Ágrip erinda

Ágrip erinda

E-01 Alvarleiki áverka þeirra sem lögðust inn á Landspítala árin 2003-2006 vegna afleiðinga umferðarslysa

Heiðrún Maack, Brynjólfur Mogensen

hpm@hi.is

Inngangur: Umferðarslys eru algeng og innlagnartíðni slasaðra úr umferðarslysum er há miðað við aðrar tegundir slysa þrátt fyrir að innlögnum úr umferðarslysum hafi fækkað um helming á síðustu 30 árum. Á sjöunda áratugnum var farið að flokka alvarleika áverka slasaðra í umferðarslysum vegna aukins fjölda slasaðra. Áverkaflokkunina er hægt að nota til að rannsaka öll slys. Markmið rannsóknarinnar var að kanna alvarleika áverka þeirra sem lögðust inn á Landspítala árin 2003-2006 vegna afleiðinga umferðarslysa.

Efniviður og aðferðir: Í úrtakinu voru allir sem lögðust inn á Landspítala árin 2003-2006 með áverka eftir umferðarslys. Orsakir áverkanna voru skráðar samkvæmt norræna flokkunarkerfinu um ytri áverka. Áverkagreiningar voru skráðar samkvæmt ICD-10. Áverkastigunin var metin samkvæmt Abbreviated Injury Scale 1990 Revision, update 1998 og áverkaskorið samkvæmt Baker et al. frá 1974 og Jóhann Heiðar og Brynjólfur Mogensen 2002. Öll vafaatriði í orsökum, slysagreiningu og áverkastigun voru borin undir einn aðila (BM).

Niðurstöður: Á slysa- og bráðadeild komu 10.891 manns með áverka eftir umferðarslys árin 2003-2006 og voru konur í meirihluta (5697 konur og 5194 karlar). Leggja þurfti inn 684 einstaklinga (6.3%) með áverka eftir umferðarslys. Flestir voru á aldrinum 15-29 ára. Karlar voru 62,4% innlagðra. Langoftast var einn í óhappi (329), t.d. útafakstri eða bílveltu en í 117 slysum var um hliðarárekstur að ræða og í 79 tilvikum komu bifreiðar úr gagnstæðri átt. Óljós tilvik voru of mörg (84). Áverkar á brjóstkassa, höfuð, kvið, háls og hrygg voru algengastir. 103 voru með fjöláverka. Átta létust, 24 voru lífshættulega slasaðir, 58 voru alvarlega slasaðir, 116 voru mikið slasaðir en aðrir minna. Alvarlegustu aksturs­stefnurnar voru einn í óhappi, hliðarárekstur og bifreiðar úr gagnstæðri átt.

Umræða: Rúmlega 6% slasaðra úr umferðarslysum þurfti að leggja inn á sjúkrahús. Flestir innlagðra lentu í einbíla slysi. Karlar voru tæplega 63% innlagðra og slasaðir voru ungir að árum. Áverkar á brjóstkassa og líffæri í brjóstholi eða höfuðáverkar voru algengastir. Tæplega 33% voru mikið eða meira slasaðir og 8 létust.

Ályktun: Umferðin tekur þungan toll.

 

E-02 Árangur gerviliðaaðgerða á mjöðm á FSA, 2004-2006 út frá sjónarhóli sjúklings

Ása Eiríksdóttir, Anna Lilja Filipsdóttir, Þorvaldur Ingvarsson

asae@fsa.is

 

Tilgangur: Að meta árangur gerviliðaaðgerða í mjöðm út frá sjónarhóli sjúklings. ?

Efniðviður/aðferðir: Sjúklingar bæklunardeildar Sjúkrahússins á Akureyri sem undir­gengust gerviliðaaðgerð á mjöðm frá 2004-2006 var boðin þátttaka í rannsókninni. Þátttakendur svöruðu spurningalista fyrir aðgerðina og samsvarandi lista 12 mánuðum síðar. Notaður var WOMAC spurningalisti til að meta verki, stirðleika og ADL getu. Af þeim 215 sjúklingum sem undirgengust gerviliðaaðgerð á tímabilinu samþykktu 142 sjúklingar þátttöku. Þar af luku 129 sjúklingar rannsókninni og voru svör þeirra notuð til útreikninga. Notuð voru forritin Access, Excel, Word og SPSS við rannsóknina.

Niðurstöður: Af þeim 129 sjúklingum sem luku rannsókninni voru 85 þáttakendur sem svöruðu öllum spurningum WOMAC spurningalistans. Við útreikninga var einungis stuðst við þau svör þar sem þátttakandi hafði svarað öllum reitum í viðkomandi spurningu. Hæst er hægt að fá 20 stig fyrir verki, 8 fyrir stirðleika og 68 fyrir ADL getu, samtals 96 stig. Ástandið er því verra sem stigafjöldinn er hærri. Heildarstigafjöldi fyrir aðgerð var 57,8 stig, þar af 12,5 (range 5 til 20) vegna verkja, 2,4 (range 0 til 8) vegna stirðleika og 40,1 (range 3 til 62) vegna ADL getu.

Að meðaltali lækkaði heildarstigafjöldi um 30 stig (range -13 til 70) hjá þeim 85 sjúklingum sem svöruðu öllum spurningum í öllum þremur þáttum listans.

Hjá þeim 106 sjúklingum sem svöruðu spurningum um verki lækkaði stigafjöldi að meðaltali um 8 stig (range -2 til 17). Þeir 119 sjúklingar sem svöruðu spurningum um stirðleika lækkuðu að meðaltali um 2,7 stig (range -4 til 8). Af þeim 92 sjúklingum sem svöruðu spurningum um ADL lækkaði stigafjöldinn að meðaltali um 21,8 stig (range -8 til 50).

Ályktanir: Gerviliðaaðgerðir á mjöðm minnka verki og stirðleika fólks auk þess að bæta hreyfifærni. Athygli vekur hinsvegar lítill hluti sjúklinga sem stendur verr eftir aðgerðina en fyrir.

 

 

E-03 Ábending og árangur hjáveituaðgerða hjá sjúklingum með þrengsla­sjúkdóm í slagæðum ganglima á Landspítala 2000-2007

Valgerður Rós Sigurðardóttir, Guðmundur Daníelsson, Elín Laxdal, Helgi H. Sigurðsson, Karl Logason

valgros@landspitali.is

Tilgangur: Kanna ábendingar og árangur hjáveituaðgerða (femoropopliteal- og femoro­crural) hjá sjúklingum með þrengslasjúkdóm í slagæðum ganglima á Landspítala á árunum 2000-2007. Sérstaklega var leitað svara við eftirfarandi spurningum: (i) Er munur á árangri eftir græðlingsgerð? (ii) Hefur ábending aðgerða áhrif á útkomu? (iii) Eru til staðar áhættuþættir sem hafa áhrif á útkomu?

Efniviður og aðferðir: Rannsóknarhópur var skilgreindur sem allir sjúklingar sem gengust undir aðgerð með númer PEH20, PEH30, PESH20, PESH30, PFH20-29 og PFSHF20-29 skv. norrænu aðgerðarskránni (NOMESCO) á Landspítala á árunum 2000-2007. Söfnun gagna fór fram í janúar-febrúar 2008 og eftirfylgnistími er þannig 0-8 ár. Upplýsingar um aðgerðir voru fengnar úr sjúkraskrám. Skráðar voru 24 breytur fyrir hverja aðgerð. Hjáveitubilun var skilgreind sem lokun græðlings, aflimun eða ef fjarlægja þurfti græðling vegna sýkingar. Ef sjúklingur lést innan 30 daga frá aðgerð var það einnig skilgreint sem hjáveitubilun.

Niðurstöður: 277 ganglimir undirgengust aðgerð hjá 235 einstaklingum. Aðgerðir voru 56 árið 2000 en sex árið 2007. Í 150 aðgerðum (54%) var notast við bláæðagræðling en í 127 aðgerðum (46%) var lögð gerviæð. Ábending var heltisganga í 103 tilvikum (37%) en alvarleg blóðþurrð í 174 tilvikum (63%). Marktækir áhættuþættir hjáveitubilunar voru gerviæð, alvarleg blóðþurrð og saga um fyrri aðgerð. Marktækir verndandi þættir voru sykursýki, reykleysi og kvenkyn. Aðgerðir vegna alvarlegrar blóðþurrðar enduðu frekar sem hjáveitubilun en aðgerðir vegna heltisgöngu (p=0,0012). Hjá sjúklingum sem fóru í aðgerð vegna heltisgöngu varð síður hjáveitubilun með bláæðagræðlingum (p=0,018). Hjá sjúklingum með alvarlega blóðþurrð reyndist ekki vera marktækur munur á árangri eftir græðlingagerð.

Ályktun: Opnum aðgerðum vegna slagæðaþrengsla í gang-limum hefur fækkað á rannsóknartímabilinu. Árangur aðgerða er sambærilegur hvað varðar hjáveitubilun samanborið við erlend uppgjör. Hjáveitubilun verður síður hjá sjúklingum með heltisgöngu samanborið við sjúklinga með alvarlega blóðþurrð. Sjúklingum sem fá bláæðagræðling farnast betur samanborið við gerviæð (p=0,02).

 

E-04 Árangur skurðaðgerða vegna ósæðargúla í kvið á Landspítala á tímabilinu 1997-2007

Bjarni Guðmundsson, Helgi H Sigurðsson, Karl Logason, Guðmundur Daníelsson, Einar Björnsson, Magni Viðar Guðmundsson, Elín H. Laxdal

bjarnigu@landspitali.is

 

Tilgangur og bakgrunnur: Árangur aðgerða vegna ósæðargúls er víða notaður sem gæðastuðull til mats á starfsemi æðaskurðdeilda og reglubundið eftirlit með honum því æskilegt. Markmið rannsóknarinnar var að kanna árangur og lifun eftir aðgerðir vegna ósæðargúls á æðaskurðdeild Landspítala í úrtaki sem nær yfir lengra tímabil en það sem áður hefur verið gert.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er aftursæ. Upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám sjúklinga sem gengust undir aðgerð á tímabilinu 1997-2007.

Niðurstöður: Samtals 200 sjúklingar gengust undir aðgerð vegna ósæðargúls á tímabilinu. Valaðgerðir voru gerðar hjá 118 sjúklingum og var 30 daga dánartíðni 2,45 % í þeim hópi. Áttatíu og tveir sjúklingar gengust undir bráðaaðgerð eða flýtiagerð og reyndust 49 af þeim vera með greinilegt rof á ósæðargúl. Þrjátíu daga dánartíðni sjúklinga sem gengust undir bráða eða flýtiaðgerð og greindust með rof var 34,7%, en 12 % hjá sjúklingum með órofna ósæð.

Ályktun: Árangur aðgerða vegna ósæðargúls í kvið á æðaskurðdeild Landspítala er sambærilegur við þann árangur eins og best gerist á æðaskurðdeildum erlendis.

 

 

 

E-05 Er klínískum leiðbeiningum um fyrirbyggjandi notkun sýklalyfja fyrir skurðaðgerðir fylgt á FSA?

Lilja Rut Arnardóttir, Þorvaldur Ingvarsson

 

lra1@hi.is

 

Tilgangur: Að kanna hvort klínískum leiðbeiningum sem teknar voru í notkun á Sjúkrahúsi Akureyrar (FSA) í janúar 2004 um notkun sýklalyfja fyrir skurðaðgerðir hafi verið fylgt.

Efniviður og aðferðir: Leitað var í skrám svæfingadeildar FSA að öllum þeim sem gengust undir aðgerð á FSA í febrúar 2003, febrúar 2005 og febrúar 2006. Aðgerðir sem framkvæmdar voru vegna sýkinga voru útilokaðar, auk augnaðgerða sem falla ekki undir klínískar leiðbeiningar um fyrirbyggjandi notkun sýklalyfja. Lokaúrtak samanstóð af 738 aðgerðum hjá 718 einstaklingum. Skoðaðar voru aðgerðarskrár allra sem fóru í skurð­aðgerðir og aðgerðir flokkaðar í samræmi við ofangreindar klínískar leiðbeiningar. Mat var lagt á hvort sýklalyfjagjöf samræmdist klínísku leiðbeiningunum í lyfjavali, skammta­stærða, fjölda skammta og lyfjaofnæmi og tímasetningu lyfjagjafar.

Niðurstöður: Af 738 tilfellum var í 262 tilfellum gefið sýklalyf í forvarnarskyni. Árið 2003 samræmdist 151 tilfelli (59,7%) klínísku leiðbeiningunum. Árið 2005 voru 193 tilfelli (82,8%) þar sem sýklalyfjagjöf samræmdist klínísku leiðbeiningunum og í 199 tilfellum (79,0%) árið 2006. Algengustu ástæður þess að sýklalyfjagjöf samræmdist ekki klínískum leiðbeiningum voru að ekki voru gefin sýklalyf þegar átti að gefa þau, rangt sýklalyf valið, rangur skammtur gefinn, of fáir skammtar gefnir eða sýklalyf gefin þegar átti ekki að gefa þau. Tímasetning fyrstu lyfjagjafar var samkvæmt klínísku leiðbeiningunum 0-60 mínútum fyrir aðgerð í 57,6% tilfella og í 26,7% tilfella meðan á aðgerð stóð.

Ályktun: Klínískum leiðbeiningum um fyrirbyggjandi notkun sýklalyfja fyrir skurðaðgerðir virðist vera fylgt að miklu leyti á FSA. Skráning lyfjagjafa var í of mörgum tilfellum ábóta­vant. Bæta þarf skráningu lyfjagjafa og um leið efla fylgni leiðbeiningana.

 

E-06 Æðastíflubrottnám úr hálsslagæðum á Íslandi 2000-2007

Karl Logason, Guðmundur Daníelsson, Helgi H. Sigurðsson, Elín Laxdal

karll@landspitali.is

Inngangur: Æðastíflubrottnám úr hálsslagæðum (carotis endarterectomy) minnkar líkur á heilablóðfalli hjá sjúklingum með mikil slagæðaþrengsli. Ávinningur er mestur hjá sjúklingum með nýleg einkenni heilablóðþurrðar svarandi til þrengingarinnar en einnig er nokkur ávinningur af aðgerðum á einkennalausum þrengingum. Ávinningur aðgerða er þó háður tíðni fylgikvilla og þar sem um fyrirbyggjandi aðgerð er að ræða, langtímalifun eftir aðgerð.

Efniviður og aðgerðir: Skrá hefur verið haldin yfir allar hálsslagæðaaðgerðir fram­kvæmdar á æðaskurðlækningadeild Landspítala. Farið var yfir sjúkraskrár þeirra sem gengust undir hálsslagæðaaðgerðir á árunum 2000-2007 og skráðir fylgikvillar, ábendingar aðgerða, áhættuþættir æðasjúkdóma og dánardægur.

Niðurstöður: Á tímabilinu 2000-2007 voru framkvæmdar 320 hálsslagæðaaðgerðir á 289 sjúklingum. Ábending aðgerðar var nýlega einkennagefandi þrenging í 173 (54,1%) tilfellum en einkennalaus þrenging í 147 (45,9%). Alls fengu 9 sjúklingar heilablóðfall eða létust innan 30 daga frá aðgerð (2,8%), af þeim var einkennagefandi þrenging ábending aðgerðar í 7 (4,0%) en einkennalaus þrenging í 2 (1,4%). Aðrir fylgikvillar voru: Blæðingar í skurðsár 21 (6,6%), úttaugaskaði 7 (2,2%), hjartavöðvadrep 4 (1,3%), sýking í skurðsári 2 (0,6%). Fimm ára lifun eftir hálsslagæðaaðgerðir á árunum 2000-2007 var 88% (Kaplan-Meier).

Ályktun: Tíðni alvarlegra fylgikvilla eftir hálsslagæðaaðgerðir var ámóta eða lægri en í þeim rannsóknum sannað hafa ávinning aðgerða og var svipuð og í fyrri íslenskri rannsókn fyrir árin 1996-2001(2,8% nú vs 2,4% í fyrri rannsókn). Langtímalifun eftir aðgerðir var góð.

 

E-07 Propaten® æðagræðlingar lokast síður en PTFE æðagræðlingar eftir hjáveitu á carotis æðum í sauðkind

Elín Laxdal, Gustav Pedersen, Torbjörn Jonung, Vegar Ellensen, Erney Mattsson

elax@landspitali.is

 

Inngangur: Ending gerviæðagræðlinga er mun lakari en bláæða eftir hjáveituaðgerðir á slagæðum. Því eru reyndar ýmsar aðferðir til þess að fyrirbyggja lokun á gerviæða­græðlingum. Propaten® er ný tegund gerviæðagræðlinga úr PTFE (polytetrafluoroethylene) sem er klædd covalent bundnu heparíni að innanverðu. Slík klæðning er talin minnka líkurnar á stíflumyndun vegna blóðsega eða intima hyperplasiu.

Tilgangur: Markmið rannsóknarinnar var að bera saman endingu Propaten® og venjulegra PTFE gerviæðagræðlinga. Jafnframt að bera saman magn intima hyperplasiu sem myndaðist á samskeytum gerviæðagræðlings og slagæðar eftir hjáveitu með Propaten® annars vegar og PTFE hins vegar.

Efniviður og aðferðir: Gerðar voru 28 hjáveituaðgerðir á carotis æðum 14 sauðkinda. Venjulegur PTFE græðlingur var settur inn öðrum megin og Propaten® græðlingur hinum megin. Þvermál gerviæðanna var 6 mm og lengd 6 cm (frá hæl til hæls). Hjáveitan var lögð enda til hliðar í 45 gráðu vinkil við slagæðina proximalt og distalt. Hnýtt var fyrir carotis æðina á milli tenginganna. Eftir sex mánuði var gerð ný aðgerð þar sem æðagræðlingar og aðlægar carotis æðar voru fjarlægðar og dýrin síðan aflífuð. Tekin voru sýni úr öllum gerviæðum til samanburðarmælingar á heparin-virkni. Æðagræðlingar, tengingarsvæði og carotis æðar voru undirbúin undir vefjarannsókn og histomorphometri. Vefjasýni voru ljósmynduð með AxioVision® 4,5, magn intima hyperplasiu mælt og meðaltal þykktar reiknað.

Niðurstöður: Ekki reyndist vera marktækur munur á heparin-virkni venjulegra PTFE æðagræðlinga í samanburði við Propaten® eftir 6 mánuði. Við brottnám reyndust marktækt fleiri PTFE æðagræðlingar vera stíflaðir (9/14) samanborið Propaten® æðagræðlinga (2/14) (p=0,001). Magn intima hyperplasiu var meira í venjulegum PTFE gerviæðum samanborið við Propaten®. Munurinn var ekki tölfræðilega marktækur við útreikninga á æðatengslum hverjum fyrir sig (proximalt og distalt), en reyndist marktækur þegar magnið í proximal og distal tengingu voru reikuð saman (p=0,006).

Niðurstaða: Propaten® gerviæðar virðast stíflast síður eftir hjáveitu á carotis æðum í sauðkind samanborið við hefðbundnar PTFE gerviæðar. Einnig virðist myndun intima hyperplasiu vera minni í Propaten® gerviæðum.

 

E-08 Ennisflipi í miðlínu til endursköpunar nefbrodds. - 3000 ára gömul aðferð enn í góðu gildi

Sigurður E. Þorvaldsson

siggijona@simnet.is

Inngangur: Hér verður lýst sjúkrasögu og skurðaðgerðum 67 ára konu sem greindist með flöguþekjukrabbamein á nefbroddi 2004 og gekkst undir skurðaðgerð þar sem neðsti þriðjungur nefs var skorinn af og nær 3000 ára gömul aðferð nýttist vel til endursköpunar nefbrodds

Efniviður og aðferðir: Konan greindist með discoid lupus erythematosus 1963 og var í meir en 30 ár talsvert lýtt í andliti, meðal annars á nefi, af menjum um discoid lupus. Ljósmyndir frá 1976 sýna veruleg andlitslýti. Meir en sex mánaða saga 2004 um vaxandi fyrirferð á nefbroddi sem reyndist flöguþekjukrabbamein. Ekki talið að samband sé milli lupus discoides og flöguþekjukrabbameins.

Konan gekkst undir skurðaðgerð þar sem neðsti þriðjungur nefs, ásamt verulegum hluta af septum, var skorinn af. Nokkrum dögum síðar, að fenginni vefjagreiningu að skurðbrúnir væru fríar, var byrjað á fyrsta stigi af nokkrum þar sem ennis-flipa? (indverskur flipi) var snúið niður á nef til endursköpunar nefs.

Umræða: Skurðaðgerðir til endursköpunar nefbrodds eiga sér uppruna í Indlandi fyrir meira en 3000 árum. Afskurður nefbrodds var algeng hegning þar fyrir ýmsa glæpi og þannig varð til nokkuð stór hópur einstaklinga sem þurfti að fela slíkt lýti eða fá hjálp til þess að laga það. Í indverskri bók, Sushruta Samita frá 600 f.Kr, er lýst aðferð þar sem flipi frá enni er notaður til þess endurskapa nef. Indverskir leirkerasmiðir voru sagðir hafa stundað þetta.

1794 er indversku aðgerðinni lýst ítarlega í "The Gentelman's Magazine of Calcutta". Skurðlæknir í her Breta í Madras í Indlandi fylgdist með slíkri aðgerð á indverskum nautahirði í breska hernum. Þessi frásögn kynnti aðgerðina fyrir hinum enskumælandi heimi. 1972 gerðu McGregor og Jackson í Glasgow sér grein fyrir þýðingu "öxul-æðar" og flokkuðu flipa í axial-flipa og random-flipa. Með axial-flipa er átt við að ein eða fleiri meginslagæðar ganga eftir flipanum endilöngum en sé flipinn random-flipi er átt við að engin meginslagæð gengur eftir flipanum, hann lifir á háræðaneti og hefur ótryggt og tilviljanakennt blóðflæði. Blóðflæði í indverska flipanum er gott af því að hann er að mestu axial-flipi og aðeins lítill endahluti er random-flipi.

Samantekt og ályktun: Gerð nokkur grein fyrir tilurð ennisflipa til endursköpunar nefbrodds og árangri af notkun ennisflipa. Skilgreining á flipum eftir blóðflæði skýrð. Aðferðin á sér meira en 3000 ára sögu. Hin gömlu gildi gleymist ei.

 

E-09 Bláæðasjúkdómar á Íslandi - Umfang og samfélagslegur kostnaður

Stefán E. Matthíasson

sem@simnet.is

 

Inngangur: Bláæðasjúkdómar í ganglimum (e. venous insufficiency) eru algengir og hafa mismunandi birtingarform. Einkenni eru sömuleiðis mismikil, eða allt frá því að vera lítil sem engin til þess að vera umfangsmikil, með umtalsverð áhrif á lífsgæði, starfsgetu og almenna heilsu viðkomandi. Erlendis er verulegum fjármunum varið til meðferðar á bláæðasjúkdómum. Talið er að 1-4% af heildarútgjöldum vestrænna ríkja til heilbrigðismála fari í þennan málaflokk. Ekki liggja fyrir hér á landi upplýsingar um umfang meðferða eða kostnað samfélagsins af þessum sjúkdómaflokki. Hér varpað ljósi á nokkra þessara lykilþátta.

Aðferðafræði: Aflað var upplýsinga frá öllum sjúkrastofnunum á Íslandi þar sem framkvæmdar voru aðgerðir vegna æðahnúta árið 2006. Sömuleiðis var sömu upplýsinga aflað frá Tryggingastofnun ríkisins og heilsugæslu varðandi meðferðir. Reynt var að kasta tölu á heildarfjölda skurðaðgerða, komu til sérfræðinga, komu í heilsugæslu og innlagna á sjúkrastofnanir tengdum þessum sjúkdómaflokki. Lagt var mat á beinan kostnað samfélagsins við meðferð.

Niðurstöður: Á Íslandi voru árið 2006 gerðar skurðaðgerðir á 1395 sjúklingum vegna æðahnúta. 75% aðgerðanna voru á einkareknum skurðstofum (5) og 25% á spítölum (9). >85% aðgerðanna voru dagaðgerðir og 85% aðgerðanna voru framkvæmdar af æðaskurð­læknum en 15% af almennum skurðlæknum. Samtals 24 skurðlæknar framkvæmdu aðgerðirnar, þar af gerðu 12 læknar færri en 20 aðgerðir á ári. Metinn beinn samfélags­kostnaður vegna meðferða á bláæðasjúkdómum í ganglimum var um 0,4% af heildar­útgjöldum ríkisins til heilbrigðismála árið 2006. Þá er ekki tekið tillit til óbeins kostnaðar, s.s. vinnutaps eða útgjalda sjúklinganna sjálfra. Tölulegar forsendur skortir til þess.

Ályktun: Aðgerðir vegna æðahnúta á Íslandi árið 2006 voru um 46/10.000 íbúa. Faglega virðist meðferð þessara sjúkdóma vera í mun betri farvegi á Íslandi en í nágrannalöndum. Samfélagskostnaður virðist ennfremur vera mun lægri en annars staðar, eða 0,4% af heilbrigðisútgjöldum borið saman við 1-4% í nágrannalöndum Íslands. Skýringar virðast vera náið aðgengi að hæfum sérfræðingum, stærsti hluti meðferða utan spítala og lág verðlagning meðferða.

 

E-10 Valmiltistökur á Íslandi 1993-2004. - Langtíma eftirfylgd

Margrét J. Einarsdóttir, Bergþór Björnsson, Vilhelmína Haraldsdóttir, Guðjón Birgisson, Margrét Oddsdóttir

mje1@hi.is

 

Inngangur: Tilgangurinn var að meta árangur valmiltistöku, tíðni fylgikvilla og kanna hvernig fræðslu og bólusetningum væri háttað.

Efniviður og aðferðir: Skilgreining valmiltistöku var að um valaðgerð væri að ræða. Farið var yfir sjúkraskrár þeirra 67 sjúklinga sem gengust undir valmiltistöku 1993-2004. Spurningalistar voru sendir til 96% (44/46) núlifandi sjúklinga.

Niðurstöður: Meðalaldur við aðgerð var 50 (8-83) ár. Karlar voru 35 og konur 32. Svörun spurningalista var 80%. Hjá 24 sjúklingum var gerð kviðsjáraðgerð. Flestir sjúklinganna eða 31 höfðu blóðdílasótt (idiopathic thrombocytopenic purpura) og þar af voru 30 á stera­meðferð fyrir aðgerð. Miltistaka skilaði fullum bata hjá 60% (18/30) og nokkrum bata hjá 23% (7/30). Fullur bati fékkst hjá 61% (11/18) þeirra sem fóru í kviðsjáraðgerð og 58% (7/12) þeirra sem fóru í opna aðgerð (p=1,00). Fimm sjúklingar voru með hnattrauðkorna­blóðleysi (spherocytosis) og fengu allir fullan bata. Enginn (3) með sjálfnæmisrauðalos­blóðleysi (autoimmune hemolytic anemia) fékk bata. Hjá sjúklingum með illkynja sjúkdóma var erfiðara að meta árangur. Sjúklingar voru bólusettir gegn pneumókokkum í 92% (61/66) tilvika. Aðeins 44% (14/32) höfðu fengið endurbólusetningu. Einungis 41% (14/34) töldu sig hafa fengið góða fræðslu um hugsanlegar afleiðingar miltisleysis. Alvarlegir bráðir fylgikvillar komu fram hjá 19% (10/64) sjúklinga, þar af fjórar neðanþindarígerðir og fjórir alvarlegir blóðtappar. Einn sjúkling-?ur með útbreitt lungnakrabbamein og blóðflögufæð lést eftir aðgerð. Síðkomnir fylgikvillar voru hjá 5 sjúklingum og þar af 2 pneumókokkasýklasótt.

Ályktun: Miltistaka skilar góðum langtímaárangri hjá sjúkling-um með blóðdílasótt og hnattrauðkornakvilla. Tíðni fylgikvilla er há. Betra verklag er varðar meðferð og eftirfylgd eftir aðgerð, bólusetningar og fræðslu til sjúklinga gæti fækkað fylgikvillum og bætt árangur enn frekar.

 

E-11 Rof á vélinda á Landspítala 1980-2007

Halla Viðarsdóttir, Sigurður Blöndal, Tómas Guðbjartsson

 

hallavi@landspitali.is

 

Inngangur: Rof á vélinda er sjaldgæfur og oft lífshættulegur kvilli sem getur verið sjálfsprottinn eða komið eftir áverka. Meðferð er langoftast fólgin í skurðaðgerð þar sem reynt er að hefta útbreiðslu sýkingar í miðmæti og blóðeitrun sem oft fylgir í kjölfarið. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna faraldsfræði rofs á vélinda og árangur skurðaðgerða á Landspítala á 28 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum með rof á vélinda 1980-2007. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og miðuðust útreikningar á lifun (hráar tölur) við 31. desember 2007 en meðaleftirfylgni var 69 mánuðir.

Niðurstöður: Alls greindust 27 sjúklingar, meðalaldur 62 ár (bil 7 mán.-90 ár), 15 karlar. Orsök var af læknisvöldum í 14 tilvikum (54%), oftast eftir vélindavíkkun (n=7) og maga­speglun (n=3). Sjálfkrafa rof greindist hjá átta sjúklingum (31%) og 4 (15%) höfðu rof vegna aðskotahlutar. Rof á brjóstholshluta vélinda greindist hjá 15 sjúklingum (68%), 4 í kviðarhols- (18%) og 3 (14%) í hálshluta. Undirliggjandi sjúkdómur í vélinda var til staðar hjá 12 sjúklingum, langoftast þrenging. Af 27 sjúklingum greindust 4 við krufningu, 10 fengu eingöngu sýklalyfjameðferð, og fjórir fengu að auki brjóstholskera en þurftu síðar í brjóstholsaðgerð. Alls fóru því 16 sjúklingar í opna skurðaðgerð, þar sem miðmætið var opnað og lagðir inn brjóstholskerar. Í átta tilfellum var að auki lögð út stómía á maga og komið fyrir næringarlegg í smágirni. Þrír sjúklingar fengu T-kera í vélinda, í 5 tilfellum var saumað yfir rofið. Tíminn frá rofi að aðgerð var var að meðaltali 22 klst., (bil, 2 klst.-7 d.), en 11 sjúklingar fóru í aðgerð innan 24 klst. Átta sjúklingar fengu alvarlega fylgikvilla og 5 þurftu enduraðgerð. Alls lágu 16 sjúklingar á gjörgæslu og miðgildi legutíma voru 4 dagar (bil 1-41). Heildarlegutími voru 16 dagar (bil 9-83). Af 27 einstaklingum eru 16 á lífi og mældist 1 og 5 ára lifun 81 og 65%. Fimm einstaklingar létust af völdum rofs á vélinda (19%).

Ályktun: Tíðni vélindarofs virðist svipuð hér á landi og í nágrannalöndum okkar. Rofið er oftast af læknisvöldum og staðsett í brjóstholshluta vélinda. Stór hluti sjúklinganna (19%) lætur lífið eftir vélindarof.

 

E-12 Afdrif sjúklinga með óútskýrða kviðverki á bráðamóttökum Landspítala

Ómar Sigurvin, Guðjón Birgisson, Margrét Oddsdóttir

osg2@hi.is

 

Tilgangur: Erlendar rannsóknir sýna að hjá 80% sjúklinga sem útskrifast með greininguna óútskýrðir kviðverkir (non-specific abdominal pain; NSAP) lagast verkurinn af sjálfu sér. Þetta hefur ekki verið kannað hérlendis. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna afdrif sjúklinga sem útskrifaðir eru með sjúkdómsgreininguna óútskýrðir kviðverkir og skoða hvað einkenndi þennan hóp.

Efni og aðferðir: Rannsóknin er aftursæ og samanstóð rannsóknarhópurinn af sjúklingum sem fengið höfðu ICD-10 greiningarnar R10.0-R10.4, á bráðamóttökum Landspítala árið 2005. Litið var á endurkomur þessara sjúklinga næstu 12 mánuði, út árið 2006.

Niðurstöður: Alls fengu 1435 einstaklingar greininguna óútskýrðir kviðverki árið 2005 og var meðalaldur 40,6 ár (1-99 ár; staðalfrávik 19,82 ár). Innan árs frá fyrstu komu, komu 112 sjúklingar (7,8%) aftur vegna kviðverkjanna, þar af voru 35 karlar og 77 konur. Meðallengd einkenna við fyrstu komu var 4,5 sólarhringar. Af 112 manns töldust 27 (24%) fá töf á greiningu við fyrstu komu en 85 (76%) fengu næga uppvinnslu. Marktækt hærra hlutfall karla var í hópnum sem fékk töf á greiningu miðað við næga uppvinnslu. Mestur munur á hlutfalli hópanna var frá miðnætti og fram til 10 um morgun. Við seinni komu fóru 17 (63%) í aðgerð, 8 (30%) fengu seinkaða meðferð, en hjá 2 (7%) hafði greiningartöfin ekki áhrif á meðferð. Algengustu seinni greiningar voru gallsteinar (33%), botnlangabólga (19%), krabbamein (7%) og brisbólga (7%).

Ályktanir: Tæp 8% (112) sjúklinga sem fá greininguna óútskýrðir kviðverkir leituðu aftur á bráðamóttöku Landspítala vegna sömu einkenna. Um fjórðungur (27 af 112) þeirra höfðu fengið ófullnægjandi uppvinnslu við fyrstu komu. Hæst var hlutfallið um nætur og fyrri hluta morguns. Frekari skoðun á niðurstöðum sem þessum geta leitt í ljós hvernig bæta megi gæði þjónustu á bráðamóttöku.

 

E-13 Blöðruhálskirtilskrabbamein á Íslandi fyrir og eftir upphaf PSA-mælinga: Leiðir óformleg skimun til ofgreiningar

Tryggvi Þorgeirsson, Eyþór Örn Jónsson, Jón Gunnlaugur Jónasson, Elínborg J. Ólafsdóttir, Eiríkur Jónsson, Laufey Tryggvadóttir

tryggvt@hi.is

Inngangur: Greining og meðferð krabbameins í blöðruhálskirtli getur haft alvarlegar afleiðingar. Því væri það áhyggjuefni ef vaxandi nýgengi skýrðist einkum af aukinni leit og meinum sem aldrei hefðu valdið einkennum. Í rannsókninni eru metin umfang og áhrif óformlegrar skimunar sem fylgt hefur tilkomu svokallaðra PSA (e. Prostate Specific Antigen)-mælinga.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar um nýgengi og dánartíðni 1983-2002 fengust frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands. Upplýsingar um TURP-aðgerðir (e. Transurethral Resection of the Prostate), nálarsýnatökur og PSA-mælingar voru sóttar til við­eigandi rannsóknarstofa í meina- og meinefnafræði. Upplýsingar um stig og gráðu sjúk­dómsins fengust úr fyrri rannsókn fyrir greiningarárin 1983-87 (370 sjúklingar) og var aflað úr sjúkragögnum fyrir tímabilið 1996-98 (420 sjúklingar) til samanburðar.

Niðurstöður: PSA-mælingar hófust 1988 og voru 35.200 á hverja 100.000 karla 50 ára árið 2002. Á tímabilinu fækkaði TURP-aðgerðum um helming en fjöldi nálarsýna nær fjórfaldaðist. Nýgengi krabbameinsins jókst um 70% en dánartíðni aðeins um 6%. Einungis 23% nýgengisaukningarinnar skýrðust af T1c æxlum (klínískt ógreinanleg en finnast vegna PSA-hækkunar), 40% stöfuðu af T2 meinum (staðbundin en klínískt greinanleg) og 28% af sjúkdómi á stigi III (staðbundinn útvöxtur) eða IV (meinvörp). Sjúklingar með T2 æxli höfðu 72% tíu ára lifun og nær þrefalda áhættu á dauða miðað við T1c.

Ályktanir: Á því 16 ára tímabili sem var til skoðunar nálgaðist tíðni PSA-mælinga það sem hæst þekkist í heiminum og nýgengi sjúkdómsins jókst verulega. Aðeins þriðjungur nýgengisaukningarinnar stafaði af meinlitlum formum sjúkdómsins sem hugsanlega má álíta ofgreiningar. Afgangurinn voru alvarlegri tilfelli sem flest voru þó enn á læknanlegu stigi.

 

E-14 Samanburður á krufningagreindum nýrnafrumukrabbameinum og þeim sem greinast fyrir tilviljun í sjúklingum á lífi

Ármann Jónsson, Sverrir Harðarson, Vigdís Pétursdóttir, Helga Björk Pálsdóttir, Eiríkur Jóns­son, Guðmundur Vikar Einarsson, Tómas Guðbjartsson

arj1@hi.is

Inngangur: Krufningagreind nýrnafrumukrabbamein eru æxli sem greinast við krufningu hjá sjúklingum sem fyrir andlát hafa ekki þekkt einkenni sjúkdómsins. Segja má að um nokkurs konar tilviljunargreiningu sé að ræða en hugtakið tilviljunargreining er þó eingöngu notað um æxli sem greinast án einkenna í sjúklingum á lífi, oftast vegna myndrannsókna á óskyldum sjúkdómum í kviðarholi. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman þessi einkennalausu æxli á 35 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á gagnagrunni sem inniheldur alla sjúklinga með nýrnafrumukrabbamein sem greindust 1971-2005. Upplýsingar fengust úr gagnagrunni rannsóknarstofu í meinafræði á Landspítala, Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands og sjúkraskrám Landspítala. Öll æxlin voru stiguð skv. TNM-stigunarkerfi og vefjasýni endurskoðuð. Hóparnir voru bornir saman miðað við aldur, kyn, stærð, stigun, gráðun og vefjagerð.

Niðurstöður: Alls greindust 110 sjúklingar við krufningu og 913 á lífi, þar af 255 fyrir tilviljun, oftast vegna ómskoðunar (29%) eða tölvusneiðmyndar (26,7%) á óskyldum sjúkdómum í kviðarholi. Samanburður hópanna er sýndur í töflu I. Þeir sem greindust við krufningu voru marktækt eldri en hinir en æxlin voru hins vegar marktækt minni og munaði 1,7 cm. Auk þess voru þau á lægri stigum og gráðum en tilviljanagreindu æxlin. Totufrumu­gerð (papillary RCC) var hlutfallslega algengari í krufningagreinda hópnum en tærfrumugerð (clear cell RCC) sjaldgæfari.

Ályktun: Krufninga- og tilviljanagreind nýrnafrumukrabbamein eiga margt sameiginlegt í samanburði við einkennagreind nýrnafrumukrabbamein, enda bæði greind í sjúklingum sem ekki hafa einkenni sjúkdómsins. Sjúklingar í krufningagreinda hópnum eru eldri og sjúkdóm­urinn á heldur lægri stigum og gráðum en fyrir sjúklinga sem greinast fyrir tilviljun á lífi.

 

 

E-15 Góðkynja stækkun á hvekk, breytingar á meðferð og ábendingum fyrir aðgerðir

Hermann Páll Sigbjarnarson, Jens K. Guðmundsson, Guðmundur Geirsson

hermann@landspitali.is

 

Inngangur: Með tilkomu lyfjameðferðar við góðkynja stækkun blöðruhálskirtils (BPH) hafa orðið töluverðar breytingar hér-lendis á meðferð við þessum algenga kvilla. Tvær rannsóknir hafa áður verið gerðar hér á landi, sú fyrri tók til áranna 1988-2000 og sú seinni 2001-2002. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða hver þróunin hefur orðið á árunum 2003-2005 og bera saman við niðurstöður fyrri rannsókna.

Efniviður: Safnað var upplýsingum úr sjúkraskrám allra sjúklinga sem fóru í aðgerð á Landspítala vegna BPH á árunum 2003-2005. Skoðaðar voru m.a. ábendingar fyrir aðgerð, lyfja-notkun, legutími, magn vefjar, aukaverkanir og tíðni enduraðgerða. Einnig voru upplýsingar fegnar frá Lyfjastofnun um lyfjanotkun vegna BPH á sama tímabili.

Niðurstöður: Á undanförnum tuttugu árum hafa orðið miklar breytingar á meðferð BPH á Íslandi. Fjöldi aðgerða (TURP, transurethral resection of prostate) hafa dregist saman, frá um 600 aðgerðum á landinu á árinu 1992 niður í 150 aðgerðir árið 2002 á Landspítala. Aðgerðirnar voru 173 á árinu 2005. Á sama tíma hefur ársskömmtum lyfja við BPH (a-1 antagonistar og 5 a-redúktasar) aukist statt og stöðugt frá því að því þeir komu á markað hér á landi árið 1992. Aukningin hefur verið nokkuð hröð, árið 1998 voru ársskammtarnir 1200, 2002 voru þeir 2000 og 2005 voru þeir 2596. Hlutsfallsleg aukning hefur orðið á þeim algeru ábendingum fyrir aðgerð, aukist úr 41% 1989, í 56% 2000 og 59% 2005.

Ályktun: Svo virðist sem jafnvægi sé að komast á með fjölda aðgerða vegna BPH á meðan lyfjanotkun heldur enn áfram að aukast töluvert. Stöðugt fleiri sjúklingar fara í TURP aðgerð vegna algera ábendinga.

 

E-16 Notkun nýs hitastýringarleggs í og eftir hjartaaðgerðir

Felix Valsson, Guðmundur Klemenzson, Bjarni Torfason

felix@landspitali.is

 

Inngangur: Hjáveituaðgerðir á hjarta eru gerðar annaðhvort á hjarta- og lungnavél (HLV) eða án HLV (á sláandi hjarta). Í fyrri rannsóknum hefur verið sýnt að hár líkamshiti eftir hjartaaðgerðir er algengur og leiðir til verri útkomu hvað varðar tauga- og heilaskaða. Hins vegar hefur lágur líkamshiti verið algengur fylgikvilli við aðgerðir á sláandi hjarta, sem leiðir til meiri blæðingar og meiri losunar hjartaensíma.

Tilgangur: Að athuga hvort nýr og öflugur hitastýringaleggur geti nýst til að stýra hita í og eftir hjartaaðgerðir.

Efniviður og aðferðir: 16 sjúklingar sem fóru í kransæðaaðgerð voru rannsakaðir. Æðaleggurinn (Solex®) var lagður í holæð frá v.jug.int. Leggurinn var síðan tengdur við hitastýrivél (Coolgard®). Markhitinn hjá sjúklingunum í kransæðaaðgerð á HLV (n=9) var stilltur á 35°C á meðan sjúklingur var á HLV en í 37°C eftir HLV og fram að útskrift af gjörgæslu. Hjá þeim sem fóru í aðgerð á sláandi hjarta (n=7) var markhitinn stilltur á 37°C frá aðgerðar byrjun fram til útskriftar af gjörgæsludeild daginn eftir aðgerð.

Niðurstöður: Hitastjórnun var mjög nákvæm 37,0±0,4 °C í báðum hópum eftir aðgerð. Hjá þeim sem fóru í aðgerð á slándi hjarta hélst hiti mjög vel í aðgerð (36,0-37oC) hjá öllum nema einum sjúklingi sem fór niður í 35,3°C. Ekki urðu aukaverkanir, s.s. blæðingar, sýkingar eða blóðtappar, af þessari meðferð fyrir utan skjálfta og vanlíðan í sjúklingum nr. 2 og 3, sem báðir voru gerðir með aðstoð hjarta- og lungnavélar. Þegar skjálftinn varð voru sjúklingarnir með hita 37°C, en tækið var að kæla á mesta styrk, og mætti því ætla að þessir sjúklingar hefðu fengið háan hita ef kælingarinnar hefði ekki notið við.

Ályktanir: Hægt var að stýra hita vel með þessum nýja hitastjórnunaræðalegg, bæði við að halda hita á sjúklingum í og eftir aðgerð og auk þess fengu sjúklingarnir ekki hækkaðan hita eftir aðgerð. Það þarf að gera stærri rannsókn til að meta hvort þessi nákvæma hitastjórnun hefur áhrif á árangur við kransæðaaðgerðir.

 

E-17 Er hægt að sjá fyrir og forðast þvagtregðu eftir aðgerðir

Kristín Jónsdóttir, Gísli Vigfússon, Björn Geir Leifsson

kristinjonsdottir@yahoo.com

 

Inngangur: Þvagtregða er algengt vandamál í kjölfar aðgerða. Hún lengir legu og getur valdið skaða sé hún ekki greind og meðhöndluð. Ýmsar tíðnitölur hafa verið nefndar en nýleg grein sýnir 16% tíðni. Aldur, vökvagjöf í aðgerð og magn þvags í blöðru við komu á vöknun eru þekktir áhættuþættir. Tilgangur rannsóknar var að kanna orsakir þvagtregðu hjá sjúklingum fyrri hluta árs 2007 eftir aðgerðir á skurðlækningadeild Landspítala Hringbraut.

Efniviður og aðferð: Rannsóknin var aftursæ og lýsandi. Hjúkrunarfræðingar á deild skráðu niður hvaða sjúklingar áttu erfitt með að losa eða tæma þvagblöðruna eftir aðgerð. Upplýsingum um kyn, aldur, aðgerð, áhættuflokkun, fyrri sögu um þvagtregðutengda sjúkdóma, tímalengd svæfingar, svæfingaform, vökvagjöf í aðgerð, á vöknun og á deild fyrsta sólarhringinn var safnað. Auk þess var magn þvags í blöðru mælt. Sjúkraskrár, svæfinga- og vöknunarblöð og hjúkrunargögn voru metin.

Niðurstöður: Á tímabilinu fengu 20 einstaklingar þvagtregðu, 15 voru teknir inn í rannsóknina. Þar af voru átta konur og sjö karlar. Átta voru yfir fimmtugt, sjö yngri. Sjö höfðu sögu um þvagtregðu eða sjúkdóma sem tengjast þvagtregðu. Allir fengu svæfingu en í einu tilfelli var lögð mænurótardeyfing til verkjastillingar eftir aðgerð. Meðallengd svæfingar var 110 mínútur. Fimm fengu þvaglegg fyrir aðgerð, tveir voru fjarlægðir í lok aðgerðar en hinir daginn eftir. Tappa þurfti af 10, níu fengu þvaglegg. Meðaltal vökvagjafar í æð var 2400 ml, að mestu gefið í aðgerðinni og á vöknun. Að meðaltali stóðu 560 ml í blöðru sjúklinga.

Ályktun: Mikilvægt er að vera meðvitaður um áhættu á þvagtregðu eftir aðgerðir. Til eru greiningaraðferðir sem meta hana í kjölfar aðgerða. Með því að greina og meðhöndla þessa áhættusjúklinga snemma í ferlinu má flýta bata og stytta legu.

 

E-18 Notkun ómskoðunartækis á svæfinga- og gjörgæsludeild FSA

Girish Hirlekar, Björn Gunnarsson, Sigurður E. Sigurðsson, Jón Steingrímsson, Helga K. Magnúsdóttir, Þórir Svavar Sigmundsson

girish@fsa.is

 

Ómskoðun hefur verið að ryðja sér til rúms á svæfinga- og gjörgæsludeildum á síðustu þrjátíu árum. Þessi tækni er m.a. notuð við: 1) Deyfingu úttauga. 2) Uppsetningu miðbláæðaleggja. 3) Staðsetningu bláæða/slagæða við nálaísetningar. 4) Hjartaómun. 5) Fleiðruástungu.

Margir svæfingalæknar staðsetja úttaugar með því að framkalla tilfinningaglöp (e. paresthesia). Þrátt fyrir góða kunnáttu í líffærafræði og reynslu af deyfingum eru deyfingar ófullnægjandi í 10-15% tilfella. Rannsóknir hafa leitt í ljós að taugaörvun með rafstraumi tryggir ekki góðan árangur. Með notkun ómtækis við deyfingar má sjá æðar og taugar og hvernig staðdeyfilyf dreifast í vefjum. Oft má komast af með minni skammta af staðdeyfi­lyfjum og íkoma staðdeyfilyfs nálægt taug leiðir til betri og skjótari deyfingar.

Ómskoðun veitir ómetanlega hjálp við að staðsetja innri hálsæð, viðbeinsbláæð og nárabláæð þegar lagðir eru miðbláæðaleggir. Tæknin getur líka nýst vel þegar settir eru slagaæðaleggir við úlnlið og við uppsetningu æðaleggja hjá börnum.

Á gjörgæsludeildum þarf að vera hægt að framkvæma hjartaómskoðun hvenær sólahrings sem er. Algengasta ábending rannsóknar er lost. Oftast er spurt um samdráttarkraft vinstri slegils, en vanur ómskoðari getur aflað mun ýtarlegri upplýsinga, t.d. um vökvaástand sjúklings, þrýsting í lungnaslagæð, fylliþrýsting vinstri slegils og útfall hjartans. Ísetning fleiðrukera og ýmiskonar ástungur á gjörgæsludeilum eru mun hættuminni ef ómtæki er beitt. Á gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri hefur ómtæki verið í notkun frá sumrinu 2006. Gerð verður grein fyrir reynslu okkar af notkun tækisins.

 

E-19 Aldur hefur áhrif á tíðni endurþrengingar eftir skurðaðgerð við með­fæddri ósæðarþrengingu hjá börnum

Sverrir I. Gunnarsson, Bjarni Torfason, Gunnlaugur Sigfússon, Hróðmar Helgason, Tómas Guðbjartsson

sverrirgunnarsson@gmail.com

 

Inngangur: Meðfædd ósæðarþrenging (aortic coarctation, CoA) er í kringum 6% með­fæddra hjartagalla. Algengasta meðferðin er skurðaðgerð en stundum er beitt útvíkkun með belg. Algengir fylgikvillar skurðaðgerðar eru endurþrenging og háþrýstingur. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort aldur við aðgerð og/eða tegund aðgerðar hefði áhrif á tíðni fylgikvilla eftir aðgerð.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk og nær til allra barna sem gengust undir skurðaðgerð við CoA á Íslandi 1990-2006, samtals 38 barna (22 drengir, meðalaldur 34,5 mán.). Börnunum var skipt í hópa, annars vegar eftir því hvort þau gengust undir aðgerð innan mánaðar frá fæðingu (n=17) eða síðar (n=21) og hins vegar eftir því hvort gerð var bein æðatenging eða subclavian flap viðgerð (tafla I). Meðaleftirfylgd var 103 mánuðir.

Niðurstöður: Alls fengu 22 börn (57,9%) háþrýsting eftir aðgerð, 7 börn (18,4%) endur­þrengingu og 4 börn (10,5%) hjartabilun (tafla I) Háþrýstingur eftir aðgerð var ekki tengdur endurþrengingu í neinu tilviki og varði skemur en 1 viku í öllum tilvikum. Endurþrenging var greind að meðaltali 20,7 mán. ± 50,4 eftir aðgerð og í öllum tilvikum var hún meðhöndluð með belgvíkkun. Eitt barn hlaut ósæðargúl í kjölfar víkkunar og þurfti þess vegna enduraðgerð. Skurðdauði var enginn og ekkert barn greindist með mænuskaða.

Ályktun: Endurþrenging og tímabundinn háþrýstingur eru algengir fylgikvillar eftir aðgerð við CoA. Háþrýstingur sást oftar í eldri sjúklingum en endurþrenging í þeim yngri og mátti nær alltaf meðhöndla hana með belgvíkkun. Ákveðin tilhneiging til aukinna fylgikvilla sást eftir subclavian flap viðgerð en sú aðgerð er yfirleitt notuð í alvarlegri tilfellum og því viðbúið að tíðni fylgikvilla sé hærri.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

E-20 Áhrif NovoSeven® og fibrinogens á blóðstorku eftir opnar hjarta­aðgerðir með aðstoð hjarta- og lungnavélar

Hanna S. Ásvaldsdóttir, Páll T. Önundarson, Brynja R. Guðmundsdóttir, Benny Sörensen

hannaasv@landspitali.is

 

Inngangur: Opnar hjartaaðgerðir með aðstoð hjarta- og lungnavélar (HLV) hafa neikvæð áhrif á blóðstorku sjúklings og blæðingar eru algengur fylgikvilli þessara aðgerða. Nýlega hefur verið sýnt fram á að lyfið NovoSeven® geti stöðvað lífshættulegar blæðingar hjá þessum sjúklingum. Storkurit (Rotem®) er rannsóknaraðferð þar sem storkuferli heilblóðs er gert sýnilegt. Markmið þessarar rannsóknar var að athuga með storkuriti hvort meta megi ex vivo áhrif NovoSeven® og fibrinogens á storkuferlið með því að bæta þeim út í blóðsýni sjúklings.

Aðferð: Storkurit (4 breytur), hefðbundin storkupróf og lokunartími voru gerð á blóðsýnum 18 sjúklinga (meðalaldur 67 ár, 14 karlar, 4 konur) fyrir og eftir hjartaaðgerð með HLV. Aðgerðirnar voru CABG (n=12), AVR (n=2), CABG + AVR (n=3) og MVR (n=1).

Niðurstöður: Meðaltími á HLV var 112 mínútur (45-206) og ósæðartöng 67 mínútur (21-153). Marktækar breytingar urðu á storkuriti eftir HLV. Þegar NovoSeven® var bætt við blóðsýnin breyttust tvær breytur storkurits marktækt. Tími frá ræsingu storku þar til að hún hefst (CT) minnkaði frá miðgildi 386 sek (95% CI 175-516) í 231 sek (154-396). Tíminn að hámarkshraða storknunar (t. Max Vel) minnkaði frá miðgildi 560 sek (311-764) í 436 sek (314-556). Sömu niðurstöður fengust þegar fibrinogeni var bætt út í sýnin en að auki sást aukinn stöðugleiki storknunar (MCF), eða frá 55 mm (52-60) í 58 mm (56-62). Best storknun fékkst þegar NovoSeven® og fibrinogeni var bætt út í saman en þá leiðréttust allar 4 breyturnar marktækt.

Ályktun: Neikvæðar breytingar verða á storkuriti eftir HLV og þær má að hluta til leiðrétta með því að bæta NovoSeven® og/eða fibrinogeni út í blóðsýni. Hugsanlegt er að þessi efni, saman eða í sitt hvoru lagi, geti haft sambærileg áhrif á klíníska blæðingu hjá sjúklingum. Frekari rannsóknir þarf þó til áður en hægt er að fullyrða um slíkt.

 

E-21 Gore-tex® míturlokustög sem viðbótarmeðferð við míturlokuleka vegna langvarandi blóðþurrðar í hjarta

Sigurður Ragnarsson, Arnar Geirsson, Sabet Hashim, Tómas Guðbjartsson

sigurra@hi.is

 

Inngangur: Hefðbundin meðferð við míturlokuleka af völdum langvarandi blóðþurrðar í hjarta (chronic ischemic mitral regurgitation, CIMR) er að þrengja míturlokuhringinn með hring (annuloplasty) og framkvæma kransæðahjáveitu. Árangur þessara aðgerða er þó misjafn, enda talið að framfall á fremra míturlokublaði og/eða hersli á því aftara hafi þýðingu í þessu samhengi. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort Gore-tex®stög í fremra míturlokublaðið, sem viðbótarmeðferð við míturlokuhring, bæti árangur þessara aðgerða.

Efniviður og aðferðir: Alls gengust 630 sjúkl. undir míturlokuviðgerð á Yale-New Haven Hospital frá 1995-2006, flestir vegna hrörnunarsjúkdóms í lokunni (79,4%). Þessi aftur­skyggða rannsókn tók til 32 sjúklinga (5,1%) með alvarlegan CIMR. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og var farið yfir ábendingar fyrir aðgerð, ómskoðanir af hjarta fyrir og eftir aðgerð, fylgikvilla og afdrif sjúklinganna (lifun). Bornir voru saman sjúklingar sem fengu bæði Gore-tex® stög og míturlokuhring (hópur G, n=13) og þá sem einungis fengu hring (hópur H, n=12) (tafla I). Átta sjúklingar fengu annars konar viðgerð. Míturlokuleki var metinn sem vægur, meðal eða mikill.

Niðurstöður: Allir sjúklingarnir voru með meðal eða mikinn míturlokuleka fyrir aðgerð og útstreymisbrot (EF) og euro-SCORE var svipað í báðum hópum (tafla I). Tíðni fylgikvilla var sambærileg í báðum hópum en algengastur var fleiðruholsvökvi sem þurti að tæma (n=3). Einn sjúklingur fékk sýkingu í bringubein og annar slag og lést <30 daga frá aðgerð. Á rannsóknartímabilinu fékk enginn í hópi G endurkomu hvorki meðal né mikils míturloku­leka en í hópi H fengu 2 endurkomu meðalleka og tveir endurkomu mikils leka. Þessi munur á endurkomu leka var þó ekki marktækur og heldur ekki lifun í hópunum tveimur.

Ályktun: Míturlokuviðgerð með Gore-tex® stögum er örugg aðgerð og þótt erfitt sé að meta árangur í svo litlum efnivið þá virðist vera tilhneiging til betri árangurs, þ.e. lægri tíðni endurkomins leka, sé fremra míturlokublað styrkt með Gore-tex® stögum.

 

 

E-22 Blæðing er aukin eftir kransæðahjáveituaðgerðir á sláandi hjarta í samanburði við aðgerðir framkvæmdar með aðstoð hjarta- og lungnavélar

Hannes Sigurjónsson, Bjarni G. Viðarsson, Bjarni Torfason, Tómas Guðbjartsson

hannes@landspitali.is

 

Inngangur: Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á betri árangur kransæðahjáveituagerða sem framkvæmdar eru á sláandi hjarta samanborið við hefðbundna aðgerð þar sem notast er við hjarta- og lungnavél. Meðal annars hefur verið sýnt fram á minni blæðingar eftir aðgerð á sláandi hjarta. Þessar rannsóknir hafa hins vegar verið gagnrýndar fyrir lítinn sjúklingaefnivið og valskekkju (selection bias). Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman þessar tvær aðgerðir og þá sérstaklega með tilliti til blæðingar og blóðgjafa eftir aðgerð.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og nær til allra sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Íslandi frá júní 2002 til febrúar 2005. Sjúklingum sem gengust undir aðra aðgerð samtímis kransæðahjáveitu (t.d. lokuaðgerð) var sleppt. Sjúklingunum, 307 talsins, var skipt í tvo hópa, CABG-hóp (n=218) og OPCAB-hóp (n=89).

Niðurstöður: Hóparnir voru sambærilegir (tafla I) þegar kom að aldri (67 ár), kyni, útbreiðslu kransæðasjúkdóms og fjölda græðlinga í aðgerð. OPCAB-aðgerðirnar tóku lengri tíma og blæðing var aukin um 498 ml (p<0,001). Þó var tíðni enduraðgerða vegna blæðinga og magn blóðgjafa sambærilegt í báðum hópum. Hjartadrep í aðgerð (9% vs. 18% p <0,05) og aftöppun fleiðruvökva (7% vs. 17% p = 0,03) var marktækt algengara í CABG hópnum. Tíðni gáttatifs/flökts, heilablóðfalla, skurðdauða og heildarlegutími voru sambærileg í báðum hópum.

Ályktun: Kransæðahjáveituaðgerðir á sláandi hjarta eru líkt og hefðbundin aðgerð örugg meðferð, jafnvel hjá sjúklingum með útbreiddan kransæðasjúkdóm og lélegan slegil. Tíðni hjartadreps í aðgerð er lægri en hins vegar taka þær lengri tíma og blæðing er marktækt aukin. Hugsanleg ástæða þess gæti verið of kröftug blóðþynning þessara sjúklinga fyrst eftir aðgerðina.

 

 

 

E-23 Skurðsýkingar eftir bláæðatöku á ganglimum við opnar kransæða­hjáveituaðgerðir

Helga Hallgrímsdóttir, Ásta S. Thoroddsen, Tómas Guðbjartsso

helgahal@landspitali.is

 

Inngangur: Einn algengasti fylgikvilli kransæðahjáveituaðgerða (CABG) eru skurð­sýkingar og geta þær m.a. komið í bringubeinsskurð. Mun algengari eru þó skurðsýkingar eftir bláæðatöku, eða 2-24% skv. erlendum rannsóknum. Ekki eru til tölur um tíðni þessara sýkinga hér á landi og markmið þessarar rannsóknar að bæta úr því.

Efniviður og aðferðir: Framsýn rannsókn á 65 sjúklingum (51 karl, meðalaldur 64 ár) sem gengust undir CABG á Landspítala frá 1. september til 26. desember 2007. Oftast var um að ræða CABG eingöngu, þar af átta aðgerðir framkvæmdar á sláandi hjarta (OPCAB), en í 12 tilfellum var framkvæmd önnur aðgerð samtímis, oftast lokuaðgerð. Klínískar upplýsing­ar fengust úr sjúkraskrám og öllum sjúklingum var fylgt eftir í 30-40 daga eftir aðgerð. Skurðsár voru metin skv. ASEPSIS stigakerfi og var sýking skilgreind sem ASEPSIS-skor >20. Bornir voru saman sjúklingar með og án sýkingar og lagt mat á áhættuþætti sýkingar.

Niðurstöður: Alls greindust 15 sjúklingar með sýkingu (23,1%) innan 35 daga frá aðgerð og fengu þeir allir sýklalyf. Jafnframt fengu 13 sjúklingar í ósýkta hópnum (ASEPSIS ?20) sýklalyf, oftast vegna þvagfæra- eða lungnasýkingar. Að meðaltali greindist skurðsýkingin á 17. degi (bil 9-33 dagar). Í töflu I eru bornir saman sjúklingar í hópunum tveimur. Eins og búast mátti við var ASEPSIS-skor hærra hjá sjúklingum með sýkingu en hjá þeim sem ekki voru með sýkingu (29,5 vs. 9, p<0,0001). Aldur og kynjadreifing var sambærileg, sömuleiðis áhættuþættir og legutími fyrir og eftir aðgerð (9 og 11 dagar fyrir báða hópa). Tilhneiging til lægri sýkingatíðni sást eftir brotinn skurð miðað við samfelldan (p=0,12).

Ályktun: Skurðsýkingar eftir bláæðatöku eru stórt vandamál eftir kransæðahjáveitu­aðgerðir en tæplega fjórði hver sjúklingur fær slíka sýkingu og fær meðferð með sýklalyfjum. Þetta eru heldur hærri tölur en sést hafa í erlendum rannsóknum en hafa verður í huga að í þessari rannsókn var sjúklingum fylgt óvenju lengi eftir sem hækkar tíðni sýkinga. Brýnt er að kanna betur þessa áhættuþætti í stærri samanburðarrannsókn og með því móti gera ráðstafanir til að fyrirbyggja þær.

 

 

 

 

 

E-24 Epicardial pulmonary vein and ganglionic plexi ablation. - Experience of a videoassisted off-pump technique in 30 patients with atrial fibrillation

Gunnar Mýrdal, Leif Nilsson, Per G. Blomström

myrdal@landspitali.is

 

Introduction: Video-assisted epicardial pulmonary vein (PV) and ganglionic plexi (GP) ablation is a new technique of atrial fibrillation (AF) ablation. We report our initial experience including patients (pats) with permanent AF.

Methods: Nov 05 - May 07, 30 pats (21 men, 9 women), aged mean 56.8 years, were included. Paroxysmal (PAF) or persistent AF were present in 23 (77%) pats and permanent AF in 7 (23%). Transvenous AF ablation had previously failed in 53 % of pats. The epicardial approach included two intercostal 10 mm ports and one working port on each side of the thorax. Video-assisted epicardial PV isolation was performed off-pump bilaterally. Transmural linear lesions for PV isolation were achieved by a bipolar radiofrequency (RF) device (AtricureTM). The left atrial appendage (LAA) was excised using a surgical stapler. Vagal GPs were identified using high frequency stimulation (800 bpm, pulse width 9.9 msec) at specific predetermined sites around all PVs, by a decrease exceeding 50 % of the ventricular rate during stimulation, and then ablated using RFenergy. Vagal denervation was confirmed by repeating the GP stimulation after the RF application(s).

Results: PV isolation, vagal GP ablation and excision of LAA were successful in 28/30 (93%) pats. The pats were followed for 3,6,12 months after ablation. In 14 pats followed for 6 months and 3 pats for 12 months, 16 out of 17 (94%) are in sinus rhythm (SR), of whom only three are on antiarrhythmic drug treatment. All 4 pats followed for 3 months are in SR, 7 remains to be followed at 3 months and one pat is lost to follow-up. Complications included bleeding requiring thoracotomy in 2 pats and embolic stroke in one pat.

Conclusions: Video-assisted thoracoscopic epicardial PV isolation as single procedure is feasible and well tolerated in AF patients. Our initial experience offers promising results for AF patients who cannot be cured by conventional AF catheter ablation, including those with permanent AF. The long term safety and efficacy of the method needs to be further evaluated, especially regarding necessity and efficacy of vagal denervation.

 

E-25 Áhrifaþættir á tíðni enduraðgerða eftir fleygskurð við brjósta­krabbameini

Davíð Þór Þorsteinsson; Donald R. Lannin

dth@simnet.is

 

Tilgangur: Um þriðjungur sjúklinga sem gengist hafa undir fleygskurð við brjóstakrabbameini þarfnast enduraðgerðar vegna krabbameins í skurðbrún. Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta klíníska og vefjafræðilega þætti hjá sjúklingum sem þurftu enduraðgerð en mikilvægt er að þekkja þessa þætti til þess að geta fækkað enduraðgerðum.

Efniviður og aðferðir: Yale University Breast Center heldur gagnagrunn um sjúklinga með brjóstakrabbamein og fengust þaðan upplýsingar um sjúklinga sem gengust undir fleygskurð á fimm ára tímabili (2002-2007) Hópnum var skipt í tvennt eftir því hvort sjúklingur þurfti enduraðgerð eða ekki. Loks voru hóparnir tveir bornir saman m.t.t. aðferðar vefsýnatöku, aðgerðar, vefjafræði æxla, hvort Her2/neu æxlisgenið var tjáð, hormónviðtaka, hvort sjúklingur hafði eitlameinvörp og hvort segulómun (SÓ) hafði farið fram fyrir aðgerð. Við samanburð á flokkabreytum var notast við kí-kvaðrat próf.

Niðurstöður: Af 576 sjúklingum sem gengust undir fleygskurð þurftu 160 (28%) endur­aðgerð (EA-hópur). Af þeim gengust 47 (8%) undir brjóstnám og 113 (20%) umfangsmeiri fleygskurð. Konur sem ekki þurftu enduraðgerð voru settar í samanburðarhóp (n=416). Konur í EA-hópnum voru yngri (53 ára vs. 56 ára, p<0,05). Vefjagerð æxlis hafði sterka fylgni við tíðni enduraðgerða. Þannig var tíðni enduraðgerða hjá konum með ?ífarandi bleðlakrabbameinsgerð 38%, DCIS 42%, og ífarandi rásakrabbamein með miklum innan­rásahluta 38% (allt p<0,01). Fyrir hreint ífarandi rásakrabbamein þurfti sjaldnar enduraðgerð (19%, p<0,01). Æxli sem tjáðu Her2/neu æxlisgenið höfðu einnig sterk tengsl við tíðni enduraðgerða (31% gegn 17% <0,01). Estrogen- og progesterónviðtakar og eitlameinvörp höfðu hins vegar ekki áhrif, heldur ekki stærð æxlis eða kynþáttur. Æxli greind með grófnálarsýni þurftu sjaldnar enduraðgerð en þau greind með skurðsýni (e. excisional biopsy, 16% og 40%, p<0,01) og sama átti við um ef krabbameinslyfjameðferð hafði verið beitt fyrir aðgerð (11% gegn 29%, p<0,05). Notkun segulómunar fyrir skurðgerð hafði heldur ekki áhrif á tíðni enduraðgerða í hópunum tveimur.

Ályktun: Tíðni enduraðgerða eftir fleygskurð er há og er óháð notkun SÓ og stærð æxlis. Með þekkingu á helstu áhættuþáttum enduraðgerða (skurðsýni, vefjagerð, Her2/neu og aldur) er hægt að fækka enduraðgerðum eftir fleygskurð.

 

E-26 Varðeitiltaka við brjóstakrabbameini. - Aðgerðir og árangur

Hildur Guðjónsdóttir, Kristján Skúli Ásgeirsson, Lárus Jónasson, Þorvaldur Jónsson

hildgu@hi.is

 

Inngangur: Varðeitiltaka til stigunar og meðferðar brjóstakrabbameins hefur verið gerð í vaxandi mæli frá aldamótum og hér á landi frá 2003. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna framkvæmd aðgerðarinnar og frumárangur á tímabilinu 2003-2007.

Efniviður og aðferð: Upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám allra sjúklinga sem fóru í varðeitiltöku vegna brjóstakrabbameins á árunum 2003-2007 á Landspítala. Skráðar voru upplýsingar um framkvæmd aðgerðar og niðurstöðu meinafræðiskoðunar. Afdrif sjúklinga voru skoðuð m.t.t staðbundins endurmeins, fjarmeinvarpa og dauða.

Niðurstöður: Alls fóru 442 sjúklingar í varðeitiltöku á tímabilinu. Eftirfylgnitími var að miðgildi 25 mánuðir. Í öllum tilfellum utan eins var ísotóp notaður við merkingu varðeitils og í 75% tilfella var blátt litarefni notað samhliða. Varðeitlar fundust í 100% tilvika og voru teknir að meðaltali 2,3 varðeitlar í aðgerð. Þrír (0,7%) sjúklingar hafa fengið endurmein í holhönd, meðaltími frá aðgerð 24 mánuðir, 16 (3,6%) hafa greinst með fjarmeinvörp og níu (2,0%) eru látnir, þar af tveir af öðrum orsökum en brjóstakrabbameini.

Ályktanir: Íslenskir skurðlæknar hafa náð góðum tökum á þessari nýju aðferð og varðeitill hefur alltaf fundist. Þótt eftirfylgnitími sé stuttur bendir lág tíðni endurmeina í holhönd til þess að aðgerðin sé örugg. Með henni hefur umtalsverðum hluta sjúklinga með brjósta­krabbamein verið hlíft við óþarflega ágengri skurðmeðferð.

 

E-27 Hlutverk segulómunar fyrir aðgerð við mat og meðferð á brjósta­krabbameini

Davíð Þór Þorsteinsson; Donald R. Lannin; Carol Lee; Meghna Krishnan

dth@simnet.is

 

Inngangur: Mikill árangur hefur náðst í greiningu og meðferð við brjóstakrabbameini á síðustu árum og má að verulegum hluta þakka það fullkomnari tækni og útbreiðslu á skimun með brjóstamyndatöku. Sýnt hefur verið fram á að segulómun (SÓ) getur bætt greiningu enn frekar þótt enn séu skiptar skoðanir um vægi hennar í meðferð sjúklinga. Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta áhrif SÓ á tímalengd frá greiningu að skurðaðgerð, tegund aðgerðar og fjölda vefjasýna í aðgerð hjá konum með nýgreint brjóstakrabbamein.

Efniviður: Sjúkraskrár sjúklinga sem greindust með brjósta-krabbamein á tveggja ára tímabili 2005-2006 voru skoðaðar afturvirkt, samtals 902 konur. Sjúklingum var skipt í tvo hópa, annars vegar konur sem fóru í SÓ fyrir aðgerð (SÓ-hópur, n=110) og þær sem ekki fóru í slíka rannsókn (SB-hópur, n=792). Ákvörðun um SÓ var á hendi skurðlæknis. Skráður var tími sem leið frá greiningu að aðgerð, einnig fjöldi vefjasýna í kjölfar SÓ og fjöldi hnúta sem greindist. Loks voru skráð tilvik þar sem áætlaðri skurðaðgerð var breytt eftir SÓ og ástæður breytinga.

Niðurstöður: Meðalfjöldi daga frá greiningu að aðgerð var 41 dagur í SÓ-hópi og 27 í SB-hópi (p<0,001). Vefsýnatökur í kjölfar SÓ voru 70 talsins hjá 44 sjúklingum (40%). Með SÓ fundust 16 nýjir æxlishnútar hjá 13 konum (12%), þar af þrír í gagnstæðu brjósti. Skurðaðgerð breyttist vegna niðurstaðna SÓ í 31 tilfelli (28%), í sex tilfellum var gerður umfangsmeiri fleygskurður og í þremur tilfellum gerð aðgerð á gagnstæðu brjósti. Hjá 15 konum var framkvæmt brjóstnám í stað fleygskurðar, þar af í sex tilfell-um vegna gruns um margkjarna (e. multifocal) krabbamein á SÓ. Níu konur kusu brjóstnám án vefsýnatöku vegna gruns um margkjarna æxli á SÓ, en í aðeins fjórum tilfellum fundust slík æxli við vefjaskoðun (44%). Níu sjúklingar greindust með hnúta í báðum brjóstum og fóru í brottnám beggja vegna en aðeins tvær þeirra höfðu staðfest æxli í hinu brjóstinu við vefjaskoðun.

Ályktun: Hjá völdum sjúklingahópi getur SÓ bætt greiningu fyrir aðgerð og leitt í ljós áður óþekkta æxlishnúta í sama eða gagnstæðu brjósti. Falskt jákvæð svör eru hins vegar vandamál og geta tafið skurðaðgerð vegna vefjasýnatöku eða jafnvel leitt til óþarflega umfangsmikilla skurðaðgerða.

 

E-28 Notkun segulómskoðunar við greiningu og meðferð brjóstakrabbameins

Örvar Arnarson, Svanheiður Lóa Rafnsdóttir, Kristján Skúli Ásgeirsson, Þorvaldur Jónsson, Hildur Einarsdóttir, Anna Björg Halldórsdóttir

orvara@gmail.com

 

Inngangur: Víðast hvar erlendis hefur segulómskoðun af brjóstum (MRI) fyrir skurð­aðgerð sýnt fram á notagildi sitt í völdum hópi brjóstakrabbameinssjúklinga. Hér á landi hefur þessi rannsókn verið gerð á öllum nýgreindum brjóstakrabbameinssjúklingum frá september 2006. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna reynsluna af notkun MRI hér á landi á ákveðnu tímabili, sérstaklega m.t.t. áhrifa á ákvörðunartöku um tegund brjósta­aðgerða.

Efni og aðferðir: Allar konur greindar með skurðtækt brjóstakrabbamein frá 15. september 2006 til 30. nóvember 2007 voru skoðaðar. Farið var yfir allar sjúkraskýrslur, MRI rannsóknirnar skoðaðar og bornar saman við hefðbundnar myndgreiningarrannsóknir (MGM/US) og meinafræðiniðurstöður.

Niðurstöður: Á tímabilinu fóru samtals 194 konur í MRI fyrir skurðaðgerð. Til þessa hafa gögn 146 sjúklinga verið skoðuð. Í 15 tilfellum (11%) hafði MRI áhrif á tegund skurð­aðgerðar sem ráðlögð var. Hjá 5 var stærri fleygskurður ráðlagður vegna þess að tveir eða fleiri krabbameinshnútar fundust í sama brjósti. Hjá 4 var brottnám ráðlagt í stað fleyg­skurðar á grunni MRI niðurstaðna; í þremur tilfellum var það vegna útbreiddra krabbameinslíkra breytinga sem sáust og í einu tilfelli vegna fjölda og legu krabbameinslíkra hnúta. Hjá 6 urðu MRI niðurstöðurnar þess valdandi að aðgerð var gerð á báðum brjóstun­um. Af þessum 15 tilfellum, reyndust 10 vera með ífarandi ductal krabbamein (IDC), tveir með ífarandi lóbúler krabbamein (ILC) og þrír með blandað ILC og forstigsbreytingar (DCIS).

Ályktun: Í þessari rannsókn hafði MRI áhrif á tegund skurðaðgerðar hjá 11% brjósta­krabbameinssjúklinga. Svipaðar niðurstöður hafa verið birtar í erlendum rannsóknum.

 

E-29 Átta ára yfirlit á 552 brjóstauppbyggingum með fríum flipum: Lærdóms­kúrfan skoðuð

Þórir Auðólfsson, Rafael Acosta, Anders Liss, Morten Kildal, J.M. Smit

thorir.audolfsson@akademiska.se

Inngangur: Á síðastliðnum árum hefur notkun frírra vefjaflipa aukist. Rofaflipi frá kviðnum sem reistur er á djúpu neðri kviðæðinni er nú af mörgum talinn besti valkosturinn við uppbyggingu brjósta. Mörg af þeim vandkvæðum sem menn sáu við þessa aðgerð í upphafi erum við nú að yfirstíga með aukinni reynslu og nýrri tækni.

Efniviður: Við förum yfir reynslu á einni stofnun við uppbyggingu brjósta með fríum flipum frá janúar 2000 til janúar 2008.

Niðurstöður: Á tímabilinu frá janúar 2000 til janúar 2008 voru framkvæmdar 552 brjóstauppbyggingar med fríum flipum (DIEP (Deep Inferior Epigastric Perforator)=504, SIEA (Superficial Inferior Epigastric Artery)=22, SGAP (Superior Gluteal Artery Perforator)=26) hjá 470 konum. Aðgerðartíminn var að jafnaði 6 klukkustundir og 47 mínútur (µ= 407; bil 117-950; ?± 125 mín). Aðgerðin tókst í 96,4% tilfella (20 flipar dóu og 12 flipar að hluta).

Umræður: Við sýnum okkar lærdómskúrfu á sl. átta árum við notkun frírra flipa við brjóstauppbyggingu. Við förum yfir tækninýjungar og aðra mikilvæga þætti í þróun á þessari aðgerð sem í dag er talinn besti valkosturinn við brjóstauppbyggingu.

 

E-30 Nýjar áherslur við hlutabrjóstnám: Rúmmálstilfærsla eða rúmmáls­fylling

Kristján Skúli Ásgeirsson, Þorvaldur Jónsson, Höskuldur Kristvinsson

kriskuli@landspitali.is

 

Hlutfall hlutabrjóstnáms og geislameðferðar á móti heilbrjóstnáms hefur farið vaxandi á undanförnum árum enda vitað nú að langtímahorfur þessara tveggja hópa er sambærilegur og lífsgæði þeirra fyrrnefndu betri. Tvær útkomur eru mikilvægar í hlutabrjóstnámi og í raun órjúfanlegar; annars vegar að fjarlægja krabbameinið með æxlisfríum skurðbrúnum og hins vegar að koma í veg fyrir lýti eða afmyndun á brjóstinu. Notkun brjósta- rúmmálstilfærslu (volume displacement) eða fyllingu (volume replacement) tekur tillit til þessara tveggja útkoma og opnar fyrir þann möguleika að fjarlægja stór brjóstvefjasýni með hugsanlegum krabbameinslegum ávinningi.

Rúmmálstilfærsla byggir á stoðum brjóstaminnkunartækninnar og kallar oft á aðgerðir á báðum brjóstum. Rúmmálsfylling byggir hins vegar á notkun latissimus dorsi vöðva-flipa (LD-miniflap). Hvaða aðferð er notuð fer eftir ýmsum þáttum, s.s. brjóstastærð, krabbameins­stærð, svo og væntingum og vilja sjúklinganna. Aðferðir þessar eru taldar geta aukið enn frekar á vægi hlutabrjóstnáms í skurðmeðferð brjóstakrabbameinssjúklinga.

Aðferðir og algorithmi verða kynntar á þinginu. Auk þess verður snemmkominn árangur fyrstu aðgerða af þessu tagi sem framkvæmdar hafa verið á brjóstaskurðdeild Landspítalans kynntur.

 

E-31 Krabbamein í smágirni á Íslandi

Jóhann Páll Ingimarsson, Jón Gunnlaugur Jónasson, Jónas Magnússon, Páll Helgi Möller

johannpa@landspitali.is

 

Inngangur: Æxli í smágirni eru sjaldgæf orsök garnastíflu og blæðinga um meltingarveg. Tilgangur rannsóknar okkar var að athuga faraldsfræði æxlanna, greiningaraðferðir, meðferðir og lifun á Íslandi yfir 50 ára tímabil frá 1955 til 2005.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar úr Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands um þá er greinst hafa með æxli í smágirni voru bornar saman við greiningaskrá rannsóknarstofu í meinafræði. Gögn voru fengin úr sjúkraskrám. Öll sýni voru endurskoðuð af meina­fræðingi.

Niðurstöður: 110 greindust á tímabilinu, 58 karlar og 52 konur. Meðalaldur við greiningu var 65 ár (bil 15-91). Nýgengi var 1,04 á 100.000 íbúa á ári. Silfurfrumuæxli (carcinoid) voru 78, kirtilfrumuæxli 22, strómaæxli 7 og önnur 3. Dausgarnaræxli voru mun algengari en í ásgörn. Algengustu einkennin, óháð vefja-?flokkum, voru kviðverkir (n=47), uppköst (n=20), niðurgangur (n=19) og slappleiki (n=18). Silfurfrumuheilkenni var til staðar í 8 tilvikum. Æxlin voru tilviljunargreiningar í 26 sjúklingum. Algengustu rannsóknir voru magaspeglun (n=24), ristilspeglun (n=24) og tölvusneiðmynd (n=23). Algengustu aðgerðir voru hluta­brottnám á smágirni (n=43) og brottnám á botnristli og dausgarnarenda (n=13). Helstu fylgikvillar voru garnastífla (n=11), sárasýkingar (n=8) og lungnabólga (n=6). Fjórir létust í kjölfar aðgerðar. 16 fengu krabbameinslyfjagjöf. Eins árs lifun fyrir kirtilfrumukrabbamein var 36%, 5 ára 12% og 10 ára 6%. Eins árs lifun fyrir silfurfrumuæxli er 72%, 5 ára 52% og 10 ára 33%.

Umræða: Æxli í smágirni eru sjaldgæf á Íslandi og hefur tíðni haldist svipuð undanfarin 40 ár. Æxlin eru oft tilviljanafundur. Hlutfall silfurfrumuæxla er hærra hér en erlendis. Einkenni eru ósértæk og greina ekki milli meingerða. Silfurfrumuheilkenni er fátítt. Lífslíkur eru slæmar, líkt og erlendis.

 

E-32 Lungnasýnatökur með skurðaðgerð til greiningar sjúkdóma í millivef lungna

Martin Ingi Sigurðsson, Gunnar Guðmundsson, Helgi J. Ísaksson, Tómas Guðbjartsson

mis@hi.is

Inngangur: Nákvæm greining sjúkdóma í millivef lunga (interstitial lung diseases, ILD) er afar mikilvæg og er sýnataka með skurðaðgerð talin besta greiningaraðferðin. Takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um áhættu og greiningargetu þessara aðgerða og áhrif þeirra á meðferð.

Efni og aðferðir: Rannsóknin er aftursýn og náði til allra sjúklinga sem gengust undir lungnasýnatöku með skurðaðgerð á Íslandi 1986-2007, samtals 80 einstaklinga (47 karlar, meðalaldur 57,2 ár). Vefjasýni voru yfirfarin og var meðaleftirfylgd 78,2 mánuðir.

Niðurstöður: Algengustu einkenni voru hósti og mæði. Í 66% tilvika hafði sýnataka með berkjuspeglun þegar verið gerð án fullnægjandi greiningar. Gerð var opin aðgerð í 64% tilvika og brjóstholsspeglunaraðgerð hjá 29 sjúklingum, en í þremur tilvikum þurfti að breyta yfir í opna aðgerð. Miðgildi legutíma var 5 dagar (bil 1-89) og brjóstholskerameðferðar tveir dagar (bil 1-89). Þrír sjúklingar (3,8%) létust í sjúkralegunni og aðrir þrír fengu alvarlega fylgikvilla. Algengasti fylgikvillinn var viðvarandi loftleki (>96 klst.), eða hjá 13 sjúklingum. Sjúkdómsgreining, byggð á skurðsýni, fékkst í 80% tilfella en í 16 tilvikum var greiningin ófullkomin (ósérhæfð bólga eða endastig lungnatrefjunar). Þegar einungis var tekið sýni úr lingula var tíðni ófullkominnar greiningar hærri en þegar tekin voru sýni frá öðrum lungnahlutum (50% vs. 16%, p=0,004). Klínísk greining breyttist í 74% tilfella og hjá 57% sjúklinga breyttist meðferð. Lifun tveimur og fimm árum frá aðgerð var 87% og 72%.

Umræða: Sýnataka með skurðaðgerð er áreiðanleg aðferð til greiningar ILD og leiðir til breyttrar meðferðar hjá helmingi sjúklinga. Þrátt fyrir lága dánartíðni í kjölfar sýnatökunnar (3,8%) þarf að vanda val á sjúklingum í aðgerð. Einnig ætti að forðast staka sýnatöku úr lingula.

 

E-33 Innlagnir á gjörgæsludeild Landspítala vegna fjöláverka 1994-2003

Bjarni Guðmundsson, Halldór Jónsson jr, Bergþóra Ragnarsdóttir, Kristinn Sigvaldason

bjarnigu@landspitali.is

 

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna innlagnir á gjörgæsludeild vegna fjöláverka tímabilið 1994-2003, bera saman við rannsóknir 1974-1993 og fá þannig heildarmynd af þróun í mynstri áverka, alvarleika og lifun yfir 30 ára tímabil.

Efniviður og aðferðir: Skoðaðar voru allar innlagnir á gjörgæsludeild vegna fjöláverka á árunum 1994-2003 og upplýsingum safnað um aldur, kyn, slysstað, orsök, legutíma og afdrif eftir útskrift. Alvarleiki áverka var metinn samkvæmt AIS-ISS kerfi en það gefur stig eftir einföldum skala (1-6) fyrir hvert og eitt 6 líkamssvæða og fást þannig stig frá 1 og upp í 75 sem jafngildir banvænum áverka. ISS <10 jafngildir minniháttar áverka en ef ISS >16 er um alvarlega áverka að ræða.

Niðurstöður: Innlagnir á gjörgæsludeild á tímabilinu voru alls 5702, þar af 971 vegna áverka. Þetta gera 97 á ári að meðaltali eða um 17% af heildarfjölda innlagna. Meðalaldur var 36 ár (15-44) og meðaltal ISS stiga var 20,4. Karlmenn voru 715 (74%) en konur 256 (26%) og meðallegutími á gjörgæsludeild var 4,3 dagar. Meðallegutími á sjúkrahúsi var 19,6 dagar (1-372 dagar). Minniháttar áverka höfðu 105 sjúklingar (10,8%) en 866 (89,2%) höfðu alvarlega áverka. Sjúklingar sem töldust dauðvona fljótlega eftir komu voru 27 (2,8%). Alls létust á gjörgæsludeild 62 (6,4%) og 21 til viðbótar eftir útskrift á almenna legudeild. Heildardánarhlutfall var því 8,5%. Dánarhlutfall þeirra sem höfðu ISS stig >20 var 17,9%.

Ályktun: Fjöldi innlagna á ári hefur lítið breyst síðustu 30 árin og sama er að segja um mynstur áverka. Sé tillit tekið til fólksfjölgunar í landinu hefur alvarlega slösuðum hlutfallslega fækkað. Heildardánarhlutfall hefur haldist svipað síðustu tvo áratugi en góður árangur virðist hins vegar hafa náðst í meðferð sjúklinga með mjög alvarlega áverka þar sem marktæk lækkun hefur orðið á dánarhlutfalli þeirra sem hafa ISS stig >20. Horfur fjöláverkasjúklinga á gjörgæsludeild hér á landi standast fyllilega samanburð við niðurstöður erlendra rannsókna.

 

E-34 Varðeitiltaka við brjóstakrabbameini - Meinafræðilegar niðurstöður

Hildur Guðjónsdóttir, Kristján Skúli Ásgeirsson, Lárus Jónasson, Þorvaldur Jónsson

hildgu@hi.is

 

Inngangur: Varðeitiltaka til stigunar og meðferðar brjóstakrabbameins hefur verið gerð í vaxandi mæli frá aldamótum og hér á landi frá 2003 í góðri samvinnu við meinafræðinga. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna áreiðanleika frystiskurðarskoðunar á varðeitli, eitlastigun og frekari niðurstöður meinafræðiskoðunar.

Efniviður og aðferð: Upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám allra sjúklinga sem fóru í varðeitiltöku vegna brjóstakrabbameins á árunum 2003-2007 á Landspítala. Skráðar voru upplýsingar um frystiskurðarsvör og aðrar niðurstöður meinafræðiskoðunar.

Niðurstöður: Alls fóru 442 sjúklingar í varðeitiltöku á tímabilinu. Eftirfylgnitími var að miðgildi 25 mánuðir. Falskt neikvæð frysti-?skurðarsvör voru 20 (4,5%), þar af reyndust 19 (95%) vera með smásæ meinvarp. Hjá 94 (21,3%) sást meinvarp við frysti- skurðarskoðun, þar af voru 45 (48%) með smásæ meinvarp. Alls fannst meinvarp í varðeitli hjá 114 (25,8%) sjúklingum og var gerð frekari holhandareitlataka hjá 86,0% þeirra. Af þeim voru 44,0% með meinvarp í einungis einum eitli, 30,6% í tveimur til þremur eitlum og 25,4% í fleiri en þremur.

Ályktanir: Frystiskurðarskoðun er áreiðanleg rannsókn og er tíðni falsk neikvæðra niðurstaðna innan eðlilegra marka. Hlutfall sjúklinga með meinvarp í varðeitli bendir til þess að val sjúklinga til aðgerðar sé eðlilegt en fjöldi sjúklinga með fleiri en þrjá jákvæða eitla gæti þó bent til þess að uppvinnslu fyrir aðgerð mætti enn bæta.

 

E-35 Lífshættulegar afleiðingar sprautufíknar 2003-2007

Þóroddur Ingvarsson, Kristinn Sigvaldason, Sigurbergur Kárason

toroddur@gmail.com

 

Inngangur: Talið er að á Íslandi séu um 700 virkir sprautufíklar. Í stórborgum erlendis má ætla að 5% innlagna á gjörgæsludeild (GG) tengist fíkniefnaneyslu. Tilgangur þessarar rannsóknar var að afla upplýsinga um innlagnir á GG vegna sprautufíknar, fá betri mynd af umfangi vandamálsins og þróun.

Aðferðir: Farið var yfir allar innlagnir á GG Landspítala Fossvogi tímabilið 2003-2007 og skráðar upplýsingar um innlagnir er tengdust beint vímuástandi með áherslu á sprautufíkn.

Niðurstöður: Samtals voru 3264 innlagnir á GG Fossvogi á tímabilinu (meðalfjöldi 653 á ári, meðalaldur 55 ár, kk 55%, APACHE 12, 32% þurftu öndunarvél, dánarhlutfall 5,8%). Vímutengdar innlagnir voru 354 (71 að meðaltali á ári, 11% af öllum innlögnum, 64% tengdust áfengisneyslu, meðalaldur 42 ár, kk 63%, APACHE 9, 37% þurftu öndunarvél, dánarhlutfall 5,4%). Innlagnir sem orsökuðust af sprautufíkn voru 51 (að meðaltali 10 á ári, 1,6% af öllum innlögnum, jókst frá 1,0-2,6% á tímabilinu), meðalaldur 29 ár (16-57), kk 63%, APACHE 11, meðaldvalartími á GG 2,6 dagar (0,5-28) og 45% þurftu öndunarvél. Algengustu ástæður innlagnar voru sýklasótt (16), ofskömmtun (14), sjálfsvígstilraun (10) og áverkar (5). Efni sem voru misnotuð voru amfetamín (17), morfín (14), kókaín (8) og fentanyl (5) en óþekkt í 9 tilfellum. Samtals voru þetta 48 sjúklingar, þrír lögðust inn þrisvar. Alls létust 6 sjúklingar á GG (13%) og 4 létust eftir útskrift (8%). Árið 2007 lögðust inn 16 einstaklingar og eru 6 þeirra látnir (38%).

Ályktanir: Umtalsverður hluti innlagna á gjörgæslu tengist vímuástandi (11%) en á tímabilinu hefur orðið vart við fjölgun innlagna (1?2,6%) og hækkandi dánarhlutfall á GG (0?25%) vegna alvarlegra fylgikvilla sprautufíknar. Misnotkun ópíóíða virðist einnig hafa aukist. Í nær helmingi tilfella var um lyfseðilskyld lyf að ræða. Einstaklingar sem þurfa gjörgæslumeðferð eru í mikilli hættu, 12% þeirra látast á GG og 8% síðar. Á seinasta ári létust 38% innlagðra einstaklinga vegna sprautufíknar. Þessar niðurstöður benda til að neyslumynstur sprautfíkla hafi orðið hættumeira á seinustu árum.

 

E-36 Tilviljanagreining er sjálfstæður forspárþáttur lífshorfa hjá sjúklingum með nýrnafrumukrabbamein: Niðurstöður úr íslenskri rannsókn sem nær til 913 sjúklinga á 35 ára tímabili

Helga Björk Pálsdóttir, Sverrir Harðarson, Vigdís Pétursdóttir, Ármann Jónsson, Eiríkur Jónsson, Guðmundur V. Einarsson, Tómas Guðbjartsson

hbp1@hi.is

 

Inngangur: Á síðustu árum hefur nýgengi nýrnafrumukrabbameins aukist hér á landi og er nú með því hæsta sem gerist í heiminum. Þessi hækkun á nýgengi hefur að verulegu leyti verið skýrð með tilviljanagreiningu. Í fyrri rannsóknum hérlendis hefur tilviljanagreining ekki verið sjálfstæður forspárþáttur lífshorfa og betri horfur þessara sjúklinga verið skýrðar með lægri stigun og gráðu æxlanna. Tilgangur rannsóknarinnar var að athuga þróun nýgengis og dánarhlutfalls á 35 ára tímabili og um leið kanna forspárþætti lífshorfa með sérstöku tilliti til áhrifa tilviljanagreiningar.

Efniviður og aðferðir: Afturvirk rannsókn á sjúklingum sem greindust á lífi með nýrna­frumukrabbamein á Íslandi 1971-2005. Kannað var nýgengi og dánarhlutfall og athugaðir forspárþættir lífshorfa með fjölbreytugreiningu. Öll æxlin voru stiguð skv. TNM-kerfi og vefjasýni endurskoðuð. Litið var sérstaklega á tilviljanagreind æxli og þau borin saman við æxli greind vegna einkenna.

Niðurstöður: Alls greindust 913 sjúklingar, meðalaldur 65 ár, 557 karlar (61%). Nýgengi jókst marktækt á tímabilinu og var 13,2/100.000/ár fyrir karla og 8,2 fyrir konur 2001-05. Dánarhlutfall hélst hins vegar stöðugt. Af 913 sjúklingum greindust 658 vegna einkenna (72%) og 255 fyrir tilviljun (28%), oftast vegna tölvusneiðmyndatöku og ómskoðunar. Tilviljanagreining jókst á tímabilinu, eða frá 11,1% 1971-75 í 39,2% 2001-05. Tilviljana­greindu æxlin voru 2,7 cm minni og af lægri stigun og gráðu en æxli greind vegna einkenna. Aldur, kynjadreifing og vefjagerð voru hins vegar sambærileg. Samanburður á hópunum er sýndur í töflu I. Fjölbreytugreining sýndi að stigun (p<0,001) er veigamesti sjálfstæði forspárþáttur lífshorfa en einnig aldur, greiningarár, sökk og gráða. Einkennagreindir sjúkl­ingar höfðu einnig marktækt verri horfur en tilviljanagreindir (HR 1,4; 95% CI 1,02-1,93; p=0,04).

Ályktun: Lífshorfur sjúklinga með nýrnafrumukrabbamein á Íslandi fara batnandi (vaxandi nýgengi og óbreytt dánarhlutfall). Líklegasta skýringin er aukning tilviljanagreindra æxla en í dag eru þau um helmingur nýgreindra nýrnafrumukrabbameina. Tilviljanagreining er sjálfstæður verndandi forspárþáttur lífshorfa og hefur slíkt ekki sést áður hér á landi. Betri horfur tilviljanagreindra sjúklinga skýrast því ekki eingöngu af lægri stigun og gráðu heldur er tilviljanagreining ein og sér jákvæð fyrir horfur sjúklinga.

 

 

e-36

 

 

 

Ágrip veggspjalda

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

V-01 Staðbundinn æxlisvöxtur með uppruna í fleiðru á Íslandi

Tryggvi Þorgeirsson, Helgi J. Ísaksson, Hrönn Harðardóttir, Hörður Alfreðsson, Tómas Guðbjartsson

tryggvt@hi.is

 

Inngangur: Æxlisvöxtur upprunninn í fleiðru getur verið staðbundinn eða útbreiddur um himnuna. Æxli af fyrrnefndu gerðinni nefnast á ensku Solitary Fibrous Tumors of the Pleura (SFTP) en um 20% þeirra eru illkynja og draga þá þriðjung sjúklinga til dauða. Algengari og betur rannsökuð eru mesothelioma, sem vaxa með dreifðum hætti, tengjast útsetningu fyrir asbesti og hafa nær 100% dánarhlutfall. Markmið rannsóknarinnar er að nýta hagstæðar aðstæður hér á landi til lýðgrundaðrar (e. population-based) úttektar á SFTP og ákvarða nýgengi sjúkdómsins sem hingað til hefur ekki verið þekkt.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og fengust upplýsingar um sjúklinga með SFTP úr sjúkragögnum og skrám rannsóknarstofu í meinafræði. Vefjafræði æxlanna var yfirfarin af meinafræðingi. Til samanburðar voru upplýsingar um nýgengi mesothelioma sóttar til Krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands.

Niðurstöður: Alls greindust 11 sjúklingar með SFTP á tímabilinu (8 konur og 3 karlar, meðalaldur 60 ár) en 35 með mesothelioma (4 konur og 31 karl, meðalaldur 68 ár). Árlegt aldursstaðlað nýgengi SFTP og mesothelioma er því 1,4 og 4,0 af 1.000.000 (95% öryggisbil 0,69-2,5 og 2,6-5,4). Aðeins 3 sjúklingar með SFTP höfðu einkenni af sjúkdómnum en hinir greindust fyrir tilviljun. Allir sjúklingarnir voru meðhöndlaðir með brottnámi æxlis í opinni aðgerð utan einn sem greindist við krufningu. Engir alvarlegir fylgikvillar komu upp í eða eftir aðgerð. Endurkoma sjúkdómsins hefur ekki verið skráð í neinu tilfelli og enginn sjúklinganna látist úr sjúkdómnum (miðgildi eftirfylgni 70 mán.).

Ályktanir: Á 24ra ára tímabili greindust hér á landi 46 tilfelli æxlisvaxtar með uppruna í fleiðru. Fjórðungur þeirra voru staðbundin SFTP æxli sem í öllum tilvikum sýndu af sér góðkynja klíníska hegðun og vefjagerð. Þótt um sé að ræða litla rannsókn og fá tilfelli er þetta fyrsta lýðgrundaða rannsóknin sem vitað er um á SFTP og gefur hún nýgengið á þessum sjaldgæfa sjúkdómi.

 

V-02 Þrívíddarlíkan af mjúkvefjaæxli í hnésbót og nærliggjandi vefjum

Eyþór Örn Jónsson, Paolo Garguilo, Hildur Einarsdóttir, Halldór Jónsson jr

eythororn@gmail.is

 

Tilgangur: Tilgangur verkefnisins var að skapa þrívíddarlíkan af mjúkvefjaæxli í hnésbót ásamt nærliggjandi vefjum og meta hvort líkanið gagnaðist við undirbúning á brottnámi æxlisins.

Efniviður og aðferðir: Sjúklingurinn er áður hraustur 41 árs gamall karlmaður sem gekkst undir segulómskoðun vegna verkja í hné og greindist þá með mjúkvefjaæxli djúpt í hnésbótinni. Hefðbundnar segulómmyndir eru of grófar til að gera þrívíddarlíkön út frá og því var gerð sérstök segulómskoðun með þynnri og þéttari sneiðum. Út frá þeirri rannsókn voru vefir hnésbótarinnar einangraðir og endurbyggðir með myndvinnsluforritinu MIMICS (útgáfa 11.11).

Niðurstöður:Vel gekk að einangra og endurbyggja þá vefi í hnésbótinni sem skiptu máli með tilliti til brottnáms á æxlinu; lærbein, vöðva, æðar og taugar. Í MIMICS er hægt að skoða þrívíddarlíkanið út frá öllum sjónarhornum og birta og fjarlægja mismunandi vefi að vild. Einnig var gert haldbært gipsmódel. Við aðgerðina kom í ljós að líkanið spáði mjög vel fyrir um legu æxlisins og kringliggjandi líffæri.

Ályktun: Þrívíddarlíkön hafa reynst gagnleg við undirbúning ýmissa aðgerða, meðal annars á beinum. Líkangerð af mjúkvefjaæxlum er erfiðari og þau hafa ekki náð mikilli útbreiðslu. Þau gætu hins vegar verið gagnleg viðbót við hefðbundna myndgreiningu til undirbúnings aðgerða á krefjandi svæðum þar sem sem mjúkvefir koma við sögu, svo sem í hnésbótinni. Þrívíddarlíkön sýna afstöðu vefja með skýrum hætti og það er fljótlegra og auðveldara að átta sig á þeim heldur en hefðbundinni tvívíðri framsetningu á myndgreininargögnum. Reynslan sem fékkst með gerð þessa þrívíddarlíkans lofar góðu og þrívíddarlíkön af mjúkvefjum geta án efa nýst í öðrum sérgreinum.

 

V-03 Sjálfsprottið loftbrjóst báðum megin samtímis vegna lungnameinvarpa eistnakrabbameins. - Sjúkratilfelli af Landspítala

Gígja Guðbrandsdóttir, Ásgerður Sverrisdóttir, Adolf Þráinsson, Guðmundur Vikar Einarsson1, Tómas Guðbjartsson

gigjag@hotmail.com

 

Inngangur: Sjálfsprottið loftbrjóst er algengur sjúkdómur sem í 2-4% tilvika getur greinst báðum megin samtímis (simultaneous bilateral spontaneous pneumothorax, SBPS). Er þá oftast um lífshættulegt ástand að ræða, enda langflestir þessara sjúklinga með króníska lungnasjúkdóma, t.d. lungnaþembu og herpusjúkdóma. Í einstaka tilfellum getur SBPS greinst í sjúklingum með aðra sjúkdóma í lungum, oftast krabbamein. Hér er lýst ungum manni með SBSP vegna lungnameinvarpa eistnakrabbameins.

Tilfelli: 18 ára karlmaður leitaði á bráðamóttöku Landspítala með tveggja daga sögu um mæði og brjóstverk. Hann hafði aldrei reykt en sex mánuðum áður hafði hann greinst með eistnakrabbamein (non-seminoma) með meinvörpum í heila, augum, aftanskinurými og báðum lungum. Hægra eista var fjarlægt og gefin lyfjameðferð með bleomycin, etoposíð og cisplatin. Sjúkdómurinn í lungum svaraði meðferð mjög vel. Fjórum mánuðum síðar voru merki um stækkun meinvarpa í heila og var þá lyfjameðferð breytt í etoposíð, ifosfamide auk cisplatins. Þar að auki var beitt tveggja mánaða geislameðferð á höfuð og háskammta sterameðferð (prednisólon) sem hann hafði nýlokið við þegar hann kom á bráðamóttöku. Þar var hann einkennalítill í hvíld, cushingoid, með öndunartíðni 28, SO2 97% án súrefnis, BÞ 136/86 og púls 120. Öndunarhljóð voru minnkuð beggja vegna og á lungnamynd og TS af lungum sást loftbrjóst beggja vegna, með 48% samfalli á hægra lunga og 51% á því vinstra. Komið var fyrir brjóstholskera beggja vegna og tveimur dögum síðar, þegar loftleki hafði stöðvast, var gerð fleiðruerting (pleurodesis) með mepacrine (alls 4 skammtar hvoru megin á fjórum dögum) sem hann þoldi vel. Einkenni gengu til baka, brjóstholkerar voru fjarlægðir tveimur dögum síðar og síðan hafin ný lyfjameðferð. Stuttu eftir útskrift greindust lifrarmeinvörp og heilameinvörpin reyndust stækkandi. Lést hann úr þeim tæpum tveimur mánuðum síðar.

Umræða: SBPS getur greinst hjá sjúklingum með lungnameinvörp eistnakrabbameins. Um er að ræða afar sjaldgæft fyrirbæri og er orsök loftlekans talin blæðing inn í meinvarp aðlægt fleiðru eða drep, t.d. eftir krabbameinslyfjameðferð. Athyglisvert er hversu lítil einkenni þessi sjúklingur hafði í hvíld, jafnvel þótt stór hluti beggja lungna væri samanfallinn.

 

V-04 Risablaðra í lunga læknuð með skurðaðgerð

Hilmir Ásgeirsson, Dóra Lúðvíksdóttir, Ólafur Kjartansson, Tómas Guðbjartsson

hilmirasg@yahoo.com

 

Inngangur: Risablaðra í lungum (giant bulla) er loftfyllt rými sem nær yfir >1/3 lungans. Þetta er sjaldgæft fyrirbæri og orsökin eyðing og þensla á lungnavef líkt og sést í lungna­þembu. Í blöðrunum er lítið loftflæði og taka þær lítinn þátt í lofskiptum. Með vaxandi stærð blöðrunnar finna sjúklingar fyrir mæði og hætta á fylgikvillum eins og blæðingum, sýkingum og loftbrjósti eykst. Því getur þurft að fjarlægja risablöðrur með skurðaðgerð. Hér er lýst slíku tilfelli sem greindist á Landspítala.

Tilfelli: 49 ára stórreykingamaður var greindur á lungnamynd með risastóra blöðru í hægra lunga. Hann hafði 3ja mánaða sögu um endurteknar efri loftvegasýkingar, þurran hósta og vaxandi mæði. Hann var áður hraustur og hafði ekki fyrri sögu um lungna­sjúkdóma. Á TS sást að blaðran var 17 cm í þvermál, staðsett í neðra blaði þar sem hún þrýsti á efra og miðblað. Einnig sáust minni blöðrur miðlægt í efra blaði en vinstra lunga var eðlilegt að sjá. Rúmmál risablöðrunnar mældist 3,1 L á sneiðmyndunum en heildarrúmmál blaðranna 3,2 L. Öndunarmæling sýndi talsverða herpu en þó með blandaðri mynd (tafla I). Með því að bera saman lungnarúmmálsmælingar með tveimur mismunandi aðferðum, þrýstingsaðferð (heildarlungnarúmmál) og þynningaraðferð (lungnarúmmál með virku loftflæði), var rúmmál blaðranna áætlað 2,9 L (tafla I). Vegna einkenna sjúklings og stærðar blaðranna var ákveðið að taka sjúkling í aðgerð. Blöðrurnar í efra blaðinu voru fjarlægðar með fleygskurði (bullectomy) þar sem notast var við Goretex®-remsur til styrkingar á heftilínunni. Risablaðran var síðan fjarlægð í heild sinni með leifum neðra blaðs (e. lobectomy). Einnig var gerð fleiðrulíming með talkúmi til að fyrirbyggja loftleka. Bati eftir aðgerð var góður, kerar voru fjarlægðir á 3. degi og sjúklingur útskrifaður viku frá aðgerð. Fjórum mánuðum síðar er hann við góða heilsu og aftur kominn til vinnu. Öndunar­mælingar eftir aðgerð sýna verulega bætta öndunarstarfsemi (tafla I).

Umræða: Þetta tilfelli sýnir að hægt er að lækna risablöðrur í lunga með skurðaðgerð og að hægt er að mæla rúmmál blaðranna með myndgreiningarrannsóknum eða öndunar­mælingum.

 

 

 

V-05 Sjálfsprottið loftmiðmæti eftir iðkun jóga

Einar Hafberg, Gunnar Guðmundsson, Tómas Guðbjartsson

 

hafberg@gmail.com

 

Inngangur: Sjálfsprottið loftmiðmæti (e. spontanteous pneumomediastinum) er skilgreint sem óeðlileg loftsöfnun í miðmæti án augljóss orsakavalds (t.d. sýkingar eða áverka). Um er að ræða sjaldgæfan kvilla sem aðallega greinist í annars hraustum karlmönnum. Oftast þarf enga sérstaka meðferð og horfur eru ágætar. Hér er lýst einstæðu tilfelli af Landspítala.

Tilfelli: Áður hraustur 23 ára karlmaður leitaði á slysadeild Landspítala vegna brjóstverkja sem versnuðu við innöndun og komu skyndilega tæpum 10 klst. áður þegar hann var í svokölluðu Ashtanga-jóga. Var hann þá í bakfettu og andaði um leið í gegnum nefið með lokað spjaldbrjósk. Þetta kallast ujjayi-öndun og er eins konar afbrigði af svokallaðri valsalva-öndun. Hann var ekki veikindalegur að sjá við komu og lífsmörk voru eðlileg. Ekki sást loft undir húð og hlustun á lungum var eðlileg. Hins vegar heyrðust skruðningsóhljóð yfir hjarta en bæði hjartalínurit og -ómun reyndust eðlileg. Á röntgenmynd af lungum sást loft í miðmæti og loftrönd í hægri hluta gollurshúss. Verkirnir héldu áfram og 7 klst. eftir komu voru fengnar tölvusneiðmyndir af brjóst- og kviðarholi. Þar sást loftið í miðmætinu betur og umlukti það vélindað. Einnig sást loftrönd í gollurshúsi en ekki loftbrjóst eða merki um fleiðru- og/eða gollurshússvökva. Tæpum ½ sólarhring frá komu var gerð skuggaefnis­rannsókn af vélinda og maga sem var eðlileg. Smám saman rénaði verkurinn og sólarhring síðar var hann útskrifaður nánast verkjalaus. Skoðun þremur dögum síðar var eðlileg og röntgenmynd af lungum sýndi minna loft í miðmæti, sérstaklega vinstra megin. Rúmu hálfu ári frá þessu er hann við góða heilsu. Ekki hefur borið á endurteknum einkennum. Hann hefur haldið áfram iðkun jógaæfinga.

Umræða: Loftmiðmæti getur greinst án áverkasögu, jafnvel eftir iðkun jóga eins og í þessu tilviki. Slíku tilfelli hefur aðeins verið lýst einu sinni áður. Þetta tilfelli sýnir mikilvægi þess að rannsaka einstaklinga með brjóstverki ítarlega til að finna orsakir.

 

V-06 Taugslíðursæxli á þvagfæraskurðdeild 2002-2007

Jóhann Páll Ingimarsson Guðmundur Geirsson1, Guðjón Haraldsson1, Guðjón Birigisson2, Bjarni Torfason, Ingvar Hákon Ólafsson, Ágústa Andrésdóttir, Sigfús Nikulásson, Eiríkur Jónsson

 

johannpa@landspitali.is

 

Inngangur: Taugaslíðursæxli (schwannoma) við þvagvegi eru sjaldgæf og jafnan góðkynja æxli. Einkenni og myndrannsóknir eru ósértæk og æxlin oft innvaxin í taugar við greiningu. Tilgangur greinarinnar er að lýsa slíkum tilfellum á Íslandi, greiningu þeirra, meðferð og afdrifum.

Efniviður og aðferðir: Á Landspítala greindust fimm taugaslíðursæxli við þvagvegi á árunum 2002-2007. Gögn voru fengin úr sjúkraskrám.

Niðurstöður: Tveir sjúklinganna voru konur og þrír karlar, 26 til 52 ára. Tveir greindust vegna viðvarandi verkja, tveir fyrir tilviljun og einn vegna verkja við holdris. Nokkur töf var á greiningu þeirra þriggja sem höfðu einkenni. Beðið var með eina aðgerð vegna meðgöngu. Þrjú æxlanna voru aftan skinu (retroperitoneal), þar af eitt einnig vaxið upp í brjósthol aftan fleiðru. Eitt æxli fannst í lim og eitt í sáðstreng (funiculus). Enginn sjúklinganna hafði von Recklinghausen sjúkdóm eða aðra þekkta taugasjúkdóma. Öll æxli voru kortlögð með tölvu­sneiðmynd og segulómun. Eitt var fjarlægt um kviðsjá en hin í opinni aðgerð. Í öllum tilvikum náðist að fjarlægja allan æxlisvöxt. Í fjórum tilvikum var komist hjá stórsæjum skaða á taug-um. Æxlin voru 1-8 cm og reyndust öll góðkynja. Sjúklingurinn með æxlið aftan fleiðru fékk loftbrjóst í kjölfar aðgerðar, en ekki voru aðrir snemmkomnir fylgikvillar við aðgerðir. Einu til fimm árum frá aðgerð eru allir sjúklingar á lífi án endurkomu á æxli. Tveir hafa langvinn taugaeinkenni, einn tilfinningarglöp (paresthesia) á skynsvæði fyrstu spjald­hryggstaugar og annar viðvarandi verki í aðgerðaröri.

Umræða: Æxli aftan skinu eru algengustu taugaslíðursæxli við þvagvegi. Skammtíma­horfur af meðferð á Landspítala eru góðar, en fylgikvillar frá taugum til staðar. Ekki hefur áður verið lýst taugaslíðursæxli sem orsök verkja við holdris.

 

 

 

 

V-07 Tjáning próteina í nýrnakrabbameini og eðlilegum nýrnavef skoðuð með örflögutækni

 

Hrefna Guðmundsdóttir, Fjóla Haraldsdóttir, Eiríkur Jónsson, Guðmundur Vikar Einarsson, Rósa Björk Barkardóttir, Tómas Guðbjartsson,Sverrir Harðarson, Vigdís Pétursdóttir

 

hrefnag@landspitali.is

 

Inngangur: Tíðni nýrnafrumukrabbameins hefur vaxið undanfarin ár, að hluta vegna bættra greiningaraðferða. Greinast nú fleiri sjúklingar á fyrri stigum sjúkdómsins, en dánartíðni hefur þó haldist tiltölulega óbreytt. Tilgangur rannsóknarinnar var að leita að mismunatjáðum próteinum í nýrnafrumukrabbameini og bera saman við eðlilegan nýrnavef.

Efniviður og aðferðir: Vefjasýni 48 sjúklinga með tærfrumugerð nýrnafrumukrabbameins voru fengin frá lífsýnasafni rannsóknarstofu í meinafræði. Vefjasneiðar úr hverju sýni voru smásjárskoðaðar og aðlægar sneiðar leystar upp í urea og CHAPS-lausn til próteingreiningar. Sýni voru slembiröðuð og tvíkeyrð á CM10 flögu (neikvætt hlaðið yfirborð, BioRad Inc.). Próteintjáning var greind með SELDI örflögutækni (Surface Enhance Lazer Desorption/ Ionization) og skoðuð með CiphergenExpressClient forriti (Ciphergen Inc.). Tjáning á próteinum í nýrnafrumukrabbameini og eðlilegum vef var borin saman með Mann Whitney prófi og var núll-tilgátan sú að ekki væri munur á tjáningu í vefjunum tveimur.

Niðurstöður: Samtals fengust 71 sýni frá 48 einstaklingum. Alls voru 59 sýni úr krabbameinsvef og 40 þeirra frá æxlum sem voru stærri en 7 cm (T2). Tólf sýni fengust frá eðlilegum vef. Þegar borin var saman próteintjáning milli eðlilegs nýrnavefs og tærfrumu­krabbameins fundust 46 mismunatjáð prótein þar sem munurinn var marktækur upp á p-gildi <0,05, þar af 13 prótein mismunatjáð með p-gildi <0,001.

Ályktun: SELDI örflögutækni hentar vel til að skoða prótein-tjáningu úr nýrnavef, bæði á tærfrumukrabbameini og eðlilegum nýrnavef. Fjöldi próteina aðgreinir eðlilegan nýrnavef og tærfrumukrabbamein og má hugsanlega nota slík prótein í framtíðinni sem æxlismerki (tumor marker).

 

V-08 Ígræðsla á nýrnahluta (autotransplantation) vegna nýrnakrabbameins í báðum nýrum

Bjarni G. Viðarsson, Jón Guðmundsson, Ólafur S. Indriðason, Eiríkur Jónsson

 

bjarnigv@landspitali.is

 

Inngangur: Hlutabrottnám á nýra er viðurkennd aðgerð vegna nýrnakrabbameins. Sérstaklega á hún við ef til staðar er minnkuð starfsemi eða vöntun á gagnstæðu nýra. Forsenda slíkrar meðferðar eru krabbameinsfríar skurðbrúnir. Ef erfitt reynist að fram­kvæma slíkt hlutabrottnám, á nýrnastaðnum, kemur til greina að fjarlægja allt nýrað, kæla niður og framkvæma hlutabrottnámið á hliðarborði.

Tilfelli: 55 ára kona greinist, í kjölfar gallblöðrubólgu, með æxli í báðum nýrum. Ekki merki um meinvörp. Þar sem æxlin lágu miðlægt í báðum nýrum var ákveðið að fjarlægja og kæla hægra nýrað og framkvæma hlutabrottnám á hliðarborði.

Niðurstaða: Heilbrigður efri hluti nýrans var græddur í grindarholsæðar og nýrnaskjóða tengd beint við þvagblöðru. Í kjölfarið var vinstra nýrað fjarlægt. Slagæða-bláæðafistill kom fram í ígrædda nýrnahlutanum sem var stíflaður með gormi í æðaþræðingu. Fjórum mánuð­um eftir aðgerð er konan við góða heilsu, án krabbameinsmerkja, með væga kreatinin­hækkun.

Umræða: Lýst er fyrsta autotransplantation nýrnahluta á Íslandi. Aðgerðin leiddi til varð­veislu á nýrnastarfsemi og forðaði viðkomandi frá tafarlausri blóðskilunarmeðferð. Þá tókst með æðaþræðingu að meðhöndla alvarlegan fylgikvilla aðgerðarinnar.

 

V-09 Broddþensluheilkenni. - Sjúkratilfelli

Björn Gunnarsson, Gunnar Þór Gunnarsson, Sigurður E. Sigurðsson, Þórir Svavar Sigmunds­son, Jón Þór Sverrisson

 

bjorngun@fsa.is

 

Sjúkratilfelli: 68 ára gömul kona var lögð inn á sjúkrahús vegna slappleika. Hún hafði neytt áfengis í óhófi og ekki farið fram úr rúmi í margar vikur. Verulega slöpp við komu en ekki bráðveik að sjá. EKG við komu sýndi gáttatif, 120-130/mín. TnT mældist <0,01 µg/mL (0.0-0.1). Sjúklingur hefur háþrýsting, þvagsýrugigt, þunglyndi og áfengissýki. Meðferð fólst í áframhaldandi gjöf B-blokkara. Eftir tæplega sólarhrings sjúkrahúslegu fór hún skyndlega í sleglahraðtakt (Torsade de pointes). Skömmu eftir að grunnendurlífgun hófst fór hún í hægan sínus takt, en nokkrum mínútum síðar í sleglaflökt sem svaraði rafmeðferð. Blóðþrýstingur mældist 70/50 mmHg. Hjartalínurit sýndi sínus takt 65/mín, 1 gráðu AV blokk, lágspennt rit með Q tökkum í V1 og V2, QTc 528ms. Aðeins kom fram mjög væg hækkun á hjartaensímum. Ómskoðun af hjarta var framkvæmd.

Umræða: Við teljum að hér sé um að ræða tilfelli af broddþensluheilkenni (Takotsubo cardiomyopathy, transient LV apical ballooning syndrome, stress-induced cardiomyopathy). Meingerð þessa ástands er flókin. Heilkennið sést oftast hjá konum eftir tíðahvörf, mögulega vegna áhrifa kynhormóna á samspil sjálfvirka taugakerfisins og innkirtlakerfisins. Kynhormónar kunna einnig að hafa áhrif á tilhneigingu kransæða til að dragast saman og konum virðist hættara við myocardial stunning af völdum áreitis frá semjuhluta sjálfvirka taugakerfisins. Breytingar á starfi innanþekju vegna lækkunar á estrógenum gætu haft sitt að segja. Aðrar orsakir kunna að vera meðvirkandi í þessu tilfelli, s.s. hjartakvilli vegna áfengisneyslu, hraðtakts eða blóðþurrðar. Ekki er búið að framkvæma hjartaþræðingu. Sjúklingur var meðhöndlaður með levosimendan í tvo sólarhringa og dóbútamíni í þrjá sólarhringa. Magnesíum og kalíum var gefið í æð og bar ekki á frekari hjartsláttaróreglu. Tveimur sólarhringum eftir hjartastoppið var ástand vinstri slegils orðið mun betra.

 

V-10 Ósæðarflysjun - sjúkratilfelli

 

Þórir Svavar Sigmundsson, Bjarni Torfason, Björn Gunnarsson

 

thorirs@fsa.is

 

Sjúkrasaga: 29 ára heilsuhraustur karlmaður kom á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri með bráðan svæsinn brjóstverk sem leiddi niður bak og vinstri ganglim. Blóðþrýstingur mældist 158/69 í hægri upphandlegg og púls 59 slög/mín. Púls þreifaðist ekki í vinstri fæti og var alger flæðisskerðing staðfest með doppler. Tölvusneiðmynd sýndi Stanford A flysjun frá ósæðarrót niður í mjaðmaslagæðar. Blóðþrýstingur hækkaði verulega (250/67) en með gjöfhemlandi og æðavíkkandi lyfja náðist góð blóðþrýstingsstjórn. Þremur klst. eftir komu var sjúklingur fluttur á Landspítala til bráðaaðgerðar. Við aðgerð kom í ljós að flysjunin náði inn í gollurshús og niður í tvíblaða ósæðaloku sem lak heiftar­lega. Gerð var umfangsmikil lokusparandi ósæðaraðgerð með gerviæð og blóðflæði til líffæra komst þá í eðlilegt horf. Sjúklingur er að ljúka endurhæfingu og farnast vel.

Umræða: Ósæðarflysjun orsakast af rofi á æðaþeli ósæðar. Blóð brýtur sér leið gegnum miðhjúp æðarinnar, mislangt í báðar áttir. Við það myndast nýtt falskt holrúm sem þrengir að hinu rétta holrúmi. Í versta tilviki flysjast öll ósæðin eins og í þessu tilfelli. B-hemlandi lyf eru talin kjörmeðferð ef blóðþrýstingur er hár þar sem þau minnka útflæði hjarta og þar af leiðandi skerspennu (e. shear stress) á veiklaða ósæð. Nítróprússíð og nítróglýserín dreypi er notuð til viðbótar ef viðunandi blóðþrýstingsstjórn (?=<100-120 mmHg í efri mörkum) næst ekki. Vísindalegur grunnur fyrir notkun æðavíkkandi lyfja í ósæðarflysjun er ekki gagnreyndur. Við teljum mögulegt að lyf sem minnka viðnám slagæðlinga geti verið skaðleg á þann hátt að meiri þrýstingsfallandi yfir svæði með flysjun leiði til hraðara flæðis og æðaþelsflipi sogist þá inn og þrengi eða loki rétta holrými æðarinnar (Venturi áhrif).

Um 7% þeirra sem fá ósæðarflysjun eru =<40 ára og 68% þeirra eru með Stanford A. Dánartíðni er 1-2% á klst. eftir upphaf einkenna ef ómeðhöndlað og 10% innan 24 klst. þrátt fyrir skurðaðgerð. Yngri einstaklingar hafa síður háþrýsting við komu og eru líklegri til að hafa tvíblöðku ósæðarloku eða bandvefssjúkdóm sem veikir miðhjúp ósæðar. Nákvæm greining, örugg blóðþrýstingsstjórnun og hraður flutningur á hjarta- og lungnaskurðdeild er forsenda góðrar útkomu.

 

V-11 Æsavöxtur (acromegaly) vegna villiframleiðslu á vaxtarhormónakveikju frá krabbalíki í lunga. - Sjúkratilfelli

Páll S. Pálsson, Ari Jóhannesson, Tómas Guðbjartsson

pallpals@landspitali.is

 

Inngangur: Æsavöxtur stafar langoftast af offramleiðslu vaxtarhormóns (VH) frá góð­kynja æxli í heiladingli. Í einstaka tilvikum (<1%) getur æxli annars staðar í líkamanum, t.d. ?briseyjaæxli eða krabbalíki í lungum, orsakað æsavöxt með framleiðslu á vaxtarhormóna­kveikju (growth hormone releasing hormone, GHRH). Hér er lýst einu slíku tilfelli.

Tilfelli: 42ja ára kona greindist fyrir tilviljun með 7 cm stórt æxli miðlægt í hægra lunga. Hún hafði aldrei reykt eða kennt sér meins frá lungum. Tveimur árum áður hafði greinst hjá henni hnútur í skjaldkirtli með vægri skjaldvakaofseytingu (subclinical thyrotoxicosis). Hálfu ári síðar greindi einn höfunda (AJ) hjá henni æsavöxt. Segulómun sýndi vægt stækkaðan heiladingul og IGF-1 mældist langt yfir efri mörkum. Hafin var meðferð með lanreótíð og síðar einnig með cabergolin. Rúmu ári eftir að meðferð hófst var fyrirhuguð aðgerð á heiladingli en fyrir þá aðgerð var tekin lungnamynd sem sýndi áðurnefnt æxli. Gerð var ástunga á æxlinu og kom í ljós dæmigert krabbalíki án illkynja frumna. Í skurðaðgerð var æxlið fjarlægt ásamt mið- og neðra lungnablaði, og voru skurðbrúnir hreinar og eitilmein­vörp ekki til staðar. Gangur eftir aðgerð var góður og var sjúklingur út-skrifaður viku eftir aðgerð. Sermisgildi vaxtarhormónakveikju var 82 pg/ml (viðmiðunargildi 5-18 pg/ml) fyrir aðgerð, en 24 pg/ml nokkrum dögum eftir aðgerð. Tæpum 5 mánuðum síðar er konan við góða heilsu og einkenni æsivaxtar hafa að hluta til gengið til baka. S-VH gildi hafa lækkað úr 21,4ng/ml í 0,8ng/ml (viðmiðunargildi 0,5?5 ng/ml) og IGF-1 er nú eðlilegt.

Umræða: Þetta tilfelli sýnir að æxli utan heiladinguls geta framleitt vaxtarhormónakveikju og valdið æsavexti. Um afar sjaldgæft fyrirbæri er að ræða og aðeins nokkrum tugum tilfella hefur áður verið lýst. Hjá sjúklingum með æsavöxt er mikilvægt að hafa krabbalíki í lungum í huga, sérstaklega ef niðurstöður myndgreiningarrannsókna á heiladingli eru ekki afgerandi, og útiloka slík æxli með rannsóknum á lunga.

 

V-12 Rúmmálstilfærsla og geirvörtuuppbygging við miðlæga brjósta­krabbameinshnúta: Aðferðir og snemmkominn árangur 

Eyrún Valsdóttir, Höskuldur Kristvinsson, Þorvaldur Jónsson, Kristján Skúli Ásgeirsson

 

eyrunv@hotmail.com

 

Bakgrunnur: Þekkt er að það getur verið tæknilega erfitt að fjarlægja miðlæga brjósta­krabbameinshnúta með fleygskurði án þess að valda verulegu lýti á brjóstinu. Vegna þessa, er brottnám oft ráðlagt. Með notkun aðferða sem byggja að grunni til á brjóstaminnkun og miða að rúmmálstilfærslu á brjóstvef, má auka vægi fleygskurða í skurðmeðferð þessara sjúklinga.

Efni og aðferðir/niðurstöður: Á veggspjaldi verður fórum tilfellum lýst þar sem þessum aðferðum hefur verið beitt á skurðdeild Landspítala á tímabilinu september 2007 til febrúar 2008. Meðalaldur sjúklinganna var 46 ár (30-60) og allar áður heilsuhraustar. Allar fóru í segulómskoðun fyrir aðgerð og var meðalstærð krabbameinshnútanna 2,15 cm í mesta þvermál (1,8-2,7 cm). Tvær konur reyndust vera með eitlajákvæðan sjúkdóm. Allar nema ein gengust undir brjóstaminnkun á brjóstinu sem ekki var með krabbamein. Meðalþyngd fleyg­skurðanna 170,5 g (74-294 g). Þrjár fengu uppbyggingu á geirvörtu í sömu aðgerð. Þrjár voru með æxlisfríar skurðbrúnir, en ein reyndist vera með fjöluppsprettu ífarandi ductal krabbamein og forstigsbreytingar (DCIS) og gekkst hún eina af þessum fjórum undir heil­brjóstabrottnám eftir aðra tilraun til útvíkkunar á fleygskurði. Tvær fengu afmarkað brjóst­fitudrep sem meðhöndlað var án aðgerðar. Í veggspjaldinu verður tilfellum þessum nánar lýst myndrænt og í töfluformi, auk þess sem niðurstöður úr hlutlausu mati á útlitsútkomum birtar.

Ályktun: Aðferðirnar sem verður lýst sýna að hægt er að ná góðum snemmkomnum árangri í skurðmeðferð sjúklinga með miðlæga brjóstakrabbameinshnúta og geta þær hlíft sumum við brjóstabrottnámi. Erlendar rannsóknir sýna að síðkominn árangur er einnig góður, bæði hvað varðar staðbundnar endurkomur og útlitslegar. Ekki er hægt að segja til um þessar útkomur hjá okkar sjúklingum, enda eftirfylgnitíminn stuttur.

 

V-13 Árangur skurðaðgerða við miðblaðsheilkenni

Jón Þorkell Einarsson, Jónas G. Einarsson, Helgi J. Ísaksson, Gunnar Guðmundsson, Tómas Guðbjartsson

 

jonthorkell@gmail.com

 

Inngangur: Miðblaðsheilkenni (MLS) er tiltölulega sjaldgæft sjúkdómsástand sem einkennist af endurteknu og/eða viðvarandi samfalli á miðblaði hægra lunga. Einkenni tengjast endurteknum lungnasýkingum þar sem hósti, uppgangur, takverkur og mæði eru algengust. Oftast dugar lyfjameðferð en þegar hún gerir það ekki til er gripið til skurð­aðgerðar. Tilgangur þessarar afturskyggnu rannsóknar var að kanna árangur þessara skurð­aðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin nær til allra sjúklinga sem gengust undir brottnám á miðblaði vegna miðblaðsheilkennis á Íslandi 1984-2006. Alls greindust 16 einstaklingar, 3 karla og 13 konur, meðalaldur 53 ár (bil 2-86 ár). Sjúklingar fundust með leit í gagnagrunni meinafræðideildar Landspítala og í greiningar-skrám sjúkrahúsa. Klínískar upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og gögnum frá stofum lungnalækna. Skráðar voru ábendingar fyrir aðgerð, fylgikvillar í og eftir aðgerð og skurðdauði (<30 d.). Einnig voru könnuð afdrif sjúklinganna og reiknaðar lífshorfur (hráar) í mánuðum en útreikningar miðast við 31. desember 2007 og var meðaleftirfylgni 81 mánuðir.

Niðurstöður: Aðgerðirnar tóku að meðaltali 86 mín. (bil 40-215 mín). Alls greindust tveir sjúklingar (12,5%) með fylgikvilla í aðgerð en í báðum tilvikum var um blæðingar að ræða. Hjá 5 (31%) sjúklingum greindust fylgikvillar eftir aðgerð, viðvarandi loftleki (>72 klst.) hjá tveimur og sá þriðji með samfall í neðra lungnablaði. Í einu tilfelli þurfti enduraðgerð vegna blæðingar og loftleka. Allir sjúklingarnir lifðu af aðgerðina og útskrifuðust heim, en miðgildi legutíma voru 9 dagar (bil 5-37 d.). Í dag eru 13 af sjúklingunum á lífi en enginn hefur látist úr lungnasjúkdómi eða sjúkdómi sem tengist aðgerðinni. Fimm ára sjúkdómsfríar lífshorfur eru því 100% og 94% og 81% sjúklinga eru á lífi 5 og 10 árum frá aðgerð. Enginn sjúkling­anna hefur þurft endurinnlögn eftir aðgerð vegna fylgikvilla sem tengjast MLS.

Ályktanir: Brottnám á miðblaði er örugg meðferð við miðblaðsheilkenni og fylgikvillar eftir aðgerð oftast minniháttar. Enda þótt efniviður í þessari rannsókn sé lítill og samanburðarhópur ekki til staðar, þá virðast flestir af sjúklingunum ná bót á ein-kennum sínum eftir að miðblaðið er fjarlægt og langtímalífs-horfur eru ágætar.

 

V-14 Notkun gervilunga við alvarlegri öndunarbilun á grunni lungnablæðinga vegna smáæðabólgu

Unnur Guðjónsdóttir, Guðmundur Klemenzson, Runólfur Pálsson, Bjarni Torfason, Aðalbjörn Þorsteinsson

 

unnurg@hotmail.com

 

Inngangur: Notkun gervilunga við alvarlegri öndunarbilun hjá fullorðnum fer vaxandi. Ávinningur var lengi vel óviss. Betri tækjabúnaður og markvissari ábendingar hafa bætt árangur meðferðar. Við greinum frá 19 ára gamalli stúlku með dreifðar blæðingar í lungum af völdum ANCA (anti-neutrophilic cytoplasmic antibody) jákvæðrar smáæðabólgu sem meðhöndluð var með góðum árangri.

Tilfelli: Nítján ára stúlka með tveggja vikna sögu um hita, slappleika og útbrot auk loftvegaeinkenna. Versnar snögglega innlagnardag með aukinni mæði og blóðhósta. Við komu er slagæðamettun (SaO2) 94% og hlutþrýstingur súrefnis í slagæðablóði (PaO2) 71 mmHg með 15 L O2 í sarpmaska. Dreifðar íferðir í lungum á röntgenmynd. Þvagskoðun sýnir merki um gauklablóðmigu. Öndunarbilunin versnar hratt og komin á hátíðni­öndunarvél 5 tímum eftir komu. Þrátt fyrir það er hlutfall PaO2 á móti hlutfalli súrefnis í innöndunarlofti (PaO2/FIO2) =86. Nær hvít lungu á röntgenmynd. Próf fyrir ANCA jákvætt og hafin innleiðslumeðferð gegn smáæðabólgu með blóðvökva-skiptum auk barkstera og cýklófosfamíðs í æð. Þremur dögum síðar er PaO2/FIO2 ?50 og ákveðið að tengja sjúkling við gervilunga (bláæð-bláæð). Notað var heparín-húðað kerfi og reynt að halda virkum storkutíma (ACT) 160-200 sek. með smáskammta-heparíni. Fer strax upp í PaO2/FIO2 60 og SaO2 100%. Greiðlega gekk að draga úr þrýstingsstuðningi og tveimur dögum síðar dugði hefðbundin öndunarvél. Gervilungameðferð stöðvuð eftir 8 daga og rúmum sólarhring síðar var sjúklingur komin af öndunarvél. Fjórum mánuðum síðar er lungna­starfsemi orðin svo til eðlileg.

Umræða: Til þessa hefur lungnablæðing verið talin frábending gervilungameðferðar vegna blóðþynningar sem óhjákvæmilega fylgir. Við héldum blóðþynningu í lágmarki og ekki varð vart við auknar blæðingar. Mögulega hefur minni þrýstingsstuðningur á öndunar­vél hindrað frekari skemmdir á lungunum og þannig minnkað blæðingar.

 

V-15 Bráðaflokkun og áverkamat

Brynjólfur Mogensen, Haraldur Briem

 

brynmog@landspitali.is

 

Inngangur: Í slysum, hópveikindum, hryðjuverkum, stríði og hamförum eru skjót og markviss viðbrögð samfélagsins nauðsynleg þegar margir slasast eða veikjast. Það verður m.a. að bráðaflokka hina slösuðu eða veiku og gera nánara áverkamat ef nauðsyn krefur. Líflæknir Napóleons, Baron Dominique Jean Larrey, innleiddi bráðaflokkunina til þess að flokka þá sem voru lítið slasaðir frá þeim sem voru mikið særðir. Markmiðið var að koma lítið særðum sem fyrst aftur á vígvöllinn. Bráðaflokkunin hefur síðan verið í stöðugri þróun. Flokkunarkerfið fyrir slasaða og veika verður að vera heildstætt, einfalt, fljótlegt og áreiðan­legt. Sérmerkingar eru nauðsynlegar fyrir eiturefni, smithættu og geislun m.a. til að fyrir­byggja smitun, auðvelda hreinsun og bæta meðferð. Markmiðið í dag er að koma þeim sem hafa mestu áverkana sem fyrst í meðferð til þess að auka lifun og minnka örkuml.

Efniviður og aðferðir: Undanfarin misseri hefur verið unnið að því að taka í notkun einfalt en áreiðanlegt bráðaflokkunarkerfi fyrir slasaða á Íslandi sem heilbrigðisstarfsmenn og aðrir vel þjálfaðir geta notað þegar á reynir. Á vettvangi eru viðmiðin í bráðaflokkun: Göngugeta, öndun, öndunartíðni, púls og meðvitund.

Læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraflutningsaðilar, lögregla og björgunarsveitir eiga að geta framkvæmt bráðaflokkunina. Á söfnunarsvæði slasaðra er áverkamatið nákvæmara og byggir m.a. á Glasgow coma scale, öndunartíðni og blóðþrýstingi ásamt nákvæmri líkamsskoðun. Læknar og hjúkrunarfræðingar gera yfirleitt áverkamatið. Sérmerkingar fyrir eiturefni, lífrænt eitur eða sýklavá og geislun eru hluti af bráðaflokkuninni. Sérmerkingar eru eingöngu notað­ar ef grunur er um slíka vá.

Umræða: Í endurskipulagningu á bráðaflokkun vegna slysa, hópveikinda hryðjuverka, stríðs og hamfara er m.a. verið að taka í notkun nýja bráðaflokkun, áverkamat og sérmerkingar vegna eiturefna, smithættu og geislun. Matið á hinum slösuðu á að taka skamman tíma. Þjónustan við hina slösuðu verður markvissari og áreiðanlegri. Bráðaflokkun er líka hægt að nota dagsdaglega þótt um fá slasaða sé að ræða. Bráðaflokkunarkerfið verður tekið í notkun á vormánuðum 2008.

 

V-16 Serum-lipid predictors of hemodynamic instability after noncoronary heart surgery with cardiopulmonary bypass

Petru Liuba, Tomas Gudbjartsson, Sune Johansson

tomasgud@landspitali.is

 

Background: Hemodynamic instability in the early postoperative phase after open heart surgery is related to the use of cardiopulmonary bypass (CPB) and often leads to increased morbidity. We assessed the relationship between pre-operative inflammatory lipids and arterial endothelial phenotypes and hemodynamic instability following CPB surgery.

Material and methods: Plasma high-sensitivity C-reactive protein (CRP), fibrinogen, troponin T (TnT), high-density lipoprotein (HDL) and total cholesterol (TC) were measured before, 4-6 hr and 48 hr after CPB surgery in 22 patients (mean age 28±5 yrs.) with congenital or acquired cardiovascular disease. Systemic arterial endothelial-dependent and independent vaso- ?motor function was assessed preoperatively and 4-6 hr after surgery by measuring flow-mediated dilatation (FMD) and nitroglycerine-induced dilatation of brachial artery. Occurrence of drug-requiring systemic hypertension (HT) was followed for the first 12 hrs after surgery and supraventricular tachyarrhythmia (TA) monitored until discharge.

Results: Preoperative HDL:TC ratio was lower in patients with TA and HT (n=9) compared to those without, irrespective of age, CRP, and BMI (p=0.008 by ANCOVA), and with a significant level of prediction by univariate logistic regression (odds ratio 5.1, p=0.02). Preoperative CRP showed no relation to postoperative complications (p=0.27). CRP increased stepwise after surgery with a significantly higher peak at 48 hr in patients with TA and HT than in those without (212±33 versus 140±15 mg/l; p=0.01 after adjustment for age, BMI, and preoperative HDL:TC ratio). FMD dropped from 7.9 to 4.1% after surgery (p=0.01) but did not vary in relation to TA and HT. However, the postoperative FMD correlated weakly with the preoperative HDL:TC ratio (r=0.5, p=0.06). Postoperative TnT were similar in both groups (p>0.03).

Conclusion: In this relatively small prospective study, preoperative HDL:TC ratio seemed to predict clinically significant tachyarrhythmia and hypertension following open heart surgery with CPB, and to a lesser extent, the early post surgical drop in systemic arterial vasomotor function. Our findings lend support to the concept that dyslipidemia could potentially be an additional target in order to lower cardiovascular morbidity after open heart surgery with CPB.

 

V-17 Ennissléttuflipi (Glabellar Island Flap) eða vöðvahúðeyjarflipi sem þekja á nefhrygg

 

Sigurður E. Þorvaldsson

siggijona@simnet.is

 

Inngangur: 67 ára kona hafði gengist undir endursköpun nefbrodds með ennisflipa. Þó nefbroddur væri góður var áferð og útlit nefhryggs ófullnægjandi og gekkst konan undir frekari aðgerðir með svokölluðum eyjar-flipa.

Efniviður og aðferðir: Vöðvahúðeyja byggð eingöngu á augnkróksslagæð (arteria angularis a. facialis) var snúið niður á nefhrygg. Þessi flipi er sérstakur þar sem aðeins æðin tengir flipann við sjúklinginn engin húðtenging er til staðar. Flipinn var á neðri hluta ennis milli augnabrúna og losaður upp þannig að procerus vöðvinn (ennisfellir) var látinn hlífa æðinni en húð skorin alveg frá og flipa snúið 90 gráður. Þegar sýnt var að flipinn hefði nægjanlegt blóðflæði var öll húð á nefi fyrir ofan nefbrodd skorin í burtu og flipi saumaður niður. Flipinn tók vel en áberandi skil voru við nefbrodd og var því síðar gerð hlaupandi w-plastik. Þessar aðgerðir voru gerðar ambulant í Handlæknastöðinni.

Umræða: Þegar grædd er húð á nef þarf að huga að líkri áferð fluttrar húðar og anatomiskum einingum nefs. Húð sem líkust er húð á nefi er á neðri hluta ennissvæðis, þaðan er hægt að flytja flipa sem eingöngu hangir á einnri æð, augnkróksslagæð, án húðbryggju. McCarthy gerði árið 1985 grein fyrir blóðflæði til þessa svæðis í gegnum arteria facialis og endaæða hennar og tengingar við arteria angularis endaæð arteria opthalmica. Telliogulu flutti þennan flipa árið 2005 sem vöðvahúðeyjar-flipa og gerði grein fyrir 7 tilfellum.

Samantekt: Helstu kostir þessa flipa eru að hann hefur gott blóðflæði um öxulslagæð, er mjög hreyfanlegur þar sem eingöngu æð án nokkurar húðbryggju tengir flipann við sjúkling­inn og því hægt að fella hann vel inn í svæðið sem á að þekja. Þetta afbrigði ennisflipa er sjaldgæft og hér er sagt frá einu aðgerð þessarar tegundar sem vitað er um hér á landi.

 

V-18 Ábendingar og árangur meðferðar með ECMO-dælu á Íslandi 1991-2007

Þorsteinn H. Ástráðsson, Tómas Guðbjartsson, Bjarni Torfason, Líney Símonardóttir, Felix Valsson

thorstei@landspitali.is

 

Inngangur: ECMO-dæla (extracorporeal membrane oxygenation) hefur í rúma 3 áratugi verið eitt af meðferðarúrræðum við alvarlega öndunar- og/eða hjartabilun. Dælan er þá notuð til að "hvíla" lungu og/eða hjörtu sjúklinganna með því að veita blóði úr stórri bláæð í loftskiptatæki (gervilunga) og þaðan aftur í blá- eða slagæðakerfi sjúklings. Erlendis hefur góður árangur náðst í ECMO-meðferð nýbura en hjá fullorðnum eru ábendingar óljósari og árangur lakari. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna árangur ECMO-meðferðar hjá fullorðnum á Íslandi á árunum 1991-2007.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk og nær til allra tilfella þar sem ECMO hefur verið beitt hér á landi. Upplýsingar um sjúklinga fengust úr sjúkraskrám. ?

Niðurstöður: 16 sjúklingar (meðalaldur 38,4 ár, bil 14-73, 12 karlar) voru meðhöndlaðir frá 1991, flestir á árinu 2007 eða 8 talsins. Níu þessara sjúklinga voru með öndunarbilun (ARDS), oftast vegna lungnabólgu (n=4) og 7 höfðu hjartabilun, oftast vegna kransæðastíflu (n=4). Heildarlifun var 50%, 56% fyrir sjúkl. þar sem ábendingin var öndunarbilun og 43% fyrir hjartabilaða sjúkl. Af sjúkl. <45 ára lifðu 75% meðferðina en 25% sjúkl. ?45 ára. Allar 4 konurnar lifðu en 8 af 12 körlum létust. Meðaltími í öndunarvél áður en ECMO meðferð var beitt var 4,4 dagar fyrir allan hópinn (bil 0,5-18) og meðaltími á ECMO 12,3 dagar (bil 5-40). Sjúklingar með öndunarbilun sem lifðu af meðferðina voru 5,2 daga í öndunarvél samanborið við 9,8 daga hjá þeim sem ekki lifðu meðferðina. Tveir sjúklingar hlutu alvarlegar blæðingar sem að hluta til mátti rekja til blóðþynningar í tengslum við meðferðina. Annars tengdist dánarorsök þeirra sem létust undirliggjandi sjúkdómsástandi og var ekki rakin beint til ECMO meðferðarinnar.

Ályktun: Árangur af notkun ECMO-dælu á Íslandi telst vera góður og stenst vel erlendan samanburð. Helmingur sjúklinganna hér á landi lifir af meðferðina, svipað fyrir sjúklinga með hjarta- og lungnabilun. Yngri sjúklingum virðast farnast heldur betur og þeim sem eru stutt í öndunarvél áður en ECMO-dælumeðferð er hafin. Í öllum tilvikum var ECMO-dæla síðasta meðferðarúrræði og telja höfundar að án dælunnar hefðu þeir allir látist. Við teljum því að þessi meðferð hafi sannað sig hér á landi.

 

V-19 Kviðarholsháþrýstiheilkenni í kjölfar ECMO meðferðar eftir bráða ósæðarlokuskiptaaðgerð

Haraldur Már Guðnason, Guðjón Birgisson, Alma Möller, Kári Hreinsson, Helgi K. Sigurðsson, Tómas Guðbjartsson

harmagu@landspitali.is

Inngangur: Kviðarholsháþrýstiheilkenni (Abdominal Compart-ment Syndrome, ACS) er skilgreint sem kviðarholsþrýstingur >20 mmH2O og einkennist af skertu blóðflæði til hjarta, lungna og líffæra í kviðarholi. Heilkennið sést oft á gjörgæslu, sérstaklega hjá sjúklingum með kviðarholsáverka og eftir stórar kviðarholsaðgerðir. Í alvarlegum tilfellum er dánarhlutfall mjög hátt (>50%). Hér er greint frá tilfelli af alvarlegu ACS í kjölfar bráðrar hjartaaðgerðar.

Tilfelli: 46 ára kona með þekkta ósæðarlokuþrengingu kom á bráðamóttöku þar sem hún fór endurtekið í hjartastopp sem ekki svaraði rafstuði eða hjartahnoði. Hún var færð beint á skurðstofu, hjartað hnoðað beint og með aðstoð hjarta- og lungnavélar var skipt um ósæðarloku. Í aðgerðinni, sem tók 18 klst., var dæluvirkni hjartans afar léleg (stone heart) og varð því að hvíla hjartað með því að koma fyrir ECMO-dælu úr hægri gátt yfir í ósæð sjúklings. Nokkrum klst. eftir að ECMO-meðferð var hafin þandist kviður sjúklings upp og mældist þrýstingur í þvagblöðru 27 mmH2O. Kviðarholið var opnað og lækkaði þrýsting­urinn strax í eðlileg gildi. Kviðurinn var skilinn eftir opinn í sólarhring og síðan lokað með sárasogsvampi (VAC). ECMO-meðferðin tók alls 8 daga og fór sjúklingur í fjölkerfabilun þar sem blóðstorkuvandamál (DIC), nýrna-, lifrar- og öndunarbilun (ARDS) voru mest áberandi. Hún greindist einnig með sýklasótt og þurfti háa skammta af æðaherpandi lyfjum til að halda uppi blóðþrýstingi. Í kjölfarið greindist hjá henni drep í maga og görnum og þurfti að nema á brott þriðjung magans. Sárasogsvampi var beitt áfram og smám saman var hægt að draga saman opið á kviðarholinu. Fjölkerfabilun gekk til baka og útskrifaðist hún á legudeild eftir 108 daga á gjörgæslu. Heildarblæðing var 44 lítrar og hefur hún samtals gengist undir 38 skurðaðgerðir, flestar á kviðarholi. Fjórum mánuðum frá upphaflegu hjartaaðgerðinni er hún á góðum batavegi og innan skamms er fyrirhugað að loka kviðarholinu að fullu með skurðaðgerð.

Umræða: Kviðarholsháþrýstiheilkenni er lífshættulegt fyrirbæri sem mikilvægt er að hafa í huga hjá gjörgæslusjúklingum. Auðvelt er að greina það með þrýstimælingu í þvagblöðru og meðferð felst í að opna kviðarholið og létta þannig á þrýstingnum. Í þessu tilfelli voru orsakir heilkennisins sennilega margþættar, m.a. bjúgur í görnum vegna langrar hjartaaðgerðar og ECMO-meðferðar, mikil notkun æðaherpandi lyfja og blæðingar í aftanskinurými.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica