Ávarp

Ávarp

Velkomin á sameiginlegt vísindaþing SKÍ og SGLÍ

Ágætu kollegar

og aðrir þinggestir

 

Sameiginlegt vísindaþing Skurðlæknafélags Íslands og Svæfinga- og gjörgæslu-læknafélags Íslands er nú haldið í 11. sinn. Uppbygging þingsins er með svipuðu sniði og síðastliðin þrjú ár en þingið hefur vaxið með hverju árinu. Félögin hafa leitast við að hafa málþing fjölbreytt og fengið til landsins æ fleiri erlenda fyrirlesara og vísindamenn til að leiða þingin í samstarfi við íslenska kollega. Kynning rannsóknarverkefna hefur skipað verðskuldaðan sess og hefur það verið sérstakt markmið okkar að tefla fram ungum vísindamönnum og vinnu þeirra. Góður rómur hefur verið gerður að þessu og þátttaka aukist ár frá ári sem er ánægjulegt. Flestir geta því tekið undir að hér sé um mikilvægan vettvang vísindauppskeru og félagslífs að ræða. En betur má ef duga skal og mikilvægt að gera þingið enn öflugra. Þarna leika félagsmenn aðildarfélaganna lykilhlutverk, en þeir geta m.a. komið með tillögur að dagskrá málþinga í samvinnu við skipuleggjendur. Mikilvægast er þó að sem flestir mæti og taki virkan þátt í dagskránni, sá ávinningur er bæði fræðilegur og félagslegur. Í þeirri viðleitni okkar að efla þingið höfum við unnið að því að fá með okkur fleiri sérgreinafélög, þar á meðal Félag slysa- og bráðalækna. Stærra þing hefur meira aðdráttarafl, bæði fyrir lækna en ekki síður þau fyrirtæki sem styðja myndarlega við bakið í ár eins og svo oft áður. Um leið og við bjóðum ykkur velkomin á þingið er það einlæg von okkar að þið hafið gagn og gaman af þeirri dagskrá sem boðið er upp á.

 

 

Kári Hreinsson, formaður SGLÍ

Tómas Guðbjartsson, formaður SKÍ  

 

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica