Markmið með aukinni aðkomu sjúkraþjálfara í teymi á áðurnefndum starfseiningum er að nýta þekkingu og sérhæfingu þeirra til að bæta heildræna þjónustu við sjúklinginn. Breytingin er í samræmi við þróun erlendis, þar sem rannsóknir hafa sýnt að aðkoma sjúkraþjálfara á bráðamóttöku getur haft jákvæð áhrif á lengd biðtíma, ánægju sjúklinga og einnig dreifingu álags á starfsfólk og þar með ánægju starfsfólks. Sjúkraþjálfarar hafa sérþekkingu á hreyfingu/hreyfiskerðingu, stoðkerfisverkjum og starfrænum einkennum og hafa heildræna sýn á hreyfiskerðingu til daglegra athafna. Sú aukning sem orðið hefur á starfsemi sjúkraþjálfara á bráðamóttöku og bráðalyflækningadeild gefur tilefni til að kortleggja betur hvers eðlis verkefnin eru, sem og hvert mat samstarfsfólks og viðhorf skjólstæðinganna er til þjónustunnar.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica