Ágrip Veggspjalda
V 1 Algengi og orsakir sjónskerðingar og blindu Íslendinga
50 ára og eldri – Augnrannsókn Reykjavíkur
Elín Gunnlaugsdóttir1,2, Ársæll Arnarsson2, Friðbert Jónasson1,2
1Læknadeild HÍ, 2augndeild Landspítala
elingun@landspitali.is
Inngangur: Skráning á sjónskerðingu og blindu fer fram á
Sjónstöð Íslands. Vitað er að sambærilegar stofnanir erlendis
vanskrá, þó einkum þá sem ekki eru með mestu sjónskerðinguna.
Síðasta íslenska rannsóknin þar sem notað var slembiúrtak til að
ákvarða ofannefnt er Austfjarðarannsóknin sem gerð var fyrir
um 20 árum.
Markmið: Að kanna algengi og orsakir sjónskerðingar og blindu
meðal Reykvíkinga 50 ára og eldri.
Aðferðir: Augnrannsókn Reykjavíkur notar slembiúrtak
Reykvíkinga 50 ára og eldri af jafnri aldurs- og kynjadreifingu.
1045 einstaklingar voru skoðaðir (75,8% svarhlutfall). Allir
þátttakendur gengust undir augnskoðun sem fólst meðal
annars í mælingum á sjónlagi og sjónskerpu. Stuðst var við
staðal Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). WHO
skilgreinir sjónskerðingu sem sjón <6/18 og ≥3/60 á betra auga
með besta gleri eða sjónvídd ≥ 5° frá athyglispunkti og blindu
sem sjón á betra auga <3/60 eða sjónvídd <5°. Einnig var
notaður Bandaríkjastaðall (US) sem skilgreinir sjónskerðingu
sem sjón á betra auga <6/12 og >6/60 og blindu sem sjón ≤6/60.
Ef einstaklingur reyndist hafa skerta sjón var orsök sjóntapsins
ákvörðuð.
Niðurstöður: Samkvæmt WHO-staðli var algengi sjónskerðingar
á báðum augum 0,96% (95% CI: 0.37-1.55) og blindualgengi
0,57% (95% CI: 0.12-1.03). US-staðall gaf algengi sjónskerðingar
2,01% (95% CI: 1.16-2.86) og blindu 0,77 % (95% CI: 0.24-1.29).
Algengi sjónskerðingar og blindu, sem bundin voru við eitt
auga, voru 4,40% (95% CI: 3.16-5.65) og 1.72% (95% CI: 0.93-
2,51) samkvæmt WHO-staðli en 5,45% (95% CI: 4.08-6.83) og
3,06% (95% CI: 2.02-4.11) samkvæmt US-staðli. Aldursbundin
hrörnun í augnbotnum var algengasta orsök sjónmissis á báðum
augum en „leti auga“ (amblyopia), ský á augasteini og gláka
orsökuðu oftast sjóntap sem bundið var við eitt auga.
Ályktun: Sjóntap eykst með aldri. Rannsókn þessi getur reynst
gagnleg við skipulagningu heilbrigðisþjónustu og greiningu á
blinduvaldandi augnsjúkdómum sem hægt er að koma í veg fyrir
og meðhöndla til að auka lífsgæði aldraðra.
V 2 Heilsutengd lífsgæði hjá sjúklingum
eftir brottnám á auga
Guðleif Helgadóttir, Heiða Dóra Jónsdóttir, Þór Eysteinsson, Haraldur
Sigurðsson
Augndeild Landspítala
gudlefh@landspitali.is
Inngangur: Könnuð eru heilsutengd lífsgæði 25 sjúklinga þar
sem taka þurfti annað augað og sett var inn hydroxyapaptite
kúla í augntótt á árunum 1992-2004. Allir þessir sjúklingar
notuðu gerviauga. Heilsutengd lífsgæði þessa hóps eru borin
saman við staðlaðan íslenskan samanburðarhóp.
Markmið: Tilgangur rannsóknarinnar er að meta heilsutengd
lífsgæði sjúklinga sem eru með gerviauga vegna brottnáms á
auga á Íslandi á árunum 1992-2004 og skoða hvort þau væru
lakari en lífsgæði almennings.
Aðferð: Tekið var auga úr 54 sjúklingum á þessu tímabili. Af
þeim voru 19 sem ekki tóku þátt, bjuggu erlendis eða ekki náðist
í. Það voru því 35 sjúklingar sem boðin var þátttaka. Staðlaður
spurningalisti sem metur heilsutengd lífsgæði (HL-listinn) var
lagður fyrir sjúklingahópinn.
Niðurstöður: Af 35 sjúklingum tóku þátt 25 (71%), 16
karlmenn og 9 konur. Meðalaldur var 53 ár (23-89). Það
var enginn marktækur munur á heilsutengdum lífsgæðum
þessa sjúklingahóps, (HL-gildi 48,8 s=11,7) miðað við
samanburðarhópinn (HL-gildi 50 s=10):p>0,05. Þeir sem
kvörtuðu um væga verki í augntótt og höfðu óþægindi vegna
gerviaugans voru með lakari lífsgæði.
Ályktun: Það er mikið áfall að þurfa að láta fjarlægja auga. Það
er ekki einungis að missa sjón á öðru auga heldur er það líka
mikið áfall útlitslega. Við álitum að lífsgæði þessa hóps væri
lakari en samanburðarhóps, en það reyndist ekki vera rétt.
V 3 Gegnstreymi súrefnis frá slagæðlingum til bláæðlinga
í sjónhimnu manna
Róbert Arnar Karlsson1, Sveinn Hákon Harðarson2, , Einar Stefánsson2,
Gísli Hreinn Halldórsson1, Samy Basit2 , Þór Eysteinsson2, Jón Atli
Benediktsson1, James M. Beach1
1Verkfræðideild HÍ, 2augndeild Landspítala
sveinnha@gmail.com
Inngangur: Kenningin um gegnstreymi (e. counter-current) spáir
því að súrefni sveimi (e. diffusion) frá slagæðlingum sjónhimnu
til nálægra bláæðlinga. Markmið rannsóknarinnar var að kanna
mögulegt gegnstreymi með því að mæla súrefnismettun (SatO2)
í fyrstu gráðu slagæðlingum og bláæðlingum sjónhimnu í
mismunandi fjarlægð frá sjóntaugarósi.
Aðferðir: Sjálfvirkur sjónhimnusúrefnismælir var notaður til
þess að mæla SatO2. Súrefnismælirinn tekur myndir á tveimur
bylgjulengdum samtímis og reiknar ljósþéttnihlutfall sem er
um það bil línulega tengt SatO2. Súrefnismæling var gerð á 16
heilbrigðum einstaklingum. Súrefnismettun var mæld á tveimur
stöðum; u.þ.b. 0,3 láréttum sjóntaugaróss þvermálum (e. disc
diameter, DD) frá brún sjóntaugaróss og tveimur DD frá brún
sjóntaugaróss. Munur á SatO2 var greindur með tvíhliða pöruðu
t-prófi í slagæðlingum og bláæðlingum.
Niðurstöður: Í slagæðlingum var SatO2 96±5% 0,3 DD frá
sjóntaugarósi (meðaltal ± staðalfrávik; n=16) og 93±5%
tveimur DD frá sjóntaugarósi (p=0,013). Í blá-æðlingum var
súrefnismettunin 57±5% tveimur DD frá sjóntaugarósi og
61±6% 0,3 DD frá sjóntaugarósi (p=0,02).
Ályktanir: Súrefnismettun í blóði bláæðlinga hækkar eftir því
sem það nálgast sjóntaugarós. Þessa aukningu mætti útskýra
Ágrip VEGGSPJALDA
12 læknablaðið/fylgirit 54 2007/93
með gegnstreymi á súrefni frá slagæðlingum í sjónhimnu til
nálægra bláæðlinga.
V 4 Súrefnismettun í slag- og bláæðlingum sjónhimnu er
minni í ljósi en í myrkri
Samy Basit1, Sveinn Hákon Harðarson1, Gísli Hreinn Halldórsson2, Róbert
Arnar Karlsson2, James M. Beach2, Þór Eysteinsson1, Jón Atli Benediktsson2,
Einar Stefánsson1
1Augndeild Landspítala, 2verkfræðideild HÍ
sveinnha@gmail.com
Inngangur: Rannsóknir á dýrum hafa gefið til kynna að
súrefnisþrýstingur í innri sjónhimnu sé minni í ljósi en í myrkri
en að í ytri sjónhimnu sé súrefnisnotkun minni í ljósi. Markmið
þessarar rannsóknar var að mæla súrefnismettun blóðrauða
(SatO2) í æðlingum í sjónhimnu manna í ljósi og myrkri.
Aðferðir: Súrefnismælirinn er settur saman úr augnbotnamyndavél,
ljósdeili (e. beam splitter) og stafrænni
myndavél. Hann skilar augnbotnamyndum með fjórum
bylgjulengdum af ljósi samtímis. Sérsmíðaður hugbúnaður les
úr myndunum og metur SatO2. Súrefnismælingar voru gerðar
í sjónhimnu níu heilbrigðra sjálfboðaliða. Fyrstu gráðu slagog
bláæðlingar voru mældir í öðru auga hvers sjálfboðaliða.
Sjálfboðaliðarnir voru aðlagaðir að rökkri í 30 mínútur, síðan
aðlagaðir að herbergisljósi í fimm mínútur og því næst aðlagaðir
að myrkri í fimm mínútur. Súrefnismælingar voru gerðar eftir
hverja aðlögunarlotu. Við úrvinnslu var notuð ANOVA fyrir
endurteknar mælingar og Bonferroni eftirpróf.
Niðurstöður: Í slagæðlingum var SatO2 97±5% (meðaltal±
staðalfrávik, n=9) eftir 30 mínútur í rökkri, 93±3% eftir
5 mínútur í ljósi og 97±4% eftir 5 mínútur í rökkri þar á eftir.
Samsvarandi niðurstöður (í sömu röð) fyrir bláæðlinga voru
61±6%, 53±8% og 59±7%. SatO2 í slagæðlingum var marktækt
minna í ljósi en eftir aðlögun að rökkri í 30 mínútur (p<0,05)
eða 5 mínútur (p<0,01). SatO2 var einnig marktækt minna í
bláæðlingum í ljósi en í myrkri (p<0,01 eftir 30 mínútur í rökkri,
p<0,05 eftir fimm mínútur).
Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til þess að súrefnismettun
blóðrauða í slag- og bláæðlingum í sjónhimnu sé minni í ljósi en
í myrkri. Þessar niðurstöður eru í samræmi við fyrri rannsóknir
á dýrum.
V 5 Flæði í augnhólfi er skylt seigjustigi efnisins
samkvæmt formúlu Stokes-Einstein
Svanborg Gísladóttir1, Þorsteinn Loftsson2, Einar Stefánsson1,3
Læknadeild HÍ1, lyfjafræðideild HÍ2, augnrannsóknarstofa Landspítala3
svanbog@hi.is
Inngangur: Lögmál Stokes-Einstein, Ficks og Hagen-Poiseuille
kenna að flutningur sameinda með flæði eða í straumum tengist
seigjustigi þess efnis sem sameindirnar flæða um. Seigjustig
glerhlaups er mun meira en saltvatns. Í glerhlaupsaðgerðum
er glerhlaup augans fjarlægt og augað fyllt í staðinn með
saltvatni eða sílikonolíu. Eftir glerhlaupsaðgerðir hafa komið
fram margskonar langvinnar afleiðingar, ýmist jákvæðar eða
neikvæðar. Fram að þessu hefur ekki verið ljóst hvað veldur
þessum afleiðingum glerhlaupsaðgerða. Samkvæmt Stokes-
Einstein jöfnu hækkar flæðistuðullinn og sameindir flæða
hraðar þegar glerhlaupið er fjarlægt og augnhólfið fyllt í staðinn
með saltvatni, þetta hefur áhrif á flutning allra sameinda, þar á
meðal lyfja, súrefnis og vaxtaþátta.
Markmið: Að sýna fram á að lögmál Stokes Einstein geti spáð
fyrir um breytingar á flutningi sameinda þegar saltvatni er
komið fyrir í augnhólfi í stað glerhlaups í glerhlaupsaðgerð.
Aðferðir: Sérhannaðar flæðisisellur voru notaðar, þar sem
var miðhólf, fyllt annaðhvort með glerhlaupi úr svíni eða
saltvatni, á milli tveggja sellófan himna (MWCO 12,000-
14,000). Dexamethasone var notað sem viðmiðunarsameind.
HPLC greining var notuð til að mæla flæði dexamethasone
sameindanna í gegnum saltvatnið og glerhlaupið. Flæðistuðull
glerhlaupsins og saltvatnsins var reiknaður útfrá lögmálum
Ficks og Stokes-Einstein.
Niðurstöður: Meðal flæði dexamethasone í gegnum miðhólf
fyllt með saltvatnslausn var 0,32 μg/(klst*cm2) (n=10) og
0,12 μg/(klst*cm2) með glerhlaupi (n=9). Flæðistuðullinn
fyrir glerhlaup úr svíni er 0,00016 cm2/klst og 0,0013 cm2/klst
í saltvatnslausn. Þar með er flæði dexamethasone í gegnum
satlvatnslausn u.þ.b. áttfalt hraðara heldur en í glerhlaupi.
Ályktun: Þessar niðurstöður gefa til kynna að flæði er hraðara í
saltvatnslausn en í glerhlaupi. Þessi upgötvun, sem hægt var að
spá fyrir um með klassískum lögmálum eðlisfræðinnar, getur
útskýrt eðlisfræðilegar, lyfjafræðilegar og klínískar afleiðingar
glerhlaupsaðgerða.
V 6 Súrefnismettun vex eftir leysimeðferð við bláæðastíflu
í sjónhimnu
Sveinn Hákon Harðarson1, Róbert Arnar Karlsson2, Gísli Hreinn
Halldórsson2, Samy Basit1, Þór Eysteinsson1, Jón Atli Benediktsson2, James
M. Beach2, Einar Stefánsson1
1Augndeild Landspítala, 2verkfræðideild HÍ
sveinnha@gmail.com
Inngangur: Rannsóknir á dýrum benda til þess að súrefnisþurrð
verði í sjónhimnu við bláæðagreinarstíflu (e. branch retinal
vein occlusion, BRVO). Dýratilraunir benda jafnframt til þess
að leysimeðferð bæti súrefnisbúskapinn. Markmið þessarar
rannsóknar var að mæla súrefnismettun blóðrauða (SatO2) í
bláæðlingum í sjónhimnu sjúklinga með BRVO, bæði fyrir og
eftir leysimeðferð.
Aðferðir: Súrefnismælirinn er settur saman úr augnbotnamyndavél,
ljósdeili (e. beam splitter) og stafrænni myndavél.
Hann skilar augnbotnamyndum með fjórum bylgjulengdum af
ljósi samtímis. Sérsmíðaður hugbúnaður les úr myndunum og
metur SatO2. Mælingar voru gerðar á 14 manns með BRVO.
Fimm voru mældir bæði fyrir og eftir leysimeðferð. Einnig
voru mældir sjúklingar með helftarbláæðarlokun (e. hemivein
occlusion) og miðbláæðarlokun í sjónhimnu (e. central retinal
vein occlusion, CRVO). Parað t-próf var notað til úrvinnslu.
Niðurstöður: Í þeim bláæðlingum, sem urðu fyrir áhrifum
af BRVO, var SatO2 45±10% (meðaltal±staðalfrávik) fyrir
leysimeðferð en 53±6% eftir leysimeðferð (p= 0,041, n=5). Í
sjúklingi með helftarbláæðarlokun jókst súrefnismettun stig
af stigi eftir því sem leysimeðferð var bætt við. Niðurstöður
mælinga á sjúklingum með CRVO sýndu einnig aukna
súrefnismettun eftir leysimeðferð.
Ályktanir: Súrefnismælirinn greinir aukna súrefnismettun
blóðrauða eftir leysimeðferð við BRVO. Þessi niðurstaða er í
samræmi við dýratilraunir. Súrefnismælingar gætu nýst til að
ákvarða æskilegt umfang leysimeðferðar og til að meta árangur
af slíkri meðferð.
V 7 Skammtímaárangur í meðferð of feitra barna
Þrúður Gunnarsdóttir1, Z. Gabriela Sigurðardóttir 1, Árni V. Þórsson1,2,
Kolbeinn Guðmundsson4, Ragnar Bjarnason 2,3
1Háskóli Íslands, 2Barnaspítala Hringsins Landspítala, 3GP-GRC, Dep
of Pediatrics, Sahlgrenska Academy at Göteborg University, Gautaborg,
4Íslensk erfðagreining
thrudur@hi.is
Inngangur: Algengi offitu meðal barna hefur aukist mikið
á Íslandi og annars staðar í heiminum á síðustu áratugum.
Áhættuþættir eru margir og samspil þeirra flókið. Flestum ber
þó saman um að aukið algengi megi rekja til þeirra breytinga
sem hafa orðið á lífsháttum fólks á síðustu áratugum. Þróun
áhrifaríkrar meðferðar er mikilvægur þáttur í að bæta heilsu og
líðan feitra barna sem og mikilvægur þáttur í forvörnum gegn
offitu meðal fullorðinna.
Markmið: Meginmarkmið var að meta skammtímaárangur
fjölskyldumeðferðar Epsteins á úrtaki íslenskra barna í
klínískum aðstæðum.
Aðferð: Þátttakendur voru 12 of feit börn (LÞS > 2,4 sf)
og foreldrar þeirra. Börnin voru á aldrinum 8-12 ára, 9
stúlkur og 3 drengir. Skipt var handahófskennt í tvo hópa,
samanburðarhóp sem fékk hefðbundna meðferð (viðtal við
lækni og næringarfræðing á Landspítala) og tilraunahóp sem
fékk fjölskyldumeðferð. Meðferð stóð yfir í 16 vikur og fólst í
fræðslu og atferlismótun. Miðgildi líkamsþyngdarstuðuls barna
í tilraunahópi var 3,6 staðalfrávik yfir meðaltali við upphaf
meðferðar (spönn 2,4-3,8) en 3,3 staðalfrávik yfir meðaltali
fyrir börn í samanburðarhópi (spönn 2,8-3,9). Markhegðun sem
atferlismótun barna í tilraunahópi beindist að var dagleg neysla
grænmetis og ávaxta og dagleg líkamleg hreyfing.
Niðurstöður: Eftir 16 vikna meðferð var miðgildi þyngdartaps
fyrir börn í tilraunahópi 3,0 kg (spönn 1,0-4,3 kg) og miðgildi
þyngdartaps foreldra 6,8 kg (spönn 5,8-9,1 kg). Miðgildi
líkamsþyngdarstuðuls barna í tilraunahópi var þá kominn niður
í 3,4 staðalfrávik yfir meðaltali (spönn 1,9-3,6) en var enn 3,3
(spönn 2,8-4,0) fyrir börn í samanburðarhópi. Dagleg neysla
ávaxta og grænmetis og líkamleg hreyfing barna í tilraunahópi
jókst markvert. Dagleg neysla ávaxta og grænmetis barna í
tilraunahópi: miðgildi fyrir meðferð var 1,3 skammtar (spönn 1-
2) en við lok meðferðar 3,75 skammtar (spönn 1,3-4,3). Dagleg
hreyfing barna í tilraunahópi fyrir meðferð: miðgildi 20 mín.
(spönn 0-80) við lok meðferðar 72 mín. (spönn 40-126).
Ályktun: Niðurstöður gefa til kynna að fjölskyldumeðferð beri
árangur með íslenskum börnum í klínískum aðstæðum.
Verkefnið var styrkt af Vísindasjóði Landspítala og Actavis.
V 8 Faraldsfræði gauklasjúkdóma á Íslandi 1983-2002
Konstantín Shcherbak1, Ólafur Skúli Indriðason1,2, Viðar Eðvarðsson3,
Jóhannes Björnsson4,5, Runólfur Pálsson1,2,5
1Lyflækningasviði I, 2nýrnalækningum, 3Barnaspítala Hringsins, 4rannsóknarstofu
í meinafræði, Landspítala, 5læknadeild HÍ
olasi@landspitali.is
Inngangur: Þótt gauklasjúkdómar séu ein af helstu orsökum
lokastigsnýrnabilunar hér á landi, liggja ekki fyrir fullnægjandi
upplýsingar um faraldsfræði þeirra. Þá finnast takmarkaðar
upplýsingar meðal annarra þjóða.
Markmið: Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna
faraldsfræði gauklasjúkdóma á Íslandi.
Aðferðir: Þetta var aftursæ rannsókn á öllum nýrnasýnum sem
rannsökuð voru á Landspítala frá 1983 til 2002. Upplýsingar
um vefjagreiningu voru fengnar úr skrám Rannsóknastofu
í meinafræði á Landspítala og klínískar upplýsingar úr
sjúkraskrám. Endaleg sjúkdómsgreining var byggð á niðurstöðu
meinafræðilegrar rannsóknar með hliðsjón af klínískum þáttum.
Ef fleiri en ein greining fannst í ákveðnu sýni voru báðar taldar.
Niðurstöður: Á tímabilinu komu 590 nýrnasýni úr 521
einstaklingi til rannsóknar á Rannsóknarstofu í meinafræði.
Við útilokuðum 257 sýni vegna þess þau voru úr ígræddu nýra,
innihéldu ekki gauklasjúkdóm eða voru endurtekin sýni úr
sama einstaklingi. Önnur 42 sýni sem tekin voru vegna gruns
um gauklasjúkdóm voru útilokuð vegna óvissrar greiningar eða
ófullnægjandi sýna. Eftir voru 291 sýni sem gáfu 294 greiningar.
Miðgildi (spönn) aldurs sjúklinga var 47 (2-86) ár og 54% voru
karlar. Nýgengi gauklasjúkdóma var 5,60/100.000/ár fyrir allt
tímabilið. Það var 4,72 árin 1983-1987; 4,31 árin 1988-1992;
6,43 árin 1993-1997 og 6,84/100.000/ár tímabilið 1998-2002.
Algengustu greiningar voru IgA-nýrnamein (24,1%), focal
segmental glomerulosclerosis (10,2%), og sykursýkinýrnamein
(8,2%). Membranous nephropathy (4,8%), minimal change
disease (4,8%) og membranoproliferative glomerulonephritis
(3,7%) voru frekar fátíðar greiningar.
Ályktanir: Svo virðist sem nýgengi gauklasjúkdóma fari vaxandi
þó ekki sé hægt að útiloka að aukin tíðni nýrnasýnistöku eigi
þátt í þeirri nýgengisaukningu. IgA-nýrnamein er algengasta
tegund gauklasjúkdóms hér á landi eins og víðast annars
staðar. Athyglisvert er að focal segmental glomerulosclerosis er
algengari en membranous nephropathy.
V 9 Efnaskiptaáhættuþættir fyrir myndun nýrnasteina
meðal sjúklinga í nýrnasteinagöngudeild Landspítala
Ólafur Skúli Indriðason1, Viðar Eðvarðsson2, Guðjón Haraldsson3, Eiríkur
Jónsson3 og Runólfur Pálsson1,4
1Nýrnalækningum, lyflækningasviði I, 2Barnaspítala Hringsins, 3þvagfæraskurðlækningum,
skurðlækningasviði, Landspítala, 4læknadeild HÍ
olasi@landspitali.is
Inngangur: Þrátt fyrir miklar tækniframfarir við brot og
brottnám nýrnasteina eru margir sjúklingar þjakaðir af
endurteknum steinaköstum. Fyrir þá einstaklinga hefur verið
lögð aukin áhersla á greiningu undirliggjandi áhættuþátta og
fyrirbyggjandi meðferð. Í þeim tilgangi var nýlega stofnuð
sérstök nýrnasteinagöngudeild á Landspítala.
Markmið: Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna tíðni
áhættuþátta nýrnasteina meðal sjúklinga á nýrnasteinagöngudeild
Landspítala.
Aðferðir: Þetta var afturvirk rannsókn á sjúklingum sem
komu í nýrnasteinagöngudeild frá maí 2005 til loka janúar
2007. Sjúklingar gengust undir blóðrannsóknir og söfnuðu
sólarhringsþvagi í tvígang. Við mat á efnaskiptaþáttum í þvagi var
notast við meðaltal beggja safnana. Hyperoxaluria var skilgreind
sem sólarhringsútskilnaður >0,49 mmól, hypercalciuria sem
>7,5 mmól (karlar) og >6,5 mmól (konur), hyperuricosuria sem
>4,8 mmól (karlar) og 4,5 mmól (konur) og hypocitraturia sem
<2 mmól. Of lítill þvagútskilnaður var skilgreindur sem <1 l/24
klst.
Niðurstöður: Alls hafa 65 manns komið til mats, 44 karlar og
21 kona. Þrír karlar skiluðu ekki sólarhringsþvagsýni og ein
kona greindist með frumkomið kalkvakaóhóf á blóðprófi og
safnaði ekki þvagi. Hins vegar skilaði einn karl með þekkta
cystínmigu þvagsöfnunum. Af 61 sjúklingi voru 4 (6,6%) með
þvagútskilnað undir 1 l/24 klst. Hyperoxaluria fannst hjá 22
(36,1%), hypercalciuria hjá 16 (26,2%), hyperuricosuria hjá
16 (26,2%) en hypocítraturia hjá 33 (54,1%). Þrjátíu og þrír
einstaklingar greindust með fleiri en einn áhættuþátt en ekki var
hægt að sýna fram á áhættuþætti fyrir myndun nýrnasteina hjá
níu (14,8%) sjúklingum samkvæmt skilgreiningu okkar.
Ályktanir: Sjúklingar sem koma á nýrnasteinagöngudeild
Landspítala hafa slæman steinsjúkdóm og meirihluti þeirra
hefur að minnsta kosti einn undirliggjandi efnaskiptaáhættuþátt.
Vonast er til að sértæk meðferð sem beint er gegn undirliggjandi
áhættuþáttum verði til þessa að fækka steinaköstum þessara
sjúklinga.
V 10 Tengsl mataræðis og svefnvenja skólabarna í 9. og
10. bekk grunnskóla
Dóra Björk Sigurðardóttir1 og Guðrún Kristjánsdóttir1, 2
1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítala
gkrist@hi.is
Inngangur: Rannsóknir benda til að svefnvenjur og mataræði
og sérílagi morgunverðarvenjur tengist heilsu skólabarna og
árangri í lífinu. Tilgangur rannsóknarinnar er að skoða tengsl
svefnvenja íslenskra skólabarna og reglusemi þeirra í mataræði.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir tilviljanalandsúrtaki
3913 nemenda í 9. og 10. bekkjum grunnskóla landsins (91%
heimtur). Spurningalistar voru lagðir fyrir og könnuð var
meðallengd nætursvefns skólabarna, hvenær þau fara að sofa,
hvenær þau fara á fætur, hvort þau borði morgunmat ein eða
hvort fjölskyldan borðar saman og reglusemi í mataræði. Tengsl
milli svefns og matarvenja var metinn almennt og með tilliti til
aldurs og kyns.
Helstu niðurstöður: Marktækt samband var milli þess hvenær
börn fara að sofa og reglusemi í mataræði; 40,8% þeirra barna
sem fara að sofa fyrir miðnætti borða reglulega á móti 21,8%
þeirra sem fara að sofa eftir miðnætti; 62,5% þeirra sem fara
að sofa fyrir miðnætti borða morgunmat nánast daglega á móti
42,7% sem fara að sofa eftir miðnætti. Fá börn snæða morgumat
með fjölskyldu sinni. Börn sem fá nægan svefn eru marktækt
líklegri til að borða reglulega og borða morgunmat heldur en
þau sem sofa ekki nóg. Meirihluti skólabarna (58,3%) borðar
morgunmat nánast daglega. Af þeim sem borða morgunmat
nánast daglega eru 55,5% strákar og 44,5% stúlkur. Af þeim
sem borða nánast aldrei morgunmat eru 39,1% strákar en
60,9% stúlkur. Flest sofa í um átta klukkustundir. Marktækt
fleiri drengir (55,6%) en stúlkur (44,4%) sofa skemur en átta
klukkustundir. Stúlkur fara fyrr að sofa og fyrr á fætur en
strákar en eru þó ólíklegri til að borða morgunmat.
Ályktanir: Af niðurstöðum má álykta að reglusemi í mataræði
eða svefnvenjum endurspegli almenna reglusemi í lífsstíl.
Samband er á milli svefnvenja og þess að neyta morgunverðar
þó svo að ekki sé þar um algilt samband að ræða þar sem
stúlkur og drengir virðast nokkuð ólík í morgunmatar- og
svefnvenjum sínum. Vekja þarf umræðu um gildi svefns og
reglusams mataræðis meðal barna og virkja fjölskyldur og
heilbrigðisfagfólk í að stuðla að bættum svefnvenjum og
morgunmatarvenjum meðal skólabarna.
V 11 Félags- og lýðfræðilegir þættir tengdir foreldraálagi á
Íslandi
Guðrún Kristjánsdóttir1, 2 og Rúnar Vilhjálmsson1
1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítala
gkrist@hi.is
Inngangur: Almennt er litið á barneignir og uppeldi barna
sem jákvæð lífsverkefni er veiti foreldrum ánægju og vellíðan.
Engu að síður leiða rannsóknir í ljós að barnaforeldrar upplifa
meiri sálræna vanlíðan en annað fullorðið fólk. Rannsóknin
beinist að tengslum félags- og lýðfræðilegra þátta við einstaka
þætti foreldraálags og foreldraálag í heild, meðal íslenskra
foreldra barna yngri en 18 ára. Rannsóknin athugar umfang
einstakra þátta foreldraálags og foreldraálags almennt eftir
aldri, kynferði, hjúskaparstöðu, menntun og atvinnuþátttöku
foreldra, fjölskyldutekjum, búsetu, fjölda barna á heimilinu og
aldri yngsta barns.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á undirúrtaki 872
foreldra sem tóku þátt í landskönnun meðal fullorðinna
undir heitinu Helsa og lífskjör Íslendinga. Heimtur voru 69%.
Foreldraálag var metið með hjálp átta atriða sem koma úr stærri
atriðalista Pearlin og Lieberman um álagsþætti í lífi fullorðinna.
Heildarálag í foreldrahlutverki var reiknað með því að leggja
saman normalgerð hrágildi allra átta atriða kvarðans. Níu
félags- og lýðfræðilegir þættir voru teknir til athugunar.
Helstu niðurstöður: Foreldrar á aldrinum 25-54 ára, foreldrar
með tvö eða fleiri börn heima, útivinnandi foreldrar, og mæður,
sérstaklega einstæðar mæður og lágtekjumæður, greindu
frekar en aðrir foreldrar frá einstökum álagsþáttum og meira
heildarálagi í foreldrahlutverki.
Ályktanir: Foreldraálag dreifist misjafnlega meðal íslenskra
foreldra barna yngri en 18 ára. Kortlagning og greining á
foreldraálagi stuðlar að auknum skilningi á þáttum er hafa áhrif
á geðlýðheilsu fullorðinna.
V 12 Þættir tengdir þátttöku verðandi foreldra á Íslandi í
foreldrafræðslu
Guðrún Kristjánsdóttir1, 2, Margrét Eyþórsdóttir2, Helga Gottfreðsdóttir1
1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítala
gkrist@hi.is
Inngangur: Með foreldranámskeiðum átti að koma í veg fyrir
ungbarna og mæðradauða í byrjun 20. aldar. Á Íslandi hófust
slík námskeið um 1954 og feður tóku þátt frá 1956. Tilgangur
rannsóknarinnar var að kanna þátttöku í foreldranámskeiðum
og áformum verðandi foreldra til að sækja þau og hvernig
félagslýðfræðilegir þættir, fæðingasaga og fæðingatengdir þættir
tengjast þátttöku og hvernig áform þeirra tengjast útkomu
fæðingar.
Efniviður og aðferðir: Úrtakið var tilviljunarúrtak 152 foreldrar
af sængurlegudeildunum (sængurkvennagangur og Hreiður)
(58% heimtur) og 68 foreldrar af vökudeild (79% heimtur).
Gögnum var safnað í heimsókn til foreldra eftir heimferð með
spurningalista þar sem spurt var um félags- og lýðfræðilega
þætti, fæðingasögu og tegund fæðingar, hvort þau hefðu sótt
foreldrafræðslu eða áform um að sækja slíka. Líkan var sett
upp með þáttum sem rannsóknir telja að hafi áhrif á þátttöku.
Skoðuð var fylgni milli rannsóknarbreytanna og þátttöku
í foreldrafræðslu og marktækar breytur síðan keyrðar í
aðfallsgreiningu.
Helstu niðurstöður: Marktækur munur var á þátttöku foreldra
í foreldrafræðslu eftir því á hvaða deild foreldrar lentu eftir
fæðingu barnsins. Ungt fólk í sambúð með fyrsta barn var
marktækt líklegra til að hafa sótt foreldrafræðslu að teknu tilliti
til allra annarra þátta. Í öllum foreldrahópum tóku foreldrar sem
áttu sitt fyrst og annað barn þátt í foreldrafræðslu, en enginn
þeirra sem var að eiga sitt þriðja eða fjórða barn. Foreldrar
barna af vökudeild höfðu í 20,6% tilvika tekið þátt, 11,8% á
sængurkvennagangi og 35% þeirra sem fætt höfðu í Hreiðrinu.
Áformin um þátttöku sem ekki stóðust voru flest hjá foreldrum
af Vökudeild.
Ályktanir: Niðurstöður benda til að almenn þátttaka í
foreldrafræðslu sé lítil. Jafnframt benda þær til þess að þeir
sem á annað borð sækja fræðsluna séu pör sem eiga von á sínu
fyrsta barni. Huga þarf að því að stærsti hluti þeirra sem fæða
barn sem leggst inn á Vökudeild og þeirra sem leggjast inn á
sængurkvennagang hefur ekki sótt skipulega foreldrafræðslu.
Bæta þarf undirbúning fyrir fæðingu af hálfu heilsugæslustöðva
og þróa skipulega undirbúningsleiðir fyrir verðandi foreldra.
V 13 Sársaukaupplifun 0-2 ára barna við stungu: Forprófun
á Modified Behavioral Pain Scale (MBPS) í íslenskri þýðingu
Guðrún Kristjánsdóttir1, 2, Rakel B. Jónsdóttir1, 2, Elísabet Harles1, Kolbrún
Hrönn Harðardóttir1
1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítala
gkrist@hi.is
Inngangur: Í bráðaaðstæðum þarf iðulega að framkvæma
sársaukafull greiningarinngrip, s.s. blóðtökur. Rannsóknir sýna
að ef tekið er tillit til upplifun barna í slíkum aðstæðum má
koma í veg fyrir óþarfa vanlíðan og tafir í framkvæmd ástungu.
Tilgangur þessarar rannsóknar var að forprófa MBPS (Modified
Behavioral Pain Scale) í íslenskri þýðingu á eins mánaðar til
tveggja ára gömlum börnum. Leitast var við að svara hvort
MBPS væri áreiðanleg og réttmæt aðferð til að meta bráðan
sársauka við sambærilegar sársaukafullar aðstæður.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin styðst við þægindaúrtak
49 barna sem gengust undir meðferðar- og greiningartengdar
ástungur á almennri heilsugæslustöð og á bráðamóttöku barna.
Meðalaldur var 8,7 mánuðir. Tveir rannsakendur mátu börnin
við sömu aðstæður með MBPS, fyrst við hlutlausar aðstæður fyrir
ástunguna og síðan við ástunguna. Ástungur voru 13 vegna CRP,
7 vegna stungu í bláæð og 29 í vöðva. Áreiðanleiki var metinn
með því að bera saman niðurstöður beggja matsaðila. Réttmæti
var mælt með mun á sársaukaskori við hlutlausar aðstæður
og við ástungu. Loks voru athuguð tengsl sársaukamælinga
við lýðfræðilega þætti (aldur og kyn) og aðstæðubundna þætti
(vettvangur gagnasöfnunar og tegunda ástungu).
Helstu niðurstöður: Meðalsársaukaskor í hlutlausum aðstæðum
reyndust 2,96 (±1,79) og 2,96 (±1,74) og 4,27 (±2,66) og 4,39
(±2,51). Marktæk sterk jákvæð fylgni (r=0,87) reyndist milli
sársaukaskors hinna tveggja matsaðila við hlutlausar aðstæður
og einnig milli sársaukaskora við ástungu (r=0,90). Marktækur
munur reyndist vera á sársaukaskori við hlutlausar aðstæður
og við stungu (t(48)= -3,34, p<0,05) með t-prófi paraðra úrtaka.
Ekki reyndist fylgni við lýðfræðilega eða aðstæðubundna
þætti og sársaukaskors með MBPS, hvorki í hlutlausum né
sársaukafullum aðstæðum.
Ályktanir: Af niðurstöðum má ætla að íslensk þýðing MBPS
sársaukamatstækisins sé nægilega áreiðanlegt og réttmætt og
henti við mat á bráðum sársauka við ástungur á börnum á
aldrinum eins mánaðar til tveggja ára. Ástand barns er einn af
þeim þáttum sem ekki var sérstaklega tekið tillit til í þessari
forprófun en athuga þarf það sérstaklega í frekari prófun á
næmi mælitækisins.
V 14 Matarvenjur skólabarna á unglingsaldri: Niðurstöður
heimildarannsóknar og vettvangsathugunar með rýnihópum
Guðrún Margrét Gunnsteinsdóttir1, 2, Guðrún Kristjánsdóttir1, 2
1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítala
gkrist@hi.is
Inngangur: Rannsóknir sýna að matarvenjur hafi áhrif á
heilbrigði og námsframmistöðu barna. Tilgangur verkefnisins
var að kanna hvernig breytingar unglingsáranna í samspili við
félagslegt umhverfi og skóla hafa áhrif á matarvenjur þeirra
og hvaða þættir séu þar sem skipa lykilhlutverki í mótun
matarvenja.
Efniviður og aðferðir: Fræðilegt efni var safnað í gegnum
gagnasöfnin PubMed, ProQuest og OVID. Heimildarleit gaf 29
greinar; 21 rannsóknir, fimm fræðilegar greinar og þrjár með
almennri umfjöllun. Efnisgreining heimilda leiddi til efnisflokka
sem stuðst var við í vettvangsathugun sem fór fram í fjórum
grunnskólum á Stór-Reykjavíkursvæðinu og nágrenni. Rætt
var við skólastarfsmenn, kennara, skólahjúkrunarfræðing og 12
nemendur úr 9. og 10. bekk sem mynduðu fjóra fókushópa.
Helstu niðurstöður: Efni heimildanna skiptist í fjóra flokka;
eðli matarvenja skólabarna (50%) og þættir sem tengjast
matarvenjum barnanna; einstaklingsbundnir þættir (72%),
félagslegt umhverfi (62%) og skólatengdir þættir (56%). Samtöl
við skólastarfsmenn og efnisþættir í rýnihópum nemenda
staðfestu þá efnisflokka sem heimildir fjalla um. Skynjun og
upplifun á aðstæðum við skólamáltíðir, gildi umhverfis, aðgengi,
sjálfstæðis og sjálfsmyndar var áréttað með samtölum nemenda
í rýnihópum en minna var gert úr gildi foreldra og fjölskyldu
fyrir mataræði þeirra en heimildir gáfu til kynna. Fræðsla um
mataræði er ekki fyrirferðamikið í samtölum við nemendur né
starfsfólks en ljóst að þessir aðilar hafa ólíka sýn á matarvenjum
skólabarna.
Ályktanir: Rannsóknir benda til að matarvenjur raskist verulega
á unglingsárum. Matarvenjur ráðast af einstaklingsbundum
þáttum jafnt sem félagslegu og samfélagslegu umhverfi þeirra
þar sem fjölskylda og skóli gegna veigamiklu hlutverki þó svo
að börnin sjálf séu ekki meðvituð um það. Niðurstöður benda
einnig til að skólinn geti haft áhrif á matarvenjur unglinga með
því aðgengi sem hann veitir að mat og því umhverfi og leiðsögn
sem hann býður nemendum sínum í tengslum við máltíðir og
matartíma. Þar skipa skólahjúkrunarfræðingar lykilhlutverki í
samhæfingu og ráðgjöf.
V 15 Fæðingarmáti kvenna sem eignast barn eftir fyrri
fæðingu með keisaraskurði
Brynhildur Tinna Birgisdóttir, Hildur Harðardóttir, Ragnheiður I.
Bjarnadóttir
Kvennasviði Landspítala
hhard@landspitali.is
Inngangur: Álitamál er hver sé besti fæðingarmáti kvenna með
einn keisaraskurði að baki.
Markmið: Að kanna fæðingarmáta kvenna sem áður hafa fætt
einu sinni með keisarskurði, afdrif þeirra og barna þeirra..
Efniviður og aðferðir: Í Fæðingarskrá var leitað að konum sem
fæddu einbura á tímabilinu 2001-2005 og áttu að baki eina fyrri
fæðingu einbura með keisaraskurði (n=925). Ábending aðgerðar
var skráð, upphaf fæðingar (sjálfkrafa eða framkölluð), hvort
beita þurfti áhöldum við fæðingu um leggöng og afdrif barns.
Niðurstöður: 346/925 (37,4%) fæddu um leggöng, 341/925
(36,9%) með fyrirfram ákveðinni keisaraskurðaðgerð
(valaðgerð) og 238/925 (25,7%) með bráðakeisaraskurðaðgerð.
61,0% reyndu fæðingu um leggöng og tókst hjá 61,3% en
38,7% fæddu með bráðakeisaraskurðaðgerð. Af þeim konum
sem fóru í valaðgerð í fyrri fæðingu reyndu 57,7% fæðingu
um leggöng í næstu fæðingu og tókst það hjá 68,1% þeirra. Af
konum sem fóru í bráðaaðgerð í fyrri fæðingu reyndu 61,8%
fæðingu um leggöng í næstu fæðingu og meðal þeirra fæddu
59,7% um leggöng. Munurinn á hlutfalli kvenna sem reyndu
fæðingu, eftir því hver bráðleiki keisaraskurðar var í fyrri
fæðingu, er ekki marktækur (p=0,28) Meðal kvenna sem fæddu
um leggöng var áhöldum beitt við fæðingu hjá 87/346 (25,1%).
Sex konur sem reyndu fæðingu um leggöng, fengu legbrest
(6/584, 1,1%). Hjá fimm hófst sótt sjálfkrafa og hjá einni var
fæðing framkölluð með prostaglandíni, belgjarofi og oxýtósíni.
Fimm barnanna var bjargað með bráðakeisaraskurði en eitt
barn dó í fæðingu. Burðarmálsdauði í rannsóknarþýðinu var
5,4/1000 fæðingar. Fimm börn létust; meðfæddur galli (2), örburi
425g (1), legbrestur (1) og andlát fyrir fæðingu, óútskýrt (1).
Tvö þeirra fæddust um leggöng, eitt eftir valaðgerð og tvö eftir
bráðaaðgerð. Í rannsóknarþýðinu lést engin kona og aldrei var
gert legnám.
Ályktanir: 37,4% kvenna, sem fæða sitt fyrsta barn með
keisaraskurðaðgerð, fæða sitt annað barn um leggöng.
Burðarmálsdauði er sá sami, óháð fæðingarmáta, meðal barna
sem fæðast eftir fyrri fæðingu móður með keisaraskurði og
í almennu þýði. Fæðing um leggöng eftir fyrri fæðingu með
keisaraskurði er raunhæfur kostur fyrir þær mæður sem þess
óska.
V 16 Inngróin fylgja hjá 17 ára frumbyrju
Hildur Harðardóttir1, Berglind Þóra Árnadóttir,1 Sigrún Arnardóttir,1 Anna
Þórhildur Salvarsdóttir,1 Bergný Marvinsdóttir
1Kvennasviði, 2myndgreiningarsviði Landspítala
hhard@landspitali.is
Inngangur: Viðgróin fylgja, placenta accreta, kallast það
þegar fylgjufesting er óeðlileg og decidual skil milli fylgju og
legvöðva vantar. Þegar fylgjan vex inn í legvöðvann kallast það
placenta increta eða inngróin fylgja og ef vöxtur er í gegnum
legvöðvann kallast það placenta percreta eða gegnumgróin
fylgja. Óeðlileg fylgjufesting veldur því að fylgjan losnar ekki,
blæðing verður óhófleg og er þetta ein helsta ástæða legnáms
í kjölfar fæðingar. Tíðni óeðlilegrar fylgjufestingar er sjaldgæf
eða um 1:2500 fæðingar. Þar af er viðgróin fylgja algengust,
79%, inngróin fylgja 14% og gegnumgróin fylgja 7%. Helsti
áhættuþáttur er fyrri aðgerðir á legi, einkum keisaraskurður.
Aðrir áhættuþættir eru hækkandi aldur móður, margar fyrri
fæðingar og vöðvahnútar í legi. Næmi og sértæki ómunar og/eða
segulómunar til sjúkdómsgreiningar á meðgöngu er um 85%.
Sjúkdómsgreining er þó oftar en ekki gerð eftir fæðingu þegar
fylgjan situr föst. Kjörmeðferð er legnám strax eftir fæðingu til
að forða móður frá lífshættulegri blæðingu. Nokkrum tilfellum
hefur verið lýst þar sem íhaldssamri meðferð er beitt til að forða
legnámi. Einn þeirra er metótrexat (MTX) meðferð.
Sjúkratilfelli: Um er að ræða 17 ára stúlku, þunguð í fyrsta sinn
og fæddi eðlilega eftir fulla meðgöngu. Engin saga um fyrri
aðgerðir á legi. Eftir fæðingu barnsins sat fylgjan föst. Reynt var
að skræla fylgjuna frá legveggnum í svæfingu, án árangurs og
ályktað að fylgjan væri inngróin. Þar sem blæðing hafði stöðvast
var ákveðið að bíða átekta, gefin sýklalyf í æð og tvær einingar af
rauðkornaþykkni. Ómun af legi og síðar segulómskoðun sýndi
fylgjuvöxt nánast í gegnum alla þykkt legvöðvans efst í leghorni
hægra megin. Vegna ungs aldurs, stöðugs ástands og óska
stúlkunnar um áframhaldandi frjósemi var leitað leiða til að
forða legnámi. Gefið var metótrexat og fylgt eftir β-hCG magni
í sermi sem hvarf á sjö vikum. Fylgjan gekk niður í áföngum sjö
til níu vikum eftir fæðingu, án vandkvæða. Ómun og segulómun
af legi 12 vikum eftir fæðingu staðfesti að fylgjuvefur var horfinn
úr legi.
Umræða: Inngróin fylgja getur valdið lífshættulegri blæðingu
og því er kjörmeðferð að fjarlægja leg. Til að forða legnámi hjá
ungri stúlku var gefin metótrexat meðferð, en aðrir möguleikar
eru lokun æða með æðaþræðingu, brottnám á hluta af legi eða
bíða átekta eftir sjálfkrafa fylgjufæðingu.
V 17 Illa skilgreindar sjúkdómsgreiningar við útskrift af
bráðamóttöku og sjálfsmorðshætta
Oddný S. Gunnarsdóttir1,Vilhjálmur Rafnsson2
1Skrifstofa kennslu, vísinda og þróunar Landspítala, 2rannsóknarstofu í
heilbrigðisfræði, læknadeild, HÍ
oddnysgu@landspitali.is
Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að meta tengsl illa
skilgreindra sjúkdómsgreininga við dánartíðni vegna allra
dánarmeina, slysa og sjálfsmorða, hjá þeim sem útskrifaðir
voru af bráðamóttöku Landspítala Hringbraut. Um það bil
20% þessa hóps fengu sjúkdómsgreiningu í flokknum: einkenni,
merki og óeðlilegar klínískar útkomur.
Aðferðir: Þetta er framsýn rannsókn og rannsóknargögnin
eru rafrænar skrár frá bráðamóttöku Landspítala Hringbraut
á tímabilinu 1995-2001. Sjúkdómsgreiningar við útskrift
voru skráðar samkvæmt Alþjóðlegu sjúkdóma- og
dánarmeinaskránni. Þeir sem fengu illa skilgreindar greiningar
voru bornir saman við þá sem fengu skilgreindar líkamlegar
sjúkdómsgreiningar. Dánarmein voru fundin með tölvutengingu
við Dánarmeinskrá. Reiknuð voru staðlað dánarhlutfall,
áhættuhlutfall og öryggismörk (ÖM) þar sem notuð var tímaháð
fjölþáttagreining.
Niðurstöður: Dánarhlutföll vegna þeirra sem fengu illa
skilgreinda sjúkdómsgreiningu miðað við dánartölur þjóðarinnar
voru 1,57 fyrir karla og 1,83 fyrir konur. Áhættuhlutfall vegna
slysa var 1,64 (95% ÖM 1,07-2,52) og vegna sjálfsmorða 2,08
(95% ÖM 1,02-4,24) fyrir þá sem útskrifaðir voru heim með
illa skilgreinda sjúkdómsgreiningu miðað við þá sem fengu
skilgreinda líkamlega sjúkdóms greiningu.
Ályktun: Þeir sem útskrifaðir voru heim af bráðamóttökunni
og fengu greiningu í flokknum: einkenni, merki og óeðlilegar
klínískar útkomur, skipa sér í nýjan áður óþekktan hóp
sjúklinga, sem er síðar í meiri sjálfsmorðs hættu en aðrir.
Forvarnir gegn sjálfsmorðum ættu að beinast að þessum hópi ef
frekari rannsóknir styðja það.
V 18 Miðlægt andkólínvirkt heilkenni í kjölfar eins meðferðarskammts
af prometazíni
Elísabet Benedikz1, Guðborg A. Guðjónsdóttir1, Leifur Franzson1, Jakob
Kristinsson1,2
1Eitrunarmiðstöðin, slysa- og bráðasviði, Landspítala, 2rannsóknarstofu í
lyfja- og eiturefnafræði, HÍ
ebenedik@landspitali.is
Inngangur: Miðlægt andkólínvirkt heilkenni (central
anticholinergic syndrome) er hliðstætt eitrunareinkennum
atrópíns á miðtaugakerfið. Útlæg andkólínvirk einkenni geta
einnig komið fram. Lyf sem hafa andkólínvirk áhrif geta
valdið heilkenninu. Hægt er að nota fýsóstigmin, sem hemur
asetýlkólínesterasa miðlægt, sem mótefni. Prómetazín er
fentíazínafleiða sem hamlar verkun histamíns og asetýlkólíns.
Hér er lýst hvernig einn venjulegur meðferðarskammtur af
prómetazíni olli miðlægu andkólínvirku heilkenni.
Sjúkratilfelli: 44 ára karlmaður var lagður inn vegna yfirliða
og hjartsláttartruflana. Hann var með væga greindarskerðingu
og fyrri sögu um flogaveiki (petit mal), endurteknar
öndunarfærasýkingar, sarkóídósu, óljósa brjóstverki og
hjartsláttartruflanir. Hann tók engin lyf. Um nóttina kvartaði
hann yfir því að geta ekki sofið. Vakthafandi deildarlæknir lét
gefa honum prómetazín 50 mg po. Tveimur klukkustundum
síðar var sjúklingurinn óáttaður og æstur. Honum voru þá gefin
50 mg til viðbótar af prómetazíni og zópiklón 7,5 mg. Varð
hann þá ennþá æstari og óviðráðanlegri. Reynt var að róa hann
með halóperidóli í æð, sem ekki bætti ástandið. Við skoðun var
sjúklingurinn með óráði og náðist ekkert samband við hann en
inn á milli var hann sofandalegur. Hann hafði mikinn mótor
óróa og varð því að setja á hann fjötra. Hann var með víð
sjáöldur og heita, þurra húð. Blóðþrýstingur var eðlilegur og
hjartsláttur var 100 slög á mínútu. Líkamshiti var 37,5 °C. Kviður
var þaninn og þarmahreyfingar minnkaðar. Þrátt fyrir vökvagjöf
hafði hann ekki losað þvag í meira en sex klukkustundir.
Sjúkdómsgreiningin, miðlægt andkólínvirkt heilkenni, var
byggð á sögu og klínísku ástandi sjúklingsins. Skammtur af
fýsóstigmíni (1 mg í æð) var gefinn og hurfu þá einkennin innan
nokkurra mínútna.
Ályktun: Skyndilegt óráð eftir gjöf róandi lyfja og/eða geðlyfja
sem hafa andkólínvirk áhrif geta verið merki um miðlægt
andkólínvirkt heilkenni og ætti að forðast að nota önnur lyf með
sambærilega verkun. Í þessum tilfellum má reyna meðferð með
fýsóstigmíni séu engar frábendingar til staðar.
V 19 Úthlutun verkefna meðal hjúkrunarfræðinga á bráðadeildum
Bylgja Kærnested1, Helga Bragadóttir2
1Lyflækningasviði I, Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild HÍ
bylgjak@landspitali.is
Inngangur: Úthlutun verkefna er ein af þeim óbeinu
hjúkrunarmeðferðum sem hjúkrunarfræðingar þurf að kunna
skil á og vera færir í.
Markmið: Að varpa ljósi á hvaða verkefnum hjúkrunarfræðingar
úthluta til sjúkraliða og annarra starfsmanna, að skoða hversu
reiðubúnir hjúkrunarfræðingar eru til að úthluta verkefnum,
hvert viðhorf þeirra er til úthlutunar verkefna, hvaða þættir
tengjast úthlutun verkefna hjúkrunarfræðinga, og hvað hvetur
og letur úthlutun verkefna.
Aðferð: Rannsóknin var lýsandi og úrtakið þægindaúrtak.
Þátttakendur vor allir fastráðnir hjúkrunarfræðingar (N=96)
sem störfuðu á fimm deildum á Lyflækningasviði I á Landspítala
í febrúar 2005. Notast var við skriflegan spurningalista.
Svarhlutfall var 71%.
Niðurstöður: Niðurstöður rannsóknar gefa til kynna að algengast
sé að hjúkrunarfræðingar úthluti einföldum umönnunarstörfum
til sjúkraliða en skrifstofustöfum og störfum tengdum umhverfi
deilda til annarra starfsmanna. Almennt töldu þátttakendur
sig undir miklu vinnuálagi. Þrátt fyrir að flestir teldu að
úthlutun verkefna fæli í sér tímasparnað taldi 17% þeirra sig
ekki hafa tíma til að úthluta verkefnum á viðeigandi hátt. 23%
þátttakenda voru óvissir um eða þekktu ekki lagalega ábyrgð
sína við úthlutun verkefna. 35% voru óvissir eða töldu ekki
nægjanlega skýrt hvaða verkefnum væri heimilt að úthluta
og að ábyrgð þeirra á hjúkrunarverkum hamlaði úthlutun til
annarra. Ríflega fjórðungur taldi sig ekki geta úthlutað eins
miklu og þeir vildu þar sem þeir töldu aðstoðarmenn sína skorta
reynslu. Helmingur þátttakenda taldi mikinn tíma fara í að
vinna verkefni sem ekki krefjast fagkunnáttu þeirra og næstum
allir (89%) töldu að starfskrafta sjúkraliða mætti nýta betur
með úthlutun verkefna. 65% hafði áhugi á að sækja námskeið
í úthlutun verkefna. Yngri og reynsluminni hjúkrunarfræðingar
úthlutuðu minna og voru óöruggari í úthlutun verkefna en þeir
eldri og reynslumeiri,
Ályktun: Niðurstöður benda til að auka megi færni
hjúkrunarfræðinga í úthlutun verkefna og þannig lágmarka
þann tíma sem þeir eyða í störf sem ekki krefjast fagkunnáttu
þeirra.
V 20 Vitræn starfsemi í geðklofa og áhrif Neuregulin 1
Brynja B. Magnúsdóttir1,2, H.M. Haraldsson1, R. Morris2, R. Murray2 , E.
Sigurðsson1, Hannes Pétursson1, Þórður Sigmundsson1
1 Geðdeild Landspítala, 2 Institute of Psychiatry, London
brynjabm@landspitali.is
Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt fram á fylgni milli Neuregulin
1 gensins (NRG1) og geðklofa1. NRG1 tekur þátt í tjáningu og
virnki NMDA, sem er glútamat viðtaki. Tengsl eru talin vera á
milli neikvæðra einkenna geðklofa og skertrar glútamatvirkni.
Neikvæð einkenni hafa einnig verið tengd verri frammistöðu
á taugasálfræðilegum prófum og erfiðari sjúkdómi. Markmið
þessarar rannsóknar er að kanna áhrif NRG1 á vitræna
starfsemi í geðklofa.
Aðferð: Þátttakendum var skipt í tvo hópa eftir því hvort þeir
hefðu íslensku 5 SNP áhættuarfgerðina á NRG1, 77 sjúklingar
með geðklofa (38 með og 39 án áhættuarfgerðarinnar) og 76
heilbrigðir einstaklingar (28 með og 48 án áhættuarfgerðarinnar).
Taugasálfræðipróf sem meta m.a. minni, stýrihæfni og athygli
voru lögð fyrir þátttakendur.
Niðurstöður: Niðurstöður benda til tilheigingar til verri
útkomu geðklofasjúklinga með áhættuarfgerðina á
taugasálfræðilegum prófum samanborið við geðklofasjúklinga
án áhættuarfgerðarinnar á nánast öllum taugasálfræðilegum
mælingum. Munurinn er þó ekki marktækur. Ekki kom fram
marktækur munur á frammistöðu heilbrigðs samanburðarhóps
með áhættuarfgerðina þegar hann var borinn saman við
samanburðarhóp án áhættuarfgerðarinnar .
Ályktun: Niðurstöðurnar gefa til kynna að NRG1 hafi
hugsanlega áhrif á vitræna starfsemi í geðklofa en frekari
rannsókna með stærri úrtökum er þörf.
V 21 Forvarnir þunglyndis með margmiðlun
Eiríkur Örn Arnarson1, Sjöfn Ágústsdóttir2 , W. Ed Craighead3
1Sálfræðiþjónustu Landspítala, læknadeild HÍ, 2Félagsvísindadeild HÍ,
3Emory University, Georgíu, Bandaríkjunum
eirikur@landspitali.is
Inngangur: Þunglyndi er algengt og þungbært. Talið er að um
helmingur ungmenna sem greinist með mörg einkenni þunglyndis
á aldrinum 14-15 ára fái fyrsta þunglyndiskastið (MDE: major
depressive episode) fyrir tvítugt. Neikvæður þankagangur sem
einkennir þunglyndi mótast á táningsaldri. Verkefnið beinist
að því að nýta margmiðlunartækni til að setja fram námskeið
byggt á hugmyndum hugrænnar atferlismeðferðar og ætlað að
fyrirbyggja þróun þunglyndis meðal ungmenna. Námskeiðið
Hugarheill tekur 12 vikur/28 stundir hefur þegar verið þróað
með forvarnir að leiðarljósi og árangur þess marktækur. Mikil
og löng þróunarvinna er að baki námsefninu, sem sett er fram á
uppeldisfræðilegan hátt.
Efniviður og aðferðir: Efni Hugarheillar hefur verið fært á
form margmiðlunar í þeim tilgangi að höfða til ungmenna og
sjónum beint að viðbrögðum þeirra við vandamálum. Námsefni
miðar að því að kenna unglingum að taka á niðurrifshugsunum
og neikvæðum skýringarstíl; með því að hafa áhrif á hugsun
og hegðun sé hægt að breyta líðan. Ungmenni fá fræðslu og
leiðbeiningar og úrlausn vandamála kennd. Markmið verkefnis
er að nýta tækni margmiðlunar við að fyrirbyggja fyrsta
þunglyndiskast ungmenna og þróa árangursríka forvörn við
þunglyndi.
Ályktanir: Það er nýnæmi í meðferð sálrænna vandkvæða að
nýta margmiðlun. Hefðbundin sálfræðileg meðferð er að jafnaði
veitt einstaklingum eða fleirum. Því er brýnt að leita leiða til
að ná til sem flestra á sem hagkvæmastan hátt. Margmiðlun
opnar nýjar leiðir og gæti orðið kjöraðferð til þess. Ávinningur
að koma efninu á form margmiðlunar er margvíslegur. Þannig
gæti orðið mögulegt að bjóða efnið í skólum, á spítulum,
heilsugæslustöðvum og innan félagmálageirans og ná til fleiri
en nú er unnt, kenna aðferðir til að takast á við þunglyndi og
byrgja brunninn.
Hér er ný aðferð til að fyrirbyggja/meðhöndla þunglyndi,
sjálfshjálparefni gert aðgengilegra og miðill sem höfðar til yngri
kynslóðarinnar nýttur til að koma á framfæri sjálfshjálparefni
ætluðu að koma í veg fyrir þróun þunglyndis og meðhöndla
það.
V 22 Áreiðanleiki árangursmælitækisins Clinical Outcomes
for Routine Evaluation – Outcome Measure (CORE-OM)
Eva Dögg Gylfadóttir1, Hafrún Kristjánsdóttir1, Daníel Ólason2, Jón Friðrik
Sigurðsson1,3
1Geðsviði Landspítala,2sálfræðideild HÍ, 3læknadeild HÍ
jonfsig@landspitali.is
Inngangur: Sífellt aukin áhersla hefur verið lögð á rannsóknir
á árangursmati meðferðar. CORE-OM árangursmatslistinn er
ávöxtur slíkrar vinnu. Hann nýtist til að meta árangur meðferðar
óháð kenningarlegum bakgrunni hennar. CORE-OM er ætlað
að meta grunnþætti í líðan skjólstæðinga eins og vellíðan (well-
being), ýmis kjarnaeinkenni geðraskana (problems/symptoms),
virkni (functioning) og áhættu (risk). Heildarstig þáttanna að
undanskildum þeim sem metur áhættu gefur til kynna vanlíðan.
Áreiðanleiki og réttmæti listans hefur verið staðfest í Bretlandi.
Markmið: Markmiðið er að kanna próffræðilega eiginleika
íslensku útgáfunnar af CORE-OM.
Aðferð: CORE-OM var lagður fyrir 595 þátttakendur. Af þeim
voru 207 háskólastúdentar, 290 skjólstæðingar við upphaf fimm
vikna hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) við þunglyndi og
kvíða á heilsugæslustöðvum og 98 skjólstæðingar við upphaf
fimm vikna HAM meðferðar á göngudeild geðdeildar.
Niðurstöður: Áreiðanleiki CORE-OM var viðunandi og
marktækur bæði í almenna úrtakinu og klínísku úrtökunum.
Innri áreiðanleiki er fullnægjandi fyrir alla þættina að
undanskildum áhættuþættinum þar sem hann reyndist miðlungs.
Endurprófunaráreiðanleiki var kannaður í háskólaúrtakinu.
Listinn var lagður fyrir með vikumillibili og byggja niðurstöðurnar
á svörum 154 nemenda. Endurprófunaráreiðanleiki CORE-OM
er viðunandi. Stöðugleiki þáttanna er góður (0,75-0,80) nema
fyrir áhættuþáttinn (0,48).
Umræða: Niðurstöður benda til þess að próffræðilegir
eiginleikar CORE-OM séu viðunandi þar sem hann uppfyllir
hefðbundin viðmið um áreiðanleika og réttmæti mælitækja.
CORE-OM gæti verið gagnleg viðbót við þau mælitæki sem nú
eru í notkun á göngudeild geðdeildar Landspítala, einkum sem
staðlað verklag til að meta árangur
V 23 Gildi afbrigðilegra augnhreyfinga sem innri svipgerðar
í rannsóknum á arfgerð geðklofa á Íslandi
H. Magnús Haraldsson1, Ulrich Ettinger2, Brynja B. Magnúsdóttir1,2, Þórður
Sigmundsson1, Engilbert Sigurðsson1, Hannes Pétursson1
1Landspítala, 2Institute of Psychiatry, King´s College, London
hmagnus@landspitali.is
Inngangur: Afbrigðilegar augnhreyfingar („antisaccade“=AS
og „smooth pursuit“=SP) eru mögulegar innri svipgerðir sem
kunna að nýtast í rannsóknum á arfgerð geðklofa. „Prosaccade“
(PS) og „fixation“ (F) eru samanburðarmælingar fyrir AP og
SP. Flestar rannsóknir hafa sýnt að sjúklingar með geðklofa
og nánir ættingjar þeirra hafa meiri frávik á mælingum þessara
augnhreyfinga en heilbrigðir. Þessi frávik kunna að orsakast af
svipuðum truflunum í heilastarfsemi og sum einkenni geðklofa.
Markmið: Að rannsaka gildi AS og SP augnhreyfinga sem innri
svipgerða í íslensku þýði vegna leitar að áhættuarfgerðum
geðklofa.
Aðferðir: Augnhreyfingar voru mældar með innrauðri ljóstæk
ni (infrared oculography) hjá pöruðum hópum sjúklinga með
geðklofa (N=118) og heilbrigðra (N=109). Mældar voru AS og
PS augnhreyfingar til samanburðar annars vegar og hins vegar
SP augnhreyfingar (á þremur hraðastigum; 0,25, 0,50 og 0,75
Hz) og F-mæling til samanburðar.
Niðurstöður: Sjúklingar með geðklofa höfðu marktækt meiri
frávik á öllum helstu AP og SP mælingum. Munurinn á
hópunum jókst með auknum hraða. Innra samræmi mælinga
var hátt fyrir allar breytur í báðum hópum að undanskildri AS
rýmisvillu (spatial error): Cronbach´s alpha > 0,77 fyrir AS og >
0,85 fyrir SP, PS og F.
Ályktun: Veruleg frávik í AS og SP augnhreyfingum eru til
staðar í stórum hópi íslenskra geðklofasjúklinga. Næsta skref
er að nota þessar áreiðanlegu mælingar sem innri svipgerð í
rannsóknum á mögulegum áhættuarfgerðum geðklofa í íslensku
þýði.
V 24 Fyrsta og annars stigs innsæisleysi (anosognosia) í
Alzheimerssjúkdómi – kynning á vitrænu módeli
Kristín Hannesdóttir1, R.G. Morris2,
1Geðsviði Landspítala, 2 Institute of Psychiatry, King’s College, University
of London
khannesd@landspitali.is
Inngangur: Innsæi er oft skert hjá einstaklingum með
Alzheimerssjúkdóm. Markmið þessarar rannsóknar var annars
vegar að hanna vitrænt módel til að útskýra mismunandi stig
innsæisleysis og hins vegar að skoða þrenns konar aðferðir til að
meta innsæi í Alzheimerrsjúkdómi og bera saman niðurstöður
þeirra við módelið auk frammistöðu á taugasálfræðilegum
prófum.
Aðferð: 92 sjúklingar með Alzheimerssjúkdóm (meðalaldur
=75.30±6.54) og 92 viðmið, pöruð á aldri tóku þátt í rannsókninni.
Auk þess tóku 184 aðstandendur þátt. Innsæi var metið út frá 1)
klínísku mati (Experimenter Rating Scale; ERS), 2) samanburði
á mati aðstandanda og sjúklings á vitrænni getu sjúklings
(Subjective Rating Discrepancy; SRD) og 3) samanburði á mati
sjúklings á eigin frammistöðu og raunverulegri frammistöðu á
taugasálfræðilegum prófum (Objective Judgement Discrepancy;
OJD). Niðurstöður þessara mælitækja voru skoðuð með tilliti
til minnisgetu, máls, sjónrænnar úrvinnslu og stýrikerfis heilans
með því markmiði að kanna hvort skerðing á vitrænni getu gæti
átt þátt í myndun innsæisleysis í Alzheimerssjúkdómi.
Niðurstöður: Marktækt samband fannst aðeins á milli OJD
mælingarinnar og frammistöðu á minnisprófum og á milli OJD
mælingarinnar og tíðni á ákveðnum villum (intrusion errors)
sem talin eru tengjast stýrikerfi heilans.
Ályktun: Skert minnisgeta og stýrikerfi heilans kunna að hafa
áhrif á tafarlaust innsæi í vitræna getu (annars stigs innsæisleysi).
Slík vitræn geta hefur hinsvegar síður áhrif á langtíma innsæi
í vitræna getu (fyrsta stigs innsæisleysi) sem stýrist frekar af
hrörnun á ‘metahugsun’ (metacognition).
V 25 Taugasálfræðileg og segulómunarrannsókn á vitrænni
skerðingu í háþrýstingi og samband hennar við
hvítavefsbreytingar í heilanum
Kristín Hannesdóttir1,2, Nitkunan A2, Charlton RA2, Barrick TR2,
MacGregor GA3, Markus HS2
1Geðsviði, Landspítala, 2Clinical Neuroscience, 3Blood Pressure Unit, St
Georges University of London
khannesd@landspitali.is
Inngangur: Háþrýstingur getur haft skaðleg áhrif á vitræna getu
óháð afleiðingum heilablóðfalla og hvítavefsbreytinga. Vitræn
skerðing kemur einna helst fram í þáttum sem reyna á athygli,
stýrikerfi heilans og hugrænan hraða.
Aðferð: Framkvæmd var hefðbundin segulómunarrannsókn
(MR) auk nýrrar sveimi segulómsskoðunar (diffusion tensor
imaging; DTI) til að rannsaka hugsanlegar hvítavefsbreytingar og
samband þeirra við taugasálfræðilega frammistöðu einstaklinga
með meðhöndlaðan háþrýsting annars vegar og ómeðhöndlaðan
háþrýsting hins vegar. Einnig var gerð litrófsgreining (magnetic
resonance spectroscopy) til að skoða hugsanlegar breytingar
á efnaskiptum. Fjörutíu einstaklingar með meðhöndlaðan
háþrýsting (meðalaldur = 69,3 ± 11,3, 60% karlar), 30 viðmið,
pöruð á aldri (meðalaldur = 68,2 ± 8,5, 53% karlar) og 10
einstaklingar með ómeðhöndlaðan háþrýsting (meðalaldur =
58,1 ± 6,1, 50% karlar) tóku þátt í rannsókninni.
Niðurstöður: Minnistap greindist í einstaklingum með
meðhöndlaðan háþrýsting. Taugasálfræðileg frammistaða var
einnig skert hjá einstaklingum með ómeðhöndlaðan háþrýsting,
en skerðingin kom aðallega fram á prófum sem reyna á
stýrikerfi heilans og hugrænan hraða. Það fannst ekkert
marktækt samband á milli vitrænnar getu og myndgreiningar í
einstaklingum með meðhöndlaðan háþrýsting. Hins vegar kom í
ljós marktækt samband hjá einstkalingum með ómeðhöndlaðan
háþrýsting á milli frammistöðu á prófum sem reyna á stýrikerfi
heilans og athygli og stig meðalflæðis (mean diffusivity values;
r=0,805, p=0,016). Einnig fannst marktækt samband a milli
hugræns hraða og NAA/tCr útkomu litrófsgreiningar (r=0,853,
p=0,015).
Ályktun: Þessar niðurstöður gefa til kynna að vitræn geta sé
skert í háþrýstingi. Hins vegar er mynstur skerðingarinnar ólík
hjá einstaklingum með meðhöndlaðan og ómeðhöndlaðan
háþrýsting. Ekki er vitað með vissu hvaða líffræðilegu
breytur liggja hér að baki, en ef til vill finnast vísbendingar í
sambandi taugasálfræðilegrar frammistöðu og útkomu á MR
myndgreiningu.
V 26 Íslenskir unglingar sem misnota aðra kynferðislega.
Hvaða bakgrunnsþættir greina þá frá öðrum unglingum?
Jón Friðrik Sigurðsson1, Gísli H. Guðjónsson3, Bryndís Björk Ásgeirsdóttir4,
Inga Dóra Sigfúsdóttir4
1HÍ, 2geðsviði Landspítala, 3Institute of Psychiatry, King’s College,
University of London, 4Háskólanum í Reykjavík
jonfsig@landspitali.is
Inngangur: Á síðustu árum hefur mönnum orðið ljóst að
börn og unglingar misnota stundum aðra kynferðislega og
að slík misnotkun er sjaldnast tilkynnt opinberum aðilum.
Samfélagsrannsóknir á meðal ungmenna gefa til kynna að um
þrjú prósent unglingsdrengja hafi beitt aðra einhvers konar
kynferðislegu ofbeldi.
Markmið: Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna muninn á
íslenskum unglingum sem segjast hafa beitt aðra kynferðislegu
ofbeldi og hinum sem ekki segjast hafa gert það.
Aðferð: Þátttakendur voru 9533 nemendur í 38 framhaldsskólum
á Íslandi sem svöruðu spurningum um félagslegan bakgrunn,
nám, fjölskyldu- og félagatengsl, líðan og lífsstíl og spurningu
um hvort þeir hefðu sannfært, þvingað eða neytt aðra
til kynferðislegra athafna. Hópurinn samanstóð af 4488
(47%) drengjum og 5012 (53%) stúlkum á aldrinum 15-24
ára. Rannsóknin var unnin af Rannsóknum og greiningu í
samvinnu við Barnaverndarstofu, Menntamálaráðuneytið og
Lýðheilsustöð.
Niðurstöður: Alls sögðu 344 (4,6%) unglingar hafa sannfært,
þvingað eða neytt aðra til kynferðislegra athafna, 212 (4,7%)
drengjanna og 130 (2,6%) stúlknanna (Kí-kvaðrat=30,95, fg=1,
p<0,001). Fleiri drengir en stúlkur sögðust hafa gert þetta
oftar en einu sinni (Kí-kvaðrat=9,54, fg=1, p<0,01). Drengir
sem sögðust hafa misnotað aðra kynferðislega voru rúmlega
tíu sinnum líklegri en hinir til að skýra frá því að þeir hefðu
sjálfir orðið fyrir kynferðislegri misnotkun, stúlkur átta sinnum
líklegri.
Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa til kynna
að alvarleg áhrif kynferðislegrar misnotkunar geti þróast í
afbrigðilega kynhegðun hjá unglingum.
V 27 Sjálfsvígstilraunir meðhöndlaðar á gjörgæsludeild
Landspítala Fossvogi 2000-2004
Kristinn Örn Sverrisson1, Sigurður Páll Pálsson2, Kristinn Sigvaldason1,
Sigurbergur Kárason1
1Svæfinga- og gjörgæsludeild, 2geðdeild Landspítala
skarason@landspitali.is
Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að fá upplýsingar
um þann sjúklingahóp sem þarfnast vistunar á gjörgæslu eftir
alvarlegar sjálfsvígstilraunir og afdrif hans.
Aðferðir: Aftursæ rannsókn á gögnum sjúklinga sem lagðir
höfðu verið inn á gjörgæsludeild Landspítala Fossvogi á árunum
2000-2004 vegna sjálfsvígstilraunar.
Niðurstöður: Á tímabilinu var 191 innlögn á gjörgæslu
Landspítala Fossvogi vegna sjálfsvígstilraunar, 16 (8%) voru
lagðir inn oftar en einu sinni. Sjúklingarnir voru 172, 64 (37%)
karlar (meðalaldur 37 ár, bil 14-73) og 108 (63%) konur
(meðalaldur 38, bil 13-77). Alls 53 (31%) höfðu áður reynt
sjálfsvíg. Í 90% tilvika var um lyfjaeitrun að ræða, algengust voru
bensódíasepín (42%) en þvínæst þríhringlaga geðdeyfðarlyf
(24%). 75% tóku inn fleiri en eitt lyf og áfengi kom við sögu
í 61% tilvika. 56 (29%) manns komu á bráðamóttöku <1
klukkustund eftir töku lyfja, 79 (41%) >1 klukkustund eftir hana
en hjá 56 (29%) var ekki vitað hvort/hvenær lyfin voru tekin.
Hjá 45% í hverjum þessara þriggja hópa var gerð magaskolun
og gefin lyfjakol. 61 (32%) tilfelli var barkaþrætt, miðgildi tíma
í öndunarvél var 13 klukkustundir (bil 1 klst.-32 d.), þrír þurftu
blóðskilun vegna lyfjaeitrunar og einn vegna nýrnabilunar.
Miðgildi APACHE-stigunar karla var 12 og kvenna 11. Miðgildi
gjörgæsludvalar var 20 klukkustundir (bil 2 klst.- 35 d.). Fjórir
(2%) sjúklingar létust á gjörgæslu, tveir (1%) á legudeild. Frá
gjörgæslu útskrifuðust 168 sjúklingar, 40 (22%) fóru beint á
geðdeild, 95 (53%) á lyfjadeild og 28 (16%) heim. Innlagðir á
geðdeild urðu alls 76 (45%), 65 (37%) var fylgt eftir á göngudeild
geðdeildar eða einkastofu. Algengasta aðalgeðgreining var fíkn
(46%), þar næst þunglyndi (22%). Alls voru 26% karlanna
giftir og 29% kvennanna. 11% karla voru í sambúð en 29%
kvenna.17% karla voru fráskildir en 24% kvenna. 40% karla
voru einstæðir en 16% kvenna. Af hópnum voru 33% starfandi,
42% á bótum og 14% atvinnulausir. Sjúklingum var fylgt eftir
í 3-7 ár. Á þeim tíma létust 17, eða 10% af heildarhópnum. Á
fyrsta ári eftir útskrift af gjörgæslu létust fimm, á öðru ári fimm
og á þriðja ári sjö, en engir eftir það. Samtals létust því 23 (13%)
af heildarhópnum. Fjölþátta aðhvarfsgreining sýndi að fjöldi
tekinna taflna hafði forspárgildi um dánarlíkur eftir fyrstu komu
á gjörgæslu en ekki kyn, aldur, félagsleg staða, APACHE-stigun,
fyrri sjálfsvígstilraunir né aðalgeðgreining.
Umræða: Þetta er ungur sjúklingahópur, meirihluti konur,
endurteknar tilraunir eru algengar, fíkn er algeng og félagslegar
kringumstæður oft erfiðar. Dánarhlutfall var 3% á gjörgæslu/
sjúkrahúsi sem er hátt fyrir aldurshópinn og dánarhlutfall var
áfram hátt fyrstu þrjú árin eftir sjálfvígstilraun (10%) þrátt
fyrir að >80% væri fylgt eftir innan geðgeirans. Fjöldi tekinna
taflna hafði best forspárgildi varðandi síðari dánarlíkur sem
hugsanlega gefur til kynna hversu alvarlegur ásetningurinn er.
Svo virðist sem þessi sjúklingahópur sé í sérstakri áhættu og
hugsanlegt að auka megi lífslíkur hans með því að fylgja honum
nánar eftir og huga að félagslegum úrbótum fyrstu árin eftir
sjálfsvígstilraun.
V 28 Aðgreiningarhæfni þunglyndis- og felmturskvarða
PHQ skimunartækisins
Valdís E. Pálsdóttir1, Hafrún Kristjánsdóttir2, Guðmundur B. Arnkelsson1
1Félagsvísindadeild HÍ, 2geðsviði Landspítala
hafrunkr@landspitali.is
Inngangur: Samkvæmt breskum rannsóknum leita einstaklingar
með geðrænan vanda fyrst til heilsugæslu. Hérlendis virðist
þriðjungur skjólstæðinga heilsugæslu búa við geðrænan vanda
en meirihluti þeirra fær meðhöndlun hjá heilsugæslulæknum.
Almennt er talið að ómeðhöndlaðar lyndisraskanir hafi
alvarlegar afleiðingar og skjót og rétt greining og meðferð
því lykilatriði. Patient Health Questionnaire er 58 atriða
skimunarlisti fyrir átta geðröskunum og hentugur til notkunar
í heilsugæslu.
Markmið: Rannsókninni er ætlað að meta aðgreiningarhæfni
þunglyndis- og felmturskvarða PHQ.
Aðferð: Þátttakendur eru 203 einstaklingar sem tóku
þátt í hugrænni atferlismeðferð á nokkrum heilsugæslustöðum.
Allir þátttakendur svöruðu PHQ listanum og MINI
geðgreiningarviðtalinu.
Niðurstöður og umræður: Aðgreiningarhæfni þunglyndiskvarða
PHQ reyndist mjög góð, AUC = 0,88. Ef miðað er við 10
stig eða fleiri á myndu 83% þunglyndra finnast en aðeins
22% sem ekki þjást af þunglyndi myndu ranglega skimast
þunglyndir. Aðgreiningarhæfni felmturskvarða
PHQ er einnig
góð, AUC = 0,83 en erfiðara að finna góð viðmið sökum lágs
algengis í úrtakinu. Ef miðað er við 10 stig líkt og gert er á
þunglyndiskvarðanum
myndu minna 68,2% þeirra sem þjást
af felmtursröskun finnast, en 20% ranglega skimast með
felmtursröskun.
V 29 Mynstur öndunarhreyfinga hjá sjúklingum með nýgreint
slag
Guðbjörg Þóra Andrésdóttir1, María Ragnarsdóttir3, Haukur Hjaltason2,
Elías Ólafsson2,4
1Sjúkraþjálfun B1, Landspítala, 2taugalækningadeild Landspítala, 3sjúkraþjálfun
14D Hringbraut, 4læknadeild HÍ
gthora@landspitali.is
Inngangur: Truflanir á öndun sjást oft hjá sjúklingum með
nýgreint slag, en fáir hafa rannsakað þetta.
Markmið rannsóknarinnar voru að kanna hvort mynstur
öndunarhreyfinga sjúklinga með nýgreint slag er
1. eins og hjá heilbrigðum einstaklingum,
2. eins, hvort sem slagið er í vinstra eða hægra heilahveli.
Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru einstaklingar sem
lagðir voru inn á taugalækningadeild Landspítala vegna
bráðaslags á 22 mánaða tímabili (9/´04 til 7/´06) og voru með
verulega hreyfiskerðingu. Útilokaðir voru einstaklingar með
lungnasjúkdóma, hjartabilun, mikið málstol, heilabilun, aðra
sjúkdóma sem truflað gætu færni, slag í heilastofni og fyrra slag
í gagnstæðu heilahveli. Öndunarhreyfingar allra voru mældar
með ÖHM-Andra sem mælir hreyfingar kviðar og brjóstkassa.
Líkamleg geta var metin með MAS-kvarða. Einkenni gaumstols
voru metin með stafaútstrikunarprófi.
Niðurstöður: Þátttakendur voru 18, 10 með lömun í vinstri
líkamshelmingi (meðalaldur 62,2± 14,2 ár) og 8 með lömun í þeim
hægri (meðalaldur 65,1± 8,9 ár). Tíðni og ferill öndunarhreyfinga
í hvíldaröndun var óreglulegur hjá sex einstaklingum, (4 með
Cheyne-Stokes öndun) og enn óreglulegri í djúpöndun, einkum
hjá vinstri lömuðum. Rannsóknarhópurinn var með marktækt
meiri óreglu (p=0,003) í djúpöndun í ferli öndunarhreyfinga en
einstaklingar án taugasjúkdóma (14 hryggiktarsjúklingar), en
óregla á tíðni í djúpöndun var á mörkum þess að vera marktæk
(p=0,058). Meðalöndunartíðni slagsjúklinga var marktækt
örari en heilbrigðra í hvíld (p<0,05) og djúpöndun (p<0,001).
Ferill öndunarhreyfinga var marktækt minni hjá einstaklingum
með slag en heilbrigðum í djúpöndun (p<0,001). Ekki var
marktækur munur á hægri og vinstri lömuðum í öndunartíðni,
reglu í öndunartíðni, reglu í ferli öndunarhreyfinga og magni
öndunarhreyfinga.
Ályktanir: Einstaklingar með slag sýndu mikla óreglu í ferli
og tíðni öndunarhreyfinga. Einnig var öndunartíðni hærri og
öndun grynnri en hjá heilbrigðum, einkum í djúpöndun. Þetta
er í fyrsta sinn sem vísbendingar koma fram um að mynstur
öndunarhreyfinga sé truflað hjá sjúklingum eftir slag í heilahveli,
en frekari athuganir þarf til að draga víðtækari ályktanir.
V 30 Íslensk viðmið fyrir orðaflæðispróf
María K. Jónsdóttir1, 2, Anton Örn Karlsson2
1Landspítala, 2HÍ
marijon@landspitali.is
Inngangur: Svokallað orðaflæðispróf (e. verbal fluencey) er
algengt taugasálfræðilegt próf. Gerður er greinarmunur á
tvenns konar orðaflæði; merkingarflæði (t.d. telja upp dýr) og
hljóðungaflæði (telja upp orð sem byrja á ákveðnum bókstaf).
Margar rannsóknir á réttmæti og áreiðanleika orðaflæðisprófsins
liggja fyrir erlendis. Litlar rannsóknir hafa verið gerðar á prófinu
hérlendis og ófullnægjandi viðmið eru til.
Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að leggja orðaflæðispróf
fyrir stóran hóp Íslendinga og útbúa viðmið sem myndu nýtast í
klínísku starfi og rannsóknum.
Aðferðir: Þátttakendur voru 467 og voru valdir af hentugleika.
Aldursspönnin var 18-65 ár (M = 38; sf = 13,3). Konur voru
52% þátttakenda. Hlutfall í aldurshópum og kynjaskipting var
í góðu samræmi við þýðið. Þeir sem höfðu sögu um alvarlega
höfuðáverka eða heilasjúkdóma voru undanskildir þátttöku.
Námsferill þátttakenda var flokkaður í grunnskólamenntun,
framhaldsskóla- eða iðnmenntun og háskólamenntun. Störf
voru flokkuð samkvæmt Ístarf-95 starfaflokkunarkerfinu.
Hljóðunga- og merkingarflæði var lagt fyrir alla þátttakendur
í sömu röð og með stöðluðum fyrirmælum. Í hljóðungaflæði
voru notaðir stafirnir H, S og F. Í merkingarflæði voru notaðir
flokkarnir dýr, hljóðfæri og fatnaður. Þátttakendur fengu eina
mínútu til að leysa hvert verkefni fyrir sig.
Niðurstöður: Tengsl voru milli menntunar og starfs og
frammistöðu á hljóðunga- og merkingarflæði. Þeir sem voru
betur menntaðir eða sinntu störfum sem alla jafna krefjast meiri
menntunar stóðu sig betur. Ekki var algilt að kynjamunur væri í
frammistöðu þó hann kæmi fram á stöku stað (fatnaður).
Ályktun: Þau viðmið sem hér eru kynnt eru ekki eðlisólík
erlendum viðmiðum og því talin nothæf hér á landi. Þörf er
hinsvegar á að bæta við viðmiðum fyrir eldri hóp (> 65 ára).
V 31 Viðhorf skjólstæðinga til þjónustu iðjuþjálfa
Sigrún Garðarsdóttir1,2 Helga Kristín Gestsdóttir2, Jóhanna Hreinsdóttir2,
Sigrún Líndal Þrastardóttir2
1Iðjuþjálfun Landspítala Grensási, 2iðjuþjálfunarbraut Háskólans á
Akureyri
sigrgard@landspitali.is
Inngangur: Í dag eru einstaklingar farnir að gera kröfur um að
vera þátttakendur í þeirri heilbrigðisþjónustu sem þeir fá og vilja
taka ábyrgð á henni. Iðjuþjálfar hafa reynt að koma til móts við
þessar kröfur með því að veita skjólstæðingsmiðaða iðjuþjálfun
en hún leggur áherslu á samvinnu, gagnkvæma virðingu og
samábyrgð iðjuþjálfa og skjólstæðings. Heimildir sýna að
skjólstæðingsmiðuð iðjuþjálfun auka árangur í iðjuþjálfun og
ánægju skjólstæðinga með þjónustu iðjuþjálfa.
Markmið: Megintilgangur rannsóknarinnar var að kanna
viðhorf skjólstæðinga í endurhæfingu til þjónustu iðjuþjálfa
með því að fá upplýsingar um hvort þjónusta þeirra hafi verið
skjólstæðingsmiðuð, hversu ánægðir skjólstæðingar voru með
þjónustuna og hvort hún hafi borið árangur og þá hvernig.
Aðferðir: Spurningalisti var sérstakleg útbúinn og sendur
þátttakendum. Úrtakið var 38 manns sem notið höfðu þjónustu
iðjuþjálfa á Landspítala Grensási árið 2004 og féllu að skilyrðum
rannsóknarinnar. Svarhlutfall var 58%, eða 22 einstaklingar, 12
karlar og 10 konur. Lýsandi megindleg rannsóknaraðferð var
notuð við greiningu gagna.
Niðurstöður: Niðurstöður sýndu að viðhorf skjólstæðinga í
endurhæfingu til þjónustu iðjuþjálfa væri almennt jákvætt þar
sem flestir þátttakendur voru ánægðir með þjónustuna og
töldu að hún hafði borið árangur. Einnig voru sjö lykilþættir
skjólstæðingsmiðaðrar iðjuþjálfunar að mestu leyti hafðir að
leiðarljósi í þjónustu iðjuþjálfa en þremur þáttum var ekki
nægilega vel mætt, þeir eru: að iðjuþjálfi veitir upplýsingar, að
iðjuþjálfi hvetji skjólstæðing til þátttöku í öllu þjónustuferlinu
og að iðjuþjálfi efli skjólstæðing til að leysa eigin iðjuvanda.
Ályktanir: Með þessum niðurstöðum er hægt að sjá hvernig
best er að hátta þjónustunni eftir þörfum og óskum
skjólstæðinga og hvort þörf sé á breytingum í þjónustunni eða
þjónustufyrirkomulaginu.
V 32 Áhrif skynþjálfunar á jafnvægi hjá öldruðum
Bergþóra Baldursdóttir1, Ella K. Kristinsdóttir1,2
1Sjúkraþjálfun Landspítala Landakoti, 2Læknadeild HÍ
bergbald@landspitali.is
Inngangur: Með auknum aldri minnkar skyn í neðri útlimum
og hárfrumum fækkar í jafnvægiskerfi innra eyra. Þessar
aldurstengdu breytingar hafa mikil áhrif á jafnvægi og
jafnvægisviðbrögð aldraðra(1-4).
Markmið: Kanna hvort unnt er að bæta stöðustjórnun og
öryggi við athafnir daglegs lífs hjá öldruðum með örvun
stöðu-/hreyfiskyns og jafnvægiskerfis
innra eyra, auk þjálfunar
fallviðbragða.
Aðferðir: Þátttakendur voru 43 aldraðir sem komu í jafnvægismat
og þjálfun á Landakot vegna óstöðugleika. Þjálfunarhópur
1 (n=29) hóf þjálfun að loknum upphafsmælingum,
viðmiðunarhópur (n=14) þurfti að bíða í 2-6 mánuði eftir
þjálfun. Átta þáðu þjálfun að biðtíma loknum, þjálfunarhópur
2. Tími á: standa upp/setjast 5 sinnum, venjulegri og hraðri 30
metra göngu og stigagöngu, ásamt stigum á skynúrvinnsluprófi
og ABC- sjálfsmatskvarða, voru mæld fyrir og eftir þjálfun.
Sömu breytur voru bornar saman hjá viðmiðunarhópnum
fyrir og eftir biðtíma og þjálfunarhópum 1 og 2 við upphaf
þjálfunar. Áhrif þjálfunar á þátttakendur með staðfesta sjúkdómsgreiningu
frá miðtaugakerfi (n=6) var einnig könnuð.
Notuð var lýsandi tölfræði, Wilcoxon signed-rank og Mann-
Whitney próf, marktæknimörk p≤,05.
Niðurstöður: Marktækur munur var ekki á hópunum við
grunnmat og upphaf þjálfunar. Allar mælingar sýndu
marktækar framfarir (p≤,001) eftir þjálfun hjá þjálfunarhópi
1.Engar marktækar breytingar voru hjá viðmiðunarhópnum
á biðtímanum. Þjálfunarhópur 2 bætti sig marktækt (p≤,05),
nema á ABC-sjálfsmatskvarða. Þátttakendur með staðfesta
sjúkdómsgreiningu frá miðtaugakerfi
bættu sig marktækt
(p≤,05) á skynúrvinnsluprófi, göngu á venjulegum hraða og
stigagöngu.
Ályktun: Þjálfun sem beinist að örvun jafnvægiskerfis innra eyra,
stöðu-/hreyfiskyns og þjálfun fallviðbragða, bætir stöðustjórnun
og öryggi hjá öldruðum. Þjálfun sem beinist að örvun skynkerfa
sem mikilvæg eru í stöðustjórnun ætti að vera grundvöllur og
undanfari annarra æfingaforma sem beitt er í jafnvægisþjálfun
aldraðra. Þessi þjálfun virðist einnig gagnast þeim sem hafa
staðfestar sjúkdómsgreiningar
frá miðtaugakerfi.
V 33 Arfgerðin C4B*Q0 eykur hættu á kransæðastíflu og
tengdum dauðsföllum meðal þeirra sem reykja
Guðmundur Jóhann Arason1, Judit Kramer2, Bernadett Blaskó3, Ragnhildur
Kolka1, Perla Þorbjörnsdóttir1, Karolína Einarsdóttir1, Aðalheiður
Sigfúsdóttir1, Sigurður Þór Sigurðarson4, Garðar Sigurðsson4, Zsolt
Rónai3, Zoltán Prohászka3, Mária Sasvári-Székely3, Sigurður Böðvarsson4,
Guðmundur Þorgeirsson4, George Füst3
1Rannsóknastofnun Landspítala, ónæmisdeild, 2Jahn Ferenc Hospital,
Budapest, 3Semmelweis University, Búdapest, 4lyfjadeild Landspítala
garason@landspitali.is
Inngangur: Magnakerfið er einn öflugasti bólgumiðill
mannslíkamans. Tíðni arfgerðarinnar C4B*Q0 (ótjáð C4B úr
magnakerfinu) minnkar með aldrinum í úrtaki heilbrigðra
einstaklinga, og tengist aukinni áhættu á að fá hjartaáfall
og/eða heilablóðfall. Reykingar eru áhættuþáttur fyrir
kransæðasjúkdóm.
Markmið: Kanna samband reykinga og C4B*Q0 í kransæðasjúkdómi.
Aðferðir: Skoðaðir voru 74 íslenskir sjúklingar með hjartaöng,
84 með innlögn vegna kransæðastíflu, 109 með fyrri sögu um
slíkt og 382 heilbrigðir. Einnig 233 ungverskir sjúklingar með
alvarlegan kransæðasjúkdóm og 274 heilbrigðir. Reykingasaga
var tekin við komu, og fjöldi C4A og C4B gena metinn með
prótínrafdrætti eða PCR.
Niðurstöður: Tíðni C4B*Q0 var hækkuð í sjúklingum með
hjartaöng (p=0,02) eða kransæðastíflu (p=0,001) eftir reykingar,
og sama gilti um ungverska sjúklinga með alvarlegan
kransæðasjúkdóm (P=0,023). Á meðal þeirra sem ekki reyktu
var enginn munur milli sjúklinga og heilbrigðra. Á 66,5 mánaða
eftirfylgjutíma voru líkur á dauðsföllum C4B*Q0-arfbera með
hjartaáfall 7,78, óháð öðrum áhættuþáttum, og 85,7 á fyrstu sex
mánuðunum. Styrkur creatin kinase í blóði (sem endurspeglar
umfang hjartadreps) var hærri í þeim sem reyktu og voru með
C4B*Q0 (p=0,0019) miðað við aðra sjúklinga. Aldurstengt
brottfall C4B*Q0 sem áður hafði greinst í viðmiðunarhópi bæði
á Íslandi og í Ungverjalandi sást einungis meðal þeirra sem
reyktu, og sást strax eftir fimmtugt.
Ályktanir: C4B*Q0 arfgerðin stóreykur hættu reykingafólks á
því að fá hjartaáfall og deyja úr því.
V 34 Tengsl reykinga, arfgerðarinnar C4B*Q0 og langvinnrar
lungnateppu
Guðmundur Jóhann Arason1, Karolína Einarsdóttir1, Bryndís Benedikts–
dóttir2, Þórarinn Gíslason2,3
1Rannsóknastofnun Landspítala, ónæmisfræðideild, 2læknadeild HÍ,
3lungnadeild Landspítala
garason@landspitali.is
Inngangur: Reykingar eru sameiginlegur áhættuþáttur þess að
fá langvinna lungnateppu (LLT) og kransæðasjúkdóm, en þó
er margt óljóst um einstaklingsbundna áhættuþætti og þróun
meingerðar. Tíðni arfgerðarinnar C4B*Q0 (ótjáð C4B) minnkar
eftir miðjan aldur meðal þeirra sem reykja. Ástæða þessara
hlutfallslegu fækkunar C4B*Q0 arfbera eftir miðjan aldur hefur
verið rakin til þess að þeir hafa auknar líkur á að fá hjarta- og
heilaáföll.
Markmið: Kanna samband C4B*Q0 við LLT.
Aðferðir: Rannsóknarhópurinn var slembiúrtak Íslendinga á
höfuðborgarsvæðinu, 40 ára og eldri, sem tóku þátt í alþjóðlegri
faraldsfræðirannsókn á algengi LLT (www.kpchr.org/boldcopd).
Þátttakendur voru alls 758 (80% svörun). Langvinn lungnateppa
var skilgreind skv. alþjóðaviðmiðun (www.goldcopd.org).
Reyndust 131 (18%) með stig I af LLT eða hærra. Fjöldi C4A og
C4B gena var metinn með prótínrafdrætti.
Niðurstöður: Meðal 131 LLT sjúklinga voru 90 án sögu um
hjarta- og/eða æðasjúkdóma. Þar af reyktu 28 en 26 höfðu aldrei
reykt. Einstaklingar án LLT og kransæðasjúkdóms mynduðu
viðmiðunarhóp, þar af reyktu 77 en 229 höfðu aldrei reykt. Búið
er að greina 30% sýna og sýna þær niðurstöður að C4B*Q0
arfberar eru mun færri í hópi heilbrigðra sem eru eldri en 55
ára og reykja (p=0,08). Jafnframt sést að LLT sjúklingar sem
reykja eftir 55 ára aldur eru oftar arfberar C4B*Q0 (14%) en
viðmiðunarhópur (0%), sem styður tilgátu um að C4B*Q0 auki
áhættu reykingafólks á að fá LLT (p=0,05).
Ályktanir: Frumniðurstöður okkar samrýmast tilgátu um að
C4B*Q0 auki áhættu reykingafólks á að greinast með LLT.
Stærð þýðis okkar mun jafnframt veita möguleika á að skoða
samspilið við hjarta- og æðasjúkdóma ásamt sykursýki.
V 35 Þáttur IgA og komplementa í meingerð IgA nýrnameins
Ragnhildur Kolka, Sverrir Harðarson, Magnús Böðvarsson, Sigrún Laufey
Sigurðardóttir, Helgi Valdimarsson, Þorbjörn Jónsson
Ónæmisfræðideild, meinafræðideild, lyflækningadeild, blóðbankinn,
Landspítala
ragnhk@landspitali.is
Inngangur: IgA nýrnamein (IgA-N) einkennist af útfellingum
á IgA innihaldanadi ónæmisfléttum (IgA-IC) í nýrnagauklum.
Þessar útfellingar valda bólgu og starfsemisskerðingu, og í
sumum tilvikum nýrnabilun. Komplementþættir sem tilheyra
bæði styttri ferlinum (alternative pathway, AP) og lektínferlinum,
svo sem mannan bindilektín (MBL), C3 og C4, finnast alloft
í þessum útfellingum. Því hefur verið haldið fram að þessar
ónæmisútfellingar geti stafað af gallaðri sykrun (glycosylation)
á IgA, sem leiði til skertrar hreinsunar á IgA-IC.
Markmið: Að meta magn og virkni lektínferilsins, ýmissa
komplementþátta og IgA-IC og hjá sjúklingum með IgA
nýrnamein. Einnig að rannsaka sykrun á IgA1 sameindum með
tilliti til galla og athuga hvort slíkir gallar tengist vanstarfsemi í
komplementkerfinu, einkum lektinferlinu.
Aðferðir: 1) Sjúklingar og sýni. Blóðsýnum, bæði sermi og
EDTA blóði, var safnað úr 49 sjúklingum með IgA nýrnamein.
Til samanburðar voru tekin blóðsýni úr 41 heilbrigðum
einstaklingi. 2) Mælingar. Gigtarþættir og magn og virkni
lektínferilspróteina var mælt með ELISA aðferð. IgA-IC og C3d
var mælt með ELISA aðferð eftir PEG útfellingu. Heildarmagn
IgA var mælt sem ónæmisútfelling í agarose gel og C4 arfgerðir
ákvarðaðar með HVAG rafdrætti.
Niðurstöður: Verulega hækkun var á IgA-IC og C3 ræsiafurð
(C3d). IgA var ennfremur yfir viðmiðunarmörkum hjá 6
sjúklingum. Hins vegar voru gigtarþættir ekki hækkaðir hjá
þeim, né heldur voru frávik á komplementþáttum lektínferilsins,
C4, MBL, L-og H-fíkólín, MASP-2, MASP-3, merkjanleg miðað
við heilbrigða. Brottfall C4B gensins var ekki algengara hjá
IgA-N sjúklingum borið saman við heilbrigða.
Ályktun: Ekki verður séð að gallar í lektínferlispróteinum séu
orsök uppsöfnunar IgA1 í sermi og mesangialfrumum sjúklinga
með IgA-N. Lektínferilsprótein í útfellingum nýrna geta því
verið tilkomin vegna ræsingar í nýrunavefnum sjálfum.
V 36 Áhrifavaldar á PTH seytingu í tengslum við 25(OH)-
vítamín-D gildi í sermi
Örvar Gunnarsson1, Ólafur Skúli Indriðason1, Leifur Franzson2, Gunnar
Sigurðsson1.
1Lyflækningasviði I, 2rannsóknarsviði, Landspítala
olasi@landspitali.is
Inngangur: Áhrif D-vítamíns á starfsemi kalkkirtla má meta með
því að kanna samband 25(OH)D og PTH styrks í sermi. Vel er
þekkt að 25(OH)D skortur leiðir beint og óbeint til aukinnar
seytingar PTH en jafnframt er ljóst að fleiri þættir hafa áhrif á
PTH styrk.
Markmið: Að kanna hvaða aðrir þættir en 25(OH)D í sermi
tengjast PTH styrk.
Efniviður og aðferðir: Slembiúrtaki einstaklinga af höfuðborgarsvæðinu
á aldrinum 30-85 ára var boðin þátttaka.
Rannsóknin fór fram á tveggja ára tímabili og dreifðist fjöldi
þátttakenda jafnt á hvern mánuð. Hæð og þyngd voru mæld
og holdastuðull (BMI) reiknaður. 25(OH)D, PTH, IGF-1 og
testósterón voru mæld í blóði. Fyrir þennan hluta rannsóknarinnar
voru útilokaðir þeir sem voru á lyfjum með áhrif á kalsíum og
beinabúskap. Notuð var línuleg aðhvarfsgreining til að ákvarða
samband PTH og 25(OH)D styrks í blóði. Reiknuð fjarlægð PTH
gilda frá aðhvarfslínunni var notuð til að skipta hópnum í fernt
(fjórðungar, quartiles). Einnig var hópnum skipt eftir 25(OH)D
gildum í <45 nmól/L og >45 nmól/L. Hæstu og lægstu PTH
fjórðungshóparnir innan hvors 25(OH)D hóps voru bornir saman
aldursleiðrétt og kynjaskipt með ANCOVA.
Niðurstöður: Af 2310 sem boðið var tóku 1630 þátt (70%). Eftir
útilokun voru 490 karlar (58,2±14,6 ára) og 517 konur (55,2±16,4)
eftir. Í ANCOVA var marktækur munur milli efstu og lægstu PTH
fjórðungshópanna innan 25(OH)D hópa hjá báðum kynjum,
sérstaklega varðandi BMI, reykingar og IGF-1. Karlmenn með
lægri PTH gildi voru líklegri til að reykja, vera með lægri BMI en
hærra gildi á testósteróni og IGF-1, sérstaklega þegar 25(OH)D
var lágt. Konur með lág PTH gildi virðast líklegri til að reykja,
vera með lægri BMI og hærri gildi á IGF-1.
Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til að fleiri þættir en
D-vítamín og kalk hafi áhrif á styrk PTH og gætu skipt máli
varðandi D-vítamínþörf einstaklinga. Hlutverk IGF-1 í þessu
sambandi þarfnast nánari rannsókna, hvort um bein áhrif á
kalkkirtla gæti verið að ræða eða óbein gegnum áhrif á kalsíum
frásog eða útskilnað.
V 37 Magnakerfið gegnir hlutverki í meinþróun fæðumiðlaðs
kransæðasjúkdóms
1Perla Þorbjörnsdóttir, 1Ragnhildur Kolka, 2Eggert Gunnarsson, 2Slavko H.
Bambir, 3Guðmundur Þorgeirsson, 4Girish J. Kotwal, 1Guðmundur Jóhann
Arason
1Rannsóknastofnun Landspítala, ónæmisfræðideild, 2tilraunastofu HÍ í
meinafræði, Keldum, 3lyfjadeild Landspítala, 4University of Cape Town,
Höfðaborg, Suður-Afríku
garason@landspitali.is
Inngangur: Æðarkölkunarsjúkdómur er ein aðal orsök hjartaog
æðasjúkdóma og er aðal dánarorsökin um allan heim, að
undanskildri Afríku sunnan Sahara. Algengi sjúkdómsins er
85% hjá fólki um fimmtugt og sjúkdómurinn á sök á >30%
dauðsfalla í heiminum öllum. Kransæðasjúkdómur er þrálátur
bólgusjúkdómur. Magnakerfið er einn öflugasti bólgumiðill
mannslíkamans og gæti því komið við sögu í meinþróun
kransæðasjúkdóms.
Markmið: Að kanna áhrif magnahindrans VCP (vaccinia virus
complement control protein) í músamódeli.
Aðferðir: Fiturákir voru framkallaðar í kvenkyns C57BL/6
músum með fituríku fæði í 15 vikur og saltvatni eða
magnahindranum VCP (20 mg/kg) sprautað í æð á viku 8-15 (6
mýs hvor hópur). Til samanburðar voru þrjár mýs sem fengu
venjulegt fæði og voru sprautaðar með saltvatni. Æðaskemmdir
(sem hlutfall af umfangi æðar) voru metnar með smásjárskoðun
á ósæð eftir litun með „oil-red-O“, og bornar saman með aðstoð
Leica Qwin forrits. Til athugunar voru sneiðar teknar af 280μm
bili við upptök ósæðar (fjórða hver sneið) skv. aðferð Paigen.
Niðurstöður: Greinilegar vefjaskemmdir mynduðust í músum
sem fengu fituríkt fæði og voru sprautaðar með saltvatni (0,75%
ósæðar). Þær einkenndust af samsöfnun fitu og átfrumna í
innri lögum æðarinnar (tunica intima/media). Marktækt minni
fiturákir (0,41% ósæðar) mynduðust hjá músum sem fengu 20
mg/kg VCP (p=0,004). Engar skemmdir sáust í æðum músa sem
fengu venjulegt fæði (0,04% ósæðar).
Ályktanir: Hindrun magnakerfis hefur marktæk áhrif á
fæðumiðlaðan kransæðasjúkdóm í músamódeli.
V 38 Sjúklingar með kransæðastíflu eru með lækkaðan
styrk bólguþáttar C4B í blóði
1Perla Þorbjörnsdóttir, 2Sigurður Böðvarsson, 2Sigurður Þór Sigurðarson,
2Guðmundur Þorgeirsson, 1Guðmundur Jóhann Arason
1Rannsóknastofnun Landspítala, ónæmisfræðideild, 2lyfjadeild Landspítala
garason@landspitali.is
Inngangur: Magnakerfið er öflugur bólgumiðill og kemur við
sögu í meinþróun kransæðasjúkdóms. Við höfum áður lýst
minnkandi tíðni arfgerðarinnar C4B*Q0 eftir miðjan aldur
meðal reykingafólks og tengt það við aukna tíðni arfgerðarinnar
í sjúklingum með kransæðasjúkdóm.
Markmið: Að bera saman styrk C4B í blóði kransæðasjúklinga
og viðmiðunarhóps.
Aðferðir: Skoðaðir voru 74 íslenskir sjúklingar með hjartaöng
(angina pectoris), 84 með innlögn vegna hjartaáfalls, 109 með
fyrri sögu um hjartaáfall og 132 heilbrigðir. C4 og C4A var
mælt með ELISA aðferð, og C4B fundið með frádrætti C4A frá
heildar C4.
Niðurstöður: Samanburður 124 sjúklinga og 46 heilbrigðra
sýnir að sterk samsvörun er milli styrks C4A og C4B í blóði
og tjáningar viðkomandi gens. Styrkur C4B/C4A var marktækt
lægri í arfberum samsvarandi gens (C4B*Q0/C4A*Q0). Arfberar
bættu sér upp skort á afurðinni með aukinni framleiðslu hinnar
C4 gerðarinnar, en þetta var meira áberandi hjá arfberum
C4A*Q0, og hjá þeim var styrkur C4 í heild hærri en þeirra sem
höfðu C4B*Q0 (p=0,046). Sjúklingar með hjartaöng (N=42)
höfðu sama styrk C4, C4A og C4B og heilbrigðir. Styrkur
C4B (p=0,003) og heildarstyrkur C4 (p=0,001) var mun lægri í
sjúklingum með kransæðastíflu (N=82) en í heilbrigðum. Þessi
munur var ekki einfaldlega vegna aukinnar tíðni C4B*Q0 í
sjúklingunum því styrkur C4B (p=0,005) og heildarstyrkur C4
(p=0,05) var einnig lægri hjá þeim hópi sem hafði fulla tjáningu
á bæði C4A og C4B.
Ályktanir: C4B og C4 í heild er lækkað í sjúklingum með
kransæðastíflu miðað við heilbrigða og sjúklinga með hjartaöng.
Þessar niðurstöður er ekki unnt að skýra einungis á grundvelli
aukinnar tíðni C4B*Q0 meðal sjúklinganna.
V 39 Fylgni bólgumiðilsins C3 við áhættuþætti kransæðasjúkdóms
1Perla Þorbjörnsdóttir,, 2Sigurður Þór Sigurðarson, 2Sigurður Böðvarsson,
2Guðmundur Þorgeirsson, 1Guðmundur Jóhann Arason
1Rannsóknastofnun Landspítala, ónæmisfræðideild, 2lyfjadeild Landspítala
garason@landspitali.is
Inngangur: Magnakerfið er einn öflugasti bólgumiðill
mannslíkamans. Það kemur við sögu í kransæðasjúkdómi og
gæti einnig komið við sögu í áhættuþáttum hans.
Markmið: Að kanna fylgni milli styrks C3 og helstu áhættuþátta
kransæðasjúkdóms.
Aðferðir: Skoðaðir voru 74 íslenskir sjúklingar með hjartaöng
(angina pectoris), 84 með innlögn vegna hjartaáfalls, 109 með fyrri
sögu um kransæðastíflu og 132 heilbrigðir. Efnaskiptaheilkenni
(metabolic syndrome) var greint ef 3 eftirfarandi þátta voru til
staðar: sykursýki eða hár fastandi blóðsykur (pre-DM) (>6,1
mmól/L), háþrýstingur (>130/85 mmHg), lágt HDL-kólesteról
(HDLC) (<1,04 mmól/L í körlum og 1,29 mmól/L í konum), há
fastandi þríglyseríð (>1,69 mmól/L), og ofþyngd (LÞS >25). C3
var mælt með rafdrætti í mótefnageli.
Niðurstöður: Í viðmiðunarhópi var styrkur C3 hærri í
efnaskiptaheilkenni (p<0,001) og fólki með hækkuð þríglyseríð
(p<0,001), ofþyngd (p=0,002), háþrýsting (p=0,019), sykursýki
(p=0,076 - NS) eða HDLC-lækkun (0,188 - NS). Fylgni var
milli C3 styrks og líkamsþyngdarstuðuls (r=0,359, p=0,02).
Samanburður viðmiðunarhóps og sjúklinga sýndi að C3 gildi
voru hækkuð í hjartaöng (p=0,035), kransæðastíflu (p<0,001) og
í sjúklingum sem höfðu lifað af fyrri kransæðastíflu (p=0,004),
en þessi hækkun var bundin við þann hluta sjúklingahópsins
sem uppfyllti skilyrði efnaskiptaheilkennis (p<0,001). Tíðni
efnaskiptaheilkennis var hærri (p=0,005) í kransæðasjúkdómi
(53%) en viðmiðunarhópi (24%) og efnaskiptasjúkdómur
við komu hafði sterkt forspárgildi fyrir síðari greiningu
kransæðasjúkdóms (p<0,001).
Ályktanir: Styrkur C3 sýnir fylgni við efnaskiptaheilkenni
og einstök skilmerki hans, og getur hugsanlega spáð fyrir um
kransæðasjúkdóm síðar meir.
V 40 Endurþrengsli í stoðneti kransæðasjúklinga hefur
ekki áhrif á heilsutengd lífsgæði
Álfhildur Þórðardóttir, Hólmfríður Aðalsteinsdóttir, Karl Andersen
Hjartadeild, lyflækningasviði I, Landspítala
alfhildurth@gmail.com
Inngangur: Mælingar á heilsutengdum lífsgæðum (HL)
eru mikilvægar hjá skjólstæðingum okkar. Þekkt er að
kransæðavíkkun (PCI) bætir HL. Minna er hins vegar vitað
um hvort að endurþrengsli í stoðneti kransæðasjúklinga hafi
einhver áhrif á HL.
Markmið: Rannsóknin var gerð til að meta hvort að
endurþrengslin hafi einhver á hrif á HL einstaklingsins.
Aðferð: Við rannsökuðum 87 sjúklinga sem gengust undir
kransæðavíkkun með stoðnetsísetningu. Sjúklingarnir svöruðu
spurningalistanum SF-36 v2 um HL sama dag og þeir gengust
undir kransæðavíkkun og aftur sex mánuðum síðar er þeir komu
innkallaðir í endurþræðingu til að meta ástand stoðnetsins,
þ.e. hvort um endurþrengsli væri að ræða (miðað var við 50%
þrengsli).
Niðurstöður: Á meðal þeirra 87 þátttakenda voru 69 (79%)
karlmenn og 18 (21%) konur. Meðalaldur var 62,8 ár (±11,55).
Fimmtíu og tvö prósent voru með háþrýsting, 29% reyktu,
40% voru með of hátt kólesteról og 67% voru með jákvæða
ættarsögu. Tuttugu og tveir sjúklingar (25%) höfðu myndað
endurþrengsli sem komu í ljós er þeir voru endurþræddir sex
mánuðum síðar. Ekki fannst marktækur munur(p>0,05) á HL
þeirra sem voru með endurþrengsli og þeirra sem ekki höfðu
myndað endurþrengsli. Hvorki kom fram munur í andlegum
þáttum HL prófsins né líkamlegum þáttum. Ef litið var
yfir hópinn í heild sinni höfðu líkamleg HL aukist um 15%
(p<0,001) á sex mánaða tímabilinu, en enginn munur var á þeim
er myndað höfðu endurþrengsli í stoðneti og þeirra sem ekki
höfðu gert það (p═n.s.). Sá þáttur er sneri að andlegum hluta HL
breyttist hjá hvorugum hópnum.
Ályktun: Líkamleg heilsutengd lífsgæði batna þó nokkuð
(15%) hjá báðum hópunum. En ekki virðist skipta máli hvort
einstaklingur hafi framkallað endurþrengsli í stoðneti hvað
varðar heilsutengd lífsgæði.
V 41 Kynjamunur á heilsutengdum lífsgæðum kransæðasjúklinga
Álfhildur Þórðardóttir, Hólmfríður Aðalsteinsdóttir, Karl Andersen
Hjartadeild, lyflækningasviði I, Landspítala
alfhildurth@gmail.com
Inngangur: Það er þekkt að konur koma verr útúr
rannsóknum á heilsutengdum lífsgæðum en karlmenn. Minna
er þó vitað um kynjamun hjá sjúklingum sem hafa gengist undir
kransæðavíkkun.
Markmið: Rannsóknin var gerð til að meta hvort konur er
tilheyra þessum sjúklingahópi (hjartasjúklingar), endurspegli
það sem aðrar rannsóknir á heilsutengdum lífsgæðum ( HL)
hafa sýnt.
Aðferð: Við skoðuðum 87 sjúklinga sem gengust undir
kransæðavíkkun (PCI) með stoðnetsísetningu. Sjúklingarnir
svöruðu spurningalistanum SF-36 v2 um HL sama dag og þeir
gengust undir kransæðavíkkunina og aftur sex mánuðum síðar.
Mælitækið SF36 er spurningalisti sem skiptist í átta hluta. Fjórir
þættir meta lílamlega heilsu og fjórir meta andlega heilsu.
Niðurstöður: Á meðal þeirra 87 þátttakenda voru 69 (79%)
karlmenn og 18 (21%) konur. Meðalaldur var 62,8 ár (±11,55).
Fimmtíuogtvö prósent voru með háþrýsting, 29% reyktu, 40 %
voru með of hátt kólestról og 67% voru með pósitífa ættarsögu.
Karlkynsþátttakendurnir komu betur út hvað líkamleg HL
varðar. Bæði fyrir kransæðavíkkunina ( p<0,02) og sex mánuðum
síðar ( p<0,01). Batinn í þessum hluta hjá karlmönnunum var
16,5% en 17,9% hjá konum. Það mældist ekki marktækur
munur á milli kynjanna á andlegum þáttum HL( p>0,1 ) við
upphaf rannsóknarinnar en hins vegar komu karlmennirnir
betur út andlega, sex mánuðum eftir kransæðavíkkunina og var
munurinn marktækur (p<0,05). Samt sem áður var batinn hjá
körlunum bara 1,6 % og 0,3 % hjá konunum í andlegum HL.
Ályktun: Karlmenn koma betur út, í könnun á HL hvað varðar
líkamlega þætti. Bæði fyrir kransæðavíkkunina og sex mánuðum
síðar. PCI hefur aðallega jákvæð áhrif á líkamleg HL. Konur
virðast ná enn meiri líkamlegum bata en karlmenn eftir PCI.
V 42 Gagnsemi 64 sneiða tölvusneiðmyndatækis til greiningar
á endurþrengslum í stoðnetum
Sigurdís Haraldsdóttir1,3, Birna Jónsdóttir2, Jónína Guðjónsdóttir2, Axel
F. Sigurðsson2, Kristján Eyjólfsson1, Þórarinn Guðnason1, Sigurpáll S.
Scheving1, Ragnar Danielsen1, Torfi F. Jónasson1, Guðmundur Þorgeirsson1,
Karl Andersen1
Hjartadeild Landspítala1, Læknisfræðileg myndgreining, Domus Medica2,
læknadeild HÍ3
sigurdih@landspitali.is
Inngangur: Stoðnetsísetningum er nú beitt í vaxandi mæli hjá
sjúklingum með kransæðaþrengsli. Búast má við endurþrengslum
hjá 20-30% þessara sjúklinga en oft reynist erfitt að greina
endurþrengsli þar sem ekki er til gott greiningarpróf. Nýlega
hafa rutt sér til rúms 64 sneiða tölvusneiðmyndatæki sem bjóða
upp á mun betri myndgæði en eldri tölvusneiðmyndatæki.
Markmið: Að kanna með hversu miklum áreiðanleika hægt
væri að greina endurþrengsli í stoðnetum með 64 sneiða
tölvusneiðmyndatæki.
Aðferðir: Sjúklingar sem gengust undir sína fyrstu
stoðnetsísetningu voru teknir inn í rannsóknina á tímabilinu
apríl 2005 til ágúst 2006 en sjúklingar með bráða kransæðastíflu
og nýrnabilun voru útilokaðir. Sex mánuðum eftir
kransæðaþræðingu og stoðnetsísetningu gengust sjúklingar
undir tölvusneiðmyndarannsókn og endurþræðing var gerð.
Niðurstöður: Níutíuogþrír sjúklingar með samtals 143 stoðnet
voru metnir. Karlmenn voru 82% hópsins og meðalaldur var
63 ár (staðalfrávik 9,9). Lyfjahúðuð stoðnet voru notuð hjá
28% sjúklinga. Sextíuogtvö prósent sjúklinga höfðu háþrýsting,
51% háar blóðfitur, 13% höfðu sykursýki, 22% reyktu og 70%
höfðu jákvæða ættarsögu. Tíðni endurþrengsla reyndist 22%.
Næmi tölvusneiðmynda til greiningar endurþrengsla reyndist
26% og sértæki 91%. Jákvætt forspárgildi var 38% og neikvætt
forspárgildi 85%.
Ályktanir: Tölvusneiðmyndatækni má nota með nokkrum
áreiðanleika til að greina endurþrengsli í stoðnetum. Rannsóknin
reyndist hafa hátt sértæki og neikvætt forspárgildi og gagnast
því vel til að útiloka endurþrengsli.
V 43 Histamín og þrombín örva nituroxíð myndun í æðaþelsfrumum
Hannes Sigurjónsson1, Brynhildur Thors2, Haraldur Halldórsson2,
Guðmundur Þorgeirsson 2,3
1Læknadeild HÍ, 2rannsóknarstofa HÍ í lyfjafræði, 3lyflækningadeild
Landspítala
hanness@hi.is
Inngangur: Vanstarfsemi æðaþelsins markar upphaf
ýmissa sjúkdóma, svo sem æðakölkunar og háþrýstings.
Grundvallarþáttur í skertri æðaþelsstarfssemi er minnkuð geta
til þess að framleiða nituroxíð (NO). Lykilensím í myndun
NO er endothel NO synthasi (eNOS) sem meðal annars er
örvað af skerspennu inni í æðinni og af áverkunarefnum Gprótein
tengdra viðtaka. Áhrif histamíns og þrombíns á eNOS
örvun og boðleiðir slíkrar örvunar hafa lítið verið kannaðar í
æðaþelsfrumum. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna áhrif
og örvunarferli histamíns, þrombíns og jónferju á NO myndun í
æðaþelsfrumum.
Efni og aðferðir: Æðaþelsfrumur voru ræktaðar úr bláæðum
naflastrengja. Frumunum var gefið geislavirkt hvarfefni í formi
amínósýrunnar L-arginíns. Frumurnar voru meðhöndlaðar
með ýmsum áverkunarefnum og ensímhindrum. Eftir það var
örvunarástand eNOS og NO myndun áætluð með mælingu
á geislavirku L-citrullíni í sindurteljara. Fosfórýlering á
eNOS á ser1179 var ákvörðuð með western blotting og
sértæku fosfórunarmótefni. Inósítol fosföt voru aðskilin með
jónskiptasúlum.
Niðurstöður: Histamín, þrombín og jónferja örvuðu eNOS
til myndunar NO. H89 sem er AMPK/PKA hemill hindraði
fosfórun eNOS og hamlaði þar með örvun eNOS af völdum
histamíns og jónferju. Hinsvegar hamlaði það ekki myndun
inósítól fosfata. Klóbindiefnið BAPTA hindraði örvun eNOS af
völdum histamíns.
Ályktun: Niðurstöðurnar sýna að virkjun G-próteintengdra
viðtaka með histamíni eða þrombíni örvar eNOS. Jónferja örvar
einnig eNOS sem undirstrikar mikilvægi hækkaðs innanfrumu
Ca2+ styrks í stjórnun ensímsins. Hindrun af völdum BAPTA
undirstrikar að Ca2+ er nauðsynlegur þáttur í virkni eNOS. Áhrif
H89 sem hindrar NO myndun af völdum allra áverkunarefnanna
bendir til að fosfórun eNOS sé einnig nauðsynlegur þáttur í
virkjun þess. Að H89 hindri ekki myndun inósítól fosfata sýnir
fram á að hömlun H89 er ekki vegna hömlunar á Ca2+ búskap.
Niðurstöður þessarar rannsóknar árétta hversu margþætt og
flókin stjórnun NO myndunar er í æðaþelsfrumum.
V 44 Samanburður á kransæðahjáveituaðgerðum framkvæmdum
á sláandi hjarta og með aðstoð hjarta- og
lungnavélar
Hannes Sigurjónsson1,2, Bjarni Torfason2,1,, Bjarni G. Viðarsson2, Tómas
Guðbjartsson 2,1
Læknadeild HÍ1, hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala2
hanness@hi.is
Inngangur: Kransæðahjáveituaðgerðir eru yfirleitt framkvæmdar
með aðstoð hjarta- og lungnavélar og hjartað stöðvað í
aðgerðinni (CABG). Á síðastliðnum árum er í vaxandi mæli
farið að framkvæma þessar aðgerðir á sláandi hjarta (OPCAB),
þ.e. án hjarta og lungnavélar. Þar með er reynt að koma í veg
fyrir fylgikvilla sem rekja má til hjarta- og lungnavélarinnar.
Hins vegar er aðgerð á sláandi hjarta tæknilega erfiðari og
ekki eru allir á einu máli hvort slík aðgerð sé betri kostur
en hefðbundin kransæðahjáveituaðgerð. Markmið þessarar
rannsóknar er að bera saman árangur þessara aðgerðategunda,
aðallega með tilliti til fylgikvilla og skurðdauða.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og nær til
allra sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð
á Íslandi frá júní 2002 til júní 2004. Sjúklingum sem gengust
undir kransæðahjáveitu samtímis annarri hjartaaðgerð (t.d.
lokuaðgerð) var sleppt. Sjúklingunum var skipt í tvo hópa,
CABG-hóp (n=150) og OPCAB-hóp (n=53), þar með taldir þrír
sjúklingar sem snúið var í hefðbundna aðgerð. Hóparnir voru
bornir saman með tilliti til ábendinga fyrir aðgerð, áhættuþátta,
Euroscore og fjölda æðatenginga. Einnig var lagt mat á
árangur aðgerðanna, t.d. aðgerðartíma, fylgikvilla, legutíma og
skurðdauða.
Niðurstöður: Niðurstöður eru sýndar í töflu 1. Sjúklingahóparnir
voru mjög sambærilegir, t.d. hvað varðar aldur, einkenni,
NYHA-flokkun, Euroscore, útbreiðslu kransæðasjúkdóms,
útstreymisbrot hjarta (EF) og fjöldi æðatenginga. Aðgerðir á
sláandi hjarta tóku heldur lengri tíma en hefðbundin aðgerð
og blæðing í þeim var marktækt meiri. Tilhneiging sást til
aukinna fylgikvilla eins og hjartadreps og gáttatifs/flökts
eftir hefðbundna aðgerð en munurinn var ekki marktækur.
Aftöppun fleiðruvökva var hins vegar marktækt algengari eftir
hefðbundna aðgerð en tíðni heilablóðfalls sambærileg. Miðgildi
legutíma á gjörgæslu var einn dagur hjá báðum hópum en
heildarlegutími var einum degi lengri eftir hefðbundna aðgerð.
Sjö sjúklingar létust innan 30 daga eftir hefðbundna aðgerð en
enginn eftir aðgerð á sláandi hjarta (p<0,11).
Ályktun: Árangur kransæðahjáveituaðgerða er góður hér
á landi og dánartíðni er lægri en Euroscore áhættulíkanið
gerir ráð fyrir. Niðurstöður okkar benda til að fylgikvillar
eftir aðgerðir á sláandi hjarta geti verið ívíð fátíðari en eftir
hefðbundna aðgerð. Aðgerðir á sláandi hjarta taka þó lengri
tíma og blæðing er heldur meiri. Aðgerðir á sláandi hjarta er
hægt að framkvæma með góðum árangri hjá mikið veikum
sjúklingum með alvarlegan kransæðasjúkdóm.
V 45 Nauðsynleg nákvæmni geislaferilsgagna við útreikning
meðferðarskammta
Gylfi Páll Hersir, María Marteinsdóttir, Garðar Mýrdal
Geislaeðlisfræðideild Landspítala
gardar@landspitali.is
Inngangur: Algengustu tegundir geislunar sem nýttar eru
til meðferðar í læknisfræði eru ljóseinda-, rafeinda- og
róteindageislun. Þær hegða sér hver á sinn máta og eru því
nýttar við mismunandi aðstæður til geislalækninga krabbameins.
Allar þessar tegundir geislunar víxlverka við efniseindir og
gefa frá sér orku með því að gefa rafeindum hreyfiorku, sem
síðan leiðir til efnafræðilegra breytinga í efninu og þar af
leiðandi líffræðilega verkun. Nýlega var tekið í notkun nýtt
geislaáætlunarkerfi við Geislaeðlisfræðideild Landspítalans,
MasterPlan-kerfið. Sem liður í því voru mæld geislaferilsgögn
línuhraðlanna tveggja sem notaðir eru við geislalækningar í
K-byggingu Landspítala. Annar línuhraðallinn sendir frá sér
ljóseindageislun með orkunni 6 MV og hinn ljóseindageislun
með orkunni 6 og 18 MV og rafeindageislun með orku 6, 9, 12,
16 og 20 MeV. Geislaferilsgögn eru mæld í lofti og í vatni og úr
þeim unnar skrár sem verða hluti af hugbúnaði MasterPlankerfisins
við deildina.
Markmið: Nákvæmni geislaáætlunarkerfisins grundvallast á að
geislaferilsgögnin hafi verið mæld rétt. Mikilvægt er að beita
ólíkum aðferðum til að fullvissa sig um þessi gögn séu rétt. Við
Geislaeðlisfræðideildina hefur verið lögð sérstök áhersla á þetta
verkefni.
Aðferðir: Tvennt var gert. Annars vegar voru teknar sneiðmyndir
af fantómi með mismunandi þéttleika efnis, gerð geislaáætlun
fyrir það með MasterPlan kerfinu og kerfið látið reikna út
geislaskammta í ákveðnum punktum miðað við ákveðinn
geislaskammt í snúningsmiðju. Síðan var geislað með ljóseindum
á fantómið og geislaskammtar mældir með jónunarhylki á sömu
stöðum. Reiknaðar niðurstöður voru bornar saman við mældar.
Hins vegar var búið til í MasterPlan-kerfinu rétthyrnt líkan með
efnisþéttleikann 1,0 líkt og vatn, gerð geislaáætlun fyrir líkanið
og reiknaðir geislaskammtar eftir láréttum línum á mismunandi
dýpi miðað við ákveðinn geislaskammt í snúningsmiðju. Geislað
var með ljóseindum og rafeindum á vatnsker og geislaskammtar
mældir með jónunarhylkjum eftir sömu línum. Reiknaðir ferlar
og mældir voru bornir saman
Niðurstöður: Í ljós kom að samræmi milli reiknaðra og mældra
geislaskammta var gott.
Ályktun: Sýnt hefur verið fram á útreiknaðir geislaskammtar
með MasterPlan-kerfinu á mismunandi stöðum á fantómi og í
vatni eru í góðu samræmi við mæld gildi.
V 46 Meðferð sýkts ósæðarskeifugarnarfistils – sjúkra–
tilfelli
Jóhann Páll Ingimarsson, Guðmundur Daníelsson
Skurðsviði Landspítala
johannpa@landspitali.is
Inngangur: Ósæðagarnafistlar er sjaldgæfir en alvarlegir
fylgikvillar aðgerða vegna ósæðagúls. Einkenni eru oft á tíðum
lítil í byrjun, oft endurteknar blæðingar frá meltingarfærum
og/eða hitavella en geta líka greinst sem lífshættuleg. Mikilvægt
er að hafa þetta í huga hjá öllum sjúklingum með blæðingu frá
meltingarvegi sem hafa sögu um aðgerðir á slagæðum í kvið.
Tíðni þeirra er talin um 1% og er nokkuð algengari þegar um
bráðaaðgerð hefur verið að ræða vegna ósæðarofs. Stærstur
hluti þeirra er talinn hafa orsakast af „lág-virulent“ bakteríum
sem colonisera graftinn og valda fistilmyndun á löngum tíma.
Mörgum skurðaðgerðum hefur verið lýst við meðhöndlun slíkra
fistla. Hafa flestar háa tíðni aðgerðatengds dauða og fylgikvillar
eftir aðgerð eru algengir. Umdeilt er hvaða meðferð beri að
veita.
Aðferðir: Lýst er tilfelli um sýktan ósæðaskeifugarnarfistil
samkvæmt upplýsingum úr sjúkraskrá og aðgerðarlýsingum.
Niðurstöður: 75 ára karlmaður, með fyrri sögu um Bilroth
I aðgerð á maga, leitar á bráðamóttöku vegna kviðverkja
og reynist vera með brátt ósæðargúlsrof í kviðarholi. Fór í
bráða aðgerð þar sem lagður var inn graftur og gekk aðgerð
vel. Gangur eftir aðgerð markverður fyrir þvagfærasýkingu
og langvinnan niðurgang. Greinist tveimur árum síðar með
blóðugan niðurgang. Illa gengur að greina blæðingarstað þrátt
fyrir endurteknar speglanir. Tölvusneiðmynd af kvið sýnir
skeifugörn lóðaða að ósæðargrafti og samgangur þar á milli.
Sjúklingur var óstöðugur í lífsmörkum, hafði blætt umtalsvert
síðustu daga og þurft endurteknar blóðgjafir. Því er lagður inn
„endoluminal“ ósæðargraftur í náraþræðingu frá nýrnaslagæðum
og að hægri interna iliaca æð. Blæðingin stöðvast. Grunur um
langvarandi sýkingu í fistlinum og sjúklingur settur á ævilanga
sýklalyfjameðferð. Var almennt slappur og hafði lést mikið á
síðustu mánuðum og honum því ekki treyst í stærri aðgerðir.
Sjö mánuðum síðar með kviðverki og stöku blóðug uppköst.
Við magaspeglun sést sár í skeifugörn og í botni sársins sést
í graftinn. Lagður axillo-bifemoral graftur og eldri graftur
í kvið fjarlægður. Frá þeim grafti ræktast E. coli með betalactam
ónæmi, E. sakazakii (fjölónæmur) og C. albicans. Fær
sárasýkingu og graftarkýli undir húð eftir aðgerð. Skánar af
viðeigandi sýklalyfjum. Fimm mánuðum eftir aðgerðina greinist
hann með erosion frá axillo-bifemoralgrafti út á húð, þó ekki
nein merki um sýkingu. Lagður er rectus abdominis flipi yfir
graftinn og sárinu lokað. Hefur verið einkennalaus síðan og
verið að þyngjast og líður almennt vel.
Umræður: Fylgikvillar í formi fistilmyndunar eftir aðgerð vegna
ósæðargúlsrofs eru langvarandi og þarfnast flókinna inngripa,
og umræðna er þörf um best inngrip hverju sinni.
V 47 Notkun faktors VIIa við meiriháttar blæðingar í
hjartaskurðaðgerðum – fyrsta reynsla af Landspítala
Jóhann Páll Ingimarsson1, Felix Valsson2, Brynjar Viðarsson3, Bjarni
Torfason1, Tómas Guðbjartsson1
1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2gjörgæslu- og svæfingadeild, 3blóðmeinafræðideild
Landspítala, læknadeild HÍ
johannpa@landspitali.is
Inngangur: Meiriháttar blæðingar eru þekktir fylgikvillar opinna
hjartaaðgerða. Storkuhvetjandi lyf og blóðhlutar eru gefin til að
stöðva blæðingu, en dugar þó ekki alltaf og dánarhlutfall er
hátt. Recombinant factor VIIa (rfVIIa), sem ætlað er sjúklingum
með blæðingarsjúkdóma hefur verið reynt við slíkar blæðingar,
oft með góðum árangri. Lítið er skráð um virkni lyfsins við
blæðingar í hjartaaðgerðum. Markmið þessarar afturvirku
rannsóknar var að kanna árangur meðferðar með rFVIIa á
Landspítala í slíkum aðgerðum.
Efniviður og aðferðir: Frá júní 2003 til febrúar 2006 hafa 10
sjúklingar fengið rFVIIa vegna meiriháttar blæðinga tengdum
hjartaaðgerðum á Landspítala. Upplýsingum var safnað úr
sjúkraskrám og aðgerðarlýsingum.
Niðurstöður: Algengustu aðgerðirnar voru ósæðarlokuskipti
með eða án kransæðarhjáveitu. Meðalaldur sjúklinganna var 66
ár (36-82) og voru allir í NYHA-flokki III eða IV. Tímalengd
aðgerðanna var 673 mínútur (475-932). Sjúklingar fengu að
meðaltali 17 einingar af rauðkornaþykkni í aðgerð (5-61) auk
blóðs úr hjarta- og lungnavél. Hjá níu sjúklingum náðist að
stöðva. Þrír þurftu þó í enduraðgerð vegna blæðinga, þar af
einn sjúklingur í tvær. Blæðingartími (APTT og PT) styttist
mjög við gjöf rFVIIa. Fimm sjúklingar létust. Einn lést úr
óstöðvandi blæðingu í aðgerð. Annar dó úr blóðtappa í heila
og í lungum. Aðrar orsakir voru hjartadrep, fjölkerfabilun og
blóðstorkusótt.
Ályktun: Hár aldur, alvarlegur hjartasjúkdómur og langar
skurðaðgerðir, mikil blæðing og fullreynd meðferð blóðhluta
eru einkennandi fyrir sjúklinga sem fengið hafa rFVIIa í
hjartaaðgerð hér á landi. Svo virðist sem rfVII sé mjög virkt lyf
í að stöðva alvarlegar blæðingar í hjartaaðgerðum. Dánartíðni
er þó há. Rannsaka þarf betur fylgikvilla rFVIIa-meðferðar, en
lyfið gæti hafa stuðlað að myndun blóðtappa í heila og lungum
hjá einum sjúklingi.
V 48 Æxli í skeifugörn
Jóhann Páll Ingimarsson1, Jón Gunnlaugur Jónasson2, Jónas Magnússon1,
Páll Helgi Möller1
1Skurðlækningadeild Landspítala, 2rannsóknarstofa HÍ í meinafræði
johannpa@landspitali.is
Inngangur: Æxli í skeifugörn eru sjaldgæf og hafa yfirleitt slæmar
horfur. Umdeilt er hvaða meðferð sé ákjósanlegust við slík æxli,
bæði þegar kemur að aðgerðavali og lyfjameðferð. Tilgangur
rannsóknar okkar var að athuga faraldsfræði skeifugarnaæxla,
greiningaraðferðir, meðferðir og lifun á Íslandi yfir 50 ára
tímabil, eða frá 1955 til 2005.
Efniviður og aðferðir: Upplýsingar voru fengnar
úr Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands um alla
einstaklinga sem greinst hafa með æxli í skeifugörn á
tímabilinu 1955 til 2005 og þær bornar saman við greiningaskrá
Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði. Gögn voru fengin
úr sjúkraskrám einstaklinganna. Öll sýni voru endurskoðuð af
einum og sama meinafræðingnum.
Niðurstöður: Tuttugu og níu manns greindust með æxli í
skeifugörn á tímabilinu, 18 karlar og 11 konur. Meðalaldur við
greiningu var 63 ár (bil 42-83). Heldur fleiri greindust seinustu 15
árin (n=13) samanborið við tímabilin þar á undan. Algengustu
einkennin voru: kviðverkir (n=19), slappleiki (n=16), blóðleysi
(n=7), þyngdartap (n=7), gula (n=6) og uppköst (n=6). Æxlin
voru oftast greind með tölvusneiðmynd (n=13), passage
(n=7) eða röntgen mynd af maga (n=7). Flest æxlanna voru
kirtilfrumukrabbamein (n=16) en önnur voru silfurfrumuæxli
(carcinoid) (n=7), strómaæxli (GIST) (n=2), meinvörp annarra
æxla (n=2) og önnur æxli voru 2. Algengustu aðgerðir voru
Whipple’s aðgerð (n=7), brottnám á skeifugörn og/eða ásgörn
(n=5) og brottnám á æxli (n=3). Tveir einstaklingar voru greindir
óskurðtækir í aðgerð, tveir fengu enga skurðmeðferð og einn
einstaklingur greindist við krufningu. Algengustu fylgikvillar
aðgerðar voru fistlar frá brisi (n=4) og sárasýkingar (n=3). Einn
sjúklingur lést í kjölfar aðgerðar, úr sýklasótt og losti. Einn
skurðlæknir hefur sinnt fimm tilfellum á Íslandi, einn þremur
og tveir tveimur. Sex manns fengu krabbameinslyfjameðferð
eftir skurðaðgerð en enginn fyrir skurðaðgerð, fjórir við
kirtilfrumukrabbameini og tveir við meinvörpum í skeifugörn.
Miðgildi lifunar fyrir kirtilfrumukrabbamein er 16 mánuðir (bil
0-39). Þar af eru fjórir sjúklingar enn á lífi, (13-39 mánuðir frá
greiningu). Miðgildi lifunar fyrir silfurfrumuæxli er 72 mánuðir
(bil 23-144).
Umræða: Æxli í skeifugörn eru sjaldgæf á Íslandi og skurðlæknar
því útsettir fyrir fáum tilfellum. Einkenni eru ósértæk og
greiningaraðferðir mismunandi. Hlutfall kirtilfrumuæxla og
silfurfrumuæxla er svipað hér og erlendis. Horfur eru slæmar
hérlendis og heldur verri en lýst er í erlendum rannsóknum, þó
þær rannsóknir nái flestar yfir mun skemmra tímabil. Tíðni fer
vaxandi af óþekktum ástæðum.
V 49 Vefjagerð carcinoid lungnaæxla er óáreiðanleg til að
spá fyrir um klíníska hegðun þeirra
Jóhanna M. Sigurðardóttir1, Kristinn B. Jóhannsson1, Helgi Ísaksson2,
Steinn Jónsson3,4, Bjarni Torfason1,4, Tómas Guðbjartsson1,4
1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2Rannsóknarstofa í meinafræði og 3lungnadeild
Landspítala, 4læknadeild HÍ
johannamsig@yahoo.com
Inngangur: Carcinoid æxli eru krabbamein af neuroendocrine
uppruna sem oftast greinast í kviðarholi en geta greinst í lungum.
Þau hegða sér oftast sem góðkynja æxli en geta þó meinverpst.
Hefð er fyrir því að skipta þeim í illkynja (atypical) og hefðbundna
(classical) vefjagerð. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna
faraldsfræði og árangur meðferðar við carcinoid lungnaæxlum á
Ísland með sérstaka áherslu á vefjagerð æxlanna.
Efniviður og aðferðir: Afturvirk rannsókn sem nær til allra
tilfella sem greinst hafa á Íslandi frá 1955-2005. Upplýsingar
fengust úr sjúkra- og aðgerðarskrám. Æxlin voru stiguð skv.
TNM stigunarkerfi fyrir lungnakrabbamein. Öll æxlin voru
endurskoðuð af meinafræðingi.
Niðurstöður: Alls greindust 64 tilfelli (22 karlmenn, 42 konur,
meðalaldur 49 ára), sem er 1,9% af öllum lungnakrabbameinum
greindum á þessum 50 árum. Algengustu einkennin voru
takverkur og hósti en 20 sjúklingar greindust fyrir tilviljun. Hjá
45 sjúklingum fannst æxlið miðlægt í lungum, jafnt í hægra sem
vinstra lunga. Langoftast var um að ræða klassíska vefjagerð
(84%) en 10 sjúklingar voru með illkynja vefjagerð. Meðalstærð
æxlanna var 2,6 cm (bil 0,4-5,5 cm) og reyndust 33 sjúklingar vera
á stigi I og 2 á stigi II. Hjá fjórum sjúklingum fundust meinvörp
í miðmætiseitlum (stig III) og 4 reyndust með fjarmeinvörp (stig
IV), en tveir þeirra (50%) voru með hefðbundna vefjagerð.
Einn sjúklingur lést innan 30 daga frá aðgerð en algengasta
aðgerðin var blaðnám (82%) og fjórir sjúklingar gengust undir
lungnabrottnám.Við eftirlit höfðu fimm af 64 sjúklingum látist af
völdum sjúkdómsins (7,8%), tveir þeirra voru með hefðbundna
vefjagerð. Fimm ára lífshorfur voru mun betri fyrir sjúklinga
með hefðbundna vefjagerð, eða 96% samanborið við 70%
(p<0,001).
Ályktun: Carcinoid lungnaæxli hegða sér ofast góðkynja en þessi
æxli geta sáð sér í miðmætiseitla og/eða önnur líffæri. Þetta getur
dregið sjúklingana til dauða. Engu að síður eru horfur hópsins í
heild mjög góðar og árangur skurðaðgerða er góður. Vefjagerð
virðist ekki vera áreiðanleg til að spá fyrir um klíníska hegðun
þessara æxla.
V 50 Skurðaðgerðir vegna lungnameinvarpa nýrna-frumukrabbameins
á Íslandi 1984-2006
Sæmundur J. Oddsson1,2, Helgi Ísaksson3, Eiríkur Jónsson1,4, Guðmundur V.
Einarsson4, Tómas Guðbjartsson2,1
1) Læknadeild HÍ, 2) Hjarta- og lungnaskurðdeild, 3) Rannsóknarstofa
Landspítala í meinafræði, 4) Þvagfæraskurðdeild Landspítala
saemiodds@hotmail.com
Inngangur: Við greiningu nýrnafrumukrabbameins eru tæplega
20% sjúklinga með lungnameinvörp. Hluti þessara sjúklinga
hefur stök meinvörp í lunga. Erlendar rannsóknir hafa sýnt
fram á 30-49% sjúkdómsfríar 5-ára lífshorfur hjá völdum
hópi sjúklinga sem fara í brottnám á lungnameinvarpi
nýrnafrumukrabbameins. Tilgangur þessarar rannsóknar var
að kanna afdrif sjúklinga sem gengust undir slíka aðgerð hér á
landi á tímabilinu 1984-2006.
Efniviður og aðferðir: Þessi rannsókn er hluti af stærri rannsókn
á nýrnafrumukrabbameini á Íslandi og byggir á gagnagrunni
sem inniheldur alla sjúklinga sem greinst hafa með sjúkdóminn
frá 1971 til 2006. Í þessari afturskyggnu rannsókn voru athugaðir
allir sjúklingar sem greinst höfðu með nýrnafrumukrabbamein
sem meinverptust til lungna á tímabilinu 1984-2006 og
gengust undir skurðaðgerð á lunga. Upplýsingar voru
fengnar úr sjúkraskrám og Krabbameinsskrá auk gagnagrunns
rannsóknarstofu Landspítala í meinafræði. Könnuð voru afdrif
sjúklinganna, fylgikvillar og lífshorfur. Notast var við TNM
stigun og reiknaðar lífshorfur þar sem útreikningar miðuðust
við 1. mars 2007.
Niðurstöður: Alls gengust 14 sjúklingar undir lungnaaðgerð
vegna meinvarpa frá nýrnafrumukrabbameini á 23 ára tímabili.
Í hópnum voru 10 karlar og 4 konur og meðalaldur við greiningu
meinvarpa var 59 ár (bil 45-78 ár). Allir sjúklingarnir höfðu áður
gengist undir nýrnabrottnám, að meðaltali 39 mánuðum áður
(bil 1-132 mánuðir). T-stig upprunalegu nýrnaæxlanna var: T1
(n=1), T2 (n=5), T3a (n=5) og T3b (n=3). Af þeim voru 9 án
eitlameinvarpa (N0) en 6 með dreifð eitlameinvörp (N1-2).
Lungnameinvarp var þekkt við greiningu hjá einum sjúklingi en
greint síðar (>3 mánuðum frá nýrnaaðgerð) hjá 13 sjúklingum.
Flestir (n=11) þessara sjúklinga voru með stakt meinvarp,
meðalstærð 27 mm (bil 8-50). Helmingur sjúklinganna gekkst
undir brottnám á lungnalappa (n=7), þrír fóru í fleygskurð og
aðrir þrír í lungnabrottnám. Einn sjúklingur gekkst bæði undir
fleygskurð og brottnám á lungnalappa. Hjá sex sjúklingum
voru meinvörp eingöngu hægra megin en hjá þremur vinstra
megin. Samtals fóru þrír sjúklingar í fleiri en eina aðgerð og
einn sjúklingur fór í aðgerð á báðum lungum. Fylgikvillar eftir
aðgerð reyndust fátíðir, sá helsti var gáttaflökt sem greindist
hjá einum sjúklingi. Aðgerðirnar tóku að meðaltali 123 mín
og miðgildi legutíma var 10 dagar. Í dag eru fjórir af þessum
sjúklingum á lífi (meðaleftirfylgni 82 mánuðir). Lífshorfur
tveimur árum frá greiningu meinvarpa í lungum voru 64% og
29% eftir fimm ár. Til samanburðar var lifun þeirra sem fóru
ekki í brottnám meinvarpsins (1984-2000) 34% eftir tvö ár og
11% eftir fimm ár.
Ályktun: Árangur brottnáms lungnameinvarpa frá nýrnafrumukrabbameini
er góður í völdum hópi sjúklinga (29% fimm
ára lífshorfur), mun betri en fyrir sjúklinga sem fara ekki aðgerð.
Þó verður að hafa í huga að hér um valinn efnivið að ræða.
V 51 Aðskilinn lungnahluti (pulmonary sequestration)
getur tengst efri hluta meltingarvegar. – Tvö einstök sjúkratilfelli
Sæmundur Jón Oddsson1,4, Þráinn Rósmundsson2,4, Vigdís Pétursdóttir3,4,
Friðrik E. Yngvason5, Bjarni Torfason1,4, Tómas Guðbjartsson1,4
1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2skurðdeild Barnaspítala Hringsins, 3rannsóknarstofu
í meinafræði, Landspítala, 4læknadeild HÍ, 5Fjórðungssjúkrahúsinu
á Akureyri
saemiodds@hotmail.com
Inngangur: Aðskilinn lungnahluti er sjaldgæfur meðfæddur
galli þar sem lungnavefur er án tengsla við bæði lungnaberkjur
og lungnablóðrás. Lungnahlutinn er nærður af kerfisslagæð
og getur ekki tekið þátt í loftskiptum. Einkenni geta verið
fjölbreytt en eru oftast rakin til endurtekinna lungnasýkinga
og/eða hjartabilunar. Orsök aðskilins lungnahluta er ekki þekkt.
Ein kenning gerir ráð fyrir því að um afleiðingar endurtekinna
lungnasýkinga sé að ræða. Síðari ár hafa þó flestir hallast að því
að orsökin sé um meðfædd. Hér er lýst tveimur mjög sérstökum
tilfellum sem styðja síðari tilgátuna. Þetta eru jafnframt fyrstu
íslensku tilfellin af aðskildum lungnahluta sem lýst hefur verið.
Sjúkratilfelli 1: Nýfætt stúlkubarn gekkst undir skuggaefnisrannsókn
á meltingarvegi vegna þrengingar á skeifugörn
(atresia). Við rannsóknina barst skuggaefni upp í neðra blað
hægra lunga og voru upptökin frá mótum maga og vélinda.
Við skurðaðgerð kom í ljós stór aðskilinn lungnahluti sem var
tvíblaða og lá út í bæði hægra og vinstra brjósthol. Lungnahlutinn
var þakinn eiginn fleiðru og nærður af stórri kviðarholsslagæð.
Lungnahlutinn var fjarlægður með skurðaðgerð. Tveimur árum
frá aðgerð heilsast stúlkunni vel.
Sjúkratilelli 2: 18 ára piltur með rúmlega árs sögu um endurtekna
lungnabólgu greindist á tölvusneiðmynd með fyrirferð í miðju
hægra lunga. Við skurðaðgerð sást aðskilinn lungnahluti neðst í
efri lugnalappa. Lungnahlutinn var þakinn eigin fleiðru og inn í
hann gekk berkja sem tengdist 4x5 cm stórri vökvafylltri blöðru.
Vefjagerð blöðrunnar samrýmdist vel vélindavegg. Ekki reyndist
beinn samgangur á milli hennar og vélinda. Efri lungnalappinn
var fjarlægður ásamt lungnahlutanum og blöðrunni. Hálfu ári
frá aðgerð er sjúklingurinn við ágæta líðan.
Niðurstaða: Aðskilinn lungnahluti getur tengst meltingarvegi
með beinum eða óbeinum hætti. Þessi tengsl geta ýtt stoðum
undir þá kenningu að um meðfæddan galla sé að ræða frekar en
áunninn, enda eru lungu og efri meltingarfæri bæði upprunnin
frá forgirni á fósturskeiði.
V 52 Sláandi hjartavöðvafrumur ræktaðar út frá ósérhæfðum
stofnfrumum úr músafósturvísi hafa virkjaða BMPboðleið
Sæmundur J. Oddsson1, 2, Eirikur Steingrímsson1, Guðrún Valdimarsdóttir1
1Lífefna- og sameindalíffræðistofa, HÍ, 2læknadeild HÍ
saemiodds@hotmail.com
Inngangur: Margir binda vonir við að hægt verði að
nýta stofnfrumur úr fósturvísum til lækninga á ýmsum
vefjarýrnunarsjúkdómum. Grunnhugmyndin er að láta
stofnfrumur sérhæfast í þann starfhæfa vef sem skortir sem yrði
síðan græddur í viðkomandi sjúkling. Valið á milli þess hvort
stofnfruma endurnýi sig eða sérhæfi í ákveðnar frumutegundir
er ákvarðað af ýmsum vaxtarþáttum, þekktum og óþekktum.
Sýnt hefur verið að meðlimir TGF-beta stórfjölskyldunnar,
t.d. BMP-boðleiðin, leika stórt hlutverk í fósturþroskun og
því líklegt að vaxtarþættir fjölskyldunnar taki þátt í örlögum
stofnfruma.
Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að kanna virkni BMPboðleiðarinnar
í sérhæfingu stofnfruma úr fósturvísum músa í
hjartavöðvafrumur (cardiomyocytes).
Aðferðir: Stofnfrumur úr músafósturvísi voru meðhöndlaðar
með mismunandi vaxtarþáttum (TGF-β, Bmp4, Activin-a)
ásamt skilyrtu æti og sláandi hjartavöðvafrumur fengnar fram
með myndun frumuflóka (embryoid body). Notast var við
flúrljómandi tvímerkingu á próteinum BMP-boðleiðarinnar
annars vegar og á próteinum sem stjórna endurnýjun/sérhæfingu
stofnfrumna hins vegar. Greining frumusýna fór fram í Confocal
leysismásjá.
Niðurstöður: Alls voru útbúnir 108 frumuflókar og hver litun var
endurtekin að minnsta kosti í þrígang á rannsóknartímabilinu. Í
rannsókninni kom fram samtímis fram tjáning á próteinum
BMP-boðleiðarinnar (Id-1) og viðtæki sem er er einungis á
hjartavöðvafrumum (α-actinin).
Ályktun: Mótefnalitanir gefa til kynna að BMP-boðleiðin sé
virkjuð í ferlinu þegar ósérhæfð stofnfruma úr fósturvísi verður
að sláandi hjartavöðvafrumu.
V 53 Lungnameinvörp við greiningu nýrnafrumukrabbameins
– hverjir gætu hugsanlega haft gagn að brottnámi
meinvarpa?
Sæmundur J. Oddsson1,2, Sverrir Harðarson3, Vigdís Pétursdóttir3, Eiríkur
Jónsson1,4, Guðmundur V. Einarsson4, Tómas Guðbjartsson 2,1
1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3rannsóknarstofu Landspítala
í meinafræði, 4þvagfæraskurðdeild Landspítala
saemiodds@hotmail.com
Inngangur: Nýgengi nýrnafrumukrabbameins er með því hæsta
í heiminum á Íslandi og árlega greinast í kringum 30 tilfelli hér
á landi. Einkenni eru oft lúmsk sem sést best á því að allt að
þriðjungur sjúklinga greinist með útbreiddan sjúkdóm þar sem
lungnameinvörp eru algengust. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt
að brottnám lungnameinvarpa hjá völdum hópi sjúklinga getur
bætt lífshorfur umtalsvert. Hefur verið lýst allt að 49% fimm
ára lifun hjá sjúklingum með skurðtækt stakt lungnameinvarp
og þar sem langur tími hefur liðið frá greiningu frumæxlisins.
Tilgangur rannsóknarinnar var að athuga fjölda sjúklinga með
lungnameinvörp við greiningu nýrnafrumukrabbameins og
reyna að leggja mat á hversu margir sjúklingar gætu hugsanlega
haft gagn af brottnámi slíkra meinvarpa.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og er hluti
af stærri rannsókn á nýrnafrumukrabbameini á Íslandi sem
nær til allra sjúklinga sem greindust á lífi 1971-2000, samtals
701 sjúklings. Upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám,
krabbameinsskrá KÍ auk gagnagrunns rannsóknarstofu
Landspítala í meinafræði. Kannað var hversu margir greindust
með meinvörp í lungum og var miðað við þrjá mánuði frá
greiningu nýrnafrumukrabbameinsins. Síðan var athugað hvort
um önnur meinvörp var að ræða og hvernig dreifing þeirra var
í lungum, einnig hvort um stök lungnameinvörp var að ræða.
Loks var kannað hversu margir þessara sjúklinga hefðu farið í
brottnám á lungnameinvarpi frá 1984-2000. Æxlin voru stiguð
skv. TNM-stigunarkerfi. Reiknaðar voru lífshorfur sjúklinga
með lungnameinvörp og þær bornar saman við aðra sjúklinga
með meinvörp nýrnafrumukrabbameins.
Niðurstöður: Alls greindust 130 sjúklingar með lungnameinvörp,
sem er 18,5% nýrnafrumukrabbameinssjúklinga sem greindust
1971-2000. Af þeim reyndust 73 með meinvörp annars staðar,
oftast í lifur, beinum og heila. Einnig reyndust 44 sjúklingar
hafa eitilmeinvörp. Hjá 56 sjúklingum voru meinvörp eingöngu
bundin við lungu og greindust átta þeirra (14%) fyrir tilviljun.
Stærð upprunalega nýrnaæxlisins var að meðtaltali 93 mm
(bil 30-189). Hægt var að stiga 38 af þessum 56 sjúklingum og
reyndust 6 sjúklingar á stigi T1, 5 á T2, 6 á T3a og 15 á T3b.
Á stigi T4 voru alls sex sjúklingar. Nákvæmar upplýsingar
um lungnameinvörp fengust hjá 36 sjúklingum. Af þeim
greindust 28 (78%) með fleiri en eitt meinvarp og 17 (47%)
með meinvörp í báðum lungum. Af átta sjúklingum með stakt
lungnameinvarp voru sex karlar og tvær konur og meðalaldur
við greiningu var 63 ár. Á tímabilinu 1984-2000 greindust 39
sjúklingar með lungnameinvarp innan 3ja mánaðar frá greiningu
nýrnafrumukrabbameins í nýra. Aðeins einn þeirra gekkst undir
brottnám meinvarpsins.
Ályktun: Lungnameinvörp greinast hjá tæplega fimmtungi
sjúklinga með nýrnafrumukrabbamein. Stór hluti þessara
meinvarpa (44%) er eingöngu bundinn við lungu, og 22%
þeirra eru stök. Ef hafðar eru til hliðsjónar niðurstöður nýlegra
erlendra rannsókna er ljóst að brottnám lungnameinvarpa getur
komið til greina hjá ákveðnum hluta síðastnefndu sjúklinganna.
Tiltölulega fáir þessara sjúklinga hefur farið í slíka aðgerð hér á
landi. Í þessu samhengi er þó rétt að hafa í huga þessi rannsókn
nær 35 ár aftur í tímann og að gagnsemi þessara aðgerða er
tiltölulega nýlega komin í ljós.
V 54 Tíðaloftbrjóst – snúin greining og meðferð. - Sjúkratilfelli
Guðrún Fönn Tómasdóttir1, Bjarni Torfason1,2, Tómas Guðbjartsson1,2
1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala
tomasgud@landspitali.is
Inngangur: Tíðaloftbrjóst er skilgreint sem endurtekið loftbrjóst
sem greinist <72 klukkustunum frá upphafi tíða. Einkenni eru
iðulega lúmsk sem getur tafið greiningu. Oftast er um að ræða
ungar konur með loftbrjóst hægra megin. Orsök tíðaloftbrjóst er
ekki þekkt en uppi eru getgátur um að legslímuflakk í brjóstholi
geti átt hlut að máli. Í nýlegri rannsókn á Landspítala gengust
50 konur undir aðgerð vegna sjálfkrafa loftbrjósts frá 1990-2005.
Ein þessara kvenna (2%) reyndist hafa tíðaloftbrjóst en hún
hafði þekkt legslímuflakk (endometriosis) í grindarbotni.
Tilfelli: 26 ára kona var lögð inn á bráðamóttöku Landspítala
með 4 cm loftbrjóst yfir hægri lungnatoppi. Hún hafði tveggja
daga sögu um takverk hægra megin sem gerði vart við sig
skömmu eftir að tíðir hófust. Sex árum áður hafði hún
greinst með legslímuflakk í grindarbotni og sem var brennt í
kviðsjárspeglun. Auk þess hafði hún fengið hormónameðferð
vegna legslímuflakks. Á bráðamóttöku kom fram að hún hafði
á síðastliðnum 5 árum fundið fyrir svipuðum einkennum (þ.e.
takverk) að minnsta kosti fjórum sinnum og þá ávallt í tengslum
við tíðir. Hún leitaði þó ekki læknis í þau skipti þar sem einkenni
gengu yfir á nokkrum dögum. Á bráðamóttöku var komið fyrir
brjóstholskera sem tengdur var við sog. Loftlekinn stöðvaðist á
nokkrum dögum og hún var send heim. Viku síðar greindist hjá
henni endurtekið loftbrjóst sömu megin á lungnamynd og var þá
settur inn keri. Tölvusneiðmyndir af lungum reyndust eðlilegar.
Loftleki hélt áfram og var því ákveðið að taka sjúkling til
aðgerðar. Þar var hægri lungnatoppur fjarlægður (fleygskurður)
í gegnum hægri brjóstholsskurð (mini-axillar thoracotomy).
Lungnatoppurinn og fleiðran litu eðlilega út í aðgerðinni.
Vefjaskoðun sýndi minniháttar blöðrur en engin merki um
legslímuflakk. Hún var útskrifuð fimm dögum eftir aðgerð
en var lögð inn að nýju viku síðar með takverk. Lungnamynd
staðfesti endurtekið loftbrjóst hægra megin (3,5 cm). Ákveðið
var að gera fleiðrulímingu (pleurodesis) þar sem talkúmi var
sprautað inn í fleiðruholið í gegnum brjóstholskera. Stöðvaðist
loftlekinn við þetta og var hún útskrifuð þremur dögum síðar.
Ekki hefur borið á endurteknu loftbrjósti síðan en liðin eru
tveimur ár frá fleiðurlímingu.
Ályktun: Tíðaloftbrjóst er sjaldgæft fyrirbæri og sennilega
vangreint. Eins og sést í þessu tilfelli eru einkenni oft væg
og endurtekið loftbrjóst algengt. Ekki tókst að sýna fram á
legslímuflakk í brjóstholi hjá þessum sjúklingi, þrátt fyrir fyrri
sögu um legslímuflakk í grindarbotni. Þetta tilfelli undirstrikar
því hversu flókið fyrirbæri meingerð tíðaloftbrjósts er og að
meðferð getur verið flókin.
V 55 Samanburður á opnum aðgerðum og aðgerðum með
brjóstholssjá við sjálfkrafa loftbrjósti
Guðrún Fönn Tómasdóttir1,3, Bjarni Torfason1,3, Helgi Ísaksson2, Tómas
Guðbjartsson1,3
1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2rannsóknarstofu í meinafræði,
Landspítala, 3læknadeild HÍ
Inngangur: Hér á landi hafa skurðaðgerðir við loftbrjósti
verið framkvæmdar jöfnum höndum með opinni aðgerð og
brjóstholsspeglun. Markmið rannsóknarinnar var að kanna
árangur þessara aðgerða og bera þær saman, sérstaklega með
tilliti til fylgikvilla.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er óslembuð og náði til
allra sjúklinga sem fóru í aðgerð vegna sjálfkrafa loftbrjósts
á Landspítala 1991-2005. Af 210 sjúklingum (160 karlar,
meðalaldur 28,7 ár) voru 200 með loftbrjóst án undirliggjandi
lungnasjúkdóms (95%). Sjúklingum var skipt í tvo hópa: 134
sjúklinga sem fóru í brjóstholsspeglun og 100 í opna aðgerð
(axillar minithoracotomy). Af sjö skurðlæknum framkvæmdu
fjórir þeirra brjóstholsspeglun og val á aðgerðartækni fór því
eftir því hvaða læknir var á vakt hverju sinni. Snemmkomnir
fylgikvillar, ásamt endurteknu loftbrjósti sem þarfnaðist
aðgerðar, voru meðal þeirra breyta sem skráðar voru niður.
Niðurstöður: Fleygskurður á lungnatoppi var framkvæmdur
í öllum aðgerðum og fleiðruertingu bætt við í 25%
brjóstholsspeglana og 67% opnu aðgerðanna. Aðgerðartími
(meðaltal) var marktækt lengri fyrir speglunarhópinn, eða
65 mínútur á móti 51 mínútu fyrir opna hópinn (p=0,001).
Enduraðgerðir vegna síðkomins endurtekins loftbrjósts voru
þrjár eftir opna aðgerð og 10 eftir brjóstholsspeglun (p=0,004)
og viðvarandi loftleki sást hjá 2 og 14 sjúklingum í sömu
hópum (p<0,05). Enduraðgerðir vegna blæðinga voru hins
vegar sambærilegar (2%). Enginn lést eftir aðgerð. Legutími
(miðgildi) var lengri eftir opna aðgerð, eða fjórir dagar á móti
þremur.
Ályktanir: Enduraðgerðir eftir brjóstholsspeglanir eru algengari
samanborið við opnar brjóstholsaðgerðir. Skýringin á þessu felst
aðallega í hærra hlutfalli viðvarandi loftleka og endurtekins
loftbrjósts. Báðar aðgerðirnar eru öruggar og meiriháttar
fylgikvillar sjaldgæfir. Legutími er styttri eftir brjóstholsspeglun,
en á móti kemur að aðgerðartími er lengri. Meiri áhyggjum
veldur þó hærri tíðni enduraðgerða samanborið við opna
aðgerð og er brýnt að finna lausnir á því.
V 56 Meðfædd ósæðarþrenging hjá börnum á Íslandi
1990-2006
Sverrir I. Gunnarsson1,2, Bjarni Torfason2,1, Gunnlaugur Sigfússon3,1,
Hróðmar Helgason3, Tómas Guðbjartsson2,1
1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 3Barnaspítala
Hringsins
Inngangur: Ósæðarþrenging (aortic coarctation) er fremur
algengur meðfæddur hjartagalli. Þrengingin er á brjóstholshluta
ósæðar, oftast rétt neðan við vinstri a. subclavia. Þrengingin
hindrar blóðflæði frá vinstri slegli og veldur háþrýstingi í efri
hluta líkamans og skertu blóðflæði til neðri hluta líkamans.
Hjartabilun og lost geta sést í alvarlegum tilvikum. Í flestum
tilfellum er þrengingin fjarlægð með skurðaðgerð eða ósæðin
víkkuð með belg. Í vægum tilvikum nægir lyfjameðferð. Á
Íslandi eru ekki til rannsóknir á árangri skurðaðgerða við
þessum sjúkdómi. Tilgangur þessarar rannsóknar var að leggja
mat á árangur skurðaðgerða við meðfæddri ósæðarþrengingu og
kanna afdrif sjúklinganna.
Efniviður og aðferðir: Um er að ræða fyrstu niðurstöður úr
stærri rannsókn sem tekur til allra barna sem greinst hafa
með meðfædda ósæðarþrengingu á Íslandi á árunum 1990-
2006. Í þessari rannsókn eru eingöngu börn (yngri en 18
ára) sem gengust undir skurðaðgerð hér á landi vegna þessa
sjúkdóms. Rannsóknin er afturskyggn og fengust upplýsingar úr
sjúkraskrám auk greiningar- og aðgerðarskrám á Landspítala.
Könnuð voru einkenni og ábendingar skurðaðgerða auk þess
sem lagt var mat á fylgikvilla og árangur skurðmeðferðar.
Niðurstöður: Alls greindust 67 börn yngri en 18 ára með
meðfædda ósæðarþrengingu á þeim 17 árum sem rannsóknin
náði til. Af þeim fóru 38 í skurðaðgerð hér á landi, 22 drengir
og 16 stúlkur, meðalaldur 37 mánuðir (bil 3 dagar-17,8 ár).
Alls greindust 26 (68%) með einkenni þar sem einkenni
hjartabilunar voru algengust. Ellefu sjúklingar greindust fyrir
tilviljun og einn á fósturskeiði. Við skoðun voru 32 (84%)
með daufa eða óþreifanlega púlsa í nárum. Átta sjúklingar
fóru í bráðaaðgerð, oftast vegna alvarlegrar hjartabilunar og
losts. Þrýstingsfall fyrir og eftir aðgerð var 50 og 12 mmHg að
meðaltali. Algengasta aðgerðin var bein æðatenging (end-toend)
og subclavian-flap viðgerð. Aðgerðartími var að meðaltali
134 mínútur (bil 80-260 mínútur) og meðal-tangartími á ósæð 24
mínútur. Hjá einum sjúklingi þurfti að nota hjarta- og lungnavél
sem tengd var í nára. Algengustu fylgikvillar eftir aðgerð voru
háþrýstingur (n=22) og hjartabilun (n=3). Enginn sjúklingur
lamaðist eftir aðgerð. Miðgildi legutíma var níu dagar (bil 4-
127 dagar). Sjö börn (18 %) hafa þurft á víkkun að halda eftir
aðgerð og eitt barn fór í enduraðgerð í framhaldi af víkkun með
blöðru. Endurtekna skurðaðgerð þurfti ekki að gera hjá neinum
vegna endurþrengsla. Öll börnin lifðu af aðgerð og í dag eru öll
á lífi utan eitt sem dó rúmlega þremur mánuðum eftir aðgerð
vegna annarra flókinna meðfæddra galla.
Ályktun: Tíðni meðfæddrar ósæðarþrengingar er svipaður og í
nágrannalöndum okkar. Meira en helmingur þessara sjúklinga
fer í skurðaðgerð. Árangur skurðaðgerða er mjög góður og á
það bæði við um tíðni fylgikvilla í og eftir aðgerð. Skurðdauði er
lágur og langtímahorfur mjög góðar.
V 57 Tímatengd áhrif tolterodins á taugatengda blöðruofvirkni
í sjúklingum með mænuskaða
Guðmundur Geirsson1, A. Harðardóttir1, S. Steindórsdóttir1, D. Scholfield2,
S. Haughie2, P. Glue3, B. Malhotra3
1Þvagfæraskurðdeild Landspítala, 2Pfizer í Bretlandi og 3Bandaríkjunum
gug@landspitali.is
Tilgangur rannsóknar: Lyfið tolterodin er sértækur
samkeppnisblokki muskarinvirkra viðtaka með sértækni á
þvagblöðru. Þekkt er að lyfið tolterodin IR frásogast vel með
hámarksþéttni í blóði einni klukkustund eftir gjöf á töflu. Það
má því búast við að klínisk lyfjafræðileg áhrif sé í samræmi
við lyfjahvörf lyfsins. Það hefur áður verið sýnt fram á að
blöðruþrýstingsmæling með átaksfyllingu (force-fill cystometry,
FrFC) getur framkallað óhaminn blöðrusamdrátt hjá sjúklingum
með mænuskaða og taugatengda blöðruofvirkni. Hægt hefur
verið að draga úr þessum viðbrögðum með raförvunarmeðferð
og andkólínvirkum lyfjum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að
meta þann tíma sem það tekur að bæla óhaminn blöðrusamdrátt
eftir gjöf á tveggja mg skammti af tolterodin IR, borið saman við
lyfleysu þegar átaksfyllingarpróf (FrFc)er notað.
Aðferðir: Þetta var tvíblind slembirannsókn með tvíhliða
víxlun (2 way cross over) þar sem notað var annars vegar einn
2ggja mg. skammtur af tolterodine og hins vegar lyfleysa. Átta
sjúklingar, sem eru með staðfesta taugatengda blöðruofvirkni
eftir mænuskaða, tóku þátt í rannsókninni. Fyrir lyfjagjöf
var gerð blöðruþrýstingsmæling með hraðri fyllingu (fast-fill
cystometry, FsFC) til að ákvarða blöðrurýmd við fyrsta óhaminn
samdrátt. Hámarksþéttni lyfs í sermi (PK) fyrir, ½, 1 og 2
klukkustundum eftir lyfjagjöf var mælt. Strax eftir blóðtöku var
gerð FrFC sem endurtekin var þrisvar með 2-5 mínútna millibili.
Blaðran var fyllt með 100 ml minni vökva en það magn sem olli
fyrsta óhamda samdrætti við FsFC. Síðan var 100 ml af saltvatni
sprautað hratt inn í blöðru með fyllihraða 10-20 ml/sek til að
framkalla óhaminn samdrátt. Flatarmál undir þrýstingskúrfu
þess samdráttar sem framkallaðist við FrFC(AUC) var mælt
fyrir lyfjagjöf, ½, 1 og 2 klukkustundum eftir lyfjagjöf. Auk
þess var hámarksþrýstingur samdráttar skoðaður á sömu
tímapunktum.
Niðurstöður:
Á mynd 1 sést þéttni tolterodins í sermi á mismunandi
tímapunktum og áhrif þess á flatarmál undir þrýstingskúrfu og
hámarksþrýsting. Gildin eru skráð sem mismunur á áhrifum
tolterodins og lyfleysu. Í ljós kom að munur er á áhrifum lyfs og
lyfleysu á því tímaskeiði sem rannsóknin náði til. Þessi mismunur
var marktækur hvað varðar hámarks blöðruþrýsting eftir ½
klukkustund og var nærri marktækum mun hvað varðar AUC.
Mestur munur milli meðferða mældist eftir eina klukkustund
sem þó var ekki marktækur vegna mikillar dreifingar (SD) á
mæligildum við lyfleysumeðferð (table 1).
Ályktun: Það var greinileg lækkun á AUC og Pmax gildum allt
að tveimur klukkustundum eftir gjöf á tveggja mg skammti af
tolterodin. Sama lækkun fannst einnig við lyfleysumeðferð og
virðist sem endurtekin kröftug fylling á blöðru hafi haft letjandi
áhrif á blöðrusamdrátt hjá flestum þátttakendum. Þörf er á
frekari rannsóknum til þess að skýra þessi þreytuááhrif.
V 58 Krufningagreind nýrnafrumukrabbamein á Íslandi
1971–2000: Samanburður við æxli greind í sjúklingum á lífi
Ármann Jónsson1, Sverrir Harðarson2,1, Vigdís Pétursdóttir2, Helga Björk
Pálsdóttir1, Eiríkur Jónsson3,1, Guðmundur Vikar Einarsson3, Tómas
Guðbjartsson3,1
1Læknadeild HÍ, 2rannsóknarstofu Landspítala í meinafræði,
3þvagfæraskurðdeild Landspítala
tomasgud@landspitali.is
Inngangur: Á síðasta áratug hefur nýgengi nýrnafrumukrabbameins
aukist töluvert hér á landi. Þetta hefur verið
skýrt með hratt vaxandi notkun ómskoðana og tölvusneiðmynda
við uppvinnslu óskyldra sjúkdóma í kviðarholi. Krufningagreind
nýrnafrumukrabbamein greinast fyrir tilviljun við krufningu
hjá sjúklingum sem fyrir andlát hafa ekki þekkt einkenni
sjúkdómsins. Þessi tilfelli geta geymt mikilvægar upplýsingar
um hegðun sjúkdómsins hér á landi, ekki síst hvað varðar
upplýsingar um raunverulega aukningu sjúkdómsins.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er hluti af stærri rannsókn á
nýrnafrumukrabbameini á Íslandi og byggir á gagnagrunni sem
inniheldur alla sjúklinga sem greindust 1971 til 2000. Í þessari
afturskyggnu rannsókn var eingöngu litið á krufningagreind
tilfelli. Upplýsingar fengust úr gagnagrunni rannsóknarstofu
Landspítala í meinafræði, Krabbameinsskrá og sjúkraskrám
Landspítala. Upplýsingar um fjölda krufninga og mannfjölda
á rannsóknartímabilinu fengust frá Hagstofu Íslands. Tíðni
krufninga lækkaði marktækt á rannsóknartímabilinu, eða úr 31-
38% fyrstu 10 árin í 19% árið 2000. Athugaður var aldur og kyn
sjúklinganna auk þess sem vefjasýni voru yfirfarin af tveimur
meinafræðingum og skráð vefjagerð, æxlisstærð, gráðun og
TNM-stigun. Krufningagreind tilfelli voru síðan borin saman við
629 sjúklinga sem greindust á lífi með nýrnafrumukrabbamein á
Íslandi á sama tímabili.
Niðurstöður: Alls greindust 104 æxli fyrir tilviljun við krufningu
og var meðalaldur 74,8 ár (tafla 1). Tíðni krufningagreininga var
mjög breytileg á 5 ára tímabilum, eða 0,5-1,9% krufninga frá
1971-1995 en aðeins 0,18% frá 1996-2000 (p<0,05). Samanburður
á æxlum sem greindust við krufningu og hjá lifandi greindum er
sýndur í töflu I. Kynjahlutfall var áþekkt, einnig hlutfall hægri og
vinstri æxla. Krufningagreindu æxlin voru marktækt minni, eða
3,7 miðað við 7,4 cm í þvermál. Totufrumugerð (papillary RCC)
var algengari í krufningagreinda hópnum og tærfrumugerð
(clear cell RCC) heldur fátíðari samanborið við lifandi greinda.
Krufningagreindu æxlin reyndust með lægri stigun og gráðun en
hjá lifandi greindum.
Ályktun: Eins og búast mátti við eru krufningagreind
nýrnafrumukrabbamein á lægri stigum og gráðun, enda greind
fyrir tilviljun. Totufrumgerð er þó algengari samanborið við
lifandi greinda. Krufningagreindum nýrnafrumukrabbameinum
hefur fækkað á Íslandi, sérstaklega eftir 1995. Þetta er staðreynd
jafnvel þótt leiðrétt sé fyrir hlutfallslegri fækkun krufninga.
Aukið nýgengi nýrnafrumukrabbameins skýrist því ekki af
tilfellum greindum við krufningu.
V 59 Berkjufleiðrufistla eftir lungnabrottnám vegna lungnakrabbameins
er oftast hægt að lækna án skurðaðgerðar
Tómas Guðbjartsson1,3, Erik Gyllstedt2
Hjarta- og lungnaskurðdeildir 1Landspítala og 2háskólasjúkrahússins í
Lundi, Svíþjóð, 3læknadeild HÍ
tomasgud@landspitali.is
Inngangur: Lungnabrottnámi er aðallega beitt við stór og
miðlæg lungnakrabbamein. Um stóra aðgerð er að ræða sem
getur haft fylgikvilla í för með sér. Fistill á milli berkjustúfs og
fleiðru er hættulegur fylgikvilli þessara aðgerða. Fistillinn veldur
þá sýkingu í fleiðruholi sem getur valdið blóðeitrun sem getur
reynst banvæn. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna
tíðni þessara fistla eftir lungnabrottnám og leggja mat á árangur
meðferðar.
Efniviður og aðferðir: Á tímabilinu 1996-2003 gengust 130
sjúklingar undir lungnabrottnám vegna lungnakrabbameins
(NSCLC) á háskólasjúkrahúsinu í Lundi. Eftir aðgerðina
greindust alls átta sjúklingar (6,2%) með fistil á milli berkjustúfs
(sjö karlar og ein kona, meðalaldur 62,3 ár). Upplýsingar
fengust úr sjúkraskrám og aðgerðarlýsingum. Sjúklingar með
fistil voru bornir saman við þá sem ekki greindust með fistil
(n=122) og þannig reynt að leggja mat á hugsanlega áhættuþætti
fistilmyndunar.
Niðurstöður: Niðurstöður eru sýndar í töflu I. Í sjö tilfellum
greindust fistlar eftir hægra lungnabrottnám og í einu tilviki
vinstra megin (p<0,05), yfirleitt innan viku frá aðgerð.
Algengustu einkenni voru hósti, uppgangur og hiti. Flestir
sjúklinganna reyndust með lungnakrabbamein á háu stigi, en
sex sjúklingar voru á stigi IIIA eða IIIB. Þrír sjúklingar höfðu
fengið bæði geisla- (44 Gy) og krabbameinslyfjameðferð fyrir
lungnabrottnám. Aðrir þrír fengu geislun eftir aðgerð. Hjá
sex sjúklingum var stúfurinn þakinn, ýmis með fleiðru eða
bláæð (v. azygos) en límefni voru notuð í þremur tilvikum. Af
átta sjúklingum með fistil þurftu aðeins þrír að gangast undir
skurðaðgerð. Hjá tveimur þeirra var vöðvaflipi saumaður á
berkjustúfinn og í einu tilviki var saumað yfir stúfinn. Hinir
fimm voru meðhöndlaðir án skurðaðgerðar þar sem lokað
var fyrir fistilinn með vefjalími (Tissel®) en því var sprautað
í fistilgatið að innanverðu með berkjuspeglun. Stök meðferð
dugði hjá fjórum en hjá einum þurfti endurtekna sprautun
með vefjalími. Legutími var 21,5 dagar að meðaltali og enginn
sjúklinganna lést innan 30 daga. Tveimur árum frá aðgerð voru
þrír af átta sjúklingum á lífi. Í dag er aðeins einn sjúklingur á lífi
og hefur sá lifað í 98 mánuði.
Ályktun: Berkjufleiðrufistill er frekar sjaldgæfur en alvarlegur
fylgikvilli eftir lungnabrottnám við lungnakrabbameini. Tíðni
fistla í þessari rannsókn (6%) er frekar lág, sérstaklega
þegar haft er í huga að rúmur fjórðungur sjúklinganna
fékk geisla- og krabbameinslyfjameðferð fyrir aðgerðina.
Sjúklingar með fistil eru yfirleitt karlar með langt genginn
sjúkdóm í hægra lunga og langtímahorfur þeirra eru lakar.
Einnig er áhætta á fistilmyndun aukin hjá þeim sem fá geislaog/
eða krabbameinslyfjameðferð fyrir og eftir aðgerð. Flesta
berkjufleiðrufistla eftir lungnabrottnám er hægt að meðhöndla
án skurðaðgerðar, t.d. með því að sprauta í þá vefjalími við
berkjuspeglun.
V 60 Nuss-aðgerð - nýjung í meðferð trektarbrjósts
Tómas Guðbjartsson, Bjarni Torfason
Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, læknadeild HÍ
tomasgud@landspitali.is
Inngangur: Trektarbrjóst (pectus excavatum) er algengur
meðfæddur galli sem sést hjá einu af hverjum 1000 börnum
og er fjórum sinnum algengara hjá drengjum en stúlkum.
Trektarbrjóst er oftast án einkenna en getur í vissum tilvikum
þrengt að hjarta og lungum. Langalgengasta ábending aðgerðar
er þó til að lagfæra lýti. Fram til þessa hefur verið beitt opnum
brjóstholsskurðaðgerðum þar sem geislungar eru fjarlægðir að
hluta og rif ásamt bringubeini sveigð og fest með spöng, plötu
og/eða stálvírum. Um er að ræða allstórar skurðaðgerðir með
töluverðum fylgikvillum og langri sjúkrahússvistun. Reynt
hefur verið að notast við sílikonfyllingu í stað lagfæringar á
brjóstveggnum en fyllingin þolist illa vegna verkja. Nuss-aðgerð
er ný meðferð við trektarbrjósti. Aðgerðinni var fyrst lýst fyrir
17 árum og felst í því að sterkum stálboga er komið fyrir aftan
við bringubeinið og rétt úr trektinni. Aðgerðin hefur verið þróuð
frekar á síðustu árum og er stálboganum nú komið fyrir með
aðstoð brjóstholssjár og örin eftir aðgerðina eru því hverfandi
lítil. Sjúkrahússvistun er í kringum eina viku en þann tíma fá
sjúklingarnir epiduraldeyfingu. Stálboginn er oftast látinn sitja í
tvö til þrjú ár og síðan fjarlægður.
Árið 2004 var Nuss-aðgerð tekinn upp á Íslandi í stað eldri og
stærri aðgerðar við trektarbrjósti. Lýst er fyrstu aðgerðunm
hérlendis og helstu skrefum aðgerðar með skýringarmyndum
úr aðgerð.
Niðurstöður: Alls hafa verið framkvæmdar 16 Nuss aðgerðir
hér á landi (15 karlar, ein kona, meðalaldur 18,4 ár. Allar
aðgerðirnar voru framkvæmdar til að lagfæra lýti. Einn
sjúklingur var með Marfans-heilkenni og tveir með alvarlega
hryggskekkju. Aðgerðirnar tóku að meðaltali 68 mínútur (bil 40-
110). Engir fylgikvillar komu upp í aðgerð og allir sjúklingarnir
lifðu aðgerðina. Tveir sjúklingar fengu yfirborðssýkingar í
skurðsár sem létu undan sýklalyfjameðferð og tveir sjúklingar
fengu loftbrjóst. Annan síðastnefndu sjúklinganna þurfti að
leggja inn og gekkst hann undir fleygskurð á lunga með aðstoð
brjóstholssjár. Árangur aðgerðanna (útlitslegur) var metinn
tveimur vikum frá aðgerð og reyndist ágætur í 12 (75%)
tilfellum og góður (skor 4) hjá fjórum (25%). Sjúklingarnir
voru drengir á aldrinum 15 til 25 ára. Aðgerðartími var stuttur
og sjúkrahúsdvöl á bilinu sjö til 13 dagar. Aðgerðirnar voru án
stærri fylgikvilla í öllum tilvikum. Ekki þurfti að snúa neinni
aðgerðanna í opna aðgerð. Trektarbrjóstið tókst að lagfæra í
öllum tilvikum með góðum árangri. Stálbogarnir bíða nú þess
að verða fjarlægðir.
Ályktun: Nuss-aðgerð er örugg og fljótleg aðgerð við
trektarbrjósti sem skilur eftir lítil ör. Aðgerðin leysir af hólmi
allstóra opna aðgerð og verður því að teljast fýsilegur kostur
sem meðferð við trektarbrjósti hjá börnum og ungu fólki.
V 61 Valmiltistökur á Landspítala 1993 til 2004
Bergþór Björnsson1, Guðjón Birgisson1, Pétur Hannesson2, Margrét
Oddsdóttir1,3
1Skurðlækningadeild og 2myndgreiningadeild Landspítala, 2læknadeild HÍ
bergthor@landspitali.is
Inngangur: Brottnám á milta er vel þekkt meðferð við ýmsum
góðkynja og illkynja blóðsjúkdómum. Fram til ársins 1991 var
um að ræða stóra opna kviðarholsaðgerð en miltistöku með
kviðsjá var fyrst lýst það ár. Byrjað var að gera þessar aðgerðir á
Landspítala árið 1994. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna
ástæður þessara aðgerða hér á landi og bera saman við opnar
aðgerðir með tilliti til aðgerðarlengdar, fylgikvilla og legutíma.
Efniviður og aðferðir: Farið var yfir sjúkraskrár sjúklinga sem
gengust undir brottnám á milta á Landspítala sem valaðgerð á
rannsóknartímanum. Skráð var ábending aðgerðar, þættir tengdir
aðgerð, legutími eftir aðgerð og fylgikvillar. Rannsóknin var
samþykkt af Persónuvernd og Vísindasiðanefnd Landspítala.
Niðurstöður: Á tímabilinu voru gerðar 66 valmiltistökur.
Meðalaldur sjúklinga við aðgerð var 49,8 (8,9-82,3) ár, ekki
var munur á aldri milli þeirra sem fóru í opna aðgerð og þeirra
sem fóru í kviðsjáraðgerð. Karlar voru 34 en konur 32, ekki
var munur á aldri milli kynja. Í 27 tilfellum var byrjað með
kviðsjáraðgerð en í þremur tilfellum þurfti að skipta yfir í opna
aðgerð, í tveimur tilfellum vegna blæðingar og í einu tilfelli
liggja ekki fyrir upplýsingar um ástæðu. Opnar aðgerðir voru 38
og í einu tilfelli vantaði upplýsingar. Kynjaskipting í hópunum
var jöfn. Algengustu ábendingar aðgerðar voru blóðflögufæð
32, eitilfrumukrabbamein 10 og hnattrauðkornakvilli
(spherocytosis) fimm. Samsvörun milli ábendinga aðgerða
og meinafræði sýna var góð. Miðgildi aðgerðartíma var 110
mínútur, fyrir kviðsjáraðgerðir 132 mínútur en opnar 91 mínúta
(p<0,0001). Meðal blæðing var 670 ml, í kviðsjáraðgerðum
var meðal blæðing 580 ml en í opnum 730 ml (p=0,4413).
Meðallegutími var 8,4 dagar, eftir opnar aðgerðir var legulengd
11,2 dagar en 4,4 eftir kviðsjáraðgerðir (p=0,0394). Í 39 tilfellum
komu ekki fram fylgikvillar en hjá 23 sjúklingum komu fram
fylgikvillar, upplýsinar vantar í fjórum tilfellum. Af sjúklingum
sem fóru í opnar aðgerðir fengu 15 (42%) fylgikvilla og eitt
dauðsfall varð innan 30 daga frá aðgerð. Af sjúklingum sem fóru
í kviðsjáraðgerð fengu 8 (31%) fylgikvilla. Ekki var marktækur
munur á tíðni fylgikvilla.
Ályktun: Miltistaka um kviðsjá hefur í för með sér tilhneigingu
til minni blæðingar í aðgerð og færri fylgikvilla en opin aðgerð.
Legutími er styttri eftir kviðsjáraðgerðir en opnar aðgerðir.
Kviðsjáraðgerðir eru tímafrekari en opnar aðgerðir.
V 62 Nýrnahettubrottnám með kviðsjá á Íslandi 1997-2005
Bergþór Björnsson1, Margrét Oddsdóttir1,2
1Skurðdeild Landspítala, 2læknadeild HÍ
bergthor@landspitali.is
Inngangur: Æxli í nýrnahettum eru sjaldgæf en geta verið
margvísleg. Frá 1997 hafa valaðgerðir vegna nýrnahettuæxla
á Íslandi verið gerðar með kviðsjártækni. Flestar aðgerðirnar
hafa verið gerðar af einum skurðlækni. Tilgangur þessarar
rannsóknar var að kanna árangur umræddra aðgerða hér á landi
og bera saman við erlendar niðurstöður.
Efniviður og aðferðir: Sjúkraskrár allra voru skoðaðar og
upplýsingum safnað um ástæður aðgerða, þætti tengda aðgerð,
fylgikvilla, fjölda legudaga og vefjagreiningu.
Niðurstöður: Fjarlægðar voru 53 nýrnahettur úr 48 sjúklingum
á tímabilinu frá 1997 til 2005. Konur voru í meirihluta (37),
meðalaldur sjúklinga var 53,6 ár (24,4-78,8). Algengara var að
vinstri nýrnahetta væri fjarlægð en sú hægri (34/19), í fjórum
tilfellum voru báðar nýrnahettur fjarlægðar í sömu aðgerð.
Meðalstærð sýna var 6,8 cm (4,5-10,5). Ástæður aðgerða voru
17 vegna stærðar kirtils, 12 vegna hækkunar aldosterons í
blóði, 10 vegna gruns um litfíkilsæxli, fjórir vegna Cushings
heilkennis/sjúkdóms, fjórir vegna offramleiðslu karlhormóna,
tveir vegna gruns um meinvarp. Meðal agerðartími var 168
(87-370) mínútur (ein nýrnahetta) og meðalblæðing var 117 ml
(0-650). Aðgerðartími var marktækt lengri þegar um litfíkilsæxli
var að ræða (233 mínútur) en aðrar fyrirferðir (p=0,003) og í
þeim aðgerðum var blæðing einnig meiri (260 ml) en í öðrum
aðgerðum á annarri nýrnahettu (p<0,0001). Fylgikvillar voru
sjaldgæfir, engir meiriháttar. Meðal legutími var 2,6 dagar
(1-6 dagar). Aldrei þurfti að skipta yfir í opna aðgerð. Einn
sjúklingur reyndist óvænt vera með illkynja æxli og einn sem
talinn var vera með litfíkilsæxli reyndist ekki hafa það.
Ályktanir: Nýrnahettubrottnám um kviðsjá hafa gengið
vel á Íslandi og er í dag valmeðferð við góðkynja fyrirferð
í nýrnahettu. Niðurstöður á Íslandi eru í góðu samræmi við
niðurstöður erlendra rannsókna. Brottnám litfíkilsæxla með
kviðsjá er örugg þó það sé tímafrekara og hafi í för með sér
lítillega meiri blæðingu en brottnám annarra æxla.
V 63 Árangur af ísetningu lyfjabrunna á Landspítala yfir
eins árs tímabil
Bergþór Björnsson1, Pétur Hannesson2, Agnes Smáradóttir3, Páll Möller1
1Skurðlækningadeild, 2 myndgreiningadeild og 3lyflækningadeild krabbameina
Landspítala
bergthor@landspitali.is
Inngangur: Notkun lyfjabunna hefur aukist undanfarin ár á
Landspítala. Erlendar rannsóknir sýna að tíðni bráðra sem og
síðkomina fylgikvilla er lág. Þetta hefur ekki verið rannsakað
áður hér á landi og því var tilgangur rannsóknarinnar að kanna
notkun lyfjabrunna á Landspítala auk tíðni fylgikvilla og bera
saman við niðurstöður erlendra rannsókna.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn. Allir
fullorðnir sjúklingar sem fengu lyfjabrunn á skurðlækningadeild
Landspítala Hringbraut á tímabilinu 1. september 2005 til
31. ágúst 2006 voru teknir inn í rannsóknina. Skráðar voru
upplýsingar úr aðgerð, niðurstöður lungnamyndatöku eftir
ísetningu og klínískar upplýsingar á meðan á notkun stóð. Farið
var yfir myndrannsóknir allra sjúklinga, bæði lungnamyndatöku
og síðari viðeigandi rannsóknir. Rannsóknin var samþykkt af
Vísindasiðanefnd Landspítala og Persónuvernd.
Niðurstöður: Settir voru 128 lyfjabunnar í 121 sjúkling.
Heildarfjöldi daga þar sem sjúklingar voru með lyfjabrunn
var 32.290. Konur voru 85, karlar 44. Meðalaldur sjúklinga
var 57 (18-86,4) ár. Algengasta ástæða ísetningar var
krabbameinslyfjameðferð (n=121). Algengustu greiningar voru
brjóstakrabbamein (34), ristil- og endaþarmskrabbamein (31),
eitlakrabbamein (12) og briskrabbamein (8). Í 14 tilfellum náði
slanga ekki inn í efri miðbláæð og í 19 tilfellum var slanga niður
undir hægri gátt eftir ísetningu. Í sex tilfellum lá slanga niður
í hægri gátt og í þremur tilfellum færðist slanga þangað síðar.
Snemmkomnir fylgikvillar við ísetningar voru sex ástungur á
slagæð (án alvarlegra afleiðinga), tvö loftbrjóst sem hvorugt
greindist fyrir útskrift og í einu tilfelli blæðing sem leiddi til
enduraðgerðar. Eftir 101 ísetningu komu ekki fram neinir
síðkomnir fylgikvillar en í 27 (21%) tilfellum komu fram
fylgikvillar.
Ályktun: Tíðni fylgikvilla við ísetningu og notkun lyfjabrunna
á Landspítala er hærri en þekkt er úr erlendum rannsóknum.
Ástæður þessa geta verið margvíslegar m.a. hvort lyfjabrunnar
séu settir í veikari sjúklinga hér á landi. Tegund lyfjabrunna sem
notaðir eru gætu einnig skipt máli. Þörf er á frekari rannsóknum
á notkun lyfjabrunna yfir lengra tímabil á Landspítala.
V 64 Langtíma (5-10 ára) árangur aðgerða við vélindabakflæði
Aðalheiður Jóhannesdóttir1, Kristinn Tómasson2, Margrét Oddsdóttir3
Læknadeild HÍ1, Vinnueftirlit ríkisins, atvinnusjúkdómadeild2, skurðdeild
Landspítala Hringbraut3
margreto@landspitali.is
Bakgrunnur: Langtíma árangur bakflæðisaðgerða um opinn
skurð er góður í um 90% tilfella. Þessar aðgerðir hófust um
kviðsjá á Íslandi 1994 og voru fyrstu fimm árin nánast eingöngu
í höndum eins skurðlæknis. Erlendis er mat á langtímaárangri
oft erfitt vegna fjölda skurðlækna sem að uppgjörinu koma og
hve fáa sjúklinga næst í til langtíma mats. Mat á langtíma árangri
hérlendis getur því gefið mikilvægar upplýsingar.
Tilgangur: Að meta lífsgæði 5-10 árum eftir bakflæðisaðgerð.
Að meta einkenni frá meltingarfærum og einkenni um bakflæði
svo löngu eftir aðgerð, ásamt því að athuga hvort finna mætti
mun á þeim sem töldu að aðgerðin hefði heppnast vel og þeim
sem töldu að hún hefði misheppnast.
Efniviður og aðferðir: 158 sjúklingar sem gengust undir aðgerð
1994-1999 uppfylltu skilyrði rannsóknarinnar. Þeim voru sendir
fjórir spurningalistar. GSRS (Gastrointestinal Symptom Rating
Scale), QOLRAD (Qualitiy of Life in Reflux and Dyspepsia),
HL (Heilsutengd lífsgæði) og spurningar um lyfjanotkun
við bakflæði. Auk þess voru sóttar upplýsingar í sjúkraskrár
sjúklinganna. Sjúkraskrárupplýsingar voru bornar saman við
svör sjúklinga 5-10 árum eftir aðgerðina.
Niðurstöður: Svör bárust frá 120 sem gefur 76% svörun.
Svarendum var skipt í tvo hópa. Þá sem voru ánægðir með
árangur aðgerðar og þá sem voru óánægðir. 99 svarendur voru
ánægðir, eða 83%, 21 svarandi var óánægður, eða 17%. Þeir
sem töldu að aðgerðin hefði heppnast höfðu betri heilsutengd
lífsgæði en þeir sem töldu að aðgerðin hefði misheppnast. Þeir
höfðu einnig minni einkenni frá meltingarfærum. Samtals 35 hafa
fundið bakflæðiseinkenni frá aðgerð og svöruðu þeir sértækum
lista fyrir bakflæði, QOLRAD. Í ljós að bakflæðiseinkenni þeirra
óánægðu voru marktækt verri en þeirra sem ánægðir voru.
Ályktun: 5-10 árum eftir aðgerð eru >80% sjúklinga ánægðir
með árangur bakflæðisaðgerðar. Þeir ánægðu hafa marktækt
betri lífsgæðiog minni einkenni frá meltingarfærum en þeir sem
eru óánægðir með árangur sinnar aðgerðar.
V 65 Árangur enduraðgerða vegna vélindabakflæðis. - Er
eitthvað sammerkt með þeim sem fara í enduraðgerð?
Hildur Guðjónsdóttir1, Kristinn Tómasson2, Margrét Oddsdóttir3
Læknadeild HÍ1, Vinnueftirlit ríkisins, atvinnusjúkdómadeild2, skurðdeild
Landspítala Hringbraut3
margreto@landspitali.is
Inngangur: Með breyttu lífsmynstri hefur fólki með einkenni
bakflæðis fjölgað. Árangur vélindabakflæðisaðgerða um kviðsjá
er almennt vel þekktur og hafa þær gerfið góða raun. Alltaf er
þó einhver hluti sjúklinga sem ekki hlýtur fullnægjandi bata af
aðgerðinni og þarf á enduraðgerð að halda. Hvað er sammerkt
með þeim sjúklingum og hvernig hefur þeim reitt af?
Efniviður og aðferð: Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám
allra sem farið hafa í endurtekna kviðsjáraðgerð vegna
vélindabakflæðis á Landspítala til ársins 2004 (N=42). Allar
upplýsingar um mælingar, einkenni og lyfjanotkun sjúklings frá
því fyrir upprunalega aðgerð allt til dagsins í dag voru skráðar
sem og upplýsingar úr aðgerðarlýsingum og almenn sjúkrasaga.
Sjúklingarnir fengu allir senda heim tvo spurningalista,
Heilsutengd lífsgæði – HL og Gastrointestinal Symptom Rating
Scale – GSRS, ásamt viðbótarspurningum. Kannað var hvort
þessi sjúklinga hópur ætti eitthvað sammerkt sem hægt væri að
nota til að spá fyrir um hugsanlegan árangur aðgerðar.
Þessi hópur sjúklinga var borinn saman við sjúklingahóp úr
rannsóknarverkefni Aðalheiðar Rósu Jóhannsdóttur: Langtíma
(5 ára) árangur aðgerða við vélindabakflæði með tilliti til
einkenna fyrir aðgerð (fyrir fyrri aðgerð þessa hóps), annarra
sjúkdóma og stigaskorunar á HL og GSRS-spurningalistunum.
Niðurstöður: 33 sjúklingar sendu inn svöruðum spurningalistum
(79% svörun). 23 eru ánægðir með árangur enduraðgerðar
(70%) og af þeim 10 sem ekki eru ánægðir eru sjö með
einkenni sem mætti rekja til bakflæðis eða aðgerðarinnar
sjálfrar. Sjúklingar sem hafa farið í endurtekna kviðsjáraðgerð
vegna vélindabakflæðis hafa mun verri og margþættari
einkenni bakflæðis fyrir upprunalega aðgerð en sjúklingar
sem fengið hafa bót meina sinna eftir eina aðgerð. Þeir hafa
einnig marktækt hærri tíðni annarra sjúkdóma (co-morbiditet)
sem vitað er að hafa mjög mikil áhrif á lífsgæði fólks. Þegar
borinn saman við samanburðarhópinn kemur í ljós að skor á
HL og GSRS-spurningalistunum er marktækt lakara meðal
enduraðgerðarsjúklinga.
Ályktanir: Ánægja sjúklinga sem fara í enduraðgerð er minni
en þeirra sem fá bata eftir eina aðgerð. Sjúklingar með flókna
sjúkrasögu og sjúklingar með svæsin einkenni bakflæðis sýna
verri árangur af kviðsjáraðgerðum en bakflæðissjúklingar sem
eru að öðru leyti við góða heilsu.
V 66 BNP-mælingar til að ákvarða meðferðarlengd á
ECMO-dælu. – Sjúkratilfelli af 27 ára karlmanni með svæsna
hjartaþelsbólgu og hjartabilun
Einar Þór Bogason1, Bjarni Torfason1,3, Tómas Guðbjartsson1,3, Felix
Valsson2
1Hjarta- og lungnaskurðdeild og 2svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala,
3læknadeild HÍ
einarthb@gmail.com
Inngangur: BNP (brain natriuretic peptide) er hormón sem er
losnar úr sleglum hjartans við þan á hjartavöðvafrumum og
hefur hækkað gildi á BNP sýnt sterka fylgni við hjartabilun.
Einnig hefur nýleg rannsókn bent til fylgni hækkaðs BNP
gildis og lakari árangurs eftir hjartaskurðaðgerð. Lýst er
tilfelli af svæsinni hjartaþelsbólgu þar sem beita þurfti
ECMO-dælu (extra-corporeal membrane oxygenation) eftir
ósæðarrótarskipti. Sýnt er fram á fylgni milli BNP-mælinga,
hjartabilunar og meðferð með ECMO-dælu.
Tilfelli: 27 ára karlmaður með tvíblaða ósæðarloku var lagður
inn á gjörgæsludeild Landspítala með nokkra daga sögu um
bakverk og háan hita. Ómskoðun sýndi ígerð í ósæðarrótinni
með lokuhrúður á lokublöðum auk alvarlegs lokuleka.
Streptococcus mitis ræktaðist úr blóði og var hafin meðferð
með sýklalyfjum. Sólarhring síðar var gerð bráðaaðgerð vegna
skyndilegrar öndunar- og hjartabilunar auk losts. Þar kom í ljós
tætt óæðarloka með stórri ígerð í ósæðarrótinni sem teygði sig
niður á míturlokuna auk fistils inn í vinstri gátt. Skipt var um
ósæðarrótina með tilfærslu á kransæðum og notast við lífræna
ósæðaarloku án grindar (Freestyle). Aðgerðin var tæknilega
erfið og tók rúmar 10 klukkustundir (vélartími: 382 mínútur,
tangartími: 273 mínútur). Leggja þurfti bæði ósæðardælu (IABP,
intra-aortic balloon pump) og ECMO-dælu sem var veitt úr
hægri gátt í lærisslagæð til að halda uppi súrefnismettun og
blóðþrýstingi. Gera þurfti enduraðgerð til blóðstillingar sama
sólarhring. Blæðing var veruleg og fékk hann samtals í aðgerð
50 einingar af plasma, 37 einingar af rauðkornaþykkni og 11
einingar af blóðflögum. Ástand sjúklings var mjög tvísýnt næstu
daga en fór svo hægt batnandi. Sjö dögum frá aðgerð var hægt
að fjarlægja ECMO-dælu og tveimur dögum síðar ósæðardælu.
Viku síðar var hann tekinn úr öndunarvél og rúmum mánuði
frá aðgerð útskrifaður heim. Í legunni voru gerðar endurteknar
BNP mælingar sem sýndar eru á mynd 1. Í ljós kom fylgni BNPmælinga
við annnars vegar hjartabilunareinkenni sjúklings og
hins vegar hvenær ECMO-meðferð var hafin og henni hætt.
Hins vegar hafði lítil áhrif á BNP þegar ósæðardæla var fjarlægð.
Tveimur mánuðum frá aðgerð voru BNP-gildi nánast eðlileg.
Ályktun: Geysilega hátt BNP fyrir aðgerð samrýmdist
mikilli hjartabilun sjúklings. Við minnkað álag á hjartað með
notkun ECMO-dælu lækkaði styrkur BNP verulega sem og
hjartabilunareinkenni. Þegar ECMO-dælan var fjarlægð og
álag á hjartað jókst á ný hækkaði styrkur BNP aftur. Þessar
niðurstöður gætu bent til þess að nota megi styrk BNP sem bæði
viðmið um virkni og meðferðarlengd með ECMO-dælu. Þar
sem um einstakt tilfelli er að ræða er ljóst að frekari rannsókna
er þörf.
V 67 Vélindaómskoðanir svæfingalækna við hjartaskurðaðgerðir
- greina nýjar upplýsingar sem geta haft áhrif á
aðgerðina
Guðmundur Klemenzson1, Felix Valsson1, Gunnar S. Ármannsson1, Hildur
Tómasdóttir1, Hjörtur Sigurðsson1, Ívar Gunnarsson1, Kári Hreinsson1,
Bjarni Torfason2
1Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 2hjarta- og lungnaskurðdeild
Landspítala
klemenzs@landspitali.is
Inngangur: Til að fá sem bestar upplýsingar um ástand hjarta
sjúklinga sem fara í opnar hjartaaðgerðir eru þeir rannsakaðir
með hjartaþræðingu og oft einnig með hjartaómun fyrir
aðgerð. Á síðustu árum hafa hjartasvæfingalæknar farið að
nota vélindaómskoðanir (TEE- Trans esophageal echo) sem
vöktunar og greiningartæki við hjartaaðgerðir á Landspítala.
Tilgangur þessarar framsýnu rannsóknar var að kanna hversu
oft nýjar upplýsingar koma fram og hve oft þær leiða til
breytinga á fyrirhugaðri aðgerð.
Aðferðir: Á tveggja ára tímabili, frá mars 2005 til mars 2007,
voru allir sjúklingar sem fóru í opnar hjartaskurðaðgerðir á
Landspítala vaktaðir með vélindaómun af svæfingalækni meðan
á hjartaaðgerð stóð.
Niðurstöður: Alls var 401 sjúklingur ómaður.
Skipting aðgerða:
- Kransæðaaðgerð (CABG) á hjarta- og lungnavél (HLV): 207
(einn með mazeaðgerð)
- Kransæðaaðgerð á sláandi hjarta (OPCAB): 66 (einn með
mazeaðgerð)
- Ósæðarlokuskipti + CABG: 47 (þrír með mazeaðgerð)
- Ósæðarlokuskipti: 39 (tveir með mazeaðgerð)
- Aðrar loku- og hjartaðgerðir: 42 (þrír með mazeaðgerð)
Áður óþekktar upplýsingar um ástand sjúklings fundust í 114
ómunum (28,4%), þar af í 95 fyrir aðgerð og í 19 eftir aðgerð.
Þessar nýju upplýsingar leiddu til breytingar á aðgerð eða
meðferð í 41 sjúklingi (10,2%).
Samantekt: Í rúmlega fjórðungi sjúklinga sem koma til
hjartaaðgerðar á Landspítala uppgötvast áður óþekktar
upplýsingar, ellegar ástand sjúklings skýrist með hjálp
vélindaómunar. Þetta er heldur hærra hlutfall en í uppgjörum frá
erlendum háskólasjúkrahúsum. Í rúmum 10% sjúklinga hefur
vélindaómun bein áhrif á eðli aðgerðar ellegar breytir meðferð
sjúklings t.d. með tilliti til enduraðgerðar, lyfjagjafar eða
annarra inngripa. Vandaðar vélindaómskoðanir ásamt náinni
teymisvinnu svæfingalækna og hjartaskurðlækna hjálpar til þess
að sjúklingar njóti hámarksávinnings af hjartaskurðaðgerðum.
V 68 Djúpar sýkingar í bringubeinsskurði eftir opnar
hjartaskurðaðgerðir á Íslandi
Steinn Steingrímsson1, Magnús Gottfreðsson1,2, Bjarni Torfason 1,3, Karl G.
Kristinsson1,4, Tómas Guðbjartsson1,3
1Læknadeild HÍ, 2smitsjúkdómadeild, 3hjarta- og lungnaskurðdeild,
4sýklafræðideild Landspítala
steinns@hi.is
Inngangur: Sýking í bringubeinsskurði er alvarlegur fylgikvilli
opinna hjartaskurðaðgerða en skv. erlendum rannsóknum
greinast þær í 1-8% tilfella. Í kjölfar slíkra sýkinga eykst
dánartíðni umtalsvert og sömuleiðis legutími. Markmið þessarar
rannsóknar var að kanna tíðni þessara alvarlegu sýkinga hér á
landi og rannsaka áhættuþætti.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk og náði til
allra fullorðinna sem gengust undir opnar hjartaskurðaðgerðir
á Íslandi 1997-2004, eða samtals 1650 einstaklinga (63
börnum var sleppt). Upplýsingar um sjúklinga fengust úr
sjúkra- og aðgerðarskrám. Sjúklingar sem reyndust vera
með grunna sýkingu eða los á bringubeinsskurði af öðrum
orsökum en sýkingu voru ekki teknir með í rannsóknina. Fyrir
sérhvern sjúkling með sýkingu voru valdir fjórir sjúklingar í
samanburðarhóp sem gengist höfðu undir hjartaskurðaðgerð á
sama tímabili. Hóparnir voru bornir saman með tilliti til ýmissa
áhættuþátta og fjölbreytugreining notuð til að meta áhættuþætti
fyrir sýkingu. Einnig var farið yfir sýklaræktanir, lagt mat á
árangur meðferðar og kannaðar lífshorfur
Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu greindist 41 sjúklingur
(2,5%) með sýkingu í bringubeini og miðmæti og greindist
sýkingin yfirleitt innan tveggja vikna frá aðgerð. Oftast var um
að ræða kransæðahjáveituaðgerð (75%) og ósæðarlokuskipti
(17%). Ekki var marktækur munur á sýkingartíðni milli ára á
þessu átta ára tímabili (bil 1,2-4%). Algengustu sýkingavaldar
voru Staphylococcus aureus (37%) og kóagúlasa-neikvæðir
Staphylokokkar (34%). Hóparnir voru sambærilegir hvað
varðar kynjahlutföll, líkamsþyngdarstuðul og ábendingu fyrir
aðgerð. Sjúklingar með sýkingu reyndust vera eldri (68,8 vs. 65,5
ára, p=0,04), höfðu oftar sögu um útæðasjúkdóm (32% vs. 8%,
p<0,001), heilablóðfall (15% vs. 3%, p=0,003) og nýrnabilun
(5% vs. 1%, p=0,04). Einnig reyndust sýktu sjúklingarnir hafa
hærra Euroscore (7,6 vs. 4,6, p=0,001) og fleiri voru í NYHA
flokki IV (54% vs. 30%, p=0,004). Legutími (43 vs. 10 dagar,
p<0,001) og lengd meðferðar í öndunarvél var marktækt lengri
hjá sýkingarhópnum. Í þessum hópi sást einnig tilhneiging til
hærri sjúkrahússdauða (10% vs. 4%, p=ns) og eins árs lífshorfur
voru marktækt lakari en hjá viðmiðunarhópi (83% vs. 95%,
p=0,01). Fjölbreytugreining sýndi að sterkustu sjálfstæðu
áhættuþættirnir fyrir sýkingu voru heilablóðfall (RR=5,1),
útæðasjúkdómar (RR=5,0), meðferð með bólgueyðandi sterum
(RR=4,3), enduraðgerð vegna blæðinga (RR=4,7) og reykingar
(RR=3,7).
Ályktun: Tíðni bringubeins- og miðmætissýkinga á Íslandi
(2,5%) og áhættuþættir eru sambærilegir við stærri erlendar
rannsóknir. Dánarhlutfall sjúklinga með sýkingar er umtalsvert
hér á landi (17,1%) en sambærilegt og í nágrannalöndum
okkar.
V 69 Frelsi eða fjötrar? - Meðferðarheldni frá sjónarhóli
sykursjúkra: Áskoranir, samræður og samningar
Brynja Ingadóttir
Hjarta- og lungnaskurðdeild og legudeild augndeildar, Landspítala
brynjain@landspitali.is
Inngangur: Innan heilbrigðisþjónustunnar er það álitið
vandamál þegar sjúklingar fylgja ekki meðferðarfyrirmælum
við sjúkdómum sínum. Þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir áratugum
saman fer meðferðarheldni lítt batnandi. Athygli hefur verið
vakin á þeirri staðreynd að sjónarhorn sjúklinga koma sjaldan
fram í þeim rannsóknum.
Markmið: Rannsókn þessi leitar svara við spurningunni:
Hver er reynsla sykursjúkra af því að fylgja og/eða fylgja ekki
meðferðarfyrirmælum og hvað gerist í samskiptum þeirra við
heilbrigðisstarfsfólk þegar meðferð er ekki fylgt?
Aðferð: Um túlkandi fyrirbærafræðilega rannsókn er að ræða
með samræður sem gagnasöfnunaraðgerð og var úrtakið
tilgangsúrtak 11 einstaklinga.
Niðurstöður: Megininntaki þessarar reynslu er lýst sem
stöðugum áskorunum, svo og samræðum og samningum við
sjálfan sig í þeirri viðleitni að finna ásættanlegt jafnvægi á
milli meðferðar og líkamlegrar og sálfélagslegrar vellíðunar.
Þekking og skilningur á sjúkdómnum kemur með tímanum
og er grundvallaratriði þess að hægt sé að stjórna honum en
nægir ekki eitt og sér. Ótti og langanir einkenna reynsluna og
tímabil ábyrgðarkenndar og sjálfsblekkingar skiptast gjarnan á.
Mikilvægi þess að borin sé virðing fyrir sjálfræði einstaklingsins
var undirstrikuð af þátttakendum. Heilbrigðisstarfsfólk beitir
mismunandi samskiptaformum sem ýmist hvetja eða letja
meðferðarheldni.
Ályktun: Meðferðarheldni er flókið og margþætt fyrirbrigði
sem felur í sér samskipti tveggja aðila, sjúklings og
heilbrigðisstarfsfólks. Það er siðfræðilegt í eðli sínu því
togstreita skapast gjarnan á milli þeirra höfuðreglna er leiðbeina
heilbrigðisstarfsfólki, sjálfræðisreglunni og velgjörðarreglunni.
Stuðningur í formi samræðna sem byggðar eru á gagnkvæmri
virðingu og trausti auðveldar sykursýkissjúklingum það
lífsverkefni sem blóðsykurstjórnun er. Sé hann ekki í boði
getur það leitt til þess að sjúklingar lágmarka samskipti sín við
heilbrigðiskerfið eins mikið og unnt er.
V 70 Aðskilinn lungnahluti – átta tilfelli meðhöndluð með
skurðaðgerð
Andreas Pikwer1, Tómas Guðbjartsson2,3
Læknadeild Háskólans í Lundi1, hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala2,
læknadeild HÍ3
tomasgud@landspitali.is
Inngangur: Aðskilinn lungnahluti (pulmonary sequestration)
er sjaldgæfur meðfæddur galli þar sem hluti lungna er án
tengsla við lungnaberkjur og lungnablóðrás. Lungnahlutinn
tekur því ekki þátt í loftskiptum. Oftar en ekki veldur aðskilinn
lungnahluti einkennum en sjúklingarnir geta einnig verið án
einkenna og greinast stundum fyrir tilviljun. Meðferð felst í
skurðaðgerð þar sem lungnahlutinn er fjarlægður. Þó er umdeilt
hversu umfangsmikil skurðaðgerðin þarf að vera. Tilgangur
þessarar rannsóknar var að rannsaka alla sjúklinga sem fengu
meðferð við meðfæddum lungnahluta á Háskólasjúkrahúsinu
í Lundi frá 1994 til 2004. Aðaláhersla var lögð á einkenni og
greiningu sjúkdómsins auk árangurs skurðmeðferðar.
Efniviður og aðferðir: Alls greindust átta tilfelli, sjö karlar og
ein kona. Meðalaldur við greiningu var 7,3 ár (bil 25 dagar-
17 ár). Upplýsingar um sjúklinga fengust úr sjúkraskrám og
gagnagrunni meinafræðideildar Háskólasjúkrahússins í Lundi.
Haft var samband við sjúklinga eða aðstandendur þeirra og var
lengd eftirfylgni 87 mánuðir (miðgildi).
Niðurstöður: Alls greindust átta sjúklingar og gengust þeir
allir undir skurðaðgerð. Sjö þessara sjúklinga greindust í
kjölfar einkenna frá loftvegum, oftast vegna lungnabólgu.
Tveir greindust með hjartabilun. Fimm sjúklingar voru með
aðra meðfædda galla, þar á meðal scimitar-heilkenni og
meðfædda hjartasjúkdóma. Greining aðskilins lungnahluta
fékkst með slagæðamyndatöku hjá sjö sjúklingum en hjá
einum með segulómskoðun. Í öllum tilvikum var framkvæmd
skurðaðgerð þar sem lungnablaðið með lungnahlutanum var
fjarlægt (blaðnám, lobectomy). Fylgikvillar eftir aðgerð voru
sjaldgæfir og engir alvarlegir. Í dag eru allir sjúklingarnir að
einum undanskildum (sem hefur aðra flókna meðfædda galla)
við góða líðan.
Ályktun: Algengustu einkenni aðskilins lungnahluta eru frá
öndunarfærum og hjarta. Fjölbreytileg einkenni gera greiningu
erfiða og geta valdið töfum á greiningu. Þetta á ekki síst við um
greiningu hjá börnum sem einnig eru með meðfædda hjartagalla.
Þess vegna verður að hafa einkenni aðskilins lungnahluta í huga
sem hugsanlega mismunagreiningu í þessum hópi sjúklinga.
Hægt er að meðhöndla aðskilinn lungnahluta með góðum
árangri með blaðnámi.
V 71 Miðblaðsheilkenni. Klínísk einkenni og meinafræði
Jón Þorkell Einarsson1, Jónas G. Einarsson1, Helgi J. Ísaksson2, Tómas
Guðbjartsson3, Gunnar Guðmundsson1
1Lungnadeild, 2rannsóknastofu í meinafræði og 3hjarta- og lungnaskurðdeild
Landspítala
tomasgud@landspitali.is
Inngangur: Miðblaðsheilkenni (Middle lobe syndrome) er
sjaldgæft sjúkdómsástand í miðblaði hægra lunga. Lítið er
vitað um klínísk einkenni og meinafræði þess. Tilgangur
rannsóknarinnar var að kanna þessi atriði.
Efniviður og aðferðir: Skoðuð voru sjúkragögn sjúklinga þar
sem miðblaðið hafði verið fjarlægt (lobectomy) árin 1984 til
2006. Þeir fundust með leit í gagnagrunni rannsóknarstofu
í meinafræði, Landspítala, og sjúkraskýrslur frá klínískum
deildum voru kannaðar.
Niðurstöður: Um var að ræða 17 sjúklinga, fjóra karla og 13
konur á aldrinum 2-86 ára (meðalaldur 53 ár). Algengast var
að sjúklingar hefðu endurteknar sýkingar (13) og hósta (11).
Einnig uppgang (9), mæði (8), brjóstverk (7) og blóðhósta
(2) sem einkenni. Átta voru með teppusjúkdóm í lungum.
Við skoðun heyrðist önghljóð yfir lungum hjá sjö sjúklingum.
Tölvusneiðmyndir voru til af öllum sjúklingunum og sýndu þær
þéttingu (9), samfall (9), berkjuskúlk (6) og dreifðar þéttingar
(4). Hjá einum sást aðskotahlutur í berkju. Alls sáust níu
mismunandi vefjafræðilegar orsakir fyrir miðblaðsheilkenni.
Algengast var að sjá berkjuskúlk eða hjá átta sjúklingum. Þrír
höfðu aðskotahlutsviðbragð.
Til viðbótar var algengt að sjá
trefjavefslungnabólgu og berkjubólgu. Berkjuspeglun hafði
verið gerð í 15 sjúklinganna og var fyrirstaða í miðblaðsberkju
hjá einum.
Ályktanir: Miðblaðsheilkenni var algengara í konum.
Endurteknar sýkingar, hósti, uppgangur og mæði voru algeng
einkenni. Ýmsar vefjagreiningar koma fyrir en berkjuskúlk er
algengast og æxli er sjaldgæft. Fyrirstaða í berkju var sjaldan
fyrir hendi.
V 72 Sogæðaæxli í kviðarholi - sjúkratilfelli
Gígja Guðbrandsdóttir1, Jónas Magnússon1, Sigurður V. Sigurjónsson2
Kristrún R. Benediktsdóttir3, Páll Helgi Möller1
1Skurðlækningadeild, 2myndgreiningardeild og 3rannsóknastofu í meinafræði,
Landspítala
gigjagud@landspitali.is
Inngangur: Sogæðaæxli í kviðarholi hjá fullorðnum er sjaldgæfur
góðkynja sjúkdómur en einungis 2-8% þeirra eiga upptök sín
þar. Þessi æxli eru algengari hjá konum, koma fyrir í öllum
aldurshópum og geta haft breytilega sjúkdómsmynd. Orsök
sjúkdómsins er talin vera þróunarlegur galli á sogæðakerfinu
en einnig er kenning um að bólga eða sýking í sogæðakerfinu
geti leitt til hindrunar á streymi vökva og þar af leiðandi
samsöfnunar og myndunar fyrirferða. Meðferðin er brottnám
með skurðaðgerð og horfur eftir aðgerð eru góðar. Í september
2006 voru tveir karlmenn teknir til aðgerðar á Landspítala með
sogæðaæxli og er þeim tilfellum lýst hér.
Tilfelli: Fyrra tilfellið var 23ja ára hraustur karlmaður með
tveggja ára sögu um vaxandi bakverki sem ekki svöruðu
hefðbundinni meðferð. Tölvusneiðmynd af kviðarholi sýndi
fyrirferð umhverfis briskirtil. Vefjasýni var fengið frá fyrirferðinni
með kviðsjárspeglun sem staðfesti greininguna. Sjúklingur fór í
kviðarholsskurð þar sem blöðrukennd fyrirferð var fjarlægð.
Einnig var tekið sýni frá briskirtli. Aðgerðin var fylgikvillalaus
sem og gangur eftir aðgerð. Engar illkynja breytingar greindust
og var ekki mælt með frekari meðferð.
Seinna tilfellið var 46 ára karlmaður með nýgreindan háþrýsting
og nætursvita. Sökum háþrýtsings var hann sendur í hjartaómun
sem sýndi víkkun á ósæðarrótinni. Tölvusneiðmynd af brjóstholi
og kviðarholi í kjölfarið sýndi vel afmarkaða fyrirferð í
risristilshengi hægra megin í kviðarholi, hliðlægt við skeifugörn
og framan við efri pól hægra nýra ásamt annari minni fyrir
ofan. Við aðgerð var framkvæmt hægra ristilbrottnám þar
sem blöðrulíka breytingin lá þétt við ristilinn í risristilhengju.
Aðgerðin var fylgikvillalaus. Vefjarannsókn staðfesti sogæðaæxli.
Tuttugu og tveir svæðiseitlar voru án afbrigða. Eftir aðgerð fékk
sjúklingur lungnabólgu sem var meðhöndluð. Engar illkynja
breytingar greindust og var ekki mælt með frekari meðferð.
Umræða: Í ljósi þess hve sjaldgæfur þessi sjúkdómur er verður
að teljast mjög óvenjulegt að tveir einstaklingar séu greindir á
sama ári og skornir upp í sama mánuði hérlendis.
V 73 Verkir og verkjameðferð skurðsjúklinga á Land–
spítala
Lára Borg Ásmundsdóttir1,2, Anna Gyða Gunnlaugsdóttir1, Herdís
Sveinsdóttir1, 2
1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítali
laraasmu@landspitali.is
Inngangur: Íslenskar og erlendar rannsóknir hafa endurtekið sýnt
að sjúklingar hafa talsverða verki eftir skurðaðgerð. Markmið
rannsóknar var að kanna algengi verkja hjá skurðsjúklingum og
lýsa væntingum til og reynslu af verkjameðferð eftir skurðaðgerð
og viðhorfum til verkjameðferðar.
Efniviður og aðferðir: Úrtakið var 216 sjúklingar sem gengust
undir skurðaðgerð á Landspítala á tímabilinu 6.-25. febrúar
2006. Gagna var aflað með APS-spurningalistanum og var spurt
um styrk verkja á tölukvarða frá 0-10 við mismunandi aðstæður
og jafnframt um áhrif verkjanna. Við gagnaúrvinnslu var notað
lýsandi tölfræði, Pearson r og t-próf. Listinn var lagður fyrir að
kvöldi aðgerðadags/daginn eftir aðgerð.
Niðurstöður: Þátttakendur voru 216 (62% þeirra konur) og
var meðaldur 54, ár. 81% greindi frá verk eftir aðgerð og var
meðaltalsstyrkur versta verkjar 5,87 (sd 2.64) og sólarhring eftir
aðgerð 4,02 (sd 2,18). Konur greindu frá hærri styrk verkja en
karlar (t(109)=2,36; p<0,05) eftir aðgerð. Verkir höfðu áhrif á
getu sjúklings sjúklings til að hósta, draga djúpt andann eða
hreyfa sig í rúmi, á daglegar athafnir, getu til göngu og á svefn.
85% sjúklinga var ánægðir með verkjameðferð sína. Biðtími
eftir verkjalyfjum var stuttur. Upplýsingar um verki eftir aðgerð
fengu 73% þátttakenda og um mikilvægi verkjameðferðar 47%.
Almennt voru upplýsingarnar gagnlegar eða mjög gagnlegar.
Fylgni var á milli verkja fyrir aðgerð við ýmsar breytur
rannsóknarinnar.Viðhorf til verkjameðferðar voru frekar
íhaldssöm og voru eldri íhaldssamari en yngri.
Ályktanir: Skurðsjúklingar á Landspítala hafa verki eftir aðgerð
sem koma mætti í veg fyrir með bættri fræðslu um verki og
verkjameðferð og með betri verkjameðferð. Truflandi áhrif
verkja á daglegar athafnir eftir aðgerð getur haft neikvæðar
afleiðingar í för með sér og því þarf að taka á vanmeðhöndlun
verkja.
V 74 Gæði frá sjónarhóli aðstandenda á gjörgæsludeildum
Landspítala
Margrét Ásgeirsdóttir, Ólöf S. Sigurðardóttir, Helga Hrönn Þórsdóttir,
Elísabet Þorkelsdóttir, Agnes Gísladóttir, Linda Björk Loftsdóttir, Auðna
Ágústsdóttir
1Gjörgæsludeild Landspítala, 3kennslu- og fræðasviði Landspítala
margas@landspitali.is
Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna gæði þjónustu
frá sjónarhóli aðstandenda sjúklinga á gjörgæsludeildum
Landspítala.
Markmið rannsóknarinnar var að fá svör við rannsóknarspurningunum:
1) Hvert er mat aðstandenda á gæðum
þjónustu á gjörgæsludeildum Landspítala samkvæmt fjórum
víddum MiniKUPP spurningalistans? 2) Hvar er aðgerða þörf
til að bæta gæði samkvæmt aðgerðarvog? 3) Er marktækur
munur á mati aðstandenda á gæðum sjúkrahúsþjónustu
eftir lýðfræðilegum bakgrunni (aldri, kyni, heimilisaðstæðum,
þjóðerni, menntun, starfi, aðdraganda innlagnar, tengslum við
sjúkling, og hve lengi sjúklingur lá á gjörgæsludeild) miðað við
víddir spurningalistans MiniKUPP?
Aðferðir Úrtakið var þægindaúrtak og þátttakendur voru
92. Notaður var spurningalisti sem byggður var á MiniKUPP,
mælitæki til að meta gæði þjónustu á sjúkrastofnun, að viðbættum
atriðum sértækum fyrir aðstandendur á gjörgæsludeildum.
Spurningalistinn var forprófaður með „cognitive interviewing“
aðferð með sjö aðstandendum. Spurningalistinn metur gæði út
frá mati aðstandenda á reynslu og mikilvægi 38 atriða. Hann
er flokkaður í fjórar víddir; faglega færni, einstaklingsmiðaða
nálgun, félagslegt andrúmsloft og aðbúnað. Tölfræðileg
úrvinnsla var bæði lýsandi en einnig var reiknuð út aðgerðarvog.
Aðgerðarvog var reiknuð út frá svörum frá hópi aðstandenda
þar sem voru borin saman reynsla og mikilvægi fyrir hvert
atriði og vegið hvar er skortur á gæðum og hvar eru gæði
fullnægjandi eða rífleg. Unnið var úr opnum spurningum með
innihaldsgreiningu
Niðurstöður Frumniðurstöður rannsóknarinnar sýna að
aðstandendur mátu reynslu sína að meðaltali hærri en
mikilvægi atriða innan allra víddanna. Þó voru nokkur atrið
þar sem umbóta er þörf. Ýtarlegri niðurstöður verða birtar á
veggspjaldi.
Ályktanir: Almennt er veitt gæðaþjónusta á gjörgæsludeildum
Landspítala.
V 75 Alvarleg sýklasótt og sýklasóttarlost á gjörgæsludeildum
Landspítala: Eðli, orsakir og dánartíðni
Einar Björgvinsson1, Sigurbergur Kárason1,2, Gísli H. Sigurðsson1,2
1Læknadeild HÍ, 2svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala
gislihs@landspitali.is
Inngangur: Sýklasótt er heilkenni sem orsakast af almennu
bólguviðbragði í líkamanum við alvarlega sýkingu og hefur
háa dánartíðni. Alvarlegustu stigin eru svæsin sýklasótt og
sýklasóttarlost. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna eðli
og umfang þess síðastnefnda á gjörgæsludeildum Landspítala á
einu ári.
Aðferðir: Aftursæ rannsókn var gerð á sjúkraskýrslum allra
sem lögðust inn á gjörgæsludeildir árið 2004. Þeir sjúklingar
sem höfðu skilmerki svæsin sýklasótt og sýklasóttarlost voru
greindir. Upplýsingum var safnað um ástand við innlögn
(APACHE, SAPS), líffærabilanir (SOFA), umfang meðferðar
(NEMS) og tegund sýkingar. Dvalartími á gjörgæslu og spítala
ásamt dánartíðni á gjörgæslu, eftir 28 daga og sex mánuði voru
könnuð.
Niðurstöður: Á árinu lögðust 1325 sjúklingar á gjörgæsludeildir
Landspítala (meðalaldur 58 ár, APACHE 11, SAPS 38,
meðallegutími þrír dagar og dánartíðni 8%). Af þeim reyndust
75 (5,7%) hafa svæsna sýklasótt (20) eða sýklasóttarlost (55).
Meðalaldur var 65±14 ár, APACHE 26±9, SAPS 50±18,
SOFA 9±3 og NEMS 43±14. Meðaldvöl á gjörgæslu
var 9,3±13 dagar og á spítala 29±34 dagar. Dánartíðni á
gjörgæslu var 21%, eftir 28 daga 28% og eftir sex mánuði 43%.
Þau líffærakerfi sem oftast biluðu voru öndunarfæri (84%)
ásamt blóðrás (71%). 87% voru með sýklasótt við innlögn en
13% fengu sýklasótt meðan á gjörgæsludvöl stóð. Algengasta
orsök sýkingar var lungnabólga (44%). Gram jákvæðar
bakteríur voru sýkingarvaldurinn hjá 63% og gram neikvæðar
hjá 36%. Blóðræktanir voru jákvæðar í 45% tilfella.
Umræða: Dánartíðni af völdum sýklasóttar á gjörgæsludeildum
Landspítala árið 2004 er há (21%) í samanburði við alla þá sem
vistast á gjörgæslu (8%). Þessar niðurstöður eru sambærilegar
eða heldur lægri en aðrar nýlegar rannsóknir.
Ályktun: Sýklasótt er algengt vandamál á gjörgæsludeildum
Landspítala og er dánarorsök hjá tugum sjúklinga á ári.
Árangur af meðferð er þó sambærilegur við það sem best gerist
í vestrænum löndum.
V 76 Vökvagjöf við skurðaðgerðir: áhrif á súrefnisþrýsting
í kviðarholslíffærum
Gísli H. Sigurðsson1, Luzius B Hiltebrand2, Andrea Kurz2,
1Svæfinga og gjörgæsludeild, Landspítala, læknadeild, HÍ, 2Department of
Anaesthesia, Inselspital University Hospital Bern, Sviss
gislihs@landspitali.is
Inngangur: Ófullnægjandi blóðflæði og súrefnisþrýstingur í
görnum getur leitt til alvarlegra aukakvilla eftir kviðarholsaðgerðir.
Við könnuðum áhrif mismunandi vökvagjafar á súrefnisþrýsting
í görnum við kviðarholsaðgerðir.
Aðferðir: 27 svín voru svæfð, lögð í öndunarvél og skipt í
þrjá hópa (n=9 í hverjum). Hópur A fékk 3 ml/kg/klst, B 7
ml/kg/klst og C 20 ml/kg/klst af Ringer lausn í æð. Auk þess
fengu öll svínin ýmist 30% eða 100% innandað súrefni fyrst
og síðar öfugt. Hjartaútfall var mælt með „thermodilution“ og
súrefnisþrýstingur í vefjum með „microoxymetry“ (Licox) í
smáþörmum, ristli og í undirhúðarfitu.
Niðurstöður: Blóðþrýstingur (MAP) og hjartaútfall (CO)
voru áþekk í hópum A og B en í hópi C voru MAP, CO og
undirhúðarsúrefnismettun marktækt hærri en í hinum hópunum.
Súrefnisþrýstingur í smáþörmum og ristli var áþekkur í öllum
hópunum, þrátt fyrir lægri fylliþrýsting, lægra CO og minni
þvagútskilnað í hópum A og B.
Umræða: Mismunandi vökvamagn sem hóparnir þrír fengu
meðan á aðgerð stóð virðist ekki hafa haft áhrif á súrefnisþrýsting
í smáþörmum og ristli. Þessar niðurstöður benda til að
„autoregulation“ á blóðflæði garna sé mjög virkt í heilbrigðum
einstaklingum sem undirgangast kviðarholsaðgerðir.
V 77 Lostástand veldur verulegum breytingum á smáæðablóðflæði
í þörmum. Möguleg orsök þarmalömunar hjá
bráðveikum sjúklingum
Gísli H. Sigurðsson1, Vladimir Krejci2, Luzius Hiltebrand 2
1Svæfinga- og gjörgæsludeild, Landspítala, læknadeild HÍ, 2Department of
Anesthesiology, Inselspital University Hospital, Bern, Sviss
gislihs@landspitali.is
Inngangur: Það er þekkt samband milli slímhúðarskaða í
meltingarvegi (gut-mucosa-barrier injury), fjöllíffærabilunar
og dauða hjá bráðveikum gjörgæslusjúklingum. Lítið er
vitað um dreifingu á blóðflæði innan mismunandi svæða í
þörmunum þegar súrefnisupptaka verður háð flæði. Markmið
þessarar rannsóknar var að mæla dreifingu á smáæðablóðflæði
(microcirculatory blood flow, MBF) í mismunandi lögum
þarmaveggsins og mismunandi hlutum meltingarvegsins.
Efniviður og aðferðir: Hjartaútfall (CI), svæðisblóðflæði
(mesenteric artery flow; SMA) og smáæðablóðflæði voru
mæld í 11 svínum sem voru meðhöndluð eins og sjúklingar á
gjörgæsludeild. MBF var mælt með fjölrása smáæðablóðflæðimæli
(multichannel laser Doppler flowmeter system, LDF) í maga,
smáþarma- og ristilslímhúð svo og mótsvarandi vöðvalagi
(muscularis). Sýklasóttarlost (septic shock) var framkallað með
því að dreifa ristilinnihaldi um kviðarholið. Eftir 240 mínútur var
gefið ríkulegt magn af vökva í æð til að breyta „hypodynamisku“
lostástandi yfir í „hyperdynamist“ sýklasóttarlost.
Helstu niðurstöður: Fyrstu 240 mínútur (hypodyanmist lost)
minnkaði CI, SMA og MBF í magaslímhúð um helming meðan
MBF í smáþarma- og ristilslímhúð var óbreytt. Í vöðvalagi
smáþarma og ristils minnkaði MBF hlutfallslega mun meira en
CI og SMA. Við vökvagjöf varð mikil aukning á CI og SMA svo
og MBF í slímhúð maga, smáþarma og ristils. Aftur á móti var
svo til engin breyting á MBF í vöðvalagi smáþarma og ristils sem
bendir til langvarandi blóðþurrðar þar.
Ályktanir: Smáæðablóðflæði í slímhúð smáþarma og ristils
minnkaði lítið sem ekkert þrátt fyrir helmings minnkun á
hjartaútfalli og svæðisblóðflæði, sem bendir til að sjálfstýring
(autoregulation) á blóðflæði sé virk í sýklasóttarlosti. Flutningur
á blóðflæði frá vöðvalagi til slímhúðar í smáþörmum og ristli
veldur alvarlegri blóðþurrð í vöðvalaginu sem er líkleg skýring á
þarmalömun (paralytic ileus) sem oft sést hjá alvarlega veikum
gjörgæslusjúklingum.
V 78 Blóðflæðisskortur til þarma: aðlögun á smáæðablóðflæði
sem dregur úr truflunum á súrefnisháðum
efnaskiptum
Gísli H. Sigurðsson1, Vladimir Krejci2, Luzius Hiltebrand 3
1Svæfinga- og gjörgæsludeild, Landspítala, læknadeild HÍ, 2Department
of Anesthesiology, Washington University, St. Louis, MO, Bandaríkjunum
3Department of Anesthesiology, Inselspital University Hospital, Bern, Sviss
gislihs@landspitali.is
Inngangur: Það er samband milli minnkaðs blóðflæðis í þörmum,
fjöllíffærabilunar og dauða hjá bráðveikum sjúklingum.
Markmiðið með þessari rannsókn var að kanna áhrif
minnkaðs mesenterial blóðflæðis (SMAF) á smáæðablóðflæði
og efnaskipti í þörmum.
Efniviður og aðferðir: Þrettán svín (27-31 kg) voru svæfð
og lögð í öndunarvél. Átta þeirra voru útsett fyrir minnkun
á SMAF (15% á 30 mínútna fresti) meðan hin fimm voru
viðmiðunarhópur. SMAF var mælt með ultrasonic transit time
flæðitækni og smáæðablóðflæði í slímhúð og vöðvalagi smáþarma
og ristils var mælt með fjölrása laser Doppler flæðitækni (LDF).
PH í slímhúð smáþarma var mælt með tonometry og efnaskipti
(glukósa, laktat og pyruvat) með mikrodialysu.
Helstu niðurstöður: Við minnkað SMAF varð smáæðablóðflæði
í slímhúð smáþarma mjög ójafnt (herterogenous) þótt það
minnkaði ekki að magni til að byrja með. Þéttni glukosu í
smáþarmavegg minnkaði um nærri helming þegar við 15%
minnkun á SMAF (p<0.05) og hélt áfram að minnka við frekari
minnkun á SMAF. Aftur á móti fór ekki að bera á hækkun á
laktat/pyruvat hlutfalli fyrr en eftir 45% minnkun á SMAF og
pH lækkun í slímhúð smáþarma fyrr en eftir 60% minnkun
á SMAF. Súrefnisnotkun í þörmum minnkaði og laktat í
bláæðablóði þarma hækkaði fyrst eftir 75% minnkun á SMAF.
Ályktanir: Þessi rannsókn bendir til að breytingar á
svæðisblóðflæði og smáæðablóðflæði dragi úr truflunum á
súrefnisháðum efnaskiptum í þörmum við skort á blóðflæði.
Lækkun á þéttni glúkósu í þarmavegg þegar við óverulega
minnkun á svæðisblóðflæði bendir til að það verði fyrr skortur
á efni til brennslu (substrati) en á súrefni við blóðflæðisskort í
smáþörmum.
V 79 Orthogonal polarization spectroscopy er ný
tækni til að skoða smáæðablóðflæði í slímhúð: Mat á
greiningaraðferðum
Gísli H. Sigurðsson1, Vladimir Krejci2, Luzius Hiltebrand 3 Jukka Takala4,
Stephan Jacob4.
1Svæfinga- og gjörgæsludeild, Landspítala, læknadeild HÍ, 2Department of
Anesthesiology, Washington University, St. Louis, MO, Bandaríkjunum,
3Department of Anesthesiology, 4Department of Intensive Care, Inselspital
University Hospital, Bern, Sviss
gislihs@landspitali.is
Inngangur: Orthogonal polarization spectroscopy (OPS) hefur
nýlega verið kynnt sem aðferð til að mæla smáæðablóðflæði
í slímhúð. Það hefur verið sýnt fram á að truflanir á
smáæðablóðflæði (impaired and heterogeneous microcirculatory
blood flow) er algengt ástand í sýklasótt og við blæðingarlost og
er líkleg orsök fyrir fjöllíffærabilun. Vandamálið hefur verið að
mæla þetta klíniskt hjá sjúklingum. Fram að þessu hefur laser
Doppler flowmetry verið aðalmælitækið á smáæðablóðflæði
en það er erfitt að koma því við hjá sjúklingum. OPS imaging
er ný tækni sem gefur möguleika á kvikmyndatöku af
smáæðablóðflæði í litlum arteriolum og háræðum í slímhúð.
Vandamálið við OPS hefur verið að finna mælistiku sem mælir
„magn“ truflana (quantify) á smáæðablóðflæði sem eru greinileg
þegar horft er á skjá tækisins. Hluti af vandamálinu er að flæðið
er í þrívídd en sést í tvívídd. Markmiðið með þessari rannsókn
var að kanna næmni OPS við mælingu á smáæðablóðflæði í
slímhúð við minnkað mesenterial blóðflæði.
Aðferðir: Í átta svínum sem voru svæfð og ventileruð eins og
sjúklingar í skurðaðgerð var blóðflæði í superior mesenteric
slagæðinni minnkað í stigum um 15% í einu (15, 30, 45, 60, 75
og 90%) frá eðlilegu flæði allt í niður í 90% minnkun. 5 dýr
voru til samanburðar. Smáæðablóðflæði í smágirnisslímhúð
var mælt stöðugt með OPS tækni. Stafrænar kvikmyndir af
smáæðablóðflæði voru vistaðar í tölvu frá hverju stigi minnkunar
blóðflæðis. Myndum frá öllum 13 dýrunum var síðan ruglað
áður en mat var gert. Tveir rannsakendur sem vissu ekki hvort
rannsóknin sem þeir voru að skoða hverju sinni var frá dýri með
minnkað blóðflæði eða frá samanburðardýri mátu breytingar
á blóðflæði í öllum rannsóknardýrunum. Mælingarnar voru
gerðar þannig að fjöldi háræða sem fóru yfir ákveðnar línur á
skjánum (number of vessel crossings) voru taldar á ákveðnu
svæði sem var ákveðið fyrirfram (predefined).
Niðurstöður: Inter-observer CV var 0.34 (0.04-1.41) og intraobserver
CV var 0.10 (0.02-0.61). Aðeins öðrum rannsakendanna
tókst að sýna fram á minnkað blóðflæði (decrease in vessel
crossings) við 45% minnkun á blóðflæði í superior mesenterica
slagæðinni.
Umræða og helstu niðurstöður: Sjónrænt mat á þéttni háræða
mælt með OPS gat ekki greint nægilega vel á milli dýra sem
höfðu minnkað blóðflæði og þeirra sem höfðu eðlilegt blóðflæði.
Hluti af skýringunni getur verið breytingar á blóðflæði
(redistribution and heterogenesity) og „suboptimal contrast“
OPS myndanna. Þrátt fyrir að rannsakendur hefðu komið sér
saman um aðferðina fyrirfram var „inter-observer“ munur á
mati fjölda æða sem voru opnar mjög hár. Það er því augljóst
að það þarf að finna nýjar leiðir til þess að mæla breytingar í
smáæðablóðflæði sem eru metnar með OPS tækni.
V 80 Samanburður á verkjastillingu karla og kvenna á
sambærilegum aldri eftir brjóstholsskurðaðgerðir
Gísli Vigfússon, Steinunn Hauksdóttir, Gísli H. Sigurðsson
Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala Hringbraut
gislivig@landspitali.is
Inngangur: Rannsóknir sýna að kynjamunur getur haft áhrif
á verkun lyfja eftir aðgerðir1. Ástæður eru margþættar svo
sem hormóna áhrif, mismunandi næmni ópíat viðtækja og
verkunarmáti lyfjanna, erfða- og sálrænir þættir. Gerðar
hafa verið allnokkrar kannanir á verkun ópíat lyfja á karla
og konur við sambærilegar aðgerðir og kringumstæður.
Fáar klínískar rannsóknir hafa borið saman kynjamun og
utanbastverkjameðferð. Í ljósi þessa voru gögn svæfingadeildar
Landspítala skoðuð með tilliti til kynjamunar á sama aldursskeiði
og utanbastverkjameðferðar eftir brjóstholsaðgerðir.
Efniviður og aðferð: Úr skráðum gögnum áranna 1996-2006 var
kannaður árangur utanbastverkja-meðferðar hjá 149 körlum
(meðalaldur 60.05ár) og 159 konum (meðalaldur 60,02 ár) á
aldrinum 51-70 ára. Árangur var metinn á fyrsta og öðrum
degi eftir aðgerð og notast við VAS kvarða. VAS ≤3 var metinn
ásættanlegur árangur. Dreypihraði í ml/klukkustund og notkun
verkjalyfja var borin saman milli hópa.
Niðurstöður:
Ályktun: Verkjastilling var betri við hreyfingu, dreypihraði lægri
og notkun sterkra verkjalyfja var minni hjá konum en körlum.
V 81 Aldur sjúklinga hefur áhrif á árangur utan-bastverkjameðferðar
- samanburður á þremur aldurshópum 369 karla
eftir brjóstholsaðgerðir
Gísli Vigfússon, Steinunn Hauksdóttir, Gísli H. Sigurðsson
Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala Hringbraut
gislivig@landspitali.is
Inngangur: Rannsóknir sýna að ýmsir þættir eins aldur og kyn
geta haft áhrif á verkun lyfja í og utan utanbasts. Um er að
ræða fáar rannsóknir með litlu úrtaki sjúklinga. Fáar stærri
klínískar rannsóknir liggja fyrir sem staðfesta áhrif aldurs
á verkun utanbastverkjameðferðar. Í ljósi þessa voru gögn
svæfingadeildar Landspítala skoðuð með tilliti til aldurs og
utanbastverkjameðferðar eftir brjóstholsaðgerðir.
Efniviður og aðferð: Úr skráðum gögnum áranna 1996-2006 var
kannaður árangur utanbastverkja-meðferðar hjá 369 körlum,
sem skipt var í þrjá aldurshópa, 50 ára og yngri, 108 sjúklingar,
meðalaldur 32,8 ár , 51-70 ára, 156 sjúklingar, meðalaldur 61ár
og 70 ára og eldri, 105 sjúklingar, meðalaldur 75,2 ár. Árangur
var metinn á fyrsta og öðrun degi eftir aðgerð og notast við VAS
kvarða. VAS ≤3 var metinn ásættanlegur árangur. Dreypihraði
í ml/klukkustund og notkun verkjalyfja var borin saman milli
hópa.
Niðurstöður:
Ályktun: Verkjastilling var betri, dreypihraði lægri og notkun
sterkra verkjalyfja var minni hjá eldri sjúklingum en þeim
yngri.
V 82 Notkun ECMO-dælu á Íslandi
Þorsteinn H. Ástráðsson1, Bjarni Torfason2,3, Tómas Guðbjartsson2,3, Líney
Símonardóttir2, Felix Valsson1
1Svæfinga- og gjörgæsludeild, 2hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala,
3læknadeild HÍ
felix@landspitali.is
Inngangur: ECMO-dæla (extracorporeal membrane
oxygenation) hefur verið eitt af meðferðarúrræðum við
alvarlega öndunarbilun í rúma þrjá áratugi, einkum hjá
nýburum. Hjá fullorðnum eru ábendingar hins vegar ekki eins
skýrar og árangur talinn lakari. Tilgangur þessarar rannsóknar
var að kanna árangur meðferðar ECMO-dælu á Íslandi og þá
sérstaklega afdrif sjúklinganna.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk og nær til allra
tilfella þar sem ECMO-dælu var beitt hér á landi. Upplýsingar
um sjúklinga fengust afturskyggnt úr sjúkraskrám. ECMO-dælan
var notuð til að „hvíla“ lungu sjúklinganna og þá með því að
veita blóði úr stórri bláæð í loftskiptatæki (gervilunga). Þar var
blóðið mettað súrefni um leið og koltvísýringur var fjarlægður
og blóðinu síðan veitt aftur til sjúklings í holæð eða náraslagæð.
Rannsóknin nær ekki til þriggja íslenskra sjúklinga sem fluttir
voru erlendis til ECMO-meðferðar, tvö börn og einn fullorðinn.
Tveir af þessum þremur einstaklingum létust. Rannsóknin nær
heldur ekki til fjögurra sjúklinga sem meðhöndlaðir voru með
ECMO án dælu (Novalung®) en tveir þeirra lifðu af.
Niðurstöður: Alls hafa átta sjúklingar verið meðhöndlaðir
með ECMO-dælu á Íslandi frá 1991, meðalaldur 30 ár (14-71
ára), sex karlar og tvær konur. Ástæða öndunarbilunar er sýnd
í töflu. Í öllum tilfellum var meðferð með ECMO-dælu talin
síðasta meðferðarúrræðið. Meðaltími á ECMO var 16 dagar
(6-40 dagar). Tveir sjúklingar (nr. 5 og 6) fengu marktækar
blæðingar sem að hluta mátti rekja til blóðþynningar í tengslum
við meðferðina. Að öðru leyti varð ekki vart alvarlegra
fylgikvilla hjá þeim fimm sjúklingum (63%) sem lifðu
meðferðina. Sjúklingarnir þrír sem dóu, létust í öllum tilvikum
vegna undirliggjandi sjúkdóms án þess að hægt væri að rekja
dánarorsök til ECMO-meðferðarinnar. Einn sjúklingur (nr. 3)
var úrskurðaður heiladáinn en endurlífgun hafði verið gerð fyrir
ECMO-meðferðina. Annar sjúklingur (nr. 6) lést vegna mikillar
brjóstholsblæðingar eftir bílslys og sá þriðji (nr. 7) lést af völdum
hjartabilunar og sýklasóttarlosts.
Ályktun: Tveir þriðju sjúklinganna (63%) lifðu sem er betri
árangur en víðast erlendis þar sem hlutfallið er oftast á bilinu
15-54%. Hafa ber þó í huga að tilfelli í þessari rannsókn eru fá.
Engu að síður styðja niðurstöður þessarar rannsóknir til þess að
ECMO-dæla geti nýst í alvarlegri öndunarbilun hjá fullorðnum.
Hjá þessum sjúklingum var ekki um önnur meðferðarúrræði að
ræða og telja meðferðaraðilar að án ECMO-meðferðarinnar
hefðu þeir allir látist.
V 83 Bæliáhrif anti-TNFα (Infliximab) meðferðar á ræsingu
óreyndra T-fruma in vitro orsakast ekki af auknum
frumudauða
Brynja Gunnlaugsdóttir, Björn Rúnar Lúðvíksson
Rannsóknastofu í gigtsjúkdómum, ónæmisfræðideild, Landspítala, læknadeild
HÍ
brynja@landspitali.is
Inngangur: TNFα er bólgumiðlandi boðefni sem hefur breiða
virkni innan ósérhæfða og sérhæfða hluta ónæmiskerfisins.
Anti-TNFα er nú notað sem meðferð gegn langvinnum
bólgusjúkdómum en áhrifin á T-frumur eru ekki að fullu
þekkt. Mögulegt er að mótefnið bindist himnubundnu TNFα
á yfirborði T-frumna og beini þeim þar með í sjálfstýrðan
frumudauða. Í þessari rannsókn könnuðum við áhrif anti-TNFα
á lifun og fjölgun óreyndra T-frumna úr naflastrengsblóði.
Efni og aðferðir: Óreyndar T-frumur úr naflastrengsblóði voru
ræstar í 96 klukkustundir með αCD3 (10µg/mL), +/- αCD28
(1µg/mL) og +/- αTNFα (100µg/mL Infliximab (Remicade;
Centocor Inc.)) í sermislausu æti. Fjölgun var metin út frá
upptöku á geislamerktu thymidíni eða út frá helmingun á
frumulitnum CFSE. Hlutfall dauðra fruma var metið út frá litun
með Viaprobe.
Niðurstöður: Infliximab bældi T-frumufjölgun (αCD3: 247.475
±96.602 cpm vs. αCD3 + αTNFα: 141.167 ±95.222 cpm; P≤0.05)
en dró úr frumudauða. Þessi áhrif á lifun voru þó eingöngu
marktæk fyrir CD8+ T-frumur (% lifandi αCD3: 51.6 ±14.8
vs. αCD3 + αTNFα: 77.7±19.6; P≤0.05) en ekki fyrir CD4+ Tfrumur
(% lifandi αCD3: 67.8 ±12.0 vs. αCD3 + αTNFα: 85.6
±11.3; NS). Síðast en ekki síst kom í ljós að hjálparörvun um
CD28 hindraði algerlega bæliáhrif anti-TNFα.
Ályktun: Bæliáhrifum Infliximab á fjölgun óreyndra T-frumna
er ekki miðlað með auknum frumudauða. Auk þess eru
bæliáhrifin háð því að viðbótarörvun um CD28 sé ekki til
staðar. Niðurstöðurnar varpa nýju ljósi á það hversu mikilvæg
ræsingarskilyrði eru fyrir virkni anti-TNFα lyfjameðferðar.
V 84 Tengsl þriggja áhættuþátta fyrir SLE; PD-1.3a, C4AQ0
og lágt MBL, við SLE og sjálfsofnæmissjúkdóma í íslenskum
fjölskyldum með ættlægan SLE
Helga Kristjánsdóttir1,3, Sædis Sævarsdóttir2, Gerður Gröndal1, Marta E.
Alarcon-Riquelme3, Helgi Valdimarsson2, Kristján Steinsson1
1 Rannsóknastofa í gigtjsúkdómum, Landspítala 2 rannsóknastofu í ónæmisfræði,
Landspítali, 3 Department of Genetics and Pathology, Rudbeck
Laboratory, Uppsala University, Svíþjóð
helgak@landspitali.is
Inngangur: Erfðafræðilegir áhættuþættir geta verið sameiginlegir
ólíkum sjálfsofnæmissjúkdómum.
Hér eru skoðuð tengsl þriggja áhættuþátta fyrir SLE; PD-
1.3A, C4A prótein skortur (C4AQ0) og lágt MBL í sermi, við
sjálfsofnæmissjúkdóma og sjálfsmótefni í fjölskyldum með
ættlægan SLE og háa tíðni sjálfsofnæmissjúkdóma.
Efniviður: Átta SLE fjölskyldur (n=124): 23 SLE sjúklingar, 101
ættingi. Viðmiðunarhópar: PD-1.3 (n=263), C4A (n=250), MBL
(n=330).
Aðferðir: Arfgerðagreing fyrir PD-1.3 A/G með PCR og PStI
skerðiensími (RFLP) og fyrir breytileika í MBL geninu með
RT-PCR. C4A allotýpur greindar með próteinrafdrætti og MBL
gildi í sermi með ELISU. Sjálfsmótefni mæld í sermi.
Niðurstöður:
A) 33% fjölskyldumeðlima hafa SLE eða aðra sjálfsofnæmissjúkdóma,
samanborið við 5-8% í viðmiðunarhópi.
B) 4 8% fjölskyldumeðlima mælast jákvæðir fyrir sjálfsmótefnum.
C) Tíðni PD-1.3A og C4AQ0 er hækkuð í fjölskyldunum
miðað við viðmiðunarhóp og tíðni PD-1.3A, C4AA0 og lágs
MBL er hærri í hópi SLE sjúklinga samanborið við
ættingja.
D) PD-1.3A, C4AQ0 og lágt MBL sýna ekki marktæk tengsl
við aðra sjálfsofnæmissjúkdóma samanborið við heilbrigða
ættingja. Hins vegar er vísbending um tengsl C4AQ0 við
aðra sjálfofnæmissjúkdóma.
E) Samlegðaráhrif PD-1.3A, C4AQ0 og lágs MBL koma fram
í bæði SLE og öðrum sjálfsofnæmissjúkdómum:
i) Allar samsetningar eru algengari hjá SLE sjúklingum.
ii) PD-1.3A samfara lágu MBL eða C4AQ0 sýnir
tilhneigingu um tengsl við sjálfofnæmissjúkdóma
samanborið við heilbrigða ættingja.
iii) 91% SLE sjúklinga og 85% ættingja með sjálfofnæmissjúkdóma
hafa einn eða fleiri af áhættuþáttunum
þremur.
F) PD-1.3A, C4AQ0 eða lágt MBL sýna ekki tengsl við
sjálfmótefni í sermi.
Ályktun: Í þessum íslensku SLE fjölskyldum þar sem
áhættuþættirnir PD-1.3A, C4AQ0 og lágt MBL eru
undirliggjandi, er jafnframt hækkuð tíðni annarra sjálfsofnæmissjúkdóma
og sjálfsmótefna. Niðurstöður okkar sýna
að PD-1.3A, C4AQ0 eða lágt MBL sýna ekki jafn sterk
tengsl við aðra sjálfsofnæmissjúkdóma. Hins vegar koma fram
samlegðaráhrif áhættuþáttanna í tengslum við bæði SLE og
aðra sjálfofnæmissjúkdóma.
V 85 Samanburður á tjáningu PD-1 ónæmisviðtakans
á frosnum einkjarna hvítfrumum úr SLE sjúklingum og
heilbrigðum
Helga Kristjánsdóttir1,2, Iva Gunnarsson3, Elisabeth Svenungsson3, Kristján
Steinsson1, Marta E. Alarcon-Riquelme2.
1 Rannsóknastofu í gigtsjúkdómum, Landspítala, 2 Department of Genetics
and Pathology, Rudbeck Laboratory, Uppsala University, Svíþjóð, 3 Unit for
Rheumatology, Karolinska University Hospital, Solna, Svíþjóð
helgak@landspitali.is
Inngangur: PD-1.3A arfgerðinnni hefur verið lýst sem
áhættuþætti fyrir SLE og er talin leiða til breyttrar tjáningu
PD-1 ónæmisviðtakans, sem gegnir lykilhlutverki í viðhaldi
sjálfsþols.
Markmið:
A. Ákvarða aðstæður fyrir ræsingu T-fruma með αCD3+CD28
og bera saman tjáningu PD-1 viðtakans á frosnum og
ferskum eitilfrumum.
B. Bera saman tjáningu PD-1 viðtakans hjá SLE sjúklingum og
heilbrigðum viðmunarhópi.
Efniviður:
A. Einkjarna hvítfrumur úr íslenskum og sænskum SLE
sjúklingar og heilbrigðum viðmiðunarhópi.
Aðferðir:
Einkjarna hvítfrumur einangraðar á þyngdarstigli og ræstar
ferskar og frystar með veggbundnu αCD3 og óbundnu αCD28
í háum (10µg/ml) og lágum styrk (1µg/ml). Eftir 0, 24 og 48
klukkustundir voru frumurnar merktar með flúorljómandi
einstofna mótefnum gegn PD-1, CD3, CD4, CD8, CD25 og
tjáning yfirborðssameindanna greind í frumuflæðisjá.
Niðurstöður:
A. Styrkur αCD3+CD28 ræsingar og ræktunartími fyrir ferskar
og frystar PBMCs úr viðmiðunar einstaklingum.
? Ferskar PBMC sýndu aukna tjáning PD-1 viðtakans eftir
ræsingu með αCD3+CD28 í 24 og 48 klukkustundir með
bæði háum og lágum styrk αCD3+CD28.
? Á grundvelli þessa niðurtaðna voru frystar PBMC ræstar í
48 klukkustundir með háum styrk αCD3+CD28 og fengust
sambærilegar niðurstöður við ferskar frumur.
B. Tjáning PD-1 viðtakans á frystum PBMC frá SLE sjúklingum
og viðmiðunar einstaklingum.
? Við 48 klukkustundir var tjáning PD-1 viðtakans aukin hjá
bæði SLE sjúklingum og viðmiðunarhópi. SLE sjúklingar
sýndu hins vegar marktækt minni tjáningu PD-1 viðtakans
(p=0,012).
? Greining mismunandi hópa eitilfruma sýnir aukna tjáningu
PD-1 viðtakans hjá CD4+CD25+ T-frumum eftir ræsingu með
αCD3+CD28 í 48 klukkustundir hjá bæði SLE sjúklingum og
viðmiðunarhópi. SLE sjúklingar sýndu marktækt minni
tjáningu (p=0.05).
? Tjáning PD-1 viðtakans á CD4+CD25- T-frumum var ekki
marktækt frábrugðin hjá SLE sjúklingum samanborið við
viðmiðunarhóp.
Ályktun: Ræsing ferskra og frystra PBMC með αCD3+CD28
í 48 klukkustundir leiðir til sambærilegrar tjáningar á PD-
1 viðtakanum. Fyrstu niðurstöður á samanburði á tjáningu
PD-1 viðtakans hjá SLE sjúklingum og viðmiðunarhópi sýna
marktækt minni tjáningu PD-1 viðtakans hjá SLE sjúklingum.
Þessi munur er helst vegna minni tjáningar PD-1 viðtakans hjá
CD4+CD25+ T-frumum hjá SLE sjúklingum. Verið er að kanna
hvort minni tjáning PD-1 viðtakans hjá SLE sjúklingum tengist
PD-1.3A arfgerðinni eða hvort aðrir þættir liggja að baki.
V 86 Algengi IgA skorts hjá einstaklingum með sjálfsofnæmissjúkdóma
í skjaldkirtli
Árni Egill Örnólfsson1, Guðmundur Haukur Jörgensen1, Ari J. Jóhannesson2,
Sveinn Guðmundsson3, Lennart Hammarström4, Björn Rúnar Lúðvíksson1
1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2innkirtladeild Landspítala, 3Blóðbankinn,
4Div. of Clinical Immunology, Karolinska University Hospital Huddinge,
Svíþjóð
bjornlud@landspitali.is
Inngangur: IgA skortur er algengasti mótefnaskorturinn og einn
algengasti meðfæddi ónæmisgallinn. Algengi IgA skorts var
nýlega rannsakað hjá íslenskum blóðgjöfum og reyndist vera
1:570. Á undanförnum árum hafa rannsóknir sýnt fram á tengsl
IgA skorts við hina ýmsu sjálfsofnæmissjúkdóma en ekki hefur
verið sýnt ótvírætt fram á að samband sé milli IgA skorts og
sjálfsofnæmissjúkdóma í skjaldkirtli.
Markmið: Meta algengi IgA skorts hjá einstaklingum með
ofstarfsemi í skjaldkirtli á Íslandi og athuga tengsl IgA og
sjálfsmótefna gegn skjaldkirtli.
Aðferðir: IgA styrkur í sermi var mældur hjá 319 einstaklingum
með ofstarfsemi á skjaldkirtli og borinn saman við styrk IgA í
sermi 609 blóðgjafa. Styrkur IgA var einnig skoðaður í tengslum
við styrk mótefna gegn TSH viðtaka (TRAb) og thyroid
peroxidasa (anti TPO).
Niðurstöður: Af þeim 319 sýnum sem mæld voru greindist
enginn einstaklingur með sértækan IgA skort. Konur með
ofstarfsemi á skjaldkirtli höfðu marktækt lægri styrk IgA í sermi
en karlar með ofstarfsemi á skjaldkirtli ([IgA]♂ = 2,67 ± 1,16
g/L m.v. [IgA]♀ = 2,11 ± 1,04 g/L; p<0,001). Hins vegar fannst
álíka kynjamunur á styrk IgA í sermi hjá blóðgjöfum. Styrkur
IgA hækkaði marktækt með aldri hjá einstaklingum með
ofstarfsemi á skjaldkirtli (p<0,01) og svipaða fylgni mátti sjá hjá
blóðgjafahópnum. Neikvæð fylgni reyndist vera milli styrks IgA
og TRAb (correlation coefficient = -0.322, p=0,0455) og einnig
milli styrks IgA og antiTPO í sermi (correlation coefficient =
-0,376, p=0,0204).
Ályktun: Af þessum niðurstöðum má draga þá ályktun að
algengi IgA skorts sé ekki aukið hjá einstaklingum með
ofstarfsemi á skjaldkirtli á Íslandi. Neikvæð fylgni IgA við styrk
sjálfsmótefna gegn skjaldkirtli bendir til hugsanlegs hlutverks
IgA í meingerð sjálfsofnæmissjúkdóma í skjaldkirtli.
V 87 Ónæmisglæðirinn DC-Chol eykur ónæmissvar
nýburamúsa gegn próteintengdum pneumókokkafjölsykrum
og vernd gegn pneumókokkasýkingum
Brenda C. Adarna1,2, Håvard Jakobsen1,2, Stefanía P. Bjarnarson1,2, Jean
Haensler3, Emanuelle Trannoy3, Ingileif Jónsdóttir1,2
1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3sanofi pasteur, Marcy
l´Etolie, Frakklandi
brenda@landspitali.is
Inngangur: Ónæmisglæðirinn DC-Chol, eykur blandað Th1/Th2
svar gegn ýmsum bóluefnum í fullorðnum músum. Ónæmissvör
nýbura eru hæg og dauf og þörf fyrir örugga og öfluga
ónæmisglæða til að auka ónæmissvörun nýbura. Markmið
rannsóknarinnar var að kanna áhrif DC-Chol á ónæmissvar
nýburamúsa gegn próteintengdum pneumókokkafjölsykrum
(Pnc-TT).
Aðferðir: Fullorðnar mýs og nýburamýs (einnar viku gamlar)
voru bólusettar tvisvar sinnum undir húð með 0,5 µg af Pnc-
TT með/án DC-Chol. Fjölsykrusértæk mótefni í sermi voru
mæld með ELISA. Tveim vikum eftir seinni bólusetningu voru
mýsnar voru sýktar um nef með pneumókokkum (106 CFU) og
fjöldi pneumókokka í blóði og lungum (CFU/mL) talinn.
Niðurstöður: Bólusetning fullorðinna og nýburamúsa með Pnc-
TT með og án DC-Chol olli marktækri hækkun á sérstækum
mótefnum, miðað við óbólusettar mýs (p<0,001). Ef DC-Chol
var gefið með Pnc-TT jókst mótefnasvörun í fullorðnum
(p<0,001) og nýburamúsum (p=0,017) miðað við Pnc-TT eitt og
sér. Í nýburamúsum olli DC-Chol aukningu á IgG1 (p=0,013),
IgG2a (p<0,001), IgG2b (p=0,001) og IgG3 (p=0,003),
sem endurspeglar aukna virkni bæði Th1 og Th2-frumna. Í
fullorðnum músum var aukningin aðeins marktæk fyrir IgG2a
(p=0,004) og IgG3 (p=0,005), en IgG1 og IgG2b voru þegar há
eftir bólusetningu með Pnc-TT án ónæmisglæðis.
Bólusetning fullorðinna músa með Pnc-TT, með eða án DCChol,
veitti fullkomna vernd gegn blóðsýkingu og bólusetning
nýburamúsa dró marktækt úr blóðsýkingu (p<0,001) og þær sem
fengu DC-Chol voru algerlega verndaðar. Bæði í nýburamúsum
og fullorðnum dró bólusetningin úr lungnasýkingu (p<0,001).
Ályktun: Þessi rannsókn er sú fyrsta til að sýna virkni DC-Chol
í nýburamúsum, en samfara aukinni mótefnamyndun fékkst
stóraukin vernd gegn pneumókokkasjúkdómi. DC-Chol virðist
ákjósanlegur ónæmisglæðir fyrir nýbura.
V 88 Notkun eitraðra einstofna mótefna til að kanna
hlutdeild einstakra frumutegunda í meinmyndun sóra
(psoriasis)
Jóhann E. Guðjónsson1, Johnston A2, Helgi Valdimarsson2, Elder JT1,3
1Department of Dermatology, University of Michigan Medical Center, Ann
Arbor, MI, Bandaríkunum, 2ónæmisfræðideild, Landspítala, 3Ann Arbor
Veterans Affairs Health System, Ann Arbor, MI, Bandaríkjunum
andrewj@landspitali.is
Inngangur: Flestir eru núorðið sammála um að sóri sé
sjálfsofnæmissjúkdómur sem er miðlaður af T eitilfrumum. Hins
vegar eru skiptar skoðanir um hlutfallslegt mikilvægi CD4+ og
CD8+ T frumna í myndun sóraútbrota. Birtar niðurstöður benda
til þess að CD4+ T frumur séu nauðsynlegar til þess að útbrotin
myndist. Hins vegar eru langflestar þeirra T frumna sem eru í
yfirhúð sóraútbrota fáklóna (oligoclonal) CD8+ T frumur. Með
sértækri eyðingu CD8+ T frumna úr sóraskellum sem þegar hafa
myndast, eða eru i þann veginn að brjótast út, má fá hugmynd
um mikilvægi þeirra i meinmyndun sjúkdómsins.
Efniviður og aðferðir: Húð með sóraskellum var grædd á
mýs sem hafa engar T, B eða virkar NK frumur (NOD/SCID/
γcnull). Mýsnar voru síðan ýmist sprautaðar með saltvatni,
óeiturtengdum eða eitur(saporin)tengdum mótefnum gegn
CD8+ T frumum.
Niðurstöður: Eiturtengda mótefnið reyndist einvörðungu
drepa CD8+ T frumur þegar því var bætt út í in vitro ræktir
hnattkjarna hvítfruma sem einangraðar voru úr blóði (PBMCs).
Jafnframt hurfu sóraútbrotin alveg eða að mestu leyti úr
græðlingum músa sem gefið var eiturtengda mótefnið gegn
CD8+ T frumum, en héldust óbreytt hjá þeim sem fengu
saltvatn eða eitur(saporin)tengt viðmiðunarmótefni (isotype
control). Jafnframt kom í ljós með ónæmislitun að engar CD8+
T frumur voru greinanlegar i græðlingum þeirra músa sem fengu
eiturtengda mótefnið en þessar frumur voru ennþá til staðar i
græðlingum viðmiðunarmúsanna.
Ályktanir: Ofangreint músamódel er nothæft til að kanna þætti
sem orsaka sóraútbrot og þar með lyf sem geta eytt slíkum
útbrotum eða komið í veg fyrir þau. Ennfremur virðast CD8+ T
frumur gegna lykil hlutverki í myndun sóraútbrota.
V 89 Börn sem fá ífarandi pneumókokkasjúkdóm hafa
lægri mótefni gegn meinvirknipróteinum pneumókokka en
jafnaldrar þeirra sem bera pneumókokka í nefkoki
Ingileif Jónsdóttir1,2, Gunnhildur Ingólfsdóttir1, James C. Paton3, Karl G.
Kristinsson2,4, Þórólfur Guðnason5
1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3háskólanum í Adelaide,
Ástralíu, 4sýkladeild Landspítala 5landlæknisembættinu Reykjavík
ingileif@landspitali.is
Inngangur: Unnið er að þróun breiðvirkra próteinbóluefna
gegn pneumókokkasjúkdómi og hafa meðal annars
meinvirknipróteinin CbpA, Ply, PsaA og PspA verið prófuð í
dýrum, en leitað er að nýjum próteinum til að nota í bóluefni.
Markmið rannsóknarinnar var að greina ónæmisfræðilega
þætti sem tengjast áhættu á ífarandi pneumókokkasjúkdómi í
börnum.
Aðferðir: IgG mótefni gegn CbpA, Ply, PsaA og PspA voru
mæld með ELISA í átta börnum sem fengu sjúkdóminn undir
7 ára aldri og 15 börnum af sama aldri og kyni, sem báru
pneumókokka af sömu/skyldri hjúpgerðí nefkoki. Heildarmagn
immunóglóbúlina og IgG undirflokka og mannan-bindilektíns
(MBL var einnig mælt.
Niðurstöður: Ónæmisgeta allra barna í báðum hópum var
eðlileg, þau höfðu eðlilegt heildarmagn IgM, IgG og IgA m.v.
aldur, en 2/8 tilfella og 5/15 viðmiða höfðu hækkað IgE. Magn
IgG1, IgG2 og IgG4 undirflokka var innan eðlilegra marka
hjá öllum, en 1/8 tilfella og 1/15 viðmiða höfðu hækkað IgG3.
Styrkur MBL í sermi var sambærilegur milli hópa (p=0,455),
en 1/8 tilfella og 3/15 viðmiða höfðu lágt MBL (<500 mg/L).
Við upphaf ífarandi pneumókokkasjúkdóms höfðu börnin lægri
IgG mótefni gegn pneumókokkapróteinum en viðmiðin, og var
munur á styrk gegn CbpA 26-faldur (p=0,005), PsaA 4-faldur
(p=0,005), Ply 4-faldur (p=0,009) og PspA 13-faldur (p<0,001).
Mótefnin hækkuðu í kjölfar sýkingarinnar, en voru mánuði síðar
ennþá lægri en hjá viðmiðum gegn öllum fjórum próteinum.
Ályktun: Lág mótefni gegn CbpA, PsaA, PspA og Ply tengjast
áhættu á að fá ífarandi pneumókokkasjúkdóm. Virkt ónæmissvar
gegn meinvirknipróteinunum virðist skipti máli fyrir vernd gegn
ífarandi pneumókokkasjúkdómi. Skortur á mótefnum í upphafi
sýkinga getur bent til að viðkomandi prótein gegni mikilvægu
hlutverki í sjúkdómsferlinu og séu því líklega heppileg til
notkunar í bóluefni.
V 90 Hlutverk adipókína í meingerð sóra
Johnston A.1, Arndís Sigmarsdóttir2, Sverrir I. Gunnarsson2, Sigurlaug
Árnadóttir2, Steingrímur Davíðsson3, Helgi Valdimarsson1, 2
1Ónæmisfræðideild, Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Bláa Lónið Heilsulind,
240 Grindavík
andrewj@landspitali.is
Inngangur: Fituvefur er ekki lengur álitinn óvirk
orkubirgðageymsla heldur mögulegur áhrifavaldur í meingerð
sumra ónæmisfræðilegra sjúkdóma. Sóri (psoriasis) er algengur
sjálfsofnæmissjúkdómur er hrjáir 2% íbúa Norður Evrópu og
sýnt hefur verið að offita sem er áhættuþáttur fyrir þennan
sjúkdóm, tengist beint virkni sjúkdómsins.
Markmið: Markmið þessarar rannsóknar var því að kanna
sambandið milli offitu og sóra og þá sérstaklega þeirra
frumuboðefna sem eru að öllu eða einhverju leyti framleidd
af fituvef (adipókína), þ.e. leptín, resistín, adipónektín, IL-8 og
IL-18. Vitað er að þessi adipónektín geta haft áhrif á virkni T
frumna og sýnifrumna og þar með á virkni sórans.
Efniviður og aðferðir: Hæð, þyngd og mittismál voru mæld og
sjúkdómsvirkni metin (PASI) hjá sórasjúklingum (n=32) sem
komu til meðferðar í Heilsulind Bláa Lónsins. Blóðsýni voru
tekin úr fastandi sjúklingum fyrir og eftir UVB ljósameðferð
og böðun í lóninu. ELISA aðferð var notuð til að mæla þéttni
leptíns, leptínviðtaka, resistíns, adipónektíns, IL-8, IL-18 og IL-
22 í sermi. Viðmiðunarhópur (n=32) samanstóð af einstaklingum
sem voru sambærilegir sjúklingunum að því er varðar kyn, aldur
og BMI.
Niðurstöður: Við upphaf rannsóknarinnar var enginn marktækur
munur á styrk leptíns, leptínsviðtaka, adipónektíns, IL-18 eða IL-
22 milli sórasjúklinga og viðmiðunarhóps. Hins vegar var þéttni
bæði resistíns og IL-8 marktækt hækkað í sjúklingahópnum
(p≤0,005) og auk þess var jákvæð fylgni milli þéttni resistíns í
sermi og sjúkdómsvirkni (r=0.412, p=0,019). Við lok meðferðar
voru marktæk tengsl milli bötnunar og lækkunar á styrk IL-8 og
IL-22 í sermi. Hins vegar hækkaði IL-18.
Ályktun: Þessar niðurstöður benda til þess að sum frumuboðefni
sem uppruna sinn eiga í fituvef séu mikilvægir bólgumiðlar og
gætu verið tengdir meingerð sóra í of feitum einstaklingum.
V 91 Genatjáning í forverafrumum: Samanburður
á genatjáningu í óræktuðum blóðmyndandi forvera
frumum (CD34+) og óræktuðum bandvefsforverafrumum
(CD105+CD34+CD31-CD45-)
Katrine Frønsdal1, Aboulghassem Shahdadfar1, Xiaolin Wang1, Ólafur E.
Sigurjónsson1, Andrew C. Boquest2 Siv H. Tunheim4 Jan E. Brinchmann1)
1Institute of Immunology, Osló, 2Blóðbanka Landspítala 3Centre
for Occupational and Environmental Medicine, Rikshospitalet-
Radiumhospitalet Medical Centre, Oslo, 4Institute of Basic Medical
Sciences, Oslóarháskóla
oes@landspitali.is
Inngangur: Vitað hefur verið um tilvist blóðmyndandi
stofnfrumna og bandvefsstofnfrumna í beinmerg í áratugi.
Erfiðlega hefur gengið að einangra bandvefstofnfrumur
beint úr beinmerg í nægjanlegu magni (á frumuræktunar) til
að hægt sé að framkvæma örflögugreiningar á þeim. Nýlega
voru einangraðar fjölhæfar (sérhæfast yfir í brjósk, bein og
fituvef) bandvefsstofnfrumur úr fituvef (CD105+CD34+CD31-
CD45-) í nægjanlegu magni þannig að hægt var að gera á
þeim örflögugreiningu (cDNA microarray) og bera saman við
örflögugreiningu á CD34+ blóðmyndandi forverafrumum.
Markmið: Bera saman genatjáningarmynstur tveggja frumugerða
með stofnfrumu eiginleika, úr mesoderm, sem ekki hafa verið
einangraðar með frumuræktun.
Aðferðir: CD34+ frumur (blóðmyndandi forverafrumur) og
CD105+CD34+CD31-CD45- frumur (bandvefsforverafrumur)
voru einangraðar með segulkúluaðferðum, RNA einangrað úr
þeim og örflögugreining framkvæmd og borin saman. Real time
PCR aðferðum var beitt til að staðfesta niðurstöður úr völdum
genum af örflögunum. Borin var saman tjáning úr þremur
einstaklingum fyrir hvora frumugerð.
Niðurstöður: Niðurstöður okkar benda til þess að í báðum
frumuhópunum er að finna gen sem hafa tengsl við
stofnfrumueiginleika. Í bandvefsforverafrumunum fundust
meira af genum sem eru tengd mesoderm og ectoderm sérhæfingu
en gen sem tengjast endoderm sérhæfingu var að finna í báðum
frumugerðum. Viðtakar sem tengjast WNT og TGFβ ferlunum
var að finna í meira mæli í bandvefsforverafrumunum auk þess
sem gen sem tengjast taugamyndun voru í töluverðum mæli.
Ályktanir: Flest bendir til þess að í CD34+ forverafrumum sé
búið að slökkva á flestum genum sem tengjast stofnfrumuhæfni
en í bandvefsforverafrumum er fjöldi þessara gena tjáður. Þetta
gæti bent til þess að bandvefsforverafrumur hafi meiri hæfni
sem stofnfrumur en CD34+ forverafrumur.
V 92 B-minnisfrumur sem myndast við bólusetningu gegn
meningókokkum C eru langlífar
Maren Henneken1, Nicolas Burdin2, Einar Thoroddsen3, Sigurveig Þ.
Sigurðardóttir1,4, Emanuelle Trannoy2, Ingileif Jónsdóttir1,4
1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2Sanofi Pasteur, Marcy l Étolie, Frakklandi,
3 háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala, 4læknadeild HÍ
marenh@landspitali.is
Inngangur: Mikilvægt er að bólusetning veki ónæmisminni
sem veitir langtímavernd gegn smitsjúkdómum. Markmið
rannsóknarinnar var að kanna myndun og viðhald Bminnisfrumna
gegn fjölsykru (FS) Neisseria meningitides
(meningókokka) af gerð C (MenC)
Aðferðir: B-frumur voru merktar með flúrskinsmerktri MenCFS
og tíðni þeirra metin í flæðifrumusjá eftir bólusetningu
fullorðinna (n=12) með MenC-FS tengdri TT (MenC-TT), og
ungbörnum (n=21) sem fengu MenC-TT sex og átta mánaða, og
eldri börunum sem fengu einn skammt. Tíðni MenC-FS sértækra
plasmafrumna fyrir var mæld með ELISPOT og mótefni mæld
með ELISA.
Niðurstöður: Tíðni MenC-FS sértækra B-frumna í blóði var
hæst á níunda degi (0,07% fyrir og 0,29% eftir bólusetningu), og
marktæk aukning var í tíðni MenC-FS-sértækra plasmafrumna.
MenC-sértæk IgA mótefni voru 1,2µg/ml og 5,0µg/ml fyrir og
eftir bólusetningu (p=0,002), IgG mótefni voru 1,9µg/ml og 5,4µg/
ml fyrir og eftir bólusetningu (p=0,006) og hátt hlutfall IgG/IgM
benti til minnissvars. Í ungbörnum sem fengu tvo skammta af
MenC-TT var tíðni MenC-FS sértækra 0,16% og IgG mótefni
1,5µg/ml. Í börnum sem fengu einn skammt af MenC-TT 0,5-2
(n=15), 3-10 (n=14) eða 11-18 (n=4) ára gömul var tíðni MenCFS
sértækra B-frumna var 0,12%, 0,10% og 0,08% og magn IgG
mótefna var 1,3, 4,2 og 1,6 µg/ml. Langflestar MenC-FS sértækar
B frumur höfðu svipgerð minnisfrumna (86,6%; 6,7-100%) og
það var marktæk fylgni milli tíðni MenC-FS sértækra B-frumna
og MenC-FS sértækra B-minnisfrumna (r=0,931, p<0,001).
Ályktun: Rannsókn okkar sýnir að hægt er að greina og meta
tíðni FS-sértækra B-minnisfrumna þrem árum eftir bólusetningu
með próteintengdu fjölsykrubóluefni, jafnvel hjá börnum sem
fengu einn skammt af bóluefni sem ungabörn. Aðferðin mun
gagnast við mat á langtímaáhrifum bólusetninga.
V 93 Mótefnasvar og ónæmisminni aukast við bólusetningu
nýburamúsa með prótein-tengdum meningókokkafjölsykrum
C ef ónæmisglæðirinn LT-K63 er gefinn með
Siggeir F. Brynjólfsson1,2, Stefanía P. Bjarnarson1,2, Giuseppe Del Giudice3,
Ingileif Jónsdóttir1,2
1Ónæmisfræðideild Landspítala,2læknadeild HÍ, 3Novartis Vaccines, Siena,
Ítalíu
siggeir@landspitali.is
Inngangur: Ónæmiskerfi nýbura einkennist af vanþroska. Því
er brýnt að þróa bólusetningaleiðir sem hámarka vernd gegn
smitsjúkdómum, sérstaklega í nýburum. Meningókokkar, sem
geta valdið heilahimnubólgu og blóðsýkingu, er gott dæmi um
slíkan sýkil. Nýburamúsamódel fyrir pneumókokkasýkingar
hefur verið aðlagað að bólusetningu gegn meningókokkum.
Þar sem meningókokkar sýkja ekki mýs er verndandi virkni í
sermi eftir bólusetningu metin in vitro sem „serum bactericidial
activity“ (SBA). Verndandi áhrifum próteintengdra MenC
bóluefna hefur verið lýst í unglingum og ungbörnum en þau
hafa ekki verið gefin nýburum.
Markmið rannsóknarinnar var að meta hæfni próteintengds
fjölsykrubóluefnis gegn meningókokkum af gerð C (MenCCRM197)
til að vekja ónæmisvar í nýburamúsum. Áhrif
ónæmisglæðisins LT-K63 og mismunandi bólusetningaleiða
voru einnig könnuð.
Aðferðir: Nýburamýs (einnar viku gamlar) voru frumbólusettar
með MenC-CRM með eða án LT-K63, undir húð (s.c.) eða um
nef (i.n.) og endurbólusettar 16 dögum síðar með MenC-CRM
með eða án LT-K63, MenC fjölsykru, LT-K63 eða salvatni eftir
sömu leið. Mótefni voru mæld með ELISA og minnismyndun
metinn. Eftir er að mæla SBA.
Niðurstöður: MenC-CRM var lítt ónæmisvekjandi, en LT-K63
jók ónæmisvarið marktækt gagnvart MenC-CRM bæði við
bólusetningu s.c. og i.n. Endurbólusetning með MenC-CRM
og LT-K63 kallaði fram sterkt ónæmisvar og mikla aukningu
í IgG mótefnamagni, sem gefur til kynna að minnisfrumur
hafi myndast við frumbólusetningu. Endurbólusetning með
fjölsykru og LT-K63 gaf slakt mótefnasvar.
Ályktun: Rannsóknin sýndi að ónæmisglæðirinn LT-K63
eykur mótefnasvar og ónæmisminni gegn MenC-CRM í
nýburamúsum, bæði við bólusetningu s.c. og i.n., og bendir til að
hægt sé að þróa örugga og öfluga leið til bólusetninga nýbura
gegn meningókokkum C.
V 94 Tjáning á hCAP18/LL-37 í kverkeitlum
Sigrún Laufey Sigurðardóttir1,2 ,Guðmundur Hrafn Guðmundsson,3 Helgi
Valdimarsson,1,2 Andrew Johnston1
1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3líffræðistofnun HÍ
andrewj@landspitali.is
Inngangur: LL-37 er örverudrepandi peptíð með breiða virkni
gegn ýmsum bakteríum auk þess sem það er virkur efnatogi og
hefur áhrif á stjórnun ónæmissvara.
LL-37 var nýlega greint í kverkeitlum (palatine tonsils) en
virkni þess og tjáning hefur ekki verið að fullu rannsökuð.
Markmið: Markmið verkefnisins var að greina hvaða frumur tjá
LL-37 í kverkeitlum.
Efni og aðferðir: Tjáning á LL-37 var metin með ónæmisfræðilegum
vefjalitunum á kverkeitlum fjarlægðum vegna
endurtekinna sýkinga úr fimm sórasjúklingum og 15 einstaklingum
án sóra auk fimm kverkeitla sem fjarlægðir voru
vegna ofvaxtar. LL-37 jákvæðar frumur voru greindar með
flúorljómandi mótefnum.
Niðurstöður: Þekja kverkeitlaganga (crypts) tjáði mikið af LL-
37 en hins vegar var flöguþekjan einungis jákvæð á svæðum með
ífarandi hvítfrumum sem reyndust að stærstum hluta vera sterkt
jákvæðir neutrofílar. Makrófagar virtust ekki tjá peptíðið en
veik tjáning var til staðar á ljósa svæði sumra virkra kímmiðja
í kverkeitlum fjarlægðum vegna endurtekinna sýkinga úr
einstaklingum með eða án sóra. Tvílitun með flúorljómandi
mótefnum leiddi í ljós að algengustu angafrumur ljósa svæðisins
(CNA.42+) tjáðu ekki peptíðið heldur var um að ræða lítinn
undirhóp CD13+ angafrumna.
Ályktun: LL-37 tjáning í kverkeitlum er helst að finna í
neutrófílum. Ennfremur virðast CD13+ angafrumur, staðsettar
í virkum kímmiðjum, tjá peptíðið sem bendir til þess að LL-37
gæti tekið þátt í stjórnun ónæmissvara og haft áhrif á myndun
eða hrörnun kímmiðja.
V 95 Ónæmisglæðirinn LT-K63 nær að yfirvinna aldursháðar
takmarkanir í myndun kímmiðja og mótefnaseytandi
frumna gegn próteintengdu pneumókokkafjölsykru bóluefni
í nýbura músum
Stefanía P. Bjarnarson1,2, Brenda C. Adarna1, Maren Henneken1, Giuseppe
Del Giudice3, Emanuelle Trannoy4, Ingileif Jónsdóttir1,2
1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Novartis Vaccines, Ítalíu,
4Sanofi pasteur, Frakklandi
stefbja@landspitali.is
Inngangur: Langtímavernd gegn sýkingum byggist á B
minnisfrumum. Myndun þeirra tengist flokkaskiptum og
sækniþroskun mótefna sem fer fram í kímmiðjum eitilvefja. Við
höfum sýnt að próteintengd pneumókokkafjölsykra (Pnc-TT)
með ónæmisglæðinum LT-K63 eykur mótefnamyndun og vernd
gegn pneumókokkasýkingum í nýburamúsum.
Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að kanna myndun
kímmiðja og mótefnaseytandi frumna (AbSC) í nýburamúsum
(1 vikna) eftir frumbólusetningu með Pnc-TT (Pnc-TT) og áhrif
LT-K63, samanborið við fullorðnar mýs.
Efni og aðferðir: Nýburamýs og fullorðnar mýs voru bólusettar
undir húð (s.c.) með Pnc-TT eða ásamt LT-K63. Mýs sem fengu
saltvatn eða einungis LT-K63 voru notaðar sem viðmið. Miltu
voru einangruð, á degi 14 eftir frumbólusetningu nýburamúsa
og degi 10 úr fullorðnum músum, helmingur miltans var skorðað
í OCT og snöggfryst. Skornar voru 7 μm þykkar vefjasneiðar og
litaðar með PNA sem einkennir virkjaðar kímmiðjur, IgM sem
litar B frumur sem hafa ekki hafa farið í gegnum flokkaskipti
og IgG sem litar þær sem hafa farið í gegnum flokkaskipti. Hinn
helmingur miltans var nýttur til að meta fjölda IgG sértækra
AbSC miltisfrumna bæði fyrir fjölsykru- og próteinhluta
bóluefnisins með ELISPOT.
Niðurstöður: Í Pnc1-TT bólusettum nýburum voru marktækt
færri PNA, IgG eða IgM jákvæðar kímmiðjur en í fullorðnum.
Einnig voru kímmiðjur í nýburum minni og form þeirra ekki
eins fullmyndað og í fullorðnum músum. Sértækar IgG AbSC
voru vart mælanlegar í nýbura-músum, sérstaklega gegn
fjölsykruhluta bóluefnisins. Þegar ónæmisglæðirinn LT-K63 var
gefinn með bóluefninu varð aukning á fjölda kímmiðja bæði í
nýfæddum og fullorðnum músum, en minni aldursháður munur.
Mikilvægast var að kímmiðjur í nýburum voru stærri og form
þeirra líkara því sem sást í fullorðnum músum. Ónæmisglæðirinn
LT-K63 jók einnig marktækt fjölda IgG AbSC gegn fjölsykru- og
próteinhluta bóluefnisins í nýburamúsum.
Ályktun: LT-K63 nær að yfirvinna takmörkun í kímmiðjumyndun
nýburamúsa og myndun fjölsykrusértækra IgG mótefnamyndandi
miltisfrumna.
V 96 Ný rannsóknaraðferð til greiningar á jarðhnetu–
ofnæmi
Valentínus Þ. Valdimarsson1,2, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir2, Inga
Skaftadóttir2, Michael Clausen3, Björn R. Lúðvíksson1,2
1Læknadeild HÍ, 2rannsóknastofnun Landspítala, ónæmisfræði-deild,
3göngudeild ofnæmis, lungna og svefns, Landspítala
valentv@hi.is
Inngangur: Fæðuofnæmi er algengur sjúkdómur sem veldur
flestum tilfellum ofnæmislosts í börnum. Greining þess er oft
vandkvæðum bundin. U.þ.b. 20% telja sig vera með fæðuofnæmi
en einungis um 2% eru greindir með IgE miðlað ofnæmissvar.
Hér er lýst aðferð til greiningar fæðuofnæmis sem grundvallast
á virkjun hvítfrumna í blóði.
Efniviður og aðferðir: Rannsakaðir voru einstaklingar með
(n=5) eða án (n=3) jarðhnetuofnæmi. Sértæk flúorskinsmerkt
músamótefni fyrir CD63 og CD203c var blandað í heilblóð
með eða án ofnæmisvaka (jarðhnetur) og svörun metin í
frumuflæðissjá (basófílvirkjunarpróf/BVP). Ofnæmi var einnig
metið með mælingu á sértæku IgE með ImmunoCAP aðferð og
ofnæmishúðprófum (SPT).
Niðurstöður: Hlutfall sértækt merktra frumna (BVP) jókst
marktækt frá 4,19 ±0,6% í 60,88 ±31,9% (p=0,008) hjá þeim sem
voru klínískt með jarðhnetuofnæmi en ekki hjá viðmiðunarhópi.
Marktæk fylgni var á milli svörunar BVP miðað við SPT
(R=0,817; p=0,013) en hins vegar náði fylgni milli BVP og
sértæks IgE ekki marktækni (R=0,602; p=0,102). Samanburður
á næmi og sértæki er umtalsvert betri fyrir BVP en SPT og
sértækt IgE (sjá töflu I).
Tafla I. Næmi og sértæki reiknað miðað við álit ofnæmislæknis um
einstaklinga með eða án jarðhnetuofnæmi.
Ályktanir: BVP er gott til þess að greina jarðhnetuofnæmi
og jafnvel vænlegra en SPT og mæling á sértæku IgE. SPT og
mæling á sértæku IgE sem er hærra en 15 kUA/L greinir of
marga falskt neikvætt en mæling á sértæku IgE hærra en 0,35
kUA/L greinir of marga falskt jákvætt.
V 97 Ónæmissvörun og verndandi áhrif prótínbóluefna
gegn pneumókokkum í nýburamúsum
Þórunn Ásta Ólafsdóttir1,2, Pétur Sigurjónsson1,2, James C. Paton3, Ingileif
Jónsdóttir1,2
1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3University of Adelaide,
Ástralíu
thorasta@landspitali.is
Inngangur: Flest prótín eru ónæmisvekjandi frá fæðingu og
því ættu pneumókokka-prótínbóluefni að geta vakið upp
ónæmissvar í nýburum. Vel varðveitt prótín gætu veitt vernd
gegn mörgum hjúpgerðum í mismunandi heimssvæðum. PspA,
CbpA og PdB eru vel skilgreind pneumókokkaprótín sem hafa
verið rannsökuð með tilliti til bóluefnagerðar.
Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að meta ónæmisvekjandi
og verndandi áhrif þessara þriggja prótína í nýburamúsum.
Efniviður og aðferðir: Nýburamýs voru bólusettar þrisvar, undir
húð (s.c) eða um nef (i.n) með PspA einu sér eða í blöndu
með CbpA og PdB, með eða án CpG2006. IgG mótefni voru
mæld með ELISA. Tveimur vikum eftir þriðju bólusetningu
voru mýsnar sýktar um nef með S. pneumoniae og lungna- og
blóðsýking metin með því að telja kóloníu myndandi einingar
(CFU). Mýs sem fengu blöndu allra prótínanna s.c. voru með
marktækt hærri mótefni gegn CbpA og PdB en óbólusetti
hópurinn. CpG2006 jók mótefnasvarið gegn PdB (p=0,002) eftir
i.n. bólusetningu miðað við ef enginn ónæmisglæðir var gefinn
með bóluefninu og mótefnasvör gegn CbpA voru marktækt
hærri (p=0,038) ef CpG var gefinn með bóluefninu um nef
miðað við óbólusetta hópinn. Hærri PspA mótefni mældust
í músum sem bólusettar voru með PspA og CpG2006 s.c.
(p<0,001) og i.n. (p=0,01) og þær höfðu færri CFU í blóði (s.c.
p<0,001, i.n. p=0,041) og lungum (s.c. p=0,004, i.n. p<0,001) en
óbólusettar mýs. Mýs sem fengu blöndu allra þriggja prótínanna
höfðu einnig minni sýkingu í lungum en óbólusettu mýsnar, en
ekki var munur á sýkingu í blóði.
Niðurstöður: Niðurstöður okkar sýna að PspA, CbpA og PdB eru
ónæmisvekjandi í nýburamúsa líkani og að mótefni gegn PspA
veita mesta vernd gegn pneumókokkasýkingu um nef. Þetta
nýburamúsalíkan er hægt að nota til að prófa ný prótínbóluefni
fyrir yngsta markhóp pneumókokkabólusetninga.
V 98 Áhrif æðaþelsfrumna á þekjufrumur brjóstkirtils
Sævar Ingþórsson1,2, Valgarður Sigurðsson1,2, Magnús Karl Magnússon1,
Þórarinn Guðjónsson1
1 Blóðmeinafræðideild Landspítala, 2 rannsóknastofu Krabbameinsfélags
Íslands og HÍ í sameinda- og frumulíffræði
saevari@hi.is
Inngangur: Það verður sífellt greinilegra að ekki er nóg að horfa
á einstakar frumugerðir þegar kanna á form og starfsemi líffæra.
Innan sérhvers vefjar eru fjölmargar frumugerðir í nánum
samskiptum hver við aðra og hver og ein hefur áhrif á umhverfi
sitt. Í brjóstkirtlinum er grunneiningin hið tvílaga kirtilber og er
það háð samskiptum við millifrumefni og frumur stoðvefjar. Við
framþróun æxlisvaxtar riðlast samskipti fruma sem leiðir til taps
á eðlilegri formgerð og ífarandi vaxtar. Sýnt hefur verið fram á
að æðamyndun er mikilvægur þáttur í framþróun æxlisvaxtar
þar sem nýjar æðar flytja súrefni og næringarefni til æxlisins.
Lítið er hins vegar vitað hvaða áhrif æðaþelsfrumur hafa vöxt
og sérhæfingu þekjufruma.
Markmið: Að kanna áhrif æðaþelsfruma á þekjufrumur
brjóstkirtilsins og greina hvaða þættir það eru sem áhrifunum
valda.
Aðferðir: Notast var við þrívíð frumuræktunarlíkön sem
endurspegla betur en hefðbundin tvívíð frumuræktun umhverfi
frumnanna í líkamanum. Við höfum nýlega þróað aðferð
til einangrunar og langtíma ræktunar á æðaþelsfrumum úr
brjóstkirtli. Æðaþeli og þekjufrumum var steypt inn í gel og
áhrif á vöxt metin. Frumuþyrpingar í gelum voru taldar og stæð
þeirra mæld. Að loknum ræktunartíma voru gelin fixeruð og
mótefnalituð með flúrljómandi mótefnum gegn frumusértækum
kennipróteinum. Til að greina áhrif æðaþelsins á þekjufrumurnar
voru frumur ræktaðar aðskildar á transwell filtrum ásamt því að
æti af æðaþelsfrumum var notað á þekjufrumur. Ennfremur
voru hindrar gegn tyrosín-kínasa viðtökum notaðir til að bera
kennsl á þá þætti sem mest áhrif hafa.
Niðurstöður: Æðaþelsfrumur höfðu vaxtarhvetjandi áhrif
á þekjuvefsfrumur. Æðaþelsfrumurnar vaxa ekki sjálfar
þegar þær eru ræktaðar í geli sem auðveldar að þekja þær frá
þekjufrumum í rækt. Hægt var að hindra áhrif æðaþelsins með
því að nota mótefni sem hindra starfræna virkni tyrosín-kínasa
viðtaka á þekjufrumunum.
Ályktun: Æðaþelsfrumur örva vöxt þekjufruma og þessum
áhrifum er að hluta til miðlað gegnum tyrosín-kínasa viðtaka
á yfirborði þekjufruma. Áframhaldandi rannsóknir miða að
því að skilgreina hlutverk tyrosín-kínasa viðtaka í þroskun og
sérhæfingu brjóstkirtilsins.
V 99 Tjáningarmynstur Sprouty stjórnpróteina í eðlilegum
brjóstkirtli
Valgarður Sigurðsson1,2, Katrín Briem1, Sævar Ingþórsson1,2, Þórarinn
Guðjónsson1, Magnús Karl Magnússon1
1Rannsóknastofa í frumulíffræði, blóðmeinafræðideild Landspítala, 2rannsóknastofu
í sameinda- og frumulíffræði, Krabbameinsfélag Íslands og HÍ
valgardur@krabb.is
Inngangur: Boðferlar sem taldir eru mikilvægir fyrir greinótta
formgerð ýmissa vefja eru vel varðveittir milli mismunandi
líffæra og mismunandi dýrategunda og eru boð gegnum tyrosínkínasa
viðtaka dæmi um slíka boðferla. Innanfrumustjórnprótein
sem tilheyra sprouty fjölskyldunni hafa áhrif á virkni tyrosínkínasa
viðtaka og hafa þannig virk áhrif á greinótta formgerð
ýmissa líffæra. Fundist hafa fjögur mismunandi sprouty gen
í manninum; sprouty-1, 2, 3 og 4. Sýnt hefur verið að sprouty
prótein gegna mikilvægu hlutverki í myndun greinóttrar
formgerðar í lungum, nýrum og æðakerfi en hlutverk þeirra í
brjóstkirtli manna hefur lítið verið kannað.
Markmið: Skilgreining á tjáningarmynstri sprouty próteina í
brjóstkirtli.
Aðferðir: Tjáning sprouty próteina í brjóstvef frá brjóstaminnkunaraðgerðum
og í ræktuðum frumum var metin með
mótefnalitun, western blot, og Real time-PCR.
Niðurstöður: Mótefnalitanir á vefjasneiðum úr brjóstkirtli
sýna að sprouty-2 er tjáð í Þekjufrumum og í nokkru mæli í
æðaþelsfrumum en ekki sást nein tjáning í bandvefsfrumum.
Tjáning á sprouty-3 fannst í meira mæli í vöðvaþekjufrumum
og frekar í stærri göngum en endastykkjum og kirtilberjum.
Unnið er að því að fá niðurstöður úr frumuræktunum en
fyrstu niðurstöður benda til þess að bæði þekjufrumur og
stoðvefsfrumur tjái sprouty-2 í rækt. Niðurstöður á sprouty-3 í
ræktuðum frumum úr brjóstkirtli liggja ekki fyrir.
Ályktun: Niðurstöður okkar sýna að sprouty-2 og -3 eru tjáð
í brjóstkirtli en á mismunandi stöðum. Sprouty-2 finnst bæði
í þekjufrumum og stoðvefsfrumum en sprouty-3 aðallega í
vöðvaþekjufrumum. Það að sprouty 3 sé meira tjáð í stærri
göngum bendir til að hlutverk þess í brjóstkirtlinum gæti verið
að hindra greinótta formgerð sem er meira einkennandi fyrir
endastykki brjóstkirtilsins.
V 100 Vinnsla stofnfrumna fyrir háskammtalyfjameðferð á
Íslandi 2003-2006
Steinunn J. Matthíasdóttir1, Leifur Þorsteinsson1, Björgvin Hilmarsson1,
Kristbjörn Orri Guðmundsson1, Ólafur E Sigurjónsson1, Erna
Guðmundsdóttir1, Svala Karlsdóttir1, Guðmundur Rúnarsson2, Sigrún
Reykdal2, Brynjar Viðarsson,2 Hlíf Steingrímsdóttir2, Þórunn
Sævarsdóttir2,Þorbjörn Jónsson1, Sveinn Guðmundsson1)
Blóðbankinn1, blóðlækningadeild Landspítalans2
steinmat@lsh.is
Inngangur: Háskammtalyfjameðferð með stofnfrumustuðningi
þar sem frumur eru einangraðar frá sjúklingi (autologous)
í sjúkdómshléi (remission), hefur verið hratt vaxandi meðferðarform
gegn ýmsum illkynja sjúkdómum frá upphafi níunda
áratugarins. Frumurnar eru ýmist einangraðar úr beinmerg eða
blóði eftir tilfærslu úr merg í blóð. Fyrsta söfnun og vinnsla af
þessu tagi var framkvæmd á Landspítala í desember 2003.
Markmið: Markmiðið er að draga saman niðurstöður
stofnfrumuvinnslunnar fyrstu þrjú ár starfseminnar á
Landspítala.
Efniviður og aðferðir: Í lok árs 2006 höfðu 48 sjúklingar hafið
meðferð, 29 með eitlakrabbamein (lymphoma), þar af sex með
Hodgkins sjúkdóm, 16 með mergfrumuæxli (multiple myeloma)
og þrír með hvítblæði. Tilfærsla á stofnfrumum (CD34+) úr merg
í blóð var gerð með frumuvaxtaþætti (G-CSF) eða vebeside
að undangenginni meðferð með frumuhemjandi lyfjum.
Stofnfrumum var safnað með blóðskilunarvél (apheresis).
CD34+ frumur voru taldar með frumuflæðissjá. Fjöldi lifandi
frumna (viability) var ákvarðaður með 7-AAD.
Niðurstöður: Frá sjúklingunum 46 þar sem tilfærsla tókst var
safnað 114 sinnum, meðaltal 2,5 (1-5). Meðalheildarfjöldi
CD34+ frumna sem tókst að safna frá hverjum sjúklingi var
9,0x106/kg (3,0x106/kg-31,0x106/kg). Þrjátíu og þrír sjúklingar
hafa fengið sínar frumur til baka að hluta eða öllu leyti. Allir
fengu lifandi CD34+ frumur, ≥2,0x106/kg, sem er það lágmark
sem fjölmargir rannsóknarhópar leggja til viðmiðunar svo
að rótun (engraftment) verði í beinmergnum. Hjá öllum
sjúklingunum varð rótun (fjöldi hvítfrumna mælist ≥0,5x109/
L) aðeins 12-14 dögum eftir ígræðslu. Á sama hátt var fjöldi
á blóðflögum kominn upp í ≥25,0x109/L á 15-17 dögum eftir
ígræðslu.
Ályktanir: Á fyrstu þremur árum starfseminnar hefur verið
safnað stofnfrumum hjá 46 sjúklingum. Að meðaltali þurfti að
safna 2,5 sinnum hjá hverjum sjúklingi. Söfnun stofnfrumna
hjá sjúklingum sem fá háskammtameðferð er vaxandi
meðferðarform hér á landi. Fyrstu niðurstöður benda til
árangurs í takt við það sem gerist í nágrannalöndum okkar.
V 101 Eðlileg enduruppsetning á bak-kviðlægri genatjáningu
eftir endurmyndun á fósturmænu kjúklinga
Ólafur E. Sigurjónsson1,2,3,, Gabor Halasi3,, Kobra Sultani3, Torstein
Egeland2, Joel C. Glover3
Blóðbanki Landspítalans1, Institute of Immunology, Rikshospitalet
University Hospital and University of Oslo2, Department of Physiology,
Institute of Basic Medical Science, University of Oslo, 0319 Oslo, Norway3
oes@landspitali.is
Inngangur: Mismunandi taugar í fósturmænu kjúklinga
myndast frá mismunandi taugaforverafrumum sem er að finna
í afmörkuðum forverasvæðum í fósturmænunni. Þessi svæði
er hægt að aðgreina með því að skoða bak-kviðlæg (dorsalventral)
tjáningu mismunandi umritunarþátta. Fósturmæna
kjúklinga getur endurmyndast mjög sértækt snemma í þroskun
þeirra. Við höfum áður sýnt fram á að við slíka endurmyndun
þroskast taugar á réttan hátt og myndast á réttum stöðum. Hins
vegar er lítið vitað um það hvernig þetta á sér stað eða hvort
enduruppsetning á bak-kviðlægri tjáningu umritunarþátta,
sem eru taldir stýra því hvar ákveðnar tegundir tauga myndast
í fósturmænunni, eigi sér stað og þá hvenær í endurmynduninni.
Markmið: Að athuga hvort endurmyndun á fósturmænu kjúklinga
leiði til enduruppsetningar á sértækri bak-kviðlægri tjáningu
umritunarþátta í taugaforverafrumum og taugafrumum.
Aðferðir: Um það bil 100µm langur hluti (öðru megin) á
fósturmænu kjúklinga (HH15, HH16 og HH17) var fjarlægður
með örskurði og látinn endurmyndast (í allt að 36 t). Tjáning á
umritunarþáttum (Pax-7, Pax6, Nkx2.2) og taugafrumugenum
(HB9, Isl1, Isl2, Pax-2, En1, Lim1/2, Lim3, Lmx1, Brn3a) í
fósturmænunni var athuguð með mótefnalitun, 4, 8, 12, 24 og 36
tímum eftir örskurðinn. Image J softwear (NIH) var notað til að
telja frumur og meta stærð endurmyndaðs svæðis.
Niðurstöður: Í þeim tilfellum þar sem endurmyndun á
fósturmænu verður (36% tilfella), á sér stað enduruppsetning
á taugaforverasvæðum samkvæmt tjáningu umritunarþátta.
Þegar við skoðum þetta á meðan endurnýjun á sér stað, benda
niðurstöður til þess að enduruppsetning á taugaforverasvæðum
eigi sér stað á meðan endurnýjun á fósturmænunni fer fram,
frekar en að endurnýjun á fósturmænunni eigi sér stað og
svo séu taugaforverafrumusvæði sett upp eftir að mænan er
fullmynduð.
Ályktanir: Aukinn skilningur á endurmyndun fósturmænu
í kjúklingafóstrum gefur okkur innsýn í bæði almenna
líffræði fósturþroska taugakerfisins og gefur einnig hugmyndir
um mögulega endurmyndun á taugakerfinu í fullorðnum
einstaklingum.
V 102 Genatjáningargreining á blóðmyndandi
forverafrumum sýnir fram á að Dlg7 sé mögulegt stofnfrumugen
Kristbjörn Orri Guðmundsson1, Leifur Þorsteinsson1, Ólafur E.
Sigurjónsson1, Jonathan R. Keller3, Karl Olafsson2, Torstein Egeland4,
Sveinn Guðmundsson1, Þórunn Rafnar5
1Blóðbanki Landspítala, 2kvensjúkdómadeild Landspítala, 3National Cancer
Institute-USA, 4Immunologisk Institutt – Rikshospitalet Oslo, 5Urður
Verðandi Skuld
kristbj@landspitali.is
Inngangur: Þrátt fyrir miklar framfarir í rannsóknum á
stofnfrumum á undanförnum árum hefur ekki verið sýnt fram á
hvernig sjálfsendurnýjunarhæfni og sérhæfing stofnfrumna á sér
stað með fullnægjandi hætti. Á undanförnum árum hefur með
frumuræktunar- og dýratilraunum verið sýnt fram á ýmis
erfðafræðileg stjórnkerfi sem virðast hafa áhrif á þessi
ferli stofnfrumna. Þar er meðal annars um að ræða ýmsa
umritunarþætti, frumuhringshindrara, gen sem stjórna umritun
og ýmis prótein sem tengjast þroskunarferlum.
Markmið: Að nota stofnfrumulínuna KG1 til þess að finna
ný gen sem gegna hlutverki í sjálfsendurnýjun og sérhæfingu
stofnfrumna.
Aðferðir: Við beittum örflögutækni og „subtractive cloning“
aðferðum, til þess að greina gen sem ekki höfðu verið tengd
sjálfsendurnýjun og sérhæfingu í stofnfrumum. Síðan könnuðum
við tjáningu gensins í „primary“ stofnfrumum og könnuðum
áhrif yfirtjáningar í fósturstofnfrumum.
Niðurstöður: Eitt af genunum sem við einangruðum var Dlg7
homolog við drosophilu genið Dlg1. Við höfum sýnt fram á
að Dlg7 er tjáð í frumstæðum blóðmyndandi stofnfrumum
(CD34+CD38-), mesenchymal stofnfrumum, CD133+ frumum,
músa fósturstofnfrumum (mES frumum) en mun minna í
blóðmyndandi froverafrumum og ekki tjáð í sérhæfðum
blóðfrumum. Einnig höfum við sýnt fram á að Dlg7 er tjáð
í nokkrum hvítblæðisfrumulínum og æxlum, þar á meðal í
þvagblöðru, ristli og lifur, en ekki í heilbrigðum aðlægum
vef. Yfirtjáning á Dlg7 í mES frumum, eykur vaxtarhraða
mES frumna og dregur úr sérhæfingu þeirra (færri og smærri
embryoid bodies) og eykur tjáningu á Oct4, Bmp4, Rex1 og
Nanog.
Ályktanir: Við teljum að Dlg7 gegni mikilvægu hlutverki í
stofnrumum við viðhaldi á sjálfsendurnýjunar hæfni stofnfrumna
og í krabbameinsmyndun.
V 103 Kortlagning erfðabrenglana með hjálp örflögutækni
í brjóstaæxlum sjúklinga úr fjölskyldum sem bera kímlínustökkbreytingu
í BRCA1 og BRCA2 genunum og úr fjölskyldum
með hækkaða tíðni meinsins án BRCA1/2-stökkbreytingar
Haukur Gunnarsson1, Göran Jonsson2, Aðalgeir Arason1, Bjarni A
Agnarsson3, Óskar Þór Jóhannsson4, Johan Vallon-Christersson2, Johan
Staaf2, Hakan Olsson2, Ake Borg2, Rósa Björk Barkardóttir1
1Sameindalíffræðieining, rannsóknastofu í meinafræði, Landspítala,
2Krabbameinsdeild Háskólasjúkrahúsins í Lundi, 3rannsóknastofa í meinafræði,
Landspítala, 4krabbameinsdeild Landspítala
haukur@landspitali.is
Inngangur: Um 5-10% brjóstakrabbameinstilfella tilheyra
fjölskyldum með háa tíðni meinsins. Skýra má allt að helming
þeirra með kímlínustökkbreytingu í BRCA1- og BRCA2-
genunum. Ekki hefur tekist að finna önnur gen sambærileg
BRCA1 og BRCA2 sem skýra tilurð sjúkdómsins í hinum
helmingnum.
Markmið: Markmið rannsóknarinnar er að bera saman
tíðni og dreifingu erfðabrenglana í brjóstakrabbameinsæxlum
fjölskyldna með 1) kímlínustökkbreytingu í BRCA1- eða
BRCA2-geni, 2) tíð mein án BRCA1/2-kímlínubreytingar
(BRCAX) og 3) stakstæð (sporadisk) brjóstakrabbamein.
Aðferðafræði: DNA var einangrað úr fersk-frosnum æxlisvef:
BRCA1 (n=24), BRCA2 (n=45), BRCAX (n = 89) og stakstæð
viðmiðunarsýni (n=53). Framkvæmd var örflögurannsókn
(array-CGH). Örflögurnar samanstóðu af yfir 32.400 BACklónuðum
þreifurum með ca. 45 kb. upplausn. Örflögurnar voru
skannaðar inn í tölvu (Agilent microarray scanner), niðurstöður
villurýndar (GenePix Pro) og gögnum hlaðið inn á BASE (Bio
Array Software Environment) til leiðréttingar á bakgrunni
og stöðlunar. CGH-plotter hugbúnaðurinn var notaður til
kortlagningar erfðabrenglana.
Niðurstöður: Tíðni erfðabrenglana er hærri hjá BRCA1- og
BRCA2-hópunum miðað við BRCAX og stakstæða hópinn.
Í samanburði við stakstæða hópinn er tap erfðaefnis á litningi
4 og 5q einkum einkennandi fyrir BRCA1 hópinn en fyrir
BRCA2 hópinn aukning erfðaefnis á 20q og tap erfðaefnis á
13q. BRCAX hópurinn sker sig ekki afgerandi frá stakstæða
hópnum hvað varðar tíðni brenglana og staðsetningu þeirra.
Tíðar brenglanir meðal beggja hópa eru aukning erfðaefnis á 1q,
8q og 16p og tap erfðaefnis á 8p, 11q og 16q.
Ályktun: Niðurstöðurnar gefa til kynna að þau litningasvæði
sem hafa áhrif til myndunar brjóstakrabbameins í fjölskyldum
sem ekki skýrast af stökkbreytingum í BRCA1 og BRCA2
séu mörg hver þau sömu og hafa áhrif í stakstæðum æxlum.
Þær staðfesta einnig mjög háa brenglunartíðni BRCA1 og
BRCA2 æxla sem endurspegla aftur mikilvægi þeirra í DNAviðgerðaferli
frumnanna.
V 104 A29T fjölbreytileiki í LTF er algengur í lungnaæxlum
Þórgunnur E. Pétursdóttir1, Unnur Þorsteinsdóttir2, Páll H. Möller3,
Jóhannes Björnsson1, Stefan Imreh4, Valgarður Egilsson1, Sigurður
Ingvarsson5
1Rannsóknarstofu í meinafræði, frumulíffræðideild, 2Íslenskri
erfðagreiningu, 3skurðlækningasviði Landspítala, 4Karolinska Institutet,
Microbiology and Tumorbiology Center, Stokkhólmi, 5tilraunastöð HÍ í
meinafræði að Keldum
thorgep@landspitali.is
Inngangur: Stutti armur litnings 3 í mönnum er afbrigðilegur
í flestum æxlum. Et (elimination test) er próf sem var þróað,
af samstarfsaðilum okkar á Karolinska Institutet, til að finna
litningasvæði með æxlisbæligenum. Með notkun prófsins fannst
svæði á 3p21.3 sem var nefnt CER1 (common eliminated
region 1). Á svæðinu eru 34 virk gen og miðað við núverandi
þekkingu þykja LIMD1 (LIM domain containing gene 1) og
LTF (lactotransferrin) líklegust sem æxlisbæligen. Nokkrar
rannsóknir hafa verið gerðar sem benda til þess að Ltf og Limd1
próteinin taki þátt í að verjast myndun æxla.
Markmið: Að skilgreina frekar hlutverk LIMD1 og LTF í
sjúkdómsferli krabbameins í mönnum.
Aðferðir: Efniviðurinn samanstendur í heild af 576 mannaæxlum
frá 10 líffærum. Til að meta tíðni úrfellinga var gerð LOH
greining með microsatellite erfðamörkum. Útraðir voru
skimaðar með SSCP aðferð fyrir fjölbreytileika í LTF (eingöngu
lungnaæxli) og LIMD1 og síðan var kannað með raðgreiningu
hvort sá fjölbreytileiki sem fannst væru stökkbreytingar.
Niðurstöður: Við rannsökuðum úrfellingatíðni á CER1 og
bárum saman við tíðni úrfellinga í sama efnivið á tveimur öðrum
þekktum æxlisbæligenasvæðum á 3p. Úrfellingatíðnin var hæst á
CER1 svæðinu (84%). Við fundum fjölbreytileika í basaröðum
bæði LIMD1 og LTF en höfum engar stökkbreytingar fundið
í LIMD1. Í LTF geninu fundum við breytileika í exoni 2 í
hárri tíðni (49%) miðað við kontról (27%). Um er að ræða
basabreytingu sem leiðir til amínósýru skipta úr Alanine yfir í
Threonine (A29T).
Ályktun: Þar sem við fundum mjög háa tíðni úrfellinga á
CER1 bendir það til þess að á svæðinu geti verið æxlisbæligen.
Úrfellingarnar voru ekki vefjasértækar þar sem há tíðni fannst
í öllum æxlisgerðum eða 70-94%, nema í sarkmeinum þar sem
tíðnin var 40%. Þó að lítið hafi fundist af stökkbreytingum
höfum við ekki útilokað að um æxlisbæligen sé að ræða. Við
munum kanna tjáningu genanna í æxlum og bera saman við
eðlileg sýni. Ef tjáning er minnkuð munum við kanna hvort um
„epigenetiskar“ breytingar geti verið að ræða.
V 105 Aðferð til mælinga á hreyfieiginleikum hnjáliðar
Brynjar Vatnsdal Pálsson¹, Þórður Helgason¹, Jónína Lilja Pálsdóttir¹,
Páll E. Ingvarsson², Vilborg Guðmundsdóttir², Sigrún Knútsdóttir²,
Stefán Yngvason²
¹Rannsóknar- og þróunarstofu HTS, 2endurhæfingardeild Landspítala
Grensási
brynjarp@landspitali.is
Inngangur: Raförvunarmeðferð á lærvöðvum sjúklinga með
úttaugarskaða hefur verið í þróun í tengslum við hið ESB
styrkta RISE verkefni í nokkur ár. Með auknum krafti og vexti
vöðvanna breytast hreyfieiginleikar þeirra og breytingarnar eru
mældar til þess að fylgjast með framvindu meðferðarinnar.
Markmið: Markmið verkefnisins er að þróa aðferð til að
fylgjast með framvindu meðferðarinnar á einfaldan, ódýran og
þráðlausan hátt. Til þess var þróað stærðfræðilegt líkan sem lýsir
hreyfieiginleikum vöðvanna.
Aðferðir: Í RISE verkefninu hafa þrír íslenskir sjúklingar hlotið
raförvunarmeðferð
frá árinu 2003. Í reglubundnu eftirliti hafa
verið framkvæmd
próf á hreyfieiginleikum hnjáliðar, með og
án örvunar, þar sem pendúlssveifla neðri hluta fótleggjar er
mæld með sjónvarpsmyndavél.
Úr þessum mælingum er tímafall
sveiflunnar unnið og notað í líkani sem reiknar kennistærðir
hreyfieiginleika hnjáliðar. Kennistærðirnar eru bornar saman
við aðrar mælingar sem notaðar eru til að segja til um
þjálfunarástand vöðva, svo sem kraft- og flatarmálsmælingar
á
þversniði vöðva.
Niðurstöður: Til að meta áreiðanleika líkansins var lýsing
þess á sveiflunni skoðuð samanborið við tímafall unnið úr
myndbandsupptökum. Líkanið lýsti sveiflunni án teljandi
skekkju. Þær breytur líkansins sem notaðar voru til að meta
hreyfieiginleika hnjáliðsins breyttust umtalsvert þegar örvun
var beitt.
Ályktun: Góð fylgni líkansins við tímafall sveiflunnar sýnir
að þessi aðferð er vel nothæf til að meta hreyfieiginleika
hnjáliðs á einfaldan og nákvæman hátt. Mæliskekkja er lítil
og niðurstöður frá einstaka sjúklingum með og án örvunar
endurspegla líkamlegt ástand og örvunarsvörun
sjúklingsins.
Næmni aðferðarinnar verður að ákvarða betur með samanburði
við aðrar mæliaðferðir og með því að athuga og eyða
óvissuþáttum.
V 106 RISE: Raförvunarmeðferð aftaugaðra vöðva
Páll E. Ingvarsson¹, Þórður Helgason², Vilborg Guðmundsdóttir¹, Paolo
Gargiulo², Sigrún Knútsdóttir¹, Stefán Yngvason¹
¹Endurhæfingardeild Landspítala Grensási, 2rannsóknar- og þróunarstofu
HTS
palling@landspitali.is
Inngangur: Innan ramma fjölsetra fjölþjóða RISE verkefnisins
hafa 28 sjúklingar með útlægan alskaða á mænu – þar af þrír
Íslendingar - verið meðhöndlaðir með raförvun í tvö til fimm
ár.
Markmið: Markmið verkefnisins er að þróa meðferðarleið
til að endurhæfa lærisvöðva, þróa aðferðir til að fylgjast
með meðferðinni og rökstyðja breytingartillögur á stöðlum
Evrópusambandsins sem leyfa ekki nægjanlega mikinn
straumstyrk til að raförva vöðvaþræði beint, þ.e. án þess að örva
aðliggjandi taug. Verkefnið skapar þekkingu og forsendur til að
þróa meðferðar- og sjúkdómsgreiningarbúnað.
Aðferðir: Sjúklingarnir, allir með útlægan alskaða á mænu, hafa
í að minnsta kosti tvö ár verið í raförvunarmeðferð á fjórhöfða
læris. Þeir raförva vöðvana einu sinni á dag, sex daga vikunnar.
Eftir 2-4 mínútna upphitun er annars vegar örvað með löngum
einstökum púlsum sem einkum örva grennstu og mest rýrnuðu
vöðvaþræðina, hins vegar með 20 Hz rafpúlsum sem tryggja
samfelldan samdrátt (tetanus). Raförvun eykst smám saman, frá
2 x 4 mínútur á hvorn máta með mínútu hléi á milli, upp í allt að
6 x 5 mínútur. Þegar nægileg hnésveifla fæst hefst kraftþjálfun
með lóðum um ökkla.
Niðurstöður: Niðurstöður verkefnisins sýna að vöðvarnir vaxa að
stærð og krafti ef sjúklingur er meðferðarheldin. Þó er árangur
háður tíma frá skaða – því styttri tími sem er liðinn frá slysi, því
fyrr fæst góð vöðvasvörun við raförvuninni. Kraftur vöðvans
fylgir á eftir stærð hans, þó með minni kraft en sambærilegur
ítaugaður vöðvi. Fimm af þeim 20 sem kláruðu rannsóknina
náðu að standa upp og ganga með aðstoð raförvunar.
Ályktun: Orðin er til meðferð til að byggja upp aftaugaða
vöðva hjá einstaklingum meðmænuskaða af útlægri gerð, en
áður var engin meðferð til hjá þessum sjúklingahóp. Meðferðin
bætir vöðvamassa, kraft, blóðrás, beinþéttni, húðþykkt, og
stóreykur þar með lífsgæði einstaklinga með útlæga mænuskaða
- því fyrr eftir slys, því betra. Frumgerðir af meðferðar- og
greiningarbúnaði hefur verið þróaður innan verkefnisins.
V 107 Aðskilnaður vöðvabúka í spíral TS myndum: Ný
aðferð við að fylgjast með vexti aftaugaðra og rýrra vöðva í
raförvunarmeðferð
¹Paolo Gargiulo, ¹Þórður Helgason, ¹Björg Guðjónsdóttir, 2Páll Ingvarsson,
2Sigrún Knútsdóttir, 2Vilborg Guðmundsdóttir, 2Stefán Yngvason
¹Rannsóknar- og þróunarstofu, heilbrigðistæknisviði Landspítala, 2endurhæfingardeild,
Landspítala Grensási
thordur@landspitali.is
Inngangur: Flóknar aðferðir við að vinna þrívíðar myndir
og aðgreiningarleiðir eru þróaðar til að einangra einstaka
vöðvabúka sjúklinga með slappa vöðvalömun neðan mittis.
Sjúklingarnir eru þátttakendur í evrópsku verkefni, RISE,
þar sem raförvun er notuð til að endurhæfa uppstöðu þessara
sjúklinga.
Markmið: Þessi tækni er notuð til þess að:
? Fylgjast með vexti vöðva í raförvunarmeðferð.
? Mæla og kortleggja rúmmál og þéttni vöðva í RISE
meðferð.
Aðferð: Til að greina vöðva úr TS/MRI myndum er notaður
hugbúnaður kallaður MIMICS. Sjálfvirk og hálfsjálfvirk verkfæri
hugbúnaðarins eru notuð til að einangra úr sneiðmyndunum
vöðvabúka læris RISE sjúklinganna. Einangraðir vöðvar eru
síðan mældir reglulega og mælingar frá öllum meðferðartímanum
bornar saman. Þannig er mjög nákvæmlega og á alveg nýjan
hátt fylgst með breytingum í rúmmáli, lögun og þéttni vöðva.
Vöðvaaðgreiningin leyfir einnig að fundin er fylgni milli
vöðvavaxtar og staðsetningu rafskauta. Jafnvel þótt vöðvar
beint fyrir neðan rafskautin séu mest raförvaðir er einnig hægt
að sjá þjálfun vöðva í öðrum hluta lærisins.
Niðurstöður: Í þessari vinnu er fylgst með framvindu RISE
meðferðarinnar á alveg nýjan hátt. Tæknin sýnir magnfærð
og ómagnfærð áhrif raförvunarinnar á meðferðartímanum.
Raförvunin stöðvar vöðvarýrnun og hvetur vöðvavöxt á
svæðum sem hún nær til.
Umræður: Fyrir utan upplýsingar um framvindu meðferðar
eykur aðgreining vöðva skilning á hegðun aftaugaðra
vöðva í raförvunarmeðferð. Vöktunartæknin sem þróuð
er í þessu verkefni skapar grunn til hönnunar á líkönum
af raförvunarmeðferð. Þau má nota til að þróa áfram
RISE meðferðina, t.d. með þróun nýrra rafskauta og nýrra
raförvunarhátta.
V 108 Notkun þrívíðra líkana og tækni til hraðra frum-gerðarsmíða
í kjálkaskurðaðgerðum
¹Paolo Gargiulo, ¹Þórður Helgason, 2Guðmundur Á. Björnsson
¹Rannsóknar- og þróunarstofu, heilbrigðistæknisviði Landspítala, 2háls-,
nef- og eyrnadeild Landspítala
thordur@landspitali.is
Inngangur:Tölvulíkön og tækni við hraða frumgerðasmíð eru
notuð til að gera líkön sem notuð eru til að skipuleggja og
undirbúa kjálkaskurðaðgerðir. Alvarleg slys og leiðrétting
aflögunar eins og kjálkalenging hafa verið megin klínísku
notkunarsviðin.
Markmið:
? Styðja við skipulagningu skurðaðgerða á erfiðum andlitsslysum
með þrívíðum líkönum.
? Stytta aðgerðartíma kjálkalenginga..
Aðferð: TS og MRI myndir eru unnar með sérstökum hugbúnaði
sem gerir mögulegt á gagnvirkan hátt að aðskilja vefjagerðir.
Smáatriði í lögun vefja, sem skipta máli, er hægt að draga fram
í efnisgerðu líkani. Aðallega eru notaðar tvær aðferðir við að
smíða líkönin: þrívíð prentun og stereolithography. Aðeins fyrri
aðferðin er til reiðu á Íslandi og því oftast notuð. Kostnaður við
líkanagerðina er háður smíðaaðferð, hversu flókin úrvinnsla
mynda er, stærð líkans og úr hvaða efni þau eru gerð.
Niðurstaða: Tveggja ára reynsla og um 20 aðgerðir á
Landspítala studdar þessari aðferð sýna að notkun þrívíðra
líkana í skipulagningu kjálkalengingarskurðaðgerða styttir
aðgerðartíma um 25-35%. Notkun þrívíðra líkana upplýsir
einnig sjúkling og eykur öryggi hans og þátttöku í meðferðinni.
Fyrir utan að stytta meðferðartíma eykur notkun þrívíðra líkana
gæði aðgerðar og þar með gæði meðferðar sjúklings.
Umræður: Tölvulíkön og tækni við hraða frumgerðarsmíð verða
sífellt meira notuð og mikilvægari tól í klínískri vinnu á Íslandi,
en enn hafa ekki allir möguleikar verið kannaðir. Nú þarf að
kanna notkun hugbúnaðartóla til að herma hegðun mjúkvefja
í aðgerð. Flóknar aðgerðir er hægt að herma á tölvu og birta
niðurstöðurnar, þar með talið mjúkvefjaútlit og breytingar áður
en hafist er handa við aðgerðina sjálfa.
V 109 Ofvirkni og athyglisbrestur og fylgikvillar hjá íslenskum
föngum
Emil Einarsson1, Ólafur Örn Bragason2, Anna Kristín Newton3, Gísli H.
Guðjónsson4, Jón Friðrik Sigurðsson1
1Geðsviði Landspítala, 2Embætti ríkislögreglustjórans, 3Fangelsismálastofnun
ríkisins, 4Institute of Psychiatry, King’s College, University of London
jonfsig@landspitali.is
Inngangur: Ýmislegt bendir til þess að ofvirkni með athyglisbresti
(AMO) geti leitt til andfélagslegrar hegðunar. Rannsóknir á
AMO meðal fullorðinna afbrotamanna eru ekki margar og enn
færri á föngum. Mikilvægt er því að skoða AMO meðal fanga og
hvernig geðröskunin tengist almennri geðheilsu þeirra.
Markmið: Meginmarkmið þessarar rannsóknar er að skima eftir
ofvirkni/athyglisbresti (AMO) hjá íslenskum föngum og skoða
tengsl við algengar geðraskanir.
Aðferð: Dómþolar sem komu til afplánunar í íslensk fangelsi
voru beðnir um að taka þátt í rannsókninni og samþykktu
94 karlkyns fangar á aldrinum 19 til 56 ára þátttöku
(meðalaldur 30,7 ár; SD=9,7). Tekið var einstaklingsviðtal
við þátttakendur innan 10 daga frá komu í fangelsi þar
sem lagt var fyrir þá staðlað geðgreiningarviðtal og nokkur
sálfræðipróf til að skima eftir AMO í æsku og á fullorðinsárum,
til að meta undanlátssemi, sefnæmi og persónuleikaraskanir,
auk spurningalista um lýðfræðilegar breytur, afbrota- og
fangelsissögu og vímuefnaneyslu.
Niðurstöður: Fjórtán (14,9%) fanganna uppfylltu
greiningarviðmið fyrir AMO. Tæplega helmingur (47; 50%)
uppfyllti AMO greiningarviðmið í æsku. Af þeim uppfylltu
14 (31,1%) greiningarviðmið fyrir AMO á fullorðinsárum, 13
(28,8%) voru enn með hluta af einkennum (partial remision)
og 18 (40%) höfðu einkenni AMO í lágmarki (full remision).
Af föngunum uppfylltu 78 (83%) greiningarviðmið fyrir að
minnsta kosti eina aðra yfirstandandi geðröskun. Algengastar
voru fíkniraskanir (71; 77,2%), kvíðaraskanir (38; 41,3%), og
lyndisraskanir (31; 33,7%). Yfirstandandi geðrofseinkenni
greindust hjá átta (8,7%) fanganna og 39 (42,4%) greindust með
andfélagslega persónuleikaröskun.
Ályktanir: Eins og sjá má á þessum niðurstöðum er AMO
töluvert algeng röskun hjá íslenskum föngum líkt og aðrar
geðraskanir. Meðferðarúrræði fyrir afplánunarfanga þurfa að
taka mið af niðurstöðunum og mikilvægt er að greina geðrænan
vanda hjá föngum strax við upphaf afplánunar og sníða
meðferðarúrræði að þörfum þeirra.