Ágrip veggspjalda

Ágrip veggspjalda

V-1     Faraldsfræði mænuskaða í slysum
á Íslandi frá 1973 til 2008

Sigrún Knútsdóttir, Herdís Þórisdóttir

Sjúkraþjálfun, endurhæfingardeild Landspítala, Grensási

sigrunkn@landspitali.is

 

Inngangur: Allt frá stofnun endurhæfingardeildar Landspítala Grensási árið 1973 hafa nær allir sem hljóta mænuskaða í slysum hlotið endurhæfingu á deildinni. Umferðarslys hafa verið ein algengasta orsök mænuskaða og hefur forvarnarstarf aðallega beinst að þeim.

Tilgangur: Að kanna breytingar á tíðni, orsökum, aldri, kynja-skiptingu og alvarleika mænuskaða í slysum frá 1973 til 2008.

Aðferðir og þátttakendur:Afturvirkt mat var gert á faraldsfræðilegum upplýsingum sem skráðar eru í mænuskaðaskrá endurhæfingardeildarinnar á Grensási. Skoðuð voru öll gögn sem safnast hafa frá því að skráningin hófst árið 1973 frá alls 191 þátttakendum.

Niðurstöður: Nýgengi var að meðaltali 5,3 mænuskaðar á ári yfir allt tímabilið. Á árunum 2001-2008 jókst nýgengi í 7,6 manns á ári að meðaltali sem er mun hærra en á Norðurlöndunum. Karlar voru 73%, konur 27%. Meðalaldur var 37 ár. Tíu manns létust innan 10 daga, 90 manns urðu háðir hjólastól. Umferðarslys voru orsök skaðans í 84 tilfellum (44%) þar af 18 (21%) 2001-2008. Föll voru orsökin í 59 tilfellum (31%) þar af 21 árin 2001-2008. Frístundaslys voru orsök mænuskaða í 40 tilfell-
um (20%), þar af gerðust 20 þeirra árin 2001-2008. Hestaslys voru 13 talsins eða 32,5% af öllum frístundaslysum. Sjö þeirra áttu sér stað 2001-2008.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýndu verulega aukningu í nýgengi mænuskaða á árunum 2001 til 2008. Nokkrar breytingar sáust á orsökum mænuskaða. Frístundaslysum hefur fjölgað verulega og föllum lítillega. Umferðarslysum hefur fækkað þó nokkuð. Niðurstöðurnar sýndu að mikilvægt er að beina forvörnum meira að frístundaslysum og föllum.

 

 

V-2        Truflað kveikjumynstur axlargrindarvöðva hjá einstaklingum með langvarandi verki í hálsi og herðum, með og án sögu um hnykkáverka

Harpa Helgadóttir1, Eyþór Kristjánsson3, Halldór Jónsson jr1,2

1HÍ, 2Landspítala, 3Bakstofunni

halldor@landspitali.is

 

Inngangur: Einstaklingar með langvarandi verki í hálsi og herðum sýna breytt mynstur vöðvavirkni í framanverðum hálsi og í efri hluta sjalvöðva. Reynsla við meðhöndlun þessara einstaklinga bendir einnig til þess að margir þeirra hafi einnig truflaða vöðvastarfsemi í kringum herðablaðið og breytta stöðu herðablaðs. Engar rannsóknir hafa verið gerðar sem staðfesta þetta. Talið er að truflun á starfsemi axlargrindar valdi álagi á hálshrygg. Eitt af markmiðum þessarar rannsóknar var því að kanna starfsemi sjalvöðva og síðusagtennings hjá einstaklingum með langvarandi verki í hálsi og herðum.

Efniviður: Skoðaðir voru tveir hópar sjúklinga með langvarandi verki í hálsi og herðum. Annar hópurinn hefur verki eftir bíl- árekstur og hinn er án áverkasögu. Einkennalaus viðmiðunarhópur var rannsakaður til samanburðar.

Aðferðir: Vöðvarafrit samstillt þrívíddargreini var notað til að meta virkni sjalvöðva og síðusagtennings á meðan handlegg var lyft upp fyrir höfuð og niður aftur.

Niðurstöður: Marktækur munur var á kveikjumynstri sjalvöðva og síðusagtennings hjá einstaklingum með og án verkja í hálsi og herðum; þá var einnig marktækur munur á truflaðri vöðva-starfsemi milli einstaklinga með og án áverkasögu.

Ályktun:Einstaklingar með hálsverki hafa marktæka truflun á kveikjumynstri vöðva og vöðvastarfsemi í axlargrind eins og einstaklingar með axlarvandamál. Truflunin er mismunandi eftir orsök verkjanna. Mælingar sem þessar gefa betri hugmynd að orsök verkja og tryggja einstaklingi hnitmiðaðri meðferð.

 

 

 

V-3        Upplifun sjúkraliða af vinnu sinni og vinnuumhverfi
á bráðalegudeildum

Alda Ásgeirsdóttir¹,³, Helga Bragadóttir¹,², Margrét Lilja Guðmundsdóttir,³

¹Landspítala, ²HÍ, ³HR

aldaasg@landspitali.is

 

Inngangur:Heilbrigðiskerfinu stafar ógn af vaxandi þörf og skorti á heilbrigðismenntuðu starfsfólki og því er leitað leiða til að finna lausnir og mæta þörfinni. Mannauður í hjúkrun er dýrmætur og menntun, þekking og færni hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða skiptir sköpum fyrir árangur sjúklinga á bráðadeildum sjúkrahúsa. Nýting þekkingar og mannafla í hjúkrun hefur hins vegar verið gagnrýnd og fyrri rannsóknir bent til þess að úr megi bæta.

Markmið þessarar rannsóknar er að kanna upplifun sjúkraliða á vinnu og vinnuumhverfi sínu og hvað betur má fara svo veita megi sjúklingum betri og öruggari hjúkrun.

Aðferðir: Notast var við eigindlega rannsóknaraðferð með þremur rýnihópum og rætt við 21 sjúkraliða á bráðalegudeildum Landspítala.

Niðurstöður:Þátttakendur upplifðu mikið álag í hjúkrun og að skortur væri á stoðþjónustu þar sem sjúkraliðar eru oft að verja tíma í störf sem krefjast ekki fagþekkingar þeirra. Einnig sögðu þeir töluverðan tíma fara í að leita að tækjum til aðstoðar við umönnun sjúklinga. Hjúkrunarþyngd er mikil þar sem sjúklingar eru að eldast, verða veikari, eiga oftar við fíkniefnavanda að stríða eða ofþyngd. Fram kom misræmi í starfskröfum til sjúkraliða, en það skapar óvissu og vantraust í garð þeirra. Þátttakendum fannst veikindi starfsmanna hafa aukist. Flestir voru sammála um að margt í starfsumhverfinu er jákvætt og stuðningur við starfsfólk töluverður, þó umbun mætti vera meiri.

Ályktun:Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að skort-ur sé á stoðþjónustu og hjálpartækjum í vinnu sjúkraliða og að samræmis sé gætti í starfskröfum til þeirra, auk þess sem álag hefur aukist vegna vaxandi hjúkrunarþyngdar. Tækifæri virðast til úrbóta og betri nýtingar mannafla sjúkraliða.

 

 

V-4        Lífsgæði mænuskaðaðra einstaklinga: Aðlögun að breyttum lífsskilyrðum

Dóróthea Bergs1,2, Bergrún S. Benediktsdóttir1 og Ólöf Guðbjörg Eggertsdóttir3

1Landspítala, 2heilbrigðisvísindasviði HÍ, 3Kirkjuhvoli, Hvolsvelli

Dorothea@landspitali.is

 

Inngangur:Undanfarin ár hafa að meðaltali sjö einstaklingar hlotið mænuskaða árlega í kjölfar slyss. Lífsgæði þessara einstaklinga hafa fengið minni athygli en mat á fötlun og meðhöndlun sjúkdóms, jafnvel þó að markmið endurhæfingar sé að hjálpa einstaklingnum að bæta lífsgæði sín. Aðaláherslan í meðferð mænuskaðaðra einstaklinga var lengi vel á að bjarga lífi þeirra og að draga úr fylgikvillum tengdum skaðanum. Þetta er að breytast og athyglin beinist nú í auknum mæli að lífsgæðum þessara einstaklinga

Markmið:Markmið rannsóknar er að bæta þá heilbrigðis-þjónustu sem í boði er fyrir mænuskaðaða einstaklinga, aðstoða þá í aðlögunarferli sínu og bæta þar af leiðandi lífsgæði þeirra.

Aðferð:Við rannsóknina var notuð eigindleg aðferðafræði þar sem notast var við fyrirbærafræði. Tekin voru viðtöl við sjö mænuskaðaða einstaklinga á aldrinum 35–59 ára. Viðtölin voru hálfstöðluð þar sem stuðst var við ákveðinn viðtalsramma. Leitast var við að svara eftirfarandi rannsóknarspurningu: Hvernig túlka mænuskaðaðir einstaklingar lífsgæði sín og hvernig aðlagast þeir þessum breyttu lífsskilyrðum?

Niðurstöður:Við úrvinnslu rannsóknargagna voru greind fjögur yfirþemu og tvö til þrjú undirþemu undir hverju þeirra. Þau eru eftirfarandi: Líkamlegir þættir (smáu hlutirnir verða stórt vandamál, hendurnar eru lífsakkerið), vitsmunalegir þættir (að taka hænuskref, að miðla reynslu sinni), félagslegir þættir (að halda fólki nálægt sér, vinnan ekki endilega hvetjandi, skortur á skilningi) og sálrænir þættir (að duga eða drepast, allt annað líf, sátt).

Ályktun:Mænuskaðaðir einstaklingar telja lífsgæði sín almennt vera góð. Þeir töldu sig hafa aðlagast lífinu eins vel og hægt er. Fæstir ná sátt við skaðann en læra að lifa með honum.

 

 

V-5        „Við berum Landspítalann á bakinu“
Upplifun og líðan hjúkrunarfræðinga í starfi og viðhorf þeirra til veikindafjarvista

Bryndís Þorvaldsdóttir, Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, Sigrún Gunnarsdóttir

Svæfingadeild Landspítala, viðskiptafræðideild og hjúkrunarfræðideild HÍ

brynthor@landspitali.is

 

Inngangur: Líðan starfsmanna á vinnustað og veikindafjarvistir þeirra er vaxandi áhyggjuefni í heiminum í dag. Rannsóknir sýna að veikindafjarvistir starfsmanna og mannekla í hjúkrun er vandamál auk þess sem þær benda til að aukið álag á hjúkrunarfræðinga í starfi hafi áhrif á líðan þeirra og heilsufar og leiði til aukinna veikindafjarvista.

Markmið: Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna upp-lifun og líðan hjúkrunarfræðinga í starfi og viðhorf þeirra til veikindafjarvista. Leitast er við að auka þekkingu og dýpka skilning á þeim þáttum sem hafa hér áhrif.

Aðferð: Valin var eigindleg rannsóknaraðferð og gagna aflað með opnum einstaklingsviðtölum. Við greiningu gagna var notuð aðferð grundaðrar kenningar. Þátttakendur voru tíu hjúkrunar-fræðingar á legudeildum skurðlækningasviðs Landspítalans.

Niðurstöður: Líðan hjúkrunarfræðinganna er tvíbent því annars vegar upplifa þeir mikla ánægju af starfi sínu og hins vegar mikið álag. Þeir telja veikindafjarvistir á vinnustað sínum vera mjög miklar en finnst sjálfum erfitt að tilkynna veikindi vegna aðstæðna á vinnustað. Réttmæt viðurkenning á gildi starfa þeirra og stjórnun á vinnustað hefur áhrif á líðan þeirra og viðhorf til veikindafjarvista. Niðurstaða rannsóknarinnar er að mikil ánægja er meðal hjúkrunarfræðinga með hjúkrunarstarfið sjálft en skortur á réttmætri launaumbun af hálfu þjóðfélagsins og ákveðið aðgerðaleysi af hálfu stjórnenda leiðir til aukins álags svo líðan þeirra í starfi verður tvíbent. Það hefur neikvæð áhrif á veikindafjarvistir.

Ályktun: Sett er fram líkan sem unnið er út frá niðurstöðum rannsóknarinnar. Það sýnir heildartengsl áhrifaþátta á líðan og viðhorf hjúkrunarfræðinga og er framlag rannsóknarinnar á sviði mannauðsstjórnunar. Niðurstöður rannsóknarinnar geta nýst stjórnendum Landspítalans og benda á hugsanlegar leiðir til að koma á móts við þarfir starfsmanna og stuðla að árangri þeirra í starfi.

 

 

V-6        Ástæður þátttöku í tölvutengdum stuðningshópi foreldra barna sem greinst hafa með krabbamein

Helga Bragadóttir

Landspítala og hjúkrunarfræðideild HÍ

helgabra@hi.is

 

Tilgangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að greina ástæður þess að foreldrar barna sem greinst hafa með krabbamein myndu eða myndu ekki taka þátt í tölvutengdum stuðningshópi.

Efniviður og aðferðir: Um lýsandi rannsókn var að ræða með úrtaki allra foreldra barna sem þegið höfðu meðferð við krabbameini á Landspítala á undangengnum 10 árum. Þátttakendur voru 122, þar af 94 foreldrar lifandi barna og 28 foreldrar látinna barna. Gagna var aflað með póstkönnun og skriflegum spurningalista um lýðfræðilegar og bakgrunns breytur og mögulegar ástæður fyrir þátttöku eða ekki í tölvutengdum stuðningshópi.

Niðurstöður: Alls tóku 53 foreldrar þátt í rannsókninni. Tæplega helmingur þeirra myndi taka þátt í tölvutengdum stuðningshópi. Ekki mældist tölfræðilega marktækur munur á þeim sem myndu taka þátt og myndu ekki taka þátt hvað kyn, aldur, búsetu, menntun og atvinnuþátttöku varðaði (p≤0,05). Meginástæður þátttöku eru að fá eða veita upplýsingar og stuðning auk þess að vera í sambandi við aðra foreldra með sambærilega reynslu. Foreldrar sem myndu ekki taka þátt telja þátttöku ekki munu hjálpa sér á nokkurn hátt og segjast fá nægan stuðning annars staðar. Hlutfallslega fleiri foreldrar látinna barna myndi taka þátt í tölvutengdum stuðningshópi. Nokkur hluti foreldra sem ekki myndi taka þátt í tölvutengdum stuðningshópi myndi frekar taka þátt í hefðbundnum stuðningshópi þar sem hist er augliti til auglitis.

Ályktun: Nokkur hópur foreldra barna sem greinst hafa með krabbamein myndi vilja taka þátt í tölvutengdum stuðningshópi eða hefðbundnum stuðningshópi til þess að njóta gagnkvæms stuðnings fólks með sambærilega reynslu.

 

 

 

V-7        Sjúkdómsframvinda og meðferðarheldni ungs fólks með insúlínháða sykursýki

Hildur Halldórsdóttir1,4, Fjóla Katrín Steinsdóttir1,4, Steinunn Arnardóttir2, Arna Guðmundsdóttir3, Jakob Smári1, Eiríkur Örn Arnarson3,4

1Sálfræðideild HÍ, 2Göngudeild sykursjúkra, Landspítala, 3Sálfræðiþjónustu Landspítala, endurhæfingarsviði, 4læknadeild HÍ

eirikur@landspitali.is

 

Inngangur: Rannsökuð var meðferðarheldni ungs fólks með sykursýki á þeim tímamótum er það flyst af göngudeild fyrir börn og unglinga á göngudeild fullorðinna. Mikilvægt er að hafa góða stjórn á blóðsykri, sem er m.a. fólgin í að finna jafnvægi á milli insúlínsbúskapar, hreyfingar og fæðu. Einnig er mikilvægt að forðast reykingar og halda áfengisneyslu í lágmarki.

Markmið:Að kanna breytingar á HbA1c gildum með aldri, framvindu sjúkdóms og meðferðarheldni ungs fólks með sykursýki.

Efniviður og aðferðir:Þátttakendur voru 56 ungmenni á aldrinum 20-30 ára sem mætt hafa í eftirlit á D-G3 á LS. Alls uppfylltu 72 þátttökuskilyrði, svarhlutfall var 78%. Sjálfsmatskvarðar og sjúkraskrár voru notaðar til að meta lífsstíl, sjúkdómsframvindu og meðferðarheldni.

Niðurstöður: Að meðaltali lækkaði HbA1c eftir tímabilum hjá körlum. HbA1c hækkaði að meðaltali hjá konum við flutninginn milli deilda en nýjasta gildið var það lægsta. Einungis 16 mættu til eftirlits fjórum sinnum eða oftar á 12 mánaða tímabili, þeir sem voru komnir með fylgikvilla mættu oftar en hinir. Helmingur kvenna og tæplega 30% karla voru með fylgikvilla og var sjónumein algengast. Einn fjórði sagðist reykja sem er sama hlutfall og nýlegar athuganir benda til í almennu úrtaki Íslendinga á aldrinum 20-29 ára. Um þrír fjórðu þátttakenda sögðust neyta áfengis. Aðeins 22 þátttakendur sögðust hafa fengið ráðleggingar um hvaða hreyfing hentaði þeim best, af þeim sögðust flestir ,,stundum” fara eftir þeim ráðleggingum. Tæplega helmingur þátttakenda sagðist ,,oft“ borða þá fæðu sem ráðlög væri. Rétt rúmlega helmingur taldi sig vita frekar mikið um sjúkdóminn og um einn þriðji taldi sig stjórna sykursýkinni talsvert vel.

Ályktanir:Þegar litið er til HbA1c virðist munur á aðhaldi á göngudeild fyrir börn og unglinga og göngudeild fullorðinna minni en talið var. Huga þarf betur að ungum stúlkum með sykursýki og því að öll gildin eru yfir meðferðarmarkmiðum American Diabetes Association, sem er HbA1c undir 7%. Kanna þarf nýjar leiðir til að ná til ungs fólks með sjúkdóminn, einkum er varðar tíðni reykinga og meðferðarheldni tengda mataræði og hreyfingu.

 

 

V-8        Vistfræðilegt réttmæti stjórnunarfærniprófa

Sólveig Jónsdóttir

Sálfræðiþjónustu, taugadeild Landspítala, læknadeild HÍ

soljonsd@landspitali.is

 

Inngangur: Sjúklingar, sem hlotið hafa heilaskaða af völdum taugasjúkdóma eða áverka eiga oft erfitt með ýmsa þætti sjálfsstjórnar. Stjórnunarfærni (executive function) er regnhlífarhugtak, sem notað hefur verið til að skilgreina hæfileikann til að stýra hegðun sinni og tilfinningum þannig að það þjóni sem best markmiðum einstaklingsins. Talið er að stjórnunarfærni sé að stórum hluta tengd starfsemi framheila. Stjórnunarfærni er yfirleitt metin með taugasálfræðilegum prófum, en ekki er vitað hversu vel þau spá fyrir um hegðun í daglegu lífi.

Markmið: Markmiðið með þessari rannsókn var að athuga sambandið á milli taugasálfræðilegra prófa, sem ætlað er að meta stjórnunarfærni og hegðunarmats sem ætlað er að meta stjórn á hegðun og tilfinningum í daglegu lífi.

Aðferðir:Þátttakendur í rannsókninni voru 45 sjúklingar á taugadeild og endurhæfingardeild Landspítala og aðstandendur þeirra. Taugasálfræðileg próf, sem meta skipulagsfærni, athygli, frumkvæði, hvatvísi, sveigjanleika hugsunar, vinnsluminni, og orðfimi voru lögð fyrir sjúklingana. Sjúklingar og aðstandendur þeirra fylltu út hegðunarmat, sem metur ýmsa þætti stjórnunarfærni í daglegu lífi. Könnuð var fylgni á milli taugasálfræðilegra prófa og hegðunarmatsins.

Niðurstöður:Marktæk fylgni kom fram á milli taugasálfræðilegra prófa og hegðunarmats sjúklinga og aðstandenda, en var mis-mikil eftir prófum og eftir því hver gerði hegðunarmatið. Mat aðstandenda hafði fylgni við fleiri taugasálfræðileg próf heldur en mat sjúklinga.

Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að taugasálfræðileg próf, sem notuð eru til að spá fyrir um stjórnunarfærni fólks hafa góða fylgni við stjórn hegðunar og tilfinninga í daglegu lífi. Hegðunarmat sjúklinga og aðstandenda þeirra getur, auk taugasálfræðilegra prófa, nýst vel við mat á endurhæfingarþörf og færni við að takast á við daglegt líf.

V-9        Faraldsfræðileg rannsókn á algengi efnaskipta-villu og áhættuþáttum kransæðasjúkdóma hjá geðklofa-sjúklingum við legu- og göngudeild geðsviðs Landspítala Kleppi

Kristófer Þorleifsson1, Ólafur Sveinsson2, Halldór Kolbeinsson1

1Endurhæfing geðdeildar Landspítala Kleppi, 2taugadeild Karolinska sjúkrahússins Stokkhólmi

halldork@landspitali.is; kristoth@landspitali.is; olafursv@hotmail.com

 

Inngangur:Margar rannsóknir hafa sýnt að geðklofasjúklingar hafa hærri tíðni af hjarta og æðasjúkdómum og aukna dánartíðni af þeirra völdum en almenningur. Erlendar rannsóknir hafa auk þess sýnt að geðklofasjúklingar eru einnig vangreindir og vanmeðhöndlaðir þegar kemur að sykursýki, háþrýstingi, of háum blóðfitum og efnaskiptavillu. Tilgangur rannsóknar var að kanna algengi offitu, sykursýki, háþrýstings, blóðfituröskunar og efnaskiptavillu meðal geðklofasjúklinga á Íslandi.

Aðferðir:Rannsóknin var samtvinnuð við komur á göngudeild og innlagnir. Var eftirfarandi gögnum safnað: hæð, þyngd og mittismál og síðan þyngdarstuðull reiknaður út.

Blóðþrýstingur var mældur. Tekin var fastandi blóðprufa þar sem mælt var: fastandi blóðsykur og langtíma blóðsykur (HbA1c), heildarkólesteról, HDL kólesteról og þríglýseríð. Spurt var um reykingar. Algengi efnaskiptavillu var metin út frá ofangreindum mælingum og notast var við skilgreiningu NCEP (National Institute of Health 2002) á efnaskiptavillu.

Niðurstöður: Alls hafa 86 einstaklingar, 70 karlar, 16 konur tekið þátt í rannsókninni. Meðalaldur var 49,1 ár og 70% reyktu en búast mátti við 21%. Meðalþyngdin var 94kg og meðalþyngdarstuðull 29,7 kg/m2. Af heildarhópnum höfðu 66,2% þyngdarstuðul > 25 cm/m² og þar af 45,3% þyngdarstuðull >30 cm/m². Sykursýki höfðu 15,1%, en búast mátti við 5,8%, og 23,3% mældust með háþrýsting. 53% voru með efnaskiptavillu p<0.0001miðað við almennt þýði.

Ályktun:Nauðsynlegt er að fylgjast betur með líkamlegu heilsufari geðklofasjúklinga á Íslandi. Mæla þarf reglubundið líkamsþyngd, blóðþrýsting, blóðsykur og blóðfitu.

 

 

V-10      Hefur meðferð með þunglyndis- og kvíðalyfjum áhrif á árangur HAM meðferðar hjá hópi í heilsugæslu?

Erik Brynjar Schweitz Eriksson, Engilbert Sigurðsson, Hafrún Kristjánsdóttir1, Agnes Agnarsdóttir, Jón Friðrik Sigurðsson

Geðsviði Landspítala

erikbse@landspitali.is

 

Inngangur: Hugræn atferlismeðferð (HAM) og SSRI/SNRI lyf hafa gefið hvað bestan árangur í baráttunni við kvíða og þunglyndi. Marks et al. (1993) sýndu fram á að róandi og svefnlyf hafa neikvæð áhrif á árangur af hugrænni atferlismeðferð. Í yfirstandandi rannsókn á HAM á námskeiðaformi í heilsugæslu hefur árangur af meðferðinni verið skoðaður m.t.t. notkunar á þunglyndis-, róandi og svefnlyfjum.

Markmið: Rannsakendur vildu vita í fyrsta lagi hvort benzodiazepin og skyld lyf hefðu neikvæð áhrif á árangur af HAM meðferð og í öðru lagi hvort samþætting meðferðarinnar við notkun SNRI/SSRI lyfja hefði meiri áhrif en HAM eitt og sér.

Aðferðir:Árangur af meðferðinni var mældur með Beck´s Depression Inventory og Anxiety Inventory á þrem tímapunktum, þ.e. í upphafi meðferðar, eftir fimm meðferðartíma og i eftirfylgd þremur mánuðum eftir upphaf námskeiðsins.

Niðurstaða: Fyrstu niðurstöður sýna fram á marktæka lækkun á BDI og BAI kvörðum hjá öllum hópum. Hins vegar hefur ekki tekist að sýna fram á marktækan mun á árangri milli lyfja og lyfjalausra hópa.

Ályktun: HAM hefur áhrif á depurð og kvíða óháð notkun þunglyndis- og kvíðalyfja. Rétt er þó að taka fram að einungis hefur verið farið yfir hluta gagna sem nú liggja fyrir með tilliti til lyfjanotkunar. Við frekari úrvinnslu fyrirliggjandi gagna gætu þessar línur skýrst frekar.

 

 

V-11      Áskoranir í meðferð – Fyrstu niðurstöður úr
díalektískri atferlismeðferð á Hvítabandi

Magnús Blöndahl Sighvatsson, Margrét Bárðardóttir, Borghildur Einarsdóttir

Geðsviði Landspítala

magnblo@landspitali.is

 

Inngangur:Díalektísk atferlismeðferð (DAM) (Linehan, 1993) var þróuð sem meðferðarúrræði fyrir einstaklinga með jaðar-persónuleikaröskun þar sem helstu einkenni eru: erfiðleikar í samskiptum, miklar tilfinningasveiflur, tómleikatilfinning, hvatvísi og sjálfsskaðandi hegðun. Árangursrannsóknir benda til að eins árs göngudeildarmeðferð dragi úr hluta þeirra vanda-mála sem einstaklingar með jaðarpersónuleikaröskun glíma við t.d. fækkar tilraunum til sjálfsskaða (Linehan, o.fl., 1991). Töluverð þróun í notkun DAM hefur átt sér stað undanfarin ár t.d. hvernig DAM nýtist gegn öðrum geðröskunum (sjá yfirlit Dimeff og Koerner, 2007). Í þessari rannsókn var árangur DAM kannaður í
þriggja mánaða dagmeðferð. Við árangursmat voru eftirfarandi breytur mældar: sjálfsstjórn, félagsleg samsvörun, sjálfkennd, tengslamyndun, ábyrgð, þunglyndi, kvíði, streita og alvarleiki einkenna. Mat á árangri fór fram með sjálfsmatskvörðum sem þátttakendur svöruðu fyrir og eftir meðferð.

Aðferð:Þátttakendur voru 28 einstaklingar með lyndis-, kvíða- og persónuleikaraskanir. Árangur meðferðar var mældur eftir ástandi þátttakenda fyrir og eftir meðferð.

Niðurstöður: Benda til árangurs af þriggja mánaða dagmeðferð skv. þeim mælitækjum sem lögð voru fyrir. Marktækur munur kom fram á öllum mælikvörðum fyrir og eftir meðferð. 

Ályktanir:Vísbendingar eru um árangur DAM sem dag-
deildarúrræðis. Frekari rannsókna er þó þörf t.d. á því hvort áhrif meðferðar séu mismunandi eftir geðgreiningu þátttakenda, hver árangur sé samanborið við biðlistahóp, hverjar séu niðurstöður eftirfylgdar svo fátt eitt sé nefnt.

 

V-12      Áráttu- og þráhyggjuróf geðraskana: Tengsl átröskunar við áráttu- og þráhyggjueinkenni í úrtaki sjúklinga

Ragnar P. Ólafsson1, Ívar Snorrason2, Jakob Smári2, Guðlaug Þorsteinsdóttir1, Elfa Björt Hreinsdóttir1, Berglind K. Bjarnadóttir2

1 Geðsviði Landspítala, 2 sálfræðideild heilbrigðisvísindasviðs HÍ

ragnarpo@landspitali.is

 

Inngangur:Kenningin um svokallað áráttu- og þráhyggjuróf (obsessive compulsive spectrum) byggist á rannsóknum sem sýna samleitni milli áráttu- og þráhyggjuröskunar og ýmis konar geðraskana, þar á meðal átraskana. Samkvæmt þessu ættu
áráttu- og þráhyggjueinkenni að finnast í meira mæli hjá átröskunarsjúklingum en sjúklingum með kvíða- og þunglynd-

israskanir sem ekki eru á þessu rófi. Hugsanaskekkjur sem tengjast áráttu- og þráhyggjuröskun ættu einnig að finnast í meira mæli hjá átröskunarsjúklingum. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna réttmæti hugmynda um að átraskanir tengist áráttu- og þráhyggjurófinu.

Aðferð: Þátttakendur voru 48 konur sem sóttu meðferð á geð-sviði Landspítala, þar af 24 í átröskunarteymi (átröskunarhópur) og 24 sem sóttu hugræna atferlismeðferð í hóp við kvíða- og/eða þunglyndisvanda (samanburðarhópur). Þátttakendur svöruðu spurningalistum um átröskunareinkenni, hvatvísi, áráttu- og þráhyggjueinkenni, kvíða- og þunglyndiseinkenni og hugsanaskekkjur sem tengjast átröskun og áráttu- og þrá-
hyggjuröskun.

Niðurstöður:Niðurstöður dreifigreininga sýndu að átrösk-unarhópur hafði meiri átröskunareinkenni, ábyrgðarkennd, fullkomnunaráráttu og þörf til að stjórna á hugsunum sínum heldur en samanburðarhópur (p<0,05 í öllum tilvikum). Þessi munur hélst marktækur þegar tekið var tillit til kvíða- og þunglyndiseinkenna og áráttu- og þráhyggjueinkenna. Þátttakendur í átröskunarhóp höfðu einnig meiri hugsanaskekkjur um tengsl hugsana og lögunar líkamans (thought-shape fusion) (p<0,05) en ekki um tengsl hugsana og hegðunar (thought-action fusion) (p>0,05). Átröskunarhópur hafði hærri skor á röðunaráráttu (p<0,05) en ekki á öðrum undirkvörðum spurningalista um áráttu- og þráhyggjueinkenni (p>0,05 í öllum tilvikum).

Ályktanir:Niðurstöður rannsóknarinnar styðja að hluta hugmyndir um tengsl átröskunar við áráttu- og þráhyggjuróf geðraskana. Skoða þarf þessi tengsl í stærra úrtaki, bæði karla og kvenna.

 

 

V-13      Áhrif og tengsl COMT Val158Met breytileikans á alvarleika ADHD einkenna og meðfylgjandi hegðunarröskun

Haukur Örvar Pálmason1,5, Moser D1, Sigmund J1, Vogler C1, Hänig S2, Schneider A2, Seitz C2, Marcus A3, Meyer J1, Freitag C2,4

1Institute of Psychobiology, Department of Neurobehavioral Genetics, University of Trier, Trier, Germany, 2Department of Child and Adolescent Psychiatry and Psychotherapy, Saarland University Hospital, Homburg, Germany, 3Department of Child and Adolescent Psychiatry, Mutterhaus der Borromäerinnen, Trier, Germany , 4Department of Child and Adolescent Psychiatry, Psychosomatics and Psychotherapy, Frankfurt University, Frankfurt am Main, Germany, 5Barna- og unglingageðdeild Landspítala

haukurop@landspitali.is

Inngangur:Athyglisbrestur og ofvirkni (ADHD) er algeng taugaþroskaröskun sem getur haft víðtæk áhrif á daglegt líf, nám og félagslega aðlögun. Orsakir ADHD eru líffræðilegar og benda rannsóknir til að orsaka sé að leita í truflun í boð-
efnakerfi heilans á stöðum sem gegna mikilvægu hlutverki í stjórn
hegðunar, þar sem að framheilinn spilar hvað stærst hlutverk. Erfðir gegna mikilvægu hlutverki í ADHD og geta útskýrt 75-95% einkenna. Í framheilanum gegnir
COMT (catechol-O-methyltransferase) ensímið lykilhlutverki í niðurbroti dópamíns. Fundist hefur breytileiki í COMT geninu (Val158Met), sem veldur því að þegar A samsætan (Met amínósýra tjáð) er til staðar er COMT ensímið mun lengur að brjóta niður dópamín en þegar G samsætan er til staðar (Val amínósýra tjáð).

Markmið rannsóknarinnar er að athuga áhrif og tengsl COMT Val158Met breytileikans á alvarleika ADHD einkenna og með-
fylgjandi hegðunarröskun hjá 166 börnum með ADHD.

Aðferðir:Notuð voru DSM-IV greiningarviðmið fyrir greiningar á ADHD og hegðunarröskun. ICD-10 Axsis V viðtal var notað til að meta sálfélagslegar aðstæður. COMT Val158Met breytileikinn var greindur með arfgerðarprófun.

Niðurstöður og ályktun: COMT Val158Met breytileikinn sýndi tengsl við ADHD, þar sem að Met samsætan var algengari
heldur en Val samsætan í þessu úrtaki ADHD barna. Þegar áhrif reykinga á meðgöngu voru tekin út, voru einstaklingar með Met/Met arfgerðina með alvarlegustu ADHD einkennin en þeir með Val/Val með vægustu einkennin. Mikil ADHD einkenni og erfiðar félagslegar aðstæður fyrstu 3 ár ævinnar juku marktækt líkurnar á því að börn þróuðu með sér hegðunarröskun. Þessar niðurstöður undirstrika áhrif erfða, taugaboðefnisins dópamín, sálfélagslegra þátta og reykinga á meðgöngu á birtingarmynd ADHD og meðfylgjandi hegðunarröskunar.

 

 

V-14      Notkun heilarita til greiningar á athyglisbresti með ofvirkni hjá börnum

Halla Helgadóttir1, Berglind Brynjólfsdóttir2, Gísli Baldursson2, Guðrún B. Guðmundsdóttir2, Málfríður Lorange2, Páll Magnússon2, Ásdís L. Emilsdóttir1, Gísli H. Jóhannesson1, Nicolas P. Blin1, Paula Newman1, Kristinn Johnsen1, Ólafur Ó. Guðmundsson2

1Mentis Cura, rannsóknar- og þróunarfyrirtæki, 2Barna- og unglingageðdeild Landspítala

halla@mentiscura.is

 

Inngangur og markmið:Athyglisbrestur með ofvirkni (ADHD) er algeng röskun meðal grunnskólabarna á Íslandi. Greining á ADHD byggist á klínísku mati á frávikum með athugun á barni og öflun upplýsinga, en nú verður leitast við að bæta líffræðilegu mælitæki við greininguna. Rannsóknar- og þróunar-fyrirtækið Mentis Cura og BUGL (Barna- og unglingageðdeild Landspítalans) vinna að þróun nýrrar aðferðar til greiningar á ADHD með einfaldri heilaritsmælingu.

Aðferðir: Árið 2007 var framkvæmd forrannsókn á notkun heilarita til greiningar á ADHD sem gaf vísbendingar um gagnsemi greiningaraðferðarinnar. Umfangsmeiri rannsókn er nú í framkvæmd, þar sem mæld verða heilarit 1000 drengja og stúlkna á aldrinum 6-13. Til greiningar á börnunum eru notaðir matskvarðarnir Strengths and Difficulties Questionnaires (SDQ) og ADHD Rating Scale auk einhverfukvarðans Autism Spectrum Screening Questionnaire (ASSQ). Greiningarviðtalið K-SADS er lagt fyrir sem og greindarprófið WISC IV. 19 rása heilarit er mælt hjá börnunum í hvíld með opin og lokuð augu. Til viðmiðunar eru annarsvegar mæld heilarit barna sem ekki hafa verið greind með geðraskanir og hinsvegar heilarit barna með aðrar greining-
ar á geðrænu sviði svo sem kvíða og einhverfu. Þessi heilarit eru borin saman við heilarit ADHD barna með það að markmiði að þróa aðferð til að greina röskunina með heilariti. Tölfræðileg, fjölþátta mynstursgreining, sem tekur tillit til margra þátta í heilaritinu í einu er notuð til úrvinnslunnar.

Niðurstöður og ályktun: Niðurstöður fyrstu 64 mælinga heila-rita 6-8 ára drengja sýna að með einfaldri heilaritsmælingu má greina á milli ADHD hóps og viðmiðunarhóps með 82% nákvæmni. Þessar niðurstöður byggja aðeins á hluta þeirra
heilarita sem munu verða mæld til greiningar á ADHD og er gert ráð fyrir að söfnun gagna fyrir rannsóknina ljúki vorið 2010.

 

 

V-15      Íslensk börn og unglingar með höfuðáverka: hve margir þarfnast sérhæfðrar íhlutunar til lengri tíma og hvers konar íhlutun er við hæfi?

Jónas G. Halldórsson1, Kjell M. Flekkøy2, Guðmundur B. Arnkelsson3, Kristinn Tómasson4, Hulda Brá Magnadóttir5, Eiríkur Örn Arnarson1

1Læknadeild, HÍ, og Sálfræðiþjónustu, endurhæfingarsviði Landspítala, 2sálfræðideild, Háskólinn í Osló, og öldrunarlækningadeild, Ullevål háskólasjúkrahúsið, Osló, Noregi; 3sálfræðideild, Háskóli Íslands; 4Vinnueftirlit ríkisins, 5Upper Valley Neurology and Neurosurgery, Lebanon, NH, USA

jonasgh@landspitali.is

 

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna fjölda barna og unglinga, sem lýsa eftirstöðvum fjórum árum eftir
höfuðáverka, og skoða eðli þessara kvartana, og meta þannig þörf fyrir sérhæfðrar íhlutun af mismunandi toga.

Efniviður og aðferðir: Gögnum var safnað á framvirkan hátt um alla sjúklinga 0-19 ára, sem greindir voru með höfuðáverka (ICD-9 850-854) á Borgarspítalanum á einu ári, 1992-1993 (n=405). Fjórum árum síðar var spurningalisti um eftirstöðvar áverka sendur til sjúklinga. Alvarleikastig byggt á eðli kvartana var metið samkvæmt viðmiðum Glasgow Outcome Scale (GOS), barnaútgáfu.

Niðurstöður: Alls 39 sjúklingar lýstu eftirstöðvum höfuðáverka fjórum árum síðar. Samkvæmt viðmiðum GOS lýstu 19 þeirra góðri útkomu (e. good outcome), 14 lýstu miðlungs hömlun (e. moderate disability), 2 lýstu alvarlegri hömlun (severe disability) og 4 höfðu látist vegna heilaskaða. Nýleg athugun bendir til þess að ekki hafi orðið fækkun á börnum og unglingum sem hljóta alvarlegri höfuðáverka (ICD-9 851-854) á ári hverju.

Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að tugir íslenskra barna og unglinga þarfnist sérhæfðrar íhlutunar og eftirfylgdar á ári hverju vegna afleiðinga höfuðáverka. Íhlutunin getur verið mjög breytileg, allt frá fræðslu fyrir foreldra til endurhæfingar og eftirfylgdar til lengri tíma. Íhlutunin þarf að taka mið af vanda hvers og eins.

V-16      Ofnæmi gegn loftbornum ofnæmisvökum hjá börnum yngri en 3ja ára með fæðuofnæmi

Michael Clausen1,2,3, Sigurður Kristjánsson1,2

1Barnaspítali Hringsins, Landspítala, 2læknadeild, HÍ, 3göngudeild í ofnæmissjúkdómum Landspítala

mc@landspitali.is

 

Inngangur: Ofnæmisjúkdómar eins og astmi og exem eru oft fylgjandi fæðuofnæmi hjá börnum Minna er vitað um einkenni og næmingu gegn loftbornum ofnæmisvökum í börnum yngri en þriggja ára með fæðuofnæmi.

Aðferðir: Á tímabilinu 1. september 1999 til 31. ágúst 2006 voru 230 börn yngri en 3ja ára greind með fæðuofnæmi á móttöku ofnæmislæknis í Domus Medica í Reykjavík. Leitað var með börnin þangað vegna gruns um fæðuofnæmi eða þau voru með exem. Húðpróf var gert hjá börnunum með sex algengustu ofnæmisvökum í fæðu. Hjá 137 börnum með öndunarfæraeinkenni var einnig gert húðpróf gegn loftbornum ofnæmisvökum.

Niðurstöður: Eitthundrað níutíu og fimm börn (85%) voru með jákvæða svörun í ofnæmishúðprófi gegn annað hvort mjólk eða eggjum. Fjörtíu og fjögur (32%) börn voru með jákvæða svörun á ofnæmshúðprófi gegn loftbornum ofnæmisvökum, 28 (20,4%) gegn köttum, 16 (11,6%) gegn hestum, 15 (10,9%) gegn hundum, 4 (2,9%) gegn grasi, 2 (1,4%) gegn rykmaurum og 1 (0,7%) gegn æða- eða gæsadún. Við greiningu á næmi gegn loftbornum ofnæmisvökum voru 30 (68,1%) barnanna með exem, 21 (47,7%) höfðu astma, 14 (31,3%) höfðu ofnæmiskvef, 5 (11,3%) höfðu þinu og 31 (70,4%) voru með jákvæða ættarsögu um ofnæmis-sjúkdóma.

Ályktun: Hjá börnum yngri en þriggja ára með fæðuofnæmi, exem eða einkenni ofnæmiskvefs er algengt að finna næmingu gegn loftbornum ofnæmisvökum. Algengast er að um næmingu gegn köttum sé að ræða.

 

 

V-17      Algengi fæðuofnæmis hjá íslenskum börnum á fyrsta aldursári

Harpa Kristinsdóttir1, Michael Clausen2,3, Anna Guðbjörg Gunnarsdóttir3, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir3

1Læknadeild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins, 3ónæmisfræðideild Landspítala

hak2@hi.is; mc@landspitali.is

 

Inngangur:Markmið var að rannsaka algengi fæðuofnæmis hjá íslenskum börnum á fyrsta aldursári og skoða algengi barnaexems og astma.

Efniviður og aðferðir:Rannsóknin er hluti af alþjóðlegri, framskyggnri  fæðuofnæmisrannsókn, EuroPrevall. Fylgt var eftir 626 börnum í eitt ár frá fæðingu með stöðluðum spurninga-listum. Við einkenni um fæðuofnæmi var barnið skoðað, gerð ofnæmishúðpróf og mælt IgE gegn helstu ofnæmisvökum. Ef jákvætt svar kom fram í ofnæmisprófi var gert tvíblint þolpróf.

Niðurstöður:Af88 börnum sem komu í læknisheimsókn voru 16 börn (2,56%) með jákvæð húðpróf eða með fæðusértækt IgE í sermi. Fæðuofnæmi var staðfest hjá fimm börnum (0,80%) sem öll voru með ofnæmi fyrir eggjum (0,80%), tvö fyrir jarðhnet-um (0,32%), tvö fyrir mjólk (0,32%) og eitt fyrir hveiti (0,16%).Þrettán (2,08%) börn voru talin með astma og 58 (9,27%) með exem. Jákvæð fjölskyldusaga var sterkasti áhættuþátturinn fyrir staðfest fæðuofnæmi (OR=10,76 (95% CI 1,77-65,41); p=0,001), næmingu (OR=3,29 (95% CI 1,11-9,74); p=0,023) og exem (OR=2,20 (95% CI 1,13-4,29); p=0,018).

Ályktanir: Algengi fæðuofnæmis á fyrsta aldursári hefur ekki áður verið rannsakað á Íslandi. Þessar frumniðurstöður sýna heldur lægri tíðni fæðuofnæmis en fyrri rannsókn á íslenskum börnum á öðru ári. Þær sýna einnig lægri tíðni en í sumum Evrópulöndum sem hugsanlega má rekja til erfða og um-
hverfisþátta.

 

 

V-18      Fjölskyldumeðferð fyrir of feit börn: áhrif á líkamsþyngdarstuðul og líðan

Þrúður Gunnarsdóttir1, Anna Sigríður Ólafsdóttir1, Urður Njarðvík1, Ragnar Bjarnason5

1HÍ, 5Landspítala

thrudur@hi.is

 

Inngangur:Offita barna hefur stóraukist á síðustu áratugum og getur haft skaðleg áhrif á bæði heilsutengda þætti og líðan.

Markmið:Markmið rannsóknarinnar var að athuga hvort fjöl-
skyldumeðferð fyrir of feit börn hafi áhrif á líkamsþyngdarstuðul og líðan þátttakenda.

Aðferðir:Alls tóku 84 börn á aldrinum 7-13 ára (LÞS > 2.5 SDS) þátt í meðferð. Eitt foreldri tók þátt með hverju barni. Meðferð stóð yfir í 12 vikur en dreifðist yfir 18 vikna tímabil. Hæð og þyngd barna var mæld fyrir og eftir meðferð og líkamsþyngdarstuðull reiknaður. Spurningalistar voru lagðir fyrir áður en meðferð hófst og að henni lokinni til að meta breytingar á depurð (Children’s Depression Inventory, CDI), kvíða (Multidimensional Anxiety Scale for Children, MASC) og sjálfsmati (The Piers-Harris Self Concept Scale, Piers-Harris). Eftirfylgni fór fram eftir 6 mánuði.

Niðurstöður:Af 84 fjölskyldum sem hófu meðferð fylltu 62 fjölskyldur út spurningalista við upphaf og lok meðferðar og við 6 mánaða eftirfylgni. Líkamsþyngdarstuðull barnanna lækkaði að meðaltali um 2 stig (p< 0.001) og líðan batnaði marktækt (CDI: lækkaði úr 48,3 í 44,9 stig, MASC: lækkaði úr 53,09 í 49,9 stig og Piers Harris: hækkaði úr 56,9 í 60,4 stig). Þær breytingar sem urðu á líkamsþyngdarstuðli og líðan barnanna héldust að mestu við 6 mánaða eftirfylgni.

Ályktun:Fjölskyldumeðferð fyrir of feit börn hefur góð áhrif á líkamsþyngdarstuðul og líðan barna. Börnunum verður fylgt eftir til tveggja ára til að meta langtímaáhrif meðferðar.

 

 

V-19      Evrópsk samstaða um hlutverk og starfshæfni lýð-heilsunæringarfræðinga

Svandís Erna Jónsdóttir1, Inga Þórsdóttir1, Roger Hughes2

1Rannsóknarstofu í næringarfræði við Landspítala og HÍ, 2University of the Sunshine Coast

svandjo@landspitali.is

 

Inngangur: Rannsóknin var hluti evrópska samstarfsverk-
efnisins JobNut sem miðar að því að skapa evrópskt gæðakerfi fyrir þjálfun og menntun lýðheilsunæringarfræðinga og um leið efla heilsu evrópsks almennings. Takmark lýðheilsunæringarfræðinnar er að hámarka heilsu almennings með ákjósanlegri næringu og lágmarka líkur á langvinnum sjúkdómum tengdum röngu fæðuvali og óæskilegum lífstíl. Til að hámarka árangur af lýðheilsunæringarstarfi er nauðsynlegt að koma upp sameig-inlegum stöðlum og mælikvörðum á menntun og hæfni lýð-
heilsunæringarfræðinga.

Markmið: Að meta og þróa samstöðu meðal sérfræðinga á meginhlutverkum og nauðsynlegri starfshæfni lýðheilsunæring-
arfræðinga til að tryggja árangursríkt lýðheilsunæringarstarf í Evrópu.

Aðferðir: Delphi aðferðin var notuð til að ná fram samstöðu meðal 62 evrópskra sérfræðinga á sviði lýðheilsunæringarfræði.

Niðurstöður: Varpað var ljósi á nauðsynleg hlutverk og starfs-
hæfni evrópskra lýðheilsunæringarfræðinga. Sterk samstaða náðist um meginhlutverk lýðheilsunæringarfræðinga og þá starfshæfni sem þeim er nauðsynleg. Samstaða náðist um að stétt lýðheilsunæringarfræðinga þarf að vera fjölfagleg og upp-bygging starfsteyma ætti að vera í brennidepli. Helsta hindrunin fyrir frekari uppbyggingu virðist vera skortur á upplýsingum á þeim mannauði sem er til staðar og þ.a.l. ákvarðandi þáttum fyrir getu stéttarinnar til að takast á við aðsteðjandi lýðheilsu-næringarfræðileg vandamál.

Ályktun: Niðurstöðurnar auðvelda stefnumótun og gefa til kynna æskilega forgangsröðun til að tryggja markvissari upp-byggingu lýðheilsunæringarfræðinnar innan Evrópu. Auk þess stuðla þær að og gefa möguleika á samræmdum hæfniskröf-
um til evrópskra lýðheilsunæringarfræðinga.

 

 

V-20      Aukinni orkuþörf 5 ára barna, fram yfir orkuþörf þriggja ára barna, er mætt með orkuríkum en næringarsnauðum matvælum

Tinna Eysteinsdóttir, Inga Þórsdóttir og Ingibjörg Gunnarsdóttir

Rannsóknastofa í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala.

tinnaey@landspitali.is

 

Inngangur:Matarvenjur mótast í æsku og viðhaldast oft að einhverju leyti fram á fullorðinsár. Mataræði og næringarástand barns hefur m.a. áhrif á þroska þess og vöxt svo og alhliða heilsu og líðan.

Markmið:Að kanna hversu vel íslensk börn á leikskólaaldri
fylgja ráðleggingum um fæðuval og að meta mun á fæðuinntöku 3ja og 5 ára barna.

Aðferð:Foreldrar/forráðamenn 225 3ja ára barna og 231 5 ára barns fylltu út 3 daga matardagbók. Gagnagrunnar um efna-
innihald matvæla og samsetningu algengra rétta voru notaðir við úrvinnslu gagna.

Niðurstöður:Ávaxta og grænmetisneysla var innan við helm-ingur þess sem ráðlagt er. Neysla trefjaríks kornmetis var lítil og aðeins 20% barnanna tók lýsi daglega. Fisk og mjólkurneysla var í samræmi við ráðleggingar. Neysla sætra drykkja var marktækt meiri meðal eldri barnanna (87ml/d á móti 61ml/d;p=0,001) og hærra hlutfall heildarorkuinntöku kom frá kexi, kökum, sykri og sælgæti meðal 5 ára barnanna m.v. 3ja ára, en minna frá ávöxt-
um og grænmeti. Meðalorkuinntaka 5 ára barna var 131kcal/d hærri en þeirra 3ja ára, þar af komu 96kcal (73% af umfram orkuinntöku) frá kexi, kökum, sætum drykkjum, sykri, sælgæti og ís, þ.e. orkuríkum en næringarsnauðum matvælum.

Ályktun:Ýmsu er ábótavant í fæði íslenskra leikskólabarna. Munur virðist vera á neyslumynstri 3ja og 5 ára barna þar sem þau 5 ára neyta hlutfallslega meira af næringarsnauðum matvælum, borið saman við 3ja ára.

 

 

V-21      Gildi einfalds spurningalista um mataræði barna

Ása Guðrún Kristjánsdóttir1, Erlingur Jóhannsson2, Inga Þórsdóttir1

1Rannsóknastofu í næringarfræði, Landspítala & matvæla- og næringarfræðideild, heilbrigðisvísindasviði, HÍ, 2Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild, menntavísindasviði, HÍ

asagk@landspitali.is

 

Markmið: Að ákvarða gildi einfalds spurningalista (FFQ) sem svarað er af foreldrum til að rannsaka mataræði barna.

Aðferðir: Gildi einfalds spurningalista varðandi mataræði barna, svarað af foreldrum, var metið með samanburði við nákvæma skráningu þess sem neytt var í 3 daga (vegið magn). Í úrtakinu voru 7-ára börn, í öðrum bekk, í sex grunnskólum í Reykjavík. Foreldrar 113 barna skiluðu bæði spurningalista útfylltum og fæðuskráningu.

Niðurstöður: Neysla barna á grænmeti, fiski, lýsi, vatni og hreinum ávaxtasafa var hærri samkvæmt svörum foreldra í spurningalista en samkvæmt nákvæmlega veginni fæðuskráningu. Neysla á unnum kjötvörum, kökum og kexi var lægri samkvæmt svörum foreldra í spurningalista en í fæðuskráningunni, en enginn marktækur munur var neyslu barna á ávöxtum, kjöti, sykruðum drykkjum, snakki og frönskum kartöflum, sælgæti og mjólk. Spearman fylgnistuðlar voru 0.46 fyrir ávexti, 0.45 fyrir grænmeti, 0.62 fyrir lýsi og 0.46 fyrir vatn, en lægri fyrir aðrar fæðutegundir. Grænmetis-, ávaxta-, lýsis- og mjólkurneyslu var skipt upp í fjórðunga samkvæmt báðum aðferðunum, 89% voru flokkaðir í sama fjórðung eða aðlægan fjórðung þegar grænmetisneyslan var skoðuð og um 80% þegar ávaxta-, lýsis- og mjólkurneysla var skoðuð.

Ályktun:Hægt er að nota einfaldan spurningalista sem foreldrar svara til að meta neyslu barna af nokkrum fæðutegundum. Slíka lista er þó erfitt að nota til dæmis til að mæla neyslu á vörum sem almennt teljast óhollar. Í öllum tilfellum þarf rannsókn á gildi spurningalista um mataræði að fara fram til að hægt sé að meta styrk einstakra spurninga, og sleppa þeim sem ekki hafa nægilegt gildi.

 

 

V-22     Bakteríur í miðeyrnavökva

Thelma M. Andersen1, Ólafur Guðmundsson2, Karl G. Kristinsson1,3, Björn R. Lúðvíksson1,4, Ásgeir Haraldsson1,5, Hannes Petersen1,2

1Læknadeild HÍ, 2háls,- nef- og eyrnadeild, 3sýklafræðideild, 4ónæmisfræðideild, 5Barnaspítala Hringsins Landspítala

hpet@landspitali.is

 

Inngangur:Miðeyrnabólga (otitis media) er einn algengasti sjúkdómur meðal barna og er talið að allt að 80% barna hafi greinst með sjúkdóminn a.m.k. einu sinni fyrir þriggja ára aldur. Hlutverk baktería í meinmynd miðeyrna-bólgu er þekkt, en óljósari er þáttur þeirra í meinmynd langdreginnar vökvasöfnunar í miðeyra eftir sýkingu. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tilvist baktería í miðeyravökva barna með vökvasöfnun í miðeyra.

Efniviður og aðferðir:Rannsóknarþýðið voru öll börn 0-12 ára sem gangast áttu undir ástungu á hljóðhimnu eða röraísetningu, á Handlæknastöðinni í Glæsibæ, rannsóknartímabilið 17/3-30/4 ‚08. Miðeyrnavökva var safnað og hann ræktaður auk þess sem spurningalisti var lagður fyrir foreldra/forráðamenn.

Niðurstöður:Þátttakendur í rannsókninni voru 181 barn (55% drengir, aldur 4 mánaða til 10 ára). 91% barnanna hafði sögu um eyrnabólgu, 88% voru í dagvistun, 76% áttu systkini, 56% höfðu fengið sýklalyf mánuðinn fyrir aðgerð og 24% voru á sýklalyfjum á aðgerðardegi. Skoðuð voru 337 eyru, vökvi var í 245 þeirra (72,7%) og náðust úr þeim 241 (98,4%) sýni. Jákvæð ræktun fyrir meinvaldandi bakteríur fékkst úr 124 sýnum (51,5%). Úr þeim voru einangraðar 148 bakteríur (isolates) og af þeim voru Heamophilus influenzae 85 (57,4%), Streptococcus pneumoniae 35 (23,6%) og Moraxella catarrhalis 20 (13,5%). Pneumókokkar ræktuðust úr fjórum eyrum sem útsett höfðu verið fyrir sýklalyfjum (Amoxicillin) á aðgerðardegi og voru allir þeir stofnar fjölónæmir.

Ályktun:Þessi rannsókn sýnir hærra hlutfall jákvæðra ræktana úr miðeyrnavökva en aðrar sambærilegar rannsóknir. Þetta verður að teljast áhugavert sérstaklega m.t.t. þess hversu mikil sýklalyfjanotkun var hjá þessum börnum. Hlutfall Haemophilus influenzae af jákvæðum ræktunum var auk þess mun hærra en búast mátti við.

 

 

V-23      Bráða speldisbólga á Íslandi 1983-2005

Birgir Briem1, Örnólfur Þorvarðarson2, Hannes Petersen3,4

1Háls,- nef- og eyrnadeild Buskerud sjúkrahússins, Drammen, Noregi, 2háls,- nef- og eyrnadeild Akademiska sjúkrahússins, Uppsölum, Svíþjóð, 3læknadeild HÍ, 4háls,- nef- og eyrnadeild Landspítala

hpet@landspitali.is

 

Inngangur:Bráða speldisbólga vísar tilhraðrar ákomu bólgu í speldi og ofanraddglufuhluta barkakýlis. Þar sem þessari hröðu bólgumyndun getur fylgt lokun á efri öndunarvegi, telst sjúkdómurinn alvarlegt bráðavandamál. Markmið rann-sóknarinnar var að varpa ljósi á breytingar í faraldursfræði sjúkdómsins á Íslandi árin 1983 til 2005.

Efniviður og aðferðir:Allir sjúklingar með útskriftargreininguna bráð speldisbólga (acute epiglottitis) á öllum sjúkrahúsum landsins, voru teknir til og sjúkraskrár þeirra kannaðar afturvirkt með tilliti til, aldurs, kyns, greiningarmánaðar og árs, bakteríugreiningar, meðferð öndunarvegar, vistunar á gjörgæslu, sýklalyfjavals, legutíma og helstu fylgikvilla. Niðurstöður:57 sjúklingar greindust með bráða speldisbólgu á tímabilinu (árlegt nýgengi 0.93/100.000). Meðalaldur var 33,3 ár. Bráða speldisbólga í börnum hvarf eftir að bólusetning gegn Haemophilus influenzae type b (Hib) hófst árið 1989, en breytist ekki marktækt hjá fullorðnum. Fyrir tíma bólusetningar var Hib algengasta bakterían sem ræktaðist, en hefur ekki greinst á Íslandi síðan 1991. Keðjukokkar eru nú algengustu bakteríurnar sem ræktast úr sjúklingum með bráða speldisbólgu. Meðal legutími var 5.05 dagar og var 51% sjúklingana vistaður á gjörgæslu. Öll börn yngri en 10 ára og samanlagt 30% sjúklinganna þurftu á öndunarvegs aðstoð að halda. Hjá 90% fullorðinna nægði að fylgst með öndunarveg án inngrips. Meiriháttar fylgikvillar voru sjaldgæfir og engin dó.

Ályktun:Faraldursfræðibráðrar speldisbólgu breyttist á rannsóknartímanum. Bráð speldisbólga, sem áður var aðallega barnasjúkdómur, greinist nú nánast einvörðungu í fullorðnum. Þessu má þakka markvissri Hib bólusetningu. Meðferð þessa lífshættulega sjúkdóms er enn áskorun, en í okkar starfsvenjum má sjá að óhætt er að fylgjast náið með sjúklingum með mildan til miðlungs sjúkdóm, án inngripa í öndunarveg.

 

 

V-24      Áhrif nálastungumeðferðar sem veitt er frumbyrjum eftir 41 viku (± 2 dagar) í eðlilegri meðgöngu á sjálfkrafa byrjun fæðingarhríða og þroskun legháls - forprófun

Anna Sigríður Vernharðsdóttir

Fæðingardeild Landspítala

annavern@landspitali.is

 

Inngangur: Nálastungumeðferð er ákjósanlegur valkostur á meðgöngu og í fæðingu því engar alvarlegar aukaverkanir eru þekktar. Margar rannsóknir gefa til kynna að nálastungumeðferð geti gagnast í þeim tilgangi að þroska legháls og ýta undir sjálfkrafa byrjun fæðingarhríða, en frekari rannsókn er þörf.

Markmið: Markmið þessarar rannsóknar var að gera forprófun fyrir tilviljanakennda samanburðarrannsókn sem ætlað er að meta hvort ákveðin nálastungumeðferð, sem veitt er frumbyrjum eftir 41 viku (± 2 dagar) í eðlilegri meðgöngu, geti ýtt undir sjálfkrafa byrjun fæðingarhríða og þroskun legháls.

Aðferðir: Tilviljun réði því hvort konurnar lentu í nálastunguhópi eða samanburðarhópi. Samanburðarhópurinn fékk enga meðferð. Konurnar í nálastunguhópnum fengu ýmist eina eða tvær meðferðir: fyrri meðferðina við 41 viku (± 2 dagar) og seinni meðferðina við 41 viku og 5 daga (± 2 dagar) ef þær voru ekki byrjaðar í fæðingu. Nálar voru settar í punktana Hegu (LI4) og Sanyinjiao (SP6) báðum megin. Leghálshæfni var metin með leghálsþreifingu og stig gefin samkvæmt Bishop skori. Helstu breytur rannsóknarinnar voru: (1) meðaltími frá inngöngu í rannsókn að byrjun 1. stigs fæðingar (2) tíðni framköllunar fæðinga (3) þroskun legháls frá inngöngu í rannsókn það er þegar meðgöngulengd er 41 vika (± 2 dagar) og þar til meðgöngulengd er 41 vika og 5 dagar (± 2 dagar).

Niðurstöður: Sextán frumbyrjur tóku þátt í rannsókninni, 8 í nálastunguhópi og 8 í samanburðarhópi. Hóparnir voru sambærilegir hvað varðar aldur, meðgöngulengd og leghálshæfni við inngöngu í rannsókn. Ekki reyndist tölfræðilega marktækur munur á útkomu hópanna að neinu leyti.

Ályktun: Þar sem þetta var forprófun var úrtakið lítið og ekki um tölfræðilega marktækan mun að ræða. Þær upplýsingar sem fengust við gerð þessarar forprófunar benda til þess að nálastungumeðferðin sem veitt var flokkist sem meðferð með lítil áhrif (small effect size) og því er þörf á mjög stóru úrtaki til að sannreyna áhrif meðferðarinnar.

 

 

V-25     ,,Það dró mig niður, alveg endalaust, þessi endalausi sársauki” – Reynsla og líðan kvenna sem fá verki í geirvörtur við brjóstagjöf

Sveinbjörg Brynjólfsdóttir

Meðgöngu- og sængurkvennadeild Landspítala

sveinbr@hi.is

 

Inngangur: Verkir í geirvörtum við brjóstagjöf eru algeng ástæða fyrir því að konur hætta með börn sín á brjósti. Samkvæmt fyrirliggjandi rannsóknum finna 33-96% mæðra fyrir verkjum í geirvörtum á brjóstagjafatímanum. Fáar rannsóknir hafa skoðað reynslu kvenna af þessu vandamáli.

Markmið: Skoða reynslu kvenna af því að fá verki í geirvörtur við brjóstagjöf. Kanna gagnsemi meðferðarúrræða og hvort verkir í geirvörtum hafðu áhrif á framvindu brjóstagjafar. Kanna reynslu kvenna af stuðningi ljósmæðra og annarra heilbrigðis-starfsmanna við brjóstagjöf.

Aðferð: Rannsóknin er eigindleg viðtalsrannsókn og var fyrirbærafræði (phenomenology) valin sem aðferðafræðilegur grunnur rannsóknar. Tíu mæður tóku þátt í rannsókninni.

Niðurstöður: Konurnar áttu í erfiðleikum með að leggja börn sín rétt á brjóst. Þær fengu áverka á geirvörtur og verulega verki sem leiddu til andlegrar vanlíðanar. Konurnar kviðu fyrir því að leggja börnin á brjóst, fundu til þreytu og vanmáttarkenndar. Sumar hættu með börn sín á brjósti. Konunum reyndist vel að bleyta geirvörtur fyrir gjöf, nota plastfilmu á geirvörtur milli gjafa, nota mexíkanahatt á geirvörtur við brjóstagjöf og að nota mjaltavél. Konurnar töldu fræðslu um brjóstagjöf á meðgöngu hafa verið of litla, en þær voru ánægðar með fræðslu á sængurkvennadeildinni.

Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að efla þarf fræðslu um brjóstagjöf á meðgöngu og í sængurlegu. Kenna þarf konum að leggja börn sín rétt á brjóst, því að rannsóknir sýna að það er öflugasta leiðin til að fyrirbyggja verki í geirvörtum við brjóstagjöf.

 

 

V-26      Eðlilegar fæðingar, öryggi og áhætta: skynjun íslenskra ljósmæðra

Valgerður Lísa Sigurðardóttir, Ólöf Ásta Ólafsdóttir

Kvennasviði Landspítala, HÍ hjúkrunarfræðideild námsbraut í ljósmóðurfræði

valgerds@landspitali.is

 

Inngangur:Það er áhyggjuefni ljósmæðra um allan heim að eðlilegum fæðingum án íhlutana fækkar og því hafa hugtökin öryggi og áhætta við eðlilegar fæðingar verið til umfjöllunar.

Markmið: Að skoða hvernig ljósmæður skynja hugtökin öryggi og áhættu í eðlilegum fæðingum á Íslandi og hvernig ljósmæður taka ákvarðanir og skynja öryggi og áhættu í fæðingarhjálp.

Aðferð: Tvö rýnihópaviðtöl fóru fram við átján ljósmæður á fæðingargangi og í Hreiðri á Landspítala. Úrtak var valið með þægindaaðferð. Gögn voru greind í þemu og undirþemu með menningarbundinni nálgun.

Niðurstöður: Fæðingarstaður og áhættuhugsun í umhverfi hafa áhrif á sjálfræði ljósmæðra og kvenna til ákvarðanatöku um umönnun í fæðingu og traust á innri þekkingu ljósmæðranna. Þær töldu yfirsetu mikilvæga vegna möguleika til að mynda gagnkvæmt samband, byggt á trausti, milli konu og ljósmóður. Það skapaði öryggistilfinningu og tækifæri til að nota klíníska færni og innri þekkingu til að ákveða bestu umönnun fyrir hverja konu. Ef slíkt samband myndaðist ekki fannst þeim það draga úr öryggistilfinningu. Verklagsreglur sem brjóta í bága við þekkingu ljósmæðra og mismunandi hugmyndafræði skapaði óöryggi og tilfinningu um að vera undir smásjá. Það hafði einnig áhrif á sjálfræði þeirra og kvenna til ákvarðanatöku um umönnun í fæðingu.

Ályktun: Ljósmæður lýstu ákveðnu ferli þar sem þær fara út fyrir ramma reglna en þá er ákvörðun byggð á gagnreyndri þekkingu, klínísku mati og samráði við konuna. Það eru í raun gagnreynd vinnubrögð en ljósmæður virðast ekki alltaf sjá leiðir til að vinna þannig. Efla þarf rannsóknir innan ljósmóðurfræðinnar á því hvernig hægt er að stuðla að eðlilegum fæðingum í fæðingarumhverfi um leið og velferð og öryggi konunnar og fjölskyldu hennar er höfð að leiðarljósi.

 

 

V-27      Lyfjanotkun á hjúkrunarheimilum á Íslandi. Þriggja ára aftursæ rannsókn

Helga Hansdóttir, Pétur G. Guðmannsson

Öldrunarsviði Landspítala

helgah@landspitali.is

 

Markmið: Að lýsa lyfjanotkun á hjúkrunarheimilum á Íslandi yfir þriggja ára tímabil.

Aðferðir: Lyfjafyrirmæli frá byrjun 2002 til lok 2004 voru skoðuð. Upplýsingar um heildarlyfjanotkun voru skráðar auk upplýsinga um stöðuga notkun á rannsóknartímanum, tímabundna notkun og notkun á lyfjum eftir þörfum, nokkra algengra lyfjaflokka.

Niðurstöður: Upplýsingum frá 10 hjúkrunarheimilum var safnað um 1408 einstaklinga, 909 konur og 499 karla sem er u.þ.b. 60% af skráðum hjúkrunarheimilisrýmum á Íslandi. Meðal aldur var 83 ár. Heildar lyfjanotkun var 8,88 (±4,0) í byrjun en jókst til 9,91 (±4,3) að meðaltali, lyf notuð skv. þörfum voru ekki meðtalin. Konur notuðu að meðaltali einu lyfi fleiri en karlar (8,24 vs 9,23 p<0,001). Notkun geðlyfja var mikil en einungis 12,2% karla and 6,4% kvenna fékk aldrei nein lyf af flokki geðlyfja (p<0,01). Sefandi lyf, þunglyndislyf og kvíðastillandi/svefnlyf voru oftar gefin konum en körlum (39,1% vs 31,7% p<0,01; 70% vs 61,5% p<0,01; 86,6% vs 80,2% p<0,05). Konur fengu oftar lyf sem lækka sýrustig magans en karlar (46,9% vs 38,1% p>0,01), D-vítamín (72,3% vs 59,1% p<0,00), kalk (47,8% vs 15,2% p<0,00), þvagræsilyf (64% vs52,3% p<0,00), skjaldkirtiLandspítalaormón (22,4 vs 8% p<0,02), ópíöt (32,1% vs 27,7% p<0,00), and paracetamól (72,3% vs 61,3% p<0,00). Karlar fengu oftar lyf gegn sykursýki (14%vs 5% p<0,00); warfarin (10,6% vs 5,1% p<0,00); kólesteról lækkandi lyf (7,8% vs 4% p<0,01); parkinsonslyf (13,8% vs 8,4% p<0,05). Það var ekki significant munur á körlum og konum í notkun blóðflögu hemjandi lyfja (30,5%); lyfjum við hjartsláttartruflunum (digoxin/amidarone) (15,8%), lyfjum gegn háþrýstingi (35,4%), beta blokkerum (37,1%); gigtarlyfjum (17,1%), sérhæfðir cox-2 hemjarar (13,7%), astmalyfjum (16,1%) né glákulyfjum (15%).

Ályktun: Lyfjanotkun á hjúkrunarheimilum á Íslandi er mikil og eykst með tímanum. Konur nota fleiri lyf en karlar, sérstaklega geðlyf.

 

 

V-28      Spádómsþættir fyrir lifun skv. mælitækinu interRAI Palliative Care (PC) á Íslandi

Sigríður Helgadóttir1, Valgerður Sigurðardóttir2, Ingibjörg Hjaltadóttir1, Guðrún Dóra Guðmannsdóttir1, Pálmi V. Jónsson1

1Öldrunarsviði Landspítala, 2 líknardeild lyflækningasviðs II Landspítala

sigrihe@lsh.is

 

Inngangur:Mikið hefur verið rannsakað um spádómsþætti fyrir lifun en þetta er fyrsta birta rannsóknin sem gerir það með interRAI PC.

Markmið: Tilgangur rannsóknarinnar var að finna út hvaða þættir í InterRAI PC spá fyrir um lifun á 1 ári og athuga hversu vel spá lækna og hjúkrunarfræðinga um lifun samræmdist raunlifun.

Aðferðir:Framsýn þýðisrannsókn á sjúklingum skráðum í líknarþjónustu á tímabilinu 15.10.2003-15.04.2004. Notast var við interRAI Palliative Care (PC) við upplýsingaöflun. Tölfræðileg úrvinnsla var gerð með Kaplan-Meier greiningu í SPSS.

Niðurstöður:Af þeim 124 sjúklingum (64 konur og 60 karlar) sem voru þátttakendur í rannsókninni voru 15 enn á lífi e. 1 ár. Meðalaldur sjúklinga var 71 ára (SD 13). 116 sjúklingar voru með krabbamein. Miðgildi lifunar var 41 dagar (95% CI 30-52). Marktækilegan mun var að finna á lifun milli verkjahópa. Verkjalausir lifðu lengur en þeir sem fundu fyrir verkjum. Ekki var að finna mun á lifun eftir styrkleika verkja. Aðrir marktækir þættir voru minnkuð hreyfifærni í rúmi og flöktandi meðvitund. Lifunarspá lækna og hjúkrunarfræðinga passaði vel við raunlifun þegar andlát var yfirvofandi, eða innan 6 vikna.

Ályktanir:Sjúklingar í þessari rannsókn voru misleitur hópur og interRAI PC mælitækið hentar almennt frekar illa við að spá fyrir um lifun.

 

 

V-29      Lífsgæði kæfisvefnssjúklinga samanborið við slembiúrtak Íslendinga á höfuðborgarsvæðinu

Björg Eysteinsdóttir1, Bryndís Halldórsdóttir1, Bryndís Benediktsdóttir1,  Þórarinn Gíslason1, Greg Mashlin2 Allan I. Pack2

1Svefnrannsóknir Landspítala, 2Centre for Sleep and Resiratory, University of Pennsylvania School of Medicine, Philadelpia, USA

bjorgey@landspitali.is

 

Inngangur: Kæfisvefn orsakast af síendurteknum öndunar-truflunum í svefni, súrefnisfalli og dagsyfju. Þetta ástand getur haft neikvæð áhrif á geðslag, dagsform, árvekni og lífsgæði þessa sjúklinga. Oft eru sjúklingar með kæfisvefn í yfirþyngd og glíma við aðra króníska sjúkdóma. Meginmarkmið við meðferð við kæfisvefni er að draga úr einkennum og þeirri vanhæfni sem rekja má til sjúkdómsins.

Aðferðir: Markmiðið var að staðla mælingar sem tengjast lífsgæðum hjá stórum hópi sjúklinga með kæfisvefn og bera saman við slembiúrtak Íslendinga á höfuðborgarsvæðinu. Þátttakendur voru 395 sjúklingar sem nýgreindir voru með kæfisvefn. Í viðmiðunarhópnum voru 938 einstaklingar. Spurningalisti (Short-form 12= SF-12) var lagður fyrir sjúklinga áður en CPAP meðferð þeirra hófst. Þetta er hluti af stærri rannsókn þar sem kannaðir eru erfðaþættir kæfisvefnssjúklinga. Lífsgæði sem metin eru út frá líkamlegum og andlegum þáttum eru stiguð eru frá 0-100 þar sem 0 er lægst og 100 táknar mestu lífsgæði.

Niðurstöður: Niðurstöðurnar sýna að bæði líkamleg og andleg einkenni eru meiri hjá kæfisvefnssjúklingum en hjá viðmiðunarhópnum. Kæfisvefnssjúklingar hafa meiri líkamleg einkenni en andleg. Þó er athyglisverður munur á sjúklingum með kæfisvefn og BMI milli 25-30 kg/m2 hvað þeir hafa meiri andleg einkenni en sjúklingar með kæfisvefn sem eru með BMI undir 25 kg/m2 eða hærra en 30kg/m2.

 

 

V-30      Áhrif kæfisvefns og offitu á styrk bólguboðefna í blóði: Íslenska kæfisvefnsrannsóknin

Erna S. Arnardóttir1, 2, 3, Allan I. Pack3, Miroslaw Mackiewicz3, Greg Maislin3, Murtuza Ahmed3, Richard J. Schwab3, Bryndís Benediktsdóttir1, 2, Hildur Einarsdóttir4, Sigurður Júlíusson5, Þórarinn Gíslason1, 2

1Lungnadeild, Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Center for Sleep and Respiratory Neurobiology, University of Pennsylvania School of Medicine, Philadelphia, 4röntgendeild, 5háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala

ernasif@landspitali.is

 

Inngangur:Offita er mikilvægur áhættuþáttur fyrir kæfisvefn og offita og kæfisvefn deila mörgum sameindaferlum líkt og súrefnisálagi og bólgu.

Markmið:Að skoða sjálfstæð áhrif kæfisvefns og mismunandi matsaðferðir offitu á styrk interleukin-6 (IL-6) í blóði ómeðhöndlaðra kæfisvefnssjúklinga.

Aðferðir:Ómeðhöndlaðir kæfisvefnssjúklingar á biðlista eftir meðferð fóru í segulómun af kviði til að mæla iðrafitu og fitu undir húð. Mælingar voru einnig gerðar á líkamsþyngdarstuðli (BMI), ummáli mittis og mjaðma og styrk á IL-6 í blóði hjá fastandi þátttakendum að morgni.

Niðurstöður:Alls tóku þátt 532 ómeðhöndlaðir kæfisvefns-sjúklingar, meðalaldur (±staðalfrávik) var 54.2±10.6 og BMI 33.0±5.6 kg/m2. Meðalfjöldi öndunarhléa var 42.9±20.6 /klst. Meðalstyrkur IL-6 var 2.07±1.85 pg/ml. Fylgni milli log IL-6 styrks og mismunandi mælikvarða á offitu var hæst fyrir BMI og ummál mittis (r=0.39 og r=0.36, p<0.0001). Fylgni við heildarmagn iðrafitu og fitu undir húð var lægri (r=0.26 og r=0.20, p<0.0001) og lægst fyrir mittis-/mjaðmahlutfall. Fjölþátta línuleg aðhvarfsgreining sýndi að BMI útskýrði 8.9% af breytileika í IL-6 styrk óháð fjölda súrefnisfalla/klst. Fjöldi súrefnisfalla/klst útskýrði 1.2% af breytileika óháð BMI. Niðurstöður fyrir mittismál voru svipaðar en aðrir offitumælikvarðar útskýrðu minna af breytileika í IL-6 styrk. Fjöldi súrefnisfalla/klst hafði sjálfstætt spágildi í öllum módelum óháð offitumælikvarða. Auk þess tengdust aldur og saga um kransæðasjúkdóm IL-6 styrk í blóði.

Ályktun:Meðal mismunandi offitumælikvarða, hafa BMI og mittismál besta spágildið fyrir IL-6 styrk í blóði. Alvarleiki kæfisvefns hefur sjálfstæð áhrif á IL-6 styrk, óháð offitu.

 

 

V-31      Azithromycin ver lungnaþekju gegn P. aeruginosa, óháð sýkladrepandi verkun lyfsins

Skarphéðinn Halldórsson1, Þórarinn Guðjónsson2,4, Magnús Gottfreðsson2,5, Pradeep K. Singh6, Guðmundur H. Guðmundsson1 Ólafur Baldursson3,4,5

HÍ; 1Líffræðistofnun, 2læknadeild, 3lyfjafræðideild, 4lífvísindasetur Læknagarðs, 5lyflækningasvið Landspítala, 6University of Washington, Div. of Pulmonary Medicine and Microbiology, Seattle, USA

olafbald@landspitali.is

 

Inngangur: Þéttitengsli milli frumna í lungnaþekju tryggja eðlilega starfsemi þekjunnar, skiptingu hennar í efra og neðra borð (skautun) og stjórna flutningi efna og jóna gegnum millifrumubilið (e. paracellular space). Sjúklingar með langvinna lungnateppu (LLT, COPD) eða slímseigjusjúkdóm (ss. eða e. cystic fibrosis) glíma oft við loftvegasýkingar af völdum Pseudomonas aeruginosa, sem framleiðir margaárásarþætti (e. virulence factors), til dæmis rhamnolípíða. Makrólíð sýklayfið azithromycin (azm) bætir lungnastarfsemi sjúklinga með ss. án þess hafa marktæk áhrif á bakteríuvöxt í lungum, en ekki hefur tekist að skýra þessi óvæntu áhrif til fulls. Fyrri niðurstöður okkar sýndu að azm hækkaði rafviðnám (TER) í lungnaþekju in vitro og breytti tjáningu þéttitengslapróteina (þtp.) í henni. Þetta gat bent til þess að hin hagstæðu klínísku áhrif azm stöfuðu af beinum áhrifum þess á lungnaþekjufrumur.

Aðferðir:Í núverandi rannsókn notuðum við þekjufrumulínuna VA10 úr mannaberkju (áður birt líkan). Við sýktum þekjuna með lifandi P. aeruginosa bakteríum, bæði venjulegum stofni PAO1 og stofni sem vantar framleiðslu á rhamnolípíðum (PAO1- rhl), og mældum áhrif sýkinganna á TER og tjáningu þtp. Einnig voru áhrif ræktunarflots (e. conditioned bacterial culture medium) þessara stofna mæld, svo og áhrif hreinna rhamnólípíða og homoserine lactone (3O-C12-HSL) sem eru bæði þekktir árásarþættir PAO1.

Niðurstöður og ályktanir: Í stuttu máli lækkuðu þessir þættir TER og rugluðu tjáningu þtp. í þekjunni og gerðu hana þannig veikari fyrir innrás baktería. Athygli vakti að meðferð með azm áður en sýklar eða árásarþættir voru settir á þekjuna, dró úr TER lækkun og stuðlaði að því að þekjan jafnaði sig fyrr en ella. Niðurstöðurnar benda til þess að azm verji lungnaþekju gegn P. aeruginosa, óháð bakteríudrepandi áhrifum lyfsins, og gætu átt þátt í að skýra hin óvæntu jákvæðu áhrif azm í klínískum rannsóknum.

V-32      Aukin lífsgæði og færri sjúkrahúsinnlagnir: Árangur stuðningsmeðferðar fyrir fólk með langvinna lungnateppu og fjölskyldur þeirra

Þorbjörg Sóley Ingadóttir, Helga Jónsdóttir

Landspítali og hjúkrunarfræðideild HÍ

torbjsol@landspitali.is

 

Inngangur: Hjúkrunarþjónusta sem leggur áherslu á langvinnt eðli langvinnrar lungnateppu hefur aukist að undanförnu. Meginmarkmið þjónustunnar eru að hægja á versnun sjúkdómseinkenna, viðhalda og auka lífsgæði og halda kostnaði í
skefjum með árangursríkri nýtingu á þjónustuúrræðum.

Efniviður og aðferðir: Meginrannsóknarspurning í þess-
ari framvirku rannsókn var: Hver er árangur 6 mánaða yfirgripsmikillar stuðningsmeðferðar fyrir fólk með LLT og fjöl-skyldur þeirra á lífsgæði og tíðni og lengd sjúkrahúsinnlagna? Lokið var gagnasöfnun fyrir 41 einstakling; 11 karla og 39 konur (N=50). Þátttakendur voru ekki útskrifaðir úr þjónustunni eftir 6 mánuði en tóku hlé eftir þörfum. Meirihlutinn (n=36) hafði langt genginn sjúkdóm (GOLD stig III og IV). Meðalaldur var 66 ár.

Niðurstöður: Sjúkdómatengd lífsgæði mæld með St. George´s Respiratory Questionnaire bötnuðu marktækt fyrir og eftir 6 mánaða tímabil: Heildarstig 58 vs. 49 (p=0.00004), Einkenni 60 vs. 39 (p=0.000003), Virkni 83 vs. 79 (p=0.04) og Áhrif sjúkdóms 44 vs. 35 (p=0.0007). Almenn lífsgæði, mæld með EQ-5D, breytt-ust ekki. Marktækt dró úr fjölda innlagna á sjúkrahús (p=1.606 x 10-7) og heildarfjölda legudaga (p=9.547 x 10-6), hvoru tveggja nálægt 80%, þegar borin voru saman tímabilin 6 mánuðir fyrir upphaf stuðningsmeðferðar og 6-12 mánuðir frá upphafi henn-ar. Fjölþátta aðhvarfsgreining leiddi ekki í ljós afgerandi þætti sem skýrt gætu niðurstöðurnar. Sá þáttur sem næst komst því að vera marktækur var ,,Áhrif sjúkdóms”.

Ályktanir:Ólíkt flestum fyrri rannsóknum sýna niðurstöðurnar verulegar jákvæðar breytingar á sjúkdómatengdum lífsgæðum og fjölda innlagna og daga á sjúkrahúsi. Helstu skýringa er að leita í umfangi stuðningsmeðferðarinnar og greiðu aðgengi að henni.

 

 

V-33      Áhrif IgA-skorts á munnheilsu; samanburður við almennt þýði

Guðmundur H. Jörgensen1,2 Sigurjón Arnlaugsson3, Ásgeir Theodórs 1,4 Björn Rúnar Lúðvíksson1,2
1Læknadeild HÍ, 2ónæmisfræðideild Landspítala, 3tannlæknadeild HÍ, 4lyflækningasviði Landspítala

gudmhj@landspitali.is

 

Inngangur: Mótefnaflokkur A (IgA) er mikilvægur í vörnum slímhúða líkamans. Sértækur skortur á IgA er algengur ónæmisgalli (1:600) en afleiðingar á munnheilsu eru lítt þekktar.

Markmið rannsóknar: Að athuga tannheilsu, tannslíðursbólgu og tíðni munnholssýkinga á meðal einstaklinga með IgA-skort samanborið við almennt þýði.

Aðferðir: 32 fullorðnir einstaklingar með IgA-skort voru bornir saman við 63 einstaklinga, handahófskennt valda úr þjóðskrá að teknu tilliti til aldurs og kyns. Þátttakendur svöruðu spurningalista um heilsufar þ.m.t. munnheilsu og undirgengust skoðun á munnholi, tönnum og tannslíðri, á kerfisbundinn hátt. Blásturspróf til greiningar á virkri H. pylori sýkingu voru framkvæmd.

Niðurstöður: Einstaklingar með IgA-skort höfðu marktækt oftar farið í hálskirtlatöku (44% á móti 24%) og nefkirtlatöku (31% á móti 8%) samanborið við viðmiðunarhóp og marktækt oftar fengið hálsbólgur, munnbólgur og herpes sýkingar í varir. Við kerfisbundna skoðun á ástandi tanna og tannslíðri fannst enginn marktækur munur á einstaklingum með IgA-skort og viðmiðunarhópi (meðal tannskor (DMFS) 51,3 á móti 54,4 / meðal tannslíðurs-bólguskor (PSR) 1,87 á móti 1,89). Marktæk tengsl fundust á milli H. pylori sýkingar í magaslímhúð og alvarleika tannslíðursbólgu, óháð aldri (CC 0,188 p=0,036).

Ályktun: Einstaklingum með IgA-skort er hætt við sýkingum í munnholi en skorturinn hefur ekki áhrif á tannheilsu eða heilbrigði tannslíðurs. Mikilvægt er að kanna frekar tengsl H. pylori sýkinga við tannslíðursbólgu.

 

 

V-34      LRP5 genið og beinþynning: algengar breytingar í geninu hafa lítil en marktæk áhrif á beinþéttni en sjaldgæfari stökkbreytingar hafa veruleg áhrif í nokkrum íslenskum fjölskyldum með beinþynningu

Gunnar Sigurðsson1,2, Unnur Styrkársdóttir3, Bjarni V. Halldórsson3,4, Kári Stefánsson3

1Landspítala, 2HÍ, 3Íslenskri erfðagreiningu, 4HR

gunnars@landspitali.is

 

Inngangur: Rannsóknir okkar og annarra hafa fundið algenga breytileika í fjölmörgum genum sem tengjast beinþéttni í almennu þýði en skýra þó aðeins lítinn hluta af því sem tengt hefur verið erfðum í heild sinni. Nýlega sýndum við fram á óbeint að innan hverrar fjölskyldu með beinþynningu kynnu að vera einn eða fleiri genabreytileiki sem skýrðu stóran hluta erfðanna í þessum fjölskyldum. Sjaldgæfar stökkbreytingar í LRP5-geni (low-density lipo-protein receptor related protein 5) valda beinasjúkdómum ýmist samfara beinþynningu (OPGG) eða mjög hárri beinþéttni. Við höfum því rannsakað LRP5 genið frekar í 184 einstaklingum sem höfðu komið í beinþéttnimælingu á Landspítala og jafnframt gefið blóð til DNA rannsókna.

Aðferðir og niðurstöður: Raðgreining á LRP5 geninu var gerð á öllum útröðum. Alls fundust 58 SNPs. Einstaklingar með eina samsætu af þremur áður óþekktum SNPs höfðu lága beinþéttni í lendhrygg eða mjöðm. Fjölskyldur þessara einstaklinga voru athugaðar með tilliti til erfðatengdra áhrifa á beinþéttni. Tvö þessara SNPs tengdust lágri beinþéttni. Meðalbeinþéttni í mjöðm var 1,9 og í lendhrygg 1,5 staðalfrávik neðan meðaltals í fjórum arfberum í annarri fjölskyldunni. Svipaðar niðurstöður fengust í hinni fjölskyldunni.

Ályktun: Algengir breytileikar í LRP5 geninu tengjast litlum breytingum á beinþéttni meðal margra rannsakaðra þjóða. Með ítarlegri raðgreiningu á LRP5 geninu og fjölskyldurannsóknum höfum við fundið sjaldgæfa breytileika samfara verulega lágri beinþéttni í fjölskyldumeðlimum af báðum kynjum. Þetta samrýmist því kenningu okkar að fjölskyldulæg beinþynning orsakist að stórum hluta af einum eða fleiri genabreytileikum í „major genes“ sem kunni að vera mismunandi milli fjölskyldna og þjóða.

 

 

V-35      Minnkuð tjáning á PD-1 ónæmisviðtakanum hjá sjúklingum með rauða úlfa (systemic lupus erythematosus, SLE) og tengsl við PD-1.3A arfgerðina

Helga Kristjánsdóttir1,2, Marta E. Alarcón-Riquelme2, Iva Gunnarsson3, Gerður Gröndal1,4, Kristján Erlendsson1,4, Kristján Steinsson1,4.

1 Rannsóknastofu í gigtsjúkdómum, Landspítala, 2 Department of Genetics and Pathology, Rudbeck Laboratory, Uppsala University, Uppsölum, Svíþjóð, 3 Department of Medicine, Rheumatology Unit, Karolinska University Hospital, Solna, Svíþjóð, 4 læknadeild HÍ

helgak@landspitali.is, krstein@landspitali.is

 

Markmið: Að kanna yfirborðstjáningu PD-1 hjá SLE sjúkling-
um, ættingjum og viðmiðunarhópi í tengslum við PD-1.3A arfgerðina. PD-1.3A er skilgreindur áhættuþáttur fyrir SLE. PD-1.3A breytir bindistað
RUNX umritunarþáttar í PDCD1 geninu, sem skráir fyrir ónæmisviðtakann PD-1, sem er tjáður á ræstum T og B frumum og gegnir mikilvægu hlutverki í útvefjaþoli með bælingu á frumuræsingu.

Efniviður og aðferðir:Rannsakaðir voru 15 SLE sjúklingar, 7 ættingjar og 16 viðmiðunareinstaklingar. Einkjarna hvítfrumur voru ræstar með aCD3 and aCD28 og merktar með einstofna flúrljómandi mótefnum gegn PD-1, CD3, CD4, CD8, CD25 fyrir frumuflæðisjárgreiningu. Skoðaður var fjöldi fruma sem tjá PD-1 og meðaltjáning á PD-1. Tölfræðilegur samanburður var gerður á SLE sjúklingum, ættingjum og viðmiðum og á PD-1.3AG og PD-1.3GG arfgerðum.

Niðurstöður:Fjöldi PD-1+ fruma var marktækt lægri hjá SLE sjúklingum samanborið við ættingja og viðmið. Meðaltjáning PD-1 var marktækt lægri hjá SLE sjúklingum og ættingjum samanborið við viðmið og var þessi munur mest áberandi á CD4+CD25+ T frumum. Í öllum hópum var PD-1 tjáning marktækt hærri á CD4+CD25hi T frumum samanborið við CD4+CD25lo. Bæði FoxP3+ og FoxP3- CD4+CD25+ tjáðu PD-1. Marktæk fylgni er á milli lágrar PD-1 tjáningar og PD-1.3A arfgerðar. SLE sjúklingar og ættingjar með PD-1.3AG sýndu marktækt lægri PD-1 tjáningu samanborið við SLE sjúklinga og ættingja með PD-1.3GG arfgerð.

Ályktanir:Þetta er fyrsta rannsókn á mönnum sem sýnir minnkaða tjáningu á PD-1 hjá SLE sjúklingum og ættingjum og jafnframt tengsl við PD-1.3A arfgerðina. Við ályktum að PD-1.3A erfðabreytileikinn sé undirliggjandi þáttur í breyttir virkni CD4+CD25+ T fruma hjá SLE sjúklingum og gegni mikilvægu hlutverki í brostnu sjálfsþoli.

 

V-36      Cushings sjúkdómur á Íslandi í 50 ár

Steinunn Arnardóttir1, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir

Lyflækningadeild Landspítala

steinarn@landspitali.is

 

Bakgrunnur: Cushings sjúkdómur (CD) er sjaldgæfur sjúkdómur sem verður vegna offramleiðslu adrenocorticotropic hormóns frá heiladingli, sem síðan leiðir til offramleiðslu kortisóls frá nýrnahettum. Fylgikvillar CD s.s. sykursýki, hækkaðar blóðfitur og háþrýstingur, eru talin skýra háa tíðni hjarta-og æðasjúkdóma og hátt dánarhlutfall hjá sjúklingum með CD. Sjúkdómsgreining CD er erfið og rannsóknaraðferðirnar flóknar.. Markmið rannsóknarinnar var að taka saman sjúklinga sem greinst hafa með CD frá árinu 1955-2008 á Íslandi og fá hugmynd um nýgengi, sjúkdómsmynd, greiningu og meðferð sjúkdómsins hérlendis.

Aðferðir: Upplýsingar um alla sjúklinga sem greinst hafa með heiladingulsæxli á Íslandi frá 1955-2007 finnast nú í rafrænni sjúkraskrá Landspítala og var því leitað þar en auk þess haft samband við starfandi sérfræðinga í innkirtla- og efnaskiptasjúkdómum á Íslandi

Niðurstöður: Árin 1955-2007 greindust 18 Íslendingar með CD, 1 greindist tímabilið 1955-1964, enginn 1965-1974, þrír 1975-1984, sex 1985-1994, fimm 1995-2004 og þrír 2005-2008. Meðalalgengi CD síðustu 5 árin er 0.12/100.000. Meðalaldur við greiningu var 44,1 ár. Algengustu einkenni við greiningu var almennur slappleiki og þyngdaraukning. Fjórtán sjúklingar töldust læknaðir eftir meðferð.

Samantekt: Nýgengi CD á Íslandi er líkt og lýst hefur verið erlendis og hefur aukist með batnandi greiningaraðferðum. Greiningaraðferðir sem notaðar hafa verið og hlutfall sjúklinga sem læknast er sambærilegt erlendum niðurstöðum.

 

 

V-37      Hiti og hvítkornafæð á blóðlækningadeild Landspítala 2007

Unnur Þóra Högnadóttir, Hlíf Steingrímsdóttir, Vilhelmína Haraldsdóttir, Sigurður B. Þorsteinsson

Blóðlækningum, smitsjúkdómum, lyflækningasviði I og II Landspítala

unnurthora@hotmail.com

 

Inngangur: Hvítkornafæð er algengur fylgikvilli sjúklinga sem eru í lyfjameðferð vegna illkynja sjúkdóma. Hiti er oft eina vísbendingin um sýkingu í alvarlegri hvítkornafæð. Að-eins hjá helmingi sjúklinga með hvítkornafæð og hita finnst sýkingarvaldur og þar sem sjúklingur getur þróað með sér alvarlega sýkingu á stuttum tíma verður að grípa til reynslu-meðferðar með breiðvirkum sýklalyfjum. Engin fyrri rannsókn hefur verið gerð á hita og hvítkornafæð hjá íslenskum sjúklingum.

Efniviður og aðferðir:Rannsóknin er afturvirk og voru gögn unnin úr rafrænni sjúkraskrá og rafrænu lyfjafyrirmælakerfi Landspítala. Hiti var skilgreindur sem ein stök munnmæling >38,3ºC eða >38,0º í meira en 1 klukkustund. Kyrningafjöldi <0,5 (*10E9/L) eða <1 (*10E9/L) ef búist er við að þeim fækki í <0,5 (*10E9/L) á næstu tveimur sólarhringum. Rannsóknar-hópurinn samanstóð af öllum sjúklingum sem lögðust inn á blóðlækningadeild 2007 og höfðu hvítkornafæð og hita.

Niðurstöður:81 tilvik hjá 52 sjúklingum uppfyllti skilyrði rannsóknarinnar. 56% sjúklinga voru með einkenni um slímhúðabólgu, 64% voru með miðbláæðalegg og 12% með lyfjabrunn. Tæplega helmingur sjúklinganna fékk sýkingu inni á spítala eða 46%. Sýkingarvaldur fannst hjá 51% sjúklinga, en að auki höfðu 12% klínísk einkenni um staðbundna sýkingu. Var því hægt að staðfesta sýkingu hjá 63% sjúklinga.

Ályktun: Í rannsókninni kom í ljós að sýking var staðfest hjá meiri en helmingi sjúklinganna sem er óvenju hátt hlutfall. Nú hafa verið innleiddar klínískar leiðbeiningar á Landspítala um hita og kyrningafæð. Rannsóknaraðilar ætla að nota rannsókn þessa til að meta hvort klínísku leiðbeiningarnar komi að tilætluðum notum og bæti árangur og lifun þessa sjúklingahóps.

 

 

V-38      Greiningargildi nálarsýnatöku í berkjuspeglun við staðfestingu og stigun lungnakrabbameins á Íslandi

Þorgerður Guðmundsdóttir1, Steinn Jónsson1,2, Jóhannes Björnsson2,3, Ingibjörg Guðmundsdóttir4 Hrönn Harðardóttir1,2

Lyflækningasviði I, Landspítala1, læknadeild HÍ2, Rrannsóknastofu í meinafræði Landspítala3, Frumurannsóknarstofunni ehf4

thorggud@landspitali.is

 

Inngangur og markmið:Nálarsýnataka í gegnum berkju eða TBNA (transbronchial needle aspiration) er einföld og örugg aðferð til að ná frumu- og/eða vefjasýni úr stækkuðum miðmætiseitlum nálægt stærri lofvegum. Aðalmarkmið þessarar rannsóknar er að skoða greiningargildi TBNA við uppvinnslu lungnakrabbameins á Íslandi og hvort sjúklingar sem undirgengust TBNA rannsókn hefðu komist hjá miðmætisspeglun. Aðferðir: Rannsóknin er aftursýn þar sem gögn sjúklinga sem undirgengust TBNA frá janúar 2007 til apríl 2008 voru skoðuð. Upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám og berkjuspeglunarsvörum. Tilskilin leyfi voru fengin frá Persónu- og Vísindasiðanefnd.

Niðurstöður:Á rannsóknartímabilinu voru framkvæmdar 41 TBNA rannsókn við berkjuspeglanir hjá 35 einstaklingum. Karlmenn voru í meirihluta (57%) og stærsti hluti hópsins var reykingafólk (núverandi eða fyrrverandi) en aðeins fimm (14%) höfðu aldrei reykt. Lungnakrabbamein greindist hjá 23 einstaklingum og TBNA gaf greiningu eða stigun í 52% tilvika með frumurannsókn. Vefjasýni fékkst í þriðjungi TBNA rannsókna og 38% þeirra gáfu greiningu. Í heild gaf TBNA greiningu í 56% tilfella. Fjórir einstaklingar (17%) undirgengust miðmætisspeglun en niðurstöður TBNA komu í veg fyrir nauðsyn miðmætisspeglunar í 15 tilvikum (65%).

Ályktanir:Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að greiningar-gildi TBNA hjá einstaklingum með lungnakrabbamein er 56%. TBNA er öruggt og fremur lítið inngrip sem ætti að fram-
kvæma við hefðbundna berkjuspeglun hjá sjúklingum með stækkaða miðmætiseitla og þar sem grunur er um lungna-krabbamein.

V-39      Fækkun tilvika af óstöðugum kransæðasjúkdómi eftir reykingabann á opinberum stöðum á Íslandi

Þórarinn Guðnason1,2 Þorsteinn Viðar Viktorsson1, Karl Andersen1,2

1 Hjartadeild Landspítala, 2

thorgudn@landspitali.is

 

Inngangur og markmið: Óbeinar reykingar hafa slæm áhrif á heilsufar, m.a. á tíðni hjartaáfalla. Áhrif þeirra á óstöðugan kransæðasjúkdóm eru minna þekkt. Við könnuðum hvort fækkun tilvika af óstöðugum kransæðasjúkdómi myndi sjást eftir gildistöku reykingabanns á opinberum stöðum á Íslandi.

Aðferðir: Við söfnuðum gögnum framsýnt fyrir alla sjúklinga sem komu til kransæðaþræðingar vegna óstöðugs kransæðasjúkdóms síðustu 5 mánuðina fyrir og fyrstu 5 mánuðina eftir reykingabannið. Reykingamenn voru útilokaðir. Óstöðugur kransæðasjúkdómur var skilgreindur sem klínísk einkenni um sjúkdóminn ásamt a.m.k. einu af eftirfarandi: 1. hækkuð hjartaensím, 2. blóðþurrðarbreyting á hjartalínuriti eða 3. jákvætt áreynslupróf í hinu bráða sjúkdómsferli.

Niðurstöður: Hóparnir fyrir og eftir bann voru sambærilegir. Konur voru 24% fyrir bann en 28% eftir, háþrýsting höfðu 54% fyrir en 65% eftir bann, fyrrum reykingamenn voru 65% fyrir og 67% eftir bann, 57% tóku blóðfitulyf í báðum hópum og 16% höfðu sykursýki (p = ns í öllum tilvikum). Alls uppfylltu 378 inntökuskilmerkin, 281 karl en 97 konur (p<0,01). Meðal karla sást 21% lækkun á óstöðugum kransæðasjúkdómi á fyrstu 5 mánuðunum eftir bannið (n = 124) borið saman við síðustu 5 mánuðina fyrir bann (n = 157). Fækkun sást í öllum aldurshópum karla. Í heildar hópnum sást tilhneiging til 17% fækkunar tilfella (p=0,08). Engin áhrif sáust meðal kvenna (0,5%, p = ns).

Ályktun: Fækkun tilvika af óstöðugum kransæðasjúkdómi sást eftir reykingabannið meðal karla, en ekki kvenna. Frekari rannsóknir þarf á kynjamun og hugsanlegri árstíðasveiflu. Niðurstöðurnar samrýmast erlendum rannsóknum á krans-æðastíflu.

 

 

V-40      Gæði meðferðar við hjartaáfall á Íslandi og í Svíþjóð

Þórarinn Guðnason1, Hallveig Broddadóttir1, Fríða Björk Skúladóttir1, Hulda Halldórsdóttir1, Gestur Þorgeirsson1, Karl Andersen1, Ulf Stenestrand2.

1Hjartadeild Landspítala, 2Linköpings Universitetssjukhus Svíþjóð

thorgudn@landspitali.is

 

Inngangur: Ýmis sérhæfð meðferð hjartasjúkdóma hérlendis fer einungis fram á Landspítala og er því mikilvægt að geta borið meðferðina saman við erlenda spítala.

Markmið og aðferðir: Við skráðum framsýnt upplýsingar um hjartaáföll á Landspítala og á öllum spítölum í Svíþjóð í RIKS-HIA gæðaskrána í tvo mánuði og bárum saman.

Niðurstöður: Konur voru 35% sjúklinga á Íslandi en 37% í Svíþjóð. Miðgildi aldurs var 61 ár á Íslandi og 72 ár í Svíþjóð. Tíðni kransæðastíflu á 100 þúsund íbúa á ári var 118 á Íslandi en 141 í Svíþjóð (p<0,001). Við innlögn höfðu 46% sjúklinga háþrýsting á Íslandi en 51% Svía (p<0,05). Sykursýki var 11% á Íslandi en 24% meðal Svía (p<0,001). Reykingamenn voru 42% Íslendinganna en 23% Svía (p<0,001). Blóðfitulyf voru tekin af 29% á Íslandi en 34% í Svíþjóð (p<0,001). Lyfjagjöf við útskrift var svipuð og samkvæmt klínískum leiðbeiningum, hjartamagnýl í yfir 90% tilvika, beta hemlar í um 90% tilvika, statín lyf í 94% á Íslandi en 85% í Svíþjóð og ACE eða ARB lyf í 66% tilvika á Íslandi en 72% í Svíþjóð. Á Íslandi fóru 82% sjúklinga með ST hækkunar hjartadrep í tafarlausa víkkun en 63% í Svíþjóð. Tími frá komu á spítalann til upphafs víkkunar var 41 mínúta á Íslandi en 74 mínútur í Svíþjóð. Dauðsföll í sjúkrahúslegunni voru 1,6% á Íslandi en 5,3% í Svíþjóð.

Ályktun: Meðferðin í löndunum tveim er góð og sambærileg að mestu, þó nokkur munur sé á aldri og áhættuþáttum sjúkling-anna. Landspítalinn stenst fyllilega samanburð við sænsk sjúkra-
hús þegar kemur að meðferð vegna hjartaáfalla.

 

 

V-41      Kransæðavíkkanir á Íslandi og í Svíþjóð árið 2008

Þórarinn Guðnason1, Stefan James2, Kristján Eyjólfsson1, Guðný Stella Guðnadóttir1, Sigurpáll Scheving1, Þorbjörn Guðjónsson1, Guðjón Karlsson1, Axel Sigurðsson1, Tage Nilsson2, Torfi Jónasson1, Ragnar Danielsen1, Sigurlaug Magnúsdóttir1, Unnur Sigtryggsdóttir1, Guðmundur Þorgeirsson1, Karl Andersen1, Gestur Þorgeirsson1, Bo Lagerqvist2

1Hjartadeild Landspítala, 2Uppsala Clinical Research Centre, Svíþjóð

thorgudn@landspitali.is

 

Inngangur og markmið: Við bárum saman allar kransæðavíkkanir sem gerðar voru árið 2008 á Íslandi og í Svíþjóð.

Aðferðir: Fyrirfram ákveðnir þættir voru skráðir framsýnt í sænsku gæðaskrána Swedish Coronary Angiography and Angioplasty Registry (SCAAR) og gögnin notuð til rannsóknarinnar.

Niðurstöður: Tíðni kransæðavíkkana á 100 þúsund íbúa var 238 á Íslandi en 206 í Svíþjóð (p<0,001). Miðgildi aldurs var 63 ár á Íslandi en 67 í Svíþjóð. Konur voru 22% hópsins á Íslandi en 28% í Svíþjóð. Ábendingar voru stöðug hjartaöng í 34% tilvika á Íslandi og 25% í Svíþjóð, óstöðug hjartaöng í 39% á Íslandi en 44% í Svíþjóð og ST hækkunar hjartadrep eða hjartastopp í 22% á móti 27% í Svíþjóð (p<0,05 í öllum tilvikum). Háþrýsting höfðu 60% í báðum löndum. Sykursýki var algengari í Svíþjóð en reykingar á Íslandi. Blóðfitulyf tóku 67% á Íslandi en 54% Svía (p<0,001). Góður árangur náðist í 94% tilvika, fullkomin enduræðavæðing í 60% og stoðnetanotkun var svipuð (1,5 stoðnet á aðgerð, stoðnet í 90% tilvika og 30% lyfjastoðnet). Notkun ósæðarpumpu, gangráða og segavarnartækja var lítil og svipuð. Segabrottnám (3,7% á móti 7.2%), IVUS (1,8% á móti 3,6%) og FFR (0% á móti. 9,6%) voru meira notuð í Svíþjóð. Fylgikvillar voru svipaðir og sjaldgæfir, 3% á þræðingarstofu og 10% á legudeild. Dauðsföll vegna víkkana voru alls 0,3% á Íslandi og 0,2% í Svíþjóð (p = ns).

Ályktun: Árangur og fylgikvillar víkkana eru svipaðir á Íslandi og í Svíþjóð en munur er á ábendingum og tækni. Þátttaka í SCAAR auðveldar gæðaeftirlit og skapar möguleika á frekari rannsóknum.

 

 

 

V-42      Persónuleiki D á Íslandi: Próffræðileg úttekt á DS14 spurningalistanum og tengsl persónuleika D við heilsufarslega áhættuþætti meðal hjartasjúklinga

Erla Svansdóttir1, Hróbjartur Darri Karlsson2, Þórarinn Guðnason3,4, Daníel Þór Ólason4, Hörður Þorgilsson3, Unnur Sigtryggsdóttir3, Eric J. Sijbrands5, Susanne Pedersen1, Johan Denollet1

1CoRPS – Center of Research on Psychology in Somatic diseases, Tilburg University, Tilburg, The Netherlands, 2Icelandic Heart Association, 3Landspítala, 4HÍ, 5Erasmus University, Rotterdam

thorgudn@landspitali.is

 

Inngangur: Niðurstöður rannsókna hafa gefið til kynna að Persónuleiki D, sem samanstendur af tilhneigingu til neikvæðrar líðanar (Negative affectivity, NA) og félagslegri hömlun (Social Inhibition, SI), hafi sterk tengsl við verri batahorfur meðal hjartasjúklinga.

Markmið: Markmið þessarar rannsóknar var að kanna próffræðilega eiginleika DS14 listans (sem mælir persónuleika D), meta réttmæti og algengi persónuleika D hér á landi, og skoða tengsl hans við heilsufarslega áhættuþætti.

Aðferð: Þátttakendur voru 1452 hjartasjúklingar frá Landspítala og 498 nemar frá HÍ. Auk DS14, voru spurningalistar um þunglyndi og kvíða (HADS), tilfinningastjórn (ECQ), streitu (PSS) og fimm-stóra persónuleikaþætti (NEO-FFI) lagðir fyrir og gögnum um heilsutengda áhættuþætti safnað.

Niðurstaða: Þáttagreining staðfesti tveggja þátta uppbyggingu listans og góðan innri stöðugleika þáttanna (á= 0.87-0.88 fyrir NA, á=0.84-0.85 fyrir SI). Uppbyggingar-réttmætið var gott; NA hafði tengsl við taugaveiklun (NEO-FFI, r=0.80) og endurteknar hugsanir um líðan (ECQ, r=0.58), og SI við úthverfu (NEO-FFI, r= -0.65) og tilfinningalega hömlun (ECC, r= 0.49). Algengi persónuleika D hjá hjartasjúklingum var sambærilegt við fyrri rannsóknir (26% og 29%),en hærra meðal háskólanema (40%). Fólk með persónuleika D greindi frá meiri þunglyndis-, kvíða- og streitueinkennum (p<0.0001) og meiri lyfjanotkun (p<0.001) samanborið við fólk án persónuleika D. Reykingar voru algengari meðal hjartasjúklinga með persónuleika D (20% á móti 7% sjúklinga án persónuleika D).

Ályktun: Persónuleiki D er réttmæt og algeng persónuleikagerð á Íslandi. Hægt er að mæla með notkun DS14 listans í rannsóknum og klínísku starfi hérlendis.

 

 

V-43      Kransæðaþræðingar á Íslandi og í Svíþjóð árið 2008

Guðný Stella Guðnadóttir1, Bo Lagerqvist2, Kristján Eyjólfsson1, Unnur Sigtryggsdóttir1, Axel Sigurðsson1, Torfi Jónasson1, Sigurpáll Scheving1, Þorbjörn Guðjónsson1, Ragnar Daníelsen1, Tage Nilsson2, Guðjón Karlsson1, Sigurlaug Magnúsdóttir1, Karl Andersen1, Guðmundur Þorgeirsson1, Gestur Þorgeirsson1, S.James2,Þórarinn Guðnason1

1Landspítala, 2Uppsala Clinical Research Center, Uppsölum, Svíþjóð

gudnystg@lsh.is

 

Inngangur:Þekkt er að munur er á tíðni kransæðaþræðinga milli landa en lítið er vitað um ástæður þessa og hvort hópar þræðingasjúklinga eru mismunandi milli landa.

Markmið:Að bera saman allar þræðingar á Íslandi og í Svíþjóð árið 2008.

Aðferðir:Þræðingarnar voru skráðar framsýnt í gæðaskrána Swedish Coronary Angiography and Angioplasty Registry á Íslandi og í Svíþjóð frá 1.1. til 31.1. 2008 og þau gögn rann-sökuð.

Niðurstöður:Miðgildi aldurs var 64 ár á Íslandi og 66 ár í Svíþjóð. Fleiri kransæðaþræðingar voru framkvæmdar á Íslandi, 574/100.000 íbúa en 411 í Svíþjóð (p<0,001). Konur voru 29% á Íslandi en 33% í Svíþjóð. Á Íslandi voru fleiri með greindan háþrýsting 63% vs. 53%, færri voru með greinda sykursýki 14% vs. 19%, fleiri reyktu 22% vs. 16% og fleiri voru á blóðfitulyfum 64% vs. 53% (öll p<0,05). Stöðug hjartaöng var algengust ábendinga á Íslandi 34% en 23% í Svíþjóð, óstöðugt kransæðaheilkenni var í 30% vs. 38% og bráð kransæðastífla í 9% vs. 16% (öll p<0,001). Engin marktæk þrengsli fundust oftar á Íslandi, 33% vs. 30% (p<0,05), en það gerðu einnig höfuðstofnsþrengsli 10% vs. 7% (p<0,001), meðan þriggja æða sjúkdómur var fátíðari 14% vs 17% (p<0,01). Endurþrengsli voru 6-7%. Fylgikvillar voru um 0,5% á þræðingarstofu og 4% á legudeild. Eitt andlát varð vegna þræðingar á Íslandi og tvö í Svíþjóð.

Ályktun:Þessi rannsókn gefur óskekktan samaburð á kransæðaþræðingum í löndunum og sýnir að þátttaka í SCAAR auðveldar gæðaeftirlit á Íslandi. Hún sýnir að Landspítali stenst fyllilega samanburð við sjúkrahús í Svíþjóð á þessu sviði.

 

 

V-44      Geislaskammtar í hjarta við geislameðferð gegn brjóstakrabbameini

¹Jaroslava Baumruk, ¹Garðar Mýrdal, ²Jakob Jóhannsson, 3,4Helgi Sigurðsson

¹Geislaeðlisfræðideild Landspítala, ²geislameðferð krabbameina Landspítala, ³krabbameinslækningar Landspítala, 4læknadeild HÍ, fræðasviði krabbameinslækninga Landspítala

jarka@landspitali.is

 

Inngangur: Aukin tíðni hjartasjúkdóma er þekkt afleiðing geislameðferðar við meðhöndlun brjóstakrabbameins. Með þróun í hugbúnaði hafa meðal annars komið fram nýjungar á borð við styrkmótaða geislameðferð (Intensity Modulated Radiation Therapy) og öndunarstýrða meðferðartækni (Respiratory Gating) sem gera kleift að bæta geisladreifingu innan meðferðarsvæðis og að hlífa áhættulíffærum eins og hjarta og lungum.

Markmið:Markmið rannsóknarinnar var að meta geisla-skammtinn í hjarta sjúklinga sem fengu skáreita geislameðferð á brjóstvef. Ennfremur að kanna hvort öndunarstýrð geislameðferð hlífi áhættulíffærum og hvort styrkmótuð geislameðferð auki nákvæmni í geisladreifingu.

Aðferðir:Þátttakendur voru 20 konur sem fengu skáreitageislameðferð á vinstra brjóst á tímabilinu janúar til september 2007.Hefðbundnar tölvusneiðmyndir voru teknar af brjóstholi við eðlilega öndun. Teknar voru sambærilegar tölvusneiðmyndir þar sem sjúklingur dregur að sér andann og heldur honum niðri. Gert var hefðbundið geislaplan grundvallað á hefðbundnum tölvusneiðmyndum og annað byggt á myndum teknum þegar sjúklingur hefur dregið að sér andann til að sjá áhrif öndunarstýrðrar geislameðferðar á geisladreifingu innan meðferðarsvæðis og í hjarta. Auk þess var gert styrkmótað geislaplan. Gerð voru skammtadreifirit og skráðir voru hámarks, lágmarks og meðaltals geislaskammtar fyrir meðferðarsvæðið og hjarta.

Niðurstöður:Niðurstaða rannsóknarinnar sýnir að hægt er að bæta gæði meðferðar þeirra sem fá skáreitameðferð á vinstra brjóst, með notkun styrkmótaðrar geislameðferðar og öndunarstýrðar meðferðartækni. Geisladreifing í meðferðar-svæði var jafnari og sá hluti hjarta sem fékk hæsta geislaskammt var minni.

Ályktun:Æskilegt er að hefja öndunarstýrða geislameðferð fyrir sjúklinga á Landspítala.

 

 

V-45      Könnun á tengslum meinafræðilegra og klínískra sérkenna brjóstakrabbameinsæxla við litningabrengl

Margrét Steinarsdóttir1, Ingi Hrafn Guðmundsson2, Elínborg Ólafsdóttir3, Jón Gunnlaugur Jónasson3,4,5, Helga M. Ögmundsdóttir5

Litningarannsóknastofu, erfða- og sameindalæknisfræðideild, Landspítala1, skurðlækningasviði2, Landspítala, Krabbameinsskrá, Krabbameinsfélags Íslands3, rannsóknastofu í meinafræði, Landspítala4. læknadeild HÍ5

margst@landspitali.is

 

Inngangur: Litningabreytingar eru algengar í brjósta-krabbameinsæxlum. Þær hafa verið rannsakaðar m.t.t. sjúk-dómsþróunar en lítið í samhengi við framvindu. Byggt er á fyrri rannsóknum höfunda á litningum og flæðigreiningum á DNA kjarnsýru fyrir 203 brjóstakrabbameinsæxli frá sjúklingum greindum 1990-1999.

Markmið: Að kanna hvort tengsl séu milli litningabrengla annars vegar, og meinafræðilegra og klínískra þátta hins vegar.

Aðferðir: Litningabrengl voru greind með hefðbundnum litningagreiningum og frumuflæðirannsóknum á DNA magni. Skimað var fyrir stökkbreytingum í TP53 geninu og BRCA2 999del5 stökkbreytingunni. Safnað var upplýsingum um klínískar breytur, endurkomu og lifun úr sjúkraskrám og Krabbameinsskrá.

Niðurstöður: Sjúklingahópurinn var sambærilegur við almennan hóp brjóstakrabbameinssjúklinga m.t.t. aldurs við greiningu, vefjagerðar og TP53 stökkbreytinga, en BRCA2 stökkbreytingin var algengari (9,5%).Sjúkdómur tók sig upp aftur hjá 90 sjúklingum, 113 (56%) eru látnir, þar af 66 úr brjóstakrabbameini. Litningagreining tókst hjá 164, 74 (45%) höfðu óeðlilega litningagerð. Flæðigreining sýndi óeðlilegt DNA magn og mislitnun (aneuploidy) hjá 124/197 sjúklingum (63%). Samtals greindist litningaóstöðugleiki hjá 142/203 (70%), flóknar breytingar hjá 60% (45/74), og 36% (51/142) fjölklóna. Breytingar fundust í öllum litningum, m.a. þeim sem stundum eru breyttir í brjóstvef án krabbameins en oftar í litningum sem ekki finnast breyttir án krabbameins. Litningabrengl tengdust marktækt hærri TMN stigun og styttri sjúkdómsfrírri lifun þeirra sjúklinga. Engin tengsl fundust við æxlisgráðun. Úrvinnslu er ekki lokið.

Ályktun: Á þessu stigi er unnt að staðfesta að litningabreytingar finnast í 2/3 brjóstakrabbameinsæxla og eru aðrar en sjást í brjóstvef án krabbameins. Vísbending er um tengsl litninga-breytinga við lengra genginn sjúkdóm.

 

 

V-46      Hindrandi viðhorf til verkja og verkjameðferðar meðal krabbameinssjúklinga á ópóíðmeðferð í sex Evrópulöndum

Sigríður Gunnarsdóttir1,2, Valgerður Sigurðardóttir1, og EPOS rannsóknarhópurinn

1Landspítala, 2

sigridgu@landspitali.is

 

Inngangur. Ómeðhöndlaðir krabbameinsverkir eru vandamál á heimsvísu. Hindrandi viðhorf sjúklinga (s.s. ótti við fíkn, áhyggjur af þolmyndun og aukaverkunum) hafa verið rann-sökuð í Bandaríkjunum, í Asíu og á Íslandi og hafa neikvæð áhrif á verkjameðferð og tengjast verri verkjum og skertum lífsgæðum. Slík viðhorf eru oft menningarbundin og áríðandi er að leiðrétta þau í fræðslu til sjúklinga. Mikilvægt er að skoða slík viðhorf í fleiri löndum.

Markmið rannsóknarinnar var að kanna hindrandi viðhorf hjá evrópskum krabbameinssjúklingum á ópíoíð meðferð.

Aðferð: Rannsóknin var samevrópskt verkefni sem náði til 3000 sjúklinga í 11 löndum. Hún var lýsandi þversniðsrannsókn. Spurningalistar voru lagðir fyrir í eitt skipti: „Barriers Questionnaire-II”,  „Brief Pain Inventory” og „EORTC QLQ-C30” til að meta hindrandi viðhorf, verki og lífsgæði. Listarnir hafa verið þýddir, staðfærðir og forprófaðir í fjölda landa.

Niðurstöður: Í þessum hluta rannsóknarinnar tóku þátt 688 krabbameinssjúklingar, 18 ára og eldri, 54% karlar og 46% konur, í sex löndum í Evrópu. Allir voru á ópíoíðmeðferð. Meðalaldur var 61.30(13.11) ár og tími frá greiningu voru 30.56(41.38) mánuðir. Þátttakendur í öllum löndunum höfðu hindrandi viðhorf. Meðaltalsskor var 1,88(0,85) á skalanum 0-5 þar sem hærra skor táknar sterkari hindrandi viðhorf. Munur var á viðhorfum eftir löndum. Sterkari viðhorf var að finna hjá körlum en konum og hjá þeim sem eldri voru. Ekki reyndust tengsl á milli viðhorfanna og ópíoíð notkunar, en veik og marktæk fylgni var á milli verkja, áhrifa verkja á daglegt líf, lífsgæða og viðhorfanna.

Ályktun: Hindrandi viðhorf fundust í öllum þátttökulöndum og munur var á milli landa. Viðhorfin tengdust verkjum og lífsgæðum en ekki notkun á ópíoíðum. Tækifæri gafst til að kanna viðhorfin í þessari stóru samevrópsku rannsókn en í framhaldinu er nauðsynlegt að skoða slík viðhorf og áhrif þeirra í fjölbreyttara úrtaki m.a. hjá sjúklingum sem ekki taka ópíoíða til verkjastillingar.

 

V-47      Einkenni og lífsgæði krabbameinssjúklinga á ópíoíðum

Sigríður Zoëga1, Sigríður Gunnarsdóttir2,4, Valgerður Sigurðardóttir3, Nanna Friðriksdóttir4

1Þvagfæraskurðdeild 13-D, 2fræðasviði krabbameinshjúkrunar, 3líknardeild Kópavogi, 4lyflækningasviði II

szoega@landspitali.is

 

Inngangur:Lífsgæði krabbameinssjúklinga eru yfirleitt lakari en hjá almenningi og tengsl eru á milli einkenna og lífsgæða. Fjöldi einkenna er yfirleitt um 8-11 og oftast er styrkur þeirra lítill eða í meðallagi. Töluverður hluti sjúklinga upplifir þó mikil einkenni einkum hvað varðar þreytu og verki.

Markmið:Tilgangur rannsóknarinnar var að meta einkenni og lífsgæði krabbameinssjúklinga á ópíoíðum og að skoða sambandið milli einkenna og lífsgæða. Rannsóknin var hluti af fjölþjóðlegri rannsókn, European Pharmacogenetic Opioid Study.

Aðferðir:Rannsóknarnið var lýsandi, þversniðs, fylgnirannsóknarsnið og var um hentugleikaúrtak 150 krabbameinssjúklinga á ópíoíðum að ræða. Karlar voru 62 (41%) en konur 88 (59%). Þátttakendur voru á aldrinum 20-92 ára en meðalaldur (SF) var 64,7 (12,7) ár.

Niðurstöður:Meðalfjöldi (SF) einkenna var 9,0 (3,3) en meðalstyrkur (SF) var 0,9 (0,5) á skalanum 0-3. Þreyta, verkir og slapp-leiki voru þau einkenni sem bæði voru algengust og sterkust. Kyn og fjöldi annarra sjúkdóma en krabbameins höfðu ekki áhrif á fjölda einkenna, styrk þeirra eða heildar heilsu/lífsgæðaskor. Fjöldi og styrkur einkenna minnkaði hins vegar með hækkandi aldri. Verkir, þreyta, svefnleysi, og depurð skýrðu 33,6% af dreifingunni í heilsu/lífsgæðaskori, leiðrétt fyrir aldri og kyni. Annað módel, einnig leiðrétt fyrir aldri og kyni, sýndi að fjöldi einkenna skýrði 25,8% af dreifingunni í heilsu/lífsgæðaskori.

Ályktun:Einkennamynd og lífsgæðaskor þátttakenda í þessari rannsókn var svipað og hjá sambærilegum hópum í erlendum rannsóknum. Niðurstöðurnar benda til þess að auka megi lífsgæði krabbameinssjúklinga með því að draga úr fjölda krabba-meinstengdra einkenna og meðhöndla einkenni, einkum verki og þreytu.

 

 

V-48      Beinmergsskipti í öðru landi. Reynsla aðstandenda af því að fylgja sjúklingum sem fá meðferð með blóðmyndandi stofnfrumum úr gjafa

Þórunn Sævarsdóttir, Nanna Friðriksdóttir, Björk Unnarsdóttir, Sigrún Reykdal

Landspítala, lyflækningasviði II

torunnsa@landspitali.is

 

Inngangur: Árlega fara að meðaltali 5 íslenskir sjúklingar í fylgd aðstandenda til Svíþjóðar þar sem þeir fá meðferð með blóðmyndandi stofnfrumum úr gjafa. Meðferðin tekur þrjá til fjóra mánuði.

Markmið: Að kanna upplifun og reynslu aðstandenda af því að fylgja sjúklingum sem fá meðferð með blóðmyndandi stofn-frumum úr gjafa.

Aðferð: Aðferðin er eigindleg og byggir á hugmyndafræði van Manen. Rannsóknarsniðið er afturvirkt. Gagnasöfnun fór fram með hálfstöðluðum viðtölum þar sem notaðar voru opnar spurningar. Úrtakið var tilgangsúrtak aðstandenda sem fylgt höfðu sjúklingi í meðferð til Svíþjóðar á síðastliðnum 5 árum.

Niðurstöður: Tekin voru viðtöl við 9 aðstandendur, sex konur og þrjá karla á aldrinum 30-65 ára. Flestir voru makar sjúklings. Niðurstöðunum var skipt niður í 3 tímabil. Fyrsta var tíminn fyrir brottför til Svíþjóðar þar voru tvö meginþemu: Undirbúningur fyrir dvölina og upplýsingar. Annað tímabilið var tíminn í Svíþjóð með áherslu á reynsluna af því að vera innan og utan spítala. Þar voru þrjú meginþemu: erfiður, krefjandi en um leið gefandi tími, óvissa varðandi árangur meðferðar og húsnæðismál. Síðasta tímabilið var heimkoman þar sem meginþemað var að snúa til baka í daglegt líf. Það sem stóð upp úr eftir þessa reynslu var undantekningalaust það að sjúklingurinn var á lífi.

Ályktun: Reynsla aðstandenda af að fylgja sjúklingi til Svíþjóðar til meðferðar er margþætt og mikið álag jafnt á aðstandendur sem og sjúkling. Niðurstöður veita innsýn í reynslu aðstandenda og sjúklinga af þessari meðferð og auðvelda heilbrigðisstarfsmönnum að mæta þörfum þeirra.

 

 

V-49      Beinmergsskipti í öðru landi. Reynsla sjúklinga sem fá meðferð með blóðmyndandi stofnfrumum úr gjafa

Þórunn Sævarsdóttir, Nanna Friðriksdóttir, Björk Unnarsdóttir, Sigrún Reykdal

Landspítala, lyflækningasviði II

torunnsa@landspitali.is

 

Inngangur: Árlega fá að meðaltali 5 íslenskir sjúklingar meðferð með blóðmyndandi stofnfrumum úr gjafa eftir háskammta krabbameinslyfjameðferð og ónæmisbælandi lyfjagjöf. Þetta eru aðallega sjúklingar með bráðahvítblæði og mergmisþroskun. Meðferðin fer fram í Svíþjóð en meðferð með eigin stofnfrumum er veitt á Landspítala.

Markmið: Að kanna upplifun og reynslu sjúklinga sem fá meðferð með blóðmyndandi stofnfumum úr gjafa.

Aðferð: Aðferðin er eigindleg og byggir á hugmyndafræði van Manen. Rannsóknarsniðið er afturvirkt. Gagnasöfnun fór fram með hálfstöðluðum viðtölum, notaðar voru opnar spurningar. Úrtakið var tilgangsúrtak sjúklinga sem gengist höfðu undir ígræðslu blóðmyndandi stofnfruma úr gjafa á undanförnum árum.

Niðurstöður: Tekin voru viðtöl við 11 sjúklinga, sex konur og fimm karla á aldrinum 25-59 ára. Niðurstöðunum var skipt niður í 3 tímabil. Fyrsta var tíminn fyrir brottför til Svíþjóðar þar sem meginþemað var mikilvægi upplýsinga. Annað tímabilið var tíminn í Svíþjóð þar sem lýst var reynslunni af því að vera innan og utan spítala. Þar voru fimm meginþemu áberandi: að vera í góðum höndum á spítalanum, vanlíðan, jákvæðni og bjartsýni, tíminn utan spítalans, og áhyggjur af fylgdarmanni. Þriðja tímabilið var heimkoman þar sem meginþemu voru aukaverkanir og þörfin fyrir að snúa til baka til daglegs lífs. Í öllum viðtölum var áberandi hversu erfið meðferðin var.

 Ályktun: Reynsla sjúklinga af því að gangast undir ígræðslu stofnfrumna úr gjafa felur í sér margvísleg áhrif sem valda miklu álagi á sjúklinginn sem og fylgdarmann. Niðurstöðurnar veita innsýn í reynslu sjúklinga og fylgdarmanna af þessari meðferð og auðvelda heilbrigðisstarfsmönnum að koma til móts við þarfir þeirra.

 

 

V-50      Ættgengi sóragigtar er sterk í fjóra ættliði

Ari Kárason1, Þorvarður Jón Löve2, Björn Guðbjörnsson3

1Íslenskri erfðagreiningu, 2Brigham and Women’s Hospital, Harvard Háskóla, Boston, 3rannsóknarstofu í gigtarsjúkdómum Landspítala

bjorngu@landspitali.is

 

Inngangur: Sóragigt hefur sterka ættarfylgni samkvæmt fyrri rannsóknum, en þessar rannsóknir hafa þær takmarkanir að byggja á sjúkrahúsþýði eða eingöngu á fyrstu gráðu ættingjum og algengi sóragigtar í bakgrunnsþýði hefur oft verið óþekkt. Eingöngu ein tvíburarannsókn hefur verið birt um ættlægni sóragigtar.

Efniviður og aðferðir: Í fyrri rannsókn okkar (1) um algengi sóragigtar hér á landi greindum við 220 einstaklinga búsetta í Reykjavík. Nafnalistinn var kóðaður og samkeyrður við Íslendingabók. Þannig var reiknað áhættuhlutfall (risk ratio = RR) fyrir ættingja að hafa sóragigt og unnt var að reikna fjölskyldustuðul (kinship coefficient = KC). Fyrir hvert sjúkdómstilfelli af sóragigt voru valdir 1000 samanburðar-einstaklingar úr Íslendingabók þegar áhættuhlutfall var reiknað og 10.000 einstaklingar þegar fjölskyldustuðull var reiknað.

Niðurstöður: Fyrstu til fjórðu gráðu ættingjar einstaklinga með sóragigt höfðu marktækt hækkaða hlutfallsáhættu á sóragigt eða 39; 12; 3,6 og 2,3, (öll p-gildi < 0,0001), en fimmtu gráðu ættingjar þessara 220 einstaklinga með sóragigt höfðu lága hlutfallsáhættu á að hafa sjálfir sóragigt eða 1,2 (p=0,236). Fjölskyldustuðull staðfesti þessi fjölskyldutengsl með marktækum KC-gildum; 5,0; 3,4; 1,7; 1,3; 1,0; 0,8 og 0,7 fyrir sjö meiósur (öll p-gildi < 0,0001).

Ályktanir: Einstaklingar með sóragigt eru marktækt skyldari hver öðrum en almenningur í landinu. Þetta er í samræmi við fyrri rannsóknir, en þessi rannsókn er sérstök bæði með tilliti til fjölda viðmiðunartilfella og umfangs ættfræðiupplýsinga. Niðurstöðurnar benda til að fleiri en einn erfðaþáttur hafi hlutverk í meingerð sóragigtar og/eða óþekktur umhverfisþáttur hafi mikilvægt hlutverk í myndun sóragigtar.

Heimild

Löve ÞJ, Guðbjörnsson B, Guðjónsson JE, Valdimarsson H. Psoriatic Arthritis in Reykjavik, Iceland: Prevalence, Demo-graphics, and Disease Course. J Rheumatol 2007; 34: 2082-8.

 

V-51      Áhrif TNFa á sérhæfingu T stýrifrumna

Laufey Geirsdóttir1,2, Inga Skaftadóttir2, Brynja Gunnlaugsdóttir1,3, Björn R. Lúðvíksson1,2

1HÍ, læknadeild, 2Landspítala ónæmisfræðideild, 3Landspítala rannsóknardeild gigtarsjúkdóma

lag1@hi.is

 

Inngangur: CD4+CD25+ T stýrifrumur (Tregs) spila hlutverk í sjálfsþoli og fyrirbyggingu sjálfsofnæmissjúkdóma. Umrit-unarþátturinn FoxP3 er notaður til aðgreiningar þessara fruma og er nauðsynlegur bæði til sérhæfingar og bæligetu. TNFa er breiðvirk frumuboðefni sem getur haft margvísleg áhrif á frumur ónæmiskerfisins og stuðlar m.a. að frumusérhæfingu og fjölgun þeirra. TNFa hindrar eru algengir í meðferð iktsýki þótt að hlutverk TNFa í sjúkdómsgerð hennar er enn óljós.

Markmið:Rannsaka áhrif TNFa á sérhæfingu og fjölgun T stýrifrumna.

Aðferðir: CD4+CD25- T frumur voru einangraðar úr blóði heilbrigða einstaklinga og ræktaðar í 96 holu bökkum í sermislausu æti. Frumurnar voru ræstar um T frumuviðtakann (anti-CD3 mAb og anti-CD28) auk +/- TGFb1, TNFa, IL-1b og TNFa hindra (infliximab) og ræktaðar í 3 eða 7 daga. Treg sérhæfing var metin með tjáningu á CD4, CD25, CD127, TGFbRII and Foxp3 með flæðifrumusjágreiningu. Frumuskiptingar voru skoðaðar með CFSE flúrljómun.

Niðurstöður: TNFa stuðlaði ekki að sérhæfingu Treg, hvorki með né án TGFb1. Aftur á móti jók meðferð TNFa hindra marktækt hlutfall Treg eftir langtímaræktun en hlutfall þeirra var ekki aukið eftir skammtímaræktun. Einnig er ljóst að IL-b1 hindrar tjáningu FoxP3 og þar með sérhæfingu Tregs í návist TGFb1 eftir langtímaræktun. Að auki hindrar TGFb1 frumufjölgun CD4+ T-cells en virðist aftur á móti stuðla að frumufjölgun CD4+FoxP3 jákvæðra fruma.

Ályktun: Þessar niðurstöður benda til þess að TNFa hindrar auki heildarmagn Treg og stuðli að hlutfallslegri aukningu þeirra. Enn er óljóst hvort að TNFa hindrar auki einnig á bæligetu Treg. Aðrir hafa einnig sýnt fram á að TNFa hindrar geti bælt IL-1b framleiðslu frá neutrophilum og þannig stuðlað óbeint að aukinni sérhæfingu Treg.

 

 

V-52      Etanól útdrættir birkibarkar (Betula pubescens) hafa áhrif á ræsingu angafruma í mönnum in vitro

Marinó Bóas Sigurpálsson1,2,3, Sesselja S. Ómarsdóttir3, Ingibjörg Harðardóttir4, Arnór Víkingsson1, Elín S. Ólafsdóttir3, Jóna Freysdóttir1,2

1Rannsóknastofu í gigtsjúkdómum, 2ónæmisfræðideild Landspítala, 3lyfjafræðideild, 4læknadeild HÍ

marinos@hi.is

 

Inngangur:Birkibörkur hefur verið notaður í alþýðulækningum í aldaraðir gegn ýmsum sjúkdómum, s.s. gigt. Margar sameindir hafa verið einangraðar úr berkinum en aðeins nokkrar þeirra hafa verið rannsakaðar m.t.t. áhrifa á ónæmiskerfið. Angafrumur spila stórt hlutverk í stjórnun ónæmisviðbragða með því að stýra sérhæfingu T fruma.

Markmið: Að kanna hvort útdrættir birkibarkar hafi áhrif á ræsingu angafruma manna in vitro.

Aðferðir: Etanól var notað til að draga út efni úr berkinum. Eftir inngufun voru útdrættirnir hlutaðir í 5 fraktionir með metanól og díklórómetan skautunarstigli. CD14+ mónócýtar úr mönnum voru ræktaðir í 7 daga með IL-4 og GM-CSF til að fá angafrumur. Angafrumurnar voru ræktaðar með IL-1b, TNF-a og LPS í 2 daga með eða án birkiútdráttar í styrkjum á bilinu 0,01 til 100 µg/mL. Seyting boðefna var mæld með ELISA aðferð og tjáning yfirborðssameinda var mæld í flæðifrumusjá.

Niðurstöður: Angafrumur sem voru ræktaðar með birkiútdrætti seyttu minna af IL-6, IL-10 og IL-12p40 en angafrumur ræktaðar án útdráttar. Meðal angafrumna sem voru ræktaðar með birkiútdrætti, eða með fraktion IV sem fékkst með 3:1 hlutfalli af metanól:díklórometan, voru hlutfallslega færri sem tjáðu CD86, CCR7 og DC-SIGN en meðal þeirra sem voru ræktaðar án útdráttar eða fraktinoar IV.

Ályktun: Útdráttur birkibarkar inniheldur efni sem virðist draga úr ræsingu angafrumna. Efni með slík áhrif geta verið gagnleg í meðferð ýmissa sjálfsofnæmissjúkdóma. Verið er að kanna hvort innihaldsefni birkibarkar hafi áhrif á hæfni angafruma til stjórnunar á sérhæfingu T fruma.

 

 

V-53      Áhrif 2ja vikna meðferðar í Bláa lóninu á psoriasis; forrannsókn

Jenna Huld Eysteinsdóttir1,2,3,5, Jón Hjaltalín Ólafsson1,4,5, Björn Rúnar Lúðvíksson2,5, Ása Brynjólfsdóttir3, Steingrímur Davíðsson3,4, Bárður Sigurgeirsson4

Húð- og kynsjúkdómadeild1, ónæmisfræðideild Landspítala2, Bláa lóninu lækningalind3, Húðlæknastöðinni4, HÍ5

jenna@landspitali.is

 

Inngangur:Rannsóknir gerðar á árunum 1992-1995 sýndu fram á að böðun í Bláa lóninu í 3-4 vikur ein og sér og með UVB ljósum, hafi góð áhrif á skellupsoriasis, og e.t.v. betri áhrif en UVB ljósameðferð ein sér. Markmið þessarar forrannsóknar er: A) Athuga hvort 2ja vikna meðferð í Bláa lóninu nægi sem meðferð ásamt 12 vikna heimameðferð með Bláa lóns kremum; B) Athuga hvort aukaverkanir komi fram við húðsýnatöku frá þátttakendum sem fara reglulega í bað í Bláa lóninu.

Efni og aðferðir:Þátttakendur fengu 2ja vikna psoriasismeðferð í Bláa lóninu sem samanstendur af böðum í lóninu tvisvar á dag, UVB ljósameðferð daglega og smurningu Bláa lóns krema kvölds og morgna. Eftir útskrift báru þeir Bláa lóns krem á líkamann tvisvar á dag heima fyrir. 6 sjúklingar með langvinnan skellupsoriasis tóku þátt í rannsókninni, 1 karl og 5 konur. Árangur meðferðarinnar var metinn með líkamsskoðunum, PASI-skori, ljósmyndun, blóð- og húðsýnatöku fyrir meðferð og eftir 1,3 og 8 vikur.

Niðurstöður:PASI-skor lækkaði að meðaltali niður í 33,7% af upphaflegu gildi eftir 3ja vikna meðferð. Við 8 vikur hafði PASI-skorið hækkað hjá öllum að meðaltali í 43,7%, en tveir luku rannsókninni og fjórir hættu vegna versnunar. Enginn þátttakenda kvartaði undan aukaverkunum af meðferðinni og tveir þátttakendur kvörtuðu undan vægum eymslum og roða eftir að húðsýni var tekið. Engir alvarlegir fylgikvillar, eins og t.d. sýkingar, komu eftir húðsýnatöku.

Ályktun:Tveggja vikna meðferð í Bláa lóninu ásamt UVB ljósum, gefur góðan árangur en endurskoða þarf viðhaldsmeðferð eftir dvölina í Bláa lóninu. Það virðist vera óhætt að taka húðsýni frá þátttakendum á meðan þeir eru í meðferðinni í lóninu.

 

 

V-54      Meðferð í Bláa lóninu virðist hafa áhrif á Th1 og Th17 bólguviðbragð í blóði einstaklinga með psoriasis

Jenna Huld Eysteinsdóttir1,2,3,5, Þór Friðriksson5, Jón Hjaltalín Ólafsson1,4,5, Helgi Valdimarsson2, Ása Brynjólfsdóttir3, Steingrímur Davíðsson3,4, Bárður Sigurgeirsson4 , Björn Rúnar Lúðvíksson2,5

Húð- og kynsjúkdómadeild1, ónæmisfræðideild Landspítala2, Bláa lóninu lækningalind3, Húðlæknastöðinni4, HÍ5

jenna@landspitali.is

 

Inngangur:Psoriasis er langvinnur bólgusjúkdómur í húð og af flestum talinn sjálfsofnæmissjúkdómur. Ljóst er að Th1-frumur eru mikilvægar í meingerð sjúkdómsins en auk þess hafa nýlegar rannsóknir beint sjónum manna að hlutverki Th17-fruma í sjúkdómsferlinu. Markmið rannsóknarinnar er að meta virkni psoriasismeðferðar Bláa Lónsins og samband hennar á bólgusvar í blóði og húð psoriasissjúklinga.

Efni og aðferðir:Þátttakendur fengu 2ja vikna meðferð í Bláa lóninu ásamt UVB ljósameðferð og 12 vikna viðhaldsmeðferð með Bláa lóns kremum. 6 einstaklingar voru skoðaðir 0,1,3 og 8 vikum eftir meðferð. Þá var PASI-skor metið, húð- og blóðsýni tekin. Sermi einangrað úr heilblóði og IL-22, CCL20, IL-17, IL-23, TNF-a og IL-1b frumuboðefni mæld með ELISA tækni. Hvítfrumur voru einangraðar úr heilblóði, ræstar í 16 klst með anti-CD3+anti-CD28, Brefeldin A bætt við rækt. Tíðni Th1 og Th17 fruma var þá metin í frumuflæðisjá út frá tjáningu CD4+, CD45RO+, IL23R+, IL17, TNFa, IFNg, IL-22 og CCL20.

Niðurstöður:  Af þeim bólguboðefnum í sermi sem skoðuð voru við upphaf meðferðar reyndist ekki vera um neina afgerandi hækkun að ræða og því kom það ekki á óvart að ekkert af þeim lækkaði í kjölfar meðferðarinnar.  Hins vegar, þá kom í ljós að tíðni T-fruma með Th1 og Th17 líka svipgerð (Th1: IFNg+ eða TNFa+; Th17: CD4+/IL-17+/IL-22+) lækkaði í kjölfar meðferð-arinnar.  Einnig var athyglisvert að sambærilegar niðurstöður sáust fyrir CD8+ T-frumur hvað varðar IL-17, IL-22, IFNg og TNFa framleiðslu. Gott samband var milli lækkandi virkni sjúkdómsins (PASI) og ofangreindra bólguviðbragða.

Ályktun:Við upphaf meðferðar virðast T-frumur í blóði einstaklinga með psoriasis einkennast af Th1 og Th17 svipgerð. Athyglisvert er að gott samband er milli PASI stigunar og Th1/Th17 bólguviðbragðs í kjölfar Bláa lóns meðferðarinnar. Næstu stig rannsóknarinnar munu beinast að ítarlegri skilgreiningu á ofangreindum ferlum auk sértækrar rannsóknar á líffærasértæk-um bólguviðbrögðum í kjölfar meðferðarinnar.

 

 

V-55      Tjáning á bakteríudrepandi peptíðum í mesenchymal stofnfrumum, beinfrumum og brjóskfrumum

Sigríður Þóra Reynisdóttir1, Una K. Pétursdóttir1, Rósa Halldórsdóttir1, Jóhannes Björnsson2, Guðmundur Hrafn Guðmundsson3 og Ólafur E. Sigurjónsson1,4

Blóðbanka Landspítala1, rannsóknastofu Háskólans í meinafræðum 2, líffræðiskor HÍ3, HR4

oes@landspitali.is

Inngangur:Bakteríudrepandi peptíð eru hluti af meðfædda ónæmissvarinu, sem tekur þátt í fyrstu vörn gegn bakteríu-, sveppa- og veirusýkingum. Óíkt flestum sýkladrepandi lyfjum virðist sem svo að bakteríudrepandi pepptíð geti einnig aukið og dregið úr ónæmissvarinu með ónæmisstýringum. Meðal þessara bakteríudrepandi peptíða eru beta-defensin 1-3 og LL-37. sem hafa m.a. verið greind í sýktu brjóski og beini. Mesenchymal stofnfrumur (MSC), eru fjölhæfar frumur, sem hægt er að fjölga í rækt og sérhæfa yfir í fituvef, beinvef og brjóskvef. Mesenchymal stofnfrumur hafa, hlutverki að gegna í stýringu ónæmissvars. Ekki hefur áður verið sýnt fram á tilvist bakteríudrepandi pepptíða í mesenchymal stofnfrumum.

Tilgangur og markmið:Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna tjáningu á bakteríudrepandi peptíðum í mesenchymal stofnrumum og í brjós og beinsérhæfingu.

Efni og aðferðir:Mesenchymal stofnfrumur, einangraðar úr beinmerg, voru ræktaðar í 3-5 umsáningar og sérhæfðar yfir í beinfrumur og brjóskfrumur. RNA var einangrað og víxl fjölliðunar hvarf (RT-PCR) gert til að kanna tjáninguna á bakteríudrepandi peptíðum. MSC frumur vöru örvaðar með Toll like receptor 2-4 agonistum og áhrif á tjáningu á bakterídrepandi peptíðum könnuð

Niðurstöður:Okkar niðurstöður sýna að bakteríudrepandi peptíðin, HBD1,3 og LL-37 eru tjáð í MSC. Hins vegar er HBD-2 ekki tjáð og er það í samræmi við tjáningamynstur þess, sem er aðalega í sýktum vefjum. HBD-1 var tjáð í beinræktum, HBD-3 var með veika tjáningu í bein- og brjóskræktum á meðan að LL-37 sýndi veika tjáningu í beinræktunum. Örvun með TLR agonistum eykur ekki tjáningu á bakteríudrepandi peptíðum í MSC.

Ályktanir:Þetta eru fyrstu niðurstöður sem vinna að því að kortleggja tjáningu á bakteríudrepandi peptíðum í MSC, beinræktum og brjóskræktum.

 

 

V-56      Áhrif kítín-fásykra á tjáningu kítínasa-líkra próteina í mesenchymal stofnfrumum, brjósk- og beinsérhæfingu

Stefán Ágúst Hafsteinsson1, Ramona Lieder1, Sigríður Þóra Reynisdóttir1, Pétur H. Petersen3, Finnbogi Þormóðsson3, Jón M. Einarsson2, Jóhannes Björnsson3, Jóhannes Gíslason2, Ólafur E. Sigurjónsson1,

 

Blóðbanki Landspítala1, Genís ehf 2, rannsóknastofu Háskólans í meinafræðum, Landspítala2 , læknadeild HÍ3, tækni- og verkfræðideild HR4

oes@landspitali.is

 

Inngangur:Kítínasa-lík prótein (CLP) tilheyra genafjölskyldu kítínasa sem hafa varðveitt kítínbindisetið frá kítínasanum. Sýnt hefur verið fram á tilvist þessara próteina í plöntum og dýrum en niðurstöður rannsókna benda til að þau gegni mikilvægu en óskilgreindu hlutverki í ónæmiskerfinu,frumuboðskiptum og í vefjaummyndun hjá hryggdýrum. Mesenchymal stofnfrumur (MSC), eru fjölhæfar frumur, sem hægt er að sérhæfa yfir í fituvef, beinvef og brjóskvef. Lítið er vitað um tjáningu og hlutverk CLP í mesenchymal stofnfrumum en sýnt hefur verið fram á að CLP eru tjáð í primary brjóskfrumum.

Tilgangur og markmið:Markmið með þessari rannsókn var að kanna tjáningu kítínasa-líkra próteina í mesenchymal stofnfrumum, beinsérhæfingu og brjósksérhæfingu og kanna áhrif kítín-fásykra á vöxt MSC, brjósk- og beinsérhæfingu.

Efniviður og aðferðir:Mesenchymal stofnfrumur (Passage 3-5) voru ræktaðar í 1umsáningu með og án kítin-fásykra (T-ChOS). MSC frumur (P3-5) voru sérhæfðar yfir í beinfrumur og brjóskfrumur (sérhæfing staðfest með vefjalitnunum og RT-PCR). Tjáninguna á kítínasalíkum próteinum var könnuð með Q-RT-PCR og seyting á CLP próteininu YKL-40 (CLP) var könnuðmeð ELISA. Greining á tjáningu 30 vaxtarþátta var gerð með Luminex bead array tækni.

Niðurstöður:Mesenchymal stofnfrumur tjá CLP próteinin YKL-40, YKL-39, AMCase en ekki Chiotriosidasa. Beinfrumur sérhæfðar frá MSC tjá YKL-40 og YKL-39 en brjóskfrumur sérhæfðar frá MSC tjá ekki CLP. Kítín-fásykrur (T-ChOS) örva tjáningu á YKL-40 og YKL-39 í MSC frumum auk þess sem að þau auka tjáningu á IL-6 og IL-8. T-ChOS örvar verulega kalkmyndun í beinsérhæfingu.

Ályktanir:Þetta er í fyrsta skiptið sem sýnt hefur verið fram á tjáningu á kítinasalíku próteinum í mesenchymal stofnfrumum. Við erum núna að kanna nánar hlutverk CLP í bein og brjósksérhæfingu.

 

 

V-57      Virkni storkuþátta II og X hefur meiri áhrif á storkugetu blóðflöguríks plasma en virkni storkuþátta VII og IX þegar storka er mæld með þynntu thromboplastíni

Brynja R. Guðmundsdóttir1,2, Alexía M. Björnsdóttir1, Páll T. Önundarson1,2

1Blóðmeinafræðideild Landspítala, 2

brynjarg@landspitali.is

 

Inngangur:Við stjórnun blóðþynningar með K-vítamínhemlum eru notuð storkupróf, sem byggja á próþrombíntíma (PT), en þau mæla aðeins upphafsstorkutíma og eru næm fyrir skorti á storkuþáttum II, VII og X (FII, FVII og FX). Notkun storkurita (ROTEM®) mælir upphafsfasann (CT) en að auki framhaldsfasa storknunar eftir lok CT, MaxVel og stöðufasa maximum clot firmness, MCF í storkurita.

Efniviður og aðferðir:Við notuðum storkurita til að meta áhrif hvers k-vítamínháðs storkuþáttar fyrir sig á blóðstorknun af völdum þynnts thromboplastíns í blóðflögusnauðu (PPP) og blóðflöguríku plasma (PRP). Rannsakaðar voru blöndur af eðlilegu plasma við plasma, sem var snautt af einum hinna fjögurra k-vítamínháðu storkuþátta. Storku var komið af stað með PT og í ROTEM mælingu með lágum styrk vefjaþáttar.

Niðurstöður:Eins og vænta mátti hafði virkniprósenta FII, FVII og FX sambærileg áhrif á PT í PPP en FIX engin áhrif. Virkniprósenta FII og FX hafði hins vegar mun meiri áhrif á storkurit (ROTEM) í PPP heldur en virkni FVII. Til þess að líkja betur eftir fysiologísku ástandi var framleitt PRP með því að bæta blóðflögum í PPP (100 x109/L lokaþéttni). Í PRP komu fram breyttar ROTEM niðurstöður. ROTEM CT var háðastur virkni FX, síðan FII, síðan FVII og óháður virkni FIX. ROTEM MaxVel var mjög háður virkni FII og FX á virknibilinu 0-50% en óverulega háður þéttni FVII og FIX fyrr en þéttni þeirra fór niður fyrir 5%. ROTEM MCF var einnig einkum háð þéttni FII og FX en ekki FVII og FIX.

Ályktun:Niðurstöður rannsóknarinnar gætu bent til þess, að við skort á K-vítamínháðum storkuþáttum sé blóðstorkugeta blóðsins einkum háð virkni FII og FX, en að virkni FVII og FIX sé ekki jafn þýðingarmikil. Þetta gæti þýtt að storkupróf sem er næmt fyrir FVII í viðbót við FII og FX geti gefið misvísandi niðurstöður um storknunarhæfni blóðs.

 

 

V-58      Áhrif menntunar, þekkingar og reynslu á upptöku í samþætt líkindamat á fyrsta þriðjungi meðgöngu

Vigdís Stefánsdóttir1, Kristján Jónasson3, Hildur Harðardóttir2, 4, Jón Jóhannes Jónsson1,2

1Erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3verkfræði- og raunvísindasviði HÍ, 4fósturgreiningardeild Kvennasviðs Landspítala

vigdisst@landspitali.is

 

Inngangur:Fósturskimun með samþættu líkindamati þar sem skimað er fyrir ákveðnum litningagöllum er þegin af meirihluta barnshafandi kvenna á Íslandi. Þátttaka í samþættu líkindamati er byggð á upplýstri ákvörðun einstaklings.

Markmið:Að frátöldum þeim upplýsingum um fósturskimun sem barnshafandi konur fá frá heilbrigðisstarfsfólki í meðgönguvernd, er uppspretta upplýsinganna margvísleg s.s. vinir, fjölmiðlar og menntun. Rannsakað var hvaða áhrif menntun, þekking á skimprófi og fyrri reynsla þátttakenda af einstaklingum með fötlun hefði á líkur þess að þiggja boð um fósturskimun.

Aðferð:Spurningalistar voru afhentir 400 konum á fyrsta þriðjungi meðgöngu á fimm mismunandi stöðum sem bjóða meðgönguvernd á Íslandi og svöruðu 379 (94%). Aldur, menntun og fyrri reynsla þátttakenda var í samræmi við almennt þýði.

Niðurstöður:Þeir sem höfðu hæsta þekkingarskor (knowldegde score) voru líklegri til að þiggja boð um fósturskimun en þeir sem lægst skoruðu (p = 7·10–6). Þátttakendur með stúdentspróf og háskólapróf 69% (n=264) voru marktækt líklegri til að þiggja boð um skimun en þeir sem höfðu grunnskólapróf og verkmenntun (n=94, 57%).

Verðandi mæður sem reynslu höfðu af meðfæddri fötlun í nánustu fjölskyldu (eigin, foreldra, afkomenda, maka), voru líklegri til að þiggja boð um skimun, 76% á móti 63% þeirra sem enga reynslu höfðu (p = 0,017). Aldur verðandi móður hafði engin áhrif á líkur þess að þiggja boð um skimun.

Ályktun:Margir þættir hafa áhrif á það hvort konur þiggja boð um fósturskimun með samþættu líkindamati, þar með talin persónuleg reynsla. Niðurstaða þessarar rannsóknar bendir til þess að aukin menntun, betri almenn þekking og reynsla verðandi móður af meðfæddri fötlun auki líkur til þess að konur þiggi boð um fósturskimun fyrir ákveðnum litningagöllum.

 

V-59      Nákvæmni innstillinga í geislameðferð gegn staðbundnu krabbameini í blöðruhálskirtli á árunum 2008-2009

Vilberg Jóhannesson1, Agnes Þórólfsdóttir2,3 Garðar Mýrdal1

1Geislaeðlisfræðideild krabbameinslækninga, 2geislameðferð krabbameina Landspítala, 3heilbrigðisvísindasviði, læknadeild geislafræði, HÍ

vilbergj@lsh.is

Inngangur:Nákvæmni innstillinga við geislameðferð gegn staðbundnu krabbameini í blöðruhálskirtli ákvarðar hve háan geislaskammt er unnt að gefa í meðferðarsvæði og einnig að hvaða marki er unnt að hlífa aðlægum heilbrigðum vef. Í þessu verkefni er metin nákvæmni við innstillingar 40 sjúklinga sem fengu slíka geislameðferð á Landspítala á árunum 2008 og 2009. Notuð er forskrift sem byggir á umfangsmiklum rannsóknum á skekkjuþáttum sem áhrif hafa á innstillingarnákvæmnina. Sambærilegt mat var unnið fyrir meðferð sjúklinga á árinu 2006. Þá var ályktað að nauðsynlegt væri að bæta gæði meðferðar-innar. Gerðar voru endurbætur á undirbúningi og framkvæmd meðferðar og aukið eftirlit. Sett eru gullmerki í blöðruhálskirtil sjúklinga, sem sjást á eftirlitsmyndum, skipulag myndataka var aukið og tekin var upp samvinna við sjúklingana um að þrýst-ingur í þvagblöðru og endaþarmi væri sem líkastur við daglegar meðferðir.

Markmið:Reiknaður er þátturinn mPTV til að fá mat á nauðsynlegri stærð öryggismarka sem leggja skal utan um klínískt meðferðarsvæði (CTV) sem læknir skilgreinir með teikningu í sneiðmyndir teknar af sjúkling í meðferðarlegu. Samkvæmt ráðgjöf alþjóðlegrar nefndar um geislameðferð (ICRU) skal áætlað meðferðarsvæði (PTV) umlykja CTV með öryggismörk-unum mPTV sem tryggja að a.m.k 90% sjúklinga fái meir en 95% af meðferðarskammti í allt meðferðarsvæðið CTV.

Aðferðir: Skipuleg háorku myndataka af geislareitum gefur kost á að meta í upphafi daglegra meðferða hver lega blöðruháls-kirtils er í kviðarholi. Lega sjúklings er leiðrétt ef skekkja er meiri en 3 mm í einhverja stefnu (í hliðar- eða lengdarstefnu eða í hæð).  Eftir 5 skipti geislameðferðar er reiknað meðaltal fráviks mp í hverja stefnu og er uppstilling sjúklings leiðrétt við upphaf 6. skiptis meðferðar ef mp > 3 mm.  Út frá mælingum er reiknuð slembiskekkja s og kerfisskekkja S fyrir meðferð á deildinni. mPTV  er reiknað samkvæmt jöfnu:

mPTV = 2,5S + 0,7s - 3 mm

Niðurstöður:Reiknað gildi á mPTV reiknast 5,75mm.

Ályktun: Ávinningur hefur orðið við endurbætur á geislameð-
ferð gegn staðbundnu krabbameini í blöðruhálskirtli á Land-spítala á síðustu tveim árum. Enn frekari ávinningar eru af daglegum leiðréttingum á slembiskekkjum í innstillingu þess-ara sjúklinga.

 

 

V-60      Sjálfsvíg og banvænar eitranir eftir útskrift heim af bráðamóttökunni

Oddný S. Gunnarsdóttir1, Vilhjálmur Rafnsson2

1Skrifstofu kennslu, vísinda og þróunar, Landspítala, 2rannsóknastofa í heilbrigðisfræði, læknadeild, HÍ

oddnysgu@landspitali.is

 

Inngangur:Einstaklingar í sjálfsvígshugleiðingum nota oft heil-brigðisþjónustuna og ef þeir greinast, sem ekki er alltaf einfalt, er mögulegt að fyrirbyggja sjálfsvíg.

Markmið: Athuga áhættu á sjálfsvígum og banvænum eitrun-um hjá þeim sem komu á bráðamóttökuna í ljósi aðalsjúkdómsgreininga.

Aðferðir:Þetta er tilfella-viðmiðarannsókn skipulögð innan hóps sjúklinga sem komið höfðu á bráðamóttöku og verið útskrifaðir heim. Aðalsjúkdómsgreiningar voru samkvæmt ICD-10. Tilfelli sem látist höfðu vegna sjálfsvíga (n=41) og eitr-ana (n=21) voru fundin í Dánarmeinaskrá Hagstofu Íslands og viðmið tekin sem hendingsúrtak úr hópnum sem komið hafði á bráðamóttökuna. Fjölþátta aðhvarfsgreining var gerð til að reikna líkindahlutfall og 95% öryggismörk.

Niðurstöður:Tíðar heimsóknir á bráðamóttökuna tengdust marktækt áhættu á sjálfsvígum og eitrunum. Líkindahlutfall fyrir sjálfsvíg var 7.84 vegna geðraskana (F00-F99, nema F10-F19), 96.89 vegna áfengisneyslu (F10,T51), 24.51 vegna lyfja-
eitrana (F11-F19, T36-T50, X40-X44, X61-X63) og 2.69 vegna einkennasjúkdómsgreininga (R00-R99). Líkindahlutfall fyrir-
banvænar eitranir var 12.26 vegna áfengisneyslu, 37.22 vegna
lyfjaeitrana, og 5.76 vegna sjúkdómsgreininga á þáttum sem áhrif hafa á heilbrigðisástand og samskipti við heilbrigðis-
þjónustuna (Z00-Z99).

Ályktanir:Þeir, sem koma oft á bráðamóttökuna, og eru með aðalsjúkdómsgreiningarnar geðröskun, áfengisneysla, lyfja-
eitranir, einkennasjúkdómsgreiningar og þætti sem áhrif hafa á heilbrigðisástand og samskipti við heilbrigðisþjónustuna, ætti að meta vegna hugsanlegrar hættu á sjálfsvígum og eitrunum.

 

 

V-61      Fingraendurhæfir: Taugastoðtæki til að auka virkni fingrahreyfinga þverlamaðs einstaklings við hálsliði C6-C7

Arna Óskarsdóttir², Haraldur Sigþórsson², Þórður Helgason¹ ²

1Rannsóknar- og þróunarstofu HUTS, Landspítala, 2HR

arnao05@ru.is

 

Inngangur:Við skaða á hálslið, C1-C8, tapast meðal annars vöðvakraftur og tilfinning í höndum. Einstaklingur með mænuskaða við C6 hefur hreyfigetu um háls og axlarliði og getur hreyft olnboga og snúið lófum upp og niður. Hreyfigetan eykst svo eftir því sem skaðinn er neðar.

Markmið:Vísindalegt markmið verkefnisins Fingraendurhæfir er að svara þeirri spurningu hvort hægt sé, með notkun rafskautafylkja, að stjórna raförvunarstraum í gegnum framhandlegg þannig að tilætlaðri hreyfingu sé náð hraðar, markvissara eða í einhverjum tilfellum yfir höfuð gerð möguleg.

Aðferðir:Hönnuð er hulsa fyrir framhandlegg, sem í er net eða fylki rafskauta, sem smeygð er upp á hönd notandans og leggst þannig þétt að húðinni. Með rafskautafylkinu fjölgar mögulegum straumleiðum í gegnum framhandlegg og því hægt að finna ákjósanlegustu staðsetningu án þess að færa rafskautin úr stað. Sú staðsetning breytist eftir því sem meðferð vindur fram. Smíðuð er rafskautastjórnstöð sem notast til að velja hvaða rafskaut eru virk hverju sinni. Hulsan hefur verið prófuð á einum þverlömuðum einstaklingi í fimm mánuði. Annarsvegar er leitað að rafskautavali fyrir ákveðnar fingrahreyfingar og hins-
vegar eru þjálfunarmarkmið fyrir ákveðna vöðva og hreyfingar skilgreind.

Niðurstöður:Búið er að kortleggja hvaða hreyfingar eru mögu- legar í núverandi ástandi vöðva og liða. Niðurstöðurnar sýna að þótt hreyfingar séu mögulegar þá eru þær mjög kraftlitlar og þarfnast vöðvaþjálfunar til að verða gagnlegar í daglegu lífi. Gerð hefur verið hulsa sem verið er að setja rafskaut í og er staðsetning þeirra valin skv. niðurstöðum kortlagningar. Þjálfun er byrjuð og eru fyrstu vöðvarnir farnir að vera með töluvert meira úthald en þeir voru með í upphafi.

Ályktun:Fýsilegt er að þjálfa fingrahreyfingar með rafskauta-fylkjum frekar en einstökum rafskautum vegna aukinna afkasta við þjálfunina og aukinna möguleika á að ná fram hreyfingum.

 

 

V-62      Raförvun aftaugaðra vöðva: Breyting á beinauppbyggingu og fylgni við vöðvakraft

Paolo Gargiulo¹ ², Brynjar Vatnsdal Pálsson¹, Þórður Helgason¹ ²

1Rannsóknar- og þróunarstofu HUTS, Landspítala, 2HR

paologar@landspitali.is

 

Inngangur og markmið:Þrívíddar líkanagerð er notuð til að greina þéttnibreytingar í lærlegg og hnéskel eftir raförvunarmeðferð á fjórhöfða vöðva læris. Markmiðið er að rannsaka bein og óbein áhrif á beinvef.

Aðferðir:Spíral tölvusneiðmyndir í mikilli upplausn eru teknar af þverlömuðum sjúklingum með ónýta neðri hreyfitaug. Beinvefurinn er einangraður úr þessum myndum, þ.e. upplýsingar um lögun, rúmmál og þéttni. Þrír sjúklingar voru skoðaðir á mismunandi tímum yfir fjögurra ára meðferðartímabil.

Beinþéttni er mæld á mismunandi stöðum í lærlegg til að meta hugsanleg bein áhrif frá rafstraum. Óbein áhrif eru metin með því að mæla beinþéttni hnéskeljar. Aukning í þéttni hennar er ekki hægt að rekja til rafstraums. Heldur er það samdráttarkraftur frá fjórhöfða læris.

Niðurstöður:Niðurstöður sýna að FES meðferð orsakar vöðvavöxt, endurbyggingu vefja einnig beina. Þótt vísbendingarnar séu ekki tölfræðilega marktækar má sjá þéttnibreytingar í lærlegg sem hliðarverkun meðferðarinnar. Markverðustu niðurstöðurnar má sjá í hnéskelinni þar sem hægt er mjög á tapi steinefna í samanburði við hnéskeljar þar sem engin meðferð er.

Ályktun:Raförvunarmeðferð lærvöðva hefur jákvæð áhrif á beinþéttni og bendir til fylgni milli samdráttarkrafta vöðvans og aukningu í beinþéttni.

 

V-63      Þéttleikadreifing vefs aftaugaðs og rýrnaðs rectus femoris vöðva í raförvunarmeðferð

Þórður Helgason¹ ³, Paolo Gargiulo¹ ³, Brynjar Vatnsdal¹, Stefán Yngvason², Vilborg Guðmundsdóttir², Sigrún Knútsdóttir², Páll Ingvarsson²

1Rannsóknar- og þróunarstofu HUTS, Landspítala, 2endurhæfingardeildin að Grensási, 3HR

thordur@landspitali.is

 

Inngangur:Vöðvar í mænusköðuðum einstaklingum með ónýta neðri hreyfitaug rýrna. Þetta stafar af því að vöðvarnir eru aldrei spenntir.

Í evrópska RISE verkefninu var þróuð ný meðferð til að meðhöndla aftaugaða vöðva. Þar sem ekki er fyrir hendi nein hreyfitaug verður að raförva hvern vöðvaþráð fyrir sig. Í meðferðinni eru tvö stór rafskaut sett á vöðva framan á læri. Þeir eru raförvaðir einu sinni á dag fimm til sex daga vikunnar u.þ.b. 30 til 60 mínútur í hvert sinn.

Markmið:Markmið verkefnisins er að skoða hvort vöxtur vöðvaþráða aftaugaðs rectus femoris vöðva í raförvunarmeðferð sé misjafn eftir staðsetningu þráðanna í vöðvanum og háður afstöðu þeirra til rafskauta. Þeir liggja ekki allir undir rafskautin og ekki allir undir mótin milli rafskauta þar sem rafstraumsstyrkur er hæstur. Tilgátan er að raförvunin nái betur til vöðvaþráða með staðsetningu næst rafskautum og næst mótum milli rafskauta.

Aðferðir:Þrír þverlamaðir einstaklingar hafa tekið þátt í RISE meðferðinni á Íslandi síðan 2003. Meðferðarheldni þeirra hefur verið misjöfn eftir einstaklingum og tímabilum. Þeir hafa allir verið skoðaðir með spíral tölvusneiðmynd (STS) þrisvar á ári. Því hefur verið hægt að fylgjast með breytingum á stærð og lögun vöðva lærisins. Rectus femoris vöðvinn er einangraður frá öðrum vef og þéttni hans skoðuð sem fall af staðsetningu í lengdarátt vöðvans. Þéttnin er borin saman við eðlilegan vöðva.

Niðurstöður:Niðurstöður sýna að þéttnin er mest þar við mót rafskauta og næst eðlilegri þéttni. Bæði ofan við og neðan við þennan stað er þéttnin minni og fjær eðlilegri þéttni. Þetta á við um alla þrjá einstaklinganna. Þó má sjá mun eftir meðferðarheldni þ.a. einkennin koma mest fram hjá meðferðarheldnasta einstaklingnum.

Ályktun:Niðurstöðurnar benda til að rectus femoris vöðvinn vaxi mest þar sem straumstyrkur er mestur og þar sem raförvunin nær oftast til hans. Taka verður tillit til þessarar staðreyndar við hönnun rafskauta til meðferðar á aftauguðum vöðvum.

 

 

V-64      Aukin cystatin C framleiðsla HeLa frumna við dexametasón örvun verður vegna bindingar afritunarþáttarins Sp1 á stýrilsvæði cystatin C gens

Elizabeth Cook, Ísleifur Ólafsson

Klínískri lífefnafræðideild Landspítala

ecook@landspitali.is

 

Inngangur: Próteinið cystatin C er framleitt af öllum frumum líkamans. Það er öflugur hemill á virkni cysteine próteinasa, en þeir eru próteinkljúfandi ensým sem helst er að finna í lýsósómum. Styrkur cystatin C í blóði gefur góða mynd af gaukulsíunarhraða (GFR) og er í vaxandi mæli notað sem vísir fyrir nýrnastarfsemi. Sykurvirkir sterar svo sem dexametasón geta örvað myndun cystatin C og séu þeir gefnir í háum skömmtum hækka þeir styrk þess í blóði. Stökkbreyting í geni cystatin C er þekkt fyrir að valda arfgengri heilablæðingu með cystatin C æðamýlildi á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar var að finna mikilvægar markraðir í stýrisvæði gensins og þá afritunarþætti sem auka afritun þess við dexametasón örvun.

Efniviður og aðferðir: Afritunarvirkni búta af stýrilsvæði tengdum vísigeni var mæld í ræktuðum HeLa frumum. Fákirni og fjölliðunarhvörf voru notuð til að stökkbreyta niturbasaröðum í stýrilsvæði og áhrif stökkbreytinganna á afritunavirkni mæld. Þróaðar voru ELISA aðferðir til þess að mæla bindingu afritunarþátta í kjarnaúrdráttum (nuclear extracts) á mismunandi niturbasaraðir í stýrilsvæði. Notaðir voru kjarnaúrdrættir úr HeLa frumum sem höfðu verið örvaðar með því að bæta dexametasón í ræktunaræti svo og fákirni með eðlilegri og stökkbreyttri niturbasaröð stýrilsvæðisins.

Niðurstöður: Ræktaðar HeLa frumur juku framleiðslu á cystatín C um 80% við dexametasón styrkinn 10-6 M og afritunavirkni cystatín C stýrils jókst um 48%. Sérstök ELISA mæling, þar sem biotin merkt tvíþátta fákirni samsvarandi kjarnsýruröð frá -262 til -202, mótefni gegn afritunarþættinum Sp1 og kjarnaúrdráttur úr HeLa frumum sem örvaðar voru með dexametason, sýndi allt að 63% aukningu á Sp1 bindingu við þessa kjarnsýruröð, en hún inniheldur þrjár endurtekningar af markröð Sp1/Sp3.

Ályktun: Aukin cystatin C framleiðsla HeLa frumna við dexametasón örvun verður vegna aukinnar bindingar afritunar-þáttarins Sp1 á stýrilsvæði cystatin C gens.

 

 

V-65      Markgen mögnunar á 8p12-p11 í brjóstaæxlum

Berglind Ósk Einarsdóttir1, Bjarni A. Agnarsson2, Kristrún Ólafsdóttir2, Göran Jonsson3, Johan Vallon-Christersson3, Aðalgeir Arason1, Haukur Gunnarsson1, Óskar Þór Jóhannsson4, Åke Borg3, Inga Reynisdóttir1#, Rósa Björk Barkardóttir1#

1Sameindameinafræði- og frumulíffræðieiningu rannsóknastofu í meinafræði, Landspítala, 2vefjameinafræði, rannsóknastofu í meinafræði, Landspítala, 3Department of Oncology, University Hospital, Lund, Svíþjóð, 4krabbameinslækningadeild, Landspítala. # Jafnt framlag.        

boe@landspitali.is, ingar@landspitali.is

 

Inngangur:Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein íslenskra kvenna og ein af hverjum níu konum greinist með meinið. Erfðabrenglanir eru algengar í krabbameinsfrumum og á 8p12-p11 er þekkt mögnunarsvæði sem tengist verri sjúkdómshorfum. Markmið verkefnisins er að finna markgen mögnunar á 8p12-p11 og eru gen sem sýna fylgni milli DNA eintakafjölda og mRNA- og prótíntjáningar skilgreind sem markgen og því möguleg æxlisgen.

Aðferðir: Niðurstöður kortlagningar á mRNA-tjáningamynstri og DNA-eintakafjölda í 428 brjóstaæxlum með hjálp örflögutækninnar voru notaðar til nákvæmrar kortlagningar á 8p12-p11 mögnunarsvæðinu og hlutfallslegrar tjáningar þeirra gena sem liggja innan mögnunarsvæðisins. Prótíntjáning þeirra gena sem sýndu fylgni á milli DNA-eintakafjölda og mRNA-magns var könnuð með Western blettun í 11 brjóstafrumulínum og 39 brjóstaæxlum með og án mögnunar á 8p12-p11. Fylgni var athuguð með Pearson’s fylgniprófi.

Niðurstöður: Fjórðungur brjóstaæxlanna reyndist vera með mögnun á 8p12-p11. Kortlagning á svæðinu leiddi í ljós a.m.k. þrjú aðgreind mögnunarsvæði og voru tvö þeirra valin til frekari rannsókna. Innan svæðanna tveggja liggja 16 gen og samkvæmt niðurstöðum örflögurannsókna okkar og birtum niðurstöðum annarra rannsóknahópa er jákvæð fylgni á milli DNA-eintakafjölda og mRNA-tjáningar hjá 12 af þeim 14 genum sem til eru upplýsingar um (r≥ 0,6). Mótefni fást gegn prótínum 11 þessara 12 gena og skoðun á prótíntjáningu fjögurra þeirra er lokið. Ekki er fylgni milli DNA eintakafjölda og prótínmagns hjá tveimur þeirra (WHSC1L1 og FGFR1) en hjá tveimur er marktæk fylgni, ERLIN2 (r ≥0.64, p ≤0.0001) og LSM1 (r ≥0.84, p ≤0.0001).

Ályktanir:Niðurstöður benda til þess að ERLIN2 og LSM1 séu markgen DNA mögnunar á 8p12-p11, en frekari rannsókna er þörf til að ganga úr skugga um hvort markgenin séu fleiri.

 

 

V-66      Hodgkins eitilfrumuæxli á Íslandi: klínísk og meinafræðileg rannsókn

Hallgerður Lind Kristjánsdóttir 1,3, Brynjar Viðarsson1, Friðbjörn Sigurðsson1, Bjarni A. Agnarsson 2, 3

1 Lyflækningasviði Landspítala, 2 meinafræði Landspítala, 3 læknadeild HÍ

hallglk@landspitali.is

 

Inngangur:Hodgkins eitilfrumuæxli (Hodgkin´s lymphoma (HL)) er sjaldgæft illkynja æxli sem leggst aðallega á ungt fólk. Sjúkdómurinn er læknanlegur í meirihluta tilfella í dag.

Efniviður og aðferðir:Markmið rannsóknarinnar er að taka saman upplýsingar um alla sjúklinga sem greindust með HL á Íslandi á árunum 1990-2005. Safnað er upplýsingum úr sjúkraskrám og vefjasneiðar skoðaðar. Gert verður tissue microarray (TMA) og mótefnalitanir á vefjasýnunum.

Niðurstöður:Alls voru 105 einstaklingar greindir með HL og var aldursstaðlað nýgengi 2,05 á 100.000 íbúa og hefur ekkert breyst á þessu árabili. Karlar voru fleiri en konur (3:2) og meðalaldur við greiningu var 38 ár (spönn 5-88 ára). Eftir endurskoðun vefjasneiða voru 65% með hnútahersli (Nodular sclerosis), 17% með blandaða frumugerð, 6% voru óflokkanleg og aðrir undirflokkar voru innan við 5%. Á stigi II greindust 63%. Algengasta lyfjameðferðin var með ABVD (60/100) og 46 af 100 fengu geislameðferð. Heildar fimm ára lifun var 81% og var betri hjá körlum (88%) en konum (71%) (p=0,04). Mikill munur sást á lifun eftir aldri og var 94% hjá yngri en 60 ára en 29% hjá eldri en 60 ára. Hjá sjúklingum sem svöruðu illa fyrstu meðferð var fimm ára lifun 42% og 81% hjá sjúklingum með endurkomu. Sjö sjúklingar hlutu háskammtalyfjameðferð og stofnfrumuígræðslu og eru fimm þeirra á lífi í dag.

Ályktanir:Almennt þá eru niðurstöður svipaðar og í öðrum vestrænum löndum. Athyglisvert er að sjá að fimm ára lifun er verri hjá konum og hve góð lifun er meðal sjúklinga sem hlotið hafa endurkomu sjúkdóms og stofnfrumuígræðslu. Ekki er búið að vinna úr TMA en frumniðurstöður verða komnar á ráðstefnunni.

 

 

V-67      Sheehan heilkenni - sjaldgæft en finnst líka í vestrænum heimi

Hallgerður Lind Kristjánsdóttir1,2, Sigrún Perla Böðvarsdóttir3, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir 1

1 Lyflækningasviði Landspítala, 2 læknadeild HÍ, 3 kvennasviði Landspítala

hallglk@landspitali.is

 

Inngangur:Sheehan heilkenni (SH) er heiladingulsbilun sem verður hjá móður eftir barnsburð. Orsök SH er óljós en talið er að blóðþurrð í heiladingli samfara miklu blóðtapi móður í fæðingu geti valdið SH. Einkennin geta verið almenn/óljós og fara eftir því hversu margir hormónaöxlar skaðast. Algengast er að konur með SH hafi vanhæfni til mjólkurframleiðslu (VMF) og fari ekki á blæðingar eftir barnsburð. SH er algengara í vanþróuðum löndum þar sem fæðingarhjálp er oft ábótavant en greinist sjaldan í vestrænum löndum. Töf á greiningu getur leitt til dauða. Hér er lýst konu með SH sem ítrekað leitar til lækna áður en greining lá fyrir.

Sjúkrasaga:Kona, 38 ára, með vanvirkan skjaldkirtil fæðir sitt fyrsta barn eftir eðlilega meðgöngu. Fæðing var langdregin, fylgjan sat föst og blóðrauði var 72 mg/L eftir fæðingu. Fyrstu viku eftir barnsburð leitar hún á kvennadeild vegna slappleika, ógleði og VMF. Á næstu vikum leitar hún ítrekað til ljósmæðra, lækna á kvenna- og slysadeild og heimilislæknis. Einkenni ágerast, hún megrast og vöðvaslappleiki og orkuleysi eykst. Helsta mismunagreining var talin fæðingarþunglyndi. Eftir tæplega 2 mánuði reynist blóðgildi kortisóls ómælanlegt. Við frekara mat á heiladinguLandspítalaormónum, reynist prólaktín lágt og greining SH liggur fyrir. Með viðeigandi uppbótarhormónameðferð ganga öll einkenni til baka.

Umræða:Klínísk einkenni konunnar studdu SH. Ódýrt og auðvelt er að mæla blóðgildi prólaktíns og mikilvægt er að læknar og ljósmæður hafi opinn hug fyrir mögulegri undirliggjandi orsök fyrir VMF eftir barnsburð. Litlu mátti muna um að verr færi hjá umræddri konu en algjör kortisólskortur er lífshættulegur.

 

 

V-68      Lactoferrin prótein tjáning er
minnkuð í lungnaæxlum

Þórgunnur E. Pétursdóttir1, Unnur Þorsteinsdóttir2, Sigrún Kristjánsdóttir1, Kristrún Ólafsdóttir1, Páll H. Möller3, Stefan Imreh4, Valgarður Egilsson1, Jóhannes Björnsson1, Sigurður Ingvarsson5

 

1Rannsóknarstofu í meinafræði, Landspítala, 2Íslenskri erfðagreiningu, 3skurðlækningasviði, Landspítala, 4Karolinska Institutet, Microbiology and Tumorbiology Center, Stokkhólmi, 5Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

thorgep@landspitali.is

 

Inngangur: Stutti armur litnings 3 í mönnum er afbrigðilegur í flestum æxlum. Et (elimination test) er próf sem var þróað, af samstarfsaðilum okkar á Karolinska Institutet, til að finna litningasvæði með æxlisbæligenum. Með notkun prófsins fannst svæði á 3p21.3 CER1 (common eliminated region 1). Þar eru 34 virk gen þeirra á meðal er LTF (lactotransferrin). Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar sem benda til þess að Ltf próteinið taki þátt í að verjast myndun æxla.

Markmið:Að skilgreina frekar hlutverk LTF í sjúkdómsferli lungnakrabbameins í mönnum.

Aðferðir: Til að meta tíðni úrfellinga var gerð LOH greining með microsatellite erfðamörkum á CER1 og borið saman við tvö önnur svæði með þekktum æxlisbæligenum (FHIT og VHL). Útraðir voru skimaðar með SSCP aðferð fyrir fjölbreytileika í LTF í 70 lungnaæxlum og síðan var kannað með raðgreiningu hvort sá fjölbreytileiki sem fannst væru stökkbreytingar. IHC aðferð var notuð til að kanna tjáningu próteinsins í 60 lungnaæxlum og aðlægum eðlilegum vef, flest æxlanna voru adenocarcinoma og squamous cell carcinoma.

Niðurstöður: Úrfellingatíðnin var hæst á CER1 svæðinu 94% miðað við 65% (FHIT) og 72% (VHL). Í LTF geninu fundum við breytileika í exoni 2 í hárri tíðni (39%) miðað við kontról (27%). Um er að ræða basabreytingu sem leiðir til amínósýru skipta úr Alanine yfir í Threonine (A29T). Tjáning Ltf próteinsins var minnkuð/engin í samtals 92% æxla eða frá 86% upp í 100% eftir vefjagerð æxlanna.

Ályktun: Við fundum mjög háa tíðni úrfellinga á CER1 sem bendir til þess að á svæðinu geti verið eitt eða fleiri æxlisbæligen. Tjáning Ltf próteinsins er minnkuð/engin í flestum æxlanna. Þar sem ekki er mikið um stökkbreytingar í LTF munum við kanna hvort epigenetiskar breytingar séu til staðar á prómóter svæði gensins. 

 

 

V-69      Áhrif kverkeitlatöku á sóra (psoriasis) - Framvirk blind rannsókn með viðmiðunarhóp

Ragna Hlín Þorleifsdóttir1,2, Andrew Johnston3, Sigrún Laufey Sigurðardóttir1, Jón Hjaltalín Ólafsson2, Bárður Sigurgeirsson2, Hannes Petersen4, Helgi Valdimarsson1

 

1Ónæmisfræðideild, 2húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala, 3húðsjúkdómadeild, University of Michigan, Ann Arbor, USA, 4háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala

ragnahlin@gmail.com

 

Inngangur:Sóri (psoriasis) erT frumu miðlaður bólgusjúkdómur í húðsem hefur sterk tengsl við streptókokka sýkingar í kverkeitlum. Við höfum áður sýnt fram á að í blóði sórasjúklinga eru T frumur sem virkjast af stuttum peptíðum með aminosýruröðum sem eru sameiginlegar fyrir M-protein streptókokka og keratin í húð (M/K peptíð). Þessar T frumur eru kallaðar víxlvirkar.

Markmið:Tilgangurinn er að kanna áhrif kverkeitlatöku á sóra og hvort víxlvirkum T frumum í blóði sjúklinga fækkar en tilgátan er sú að kverkeitlar séu uppeldisstöðvar fyrir þær T frumur sem valda sóra.

Aðferðir:30 sjúklingum með krónískan skellusóra er skipt í tvo sambærilega hópa, annar fer í kverkeitlatöku en hinn er til viðmiðunar. Þeim er fylgt eftir í 2 ár með blindu mati á sjúkdómsvirkni (PASI mat) og greiningu á fjölda T frumna sem framleiða IFN-g eða IL-17 eftir örvun með M/K peptíðum.

Niðurstöður:Í febrúar 2009 höfðu 25 einstaklingar hafið þátttöku. Eftir 2 mánuði hafði PASI mat lækkað að meðaltali um 38% hjá þeim sem fóru í aðgerð (n=14, p=0.024) miðað við óbreytt ástand hjá viðmiðum (n=12). Eftir 6 og 12 mánuði var PASI lækkun 42% hjá aðgerðarhópnum (n=14 og 11, p=0.012), en ástandið áfram óbreytt hjá viðmiðum (n=12 og 8). Batinn hjá aðgerðarhópnum hélst í hendur við verulega fækkun víxlvirkra CLA+CD8+ T frumna í blóðinu og hefur þessi fækkun haldist í a.m.k. 12 mánuði.

Ályktun: Sóraútbrot minnka a.m.k. tímabundið eftir kverk-eitlatöku og niðurstöðurnar samrýmast þeirri tilgátu að víxl-virkar T frumur í kverkeitlum sórasjúklinga komist út í húð þeirra og taki þátt í myndun sóraútbrota.

 

 

V-70      Ómega-3 fitusýran EPA hefur áhrif á tjáningu yfirborðssameinda á angafrumum og samskipti þeirra við T frumur

Arna Stefánsdóttir1,2,3, Ingibjörg Harðardóttir3, Jóna Freysdóttir1,2

1Rannsóknastofu í gigtsjúkdómum, 2ónæmisfræðideild Landspítala, 3læknadeild HÍ

ars18@hi.is

 

Inngangur: Angafrumur gegna lykilhlutverki við stjórnun sérhæfingar T frumna. Ómega-3 fjölómettaðar fitusýrur (FÓFS) hafa áhrif á virkjun makrófaga og T frumna, en lítið er vitað um áhrif þeirra á angafrumur.

Markmið:Að athuga áhrif eikósapentaensýru (EPA, w-3 FÓFS) og arakídónsýru (AA, w-6 FÓFS) á angafrumur.

Aðferðir: Angafrumur voru sérhæfðar úr CD14+ mónócýtar úr mönnum með því að rækta þá í 7 daga með IL-4 og GM-CSF. Síðustu 24 klst voru frumurnar ræktaðar með 50 µM EPA eða AA. Angafrumurnar voru þvegnar og ræstar með IL-1b og TNF-a í 48 klst. Þá voru angafrumurnar ræktaðar með CD4+ T frumum í 7 daga. T frumurnar voru ræstar með ionomycini og PMA síðustu 24 klst. Boðefnaseytun angafrumna og T frumna var mæld með ELISA aðferð, tjáning yfirborðssameinda með frumuflæðisjá og frumufjölgun með geislamerktu tímidíni.

Niðurstöður:Eftir ræsingu tjáðu færri EPA-meðhöndlaðar angafrumur yfirborðssameindirnar CD40, CD80, CD86, CCR7, DC-SIGN og HLA-DR samanborið við angafrumur sem voru ræktaðar án fitusýra eða með AA. Þær seyttu ennfremur minna af IL-10 og IL-12 en meira af IL-6. T frumur sem voru ræktaðar með EPA-meðhöndluðum angafrumum seyttu minna af IL-4 og IL-10 en T frumur sem voru ræktaðar með AA- eða ómeðhöndluðum angafrumum, en tilhneiging var til aukinnar seytunar á IL-17 og INF-g.

Ályktun: Meðhöndlun angafrumna með EPA virðist fækka frum-
um sem geta tekið þátt í virkjun T frumna en þrátt fyrir það virðast EPA-meðhöndlaðar angafrumur virkja T frumur jafn vel og AA- og ómeðhöndlaðar angafrumur og stýra ónæmissvari T frumna í Th1 eða Th17 svar.

V-71      Greining sértækra B-minnisfrumna gegn meningokokkum C

Maren Henneken1, Nicolas Burdin2, Einar Thoroddsen3, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir1,4, Emanuelle Trannoy2, Ingileif Jónsdóttir1,4,5

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2Sanofi pasteur, Marcy Étolie, Frakklandi, 3háls- nef- og eyrnadeild Landspítala, 4læknadeild HÍ, 5Íslenskri erfðagreiningu

marenh@landspitali.is

Inngangur: Til að veita langtímavernd gegn smitsjúkdómum þurfa bólsetningar að vekja ónæmisminni. ELISpot próf hafa verið notuð til að greina B-minnisfrumur, eftir ósértæka örvun in vitro, sem hvetur þær til sérhæfingar í mótefnaseytandi frumur (antibody secreting cells AbSC). Markmiðið var að kanna langlífi B-minnisfrumna gegn Meningococcus type C (MenC) með 2 aðferðum.

Efniviður og aðferðir: Eftir bólusetningu með próteintengdri MenC-fjölsykru (MenC-TT) voru MenC-sértækar B-minnisfrumur litaðar með flúrskinsmerktri MenC-fjölsykru og fjöldi þeirra ákvarðaður í flæðifrumusjá. ELISpot próf var gert til samanburðar og tíðni MenC-sértækra mótefnamyndandi frumna reiknuð sem % af heildarfjölda mótefnamyndandi frumna.

Niðurstöður:Tíðni beinmerktra MenC-sértækra B-frumna og IgG+ + IgA + MenC-sértækra mótefnaseytandi frumna bar ekki alveg saman fyrir hvern einstakling, en niðurstöður fyrir hópinn voru sambærilegar í blóði (N=19; P=0.2911) og nefkokseitlum (N=17; P=0.1157), en í hálseitlum gaf beinmerking hærri tíðni (N=14; P=0.8394). Fylgni var milli tíðni beinmerktra MenC-sértækra B-frumna og tíðni IgA+ + IgG+ MenC-sértækra mót-
efnaseytandi frumna í blóði (r=0.5159,
P=0.0238) og nefkokseitlum (r=0.5261, P=0.0439), en ekki í hálseitlum. Einnig var fylgni milli tíðni beinmerktra B-frumna sértækra fyrir próteinhluta bóluefnisins (TT), og tíðni IgA+ + IgG+ TT-sértækra mótefnaseytandi frumna í blóði (N=19; r=0.5853, P= 0.0085).

Ályktanir:Beinmerking MenC-sértæka B-frumna og greining í flæðifrumusjá er næm, sértæk og fljótleg aðferð til að greina minnisfrumur og gefur sambærilegar niðurstöður og mæling á IgA+ + IgG+ MenC-sértækrum mótefnaseytandi frumum með ELISpot, sem er seinleg aðferð.

Rannsóknin var m.a. styrkt af Vísindasjóði Landspítala

 

 

V-72      T frumur í kverkeitlum sórasjúklinga hafa aukna tjáningu á sameindum sem eru sérkennandi fyrir T frumur sem geta valdið bólgu í húð

Sigrún Laufey Sigurðardóttir 1,2, Ragna Hlín Þorleifsdóttir 1,3 Hannes Petersen4,Andrew Johnston5, Helgi Valdimarsson1

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2HÍ, 3húð- og kynsjúkdómadeild, 4háls- nef- og eyrnadeild Landspítala, 5húðsjúkdómadeild háskólans í Michigan, Bandaríkjunum

sigrunls@landspitali.is

 

Inngangur: Sóri (psoriasis) er langvinnur bólgusjúkdómur í húð með sterk tengsl við hálsbólgur af völdum streptókokka og hafa sórasjúklingar verulega aukna tíðni slíkra sýkinga. Rannsóknatilgáta okkar er að ónæmisviðbrögð í kverkeitlum sórasjúklinga séu afbrigðileg. Í þessum áfanga rannsóknarinnar erum við að bera saman ýmsa eiginleika CD4+ og CD8+ T frumna í kverkeitlum sórasjúklinga (PST) og sjúklinga sem hafa fengið tíðar hálsbólgu án þess að fá sóraútbrot (RT). Sérstök áhersla er lögð á þá eiginleika sem eru sérkennandi fyrir þær T frumur sem orsaka sóraútbrot. Við höfum vísbendingar, sem kynntar eru á öðru veggspjaldi, um að T frumur í kverkeitlum sórasjúklinga geti komist út í húð þeirra og stuðlað að útbrotunum.

Efniviður og aðferðir:Hnattkjarna hvítfrumur hafa nú verið einangraðar úr 17 PST og 9 RT kverkeitlum og mismunandi svipgerðir T frumnanna greindar í flæðifrumusjá eftir litun með ýmsum samsetningum af flúrlituðum einstofna mótefnum.

Niðurstöður:CD4+ og CD8+ T frumur úr PST tjáðu marktækt meira af húðsæknisameindinni CLA og rötunarsameindinni CCR6 heldur en samsvarandi frumur úr RT kverkeitlum.

CD4+ og CD8+ T frumur úr RT kverkeitlum tjáðu hins vegar marktækt meira af rötunarsameindinni CCR5 og virknisameindinni CD69 ásamt CD25.

Ályktanir:Niðurstöðurnar samrýmast þeirri tilgátu að stjórnun ónæmissvara sé afbrigðileg í kverkeitlum sórasjúklinga. Aukin tjáning á CLA samræmist því að sóraskellum geti verið viðhaldið af T frumum er upprunnar eru í kverkeitlum og ferðast út í húð. Aukin tjáning á rötunarsameindinni CCR6 er sérlega athyglisverð í þessu sambandi vegna þess að hún er sérkennandi fyrir T17 frumur sem vitað er að gegna lykilhlutverki í myndun sóraútbrota.

 

 

V-73      Áhrif valinna ónæmisglæða á ónæmissvör nýburamúsa gegn meningókokka B bóluefni

Sindri Freyr Eiðsson1, Þórunn Ásta Ólafsdóttir1,2, Mariagrazia Pizza3, Rino Rappuoli3, Ingileif Jónsdóttir1,2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Novartis Vaccines, Siena, Ítalíu

sindrifr@landspitali.is

 

Inngangur: Fjölda tilfella heilahimnubólgu og blóðsýkinga um allan heim má rekja til Neisseria meningitidis eða meningókokka. Meningókokkasjúkdómur er algengastur í ungum börnum. Ekkert alhliða bóluefni er til gegn gerð B (MenB), sem veldur ~56% tilfella á Íslandi. Með því að skoða erfðamengi MenB hafa fundist vel varðveitt meinvirk prótein tjáð á yfirborði sýkilsins, sem hafa verið sett saman í fimmgilt bóluefni (5CVMB). Við höfum sýnt að 5CVMB er ónæmisvekjandi í nýburamúsum og ónæmisglæðar geta aukið mótefnasvör gegn þeim með.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif ónæmisglæðanna, LT-K63 og Alum + CpG1826, á myndun 5CVMB-sértækra mótefnaseytandi frumna og far þeirra í bein-merg.

Aðferðir: Nýburamýs voru bólusettar með 20µg af hverju próteini með/án ónæmisglæða, og endurbólusettar 2 vikum síðar. Próteinin voru gefin ein og sér, með/án LT-K63 eða Alum + CpG1826. Viðmiðunarhópur fékk saltvatnslausn. Milta og beinmergur voru einangruð á 5,7, 9 og 14 degi frá síðari bólusetningu og fjöldi mótefnaseytandi frumna, sértækra fyrir GNA2132, sem er eitt af próteinum 5CVMB, var metinn með ELISPOT.

Niðurstöður:Ónæmisglæðarnir juku ónæmissvör nýburamúsa gegn 5CVMB. Alum og CpG1826 saman virtust flýta ónæmissvarinu. Fjöldi GNA2132 sértækra mótefnaseytandi frumna var mestur strax á degi 5 í milta og beinmerg og minnkaði eftir það. Áhrif LT-K63 voru ólík, fjöldi GNA2132 sértækra mótefnaseytandi frumna jókst jafnt og þétt frá degi 5 til dags 14, þegar hann var mestur bæði í milta og beinmerg.

Ályktun: Ónæmisglæðar hafa mismunandi áhrif á ónæmissvörun gegn 5CVMB. Frekari rannsóknir á áhrifum þeirra eru liður í þróun Men B bóluefna fyrir nýbura.

 

 

V-74      Endurteknar bólusetningar með hreinni pneumókokkafjölsykru eyða langlífum minnisfrumum og mótefnaseytandi frumum sem hafa myndast við frumbólusetningu nýburamúsa

Stefanía P. Bjarnarson1,2, Maren Henneken1, Giuseppe Del Giudice3, Emanuelle Trannoy4,Ingileif Jónsdóttir1,2,5

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Novartis Vaccines , Siena, Ítalíu, 4sanofi pasteur, Marcy l´Etoile, Frakklandi, 5Íslenskri erfðagreiningu

stefbja@landspitali.is

 

Inngangur: Við höfum sýnt að endurbólusetning með hreinni pneumókokkafjölsykru (PPS) skerðir PPS-sértækt mótefnasvar, sem hefur myndast við frumbólusetningu með próteintengdu fjölsykrubóluefni (Pnc-TT), ef endurbólusett var undir húð (s.c.) en ekki ef endurbólusett var um nefslímhúð (i.n). Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif endurtekinna bólusetninga með PPS á svörun fjölsykrusértækra B-minnisfrumna í milta, og ratvísi PPS-sértækra langlífra mótefnaseytandi frumna og viðhald í beinmerg.

Aðferðir: Nýburamýs (1 vikna) voru frumbólusettar s.c. eða i.n. með Pnc-TT og ónæmisglæðinum LT-K63 og endurbólusettar með PPS +LT-K63 eða saltvatni 1-3 sinnum með 16 daga millibili. Miltu voru einangruð á degi 7 eftir endurbólusetningu og vefjasneiðar litaðar með PNA (kímmiðjur) og mótefnum gegn IgM og IgG. Fjöldi IgG+ mótefnaseytandi frumna (AbSC), sem voru sértækar fyrir fjölsykru- eða próteinhluta bóluefnisins, var metinn í milta og beinmerg með ELISPOT.

Niðurstöður: Hlutfall PNA+/IgM+ frumna 7 dögum eftir fyrstu endurbólusetningu var hæst í músum sem voru endurbólusettar með PPS+LT-K63 i.n. en lægst í þeim sem fengu PPS+LT-K63 s.c.. Í samræmi við þær niðurstöður var fjöldi IgG+ kímmiðja mestur í músum sem voru endurbólusettar með PPS+LT-K63 i.n. en minnstur í þeim sem fengu PPS+LT-K63 s.c.. Tíðni fjölsykrusértækra AbSCs í milta og beinmerg lækkaði marktækt við hverja endurbólusetningu með PPS+LT-K63 s.c.. Endurtekin bólusetning með PPS+LT-K63 um nef lækkaði einnig tíðni PPS sértækra AbSCs í BM, en minna en þegar fjölsykran var gefin undir húð.

Ályktun: Endurbólusetning með hreinni fjölsykru snemma á ævinni, sérstaklega undir húð, eyðir fjölsykrusértækum minnisfrumum og langlífum mótefnaseytandi frumum sem hafa myndast við frumbólusetninguna með próteintengdu fjölsykrubóluefni.

V-75      Pneumókokkaprótín ásamt IC31® eru ónæmisvekjandi í nýburamúsum og draga úr pneumókokkasýkingum

Þórunn Ásta Ólafsdóttir1,2, Karen Lingnau3, Eszter Nagy3, Ingileif Jónsdóttir1,2,4

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Intercell AG, Vín, Austurríki, 4Íslenskri erfðagreiningu

thorasta@landspitali.is

 

Inngangur:Pneumókokkabóluefni sem eru á markaði í dag eru ekki ónæmisvekjandi í nýburum (fjölsykrubóluefni) eða dýr í framleiðslu (prótíntengd fjölsykrubóluefni). Því hafa sjónir manna beinst að vel varðveittum pneumókokkaprótínum sem gætu verndað gegn pneumókokkasýkingum óháð hjúpgerð bakteríunnar, auk þess sem þau eru ódýrari kostur en prótíntengd fjölsykrubóluefni. Tvö nýuppgötvuð prótín, PcsB og StkP, eru verndandi gegn pneumókokkasýkingum í fullorðnum músum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna ónæmisvekjandi og verndandi áhrif pneumókokka-prótínanna PcsB, StkP, PspA og PsaA auk ónæmisglæðisins IC31® í nýburamúsum.

Efniviður og aðferðir:Mýs voru bólusettar 3x með 2ja vikna millibili. Prótínin voru gefin ein og sér með IC31® eða öll fjögur saman með eða án IC31®. Mýs í viðmiðunarhópi fengu saltvatn. Mótefni í sermi voru mæld með ELISA. Tveimur vikum eftir 3. bólusetninguna voru mýsnar sýktar um nef með S. pneumoniae og blóð- og lungnasýking metin með talningu á bakteríuþyrpingum.

Niðurstöður: Öll fjögur prótínin voru ónæmisvekjandi í nýburamúsum og IC31® jók ónæmissvarið gegn PcsB, StkP og PspA marktækt miðað við ef enginn ónæmisglæðir var gefinn. Mýs sem voru bólusettar með StkP eða PspA höfðu marktækt minni blóðsýkingu en mýs í viðmiðunarhópi. Hópurinn sem fékk öll fjögur prótínin ásamt IC31® var best verndaður gegn blóðsýkingu og sá eini sem sýndi marktæka vernd gegn lungnasýkingu.

Ályktun: PcsB, StkP, PspA og PsaA eru öll ónæmisvekjandi í nýburamúsum og blanda þessara prótína ásamt ónæmis-glæðinum IC31® getur dregið úr blóð- og lungnasýkingum af völdum S. pneumoniae. Nauðsynlegt virðist að blanda saman nokkrum prótínum til að vekja verndandi ónæmi gegn pneumókokkasýkingum.

Rannsóknin var styrkt af Vísindasjóði Landspítala

 

 

V-76      Áhrif BCG á ónæmissvar nýburamúsa við bólusetningu gegn meningókokkum C

Siggeir F. Brynjólfsson1,2, Stefanía P. Bjarnarson1,2, Elena Mori3,Giuseppe Del Giudice3, Ingileif Jónsdóttir1,2,4

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Novartis Vaccines, Siena, Ítalíu,4Íslenskri erfðagreiningu

siggeir@landspitali.is

 

Inngangur:Varnir nýbura gegn ýmsum sýklum eru skertar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif berklabóluefnisins BCG á ónæmissvar nýburamúsa við próteintengdu fjölsykru-bóluefni meningókokka C, MenC-CRM197, en BCG er víða gefið nýburum.

Aðferðir:Nýburamýs voru frumbólusettar undir húð eða um nef með MenC og BCG gefið samtímis, degi fyrir eða viku fyrir MenC bólusetningu. Mýsnar voru endurbólusettar með MenC 16 dögum síðar. Mótefni voru mæld með ELISA og myndun ónæmisminnis metin út frá hraða og styrk mótefnasvarsins. Drápsvirkni sermis (serum bactericidal activity, SBA) var einnig mæld.

Niðurstöður: Mýs bólusettar með MenC sem nýburar höfðu marktækt hærri IgG mótefni en mýs sem fengu saltvatn. Nýburamýs sem fengu BCG samtímis MenC bóluefninu höfðu marktækt hærri IgG mótefni en mýs sem fengu eingöngu MenC. Enginn munur var á magni IgG mótefna músa sem fengu BCG degi eða viku fyrir MenC bólusetningu og þeirra sem fengu aðeins MenC. Mýs sem fengu BCG samtímis MenC undir húð og endurbólusetningu með MenC um nef höfðu marktækt hærri IgG mótefni en mýs sem fengu MenC undir húð. Drápsvirkni sermis var aðeins mælanleg í músum sem fengu BCG og MenC samtímis og endurbólusetningu með MenC undir húð eða um nef. BCG jók og flýtti ónæmissvari nýburamúsa, sem endurspeglar eflingu ónæmisminnis. BCG hafði áhrif á undirflokka IgG sem bendir til aukningar Th1 svars.

Ályktanir:Niðurstöðurnar sýna að BCG hefur ónæmisglæðandi áhrif sé það gefið samtímis MenC. Þær stangast á við niðurstöður rannsókna, sem sýndu að BCG sem er gefið nýburum manna eykur mótefnasvar gegn óskyldum bóluefnum sem voru gefin allt að þremur mánuðum síðar.

Rannsóknin var að hluta styrkt af Vísindasjóði Landspítala

 

 

V-77      Áhrif fiskolíu í fæði á flakkboðana MCP-1 og MIP-1α í heilbrigðum og LPS-sprautuðum músum

Hildur H. Arnardóttir1, Jóna Freysdóttir2, Ingibjörg Harðardóttir1

1Lífefna- og sameindalíffræðistofu, læknadeild HÍ, 2rannsóknastofu í gigtsjúkdómum og ónæmisfræðideild, Landspítala

hha3@hi.is

 

Inngangur: Fiskolía, rík af ómega-3 fjölómettuðum fitusýrum, getur haft jákvæð áhrif á suma króníska bólgusjúkdóma og í sýkingum. Hvernig fiskolía hefur þessi áhrif er ekki vitað en talið að frumu- og flakkboðar komi þar við sögu.

Markmið: Að ákvarða áhrif fiskolíu í fæði músa á flakkboðana MCP-1 og MIP-1a, sem eru mikilvægir í togi átfruma.

Aðferðir: Kvenkyns C57BL/6 mýs fengu fóður byggt á vestrænu fæði með eða án 2,8% fiskolíu. Helmingur hvors fæðuhóps var sprautaður með inneitri (LPS) í kviðarhol. Kviðarholsvökva og sermi var safnað og kviðarholsátfrumur úr heilbrigðum músum voru örvaðar með LPS. Styrkur MCP-1 og MIP-1a var mældur með ELISA aðferð.

Niðurstöður: Styrkur MCP-1 í sermi heilbrigðra músa sem fengu fiskolíu var minni en styrkur MCP-1 í sermi músa í samanburðarhóp. Styrkur MCP-1 og MIP-1a í sermi LPS-sprautaðra músa sem fengu fiskolíu var meiri en í sermi músa í samanburðarhóp. Í kviðarholsvökva LPS-sprautaðra músa sem fengu fiskolíu var meira af MIP-1a en í kviðarholsvökva músa í samanburðarhóp en svipaður styrkur af MCP-1 í kviðarholsvökva músa úr báðum fæðuhópum. LPS örvaðar kviðarholsfrumur úr músum sem fengu fiskolíu seyttu meira af MIP-1a en minna af MCP-1 en kviðarholsfrumur úr músum í samanburðarhóp.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að fiskolía hafi dempandi áhrif á flakkboðamyndun í heilbrigðum músum en auki hins vegar bólguviðbragð í músum eftir sýkingu. Dempandi áhrif fiskolíu í heilbrigðum músum samræmist jákvæðum áhrifum hennar á króníska bólgusjúkdóma en aukið bólguviðbragð gæti að hluta skýrt jákvæð áhrif hennar í sýkingum.

 

 

V-78      Fjölónæmir berklar á Íslandi

Hilmir Ásgeirsson1, Kai Blöndal2, Þorsteinn Blöndal2-4, Magnús Gottfreðsson1,4

1Smitsjúkdómadeild Landspítala, 2göngudeild sóttvarna heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 3lungnadeild Landspítala, 4læknadeild HÍ

magnusgo@landspitali.is

 

Inngangur: Fjölónæmir berklar eru vaxandi vandamál í heiminum. Árangur meðferðar er verri, sjúkrahúslegur lengri og kostnaður hærri en við lyfnæma berkla. Hér er lýst þremur tilfellum fjölónæmra berkla sem greinst hafa á Íslandi á árunum 2003-2008.

Aðferðir:Rannsóknaraðilar fundu þau tilfelli sem þeim var kunnugt um, eitt frá 2003, annað frá 2007 og þriðja frá 2008. Einnig var leitað í berklaskrá þar sem ekki komu fram önnur tilfelli á tímabilinu, en eitt tilfelli hafði greinst 1985 og annað 1992.

Tilfelli: Fyrsta tilfellið var 23 ára innflytjandi frá Asíu sem hafði lokið fyrirbyggjandi meðferð vegna jákvæðs berklaprófs. Tveimur árum síðar lagðist hann inn með berkla í kviðarholi sem reyndust fjölónæmir. Hann lauk 18 mánaða meðferð og læknaðist. Annað tilfellið var 23 ára maður sem lagðist inn vegna fjölónæmra lungnaberkla. Hann hafði áður fengið meðferð í heimalandi sínu í A-Evrópu en ekki lokið henni. Hann lá inni í sjö mánuði og náði bata en gert var ráð fyrir tveggja ára meðferð. Þriðja tilfellið var 27 ára einkennalaus kona sem greindist með fjölónæma lungnaberkla við rakningu smits vegna fjölónæmra berkla bróður. Fyrirhuguð var 18 mánaða meðferð.

Ályktun: Á síðustu sex árum greindust þrjú tilfelli fjölónæmra berkla hér á landi. Á tólf árum þar á undan greindist eitt tilfelli og gæti þetta bent til yfirvofandi fjölgunar. Fjölónæmir berklar eru alvarlegir, erfiðir og kostnaðarsamir í meðhöndlun. Mikilvægt er að standa vel að berklavörnum, sérstaklega skimun innflytjenda.

 

 

V-79      Streptókokkar af flokki B (Streptococcus agalactiae)
Faraldsfræði ífarandi sýkinga hjá fullorðnum á Íslandi árin 1975-2007

Helga Erlendsdóttir 1,3, Erla Soffía Björnsdóttir 1,3, Magnús Gottfreðsson 2,3, Karl G. Kristinsson 1,3

Sýklafræðideild1, smitsjúkdómadeild Landspítala2, læknadeild HÍ 3

helgaerl@landspitali.is

 

Inngangur:Streptókokkar af flokki B (SFB, eða Streptococcus agalactiae) valda alvarlegum sýkingum hjá nýburum og barnshafandi konum. Á síðustu áratugum hefur ífarandi sýkingum hjá öðrum fullorðnum fjölgað til muna, einkum hjá þeim sem hafa undirliggjandi sjúkdóma. Unnt er að flokka SFB í 10 hjúpgerðir, en þær eru Ia, Ib og II-IX. Skort hefur faraldsfræðirannsóknir á bakteríunni, sem ná yfir heila þjóð og langt tímabil.

Efniviður og aðferðir: Farið var yfir niðurstöður blóð-, liðvökva- og mænuvökvaræktana árin 1975-2007 og skráðir fullorðnir sjúklingar (>16 ára) sem greindust með ífarandi sýkingar af völdum SFB ásamt aldri, kyni, dagsetningu jákvæðrar ræktunar, sýkingarstað og afdrifum. Allir tiltækir stofnar voru hjúpgreindir.

Niðurstöður:Á tímabilinu1975-2007 greindust115 fullorðnir einstaklingar með 118 ífarandi sýkingar (karlar 39%, konur 61%). Árin 1975-1985 voru 13 sýkingar, 30 sýkingar 1986-1996 og 75 sýkingar 1997-2007, nýgengið 0.7, 1.5 og 3.2 sýkingar/100.000 fullorðna íbúa/ár, sem er marktæk aukning (p<0.0001). Ekki var munur á meðalaldri sjúklinga eftir tímabilum. Níu sjúklingar voru á aldrinum 17-30 ára (8%), 52 (45%) 30-65 ára og 55 (47%) eldri en 65 ára. Dánarhlutfall (< 4 vikum eftir jákv. ræktun) var 17% (19/115) og var svipað öll tímabilin. Það var lægra í tveimur yngri aldurshópunum (11%) samanborið við þann elsta (25%) (p=0.058). Alls voru 90 stofnar hjúpgreindir. Svipaður fjöldi var af hjúpgerð Ia, Ib, II, III og V (16-19%), aðrar hjúpgerðir voru sjaldgæfari. Hvorki sáust tengsl á milli hjúpgerða og afdrifa, né skýrðist fjölgun síðustu ára af ákveðnum hjúpgerðum.

Ályktanir:Nýgengi ífarandi SFB sýkinga meðal fullorðinna hefur aukist til muna hér á landi síðastliðna 3 áratugi. Á sama tíma hefur dánartíðni staðið í stað.

 

 

V-80      Hjúpgerðir í ífarandi pneumókokkasýkingum 1998-2007 með tilliti til nýrra próteintengdra bóluefna

Helga Erlendsdóttir, Karl G. Kristinsson, Þórólfur Guðnason

Sýklafræðideild Landspítala, læknadeild HÍ, landlæknisembættið

helgaerl@landspitali.is

 

Inngangur: Pneumókokkar hafa 91 þekktar hjúpgerðir og ífarandi sýkingar af völdum þeirra geta verið lífshættulegar. Á markaði er bóluefni sem inniheldur 7 hjúpgerðir (Prevnar®, PCV-7), bóluefni með 10 hjúpgerðum (PCV-10) er væntanlegt og 13 gilt bóluefni (PCV-13) er í þróun. PCV-7 dregur mjög úr ífar-andi sýkingum og hefur einnig sýnt virkni gegn lungnabólgum og miðeyrnabólgum. Bólusetning ungbarna með PCV-7 hefur ýmist verið hafin eða er á dagskrá hjá hinum Norðurlöndunum. Markmið rannsóknarinnar er að kanna mögulega virkni nýrra bóluefna miðað við nýgengi viðkomandi hjúpgerða á Íslandi.

Efniviður og aðferðir:Hjúpgerðir í PCV-7 eru 4, 6B, 9V, 14, 18C, 19F og 23F. Í PCV-10 eru auk þess hjúpgerðir 1, 5 og 7F og í PCV-13 bætast við hjúpgerðir 3, 6A og 19A. Úr gögnum Sýklafræðideildar Landspítalans voru unnar upplýsingar um nýgengi viðkomandi hjúpgerða. Skráðar voru ífarandi pneumókokkasýkingar sl. 10 ár eftir aldurshópum, heilahimnu-bólgur skráðar svo og afdrif (andlát). Reiknað var hlutfall sjúklinga með hjúpgerðir tilheyrandi viðkomandi bóluefnum.

Niðurstöður: Alls greindust 486 ífarandi sýkingar á tímabil-inu og voru hjúpgerðir þekktar í 464 tilvikum. Hjúpgerðir sem tilheyrðu PCV-7, -10 og -13 voru 51%, 72% og 82%. Fyrir hjúpgerðir í heilahimnubólgu (alls 31, 6.3%) var hlutfallið 48%, 61% og 68%. Fjöldi þeirra sem lést var 56 (12%) og höfðu 43%, 59% og 74% þeirra hjúpgerðir sem tilheyrðu PCV-7, -10 og -13. Dreifing hjúpgerða var mismunandi eftir aldurshópum. Mun fleiri í yngri aldurshópunum höfðu hjúpgerðir sem tilheyrðu bóluefnunum.

Ályktanir:Forsenda hagkvæmnisútreikninga á bólefnum er nákvæm skráning og afdrif sjúklinga sem fá sjúkdóma sem hægt er að fyrirbyggja.

 

 

V-81      Hröð útbreiðsla fjölónæms klóns pneumókokka á Íslandi

Karl G. Kristinsson1,2, Martha Á. Hjálmarsdóttir1,2, Þóra R. Gunnarsdóttir1

Sýklafræðideild Landspítala1, HÍ2

martha@landspitali.is

 

Inngangur:Á árunum 1989-1993 jókst nýgengi fjölónæms klóns pneumókokka (Spain6B-2) úr 0% í 16% af öllum stofnum sem orsökuðu sýkingar. Íhlutandi aðgerðir leiddu til minni sýklalyfjanotkunar og í kjölfarið lækkaði tíðni pneumókokka með minnkað næmi fyrir penisillíni (PMNP) niður fyrir 10%. Frá 2004 jókst tíðni PMNP aftur. Markmið okkar var að rannsaka þessa aukningu.

Efniviður og aðferðir:Næmispróf voru gerð með skífuprófum og E-strimli. Arfgerðargreining var gerð með PFGE og MLST.

Niðurstöður:Árið 2007 náði hlutfall PMNP 37%. Af þeim voru 81% einnig ónæmir fyrir erythromýsíni og tetracyklíni og 88% þeirra voru af hjúpgerð 19/19F. Flestir fjölónæmu stofnanna tengdust sýkingum í efri loftvegum. PFGE sýndi að langflestir tilheyrðu einum klóni. Afturvirk rannsókn meðal ífarandi stofna leiddi í ljós einn stofn af þessum klóni 2004 og einn 2005. Í stofnasafni frá rannsóknum á leikskólabörnum fundust 2, 6, 7, 2, 0 og 12 stofnar árin 2001-2006. MLST stofngerð klónsins var ST-1968, þ.e. tveggja seta afbrigði af PMEN klóni Taiwan19F-14. Sýklalyfjanotkun á Íslandi jókst úr 20,2 stöðluðum dagskömmtum/1000 íbúa/dag 2003 í 24,9 árið 2007 og azithromýsín notkun úr 0,4 í 0,8.

Ályktanir:Fjölónæmur klónn af hjúpgerð 19F sem aðallega orsakar efri loftvegasýkingar í börnum hefur breiðst út sem faraldur á Íslandi. Þessi hæfni hans getur tengst litlu eða engu hjarðónæmi hjá landsmönnum og/eða aukinni notkun sýklalyfja.

 

 

V-82      Dreifing hjúpgerða pneumókokka á Íslandi eftir sýkingarstað og aldri

Martha Á. Hjálmardóttir1,2,3, Ingibjörg Skúladóttir3, Karl G. Kristinsson1,2

Sýklafræðideild Landspítala,12, HR3

martha@landspitali.is

 

Inngangur:Dreifing hjúpgerða pneumókokka er breytileg eftir aldri, löndum og tíma. Lítið er vitað um dreifingu eftir sýkingastað, en slík vitneskja getur verið mikilvæg fyrir stefnumótun um bólusetningar. Markmið okkar var að rannsaka dreifingu hjúpgerða eftir sýkingastað og aldri.

Efniviður og aðferðir: Pneumókokkar sem ræktuðust úr sjúklingasýnum 2005-2007 voru geymdir ( – 80°C), alls 2031. Hjúpgerðir voru greindar með kekkjunarprófum .

Niðurstöður:Algengustu hjúpgerðirnar voru 19F (22%), 6B (13%), 23F (10%) og 14 (8%). Hjúpgerðir 19F og 6B orsökuðu marktækt oftar öndunarfærasýkingar en ífarandi sýkingar og þá fremur sýkingar í efri loftvegum en í neðri loftvegum, einnig í ungum börnum fremur en eldri börnum. Hjúpgerð 19F sýndi oftast minnkað næmi fyrir penisillíni. Hjúpgerð 23F var algengasta hjúpgerð pneumókokka sem ræktaðist úr sýnum frá ífarandi sýkingum, 15%. Hjúpgerð 4 var 14% pneumókokka ræktuðum frá ífarandi sýkingum. Hjúpgerð 14 orsakaði marktækt oftar ífarandi sýkingar en öndunarfærasýkingar og var þriðja algengasta orsök ífarandi sýkinga, 13%.

Ályktanir:Algengasta hjúpgerð pneumókokka sem veldur sýkingum á Íslandi er 19F. Hún er megin orsök öndunarfærasýkinga og sýkinga í ungum börnum. Hjúpgerð 19F hefur leyst 6B af hólmi hér á landi sem algengasta hjúpgerð pneumókokka með minnkað næmi fyrir penisillíni. Algengasta orsök ífarandi sýkinga á Íslandi árin 2005-2007 var hjúpgerð 23F, síðan hjúpgerðir 4 og 14.

 

 

V-83      Faraldsfræði pneumókokka með minnkað
næmi fyrir pensillíni á Íslandi 1995-2008

Martha Á. Hjálmarsdóttir1,2,3, Karl G. Kristinsson1,2, Sigurður E. Vilhelmsson1,2

Sýklafræðideild Landspítala1, HÍ2, HR3

martha@landspitali.is

 

Inngangur:Fyrstu pneumókokkarnir með minnkað næmi, I eða R, fyrir penisillíni (PMNP) voru greindir á Íslandi 1988. Hröð aukning nýgengis var tengd útbreiðslu fjölónæms klóns af hjúpgerð 6B (Spain6B-2). Markmið okkar var að fylgjast með framþróun PMNP á Íslandi 1995-2008.

Efniviður og aðferðir: Allir PNSP greindir á tímabilinu úr sýnum frá sjúklingum voru geymdir (-80°C), alls 12.272. Endurteknar ræktanir innan mánaðar voru útilokaðar. Næmispróf voru gerð með skífuprófum og E-strimli. Hjúpgerðargreining var gerð með kekkjunarprófum.

Niðurstöður:Frá 1997 til 2002 lækkaði hlutfall PMNP af öllum pneumókokkum sem orsökuðu sýkingar jafnt og þétt. Flestir stofnarnir tilheyrðu Spánsk-íslenska klóninum, sem sást fara úr 84% af PMNP 1997 í 6% 2007. Síðan 2004 hefur hlutfall PMNP aukist hratt og varð 37% af öllum pneumókokkum 2007. Fjölónæmir stofnar af hjúpgerð 19F sem flestir tilheyra sama klóni voru 79% af PMNP 2007. Árið 2008 sýndu 35% allra pneumókokka minnkað næmi fyrir penisillíni. Jafnframt voru 36% ónæmir fyrir erythromýsíni, 33% fyrir tetracyklíni og 41% fyrir trímetóprím-súlfa.

Ályktanir:Síðan 1998 hefur algengi hjúpgerðar 6B minnkað og fram til 2003 var stöðug fækkun PMNP. Frá 2004 hafa fjölónæmir stofnar af hjúpgerð 19F breiðst hratt út og orðið algengastir PMNP. Þessi útbreiðsla sem virðist bundin við ákveðinn klón hefur orsakað hærra hlutfall ónæmis en áður hefur verið skráð hjá pneumókokkum á Íslandi.

 

 

V-84      Æxli í hóstarkirtli á Íslandi 1984–2009

Elín Maríusdóttir1,2, Sigfús Nikulásson3, Tómas Guðbjartsson2,1

1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3meinafræðideild Landspítala

tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur:Æxli í hóstarkirtli eru sjaldgæfur og misleitur hópur æxla með afar mismunandi horfur. Tilviljanagreining er algeng en flestir hinna greinast vegna staðbundinna einkenna. Nýlega var gefin út alþjóðleg vefjafræðiflokkun (WHO) þessara æxla þar sem lífshorfur sjúklinga eru lagðar til grundvallar. Upplýsingar um faraldsfræði þessara æxla hérlendis er ekki þekkt og tilgangur rannsóknarinnar að bæta úr því um leið og æxlin eru flokkuð skv. nýjustu skilmerkjum.

Efniviður og aðferðir:Rannsóknin er afturskyggn og nær til allra einstaklinga á Íslandi sem greindust með æxli í hóstarkirtli frá 1984 til 2009. Upplýsingar fengust úr meinafræði- og sjúkraskrám. Æxlin voru stiguð og flokkuð vefjafræðilega en einnig reiknaðar lífshorfur.

Niðurstöður:Alls greindust 16 tilfelli (10 karlar) og var meðalaldur sjúklinga 61 ár (bil 31-87). Sjö sjúklingar (44%) greindust fyrir tilviljun, 7 vegna staðbundinna einkenna og 2 (13%) við uppvinnslu vöðvaslensfárs. Í fjórum tilfellum var eingöngu tekið sýni en 12 sjúklingar gengust undir brottnám æxlis í gegnum bringubeinsskurð. Fylgikvillar voru óverulegir og enginn lést <30 daga frá aðgerð. Tólf æxlanna (75%) reyndust góðkynja (thymoma) en 4 (25%) illkynja (thymic carcinoma, gerð C). Góðkynja æxli voru algengust af flokki B2 (n=5) og vefjagerð A næstalgengust (n=3). Samkvæmt stigunarkerfi Masoka voru 4 góðkynja æxli á stigi I (33%) og 5 á stigi II (42%). Hjá þremur sjúklingum vantaði upplýsingar um stigun. Sjúklingar með illkynja æxli voru 2 á hvoru stigi, III og IV. Fimm ára lifun var 56% (hráar tölur), 75% fyrir góðkynja æxli og 0% fyrir illkynja æxli.

Ályktanir: Æxli í hóstarkirtli eru sjaldgæf. Í flestum tilvikum er um góðkynja æxli að ræða. Horfur góðkynja æxla eru mjög góðar og árangur skurðaðgerðar sömuleiðis. Horfur illkynja hóstarkirtilsæxla eru hins vegar slæmar og flestir látnir innan 12 mánaða frá greiningu.

 

 

V-85      Skurðaðgerðir við sjálfsprottnu loftbrjósti á Íslandi – þróun aðgerðatækni, ábendinga og tíðni fylgikvilla á 18 ára tímabili

Guðrún Fönn Tómasdóttir1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala 

tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur:Fyrsta meðferð við sjálfsprottnu loftbrjósti er yfirleitt brjóstholskeri en við endurteknu loftbrjósti eða viðvarandi loftleka er yfirleitt gripið til skurðaðgerðar með opinni aðgerð eða brjóstholssjá. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna aðgerðatækni, ábendingar og árangur þessara aðgerða á 18 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir:Rannsóknin er afturvirk og nær til 251 sjúklinga (meðalaldur 27,7 ár, 191 karlar) sem gengust undir 281 skurðaðgerðir vegna sjálfsprottins loftbrjósts (án undirliggjandi lungnasjúkdóms) á LANDSPÍTALA á árunum 1991-2008. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og meinafræðiskýrslum. Tímabilinu var skipt í 6 tímabil og þau borin saman.

Niðurstöður:Aðgerðafjöldi jókst á milli tímabila, eða frá 33 í 61 aðgerð á síðasta tímabilinu (p<0,05). Brjóstholsspeglun var oftar framkvæmd en opin aðgerð nema á tímabilinu 2000-2002 (45%) en voru 82% aðgerðanna á síðasta tímabilinu. Fleygskurður eingöngu var algengasta aðgerðin (55%) þar til á síðasta tímabilinu að auk fleygskurðar var gerð fleiðruerting með sandpappír og/eða hlutabrottnámi á fleiðru (84% tilfella). Ábendingar fyrir aðgerð voru sambærilegar milli tímabila, endurtekið loftbrjóst í 38% tilfella og viðvarandi loftleki hjá 31%. Aðgerðartími var að meðaltali 58 mín. og breyttist ekki marktækt á tímabilinu, einnig legutími sem var í kringum 4 dagar. Tíðni snemmkominna fylgikvilla var sambærileg á milli tímabila, einnig síðkomið endurtekið loftbrjóst, en 84% þeirra greindust eftir brjóstholsspeglunaraðgerð.

Ályktanir:Ábendingar skurðaðgerða hafa lítið breyst á þeim 18 árum sem rannsóknin náði til. Hins vegar hefur orðið veruleg fjölgun á brjóstholsspeglunaraðgerðum þar sem ertingu og hlutabrottnámi á fleiðru er bætt við fleyskurð. Því er áhyggjuefni að tíðni endurtekins loftbrjósts hefur ekki minnkað, en um er að ræða þekkt vandamál eftir speglunaraðgerðir sem mikilvægt er finna lausn á.

 

 

V-86      Brottnám á lungnameinvörpum krabbameins í ristli og endaþarmi

Halla Viðarsdóttir1, Páll Helgi Möller2, Jón Gunnlaugur Jónasson3,4, Tómas Guðbjartsson1,4

1 Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2 skurðlækningadeild, 3 rannsóknarstofu í meinafræði, Landspítala, 4 læknadeild HÍ

tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur:Krabbamein í ristli og endaþarmi er 3ja algengasta krabbameinið á Íslandi og tæplega helmingur sjúklinga deyr úr sjúkdómnum. Fjarmeinvörp greinast oftast í lifur og lungum og er stundum hægt að fjarlægja þau með skurðaðgerð. Árangur aðgerða á lungnameinvörpum hefur verið umdeildur. Ekki er vitað um árangur þessara aðgerða hér á landi og er markmið rannsóknarinnar að bæta úr því.

Efniviður og aðferðir:Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum sem gengust undir læknandi brottnám á lungnameinvörpum frá ristil- eða endaþarmskrabbameini á Íslandi frá 1984 til 2008. Kannaðar voru ábendingar, fylgikvillar aðgerða og lifun (hráar tölur). Útreikningar miðast við 31. janúar 2009 og var meðaleftirfylgni 41 mánuður.

Niðurstöður:Gerðar voru 32 aðgerðir á 27 sjúkl. (aldur 63,5 ár, bil 35-80, 63% karlar). Frumæxli 19 sjúkl. voru í ristli (70%) og 8 í endaþarmi; 13 á Dukes-stigi C (48%), 9 á stigi B (33%), 4 á stigi D og 1 á stigi A. Lungnameinvörpin greindust 30 mán. (bil 1,5-74) frá greiningu frumæxlis, 26% fyrir tilviljun. Fimm sjúklingar höfðu áður gengist undir brottnám á lifrarmeinvörpum. Í 18 tilfellum var um stakan hnút að ræða, 6 höfðu 2 hnúta en hinir fleiri. Blaðnám (48%) og fleygskurður (33%) voru algengustu aðgerðirnar. Þrír fóru í aðgerð vegna meinvarpa í báðum lungum. Í 3 tilfellum var gert endurtekið brottnám vegna lungnameinvarpa. Allir lifðu af aðgerðina og var legutími 8 dagar (bil 5-58). Algengustu fylgikvillar voru loftleki (19%) og loftbrjóst (26%). Frá lungnaaðgerð var 1 og 5 ára lifun 92,3% og 30,4%.

Ályktun:Árangur þessara aðgerða er góður og fylgikvillar oftast minniháttar. Tæpur helmingur sjúklinga er á lífi 5 árum frá aðgerð, sem er umtalsvert betri lifun en fyrir sjúkl. sem ekki fara í aðgerð. Þar sem viðmiðunarhóp vantar er ekki hægt að útiloka að skekkja í vali á sjúkl. geti haft áhrif á niðurstöður.

 

 

V-87      Slímvefjaræxli í hjarta á Íslandi

Hannes Sigurjónsson1, Karl Andersen2,7, Maríanna Garðarsdóttir3, Vigdís Pétursdóttir4, Guðmundur Klemenzson5, Gunnar Þór Gunnarsson6, Ragnar Danielsen2, Tómas Guðbjartsson1,7

 

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2hjartadeild ,3myndgreiningardeild, 4meinafræðideild, 5svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 6Sjúkrahúsið á Akureyri, 7læknadeild HÍ

tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur:Slímvefjaræxli (myxoma) eru algengustu æxlin sem upprunnin eru í hjarta. Þetta eru góðkynja æxli sem vaxa staðbundið og valda oft fjölbreytilegum einkennum, m.a. stíflu/leka á míturloku og blóðreka. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta nýgengi slímvefjaræxla hér á landi og kanna árangur skurðaðgerða við þeim.

Efni og aðferðir:Rannsóknin er afturvirk og nær til allra sjúklinga sem greindust með slímvefjaræxli á Íslandi frá því hjartaaðgerðir hófust í júní 1986 og fram til dagsins í dag. Sjúklingar voru fundnir eftir þremur leiðum, meinafræði- og hjartaómunarskrá- og vélindaómskrá frá skurðstofu Landspítala.

Niðurstöður:Alls greindust 9 tilfelli, 3 karlar og 6 konur, með meðalaldur 60,7 ár (bil 37-85). Aldursstaðlað nýgengi var 0,12 á hverja 100.000 íbúa/ári (95% CI: 0.05-0.22). Átta æxli voru staðsett í vinstri gátt og eitt í þeirri hægri. Meðalstærð æxlanna var 3,6cm (bil 1,5-7cm). Mæði (n=5) og heilablóðfall vegna reks (n=2) voru algengustu einkennin. Átta tilfelli greindust við hjartaómun og 1 fyrir tilviljun á tölvusneiðmynd af kransæðum. Allir sjúklingarnir fóru í aðgerð þar sem æxlið var fjarlægt. Meðalaðgerðartími var 236 mín. og allir sjúklingarnir lifðu aðgerðina og útskrifuðust heim. Fylgikvillar voru minniháttar, oftast gáttatif (n=4). Legutími var 30 dagar (miðgildi), þar af 1 dagur á gjörgæslu. Í dag (1. mars 2009) eru 7 sjúklingar af 9 á lífi, allir við góða heilsu og án teikna um endurtekið slímvefjaræxli.

Umræða:Einkenni og greining slímvefjaræxla á Íslandi eru svipuð og í erlendum rannsóknum, einnig nýgengi. Eftir því sem best er vitað er þetta fyrsta rannsóknin á slímvefjaræxlum að ræða sem nær til heillar þjóðar og þar sem reiknað er út lýðgrundað nýgengi.

V-88      Árangur lungnabrottnámsaðgerða við lungnakrabbameini á Íslandi

Húnbogi Þorsteinsson1, Hörður Alfreðsson2, Helgi J. Ísaksson3, Steinn Jónsson1,4, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3rannsóknarstofu í meinafræði, 4lungnadeild, Landspítala

tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur:Lungnabrottnám er aðgerð til að fjarlægja stór og miðlæg skurðtæk lungnakrabbamein sem ekki er unnt að lækna með blaðnámi. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna árangur þessara aðgerða, ábendingar og fylgikvilla þeirra hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem gengust undir lungnabrottnám vegna lungnakrabbameins á Íslandi 1988-2007. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og voru m.a. kannaðar ábendingar aðgerðar, TNM-stig, fylgikvillar, lífshorfur og forspárþættir lífshorfa (Cox fjölbreytugreining).

Niðurstöður:Samtals gengust77 sjúkl. (meðalaldur 62,3 ár, 64% karlar) undir lungnabrottnám, hæ. megin í 44% tilfella. Miðmætisspeglun var gerð í 31% tilfella fyrir lungnabrottnámið. Alls reyndust 41 sjúkl. (54%) á stigi I+II, 27 (38%) á stigi IIIA/B og 6 á stigi IV. Í 17% tilfella sást krabbamein í skurðbrún. Aðgerðartími var að meðaltali 161 mín. og blæðing í aðgerð 1100ml. Helstu fylgikvillar eftir aðgerð voru gáttatif/flökt (21%), lungnabólga (6,5%), fleiðruholssýking (5,2%) og öndunarbilun (5,2%). Miðgildi legutíma var 11 dagar. Þrír sjúklingar (3,9%) létust <30 daga frá aðgerð og voru lífshorfur eftir 1 og 5 ár 62,9% og 19,3%. Aldur, TNM-stig og vefjagerð reyndust sjálfstæðir forspárþættir lífshorfa.

Ályktun: Skammtímaárangur lungnabrottnámsaðgerða er góður hér á landi og tíðni alvarlegra fylgikvilla lág. Langtímalífshorfur eru hins vegar lakari en erlendis og aðeins 1 af 5 sjúkl. á lífi 5 árum frá aðgerð. Skýring á þessu er ekki þekkt en ófullnægjandi stigun fyrir skurðaðgerð gæti haft þýðingu, t.d. var hluti sjúklinga með útbreiddan sjúkdóm þar sem skurðaðgerð er ekki talin koma að gagni. Ljóst er að bæta má stigun þessara sjúklinga hér á landi, t.d. með því að fjölga miðmætisspeglunum.

 

 

V-89      Æðaþelsfrumur gegna lykilhlutverki í myndun greinóttrar formgerðar í lungum

Ívar Axelsson1, Ari J. Arason1, Ólafur Baldursson4, Jóhannes Björnsson2, Tómas Guðbjartsson3, Þórarinn Guðjónsson1,5, Magnús Karl Magnússon5

Líffræðideild1, meinafræði-2 skurðlækninga-,3 læknadeild HÍ4, blóðmeinafræðideild Landspítala5

tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur: Greinótt formgerð lungnamyndast frá forgirni meltingarvegar í fósturþroska. Aukin þekking á þroskun og sérhæfingu lungnafruma er mikilvæg til þess að mögulegt sé að kortleggja upphaf og framþróun krabbameinsmyndunar í lungum. Mikill skortur er á góðum frumuræktunarkerfum til rannsókna á þekjuvefsmyndun lungna. Við höfum nýlega lýst nýrri lungnaþekjufrumulínu, VA-10, sem getur m.a. myndað sýndarlagskipta (pseudostratified) þekju í loft-vökvarækt (air-liquid culture) líkt og gerist í efri öndunarvegi. Vitað er að bandvefsfrumur gegna mikilvægu hlutverki í endanlegri sérhæfingu þekjuvefsfruma og í þessari rannsókn höfum við hafið könnun á hugsanlegu hlutverki æðaþelsfruma í þroskun og sérhæfingu lungnaþekju.

Aðferðir: VA-10 lungnaþekjufrumulínan var ræktuð í Þrívíddar-frumurækt (3-D) með og án æðaþelsfruma. Fylgst var með ræktunum í smásjá og var formbygging nánar skilgreind með ónæmislitunum og confocal smásjármyndum. Til samanburðar var stuðst við sneiðar úr eðlilegum lungnavef sem var nánar skilgreindur með ónæmislitunum.

Niðurstöður:Þegar VA-10 frumulínan er ræktuð ein og sér myndar hún kúlu-laga kóloníur án nokkurrar greinóttrar formgerðar. Þegar æðaþelsfrumum var bætt út í ræktina örvuðu þær hins vegar VA-10 frumurnar til vaxtar og kom fram greinótt berkju-alveolar lík formgerð eftir 4-6 daga og á 8-15 dögum náði þessi formgerð fullum þroska. Þessar frumur tjáðu þekjuvefsprótín,s.s ýmis cytokeratín. Greinótt formgerð var aðgreind frá grunnhimnunni með samfelldri tjáningu b1 og b4 integrína. Frumurnar tjáðu einnig lungnapróteínið pro-surfactant C og einnig var áberandi tjáning á FGFR2 viðtakanum á vaxtarbroddum hinna greinóttu strúktúra. Við sjáum einnig áberandi tjáningu á prótíninu Sprouty-2,sem er þekkt lykilprótín í stjórnun á greinóttri formgerð ýmissa líffæra.

Ályktanir: VA-10 berkjufrumulínan sýnir hæfileika til sérhæfingar og myndunar á berkju-alveolar líkri formgerð í þrívíðri rækt. Þessi sérhæfing er háð samrækt með æðaþelsfrumum og gefur tilkynna náið samspil þessara fruma í formgerð lungna. Þessar niðurstöður gefa til kynna að VA-10 frumulínan hafi forvera- eða stofnfrumueiginleika og geti nýst til rannsókna á þroskun og sérhæfingu lungnafruma.

 

 

V-90      Gallblöðrutökur á Landspítala 2006-2007

 Kristín María Tómasdóttir1,2, Sigurður Blöndal1,2, Guðjón Birgisson1,2, Páll Helgi Möller1,2

1Skurðlækningadeild Landspítala, 2læknadeild HÍ

pallm@landspitali.is og kmt@hi.is

 

Inngangur: Gallblöðrutökur eru algengar aðgerðir á Íslandi. Fyrri rannsóknir sýna góðan árangur. Síðustu upplýsingar um slíkar aðgerðir á Landspítala eru frá árinu1998.

Markmið: Kanna árangur af gallblöðrutökum á Landspítala árin 2006-2007.

Aðferðir: Farið var afturvirkt yfir sjúkraskrár sjúklinga sem fóru í gallblöðrutöku. Skráð var aldur, kyn, aðgerðartími, legudagar, bráð eða valin aðgerð, opin eða gegnum kviðsjá, tíðni breytinga yfir í opna aðgerð, ERCP, röntgenmyndataka af gallvegum í aðgerð og fylgikvillar.

Niðurstöður: Framkvæmdar voru 787 gallblöðrutökur. Útilokuð voru 27 tilfelli. Meðalaldur sjúklinga var 51 ár. 70% voru konur. Aðgerðir gegnum kviðsjá voru 751 en 22 þeirra var breytt í opna (3%). 9 aðgerðir voru opnar frá upphafi. Bráðaaðgerðir voru 355 (47%) og val 405 (53%). Meðallegudagar voru 2 (bráða:2,1;val:1,8) en 166 sjúklingar útskrifuðust samdægurs. Meðalaðgerðartími var 65 mín. (bráða:67;val:65). ERCP var framkvæmt hjá 134 sjúklingum (18%), röntgenmyndataka í aðgerð hjá 115 (15%) og 82 fengu kviðarholsdren í aðgerð (11%). Fylgikvilla fengu 72 sjúklingar (9%). 10 alvarlegar sýkingar í kviðarhol (1,3%), 4 margúl í kviðarhol (0,5%), 3 blæðingu (0.5%), 14 eftirlegusteina í gallrás (1,8%), 3 gallleka (1%), 5 alvarlega áverka á gallrás (0,6%), 4 áverka á líffæri í aðgerð (0.5%). 2 sjúklingar létust í kjölfar aðgerðar (0,3%).

Ályktun: Gallblöðrutaka er enn örugg aðgerð á Landspítala. Tíðni alvarlegra fylgikvilla er lág og sambærileg við niðurstöður erlendra rannsókna.

 

 

V-91      Enduraðgerðir vegna blæðinga eftir opnar hjartaskurðaðgerðir á Íslandi

Njáll Vikar Smárason1, Hannes Sigurjónsson2, Kári Hreinsson3, Þórarinn Arnórsson2, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala

nvs1@hi.is; tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur:Árangur hjartaaðgerða á Íslandi hefur lítið verið rannsakaður. Tilgangur þessarar afturvirku rannsóknar var að kanna tíðni og árangur enduraðgerða vegna blæðinga á 6 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir:Sjúklingar ≥18 ára sem gengust undir enduraðgerð vegna blæðinga eftir opna hjartaskurðaðgerð á tímabilinu 2000-2005 voru fundnir eftir tveimur aðskildum skrám. Úr sjúkraskrám voru m.a. skráð lyf sjúklings fyrir aðgerð, blóðgjafir, fylgikvillar og legutími.

Niðurstöður: Alls voru gerðar 103 enduraðgerðir (meðal-
aldur 67,9 ár, 75 karlar) sem er 8% hjartaaðgerða á tímabilinu. Þriðjungur sjúklinganna var á acetýlsalicýlsýru og 8 á klópídógreli síðustu 5 dagana fyrir aðgerð. Meðalblæðing í upphafi enduraðgerðar var 1523 ml (bil 300-4780ml) og á fyrsta sólarhring 3942 ml (bil 690-10740ml). Helmingur sjúklinganna var tekinn í enduraðgerð innan tveggja klst. og 97% innan sólarhrings frá upprunalegri aðgerð. Samtals voru gefnar 16,5 ein af rauðkornaþykkni, 15,6 ein af plasma og 2,3 sett af blóðflögum. Helstu fylgikvillar eftir aðgerð voru hjartsláttaróregla, fleiðruvökvi sem þurfti að tæma út, hjartadrep og sýking í bringubeinsskurði. Miðgildi legutíma var 14 dagar (bil 6-85 dagar), þar af 2 dagar (bil 1-38 dagar) á gjörgæslu. Alls létust 16 sjúklingar (15,5%) ≤30 daga frá aðgerð en 79,6% sjúklinganna voru á lífi ári eftir aðgerð.

Ályktun:Tíðni enduraðgerða vegna blæðinga (8%) er í hærra lagi hér á landi, án þess að skýringin á því sé þekkt. Um er að ræða hættulegan fylgikvilla sem lengir legutíma og getur dregið sjúklinga til dauða. Kostnaður er einnig verulega aukinn vegna blóðgjafa. Því er mikilvægt að leita lausna til að draga úr blæðingum og um leið fækka enduraðgerðum.

 

 

V-92      Bráður nýrnaskaði eftir kransæðahjáveituaðgerðir á Íslandi

Sólveig Helgadóttir1, Ólafur S. Indriðason2, Gísli Sigðurðsson1,3, Hannes Sigurjónsson4, Þórarinn Arnórsson4, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2nýrnadeild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild, 4hjarta- og lungnaskurðdeild, Landspítala

tomasgud@landspitali.is

Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er alvarlegur fylgikvilli hjartaaðgerða og áhættuþáttur fyrir lakari útkomu eftir aðgerð. Í erlendum rannsóknum er tíðni nýrnaskaða eftir hjartaaðgerðir breytileg sem skýrist m.a. af skorti á stöðluðum skilmerkjum á nýrnaskaða. Tilgangur okkar rannsóknar var að kanna í fyrsta sinn tíðni BNS í kjölfar hjartaaðgerða á Landspítala, með hliðsjón af viðurkenndum skilmerkjum.

Efniviður og aðferðir: Aftursæ rannsókn sem náði til sjúklinga sem gengust undir kransæðaaðgerð á Landspítala frá 2002-2006. BNS var skilgreindur skv. RIFLE skilmerkjum. Farið var yfir aðgerðarlýsingar og sjúkra- og svæfingarskrár.

Niðurstöður: Af 569 sjúklingum voru 97 (17%) með skerta nýrnastarfsemi (úGSH ≤60 ml/mín/1,73m2) fyrir aðgerð, þar af 6 (1%) með kreatínín-gildi >200 mmol/L. Alls greindust 90 (15,8%) sjúklingar með BNS; 58 féllu í RISK flokk, 16 í INJURY og aðrir 16 í FAILURE flokk. Sjúklingar með BNS voru 4,1 árum eldri og með lægri útreiknaðan gaukulsíunarhraða fyrir aðgerð (72 vs. 80, p=0,009). Kvenkyn (28% vs. 16%, p=0,01), háþrýstingur (74% vs. 59%, p=0,01) og bráðaaðgerð (11% vs. 2%, p<0,0001) voru algengari í hópnum sem hlaut BNS. Ekki reyndist marktækur munur á tíðni sykursýki, blóðfituröskunar, reykinga, vinstri meginstofns þrengsla, þriggja æða sjúkdóms, hlutfalli sem féll í NYHA flokk III-IV eða aðgerða á sláandi hjarta.

Ályktun: Samkvæmt RIFLE skilmerkjum hlutu tæplega 16% sjúklinga BNS eftir kransæðaaðgerð á Landspítala sem er sambærilegt við niðurstöður erlendra rannsókna. Enn fremur virðist hærri meðalaldur, kvenkyn, háþrýstingur, bráðaaðgerð og kreatínín gildi í efri eðlilegum mörkum fyrir aðgerð marktækt algengari í hópi nýrnaskaðaðra.

 

 

V-93      Sárasogsmeðferð við sýkingar í bringubeinsskurði eftir opnar hjartaaðgerðir – fyrstu tilfellin á Íslandi

Steinn Steingrímsson1, Magnús Gottfreðsson1,2, Ingibjörg Guðmundsdóttir3, Johan Sjögren4, Tómas Guðbjartsson1,5

1Lækna- og 3hjúkrunardeild HÍ,2smitsjúkdómadeild og 5 hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 4hjartaskurðdeild háskólasjúkrahússins í Lundi, Svíþjóð

steinnstein@gmail.com; tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur: Á síðustu árum hefur meðferð sýkinga í bringubeinsskurði með sárasogsvampi (Vacuum-Assisted-Closure, VAC) rutt sér til rúms. Í stað þess að skilja sárið eftir opið eða beita skolmeðferð með kera, er komið fyrir svampi í skurðsárinu og hann tengdur við sogtæki. Meðferðin hemur vöxt baktería, örvar blóðflæði og örvefsmyndum í sárinu. Hér eru kynnt fyrstu tilfellin á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Teknir voru með allir sjúklingar með sýkingu í bringubeinsskurði eftir opnar hjartaskurðaðgerðir á Landspítala á tímabilinu júlí 2005 til des. 2008. Þeir voru allir meðhöndlaðir með sárasogsvampi. Kannaðar voru ábendingar meðferðar og lagt mat á árangur.

Niðurstöður: Alls fengu 12 einstaklingar (meðalaldur 69 ára, 10 karlar) sárasogsmeðferð (1,3% sýkingartíðni), flestir eftir kransæðahjáveituaðgerð (n=9). Algengustu sýkingarvaldar voru kóagúlasa-neikvæðir Staphylokokkar(n=6) og S. aureus (n=4). Sárasogsmeðferð hófst 19 dögum frá upphaflegri aðgerð og var meðferðarlengd 14 dagar (miðgildi; bil 5-36). Bringubeinsvírar voru fjarlægðir í 9/12 tilvikum og fjöldi svampskiptinga var á bilinu 2 til 9. Unnt var að loka bringubeininu hjá 10 sjúklingum og þurftu 3 stálplötu til styrkingar. Í einu tilfelli þurfti að hætta sárasogsmeðferð. Um var að ræða P. aeruginosa sýkingu og var í staðinn notast við edikvættar grisjur með góðum árangri. Ekki sáust alvarlegir fylgikvillar tengdir sárasogsmeðferð, en einn sjúklingur lést 35 dögum frá aðgerð vegna miðmætisbólgu og sýklalosts. Hinir sjúklingarnir 11 eru á lífi í dag og bringubeinið gróið.

Ályktanir:Meðferð bringubeinssýkinga með sárasogsvampi lofar góðu. Alvarlegir fylgikvillar meðferðar eru fátíðir og tekist hefur að uppræta langflestar sýkinganna. Rétt er þó að taka fram að um fá sjúklinga er að ræða og því varasamt að draga of miklar ályktanir um árangur meðferðar.

 

 

V-94      Árangur skurðaðgerða við risablöðrum í lungum

Sverrir I. Gunnarsson1, Kristinn B. Jóhannsson1, Hilmir Ásgeirsson2, Marta Guðjónsdóttir3,5, Björn Magnússon4, Tómas Guðbjartsson1,5

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2lyflækningadeild Landspítala, 3lungnaendurhæfingardeild Reykjalundar, 4Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað, 5 læknadeild HÍ

tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur:Risablöðrur (giant bullae) í lungum eru sjaldgæft fyrirbæri sem ná yfir a.m.k. 1/3 lungans. Þær greinast oftast í efri lungnablöðum miðaldra stórreykingmanna og skerða lungnastarfsemi með því að þrýsta á aðlægan lungnavef. Mælt er með skurðaðgerð ef einkenni eða fylgikvillar (t.d. loftbrjóst) hafa gert vart við sig. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna árangur þessara aðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir:Frá 1992-2008 gengust 12 sjúkl. (aldur 58 ár, 11 karlar) undir risablöðrubrottnám á Íslandi. Meðalstærð blaðranna var x ml (bil x-y) en 7 sjúkl. höfðu blöðrur í báðum lungum. Allir sjúkl. voru með alvarlega lungnaþembu (GOLD-stig III eða IV) og höfðu langa reykingasögu. Blöðrurnar voru fjarlægðar með fleygskurði (n=x) eða blaðnámi, í gegnum bringubeins- (n=x) eða brjóstholsskurð. Skráðir voru fylgikvillar og lifun.

Niðurstöður:Aðgerðirnar tóku 91 mín að meðaltali (bil 75-150) og fylgikvillar komu ekki fyrir í aðgerð. FEV1 mældist 1,0 L fyrir aðgerð (33% af spáðu) og FVC 2,9 L (68% af spáðu), en 2 mán. eftir aðgerð voru sömu gildi 1,8 L (58% af spáðu) (p=0,015) og 3,1 (81% af spáðu) (p=0,6). Helstu fylgikvillar eftir aðgerð voru viðvarandi loftleki (>7 d.) (n=9), lungnabólga (n=2) og bringubeinslos (n=1). Allir sjúklingarnir lifðu aðgerðina og útskrifuðust heim, að jafnaði 36 d. frá aðgerð (bil 10–74). Þrír sjúklingar þurftu heimasúrefni fyrir aðgerð en aðeins einn eftir aðgerð. Í dag (1. mars 2009) eru sjö sjúklinganna á lífi en hinir fimm létust að meðaltali 9 árum frá aðgerð (100% 5 ára lífshorfur).

Ályktun:Árangur þessara aðgerða hér á landi verður að teljast góður. Marktæk aukning varð á FEV1, alvarlegir fylgikvillar reyndust fátíðir og allir sjúklingarnir á lífi 5 árum frá aðgerð. Vandamál eftir þessar aðgerðir er viðvarandi loftleki sem lengir legutíma verulega.

 

 

V-95      Árangur lungnasmækkunaraðgerða við lungnaþembu á Íslandi 1996-2008

Sverrir I. Gunnarsson1,4, Kristinn B. Jóhannsson1, Marta Guðjónsdóttir2,4, Hans J. Beck2, Björn Magnússon3, Tómas Guðbjartsson1,4

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2hjarta- og lungnarannsókn Reykjalundi, 3Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað, 4 læknadeild HÍ

tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur:Lungnasmækkunaraðgerð (lung-volume reduction surgery) getur bætt líðan og lífshorfur sjúklinga með alvarlega lungnaþembu. Þar sem fylgikvillar eru tíðir hafa þessar aðgerðir þó verið umdeildar. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna árangur þessara aðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir:Framsæ rannsókn á 16 sjúklingum (meðalaldur 59 ár, 10 karlar) með alvarlega lungnaþembu sem gengust undir lungnasmækkunaraðgerð á Landspítala frá 1996 til 2008. Í gegnum bringubeinsskurð var ~20% af efri hluta beggja lungna fjarlægður með heftibyssu. Skráð voru afdrif sjúklinga, fylgikvillar, legutími og öndunarmælingar fyrir og eftir aðgerð. Meðaleftirfylgd var 8 ár.

Niðurstöður: Aðgerðartími var 86 mín. (bil 55-135) og miðgildi legutíma 26 dagar (bil 9-85). Allir sjúklingarnir lifðu af aðgerðina. Viðvarandi loftleki (n=7) var algengasti fylgikvillinn en 4 þurftu í enduraðgerð, 3 vegna bringubeinsloss og hinir vegna blæðingar, gallblöðrubólgu og rofs á smágirni. Einn sjúkling þurfti að endurlífga í enduraðgerð. FEV1 fyrir aðgerð mældist 0,97 L (33% af áætluðu), TLC 7,8 L (132% af áætluðu), RV 4,5 L (205% af áætluðu) og þrek á áreynsluprófi 69 W. Einum mánuði frá aðgerð hafði FEV1 aukist um 34% í 1,3 L (p=0.004) en breyting á öðrum gildum var ekki marktæk, m.a. á RV sem lækkaði um 18% í 3,7 L og þol sem aðeins jókst um 3%. Í dag (febrúar 2009), eru 10 af 16 sjúklingum á lífi og hrá meðallifun 96 mánuðir (bil 9-151).

Ályktun:FEV1 jókst marktækt eftir aðgerð og allir sjúklingarnir lifðu af aðgerðina. Hins vegar var tíðni alvarlegra fylgikvilla há og legutími langur. Þar sem um lítinn sjúklingahóp er að ræða og viðmiðunarhópur er ekki til staðar verður að túlka niðurstöður varlega.

 

 

V-96      Offita og snemmkomnir fylgikvillar kransæða-
hjáveituaðgerða

Sæmundur J. Oddsson1, Hannes Sigurjónsson1, Sólveig Helgadóttir2, Þórarinn Arnórsson1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild HÍ

saemiodds@hotmail.com

 

Inngangur: Offita hefur verið tengd hærri tíðni fylgikvilla eftir skurðaðgerðir, þar með taldar opnar hjartaaðgerðir. Nýlegar rannsóknir benda þó til þess að tengsl offitu og tíðni fylgikvilla sé flóknara en áður var talið, t.d. eru til rannsóknir sem hafa sýnt lægri tíðni fylgikvilla í þessum hópi sjúklinga (obesity paradox). Tilgangur þessara rannsóknar var kanna tengsl offitu við árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi.

Efni og aðferðir: Aftursýn rannsókn sem náði til allra sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð (CABG/OPCAB) frá júní 2002 til febrúar 2005, samtals 279 sjúklinga. Sjúklingum var skipt í offitu- (BMI > 30 kg/m2) (28%), og viðmiðunarhóp (BMI ≤30 kg/m2) (72%). Áhættuþættir og fylgikvillar voru bornir saman.

Niðurstöður: Hóparnir voru áþekkir með tilliti til helstu áhættuþátta eins og sykursýki, háþrýstings og blóðfituhækkunar, en einnig tegund aðgerðar. EuroSCORE var marktækt lægra í offituhópnum og aðgerðartími þeirra 22 mín. lengri. Enginn marktækur munur reyndist á tíðni fylgikvilla í hópunum tveimur né á dánartíðni.

Ályktun:Tíðni fylgikvilla og dánartíðni eftir kransæðahjá-veituaðgerð er ekki marktækt aukin hjá offitusjúklingum en aðgerðirnar taka lengri tíma. Þar sem EuroSCORE offitu-sjúklinganna var lægra er ekki hægt að útiloka að valskekkja sé til staðar og því er fyrirhuguð frekari tölfræðileg úrvinnsla, m.a. aðþáttagreining.

 

 

V-97      Háfjallaveiki, S100B og súrefnismettun í þunnu lofti á Monte Rosa

Tómas Guðbjartsson1,5, Engilbert Sigurðsson2,5, Magnús Gottfreðsson3,5, Orri Einarsson4, Per Ederoth6, Invar Syk8, Henrik Jönsson7

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2geðdeild, 3smitsjúkdómadeild Landspítala, 4röntgendeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, 5læknadeild HÍ, 6svæfinga- og gjörgæsludeild, 7hjarta- og lungnaskurðdeild háskólasjúkrahússins í Lundi, Svíþjóð, 8skurðdeild háskólasjúkrahússins í Malmö, Svíþjóð

tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur: Þegar komið er yfir 2500 m hæð getur háfjallaveiki og háfjallaheilabjúgur gert vart við sig. Orsökin er súrefnisskortur en margt er á huldu um meingerðina. S100B er ensím í heila og taugavef sem hækkar í blóði vegna leka í háræðum heila, t.d. við heilaáverka og blóðþurrð. Í þessari framsýnu rannsókn könnuðum við hvort S100B hækki í blóði við lækkun á súrefnis-mettun.

Efniviður og aðferðir: Sjö heilsuhraustir læknar klifu á þremur dögum tind Monte Rosa í Ölpunum. Á upp- og niðurleið voru gerðar samtals 5 prófanir í mismunandi hæð (1155 m, 2864 m, 3647 m og 4554 m), m.a. tekin S100B-blóðsýni, fram-
kvæmd taugasálfræðipróf og einkenni háfjallaveiki metin með Lake Louise kvarðanum.

Niðurstöður: Loftþrýstingur lækkaði jafnt og þétt og varð lægstur 586 millibör á tindinum Súrefnismettun lækkaði um 6,3-12,4% (p<0,05). S100B hækkaði um 42-122% frá grunngildi, mest fyrstu tvo dagana (42% og 47% hækkun) en síðan dró úr hækkuninni (33%). Lake Louise meðalgildi hækkuðu úr 0,57 í 2,57 (p<0,05). Almennt urðu ekki marktækar breytingar á frammistöðu í taugasálfræðiprófum, enda þótt tilhneigingar gætti til minni getu í viðbrögðum/kóðun (processing speed), sveigjanleika í hugsun (cognitive flexibility) og stýrigetu (executive function).

Ályktun:Þessi rannsókn sýnir að S100B hækkar marktækt í aukinni hæð, sérstaklega þegar mikil hæðaraukning á sér stað á skömmum tíma, en eftir það dregur úr hækkuninni. Sennilega má rekja hækkun S100B til súrefnisskorts sem veldur háræðaleka í heilanum. Þó verður að túlka niðurstöður varlega þar sem styrkur rannsóknarinnar er lítill með aðeins 7 þátttakendur.

 

 

V-98      Góður árangur kælimeðferðar eftir hjartastopp

Valentínus Þ. Valdimarsson1,2, Gísli H. Sigurðsson1,2, Felix Valsson1

1Landspítala, 2 læknadeild HÍ

felix@lsh.is

 

Inngangur:Endurlífgun er reynd hjá um 100 sjúklingum á ári sem fara í hjartastopp utan sjúkrahúsa. Helsti fylgikvilli eftir endurlífgun er alvarlegur heilaskaði en kæling þessara sjúklinga hefur sýnt sig að dragi úr heilaskaða.

Markmið: Þessi könnun lýsir áhrifum kælingar á dánartíðni og heilastarfsemi hjá 60 sjúklingum sem voru meðhöndlaðir með kælingu á gjörgæsludeild Landspítala eftir hjartastopp.

Efni og aðferðir: Allir sjúklingar 18 ára og eldri sem meðhöndlaðir voru með kælingu eftir hjartastopp utan sjúkrahúss á sl. þremur árum voru teknir með í rannsóknina (n=60). Sjúklingarnir voru kældir niður í 32-34°C með köldu innrennsli og kælivél (Coolgard®) í 24 klst.

Niðurstöður: Við útskrift af spítalanum var 68% sjúklinga lifandi og aðeins 4 sjúklingar (7%) með skerta heilastarfsemi og enginn meðvitundarlaus. Svipuð útkoma var 6 mánuðum seinna. Meðalaldur var 61 ár (20-89 ára), 80% karlmenn, meðaltími frá stoppi að blóðflæði: 17 mín. (0-60) og 85% voru með hjartasjúkdóma sem líklega ástæðu fyrir hjartastoppi.

Vitni að hjartastoppi og stuðanlegur taktur jók líkur á lifun (83% og 48%, P=0,009) og góðri heilastarfsemi (77% og 40%, P=0,008) við útskrift.

Ályktanir: Miðað við rannsókn á sambærilegum sjúklingahóp, áður en kælimeðferð hófst, hefur lifun aukist úr 28% í 68%. Af þeim sjúklingum sem lifðu af er stór meirihluti með óskerta vitræna getu og enginn meðvitundarlaus. Góðar horfur eru hjá þeim sem leggjast inn á gjörgæslu og hafa stuðanlegan fyrsta takt en lélegar hjá þeim sem hafa rafleysu.

 

 

V-99      Er öruggt að fjarlægja eðlilega botnlanga í gegnum kviðsjá?

Valentínus Þ. Valdimarsson1,2, Sigurður Blöndal1,2, Páll Helgi Möller1,2

1Landspítala, 2 læknadeild HÍ

pallm@landspitali.is

 

Inngangur:Botnlangabólga er algengur sjúkdómur en greining getur verið óljós. Fyrir tíma kviðsjár var botnlangi alltaf fjarlægður. Nýlega hefur komið í ljós að óhætt er að skilja eftir eðlilega útlítandi botnlanga sem finnast við kviðsjá.

Markmið: Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða fylgikvilla í kjölfar brottnáms á eðlilegum botnlanga gegnum kviðsjá.

Efniviður og aðferðir: Allar sjúkraskrár sjúklinga eldri en 18 ára sem fóru í bráða botnlangatöku með kviðsjá og vefjagreining sýndi eðlilegan botnlanga, voru skoðaðar afturvirkt fyrir tímabilið 2000 til 2008 (n=122). Skráð var aldur, kyn, mat skurðlæknis í aðgerð, greining, legutími eftir aðgerð og fylgikvillar aðgerðar.

Niðurstöður: Meðalaldur var 28,8 ár (bil:18-69) og voru konur 68,0%. Skurðlæknir mat botnlanga óbólginn í 78,7% tilfella. Hjá 61 sjúklingi fundust við aðgerð aðrar greiningar en botnlangabólga. Algengustu greiningarnar voru sprungin blaðra á eggjastokk (n=12) og legpípubólgu (n=7). Fylgikvillar komu fram hjá 23 sjúklingum (18,9%). Alls var fjöldi fylgikvilla 32 og voru 6 sjúklingar með fleiri en tvo fylgikvilla. Fylgikvillar voru: sárasýkingar (n=6), þvagfærasýkingar (n=5), blæðing (n=5), djúp kviðarholssýking (n=5), margúll (n=5), garnalömun (n=2) lungnabólga (n=2), þvagtregða (n=1) og djúpbláæðasegi (n=1).

Ályktanir:Tíðni fylgikvilla er há við brottnám á eðlilegum botnlaga (18,9%) ef tekið er mið af því að fylgikvillar eftir greinandi kviðsjáraðgerð (e. diagnostic laparoscopy) er aðeins um 0-2% samkvæmt nýlegum rannsóknum. Ekki er hægt að mæla með brottnámi á eðlilega útlítandi botnlanga gegnum kviðsjá.

 

V-100        Miðmætisspeglanir á Íslandi

Þóra Sif Ólafsdóttir1, Gunnar Guðmundsson2,4, Jóhannes Björnsson3,4, Tómas Guðbjartsson1,4

Hjarta- og lungnaskurðdeild1, lungnadeild2, RH.meinafræði3, læknadeild HÍ

tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur:Speglun er kjörrannsókn við sýnatöku úr miðmæti, t.d. við æxlisstigun. Í svæfingu er gerður 2 cm skurður neðst á hálsi, spegli tengdum ljósgjafa rennt niður eftir utanverðum barka og sýni tekin úr framverðu miðmæti. Blæðingar eru hættu-
legasti fylgikvillinn og getur verið erfitt að stöðva. Ekki liggja fyrir upplýsingar um ábendingar eða árangur þessara aðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggð á öllum sjúklingum sem gengust undir miðmætisspeglun á Íslandi tímabilið 1. janúar 1983-31.des 2007. Listi og upplýsingar um sjúklinga fengust úr aðgerða- og meinafræðiskrá Landspítala og sjúkraskrám. Tímabilinu var skipt í fimm 5 ára tímabil.

Niðurstöður: Alls voru gerðar 236 aðgerðir (61% karlar) og var meðalaldur 59,9 ár (bil 11-89 ár). Aðgerðum fjölgaði úr 16 á fyrsta tímabili í 83 síðasta tímabilið. Helstu ábendingar voru stigun lungnakrabbameins (64%), óþekkt fyrirferð í miðmæti (24%) og grunur um sarklíki (9%). Ábendingar héldust
óbreyttar á milli tímabila. Aðgerðirnar tóku að meðaltali 30 mín (bil 10-320) og legutími var að jafnaði 1 dagur (miðgildi, bil 0,5-26). Algengustu vefjagreiningar voru ósérhæfðar breytingar (41%), meinvörp lungnakrabbameins (22%) og sarklíki (12%). Helstu fylgikvillar voru skurðsýkingar hjá 6 sjúklingum (2,5%), hæsi vegna raddbandalömunar hjá 4 (1,7%) og blæðingar (>500 ml) hjá 3 sjúklingum (1,3%). Tvö dauðsföll urðu innan 30 daga (0,8%); annað vegna blæðingar í aðgerð frá æxli sem óx ífarandi í ósæðarboga og hitt vegna pseudomonas lungnabólgu 11 dögum frá aðgerð.

Ályktun: Miðmætisspeglunum fer fjölgandi á Íslandi, sérstak-lega í tengslum við stigun lungnakrabbameins. Rannsóknin er örugg með lága tíðni fylgikvilla.

 

 

V-101    Samantekt brjóstauppbygginga eftir brottnám á Landspítala 1997-2008

Svanheiður L. Rafnsdóttir1, Rut Gunnarsdóttir2, Þorvaldur Jónsson3, Þórdís Kjartansdóttir1

1Lýtaskurðlækningadeild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3skurðlækningadeild Landspítala

svanheidur@gmail.com

 

Inngangur:Tilgangur rannsóknarinnar var að safna upp-lýsingum um brjóstauppbyggingar sem gerðar hafa verið á Landspítalanum undanfarin ár.

Efniviður og aðferðir:Rannsóknin er afturskyggn og byggist á brjóstauppbyggingum eftir brottnám á tímabilinu 1997-2008. Fundinn var sjúklingalisti eftir aðgerðarkóðum (brottnám og brjóstauppbyggingar). Sjúkraskýrslur fundnar og upplýsingar skráðar (aldur, tímasetning aðgerðar miðað við brottnám, gerð og fjöldi aðgerða, legutími, fylgikvillar, aðgerð á hinu brjóstinu.

Niðurstöður:Heildarfjöldi aðgerða var 552. Aukning var á fjölda aðgerða, mest um 71% aukning milli áranna 2005-2007. Hlutfall tafarlausra brjóstauppbygginga af heildarfjölda aðgerða breyttist lítið milli ára þar til árið 2008 en náði þá 62,5% af heildarfjölda. Tegund aðgerða breyttist mikið á tímabilinu. TRAM-flipa aðgerðir sem voru algengastar í upphafi hurfu í lok tímabilsins og LD-flipar komu í staðinn þar sem þörf var á flipa. Ígræði (prótesur og vefjaþenjarar) urðu mun fleiri við lok tímabilsins miðað við upphaf þess. Algengara var að laga hitt brjóstið (brjóstaupplyfting, brjóstaminnkun eða brjóstastækkun) samfara brjóstauppbyggingunni í lok tímabilsins miðað við upphaf þess. Heildarfjöldi aðgerða á tímabilinu 1997-2004 breyttist lítið en síðustu fjögur ár hefur heildarfjöldi aðgerða tvöfaldast miðað við fyrstu 8 ár tímabilsins. Fylgikvillar voru algengastir við TRAM-flipa aðgerðir. Drep í hluta eða öllum flipanum varð hjá 24 sjúkl. af 65 (36,9%). Sermigúll eftir LD-flipa var hjá 17 af 74 sjúkl.(22,9%). Marktækur munur var á fjölda legudaga eftir aðgerðategund (F(3,202)=19,423;p=0,001), lengstur fyrir flipa-aðgerðir en stystur fyrir aðgerðir með ígræði.

Ályktun:Aðgerðum fjölgaði almennt yfir tímabilið, sérstaklega síðustu þrjú ár. Árið 2008 voru tafarlausar brjóstauppbyggingar fleiri heldur en síðbúnar. Líklega eru fleiri konum boðið upp á tafarlausa uppbyggingu en áður og fjölgun í hópi skurðlækna er án efa hluti af skýringunni. Hjá þeim konum þar sem brjóstauppbygging með flipa er nauðsynleg hafa LD-flipar tekið við af TRAM-flipum. Undir lok tímabilsins eru aðgerðir með ígræði algengasta tegund aðgerða sem getur bent til þess að konur sæki í einfaldari aðgerðir.

 

 

V-102    Er vökvameðferð með sterkjulausn betri fyrir ristil-anastomosur en saltvatnslausn?

Gísli H. Sigurðsson, Oliver Limberger, Luzius B. Hiltebrand

Department of Anaesthesiology, Inselspital, Bern og University of Bern, og svæfinga-, gjörgæsludeild, Landspítala og læknadeild HÍ

gislihs@landspitali.is

 

Inngangur: Ófullnægjandi blóðflæði og þarafleiðandi súrefnisskortur í anastomosum þarma við kviðarholsaðgerðir getur leitt til alvarlegra aukakvilla. Við könnuðum áhrif mismunandi vökvagjafar á súrefnisþrýsting í ristilanastomosum eftir kviðarholsaðgerðir í svínum.

Aðferð: 27 svín voru svæfð, lögð í öndunarvél og skipt í þrjá meðferðarhópa (n=9 í hverjum). Allir hóparnir þrír, A, B og C fengu Ringers laktat (RL) lausn í æð 3 ml/kg/klst. Hópur B fékk auk þess 250 ml bolusa af RL og hópur C 250 ml bólusa af sterkjulausn (hydroxyethyl starch 140/0,4) í æð. Vökvabólus var gefinn í hópum B og C ef miðbláæðablóðsmettun var undir 60%. Hjartaútfall var mælt með stöðugri „thermodilution“, svæðisblóðflæði í superior mesenteric slagæðinni með transit time flowmetry og súrefnisþrýstingur í ristilanastomosum með Clarks elektróðum.

Niðurstöður: Blóðþrýstingur (MAP) og hjartaútfall (CO) voru áþekk í hópum B og C en voru lægri í hópi A. Eftir 4 klst meðferð hafði súrefnisþrýstingur í heilbrigðum hluta ristils aukist um 50 ± 31% ó hópi C en 23 ± 40% í hópi B en minnkaði um 8 ± 23% í hópi A (miðað við ástand í lok aðgerðar, mean ± SD, p < 0,01). Súrefnisþrýstingur í anastomosu jókst á sama tíma um 145 ± 93% í hópi C, 47 ± 58% í hópi B og 16 ± 22% í hópi A (p < 0,01). Laktat í ristli (microdialysis) lækkaði í hópi C en ekki í hópi B en hækkaði í hópi A.

Umræða: Vökvameðferð með sterkjulausn jók súrefnisþrýsting og lækkaði laktat gildi í ristilanastomosu marktækt og mun meira en saltvatnslausnir. Þessar niðurstöður benda til að notkun sterkjulausna í opnum ristilaðgerðum geti haft kosti fram yfir hefðbundnar saltlausnir.

V-103    Smáæðablóðflæði í þörmum eftir opnar kviðarholsaðgerðir. Áhrif mismunandi vökvagjafar

Gísli H. Sigurðsson, Oliver Limberger, Luzius B. Hiltebrand

Department of Anaesthesiology, Inselspital, Berne og University of Bern, svæfinga- og gjörgæsludeild, Landspítala og læknadeild HÍ

gislihs@landspitali.is

 

Inngangur: Truflanir á smáæðablóðflæði þarma eru algengar eftir stórar kviðarholsaðgerðir og geta leitt til alvarlegra auka-
kvilla. Við könnuðum áhrif mismunandi vökvagjafar á smáæða-blóðflæði þörmum eftir kviðarholsaðgerðir í svínum.

Aðferð: 27 svín voru svæfð, lögð í öndunarvél og skipt í þrjá meðferðarhópa (n=9 í hverjum). Allir hóparnir þrír, A, B og C fengu Ringers laktat (RL) lausn í æð 3 ml/kg/klst. Hópur B fékk auk þess 250 ml bolusa af RL og hópur C 250 ml bólusa af sterkjulausn (hydroxyethyl starch 140/0,4) í æð. Vökvabólus var gefinn í hópum B og C ef miðbláæðablóðsmettun var undir 60%. Hjartaútfall var mælt með stöðugri „thermodilution“, svæðisblóðflæði í superior mesenteric slagæðinni með transit time flowmetry og smáæðablóðflæði í slímhúð og vöðvalagi smáþarma með laser Doppler flæðimælingu.

Niðurstöður: Eftir 4 klst meðferð voru blóðþrýstingur, hjarta-útfall, mesenterialslagæðarblóðflæði og miðbláæðablóðsmettun áþekk í hópum B og C en voru lakari í hópi A. Í hópi C jókst smáæðablóðflæði í slímhúð smáþarma um 50% og súrefnis-þrýstingur í þarmavegg um 30% en bæði héldust óbreytt eða minnkuðu í hópum A og B (p<0,01).

Umræða: Vökvameðferð með sterkjulausn jók marktækt smáæðablóðflæði og súrefnisþrýsting í smáþörmum eftir kviðarholsskurðaðerðir. Meðferð með saltvatnslausn hafði ekki slík áhrif þrátt fyrir sambærilegan blóðþrýsting og hjartaútfall. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til að vökvameðferð með sterkjulausn geti hugsanlega minnkað hættu á blóðþurrð í þörmum eftir kviðarholsskurðaðgerðir miðað við notkun saltvatnslausna.

 

 

V-104    Kæling sem meðferð á gjörgæsludeild eftir súrefnisskort í heila af völdum hengingar, drukknunar eða eitrunar á Landspítala

Sonja Baldursdóttir, Kristinn Sigvaldason, Sigurbergur Kárason, Felix Valsson, Gísli H. Sigurðsson

Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala og HÍ

gislihs@landspitali.is

 

Inngangur: Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á betri horfur sjúklinga sem voru meðhöndlaðir með kælingu líkamans í 32-34°C í 24 klst. eftir hjartastopp og er slíkri meðferð beitt á Landspítala. Síðan 2002 hefur kælingu auk þess verið beitt hjá sjúklingum sem voru meðvitundarlausir eftir súrefnisskort í heila svo sem eftir hengingu, drukknun eða metan- og kolmónoxíðeitranir. Markmið rannsóknarinnar var að kanna árangur kælingar hjá þessum sjúklingahópi á gjörgæsludeildum Landspítala.

Aðferðir: Allir sjúklingar sem höfðu verið meðhöndlaðir með kælingu af öðrum orsökum en hjartastoppi af völdum hjartasjúkdóms á árunum 2002-2009 voru teknir með í rannsóknina. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám. Skráð var m.a. ástæða kælingar, aldur og kyn, ástand við komu neyðarbíls, tími þar til líkamshiti var kominn undir 34°C, legutími á gjörgæslu og á sjúkrahúsi, fjöldi þeirra sem lést og ástand þeirra sem lifðu við útskrift (CPS 1-5).

Niðurstöður: Fjórtán sjúklingar allir karlmenn (9-60 ára) voru kældir, 8 eftir hengingu, 5 náðu sér að fullu (CPS 1) en 3 létust (CPS 5). Þrír voru kældir eftir drukknun, einn náði sér (CPS 1) en 2 létust (CPS 5). Tveir voru kældir eftir kolmónoxíðeitrun og náði annar fullum bata (CPS 1) en hinn átti erfitt með að fara eftir flóknum fyrirmælum (CPS 2). Einn var kældur eftir metangaseitrun (CPS 1). Tími frá því að sjúklingur fannst þar til hita undir 34°C var náð var frá 60 mín upp í 27 klst.

Ályktun: Þeir sem eru meðvitundarlausir eftir blóðþurrð í heila hafa oftast orðið fyrir varanlegum heilaskemmdum. Því vekur athygli góður bati sjúklinganna sem lifðu af í þessum hópi. þ.e. enginn lifði af með slæma útkomu (CPS 3-4). Þótt erfitt sé að fullyrða um áhrif kælingar hjá þessum takmarkaða sjúklingahópi benda niðurstöðurnar til að kæling minnki líkur á varanlegum heilaskaða eftir heilablóðþurrð.

 

 

V-105    Notkun á blóðflögulýsötum til ræktunar á mesenchymal stofnfrumum

Hulda Rós Gunnarsdóttir1,Brendon Noble2, Ólafur E. Sigurjónsson1,3

Blóðbankinn Landspítala1, Scottish Center for Regenerative Medicine, University of Edinburgh, Scotland 2, tækni og verkfræðideild HR3

oes@landspitali.is

 

Inngangur:Mesenchymal stofnfrumur (MSC) er að finna í mörgum vefjum líkamans eins og beinmerg, fituvef, lungnavef og hafa verið bundnar miklar vonir við að hægt sé að nota þær læknisfræðilegri meðferð. Eitt vandamál við notkun þeirra er að nauðsynlegt er að fjölga þeim ex vivo í kálfa sermi. Galli við kálfasermi er að það getur verið mikill munur á “sermis lota” og hættu er á ónæmisvari gegn próteinum sem þar er að finna. Nýlega birtist röð af greinum þar sem blóðflögulýsöt voru notuð til ræktunar á MSC frumum Geymslutími blóðflaga eru 5-7 dagar sem leiðir til að 15-20% af öllum blóðflögueiningum er fargað.

Tilgangur og markmið:Tilgangur þessa verkefnis er að athuga áhrif þess að rækta MSC frumur í útrunnum blóðflögulýsötum á fjölgun, sérhæfingarvirkni og virkni þeirra in vitro.

Efni og aðferðir:Mesenchymal stofnfrumur, einangraðar úr beinmerg, voru ræktaðar með ferskum eða útrunnum blóð-flögulýsötum og bornar saman við frumur ræktaðar með kálfa sermi. Gæði MSC var athugað með greiningu á yfirborðs-sameindum í frumuflæðisjá, hæfni frumnanna til fjölgunar og hæfileika frumnanna til sérhæfingar. Einnig var kannað hvort MSC frumur ræktaðar með útrunnu blóðflögulýsasti gæti bælt T-frumu fjölgun.

Niðurstöður:Mesenchymal stofnrumur ræktaðar með blóð-flögulýsati vaxa svipað hratt og MSC frumur ræktaðar í kálfa sermi. Enginn munur er eftir því hvort notað er blóðflögulýsat unnið úr ferskum eða útrunnum blóðflögum. Engin breyting er á tjáningu yfirborðsameinda sem einkenna MSC frumur. Hins vegar sjáum við aukningu í bein og fitusérhæfingu í blóðflögulýsötum.

Ályktanir:Fyrstu niðurstöður benda til þess að það að rækta MSC frumur í blóðflögulýsati búið til úr útrunnum blóðflögum virki jafnvel og ræktun frumnanna í kálfa sermi. Við munum nú kanna nánar hvaða áhrif ræktun MSC í blóðflögulýsati hefur á sérhæfingu og virkni frumnanna.

 

 

V-106    Áhrif markvissrar heilsuþjálfunar á fjölda ónæmisfrumna í blóði hjá einstaklingum 70 ára og eldri

Leifur Þorsteinsson1, Steinunn Leifsdóttir2, Janus Guðlaugsson2, Erlingur Jóhannsson2,Vilmundur Guðnason3, Sveinn Guðmundsson1

1)Blóðbankinn Landspítala, 2)menntavísindasvið HÍ, 3)rannsóknastöð Hjartaverndar

leifurth@lsh.is

 

Inngangur: Rannsóknir á áhrifum reglubundinnar heilsu-þjálfunar eldri aldurshópa (70+) hefur verið lítill gaumur gefinn á Íslandi. Með vakningu í þessa veru er ekki óhugsandi að bæta megi heilsu þessa fólks. Vitað er að með hækkuðum aldri minnkar hæfileiki ónæmiskerfisins til að takast á við sýkingar.

Tilgangur og markmið: Hvaða áhrif hefur 26 vikna heilsuþjálfun, 70 ára og eldri, á heildarfjölda ónæmisfrumna (lymphocytes/monocytes) í blóði? Um er að ræða hluta af stærri rannsókn sem mældi mismunandi heilsufarsþætti fyrir og eftir þjálfun (íhlutun).

Efniviður og aðferðir: Af heildarúrtakinu (n=105) voru valdir af handahófi 28 einstaklingar, 17 úr þjálfunarhóp og 11 úr viðmiðunarhóp. Til samanburðar voru 25 einstaklingar, 20-30 ára. Hjá þessu fólki var gerð heildarhvítfrumutalning. Hlutfall einstakra flokka ónæmisfrumna var ákvarðað í frumuflæðisjá eftir merkingu með eftirfarandi einstofna mótefnum: CD14, CD19, CD3, CD4, CD8 CD28 og CD34. Þjálfunarhópur stundaði þjálfun í 26 vikur en viðmiðunarhópur hélt sínum sama lífsstíl án sérstakrar íhlutunar.

Niðurstöður: Þó heildarfjöldi allra frumugerða væri heldur hærri hjá þjálfunarhóp en viðmiðunarhóp var hann ekki tölfræðilega marktækur (p>0,05, Mann-Whitney). Marktækur munur (p<0,05) kom hinsvegar fram þegar báðir hópar voru lagðir saman og bornir saman við niðurstöður þeirra yngri (20-30 ára), fyrir allar mælingar nema, CD14, CD4 og þess hluta T-lymphocyta sem voru CD28 neikvæðir.

Ályktun: Þó ekki hafi tekist að sýna fram á marktæka aukningu í fjölda áðurnefndra frumugerða með 26 vikna heilsuþjálfun er ekki óhugsandi að með lengingu þjálfunartímabilsins og/eða fjölgun þátttakenda megi fá fram marktæk áhrif, í þá veru að færa fjölda ónæmisfrumna nær gildum þeirra yngri og þannig styrkja ónæmiskerfið.

 

V-107        Þroskun æðaþelsfrumna í blóði, þáttur Dlg7 í þroskunarferlinu

Leifur Þorsteinsson1, Sigríður Þ. Reynisdóttir1, Níels Á. Árnason1, Ólafur E. Sigurjónsson1, Karl Ólafsson2, Sveinn Guðmundsson1

1Blóðbankinn, 2)kvennadeild Landspítala

leifurth@lsh.is

 

Inngangur: Nokkur einhugur er um að forverafrumur æðaþels sé að finna í blóðrásinni. Dlg7 (disc large homolog 7) er gensem tekur þátt í stjórnun og stöðugleika spóluþráða í frumuhringnum. Sennilega er það líka æxlisbæligen.

Tilgangur og markmið: Við höfum áður sýnt fram á að Dlg7 er tjáð í stofnfrumum (CD34) fyrir blóðmyndandi vef. Það er hinsvegar ekki tjáð í fullþroska blóðfrumum. Okkar frumniðurstöður benda til að þessu sé öfugt farið með forverafrumur æðaþels, þ.e. að genið sé tjáð bæði í forvera- og fullþroska frumum. Tilgangur verksins var að staðfesta þetta.

Efni og aðferðir: Einkjarna blóðfrumur (lymphocytes/monocytes), bæði úr blóðrásinni og naflastreng voru ræktaðar í æti, sérstaklega ætluðu til að umbreyta þeim í forverafrumur æðaþels. Tjáning markera fyrir æðaþelsfrumur var könnuð strax eftir einangrun og eftir ræktun/þroskun, til að staðfesta breytingarnar. Æðaþelsfrumur úr naflastreng (HUVEC) voru notaðar sem viðmið. Tjáning gensins var staðfest með RT-PCR og ónæmisbindingu (Western-blot).

Niðurstöður:Einkjarna frumurúr naflastrengsblóði voru neikvæðar fyrir æðaþelsfrumu markera, sérstaklega, CD105, CD144 og CD146. Athuganir á tjáningu Dlg7, með RT-PCR og ónæmisbindingu gáfu hinsvegar jákvæða niðurstöðu í báðum tilfellum. Eftir 10-14 daga í rækt varð grundvallar breyting á frumunum því nú komu allir áðurnefndir æðaþelsfrumu markerar fram. Tjáningarmunstur Dlg7 var óbreytt (jákvætt). Sambærileg vinna með frumur úr hringrásar blóði er í gangi.

Ályktun:Mun erfiðara er að fá fram forverafrumur æðaþels í rækt með frumum úr blóðrásinni en úr naflastrengsblóði. Líkleg skýring er mikill munur í stofnfrumufjölda (CD34+ og CD133+). Allt bendir til að Dlg7 hafi hlutverk við þroskun æðaþelsfrumna í blóði

 

 

V-108    Hlutverk Dlg7 í blóðmyndun

Níels Árni Árnason1, Sigríður Þóra Reynisdóttir1, Leifur Þorsteinsson1, Jonathan R. Keller2, Kristbjörn Orri Guðmundsson2, Ólafur E. Sigurjónsson1,4

Blóðbankinn Landspítala1, National Cancer Institute, Maryland, USA2, tækni og verkfræðideild HR3

oes@landspitali.is

 

Inngangur:Við höfum nýlega lýst geni, Dlg7, sem er tjáð í stofnfrumum, þar með talið blóðmyndandi stofnfrumum, bandvefsstofnfrumum og músafósturstofnfrumum (Gumdundsson, Stem Cell, 2007). Dlg7, gegnir hlutverki í frumuhringnum við stjórnun stöðugleika spólu. Auk þess er Dlg7 talið gegna hlutverki í krabbameinsmyndun í gegnum Aurora-A og vísbend-ingar eru um að það hvetji til myndunar meinvarpa í lifrar-
krabbameini. Við höfum sýnt fram á að
Dlg7 er tjáð í blóðmynd-andi stofnfrumum (CD34+CD38-) en mun minna í blóðmynd-andi forverafrumum. Einnig höfum við sýnt að Dlg7 er tjáð í nokkrum hvítblæði frumulínum og æxlum, þar á meðal í þvagblöðru, ristli og lifur, en ekki í heilbrigðum aðlægum vef.

Tilgangur og markmið:Tilgangurinn með þessari rannsókn er að kanna hvert hlutverk Dlg7 er í blóðmyndun.

Efni og aðferðir:Við notum lentiveiru yfirtjáningar vektor til að yfirtjá Dlg7 í músa fósturstofnfrumum og lentiveiru shRNA til að slökkva á tjáningu á Dlg7 í músa fósturstofnfrumum. Gena breyttar músastofnfrumur eru síðan sérhæfðar yfir í embryoid bodies og þaðan sérhæfðar yfir í blóðmyndandi frumur með colony forming unit assay til að kanna virkni blóðmyndunar.

Niðurstöður:Við höfum sýnt fram á að transient (non-viral) yfirtjáning á Dlg7 dregur úr stærð og fjölda embryoid bodies. Einnig höfum við sett upp sérhæfingaraðferðir fyrir músafósturstofnfrumur yfir í blóðmyndandi frumur

Ályktanir:Fyrstu niðurstöður benda til þess að yfirtjáning á Dlg7 í músafósturstofnfrumum viðhaldi stofnfrumueigin-
leikum þeirra og dragi úr sérhæfingarmætti. 

 

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica