Ávarp

Þrettánda ráðstefnan um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum

í Háskóla Íslands

Á síðasta ári var samþykkt stefna Háskóla Íslands til næstu fimm ára. Þessi stefna grundvallast á því að háskólinn hafi ríkar skyldur við þjóðfélagið og að honum beri að byggja hér upp nám og rannsóknir í fremstu röð. Þetta er mjög metnaðarfull stefna þar sem lögð er sérstök áhersla á eflingu rannsókna og framhaldsnáms.

Í ljósi þessa leggjum við sem stöndum að 13. ráðstefnu HÍ um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum sérstaka áherslu á framlög nema í doktors- og meistaranámi. Ráðstefnan er haldin á vegum læknadeildar, tannlæknadeildar, lyfjafræðideildar og hjúkrunarfræðideildar HÍ og umsjón með henni hefur sameiginleg undirbúningsnefnd þessara deilda.

Rannsóknavirkni er mikil innan þessara deilda þrátt fyrir erfiðar aðstæður og oftast takmarkað fjármagn. Þetta sýnir sig í birtingum í virtum alþjóðlegum vísindaritum. Rannsóknatækifærin eru mikil og á sumum sviðum einstök, meðal annars vegna tengsla háskólans við Landspítala og vönduð gagnasöfn. Töluvert vantar hins vegar á að háskólakennarar geti sinnt rannsóknum sem skyldi. Hér vantar til dæmis nær alveg stöður nýdoktora sem eru helsti drifkraftur í rannsóknum flestra virtra háskóla í heiminum. Þessu verður að breyta ef HÍ á að ná settum markmiðum.

Virkt samstarf við erlendar rannsóknastofnanir og háskóla er okkur bráðnauðsynlegt og það er ánægjulegt að sjá þess merki í framlögum til þessarar ráðstefnu þar sem margir erlendir samstarfsmenn eru meðal höfunda.

Rektor háskólans, Kristín Ingólfsdóttir, hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að hægt sé að stunda doktorsnám og meistaranám við HÍ. Um þetta hefur náðst góð samstaða bæði innan háskólans og utan. Styrkir til framhaldsnáms frá Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands eru frábært framlag til þessa. Við ákváðum því að kynna sérstaklega þau verkefni í heilbrigðisvísindum sem hlutu styrk við fyrstu úthlutun styrkja úr þessum sjóði. Þessi verkefni verða kynnt með stuttum erindum í lok ráðstefnunnar og einnig á veggspjöldum.

Alls bárust 260 framlög til ráðstefnunnar og verða þau kynnt með stuttum erindum eða veggspjöldum. Að auki verða haldnir fjórir gestafyrirlestrar og einnig tvö lengri erindi sem valin voru úr aðsendum framlögum. Efni ráðstefnunnar er mjög fjölbreytt og mörg metnaðarfull verkefni verða kynnt. Veggspjöld verða uppi báða dagana og það er von okkar að þau, jafnt og erindi, fái verðskuldaða athygli.

Birna Þórðardóttir er nú framkvæmdastjóri ráðstefnunnar í fimmta sinn og undirbúningsnefnd þakkar henni frábær störf.

 

Jórunn Erla Eyfjörð

formaður Vísindanefndar læknadeildar

og undirbúningsnefndar




Þetta vefsvæði byggir á Eplica