Ávarp 2019

Ávarp

Starfsfólk í bráðaþjónustu stendur sífellt frammi fyrir nýjum áskorunum. Undanfarið hafa áskoranirnar meðal annars falist í þjónustu við fjölveika aldraða, veika og slasaða ferðamenn, síauknum fjölda einstaklinga sem leita hjálpar vegna ofneyslu, kynferðisofbeldis eða annars ofbeldis fyrir utan lengri legu fjölveikra á bráðamóttökum vegna skorts á legurýmum. Við slíkar áskoranir og fjölbreytt álag er mikilvægt að starfsfólk búi yfir hæfni og þekkingu til að takast á við aðstæðurnar hverju sinni. Starfsfólkið þarf að hafa viðeigandi klíníska færni, yfirsýn og jákvætt viðhorf til verkefna dagsins. Óhætt er að fullyrða að á öllum þjónustustigum bráðaþjónustu er starfsfólkið tilbúið í verkið, tilbúið til að takast á við daginn eins og hann kemur, leita lausna og úrræða fyrir þá skjólstæðinga sem þurfa á þjónustunni að halda hverju sinni. Yfirskrift Bráðadagsins, þverfræðilegrar ráðstefnu flæðisviðs Landspítala og rannsóknastofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, Flæði bráðveikra: sjúklingar, starfsfólk og starfsumhverfi, var í ár einmitt valin með þetta starfsfólk í huga. Undanfarin misseri hefur starfsfólk komið fram með góðar lausnir og hagkvæm úrræði fyrir mismunandi skjólstæðinga í þörf fyrir bráða meðferð og þjónustu. Starfsfólkið hefur meðal annars unnið rannsóknir, gæðaverkefni og verkferla sem nýtast í erfiðum aðstæðum og krefjandi daglegri vinnu. Á ráðstefnunni í ár er hugað að mörgum þessara verkefna og þau kynnt fyrir samstarfsaðilum, þvert á stofnanir og fagstéttir. Til að bráðaþjónusta flæði vel, þarf samvinna að vera góð, samskipti skýr og sjúklingurinn í fyrirrúmi. Með því að nýta tækifærið á Bráðadeginum, kynna og kynnast verkefnum hvers annars, bætir starfsfólk bráðaþjónustu við þekkingu sína, kynnist nýjungum og mun í kjölfarið geta aukið færni sína í raunaðstæðum. Þannig má bæta þjónustu við sjúklinga en einnig auka starfsánægju meðfram því að mæta auknum kröfum um gagnreyndar aðferðir.

Við undirbúning Bráðadagsins 2019 undir yfirskriftinni Flæði bráðveikra: sjúklingar, starfsfólk og starfsumhverfi var kallað eftir ágripum vísindarannsókna, gæða- og umbótaverkefna auk tillaga að málstofum. Það er álit undirbúningsnefndarinnar útkoman sé fjölbreytt og fróðleg dagskrá með víða skírskotun. Sérstaklega ánægjulegt var að fá innlegg margra samstarfsaðila Landspítala og endurspegla þannig hvernig flæði bráðveikra er í raun. Enn á ný er það því mikið gleðiefni að halda þessa árlegu uppskeruhátíð bráðaþjónustu, flæðisviðs Landspítala og rannsóknastofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum. Áhugi á efninu og vönduð framlög kynnenda gefa vonir um bjarta framtíð í bráðaþjónustu á Íslandi.


Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir

formaður undirbúningsnefndar

dósent og forstöðumaður rannsóknastofu Landspítala og HÍ í bráðafræðum




Þetta vefsvæði byggir á Eplica