Ágrip erinda

Ágrip erinda

E-01     Gallblöðrutökur á Landspítala 2006-2007

 

Kristín María Tómasdóttir1,2, Sigurður Blöndal1,2, Guðjón Birgisson1,2, Páll Helgi Möller1,2

1Skurðlækningadeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

kmt@hi.is

 

Inngangur: Gallblöðrutaka er algeng aðgerð. Fyrri rannsóknir á Íslandi sýna góðan árangur þeirra. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna árangur af gallblöðrutökum á Landspítala árin 2006-2007 og bera saman við fyrri uppgjör.

Efniviður og aðferðir: Farið var afturvirkt yfir sjúkraskrár sjúklinga sem fóru í gallblöðrutöku. Skráð var aldur, kyn, aðgerðartími, legudagar, bráð eða valaðgerð, opin aðgerð eða gegnum kviðsjá, tíðni breytinga yfir í opna aðgerð, ERCP, röntgenmyndataka af gallvegum í aðgerð og fylgikvillar.

Niðurstöður: Framkvæmdar voru 787 gallblöðrutökur en af þeim voru 27 tilfelli útilokuð frá rannsókninni. Meðalaldur sjúklinga var 51 ár og var meirihluti þeirra konur (70%). Aðgerðir gegnum kviðsjá voru 751 en 22 þeirra var breytt í opna aðgerð (3%). Níu aðgerðir voru opnar frá upphafi. Bráðaaðgerðir voru 355 (47%) og valaðgerð 405 (53%). Meðallegudagar voru tveir (bráða: 2,1; val: 1,8) en 166 sjúklingar útskrifuðust samdægurs. Meðalaðgerðartími var 65 mínútur (bráða: 67; val: 65). ERCP var framkvæmt hjá 134 sjúklingum (18%), röntgenmyndataka í aðgerð hjá 115 (15%) og 82 fengu kviðarholsdren í aðgerð (11%). Fylgikvilla fengu 72 sjúklingar (9%). Tíu fengu alvarlegar sýkingar í kviðarhol (1,3%), 4 margúl í kviðarhol (0,5%), 3 blæðingu (0,5%), 14 eftirlegusteina í gallrás (1,8%), 3 gallleka (1%), 5 alvarlega áverka á gallrás (0,6%), 4 áverka á líffæri í aðgerð (0,5%). Tveir sjúklingar létust í kjölfar aðgerðar (0,3%).

Ályktun: Gallblöðrutaka er enn örugg aðgerð á Landspítala. Tíðni alvarlegra fylgikvilla er lág og sambærileg við niðurstöður erlendra rannsókna.

 

 

E-02       Er öruggt að fjarlægja eðlilega botnlanga í gegnum kviðsjá?

Valentínus Þ. Valdimarsson1,2, Sigurður Blöndal1,2, Páll Helgi Möller1,2

1Skurðlækningadeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

valentv@hi.is

 

Inngangur: Botnlangabólga er algengur sjúkdómur en greining getur verið óljós. Fyrir tíma kviðsjár var botnlangi alltaf fjarlægður. Nýlega hefur komið í ljós að óhætt er að skilja eftir eðlilega útlítandi botnlanga sem finnast við kviðsjá. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða fylgikvilla í kjölfar brottnáms á eðlilegum botnlanga gegnum kviðsjá.

Efniviður og aðferðir: Allar sjúkraskrár sjúklinga eldri en 18 ára sem fóru í bráða botnlangatöku með kviðsjá og vefjagreining sýndi eðlilegan botnlanga, voru skoðaðar afturvirkt fyrir tímabilið 1999 til 2009 (n=143). Skráð var aldur, kyn, mat skurðlæknis í aðgerð, greining, legutími eftir aðgerð og fylgikvillar aðgerðar.

Niðurstöður: Meðalaldur var 28,8 ár (bil:18-69) og voru konur 70%. Skurðlæknir mat botnlanga óbólginn í 79% tilfella. Hjá 70 sjúklingum fundust við aðgerð aðrar greiningar en botnlangabólga. Algengustu greiningarnar voru sprungin blaðra á eggjastokk (n=16) og legpípubólga (n=10). Fylgikvillar komu fram hjá 26 sjúklingum (18,2%). Alls var fjöldi fylgikvilla 37 og voru 8 sjúklingar með tvo eða fleiri fylgikvilla. Fylgikvillar voru; sárasýkingar (n=7), þvagfærasýkingar (n=6), blæðing (n=6), djúp kviðarholssýking (n=6), margúll (n=5), garnalömun (n=3) lungnabólga (n=2), þvagtregða (n=1) og djúpbláæðasegi (n=1).

Ályktanir: Tíðni fylgkvilla er há við brottnám á eðlilegum botnlanga (18,2%) ef tekið er mið af því að fylgikvillar eftir greinandi kviðsjáraðgerð (diagnostic laparoscopy) er aðeins um 0-2% samkvæmt nýlegum rannsóknum. Ekki er hægt að mæla með brottnámi á eðlilega útlítandi botnlanga gegnum kviðsjá.

 

 

E-03      Árangur flýtibataferils við ristilúrnám á Landspítala

Unnur Guðjónsdóttir1, Elsa Björk Valsdóttir1,2, Tryggvi B. Stefánsson1, Páll Helgi Möller1,2

1Skurðlækningadeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

unnurg@landspitali.is

 

Inngangur: Áður var talið að sjúklingar sem færu í ristilúrnám þyrftu langan tíma til að gróa sára sinna og beðið var með fæði þar til að görnin væri komin í gang. Meðallegutími eftir valaðgerð var um 10 dagar og heildartíðni fylgikvilla í kringum 40%. Með auknum skilningi á þeim lífeðlisfræðilegu breytingum sem verða í kjölfar aðgerða hafa Kehlet og félagar sett saman flýtibataferli (fast track) við ristilúrnám sem náði til alls ferilsins frá innlögn til útskriftar. Ferlið hefur sýnt sig flýta fyrir bata, stytt sjúkrahúslegu og fækkað fylgikvillum.

Flýtibataferill var innleiddur á skurðlækningadeild 2004 og er tilgangur rannsóknarinnar að kanna hvort hann hafi borið tilskilinn árangur.

Efniviður og aðferðir: Farið var afturvirkt í gegnum sjúkraskrár allra sjúklinga sem undirgengust valristilnám á Landspítala á árunum 2002 og 2007. Safnað var saman lýðfræðilegum upplýsingum sem og upplýsingum um greiningu og tegund aðgerðar, gang meðferðar eftir aðgerð og lengd sjúkrahúslegu fyrir (2002) og eftir (2007) innleiðingu ferilsins. Niðurstöður voru bornar saman milli ára.

Niðurstöður: Árið 2007 voru sjúklingar heldur eldri en þegar þeir voru teknir til aðgerðar á árinu 2002 auk þess sem aðgerðum vegna krabbameins fjölgaði hlutfallslega. Heildarlegudögum fækkaði úr 10 dögum í 6 milli áranna. Á sama tíma jukust endurinnlagnir úr 6 í 16%.

Ályktun: Flýtibataferlið hefur þjónað sínum tilgangi hvað varðar fækkun heildarlegudaga þrátt fyrir að endurinnlögnum hafi fjölgað.

E-04      Orsakir rofs á ristli á Landspítala 2003-2007

 

Kristín Jónsdóttir1, Elsa Björk Valsdóttir1,2, Páll Helgi Möller1,2

1Skurðlækningadeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

kristijo@landspitali.is

 

Inngangur: Rof á ristli er alvarlegur sjúkdómur og samkvæmt erlendum rannsóknum er dánartíðni há. Orsakir rofs á ristli eru margar, helst má þó nefna sarpabólgu, krabbamein og utanaðkomandi áverka, t.d. við ristilspeglun. Ekki hafa verið gerðar íslenskar rannsóknir á orsökum eða afleiðingum rofs á ristli á Íslandi. Tilgangur þessarar rannsóknar er því að skoða orsakir og afdrif sjúklinga með rof á ristli á Landspítala á tímabilinu 2003-2007.

Efniviður: Leitað var í tölvukerfi Landspítala eftir grein-ingarkóðum (ICD-10). Allar sjúkraskrár sjúklinga sem voru með rof á ristli voru skoðaðar og aldur, kyn, orsakir og afdrif þeirra skráðar.

Niðurstöður: Fjöldi sjúklinga með rof á ristli voru 130, þar af voru 69 konur og 61 karlar. Meðalaldur sjúklinga var 66 ár (bil: 32-93). Algengasta orsök rofs á ristli var sarpabólga (n= 99) eða 76,2%. Aðrar orsakir voru rof við ristilspeglun (n=12), krabbamein (n=5), utanaðkomandi áverki (n=4) og aðrar sjaldgæfari ástæður voru 9. Sautján einstaklingar létust á tímabilinu. Meðallegutími var 15,6 dagar (bil: 1-121). Af þeim sem fóru í aðgerð fóru flestir í Hartmanns-aðgerð (n=35) en aðrar aðgerðir voru brottnám á bugaristli með endurtengingu (n=4) og stóma (n=6).

Ályktun: Sarpabólga er algengasta orsök rofs á ristli hjá sjúklingum sem leita á Landspítala og er það í samræmi við erlendar rannsóknir.

 

E-05      Tissue inhibitor of metalloproteinasi-1 (TIMP-1) í plasma og tengsl við horfur sjúklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein

Helgi Birgisson1, Arezo Ghanipour1, Hans Jørgen Nielsen2, Ib Jarle Christensen3, Bengt Glimelius4, Nils Brünner5

1Skurðlækningadeild, Akademiska sjúkrahúsinu, Uppsölum, Svíþjóð; 2skurðlækningadeild, Hvidovre sjúkrahúsinu, Kaupmannahöfn, Danmörk; 3Finsen Laboratory, Ríkisspítalanum, Kaupmannahöfn, Danmörk; 4krabbameinsdeild, Akademiska sjúkrahúsinu, Uppsölum, Svíþjóð; 5lífvísindadeild, háskólanum í Kaupmannahöfn, Danmörk

Helgi.Birgisson@surgsci.uu.se

 

Inngangur: Þörf er á nákvæmari greiningaraðferðum til að meta horfur sjúklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein svo hægt sé að velja rétta meðferð fyrir hvern sjúkling. Tissue inhibitor of metalloproteinase 1 (TIMP-1) er glykóprótein sem hemur matrix metalloproteinase. Tilgangur þessarar rannsóknar var að athuga tengsl TIMP-1 í plasma við horfur sjúklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til 272 sjúklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein sem voru meðhöndlaðir á árunum 2000-2003. TIMP-1 gildi var mælt í plasma fyrir aðgerð. Endurkoma og lifun sjúklinga var metin með Cox fjölþáttagreiningu.

Niðurstöður: Þrjár staðbundnar endurkomur krabbameinsins og 55 fjarmeinvörp greindust hjá sjúklingum með stig I-III sjúkdóm (n=272), miðgildi fylgitíma var 6,5 ár (5-8,5). Ein endurkoma greindist á stigi I (n=44), 18 á stigi II (n=134) og 38 á stigi III (n=94). Þegar tekið var tillit til aldurs og kyns sjúklings, staðsetningar, stigunar, æðainnvaxtar, þroska æxlisins og CEA í blóði reyndist TIMP-1 sjálfstæður neikvæður áhættuþáttur sjúklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein; heildarlifun (HR 2,35; 95% CI 1,51-3,66); sjúkdómsfrí lifun (HR 1,86; 95% CI 1,12-3,08).

Ályktun: Sjúklingar með ristil- og endaþarmskrabbamein sem hafa hátt TIMP-1 gildi í plasma fyrir aðgerð hafa verri horfur en sjúklingar með lág gildi. Mæling á TIMP-1 gildi í plasma fyrir aðgerð eykur upplýsingar um horfur sjúklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein.

 

 

E-06      Tjáning tryptophanyl-tRNA synthetasa í æxlisvef og tengsl við horfur sjúklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein

Helgi Birgisson1, Arezo Ghanipour1, Karin Jirström2, Fredrik Pontén3, Lars Påhlman1, Bengt Glimelius4

1Skurðlækningadeild, Akademiska sjúkrahúsinu, Uppsölum; 2sameindameinafræðideild, háskólasjúkrahúsinu Malmö; 3meinafræðideild og 4krabbameinsdeild, Akademiska sjúkrahúsinu, Uppsölum, Svíþjóð

Helgi.Birgisson@surgsci.uu.se

 

Tilgangur: Tryptophanyl-tRNA synthetasi (TrpRS) er aminoacyl-tRNA synthetasi sem hemur æðanýmyndun. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna tengsl tjáningar TrpRS í æxlisvef við horfur sjúklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein.

Efniviður og aðferðir: Vefjasýnum frá 320 sjúklingum var komið fyrir á tissue microarray. Sjúklingarnir voru meðhöndlaðir á árunum 2000-2003. Ónæmislitun var notuð til að dæma tjáningu TrpRS í æxlisvefnum þar sem tekið var tillit til bæði styrkleika litunarinnar og fjölda æxlisfrumna sem lituðust. Cox-fjölþáttagreining var notuð til að meta tengsl TrpRS við lifun og endurkomu krabbameinsins, þar sem aldur sjúklings, stigun, æðainnvöxtur og þroski æxlisins ásamt tjáningu TrpRS í æxlisvef voru tekin með í fjölþáttagreininguna.

Niðurstöður: Lítil tjáning TrpRS í æxlisvef tengdist aukinni áhættu á eitlameinvörpum (p= 0,025) og hærri sjúkdómsstigun (p= 0,001). Fjölþáttagreining sýndi marktækt betri heildar- og sjúkdómsfría lifun (RR 0,59; 95% CI 0,38-0,95) sjúklinga með mikla tjáningu TrpRS samanborið við litla. Sjúklingar með mikla tjáningu TrpRS höfðu minni líkur á endurkomu krabbameinsins (RR 0,23; CI 0,07-0,80).

Ályktun: Lítil tjáning TrpRS í æxlisvef sjúklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein tengist aukinni áhættu á endurkomu krabbameinsins og verri lifun sjúklinganna. Hugsanleg skýring er sú að TrpRS hemur æðanýmyndun og þar með möguleika æxlisfrumna til meinvarpa, nokkuð sem gæti verið mikilvægt við þróun nýrra krabbameinslyfja.

 

 

 

 

E-07      Samantekt brjóstauppbygginga eftir brottnám á Landspítala 1997-2009

Svanheiður L. Rafnsdóttir1, Rut Gunnarsdóttir2, Þorvaldur Jónsson3, Þórdís Kjartansdóttir1

1Lýtaskurðlækningadeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3skurðlækningadeild Landspítala

svanheidur@gmail.com

 

Inngangur: Tilgangur rannsóknar var að safna upplýsingum um brjóstauppbyggingar sem gerðar voru á Landspítala síðastliðin tólf ár.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem tók saman allar brjóstauppbyggingar bæði tafarlausar og síðbúnar tímabilið 1997-2009. Farið var yfir aldur sjúklinga, gerð og fjölda aðgerða, legutíma, fylgikvilla og hvort gerð var aðgerð á heilbrigða brjóstinu.

Niðurstöður: Heildarfjöldi aðgerða var 520. Aukning var á fjölda aðgerða, mest um 71% aukning milli áranna 2005-2007. Hlutfall tafarlausra brjóstauppbygginga var 28% af heildarfjölda aðgerða og breyttist lítið milli ára. Hlutfall sjúklinga sem fékk sermigúl eftir LD-flipa var 20%. Kviðslit fengu 15,4% eftir TRAM-flipaaðgerð. Drep kom í 37% af TRAM-flipum, 8% af LD-flipum og 2% tilvika þar sem vefjaþenjari var notaður. Marktækur munur var á fjölda legudaga eftir aðgerðategund, lengstur fyrir flipa-aðgerðir en stystur fyrir aðgerðir með ígræði. Fjöldi aðgerða með vefjaþenjara stóðu í stað, flipaaðgerðum fækkaði og mesta aukningin var á aðgerðum með ígræði þar sem tíðni fylgikvilla er lægst.

Ályktun: Aðgerðatækni hefur breyst og brjóstauppbyggingum fjölgað. LD-flipaaðgerðir hafa tekið við af TRAM-flipaaðgerðum. Undir lok tímabilsins eru aðgerðir með ígræði algengasta tegund aðgerða sem getur bent til þess að konur sækist í einfaldari aðgerðir.

 

 

E-08      Fjölbreytilegt notagildi latissimus dorsi vöðvans í tafarlausum brjóstauppbyggingum og áhrif á eftirmeðferð

Árni Þór Arnarson, Kristján Skúli Ásgeirsson

Skurðlækningadeild Landspítala

arnithor@landspitali.is

 

Inngangur: Í vaxandi mæli er íslenskum brjóstakrabbameinssjúk-lingum boðið að gangast undir tafarlausa brjóstauppbyggingu. Slíkt getur haft mikið vægi fyrir lífsgæði en mikilvægt er að aðgerðirnar séu áreiðanlegar og seinki ekki fyrirhugaðri eftirmeðferð.

Efniviður og aðferðir: Við skoðuðum afturskyggnt allar brjósta-krabbameinsaðgerðir þar sem latissimus dorsi (LD) vöðvinn var notaður til tafarlausrar heilbrjósta- eða hlutabrjóstuppbyggingar á Landspítala á tímabilinu ágúst 2007 til mars 2009. Snemmkomnir fylgikvillar voru metnir og kannað hvort aðgerðirnar seinkuðu eftirmeðferð.

Niðurstöður: Hlutabrjóstuppbygging (LD-miniflipi) var gerð hjá 6 og heilbrjóstauppbygging hjá 10. Meðalaldur var 50 ár (33-69). Þrettán voru með ífarandi brjóstakrabbamein og 3 með setkrabbamein (DCIS). Ígræði var notað undir LD vöðvann hjá 2 en brjóstaminnkun á hinu brjóstinu gerð hjá 4. Húðin yfir vöðvanum var notuð til geirvörtuuppbyggingar í sömu aðgerð hjá 6. Meðalaðgerðartíminn var 284 mínútur (313-534). Einn sjúklingur fékk blóðkökk, minniháttar drep á brjósthúð kom fyrir hjá 2 og 1 fékk afmarkað fitudrep í flipann. Ellefu sjúklingar fengu sermigúl á bakið. Átta fengu krabbameinslyfjameðferð eftir aðgerð og var meðaltími frá aðgerð 32 dagar (23-43).

Ályktun: LD vöðvinn hefur fjölbreytilegt notagildi til tafarlausrar brjóstauppbyggingar. Fylgikvillar hafa verið minniháttar og seinka ekki eftirmeðferð.

 

 

E-09      Áhrif aukinnar sérhæfingar í skurðaðgerðum vegna brjóstakrabbameina: Hver eru þau og hver er stefnan?

Höskuldur Kristvinsson1, Þorvaldur Jónsson1, Aðalbjörn Þorsteinsson2, Þórdís Kjartansdóttir1, Kristján Skúli Ásgeirsson1

1Skurðdeild Landspítala, 2svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala

kriskuli@landspitali.is

 

Inngangur: Aukin sérhæfing á sér stað innan flestra sviða læknisfræðinnar. Afleiðing þessarar þróunar innan brjóstaskurðlækninga hefur verið sú að nýjar tegundir aðgerða („oncoplastik“) hafa litið dagsins ljós. Hér á landi hefur konum, nýgreindum með brjóstakrabbamein, í vaxandi mæli verið boðið upp á aðgerðir af þessu tagi og er markmið þessarar rannsóknar að meta áhrif þeirra á starfsemi brjóstaskurðdeildar Landspítalans.

Efniviður og aðferðir: Tvö ár voru skoðuð, 2006 og 2008, og samanburður gerður á ýmsum þáttum skurðmeðferðar, sjúkrahúslegu og göngudeildarstarfsemi. Upplýsingar voru fengnar úr skráningarkerfi skurðstofa, göngudeildar og frá hag- og upplýsingasviði Landspítalans.

Niðurstöður: Árið 2006 greindust 184 sjúklingar með ífarandi brjóstakrabbamein og 21 með setkrabbamein (DCIS) (samtals 205), samanborið við 189 og 13 (samtals 202) árið 2008. Aðgerðarfjöldinn jókst um 5% (273/260). Árið 2008 voru ”onkóplastík” brjóstaskurðaðgerðir gerðar hjá 47 sjúklingum (tafarlausar uppbyggingar 29, fleygskurðir með brjóstaminnkunaraðferðum -”therapeutic mammoplasty”, 18), samanborið við 10 árið 2006 (allar tafarlausar uppbyggingar). Heildaraðgerðartími jókst um 68% (27571 mín/16389 mín) og meðalaðgerðartími um 55% (101 mín/65 mín). Meðallegutíminn á deild jókst um 22% (2,2 dagar/1,8 dagar). Komur á göngudeild jukust um 265% (916/346).

Ályktun: Umfang þjónustunnar í tengslum við skurðmeðferð brjóstakrabbameinssjúklinga á LSH hefur stóraukist þrátt fyrir óbreytt nýgengi. Að mestu má rekja þetta til aukinnar notkunar sérhæfðra aðgerða (onkóplastík). Í ljósi þessara niðurstaðna er mikilvægt að skoða bæði kostnað og gæði þjónustunnar, auk áhrifa aðgerðanna á lífsgæði kvennanna. Taka skal tillit til allra þessara þátta við framtíðarstefnumörkun á sviði skurðlækninga við brjóstakrabbameini.

 

 

 

 

E-10      Minnka verkirnir, gera spelkur gagn? - Rannsókn á ”Unloader one“ slitgigtarspelku

Þorvaldur Ingvarsson1,2,3, Elín B. Harðardóttir4, Lárus Gunnsteinsson5, Jónas Franklín1

1Bæklunardeild Sjúkrahúss Akureyrar, 2Heilbrigðisvísindastofnun Háskóla Akureyrar, 4Sjúkraþjálfun Íslands, Suðurlandsbraut Reykjavík, 3læknadeild Háskóla Íslands, 5Össur h/f

thi@fsa.is

 

Inngangur: Slitgigt er algengur sjúkdómur sem eykst með aldri. Helstu einkenni hné slitgigtar eru verkir, stífleiki, helti og þegar verst lætur örkuml. Slitgigtarspelkur eru hannaðar til að minnka álagið á því liðhólfi í hné sem slitið er og verkir koma frá. Því er haldið fram að þær breyti álagsöxulinum í hnénu og við það minnki verkir og virkni aukist.

Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort slitgigtar-spelka “Unloader One” minnkaði verki og yki færni hjá sjúklingum með slitgigt í hné.

Efniviður og aðferðir: Sjúklingar sem greindir voru með slitgigt og höfðu fengið tilvísun læknis á notkun slitgigtarspelku (Unloader One) var boðið að taka þátt í rannsókninni. Sjúklingar svöruðu WOMAC og EQ5D spurningalistum fyrir notkun spelkunnar, eftir 3 vikur, 3 og 6 mánuði. Röntgenmyndir voru metnar eftir Kellgrene & Lawrence (K&L) flokkun. Marktækni var reiknað með t-prófi. Leyfi Vísindasiðanefndar og Persónuverndar var aflað.

Niðurstöður: Áttatíu og tveir tóku þátt, 33 konur og 49 karlar. Meðalaldur var 65,5 ár (40-86). Tæplega 90% sjúklinganna höfðu slit miðlægt í hné og höfðu meira en helmingur slæmt eða mjög slæmt slit samkvæmt K&L flokkun (K&L 3 eða 4 ). Meðal BMI fyrir karla var 30,3 (22,3-46,5) og fyrir konur 31,0 (22,7-47,3). Átta sjúklingar voru á biðlista eftir gerviliðsaðgerð á hné og fóru fimm í aðgerð á rannsóknartímanum. Fimm aðrir hættu vegna verkja eða þess að spelka erti þá eða meiddi. Heildarstigafjöldi WOMAC var tæplega 50 sem lækkaði niður í 36 eftir 3ja vikna notkun spelkunnar. Hélst lækkunin í sex mánuði. Fyrir allar þrjá undirflokka WOMAC spurningalistans þá lækkaði stiga fjöldi marktækt fyrir verki (p<0,001), stífleika (p<0,001) og færni (p<0,001). Lífsgæði sjúklinga bötnuðu einnig samkvæmt EQ5D.

Ályktun: Sjúklingar með slit í hné sem notuðu slitgigtarspelkuna (Unloader One) juku marktækt færni sína og upplifðu marktækt minnkaða verki frá hnénu. Slitgigtarspelkan virðist vera nýr möguleiki til meðferðar á slitgigt í hné.

 

 

E-11      Hryggbrot hafa áhrif á hreyfigetu, styrkleika og innlögn á sjúkrahús

Brynjólfur Mogensen3,6, Kristín Siggeirsdóttir1,2, Thor Aspelund1,6, Gunnar Sigurðsson3,6, Lenore Launer4, Tamara Harris4, Brynjólfur Y. Jónsson5 , Vilmundur Guðnason1,6

1Hjartavernd, 2Janus endurhæfing ehf., 3Landspítali, 4öldrunarstofnun bandaríska heilbrigðisráðuneytisins, Bethesda, USA, 5bæklunardeild háskólasjúkrahússins í Málmey, Svíþjóð, 6Háskóli Íslands

brynmog@landspitali.is

Inngangur: Öldruðum fjölgar og því er mikilvægt að rannsaka hvaða þættir hafa áhrif á styrk og hreyfifærni. Markmiðið var að skoða áhrif hryggbrota (HB) og vitræna skerðingu (VS) á styrk og hreyfifærni einstaklingsins, fylgisjúkdóma og sjúkrahúsinnlögn.

Aðferð: Einstaklingum úr öldrunarrannsókn Hjartaverndar (HV) (n=5371) var skipt í þrennt. Engin brot, önnur brot en HB og HB. Áhrif HB og VS á færni voru mæld með “Timed up and go” (TUG), 6 m göngu, grip- og lærisstyrk. Brotagagnagrunnur HV var notaður til að staðfesta beinbrot. VS var staðfest af vísindanefnd.

Niðurstöður: Algengi HB jókst með aldri og var marktækt hærri hjá konum (p<0,0001). Áhrif HB gætti svipað hjá báðum kynjum en kvk höfðu almennt lakari færni. Samfelld hnignun var á niðurstöðum í öllum færniprófum milli brotahópa. Óbrotnir stóðu sig best en HB verst. Í 6 m göngu, TUG og lærisstyrk stóðu konur með HB sig lakar en þær óbrotnu. Miðað við óbrotna höfðu einstaklingar með HB sögu marktækt oftar lagst inn á sjúkrahús fyrir 1/3 2002, OR 2,8 (1,8-4,4)) og einnig samkv. 30 m eftirfylgni, HR 1,2 (1,1-1,3) p<0,0001, önnur brot, HR 1,4 (1,2-1,6), p<0,0001. Karlar lögðust oftar inn en konur. Mjaðmarbrot höfðu ekki truflandi áhrif á niðurstöðurnar. Óbrotnir dvöldu skemmst inni á sjúkrahúsi og HB lengst, karlar lengur en konur (p<0,0001). HB höfðu marktækt meiri bakverki, magavandamál og tóku meiri verkjalyf. Þetta útskýrir aðeins lítinn hluta af auknum legudagafjölda.VS hafði áhrif á árangur færniprófa en ekki var um víxlverkun við beinbrot að ræða.

Ályktun: Einstaklingar með sögu um hryggbrot eru í aukinni hættu á að lenda á sjúkrahúsi og liggja lengi inni. Hreyfifærni og styrkur þeirra er lakari og verkjalyfjataka meiri. Vitræn skerðing hefur í för með sér lakari færni en er óháð beinbrotasögu.

 

 

E-12      Krabbamein í nefi og afholum nefs á Íslandi 1990-2006

Hannes Þ. Hjartarson

Háls-, nef- og eyrnalækningadeild Landspítala

hanneshj@mi.is

 

Inngangur: Gerð var afturvirk rannsókn á krabbameini í nefi
og afholum nefs (sinonasal cancer) á 15 ára tímabili með tilliti til staðsetningar, vefjameinafræði, meðferðar og lífslíkna.

Niðurstöður: Rannsóknin leiddi í ljós að flest krabbameinin voru staðsett í sjálfum nefgöngum (57%), flest voru af flöguþekjuuppruna (57%), næst komu sortuæxli. 5 ára lífslíkur eru yfir 50%.

Ályktun: Meðferð byggist fyrst og fremst á radical excision en á öllum T2 og stærri æxlum er einnig gefin geislameðferð.

 

 

E-13      Fyrstu tilfelli á Íslandi af enduruppbyggingu á kjálka með fríum dálkflipa

Svanheiður L. Rafnsdóttir1, Arnar Þ. Guðjónsson2, Júlíus H. Schopka3, Hannes Þ. Hjartarson2, Hannes Petersen2, Jens Kjartansson1, Þórir Auðólfsson4, Gunnar Auðólfsson1

1Lýtaskurðlækningadeild, 2háls-nef og eyrnaskurðdeild, 3kjálkaskurðdeild Landspítala, 4Department of Plastic and Reconstructive Surgery, Uppsala University Hospital, Uppsala, Sweden

svanheidur@gmail.com

Inngangur: Brottnám úr kjálkabeini getur skilið eftir sig stórt sáragap sem þarf að endurbyggja. Notkun dálkflipa (fibula-flipi) hefur sýnt sig vera góður kostur til enduruppbyggingar kjálka þar sem gap er í beininu. Lýst er tveimur nýlegum tilfellum af Landspítala þar sem gert var brottnám á helmingi kjálkabeins vegna æxlis og gerð enduruppbygging á kjálkanum með fríum dálkflipa.

Efniviður og aðferðir:

Tilfelli 1: Hraust 40 ára gömul kona greinist fyrir tilviljun hjá tannlækni með staðbundið sarkmein í kjálkabeini vinstra megin. Hluti beinsins var fjarlægður, frá augntönn aftur að kjálkalið og dálkaflipi frá hægra fæti notaður til að fylla upp í gapið. 

Tilfelli 2: 60 ára karlmaður með óþægindi í hægri neðri góm greindist með flöguþekjukrabbamein í kjálkabeini sem var vaxið út úr beininu í nálæga mjúkvefi. Vegna þess hversu útbreitt æxlið var þurfti að fjarlægja stóran hluta kjálkans ásamt mjúkvef í kring og eitlum á hálsi. Enduruppbygging var gerð með fríum dálkaflipa ásamt mjúkvef af vinstri fæti. Hann fékk síðan geislameðferð eftir aðgerðina.

Báðar aðgerðirnar tókust vel og ekki varð vart dreps í flipunum. Aðgerðirnar tóku að meðaltali 8 klst. og var unnið í tveimur teymum, annað sem fjarlægði æxlið og hitt sem útbjó flipann. Báðir sjúklingarnir voru útskrifaðir tveimur vikum frá aðgerð. 

Ályktun: Tvær fyrstu enduruppbyggingarnar með fríum dálkaflipa gengu vel og því ætti að vera hægt að bjóða upp á slíkar aðgerðir hér á landi í framtíðinni.

 

 

E-14      Slys á sjómönnum árin 2001-2005

Brynjólfur Mogensen1,2, Guðrún Pétursdóttir2, Friðrik Þór Tryggvason2, Hilmar Snorrason3, Kristinn Sigvaldason1

1 Landspítala, 2Háskóla Íslands, 3Slysavarnaskóla sjómanna

brynmog@landspitali.is

 

Inngangur: Sjómennska á fiskiskipum er ein hættulegasta starfsgrein samfélagsins. Á Íslandi var slysadauði íslenskra sjómanna 89 á 105 sjómenn á ári frá 1966-1989. Í ESB verða vinnuslys 2,4 sinnum oftar meðal sjómanna en að meðaltali hjá öðrum starfsgreinum. Þekking á slysum og áverkum er nauðsynleg fyrir skipulegar forvarnir. Markmið rannsóknar-innar var að kanna tíðni, aðdraganda, umfang og alvarleika allra slysa á sjó við Ísland.

Efniviður og aðferðir: Á slysa- og bráðadeild Landspítala (SBD) voru skoðaðar allar komur vegna sjóslysa skráðar í norræna slysaskráningarkerfið, s.s. tegund skips, starf sem var verið að vinna, starfsreynsla, tími sólarhrings, umhverfisaðstæður, meint orsök slyssins og ICD-greiningar. Einnig voru fengin gögn frá Rannsóknarnefnd sjóslysa og Tryggingarstofnun ríkisins.

Niðurstöður: Árin 2001-2005 urðu 17 banaslys, að meðaltali 3,4 á ári og 51 á 105 sjómenn á ári. Tryggingarstofnuninni bárust 1787 tilkynningar, að meðaltali 357 á ári, og 6894 á 105 sjómenn á ári (6,8% starfandi sjómanna ). Alls leituðu 826 til SBD eða 165 á ári og 52 (6,1%) voru lagðir inn. Flest slysin (78%) áttu sér stað á fiskiskipum og af þeim 48% á togurum Meiri hluti slysanna (53%) átti sér stað á dekki í dagsbirtu og góðu sjólagi. Hinir slösuðu höfðu flestir meira en 5 ára starfsreynslu.

Ályktun: Dauðaslysum íslenskra sjómanna hefur fækkað mikið á síðustu árum. Önnur slys á sjó eru enn mjög algeng. Flest slysanna eiga sér stað á fiskiskipum við góðar aðstæður hjá reyndum sjómönnum.

 

 

E-15      Slysa- og ofbeldisdauði á Íslandi

Brynjólfur Mogensen1,2, Kristín Bergsdóttir1,2, Lilja S. Jónsdóttir3, Sigurður Páll Pálsson1, Ragnhildur Guðmundsdóttir2,Unnur Valdimarsdóttir2

1Landspítala, 2Háskóla Íslands, 3 Hagstofu Íslands

brynmog@landspitali.is

 

Inngangur: Á heimsvísu er talið að árið 2002 hafi 5,2 milljónir einstaklinga dáið af völdum áverka. Áverkadauði skilgreinist sem dauði af völdum slysa og ofbeldis, þar með talið ofbeldi sem beinist að einstaklingnum sjálfum, sjálfsvíg. Slys og ofbeldi er á meðal helstu dánarorsaka fólks í öllum heiminum á aldrinum 15-44 ára. Þar sem aðallega er um að ræða yngra fólk eru töpuð starfs- og lífár mikill missir fyrir þjóðfélagið. Þekking er nauðsynleg fyrir skipulegar forvarnir. Markmið rannsóknarinnar var að athuga þróun slysa- og ofbeldisdauða á Íslandi á árunum 1996-2008.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar fengnar úr Dánarmeinaskrá Hagstofu Íslands fyrir árin 1996-2008 að fengnum leyfum. Könnuð var m.a. tíðni, orsök og breytur, eins og kyn, aldur, búseta og áverkagreiningar.

Niðurstöður: Alls létust 1050 vegna slysa- og ofbeldis á tímabilinu. Meðalfjöldi á ári var 88 en breytileiki var mikill. Karlar voru 699 en konur 351. Þeir sem létust voru á aldrinum 0-105 ára. Þeir sem létust af völdum slysa og af óræðum orsökum voru alls 623 eða 52 á ári. Þeir sem létust vegna sjálfsvíga voru 405 eða 34 á ári. Karlar voru 313 og konur 92. Þeir sem létust vegna áverka frá öðrum voru 22 eða 2 á ári. Karlar voru 18 og konur 4.

Ályktun: Tæplega 90 manns láta árlega lífið vegna slysa og ofbeldis. Langflestir vegna slysa og sjálfsvíga. Karlar voru í miklum meirihluta. Þrátt fyrir háar lífslíkur Íslendinga er ótímabær dauðdagi umtalsverður missir fyrir þjóðfélagið. Upplýsingar um þjóðhagslega byrði vandamálsins gæti auðveldað stefnumótun til varnar ótímabærum dauðdaga.

 

 

E-16      Offita og snemmkomnir fylgikvillar kransæðahjáveituaðgerða

Sæmundur J. Oddsson1, Hannes Sigurjónsson1, Sólveig Helgadóttir2, Þórarinn Arnórsson1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, Landspítali, 2Læknadeild Háskóla Íslands

saemiodds@hotmail.com

 

Inngangur: Offita hefur verið tengd hærri tíðni fylgikvilla eftir skurðaðgerðir, þar með talið opnar hjartaaðgerðir. Nýlegar rannsóknir benda þó til þess að tengsl offitu og tíðni fylgikvilla sé flóknara en áður var talið, t.d. eru til rannsóknir sem hafa sýnt lægri tíðni fylgikvilla í þessum hópi sjúklinga (obesity paradox). Tilgangur þessara rannsóknar var kanna tengsl offitu við árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi.

Efni og aðferðir: Aftursýn rannsókn sem náði til allra sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð (CABG/OPCAB) frá júní 2002 til febrúar 2005, samtals 279 sjúklinga. Sjúklingum var skipt í offitu- (BMI >30 kg/m2) (28%) og viðmiðunarhóp (BMI ≤30 kg/m2) (72%). Áhættuþættir og fylgikvillar voru bornir saman.

Niðurstöður: Niðurstöður eru sýndar í töflu 1. Hóparnir voru áþekkir með tilliti til helstu áhættuþátta eins og sykursýki, háþrýstings og blóðfituhækkunar, en einnig tegund aðgerðar. EuroSCORE var marktækt lægra í offituhópnum og aðgerðartími þeirra 22 mín. lengri. Enginn marktækur munur reyndist á tíðni fylgikvilla í hópunum tveimur, né heldur á dánartíðni.

Ályktun: Tíðni fylgikvilla og dánartíðni eftir kransæða-hjáveituaðgerð er ekki marktækt aukin hjá offitusjúklingum en aðgerðirnar taka lengri tíma. Þar sem EuroSCORE offitusjúklinganna var lægra er ekki hægt að útiloka að valskekkja sé til staðar og því er fyrirhuguð frekari tölfræðileg úrvinnsla, m.a. aðþáttagreining.

 

Tafla 1. Gefinn er upp fjöldi og % í sviga.

 

 

Offituhópur

(n=79)

Viðmiðunar-hópur (n=201)

 

p- gildi

 

Aldur (ár)/ karlar

 

64,8/ 64

 

67,8/ 67,6

 

ns

 

Aðgerð á sláandi hjarta (OPCAB)

 

27 (35)

 

51 (27)

 

ns

 

Sykursýki

 

15 (19)

 

28 (14)

 

ns

 

3ja æða sjúkdómur

 

71 (90)

 

173 (86)

 

ns

 

Útstreymisbrot (EF)

 

50 (30-75)

 

50 (20-90)

 

ns

 

EuroSCORE

 

4,3

 

5

 

<0,0001

 

Aðgerðartími (mín, bil)

 

215 (130-460)

 

193 (85-365)

 

0,02

 

Tími á vél (mín, bil)

 

44 (13-134)

 

38 (13-106)

 

0,04

 

Blæðing eftir aðgerð (ml)

 

1054 (200-4425)

 

1036 (150-3750)

 

ns

 

Blóðgjöf (ein)

 

3,2

 

2,2

 

ns

 

Minniháttar fylgikvillar

(gáttaflökt, sýking í skurðsári á fæti, lungnabólga, þvagfærasýking)

38 (48)

 

110 (55)

 

ns

 

Alvarlegir fylgikvillar

(heilablóðfall, bringubeinssýking, krans-æðastífla, enduraðgerð v. blæðingar, aftöppun fleiðruvökva, öndunarbilun, fjölkerfabilun)

30 (38)

 

93 (46)

 

ns

 

Legudagar (miðgildi, bil)

 

11 (1-60)

 

10 (1-96)

 

ns

 

Skurðdauði (≤30 daga)

 

2 (2,4)

 

6 (9)

 

ns

  

 

 

E-17      Slímvefjaræxli í hjarta á Íslandi

Hannes Sigurjónsson1, Karl Andersen2,7, Maríanna Garðarsdóttir3, Vigdís Pétursdóttir4, Guðmundur Klemenzson5, Gunnar Þór Gunnarsson6,7, Ragnar Danielsen2, Tómas Guðbjartsson1,7

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2hjartadeild ,3myndgreiningardeild, 4meinafræðideild, 5svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 6Sjúkrahúsið á Akureyri, 7læknadeild Háskóla Íslands

hannes@landspitali.is

 

Inngangur: Slímvefjaræxli (myxoma) eru algengustu æxlin sem upprunnin eru í hjarta. Þetta eru góðkynja æxli sem vaxa staðbundið og valda oft fjölbreytilegum einkennum, meðal annars stíflu eða leka á míturloku og segareki. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta nýgengi slímvefjaræxla hér á landi og kanna árangur skurðaðgerða við þeim.

Efni og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk og nær til allra sjúklinga sem greindust með slímvefjaræxli á Íslandi frá því hjartaaðgerðir hófust í júni 1986 og fram til dagsins í dag. Sjúklingar voru fundnir eftir þremur leiðum, meinafræði- og hjartaómunarskrá- og vélindaómskrá frá skurðstofu Landspítala.

Niðurstöður: Alls greindust 9 einstaklingar, 3 karlar og 6 konur, meðalaldur 60,7 ár (bil 37-85). Aldursstaðlað nýgengi var 0,12 á hverja 100.000 íbúa/ári (95% CI: 0,05-0,22). Átta æxli voru staðsett í vinstri gátt og eitt í þeirri hægri. Meðalstærð æxlanna var 3,6 cm (bil 1,5-7 cm). Mæði (n=5) og heilablóðfall vegna reks (n=2) voru algengustu einkennin. Átta tilfelli greindust við hjartaómun og eitt fyrir tilviljun á tölvusneiðmynd af kransæðum. Allir sjúklingarnir fóru í aðgerð þar sem æxlið var fjarlægt. Meðalaðgerðartími var 236 mín. og allir sjúklingarnir lifðu aðgerðina af og útskrifuðust heim. Fylgikvillar voru minniháttar, algengast var gáttatif (n=4). Legutími var 30 dagar (miðgildi), þar af einn dagur á gjörgæslu. Í dag (1. mars 2009) eru 7 sjúklingar af 9 á lífi, allir við góða heilsu og án teikna um endurtekið slímvefjaræxli.

Umræða: Nýgengi slímvefjaræxla á Íslandi er svipuð og í erlendum rannsóknum og sömuleiðis einkenni og greining. Eftir því sem best er vitað er þetta fyrsta rannsóknin á slímvefjaræxlum að ræða sem nær til heillar þjóðar og þar sem reiknað er út lýðgrundað nýgengi.

 

 

E-18      Skurðaðgerðir við sjálfsprottnu loftbrjósti á Íslandi. - Þróun aðgerðatækni, ábendinga og tíðni fylgikvilla á 18 ára tímabili

Guðrún Fönn Tómasdóttir1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

gft@hi.is

 

Inngangur: Fyrsta meðferð við sjálfsprottnu loftbrjósti er brjóstholskeri en við endurteknu loftbrjósti eða viðvarandi loftleka er yfirleitt gripið til skurðaðgerðar með opinni aðgerð eða brjóstholssjá. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna aðgerðatækni, ábendingar og árangur þessara aðgerða á 18 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk og nær til 251 sjúklings (meðalaldur 27,7 ár, 191 karlar) sem gengust undir 281 skurðaðgerð vegna sjálfsprottins loftbrjósts (án undirliggjandi lungnasjúkdóms) á LSH á árunum 1991-2008. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og meinafræðiskýrslum. Tímabilinu var skipt í 6 tímabil og þau borin saman.

Niðurstöður: Aðgerðafjöldi jókst á milli tímabila, eða frá 33 í 61 aðgerð á síðasta tímabilinu (p<0,05). Brjóstholsspeglun var oftar framkvæmd en opin aðgerð nema á tímabilinu 2000-2002 (45%) en voru 82% aðgerðanna á síðasta tímabilinu. Fleygskurður eingöngu var algengasta aðgerðin (55%) þar til á síðasta tímabilinu að auk fleygskurðar var gerð fleiðruerting með sandpappír og/eða hlutabrottnámi á fleiðru (84% tilfella). Ábendingar fyrir aðgerð voru sambærilegar milli tímabila, endurtekið loftbrjóst í 38% tilfella og viðvarandi loftleki hjá 31%. Aðgerðartími var að meðaltali 58 mín. og breyttist ekki marktækt á tímabilinu, einnig legutími sem var í kringum 4 dagar. Tíðni snemmkominna fylgikvilla var sambærileg á milli tímabila, einnig síðkomið endurtekið loftbrjóst, en 84% þeirra greindust eftir brjóstholsspeglunaraðgerð.

Ályktanir: Ábendingar skurðaðgerða hafa lítið breyst á þeim 18 árum sem rannsóknin náði til. Hins vegar hefur orðið veruleg fjölgun á brjóstholsspeglunaraðgerðum þar sem ertingu og hlutabrottnámi á fleiðru er bætt við fleyskurð. Því er áhyggjuefni að tíðni endurtekins loftbrjósts hefur ekki minnkað, en um er að ræða þekkt vandamál eftir speglunaraðgerðir sem mikilvægt er finna lausn á.

 

 

E-19      Árangur lungnasmækkunaraðgerða við lungnaþembu á Íslandi 1996-2008

Sverrir I. Gunnarsson1,4, Kristinn B. Jóhannsson1, Marta Guðjónsdóttir2,4, Hans J. Beck2, Björn Magnússon3, Tómas Guðbjartsson1,4

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2Hjarta- og lungnarannsókn Reykjalundi, 3Fjórðungssjúkrahúsið á Neskaupstað, 4læknadeild Háskóla Íslands.

sverrirgunnarsson@gmail.com

 

Inngangur: Lungnasmækkunaraðgerð (lung-volume reduction surgery) getur bætt lífsgæði og þrek sjúklinga með alvarlega lungnaþembu. Þar sem fylgikvillar eru tíðir hafa þessar aðgerðir þó verið umdeildar. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna árangur þessara aðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Framsæ rannsókn á 16 sjúklingum (meðalaldur 59 ár, 10 karlar) með alvarlega lungnaþembu sem gengust undir lungnasmækkunaraðgerð á LSH frá 1996 til 2008. Í gegnum bringubeinsskurð var ~20% af efri hluta beggja lungna fjarlægður með heftibyssu. Skráð voru afdrif sjúklinga, fylgikvillar, legutími og öndunarmælingar fyrir og eftir aðgerð. Meðaleftirfylgd var 8 ár.

Niðurstöður: Aðgerðartími var 86 mín. (bil 55–135) og miðgildi legutíma 26 dagar (bil 9–85). Allir sjúklingarnir lifðu af aðgerðina. Viðvarandi loftleki (n=7) var algengasti fylgikvillinn en 4 þurftu í enduraðgerð, 3 vegna bringubeinsloss og hinir vegna blæðingar, gallblöðrubólgu og rofs á smágirni. Einn sjúkling þurfti að endurlífga í enduraðgerð. FEV1 fyrir aðgerð mældist 0,97 L (33% af áætluðu), TLC 7,8 L (132% af áætluðu), RV 4,5 L (205% af áætluðu) og þrek á áreynsluprófi 69 W. Einum mánuði frá aðgerð hafði FEV1 aukist um 34% í 1,3 L (p=0.004) en breyting á öðrum gildum var ekki marktæk, m.a. á RV sem lækkaði um 18% í 3,7 L og þol sem aðeins jókst um 3%. Í dag (febrúar 2009), eru 10 af 16 sjúklingum á lífi og hrá meðallifun 96 mánuðir (bil 9-151).

Ályktun: FEV1 jókst marktækt eftir aðgerð og allir sjúklingarnir lifðu af aðgerðina. Hins vegar var tíðni alvarlegra fylgikvilla há og legutími langur. Þar sem um lítinn sjúklingahóp er að ræða og viðmiðunarhópur er ekki til staðar verður að túlka niðurstöður varlega.

 

 

E-20      Árangur lungnabrottnámsaðgerða við lungnakrabbameini á Íslandi

Húnbogi Þorsteinsson1, Hörður Alfreðsson2, Helgi J. Ísaksson3, Steinn Jónsson1,4, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3Rannsóknarstofu í meinafræði og 4lungnadeild, Landspítala

hth14@hi.is

Inngangur: Lungnabrottnám er aðgerð til að fjarlægja stór og miðlæg skurðtæk lungnakrabbamein sem ekki er unnt að lækna með blaðnámi. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna árangur þessara aðgerða, ábendingar og fylgikvilla þeirra hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem gengust undir lungnabrottnám vegna lungnakrabbameins á Íslandi 1988-2007. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og voru m.a. kannaðar ábendingar aðgerðar, TNM-stig, fylgikvillar, lífshorfur og forspárþættir lífshorfa (Cox fjölbreytugreining).

Niðurstöður: Samtals gengust77 sjúkl. (meðalaldur 62,3 ár, 64% karlar) undir lungnabrottnám, hæ. megin í 44% tilfella. Miðmætisspeglun var gerð í 31% tilfella fyrir lungnabrottnámið. Alls reyndust 41 sjúkl. (54%) á stigi I+II, 27 (38%) á stigi IIIA/B og 6 á stigi IV. Í 17% tilfella sást krabbamein í skurðbrún. Aðgerðartími var að meðaltali 161 mín. og blæðing í aðgerð 1100 ml. Helstu fylgikvillar eftir aðgerð voru gáttatif/flökt (21%), lungnabólga (6,5%), fleiðruholssýking (5,2%) og öndunarbilun (5,2%). Miðgildi legutíma var 11 dagar. Þrír sjúklingar (3,9%) létust <30 daga frá aðgerð og voru lífshorfur eftir 1 og 5 ár 62,9% og 19,3%. Aldur, TNM-stig og vefjagerð reyndust sjálfstæðir forspárþættir lífshorfa.

Ályktun: Skammtímaárangur lungnabrottnámsaðgerða er góður hér á landi og tíðni alvarlegra fylgikvilla lág. Langtíma lífshorfur eru hins vegar lakari en erlendis og aðeins 1 af 5 sjúkl. á lífi 5 árum frá aðgerð. Skýring á þessu er ekki þekkt en ófullnægjandi stigun fyrir skurðaðgerð gæti haft þýðingu, til dæmis var hluti sjúklinga með útbreiddan sjúkdóm þar sem skurðaðgerð er ekki talin koma að gagni. Ljóst er að bæta má stigun þessara sjúklinga hér á landi, til dæmis með því að fjölga miðmætisspeglunum.

 

 

E-21      Miðmætisspeglanir á Íslandi

Þóra Sif Ólafsdóttir1, Gunnar Guðmundsson2,4, Jóhannes Björnsson3,4, Tómas Guðbjartsson1,4

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2lungnadeild og 3R.H. meinafræði, 4læknadeild HÍ

thorasif@landspitali.is

 

Inngangur: Speglun er kjörrannsókn við sýnatöku úr miðmæti, til dæmis við æxlisstigun. Í svæfingu er gerður 2ja cm skurður neðst á hálsi, spegli tengdum ljósgjafa rennt niður eftir utanverðum barka og sýni tekin úr framverðu miðmæti. Blæðingar eru hættulegasti fylgikvillinn og getur verið erfitt að stöðva. Ekki liggja fyrir upplýsingar um ábendingar eða árangur þessara aðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggð á öllum sjúklingum sem gengust undir miðmætisspeglun á Íslandi tímabilið frá 1. janúar 1983 til 31. desember 2007. Listi og upplýsingar um sjúklinga fengust úr aðgerða- og meinafræðiskrá LSH og sjúkraskrám. Tímabilinu var skipt í fimm 5 ára tímabil.

Niðurstöður: Alls voru gerðar 236 aðgerðir (61% karlar) og var meðalaldur 59,9 ár (bil 11-89 ár). Aðgerðum fjölgaði úr 16 á fyrsta tímabili í 83 síðasta tímabilið. Helstu ábendingar voru stigun lungnakrabbameins (64%), óþekkt fyrirferð í miðmæti (24%) og grunur um sarklíki (9%). Ábendingar héldust
óbreyttar á milli tímabila. Aðgerðirnar tóku að meðaltali 30 mín (bil 10-320) og legutími var að jafnaði 1 dagur (miðgildi, bil 0,5-26). Algengustu vefjagreiningar voru ósérhæfðar breytingar (41%), meinvörp lungnakrabbameins (22%) og sarklíki (12%). Helstu fylgikvillar voru skurðsýkingar hjá 6 sjúklingum (2,5%), hæsi vegna raddbandalömunar hjá 4 (1,7%) og blæðingar (>500 ml) hjá 3 sjúklingum (1,3%). Tvö dauðsföll urðu innan 30 daga (0,8%); annað vegna blæðingar í aðgerð frá æxli sem óx ífarandi í ósæðarboga og hitt vegna pseudomonas lungnabólgu 11 dögum frá aðgerð.

Ályktun: Miðmætisspeglunum fer fjölgandi á Íslandi, sérstak-lega í tengslum við stigun lungnakrabbameins. Rannsóknin er örugg með lága tíðni fylgikvilla.

 

 

E-22      Brottnám á lungnameinvörpum krabbameins í ristli og endaþarmi

 

Halla Viðarsdóttir1, Páll Helgi Möller2, Jón Gunnlaugur Jónasson3,4, Tómas Guðbjartsson1,4

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2skurðlækningadeild, 3rannsóknarstofa í meinafræði, Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands

hallavi@landspitali.is

 

Inngangur: Krabbamein í ristli og endaþarmi er þriðja algengasta krabbameinið á Íslandi og tæplega helmingur sjúklinga deyr úr sjúkdómnum. Fjarmeinvörp greinast oftast í lifur og lungum og er stundum hægt að fjarlægja þau með skurðaðgerð. Árangur aðgerða á lungnameinvörpum hefur verið umdeildur. Ekki er vitað um árangur þessara aðgerða hér á landi og er markmið rannsóknarinnar að bæta úr því.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúk-
lingum sem gengust undir læknandi brottnám á lungna-meinvörpum frá ristil- eða endaþarmskrabbameini á Íslandi frá 1984 til 2008. Kannaðar voru ábendingar, fylgikvillar aðgerða
og lifun (hráar tölur). Útreikningar miðast við 31. janúar 2009 og var meðaleftirfylgni 41 mánuður.

Niðurstöður: Gerðar voru 32 aðgerðir á 27 sjúklingum (aldur 63,5 ár, bil 35-80, 63% karlar). Frumæxli 19 sjúklinganna voru í ristli (70%) og 8 í endaþarmi; 13 á Dukes-stigi C (48%), 9 á stigi B (33%), 4 á stigi D og 1 á stigi A. Lungnameinvörpin greindust 30 mán. (bil 1,5-74) frá greiningu frumæxlis, 26% fyrir tilviljun. Fimm sjúklingar höfðu áður gengist undir brottnám á lifrarmeinvörpum. Í 18 tilfellum var um stakan hnút að ræða, 6 höfðu 2 hnúta en hinir fleiri. Blaðnám (48%) og fleygskurður (33%) voru algengustu aðgerðirnar. Þrír fóru í aðgerð vegna meinvarpa í báðum lungum. Í þremur tilfellum var gert endurtekið brottnám vegna lungnameinvarpa. Allir lifðu af aðgerðina og var legutími 8 dagar (bil 5-58). Algengustu fylgikvillar voru loftleki (19%) og loftbrjóst (26%). Frá lungnaaðgerð var 1 og 5 ára lifun 92,3% og 30,4%.

Ályktun: Árangur þessara aðgerða er góður og fylgikvillar oftast minniháttar. Þriðjungur sjúklinga er á lífi 5 árum frá aðgerð, sem er umtalsvert betri lifun en fyrir sjúklinga sem ekki fara í aðgerð. Þar sem viðmiðunarhóp vantar er ekki hægt að útiloka að skekkja í vali á sjúklingum geti haft áhrif á niðurstöður.

E-23      Æðaþelsfrumur gegna lykilhlutverki í myndun greinóttrar formgerðar í lungum

Ívar Axelsson1, Ari J. Arason1, Ólafur Baldursson4,6, Jóhannes Björnsson2,6,, Tómas Guðbjartsson3,6, Þórarinn Guðjónsson1,5, Magnús Karl Magnússon5,6

1Líffærafræðideild Háskóla Íslands, 2Meinafræðideild, 3skurðdeild, 5blóðmeinafræði- og 4lungnadeild, Landspítali. Læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Greinótt formgerð lungnamyndast frá forgirni meltingarvegar á fósturskeiði. Aukin þekking á þroskun og sérhæfingu lungnafruma er mikilvæg til þess að mögulegt sé að kortleggja upphaf og framþróun krabbameinsmyndunar í lungum. Mikill skortur er á góðum frumuræktunarkerfum til rannsókna á þekjuvefsmyndun lungna. Við höfum nýlega lýst nýrri lungnaþekjufrumulínu, VA-10, sem getur m.a. myndað sýndarlagskipta (pseudostratified) þekju í loft-vökvarækt (air-liquid culture) líkt og gerist í efri öndnarvegi. Vitað er að bandvefsfrumur gegna mikilvægu hlutverki í endanlegri sérhæfingu þekjuvefsfruma og í þessari rannsókn höfum við hafið könnun á hugsanlegu hlutverki æðaþelsfruma í þroskun og sérhæfingu lungnaþekju.

Aðferðir: VA-10 lungnaþekjufrumulínan var ræktuð í þrívíddar-frumurækt (3-D) með og án æðaþelsfruma. Fylgst var með ræktunum í smásjá og var formbygging nánar skilgreind með ónæmislitunum og confocal smásjármyndum. Til samanburðar var stuðst við sneiðar úr eðlilegum lungnavef sem var nánar skilgreindur með ónæmislitunum.

Niðurstöður: Þegar VA-10 frumulínan er ræktuð ein og sér myndar hún kúlulaga kóloníur án nokkurrar greinóttrar formgerðar. Þegar æðaþelsfrumum var bætt út í ræktina örvuðu þær hins vegar VA-10 frumurnar til vaxtar og kom fram greinótt berkju-alveolar lík formgerð eftir 4-6 daga og á 8-15 dögum náði þessi formgerð fullum þroska. Þessar frumur tjáðu þekjuvefsprótín, svo sem ýmis cytokeratín. Greinótt formgerð var aðgreind frá grunnhimnunni með samfelldri tjáningu ß1 og ß 4 integrína. Frumurnar tjáðu einnig lungnapróteínið pro-surfactant C og einnig var áberandi tjáning á FGFR2 viðtakanum á vaxtarbroddum hinna greinóttu strúktúra. Við sjáum einnig áberandi tjáningu á prótíninu Sprouty-2,sem er þekkt lykilprótín í stjórnun á greinóttri formgerð ýmissa líffæra.

Ályktanir: VA-10 berkjufrumulínan sýnir hæfileika til sérhæf-ingar og myndunar á berkju-alveolar líkri formgerð í þrívíðri rækt. Þessi sérhæfing er háð samrækt með æðaþelsfrumum og gefur til kynna náið samspil þessara fruma í formgerð lungna. Þessar niðurstöður gefa til kynna að VA-10 frumulínan hafi forvera- eða stofnfrumueiginleika og geti nýst til rannsókna á þroskun og sérhæfingu lungnafruma.

 

 

E-24      Sárasogsmeðferð við sýkingar í bringubeinsskurði eftir opnar hjartaaðgerðir. – Fyrstu tilfellin á Íslandi

Steinn Steingrímsson1, Magnús Gottfreðsson1,2, Ingibjörg Guðmundsdóttir3, Johan Sjögren4, Tómas Guðbjartsson1,5

1Lækna- og 3hjúkrunardeild Háskóla Íslands,2smitsjúkdómadeild og 5 hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 4hjartaskurðdeild háskólasjúkrahússins í Lundi, Svíþjóð

steinns@hi.is

Inngangur: Á síðustu árum hefur meðferð sýkinga í bringubeinsskurði með sárasogsvampi (Vacuum-Assisted-Closure, VAC) rutt sér til rúms. Í stað þess að skilja sárið eftir opið eða beita skolmeðferð með kera, er komið fyrir svampi í skurðsárinu og hann tengdur við sogtæki. Meðferðin hemur vöxt baktería, örvar blóðflæði og örvefsmyndum í sárinu. Hér eru kynnt fyrstu tilfellin á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Teknir voru með allir sjúklingar með sýkingu í bringubeinsskurði eftir opnar hjartaskurðaðgerðir á LSH á tímabilinu frá júlí 2005 til desember 2008. Þeir voru allir meðhöndlaðir með sárasogsvampi. Kannaðar voru ábendingar meðferðar og lagt mat á árangur.

Niðurstöður: Alls fengu 12 einstaklingar (meðalaldur 69 ára, 10 karlar) sárasogsmeðferð (1,3% sýkingartíðni), flestir eftir kransæðahjáveituaðgerð (n=9). Algengustu sýkingarvaldar voru kóagúlasa-neikvæðir Staphylokokkar(n=6) og S. aureus (n=4). Sárasogsmeðferð hófst 19 dögum frá upphaflegri aðgerð og var meðferðarlengd 14 dagar (miðgildi; bil 5-36). Bringubeinsvírar voru fjarlægðir í 9/12 tilvikum og fjöldi svampskiptinga var á bilinu 2 til 9. Unnt var að loka bringubeininu hjá 10 sjúklingum og þurftu 3 stálplötu til styrkingar. Í einu tilfelli þurfti að hætta sárasogsmeðferð. Um var að ræða P. aeruginosa sýkingu og var í staðinn notast við edikvættar grisjur með góðum árangri. Ekki sáust alvarlegir fylgikvillar tengdir sárasogsmeðferð, en einn sjúklingur lést 35 dögum frá aðgerð vegna miðmætisbólgu og sýklalosts. Hinir sjúklingarnir 11 eru á lífi í dag og bringubeinið gróið.

Ályktanir: Meðferð bringubeinssýkinga með sárasogsvampi lofar góðu. Alvarlegir fylgikvillar meðferðar eru fátíðir og tekist hefur að uppræta langflestar sýkinganna. Rétt er þó að taka fram að um fá sjúklinga er að ræða og því varasamt að draga of miklar ályktanir um árangur meðferðar.

 

 

E-25      Áhrif blóðflæðis í neðri garnahengisslagæð á árangur eftir fóðringu ósæðargúla (EVAR)

Þórarinn Kristmundsson, Satoko Fujita, Timothy Resch, Björn Sonesson, Bengt Lindblad, Martin Malina

Æðaskurðlækningadeild háskólasjúkrahússins í Malmö, Svíþjóð

thorark@hotmail.com

Inngangur: Fóðring ósæðargúla (endovascular aortic repair, EVAR) er tæknilega mjög frábrugðin opinni aðgerð og er víða fyrsta val í meðferð sjúklinga með þennan sjúkdóm. Með þessari aðgerðartækni er neðri garnahengisslagæð (a.mesenterica inferior) skilin eftir óhreyfð sem skapar hættu á bakblæðingu (type II endoleak) sem síðar getur valdið útþenslu gúlsins og í versta falli rofi. Til að fyrirbyggja þetta er æðinni stundum lokað með innæðahnoðrum (coils) fyrir aðgerð en árangur af þessu er umdeildur.

Efniviður og aðferðir: Tölvusneiðmyndir sjúklinga sem meðhöndlaðir voru með hefðbundinni fóðringu á tímabilinu frá júní 2004 til júní 2007 voru skoðaðar með tilliti til blóðflæðis í neðri garnahengisslagæð fyrir aðgerð og áhrif þess á tíðni bakblæðinga metin.

Niðurstöður: Tölvusneiðmyndir 114 sjúklinga voru skoðaðar og hjá 62 var neðri garnahengisslagæð opin fyrir aðgerð. Eftirfylgni var að meðaltali 19 mánuðir. Átján bakblæðingar fundust á tímabilinu, 4 sem rekja mátti til neðri garnahengisslagæðar og 14 sem komu frá lendaslagæðum (aa.lumbales). Enginn marktækur munur var á tíðni bakblæðinga hjá sjúklingum með opna neðri garnahengisslagæð og hjá þeim þar sem æðin var lokuð. Magn og staðsetning blóðsega í ósæðagúlnum hafði hinsvegar marktæk áhrif á tíðni bakblæðinga eftir aðgerð.

Ályktun: Opin neðri garnahengisslagæð virðist ekki auka tíðni bakblæðinga eftir fóðringu ósæðargúla og lokun æðarinnar fyrir aðgerð er að öllum líkindum óþörf.

 

 

E-26      Viðgerð ósæðargúla með götuðum fóðringum (f-EVAR)

Þórarinn Kristmundsson, Björn Sonesson, Martin Malina, Katarina Björses, Nuno Dias, Timothy Resch

Æðaskurðlækningadeild háskólasjúkrahússins í Malmö, Svíþjóð

thorark@hotmail.com

 

Inngangur: Við hefðbundna fóðringu ósæðargúla (endovascular aortic repair, EVAR) þarf heilbrigðan æðavegg á milli nýrnaslagæða og gúlsins (sk. háls) þar sem fóðringin pressast að veggnum til þéttingar (sealing zone). Ef hálsinn er of stuttur eða óreglulegur þarf sjúklingurinn í flestum tilfellum að gangast undir opna aðgerð. Við mátum árangur fóðringa hjá sjúklingum með stutta og óreglulega hálsa þar sem þéttisvæðið var flutt nærlægt (proximal) og blóðflæði til nýrna og/eða þarmaslagæða (markæða) tryggt með götum í fóðringunni (fenestrated endovascular aortic repair, f-EVAR).

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar um heilsufar og tölvusneiðmyndir allra sjúklinga sem meðhöndlaðir voru með f-EVAR á tímabilinu frá september 2002 til júní 2007 voru skráðar í gagnagrunn. Sjúklingunum var fylgt eftir með klínískum líkamsskoðunum og reglubundnum tölvusneiðmyndum.

Niðurstöður: Fimmtíu og fjórir sjúklingar voru meðhöndlaðir. Miðgildi aldurs var 72 ár og 85% voru karlar. Þvermál ósæðargúlanna fyrir aðgerð var 60 mm og markæðar voru 134. Sjúklingum var fylgt eftir að meðaltali í 2 ár. Tveir sjúklingar (3,7%) dóu innan 30 daga vegna fylgikvilla og einn eftir 6 mánuði. Níutíu og sex prósent af markæðum héldust opnar á tímabilinu og þær sem lokuðust gerðu það án klínískra einkenna.

Ályktun: Meðhöndlun með f-EVAR er góður valkostur hjá sjúklingum með ósæðargúla þar sem hefðbundin fóðring er ekki möguleg og þar sem opin aðgerð telst of áhættusöm.

 

 

E-27      Gerviþvagrásarlokur (AMS-800) vegna þvagleka á Landspítala

Helgi Karl Engilbertsson, Þorsteinn Gíslason, Guðmundur Vikar Einarsson, Guðmundur Geirsson, Guðjón Haraldsson, Eiríkur Jónsson

Þvagfæraskurðdeild Landspítala

helgike@landspitali.is

 

Inngangur: Gerviþvagrásarloka þykir góður valkostur fyrir sjúklinga með svæsinn áreynsluþvagleka sem ekki hefur
tekist að meðhöndla með hefðbundnum aðferðum.

Algengustu ábendingar aðgerðarinnar eru svæsinn áreynslu-þvagleki eftir blöðruhálskirtilsaðgerðir (brottnám, heflun), eftir slys eða meðfæddra galla. Nýleg yfirlitsgrein sýnir að ¾ hluti sjúklinga sem fá lokuna eru án þvagleka á eftir. Mögulegir fylgikvillar aðgerðar eru lokubilun, sýking, þvagrásarrof og þvagleki. Í þessari rannsókn er farið yfir árangur meðferðar þvagleka með gerviþvagrásarlokum á LSH, en þessar aðgerðir hófust hér árið 1996.

Efniviður og aðferðir: Farið var yfir sjúkraskrár sjúklinga sem fengið hafa gerviþvagrásarloku vegna þvagleka á LSH frá árinu 1996-2008. Rannsóknin var aftursæ og stuðst við skráningu. Metinn var árangur og fylgikvillar.

Niðurstöður: Alls hefur aðgerðin verið framkvæmd á 13 karlmönnum á LSH frá upphafi. Algengustu ábendingarnar voru áreynsluþvagleki eftir blöðruhálskirtilsbrottnám (7), eða eftir heflun (3). Ein aðgerð var gerð hjá sjúklingi með klofinn hrygg, ein eftir þvagrásaráverka og ein eftir umfangsmikla grindarholsaðgerð og geislameðferð. Í tveimur tilvikum kom til enduraðgerðar, annars vegar vegna þvagrásarrofs (2 ár eftir aðgerð) og hins vegar vegna minniháttar lokubilunar. Enginn hafði teljandi þvagleka eftir aðgerð. Meðaleftirlitstími var 50 mánuðir (3-126).

Ályktun: Aðgerð þar sem sett er gerviþvagrásarloka vegna svæsins áreynsluþvagleka er örugg og árangursrík.

 

 

E-28      Æxli í hóstarkirtli á Íslandi 1984-2009

Elín Maríusdóttir1,2, Sigfús Nikulásson3, Tómas Guðbjartsson2,1

1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, og 3meinafræðideild Landspítala

elm1@hi.is

 

Inngangur: Æxli í hóstarkirtli eru sjaldgæfur og misleitur hópur æxla með afar mismunandi horfur. Tilviljanagreining er algeng en flestir hinna greinast vegna staðbundinna einkenna. Nýlega var gefin út alþjóðleg vefjafræðiflokkun (WHO) þessara æxla þar sem lífshorfur sjúklinga eru lagðar til grundvallar. Upplýsingar um faraldsfræði þessara æxla hérlendis er ekki þekkt og tilgangur rannsóknarinnar að bæta úr því um leið og æxlin eru flokkuð skv. nýjustu skilmerkjum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og nær til allra einstaklinga á Íslandi sem greindust með æxli í hóstarkirtli frá 1984 til 2009. Upplýsingar fengust úr meinafræði- og sjúkraskrám. Æxlin voru stiguð og flokkuð vefjafræðilega en einnig reiknaðar lífshorfur.

Niðurstöður: Alls greindust 16 tilfelli (10 karlar) og var meðalaldur sjúklinga 61 ár (bil 31-87). Sjö sjúklingar (44%) greindust fyrir tilviljun, 7 vegna staðbundinna einkenna og 2 (13%) við uppvinnslu vöðvaslensfárs. Í 4 tilfellum var eingöngu tekið sýni en 12 sjúklingar gengust undir brottnám æxlis í gegnum bringubeinsskurð. Fylgikvillar voru óverulegir og enginn lést <30 daga frá aðgerð. Tólf æxlanna (75%) reyndust góðkynja (thymoma) en 4 (25%) illkynja (thymic carcinoma, gerð C). Góðkynja æxli voru algengust af flokki B2 (n=5) og vefjagerð A næstalgengust (n=3). Samkvæmt stigunarkerfi Masoka voru 4 góðkynja æxli á stigi I (33%) og 5 á stigi II (42%). Hjá 3 sjúklingum vantaði upplýsingar um stigun. Sjúklingar með illkynja æxli voru 2 á hvoru stigi, III og IV. Fimm ára lifun var 56% (hráar tölur), 75% fyrir góðkynja æxli og 0% fyrir illkynja æxli.

Ályktanir: Æxli í hóstarkirtli eru sjaldgæf. Í flestum tilvikum er um góðkynja æxli að ræða. Horfur góðkynja æxla eru mjög góðar og árangur skurðaðgerðar sömuleiðis. Horfur illkynja hóstarkirtilsæxla eru hins vegar slæmar og flestir látnir innan 12 mánaða frá greiningu.

 

 

E-29      Háfjallaveiki, S100B og súrefnismettun í þunnu lofti á Monte Rosa

Tómas Guðbjartsson1,5, Engilbert Sigurðsson2,5, Magnús Gottfreðsson3,5, Orri Einarsson4, Per Ederoth6, Invar Syk8, Henrik Jönsson7

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2geðdeild, 3smitsjúkdómadeild Landspítala, 4röntgendeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, 5læknadeild HÍ, 6svæfinga- og gjögæsludeild, 7hjarta- og lungnaskurðdeild háskólasjúkrahússins í Lundi, Svíþjóð, 8skurðdeild háskólasjúkrahússins í Malmö, Svíþjóð

tomasgud@landspitali.is

 

Inngangur: Þegar komið er yfir 2500 m hæð getur háfjallaveiki og háfjallaheilabjúgur gert vart við sig. Orsökin er súrefnisskortur en margt er á huldu um meingerðina. S100B er ensím í heila og taugavef sem hækkar í blóði vegna leka í háræðum heila, t.d. við heilaáverka og blóðþurrð. Í þessari framsýnu rannsókn könnuðum við hvort S100B hækki í blóði við lækkun á súrefnismettun.

Efniviður og aðferðir: Sjö heilsuhraustir læknar klifu á þremur dögum tind Monte Rosa í Ölpunum. Á upp- og niðurleið voru gerðar samtals 5 prófanir í mismunandi hæð (1155 m, 2864 m, 3647 m og 4554 m), m.a. tekin S100B-blóðsýni, framkvæmd taugasálfræðipróf og einkenni háfjallaveiki metin með Lake Louise kvarðanum.

Niðurstöður: Loftþrýstingur lækkaði jafnt og þétt og varð lægstur 586 millibör á tindinum. Súrefnismettun lækkaði um 6,3 – 12,4% (p<0,05). S100B hækkaði um 42-122% frá grunngildi, mest fyrstu 2 dagana (42% og 47% hækkun) en síðan dró úr hækkuninni (33%). Lake Louise meðalgildi hækkuðu úr 0,57 í 2,57 (p<0,05). Almennt urðu ekki marktækar breytingar á frammistöðu í taugasálfræðiprófum, enda þótt tilhneigingar gætti til minni getu í viðbrögðum/kóðun (processing speed), sveigjanleika í hugsun (cognitive flexibility) og stýrigetu (executive function).

Ályktun: Þessi rannsókn sýnir að S100B hækkar marktækt í aukinni hæð, sérstaklega þegar mikil hæðaraukning á sér stað á skömmum tíma, en eftir það dregur úr hækkuninni. Sennilega má rekja hækkun S100B til súrefnisskorts sem veldur háræðaleka í heilanum. Þó verður að túlka niðurstöður varlega þar sem styrkur rannsóknarinnar er lítill með aðeins 7 þátttakendur.

 

E-30      Líffæragjafir og líffæraígræðslur á Íslandi 2003-2007

Þóra Elísabet Kristjánsdóttir1, Runólfur Pálsson1,2, Kristinn Sigvaldason3, Sigurbergur Kárason1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands; 2lyflækningasvið Landspítala og 3svæfinga- og gjörgæslusvið Landspítala

skarason@landspitali.is

Inngangur: Vegna skorts á líffærum til ígræðslu er mikilvægt að sem flest tækifæri til líffæragjafa séu nýtt. Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta þróun líffæragjafa á Íslandi og líffæraígræðslur í íslenska sjúklinga 2003–2007.

Efniviður og aðferðir: Farið var yfir gögn allra sjúklinga sem létust á gjörgæsludeildum sjúkrahúsa á Íslandi á árunum 2003-2007 með tilliti til þess hvort þeir urðu eða hefðu mögulega getað orðið líffæragjafar. Upplýsinga var aflað um fjölda lifandi líffæragjafa, fjölda sjúklinga á biðlista eftir líffæraígræðslu og hve margir fengu ígræðslu. Niðurstöður eru sýndar sem fjöldi, hlutfall og miðgildi (lágmark, hámark).

Niðurstöður: Alls létust 550 einstaklingar á gjörgæslu á tímabilinu eða 113 (93, 118) árlega. Af þeim voru 36 (7%) úrskurðaðir látnir vegna heiladauða, eða 7 (3, 11) á ári. Sótt var um leyfi til líffæratöku hjá aðstandendum í 20 (56%) þessara tilvika en 16 (44%) voru fyrirfram metnir sem óhæfir líffæragjafar. Við nánara mat hefði einn þeirra (0,2% af öllum látnum) þó hugsanlega getað orðið líffæragjafi. Leyfi til brottnáms líffæra fékkst í 14 tilvikum (70%) en 6 (30%) höfnuðu líffæragjöf. Af þeim 14 sem gáfu leyfi reyndust 2 ekki hæfir líffæragjafar. Líffæragjafar urðu því alls 12 einstaklingar eða 2 (0, 5) árlega að jafnaði (8 á milljón íbúa á ári) og fengust frá þeim 39 líffæri eða 6 (0,19) á ári. Á rannsóknartímabilinu gengust 30 einstaklingar undir ígræðslu líffæris frá látnum gjafa eða 5 (4,10) á ári. Líffæri frá lifandi gjafa fengu 35 eða 8 (2, 11) árlega. Að jafnaði voru 10 (9, 11) á biðlista eftir líffæri í lok hvers árs.

Ályktanir: Greining mögulegra líffæragjafa er mjög góð og hlutfall ættingja sem hafna líffæragjöf er svipað og þekkist erlendis. Þrátt fyrir það eru líffæragjafir eftir andlát hlutfallslega fáar á Íslandi, eða 8 á milljón íbúa á ári, sem er heldur minna en meðal annarra Norðurlandaþjóða. Að hámarki hefðu gjafarnir getað orðið 15 á milljón íbúa á ári og því hugsanlega færri sjúklingar sem andast vegna heiladauða hér á landi miðað við önnur Norðurlönd. Lifandi líffæragjafar sjá til þess að við önnum eftirspurn eftir líffærum til ígræðslu.

 

 

E-31      Góður árangur kælimeðferðar eftir hjartastopp

Valentínus Þ. Valdimarsson1,2, Gísli H. Sigurðsson1,2, Felix Valsson1

1Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala (LSH), 2læknadeild Háskóla Íslands

valentv@hi.is

 

Inngangur: Endurlífgun er reynd hjá um 100 sjúklingum á ári sem fara í hjartastopp utan sjúkrahúsa. Helsti fylgikvilli eftir endurlífgun er alvarlegur heilaskaði en kæling þessara sjúklinga hefur sýnt sig að dragi úr heilaskaða. Þessi könnun lýsir áhrifum kælingar á dánartíðni og heilastarfsemi hjá 60 sjúklingum sem voru meðhöndlaðir með kælingu á gjörgæsludeild LSH eftir hjartastopp.

Efni og aðferðir: Allir sjúklingar 18 ára og eldri sem meðhöndlaðir voru með kælingu eftir hjartastopp utan sjúkrahúss á sl. þremur árum voru teknir með í rannsóknina (n=60). Sjúklingarnir voru kældir niður í 32-34°C með köldu innrennsli og kælivél (Coolgard®) í 24 klst.

Niðurstöður: Við útskrift af spítalanum var 68% sjúklinga lifandi og aðeins 4 sjúklingar (7%) með skerta heilastarfsemi og enginn meðvitundarlaus. Svipuð útkoma var 6 mánuðum seinna. Meðalaldur var 61 ár (20-89 ára), 80% karlmenn, meðaltími frá stoppi að blóðflæði: 17 mín. (0-60) og 85% voru með hjartasjúkdóma sem líklega ástæðu fyrir hjartastoppi. Vitni að hjartastoppi og stuðanlegur taktur jók líkur á lifun (83% og 48%, P=0,009) og góðri heilastarfsemi (77% og 40%, P=0,008) við útskrift.

Ályktanir: Miðað við rannsókn á sambærilegum sjúklingahópi, áður en kælimeðferð hófst, þá hefur lifun aukist úr 28% í 68%. Af þeim sjúklingum sem lifðu af er stór meirihluti með óskerta vitræna getu og enginn meðvitundarlaus. Góðar horfur eru hjá þeim sem leggjast inn á gjörgæslu og hafa stuðanlegan fyrsta takt en lélegar hjá þeim sem hafa rafleysu.

 

Tafla 1. Stuðanlegur taktur (VT/VF): púlslaus sleglahraðtaktur/sleglatif.

 

 

N (%)

 

Aldur

 

Vitni að hjarta-stoppi

 

Góð heila-starfsemi við útskrift

 

Lifun við útskrift

 

Upphafstaktur

 

 

 

 

 

 

- Stuðanlegur taktur (VT/VF)

 

44 (73%)

 

61 (20-87)

 

80%

 

75%

 

82%

 

- Rafvirkni án dælu-virkni (Pulseless electrical activity)

 

7 (12%)

 

66 (49-89)

 

71%

 

43%

 

57%

 

- Rafleysa (Asystole)

 

9 (15%)

 

53 (21-73)

 

78%

 

11%

 

11%

(n=1) 

 

 

E-32      Enduraðgerðir vegna blæðinga eftir opnar hjartaskurðaðgerðir á Íslandi

Njáll Vikar Smárason1, Hannes Sigurjónsson2, Kári Hreinsson3, Þórarinn Arnórsson2, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta-og lungnaskurðdeild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala

nvs1@hi.is

 

Inngangur: Árangur hjartaaðgerða á Íslandi hefur lítið verið rannsakaður. Tilgangur þessarar afturvirku rannsóknar var að kanna tíðni og árangur enduraðgerða vegna blæðinga á 6 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Sjúklingar ≥18 ára sem gengust undir enduraðgerð vegna blæðinga eftir opna hjartaskurðaðgerð á tímabilinu 2000-2005 voru fundnir eftir tveimur aðskildum skrám. Úr sjúkraskrám voru m.a. skráð lyf sjúklings fyrir aðgerð, blóðgjafir, fylgikvillar og legutími.

Niðurstöður: Alls voru gerðar 103 enduraðgerðir (meðalaldur 67,9 ár, 75 karlar) sem er 8% hjartaaðgerða á tímabil- inu. Þriðjungur sjúklinganna var á acetýlsalicýlsýru og 8 á klópídógreli síðustu 5 dagana fyrir aðgerð. Meðalblæðing í

upphafi enduraðgerðar var 1523 ml (bil 300 – 4780 ml) og á fyrsta sólarhring 3942 ml (bil 690 – 10740 ml). Helmingur sjúklinganna var tekinn í enduraðgerð innan tveggja klst. og 97% innan sólarhrings frá upprunalegri aðgerð. Samtals voru gefnar 16,5 ein af rauðkornaþykkni, 15,6 ein af plasma og 2,3 sett af blóðflögum. Helstu fylgikvillar eftir aðgerð voru hjartsláttar-óregla, fleiðruvökvi sem þurfti að tæma út, hjartadrep og sýking í bringubeinsskurði. Miðgildi legutíma var 14 dagar (bil 6-85 dagar), þar af 2 dagar (bil 1-38 dagar) á gjörgæslu. Alls létust 16 sjúklingar (15,5%) ≤30 daga frá aðgerð en 79,6% sjúklinganna voru á lífi ári eftir aðgerð.

Ályktun: Tíðni enduraðgerða vegna blæðinga (8%) er í hærra lagi hér á landi, án þess að skýringin á því sé þekkt. Um er að ræða hættulegan fylgikvilla sem lengir legutíma og getur dreg-ið sjúklinga til dauða. Kostnaður er einnig verulega aukinn vegna blóðgjafa. Því er mikilvægt að leita lausna til að draga úr
blæðingum og um leið fækka enduraðgerðum.

 

 

E-33      Litningabreytingar og tengsl við klínískar breytur í brjóstakrabbameinum

 

Ingi Hrafn Guðmundsson1, Margrét Steinarsdóttir3, Elínborg Ólafsdóttir4, Jón Gunnlaugur Jónasson2,4,5, Helga M. Ögmundsdóttir2

1Skurðlækningasviði, Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3litningarannsóknastofu erfða- og sameindalæknisfræðideildar, Landspítala, 4Krabbameinsskrá, 5meinafræðideild Landspítala

ingi.hrafn.gudmundsson@gmail.com

 

Inngangur: Talið er að um 75% brjóstakrabbameina hafi litningabreytingar. Ekki er vitað hvort þessar breytingar hafi áhrif á horfur sjúklinga með brjóstakrabbamein.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin nær til 203 sjúklinga sem greindust með brjóstakrabbamein á árunum 1990-1999. Litningabreytingar voru greindar með hefðbundnum litningagreiningum, G-böndun og frumuflæðisrannsóknum á DNA magni. Skimað var fyrir stökkbreytingum í TP53 geninu sem og tilvist BRCA2 99del5 stökkbreytingarinnar. Fengnar voru upplýsingar úr sjúkraskrám og frá Krabbameinsskránni. Skráðar voru upplýsingar um klínískar breytur, endurkomu og lifun sjúklinga.

Niðurstöður: Hjá 164 sjúklingum tókst að gera litningagreiningu og af þeim voru 74 (45%) með óeðlilega litningagerð (karyotypu). Flæðigreining sýndi óeðlilegt erfðaefnismagn (DNA) og mislitnun (aneuploidy) hjá 124/197 sjúklingum (63%). Ef báðar aðferðirnar eru teknar saman var litningaóstöðugleiki greindur hjá 142/203 (70%) sjúklingum. Hjá 60% (45/74) voru breytingarnar flóknar (complex) og 36% (51/142) voru fjölklóna. Meðalaldur við greiningu var 59,0 ár (26-92), sem er nálægt meðalgreiningaraldri fyrir brjóstakrabbamein á Íslandi á þessu árabili. Meirihluti krabbameinanna var gangnakrabbamein (ductal), 8% voru kirtilkrabbamein (lobular). Sjúkdómur tók sig upp aftur hjá 90 sjúklingum og 113 (56%) eru látnir, þar af 66 úr brjóstakrabbameini. TP53 genið var stökkbreytt í 21,2% sýnanna, en það er svipað hlutfall og aðrar rannsóknir hafa sýnt, en 9,5% höfðu BRCA2 stökkbreytingu sem er heldur hærra hlutfall en aðrar rannsóknir hafa sýnt.

Ályktun: Litningabrengl tengdust marktækt hærri TNM stigun og styttri sjúkdómsfrírri lifun þeirra sjúklinga. Engin tengsl fundust milli litningabrengla og æxlisgráðunar. Úrvinnslu er ekki lokið.

 

 

E-34      Bráður nýrnaskaði eftir kranæðahjáveituaðgerðir á Íslandi

Sólveig Helgadóttir1, Ólafur Skúli Indriðason2, Gísli H. Sigurðsson1,3, Hannes Sigurjónsson4, Þórarinn Arnórsson4, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2nýrnadeild, 3svæfinga- og gjörgæsluldeild, 4hjarta- og lungnaskurðdeild, Landspítala

soh2@hi.is

Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er alvarlegur fylgikvilli hjartaaðgerða og áhættuþáttur fyrir lakari útkomu eftir aðgerð. Í erlendum rannsóknum er tíðni nýrnaskaða eftir hjartaaðgerðir breytileg sem skýrist m.a. af skorti á stöðluðum skilmerkjum á nýrnaskaða. Tilgangur okkar rannsóknar var að kanna í fyrsta sinn tíðni BNS í kjölfar hjartaaðgerða á Landspítala (LSH), með hliðsjón af viðurkenndum skilmerkjum.

Efniviður og aðferðir: Aftursæ rannsókn sem náði til sjúklinga sem gengust undir kransæðaaðgerð á LSH frá 2002-2006. BNS var skilgreindur skv. RIFLE skilmerkjum. Farið var yfir aðgerðarlýsingar og sjúkra- og svæfingarskrár.

Niðurstöður: Af 569 sjúklingum voru 97 (17%) með skerta nýrnastarfsemi (úGSH ≤60 ml/mín/1,73m2) fyrir aðgerð, þar af 6 (1%) með kreatinin-gildi >200 mmol/L. Alls greindust 90 (15,8%) sjúklingar með BNS; 58 féllu í RISK flokk, 16 í INJURY og aðrir 16 í FAILURE flokk. Sjúklingar með BNS voru 4,1 árum eldri og með lægri útreiknaðan gaukulsíunarhraða fyrir aðgerð (72 vs. 80, p=0,009). Kvenkyn (28% vs. 16%, p=0,01), háþrýstingur (74% vs. 59%, p=0,01) og bráðaaðgerð (11% vs. 2%, p<0,0001) voru algengari í hópnum sem hlaut BNS. Ekki reyndist marktækur munur á tíðni sykursýki, blóðfituröskunar, reykinga, vinstri meginstofns þrengsla, þriggja æða sjúkdóms, hlutfalli sem féll í NYHA flokk III-IV eða aðgerða á sláandi hjarta.

Ályktun: Samkvæmt RIFLE skilmerkjum hlutu tæplega 16% sjúklinga BNS eftir kransæðaaðgerð á LSH sem er sambærilegt við niðurstöður erlendra rannsókna. Ennfremur virðist hærri meðalaldur, kvenkyn, háþrýstingur, bráðaaðgerð og kreatínín gildi í efri eðlilegum mörkum fyrir aðgerð marktækt algengari í hópi nýrnaskaðaðra.

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica